Author Archive

Vilmundur Gylfason.

Greinar

Vilmundur Gylfason alþingismaður hafði markað djúp spor í stjórnmálasögu landsins, þegar hann féll frá langt fyrir aldur fram hinn 19. júní síðastliðinn – eftir aðeins tíu ára starfsævi, þar af aðeins fimm ár sem þingmaður.

Stundum er sagt, að stjórnmál gangi í ættir á Íslandi. Vilmundur var einn þeirra, sem fæddist inn í þjóðmál. Faðir hans og báðir afar voru innst í hringiðu stjórnmálabaráttu og þjóðmálaumræðu þessarar aldar.

Föðurafi Vilmundur var Þorsteinn Gíslason ritstjóri og móðurafi Vilmundur Jónsson landlæknir, báðir þjóðkunnir fyrir störf sín og þáttöku í landsmálum. Faðir hans er Gylfi Þ. Gíslason, einn merkasti stjórnmálamaður landsins.

Þá var Vilmundur kvæntur dóttur Bjarna Benediktssonar, sem var einn allra merkasti stjórnmálamaður aldarinnar. Þannig lifði Vilmundur og hrærðist í þjóðmálum, var í senn fæddur inn í þau og tengdur þeim – í bókstaflegri merkingu.

Vilmundur fæddist 7. ágúst 1948, sonur hjónanna Gylfa Þ. Gíslasonar og Guðrúnar Vilmundardóttur. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1968 og lagði síðan stund á háskólanám í sagnfræði.

B.A. prófi lauk hann frá háskólanum í Manchester árið 1971 og M.A. prófi frá háskólanum í Exeter árið 1973. Sama ár varð hann kennari í sagnfræði við Menntaskólann í Reykjavík og gegndi því starfi unz hann var kjörinn á þing árið 1978.

Vilmundur lét til sín taka á mörgum sviðum. Hann var kunnur greinahöfundur, sjónvarpsmaður og útvarpsfréttamaður, ritstjóri Alþýðublaðsins og Nýs lands, hvatamaður að stofnun Helgarpóstsins og höfundur tveggja ljóðabóka.

Hann var þegar orðinn landskunnur, er hann hellti sér út í kosningabaráttuna árið 1978, tæplega þrítugur að aldri. Þá bauð hann sig fram fyrir Alþýðuflokkinn, sem vann frægan sigur í þeim kosningum.

Óhætt mun vera að fullyrða, að Vilmundur átti, að öðrum ólöstuðum, manna mestan þátt í sigrinum. Honum fylgdi inn í stjórnmálin nýr og ferskur andi, sem mikill fjöldi kjósenda kunni vel að meta.

Í Alþýðuflokknum hlaut Vilmundur ekki þann frama, sem eðlilegur hefði mátt teljast. Hann varð þó einn af ráðherrum flokksins í minnihlutastjórn Benedikts Gröndal, sem sat skamma hríð um áramótin 1979-1980.

Vilmundur sagði skilið við þingflokk Alþýðuflokksins í desember 1982 og stofnaði síðan Bandalag jafnaðarmanna í janúar á þessu ári. Hinn nýi flokkur vann strax það afrek að ná fjórum mönnum inn á þing í vor.

Margir hafa vafalaust kosið Bandalagið vegna stefnunnar og frumbjóðendanna. En þyngst á metunum var þó persóna Vilmundar sjálf. Um allt land, líka þar sem hann var ekki í framboði, sögðust menn vera að kjósa Vilmund.

Bandalag jafnaðarmanna á nú um sárt að binda, þegar fallinn er frá hinn mikli persónuleiki, sem var kjölfesta þess og árar. En missirinn er um leið þjóðarinnar allrar, því að Vilmundur var jákvætt þjóðmálaafl.

Sárastur er harmur vina og ættingja Vilmundar. Sérstakar samúðarkveðjur vill DV flytja konu hans, Valgerði Bjarnadóttur, og tveimur börnum þeirra hjóna. Missir okkar allra er mikill, en þeirra er missirinn mestur.

Jónas Kristjánsson.

DV

Þeir hóta okkur.

Greinar

Til marks um aukna ofbeldishneigð Kremlverja í samskiptum þjóða eru nýjustu hótanir þeirra um beitingu kjarnorkuvopna gegn Dönum, Norðmönnum og Íslendingum. Þær birtust í Rauðu stjörnunni, málgagni hersins.

Dönum, Norðmönnum og Íslendingum má vera ljóst, að Andropov og félagar eru ekki að minna okkur á að hindra Atlantshafsbandalagið í að gera Norðurlönd að skotpalli árásar á Sovétríkin, þótt þeir hafi það að yfirvarpi.

Arftakar Brezhnevs og herforingjar þeirra vita vel, að hvorki Atlantshafshandalagið né Norðurlönd ráðgera hernaðarlegt ofbeldi gegn Sovétríkjunum. Hins vegar langar Kremlverja að víkka valdsvið sitt, með eða án ofbeldis.

Einn þáttur í vaxandi ágengni sovézkra hernaðarsinna eru ferðir kjarnorkukafbáta í landhelgi norrænna ríkja. Þær hafa gengið svo langt, að einn báturinn strandaði uppi í fjöru langt inni í firði í Svíþjóð.

Þessi sérstæða frekja hefur leitt til hugleiðinga innan og utan Svíþjóðar um, að tímabært sé fyrir Svía að endurskoða stöðu sína í heiminum, áður en þeir eru nauðugir farnir að sitja og standa eins og Andropov þóknast.

Hlutleysi Svía var á sínum tíma reist á grundvelli töluverðs varnarmáttar þeirra. Nú er hins vegar svo komið, að útþenslumenn austursins hafa þennan mátt í flimtingum og athafna sig eftir þörfum í sænskum fjörðum.

Hótun Rauða hersins er meðal annars ætlað að vara Svía við að láta hugleiðingar um endurmat ganga svo langt, að þeir taki upp samstarf við Atlantshafsbandalagið. Þá verði þeir sprengdir eins og Danir, Norðmenn og Íslendingar.

Um leið er hótunum þessum ætlað að styðja við bak fimmtu herdeildanna í Danmörku, Noregi og á Íslandi. Þessar deildir eru skipaðar nytsömum sakleysingjum, sem halda, að þeir stuðli að friði með þáttöku í ýmsum hreyfingum.

Ein skæðasta “friðar”-plágan er hugmyndin um samkomulag um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum. Hún byggist á þeirri firru, að mark sé takandi á undirskriftum Kremlverja undir alþjóðlega eða fjölþjóðlega samninga.

Sönnu er nær, að slíkar undirskriftir eru fremur vísbending um, að Andropov og félagar hugsi sér til hreyfings í hina áttina. Mannréttindabrot þeirra hafa til dæmis stóraukizt eftir undirritun Helsinki-sáttmálans.

Kjarnorkuvopnalaus lönd á borð við Norðurlönd þurfa engar yfirlýsingar Kremlverja um kjarnorkuvopnalaus svæði, ekki fremur en gagn er að hliðstæðum yfirlýsingum um, að þeir verði ekki fyrri til að beita kjarnorkuvopnum.

Yfirlýsingar af þessu tagi eru verri en marklausar. Til dæmis er dómur reynslunnar, að “ekki-árásarsamningur” er af hálfu slíkra stjórnvalda talinn eðlilegur aðdragandi árásar, – hluti af vinnubrögðum þeirra.

Á sama tíma og Andropov var að skipuleggja geðveikrahælin fyrir leyniþjónustuna lærði hann að fullkomna utanríkisstefnuna, sem felst í útþenslu með góðu og illu til skiptis. Nú hentar honum að byrja að hóta okkur.

Til þess að varðveita friðinn er okkur affarasælast að standa þétt saman í vörninni og láta “friðar”-hreyfingum ekki takast að rjúfa nein þau skörð í múrinn, sem Kremlverjar eru að blekkja þær til að reyna að gera.

Jónas Kristjánsson.

DV

Léttum á ríkinu.

Greinar

Þegar ríkisfyrirtæki verða seld, er nauðsynlegt að taka tillit til þeirra, sem hingað til hafa notið fyrirtækjanna, ýmist sem meðeigendur í þeim, starfsfólk þeirra eða sveitarfélögin, þar sem þau starfa.

Bezt gerist þetta með því að hvetja meðeigendur, starfsfólk og sveitarfélög til að gerast hluthafar og taka fulla ábyrgð á rekstrinum. Hvatning gæti til dæmis fólgizt í að bjóða afborgunarkjör á hlutabréfum.

Að þessari tillitssemi fullnægðri á ekkert að vera því til fyrirstöðu, að ríkið geti losað sig við margvíslegan rekstur, sem ekki er auðsjáanlega í verkahring þess, svo sem Albert Guðmundsson fjármálaráðherra hefur lagt til.

Tæpast er lengur ágreiningur um, að ríkisrekstur hefur tilhneigingu til að vera óhagkvæmari en annar rekstur. Það stafar einfaldlega af því, að meira er í húfi fyrir stjórnendur og starfsfólk einkafyrirtækja en ríkisfyrirtækja.

Ótal dæmi eru til um þennan samanburð. Hér nægir að minna á, að íslenzk og erlend reynsla bendir til, að sorphirða verði að minnsta kosti helmingi ódýrari við, að einkafyrirtækjum sé gefinn kostur á að bjóða í reksturinn.

Beinast liggur við, að ríkið selji hlutabréf sín í atvinnufyrirtækjum um allt land, svo sem lagmetisiðjum, raftækjaverksmiðju, skipaútgerð, skipasmíðastöð, flugfélagi og olíumalarfyrirtæki, svo að nokkur kunnustu dæmin séu nefnd.

Þótt ríkið hafi á sínum tíma ýmist stuðlað að stofnun þessara fyrirtækja út á hugsjón byggðastefnu eða hlaupið síðar undir bagga, þegar þau hafa rambað á barmi gjaldþrots, má ekki líta á þau sem eilífðar-hvítvoðunga.

Eftir nokkurra ára þáttöku hlýtur að vera eðlilegt, að ríkið geti endurheimt fjármagn sitt, þótt ekki sé nema til að geta notað það til að stuðla að nýjum fyrirtækjum, sem hugsanlega eru ofviða einstaklingum einum saman.

En ríkið verður einnig að gæta sín á þeirri braut. Svo virðist sem ríkið stefni að þáttöku í ýmsum vafasömum iðnaðarævintýrum, sem eiga eftir að vera ríkissjóði og þar með skattgreiðendum allt of þung í skauti.

Um leið og ríkið losar sig við hlutafé í grónum fyrirtækjum, er ekki síður mikilvægt að koma í veg fyrir, að það verji enn meira fé til að koma á fót rekstri, sem ekki stendur undir sér og hækkar þar á ofan vöruverð í landinu.

Svo eru líka heilu fyrirtækin, sem ríkið á sjálft og þarf að losa sig við. Hvaða erindi eiga til dæmis vélsmiðja, ferðaskrifstofa, bókaútgáfa, síldarverksmiðjur, graskögglaverksmiðjur og ýmis verktakastarfsemi í ríkisrekstrinum?

Við vitum af reynslu rafvæðingar og vegagerðar, að yfirleitt er ódýrara að bjóða framkvæmdir út en að láta ríkið hafa þær sjálft með höndum. Sama er að segja um ýmsa þjónustu ríkis og sveitarfélaga, eins og sést af dæminu um sorphirðu hér að ofan.

Af nógu er að taka, áður en menn byrja að deila um, hvort selja eigi áfengisverzlunina, skólana eða sjúkrahúsin. Miklu augljósari eru hin nærtæku dæmi Landssmiðjunnar, Ferðaskrifstofu ríkisins og Síldarverksmiðja ríkisins.

Hugmyndin er ekki að leggja slíka starfsemi niður, heldur að losa ríkið við áhyggjur af henni og gefa stjórnendum, starfsfólki, sveitarfélögum og öðrum lysthafendum tækifæri til að spreyta sig á eigin ábyrgð.

Jónas Kristjánsson.

DV

Snjöll peðsfórn.

Greinar

Jón Helgason landbúnaðarráðherra leit í síðustu viku yfir skákborð landbúnaðarkerfisins og sá ýmsar hættur leynast í taflinu. Eins og góðum skákmanni sæmir létti hann á stöðunni með því að fórna peði, svo að einokunarkerfið mætti standa.

Þegar Jón komst til valda, hafði einokunarkerfi landbúnaðarins nýlega rofið langt þrátefli og blásið til sóknar á tveimur stöðum í senn. Annars vegar átti að koma upp einokun á eggjum og hins vegar efla svæðiseinokun á jógúrt.

Athyglisvert var, að í umræðum um þetta mál tók enginn stjórnmálaflokkur upp hanzkann fyrir neytendur, hvorki í jógúrtinni né eggjunum, – ekki frekar en í öðrum tilraunum einokunarkerfis landbúnaðarins til að níðast á neytendum.

Eggjaeinokunin heitir úthlutun heildsöluleyfa. Hún miðar að samdrætti verksmiðjubúskapar í þágu heimilisbúskapar í stíl hins hefðbundna landbúnaðar. Þetta á að venju að gera á kostnað neytenda, – í mynd hækkaðs eggjaverðs.

Svæðiseinokunin á jógúrtsölu átti að leggja seljanda þá skyldu á herðar að koma í veg fyrir, að kaupendur færu með jógúrt út fyrir einokunarsvæðið, – með því að neita að selja slíkum kaupmönnum jógúrtina.

Hvort tveggja olli töluverðri reiði neytenda og efldi þá til dáða í vörninni. Einkum áttu menn erfitt með að kyngja hliðstæðunni við Hólmfast á Brunnastöðum, sem hýddur var fyrir að selja þrettán fiska utan einokunarsvæðisins.

Neytendur vildu ekki láta hýða Harald Gíslason, mjólkurbússtjóra á Húsavík, fyrir að leyfa jógúrtsölu til Hagkaups, sem flutti hana suður yfir heiðar og seldi þar á lægra verði en einokunarkaupmaður svæðisins, Mjólkursamsalan.

Í þessu máli eiga neytendur erfitt með að kyngja því, að við dreifingu landbúnaðarafurða sé árið 1983 beitt sömu svæðiseinokuninni og danska einokunarverzlunin beitti árið 1698, fyrir tæplega þrjúhundruð árum.

Um leið mættu menn muna, að jógúrt er aðeins lítill þáttur búvörusölunnar. Hún komst í sviðsljósið, af því að hún er ódýrari á Húsavík en í Reykjavík. Ef svo væri ekki, hefði svæðiseinokunin ekki vakið jafnmikla athygli.

Öll verzlun með hefðbundnar landbúnaðarafurðir sauðfjár og nautgripa er ófrjáls eins og öll verzlun yfirleitt var fyrir þremur öldum. Sérhver framleiðandi hefur einkarétt á þeim neytendum, sem teljast innan hans svæðis.

Þetta týnist í skákinni, þegar verðið er hið sama alls staðar. Þá taka menn hvorki eftir svæðiseinokuninni, né eftir því, að hún er aðeins hluti einokunarinnar sjálfar, innflutningsbannsins á hliðstæðum afurðum.

Með innflutningsbanni er komið í veg fyrir, að neytendur hafi til samanburðar ódýrari afurðir frá útlöndum, þaðan sem til dæmis er hægt að fá smjör, er kostar aðeins einn tíunda hluta af því, sem það kostar hér í einokuninni.

Þannig er nauðsynlegt, að neytendur átti sig á, að hin afturkallaða svæðiseinokun á jógúrt var bara hluti svæðiseinokunar landbúnaðarafurða, sem svo aftur á móti er ekki nema hluti alls einokunardæmis landbúnaðarins.

Þetta veit Jón Helgason. Sem góður skákmaður stöðvaði hann umsvifalaust sókn jógúrteinokunarinnar. Hann fórnaði því peði í von um, að neytendur legðust aftur í dvala og gleymdu afganginum af allri einokuninni.

Jónas Kristjánsson

DV

Skömmtunarspilling á flótta.

Greinar

Spillingin hefur orðið að víkja í fyrsta skipti um áratuga skeið við úthlutun lóða hjá Reykjavíkurborg. Boðnar hafa verið fleiri sérbýlislóðir í Grafarvogi en lysthafendur treysta sér til að taka, 978 boðnar og 910 þegnar.

Hingað til hefur úthlutun lóða verið eins konar gjöf borgarinnar til þeirra, sem náðarinnar fengu að njóta. Lóðirnar hafa síðan gengið kaupum og sölum undir borði. Margir hafa hagnazt vel á úthlutuninni.

Dæmi eru um, að yfirverð lóða í Fossvogi hafi komizt upp fyrir 200.000 krónur. Sá var hagnaður þeirra, er fengu úthlutað þar lóðum og seldu réttinn síðan öðrum, sem ekki voru jafn lánsamir, en vildu byggja.

Formlega séð er ekki heimill slíkur markaður á lóðum borgarinnar. En löng reynsla sýnir, að ókleift er að hafa hemil á honum. Skjöl um viðskiptin koma ekki í ljós fyrr en löngu seinna og þá í formi sölu á húsi í byggingu.

Á sínum tíma fólst í skömmtuninni pólitísk spilling. Þeir, sem voru í náðinni hjá meirihluta borgarstjórnar, áttu auðveldara með að fá lóðir en aðrir. Þetta var ljótur blettur á orðstír hægri borgarstjórna fyrri ára.

Vinstri borgarstjórnin breytti þessu í sjálfvirka punktagjöf, sem tók pólitíkina út úr spillingunni og setti fáránleikann í staðinn. Menn urðu nánast að sanna, að þeir hefðu ekki ráð á að byggja til að fá að byggja!

Fyrir bragðið jókst mjög undirborðssala á lóðarétti í Reykjavík. Menn sóttu ekki um til að byggja, heldur til að ná sér í fríar 200.000 krónur í krafti punktafjölda. Skömmtunin hélzt og þar með spillingin líka.

Vandinn er nefnilega, að sérhverri skömmtun fylgir óhjákvæmilega spilling, hvernig svo sem reynt er að skipuleggja hana. Skömmtun stríðir gegn gamalkunnu lögmáli framboðs og eftirspurnar, sem vinstri menn skilja illa.

Reykjavíkurborg hefur tvær leiðir til að ná nauðsynlegu jafnvægi framboðs og eftirspurnar á lóðum til að útrýma svartamarkaði í sölu lóðaréttinda. Annars vegar er hægt að fjölga lóðum og hins vegar hækka þær í verði.

Hvort tveggja var gert, þegar lóðirnar í Grafarvogi voru boðnar. Það hefur leitt til hins frábæra árangurs, að allir geta fengið þar lóðir, sem vilja, og án þess að þurfa að kaupa réttinn undir borði á svörtum markaði.

Hitt er svo líka rétt, að þessi úthlutun er ekki endanlegur sigur á lóðaspillingu. Ekki hefur enn komið í ljós, hvort hinn nýi, hægri meirihluti í borgarstjórn getur líka boðið upp á markaðsjafnvægi í öðrum tegundum lóða.

Lóðirnar í Grafarvogi voru fyrst og fremst ætlaðar fremur stórum sérbýlishúsum, sem auðvitað eru ofviða öllum þorra manna, ekki sízt á tímabili samdráttar í lífskjörum. Þessar lóðir eru bara hluti dæmisins.

Í skipulagi Reykjavíkur þarf að leggja mikla áherzlu á millistig blokkalóða og stórra sérbýlislóða. Millistigið felst einkum í lóðum undir lítil og einföld sérbýlishús fyrir venjulegt fólk, eins konar Smáíbúðahverfi nútímans.

Ef nýja meirihlutanum tekst að koma á jafnvægi í framboði og eftirspurn á öllum tegundum íbúðarhúsalóða, einnig blokkalóða og lóða fyrir lítil sérbýlishús, eru það markverð og ánægjuleg tímamót í undanhaldi spillingar.

Jónas Kristjánsson

DV

Bjartsýnisstofnunin.

Greinar

Hafrannsóknastofnunin er óneitanlega með seinni skipunum, er hún mælir með 300 þúsund tonna þorskafla á ári, sem þegar er hálfnað og þegar hefur sýnt, að aflinn verður ekki meiri, hvað sem of stór floti skarkar.

Rétt fyrir áramótin mælti stofnunin með 350 þúsund tonna þorskafla á þessu ári, þótt þá þegar væri ljóst, að hættumörkin voru mun neðar eða við 300 þúsund tonn. Þetta gerði hún til að þóknast þáverandi sjávarútvegsráðherra.

Steingrímur Hermannsson, sem nú er orðinn forsætisráðherra, gaf um þetta leyti út minnisstæða yfirlýsingu, sem hljóðaði svo: “Við verðum að meta, hvað þjóðarbúið þolir annars vegar og hvað þorskstofninn þolir hins vegar.”

Steingrímur taldi tímabundna ofveiði réttlætanlega vegna erfiðleika þjóðarbúsins. Hann vildi ekki eða gat ekki séð fyrir sér, hvernig ofveiði þorskstofnsins mundi fyrr eða síðar leiða til enn meiri vandræða þjóðarbúsins.

DV sagði þá í leiðara:

“Vandséð er, að það sé í verkahring fiskifræðinga að spá um þol þjóðarbúsins eða Steingríms Hermannssonar. Enda væri nú mikið hlegið að Hafrannsóknastofnuninni, ef mönnum væri hlátur í hug í aðvífandi kreppu.

Hafrannsóknastofnunin átti auðvitað að leggja til 300 þúsund tonna þorskafla á næsta ári og láta pólitíska valdið í landinu um að lyfta þeirri tölu upp í það, sem þjóðarbúið þolir að mati Steingríms Hermannssonar.

Þetta er því miður ekki í fyrsta skipti, sem Hafrannsóknastofnunin ruglast í hlutverki sínu. Löngu er orðið tímabært, að Jón Jónsson hætti að leika stjórnmálamann og fari í staðinn að snúa sér að fiskifræðinni.”

Það hefur löngum verið böl íslenzkra fiskistofna, að Hafrannsóknastofnunin gefur út gífurlega bjartsýnar tölur, sem byggja ekki á vísindum, heldur á mati forstjórans á, hvað viðkomandi sjávarútvegsráðherra vilji heyra.

DV sagði við sama tækifæri:

“Ekki þarf mikla greind til að sjá, að auðveldasta leiðin til að setja þjóðarbúið á höfuðið er að halda áfram að ofveiða þorskinn. Það verður ekki mörgum sinnum hægt að veiða 350 þúsund tonn úr 1.500 þúsund tonna heildarstofni.

Sjálfur hrygningarstofninn er kominn niður í 560 þúsund tonn og fer ört minnkandi. Enda eru stórir árgangar alveg hættir að bætast við. Fljótlega verður 300 þúsund tonna ársafli meira að segja of mikill.”

Þessi síðasta aðvörun var raunar nærtækari en þá var vitað. Hafrannsóknastofnunin segir nefnilega núna, að þorskstofninn sé kominn niður í 1.300 þúsund tonn og hrygningarstofn hans niður í 420 þúsund tonn.

Það sígur því hratt á ógæfuhliðina, meðan hver ístöðulítill sjávarútvegsráðherra á fætur öðrum rekur þá ofsafengnu smábyggðastefnu að láta veita togarakaupendum um 100% lán, sem aldrei verða endurgreidd.

Þannig var þurrkuð upp síldin og þannig var þurrkuð upp loðnan. Næstur er þorskstofninn, sem verið er að útrýma með opinberum lánum til kaupa á skipum, sem þjóðin þarf ekki og sem raunar eru stórkostlega skaðleg þjóðinni.

Við slíkar aðstæður er hart, að Hafrannsóknastofnunin skuli gefa út bjartsýnar tölur, sem ólánsmenn vilja heyra.

Jónas Kristjánsson.

DV

3% eða 26%

Greinar

Eitt hið ahyglisverðasta við talnaflóð gærdagsins frá Þjóðhagsstofnun er, að kjaraskerðinguna má meta allt frá 3% upp í 26% eftir forsendunum, sem menn gefa sér. Þetta er auðvitað mikið bil, þótt við séum ýmsu slíku vanir.

Alþýðusamband Íslands bendir á hæstu töluna og segir hana vera nokkurn veginn í samræmi við sína útreikninga. Sú tala á að sýna, hversu miklu lægri verður kaupmáttur taxta í júlí-september á þessu ári en á sama tíma í fyrra.

Lægri talan á hins vegar að sýna, hversu miklu lægri verða ráðstöfunartekjur á mann á þessu ári en þær hefðu orðið, ef aðgerðir ríkisstjórnarinnar hefðu ekki komið til sögunnar, að meðtöldum svokölluðum mildandi aðgerðum.

Fyrir skömmu sagði Þjóðhagsstofnun í þjóðhagsspá, að kaupmáttur ráðstöfunartekna mundi að óbreyttu lækka um 8-9% á þessu ári. Sú spá hefur skyndilega hrokkið upp í 11%, sem er töluvert reikningsstökk á aðeins tveimur mánuðum.

Þau 26%, sem nefnd voru hér að framan, eru kjaraskerðing þriðja ársfjórðungs þessa árs. Ef miðað er við allan seinni helming ársins, fer talan niður í 24%. Sé miðað við allt árið fer talan niður í 20% og miðast enn við kauptaxta.

Síðan metur Þjóðhagsstofnun gildi hinna mildandi aðgerða upp á 4% fyrir almenning og 6% fyrir þá, sem eru á lægstum launum. Loks gerir hún ráð fyrir, að kaupmáttur ráðstöfunartekna lækki minna en kaupmáttur taxta.

Ekki er ljóst, hvernig það á að gerast. Sennilega átt við launaskrið, sem felst í, að mikilvægir starfsmenn fái hækkanir umfram kerfi. Eins og áður mun það fyrst og mest gagnast þeim, sem hæst launin hafa fyrir.

En með þessum aðferðum kemur Þjóðhagsstofnun reikningslegri kjaraskerðingu ársins niður í 14%, sem er aðeins þremur prósentum hærra en þau 11%, sem stofnunin segir, að kaupmáttur ráðstöfunartekna hefði minnkað um að óbreyttu.

Þannig getur fólk valið sér ýmsar prósentur við hæfi. Stjórnarsinnar geta dásamað, að kjaraskerðing af ríkistjórnarinnar hálfu sé ekki nema 3% og stjónrarandsæðingar geta bölsótast yfir, að hún sé 26%. Allir hafa sínar tölur.

Lægri talan vekur að vísu eina spurningu: Ef 3% er rétt, til hvers var þá allt bramboltið? Var ekki meiningin að skerða lífskjörin, svo að þjóðin hætti að lifa um efni fram? Borgar sig að setja allt á hvolf út af 3% í viðbót?

Ef skerðing bráðabirgðalaganna er ekki nema 3%, hefði áreiðanlega verið betra að skerða kjörin með hliðaráðstöfunum, svo sem hækkun orkuverðs upp í raunvirði, hækkun vaxta upp í raunvirði og lækkun gengis niður í raunvirði.

Slík kjaraskerðing hefði lagfært verðkerfið í landinu, án þess að um leið væri efnt til stóksotlegra átaka á vinnumarkaði. Hún hefði runnið betur niður hjá launafólki og umboðsmönnum þess í kjarasamningum.

Hærri talan vekur svo aðra spruningu: Hvernig á fólk að lifa síðari hluta ársins á 24% lægri kaupmætti kauptaxta en það hafði síðari hluta ársins í fyrra? Hvaða 24% af rekstri sínum á láglaunafólk að skera niður?

Þess vegna er óhætt að ráðleggja láglaunafólki nú þegar að skera niður útgjöld eftir fremsta megni og reyna jafnvel að breyta lausaeignum á borð við bíla í handbært fé til að greiða taprekstur heimilanna á næstu mánuðum.Jónas Kristjánsson

DV

Skaðlegur einstrengingur.

Greinar

Hugmynd ríkisstjórnarinnar um jöfnun húshitunarkostnaðar er ein afleiðingin af einstrengingslegri baráttu hennar gegn verðbólgunni og er um leið gott dæmi um skaðleg áhrif opinberra aðgerða á efnahag þjóðarinnar.

Hitaveita Reykjavíkur sækir reglulega um að fá að hækka gjaldskrána. Þessar beiðnir miða að því, að fyrirtækið geti varið fé til rannsókna til undirbúnings stækkunar og fé til fjárfestingar af eigin rammleik.

Þessar hækkunarbeiðnir eru yfirleitt skornar niður, af því að gjaldskrá Hitaveitunnar hefur töluverð áhrif á vísitölur. Hækkun hennar leiðir til aukinna verðbóta á laun og þar með til aukinnar verðbólgu.

Afleiðingin er sú, að Hitaveitan hefur ekkert fé til undirbúnings nývirkjana og verður að taka erlend lán til að standa undir brýnustu framkvæmdum til að sjá núverandi viðskiptavinum fyrir vatni að vetrarlagi.

Þannig hefur myndast gífurlegur skuldahali í útlöndum. Hann er hliðstæður skuldahala Landsvirkjunar og annarra orkufyrirtækja, sem orðinn er til á sama hátt. Allir skuldahalarnir eru afleiðing baráttunnar við verðbólguna.

Um helmingur af skuldum Íslendinga við útlönd er orðinn til á þennan hátt. Vegna verðbólgunnar mega orkufyrirtæki ekki taka sannvirði fyrir orkuna, heldur verða börnin okkar síðar að borga núverandi niðurgreiðslur á orkuverði.

Allir vita nú orðið, að skuldasöfnun í útlöndum er orðin að einu allra hættulegasta meini Íslands. Hún er orðin svo rosaleg, að einungis helmingur af útflutningstekjum okkar nýtist til kaupa á innfluttum nauðsynjum.

Ein hliðaráhrifin enn eru, að vegna Hitaveitunnar og annarra slíkra skuldara er ekki hægt að lækka gengi krónunnar nægilega. Tap Hitaveitunnar á síðustu gengislækkun einni nam meira fé en allri fjárfestingu hennar á þessu ári.

Um leið hefur hinn alltof ódýri hiti frá Hitaveitu Reykjavíkur þau áhrif, að annars staðar á landinu kvartar fólk um aðstöðumun. Það vill ekki borga margfaldan húshitunarkostnað og heimtar, að hann sé jafnaður.

Vandamálið er þó ekki, að hiti víða úti á landi sé of dýr miðað við tilkostnað, heldur er hitinn á Reykjavíkursvæðinu of ódýr, því að umtalsverðum hluta kostnaðarins er velt yfir á börnin okkar með skuldasöfnun í útlöndum.

Eins og aðrar ríkisstjórnir, en í einstrengingslegri mæli, er þessi ríkisstjórn upptekin af verðbólgunni einni saman. Þess vegna hyggst hún jafna húshitunarkostnað niður á við í stað þess að jafna hann upp á við.

Ríkisstjórnin kaus að magna kjaraskerðingu ársins úr 8-9% í hærri, ótilgreinda tölu, sem gæti numið 16-18% og efna þannig til stórfelldra átaka á vinnumarkaði á næstu misserum. Lækkun húshitunarkostnaðar á að vera ein sárabótin.

Nær hefði verið að reyna að skerða kjörin með óbeinum leiðum, svo sem hækkun húshitunarkostnaðar upp í raunvirði, og öðrum hliðstæðum aðgerðum, svo sem lækkun gengis niður í raunvirði og hækkun vaxta upp í raunvirði.

En ríkisstjórnin starir bara á verðbólguna. Slíkur einstrengingur hefur skaðleg áhrif á efnahag þjóðarinnar, svo sem dæmið um Hitaveitu Reykjavíkur og húshitunarkostnaðinn sýnir. Íslendingar mega því búast við hinu versta.

Jónas Kristjánsson.

DV

Andfélagsleg hegðun.

Greinar

Launþegar, neytendur og skattgreiðendur ættu að trúa sem fæstu af því, sem talsmenn landbúnaðarins halda fram, þegar þeir leggjast í vörnina. Þeir hafa nefnilega hvað eftir annað verið staðnir að ósannindum á undanförnum árum.

Ekki alls fyrir löngu fullyrtu þeir, að mjólkin væri fúl vegna rangrar meðferðar í verzlunum og heimahúsum. Hins vegar kom í ljós, að þetta stafaði af óheimilli forhitun og óheimilli dagstimplun fimm daga fram í tímann.

Forhitunin drepur sýrugerla og hleypir rotnunargerlum á skrið, svo að mjólkin fúlnar í stað þess að súrna. Þetta er gert til að neytendur taki ekki eftir, að mjólkin er stundum orðin tíu daga gömul, þegar hún er drukkin.

Ekki alls fyrir löngu sögðu talsmenn landbúnaðarins, að erlendar kartöflur væru í fyrsta lagi ófáanlegar, í öðru lagi of dýrar, í þriðja lagi afgreiddar með útflutningsgjaldi og í fjórða lagi þaktar kólóradóbjöllum.

Hins vegar kom í ljós, að erlendar kartöflur eru fáanlegar allt árið. Einnig kom í ljós, að danskar kartöflur, sem voru seldar hingað á 1,20 krónur kílóið, voru seldar til Færeyja á 0,85 krónur kílóið. Enginn veit, hvert verðmunurinn rann.

Eini munurinn á kartöflunum var, að þær, sem fóru til Íslands, voru sýktar sveppum, en hinar, sem fóru til Færeyja, voru lausar við sveppi. Talsmenn landbúnaðarins treystu sér ekki til að segja, að sveppirnir væru svona dýrir.

Ennfremur kom í ljós, að ekkert útflutningsgjald er lagt á kartöflur, sem seldar eru til Íslands. Loks kom í ljós, að Grænmetisverzlunin flutti sjálf inn kartöflur frá Mexíkó, einu frægasta svæði kólóradóbjöllunnar.

Ekki alls fyrir löngu héldu talsmenn landbúnaðarins því fram, að þeir væru hættir að fleygja tómötum á haugana. Það höfðu þeir gert til að þurfa ekki að selja þá neytendum á niðursettu verði, enda er þeim fremur illa við neytendur.

Hins vegar kom í ljós, að þeir héldu áfram að fleygja tómötum, en gerðu það í skjóli nætur og mokuðu sagi ofan á, svo að ekki kæmist upp. Þetta varð samt uppvíst og olli töluverðri reiði almennings.

Talsmenn landbúnaðarins fullyrtu þá, að þessir tómatar hefðu verið ofþroskaðir og ónýtir. Einnig þetta reyndist vera ósatt. Það voru hinir beztu tómatar, sem bornir voru á veizluborð fyrir rottur öskuhauganna.

Nú standa talsmenn landbúnaðarins á því fastar en fótunum, að fyrirhuguð einokun á eggjum sé raunar engin einokun og alténd neytendum til hagsbóta. Þessu ættu menn ekki að trúa frekar en öðrum fullyrðingum talsmannanna.

Þetta eru sömu mennirnir og eru að hindra fólk á Reykjavíkursvæðinu í að fá betri jógúrt í betri umbúðum frá Húsavík. Þeir halda því meira að segja fram, að umbúðirnar á Húsavík séu ekki nógu góðar. Það er ósatt eins og annað.

Kerfi landbúnaðarins kemur fram í ýmsu gervi, sem Sölufélag garðyrkjumanna, Grænmetisverzlun ríkisins, Framleiðsluráð landbúnaðarins og Sex manna nefnd, svo að dæmi séu nefnd. Á öllum þessum stöðum er logið eftir þörfum.

Kerfi þetta lítur á launþega, neytendur og skattgreiðendur sem herfang, er misþyrma megi í skjóli innflutningsbanns, einokunar og sjálftektar á verði. Einn mikilvægasti þáttur þessarar andfélagslegu hegðunar er fólginn í að fara með rangt mál.

Jónas Kristjánsson

DV

Utan og ofan veruleikans.

Greinar

“Það er ógerlegt að láta þessar áorðnu hækkanir dynja á bændum,” sagði talsmaður landbúnaðarins á blaðamannafundi, þar sem hann reyndi að útskýra, af hverju landbúnaðarvörur þurfa að hækka um 22-33% meðan laun hækka um 8%.

Launþegar og neytendur telja margt fleira “ógerlegt” en þetta eitt, en þeir hafa ekki sama vald og talsmaður landbúnaðarins hefur, með starfsmann landbúnaðarráðuneytisins sér á aðra hlið og Torfa Ásgeirsson sem “fulltrúa neytenda” sér á hina.

Launþegar og neytendur telja fleiri en bændur hafa orðið fyrir “áorðnum hækkunum” á síðustu þremur mánuðum. Og ofan á þau 22% hefur nú bætzt enn ein “áorðin,’ hækkun, sem felst í 22-33% hækkun á verði landbúnaðarafurða.

En launþegar og neytendur hafa ekki sömu stöðu í kerfinu og landbúnaðurinn. Þeir verða að sæta Torfa Ásgeirssyni, sem enginn kannast við, að launþegar eða neytendur hafi valið til að gæta hagsmuna sinna gegn úlfum kerfisins.

“Það er ógerlegt að láta þessar áorðnu hækkanir dynja á launþegum,” gæti forseti Alþýðusambandsins reynt að segja. En slík skoðun utan úr bæ hefur ekki ákvörðunargildi eins og tilskipanir talsmanns landbúnaðarins hafa.

“Það er ógerlegt að láta þessar áorðnu hækkanir dynja á neytendum,” gæti formaður Neytendasamtakanna reynt að segja. En slík skoðun utan úr bæ hefur ekki ákvörðunargildi eins og tilskipanir talsmanns landbúnaðarins hafa.

Sá valdamikli maður veit líka, að fleira er “ógerlegt” en frávik frá ýtrustu verðhækkunum einokunarafurða landbúnaðarins. En þau “ógerlegu” atriði varða öll hagsmuni kerfisins, sem myndað hefur verið um hinn hefðbundna landbúnað.

Það er til dæmis “ógerlegt” að leyfa í Reykjavík sölu á ódýrari jógúrt í betri umbúðum frá Húsavík, því að samkvæmt lögum hefur Mjólkursamsalan í Reykjavík einkarétt á að nauðga launþegum og neytendum á því svæði.

Það er einnig ,”ógerlegt” að leyfa frjálsa sölu á eggjum, því að eggjaverð, sem er lægra en “gerlegt” verð að mati landbúnaðarstjóra, er að mati þeirra ekki í þágu neytenda, svo sem þeir hafa rakið í löngu máli að undanförnu.

Það er einnig “ógerlegt” að leyfa frjálsa sölu á svínakjöti af sömu ástæðum. Því miður fyrir talsmanninn felldu svínabændur með eins atkvæðis meirihluta að níðast á neytendum á sama hátt og hinn hefðbundni landbúnaður gerir.

En það kemur dagur eftir þennan dag. Og talsmaður landbúnaðarins hefur auðvitað góðar vonir um, að svínabændur sýni sama félagsþroska og eggjabændur og falli í faðm hins sjálfvirka kerfis, þar sem allt óþægilegt er “ógerlegt”.

Það er ennfremur “ógerlegt” að selja neytendum aðrar kartöflur en smælki, af því að það er of smávaxið fyrir verksmiðjurnar, sem framleiða franskar kartöflur. Og ekki má flytja inn stórar kartöflur, meðan smælkið er ekki uppselt.

“Það er ógerlegt að láta þessar áorðnu hækkanir dynja á bændum,” er dæmigerð yfirlýsing úr lokuðu kerfi, sem ekkert tillit þarf að taka til umheimsins og telur raunar umheiminn hafa þann eina tilgang að þjónusta þetta kerfi.

Utan og ofan við veruleika íslenzks þjóðfélags er kerfi, sem fléttað hefur verið úr innflutningsbanni á búvörum, einokun á sölu þeirra og sjálfdæmi um verð. Því er leyft að “dynja” með ofurþunga á launþegum, neytendum og ekki sízt skattgreiðendum.

Jónas Kristjánsson.

DV

Umhyggjusamir hörmangarar.

Greinar

Framleiðsluráð landbúnaðarins hefur bannað sölu á jógúrt frá Húsavík í verzlunum í Reykjavík, af því að lög byggðastefnuþingmanna um framleiðsluráð ákveða, að einn aðili skuli hafa einkarétt á heildsölu landbúnaðarafurða á hverju markaðssvæði.

Jógúrtin frá Mjólkursamsölunni, hörmangara Reykvíkinga, hefur verið óhæfilega dýr, meðal annars vegna dýrra umbúða. Þessar dýru umbúðir hafa átt það til að bresta í innkaupapokum, svo að jógúrtin hefur runnið út um aðrar vörur.

Þetta komst Mjólkursamsalan upp með vegna einkaréttarins á Reykjavíkursvæðinu. Þessi einkaréttur er angi af rotnu og spilltu kerfi, sem miðar að því, að opinberir styrkþegar fái að framleiða það, sem þeim þóknast, af óhæfilega dýrri vöru.

Um tíma keypti Hagkaup aðra jógúrt út úr búð á Húsavik og flutti suður á eigin kostnað. Um tíma gátu neytendur því fengið í verzluninni jógúrt, sem bæði var mun ódýrari og einnig í mun öruggari umbúðum, sem ollu ekki tjóni.

Nú hefur þetta verið formlega bannað. Framvegis getur Mjólkursamsalan því selt óhæfilega dýra jógúrt í óhæfilega dýrum og forkastanlega lélegum umbúðum, undir verndarvæng framleiðsluráðs og byggðastefnuþingmanna allra flokka.

Framleiðsluráð landbúnaðarins er um leið að reyna að færa út kvíarnar á öðrum sviðum. Jafnframt heldur það uppi áróðursherferð um, að allar þess gerðir séu í rauninni í þágu neytenda og til þess fallnar að lækka verð á landbúnaðarafurðum.

Þetta minnir á árið 1602, þegar Danakonungur kom á fót einokunarverzlun á Íslandi af einstæðri umhyggju fyrir Íslendingum, svo að þeir fengju “óspilltan varning á sanngjörnu og kristilegu verði”. En nú er árið 1983.

Framleiðsluráð landbúnaðarins vinnur skipulega að stofnun einokunarverzlunar á eggjum. Þetta gerir ráðið til að hindra nokkra stóra framleiðendur í að halda niðri verði fyrir hokrurunum, neytendum í landinu til mikils sparnaðar.

Þegar einokunin er komin á legg, geta hokrararnir framleitt eins og þeim þóknast af eggjum á hinu háa verð- lagi kerfisins. Síðan mun ríkið neyðast til að greiða niður eggin á kostnað skattgreiðenda til að koma vörunni í lóg.

Framleiðsluráð landbúnaðarins ætlar ekki að láta sitja við eggin ein. Nýlega var fellt með aðeins eins atkvæðis meirihluta á fundi svínabænda að biðja um að fá að falla í faðm ráðsins eins og eggjabændur höfðu þegar gert.

Um svínabændur gildir hið sama og um eggjabændur, að hokrararnir eru margir, en stórframleiðendurnir fáir. Því má búast við, að fyrr eða síðar verði sjónarmið framleiðsluráðs einnig þar ofan á, svo að skattgreiðendur fái einnig þá framleiðslu á bakið.

Krumla einokunarinnar er á kafi í fleiri þáttum. Einkaréttur Grænmetisverzlunar landbúnaðarins á kartöflum hefur nú gengið svo langt, að á almennum markaði er ekki lengur til nema smælki, því að stóru kartöflurnar fara allar í verksmiðjurnar.

Þetta sama gæludýr framleiðsluráðs og byggðastefnuþingmanna ræður því einnig, hvaða tegundir grænmetis Íslendingar mega kaupa og af hvaða gæðum. Hinir kristilega umhyggjusömu hörmangarar spyrja neytendur aldrei neins.

Svo er það verðugt umhugsunarefni fyrir neytendur og skattgreiðendur, að enginn stóru stjórnmálaflokkanna hefur minnsta áhuga á að rjúfa þessa sautjándu aldar einokun, sem kostar þjóðina nokkrar Kröfluvirkjanir á ári hverju.

Jónas Kristjánsson.

DV

Vasatölvumenn og -tölur.

Greinar

Margt er skrýtið í kýrhaus kosningabaráttu og stjórnarmyndunartilrauna. Eitt hið merkilegasta er, að við stjórnarmyndun fer mestur tími í að reikna, hvaða tölur komi út úr kosningaloforðum, sem flokkarnir gáfu fyrir kosningar.

Á samningafundum stjórnmálaflokkanna bar einna mest á svokölluðum efnahagssérfræðingum, það er að segja mönnum, sem kunna á vasatölvur. Verkefni þeirra var að reikna margvísleg dæmi, sem stjórnmálamennirnir voru að velta milli sin.

Ekki hvarflar að neinum, að stjórnmálaflokkarnir gætu haft not af mönnum með vasatölvur, þegar þeir búa til kosningaloforð og stefnuskrár fyrir kosningar. Það gæti sparað töluverða vinnu í tilraunum til stjórnarmyndunar eftir kosningar.

Hin raunverulega ástæða gildandi kerfis er sú, að stjórnmálaflokkarnir kæra sig ekkert um að láta reikna kosningaloforðin. Þeir vilja bara geta slegið fram fullyrðingum um, að þeir muni útvega 80% húsnæðislán til 42 ára.

Mennirnir með vasatölvurnar gætu auðveldlega upplýst loforðasmiðina um, að slík húsnæðislán kosti gífurlegar fjárupphæðir, sem einhvers staðar verði að taka og þá á kostnað einhvers annars, sem ekki væru þá til peningar fyrir.

Staðreyndir af slíku tagi henta ekki stjórnmálamönnum fyrir kosningar, þegar þeir eru að gera hosur sínar grænar fyrir almenningi. Þær koma þá fyrst til skoðunar, þegar stjórnmálamennirnir neyðast til að reyna að mynda ríkisstjórn.

Hitt er svo annað mál, að kjósendur gætu, ef þeir vildu, vanið stjórnmálamenn af þeim ósið að slá fram marklausum loforðum fyrir kosningar og kalla þau stefnuskrá. Kjósendur gætu beðið um vasatölvutækt innihald.

Annað athyglisvert atriði er, að vasatölvumenn eru misjafnlega frjálslyndir í spádómum, eftir aðstæðum hverju sinni. Þeir gefa út þjóðhagsspár einu sinni eða oftar á ári, en geta nú ekki spáð kjaraskerðingunni.

Fyrir stjórnarmyndunartilraunir höfðu stjórnmálamenn í höndunum þjóðhagsspá um, að þjóðartekjur á mann mundu minnka um 8% samtals árin 1982 og 1983 og að kaupmáttur ráðstöfunartekna mundi minnka um 8-9% árið 1983.

Eftir stjórnarmyndunartilraunir virðist nánast ókleift að fá upplýsingar um, hvaða áhrif stjórnarsáttmálinn muni hafa á kaupmátt ráðstöfunartekna, í hreinum tölum reiknað, hvort kjaraskerðingin sé 3% eða 30%.

Óneitanlega væri fróðlegt að vita, hver sé kjaraskerðing stjórnarsáttmálans sérstaklega og einnig samanlögð kjaraskerðing þeirra tveggja ríkisstjórna, sem skipt var á í síðustu viku. Það kæmi sér vel fyrir fólk að vita þetta.

Í upplýsingaskortinum fara atvinnulygarar stjórnmálaflokkanna á kostum. Á einum stað er talað um 30% kjaraskerðingu og á öðrum um 3% kjaraskerðingu, sem sé í rauninni kjarabót miðað við fyrri 8-9% kjaraskerðingu.

Auðvitað kæmi sér vel fyrir fólk að vita, hvað vasatölvurnar segja um þetta mál, hver sé þeirra kjaraskerðingarspá. Það kæmi sér vel að hafa spá til að byggja á gagnráðstafanir, svo sem sölu á bíl eða íbúð.

Vasatölvur, vasatölvumenn og tölur úr vasatölvum eru allt nytsamleg fyrirbæri, sem æskilegt væri að nota meira í stjórnmálum bæði fyrir og eftir kosningar. Bezt væri það fyrir kosningar, en eftir kosningar er betra en ekki neitt.

Jónas Kristjánsson

DV

150 daga vinnufriður.

Greinar

Nýja ríkisstjórnin er þegar tekin til starfa með súpu bráðabirgðalaga, sem eru fyrsta skrefið í átt til höfuðmarkmiðs hennar, hjöðnunar verðbólgunnar. Líklegt er og sanngjarnt, að hún hafi um þetta vinnufrið fram á haust.

Stundum er talað um, að ríkisstjórnir þurfi 100 daga frið til að koma sér fyrir. Í þessu tilvíki má búast við, að friðurinn geti í stórum dráttum staðið í 150 daga, – til næsta alþingis og birtingar fjárlagafrumvarps.

Að minnsta kosti verður Svavar Gestsson að hafa hægt um sig og Alþýðubandalagið á næstu vikum. Hann er búinn að reyna að mynda stjórn upp á engar vísitölubætur í júní, sem er snöggtum harðneskjulegra en stjórnin býður.

Í júní verður Svavar í mínus í hinum kunna samanburði um misjöfn svik við samninga. Kjörorðið um samningana í gildi fer því tæpust að sjást í Þjóðviljanum fyrr en á ofanverðu sumri. En svona er að geta ekki verið fullkomlega ábyrgðarlaus.

Raunar er athyglisvert, að Svavar skyldi ganga svona langt í tilraun til stjórnarmyndunar, sem fyrirfram var dauðadæmd. Í tíu daga tilraun Geirs Hallgrímssonar hafði nefnilega þegar komið í ljós, að núverandi stjórnarflokkar næðu saman.

Viðbótartími stjórnarkreppunnar fór sumpart í hinn hefðbundna hringdans formanna og sumpart í tilraunir til að fá Alþýðuflokkinn inn í samstarf Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins um myndun nýrrar ríkisstjórnar.

Að stjórnarkreppan stóð einungis í mánuð sýnir, að vel var á málum haldið. Geir Hallgrímsson hefur þakkað fyrir síðast, er Ólafur Jóhannesson myndaði stjórn fyrir hann. Nú hefur hann í staðinn myndað stjórn fyrir Steingrím Hermannsson.

Ríkisstjórnin hefur náð fyrsta markmiði sínu – að fæðast í tæka tíð til að setja bráðabirgðalög gegn hinum meinta dómsdegi, 1. júní. Við verðum að bíða og sjá, hvort ferill verðbólgunnar verður eins og stjórnin vonar.

Fleiri atriði skipta starfsfrið ríkisstjórnarinnar máli. Framhald fullrar atvinnu mundi styrkja stöðu hennar. Einnig mundi það hjálpa til, að í ljós kæmi, að heimili hinna verst settu færu ekki að ramba á barmi gjaldþrots.

Almenningsálitið með eða móti ríkisstjórninni mun á næsta vetri að verulegu leyti mótast af þessu þrennu, verðbólgustiginu, atvinnuástandinu og stöðu hinna verst settu. Um allt þetta ríkir nú óvissa.

En ríkisstjórnin verður ekki búin að bíta úr nálinni, þótt hún komist yfir þessa þröskulda. Varnarstríðið vinnst ekki til langs tíma nema með sókn. Og málefnasamningurinn vekur afar litlar vonir á því sviði.

Málefnasamningurinn fjallar að verulegu leyti um ráðgert stríð við vísitölur og um bráðabirgðaaðgerðir, sem eru þættir í því stríði. Hans vegna gæti ríkisstjórnin staðið uppi málefnasnauð eftir svo sem eitt ár.

Langlífi ríkisstjórnarinnar byggist hins vegar á, að hún noti ár vísitölustríðsins til að sannfæra sjálfa sig um, að opna þurfi hagkerfið og leggja niður verðskekkingu af hálfu hins opinbera, ef ná eigi hagvexti á nýjan leik.

En í bili hafa menn fengið nóg af stormasömum stjórnmálum vetrarins. Stjórnin og bráðabirgðalögin eru orðin að veruleika. Sumarið er komið með gúrkutíð. Á stundum munu heyrast púðurskot, en alvöruslagur hefst ekki fyrr en um miðjan október.

Jónas Kristjánsson

DV

Annar framsóknaráratugur.

Greinar

Hið jákvæðasta við nýju ríkisstjórnina er, að hún mun, eftir fimm ára hlé, koma aftur á skynsamlegri stefnu í varnarmálum og stóriðju. Hún mun á þessum sviðum reka stefnu, sem er í samræmi við vilja mikils meirihluta þjóðarinnar.

Hætt verður þráteflinu um olíugeyma í Helguvík og flugstöð á Keflavíkurvelli. Hvort tveggja verður reist, olíugeymarnir til að draga úr mengunarhættu og flugstöðin til að skilja á milli herstöðvar og utanlandsflugs.

Gerð verður einlæg tilraun til að semja um, að orkuverð til álversins hækki verulega og að álverið verði stækkað með fjármagni nýs eignaraðila. Um leið verður reynt að fitja upp á nýrri stóriðju, er gæti komið okkur að gagni.

Í efnahagsmálum er minni ástæða til bjartsýni. Hin nýja stjórn er engin viðreisnarstjórn, sem rífur niður múra skipulags- og ríkishyggju. Hún opnar ekki hagkerfið og færir ekki verðmyndun í eðlilegt markaðshorf.

Lífskjaraskerðing er skammgóður vermir, ef henni fylgir ekki frelsisþeyr í efnahagslífinu, svo að innan tíðar hverfi skerðingin í öldu nýrrar lífskjarasóknar, svo sem varð þegar á fyrsta kjörtímabili viðreisnarstjórnarinnar.

Hin nýja ríkisstjórn hefur gert málefnasamning í anda Framsóknarflokksins. Samningurinn er gegnsýrður ríkis- og skipulagshyggju, svo sem ljósast kemur fram í, að laun á landi og sjó verða að verulegu leyti ákveðin með lögum fram á næsta vor.

Með þessu á að auka kjaraskerðingu ársins úr 10% í 15% eða töluvert umfram minnkun þjóðartekna á mann. Um leið viðurkenna stjórnarflokkarnir með margvíslegum hliðarráðstöfunum, að láglaunafólkið mun ekki þola skerðinguna.

Verðstöðvunarstefna hinnar nýju stjórnar mun vafalaust, eins og allar fyrri slíkar, leiða til skakkrar verðmyndunar, meðal annars til niðurgreiðslu á orku með erlendum lánum, sem börnum okkar verður gert að endurgreiða.

Engin tilraun verður gerð til að hrófla við verðkerfi landbúnaðarins, sem kostar þjóðina árlega nokkrar Kröflur í formi innflutningsbanns, útflutningsuppbóta, niðurgreiðslna, fjárfestingarstyrkja, forgangslána og lánskjara.

Hinir bjartsýnu mættu gjarna hugleiða, hvort þeir telji líkur á, að hin nýja ríkisstjórn muni stöðva tilraun hagsmunasamtaka hins hefðbundna landbúnaðar til að koma á Kröflukerfinu í framleiðslu og sölu á eggjum.

Miklu meiri líkur eru á, að krumla afturhaldsins muni einnig ná til kjúklingaræktar og svínaræktar, svo að neytendur og skattgreiðendur megi þola enn frekari kárínur af landbúnaði en þeir hafa mátt þola hingað til.

Engin alvarleg tilraun verður gerð til að hindra hrun sjávarútvegsins niður í eymd landbúnaðar. Engin róttæk leið verður farin til að samræma sókn og stofna, gæði og verð. Hin dauða skipulagshyggja mun áfram ríkja.

Meðal annars vegna framangreindra atriða verður í landinu litil fjármunamyndun til að efla margvíslegan iðnað, svo sem orkufrekan iðnað, rafeindaiðnað, fiskirækt og ylrækt. Skorta mun forsendur nýrrar lífskjarasóknar.

Í efnahagsmálum táknar hin nýja stjórn, að annar framsóknaráratugurinn bætist við. Haldið verður fast við ríkis- og skipulagshyggju, en frelsis- og markaðshyggja kemst ekki að. Þannig er málefnasamningurinn ömurlegt veganesti.

Jónas Kristjánsson.

DV

Tvenn skólabókar-mistök.

Greinar

Ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen gerði tvenn örlagarík mistök við leiðarenda lélegs ferils. Þessi mistök eru skólabókardæmi um, hvernig lélegir stjórnmálamenn hafa vanið sig á að misþyrma efnahagslífinu og spilla framtíðarvonum þjóðarinnar.

Steingrímur Hermannsson sjávarútvegsráðherra fækkaði skrapdögum togaranna og fjölgaði þar með dögunum, sem þeir geta verið á þorskveiðum. Þetta gerði hann vegna lélegra aflabragða og slæmrar afkomu togaranna.

Þessi stefna Steingríms er vítahringur, af því að léleg aflabrögð og slæm afkoma stafa af fækkun þorska í sjó. Leyfi til aukinnar sóknar hlýtur að leiða til enn hraðari minnkunar þorskstofnsins og aukinnar útrýmingarhættu.

Við höfum áður eyðilagt síldarstofninn og loðnustofninn og erum nú að eyðileggja þorskstofninn, mestu auðlind þjóðarinnar. Vegna framtíðarhagsmuna okkar verðum við að minnka sóknina í þorskinn í stað þess að auka hana.

Til of mikils er ætlazt, að Steingrímur skilji samhengi af þessu tagi. En hið alvarlega er, að Steingrímur heldur áfram að vera ráðherra, þótt ríkisstjórnir komi og fari. Hann heldur áfram að gera mistök af þessu tagi.

Þriggja manna ráðherranefnd ákvað að skera hækkun á taxta Landsvirkjunar úr 31% í 10% og búa þannig til 360 milljón króna hallarekstur á þessu ári. Þetta gerðu þeir til að draga úr verðbólguáhrifum raforkuverðsins.

Þessi stefna Hjörleifs Guttormssonar, Pálma Jónssonar og Tómasar Árnasonur er röng. Orku á ekki að selja á útsöluverði og skuldum á ekki að safna í útlöndum. Við erum þegar komin út á yztu nöf og getum hæglega hrapað.

Framleiðsla og dreifing raforku og jarðhita á að standa undir sér, ekki aðeins daglegum rekstri, heldur einnig uppbyggingu. Það er fáránlegt að ætla börnum okkar að greiða rafmagnið og hitann, sem við notum núna.

Verulegur hluti af skuldaaukningunni í útlöndum stafar af stefnu útsöluverðs á rafmagni og hita. Við höfum árum saman og í vaxandi mæli notið of ódýrrar orku og sent reikninginn til afkomenda okkar. Þetta hefur verið svívirðilegt.

Og nú hefur ríkisstjórnin gengið enn lengra á þessari ógæfubraut. Erlendar skuldir eru komnar upp í 50% af árlegri þjóðarframleiðslu. Með sama áframhaldi verðum við senn ósjálfbjarga og síðan seld á uppboði eins og Nýfundnalendingar.

Erlendar skuldir að vissu marki eru í lagi, ef þær eru myndaðar til að koma á fót rekstri, sem stendur undir vöxtum og afborgunum. En að nota skuldasöfnun til að greiða niður orkuverð er heimskulegt og glæpsamlegt.

Ráðherradagar Hjörleifs og Pálma eru taldir, en Tómas flytur kannski hina röngu stefnu inn í nýja ríkisstjórn. Ekki bætir úr skák, að sú ríkisstjórn er mynduð um eina stóra hugsjón: Að ná niður háum vísitölum á pappír.

Verðbólgustríð af slíku tagi veldur því, að lélegir ráðherrar fresta og neita nauðsynlegum verðbreytingum, svo sem hækkun orkuverðs og erlends gjaldeyris. Þeir spilla hagkerfinu í stríði sínu við háar vísitölur á pappír.

Ríkisstjórnir koma og fara. En því miður er ekki í augsýn nein sú ríkisstjórn, er snúi frá feigðarvegi vísitölufölsunar og verðkerfisskekkingar og herleiðingu barna okkar í þrældóm vaxta og afborgana af skuldasúpu í útlöndum.

Jónas Kristjánsson

DV