Author Archive

Vormenn að verki.

Greinar

Ein efnilegasta atvinnugreinin á Íslandi er fiskeldi. Það hefur eflzt hröðum skrefum undanfarin ár. Einkum er það dýrmætur laxinn, sem hefur orðið viðfangsefni. Og næstur honum að mikilvægi kemur regnbogasilungur.

Fiskeldi hefur mótazt á annan hátt en loðdýrarækt, þar sem áherzla hefur verið lögð á fremur lítil fjölskyldubú, eins konar vísitölubú. Fiskeldið er hins vegar stundað í stórum stöðvum með miklum stofnkostnaði.

Báðar atvinnugreinarnar eru einkar viðkvæmar. Ekkert má út af bera í fóðri og hreinlæti, ef reksturinn á að ganga vel. Mörg dæmi eru um, að stórtjón hafi orðið. Í loðdýrarækt hafa sum bú hreinlega hætt rekstri af þeim völdum.

Hinir smáu loðdýraræktendur þurfa mjög að treysta á aðvífandi þekkingu opinberra kennara og ráðunauta. Fiskiræktendur eru hins vegar nógu stórir í sniðum til að hafa þekkinguna innan ramma fyrirtækjanna sjálfra.

Í fiskeldinu eru ýmsar sérgreinar. Sumir einbeita sér að ræktun seiða, sem síðan eru seld til annarra stöðva, er rækta fiskinn upp í slátrunarstærð. Enn aðrar stöðvar stunda ekki eldi, heldur treysta á hafbeit.

Gamalkunnugt er framtak Laxalónsmanna, sem hafa selt seiði innanlands og til útlanda. Þeir hafa nú hazlað sér völl í Vestmannaeyjum og í Dölunum, þar sem þeir hafa stofnað hafbeitarfélagið Dalalax með heimamönnum.

Margra ára reynsla er einnig komin á hafbeit Lárósmanna á Snæfellsnesi. Svipaðar landfræðilegar aðstæður hafa verið notaðar af Tungulaxmönnum og norskum samstarfsaðilum þeirra í Lóni í Kelduhverfi og verða fljótlega víðar.

Sérstæðari er laxaræktin á Húsatóftum við Grindavík, þar sem fiskurinn er fóðraður upp í slátrunarstærð uppi á landi, í upphituðum og yfirbyggðum eldiskvíum. Þar er um að ræða einkaframtak ungs vísindamanns.

Þannig fara menn ýmsar leiðir við að hagnýta sér aðstæður. Þær geta verið fólgnar í ódýru fóðri frá fiskvinnslustöðvum, jarðhita og lónum við sjávarstrendur, svo að dæmi séu nefnd. Þær gera fiskeldið arðbært.

Meðan við sportveiðum aðeins 300 tonn af laxi á ári, veiða nágrannaþjóðirnar um 8.000 tonn af honum í hafinu og Norðmenn ala sjálfir upp um 15.000 tonn í eldiskvíum. Af þessu má sjá, hve mikill er markaðurinn fyrir lax.

Norðmenn munu í ár hafa 3.800 milljón íslenzkra króna gjaldeyristekjur af laxi frá 400 eldisstöðvum og ætla að koma tekjunum upp í 5.700 milljón krónur árið 1985. Þeir eru þegar búnir að gera þetta að stóriðju.

Enn hefur ekkert komið fram um, að markaður fyrir lax sé að mettast í heiminum. Hins vegar má vera ljóst, að framleiðsluaukning Norðmanna getur fyrr eða síðar leitt til verðlækkunar, sem við þurfum að reikna með.

Ef til vill eigum við líka möguleika í sjóbirtingi og silungi, þótt laxinn sé það, sem markaðurinn heimtar um þessar mundir. Og aðrir fiskar geta síðar komið til greina. Í Noregi hafa 115 fyrirtæki sótt um þorskeldisleyfi.

Fjöldi Íslendinga hefur af dugnaði, hugviti og þekkingu gengið fram fyrir skjöldu í fiskeldi. Það starf er nú smám saman að bera árangur í vel þegnum gjaldeyristekjum á erfiðum tíma. Þar eru vormenn okkar að verki.

Jónas Kristjánsson.

DV

Örlagaríkir mælikvarðar.

Greinar

Við þurfum ekki að vera svartsýn á framtíðina í landi okkar, þótt stundum gangi ekki allt í haginn. Á velgengnisbraut undanfarinna áratuga hafa stundum steðjað að tímabundnir erfiðleikar, sem okkur hefur síðan tekizt að rífa okkur upp úr.

Síðustu árin höfum við getað glaðzt yfir, að til skjalanna eru að koma nýjar atvinnugreinar, sem virðast líklegar til að efla þjóðarauð mjög verulega á næstu árum og áratugum, ef við kunnum að halda rétt á spilunum.

Nýgræðingarnir spanna sviðið frá sérhæfðum rafeindaiðnaði yfir í fiski- og loðdýrarækt. Á öllum þessum sviðum hefur náðst athyglisverður árangur, sem byggist á, að hér sé á einhvern hátt betri aðstaða en annars staðar.

Á öllum sviðum er þekkingin ein af helztu undirstöðunum. Það á einna skýrast við um rafeindaiðnaðinn, en einnig fiski- og loðdýrarækt. Síðarnefndu greinarnar byggjast einnig á góðu fóðri úr óvenju ódýrum fiskúrgangi.

Hins vegar fer því fjarri, að til góðs séu allar ráðagerðir manna um nýja starfsemi. Sumar þeirra eru eingöngu miðaðar við afmarkaða staðar- og atvinnuhagsmuni, en stríða að öðru leyti gegn heildarhagsmunum þjóðarinnar.

Hægt er að meta gildi nýrrar starfsemi á ýmsa samkeppnismælikvarða. Beztar eru þær greinar, sem ekki þurfa niðurgreiðslur, rekstrarstyrki, vildarlán, framkvæmdastyrki, útflutningsuppbætur, tollmúra og innflutningsbann.

Sjávarútvegurinn er dæmi um grein, sem stenzt alla þessa mælikvarða nema vildarlánin. Hann þarf ekki einu sinni innflutningsbann eða tollmúra. Hér er meira að segja hægt að kaupa danskan fisk, ef neytendur lystir.

Án nokkurra styrkja og útflutningsuppbóta keppir sjávarútvegurinn á erlendum markaði með góðum árangri, færir okkur gífurlegan gjaldeyri og stendur raunar að verulegu leyti undir þjóðfélaginu á Íslandi.

Samt er hið opinbera alltaf að gera sjávarútvegi skráveifu. Krónan er yfirleitt of hátt skráð. Rangsnúið fiskverð dregur úr gæðum. Verst er þó, að opinber lán magna stærð flotans og valda stórhættulegri ofveiði.

Á hinum enda litrófs íslenzkra atvinnuvega er hinn hefðbundni landbúnaður, sem felst í ræktun sauðfjár og nautgripa. Hann stenzt ekki nokkurn ofangreindra mælikvarða og er raunar hroðalegur baggi á þjóðinni.

Þessi hefðbundni landbúnaður þrífst í skjóli innflutningsbanns, tollmúra, útflutningsuppbóta, framkvæmdastyrkja, vildarlána, rekstrarstyrkja og niðurgreiðslna. Þetta borgar hann svo með ofbeit og landeyðingu.

Sumar aðrar greinar landbúnaðar eru mun betri, af því að þær standast mælikvarðana, sem hér hafa verið raktir. Alifuglarækt stenzt suma þeirra, en hefur þó skjól af innflutningsbanni. Ylrækt stenzt flesta, en getur ekki flutt út.

Hinar nýju greinar fiskiræktar og loðdýraræktar eru hátt yfir annan landbúnað hafnar. Í fyrsta lagi hafa þær ekki þurft niðurgreiðslur, rekstrarstyrki, vildarlán, framkvæmdastyrki, útflutningsuppbætur, tollmúra og innflutningsbann.

Í öðru lagi geta þær selt afurðir sínar á erlendum markaði. Þær geta fært gjaldeyri í þjóðarbúið. Þær geta staðið við hlið sjávarútvegs sem einn hornsteina þjóðfélagsins. Einmitt slíka nýbreytni eigum við að efla.

Jónas Kristjánsson.

DV

Snöggur sanngirnissigur.

Greinar

Mikil og óvænt gleðitíðindi eru bráðabirgðalögin um brottfall 10% skattsins á ferðamannagjaldeyri. Aðdragandi laganna er ánægjulegt dæmi um, að íslenzk stjórnvöld geta verið skjótvirk, ef þau telja það máli skipta.

Albert Guðmundsson fjármálaráðherra var einn helzti hvatamaður málsins í ríkisstjórninni. Eftir jákvæðar viðræður fjármálaráðuneytisins og viðskiptaráðuneytisins lagði hann málið fyrir ríkisstjórnarfund í gær.

Þar fékk það fremur vinsamlegar undirtektir og voru þingflokkar ríkisstjórnarinnar kallaðir saman. Í báðum flokkum voru bráðabirgðalögin samþykkt síðdegis í gær. Og Albert var ekki seinn á sér að gefa lögin út í dag.

Með þessu er miklu og langvinnu leiðindamáli vikið til hliðar. Ferðamannaskatturinn hefur alltaf verið hvimleiður skattur, sem stríðir á ýmsan hátt gegn alþjóðlegu samstarfi og hefur samt ekki gefið mikið í aðra hönd.

Spáð hafði verið 75 milljón króna ríkistekjum af 10% álaginu á þessu ári. Hliðstæða upphæð þarf auðvitað að spara á móti, svo að bráðabirgðalögin leiði ekki til aukinnar skattheimtu á einhverju öðru sviði.

Ferðamannaskatturinn hefur falið í sér tvöfalda gengisskráningu, sem minnti á spillingartíma sjötta áratugarins, þegar snjallir menn syntu laglega milli margs konar gengis. Hér eftir er aðeins eitt gengi krónunnar.

Áður voru útflytjendur settir skör lægra en innflytjendur, sem gátu kostað viðskiptaferðir sínar af erlendum umboðslaunum. Þannig voru sumar viðskiptaferðir háðar ferðamannaskatti og aðrar alls ekki.

Áður var almenningur í sumarfríum settur skör lægra en embættismenn og viðskiptaaðilar, sem fá dagpeninga reiknaða í erlendri mynt. Í báðum þessum dæmum hefur misræmi milli hópa verið aflétt með bráðabirgðalögunum.

Ekki má heldur gleyma, að hinn sérstaki ferðamannaskattur okkar stríddi sem tvöfalt gengi gegn anda samstarfs okkar við aðrar þjóðir í Alþjóðlega gjaldeyrissjóðnum og var sífellt tilefni kvartana í okkar garð.

Við höfum hvað eftir annað haft gagn af þessu alþjóð lega samstarfi. Eftir brottfall 10% álagsins ætti niður að falla gagnrýni á þeim vettvangi. Það gæti komið sér vel á erfiðum tímabilum í framtíðinni.

Loks er ef til vill mikilvægast, að ferðalög eru mikilvægur þáttur lífsmáta nútímans. Fólk vill geta ferðazt um, án þess að íslenzk stjórnvöld séu sér á parti að reyna að spilla því með ranglátri skattheimtu.

Almenningur hefur margvíslegar ástæður fyrir ferðalögum sínum. Sumir vilja hvíla sig frá önnum eða rysjóttu veðri. Aðrir vilja teyga af brunnum vísinda, mennta eða sagnfræði. Allt eru þetta gildar ástæður.

Við búum svo afskekkt, að við þurfum að kaupa dýrari farseðla en aðrir til að komast yfir landamærin. Sá landfræðilegi skattur er svo mikill, að stjórnvöld eiga ekki að bæta gráu ofan á svart með viðbótarskatti.

Bráðabirgðalög ríkisstjórnarinnar eru spor í átt til einfaldara hagkerfis, betra alþjóðasamstarfs og réttlátara þjóðfélags. Og sérstakt fagnaðarefni er, hversu skjótt þau hafa komið til skjalanna.

Jónas Kristjánsson.

DV

Góðir gjaldeyrisrefir.

Greinar

Loðdýrarækt er skyndilega að verða meiriháttar atvinnugrein hér á landi, einkum refarækt. Til viðbótar við þau 86 refabú, sem rokið hafa upp á sárafáum misserum, er ætlunin að koma upp 60 nýjum í haust.

Færri komast þó að en vilja. Loðdýrarækt er háð leyfisveitingum, meðal annars vegna ýmissa krafa um mannvirki og aðra aðstöðu. Margir eru á biðlista, þótt miklu þurfi til að verja. 150 refa bú kostar svipað og 40 kúa fjós og hlaða.

Reynslan af minknum sýnir, að búast má við, að mörg þessi nýju bú fari halloka. Loðdýrarækt er enginn skjótfenginn gróði. Eins og allur rekstur yfirleitt byggist hún á góðri þekkingu og mikilli nákvæmni.

Þekking er af skornum skammti í landinu. Hún er tæpast nógu mikil til að standa undir hinni hröðu fjölgun búa. Bændaskólarnir hafa ekki haft aðstöðu til verklegrar menntunar, en hafa þó megnað að standa vel að bóklegri.

Svo mikið er í húfi í þessari nýju og spennandi atvinnugrein, að nauðsynlegt er að tengja betur saman bókvitið og askana. Bændaskólarnir þurfa fé til verklegrar kennslu og til námskeiða fyrir loðdýrabændur.

Veirusjúkdómur hefur leikið minkabúin grátt á undanförnum árum. Svo er nú komið, að einungis tvö eða þrjú bú eru eftir af átta, sem voru starfrækt á blómaskeiði minkaræktar. Þetta sýnir, hversu þekkingin er nauðsynleg.

Erfiðleikar minkaræktar hafa þó leitt til mikils árangurs á einu mikilvægasta sviðinu, blöndun loðdýrafóðurs. Tekizt hefur að finna blöndur, sem gefa svo góða raun, að íslenzkir refir verða þyngri og skinnmeiri en aðrir.

Fiskúrgangur er 65% af fóðrinu og veldur því, að fóðurkostnaður þarf ekki að vera nema um helmingur af því, sem hann er í stærsta loðdýraræktarlandinu, Finnlandi. Þess vegna ætti okkar ræktun að geta orðið einkar arðbær.

Leiðbeinendur hafa oft bent á, að forskot okkar í lágum fóðurkostnaði byggist á, að loðdýrabúin séu í nágrenni fiskvinnslustöðva. Þannig sparast akstur, frystigeymslur og önnur aðstaða, sem fylgir vegalengdum og tímatapi.

Því miður virðast refabúin dreifast allt of mikið, bæði inn til lands og út um öll héruð. Bezt væri að hafa þau nokkur saman í nágrenni fiskvinnslustöðva, svo að þau hafi bæði ódýrt fóður og sameiginlega aðstöðu.

Hins vegar væri rétt að dreifa áhættunni. Við megum ekki einblína á blárefinn, heldur leyfa einnig ræktun á silfurref. Ennfremur þarf að efla ræktun á mink og ullarkanínum, svo að erlendar verðsveiflur í einstökum greinum valdi minna raski.

Við megum alltaf búast við tímabundinni offramleiðslu vegna sveiflna í eftirspurn. En offramleiðsla verður seint af okkar völdum, því að íslenzk framleiðsla verður aðeins dropi í heimshafið, þótt loðdýrarækt margfaldist hér.

Refaskinn hafa fallið í verði um 35%. Samt er tiltölulega lítið tap á mörgum refabúum, sem tóku til starfa um síðustu áramót og fengu því verðfallið í hausinn á viðkvæmasta tíma. Þetta sýnir, að afkoman getur orðið góð.

Loðdýraræktun byggist hvorki á innflutningsbanni loðskinna, né á niðurgreiðslum, ríkisstyrkjum og útflutningsuppbótum. Hún er fráhvarf frá hefðbundnum landbúnaði yfir í útflutningsiðnað, sem mokar inn í landið beinhörðum gjaldeyri.

Jónas Kristjánsson

DV

Gælt við kukl.

Greinar

Skerandi dæmi um efnahagsvit ríkisstjórnarinnar og ráðgjöfina, sem hún sætir í þeim efnum, eru hugleiðingar ráðherra og ráðgjafa þeirra um, hvort taka eigi erlend lán fyrir hallarekstri ýmissa opinberra þjónustufyrirtækja.

Í vaxandi mæli hafa ríkisstjórnir seilzt til þessarar aðferðar til að halda í gangi orkufyrirtækjum á borð við Landsvirkjun og Hitaveitu Reykjavíkur og raunar fleiri opinberum fyrirtækjum, sem selja almenningi þjónustu.

Þetta er gert til að hindra, að eðlilegar og nauðsynlegar verðhækkanir á þjónustunni fari út í vísitölurnar, sem ríkisstjórnir eru alltaf að berjast við að halda niðri. Þetta er svokallað stríð við verðbólguna.

Eins og jafnan vill verða í opinberum stofnunum er ekki auðvelt að finna leiðir til sparnaðar í rekstri, svo sem að nýta vinnutímann betur, þótt oft hafi verið bent á, að víða er hann óhæfilega illa nýttur.

Enda virðast ráðherrar og ráðgjafar þeirra hafa gefizt upp við að heimta skárri rekstur og segjast nú aðeins hafa um að velja hækkun á verði þjónustunnar eða erlend lán, jafnvel þótt slík lán séu þegar komin út í öfgar.

Smám saman hafa erlendar skuldir opinberra þjónustufyrirtækja, einkum þeirra, sem afla orku og dreifa henni, magnazt svo, að þær nema meirihluta allra skulda Íslendinga í útlöndum og eru að sliga þjóðfélagið.

Erlendar skuldir nema nú um helmingi af árlegri þjóðarframleiðslu og árleg greiðslubyrði af þessum skuldum nemur um fjórðungi af árlegum útflutningstekjum. Þessi hlutföll hafa sigið mjög hratt á ógæfuhliðina undanfarin ár.

Skuldasúpan er að verulegu leyti orðin til af því, að stjórnvöld treystast ekki til að láta okkur greiða fullt verð fyrir hita og rafmagn og kjósa heldur að velta greiðslubyrðinni yfir á afkomendurna, sem eiga að erfa landið.

Undirverð á hita og rafmagni í mesta þéttbýlinu leiðir svo til samanburðar við strjálbýlið, sem heimtar jafnan rétt. Afleiðingin er verðjöfnun á rafmagni, olíustyrkir til húshitunar og aðrar hliðstæðar niðurgreiðslur.

Miklu vitlegra væri hins vegar að jafna orkuverðið upp á við, – láta þjóðina borga til fulls orkuna, sem hún notar, í stað þess að dreifa kostnaðinum á næstu kynslóðir, sem eiga að bæta þessu böli ofan á ofveiði okkar og ofbeit.

Þetta hefði verið heppilegri leið til að ráðast á lífskjörin en að skera niður verðbætur á laun. Sú skerðing dregur einmitt núna úr kjarki ráðamanna til að halda réttum mikilvægum atriðum á borð við orkuverð og krónugengi.

Enn einu sinni eru ráðherrar og ráðgjafar þeirra að gamna sér við, að þeir geti sparað sér nokkur vísitölustig í hinu indæla verðbólgustríði sínu með því að falsa verð á rafmagni og heitu vatni og safna skuldum í staðinn.

Margoft hefur verið bent á, að þessi iðja misviturra manna er meira en lítið þjóðhættuleg. Hún verður sjúklegri með hverju árinu, eftir því sem skuldir þjóðarinnar í útlöndum nálgast suðupunktinn, er þá verður ekki lengur haminn.

Samt þykjast menn geta verið ráðherrar og efnahagsráðgjafar upp á þau býti, að enn komi til greina að galdra brott heimatilbúinn vanda með því að auka hina geigvænlegu skuldabyrði þjóðarinnar. Það er ekki von, að vel gangi.

Jónas Kristjánsson.

DV

Verð endurspegli gæði.

Greinar

Þegar íslenzk fiskiskip sigla með afla, fer fiskurinn yfirleitt á heildsölumarkað, sem endurspeglar framboð og eftirspurn. Bezti fiskurinn er seldur á svimandi háu verði, en lítið sem ekkert fæst fyrir hinn lakasta.

Á fiskmörkuðum erlendra löndunarhafna eru samt ekki sveitir opinberra eftirlitsmanna til að meta fisk til gæða og verðs. Aðhaldið felst í sveiflum markaðsverðsins, sem framkalla bæði mestu gæði og nákvæmar tímasetningar í löndun.

Við búum hins vegar hér heima við einkar flókið kerfi, – verðjöfnunarkerfi með þátttöku ríkisvaldsins. Svo virðist sem þetta kerfi hafi rofið hin nauðsynlegu tengsl milli kaupenda og seljenda á ýmsum stigum málsins.

Í hæstu verðflokkum getur farið gegnum kerfið fiskur, sem neytandinn í Bandaríkjunum fúlsar svo við, þegar ætlazt er til, að hann kaupi dýrum dómum og vilji síðan frekari viðskipti. Skilaboð um svörun hans ganga treglega til upprunans.

Hér ákveður sérstök yfirnefnd verð og verðflokka með atkvæðum oddamanns ríkisstjórnarinnar og einhvers málsaðilans. Síðan raða opinberir matsmenn hinum landaða fiski í þessa verðflokka án þess að hafa stuðning af skýrum mælikvörðum.

Málið verður flóknara fyrir þá sök, að víða eru seljandi og kaupandi í raun sami aðilinn, sem gæti haft hag af því að reyna að fleka sölusamtökin til að taka við vöru, sem ekki er eins góð og matið fullyrðir.

Ástæða er til að ætla, að allt þetta kerfi sé verulega gallað. Það sýna umræður í kjölfar birtingar Fiskifélags Íslands á umdeildum prósentutölum um gæðaflokkun afla úr einstökum skipum og eftir einstökum veiðiaðferðum.

Fyrst er að nefna, að verðmunur á gæðaflokkum er áreiðanlega allt, allt of lítill. Hann endurspeglar ekki aðeins gæði, heldur einnig pólitíska tillitssemi við ákveðin sjávarpláss, ákveðnar veiðiaðferðir og ákveðna fjárfestingu.

Of lítill verðmunur gæðaflokka er óbeinn stuðningur við netaútgerð, sem nær aðeins 70% aflans í efsta gæðaflokk, og við togaraútgerð, sem nær aðeins 90% aflans í þennan flokk, meðan línu- og handfæraútgerð ná 100%.

Dæmi togaranna er raunar heldur verra en prósentutalan segir. Afli þeirra er svo mikill, að hann er lengi í vinnslu í landi. Er hann þá oft orðinn mun síðri að gæðum á síðasta vinnsludegi en hann var á löndunardegi.

Settar hafa verið fram óskir um, að bannaður verði allur tveggja og þriggja nátta netafiskur, svo og netafiskur af of miklu sjávardýpi. Ennfremur, að bannaður verði eldri togarafiskur en einnar viku gamall.

Til viðbótar hafa verið settar fram óskir um, að löndunum togara sé hagað svo, að vinnslu afla sé lokið fyrir helgi, svo og að helgarvinna verði heimiluð, ef þetta tekst ekki. Fyrirstaða er gegn öllum slíkum óskum.

Lög um slík atriði og hreinar lögregluaðgerðir í kjölfar þeirra geta verið nauðsynleg forsenda betri söluvöru í sjávarútvegi. Enn betra væri þó, að hin opinbera verðflokkun endurspeglaði átakalaust raunverulegan gæðamun, ekki bara hluta hans.

Bezt væri þó, ef hægt væri að koma hér á beinu samhengi milli verðs og gæða, sem menn þekkja frá erlendum fiskmörkuðum, svo að veiði- og vinnsluaðilar fái þann verðmun, sem markaðurinn vill borga fyrir gæðamun þessarar sömu vöru.

Jónas Kristjánsson.

DV

Ósigur í Madrid.

Greinar

Sendiherrar Vesturlanda hafa beðið enn einn ósigurinn fyrir Sovétríkjunum. Eftir þriggja ára þras á Evrópufriðarráðstefnunni í Madrid hafa þeir fallizt á samkomulag, sem magnar mannréttindabrot í Austur-Evrópu.

Í þrjú ár hafa fulltrúar 35 ríkja þjarkað um, hvort Sovétstjórninni beri að standa við loforð, sem Brezhnev undirritaði í Helsinki árið 1975. Niðurstaðan er plagg, þar sem ekki er minnzt á vaxandi mannréttindabrot.

Eftir þriggja ára deilur um, hvort verkföll eigi rétt á sér, til dæmis í Póllandi, er ekki orð um þau í yfirlýsingunni frá Madrid. Þar segir aðeins, að menn skuli hafa rétt á að vera í verkalýðsfélögum.

Eftir þriggja ára deilur um, hvort menn skuli vera frjálsir fyrir herlögum, til dæmis í Póllandi, er ekki orð um þau í yfirlýsingunni frá Madrid. Þar með hafa Vesturlönd samþykkt réttmæti herlaganna í Póllandi.

Eftir þriggja ára deilur um, hvort menn megi hafa með sér félag til að fylgjast með, hvort staðið sé við undirskriftirnar frá því í Helsinki, til dæmis í Sovétríkjunum, er ekki orð um það í yfirlýsingunni frá Madrid.

Eftir þriggja úra deilur um, hvort fjölskyldur megi sameinast og hvort fólk megi í því skyni til dæmis flytjast frá Sovétríkjunum, er ekki orð um slíkt í yfirlýsingunni frá Madrid. Þar með er hin austræna svívirða réttlætt.

Eftir þriggja ára deilur um, hvort menn megi ótruflað hlusta á útvarp frá útlöndum, til dæmis í Sovétríkjunum, svo sem greinilega er skráð í Helsinki-samkomulaginu, er ekki orð um það í yfirlýsingunni frá Madrid.

Eftir þriggja ára deilur um, hvort fréttamenn skuli hafa óhindrað ferðafrelsi til að afla sér upplýsinga, til dæmis í Sovétríkjunum, svo sem segir í Helsinkisamningnum, er ekki orð um slíkt í yfirlýsingunni frá Madrid.

Í löng átta ár hefur Sovétstjórnin lagt sérstaka áherzlu á að brjóta einmitt ákvæðin, sem Brezhnev undirritaði í Helsinki árið 1975. Hún gengur harður en áður fram í að halda fjölskyldum sundruðum, bara til að sýna vald sitt.

Erlendar útvarpssendingar eru núna meira truflaðar en var fyrir samninginn í Helsinki. Og sérstök áherzla hefur verið lögð á að hundelta þá menn, sem í Sovétríkjunum hafa mælt með því, að Helsinki-samningurinn skyldi haldinn.

Svo standa vestrænir sendiherrar upp frá þriggja ára samningaborði í Madrid með ekki neitt í höndunum, alls ekki neitt. Með mannréttindaþögninni í yfirlýsingunni frá Madrid er Sovétstjórninni gefið grænt ljós.

Betra hefði verið að skrifa ekki undir neitt en að skrifa undir smánarplaggið frá Madrid. Raunar hafði verið betra að skrifa ekki einu sinni undir Helsinki-samninginn, svo hraksmánarleg reynsla sem er af honum.

Bezt væri að gera ekki annað á fundum með sovézkum sendiherrum en að þylja orðrétta mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, sem er bezta yfirlýsingin af því tagi og meira að segja undirrituð af sovétstjórninni.

Til að bæta gráu ofan á svart hafa hinir vestrænu sendiherrar í Madrid fallizt á framhaldsfund í Stokkhólmi á næsta ári, þar sem sendiherrar Sovétríkjanna eiga að fá sérstakt tækifæri til að tjá sína frábæru friðarást, samanber Afganistan.

Jónas Kristjánsson

DV

Flugstöðvar-gáleysi.

Greinar

Nokkuð er til í því, sem Ragnar Arnalds, fyrrverandi fjármálaráðherra, sagði um daginn, að ákvörðunin um byggingu hinnar hönnuðu flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli sé “stærstu fjárfestingarmistök, sem gerð hafa verið”.

Á hinum sama fundi í fyrrverandi utanríkismálanefnd sagði hann einnig, að “gáleysislega sé farið með fjármuni” í flugstöðvarmálinu. Hin síðari fullyrðing hans er áreiðanlega rétt, þótt hin fyrri sé líklega í stílfærðara lagi.

Að gáleysislega sé farið með fjármuni getur einnig verið skoðun þeirra, sem telja æskilegt að skilja milli borgaralegs og hernaðarlegs flugs á Keflavíkurflugvelli og að nýja flugstöð þurfi að reisa þar fyrr eða síðar.

Fáránlegt er, að flugstöð á Keflavíkurflugvelli skuli með tilheyrandi aðstöðu þurfa að kosta 2.100 milljónir íslenzkra króna á núverandi verðlagi, – miklu meira en kostar hringvegur með slitlagi umhverfis landið.

Þessi upphæð hlýtur að teljast gáleysisleg, enda þótt hlutur Íslands sé ekki nema 550 milljónir af allri upphæðinni. Aðeins sá hluti er svipaður og kostnaður við slitlag á þrjá fjórðu hluta hringvegarins um landið.

Heimsfrægur er fjáraustur og skortur á peningaaðhaldi hjá bandarískum yfirvöldum hermála. Þeim kann að finnast lítið mál að borga 1.550 milljónir íslenzkra króna fyrir treikvart flugstöð með tilheyrandi aðstöðu.

Íslenzka ríkið hefur hins vegar hugsað í smærri stíl og verður að gera það. 550 milljónir króna má nota til ýmissa hluta. Hér á landi verður að meta, hvað sé brýnast að gera fyrir þá peninga og hvort yfirleitt sé rétt að taka þá að láni.

Auðvitað er freistandi að hefja framkvæmdir í flugstöðinni við þær kringumstæður, að bandarísk stjórnvöld sjá hina gagnkvæmu hagsmuni í flugstöðinni og vilja taka þann fjárhagslega þátt í henni, sem samið hefur verið um.

Einnig er freistandi að þurfa ekki að borga fjórðung Íslands í flugstöðinni fyrr en um þær mundir, sem hún verður tekin í notkun, og geta meira að segja slegið fyrir hlutanum. En allar skuldir verður að greiða um síðir.

Flugstöðvarkostnaður mun ekki þvælast fyrir öðrum framkvæmdum á Íslandi næstu árin. Samt verður að meta, hvort flugstöðin verður brýnni en aðrar þarfir, þegar að því kemur, að íslenzka fjórðunginn verður að fjármagna.

Oft hefur verið bent á, að hin hannaða flugstöð er allt of dýr, þótt hún sé komin í smærri útgáfu en upphaflega var gert ráð fyrir. Íslenzkt millilandaflug þarfnast ekki 2.100 milljón króna flugstöðvar, hvorki nú né síðar.

Við megum ekki búast við miklum viðskiptum við erlendar risaþotur. Og við þurfum ekki að reka millilandaflugið á þann hátt, að allt sá á tampi í flugstöðinni í tvisvar tvo tíma á sólarhring og stöðin standi auð þess á milli.

Hins vegar þurfum við aðstöðu til að komast úr bíl inn í flugstöð og úr flugstöð upp í flugvél án þess að þurfa að mæta roki flugvallarins. Hin dýra flugstöð virðist ekki fullnægja þeim lágmarkskröfum til þæginda!

Það, sem þarf, er, að reiknuð verði ný flugstöðvaraðstaða, sem miðast við þarfirnar eins og þær eru í raun og veru, – og að hætt sé við að fara gáleysislega með peninga, hvort sem þeir eru íslenzkir eða bandarískir.

Jónas Kristjánsson

DV

Dulbúið atvinnuleysi.

Greinar

Tvær eru helztar forsendur þess, að ríkið á orkuver landsins, ýmist eitt sér eða með sveitarfélögum. Önnur er sú, að virkjanir kosta mikla peninga, og hin, að orkuöflun er oft talin ein af ýmissi nauðsynjaþjónustu hins opinbera.

Síðari forsendan gildir ekki í stóriðju. Það er einungis hinn mikli stofnkostnaður, sem veldur því, að ríkið er nánast eini innlendi aðilinn, sem hefur fengizt við stóriðju, ýmist eitt sér eða í samlögum við útlenda aðila.

Á síðustu árum hefur gætt tilhneigingar til að færa niður stærðarmörk verkefna, þar sem leitað er þáttöku ríkisins. Menn vilja, að ríkið borgi fyrir sig steinullarver, sykurver, graskögglaver og önnur vafasöm ver.

Þetta er hættuleg braut. Opinber gjafmildi leiðir hæglega til, að stofnað er til rekstrar af ónógu tilefni. Og síðan er hið opinbera látið kosta tapið með beinum og óbeinum fyrirgreiðslum, svo sem tollum og innflutningshöftum.

Ríkið hefur smám saman orðið aðaleigandi Slippstöðvarinnar á Akureyri. Þar og raunar víðar eru smíðuð skip, sem ekki verður hægt að borga. Það er auðvitað ríkið, sem ábyrgist, að skipasmíðastöðvarnar fái greitt.

Í rauninni er málsaðild ríkisins stuðningur við atvinnu á Akureyri. Einnig mætti orða þetta sem þátttöku í að dulbúa atvinnuleysið á Akureyri á kostnað skattgreiðenda. Þjóðfélagið ræður við smávegis af slíku, en ekki mikið.

Þannig er vaxin þáttaka ríkisins í atvinnurekstri um allt land. Sigló og Þormóður rammi eru að hluta dulbúið atvinnuleysi á Siglufirði. Rafha og Norðurstjarnan eru að hluta dulbúið atvinnuleysi í Hafnarfirði og Þörungavinnslan á Vestfjörðum.

Allt eru þetta þó smámunir í samanburði við hinn skipulega og sjálfvirka ríkisrekstur á dulbúnu atvinnuleysi í hinum hefðbundnu búgreinum kindakjöts og mjólkurafurða, er kostar þjóðina sem svarar nokkrum Kröfluverum á ári.

Áratugum saman hefur aukizt þessi sókn í auð skattgreiðenda í garði hins opinbera. Vaxandi hluti atvinnulífsins hefur lagzt við hlið opinberrar þjónustu á herðar hins hluta atvinnulífsins, sem heldur uppi öllu bákninu.

Samt eru þarfirnar í opinberri þjónustu á borð við tryggingar og heilsugæzlu og skólahald svo miklar, að óráðlegt er að bæta þar við ómagahópinn umtalsverðum hluta efnahagslífsins, þar sem verðmætin ættu að spretta upp.

Við getum sagt, að hlutverk efnahagslífsins sé að búa til verðmæti og að hlutverk opinberrar þjónustu sé að nota þau. Óskynsamlegt er að auka þann þátt efnahagslífsins, sem er dulbúið atvinnuleysi, raunveruleg byrði.

Stuðningur ríkisins við sveitalíf, smábyggðir og margvíslega óskhyggju í strjálbýli og þéttbýli getur hugsanlega dregið úr tölum í atvinnuleysisskrám. En hann kemur líka í veg fyrir hagkvæmustu nýtingu vits og orku þjóðarinnar.

Hefðu menn til dæmis ekki byrjað fyrr á fiskeldi og loðdýrarækt, ef minna af opinberu fé hefði verið notað til að styðja starfsemi, sem er lítið annað en dulbúið atvinuleysi? Hefðum við þá ekki meiri reynslu af arðbærum nýjungum?

Þegar nú er fjallað um að draga úr umsvifum hins opinbera í efnahagslífinu, er heppilegt að beina skurðarhnífnum sérstaklega að þeim opinbera stuðningi við atvinnuskort, sem felst í dulbúnu atvinnuleysi.

Jónas Kristjánsson.

DV

Tregt stríð við tregðuna.

Greinar

Flestir ráðherrarnir hafa með almennum orðum tekið nokkuð vel tillögum Alberts Guðmundssonar fjármálaráðherra um sölu á umsvifum, sem nú eru í ríkisrekstri. Þetta kom fram í viðtölum, sein birtust í DV á laugardaginn.

Einna ákveðnastur var flokksbróðir Alberts, Matthías Bjarnason, samgöngu- og tryggingaráðherra, sem sagði meðal annars: “Ég er mjög hlynntur sölu á fyrirtækjum og stofnunum ríkisins og breytingum á núverandi rekstri þeirra.”

Matthías sagði einnig: “Mér finnst vel koma til greina útboð af ýmsu tagi, til dæmis mætti bjóða út verkþætti í heilbrigðiskerfinu.” Halldór Ásgrímsson sjávarútvegsráðherra benti einnig á útboð ýmissar sérfræðiþjónustu.

Flestir ráðherrarnir höfðu þó fyrirvara á stuðningi við málið. Þeir sögðu, að hvert mál þyrfti að skoða sérstaklega. Ekki mætti rasa um ráð fram eða vera með “skyndiupphrópanir”, eins og Halldór Ásgrímsson orðaði það.

Ekki er víst, að góður vilji margra ráðherra nái langt, þegar embættismennirnir leggjast í vörnina. Hinum síðarnefndu er af kerfisástæðum illa við, að hróflað sé við umsvifum ríkisins, og vildu raunar fremur fá þau aukin.

Sumir athafnamenn í hópi embættismanna hafa þó tekið vel í tillögurnar. Þar má nefna Guðmund Einarsson, forstjóra Skipaútgerðar ríkisins, og Davíð Á. Gunnarsson, forstjóra Ríkisspítalanna. En þeir eru undantekningin.

Hætt er við, að ráðherrar lúti tregðulögmáli embættismanna, sumir vegna skorts á reynslu og hörku og aðrir til að liðka samstarfið í ráðuneytunum. Á mörgu á eftir að ganga áður en sala á umsvifum kemst til framkvæmda.

Taka má Landssmiðjuna sem dæmi. Þar eru upphaflegar forsendur ríkisrekstrar fyrir löngu fallnar úr gildi. Verkefni smiðjunnar eru hliðstæð verkefnum margra annarra málmsmiðja og innflutningsfyrirtækja á sama, opna markaðnum.

Landssmiðjan hefur oft verið tekin sem augljóst dæmi um rekstur, sem ætti ekki að koma ríkinu við. Henni ætti að breyta í hlutafélag og gefa starfsfólki forgang að hlutabréfum með hóflegum afborganaskilmálum.

Samt segir Sverrir Hermannsson iðnaðarráðherra: “Það verður að sýna mikla varkárni, ef fara á að gerbylta rekstri einstakra fyrirtækja, sem veita fjölda manns atvinnu.” Hvað verður þá sagt um síður augljós söludæmi?

Þá hefur Þjóðviljinn reynt með æsingaviðtölum að gera starfsfólk Landssmiðjunnar andvígt losun fyrirtækisins frá ríkisgeiranum. Slíkt getur ekki talizt góður grundvöllur fyrir sölu hlutabréfa til þessa sama starfsliðs.

Ef ekki reynist unnt að ná fram svo augljósri endurbót, sem felst í að losa ríkið við ábyrgð á Landssmiðjunni og koma henni á herðar annarra, sem hagsmuna hafa að gæta, svo sem starfsfólks, er ekki von á góðu á öðrum sviðum.

Nítján af fimmtíu dæmum Alberts um hugsanlega sölu ríkisreksturs teljast til iðnaðarsviðs Sverris Hermannssonar. Viðbrögð Sverris út af Landssmiðjunni benda ekki til, að hann hyggist taka til óspilltra málanna.

Meira þarf en góðan vilja einstakra ráðherra, ef markverður árangur á að nást í hreinsun ríkisrekstrarins. Ef þeir ætla að sigrast á tregðulögmáli kerfisins, verða þeir að sýna markvissa festu og hörku.

Jónas Kristjánsson.

DV

Tvo þarf til.

Greinar

Misjafnlega gagnlegar eru tillögur um traustari frið í heiminum og minnkandi hættu á ragnarökum kjarnorkustyrjaldar. Beztar eru þær, sem byggja á, að tvo þarf til, svo að nothæft samkomulag megi nást milli austurs og vesturs.

Reynslan sýnir, að ráðamenn Sovétríkjanna eru ekki gefnir fyrir að standa við loforð, þótt skrifleg séu. Eitt skýrasta dæmið er Helsinki-samningurinn frá 1975, þar sem Brezhnev lofaði auknum mannréttindum heima fyrir.

Marklaust er að semja um frystingu og samdrátt vígbúnaðar, nema um leið sé samið um traust eftirlit, er jafnóðum geti leitt í ljós, hvort settum reglum sé fylgt. Til slíks hafa ráðamenn Sovétríkjanna verið tregir.

Mest gagn er að byggja á grunni, sem lagður hefur verið í viðræðum Bandaríkjanna og Sovétríkjanna um takmörkun á ýmsum sviðum kjarnorkuviðbúnaðar. Talið er, að Sovétríkin hafi staðið sæmilega við svonefnda SALT-samninga.

Komið hafa fram tillögur um, að Bandaríkin geti gefið gott fordæmi með því að lýsa yfir einhliða frystingu slíks viðbúnaðar af sinni hálfu um nokkurra mánaða skeið, meðan þeir gefi Sovétríkjunum tækifæri til að svara í sömu mynt.

Þetta byggist á þeirri skoðun, að Bandaríkin hafi þegar nóg kjarnorkuvopn til að hræða ráðamenn Sovétríkjanna frá leiftursókn til langþráðra heimsyfirráða, svo að frekara kapphlaup af bandarískri hálfu muni ekki auka öryggið.

Þetta er umdeilanlegt atriði, en freistandi, því að svo er nú komið, að fjöldi og hraði kjarnorkuvopna er orðinn svo mikill, að tæknileg mistök geta leitt til óviljandi kjarnorkustríðs og tilheyrandi ragnaraka.

Auðvitað er að minnsta kosti eins líklegt og hitt, að ráðamenn Sovétríkjanna fái vatn í munninn og reyni að bæta viðbúnað sinn á tíma bandarískrar frystingar. Þeir hafa hingað til hneigzt til að taka áhættu í útþenslustefnu.

Verst er þó, að ráðamenn Sovétríkjanna hafa á undanförnum áratug litið á alla eftirgjöf af vestrænni hálfu sem dæmi um linkind og úrkynjun, er færa eigi í nyt hugsjónarinnar um óhjákvæmilegan heimssigur þeirra.

Hina svonefndu þíðu áttunda áratugarins notuðu þeir til innrásar í Afganistan, aukins þrýstings á Austur-Evrópu, niðurskurðar mannréttinda heima fyrir og til að beita leppríkjum til hernaðar í Kampútseu, Angóla og Eþíópíu.

Þess vegna er líklegra, að þeir taki fremur mark á tilboðum um gagnkvæma frystingu heldur en einhliða bandaríska frystingu. Friðarvilja vesturs verður að fylgja fullkomin festa, ef takast á að mjaka austrinu til sátta.

Versti þrándur í götu samkomulags um frystingu og samdrátt vígbúnaðar undir ströngu eftirliti er þó friðarhreyfingin á Vesturlöndum. Tiltölulega einhliða starf hennar hefur gert ráðamenn Sovétríkjanna fastari fyrir.

Aðgerðir vestrænna friðarhreyfinga gegn vestrænum viðbúnaðaráformum hafa komið því inn hjá ráðamönnum Sovétríkjanna, að þeir geti haldið ótrauðir áfram vígbúnaði og útþenslu, meðan Vesturlönd logi í kjarnorkusundrungu.

Þannig er friðarhreyfing síðustu ára í rauninni meiri háttar friðarspillir og styrjaldarhvati, þótt óviljandi sé. Hún verður fyrst til gagns, er hún beinir þunga áherzlunnar að ráðamönnum Sovétríkjanna.

Jónas Kristjánsson.

DV

Reagan er vandamál.

Greinar

Ronald Reagan Bandaríkjaforseti tekur lífinu með ró, byrjar daginn seint og endar hann snemma. Slíkt gekk vel hjá Eisenhower forseta, sem kunni að velja sér ráðgjafa og ráðherra, en gengur miður hjá manni, sem kann það ekki.

Reagan vill helzt ekki hlusta á aðra en þá, sem deila með honum lífsskoðun í megindráttum. Tilgangslaust er að leggja fyrir hann álitsgerðir, sem stangast að einhverju leyti á við hans eigin dóma og fordóma.

Jafnvel hægri sinnaðir embættismenn í utanríkisþjónustunni hafa orðið að víkja, ef þeir hafa bent á aðrar leiðir en þær, sem falla í kramið hjá innsta hringnum í Hvíta húsinu, þar sem mikil áherzla er lögð á hóphyggju.

Þannig urðu að víkja Thomas O. Enders, aðstoðarráðherra Ameríkumála, og Deane R. Hinton, sendiherra í El Salvador. William P. Clark, öryggismálafulltrúi forsetans, grunaði þá um að hneigjast að sáttastefnu í El Salvador.

Clark er gott dæmi um embættismennina, sem Reagan safnar kringum sig. Ásamt hinni herskáu Jeane J. Kirkpatrick, sendiherra hjá Sameinuðu þjóðunum, ræður hann mestu um utanríkisstefnu, sem spillir sambúð vestrænna ríkja.

Sjálfur hefur forsetinn lítinn áhuga á utanríkismálum og lætur sér nægja að vera á móti kommúnisma. Hin einfalda heimsmynd Reagans, Clarks og Kirkpatrick ræður ferðinni, en ekki hinn flókni raunveruleiki mannanna í utanríkisráðuneytinu.

Með naumindum tókst á sínum tíma að koma í veg fyrir, að forsetinn veldi þekktan andstæðing mannréttinda, Ernest Lefever, í embætti aðstoðarráðherra mannréttindamála. En frú Kirkpatrick heldur uppi merki hans.

Frægur að endemum er innanríkisráðherrann, James G. Watt, sem vinnur ósleitilega að sölu námuréttinda í bandarískum þjóðgörðum og er frægur fyrir óbeizlaðar fjölmiðlayfirlýsingar, sem harðri gagnrýni hafa sætt.

Svipuð stefna var rekin af Anne Gorsuch, sem forsetinn réð til að stjórna umhverfisverndarstofnuninni. En hún gekk svo langt í að auka mengun, að forsetinn neyddist til að láta hana fara og kvaddi hana með tárum.

Sjálfur er Reagan ekki maður hugleiðinga. Hann hefur fáar og tiltölulega einfaldar skoðanir á lífinu og tilverunni og getur, að sögn bandarískra blaðamanna, ekki einbeitt sér að neinu máli lengur en í sjö mínútur í senn.

Hann les alls ekki langar álitsgerðir. Ekki þýðir að senda honum lengri plögg en upp á eina vélritaða síðu. Og þegar hann les þau, er það ekki til að kynna sér málið, heldur til að finna úr þeim auglýsingapunkta.

Anthony Lewis, dálkahöfundur New York Times, segir, að forsetinn telji ekki vera hlutverk sitt að taka ákvarðanir, heldur sé hann að leita að orðasamböndum, sem hann geti endurtekið, þegar hann þarf að “selja” kjósendum stefnuna.

Sem forseti er hann þannig ekki framkvæmdastjóri ríkisins, heldur sölumaður þess. Hann trúir blint á dóma sína og fordóma og kemur fyrir í sjónvarpi af traustvekjandi einlægni, alveg eins og bílasalinn í auglýsingunum.

Alvarlegasta vandamálið er, að vaxandi líkur eru á, að Ronald Reagan verði aftur í kjöri til forseta á næsta ári og hljóti þá endurkosningu. Þar með verður framlengdur í fjögur ár sá mikli vandi, sem hér hefur verið lýst.

Jónas Kristjánsson.

DV

Þynning í Madrid.

Greinar

Rangt væri af fulltrúum Vesturlanda á 35 ríkja Evrópufriðarráðstefnunni í Madrid að fallast á óbreyttar málamiðlunartillögur hlutlausu ríkjanna um mannréttindi. Þær eru bitlausar og þjóna óbeint hagsmunum Sovétríkjanna.

Heimsins bezti samningur um mannréttindi er í stofnskrá Sameinuðu þjóðanna. Orðalag hennar hefur ekki verið endurbætt og verður ekki endurbætt. Það var ekki endurbætt í Helsinki árið 1975 og verður ekki endurbætt í Madrid árið 1983.

Fulltrúar Vesturlanda ættu að gera meira af því að nudda fulltrúum Sovétríkjanna upp úr stöðugum, ósvífnum, augljósum og upp á síðkastið vaxandi brotum ráðamanna þeirra á mannréttindaákvæðum stofnskrár Sameinuðu þjóðanna.

Slíkt væri meira virði en að taka þátt í undirritun samninga, sem kenndir eru við Helsinki, Belgrað, Madrid og Ottawa og fjalla um þynntar útgáfur af stofnskrá Sameinuðu þjóðanna – í von um, að við þynntari útgáfur verði staðið.

Reynslan af undirritun Brezhnevs í Helsinki árið 1975 er afar slæm. Eftir hana fóru ráðamenn Sovétríkjanna að auka mannréttindabrot sín, þvert ofan í skýr ákvæði samkomulagsins. Þeir tóku aldrei hið minnsta mark á þeim.

Í ljósi reynslunnar tókst á framhaldsfundinum í Belgrað árið 1978 að koma fram sérstökum ákvæðum um, að ekki skyldu ofsóttir þeir hópar, sem fylgjast með, að mannréttindaákvæði Helsinki-samkomulagsins séu ekki brotin.

Eftir að hafa undirritað þetta viðbótarsamkomulag sneru ráðamenn Sovétríkjanna sér einmitt að því að ofsækja og uppræta hópa, sem höfðu það eitt að markmiði að mæla með því, að staðið væri við Helsinki.

Þannig sýnir reynslan, að ráðamenn Sovétríkjanna láta sig ekki muna um að brjóta sérstaklega það, sem þeir undirrita, jafnvel fremur en það, sem þeir undirrita ekki. Svo krumpuð er skoðun þeirra á lífinu og heiminum.

Tillögur Svíþjóðar, Sviss og sjö annarra hlutlausra ríkja á yfirstandandi fundi í Madrid eru að flestu leyti þynnri en samkomulagið í Helsinki, sem aftur á móti var mun þynnra en ákvæði stofnskrár Sameinuðu þjóðanna.

Brott eru fallin ákvæðin um rétt fólks til að fara í verkfall, um bann við ofsóknum gegn eftirlitshópum Helsinni-samkomulags og um bann við gerræðislegri brottvísun fréttamanna, svo að nefnd séu nokkur dæmi.

Sovétríkin hafa fallizt á þessar tillögur, enda fela þær í sér, að á Evrópufriðarráðstefnu eftir Evrópufriðarráðstefnu þynnast sífellt samingarnir um mannréttindi í álfunni. Smám saman fá ráðamenn Sovétríkjanna sitt fram.

Í stað þess að benda stíft á stofnskrá Sameinuðu þjóðanna eru fulltrúar Vesturlanda smám saman að láta friðarvilja sinn ýta sér út í að samþykkja óbeint með undirskriftum svívirðileg svik ráðamanna Sovétríkjanna við mannréttindi.

Ef fulltrúar Vesturlanda fallast á hinar aumlegu friðartillögur hlutlausu ríkjanna, kalla þeir þar á ofan yfir sig og okkur enn eina marklausa Evrópufriðarráðstefnu, í Ottawa, þar sem sérstaklega verður fjallað um mannréttindi.

Í sérhvert skiptið ganga ólánsríkin hlutlausu á milli og ráða úrslitum um orðalag, sem verður sífellt þynnra og fjarlægara stofnskrá Sameinuðu þjóðanna. Þannig vinnur rangsnúinn friðarvilji hægt og örugglega gegn mannréttindum í heiminum.

Jónas Kristjánsson

DV

Skammhlaup ríkissaksóknara.

Greinar

Þjóðkirkjan hefur formlega neitað allri aðild og ábyrgð á skammhlaupi því, sem varð í embætti ríkissaksóknara, er hann höfðaði opinbert mál á hendur gamanblaðinu Speglinum fyrir meint guðlast, klám og ýmislegt fleira.

Þjóðkirkjunni er vel kunnugt um, að veraldleg vandamál fylgja fermingum. Frammámenn hennar hafa sjálfir kvartað um, að fermingar séu gerðar að féþúfu unglinga. Þeim kemur því ekki á óvart, að grín sé gert að fermingum.

Þjóðkirkjan er auðvitað betur fær en ríkissaksóknari um að meta, hvort dregið hafi verið dár að trúarkenningum hennar og guðsdýrkun. Og hún hefur réttilega komizt að þeirri niðurstöðu, að svo hafi ekki verið.

Enginn stjórnmálamanna landsins hefur tjáð sig á þann veg, að hann telji sér hafa verið minnkun gerð með klámi eða á annan hátt í því tölublaði Spegilsins, sem olli hinu furðulega skammhlaupi í embætti ríkissaksóknara.

Í áratuga langri sögu Spegilsins hafa stjórnmálamenn ekki frekar en aðrir vanið sig á að gera veður út af innihaldi tímaritsins. Þeir hafa talið gamanmál þess vera eðlilegan eða að minnsta kosti þolanlegan þátt þjóðlífsins.

Hlægilegastur hefur ríkissaksóknari orðið af þeim þætti málshöfðunarinnar, sem snýr að meintu klámi. Samtök kvenna hafa nefnilega tekið saman stóran bunka innlendra og erlendra tímarita með mun hrikalegra klámi.

Af þeim bunka má sjá, að ríkissaksóknari heldur verndarhendi yfir sölu á hinu ógeðslegasta klámi í annarri hverri sjoppu landsins. Hans er ábyrgðin á því klámi, af því að hann hirðir ekki um að hafa hemilinn, sem honum ber.

Aðgerðaleysi ríkissaksóknara gegn klámritum hefur verið skýrt með því, að almenningsálitið telji ástæðulaust að elta sérstaklega ólar við klám í þjóðfélagi, þar sem kynferðismál eru að hætta að vera feimnismál.

Árum saman hafa ráðamenn og almenningur látið klámritin í friði. Kvartanir hafa verið fáséðar og vægar. Ríkissaksóknari hefur með aðgerðaleysinu verið talinn taka tillit til almenningsálitsins fram yfir bókstafinn.

Svo verður skyndilega það skammhlaup, að ríkissaksóknari fer að fetta fingur út í meinleysislegt klám í gamanstíl, sem stingur í stúf við ógeðslegt og alvörugefið klám, er þessi embættismaður hefur hingað til verndað.

Öll meðferð ríkissaksóknara á Spegilsmálinu er hreint og tært rugl. Hún hlýtur að vekja umhugsun um, að nauðsynlegt kunni að verða að búa svo um hnútana, að ekki sé frekari hætta á skammhlaupi í hinu valdamikla embætti.

Ef dómstólar vísa ruglinu út í yztu myrkur, svo sem réttmætt er, má telja líklegt, að ríkissaksóknari hafi bakað ríkissjóði og skattgreiðendum fjárhagstjón með afbrigðilegum skoðunum á trúmálum, klámi og ýmsu fleiru.

Ríkissaksóknari tók sér heilan mánuð til að grafa upp kæruatriði út af því tölublaði Spegilsins, sem hann lét gera upptækt í maílok. Hann hefur haft nógan tíma til að láta þjóðkirkjumenn, stjórnmálamenn og siðferðismenn hafa vit fyrir sér.

Af ákærunni er ljóst, að þetta hefur ríkissaksóknara ekki tekizt. Hann situr því uppi sem dæmigert Spegilsefni, aðhlátursefni almennings. En í alvörunni eiga ekki að geta gerzt skammhlaup af þessu tagi.

Jónas Kristjánsson

DV

Reynt að vitka Reagan.

Greinar

Ráðamenn í Mexíkó, Kólumbíu, Venezúela og Panama hafa tekið saman höndum um að reyna að koma á sáttum milli stríðandi afla í smáríkjum Mið-Ameríku og reyna að fá stjórn Bandaríkjanna ofan af stuðningi við hægri öfgaöfl landeigenda.

Þeir hafa fengið til liðs við sig Felipe Gonzales, hinn unga og vel metna forsætisráðherra Spánar. Hann hefur átt viðræður við Reagan Bandaríkjaforseta, sem ber hluta ábyrgðarinnar á, hve illa þessi mál standa.

Sögur eru á kreiki í Washington um, að tilraunirnar hafi borið nokkurn árangur. Bandaríkjastjórn sé til dæmis í kyrrþey að reyna að koma á samstarfi við uppreisnarmenn í El Salvador um þátttöku þeirra í kosningum.

Ef þetta er rétt, stangast það blessunarlega á við hörmulega róttækar yfirlýsingar Bandaríkjastjórnar um stuðning við ógnarstjórnina í El Salvador og um meintan kommúnisma þeirra afla, sem risið hafa gegn henni.

En ástæða er til að óttast, að sögusögnum um rénandi einstrenging Bandaríkjastjórnar sé ætlað að draga úr andstöðu meirihluta bandarísku þjóðarinnar og bandaríska þingsins við kúgunarstefnuna gegn alþýðu manna í Rómönsku Ameríku.

Í stórum dráttum eru átökin í Mið-Ameríku og raunar víðar í Rómönsku Ameríku milli hægri sinnaðra öfgaafla landeigenda annars vegar og alls litrófs stjórnmálanna hins vegar, allt frá kommúnistum yfir í kristilega demókrata.

Þáttaka bandarískra stjórnvalda í þessari togstreitu er ein samfelld harmsaga. Það voru til dæmis bandarískir landgönguliðar, sem komu í Nicaragua til valda hinni mjög svo illræmdu Somoza-ætt, er rændi og kúgaði þjóðina í fjóra áratugi.

Og enn þann dag í dag eru það bandarískir hernaðarsérfræðingar, sem reyna að koma fótunum undir uppreisnarher gamalla morðsveita Somozas, svo að þær geti gert strandhögg frá Honduras inn í landamærahéruð Nicaragua.

Það voru líka bandarísk stjórnvöld, sem svældu löglega stjórn Guatemala frá völdum og tróðu upp á þjóðina langri röð meira eða minna geðbilaðra glæpamanna, þar sem einna verstur er núverandi landsfaðir, Ríos Montt.

Samanlögð áhrif þessara afskipta hafa verið þau, að alþýðan í Rómönsku Ameríku hefur smám saman farið að setja jafnaðarmerki milli Bandaríkjanna og hinna öfgafullu og morðgjörnu landeigenda á hægra kanti stjórnmálanna.

Þannig voru Kúbumenn hraktir til fylgis við kommúnisma og punkturinn yfir i-ið settur með Svínaflóaárásinni, sem magnaði stuðning þjóðarinnar við vinstri öfgarnar, kommúnistastjórn Fidels Kastró.

Og þannig er nú verið að hrekja þjóð og stjórnvöld í Nicaragua frá miðjusinnuðu lýðræði yfir í hreina einræðisstjórn kommúnista með stuðningi allrar alþýðu manna. Ofsóknir Bandaríkjastjórnar framkalla þessa atburðarás.

Í El Salvador hefur ógnarstjórn hægri manna hrakið um 10.000 smábændur af jörðum þeirra og afhent þær hinum gráðugu landeigendum, sem fyrr og síðar hafa getað treyst á hernaðarlegan og pólitískan stuðning bandarískra stjórnvalda.

Vonandi leiða sáttatilraunir stjórnvalda á Spáni og í Mexíkó, Kólumbíu, Venezúela og Panama til, að Reagan Bandaríkjaforseti sjái villu síns vegar og hætti að láta Bandaríkin haga sér í Rómönsku Ameríku eins og Sovétríkin í Austur-Evrópu.

Jónas Kristjánsson.

DV