Author Archive

Klúðra þeir kvótunum?

Greinar

Deilurnar um kvótakerfi fiskveiða eru farnar að taka á sig broslega mynd. Sérstaklega er gaman að kenningunni um, að verið sé að þjóðnýta þorskinn og að Sjálfstæðisflokkurinn hafi þannig svikið málstað frjálshyggjunnar.

Þetta hlýtur að vekja hugsun um, hver eigi þorskinn um þessar mundir, rétt áður en hann verður “þjóðnýttur”. Ekki er ljóst, hvort það eru sjómennirnir, skipstjórarnir, skipin eða framsóknarhafnirnar. Og hvað með Sölumiðstöðina?

Ef tekið er mið af öðrum fiskistofnum, sem miðstýrðir hafa verið á vegum þjóðnýtingarhugsjónar Sjálfstæðisflokksins og nokkurra annarra flokka, sýnist ljóst, að í þjóðfélaginu sé þegjandi samkomulag um kvótastefnu.

Þegar ríkisstjórnin leggur til, að útvegsmönnum sé gefin þessi þjóðareign í hlutfalli við veiði skipstjóra þeirra og sjómanna á undanförnum þremur árum, er hún ekki að þjóðaýta þorskinn, heldur gefa hann mönnum úti í bæ.

Nær væri að selja það, sem eftir er af þorskinum, eftir að sjómenn, skipstjórar, framsóknarhafnir, útgerðarmenn, sölumiðstöðvar, sjávarútvegsráðherrar og stjórnmálamenn hafa klappað honum mildilega í lögreglubílum sínum, skuttogurunum.

Langt er síðan Kristján Friðriksson benti greindastur manna á, að rétt væri að selja gamansömum útgerðarmönnum þessa lands hinn sögufræga þorsk á uppboði, þar sem hnossið fengju þeir, sem bestan hefðu reksturinn og hæst gætu boðið.

Enginn hefur haldið fram, að Kristján hafi í þessu frekar en öðru verið að ganga erinda Sambands íslenzkra samvinnufélaga. Hins gæti þó meðal einkaframtaksmanna, að ekkert óttist þeir meira en framtak þeirrar stofnunar.

Engu máli ætti að skipta, hvort miðstýringin heitir kvóti, veiðileyfi eða auðlindaskattur, bara ef hún er ekki miðstýring. Og það er einmitt kjarni vandamálsins, að þjóðin veit ekki, hvort verið sé að opna nýja skömmtunarstofu.

Grundvallargallinn að baki kvótafrumvarpsins, sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins hefur lagt fram, að því er virðist gegn eigin vilja, er, að í sjálfu sér fjallar framvarpið ekki um málið sjálft, of stóran fiskiskipaflota.

Grínistana í hópi útgerðarmanna má grisja á annan hátt, til dæmis með því að leyfa þeim að verða gjaldþrota, eins og þeir eiga margfaldlega skilið. Og eru þá ekki undanskildar útgerðir kaupfélaga og sveitarfélaga.

Hitt væri fáránlegt að lögfesta hverju skipi afla, sem gulltryggir, að það geti ekki staðið undir sér. Þess vegna er kvótakerfið stórhættulegt, nema það feli í sér, að þorskurinn geti gengið kaupum og sölum, leigum og lánum.

Gagnrýnendur spyrja réttilega, hvort ekki sé nær að miða kvótann við sjómenn eða skipstjóra, hafnir eða stjórnmálaflokka. Af hverju á að gefa skipunum einum hina sameiginlegu, fyrrverandi auðlind þjóðarinnar?

Að tala hins vegar um kvóta á aflaverð er hins vegar jafngaman og að tala um þjóðnýtingu þorsksins. Kvóti á aflamagn, fremur en á aflaverð, hlýtur einmitt að kalla á mestu hugsanlegu aflagæði til að koma tekjunum upp í hámark.

Slæmt er, að þingmenn hafa engan tíma til að fjalla um einstakar hliðar nauðsynjamáls kvótaskiptingarinnar. Verst er þó, að þeir eru vísir til að banna einu glóruna í kvótunum, hina frjálsu verzlun – með klinki í tóman ríkissjóð.

Þeir geta klúðrað þessu eins og öðru.

Jónas Kristjánsson.

DV

Saumað að fólki.

Greinar

Beiðnum um aðstoð Mæðrastyrksnefndar hefur fjölgað verulega frá því í fyrra. Þetta er eitt dæmið um, að hinir verst settu í þjóðfélaginu sigla nú inn í sárari fátækt en í fyrri kreppuskeiðum síðustu tveggja áratuga.

Ekki er unnt að búast við, að þetta hörmulega ástand verði leyst á vettvangi atvinnulífsins. Í samtökum launafólks viðurkenna forustumenn opinberlega, að enginn vilji sé til vinnudeilna á næstu mánuðum að minnsta kosti.

Í þessum samtökum hefur líka komið fram andstaða hinna betur settu gegn hugmyndinni um 15.000 króna lágmarkslaun, nema hækkunin færi að einhverju leyti upp stigann og kæmi einnig fram í yfirvinnu og ákvæðisvinnu.

En þar með væri eyðilögð hugmyndin um að einbeita kröftunum að kjörum þeirra, sem sitja á botni pýramídans. Aukin verðbólga mundi fylgja í kjölfar hækkunar upp launastigann. Hinir aumustu sætu eftir sem áður með sárt ennið.

Ekki er heldur unnt að sjá, að lækkaðar álagningarprósentur opinberra gjalda muni lina þetta vandamál. Deilur stjórnmálamanna um skattbyrðina hafa leystst upp í almenna viðurkenningu á, að hún muni hækka á næsta ári.

Það þyngir svo vandann, að spár um minnkandi þorskafla á næsta ári hafa leitt til síðbúinnar lækkunar á spá fjárlagafrumvarpsins um launahækkanir. Þar með er enn ólíklegra en fyrr, að hægt verði að halda óbreyttri skattbyrði.

Enn verra er ástandið í útsvörunum. Almennt munu sveitarfélögin, þar á meðal Reykjavík, ekki telja sér kleift að lækka útsvarsprósentuna um þau 2-3 stig, sem þyrfti til að halda óbreyttri útsvarsbyrði á næsta ári.

Þetta kemur hart niður á hinum verst settu, sem hafa útsvarsskyldar tekjur, en ekki nógu háar tekjur til að tekjuskattur mælist. Þessi byrði bætist ofan á aðra lífskjaraskerðingu, sem þegar er orðin og á eftir að verða.

Þannig er saumað að fólki á allar hliðar. Sumt hefur bjargað sér fyrir horn með því að fá sér krítarkort fyrir jólavertíðina. En það er skammgóður vermir, því að syndagjöldin koma síðar og þá er kreppan orðin harðari.

Í þessum mikla vanda verður æ fleiri hugsandi mönnum litið til rúmlega eins milljarðs króna, sem samkvæmt fjárlagafrumvarpinu á að renna til niðurgreiðslna á kjöti og mjólkurvörum. Á því sviði er örlætið enn í hámarki.

Bent hefur verið á, að illa stöddu barnafólki kæmi betur að fá fjölskyldubætur en að njóta niðurgreiðslna. Fjölskyldubætur má nota til kaupa á ódýrri vöru á borð við fisk og kornmat, en niðurgreiðslur eru bundnar við rándýra vöru.

Til þess að þetta sé unnt þarf að lögleiða hinn nýja vísitöluútreikning, sem þegar er tilbúinn og byggist á nýlegri neyzlukönnun. Þar vega kjöt og mjólkurvörur ekki óeðlilega þungt og eru því ekki lengur ódýr leið til vísitölufölsunar.

Um leið er engin furða, þótt spurt sé, hvernig í ósköpunum ríkisstjórnin hafi í kreppunni og niðurskurðinum efni á að verja 8.4% fjárlagafrumvarpsins í hvatningu til aukinnar offramleiðslu á kindakjöti og mjólkurvörum.

Kreppan hefur ekki verið og verður ekki umflúin. Samt er ekki ástæða til að hleypa henni með fullum krafti á þá, sem minnst hafa efnin og þyngst heimilin. Á slíkum tímum er brýnna en endranær að draga úr fóðrun gæludýra ríkisjötunnar.

Jónas Kristjánsson.

DV

Breytið kvótafrumvarpinu.

Greinar

Lagafrumvarpið um kvótakerfi á öllum fiskveiðum er eitt magnaðasta framfaramál þjóðarinnar um þessar mundir. Það gefur vonir um, að loksins verði unnt að ná tökum á sókninni í helztu fiskistofnana og stemma stigu við ofveiði.

Frumvarpið hefur að vísu þann annmarka, að sjávarútvegsráðherra eru falin of mikil völd. Hann á að verða eins og landsliðseinvaldur í boltaíþróttum. Hann á einn að ráða heildarafla og skiptingu hans á veiðarfæri, skipategundir og skip.

Hagsmunaaðilar treysta Halldóri Ásgrímssyni vel til að fara með þessi völd. En ekki má klæðskerasauma lög utan á einstaka menn. Til dæmis gæti Matthías Bjarnason aftur orðið sjávarútvegsráðherra og misbeitt hinu víðtæka valdi.

Landssamband útvegsmanna hefur samþykkt, að aflakvótanum verði skipt á skip í hlutfalli við veiði þeirra á undanförnum þremur árum. Þessa tegund kvótaskiptingar hefði átt að binda í lögum í stað fríspils ráðherrans.

Þessi verður sennilega niðurstaða kvótaskiptingarinnar. Hún ætti að geta létt þrýstingi af sjávarútvegsráðherranum. Einföld þríliða kemur í stað ferðalaga þrýstihópa á fund ráðherra. Reikningsdæmi kemur í stað pots.

Viðmiðunin við afla þriggja síðustu ára leiðir til, að hinir duglegu fá meira í sinn hlut. Aðrar tegundir kvótaskiptingar hefðu fremur kynt undir meðalmennskunni og þar með hækkað heildarkostnaðinn við útgerð íslenzkra fiskiskipa.

Tryggja þarf, að útgerðarmenn geti ekki látið fylla kvótann á hálfu ári og síðan vælt út viðbótarleyfi í ráðuneytinu á þeim forsendum, að atvinnuleysi blasi við. Hinn upphaflegi kvóti verður að gilda undanbragðalaust.

Einnig þarf að tryggja, að aflatillögur Hafrannsóknastofnunarinnar verði ekki notaðar bara til hliðsjónar. Ástand samra stofna er orðið svo alvarlegt, að niðurstöðutölur vísindamanna verða að fá að gilda klárt og kvitt.

Ennfremur ætti frumvarpið að leyfa, að handhafar kvóta geti skipzt á þeim, selt þá, lánað eða leigt, án afskipta opinberra aðila, en séu þó skyldir að tilkynna sjávarútvegsráðuneytinu slík viðskipti eða millifærslur.

Kvótaverzlun er líkleg til að gera kerfið sveigjanlegra og færa útgerðina í auknum mæli til þeirra, sem hafa arðbærastan rekstur, mestan árangur með minnstum tilkostnaði. Kvótakerfi ber einmitt að stuðla að slíkri tilfærslu.

Loks ætti frumvarpið að gera ríkinu beinlínis kleift að selja kvótana í stað þess að gefa þá. Kvótaskipting er í eðli sínu viðurkenning á, að um sé að ræða takmarkaða auðlind, sem á að vera í eigu þjóðarheildarinnar.

Hér hefur verið lagt til, að kvótalögin veiti ráðherra ekki frelsi til að velja aðra kvótaskiptingu en þá, sem miðuð er við skip og fyrra aflamagn. Og ekki frelsi til að velja annað aflahámark en fiskifræðinganna. Og ekki svigrúm til að anza væli plássapotara.

Hér hefur líka verið lagt til, að kvótalögin veiti svigrúm til sölu ríkisins á kvótum og frjálsri verzlun með þessa kvóta, svo að sjávarútvegurinn sé ekki frystur í núverandi ástandi, heldur haldi áfram að þróast.

Með slíkum breytingum væri frumvarpið um kvótaskiptingu orðið að virku tæki til að efla fiskistofnana, auka hagkvæmni í sjávarútvegi og losna við slagsmál þrýstihópa. En í óbreyttu formi er það þó betra en ekki neitt.

Jónas Kristjánsson

DV

Létt verk að létta lífið.

Greinar

Krafa launþegasamtaka um 15 þúsund króna lágmarkslaun á mánuði er afar eðlileg. Hún endurspeglar almennan skilning á, að í kreppunni sé brýnast að verja kjör hinna verst settu. En hinir betur megandi geti beðið að sinni.

Einnig er eðlileg ábending atvinnurekenda um, að samningur um 15 þúsund króna lágmarkslaun muni ekki hafa tilætluð áhrif. Prósentuhækkun láglaunafólks verði notuð til viðmiðunar, þegar hálaunafólkið fer að gæta sinna hagsmuna.

Reynslan sýnir, að pennastrik á borð við 15 þúsund leiða til sprenginga upp launastigann. Í kjölfarið koma svo opinberar ráðstafanir í efnahagsmálum og verð bólgusprenging. 15 þúsund króna fólkið sæti eftir með sárt ennið.

Þessi fyrirvari þýðir samt ekki, að vonlaust sé að bæta hag hinna nauðstöddu, sem hafa innan við 15 þúsund króna mánaðartekjur. Slíkt þarf bara að gera á þann hátt, að ekki leiði til sprengingar, sem eyðileggi ásetninginn.

Skynsamlegasta undirbúningsaðgerðin er þegar hafin. Það er könnun Kjararannsóknanefndar á kjörum láglaunafólks. 3.500 spurningalistar hafa verið sendir, og vonað er, að svörin verði komin til baka um miðjan mánuð.

Líklegt er, að könnunin leiði í ljós, að neyðarástandið sé að verulegu leyti bundið við ákveðna þjóðfélagshópa. Kæmi slíkt í ljós, væri tiltölulega auðvelt að beita hliðaraðgerðum til að létta byrðar þessa fólks.

Fyrirfram má gera ráð fyrir, að ástandið sé alvarlegast hjá fjölskyldum, einkum barnafólki, þar sem fyrirvinna launa er aðeins ein og hefur innan við 15.000 krónur á mánuði. Flestir aðrir ættu að geta varizt áföllum.

Reikna má með, að einkennispersóna neyðarástandsins sé einstæð móðir á lágum launum og í dagvinnu einni saman. Það er til dæmis fáránlegt að telja tveggja barna móður geta lifað af 12.000 króna mánaðarlaunum.

Ein aðferðin við að bæta úr þessu er að færa meðlagsgreiðslur nær raunveruleikanum. Þær eru nú svo lágar, að kostnaður við börn leggst að verulegu leyti á foreldrið, sem annast börnin. Það er verulega ósanngjarnt.

1.615 króna meðlag á mánuði með barni er allt of lágt. Þeir, sem slíkt meðlag greiða, sleppa alltof ódýrt. Lögskipað meðlag ætti því að tvöfaldast. Það mundi mjög bæta hag hinna einstæðu mæðra, sem nú ramba á barmi gjaldþrots.

Þetta mundi hafa í för með sér nokkurn kostnað ríkissjóðs, því að sumir geta ekki eða vilja ekki standa við fjárhagslegar skuldbindingar af þessu tagi. En ríkið getur náð því fé í tengslum við hina aðferðina við lausn málsins.

Sú aðferð er fólgin í að breyta niðurgreiðslum í fjölskyldubætur. Niðurgreiðslur eiga á næsta ári að nema rúmum milljarði króna. Þær verða vafalaust mun hærri, því að reynslan sýnir, að þær margsprengja ramma fjárlaga.

Fjölskyldubætur eru miklu áhrifameiri aðferð við að bæta kjör þungra heimila. Þær nýtast betur til kaupa á ódýrum, hollum vörum á borð við fisk og kornmat, svo sem brauði, heldur en niðurgreiðslur á rándýru kjöti og mjólkurvörum.

Með tvöföldum meðlögum og millifærslu niðurgreiðslna yfir í fjölskyldubætur er auðvelt að ná árangri, sem er betri en sem svarar hækkun láglauna upp í 15.000 krónur. Og það gerist án þess að í kjölfarið fylgi launasprenging hálaunafólks og síðan óðaverðbólga.

Jónas Kristjánsson

DV

Tíupútnamenn rufu friðinn.

Greinar

Neytendum verður jafnan óglatt, þegar Framleiðsluráð og aðrar einokunarstofnanir landbúnaðarins tjá ást sína á þeim. Svo er einnig nú, þegar ráðið hyggst taka upp framleiðslustjórn á eggjum, auðvitað í þágu neytenda.

Í Tímanum benti greindur framsóknarmaður nýlega á, að neytendur hafa ekki beðið um fyrirhugaðar aðgerðir Framleiðsluráðs. Hann benti líka á, að markmið búskapar geti aldrei orðið annað en að sinna þörfum neytenda.

Hann sagði: “Sé einhver þörf fyrir eggjadreifingarstöð, er það ekki vegna þess að neytendum þyki verðlagið á eggjum of hátt, ekki vegna þess að kvartað hafi verið yfir gæðum á íslenzkum eggjum og ekki vegna þess að kvartað hafi verið yfir eggjadreifingunni.”

Hins vegar hafa neytendur oft haft ástæðu til að kvarta yfir vörum, sem eru undir einokunarvæng Framleiðsluráðs. Skemmt kjöt hefur verið hakkað ofan í neytendur og svokölluð nýmjólk oft verið tíu daga gömul og fúl.

Reynsla þjóðarinnar af svokallaðri framleiðslustjórn í landbúnaði er með endemum. Í reynd miðar hún meðal annars að framleiðslu mjólkur sem lengst frá markaði þéttbýlisins. Í því skyni er beitt verðjöfnun á mjólkurflutningum.

Framleiðslustjórnin byggist á, að hinn endanlega reikning er hægt að senda neytendum og skattgreiðendum, jafnvel þótt undanrenna ofan í sunnlenzka kálfa sé flutt norðan úr landi á flutningskostnaði, sem er hærri en söluverðið.

Elskhugar neytenda í Framleiðsluráði hafa líka misst á prent hugsjónir sínar um, að egg skuli aðeins framleidd á svokölluðum lögbýlum. Þannig eiga kinda- og kúabændur að taka við af núverandi iðnrekendum í greininni.

Þessir makalaust fallega hugsandi einokunarsinnar hafa líka misst á prent hugsjónir sínar um svokallað búmark í eggjaframleiðslu. Það felur í sér, að stórtæk framleiðsla víki fyrir tíupútnaútgerð við annað hvert fjárhús í landinu.

Launamenn landbúnaðarkerfisins keppast um að lýsa yfir, að þeir stefni ekki að einokun á eggjamarkaðnum. En Framleiðsluráð hefur samt ekki veitt Vallá, Holtábúi, Reykjagarði og Nesbúi heildsöluleyfi.

Úr því að ráðið getur ekki stillt sig um að reyna að bregða fæti fyrir þessa stórframleiðendur, sem framleiða ódýrari egg en aðrir, ber Alþingi skylda til að taka leyfisveitingavaldið af ráðinu og það í grænum hvelli.

Annað vald ber einnig að taka af einokunarstofnunum landbúnaðarins. Það er valdið til að taka kjarnfóðurgjald af duglegum framleiðendum og nota það í þágu hinna, sem eru dragbítar. Slík skömmtun er gerspillt.

Ekkert er sjálfsagðara en að tíupútnamenn fái að setja upp eggjadreifingarstöð. Ófrávíkjanleg skilyrði eru þó, að ekki verði notað til þess fé úr kjarnfóðursjóði og að ekki verði hindruð umsvif hinna, sem fást ekki til að vera ómagar á neytendum og skattgreiðendum.

Kominn er tími til, að neytendur og skattgreiðendur taki í karphúsið stjórnmálaflokka á borð við Alþýðubandalagið og Sjálfstæðisflokkinn, sem þora ekki á landsfundum að álykta gegn fyrirhuguðum eggjaglæp Framleiðsluráðs.

Þá er einnig kominn tími til, að neytendur og skattgreiðendur skeri ekki aðeins upp herör gegn eggjaeinokuninni fyrirhuguðu heldur einnig allri núgildandi einokun í landbúnaði. Það er Framleiðsluráð, sem hefur rofið friðinn.

Jónas Kristjánsson.

DV

Lögregla á glapstigum.

Greinar

Margir íslenzkir lögregluþjónar eru mannþekkjarar og lipurmenni, sem vinna störf sín óaðfinnanlega. Þeir geta með orðum sínum og framkomu stillt til friðar milli hjóna og sefað æsingamenn, svo sem mörg dæmi sýna.

Hitt er svo líka rétt, að ofbeldismenn sækjast eftir störfum við löggæzlu. Það er alkunnugt vandamál um allan heim. En hér er það sérstaklega erfitt viðureignar, af því að slíkir menn hafa ekki her til að ganga í.

Brezk yfirvöld lögreglumanna hafa lagt sérstaka áherzlu á að halda þessum vanda í skefjum. Þau vilja halda góðu sambandi borgara og lögreglu. Og það hefur tekizt nógu vel til að gera brezka lögregluþjóna heimskunna.

En jafnvel þar verða mistök. Lögreglumenn á vettvangi kynþáttaóeirða brutust inn í óviðkomandi íbúðir til að brjóta og bramla. Og konur þora vart að kæra nauðgun, af því að mörgum lögregluþjónum finnst hún fyndin.

Í nýbirtri skýrslu Policy Studies lnstitute eftir fjögurra ára rannsókn á atferli lögreglunnar í Lundúnum kemur margt ófagurt í ljós. Áberandi er, hve hraðlygnir lögregluþjónar eru fyrir rétti, þegar þeir reyna að verja hver annan.

Skýrsla þessi sýndi, að meðal lögregluþjóna var útbreitt hatur á minnihlutahópum, konum og yfirleitt öllum þeim, sem eru minni máttar í þjóðfélaginu. Þetta er hugarfar valdshyggjumanna, sem sumir eru ofbeldismenn.

Borgarinn, sem sætti misþyrmingum reykvísks lögregluþjóns fyrir rúmri viku, var heppinn, að vitni voru nærstödd. Annars hefði mátt búast við, að lögreglumennirnir hefðu logið hver um annan þveran um tildrög málsins.

Ofbeldisárás lögreglumannsins á handjárnaðan borgara sýnir, hvernig farið getur, þegar yfirvöld lögreglumanna missa tök á aga og skipulagi. Þá brýzt í gegn ofbeldiseðlið, sem blundar í sumum lögregluþjónum.

Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur tekið dauflega á þessu máli og reynt að bera blak af “sínum” manni. Þessi glöp hans eru til þess fallin að telja lögregluþjónum trú um, að þeir séu ríki í ríkinu, ofan laga og réttar.

Mörg fleiri dæmi eru um þennan agaskort. Þegar blaðafréttir sögðu frá efasemdum læknis um meðferð lögregluþjóna á blóðprufum, var ekki farið að innsigla slíkar blóðprufur, heldur höfðað kærumál á hendur blaðinu.

Hvað eftir annað eru lögregluþjónar staðnir að stórhættulegum eltingaleik við drukkna ökumenn. Þeir margfalda hættuna, sem stafar af þessum mönnum.

Áberandi er, að lögregluþjónar taka yfirleitt trúanleg orð ofbeldishneigðra dyravarða á veitingahúsum fram yfir orð venjulegra borgara.

Yfirstjórn löggæzlu í Reykjavík er slík, að borgarar þekkja lögregluþjóna helzt sem stimpingamenn, er reyna að hindra fólk í að komast í búðir á vissum tímum, eða þá sem felumenn, er reyna að gefa út ökuhraðakærur á breiðgötum á góðviðrisdögum.

Lögreglustjórinn í Reykjavík ætti að draga sig í hlé fyrir aldurs sakir. Í staðinn þarf til skjalanna að koma einhver, sem getur komið skipulagi og aga á liðið. Til dæmis sýslumaðurinn á Ísafirði, sem ekki tvínónaði við að taka á lögregluþjónavandanum þar vestra.

Altjend er orðið tímabært að vernda borgarana fyrir lögreglunni.

Jónas Kristjánsson.

DV

Arðsemi er mannúðlegri.

Greinar

Fiskiþing, sem nú situr – á kostnað ríkisins – er svo annars hugar í fiskveiðimálum, að menn kvarta þar um ómaklegan áróður gegn fjölda fiskiskipa. Þetta er eitt grófasta dæmi nútímans um menn, sem stinga höfðinu í sandinn.

Allir aðrir, þar á meðal samtök útgerðarmanna og sjávarútvegsráðherra, eru sammála um, að nauðsynlegt sé að fækka fiskiskipum, einkum togurum, og nálgast á þann hátt fyrra jafnvægi afkastagetu og aflamagns flotans.

Þeir, sem skilja þessa nauðsyn, deila hins vegar um, hvernig togurum eigi að fækka. Er þar stillt upp sem andstæðum arðsemisstefnu og svonefndri byggðastefnu, sem er smábyggðastefna. Fer sjávarútvegsráðherra fyrir hinum síðarnefndu.

Arðsemissinnar mundu fremur vilja fækka togurum á Þórshöfn en Akureyri, af því að útgerðin gengur skár á Akureyri. Smábyggðasinnar vilja hins vegar frekar fækka togurum á Akureyri en á Þórshöfn af eins konar mannúðarástæðum.

Smábyggðasinnar segja, að togarinn sé í sumum smáplássum eini hornsteinn atvinnulífsins. Stöðvun hans muni leiða til almenns atvinnuleysis og fólksflótta til þéttbýlis, þar sem tryggari horfur séu á sæmilegri afkomu.

Þeir segja líka, að í þéttbýli sé auðveldara að byggja upp atvinnutækifæri á öðrum sviðum. Sem dæmi hefur verið nefnt, að stækkun álversins í Straumsvík geti komið í stað útgerðar nokkurra togara á Suðurnesjum.

Hin sögulegu sjónarmið gleymast yfirleitt í þessari röksemdafærslu. Til skamms tíma voru togararnir fyrst og fremst einkenni þéttbýlisins, einkum Reykjavíkur, en einnig Akureyrar, Hafnarfjarðar, Ísafjarðar og Akraness.

Litlu plássin eins og Þórshöfn og Hólmavík hafa hins vegar fengið sína togara á allra síðustu árum. Þau hafa því ekki eins mikinn sögulegan rétt til togaraútgerðar og hinir rótgrónu togaraútgerðarbæir þéttbýlisins.

Engin leið er að verja, að óhófskaup á togurum til strjálbýlisstaða eigi að leiða til, að refsað sé tiltölulega traustri togaraútgerð á gömlum merg í þéttbýli. Smábyggðastefnan væri þá komin út yfir allan þjófabálk.

Allir nema Fiskiþing vita, að í um það bil fimm ár hefur sífellt verið bent á, að nýir togarar séu ekki aðeins óþarfir, heldur beinlínis skaðlegir þeirri útgerð, sem fyrir er, svo og gersamlega vonlausir í rekstri.

Þeir, sem hafa keypt slík skip á síðustu fimm árum gegn heilbrigðri skynsemi, hafa réttilega verið kallaðir grínistar, enda hafa þeir ekki miðað við útgerð á fisk, heldur á kerfið, sem veitir ljúfar fyrirgreiðslur.

Þessir grínistar síðustu fimm ára eiga að súpa seyðið af gerðum sínum, enda þótt telja megi kerfið meðábyrgt. En sjávarútvegsráðherrar síðustu ríkisstjórna verða líklega ekki dregnir til ábyrgðar frekar en stjórnmálamenn yfirleitt.

Útgerð grínistanna er gjaldþrota. Þetta ber að viðurkenna á formlegan hátt með viðeigandi uppboðum á skipunum, hvort sem þau eru gerð út í þéttbýli eða strjálbýli. Í sumum tilvikum er unnt að hjálpa mönnum við að hætta.

Ýmsir halda, að svonefnd byggðastefna, sem er smábyggðastefna, sé mannúðlegri en arðsemisstefna. Í því brenglaða mati sjá þeir ekki, að arðsemin ein getur bjargað sjávarútveginum frá ómannúðlegum hörmungum aflakreppunnar.

Jónas Kristjánsson.

DV

Stöðvum steinullina.

Greinar

Samkvæmt lögum um steinullarverksmiðju er ríkisstjórninni því aðeins heimilt að leggja fram fé til fyrirtækisins, að hlutaféð í heild verði að minnsta kosti 30% af stofnkostnaði hinnar fyrirhuguðu verksmiðju á Sauðárkróki.

Núverandi ríkisstjórn braut þessi lög um daginn, þegar hún samþykkti ríkisaðildina, enda þótt hlutafé fyrirtækisins eigi ekki að vera nema tæp 5% af stofnkostnaði í stað 30% eða 30 milljónir króna í stað 192 milljóna.

Til að bæta gráu ofan á svart hefur ríkisstjórnin ákveðið að útvega á næsta ári 80 milljónir króna í erlendum lánum til verksmiðjunnar. Er þá enn eftir að útvega 530 milljón króna lán í þetta 640 milljón króna gælufyrirtæki.

Ábyrgð núverandi ríkisstjórnar er þyngri en hinnar, sem fékk lögin um steinullarverksmiðjuna samþykkt fyrir hálfu þriðja ári. Í lögunum eru fyrirvarar, sem ekki hefur verið staðið við. Samt ætlar ríkið að taka þátt.

Þyngsta ábyrgð á þátttöku mundu bera Albert Guðmundsson í fjármálaráðuneytinu og Sverrir Hermannsson í iðnaðarráðuneytinu. Hinn fyrrnefndi á að ábyrgjast lánin og hinn síðarnefndi kaupa hlutaféð – fyrir lánsfé.

Hlægilegt er, að annar þessara ráðherra, sem er að reyna að selja ríkisfyrirtæki, á að taka þátt í að útrýma um 50 atvinnutækifærum í sautján einkafyrirtækjum í framleiðslu einangrunar og færa yfir í eina ríkiseinokun.

Hin makalausa verksmiðja núverandi ríkisstjórnar á að framleiða úrelta vöru, sem hvarvetna er á hröðu undanhaldi í byggingaiðnaði. Í útlöndum eru slíkar verksmiðjur reknar með aðeins 50% afköstum.

Mikla afhygli hefur vakið á síðustu árum, hversu hættulegt er að vinna í steinullarverksmiðjum. Í Danmörku einni létust í fyrra ellefu starfsmenn úr krabbameini vegna mengunar af steinullarryki. Svo kvarta sumir út af álverum!

Enginn hefur í alvöru haldið fram, að unnt verði að selja nokkuð af framleiðslunni til útlanda. Samt er verið að stofna verksmiðju, sem á að framleiða 6.000 tonn á ári upp í heimamarkað, sem var 610 tonn í fyrra.

Greinilegt er, að níu tíundu hlutar framleiðslunnar munu ekki seljast, nema þrengt verði að öðrum einangrunarefnum á markaðnum, svo sem glerull og plasti. Það verður fyrst gert með tollum og kvótum og síðast með einokun.

Húsbyggjendur munu borga brúsann í hækkuðum byggingakostnaði. 50 starfsmenn í 17 einkafyrirtækjum munu borga brúsann í atvinnumissi. Skattgreiðendur og erfingjar landsins munu borga brúsann í ríkisútgjöldum og erlendum skuldum.

Heimamenn á Sauðárkróki ætla aðeins að leggja fram 0,6% kostnaðar eða fjórar milljónir af 640 milljónum. Það eru 13% af hlutafénu. Finnar eiga að leggja fram 17%. Sambandið 30% og ríkið 40%. Þannig er búið til gælufyrirtæki.

Allir útreikningar á arðsemi verksmiðjunnar eru út í hött, enda hafa margir sérfróðir aðilar varað við feigðarflaninu. Til dæmis hefur Skipaútgerð ríkisins ekki samþykkt að flytja steinullina á 75% afslætti af farmgjöldum.

6.000 tonna verksmiðja fyrir 610 tonna markað er vitlausasta iðnaðarævintýri Íslandssögunnar, vonlausara en Kröfluvirkjun. Þar verður kastað á glæ 640 milljónum króna.

Þetta gæludýr verður að stöðva. Albert getur það, ef hann vill.

Jónas Kristjánsson.

DV

Handarbök Hagvangs.

Greinar

Þrátt fyrir slæma reynslu af skoðanakönnunum Hagvangs hefur fyrirtækið enn einu sinni komið til skjalanna með tíu þumalfingur og fjögur handarbök. Árangurinn er sá, að forsætisráðherra er að ástæðulitlu ákaflega glaður.

Hagvangur spurði: “Ef kjaraskerðing getur haft áhrif til lækkunar á verðbólgu, ertu þá sjálfur tilbúinn eða ekki tilbúinn, að launahækkanir verði ekki umfram það, sem ríkisstjórnin hefur boðað á næstu 12 mánuðum?”

Spurning þessi brýtur flest lögmál um orðalag í vönduðum skoðanakönnunum. Í fyrsta lagi er hún grautargerð, sem hinn spurði getur hæglega misskilið. Og í öðru lagi er hún hreinlega leiðandi í hag ríkisstjórninni.

Í spurningunni er tveimur innri spurningum ósvarað: Hefur kjaraskerðingin áhrif til lækkunar á verðbólgu? Og mun ríkisstjórnin sjá um launahækkanir á næstu tólf mánuðum? Svona stór EF er ekki leyfilegt að gefa sér í skoðanakönnunum.

Í heild lítur spurningin út eins og mafíutilboð, sem ekki er hægt að hafna. Með tveimur EF-um er búin til aðstaða, sem hinn spurði á sálrænt erfitt með að svara með neii, án þess að telja sig hálfgerðan eiginhagsmunasegg.

Berum spurningu Hagvangs saman við spurningu DV í fyrra mánuði: “Ertu fylgjandi eða andvígur efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar frá í júní?”. Þessi síðari spurning er einföld og auðskilin. Hún kallar ekki á annað svarið umfram hitt.

Með því að heimila óprúttnum forsætisráðherra að nota villandi tölur úr flókinni og leiðandi spurningu hefur Hagvangur lagt stein í götu skoðanakannana og gert hinum erfitt fyrir, sem stunda slíkar kannanir af alvöru.

Skoðanakannanir eru vandasöm vísindi, sem útilokað er að umgangast eins og fíll í glervörubúð. svo sem Hagvangur hefur gert. Það tekur skamman tíma að eyðileggja álit og traust, sem aðrir hafa byggt upp á löngum tíma.

Í þjóðfélaginu eru valdahópar, einkum í stjórnmálum, sem vilja skoðanakannanir feigar. Þeir vilja skipuleggja þær með lagasetningu og banna þær í sumum tilvikum. Þessir aðilar munu nú fara á kreik á nýjan leik.

Hagvangur hefði gjarnan mátt reyna að læra dálítið af niðurstöðum skoðanakannana þriggja aðila fyrir alþingiskosningarnar í vor. Þá reyndist fyrirtækið hafa á bakinu niðurstöðu, sem var lengst frá úrslitum kosninganna.

Auðvitað var niðurstaða skoðanakönnunar DV fyrir kosningarnar í vor sú hinna þriggja, sem kom langsamlega næst úrslitum kosninganna. Enda var þar að baki fjórtán ára reynsla í slípun aðferðafræði slíkra kannana.

Á þessum fjórtán árum var smám saman unnt að byggja upp traust almennings á skoðanakönnunum. Réð þar miklu, hve nálægt kosningakannanir reyndust vera úrslitum eftirfylgjandi kosninga. Nú taka menn almennt mark á könnunum.

Þess vegna er hart að sjá fílinn ryðjast inn í glervörubúðina undir fínu nafni hagfræðinnar og fara að brjóta verðmætt glerið, til þess eins að forsætisráðherra ímyndaði sér, að 65% þjóðarinnar telji hann á réttri leið.

Tíu þumalfingur og fjögur handarbök eru ekki vænleg til árangurs í skoðanakönnunum, jafnvel þótt tölvur séu hafðar til aðstoðar. Þegar þvæla er sett inn í tölvur, kemur þvæla út, íslenzkum vísindum til varanlegs tjóns.

Jónas Kristjánsson.

DV

Þjóðin kjósi um bjór.

Greinar

Sum mál eru þess eðlis, að fólk hefur afstöðu til þeirra, sem er meira eða minna óháð öðrum skoðunum þess, til dæmis á stjórnmálum. Gott dæmi um þetta eru viðhorf manna til þess, hvort leyfa skuli sölu á venjulegum, þ.e.a.s. áfengum bjór.

Erfitt er að hugsa sér, að Sjálfstæðisflokkurinn eða Alþýðubandalagið, svo dæmi séu nefnd, geti haft flokkslega skoðun á slíku máli. Innan allra flokka hljóta að vera þverstæð og ósættanleg sjónarmið í máli af þessu tagi.

Stjórnmálaflokkarnir hafa á Alþingi fulltrúafjölda í hlutfalli við stuðning kjósenda í síðustu kosningum. Þannig endurspeglar Alþingi almenn stjórnmálaviðhorf landsmanna, en ekki viðhorf þeirra til venjulegs bjórs.

Ef slík þverpólitísk mál eru tiltölulega einföld í sniðum, ef almenningur á tiltölulega auðvelt með að svara þeim með einföldu jái eða neii, – þá eru þau kjörið viðfangsefni í þjóðaratkvæðagreiðslu til hliðar almennum kosningum.

Íslendingar eiga áreiðanlega auðvelt með að svara, hvort þeir vilji eða vilji ekki, að sala á áfengum bjór verði leyfð í búðum áfengisverzlunarinnar og á vínveitingastöðum. Þetta er einföld spurning um já eða nei.

Magnús H. Magnússon alþingismaður hefur ásamt nokkrum þingmönnum úr öðrum flokkum lagt fram tillögu um, að Alþingi feli ríkisstjórninni að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um bjórinn samtímis næstu almennum kosningum.

Þetta er þörf tillaga um eðlilega meðferð á viðkvæmu deilumáli, sem Alþingi getur ekki leyst sjálft, af því að það er mannað á öðrum forsendum, pólitískum. Hvað er betra en að vísa slíku máli til þjóðarinnar í heild?

Auk þess er bjórmálið kjörið tækifæri til að dusta rykið af heimild til þjóðaratkvæðagreiðslu, sem hefur alltof lítið verið notuð, þótt ýmis þverpólitísk mál hafi komið til háværrar umræðu bæði innan þings og utan.

Þjóðaratkvæðagreiðsla um þverpólitísk mál getur orðið mikilvægur þáttur í efldu lýðræði í landinu. Það hlýtur að draga úr spennu vanmáttar, ef fólk fær að taka þátt í ákvörðunum, hver svo sem úrslitin verða að lokum.

Þjóðaratkvæðagreiðsla er ekki dýrt lýðræði, ef hún fer fram samhliða annaðhvort alþingiskosningum eða byggðakosningum. Raunar væri tiltölulega ódýrt að kjósa um ýmis slík sérmál samhliða venjulegum kosningum.

Um þessar mundir benda líkur til, að meirihluti þingmanna sé annaðhvort beinlínis hlynntur sölu á venjulegu öli eða hlynntur þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Hinir eru færri, sem hvorki vilja bjór né þjóðaratkvæðagreiðslu.

Að vísu er ekki vitað, hvernig atkvæði munu falla að lokum, þegar búið er að rökræða og rífast um málið á Alþingi og öðrum opinberum vettvangi. Má búast við heiftúðugri umræðu, ef þjóðkunnir bjórhatarar verða sjálfum sér líkir.

Bent verður á, að skoðanakannanir sýni stuðning tveggja þriðju hluta landsmanna við bjórinn gegn einum þriðja hluta. Sagt verður, að þingmenn séu í raun að samþykkja þjóðarfyllirí með því einu að samþykkja þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þingmönnum ber að standa af sér þá orrahríð. Þeim ber að vísa bjórmálinu til þjóðarinnar allrar. Á þann hátt einan fæst brýn niðurstaða í ósættanlegu deilumáli, sem gengur eins og fleinn gegnum alla stjórnmálaflokka landsins.

Jónas Kristjánsson.

DV

Þjóð í kreppu?

Greinar

Bjartsýni og svartsýni vógu salt um helgina í ræðum manna á ráðstefnu Lífs og lands um “Þjóð í kreppu”. Einkum var þetta áberandi í misjöfnum viðhorfum til félagslegra og sálrænna vandamála nútímans á Íslandi.

Annars vegar var tíundað, hvernig einstaklingurinn væri að rofna úr tengslum við fortíð og framtíð, hvernig eining fjölskyldulífs og atvinnulífs hefði rofnað og ýmis hefðbundin hlutverk fjölskyldunnar færzt til annarra aðila.

Gegn þessu var minnt á, að kúgun hefði verið mikil í stórfjölskyldum og smáþorpum gamla tímans. Nútíma borgarlíf hefði drepið fólk úr dróma. Það lifði nú betra lífi en áður og væri hamingjusamara en í þá daga.

Sannleikurinn er sennilega sá, að vaxandi umsvif fræðinga félags og sálar eru ekki merki um kreppu eða hrun á þessum sviðum, heldur dæmi um, að vandamálum er meira sinnt en áður, þegar þau voru látin vera í friði.

Umfjöllun ráðstefnunnar um skóla og listir benti ekki til, að unnt væri að tala um kreppu á þeim sviðum. Þvert á móti var sagt, að menntun færi smám saman batnandi, þótt auðvitað væri hún ekki eins og bezt yrði á kosið.

Hin vaxandi umsvif í listum eru augljós. Hins vegar var einnig bent á, að þetta mikla magn væri svo til eingöngu handverk án snilligáfu. Því var jafnvel haldið fram, að snilldin kafnaði í magni handverks í listum.

Dregið var í efa, að sjálf kreppan, sem allir tala um, kreppan í efnahagsmálum, bæri nafn með rentu. Sagt var, að alveg eins og góðærið væri hún eðlilegur þáttur í framvindunni, tímabil gagnrýni og endurmats.

Bent var á, að Íslendingar gætu hert sultarólina margumtöluðu og væru að gera það. Við værum að draga úr sóun í ýmsan óþarfa, minnka fjárfestingu í skaðlegum gæluverkefnum – og án þess að atvinnuleysis hefði orðið vart.

Dregin var upp dökk mynd af andlegu hruni, sem fylgt hefur atvinnuleysi í nálægum löndum. Lögð var áherzla á, að slíkt mætti ekki koma fyrir hér. Í því felst, að varla er hægt að tala um efnahagskreppu hér enn sem komið er.

Samt má ekki gleyma, að peningaskortur er þegar farinn að valda mörgu fólki alvarlegum vanda. En á ráðstefnunni var líka sagt, að þessu fólki hafi tekizt tiltölulega vel að klóra í bakkann og mundi flestu takast það áfram.

Fullyrt var, að Íslendingar gætu, ef þeir beittu sér, náð tökum á svokallaðri vistkreppu, sem kemur fram í ofbeit á afréttum og ofveiði á miðum. Ennfremur væri ástæðulaust að óttast mengun af völdum iðnaðar eða stóriðju.

Guðfræðingarnir á ráðstefnunni voru einna óánægðastir með stöðuna. Nefnt var, að hin “mjúku” gildi ættu að leysa hin hörðu af hólmi. Og úr öðrum áttum var viðurkennt, að velmegunin hefði ekki skilað sér nægilega í aukinni lífshamingju.

Samkvæmt ráðstefnunni er kreppan ef til vill skæðust í vörnum séríslenzkrar menningar og séríslenzks þjóðernis. Erlendir straumar flæða yfir okkur og unga fólkið er upptekið af öllu útlendu, titrandi af eftirvæntingu.

Á ráðstefnunni fékkst auðvitað ekki neitt eitt svar við spurningunni um, hvort þjóðin væri í kreppu. Á mörgum sviðum eru blikur á lofti, en víða þar og annars staðar sjást teikn þess, að þjóðin geti kunnað fótum sínum forráð.

Jónas Kristjánsson.

DV

Nú þarf vel að grisja.

Greinar

Vestfirzkir sérfræðingar í smáfiskadrápi hafa lagt til, að ekki verði á næsta ári veitt miklu meira en 400 þúsund tonn af þorski. Þetta óráðshjal var sett fram á þingi farmanna og fiskimanna fyrir helgina.

Einnig fyrir helgina reyndu fyrrverandi sjávarútvegsráðherrar að kasta rýrð á fiskifræðinga okkar. Var þó ferill þessara ráðherra slíkur, að þeir ættu sem minnst að opna munninn, þegar sjávarútveg ber á góma.

Sömu dagana sögðu raunsæir útgerðarmenn á sínu þingi, að tillögur Hafrannsóknastofnunarinnar um 200 þúsund tonna afla á næsta ári væru því miður nálægt raunveruleikanum. Raunar yrði varla hægt að skrapa miklu meira.

Tímabært er orðið, að menn hætti að skeyta stirðu skapi á fiskifræðingum og taki heldur til óspilltra málanna við að reyna að mæta hruni flestra mikilvægustu stofna nytjafiska við landið, – áður síldar og nú þorsks og loðnu.

Forsenda gagnaðgerða er, að menn lyfti höfði upp úr sandinum og opni augun, svo að þeir sjái, að ástandið er vissulega hrikalega alvarlegt, hvað sem ráðherrarnir Matthías Bjarnason og Steingrímur Hermannsson segja.

Brýnasta verkefnið er að minnka sóknina og laga hana að stærð fiskistofnanna. Það er virkasta aðferðin við að minnka tilkostnaðinn niður að samræmi við aflamagn, svo að fiskveiðar verði arðbærar á nýjan leik.

Stöðva þarf útgerð skipanna, sem grínistar hafa á undanförnum árum látið ríkið gefa sér. Fiskveiðasjóður á að viðurkenna, að lánsféð er að mestu glatað. Hann á að taka þessi gjaldþrota skip upp í skuldir.

Um leið þarf að tryggja, að skipunum verði raunverulega lagt eða öðrum skipum í þeirra stað. Ekki er nóg að skipta um útgerðaraðila, heldur þarf að taka skip úr samkeppni um hinn litla afla, sem verður á næstu árum.

Jafnframt þarf ríkið að verja nokkrum fjármunum til að hjálpa útgerðarmönnum við að leggja úreltum skipum, sem helzt virðast gerð út, af því að á þeim hvíla skuldir. Þetta mundi hjálpa til við að grisja hinn of stóra flota.

Í þriðja lagi er hugsanlegt, að losna megi við sum skip með því að selja þau úr landi. Styðja þarf við bakið á sölumennsku á því sviði með vinsamlegri meðhöndlun skulda. Það munar um hvert skip, sem fer úr samkeppninni.

Að svo miklu leyti sem þessar aðgerðir duga ekki til að laga sóknina að aflanum þarf að auka kerfi skrapdaga eða koma á kvótum, þótt hvorugt sé fýsilegt. Slíkar leiðir eru verri en grisjun, en geta samt verið nauðsynlegar.

Munurinn felst í, að minnkun flotans eykur arðsemi hans, en skömmtunarkerfið dregur hins vegar úr henni. En um leið vitum við, að skömmtunin verður ofaná, af því að pólitíska kerfið skortir kjark til nægilegrar grisjunar.

Til viðbótar við grisjun og skömmtun þurfa ráðamenn þjóðarinnar að gæta þess, að gengi krónunnar sé jafnan svo lágt skráð, að arðbær sé útgerð vel rekinna fiskiskipa, sem ekki eru upp fyrir haus í erlendum skuldum.

Sumri útgerð getur ekki einu sinni lágt gengi krónunnar bjargað. En slíkri útgerð getur ekkert bjargað. Við þurfum sem fyrst að losna við hana, svo að betra svigrúm verði um þann hluta útgerðar, sem bezt er settur. Á slíkri útgerð getum við byggt okkar framtíð.

Jónas Kristjánsson

DV

Útsæðið er á enda.

Greinar

Undanfarin ár hefur Hafrannsóknastofnunin alltaf reynzt of bjartsýn í tillögum um leyfilegt aflamagn úr helztu fiskistofnum Íslandsmiða. Reynslan hefur sýnt, að tölur hennar hafa verið of háar, en ekki of lágar.

Þessu hefur forstjóri stofnunarinnar ráðið. Hann gerir þetta til að þóknast ístöðulitlum sjávarútvegsráðherrum, sem vilja með engu móti horfast í augu við óþægilegar staðreyndir, hvað þá sársaukafullar gagnaðgerðir.

Einn versti sjávarútvegsráðherra Íslandssögunnar er núverandi forsætisráðherra. Hann sagði líka í blaðaviðtali í fyrradag; “Vonandi eru þessar tillögur eins vitlausar og aðrar, sem komið hafa frá þeim.”

Steingrímur Hermannsson notar þá staðreynd, að tölur Hafrannsóknastofnunarinnar hafa verið rangar upp á við, til að gera því skóna, að þær séu nú rangar niður á við. Til stuðnings þess hefur hann ekki eitt gramm af röksemdum.

Við annað tækifæri sagði þessi ístöðulitli ráðherra: “Við verðum að meta, hvað þjóðarbúið þolir annars vegar og hvað þorskstofninn þolir hins vegar.” Þá var hann sem sjávarútvegsráðherra að stuðla að áframhaldandi ofveiði.

Ráðherraun átti við, að þjóðarhagur kynni að krefjast þess, að áfram verði gengið á þorskstofninn. Það er sama og að segja, að nauðsynlegt kunni að vera að éta útsæðið. Og svo látum við svona menn stjórna þjóðinni.

Núverandi sjávarútvegsráðherra hefur ekki talað út í hött um hina nýju “svörtustu skýrslu” eins og hinn fyrrverandi hefur gert um þessa og aðrar fyrri. En auðvitað er nú sem fyrr freistandi að stinga höfðinu í sandinn.

Ef Halldór Ásgrímsson vill víkja frá stefnu útsæðisáts fyrirrennaranna, verður hann að gera sér grein fyrir, að lítill munur er á þoli þorsksins og þoli þjóðarbúsins. Ef hið fyrra brestur, er hið síðara brostið um leið.

Sjávarútvegurinn hefur alla þessa öld verið eina arðbæra auðlindin okkar. Hann hefur byggt upp þjóðarauðinn og borgað velmegunina. Við stöndum nú andspænis því, að auðlindina sé að þrjóta og að það sé okkur sjálfum að kenna.

Í skjóli sjávarútvegsins höfum við leyft okkur að halda uppi dulbúnu atvinnuleysi í fáránlegum landbúnaði kúa og kinda. Í skjóli hans höfum við líka leyft okkur að hægja á iðnvæðingunni, sem ein getur tryggt framtíð okkar.

Nú er þetta skjól að hverfa. Þorskveiðin mun hrynja úr 290.000 tonnum á þessu ári niður í 200.000 tonn á næsta ári. Loðnuveiðin mun hrynja úr 375.000 tonnum á þessum vetri niður í 100.000 tonn á næsta vetri.

Útgerðarmennirnir, sem eru raunsærri en stjórnmálamennirnir, hafa verið að þinga á Akureyri. Þar hafa komið fram tillögur um að leggja flotanum í þrjá mánuði til að hvíla sóknina. Þetta sýnir, hve alvarleg staðan er.

Þetta kann að vera nauðsynlegt. En bezt væri að stöðva útgerð skipanna, sem grínistar hafa verið að kaupa á undanförnum árum, gegn ráðum útgerðarmanna og annarra. Þessi skip gera ekkert annað en að spilla fyrir útgerð hinna.

Ljóst er, að gífurlegur samdráttur verður í sjómennsku og fiskvinnslu ofan í þá kreppu, sem fyrir er. Lífskjör okkar munu versna enn meira en þegar er orðið. Það er meðal annars herkostnaður okkar af ístöðulitlum ráðamönnum.

Jónas Kristjánsson

DV

Pennastrikum fjölgar.

Greinar

“Pennastrikin’, eru að komast í fullan gang í útgerðarstefnu ríkisstjórnarinnar. Þessi stefna felst í að þjóðnýta tap þeirra útgerðarfyrirtækja, sem lagt hafa í vonlausa og vitlausa fjárfestingu á undanförnum árum.

Nýjasta pennastrikið er eftirgjöf á vöxtum af fjárfestingarlánum útgerðarinnar í Fiskveiðasjóði. Í tölum nemur eftirgjöfin 100 milljónum króna og í prósentum 30% af eins árs vöxtum. Þetta var samþykkt í ríkisstjórninni í fyrradag.

Áður hafði frétzt af öðru pennastriki. Það felst í, að ríkissjóður losi útgerðina Þormóð ramma á Siglufirði við 65-70 milljón króna skuldir og breyti þeim í aukið hlutafé ríkisins í fyrirtækinu. Þetta hefur ekki enn verið afgreitt.

Óneitanlega eru slíkar aðgerðir dálítið kostulegar eftir allt talið um sölu ríkisfyrirtækja og sölu hlutabréfa ríkisins í atvinnulífinu. Svo virðist sem raunveruleikinn muni felast í auknum ríkisumsvifum, en ekki minnkuðum.

Að baki hugmyndarinnar um pennastrik er sá sannleikur, að peningarnir, sem verið er að tala um, eru í rauninni glataðir. Hinir opinberu sjóðir, sem eru lánardrottnar útgerðarinnar, munu ekki fá peninga skattgreiðenda til baka.

Sem dæmi um þetta öngþveiti má nefna, að samkvæmt lánsfjáráætlun ríkisstjórnarinnar þarf Fiskveiðasjóður að taka 400 milljón króna lán vegna áætlaðs greiðsluhalla á næsta ári til viðbótar við 483 milljóna halla á þessu ári.

Að baki þessara talna felst, að Fiskveiðasjóður þarf að greiða vexti og afborganir af erlendum lánum, sem hann hefur tekið til að lána í skipakaup, en hefur ekki fengið á móti vexti og afborganir af þeim útlánum.

Raunar hafa útlán Fiskveiðasjóðs um nokkurt árabil verið með þeim endemum, að ráðamenn sjóðsins ættu að sæta málshöfðun fyrir meinta óráðsíu í meðferð opinberra fjármuna. Allir vissu, að sum lánin voru hrein endaleysa.

Langt er síðan bent var á, að engin von væri á, að skip, sem smíðuð væru innanlands, gætu aflað upp í afborganir og vexti. Og nokkuð er síðan bent var á, að sama regla væri einnig farin að gilda um skip frá útlöndum.

Bæði lánveitendur og lántakendur vissu vel, að lán til margra nýrra skipa mundu aldrei verða endurgreidd. Enda er nú komið í ljós, að í sumum tilvikum eru skuldir fiskiskipa orðnar mun hærri en verðmæti sömu skipa.

Sumpart er eðlilegt, að menn bendi á, að skuldir þessar séu glataðar. Þær séu orðnar að bókhaldsatriði, sem bezt sé að beita pennastriki. En þetta er samt ekki rétta leiðin til að létta af öngþveitinu í útgerðinni.

Með pennastrikum á borð við eftirgjöf vaxta í Fiskveiðasjóði er verið að verðlauna skussana. Verið er að hossa þeim, sem hafa keypt óþörf og skaðleg skip, á kostnað hinna, sem fyrir ráku heilbrigða og arðsama útgerð.

Miklu nær er að leyfa óðs manns útgerðaræðinu að verða gjaldþrota eins og Fiskveiðasjóður hyggst nú gera. Síðan þarf að tryggja, að ekki verði gerð út fleiri skip en svo, að aflinn á skip verði nægilega mikill.

Öngþveitið í útgerð stafar að verulegu leyti af offjölgun skipa umfram þol fiskistofna. Pennastrik í þágu skuldakónga gera illt verra. Þau fresta vitrænum aðgerðum til aukningar á svigrúmi vel rekinnar og heilbrigðrar útgerðar.

Jónas Kristjánsson

DV

Rafmagn verður áfram dýrt.

Greinar

Nýjasta greinargerð Orkustofnunar staðfestir, sem haldið hefur verið fram hér í þessum dálkum, að martröð hins háa orkuverðs hjá íslenzkum notendum á sér nokkrar samverkandi orsakir, sem menn gerðu sér litla grein fyrir.

Í fyrsta lagi hafa orkuverin ekki reynzt eins ódýr og reiknað var með. Hin ungu jarðlög landsins eru laus í sér og lek. Jökulár láta treglega temja sig, auk þess sem þær leika grátt hverflana í orkuverunum.

Í öðru lagi eru flest orkuverin ung að árum og hafa að öllu leyti verið reist með lánsfé. Það hefnir sín núna að hafa ekki fyrr á árum notað rétt verð á rafmagni og myndað á þann hátt eigið fé í orkufyrirtækjunum.

Þessar tvær ástæður valda því, að orkuverð í heildsölu er miklu hærra hér á landi en í öðru, nálægu vatnsaflslandi, Noregi. Þar er verðið um 20 mills, en hér er það 33 mills. Þetta er óneitanlega verulegur munur.

Um leið má ekki gleyma, að víða um heim, þar sem minna er um vatnsafl, er orkuverð í heildsölu mun hærra en hér. Til dæmis er það 58 mills í Bandaríkjunum og 75 mills í Englandi. Við megum því sampart vel við una.

Þá kemur að þriðju ástæðunni, sem hækkar orkuverð til íslenzkra notenda. Það er hin gífurlega dýra dreifing orkunnar, sem ræðst af stærð landsins, fámenni þjóðarinnar og óblíðu veðurfari. Þetta tvöfaldar verðið.

Þegar svo bætist við hinn myndarlegi, íslenzki söluskattur, er orkuverðið í heimilisnotkun manna komið upp í um 100 mills að meðaltali. Hluti af þessu verði felst í mikilli verðjöfnun milli þéttbýlis og strjálbýlis.

Að baki þessa verðs upp á 100 mills er svo einnig fjórða ástæðan. Hún er fólgin í misheppnuðum samningum um orkuverð til stóriðju. Það verð er um það bil að hækka upp í 10 mills, sem er hlægilegt í samanburði við 100 mills almennra notenda.

Stóriðja er að vísu stór viðskiptavinur og á sem slíkur að fá sérstök kjör. En einstakar rafveitur eru líka stórir viðskiptavinir orkuvera og þurfa þó að greiða margfalt hærra heildsöluverð eða í kringum 40 mills.

Stóriðja getur um takmarkaðan tíma stuðlað að fullnýtingu orkuvers, það er að segja frá þeim tíma, að það tekur til starfa, og fram að þeim tíma, er fjármagna þarf annað nýrra orkuver. Þessi hagur er því skammvinnur.

Sum stóriðja er betri en önnur að því leyti, að hún getur notast við afgangsorku í stað forgangsorku. Að svo miklu leyti sem hún fyllir upp í lægðirnar milli toppanna í orkunotkun, kallar hún ekki á nýja fjárfestingu í orkuöflun.

Slíkri stóriðju mætti selja orku á verði, sem væri innan við 20 mills, en annarri ekki. Til dæmis væri ekkert vit í að selja forgangsorku til stækkunar álversins í Straumsvík á minna en 20 mills frá Blöndu eða Þjórsá.

Samkeppnisaðstaða okkar við lönd lágs orkuverðs er ekki svo góð, að við getum búizt við að létta af okkur martröð orkuverðsins með nýjum samningum um sölu til gamallar eða nýrrar stóriðju. Þaðan koma engar himnasendingar.

Almennir notendur verða áfram að sætta sig við heimsmetsverð á rafmagni og bíða eftir, að erlendar orkuskuldir greiðist niður. Þá getum við um síðir vænzt þess, að orkuverð til heimilisnota mjakist niður fyrir meðalverð í nálægum löndum.

Jónas Kristjánsson.

DV