Author Archive

Sýnið mannlegt vit.

Greinar

Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra hefur að undanförnu talað af léttúð og takmörkuðum skilningi um vandræði þeirra, sem ekki hafa lengur til hnífs og skeiðar vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum.

Vandræði einstæðra foreldra og barnmargra foreldra eru ekki þess eðlis, að Steingrímur geti beðið eftir bænarskrám frá aðilum vinnumarkaðarins um félagsmálapakka, sem liðki fyrir undirritun nýrra kjarasamninga á síðustu stundu.

Ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar ber ábyrgð á að hafa kosið að skera niður verðbólguna og umframeyðsluna á kostnað láglaunafólks. Það er vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar, að fólk með þunga framfærslu er að komast á vonarvöl.

Þetta verða Steingrímur og ríkisstjórnin að skilja. Þeirra á frumkvæðið að vera. Komið er í eindaga, að ráðamenn sýni “mannlegt vit”, svo sem Björn Þórhallsson, varaforseti Alþýðusambandsins, hvatti til í fyrra.

Ráðherrunum hefur réttilega verið hrósað fyrir harða atlögu að verðbólgu og umframeyðslu. En ríkisstjórnin má ekki verða svo drukkin af eigin velgengni, að hún sjái ekki hinar sorglegu afleiðingar fyrir lítilmagnann.

Tilraunir til að leysa vandann með lögbundnum lágmarkslaunum og þrengingu launastigans eru dæmdar til að mistakast, jafnvel þótt samningsaðilar á vinnumarkaði reyni slíkt í einlægni, sem sagan segir okkur, að þeir gera ekki.

Þeir, sem vegna eigin verðleika, menntunar, forréttinda eða tilviljunar gegna mikilvægum störfum, verða reynslu sinnar vegna svo verðmætir, að fyrirtækin hleypa þeim á launaskrið, svo að þeir fari ekki til annarra.

Minnstu máli skiptir, hvort hálaunafólkið fær sinn launamismun í kjarasamningum eða í launaskriði í kjölfar kjarasamninga. Óraunsætt væri að halda, að lögfest lágmarkslaun og þrenging launastiga hamli gegn slíku. Það framleiðir bara verðbólgu.

Sem betur fer gegnir mikill meirihluti verkfærs fólks störfum, sem eru þess eðlis, að tekjur duga fyrir nauðþurftum og töluverðu af óþarfa þar á ofan. Þetta fólk hefur getað mætt erfiðleikunum með því að spara ýmsan óþarfa.

En 25% niðurskurður lífskjara er meira en sumt fólk þolir. Það er minnihluti þjóðarinnar, ef til vill um tíundi hver Íslendingur. Þessi undirstétt er svo fámenn, að fáir verða til að gæta hagsmuna hennar.

Ítrekað hefur verið bent á, að ein bezta leiðin til hjálpar sé að breyta niðurgreiðslum landbúnaðarafurða í fjölskyldu- eða barnabætur til láglaunafólks. Lífskjörin mótast nefnilega meira af framfærslubyrði en láglaunastöðu.

Slík tilfærsla bætir mjög hag þeirra, sem drekka vatn, af því að þeir hafa ekki efni á mjólk; borða fisk og hrossakjöt, af því að þeir hafa ekki efni á dilkakjöti; og borða smjörlíki, af því að þeir hafa ekki efni á smjöri.

Þessi lausn hefur þann kost, að hún býr ekki til peninga, sem ekki eru til, heldur færir þá frá vel stæðu fólki til illa stæðs. Ríkisstjórnin getur svo sem farið aðrar leiðir, ef það hentar henni, en hún má ekki sitja með hendur í skauti.

Vonarvöl fólks er hliðarverkun aðgerða ríkisstjórnarinnar, en ekkert sem aðilar vinnumarkaðarins hafa samið um í frjálsum samningum. Á þessu þurfa Steingrímur og ríkisstjórnin að átta sig. Nú þarf að sýna mannlegt vit og það strax.

Jónas Kristjánsson

DV

Stutt skref í rétta átt.

Greinar

Flest bendir til, að stjórnmálamaðurinn og alþingismaðurinn Lárus Jónsson fái ekki hina lausu stöðu bankastjóra við Búnaðarbankann. Þrír af fimm bankaráðsmönnum hafa lýst stuðningi við bankamanninn Jón Adolf Guðjónsson.

Að vísu er hugsanlegt, að forustu Sjálfstæðisflokksins takist að snúa upp á handlegg einhvers hinna þriggja bankaráðsmanna, sem allir eru í öðrum stjórnmálaflokkum. En sinnaskipti af því tagi verða að teljast ótrúleg.

Ef Lárus nær ekki stöðunni, er það í annað sinn á skömmum tíma, að stjórnmálamaður og alþingismaður verður að víkja fyrir bankamanni. Þá átti Framsóknarflokkurinn í hlut og bankinn var hinn sami og nú, Búnaðarbankinn.

Það var stjórnmálamaðurinn og alþingismaðurinn Stefán Valgeirsson, sem fyrir áramót beið lægri hlut í samkeppni við bankamanninn Stefán Pálsson um stöðu bankastjóra. Þau úrslit mörkuðu tímamót í samdrætti pólitískrar spillingar.

Sem betur fer þykir ekki lengur sjálfsagt, að þreyttir alþingismenn hafi forgang að stöðum bankastjóra. Þetta er í sama dúr og í utanríkisþjónustunni, þar sem ekki þykir lengur sjálfsagt, að þreyttir ráðherrar verði að sendiherrum.

Að vísu er enn litið svo á, að embætti bankastjóra séu eign stjórnmálaflokka í hefðbundnum hlutföllum. Stefán Pálsson var ráðinn sem framsóknarmaður og Jón Adolf Guðjónsson verður ráðinn sem sjálfstæðismaður.

Það, sem gerist, er, að fulltrúar hinna stjórnmálaflokkanna, sem ekki “eiga” hina lausu stöðu, koma sér saman um að ákveða sjálfir, hver skuli vera fulltrúi eignarflokksins. Og þeir taka fagmenn fram yfir þingmenn.

Þetta er minnkun spillingar, en ekki afnám hennar. Enn er næstum útilokað fyrir bankamenn að verða að bankastjóraefnum, nema með stuðningi valdamikils stjórnmálaflokks, helzt annaðhvort Sjálfstæðisflokks eða Framsóknarflokks.

Þá eru einnig mjög fá dæmi um, að menn, sem hafa getið sér gott orð í starfi úti í þjóðlífinu, annars staðar en á Alþingi, komi til greina, þegar bankaráð velja nýja bankastjóra. Væri slík tilfærsla þó mjög heilbrigð.

Og ekki má gleyma því, að stjórnmálamenn helztu flokka á alþingi telja sig hafa forgang að kosningu í bankaráð. Það eru enn alþingismenn, sem persónulega ákveða, hverjir verði bankastjórar og helztu deildarstjórar banka.

Eðlilegra væri, að flokkarnir á Alþingi kveddu til starfa í bankaráðum sérfróða flokksmenn utan úr bæ. Þá yrði líklegt, að fagmenn yrðu jafnan ráðnir í mikilvæg embætti, annaðhvort úr röðum bankamanna eða utan úr bæ.

Bezt væri, að niður legðist hugmyndin um, að stjórnmálaflokkar eigi ákveðin sæti í bankaráðum og bankastjórnum, svo og hliðstæð sæti í Framkvæmdastofnun og ýmsum sjóðum, sem skammta fé eins og bankarnir gera.

Alþingismenn hafa nægilegt vald í löggjöfinni og með afskiptum sínum af framkvæmdavaldinu, sem felast í þingræðinu. Þeir eiga ekki að vera að vasast á öðrum valdasviðum til viðbótar, svo sem í fjármálum og fjölmiðlum.

Ráðning tveggja fagmanna sem bankastjóra Búnaðarbankans er skref, en stutt skref, í rétta átt. Verulegum árangri verður ekki náð, fyrr en bankastjóraefni hætta að þurfa að veifa stuðningi við valdamikinn stjórnmálaflokk.

Jónas Kristjánsson.

DV

Félagsmálastofnun í útgerð.

Greinar

Ofskipulag leiðir yfirleitt til þverstæðna, vegna þess að skipuleggjendur geta aldrei gert sér fyrirfram grein fyrir hliðarverkunum skipulagsins. Lausn á einu vandamáli býr til ný vandamál á öðrum sviðum, oft hrikalegri vandamál.

Landbúnaðurinn er dæmi um fyrrverandi atvinnuveg, sem hefur verið skipulagður að ofan og breytt í félagsmálastofnun, sem kostar ríkissjóð næstum tíundu hverja krónu á fjárlögum. Og nú er sjávarútvegurinn kominn í sömu hættu.

Að undanförnu hefur verið haldið fram í fjölmiðlum, að vandi útgerðarinnar yrði ekki leystur með hækkun fiskverðs. Hver er skýringin á, að atvinnuvegur hagnast ekki á að fá hærra verð fyrir afurðir sínar? Í ljós kemur, að 80% útgerðarinnar eru í eigu fiskvinnslunnar í landinu.

Í flestum tilvikum er því aðeins bókhaldsatriði, á hvaða verði fiskvinnslan kaupir fiskinn af útgerðinni. Peningarnir fara ekki langt í burtu.

Sjómenn fá hluta aflaverðmætis í eigin vasa. Þess vegna hefur verið búið til kerfi til að bæta hag útgerðarinnar framhjá hlutaskiptum. Þeir peningar haldast alveg innan fyrirtækjanna og ekkert af þeim lekur til sjómanna.

Þess vegna vill útgerðin núna ekki endilega, að fiskverð hækki svo mjög, heldur fari ríkið að styrkja hana með einhverjum hætti og hafi forgöngu um, að strikað verði yfir vanskil hinna helstu grínista í greininni.

Að undanförnu hefur einnig verið haldið fram í fjölmiðlum, að vandi útgerðarinnar yrði ekki leystur með lægra gengi krónunnar. Hver er skýringin á, að atvinnuvegur hagnast ekki á að fá hærra innlent verð fyrir afurðir sínar?

Í ljós kemur, að flest nýjustu skipin nota svo mikla olíu og skulda svo mikið í gengistryggðum lánum, að jafnþungt er á metunum og sjálft aflaverðmæti þeirra. Útgerð þeirra er svo glórulaus, að dæmið bítur í skott á sjálfu sér.

Þetta gildir aðeins um hluta flotans, til dæmis skipin, er skulda meira en sem nemur tryggingaverði þeirra sjálfra. En þessi útgerð virðist ráða ferðinni, þegar efast er um, að lægra gengi flytji fé til sjávarútvegs.

Að undanförnu hefur komið fram í fjölmiðlum, að um 150 ástralskar stúlkur hafa verið ráðnar til fiskvinnslu, þótt meira en 3.000 manns séu á atvinnuleysisskrá. Erlenda farandverkafólkið er eins fjölmennt og á fyrri árum.

Í ljós kemur, að í sumum plássum hefur verið offjárfest svo mjög í sjávarútvegi, að heimafólk ræður ekki við aflamagnið. Á sama tíma er atvinnuleysi á öðrum stöðum, af því að takmarkaður afli dreifist á of mörg fiskiskip.

Með nýju fiskiskipunum hefur dregið úr aflanum, sem er til skiptanna milli skipanna, sem fyrir eru. Með sjálfvirku lánakerfi og góðu sambandi við lina sjávarútvegsráðherra hafa sum sjávarpláss tekið til sín afla frá öðrum plássum.

Þetta hefði ekki komið svo mjög að sök á fyrri árum, þegar Íslendingar létu sér ekki bregða við að flytjast búferlum milli byggðarlaga og landshluta. Nú eru menn smám saman að glata sveigjanleikanum og farnir að kalla hann röskun.

Þverstæðurnar í sjávarútvegi, sem hér hefur verið bent á, sýna, að hætta er á, að hann verði ofskipulagður yfir í félagsmálastofnun eins og landbúnaður. Þegar formaður Sjálfstæðisflokksins mælir í áramótagrein með útgerðarskatti á þjóðina er fokið í flest skjól.

Jónas Kristjánsson.

DV

Grínistar verðlaunaðir.

Greinar

Helzti kostur aflakvótastefnunnar er, að hagsmunaaðilar eru í stórum dráttum fylgjandi henni og báðu raunar um hana. Þess vegna má búast við, að þeir styðji hana í verki og að afli haldist innan skynsamlegra marka.

Einnig má búast við, að aflakvótastefnan lækki útgerðarkostnað. Hún gefur útgerðarmönnum svigrúm til að draga úr olíunotkun og halda öðrum sóknarkostnaði í lágmarki. Þessi kostur er þjóðhagslega mikilvægur.

Loks fylgir stefnunni, að leyfilegt er að auka enn hagkvæmnina með því að færa kvóta milli skipa. Sjávarútvegsnefndir alþingis hafa þó dregið úr þessum kosti með því að setja skorður við flutningi kvóta milli verstöðva.

Þrátt fyrir hina ýmsu kosti er aflakvótastefnan engin himnasending. Hún eykur hættuna á, að smáfiski verði kastað í sjóinn til að nýta aflamarkið betur. Og hún eykur hættuna á, að fiski verði smyglað framhjá vigtun og þar með framhjá kvóta.

En reynslan sýnir líka, að skipulagning vandamála er alltaf tvíeggjuð. Við tilfæringar á borð við aflakvóta eru ný vandamál búin til um leið og önnur eru leyst. Og þetta gerist því fremur sem meira er kippt úr sambandi markaðslögmálum.

Til dæmis virðist mönnum hætta til að gleyma, hver er hinn raunverulegi vandi, sem varð tilefni aflakvótastefnunnar. Fiskiskipaflotinn var orðinn of stór í hlutfalli við þann afla, sem óhætt er að taka úr fiskistofnunum.

Þann vanda mátti leysa með því að skipuleggja hann ekki, heldur láta hann í friði. Vandann mátti leysa með því að leyfa útgerð mestu vanskilaskipanna að verða gjaldþrota, svo sem tíðkast í flestum öðrum atvinnuvegum.

Af minni togurunum er rúmlega helmingurinn annað hvort utan sjóðakerfis, í fullum skilum við það eða næstum því í fullum skilum. Þá eru eftir 38 skip. Af þeim eru svo aftur átta, sem skulda helming allra vanskilanna.

Þetta eru skipin, sein hafa verið smíðuð innanlands á síðustu þremur árum. Þeim hefur verið bætt við flotann, þótt öllum hafi verið ljóst í að minnsta kosti sex ár, að flotinn væri of stór og að nýju skipin mundu ekki bera sig.

Ábyrgðina bera stjórnmálamennirnir, Fiskveiðasjóður og útgerð þessara skipa. Stjórnmálamenn verða ekki dregnir til ábyrgðar frekar en endranær. Og allra sízt verða sjávarútvegsráðherrar Framsóknarflokksins gerðir ábyrgir!

“Þetta hefur lengi verið glórulaust dæmi,” sagði einn þessara útgerðarmanna í blaðaviðtali um daginn. Slík glórulaus dæmi eiga auðvitað að fá að eiga sína eðlilegu og heilbrigðu niðurstöðu í formi gjaldþrots.

Fiskveiðasjóði er þetta tapað fé. Eitt skipið skuldar sjóðinum hærri upphæð en sem nemur tryggingarverðmæti þess. En það er líka ósköp eðlilegt, að glórulaus lánastefna leiði til tjóns fyrir þennan lánveitanda eins og aðra.

Í stað þess að fara þessa leið, sem tíðkast í venjulegu atvinnulífi, eru sjávarútvegsráðherra og aðrir stjórnmálamenn að gamna sér við að gefa hinum glórulausu eftir skuldirnar að meira eða minna leyti, – verðlauna skussana.

Afleiðingin verður, að útgerð grínistanna leggst ekki niður. Hún mun áfram standa í vegi heilbrigðrar útgerðar, sem getur staðið í skilum. Hún mun áfram koma í veg fyrir meiri nýtingu skipa, sem standa undir sér.

Þannig nær aflakvótastefnan ekki tilgangi sínum.

Jónas Kristjánsson

DV

Nauðsynleg millifærsla.

Greinar

Fólkið, sem ekur um göturnar á nýlegum bílum, er bara venjulegt fólk úr ýmsum stéttum og störfum í þjóðfélaginu. Og fólkið, sem flykkist í sólarlandaferðir, er heldur ekkert auðfólk, heldur eins og hver annar í þjóðfélaginu.

Mikill meirihluti þjóðarinnar hefur vel til hnífs og skeiðar, þrátt fyrir rýrða afkomu. Við sáum þetta á jólavertíðinni. Og við sjáum þetta daglega allt í kringum okkur. Fólk barmar sér að vísu, en það ræður við vandann.

Þessi þorri þjóðarinnar þarf ekki nauðsynlega á 4% til 6% kauphækkun að halda. Að minnsta kosti ekki á meðan lífskjör stefna í óefni hjá fátækasta hluta þjóðarinnar, sem ef til vill telur um tíunda hvern borgara.

Því miður er vandi undirstéttarinnar þess eðlis, að hann verður ekki leystur með því að rugla launastiga meira en gert er ráð fyrir í tillögum ríkisstarfsmanna og gagntillögum fjármálaráðuneytisins undanfarna daga.

Ekki er heldur nokkur leið að ætlast til, að ríkið, fyrir hönd skattgreiðenda, leggi út fyrir mismuninum. Hugmyndir um að nota hluta söluskatts í afkomutryggingu eru marklausar, ef ekki er um leið bent á sparnað á móti.

Eina færa leiðin til að lina vandræði einstæðra foreldra og barnmargra foreldra, sem er langstærsti hluti lágstéttarinnar, er að færa fé til þess frá venjulegu fólki, sem hefur til hnífs og skeiðar, þrátt fyrir kjaraskerðingu.

Slíka millifærslu getur ríkið tekið að sér með því að breyta niðurgreiðslum að hluta eða öllu í fjölskyldubætur af einhverju tagi. Slík millifærsla kostar ríkissjóð ekki neitt og hún ruglar ekki heldur mun á launatöxtum.

Niðurgreiðslur eiga á þessu ári að nema tæpum milljarði króna. Ef þær væru lagðar niður, mundu nokkrar vörur hækka í verði, þar á meðal kindakjöt, rjómi og smjör, það er að segja vörur, sem ekki eru mikið á borðum fátækra.

Verðhækkun þessara afurða mundi éta upp hluta af prósentuhækkun launa, sem um verður samið í yfirstandandi kjaraviðræðum. Fólk getur þá, ef það vill, hliðrað til neyzluvenjum sínum til að eyða áhrifum verðhækkunarinnar.

Auðvitað er hætt við, að rétt verð á ofsadýrum afurðum hins hefðbundna landbúnaðar kúa og kinda mundi draga úr sölu þeirra. Menn mundu sjá betur en áður, að framboð þessara rándýru afurða er ekki í neinu samhengi við þarfir.

Ef við ímyndum okkur, að 40.000 börn séu í landinu og að ríkissjóður greiddi 12.000 krónur með hverju barni á ári, án tillits til fjárhagsaðstæðna foreldra, mundi samt verða afgangs helmingur niðurgreiðslnanna til annarra þarfa, til dæmis skattalækkunar.

Slíkar fjölskyldubætur hafa áður verið reyndar hér á landi og voru einfaldar í meðförum, einkum af því að ekki þurfti að velja, hverjir njóta skyldu og hverjir ekki. Sérstakt val leiðir hins vegar til mistaka og misnotkunar.

Í fjölskyldubótum felst þátttaka þjóðfélagsins í hinum mikla kostnaði, sem foreldrar hafa af börnum. Þessi þátttaka er ekki mikil, en auðveldar foreldrum að lifa á kjörunum, sem atvinnulífið getur boðið láglaunafólki.

Deila má um réttmæti slíkrar þátttöku. En hún er þó himinhátt skynsamlegri en árlegur milljarður í niðurgreiðslur, sem skekkja vöruverð og atvinnulíf. Og um leið mundu fjölskyldubætur lina alvarlegasta böl líðandi stundar, hina sáru fátækt mitt í velsældinni.

Jónas Kristjánsson.

DV

Að hindra sult og seyru.

Greinar

Vandamál undirstéttarinnar í landinu verða ekki leyst í kjarasamningunum, sem nú er verið að undirbúa hjá ríkinu og á almennum vinnumarkaði. Ef hindra á sult og seyru hjá fámennum hópi fólks, verður að fara aðrar leiðir að auki.

Fjármálaráðuneytið og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja deila um, hvort lágmarkslaun eigi að vera 12.420 krónur eða 15.000 krónur á mánuði. Báðir aðilar eru hlynntir lágmarkslaunum og í rauninni ber furðu lítið á milli í tölum.

Virðingarvert er, að í opinbera geiranum skuli menn í raun fylgja hugsjóninni um lágmarkslaun. Á almenna vinnumarkaðinum hafa menn einnig haft þetta mjög á orði, en allir vita um leið, að lítt vottar fyrir því á borði.

Vinnuveitendasambandinu þykir rétt að styðja málstaðinn opinberlega, þótt ráðamönnum þess séu ljósir gallar lágmarkslauna. Meðal annars stuðla þau að launaskriði. Einnig hafa þau tilhneigingu til að verðleggja láglaunafólk út af vinnumarkaði.

Alþýðusambandinu er enn meiri nauðsyn að þykjast fylgja lágmarkslaunum í stað flatrar prósentuhækkunar launa. En allur þorri ráðamanna þess er samt í raun ráðinn til að gæta hagsmuna þeirra, sem betur mega sín, svo sem uppmælingaraðals.

Svo kann að fara, að framtakið í opinbera geiranum þvingi almenna vinnumarkaðinn til að semja um hliðstæð lágmarkslaun þar, jafnvel þótt það minnki prósentuhækkun þeirra launþega, sem Alþýðusambandið er í raun að semja fyrir.

Samt sem áður mun það ekki leysa vandamál undirstéttarinnar í landinu. Það er sérhæft vandamál, sem ekki fellur vel að möguleikunum, sem kjarasamningar bjóða. Og það mun einmitt koma í ljós í láglaunakönnun Kjararannsóknanefndar.

Undirstéttin í landinu er mjög fámenn, ef til vill um tíundi hluti þjóðarinnar. Langsamlega mestur hluti hennar eru sumar fjölskyldur einstæðra foreldra og sumar barnmargar fjölskyldur. Einnig er dálítið af öldruðu fólki og örkumla.

Ef láglaunamarki fylgir hliðstæð hækkun ellilífeyris og örorkubóta, er líklegt, að mestur hluti vandans, sem eftir er, sé hjá fjölskyldum einstæðra foreldra og barnmörgum fjölskyldum. Og sá vandi verður seint leystur með láglaunamarki.

Einstæð móðir, sem aðeins getur unnið hálfa vinnu utan heimilis, mun áfram búa við sult og seyru. Og hið sama má segja um barnmargar fjölskyldur, þar sem aðeins annað foreldrið getur unnið fulla vinnu, en hitt aðeins hálfa.

12.420 króna lágmarkslaun geta hugsanlega nægt einstaklingi. Barnlaus hjón, sem bæði vinna úti, geta enn frekar lifað af 24.840 krónum, því að ódýrara er fyrir tvo að lifa saman á heimili en fyrir einn. Það eru börnin, sem breyta myndinni.

Einstæð móðir getur ekki lifað af meðlagi og 6.210 króna launum fyrir hálfan vinnudag utan heimilis. Og fjögurra barna fjölskylda getur ekki lifað af 18.630 króna launum fyrir hálfan annan vinnudag utan heimilis.

Staðreyndin er, að það er dýrara að skilja og dýrara að eiga mörg börn en atvinnulífið getur staðið undir í öllum tilvikum. Það er vandamál, sem verður að leysa með millifærslu hins opinbera, með barnabótum til undirstéttarinnar.

Sí og æ er verið að benda á, að rétta leiðin er að breyta niðurgreiðslum búvöru í fjölskyldubætur, barnabætur eða afkomutryggingu. Það er einföld leið til að hindra sult og seyru hinna fáu, á kostnað hinna mörgu, sem sæmilega hafa til hnífs og skeiðar.

Jónas Kristjánsson

DV

Þegar ísinn varð ódýr.

Greinar

Þegar sjálfstæð ísgerð utan kerfis tók til starfa á sínum tíma, hætti ísinn frá Mjólkursamsölunni að hækka í takt við aðrar mjólkurvörur. Á nokkrum árum breyttist mjólkurís úr dýrri einokunarvöru í ódýra samkeppnisvöru.

Ekki er vitað, hvort mjólkurísinn var seldur of dýrt á sínum tíma eða er seldur of ódýrt um þessar mundir. Athugun á bókhaldi samsölunnar hefur sýnt, að ekki er unnt að greina skiptingu kostnaðar milli einstakra afurða.

Enginn veit, hvort kostnaður við bíla, sem flytja mjólkurvörur til smásölunnar, skiptist í réttum hlutföllum á vörurnar. Enginn veit, hvort ísinn er fluttur á kostnað mjólkurinnar, sem síðan er verðreiknuð á neytendur.

Vélakostur samsölunnar er bæði notaður til að pakka mjólk og ávaxtasafa. Engin leið er að átta sig á, hvort fjármagnskostnaðurinn hefur lent í eðlilegum hlutföllum á safa og mjólk, sem er verðreiknuð á neytendur.

Um ávaxtasafann gildir svo hið sama og um ísinn. Hann er fluttur með sömu bílum og mjólkin, án þess að bókhaldslega séu nein mörk dregin milli kostnaðar af hverri afurð fyrir sig. Slíkt er þó gert annars staðar á Norðurlöndum.

Í reikningum samsölunnar er fjármagnskostnaður, sem meðal annars hefur verið notaður til að kaupa stórvirkar vélar til brauðgerðar. Enginn veit, í hvaða mæli þessi kostnaður hefur lent í verðreikningi á mjólk til neytenda.

Um brauðið gildir líka hið sama og um ísinn og safann. Það er flutt í verslanir með samgöngutækjum fyrirtækisins, án þess að nokkur viti, hver sé eðlileg hlutdeild brauðsins í flutningskostnaði frekar en öðrum tilkostnaði.

Ástæðulítið er að gera því skóna, að samsalan misnoti þessa sérstöðu á vísvitandi hátt. En dæmið um ísinn sýnir, að við skort á bókhaldslegum upplýsingum er freistandi að hafa lágt verð á hliðarafurðum á samkeppnismarkaði.

Sá markaður ákveður, hvaða verð samsalan getur sett á ís, ávaxtasafa og brauð. Sé þetta verð undir tilkostnaði, fer mismunurinn í verðreikning á mjólkinni, sem síðan er seld neytendum á útreiknuðu einokunarverði.

Skoðun á bókhaldi samsölunnar og nokkurra annarra mjólkurbúa bendir einmitt til, að kostnaður við vinnslu mjólkur sé tiltölulega hátt metinn í samanburði við rjóma og smjör, hugsanlega af hreinu athugunarleysi.

Þessi sama athugun hefur einnig leitt í ljós, að kostnaður við mjólkuriðnað hefur aukist meira en almennt verðlag í landinu síðan 1975 og að starfsfólki hefur fjölgað þar þrátt fyrir minnkað framleiðslumagn.

Dæmið af samsölunni sýnir vel, hversu sjúklegt er að búa við einokun á afmörkuðum sviðum. Verð á einokunarvörum hneigist til hækkunar, meðal annars til að halda uppi samkeppni á öðrum sviðum, án tilheyrandi framleiðni.

Mjólkursamsalan er nú í skjóli einokunar að reisa eina stærstu höll landsins. stofnkostnaður báknsins verður reiknaður inn í mjólkurverðið, því að samsalan þarf áfram að hafa brauðið, safann og ísinn á samkeppnishæfu verði.

Engin leið er að komast að hinu rétta í kostnaðar- og markaðsverði einokunarafurða, nema veitt sé verslunarfrelsi, þar á meðal í sölu milli landshluta og milli landa. Á þann hátt einan fæst aðhaldið sem nú skortir.

Þannig verða vörur ódýrar eins og ísinn.

Jónas Kristjánsson.

DV

Þúsund glötuð störf.

Greinar

Um áramótin voru 1.868 konur og 1.490 karlar atvinnulaus hér á landi. Samtals eru þetta 3.358 manns eða um 3% af öllum mannaflanum. Þetta eru mun hærri tölur en sézt hafa í mörg undanfarin ár og fela í sér aðvörun.

Í samanburði við útlönd er 3% ekki há tala. En hún er ekki í okkar stíl. Hún er ekki í samræmi við stefnu fullrar atvinnu, sem hefur verið einn af hornsteinum stjórnmálaflokka og ríkisstjórna á Íslandi um langt skeið.

Hlutfall, sem var 2% í fyrra og er 3% um þessar mundir, getur verið komið upp í 4% eftir ár. Senn getur liðið að því, að hér myndist stétt, jafnvel ættgeng stétt atvinnuleysingja, utangátta í þjóðfélaginu og án umtalsverðrar vinnuvonar.

Slíkt ástand þurfum við umfram allt að forðast. Við sjáum í öðrum löndum, hvílík breiðfylking félagslegra vandamála fylgir kerfislægu atvinnuleysi, einkum hjá ungu fólki, sem aldrei hefur haft vinnu og hefur enga von um hana.

Upp að vissu marki eru tölur um atvinnuleysi marklitlar. Á móti þeim vega mörg laus störf, sem ekki er hægt að fylla, einkum í nútímalegum atvinnugreinum, þar sem sérþekkingar er krafizt. Atvinnuauglýsingar blaðanna sýna þetta.

Misræmið er eðlileg afleiðing sífelldra breytinga á atvinnuháttum landsmanna. Aðlögunin tekur alltaf tíma. Þess vegna er fólk atvinnulaust á einu sviði á sama tíma og starfskrafta vantar á öðrum sviðum.

Aukna atvinnuleysið hér á landi stafar nær eingöngu af minnkun fiskistofna og tilheyrandi aflabresti. Sennilega hafa um þúsund störf glatast af þessari ástæðu og kemur það afar þungt niður á mörgum sjávarplássum.

Nú er verið að reyna að skipuleggja sjávarútveginn að nýju. En kvótakerfi eða eitthvert annað kerfi breytir ekki aflabrestinum. Hann er staðreynd, sem mun fylgja okkur næstu árin, því að langan tíma tekur að vinna stofnana upp að nýju.

Þjóðfélagið þarf því að finna um þúsund ný og arðbær störf í stað þeirra, sem glatazt hafa í sjávarútvegi. Og þetta er hrein viðbót við þau tvö þúsund störf, sem finnast þurfa á ári hverju til að mæta aukningu mannafla.

Það gerist ekki í landbúnaði. Verulegur hluti hans, kinda- og kúabúskapurinn, er ekkert annað en dulbúið atvinnuleysi, sem ríkið rekur með margfalt meiri tilkostnaði en það mundi hafa af tilsvarandi atvinnuleysisbótum.

Aukningin þarf að vera í iðnaði og margvíslegri þjónustu, sem óhjákvæmilega fylgir iðnþróun. Þar er von okkar um, að full atvinna verði í framtíðinni eins og hún var til skamms tíma. Þar er nýgræðingurinn, sem þjóðin þarf að hlúa að.

Gengislækkunin í fyrrasumar og endurteknar kjaraskerðingar valda bættri samkeppnisaðstöðu íslenzks iðnaðar á innlendum og erlendum vettvangi og auknu bolmagni hans til að fjárfesta í nýjum atvinnutækifærum.

Ef fyrirtæki hagnast, hvort sem það stafar af kjaraskerðingu eða öðru, getur það aukið fjárfestingu sína í vélum, tækjum og öðrum búnaði, sem skapar nýja atvinnu. Þetta er jákvæða hliðin á annars neikvæðri kjaraskerðingu.

Við verðum að vona, að það, sem þegar hefur harkalega verið gert, dugi til að tryggja að fullu nýja atvinnu og bægja frá okkur vandamálum atvinnuleysis, sem við sjáum við sjóndeildarhringinn. Þá munu lífskjörin smám saman batna af sjálfu sér á nýjan leik.

Jónas Kristjánsson.

DV

Sveitarfélögin svikust um.

Greinar

Sveitarfélögin í landinu, með Reykjavík í broddi fylkingar, hafa ekki lagt sitt af mörkum í baráttunni við verðbólguna. Sérstaklega hafa þau svikizt um að svíða fjárhagsáætlanir sínar til að halda niðri skattbyrði ársins.

Munurinn á framgöngu ríkisins annars vegar og sveitarfélaganna hins vegar kemur vel fram í þeim hundraðshluta skatta, sem mönnum er ætlað að reiða fram í svonefnda fyrirframgreiðslu opinberra gjalda á fyrri hluta ársins.

Niðurstöðutölum fjárlaga ríkisins hefur verið haldið svo mikið niðri, að ríkinu hefði nægt 57% fyrirframgreiðsla. Sveitarfélögin þurfa hins vegar 68% í sína hít, svo að millileiðin upp á 63% varð fyrir valinu.

Í meðförum fjárlagafrumvarpsins var áætluð tekjuhækkun manna milli ára lækkuð úr 20% í 16%, sem er mun nær réttu lagi. Þjóðhagsstofnun gerir einmitt ráð fyrir, að atvinnutekjur og ráðstöfunartekjur hækki um 16% milli ára.

Í þessum tölum er gert ráð fyrir ótryggu launaskriði. Stofnunin gerir ekki ráð fyrir, að kauptaxtar hækki nema um 13% milli ára. Margir munu ekki geta reiknað með neinu launaskriði ofan á þá prósentutölu.

Hér er rétt að minna á, að þessi hækkun kauptaxta milli ára er að mestu leyti þegar komin fram. Þjóðhagsstofnun reiknar aðeins með 4% hækkun yfir árið í heild.

Af þessu má ljóst vera, að þeir, sem ekki njóta launaskriðs að ráði eða tilfærslu skattbyrðar frá láglaunafólki til hálaunafólks, munu bera nokkru þyngri skatta til ríkisins á þessu ári en á hinu síðasta.

Munurinn er þó svo lítill, að ekki er hægt að neita því, að ríkisstjórnin hefur með fjárlögum sínum gert markvissa tilraun til að hlífa hart leiknu láglaunafólki við aukinni skattbyrði ofan á aðrar kárínur vetrarins.

Grimmdin í niðurskurði ríkisútgjalda átti sér enga hliðstæðu í fjárhagsáætlunum sveitarfélaga. Sveitarstjórnarmenn veinuðu um slæma afkomu sveitarsjóða, en höfðu færri orð um slæma afkomu heimila útsvarsgreiðenda.

Ef útsvarsbyrði hefði átt að verða óbreytt milli ára, hefði álagningarprósentan orðið að lækka úr 11,9% í 9,5% eða úr 11% í 9%, svo að algeng dæmi séu nefnd. Mjög fá sveitarfélög lækkuðu sig og ekkert í þessum mæli.

Í Reykjavík verður útsvarsprósentan í ár 11% og í flestum öðrum sveitarfélögum Reykjavíkursvæðisins verður hún 10,5%. Yfirleitt eru þetta sömu tölur og í fyrra og jafngilda verulega þyngdri útsvarsbyrði á þessu ári.

Þessi skortur á aðhaldi og sparsemi í eigin rekstri er sveitarfélögum landsins til skammar. Þeim ætti ekki að vera vandara um en öðrum aðilum þjóðfélagsins að skera svo niður útgjöldin, að undan svíði.

Sem skýring á nöturlegri forystu Reykjavíkur í of harðri skattheimtu á erfiðum tímum hefur verið nefnt, að borgin axli þungar fjárhagsbyrðar af Grafarvogslóðum, sem ekki hafa gengið út. Slík mistök eru náttúrlega ekki til bóta.

Sveitarfélögum ber ekki skylda til að fylgja ríkisstjórnarstefnu á hverjum tíma. En þau verða auðvitað að sæta því, að almenningur telji þau ekki hafa staðið sig sem skyldi, þegar allir aðrir hertu sultarólarnar.

Jónas Kristjánsson.

DV

Raunvextir eða frjálsir.

Greinar

Í fyrsta skipti um langan aldur eru vextir almennt orðnir jákvæðir og fjárskuldbindingar verðtryggðar. Þetta stafar af, að tekizt hefur á ótrúlega skömmum tíma að ná verðbólguhraðanum úr rúmlega 100% niður fyrir 20%.

Vextir af óverðtryggðum lánum hafa um leið verið lækkaðir á skipulegan hátt. En sú breyting hefur orðið tiltölulega hægari. Og nú er svo komið, að útsölulán til forréttindagreina eru að mestu úr sögunni að sinni.

Ekki er tryggt, að þetta ástand sé varanlegt. Ef verðbólga vex aftur, er líklegt, að upp hefjist að nýju raddir um, að atvinnulífið þoli ekki fjármagnskostnað, sem er í takt við verðbólguna, og að vexti beri að niðurgreiða á nýjan leik.

Hugmyndin um, að vextir eigi að vera jákvæðir og fjárskuldbindingar verðtryggðar, byggist ekki nema að litlu leyti á tillitssemi við sparifjáreigendur. Þeir eru út af fyrir sig ekki of góðir til að bera byrðar á við aðra.

Það, sem máli skiptir, er, að jafnvægi sé í framboði og eftirspurn lánsfjár. Til þess að svo verði, þarf að fá fólk til að leggja peninga fyrir í stað þess að nota þá til eigin þarfa. Og slíkt hefur fólk ekki gert á undanförnum árum.

Ekki er til nein töfratala raunvaxta, sem markar þetta jafnvægi. Fjárfestingarlánasjóðirnir bjóða um þessar mundir 4,2% raunvexti af fé, sem þeir fá að láni. Samt er enn sár skortur á fjárstreymi til allra þessara sjóða.

Einn bankastjórinn sagði nýlega, að 4,2% raunvextir væru of lágir. Þeir megnuðu ekki að breyta eyðslu í sparnað. Enda vitum við, að víða í útlöndum eru raunvextir tvöfalt hærri eða á bilinu frá 8% til 10%.

En raunvextir geta líka orðið of háir. Í öðrum löndum hafa þeir í sumum tilvikum dregið úr getu fyrirtækja til að færa út kvíarnar fyrir lánsfé og búa þannig til atvinnu. Þar hefur afleiðingin verið þrálátt atvinnuleysi.

Hins vegar er ljóst, að hér á landi er enn langt í, að eftirspurn eftir lánsfé komist niður í jafnvægi við framboð á lánsfé. Þess vegna er ekki fráleitt hjá bankastjóranum, að raunvextir þurfi enn að hækka nokkuð.

Samt er hugsanlegt, að hækkaðir raunvextir geti dregið svipaðan dilk á eftir sér og gerzt hefur í útlöndum. Mikill fjöldi húsbyggjenda mun til dæmis ekki geta greitt meira en núverandi 2,5% raunvexti af húsnæðislánum.

Í rauninni má segja, að 2,5% raunvextir af húsnæðislánum, 0,5% raunvextir af lánum til verkamannabústaða og hliðstæð vildarkjör á ýmsum lánum til atvinnuvega feli í sér bara eina niðurgreiðsluna af mörgum.

Ef til vill stafar tregða sparifjáreigenda gagnvart 4,2% gylliboðum af rótgróinni og eðlilegri ótrú á, að stefna raunvaxta og verðtryggingar sé varanleg. Ef til vill kemur smám saman í ljós, að þessi 4,2% verði nógu freistandi.

Hitt er svo merkilegt, að menn skuli þurfa að vera að velta vöngum yfir, hverjir vextir og verðtrygging eigi að vera. Miklu nær væri að spyrja markaðinn álits. Það er að segja, að hafa vextina hreinlega frjálsa.

Á þann hátt eru mestar líkur á, að sparifjáreigendur leggi fram það fjármagn, sem lántakendur telja sig þurfa til að framkvæma og reka arðbær fyrirtæki í nægilega miklum mæli til að full atvinna sé í landinu.

Jónas Kristjánsson.

DV

Ánægjuleg úrsögn.

Greinar

Flestum ríkjum þriðja heimsins ráða harðstjórar, sem kúga almenning af mun meiri harðneskju en nýlenduveldin gerðu á sínum tíma. Þeir beita her og lögreglu til að þverbrjóta hvert einasta mannréttindaákvæði Sameinuðu þjóðanna.

Glæpamennirnir, sem stjórna meirihluta ríkja heims, vilja ekki sæta því, að vestrænir fjölmiðlar skýri frá framferði þeirra, allt frá morðum og misþyrmingum yfir í stuld á þróunarfé til innlagnar í svissneska banka.

Í stað mannréttinda tala þeir um þjóðréttindi. Þeir segja, að þjóðir þeirra sæti enn óbeinni nýlendukúgun, þar á meðal skoðanakúgun hinna öflugu fjölmiðla á Vesturlöndum, sem velti sér upp úr ótíðindum frá þriðja heiminum.

Hugmyndafræðingar harðstjóranna hafa náð sérstaklega miklum árangri í Unesco, menntastofnun Sameinuðu þjóðanna. Þar í stofnun skilja menn ekki, að hin svonefndu þjóðréttindi eru í raun kúgunarréttindi harðstjóranna.

Undir stjórn M’Bow, forstjóra Unesco, hefur verið hrúgað upp vanhæfu starfsliði, sem rekur and-vestræna hugmyndabaráttu í þágu glæpamannanna, er ráða flestum ríkjum þriðja heimsins. Engin stofnun Sameinuðu þjóðanna er verr rekin.

Ferðinni ræður bandalag sovézkra leppríkja, arabaríkja og harðstjórnarríkja þriðja heimsins. Sem dæmi um ofstopann má nefna, að Unesco styrkir ekki fornleifagröft í Ísrael, þótt þar sé eftir meiru að slægjast en víðast hvar.

Fulltrúar vestrænna menntamálaráðuneyta hafa staðið sig illa í Unesco. Þeir eiga erfitt með að skilja, að hinir sléttgreiddu þriðjaheimsmenn í stofnuninni eru að gæta hagsmuna harðstjóra, en ekki kúgaðrar alþýðu.

Sem dæmi um þetta skilningsleysi má nefna fulltrúa Íslands, sem nýlega var verðlaunaður með stjórnarsæti í þessari furðulegu stofnun. Andri Ísaksson sagði í blaðaviðtali, að úrsögn Bandaríkjanna hefði komið sér á óvart!

Öðrum kemur þessi úrsögn ekki á óvart. Menn hafa verið meira hissa á langlundargeði Bandaríkjamanna sem hafa greitt fjórðung kostnaðarins við skipulegar árásir Unesco á helztu hugsjónir vestræns þjóðskipulags.

Í leiðurum þessa blaðs hefur nokkrum sinnum verið lagt til, að Ísland segi sig úr hinni ömurlegu stofnun. Fráleitt er, að lýðræðisþjóð eins og við sé að styðja stofnun, sem traðkar á mannréttindahugsjón Sameinuðu þjóðanna.

Þetta hefur ekki náð fram að ganga, enda eru í húfi ferðahagsmunir íslenzkra embættismanna. Og úrsögn Íslands hefði litla athygli vakið í samanburði við hin gleðilegu stórtíðindi, að Bandaríkin séu nú að kveðja Unesco.

Vonandi feta Bretar í kjölfar Bandaríkjamanna og síðan fleiri þeirra 25-30 þjóða, sem búa við mannréttindi í samræmi við sáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þá væri von á, að fljótlega færu að kólna stjórnarstólar íslenzkra fulltrúa.

Við þyrftum ekki frekar en Bandaríkjamenn að draga úr fjárstuðningi við góð mál, sem eru á starfssviði Unesco. Við getum afhent þessa peninga beint og milliliðalaust, án þess að brenna þá upp í skriffinnskunni.

Íslendingar eiga að vísa til mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna og ganga úr Unesco, sem er hin krumpaðasta af stofnunum Sameinuðu þjóðanna. Síðan getum við kannað, hvort ástæða sé til að kveðja fleiri harðstjóraklúbba af því tagi.

Jónas Kristjánsson.

DV

Fastir í forneskjunni.

Greinar

Þessa dagana er Björn Einarsson raftæknifræðingur að flytjast til Danmerkur. Ástæðan er sú, að danska tæknistofnunin og danskt fyrirtæki hafa áhuga á að nýta uppfinningar hans á sviði rafkerfa og koma þeim á alþjóðlegan markað.

Fyrir hálfu öðru ári fluttist Jóhannes Pálsson uppfinningamaður til Danmerkur. Ástæðan var sú, að danska tæknistofnunin og ýmis fyrirtæki höfðu áhuga á að nýta uppfinningar hans á borð við rafgeymaklemmur og lyfjaglasalok.

Næst má búast við, að erlendir aðilar taki upp á sína arma fiskimjölsþurrkara Hauks Baldurssonar vélaverkfræðings. Þessir þurrkarar nota gufuna frá hráefninu til hitunar og spara orku í mæli, sem nemur tugum prósenta.

Um áramótin er okkur umhugsunarefni, hve erfitt er að virkja hugkvæmni manna hér innanlands til eflingar margvíslegum nýiðnaði. Uppfinningamenn verða að hrekjast úr landi til að finna peninga til að framkvæma hugmyndirnar.

Sums staðar í útlöndum er þessu á annan veg farið. Í Danmörku hafa menn til dæmis lengi vanizt að þurfa að halda uppi nútímaþjóðfélagi án þess að hafa auðlindir á borð við málma, kol og olíu. Þeir nota heilabúið í staðinn.

Hvergi er nýting uppfinninga þó öflugri en í Bandaríkjunum. Þar starfa um 600 fyrirtæki að því að sóa fjármunum í áhættusamar hugmyndir. Þessi fyrirtæki fara jafnvel á mannaveiðar í háskólum til að finna uppfinningamenn.

Þar í landi gerast enn draumarnir um blaðsöludrenginn, sem varð að milljónamæringi. Ekki eru ýkja mörg ár síðan upphafsmenn Apple tölvunnar voru í bílskúr að dunda við að koma saman fyrsta eintakinu af hinni mögnuðu söluvöru.

Skynsamir braskarar í bandarískum áhættuiðnaði reikna með að tapa peningum á fjórum verkefnum af hverjum tíu og halda jöfnu í fimm þeirra. Í einu tilviki af tíu vænta þeir ofsagróðans, sem knýr allt þetta uppfinningastarf.

Sem dæmi um áhættuna, sem tekin er í Bandaríkjunum, má nefna, að tölvuverkfræðingurinn Gene Amdahl hefur samtals fengið sem svarar fimm milljörðum íslenzkra króna til að framleiða nýja tölvu, sem ætlað er að skáka IBM.

Í Evrópu eru menn að byrja að reyna að líkja eftir Bandaríkjamönnum, þótt hefðir frumkvæðis og brasks séu þar ekki eins öflugar. Í Svíþjóð eru til dæmis komnir til skjalanna tólf áhættusjóðir, flestir stofnaðir í fyrra.

Hvort sem þetta brask í nýjungum og uppfinningum er á vegum einstaklinga, fyrirtækja, sjóða eða opinberra stofnana, þá er hugsunin sú, að framtíðin felist í nýjum hlutum, en ekki í því gamla, sem of margir vasast í.

Auðvelt er að sjá, að grónar auðframleiðslugreinar á borð við smíði bíla, heimilistækja og véla eru að verða til vandræða. Og langt er síðan framleiðsla kola og smíði stáls og skipa varð að ómaga í mörgum löndum heims.

Við höfum í að minnsta kosti fimm ár sóað fjárfestingu og erlendu lánsfé í þegar ofvaxinn fiskiskipaflota. Og áratugum saman höfum við sóað forgangsfé í hringavitlausa framleiðsluaukningu á kindakjöti og mjólkurvörum.

Vegna forgangs úreltra verkefna að fjárfestingu hér á landi er ekkert aflögu til annarra og merkari hluta, svo sem að koma upp nýjungum, nýiðnaði, – gera uppfinningar að alþjóðlegri markaðsvöru. Við horfum aftur á bak, en ekki fram á við.

Jónas Kristjánsson.

DV

Vestræn ábyrgð á morðæði.

Greinar

Átakanlegasti álitshnekkir hins vestræna heims stafar af stuðningi stjórnar Bandaríkjanna við hægri sinnuð öfgaöfl í Rómönsku Ameríku, einkum Mið-Ameríku. Hörmungarnar í El Salvador eru skýrasta dæmið um þetta.

Þar í landi hafa dauðasveitir hersins myrt upp undir 40.000 óbreytta borgara á síðustu fjórum árum. Sum morðin hafa verið tilviljanakennd, en önnur beinzt að hverjum þeim, sem hefur viljað styðja lítilmagnann.

Í bandaríska læknaritinu New England Journal of Medicine hefur rækilega verið skýrt frá, hvernig dauðasveitirnar hafa reynt að útrýma læknum, hjúkrunarkonum og sjúkraliðum, sem hafa stundað fátæka fólkið í landinu.

Að baki dauðasveitanna er yfirstétt hinna gömlu og ofsaríku landeigenda, sem eru að reyna að hindra, að jarðnæði verði að hluta skipt meðal leiguliða. Þeir eru að reyna að stöðva þróun, sem hófst í valdatíð kristilegra demókrata.

Vinstri menn þorðu ekki að taka þátt í síðustu kosningum í El Salvador af ótta við æði morðsveitanna. Þá misstu kristilegir meirihluta sinn í hendur róttækra hægri flokka á borð við þann, sem vitfirringurinn d’Aubuisson stýrir.

Þá var búið að skipta 20% jarðnæðis landsins milli fátækra bænda. Eftir kosningar hafa verið sett lög, sem stöðva þessa þróun, þannig að ríkir landeigendur haldi eftir að minnsta kosti þremur fjórðu alls lands.

Bandaríkjastjórn veit vel, að fyrri umbætur í landbúnaði voru forsenda þess, að unnt væri að rækta í landinu miðjustefnu, sem væri laus við öfgarnar til hægri og vinstri. Þetta hefur mistekizt síðan Reagan varð forseti.

Hernaður stjórnar El Salvador gegn skæruliðum, kostaður af Bandaríkjastjórn, gengur verr með hverjum mánuði. Enda er blóðferill hersins slíkur, að hann er hataður af allri alþýðu manna. Reglan er, að herinn þorir ekki í skæruliðana og myrðir þorpsbúa í staðinn.

Upp á síðkastið er Bandaríkjastjórn farin að átta sig á, að ekki er einhlít sú stefna Reagans forseta og Kirkpatricks sendiherra að styðja alla þá, sem segjast vera á móti kommúnistum, hversu ógeðslegir sem þessir skjólstæðingar eru.

Sendimenn Bandaríkjastjórnar, þar á meðal Bush varaforseti, hafa flutt stjórnvöldum í El Salvador lista yfir verstu morðvargana í hernum. Farið hefur verið fram á, að þeir verði settir af og gerðir útlægir. En án árangurs.

Hinn síðbúni partaskilningur Bandaríkjastjórnar hefur minni áhrif en ella fyrir þá sök, að margvísleg öfgaöfl í Bandaríkjunum styðja hinar blóðugu ofsóknir yfirstéttarinnar í El Salvador gegn langsoltinni alþýðu landsins.

Bandarísku öfgaöflin styðja fyrirbæri á borð við d’Aubuisson með peningum, ráðum og dáð. Í þeim hópi eru Council on lnter-American Security, American Security Council og National Strategic lnformation Center.

Öfgaöflin í Bandaríkjunum og El Salvador eru sammála um, að útrýma þurfi kommúnistum. Þar með taldir eru kristilegir demókratar, sem hingað til hafa verið álitnir fremur hægri sinnaðir. Þeir hafa kerfisbundið verið myrtir.

Með sama áframhaldi hverfur hin lýðræðislega miðja í El Salvador og Bandaríkjastjórn fær þá niðurstöðu. sem hún óttast. Róttækir vinstri menn eflast og steypa í byltingu morðsveitum róttækra hægrisinna.

Jónas Kristjánsson.

DV

Sukksöm fjárlög.

Greinar

Ekki er von, að Alþingi hafi efni á að verja fé til byggingar leikskóla, þegar það telur sig þurfa að hækka blaðastyrki á næsta ári um 85%. Það er meira en tvöföld meðaltalshækkun annarra liða á fjárlögum þess árs.

Þær þrettán milljónir króna, sem verja á til stuðnings pólitískum sorpritum, er almenningur vill ekki kaupa, renna auðvitað ekki til annarra þarfa, þar á meðal leikskóla. Alþingi hefur ákveðið sitt verðmætamat.

Ekki er von, að Alþingi hafi efni á að verja fé til margvíslegra framfaramála, þegar það telur sig þurfa að verja 280 milljónum króna í útflutningsuppbætur, svo að unnt sé að gefa útlendingum íslenzkt kjöt á flutningskostnaðarverði.

Verðmætamat Alþingis felst meðal annars í að hækka á síðustu stund framlög til jarðræktar, svo að neytendur og skattgreiðendur megi í framtíðinni þola byrðar af enn aukinni offramleiðslu á rándýrum landbúnaðarafurðum.

Ekki er von, að Alþingi hafi efni á að blása lífi í framtíðaratvinnu þjóðarinnar í iðnaði og tækni, þegar það telur sig þurfa að verja 8,4% alls fjárlagadæmisins til að halda uppi dulbúnu atvinnuleysi í hinum hefðbundnu búgreinum.

Aðeins í beinum styrkjum, uppbótum og niðurgreiðslum á hvatning Alþingis til aukinnar offramleiðslu á kjöti og mjólkurvörum að nema 1.500 milljónum króna á næsta ári. Þessi hálfi annar milljarður felur í sér einkennilegt verðmætamat.

Ekki er von, að Alþingi hafi efni á að nota fjölskyldubætur til að leysa hnútinn á vinnumarkaðnum, þar sem finna þarf leiðir til að bæta kjör hinna verst settu, en finnast ekki, af því að samtök launafólks gæta hinna betur settu.

Margsinnis hefur verið bent á, að lykillinn að félagslegum sáttum í þjóðfélaginu að þessu sinni sé fólginn í að breyta niðurgreiðslum í fjölskyldubætur, sem koma hinum lakast settu mun betur að gagni en niðurgreiðslurnar.

Þessi fáu dæmi sýna, að það er út í hött, þegar þingmenn éta hver upp eftir öðrum, að fjárlögin nýju fyrir næsta ár séu fjárlög aðhalds og sparnaðar. Í rauninni eru þau eins og fyrri slík. Þau eru fjárlög sukks og svínarís.

Í rauninni mætti breyta nafni fjárlaganna í fjár- og nautgripalög, því að sauðfé og nautgripir eru ær og kýr þeirra. Fyrirferðin á þessum húsdýrum í fjárlögum íslenzka ríkisins er fyrir löngu komin út fyrir allan þjófabálk.

Afleiðingin af sukki fjárlaga ársins 1984 verður hin sama og við höfum áður orðið að þola. Ríkið verður að prenta verðlausa peningaseðla og taka lán í útlöndum til að borga fyrir óráðsíu, sem þjóðin hefur alls engin efni á.

Alþingi og ríkisstjórn loka augunum fyrir því, að prentun verðlausra seðla og lán í útlöndum auka verðbólguna. Eftir afgreiðslu fjárlaga má búast við, að hjöðnun verðbólgunnar stöðvist á ofanverðum vetri og nýtt ris taki við.

Þegar eru komin í ljós merki þess, að hvatning síðustu gengislækkunar á innlenda framleiðslu sé að fjara út. Skaðlegt er að bíða of lengi með lagfæringu í formi nýrrar gengislækkunar, sem auðvitað styður verðbólguna.

Ofan á allt sukkið í nýju fjárlögunum er haldið utan þeirra greiðslum á borð við vexti af 1200 milljón króna skuld ríkisins við Seðlabankann og svo gæluverkefnunum, sem sett verða í lánsfjárlög eftir áramótin í samræmi við brenglað verðmætamat Alþingis.

Jónas Kristjánsson.

DV

Kvótar í þrjá mánuði.

Greinar

Alþingi hefði átt að veita sjávarútvegsráðherra leyfi til kvótaskiptingar alls fiskafla aðeins til næstu þriggja mánaða. Alþingi hefði líka átt að setja ákveðin skilyrði til að hefta alræðisvald eins manns.

Dapurlegt var að sjá Alþingi afgreiða þetta mál á handahlaupum í tímahraki, einmitt þegar fjárlög og mál þeim skyld eiga að njóta þar óskiptrar athygli. Kvótaskipting alls fiskafla er ekki mál, sem má samþykkja í fáti.

Með því að leyfa kvóta í þrjá mánuði í stað eins árs hefði Alþingi unnið sér tíma til að fjalla í alvöru um málið eftir jólahlé. Þá hefði verið unnt að brjóta þetta flókna mál til mergjar á skynsamlegan og frambærilegan hátt.

Þriggja mánaða kvótar hefðu annars vegar verið miðaðir við hina nýju áætlun um ársveiðina úr helztu fiskistofnunum og hins vegar reynslu síðustu þriggja ára af hlutdeild fyrstu þriggja mánaða ársins í heildaraflanum.

Til viðbótar hefði Alþingi getað ákveðið sjálft, að kvótar röðuðust á skip í hlutfalli við afla þeirra á síðustu þremur árum, svo sem lagt hefur verið til, í stað þess að selja sjávarútvegsráðherra sjálfdæmi.

Um leið hefði Alþingi getað tekið fram í lögunum, að þessi þriggja mánaða kvótaskipting gæfi ekkert fordæmi um, að framvegis yrðu auðlindir hafsins gefnar útgerðum fiskiskipa í hlutfalli við afla skipa þeirra á undanförnum árum.

Í sérstakri grein laganna hefði mátt taka fram, að Alþingi áskildi sér rétt til að fara á allt annan hátt með auðlindirnar að loknu hinu þriggja mánaða umþóttunarskeiði með ofangreindu bráðabirgðafyrirkomulagi.

Ennfremur hefði Alþingi getað falið sjávarútvegsráðherra að leggja eftir áramótin fram þingsályktunartillögu um frekara framhald málsins hina níu mánuði, sem eftir yrðu ársins. Um þá tillögu hefði mátt ræða á þingi fram í marz.

Með slíkum hægari vinnubrögðum hefði Alþingi í senn tryggt skjóta afgreiðslu brýnasta þáttar málsins og ekki afsalað sér rétti til ítarlegrar umfjöllunar og endanlegrar ákvörðunar innan ramma þingræðisins.

Það væri svo verðugt verkefni Alþingis að taka málið upp að nýju, þegar það kemur saman í lok janúar, og gefa sér tíma fram í marz til að finna lausn, sem hlífir þorskinum og tryggir um leið hagkvæmasta sókn í hann.

Kvótar koma að takmörkuðu gagni, ef þeir snerta ekki þann kjarna málsins, að skipin eru of mörg. Dreifing kvóta til allra skipa tryggir öllum tap, því að bandarískir neytendur fást ekki til að borga útgerðarkostnað alls flotans.

Við verðum að skilja þá staðreynd, að á næsta ári verður aðeins hægt að gera út helming eða tvo þriðju fiskiskipaflotans. Það er ekki kvótum eða öðrum reglum að kenna, heldur of litlum þorskstofni í sjónum.

Kvótana ætti að selja á uppboði, þar sem beztu útgerðarfyrirtækin með traustustu bakhjarlana mundu eiga hæstu boðin. Þar með yrðu 220 þúsund þorsktonnin veidd með minnstum tilkostnaði og mestum þjóðararði.

Alþingi ætti að hafa reisn til að sjá niður úr yfirborðinu. og taka vitrænar hugmyndir á borð við uppboð á kvótum til alvarlegrar umfjöllunar í stað þess að kasta fjöregginu í fáti til lítt öfundsverðs einræðisherra.

Jónas Kristjánsson.

DV