Author Archive

Tækninám er framtíðin.

Greinar

Skúringar og færibandavinna eru deyjandi starfsgreinar. Nýjasta iðnbyltingin felst í, að vélmenni eru látin taka að sér einföldustu störfin í atvinnulífinu. Lengst er þessi þróun komin í Japan, til dæmis í bílaiðnaðinum þar. Og senn flæðir hún yfir Vesturlönd.

Skúringar og færibandavinna eru láglaunastörf, sem eru lítils metin. Samt þykir hagkvæmara að búa til vélar til að annast þessi störf. Maðurinn er ekki lengur samkeppnishæfur í þessum starfsgreinum, þótt kaupið sé lágt og vinnan sé leiðinleg.

Tvennt er jákvæðast við þessa þróun. Í fyrsta lagi er séð fyrir endann á þeirri martröð iðnbyltingarinnar, að hún tæki mannkynið úr náttúrulegu umhverfi og hlekkjaði það við færibönd í ómannlegum verksmiðjum. Þvert á móti er iðnbyltingin nú að veita mönnum áður óþekkt frelsi.

Hitt jákvæða atriðið er, að framleiðni mun nú aukast hröðum skrefum á nýjan leik. Í evrópskum málmiðnaði er til dæmis gert ráð fyrir, að árið 1995 þurfi helmingi færra starfsfólk til að framleiða það vörumagn, sem framleitt var árið 1980. Þetta er bylting á fimmtán árum.

Ófaglærðir starfskraftar voru árið 1980 átta sinnum fleiri í málmiðnaði en þeir verða árið 1995. Og iðnaðarmenn voru fjórum sinnum fleiri árið 1980 en þeir verða árið 1995. Þær stéttir, sem voru þrír fjórðu hlutar mannaaflans árið 1980, verða aðeins einn fjórði árið 1995.

Stjórnendur munu halda tölu sinni og hækka hlutfall sitt af mannaflanum um helming vegna helmings samdráttar í mannafla fyrirtækja í málmiðnaði. Bezt mun reiða af tæknifræðingum, sem voru 6% starfsmanna í málmiðnaði árið 1980, en verða 40% árið 1995.

Samtals munu stjórnendur og tæknimenn verða 60% mannaflans í málmiðnaði árið 1995. Þetta eru stéttir framtíðarinnar, þær stéttir, sem munu hafa beztu tekjurnar og fjölbreyttustu vinnuna. Þetta eru stéttirnar, sem þjóðfélagið ætti að vera að mennta núna.

Til að mæta þessari framtíð og virkja hana í þágu velmegunar á Íslandi þurfum við að grípa til markvissra ráða í menntakerfinu. Við þurfum öldungadeildir, þar sem ófaglært fólk getur fengið iðnmenntun og iðnaðarmenn fengið tækniskólamenntun. Og jafnframt þurfum við að tryggja, að sem fæst ungmenni lendi í faglausum ógöngum.

Þetta þýðir, að okkur ber að stórefla Tækniskóla Íslands og verkfræðideild Háskóla Íslands. Í Tækniskólann fara nú um 100 manns á ári, en þyrftu að vera nærri 400 á ári. Þessar tölur sýna, hversu vanbúin við erum að mæta framtíðinni og hversu mikið verk er fyrir höndum.

Hér á landi er farið að bera á atvinnuleysi ungs fólks eins og tröllriðið hefur nágrannaþjóðunum á undanförnum árum. Fyrirsjáanlegt er, að vélmennin og önnur hagræðing munu enn stórfækka störfum í atvinnulífinu. En það verða leiðinlegustu og verst launuðu störfin.

Á sama tíma verður vaxandi skortur á tækni- og verkfræðimenntuðu fólki. Á þeim sviðum eru nægir möguleikar handa ungu fólki til starfa að fjölbreyttum, skemmtilegum og vel launuðum viðfangsefnum. Við þurfum fljótt og vel að stórauka kennsluframboð á þessum sviðum.

Ein helzta skylda skólakerfisins er að staðna ekki í gömlum tíma, heldur sjá fyrir byltingarnar, þegar þær eru að renna af stað. Og núna ætti helzta verkefni þess að vera að mennta rúmlega helming unga fólksins í stjórnun, verkfræði og tækni. Þar er framtíðin.

Jónas Kristjánsson.

DV

Einokunarhneigðin játuð.

Greinar

,Jafnframt yrði undirboðum hætt,” skrifaði ritstjóri búnaðarblaðsins Freys nýlega í lofgrein um eggjadreifingarstöð, sem reisa á fyrir fóðurbætisgjald, er neytendur hafa greitt í búvöruverði. Í tilvitnuninni felst játning á raunverulegu markmiði stöðvarinnar.

“Þá láðist eggjaframleiðendum gjörsamlega að koma skipulagi á þessa framleiðslugrein,” segir í sömu grein búnaðarblaðsins. Af hvoru tveggja má ljóst vera, að ætlunin er að koma eggjum í svipað kerfi og er í framleiðslu og dreifingu kindakjöts og mjólkurafurða.

Valdakerfi landbúnaðarins hefur mátt þola, að duglegir eggjaframleiðendur, sumir meira að segja af mölinni, hafa risið upp í landinu og komið á fót stórum búum, sem hafa síðan lækkað eggjaverðið. Þetta er fleinn í holdi hins hefðbundna landbúnaðar.

Neytendur hafa hins vegar fagnað því, að egg eru ekki eins dýr og þau voru áður, þegar kerfi hins hefðbundna landbúnaðar stjórnaði verði þeirra að mestu leyti. Samtök neytenda hafa líka mótmælt harðlega áformum einokunarsinna um eggjadreifingarstöð.

Neytendur og skattgreiðendur bera byrðarnar af “skipulagi” því, sem nú er á afurðum kinda og kúa. Skattgreiðendur borga með þessu kerfi um hálfan annan milljarð króna á þessu ári og neytendur minnst hálfan milljarð til viðbótar í verði umfram heimsmarkaðsverð.

Bændur hafa að vísu ekki orðið mjög feitir af þessu skipulagi. Hins vegar hafa risið upp hrikalegar vinnslu- og dreifingarstöðvar, sem að öllu leyti eru reiknaðar inn í verðið, sem neytendur og skattgreiðendur eru neyddir til að greiða fyrir afurðirnar.

Eitt gjaldið, sem neytendur borga í hinu útreiknaða verði, er fóðurbætisgjald, sem leggst þyngst á framleiðslu svína og alifugla. Gjaldið hefur síðan verið notað að geðþótta miðstjórnarmanna kerfisins og að engu leyti runnið til þeirra, sem hafa lækkað verð á svínakjöti og eggjum.

Framleiðsluráð landbúnaðarins hefur fyrir sitt leyti ákveðið að verja 5,3 milljónum króna af gjaldi þessu til að reisa eggjadreifingarstöð. Með henni á að refsa þeim, sem hafa lækkað og haldið niðri verði á eggjum og hygla hinum, sem ekki hafa áhuga á framleiðni.

Þvinga á ódýru framleiðendurna inn í þessa stöð. Síðan hefst sama skipulagning og í hinni hefðbundnu búvöru. Komið verður upp jöfnun flutningskostnaðar og annarri jöfnun, sem tryggir að markaðslögmálunum verði endanlega kippt úr sambandi, neytendum til stórtjóns.

Framleiðsluráð landhúnaðarins hefur vald til að gefa leyfi fyrir slíkum stöðvum. Ljóst er, að ráðið hefur ekki áhuga á að veita fleiri leyfi en þetta eina. Það þeytir upp moldviðri með lítt markvissu tali um nauðsyn á heilbrigðisaðhaldi í eggjaframleiðslu.

Auðvitað er heilbrigðiseftirlit allt annað mál en eggjadreifingarstöð. Auk þess vita neytendur, að þeir hafa stundum fengið fúla mjólk og skemmt kjöt frá hinum skipulagða landbúnaði, en að öllum jafnaði góð egg frá hinum óskipulagða hluta.

Ríkisstjórnin hefur ekki fallizt á að hleypa einokunarliðinu á fulla ferð í máli þessu, en þó heimilað, með ýmsum skilyrðum, tveggja milljón króna lán til stöðvarinnar. En mál þetta minnir á, að neytendur og skattgreiðendur þurfa að taka saman höndunum um að velta búvörukerfinu af herðum sér.

Jónas Kristjánsson.

DV

Nýr hlekkur átthagafjötra.

Greinar

Fyrir Alþingi liggur stjórnarfrumvarp um breytingu á lausaskuldum bænda í föst lán. Þar sem þetta er stjórnarfrumvarp, má reikna með, að það verði senn að lögum. Enda eru báðir stjórnarflokkarnir hlynntir því, að sem mest sé af kúm og kindum í landinu.

Þetta verður þá í fimmta sinn á tveimur áratugum, að lausaskuldum er létt af landbúnaði. Reglan er orðin sú, að á fjögurra ára fresti kemst kinda- og kúabúskapur í þrot, þrátt fyrir árlega styrki, uppbætur og niðurgreiðslur upp á hálfan annan milljarð á núverandi verðlagi.

Kaupfélagsstjórar verða kátir á fjögurra ára fresti. Þá losna þeir við reikningsskuldir bænda. Í staðinn fá kaupfélagsstjórarnir skuldabréf, sem innlánsdeildir kaupfélaganna mega senda Seðlabankanum upp í bindiskyldu eins og um reiðufé væri að ræða.

Með þessum hætti fá sumir ungir menn og bændasynir þá flugu í höfuðið, að unnt sé að hefja búskap með kýr og kindur hér norður við heimskautsbaug. Þeir byrja á lausaskuldum í kaupfélaginu og sökkva síðan í skuldabréfahaug, sem reyrir þá fasta í viðjar búskapar.

Margt fleira er gert hér á landi til að halda bændum við orfið og gabba nýja menn út í fenið. Raunar er 8,4% fjárlaga ríkisins varið til að stuðla að fjárfestingu og framleiðslu í hinum hefðbundna landbúnaði kinda og kúa. Þetta er hálfur annar milljarður í ár.

Sérstök búalög banna, að bændur selji jarðir sínar á markaðsvirði aðilum í þéttbýlinu, svo sem samtökum og fyrirtækjum, er vilja fá sumarbústaðaland. Er þar flaggað þeirri hugsjón, að ríkisbubbar úr Reykjavík skuli ekki eignast landið.

Í staðinn verða bændur að sæta því, að góðbændur í héraði meti verðmæti jarða þeirra á hálfu markaðsvirði eða fjórðungi þess og að góðbændur í héraði hafi forkaupsrétt að jörðunum á því tilbúna verði. Þetta er ein leiðin til að halda bændum við orfið.

Komið hefur verið upp flóknu og hrikalega dýru verðjöfnunarkerfi, svo að mjólk sé fremur framleidd við Lómagnúp en í Mosfellssveit. Þannig er mönnum talin trú um, að byggileg séu héruð, sem eru langt frá markaði þéttbýlisins. Þannig er þeim haldið við orfið.

Hinn hefðbundni landbúnaður kinda og kúa á ekki neitt skylt við atvinnuvegi. Hann er viðamikið kerfi, sem einkum miðar að því að vernda veltu vinnslustöðva og sölufélaga og helzt að auka hana, svo að reisa megi grautarhallir í Borgarnesi og mjólkurhallir í Árbæjarhverfi.

Einnig miðar hinn hefðbundni landbúnaður kinda og kúa að því að efla í Reykjavík gengi manna, sem hafa atvinnu af að stjórna landbúnaði í Búnaðarfélaginu, Stéttarsambandinu, Framleiðsluráðinu og öllum hinum stofnununum, er þeir hafa reist í kringum sig.

Á prenti mælir ekki þessu kerfi bót nokkur maður, sem ekki hefur beinlínis atvinnu af því að mæla því bót. Stundum eru þó dregnir á flot raunverulegir bændur til að vitna um, að þrældómur þeirra og átthagafjötrar séu undirstaða íslenzkrar menningar.

Vinir bænda eru samt þeir, sem vara þá við skuldbreytingum og búalögum og öðrum átthagafjötrum, sem falsvinir bænda hafa komið upp til að halda þeim í þrældómi vinnslustöðva, sölufélaga, kaupfélaga og fínna manna í Reykjavík.

Fyrirhuguð skuldbreyting er nýr hlekkur í þessum átthagafjötrum.

Jónas Kristjánsson.

DV

Við þurfum meiri röskun.

Greinar

Enn sem fyrr eru Íslendingar á faraldsfæti. Í fyrra fluttust rúmlega ellefu þúsund manns milli sveitarfélaga eða nærri 5% allrar þjóðarinnar. Þetta jafngildir því, að öll þjóðin skipti um sveitarfélag á tuttugu ára fresti.

Síðustu tólf árin þar á undan, það er frá 1971 til 1982, færðu sig raunar tæplega 125 þúsund manns, ekki bara milli sveitarfélaga, heldur milli landshluta. Það voru nærri 60% þjóðarinnar – á aðeins tólf ára tímabili.

Þjóðflutningar Íslendinga fela núna aðeins að litlu leyti í sér sókn fólks til þéttbýlis. Sem dæmi má nefna, að á þessum tólf árum fluttust 9.917 manns frá Vestfjörðum, en 7.687 komu þangað í staðinn. Straumurinn er ekki einhliða.

Þetta er ólíkt því, sem var á fyrri hluta aldarinnar, þegar fólk fluttist unnvörpum úr sveitinni á mölina og þjóðin í heild breyttist úr dreifbýlisþjóð í þéttbýlisþjóð. Þá grisjuðust byggðir og eyddust, svo sem Hornstrandir.

Raunar tæmdust heil kauptún, sem urðu undir í lífsbaráttunni. Fáir muna nú eftir Skálum á Langanesi, Aðalvik og Hesteyri á Vestfjörðum eða Dritvík og Djúpalónssandi á Snæfellsnesi, þar sem eitt sinn var mannlíf í blóma.

Allar aldir hafa Íslendingar verið á faraldsfæti, ekki aðeins milli bæja og dala, heldur landsendanna milli. Þetta sést af manntölum og kirkjubókum. Ein afleiðingin var, að hér mynduðust ekki mállýzkur eins og til dæmis í Noregi.

Raunar urðu Íslendingar til sem þjóð vegna röskunar. Fólk sleit sig frá heimahögum nágrannalandanna og stefndi yfir úthafið á vit hins ókunna. Það var enn öflugri kraftbirting en sú, sem felst í flutningum Íslendinga nútímans.

Í þá daga var ekki rætt um, að sálræn eða félagsleg kreppa fylgdi röskuninni, sem olli upphafi Íslandsbyggðar. Þvert á móti vitum við, að hér blómgaðist fljótlega mun öflugri menning en ríkt hafði í fyrri heimahögum fólksins.

Brezki sagnfræðingurinn Arnold Toynbee heldur því meira að segja fram, að gullöld íslenzkra miðalda hafi verið bein afleiðing hin mikla átaks, sem fólst í að rífa upp rætur sínar og halda út á úfið Atlantshafið.

Nú á tímum sálgæzlu og félagsráðgjafar finnst mörgum hins vegar, að röskun sé af hinu illa. Það er eins og þeir vilji frysta þjóðfélagið í núverandi ástandi og jafnvel færa það aftur á bak til ímyndaðra betri tíma. Meðal annars vilja þeir frysta búsetuna.

Hér á landi eru stundaðar umfangsmiklar og gífurlega kostnaðarsamar tilraunir til að hindra röskunina, sem felst í búferlaflutningum. Undir kjörorði byggðastefnu er reynt að hindra þjóðina í að halda áfram að sækja fram.

Á þessu ári veitir ríkið hálfum öðrum milljarði króna til viðhalds atvinnu við búskap með kýr og kindur. Þar á ofan er varið hundruðum milljóna af opinberu fé til ýmiss konar aðstöðujöfnunar, sem ætlað er að hindra fólk í að flytjast til betri skilyrða.

Þessi frystingarstefna hefur sligað ríkissjóð. Kostnaðurinn skiptir þó minna máli en hin almennt skaðlegu áhrif á atvinnu- og menningarsögu þjóðarinnar. Það sem þjóðin þarf, er röskun, en ekki frysting. Hún þarf að mæta framtíð, en ekki fortíð.

Þær tölur Hagstofunnar, sem hér hafa verið birtar, sýna, að Íslendingar eru óhræddir við röskun og óragir við að flytjast milli landshluta. Þessa kraftbirtingu á ekki að fjötra í viðjar jöfnunar og byggðastefnu, kúa og kinda.

Röskun er framtíð, en frysting er fortíð.

Jónas Kristjánsson.

DV

Reagan er óbærilegur.

Greinar

Háttsettur liðhlaupi úr öryggissveitum El Salvador hefur að undanförnu borið vitni fyrir bandarískri þingnefnd um morðæði dauðasveita öfgasinnaðra hægri manns í landi sínu. Vitnisburður hans staðfestir fyrri heimildir.

Dauðasveitirnar eru undir stjórn Roberto d’Aubuisson, forseta þings El Salvador og frambjóðanda til forsetaembættis landsins. D’Aubuisson er geðbilaður og fær útrás í morðæði að sögn fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna í El Salvador.

Með geðbiluninni er d’Aubuisson jafnframt mikill ræðumaður í stíl Hitlers og Mussolini. Hann hrífur með sér þá, sem eru veikir fyrir fasisma, og er talinn viss um eitt þriggja efstu sætanna í forsetakosningunum.

Ekki er nákvæmlega vitað, hversu marga d’Aubuisson hefur látið myrða, en talan 30.000 hefur verið nefnd. Nokkuð ljóst er þó, að árið 1983 voru fórnardýrin rúmlega 6.000 og spanna allt litróf stjórnmálanna nema tryllta hægri kantinn.

Frægasta morðið, sem d’Aubuisson fyrirskipaði, var á erkibiskupnum Oscar Arnulfo Romero, sem myrtur var fyrir altari dómkirkjunnar. En einkum eru myrtir kennarar og læknar og aðrir þeir, sem grunaðir eru um aðstoð við alþýðuna.

Að baki d’Aubuisson stendur landeigendavaldið, bæði það, sem heima situr, og hitt, sem hefur flutzt til Miami í Bandaríkjunum. Frá Miami eru morðin fjármögnuð fyrir milligöngu Nicolas Carranza höfuðsmanns, yfirmanns tollalögreglunnar í landinu.

Annar helzti stuðningsmaður morðsveitanna er fyrrverandi varnarmálaráðherra landsins, José Guillermo Garcia. Sá, sem sér um að koma morðingjunum undan réttvísinni er núverandi varnarmálaráðherra, Eugenio Vides Casanova.

Náfrændi Vides er höfuðsmaðurinn Oscar Edgardo Casanova, sem lét nauðga og myrða bandarískar nunnur, sem önnuðust hjálparstarf í El Salvador. Yfirmenn í hernum sjá d’Aubuisson yfirleitt fyrir óargadýrunum.

Þótt d’Aubuisson hafi gengið svo langt, að hann eigi ekki lengur upp á pallborðið hjá Reagan Bandaríkjaforseta, eru hinir fjöldamorðingjarnir nokkurn veginn allir skjólstæðingar Mið-Ameríkustefnu Bandaríkjastjórnar.

D’Aubuisson bætir sér upp þennan skort á stuðningi með hjálp frá tryllta hægri kantinum í stjórnmálum og trúmálum Bandaríkjanna, svo sem American Security Council og National Strategic lnformation Center.

Harmsaga tuttugustu aldarinnar í Mið-Ameríku er nánast öll á vegum bandaríska stjórnvalda, sem studdu til valda hrikalega glæpamenn á borð við Batista á Kúbu og Somoza í Nicaragua. Enda eru Bandaríkin hötuð af öllu ærlegu fólki í Mið-Ameríku.

Þannig undirbjuggu bandarísk stjórnvöld óafvitandi valdatöku Castro á Kúbu og Sandinista þeirra í Nicaragua, sem nú sigla landi sínu óðfluga í faðm kommúnismans. Bandaríkjamenn geta engum öðrum en sjálfum sér um kennt.

Ástandið var byrjað að batna og mest á kjörtímabili Carters Bandaríkjaforseta. Það hefur hins vegar versnað aftur hjá Reagan, sem talinn hefur verið nokkurn veginn viss um endurkjör. Sú tilhugsun er nánast óbærileg þeim, sem vilja hafa innihald í vestrænu samstarfi.

Jónas Kristjánsson.

DV

Gatakíttið er misdýrt

Greinar

Til viðbótar við falsanir og óskhyggju upp á 1845 milljónir króna í fjárlögum ríkisins fyrir þetta ár koma 700-800 milljón króna falsanir og óskhyggja í lánsfjáráætlun ríkisins, sem enn er til afgreiðslu á alþingi.

Samtals gæti því gat ársins numið um 2600 milljónum króna til viðbótar um 1200 milljón króna gati frá árinu í fyrra. Af þessum hrikalegu tölum má vera ljóst, að engin vettlingatök duga og engar kýr mega lengur vera heilagar.

Auðvitað hefði verið þægilegra að leggja niður styrki, uppbætur og niðurgreiðslur til hvatningar á offjárfestingu í hefðbundnum landbúnaði og á offramleiðslu á kjöti og mjólkurvörum, þegar allt lék í lyndi og röskunina mátti milda.

En á þessu ári er hin nakta staðreynd sú, að á fjárlögum er ráðgert að verja 1.500 milljónum til að styrkja landbúnaðinn. Öll sú upphæð er ekki aðeins óþörf, heldur er hún beinlínis skaðleg, andstæð lífshagsmunum þjóðarinnar.

Fleiri heilagar kýr eru á fjárlögum, þótt engin sé eins hrikaleg í sniðum og landbúnaðurinn. Sem dæmi má nefna 13 milljón króna styrk til sorprita stjórnmálaflokkanna og 230 milljónir til að hamla gegn orkuþróun í húshitun.

Ekkert bendir til, að ríkisstjórnin treysti sér til að létta heilögu kúnum af ríkissjóði. Ekkert bendir til, að hún treysti sér til að lækka útgerðarkostnað heimilanna með því að leyfa frjálsa verzlun með búvöru á heimsmarkaðsverði.

Þegar ekkert má gera, sem skynsamlegt getur talizt, stendur ríkisstjórnin auðvitað andspænis hugmyndum, sem kalla á skattahækkun, skuldaaukningu í útlöndum, verðbólgu í kjölfar seðlaprentunar og hrun sjálfseignarstefnu í húsnæði.

Skjaldborgin um heilögu kýrnar veldur því, að ríkisstjórnin neyðist til að hækka skatta á borð við benzíngjald, áfengis- og tóbaksgjald, svo og að finna upp nýja á borð við sjúkratryggingagjald, og loks að hækka skattstiga.

Með slíkum aðgerðum er unnt að minnka gat ársins. En um leið er ríkisstjórnin komin í fremstu röð þeirra ríkisstjórna, sem mest hafa hækkað skatta á stytztum tíma. Og hún er þó ekki búin að sitja í heilt ár enn.

Skjaldborgin um heilögu kýrnar veldur því, að ríkisstjórnin neyðist til að taka erlend lán og auka skuldabyrðina gagnvart útlöndum í meira en 60% af árlegri þjóðarframleiðslu, sem allir vita, að er stórhættulegt.

Með slíkum aðgerðum er unnt að minnka gat ársins. En um leið er ríkisstjórnin komin í fremstu röð þeirra ríkisstjórna, sem mest hafa aukið skuldasúpuna á styztum tíma. Og er hún þó ekki búin að sitja í heilt ár enn.

Skjaldborgin um heilögu kýrnar veldur því, að ríkisstjórnin neyðist til að draga stórlega úr fjármögnun húsnæðislánakerfisins og ganga af dauðri þeirri hugsjón, að borgarar þessa lands geti eignazt þak yfir höfuðið.

Með slíkum aðgerðum er unnt að minnka gat ársins. En um leið er ríkisstjórnin orðin Íslandsmeistari allra ríkisstjórna í aðgerðum gegn sjálfsbjargarviðleitni Íslendinga í húsnæðismálum. Og er hún þó ekki búin að sitja í heilt ár enn.

Að svo miklu leyti sem þetta siðferðilega hrun samanlagt dugir ríkisstjórninni ekki, neyðist hún til að láta prenta verðlausa seðla. Þá mun verðbólgan, sem nú blundar undir niðri, fá æðiskast á nýjan leik. Allt þetta vegna heilögu kúnna.

Jónas Kristjánsson

DV

Marklausar tölur játaðar.

Greinar

Marklaus fjárlög eru ekki nýjung hér á landi. Árum saman hafa fjármálaráðherrar, ríkisstjórnir og stjórnarmeirihlutar á alþingi beitt ýmsum ráðum til að falsa fjárlögin. Tölur hafa verið togaðar út og suður til að ná ímynduðum jöfnuði.

Bezt hefur hinum ómerkilegu stjórnmálamönnum gefizt að taka ráðgerðan kostnað opinberra stofnana út úr fjárlögunum og setja í sérstaka lánsfjáráætlun. Óskhyggjan hefur verið leyst með því að taka sligandi lán í útlöndum.

Ennfremur hafa pólitíkusarnir haft þann sið að skera niður lögbundnar fjárhæðir án þess að breyta lögunum, sem binda tölurnar. Síðan hafa lögbundnu upphæðirnar verið greiddar, þótt allt aðrar og lægri standi í fjárlögum.

Þessi leið hefur oft leitt til vanskila ríkissjóðs í Seðlabankanum. Með seðlaprentun hefur verið framleidd verðbólga, einkaverðbólga íslenzkra stjórnmálamanna. En sú leið gengur ekki, þegar skera á verðbólguna niður í 10%.

Stundum hefur vandinn leyst sig sjálfur. Aukin velta í þjóðfélaginu hefur fært ríkissjóði tekjur til að fylla í götin og greiða vanskilin við Seðlabankann. Enda dreymir menn núna um stórar göngur þorska frá Grænlandi.

Fjárlög yfirstandandi árs eru mörkuð sömu óskhyggjunni og fölsunarhneigðinni og fjárlög fyrri ára. Munurinn er helzt sá, að þau eru óvenju vitlaus, alveg eins og lánsfjáráætlun ársins er sérlega heimskuleg.

Hin nýjungin er, að mikið af þessari vitleysu hefur verið játað að frumkvæði fjármálaráðherra. Hann hefur sennilega séð fyrir, að í þetta sinn yrði ástandið þannig, að ríkisstjórninni dygði ekki að loka augunum og biðjast fyrir.

Hitt er svo fráleitt að láta eins og götin séu einhverjar nýjar stórfréttir. Að verulegu leyti eru þau atriði, sem embættismenn, fjármálaráðherra, ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn áttu auðveldlega að geta vitað.

Í fjárlögum var ákveðið að gera ráð fyrir sérstökum 350 milljón króna sparnaði í rekstri sjúkrahúsa, án þess að nokkur hefði hugmynd um, hvernig það mundi gerast. Menn hafa raunar ekki hugmynd um það enn.

Í fjárlögum var ákveðið að vanreikna kostnað við bæjarfógeta og sýslumenn um 150 milljónir. Þar var ákveðið að vanreikna lögskyldar útflutningsbætur landbúnaðarafurða um 120 milljónir og lögskyld námslán um 100 milljónir.

Ekki voru gerðar neinar lagabreytingar til að draga úr þessari lögskyldu til samræmis við fjárlög. Ekki var einu sinni gert ráð fyrir, að ríkissjóður þyrfti að borga vexti af skuldum við Seðlabankann.

Stærstu götin eru í húsnæðismálunum og utan fjárlaga. Lánsfjáráætlun ríkisstjórnarinnar, sem liggur fyrir alþingi, er full af ímynduðum tekjuliðum húsnæðislánakerfisins, sem frá upphafi var vitað, að ekki mundu standast.

Ríkisskuldabréfin seljast ekki, atvinnuleysistryggingasjóður hefur öðrum hnöppum að hneppa, lífeyrissjóðirnir eru fjárvana. Á þessum og fleiri sviðum hafa verið settar á blað tölur, sem enga stoð eiga í raunveruleikanum.

Til bóta er, að stjórnmálamenn skuli játa töluverðan hluta þessara synda. Enn betra væri þó, að þeir hættu fölsunum og óskhyggju í fjárlögum og lánsfjáráætlun. Þá gætu þeir vænzt meira trausts hjá langþreyttri þjóð.

Jónas Kristjánsson.

DV

Eftirlitið verður dýrt.

Greinar

Flest bendir til, að borgarstjórn Reykjavíkur sé komin á fremsta hlunn með að leyfa takmarkað hundahald í borginni. Er henni þó ljóst, að í skoðanakönnunum hefur yfirgnæfandi meirihluti manna verið andvígur hundahaldi í þéttbýli.

Ekki komu á óvart tölur síðustu könnunarinnar, sem gerð var í upphafi þessa vetrar. Þá reyndust 70% manna vera andvíg hundahaldi í þéttbýli og 24% fylgjandi. Aðeins 6% höfðu ekki skoðun á málinu og er það óvenjulega lág tala.

Niðurstaðan var hin sama og í fyrri könnunum. Hún er, að Íslendingar hafa skoðun á hundahaldi í þéttbýli og eru andvígir því, þrír á móti einum. Aukið hundahald í nágrenni Reykjavíkur hefur ekki breytt þessu eindræga almenningsáliti.

Hins vegar fara hundaeigendur sínu fram án tillits til almenningsálitsins. Í Reykjavík eru nokkur hundruð ólöglegra hunda. Yfirvöld hafa ekki treyst sér til að framfylgja hundabanni, nema hundar hafi beinlínis verið kærðir.

Í tölum leit dæmið þannig út í fyrra, að hundaeigendur greiddu samtals 279.500 krónur í 49 dómsáttum og 26 hundar voru aflífaðir. Þess vegna leita borgaryfirvöld að einhverri annarri lausn en hreinu hundabanni.

Eðlilegt er, að þau beini sjónum til sveitarfélaganna í nágrenninu, þar sem leyft hefur verið takmarkað hundahald. Þar hefur fengizt nokkur reynsla, sem getur verið borgarstjórn til leiðbeiningar við stefnubreytingu.

Rétt er þó að benda á, að í nágrannabæjum Reykjavíkur, Garðabæ, Mosfellssveit og Seltjarnarnesi, er byggðin mun gisnari en í Reykjavík. Þar er meira svigrúm fyrir hunda en er á flestum stöðum í höfuðborginni.

Hundahaldið hefur leitt til margvíslegra vandamála, þrátt fyrir svigrúmið. Helzta vandamálið er, að sumir hundaeigendur taka ekkert mark á reglum um hundahald og haga sér eins og þeir séu einir í heiminum.

Þetta hefur leitt til, að hundar ganga lausir og eru ekki í fylgd með fólki, sem hefur fullt vald yfir þeim. Sveitarstjórnarmenn, sem ábyrgðina bera, gera lítið úr vandamálinu og telja ranglega allt vera í fínu lagi hjá sér.

Hugsanlega yrði ástandið skárra, ef meiri vinna yrði lögð í eftirlit með hundahaldi. Ekki er nægilegt að hafa mann í hálfu starfi til eftirlits í bæjarfélögum, þar sem eru um og yfir 100 hundar. Til slíks þarf heilan mann.

Aukið eftirlit kostar peninga. Þær 1.600 og 1.500 krónur, sem hundaeigendur greiða í Mosfellssveit og á Seltjarnarnesi, eru ekki nema helmingur af því, sem vera þyrfti til að halda í skefjum þeim vandamálum, sem fylgja hundahaldi.

Fáránlega lág er tillaga Hundaræktarfélags Íslands um 500 króna árgjald fyrir hunda í Reykjavík. Hún endurspeglar á einkar skýran hátt, hversu erfitt áhugamenn um hundaeign eiga með að átta sig á vandamálunum.

Hætt er við, að ráðgjöf af 500 króna taginu, svo og ástæðulaus sjálfsánægja sveitarstjórnarmanna í nágrenni Reykjavíkur, valdi því, að borgarstjórn telji sér trú um, að hundahald í borginni verði vel viðráðanlegt vandamál.

Ef borgarstjórn treystir sér ekki til að fara að vilja yfirgnæfandi meirihluta borgarbúa, þarf hún að minnsta kosti að tryggja fjármagn til nægilegs eftirlits með því takmarkaða hundahaldi, sem leyft yrði. Og nægilegt eftirlit verður dýrt eftirlit.

Jónas Kristjánsson.

DV

Loforð er loforð.

Greinar

Ríkisstjórnin hefur ekkert raunhæft gert til að efna eitt kosningaloforða Framsóknarflokksins og helzta kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins. Þak yfir höfuðið er nú jafnfjarlægur draumur og það var, þegar stjórnin tók við völdum.

Fyrir kosningar voru stjórnarflokkarnir og raunar fleiri aðilar sammála um stóraukna fjármögnun húsbygginga. Oftast var talað um heildarlán, sem næmu 80% af verði staðalíbúðar og væru til 40 ára með 2,5% raunvöxtum.

Loforðin voru viðurkenning á, að það væri réttmæt krafa kjósenda, að ungu fólki yrði á nýjan leik gert kleift að byggja, svo sem var fyrir hálfum öðrum áratug, áður en verðbólgan stökk úr 10% á ári upp í himinhæðir.

Sofandaháttur margra undangenginna ríkisstjórna hefur dregið mjög úr kjarki unga fólksins. Það treystir sér ekki lengur til að eignast þak yfir höfuðið. Sjálfseignarstefnan hefur rotazt á síðasta hálfum öðrum áratug.

Nú flykkist unga fólkið þúsundum saman í félag um búseturétt í leiguíbúðum. Það vonast til að fá þar svipuð kjör og veitt eru í félagslega lánakerfinu, sem eru stórkostlega miklu betri en þau, er Pétur og Páll þurfa að sæta.

Engin sérstök ástæða er til að ætla, að sú hugarfarsbreyting hafi orðið með þjóðinni, að hún taki búseturétt í leiguíbúð fram yfir íbúðareign. Hroðaleg meðferð stjórnvalda á eignarstefnunni er nægileg skýring á búseturéttaráhuganum.

Í sjálfu sér á ekki að vera nauðsynlegt að deila um, vort fólk vilji fremur kaupa eða láta sér nægja búseturétt. Aðalatriðið er, að því séu boðnir ýmsir möguleikar, allir með sams konar fjármögnun af opinberri hálfu.

Sumir vilja byggja sjálfir, sumir með öðrum í samvinnufélagi, sumir kaupa einir eða með öðrum og loks vilja sumir taka á leigu, ef þeir hafa tryggan búseturétt. Öll sjónarmiðin hafa sinn rétt og eiga ekki að sæta mismunun stjórnvalda.

Meðan fáeinir útvaldir njóta sérstakra kjara í kerfi félagslegra íbúða og aðrir þurfa að sæta kjörum, sem gera einkaeign óbærilega, er engin furða, þótt viðleitni til sjálfsbjargar verði útundan í þjóðfélaginu.

Nú eru sagðar hryllingssögur af erfiðleikum og þrældómi þeirra, sem eyði beztu árum ævinnar í misheppnaða tilraun til að eignast þak yfir höfuðið. Þessar sögur hafa síazt inn og dregið mátt og kjark úr fólki.

Því miður eru þessar sögur margar hverjar sannar. En það jafngildir ekki, að það sé lögmál, að fólk eyðileggi sig á eignarstefnu í húsnæðismálum. Með 80% lánum til 40 ára með 2,5%. raunvöxtum á fólk að geta byggt áfallalaust.

Brýnasta verkefni stjórnvalda í húsnæðismálum er ekki að fjölga þeim smám saman, sem njóta forgangskjara, heldur hækka og bæta almennu lánin upp á svipað stig og það í nokkrum myndarlegum stökkum á ekki allt of mörgum árum.

Ríkisstjórnin hefur hins vegar klúðrað málinu svo, að fjármögnun húsnæðislánakerfisins er ýmissi óvissu háð. Fjárlög hennar og lánsfjárlög einkennast af takmarkalítilli óskhyggju, sem ekki mun rætast að fullu.

Ríkisstjórnin verður nú að taka í hnakkadrambið á sjálfri sér og gera húsnæðisdæmið að forgangsverki. Svik hennar við kjósendur eru alvarlegust á þessu sviði. Og ekki er síður alvarleg aðför hennar að sjálfsbjargarviðleitni þjóðarinnar.

Jónas Kristjánsson.

DV

Opni víxillinn.

Greinar

Hinn opni víxill, sem Albert Guðmundsson fjármálaráðherra hefur samþykkt og afhent Guðmundi J. Guðmundssyni, formanni Dagsbrúnar, mun vafalaust draga dilk á eftir sér, jafnvel þótt ríkisstjórnin treysti sér til að hafna honum.

Albert hefur hvað eftir annað gagnrýnt ráðagerðir á þeim forsendum, að ekki sé ljóst, hvaða áhrif þær muni hafa á afkomu ríkissjóðs. Samt viðurkennir hann núna, að hann hafi ekki hugmynd um, hvaða tölur verði skrifaðar á víxilinn.

Þetta eru náttúrlega ekki traustvekjandi vinnubrögð, enda koma þau mörgum í opna skjöldu. Samráðherrar hans hafa almennt lýst andstöðu við víxilinn, svo og talsmenn sveitarstjórna. Engin samráð voru höfð við neinn af þessum aðilum.

Bent hefur verið á, að hjá Reykjavíkurborg einni starfi fjórum sinnum fleiri félagsmenn Dagsbrúnar en hjá ríkinu. Með víxli Alberts er því óbeint verið að efna í mun dýrari víxil hjá aðila, sem ekkert fékk um málið að segja.

Verra er þó, að samkomulag Alberts og Guðmundar er alvarlegasta áfallið, sem samkomulag heildaraðila vinnumarkaðsins hefur sætt. Það ógnar anda og innihaldi þess samkomulags og hótar að brenna kjarabætur þess í nýrri verðbólgu.

Heildarsamkomulagið byggðist á, að í rannsókn höfðu fundizt þeir, sem erfiðust höfðu lífskjörin. Það voru ekki hinir virku verkfallasinnar í Dagsbrún, heldur einstæðar mæður, barnmargar fjölskyldur, gamalt fólk og öryrkjar.

Í grein í Þjóðviljanum í fyrradag skýrði Guðrún Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri blaðsins, með ljósu dæmi, hvernig fyrri viðmælandi blaðsins, einstæð bankakona með tvö börn, fengi um 25% lífskjarabót úr heildarsamningunum.

Guðrún veitti Þjóðviljanum réttilega ráðningu fyrir ómerkilegar talnablekkingar og Jóhönnu Kristjónsdóttur, formanni félags einstæðra foreldra, ekki síður verðskuldaða ráðningu fyrir að kalla heildarsamningana froðu.

Í fyrsta sinn í manna minnum hefur sérstaklega verið gætt hagsmuna þeirra, sem minnst mega sín og jafnan hafa átt fæsta talsmennina. Þeir fá um og yfir 20% lífskjarabætur á sama tíma og aðrir fá 5% í sinn hlut.

Auðvitað er ljóst, að þeir, sem fá 5%, hefðu fengið meira, ef ekki hefði verið gætt sérstaklega hagsmuna hinna bágstöddu. Margir hinna virku í félögum launamanna eru sáróánægðir með sinn hlut í útkomunni.

Þetta hefur leitt til, að sums staðar hafa heildarsamningarnir ýmist verið felldir eða samþykktir gegn mótatkvæðum fjölmenns minnihluta. Einnig munu félög uppmælingaraðals sem fyrr reyna að auka lífskjarabilið í landinu.

Til skamms tíma hefur þótt ólíklegt, að óánægja hinna virku í Dagsbrún og félögum uppmælingaraðals muni leiða til verkfalla, nema þá í svarinni andstöðu við óskir mikils fjölda almennra félagsmanna, sem vilja fá að vera í friði.

Opni víxillinn í fjármálaráðuneytinu er hins vegar til þess fallinn að opna málið á nýjan leik og styrkja stöðu þeirra, sem gefa lítið fyrir lífskjarabætur smælingjanna og vilja ná þeim bótum til hinna, sem fengu 5%.

Þótt ríkisstjórnin kunni að hafa manndóm til að hafna víxlinum, er samt orðið af honum tjón. Ekki er ljóst, hversu alvarlegt það verður. En vonandi ber þjóðin gæfu til að verja mannúðar- og velferðarstefnu heildarsamninganna gegn verðbólgu.

Jónas Kristjánsson.

DV

Langstærsta gróðurhúsið.

Greinar

Suður á Keflavíkurflugvelli er hús, sem stendur að mestu autt í tuttugu klukkustundir af hverjum sólarhring. Það er flugstöðin, sem vaknar til lífsins, þegar flugvélarnar fara á morgnana, og síðan undir kvöld, þegar þær koma aftur.

Ekki verður vart við, að þrengsli hrjái farþega á þessum tveimur tímabilum anna. Og auðvelt ætti að vera að semja við flugfélögin um meiri breidd í brottfarar- og komutímum, ef umferðin ykist mjög frá því, sem nú er.

Helzt verður vart þrengsla í litlu fríhöfninni, sem farþegar nota, þegar þeir koma til landsins. En þar er um að ræða þjónustu, sem er umfram þá, er flestar aðrar flughafnir veita. Hún ber vitni um mat á, að rýmið sé nægilegt.

Æskilegt væri að bæta aðstöðu þeirra, sem bíða eftir farþegum, koma upp salernum og biðstofu með sætum. En það verkefni má leysa með einfaldri og ódýrri viðbyggingu, eins og auka má rýmið í litlu fríhöfninni.

Nauðsynlegast af öllu er að byggja færanlega arma frá flugstöðinni út í flugvélar, svo að farþegar þurfi ekki að sæta óblíðri veðráttu. Einnig það verkefni er hægt að leysa við núverandi flugstöð á Keflavíkurflugvelli.

Hugmyndin um nýja flugstöð varð til á tíma meiri flugumferðar. Þá buðu Loftleiðir einar upp á ódýr fargjöld yfir Atlantshafið. Og þá var mikið um millilendingar erlendra farþegavéla. Báðar þessar forsendur eru úr sögunni.

Einhverjum hugmyndaríkum manni hefur dottið í hug, að efla mætti landkynningu og minjagripasölu, ef áningarfarþegar gætu rölt um í pálmalundum í stíl aldingarðsins Eden í Hveragerði. En það vantar bara þessa áningarfarþega.

Þótt forsendur hafi breytzt, er enn ráðgert að reisa flugstöð með langstærsta gróðurhúsi landsins. Hitun þess og loftræsting mun kosta nokkrar milljónir króna á hverju ári umfram það, sem kostar að hita núverandi flugstöð.

Ennfremur þarf her garðyrkjamanna til að sjá um, að pálmalundirnir leggist ekki í órækt og verði ekki að verri landkynningu en til var stofnað. Vafasamt er, að sá launakostnaður skili sér til fulls í sölu banana og vínberja.

Til að koma þessari vitleysu á fót hyggst ríkið taka 616 milljónir króna að láni. Það er gífurleg viðbót við skuldabyrðina gagnvart útlöndum, sem þegar er komin upp í 60% af eins árs þjóðarframleiðslu og má ekki hækka.

Fyrir sömu upphæð mætti ráðast í eitthvert arðbært verkefni, svo sem lagningu bundins slitlags á þrjá fjórðu hluta hringvegarins um landið. Í kaupbæti mætti ljúka smíði þjóðarbókhlöðunnar, sem stöðvast hefur vegna fjárskorts.

Talað hefur verið um, að ekki þurfi að nota alla þessa peninga. Áætlaður rúmmetrakostnaður sé tvöfaldur á við það, sem annars tíðkast hér á landi. En óskhyggja af slíku tagi hefur sjaldan orðið að veruleika hjá ríkinu.

Auðvitað væri æskilegt að skilja á milli farþegaflugs og hernaðarflugs. En í ljósi þess, að núverandi flugstöð er og verður nógu stór og að nýja flugstöðin verður ekki arðbær, getur þetta ekki talizt forgangsverkefni.

Gróðurhúsið mikla suður á Keflavíkurflugvelli verður ódauðlegur minnisvarði um fákænsku og skort á sveigjanleika. Það verður reist í hreinni þrjózku og andstöðu við heilbrigða skynsemi. Og síðan verða utanríkisráðherrar okkar jafnan kallaðir garðyrkjuráðherrar.

Jónas Kristjánsson.

DV

Samið fyrir smælingjana.

Greinar

Velferðarríkið íslenzka hefur verið eflt á hættustund. Með þríhliða samkomulagi ríkisstjórnar og heildarsamtaka vinnumarkaðsins hefur tekizt að bæta verulega lífskjör hinna verst settu í þjóðfélaginu.

Niðurstaðan byggist á, að málsaðilar skildu til hlítar, að laun og lífskjör eru ekki sami hluturinn. Ungmenni í föðurgarði getur lifað af mun lægri tekjum en einstætt foreldri með nokkur börn á framfæri sínu.

Þáttur ríkisstjórnarinnar felst einkum í aðgerðum til aðstoðar barnafólki og mest til þeirra, sem eru einstæðir foreldrar. Lífskjör þeirra eiga að geta batnað um 25- 40%, þótt hin almenna launahækkun sé ekki nema 5%.

Minna er gert í þágu gamla fólksins og öryrkjanna. Lífskjör þessara hópa eiga þó að batna um 10% á sama andartaki og launin í landinu hækka um 5%. Þetta er mikilvægt spor í rétta átt, en hefði mátt vera meira.

Þegar búið er að gera ráð fyrir 10% verðbólgu frá upphafi til loka ársins, svo og kauphækkun í júní og september, ætti staðan um næstu áramót að vera sú, að hinir sæmilega stæðu hafi haldið óbreyttum kaupmætti frá árskokum 1983.

Allir hinir, sem minna mega sín, gamla fólkið, öryrkjarnir og einkum þó barnafólkið, eiga að geta haldið töluverðum hluta lífskjarabatans, þótt verðbólgan muni sneiða af nokkurn hluta. Þetta er afar mikilvæg niðurstaða.

Áður hafa hinir betur settu yfirleitt fengið meira úr kjarasamningum. Tilraunir með fastar krónutölur í stað prósentuhækkana hafa leitt til launaskriðs og óbreytts eða aukins launamunar í þjóðfélaginu.

Í þetta sinn hefur munur lífskjaranna verið minnkaður verulega og það á nýjan hátt, sem gefur síður tilefni til launaskriðs. Það stafar af, að hluti niðurstöðunnar rennur um tryggingakerfi velferðarríkisins.

Fólk ætti sérstaklega að taka eftir, að það eru umboðsmenn uppmælingaraðalsins og annarra forréttindahópa, sem einkum snúast gegn niðurstöðunni. Það eitt segir meiri sögu um eðli hennar en útlistanir í fjölmiðlum gera.

Þeir umboðsmenn launafólks, sem bera hag smælingjanna fyrir brjósti, svo sem Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir í láglaunafélaginu Sókn, styðja niðurstöður samninganna. Hún starfar heldur ekki á vegum stjórnmálaflokks.

Hinir, sem eru fremur umboðsmenn stjórnmálaflokks, eins og Guðmundur J. Guðmundsson, eru hins vegar andvígir, af því að þeir nærast á verkföllum. Nú sjá menn greinilega, hverjum þykir vænna um Alþýðubandalagið en alþýðuna.

Frá þætti ríkisins hefur ekki verið gengið endanlega. Mikilvægt er þó, að óhrekjanlegt er orðið, að breyting niðurgreiðslna í fyrirhugaðar bætur skilar sér að verulegu leyti til hinna verst settu, – að hún er ekki bara færsla milli vasa.

Forsætisráðherra hefur raunar játað, að breyting úr niðurgreiðslum komi til greina, enda þótt hún dragi úr spillingu kinda- og kúakerfis ríkisins. Aðrar leiðir mundu beint eða óbeint leiða til skattheimtu, verðbólgu og kjaraskerðingar.

Niðurgreiðslur þessa árs eiga samkvæmt fjárlögum að nema 945 milljónum króna. Hlutur ríkisins í lausn kjaradeilunnar á hins vegar ekki að nema meiru en 330 milljónum króna, svo í rauninni er af nógu að taka.

Jónas Kristjánsson

DV

Fúsk og leikir.

Greinar

Þótt allir sögukennarar væru jafngóðir og Ólafur Hansson var á sínum tíma, mundu margir nemendur láta sig það litlu varða. Þeir mundu ekki einu sinni fylgjast með, þótt fúsk og leikir leystu sögukennslu af hólmi.

Grunnskólarnir eru fullir af fólki, sem er þar meira eða minna til geymslu, svo að það sé ekki fyrir á vinnumarkaði. Í sjö ár er reynt að kenna því að lesa, skrifa og reikna, stundum raunar með takmörkuðum árangri.

Vafasamt er, að sögukennsla eigi brýnt erindi við þá, sem ekki vilja hlusta. Þeir geta samt orðið þjóðlegir og nýtir borgarar. Ekkert þekkt samhengi hefur fundizt milli kunnáttu í sögu Íslands og trúar á landið.

Íslenzka skólakerfið hefur í vaxandi örvæntingu beint athygli sinni að þessum erfiða hópi og þá venjulega á kostnað hinna, sem eiga erindi í skóla. Skólakerfið er að verða skólabókardæmi um mikið erfiði og lítið erindi.

Í tæpa tvo áratugi hefur menntamálaráðuneytið reynt að færa kennslu í sögu Íslands í form, er henti þeim, sem enga sagnfræði vilja sjá eða heyra. Hefur þar verið fylgt formúlum frá Svisslendingi að nafni Piaget.

Fúsk og leikir, sem gera skólana óþolandi sæmilega vel greindu fólki, geta ekki breitt yfir þá staðreynd, að án fyrirhafnar næst enginn árangur í námi frekar en í starfi. Og margir hljóta alltaf að vera andvígir fyrirhöfn.

Sagnfræði kemst ekki af án hjálpar ártala og mannanafna. Hún er í eðli sínu saga atburðarásar. Hún er samhengi í tímans rás. Sem slík verður hún að gagni aðeins kennd sem samfelld heild, en ekki sem bútasaga með löngum eyðum.

Saga Íslands á ekki fremur en mannkynssaga eða landafræði heima í samkrulli, sem kallað er samfélagsfræði. Hún á ekki heima þar, jafnvel þótt menntamálaráðuneytið hafi í tæpa tvo áratugi stefnt að því, undir leið- sögn sérfræðinga.

Félagsfræði, sálarfræði og skyldar greinar hafa ekki atburðarás að hornsteini eins og sagnfræðin og ekki flatarmál eins og landafræðin. Sagnfræðin og landafræðin mega ekki hverfa inn í greinar, sem eru byggðar á öðrum grunni.

Í rauninni eru félagsfræði, sálarfræði og skyldar greinar að töluverðu leyti safn tízkuhugmynda, sem eru sífelldum breytingum háðar. Eigi að síður geta bæði sagnfræði og landafræði haft gagn af slíkum hugmyndum, ef þær yfirtaka ekki.

Atburðasaga hefur ætíð haft tilhneigingu til að verða yfirstéttarsaga, alveg eins og saga byggingarlistar hefur tilhneigingu til að verða saga kirkjubygginga. Um slík atriði eru heimildir auðvitað mestar og beztar.

Sagnfræði nútímans þarf að fylla myndina og bæta hana með sögu alþýðunnar og sögu kvenna, svo að dæmi séu nefnd. Hún á ekki að vera aðeins saga styrjalda og stjórnmála, heldur líka efnahags, vísinda, tækni, félagsmála og menningar.

Saga Íslands og mannkyns, svo og landafræði, eiga að vera sjálfstæðar greinar í skólakerfinu. Þær eiga að fá þar meiri tíma og meiri alvöru í stað fúsks og leikja samfélagsfræðinnar. Við þurfum að losna undan oki Piaget.

Sumir nemendur munu ekki hlusta. En greindir krakkar geta tekið við margfalt meiri sagnfræði en lærisveinar Piaget telja óhætt að láta í té. Hinir, sem engan áhuga hafa, munu, hvort sem kennslan er gamaldags eða nýmóðins, aldrei geta útskýrt, hver var Jón Sigurðsson.

Jónas Kristjánsson.

DV

Enga innrætingu!

Greinar

Ólafur Hansson, menntaskólakennari og prófessor, samdi í mannkynssögu stífustu kennslubækur, sem um getur. Þær voru sneisafullar af nöfnum og ártölum, eins konar handbækur fyrir raunverulega áhugamenn um mannkynssögu.

Kennsla Ólafs var allt önnur, þótt hann styddist við bækurnar. Í leiftrandi fyrirlestrum hans voru bækurnar bara þjónar, ekki húsbændur. Hann vildi, að nemendur læsu nöfnin og ártölin, án þess endilega að leggja þau á minnið.

Í prófum skiptu ártöl Ólaf litlu. Spyrði hann um líflát Jóns biskups Arasonar, þótti honum jafnvel vænna um svarið: Um miðja sextándu öld, heldur en svarið: 1550, ef hann taldi fyrra svarið sýna meiri skilning á sögulegu samhengi.

Dæmið um Ólaf Hansson sýnir, að deilur með og móti nöfnum og ártölum í sögu Íslands geta skotið yfir markið í báðar áttir. Hinar grunnhörðu staðreyndir nafna og ártala eru mikilvægar, ef þær eru ekki gerðar að alfa og ómega.

Dæmið um Ólaf sýnir líka, að það er kennarinn sjálfur, sem skiptir mestu, en ekki hinn ytri umbúnaður í kennslugögnum. En því miður hlýtur ætíð að vera skortur á slíkum hæfileikamönnum, sem blása lífi í dauð ártöl.

Í framhjáhlaupi má harma, að Ólafur skyldi ekki hafa verið uppi á öld myndbanda og tölva. Þá hefði verið hægt að margfalda kennsluhætti hans fyrir allt skólakerfið, fyrirlestrana á myndböndum og spurningarnar í tölvum, sem vænta svars.

En sjálfur hefði Ólafur harmað mest, að nafn hans skuli nú vera notað til framdráttar þingsályktunartillögu Eiðs Guðnasonar og fleiri um, að í sögu Íslands í skólum eigi hin hreina sagnfræði að víkja fyrir innrætingu.

Eiður, sem skilur Ólaf eins og andskotinn biblíuna, vill, að þessi kennsla miðist við, að nemendur öðlist “trú á landið og vilja til að varðveita það menningarsamfélag, sem hér hefur þróazt í ellefu aldir”.

Sögukennsla sem innræting hentar án efa forræðissinnum á borð við Tsjernenko, Khomeini og d’Aubuisson, alveg eins og hún hentaði Mussolini, Hitler og Stalín. En hún á ekki heima í vestrænu þjóðfélagi, sem hvílir á jákvæðri vísindahyggju.

Sagnfræði Jónasar frá Hriflu leiftraði af hugsjónum, sem kunna að hafa hentað kynslóð aldamótanna í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Þeirri fullyrðingu verður þó aldrei svarað, því að ekkert er til samanburðar.

Sagnfræði hans í stjórnmálasögu síðari hluta 19. aldar og upphafs hinnar 20. verður aldrei endurtekin, meðal annars vegna útreiðarinnar, sem hún hefur fengið í bókum Þorsteins Thorarensen, svo að varla stendur lengur steinn yfir steini.

Það er þjóðfélagið sjálft, allt umhverfi unga fólksins og sjálft lýðræðisformið, sem á að leiða til föðurlandsástar. Hún verður ekki kennd í skólum. Hún kemur þvert á móti af sjálfu sér, ef þjóðfélagið er í stórum dráttum í lagi.

Ekki er heldur verkefni skólanna að kenna nemendum frið í samræmi við þingsályktunartillögu Guðrúnar Agnarsdóttur og fleiri þingmanna. Gegn þeirri innrætingu gilda sömu rök og gegn innrætingu Eiðs Guðnasonar.

Vonandi ber alþingi gæfu til að fella allar hugmyndir um að saurga hina hreinu og tæru sagnfræði Ólafs Hanssonar, hinnar gildislausu vísindahyggju, sem ein megnar að bægja ofsatrú og fordómum frá veiklunduðu mannkyni.

Jónas Kristjánsson.

DV

Góð Grænlandstillaga.

Greinar

Væntanlega verður í dag samþykkt samhljóða á Alþingi tillaga Eyjólfs Konráðs Jónssonar og ellefu annarra þingmanna úr öllum þingflokkum um ræktun sameiginlegra hagsmuna með Grænlendingum, sérstaklega í fiskimálum.

Stefnumörkun Alþingis í dag getur orðið til að efla samskiptin við Grænlendinga hraðar en verið hefur á undanförnum árum. Við höfum verið of seinir að átta okkur á skyldum okkar og samstarfsmöguleikum á þeim vettvangi.

Fyrir nokkrum árum efndi Alþingi til Grænlandssjóðs til eflingar kynnisferða, námsdvala, listsýninga, íþróttasýninga og annarra hliðstæðra samskipta Grænlendinga og Íslendinga. Þennan sjóð þarf nú að efla til muna.

Grænlendingar hafa á undanförnum árum verið að fóta sig á heimastjórn og eru nú á leið úr Efnahagsbandalaginu. Við eigum að reyna að verða þeim að liði í tilraunum þeirra til að leysa ýmis vandamál á þessari braut.

Grænlendingar hafa notið verulegra framlaga úr ríkissjóði Danmerkur og sjóðum Efnahagsbandalagsins. Þetta hefur ekki nýtzt þeim að fullu, meðal annars vegna skorts á jafnstöðu gagnvart Dönum í menntun og atvinnulífi.

Þá hafa dönsk stjórnvöld notað fiskveiðimið Grænlendinga sem skiptimynt í samningum sínum um bætt skilyrði danskra landbúnaðarafurða á markaði Efnahagsbandalagsins. Grænlendingar urðu að biðja í Bruxelles um að fá að veiða á eigin miðum.

Nú þegar Grænlendingar eru að losna undan þessari nýlendukúgun Efnahagsbandalagsins, býðst það til að taka á leigu fimm ára aflakvóta við Grænland fyrir sem svarar 450 milljónum íslenzkra króna á ári. Í kvótanum eru 23,5 þúsund tonn af þorski og rúmlega 63 þúsund tonn af öðrum sjávarafla.

Þetta eru auðvitað of miklir kvótar fyrir of lítið fé. Auk þess fela þeir í sér rányrkju á grænlenzkum miðum. En bandalagið býður þetta, af því að það telur Grænlendinga ekki hafa efni á að hafna molunum af borði þess.

Það veikir stöðu Grænlendinga, að þeir búa nú við þriðja kuldaveturinn í röð og að spáð er miklum hafís við landið mörg ár fram í tímann. Það spillir möguleikum þeirra til að afla sér viðurværis á sjó og landi.

Okkur ber að veita Grænlendingum siðferðilegan, menntunarlegan og fjárhagslegan stuðning við að standast freistingar Efnahagsbandalagsins og við að taka í þess stað yfirráð fiskimiðanna í þeirra eigin hendur.

Þetta fer saman við hagsmuni okkar af, að Efnahagsbandalagið komist ekki upp með rányrkju á fiskimiðum, sem á stóru svæði liggja að fiskveiðilögsögu Íslands. Við þurfum að stuðla að verndun fiskistofna á þessum miðum.

Samstarf okkar við Grænlendinga um skynsamlega nýtingu fiskimiða á öllu hafinu milli landanna ætti raunar að vera þáttur í víðtæku samstarfi um slíka nýtingu allt frá Noregi til Kanada og suður yfir Færeyjar. Við erum á miðju þessu svæði.

Grænlendingum getum við boðið upp á ókeypis þjálfun og menntun í fiskveiðum, fiskvinnslu, iðnaði og öðrum störfum, sem fylgja þjóðfélagsháttum nútímans. Við getum á ýmsan hátt aðstoðað þá við að koma í veg fyrir rányrkju á fiskimiðum.

Allra brýnast er að bregðast skjótt gegn tilraunum Efnahagsbandalagsins til að koma sér fyrir í grænlenzkri fiskveiðilögsögu. Samþykkt Grænlandstillögunnar á Alþingi er mikilvægt skref í þá átt.

Jónas Kristjánsson.

DV