Author Archive

Fjórar illar stofnanir.

Greinar

Grænmetisverzlun landhúnaðarins er ekki eina dæmið um ill áhrif einokunar á viðskiptahætti, þótt hún sé vafalaust hið versta þeirra. Einokun er í sjálfu sér þess eðlis, að ráðamenn hennar geta ekki staðið undir henni, jafnvel þótt þeir haldi sig gera sitt bezta.

Osta- og smjörsalan er stundum tekin sem dæmi um einokun, sem hafi lánast sæmilega og gæti ef til vill verið grænmetisverzluninni til fyrirmyndar. Þessa misskilnings gætir einkum hjá fólki, sem hefur lítinn áhuga á fjölbreyttri notkun osta og veit ekki, hvernig góðir ostar eiga að vera.

Hópur fólks hugðist nýlega halda ostaveizlu og keypti ostana til öryggis í sjálfri ostabúð einokunarinnar. Eftir eina nótt í kæli hafði Port Salut þrútnað og gaf frá sér ógeðslega fýlu. Það tókst að fá honum skipt í Osta- og smjörsölunni í tæka tíð og fá nothæfan í staðinn.

Í ostaveizlunni kom svo í ljós, að Dalayrja var mygluð út í rauða og svarta liti. Ennfremur var Búri tvílitur, gulur að hálfu og bleikur að hálfu. Þar með voru þrír af upprunalegu tíu ostunum ekki neyzluhæfir. 30% afföll hljóta aðteljast 30% of mikil afföll.

Aðeins einokunarstofnun getur leyft sér frammistöðu á borð við þessa. Aðeins slík stofnun getur haft á boðstólum osta, sem heita frægum nöfnum, en eru ólíkir hinum upprunalegu ostum og þar að auki mismunandi frá lögun til lögunar. Sú er einmitt reynslan hér á landi.

Osta- og smjörsalan hefur í mörgum tilvikum í boði ostategundir, sem framleiðendur hafa ekki náð tökum á. Stundum heppnast framleiðslan og stundum ekki. Gráðosturinn sveiflast til dæmis frá því að vera mjög góður yfir í að vera óætur frá hendi framleiðandans.

Mjólkursamsalan í Reykjavík er dæmi um einokun með orðspori, sem er einhvers staðar á milli Grænmetisverzlunar landbúnaðarins og Osta- og smjörsölunnar. Hún er hins vegar frægust fyrir verðlagningu, sem senn mun sjást í smíði stærstu mjólkurhallar Vesturlanda.

Mjólkursamsölunni hefur aldrei tekizt að búa til súrmjólk, er stenzt samanburð við þá, sem gerð er á Akureyri og Húsavík. Engin nothæf tilraun virðist hafa verið gerð til að brúa þetta sérkennilega bil, enda má ekki selja norðansúrmjólk á einokunarsvæði Mjólkursamsölunnar.

Síðustu árin hefur Mjólkursamsalan margoft verið staðin að því að dagstimpla mjólk lengra fram í tímann en þá þrjá daga, sem leyfðir eru. Einu sinni tókst með myndatöku að sýna fram á, að mjólk var stimpluð átta daga fram í tímann. Fimm dagar eru algeng stærðargráða í svindlinu.

Þótt forhitun mjólkur hafi verið bönnuð, hefur henni miskunnarlaust verið beitt til að hindra, að mjólkin súrni á hinum langa geymslutíma. Við það drepast mjólkursýrugerlarnir, og í staðinn dafna rotnunargerlarnir. Af þeim stafar hið fúla bragð, sem oft er að mjólkinni.

Landseigendafélag Íslands, sem stendur að þessum þremur einokunarstofnunum, er nú að koma á fót hinni fjórðu. Það er eggjadreifingarstöðin, sem mikill styr hefur staðið um. Hún verður senn sett upp í Kópavogi og þá mega neytendur búast við fúlum og skemmdum eggjum í fyrsta sinn.

Allar þessar stofnanir dafna, af því að neytendur hafa ekki dug og samtakamátt til að setja þær í viðskiptabann. Það er ekki fyrr en vitleysan gengur út í öfgar Grænmetisverzlunar landbúnaðarins, að neytendum tekst að fá einokunina mildaða um stundarsakir. Um stundarsakir.

Jónas Kristjánsson.

DV

Undanþágur – í bili.

Greinar

“Grænmetisverzlunin veitir mjög góða þjónustu,” sagði Ingi Tryggvason, formaður Stéttarsambands bænda og Grænmetisverzlunar landbúnaðarins, á fundi með blaðamönnum fyrir helgina út af skemmdu kartöflunum frá Finnlandi. Og hann flissaði ekki einu sinni á meðan.

Ummæli formannsins skýra betur en flest annað, hvernig komið er fyrir einokunarkerfi landhúnaðarins. Ráðamenn þess halda fram, að þeir gæti í hvívetna hagsmuna neytenda. Þeir telja enga ástæðu til að láta í frjálsum innflutningi reyna á, hvort svo sé.

“Við höfum engan áhuga á, að öðrum verði gefið leyfi til að flytja inn kartöflur,” sagði formaðurinn. Hann þykist vita, hvað sé neytendum fyrir beztu. Hann vill ekki viðurkenna, að bezt sé, að neytendur ákveði sjálfir, hvað þeim sé fyrir beztu. Hann segist bara vilja vel.

Ummælin, sem hér hefur verið vitnað í, endurspegla alla aðra röksemdafærslu til varnar hinu úrelta einokunarkerfi í sölu landbúnaðarafurða. Kerfisstjórarnir munu einbeita sér að því að koma í veg fyrir, að framhald verði á þeim undanþágum, sem nú verða veittar.

Hörð viðbrögð neytenda valda því, að Steingrími Hermannssyni forsætisráðherra finnst ekki stætt á öðru en að veita einkaframtakinu undanþágur til innflutnings á nýjum, ætum kartöflum, sem víða fást á hagstæðu verði. Þetta er stórt skarð í varnarmúrinn.

Neytendur mega hins vegar ekki ímynda sér, að þeir geti látið við undirskriftasöfnunina sitja. Ef þeir sofna á verðinum, mun einokunin taka við á nýjan leik, þegar kerfisstjórar hennar telja, að mesta hættan sé liðin. Og þá fer allt í gamla farið aftur.

Það er engan veginn einsdæmi, að Grænmetisverzlun landbúnaðarins veki hneykslun. Slíkt er að minnsta kosti árviss viðburður og ekki bara í kartöflunum, þótt þar sé ástandið verst. Grænmetiseinokunin í heild er í hróplegu ósamræmi við frelsi í innflutningi góðra ávaxta.

Grænmetisverzlun landbúnaðarins hefur hvað eftir annað lent í vondum málum. En hún hefur alltaf haft meira úthald en neytendur. Og sigur neytenda í nýjustu orrustunni mun ekki sjálfkrafa leiða til sigurs þeirra í stríðinu. Til þess þarf meira en undirskriftir.

Ef neytendur gætu hins vegar mannað sig upp í að sniðganga kartöflur Grænmetisverzlunar landbúnaðarins í varanlegan tíma, að minnsta kosti í eitt ár, er líklegt, að þeir gætu knúið stjórnendur einokunarkerfisins til uppgjafar. Neytendur mundu þá fá kartöflubændur til að endurmeta stöðuna.

Hið sama gætu neytendur raunar gert til að hrella einokunarkerfið á öðrum sviðum. Segja má, að núverandi ófremdarástand sé sumpart neytendum sjálfum að kenna. Þeir hafa þolað kúgunina, muldrandi í barm sér, en hafa ekki haft reisn eða mátt til að svara á sannfærandi hátt.

Varnarstríð einokunarinnar sjáum við í málgagni hennar, Nýja Tímanum. Þar var fyrst þagað þunnu hljóði. Síðan var skrifuð frétt um skemmd epli til að koma því inn hjá fólki, að slík vandamál fylgdu fremur hinum frjálsa innflutningi en einokunarkerfinu.

Neytendur harma að vonum 1,5 milljón króna tjón sitt af skemmdum kartöflum frá Finnlandi. En hvað mega skattgreiðendur segja um 7 milljón króna tjónið af hinni hliðinni, útflutningsuppbótunum af kjötinu til Finnlands? Og allur þessi herkostnaður er til þess eins greiddur, að SÍS fái skitnar 0,7 milljón krónur í umboðslaun.

Jónas Kristjánsson.

DV

Lamaður stjórnmálaflokkur.

Greinar

Af fjölmennri þingmannahjörð Sjálfstæðisflokksins greiddu aðeins Eyjólfur Konráð Jónsson og Albert Guðmundsson atkvæði með tillögu Bandalags jafnaðarmanna um sölu ríkisbankanna. Er sú sala þó á stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins og nefndar, sem formaður flokksins átti sæti í.

Afdrif tillögunnar um sölu ríkisbankanna er aðeins eitt af mörgum dæmum um niðurlægingu þingflokks sjálfstæðismanna. Í þeim hópi eru sárafáir menn, sem hafa einhvern áhuga á stefnumálum flokksins og nenna að taka til hendi, þegar um þau er að tefla.

Hinn dæmigerði þingmaður sjálfstæðisflokksins er Egill Jónsson. Hann hefur sem formaður landbúnaðarnefndar efri deildar komið í veg fyrir, að frumvarp Alþýðuflokksins um afnám einokunar Grænmetisverzlunar ríkisins sé tekið til umræðu og afgreiðslu í nefndinni.

Þegar Eyjólfur Konráð kvartaði í fyrradag yfir þessari meðferð málsins, hafði Egill um hann hin hæðilegustu orð sem hlaupasmala Alþýðuflokksins. Var Eyjólfur Konráð þó aðeins að hreyfa við máli, sem allur þorri sjálfstæðismanna styður af hjartans sannfæringu.

Sérstaklega er áberandi undirlægjuháttur þingflokks sjálfstæðismanna gagnvart Framsóknarflokknum. Hann endurspeglar hliðstæðan undirlægjuhátt ráðherra Sjálfstæðisflokksins. Um þetta lið í heild má segja, að það sé eins konar Framsóknarflokkur í Sjálfstæðisflokknum.

Matthías Bjarnason, framsóknarráðherra í Sjálfstæðisflokknum, leggur kapp á að fá Alþingi til að samþykkja ný fjarskiptalög, sem fela í sér aukna hörku í einokun Pósts og síma á fjarskiptum. Þetta frumvarp gengur þvert á anda og stefnu Sjálfstæðisflokksins.

Á sama tíma nenna ráðherrar og þingmenn Sjálfstæðisflokksins ekki að keyra í gegn útvarpslagafrumvarpið, sem gengur í hina áttina, aukið frjálsræði í anda stefnuskrár Sjálfstæðisflokksins. Þeir hyggjast samþykkja fjarskiptafrumvarpið og salta útvarpslagafrumvarpið.

Frumvörp, sem eru í anda stefnuskrár Sjálfstæðisflokksins, fá að velkjast um á Alþingi mánuðum saman og sofna í nefndum, sem stjórnað er af framsóknarmönnum, sem sumir hverjir eru þingmenn Sjálfstæðisflokksins, en eru samt verri framsóknarmenn en hinir, er játa lit.

Frumvörp, sem hins vegar eru í anda einokunar, borin fram af sérstökum afturhaldsmönnum á borð við Pál Pétursson, formann þingflokks framsóknarmanna, á hins vegar að keyra í gegn á örfáum vikum. Eitt dæmið um það er frumvarpið um fríðindi Mjólkursamsölunnar í kakómjólk og fleiru.

Frekjan í þessum afturhaldsmönnum er svo gegndarlaus, að nú neita þeir að afgreiða kosningalagafrumvarp, sem formenn allra stjórnmálaflokkanna á síðasta þingi standa að á þessu þingi. Ætti afgreiðslan þó nánast að vera formsatriði, því að frumvarpið var samþykkt á síðasta þingi.

Afturhalds- og einokunarsinnar mundu ekki láta svona, ef þeir væru ekki búnir að átta sig á, að hrygginn vantar í þingflokk og ráðherralið sjálfstæðismanna. Þeir ganga á lagið, þegar þeir finna, að þessi dapurlega hjörð hefur næstum engan áhuga á eigin flokksmálum.

Einkennilegt er, að sjálfstæðisflokkurinn sem stofnun skuli orðalaust láta viðgangast, að fulltrúar hans á þingi hagi sér eins og sannfærðir framsóknarmenn. Það er eins og eymdin og niðurlægingin hafi líka lamað apparatið í Valhöll, meira að segja nýja formanninn.

Jónas Kristjánsson.

DV

KEA

Veitingar

Akureyringar fara ekki út að borða á Hótel KEA, þótt matsalurinn á annarri hæð hótelsins, það er að segja ekki Súlnaberg, sé sennilega hinn bezti í bænum. Sölumennirnir að sunnan sitja við borðaröðina Kaupvangsstrætismegin, svo og ferðafólk á sumrin. Að öðru leyti er 120 manna salurinn auður, nema þegar böll eru haldin um helgar.

Stílhreinni en áður

Veitingastofan er stílhreinni en áður. Horfinn er þreytusvipurinn á innréttingum. Áklæði er upp í venjulega panilhæð á veggjum. Þar fyrir ofan eru sundurleit málverk á ljósum veggjum. Borðdúkar og teppi eru rauð. Þykk flauelstjöld eru fyrir gluggum. En til að gera staðinn notalegri, þyrfti að stúka hann sundur með rennihurð, þegar fátt er gesta.

Á KEA er reynt að halda til jafns við reykvísk hótel í fagmannslegri og formlegri þjónustu. Það tekst raunar svo vel, að þjónar vita um stöðu mála í eldhúsi og geta veitt nothæfar upplýsingar og marktæk ráð. Þeir ónáða ekki gesti að óþörfu, en sjá þeim fyrir ísvatni og víni á hljóðlátan hátt.

Hinn hefðbundni bragur kemur bezt í ljós í framreiðslu matarins. Hann er allur borinn inn á fötum og færður upp á diska við borð gesta. Þetta er orðið sjaldgæft, ekki síður á fínum stöðum. Eitt andartak finnst okkur, að við séum horfin til gamals tíma, þegar Akureyri var hálfdanskur bær og stundaðir voru mannasiðir þess tíma. En því miður eru sölumennirnir við borðin að sunnan og bera ekki einu sinni hálshnýti.

Lítið um góðan fisk

Á Akureyri er ekki auðvelt að fá góðan fisk, enda eru gerðir þaðan út togarar, en ekki bátar. Veitingastaðirnir bera þess merki. Þeir sérhæfa sig í lamba- og nautakjöti og gefa sig lítt að réttum úr hafinu.

Sjávarréttir í osthjúp, bornir fram í hörpuskel, voru dæmi um þetta á Hótel KEA. Hörpufiskurinn var að vísu meyr og góður, en bæði lúðan og laxinn voru þurr. Fiskur er viðkvæmt hráefni, sem þolir illa upphitun í ofni eftir að hafa verið eldaður áður. Þess vegna er svokölluð “gratinering” sjávarrétta hálfgert hættuspil hjá íslenzkum kokkum.

Hins vegar var mjög góður gufusoðni eldislaxinn úr Lóni. Hann var ekki bragðmikill, en sérlega vægt eldaður og meyr, greinilega ekki úr frysti, heldur ferskur. Með honum voru grásleppuhrogn og volg vínber, sem áttu vel við fiskinn.

Þurrt sérrí fyrir matinn fékkst ekki á KEA, en hálfþurrt Dry Sack bætti nokkuð úr skák. Í prófuninni var súpa dagsins kremsúpa Espagnole með grænmeti, ágætis súpa. Af fastaseðli var reynd lauksúpa með osthjúp, sérstaklega bragðgóð.

Eitt dæmið um hefðbundinn stíl staðarins er, að gestir fá ekki hver sinn disk með hrásalati, heldur sameiginlega salatskál, svona eins og með semingi, því að hrásalat var ekki til siðs í Danmörku í gamla daga. Grænmetið var ágætt og borið fram með olíusósu í skál, svo sem vera ber.

Úrbeinaður lambahryggur, sítrónukryddaður og ofnbakaður, var léttsteiktur og bragðgóður. Með honum var borið fram soðið blómkál og svissneskt kartöflurasp, svokallað rösti, lítils virði, svo og ýmislegt annað meðlæti, sem betur fer ekkert úr dós.

Heilsteiktar nautalundir voru blóðrauðar, meyrar og bragðgóðar. Með þeim var þjóðarrétturinn béarnaise-sósa, sem þjónar yfirstéttinni eins og annar þjóðarréttur, kokkteilsósa, þjónar undirstéttinni. Einnig fylgdu ferskir sveppir, ristaðir. Nokkrum dögum síðar reyndist piparsteik vera í sama, háa gæðaflokknum.

Sérpantaður grillkjúklingur með frönskum kartöflum reyndist vera mildilega eldaður, meyr og bragðgóður, sennilega einn hinn bezti á landinu.

Sósur staðarins voru upp og ofan. Béarnaise-sósan með nautakjötinu var mild og góð. Kjötseyðissósan með lambakjötinu var bragðlaus hveitisósa. Og eggjasósan með laxinum var skorpin, ekki árennileg.

Ís og kaffi bragðaðist vel og kaffið var endurnýjað án sérstakra tilmæla. Gamla konfektið með kaffinu var hins vegar miður gott.

Vínlistinn í Hótel KEA er ekki merkilegur. Af hvítvínum er frambærilegt Chablis frá Thorin og af rauðvínum Chateauneuf-du-Pape, Geisweiler Reserve, Chianti Antinori og Trakia.

Hagstætt verðlag

Á fastaseðli eru þrjár súpur, fimm forréttir, sex sjávarréttir, tíu kjötréttir og fimm eftirréttir. Miðjuverð súpa er 95 krónur, forrétta 211 krónur, sjávarrétta 300 krónur, kjötrétta 420 krónur og eftirrétta 130 krónur. Þríréttuð veizla af fastaseðli með kaffi og hálfflösku af víni á mann ætti að kosta um 807 krónur á mann.

Á seðli dagsins voru þrír réttir, súpa og eftirréttur. Miðjuverð súpu og aðalrétta var 430 krónur að kvöldi og 304 krónur í hádegi. Þriggja rétta veizla af dagseðli með kaffi og hálfflösku af víni ætti að kosta 683 krónur á kvöldin og 598 krónur í hádeginu. Þetta verðlag er yfirleitt hagstætt í samanburði við hliðstæða hótelsali í Reykjavík.

Sem hefðbundinn matsalur utan við strauma nútímans er Hótel KEA staður tiltölulega vandaðrar matreiðslu og mjög vandaðrar þjónustu, sem mætti gjarna nýtast norðanmönnum og ekki eingöngu sölumönnum að sunnan eða ferðamönnum utan úr heimi.

Jónas Kristjánsson

DV

Verðbólgan vaknar.

Greinar

Ýmislegt bendir til, að ríkisstjórninni muni reynast erfitt að halda verðbólgunni niðri, þegar líður á seinni hluta þessa árs. Eftir það afreksverk að koma henni niður í 10% á skömmum inna, skortir hana úrræði til að verja árangurinn og nýta hann til frekari framfara.

Ríkisstjórninni hefur ekki tekizt að hindra, að samdráttur þjóðartekna leiddi til aukinnar hlutdeildar ríkisins í þjóðarbúskapnum. Henni hefur ekki tekizt að draga úr kostnaði við ríkisrekstur til samræmis við aðra aðila þjóðfélagsins, til dæmis heimilin í landinu.

Ríkisstjórnin hafði hálft ár til að koma fram fjárlögum og þrjá mánuði til viðbótar til að afgreiða lánsfjáráætlun og staga í fjárlagagatið. Niðurstaðan er, að fátt eitt hefur verið sparað, en hins vegar efnt til umtalsverðrar söfnunar skulda í útlöndum.

Umfangsmikill rekstur ríkissjóðs og sú nýbreytni að fjármagna daglegan rekstur hans með erlendu lánsfé eru til þess fallin að auka peningaþensluna án nokkurrar hliðstæðrar eflingar atvinnulífsins. Með þessu er verið að efna í nýja verðbólgu, sem mun leita framrásar.

Ríkissjóður stendur í harðri samkeppni við atvinnulífið um takmarkað sparifé landsmanna. Þegar tregða komst í sölu ríkisskuldabréfa, hóf ríkið öra útgáfu ríkisvíxla. Þetta hefur stuðlað að því, að framboð peninga í bönkunum er ekki neina þriðjungur af eftirspurn.

Slíkt misvægi er auðvitað ávísun á verðbólgu, þótt hún blundi enn undir niðri og hafi ekki komið upp á yfirborðið. Og það er ekki hin jákvæða verðbólga, sem byggist á miklum sóknarþunga þjóðarinnar í arðbærri fjárfestingu, heldur verðbólga fjármagnsskömmtunar.

Ríkisstjórnin hefur ekkert breytt kerfinu, sem sér um, að verulegur hluti fjármagns landsmanna renni framhjá brautum arðseminnar inn á brautir ríkisrekstrar og sjálfvirkrar fyrirgreiðslu við hefðbundna og lítt arðbæra starfsemi, sem löngum hefur notið pólitískrar náðar.

Ríkisstjórnin hefur náð verðbólgunni niður með því að gera landið að láglaunasvæði, en hún hefur ekki notað lagið til að gera neinn þann uppskurð í peninga- og atvinnumálum, sem veki vonir, að aukin arðsemi fjármagns og vinnu muni endurveita þjóðinni fyrri lífskjör.

Fréttirnar af Grænmetisverzlun landbúnaðarins og Mjólkursamsölunni eru tvö lítil, ný dæmi um, að hinn hefðbundni landbúnaður er í heild sinni gjaldþrota. Þegar slíkt krabbamein er ekki einu sinni skorið upp, er ljóst, að við munum áfram búa við kröpp kjör.

Margvíslegar upplýsingar um vafasama fjárfestingu hins opinbera, til dæmis í verksmiðjudraumórum og heilsugæzlustöðvum, hafa ekki leitt til neinnar viðleitni til að nýta betur fjármagnið í landinu. Þetta eru bara örfá dæmi um, að ríkisstjórnin er í sjálfheldu.

Í haust mun hún standa berskjölduð gagnvart launþegasamtökum, sem hafa lausa samninga og munu spyrja, hvernig ríkisstjórnin hafi notað svigrúmið, sem hún fékk við hófsemdarkjarasamninga liðins vetrar. Og ríkisstjórnin mun ekki geta veitt nein marktæk svör.

Þannig rennur tíminn frá ríkisstjórninni. Framkoma hennar gagnvart launþegum mun ýta undir óraunhæfa kjarasamninga síðar á þessu ári. Þeir munu svo aftur blása eldi í glæður verðbólgunnar, sem ríkisstjórnin hefur að undanförnu verið að safna í af hreinu ráðleysi.

Jónas Kristjánsson.

DV

Seintekinn þjóðargróði.

Greinar

Nýlega kom fram á aðalfundi eins bankans, að eftirspurn eftir lánsfé sé þrefalt meiri en framboðið. Slíkt er ástandið enn, þótt vextir séu loksins orðnir jákvæðir og þótt bönkunum hafi verið heimilað að hefja samkeppni um að laða að sér sparifjáreigendur.

Verðbólgan hefur komið sér þægilega fyrir í 10% hægagangi og er ekki líkleg til að lækka frekar í bráð. Miðað við það er eðlilegt að túlka skakkan lánamarkað þannig, að vextir þurfi að hækka á nýjan leik. Þeir þurfi að verða jákvæðari en þeir hafa verið.

Steingrímur Hermannsson hefur að vísu sagt, að vaxtahækkun komi ekki til greina. Þar með er hann raunar að segja, að hann treysti sér ekki til að nálgast jafnvægi á lánamarkaði meira en orðið er. Eftirspurnin muni áfram verða þrefalt meiri en framboðið.

Það hefur sínar góðu hliðar, að Steingrími og félögum hans í ríkisstjórninni hefur tekizt að gera Ísland að láglaunasvæði. Fyrirtækjum er farið að vegna betur og kjarkur til athafna hefur aukizt. Þetta vekur vonir um efldan þjóðarhag og betri lífskjör í framtíðinni.

Aukinn máttur fyrirtækja leiðir til aukinnar sóknar þeirra í lánsfé til uppbyggingar. Ráðamenn þeirra telja fyrirhugaðar fjárfestingar svo arðbærar, að þær muni standa undir hinum jákvæðu vöxtum, sem nú ríkja. sumar gætu vafalaust staðið undir hærri vöxtum.

Hið fullkomna jafnvægi fælist í, að vextir yrðu svo háir, að framboð og eftirspurn væru jöfn. Þá mætti ætla, að einungis væri ráðizt í arðbærustu fjárfestinguna. Þannig mundi takmarkað sparifé landsmanna nýtast hraðast, endurnýjast örast til nýrrar fjárfestingar.

Þar sem ríkisstjórnin hefur ekki þessa hugsjón að leiðarljósi, reynir hún í staðinn að skammta lánsféð. Hún reynir að velja úr þennan eina af hverjum þremur, sem fær peningana. Þetta hafa ríkisstjórnir alltaf gert og sjaldnast út frá neinum arðsemissjónarmiðum.

Ríkisstjórnin hefur beðið Alþingi um heimild til að auka svokallaða bindiskyldu bankanna í Seðlabankanum um 10%.. Með því er ætlunin að taka lánsfé af hálfopnum markaði bankakerfisins og færa inn í sjálfvirka kerfið, sem forgangsgreinar njóta í Seðlabankanum.

Peningar eru raunar aldrei bundnir í þeim banka. Þeir fara út jafnharðan í formi sjálfvirkra lána á betri kjörum en tíðkast á almennum markaði. Þannig er tryggt, að gæludýrin fái sitt, meðan arðbær verkefni slást um niðurskorið fjármagn bankakerfisins.

Áhugaleysi ríkisstjórnarinnar á jafnvægi á lánamarkaði er ein af orsökum þess, að enn er krafizt 75% útborgunar í fasteignaviðskiptum, þótt verðbólgan hafi snarlækkað á einu ári. Þessi útborgun sýnir, að eftirspurn eftir steypu er meiri en framboðið.

Dæmin sýna, að hér ríkir ekki kreppa, heldur þensla. Hún gefur vonir um fulla atvinnu í náinni framtíð og bætt lífskjör í fjarlægari framtíð. Þetta er góða hliðin á annars þungbærri láglaunastefnu. En svo virðist, að ríkisstjórnin ætli að láta við þá stefnu eina sitja.

Núverandi svigrúm ætti hins vegar að nýta til að koma á jafnvægi og jafnrétti á lánamarkaði, svo að peningar renti sig sem örast og þjóðin verði aftur rík. Meðan framboð á lánsfé er aðeins einn þriðji af eftirspurn verður seintekinn þjóðargróðinn af þessari ríkisstjórn.

Jónas Kristjánsson.

DV

Harðlínan bifast ekki.

Greinar

Þess misskilnings hefur gætt undanfarna daga, að nú séu að linast tök landseigendafélags Íslands á stefnu stjórnvalda í málum hins hefðbundna landbúnaðar. Er haft til marks um þetta, að deilt hafi verið um stefnuna á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins um síðustu helgi.

Ráðamenn Framsóknarflokksins hafa lengi opinberlega verið þeirrar skoðunar, að framleiða skuli hefðbundnar landbúnaðarafurðir upp í meintar innanlandsþarfir og hafa í góðum árum afgang til útflutnings, svo að ekki komi til skorts á þessum vörum í vondum árum.

Ekki er minnzt á landbúnað í ályktun miðstjórnafundarins. Eftir fundinn lýsti svo Steingrímur Hermannsson formaður yfir, að æskilegt væri, að útflutningur landbúnaðarafurða væri sem minnstur. Þetta er áherzlubreyting í stefnu, en alls engin kúvending.

Ef frá eru taldir nokkrir áhrifalitlir Reykvíkingar, eru deilur Framsóknarflokksins um hinn hefðbundna landbúnað milli harðlínumanna annars vegar og grjótharðlínumanna hins vegar.Harðlínumenn á borð við Steingrím og Jón Helgason landbúnaðarráðherra hafa undirtökin í þeim deilum.

Harðlínumenn vilja í stórum dráttum halda óbreyttri stefnu í málum hins hefðbundna landbúnaðar, þótt gjaldþrot hennar sé sífellt að verða fleirum ljóst. Þeir vilja gefa eftir í smámunum eins og jógúrtmálinu, þegar þrýstingur verður óbærilegur, en sækja fram á öðrum sviðum eins og í eggjamálinu.

Grjótharðlínumennirnir reka hins vegar eins konar lngólfsku, sem er stefna óheftrar sjálfvirkni í offramleiðslu óseljanlegra afurða á þjóðarkostnað. Slíka menn er líka að finna í Sjálfstæðisflokknum og einkum þó í Alþýðubandalaginu, sem oft reynir að grafa undan Framsókn úr þessari átt.

Samanlagt ráða harðlínumenn og grjótharðlínumenn stefnu og gerðum allra þessara stjórnmálaflokka í málum hins hefðbundna landbúnaðar. Og Sjálfstæðisflokkurinn hefur meira að segja gert aðalþingmann stærsta landbúnaðarkjördæmisins, arftaka lngólfs, að flokksformanni.

Þessarar þriggja flokka varðstöðu um landseigendafélag Íslands sér greinileg merki á liðnum vetri. Hinn hefðbundni landbúnaður hefur verið varinn með kjafti og klóm, þrátt fyrir margvíslegar uppljóstranir. Og á sumum sviðum hefur honum tekizt að sækja fram gegn neytendum og þjóð.

Engin von er á, að afnumin verði einokun Grænmetisverzlunar landbúnaðarins, þrátt fyrir hundraðasta hneykslið, er felst í hringrotna skepnufóðrinu, sem selt er undir heitinu kartöflur. Frumvarp Alþýðuflokksins um það efni hefur ekki einu sinni fengizt rætt.

Engin von er á, að afnumin verði einokun Mjólkursamsölunnar, þótt komið hafi í ljós ofsagróði í skjóli sjálfvirkrar verðlagningar á einokunarvörum, sem meðal annars er notuð til óheiðarlegrar samkeppni á öðrum sviðum. Það er varla, að söluskattur náist af mangó!

Þrátt fyrir virka andstöðu hefur harðlínumönnum tekizt að útvega lán af fé neytenda til eggjadreifingarstöðvar þeirrar, sem er fyrsta skrefið í að breiða einokun hins hefðbundna landbúnaðar yfir egg, kjúklinga og svín. Þar er á ferðinni hið hættulegasta mál.

Þjóðin hefur ekki og er ekki hið minnsta að nálgast afnám martraðar innflutningsbanns á búvöru og ríkisstuðnings við hinn hefðbundna landbúnað. Landseigendafélagið stendur við stjórnvölinn og lætur engan bilbug á sér finna. Þjóðin mun áfram borga og borga og borga.

Jónas Kristjánsson.

DV

Smiðjan

Veitingar

Eftirprentanir í stað plasts

Horfið er litaða plastið með límböndum, sem átti að líkja eftir steindum gluggum. Í staðinn eru komnar eftirprentanir frægra málverka í þungum römmum, nokkur framför í átt til smekkvísi. Flest þeirra eru frá tíma blæstíls, en nokkur úr ýmsum áttum. Við sátum undir Varðsveit Cocq og van Ruytenburgh, öðru nafni Næturvörðum Rembrandts – í litum, sem voru töluvert frábrugðnir frummyndinni í Rijksmuseum í Amsterdam.

Að öðru leyti er Smiðjan á Akureyri eins og hún hefur verið, 50 sæta veitingastofa í gömlu húsi, klædd sandblásnum og dökkbrúnum viði. Þar er ennþá gerviarinn með rafljósi og meira að segja er vínið enn geymt við 23 stiga hita í sjálfum borðsalnum.

Í innréttingum er Smiðjan andstæða matsalarins í Hótel KEA, innilokun í stað víðáttu. Þetta er einn af stöðum básatízkunnar. Skilrúmin ná upp að augnhæð og samtal heyrist vel milli bása, svo sem venja er á slíkum stöðum. Og þjónar verða að teygja sig til að bera á borð fyrir gesti.

Lítið er um að vera í Smiðjunni í miðri viku, nema þá á sumrin, þegar slæðingur er af ferðamönnum. Um helgar er meira um að vera. Þá fara Akureyringar út að borða í notalega hlýju umhverfi Smiðjunnar. Þeir hlusta á þægilega kvöldverðartónlist Þorvalds Hallgrímssonar. Þeir njóta skólagenginnar þjónustu fagmanna. Þeir fá mat, sem er næstum því eins góður og á KEA og kostar dálítið meira.

Notalegt er að setjast við skjannahvíta damaskdúkana með ferskum blómaskreytingum og fá ísvatn strax á borðið. Þurrt sérrí var ekki fáanlegt, svo að notast varð við Bristol Dry. Hið eina, sem er úr stíl á borðunum, eru skorin kristalsglös, er víkka út að ofan og gætu dugað undir eftirrétti, til dæmis kraumís. En vínglös eru þau ekki.

Smiðjan er steikhús, sem sérhæfir sig í eldglæringum við borð gesta. Við slíkar aðstæður er kjötið steikt frammi í eldhúsi eins og venjulega. Síðan er farið með það inn í sal, þar sem hellt er á það brandí og kveikt í, svo að loginn stendur stutta stund hátt í loft upp. Gestir eru hættir að fylgjast með þessu sjói, hvað þá að þeir klappi saman lófunum í fögnuði.

Fiskur ekki á boðstólum

Fiskur var næstum alls ekki á boðstólum í Smiðjunni í vor, nema undir heitinu Blandaðir sjávarréttir. Man ég þó eftir að hafa fengið þar ágætan lax að sumarlagi. En þetta fiskleysi er dæmi um, að Akureyringar eru ekki enn komnir á það stig að telja fisk til fíns matar.

Blandaðir sjávarréttir, bornir fram í hörpuskel, með ristuðu brauði, voru aðallega rækjur með smávegis af kola og hörpufiski og miklum lauki. Þetta var bragðsterkur matur og ekki fisklegur. Ekki var hægt að greina sundur bragð einstakra tegunda sjávarrétta í skelinni.

Hvítvínslöguð sjávarréttasúpa var hins vegar góð, þótt einnig hún væri bragðsterk af kryddi. Þetta var vel rjómuð, hressandi súpa, sem hafði að geyma rækjur og hörpufisk. Með henni var borið fram ágætt heilhveitibrauð og smjör, sem enn var í umbúðum Osta- og smjörsölunnar. Slíkt umbúðafargan er talið geta gengið í hótelmorgunverðum, en er óviðkunnanlegt á damaskdúkum veizlusala.

Súpa dagsins var að þessu sinni kjötseyði með skinku og sveppum. Þetta var góð súpa, þótt sveppirnir væru úr dós og skinkan lítt áberandi.

Grillsteiktur humar var óvenju stór og glæsilegur og hefði þess vegna getað orðið hinn bezti matur. En hann var ofgrillaður og borinn fram með brúnuðu smjöri, ekki góðu. Það ætti raunar að banna að ofkrydda og ofelda svona dýrt og viðkvæmt hráefni.

Ljúfustu steikur

Hrásalat með kjötréttunum var sótt upp í salatborð Bautans, sem er í sömu húsasamstæðu. Í annað skiptið var það tilviljanakennd sýnisbók alls þess, sem þar fékkst, en í hitt skiptið var valið úr, svo að það hafði stíl. Þetta var gott salat, borið fram með amerískri sósu, en ekki evrópskri olíusósu.

Meðlæti kjötréttanna var staðlað í bæði skiptin. Í fyrra skiptið var bökuð kartafla, bragðlausar gulrætur soðnar, og bragðlaust rósakál soðið, blómkál og ferskir, hráir sveppir. Í hitt skiptið var bökuð kartafla og belgbaunir úr dós. Sósan var hin hefðbundna béarnaise, sem íslenzkir kokkar telja eina koma til greina með nautasteik.

Smiðjubautinn á seðli dagsins og turnbautinn á fastaseðlinum þurftu að þola eld-sjóið, en lambalundirnar sluppu hins vegar. Allt var þetta hrásteikt, meyrt og ljúft á bragðið, svo sem vera ber á stað, er sérhæfir sig í steik.

Annað sérkenni Smiðjunnar er að bjóða upp á fjölbreytta og óvenjulega eftirrétti. Hæst ber þar glóðaða banana með Kahlúa kaffilíkjör og rjóma, hinn ljúfasta eftirrétt. Ísfylltur súkkulaðibolli reyndist einnig vera góður. Með kaffinu voru bornir fram ágætir konfektmolar.

Vínlisti Smiðjunnar er fátæklegur. Þar má þó finna meðal hvítvína Bernkasteler Schlossberg, kallað Badstube á vínkorti, og Chablis, og meðal rauðvína Chianti Antinori og Chateauneuf-du-Pape.

Fastaseðill Smiðjunnar rúmar fjórar súpur, sex forrétti, þrjá sjávarrétti, sjö kjötrétti og fimm eftirrétti. Miðjuverð súpa er 92 krónur, forrétta 190 krónur, sjávarrétta 340 krónur, kjötrétta 430 krónur og eftirrétta 120 krónur. Þríréttuð veizla af fastaseðli með hálfri flösku af víni á mann og kaffi ætti að kosta um 811 krónur á mann.

Seðill dagsins bjó yfir súpu, tveimur-þremur aðalréttum og eftirrétti. Þriggja rétta veizlan ætti að kosta 910 krónur á kvöldin og ekki nema 488 krónur í hádeginu. Súpa og aðalréttur í hádeginu kosta 323 krónur að meðaltali.

Smiðjan er ágætur staður fyrir þá, sem dálæti hafa á góðum steikum og hafa gaman af að horfa í eld, þótt ekki sé nema andartak.

Jónas Kristjánsson

DV

Þrotinn stjórnarkraftur.

Greinar

Eftir sex vikna þref í ríkisstjórninni er fengin léleg niðurstaða í tilraunum hennar til að koma á jafnvægi í ríkisbúskap ársins. Upp í 3.000 milljón króna gat á fjárlögum og lánsfjáráætlun fannst aðeins 300 milljóna sparnaður hjá hinu opinbera. Það er 10% árangur.

Að öðru leyti afgreiðir ríkisstjórnin málið með því að leggja 600 milljón krónur á aðra aðila og taka 2.100 milljón krónur að láni í útlöndum. Þessari dapurlegu niðurstöðu spáði DV raunar fyrir þremur vikum. Þá var ljóst, að ríkisstjórnin hafði misst hæði kjarkinn og flugið.

Ekki er einu sinni svo vel, að ríkisstjórninni sé fyllilega ljóst, hvernig hún spari 300 milljónir. Hún talar um 185 milljón króna lækkun í ráðuneytunum og 100 milljón króna sparnað í heilbrigðiskerfinu. Ekki fylgir sögunni, hvers konar sparnaður þetta sé í raun.

Rétt er að leggja áherzlu á, að 600 milljóna álögur á aðra aðila eru ekki sparnaður, heldur millifærsla í þjóðfélaginu. Þessar millifærslur kunna í ýmsum tilvikum að vera nauðsynlegar og jafnvel beinlínis gagnlegar. En þær fela ekki í sér samdrátt í rekstri ríkisins.

Sem dæmi um þetta má nefna niðurgreiðslurnar, sem sagt er, að eigi að lækka úr 945 milljónum í 760 milljónir eða um 185 milljónir. Þetta er gagnlegur niðurskurður, sem hefði raunar mátt vera margfalt meiri. En hann flokkast undir millifærslur, en ekki beinan sparnað.

Verra er, að ríkisstjórnin lítur á það eins og sjálfsagðan hlut, að þessar 185 milljónir lendi á herðum neytenda, en ekki framleiðenda. Þær lenda ekki á herðum vinnslustöðva, sem lifa í vellystingum praktuglega og fjárfesta grimmt í skjóli einokunar og aðhaldsleysis.

Þar sem unnt væri að fá mun ódýrari landbúnaðarvörur frá útlöndum, verður ekki séð, að neytendum beri að greiða herkostnað af minnkuðum niðurgreiðslum. Það er innflutningsbannið, sem gerir landbúnaðarvörur svo dýrar, að niðurgreiðslur eru notaðar til að láta þær ganga út.

Ef innflutningur landbúnaðarafurða væri frjáls, þyrftu neytendur ekki á neinum niðurgreiðslum að halda og mundu þar á ofan öðlast kjarabót í lækkuðu vöruverði. Niðurgreiðslurnar eru því einkamál ríkisins og hinna vernduðu framleiðenda. Þær á ekki að færa á herðar neytenda.

Sjálfvirknin við að koma niðurgreiðsludæminu á rangar herðar sýnir vel, að Sjálfstæðisflokknum svipar til Alþýðubandalagsins í að vera algerlega blindaður bandingi Framsóknarflokksins í málum hins hefðbundna landbúnaðar, hins íslenzka landseigendafélags.

Þessi blinda hlýðni kemur líka í veg fyrir, að ríkisstjórnin geti aflétt millifærslum á ýmsum öðrum sviðum, er varða landseigendafélagið, svo sem útflutningsuppbótum, innflutningsbanni, beinum styrkjum til eflingar offramleiðslu og ódýrum forgangslánum.

Þetta á verulegan þátt í, að ríkisstjórnin telur sig nauðbeygða til að taka að láni í útlöndum 2.100 milljón krónur af 3.000 milljóna gati fjárlaga og lánsfjáráætlunar. Það er alvarlegasta hliðin á málinu og mun sennilega koma þjóðarskuldum yfir 60% af árlegri þjóðarframleiðslu.

Þótt ríkisstjórnin reyni nú að hagræða spátölum til að svo líti út sem þessi 60% múr hafi ekki verið rofinn með lélegri niðurstöðu í sparnaðaráformum hennar, má öllum öðrum vera ljós ósigur hennar. Eftir góða byrjun í fyrra er farið að síga á ógæfuhliðina. Ríkisstjórninni er þrotinn kraftur.

Jónas Kristjánsson.

DV

Óætar kartöflur einokunar.

Greinar

Í öllum borgum Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku eiga neytendur greiðan aðgang að mörgum tegundum óskemmdra kartaflna árið um kring. Á útimörkuðum þessara borga er algengt að sjá tíu til fimmtán tegundir af húðsléttum og heilbrigðum kartöflum. Hvergi sést skemmd kartafla.

Ísland hefur þá sérstöðu, að hér er hins vegar einkum boðið upp á húðskemmdar kartöflur, sem sumar duga til skepnufóðurs, en aðrar eru hreinlega óætar. Þetta stafar af, að hér ríkir ekki verzlunarfrelsi með kartöflur, heldur einokun Grænmetisverzlunar landbúnaðarins.

Kartöflur og annað grænmeti er skorið upp á öllum tímum árs eftir löndum og breiddargráðum. Nútíma samgöngutækni veldur því, að nýjar og fallegar kartöflur eru jafnan á boðstólum í öllum nágrannalöndum okkar í austri og vestri. Bara ekki hér á landi.

Grænmetisverzlun landbúnaðarins hefur hins vegar haft lag á að kaupa til manneldis erlendar fóðurkartöflur á sama verði eða hærra en mannamaturinn. Sem dæmi má nefna, að fyrr í þessum mánuði sýndi athugun Neytendasamtakanna, að þriðjungur kartaflna var þriðja flokks.

Nýjustu innkaupin á þremur sendingum af hringrotnum kartöflum frá Finnlandi eru bara yngsti kaflinn í langri harmsögu Grænmetisverzlunar landbúnaðarins. Meðal annars hefur hún flutt inn kartöflur frá sýkingarsvæðum hinnar illræmdu kóloradóbjöllu.

Stundum hefur verið hægt að sýna fram á, að innkaupsverð Grænmetisverzlunar landbúnaðarins eru óeðlilega há. Fyrir fjórum árum keypti hún til dæmis skemmdar kartöflur af Thorsen í Danmörku á 1,20 danskar krónur kílóið við skipshlið, þegar Færeyingar fengu óskemmdar af sömu tegund á 0,85 krónur.

Einnig hefur verið hægt að sýna fram á, að álagning Grænmetisverzlunarinnar er óeðlilega há. Meðan einkafyrirtækin fá 15% álagningu á hliðstæða vöru, er Grænmetisverzluninni ætluð 37% álagning. Dæmi eru svo um, að hún hafi í raun skammtað sér 54% álagningu.

Grænmetisverzlun landbúnaðarins hefur oft verið staðin að hreinum lygum. Hún hefur gefið upp ýktar tölur um innkaupsverð í útlöndum. Hún hefur logið upp útflutningsgjöldum í útlöndum. Hún hefur haldið því fram, að nýjar kartöflur séu ekki fáanlegar allt árið.

Dæmi um þetta hafa verið rakin hér í blaðinu og fyrirrennurum þess í um það bil áratug. Samt er mjög erfitt að kanna slík mál, því að Grænmetisverzlun landbúnaðarins er lokuð stofnun, sem stendur engum reikningsskap gerða sinna, ekki einu sinni Verðlagsstjóra.

Í 25 ár hefur verzlun þessi starfað á vegum Framleiðsluráðs landbúnaðarins. Það ráð er þungamiðja valdakerfis landeigendafélags Íslands, það er að segja fyrirtækja og stofnana hins hefðbundna landbúnaðar. Það rekur Grænmetisverzlunina eins og sjálfseignarstofnun.

Þannig hefur höllin Gullauga verið reist fyrir peninga, sem neytendur hafa neyðst til að greiða fyrir of dýrar, of gamlar og of skemmdar kartöflur. Íslendingar hafa neyðst til að borða skepnufóður meðan aðrar þjóðir hafa fengið úrval ódýrra, nýrra og óskemmdra kartaflna.

Ekkert vit er í, að þessi aðstöðumunur verði framlengdur. Neytendur þurfa að skera upp herör gegn einokuninni og kvelja trega stjórnmálaflokka til að létta af martröðinni. Verzlunarfrelsi er forsenda þess, að neytendur öðlist þau mannréttindi að fá ætar kartöflur.

Jónas Kristjánsson.

DV

Upphafið að endalokunum?

Greinar

Ríkisstjórnin hefur stundað fálmkennt reiptog um fjárlaga- og lánsfjárlagagatið í rúmar þrjár vikur. Virðing hennar hefur hjaðnað við þessa iðju. Daglega lesa menn og heyra fréttir um, að einn ráðherrann vilji fara út og annar suður, þriðji norður og hinn fjórði niður.

Eftir hina miklu jóðsótt fjallsins er þegar orðið ljóst, að fæðast mun lítil mús. Ríkisstjórnin mun ná samkomulagi um aðgerðir, sem að minnstu leyti fela í sér niðurskurð, að meira leyti aukna skattheimtu og að mestu leyti hreina frestun vandans með skuldasöfnun.

Þetta er auðvitað ekki nokkur árangur. Niðurstaðan hlýtur að vekja menn til umhugsunar um, hvort reiptogið og útkoma þess séu ekki upphafið að endalokum ríkisstjórnarinnar. Eftir djarfa og vinsæla byrjun muni hún koðna niður og smám saman andast úr hræðslu og fylgisleysi.

Þegar reiptogið hófst fyrir hálfri fjórðu viku, voru tilbúnar hugmyndir embættismanna um 1.700 milljón króna bandorm, sem fól í sér bæði niðurskurð og nýjar álögur. Bandormurinn hefði fyllt gatið að verulegu leyti. Ríkisstjórnin hefði vel getað byggt á honum.

Í stað þess fengu flestir ráðherranna fyrir hjartað, þegar þeir sáu orminn. Þeir litu í barm sinna ráðuneyta og sáu fram á margvíslegar raunir við framkvæmd málsins. Þeir kusu að ganga ekki djarflega til verks, heldur stinga höfðinu í sandinn í von um, að vandinn hyrfi.

Eftir bandorminn hafa komið fram ýmsar tillögur aðrar um aukinn sparnað og niðurskurð hjá ríkinu. Lengst hefur verið gengið hér í leiðara, þar sem raktar voru fimmtán tillögur um samtals 3.089 milljón króna hreinan niðurskurð fjárlaga og lánsfjáráætlunar ársins.

Meðal annars var lagt til, að fjármagn til vegagerðar yrði lækkað úr 1.583 milljónum í 1.383, það er að spöruð yrði 200 milljón króna lántaka í ljósi erfiðleikanna. Samgönguráðherra fórnaði höndum í örvæntingu og spurði: Hvaða kjósandi vill sjá af nýja veginum sínum?

Einkennilegt er, að ráðherrarnir skuli halda dauðahaldi í 200 milljón króna framlag til virkjunar Blöndu, sem landeigendur hafa gert að dýru orkuveri og sem ekki hefur kaupanda að orkunni. Og í 104 milljón króna framlag til flugstöðvar, sem má bíða betri tíma.

Einnig er einkennilegt, að ráðherrarnir skuli halda dauðahaldi í 100 milljón króna framlag til kaupa á hlutabréfum í loftköstulum á borð við steinullarver. Og í 92 milljón króna framlag til flugfélags, sem á allt gott skilið, en hefur þó hagnað á þessum erfiðu tímum.

Þegar illa árar, er eðlilegt, að ríkið neiti sér um að þykjast hafa efni á að veita 61 og 230 milljónum króna til orkustyrkja, sem hamla gegn því, að innlendir orkugjafar taki við af innfluttum. Þessir styrkir urðu til, þegar Íslendingar voru ríkari en þeir eru nú.

Og af hverju má ekki sleppa því á einu erfiðu ári að verja 83 og 120 milljónum króna til Byggðasjóðs, sem virðist hafa það hlutverk helzt að hamla gegn því, að fjárfest sé í fyrirtækjum, er geti staðið undir fjárþörf hins opinbera í náinni og fjarlægri framtíð?

Loks virðast ráðherrarnir lítið sem ekkert geta höggvið í samtals 1.483 milljón króna styrki, niðurgreiðslur og uppbætur til landbúnaðar. Þeir hafa hins vegar orðið sammála um að greiða niður áburð til landbúnaðar um 80 milljón krónur! Og um frestun gatsins að verulegu leyti!

Þessi frammistaða er fyrir neðan allar hellur.

Jónas Kristjánsson.

DV

Nokkur skref fram á veg.

Greinar

Hver endurbótin í peningamálum hefur rekið aðra í vetur hjá ráðuneytum viðskipta og fjármála. Matthías Á. Mathiesen hefur komið á innlánsvaxtafrelsi í bankakerfinu og rýmkað hömlur á meðferð gjaldeyris og Albert Guðmundsson hefur byrjað sölu á ríkisvíxlum.

Fleiri umbætur eru í undirbúningi. Í fjármálaráðuneytinu er verið að einfalda tollakerfið úr sextán gjaldstofnum niður í tvo, toll og vörugjald. Þar er líka verið að koma á tollkrít og endurskoða hið flókna og tímafreka fyrirkomulag við tollafgreiðslu.

Þessi atriði eru til þess fallin að auka sveigjanleika í viðskiptum og hagþróun og koma Íslandi inn í þann peningalega nútíma, sem ríkir í nágrannalöndunum. Hefur raunar lengi verið beðið eftir þessum hreytingum, ekki sízt tollkrítinni, sem ætti þegar að vera komin í framkvæmd.

Hugsanlegt er, að samkomulag náist í ríkisstjórninni um almennari álagningu söluskatts, sem mundi auðvelda innheimtu hans. Minni horfur eru á, að virðisaukaskattur leysi söluskatt af hólmi, þótt hann hafi fyrir löngu gert það annars staðar og þyrfti að koma hér.

Með hverri vikunni daprast vonir um, að ríkisstjórnin ráðist af fullum krafti gegn fjárlagagatinu með því að leggja niður útflutningsuppbætur og niðurgreiðslur og innflutningsbann, sem hafa takmarkað sveigjanleika peningakerfisins og þróunarmöguleika þjóðarbúsins.

Þannig verðum við enn um sinn eftirbátar annarra á ýmsum sviðum, þátt á öðrum sviðum höfum við náð umtalsverðum árangri í vetur. Eins og stundum áður getur ráðherrum daprast flugið, þegar þeir eru búnir að koma í framkvæmd allra brýnustu atriðunum.

Þeir Albert Guðmundsson og Matthías Á. Mathiesen hafa vítin að varast frá viðreisnarstjórninni, sem vann flest sín afrek á fyrstu mánuðum ferilsins, en koðnaði síðan niður í aðgerða- og tilgangsleysi, sem varð henni um síðir að falli, þrátt fyrir miklar vinsældir í upphafi.

En við sjáum raunar strax árangur af því, sem tekizt hefur að koma í verk í vetur. Bankar, fjárfestingarlánasjóðir og ríki hafa tekið upp samkeppni um sparifé fólks. Sjóðirnir bjóða 5,5% raunvexti, bankarnir 6% vexti umfram sparisjóðsvexti og ríkið heldur uppboð á sínum vöxtum.

Sumt af fyrirganginum verður til lítils. Megináhrifin eru þó, að fólk áttar sig betur á, að hagkvæmt getur verið að leggja peninga í sjóð fremur en að verja þeim til kaupa á vörum og þjónustu. Þannig ætti að aukast ráðstöfunarfé á peningamarkaði.

Hækkun á heimiluðum yfirfærslum ferðamanna, almenn heimild til notkunar krítarkorta í útlöndum, svo og stóraukið svigrúm til eignayfirfærsla eru lagfæringar, sem samanlagt fela í sér stórfellda veikingu átthagafjötra og styrkingu krónunnar sem alvörugjaldmiðils.

Bezt væri, ef þessar aðgerðir leiddu til eðlilegs framhalds í erlendum bankaútibúum í landinu, svo sem Albert. Guðmundsson hefur lagt til. Enn er eftirminnileg vítamínsprautan, sem Íslandsbanki var fyrir þjóðarhag í upphafi þessarar aldar.

Ef til vill verður hægt að eygja frjálsa meðferð gjaldeyris, frjálsa notkun vaxta og frjálsa verzlun með allar afurðir, svo og afnám niðurgreiðslna og útflutningsuppbóta, skatta- og tollamisvægis. Í þá átt hafa verið stigin nokkur skref að undanförnu.

Megi þau fljótt verða fleiri.

Jónas Kristjánsson.

DV

Blaðafulltrúar sérhagsmuna.

Greinar

Þeir, sem hafa farið í fjölmiðla með gagnrýni á kerfi hins hefðbundna landbúnaðar kúa og kinda, eiga það sameiginlegt að hafa engra hagsmuna að gæta. Sem óháðir þáttakendur í opinberri umræðu telja þeir sig vera að verja almannahagsmuni fyrir sérhagsmunum.

Hinir, sem verja kerfið, eiga það svo aftur á móti sameiginlegt að vera launaðir starfsmenn þess og raunar stjórnendur þess. Þeir eru að verja atvinnu sína hjá stofnunum kerfisins og þau völd, sem þær hafa yfir landbúnaði og raunar þjóðfélaginu í heild.

Þetta eru formenn og framkvæmdastjórar og blaðafulltrúar þriggja stofnana, Framleiðsluráðs landbúnaðarins, Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda. Þar með eru taldir núverandi og fyrrverandi ritstjórar Freys, þegar þeir fara í aðra fjölmiðla.

Freyr er gefinn út sameiginlega af Stéttarsambandi bænda og Búnaðarfélagi Íslands. Með Framleiðsluráði landbúnaðarins hafa þessar stofnanir sameiginlegan blaðafulltrúa, er kemst þó ekki einn yfir að verja hinn þríhöfða þurs, sem rekinn er fyrir almannafé.

Til aðstoðar Agnari Guðnasyni blaðafulltrúa koma Hákon Sigurgrímsson, framkvæmdastjóri Stéttarsambands bænda, Ingi Tryggvason, formaður Stéttarsambands bænda, Jónas Jónsson, forstjóri Búnaðarfélags Íslands, og Gunnar Guðbjartsson, framkvæmdastjóri Framleiðsluráðs landbúnaðarins.

Ef mikið liggur við eins og nú, þegar verja þarf fyrirhugaða eggjaeinokun, ern sóttir til viðbótar fyrrverandi og núverandi ritstjórar Freys, þeir Gísli Kristjánsson og Matthías Eggertsson. Einstaka sinnum koma í ljós aðrir starfsmenn hins þríhöfða þurs.

Það, sem allir þessir menn skrifa í fjölmiðla, eru ekki kjallaragreinar í venjulegum skilningi þess orðs. Þær eru ekki framlag óháðs borgara til opinnar umræðu í landinu. Þær eru skrif eins konar blaðafulltrúa til stuðnings sérhagsmunum vinnuveitanda hans.

Afleiðingin verður eins konar eintal hinna, sem skrifa út frá almannahagsmunum. Þeir hlaða upp ótal röksemdum, sem blaðafulltrúar sérhagsmunanna geta með engu móti svarað. Níu af hverjum tíu efnisatriðum gagnrýninnar er hreinlega aldrei svarað efnislega.

Í staðinn finna blaðafulltrúarnir sér önnur vopn. Algengast er, að þeir grípi til sálfræðinnar og úrskurði, að hatur á landbúnaði sé að baki gagnrýni manna á kerfi hins hefðbundna landbúnaðar kúa og kinda. Hatursmennirnir eru sagðir ala á úlfúð og illgirni.

Einstaka sinnum færist meira útflúr í þessa sálgreiningu. Þá skýtur upp kenningum um, að hatur á landbúnaði sé ýmist ættgengt og þá frá Grenjaðarstað eða héraðsbundið og þá frá Austur-Húnavatnssýslu. Hjáfræði af þessu tagi hafa færzt í aukana upp á síðkastið.

Ennfremur er einokunarhneigð kerfis hins hefðbundna landbúnaðar kúa og kinda varin með því að halda fram, að einokun ríki hjá DV, sem birtir flestar kjallaragreinarnar. Það er eins og þeim finnist DV vera eitt í heiminum, en ekki eitt af fimm dagblöðum og sjö fjölmiðlum alls.

Þegar þeir sjömenningar hafa lokið sálgreiningunni, ættfræðinni, landafræðinni og fjölmiðlafræðinni, er yfirleitt rokinn úr þeim allur vindur. Sem blaðafulltrúar sérhagsmuna hafa þeir nefnilega fátt til varna, ef ræða á efnislega um kerfi hins hefðhbundna landbúnaðar. Sá þríhöfða þurs er óverjandi.

Jónas Kristjánsson.

DV

Smákóngur gabbar þingmenn.

Greinar

Mörg dæmi sýna, að stjórnmálamenn þjóðarinnar á Alþingi eiga erfitt með að standast snúning embættismönnum, sem búa til lagafrumvörp fyrir þá. Slík frumvörp fela oft í sér aukin völd hinna sömu embættismanna og stofnana, sem þeir veita forstöðu.

Sem dæmi um ástandið má nefna meðferð allsherjarnefndar efri deildar Alþingis á frumvarpi, sem nokkrir embættismenn sömdu fyrir dómsmálaráðherra. Felur frumvarpið í sér, að opinberar stofnanir þurfi ekki lengur að birta gjaldskrár sínar opinberlega.

Allsherjarnefndin leitaði álits Sambands íslenzkra sveitarfélaga, Sambands íslenzkra rafveitna og Hafnarsambands sveitarfélaga, sem allt eru opinherir aðilar, er vilja hafa lög sem þægilegust fyrir sig. Enda mælti allsherjarnefnd með samþykkt frumvarpsins. Einum rómi!

Þessari nefnd Alþingis datt ekki í hug að leita álits á hinum vængnum, hjá viðskiptavinum þessara stofnana. Til dæmis var ekki beðið um álit Neytendasamtakanna, þótt sumar opinberar stofnanir séu þekktar að fyrirlitningu á rétti neytenda gagnvart þeim.

Sem dæmi um þessa fyrirlitningu má nefna, að Rafmagnsveita Reykjavíkur og Hitaveita Reykjavíkur eru hættar að sýna einingaverð á áætlunarreikningum þeim, sem þær senda notendum. Þeir dólgslegu reikningar stinga mjög í stúf við hliðstæða bandaríska reikninga, sem við höfum birt hér í blaðinu.

Formaður Neytendasamtakanna, sem er nýkominn úr kynnisferð um Bretland, skýrði frá því hér í blaðinu í fyrradag, að þar í landi væri síminn neytendum þyngstur í skauti allra opinberra stofnana. Teljaraskref og annar ófögnuður benda til, að svo sé einnig hér á landi.

Embættismenn símans hafa greinilega haft tögl og hagldir í nefnd, sem bjó til fjarskiptafrumvarp, er samgönguráðherra hefur mælt fyrir á Alþingi. Frumvarpið grunnmúrar einokun símans á fjarskiptum utanhúss og gerir meðal annars öll kapalkerfi ólögleg.

Til þess að villa um fyrir stjórnmálamönnum frumvarpsnefndarinnar og Alþingis segir í greinargerð frumvarpsins, að það taki ekki afstöðu til kapalkerfa, enda séu á döfinni breytingar á útvarpslögum, sem kunni síðan að leiða til breytinga á fjarskiptalögum.

Sama grandaleysi kom fram í ræðu samgönguráðherra um frumvarpið. Hann benti þar á kapalkerfin, sem tekin hafa verið í notkun víða um land, og hélt því fram, að fjarskiptafrumvarpið gengi í sömu frjálsræðisátt og útvarpslagafrumvarpið, sem sefur á Alþingi.

Gallinn er sá, að það eru frumvörp, sem verða að lögum, en ekki góðviljaðar greinargerðir eða framsöguræður, sem fylgja þeim. Og í nýja fjarskiptafrumvarpinu er hreinlega felld niður heimild, sem ráðherra hefur nú til að veita öðrum en Pósti og síma leyfi til fjarskipta.

Sigfús Björnsson prófessor sagði nýlega í útvarpserindi, að frumvarpið gerði einkarétt símans á fjarskiptakerfum og þar á meðal kapalkerfum ótvíræðari en nokkru sinni fyrr. Lokað yrði smugunni, sem opnast hefði við nýju útvarpslögin og óskerta ráðherraheimild.

Jón Skúlason símamálastjóri hefur sem sagt gabbað stjórnmálamennina. Hefði þó mátt ætla, að þeir hefðu nokkra reynslu af einræðishneigð smákónga í stétt embættismanna og kynnu að vara sig á henni. Frumvörpin um gjaldskrár stofnana og fjarskipti benda til, að svo sé ekki.

Jónas Kristjánsson.

DV

3089 milljóna sparnaður.

Greinar

Landsfeður okkar virðast vera í mestu vandræðum með að fylla í göt fjárlaga og lánsfjáráætlunar þessa árs. Þeir telja útilokað að spara þær 1845 milljónir, sem þurfi til að ná endum saman. Lausleg yfirferð á fyrirhuguðum útgjöldum bendir þó til, að spara megi 3089 milljónir.

Sú upphæð nýtist að vísu ekki til fulls. Þegar er liðinn nærri fjórðungur ársins, svo að búast má við, að þegar sé búið að greiða sumt, sem betur hefði verið sparað. Við þurfum því að draga frá 772 milljónir og fá út 2317 milljónir til að fjalla raunsætt um málið.

Hins vegar getum við mætt ýmissi röskun og öðrum herkostnaði af þessum niðurskurði með því að gefa frjálsan innflutning landbúnaðarafurða. Það mundi bæta hag neytenda um 500 milljónir að minnsta kosti og sennilega um 1000 milljónir.

En hverjir eru þeir liðir, sem óþarfir eru og samtals nema 3089 milljónum á fjárlögum og lánsfjáráætlun?

280 milljón króna útflutningsuppbætur landhúnaðarafurða hvetja til viðgangs peningabrennslu og dulbúins atvinnuleysis í kinda- og kúabúskap.

258 milljón króna beinir styrkir til kinda- og kúabúskapar hvetja einnig til framhalds á peningabrennslu og dulbúins atvinnuleysis.

945 milljón króna niðurgreiðslur á afurðum kinda og kúa skekkja verðkerfið í landinu. Neytendum má bæta þær upp með frjálsum innflutningi slíkra afurða.

83 milljón króna framlag til Byggðasjóðs hvetur til peningabrennslu og dulbúins atvinnuleysis.

120 milljón króna lántaka Byggðasjóðs hvetur einnig til peningabrennslu og dulbúins atvinnuleysis.

16 milljón króna styrkur við pólitísk sorprit stjórnmálaflokkanna stuðlar að því, að almenningur fái ekki upplýsingar á borð við þessar.

230 milljón króna niðurgreiðsla á raforku stuðlar að því, að fólk búi á óhagkvæmum stöðum á landinu.

61 milljón króna olíustyrkur tefur fyrir nýtingu innlendra orkugjafa.

200 milljón króna lántöku til vegagerðar má fresta um eitt ár af fjárhagsástæðum, enda standa þó eftir 1383 milljónir til vegagerðar á fjárlögum.

200 milljón króna lántaka til Blönduvirkjunar er óþörf, af því að frekja landeigenda hefur gert þá virkjun óhagkvæma og kaupanda vantar að orkunni.

104 milljón króna lántaka til flugstöðvar í Keflavík er óþörf, af því að það er ekki góður staður fyrir gróðurhús og núverandi flugstöð er nógu stór.

92 milljón króna samanlagðir styrkir til Flugleiða eru óþarfir, af því að það þjóðþrifafyrirtæki er komið á réttan kjöl að nýju.

200 milljón krónur getur Seðlabankinn gefið eftir af þeim vöxtum, sem hann tekur af ríkinu, og af öðrum gróða. Um leið getur hann frestað byggingu sinni.

200 milljón krónur má fá með því að beina skattrannsóknum frá smámálum yfir í söluskattinn.

100 milljón króna lántöku til hlutabréfakaupa í vitlausum fyrirtækjum á borð við steinullarverksmiðju má spara, enda er því fé að öllu leyti kastað á glæ.

Samtals eru þetta 3089 milljónir króna í hreinan sparnað án nokkurrar skattlagningar og erlendrar skuldasöfnunar. Þetta er hægt, ef landsfeðurnir hætta að tilbiðja heilögu kýrnar.

Jónas Kristjánsson

DV