Author Archive

Bandalag umboðslausra.

Greinar

Utan Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku er sjaldgæft, að ríkjum ráði menn, sem hafa til þess umboð. Sumir fengu á sínum tíma umboð þjóða sinna, en hafa síðan framlengt umboðið sjálfir í skjóli fenginna valda. Aðrir hafa hrifsað til sín völdin í hallarbyltingum og öðrum byltingum.

Sameiginlegt áhugamál allra þessara umboðslausu ráðamanna er að halda völdum. Þjóðum sínum halda þeir niðri með lögreglu og her. Í stað lýðræðis ríkir kvalræði og morðræði. Í flestum tilvikum ríkir einnig þjófræði, því að hinir umboðslausu ræna þjóðir sínar og rupla.

Á alþjóðavettvangi ríkir laustengt bandalag ýmissa tegunda umboðslausra ráðamanna. Í einum hópi bandlagsins eru Sovétríkin og fylgiríki þeirra, í öðrum Arabaríkin og hinum þriðja hin svonefndu hlutlausu ríki þriðja heimsins. Þessir hópar og aðrir blandast á ýmsa vegu.

Vesturlönd eiga lítinn þátt í þessu ástandi, en eru samt ekki saklaus með öllu. Bandaríkjastjórnir hafa til dæmis oft stutt glæpamenn í Suður- og Mið-Ameríku gegn lýðræðisöflum álfunnar. Þær studdu til dæmis Batista á Kúbu, Duvalier á Haiti og Somoza í Nicaragua.

Bandarískir bankar jusu fé í umboðslausa herforingja Argentínu, sem sóuðu peningunum í arðlausa fjárfestingu eða stálu þeim hreinlega. Þegar lýðræðislega kjörin stjórn kemst svo til valda í Argentínu, kippa þessir bankar að sér hendinni, heimta endurgreiðslur og hafa uppi hótanir.

Vesturlönd hafa þó einkum reynt að leggja lóð sitt á hina vogarskálina. Hæst ber þar vestræna upplýsingamiðlun. Fréttamenn frá fjölmiðlum Vesturlanda leggja sig í mikla hættu við að komast að hinu raunverulega ástandi í ríkjum hinna umboðslausu ráðamanna og að skýra frá því.

Hin vestræna fjölmiðlun er að vísu ekkert haldreipi, en þó tvinnaþráður milli kúgaðs almennings í þriðja heiminum og þess hluta heimsins, þar sem mannréttindaskrá Sameinuðu þjóðanna er í heiðri höfð. Þessi tvinnaþráður fer ákaflega mikið í taugar umboðslausra ráðamanna.

Þeir hafa búið sér til kenningu um, að lýðræði á vestræna vísu henti ekki í sínum heimshlutum, þar á meðal henti ekki upplýsingafrelsi. Þeir segja, að fjölmiðlar eigi ekki að segja vondar fréttir, heldur stuðla að þjóðareiningu, uppbyggingu, friði og vináttu.

Sérstaklega er þeim illa við vondar fréttir á borð við þær, að eymd íbúanna hafi aukizt á valdatíma hinna umboðslausu ráðamanna, að fjölgað hafi pyndingum og morðum af hálfu þeirra og að fjársöfnun þeirra á bankareikninga í Sviss sé meiri en nokkru sinni fyrr.

Þeir segja, að þessar upplýsingar feli í sér nýlendustefnu af hálfu vestrænna þjóða. Í krafti auðs síns troði þær sinni fjölmiðlun upp á þjóðir, sem fátæktar sinnar vegna eigi menningarlega í vök að verjast. Þannig snúa hinir umboðslausu sannleikanum upp í þverstæðu sína.

Höfuðstöðvar bandalags hinna umboðslausu eru í Menntastofnun Sameinuðu þjóðanna, Unesco. Þar hafa þeir komið upp forstjóra og embættismannaliði, sem vinnur að því að hafa hemil á flæði upplýsinga um hið hörmulega ástand í kvalræðis-, morðræðis- og þjófræðisríkjunum.

Vesturlandabúar þurfa að gera skarpan greinarmun á hinum umboðslausu ráðamönnum og fulltrúum þeirra á alþjóðavettvangi annars vegar og hins vegar hinum sárt leiknu þjóðum, sem bera þennan lýð. Hagsmunir þriðja heimsins eru allt aðrir en hagsmunir hinna umboðslausu ráðamanna hans.

Jónas Kristjánsson.

DV

Hornið

Veitingar

Sveigðar línur

Á gestunum sést, að Hornið er notalegur staður. Fólk er yfirleitt ekki að flýta sér, þegar það sezt þar að snæðingi. Það slórar síðan lengi yfir síðasta kaffibollanum eða hvítvínsglasinu. Þetta er sjálfsagt ekki gott fyrir veltuna, en gerir staðinn að örlitlum þætti menningarlífsins.

Aðall Hornsins eru hinar listrænu og björtu innréttingar, sem eru óbreyttar og að mestu óþreyttar eins og á fyrsta degi. Stórir gluggar án tjalda lýsa því yfir, að Hornið sé í tengslum við lífið fyrir utan, sé ekki innhverfur staður.

Mjúkar blómasveigjur eru málaðar á glugga. Víðir ljósahjálmar eru í lofti, nokkuð farnir að þreytast. Hringlaga marmaraplötur eru á borðum. Stólar eru úr sveigðum rörum. Hér er beinu línunni hafnað. Þetta er eins konar gamaldags Ungstíll, art nouveau, töluvert ofhlaðinn óviðkomandi skreytingum á borð við hvítlauksrenninga og kertavaxklæddar flöskur.

Minni kröfur

Matseðillinn hleypur ekki lengur milli frönsku og ítölsku. Hann er nú á íslenzku og réttirnir eru hversdagslegri en áður var. Um leið hefur kröfuharkan í eldhúsinu minnkað lítillega. Matreiðslan er frambærileg, en ekki eins spennandi og áður.

Lasagne al Forno er að vísu enn á matseðlinum, en hefur dalað. Þessir ítölsku hveitirenningar með kjöthakki og tómatsósu reyndust í prófuninni vera sæmilegir, bornir fram með heitu heilhveitibrauði, krydduðu með hvítlauk og steinselju. Svipað brauð, en ekki kryddað, var borið fram með súpunum. Hversdagsleg seljurótarsúpa var í eitt sinnið súpa dagsins. Í annað skipti var það ljómandi góð, tær súpa með fjölbreyttu grænmeti, skemmtilega krydduð.

Skelfisksúpa með þeyttum rjóma var bragðsterk og góð. Hún hafði að geyma mikið af meyrri lúðu, kræklingi og rækjum. Allar þessar súpur voru bornar fram í skemmtilegum skálum.

Staðlað grænmeti var með aðalréttunum, hrásalat og soðnar gulrætur. Í hrásalatinu voru tómatar, gúrka, paprika, ferskir sveppir, blaðsalat og fleira, borið fram með sýrðum rjóma. Sérkennilegt var, að í annað skiptið kom það í tvennu lagi, bæði á aðalréttadiskunum og á hliðardiskum. Líklega hefur skipulagið farið úr skorðum.

Fiskur er ekki sterkasta hlið Hornsins. Pönnusteikt lúðukótiletta með ristuðum sveppum og salati var réttur dagsins í annað skiptið. Fiskurinn var fremur þurr, enda mikið eldaður og úr frystu hráefni.

Pönnusteiktur hörpuskelfiskur með papriku og ananas var hins vegar hæfilega eldaður og alveg mjúkur. Ananasbitar úr dós voru óþarfir. Rétturinn var skemmtilega fram borinn í þremur hörpuskeljum, einni með skelfiskinum, annarri með hrísgrjónum og hinni þriðju með hrásalati.

Stappan heitir “mús”

Djúpsteiktur kjúklingur með rjómasósu og frönskum kartöflum var meyr og ljúfur. Rjómasósan með honum var góð tómatsósa með sveppum. Vorrúlla var of þykk og ekki stökk. Með henni fylgdu hrísgrjón og mild karrísósa.

Pitsa með tómati, osti og nautahakki var ekki nógu góð. Botninn var ekki nógu mjúkur og fyllingin var of sparsemdarleg. Sérstaklega vantaði í hana tómata. Sem pizzustaður er Sælkerinn betri.

Nautakjöt, moðsoðið í gufu, er ekki mitt uppáhald, því að nautið verður af því þurrt og bragðdauft. En í samanburði við annað slíkt kjöt var þetta sæmilega heppnað á Horninu sem réttur dagsins. Með því fylgdu ferskir sveppir steiktir, ekki merkilegar strengbaunir, kartöflustappa, kölluð “mús” á töflunni, svo og mild og góð tómatsósa. Orðalagið “mús” er plága í veitingarekstri hér á landi.

Góð vín á lista

Vínlisti Hornsins er ekki langur, en eigi að síður í hópi hinna betri í borginni. Þar saknaði ég ekki annars en hins ódýra Trakia og hins næstum því eins ódýra Chateau du Saint Laurent. Seðillinn býr meira að segja yfir þurru sérrí og gömlu, góðu púrtvíni.

Þjónustan á Horninu er ágæt og snör í snúningum í ítölskum stíl, svipuð og verið hefur allar götur frá upphafi.

Miðjuverð þriggja súpa er 62 krónur, fimm forrétta 154 krónur, fimm fiskrétta 292 krónur, sex kjötrétta 232 krónur, níu eftirrétta 84 krónur og tíu pitsa 186 krónur. Kaffi er á 30 krónur, gott espresso-kaffi.

Súpa og aðalréttur af fastaseðli ætti að kosta um 324 krónur að meðaltali, súpa og pitsa 248 krónur. Þriggja rétta máltíð með hálfri flösku af víni á mann og kaffi ætti að kosta 614 krónur á mann að meðaltali á Horninu. Staðurinn er heldur ódýrari en Sælkerinn og Lækjarbrekka, í lægri kanti milliverðs-staðanna.

Jónas Kristjánsson

E.S. -Lesendur eru beðnir athuga, að kokkahúfur í greinaflokki þessum eru aðeins að hálfu gefnar fyrir sjálfa matreiðsluna. Á móti eru þær að hálfu gefnar samanlagt fyrir umhverfi, þjónustu og vínlista. J.K.

DV

Konunglegi forstjórinn.

Greinar

Langstærsta vandamál menntastofnunar Sameinuðu þjóðanna, Unesco, er sjálfur framkvæmdastjórinn, M’Bow frá Senegal. Hann lítur ekki á sig sem forstjóra í vestrænum skilningi, heldur telur sig hafa alræðisvald eftir afrískum hefðum. Hofmóður hans lýsir sér í ýmsum myndum.

Forstjórinn getur hagað sér eins og alræðisherra, af því að hann hefur traustan stuðning ráðamanna Arabaríkja og Afríkuríkja og víðtækan stuðning ráðamanna annarra ríkja þriðja heimsins. Þessir ráðamenn líta á M’Bow sem hæfilega ögrun gegn vestrænni nýlendustefnu.

Forstjórinn hefur árum saman hagað sér eins og það sé fyrir neðan virðingu hans að ræða um fjárhagsáætlun Unesco, sem hans hágöfgi hefur sjálfur sett fram. Enda er nú svo komið, að vonlausar reynast tilraunir til að átta sig á bókhaldi stofnunarinnar, sem er í hreinni óreiðu.

Forstjórinn umgengst sendiherra þáttökuríkjanna af stakri fyrirlitningu og er ófáanlegur að tala við þá nema á eigin forsendum. Hann bannar starfsmönnum Unesco að gefa sendiherrunum upplýsingar. Samt eru nærri allar tillögur hans samþykktar orðalaust af meirihlutanum.

Forstjórinn hefur sjúklegan áhuga á leynd. Meira að segja úrklippusafn stofnunarinnar er leyndarskjal, þótt þar sé ekki annað en það, sem hefur birzt um Unesco á prenti. Eftir skjalabrunann mikla í höfuðstöðvunum í vetur hafa grunsemdir manna á þessu sviði aukizt í hans garð.

Forstjórinn hefur látið breyta tveimur, viðáttumiklum hæðum stórhýsis Unesco í París í einkaíbúð fyrir sig. Hann ekur um á sex glæsivögnum af dýrustu gerð. Þegar hann fer til útlanda, hefur hann um sig þrefalt stærri hirð en tíðkast hjá framkvæmdastjórum annarra stofnana Sameinuðu þjóðanna.

Forstjórinn er lélegur stjórnandi og hefur endurskapað Unesco í sinni mynd. Hann hefur ýtt í burtu hæfileikamönnum og ráðið í staðinn ættingja sína frá Senegal, aðra Senegala, Afríkumenn og Araba. Í því tekur hann ekkert tillit til hæfileika, heldur eingöngu hollustu við sig.

Um nokkurra ára skeið hefur ríkt andrúmsloft grunsemda, fordóma, umburðarleysis og skipulagsleysis í höfuðstöðvum Unesco í París. Þaðan flýja flestir þeir, sem eitthvað geta. Í staðinn eru ráðnir undirmálsmenn, sem ekki skyggja á konunglega tign forstjórans M’Bow.

Ástæðan fyrir því, hve léttilega honum hefur tekist að eyðileggja Unesco, er, að vestræn þáttökuríki hafa litið á stofnunina sem kjaftasamkundu. Þau hafa sent þangað þreytta embættismenn og lágt setta ráðuneytisfulltrúa, er hafa litið á starf sitt sem sumarfrí í París.

Hið bezta, sem komið hefur fyrir Unesco, er tilkynning Bandaríkjanna um, að þau muni yfirgefa stofnunina um næstu áramót. Vonandi framkvæma Bretar hótun sína um að gera slíkt hið sama. Þá er búizt við, að Vestur-Þjóðverjar fylgi í kjölfarið. En hvar er Ísland?

Í dálkum þessum hefur nokkrum sinnum verið hvatt til, að Ísland segi sig úr Unesco og verji menningaraðstoð sinni á annan hátt, svo að 50 aurar af hverri krónu brenni ekki ekki upp í höfuðstöðvunum í París. Nú ætti nóg að vera vitað til að taka mark á þessari ráðleggingu.

Ísland á sæti í nefnd þeirri innan Unesco, sem á að gera tillögur um björgun stofnunarinnar. Það starf er vonlaust frá grunni, því að sjúklingurinn getur ekki læknað sig, þegar um M’Bow, hinn konunglega forstjóra, er að ræða. Eina vonin er, að vestræn ríki hverfi úr samtökunum.

Jónas Kristjánsson.

DV

Minnka ber skuldasúpuna.

Greinar

Lundúnafundur leiðtoga efnahagsveldanna sjö á Vesturlöndum varð ekki til að létta af þeirri ógn efnahagskreppu, sem vofir yfir hinum vestræna heimi í kjölfar gjaldþrota margra ríkja þriðja heimsins á næstu tveimur árum vegna óhóflegrar skuldasöfnunar þeirra.

Reagan Bandaríkjaforseti vildi ekki hlusta á þá röksemd allra hinna leiðtoganna sex, að hinn gegndarlausi halli á ríkisbúskap hans hvetti til hárra vaxta í Bandaríkjunum. Hann hugsar um það eitt að ná endurkjöri næsta vetur og er ekki móttækilegur fyrir hagfræði.

Reagan hefur lækkað skatta án þess að ná neinum umtalsverðum sparnaði í ríkisrekstri upp í gatið. Afleiðingin hefur orðið meiri halli á ríkisbúskapnum en menn hafa áður kynnzt. Þessi taprekstur getur ekki gengið endalaust, en getur gengið fram yfir kosningar.

Jafnframt hafa hinir háu vextir í Bandaríkjunum enn hækkað um þrjú prósentustig, það sem af er þessu ári. Þetta hefur svo aftur á móti haft tvennar afleiðingar. Annars vegar hefur evrópskt og annað lánsfé sogazt til Bandaríkjanna og tafið endurlífgun efnahagsþróunar í Evrópu.

Hitt er þó enn alvarlegra, að hvert einasta stig í hækkun bandarískra vaxta eykur skuldabyrði heimsins um fjóra milljarða dollara. Vaxtahækkun þessa tæplega hálfa árs hefur því aukið heildarbyrðina um tólf milljarða dollara. Og það lendir þyngst á herðum þriðja heimsins.

Töfin á endurlífgun efnahagsþróunar í Evrópu og raunar í fleiri iðnríkjum hefur svo aukið vanda þriðja heimsins. Iðnríkin hafa keypt minna af vörum frá þriðja heiminum og á lægra verði. Gjaldeyristekjur þriðja heimsins hafa því verið minni en reiknað hafði verið með.

Skuldir þriðja heimsins hrönnuðust upp, þegar olíudollarar Arabaríkjanna flæddu um heiminn og alþjóðlegu bankarnir kepptust um að lána á tvist og bast. Þá var ekki hugsað nóg um öryggið. Bankastjórar ímynduðu sér, að ríki gætu ekki orðið gjaldþrota, þótt annað sé nú að koma í ljós.

Ekki bætir úr skák, að sumt af lánsfénu fór beint á bankareikninga í Sviss, í margvíslegt sukk og svínarí eða í fáránlegar framkvæmdir. Stórtækastir í þessum efnum hafa verið herforingjar og aðrir þjófar, sem höfðu brotizt til valda og höfðu raunar ekkert umboð frá þjóðinni.

Í Argentínu er því til dæmis nú haldið fram, að hin nýja, lýðræðislega kjörna stjórn geti ekki borið ábyrgð á skuldum, sem fyrri herforingjalýður stofnaði til, sjálfum sér en ekki þjóðinni til framdráttar. Argentína er einmitt eitt þeirra landa, sem nú rambar á barmi gjaldþrots.

Ekki verður betur séð en vit sé í þessari röksemdafærslu. Hvaða rétt hafa bankastjórar til að ætlast til af fátækum þjóðum, að þær endurgreiði fé, sem þessir stjórar lánuðu umboðslausum glæpamönnum? Þeir áttu að vita betur og eiga skilið að glata öllu slíku fá.

Sanngjarnt er, að nokkrir vestrænir bankar verði gjaldþrota vegna fyrirhyggjulausra lána til umboðslausra hershöfðingja, einkum í Suður-Ameríku. Ástæðulaust er að láta banka komast upp með að lána öðrum ríkisstjórnum en þeim, sem hafa eitthvert umboð við komandi þjóða.

Hitt er svo enn mikilvægara, að sem fyrst linni óstjórninni á ríkisfjármálum Bandaríkjanna, svo að vextir megi sem fljótast lækka þar í landi. Á meðan þurfa vesturveldin að framkvæma tillögu Mitterrands Frakklandsforseta um fimmtán milljarða yfirdráttarréttindi handa þriðja heiminum.

Jónas Kristjánsson

DV

Búðir

Veitingar

Beztan mat á íslenzku veitingahúsi á þessu ári hef ég fengið á Hótel Búðum hjá Rúnari Marvinssyni og kunningjafólki hans, sem hefur átt og rekið staðinn í nokkur sumur. Enda er frægð þessa veitingahúss orðin slík, að menn eru farnir að aka útlendingum þangað í stað þess að fara til Gullfoss og Geysis.

Landslagið að Búðum er fallegt og dulrænt. Sérstaklega er skemmtilegt að ganga Klettsgötu um hraunið að Búðakletti og skoða burkna á leiðinni. Hvergi er útsýni til Snæfellsjökuls betra en einmitt frá Búðum. Það er því engin furða, þótt 36 ár séu liðin, síðan hér var opnað gistihús fyrir ferðamenn.

Einkum vinalegt

Sjálft hótelið er ekki merkilegt. En setustofan er einkar notaleg, laus við einhæf húsgögn nútímans. Enda hefur einn kerfiskarlinn, svonefndur formaður matsnefndar vínveitingahúsa, undirritað bréf, þar sem fullt vínveitingaleyfi að Búðum er háð því skilyrði, að “húsgögn í setustofu verði endurnýjuð eftir þörfum með tilliti til þess, að þau verði samstæðari en nú er”.

Ekki er einleikið, hversu mikið af undirmálsmönnum hleðst upp í nefndum og ráðum hins opinbera, varpandi með ýmsum hætti skugga á líf okkar hinna. Við megum ekki einu sinni hvíla okkur í fallegum húsgögnum, án þess að þeir séu að heimta stöðluð nútímahúsgögn í staðinn.

Í borðsalnum eru falleg húsgögn frá fyrri tímum. Þar á meðal er skatthol, sem er notað fyrir eins konar vínskáp. Þá er þar fallegt saumaskrín með ótal hólfum. Ekki má heldur gleyma firnalöngu skenkborðinu með skúffum allt í kring. Þar er sjálfsagt komið hlaðborðið, sem Lóa hótelstýra gerði landsfrægt á fyrra blómaskeiði Hótel Búða.

Hin litlu hlutföll í matsalnum, smáir gluggar og renndir stólar við dúkuð borð veita gamaldags stemmningu, sem fyrst og fremst er vinaleg. Það orð á einnig við starfsfólkið, sem flest er hluthafar í hótelrekstrinum. Þannig er þjónustan í matsalnum í stíl við matreiðsluna og andrúmsloftið á staðnum.

Ölkelduvatn á borðum

Ölkelduvatn úr nágrenninu var boðið gestum. Svo og heimabakað brauð úr eldhúsinu, volgar heilhveitibollur og þéttar hveitibrauðsflautur. Hrásalatið var gott, olíuvætt og vel kryddað með pipar og hvítlauk. Vínlistinn að Búðum er hins vegar ómerkilegur.

Sérgrein Rúnars eru sjávarréttir, enda eru þeir fyrirferðarmestir á handskrifuðum og listskreyttum matseðlinum, sem breytist dag frá degi. Hann sækir daglega fisk til Ólafsvíkur, fær silung í nágrenninu, rær til fiskjar úr Búðaósi og fær sendar kinnar frá Eskifirði, svo að dæmi séu nefnd.

Grafinn lax var sérlega vel verkaður og laus við seltu, meyr og bragðgóður. Hið sama var að segja um grafinn silung. Sinnepssósan, sem fylgdi þessum réttum, var mjög mjúk og fín, að vísu í meira lagi sykruð, en laus við majonesið, sem flestir ímynda sér ranglega, að hæfi gröfnum fiski.

Fiskisúpan var eiginlega frekar seljurótarsúpa en fiskisúpa. Þetta var tær súpa með margvíslegu grænmeti, en frekar litlu af fiski. Seljurótarbragðið var fyrirferðarmest.

Smjörristaðar rækjur reyndust vera smáar úthafsrækjur, sem höfðu verið legnar, svo að rauði liturinn var orðinn rauðbrúnn. Þeim var raðað fallega á disk með karríhrísgrjónum.

Hörpuskelfiskur var meyr og fínn, nákvæmlega eins og hann á að vera, laus við alla seigju.

Sítrónulegin vatnableikja, ekkert elduð, var mjög góður réttur. Til hliðar fylgdu heimabakaðar franskbrauðsneiðar með hvítlaukssmjöri, hitaðar í álpappír í ofni.

Fínleg kryddun

Kæfa hússins var fremur feit, fínlega krydduð og viðkunnanleg á bragðið, borin fram með olífusneiðum. Það er einmitt hin næma og fínlega kryddun, sem einna mest einkennir matreiðsluna að Búðum.

Steikt vatnableikja með banana var ofnsteikt í álpappír, kviðarholið fyllt með banana. Þetta var frábær matur. Sama var að segja um smjörsteiktar þorskkinnar, pönnusteiktar í raspi.

Skarkolarúllur, vafðar utan um krækling, gráðaost og hvítlauk, voru fínn matur. Enn betri var þó heili skarkolinn, fylltur gráðaosti og rækjum og síðan smjörsteiktur.

Kryddleginn lúðusneið var meyr og fín, pönnusteikt, hóflega krydduð, frábær matur. Soðin ýsa var svo hreinlega fullkomin.

Rauðvínssoðinn kjúklingur var mjög góður, borinn fram með mildum karríhrísgrjónum og brokkáli. Lambalundir með púrtvínssveppum voru meyrar og góðar, bornar fram með sterkri vínsósu, bakaðri kartöflu og blómkáli. Allt eldað grænmeti að Búðum var afar hóflega eldað, al dente eins og Ítalir mundu segja.

Ýmsir skemmtilegir eftirréttir voru í boði á Búðum. Mjög góð var fíkjuterta með þeyttum rjóma, ennfremur Sigríðarterta hin meiri, appelsínur í rauðvíni og ferskar perur með koníaki og rjóma. Þá var heimalagaður bananaís einnig góður.

Ekki lærður

Rúnar Marvinsson er ekki lærður kokkur og hefur sér til aðstoðar í eldhúsinu stærðfræðinginn Matthías Jóhannesson frá Frakklandi. Það, sem öðrum mistekst að læra í kokkaskólum, hafa þeir í eðlinu og ná því betri árangri en flestir aðrir.

Ástæða er til að vona, að Búðverjum eða Búðingum, eins og þeir kalla sig, gangi vel reksturinn á þessu gamla hóteli, sem hefur sjarmann fram yfir nýju hallirnar. Vont er þó, að Reykvíkingar þurfa að aka í þrjá og hálfan tíma hvora leið til að komast í ógleymanlegan mat. Og verst er, að þessi Mekka skuli ekki vera opin nema þrjá og hálfan mánuð á ári.

Jónas Kristjánsson

DV

Kvosin

Veitingar

Málskrúð og lygi

Matseðill Kvosarinnar gæti verið þýðing á seðli, sem ég get ímyndað mér að hafi verið á miðevrópsku hóruhúsi á þriðja tug aldarinnar. Hann byrjar á “ógleymanlegri uxahalasúpu með snæhettu”. Kannski er vertinn með þessu að gefa í skyn, að hinir réttirnir séu síður en svo ógleymanlegir. Enda eru þeir raunar bezt gleymdir.

Blandaðir sjávarréttir heita “sjávarkonfekt” á máli seðilsins. Má ljóst vera, að höfundur þessa orðalags hefur litla tilfinningu fyrir því, að orðið konfekt rifjar upp minningar um eitthvað sætt. Í tilraunum til frumleika verður jafnan að gæta þess, að einhver hugsun sé að baki samlíkinga.

Ég þorði ekki að kynnast “leyndarmálinu um alikálfamauk” eða “töfrafyllingunni”, sem átti að fylgja stórlúðunni. Hins vegar prófaði ég madeira-sósuna með lambalundum. Hún reyndist ekki vera nein madeira-sósa, heldur ósköp venjuleg béarnaise-sósa. Matseðillinn er semsagt rangur, þá sjaldan hann gefur upplýsingar um matreiðslu.

Í heild má segja um matseðil Kvosarinnar, að hann endurspeglar fúskið í eldhúsinu. Þaðan komu réttir, sem sumir voru ómerkilegir og aðrir beinlínis vondir. Hið eina jákvæða, sem hægt er að segja um matreiðsluna, er, að hún er aðferð til að láta peninga sirkúlera í þjóðfélaginu. Og peningar sirkúlera svo sannarlega í Kvosinni, dýrasta veitingahúsi landsins og þótt víðar væri leitað.

Smjörið sparað

“Fiskisúpa með sjávarkonfekti og koníakslögg” reyndist vera eins konar tómatsósa með ýmsum sjávardýrum, sem ekkert bragð fannst að, af því að sósubragðið yfirgnæfði. Með súpunni var borið fram hversdagslegt franskbrauð án smjörs.

“Gufusoðin smálúðuflök með grænmetisþeytu” var algerlega bragðlaus smálúða, vafin um frísklegan spergil. Með henni fylgdi ágætis grænmeti hrátt og niðursoðið mangó, svo og bökuð kartafla. Ekki fann ég neytt, sem gæti átt við heitið grænmetisþeyta.

“Glóðaðir humarhalar aflakonunnar”, eru sennilega hvatning frá Hinni Hagsýnu Húsmóður, því að þeir voru helmingi ódýrari en “Glóðaðir humarhalar aflakóngsins”. Samt voru þeir ekki peninganna virði, að vísu hæfilega stórir, en fremur þurrir.

Með hölunum var ekki borið fram bráðið smjör, heldur humarsósa. Auðvitað er ágætt, þegar einhver þorir að víkja frá hefðinni. Verri tilbreytni var, að ekkert smjör var heldur með ristuðu franskbrauðsneiðunum, sem fylgdu humrinum. Sennilega er kokkurinn frekar nízkur.

“Graflax í melónukæfu” var ekki í neinni melónukæfu, heldur borinn fram með litlum melónubitum. Með honum fylgdu fjórar ristaðar franskbrauðsneiðar og smjör, sem með ýtrustu sparsemi mátti láta þekja eina sneið. Af fiskinum var gífurlegt saltbragð með ívafi af piparbragði. Verri graflax hef ég aldrei fengið á ævinni.

Misþyrmt með beikoni

“Innbakaðar lambalundir Madeira” voru með béarnaise-sósu, svo sem áður er getið. Þetta var sæmilegasta kjöt, ekki ofeldað, þótt innbakað væri. Hveitihjúpurinn var þykkur og vondur, en auðvelt var að skafa hann frá.

Með lundunum fylgdi sama grænmetið og yfirleitt var með aðalréttum Kvosarinnar, fylltur tómatur, flatar belgbaunir og kartöflustappa í bökuðu kartöfluhýði. Ennfremur ágætis hrásalat með þúsund eyja sósu.

“Pönnusteikt alikálfalifur með fleski og kapers” var sæmilega rauð og meyr, en hins vegar bragðlaus, af því að svínafitan yfirgnæfði algerlega. Slíkar misþyrmingar eru svo algengar hér á landi, að ég óttast, að í kokkaskólanum sé kennt að eyðileggja bragðmildan mat með beikoni.

Hrásteikta piparsteikin var í raun miðlungi steikt, enda hráefnið ekki of gott. Hún var ákaflega pipruð og dálítið seig. Miðlungi steiktur turnbautinn var hins vegar sæmilega meyr, en bragðdaufur.

Það frambærilega í matreiðslu Kvosarinnar þetta kvöldið voru eftirréttirnir tveir, heimalagaður ís með jarðarberjasósu, melónu og þeyttum rjóma, svo og heitt kókosmauk með kiwi og þeyttum rjóma.

Vínlistinn í Kvosinni er nauðaómerkilegur. Sérstaklega erfitt er þar að finna drykkjarhæf hvítvín. Ekkert þurrt sérrí var til á staðnum og ekkert gott portvín gamalt. Daiquiri hanastél reyndist ekki heimalagað, heldur úr blöndu, sem seld er á flöskum í matvörubúðum, enda var bragðið eftir því.

Miðjuverð tveggja súpa er 160 krónur, fjögurra forrétta 325 krónur, þriggja fiskrétta 320 krónur og tveggja eftirrétta 140 krónur. Kaffi eftir matinn er á heilar 50 krónur. Enginn seðill dagsins er í Kvosinni.

Þríréttuð máltíð með kaffi og hálfri flösku af víni á mann ætti að kosta að meðaltali 1023 krónur á mann. Er það hæsta verð, sem ég hef kynnzt á íslenzku veitingahúsi. Það væri of hátt, þótt kokkinum væri ekki illa við gestina.

Fallegur staður

Þjónustunni á staðnum stjórnar duglegur yfirþjónn, sem gerir sitt bezta, en ræður þó ekki við fullan sal. Það virðist sparað í mannahaldi eins og í smjöri.

Kvosin er fallegur staður, sem tekur um 90 manns í sæti. Bogasúlnarið er framan við hljómlistarpall og bar, sem rúmar fjölda manns í hægindastólum. Á miðju gólfi eru tvær súlur, klæddar speglum. Veggir og loft eru hvítmáluð. Í loftum eru gamaldags ljósakrónur úr glerbútum. Á einum vegg eru gamlar ljósmyndir, á öðrum málverk og fín teppi á hinum þriðja. Lýsing er notuð til að framkalla rómantískt andrúmsloft. Lágt er til lofts og hljómburður slæmur frá fiðlu og píanói.

Afar skrautlegt teppi er á gólfi. Stólar eru bakháir og flauelsklæddir. Borðin eru úr póleruðu mahóní og bera fín glös og kertalugtir. Andrúmsloftið er þægilegt, enda eru kokkahúfurnar ofan við þessa grein fremur fyrir innréttingu en matreiðslu. Kvosin er fallegur staður utan um ekki neitt. Nema óhagstæðan viðskiptajöfnuð gesta.

(Ath. að staðurinn er bara opinn á kvöldin, fimmtudaga til sunnudaga og er frekar dimmur)

P.S. Mér er sagt, að eigendaskipti hafi orðið á Kvosinni 1. júní, það er eftir að þessi grein var rituð og raunar komin í prentun. Ýmislegt í greininni kann því fljótt að verða úrelt.

Jónas Kristjánsson

DV

Veitingahöllin

Veitingar

Kalt og norrænt

Innréttingarnar eru annað hið eftirminnilegasta frá Veitingahöllinni í Húsi verzlunarinnar í nýja miðbænum. Þær mundu jafnvel sóma sér vel í kirkju eða stjórnarfundasal framsækins banka, ákaflega smekklegar, kaldar, yfirvegaðar og norrænar. Gestir setja ósjálfrátt upp spariandlitið, þegar þeir koma inn í þennan helgidóm.

Hitt eftirminnilega atriðið er, að miðjuverð á súpu, einum af tíu réttum dagsins, hrásalati að eigin vali, þremur eftirréttum og kaffi er ekki nema 215 krónur. Og 160 krónur, ef aðalréttinum er sleppt. Þetta er hvort tveggja einstaklega lágt verð á fjölbreyttri máltíð, allt að því ókeypis!

Í þessari grein er eingöngu fjallað um fremri veitingasalinn, þar sem menn panta við diskinn og borga við kassann, en ekki hinn innri, þar sem veitt er full þjónusta, þar sem matseðillinn er allt annar og dýrari og þar sem matreiðslan er betri, þótt hún komi úr sama eldhúsi. Ef til vill verður síðar tækifæri til að fjalla um innri salinn.

Niður úr smáreituðu lofti hanga hinar fegurstu ljósakúlur, glærar og misstórar. Á veggjum er ljós viður í láréttum línum, snyrtilega rofinn af speglaskúlptúr. Stórir gluggar magna birtu og kulda. Teppi er undir borðum, en flísar á gönguleiðum við disk, kassa og salatbar.

Skandinavíski stíllinn heldur áfram við borðin, sem eru hringlaga, úr ljósum við og plastplötu. Í sama stíl eru stólarnir, þar sem bak og armar renna saman í hálfhring. Þótt allt sé þetta fullkomlega stílhreint, er það ekki notalegra en svo, að gestir eru tiltölulega fljótir að ljúka sér af.

Salat og eftirréttir á barnum

Þessi fremri salur Veitingahallarinnar býður upp á fyrirkomulag í stíl Pottsins og pönnunnar og hins akureyrskra Bauta. Aðgangur að salatborði fylgir öllum aðalréttum. Boðið er sérstaklega upp á aðgang að súpu og salatborði. Hinu síðarnefnda er í öllum tilvikum ætlað að vera þungamiðja máltíðarinnar.

Salatbarinn er ekki eins myndarlegur og fjölbreyttur og á Pottinum og pönnunni, en er þó snyrtilegur og laus við þreytubrag. Þar er ekki aðeins að finna hliðarrétti, heldur einnig eftirrétti. Það þýðir, að seðill dagsins býður í raun upp á þríréttaða máltíð auk hrásalats og kaffis.

Gestir fremri salar Veitingahallarinnar þurfa ekki að eyða miklum tíma í nokkru dýrari fastaseðil, því að á hinum ódýra seðli dagsins má velja milli tíu aðalrétta fyrir utan súpu dagsins. Þar af eru fjórir fiskréttir og sex kjötréttir, svo að úr nógu er að velja.

Í prófuninni reyndist súpa dagsins vera frambærileg sveppasúpa. Með henni mátti fá sér af salatbarnum ýmiss konar girnileg brauð frá Sveini bakara, allt í hinum heilsusamlega stíl, sem blessunarlega er kominn í tízku hér á landi.

Á salatbarnum mátti meðal annars sjá sveppi, gúrku, tómata, græna papriku, kínakál, tvenns konar áleggspylsur saxaðar, eggjasalat, rúsínusalat og tvenns konar sósur bandarískar. Rúsínusalatið mátti nota fyrir eftirrétt, sem og ávaxtasalat og hlaup.

Ekki í stíl Múlakaffis

Fiskréttir dagseðils Veitingahallarinnar fremri reyndust sæmilegir, en of saltir. Karfaflök með eplum, ananas og karrí voru að vísu án ananas, en með ágætum, hvítum kartöflum, sem tæplega voru úr Grænmetisverzluninni. Steikt steinbítsflök með kryddsmjöri voru sambærileg við karfaflökin. Hvort tveggja var lítillega ofeldað.

Kínverskar vorrúllur dagseðilsins með nautakjötsfyllingu reyndust vera í tæpu meðallagi góðar. Með þeim fylgdu hrísgrjón að venju, svo og sætsúr sósa mild.

Nautakjöt að enskum hætti af fastaseðli var bragðlaust með öllu, borið fram með lauk og smjöri, miðlungi steikt. Laukurinn var ágætur á bragðið.

Glóðarsteiktur kjúklingur af fastaseðli var mildilega eldaður og sómasamlega meyr. Hann var borinn fram með þjóðarréttunum kokkteilsósu og frönskum kartöflum.

Og ég, sem hélt, að þeir Múlakaffismenn, sem eiga staðinn, væru meira fyrir heimilismat eins og tíðkaðist í gamla daga fyrir tíð MacDonalds. Ég leitaði á matseðlinum að saltkjöti og baunum og fiskibollum í karrí, en fann hvergi, ekki frekar en kjötsúpu eða sagósúpu.

Í eldamennsku fremri salar Veitingahallarinnar virðist mér ríkja eins konar málamiðlun milli salats og heilsubrauðs annars vegar og franskra kartaflna og kokkteilsósu hins vegar. Hvorugt er líkt heimilismatreiðslunni handa langflutningabílstjórum í Múlakaffi.

160 og 215 króna veizlur

Miðjuverð á súpu, hrásalati, aðalrétti, eftirrétti af salatbar og ókeypis kaffi er 215 krónur á seðli dagsins og 328 krónur á fastaseðli. Án aðalréttar kostar þetta 160 krónur. Með eftirrétti af fastaseðli og hálfri flösku af víni á mann ætti fyrsta upphæðin að fara í 415 krónur og miðupphæðin í 528 krónur.

215 króna verð fyrir fjölbreytta máltíð er auðvitað afar hagkvæmt og stenzt fyllilega samkeppni við hvaða annan stað sem er. Gæðin eru hins vegar til betri annars staðar, þótt þau séu raunar frambærileg hér. Þjónustan er líka frambærileg, svo langt sem hún nær. Og útlit staðarins er svo út af fyrir sig skoðunar virði.

Jónas Kristjánsson

DV

Heimsins mesti matarforði.

Greinar

Gífurlegar birgðir sjávarafurða eru alltaf í geymslum fiskvinnslustöðva. Þótt sölur og siglingar gangi greiðlega, eru yfirleitt um þriggja mánaða birgðir í slíku millibilsástandi. Við síðustu talningu nam verðmæti sjávarafurða, sem biðu útflutnings, 3.730.000.000 krónum.

Þetta var þá fjörutíu sinnum meira verðmæti en fólst á sama tíma í óseldum og óseljanlegum landbúnaðarafurðum, sem biðu útflutnings. Matvælabirgðir landbúnaðarins eru aðeins lítið brot af matvælabirgðum landsins, þar sem uppistaðan er sjávarútvegurinn, okkar stóriðja.

Eitt mikilvægasta verkefni almannavarna á Íslandi ætti að felast í að tryggja geymslu sjávarvörubirgðanna, ef siglingar féllu niður af styrjaldarástæðum eða öðrum stórmælum. Af stríðinu við Persaflóa getum við lært, að við megum ekki treysta á endalausan olíustraum til landsins.

Ekki eru nema tveggja mánaða birgðir eldsneytis í landinu. Ef siglingar stöðvast, munu atvinnuvegirnir stöðvast og landbúnaður þar á meðal. Engin framleiðsla matvæla yrði, svo heitið geti, að þeim tíma liðnum.

Við slíkar aðstæður er mikilvægast, að frystigeymslur sjávarútvegsins gangi fyrir innlendri orku, en ekki innfluttri. Ef hægt er að halda geymslunum virkum á ófriðartíma, höfum við þar meiri matarbirgðir á mann en þekkjast hjá öðrum þjóðum.

Í löndum eins og Bretlandi og Svíþjóð er haldið uppi landbúnaði til að tryggja, að meiri matarbirgðir séu í landinu en ella væri. Og því hefur stundum verið haldið fram hér, að við þyrftum af öryggisástæðum að halda uppi óeðlilega miklum landbúnaði.

Bretar og Svíar eru ekki sérhæfðar fiskveiðiþjóðir eins og við erum. Þeir hafa ekki í landinu frystigeymslur með nokkurra ára matarbirgðum fyrir landsmenn eins og við höfum. Okkar matvælaöryggi í sjávarútvegi er margfalt meira en þeirra öryggi í landbúnaði.

Ef siglingar til landsins stöðvast, yrði það að sjálfsögðu mikið áfall. Neyzluvenjur okkar byggjast að verulegu leyti á matvælum, sem ekki eru framleidd í landinu og ekki hægt að framleiða í landinu. Sem dæmi um þetta má nefna kornmat og ýmislegt grænmeti og ávexti.

Hætt er við, að mörgum þætti einhæft að hafa fisk í öll mál. En á ófriðartímum verður oft að sæta öðru en því, sem bezt þykir. Þá skiptir meira máli, að fólk geti satt hungur sitt en að það gerist í formi, sem menn hafa vanizt. Og fiskurinn er það, sem við höfum við höndina.

Miklar birgðir af kjöti í landinu bæta ekki svo mjög stöðu okkar, því næringarefni eru nokkurn veginn hin sömu í fiski og kjöti. Það er því ekki haldbær röksemd, að við þurfum af öryggisástæðum að halda uppi offramleiðslu í hinum hefðbundnu greinum landbúnaðarins.

Ekki má heldur gleyma, að tveggja mánaða eldsneytisbirgðir mundu gera fiskveiðiflotanum kleift að draga á land 2.400.000.000 króna matarbirgðir til viðbótar við þær, sem jafnan eru til í landinu. Annar eins matarforði á mann yrði hvergi til í heiminum.

Það, sem við þurfum að gera, er að tryggja, að matarbirgðirnar í landinu liggi ekki undir skemmdum, ef til ófriðar eða annarra hörmunga dregur. Við þurfum hins vegar ekki að hafa áhyggjur af, að þessar birgðir séu ekki nægar. Og við þurfum hvorki kjötfjöll né smjörfjöll.

Jónas Kristjánsson.

DV

Við erum tvöfalt dýrari.

Greinar

Japanir verða manna elztir eins og Íslendingar. Þar eins og hér er ungbarnadauði ekki nema sjö af þúsundi fæðinga. Og þar eins og hér eru ævilíkur við fæðingu 77 ár. Engar þjóðir standa framar Íslendingum og Japönum á þessum mælikvörðum heilsugæzlu og heilsufars.

Til samanburðar má nefna, að ungbarnadauði í Vestur-Þýzkalandi er þrettán af þúsundi og tólf af þúsundi í Bandaríkjunum. Og ævilíkur Vestur-Þjóðverja við fæðingu eru 73 ár og 75 ár hjá Bandaríkjamönnum. Þessar tvær ríku þjóðir hafa lakari heilsu en við og Japanir.

Það skilur hins vegar á milli Íslendinga og Japana, að við höfum tvöfalt meiri kostnað af okkar heilbrigðisþjónustu. Í ár kostar íslenzk heilbrigðisþjónusta 1000 dollara á mann, en japönsk ekki nema 500 dollara. Mismunurinn felur í sér verulega fjárhæð í heild.

Gera má ráð fyrir, að kostnaður ríkis, sveitarfélaga, sjúkrasamlaga og einstaklinga af heilbrigðisþjónustu verði um 6,6 milljarðar króna á Íslandi á þessu ári. Þjóðhagsstofnun áætlar, að kostnaður við heilbrigðisþjónustu sé um þessar mundir 9,8% af þjóðarútgjöldum.

Ef við hefðum japanska heilbrigðiskerfið, væri kostnaður okkar í ár 3,3 milljarðar í stað 6,6 milljarða. Þessi munur er svo hrikalegur, að margumtalað fjárlagagat bliknar í samanburði við hann. Hann bendir til, að við gætum lært sitthvað af Japönum á þessu sviði.

Með þessum samanburði er ekki verið að segja, að íslenzka heilbrigðiskerfið sé ómögulegt. Sem annað dæmi má nefna, að það nær fyrir 1000 dollara á mann mun betri árangri en bandaríska kerfið nær fyrir 1500 dollara á mann á ári. Við erum ekki dýrastir allra.

En þessar tölur sýna, að við eigum frekar að læra af Japönum en Bandaríkjamönnum. Vestan hafs hefur kerfi sjúkrasamlaga leitt til óhóflegrar áherzlu á sjúkrahús og á dýrustu tegundir rannsókna og lækninga. Í Japan er hins vegar mest áherzla lögð á fyrirbyggjandi aðgerðir.

Yfirmaður við Alþjóðaheilbrigðisstofnunina sagði nýlega, að við hefðum byggt sjúkrarými 10-15 ár fram í tímann. Þar að auki höfum við farið glannalega í smíði heilsugæzlustöðva, sem kostar of fjár að reka. Okkur dugði ekki minna en ein á Hvolsvelli og önnur á Hellu.

Sem dæmi um kostnað við sjúkrahús má nefna, að í Bretlandi þjóna þau 2% sjúklinga og nota til þess 67% af fé heilbrigðismála. Markvissar aðgerðir í heilsuvernd stuðla að því, að færri tilfelli en áður verði svo alvarleg, að leggja þurfi fólk á spítala.

Japanir leggja mikla áherzlu á skoðanir á heilbrigðu fólki í svipuðum dúr og ítarlegri en hér eru framkvæmdar af þjóðþrifastofnunum á borð við Hjartavernd og Krabbameinsfélagið. Þeir geta því varað fólk við í tæka tíð og fengið það til að breyta lífsháttum sínum til batnaðar.

Ólafur Ólafsson landlæknir hefur oft vakið athygli á, að heilsuvernd sé sparnaður og að vænlegra sé að fjárfesta í heilsuvernd en sjúkdómum. Þá hefur verið talað um, að verðreikna þurfi þjónustu sjúkrahúsa, svo að læknar og sjúklingar viti, hvað hlutirnir kosta.

Þegar heilbrigðisþjónusta landsins er komin upp undir 10% af þjóðarútgjöldum, er ljóst, að lengra verður ekki komizt. Eftir það verður bætt heilsugæzla þjóðarinnar að koma fram í tiltölulega ódýrum fyrirbyggjandi aðgerðum, þar sem ein króna í dag sparar þúsund á morgun.

Jónas Kristjánsson

DV

Ofbeldi í eðlinu.

Greinar

Ofsóknir harðstjórnarinnar í Sovétríkjunum á hendur dauðveikum Sakarof-hjónunum eru eðlilegur þáttur hins ofbeldishneigða stjórnkerfis, sem þar hefur ríkt í rúmlega hálfa öld. Þessar ofsóknir eru ekkert sérstakt tilvik. Hið illa veldi tjáir sig jafnan með slíkum hætti.

Tsjernenko heldur áfram stefnu Andropovs og Brezhnevs við að brjóta á bak aftur sérvitra einstaklinga, ekki sízt ef þeir mynda samtök um að mæla með því, að Sovétríkin fari eftir mannréttindaákvæðum Helsinki-samkomulagsins frá 1975. Sá hópur er nú senn úr sögunni.

Ofbeldi hins illa veldis er hið sama út á við og inn á við. Harðstjórnin í Kreml hefur áratugum saman stefnt að heimsyfirráðum. Í hugmyndafræði ráðamanna Sovétríkjanna er slökun í samskiptum austurs og vesturs ekki annað en hlé á milli skrefa í útþenslunni.

Vaxandi viðgangur friðarhreyfinga á Vesturlöndum hvatti um tíma hið illa veldi til að fara glannalegar í útþenslustefnunni. Tveir vestrænir sjúkdómar, hollenzka veikin og kirkjulega veikin, eru meðal þess, sem mest hefur freistað stjórnar Sovétríkjanna á undanförnum árum.

Ofbeldisliðið er í fýlu um þessar mundir, af því að Vesturlöndum hefur tekizt að hrista af sér mók friðarhreyfinga og eru farin að taka höndum saman um að gæta lífshagsmuna sinna gegn útþenslustefnu hins illa veldis. Danmörk og Holland eru einu veiku hlekkir vestursins.

Fýlan kemur meðal annars fram í, að Sovétríkin hafa horfið frá þáttöku í ólympíuleikunum. Ráðamennirnir eru að hefna fyrir fjarveru Bandaríkjamanna og Breta á síðustu ólympíuleikum, þegar hin svívirðilega styrjöld Sovétríkjanna gegn Afganistan var fólki enn í fersku minni.

Fýlan kemur líka fram í, að Sovétstjórnin hættir að senda aðstoðarforsætisráðherra í sáttaferð til Kína til að hefna fyrir góðar móttökur, sem Reagan Bandaríkjaforseti fékk þar fyrir skömmu. Ofbeldisliðið hagar sér eins og börn, sem fá skyndilega ekki allt, sem þau vilja.

Harðstjórarnir í Kreml neita nú staðfastlega að taka þátt í að koma á viðræðum um bann við efnavopnum og eftirlit með slíku banni. Þeir neita líka að taka á ný þátt í afvopnunarviðræðum af ýmsu tagi, sem þeir hlupu frá í fyrra. Og þeir neita nýjum toppfundi stórveldanna.

Í öryggismálum móður jarðar flaggar hið illa veldi tillögum um marklausar viljayfirlýsingar á borð við loforð um að verða ekki fyrri til að beita kjarnorkuvopnum. En það má ekki heyra minnzt á raunhæft eftirlit með því, að staðið sé við áþreifanlegan samdrátt í vígbúnaði.

Enginn vafi er á, að stjórnkerfið í Sovétríkjunum hefur í hálfa öld ræktað ráðamenn, sem hafa klifið valdastigann á tvíþættum hæfileika grimmdar og sleikjuskapar. Stalínisminn var hin mikla þolraun þeirra allra. Þess vegna er Kreml illt veldi, stórhættulegt umhverfi sínu.

Friðardúfur Vesturlanda magna ofbeldishneigð þessara ráðamanna, sem munu halda áfram uppteknum hætti, nema almenningur á Vesturlöndum fylki sér eindregið og um langan aldur að baki þeirri festu, sem felst í stefnu vestrænna leiðtoga á borð við Mitterrand Frakklandsforseta.

Ustinov stríðsráðherra hafði ekki mikið fyrir fjöldamorðinu, þegar hann lét í fyrra skjóta niður farþegaþotu frá Suður-Kóreu. Ofbeldisfélagar hans í Kreml munu ekki heldur hafa mikið fyrir að koma fyrir kattarnef einum nóbelsverðlaunamanni og konu hans. Þetta er í eðlinu.

Jónas Kristjánsson.

DV

Sælkerinn

Veitingar

Hér vantar Via Veneto

Nokkrir gestir sátu tveir og tveir saman við lítil borð á löngum og mjóum sólsvölum á bak við gler, svona eins og þeir væru að vetrarlagi á gangstéttarkaffihúsi við Via Veneto. En því miður er þarna engin Via Veneto, heldur mannlaust húsasund, sem liggur að Nýja Bíói. Gestirnir verða því að láta sér nægja að stara eins og fordæmdar sálir á auglýsingaspjöld um bíómyndir.

Skemmtilegra bíó er að tjaldabaki, þar sem þjálfaður pizzukokkur fletur botnana og kastar þeim milli handanna með tilþrifum, áður en hann smyr á fyllingunni og stingur pizzunum inn í ofninn. Og síðan koma út bæjarins beztu pizzur, sem einar sér eru nægileg afsökum fyrir því að láta fólk stara inn í húsasund.

Sælkerinn er í gömlu bakhúsi hinnar mjög svo treguðu Haraldarbúðar. Engin tilraun hefur verið gerð til glæsibrags í innréttingum. Hið grófa hefur verið látið halda sér. Þreytulegar súlur og bitar bera ljósan lit eins og veggirnir. Sjálft veitingahúsið er raunar bara smáhola, sem tekur þó 40 manns í sæti, en þá mega þröngt sáttir sitja.

Í miðjum sal er langt og mjótt fiskaker. Undir því og meðfram þremur veggjum eru básar. Þar situr fólk á bekkjum með blómaáklæði, sem stingur, en ekki óþægilega, í stúf við rustalegt yfirbragð staðarins. Á borðum eru þykkar marmaraplötur. Í mjóum vegghillum eru krukkur, karöflur, þurrkuð blóm og pottablóm. Lampar eru í eins konar ungstíl upphafs þessarar aldar.

Dularfullar upplýsingar

Mikinn hita leggur frá pizzu-eldhúsinu inn í veitingasalinn, enda er opið á milli. Við þessir borgaralegu stöndum andspænis örlagaríkri ákvörðun um jakka og bindi. Hörmulegra er þó að horfa upp á vínflöskurnar í rekkum yfir eldhúsinu, sennilega í 30 stiga hita á Celcius.

Ill meðferð Sælkerans á víni er í stíl við dapurlegan vínlista hússins, sem býður aðeins upp á eitt drykkjarhæft hvítvín og þrjú rauðvín. Það eru Chablis, Chianti Antinori, Geisweiler Reserve og Chateauneuf-du-Pape.

Í ofanálag eru á vínlistanum dularfullar lýsingar á eðli vínanna, flestar út í hött. Þar er Chianti Antinori kallað “fremur sætt”, þótt það sé raunar alveg þurrt. Fyndnara er, að sykurvatnið Liebfraumilch er kallað “sætþurrt”. Það er eins og að segja Sælkerann vera í norðsuðri.

Fleira er frjálslegt á löngum matseðlinum. Smálúða (Hippoglossos Hippoglossos) heitir í ensku þýðingunni flundra, “Flounder” (Platichtys Flesus), sem er verri matfiskur, og í þýðingunni á ítölsku heitir hún sólflúra, “Sogliole” (Solea Solea), sem er betri matfiskur.

Á matseðlinum, sem er fastur og hefur enga rétti dagsins, nema súpuna, eru sex forréttir, þrjár súpur, fjórir fiskréttir, sjö kjötréttir, fimm eftirréttir, níu pöstur og hvorki meira né minna en tuttugu pizzur. Það er líka einkum hið síðastnefnda, sem gestir raða í sig af augljósri velþóknun.

Pösturnar eru það ítalska við matseðilinn. Þær eru ágætlega nefndar á íslenzku. Spaghetti heita strengir, maccaroni heita pípur og tagliatelle heita renningar. Þetta eru orð, sem mættu festast í málinu.

Pizzur eru hins vegar ekki ítalskur matur. Þær þekktust ekki þar í landi, fyrr en þær breiddust frá Bandaríkjunum út um allan heim, til Ítalíu sem annarra landa. Strangt til tekið er Sælkerinn því fremur bandarískur staður en ítalskur. En pizzurnar eru ekki verri fyrir það.

Pitsan er staðartromp

Súpa dagsins var að þessu sinni þykk sveppasúpa með ferskum sveppum, góð súpa. Fiskisúpan bjó yfir góðum tómatvökva, en of þurrum fiskbitum. Súpunum fylgdi mjög salt, ostbakað hveitibrauð.

Steikt smálúðuflök í skemmtilegri sósu með möndluflögum voru bezti matur prófunarinnar. Lúðan var hin meyrasta og ljúfasta, sem ég hef fengið í íslenzku veitingahúsi.

Kjötréttirnir reyndust síðri. Þeir höfðu ekki fengið eins varfærna meðhöndlun og fiskurinn. Þangfylltur lambageiri var þurr og þanglaus, en ágæt var svört appelsínusósan, sem fylgdi honum. Þurr var einnig pönnusnert alikálfalifur, svo og steiktir kjúklingar, beinlausir. Allt var þetta þrælsteikt.

Verst var, að dýr, koníaksristuð piparsteik reyndist fremur seig og ómerkileg, enda var hún miðlungi steikt, þótt beðið hafði verið um hana hrásteikta. Kjötið hefur líklega ekki verið nógu gott til hrásteikingar.

Strengir eða spaghetti í olíu, með hvítlauk og pipar, voru frambærilegir sem ítalskt, einfalt pasta.

Pitsa Ameríka með tómötum, osti, nautahakki og sveppum var sérstaklega góð. Botninn var enda búinn til á staðnum í augsýn gesta, en hafði ekki verið fluttur frystur eða kældur frá fyrirtæki úti í bæ. Botninn var svo mjúkur, að hann bráðnaði næstum því á tungunni. Pitsa er tromp staðarins, enda panta flestir gestir einhverja útgáfu hennar.

Sælkerinn gerir tilraun til að freista gesta með óvenjulegum eftirréttum. Ágætur var ávaxtakoddi, eins konar eplapæ, með þeyttum rjóma. Sæmilegt var seigt súkkulaðimauk með kremi, þeyttum rjóma og kiwi-sneiðum.

Kaffið er gott

Auðvitað er almennileg kaffivél á stað, sem segist vera ítalskur. Þess vegna er hægt að fá gott espresso og cappucino í Sælkeranum, mun betra kaffi en almennt fæst í íslenzkum veitingahúsum.

Miðjuverð forrétta er 175 krónur, súpa 80 krónur, fiskrétta 260 krónur, kjötrétta 370 krónur, pasta 180 krónur, pitsa 235 krónur og eftirrétta 115 krónur. Kaffið kostar 35 krónur.

Miðjuverð á súpu og pizzu er 315 krónur. Þriggja rétta hefðbundin máltíð með hálfri flösku af víni á mann og kaffi ætti að kosta um 722 krónur, sem er nokkuð dýrt, miðað við aðstæður. En þá ber líka að hafa í huga, að í rauninni er Sælkerinn pizzustaður, en ekki hefðbundið veitingahús.

Þegar við fórum, sátu gestir enn úti á glersvölunum og störðu sem fastast inn í vegginn á móti.

Jónas Kristjánsson

DV

Ringulreið fyrir sauðburð.

Greinar

Hin óskráða regla, að Alþingi skuli slitið upp úr miðjum maí, byggist á, að í gamla daga þurftu þingmenn að taka hnakk sinn og hest og ríða til sauðburðar. Enn er haldið stíft við þessa reglu, þótt atvinnuhættir og samgöngur hafi gerbreytzt síðan á nítjándu öld.

Ráðherrar hafa vanið sig á að nota sauðburðartímann til að komast á óþarfa fundi í útlöndum. Og óbreyttir alþingismenn eru komnir með farseðla til sólarlanda. Þessi ferðaþrá hefur tekið við af sauðburði, sem forsenda þess, að Alþingi verður sér til skammar á hverju vori.

Aldrei hefur þó æðibunugangurinn og ringulreiðin verið meiri en að þessu sinni. Frumvörp og tillögur hafa verið afgreiddar í kippum, þótt mjög fáir þingmenn hafi kynnt sér innihald þeirra. Eitt dæmið um þetta er lögræðisfrumvarpið, sem varð að lögum fyrir misskilning.

Efri deild hafði breytt þeirri útgáfu frumvarpsins, sem kom frá neðri deild. Þurfti frumvarpið því að fara aftur til nefndar í neðri deild, hefðbundið skref til samræmingar á útgáfunum tveimur. Síðan hefði framsögumaður nefndarinnar kynnt niðurstöðuna á deildarfundi.

Fyrir misskilning milli Ingvars Gíslasonar þingforseta og Gunnars G. Schram nefndarformanns var vikið frá eðlilegri málsmeðferð. Að viðstöddum nefndarformanni var útgáfa efri deildar tekin til atkvæða af deildarforseta og samþykkt án athugasemda nefndarformanns.

Þetta kom þingmönnum auðvitað í opna skjöldu. Þeir héldu, að málið hefði fengið eðlilega meðferð. Þegar menn áttuðu sig á, að svo var ekki, var það orðið um seinan. Lögræðisfrumvarpið var orðið að lögum í útgáfu, sem alveg er óvíst, að sé í samræmi við vilja Alþingis.

Æðibunugangurinn og ringulreiðin lýsa sér á ýmsan annan hátt. Hrossakaupin blómstra í öðru hverju skoti, meðan þingforsetar gera hlé á fundum til að leysa ósamkomulag milli stjórnarflokkanna eða innan annars hvors stjórnarflokksins. Þessu fylgir ógeðfelldur blær.

Landsfrægt er, að þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins gerðu með sér kaup um, að Mjólkursamsalan fengi áfram að brjóta skattalög gegn því, að húsnæðissamvinnufélögum yrði kippt úr húsnæðisfrumvarpinu. Þetta mangó-mál hnekkti áliti fólks á Alþingi.

Heilir þingflokkar og einstakir þingmenn notfæra sér tímahrakið á síðustu dögunum til að hindra. framgang mála, sem meirihluti er fyrir. Þannig var á síðustu stundu hindrað, að Alþingi samþykkti frumvarp um afnám einokunar Grænmetisverzlunar landbúnaðarins.

Stefán Valgeirsson hélt þinginu gangandi næturlangt með málþófi út af bankanum, þar sem hann vildi verða bankastjóri. Framsóknarmenn mættu ekki á fund í fjárveitinganefnd til að hindra, að Pálmi Jónsson yrði formaður nefndarinnar í störfum hennar í sumar.

Þorvaldur Garðar Kristjánsson, forseti Sameinaðs þings, hefur hvað eftir annað þurft að minna formenn nefnda á, að liggja ekki á málum. Samt tókst Ólafi Þ. Þórðarsyni að gera allsherjarnefnd óstarfhæfa með því að neita að halda fundi til að hindra bjórfrumvörp.

Eftir tíða kvöld-, nætur- og helgarfundi er þreyttum og vansvefta afgreiðslumönnum á þingi meira eða minna óljóst, hvað hefur verið afgreitt og hvað ekki. Hitt ætti ekki að vefjast fyrir þeim, af hverju þjóðin hefur lítið álit á þingmönnum og Alþingi.

Jónas Kristjánsson.

DV

Skemmdir kartöfluflokkar.

Greinar

Framsóknarflokkurinn gæti ekki haldið áfram að ofsækja neytendur, ef hann nyti ekki fyllsta stuðnings þingflokks sjálfstæðismanna. Sameiginlega hafa þessir tveir skemmdu kartöfluflokkar svæft frumvarpið um afnám Grænmetiseinokunar með því að vísa því til ríkisstjórnarinnar.

Hinn eini réttláti í þingflokki sjálfstæðismanna var Eyjólfur Konráð Jónsson, sem greiddi atkvæði gegn svæfingunni. Er nú ekki einu sinni Albert Guðmundsson lengur með á nótunum. Hann studdi þó fyrir stuttu með Eyjólfi Konráð tillögu um sölu ríkisbankanna.

Enginn ætlast til, að Framsóknal.flokkurinn geri nokkuð fyrir neytendur í landinu. Hann er einn af hornsteinum Landseigendafélagsins, sem lítur á neytendur sem ánauðugt fólk. Enda má segja, að hinir fáu kjósendur flokksins í þéttbýli séu haldnir eins konar sjálfskvalastefnu.

Hitt er athyglisverðara, að þingflokkur sjálfstæðismanna skuli standa öflugan vörð um hagsmuni einokunarinnar. Hann gerir grín að undirskriftum 20.000 neytenda með því að hunza þær. Hann telur vafalaust, að málið verði gleymt og grafið í næstu kosningum.

Varnarstríð Jóns Helgasonar landbúnaðarráðherra í kartöflumálinu vekur engar vonir um eðlilega framvindu málsins. Hann leyfði um síðir innflutninginn með því skilyrði, að hann yrði ekki frjáls. Hann skyldaði heildsalana til að mynda einokunarhring um innflutninginn.

Tvíokun Grænmetisverzlunar landbúnaðarins og hrings heildsala tryggir ekki hagsmuni neytenda. Við höfum þegar séð, að ítölsku kartöflurnar voru of smáar. Frjáls samkeppni heildsala mundi fljótlega þvo burt þá aðila, sem endurtækju slík mistök í innkaupum.

Markmið Jóns Helgasonar er auðvitað að sá til vantrúar almennings á afnámi kartöflueinokunar Grænmetisverzlunarinnar. Það gerir hann með því að leyfa innflutning til bráðabirgða, en gefa hann ekki frjálsan. Síðan hyggst hann endurnýja einokunina, þegar neytendur missa úthaldið.

Landbúnaðarráðherra hefur líka skipað í málið nefnd, sem á að drepa málinu á dreif. Í fyrstu bókun nefndarinnar varar hún einróma og eindregið við skipulagsbreytingu á sölukerfinu að svo komnu máli. Neytendur munu ekki geta sótt hald og traust í þessa afturhaldsnefnd.

Engin ástæða er til að ætla, að stjórnmálamönnum Sjálfstæðisflokksins takist að hindra ráðagerðir Jóns Helgasonar og Landseigendafélagsins. Ekki eru nema nokkrir dagar síðan þeir gáfust upp fyrir Framsóknarflokknum í söluskattsvikunum á kókómjólk.

Með verðlækkun á kókómjólk hefur verið viðurkennt, að árum saman hefur verið stolið undan söluskatti. Samt gerir þingflokkur sjálfstæðismanna samkomulag um að söluskattur verði ekki innheimtur að sinni. Menn eru komnir á lágt stig, þegar þeir semja um slík lögbrot.

Þeir voru líka langt niðri, þegar þeir samþykktu, að engin rekistefna yrði gerð út af samsæri Sambands íslenskra samvinnufélaga og Grænmetisverzlunar landbúnaðarins um innflutning á ónýtum kartöflum, sem veldur neytendum fimm milljón króna tjóni um þessar mundir.

Dæmin sýna, að neytendur eiga ekki hauk í horni Sjálfstæðisflokksins, bandingja Framsóknarflokksins. Eina vopn þeirra í stríðinu við einokunina er að halda áfram viðskiptabanninu á Grænmetisverzlunina, ekki bara í nokkrar vikur, heldur árum saman, ef með þarf. Í svona máli dugar aðeins harkan sex.

Jónas Kristjánsson.

DV

Rúm fyrir 2000 bændur.

Greinar

Loksins hafa stofnanir og samtök landbúnaðarins viðurkennt, að niðurgreiðslurnar séu sniðnar fyrir landbúnaðinn og haldi uppi óraunhæfum markaði fyrir afurðir sauðfjár og nautgripa. Hingað til hafa þessir aðilar haldið fram, að útflutningsuppbæturnar einar væru mælikvarði á offramleiðsluna.

Í fróðlegri grein í Tímanum í fyrradag komu fram tölur frá þessum aðilum um, að framleiðsla hinna hefðbundnu landbúnaðarafurða yrði að minnka um 30%, ef útflutningsbætur og niðurgreiðslur yrðu afnumdar. Þetta jafngildir 40% offramleiðslu, en ekki 10% eins og áður hefur verið haldið fram.

Er þá loksins öllum orðið ljóst, að niðurgreiðslur ákveðinna vörutegunda auka neyzlu þeirra á kostnað annarra vörutegunda og skekkja neyzluvenjur landsmanna. Þannig er búinn til falskur markaður, sem um síðir hefnir sín, þegar ríkið hefur ekki lengur efni á þessum stuðningi.

Samkvæmt tölum stofnana og samtaka landbúnaðarins yrði aðeins rúm fyrir 2000 alvörubændur á Íslandi í stað 4200, ef útflutningsbætur og niðurgreiðslur yrðu afnumdar. Tölunni 2000 hefur raunar stundum áður skotið upp í umræðum um framtíð hefðbundins landbúnaðar á Íslandi.

Þessir aðilar telja þannig, að fækkun bænda yrði töluvert meiri en samdráttur framleiðslunnar, þar sem líklegt sé, að smæstu og verst búnu býlin mundu fyrst týna tölunni. Þetta er sjálfsagt rétt athugað í höfuðdráttum, þótt fleiri atriði verði í reynd lögð á vogarskálarnar.

Að bændur skuli nú vera rúmlega tvöfalt fleiri en þörf er fyrir, samkvæmt tölum samtaka og stofnana landbúnaðarins, sýnir, hversu skammsýnt hefur verið að styðja hinn hefðbundna landbúnað áratug eftir áratug. Vandanum hefur verið ýtt áfram með miklum tilkostnaði.

Ef bændum hefði verið leyft að fækka síðustu þrjá áratugina með sama hraða og þeim hefur fækkað á sama tíma á öðrum Norðurlöndum og með sama hraða og þeim fækkaði hér á landi á fyrri áratugum þessarar aldar, væru þeir nú einmitt 2000 en ekki 4200.

Margvíslegum ráðum hefur verið beitt til að hamla gegn hinni eðlilegu þróun. Ungir menn hafa með fjárgjöfum verið ginntir til að stofna nýbýli og skuldasúpur. Eins hafa framtakssamir bændur verið með fjárgjöfum ginntir til að stofna skuldasúpur, áhyggjur og þrældóm.

Svo langt gengur þetta þrælahald, að sett hafa verið sérstök lög til að hindra bændur í að selja jarðir sínar á fullu markaðsverði. Þeir neyðast til að sæta lágu mati og hafa því ekki efni á að gera það, sem þeir helzt vildu, – að flytjast á mölina.

Þetta kerfi er ekki rekið í þágu bænda, heldur í þágu vinnslu- og dreifingarstöðva, sem þurfa veltu og aukna veltu til að standa undir stórfelldum framkvæmdum, sem allar eru þjóðhagslega óþarfar. Tíu hundraðshlutum fjárlaga ríkisins er varið í þessu skyni.

Hið opinbera á aldrei að verja fé til að vernda deyjandi atvinnugreinar. Það má hins vegar veita peningum til nýrra og upprennandi atvinnuvega, til iðngarða í bæjum og kauptúnum og til margvíslegrar endurmenntunar, sem gerir þjóðinni kleift að mæta nýjum tíma.

Íslendingar eiga ekki að sóa fé í að standa gegn röskun á háttum sínum. Byggðir eiga að fá að falla í eyði í friði. Við eigum að láta þrældóm byggðastefnunnar víkja fyrir heilbrigðri röskun, sem hefur verið og er enn undirstaða allra framfara, hér sem annars staðar.

Jónas Kristjánsson

DV

Drekinn

Veitingar

Íslenzkt og víetnamskt

Drekinn er enn minna kínverskur en Zorba er grískur. Sem dæmi um vestrænu þessa litla veitingahúss á horni Laugavegar og Klapparstígs má nefna, að matseðillinn býður upp á kaffi en ekki te. Hef ég aldrei fyrr heyrt um kínverskt veitingahús án tes.

Annað dæmi er, að Drekinn býður upp á súpu dagsins og viðamikinn aðalrétt í einu verði, svo sem algengt er á Vesturlöndum, en fátítt í kínverskum veitingahúsum, sem flest leggja áherzlu á syrpur af smáum réttum. Þar á ofan reyndist dag eftir dag súpa dagsins vera þykk, en ekki tær, eins og kínverskar súpur eru yfirleitt.

Ekta þjóðernisstöðum í öðrum löndum er haldið við efnið af hópum útlaga, sem borða í þessum veitingahúsum og vilja fá sama mat og þeir fengu heima í gamla daga. Hér er ekkert um slíka viðskiptavini. Því er skiljanlegt, að Drekinn hefur eins og Zorba lagað sig að neyzluvenjum Vestur-Evrópu.

Sætsúrir réttir og ostrusósa benda til, að Drekinn sé af þeim meiði kínverskrar matargerðar, sem kenndur er við borgina Kanton. Sú skilgreining stenzt þó ekki alveg, því að ekki er boðið upp á neina gufusoðna dim-sum smárétti, sem einkenna flesta kantonska veitingastaði. Þeim mun meira er djúpsteikt, sem ekki er kantonskt.

Karríréttir Drekans rugla síðan skilgreininguna enn frekar. Karrí er indversk kryddblanda, en ekki kínversk. Skýringin er sennilega sú, að milli Kína og Indlands er skaginn Indókína, þar sem meðal annars er ríkið Víetnam. Matreiðslan er sem sagt frekar víetnömsk en kantonsk.

Hin kínverska hefð leynir sér samt ekki í hinni nærfærnu eldamennsku, sem vel kemur fram í fiskréttum Drekans. Hún lýsir virðingu fyrir viðkvæmu hráefni, sem íslenzkir matreiðslumenn mættu sumir hverjir læra. Jafnvel við djúpsteikingu er skorpan yfirleitt þunn og létt í maga.

Fyrsta flokks fiskisúpa

Hápunktur prófunarinnar í Drekanum var fiskisúpan, heil máltíð út af fyrir sig. Það var sætsúr súpa, tær, með léttsoðnum smálúðubitum, stinnri papriku, grænni og rauðri, blaðlauk og spírum. Þetta var fyrsta flokks máltíð á aðeins 125 krónur.

Súpa dagsins var sæmileg hveitisúpa með grænmeti. Hún var líka í boði daginn eftir og virtist þá einnig vera nýlöguð.

Staðlað meðlæti var borið fram með öllum aðalréttunum. Það fólst í góðum, hvítum hrísgrjónum, venjulegu hrásalati, smátt söxuðu, bandarískri sósu, salatblaði, sítrónu og tómati.

Allir aðalréttirnir voru bornir fram snarpheitir og allir með hníf og gaffli, en ekki prjónum. Allar sósur voru mildar á bragðið.

Djúpsteiktur skötuselur með blaðlauk og grænmetis-ostrusósu, svo og stinnri papriku, var hinn ljúfasti matur, bezti aðalréttur prófunarinnar.

Smálúðan djúpsteikta var líka góð, borin fram með skemmtilegri, hnetublandaðri ostrusósu. Djúpsteikti karfinn í hádeginu daginn eftir hafði hins vegar of mikinn og fitugan steikarhjúp, enda kokkurinn sennilega annar. Karfinn var samt góður, þegar búið var að taka hjúpinn frá.

Nautakjöts-vorrúlla með sætsúrri sósu var stór og matarmikil með þunnri og stökkri skorpu. Sama var að segja um þá rúlluna, sem var með karrísósu.

Kjúklingur chow mein fólst í þunnum kjötræmum á spaghetti-beði með sætsúrri sósu. Þetta var frambærilegur matur, ekki of mikið eldaður. Lambakjöt chow mein var svo þunnar kjötflögur á karríhrísgrjónum. Það kjöt var of mikið eldað, orðið grátt og þurrt.

Orðin chow mein voru hið eina, sem ekki var á íslenzku á matseðlinum. Á Drekanum virtust þau ýmist þýða spaghetti eða hrísgrjón, það er að segja, hvað sem vera skal.

Allt í ljósum og bláum lit

Drekinn er lítil og notaleg, 42 sæta veitingastofa, innréttuð í ljósu og bláu. Sléttpússað trégólf er ljóst, panilveggir ljósir, strigaloft ljóst, plastborð ljós og klappstólar á efra palli ljósir. Bekkir á neðra palli eru með ljósblárúðóttu áklæði eins og gluggatjöldin. Bláir listar ramma glugga, skilrúm og veggsúlur. Útihurðin er blá.

Í gluggum eru illa málaðar eftirlíkingar af glerseindum dreka, sem hangir yfir afgreiðsluborði. Kínverskur glottkarl situr á skilrúmi yfir litlu barnahorni við innganginn. Í lofti eru kínverskar sólhlífar og blævængir, óróar og leikbrúður. Í heild er þetta hið þægilegasta umhverfi, því að kínverskan í skreytingunni er ekki ofhlaðin.

Þótt Drekinn sé í lægsta verðflokki veitingahúsa, er þar veitt full þjónusta til borðs, svo að gestir þurfa ekki að hanga við afgreiðsludiskinn eins og á flestum stöðum í sama verðflokki.

Þjónustan var afar góð og raunar betri en á sumum stöðum, sem hafa lærða þjóna. Sem dæmi má nefna, að stúlkan vissi upp á hár, hver hafði pantað hvað við sex manna borð, þótt engir tveir hefðu pantað hið sama. Þarna var enginn “hver pantaði þetta” vandræðagangur, sem setur niður sum íslenzk veitingahús.

Á matseðli dagsins var súpa og sjö aðalréttir. Miðjuverð súpu og aðalréttar var 210 krónur. Á fastaseðli eru fimm súpur á miðjuverðinu 125 krónur og 22 aðalréttir á miðjuverðinu 187 krónur. Af aðalréttunum eru sex konar vorrúllur, fjórir sætsúrir réttir, tveir chow-mein réttir, fjórir karríréttir, fjórir ostrusósuréttir og tveir aðrir réttir. Enginn eftirréttur er á seðlinum, enda eru Kínverjar lítið fyrir slíkt. Kaffi kostar 30 krónur.

Drekinn er góð tilbreytni í veitingamennsku landsins. Þar er boðið upp á ágætan og ódýran mat við góða þjónustu í þægilegu umhverfi. Hann er að vísu ekki eins kínverskur og hann segist vera. En ég gleymdi að spyrja, hvort hægt væri að fá prjóna til borðs.

Jónas Kristjánsson

DV