Author Archive

Kokkurinn

Veitingar

Matreiðsla Kokksins á Laugavegi 28 hefði þótt fyrsta flokks fyrir tíu árum. Um þessar mundir er hún lýtalítil og frambærileg. En hún hefur lítið af sérkennum, sem greini hana frá öðrum. Samt er þetta nýr staður. Nýir menn hafa keypt Ask, breytt honum og kallað: Hjá kokknum.

Í hinni hörðu samkeppni nútímans, þegar vikulega er opnað nýtt veitingahús, velta menn auðvitað fyrir sér, hvort þetta sé eitthvað nýtt eða bara meira af sama. Ekki geta allir staðizt samkeppnina, ef þeir eru allir nokkurn veginn eins. Enda auglýsir til dæmis einn nýju staðanna, að hann bjóði upp á nýja, franska eldhúsið.

Einn staður þrífst, af því að hann býður upp á útsýni yfir fiskibátahöfnina. Annar blómstrar, af því að hann hefur bezta salatborð landsins fyrir lítið verð. Hinn þriðji skákar lægsta verðinu og hinn fjórði bezta matnum. Aðrir bjóða upp á matreiðslu fjarlægra landa. Þannig reynir hver að búa til sérstöðu, er safni að sér stuðningsliði. Í þessari mynd er Kokkurinn hvergi.

Lagfærð húsakynni

Húsakynni Kokksins hafa verið lagfærð. Askurinn hinn mikli á miðju gólfi hefur verið fjarlægður. Þar hefur í staðinn verið komið fyrir hljómborði. Að öðru leyti er þetta gamli Askur með básum einum fyrir um 50 manns í sæti og hinum undarlegu spakmælum á skinnpjötlum milli bása. Menn þekkja áfram grófu bitana og hleðslusteinvegginn, svo og vegglampa úr leir og smíðajárni.

Hálfopið er inn í eldhús, en minna en áður, því að bar hefur verið skotið inn í salinn við enda hans. Á borðum eru dúkar og kerti í koníaksglösum, svo og munnþurrkur úr pappír. Staðurinn er rýmri en áður og heldur bjartari, en samt ekki verulega notalegur.

Kínverska pönnukakan var mjög góð, mun betri en flestar aðrar, sem prófaðar hafa verið í tengslum við þennan greinaflokk. Hún var hæfilega þunn og stökk. Innmaturinn var tiltölulega vandaður. Með henni fylgdu hæfilega lítið soðin hrísgrjón með hæfilega sterkri karrísósu, svo og blaðsalat, tómatar og gúrka.

Grænmetissúpa dagsins var borin fram með gömlu og seigu osta- og saltbrauði. Sjálf súpan var hnausþykk af hveiti, sem flutti með sér nokkurn keim. Hins vegar flaut í henni ágætis grænmeti, sem ekki hafði grautazt, heldur verið látið út í hæfilega seint og þá verið ferskt, en ekki úr dósum.

Franska lauksúpan var að því leyti öðruvísi en margar slíkar, að hún hafði áberandi tómatbragð. Að öðru leyti var hún undir hinu venjulega þaki brauðbita og osta. Þetta var hæfilega krydduð súpa, raunar góð súpa.

Sjávarsalat fól í sér rækjur, krækling og humar. Þetta var gott salat, svona svipað og gestir geta búizt við á flestum sæmilegum veitingahúsum. Með réttinum fylgdi smjördeigsmáni og mild tómatsósa sérlöguð.

Grillaði kjúklingurinn var meyr og góður, hæfilega eldaður. Með honum voru djúpsteiktar kartöflur, betri en þessar venjulegu “frönsku”. Svokölluð madeira-sósa var mild hveitisósa, sem fékk fljótlega skán.

Hrásalat á sama diski fylgdi öllum aðalréttum Kokksins. Það var smásaxað og skreytt með appelsínusneiðum, tómati, rauðri papriku og bandarískri salatsósu, ekki góðri. Með fiskréttunum komu sítrónusneiðar í stað appelsínusneiðanna.

Bragðljúfur turnbauti

Turnbautinn var óvenjulega góður, nákvæmlega hrásteiktur, eins og um var beðið, þykkur og meyr og sérdeilis bragðljúfur. Með fylgdi bökuð kartafla og hið ógeðslega, mauksoðna rósakál, sem eingöngu á Íslandi er talinn mannamatur.

Lambalundirnar hvítlaukssteiktu voru hins vegar heldur mikið steiktar, enda mega svo grönn kjötstykki nánast ekki við neinu. Með þeim fylgdi hið sama og turnbautanum, þar á meðal mild béarnaise-sósa í betri kantinum.

Karríristaður skötuselur var rétt rúmlega mátulega eldaður, einn bezti matur prófunarinnar. Hann var borinn fram með ananas-sneiðum, hrísgrjónum, rjómaðri karrísósu mildri og sýrðum gúrkum.

Á stuttum seðli dagsins voru tveir réttir, auk grænmetissúpunnar áðurnefndu. Annar rétturinn var pönnusteiktur karfi, sem reyndist vera þrælsteiktur og beinlínis vondur, eins og upp úr hitapotti í mötuneyti. Honum fylgdu fallegar, soðnar kartöflur og fremur ólystugt remúlaði.

Versti vínlistinn

Kokkurinn hefur vínveitingaleyfi og býður upp á stuttan vínlista, sem á þann vafasama heiður að vera hinn lélegasti, er ég hef séð í heiminum. Þar er eitt drykkjarhæft rauðvín, Chateau de Saint Laurent, en ekkert hvítvín, sem ég gæti hugsað mér að innbyrða, nema ef væri af atvinnuástæðum.

Þegar kokkurinn var prófaður, reyndist þjónustan vera góð, meira að segja ræðin, sem er allt í lagi, þegar hún er kunnáttusamleg, svo sem raunin var. Stúlkan vissi til dæmis alveg, hver hafði pantað hvað og gat útskýrt, hvernig réttirnir yrðu matreiddir.

Kokkurinn hefur tvo fastaseðla, annan í hádeginu og fram eftir degi, en hinn að kvöldi til. Innihald seðlanna er mjög svipað. Hádegisseðillinn er þó nokkru ódýrari en kvöldseðillinn. Seðill dagsins er svo bæði í hádeginu og á kvöldin, en telur aðeins tvo eða þrjá aðalrétti.

Á kvöldseðlinum er miðjuverð forrétta 165 krónur, súpa 78 krónur, fiskrétta 241 króna, kjötrétta 453 krónur og eftirrétta 153 krónur. Með kaffi á 12 krónur og hálfri flösku af húsvíni á 130 krónur ætti þriggja rétta máltíð að kosta að meðallagi um 762 krónur, sem mér finnst nokkuð hátt. Í hádeginu yrði hliðstætt verð 618 krónur. Súpa og aðalréttur á seðli dagsins gæti verið á 210 krónur.

Þetta er sem sagt frambærilegur staður á frekar háu verði. Og fátt er sérkenna, er geri staðinn eftirminnilegan.

Jónas Kristjánsson

DV

Tvíhöfða óvinur útgerðar.

Greinar

Til lengdar getur ekki gengið að halda sjávarútveginum í núverandi bóndabeygju. Útgerð og fiskvinnsla verða að fá tækifæri til að halda áfram að vera hornsteinn atvinnulífs þjóðarinnar, því að annan hornstein höfum við ekki, að minnsta kosti ekki í náinni framtíð.

Tvo óvini á sjávarútvegurinn. Í fyrsta lagi stjórnvöld margra síðustu ára, sem hafa með ýmsum fyrirgreiðslum látið flotann vaxa of mikið. Og í öðru lagi núverandi stjórnvöld, sem halda niðri tekjum sjávarútvegsins til að auðvelda sér baráttuna við verðbólgu.

Með ofsetningu skipa á fiskistofnana er verið að búa til eins konar landbúnaðarvanda í sjávarútvegi. Skipunum verður að fækka sem skjótast, svo að jafnvægi náist milli sóknar og stofna og sjávarútvegurinn nái sínu eðlilega ástandi sem arðbær atvinnuvegur.

Kvótakerfinu hefur ekki tekizt að minnka flotann. Þvert á móti virðist það stuðla að áframhaldandi útgerð sem flestra skipa. Ekki bætir úr skák, að sala kvóta og önnur tilfærsla þeirra hefur sætt skaðlegum hömlum og óréttmætri gagnrýni sem eins konar spilling.

Ef kvótakaup fengju að ýta verstu taprekstrar-útgerð- inni úr spilinu, mætti ætla, að róðurinn léttist hjá hinum. Afkoma sjávarútvegsins yrði betri en hún er nú. Og alls ekki má efla vitleysuna með uppbótum og millifærslum eins og ríkisstjórnin hefur verið að gera.

Stuðningur við hinn vonlausa hluta sjávarútvegsins hefur svo búið til hina sérkennilegu stöðu, að sumir fullyrða, að lækkað gengi krónunnar hjálpi ekki útgerðinni. Þessi kenning er dæmi um, hversu annarlegt ástandið getur orðið, jafnvel í sjávarútvegi.

Útgerðin er sögð svo skuldug í erlendum gjaldeyri og sögð nota svo mikla olíu í erlendum gjaldeyri, að gengislækkun hjálpi henni ekki. Þetta gildir auðvitað ekki um venjulega útgerð, heldur eingöngu um útgerð grínistanna, sem gera út á ríkisstjórn og opinbera sjóði.

Þar með er líka komið að hinum þættinum, sem heldur sjávarútveginum niðri. Ríkisstjórnir, sem berjast við verðbólgu, telja sig þurfa að halda gengi krónunnar stöðugu. Það er skynsamlegt upp að vissu marki, en getur líka orðið dýrkeypt, þegar það gengur út í öfgar.

Í erfiðu varnarstríði gegn verðbólgu kemur oft að því, að ríkisstjórnir neita að viðurkenna, að baráttan hefur ekki borið árangur og atvinnulífið hefur skekkzt. Þá er áfram haldið dauðahaldi í stöðugt gengi til að varðveita þá ímyndun, að baráttan standi enn.

Þetta gerist alltaf á kostnað sjávarútvegsins. Atvinnugrein, sem í eðli sínu er hin arðbærasta, stendur andspænis hraðvaxandi skuldasúpu. Ríkisstjórnir reyna af veikum mætti að bjarga málum í horn með millifærslum og uppbótum. Sú heimska er einmitt að gerast núna.

Ríkisstjórnir eru hinn tvíhöfða óvinur sjávarútvegsins. Þær draga skóinn niður af útgerðinni með því að auðvelda auralausum grínistum að kaupa óþörf og skaðleg skip. Og þær láta sjávarútveginn greiða herkostnaðinn af mistökunum í baráttunni við verðbólgu.

Ef sjávarútvegurinn fengi að njóta eðlilegrar stærðar, ekki of mikillar, og ef hann fengi jafnan rétt gjaldeyrisskil fyrir afurðir sínar, ekki of lág skil, – þá sæist fljótlega, að í eðli sínu er hann hagkvæmasti, arðbærasti og öflugasti atvinnuvegur þjóðarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Röngum aðferðum beitt.

Greinar

Fyrsta áratug þessarar aldar hafði Íslandsráðherra sextánföld verkamannalaun og sæmilegur kaupmaður hafði tuttuguföld verkamannalaun í hreinar tekjur. Þá voru árstekjur verkamannsins 500 krónur, ráðherrans 8.000 krónur og kaupmannsins 10.000 krónur.

Með vaxandi velmegun á þessari öld jöfnuðust tekjur manna og stéttaskipting minnkaði. Þjóðfélagið varð smám saman að einni stórri miðstétt. Sárafáir voru bónbjargamenn og sárafáir ofsaríkir í þeim stíl, sem þekktist í útlöndum. Íslendingar urðu jafningjar.

Líklega hefur þessi þróun náð hámarki snemma á sjöunda áratugnum. Sá tekjumunur, sem áður var tuttugufaldur, var þá ekki orðinn nema fimmfaldur. Íslendingar voru stoltir af því að hafa komið sér upp þjóðfélagi, þar sem stéttaskipting var að mestu úr sögunni.

Síðustu árin hafa svo sézt merki þess, að tekjuskipting og stéttaskipting fari vaxandi á nýjan leik. Hún felst ekki í, að hinir bezt stæðu hafi stungið fjöldann af, heldur í hinu, að hinn vel stæði fjöldi hefur skilið eftir um 10% þjóðarinnar í lífsgæðakapphlaupinu.

Breytingin varð hraðari eftir að þjóðartekjur fóru að minnka fyrir svo sem tveimur árum. Á þessum samdráttartíma hefur hinum vel stæðu tekizt að halda sínum lífskjörum, en samdrátturinn komið í auknum þunga niður á þeim, sem minnst mega sín í þjóðfélaginu.

Gagnaðgerðir stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins hafa mistekizt. Tilraunir til að þrengja launastiga hafa ekki borið árangur. Og samningsbundin eða lögbundin lágmarkslaun hafa gersamlega brugðizt þeim vonum, sem góðviljaðir menn hafa bundið við þau.

Enginn hefur ráðið við launaskriðið, sem eflist sjálfkrafa við þær aðstæður, sem verið hafa í tvö ár. Hinir betur settu hafa fengið kjarabætur umfram aðra, af því að fyrirtækin vilja ekki missa þá. Þeir halda sínum lífskjörum meðan lífskjör annarra rýrna.

Í Þjóðhagsstofnun er áætlað, að launaskrið verði um 4% á þessu ári. Þar sem sumir njóta einskis launaskriðs, er prósentan í raun hærri hjá þeim, sem skriðsins njóta. Og þetta launaskrið gerir meira en að éta upp möguleika atvinnulífsins á að bæta lífskjörin.

Launaskrið er ekki hægt að banna. Það gerist af sjálfu sér, af því að sumir eru fyrirtækjunum mikilvægari en aðrir. Það getur verið vegna verðleika, menntunar, reynslu, forréttinda eða tilviljunar. Fyrirtækin sjá um, að þetta fólk fari ekki til starfa hjá öðrum.

Gagnaðgerðir stjórnvalda og aðila vinnumarkaðsins hafa ekki byggzt á niðurstöðum könnunar Kjararannsóknanefndar í vetur. Þar kom í ljós, að vandamálið var félagslegt. Hin fátæki tíundi hluti þjóðarinnar fólst í fjölskyldum einstæðra foreldra og barnmörgum fjölskyldum.

Ef frá eru taldir öryrkjar og ellilífeyrisþegar, geta aðrir haldið sér í hinni vel stæðu miðstétt, annaðhvort vegna verðleika, menntunar, reynslu, forréttinda og tilviljunar, – eða með aukavinnu, – eða með því að fyrirvinnur fjölskyldunnar eru fleiri en ein.

Bæði hér og annars staðar hefur margoft verið bent á, að vænlegasta leiðin til að bæta kjör undirstéttarinnar er annars vegar að auka elli- og örorkubætur og hins vegar að breyta niðurgreiðslum í fjölskyldubætur. Á þann hátt megi minnka stéttaskiptingu á nýjan leik.

Jónas Kristjánsson.

DV

Afnemum undanþágurnar.

Greinar

Herstöðin á Keflavíkurflugvelli er hvorki bandarískt sendiráð né bandarískt land. Hún er íslenzkt land, sem hefur um sinn verið lánað endurgjaldslaust til eftirlitsþarfa varnarbandalags, sem þorri Íslendinga styður heils hugar. Þar eiga að gilda íslenzk lög og íslenzkar reglur.

Því miður hafa þar verið veittar víðtækar undanþágur, sem tímabært er að afturkalla. Um leið þarf að skrúfa fyrir ýmsa spillingu, er byggist á þessum undanþágum, þar á meðal hermangið, sem felst í að ekki eru boðin út verk og siglingar á heilbrigðan hátt.

Í rauninni er fáránlegt, að íslenzk króna skuli ekki vera gjaldmiðill þessa hluta Íslands eins og annarra hluta. Viðskipti, launagreiðslur og bókhald á Keflavíkurflugvelli eiga að fara fram í krónum. Aðrar myntir eiga þar ekki erindi, meðan þær gilda ekki annars staðar í landinu.

Einnig er fáránlegt, að skattar, tollar og aðrar skyldur skuli ekki gilda á Keflavíkurflugvelli á sama hátt og í öðrum hlutum landsins. Á þessum sviðum gildir hæði að láta íslenzk lög gilda og að koma í veg fyrir spillingu, sem fylgir smygli út fyrir vallargirðingu.

Til dæmis ber að innheimta full aðflutningsgjöld af öllum vörum, nema beinum hernaðartækjum. Ennfremur bensíngjald og bifreiðaskatt. Svo og lögboðin tryggingagjöld. Einnig söluskatt og öll hin smáu og hugvitssamlegu gjöld, sem stjórnvöld hér hafa fundið upp.

Fáránlegt er, að lög og reglugerðir um innflutningsbann á ýmsum matvælum skuli ekki gilda á Keflavíkurflugvelli. Reglur þessar eru sagðar eiga að hamla gegn smiti og sjúkdómum. Meðan þær gilda í landinu í heild, eiga þær líka að gilda á þessum bletti þess.

Að vísu eru margir þeirrar skoðunar, að þessar hömlur séu óþarfar og jafnvel skaðlegar, eins og bannið við notkun á erlendum gjaldmiðlum innanlands. En hugsanlegt afnám slíkra hamla ætti þá að gilda fyrir landið í heild og ekki fyrir lítinn hluta þess.

Ennfremur er fáránlegt, að byggingaframkvæmdir, siglingar og önnur verk á vegum herstöðvarinnar skuli ekki hlíta siðferðilegum reglum frjálsra útboða. Við eigum ekki að þurfa að horfa á illa fengið hermangsfé að Höfðabakka 9, við anddyri Reykjavíkur.

Loks er fáránlegt, að Íslendingar skuli ekki með skipulegum hætti þjálfa fólk til að taka að sér margvísleg störf, sem nú eru unnin af útlendingum, önnur en rekstur ratsjár- og fjarskiptastöðvar, flugsveitar, ratsjárflugvéla og hergagnavarðveizlu.

Íslendingar eiga að taka að sér verklega framkvæmdadeild eftirlitsstöðvarinnar, birgðadeild, bókhald og endurskoðun, sjúkrahús, tómstundastofnanir, verzlunarmiðstöð, skemmtistaði, flugvélaviðgerðir og hluta flugrekstrar, svo að ýmis borgaraleg störf séu nefnd.

Tímabært er að endurskoða alla þessa hluti í kjölfar athyglinnar, sem hefur beinzt að yfirtöku bandarísks skipafélags á hermangi íslenzkra skipafélaga. Heiðarleg útboð á þeim vettvangi eiga að vera eðlilegur þáttur í ofanrakinni siðvæðingu á Keflavíkurflugvelli.

Íslendingar taka mikla áhættu af því örlæti að lána vinaþjóðum sínum endurgjaldslausan aðgang að hluta lands síns. Þeirri greiðasemi á fyrir engan mun að fylgja hið minnsta afsal á lögum þeim, reglugerðum og siðvenjum, sem gilda fyrir Ísland í heild. Undanþágurnar á að afnema.

Jónas Kristjánsson.

DV

Kaffivagninn

Veitingar

Kaffivagninn er greinilega sjávarréttastaður erlendra ferðamanna í Reykjavík. Við prófun DV í miðjum júní voru þeir í miklum meirihluta meðal gesta og létu sér matinn vel líka. Þar voru einnig nokkrir erlendir kaupsýslumenn, greinilega á flótta frá dýru stöðunum til einhvers, sem þeir gætu talið “ekta”.

Rétta umhverfið

Að vísu er Kaffivagninn nokkru lakari og mun dýrari sjávarréttastaður en Potturinn og pannan og Laugaás, en hann er mun betur settur en þeir. Í fyrsta lagi er hann í næsta nágrenni gamla miðbæjarins. En í öðru og mikilvægara lagi hefur hann hið rétta umhverfi, sjálfa fiskibátahöfnina.

Út um stóra glugga Kaffivagnsins er hið fegursta útsýni í sólskini yfir mastraskóga og skæra liti smárra og stórra fiskibáta. Ryðguð skip í slipp trufla ekki stemmninguna, heldur gefa henni raunhæfan svip eiginlegrar hafnar, rétt eins og verbúðaröðin á Grandagarði.

Útlendingar eru yfirleitt hrifnari af íslenzkum sjávarréttum en öðrum íslenzkum réttum, að lambakjöti meðtöldu. Álit þeirra á íslenzkum sjávarréttum stafar einkum af því, að hráefnið er hér ferskara og betra en þeir þekkja frá stórborgunum, þar sem þeir búa.

Matreiðsla sjávarrétta er hins vegar ekki merkilegri hér á landi en annars staðar, nema í vissum undantekningartilvikum. Þau er einkum að finna hjá hinum dýrari veitingahúsum í Reykjavík og í sérvizkustað eins og á Hótel Búðum. En Kaffivagninn er ekki eitt af þessum undantekningartilvikum.

Eins og yfirleitt tíðkast hér á landi hefur Kaffivagninn tilhneigingu til að bjóða upp á ofeldaða sjávarrétti. Þeir eru svo sem góðir, en ekki eins góðir og þeir gætu verið og ekki eins góðir og þeir eru í sumum ódýrari veitingahúsum Reykjavíkur. Einnig er óþægilegt, að þeir koma í sumum tilvikum ekki nógu heitir á borð.

Kaffivagninn er einfaldur og látlaus staður, opinn og þétt skipaður tréborðum og hversdagslegum plaststólum. Á gólfi eru flísar. Í lofti eru bæði olíulugtarlegir lampar og gamallegar ljósakrónur. Á veggjum eru lampar í stíl við ljósakrónurnar og við glugga eru tjöld í stíl við borðdúkana. Fersk blóm voru á borðum, þegar staðurinn var prófaður, svo og handþurrkur úr pappír.

Einkum fiskur

Á matseðli Kaffivagnsins eru aðeins tveir kjötréttir og var aðeins annar þeirra á boðstólum við þetta tækifæri. Það var kjúklingaréttur í miklu magni af ágætri, sérrílagaðri rjómasósu með örlitlu af sveppum. Kjúklingabitarnir voru fremur þurrir, en aðallega bragðlausir. Með fylgdu brenndar og harðar franskar kartöflur, svo og einfalt og gott hrásalat.

Fyrir utan svonefnda rússneska súpu var boðið upp á rjómalagaða spínatsúpu með mildu spínatbragði, hæfilega kryddaða, ágæta súpu. Forréttirnir eru einnig tveir, soðnar úthafsrækjur og blandaðir sjávarréttir.

Rækjurnar voru bornar fram í skelinni, rauðar, stórar og fallegar, góðar á bragðið. Með fylgdi dálítið sæt og köld tómatídýfa með paprikubitum, svo og blaðsalat og ristað brauð með smjöri. Þetta var bezti matur prófunarinnar.

Blönduðu sjávarréttirnir voru þurr smálúða, meyrar rækjur og meyr kræklingur ásamt papriku, allt innbakað í ostasósu. Með fylgdu smjördeigshorn og sítrónubátur. Gæðin voru nákvæmlega í því frambærilega meðallagi, sem maður býst við í veitingahúsum borgarinnar.

Smálúðuflök í kampavínssósu voru fyllt með rjómablandaðri þorskalifrarkæfu, sem gaf réttinum skemmtilega tilbreytni. Hinir þynnri hlutar lúðuflaksins voru of þurrir. Með fylgdi töluvert af ágætum rækjum og kræklingi, svo og smjördeigshorn og sítrónubátur.

Silungur, heilsteiktur í smjöri, var hæfilega snöggt eldaður, en hins vegar of mikið saltaður og pipraður. Skorpan var vel heppnuð. Með fylgdu rækjur og sýrðar gúrkusneiðar, svo og salatskreyting og hvítar kartöflur með steinselju. Rjómasósan fannst mér í rauninni vera eggjasósa.

Soðnar laxasneiðar með bráðnu smjöri, hvítum kartöflum og sýrðum gúrkusneiðum voru heldur lakari en við má búast hér á landi. Laxinn var of lengi eldaður og einkum þó of kaldur, þegar hann kom á borð. Með honum fylgdi ristað brauð og smjör.

Sérgrein á undanhaldi

Sérgrein hússins, Fiskisúpa Kaffivagnsins, kom ekki heit á borð. Hún var full af ágætum sjávarréttum, svo sem humarhölum, stórum rækjum og smáum, kræklingi og smálúðubitum. Humarinn og úthafsrækjurnar voru í skelinni, sem í hvorugu tilvikinu höfðu verið skornar eða sagaðar til að auðvelda gestum snæðinginn.

Við slíkar aðstæður er betra að hafa súpuna tæra, svo að fingur verði ekki of sullugir, enda eru fiskisúpur oftar tærar en hitt. Þessi var hins vegar rjómuð og það mikið rjómuð. Hún var góð á bragðið, en uppfyllti ekki fyllilega vonir mínar til sérgreinarinnar. Súpan var fyrrum betri en þetta.

Þjónusta ungra stúlkna var vinsamleg og ákveðin. Strax og kaffið kom á borð, var tekið fram, að heita ábót mætti fá eftir þörfum.

Miðjuverð á tveimur súpum var 68 krónur, tveimur forréttum 150 krónur, átta fiskréttum 305 krónur, tveimur kjötréttum 320 krónur og þremur eftirréttum 92 krónur. Kaffið kostaði 30 krónur. Ekkert vín er veitt. Miðjuverð tveggja rétta máltíðar er 422 krónur, miðlungsverð á íslenzku veitingahúsi.

Í hádeginu er svo hægt að fá mötuneytismat úr heitum dunkum, tvo fiskrétti og tvo kjötrétti. Með súpu dagsins og kaffi er miðjuverð máltíðarinnar þá 190 krónur. Fyrir það fé færi ég heldur í Laugaás eða Pottinn og pönnuna í almennilegan mat.

Segja má, að á kvöldin hafi Kaffivagninn mjög risið til vegs og virðingar í heiminum, þegar þar heyrast óma ýmis tungumál frá vel stæðu ferðafólki. Og sem auglýsing fyrir íslenzka sjávarrétti handa miðlungi kröfuhörðum ferðamönnum er Kaffivagninn hin þarfasta stofnun. En hvað er orðið af sjómönnunum á kvöldin.

Jónas Kristjánsson

DV

Einokun eykst.

Greinar

Landbúnaðarmafían fullyrðir, að hækkun kjarnfóðurgjalds úr 19% í 89% sé tilraun til að draga úr offramleiðslu á mjólk. Ekki er aðgerðin þó áhrifameiri en svo, að í undirbúningi er aukin mjólkurframleiðsla á búi framleiðsluráðsmannsins á Hálsi og ráðherrans í Seglbúðum.

Hægt er að benda á mun áhrifameiri aðgerðir til að minnka mjólkurframleiðsluna. Til dæmis mætti hætta að niðurgreiða áburð með hinu fáránlega lága orkuverði til Áburðarverksmiðjunnar. Ennfremur mætti einfaldlega lækka verð til neytenda á mjólk og mjólkurvörum.

Kjarnfóðurgjald hefur hins vegar fyrst og fremst áhrif á framleiðslu eggja, kjúklinga og svína. Í þessum greinum er langmest notað af kjarnfóðri. Hin gífurlega hækkun gjaldsins mun einkum hafa þau áhrif, að egg, kjúklingar og svínakjöt hækka í verði.

Þegar landbúnaðarráðherra ákveður að stórhækka kjarnfóðurgjaldið samkvæmt tillögu Framleiðsluráðs hinna hefðbundnu greina landbúnaðarins, er hann fyrst og fremst að reyna að færa neyzlu frá kjarnfóðurgreinunum yfir í hinar hefðbundnu greinar kúa og kinda.

Um leið er stefnt að auknum tökum landbúnaðarmafíunnar á bændum í ræktun svína og alifugla. Það gerist á þann hátt, að hluta kjarnfóðurgjaldsins er skilað til baka í verkefni, sem njóta náðar mafíunnar. Við höfum þegar séð dæmið af eggjadreifingarstöðinni.

Í Kópavogi er verið að reisa stöð fyrir peninga, sem neytendur hafa í rauninni greitt, því að það eru þeir, sem að lokum borga kjarnfóðurgjaldið í hærra vöruverði. Að þessari stöð standa hinir þægari eggjabændur, sem eru þóknanlegir hinum einokunarsinnuðu.

Ætlunin er að þröngva hinum óþægari eggjabændum smám saman inn í þessa stöð. Niðurstaðan á að vera, að “jafnframt yrði undirboðum hætt”, svo sem einn blaðafulltrúa mafíunnar játaði í nýlegri lofgrein um eggjadreifingarstöðina. Fá orð hans segja langa sögu.

Einokunarlið landbúnaðarmafíunnar vill koma eggjaframleiðslu í sama ofsadýra skipulagið og ríkir í hinum hefðbundnu greinum landbúnaðarins. Það vill hindra, að stórtækir eggjabændur geti blómstrað með tækni og hagræðingu og lækkað eggjaverð í landinu.

Athyglisvert er, að á tímum, þegar frjálsræði fer vaxandi á ýmsum sviðum, er einokun að færa út kvíarnar á öðrum sviðum. Á sama ári og miklar sprungur hafa myndazt í einokun á kartöflum er verið að koma á fót einokun í eggjum, þar sem áður ríkti frelsi.

Furðulegt er, að sex ráðherrar Sjálfstæðisflokksins skuli ekki geta haldið aftur af einokunarstefnu landbúnaðarráðherra Framsóknarflokksins. Í þessum ráðherrum á þjóðin ekki nokkra vörn, þegar hagsmunir landbúnaðarmafíunnar eru í húfi. Þá blaktir einokunin.

Neytendur hafa enga pólitíska vörn í eggjastríðinu, sem einokunarliðið hefur blásið til. Hið eina, sem þeir geta gert, er að treysta á sjálfa sig. Þeir geta hafnað eggjum einokunarinnar og eingöngu keypt egg frá hinum frjálsu, sem enn hafna fjötrunum.

Alveg eins og í kartöflunum geta neytendur brotið eggjaeinokunina á bak aftur. Það mundu neytendur í útlöndum gera, ef þröngva ætti upp á þá einni dreifingarstöð með einu verði. Þeir geta neitað að skipta við einokunarstöðina, sem landbúnaðarmafían er að þröngva upp á þá.

Jónas Kristjánsson.

DV

Aronskan er útbreiddust.

Greinar

Höfundur nýbirtrar skoðanakönnunar um varnarliðið og Atlantshafsbandalagið segir drýgindalega í innganginum, að þetta sé “fyrsta fræðilega spurningarannsóknin” á íslenzkum stjórnmálaviðhorfum. Eins og svo margir telur hann sig þurfa að lasta aðra til að hrósa sjálfum sér.

Höfundurinn er þó ekki fræðilegri en svo, að hann birtir ekki mælikvarða sinn á stjórnmálaáhuga hinna spurðu, þótt hann sé með töflur um “mikinn”, “nokkurn”, “lítinn“ og “engan“ áhuga á stjórnmálum. Það sem helzt hann varast vann, varð þó að koma yfir hann.

Eigi að síður er skoðanakönnun hans afar mikilvæg, einkum af því að hún staðfestir fyrri kannanir um sama efni og gerir það með öðrum aðferðum. Þurfa menn því ekki lengur að efast um, hvernig þjóðin skiptist í afstöðunni til varnarliðsins og Atlantshafsbandalagsins.

Í könnun, sem gerð var fyrir sextán árum, 1968, kom í ljós, að 63% þjóðarinnar studdu dvöl varnarliðsins og 37% voru á móti. Árið 1980 voru hlutföllin 64% og 36%. Og í fyrra fann DV, að hlutföllin voru 64% og 36%. Í nýbirtu könnuninni eru hlutföllin einnig 64% og 36%.

Þótt margir kjósendur hafi andazt og aðrir náð kosningaaldri á þessum sextán árum, hafa viðhorfin í heild ekki breytzt. Komin er festa á það hlutfall, að tveir þriðju hlutar þjóðarinnar styðji dvöl varnarliðsins og einn þriðji hennar sé dvölinni andvígur.

Fyrir sextán árum voru 73% þjóðarinnar fylgjandi aðildinni að Atlantshafsbandalaginu. Í fyrra mældi DV þessi hlutföli 79% og 21%. Og í nýbirtu könnuninni eru hlutföllin 80% og 20%. Fjórir af hverjum fimm Íslendingum eru og hafa verið stuðningsmenn aðildarinnar.

Það eru heldur ekki nýjar fréttir, að meirihluti þjóðarinnar styðji svokallaða aronsku og vilji hagnast með einhverjum hætti á dvöl varnarliðsins. Samkvæmt nýbirtu könnuninni fer þessi hópur vaxandi frekar en hitt og telur nú um 63% þjóðarinnar á móti 29%, en 9% hafa blendna afstöðu.

Aronskan hefur stuðningsmenn meðal kjósenda allra stjórnmálaflokka og bæði meðal þeirra, sem eru með og á móti varnarliðinu og Atlantshafsbandalaginu. Hlutfallslega fjölmennastir eru þeir þó meðal þeirra, sem styðja þessar stofnanir og flokkana, sem þær styðja.

Hugsjónirnar að baki núverandi stöðu eru samkvæmt þessu ekki öflugar. Að vísu eru öflugri hugsjónir með en móti Atlantshafsbandalaginu. En hugsjónir með varnarliðinu eru ekki öflugri en þær, sem eru á móti. Hinir hugsjónadaufu eru fjölmennasti hópurinn.

Sumir styðja til dæmis dvöl varnarliðsins, þótt þeir telji hervarnir ekki nauðsynlegar hér á landi. Telja þeir þá væntanlega, að Keflavíkurflugvöllur sé eftirlitsstöð, en ekki varnarstöð og að rétt sé að veita bandalagsþjóðum slíka aðstöðu hér á landi.

Þessir menn munu telja sig raunsæja frekar en hugsjónamenn. Það gildir auðvitað einnig um þá, sem styðja aronskuna. Þeir telja, að fyrir greiðasemi Íslendinga við bandalagsþjóðirnar megi koma gjald, enda sé Keflavíkurflugvöllur frekar í þágu þeirra en okkar.

Þar sem allir stjórnmálaflokkarnir hafa barizt gegn hugmyndum af þessu tagi, er athyglisvert, að ný skoðanakönnun skuli staðfesta, að aronskan er útbreiddasta skoðunin í viðhorfum Íslendinga til varnarmála. En það eru hins vegar engar nýjar fréttir.

Jónas Kristjánsson.

DV

Matstofa NLFÍ

Veitingar

Austræn áhrif

Matstofur náttúrulækningamanna á Vesturlöndum hafa batnað mikið í kjölfar áhrifa frá austrænni matreiðslu, einkum indverskri. Á þeim slóðum hefur fólk öldum saman notað grænmeti og ávexti sem grundvallarfæðu og lítt eða alls ekki notazt við fæðu úr dýraríkinu. Það á því á þessu sviði eldri og traustari matreiðsluhefðir en Vesturlandabúar.

Slík áhrif eru að koma í ljós í Matstofu Náttúrulækningafélags Íslands á horni Laugavegs og Klapparstígs. Á kvöldin er kominn þar í notkun matseðill með ýmsum réttum, flestum austrænum. Þar má sjá kínverska Wun Tun súpu og Tofu og japanska Miso súpu. Raunar má segja, að á kvöldin sé Matstofa NLFÍ orðin austrænni en hinn hálf-vestræni Dreki handan götunnar.

Til skamms tíma var nytjastefna alls ráðandi í matstofum náttúrulækningamanna. Þá var eingöngu hugsað um næringargildi og annað slíkt, en lítil áherzla lögð á lystugt útlit matarins og bragðgæði hans eða þá á aðlaðandi umhverfi máltíðarinnar. Hvort tveggja hefur breytzt í Matstofu NLFÍ, sem þar með hefur sótt inn á hinn almenna veitingahúsamarkað.

Raunar er Matstofa NLFÍ enn sjálfsafgreiðslustaður og er þannig strangt tekið ekki innan ramma þessa greinaflokks um íslenzk veitingahús. En starfsfólk er farið að freistast til að bera aðalrétti á borð fyrir gesti. Mikilvægara er þó, að matstofan er ekki meira af sama, eins og flest nýstofnuð veitingahús eru, heldur öðruvísi staður, sem víkkar svigrúm íslenzkrar matargerðarlistar. Þess vegna er matstofan tekin með hér.

Eins og skurðstofa

Salurinn á annarri hæð hússins er kaldur og nánast skurðstofulegur, þótt innbúið sé nýtt og betra. Allt er haft í ljósu. Hvítt er loftið, veggirnir neðanverðir og viðamiklir gluggakarmarnir. Ljósbláir eru veggirnir ofanverðir. Og ljós furulitur er í gólfi og húsbúnaði.

Furuparkettið á gólfinu glansar af hreinlæti eins og raunar salurinn í heild. Við hringlaga borð úr massífri furu eru 35 nettir stólar úr sveigðum krossviði. Í gluggum eru pottablóm, en að öðru leyti er horfið fyrra blómaskrúð. Í heild er andrúmsloftið fremur heilsuverndarlegt en notalegt..

Eina frávikið frá lystugu útliti matarins í Matstofu NLFÍ reyndist vera heilhveiti-snittubrauðið, sem var bæði gamalt að sjá og á bragðið. Vonandi er þar ekki um að ræða sömu sérvizkuna og á sjúkrahúsunum, þar sem brauð er af hollustuátæðum geymt í sólarhring fyrir notkun. Ég hef alltaf talið hina raunverulegu ástæðu vera óbeit sjúkrahúsa á sjúklingum, hina sömu óbeit og lýsir sér í skjannahvítum sjúkrastofum.

Sveppasúpa Matstofu NLFÍ var ekki merkilegur matur, enda var hveitibragðið of áberandi, eins og í sumum öðrum réttum staðarins. Ef ekki er tími til að losna við hveitibragðið, er betra að hafa súpurnar tærar.

Wanton-súpa var sterk, dökkbrún súpa með hveitinúðlupokum, ágætis súpa, gott dæmi um, að matur náttúrulækningamanna getur verið eins lystugur og hver annar vel heppnaður matur.

Japanska Miso-súpan var hins vegar dauf og lítt áhugaverð súpa með baunafroðuhlaupi og ýmsu grænmeti. Hana hefði mátt krydda meira og betur.

Pottréttir í karrísósu

Bezti aðalréttur prófunarinnar var bananakarrí-pottréttur. Hann var borinn fram með karríhrísgrjónum, bakaðri kartöflu, röspuðum gulrótum, tómötum og alfa-alfa spírum á sérstökum hliðardiski. Á hinum diskinum var mikið af bananasneiðum með papriku og annars konar grænmeti í miklu magni af mildri karrísósu, sem ekki hafði alveg losnað við hveitibragðið. En þetta var eigi að síður hinn lystugasti matur.

Sveppa- og bauna-karrípottréttinum fylgdi sams konar meðlæti á hliðardiski. Sveppirnir virtust því miður vera úr dós, en baunirnar voru ágætar. Karrísósan var nokkru sterkari en hin, sem var í bananaréttinum.

Kínverska eggjarúllan var þunn og stökk og góð, með baunakássu innan í. Hliðarréttirnir voru hinir sömu, en ekki á sérstökum diski. Með rúllunni var mild og sæt tómatsósa í sérstakri skál.

Kínverskur Tofu-réttur fólst í soyabaunafroðuhlaupi á eins konar tortilla-brauðbotni með áðurnefndum grænmetis-hliðarréttum. Þetta var skemmtilegur réttur, gersamlega ólíkur því, sem fæst í öðrum veitingahúsum.

Ljómandi eftirréttir

Eftirréttir Matstofu NLFÍ ljómuðu í prófuninni, bæði bakaðir bananar með döðlum, möndlum og rjóma, svo og kiwi með eplum, vínberjum og kókosmjöli. Svo óvenjulegir eða betri eftirréttir fást ekki annars staðar í bænum.

Í hádeginu er gamla formið áfram við lýði. Þá er á boðstólum réttur dagsins á 160 krónur eða súpa á 140 krónur, hvort tveggja með aðgangi að salat- og brauðbar.

Á kvöldin er miðjuverð á súpum 90 krónur, aðalréttum 150 krónur og eftirréttum 85 krónur. Jurtate kostar 20 krónur og íslenzkt grasate 30 krónur. Súpa og aðalréttur kosta að meðatali 240 krónur. Matstofa NLFÍ er því í ódýrata flokki íslenzkra veitingahúsa, en er þó á kvöldin heldur dýrari en Laugaás, Potturinn og pannan, Veitingahöllin og Drekinn.

Matstofan er komin á rétta braut. Hún er að vísu ekki orðin að matargerðarmusteri eins og sumar slíkar erlendis, sem hafa sýnt fram á, að náttúrulækningafæða getur í bragðgæðum keppt við hvaða aðra vel matreidda fæðu sem er. En hún hefur komizt áleiðis á þessu ári.

En mér fannst þetta vera hvítt hveiti, en ekki heilhveiti. Er það samkvæmt reglunum?

Jónas Kristjánsson

DV

Skýrar línur eru beztar.

Greinar

Þrátt fyrir hin langvinnu vandamál, sem fylgt hafa álverinu í Straumsvík, er samstarfsform ríkisins og útlendinga á þeim stað mun heppilegra en önnur form, sem reynd hafa verið eða rætt hefur verið um. Bezt er, að Íslendingar eigi orkuna og hinir erlendu aðilar stóriðjuna.

Við vitum, að íslenzkir samningamenn hafa stundum farið halloka í viðskiptum við Svisslendinga. Við vitum, að hinir síðarnefndu hafa reynzt frekir til fjárins. Og við vitum ekki, hvernig nú muni ganga tilraunir okkar manna til að leiðrétta illa skekkt orkuverð.

Eigi að síður eru línurnar skýrar í þessum viðskiptum. Við sitjum öðrum megin við borðið og þeir hinum megin. Við reynum að fá sem mest fyrir orkuna og þeir reyna að borga sem minnst. Þetta er venjulegt viðskiptaform, sem við hljótum að geta lært eins og aðrir.

Ekki eru fýsilegar nýjustu hugmyndir um, að hinir erlendu aðilar gerist líka aðilar að orkunni. Þær brjóta í bága við gamlan og gróinn þjóðarvilja, sem segir, að orkan skuli sem auðlind ætíð vera í eigu Íslendinga einna. Ekkert bendir til, að álit almennings á þessu hafi breytzt.

Ástæðan fyrir þessum hugmyndum er óttinn við, að virkjun á orku fyrir stóriðju muni auka hættulega mikið skuldir okkar í útlöndum, sem séu þegar orðnar of miklar. En þessi hætta ætti raunar að kalla á önnur viðbrögð en þau, að við látum útlendinga fjármagna virkjanir.

Hinn mikli fjármagnskostnaður orkuvera og tilheyrandi skuldasöfnun í útlöndum á að kenna okkur að fara varlega í samninga um stóriðju og að semja alls ekki um orkuverð, sem ekki nægir til að standa undir vöxtum og afborgunum af nýjum orkuverum.

Ekki er nóg, að orkuverðið standi undir gömlum og hálfafskrifuðum orkuverum, sem reist voru á hagkvæmari tímum. Verðið þarf að geta staðið undir jafngildum orkuverum, sem reist eru á samningstíma orkuverðsins, hugsanlega við verri aðstæður en hin fyrri.

Alveg eins óæskileg og eignaraðild útlendinga að orkuverum er óæskileg eignaraðild íslenzka ríkisins að stóriðjunni. Reynslan frá Grundartanga sýnir, að ríkið getur illa leikið það tvöfalda hlutverk að vera bæði seljandi og kaupandi orkunnar.

Við þær aðstæður skortir hinar skýru línur, sem eru í sambúðinni við Alusuisse í Straumsvík. Enda er þegar farið að koma í ljós, að erfiðara verður að koma upp sanngjörnu orkuverði til Grundartanga en Straumsvíkur. Höfum við ekki líka dæmið af Áburðarverksmiðjunni?

Ekki er viturlegra það afbrigði stefnu eignaraðildar að stóriðju, sem felst í kröfunni um íslenzka meirihlutaeign. Slík stefna er til þess eins fallin að soga brott stórfé, sem betur ætti heima í uppbyggingu atvinnu í léttari greinum iðnaðar.

Það er staðreynd, að sérhvert atvinnutækifæri í stóriðju er margfalt dýrara og sumpart mörgum tugum sinnum dýrara en atvinnutækifæri í léttum iðnaði á borð við laxarækt og tölvugerð. Við eigum að nota okkar takmarkaða fé í léttan iðnað fremur en í stóriðju.

Við eigum að láta útlendinga um að fjármagna hin dýru atvinnutækifæri í stóriðju. Við eigum einnig að hvetja þá til þess, svo að við fáum aukinn arð af orkunni, sem nú rennur að mestu arðlaus til sjávar. En við megum ekki heldur gera fleiri mistök í samningum um orkusölu.

Jónas Kristjánsson.

DV

Skjótráður sendiherra.

Greinar

Danska sendiráðið brá hart við, þegar starfsmaður um borð í dönsku herskipi hafði í ölæði unnið spjöll á reykvískum skemmtibáti. Það fékk skaðann bættan af opinberri hálfu, þótt áhöld væru um, hvort slíkt væri skylt. Auk þess bauð sendiherra tjónþola í mat með danska forsætisráðherranum.

Með þessu framtaki hefur sendiráðið eflt álit Danmerkur hér á landi. Það hefur snúið óþægilegu máli sér og landi sínu í hag. Starfslið þess hefur sýnt, að utanríkisþjónusta getur verið annað og meira en hefðbundinn menúett prótókollstjóra, sem snúast um sjálfa sig.

Franski sendiherrann hefur ekki staðið sig eins vel í starfi og hinn danski starfsbróðir hans. Franskir einstaklingar urðu að grípa fram fyrir hendur hans og bæta ungum drengjum bolta, sem hafði villzt inn á lóð sendiherrans og hann vildi ekki skila.

Ekki var nóg með, að franski sendiherrann vildi ekki skila boltanum. Þar á ofan kvartaði hann við utanríkisráðuneytið yfir framferði drengjanna, sem misstu boltann inn á lóðina. Af öllu þessu hefur hann orðið að maklegu aðhlátursefni í fjölmiðlum.

Franska sendiráðið hefur á liðnum árum oftar en einu sinni komizt í fréttir og þá sjaldnast á jákvæðan hátt. Lögreglan hefur til dæmis þurft að hafa afskipti af drukknum sendiráðsmönnum undir stýri. Þeir hafa jafnan hlaupið í fang hinnar diplómatísku friðhelgi.

Gera má ráð fyrir, að máttugt ríki eins og Frakkland telji sér skylt að hafa sendiráð í öllum ríkjum heims, jafnvel þótt verkefni margra slíkra sendiráða séu næsta lítil. Tímanum er þá eytt í hinn hefðbundna menúett, ef eigin málstaður er ekki beinlínis skaðaður, svo sem hér hefur gerzt.

Íslenzka utanríkisþjónustan getur lært af hyldýpinu, sem er á milli framgöngu danska og franska sendiherrans hér á landi. Hún þarf að gæta þess að halda sér við efnið, en leiðast ekki út í hinn innihaldslausa menúett, sem víða er stiginn á þessum vettvangi.

Sérstaklega ber að varast að kosta miklu til að halda uppi formsatriðum í samskiptum við fjarlæg utanríkisráðuneyti. Það hefur því miður færzt í vöxt, að sendiherrar á nytsamlegum stöðum séu látnir sóa tíma og fé í viðamiklar reisur til fjarlægra staða.

Íslenzkur sendiherra varði öllum febrúarmánuði þessa árs til að afhenda embættisskilríki sín í Nýju Dehli og stíga flókinn menúett, sem slíku virðist fylgja. Þar heimsótti hann meðal annars sendiherra ýmissa erlendra ríkja og bauð þeim til sín á móti.

Þess á milli var rætt um fjarstæðukennd atriði eins og gagnkvæm skipti á ferðamönnum, indverska þátttöku í álveri á Íslandi og íslenzka þátttöku í kaupstefnu í Indlandi, norrænt hús í Nýju Dehli, auk fróðlegra skoðanaskipta um gagnsemi Cambridge-háskóla.

Íslenzka sendiherranum, öðrum sendiherrum og indverskum embættismönnum hlýtur að hafa leiðst þessi menúett, sem allir stigu af stakri skyldurækni. Ef svo eitthvað kemur fyrir Íslending í Indlandi, mun hann hér eftir sem hingað til leita ásjár danska sendiráðsins.

Fámenn þjóð verður ekki bara að gæta þess að hafa ekki neikvæða utanríkisþjónustu eins og Frakkar hafa hér á landi, heldur að forðast einnig tilgangslausan menúett í fjarlægum löndum. Hún á að vera þar, sem hagsmunir eru í húfi, og þá eins skjótráð og danski sendiherrann á Íslandi.

Jónas Kristjánsson.

DV

Stöðnun er dýr í rekstri.

Greinar

Varið er í sumar 116 milljónum króna til að leggja sjálfvirkan síma í 620 sveitabæi. Það eru um 130 þúsund krónur á hvern síma. Þetta er lítið dæmi af mörgum um hinn mikla mun, sem er á kostnaði við fjárfestingu í sveitum annars vegar og ýmiss konar þéttbýli hins vegar.

Miklar fjárhæðir eru lagðar í vegagerð, sem ekki þjónar samgöngum milli þéttbýliskjarna. Mörg dæmi eru um, að dýrar brýr hafi verið smíðaðar til að bæta samgöngur til eins eða tveggja sveitabæja. Stundum sitja brýrnar einar eftir, því að fólkið hefur flutt í kaupstað.

Margfalt dýrara er að leggja hitaveitu í strjálbýli en í þéttbýli. Hið opinbera hefur einnig á því sviði komið til skjalanna. Í ár er varið af fjárlögum 230 milljónum króna til niðurgreiðslu á rafhitun til viðbótar við olíustyrkina og aðra jöfnun hitakostnaðar.

Hið sama gildir auðvitað um rafmagnið. Þar er að vísu brúsinn ekki borgaður af ríkinu sem slíku, heldur af rafmagnsnotendum í þéttbýli. Þeir greiða verðjöfnunargjald, en slík gjöld hafa einmitt mjög verið í tízku hjá landsstjórninni á undanförnum árum.

Þegar lagðar eru saman upphæðirnar, sem felast í verðjöfnunargjöldum á notendur, liðum á fjárlögum ríkisins og eigin umframkostnaði þeirra, sem búa í strjálbýlinu, er auðvelt að skilja, hvers vegna allir þessir aðilar eru svo peningalausir, sem raun ber vitni um.

Þungbærasti herkostnaður þjóðarinnar af viðhaldi byggðar í strjálbýli felst í hinum hefðbundna landbúnaði með kýr og kindur. Ríkið styrkir hann með 1.500 milljón króna uppbótum, niðurgreiðslum og öðrum styrkjum. Þetta er nærri tíunda hver króna á fjárlögum.

Stuðningurinn við hefðbundna landbúnaðinn einn út af fyrir sig jafngildir því, að á fimm ára fresti væri reist tveggja milljón króna íbúð yfir hvern einasta bónda, til dæmis í þéttbýlinu. Er þá ótalinn eigin fjárfestingarkostnaður hefðbundinna bænda.

Af þessum tölum má sjá, að kostnaður af flutningi fólks úr strjálbýli í þéttbýli er skiptimynt ein í samanburði við kostnaðinn af viðhaldi byggðar í strjálbýli. Á örfáum árum má greiða niður slíkan herkostnað með sparnaði á kostnaði við að halda úti dreifbýli.

Það er gert í eitt skipti fyrir öll að reisa íbúð í þéttbýli, tengja hana þjónustu þéttbýlisins og útvega atvinnutækifæri í þéttbýli. Niðurgreiðslur á orku, verðjöfnunargjöld og opinberir styrkir til dreifbýlis halda hins vegar áfram ár eftir ár og fara raunar vaxandi.

Sem dæmi um hina trylltu smábyggðastefnu, sem hér er rekin, má nefna, að Orkustofnun hefur eytt peningum til að reikna út, að það kosti 1.200 milljónir króna að bora 65 kílómetra vegagöng í fjöll. Framkvæmdastjóri byggðamála telur slíka iðju vel koma til greina.

Smábyggðastefnan er krabbamein í þjóðfélaginu. Hún kemur í veg fyrir, að þjóðin geti brotizt til álna og velmegunar. Hún kemur í veg fyrir þá röskun, sein er nauðsynleg hverju þjóðfélagi, er vill verða þátttakandi í framtíðinni. Hún ber dauðann í sér.

Íslenzkt þjóðfélag varð til fyrir röskun í öðrum löndum. Gott gengi okkar á fyrstu sjö áratugum þessarar aldar stafar af röskun, fólk flutti úr strjálbýli í þéttbýli. Eftir búsetustöðnun áttunda áratugarins er nauðsynlegt að horfa til framtíðarinnar á nýjan leik.

Jónas Kristjánsson.

DV

Ekki afskrifa ríkisstjórnina.

Greinar

Sagt hefur verið bæði í gamni og alvöru, að hið eina, sem stjórnarflokkarnir hafi getað og muni geta komið sér saman um, sé að skerða kjör almennings. Það hafi þeim tekizt snemma í þessu stjórnarsamstarfi og ríkisstjórnin sé nú verklaus. Hún geti eins pakkað saman og farið.

Upp á síðkastið hefur fjölgað spám um, að ríkisstjórnin sé feig. Ýmsir frammámenn í Sjálfstæðisflokknum hafa haldið á lofti efasemdum um, að svo íhaldssamur flokkur sem Framsóknarflokkurinn geti staðið að opnun hagkerfisins og öðrum framfaramálum af slíku tagi.

Þessar kvartanir hafa svo eflt þá trú margra framsóknarmanna, að lítið sé á sjálfstæðismenn að treysta í stjórnarsamstarfi. Þeir muni hlaupa út undan sér af minnsta tilefni. Þess vegna sé eins gott að búa sig undir breytt stjórnarmynztur eða nýjar kosningar.

Hugleiðingar af þessu tagi víkja hjá þeirri staðreynd, að ríkisstjórnin siglir tiltölulega sléttan sjó um þessar mundir og að haustblikurnar eru ekki eins uggvænlegar og sumir vilja vera láta. Þótt fylgi ríkisstjórnarinnar hafi minnkað, er hún enn í öflugum meirihluta.

Þjóðin hafði í vetur skilning á, að kjaraskerðing væri nauðsynleg. Hún viðurkenndi í raun, að hún hafði árum saman og í vaxandi mæli lifað um efni fram. Þess vegna tókst ríkisstjórninni að skerða lífskjörin án þess að spilla vinnufriði í landinu.

Eftir veturinn sér fólk ýmsar jákvæðar hliðar á kjaraskerðingunni. Það var orðið þreytt á óðaverðbólgunni og fagnar hinu tiltölulega stöðuga ástandi, sem nú ríkir. Það tekur líka eftir, að full atvinna hefur haldizt í landinu, einmitt vegna kjaraskerðingarinnar.

Og nú eru kröfur samtaka launafólks ekki þess eðlis, að spá þurfi harkalegu uppgjöri í haust. Kröfurnar felast í stórum dráttum í, að fólk vill vernda þau skertu kjör, sem samið var um í vetur. Það vill einfaldlega, að ekki sé haldið áfram að skerða lífskjörin.

Að baki liggur sú staðreynd, að þjóðin er að þessu sinni þolinmóð. Hún vill gefa ríkisstjórninni tækifæri til að hafa lengri tíma til að nýta lífskjaraskerðinguna til þeirrar sóknar í efnahagsmálum, er dugi til að leggja grundvöll að endurbættum lífskjörum.

Þjóðin veit vel, að Japanir og sumir aðrir hafa byggt sig upp efnahagslega með því að hafa lífskjörin fyrst lág til að efla samkeppnisaðstöðuna. Síðan hafa þeir notað efnahagssóknina til að búa til traustan grunn að hraðbatnandi lífskjörum í landinu.

Flestir aðrir en öfundsjúkir alþýðubandalagsmenn átta sig á, að gott er, að fyrirtækin græði, svo að þau geti eflzt að tækni og hagkvæmni og fært út kvíarnar. Það er einmitt vegna þessa, að nú helzt full atvinna í landinu og að mikil gróska er á ýmsum sviðum.

Hitt er svo laukrétt, að ríkisstjórnin hefur lítið gert til að flýta fyrir endurreisninni. Hún heldur dauðahaldi í hinn hefðbundna landbúnað. Henni hefur ekki tekizt að fækka fiskiskipum til að endurreisa arðsemi sjávarútvegsins. Hún á lítið fé aflögu til stuðnings hinu nýja.

Meðan ríkisstjórnin hjakkar þannig í sama farinu, sjást merki þess, að fólk vill framlengja friðinn, sem hún hefur til að nýta þegar gerða hluti til uppbyggingar. Ríkisstjórnin getur, ef hún vill, þegið þennan frið og komið sér saman um eitthvað fleira en að skerða lífskjörin.

Jónas Kristjánsson.

DV

Hallargarðurinn

Veitingar

Úti í eyðimörkinni

Inni af hinni mjög svo ódýru Veitingahöll í Húsi verzlunarinnar er hægt að ganga inn í hinn fínni Hallargarð. Þar í gættinni verður snögg hækkun á matarverði og nokkru minni bati á matargæðum. Mismunurinn gæti stafað af, að erfitt er að magna gæði, þegar deila þarf eldhúsi með ódýrum stað.

Enda hefur Hallargarðurinn ekki enn slegið í gegn í hinni hörðu samkeppni veitingahúsa á fínni kantinum. Þar er oftast fámennt. En það kann að lagast, þegar miðbærinn í Kringlumýri byggist upp. Enn er staðurinn eins og úti í eyðimörkinni. Hann er góður fyrir þá, sem sækjast eftir friði og ró, auk þess sem maturinn er í mörgum tilvikum ágætur.

Í grundvallaratriðum er sama innrétting í Hallargarðinum og í Veitingahöllinni. Hún fer hins vegar miklu betur í Hallargarðinum. Hinn harði og hreini stíll mildast af gulleitum hörgluggatjöldum, borðdúkum og munnþurrkum, svo og lifandi blómum á borðum. Hérna megin gáttar gengur stíldæmið upp og býr til notalegt andrúmsloft.

Helgi Hjálmarsson arkitekt hefur teiknað staðinn og klætt hann í mildilega leirbrúnt teppi og mildilega leirbrúnt áklæði á þægilegum nútímastólum við nútímaborð; lárétta og ljósa viðarklæðingu á neðanverðum veggjum; hinar mjög svo stóru og áberandi glerkúlu-ljósakrónur og loks spegla-skúlptúr eftir Leif Breiðfjörð. Allt er þetta fyrsta flokks.

Þjónusta í Hallargarðinum var góð í tvö skipti af þremur. Í einu tilvikinu vissi þjónninn lítið og ætlaði aldrei að ná niður pöntuninni. Í öðru tilvikinu vissi þjónninn nákvæmlega, hver hafði pantað hvaða rétt, eins og raunar ætti að vera reglan í öllum dýrum veitingahúsum. Í þriðja tilvikinu náði þjónninn ekki þessu atriði, en stóð sig að öðru leyti vel.

Sjávarréttir á fimmtudögum

Í hádeginu er boðið upp á súpu og þrjá rétti dagsins. Á fimmtudagskvöldin er sérstakur sjávarréttaseðill. Að öðru leyti gildir fastur matseðill, sem leggur meiri áherzlu á sjávarrétti en kjötrétti. Sjávarréttaseðillinn er á svipuðu verði og fasti seðillinn, en hins vegar er hádegisseðillinn töluvert ódýrari.

Seljurótarstönglasúpa dagsins kom mjög heit á borð. Stönglarnir voru ekki ofsoðnir og súpan sjálf var hressandi. Þetta var góð súpa. með henni og öðrum súpum fylgdi kalt osta-snittubrauð.

Fiskisúpa verzlunarmannsins á fasta- og fiskiseðli var hin bezta súpa, tær, en fullmikið pipruð. Í henni voru úthafsrækjur, silungur, hörpufiskur, dósasveppir, steinselja, gúrkubitar, en mest þó af fyrirtaksgóðum skötusel.

Rjómalöguð skelfiskasúpa var líka góð. Hún var einföld, fólst í brúnu humarsoði með rækjum og hörpufiski.

Aða dagsins var bökuð með steinseljusmjöri í skel. Fiskurinn var meyr og góður, en vöðvinn seigur og grófur. Betra hefði verið að skilja hann frá. Aða er mun stærri en kræklingur og þeim mun meiri matur, þótt vöðvanum sé sleppt. Annars er aða sjaldgæf á borðum, því að hún liggur dýpra en kræklingur og næst því ekki úr landi á fjöru. Hún er því skemmtileg tilbreyting.

Grafin ýsa á sjávarréttaseðli var örlítið of sölt, en að öðru leyti í fínasta lagi. Hún var borin fram með köldum spergli, gúrku, ristuðu brauði með smjöri og hversdagslegri sinnepseggjasósu, blandaðri sólselju.

Pönnusteikt smálúðuflök dagsins með lauki og dósasveppum, svo og hvítum kartöflum, sítrónu og tómati, en án hrásalats, voru góð, hæfilega elduð og vel heit.

Saffrankryddaður skötuselur af fastaseðli var dálítið þurr, en þó ekki til skaða, og minnti raunar á humar. með honum var laukur, dósasveppir, hrísgrjónakrókettur og gífurlega rjómuð, mild humarsósa, en ekki hrásalat.

Nautahryggsneiðar “tíu plús tíu” á sjávarréttaseðlinum (!) voru þrjár þunnar, snarpheitar sneiðar, hæfilega eldaðar í tíu sekúndur á hvora hlið, úr góðu hráefni og báru með sér þægilegan vott af grillbragði. Með þeim var brokkál, bökuð kartafla og fín, grænmetisblönduð sveppasósa, svo og hrásalat.

Góður lax og slakur lax

Tilboð dagsins var soðinn Hvítárlax með soðnum kartöflum, tómati, sítrónu og sýrðum gúrkum. Beðið var um hann sérlega vægt eldaðan, en hann kom eigi að síður allt of þurr á borð. Ég á betri minningar um “laxafiðrildi” af fastaseðlinum, sem ég hafði áður fengið og þá nægilega fínlega eldað til að haldast meyrt og ljúft.

Eftirréttir Hallargarðsins virtust samkvæmt matseðlum ekki vera sérlega spennandi, svo að þeir voru ekki prófaðir. Ís og skyr getum við borðað heima.

Miðjuverð súpa af fastaseðli er 138 krónur, forrétta 172 krónur, fiskrétta 365 krónur, kjötrétta 440 krónur og eftirrétta 120 krónur. Kaffi er á 45 krónur. Þriggja rétta máltíð af fastaseðli með hálfflösku af víni á mann og kaffi ætti að kosta 852 krónur. Svipað kemur út úr fiskréttaseðlinum.

Í hádeginu hins vegar ætti súpa og miðrétturinn af þremur réttum dagsins að kosta 235 krónur. Það eru raunar beztu kaupin í Hallargarðinum. Í prófuninni var það seljurótarstönglasúpan og pönnusteiktur smálúðuflökin, sem lýst var hér að ofan.

Jónas Kristjánsson

“Miðjuverð”

P.S. Komið hefur í ljós á prenti, að fyrrverandi veitingamaður Kvosarinnar skilur ekki hugtakið “miðjuverð”. Það er afsakanlegt. Öðrum til fróðleiks skal tekið fram, að þetta er sama stærðfræðihugtak og heitir “median” á ensku. Þar sem ofanritaður hefur gott próf í þeim fræðum, er fyrrverandi veitingamanni Kvosarinnar alveg óhætt að treysta því, að verð eru rétt reiknuð í þáttum þessum og að hans lélega veitingahús var hið dýrasta hér á landi, hvað sem gerist undir nýrri stjórn.

-En fyrir hann gæti verið fróðlegt að vita, að púrtvínssveppir eru ekki búnir til úr púrtvíni, frekar en að brennivínshákarl er búinn til úr brennivíni og hundamatur búinn til úr hundum.

Jónas Kristjánsson

DV

Vinnufriður í haust

Greinar

Sé grannt skoðað, er ekki víst, að til átaka þurfi að koma á vinnumarkaði í haust vegna fyrirhugaðra uppsagna á kjarasamningum 1. september. Í rauninni hefur sjaldan verið eins lítið bil milli launafólks og atvinnurekenda og í þeim tölum, sem flaggað er að þessu sinni.

Ýmis samtök launafólks hafa lýst yfir, að áður umsamin 3% launahækkun 1. september muni ekki nægja til að halda þeim kaupmætti, sem var á síðasta ársfjórðungi síðasta árs. En það var einmitt andi febrúarsamninga þessa árs, að þeir ættu að varðveita þann kaupmátt.

Framkvæmdastjórn Verkamannasambandsins hefur nefnt, að 5-6% hækkun þurfi í stað 3% til að varðveita kaupmáttinn. Formannafundur Verkamannasambandsins telur hins vegar, að meira þurfi, eða 8%. Varaforseti Alþýðusambandsins hefur farið bil beggja og nefnt töluna 7%.

Ekki eru allir sammála þessum tölum annars hagsmunaaðilans. Í Þjóðhagsstofnun er því haldið fram, að kaupmáttur sé nú hinn sami og var á síðasta ársfjórðungi síðasta árs. Ennfremur, að ekkert bendi til, að kaupmátturinn muni rýrna á næstunni, svo mælanlegt sé.

Ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu, að málsaðilar kanni sameiginlega, hvort óbreyttum kaupmætti sé haldið í haust með áður umsaminni 3% hækkun eða með 7% hækkun eða einhverri tölu þar á milli. Þegar svo lítið ber í milli í upphafi, ætti að vera unnt að finna lausnina.

Samtök launafólks hafa einnig sett fram kröfur um, að lögbundin lágmarkslaun í þjóðfélaginu verði hækkuð úr 13.000 krónum í 14.000 krónur. Auðvelt er að rökstyðja þessa kröfu með því, að ekki sé hægt að ætlast til, að fólk lifi af 13.000 króna mánaðarlaunum.

Á móti þessum kröfum samtaka launafólks hafa atvinnurekendur teflt fram kostnaði af launaskriði, sem orðið hafi í vetur. Launaskriðið felst í, að mikilvægir starfsmenn í fyrirtækjum fá auknar yfirborganir umfram kjarasamninga, þegar almenn kjaraskerðing verður í þjóðfélaginu.

Til dæmis hafa verið sýndar tölur, sem benda til, að stjórnendum fyrirtækja hafi ekki aðeins verið bætt upp kjararýrnun vetrarins, heldur mikill hluti og jafnvel öll kjararýrnun undanfarinna ára. Hið sama mun vafalaust gilda um aðra starfsmenn, sem fyrirtækin vilja ekki missa.

Gallinn við þessa röksemdafærslu er, að það er fyrirtækjunum í sjálfsvald sett, hvort þau telja sig hafa efni á auknum yfirgreiðslum af þessu tagi. Markmið kjarasamninga er hins vegar fremur fólgið í að vernda hagsmuni hinna, sem mega sín miður en þessir lykilmenn.

Mjög erfitt er að verja, að samdráttur þjóðartekna eigi óbeint að leiða til aukins lífskjaramunar í þjóðfélaginu, af því að þeir haldi sínu, er betur mega sín. Þótt Þjóðhagsstofnun meti launaskrið ársins á 4% kjarabót, verður lítt hægt að halda slíku fram í samningum.

Sterkari er sú röksemd forsætisráðherra, að þjóðartekjur hafi haldið áfram að minnka og séu nú 1-2% minni en þær voru, þegar samið var í vetur. Þess vegna er eðlilegt, að þjóðin sætti sig við 1-2% lakari lífskjör en samið var um í samningunum í febrúar í vetur.

Þegar litið er á hinar lágu tölur, sem raunverulega felast í ágreiningi þeirra, sem um málið deila, verður ekki betur séð en að samkomulag eigi að geta náðst, án þess að vinnufriði sé spillt í haust. Málið snýst mest um, hvort taka eigi tillit til 1-2% rýrnunar þjóðartekna.

Jónas Kristjánsson

DV

Smáþjóðir vísa okkur veginn.

Greinar

Luxemborgarar settu í ár lög, sem eiga að gera landið að hliðstæðum griðastað erlendra tryggingafélaga og það hefur verið fyrir banka. Meðal annars eru í lögunum afskriftareglur, sem fela í sér freistandi skattfríðindi. Þannig soga þeir erlend fyrirtæki inn í landið.

Árið 1981 hertu Luxemborgarar bankalög sín, svo að þau eru enn strangari en í Sviss. Liggja nú harðar refsingar við brotum á trúnaði bankamanna við sparifjáreigendur, jafnvel þótt hinir síðarnefndu séu grunaðir um skattgreiðslutregðu í heimalöndum sínum.

Í bankalögum Luxemborgara eru líka ákvæði um skattfrelsi erlendra innstæðna. Með bankaleyndinni og skattfrelsinu hefur þeim tekizt að fá stofnuð í landinu útibú erlendra banka og erlent fjármagn á reikninga í þessum bönkum. Hið sama hyggjast þeir nú gera í tryggingum.

Dæmi Luxemborgara sýnir, að smáþjóðir geta haft drjúgar tekjur af starfsemi, sem stórþjóðir ráða af ýmsum ástæðum síður við. Þeir hafa fetað í fótspor annarrar smáþjóðar, Svisslendinga, sem hafa öldum saman verið eitt öflugasta fjármálavirki heimsins.

Slíka hluti er einnig hægt að gera hér á landi, þótt auðvitað muni taka langan tíma að byggja þá upp. Jón Sólnes, fyrrum alþingismaður, stakk á sínum tíma upp á, að Ísland yrði gert að eins konar fríhöfn fyrir erlenda peninga. Framsýni hans fékk lítinn hljómgrunn.

Erfiðast í þessum efnum er að vinna traust sparifjáreigenda í útlöndum. Það hefur Luxemborgurum tekizt. Bankaleynd þeirra hefur ekki verið rofin. Hér er hins vegar alltaf hætta á, að öfundsjúkir alþýðubandalagsmenn spilli sniðugum lögum, þegar þeir komast til valda.

Fleira geta smáþjóðir gert en að búa til fríhöfn handa erlendum peningum. Þær geta til dæmis komið á fót fríhöfn fyrir erlendar vörur og erlendan iðnað, eins og Írar hafa gert með góðum árangri. Hér á landi hafa komið upp hugmyndir um að gera Keflavíkursvæðið að slíkri fríhöfn.

Tollvörugeymslur og ýmis léttur iðnaður á fríhafnarsvæði við flugvöllinn í Keflavík og landshöfnina í Njarðvík yrði án efa lyftistöng íslenzkum fjárhag og efnahagsmálum. En því miður ríkir hér áhugaleysi á hægri kanti og tortryggni og fjandsemi á vinstri kanti.

Ekki má gleyma frímerkjunum, þegar rætt er um lífsbaráttu smáþjóða. San Marino og Monaco eru dæmi um ríki, sem hafa drjúgar tekjur af útsjónarsemi í útgáfu frímerkja. Hér á landi hafa menn aldrei haft vit á að kynna sér frímerkjastefnu þessara ríkja og læra af henni.

Liechtenstein er smáríki, sem hefur miklar tekjur af skattfríðindum fyrirtækja. Þótt allur rekstur þeirra sé í öðrum löndum, sækjast þau eftir því að koma höfuðstöðvum sínum fyrir í Liechtenstein eða að minnsta kosti svo sem einum póstkassa. Allt gefur þetta tekjur.

Í upphafi þessa leiðara var fjallað um lagni Luxemborgara í alþjóðlegum fjármálum. Ekki má heldur gleyma, að þeir eru orðnir stórveldi í fjölmiðlun. Útvarps- og sjónvarpsstöðin Radio Luxembourg er hin vinsælasta í allri Evrópu og rakar saman tekjum af auglýsingum.

Þegar fiskinum sleppir, höldum við hins vegar, að lífið sé refur og lax, lífefni og rafeindir. En það er svo ótalmargt fleira hægt að gera til að breyta láglaunaþjóð í auðþjóð. Við þurfum ekki annað en að læra af öðrum smáþjóðum, sem lifa góðu lífi af margvíslegri útsjónarsemi.

Jónas Kristjánsson.

DV