Author Archive

Notodirdjo er óvelkominn.

Greinar

Sendiherra lndónesíu á Íslandi, með aðsetri í Osló, heldur á mánudaginn hanastélsboð í Reykjavík fyrir vini og aðdáendur eins mesta fjöldamorðingja og rummungsþjófs, sem uppi er um þessar mundir. Sá er Suharto hershöfðingi og forseti og er fátt um hann prenthæft að segja.

lndónesía er land auðugt að olíu, málmum og timbri. Þar ætti að vera hægt að bæta lífskjör fólks eins og gerzt hefur í sumum nágrannalandanna. Hin fátæka þjóð þarf hins vegar að sæta sérlega grófri fjárpyndingu Suhartos, ættingja hans og nánustu klíkubræðra í hernum.

Í fáum löndum heims eru mútur eins veigamikill liður í aðgangseyri erlendra fyrirtækja. Einkum er það áberandi í olíunni. Um þetta er skrifað fullum fetum á prenti hér á Vesturlöndum. Ljóst er, að undan hefur verið komið fjárhæðum, sem eru hærri en við fáum skynjað.

Á móti þessu mútufé þarf gengi Suhartos að gera óhagstæða samninga fyrir hönd lndónesíu. Þannig tvöfaldast tjónið, sem hin fátæka þjóð verður fyrir af völdum hins umboðslausa hóps valdhafa, er brauzt til valda í heimsfrægu blóðbaði fyrir tæplega tveimur áratugum.

Talið er, að Suharto og félagar hafi slátrað um 300.000 manns í kringum valdatökuna. Það er meiri fjöldi en allir Íslendingar. Tugir þúsunda urðu að hírast við illa aðbúð í fangabúðum, flestir í tíu ár eða lengur. Af þeim hafa rúmlega 30.000 verið leystir úr haldi.

Allur þorri þessara manna fær ekki vinnu, annaðhvort af því að pólitiskrar fangavistar þeirra er getið í nafnskírteinum þeirra eða af því að þeir hafa ekki fengið nafnskírteini. sumir þeirra hírast í útlegð á fjarlægum eyjum án sambands við ættingja sína.

Allt eru þetta þó smámunir í samanburði við þjóðarmorðið mikla á eyjunni Timor. Herlið Suhartos gerði innrás á austurhluta eyjarinnar fyrir níu árum og hefur síðan komið fyrir kattarnef 200.000 af 600.000 íbúum hennar. Þetta er eitt mesta þjóðarmorð síðustu áratuga.

Um leið hafa menning og þjóðhættir eyjarskeggja verið lögð í rúst. Frásagnir sjónarvotta að atburðum þessum eru ekki prenthæfar, svo ógeðslegar eru þær. En niðurstaða þeirra má vera öllum ljós, þar á meðal hanastélsliði Notodirdjos, sendiherra Suhartos.

Ríkisstjórn Reagans Bandaríkjaforseta hefur sætt réttmætu ámæli fyrir stuðning við ýmsa stórglæpamenn á valdastóli, bara ef þeir eru hægri sinnaðir. Þess vegna er athyglisvert, að Shultz, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur hvað eftir annað kvartað við Suharto.

Nú síðast afhenti utanríkisráðherrann mótmælabréf frá 123 bandarískum þingmönnum. Jóhannes Páll páfi hefur einnig nýlega gagnrýnt Suharto fyrir að standa þversum í vegi fyrir alþjóðlegu hjálparstarfi á Timor. Glæpalýður Suhartos tekur ekki mark á neinu af þessu.

Á alþjóðavettvangi er stjórn Suhartos í fremstu röð þeirra ríkja, sem eru að breyta Unesco, Menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna, í svínastíu. Þeir beita stofnuninni til að reyna að hindra vestræna fjölmiðla í að afla frétta af óhugnaðinum hjá valdhöfum eins og Suharto.

Notodirdjo, sendiherra Suhartos, er ekki velkominn hér á landi. Hann er fulltrúi eins mesta rummungsþjófs og fjöldamorðingja nútímans. Enginn ætti að koma nálægt honum. Samt skulum við vona, að brennivínið standi ekki í stuðningsliði Suhartos á Íslandi.

Jónas Kristjánsson

DV

Sjávarsíðan

Veitingar

Kominn er nýr matstaður, sem er ekki bara meira af sama, heldur raunveruleg viðbót við íslenzka veitingamennsku. Það er Sjávarsíðan við Tryggvagötu, eitt af allra beztu veitingahúsum landsins. Þar andar ferskur blær, sem minnir í sumu á Arnarhól, bezta veitingastað landsins.

Ungt fólk rekur Sjávarsíðuna og hefur ungt fólk að viðskiptavinum. Af dýru stöðunum í Reykjavík er gestaliðið yngst við Sjávarsíðuna, klæðnaður frjálslegri en á hinum og börnin fá að vera með. Og eftir hverju er þetta fólk að sækjast?

Aðstandendur Sjávarsíðunnar hafa einhvers staðar sagt á prenti, að þeir væru á nýju, frönsku línunni í matargerð. Það er töluvert of mikið sagt. Og vissulega er Arnarhóll nokkru nær þeirri línu en Sjávarsíðan er. En nýi staðurinn hefur þó lagt meiri áherzlu en aðrir á vissa þætti nýju línunnar.

Snöggsoðið grænmeti

Eitt hið athyglisverðasta í matreiðslu Sjávarsíðunnar er, að soðið grænmeti er ekki ofsoðið, hvað þá mauksoðið, heldur snöggsoðið, svo að það heldur enn bragði og efnum og er enn fast undir tönn. Og auðvitað er ekki neitt af því úr dósum, heldur ferskt.

Sama hugsun kemur einnig fram í eldun fisks, að vísu þó með undantekningum. Reynt er að elda fiskinn ferskan, en ekki frosinn, hæfilega lengi, svo að hann hætti að vera hrár, en ekki svo lengi, að hann verði þurr og bragðlaus. Þessar stuttu og nákvæmu tímasetningar eru einmitt eitt mikilvægu atriðanna í “nouvelle cuisine”, hinni nýju, frönsku línu.

Ég vil leggja áherzlu á, að franska línan er ekki einhver sérvizka. Hún er bylting, sem hófst í Frakklandi um 1970 og er orðin allsráðandi þar í landi. Hún hefur dreifzt um allan heim og er til dæmis komin til Norður-Ítalíu og Vestur-Þýzkalands. Og vafalaust mun hún áfram breiðast út eins og eldur í sinu, af því að hún er matargerðarlist nútímans.

Hin sérgrein Sjávarsíðunnar felst í óvenjumiklu farmboði grænmetisrétta, sem falla yfirleitt betur í geð ungu fólki en öldnu. Á matseðlinum eru grænmetissúpa, grænmetiskæfa, heitur grænmetisréttur og tvenns konar hrásalatdiskar, fyrir utan hrásalatið, sem fylgir aðalréttum. Þessir réttir eru fyrir nútímafólk, sem hugsar meira um hollustu en áður var gert, þegar menn úðuðu í sig sem mestri fitu.

Matsatriði er, hvort telja eigi áherzluna á sjávarrétti til sérgreina Sjávarsíðunnar, þar sem nokkrir aðrir staðir í Reykjavík eru á sömu miðum. Fiskréttalistinn er næstum helmingi lengri en kjötréttalistinn. Einnig þetta atriði má telja til nýju, frönsku línunnar, því að það var hún, sem uppgötvaði fisk og kom honum efst á blað beztu veitingahúsa heimsins, Íslendingum til nokkurs hagnaðar.

Smekklega innréttuð

Sjávarsíðan er óvenju fallega innréttuð, búin nýtízkulegum húsbúnaði. Mest áberandi eru hinir skemmtilegu, bakháu stál- og tágastólar. Á innvegg eru víðáttumiklir speglar, sem stækka staðinn. Þar inni og úti við glugga er mikið af plöntum. Á gólfinu er gljáandi marmari.

Sama smekkvísi birtist í klæðnaði þjóna, síðum, hvítum svuntum og stuttum, svörtum leðursvuntum þar yfir. Sjálf þjónustan er vinsamleg og þægileg, en dálítið óörugg á köflum, svo sem verða vill á nýjum stöðum. Í hróplegu ósamræmi við stílinn eru svo pappírs-munnþurkurnar, sem fljótt verða tætingslegar og gefa borðum ruslarabrag.

Frönsk hugarsúpa með saffran var ljúf, með vænum og ekki seigum humarhölum. Súpa “úr græna garðinum” var tær og góð súpa með réttilega hálfsoðnu grænmeti. Heilhveitibrauðið með smjöri var ekki nýtt.

Gufusoðin smálúða með dillsósu; heilsteikt rauðspretta með kræklingasmjöri; pönnusteiktur karfi með möndlum og rúsínum í koníakssósu – voru þrír fiskréttir dagsins í hádeginu. Rauðsprettan var bezt, enda nákvæmast og minnst elduð, en karfinn var líka mjög góður. Lúðan var hins vegar eins og gengur og gerist.

Risastór kræklingur

Þessir fiskréttir og aðrir voru bornir fram með risastórum og alveg sérstaklega ljúfum kræklingi í skelinni. Hann var út af fyrir sig heimsóknar virði, enda sóttur af kafara út á Faxaflóa. Sósurnar, sem fylgdu fiskréttunum, voru léttar og ljúfar í stíl nýju matreiðslunnar.

Grænmetisréttirnir voru allir góðir og ekki staðlaðir. Heiti grænmetisrétturinn, sem einn viðskiptamanna pantaði, var einnig góður og sama var að segja um tvo diska af árstíðarsalati. Þeir voru hvor með sínum hætti.

Laxakæfa með jurtasósu var fremur bragðdauf og sósan var með of miklu skyrbragði. Hvítvínsristaðir sniglar með grænum kryddjurtum voru góðir, bornir fram á brauði, smurðu steinseljusmjöri. Ristaðir humarhalar með steinsteljusmjöri voru frábærir, meyrir og ljúfir og sem betur fer með bráðna smjörinu bornu fram sér.

Soðinn lax “með hefðbundnum hætti” hefur ef til vill verið bókstaflega meintur, því að hann var ofsoðinn, þurr og vondur, jafnvel verri en gengur og gerist á matstöðum. Mér fannst eins og hann hefði farið úr frysti og beint í örbylgjuofn og gleymst þar. Kryddsteiktur smokkfiskur með olífusósu var hins vegar ágætur matur, þótt ekki væri hann eins góður og í Arnarhóli. Einnig skyggði á hann eins og suma aðra rétti hússins, að diskar voru fullir af bráðnu smjöri.

Frábærar nautalundir

Koníakslegnar nautalundir með villisveppum reyndust vera frábær matur, meyrar, bragðmiklar og rauðar, meðal annars bornar fram með ferskum bláberjum. Með þeim fylgdi sama staðlaða hrásalatið og öðrum aðalréttum, blómkál, tómatur, gúrka og blaðsalat, undir þaki kotasælu og sýrðs rjóma.

Heimalagaður ís með jarðarberjasósu var ágætur hnetuís; súkkulaðibolli með hnetum, rúsínum og rjóma var ágætur, en með of þéttri froðu; og appelsínu-sítrónu-kraumís var ljómandi léttur og góður eftirréttur, borinn fram með kiwi.

Miðjuverð á súpum er 125 krónur, forréttum 162 krónur, fiskréttum 320 krónur, kjötréttum 635 krónur og eftirréttum 145 krónur. Þriggja rétta veizla með kaffi og hálfri vínflösku á mann ætti að geta kostað um 935 krónur, örlitlu minna en í Arnarhóli, Grilli og Holti, en mun meira en á miðlungsverðsstöðunum. Súpa og einn þriggja fiskrétta hádegisins ætti að kosta 320 krónur.

Jónas Kristjánsson

DV

Gætum okkar á gæludýrum.

Greinar

Tvær af gæluverksmiðjum hins opinbera eru nú í byggingu, steinullarverið á Sauðárkróki og stálverið á Vatnsleysuströnd. Samt linnir ekki deilum um gildi þessara verksmiðja. Í nýlegum blaðagreinum tveggja af helztu starfsmönnum Verzlunarráðs eru þær taldar varhugaverðar.

Stálverið hefur oftast ekki verið talið með í hópi hinna vafasömu ráðagerða í iðnþróun, enda aldrei hugsað sem atvinnubótatæki fyrir ákveðinn þéttbýlisstað eins og steinullarverið, sykurverið, pappírsverið, trjákvoðuverið og öll hin verin, sem menn hafa látið sér detta í hug.

Hagur stálversins þótti vænkast í fyrra, þegar það komst yfir notaða, sænska verksmiðju. Var þá talið, að stofnkostnaðurinn á Vatnsleysuströnd yrði ekki nema þriðjungur af upprunalegri áætlun. Þar með ætti arðsemin að verða mun meiri en ráð var fyrir gert.

Aftur á móti hefur danskt ráðgjafarfyrirtæki Iðnþróunarsjóðs úrskurðað stálverið óarðbært. Og ótrúverðugar eru fullyrðingar um, að danska fyrirtækið hafi hagsmuna að gæta.Þar að auki hefur verið sagt í sænska blaðinu Dagens lndustri, að Svíar hafi verið heppnir að losna við dótið hingað.

Mesti vandi innlendrar framleiðslu á steypustyrktarstáli er, að offramleiðsla er á því í nágrannalöndum okkar. Við slíkar aðstæður er yfirleitt hægt að fá innflutt stál á lægra verði en gildir í heimalandinu. Þetta er kallað undirboð, en er þó í þágu húsbyggjenda.

Þetta er ekki bara mál aðstandenda stálversins, sem aðeins hefur tekizt að safna broti af áætluðu hlutafé á almennum markaði. Ríkið hefur svo veitt verinu 45 milljónir í ríkisábyrgð og óbeint skyldað Framkvæmdasjóð ríkisins til að gerast hluthafi upp á 9 milljónir.

Við slíkar aðstæður er ástæða til að óttast, að ríkið verði síðar móttækilegt fyrir hugsanlegum klögumálum stálversins út af svokölluðum erlendum undirboðum og beiðnum þess um einhvers konar innflutningshöft á kostnað húsbyggjenda eða aðrar ívilnanir á kostnað skattgreiðenda.

Ef stálverið er slíkt áhyggjuefni, þá er steinullarverið margfalt stærra. Þar er á ferðinni byggðastefnuver, sem á að taka 60 atvinnutækifæri í plasteinangrun víðs vegar af landinu og breyta í 60 atvinnutækifæri í steinull á Sauðárkróki. Eins brauð verður annars dauði.

Ríkið leggur þar sjálft til 40% hlutafjárins og ábyrgist 25% af stofnlánum þess, auk þess sem það hyggst skylda taprekstrarfyrirtækið Ríkisskip til að flytja steinullina á einum fjórða hluta flutningsgjalda. Mun ríkið við slíkar aðstæður leyfa fyrirtækinu að rúlla?

Innflutningur á steinull fer ört minnkandi, enda fylgir henni viðurkennd hætta á lungnakrabba, kláða, útbrotum og hvarmabólgum. Í fyrra nam innflutningurinn tæpum 1.500 tonnum. Verksmiðjunni á Sauðárkróki er ætlað að framleiða 5.400 tonn á ári, það er meira en þrefalt magn!

Samkvæmt því er ætlunin, að steinullin frá Sauðárkróki útrými ekki aðeins innfluttri steinull, heldur mestallri glerull og þeirri plasteinangrun, sem framleidd er í landinu. Og þá má spyrja, hvort sú slátrun annarra atvinnutækifæra verði í skjóli ríkisvaldsins.

Ríkinu ber að halda opnum markaði byggingaefna, svo að byggingakostnaður verði sem lægstur og þjóðarhagur batni sem örast. Bein eða óbein aðild ríkisins að ýmsum gæluverkefnum má aldrei leiða til ívilnana eða hafta, sem skaða þjóðina í heild. Og nú er ástæða til að vera vel á verði.

Jónas Kristjánsson

DV

Næstsíðasta vígið nærri fallið.

Greinar

Mismunandi tilkynningar bankanna um hærri og fjölhreyttari vexti benda til, að aukið vaxtafrelsi muni leiða til aukinnar samkeppni um sparifé landsmanna. Þær vekja vonir um, að einhvern tíma komist á jafnvægi milli framboðs á fjármagni og eftirspurnar.

Þegar raunvextir sex mánaða reikninga eru komnir upp í 10% í sumum bönkum, er fengin ástæða til að reikna með, að margir þeir, sem valið geta milli sóunar og sparnaðar, velji hið síðara. Þar með fást meiri peningar til ráðstöfunar handa síþyrstum lántakendum.

Að vísu eiga þessir raunvextir í harðri samkeppni við útsöluna á erlendum gjaldeyri, sem nú stendur yfir. Sú útsala freistar til kaupa á erlendum varningi og til ferðalaga í útlöndum. Peningarnir, sem fara í það, verða ekki lagðir inn á hagstæða bankareikninga.

Það er því rangt, sem einn bankastjórinn sagði, að síðasta vígi verðbólgunnar væri fallið með aukna vaxtafrelsinu. Fremur má kalla það næstsíðasta vígið. Síðasta vígi verðbólgunnar er traustara en nokkru sinni fyrr, hornsteinn stjórnarstefnunnar, sjálft fastagengið.

Núna felst verðbólgugróði í, að menn nota sér sem bezt útsöluverðið á erlendum gjaldeyri, meðal annars til að sitja uppi með gróða, þegar fastgengisstefnan springur í loft upp einhvern tíma eins og hún hefur alltaf gert. Og eftir lengra hlé verður jarðskjálftinn harðari.

Aukna vaxtafrelsið er ekki þáttur í markvissri stjórnarstefnu um að láta markaðinn leysa ofstjórn af hólmi. Markaðurinn fær að vísu meiri áhrif í bankakerfinu, en hann hefur ekki fengið tækifæri til að reyna að koma á jafnvægi milli íslenzks og erlends gjaldeyris.

Þetta ástand dregur úr, að árangur aukins vaxtafrelsis verði eins skjótur og mikill og æskilegt væri. Enn eru ýmsar freistingar á ferð, sem í mörgum tilvikum verða yfirsterkari viljanum til að hagnast á raunvöxtum. En spor hefur alténd verið stigið í rétta átt.

Ekki er þó fullur sigur unninn á þessu næstsíðasta vígi verðbólgunnar. Mörg áhrifamikil öfl í stjórnmálunum eru algerlega andvíg þeirri hækkun raunvaxta, sem óhjákvæmilega fylgir auknu vaxtafrelsi. Þessi öfl eru enn hávær og hafa ekki gefizt upp í stríðinu.

Vonandi sjá æ fleiri þó, að raunvextir geta hækkað núna, þegar eftirspurn er mun meiri en framboð á fé, framkvæmdir fyrir lánsfé eru miklar og atvinnuástand er ótrúlega gott. Það er greinilegt, að hærri vextir hafa ekki haldið aftur af athafnavilja manna.

Vonandi sjá líka æ fleiri, að raunvextir geta hækkað núna, þegar innflutningur og önnur notkun gjaldeyris er miklu meiri en ráð var fyrir gert og miklu meiri en hollt er. Viðskiptajöfnuðurinn gagnvart útlöndum er of óhagstæður og skuldasöfnun í útlöndum of mikil.

Búast má við, að næsta framhald hins aukna bankafrelsis felist í minnkuðum möguleikum stjórnmálamanna á að halda í forréttindavexti. Þegar afurðalánin hverfa inn í bankana í haust, virðist óhjákvæmilegt, að þar verði líka teknir upp samkeppnishæfir vextir.

Og þá eru bara eftir sjóðir Framkvæmdastofnunar og ýmsir stofnlánasjóðir. Til dæmis verður forvitnilegt að vita, hve lengi deildir Framkvæmdastofnunar komast upp með að gefa gæluverkefnum og vildarvinum peninga, þegar aðrir hlutar bankakerfisins eru að verða heilbrigðir.

Jónas Kristjánsson.

DV

Nálgast fjórði ósigurinn?

Greinar

Ástæða er til að hafa verulegar áhyggjur af framvindu viðræðna Íslands og Alusuisse um orkuverð til Ísal og stækkun álversins. Þessum viðræðum átti að ljúka í apríl í vor, en þær hafa dregizt á langinn. Farið er að ganga verr hjá Sverri en hjá Hjörleifi þar á undan.

Óþægilegt er að sjá, hve mikla áherzlu samningamenn Íslands leggja á að reyna að sannfæra blaðalesendur um, að ýmsar verðhugmyndir séu of háar og að ýmis meðalverð á orku til áliðnaðar úti í löndum séu í raun ekki eins há og sumir hafa talið hér á landi.

Lægst hefur verið lagzt í tilraunum til að halda fram, að einhver viðmiðun sé í gamalli tillögu Hjörleifs Guttormssonar um 12,5 verðeiningar. Sú tillaga fjallaði ekki um endanlegt verð, heldur um millibilsverð á borð við þær hlægilegu 9,5 verðeiningar sem samið var um í vetur.

Þegar haldið er fram, að Hjörleifur hafi með tillögu sinni stefnt að 12,5 verðeiningum, er full ástæða til að ætla, að núverandi samningamenn telji sig vera komna í slíkan vanda, að óheiðarleg vinnubrögð séu þeim nauðsynleg. Skamma má Hjörleif fyrir margt, en ekki þetta.

Mest hafa samningamenn þó reynt að hampa orkuverði, sem samið var um í gamla daga, áður en olían hækkaði, og orkuverði, sem samið var um, þegar offramleiðsla var á áli fyrir örfáum árum. Þeir vekja minni athygli á orkuverðssamningum, sem nýjastir eru erlendis.

Metal Bulletin hefur skýrt frá, að lágt orkuverð til áliðnaðar sé liðin tíð. Offramleiðslan hafi vikið fyrir álskorti. Fjölþjóðahringarnir þurfi nú að afla sér sem fyrst aukinnar framleiðslugetu á hinum verðmæta málmi, sem stöðugt sækir inn á ný svið í iðnaði.

Vegna þessa eiga samningamenn Sverris Hermannssonar að vera í jafngóðri aðstöðu og samningamenn Hjörleifs Guttormssonar voru í vondri aðstöðu fyrir nokkrum árum. Krefjast verður þess af núverandi samninganefnd, að hún nái árangri og sé ekki með stöðugt múður.

Um þessar mundir dettur engum orkueiganda í hug að semja um lægra orkuverð til nýrra álvera en 20 verðeiningar. Það orkuverð er raunar aðeins lítillega yfir áætluðu framleiðsluverði nýrra, íslenzkra orkuvera á borð við Blöndu. Það er talið munu verða 17 verðeiningar.

Mjög undarlegt væri, ef Ísland færi að semja um lægra orkuverð en 20 verðeiningar til þeirrar stækkunar álversins, sem fyrirhuguð er. Hins vegar væri hugsanlegt að semja um rúmlega 17 verðeiningar fyrir hinn eldri hluta, sem nú er starfræktur. Allt, sem er undir 17, er gjöf.

Kostnaðarverð orku frá þeim orkuverum, sem við þurfum að reisa, af því að Ísal notar eldri og ódýrari orku, verður ekki lægra en 17 verðeiningar. Og alkunnugt er, að slíkar verðáætlanir hafa tilhneigingu til að reynast of lágar, þegar orkuverin eru komin í gang.

Ekki þarf mikinn kaupsýslumann til að sjá, að söluverð á orku ber ekki að miða við gamlan kostnað að baki, heldur við endurnýjunarkostnað, það er þann kostnað, sem mundi fylgja jafnmikilli nýrri orku frá nýju orkuveri. Þetta er eins og lögmálið um endurnýjun vörubirgða.

Fyrri mistök í samningum við Alusuisse hafa dregið hættulega úr áhuga Íslendinga á stóriðju. Ef nú í fjórða sinn tekst ekki að ná mannsæmandi samningum, er tímabært að strika yfir áldrauminn. Samningamenn ættu því að snúa sér að samningum og hætta að reyna að blekkja okkur.

Jónas Kristjánsson.

DV

Holt

Veitingar

Notalegasta bókaherbergi

Í Holti hefur verið innréttað bókaherbergi með voldugum leðursófum, þungum bókaskápum með gömlum bókum á bak við gler, svo og merkum málverkum eins og annars staðar í húsinu. Þessi stofa er einn bezt heppnaði hluti staðarins, þungur og virðulegur eins og matsalur Þingholts. Hún er til dæmis mun notalegri en barinn, sem þar á undan var innréttaður og minnir á biðstofu í fínni læknastöð.

Gestir geta fengið sér fordrykk í bókaherberginu, svo og kaffi eftir matinn. Það er skemmtileg viðbót við þetta gamaltrausta veitingahús, sem viðskiptahöldar landsins sækja svo mjög. Hins vegar hefur ekki verið lagað skilrúmið í sjálfum matsalnum, sem er of hátt og gerir staðinn of þröngan og of hljóðbæran. Einn galli þess er, að þjónar eiga erfitt með að sjá, þegar nýir gestir koma og bíða úti við salardyr.

Bezta leið gesta til að losna við slíkt er að fara inn á bar til að gera vart við sig og biðja um fordrykki og matseðla inn í bókaherbergi. Allt frá því er þeir hafa þannig náð athygli kerfisins, er þjónusta staðarins mjög góð og fagmannsleg. Gestum líður vel, hvort sem er í djúpum leðurstólum bókastofunnar eða í þægilegum armstólum matsalarins.

Flest almennileg matarvín, sem fást í Ríkinu, eru á boðstólum í Holti, þar á meðal vín, sem staðarmenn flytja inn sjálfir. Matseðillinn er líka langur og kemur víða við. Ekki þætti mér ólíklegt, að matreiðslan mundi verða enn betri, ef hún þyrfti ekki að spanna yfir næstum fimmtíu fasta rétti.

Athyglisvert er, að fiskréttir eru fáir á fastaseðli Holts, en þeim mun fleiri á seðli dagsins. Þar með tekur eldhúsið fullt tillit til þeirrar staðreyndar, að framboð á fiski er dagbundið og að geymsla á fiski í frystikistu gerir hráefnið mun lakara. Þetta mætti verða öðrum húsum til eftirbreytni.

Hin ágæta stefna gafst hins vegar ekki nógu vel í prófun tveggja spennandi fiskrétta af seðli dagsins. Bæði steiktur steinbítur í kaperssósu og steiktur karfi í pernod voru í of bragðsterkum sósum, sem földu fiskbragðið. Sérstaklega var anísinn í karfanum áberandi. Hins vegar var fiskurinn í báðum tilvikum létt eldaður og úr góðu hráefni, svo að úr þessu hefði orðið ágætis matur, ef sósurnar hefðu verið mildari.

Smokkfiskur var frábær

Þétt laxafroða var tvisvar á seðli dagsins. Hún var ágæt, þótt laxabragðið væri dauft, borin fram með grásleppuhrognum, steinselju og rauðri papriku.

Hráskinka með melónu og ristuðu brauði, kölluð parmaskinka, hafði þornað í köntunum og var misheppnuð. Hörpuskelfiskur í hvítvíni með spergli og kapers var meyr og góður, þótt sósan minnti frekar á hveiti en sýrðan rjóma. Enn betri var hörpuskelfiskur pattaya, pönnusteiktur í sætsúru soði, mjög góðu.

Sniglagrautur af dagseðli var mjög góður matur. Sniglarnir voru meyrir og sósan var hæfilega mild og góð. Nokkuð mikið var notað af smjöri í þennan rétt eins og raunar suma fleiri rétti staðarins.

Bezti forrétturinn, sem prófaður var, reyndist vera smokkfiskur lissabon, steiktur í olíu, borinn fram með lauk, sveppum, ferskri steinselju og hrísgrjónum. Þetta var satt að segja alveg frábær matur.

Með forréttunum var sameiginlega borið fram ristað franskbrauð, volgt undir dúknum.

Með aðalréttunum, sem prófaðir voru, öðrum en öndinni, er síðar verður getið, var borið fram staðlað salat ágætt, með ísbergi, papriku, þunnum gúrkusneiðum og rjómasósu. Með öndinni var borið gott waldorf-salat með eplum og rjómasósu.

Hakkað hreindýrabuff á seðli dagsins var ágætur matur, enda hæfilega eldað. Enn betri var þó sósan, sem fylgdi. Hún var með einkar ákveðnu hreindýrabragði. Með þessu voru bornar fram hvítar kartöflur og rifsberjasulta.

Grillsteiktar grísalundir með appelsínusósu, blómkáli, hrísgrjónum, steinselju og bakaðri kartöflu voru með því bezta af slíku tagi, sem fáanlegt er hér á landi, enda er Holt í góðum tengslum við helztu svínabú landsins. Appelsínuhúðin og -sósan réðu þó miklu um, hversu góður rétturinn var.

Lambalundir uppvafðar og þræddar á spjót, bornar fram með blómkáli, steinselju og bakaðri kartöflu, voru bleikar og meyrar, en ekki safaríkar. Sósan var fallega rjómuð og blómkálið alveg mátulega eldað, eins og annað blómkál í þessari prófun. Eldunartímar eru í lagi í Holti.

Ofnsteikt önd með appelsínusósu, bakaðri peru, litlum, grænum baunum, appelsínusneiðum og ferskri steinselju var bragðgóð, en minnti á kjúkling, þótt stærðargráðan væri önnur. Appelsínusósan var góð.

Hátindur í turnbauta

Hátindur prófunarinnar var turnbauti með ferskum sveppum og béarnaise-sósu. Kjötið var frábært, bragðsterkt og hæfilega grillbrennt. Betri nautasteik er vart hægt að fá.

Jarðarberjapæ og bláberjapæ af eftirréttavagni dagsins, hvort tveggja með þeyttum rjóma, reyndust vera hinir ljúfustu réttir, einkum bláberjapæið.

Jarðarberjakraumís var nokkuð bragðsterkur, en sítrónuís með súkkulaðisósu og döðlum var hinn bezti eftirréttur.

Kaffi var sterkt og gott, borið fram með súkkulaðikúlum í bókaherberginu.

Fastaseðill og dagsseðill eru á svipuðu verðlagi. Miðjuverð súpa er 165 krónur, forrétta 245 krónur, fiskrétta 375 krónur, kjötrétta 510 krónur. Þriggja rétta veizla með kaffi og hálfri flösku af víni á mann ætti að kosta 973 krónur að meðaltali. Í hádeginu kostar súpa og aðalréttur um 420 krónur.

Holt er í verðflokki og gæðaflokki á svipuðum slóðum og Grillið á Hótel Sögu, eitt af örfáum allra beztu veitingahúsum landsins. Bæði eru þó heldur síðri en Arnarhóll, sem virðist hafa stungið af aðra staði.

Jónas Kristjánsson

DV

Noregur sveik okkur.

Greinar

Allar líkur benda til, að Noregur hafi svikið Ísland í Jan Mayen málinu. Hvert einstakt atriði er ekki fullt sönnunargagn, en sameiginlega leiða líkurnar til þeirrar óhjákvæmilegu niðurstöðu, að norsk stjórnvöld hafi svikið samkomulagið um Jan Mayen.

Í fyrsta lagi skýrðu norskir fjölmiðlar frá því fyrr í sumar, að norsk og dönsk stjórnvöld hefðu samið um veiðiheimildir fyrir Dani á Jan Mayen svæðinu. Var skrifað um þetta eins og hvert annað samkomulag, sem ríkisstjórnir gera um ýmis hagsmunamál.

Þegar Íslendingar fóru að malda í móinn og benda á, að samkvæmt samningi Íslendinga og Norðmanna gætu Norðmenn ekki einhliða gefið slík leyfi, sneru norsk stjórnvöld við blaðinu og héldu því blákalt fram, að alls ekki neitt samkomulag hefði verið gert við Dani.

Í öðru lagi hefur Árni Gíslason, útgerðarmaður í Danmörku, sagt, að Norðmenn og Danir hafi gert þegjandi samkomulag um svokallað gráa svæði, það er svæðið frá miðlínu milli Grænlands og Jan Mayen austur að 200 mílna mörkum frá Grænlandi. Og þar er einmitt veitt núna.

Í þriðja lagi er komið í ljós, að norsk varðskip á þessum slóðum hafa fyrirmæli um að vera norskum skipum til aðstoðar, en að skipta sér ekki af veiðum erlendra skipa. Þar með er ljóst, að koma norskra varðskipa á miðin á ekki að þjóna neinni landhelgisgæzlu.

Vegna þeirra staðreynda, sem hér hafa verið raktar, er óhætt að fullyrða, að einkar ógeðfellt er svar norskra stjórnvalda við fyrstu mótmælum íslenzkra stjórnvalda. Líta má á það sem eins konar Júdasarkoss. Innihald þess er fjarri staðreyndum.

Í svarinu fullyrtu norsk stjórnvöld, að ekki hafi verið gert neitt samkomulag við dönsk og að norsk varðskip yrðu send á miðin til eftirlits. Með bréfi þessu blekktu þau utanríkisráðherra okkar, sem lét hafa eftir sér í Morgunblaðinu, að svarið væri jákvætt.

Nú er komið í ljós, að bréf norsku stjórnarinnar var að mestu leyti hrein lygi. Íslenzka utanríkisráðuneytið hefur sent viðeigandi mótmæli til Noregs og Danmerkur, sem svarað verður með meiri lygi. Og vandi okkar nú er að velja þessu viðbrögð við hæfi.

Stungið hefur verið upp á, að Ísland sendi varðskip á þessi mið til að halda uppi gæzlu umsaminna hagsmuna okkar. Þau gætu hrakið dönsku og færeysku skipin vestur yfir, en um leið magnað ágreininginn. Þessa hættulegu leið má fara, en að loknu vel athuguðu máli.

Færeyjum getum við auðveldlega svarað með því að lýsa yfir brottfalli veiðiheimildanna, sem þær hafa í fiskveiðilögsögu Íslands. Vegna framgöngu Færeyinga í málinu eiga þeir ekki annað skilið. Hins vegar eigum við fátt vopna eða skiptimyntar gegn Dönum og Efnahagsbandalaginu.

Við hljótum að telja hættu á ferðum, þegar Efnahagsbandalagið hefur einhliða lýst yfir 105 þúsund tonna laxakvóta handa sér á þessu svæði. Hyggst bandalagið til dæmis framselja þennan ímyndaða kvóta Sovétríkjunum gegn gjaldi eða í skiptum fyrir annað?

Við munum halda því stíft fram, að Noregur beri einn tjónið af þegjandi samkomulagi við aðra aðila, enda hafa norsk stjórnvöld ekki beitt varðskipum sínum. En óneitanlega er hart að sæta svikum nágranna við gerða samninga og þar á ofan óheiðarlegum bréfum þeirra.

Jónas Kristjánsson.

DV

Gerilsneyddur Stóri bróðir.

Greinar

Eitt af því, sem hefur á liðnum árum dregið úr óbeit manna á Grænmetisverzlun landbúnaðarins, er, að þeir hafa getað farið þangað og valið sér kartöflur í lausri vigt. Þannig hefur fólk keypt þær kartöflur, sem það vildi, og forðazt hinar, sem fljóta með í pokana.

Eftir að kartöfluverzlunin varð hálffrjáls í vor, hafa neytendur átt þess kost í mörgum búðum að kaupa kartöflur með sama hætti og gert er í útlöndum. Þeir hafa getað valið á milli kartöflutegunda á mismunandi verði, gæðum og stærð – og síðan milli einstakra kartaflna.

Heilbrigðiseftirlit ríkisins vill meina okkur að kaupa kartöflur á þennan hátt. Það hefur dustað rykið af reglugerð um, að hvorki megi selja kartöflur ópakkaðar né í neti. Þær verði að vera í lokuðum pokum, það er að segja óséðar eins og þær finnsku í vor.

Vafalaust er það heilbrigðisráðuneytið, sem stendur að baki og vill forða Íslendingum frá svokölluðum sóðaskap og moldryki, sem talið er, að fylgi þeim viðskiptum með kartöflur, er tíðkast í öðrum löndum og við höfum fagnað, að hafa komizt á hér á landi.

Mörg fleiri dæmi eru um, að heilbrigðisráðuneytið vildi helzt gerilsneyða Ísland og Íslendinga, jafnvel þótt sú stefna muni á endanum leiða til þess, að við getum ekki farið til útlanda án þess að falla samstundis fyrir margs konar gerlum, sem við erum óvön.

Fyrir nokkrum árum tókst Stóra bróður í heilbrigðisráðuneytinu að banna sölu á kjúklingum hér á landi öðruvísi en frystum. Þar með var tekin frá okkur náttúruleg vara. Í staðinn fengum við frysta, bragðdaufa og seiga afurð úr verksmiðjum.

Með frystingunni var stefnt að því að spara mönnum rétta og vandaða meðferð viðkvæmrar vöru. Frystingin dregur úr tilfinningu framleiðenda, verzlunarfólks og neytenda fyrir því, að um viðkvæman mat sé að ræða. Færibandahugsunin er í algleymingi.

Sagt er, að gerlar berist með ófrystum kjúklingum til manna. Heilbrigðisráðuneytið ímyndar sér vafalaust, að Íslendingar nagi kjúklingana hráa eða borði þá með tólum, sem áður hafa verið notuð við meðferð hrárra kjúklinga. Þannig hugsar stóri bróðir.

Eitt skærasta ljósið í Hollustuvernd ríkisins, formaður Matsnefndar vínveitingahúsa, hefur skrifað bréf til bezta veitingahússins utan Reykjavíkur. Í bréfinu er gert að skilyrði fyrir fullu vínveitingaleyfi, að “húsgögn í setustofu verði endurnýjuð”, svo að þau verði “samstæðari”.

Í þessari setustofu eru nú gömul og falleg húsgögn af ýmsu tagi, sérstaklega vinaleg og þægileg. Auðvitað stingur slíkt í augu hins gerilsneydda Stóra bróður. Hann vill í staðinn stöðluð nútímahúsgögn, alveg eins og hann vill lokaða kartöflupoka og frysta kjúklinga.

Sama ráðuneyti hefur fengið sérálit sérstakrar bindindisnefndar um, að torveldaður verði aðgangur þjóðarinnar að bæði léttum vínum og sterkum, væntanlega með þeim afleiðingum, að áfengisbölið breytist í fíkniefnaböl. Nema landsmönnum sé ætlað að naga skósvertu eins og á bannárunum!

Hægt væri að gera grín að þessum og öðrum tiltektum, sem beint eða óbeint eru á vegum heilbrigðisráðuneytisins. En því miður er málið alvarlegra en svo. Stóri bróðir gengur hreinlega laus og vill gerilsneyða þjóðfélagið, búa til þjóðfélag, sem ekki þrífst í umhverfi sínu.

Jónas Kristjánsson.

DV

Blómasalur

Veitingar

Blómasalur Hótels Loftleiða hefur um nokkurt árabil verið að færa sig milli verðflokka. Fyrir nokkrum árum var hann einn af dýru stöðunum á borð við Grillið á Sögu og Holt. Nú er hann orðinn að miðjuverðstað á borð við Lækjarbrekku og Torfuna.

Minnkandi metnaður

Um leið hefur metnaður Blómasalar minnkað, en kannski ekki alveg eins mikið og verðlækkunin gæti gefið tilefni til. Þjónusta er nokkurn veginn eins góð og hún hefur bezt verið. Sérstakur móttökustjóri tekur á móti gestum við komuna og leiðir þá til sætis. Þjónustulið staðarins er skólagengið og kann sitt fag.

Matreiðslan er það, sem hefur látið á sjá. Hún gefur í skyn, að Hótel Loftleiðir hafi gefizt upp á að keppa við hótelin Sögu og Holt og aðra gæðastaði um viðskipti innlendra matgæðinga og einbeiti sér að hinum fjötraða hópi hótelgesta. Enda fara útlendingarnir á sumrin langt með að fylla staðinn dag eftir dag.

Blómasalurinn bætir sér að vetrarlagi upp hægari straum ferðamanna með ýmsum skemmtilegum og þörfum uppákomum. Þá eru haldin kynningarkvöld á einstökum löndum, sælkerakvöld og ýmsar árvissar hátíðir. Við slíkar aðstæður magnast í eldhúsinu metnaður umfram hverndaginn. En af almennum markaði matgæðinga virðist staðurinn vera að hverfa.

Einn bezti vínlistinn

Útlit og andrúmsloft Blómasalar er svipað og verið hefur, en þó vinalegra en áður. Rauði liturinn er notaður í allt. Munnþurrkurnar eru rauðar, dúkarnir eru rauðir, stólarnir eru rauðir, gluggatjöldin eru rauð og gólfið er rautt. Lýsingin hefur verið tempruð, svo að staðurinn virðist nánast dulmagnaður á kvöldin. Og honum fer alls ekki illa að vera víður og opinn.

Vínlisti Blómasalar er einn hinn bezti á landinu. Þar vantar nánast ekkert af þeim drykkjarhæfu vínum, sem á annað borð fást í Ríkinu. Meira að segja er hægt að fá Tio Pepe fyrir matinn og Quinta do Noval með kaffinu. Þessi ágæti vínlisti stingur mjög í stúf við hina mörgu lélegu vínlista í veitingahúsum landsins, augljóslega valinn af þekkingu og smekkvísi.

Af rauðvínum má benda á Chateauneuf-du-Pape, Chateau de Saint Laurent, Saint Emilion, Chianti Antinori og svo hið ódýra Trakia. Af hvítvínum má benda á Gewürztraminer og Chablis, hin ágætu matarvín, svo og hið ljúfara Wormser Liebfrauenstift Riesling.

Dósahnífur á lofti

Matargestir á kvöldin hafa frjálsan aðgang að salat- og brauðbar, sem ekki er sérlega umfangsmikill eða spennandi. Í prófuninni reyndist þó vera þar mikið af ljómandi fallegu ísbergssalati. Einnig blaðlaukur, olífur, tómatar, gúrka og tvenns konar paprika. Minna var spunnið í dósasveppina og maískornin. Þrenns konar sósur fylgdu borðinu, svo og þrjár tegundir brauðs.

Spergilsúpa reyndist þykk og mjög heit, með ágætis spergli.

Grafsilungur var ágætur, borinn fram með rjómasósu og dósaspergli. Einkennilegt var að sjá í uppsetningu matarins á disk trjóna efst smjörstykki í álpappír, svona eins og menn fá úr plastbökkum í flugvélum. Verður næst borinn fram ís í Mjólkursamsöludósum?

Eggjakaka hússins hafði að geyma dósasveppi og skinkubita, en sjálf eggjakakan var sómasamleg.

Kjúklingur kryddleginn með steiktum ananas var raunar ekki með ananas, heldur léttsoðnum dósagulrótum og brokkáli, svo og gúrku og tómati. Skorpan hafði sætan ávaxtakeim, sem minnti á appelsínusósuna, er fylgdi. Sjálfur kjúklingurinn var fremur þurr.

Glóðarsteiktur turnbauti var ekki hrásteiktur, eins og um hafði verið beðið, heldur miðlungi steiktur og í bragðdaufasta lagi. Með honum komu dósasveppir, dósaspergill og bökuð kartafla, svo og sæmileg béarnaise-sósa.

Lambageirinn var hringvafinn og fremur feitur og matarlítill, en ágætur á bragðið. Með honum var sama meðlætið og með turnbautanum.

Nýi, soðni laxinn með gúrkusalati, sem var trompið á seðli dagsins, reyndist óhæfilega mikið soðinn, þótt beðið væri um, að vægt yrði farið í sakirnar. Fyrir bragðið var hann þurr. Þar á ofan var hann ekki nógu heitur. Með honum fylgdu soðnar kartöflur, sýrðar gúrkur og dósagulrætur.

Heimalagaður rjómaís með súkkulaðisósu var góður á bragðið.

Íslenzkt hlaðborð

Í hádeginu er í Blómasalnum hlaðborð á 475 krónur, einkum sniðið fyrir útlendinga. Þar er fremst sýnishorn af gömlum, íslenzkum mat, svo sem hval, hákarli og hrútspungum. Síðan eru nokkrar tegundir síldar og drjúgt fiskrétta. Ennfremur lambakjöt og sitthvað fleira. Þetta freistaði mín ekki. Á laugardögum er 695 króna víkingaveizla fyrir útlendinga með tilheyrandi húllumhæi og útgáfu viðurkenningarskjala.

Miðjuverð á forréttum fastaseðilsins er 230 krónur, súpum 105 krónur, fiskréttum 295 krónur, kjötréttum 440 krónur og eftirréttum 135 krónur. Með kaffi á 40 krónur og hálfri vínflösku á 104 krónur ætti þriggja rétta máltíð að kosta að meðaltali 714 krónur, hvort sem pantað er af fastaseðli eða stuttum seðli dagsins, en örlitlu meira, ef valið er hlaðborðið í hádeginu.

Jónas Kristjánsson

DV

Vandanum frestað.

Greinar

Ríkisstjórnin og þingflokkar hennar hafa áttað sig á, að hún getur ekki lengur vikið sér undan aðgerðum til að lina þjáningar sjávarútvegsins. Sumar aðgerðir gærdagsins eru góðar, en aðrar óljósar eða lakari, svona eins og oftast vill verða í slíkum tilvikum.

Ríkisstjórnin hallaði sér um síðir að hinni hefðbundnu niðurstöðu, skuldbreytingu. 500 milljón króna lausaskuldum verður breytt í löng lán. Það er engin lækning í sjálfu sér, en ýtir vandanum fram í tímann. Og um leið kostar það mikla aukningu erlendra skulda.

Við slíka skuldbreytingu skiptir miklu, að ekki séu verðlaunaðir þeir, sem ekki eiga fyrir skuldum. Tímabært er orðið, að vonlaus útgerð fái að andast í friði, jafnvel þótt það kosti bókhaldstjón í ýmsum sjóðum. Það lánsfé er hvort sem er týnt og tröllum gefið.

Grisjun í útgerð eykur svigrúm þeirra, sem áfram hafa bolmagn. Aðgerðir af slíku tagi eru sjávarútveginum mikilvægari en nokkuð annað, næst á undan réttri skráningu krónunnar. Skuldbreyting er gagnslaus til frambúðar, nema henni fylgi grisjun flotans.

Ein af ráðagerðum ríkisstjórnarinnar er að leyfa frestun á greiðslum vaxta og afborgana af skipum, sem láta veiðikvóta sinn af hendi til annarra skipa. Þetta stuðlar sennilega að því, að úrelt skip eða stórskuldug verði tekin úr umferð, – ein leið til grisjunar.

Vafasamar hugmyndir um niðurgreiðslu á olíu náðu ekki fram að ganga. Ríkisstjórnin gælir þó enn við hugmyndir um minniháttar aðgerðir af slíku tagi, svo sem lækkun eða afnám ýmissa opinberra gjalda af olíu. Slíkt er til bóta, en nær sennilega skammt.

Ein millifærsla ríkisstjórnarinnar felst í flutningi peninga af almennum lánamarkaði yfir í afurðalán til sjávarútvegs. Þessi afurðalán eiga að vísu að flytjast í haust frá Seðlabankanum til viðskiptabankanna. En verða þau á samkeppnishæfum kjörum?

Til þess að leysa vanda sjávarútvegsins þarf að skilja hann. Flestir eru sammála um, að vandræðin felast einkum í, að skipum hefur fjölgað og fiskum fækkað. Þar af leiðandi er umfang sjávarútvegsins of mikið. Lausnir ríkisstjórnarinnar miða ekki nóg að samdrætti sóknar.

Því miður eru ekki allir sammála um hina orsök vandræðanna, en hún er sú, að ríkisstjórnin hefur haft erlendan gjaldeyri á útsölu um margra mánaða skeið. Hið háa gengi krónunnar hefur leitt til óhóflegs innflutnings, óhagstæðs viðskiptajafnaðar og skuldasöfnunar í útlöndum.

Við slíkar aðstæður má fastlega gera því skóna, að erlendur gjaldeyrir sé skráður á of lágu verði. Þegar hins vegar jafnvægi er í útflutningi og innflutningi og skuldum er ekki safnað í útlöndum, má gera ráð fyrir, að gengið sé rétt skráð. Svo er ekki núna.

Krampakennd fastgengisstefna hefur skaðleg áhrif á atvinnulífið. Verst leikur hún útflutningsatvinnuvegina, þar sem sjávarútvegurinn er í broddi fylkingar. Hann fær ekki nógu margar krónur fyrir dollarana, sem hann aflar í útlöndum. Þannig fjármagnar hann fastgengisstefnuna.

Vandræði sjávarútvegsins eru sérstaklega mikil núna, af því að saman fer óhæfilegt umfang útgerðar og útsala á erlendum gjaldeyri. Stjórnaraðgerðir gærdagsins eru fjarri því að vera markviss lausn á þessum vanda. Þær eru fyrst og fremst hefðbundin frestun vandans.

Jónas Kristjánsson.

DV

Þjóðargjöfin étin enn.

Greinar

“Þegar flogið var með áburðinn, mátti víða sjá árangur baráttu við auðn og grjót, en vinsæll er blessaður nýgræðingurinn hjá sauðfénu, því víða var það að naga hann og helzt þar, sem hann er rétt að koma upp úr urðinni og er á viðkvæmu stigi.”

Þessi nýlega lýsing í dagblaði er eftir fréttaritara, sem fékk að fara í áburðarflug með Landgræðslu Íslands frá Aðaldalsflugvelli. Hann fór með sjálfboðaliðum úr hópi flugmanna Flugleiða, sem hafa kauplaust unnið að þessu í sumarleyfum í nokkur ár.

Í öðru dagblaði stóð um daginn: “Hafsteinn sagði þann 000 hektara blett, sem Landgræðslan hafi sáð í á Eyvindarstaðaheiði í fyrra og í vor, nú alveg hvítan af fé. Þetta er eins og í réttum, alveg kind við kind. … svo verður þetta nauðnagað fyrir veturinn.”

Alþingismenn Íslendinga samþykktu í þjóðernisvímu á ellefu alda afmælis Íslandsbyggðar fyrir tíu árum að klæða landið gróðri á nýjan leik. Hefja átti skipulega endurgreiðslu á skuld við landið, sem safnazt hafði upp á ellefu alda skógarhöggi og ofbeit.

Síðan hafa menn unnið þindarlaust, sumir á kaupi og aðrir kauplaust, við stórvirka dreifingu fræs og áburðar úr lofti. Árangurinn hefur hins vegar ekki orðið sá, sem til var stofnað. Þjóðargjöfin mikla frá 1974 hefur verið notuð til að fjölga búfé á afréttum.

Hinn hefðbundni landbúnaður á Íslandi hefur étið þjóðargjöfina jafnóðum til að auka framleiðslu á óseljanlegum afurðum, sem losnað er við með óheyrilegum útflutningsuppbótum og niðurgreiðslum. Sjálft landið hefur verið svikið um hina frægu þjóðargjöf.

Fyrir nokkrum árum leiddu umfangsmiklar beitarrannsóknir í ljós, að gróður á afréttum er á hröðu undanhaldi. Stjórnandi þeirra sagði: “Rannsóknir okkar benda til, að það sé of margt sauðfé í landinu eins og dreifingu þess er háttað nú, jafnvel allt að þriðjungi of margt.”

Síðast í ár kom í ljós, að Auðkúluheiði var aðeins fær um að bera búfé, sem svarar til 10.500 ærgilda í stað 20.000 ærgilda beitarþunga, sem heiðin sætti í raun. Þar hefur verið sáð í um 700 hektara af þeim 3.000, sem Landsvirkjun tók að sér til að fá að virkja við Blöndu.

Þannig fara greiðslur Landsvirkjunar ekki til að græða upp land í stað þess, sem fer undir stíflulón. Það fer til að auðvelda bændum að halda áfram á sama tíma og fiskalíf fer að kvikna í nýjum vötnum.

Framkvæmdastjóri Landgræðslu ríkisins sagði í blaðagrein í þessari viku, að menn væru sammála um, “að alvarleg ofbeit hafi verið á Eyvindarstaðaheiði um árabil. Margítrekuðum aðvörunum og leiðbeiningum um gróðurverndaraðgerðir hefur ekki verið sinnt sem skyldi …”.

Þessa dagana eru gildir bændur í Húnaþingi og Skagafirði að reka hross sin á Eyvindarstaðaheiði og Auðkúluheiði, þótt gefin hafi verið út reglugerð um bann við slíku. “Það verður þröngt í tugthúsinu”, sagði formaður þingflokks framsóknarmanna borginmannlega um þann rekstur.

Þjóðin og landið virðast ekki eiga neina vörn gegn ofbeldismönnum, sem eru staðráðnir í að nota hugsjónafé þjóðargjafarinnar og mútufé Blönduvirkjunar til að auka framleiðslu afurða, sem kosta skattgreiðendur tíunda hluta ríkisútgjaldanna og ekki er hægt að koma í verð.

Jónas Kristjánsson

DV

Arnarhóll

Veitingar

Landsins bezta veitingahús

Arnarhóll er bezta veitingahús landsins. Á því leikur ekki hinn minnsti vafi. Þar með er ég ekki að lasta mjög góða staði á borð við Holt og Grillið á Sögu. En Arnarhóll ber einfaldlega höfuð og herðar yfir aðrar matstofur. Meðan sumar aðrar eru mjög góðar, þá er Arnarhóll frábær.

Gæfumuninn gerir, að Skúli Hansen er snillingur í eldhúsinu. Hann er dæmigerður fulltrúi hinnar nýju, frönsku línu í eldamennsku, sem sigraði heiminn fyrir nokkrum árum. Þar á ofan er hægt að treysta staðnum. Þegar Skúli er ekki á vaktinni, heldur Guðmundur Guðmundsson uppi merkinu.

Ég minnist þess með brosi, að kunnur matreiðslumaður reiddist einu sinni, þegar ég gagnrýndi stað hans. Sagðist hann ekki hafa verið á vaktinni, þegar ég kom. Samt fengu viðskiptavinir enga aðvörun um slíkt og urðu að borga fullt verð. Ef fólk vill ekki taka slíka áhættu, þegar það fer út að borða, er Arnarhóll staður, sem aldrei bregzt.

Arnarhóll er meira en góður matur. En í þjónustu og umhverfi sker staðurinn sig minna úr hópnum. Fallegar veitingastofur og góð þjónusta eru sem betur fer algeng fyrirbæri hér á landi. Það er fyrst og fremst matreiðslan, sem víðast bilar. Nútíminn hefur þar ekki haldið innreið sína.

Meðal íslenzkra matreiðslumanna er útbreitt virðingarleysi fyrir hráefnum, óhófsnotkun á frystikistum, örbylgjuofnum, dósamat og stöðlun í meðlæti, of langir eldunartímar, óhófsnotkun á hveiti og salti, ofurást á köldu borði og tormeltum djúpsteikingum og ýmislegt annað tilfinningaleysi fyrir matargerð sem listgrein.

Engu slíku er til að dreifa í Arnarhóli. Þar fá gestir hollan, bragðgóðan mat, sem fer einstaklega vel í maga. Þegar við bætist góð þjónusta í fallegu umhverfi, fullkomnast umgerð veizlunnar.

Í upphafi sættu innréttingar Arnarhóls nokkurri gagnrýni. Sumt hefur verið lagað, til dæmis með hljóðeinangrun í lofti og með gömlu hljóðfærunum, sem nú hressa veggina. Annað hefur vanizt, eins og flísarnar á neðanverðum veggjunum. Skilrúmið nýja hefur lánazt sæmilega, mun betur en hliðstæðar tilfæringar í Holti og Grilli.

Eftir stendur ósamræmið milli hinna þriggja hluta staðarins, fordrykkjastofunnar uppi, matsalarins niðri og kaffistofunnar inn af honum. Ráðagerðir eru um að koma upp bókasafnsstíl í kaffistofunni. Ég held, að það geti orðið til bóta.

Þjónustan í Arnarhóli er fyrsta flokks. Starfsliðið fylgist árvökulum augum með þörfum gesta sinna, án þess að vera að ónáða þá að óþörfu. Þetta er ágætt dæmi um, að skólun og þjálfun á þessu sviði er á Íslandi betri en í flestum öðrum löndum, sem ég þekki.

Landsins ljúfustu sósur

En ætlunin var raunar að skrifa um það, sem fyrst og fremst greinir Arnarhól frá öðrum stöðum, – matinn. Ég hef að undanförnu verið svo heppinn að fá nokkur tækifæri til að reyna að koma staðarmönnum á óvart.

Heitt snigla-ragout með ferskum rifsberjum, blaðlauk og ferskum sveppum í kampavínssósu var fallegur réttur og einkar bragðgóður. Hvílík tilbreytni og dásemd er að finna ekki vott af hveiti í sósu.

Fersk grásleppuhrognakæfa með spínatsósu var sérlega ljúf uppfinning Guðmundar Guðmundssonar, gott dæmi um, að Skúli er ekki einn um hituna í Arnarhóli.

Silungssúpa með kampavíni og dill-rjóma var frábær súpa, vel rjómuð og með votti af tómatkeim.

Reyksoðinn regnbogasilungur með hvítlauksspínatsósu og kartöflugratíni hafði náð hinum ljúfa og létta reykkeim, sem er aðall þessarar matreiðslu. Með voru alfa-alfa spírur og mildilega sýrðar gúrkur.

Gufusoðin smálúðuflök með kampavíns-ostrusósu voru hæfilega skammt soðin, borin fram með röspuðu grænmeti og vægri tómatasósu.

Karrísteiktur smokkfiskur í japanskri saki-sósu var afar bragðgóður, borinn fram með gulrótarræmum og tvenns konar papriku.

Pönnusteiktur hörpuskelfiskur með ferskum sveppum í estragon-ostasósu var einstaklega meyr og bragðljúfur, borinn fram með flísum úr seljastönglum og alfa-alfa spírum.

Pönnusteiktur karfi í paprikusósu á hádegisseðli var mjög góður, borinn fram með hrísgrjónum. Sósan var létt og ljúf, eins og allar sósur Skúla.

Gufusoðinn skötuselur í dillsósu á hádegisseðli var lítillega ofsoðinn og því ekki eins meyr og hann hefði verið, ef tímasetning hefði verið nákvæm.

Meistaraverk í svartfugli

Aliönd með appelsínuhjúp var sérlega bragðgóð og fallega húðuð.

Léttsteikt svartfuglsbringa með vínberjum og trönuberjasósu var meistaraverk, svo léttsteikt, að kjötið var allt rautt og meyrt.

Lambabuff með jurtakryddi og blóðbergssósu og piparsteik með rósavíns-negulsósu var hvort tveggja fyrsta flokks matur.

Vanilluterta með karamellusósu og valhnetukjörnum var eins konar búðingur, mjög skemmtilegur og léttur eftirréttur.

Enn léttari var kampavíns- og melónukraumísinn.

Vínlisti Arnarhóls er í stíl við annað. Þar er flest þeirra góðu vína, sem fást í Ríkinu og sáralítið af ruslinu.

Miðjuverð forrétta er 330 krónur, súpa 132 krónur, fiskrétta 375 krónur, kjötrétta 510 krónur og eftirrétta 140 krónur. Með kaffi á 60 krónur og hálfri vínflösku á 130 krónur ætti þriggja rétta veizla að kosta 1003 krónur á mann. Það er dýrt, en ekki það dýrasta í borginni og ekki dýrara en gæðin.

Í hádeginu er svo boðið upp á súpu og fimm aðalrétti. Miðjuverðið á því tilboði er 275 krónur. Þar sem matreiðsla þessara rétta er eins fín og annarra, er þetta langbezta kostaboðið í veitingamennsku landsins. Mig furðar raunar, að ekki skuli vera sneisafullt í hádeginu dag eftir dag. Eru viðskiptahöldar landsins bragðlaukadaufir?

Arnarhóll er angi af París hér á hjara veraldar.

Jónas Kristjánsson

DV

Fjórar tímasprengjur.

Greinar

Nokkrar tímasprengjur hljóta að verða til umfjöllunar á væntanlegum fundum stjórnarflokkanna tveggja um næstu skref í stjórnarsamstarfinu. Það eru vandamál, sem ríkisstjórnin hefur látið hjá líða að fást við á fyrsta starfsárinu og hlaða nú upp á sig með vaxandi þunga.

Ein tímasprengjan er í sjávarútvegi. Þessum undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar er haldið í sífellt harðari bóndabeygju, annars vegar með útsöluverði á erlendum gjaldeyri og hins vegar með útgerð of mikils skipaflota. Á hvorugum þessum vanda hefur verið snert.

Ríkisstjórnin hefur ekkert gert til að létta af hömlum á verzlun með veiðikvóta. Virðist það þó vera einfaldasta leiðin til að fækka skipum í útgerð og auka afla þeirra skipa, sem áfram er haldið úti. Tímabært er orðið, að stjórnvöld stuðli að kvótaviðskiptum.

Formenn stjórnarflokkanna segjast halda fast við hið stöðuga gengi, sem ríkt hefur um margra mánaða skeið. Víst er slík festa gagnleg í baráttunni gegn verðbólgu. En það hefnir sín um síðir að senda sjávarútveginum reikning fyrir herkostnaðinum og setja hann á höfuðið.

Önnur tímasprengjan er í síversnandi lífskjörum nokkurs hluta þjóðarinnar, sem hefur ekki notið neins af launaskriði undanfarinna mánaða. Þessi kjararýrnun stingur mjög í stúf við lífsstíl launaskriðsmanna, sem halda uppi óhagstæðum viðskiptajöfnuði gagnvert útlöndum.

Fyrstu sporin að kjarasamningum haustsins benda ekki til, að hagsmuna undirstéttarinnar í landinu verði gætt í niðurstöðunni. Miklu líklegra er, að öflugir sérhagsmunahópar muni nota tækifærið til að ota sínum tota umfram aðra og að lífskjaramunurinn aukist.

Þriðja tímasprengjan felst í hinni gífurlegu gjá, er hefur myndazt milli tveggja kynslóða, þeirrar sem byggði sér íbúð fyrir neikvæða vexti verðbólguáranna og hinnar, sem nú getur ekki eignazt þak yfir höfuðið, af því að húsnæðislánakerfið hefur ekki verið lagað að nýjum aðstæðum.

Ríkisstjórnin hefur lofað að hafa frumkvæði að endurreisn húsnæðislánakerfisins úr núverandi rjúkandi rústum þess. En ekki hefur bólað á neinum efndum. Á meðan fjölgar sífellt árgöngunum, sem geta ekki byggt. Um síðir eru þeir vísir til að hefna sín á ríkisstjórninni, sem sveik.

Ráðamenn þjóðarinnar hafa sér það til afsökunar, bæði í láglaunahneykslinu og húsnæðishneykslinu, að minnkandi þjóðartekjur þrengi svigrúm til gagnaðgerða. Þjóðfélagið hafi hreinlega ekki fjárhagslegan mátt til að gera allt hið góða, sem menn séu sammála um, að gera þurfi.

Fjórða tímasprengjan felst í, að ríkisstjórnin virðist alls ekki fáanleg til að létta af þjóðinni hinu hrikalega kostnaðarsama böli, sem felst í að tíundu hverri krónu ríkisins er varið til að halda uppi óþarfri og rándýrri framleiðslu hinna hefðbundnu landbúnaðarafurða.

Enginn vafi er á, að brennsla verðmæta í hinum hefðbundna landbúnaði, er nemur meira en einni Kröfluvirkjun á hverju einasta ári, takmarkar mjög möguleika stjórnvalda til að aftengja allar hinar tímasprengjurnar, sem lýst hefur verið í þessum leiðara.

Því miður benda fyrstu yfirlýsingar formanna stjórnarflokkanna og annarra framámanna þeirra ekki til, að ríkisstjórnin treysti sér til að reyna að aftengja tímasprengjurnar á næstunni. Þar með mun hún safna glóðum elds að höfði sér, hægt en örugglega.

Jónas Kristjánsson.

DV

Kredda Verzlunarráðs.

Greinar

Sumar kreddur eru svo grunnmúraðar, að fólk étur þær hugsunarlaust upp hvert eftir öðru. Slíkar hugsanagildrur eru ekki síður í efnahagsmálum en á öðrum sviðum. Fyrir helgina datt Verzlunarráð Íslands í eina slíka. Í tillögum þess um næstu skref í efnahagsmálum segir meðal annars:

“Innlendur landbúnaður getur ekki keppt við innflutning landbúnaðarvara að óbreyttu styrkjakerfi í nágrannalöndunum. Hins vegar ætti innanlandsframleiðslan ekki að vera meiri en svo, að hún fullnægi innlendri eftirspurn í góðu árferði, og ekki komi til útflutnings, heldur verði sveiflur í árferði jafnaðar með innflutningi.”

Hér á landi deila menn þannig um, hvort innlend framleiðsla landbúnaðarafurða eigi að fullnægja innlendri eftirspurn rúmlega eða tæplega. Verzlunarráðið virðist vera á síðari skoðuninni. En hvorki það né aðrir rökstyðja, af hverju slík framleiðsla eigi yfirleitt að miðast við innlendan markað.

Ekki dettur fólki í hug, að sjávarútveginn eigi að miða við innlendan markað. Hann er rekinn sem stóriðja, er keppir við niðurgreiddan sjávarútveg annarra landa. Markaðurinn innanlands skiptir sjávarútveginn litlu máli. Heimurinn er hans vettvangur.

Auðvitað fögnum við því, að í Bandaríkjunum og víðar skuli þarlend verzlunarráð og aðrir áhrifaaðilar ekki hafa þá stefnu, að þar skuli sjávarútvegurinn tæplega fullnægja innlendri eftirspurn. Þá sætum við uppi með óseljanlegan fisk og búið efnahagsspil.

Ef við höfum á boðstólum vöru eins og fisk, sem getur keppt við niðurgreiddan fisk annarra þjóða, viljum við ekki, að þær loki fyrir okkar fisk, heldur kaupi hann. Ef við svo hins vegar höfum ósamkeppnishæfar landbúnaðarvörur, vill Verzlunarráðið halda lokuðum höfnum hér.

Taka má fleiri dæmi en sjávarútveg og landbúnað. Ekki dettur neinum í hug að framleiða hér á landi bíla eða flugvélar, korn eða ávexti, er ’’fullnægi innlendri eftirspurn í góðu árferði, og ekki komi til útflutnings”, svo notað sé hugsunarlaust orðalag Verzlunarráðs.

Mörg ríki niðurgreiða sumar afurðir sínar, ekki bara landbúnaðarvörur. Evrópuríki greiða niður skip og bíla til að verjast samkeppni Japana og flugvélar og landbúnaðarvörur til að verjast samkeppni Bandaríkjamanna. En í öllum slíkum tilvikum er haldið í fortíðina, ekki horft til framtíðarinnar.

Telur Verzlunarráðið ef til vill ekki, að það mundi bæta lífskjör þjóðarinnar, draga úr ófriði á vinnumarkaði og auka samkeppnishæfni okkar, ef allar landbúnaðarafurðir væru fáanlegar hér á samkeppnishæfu heimsmarkaðsverði í stað núverandi einokunarverðs?

Verzlunarráð ættu að vera fyrstu stofnanir til að átta sig á, að engu ríki er nauðsynlegt að vernda innlenda framleiðslu fyrir niðurgreiddum innflutningi. Niðurgreiðslur á alþjóðavettvangi sýna, að um er að ræða offramleidda vöru, sem skynsamt fólk á ekki að búa til.

Verzlunarráð ættu líka að vera fyrstu stofnanir til að átta sig á, að viðmiðun við innlendan markað er þáttur í innilokunarstefnu, sem allar viðkomandi þjóðir tapa á, bæði þær, sem fá ekki að selja og fá ekki að kaupa.

Margt er viturlegt í hinum nýju tillögum Verzlunarráðs Íslands um ný skref í efnahagmálum. En hugmyndin um, að innlendan landbúnað skuli miða við tæpa innanlandsnotkun, er ekkert annað en hugsunarlaus endurtekning gamallar kreddu, sem of lengi hefur ráðið ríkjum.

Jónas Kristjánsson.

DV

Nærsýn góðmenni.

Greinar

Mörgum góðviljuðum mönnum er illa við þá breytingu á drykkjusiðum þjóðarinnar, sem meðal annars felst í, að út um borg og bý situr fleira fólk en áður í litlum veitingastofum og sötrar annaðhvort létt vín eða eins konar bjórlíki – og heimtar þar á ofan alvörubjór.

Sérstök nefnd hins opinbera hefur skilað bindindissinnuðu áliti um opinbera stefnu í áfengismálum. Þar kennir margra grasa, en mest áherzla er lögð á að torvelda aðgang þjóðarinnar að vínanda og að hækka verð á vörum, sem innihalda þetta umdeilda efni.

Með tveimur tillögum nefndarinnar, annarri um 20% hækkun á víni á veitingahúsum og hinni um 10% viðbótarhækkun á sterku áfengi á veitingahúsum, er óbeint stefnt að því að færa neyzlu víns og áfengis af opinberum stöðum inn í heimahús og að fjölgun næturveizla í svefnhverfum.

Með tillögu nefndarinnar um almenna hækkun víns og áfengis er óbeint verið að stuðla að því að út um borg og bý verði meira af matarpeningum margra fjölskyldna notað til kaupa á vörunum, sem hrella nefndina svo mjög. Þetta mun koma niður á mörgum börnum þessa lands.

Með tillögu nefndarinnar um torveldaðan aðgang þjóðarinnar að víni og áfengi er óbeint verið að ýta neyzluvenjum fólks yfir í önnur efni, það er að segja bæði veik og sterk fíkniefni, sem eru í vaxandi mæli á boðstólum hér á landi, seljendum þeirra til ómælds hagnaðar.

Með tillögu nefndarinnar um bann við heimilisiðnaði er reynt að sporna gegn því, að þjóðin geti sjálf bætt sér upp torveldari aðgang að dýrara víni, bjór og áfengi, en um leið auðvitað óbeint stefnt að því, að fólk afli sér bruggunartækja og efnis á ólöglegan hátt.

Svo er líka margt fyndið í tillögum nefndarinnar, til dæmis að þeir, sem sviptir hafa verið ökuleyfi vegna ölvunar einnar, geti fengið það aftur, þegar þeir geti lagt fram vitnisburði tveggja valinkunnra manna, að þeir hafi þá ekki neytt áfengis í tvö ár!

Enginn vafi er á, að nefndarmenn eru í fullri alvöru og og miklum góðvilja að reynda að bæta þjóðfélagið með því að fá Íslendinga ofan af grunnmúruðum ósið, sem hefur fylgt mannkyninu í að minnsta kosti sex þúsund ár. En þeir eru um leið afar óraunsæir.

Raunar er einkennilegt, að nefndin sjálf og þeir, sem völdu bindindismennina á hana, skuli ekki átta sig á, að hluta af menningarsögu heimsins verður ekki útrýmt með þessum hætti. Gagnlegra hefði nefndinni verið að kynna sér mjög svo misjafna meðferð þjóða á víni og áfengi.

Með torveldari aðgangi að víni og áfengi, með hækkun verðs á víni og áfengi, með banni við áfengum bjór og með banni við heimilisiðnaði á þessum sviðum fæst sú niðurstaða ein, að alls konar ólögleg starfsemi færir út kvíarnar og eykur gróðamöguleika sína.

Ef tillögur hinnar bindindissinnuðu nefndar yrðu að veruleika, mundi verksvið ýmissa ólöglegra athafna margfaldast svo hér á landi, að mafíur og aðrir alþjóðlegir glæpahringir mundu fá aukinn áhuga á Íslandi. Mafían náði sér einmitt á strik í Bandaríkjunum á bannárunum.

Ekkert er við það að athuga, að góðviljað fólk láti að sér kveða. En raunveruleikinn vill oftast og raunar nærri alltaf verða annar en draumsýnin gerði ráð fyrir. Þess vegna er stjórnvöldum ekki ráðlegt að taka mark á sérdeilis nærsýnum tillögum af því tagi.

Jónas Kristjánsson

DV