Author Archive

Hjól lýðræðisins snúast

Greinar

Blöðin eru aftur komin út eftir langt hlé, full af margvíslegum upplýsingum og sjónarmiðum. Margir munu vera fegnir komu þeirra, því að Íslendingar eru þjóða duglegastir blaðalesendur. Sennilega eru dagblöð hvergi í heiminum eins mikilvægur þáttur í lífi fólks og einmitt hér.

Þegar saman fer blaða- og útvarpsleysi, er eins og myrkur færist yfir þjóðfélagið. Menn reyndu að lýsa inn í þetta myrkur með litlum, fjölrituðum fréttablöðum og útvarpsstöðvum, sem spruttu upp víða um landið, en voru síðan stöðvaðar að undirlagi stjórnvalda.

Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra og Jón Helgason dómsmálaráðherra settu í gang Þórð Björnsson ríkissaksóknara og Hallvarð Einvarðsson rannsóknarlögreglustjóra. Þessir fjórir framsóknarmenn létu leggja hald á senditækin “í þágu rannsóknarinnar”.

Í þessu fólst ekki upptaka á tækjunum, enda hefur enginn úrskurður verið kveðinn upp um, hvort stöðvar þessar væru “ólöglegar”. Það er aðeins fréttastofa Ríkisútvarpsins, sem kveðið hefur upp slíkan úrskurð án dóms og laga, þvert ofan í eðlilegar starfsreglur.

Hinn tímabundni útvarpsrekstur einstaklinga varð strax mjög vinsæll. Skoðanakönnun, sem birt verður hér í blaðinu á morgun, leiddi í ljós, að þrír fjórðu hlutar þjóðarinnar voru ánægðir með stöðvarnar og að tveir þriðju hlutar hennar töldu, að ekki hefði átt að loka þeim.

Rekstur þessara útvarpsstöðva varð einnig til þess, að opnað var fyrir tvo helztu fréttatíma Ríkisútvarpsins. Þeir fréttatímar hafa komið að töluverðu gagni, þótt fréttamenn hafi greinilega verið mjög vilhallir í fréttaflutningi af málum, sem komu þeim við.

Þetta kom ekki aðeins í ljós í orðavali þeirra í fréttum af málum annarra útvarpsstöðva, sem voru í samkeppni við þeirra útvarp. Þetta kom líka greinilega fram í fréttavali og fréttameðferð í sambandi við vinnudeilurnar, enda eru fréttamenn aðilar að verkfalli BSRB.

Nú hefur þessi einokun blessunarlega verið rofin af dagblöðunum. Lesendur þurfa ekki lengur að gera sér að góðu hlutdrægni fréttastofu Ríkisútvarpsins og hinar mjög svo vanstilltu BSRB-fréttir, sem voru skrifaðar í heiftúðugum stíl Völkischer Beobachter.

Ýmislegt hefur lærzt í löngu dagblaðaleysi. Eitt er, að dagblöðin þurfa betri aðgang að stórvirkari fjölritunartækjum til að verjast tíðum vinnudeilum í pentiðnaðinum. Hinar fjölrituðu DV-fréttir voru merki þess, sem koma skal í slíkum vinnudeilum í framtíðinni.

Annað merkilegt, sem kom í ljós, var, að ýmsir aðilar áttu furðu auðvelt með að koma í skyndingu á fót faglega unninni útvarpsdagskrá og höfðu vald á tækni til að koma henni til eyrna meirihluta þjóðarinnar. Getan er til, ef þingflokkur Framsóknar leyfir.

Ef til væru fleiri útvarpsstöðvar en ríkisins eins, mundi flæði upplýsinga verða mun meira og öruggara en verið hefur, auk þess sem ósennilegt hlyti að teljast, að allar þær mundu stöðvast í vinnudeilum. Í því hlýtur að felast mikið öryggi fyrir fólkið í landinu.

En nú eru dagblöðin alténd aftur komin í hendur fólks. Aftur er völ á fleiri og fjölbreyttari fréttum en hægt er að koma við í útvarpi. Aftur er kostur á margvíslegum skoðanaskiptum í kjallaragreinum og í öðru formi blaðanna. Hjól lýðræðisins eru aftur farin að snúast á eðlilegan hátt.

Jónas Kristjánsson

DV

Of lágt orkuverð.

Greinar

Nýjasti álsamningur íslenzkra stjórnvalda við Alusuisse um orkuverð og önnur mál Ísals er ekki hrifningarefni. Það bezta, sem um hann er hægt að segja, er, að hann er samningur. Sem slíkur bindur hann enda á margra ára deilu og veitir vinnufrið næstu fimm árin.

Hitt jákvæða atriðið í samningnum er, að sættir tókust um þau atriði, sem sett höfðu verið í gerðardóm. Ísal mun greiða ríkissjóði um 100 milljónir króna og viðurkenna þannig óbeint gamlar syndir. Þetta er um þriðjungur af því, sem íslenzk stjórnvöld höfðu krafizt.

Margir hafa gagnrýnt þetta og sagt eðlilegast, að látið yrði í gerðardómi reyna til fulls á hinar íslenzku bakkröfur. Hitt er þó líklegra, að í samstarfi sé betra að ná samkomulagi heldur en að láta sverfa til stáls. Það er lögmál, sem gildir á ótal sviðum.

Svarta og stóra atriðið í þessum nýja samningi er orkuverðið. Niðurstaðan hlýtur að valda verulegum vonbrigðum. Eftir mikið bjartsýnistal hinna íslenzku samningamanna allt þetta ár, bjuggust margir við hærri niðurstöðu en 13-14 eininga orkuverði.

Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra hefur sagt, að “við höfum ekki efni á að selja raforku mikið undir 17-18 mills”. Og raunar er þegar vitað, að orkuverð frá Blöndu og öðrum nýjum orkuverum verður ekki undir 20 verðeiningum. Þetta stingur í stúf við samninginn.

Að vísu er því haldið fram, að Búrfell sé gamalt orkuver á gömlu kostnaðarverði. En óneitanlega fer að verða eftirsjá í að hafa látið orkuna frá ódýrasta orkuveri landsins í hendur fyrirtæki, sem statt og stöðugt neitar að borga nálægt gangverði fyrir hana.

Í sumar var ánægja íslenzku fulltrúanna svo mikil, eins og hún kom fram í fjölmiðlum, að almennt var búizt við niðurstöðu, sem væri einhvers staðar á milli síðustu kröfu um 17 verðeiningar og síðasta boðs um 15 einingar. Þessar tölur hafa greinilega verið ímyndun ein.

Fjölmiðlar eru auðvitað ábyrgir fyrir flutningi talna á borð við þessar. Hins vegar gáfu raunar viðræður við samningamenn tilefni til að ætla, að ágreiningurinn lægi á þessu 15-17 verðeininga bili. Útkoman er hins vegar í raun ekki nema 13-14 verðeiningar.

Eftir að íslenzkir fulltrúar ríkisvaldsins hafa nokkrum sinnum farið halloka fyrir fulltrúum Alusuisse er ekki nema eðlilegt, að úti í bæ fari að gæta nokkurrar svartsýni um framtíðina. Spurt verður, hvort búast megi við einhverju viti í verðandi álsamningum.

Sérstaklega er er ástæða til að draga í efa, að Alusuisse sé einmitt rétti aðilinn til að semja við um frekari álframleiðslu hér á landi. Er bætandi á þá þjóðarsundrungu, sem þegar hefur hlotist af óbilgirni Svisslendinga í viðskiptum við enn óreynda Íslendinga?

Alvarlegast er, að áldeilan hefur verulega dregið úr áhuga með þjóðinni á stóriðju yfirleitt. Hún er ekki lengur umtalsverður þáttur í framtíðarsýn þjóðarinnar. Það er miður, því að stóriðja er gagnleg, þótt hún sé ekki allra meina bót, frekar en önnur starfsemi.

Af því að sjálft orkuverðið skiptir mestu máli í samningum við nýtt álver, hlýtur hinn nýi samningur að valda vonbrigðum. Búið er að gera hann og við hann verður staðið. En fráleitt er, að hann stuðli að frekari áliðju eða annarri stóriðju hér á landi. Í því máli verður þjóðin áfram sundruð.

Jónas Kristjánsson.

DV

Naust

Veitingar

Naustið er svo mikið listaverk, að húsfriða ætti innréttingarnar og setja á þjóðminjaskrá. Hvorki fyrr né síðar hefur tekizt að búa til annað eins andrúmsloft á opinberum samkomustað hér á landi. Þann árangur þarf að vernda.

Laga þarf nýju innréttingarnar

Breytingarnar, sem fylgt hafa stækkun veitingasalarins, hafa tekizt misjafnlega vel, þótt reynt hafi verið að fylgja hinum upprunalega stíl. Nýju básarnir, veggirnir og loftið líkjast nægilega því, sem fyrir var. En lausu stólarnir eru ekki hinir réttu Nausts-stólar. Og hvers vegna var ekki haldið tryggð við fiskabeinsmynztrið í parkettinu? Það er smekkleysi að skipta um stíl í miðju gólfi.

Einna mest uppáþrengjandi stílrofið er þó útskotið, sem hefur verið byggt, þar sem áður var einfaldur skenkur. Skárra hefði verið að láta það ekki ná upp í loft, svo að það liti áfram út eins og skenkur, en ekki eins og útihús. Með varfærni mætti laga þetta.

Hina nýju, hvítu postulínsfugla og ljósa veggdiska ætti að vera auðvelt að fjarlægja. Þeir koma eins og skrattinn úr sauðarleggnum. Hins vegar hefur grindverkið á miðju gólfi fallið vel að stílnum og unnið sér þegnrétt. Sömuleiðis þurrkuðu blómaskreytingarnar yfir grindverkinu. Vandræði loftlugtanna mætti leysa með því að hafa hinar gömlu á stjórnborða og hinar nýju á bakborða, í stað þess að skipta við parkett-stílrofið.

Ódýrara í hádeginu

Naustið er eitt fínu og dýru veitingahúsanna í Reykjavík. Þjónustan er góð, í hefðbundnum stíl. Pappírsþurrkur hafa ekki haldið innreið sína í hádeginu. Vínlistinn er vel valinn, hefur að geyma flest nauðsynlegustu vín, þótt stuttur sé. Hinn fasti matseðill er afar hefðbundinn og miðast við, að fastagestir panti sér þær steikur, sem þeir hafa alltaf pantað sér.

Í hádeginu gefst svo kostur á seðli dagsins, þar sem fiskréttir fá að blómstra, ekki bara lúða og skarkoli, heldur líka skötuselur og karfi. Þá er einnig boðið upp á hálfa skammta, sem gera bisness-lönsinn ódýran þeim, sem ekki hafa mikla lyst á þeim tíma dags.

Karríristaður skötuselur með ristuðum ananas- og eplaskífum, soðnum kartöflum og karrísósu á seðli dagsins var fyrirtaks matur, hæfilega lítið soðinn og hélt hráefnisbragði, þótt karrí sé bragðsterkt krydd.

Sítrónusoðin rauðsprettuflök með soðnum kartöflum og bráðnu smjöri, einnig á seðli dagsins, voru hins vegar beinlínis bragðvond, sennilega ekki nógu ný. Og kartöflurnar voru lakari en hinar, sem fylgdu skötuselnum, hafa sennilega verið hálftíma lengur í pottinum.

Með þessum réttum fylgdi mjög gott hrásalat, sem fólst aðallega í baunaspírum og ísbergi, vættu í olíu, með smávegis af tómatbitum og gulri papriku í bland. Þetta var dæmi um, að einfalt hrásalat er oft bezt.

Sumt fer ei saman

Ofnbakaður graflax með eggjasósu og ristuðu brauði var frekar lítið grafinn og hafði lítið dillbragð, en stór dillkvistur fylgdi með. Ostþakið var yfirgnæfandi, en ágætt bragð var að laxinum, þegar þakið hafði verið skafið brott.

Ristaður hörpuskelfiskur með hvítlauk og tómat var meyr og fínn út af fyrir sig. Ennfremur var tómatmaukið með papriku og lauk gott á bragðið, en of bragðmikið fyrir hörpuskelfiskinn, svo að borða varð réttinn í tvennu lagi.

Hrásalatið með aðalréttunum í þetta sinnið var ekki eins gott og það, sem áður var lýst. Sérstaklega spillti hið mikla magn af amerískri sósu, sem útilokað var að forðast.

Eldsteikt, sinnepsgljáð nautafillet-steik var ágæt, en ekki sérlega bragðmikil. Sinnepið var þó hæfilega vægt. Með steikinni var borið nokkuð mikið soðið brokkál og linur, bakaður tómatur, bökuð kartafla, þurrkaðir sveppir og ágæt rjómasósa með votti af villibráðarbragði.

Lambapiparsteik með ristuðum sveppum og rjómapiparsósu var sérstaklega góð og bragðmikil. Henni fylgdi nokkurn veginn sama, staðlaða meðlætið og nautinu, þar á meðal sama villibráðarsósan.

Bláber og skyr bezt

Vanilluís með súkkulaðispónum og Cointreau-líkjör var mjög góður. Enn betri var bláberjasorbet með skyri, frumlegasti réttur matseðilsins, með sérlega bragðljúfu skyri og ferskum, íslenzkum bláberjum, eiginlega hápunktur máltíðarinnar. Gott kaffi var borið fram með konfektmolum.

Flest nöfnin á matseðlinum eru gamalkunnug, svo sem reyktur lax, rækjukokkteill, frönsk lauksúpa, beikonvafinn skötuselur, grillaðir humarhalar, sjávarréttadiskur, ensk buffsteik, mokkaís, djúpsteiktur camembert og fleira þess háttar, sem er á meira en öðrum hverjum matseðli borgarinnar.

Í hádeginu er miðjuverð súpu og aðalréttar af seðli dagsins 335 krónur og aðeins 275 krónur, ef tekinn er hálfur skammtur af aðalréttinum. Á fastaseðli er verðið annað. Miðjuverð forrétta er þar 320 krónur, súpa 140 krónur, fiskrétta 390 krónur, kjötrétta 580 krónur og eftirrétta 160 krónur. Þriggja rétta veizla af því tagi með hálfri flösku af víni á mann og kaffi ætti að kosta um 1070 krónur á mann, sem er í dýrasta verðflokki, meira að segja heldur dýrara en hafði verið í Kvosinni.

Naustið þarf að lagfæra nýju innréttingarnar og setja meira fjör í matseðilinn. Í eldhúsinu er margt ágætlega gert, svo að reikna má með, að það geti staðið undir meira hugmyndaflugi en kemur fram á seðlinum, alveg eins og farið er að gerast á öðrum veitingahúsum í sama klassa.

Jónas Kristjánsson

DV

Erfið lækning

Greinar

Um þessar mundir er íslenzka þjóðfélagið eins og áfengissjúklingur í þurrkví. Hinar efnahagslegu björgunaraðgerðir stjórnvalda reyna mjög á þolrifin í mönnum. Og enn er ekki séð fyrir enda lækningarinnar, því að freistingarnar sækja hart að þeim aðilum, sem hafa aðstöðu til að spilla fyrir afturbatanum.

Hinir erfiðu dagar læknisaðgerðanna eru rétt að byrja. Gengið hefur verið lækkað. Og söluskattur og benzínverð er um það bil að hækka. Ýmsar aðrar nauðsynlegar læknisaðgerðir bíða fram yfir viðræður ríkisstjórnarinnar við aðila vinnumarkaðsins um ástand sjúklingsins.

Endurreisnin er sársaukafull, þegar þjóðin hefur lifað um efni fram og allir sjóðir orðnir tómir og stórskuldugir að auki. Þessi endurreisn kemur niður á lífskjörum hvers einasta Íslendings. Þetta erfiða ástand á enn eftir að versna, áður en það byrjar að batna aftur.

Lækningin er þungbær og á eftir að verða enn þungbærari. En hún er skárri kostur en stöðvun mikilvægra greina atvinnulífsins og víðtækt atvinnuleysi, sem hvort tveggja var í uppsiglingu, þegar lækningin hófst. Það er betra að horfast í augu við sársaukafullan raunveruleikann en fljóta sofandi að feigðarósi.

Einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir þjóðfélagsins hafa misjafna aðstöðu til að bera byrðar lækningarinnar. Þess vegna hefur ríkisstjórnin ákveðið að létta láglaunafólki og lífeyrisþegum þessar byrðar. Eru nú hafnar viðræður hennar við aðila vinnumarkaðsins um, hvernig þetta megi gerast.

Vinnufriður er ennþá ótryggur, svo að enn er ekki hægt að spá, hvort lækningin tekst. En verði friður, má gera ráð fyrir, að ástandið fari fljótlega að batna. Atvinnulífið fer þá fljótlega að styrkjast og lífskjörin byrja að batna á nýjan leik strax í kjölfarið.

Þannig er unnt að kæfa kreppuna í fæðingunni, ef þjóðin hefur þol til að taka á sig tímabundnar byrðar. En það er vissulega ekkert gamanmál fyrir fólk að sjá allt verðlag vöru og þjónustu hækka án þess að fá það bætt í auknum tekjum. Þess vegna mun reyna mjög á þolrif þjóðarinnar næstu vikur og mánuði.

Efnahagssérfræðingar fyrrverandi og núverandi ríkisstjórnar eru sammála um sjúkdómsgreininguna og læknisráðin. Leiðtogar stjórnmálanna, hvar í flokki sem þeir standa, hafa áttað sig á ástandinu. Það sést bezt af því, að vinstri flokkarnir höfðu í sínum viðræðum um stjórnarmyndun fallizt á nokkurn veginn sömu læknisráð og nú er verið að beita.

Við eigum því að sameinast um að láta lækninguna takast, þrátt fyrir allar freistingar. Með endurreisn efnahagslífsins leggjum við grundvöll að nýrri sókn til öryggis og auðlegðar í framtíðinni.

Þótt efnahagslífið sé sjúkt um þessar mundir, er það að eðlisfari heilsugott. Það hefur áður komizt í hann krappan, en jafnan rétt við aftur, stundum á löngum tíma og stundum á skömmum tíma. Í þetta sinn benda flest sólarmerki til þess, að batinn geti orðið skjótur.

Jónas Kristjánsson

DV

Kúfur á fjórþættu böli.

Greinar

Tillögur formanna stjórnarflokkanna ná afar skammt í málum hins hefðbundna landbúnaðar. Endurbæturnar stefna eingöngu að afnámi útflutningsbóta og það á löngum tíma. Þær eru að vísu grófasti hluti landbúnaðarbölsins, en samt ekki nema lítill hluti þess alls.

Ríkið hefur einkum ferns konar afskipti af landbúnaði umfram aðra atvinnuvegi. Í fyrsta lagi bannar það innflutning á afurðum, sem gætu keppt við hinn hefðbundna landbúnað . Í öðru lagi styrkir það hinn hefðbundna landbúnað til aukinna umsvifa í fjárfestingu og rekstri.

Í þriðja lagi greiðir ríkið niður notkun innanlands á afurðum hins hefðbundna landbúnaðar. Raunverulegur markaður er ekki til fyrir allar hinar dýru afurðir, en í staðinn býr ríkið til markað með niðurgreiðslum. Þær eru dýrasti hluti hins spillta kerfis.

Að svo miklu leyti sem þriðja leiðin nægir ekki til að eyða kjötfjöllum, smjörfjöllum og öðrum slíkum fjöllum, hefur ríkið beitt útflutningsbótum sem fjórðu leið til að losna við afurðir, sem eru svo dýrar, að þær eru ekki seljanlegar á neinum markaði.

Útflutningsbæturnar eru því aðeins kúfurinn á fjórþættu þjóðarböli, sem felst samanlagt í innflutningsbanni, styrkjum til framkvæmda og rekstrar, niðurgreiðslum og útflutningsbótum. Brottfall þeirra er betra en ekki neitt, þótt það feli ekki í sér stórt skref.

Samkvæmt tillögum formanna stjórnarflokkanna eiga samtök og stofnanir landbúnaðarins að fá völd til að beita kvótakerfi og búmarki til að eyða útflutningsbótaþörf mjólkurafurða á tveimur árum og kjöts á fjórum til fimm árum. Það þyngir nú skap þingmanna Framsóknar.

Á aðalfundi Stéttarsambands bænda var fallizt á vinnubrögð af þessu tagi. Ekki er þó þjóðfélagið sloppið fyrir horn. Stéttarsambandið vill koma upp kvótakerfi og búmarki í þeim greinum landbúnaðar, sem eru utan hins fjórverndaða, hefðbundna hluta.

Ef það tækist, mundi Stéttarsambandið skera niður framleiðslu eggja, kjúklinga og svínakjöts í von um að búa á þann hátt til aukinn ímyndunarmarkað fyrir niðurgreiddu vörurnar, kjöt og mjólkurvörur. Það kvartar þegar um, að hliðarbúgreinarnar taki frá hinum hefðbundnu.

Liður í því kvótakerfi sem öðrum yrði búmark, er einkum yrði notað gegn stóru framleiðendunum, sem hafa verksmiðjusnið á rekstrinum og halda niðri verði til neytenda. Stærð búa yrði takmörkuð við svokallaða fjölskyldustærð, sem Stéttarsambandið vill koma á.

Þá lýsa samþykktir Stéttarsambandsins einnig áhuga á að loka bændastéttinni til að útiloka þéttbýlismenn frá hliðarbúgreinum, þar á meðal ræktun á loðdýrum og laxi. Stofnun Íseggs er liður í tilraunum til að flytja einokunarkerfið yfir í hliðarbúgreinar.

Hagsmunasamtök landbúnaðarins telja ekki nóg, að fyrsta leið, innflutningsbann, ríki í hliðarbúgreinum. Kjarnfóðursjóðurinn er nýtt dæmi um, að þau vilja koma þar upp sams konar kerfi styrkja til framkvæmda og rekstrar og ríkir í hinum hefðbundna landbúnaði, – leið númer tvö.

Síðan verður reynt við þriðju leiðina, niðurgreiðslurnar. Þing Stéttarsambandsins byrjaði á því að heimta niðurgreiðslur á kartöflur. Lokastigið verður svo tilkoma fjórðu leiðarinnar, útflutningsbóta í öllum greinum landbúnaðar, ekki bara í þeim, sem eiga að njóta þeirra næstu tvö-fimm árin.

Jónas Kristjánsson.

DV

Harðsóttir útlendingar.

Greinar

Við förum halloka í erlendum samskiptum okkar um þessar mundir. Eftir nokkra daga er ráðgert að bíða enn einn ósigurinn fyrir Svisslendingum í viðræðum um orkuverð og önnur kjör álversins í Straumsvík. Og nágrannar reynast okkur nokkuð ódælir í málum Jan Mayen.

Nú síðast gerði Jónatan Motzfeldt, formaður grænlenzku landsstjórnarinnar eða eins konar forsætisráðherra Grænlands, góðlátlegt grín í blaðaviðtali að sjónarmiðum okkar út af loðnunni, sem við vorum búnir að slá eign okkar á að mestu leyti eða 85%.

Motzfeldt sagði, að úr því að við hefðum fengið 200 mílur í átt til Jan Mayen, ættum við ekki að amast við, að Grænlendingar fengju slíkt hið sama. En það er einmitt samkomulag Norðmanna og Íslendinga, að Grænland hafi að þessu leyti minni rétt en Ísland.

Samkomulagið byggist á, að byggð strönd hafi meiri rétt en óbyggð. Þannig hafi strönd Íslands óskertan 200 mílna rétt í átt til óbyggðrar strandar Jan Mayen, en miðlína gildi aftur á móti milli óbyggðra stranda Jan Mayen og Grænlands. Þessu eru Grænlendingar ósammála.

Motzfeldt vísaði til þess, að loðnan hefði sundfæri og færi víða um hafið. Þess vegna væri merkilegt, ef Íslendingar héldu því fram, að þeir ættu einkarátt á 85% af loðnustofninum, sem meðal annars lifði og nærðist innan grænlenzkrar efnahagslögsögu.

Þá hefur reynzt minna haldreipi í bandalagi okkar við Norðmenn en ætlað var í upphafi. Þeir hafa nýlega gert munnlegan samning við Dani um veiðar úr loðnustofninum, en segjast ekki finna nein skrifleg gögn um slíkan samning. Þeir yppta bara öxlum.

Samkomulag Norðmanna og Dana hefur þær afleiðingar, að norsku veiðiskipin við Jan Mayen fá ekki að hafa nein afskipti af loðnuveiðum Dana og Færeyinga á hinu umdeilda svæði milli miðlínunnar og 200 mílna línunnar frá óbyggðri strönd Grænlands.

Í barnalegri trú á norræna samvinnu höfðum við uppi harmagrát út af aðild Færeyinga að málinu. Sögðum við það ójafna hegðun, að við leyfðum þeim veiðar í okkar lögsögu á meðan þeir hefðu með rangindum af okkur loðnu á umdeilda svæðinu við Jan Mayen.

Pauli Ellefsen, lögmaður eða eins konar forsætisráðherra Færeyja, var hinn kurteisasti og sagði Færeyinga ekki mundu biðja um stærri kvóta hjá Efnahagsbandalaginu en þeir hefðu þegar aflað við Jan Mayen. Við ættum því ekkert að vera að æsa okkur upp að óþörfu.

Hann segist svo bara ekkert geta við því gert, að færeyskir einkaaðilar geri sérsamninga við Konunglegu Grænlandsverzlunina um veiðar í grænlenzkri landhelgi. Hann ypptir bara öxlum eins og Norðmenn og brosir að okkur á bak eins og Motzfeldt og Norðmenn.

Ekki verður annað séð en íslenzka utanríkisþjónustan hafi komið fram af fullri einurð í hinum flóknu réttindamálum Jan Mayen-svæðisins. En atburðir síðustu vikna sýna greinilega, að nauðsynlegt er að gæta fiskveiðihagsmuna okkar af mikilli festu.

Slík festa virðist ekki vera til í viðræðum okkar manna við Alusuisse. Þeir virðast vera að semja um 14-15 eininga orkuverð og brottfall ýmissa klögumála okkar. Sú niðurstaða er gersamlega ófullnægjandi og gefur frekari áldraumum ekki byr undir báða vængi.

Jónas Kristjánsson

DV

Sigurhátíð.

Greinar

Sigurhátíð var um helgina á Laugarvatni, þegar Stéttarsamband bænda minntist 40 ára afmælisins. Stjórnendur landbúnaðarins glöddust yfir atburðum ársins, sem treysta þá í sessi og tryggja, að straumar fjármagns um hendur þeirra verða heldur stríðari en áður var.

Alþingi setti um þetta lög í sumar. Þau lög túlkaði ráðherra síðan snarlega með reglugerðum og samningum við stjórnendur landbúnaðarins. Eftir þessa sumargleði opinberra ákvarðana er ástæða til að reikna með, að landbúnaðurinn verði ekki léttari byrði en áður.

Hingað til voru aðeins hefðbundnu búgreinarnar baggi á skattgreiðendum. Framleiðsluráð hefur fengið að ofskipuleggja offramboð á afurðum sauðfjár- og nautgripabúskapar. Nú fær það líka að leika sér að afurðum alifugla- og svínabúskapar, sennilega með sama árangri.

Kjarnfóðursjóður hefur verið festur í sessi. Með honum fá stjórnendur landbúnaðarins tækifæri til að taka fé hér og þar út úr landbúnaðinum og skammta því eða úthluta síðan á aðra staði. Það er einmitt þetta hlutverk skömmtunarstjóra, sem valdamenn sækjast oft eftir.

Þriðja mikilvæga atriðið er, að skattgreiðendur eiga ekki að fá að njóta samdráttar í útflutningsbótum. Hægfara minnkun þeirra fylgir hliðstæð aukning á greiðslum skattgreiðenda í sjóð, sem aðallega kaupir af bændum svokallað búmark eða rétt þeirra til kinda og kúa.

Um þessa niðurstöðu er engin þjóðarsátt. Um hana er ekki einu sinni sátt í Framsóknarflokknum. Hún er ekki að vilja þeirra, sem vilja óbreyttar niðurgreiðslur, uppbætur og styrki, – sem telja skattgreiðendum skylt að halda uppi hefðbundnum búskap með óbreyttum hætti.

Hún er ekki heldur að vilja framsóknarmanna í þéttbýli og við sjávarsíðuna, sem vita, að flokkur þeirra stendur þar afar höllum fæti. Það mun áfram jafngilda sjálfspyndingahvöt hjá skattgreiðendum á þeim slóðum að kasta atkvæðinu á svo eindreginn landbúnaðarflokk.

Hinn pólitíski armur stjórnenda landbúnaðarins, með hinn öfluga Jón Helgason ráðherra í broddi fylkingar, þarf hins vegar ekki að hafa svo miklar áhyggjur af þessu. Kjósendur við sjávarsíðuna og í þéttbýlinu hafa nefnilega ekki í svo mörg pólitísk skjól að venda.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur dyggilega stutt stefnu Jóns Helgasonar og stjórnendaliðs landbúnaðarins. Hann barðist meira að segja fyrir því á lokadögum Alþingis í sumar, að mál þetta yrði knúið í gegn með ótrúlegum hraða. Hann er nákvæmlega jafn ábyrgur.

Stærsti þingflokkur stjórnarandstöðunnar, Alþýðubandalagið, er ekki líklegt til að vera andvígt afturhaldi af þessu tagi. Lög, reglugerðir og samningar sumarsins eru einmitt í anda ríkisrekstrar og Alþýðubandalagsins. Miklu líklegra væri, að það reyndi að yfirbjóða.

Þannig eru skattgreiðendur þéttbýlis og sjávarsíðu fangar stefnu stjórnenda landbúnaðarins og verða svo enn um sinn. Sú stefna, að ríkisvaldið eigi ekki að hafa meiri afskipti af landbúnaði en öðrum framleiðslugreinum, hefur að sinni litla möguleika á vettvangi stjórnmálanna.

Afnám útflutningsuppbóta, niðurgreiðslna, beinna styrkja og innflutningsbanns í landbúnaði er ekki í sjónmáli. Miðstýring stjórnenda landbúnaðarins er í sókn. Fjárhagsleg völd þeirra hafa verið aukin. Það var því full ástæða til sigurhátíðar að Laugarvatni um helgina.

Jónas Kristjánsson

DV

“Annarlegar hvatir”.

Greinar

Fjölmiðlamenn eru afar sjaldan staðnir að ærumeiðingum. Þeir eru atvinnumenn og kunna yfirleitt að haga orðum sínum innan ramma velsæmis. Annars yrði þeim ólíft í starfi. Þetta á jafnt við um þá, sem skrifa fréttir, og hina, sem láta frá sér fara skoðanir af ýmsu tagi.

Undantekninga hefur helzt gætt í blöðum eins og Þjóðviljanum. Það gerist, þegar skammhlaup verður milli pólitískra hugsjóna annars vegar og fjölmiðlunar hins vegar. Hinir áköfustu gæta ekki að sér og fjalla um pólitíska andstæðinga á þann hátt, að betur væri ósagt.

Hættan á ærumeiðingum í fjölmiðlum er að öðru leyti ekki hjá atvinnumönnunum, heldur hinum, sem hitnar í hamsi úti í bæ og senda blöðunum greinar til birtingar. Saka má fjölmiðlana um að vera of væga í fyrirstöðunni gegn slíkum greinum og hleypa þannig ýmsu ófögru í gegn.

Þetta er gert í anda lýðræðis. Blöð vilja ógjarna verða sökuð um að standa í vegi fyrir, að skoðanir komist á framfæri. En þau mættu líklega gera meira að því að benda höfundum á, að farsælast sé að sofa á málinu og láta ekki frá sér fara efni fyrr en æsingur hefur hjaðnað.

Í fyrravetur flutti formaður Lögmannafélags Íslands erindi, sem hann kallaði “kreppu í réttarfari”. Þar gagnrýndi hann seinagang og óvíst réttaröryggi hjá Hæstarétti. Hér í blaðinu voru þessar skoðanir formannsins gerðar að skoðun í leiðara, þar sem hvatt var til úrbóta.

Sami formaður lét nýlega hafa eftir sér í blaðaviðtali, að dómstólar geti “aldrei átt frumkvæði að því að ráðskast með fjölmiðla …”. Var þetta innlegg í deilur um yfirlýsingar forseta Hæstaréttar um meiðyrði í fjölmiðlum. Í leiðaranum var stuðst við þessa skoðun.

Síðan bregður svo við, að hér birtist frekar vanstillt grein formannsins, þar sem hann birtist gerbreyttur og stráir um sig yfirlýsingum um “annarlegar hvatir”, “þvætting” og “siðleysi” leiðarahöfundar. Hann gengur svo langt að kalla “þvætting”, að hann sjálfur hafi nokkurn tíma gagnrýnt Hæstarétt!

Greinin var skrifuð, áður en hún var hugsuð. Ef svo væri einnig í þessum leiðara, yrði spurt, hvort formaðurinn þyrði ekki að standa við þær skoðanir sínar, sem eru andstæðar skoðunum forseta Hæstaréttar, – þegar hann þarf að flytja mál fyrir dómstólnum.

En það er ekki gert, af því að ljóst er, að formaðurinn lenti bara í ógöngum í hita augnabliksins eins og svo margir gera, þegar þeir skrifa greinar. Sérstaklega er áberandi, að ásakanir um “annarlegar hvatir” eru í tízku hjá þeim, sem stinga niður penna við slíkar aðstæður.

Um svipað leyti sagði annálaður geðprýðisbóndi í grein hér í blaðinu, að gagnrýni á Framleiðsluráð landbúnaðarins væri óréttmæt og “byggð á annarlegum hvötum”. Annar geðprýðismaður sakaði annan ritstjóra Morgunblaðsins um að hafa brosað á benzínstöð, eins og það væri eitthvert málsefni.

Síðan festast menn í því, sem þeir skrifa í ógáti. Ekki alls fyrir löngu sakaði kunnur rithöfundur þetta blað um ákveðnar skoðanir á málum Mið-Ameríku. Þegar honum var sýnt, að blaðið hafði í raun haft alveg þveröfugar skoðanir, vildi hann ómögulega gefast upp.

Hann sagði á prenti, að þetta skipti ekki máli, af því að annars staðar í blaðinu hefðu birtzt skoðanir, sem almennt væru fasistískar. Þannig leiðir hvað af öðru í ógöngum, sem hefjast í vanhugsuðum fullyrðingum um “annarlegar hvatir” atvinnumanna fjölmiðlanna.

Jónas Kristjánsson

DV

Brauðbær

Veitingar

Langt er síðan Brauðbær var smurbrauðsstofa. Árnum saman hefur hann verið alvöru veitingahús, traustur matstaður með miðlungsverð og rúmlega miðlungsgæði. Og nú lætur hann ekki lengur nægja hálfa þjónustu, það er að segja pöntun við diskinn, heldur fulla þjónustu. Og sú þjónusta er mjög góð.

Einnig er Brauðbær í þann veginn að fá nýtt aðdráttarafl. Þórsgatan er eftir tveggja ára ringulreið að breytast í göngugötu eða vistgötu eins og það heitir á sparimáli. Og um leið er verið að leggja síðustu hönd á glerskála Brauðbæjar, þar sem matar- og kaffigestir eiga að geta notið vistgötunnar án þess að hætta sér út í veðráttuna. Segja má, að þar sé von í fyrsta nothæfa gangstéttarkaffihúsi landsins.

Vinalegt og léttúðugt

Að innan hefur Brauðbær verið gerður upp. Hann er ólíkt smekklegri en áður var, enda mun opnari. Ljósir veggir fara vel við dökkar veggsúlur og bita. En miðsúlan er hálfgerður furðugripur. Skemmtilegastar eru veggskreytingarnar, sumar hverjar hálfgerðar fornminjar, saumavél, rokkur, skúffuskápur úr eldhúsi og gamall, grænn stofuskápur, sem hýsir fornlegt símtól fyrir gesti. Einnig eru þar teikningar, forsíður gamalla dagblaða og matseðlar.

Þótt þetta sé úr ýmsum áttum, verður ekki úr neitt kraðak. Dótið gefur Brauðbæ vinalegt og léttúðugt yfirbragð, sem dregur athyglina frá hversdagslegum stólunum og þrengslunum í básunum. Borðplöturnar sjálfar eru úr fallega massífum viði og bera korkplötur undir diska. Munnþurrkurnar eru því miður litlar pappírsþurrkur jafnt að kvöldi sem í hádegi.

Að útliti er vínlisti Brauðbæjar skemmtilegur. Þar eru límdir inn sjálfir flöskumiðarnir. Hins vegar er innihaldið öllu lakara. Þar er ekkert hvítvín, sem ég mundi drekka ótilneyddur. Hins vegar er þar eitt drykkjarhæft rauðvín, en afar dýrt. Utan vínlista er þó hægt að fá tvö ágæt rauðvín, en ekki slík hvítvín. Enda má ef til vill segja, að rauðvín hæfi betur veitingahúsi, sem leggur áherzlu á grillsteikur, en litla á fiskrétti.

Innifalið í verði máltíðar er aðgangur að salatborði, sem lætur ekki mikið yfir sér og virðist ekki merkilegt við fyrstu sýn. Þar leynast þó sautján tegundir, sem yfirleitt bragðast vel. Þar eru til dæmis ferskir sveppir, hrátt blómkál og rauðkál og olífur, sýrð gúrka, sýrður perlulaukur og sýrt mangó, auk ýmissa hversdagslegri atriða. Þá eru þar þrenns konar heilkornsbrauð til að hafa með súpunni.

Hinn fasti matseðill í fínu möppunni er ekki tiltakanlega langur. Til viðbótar er svo bæði í hádeginu og á kvöldin tiltölulega langur seðill dagsins, krotaður á frístæðar trönur, sem bornar eru milli borða. Verðið þar er svipað og á fastaseðlinum, einnig í hádeginu, en súpa þó innifalin.

Sveppasúpa dagsins var lítt í frásögur færandi. Hins vegar var tær fiskisúpa Fuisse ágætis súpa með vægum anískeim og þar flutu í rækjur, kræklingur, lúða og laukur.

Reyktur Mývatnssilungur var fallegur, mjúkur og bragðgóður, þótt hann væri langt frá því að hafa hið hefðbundna, mývetnska saltreiðarbragð. Með honum var borin piparrótarblönduð kotasæla, grænkál og ristað brauð með smjöri.

Skemmtilegur kabarett

Kabarett er réttur, sem býður upp á sýnishorn af nokkrum forréttum fastaseðilsins, sitt lítið af hverju. Þar var góð, heimatilbúin kæfa með rifsberjasultu. Einnig ágætis graflax með karrí-sinneps-eggjasósu. Ennfremur sjávarréttasalat með rækjum og kræklingi. Og loks skemmtileg tilbreytni, hráar, koníaks-kryddlegnar nautalundir, meyrar, en bragðlitlar, bornar fram með ferskum sveppum kryddlegnum.

Skötusels-gúllas með karríhrísgrjónum og ristuðu hvítlauksbrauði var meyrt og ljúft, en skötuselurinn nokkuð bragðlítill, meðal annars af því að hann flaut í afar góðri vínsósu, sem var bragðsterk eins og karríið í hrísgrjónunum.

Heilsteikt rauðspretta Colbert með kryddsmjöri var mildilega elduð og bragðljúf, borin fram í heilu lagi eftir að hryggurinn hafði verið tekinn úr. Á fiskinum var gífurlega mikið magn af yfirgnæfandi kryddsmjöri, sem með lagi mátti skafa frá. Hvítu kartöflurnar voru hæfilega lítið soðnar.

Lambamedalíurnar hinar þykkri voru mátulega grillaðar, meyrar og safaríkar, en hinar þynnri voru hins vegar gráar og þurrar. Fersk hindber og rifsber í sósunni gerðu hinar betri medalíur ljómandi góðar á bragðið. Bökuð eplasneið og bökuð kartafla fylgdu þessum rétti.

Turnbautinn var hæfilega snöggt grillaður, rauður, meyr og bragðmikill, með sama góða grillbrennslukeimnum og lambakjötið fyrrnefnda. Með honum fylgdi hin hefðbundna, bakaða kartafla og svo alveg einstaklega ljúf og góð rauðvínssósa með alls engu hveiti. Húrra fyrir því.

Djöflatertan var í lagi og heita eplapæið mjög gott, hvort tveggja borið fram með þeyttum rjóma. Punkturinn yfir i-ið var svo eiginlega kaffið, sem var ljómandi gott í annað skiptið og alveg frábært í hitt, eins og laumað hefði verið útí hálfri teskeið af írsku viskíi.

Miðjuverð súpa í Brauðbæ er 83 krónur, forrétta 190 krónur, sjávarrétta 270 krónur, kjötrétta 395 krónur og eftirrétta 70 krónur. með 35 króna kaffi og hálfri flösku af Saint-Laurent á mann ætti þriggja rétta veizla að kosta að meðaltali 704 krónur. Súpa dagsins, salatborð og aðalréttur ætti að kosta að meðaltali 310 krónur. Sérstakir barnaréttir eru á um það bil 120 krónur og fæst ís í ábót, ef börnin klára af diskinum.

Metnaður í Brauðbæ

Brauðbær hefur verið og er enn frekar núna mjög góður fulltrúi grillhúsa. Sem dæmi um, að hann stefnir hærra en margir slíkir, má telja, að á matseðlinum er sitthvað óvenjulegt. Á stað eins og hjá Kokknum er hins vegar ekkert spennandi atriði á matseðlinum. Slíkan samanburð má oft hafa til marks um misjafnan metnað veitingastaða.

Jónas Kristjánsson

DV

70 króna þrælar.

Greinar

Þörungaverksmiðja var reist fyrir mörgum árum á Reykhólum til að vernda byggð í Austur-Barðastrandarsýslu. Rekinn var verkfræðingurinn, sem reiknaði út, að hún gæti ekki borið sig. Síðan hefur verksmiðjan verið starfrækt með harmkvælum og vafasömum bjargráðum.

Í stað þess að flytja á mölina eins og Íslendingar höfðu gert í sjö áratugi, var búseta heimamanna vernduð gegn svokallaðri “röskun” með því að láta þá hafa vinnu í hinni lánlausu verksmiðju. Þar vinnur nú fólk, sem hefur 70 krónur á tímann og kemst ekki hærra.

Þannig hafa heimamenn gengið í gildru byggðastefnunnar. Þeir hokra enn í sveitinni og skipta við kaupfélagið í Króksfjarðarnesi, þótt hagur þeirra væri nú mun betri ef þeir hefðu fylgt Íslandssögu þessarar aldar, flutt á mölina eins og þorri þjóðarinnar gerði.

Byggðagildran er ein umfangsmesta starfsemi og hin langdýrasta, sem rekin er hér á landi. Hún lýsir sér í ótal myndum, sem allar miða að því að hindra fólk í að flytja sig, þangað sem tækifærin eru. Öflugust og dýrust er gildran í hinum hefðbundna landbúnaði.

Ungir bændasynir eru studdir til að fjárfesta í gersamlega úreltum atvinnuvegi. Þeir eru látnir stofna til skulda í kaupfélaginu. Að meðaltali á fjögurra ára fresti lætur ríkið breyta þessum skuldum í föst lán, sem tryggja æviráðningu kaupfélagsþrælanna.

Sérstök búalög verið sett til að hindra bændur í að selja jarðir sínar á markaðsverði til að koma sér fyrir á mölinni. Slík lög stuðla að því að viðhalda veltu vinnslustöðva og sölufélaga landbúnaðarins og valdi hinna reykvísku yfirmanna landbúnaðarins.

Forstjórar Framleiðsluráðs og sjálfseignarstofnana þess, svo og Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda, halda uppi sérstökum kennisetningum um, að sveitir landsins séu eins konar byggðasafn eða þjóðkirkja, sem haldi uppi leifum íslenzkrar menningar.

Bændum er sagt, að það sé hugsjón að hokra áfram, þótt sú iðja kosti ríkissjóð einan jafngildi heillar tveggja milljón króna íbúðar yfir hvern einasta bónda á fimm ára fresti, íbúðar, sem auðvitað ætti að reisa á mölinni til að varðveita verðgildi fjárfestingarinnar.

Þeir, sem benda þrælum landbúnaðarkerfisins á þessa gildru, eru kallaðir óvinir bænda. Sérstakar samþykktir eru gerðar um að vara bændur við að lesa dagblöð, þar sem sannleikurinn kemur fram. Og flestir bændur trúa enn klæðskerasaumuðum forstjórum sínum í Reykjavík.

Auðvitað hefði þjóðin á síðustu áratugum átt að raska sér jafnhratt á mölina og hún gerði áratugina þar á undan. Hún hefði átt að flytja, þangað sem hiti, rafmagn og önnur þjónusta var ódýrust, þangað sem hafnir voru beztar og sókn á miðin ódýrust.

Allur sá þorri þjóðarinnar, sem býr á Reykjavíkursvæðinu og í hinum kraftmeiri hluta þéttbýlis í öðrum landshlutum, kannast ekki við, að röskun sín eða foreldranna hafi orðið til ills. Það liggur í eðli dugmikils menningarsamfélags að vera í sífelldri röskun.

Forstjórar stöðnunarinnar eru hins vegar enn að reyna að byggja verksmiðjur ofan á hinn hefðbundna landbúnað til að fólk geti unnið fyrir 70 krónur á tímann og safnað skuldum í kaupfélaginu, – í stað þess að ganga á vit frelsisins í stöðum á borð við Reykjavík.

Jónas Kristjánsson.

DV

Langrækni.

Greinar

Þór Vilhjálmsson, forseti Hæstaréttar, er of langrækinn. Hann man enn níðskrifin í Þjóðviljanum og víðar um aðstandendur undirskriftasöfnunar Varins lands. Honum finnst, að meiðyrðadómarnir í því máli hafi verið of vægir. Og hann er enn að tala um þetta.

Flestir geta verið sammála um, að skrif um Þór og félaga hans í Vörðu landi gengu út í öfgar. Þau voru rætin, enda voru þau dæmd dauð og ómerk. Þar með ætti það mál að vera úr sögunni. Og forseti Hæstaréttar ætti að hafa önnur áhyggjuefni en það.

Ef fólk væri beðið um að tjá sig um dómana vegna Varins lands, mundu svörin fara eftir skoðunum manna á veru Varnarliðsins hér á landi. Andstæðingar þess mundu segja dómana hafa verið of stranga, en stuðningsmennirnir mundu segja þá hafa verið of væga.

Í þessu næstsíðasta stóra máli af því tagi, sem Þór Vilhjálmsson hefur áhyggjur af, er mat manna á þyngd dóma stjórnmálalegs eðlis. Einstaklingar geta haft á þeim ýmsar skoðanir. En það er mjög einkennilegt, að forseti Hæstaréttar skuli hafa opinbera skoðun.

Allir þeir, sem stinga höfðinu út um gluggann í stjórnmálum landsins, geta átt von á kárínum, ekki sízt í viðkvæmum tilfinningamálum á borð við Varnarliðið. Menn verða að taka slíku með ró og minnast þess, að rógur lýsir rægjendum betur en hinum rægðu.

Til dæmis eru tæplega til þær illu hvatir, sem höfundur þessa leiðara hefur ekki verið sakaður um af hálfu forstjóra hins hefðbundna landbúnaðar og mestu siðleysingja Stórstúkunnar, svona samanlagt. Samt hefur æran ekki látið neitt á sjá í þeirri orrahríð.

Þegar forseti Hæstaréttar finnur sér ástæðu til að rægja íslenzka fjölmiðla að ástæðulausu í útlöndum, fara menn að skilja hinn undarlega dóm Hæstaréttar í síðasta stóra málinu af því tagi, sem Þór Vilhjálmsson hefur áhyggjur af, hinu svokallaða Spegilsmáli.

Fátt var í rauninni athugavert við hið dæmda tölublað Spegilsins nema hinn algeri skortur á fyndni í blaðinu. En forseti Hæstaréttar mun hafa tekið eitthvað af efninu til sín og fallið það þungt. Fáir aðrir sáu blett falla á æru hans eða annarra.

Íslenzkir fjölmiðlar eru ekki eins og Þór Vilhjálmsson lýsir þeim í útlöndum. Í engu nálægu landi eru blöðin eins tillitssöm og varfærin og þau eru hér á landi. Og forseta Hæstaréttar væri nær að hafa áhyggjur af vandamálum, sem standa honum nær.

Í fyrra féll dómur í Hæstarétti eftir þrjú ár frá þingfestingu í undirrétti. Skuldakrafan, sem staðfest var, hafði þá rýrnað í verðbólgunni niður í fjórðung af upphaflegu verðgildi. Það væri verðugt verkefni fyrir forseta Hæstaréttar að hindra slíkt í framtíðinni.

Um síðustu áramót biðu 130 einkamál og 5 opinber mál flutnings í Hæstarétti. Seinagangur dómstólsins er meiriháttar vandamál í réttarfari landsins. Formaður lögmannafélagsins hefur talið sig knúinn til að víta þetta á opinberum vettvangi.

Það sæmir ekki forseta Hæstaréttar að vera persónulega langrækinn út af Vörðu landi og Speglinum. Meiðyrði eru ekki þjóðfélagslegt vandamál á Íslandi, hvað sem Þór Vilhjálmsson segir í útlöndum. Vinnubrögð Hæstaréttar eru hins vegar verðugt tilefni leiðréttinga.

Jónas Kristjánsson

DV

Það bullsýður á kerfinu.

Greinar

Erlendar lausaskuldir bankanna og vanskil þeirra eða svokallaður yfirdráttur í Seðlabankanum hafa tvöfaldazt á aðeins þremur mánuðum og eru nú komin upp í 2,3-2,6 milljarða króna. Þeim, sem er orðnir ónæmir fyrir tölum, skal bent á, að þetta er rosaleg fjárhæð.

Bankastjórar landsins virðast upp til hópa ekki hafa stjórn á lánamarkaðinum. Þeir eru umsetnir fjárhungri atvinnuveganna og freistast til að veita miklu meiri lán en þeir geta í rauninni, jafnvel þótt slíkt kosti þungbæra refsivexti í Seðlabankanum.

Þetta jafnvægisleysi er ekki ný bóla, en hún er nú stærri en nokkru sinni fyrr. Til að komast framhjá aðhaldi Seðlabankans hafa stærstu bankarnir, með Landsbankann og Útvegsbankann í fararbroddi, tekið upp á að safna lausaskuldum í útlöndum til að seðja fjárhungrið.

Nú er verið að reyna að stífla þessa undankomuleið, enda geta bankarnir sett þjóðfélagið endanlega á höfuðið með gegndarlausri skuldasöfnun erlendis. Alkunnugt er, að ríkið hefur gert meira en nóg af slíku á undanförnum árum, þótt bankarnir bætist ekki við.

Mjög lítill hluti af undanlátsemi baukanna við þá, sem hrópa á lánsfé, fer í að bjarga illa stæðum einstaklingum, svo sem húsbyggjendum eða námsmönnum, eða fyrirtækjum, sem neitað er að viðurkenna, að komin séu á hausinn. Til dæmis eru aðeins 11% af útlánum Landsbankans til einstaklinga.

Hinn mikli þrýstingur, sem bankarnir fá ekki staðizt, kemur fyrst og fremst frá starfsemi, sem þarf að færa út kvíarnar og talin er geta staðið undir hinum háu og hækkandi vöxtum síðustu missera. Þannig er fjármagnsskortur stærri vandi en vaxtahæðin.

Við lesum daglega fréttir af þenslunni í þjóðfélaginu. Víða á Vestfjörðum vantar útlendinga í fiskvinnslu, þrátt fyrir kvótakerfið. Í auglýsingadálkum dagblaðanna er hrópað á fólk til vinnu. Á bak við þetta hlýtur að vera mikið af arðbærum verkefnum.

Á þessu ári eykst enn meðalstærð íbúða, sem lokið er og eru í byggingu. Og sóknin í lóðir er slík, að Reykjavík getur ekki annað eftirspurn, þótt úthlutað hafi þar verið 81 lóð meira en áætlað hafði verið. Margir umsækjenda hljóta að geta staðið undir fjármagnskostnaði.

Vöruinnflutningur og önnur gjaldeyrisnotkun hefur líka farið úr böndum. Í slíkt hafa verið notaðir peningar, sem ekki hefur verið unnt að seiða inn á lánamarkaðinn, þrátt fyrir hækkaða vexti. Og nú vilja sumir fá að kaupa gull í stað þess að nota sér vextina.

Samt eru til skottulæknar og að minnsta kosti heill stjórnmálaflokkur, Framsóknarflokkurinn, sem hvað eftir annað fárast út af of háum vöxtum, rétt eins og kaþólska kirkjan gerði hér af trúarástæðum á þjóðveldisöld, þegar raunvextir voru 10% og þóttu sjálfsagðir.

Háir og hækkandi vextir hljóta að vera virkasta leiðin til að draga úr hinni óheyrilegu umframeftirspurn eftir fjármagni og vinza brott hin síður arðbæru verkefni. Þeir eru mun betri en geðþóttaskömmtun af hálfu stjórnmálamanna í öllum framsóknarflokkunum.

Hinn rosalegi vöxtur lausaskulda bankanna er nýjasta og alvarlegasta aðvörunin um, að það bullsýður á kerfinu og að spennan undir niðri mun leita útrásar í verðbólgusprengingu, ef stjórnvöld ríkis og fjármagns megna ekki að snarminnka hungrið í lánsfé og seiða fram snaraukið sparifé.

Jónas Kristjánsson

DV

Torfan

Veitingar

Torfan er oft nefnd í sömu andrá og Lækjarbrekka, enda móðurstaður hennar. Matstofurnar eru næstum hlið við hlið í Bernhöftstorfunni. Munur þeirra er heldur ekki mikill. Torfan er heldur eðlilegar gömul, heldur dýrari og heldur betri sem veitingahús. Lækjarbrekka er að vísu góður staður, en Torfan er einn af hinum beztu.

Torfan er ekki eins skipulega innréttuð og Lækjarbrekka og um leið minna kuldaleg, þótt allir litir séu ljósir, ýmis gulleitir eða grænleitir. Leikmyndir og búningateikningar úr leikhúsum lífga veggina, sömuleiðis lifandi blóm á rúðóttum borðdúkunum. Í hádeginu eru pappírsþurrkur á borðum, en á kvöldin eru tauþurrkur og kertaljós. Allur borðbúnaður er hinn snyrtilegasti. Og í heild er Torfan afar notalegur matsölustaður.

Elskulegt við útlendinga

Leiðigjarnt er orðið að taka fram viku eftir viku, að þjónusta á veitingastað sé góð. Hún er nefnilega undantekningarlítið skóluð, fagleg og góð á íslenzkum matstöðum. Um Torfuna verður þó sérstaklega að taka fram, að hún er ekki bara góð, heldur beinlínis elskuleg, einnig við útlendinga, sem líklega hafa þó ekki tækifæri til að koma aftur.

Hlaðborðið í hádeginu er greinilega sniðið fyrir útlendinga, sem yfirgnæfa á staðnum á sumrin, ekki bara í hádeginu, heldur líka á kvöldin. Á þessu mestmegnis kalda borði eru yfir 20 réttir, aðallega sjávarréttir. Ber þar mest á mörgum tegundum girnilegrar síldar. Skemmtilegt var að sjá karfa innbakaðan í salti. Að öðru leyti freistaði borðið mín ekki, þótt það liti betur út en sum önnur slík hádegisboð íslenzkra veitingahúsa.

Hveitibrauðskollurnar með súpum Torfunnar reyndust vera nýjar og bragðgóðar, bornar fram með smjöri í álpappír Samsölunnar. Hrásalatið með aðalréttunum var einfalt og mjög gott, aðeins ísberg, paprika og tómatur. Í annað skiptið var það einfaldlega olíuvætt, en í hitt skiptið borið fram með þykkara viðbiti, sem örlítill karríkeimur var að.

Ferskt eða milt soðið

Annað meðlæti með aðalréttum var yfirleitt lítið og ferskt. Næstum ekkert af því var úr dósum og það fáa, sem var soðið, var mildilega soðið. Hins vegar var það nokkuð staðlað. Til dæmis birtist bökuð kartafla með sýrðum rjóma í föruneyti hvers réttarins á fætur öðrum, ekki bara kjötréttanna, heldur flestra fiskréttanna einnig.

Minestre-súpa hádegisins var tær, tómatlituð súpa með lauk, papriku, seljustöngli, gulrót, höm og spaghetti, óvenjulega góð. Humarsúpa kvöldsins var vel rjómuð með stórum og meyrum humarbitum, hinn fínasti matur. Grænmetisseyði garbanzo með tómati, sveppum, papriku og kjúklingabaunum var tær og góð súpa. Bezt var þó baunaspírusúpa manilla, sem einnig hafði að geyma sesamfræ og kjötbita.

Kæfa hússins var bragðsterk lifrarkæfa, ljómandi góð og hæfilega þétt, borin fram með sýrðum smágúrkum, alfa-alfa spírum, blaðsalati, rúgbrauði og smjöri. Brauðið þótti mér ekki gott.

Reyktur nautavöðvi með melónu var borinn fram með sama meðlæti og kæfan. Þetta er ein af ýmsum tilraunum íslenzkra matreiðslumanna til að meðhöndla ýmiss konar kjöt eins og parmaskinku. Og þetta var ein bezt heppnaða útgáfan. Kjötið var mjúkt og bragðgott.

Hörpufiskur á teini var meyr og hélt bragði, þrátt fyrir osthjúp. Með honum fylgdu hæfilega soðin hrísgrjón, sætsúr sósa góð og smjörbakað snittubrauð hvítlaukskryddað.

Skemmtilegt var að sjá guðlax á matseðli dagsins. Hann var glóðarsteiktur, borinn fram með steinseljusmjöri og hinu staðlaða grænmeti. Liturinn minnti mest á túnfisk og bragðið mest á stóra lúðu. Þetta er tilbreytni, en lúðan er betri.

Gufusoðnar rauðspretturúllur voru hæfilega lítið eldaðar og einkar bragðgóðar. Þær voru bornar fram í hjúpi smjörs og gráðosts, sem gaf skemmtilega tilbreytni í bragði. Með voru til dæmis ágætar rækjur og dósakræklingur, sem ekki fara af frekari sögur.

Reykbakaður herramannsmatur

Reykbökuð smálúða var sannkallaður herramannsmatur. Undir rauðri reykhúðinni var lúðan undurmilt soðin og svo bragðgóð, að hún skyggði á aðra ágæta rétti staðarins. Reykingin í elduninni hafði gefið hæfilega reyktan vott í bragðið, hvorki of mikinn né of lítinn.

Koníakslegnar lambalundir voru lakasti rétturinn, sem prófaður var. Þær voru ofeldaðar og næstum alveg gráar, enda fremur þurrar undir tönn. Með þeim var borið fram heilmikið af ferskum og góðum sveppum og sterk vínsósa í sérstakri skál.

Léttsteiktar lundabringur dagsseðilsins voru í sæmilegu meðallagi, bornar fram á kafi í sömu vínsósunni, en lyft upp af miklu magni ferskra og hressilegra rifsberja.

Turnbautinn var eins og gestir vona alltaf, að hann sé, stór og hrásteiktur og meyr. Sem betur fer var milt bragð að béarnaise-sósunni, sem matreiðslumenn telja eina koma til greina í þessum mat.

Ferskur ananas reyndist vera óþroskaður og bragðlaus, en Grand Marnier blandaður rjóminn, sem fylgdi með, var góður. Súkkulaðiís var með heilum súkkulaðibitum og ferskum og fínum jarðarberjum. Bezti eftirrétturinn var svo kiwi með þeyttum rjóma og ávaxtahlaupi, með beztu eftirréttum landsins.

Töluvert er af rusli á vínlista Torfunnar, en innan um er dálítið af drykkjarhæfu vínunum, sem margnefnd hafa verið í greinaflokki þessum.

Miðjuverð á forréttum Torfunnar er 220 krónur, súpum 90 krónur, sjávarréttum 302 krónur, kjötréttum 420 krónur og eftirréttum 125 krónur. Með hálfri flösku af víni á mann og kaffi ætti miðlungsveizlan að kosta 811 krónur. Það er svona einhvers staðar milli meðalverðstaðanna og dýru staðanna.

Í hádeginu kostar hlaðborðið 385 krónur. Súpa og réttur dagsins kosta þá 295 krónur, en 490 krónur að kvöldi.

Jónas Kristjánsson

DV

Þetta er bara áfangasigur.

Greinar

Margir kartöflubændur og kaupmenn eru nú að feta í fótspor Hagkaups og Jens Gíslasonar á Jaðri og hefja beina sölu kartaflna án milligöngu hinnar illræmdu Grænmetisverzlunar landbúnaðarins. Eiga neytendur því í mörgum verzlunum kost á ódýrari kartöflum en ella.

Mikilvægt er, að neytendur sýni nú samstöðu og beini viðskiptum sínum til aðila, sem verzla utan hins gamla einokunarkerfis. Þeir kaupi kartöflur, sem ekki eru á vegum Grænmetisverzlunarinnar, alveg eins og þeir kaupi egg og kjúklinga, sem ekki eru á vegum Íseggs og Ísfugls.

Neytendur hafa af þessu strax beinan hag, því að kartöflur Jens í Hagkaupi eru 14%. ódýrari en kartöflur frá Grænmetisverzluninni. Um leið gera þeir lífið léttara hjá kartöflubónda, sem hefur með framtaki sínu tekið tillit til hinna oft gleymdu hagsmuna neytenda.

Þetta geta neytendur raunar gert á fleiri sviðum. Þeir geta líka verðlaunað stóru eggjabændurna, sem hafa haldið niðri eggjaverði á undanförnum árum. Neytendur geta keypt egg frá þeim í stað þess að kaupa egg frá gæludýri Framleiðsluráðs landbúnaðarins.

Ár þetta verður minnisvert í verzlunarsögu landsins. Í tveimur áföngum hefur með harðfylgi tekizt að rjúfa kartöflueinokun Grænmetisverzlunar landbúnaðarins, fyrst á innfluttum kartöflum og raunar öðru grænmeti í vor og síðan á innlendum kartöflum núna.

Um leið og neytendur fagna þessum áfanga er rétt að muna, að tiltölulega fáir einstaklingar í stétt heildsala, kaupmanna og bænda ruddu braut hinu aukna verzlunarfrelsi. Kerfið hopaði undan áhlaupi þeirra, en ekki af því að neytendur væru spurðir ráða.

Neytendur hafa fengið áfangasigur upp í fangið, en engan endanlegan sigur. Því fer enn fjarri, að kartöfluneytendur hér á landi njóti sama réttar og kartöfluneytendur annarra landa. Baráttunni um verzlunarfrelsið er ekki lokið og áfram mun reyna á samstöðu neytenda.

Þeir munu væntanlega geta á næstunni valið um fleiri stærðarflokka kartaflna, fleiri afbrigði þeirra og fleiri framleiðendur. Jafnframt geta þeir væntanlega forðazt kartöflur, sem úðaðar hafa verið thiabendazoli til að auka geymsluþolið fram eftir vetri.

En ný vandamál munu koma upp, þegar haustneyzlu lýkur og íslenzku kartöflurnar hætta að vera nýjar. Upp úr áramótum hlýtur að koma að þeim tímamótum, að gamlar, íslenzkar kartöflur verða orðnar lakari en ný uppskera frá öðrum löndum. Hver verður réttur neytenda þá?

Talið er, að í haust verði til tveggja ára birgðir af íslenzkum kartöflum. Spyrja má, hvaða ábyrgð neytendur beri á því ástandi. Og enn frekar, hver hafi rétt til að neita þeim um nýjar kartöflur á ofanverðum næsta vetri. Á Framleiðsluráð þá að fá að kúga?

Skylt vandamál kom upp í sumar, þegar fyrstu íslenzku kartöflurnar komu á markað og kostuðu þá 56,75 krónur. Þá vildu landbúnaðarráðuneytið og Framleiðsluráð hindra neytendur í að geta valið milli þessara kartaflna og innfluttra á 21 krónu kílóið.

Baráttunni fyrir rétti neytenda lýkur ekki fyrr en þeir geta á öllum árstímum valið milli nýrra kartaflna og gamalla, dýrra og ódýrra, úðaðra og ekki úðaðra, frá mörgum innlendum og erlendum framleiðendum. Og hið sama gildir um rétt neytenda á öðrum sviðum matvælakaupa.

Jónas Kristjánsson

DV

Framleiðsluráð rotnunarinnar.

Greinar

Komið hafa í ljós óeðlileg hagsmunatengsl á vegum Framleiðsluráðs landbúnaðarins, þeirrar stofnunar, sem miðstýrir landbúnaðinum og ráðskast meðal annars með sjóði og millifærslur í því skyni. Eitt dæmi af þessu tagi var rakið hér í blaðinu nýlega.

Gísli Andrésson og sonur hans, Jón Gíslason, eru bændur á jörðinni Hálsi í Kjós. Þeir standa í miklum framkvæmdum við að auka framleiðslu býlisins, þótt Framleiðsluráð landbúnaðarins þykist vera að reyna að koma upp kvótakerfi til að draga úr offramleiðslunni.

Samt situr Gísli í Framleiðsluráði og þar á ofan í framkvæmdanefnd þess, æðsta ráðinu. Í Framleiðsluráði úthlutar hann meðal annars lánum og styrkjum úr Kjarnfóðursjóði. Þessi úthlutun er fræg fyrir, að hennar njóta einkum skjólstæðingar Framleiðsluráðs.

Gísli er einn af stofnendum fuglasláturhússins Hreiðurs hf. (Ísfugl), sem hefur fengið 3,3 milljón króna lán úr Kjarnfóðursjóði á núgildandi verðlagi. Til samanburðar hefur fuglasláturhúsið Dímon, sem afkastar meiru, fengið 1,3 milljón króna lán úr þessum sjóði.

Stærsti hluthafi Hreiðurs hf. er Sláturfélag Suðurlands. Það á líka fulltrúa í Framleiðsluráði landbúnaðarins, sem úthlutaði láninu. Sláturfélagið tekur þannig þátt í að úthluta sér fjármagni umfram aðra. Í öðrum greinum væri þetta talin stórfelld spilling.

Hagsmunaflækjan er ekki fyllilega rakin enn. Jón á Hálsi er formaður Sambands eggjaframleiðenda, sem hefur reist eggjadreifingarstöð fyrir 4 milljón króna styrk úr Kjarnfóðursjóði, sem kallaður er lán til að byrja með. Öðrum hefur verið neitað um slíkt.

Og nú hefur Sláturfélag Suðurlands bréflega sagt upp viðskiptum við alla eggjabændur, sem ekki leggja inn hjá Ísegg, eggjadreifingarstöð Jóns og Sambands eggjaframleiðenda. Þannig lokast hagsmunahringur Sláturfélagsins, Framleiðsluráðs og Hálsbænda.

Rotnunin í Framleiðsluráði landbúnaðarins og umhverfis það mun halda áfram, af því að ráðið nýtur sérstakrar verndar Framsóknarflokksins, ekki bara hluta hans, sem er í Framsóknarflokknum, heldur líka hins, sem er í Sjálfstæðisflokknum og öðrum flokkum.

Kjarnfóðursjóður er ekki eina illræmda stofnunin á vegum Framleiðsluráðs landbúnaðarins. Ráðið gerir líka út Grænmetisverzlun landbúnaðarins, verst ræmdu einokunarstofnun landsins, sem hefur hvað eftir annað verið staðin að ofbeldi gagnvart neytendum.

Nú síðast er Framleiðsluráð landbúnaðarins að reyna að tefja fyrir, að einstakir kartöflubændur selji afurð sína beint til stórverzlana. Það svarar ekki leyfisbeiðnum til að vinna tíma fyrir Grænmetisverzlunina til að setja dreifikerfi sitt fyrst í gang.

Framleiðendur og neytendur eiga enga vörn í hinu pólitíska kerfi, sem hefur slegið skjaldborg um spillinguna í Framleiðsluráði landbúnaðarins. En neytendur eiga þó einn mótleik í stöðunni, ef þeir hafa siðferðilegan styrk til að fara í stríð við kerfið.

Neytendur geta neitað að skipta við gæludýr Framleiðsluráðs. Þeir geta skipt við óháða framleiðendur, sem ekki selja undir merkjum Ísfugls, Íseggs og Grænmetisverzlunar landbúnaðarins. Þeir geta sprengt kerfið, ef þeir vilja og þora.

Jónas Kristjánsson.

DV