Author Archive

Spáð í óvissuna.

Greinar

Fylgisaukning Alþýðuflokksins í nýjustu könnun DV er ekki bundin á trompreikningi til langs tíma. Hún getur horfið eins snögglega og hún kom. Fylgisaukningin er afleiðing þróunar mála að undanförnu og hefur ekki spásagnargildi, allra sízt langt fram í tímann.

Hið sama má segja um sveiflur fylgis annarra flokka. Svavar Gestsson, formaður Alþýðubandalagsins, segist réttilega spyrja að leikslokum í kosningum. En hin slæma útreið aðalflokks stjórnarandstöðunnar hlýtur þó að verða honum aðkallandi umhugsunarefni.

Skoðanakannanir sýna breytingar, sem orðið hafa frá síðustu könnun. Sem slíkar eru þær ekki aðeins upplýsingar og spennandi lesefni. Þær eru líka stjórnmálamönnum tækifæri til að endurmeta stöðuna. Og svo verður örugglega að þessu sinni, ekki síður en hingað til.

Alþýðubandalagið telur sig vafalaust geta reynt að endurheimta fylgi, sem færzt hefur til Alþýðuflokksins og Kvennalistans. Líklegast til árangurs fyrir það væri að líta í eigin barm og spyrja, hvað fæli fólk frá flokki, sem ætti að geta baðað sig í stjórnarandstöðunni.

Alþýðubandalaginu liggur ekki á kosningum á þessu ári. Alþýðuflokknum og að nokkru leyti Kvennalistanum kæmu þær sér hins vegar vel. Til dæmis má ætla líklegt, að sveiflan endist Alþýðuflokknum fram á sumarið. Fjarlægari framtíð er hins vegar meiri óvissu hulin.

Mestu máli skiptir, hvernig ráðamenn í Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum meta stöðuna eftir skoðanakönnunina. Sumpart mun hún gera Framsókn hrædda við kosningar, en á hinn veginn hvetja samstarfsflokkinn til að bjarga sér á þurrt eftir óvinsælt stjórnarsamstarf.

Aðrir munu segja sem svo, að fyrst sé bezt að sýna markverðar tillögur um baráttuna við helztu vandamál þjóðarinnar á sviði efnahags- og fjármála. Slíkar tillögur muni bæta stöðu beggja stjórnarflokkanna í kosningum, sem haldnar yrðu á þessu ári.

Enn aðrir munu segja, að slíkar tillögur mundu, ef framkvæmdar yrðu, endurnýja traust manna á ríkisstjórninni og veita henni siðferðilegan styrk til að halda áfram samstarfinu langleiðina eða alla leiðina til loka kjörtímabilsins eftir rúmlega tvö ár.

Í öllu falli er það sjálfskaparvíti stjórnarflokkanna, ef þeim tekst ekki að læra af aðvöruninni, sem þeir hafa fengið. Ef ríkisstjórnin flýtur áfram sofandi að feigðarósi, verður Sjálfstæðisflokkurinn að gefast upp, áður en hann lendir í sama fylgishruni og Framsóknarflokkurinn.

Ýmsir áhrifamenn í Sjálfstæðisflokknum horfa nú mjög á tölur, sem sýna, að viðreisnarmynztrið sé komið í meirihluta og það án þátttöku Bandalags jafnaðarmanna. Þetta eykur kosningafreistingarnar og magnar óánægjuna með hina róstusömu sambúð við Framsóknarflokkinn.

Samt er viðreisnarmynztrið sýnd veiði, en ekki gefin. Ekki er víst, að flokkur, sem hefur dregið sér fylgi frá vinstri sé reiðubúinn til að semja til hægri. Viðreisnarsinnar gætu hæglega orðið fyrir gífurlegum vonbrigðum eftir kosningar, það er að segja fengið vinstri stjórn.

Óvissan um öll þessi atriði er enn meiri fyrir þá sök, að allar kannanir sýna, að hinir óráðnu kjósendur eru stærsti stjórnmálaflokkurinn. Þær sýna, að kjósendur eru engar fasteignir flokkanna. Hollusta við flokka er orðin að minnihlutafyrirbæri í þjóðfélaginu.

Jónas Kristjánsson.

DV

Tölurnar eru á borðinu.

Greinar

Aðferðafræði DV í skoðanakönnunum hefur sigrað í fjölmiðlaheiminum. NT telur til dæmis könnunum sínum til gildis, að þar sé beitt nákvæmlega sömu aðferðum og gefið hafa góðan árangur í DV. Reynslan er bezti dómarinn í þessu sem öðru, hvað sem öfundarmenn segja.

Síðasti móhíkaninn er raunar framsóknarþingmaðurinn Haraldur Ólafsson. Hann sagði nýlega í blaðagrein, að DV birti ekki næga fyrirvara með könnunum sínum, aðferðin væri varasöm og í henni væri innbyggður galli, er meðal annars lýsti sér í vanmati á fylgi Framsóknar.

Allt er þetta rangt. DV leggur jafnan mikla áherzlu á að vekja athygli á takmörkunum skoðanakannana af þessu tagi. Aðferðin er ekki varasöm, heldur traust, svo sem komið hefur í ljós í kosningum á kosningar ofan. Aðferðir DV í skoðanakönnunum hafa aldrei brugðizt.

Fyrir síðustu kosningar var gerð tilraun til að mæla innbyggðan galla í könnunum DV. Fyrri kannanir blaðsins voru skekkjureiknaðar til að finna formúlu, sem gæti gert niðurstöður nákvæmari. Blaðið birti bæði einföldu og skekkjureiknuðu niðurstöðurnar í síðustu könnun fyrir kosningar.

Í ljós kom, að einföldu niðurstöðurnar fóru nær hinu rétta en skekkjureiknuðu niðurstöðurnar. Það mistókst sem sagt að finna innbyggða skekkju. Hún er sjálfsagt til og finnst einhvern tíma, en er þó svo lítil, að hún hefur ekki mælzt enn. Það er ekki svo lítið afrek.

Fylgi Framsóknarflokksins hefur ekki reynzt vera vanmetið í könnunum DV, hvað sem Haraldur Ólafsson segir. Þegar flokkurinn fær meira fylgi í könnunum NT, stafar það af því, að almennt er litið á NT sem flokksblað Framsóknar og blaðinu er svarað með tilliti til þess.

Með þessu er ekki verið að lasta framtak NT á þessu sviði. Skoðanakannanir geta verið gagnlegar, þótt þær feli í sér innbyggða skekkju. Altjend er með árangri hægt að bera niðurstöður blaðsins saman við fyrri niðurstöður sama blaðs, þótt vafasamt sé að bera þær saman við niðurstöður DV.

Mönnum er óhætt að treysta niðurstöðum skoðanakannana DV, enda gera stjórnmálamenn það almennt. Meira að segja liggur við, að sumir þeirra treysti þeim upp á brot úr prósenti, sem er fullmikið af því góða. En meginlínurnar eru ljósar í þetta sinn eins og jafnan áður.

Skoðanakönnun DV, sem birtist í dag, sýnir endurreisn Alþýðuflokksins, að því er virðist mest á kostnað Alþýðubandalagsins og nokkuð á kostnað Framsóknarflokksins, en aðeins lítillega á kostnað Bandalags jafnaðarmanna og furðanlega lítið á kostnað Sjálfstæðisflokksins.

Nýju flokkarnir standa sig ágætlega í þessari könnun sem og hinum fyrri. Kvennalistinn virðist vera í samfelldri sókn. Þeir, sem mesta aðvörun fá í könnuninni, eru Framsóknarflokkurinn og Alþýðubandalagið, sem ekki hefur megnað að hagnýta sér stjórnarandstöðuna.

Sjálfstæðisflokkurinn má hins vegar vel við una eftir allt uppþotið í flokknum í vetur. Kjósendur hans virðast vera flokknum tryggir, þótt þeir lýsi margir andstöðu við ríkisstjórnina. Hún má líka vel við una, því að óvinsældir hennar hafa ekki aukizt síðan í október.

Þetta eru meginlínurnar í niðurstöðum skoðanakönnunar DV, að verulegu leyti studdar hliðstæðum niðurstöðum í nýlegum könnunum NT og Helgarpóstsins. Þetta eru staðreyndirnar, sem stjórnmálamenn hafa til hliðsjónar, þegar þeir taka til við skákina fram til vors.

Jónas Kristjánsson.

DV

Óhófleg athafnagleði.

Greinar

Landsvirkjun og stuðningsmenn hennar hafa farið halloka í hinni óbeinu ritdeilu við Finnboga Jónsson verkfræðing um offjárfestingu í orkuverum. Eftir stendur, að framkvæmdagleði Landsvirkjunar á þátt í óeðlilega háu orkuverði til almennra nota hér á landi.

Landsvirkjun hefur sér til málsbóta, að illa fyrirsjáanlegar aðstæður hafa gert fyrri orkuspá úrelta. Ennfremur, að hún hefur raunar sjálf séð, að of geyst var farið, og lækkað framkvæmdaáætlun þessa árs, fyrst úr 1.400 milljónum í 1.200 milljónir og nú síðast í 950 milljónir.

Deiluaðilar eru sammála um, að umframorka Landsvirkjunar sé nú 750 gígawattstundir á ári. Þar af eru 250, sem Landsvirkjun hefur til öryggis, 200, sem ekki eru nýttar af Hrauneyjafossi, og 300, sem stafa af óþarflega skjótum framkvæmdum við Sultartanga og í Kvíslaveitu.

Varaorka Landsvirkjunar er mikil. Samt er stóriðja verulegur hluti viðskipta hennar. Samningar um þá orkusölu fela yfirleitt í sér ákvæði fyrir léleg vatnsár. Til dæmis má skerða orkusölu til Ísal um 200 gígawattstundir á ári, ef mikið liggur við.

Þá hefur Finnbogi bent á, að ódýrara sé að flytja inn ammoníak til Áburðarverksmiðjunnar en að halda uppi varaorku fyrir hana í vondum vatnsárum. Um leið sýnir sá samanburður óbeint, að orkuverð verksmiðjunnar hlýtur að fela í sér töluverða niðurgreiðslu áburðar.

Raunar hefur Finnbogi slegið öryggisvopnin úr höndum Landsvirkjunar með því að benda á, að ekki mundi taka stóriðjumenn nema mínútu að reikna út, að glórulaust væri að greiða herkostnaðinn af umframorku Landsvirkjunar, ef hún væri seld á kostnaðarverði.

Umframorkan, sem Landsvirkjun telur nauðsynlega, 250 gígawattstundir, nemur 25% af heildarmarkaðinum og hvorki meira né minna en 55% af almenna markaðinum, þegar búið er að draga frá stóriðjuna. Hæpið er, að nauðsynlegur sé meira en lítill hluti af þessu.

Einföld tilvitnun í málsvara Landsvirkjunar er gott dæmi um takmarkað fjármálavit á þeim bæ. Hann sagði: “Kvíslaveitur eru ekki fullgerðar og hafa engin áhrif á orkuverð fyrr en svo verður.” Fjórir áfangar framkvæmdarinnar eru búnir og hinum fimmta og síðasta hefur verið frestað.

Tilgangslaust væri að segja húsbyggjanda og hvað þá fjármálamanni, að ekki sé kostnaður af framkvæmdum fyrr en þeim sé lokið. Framkvæmdir kosta fé frá fyrstu skóflustungu og þar á ofan vexti í flestum tilvikum, þar á meðal í Kvíslaveitu Landsvirkjunar.

Ekki er rétt að saka Landsvirkjun um of snemmbært orkuver við Hrauneyjafoss. Ef stórt er virkjað, tekur alltaf nokkurn tíma að koma allri orkunni í verð. Ekki er heldur hægt að álasa Landsvirkjun fyrir Kröfluvirkjun, þar sem aðrir aðilar áttu hlut að máli.

Hins vegar var misráðið að fara hratt í framkvæmdir við Sultartanga og í Kvíslaveitu. Ennfremur var farið alltof geyst í Blöndu. Nú er full ástæða til að setja þar í gang hemlana, að minnsta kosti fram að þeim tíma, er nýir stóriðjusamningar verða undirritaðir.

Hlutur orkukostnaðar af útgjöldum neytenda hefur vaxið hrikalega á undanförnum árum, svo sem sjá má af tölum frá Hagstofunni. Samanburður við útlönd sýnir líka, að við erum í dýrasta kanti. Að hluta er þetta athafnagleði Landsvirkjunar að kenna. Hana þarf snarlega að minnka.

Jónas Kristjánsson

DV

Ferskfiskur er fullunnin.

Greinar

Ferskur fiskur ísaður hefur sótt verulega á í útflutningi upp á síðkastið. Til viðbótar við hina hefðbundnu leið, að togarar sigli með aflann, er nú kominn mikill og vaxandi útflutningur á ferskum fiski í gámum. Sumt af þessum fiski er meira að segja flutt flugleiðis.

Þetta byggist á, að ferskur fiskur er verðmeiri vara en frystur fiskur. Í frystingu felst alls ekki nein fullvinnsla sjávarafurða eins og margir virðast halda. Frystingin er fyrst og fremst vörn gegn skemmdum eins og aðrar og eldri aðferðir við fiskvinnslu.

Ferskur fiskur fer beint á markað. Hann hleður ekki á sig kostnaði við fiskvinnslu og fiskgeymslu í sex mánuði. Hann notar ekki rafmagn og húsaleigu í fiskvinnslustöðvum og hann stendur ekki undir vöxtum, sem hlaðast upp meðan beðið er eftir, að frysti fiskurinn komist í verð.

Þannig er ekki nóg með, að ferski fiskurinn sé seldur á hærra verði, heldur sparast í honum margvíslegur framleiðslu-, geymslu- og vaxtakostnaður. Á móti þessum sparnaði kemur svo hærri flutningskostnaður, sérstaklega þegar fiskurinn fer með flugvélum.

Fyrr á árum var erfiðara að koma ferskum fiski á markað í útlöndum en nú er orðið. Hann var oft orðinn skemmdur, þegar til kastanna kom, og hrundi í verði. Á þeim tíma var frysting kærkomin aðferð til að koma í veg fyrir slík slys og halda tiltölulega stöðugu verði.

Í framtíðinni mun gildi freðfisks hins vegar fyrst og fremst felast í, að hann er kjörið hráefni fyrir verksmiðjur, sem framleiða svokallaðar sjónvarpsmáltíðir. Þær eru tilbúnar á borðið, þegar þeim hefur verið stungið andartak í örbylgjuofn, sem víða er til á heimilum.

Ekkert bendir þó til, að sjónvarpsmáltíðir og örbylgjuofnar muni ryðja ferskum fiski úr vegi. Víða um heim eru menn sömu skoðunar og íslenzkir neytendur, líta ekki við frystum fiski, þótt ferskur sé ekki fáanlegur. Þetta á til dæmis við um fiskneyzluþjóð á borð við Frakka.

Heppilegast fyrir okkur er að vinna upp fjölbreyttan markað fyrir fiskinn. Við eigum ekki að velja milli freðfisks og ferskfisks, né heldur gleyma saltfiski og skreið. Fjölbreytni í framboði felur í sér gagnlega vernd gegn verðsveiflum, sem oft verða á afmörkuðum sviðum.

Stjórnvöld hafa löngum litið hornauga til útflutnings á ferskum fiski og jafnvel lagt stein í götu hans. Það stafar einkum af, að margir sjá ofsjónum yfir, að afkastageta frystihúsanna sé ekki nýtt. Við þetta blandast svo óráðshjalið um fullvinnslu sjávarafla.

Staðreyndin er, að samkeppnisaðstaða okkar er orðin afar erfið gagnvart niðurgreiddum sjávarútvegi Noregs og ýmissa annarra landa. Ef við getum gert sjávarútveginn arðbæran með því að spara vinnslu-, geymslu- og vaxtakostnað og fá þar á ofan hærra verð, eigum við að gera það.

Svo virðist sem fiskvinnslan geti ekki greitt útgerð og sjómönnum það fiskverð, sem þessir aðilar telja sig lægst þurfa. Hún geti ekki heldur greitt starfsfólki samkeppnishæf laun fyrir erfiða vinnu, sem kostar vöðvabólgu, heyrnarskemmdir og sjúkdóma í öndunarfærum.

Sala á ferskum fiski til útlanda er æskilegur kostur um þessar mundir. Hún getur raunar skilið milli taps og gróða í sjávarútvegi og rofið láglaunakreppuna í þeirri grein. Telja verður afar skaðlegt, að stjórnvöld leggi fyrir misskilning stein í götu ferskfisksölunnar.

Jónas Kristjánsson.

DV

Að þola vextina.

Greinar

Alla mannkynssöguna hafa 10% raunvextir verið hefðbundnir. Raunvextirnir, sem nú eru á ýmsum lánum hér á landi, eru því ekki háir, sagnfræðilega séð, þótt þeir vaxi í augum þjóðar, sem upp á síðkastið hefur vanizt neikvæðum vöxtum og meira að segja gert út á þá.

Margir gagnrýna hið svonefnda vaxtaokur á þeim forsendum, að atvinnulífið þoli ekki vextina, einkum svonefndir undirstöðuatvinnuvegir. Þar sé arðsemin í mörgum tilvikum lítil sem engin. Það hljóti að leiða til ófarnaðar, er fyrirtæki með 2% arðsemi sæti 5% raunvöxtum.

Svona einfalt er dæmið að vísu ekki. Arðsemi fjárfestingar, sem lán eru tekin fyrir, getur verið mun meiri en arðsemin af starfsemi fyrirtækisins í heild. Orkusparandi aðgerðir geta til dæmis verið mjög arðsamar í fiskimjölsverksmiðju, þótt ekki sé arður af rekstrinum í heild.

Hitt er áreiðanlega rétt, að mikið af íslenzkri fjárfestingu gefur ekki arð og stendur ekki undir raunvöxtum. Við sjáum það ef til vill bezt af því, að ár eftir ár er fjárfest um 25% þjóðartekna, án þess að þjóðarbúið eflist. Sum árin rýrnar það meira að segja.

Þetta sýnir ekki, að raunvextir eigi að lækka eða gerast öfugir. Þetta sýnir, að við eigum að vanda betur til fjárfestingar, gera meiri arðsemiskröfur til hennar. Og sæmilegir raunvextir eru einmitt leið til að koma aga á athafnaþrá og lánafíkni okkar.

Við getum gengið lengra í þessu en flestar aðrar þjóðir af því að við búum við óvenjulítið atvinnuleysi og í rauninni við offramboð atvinnutækifæra. Við þurfum því ekki að hvetja til fjárfestingar á félagslegum forsendum og getum frekar einblínt á arðsemina.

Atvinnugreinar eru einkar misjafnar að þessu leyti. Á sumum sviðum er arðsemi fjármagnsins neikvæð, svo sem í hefðbundnum landbúnaði. Þá er einnig ljóst, að fjárfesting í stóriðju er ekki heppileg í hinum íslenzka fjármagnsskorti. Við eigum að láta útlendinga um slíkt.

Almennt séð má reikna með, að arðsemi fjármagns sé mest í ýmsum léttum iðnaði. einkum þeim, sem gerir mestar kröfur til nákvæmni, hugvits og þekkingar. Tölvutækni og laxeldi ber oft á góma, þegar fjallað er um efnilegar greinar, þar sem búast má við, að fjárfesting skili arði.

Þótt fullar arðsemiskröfur séu gerðar á öllum sviðum, sem teljast til atvinnulífsins, getur verið nauðsynlegt að slaka á klónni á öðrum sviðum af félagslegum ástæðum. Þar ber hæst húsnæðislánin og námslánin, sem hið opinbera greiðir niður og líklega ekki nógu mikið.

Ef gera á ungum Íslendingum kleift að eignast þak yfir höfuðið, er ekki nóg að efna loforð stjórnarflokkanna um 80% lán til 40 ára. Það verða líka að vera annúitetslán og ekki með hærri raunvöxtum en 4-5%. Frá þessu sjónarmiði eru 6-8% raunvextir lífeyrissjóða of háir.

Ennfremur er ljóst, að sumt bókvit verður ekki í askana látið, þótt annað bókvit sé arðbært. Ef menntun á að vera almenningseign, er ekki hægt að reikna með, að allir námsmenn geti endurgreitt námslán og raunvexti af þeim. Afföll á þessu sviði eru óhjákvæmileg.

Þannig geta félagslegar aðstæður leitt til verulegs eða fulls afsláttar arðsemiskrafna. Um leið verða menn að gera sér grein fyrir, að lánsfé af slíku tagi verður ekki notað í annað á meðan. Minna verður aflögu til arðbærrar fjárfestingar og þjóðarbúið vex hægar en ella.

Jónas Kristjánsson.

DV

Hin dauða hönd.

Greinar

Íslendingar voru fyrir þrjátíu árum fremstir evrópskra þjóða í fiskeldi. Þá hafði Skúli á Laxalóni stundað laxarækt um skeið og var að byrja á regnbogasilungi til viðbótar. Norðmenn, sem nú eru öflugastir á þessu sviði, vissu varla, að laxarækt væri kleif.

Ef ríkisvaldið hefði látið Skúla á Laxalóni í friði með tilraunir hans, væru Íslendingar nú forustuþjóð í fiskeldi. Við ættum mörg og öflug innlend fyrirtæki á þessu sviði. Fiskeldið væri mikilvægasta atvinnugrein landsins og helzta gjaldeyrisuppspretta þess.

En í stað þessa hundelti ríkisvaldið Skúla í þrjá áratugi. Fremstir voru þar í flokki einræðisherrarnir Þór Guðjónsson veiðimálastjóri og Páll Pálsson yfirdýralæknir. Öllum tiltækum ráðum var beitt til að koma í veg fyrir, að hrogn og seiði væru seld frá Laxalóni.

Hámarki náðu þessar ofsóknir í tilraunum til að koma sjúkdómsorði á starfsemi Laxalónsmanna. Öll sú saga hefur birzt í fjölmiðlum og er ekki fögur. Þetta leiddi til, að ekki mátti selja hrogn og seiði frá Laxalóni, svo sem staðfest hefur verið með Hæstaréttardómi.

Í staðinn reisti ríkisvaldið eigin laxaræktarstöð í Kollafirði. Sú saga er samfelld harmsaga, allt frá því er ríkið varð að kaupa veiðiréttindi í eigin stöð. Stöðin var mjög dýr í byggingu og er enn dýr í rekstri, auðvitað á kostnað skattgreiðenda.

Í Kollafirði er ekki eingöngu notað lindarvatn eins og Laxalónsmenn nota við fiskeldi sitt í Fiskalóni. Hin gífurlega fjölmenna svartbakssveit, sem nærist á salmonella og coli frá holræsum Reykjavíkursvæðisins, verpir í Esjunni, þaðan sem vatnið rennur í laxeldisstöðina.

Svo alvarlegum augum er litið á slíkt ástand í Danmörku, að laxaræktarmönnum er með lögum bannað að haga málum á þann hátt, að sýking geti borizt með fugli í fiskinn. Hér hefur Kollafjarðarstöðin hins vegar náð einokun í dreifingu seiða um allt land.

Afleiðingin af einokun og skipulagi ríkisins er nú að koma í ljós. Sjúkdómar hafa komið upp í Kollafjarðarstöðinni og einni stöð, sem hefur fengið seiði þaðan. Um allt land eru laxaræktarmenn andvaka af áhyggjum út af því að lenda í Kollafjarðarbölinu.

Nú gildir ekki harkan sex eins og þegar sjúkdómsorðinu var logið upp á Laxalón. Landbúnaðarráðherra veltir vöngum meðan allt laxeldi í landinu rambar á barmi niðurskurðar. Kollafjarðarstöðin er rekin eins og ekkert hafi í skorizt. En enginn þorir að kaupa þaðan.

Svo mikil er einræðishneigð hinna opinberu embættismanna, sem stjórna þessum málum í skjóli duglítilla stjórnmálamanna, að 12. júní í fyrra bannaði Jón Helgason bréflega Laxalónsmönnum að rækta lax í fyrirhugaðri stöð í Hvalfirði. Það tók fimm mánuði að fá þessu breytt.

En nú er öldin að verða önnur. Samband íslenzkra samvinnufélaga hyggst skella sér út í umfangsmikla fiskirækt. Þess vegna má búast við, að Þór Guðjónssyni og Páli Pálssyni verði ýtt til hliðar og athafnamenn fái nú loksins útrás á þessu sviði.

Ef ríkisvaldið hefði ekki skipulagt þessi mál í þrjátíu ár og hefði látið atvinnugreinina í friði, værum við nú með gjaldeyrisuppsprettu, sem væri gjöfulli en sjávarútvegurinn. Og hún væri öll í eigu Íslendinga, en ekki erlendri, svo sem nú er að verða raunin.

Þetta er skólabókardæmi um hina dauðu hönd ríkisvaldsins.

Jónas Kristjánsson.

DV

Séríslenzkt tækifæri.

Greinar

Efnahagserfiðleikar Íslendinga eru ekki meiri en svo um þessar mundir, að víðast hvar vantar fólk í vinnu fremur en fólk vanti vinnu. Daglega eru auglýstir tugir starfa í dagblöðunum, en mun minna er um, að fólk óski í auglýsingum eftir atvinnu.

Þessi þensla er mikil á Reykjavíkursvæðinu, en er ekki aðeins þar. Yfir 100 atvinnuleyfi hafa verið veitt útlendingum til starfa í fiskiðnaði úti um land. Öll þessi leyfi hafa verið veitt að höfðu samráði við stéttarfélög og eftir árangurslausa leit í röðum heimamanna.

Þjóðhagsstofnun spáði fyrir ári 2% atvinnuleysi árið 1984. Í raun varð atvinnuleysið ekki nema 1,3%. Það er að vísu aukning frá 1983, þegar atvinnuleysið var 1%. Eigi að síður er það mjög lítið og ekki nema brot af því, sem nágrannaþjóðir okkar verða að sæta.

Atvinnuleysið í fyrra jafngilti 1.500 störfum. Það er svo lítið, að á móti koma mun fleiri laus störf, sem ekki er unnt að skipa, svo sem auglýsingar í dagblöðunum og ráðning erlends fiskvinnslufólks hafa sýnt núna í svartasta og atvinnuminnsta skammdeginu.

Atvinnuleysi og atvinnuframboð eru til hlið við hlið, af því að sum atvinna er í sókn, en önnur á undanhaldi. Oft skortir fólk til starfa í nýjum greinum, sem eru á uppleið, þótt erfitt sé á sama tíma að fá vinnu í hefðbundnum greinum sem eru að dragast saman.

Tregðulögmálið hefur mikil áhrif í þessu eins og á öðrum sviðum. Til dæmis er skólakerfið yfirleitt lengi að átta sig á breyttum aðstæðum. Enn þann dag í dag lesa börnin í skólunum um atvinnuhætti og lífið í sveitinni, margfalt meira en um aðrar greinar.

Hins vegar hefur skólakerfið eindregið tregðazt við að viðurkenna fisk. Mjög seint kom til sögunnar Fiskvinnsluskóli. Hann hefur átt fjárhagslega erfitt uppdráttar. Og á háskólastigi er lítið um fræðslu, sem gæti til dæmis nýtzt í hinu upprennandi fiskeldi.

Af því að tölvur eru taldar heldur fínni en fiskur í skólakerfinu hefur tekizt mun hraðar og betur að koma upp tölvum og tölvufræðslu í skólum. Þetta ánægjulega framtak hefur þegar skilað töluverðum árangri í atvinnulífinu og mun gera það enn frekar í náinni framtíð.

Við sjáum fram á, að atvinnugreinar á borð við tölvutækni og fiskeldi muni í náinni framtíð geta sogað til sín mikið af starfskröftum og það á betri kjörum en tíðkast í hinum hefðbundnu greinum, sem eru á undanhaldi. Stjórnmálin ættu að styðja þessa þróun.

Þvert á móti er ausið fé í gersamlega úrelta grein á borð við hinn hefðbundna landbúnað. Þar er fjárfestur milljarður króna á hverju ári. Á sama tíma er næstum útilokað að svæla út krónu til stuðnings fjárfestingu í framtíðinni, tölvum og fiskeldi.

Í rauninni ætti hið litla atvinnuleysi að auðvelda markvissa sókn frá gömlu greinunum yfir í nýjar. Í löndum mikils atvinnuleysis eru slík umskipti miklu sársaukafyllri, svo sem sýnir verkfall kolanámumanna í Bretlandi, þar sem verið er að loka arðlausum námum.

Þjóð, sem býr við 1,3% atvinnuleysi meðan nágrannaþjóðirnar búa við 8-12% atvinnuleysi, getur hrósað happi, ef ráðamenn hennar magna með sér kjark til að nota tækifærið til að hætta að fjármagna fortíðina með valdboði og fara í staðinn að leyfa markaðinum að fjármagna framtíðina.

Jónas Kristjánsson.

DV

Skrímslið magnast.

Greinar

Jón Helgason landbúnaðarráðherra er sagður hafa svikið samkomulag um kjarnfóðurskatt, sem stjórnarflokkarnir gerðu í sumar. Í stað þess að lækka skattinn um áramótin, tvöfaldaði hann gjaldið á þá starfsemi, sem er fyrir utan hið gullna hlið Framleiðsluráðs landbúnaðarins.

Þorsteinn Pálsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í viðtali við DV á laugardaginn, að þetta væru “veruleg mistök í samskiptaháttum stjórnarflokkanna, sem ekki er hægt annað en horfa mjög alvarlega á”.

Í sumar var fallizt á hækkun kjarnfóðurskattsins, en aðeins til áramóta. Jafnframt var bókað í ríkisstjórninni, að stefnt skyldi að afnámi alls skattsins á næsta vori. Ráðherra hefur nú “gengið á svig við þetta samkomulag án þess að leita samráðs”, sagði Þorsteinn í viðtalinu.

Vinnubrögð landbúnaðarráðherra veita nokkra innsýn í stöðu hins hefðbundna landbúnaðar. Hann er ekki ríki í ríkinu, heldur ríki yfir ríkinu. Þar drottnar heilög þrenning Búnaðarfélags Íslands, Framleiðsluráðs landbúnaðarins og landbúnaðarráðherra Framsóknarflokksins.

Framleiðsluráð landbúnaðarins annast svonefnda framleiðslustjórnun á afurðum hins hefðbundna landbúnaðar, sauðfjár og nautgripa. Afleiðing þessarar stjórnunar er, að upp hlaðast óseljanleg fjöll af ostum og smjöri, kindakjöti og nautakjöti.

Framleiðsluráðið hefur lengi ágirnzt sömu tök á afurðum fugla- og svínabænda. Þar ríkir ekki framleiðslustjórnun, heldur sjá markaðslögmálin um, að framboð og eftirspurn haldast í stórum dráttum í jafnvægi. Ennfremur hafa þessar vörur orðið hlutfallslega ódýrari með árunum.

Í rauninni hefur kjarnfóðurgjaldið frá upphafi falið í sér tilraun hinnar heilögu landbúnaðarþrenningar til að koma sínum aga á fugla- og svínabændur. Kjarnfóður er miklu þyngri kostnaðarliður í þessum greinum en í hinum hefðbundna landbúnaði. Þess vegna er það skattlagt.

Í fréttum hefur verið rakið, hvernig tekjurnar af þessu gjaldi hafa sumpart verið notaðar til að mylja undir þann hluta eggjabænda, sem vill hlýða þrenningunni og skipta við stofnunina Ísegg, sem ætlað er að verða hliðstæð einokunarstofnun og til dæmis Mjólkursamsalan.

Ísegg er meira eða minna byggt upp fyrir gjafa- og lánsfé úr kjarnfóðursjóði. Hinir sjálfstæðu framleiðendur, sem eru fyrir utan, verða að reisa sínar flokkunar- og dreifingarstöðvar á eigin kostnað. Það eru einmitt þeir, sem hafa haldið niðri verði á undanförnum árum.

Landbúnaðarráðherra hefur nú tvöfaldað kjarnfóðurskattinn á fugla- og svínabændur, en lækkað á móti um þriðjung í hinum hefðbundnu greinum, sauðfé og nautgripum. Með þessu er landbúnaðarþrenningin að reyna að efla hina óbeinu framleiðslustjórnun sína.

Markmiðið er að hækka egg, kjúklinga og svínakjöt um 12%, svo að neyzlan þar minnki og færist yfir til hins hefðbundna landbúnaðar, þar sem Framleiðsluráð situr á fjöllum sínum. Markmiðið er að koma í veg fyrir bráðnauðsynlegan samdrátt í hefðbundnum landbúnaði.

Fyrir helgina kom í ljós í lögfræðilegri úttekt, að hinn hefðbundni landbúnaður er ofan við þjóðfélagið og skammtar sér herfang sjálfur. Þetta skrímsli er ekki á undanhaldi. Þvert á móti er það magnaðra en nokkru sinni fyrr og er í þann veginn að éta þjóðina út á gaddinn.

Jónas Kristjánsson.

DV

Félag stjórnar ríkinu.

Greinar

Búnaðarfélag Íslands hefur vaxið Stjórnarráði Íslands yfir höfuð á flestum sviðum landbúnaðarmála að mati Páls Líndal lögfræðings. Hann hefur að ósk Alberts Guðmundssonar fjármálaráðherra tekið saman skýrslu um greiðsluskyldur ríkisins eftir lögum um landbúnað.

Skýrsla Páls er mjög ítarleg og nær allt frá átjándu öld til allra síðustu ára. Þetta er fyrsta skrefið og stærsta í fyrirhugaðri úttekt á, hvernig fjárlög ríkisins þenjast út á sjálfvirkan hátt í kjölfar laga, sem sífellt leggja nýjar skyldur á herðar skattgreiðenda.

Í niðurstöðum rannsóknar Páls segir m.a. ; “Að forminu til fer landbúnaðarráðuneytið með yfirstjórn landbúnaðarmála, en þegar farið er að athuga löggjöfina nánar, kemur í ljós, að í raun er þetta á allt annan veg. Ákvörðunarmöguleikarnir og ákvörðunarvaldið eru í raun að mjög verulegu leyti hjá Búnaðarfélagi Íslands. Það hefur, ef svo má segja, vaxið Stjórnarráðinu yfir höfuð á flestum sviðum landbúnaðarmála.

Félagið hefur ekki tekjur til starfsemi sinnar utan það fé, sem það fær úr ríkissjóði, ýmist samkvæmt beinum ákvæðum laga eða árlegum fjárveitingum á fjárlögum. Þótt svona sé skipað málum, á ríkisvaldið engan íhlutunarrétt um stjórn félagsins eða starfshætti. Hefur það komið fram oftar en einu sinni hér að framan.

Félagið fer með beina stjórn á vissum þáttum ríkisvaldsins, það markar opinbera stefnu á vissum sviðum, stjórnar raunverulegum ríkisframkvæmdum, annast fjársýslu fyrir ríkið og svo framvegis. Það hefur á að skipa allfjölmennu starfsliði, sem ráðið er af stjórn félagsins og nýtur réttinda ríkisstarfsmanna, án þess að ríkisvaldið hafi nokkuð um þessi mál að segja.

Og sem dæmi um það, hvernig málum er skipað, er það, að reikningar félagsins ganga ekki til ríkisendurskoðunar.”

Um þetta ástand segir Páll, að það “virðist hálfkyndugt frá lögfræðilegu sjónarmiði, að félagsskapur með sjálfvirku stjórnkerfi fari með ákveðinn þátt ríkisvaldsins”.

Páll telur, að gildandi skipan landbúnaðarmála sé “beint afkvæmi hagfræðikenninga, sem voru ofarlega á baugi í Evrópu um og eftir miðja 18. öld”. Þá voru uppi svokallaðir fysiokratar eða búauðgismenn, sem töldu landbúnað vera undirstöðu annarra atvinnugreina.

Þessar kenningar höfðu veruleg áhrif í Danmörku og bárust þaðan til Íslands rétt fyrir móðuharðindi. Og Páll segir: “Þegar litið er á þróun landbúnaðarmála hér á landi, verður ekki annað sagt, en stefna sú, sem fylgt er nú, sé í mörgum atriðum hin sama og fest var í lögum á tímabilinu 1772-1783.”

Þá segir Páll: “Hlýtur það að vera íhugunarefni hvort kenningar fysiokrata eins og þær voru útfærðar í lögum af dönsku stjórninni seint á 18. öld eigi við öllu lengur.”

Athyglisvert er, að af mörgum tugum laga um landbúnað er það tiltölulega nýleg syrpa laga frá 1971-1973 sem er einna dýrust og felur í sér einna mest valdaafsal. Það eru lögin um jarðrækt, búfjárrækt og stofnlánadeild landbúnaðarins. Og loks eru nýjustu lögin um hið illræmda Framleiðsluráð landbúnaðarins frá 1981.

Krabbamein hins hefðbundna landbúnaðar er grunnmúrað í lagabókstafnum. Þetta krabbamein hefur breiðzt út á síðustu árum, þrátt fyrir andóf. En með skýrslu Páls er fengin handhæg skrá yfir lagagreinar, sem afnema þarf til að létta óbærilegri byrði af skattgreiðendum.

Jónas Kristjánsson.

DV

Ný lota í vaxtastríði.

Greinar

Ný lota er hafin í baráttunni um sparifé landsmanna. Í þetta sinn eru það ekki viðskiptabankarnir, sem ríða á vaðið með fjölbreyttum freistingum. Það er ríkissjóður, sem þenur sig á heilli auglýsingaopnu um ferns konar ávöxtun peninga hjá sjálfu ríkinu.

Í rauninni eru þessar auglýsingar eins konar neyðaróp. Hinar miklu lántökur ríkisins á liðnum árum eru farnar að leiða til ört vaxandi endurgreiðslna á þessum fyrri lánum. Í ár þarf ríkið til dæmis að endurgreiða 3.800 milljónir í innlendum spariskírteinum.

Ríkið telur sig ekki hafa efni á að missa þessa peninga úr rekstri sínum. Í fjárlögum og óafgreiddri lánsfjáráætlun þessa árs er gert ráð fyrir, að eigendur fjárins taki ný bréf fyrir hin gömlu að verulegu leyti. Í því felst auðvitað töluverð bjartsýni.

Í fyrra gerði ríkið líka ráð fyrir að ná peningunum til baka. Í því skyni bauð það innleysendum spariskírteina 8% raunvexti fyrir að taka ný bréf. Þrátt fyrir þetta gylliboð missti ríkið 500 milljónir úr höndum sér, væntanlega til þeirra, sem buðu betri vexti.

Þetta sýnir, að ríkissjóður þarf í ár að taka á honum stóra sínum og yfirbjóða markaðinn með svokölluðum okurvöxtum, ef dæmi hans á að ganga upp. Hann ætlar þar að auki ekki aðeins að halda í gamla féð, heldur ná í 600 nýjar milljónir í spariskírteinum og ríkisvíxlum.

Þess vegna auglýsir ríkið nú “Lánsöm þjóð” yfir þverar opnur. Þar sem áður var bara réttur dagsins, er nú kominn heill matseðill. Ætlazt er til, að þeir, sem ekki falla fyrir einu tilboðanna, sjái sér þó hag í einhverju hinna. Bara að þeir láni ríkissjóði.

Nú geta lánsfjáreigendur valið um hefðbundin skírteini með 7% raunvöxtum eða vaxtamiðaskírteini með 6,71% raunvöxtum, sem verða hærri yfir árið hjá þeim, sem eru duglegir við að nota skærin. Eða þá gengistryggð skírteini með 9% vöxtum handa þeim, sem vilja spá í gengið.

Ekki er aðeins hugsað um spákaupmenn og skæraeigendur, heldur beinist eitt tilboðið að markaði viðskiptabankanna. Það eru tiltölulega stutt, 18 mánaða spariskírteini með hreyfanlegum vöxtum og 50% vaxtaauka. Með þeim er ætlunin að ná fé af bankareikningum.

Í þessu er eins dauði annars brauð. Bankarnir telja sig vafalaust hafa skyldum að gegna hjá viðskiptamönnum sínum. Þeir munu þrýsta fram kröfum um aukið frelsi til að hækka vexti til að ná inn peningum til að seðja síhungraða skuldunauta þessa lands.

Slagsmálin um takmarkað og hægt vaxandi lánsfé í landinu eru að verða ofsafengnari, af því að enginn telur lengur verjandi að auka erlendar skuldir þjóðarinnar. Þar að auki hafa menn komizt að raun um, að vextir eru alls ekkert lægri í útlöndum en hér.

Mál þetta kristallar ruglið í stjórnmálunum. Annars vegar sitja ráðumenn á löngum fundum til að finna leiðir til að fá Seðlabankann til að lækka raunvexti. Ábyrgir menn eru stórhneykslaðir á, að svonefnt vaxtaokur sé að sliga atvinnulíf og húsbyggjendur.

Á sama tíma á ríkið einskis annars úrkosti í peningavandræðum sínum en að taka af fullum krafti og flenniauglýsingum þátt í vaxtauppboðinu. En ríkinu dugar bara ekki að keppa við bankana um 8-10% vexti, þegar raunvextir markaðarins í verðtryggðum veðskuldabréfum eru 14-18%!

Jónas Kristjánsson.

DV

Gegn æðinu í Afganistan.

Greinar

Almenningur á Vesturlöndum þarf að taka Afganistan upp á arma sína. Beita þarf beinum þrýstingi gagnvart sendiráðum Sovétríkjanna og öðrum umboðsaðilum þeirra, hvenær sem fólk getur búið sér til tækifæri til þess, allt frá mótmælastöðum yfir í hanastél.

Ennfremur þurfum við að beita óbeinum þrýstingi á lingerð stjórnvöld og utanríkisráðuneyti á Vesturlöndum. Fólk þarf að knýja slíka aðila til að sýna meiri festu andspænis langsamlega hrikalegasta glæp gagnvart mannkyninu, sem framinn er um þessar mundir.

Engir slíkir glæpir komast í hálfkvisti við glæpi Sovétríkjanna í Afganistan. Glæpir leppa þeirra í Víetnam og Eþíópíu eru ekki eins þungvægir, hvað þá glæpir leppa Bandaríkjanna í Mið og Suður-Ameríku, sem raunar fara minnkandi um þessar mundir.

Sovétstjórnin rekur gersamlega miskunnarlausan hernað gegn almenningi í Afganistan. Þriðjungur þjóðarinnar, hvorki meira né minna en fjórar milljónir manns, er flúinn til nágrannalandanna, einkum Pakistan. Þessu flóttafólki þurfa Vesturlandabúar að sinna.

Enn hörmulegra er ástandið hjá þeim, sem eftir sitja. Vígvél Sovétríkjanna eyðir kerfisbundið uppskeru og leggur þorp kerfisbundið í rúst. Börnum og konum er smalað í hús, sem sprengd eru upp. Börn eru pynduð með raflosti fyrir framan foreldra sína.

Vestrænir blaðamenn hafa sumir hverjir sýnt mikið hugrekki við að afla upplýsinga af æði Sovétríkjanna í Afganistan. Hið sama er að segja um marga vestræna lækna, sem starfa við hinar hættulegustu aðstæður meðal fólks í landinu. Hvorir tveggja eru taldir réttdræpir.

Franskir blaðamenn og læknar hafa staðið sig vel á þessu sviði. Liður í tilraunum sovétstjórnarinnar til að aftra störfum þessara aðila var dómurinn yfir franska blaðamanninum Jacques Abouchar. Hann var gripinn hjá skæruliðum og fékk 18 ára fangelsisdóm.

Það var ekki leppstjórn Sovétríkjanna í Kabúl, sem fékk Abouchar náðaðan og fluttan vestur fyrir tjald. Það var Sovétstjórnin sjálf, sem annaðist þá framkvæmd. Skilaboðin, sem hann var látinn flytja vestur, voru, að næst yrði farið harkalegar í sakirnar.

Sovétstjórnin er að reyna að loka Afganistan, skrúfa fyrir hinn litla straum upplýsinga, sem berst úr landinu til Vesturlanda. Sovétstjórnin fyrirlítur auðvitað mannréttindi, en hún vill samt ekki, að á Vesturlöndum sé mikið fjallað um glæpi hennar.

Þetta er raunverulega hliðstæðs eðlis og ofsóknir sovétstjórnarinnar gegn mannréttindasinnum og öðrum stjórnarandstæðingum heima fyrir. Markmiðið er hið sama, að stöðva fréttirnar, fá þögn. Aðferðirnar eru bara ógeðslegri og villimannlegri hjá Rauða hernum í Afganistan.

Takmarkið er, að augu Vesturlandabúa lokist fyrir fjöldamorðum Sovétstjórnarinnar, en opnist þeim mun betur fyrir alvarlegum glæpum, sem drýgðir eru á vegum bandarískra leppa í Mið og Suður-Ameríku. Þessu herbragði verðum við að verjast og taka Afganistan sérstaklega á dagskrá.

Varaformaður stjórnmálanefndar Evrópuþingsins, Jean-Francois Deniau, fyrrum ráðherra í Frakklandi, er nýlega kominn úr leyniferð til Afganistan. Hann hvatti Vesturlandabúa til öflugri stuðnings við skæruliða, þar á meðal hernaðarlegs. Undir þá hvatningu er eindregið tekið.

Jónas Kristjánsson

DV

Hættur við að hætta.

Greinar

Svokallað Þorsteinsmál ríkisstjórnarinnar og Sjálfstæðisflokksins hefur tekið enn eina kúvendingu um áramótin. Á ný er talið hugsanlegt, að þingflokkur sjálfstæðismanna kjósi Þorstein Pálsson flokksformann til stjórnarsetu í stað einhvers núverandi ráðherra.

Aðeins mánuður er síðan Þorsteinn gaf í blaðaviðtali þessa yfirlýsingu: .,Ég fer ekki í þessa ríkisstjórn og mun ekki gera neinar tillögur um breytingar á henni.” Ennfremur kvað hann löngu vera orðið tímabært, að menn hættu að velta vöngum yfir þessu.

Þorsteinn gaf desemberyfirlýsinguna, þegar komið hafði í ljós, að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins voru hver fyrir sig ófúsir að standa upp fyrir honum. Til dæmis var Matthías Bjarnason, sem áður hafði boðið Þorsteini sinn stól, orðinn afhuga hinu fyrra boði.

Fram að þessum tíma virtust tilraunir til að koma Þorsteini í ríkisstjórnina hafa byggzt á þeim misskilningi, að formaður Sjálfstæðisflokksins gæti sjálfur ákveðið slíkt. En það er ekki landsfundur flokksins, sem velur ráðherra hans, heldur þingflokkurinn.

Landsfundur og þingflokkur eru ólíkar stofnanir. Landsfundur samþykkir til dæmis margvísleg hugsjónamál, sem þingflokkurinn hefur lítinn áhuga á að framkvæma. Til dæmis stendur þingflokkurinn hugmyndafræðilega mun nær Framsóknarflokknum en landsfundurinn gerir.

Þegar Þorsteinn og stuðningsmenn hans í máli þessu áttuðu sig á staðreyndunum, lagði hann niður þann hinn fyrri stuðning við ríkisstjórnina, sem hafði fært honum óformlegan titil blaðafulltrúa hennar. Hann hætti að tala fyrir hönd stjórnarsamstarfsins.

Eftir að hafa um haustið talað á Alþingi í öllum stórmálum ríkisstjórnarinnar, þagnaði hann skyndilega um mánaðamótin nóvember-desember. Hann varði til dæmis ekki gengislækkunina eða fjárlögin og sagði þetta ekki vera sín mál, heldur ríkisstjórnarinnar.

En Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra sá fljótlega, að við svo búið mátti ekki standa. Hætta var á, að Þorsteinn og margir aðrir sjálfstæðismenn legðust í hreina stjórnarandstöðu. Ríkisstjórnin mundi smám saman flosna upp og nýjar kosningar yrðu í vor.

Sumir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa líka áttað sig á, að staða ríkisstjórnarinnar er slæm og fer hríðversnandi. Þeir hafa áhyggjur af slæmri útreið í næstu kosningum. Þeir eru opnari en áður fyrir mannaskiptum í ríkisstjórninni, ef það gæti lagað stöðuna.

Núverandi ráðherrar voru til skamms tíma vissir um, að meirihluti þingflokksins stæði að baki þeim, hverjum fyrir sig. Þess vegna neituðu þeir að standa upp. Nú hafa veður skipazt þannig, að hugsanlegt er, að einhver þeirra félli fyrir Þorsteini í atkvæðagreiðslu.

Verandi hættur við að hætta hefur Þorsteinn Pálsson ekki efni á að tapa þessari atrennu. Ef hann fær ekki stuðning, hefði hann betur staðið við desember-yfirlýsinguna. Steingrímur þarf líka á Þorsteini að halda, því að hann telur það geta blásið lífi í þreytta ríkisstjórn.

Niðurstaða málsins fer svo eftir, hvort nógu margir þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru þeirrar skoðunar, að þessi hugsanlega uppstokkun ríkisstjórnarinnar hafi í raun einhver umtalsverð áhrif, stjórnarflokkunum til góðs í næstu kosningum. Þeir velta sumir vöngum þessa dagana.

Jónas Kristjánsson.

DV

Skipt um skoðun í Kína.

Greinar

Deng Xiaoping og aðrir helztu ráðamenn Kína hafa komizt að raun um, að kredda frá miðri nítjándu öld dugi ekki til lausnar á vandamálum og verkefnum á ofanverðri tuttugustu öld. Þeir hafa lagt niður trú á Karl Marx og eru að taka upp félagslegan markaðsbúskap.

Þessi sinnaskipti marka vatnaskil. Annað stórveldið. þar sem valdamenn byggðu tilverurétt sinn á kenningum Karls Marx, hefur vikið af þeirri hraut. Eftir standa Sovétríkin, þar sem ráðamenn halda enn dauðahaldi í kredduna, af því að hún réttlætir völd þeirra.

Enginn vafi er á, að fráhvarf kínverskra ráðamanna mun valda flokksforingjunum í Sovétríkjunum erfiðleikum. Þeir standa uppi með staðnað efnahagslíf meðan markaðstilraunir Kínverja hafa leitt til drjúgs hagvaxtar á síðustu árum.

Rétt er að taka fram, að Kína er ekki að verða frjálslynt ríki á vestræna vísu. Það verður áfram flokksrekið einræðisríki. En bændur og verkafólk geta nú tekið land, húsnæði og tæki á leigu og rekið fyrir eigin reikning, – geta spáð í markaðinn hverju sinni.

Tilraunir Kínverja í þessa átt hafa leitt til 30%. aukningar á framleiðslu landbúnaðar árin 1980-1983 og rúmlega 20% á framleiðslu iðnaðar. Þessar háu tölur stafa auðvitað af því, að frjálsari vindar leika nú um efnahagslíf Kínverja eftir langvinnt kreddutímabil.

Fylgiríki Sovétríkjanna og önnur ríki, sem sækja tilverurétt valdastéttanna til kenninga Marx og Leníns, neyðast til að taka mark á sinnaskiptum kínverskra valdhafa. Ef tilraun þeirra gengur vel, munu linast þau tök, sem ráðamenn í Kreml hafa á ríkjum Austur-Evrópu.

Raunverulega má öllum vera ljóst nema ofsatrúarmönnum, að engar kenningar frá miðri nítjándu öld geta verið svo góðar, að þær megi vera alfa og ómega vinnubragða á ofanverðri tuttugustu öld. Kenningar frá upphafi iðnbyltingar duga ekki löngu eftir iðnbyltingu.

Þekkingin hefur aukizt stórkostlega á þessu tímabili. Tækni, vísindi og efnahagur standa í allt öðrum sporum en hægt var að sjá fyrir, þegar Karl Marx var að semja Das Kapital. Þvert ofan í kenningar hans um hrun miðstéttarinnar hefur sú stétt raunar tekið völdin.

Kenningar Karls Marx væru nú úreltar, jafnvel þótt þær hefðu einhvern tíma verið ágætar. En þær voru aldrei byggðar á staðreyndum, heldur skoðunum, sem hann hafði áður sett fram í trúar- og áróðursritinu Kommúnistaávarpið. Hann safnaði ekki í kredduna, heldur byggði á henni.

Spár og trúboð Karls Marx komu fram árið 1848 í Kommúnistaávarpinu. Það var eftir það, sem hann settist inn á British Museum og fór að leita að upplýsingum, sem gætu hentað kenningakerfinu. Hann byrjaði á öfugum enda og því varð marxisminn strax vísindalega einskis virði.

Það hefur tekið kreddumenn ótrúlega langan tíma að í átta sig á þessum vanköntum. En skilningurinn hefur þó eflzt svo, að nú má marxisminn heita útdauður sem kenning á Vesturlöndum. Hann er þar aðeins til umræðu í afar þröngum og fámennum sérvitringaklúbbum.

Að sjálfsögðu reynist slíkt fráhvarf erfiðara ráðamönnum, sem byggja alræði sitt á kenningum af þessu tagi. Þeir taka með slíku töluverða áhættu. Þess vegna eru sinnaskipti Dengs og félaga hans í valdastólum Kína hrein tímamót í söguskoðun og hugmyndafræði nútímans.

Jónas Kristjánsson.

DV

Aðgangur að örlæti.

Greinar

Á tímamótum er stjórnmálamönnum gjarnt að berja sér á brjóst og fara fjálglegum orðum um vilja sinn til góðra verka. Nýjar atvinnugreinar eru það atriði, sem mest hefur verið í tízku, ekki sízt í tíð núverandi ríkisstjórnar, sem segist sérstaklega hafa það á dagskrá.

Í verki sér þessa áhuga hvergi stað. Sem dæmi má nefna laxeldið, sem flestir eru sammála um. að eigi nokkuð örugga framtíðarmöguleika. Víða um land eru menn af vanefnum að berjast við að koma slíkum rekstri í gang. Opinberir sjóðir eru lokaðir þessu fólki.

Í rauninni ern áhugamál stjórnmálamanna allt önnur, bæði þeirra, sem nú skipa ríkisstjórn, og flestra hinna, sem um þessar mundir eru utan stjórnar. Þessi áhugamál má lesa út úr nýsamþykktum fjárlögum og lánsfjáráætluninni. sem nú liggur fyrir Alþingi.

Lánsfjáráætlunin gerir ráð fyrir, að í ár verði fjárfestur heill milljarður í landbúnaði, aðallega hinum hefðbundna landbúnaði, sem framleiðir lítt seljanlega vöru. Þessi milljarður verður auðvitað ekki notaður í annað, til dæmis ekki í brýna fjárfestingu í fiskeldi.

Samt veit ríkisstjórnin, að birgðir af landbúnaðarafurðum hlóðust upp í fyrra. Smjörfjallið er komið upp í 600 tonn og ostfjallið í sama magn. Til viðbótar hefur myndazt nautakjötsfjall og nemur það þegar meiru en 600 tonnum. Mjólkurframleiðsla jókst um tæp 3% í fyrra.

Það er aðeins í hinum frjálsu greinum landbúnaðar, að fjöll eru ekki að myndast. Framleiðsla á svínakjöti, kjúklingum og eggjum virðist vera í töluverðu samræmi við markaðinn. Enda eru ráðamenn landbúnaðarins að reyna að koma svonefndri framleiðslustjórn á þessar greinar.

Hin vaxandi vandræði við að koma í verð hinum hefðbundnu landbúnaðarafurðum hafa leitt til aukins álags á útflutningsuppbætur. Samkvæmt fjárlögum síðasta árs áttu þær að nema 280 milljónum króna, en urðu 468 milljónir. Í ár eiga þær að vera 380 milljónir, en verða vafalítið hærri.

Svo örvæntingarfull er þessi iðja, að ostur er seldur til Evrópu á verði, sem nemur 17% af framleiðslukostnaði. Alls átti í fyrra að flytja út um 1000 tonn af osti. Samt telja ráðamenn þjóðarinnar rétt að stuðla að eins milljarðs króna fjárfestingu í þessari grein.

Á fjárlögum þessa árs er ekki aðeins gert ráð fyrir rúmlega milljarði í uppbætur og niðurgreiðslur. Þar eru líka 139 milljónir til jarðræktarstyrkja og 18 milljónir til búfjárstyrkja, 26 milljónir til Búnaðarfélags Íslands og 31 milljón til Stofnlánadeildar landbúnaðarins.

Á þessu ári hyggst ríkið greiða niður vexti í landbúnaði upp á 81 milljón króna og greiða niður Lífeyrissjóð bænda upp á 111 milljónir króna. Þessir tveir liðir sýna ljóslega, að ráðamenn þjóðarinnar hafa langtum meiri ást á hefðbundnum landbúnaði en nokkurri annarri starfsemi.

Það er víðar en í landbúnaði, að menn vilja vinna hjá sjálfum sér en ekki neinum sérstökum atvinnurekanda. Aldrei hefur þó komið til mála, að ríkið tæki að sér lífeyriskostnað til dæmis bílstjóra og vinnuvélamanna, hvað þá að það tæki að sér lántökukostnað þeirra.

Þegar hefðbundin atvinnugrein hefur eins ljúfan aðgang að örlæti stjórnmálaaflanna í landinu og landbúnaðurinn hefur í raun. er ekki við því að búast, að peningar séu aflögu til að hvetja til framtaks í nýjum atvinnugreinum, er geti í framtíðinni greitt þær erlendu skuldir, sem ráðamenn eru nú að stofna til.

Jónas Kristjánsson

DV

Jól alvöruleysingja.

Greinar

Íslendingar eru sagðir trúaðastir manna, en gefum samt lítið fyrir Krist eða guð biblíunnar. Við erum sagðir manna hrifnastir af hjónabandinu, en erum samt sérstaklega afstæðir í viðhorfum til framhjáhalds. Við erum sagðir bera virðingu fyrir Alþingi, en vantreystum stjórnmálamönnum.

Íslendingar eru sagðir ekki trúa neinu, sem stendur í blöðunum, en eru samt manna ákafastir blaðalesendur. Við segjum okkur hamingjusamasta fólk í heimi, en getum þó viðrað fjárhagsvandræði okkar við spyrla frá virtum stofnunum, sem reyna að skyggnast inn í sálartötrið.

Þannig var nýlega búin til mynd af okkur. Hún sýnir einstaklega þrjózka þjóð, sem aldrei gefst upp. Hún sýnir heimsins mestu tækifærissinna, sem svara því, er hentar hverju sinni. Við virðumst laus við einlægnina, sem gerir slíkar kannanir kleifar úti í heimi.

Íslendingurinn er það, sem hann er. Eða það, sem hann þarf að vera. Eða það, sem hann ætti að vera. Altjend höfum við Gallup fyrir því, að við getum brugðið okkur í allra kvikinda líki eftir aðstæðum hverju sinni. Við þurfum ekki leikhús, af því að við erum leikhús.

Alvöruleysi okkar kemur fram í ótal myndum. Við veltum okkur til dæmis upp úr gamansögum um laxveiði landsbankastjóra, en gerum samt ekkert í því. Okkur þykir miður að þurfa að fjárfesta heilan milljarð í kúm og kindum á næsta ári, en gerum samt ekkert í því.

Við vitum, að framferði Sovétríkjanna í Afganistan og leppa þeirra í Eþiópíu er ekki tilviljun, heldur kerfislægur þáttur krabbameins, sem ógnar okkur. Samt sofum við á verðinum og veltum okkur upp úr alls kyns friðarrugli nytsamra sakleysingja á borð við þjóðkirkjuna.

Allt eru þetta þó smámunir í samanburði við tillitsleysi okkar gagnvart lítilmagnanum heima fyrir. Við veltum okkur í vellystingum praktuglega, en gleymum því, að til er fólk, sem ekki á hlutabréf í þeirri hamingju, sem mölur og ryð fá að vísu grandað.

Mikill meirihluti Íslendinga er ríkur. Við erum það ýmist vegna menntunar eða ábyrgðar, aðstöðu eða áhættu, yfirvinnu eða uppmælingar eða þá að hjónin vinna bæði úti. Með einhverjum slíkum hætti verðum við okkur úti um þau lífskjör, sem við teljum okkur þurfa.

Innan um þessa velsæld er fólk, sem hefur orðið útundan. Það hefur ekki menntun eða aðstöðu, ekki ábyrgð eða áhættu í starfi, ekki yfirvinnu eða uppmælingu. Fjölmennastar í þessum hópi eru einstæðar mæður og börn þeirra, einnig aldrað fólk og öryrkjar.

Jafnvel samtök launþega sinna ekki hagsmunum einstæðra mæðra. Þessi samtök hafa stundum hátt og stunda jafnvel hópefli í verkfallsvörzlu. En niðurstaðan er jafnan sú, að uppmælingarfólk og annar slíkur aðall fær hagnaðinn, en láglaunafólkið minna en ekki neitt.

Meðan nokkur þúsund íslenzk börn eru ekki þáttakendur í allsnægtum þjóðarinnar, getum við ekki sagt, að við séum stéttlaust þjóðfélag, þótt við séum sífellt að gorta af því. Við vitum, að okkur er skylt að búa til stéttlaust þjóðfélag, en gerum lítið í því.

Við okkur blasir langt jólafrí og væntanlega nægur tími til að hugsa málin. Við gætum notað hátíð kærleikans til að gera upp reikningana við tækifærishneigðina og alvöruleysið. Í von um það óskar DV öllum landsmönnum gleðilegra jóla.

Jónas Kristjánsson.

DV