Author Archive

Móðgaður þingfréttaritari.

Greinar

Páll Magnússon, þingfréttamaður Ríkisútvarpsins, hefur einokun á sínu sviði. Hann ræður, hvað birtist um störf Alþingis í útbreiddasta fjölmiðli landsins. Þeir, sem eru mótfallnir vinnubrögðum hans og vali, geta ekki beint viðskiptum sínum til annars sjónvarps.

Annað er uppi á teningnum í þingfréttum dagblaðanna. Ef þingfréttamaður blaðs gerir sig sekan um hlutdrægan fréttaflutning, geta lesendur sem hægast beint viðskiptum sínum til annars blaðs. og raunar velja lesendur og hafna svikalaust í samkeppnisheimi dagblaðanna.

Fræðilega séð eru þingfréttir Ríkisútvarpsins í samkeppni við þingfréttir annarra fjölmiðla. En augljóst er, að fólk neitar sér ekki um hljóðvarp og sjónvarp, þótt það sé ekki ánægt með einhvern efnisþátt þess. Þannig situr Páll Magnússon í skjóli einokunar.

Við slíkar aðstæður er ekkert hægt að gera nema gagnrýna. Það hlýtur að teljast ofur eðlilegt, að einokarar séu gagnrýndir, þegar ekki er hægt að hafna viðskiptum við þá. Þess vegna er ekkert athugavert við, að menn velti upphátt fyrir sér hlutdrægni þingfréttamanns.

Fulltrúi Kvennalistans í útvarpsráði hefur á þeim vettvangi látið orð falla um hlutdrægni í þingfréttum. Slík orð eru sjálfsögð og eðlileg í ljósi þeirra aðstæðna, sem raktar voru hér að ofan.

Ekkert er athugavert við, að hagsmunaaðilar á þessu sviði telji líklegt að þingfréttamaður sé haldinn einhverjum ákveðnum fordómum fremur en öðrum, geti verið hallur undir ríkisstjórn eða sé með hugann við mögulegt framboð á vegum Alþýðuflokksins í Suðurlandskjördæmi.

Ef þingfréttamaður telur slíkar vangaveltur ósanngjarnar, er eðlilegt, að hann biðji útvarpsstjóra eða einhvern aðila út í bæ um að fara yfir gögn málsins og rannsaka, hvort fótur sé fyrir ásökunum. Ef til vill gæti hann meira að segja lært eitthvað af slíkri athugun.

En í stað þess kærir Páll Magnússon Ingibjörgu Hafstað fyrir brot á 108. grein almennra hegningarlaga, þar sem allt að þriggja ára fangelsi liggur við að hafa í frammi skammaryrði, móðganir eða ærumeiðandi aðdróttanir við opinberan starfsmann, þegar hann er að gegna skyldustarfi sínu.

Páll Magnússon einokunarmaður telur það refsiverða móðgun eða ærumeiðingu eða skammir um sig, að hann sé gagnrýndur fyrir hlutdrægni. Hann leitar skjóls í einmitt þeirri einokun, sem veldur því, að gagnrýni er eina vörnin, sem þolendur hans eiga kost á.

Hvort sem Páli tekst eða ekki að skjóta sér á hak við sérstaka verndun, sem opinberir starfsmenn njóta í gömlum lögum, þá er hann minni maður fyrir að leita þessa skjóls. En það er því miður algengt. að einokarar telja sig ekki eiga að þurfa að sæta gagnrýni.

Bezt væri, að þjóðin þyrfti ekki að búa við einokun, sem ætíð lokast inni í hroka. Ef starfandi væru nokkrir þingfréttamenn við nokkrar stöðvar hljóðvarps og sjónvarps, mundu notendur sjálfir, en ekki neinir einokunarmenn, geta metið sjálfir, hvað þeir telja hlutdrægt.

Mál þingfréttamanns Ríkisútvarpsins er dæmi um það ástand, sem hægt væri að losna við með því að afnema einokun starfsfólks Ríkisútvarpsins á tveimur af mikilvægustu greinum fjölmiðlunar. Ef hann vinnur málið, er skrípaleikurinn fullkomnaður. Þá hljóta menn að sjá, að frelsið er betra.

Jónas Kristjánsson.

DV

Öryggi Íslendinga.

Greinar

Stundum er talað um, að lífsreyndar þjóðir eins og Bretar og Svíar haldi af öryggisástæðum uppi nokkru magni af ósamkeppnishæfri matvælaframleiðslu. Í löndum þeirra sé reynt að tryggja, að fólk hafi mat, þótt komi til hafnbanns, til dæmis af völdum ófriðar.

Hér á landi mundi hafnbann leiða til skorts á mörgum tegundum matvæla, sem þjóðin er vön að neyta. Hverfa mundu ávextir og korn af hvers kyns tagi, salt og sykur, margs konar pakkavara, áfengi og tóbak. Neyzlan yrði óhjákvæmilega mun einhæfari en áður.

Alvarlegastur yrði þó olíuskorturinn. Stefnt er að því, að jafnan séu í landinu þriggja mánaða olíubirgðir. Að þeim tíma liðnum mundu allir atvinnuvegir stöðvast, þar á meðal matvælaframleiðsla sjávarútvegs og landbúnaðar. Skömmtun gæti þó dregið stöðvunina á langinn.

Landsvirkjun er ekki háð olíu og á töluverðar birgðir af varahlutum. Þess vegna má reikna með, að unnt yrði að framleiða rafmagn um langan tíma, þótt aðflutningar stöðvuðust. Þessi mikilvægi kostur veldur því meðal annars, að unnt yrði að reka frystigeymslur.

Í þessum geymslum eru afurðir sjávarútvegs og landbúnaðar. Svo vel vill til, að birgðir landbúnaðarafurða eru mestar eftir haustslátrun, einmitt þegar fiskbirgðir eru minnstar. Þetta öryggismál hefur svo verið notað til varnar hinum hefðbundna landbúnaði.

Kjötfjallið, smjörfjallið og ostafjallið eru þó samanlagt ekki nema brotabrot af því öryggi, sem felst í þriggja mánaða birgðum af olíu. Þær birgðir mundu án skömmtunar gera fiskiskipaflotanum kleift að ná í rúmlega 1,2 milljónir tonna af fiski.

Ef við ætluðum að neyta þessa matar sjálf og hefðum ekki annað, mundi taka okkur mörg ár, líklega átta ár, að torga aflanum, sem fengist af þriggja mánaða olíubirgðum. Það er að vísu einhæf fæða, eins og raunar kjötið, en manneldislega nothæft í neyð.

Stóriðja okkar í sjávarútvegi, olíubirgðirnar og rekstraröryggi orkuveranna veita okkur matvælaöryggi, sem er margfalt á við aðrar þjóðir. Við þurfum því ekki að fara að því dæmi Breta og Svía að halda af öryggisástæðum uppi annars óþarfri búvöruframleiðslu.

Við þurfum ekki að búa við kjötfjall, smjörfjall og ostafjall af öryggisástæðum. Við þurfum ekki heldur að búa við framleiðslu, sem hæfi innanlandsmarkaði. Við gætum sem bezt haft hana mun minni og flutt inn mun ódýrari og í sumum tilvikum margfalt ódýrari afurðir.

Sú stefna flestra stjórnmálaflokkanna að rétt sé að miða framleiðslu hins hefðbundna landbúnaðar við svokallaðar innanlandsþarfir hefur engan stuðning frá kenningum um öryggi fremur en frá hagrænu mati. Í staðinn ætti að koma stefna frjálsrar verzlunar með innlendar og innfluttar afurðir.

Ef við vildum hins vegar enn auka matvælaöryggi okkar, er rétt að beina sjónum okkar að rekstraröryggi fiskiskipaflotans og frystigeymsla sjávarútvegsins. Það má gera með því að auka varahlutabirgðir á báðum sviðum, svo og orkuveranna og með því að auka olíubirgðirnar.

Þar sem ríkisvaldinu er ætlað að gæta öryggis þjóðarinnar, ætti það að koma sér upp olíubirgðastöðvum. Ennfremur að fela Almannavörnum að semja í samráði við hlutaðeigandi aðila, Landsvirkjun og samtök sjávarútvegs og fiskiðnaðar, skrá yfir æskilegar langtímabirgðir varahluta.

Jónas Kristjánsson.

DV

Reykjavíkurflugvöllur sigrar.

Greinar

Flest bendir til, að Reykjavíkurflugvöllur styrkist í sessi sem framtíðarvöllur innanlandsflugsins. Borgarskipulagið hefur kynnt tillögur um nýja flugstöð við Loftleiðahótelið, lengingu austur-vestur flugbrautarinnar og bættar samgöngur að og frá vellinum.

Reykjavíkurflugvöllur hefur löngum verið umdeildur og er enn. Margir hafa áhyggjur af slysahættu og hávaða, en aðrir telja öryggisatriði í lagi og hávaða minni en af umferð bíla. Um langan aldur hefur flug um völlinn verið bannað frá klukkan ellefu á kvöldin til sjö á morgnana.

Sumir skipulagsmenn renna hýru auga til landrýmis flugvallarins og telja þar geta risið 10.000 manna byggð, ef völlurinn væri fluttur. Það mundi spara íbúðarbyggingar í meiri fjarlægð frá miðborginni og um leið spara samgöngukostnað borgarbúa.

Þeir segja líka, að flugvöllurinn sé ekki lengur í borgarmiðju, þar sem þungamiðja byggðarinnar á Reykjavíkursvæðinu hafi færzt austur fyrir Borgarspítala. Fólk sé ekki miklu lengur á leiðinni úr Breiðholti suður á Keflavíkurvöll en vestur á Reykjavíkurvöll.

Á móti þessu er bent á, að margir þeir, sem eiga erindi til höfuðborgarinnar, þurfa einkum að sækja heim stofnanir og fyrirtæki í kvosinni og næsta nágrenni hennar. Notkun Keflavíkurvallar mundi lengja flugtíma og ökutíma þessa fólks um að minnsta kosti klukkustund.

Stungið hefur verið upp á lagningu einteinungs að japönskum hætti milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar. Það er skemmtileg hugmynd, en háð þeim annmarka, að slík mannvirki þurfa tugþúsundir farþega á degi hverjum til að standa undir hinum mikla stofnkostnaði.

Auðvitað væri ódýrara að reka einn flugvöll í Keflavík en þá tvo, sem nú eru reknir. Á móti því kemur, að nærri allar flugleiðir innanlands mundu lengjast töluvert með tilsvarandi aukningu benzínkostnaðar og annars rekstrar. Keflavík yrði í heild ekki ódýrari.

Reynslan frá útlöndum sýnir, að farþegar kjósa miklu fremur að nota litla flugvelli nálægt borgarmiðju en stóra flugvelli sem eru lengra í burtu. Keflavíkurflugvöllur yrði áreiðanlega óvinsæll sem arftaki Reykjavíkurflugvallar í innanlandsflugi og reyndar tæpast raunhæfur möguleiki.

Vegna byggðar er ekki lengur hægt að ræða um gerð flugvallar á Álftanesi og vegna náttúruspjalla kemur Gálgahraun ekki heldur til greina. Löngusker í Skerjafirði hljóta að teljast langsóttur kostur og amast hefur verið við Kapelluhrauni sem meira veðravíti en Reykjavík.

Af slíkum kostum virðist Geldinganes álitlegast, en hefur lítið verið rannsakað. Það er nógu stórt fyrir flugvöll og íbúðir eru ekki í grenndinni. En það gildir um Geldinganesið eins og aðrar hugmyndir um nýjan flugvöll, að byggingarkostnaður verður hrikalegur.

Að skoðuðum ýmsum þáttum þessa flókna og umdeilda máls er líklegt, að binda megi vonir við hljóðlátar flugvélar, sem þurfa tiltölulega stuttar flugbrautir. Kostir Reykjavíkurflugvallar eru margir og mikilvægir. þyngri á metunum en gallarnir.

Brýnt er að reisa nýja flugstöð við Loftleiðahótelið fyrir innanlandsflugið, bæta ökuleiðir þangað og lengja austur-vestur flugbrautina til að draga úr flugi yfir miðborgina. En um leið er ljóst, að slíkar framkvæmdir fela óbeint í sér, að Reykjavíkurflugvöllur festist í sessi.

Jónas Kristjánsson

DV

“Hvenær sem það verður”

Greinar

“Skrifstofustjóri hjá Pósti og síma telur þarna ekki um stórt mál að ræða. Þegar viðkomandi Grafarvogsbúi fær sinn síma tengdan – hvenær sem það verður – verði flutningsgjaldið á símanum hans einfaldlega lækkað um þá upphæð, sem hann verður þá búinn að ofgreiða í afnotagjöldum.”

Þessi kafli úr blaðafrétt veitir innsýn í hugarfarið, sem ræður ríkjum í opinberri þjónustu, er hefur lengi setið að einokun. Viðskiptavinirnir eru nokkurn veginn réttlausir. Embættismennirnir ákveða, hvað sé þeim fyrir beztu.

Ráðamönnum Pósts og síma finnst ekki stórt mál, að fólk sé farið að flytja í nýtt borgarhverfi án þess að geta fengið símann fluttan um leið. Þeir skammast sín ekki fyrir eymdina og skipulagsleysið, sem leiðir til, að síminn er ekki tilbúinn á réttum tíma.

Ráðamönnum Pósts og síma finnst ekki stórt mál, að fólk sé rukkað um afnotagjald af síma, sem það hefur ekki fengið. Þeir hyggjast bara ljúfmannlega endurgreiða þetta, þegar fólkið er búið að fá símann fluttan, hvenær sem það verður, eins og það var orðað.

Ráðamönnum Pósts og síma finnst ekki stórt mál, að fólk fái 90.000 króna símreikning fyrir notkun á lokuðum síma, eins og gerðist í Stykkishólmi fyrir áramótin. Þetta var bara mislestur, sögðu embættismennirnir og létu reikninginn niður falla, þegar sýslumaður var kominn í málið.

Nú eru ekki allir svo heppnir að geta sannað, að þeir hafi verið með lokaðan síma, þegar þeir fá hærri reikninga en þeir vilja trúa. Póstur og sími er eins og búð, sem neitar að sundurliða reikninga, og heimtar að fá að skrifa einfaldlega “vörur” á reikninginn.

Margoft hefur verið reynt að fá Póst og síma til að koma upp útbúnaði til að sundurliða símreikninga, svo sem gert er í Bandaríkjunum, þar sem samkeppni er milli símafyrirtækja. Skráð er dagsetning hvers símtals, hvert hringt er, hve lengi talað og hvað símtalið kostar.

Ráðamenn Pósts og síma hafa fyrir löngu ákveðið, að það sé neytendum fyrir beztu að fá ósundurliðaða reikninga. Þeir þurfa engan að spyrja, hvort þetta sé rétt kenning hjá einokunarstofnuninni. Eftirfarandi kafli úr blaðafrétt sýnir, hvernig þeir velja fyrir hönd notenda:

“Það, sem réð því, var einkum það, að það þótti of dýrt. Það réð úrslitum, því sá viðbótarkostnaður, sem hefði komið, hefði bitnað fyrst og fremst á neytendum og þeir hefðu áreiðanlega ekki verið tilbúnir til að taka þann kostnað á sig.” Þannig er málið afgreitt út úr heiminum.

Afleiðingin af yfirlæti ráðamanna Pósts og síma er, að fólk er gersamlega bjargarlaust gagnvart símreikningum. Það þýðir ekkert að segja Pósti og síma, að á heimilinu séu engir unglingar eða fylliraftar, sem skemmti sér við löng símtöl við Japan. Bara borga og það strax.

Póstur og sími er ekki eina dæmið um yfirgang opinberra stofnana. Meira að segja Hagstofan skammast sín ekkert fyrir að úthluta nafnnúmerum nýlátins fólks, þannig að börn sæta margvíslegum óþægindum vegna rukkana á óviðkomandi aðila. Númerakerfið er úrelt, segja þeir bara.

Auðvitað á fyrir löngu að vera búið að breyta úreltu nafnnúmerakerfi, alveg eins og fyrir löngu á að vera búið að koma á sundurliðuðum símreikningum. En embættismenn einokunarstofnana skammast sín ekkert fyrir dugleysi og valdahroka. Þeir yppta bara öxlum og segja, að þetta séu engin stórmál.

Jónas Kristjánsson

DV

Stækkum þjóðgarðinn.

Greinar

Þingvallanefnd, Náttúruverndarráð og Skipulagsstjóri ríkisins hafa réttilega hafnað óskum landeiganda og hreppsnefndar Þingvallasveitar um úthlutun tíu hektara af Mjóaneslandi undir um það bil 20 sumarbústaði. Miklu nær er, að ríkið kaupi Mjóanes og leggi undir þjóðgarðinn.

Ætlunin með sölu sumarbústaðalóðanna var að fjármagna byggingu fjárhúss á jörðinni. Slík hús þurfum við ekki fleiri í þessu landi og allra sízt í Þingvallasveit. Í staðinn er brýnt að stækka þjóðgarðinn, til dæmis með kaupum á þessari jörð og raunar fleiri jörðum við vatnið.

Þingvallanefnd hyggst fjalla aftur um mál þetta. Mikilvægt er, að hún bili ekki. Fyrri Þingvallanefndir hafa ýmsar staðið sig hrapallega, svo sem sú, er leyfði smíði sumarbústaða í landi ríkisjarðarinnar Gjábakka. Kominn er tími til að nefndin bæti fyrir brot fyrirrennaranna.

Þáverandi Þingvallanefnd úthlutaði Gjábakkalóðunum til vina og kunningja úr yfirstéttinni, án auglýsinga eða útboðs. Hún brást í kyrrþey hlutverki sínu sem verndari Þingvalla. Auglýsing fyrirætlunarinnar hefði sennilega leitt til, að glæpurinn hefði verið stöðvaður.

Nú má vænta þess, að Þingvallanefnd taki hlutverk sitt alvarlegar. Þjóðhátíð 1974 leiddi til ýmissa framkvæmda, sem hafa verið til bóta. Til dæmis hefur vegakerfið verið fært til og komið upp sauðfjárheldri girðingu umhverfis garðinn, svo að mikilvægustu dæmin séu nefnd.

Innan girðingar er gróðurfar í sæmilegu jafnvægi, þrátt fyrir mikið álag, sem jafnan þarf að fylgjast vel með. Utan girðingar er gróður hins vegar víða á undanhaldi, til dæmis í Grafningi, einkum sunnan vatnsins. Þar hafa ofbeit og uppblástur sett svip sinn á landið.

Ekki eru síður alvarleg mistökin, sem orðið hafa í skipulagi sumarbústaðahverfa. Verst er ástandið í landi Miðness. Einu sinni var stungið upp á, að þar yrðu reist Pótemkin-tjöld til að hlífa vegfarendum við útsýninu yfir ömurlegt kraðak sumarbústaðanna.

Innan þjóðgarðs er enn stunduð mjög svo umdeild iðja, ræktun barrtrjáa í landi lauftrjáa. Jafnan var umdeildur furulundurinn, sem nú er að breytast í sitkalund. En jafnvel á allra síðustu árum hefur Skógræktarfélag Árnessýslu ræktað grenitré norður af Vatnsvík.

Í hugmyndasamkeppni árið 1972 um skipulag Þingvalla fólu allar verðlaunatillögurnar í sér stækkun þjóðgarðsins. Sú stækkun hefur ekki enn komið til framkvæmda. Meira að segja hefur eyðijörðum í eigu ríkisins ekki enn verið bætt við þjóðgarðinn. Hvers vegna?

Raunar ætti að lýsa allt Þingvallasvæðið verndarsvæði með sérstökum lögum eins og sett voru um Mývatnssvæðið. Líklega væri heppilegast að fela Náttúruverndarráði umsjá svæðisins að mestu leyti, en Þingvallanefnd sæi áfram um þann hluta, sem var þingstaður.

Náttúruundur Þingvallasvæðisins birtast ekki aðeins í eldbornu landslagi, gjám og gróðri. Sjálft vatnið er merkilegt rannsóknarefni eins og sést af misjöfnum skoðunum á, hversu margar silungstegundir eigi þar heima.

Nauðsynlegt er að vinda bráðan bug að stækkun þjóðgarðsins og hafna sumarbústöðum í landi, sem garðurinn ætti að ná yfir. Jafnframt þarf að semja frumvarp til laga um enn stærra verndarsvæði, svo að stöðva megi hnignun af völdum ofbeitar, uppblásturs, átroðnings og kofasmíða.

Jónas Kristjánsson.

DV

Stærsti framsóknarflokkurinn.

Greinar

Við þurfum ekki á Framsóknarflokknum að halda, meðan við höfum stærsta framsóknarflokk þjóðarinnar í Sjálfstæðisflokknum. Sá flokkur er nú að ljúka gerð nýrrar stefnu í landbúnaðarmálum og er þar á nokkurn veginn nákvæmlega sömu skoðun og Framsókn.

Löngum hefur það verið talið bera vitni um sjálfseyðingarhvöt, þegar þéttbýlisfólk kýs Framsóknarflokkinn, enda hefur hann nú bara einn þingmann á Reykjavíkur- og Reykjanessvæðinu og mundi samkvæmt skoðanakönnunum missa hann, ef kosið væri þessa dagana.

En þetta kemur afturhaldinu ekki að sök, því að stærsti framsóknarflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn, gætir í hvívetna þeirra hagsmuna, sem valda fylgisleysi Framsóknarflokksins í þéttbýli. Þetta kom fram í Valhallarræðu Birgis Ísleifs Gunnarssonar á fimmtudaginn.

Samkvæmt ræðunni vill Sjálfstæðisflokkurinn minnka “þörfina” á útflutningsbótum og stefna að því, að þær verði “að mestu,’ lagðar niður á fimm árum. Þetta er nákvæmlega stefna Framsóknarflokksins og mun íhaldssamara en skoðanir, sem nýlega komu fram á ráðunautafundi landbúnaðarins.

Sjálfseyðingarhvöt Íslendinga felst aðeins að hluta í útflutningsbótunum, sem eru skítur á priki í samanburði við samanlagðar fórnir þjóðarinnar á altari hins hefðbundna landbúnaðar. Niðurgreiðslurnar og beinu styrkirnir nema hærri fjárhæðum en útflutningsbæturnar.

Segja verður þó Sjálfstæðisflokknum til hróss, að í áðurnefndri stefnu er sagt, að ekki beri að veita framlög til þeirra framkvæmda, sem auka mjólkur- og kjötframleiðslu. Það er raunar eina ljósið í stefnunni, sem Birgir Ísleifur kynnti á fimmtudaginn var.

Í tillögunum er ekkert fjallað um þann vanda, að framleiðsla hins hefðbundna landbúnaðar fyrir innanlandsmarkað er mun dýrari en innfluttar afurðir væru, allt upp í tíu sinnum dýrari. Sú skattlagning á neytendur er stærsti skattur, sem lagður er á þjóðina.

Í tillögunum er gert ráð fyrir, að landbúnaðinum verði áfram “stjórnað”. Sú stjórn felst í, að framleidd eru fjöll af óseljanlegum afurðum. Ekki er bara til smjörfjall, heldur einnig ostafjall, nautakjötsfjall, kindakjötsfjall og nú síðast líka kartöflufjall.

Ekki er von á góðu, þegar formaður stærsta framsóknarflokksins er fulltrúi stærsta landbúnaðarkjördæmis landsins og stendur í ströngu við að hækka franskar kartöflur í verði og reyna að koma á innflutningsbanni þeirra, svo að innlendar hafi frítt spil á kostnað neytenda.

Þorsteinn Pálsson og Jón Helgason framsóknarmenn létu setja aukaskatt á innfluttar kartöfluflögur. Sá skattur leiddi til þess, að innlendu verksmiðjurnar hækkuðu verðið hjá sér. Útkoman er auðvitað sú, að neytendur þurfa að borga meira en áður fyrir framsóknarstefnuna.

Nú gráta innlendir kartöfluflögumenn út af því, að salan hafi ekki aukizt hjá þeim, þrátt fyrir ofbeldi þeirra Jóns og Þorsteins. Þeir heimta núna algert innflutningsbann á franskar kartöflur meðan þeir eru að reyna að selja kartöflufjallið á uppsprengdu verði.

Við skulum fylgjast með því, hvaða árangri þeir munu ná í þessu máli á næstu vikum. Líklegt er, að enn einu sinni verði staðfest, að Sjálfstæðisflokkurinn er framsóknarflokkur, sem styður ríkjandi stefnu í landbúnaði og er jafnan tilbúinn til að fórna hag neytenda og skattgreiðenda, svo sem hin nýja landbúnaðarstefna hans sýnir greinilega.

Jónas Kristjánsson.

DV

Arkin og atómstöðin.

Greinar

Þakka ber William Arkin fyrir að ljóstra upp um bandarískar kjarnorkuáætlanir, sem í tíu ár hafði verið haldið leyndum fyrir stjórnvöldum þeirra ríkja, er koma við sögu í ráðagerðum þessum. Uppljóstrun hans mun sennilega leiða til vandaðri vinnubragða af bandarískri hálfu í framtíðinni.

Ekki er lengur hægt að afskrifa Arkin sem áhugamann, þótt hann hafi fyrir fimm árum hampað röngum upplýsingum um kjarnorkuvopn á Íslandi. Nú er komið í ljós, að hann er sérfræðingur, sem taka verður mark á, þótt upplýsingar hans séu enn ekki alveg nákvæmar.

Bandaríski flotinn hefur í tíu ár samið og endursamið áætlanir, staðfestar af forsetum landsins, um að flytja kjarnorkuvopn til Íslands og sex annarra landa, að fenginni heimild forseta Bandaríkjanna og stjórnvalda landanna, sem ætlað er að hýsa vopnin.

Upphaflega var gert ráð fyrir, að ekki þyrfti sérstaka heimild forseta Bandaríkjanna, en í þeirri áætlun, sem nú gildir, þarf að fá slíka heimild. Alltaf hefur verið gert ráð fyrir, að heimild þyrfti að fá hjá stjórnvöldum viðkomandi ríkja bandamanna.

Ekkert er athugavert við, að slíkar áætlanir séu samdar og staðfestar heima fyrir í Bandaríkjunum. Hitt er athugavert, að áætlunum sé haldið leyndum fyrir öðrum málsaðilum, stjórnvöldum landanna sjö. Í því felst óviðeigandi fyrirlitning á bandamönnum Bandaríkjanna.

Robert Falls, fyrrum yfirmaður kanadíska hersins, hefur sagt, að það sé siðlaust að gera áætlanir um notkun annarra landa í viðkvæmum tilfinningamálum á borð við kjarnorkuvopn án þess að hafa um það samráð. Bandaríkin séu siðferðilega skyldug að hafa slík samráð.

Forstjóri Atlantshafsbandalagsins, Carrington lávarður, hefur gagnrýnt vinnubrögðin vestra. Hann segir við hæfi að leitað sé samráða við stjórnvöld viðkomandi ríkja um slíkar kjarnorkuáætlanir. Ennfremur segir hann, að ekki eigi að draga slík samráð til síðustu stundar.

Íslenzk stjórnvöld hafa komið rétt fram í málinu. Geir Hallgrímsson tók með fyrirvara mark á William Arkin og krafðist skýringa hjá sendimanni bandaríska utanríkisráðuneytisins. Um síðir komu loðin svör, sem íslenzk stjórnvöld hafa talið nokkurn veginn fullnægjandi.

Svörin fólu í sér, að engin kjarnorkuvopn yrðu flutt hingað til lands án leyfis íslenzkra stjórnvalda. Þessi svör hafa nú verið staðfest í fjölmiðlum í Bandaríkjunum og Kanada. Þar með er málið úr sögunni að sinni, en hins vegar ekki lærdómurinn, sem fylgir því.

Stundum gætir tilhneigingar hjá bandarískum embættismönnum og einkum þó herforingjum að líta á bandamenn sem eins konar leppríki. Almenningur í Mið og Suður-Ameríku hefur mátt þola mikinn yfirgang leppa af ýmsu tagi. En hér á Íslandi hafna menn því algerlega að vera leppríki.

Það er í stíl við hugarfarið, að bandarískir embættismenn hafa látið í ljósi megna óánægju með framgöngu Arkins og hafa á orði að sækja hann til saka fyrir brot á lögum um öryggi ríkisins. Hefur hann þó ekki gert annað en að stuðla að siðaðri ráðagerðum þeirra í framtíðinni.

Vonandi þurfum við ekki aftur á Arkin að halda. Við viljum ekki, að fleiri leyndarskjöl séu til, sem varði okkur í viðkvæmum ágreiningsefnum. Sem bandamenn krefjumst við, að komið sé hreint fram við okkur. Trúnaðartraustið hefur laskazt og má ekki við öðru áfalli.

Jónas Kristjánsson.

DV

Enn sigrar Framsókn.

Greinar

Stjórnarflokkarnir hafa náð samkomulagi um ný útvarpslög á þann hátt, að tveir þingmenn þeirra hafa komið sér saman um breytingar á upphaflegu frumvarpi og gert það að enn meiri moðsuðu en áður. Frumvarpið var slæmt fyrir og er eftir breytingarnar orðið enn verra.

Frelsið, sem frumvarpið átti í orði kveðnu að auka, er skert verulega í nýju útgáfunni. Settar eru inn greinar, sem miða að eflingu Ríkisútvarpsins og aðrar, sem torvelda frjálsan útvarpsrekstur. Ljóst má vera, að í enn einu málinu hefur stefna Framsóknarflokksins sigrað.

Upprunalega frumvarpið var spor í þá átt að auka frelsið í útvarpsmálum. Það var að vísu mjög varfærnislegt, enda samið af nefnd allra flokka sem eins konar málamiðlun milli einokunarsinna og frjálsræðissinna. Enginn var í rauninni sáttur við þessa málamiðlun.

Ólafur Þórðarson og Halldór Blöndal alþingismenn hafa nú komið sér saman um nýja málamiðlun, sem er meiri moðstuða en hin fyrri. Eina skýra línan í breytingum þeirra er, að dregið er úr því frelsi, sem upphaflega var markmiðið með starfi hinnar svokölluðu útvarpslaganefndar.

Frumvarpið felur í sér, að frjálsar útvarpsstöðvar eru skyldaðar til að greiða sérstakt leyfisgjald, svo og öll önnur opinber gjöld, svo sem tekju- og eignaskatt, útsvar og aðstöðugjald, en Ríkisútvarpið á að sleppa við öll þessi opinberu gjöld.

Frumvarpið felur í sér, að frjálsar útvarpsstöðvar eru skyldaðar til að láta hluta af tekjum sínum renna til Sinfóníuhljómsveitarinnar til að létta undir með Ríkisútvarpinu, sem á að fá að sitja áfram að bæði afnotagjöldum og auglýsingatekjum.

Frumvarpið felur í sér, að afnotagjöldum Ríkisútvarpsins er breytt í skatt. Það á að skylda þjóðina til að greiða rekstur Ríkisútvarpsins, þótt margir mundu fremur kjósa að láta sinn hluta renna til frjálsra útvarpsstöðva. Fólk fær ekki að velja.

Frumvarpið felur í sér, að auka á rekstur Ríkisútvarpsins á ýmsan hátt, til dæmis með staðbundnu útvarpi og staðbundinni dagskrárgerð. Augljóst er, að þessi ákvæði eiga að draga úr líkum á, að staðbundið útvarp annarra aðila verði að veruleika.

Allar þessar breytingar og aðrar miða að því að hindra frelsið á borði, þótt annað sé haft í orði. Sjónarmið framsóknarmanna hafa gersigrað í hinni nýju málamiðlun og ekkert tillit er tekið til þeirra, sem vildu færa frumvarpið fremur í aukna frjálsræðisátt.

Enn sem komið er felst aðeins í þessu sigur Ólafs Þórðarsonar á Halldóri Blöndal. Alþingi getur enn gripið í taumana og breytt frumvarpinu, bæði til að auka frelsið og til að stöðva ákvæðin um útþenslu Ríkisútvarpsins. Vonandi ber það gæfu til slíks.

Satt að segja væri bezt, að hin nýja útgáfa útvarpslagafrumvarpsins fengi að daga uppi á Alþingi. Það er óskapnaður, sem tryggir, að Íslendingar verði áfram eftirbátar annarra þjóða í útvarpsefnum. Frjálsræðisöflin geta þá alténd haldið áfram baráttunni.

Einhvern tíma munu þessi öfl eignast stuðningsmenn á Alþingi, menn sem láta ekki Framsóknarflokkinn beygja sig í hverju málinu á fætur öðru. Meira frelsi í framtíðinni er mikilvægara en næstum ekkert frelsi strax. Þrýstingurinn mun vaxa og færa okkur betri lög, þótt síðar verði.

Jónas Kristjánsson.

DV

Hús kosta peninga.

Greinar

Nýjustu aðgerðir stjórnvalda í húsnæðismálum eru fyrst og fremst millifærslur innan húsnæðisgeirans og hafa því ekki varanlegt gildi. Linaðar verða þjáningar þeirra, sem fengið hafa lán, á kostnað hinna, sem enn bíða eftir lánum eða eru að sækja um lán.

Tilraunir til að leysa vandræði húsbyggjenda í alvöru hljóta að kosta peninga. Allt annað er hrein blekking og óskhyggja. Ríkisstjórnin og meirihluti hennar á Alþingi ráða því, hversu mikið fé fer til húsnæðismála og þá ekki til annarra brýnna mála.

Ríkisstjórnin hefur lofað húsbyggjendum lánum fyrir 80% kostnaðar á viðráðanlegum raunvöxtum til um það bil 40 ára. Hún hefur allt kjörtímabilið til að efna loforðið. Senn er tíminn hálfnaður og verkefnið skammt á veg komið, enda er þjóðarbúið ekki vel statt.

Húsbyggingar á Íslandi eru ekki arðbærar, að minnsta kosti ekki í því magni, sem þær eru stundaðar. Engum heilvita manni dytti í hug að byggja hús til að leigja það út. Miklu fremur eru húsnæðismálin pólitísk hugsjón allra flokka. Hugsjón, sem greiða þarf niður af sameiginlegu fé.

Niðurgreiðslur í formi öfugra raunvaxta eru varhugaverðar, þar með talin niðurfelling verðtryggingar fyrstu þrjú árin. Einnig er varasamt að beina aðstoðinni eingöngu að þeim, sem geta sannað, að fjárfesting þeirra sé hrein endaleysa, enda hætta þá hinir bara að borga.

Hitt er sanngjarnt, sem bent hefur verið á, að miða þurfi endurgreiðslur húsnæðislána við aðra vísitölu en lánskjaravísitölu. Fráleitt er, að gróðafíkn ríkisins á sviði áfengis og tóbaks eigi á vegum lánskjaravísitölu að geta sett fjölda húsbyggjenda á höfuðið.

Byggingavísitala sýnist skynsamari kostur, en leysir þó ekki allan vanda, því að hún getur eins og lánskjaravísitalan lent á skjön við kaup og lífskjör fólks. Bezt væri að miða verðtryggingu húsnæðislána við kaupgjaldsvísitölu, svo að fólk viti, að hverju það gengur.

Auðvitað þarf að byrja á að leysa vandræði þeirra, sem hafa á síðustu árum lent í misgengi lánskjara og kaupgjalds. Það ætti að gera með því að endurgreiða fólki mismuninn á greiðslum samkvæmt þessum tveimur vísitölum og haga rukkunum framvegis í samræmi við hina síðari.

Vegna fjárskorts er til að byrja með ekki hægt að gera þetta á annan hátt en nú á að fara að gera, – með því að fresta því að veita ný lán. En þetta er mun heiðarlegri og skynsamlegri leið en að skvetta 150-200 þúsund krónum í þá, sem hæst geta grátið í Húsnæðisstofnun ríkisins.

Líklegt er, að til viðbótar við þessa breytingu þyrfti að greiða niður raunvextina. Þeir hafa tilhneigingu til að verða háir hér á landi vegna gífurlegs skorts á fjármagni. Húsbyggingar eru ekki samkeppnishæfar á því sviði og þola varla meira en 4% raunvexti.

Ef stjórnmálamenn vilja standa við þá hugsjón að gera þjóðinni kleift að byggja yfir sig, er líklegt, að greiða þurfi niður mismuninn á raunvöxtum hins frjálsa markaðar og þeim raunvöxtum, sem íbúðarhúsnæði getur staðið undir. Með 80% lánum til 40 ára ætti slíkt að duga.

En hvort sem þessar tvær leiðir eða aðrar eru farnar, er útilokað að forðast þá staðreynd, að það kostar peninga, en ekki millifærslur eða aðrar sjónhverfingar, að gera þjóðinni kleift að byggja yfir sig. Ennfremur, að þeir peningar verða ekki notaðir í annað.

Jónas Kristjánsson.

DV

Skaðleg framleiðslustjórn.

Greinar

Ekki er nóg að hindra, að Framleiðsluráð landbúnaðarins nái stjórnartökum á nýjum búgreinum til viðbótar við þær, sem það ræður fyrir. Einnig er nauðsynlegt að afnema stjórn ráðsins á framleiðslu hins hefðbundna landbúnaðar. Reynslan sýnir, að hún leiðir til ófarnaðar.

Miklar og vaxandi birgðir eru af óseljanlegum afurðum ráðsins. Hálfs árs birgðir eru til í smjörfjalli, hálfs árs birgðir í ostafjalli, hálfs árs birgðir í nautakjötsfjalli, heils árs birgðir í dilkakjötsfjalli og tveggja ára birgðir í kartöflufjalli.

Tölur frá 1. desember sýndu 409 tonna smjörfjall, en ársneyzlan er 918 tonn. Ostafjallið var 922 tonn, en ársneyzlan er 1700 tonn. Nautakjötsfjallið var 1000 tonn, en ársneyzlan er 2000 tonn. Kindakjötsfjallið var 11.551 tonn, en ársneyzlan er 9739 tonn.

Samt hafði mikið verið gefið til útlanda til að reyna að grynna á birgðunum. Útflutningsuppbætur áttu samkvæmt fjárlögum að vera 280 milljónir, en ruku upp í 480 milljónir króna. Osturinn fór til Evrópu á 16% af kostnaðarverði og smjörið er nú í 10%.

Engin fjöll hafa hins vegar myndast í þeim greinum, sem framleiðsluráð stjórnar ekki, en sækist eftir að ná tökum á. Engin fjöll eru af eggjum og kjúklingum, svínakjöti og loðdýrum. Á þeim sviðum sér markaðurinn sjálfkrafa um að halda framboði í jafnvægi.

Ekki er einungis um að ræða, að skorturinn á framleiðslustjórn hafi komið í veg fyrir offramleiðslu á þessum sviðum. Skorturinn á framleiðslustjórn hefur líka leitt til minni verðhækkana en hafa orðið hjá stýrðu greinunum hjá Framleiðsluráði landbúnaðarins.

Frá desember 1972 til júní 1984 hækkaði hið framleiðslustýrða dilkakjöt um 3583%, nautakjötið um 5736%, nýmjólkin um 4050% og osturinn um 3921%, allt saman í óniðurgreiddum tölum. Í öllum tilvikum voru þessar hækkanir langt umfram verðbólgu tímabilsins.

Í óstýrðu greinunum voru hækkanirnar ekki aðeins minni en í stýrðu greinunum, heldur einnig hóflegar í samanburði við verðbólgu tímabilsins. Svínakjötið hækkaði um 2606%, kjúklingarnir um 2530%, eggin um 2508%. Á sama tíma hækkuðu laun um 2514%.

Niðurstaðan er, að stjórnleysi er ódýrara fyrir neytendur, launþega og skattgreiðendur en stjórn Framleiðsluráðs landbúnaðarins. Þessir hagsmunir eru svo yfirgnæfandi, að augljós þjóðarhagur felst í, að ráð þetta verði lagt niður sem allra fyrst.

Slík breyting væri líka í þágu bænda. Í óstýrðu greinunum geta þeir borið höfuðið hátt, meðan stýrðu bændurnir hafa sætt og munu áfram sæta gagnrýni fyrir að liggja uppi á neytendum, launþegum og skattgreiðendum. Slík niðurlæging getur ekki gengið lengi.

Einhvern tíma rís þjóðin upp gegn oki Framleiðsluráðs landbúnaðarins og brýtur vald þess á bak aftur. En það verður því miður ekki í tíð þessarar ríkisstjórnar, er hefur ráðið sem eitt af gæludýrum sínum og leyfir því að ráðskast með hluta ríkisvaldsins.

Þvert á móti er framleiðsluráðið í sókn um þessar mundir með aðstoð systurstofnana sinna. Það stefnir að stjórnartökum á öllum búgreinum. Neytendur, launþegar og skattgreiðendur verða að taka hart á móti þessu skrímsli. sem hvarvetna eitrar út frá sér.

Jónas Kristjánsson

DV

Hungurframleiðsla.

Greinar

Íslenzkir fjölmiðlar hafa fengið tækifæri til að komast að raun um, að hjálpin frá Íslandi til Eþíópíu kemst til skila. Gamalgróið trúboð Íslendinga þar syðra veldur því, að fulltrúar íslenzku þjóðkirkjunnar eru þar í grasrótinni og geta fylgzt með varningnum á leiðarenda.

Því er ekki þannig farið með meirihlutann af aðstoð annarra ríkja Vesturlanda. Hann fer í að halda uppi 300 þúsund manna her ógnarstjórnarinnar í Addis Ababa, sem hefur búið til hungursneyðina í landinu. Leiðtogar hjálparstarfsins reyna að þegja yfir þessu eins og þeir gerðu í Kampútseu á sínum tíma.

Mörg ríki eru á þurrkasvæðinu sunnan við Sahara, til dæmis Súdan, Tsjad, Níger, Búrkína Fasó, Malí og Máretanía. Hvergi hefur þó verið framleidd önnur eins hungursneyð og í Eþíópíu. Munurinn felst í þjóðskipulaginu, sem ógnarstjórn kommúnista hefur innleitt í Eþíópíu.

Um 60% af landinu er ræktanlegt, en aðeins 13% er ræktað. Bændur vilja ekki framleiða meira en ofan í sig og sína, því ríkisstjórnin stelur hinu, auk þess sem hún reynir að þvinga þá inn í samyrkjubú. Þar á ofan heyr hún útrýmingarstríð gegn íbúum Erítreu og Tigre.

Öll kredda er hættuleg, en verst er sú, sem upprunnin er í Sovétríkjunum. Engin kredda felur í sér eins mikla fyrirlitningu á fólki. Hræðileg eru örlög þeirra þjóða, sem hafa lent undir hramminum. Við munum eftir Kampútseum. Nú eru íbúar Eþíópíu í eldlínunni.

Ógnarstjórnin í Addis Ababa hefur engar mannlegar tilfinningar í garð íbúa landsins. Á byltingarafmælinu eyddi hún í viskí upphæðum, sem hefðu getað nært þjóðina í heilt ár. Að öðru leyti fara allir fjármunir hennar í að kaupa vopn frá Sovétríkjunum.

Ógnarstjórnin hefur afrekað að tolla hjálpargögn, sem koma til landsins. Bryggjur, sem eru fráteknar fyrir hjálparstarf, notar hún til að skipa upp hergögnum, meðan hjálparskipin bíða. Þannig framkallar stjórnin hungur íbúanna um leið og hún kastar sprengjum á þá.

Ógnarstjórnin tefur fyrir starfi hjálparliða á ýmsan hátt. Hún frestar afgreiðslu á ferðaleyfum, svarar ekki fyrirspurnum og gleymir að gefa út vegabréfsáritanir. Leiðtogar hjálparstarfsins þegja um þetta, af því að þeir vilja ekki spilla samstarfsmöguleikunum.

Sorglegt er, að verulegur hluti hinnar vestrænu hjálpar fer til að halda uppi herjum ógnarstjórnarinnar og stuðlar þannig að framhaldi hungursneyðarinnar. Það er í stíl við þetta, að Sameinuðu þjóðirnar hafa nú ákveðið að reisa mikla ráðstefnuhöll í Addis Ababa.

Tímabært er, að hjálparstofnanir á Vesturlöndum endurskoði vinnubrögðin í Eþíópíu. Þær ættu að reyna að hindra ranga notkun hjálpargagnanna og nota heldur stofnanir á borð við íslenzku þjóðkirkjuna, sem hafa reynzt geta komið sinni hjálp á leiðarenda.

Ennfremur er nauðsynlegt að láta meiri hluta af hjálpinni renna um nágrannalöndin, svo sem Súdan. Á þann hátt stuðlar hjálpin ekki að viðgangi ógnarstjórnarinnar, heldur grefur undan henni. Sú hjálp, sem grefur undan hungurframleiðendum, er mikilvægust.

Hungursneyðin í Eþíópíu er skólabókardæmi um, hvernig hægt er með kreddu að framleiða hungur, svelta milljónir manna til dauða. Í Kampútseu tókst kreddunni fyrir nokkrum árum að þurrka út gamla menningu. Nú er svipuð saga að gerast í Eþíópíu.

Jónas Kristjánsson.

DV

Hin græðandi hönd.

Greinar

Loksins hafa stjórnvöld í raun tekið jákvæða afstöðu til fiskeldis í landinu. Sverrir Hermannsson orkuráðherra hefur gefið vilyrði fyrir, að velheppnuð borhola misheppnaðrar sjóefnaiðju verði notuð til að veita fiskræktendum aðgang að ódýrri hitaveitu.

Hingað til hafa stjórnmálamenn verið miklir í orði en litlir á borði, þegar um fiskeldi hefur verið að ræða. Í reynd hafa þeir í rúman aldarfjórðung látið viðgangast, að ríkiskerfið legði dauða hönd sína á tilraunir brautryðjenda til að koma fiskeldi á fót.

Hér í leiðaranum var um daginn minnt á sögu Laxalóns. Embættismenn hins opinbera ofsóttu það framtak í að minnsta kosti aldarfjórðung og reyndu að koma á það sjúkdómsorði. Meðal annars fékk Laxalón ekki tilskilda ríkisstimpla til að fá að selja seiði regnbogasilungs.

Í 30 ár kom aldrei upp neinn sjúkdómur í regnbogasilungi Laxalóns og er þar líklega einsdæmi í heiminum. Aðeins einu sinni kom þar upp nýrnasjúkdómur í laxi. Það er sami árangur og náðst hefur í Kollafjarðarstöð ríkisins, þar sem þessi sjúkdómur hefur nú komið upp.

Þeim, sem söguna þekkja, verður óglatt af að sjá nú nokkra Keldnamenn, starfsfélaga yfirdýralæknis, fara með hortugt fleipur á prenti um mál þetta. Kerfismenn létu sig á sínum tíma ekki muna um að reyna að koma óorði á erlenda vísindamenn, Frank Bregnballe og dr. Trevor Evelyn.

Fjöldi góðra manna reyndi að sporna gegn ofsóknum kerfisins, svo og samtök á borð við Verzlunarráð. Margir alþingismenn lögðu opinberlega hönd á plóginn. Einu sinni reyndi Allsherjarnefnd alþingis að vernda Laxalón. En kerfið hafði jafnan sitt fram.

Með samræmdum aðgerðum embættismanna undir verndarvæng landbúnaðarráðuneytisins var komið í þrjá áratugi í veg fyrir, að fiskeldi gæti þróazt hér með sama hætti og í Noregi á sama tíma. Og allt virðist þetta hafa verið gert til að koma á einokun ríkisins.

En núna er nóg komið um sorgarsögu hinnar dauðu handar. Við skulum heldur beina athyglinni að hinni græðandi bendi, sem komin er til skjalanna um allt land, ekki fyrir tilverknað eða fjárstuðning ríkisins, heldur þrátt fyrir afskipti ríkisins af íslenzku fiskeldi.

Um það bil 30 fiskeldisstöðvar hafa tekið til starfa og um 10 munu fljótlega komast í rekstur. Í litlu bæjarfélagi, Grindavík, eru hvorki meira né minna en fjórar stöðvar í uppbyggingu eða gangi. Þróunin er komin á fullt skrið og verður ekki stöðvuð úr þessu.

Menn fara mismunandi hratt út í ævintýrið. Í Grundarfirði er útgerðarmaður að koma upp 50 þúsund seiða stöð, í Grindavík er Sambandið að reisa 500 þúsund seiða stöð og í Kelduhverfi ráðgera Eykonsmenn fimm milljón seiða stöð. Vonandi gengur alls staðar vel.

Í fyrra lánaði Framkvæmdasjóður 22 milljónir til fiskeldis og Byggðasjóður fjórar auk þess sem hann gaf eina milljón. Þetta er ekki nema dropi í hafið og er ekkert í samjöfnuði við stuðninginn við hinar hefðbundnu greinar. Enda hefur þing Stéttarsambands bænda varað við þróun fiskeldis!

En nú er komin betri tíð með blóm í haga. Orkuráðherra býður fyrir lítið fé 25 megavatta afl á Reykjanesi. Næsta skref verður síðan að draga úr lánsfé til hefðbundinna greina og beina því í staðinn að fiskeldi. Fortíðin er liðin og nú á framtíðin að taka við.

Jónas Kristjánsson

DV

Hótað nýrri lokun.

Greinar

Einokun Ríkisútvarpsins hefur smám saman verið að breytast úr einokun ríkisvaldsins yfir í einokun starfsmanna. Völdin hafa verið að færast frá þingkjörnu útvarpsráði yfir til æviráðinna stjórnenda og starfsmanna og nú síðast einnig til starfsmannafélaga.

Ýmis dæmi eru um þessa tilfærslu Ríkisútvarpsins yfir í sjálfseignarstofnun starfsmanna. Útvarpsráð hefur átt í sívaxandi erfiðleikum með að ná fram meirihlutahugmyndum sínum um mannaráðningar. Og upp á síðkastið eru starfsmenn farnir að taka setu í ráðinu.

Í Ríkisútvarpinu hefur verið búið til frumvarp til laga um, að einokun þess skuli ekki rofin, heldur á formlegan hátt breytt í einokun starfsmanna. Kvennalistinn hefur verið gabbaður til að flytja frumvarpið, sem er vitlausasta plaggið á Alþingi um þessar mundir.

Í viðtölum við starfsmenn Ríkisútvarpsins hefur í vaxandi mæli komið fram af þeirra hálfu sú skoðun, að gagnrýni, til dæmis í lesendabréfum, á störf þeirra innan einokunarinnar feli í sér atvinnuróg. Þarna er samkeppnislaust fólk, sem vill fá frið fyrir gagnrýni.

Frægast er þó, er ráðamenn starfsmannafélaga Ríkisútvarpsins létu starfsliðið stöðva sendingar útvarps og sjónvarps í fjölmiðlaleysinu fyrr í vetur. Þá sannfærðist meirihluti þjóðarinnar um, að hvorki ríkisvaldi né starfsmannafélögum væri treystandi fyrir einokun.

Athyglisvert er, að engir starfsmenn Ríkisútvarpsins eða starfsmannafélög hafa gert tilraun til að sækja fjármálaráðuneytið að lögum fyrir meint vanskil á launum. Samt eru nú liðnir fjórir mánuðir síðan þessir aðilar töldu sér stætt á að stöðva sendingar Ríkisútvarpsins.

Ekki er síður athyglisvert, að nú hótar forvígismaður starfsmannafélaganna nýrri lokun Ríkisútvarpsins, ef ekki verði látin niður falla ákæra ríkissaksóknara á hendur félögunum fyrir stöðvun sendinga útvarps og sjónvarps í fjölmiðlaleysinu fyrr í vetur.

Með hótun forvígismannsins er enn staðfest, að starfsmannafélögum Ríkisútvarpsins er ekki treystandi fyrir einokun þeirra á útvarps- og sjónvarpsrekstri í landinu. Hótun hans ætti að vera alþingismönnum hvatning til að vinda sér í að frelsa útvarp og sjónvarp.

Forvígismaðurinn hélt í síðustu viku fréttamannafund til að búa til tækifæri til að koma ítarlegum og einhliða áróðri í fréttir útvarps og sjónvarps. Þar hófst blekkingarherferð, sem ætlað er að koma því inn hjá fólki, að starfslið þar sæti pólitískum ofsóknum.

Einn helzti fótur ofsóknakenningarinnar var, að starfsmannafélögunum hefði ekki verið birt ákæran. Þá mega margir telja sig ofsótta, því að sakadómarar láta almennt undir höfuð leggjast að birta mönnum ákærur áður en þeir lesa um þær í fjölmiðlum.

Kenningin um ofsóknir er tilraun til að hræða réttarkerfið í landinu frá því að fylgja eftir ákæru, sem er svo alvarlegs eðlis, að brot sæta varðhaldi. Starfsmannafélögin treysta sér hins vegar ekki til að láta reyna á lokunina eftir venjulegum dómsmálaleiðum.

Tímabært er orðið að stöðva breytingu Ríkisútvarpsins yfir í starfsmannaeinokun, ekki með því að efla á ný hina gömlu og úreltu einokun stjórnmálaflokkanna, heldur með því að frelsa útvarp og sjónvarp úr viðjum einokunar. Það er svarið við hinni nýju lokunarhótun.

Jónas Kristjánsson.

DV

Faktúru-Fölsunar-Félagið.

Greinar

Hundrað Þúsund Naglbítar, öðru nafni Bítar, sat í New York og rak Snorra-Eddu, öðru nafni Faktúru-Fölsunar-Félagið. Svo segir Halldór Laxness í Atómstöðinni. Hin ábatasama iðja er þannig orðin fræg í bókmenntasögu landsins, hvort sem menn líta á það í gamni eða alvöru.

Faktúrufölsun höfðar greinilega til Íslendinga, svo sem sjá má af fréttum undanfarinna vikna. Sennilega líta menn hana ekki mjög alvarlegum augum, enda eru raunar ekki nema peningar í húfi. Og alténd lítur ríkisvaldið misjöfnum augum á faktúrufölsun, eftir því hver á í hlut.

Fyrir nokkrum árum voru menn dæmdir til nokkurra mánaða fangelsisvistar fyrir að gefa upp of hátt kaupverð á skipi. Nú er kominn á kreik grunur um, að greitt hafi verið minna fyrir olíuskipið Kyndil en gefið var upp í fyrstu fréttum af kaupunum.

Ekkert hefur sannazt í máli þessu. Eðlilegt væri, að ríkið léti rannsaka það. Jan I. Eliassen hjá Norges Handels- og Sjöfartstidende telur, að kaupverð skipsins hafi verið 112 milljónir króna, en ekki 123 milljónir. Þarna munar töluverðu, ellefu milljónum.

Raunar telur Eliassen, að lægra kaupverðið sé of hátt miðað við markaðinn. Systurskip Kyndils hefur verið boðið til kaups á 89 milljónir króna. Talið er, að það fari á enn lægra verði. En olíufélögin eru svo fín fyrirtæki, að þessi mál má ekki einu sinni skoða.

Virðulegasta faktúrufölsunarfélagið er Samband íslenzkra samvinnufélaga. Það hefur í London sérstakan kontór, sem býr til reikninga. Frægustu reikningarnir þaðan fjalla um kaffibaunir, sem hækkuðu úr 427 milljónum króna upp í 650 milljónir eða um 223 milljónir.

Af því að Sambandið er svo fínt fyrirtæki, var ekki óskað eftir gæzluvarðhaldi neins og ekkert bókhald gert upptækt. Sambandið fékk í rólegheitum að endurgreiða Kaffibrennslu Akureyrar verulegan hluta 223 milljónanna, sem skattrannsóknarstjóri fann af tilviljun.

Samt virðist augljóst, að Sambandið hafi brotið gjaldeyrislög og hugsanlega líka bókhalds-, skatta-, verðlags- og samvinnufélagalög. En málið er leyst með því að leyfa Sambandinu að láta það ganga til baka.

Önnur voru viðbrögðin, þegar smákarl í faktúrufölsun var tekinn í síðustu viku. Hann fór beint í gæzluvarðhald og bókhaldið var gert upptækt. Þannig finnst hinu opinbera stundum, að faktúrufölsun sé alvarlegt mál, en stundum líka, að hún sé bara gamanmál.

Mismunurinn virðist ekki fara eftir upphæðunum, sem í húfi eru. Hann virðist fremur fara eftir því, hversu fín og virðuleg fyrirtækin eru. Olíufélögin og Samband íslenzkra samvinnufélaga komast greinilega í efri flokkinn, þar sem ekkert rangt er gert.

Telja má það gat í kerfinu, að Samband íslenzkra samvinnufélaga geti lent í úrtaki hjá skattrannsóknarstjóra og að forstjórar þess þurfi að endurgreiða milljónir í persónulega skatta. Ef fínu félögin væru undanþegin úrtaki, væri Sambandið enn hreint og hvítt.

223 milljón króna grínmál SÍS fjallar því miður um kaffibaunir. Meiri stíll hefði verið yfir hundrað þúsund naglbítum. En Sambandið ætti þó að fylgja gamni sínu og ríkisvaldsins á enda og skipta um skammstöfun. Stafirnir FFF færu því einstaklega vel.

Jónas Kristjánsson.

DV

Ráðherra gegn Mývatni.

Greinar

Fimmtán ára framlenging á starfsleyfi Kísiliðjunnar við Mývatn er algerlega út í hött. Framtak Sverris Hermannssonar á þessu sviði verður ekki stutt neinum haldbærum rökum og varðar þar á ofan sennilega við lög. Það er eins og einhver ónáttúra sé á ferðinni.

Samkvæmt lögum um verndun Mývatns og Laxár má ekki heimila þar mannvirkjagerð og jarðrask nema með leyfi Náttúruverndarráðs. Mývatn er friðað svæði undir vernd Náttúruverndarráðs. Eftir frumhlaup ráðherrans er ráðinu skylt að sækja hann að lögum fyrir valdníðslu.

Með hverju árinu, sem líður, aukast áhyggjur náttúruverndarmanna vegna efnistöku Kísiliðjunnar úr Mývatni. Hið heimsfræga lífríki vatnsins byggist á, hversu grunnt það er. Því meira, sem það er dýpkað, þeim mun grófar er lífríkinu stefnt í hættu.

Náttúruverndarráð hefur mælt með, að vægar verði farið í sakirnar og starfsleyfi Kísiliðjunnar framlengt um fimm ár að þessu sinni. Það er skynsamleg og sáttfús tillaga, sem hefði í framkvæmd gefið tíma til nánari úttektar á stöðu og horfum lífríkisins.

Því miður hafa núverandi og fyrrverandi stjórnvöld látið undir höfuð leggjast að nota efnistökugjald Kísiliðjunnar til að kosta líffræðirannsóknir á Mývatni. Þess vegna er of lítið vitað um, hversu nærri vatninu megi ganga til að halda Kísiliðjunni í rekstri.

Nú lofar iðnaðarráðherra, að framvegis verði gjaldið notað til þessara rannsókna. Það er út af fyrir sig betra en ekki neitt, þótt taka verði loforð stjórnmálamanna með ærnum fyrirvara. Að minnsta kosti eru mörg óefnd af loforðum flestra ráðherranna.

Sagt er, að afturkalla megi starfsleyfi Kísiliðjunnar. ef rannsóknir sýni, að hætta sé á ferðum. Hins vegar er augljóst, að slík náttúruvernd er mun veikari en sú, sem krefst nýs starfsleyfis hverju sinni. Afturköllun er stærra mál en leyfisneitun.

Ráðherra skýtur sér á bak við Hjörleif Guttormsson, forvera sinn í embætti. Hann verður að sjálfsögðu að fá að velja sér þær fyrirmyndir, sem honum finnst helgastar. En ýmsir aðrir telja sig hafa reynslu af því, að ekki hafi allt verið gott, sem Hjörleifur gerði.

Auk þess breytist staðan með hverju árinu. Mývatn dýpkar alltaf. Þótt einhvern tíma hafi verið verjandi að framlengja starfsleyfi Kísiliðjunnar, felst ekki í því neitt fordæmi, sem núverandi og verðandi iðnaðarráðherra geti vitnað í eins og biblíuna.

Auðvitað ber í þessu máli einnig að taka tillit til hagsmuna Kísiliðjunnar. Ráðagerðir stjórnenda hennar um framtíðina verða því einfaldari sem þeir hafa meiri tíma til stefnu. Auðveldara er að hafa fimmtán ára leyfi í höndunum en þrisvar sinnum fimm ára leyfi.

En í þessu máli eru hagsmunirnir engan veginn sambærilegir. Lífríki Mývatns er margfalt verðmætara en afurðir Kísiliðjunnar. Gildir einu, hvort menn mæla það í peningum eða öðrum verðmætum. Hagsmunir Mývatns verða að fá að ráða, þótt stjórnmálamönnum skoli í ráðherrastól.

Því miður er reynsla fyrir því, að íslenzkir dómstólar hafa tilhneigingu til að gæta hagsmuna þeirra, sem fara með framkvæmdavaldið í landinu, og hvetja þannig til valdníðslu. En Náttúruverndarráð getur samt ekki vikizt undan þeirri skyldu að höfða mál gegn ráðherra, sem telur sig vera ríkið sjálft.

Jónas Kristjánsson.

DV