Author Archive

Eymd Alþingis.

Greinar

Forsætisráðherra hefur óskað eftir, að Alþingi samþykki fyrir sumarið frumvarp um afnám verðbóta á laun. Hann hefur hins vegar ekki enn lagt það fram á Alþingi.

Utanríkisráðherra hefur óskað eftir, að Alþingi samþykki fyrir sumarið frumvarp um tollfrjálsar verzlanir á Keflavíkurflugvelli. Hann hefur hins vegar ekki enn lagt það fram á Alþingi.

Viðskiptaráðherra hefur óskað eftir, að Alþingi samþykki fyrir sumarið tvö frumvörp um Seðlabankann og sparisjóði. Hann hefur hins vegar ekki enn lagt þessi frumvörp fram á Alþingi.

Fjármálaráðherra hefur óskað eftir, að Alþingi samþykki fyrir sumarið frumvarp um skráningargjald bíla. Hann hefur hins vegar ekki enn lagt það fram á Alþingi.

Landbúnaðarráðherra hefur óskað eftir, að Alþingi samþykki fyrir sumarið frumvarp um framleiðsluráð og annað um breytingu á jarðræktarlögum. Hann hefur hins vegar ekki enn lagt þessi frumvörp fram á Alþingi.

Nú er aðeins eftir vika af hefðbundnum starfstíma Alþingis. Tiltölulega skammt er síðan ljóst varð, að frumlengja þyrfti þingstörf fram í júní. Þegar ofangreind frumvörp voru í vinnslu í ráðuneytum, var ekki vitað um þann gálgafrest. Þau eru því dæmi um vítavert sinnuleysi ráðherra og helztu embættismanna þeirra.

Jafnvel þótt Alþingi kunni nú að hafa um fjórar vikur til að ræða þessi frumvörp af óskalistum ráðherranna, er það of stuttur tími. Þau þarf að ræða í nokkrum umræðum í báðum deildum Alþingis og þingnefndir þurfa að leita umsagna úr ýmsum áttum.

Niðurstaðan verður hin sama og oftast áður. Eftir mikinn hægagang í allan vetur fer allt á hvolf á Alþingi fyrir lokin. Þar leggja menn nótt við dag til að afgreiða óskalistana án þess að vita, hvað frumvörpin fela í sér.

Einu sinni varð að setja bráðabirgðalög um gildistöku laga, af því að í æðibunuganginum gleymdist að setja um hana ákvæði í frumvarpið. Það er ekki von, að Alþingi njóti virðingar, þegar ráðherrar fara svona með það.

Ríkisstjórnin er ekki ein um að draga Alþingi niður í svaðið. Stjórnarandstaðan, einkum Alþýðubandalagið, spillir vinnufriði þess með sífelldum upphlaupum. Hver dægurflugan á fætur annarri er tekin upp í umræðum utan dagskrár og jafnvel í umræðum um dagskrá. Þannig eru heilu dagarnir eyðilagðir.

DV hefur nokkrum sinnum mælt til gamans samanlagðan ræðutíma þingmanna. Komið hefur í ljós, að nokkrir þingmenn tala þindarlaust, einkum í dægurbundnum upphlaupsmálum. Þetta eru foringjar stærstu stjórnarandstöðuflokkanna.

Einnig hefur komið í ljós, að sumir ímynda sér, að mælingar af þessu tagi feli í sér hrós um málskrafsskjóðurnar. Einn þingmaður hélt því fram í hringborðsumræðu á síðum DV og sömuleiðis doktorsefni í Exeter. Þarf þó nokkra einfeldni til að komast að slíkri niðurstöðu.

Ýmislegt fleira stuðlar að vanvirðu Alþingis. Til dæmis hefur síðari hluti fjárlaga, hin svonefndu lánsfjárlög, enn ekki verið afgreiddur á Alþingi, þátt þriðjungur ársins og þar með þriðjungur gildistímans sé þegar liðinn. Þetta er mun hægari gangur en áður hefur tíðkazt.

Og nú síðast eru þingmenn farnir að leika sér að því að vera í útlöndum og biðja þingforseta að taka ekki fyrir ákveðin mál á meðan. Einnig í þessu láta þingforsetar og þingmenn vaða yfir sig.

Jónas Kristjánsson.

DV

Vitlaust viðskiptabann.

Greinar

Ef raunsær maður mætti velja um búsetu í Mið-Ameríku, sunnan Mexíkó, er lítill vafi á, að niðurstaðan yrði Nicaragua. Þótt stjórnin þar sé sögð höll undir Moskvu, er staðreyndin samt sú, að hvergi í þessum heimshluta er almenningur öruggari um líf sitt og limi fyrir stjórnvöldum.

Í grannríkjum Nicaragua, þar sem skjólstæðingar Bandaríkjastjórnar eru við völd, sætir almenningur ofsóknum dauðasveita á vegum hers eða lögreglu. Alvarlegast hefur ástandið lengi verið í El Salvador og þar halda morðin áfram, þótt miðjumaðurinn Duarte sé forseti.

Mildin er svo miklu meiri í Nicaragua, að dauðarefsing hefur verið afnumin. Og ekki hefur verið efnt til neinna fjöldaréttarhalda gegn hinum hötuðu varðhundum einræðisherrans Somoza, sem hrökklaðist frá völdum eftir sérstaklega blóðugan og óhugnanlegan feril.

nýlega héldu samtök stórbænda og kaupsýslumanna fund í Managua, höfuðborg Nicaragua. Þar var ríkisstjórn landsins fordæmd fyrir kommúnistastefnu og flokkur sandinista fyrir að hafa svikið forsendur byltingar ársins 1979. Fundarmenn fengu í friði að tala frjálslega.

Þar með er ekki sagt, að lýðræði ríki í Nicaragua. Stjórnin þolir gagnrýni illa. Óháða blaðið La Prensa, sem áður var í fararbroddi andófsins gegn Somoza, gegnir nú sama hlutverki gagnvart sandinistum. Blaðið er stranglega ritskoðað og kemur út með höppum og glöppum.

Stjórn Reagans Bandaríkjaforseta ber töluverða ábyrgð á hægfara göngu Nicaragua í átt til einræðis kommúnista. Reagan hefur frá upphafi ofsótt stjórn sandinista og óafvitandi róið öllum árum að því að varpa Nicaragua í faðm ríkisstjórnanna í Moskvu og Havana.

Ofsóknir Reagans hafa þjappað íbúum Nicaragua um stjórn sandinista. Reagan hefur dælt fé í hina óvinsælu uppreisnarmenn, Contras, sem eru að verulegu leyti undir stjórn gamalla glæpamanna úr liði Somozas. Sjálfur herstjórinn er hinn illræmdi Enrique Bermúdez.

Furðulegt er, hvernig ríkisstjórnir í Bandaríkjunum hafa tilhneigingu til að styðja versta glæpalýðinn í löndum Rómönsku Ameríku. Somoza var skjólstæðingur Bandaríkjanna á sínum tíma, eins og löng röð einræðisherra allar götur til Pinochet, sem nú kvelur íbúa Chile.

Þegar hálfbilaðir herforingjar komast til valda í Rómönsku Ameríku, er eins og allar flóðgáttir fjármagns opnist í Bandaríkjunum. Þessar lindir þorna síðan, þegar lýðræðissinnar komast á ný til valda. Argentína er skólabókardæmi um smánarlega afstöðu Bandaríkjastjórna.

Að undanförnu hefur fulltrúadeild Bandaríkjaþings unnið sér það til hróss að hafa í hverri atkvæðagreiðslunni á fætur annarri hafnað tillögum Reagans forseta um 14 milljón dollara aðstoð við uppreisnarmenn somozista. Þetta sýnir, að þar hafa margir dýpri skilning en Reagan.

Stjórnvöld Bandaríkjanna hafa látið koma fyrir sprengjum í höfnum Nicaragua og valdið landinu á margvíslegan annan hátt um 400 milljón dollara tjóni. Þetta stuðlar, eins og áróðurshríð Reagans, að sífellt tíðari ferðum Ortega til Moskvu að sækja fé og hvatningu.

Nú síðast hefur Reagan sett Nicaragua í viðskiptabann. Öllum má ljóst vera, að með því flýtir hann för landsins í búðir leppríkja Sovétríkjanna. Enda höfnuðu allir aðrir leiðtogar vestrænna ríkja þessari firru hans, sem kom fram á toppfundinum í Bonn fyrir helgina.

Jónas Kristjánsson.

DV

Góðar hliðar huldufrumvarps.

Greinar

Úti í bæ hefur án afskipta Alþingis verið samið frumvarp til nýrra laga um Framleiðsluráð landbúnaðarins. Frumvarpið hefur verið til opinberrar umræðu hjá ýmsum helztu valdastofnunum þjóðfélagsins, svo sem Stéttarsambandi bænda og Mjólkursamsölunni.

Áður en hægfara afnám þingræðis hófst, voru frumvörp ekki samin úti í bæ og ekki rædd á fundum úti í bæ, áður en þingmenn fengu að sjá þau. Þá fjölluðu þingnefndir um frumvörpin og fengu um þau greinargerðir frá aðilum úti í bæ, þar á meðal hagsmunaaðilum.

Í þessu tilviki virðist ætlunin að sýna frumvarpið ekki á Alþingi fyrr en búið er að slípa það í meðförum hagsmunaaðila. Síðan er Alþingi sem afgreiðslustofnun og atkvæðavél fyrir ríkisstjórnina ætlað að leggja blessun sína yfir niðurstöðuna.

Þrátt fyrir þessa annmarka er sitthvað gott við utanalþingisfrumvarpið. Það má meðal annars sjá af andmælum Mjólkursamsölunnar, sem “varar alvarlega við lögfestingu” þess. Það hlýtur að vita á gott, þegar kveinstafir heyrast frá þrælahöldurum landbúnaðarins.

Hingað til hefur hið sjálfvirka fyrirgreiðslukerfi í landbúnaði miðað að eflingu vinnslustöðvanna. Þær hafa fengið peningana í veltuna og borgað bændum eftir dúk og disk. Þær hafa verið með sitt á hreinu og þrælarnir uppi í sveitum hafa síðar fengið ruðurnar.

Samkvæmt huldufrumvarpinu eiga vinnslustöðvarnar hér eftir að staðgreiða bændum. Þær eiga að greiða bændum um hver mánaðamót fyrir innlagða mjólk og ekki síðar en 10. desember fyrir sláturfé að hausti. Þetta þykir vinnslustöðvunum auðvitað afleitt.

Annað atriði, sem fer fyrir brjóstið á þrælahöldurunum, er, að frumvarpið gerir ráð fyrir afnámi einokunar í vinnslu og dreifingu afurða landbúnaðarins. Hver sem er má koma upp mjólkurbúi eða sláturhúsi og til dæmis selja mjólk á núverandi eignarsvæði Mjólkursamsölunnar.

Þetta er auðvitað hræðileg tilhugsun, en veldur andvöku í undanrennumusterinu við Bitruháls, sem reist er á kostnað bænda og neytenda. Verður kannski næst bannað að undirbjóða keppinauta í brauði og safa með því að láta hluta kostnaðarins koma fram í mjólkurverði?

Ennfremur er til bóta í frumvarpinu, að gert er ráð fyrir, að vald verði flutt frá landbúnaðarforstjórum Framleiðsluráðs til ráðuneytisins, þar sem það á heima. Of lengi hefur Framleiðsluráð sem sjálfseignarstofnun ráðskazt með hluta ríkisvaldsins.

Samt væri enn meiri þörf á að semja lagafrumvarp um flutning valds frá Búnaðarfélagi Íslands til ríkisvaldsins. Páll Líndal benti nýlega í greinargerð á, að ríkið væri meira eða minna valdalaust í málum landbúnaðarins gagnvart stofnunum úti í bæ.

Samkvæmt framvarpinu á ennfremur að breyta því óeðlilega ástandi, að Grænmetisverzlun landbúnaðarins sé ríkiseign, þegar hún vill ekki borga skatta, en eign Framleiðsluráðs landbúnaðarins, þegar hún og ráðið vilja hafna afskiptum ríkisvaldsins.

En ekki er verið að leggja niður neina einokun, þótt Grænmetisverzlunin verði seld garðyrkjubændum. Neytendur og kaupmenn verða hér eftir sem hingað til að berjast fyrir frjálsri verzlun með grænmeti.

Og svo er ekki einu sinni víst, að Alþingi fái að sjá frumvarpið og leggja blessun sína yfir það.

Jónas Kristjánsson.

DV

Eitt skref af nokkrum.

Greinar

Athyglisvert samstarf ríkisstjórnarinnar og Alþýðusambands Íslands hefur leitt til lagafrumvarps, sem miðar að jafnri greiðslubyrði húsnæðislána. Samkvæmt því á greiðslubyrðin ekki að aukast, heldur á lánstíminn að lengjast, þegar kaupgeta fólks minnkar.

Reynt verður að láta frumvarpið verða að lögum, áður en þingi verður slitið í vor. Það á að gilda aftur á bak, um húsnæðislán, sem tekin hafa verið síðan 1979, og fela í sér jöfnun fyrir tímabilið eftir 1. mars 1982, þegar kaupgetan byrjaði að minnka.

Þessi leið, sem Alþýðusambandið og margir fleiri aðilar hafa mælt með, er hreinlegri og heppilegri en hugmyndin um skattaafslátt, sem kom frá hópi áhugafólks um húsnæðismál og hefur verið töluvert til umfjöllunar í félagsmálaráðuneytinu síðustu vikurnar.

Frumvarpið er þó engin allra meina bót. Það nær til dæmis aðeins til lána Húsnæðisstofnunar, en ekki til lána lífeyrissjóða eða banka. Þessir aðilar verða beðnir um að gera slíkt hið sama, en ekki er tryggt, að þeir hlýði. Lífeyrissjóðir eru þá byrjaðir að lengja lán.

Mikilvægt hlýtur að teljast, að ríki, lífeyrissjóðir og bankar geti hagað málum svo, að þeir, sem tekið hafa íbúðalán á undanförnum árum, búi við sömu greiðslubyrði og þeir gerðu ráð fyrir í upphafi og fái jafnframt endurbættar umframgreiðslur liðins tíma.

Um leið verður að hafa í huga, að lenging lána þeirra, sem hafa byggt eða keypt, er óbeint á kostnað þeirra, sem eru að byrja eða ætla að byrja. Lengingin skerðir ráðstöfunarfé Húsnæðisstofnunar, lífeyrissjóða og banka. Hún minnkar féð, sem handbært verður til nýrra lána.

Í þessu efni sem svo mörgum öðrum munu ráðamenn reka sig á, að brýnni er þörfin á peningum en lagabálkum. Greinar á pappír geta ekki komið í staðinn fyrir fé. Með millifærslum er unnt að lina þjáningar eins þrýstihópsins, en þá aðeins á kostnað annarra.

Komið hefur í ljós, að minnkað hefur kjarkur fólks, sem er á helzta íbúðakaupaaldrinum, 22-32 ára. Til skamms tíma var helmingur íbúðakaupenda á þessum aldri. En þeim hefur farið ört fækkandi það sem af er níunda áratugnum. Í staðinn flykkist unga fólkið í Búseta.

Ef ráðamenn vilja viðhalda sjálfseignarstefnunni, sem hefur gert 80-85% af ungu fólki kleift að komast yfir eigin íbúð, er nauðsynlegt að verja meira fé til húsnæðismála, svo að veita megi hærri og lengri lán. 80% lán til 40 ára er gamalkunnur draumur.

Unnt er að minnka þessa viðbótarfjárþörf með því að veita sérstaka fyrirgreiðslu þeim, sem eru að byggja eða kaupa í fyrsta sinn, og þá á kostnað hinna, sem eru að skipta yfir í stærra húsnæði. Fremur þarf að hjálpa fólki að stíga fyrstu skrefin en hin síðari.

Einnig er unnt að spara fé með því að leggja meiri áherzlu á lán til kaupa á notuðu húsnæði og til endurbóta á notuðu húsnæði. Þjóðin býr að meðaltali í 20 ára gömlu húsnæði, svo að úrelding ætti ekki að þurfa að vera mikil. Og þar að auki fjölgar þjóðinni mun hægar en nýjum íbúðum.

Frumvarpið um jöfnun á greiðslubyrði húsnæðislána undanfarinna ára er skynsamlegt skref til viðreisnar íbúðalánakerfisins. En það er aðeins eitt skref af nokkrum, sem stíga þarf. Ríkisstjórnin má engan veginn halda, að hún hafi leyst málið og megi sofna á verðinum.

Jónas Kristjánsson.

DV

Bannað að afla gjaldeyris.

Greinar

Sérkennilegt er, að leifar haftastefnunnar skuli vera svo heilagt mál, að helztu foringjar Sjálfstæðisflokksins mega ekki heyra minnzt á afnám þeirra. Þótt innflutningur hafi verið gefinn frjáls, vill kerfið enn halda dauðahaldi í haftabúskap í útflutningi.

Hví skyldi vera reynt að hamla gegn, að aflað sé gjaldeyris með útflutningi? En það er einmitt gert með því að hafa útflutning háðan leyfum og með því að neita leyfum til þeirra, sem hafa nýjar hugmyndir í útflutningi sjávarafurða og afurða landbúnaðarins.

Athyglisvert er, hversu ákaft Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn vernda kerfi útflutningshafta. Það liggur beint við að álykta, að þeir séu að vernda sölustofnanir, sem standa þeim nærri. Og engum kemur raunar á óvart, þótt Framsókn standi vörð um SÍS.

Þegar imprað er á þessu, er helzta vörnin, að fyrir fjölmörgum áratugum hafi íslenzkir aðilar boðið afurðir niður hver fyrir öðrum. Eina leiðin hafi verið að smala þeim saman í samtök, svo að þeir gengju ekki hver af öðrum dauðum. Og þessar stofnanir lifa enn.

Samt virðist vera unnt að stunda samkeppni á öðrum sviðum útflutnings en í hinum hefðbundnu greinum sjávarútvegs og landbúnaðar. Ekki stunda ullar- og skinnavöruútflytjendur nein bræðravíg, né heldur þeir, sem flytja út ferskan fisk í gámum, svo dæmi séu nefnd.

Af hverju eiga sölustofnanir, sem sitja í skjóli meiri eða minni einokunar, að ákveða, að þær geti nýtt betur markaðinn í útlöndum á auðveldari og ódýrari hátt en aðrir? Og að þær hafi sterkari aðstöðu en aðrir í baráttunni við erlenda samkeppnisaðila?

Ekki voru það SH eða SÍS, sem fundu upp á útflutningi á ferskum fiski með kaupskipum og flugvélum. Ekki voru það SH eða SÍS, sem stóðu fyrir hinni miklu aukningu á gæðum, sem er forsenda þessa útflutnings og ýmiss annars framtaks í útflutningi sjávarafurða.

Sverrir Hermannsson iðnaðarráðherra sagði einu sinni, að sölusamtökin væru “löngu frosin föst í starfsemi sinni” og hefðu “ekkert aðhafzt til þess að afla nýrra markaða, varla lyft hendi til þess að finna markaði fyrir nýja vöru, til dæmis kúfisk”.

Sverrir hefur sjálfsagt ekki reynt að fara með löndum í þessum ummælum. Og auðvitað má margt gott um sölusamtök segja. Til dæmis hefur Síldarútvegsnefnd ríkisins jafnan haft tiltrú í sinni grein. En slíkt dæmi sannar ekki neitt um hið almenna ástand.

Tekið hefur verið eftir, að SH og SÍS hafa náð mun hærra verði en helztu keppinautarnir á frystum fiski í Bandaríkjunum. Ennfremur vita menn, að Færeyingar hafa treyst SH fyrir sínum útflutningi. En þetta eru engin rök fyrir því, að engir aðrir spreyti sig.

Ung fyrirtæki í útflutningi sjávarafurða hafa staðið sig vel á undanförnum árum. Af handahófi skulu nefnd Ístros, Íslenzka útflutningsmiðstöðin, Triton, Seifur, Íslenzka umboðssalan og Fiskafurðir. Fleiri gætu komið til skjalanna, ef höftin væru látin niður falla.

Frægt er, að mörgum sinnum hafa íslenzkir aðilar náð mun hærra verði á lambakjöti í útlöndum en SÍS hefur samið um. Í hvert einasta sinn hefur verið neitað um leyfi. Þetta er eitt skýrasta dæmið um, að frelsið er betra en höftin, líka í útflutningi íslenzkra afurða.

Jónas Kristjánsson.

DV

Þríhöfða þursinn.

Greinar

Í ævintýrum eru algengar frásagnir af þursum, sein höfðu þá náttúru, að væri af þeim höggvinn hausinn, þá spruttu jafnskjótt þrír hausar í staðinn. Slíkt ævintýri á nú að gerast hjá þursanum Framkvæmdastofnun ríkisins samkvæmt þremur nýjum lagafrumvörpum ríkisstjórnarinnar.

Í stað Framkvæmdastofnunar ríkisins eiga samkvæmt frumvörpunum að koma Byggðastofnun, Framkvæmdasjóður Íslands og sérstakt fyrirbæri, sem er nafnlaust, af því að stjórnarflokkarnir gátu ekki komið sér saman um, hvort heita ætti Þróunarsjóður eða Þróunarfélag.

Samkvæmt frumvörpunum er ekki gert ráð fyrir, að lögð verði niður nein starfsemi, sem nú er á vegum Framkvæmdastofnunar. Ekki er einu sinni vikið að dæmum um slíkt í greinargerðunum, sem fylgja. Þvert á móti er gert ráð fyrir auknum umsvifum eins og hjá þursum ævintýranna.

Stærsti hausinn af hinum þremur nýju er Byggðastofnun, sem á að taka við Byggðasjóði, svo og áætlanadeild og lánadeild gamla þursins. Samkvæmt opinberri hefð á Íslandi fylgir þessu nafnbreyting. Áætlunardeild verður áætlunargerð og lánadeild verður lánastarfsemi.

Auk þess á hin nýja stofnun að fá ný verkefni, því að ofangreind atriði eru bara “hluti” af fyrirhugaðri starfsemi þessa hauss þursans. Ekki kemur þó fram, hver þau verkefni skuli vera, enda talið heppilegast að takmarka sem minnst vaxtarmöguleika haussins.

Enda er mikið í húfi. Byggðastofnun á ekki að sporna gegn, heldur beinlínis “koma í veg fyrir”, að “óæskileg” byggðaröskun eigi sér stað. Þetta á að gerast með lánum, ábyrgðum og óafturkræfum framlögum. Hið síðasta er stofnanamál og þýðir styrkir á íslenzku.

Til að koma í veg fyrir byggðaröskun á stofnunin að hafa til ráðstöfunar, og það verðtryggt, 0,5% af þjóðarframleiðslu hvers árs. Núna mundi þetta nema 385 milljónum króna, ef standast spár um þjóðarframleiðslu ársins. Þetta skilst bezt í samanburði við þriðja hausinn.

Hinn nafnlausi þróunarsjóður eða -félag á að fá hjá ríkinu, ekki í styrk, heldur að láni, 200 milljónir króna, ekki árlega og verðtryggt, heldur í eitt skipti fyrir öll. Enda á örverpið að kosta göngu þjóðarinnar inn í tölvuöld og annað slíkt, sem raskað gæti byggð.

Stærð miðhaussins er svo einhvers staðar á milli hinna tveggja, sem þegar hefur verið sagt frá. Framkvæmdasjóður á að taka við hlutverki Mótvirðissjóðs og annars sjóðs, sem raunar heitir Framkvæmdasjóður. Á því sviði virðist hafa gleymzt að skipta um nafn.

Í heild má segja, að hinn þríhöfða þursi sé verðugur árangur af markvissum og þrautseigum undirbúningi helztu vitringa stjórnarflokkanna. Myndast nú góðir möguleikar á frekari útþenslu í atvinnu hjá ríkinu, betri en núna eru í gamalli Framkvæmdastofnun.

Þá marka frumvörpin þrjú þá grunnmúruðu stefnu, að ríkið skuli fara með fjármagn þjóðarinnar til að tryggja, að það lendi í sem minnstum mæli í greinum, sem horfa til framtíðar, og í sem mestum mæli í greinum, sem horfa til gullaldar fyrri tíma.

Stjórnarflokkarnir tveir vita vel, eins og raunar fleiri stjórnmálaflokkar, að framtíðin er óvisst og hættulegt fyrirbæri, sem ber að forðast, en fortíðin er traust og örugg. Í faðm hennar liggur því leiðin.

Jónas Kristjánsson.

DV

Tilboð veldur gremju.

Greinar

Þeir, sem fara þjóðveginn milli Akureyrar og Reykjavíkur, verða um það bil tíu sinnum fegnir. Rúmlega helmingur leiðarinnar hefur fengið varanlegt slitlag, en í bútum hér og þar. Þessum bútum fjölgar svo á hverju sumri eða þá að þeir lengjast. Verkinu á að ljúka árið 1994.

Þessi bútasmíði er auðsæilega tiltölulega dýr. Það kostar töluverða vinnu og mikið fé að hefja verk og ljúka því. Enda sýnir reynslan, að Vegagerðin fær því hagstæðari tilboð hjá verktökum sem bútarnir eru lengri. En hvers vegna er þá haldið í hið gamalkunna smáskammtakerfi?

Ástæðan er alkunn. Stjórnmálamenn þurfa að fá malbikaðan bút í sínu kjördæmi. Ef lagður er skammtur á Vesturlandi, þarf að leggja annan á Norðurlandi vestra. Þetta er hluti hins mikla herkostnaðar þjóðarinnar af kjördæmapoti og ráðsmennsku stjórnmálamanna.

Hagvirki hf. er verktaki, sem hefur orðið frægur fyrir lág tilboð á undanförnum árum. Samtals hefur fyrirtækið sparað þjóðinni 500 milljónir króna með því að vinna verk undir áætlunarverði. Þetta fyrirtæki hefur nú kastað sprengju á borð stjórnmálakerfisins.

Hagvirki býðst til að leggja í samfelldri bunu varanlegt slitlag á það, sem eftir er leiðarinnar. Verkið á að kosta 74% af áætlunarverði og spara þjóðinni rúnar 300 milljónir í mismuninum. Þá vill fyrirtækið klára verkið sjö árum á undan áætlun og lána ríkinu mismuninn.

Auðvitað vakti þetta tilboð mikla gremju í kerfinu. Samgönguráðherra sagði hér í blaðinu, að það væri ekki raunhæft og að um það mundi ekki nást samstaða á Alþingi. Þingmenn einstakra kjördæma mundu láta í sér heyra. Loks kallaði ráðherra tilboðið “sérkennilegt”.

Ekki var léttari tónninn í vegamálastjóra. Hann kvað tilboðið “furðulegt”. Það mundi taka vinnu af tugum verktaka, bílstjórum og “öllum mögulegum”. Hann kvað ýmsa galla fylgja því að láta einn verktaka hafa svona stórt verkefni. Og tæpast þyrfti að klára verkið svona snemma.

Þannig krefst kerfið þess að fá áfram að beita dýrum og gamaldags vinnubrögðum. Enda er auðvelt að brenna peningum, sem aðrir eiga, í þessu tilviki þjóðin. En kerfið kastar líka peningum á ýmsan annan hátt, til dæmis með því að láta gera hluti, sem þjóðin þarf ekki á að halda.

Samgönguráðherra er líka heilbrigðisráðherra. Í því hlutverki telur hann sig þurfa að verja umtalsverðum fjárhæðum á hverju ári til byggingar ofvaxins sjúkrahúss í heimabæ sínum Ísafirði. Það mikla mannvirki er þegar haft til sýnis sem víti til varnaðar.

Fyrirrennarar hans í faginu ætluðu að reisa mikinn sjúkrahúss-mammút á Akureyri. Þar er fyrirferðarmest heljarmikil tengiálma, sem sjúkrahúslæknar koma frá útlöndum til að hlæja að. Þetta eru bara tvö lítil dæmi af ótal mörgum í fjárlögum og lánsfjárlögum.

Kerfið byggir sínar kröflur um allt land. Til viðbótar hefur það með sérstöku sjóðakerfi tryggt, að verulegur hluti fjárfestingar í landinu rennur ekki í eðlilegum farvegum til arðbærra verkefna. Þannig á til dæmis að fjárfesta 1.000 milljónir í landbúnaði á þessu ári.

Stundum furða menn sig á misræmi þjóðartekna og kaupmáttar og telja jafnvel milliliði stinga mismuninum á sig. Skýringin er hins vegar sú, að kjósendur hafa sjálfir kosið yfir sig kerfi, sem brennir fé á ótal vegu. Nú síðast mun það gera það með því að neita hringvegstilboði.

Jónas Kristjánsson.

DV

Rússnesk rúletta.

Greinar

Landlæknir fjallaði nýlega í fréttum um Aids, áunna ónæmisbæklun. Þar kom fram of takmarkaður áhugi á viðbúnaði, til dæmis Blóðbankans, gegn þessum vágesti. Það er eins og sjúkdómurinn sé ómerkilegri en norska flensan í vetur, þegar yfir 15.000 manns voru bólusett.

Eftir skrif DV um innflutning á finnsku blóðefni hefur þó verið upplýst, að unnið er að lokun þeirrar smitleiðar. Það er til bóta, en gerist ekki nógu hratt. Af hverju er ekki hægt með átaki að stöðva þennan innflutning eða efnagreina hann, ekki bara bráðum, heldur strax?

Aids er að ýmsu leyti verri en svarti-dauði og aðrir sjúkdómar mannkynssögunnar. Hinn nýi sjúkdómur er enn sem komið er gersamlega ólæknandi. Hvorki lyf né bóluefni eru til og virðast ekki í sjónmáli. Helmingur þeirra, sem tekið hafa sjúkdóminn, er þegar látinn.

Aids breiðist út með margfölduðum hraða. Fyrst varð hann að stórfelldu vandamáli í Bandaríkjunum. Þar hafa 4.300 manns látizt úr honum. Það samsvarar fjórum Íslendingum. Evrópa er um þremur árum á eftir Vesturheimi. Búizt er við, að 10.000 Vestur-Þjóðverjar verði fallnir eftir fimm ár.

Ef við lítum á síðari töluna, sem birt var í tímaritinu Spiegel, má sjá, að hún jafngildir 40 Íslendingum. Því er ljóst, að grípa þarf til róttækra ráðstafana, jafnvel þótt þær kosti fé. Ekki verður ódýrara að halda uppi sjúkradeildum á spítölum landsins.

Varnir eru afar erfiðar. Aids berst með sæði og blóði. Sæði er sérstaklega erfitt að skipuleggja í því andrúmslofti lauslætis, sem um langt skeið hefur ríkt á Vesturlöndum. Ekki er unnt að búast við, að umtalsverður árangur náist á því sviði.

Aids leggst einkum á kynhverfa karlmenn, enda hefur gífurlegt lauslæti verið í tízku í hópum þeirra á undanförnum árum. En sjúkdómurinn flyzt einnig með hefðbundnu lauslæti. Á þessum sviðum verður að koma til skjalanna vönduð fræðsla, til dæmis í framhaldsskólum.

Bezta möguleika hafa stjórnvöld á að loka smitleið blóðsins. Hægt er að efnagreina blóðefni í blóðbönkum. Í Bandaríkjunum er ötullega unnið að nýjum og ódýrari aðferðum við greininguna. Samkvæmt fréttum Economist er árangurs að vænta þegar á fyrri hluta þessa árs.

Vandinn í blóðbönkum eykst, þegar blóðefni frá einstaklingum er ekki haldið aðskildu. Finnska blóðefnið, sem íslenzkum blæðara er gefið, getur verið frá tugum blóðgjafa. Slíkt margfaldar náttúrlega smithættuna og getur engan veginn talizt forsvaranlegt.

Blóðgjafar geta smitað, þótt þeir séu ekki sjálfir veikir. Aðeins tíundi hver maður, sem ber veiruna í sér, er sjálfur með Aids. En hann getur smitað aðra. Og þegar fórnarlambið er búið að fá veikina, verður ekki við snúið. Enginn í heiminum hefur læknazt.

Í mestri hættu eru kynhverfir menn; konur, sem hafa samræði við þá; fíkniefnasjúklingar, sem nota sömu sprautunar; svo og blæðendur. Ef við lítum á síðasta hópinn, verður ekki betur séð en þeir verði að sæta eins konar rússneskri rúllettu hjá íslenzkum heilbrigðisyfirvöldum.

Engin ástæða er til að taka þessu með ró. Erlendis eru notaðar aðferðir til að efnagreina blóðefni í blóðbönkum. Þessar aðferðir eru ört að verða ódýrari. Þær á jafnóðum að nota hér. Jafnframt þarf strax að efna til víðtækrar fræðslu um, hvernig megi varast Aids.

Jónas Kristjánsson.

DV

Fast er þrýst.

Greinar

“Við vonumst til, að við getum fjármagnað okkar hlut í þessu skipi með framlaginu, sem á að koma í gegnum Byggðasjóð,” sagði bæjarstjórinn í nýlegu blaðaviðtali. Og útgerðarstjórinn sagði í sama blaðaviðtali: “Þetta mál verður ekki leyst nema af stjórnvöldum.”

Sviðið er Húsavík og skipið er Kolbeinsey, sem er farin á höfuðið. Hún er metin á 170 milljónir, en skuldar 260 milljónir. Til að bjarga málum hefur verið stofnað hlutafélag. Það ætlar þó ekki að borga krónu, heldur starfa sem þrýstihópur gagnvart ríkinu.

Þegar margar kröfur af slíku tagi eru gerðar til ríkisins, harðlega studdar viðkomandi alþingismönnum, er ekki auðvelt að halda í skefjum skuldasöfnun hins opinbera. Enda er reynslan sú, að stjórnvöld láta gjarna undan þrýstingi og auka um leið lántökur í útlöndum.

Á grundvelli slíks þrýstings hefur ríkisvaldið ábyrgzt raðsmíði fiskiskipa, sem enginn vill kaupa eða getur keypt, meðal annars af því að of mörg eru til fyrir. Nú vilja alþingismenn skipasmíðastöðvanna, að ábyrgðin standi áfram, samtals 600-700 milljónir króna.

Kannski finnst þá einhver til að kaupa skip á kostnað hins opinbera. En þrýstiþingmenn spara sér alveg að reyna að verja útgjöldin með því að benda á önnur enn vitlausari útgjöld, sem spara mætti í staðinn, til dæmis 1.300 milljónir í niðurgreiðslur, uppbætur og beina landbúnaðarstyrki.

Ekki munu finnast í landinu peningar upp í mikið af óskhyggju og gæluverkefnum þrýstihópanna. Vextir eru orðnir svo óvinsælir, að ríkisstjórn og Seðlabanki ætla að fara að lækka þá. Það jafngildir því, að í vaxandi mæli verður að treysta á erlendar lántökur.

Fyrir rúmu ári námu erlendar skuldir 60,6% af þjóðarframleiðslu ársins. Um síðustu áramót námu þær 61,9% af þjóðarframleiðslu ársins, þrátt fyrir 2,5% aukningu hennar á árinu. Og um næstu áramót eiga þær að nema 63,9% þjóðarframleiðslu, þrátt fyrir 0,9% aukningu hennar.

Talan 63,9% er auðvitað langt yfir 60%, markinu, sem ríkisstjórnin setti sér í upphafi. Þar að auki er talan sennilega of lágt áætluð. Frumvarpið til lánsfjárlaga er líklega með of lágum niðurstöðutölum eins og í fyrra. Þá nam vanmatið 367 milljónum króna.

Rökstyðja má, að gildandi fjárlög muni leiða til 750 milljón króna meiri lántöku í útlöndum til rekstrar ríkisins en frumvarpið til lánsfjárlaga gerir ráð fyrir. Auk þess er augljóst, að innlendur sparnaður til húsnæðismála verður mun minni en frumvarpið gerir ráð fyrir.

Þegar er búið að taka 200 milljónir af því fé, sem átti að vera til nýrra útlána. Það hefur verið notað til að leysa mál þeirra, sem hafa byggt, á kostnað hinna, sem eru að byrja að byggja. Fyrirhuguð vaxtalækkun mun ekki stuðla að því, að sú sjónhverfing verði að veruleika.

Horfur eru því á, að erlendu skuldirnar verði um næstu áramót komnar upp í 65-67% af þjóðarframleiðslu ársins. Það er von, að fjármálaráðherrann tali um að segja af sér. En honum er vorkunn, því að þrýstihóparnir steðja að úr öllum áttum, líka innan ríkisstjórnar.

Nú eru fulltrúar kartöfluflöguverksmiðja, steinullarverksmiðja og annarra slíkra hugsjóna að koma saman á landsfund stærsta framsóknarflokks þjóðarinnar, það er Sjálfstæðisflokksins. Þar verður niðurstaðan sú, að landinu sé svo vel stjórnað, að rétt sé að halda því áfram!

Jónas Kristjánsson

DV

“Frá hinu opinbera”.

Greinar

Í kaflanum “Frá hinu opinbera” í auglýsingum Ríkisútvarpsins eru birtar auglýsingar Framleiðsluráðs landbúnaðarins um nýjustu aðferðir ráðsins við að færa fjármagn frá neytendum og skattgreiðendum til hins hefðbundna landbúnaðar og við að víkka valdsvið ráðsins.

Þessi flokkun auglýsinga um kjarnfóðurskatt og fleira er vel við hæfi. Framleiðsluráð landhúnaðarins er eins og Búnaðarfélag Íslands algerlega á vegum ríkissjóðs, þótt ríkið hafi ekkert eftirlit með hinum útlögðu fjármunum og fái ekki reikningana til endurskoðunar.

Þetta er eins og Grænmetisverzlun landbúnaðarins, sem er eins konar sjálfseignarstofnun Framleiðsluráðsins, þegar hún hafnar afskiptum ríkisins, en ríkisstofnun, þegar hún hafnar hliðstæðri skattlagningu og er á fyrirtækjum úti í bæ. Þetta er afar sniðugt kerfi.

Þannig ákvað síðasta Búnaðarþing, sem haldið var á kostnað hins opinbera, að halda sérstakt Búnaðarþing aftur í vor, einnig á kostnað þjóðarinnar. Markmið aukaþingsins er að skipuleggja aukinn áróður fyrir landbúnaðarkerfinu, auðvitað einnig á kostnað skattgreiðenda.

Síðasta Búnaðarþing ályktaði, að Búnaðarfélag Íslands og Framleiðsluráð landbúnaðarins skyldu borga hið nýja átak gegn “óvinum landbúnaðarins”. Þessar stofnanir eru eingöngu reknar fyrir fé ríkisins og þar með skattgreiðenda. Ríkið ræður þar engu, heldur borgar bara.

Margir ímynda sér, að landbúnaðarkerfið sé á undanhaldi fyrir gagnrýnendum sínum. Þetta er mesti misskilningur. Þetta krabbamein er þvert á móti í sókn á mörgum sviðum, svo sem mörg nýleg dæmi sýna. Hinir svokölluðu óvinir landbúnaðarins mega hvergi sofa á verðinum.

Framleiðsluráð landbúnaðarins hefur lagt til, að ríkið greiði tapið á rekstri Áburðarverksmiðjunnar, því að annars þurfi hinn niðurgreiddi áburður að hækka um 85% til bænda. Samt greiðir verksmiðjan aðeins Ísalsverð fyrir rafmagn og er þó engin stóriðja.

Þessi stórhættulega verksmiðja, sem er “stöðug ógnun” við íbúa höfuðborgarsvæðisins, svo að notuð séu orð slökkviliðsstjóra, fær niðurgreiðslu á rafmagni og niðurgreiðslu á afurðum, sem nemur 100-200 milljónum á ári og hefur þó safnað upp rúmlega 300 milljóna tapi.

Þannig stefnir Framleiðsluráð landbúnaðarins að fullkominni sjálfvirkni í aðild verksmiðjunnar að hinu sjálfvirka kerfi framleiðslustjórnunar, sem kostar þjóðina miklu meira en herinn í öðrum löndum og hýr til margs konar fjöll óseljanlegra afurða. Næst verður það fúleggjafjall.

Með niðurgreiðslum á kartöflum til flöguverksmiðja er búið að stíga 10 milljón króna skref til innflutningsbanns, sem rekinn verður áróður fyrir í sumar. Þá verður einnig krafizt innflutningsbanns á heilar kartöflur, svo að bændur neyðist til að selja til Grænmetisverzlunar landbúnaðarins til að njóta niðurgreiðslna – í stað þess að selja beint. Þannig á að endurreisa einokunina og víkka hefðbundna kerfið.

Með möndli í kjarnfóðurskatti er verið að þvinga eggjabændur inn í einokunarkerfi, svo að frjálsir bændur séu ekki að hindra Ísegg í að hækka egg um 30% eða “eftir þörfum” hverju sinni. Allt stefnir því að fleiri auglýsingum um landbúnað undir liðnum : “Frá hinu opinbera”.

Jónas Kristjánsson.

DV

Gæludýr í fiskeldi.

Greinar

Einn tryggasti vagnhestur Sambands íslenzkra samvinnufélaga, Jón Helgason kirkjuráðherra, hefur gefið stórveldinu rétt á heitu og köldu vatni úr landi Staðar við Grindavík. Sambandið á aðeins að borga um 25 aura fyrir tonnið, en samkeppnisaðilar þurfa að borga 26 krónur.

Að vísu verður kostnaður Sambandsins meiri, af því að það þarf sjálft að bora eftir heita vatninu. Og ráðherra fullyrðir, að öðrum fiskiræktendum standi þessi kjör til boða. En ekki hefur komið fram, að þeir eigi kost á þátttöku í borholu Sambandsins.

Samningur Jóns við SÍS er ekki á hans ábyrgð eins, þótt hann hafi ekki sagt ríkisstjórninni frá honum fyrr en að honum undirrituðum. Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins geta ekki þvegið hendur sínar, því að þeir lögðu ekki einu sinni fram mótmæli, hvað þá að þeir færu í hart.

Ef til vill á verkaskipting stjórnarflokkanna að vera sú, að kirkjuráðherrann gefi gælufyrirtæki Framsóknarflokksins vatn í Grindavík og iðnaðarráðherrann gefi gælufyrirtæki Sjálfstæðisflokksins vatn á Reykjanesi. Aðrir fiskiræktendur verði að sitja úti í kuldanum.

Þótt ekki sé um slíka verkaskiptingu að ræða, er ljóst, að stjórnarsamstarf, sem leyfir óhæfuverk af þessu tagi, er án innihalds. Ráðherrarnir halda bara í það vegna sinnar persónulegu stöðu og kæra sig kollótta um tjónið, sem þeir valda flokkum sínum og þjóðinni.

Mikil áhætta er tekin með þjóðargjöfinni til Sambandsins. Í áliti frá Orkustofnun kemur fram, að ekki sé hægt að spá um skaðann af töku 350 sekúndulítra af fersku vatni. Það er 30% meira magn en Hitaveita Suðurnesja tekur. Og ferskvatn er ekki takmarkalaust á Reykjanesskaga.

Athyglisvert er, hvernig mál þetta hefur verið rekið. Fyrst samdi Sambandið við Hitaveitu Suðurnesja, allt að undirskrift, um ákveðið verð, en frysti síðan málið, meðan gengið var frá samningum við ráðherrann og þeir undirritaðir. Þessi aðferð lyktar fremur illa.

Þá er málið rekið af slíku offorsi, að Sambandið er þegar byrjað að bora, þótt bæjarstjórn Grindavíkur hafi ekki verið spurð ráða. Má þó ljóst vera, að gjafabréf kirkjuráðherrans tekur ekki gildi, nema það nái staðfestingu bæjarstjórnarinnar. Og hún er ekkert hrifin.

Eina afsökunin, sem fremjendur verknaðarins gætu haft sér til málsbóta, er, að Hitaveita Suðurnesja hefur í skjóli einokunaraðstöðu sinnar reynt að kúga fé út úr fiskiræktendum á einokunarsvæðinu. Hún lét Fjárfestingarfélagið borga 26 krónur á tonnið eða um 70% af almennum taxta.

Skynsamlegt væri að veita Hitaveitu Suðurnesja samkeppni, til dæmis með því að heimila fiskiræktendum að stofna sameiginlegt fyrirtæki til borunar eftir vatni og virkjunar þess. Stofnað yrði opið fyrirtæki um holuna við Grindavík og annað um holuna á Reykjanesi.

Nauðsynlegt er að hvetja til framtaks í fiskirækt fremur en að letja það. Þess vegna verður að hindra hvort tveggja í senn, að einokunar-hitaveita haldi uppi of háu verði á vatni og að pólitísk gæludýr fái forréttindi, sem lami framtak annarra í fiskirækt.

Ríkisstjórnin hafði ekki döngun til að stöðva óhæfuverk kirkjuráðherrans. En tveir aðilar geta hvor um sig stöðvað málið, bæjarstjórn Grindavíkur og svo sjálft Alþingi. Þessir aðilar þurfa að tryggja, að sameiginlegt fyrirtæki fiskiræktenda verði stofnað um Staðarborholuna.

Jónas Kristjánsson.

DV

Frjálsir skólar.

Greinar

Stjórnvöldum hefur tvisvar í vetur mistekizt að sinna fræðsluskyldunni, sem þeim er lögð á herðar. Við slíkar aðstæður er eðlilegt, að aukist efasemdir um, að hið opinbera sé eini rétti aðilinn til að gegna þessu hlutverki. Fleiri kunni að geta innt það af hendi.

Þegar Ríkisútvarpinu var lokað á öndverðum þessum vetri, jukust efasemdir um, að ríkið ætti að hafa einkarétt á ljósvakanum. Á svipaðan hátt má nú segja, að hið opinbera hafi í vetur í tvígang sýnt fram á, að það ráði ekki eitt við að halda úti fræðsluskyldu.

Tölvufræðsla er dæmi um nám, sem fer að verulegu leyti fram án afskipta hins opinbera. Á því sviði hafa risið upp nokkrir einkaskólar, sem starfa með blóma. Áhugi fólks á tölvum er slíkur, að það er reiðubúið að greiða þessa kennslu úr eigin vasa án aðstoðar hins opinbera.

Þetta stafar sumpart af því, að skólakerfið hefur ekki verið nógu fljótt að átta sig á mikilvægi tölvufræðslu, og sumpart af því, að fullorðið fólk, sem hætt er í skóla, telur sig þurfa á þessari þekkingu að halda. Einkaframtakið leysir málið eins og venjulega.

Hið opinbera gæti metið þetta framtak að verðleikum og látið frjálsa skóla um tölvufræðsluna, til dæmis gegn gjaldi, sem væri hið sama og núverandi kostnaður skólakerfisins af slíkri fræðslu. Vel er hægt að hugsa sér, að fé til tölvufræðslu mundi nýtast betur á þann hátt.

Ef þessi hugsun gengur upp, að því er varðar tölvufræðslu, er eins líklegt, að hið sama gildi um aðra fræðslu, sem nú þykir sjálfsagt, að sé á vegum ríkisins. Af hverju getur ríkið ekki látið einkaaðila sjá um þýzkukennslu, stærðfræðikennslu, sundkennslu og raunar hvaða kennslu sem er?

Milton Friedman er umdeildur hagfræðingur, sem hefur ýtt á flot mörgum athyglisverðum hugmyndum. Ein þeirra er sú, að í stað þess að reka eigin skóla gefi ríkið út skólaávísanir að sama verðmæti. Þessar ávísanir geti nemendur síðan notað til að borga fyrir sig í einkaskólum.

Þetta hefur verið prófað í Alum Rock í Kaliforníu. Of snemmt er að segja til um árangur. En þegar er ljóst, að skólahald þar varð mun fjölbreyttara en áður var. Og fjölbreytni í stað einhæfni er einmitt líkleg til að stuðla að þróun og framförum í fræðslu.

Ekki má heldur gleyma, að ávísanakerfi og frjálsir skólar mundu bæta mjög tekjur góðra kennara og ýta lélegum kennurum til annarra starfa, sem henta þeim betur. Nemendur mundu flykkjast í nám til beztu kennaranna, en ekki láta sjá sig hjá hinum, sem ekki geta kennt.

Við þessar aðstæður mundi hlutverk hins opinbera felast í eftirliti með frjálsum skólum og kennurum, svo og í útgáfu ávísana fyrir skólakostnaði. Úr töluvert miklum peningum væri að spila, því að núverandi ríkisrekstur skóla er afar þungur baggi á ríkissjóði.

Nokkur ójöfnuður yrði í frjálsu kerfi, því að sumir mundu leggja fé úr eigin vasa til viðbótar ávísunum til að ná í beztu kennsluna. En slíkur ójöfnuður er einnig til í núverandi kerfi, því að sumir kaupa einkatíma til viðbótar því námi, sem þeir fá hjá ríkinu.

Ekkert er heldur því til fyrirstöðu, að ráðamenn með félagshyggju gætu notað ávísanakerfi til jöfnunar, það er að segja látið gefa út hærri ávísanir til nemenda, sem búa við lakari aðstæður eða kjör en aðrir. Frjálshyggja og félagshyggja geta farið saman í ávísanakerfi.

Jónas Kristjánsson.

DV

Skírteini í pósti.

Greinar

Málsaðilar í deilu ríkissjóðs og háskólamenntaðra kennara virðast vera sammála um, að skaðlegur sé hinn mikli samdráttur í kennslu í skólum á menntaskólastigi, sem stafar af uppsögnum kennara. Ýmis rök hníga þó að því, að núverandi ástand sé ágætt og mætti framlengjast.

Skólar á menntaskólastigi eru orðnir svo fjölmennir, að þeir minna í vaxandi mæli á skóla á skyldunámsstigi. Nemendur eru margir hverjir meira eða minna skyldaðir til að vera þar, þótt þeir hafi engan áhuga á að notfæra sér þá starfsemi, sem skólunum er ætlað að stunda.

Þessir skólar líkjast smám saman eins konar dagheimilum fyrir unglinga á menntaskólaaldri. Unglingarnir eru hafðir þar í geymslu eins og börn í barnaskólum, svo að þeir séu ekki að flækjast fyrir á heimilunum og séu ekki að flækjast fyrir á vinnumarkaðnum.

Hin lélega framleiðni, sem jafnan einkennir skylduskóla, er einnig áberandi í skólum á menntaskólastigi. Skiptir þá litlu, þótt góðir kennarar reyni að gera sitt bezta. Ef jarðvegurinn er grýttur, áhugi nemenda lítill eða enginn, vinna hinir áhugasömu kennarar fyrir gýg.

Unglingar ná stúdentsprófi með svo ævintýralega litla þekkingu, að einfaldara væri að senda samkvæmt þjóðskrá stúdentsskírteini í pósti til allra á tilskildum aldri. Það mundi ekki kosta nema frímerki, en rekstur skóla á menntaskólastigi kostar stórfé á hvern nemanda.

Athyglisvert er, að venjulegt fólk þarf ekki nema brot af tíma nemenda á menntaskólastigi til að ná góðum prófum í öldungadeildum. Þar er að læra fólk, sem stefnir að marki, og þess vegna er framleiðnin þar margföld á við framleiðnina í hinum venjulegu menntaskóladeildum.

Spurning er, hvort rétt sé að kvelja unglingana í slíkum skólum og hvort ekki sé betra að bjóða fleiri og betri kosti eftirmenntunar og símenntunar. Sá, sem þarf atvinnu sinnar vegna að læra þýzku, gerir það á skömmum tíma í kvöldskóla, ef hann hefur ekki lært það af Derrick.

Þegar þessi sami maður var í menntaskóla, hafði hann ekki hugmynd um, að hann mundi þurfa á þýzku að halda. Þess vegna sýndi hann því námi engan áhuga og kunni raunar ekki neitt, þrátt fyrir stúdentspróf. Framleiðni námsins margfaldast, þegar þörf er og áhugi.

Sumir unglingar eru áhugasamir um nám og geta á hálfum vetri lært það, sem reiknað er með, að fólk læri á heilum vetri. Þessa unglinga munar ekkert um, þótt skólarnir séu meira eða minna lokaðir vikum saman. Þeir þurfa ekki einu sinni á kennurum að halda til að geta lært.

Hinir, sem lítinn eða engan áhuga hafa, læra hvort sem er ekki neitt í skólanum. Þeim má eins og hinum vera sama um, þótt kennarar séu farnir til annarra starfa. Þessir nemendur ættu raunar fremur heima í gagnlegu atvinnulífi en í gagnslausu námi. Ef þeir þurfa, fara þeir síðar í kvöldskóla.

Þau rök, sem hér hafa verið talin, segja ekki allan sunnleikann um málið. En þau benda þó til, að ástæðulaust sé að telja hrapallegt, að margir kennarar og nemendur snúi sér að atvinnulífinu í stað þess að strita í vonleysi við að rækta akur í stórgrýtisurð.

Hví skyldi Kjaradómur ekki vísa frá málinu á þeim forsendum, að kennarar séu farnir, uppsagnir þeirra staðfestar í ráðuneytinu og málið þannig komið út fyrir verksvið dómstólsins? Það ríkir nefnilega ekki neitt ófremdarástand. Og stúdentsskírteinin má senda öllum í pósti.

Jónas Kristjánsson

DV

Pappír leysir ekki málið.

Greinar

Sanngjarnt og skynsamlegt er frumvarp Alexanders Stefánssonar félagsmálaráðherra um, að greiðslubyrði íbúðalána fylgi kaupgreiðsluvísitölu en ekki lánskjaravísitölu. Þetta er í samræmi við tillögur, sem komið hafa frá mörgum aðilum og meðal annars birzt í leiðurum DV.

Pappír á borð við frumvarp leysir þó engin mál, þótt að lögum verði. Ekki er hægt að búa til verðmæti með pólitískum tilfæringum á pappír. Það er fyrst og fremst fjármagn, en ekki pappír, sem vantar í húsnæðismálin. Ef ekki fæst nýtt fjármagn, er frumvarpið sjónhverfing.

Við núverandi aðstæður mundi hin breytta greiðslubyrði leiða til, að minni greiðslur en ella rynnu frá lántakendum inn í húsnæðislánakerfið. Þar með minnka peningarnir, sem þar eru til ráðstöfunar til nýrra útlána. Vandi þeirra, sem hafa byggt, er leystur á kostnað hinna, sem vilja byggja.

Önnur takmörkun á gildi frumvarpsins felst í, að það getur aðeins stjórnað útlánum ríkisins, það er Húsnæðisstofnunar, en ekki banka og lífeyrissjóða. En bezt kæmi húsbyggjendum að fá skammtímalánum banka breytt með þeim hætti, sem frumvarpið gerir ráð fyrir.

Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur riðið á vaðið með lengingu lána, í töluverðu samræmi við anda frumvarpsins. Vonandi verður hægt að fá aðra lífeyrissjóði til að fylgja á eftir. En hætt er við, að bankarnir telji sig vanbúna til að veita sjálfvirka fyrirgreiðslu af þessu tagi.

Ef við gerum ráð fyrir, að frumvarpið verði að lögum og að lífeyrissjóðir og bankar fylgi í kjölfarið, er samt ljóst, að lífið heldur áfram og að nýjar umsóknir um lán munu berast frá fólki, sem komið er á íbúðakaupaaldur. Hvaða peninga á það fólk að fá að láni?

Þetta verða menn að muna einmitt núna, þegar skottulæknar vaða uppi með tillögur um vaxtalækkun, sem mundi snarminnka sparifjármyndunina í þjóðfélaginu, – þegar þessir sömu skottulæknar fá hljómgrunn í félögum framsóknarmanna og hjá öðrum vinum verðbólgugróða.

Annars vegar er Alexander með ágætt frumvarp um að minnka greiðslurnar frá íbúðaeigendum inn í kerfið. Og hins vegar eru svo margir flokksbræður hans með vondar hugmyndir um að minnka spariféð, sem er til umráða og útlána . Hvort tveggja fær ekki staðizt í senn.

Með þessum fyrirvörum er ástæða til að fagna frumvarpi ráðherrans. Það er raunar betra en margar fyrri hugmyndir, sem ganga í svipaða átt. Það víkur nefnilega ekki frá grundvelli lánskjaravísitölu, þótt greiðslubyrði sé í framkvæmd miðuð við kaupgreiðsluvísitölu.

Rökfræðilega er lánskjaravísitala réttari í þessu tilviki, þótt aðstæður hafi gert hana grimma um tíma. Bjarni Bragi Jónsson, aðstoðarbankastjóri Seðlahankans, hefur réttilega bent á, að í náinni framtíð sé eins líklegt, að hún verði húsbyggjendum hagstæðari en kaupgreiðsluvísitala.

En sú rétta hagfræði breytir ekki reiðarslaginu, sem fólk hefur þegar orðið fyrir. Rétta leiðin er frumvarp Alexanders og láta það gilda frá upphafi misræmisins, það er að segja frá 1982, en ekki bara 1983. Síðan mega lánin lengjast og styttast eftir sveiflum vísitölumisræmis.

Næsta skrefið er svo að finna peninga til að fjármagna þessa sanngjörnu óskhyggju. Þar verður þrautin þyngri, ekki sízt þegar önnur óskhyggja, til dæmis hinn hefðbundni landbúnaður, nýtur sjálfvirks forgangs að því fé, sem ríkið hefur til sinna guðsþakkarverka.

Jónas Kristjánsson.

DV

Heppileg skandinavíska.

Greinar

Í norrænu samstarfi er Norðurlandaráð tindurinn, sem allir tala um. En samstarfið er miklu viðtækara. Hvers konar sveitarfélög og samtök stunda norrænt samstarf af alefli. Varla líður svo kvöld árið um kring, að ekki sé einhvers staðar verið að skála fyrir norrænu samstarfi.

Þetta hefur margvíslegt gildi. Til dæmis er hin óbeina afleiðing sú, að almenningur á kost á hartnær daglegum flugferðum til Norðurlanda. Flugvélarnar eru hálfar af norrænu samstarfi, allt frá þingmönnum og embættismönnum yfir í lögreglukóra og slökkviliðskvartetta.

Í þessu norræna samstarfi fær fjöldi Íslendinga að æfa sig í skandinavisku. Það er sérstakt mál, sem Íslendingar hafa búið til, svo að þeir verði jafn vel skiljanlegir um öll Norðurlönd. Það byggist á dansk-íslenzkum framburði á orðum, sem flest eru úr dönsku, en nokkur úr sænsku.

Þetta tilbúna mál er afar heppilegt, af því að það skilst, til dæmis í skálaræðum. Danir ímynda sér hins vegar, að Svíar skilji dönskuna þeirra, og fara því halloka í samanburði við Íslendinga . Hið sama má, en í minna mæli, segja um skilning áheyrenda á hratt talaðri sænsku.

Annað verður uppi á teningnum, þegar tala þarf í alvöru um eitthvert mál. Frægasta dæmið er fimm ára gamall sjónvarpsfundur norrænu menntamálaráðherranna. Þar kjaftaði hver tuska á öllum ráðherrunum, nema hinum íslenzka, sem leit á hina til skiptis og sagðist brosmildur vera sammála.

Í slíku samstarfi taka Danir, Norðmenn og Svíar orðið. Þeir tala sitt móðurmál og tala það hratt, enda vita þeir, að viðmælendurnir eru svo skólaðir eða þjálfaðir, að þeir skilja, hvað sagt er. Þessir viðmælendur svara síðan jafn hratt og örugglega. Á sínu máli, en ekki skandinavisku.

Íslendingur, sem reynir að tala skandinavisku við slíkar aðstæður, verður fljótt utangátta. Hann er að tala tilbúið mál, sem hann hefur lært. Hann grípur ekki á lofti tilvitnanir í góðskáld. Hann á erfitt með að fara á kostum. Hann talar hægt og varfærnislega, í allt öðrum takt.

Margir hafa orðið varir við, að þetta er ekki útlátalaust. Sá, sem talar í öðrum og hægari takt, er ósjálfrátt talinn tregari í hugsun. Minna mark er tekið á sjónarmiðum hans og hagsmunum en ella væri. Í mörgum tilvikum gefst Íslendingurinn upp og lætur umræðuna framhjá sér fara.

Í slíkum tilvikum er engin lausn að leggja fram skriflegar þýðingar, þótt Páll Pétursson forseti Norðurlandaráðs, hafi bent á þá leið. Að vísu gerir það Íslendingum kleift að tala móðurmálið. En það er haldlítið í umræðum, sem jafnan fylgja á eftir, ef málið er einhvers virði.

Í fínum selskap eins og Norðurlandaráði, þar sem peningar skipta litlu, er auðvitað sjálfsagt að krefjast þess, að Íslendingar fái í umræðum að tala íslenzku, ef þeir vilja, og mál þeirra sé jafnan þýtt á önnur mál Norðurlanda. Á þessu sviði hlýtur jafnrétti að fá að gilda.

Þetta gagnar hins vegar ekki í hinu fjölbreytta samstarfi á sviðum, þar sem ekki er af fjárhagsástæðum hægt að stunda neina samhliða túlkun milli tungumála. Það gæti til dæmis verið í nefndum Norðurlandaráðs eða í hverju öðru norrænu samstarfi á vegum annarra.

Hér í blaðinu hefur áður verið lagt til, að í slíkum tilvikum sé enska heppilegt jafnréttis-tungumál. Hana kunna allir jafn vel eða illa og geta því talað í sama takt, með sama hraða. Hún er hlutlaust mál í norrænu samstarfi og hefur oft komið að góðum notum sem slík, heppileg skandinavíska.

Jónas Kristjánsson

DV