Author Archive

Gíslataka kærð.

Greinar

Ríkissaksóknari hefur kært tíu starfsmenn Ríkisútvarpsins fyrir að hafa “valdið verulegri truflun á öllum útvarpsrekstri með því að koma í veg fyrir nær allar útsendingar hljóðvarps og allar útsendingar sjónvarps” með skipulagningu vinnustöðvunar í verkfalli opinberra starfsmanna í fyrra.

Þegar þetta gerðist, hafði útkoma dagblaðanna legið niðri um tíma vegna verkfalls. Skyndileg stöðvun útvarps og sjónvarps vegna ágreinings um launagreiðslur olli því, að þjóðin einangraðist. Hver borgari sat í sínu horni og vissi ekki, hvað var að gerast í þjóðfélaginu og umheiminum.

Þetta var óþolandi ástand. Engir hefðbundnir fjölmiðlar gátu veitt almenningi fréttir og aðrar upplýsingar um ástandið í þjóðfélaginu, sem var einkar hverfult um þær mundir. Það var eins og þjóðin hefði skyndilega verið lokuð inni í myrkum klefa, sambandslaus og varnarlaus.

Auk fréttaleysisins varð umræðuleysi í landinu. Á við- kvæmum tíma í þjóðfélaginu lagðist niður opinber umræða, aðhald að stjórnvöldum og gagnrýni á athafnir eða athafnaleysi stjórnvalda og annarra valdaaðila í þjóðfélaginu. Lýðræðið var hreinlega lagt niður um óákveðinn tíma.

Málið var leyst með því, að einkastöðvar spruttu upp hér og þar um landið. Kveikt var ljós í myrkrinu og þjóðin náði aftur sambandi við sjálfa sig og umheiminn. Vopn einangrunarinnar hafði geigað og starfsmenn útvarpsins hófu aftur störf að fréttaflutningi. Það er svo önnur saga, að ríkisvaldið lét loka nýju útvarpsstöðvunum.

Það er líka önnur saga, að fréttastofa hljóðvarpsins fór í gang með bullandi hlutdrægni í fréttaflutningi. Til að byrja með starfaði fréttastofan sem áróðursmálaráðuneyti fyrir opinbera starfsmenn.

Merkasta niðurstaða málsins var þó, að margir borgarar áttuðu sig á, að starfsmenn og stjórnendur Ríkisútvarpsins höfðu fyrirgert rétti stofnunarinnar til einokunar á sinu sviði. Í landinu myndaðist nægur pólitískur vilji til að knýja fram ný lög um frjálsara útvarp.

Einhvern tíma á næsta ári mun sú skipan komast á íslenzkt útvarp, að síðan verður ekki hægt að taka þjóðina í gíslingu með þeim hætti, sem starfsmenn Ríkisútvarpsins gerðu í fyrra. Rekstur útvarps, sjónvarps og kapals verður á svo mörgum höndum, að slíkt ofbeldi verður ókleift.

Hörmulegasti þáttur gíslatökunnar var, að fréttamenn skyldu missa sjónar af stöðu sinni sem fjórðu stéttar í landinu utan við valdastreitu hagsmuna, – að þeir skyldu láta stolt og reisn starfans víkja fyrir persónulegum hagsmunum og svíkja þannig skjólstæðinga sína, fólkið.

Blaðamenn og fréttamenn geta átt í vinnudeilum eins og aðrar stéttir. En slíkir hagsmunir mega aldrei enda í algerri stöðvun á straumi upplýsinga. Það er jafnútilokað og að læknir mundi bregðast eiðstaf sínum. Menn þurfa að vera nógu stórir til að átta sig á þessu.

Starfsmenn Ríkisótvarpsins hafa klagað mál þetta fyrir norrænum samtökum. Einokunarlið norræns útvarps hefur einmitt undanfarna daga verið að skipuleggja ritskoðun á “röngum” skoðunum um mál Suður-Afríku. Segja má, að skel hæfi kjafti, ef þeir taka næst fyrir íslenzka klögumálið.

Kæran á hendur starfsmönnum Ríkisútvarpsins er ekki kúgun af hálfu ríkisvaldsins eða aðför að frjálsri verkalýðshreyfingu. Hún er áminning um, að ekki megi taka gísla í skjóli einokunar og að ekki megi slökkva alveg á straumi upplýsinga og skoðana.

Jónas Kristjánsson

DV

Ævintýragreinin.

Greinar

Hinir bjartsýnu og hinir svartsýnu hafa hvorir tveggja rétt fyrir sér í ágreiningnum um framtíð fiskeldis á Íslandi. Sumir munu kollsigla sig og aðrir leggja varanlegan grundvöll að einni allra mikilvægustu atvinnugrein landsins á þessum og næsta áratug.

Nánast má líta á það sem náttúrulögmál, að hluti fyrirtækja í nýrri atvinnugrein fari á höfuðið. Í Bandaríkjunum hlýtur þriðjungur nýrra fyrirtækja þau örlög. Þetta er eins konar Darwinskenning, heimfærð til viðskiptalífsins. Þeir, sem standa sig, munu lifa af.

Þrátt fyrir afföllin eru nýju fyrirtækin mikilvægasti vaxtarbroddur atvinnulífsins. Í Bandaríkjunum útvega fyrirtæki, sem ekki voru til fyrir fimm árum, tvo þriðju af öllum nýjum atvinnutækifærum í landinu. Án ævintýrafyrirtækja í nýjum greinum væri stöðnun og kreppa.

Fiskeldið er ævintýragrein nútímans á Íslandi. Eftir tveggja áratuga erfiði og óvild hins opinbera er hún komin á fljúgandi ferð. Straumhvörfin urðu á síðasta ári. Þá varð ljóst, að mikill fjöldi fólks var ákveðinn í að stinga sér í vatnið og kanna, hvort flyti.

Um síðustu áramót höfðu 70 aðilar aflað sér leyfis til fiskeldis og 38 þeirra byrjaðir rekstur. Flestir voru í seiðaeldi, margir í hafbeit og nokkrir í floteldi eða eldi uppi á ströndinni. Útflutningur á laxi fór á því ári í fyrsta skipti yfir 100 tonn.

Fram til þessa hefur verið nærri útilokað að fá lánsfé til fiskeldis. Í sumar komu svo hinir opinberu aðilar, sem liggja eins og skömmtunarstjórar eða ormar á gulli landsmanna, til skjalanna og hófu skipulega útvegun lána, er nema 50% af uppbyggingarkostnaði fiskeldis.

Reikna má með, að samtals verði festar 400 milljónir króna í fiskeldi á þessu ári og 600 á hinu næsta. Þetta er afar áhættusöm fjárfesting, en samt hin vænlegasta, sem völ er á, ef dæmið gengur upp. Jafnvel Curt Nicolin, kraftaverkamaður í rekstri, hefur trú á íslenzku fiskeldi.

Eyjólfur Konráð Jónsson, stjórnarformaður Ísnó, einnar af reyndustu laxveiðistöðvunum, gekk svo langt í viðtali við DV að segja, að Íslendingar væru aumingjar, ef þeir næðu ekki 40.000 tonna árlegri framleiðslu á næsta áratug. Magnið er nú 140 tonn á ári.

Eyjólfur spáir, að Atlantshafslaxinn muni sem betri matfiskur ryðjast inn á markaðssvæði Kyrrahafslaxins. Þar er mikið í húfi, því að af hinum fyrri eru veidd 40.000 tonn á ári, en 600.000 tonn af hinum síðari. Því ættu vaxtarmöguleikar að vera miklir víðar en í Noregi.

Að sjálfsögðu verður tímafrekt að ná tökum á fiskeldi. Mikilvægt er, að sem flestir fari gætilega af stað og taki eitt skref í einu. Framleiðslukostnaður er enn tiltölulega hár í samanburði við fiskeldi í Noregi. Og svo er eldisfiskur afar viðkvæmur í meðförum.

Heppilegt virðist að sækja fram á nokkrum sviðum samtímis, nota til dæmis strandeldi til að jafna út framleiðslukúfa hafbeitar og floteldis. Einnig þarf að koma niður verði á fóðri og orku. Hvort tveggja ætti að vera hægt nálægt fiskvinnslu og jarðhita.

Þeir, sem leggja í ævintýrið, verða að ná tökum á því á næstu fimm árum, því að líklegt er, að verðið fari að lækka að þeim tíma liðnum. Þeir, sem þá verða búnir að koma sér fyrir, ættu að geta staðizt lækkunina, en aðrir varla. Ævintýrið er hættulegt, en er samt ævintýri.

Jónas Kristjánsson

DV

Markviss nýsköpun.

Greinar

Julíus Nyerere, forseti Tanzaníu, var ekki dæmigerður leiðtogi í þriðja heiminum. Hann safnaði ekki auði handa sjálfum sér. Hann lét með góðu af völdum í síðasta mánuði eftir 30 ára einræði. Að vísu valdi hann eftirmanninn sjálfur.

Nyerere hefur notið meiri virðingar út um heim en flestir aðrir einræðisherrar. Þetta hefur meðal annars leitt til, að land hans hefur fengið mun meiri þróunaraðstoð en önnur lönd þriðja heimsins. Hún nemur hærri fjárhæðum en öll útflutningsverðmæti landsins.

Norðurlönd hafa verið mikilvirkust í aðstoðinni við Nyerere og Tanzaníu. Landið hefur komizt í landafræðikennslubækur Norðurlanda, þar á meðal Íslands. Er þar fjallað um Tanzaníu eins og nokkurs konar fyrirmyndarríki. Stjórnarstefna Nyereres hefur líka geðjast þessum skipulagssinnuðu ríkisdýrkunarþjóðum.

Nyerere er sósíalisti og hefur trúað á slagorð á borð við markvissar aðgerðir, markvissa atvinnustefnu, markvissa nýsköpun. Þessi stefna hans hefur gert Tanzaníu að gjaldþrota ómaga á framfæri Norðurlanda.

Þegar Bretar gáfu Kenya og Tanzaníu frelsi fyrir þremur áratugum, var Kenya mun hrjóstrugra og fátækara land en Tanzanía eða Tanganyika eins og landið hét þá. Nú er Tanzanía hins vegar fátækara landið og er raunar fátækara en það var fyrir 30 árum.

Það er hin markvissa nýsköpun Nyereres, sem hefur brotið niður efnahag Tanzaníu. Að sovézkri fyrirmynd kom hann upp samyrkjubúum í landbúnaði. Hann kom upp miðstýrðu, opinberu verðlagskerfi. Þetta eru bara tvö dæmi af mörgum.

Nyerere vissi ekki frekar en margir enn þann dag í dag, að markið, sem stefnt er að, reynist jafnan að meira eða minna leyti rangt. Enginn forseti eða hagfræðingur getur spáð fram í tímann og séð, hvaða svokallaða markvissa stefna er bezt. Aðstæður breytast stöðugt og gera það fáránlegt, sem áður virtist sjálfsagt.

Í Bandaríkjunum hefur komið í ljós, að tveir þriðju hlutar nýrra atvinnutækifæra myndast í greinum, sem ekki voru til fyrir fimm árum. Sá vitringur, sem hefði fyrir fimm árum skipulagt markvissa atvinnustefnu þar í landi, hefði reynzt vera falsspámaður. Hann hefði spillt fyrir eðlilegri og sjálfvirkri þróun, því að forgangsverkefnin eða gæluverkefnin hefðu verið önnur en þau, sem síðan urðu þjóðinni til framdráttar.

Fiskeldi þróaðist ekki á Íslandi fyrir stuðning ríkisins, heldur þrátt fyrir andstöðu embættismanna. Það er fyrst nú, þegar greinin er viðurkennd, að farið er að lána til hennar. Tölvuiðnaður hefur skotið rótum án markvissra aðgerða hins opinbera. Hann hefur fyrst og fremst verið látinn í friði. Núna fyrst á að fara að byrja að lána til hans smávegis af peningum, þegar hann hefur öðlazt viðurkenningu.

Nyerere var góðviljaður forseti. En hann gerði þau mistök að halda, að hann og hans menn gætu skipulagt framtíðina. Við skulum læra af mistökum hans og gjalda varhug við kenningum stjórnmála- og embættismanna um að koma á fót markvissum aðgerðum, markvissri atvinnustefnu, markvissri nýsköpun.

Það, sem nú sýnist tilvalið að beztu manna yfirsýn, kann ekki aðeins að reynast, heldur mun sennilega reynast úrelt að fimm árum liðnum.

Jónas Kristjánsson

DV

KEA

Veitingar

Aukin samkeppni frá nýjum vínveitinga-matsölum hefur ekki hleypt nýjum krafti í veitingasalinn á annarri hæð Hótel Kea á Akureyri. Hann hefur heldur daprazt síðan í fyrra, einkum matreiðslan. Það er eins og ráðamenn staðarins hafi endanlega gefizt upp á að fá heimamenn í mat og reki staðinn einkum fyrir þann slæðing hótelgesta, sem ekki nennir út fyrir dyr.

Beðið eftir nýja salnum

Ytri umbúnaður borðhalds er svipaður og verið hefur. Þetta er dæmigerður gamaldags hótelsalur án sérstakra, aðlaðandi einkenna. Hann hefur líka slitnað meira en svo, að hægt sé að tala um þreytulegan sjarma. Haldið hefur verið áfram að staga í borðdúkana. Hinir fáu gestir sitja eins og krækiber í 120 sæta ginnungagapi.

Þetta stafar sjálfsagt af því, að von er á nýjum matsal á fyrstu hæðinni. Hann er hluti af alhliða endurnýjun hótelsins, sem satt að segja er ekki seinna vænna. Vonandi tekst nýi salurinn eins vel og nýju herbergin, sem eru sérstaklega indæl. Ef svo reynist, mega nýju staðirnir á Akureyri fara að vara sig á gamla, góða Kea.

Þjónustan var í sama, góða laginu og lengi hefur verið. Til dæmis fá gestir sjálfkrafa vatnskönnu á borðið. Vínlistinn er eins frámunalega lélegur og hann hefur alltaf verið. Einkum er hvítvínslistinn átakanlegur. Það kann að hafa verið í lagi í gamla daga, þegar ekki var boðið upp á fisk á Akureyri. En nú er fullt af fiski á matseðlinum og þá þarf stundum á hvítvíni að halda.

Sjálf matreiðslan fylgir nákvæmlega hinum hefðbundna barokk-stíl, sem ekki hefur enn lagt upp laupana hér á landi. Til dæmis kemur maturinn fram á bökkum og þjónninn færir hann upp á diska. Með fylgja miklar sósukönnur með margra sentilítra innihaldi af béarnaise-, choron-, andalouse- og madeira-sósum. Meðlæti er töluvert staðlað, mikið að magni. Dósahnífur er vinsælt verkfæri í eldhúsi.

Hið eina, sem hafði breytzt til batnaðar frá í fyrra, er, að hver gestur fékk sinn disk af hrásalati. Það er raunar hinn eini þáttur nútímamatreiðslu, sem hefur unnið sér svo varanlegan þegnrétt hér á landi, að jafnvel Hótel Kea er með á nótunum. Hrásalatið var gott í bæði skiptin, sem það var prófað. Í fyrra sinnið fól það í sér ísberg, tómata, hnetur og vínber með rjómasósu í eins konar waldorf-stíl. Í hið síðara hafði það að geyma epli, vínber, rauða papriku og blaðsalat, ekki í neinum vökva eða sósu.

Í fyrravetur vék um tíma langur matseðill fyrir tveimur stuttum, öðrum í hádegi og hinum að kvöldi. Í sumar var aftur kominn langur seðill í hefðbundnum stíl, allt of langur fyrir aðra staði en þá, sem byggja matreiðsluna á dósahníf, frystikistu og örbylgjuofni.

Daprar súpur

Í annað skiptið voru bornar fram sömu, vondu brauðkollurnar og voru á morgunverðar-hlaðborðinu. Í hitt skiptið voru brauðkollurnar annarrar og betri ættar. Í kræklingasúpuni var dósakræklingur og laukur. Hún var vel heit og rjómuð, en lítt spennandi. Prinsessusúpa var spergilsúpa með skinkubitum, hveitileg og fremur fráhrindandi.

Þjónninn viðurkenndi í virðingarverðum heiðarleika, að fiskréttirnir væru úr frysti. Við prófuðum þó gegn betri vitund pönnusteiktan silung með andalouse-sósu. Sem frystur var hann frambærilegur. Sósan var tómat-rjómasósa. Sérkennilegt var, að með fylgdu bæði hvítar kartöflur og bökuð kartafla. Ef til vill var vélmenni í eldhúsinu, sem setti bakaða kartöflu á hvern disk.

Pönnusteiktur smokkfiskur með papriku og lauk var ágætur matur. Smokkfiskhringirnir lágu á beði lauks og papriku, sem var gegnsósa af smjöri. Það hæfði þessu tilviki. Með fylgdi ristað brauð og smjör. Þetta var sannkölluð hitaeiningarispa.

Mikið steikt og saltað

Með kjötréttum var staðlað meðlæti. Nautakjöti fylgdi bökuð kartafla og brokkál, sem virðist gífurlega vinsælt í eldhúsum akureyrskra veitingastaða. Lambakjöti fylgdi þurr spergill, blómkál og stappa. Allt kjöt var mikið saltað og í sumum tilvikum ofsalega saltað. Það var líka meira steikt en um var beðið.

Turnbauti var frekar þurr, mikið pipraður og ekki góður. Rauðvínið hafði ekki verið sparað í sósuna, sem hét béarnaise. Chateaubriand var betra, þótt ofsaltað væri. Sama sósan hét að þessu sinni choron. Hún var ágæt.

Þjónninn fór faglega að eldsteikingu piparsteikur að öðru leyti en því, að hún varð miðlungi steikt, en ekki lítið steikt. Ef þið viljið geta upp á, hvað fylgdi henni, þá hafið þið rétt fyrir ykkur. Það var bökuð kartafla. Einnig sveppir, maís og rauð paprika, svo og mjög rjómuð pipar- og brandísósa.

Pönnusteikt lambabuff með madeira-sósu var rautt, en þurrt, hreystilega saltað. Köld nautatunga með waldorf-salati var lítilfjörleg, þurr tunga með blöndu epla, ísbergs, blaðsalats og rauðrar papriku, sem samtals gekk undir nafninu waldorf á Hótel Kea.

Barokk-stíllinn lýsir sér í hinum fínu nöfnum á sósum og meðlæti, andalouse, béarnaise, choron, madeira, waldorf. Það er eins og maður sé kominn til millistríðsáranna.

Heit eplakaka með jarðarberjum og þeyttum rjóma var fyrirtaks matur. Konfekt var borið fram með góðu kaffi.

Miðjuverð þriggja rétta máltíðar með kaffi og hálfri flösku á mann af frambærilegu víni var 1.260 krónur, svipað og á hinum fínu stöðunum á Akureyri.

Svo er bara að vona, að barokkið í matreiðslunni hverfi með nýja matsalnum og að ný og betri matreiðsla haldi innreið sína í nýjum og notalegum matsal.

Jónas Kristjánsson

Matseðill:
350 Síldartríó og reyktur lax með brauði og soðnum kartöflum
295 Innbakaðar rækjur með andalouse-sósu
320 Sex sniglar í hvítlaukssmjöri
360 Grafinn lax með sinnepssósu
325 Pönnusteiktur hörpuskelfiskur með ristuðu brauði
145 Gratineruð lauksúpa
120 Uxahalasúpa með hleyptu eggi
150 Rækjusúpa með karríbragði
135 Sérrílöguð sveppasúpa
445 Gufusoðnar rauðspretturúllur með rækjum og kræklingi í hvítvínssósu
395 Pönnusteikt rauðsprettuflök með fersku grænmeti og sítrónusmjöri
495 Grillsteiktur lax með vínberjum og ristuðum humarhölum
510 Rjómasoðnar laxasneiðar með hollandaise-sósu
485 Smjörsteiktur silungur með hnetum og vínberjum
800 Hvítlauksristaðir humarhalar með ristuðu brauði
675 Sjávargratín dagsins að hækki kokksins
380 Fiskur dagsins að hætti hússins
535 Ristaðar lambalundir með koníakssveppasósu
515 Lambakótilettur með madeira-sósu
855 Turnbauti með béarnaise-sósu
815 Nautahryggsneið með ristuðum perlulauk og rauðvínssósu
875 Eldsteikt piparsteik með rjómasósu
640 Heilsteikt svínalund með piparsósu
525 Pönnusteikt kjúklingabringa með Grand Marnier sósu
205 Eplakaka með jarðarberjum
205 Ís með súkkulaðihjúpuðum vínberjum
205 Ísfylltar pönnukökur með bláberjasósu
210 Djúpsteiktur camembert ostur með rifsberjahlaupi
215 Ávaxtasalat í appelsínulíkjör
350 Kalt hangikjöt með kartöflum og grænum baunum
350 Marineruð síld með lauk og rúgbrauði
235 Íslenzkur kavíar með eggjarauðu og ristuðu brauði
155 Skyr með rjóma

DV

Þeir spara ekki.

Greinar

Með fjárlagafrumvarpi ársins 1986 hefur ríkisstjórninni ekki tekizt að halda útgjöldum sínum í skefjum. Samkvæmt þeirri útgáfu, sem samkomulag er að takast um, verður hlutdeild ríkisins í þjóðarbúinu óbreytt frá þessu ári eða 28%. Það er útþensla frá í fyrra, þegar hlutdeildin var 26,5%.

Þetta minnkar líkur á, að ríkisstjórnin geti í lok kjörtímabilsins hrósað sér af umtalsverðum sparnaði í ríkisrekstrinum. Það var eitt af mikilvægustu markmiðum hennar og auk þess sérstaklega nauðsynlegt á tímum stöðnunar og samdráttar í þjóðarbúinu.

Að vísu hefur hingað til ekki verið nógu mikið að marka slíkan samanburð, því að fjárlög hafa ekki verið lokað dæmi. Hinir lausu endar þeirra hafa verið afgreiddir í lánsfjárlögum og aukafjárveitingum. Með nýja fjárlagafrumvarpinu verður á þessu mikilvæg endurbót.

Frumvarpið er í auknu samræmi við skilgreiningu og staðal Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Til dæmis flytjast upphæðir almannatrygginga yfir í aðalhluta fjárlaga. Mestu máli skiptir þó, að lánsfjáráætlunin verður hluti af fjárlagafrumvarpinu. Þar með verður erfiðara að blekkja með fjárlögum í framtíðinni.

Að flestu öðru leyti veldur fjárlagafrumvarpið vonbrigðum. Aðeins sum mikilvæg loforð verða efnd að verulegu leyti. Tekjuskattur verður lækkaður um 400 milljónir í stað hinna 600, sem ráðgerðar voru. Það má út af fyrir sig telja fullnægjandi árangur við erfiðar aðstæður.

Taka verður með fyrirvara fullyrðingu ráðherranna um, að frumvarpið feli ekki í sér aukningu skulda í útlöndum. Þegar hefur komið fram, að nýju landbúnaðarlögin og túlkun landbúnaðarráðherra á þeim munu kosta 575 milljón króna erlend lán á næsta ári.

Hrikaleg er sú ráðagerð að hækka óbeina skatta um tæpa tvo milljarða króna. Að vísu væri sanngjarnt og eðlilegt að stefna að einföldun söluskattsins með því að hafa hann á öllum vörum. Það mundi draga stórlega úr möguleikum á svikum á söluskatti og draga úr skattheimtuþörf ríkisins.

Útilokað er að láta slíka einföldun koma fram sem aukningu á matarútgjöldum fólks, án þess að jafngild lækkun söluskattsprósentunnar komi á móti, svo að heildarútgjöld fólks haldist óbreytt. Prósentan er þegar orðin of há og hvetur grimmilega til skattsvika.

Ráðgerð herferð skattrannsóknastjóra um næstu mánaðamót er ágæt tilraun til að draga úr söluskattsvikum. Að vísu verður að draga í efa, að árangurinn verði sá, sem gefið hefur verið í skyn. En herferðin er alténd auglýsing um alvöru stjórnvalda á þessu frekar vanrækta sviði.

Verst við frumvarpið er, að eyðsluráðherrarnir komast upp með meira eða minna óhefta útgjaldastefnu. Þannig er gert ráð fyrir, að útgjöld til vega hækki úr rúmlega hálfum öðrum milljarði króna í heila tvo. Þar hefði verið hægt að spara nokkur hundruð milljóna og fresta framkvæmdum til betri tíma.

Engin tilraun hefur verið gerð til að draga úr fjárhagsábyrgð ríkisins á hinum hefðbundna landbúnaði. Niðurgreiðslur, útflutningsuppbætur og ýmsir beinir styrkir til þessa ómaga á þjóðarbúinu eiga að nema um 7% af öllum útgjöldum ríkisins. Sá hluti einn er stærri en samanlagður fjárhagsvandi ríkissjóðs.

Jónas Kristjánsson

DV

Þeir borgi ekki.

Greinar

Matthías Bjarnason samgönguráðherra vill, að börnin þín og mín borgi göt, sem hann vill bora í fjöll fyrir útlenda peninga. Bæði hér í blaðinu og á öðrum vettvangi verður reynt að spyrna á móti. Samt er líklegt, að ráðherranum takist að auka skuldabyrði þjóðarinnar.

Hann er löglega kjörinn til að fara með mikil völd. Kjósendur hafa átt og munu áfram geta átt þess kost að hvetja eða hindra áhugamál á borð við göt í fjöll. Þess vegna er enginn vafi á, að þau börn okkar, sem ekki flýja land, verða að borga skuldir, er hann stofnar til.

Í mörgum löndum þriðja heimsins hafa valdamenn ekkert slíkt umboð, sem samgönguráðherra okkar hefur. Þjóðir þeirra hafa ekki tækifæri til að ákveða, hvort þeir eða aðrir skuli hafa vald til að ráða. Þjóðir án sjálfsákvörðunarréttar bera ekki ábyrgð á skuldum.

Víða hafa herforingjar og lögregluforingjar brotizt til valda og steypt löglegum stjórnum úr sessi. Bankastjórar vestrænna banka virðast ímynda sér, að slíkir menn séu ábyrgari í meðferð fjármuna en lýðræðislega kjörnir stjórnmálamenn. Það er hreinn og tær misskilningur.

Sagan um allan hnöttinn sýnir, að herforingjar og lögregluforingjar eru margfalt ábyrgðarminni en samgönguráðherrar á Íslandi. Hvergi er óráðsían meiri en undir stjórn þeirra, svo sem sýna dæmin frá Argentínu og Brasilíu. Þeir moka inn erlendu lánsfé.

Herforingjar og lögregluforingjar eru mun kræfari en aðrir við að koma hluta af lánsfénu inn á einkareikninga í svissneskum bönkum. Þeir eru mun kræfari en aðrir við að reisa kröflur og þörungaver í mun stærri stíl en við þekkjum – til þess að gerast þar sjálfir fínir forstjórar.

Síðast en ekki sízt telja herforingjar og lögregluforingjar sig þurfa gífurlegt fjármagn til kaupa á leikföngum hermanna, stríðsþotum og skriðdrekum og helzt kjarnorkusprengjum. Samt er öryggi þessara ríkja yfirleitt ekki ógnað að utan. Hernum er stefnt gegn þjóðinni.

Ef bankastjórar á Vesturlöndum telja sér heimilt að lána fé til einkarekstrar, gælufyrirtækja og hernaðarleikfanga umboðslausra glæpamanna í þriðja heiminum, eiga þeir að gera það á eigin ábyrgð. Þeir mega ómögulega geta ætlazt til, að kúgaðar þjóðir borgi þetta.

Staðreyndin er hins vegar, að bankastjórar, sem opna alla sjóði sína fyrir heimsfrægum fúlmennum á borð við argentínska herforingja, loka þeim strax og heimta endurgreiðslur, þegar sannir lýðræðissinnar í Argentínu taka við þrotabúinu. Þetta er gersamlega siðlaust.

Það er alveg laukrétt hjá Castro á Kúbu, að slíkar skuldir á ekki að endurgreiða. Þær voru lánaðar með veði í þjóðum, sem valdamennirnir höfðu ekki umboð til að veðsetja. Það er líka laukrétt hjá Garcia í Perú að neita að borga meira en 10% af árlegum útflutningstekjum.

Ef íslenzkur banki lánar fé með veði í eignum, sem eru ofmetnar eða ekki til, fær hann venjulega skell. Sama á að gilda um hina stóru banka, sem lána fé með veði í eignum, sem lántakendur hafa ekki umboð til að veðsetja. Þeir eiga að fá sinn skell og sína lexíu.

Enginn vafi er á, að útbreiðsla margs konar glæpastjórna í heiminum er studd hömlulitlum lánveitingum vestrænna bankastjóra, sem einhverra hluta vegna hafa mesta trú á slíku stjórnarfari. Sú óráðsía á ekki að varða neitt fátækar þjóðir, þótt okkar börn verði hins vegar að greiða rétt myndaðar skuldir Matthíasar.

Jónas Kristjánsson.

DV

Jakkalaus kerfisflokkur.

Greinar

Guðfaðir núverandi forustu Alþýðubandalagsins er Lúðvík Jósepsson. Hann er kunnastur fyrir að bera manna mest ábyrgð á offjölgun togara og þar með á þeim erfiðleikum, sem leiddu til kvótakerfisins í sjávarútvegi. Margir sjávarútvegsráðherrar áttu þátt í þessu, en Lúðvík langmestan.

Löngu eftir að allir aðrir og jafnvel sjávarútvegsráðherrar voru búnir að sjá þennan vanda, hélt Lúðvík áfram að prédika stækkun togaraflotans. Hann er vafalaust enn sömu skoðunar, svo að heppilegt er fyrir Alþýðubandalagið, að hann er hættur að tjá sig um stjórnmál.

Lúðvik kemur nú helzt fram á opinberum vettvangi, þegar hann þarf að verja bankastjóra fyrir gagnrýni vegna sérkennilegra fríðinda þeirra. Og svo, þegar óvart eru teknar myndir af honum í laxveiði með bankastjórum. Enginn efast um, að Lúðvík er einn kerfiskarlanna.

Krónprinsar hans í Alþýðubandalaginu hafa meira eða minna farið með völd í þjóðfélaginu á undanförnum áratug. Fólk er orðið vant Svavari Gestssyni í ráðherrafötunum og man enn, að Ragnar Arnalds var einn af helztu forvígismönnum hinnar eftirminnilegu Kröfluvirkjunar.

Fólk ypptir bara öxlum, þegar kerfiskarlinn Svavar Gestason er kominn á skyrtuna og talar í sjónvarp af heilagri vandlætingu um hina voðalegu stjórn, sem nú sé á landinu. Menn efast um, að hann meini það í alvöru að vera þrútinn af bræði út af framgöngu ríkisstjórnarinnar.

Hitt andlit Alþýðubandalagsins er Þjóðviljinn. Þar birtast nálega daglega hneykslisfréttir af ríkisstjórn eða borgarstjórn. Þess á milli fjalla fimmdálkarnir um kísilgúrinn og aðra vonda aðila. Þetta er hið daglega svartnætti Þjóðviljans, daglega neyðarópið.

Reikna má með, að venjuleg ríkisstjórn geri mistök í svo sem annað hvert skipti. Léleg ríkisstjórn kemst ef til vill upp í tvö sinni af hverjum þremur. En fráleitt er, að allt sé alvont eins og halda mætti af síbylju fjölmiðils og formanns Alþýðubandalagsins.

Annað einkenni þessara aðila er að taka undir allt væl, sem heyrist úti í bæ, jafnvel þótt það stangist á. Annan daginn felst hneykslið í of lélegum kjörum fiskvinnslufólks. Hinn daginn er fiskvinnslan að fara á hausinn. Og allt er þetta ríkisstjórninni að kenna.

Í augum almennings er Alþýðubandalagið að verða að fyrirbæri, sem fer úr jakkanum, þegar það er ekki í ríkisstjórn og reynir að rækta hverja öfund, sem finnst, og hvert væl, sem heyrist. Ábyrgðarleysið lekur af síðum fjölmiðilsins og reiðisvip formannsins.

Þess vegna er ekki undarlegt, að Alþýðubandalagið sé í kreppu og höfði ekki lengur til unga fólksins. Vandinn felst ekki aðeins í, að formaðurinn sé einræðishneigður og vilji ekki ræða ágreiningsefnin. Ekki heldur eingöngu í sífelldum árásum Þjóðviljans og órólegu deildarinnar á verkalýðsforingja flokksins.

Vandinn felst ekki heldur bara í, að þeir séu sniðgengnir, sem komu í flokkinn á áttunda áratugnum og höfðu ekki verið í Sósíalistaflokknum gamla. Það er að vísu dýrt að bola Ólafi Ragnari Grímssyni af þingi og missa hvern breiðlínumanninn á fætur öðrum úr flokknum.

Auðvitað er hreinlína órólegu deildarinnar flokknum óhagstæð, því að hún er frá nítjándu öldinni. Hitt vegur jafnþungt, að meðal kjósenda er ekki til nógu mikil öfund og nógu mikið væl til að halda uppi fylgi kerfiskarlaflokksins.

Jónas Kristjánsson.

DV

Smiðjan

Veitingar

Smiðjan á Akureyri hefur lítillega batnað á þessu ári og tekið við af Hótel Kea sem bezta veitingahús staðarins. Matreiðslan hefur að vísu staðið í stað í meðalmennskunni, en ýmis önnur atriði hafa hjálpazt að við að lyfta Smiðjunni, einmitt þegar til skjalanna er komin samkeppni frá fjórum nýjum matstofum þar í bæ.

Fiskur í steikhúsi

Nýr fastaseðill er kominn til sögunnar og lýsir því yfir, að staðurinn sé ekki lengur eingöngu steikarhús, heldur alhliða veitingasalur. Tvær af súpunum eru sjávarréttasúpur og einn kafli seðilsins fjallar um fisk. Viðurkenning á þessari göfugu fæðu er mikilvægur áfangi í þróunarbraut hvers veitingahúss.

Ennfremur er í hádeginu á boðstólum átta aðalrétta langur seðill dagsins, sem leggur mesta áherzlu á fisk. Þetta er hverju sinni sami dagseðill og uppi í Bauta, en verðið er nokkru hærra, svo sem eðlilegt er. Það er hins vegar mun lægra en á fastaseðlinum. Þetta tilboð er mun hagkvæmara en hjá hinum fínu stöðunum á Akureyri.

Ég skoðaði nokkra þessara dagseðla og sá ýmislegt forvitnilegt, svo sem hrátt hangikjöt með melónu, hreindýrabuff með rifsberjahlaupi, kinnar pönnusteiktar í pernod, gufusoðinn lax, rjómasoðnar gellur og banana bakaðan í kaffilíkjör. Í rauninni er dagseðillinn meira spennandi en fastaseðillinn.

Athyglisvert er, hversu margir réttir hins síðarnefnda eru hinir sömu og í veitingasal Hótel Kea, hinum megin götunnar. Það eru þessir hefðbundnu réttir íslenzkra veitingahúsa, svo sem ofnbakaðir sniglar, blandaðir síldarréttir, djúpsteiktar rækjur, frönsk lauksúpa, piparsteik, turnbauti og djúpsteiktur camembert. Það er víst þetta, sem Íslendingar vilja éta.

Vínkjallari Smiðjunnar hefur batnað, einkum í rauðvínum. Þar fékkst til dæmis Chateau de Saint Laurent, Chateau Barthez de Luze og Marqués de Riscal. Síðast þegar ég vissi, var samt gamla vínkortið enn í notkun. Hið nýja ætti að vera komið, þegar þetta birtist.

Flest annað var í sömu skorðum í Smiðjunni. Peningakassinn var hávær sem fyrr. Ekta vínglös höfðu enn ekki birzt á borðum. Vínið var sumpart geymt í hlýjum matsalnum. Innréttingin er óbreytt, þar á meðal básarnir, sem gera virðulega þjónustu afar erfiða, þótt þjónar reyni að teygja sig sem mest þeir mega.

Hlýlegt stílmoð

Innréttingin er orðin að Akillesarhæl Smiðjunnar, síðan opnaðir voru nokkrir nýir veitingastaðir með smekklegum búnaði. Í samanburði við þá er Smiðjan hálfgerð smekkleysa eða stílmoð. Hún er samt einna hlýlegasti salurinn og dregur greinileg að sér flesta viðskiptavinina.

Ef Mánasalur eða Laxdalshús eða Laut eða Kjallarinn kæmu sér upp góðri matreiðslu, mundi sá staður bera af Smiðjunni. Hún nýtur þess, að nýju matstofunum hefur láðst að hugsa nógu vel um matreiðsluna. Hin átakalausa meðalmennska í matreiðsla Smiðjunnar stendur enn upp úr á Akureyri, þótt undarlegt megi virðast.

Rjómalöguð rækjusúpa með kavíarbrauði var góð, betur rjómuð og skemur elduð en uppi í Bauta. Rækjurnar voru ekki orðnar þurrar. Grásleppuhrognin í brauðinu voru svo fá, að þau gáfu ekki bragð. Ostbakaður hörpufiskur var meyr og góður, en osturinn nokkuð mikill.

Nauta- og grísabautar saman á diski voru ágætir, bornir fram með skemmtilega sterkri lifrarkæfu, kallaðri gæsalifur, grilluðum humar, óvenjulega kryddaðri kartöflustöppu, svo og ýmsu öðru ómerkilegra meðlæti.

Koníakssteiktar lambalundir voru léttsteiktar, en bragðlitlar, bornar fram með hlutlausri hveitisósu og lélegu gumsi í tartalettu. Gratineruð hvítlauks-nautasneið var líka léttsteikt, en bragðdauf. Að þessu sinni var sósan þunn og góð.

Hreindýrabuff með villidýrasósu og rifsberjahlaupi var miðlungi mikið steikt, meyrt kjöt með góðu villibráðarbragði. Sósan var þunn og góð. Perurnar voru úr dós. Allir ofangreindir réttir voru af dagseðlinum.

Hrásalatið í Smiðjunni var sæmilegt.

Skemmtilegir eftirréttir

Fylltur banani með jarðarberjum var gott dæmi um áherzlu á Smiðjunnar á skemmtilega eftirrétti. Samt voru jarðarberin úr dós. Enn betri var þó bakaði bananinn í kaffilíkjör, sem var á gamla fastaseðlinum og er enn á hinum nýja.

Ísfylltur súkkulaðibolli með Grand Marnier var á gamla seðlinum, góður og þræláfengur, en er því miður ekki á hinum nýja. Kaffi var mjög gott, með þykkum rjóma og konfekti.

Þjónusta í Smiðjunni var góð eins og hún hefur jafnan verið. En hún var ekki bezt í bænum, því að Mánasalur reyndist hafa vinninginn í sumar.

Þriggja rétta máltíð með kaffi og hálfri flösku af frambærilegu víni kostaði 1.425 krónur að meðaltali af fastaseðli, 940 krónur af hádegisseðli og 1.235 krónur af blönduðu vali fastaseðils og kvöld- og helgarseðils. Í heild má segja, að verðlag Smiðjunnar sé hið sama og Hótel Kea, Mánasalar og Laxdalshúss, heldur hærra en Lautar og Kjallara. Það er hádegisseðillinn, sem gefur Smiðjunni vinninginn.

Gaman væri, ef Smiðjan mætti hinni nýju samkeppni í fleiru en smáatriðum, yrði til dæmis fyrst til að rífa syfjuna úr akureyrskri matreiðslu, svo að raunverulega yrði gaman að fara þar út að borða. Í sumar bauð enginn staðurinn upp á slíkt. Það er hart fyrir Smiðjuna að vera bezt út á svo sem ekki neitt.

Jónas Kristjánsson

Dæmigerður hádegisseðill:
105 Rjómalöguð hvítkálssúpa
370 Pönnusteiktar kinnar í pernod
390 Pönnusteiktur Höfðavatnssilungur
370 Djúpsteiktur gullax með súrsætri sósu
390 Grillsteikt stórlúða með sjávarréttadýfu
495 Gufusoðinn lax með bræddu smjöri
380 Rjómasoðin ýsa með papriku
360 Kínverskar pönnukökur með súrsætri sósu
420 Gratineraðar grísasneiðar með rauðvínssósu
510 Lambapiparsteik með bakaðri kartöflu
(Súpa og salatbar fylgir öllum aðalréttum)

Dæmigerður kvöld- og helgarseðill:
150 Rjómalöguð humarsúpa með koníaki
230 Hrátt hangikjöt með melónu og sinnepssósu
240 Gljáðar sjávarréttapönnukökur
430 Pönnusteiktur Höfðavatnssilungur með eggjasósu
770 Gratineruð hvítlauks-nautasteik með bakaðri kartöflu
785 Hreindýrabuff með villidýrasósu og rifsberjahlaupi
165 Fylltur banani með jarðarberjum og banana

Fastaseðill
190 Skelfisksúpa bætt með koníaki
180 Fiskiseyði með sjávardýrum og grænmeti
160 Frönsk lauksúpa
160 Rjómalöguð kjörsveppasúpa
270 Léttreyktur silungur með dillrjóma og ristuðu brauði
310 Sniglaragú framreitt í skel með ristuðu brauði
270 Kavíardúett með lauk og eggjarauðu
290 Hvitlauksristaðar rækjur með ristuðu brauði
460 Pönnusteiktur Höfðavatnssilungur með eggjasósu
980 Glóðaðir humarhalar með hvítlaukssmjöri
480 Grillsteikt lúða með púrrulauk og vínberjum
560 Sjávarréttagratín að hætti Smiðjunnar
630 Koníakssteiktar lambalundir
710 Gráðostfylltar grísalundir með Madeira-sósu
850 Logandi piparsteik með mildri piparsósu
880 Stórbauti að hætti vínkaupmannsins
850 Plankasteik Café de Paris
910 Pekingönd með rauðberjasósu
230 Bakaður banani í kaffilíkjör með vanilluís
190 Heit eplakaka með þeyttum rjóma
260 Djúpsteiktur camembert með rifsberjamauki
230 Ísskál Smiðjunnar

DV

Slípaður sóknarkvóti.

Greinar

Kunn er sagan af drykkjumanninum, sem að ráði læknis átti að halda drykkju sinni innan ákveðinna marka. Þetta gekk svo sem ágætlega að öðru leyti en því, að drykkjumaðurinn er byrjaður á kvóta ársins 1997. Þessi aðferð drykkjumannsins er nú til alvarlegrar umræðu í sjávarútveginum.

Halldór Ásgrímsson sjávarútvegsráðherra hefur gefið upp boltann með því að missa út úr sér, að hugsanlega megi á þessu ári veiða eitthvað upp í kvóta næsta árs. Ef af því verður, má búast við, að sumir verði í maí næstkomandi búnir með kvóta ársins og byrjaðir að væla aftur.

Hugmynd Halldórs er kjörin aðferð við að heiðra skálkinn og refsa þeim, sem fara að með gát. Skálkarnir eru búnir að stunda berserksgang í aflahrotunni í sumar. Þeir hafa mokað upp fiski í verðlitla vinnslu. Þeir hafa lokið kvóta sínum og heimta nú að vera verðlaunaðir.

Eini kosturinn við hugmyndina er, að hún hefur opnað fyrir nýja umræðu um kosti og galla aflakvótakerfisins. Þetta kerfi var samþykkt með semingi fyrir tæpu ári. Síðan hafa menn möglað og muldrað, en í stórum dráttum hefur ráðherra haft frið. Sá friður er nú úti.

Í rauninni hefur kvótinn haft fáa aðra kosti en þennan frið. Að flestu öðru leyti hefur hann reynzt verulega gallaður. Til dæmis hefur hann ekki megnað að halda aflamagni niðri við það mark, sem hæfilegt er að mati fiskifræðinga. Bæði í fyrra og í ár er aflinn langtum meiri.

Kvótinn hefur líka leitt til, að smáfiski hefur verið hent fyrir borð, svo að hann íþyngdi ekki kvóta skipsins. En auðvitað er sá fiskur jafndauður fyrir það. Ennfremur hefur kerfið flutt völd til sjávarútvegsráðuneytisins og gert ráðherra að eins konar einræðisherra.

Kvótakerfið hefði orðið mun farsælla, ef það hefði heimilað frjálsa sölu á kvótum til að færa sóknina frá lélegri útgerð yfir til arðbærrar útgerðar og fækka skipum. Því miður hefur áherzlan verið gagnstæð, reynt að hamla sem mest gegn flutningi kvóta milli skipa.

Versti galli kvótakerfisins er, að það frystir aflann í þeim hlutföllum, sem verið hafa. Þeir, sem ættu að hætta veiðum, halda þeim áfram. Og hinir, sem ættu að koma til skjalanna, fá það ekki. Sem heild er sjávarútvegurinn frystur í þeim hlutföllum, sem voru fyrir tveimur árum.

Um leið hindrar kvótakerfið lausn á mesta vanda sjávarútvegsins, of miklum fiskiskipastól. Flestir voru sammála um, að skipin væru allt of mörg, þegar kvótakerfið var tekið í notkun. Þetta dýra og óarðbæra ástand hefur verið fryst með kerfinu, sem nú er að springa.

En það er ekki nóg að vera á móti þessu kerfi. Mestu máli skiptir að benda á betri leiðir. Fráleitar eru hugmyndir um, að skálkar fái að taka út kvóta næsta árs og að kvóti þessa árs verði stækkaður til heiðurs skálkunum. Því miður eru þær helzt til umræðu núna.

Betra væri að hafa kvótann óbreyttan til áramóta og taka þá upp nýtt kerfi. Bent hefur verið á, að ýmsir kostir hafi verið fólgnir í skrapdagakerfinu, öðru nafni sóknarkvótanum, sem var í gildi til ársloka 1983. Hugsanlegt væri að taka það upp í slípaðri mynd.

Bezt væri að haga sóknarkvóta á þann hátt, að ríkið byði út sóknartækifærin og seldi þeim, sem hæst byðu. Þar með væri unnt að grisja út sumt af lélegustu útgerðinni og veita hinni frelsi til að haga veiðunum skrapdagalítið á sem arðbærastan hátt.

Jónas Kristjánsson

DV

Eyðimörk á Íslandi.

Greinar

“Ég tel ástand Grímstunguheiðar vera orðið mjög alvarlegt og spurning, hvort það sé orðið það slæmt, að ekki verði hægt að bæta það aftur”, Þetta sagði nýlega í blaðaviðtali Larry Rittenhouse, prófessor í stjórnun beitilanda við Colorado-háskóla í Bandaríkjunum.

Í viðtalinu taldi Rittenhouse nauðsynlegt að takmarka búfjárfjölda á heiðinni og útiloka beit á sumum svæðum. Síðan sagði hann: “Ég held þó, að ekki einu sinni þessar aðgerðir dugi til að koma í veg fyrir, að gróður haldi áfram að eyðast, þangað til heiðin verður að verðlitlu beitilandi.”

Rittenhouse er ekki eini erlendi sérfræðingurinn, sem hefur lýst áhyggjum. Í doktorsritgerð Rainer Glawion við háskólann í Bochum í Vestur-Þýzkalandi er sagt, að sauðfé sé að breyta íslenzkum afréttum í eyðimörk. Búast megi við, að 80% þeirra verði orðnir ónýtir eftir 16 ár.

Um þetta sagði Hákon Bjarnason, fyrrum skógræktarstjóri: “Það er ekki nokkur vafi á því, að þetta er rétt í aðalatriðum. Það er ómögulegt að reikna út tímann nákvæmlega, en þess verður ekki langt að bíða, ef ofbeitinni verður fram haldið, að það verði ekkert nýtanlegt beitiland eftir.”

Hinir erlendu sérfræðingar þora að segja það, sem íslenzkir starfsbræður þeirra þora ekki vegna þrýstings frá sauðfjárræktarliðinu. Hinn óhugnanlegi sannleikur er, að íslenzkur heiðagróður er að hverfa vegna ágangs sauðfjár. Landið þolir ekki álagið.

Gróðurmælingar og gróðurkortagerð íslenzkra sérfræðinga hafa einnig bent í sömu átt. En hér á landi eru menn svo hræddir við landbúnaðarmafíuna, að þeir þora ekki að segja hreinskilnislega, að sauðfjárræktin sé að fara með Ísland til fjandans.

Hrun íslenzkra afrétta á síðustu áratugum stafar ekki af eldgosum eða hvassviðri. Munurinn á þessum árum og fyrri árum er, að um margra ára skeið hefur viðgengist að hafa um eða upp undir tvær milljónir sauðfjár á fjalli.

Hin miskunnarlausa eyðilegging Íslands stafar af því, að fyrir um aldarfjórðungi var komið upp sjálfvirku kerfi, þar sem ríkið tryggði sölu allra sauðfjárafurða, hversu mikið sem álagið á landið var aukið. Þetta er gert með niðurgreiðslum og útflutningsuppbótum.

Þetta kerfi er enn í fullum blóma. Í sumar gerði Jón Helgason landbúnaðarherra samning fyrir hönd lands og þjóðar við forustumenn landbúnaðarins um, að framleiðsla sauðfjárafurða mætti haldast óbreytt og að öllu leyti á kostnað ríkisins. Ráðherrann gengur ennþá laus.

Eitt brýnasta framtíðarmál þjóðarinnar er að stöðva sauðfjárræktarliðið og bjarga landinu frá bráðri eyðingu. Það er hægt að gera með því að stöðva stuðning skattgreiðenda við landráðin, hætta niðurgreiðslum, útflutningsuppbótum og öðrum styrkjum við sauðfjárrækt.

Mál þetta er enn brýnna fyrir þá sök, að risið hafa upp viðskiptasnillingar, sem telja sig geta selt íslenskt dilkakjöt á hærra verði til Bandaríkjanna. Ef þeim tekst það, má búast við, að nýtt framleiðsluæði grípi um sig í sauðfjárrækt og að gróðureyðing aukist hraðar en nú.

Að vísu er mikilvægt að hækka útflutningsverð íslenzkra afurða og minnka þannig útflutningsuppbætur þeirra. Enn mikilvægara og raunar margfalt mikilvægara er samt að viðurkenna, að sauðfjárrækt í núverandi magni er skaðleg iðja, sem étur höfuðstól Íslands.

Jónas Kristjánsson

DV

Opinbera útgerðin aukin.

Greinar

Horfur eru á, að Reykjavíkurborg, sem hefur Bæjarútgerðina á herðunum, axli líka Ísbjörninn í örvæntingarfullri tilraun til að koma sjávarútvegi sínum í skynsamlegan rekstur. Um þetta fjallar umdeild skýrsla, sem borgarstjóri hefur látið gera og fjölmiðlar fjallað um.

Ljóst er, að Bæjarútgerðin verður stærri aðilinn, ef fyrirtækin verða sameinuð. Líklegt er, að hlutur borgarinnar verði nálægt 60% og Ísbjarnarmanna 40%, ef farið verður eftir mati skýrslunnar á eignum fyrirtækjanna. Og allir vita, að meirihlutinn ræður og ber ábyrgð.

Til viðbótar kemur fram í skýrslunni, að auka þarf eigið fé hins sameinaða fyrirtækis um 180-250 milljónir króna. Hluti þess fjár gæti komið úr sölu eigna Bæjarútgerðarinnar við Meistaravelli og Ísbjarnarins á Seltjarnarnesi, en hvorugar eru verðmiklar né auðseljanlegar.

Búast má við, að mikill hluti aukningarinnar muni koma frá borginni. Ótrúlegt er, að einhverjir aðilar úti í bæ vilji eða geti lagt fram fé á móti. Allar líkur benda til, að eignarhluti borgarinnar í sameinuðu fyrirtæki verði fremur meiri en minni en ofangreind 60%.

Með sameiningu væri því verið að reyna að bjarga opinberum rekstri með því að auka hann. Barnalegt er að tala um, að borgin sé með þessu að losa sig við Bæjarútgerðina. Hún er þvert á móti að stækka hana upp í það, sem hún var fyrir nokkrum árum, þegar togararnir voru sjö.

Þrír togarar Ísbjarnarins verða sameinaðir fjórum togurum Bæjarútgerðarinnar, ef af sameiningu verður. Jafnframt nær Bæjarútgerðin tökum á mjög fullkomnu frystihúsi Ísbjarnarins úti í Örfirisey. Sú aðstaða er miklu betri en hin, sem Bæjarútgerðin hefur á Granda.

Ein af ástæðum þess, að Ísbirninum hefur gengið illa, þrátt fyrir fína húsið, er hraðminnkuð vinnsla á síðustu árum. Aðstaðan nýtist ekki nógu vel. Með því að sameina meginhluta vinnslunnar þar má búast við, að reksturinn verði töluvert aðgengilegri en nú.

Bæði fyrirtækin ramba nú á barmi hruns. Ísbjörninn hefur notið skjóls í Landsbankanum og hjá Olíuverzluninni og skuldar nettó um eða yfir hálfan milljarð króna. Skuldirnar hraðvaxa ár frá ári. Á fyrstu sex mánuðum ársins nam tapið um 50 milljónum. Lokin eru í augsýn.

Svipað má segja um Bæjarútgerðina, sem skuldar nettó meira en hálfan milljarð króna. Tapið á fyrri hluta þessa árs er hið sama og hjá Ísbirninum. Munurinn er, að hún hefur getað sótt peninga í borgarsjóð, 60 milljónir króna í fyrra og sennilega 40 milljónir á þessu ári.

Niðurstaðan virðist verða hin sama og venja er við slíkar aðstæður. Einkafyrirtækin lognast út af og opinberu fyrirtækjunum er bjargað með almannafé. Sjávarútvegurinn í Reykjavík færist í hendur hins opinbera eins og gerzt hefur í bæjarfélögum úti á landi.

Ekki er víst, að hið opinbera sé heppilegasti aðilinn til að koma hinum sameinaða rekstri í rétt horf. Ekki er langt síðan togarinn Snorri Sturluson, eign Bæjarútgerðarinnar, kom þrisvar í röð með ónýtan afla að landi. Slíkt er ekki aðeins dýrt, heldur einnig merki um óstjórn.

Skýrslan hjá borgarstjóra segir, að ná megi hagnaði með því að sameina tvo aðframkomna sjúklinga. Slíkt virðist ótrúlegt, þótt rökin séu út af fyrir sig í lagi á pappírnum. Altjend er þetta hið eina, er kemur til greina sem síðasta tilraun, því að uppgjöfin blasir við.

Jónas Kristjánsson.

DV

Kjallarinn

Veitingar

Kjallarinn er tilraun Sjallans á Akureyri til að koma fólki í kráarstemmningu. Keypt hefur verið frá Bretlandi heilt stykki af krá, þar á meðal langur bar með steindu gleri og svo og svo margir metrar af ekta panil, ýmist alveg upp í loft eða upp á miðja veggi. Innifalið í pakkanum er töluvert af skiltum og auglýsingum, hinar fjöldaframleiddu fornminjar, sem lengi hafa verið vinsælar víða um heim. Svona krá koma brezkir fagmenn með í gámi og setja upp á svipstundu. Ég gæti trúað, að pílukastið hafi fylgt með.

Inngangurinn í Kjallarann er rétt vinstra megin við aðalinngang Sjallans og Mánasalar. Þar er gengið til hægri niður í kjallarann, þar sem barborðið blasir við. Í skotinu við stigann vinstra megin er lítill salatbar. Þeim megin í salnum eru þrír básar fyrir tólf matargesti. Hægra megin er hins vegar aðalsalurinn með litlum og þéttskipuðum borðum í sófaborðshæð. Þar enn lengra inn af er lítill gangur fyrir pílukastið, en samt oft notaður undir aukið matarpláss.

Í heild er yfirbragð staðarins álitlegt, fremur en hitt. Þeir, sem framleiða svona, kunna sitt fag. Ekki veit ég, hvort kráarstemmning myndast þarna við framleiðslu bjórlíkis. Ég hef bara litið inn á tímum, þegar ekki mátti vænta mikils mannfjölda. Og það var í þeim allt öðru erindagjörðum að komast að, hvort hægt væri að fá eitthvað gott að borða á þessum stað.

Þjónusta var fyrsta flokks í öll þrjú skiptin. Sem dæmi um hana má nefna, að ekki þurfti að spyrja gesti við borðið, hver hefði pantað hvað. Þar var ekki hið útbreidda orðalag: “Ert þú steiktur karfi eða soðið heilagfiski?” Segja má, að þessi þjónusta sé mjög í sama stíl og uppi í Mánasal, líklega sameiginlega sú hin bezta á Akureyri, sem er þó bær, er státar yfirleitt af góðri þjónustu í veitingahúsum.

Akureyrskt milliverð

Kjallarinn hefur tvenns konar verðlag á veitingum sínum. Fyrst og fremst var þar stuttur seðill tólf rétta, þar af fjögurra aðalrétta. Þessi seðill var eins konar útdráttur úr tvöfalt lengri fastaseðli Mánasalar. Hann var á svipuðu verðlagi og í Laut, ódýrari en í Smiðjunni, Mánasal, Kea og Laxdalshúsi, en mun dýrari en hjá Bautanum.

Síðan reynir Kjallarinn til viðbótar að keppa við Bautann á þrennan hátt. Í fyrsta lagi með sérstöku tveggja rétta tilboði dagsins, sem að miðjuverði var eigi að síður hærra en hið mun fjölbreyttara átta rétta tilboð Bautans. Í öðru lagi með sérstökum barnamatseðli. Og í þriðja lagi með salatborði, sem ásamt með súpu var ódýrara en hið sama í Bautanum.

Í tölum er samanburðurinn, að miðjuverð tilboðsins í Bautanum var 712 krónur og 852 krónur í Kjallaranum, hvort tveggja samkvæmt reikningsaðferð, sem ég hef áður útskýrt. Samkvæmt henni kostaði 1095 krónur að borða af fastaseðli í Kjallaranum. Súpa og salatbar kostaði hins vegar 200 krónur í Kjallaranum á móti 250 krónum í Bautanum. En þá eru engin hliðaratriði meðtalin, svo sem kaffi eða freisting bjórkollunnar.

Salatbarinn er minni og óþægilegri aðgöngu en barinn í Bautanum. Verst var, hversu dimmt var þarna í skotinu og erfitt að sjá, hvað var á boðstólum. Ennfremur var hann dálítið minna freistandi. Til dæmis voru sveppir ekki nema í eitt skiptið og sósurnar voru vondar. Hins vegar var yfirleitt ekkert upp á ferskleikann að klaga. Þrenns konar gott brauð var í boði.

Engin húrrahróp

Matreiðslan var svo sem ekki til að hrópa húrra fyrir. Sérstakalega var yfirleitt lítið varið í tilboð dagsins og hið eina sem við prófuðum af barnaseðlinum. Það síðarnefnda var afar seigur og óframbærilegur kjúklingur.

Soðið heilagfiski var afar þurrt. Kryddsoðin nautasteik var of mikið pipruð. Og steiktar lambasneiðar voru frekar þurrar og saltar, enda afgreiddar í viðkvæmum, þunnum sneiðum.

Við vorum heppnari með djúpsteikta fiskinn, sem var í mun vægari hveitihjúp en oft sést hér á landi. Einnig koníakssteiktar lambalundir með ágætri mintusósu. Þær voru raunar af fastaseðlinum, sem og ágætis humarsúpa, er gekk undir nafninu silungasúpa, alveg eins og hún gerði í Mánasal.

Meðlæti réttanna var í gamalkunnum, en ekki þó sérlega ofsoðnum skorðum, svo sem gulrótum, blómkáli og kartöflum. Ennfremur því, sem mun vera kallað garnitúr í faginu. hollandaise-sósan með heilagfiskinum var ágæt eins og áðurnefnd mintusósa, en minna þótt okkur varið í nautakjötssósuna.

Rétt er að minna á, að salatborðið er eins og í Bautanum innifalið í verði allra aðalrétta staðarins. Snyrtileg borð af því tagi gera gestum kleift að velja sér annað og viðkunnanlegra meðlæti en það, sem kemur úr eldhúsinu. Súpa er hins vegar ekki innifalin hér eins og í Bautanum.

Vínlistinn í Kjallaranum er jafn nauðaómerkilegur og uppi í Mánasal, hefur til dæmis ekkert frambærilegt hvítvín. Enda er sjálfsagt sanngjarnt að taka fram, að þetta er bjórkrá. Kaffi var gott, borið fram með konfektmolum.

Ef ég væri á ferð um Akureyri og þyrfti að seðja mig fyrir tiltölulega lítinn pening, færi ég heldur í Bautann, þar sem verðið er lægra, úrvalið meira og gæðin ekki lakari. Auðvitað er líka hægt að fá mötuneytismat í Súlnabergi. Og ég færi ekki út að borða í Kjallaranum til að njóta eftirtektarverðrar matargerðarlistar. En hana skortir raunar víðar á Akureyri.

Að vísu má ekki gleyma, að í bjórkrá er matargerð venjulega hliðargrein. Kjallarinn er svo heppinn að fá allan sinn mat úr Mánasal. Þar virðist mér matreiðsla vera eins og gengur og gerist hér á landi, svona upp og ofan. Minni kröfur eru oft gerðar til bjórkráa í þessum efnum. Þannig er ýmislegt gott um Kjallarann, fyrir utan útlit hans og þjónustu, sem áður er getið.

Jónas Kristjánsson

Eitt tilboð dagsins:
180 Steiktur karfi meuniere
330 Mínútubuffsteik a la Sjallinn

Annað slíkt:
250 Soðið heilagfiski með hollandaise-sósu
320 Kryddsoðin nautasteik með kartöflumús

Í þriðja skiptið:
210 Djúpsteiktur fiskur orly
330 Steiktar lambasneiðar með kryddsósu

Fastaseðillinn:
135 Gratineruð lauksúpa
150 Silungasúpa með saffran
270 Síldartríó með grófu brauði
295 Grafinn lax með dillsósu
310 Hvítlauksristaðir sniglar
395 Grillsteiktur silungur með rjómasósu
370 Pönnusteikt rauðspretta með rósapipar
540 Koníakssteiktar lambalundir með tómötum og mintusósu
690 Mínútusteik með ristuðum sveppum og kryddsmjöri
130 Vanilluís með súkkulaðisósu
172 Djúpsteiktur camembert
98 Skyr með rjómablandi

DV

Umfjöllun olli umbótum.

Greinar

Matthías Á. Mathiesen viðskiptaráðherra hefur falið bankaráðum ríkisbankanna að endurskoða bílafríðindi og eftirlaun bankastjóra. Einnig hefur hann beðið ráðin um að fá að vita um allar fyrirhugaðar breytingar á starfskjörum bankastjóra og raunar annarra bankastarfsmanna.

Mál þetta er gott dæmi um, að opinber umfjöllun getur leitt til umbóta. Það er ekki lengra síðan en í apríl, að mikill hvellur varð í dagblöðum og á Alþingi út af bankastjórakjörum, sem haldið hafði verið leyndum. Þótti mörgum sem ýmislegt væri vafasamt í þeim kjörum.

Uppljóstrun þessi leiddi til, að Albert Guðmundsson afturkallaði bílafríðindi ráðherra. Þau fríðindi fólust í niðurfellingu aðflutningsgjalda. Bankastjórafríðindin voru hins vegar þau, að þeir fengu jafnháa upphæð til að styrkja sig til kaupa á bílum.

Hin nýja reglugerð fól í sér afturhvarf til þess fyrirkomulags, er gilti fyrir 1970, að ríkið og bankarnir áttu bílana og veittu ráðherrum og bankastjórum afnot af þeim. Eftir á að hyggja sýnist þetta vera eðlilegri og einfaldari aðferð við fríðindi af þessu tagi.

Um þetta leyti fól viðskiptaráðherra Baldri Möller, fyrrum ráðuneytisstjóra, að gera skýrslu um starfskjör bankastjóra. Sú skýrsla var lögð fram í síðasta mánuði og hefur nú leitt til aðgerða ráðherrans. Sýnist mál þetta hafa verið og vera í réttum farvegi.

Skýrsla Baldurs staðfestir fyrri uppljóstranir um, að bankastjórar hafa ekki greitt nein iðgjöld til lífeyrissjóða, en fá samt eftirlaun og það með ævintýralega skjótum hætti. Þeir safna á 12-15 árum rétti til eftirlauna, sem nema 90% af launum þeirra í starfi.

Bankaráð og bankastjórar hafa í þessu vafalaust haft í huga eftirlaun ráðherra. Sá samanburður er hins vegar ekki eðlilegur, því að ráðherrar eiga alltaf á hættu að missa starf sitt og gera það óspart. Algengt er, að menn séu ráðherrar í aðeins nokkur ár, til dæmis eitt kjörtímabil.

Bankastjórar eiga hins vegar ekki á hættu, að pólitískir vindar feyki þeim úr sessi. Þeir geta vænzt þess að fá að sitja starfsævina á enda. Þeir þurfa ekki að safna eftirlaunarétti eins hratt og ráðherrar. Enda verður þetta nú væntanlega endurskoðað.

Í skýrslu Baldurs kemur fram, að laun bankastjóra hafa löngum verið miðuð við hæstaréttardómara og fríðindi þeirra við ráðherra. Erfitt er að sjá, að þessi hefð eigi sér stoð í óhlutdrægu mati á þessum störfum og mikilvægi þeirra í þjóðfélaginu.

Ráðherrar og hæstaréttardómarar fara með æðsta framkvæmdavald og dómsvald í landinu, tvo þriðju hins æðsta valds. Bankastjórarnir eru hins vegar forstjórar fyrirtækja, sem hér á landi eru í eigu ríkisins, en væru hrein einkafyrirtæki í nágrannaríkjum okkar.

Hitt er svo líka rétt, að bankastjórar sinna afar mikilvægu starfi í þjóðfélaginu. Nauðsynlegt er að fá til þess hina hæfustu menn og launa þá svo vel, að þeir séu vel stæðir og þurfi ekki að vera upp á viðskiptamenn komnir, – þurfi til dæmis ekki að láta bjóða sér í laxveiði.

Í máli þessu skiptir mestu, að stjórnvöld hafa brugðizt rétt við hvellinum, sem varð í vor. Þau hafa látið brjóta málið til mergjar og lagt grundvöll að auknu aðhaldi í náinni framtíð. Betur væri, að þannig væri haldið á málum í kjölfar annarra uppljóstrana.

Jónas Kristjánsson.

DV

Sigurhátíð

Greinar

Sigurhátíð var um helgina á Laugarvatni, þegar Stéttarsamband bænda minntist 40 ára afmælisins. Stjórnendur landbúnaðarins glöddust yfir atburðum ársins, sem treysta þá í sessi og tryggja, að straumar fjármagns um hendur þeirra verða heldur stríðari en áður var.

Alþingi setti um þetta lög í sumar. Þau lög túlkaði ráðherra síðan snarlega með reglugerðum og samningum við stjórnendur landbúnaðarins. Eftir þessa sumargleði opinberra ákvarðana er ástæða til að reikna með, að landbúnaðurinn verði ekki léttari byrði en áður.

Hingað til voru aðeins hefðbundnu búgreinarnar baggi á skattgreiðendum. Framleiðsluráð hefur fengið að ofskipuleggja offramboð á afurðum sauðfjár- og nautgripabúskapar. Nú fær það líka að leika sér að afurðum alifugla- og svínabúskapar, sennilega með sama árangri.

Kjarnfóðursjóður hefur verið festur í sessi. Með honum fá stjórnendur landbúnaðarins tækifæri til að taka fé hér og þar út úr landbúnaðinum og skammta því eða úthluta síðan á aðra staði. Það er einmitt þetta hlutverk skömmtunarstjóra, sem valdamenn sækjast oft eftir.

Þriðja mikilvæga atriðið er, að skattgreiðendur eiga ekki að fá að njóta samdráttar í útflutningsbótum. Hægfara minnkun þeirra fylgir hliðstæð aukning á greiðslum skattgreiðenda í sjóð, sem aðallega kaupir af bændum svokallað búmark eða rétt þeirra til kinda og kúa.

Um þessa niðurstöðu er engin þjóðarsátt. Um hana er ekki einu sinni sátt í Framsóknarflokknum. Hún er ekki að vilja þeirra, sem vilja óbreyttar niðurgreiðslur, uppbætur og styrki, – sem telja skattgreiðendum skylt að halda uppi hefðbundnum búskap með óbreyttum hætti.

Hún er ekki heldur að vilja framsóknarmanna í þéttbýli og við sjávarsíðuna, sem vita, að flokkur þeirra stendur þar afar höllum fæti. Það mun áfram jafngilda sjálfspyndingarhvöt hjá skattgreiðendum á þeim slóðum að kasta atkvæðinu á svo eindreginn landbúnaðarflokk.

Hinn pólitíski armur stjórnenda landbúnaðarins með hinn öfluga Jón Helgason ráðherra í broddi fylkingar þarf hins vegar ekki að hafa svo miklar áhyggjur af þessu. Kjósendur við sjávarsíðuna og í þéttbýlinu hafa nefnilega ekki í svo mörg pólitísk skjól að venda.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur dyggilega stutt stefnu Jóns Helgasonar og stjórnendaliðs landbúnaðarins. Hann barðist meira að segja fyrir því á lokadögum Alþingis í sumar, að mál þetta yrði knúið í gegn með ótrúlegum hraða. Hann er nákvæmlega jafn ábyrgur.

Stærsti þingflokkur stjórnarandstöðunnar, Alþýðubandalagið, er ekki líklegt til að vera andvígt afturhaldi af þessu tagi. Lög, reglugerðir og samningar sumarsins eru einmitt í anda ríkisrekstrar og Alþýðubandalagsins. Miklu líklegra væri, að það reyndi að yfirbjóða.

Þannig eru skattgreiðendur þéttbýlis og sjávarsíðu fangar stefnu stjórnenda landbúnaðarins og verða svo enn um sinn. Sú stefna, að ríkisvaldið eigi ekki að hafa meiri afskipti af landbúnaði en öðrum framleiðslugreinum, hefur að sinni litla möguleika á vettvangi stjórnmálanna.

Afnám útflutningsuppbóta, niðurgreiðslna, beinna styrkja og innflutningsbanns í landbúnaði er ekki í sjónmáli. Miðstýring stjórnenda landbúnaðarins er í sókn. Fjárhagsleg völd þeirra hafa verið aukin. Það var því full ástæða til sigurhátíðar að Laugarvatni um helgina.

Jónas Kristjánsson

DV

Laxdalshús

Veitingar

Laxdalshús er sérkennilegt dæmi um nýsmíðaðar fornminjar. Að utan ber það góðlátlegan svip hins gamla húss, sem hér var í tæpar tvær aldir. Annað kemur í ljós innan dyra, enda er mér sagt, að húsið sé 85% nýsmíði.

Neðri hæðin, sem er fyrst og fremst kaffihús í tveimur stofum, lítur alls ekki út eins og fornminjar, heldur eins og einingahús úr Bo Bedre. Kuldalegt er þar mannlaust. Þegar fólk er komið og búið að kveikja á kertunum, getur hæðin samt orðið nokkuð rómantísk á skandinavíska vísu, en hljóðbær.

Til skamms tíma var borðað niðri, en nú er rishæðin orðin að um 40 sæta matsal. Hún er ekki eins einingahússleg. Viðarliturinn er bara í gólfi, veggjum og súð, en hvítt í lofti, stigagangi og bar í miðjum sal. Ekki er eins kuldalegt uppi, en jafnhljóðbært. Notalegast er að sitja við norðurgluggana, þar sem tré er fyrir utan.

Laxdalshús hefur smám saman verið að breytast í veitingahús. Það byrjaði sem kaffistofa. Síðan fór það að bjóða upp á fáa rétti fyrir leiksýningar og snarl eftir þær. Síðast þegar ég vissi, var farið að hafa opið öll kvöld og bjóða fullgildan matseðil, en ekki enn farið að hafa opið í hádeginu.

Samt er þetta tæplega matargerðarhús. Fólk fer ekki hingað til að svala matarást sinni. Það kemur, af því að innan um timburveggi og kertaljós finnst því þægilegt að tala um væntanlega eða nýafstaðna sýningu á Edith Piaf í leikhúsinu. Laxdalshúsi er ætlað að vera skjól fyrir menningarvita eins og Torfan í Reykjavík.

Séra Jóni sinnt

Í bæði skiptin voru hvítir klæðisdúkar á borðum, en gestir fengu munnþurrkur úr pappír. Í síðara skiptið sá þjónninn allt í einu og réttilega, að slíkar þurrkur hæfðu ekki háu verðlagi staðarins og setti klæðisþurrkur á okkar borð. Hann hafði samt ekki fyrir því að skipta um á hinum borðunum. Hér er þannig gert upp á milli gesta. Þeir séra Jónar fá betra atlæti, sem annars væru taldir líklegir til vandræða.

Vínseðill Laxdalshúss var nauðaómerkilegur. Hann var samt nákvæmlega þrisvar sinnum betri en seðlar salanna í Sjallanum. Til viðbótar við Chateau de Saint Laurent var nefnilega líka hægt að fá Santa Christina og Gewürztraminer. Hið síðasta er mikilvægt, af því að það þýðir, að eitt drykkjarhæft hvítvín er þó á boðstólum.

Matseðillinn var mátulega langur, með tveimur súpum, tveimur forréttum, fjórum fiskréttum, fjórum kjötréttum og tveimur eftirréttum. Hann var handskrifaður og gert ráð fyrir, að honum væri breytt á nokkurra vikna fresti. Síðast þegar ég kom, var í boði nýr seðill með sumum réttum áhugaverðum, svo sem silungasúpu, laxakæfu, pönnusteiktri blálöngu og koníaksristuðum lunda.

Nánari athugun leiddi í ljós, að blálöngunni var ætlað að vera á seðlinum í nokkrar vikur. Kokkur, sem býður upp á slíkt, er líklegur til að stunda veiðiskapinn í frystikistunni og hafa dálæti á örbylgjuofnum. Þessi tvö tækniundir geta samanlagt dugað fyrir kleinur, en eyðileggja allan fisk.

Mér er sagt, að gott kaffihlaðborð sé í Laxdalshúsi. Ég hef ekki prófað það. En ég hef kynnzt eldamennskunni og komizt að þeirri niðurstöðu, að húsið hafi ekki bætt matargerðarlist á Akureyri. Matreiðslan reyndist ekki aðeins lakari en í Smiðjunni, Mánasal og Kea, heldur einnig nokkru síðri en í Bautanum, sem er þó mun ódýrara veitingahús.

Fyrstu réttirnir héldu staðnum uppi. Silungasúpan var sérstaklega góð, með mögnuðu silungsbragði, borin fram með hveitiflautu og þriggjakornabrauði, svo og smjöri í álpappír. Þetta var bezti rétturinn, sem prófaður var.

Laxakæfan var lagskipt og þrílit, með laxi, reyktum laxi og grænmeti. Þetta leit skemmtilega út, en laxbragðið vantaði. Áður hafði ég fengið hér betri kæfu, bragðsterka fiskikæfu. Í síðara skiptið var kæfan borin fram með skemmtilega hringalaga ristarsneið og góðri dillsósu úr sýrðum rjóma.

Skreytilist í matar stað

Annað meðlæti kæfunnar var fallegt og gott, sérlega góður kapers, vínber, ananasbiti og sneið af kiwi. Það átti þó eftir að koma í ljós, að þetta meðlæti var staðlað, því að það fylgdi líka með aðalréttunum.

Hins vegar fylgdi þeim ekkert hrásalat, aðeins svokallaður garnitúr, sem íslenzkir kokkar halda, að sé eitt af hástigum matargerðarlistar. Garnitúr er skreytilist í formi og litum, sem á að gera miður ætan mat lystugan í útliti. Skreytingar þessar eru ekki sérstaklega ætlaðar til matar sjálfar og koma því ekki í stað hrásalats.

Lambageiri á teini var næstum grár af mikilli eldun. Í fyllingunni var ostur og minta, sem yfirgnæfði í bragði. Þrátt fyrir mintuna var líka mikið magn af steinselju á diskinum, ef til vill í samkeppnisskyni. Ennfremur kartöflur, sem velt hafði verið upp úr steinselju og síðan brúnaðar sykurlaust, ágætur matur. Einnig ofsoðið brokkál. Og loks skreyting sú, sem áður er getið.

Koníaksristaði lundinn var borinn fram með nákvæmlega þessu sama staðlaða meðlæti og til viðbótar dósaperu með rifsberjasultu og grænkálsblaði. Lundinn sjálfur var ekki tiltakanlega ofeldaður, en reyndist þó fremur þurr, eins og lunda hættir stundum til að vera.

Annar ísinn var sagður með heitum ananas og piparmyntusósu og hinn með koníaksristuðum jarðarberjum. Þetta voru ómerkilegir ísar með dósaávöxtum. Safinn á hinum síðarnefnda var hreinn niðursuðudósasafi án nokkurs votts af koníaki, ekki einu sinni af matargerðar-brandí.

Kaffi með konfekti kostaði 65 krónur, hæsta verð á Akureyri.

Miðjuverð þriggja rétta máltíðar með kaffi og hálfri flösku af ódýrasta frambærilegu víni var 1.300 krónur á mann. Þetta er sami verðflokkur og Smiðjunnar og Hótels Kea, nokkru lægri en Mánasalar og nokkru hærri en Lautar.

Erfitt er að sjá, að nýsmíðaðar fornminjar einar sér hafi erindi í þennan háa verðflokk, sem var fyrir þéttskipaður matsölum. Sameiginlegt einkenni allra þessara veitingahúsa Akureyrar er, að þau voru þunnskipuð gestum eða tóm, þegar þau voru prófuð.

Gaman væri, ef einn þessara veizlusala reyndi að koma sér upp áþreifanlegri sérstöðu til að réttlæti verðið, til dæmis matreiðslu, er risi upp úr átakslausu metnaðarleysi.

Jónas Kristjánsson

Matseðill:
255 Koníaksbætt trjónukrabbasúpa
240 Rjómalöguð silungasúpa
280 Laxapaté með dillsósu
235 Blandaðir síldarréttir
480 Smjörsteiktur karfi með jógúrtsósu
490 Rauðspretta að hætti Laxdalshúss
495 Pönnusteikt blálanga með hvítlaukssósu
580 Reyktur lax með eggjahræru
570 Koníaksristaður lundi
620 Rauðvínsgljáð hamborgarkótiletta
780 Nautabuffsteik með sinnepssteiktri kálfalifur
580 Lambageiri fylltur með camembert osti og mintu
150 Ís með heitum ananas og piparmintusósu
170 Ís með koníaksristuðum jarðarberjum

DV