Author Archive

Saumum að okri.

Greinar

Fyrir helgina skýrði gáfaður formaður stjórnmálaflokks frá því, að rétt væri að “banna” okrið. Ef hann hefði verið enn gáfaðri, hefði hann bætt við tillöguna ákvæði um að banna glæpi yfirleitt. Svona einfaldur getur heimur lýðskrumaranna verið.

Að sjálfsögðu er nauðsynlegt að reyna að hafa hemil á okri eins og öðrum glæpum. Það gerist bezt með því að byrja á að gera sér grein fyrir jarðveginum, sem fær okur til að blómstra. Með því að flytja burt jarðveginn er hægt að draga úr okri.

Okur þrífst vegna þess, að fórnardýr okurlánara hafa ekki aðgang að lánsfé eftir eðlilegum leiðum. Og þau hafa ekki aðgang að lánsfé, af því að of lítið er til af því. Og loks er of lítið til af því, þar sem vextir hafa lengi og til skamms tíma verið lágir og jafnvel öfugir.

Við skulum spá í ástandið, sem væri, ef vextir væru lengi búnir að vera jákvæðir, og sem verður, þegar þeir hafa lengi verið jákvæðir og helzt nokkuð háir. Við fáum innsýn í þetta ástand með því að skoða sparnað þjóðarinnar á undanförnum hávaxtamánuðum.

Allur peningalegur sparnaður nam 49% af landsframleiðslu árið 1980. Nú er hann kominn upp fyrir 72% af landsframleiðslu. Talið er, að launþegar eigi 80-90% af þessu og ýmsir sjóðir afganginn. Við skulum því ekki gleyma hag launþega af háum vöxtum.

Enn brýnna er að gera sér grein fyrir, að þetta þýðir, að bankar og sparisjóðir fyllast smám saman af sparifé. Meðan svo er, færumst við nær jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar fjármagns. Æskilegt er, að sú þróun fái að gerast sem hraðast.

Búast má við, að vextir verði jákvæðir, en lágir, þegar jafnvægi er komið milli þeirra, sem geta lánað fé, og hinna, sem vilja fá fé að láni. En þangað til má búast við, að vextir þurfi að vera hærri að raungildi en í löndum, þar sem meira framboð er af fé.

Því nær, sem við færumst þessu jafnvægi, þeim mun meira þrengjum við að okrinu. Ef bankar, sparisjóðir og aðrar venjulegar lánastofnanir geta þjónað allri eðlilegri lánsfjárþörf, á okrið ekki annað svigrúm eftir en óheilbrigð lán, lán, sem ekki verða endurgreidd.

Þegar lýðskrumarar í hópi stjórnmálamanna eru að heimta lækkaða vexti. eru þeir um leið að heimta aukið ójafnvægi og meira okur. Þegar þeir eru að heimta, að takmarkað fjármagn sé eyrnamerkt til ýmissa gælusviða, svo sem landbúnaðar, og með sérstökum vildarkjörum, eru þeir að heimta aukið ójafnvægi og okur.

Ef ráðamenn okkar bera gæfu til að leyfa þróuninni að stefna í átt til lánsfjárjafnvægis og hruns okurmarkaðarins, geta þeir samt reynt að milda afleiðingarnar af því, að raunvextir eru á meðan í hærri kantinum. Þeir geta til dæmis veitt húsbyggjendum skattaafslátt af vaxtagreiðslum.

Sumir stjórnmálamenn okkar vita um mikilvægi vaxta, en telja kjósendur sína svo heimska, að vænlegt sé að heimta lægri vexti og “bann” við okri. Aðrir skilja ekki einu sinni, hvaða hlutverki vextir gegna. Það er eins og þeir haldi, að peningum rigni af himnum ofan.

Almenningur hefur vald til að útvega lánsfé í eðlilegar lánastofnanir og til að sauma að okurmarkaðinum. Það gerir hann með því að fá stjórnmálamenn til að skilja, að þeir græði ekki fylgi á andstöðu við vexti.

Jónas Kristjánsson

DV

Málleysi og ríkidæmi.

Greinar

Marcos Filippseyjaforseti er að reyna að þvælast fyrir heiðarlegum forsetakosningum í landinu, þrátt fyrir þrýsting frá Bandaríkjastjórn. Hann vill áfram fá að mergsjúga þjóðina og safna hundruðum milljóna á erlenda bankareikninga sína og helztu vildarvina. Sjaldan er auðvelt að hemja fólk, sem kemst til valda.

Marcos er í langri röð rummungsþjófa og morðingja, sem hafa komizt til valda hér og þar í heiminum fyrir meiri eða minni stuðning Bandaríkjanna. Annar stórþjófur í nágrenninu er Suharto lndónesíuforseti, einn helzti fjöldamorðingi, sem nú er uppi.

Löng var harmsagan í Suður-Vietnam, þar sem Bandaríkin komu til valda hverju illmenninu á fætur öðru. Þeir köstuðu ríkinu þar með í fang ógnarstjórnar Norður-Vietnan, sem hefur síðan gerzt fjölþreifin víðar um lndókína.

Verst hafa Bandaríkin komið fram í Mið- og Suður-Ameríku, þar sem þau hafa áratugum saman stutt þjófa og glæpamenn til valda. Duvalier á Haiti, Batista á Kúbu og Somoza í Nicaragua eru einna frægustu dæmin. Þá hafa Bandaríkin stuðlað að illræmdum herforingjastjórnum, svo sem var í Argentínu til skamms tíma og er enn í Chile.

Nauðsynlegt er, að stjórnmálamenn og embættismenn Bandaríkjanna reyni að gera sér grein fyrir, hvernig standi á þessum ósköpum, sem stinga í stúf við hefðir lýðræðis og fjármála í Bandaríkjunum sjálfum. Einnig þurfa bandamenn þeirra að gera sér grein fyrir þessu.

Fulltrúar Bandaríkjanna í utanríkismálum, hermálum og á öðrum sviðum tala yfirleitt ekki í útlöndum mál heimamanna og eiga því erfiðara en ella með að átta sig á aðstæðum. Þar við bætist, að Bandaríkin og fulltrúar þeirra hafa áratugum saman haft meira fé milli handa en gengur og gerist í öðrum löndum.

Þetta hefur sogað að þeim fólk, sem sameinar hundseðli, peningagræðgi og ófyrirleitni. Þessum jámönnum tekst oft að efla misskilning fulltrúa Bandaríkjanna á stöðu mála í öðrum ríkjum. Og sem jámönnum tekst þeim oft að auka völd sín með stuðningi Bandaríkjanna.

Um leið og fulltrúar Bandaríkjanna nota jámennina til að efla áhrif sín til skamms tíma, sjá þeir oft galla þeirra og fyrirlíta þá undir niðri. Þetta álit yfirfæra þeir svo á þjóðina í landinu í heild. Þannig hættir þeim til að vanmeta erlendar þjóðir.

Við sjáum þetta hér á landi, að vísu í tiltölulega mildri útgáfu. Frá upphafi síðari heimsstyrjaldarinnar hefur sogazt að bandarísku herliði ýmis óværa, sem bezt lýsir sér í langvinnu hermangi. Skyldu ekki margir yfirmenn á Vellinum hafa, vegna ákveðinna dæma, litið á Íslendinga sem þjófótta?

Á liðnum áratugum hafa verið hér margir bandarískir sendimenn, sem hafa hvorki þekkt tunguna né þjóðina og aðeins umgengist þröngan hóp jámanna, sumra hverra lítilla sæva. Slíkir sendimenn hljóta að fá skekkta mynd af Íslendingum sem bandamönnum.

Vandinn hér á landi hefur verið sáralítill í samanburði við þriðja heiminn, þar sem fátækt er almenn, lýðræði hartnær óþekkt og lífsbaráttan grimm. Við fáum því aldrei neinn Marcos, Ky, Doe eða Duvalier. En rót vandans er eigi að síður nokkurn veginn hin sama, málleysi og ríkidæmi Bandaríkjamanna.

Jónas Kristjánsson.

DV

Krákan

Veitingar

Ég hugsaði mér, að næst fengi ég mér púrrusúpu Hinriks VIII, olífukæfu og spaghetti Bolognaise. En þá var kominn nýr matseðill. Þetta var horfið og nýtt komið í staðinn, ekki síður spennandi.

Þannig er Krákan, full af hugmyndaflugi og breytingagirni, einn af sárafáum nýju staðanna, sem á eitthvert erindi við okkur. Ég hlakka jafnvel til að fara þangað, næstum eins og ég hlakka til að fara í Arnarhól og ef til vill tvo aðra staði.

Þar með er ekki sagt, að Krákan búi yfir sérlega fínlegri matreiðslu. Þegar réttirnir eru komnir á borð, eru þeir ekki alltaf eins spennandi og þeir litu út fyrir að vera á matseðlinum. Þar á ofan eru þeir stundum allt aðrir en þeir, sem ég átti von á að fá eftir að hafa lesið nöfn þeirra á seðli.

Krákan er mun smekklegri og notalegri veitingastaður en fyrirrennarar hennar voru hér á horni Laugavegar og Klapparstígs. Mikið af ruslinu hefur verið rifið út, en Búdda situr þó eftir og er kominn upp á gamlan og ólitaðan viðarskenk við langvegg. Smávægilegt er komið af undarlegu dóti, svo sem stytta af þjóni og grænmetissultur í krukkum á hillu.

Mikið er af pottablómum, einkum í gluggum. Sperrur eru í svörtu lofti og viður í hvítum þiljum. Málverkasýningar hanga á veggjum. Sæti eru fyrir 32 á neðra gólfi og 13 á hinu efra. Sveigður viður er í stólbökum og tágar í setum. Á borðum eru bleikir og hóflega hreinir dúkar undir diskamottum, pappírsmunnþurrkum og skemmtilegum kertastjökum úr hörpuskeljum.

Í heild má kalla umhverfið viðkunnanlegt fremur en ríkmannlegt. Vaskurinn á salerni var undarlega óhreinn.

Matseðill fyrir Marzbúa

Matseðill Krákunnar er engu líkur, sem ég hef séð. Það er eins og hann sé gerður fyrir aðvífandi Marzbúa, eins konar sýnishorn matargerðar jarðarbúa. Hann spannar Grikkland, Indland, Texas, Mexikó, Kína, Jamaíka, Indónesíu, Ítalíu, Portúgal, Rússland og jafnvel Ísland. Annan eins hrærigraut hef ég aldrei séð á matseðli og er þó ýmsu vanur.

Fulltrúi Grikklands var ágætis pönnubrauð, þykkt og seigt, með tveimur ídýfum, sem gáfu réttinum nafnið Sadziki og Taramosalata. Sadziki á að vera söxuð gúrka, hvítlaukur og dill eða minta í olífuolíu og jógúrt og ef til vill ediki. Taramosalata á að vera kæfa hrogna, til dæmis þorskhrogna, og olífuolíu, sítrónu og brauðmylsnu. Í raun voru þetta mildar og hlutlausar ídýfur aðallega úr jógúrt. Smávegis gulrótarbragð var að hrognakæfunni, en hins vegar ekkert hrognabragð. Kannski hefur kokkurinn farið línuvillt í matreiðslubókinni.

Kryddlegin og glóðuð svínarif voru kölluð “Mao Tse Tung”, sennilega til að vara fólk við. En það er ástæðulaust, því að þetta reyndist vera ágætis forréttur, bragðsterkur og skemmtilegur.

Fyrirferð á grænmeti

Grænmetisréttirnir eru blessunarlega fyrirferðarmiklir á seðlinum. Einn þeirra er hin mexíkanska Tortilla, stökk, opin pönnukaka utan um fyllingu bauna og grænmetis. Hún var góð, en ekki bragðsterk. Henni fylgdi ágæt, sæt jógúrt-ídýfa og hrásalat.

Annar grænmetisréttur er hin indverska Samósa, djúpsteiktar pönnukökur, vafðar utan um blöndu af baunum og öðru grænmeti, einkum papriku og gulrótum. Á matseðlinum er því raunar haldið fram, að réttur þessi sé frá Líbýu. Pönnukökurnar voru þunnar og stökkar, bragðgóðar og snarpheitar. Þetta reyndist vera ekta Austurlandaréttur. Áðurnefnd jógúrtsósa fylgdi.

Hrásalatið, sem fylgdi grænmetisréttunum og aðalréttunum, var frambærilegt, aðallega hvítkál eða kínakál með mjög litlu af jógúrt eða sýrðum rjóma.

Graslauksúpa var sæmileg og karrísúpa var góð, með miklu af sveppum, papriku og dósa-ananas, fremur sæt.

Pönnukaka með Chilli con carne var þunn, íslenzk pönnukaka, lögð utan um hakkað kjöt og baunir, bragðsterkari, betri og matarmeiri réttur en sá, sem ég hafði áður fengið í Sombrero.

Djúpsteiktur fiskur var góður, enda ekki of mikið eldaður. Skorpan var þunn og stökk. Með fylgdi sætsúr sósa.

Kryddlegnar úthafsrækjur voru misheppnaðar, einkum vegna þess að þær voru fastar í skelinni og vildu ekki losna með neinum hefðbundnum aðferðum. Þær voru skemmtilega, en raunar of mikið kryddaðar, alveg eins og verið væri að fela rækjubragðið. Brennt smjör fylgdi þeim.

Hörpuskelfiskur Jamaica var alveg meyr og góður, ekki ofeldaður. Hann var borinn fram með ferskum sveppum og papriku í mikilli og blessunarlega hveitilausri sósu.

Kryddleginn lambavöðvi var fulltrúi Íslands á seðlinum. Hann var vel leginn, meyr, ekki ofeldaður. Þessum ágæta rétti fylgdi lint og ólystugt brokkál og bökuð kartafla, svo og tvær skemmtilegar sósur, önnur með piparrót og hin með mintu.

Rauður kjúklingur

Kjúklingur tandoori var sæmilega verðugur fulltrúi Indlands, kallaður “skræpótti fuglinn”. Slíkur kjúklingur er leginn í jógúrt og kryddblöndu, sem gerir hann eldrauðan að utan, þegar hann er bakaður í ofni, sem helzt á að vera leirofn, sem Indverjar kalla Tandoor. Rauða húðin var góð, en kjötið var of þurrt. Því fylgdi skemmtilega sterk sósa og næfurþunnt, stökkt brauð, afar skemmtilegt, svo og lime og laukhringir og auðvitað hrísgrjón.

Lítið er um eftirrétti í Krákunni. Enginn var skráður á fastaseðlinum, sem ég sá, og aðeins í einni heimsókn var einn eftirréttur skráður á seðli dagsins, eldsteikt epli með rjóma. Ég prófaði þau ekki, en hins vegar ágætt kaffi úr nýrri espresso-vél.

Þjónusta er alúðleg í Krákunni. Vínlistinn er fremur lélegur, eins og raunar víðast hér á landi. Niðursoðin tónlist er í bakgrunni. Gestakokkar hafa stundum sett svip sinn á staðinn. Svo brá mér um daginn, þegar boðaður var ljóðalestur í náinni framtíð. Það lá við, að ég missti matarlyst.

Verðlag Krákunnar er hóflegt, mitt á milli miðjuverðstaða á borð við Torfuna og staða lágs verðs á borð við Pottinn og pönnuna. Samkvæmt reikningsaðferðum þessa greinaflokks ætti þriggja rétta máltíð með hálfri flösku af víni og kaffi að kosta 995 krónur.

Af einkunnagjöfinni hér á síðunni má sjá, að töluvert samræmi er milli verðs og gæða, betra samræmi en áður hefur fundizt í greinaflokknum. Þess vegna á Krákan erindi til okkar.

Jónas Kristjánsson

Hádegisseðill:
140 Gúllassúpa
210 Frönsk eggjakaka
280 Fiskigúllas Napólí
335 Pönnukaka chilli con carne
230 Somósa

Kvöldseðill
120 Grænmetissúpa
280 Djúpsteiktur fiskur Hawai
325 Spaghetti Bolognaise
210 Skinkurúllur með salati og piparrótarsósu
230 Tortilla Mexikana
240 Fyllt paprika Milano
350 Gratineraðir sjávarréttir

Fastaseðill
240 Sjávarréttasúpa
205 Karrísúpa
120 Sadziki og Taramosalata
185 Svínarif Mao Tse Tung
165 Djúpsteiktir paprikuhringir með chilli-hnetusósu
210 Kræklingar vinaigrette
245 Salatskál með rækjum og túnfiski
230 Grillsteikt lambalifur með marineruðum sveppum
260 Síldarópera með rúgbrauði, karrí og tómat
220 Eggjakaka
215 Barnaborgari með kartöflum og salati
225 Pilau kryddhrísgrjón með salati
230 Somósa heimalagað brauð með grænmetisfyllingu
175 Árstíðarsalat með hvítlauksdressing
260 Tortilla grænmetisætunnar
345 Smokkfiskur Chinatown
330 Maschchi kebab marineraðir sjávarréttir á teini
365 Hörpuskelfiskur Jamaica
380 Djúpsteiktur skötuselur Indónesía
635 Lamb Islandia, marineraður lambavöðvi
445 Skræpótti fuglinn, tandoori kjúklingur
305 Chilliborgari Mexikana
720 T-bone steik Texas
335 Pönnukaka vestursins, chilli con carne
50 Kaffi

DV

Að semja við Spörtu.

Greinar

Samkvæmt gildandi túlkun ráðamanna Sovétríkjanna á Helsinki-samkomulaginu má reyna að efla mannréttindi á Suðurskautslandinu. Annars staðar eru mannréttindi innanríkismál viðkomandi valdhafa. Þeir telja þau að minnsta kosti vera innanríkismál sitt í Sovétríkjunum.

Þannig rita ráðamenn Sovétríkjanna undir samninga af ýmsu tagi og finna síðan túlkun, sem gerir undirskrift þeirra að engu. Dæmið um mannréttindakafla Helsinki-samkomulagsins er grófasta dæmið af mörgum um, að sovézkar undirskriftir eru marklausar í vestrænum skilningi.

Þess vegna er ástæðulaust að gera sér rellu út af litlum og lélegum undirskriftum á toppfundi leiðtoga heimsveldanna í Genf. Frekar er ástæða til að fagna því, að hætta á misskilningi hefur ekki aukizt vegna þess að marklausum pappírsskjölum hafi fjölgað.

Sem dæmi um gagnsemi eða gagnsleysi samninga við Sovétríkin má nefna Salt II, hinn kunna samning um takmörkun vígbúnaðar. Þrátt fyrir hann hafa ráðamenn Sovétríkjanna látið setja upp tvö ný kerfi milliálfuflauga. Ennfremur hafa þau haldið leyndum 75% af upplýsingum um vopnatilraunir.

Ráðamenn Sovétríkjanna telja það merki um geðveiki, er hópur af þrælum þeirra myndar félag um að fylgjast með efndum á mannréttindakafla Helsinki-samkomulagsins. Hverjum einasta þeirra hefur verið stungið á hæli, þar sem þeir sæta sérkennilegum læknavísindum Sovétríkjanna.

Þrátt fyrir misnotkun læknavísinda í Sovétríkjunum hefur Kasov læknir, sem er aðstoðar-heilbrigðisráðherra, fengið helminginn af friðarverðlaunum Nóbels að þessu sinni. Aulaskap Norðurlandabúa í þessum efnum virðast engin mörk sett. Þeir beinlínis heiðra skálkinn.

Amnesty hefur á skrám sínum nöfn 560 stjórnmálafanga í Sovétríkjunum. Síðan Gorbatsjov komst til valda, hafa fjórir andófsmenn dáið í þrælkunarbúðum hans. Síðan hann komst til valda hefur aukizt notkun geðsjúkrahúsa gegn þeim, sem ekki eru sammála stjórnvöldum.

Andrei Sakharov, Jelena Bonner og Anatoli Sjaranski eru þrjú frægustu nöfnin úr hinum mikla hópi, sem Sovétstjórnin ofsækir. Dæmi um hina vaxandi hörku er, að árið 1979 fengu 51.320 gyðingar að flýja Sovétríkin, en í fyrra aðeins 896. Í ár verða þeir ekki fleiri.

Sovétríkin eru hernaðar- og ofbeldisveldi, sem hvílir á efnahagslegum brauðfótum. Það er eina stórveldið, sem heldur úti umfangsmiklum hernaði víða um heim, svo sem í Afganistan, Kampútseu og Eþiópíu. Það er á mun meiri hraða í vígbúnaðarkapphlaupinu en hitt heimsveldið.

Að baki er þjóðfélag, sem býður fólki meðaltekjur, sem eru langt undir fátækramörkum í Bandaríkjunum og til dæmis Íslandi. Sovétríkin eru eins og Sparta fornaldar, efnahagslegt sníkjudýr, sem lifir á útþenslu og ofbeldi, sérhæfir sig í hernaði.

Gorbatsjov telur sig þurfa ítök í Vestur-Evrópu til að bæta upp hina efnahagslegu brauðfætur heima fyrir. Hann veit, að Sovétríkin eru á mörgum sviðum að dragast hratt aftur úr Vesturlöndum, til dæmis í tölvutækni. Lausn hans er að Póllandiséra Vestur-Evrópu.

Ef Vesturlandabúar láta ekki taka sig á taugum, átta sig á, að pappírsgögn eru lítils virði og að aldrei má skilja á milli friðar annars vegar og mannréttinda hins vegar, má búast við, að Sovétríkin linist um síðir í taugastríðinu og fari að huga að marktæku samkomulagi.

Jónas Kristjánsson

DV

Fastur á yztu nöf.

Greinar

Þótt forustumenn heimsveldanna gangi saman niður að Genfarvatni, eykst friðaröryggi jarðarbúa ekki neitt. Slíkum gönguferðum er ætlað að biðja fólk um að taka viljann fyrir verkið og hugsanlega einnig að breiða yfir nepju þess, að toppfundur sé nokkurn veginn árangurslaus.

Fundurinn í Genf er haldinn í skugga meira ofstækis forustumannanna en var hjá fyrirrennurum þeirra. Reagan Bandaríkjaforseti hefur að vísu smám saman orðið reynslunni ríkari og er nú ekki eins orðljótur um Sovétríkin og hann var fyrst í forsetatíð sinni.

Ekkert hefur hins vegar komið í ljós, sem bendir til, að Gorbatsjov hafi lært af neinni reynslu. Hann heldur líka fast við hina markvissu samningastefnu Gromykos að fara út á yztu nöf og sitja þar sem fastast, unz mótherjinn gefst upp fyrir friðarsinnum heima fyrir.

Gorbatsjov er raunar þegar farinn að virkja friðarsinna í Vestur-Evrópu með markvissari hætti en fyrirrennararnir. Þeir litu mjög eindregið á samskiptin við Bandaríkin sem hornstein heimsvaldastefnu sinnar, en Gorbatsjov reynir fremur að draga Vestur-Evrópu og Kína í spilið.

Markmið Gorbatsjovs er að kljúfa Vestur-Evrópu frá Bandaríkjunum, koma af stað ágreiningi þar í milli út af sem flestum atriðum, til dæmis geimskjaldaráætluninni, úr því að ekki tókst að koma á klofningi út af svari Vesturlanda við meðaldrægum eldflaugum Sovétríkjanna.

Á því sviði kemst hann í feitt. Almenningsálitið í Vestur-Evrópu er klofið. Ofan á fyrri tegundir friðarsinna hefur lúterska kirkjan í vaxandi mæli tekið að sér Júdasarhlutverk gegn frelsis- og mannréttindastefnu Vesturlanda með því að reka einhliða friðarstefnu.

Í hvert sinn, sem friðarsinnar í Vestur-Evrópu koma saman til einhliða aðgerða eða mótmæla gegn viðbúnaði Vesturlanda, sannfærast ráðamenn Sovétríkjanna betur um, að þeim henti vel að sitja sem fastast frammi á yztu nöf og bíða eftir bilun í vestrænu samstarfi.

Þegar Gorbatsjov hefur tekizt að reka fleyginn á kaf, hyggst hann færa sig upp á skaftið og gera Vestur-Evrópu að ljúfari aðila í samskiptum við Sovétheiminn. Við höfum kynnzt því hér, að kaupmenn og embættismenn hafa í viðskiptasamningi verið fengnir til að skrifa undir sovézkan áróður.

Okkur væri nær að gera stífa kröfu til Sovétríkjanna um, að komið verði upp óyggjandi vopnaeftirliti, sem leiði í ljós, hvort þar í landi sé SS-20 kjarnorkuvopni eða -vopnum beint til okkar og hvort hér á landi sé einhverjum slíkum vopnum beint að Sovétríkjunum.

Niðurstaða slíkrar athugunar yrði vafalaust sú, að Sovétríkin séu nú þegar sek um að beita okkur ógnun og ofbeldi af slíku tagi. Og við hlytum þá að krefjast þess, að umsvifalaust og einhliða yrði látið af slíku. Við mundum líka sjá betur, hvaða heimsvaldastefna er ofbeldishneigðust.

Meðan Gorbatsjov er ófáanlegur til að semja á alþjóðavettvangi um virkt og gagnkvæmt eftirlit með framkvæmd alþjóðasamninga, er útilokað fyrir Vesturlönd að gefa eftir í neinu. Sovétríkin hafa hingað til svikið alla samninga um takmörkun vígbúnaðar og aukin mannréttindi.

Kominn er tími til, að vestrænir friðarsinnar hætti að vera nytsamir sakleysingjar og átti sig á, að yfirlýsingar, hvort sem er um frystingu, samdrátt eða vopnalaus svæði, eru verri en engar, ef meginmarkmið þeirra er ekki að koma upp eftirliti, sem leiðir sannleikann í ljós.

Jónas Kristjánsson.

DV

Lítill árangur toppfundar.

Greinar

Ekki er við miklum árangri að búast á toppfundi heimsveldanna, sem nú stendur í Genf. Þó má segja, að nokkur árangur felist í því einu, að forseti Bandaríkjanna og framkvæmdastjóri sovézka kommúnistaflokksins skuli yfirleitt hittast, eftir langt hlé á slíkum fundum.

Heimsveldin hafa hvort í sínu lagi lagt fram tillögur um helmings fækkun kjarnaodda og að hvor aðili um sig megi hafa 6000 slíka. Þessi samræming er til bóta, þótt smáa letrið sé mjög misjafnt hjá málsaðilum og einnig þótt 6000 oddar séu töluvert umfram öryggi.

Verst við fundi af þessu tagi er óskhyggjan, sem þeir vekja í brjóstum Vesturlandabúa. Fólk er orðið langþreytt á spennunni milli heimsveldanna og hefur vaxandi áhyggjur af endalokum mannkyns. Margir telja tækniþróunina hafa breytt kjarnorkuöryggi í kjarnorkuóöryggi.

Ekki voru traustvekjandi rassaköst bandaríska herliðsins á Keflavíkurflugvelli, þegar Shevardnadze, utanríkisráðherra Sovétríkjanna, var hér í opinberri heimsókn á dögunum. Menn spyrja eðlilega, hvort agalausir menn geti ekki hreinlega komið af stað stríði fyrir mistök.

Þegar svo er komið, að einungis sex mínútur þarf til að koma kjarnaoddi í mark, er ekki mikið svigrúm til að átta sig á mistökum. Æðikollar á Keflavíkurvelli gætu hrundið af stað austrænu viðvörunarkerfi, sem byggir á sjálfvirkni ótrausts tölvubúnaðar.

Við slíkar aðstæður er eðlilegt, að bandarískar ráðagerðir um geimskjöld njóti töluverðs fylgis þar í landi og raunar víðar. Fólki er huggun í tilhugsuninni um eins konar regnhlíf, sem geti hindrað hvern einasta kjarnaodd óvinar í að komast í mark.

Ekki er ástæða fyrir Reagan Bandaríkjaforseta að verða við kröfum um að hætta við rannsóknir, sem miða að geimskildi í framtíðinni. Hastarleg viðbrögð í Sovétríkjunum benda einmitt til, að geimskjöldur geti verið góður kostur, ef hann er þá yfirleitt framkvæmanlegur.

Óskhyggjan á Vesturlöndum kemur meðal annars fram í trú sumra á, að hinn nýi framkvæmdastjóri sovézka kommúnistaflokksins sé mannlegri en fyrirrennarar hans. Það er hreinn og klár misskilningur. Gorbatsjov hefur stáltennur á bak við brosið, svo sem Gromyko hefur bent á.

Gorbatsjov hefur sýnt mikinn áhuga á að knýja þræla sína til meiri afkasta og gefa þeim minna færi á að drekkja sorgum sínum í brennivíni. Hann er hlynntur járnaga, mun harðskeyttari en Tsjernenko og Brésnjev. Vesturlandabúar geta ekki búist við neinu góðu frá hans hendi.

Ekki bætir úr skák, að Gorbatsjov hefur, eins og utanríkisráðherra hans, reynzt vera illa að sér í alþjóðamálum. Hann er háður áróðurskenndum fréttaflutningi sinna manna og telur sér til dæmis trú um, að mannréttindi séu mjög svo fótum troðin á Vesturlöndum.

Þegar Shultz, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, var í Kreml á dögunum, kom á óvart, hversu mikið slagsmálastuð var á Gorbatsjov. Hann flutti áróðursræður út í bláinn og var með framítektir, sem til skamms tíma hafa ekki þótt fínar í hinum diplómatíska heimi.

Vísast verða Vesturlandabúar að sætta sig við, að toppfundurinn í Genf breyti ekki miklu. Fólk verður áfram að búa við öryggisleysi og kvíða. Sovétríkin stefna enn að heimsyfirráðum og munu áfram baka vestrinu sálrænan og peningalegan herkostnað af verndun frelsis og mannréttinda.

Jónas Kristjánsson.

DV

Ríkisstjórnin brýtur og bramlar.

Greinar

Einmitt núna er orðið brýnna en nokkru sinni fyrr, að stjórnvöld stöðvi söfnun opinberra skulda í útlöndum, útþenslu hins opinbera og þá verðbólgu, sem stafar af skorti á jafnvægi í opinberum fjármálum. Allt höfum við þetta í orði, en ekkert á borði.

Fyrir skömmu voru vextir á verðbréfamarkaði farnir að lækka vegna aukins framboðs á peningum. Veðskuldabréf einstaklinga höfðu lækkað úr 17%, í 15%, og fyrirtækja úr 14% í 12,5%. Var þá búizt við, að þessir vextir mundu áfram lækka og hafa áhrif á aðra vexti.

Þetta var ánægjuleg þróun. Eftirspurn fjármagns var áratugum saman búin að vera svo miklu meiri en framboðið, að raunvextir hlutu að verða tiltölulega háir, þegar þeir komu til sögunnar. Lækkun þeirra eftir svo skamman tíma benti til ótrúlegs árangurs í leitinni að jafnvægi.

En þá kom reiðarslagið um daginn. Sjálfur ríkissjóður bauð hækkun vaxta á spariskírteinum sínum úr 7% í 9,23%. Þetta reyndist rothögg á hina jákvæðu þróun vaxtalækkunar. Umsvifalaust snerist dæmið við. Í stað þess að lækka meira fóru vextir að hækka að nýju.

Ríkissjóður var í slæmri stöðu. Komið var að innlausn 250 milljón króna af gömlum spariskírteinum. Fjármálaráðherra sá fram á, að þetta yrði ekki allt endurnýjað. Sumt spariféð mundi leita annarrar útrásar. Hækkunin var örvænting til að halda þessu fé.

Auðvelt er að sjá, að sama freisting verður knýjandi í hvert sinn, er ríkissjóður þarf að leysa inn spariskírteini. Þá mun fjármálaráðherra langa til að hækka vexti nýrra skírteina, svo að féð haldist inni í ríkissjóði. Ríkið er þannig hliðstæða fórnardýra okrara.

Verst er, að ráðamenn og fjármálaráðherra hafa ekki hugmynd um, hvort ríkið hefur til lengdar efni á að sprengja upp vaxtamarkaðinn á þennan hátt. Þeir þykjast alltaf geta hækkað skatta, nú síðast vörugjald um heilan milljarð. Þeim getur tæpast verið sjálfrátt.

Á sama tíma leggja þeir fram frumvarp til fjárlaga, þar sem segir orðrétt: “. . . nást þrjú meginmarkmið. Í fyrsta lagi er erlendum lántökum stillt í hóf, þannig að nýjar erlendar lántökur opinberra aðila verða ekki meiri en nemur afborgunum eldri gengisbundinna lána.”

Ennfremur: “Í öðru lagi er með þessu frumvarpi séð til þess, að sem næst jöfnuður verði á rekstri ríkisins, en það er veigamikil forsenda jafnvægisbúskapar á efnahagssviðinu almennt. Loks er. . . stefnt að því, að umsvif ríkisins verði ívið minni en á yfirstandandi ári.”

Gott væri, ef satt væri. Staðreyndin er hins vegar alveg þveröfug við fullyrðinguna. Ef hið opinbera er skoðað í heild og því, sem menn eru farnir að kalla C-hluta fjárlaga, bætt við A- og B-hlutann, kemur í ljós, að allt er áfram á fyrri heljarbraut.

Frumvörp fjármálaráðherra og ríkisstjórnarinnar til fjárlaga og lánsfjárlaga sýna, að erlendar skuldir hins opinbera munu að óbreyttu vaxa um hátt í tvo milljarða króna eða sem svarar hátt í 2%. af þjóðarframleiðslu á næsta ári. Þetta er hörmulegra en orð fá lýst.

Til viðbótar hyggst ríkisstjórnin skrúfa upp verðbólguna með eins milljarðs vörugjaldi, sem fer beint út í verðlagið. Því verður áfram spenna, óhófseftirspurn fjármagns og hækkandi vextir. Nema ríkisstjórnin hætti að ljúga að sjálfri sér og öðrum, – snúi við blaðinu.

Jónas Kristjánsson.

DV

Bangkok

Veitingar

Á hurðinni stóð: Opið 11-21. Ég kom kl. 13:15 inn í tóman sal. Hávært rifrildi heyrðist úr eldhúsi. Austurlenzk þjónusta kom fram, leit mig reiðum augum, en tók við pöntun. Hún gekk stundum um gólf. Hún staðnæmdist 13:50, horfði út í loftið og kallaði: “Það er lokað klukkan eitt”. Síðan horfði hún á mig, að því er virtist reiðubúin að svara athugasemdum mínum um, hvað stæði á hurðinni. Ég þagði. Hún fór inn í eldhús og fór að rífast þar, en ég forðaði mér 13:59.

Í sumum öðrum tilvikum var þjónustan vestræn og hlutlaus. En mér finnst ekki ástæða til að fara út að borða til að eiga á hættu að neyðast til að hlusta á persónuleg vandamál út úr eldhúsi og svara starfsfólki, sem er illa við gesti. Ég get ímyndað mér sumt betra við tímann og peningana að gera.

Athyglisvert er, að slík uppákoma gerist einmitt í veitingahúsi, sem kallað er Bangkok. Í taílenzkum matstofum er yfirleitt kurteisin alls ráðandi, bæði hjá starfsliði og gestum. Báðir aðilar brosa og hneigja sig, enda er ekki hægt að hugsa sér notalegri og siðmenntaðri staði. Bangkok við Síðumúla er eins langt frá Bangkok í Taílandi og hugsazt getur.

Asísk blanda

Matseðillinn í Bangkok í Síðumúla hefur í fimmtíu liðum aðeins eitt einasta atriði, sem ég gat fundið, að einkenndi matreiðslu í Bangkok í Taílandi. Það er masaman-sósan, sem á einum stað seðilsins er hægt að fá með nautakjöti. Einnig að þessu leyti virtist mér staðurinn vera rangnefni. Matseðillinn og þjónustan eru samanlagt hálfgerð móðgun við mikla menningarþjóð í Indókína.

Ég gáði í heimildir um matreiðslu í Víetnam, Suðaustur-Asíu almennt, svo og Kóreu og fleiri stöðum, en fann ekkert, sem gæti átt við matseðilinn í Síðumúla. Hann virðist vera tilviljanakennt úrtak úr matreiðslu Asíu, eins og hún gæti verið túlkuð í amerískum veitingahúsum, til dæmis í Dakota. Áherzlan er á slagorðum: Súrsætt, chop suey, karrí og chow mein. Eitt þeirra er kínverskt, eitt indverskt og tvö amerísk.

Matreiðslan þarf svo sem ekki að vera verri fyrir þetta. Enda kom í ljós, að hún var ekki lakri en gengur og gerizt hér á landi. En þá er nú samt ekki mikið sagt. Og eftir skemmtilega hrikalegri kryddnotkun að dæma mætti ætla, að hún gæti verið seylonsk að uppruna.

Hugsanalega væri rúm á Reykjavíkursvæðinu fyrir eitt veitingahús, sem byði upp á sýnishorn af matreiðslu Suðaustur-Asíu, frá Indónesíu, Malaysíu, Víetnam, Taílandi og Filippseyjum. Slík stofa gæti þá keppt við einn eða tvo kínverska matstaði, einn japanskan, einn indverskan og einn eða tvo ítalska um hylli þeirra, sem vilja breyta út af matreiðsluhefðum norðursins. en Bangkok við Síðumúla hefur ekki metnað af slíku tagi.

Bragðsterkt

Bangkok-súpa hafði að geyma töluvert af rækjum, hörpudiski og seljustönglum. Hún var afar heit, vel bragðsterk, matarmikil og góð súpa. Hinn forrétturinn, Bangkok-salat, bjó yfir sjávarréttum, aðallega rækjum, með lauk og hálfglæru káli, sem var ofsalega bragðsterkt. Spurt var, hvort ég vildi salatið sterkt eða veikt, og þetta var sterka útgáfan.

Sjávarréttir í puket-karrí voru rækjur, hörpudiskur og smokkfiskur með margvíslegu grænmeti. Þetta var vægt eldaður matur og ekki seigur, með hæfilega sterkri karrísósu. Hrísgrjón voru borin fram í sérstakri skál og fylgdu einnig öðrum aðalréttum staðarins.

Súrsætir sjávarréttir reyndust vera rækjur, skötuselur og hörpudiskur með ýmsu grænmeti í súrsætri sósu, sem var mun sterkari en sú, sem ég hafði prófað í Sjanghæ og Mandarín. Þetta var ágætis matur, eins og raunar líka hinir sjávarréttirnir, sem voru í karrí.

Nautakjöt gafst tvisvar illa í prófunum þessum. Puket-karrí var afar þurrt og lítt áhugavert. Enn lakara var naut í ostrusósu. Sú sósa var raunar afar bragðsterk, en minnti alls ekki neitt á ostrur. Snöggsteikt Bangkok-nautakjöt, vel heitt og sterkkryddað, var hins vegar ágætt.

Djúpsteikt kjúklingalæri með kryddsósu var afar vel heppnað, alveg mátulega lítið eldað og meyrt. Þetta var bezti rétturinn, sem prófaður var.

Í stórum dráttum mátti segja um matreiðsluna í þremur heimsóknum, að hún var frambærileg og hélt staðnum uppi. Hana má næstum bera saman við Mandarín og Sjanghæ, en önnur atriði draga staðinn niður, svo sem áður er getið. Eftirsóknarverðast við matreiðsluna er hin hressilega notkun á kryddi.

Bangkok er 34 sæta salur með einföldum bitum í dökku lofti. Yfir hverju borði er loftlampi. Kínversk listaverk eru á ljósum veggjum. Í öðrum hluta salarins eru stálstólar og í hinum viðarstólar, hvorir tveggja með tágasetum. Á gólfi er tígulsteinn og teppi. Dálítið er af plöntum.

Pappírsmunnþurrkurnar voru afar rýrar eins og á öðrum austurlenzkum veitingahúsum landsins og flestum bjórkrám þess. Skiljanlegt er, að veitingamenn vilji ná niður kostnaði til að bjóða lægra verð. En mér finnst oftast, að viðskipavinir njóti ekki fullrar þátttöku í þeim sparnaði.

Verst er, að sá, sem hefur smeygt þessari vöru inn á flesta staðina, selur munnþurrkur, sem skortir forsendu slíkra verkfæra, rakagleypnina. Ef veitingamenn bjóða upp á pappír til þessara þarfa, verður hann að taka í sig raka, helzt til jafns við gamla og góða tauið. Það gera raunar sumar tegundir af munnþurrkum úr pappír, en þær eru lítt notaðar í veitingahúsum landsins.

Ódýrt í hádegi

Verðlagið í Bangkok sést af matseðlinum, sem birtur er með þessari grein. Nánari skoðun þess leiðir í ljós, að staðurinn er að kvöldlagi í verðflokki, sem er mitt á milli miðjuverðs Torfunnar og Mandaríns og lága verðsins í Laugaási og Pottinum og pönnunni.

Hagkvæmustu viðskiptin við Bangkok eru í hádegisverðarseðlinum, sem býður einn rétt, ríkulega skammtaðan, með gosi og bjór, á 240 krónur að meðaltali. Þetta tilboð nægir ef til vill til að bæta takmarkanir staðarins á öðrum sviðum.

Jónas Kristjánsson

Í hádeginu:
230 Djúpsteikingar: Fimm réttir
240 Pataya chop suey: Þrír réttir
240 Bangkok karrí: Fjórir réttir
250 Bangkok snöggsteikt, sterkt kryddað: Þrír kjötréttir
(Innifalið gos eða pilsner)

Á kvöldin
150 Súpa a la Bangkok
210 Bangkok-salat með sjávarréttum
390 Nautakjöt: Með fimm sósum
350 Bangkok súrsætt: Þrír réttir
370 Puket karrí: Fjórir réttir
275 Thai chow mein: Þrír réttir
325 Pataya chop suey: Fjórir réttir
330 Djúpsteikingar: Sex réttir
275 Steikt hrísgrjón special
270 Djúpsteikt kjúklingalæri með kryddsósu
425 Hálfur kjúklingur með taílenzkri kryddsósu
140 Lychees
150 Djúpsteiktur banani
80 Ís

DV

Gamalt gengur aftur.

Greinar

Gamla fjárlagafrumvarpið frá í haust hefur nú gengið aftur á Alþingi eftir nokkra hrakninga. Ekki er langt síðan þingflokkur sjálfstæðismanna barði í borðið og hótaði stjórnarslitum, ef þingflokkur framsóknarmanna féllist ekki á það í þáverandi mynd.

Síðan skutu þingflokkur sjálfstæðismanna og miðstjórn Sjálfstæðisflokksins á frægum fundi í Stykkishólmi. Þar var ákveðið, að frumvarpið væri óalandi og óferjandi. Nauðsynlegt væri að skera það niður við trog til að stöðva skuldasöfnun í útlöndum.

Til frekari áherzlu skipti þingflokkurinn á fjármálaráðherrum og gerði sjálfan flokksformanninn að sláturstjóra í ráðuneytinu. Niðurstaðan er samt sú, að lítillega hefur verið kroppað í frumvarpið, en í stórum dráttum, rúmlega 99%, er það enn óbreytt.

Eini markverði niðurskurður opinberra útgjalda er frestun framkvæmda við Blönduvirkjun um eitt ár til viðbótar við árið, sem fyrri útgáfa frumvarpsins fól í sér. Þetta sparar mikið fé, 250 milljónir króna á næsta ári. Þannig eru menn smám saman að láta orkuvímuna renna af sér.

Næststærsti liðurinn er Þróunarfélagið, sem á að fá 50 milljónum minna en áður var gert ráð fyrir. Þar með er nokkurn veginn tryggt, að andvana er fædd sú hugsjón ríkisstjórnarinnar. Hún hefur svo mikinn kostnað af gömlum atvinnugreinum, að hún hefur ekki efni á nýjum.

Ekki er gerð hin minnsta tilraun til að hreyfa við sumum dýrustu þáttum ríkisútgjalda, svo sem ríkisrekstri hins hefðbundna landbúnaðar og vegagerð, sem komin er út í alvarlegar hugleiðingar um brúun ósa í kjördæmi fjármálaráðherra og borun gata í ýmis fjöll.

Ofangreindir tveir niðurskurðarliðir eru raunar utan frumvarpsins eins og það er sett fram. Innan þess eru smámunir á borð við fjórar milljónir af Þjóðarbókhlöðu, fimmtán af Listasafni Íslands, fimm af Háskólanum og sex af Raunvísindastofnun, – aðallega til að sýna hugarfarið.

Marklítið er að slengja fram niðurskurði almenns rekstrar ríkisins um 170 milljónir vegna samdráttar í risnu, ferðalögum og öðru slíku. Sjálfsagt er að trúa þessu strax og tekið er á því, en ekki deginum fyrr. Við höfum séð of mörg loforð af því tagi.

Ánægjulegt er, að fjármálaráðherra og ríkisstjórnin skuli hafa uppgötvað, að Póstur og sími sé 160 milljónum ríkari en áætlað var fyrir mánuði. Slíkar uppfinningar hafa þó hingað til fremur lyktað af bókhaldsbrögðum en af raunverulegum fjársjóðsfundi.

Og eftirtektarvert er, að fjársjóðsfinnendur skuli ekki hafa áttað sig á, að húsnæðisgeirann vantar meira en 1000 milljónir til að standa við kosningaloforð, sem stjórnarflokkarnir gáfu á sínum tíma og hafa margítrekað síðan, meðal annars síðastliðið vor.

Dæmigert fyrir hina nýju útgáfu gamla frumvarpsins er, að ráðherrar finna með röntgenaugum þægilegu atriðin, en eru alveg blindir á hin óþægilegu. Þess vegna er frumvarpið jafnmarklaust og það var í fyrri mynd, ónothæft með öllu til þess brúks sem því er ætlað.

Frumvarpið mun auka skuldir hins opinbera í útlöndum um að minnsta kosti 1600 milljónir króna, stækka opinbera geirann og efla verðbólguna vegna skorts á jafnvægi opinberra fjármála. Það stendur ekki við eina einustu af forsendunum, sem birtast í inngangi þess.

Jónas Kristjánsson.

DV

Lífskjör eða hópefli.

Greinar

Tillögur Þrastar Ólafssonar, framkvæmdastjóra Dagsbrúnar, um svokallaða lífskjarasamninga eru eðlilegt framhald atburðarásarinnar í fyrra, þegar hliðstæðar hugmyndir í Alþýðusambandinu urðu að víkja fyrir misheppnuðu hópefli hjá opinberum starfsmönnum.

Skoðanir Þrastar njóta stuðnings Guðmundar J. Guðmundssonar, formanns Dagsbrúnar, Alþýðusambandsins og síðast en ekki sízt Alþýðubandalagsins eftir landsfundinn um helgina. Þeim hefur verið vel tekið af framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambandsins og formanni Sjálfstæðisflokksins.

Að baki liggur löng lífsreynsla. Menn hafa áttað sig á, að engu máli skiptir, hvort laun hækki um 10% eða 100% í kjarasamningum. Það eru önnur atriði en prósentur og krónutölur, sem ráða því, hvort lífskjör fólks batna eða versna. Þröstur nefnir nokkur slík.

Eftir þessa síðbúnu uppgötvun er skammt í, að menn fari að átta sig á, að beztu forsendur bættra lífskjara felast í öflugu og arðbæru atvinnulífi, ríkum fyrirtækjum, sem hafa efni á að borga almennilegt kaup. En vísast þarf meiri lífsreynslu til að átta sig á slíku.

Opinberir starfsmenn hafa litla möguleika á hugljómun af þessu tagi. Þeir vinna hjá fyrirtæki, sem enginn veit, hvort er arðbært eða ekki. Þeir geta þess vegna gert gegndarlausar kröfur, því að fyrirtækið verður aldrei sagt til sveitar. Það er sjálft hið opinbera.

Fyrir réttu ári fór þetta Limbó í verkfall. Þátttakendur höfðu af því mikla nautn, einkum kennarar. Þeir tóku þátt í ævintýri, sem Guðmundur J. Guðmundsson var mörgum sinnum búinn að gera. Það var nýtt fyrir þeim að rækta með sér hópefli á verkfallsvakt.

Áhorfendum fannst hins vegar hópeflið frekar minna á sjálfspyndingarhvöt. Niðurstaðan var nefnilega sú, að opinberir starfsmenn drógust meira aftur úr. Þeir fengu sínar krónur og prósentur, en aðrir fengu meira. Þennan gang lífsins er Þröstur farinn að þekkja.

Formaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja er ekki hrifinn af tillögum Þrastar. Formaðurinn er enn í vímu hópeflisins. Hann hefur ekki enn áttað sig á, að sjálfur beið hann frægan ósigur fyrir réttu ári, þegar kjör opinberra starfsmanna voru gerð verri en þau voru áður.

Hópeflið á enn vísa stuðningsmenn, þótt formaður Dagsbrúnar sé orðinn þreyttur á verkfallsvaktinni. Opinberir starfsmenn eru sjálfsagt til í einn eða tvo slagi í viðbót. Öflugur minnihluti í Alþýðubandalaginu hefur meiri áhuga á upplausn en kjarabótum.

Mikilvægt er, að ríkisstjórnin og Vinnuveitendasambandið taki vel hugmyndum Þrastar, ekki bara í orði, heldur einnig á borði. Slík viðbrögð gætu auðveldað útbreiðslu skilnings á kostum lífskjarasamninga fram yfir hópefli, verkfallsvaktir og sjálfspyndingu.

Auk þess er nauðsynlegt, að ríkisstjórnin öðlist síðbúinn skilning á, að raunvextirnir hafa skipt þjóðinni í tvo hluta, þann, sem byggði á kostnað sparifjáreigenda, og hinn, sem er að byggja eða á eftir að byggja. Það er lífsnauðsyn, að unga fólkinu sé ekki sparkað úr þjóðfélaginu.

Ekki er síður nauðsynlegt, að hægri kanturinn í pólitíkinni átti sig seint og um síðir á, að léleg lífskjör þjóðarinnar gera ráð fyrir, að hvorugt foreldrið sé heima. Þess vegna þarf að spýta miklu fé í barnagæzlu. Um sitthvað slíkt ættu hægri og vinstri að sameinast í nýrri og skárri ríkisstjórn.

Jónas Kristjánsson.

DV

Ratað í freðfiskraunir.

Greinar

Frystiiðnaður okkar hefur lent í miklum vanda. Eftir að hafa í nokkra áratugi verið einn af helztu hornsteinum þjóðfélagsins er hann nú skyndilega orðinn lítt eða ekki hæfur til samkeppni um hráefni og vinnuafl. Hann er að hrata í stöðu hins hefðbundna landbúnaðar.

Nú er ekki lengur gott fyrir útgerð að vera í tengslum við frystihús. Þau skip standa sig fjárhagslega bezt, sem geta annaðhvort fryst sjálf um borð eða selt fiskinn erlendum keppinautum frystihúsanna. Þetta hefur komið skýrt fram einmitt núna í ár.

Dæmi eru um, að framleiðsluverðmæti á hvern skipverja á frystitogara komist upp í sjö milljónir króna á ári. Hins vegar er framleiðsluverðmæti á hvern skipverja á hefðbundnum togara og hvern starfsmann í frystihúsi samanlagt ekki nema um hálf þriðja milljón.

Hinir togararnir, sem ekki hafa aðstöðu til að frysta um borð, geta í mörgum tilvikum annaðhvort siglt með aflann eða selt hann um borð í gáma. Gámarnir eru síðan fluttir með kaupskipum og jafnvel flugvélum til útlanda, þar sem innihaldið er verðlagt á frjálsum markaði.

Á þennan hátt hafa skipin losnað við að selja aflann á um og innan við 20 krónur kílóið til íslenzkra frystihúsa. Þau hafa að meðaltali fengið 47 krónur fyrir hann í útlöndum. Og menn hafa horft á bezta fiskinn seljast á 80 krónur, sem er fjórfalt innlenda verðið.

Vandræði frystingarinnar eru þar með ekki fullrakin. Ofan á fallbaráttuna um hráefnið bætist fallbaráttan um vinnuaflið. Frystihúsin eru að verða óvinsælir vinnustaðir, sem borga lágt kaup og bjóða slæma vinnuaðstöðu, en krefjast mikilla afkasta við færiböndin.

Í sumar greiddu íslenzk frystihús 126 króna tímakaup, en dönsk greiddu 260 krónur eða tvöfalt meira. Ljóst er, að þetta kaup stuðlar lítt að góðum lífskjörum í landinu, enda gengur það eingöngu vegna þess, að víða um land er fiskvinnsla eini atvinnukostur fólks.

Við þessar hörmulegu aðstæður er eðlilegt, að spurt sé, hvort frystingin sé orðin úrelt atvinnugrein eða hvort finna megi einhverjar skýringar, sem geti leitt til gagnaðgerða og lækninga. Þetta er mjög brýnt, til dæmis vegna atvinnuástandsins í mörgum sjávarplássum.

Tómt mál er að tala um hömlur við gámafiski og annarri siglingu með afla. Svokölluð vinnsla í landi er hreint og klárt rugl, ef hún eykur ekki verðmæti hráefnisins. Og staðreyndin er einfaldlega sú, að góður ferskfiskur er miklu verðmætari vara en freðfiskur.

Nokkrar vonir eru bundnar við endurfrystingu á afla, sem þegar hefur verið frystur um borð í togara. Slíkan afla er hægt að taka úr frystigeymslum eftir hendinni og nýta í tiltölulega dýra framleiðslu, ef rétt reynist, að fiskurinn tapi ekki umtalsverðum gæðum.

Frystiiðnaðurinn hefur hingað til einblínt á færibandaframleiðslu á tiltölulega ódýrum fiski handa bandarískum skólum, sjúkrahúsum og fangelsum. Menn verða hissa, þegar japanskir kaupendur biðja um fisk með haus og sporði og vilja sjá tálkn og augu eins og íslenzkir neytendur.

Ef frystiiðnaðurinn getur fært sig nær sérhæfðri framleiðslu handa kröfuhörðum og dýrum markaði, er hugsanlegt, að hann nái sér upp og geti á ný hafið samkeppni um hráefni og vinnuafl. Þetta verður að reyna, því að þjóðin telur sig ekki hafa efni á öðrum ómaga við hlið hins hefðbundna landbúnaðar.

Jónas Kristjánsson.

DV

Mandarín

Veitingar

Kokkurinn frá Peking er ef til vill enn í Mandarín í Kópavogi. Ef svo er, þá er matreiðslan þar öllu kínverskari en í Sjanghæ við Laugaveginn, sem er fremur engilsaxneskur staður. En mér fannst hún ekki vera að öðru leyti betri. Svo er á það að líta, að þjónusta og umbúnaður er lakari í Mandarín og verðlag heldur hærra.

Mandarín er í tveimur sölum, öðrum fremri, eldri og fátæklegri, og hinum innri, yngri og ríkmannlegri. Um 24 sæti eru í fremri salnum og 36 í hinum innri. Þar hafa verið hengdar á veggi kínverskar lugtir með gegnsæjum myndum og löngum dúskum. Neðan þeirra eru kínversk málverk og milli þeirra níu rómanskir speglabogar. Falska loftið er hálfgegnsætt að kínverskum hætti. Þar hanga teningslaga, hálfgegnsæ ljós, svo og harmoníkudrekar úr pappír, er minna á vindinga, sem stundum eru settir upp í áramótaveizlum.

Á hvítum borðdúkum var rauður pappír, lifandi blóm og stílleg hnífapör. Í fremri salnum eru einfaldir klappstólar úr járni, en í hinum innri þægilegir stálstólar með tágasetu og tágabaki. Svipurinn og stemmningin eru kuldalegri en í Sjanghæ. Drekarnir eru dæmi um ódýra og misheppnaða tilraun til að búa til kínverskt andrúmsloft.

Rausnarlítið te

Í Sjanghæ voru margar tegundir af te á boðstólum. Fyrir 45 krónur fengu gestir heilan ketil, þar sem nóg af te hélzt heitt yfir lifandi eldi máltíðina á enda. Í Mandarín er tegundin hins vegar aðeins ein. Þar kostaði te 40 krónur og var bara einn bolli. Teið hefði orðið kalt, ef það hefði enzt alla máltíðina.

Til marks um lakari þjónustu í Mandarín var, að engin tilraun var gerð til að bjóða ábót í tóman tebollann, þótt í Kína muni vera til siðs að drekka te með mat á sama hátt og við drekkum vatn og Frakkar vín. Í annað sinn fékk ég ekki meira vatn í glas og varð ennfremur að biðja um munnþurrku. Það var eins og einhver sofandaháttur væri á ferð.

Hitaplötur voru ekki heldur lagðar á borð í Mandarín til að halda mat heitum. Það kann þó að stafa af, að í Norður-Kína sé venja að snæða rétti í röð eins og á Vesturlöndum, en ekki samhliða eins og kunnar í Kína. Þess vegna þurfi ekki að gera ráð fyrir, aða þeir staðnæmist lengi á borði gesta.

Uppruni matargerðar Mandaríns er mér raunar ráðgáta. Hún er ekki hreinræktuð Peking-matreiðsla fremur en matreiðslan í Sjanghæ sé eitthvað lík Sjanghæ-matreiðslu. Peking-kokkurinn í Mandarín hafði meira að segja á boðstólum gufusoðinn mat, sem er einmitt eitt helzta sérkenni Kanton-matreiðslu, á sama hátt og djúpsteiking er helzta einkenni Peking-matreiðslu.

Annars er kínversk matreiðsla heill heimur út af fyrir sig. Í London og New York eru ekki aðeins til sérhæfðar Kanton, Sjanghæ og Peking-matstofur, heldur líka Hunan og Szechuan-matstofur. Þess vegna er ekki auðvelt að alhæfa um kínverska matargerð.

Tærar súpur

Súpurnar í Mandarín voru tærar, kínverskari en súpurnar í Sjanghæ. Rækjusúpa með grönnum hveitipípum og sveppaflögum var vel pipruð, bragðsterk og góð. Pekingsúpa hafði svipað innihald, en var mun mildari, einnig bragðgóð.

Að kínverskri venju voru með öllum aðalréttum borin fram soðin hrísgrjón í sérstakri skál. Algeng aðferð við að blanda sér á disk er að setja hrísgrjónin neðst og ausa síðan aðalréttinum, sem venjulega flýtur í sósu, ofan á hrísgrjónin.

Gufusoðinn karfi var vægt eldaður, borinn fram í þunnri sojasósu, sem næstum yfirgnæfði fiskinn, en þó ekki alveg. Þetta var góður fiskur. Sama er að segja um steiktan smokkfisk í sultulegri sósu með afar þunnum og breiðum sveppum, lauk og fínlegri sojasósu. Nautakjötsflögur og -ræmur í ostrusósu voru pönnusteiktar, sæmilegar á bragðið. Sósan minnti nákvæmlega ekkert á ostrur og virtist raunar vera venjulegt kjötsoð. Til hliðar fylgdi sterk sojasósa í skál.

Steiktur kjúklingur var meyr hið innra og með brenndri skorpu að utan, fyrirtaks matur, borinn fram í súrsætri sósu. Hins vegar var steikta öndin þurr og skorpuseig. Með þessum tveimur réttum var borið milt og gott grænmeti súrsætt, eins konar marinerað hrásalat.

Tveir matseðlar voru í Mandarín, annar sérstakur seðill gestakokksins og hinn fastaseðill hússins. Þar kenndi margra grasa, sem ekki voru prófuð, svo sem nokkur karrí og dálítið af amerísku chop suey. Einn eftirréttur var á boðstólum, blandaðir niðursuðuávextir, ekki prófaðir. Vínlisti hússins er ekki nothæfur.

Kínagestur

Ef nota á viðskipti heimafólks sem mælivarða á gæði matreiðslunnar í veitingastofum lands þeirra, fær Mandarín einn plús fyrir kínverskulega konu, sem þar var gestur og virtist kunna matnum hið bezta. Vesturlandabúar eru ekki taldir hafa nógu mikið vit á kínverskum mat til að halda uppi nægu aðhaldi.

Hvort sem valið er af seðli kokksins eða fastaseðlinum mældist heildarverð þriggja rétta máltíðar með te og hálfri flösku af illskásta víninu 1139 krónur. Það er miðjuverð, reiknað með sama hætti og í skrifum um önnur veitingahús í þessum greinaflokki. Mandarín telst þar með í meðalverðflokki íslenzkra veitingahúsa.

Erlendis hefur myndazt sú venja, að kínversk og raunar önnur austræn veitingahús raða sér ódýrari kant veitingamennskunnar og sækjast eftir viðskiptum almennings. Svo sérkennilega vill til, að ekkert hinna austrænu veitingahúsa Reykjavíkursvæðisins hefur tekið upp samkeppni við staði á borð við Laugaás og Pottinn og pönnuna í lága verðflokknum.

Sjanghæ og Bangkok eru í flokki á milli miðjuflokksins og lága flokksins og Mandarín trónir hreinlega í verðmiðju íslenzkra veitingahúsa. Mér finnst verðið þar of hátt fyrir pappírsþurrkur, lítt áhugavert umhverfi og skort á te og vatni. Ég færi heldur fyrir lægra verð í Sjanghæ.

Mandarín er ekki opinn í hádeginu nema fimmtudaga og föstudaga.

Jónas Kristjánsson

Matseðill gestakokksins:
130 Pekingsúpa
560 Steikt önd með súrsætu káli
490 Steiktur kjúklingur með súrsætu káli
295 Steikt hrísgrjón
320 Gufusoðinn karfi með sterkri sósu
390 Steiktur smokkfiskur með Kínasveppum
480 Kraumaður kjúklingur með hnetum
475 Léttsteikt lambakjöt
510 Nautakjötssneiðar í ostrusósu
480 Steiktur karrí-kjúklingur

Fastaseðillinn:
150 Rækjusúpa
310 Indónesísk karrísteikt hrísgrjón með kjöti, grænmeti, rækjum og eggjum
330 Rækjukarrí með grænmeti
340 Djúpsteiktur fiskur með súrsætri sósu
360 Djúpsteiktar rækjur með súrsætri sósu
330 Fiskur í tamarind-sósu
340 Fiskur í karrí með grænmeti
290 Súrsætt blandað grænmeti
290 Snöggsteikt blandað grænmeti
495 Lambakarrí í kókoshnetumjólkursósu og grænmeti
490 Lamb í ostrusósu með sveppum og grænmeti
430 Súrsætur kjúklingur
440 Kjúklingur chop suey
445 Grís chop suey
480 Grísakjöt í hoi-sin sósu með rauðri og grænni papriku
480 Súrsætur grís
540 Snöggsteikt nautakjöt með gulri bananasósu
510 Nautakarrí með grænmeti
525 Nauta chop suey
150 Manda, blandaðir ávextir í hlaupi með kókoshnetumjólk

DV

Léleg rök gegn markaðsgengi.

Greinar

Andúðin á markaðsskráningu erlends gjaldeyris, sem greinilega kemur fram hjá ríkisstjórninni og ráðgjöfum hennar úr Seðlabanka og Þjóðhagsstofnun, stafar af þreytu, en ekki af efnisatriðum málsins. Þessum aðilum finnst þægilegt að geta vísað vandanum til sjávarútvegsins.

Ríkisstjórnin og ráðgjafar hennar treysta sér ekki í átökin, sem fylgja nýrri skiptingu þjóðarkökunnar. Erfiður og árangurslitill slagur við verðbólgu hefur dregið mátt úr ríkisstjórninni. Hún hefur reynt að sýna hetjuskap og orðið móð af sárum. Hún er gömul og þreytt.

Enn er reynt að telja sjávarútveginum trú um, að hann skuldi svo mikið, að rétt gengi komi honum ekki að gagni. Röksemdafærslan er ekki upp á marga fiska, en felur í sér þann sannleika, að vonlaus er vondur rekstur, sem hefur dollaralán á bakinu.

Meðaltölin segja allt annað. Erlendur rekstrarkostnaður í sjávarútvegi er 25% af tekjum hans og erlendur fjármagnskostnaður 14%. Samtals er þetta rétt innan við 40% af tekjum sjávarútvegs. Aðeins þessi hluti gjalda er beint tengdur tekjum í gjaldeyri.

Meirihluti útgjalda sjávarútvegsins felst í lífskjörum starfsfólks og öðrum innlendum kostnaði. Þessi útgjöld eru aðeins að hluta og óbeint tengd gengi erlends gjaldeyris. Þessa staðreynd hafa stjórnvöld játað í hvert sinn, sem þau hafa breytt genginu.

Við gengislækkun batnar samkeppnisaðstaða vöru og þjónustu í hlutfalli við innlent vinnsluvirði hennar, þann hluta verðmætisins, sem er innlendur að uppruna. Kaupendur bæta sér upp hluta gengislækkunarinnar með því að beina viðskiptum sínum meira að slíkri vöru og þjónustu.

Þessi tilfærsla veldur því, að neytendur, þar með talið starfsfólk í sjávarútvegi, þurfa ekki að berjast fyrir að fá gengislækkun bætta til fulls heldur aðeins upp að þeim mun, sem eftir stendur. Þessi tilfærsla hefur komið að gagni við hverja gengislækkun.

Ekki er nóg með, að innlend framleiðsla eflist á kostnað innfluttrar, heldur eflist líka innlendur sparnaður á kostnað nýrra lána í útlöndum. Gengislækkun gerir fjárfestingu í útlendri vöru óhagstæða í samanburði við innlenda vöru og innlendan sparnað.

Gengislækkanir liðins tíma og þar á meðal sú í fyrra hafa nýtzt of illa að þessu leyti. Ríkisstjórnir hafa haft að þeim allt of langan aðdraganda, svo að spákaupmennska hefur eyðilagt árangurinn að verulegu leyti. Þess vegna er markaðsgengi betra en gengislækkanir.

Ennfremur hafa ríkisstjórnir vikið sér undan ábyrgð og fyrirhöfn með því að taka lán í útlöndum, hreinlega til að halda uppi lifnaði um efni fram. Þessi gjaldeyrir í formi lána er auðvitað í samkeppni við gjaldeyrinn, sem sjávarútvegurinn aflar.

Ríkisstjórnir geta eytt árangri gengislækkana með lántökum í útlöndum. En það er lítill hetjuskapur ráðherra að hóta sjávarútveginum slíku. Það er ekkert markaðslögmál, að ríkisstjórn þurfi að kikna í hnjáliðunum í hvert sinn, sem hún lendir í öðrum vanda en tapi í sjávarútvegi.

Ekki er síður aumlegt, þegar ráðherrar og ráðgjafar ríkisstjórnarinnar halda fram, að hið skráða gengi fari í raun nálægt markaðsgengi. Af hverju megum við ekki fá að sjá, hvort þetta er blekkisögn á léleg spil, sögð til að slá ryki í augu sjávarútvegsins?

Jónas Kristjánsson

DV

Refsiaðgerðir magna blóðbaðið.

Greinar

Aðeins 18% þjóðarinnar eru andvíg hvalveiðum okkar samkvæmt skoðanakönnun DV í síðasta mánuði. Fyrir tæpum þremur árum sýndi skoðanakönnun blaðsins, að 41% þjóðarinnar voru þá á svipaðri skoðun. Þannig hafa marktæk sinnaskipti orðið með þjóðinni í afstöðunni til hvalveiða.

Á þessum tíma hefur tvennt gerst. Sjávarútvegsráðherra okkar uppgötvaði smugu hinna svokölluðu vísindalegu hvalveiða. Og grænfriðungar hófu aðgerðir gegn þessum veiðum. Ef þeir halda slíku áfram á næsta ári, mun andstæðingum hvalveiða halda áfram að fækka hér á landi.

Þannig er þjóðremban hér og þannig er hún í öðrum löndum. Suður-Afríka er gott dæmi um þetta. Efnahagslegar refsiaðgerðir útlendinga hafa ekki sannfært hinn hvíta minnihluta um fánýti aðskilnaðarstefnunnar. Þvert á móti hafa þær stappað stálinu í aðskilnaðarsinna.

Í framhjáhlaupi má benda á hræsni þjóðkirkju okkar, sem mælti á kirkjuþingi með refsiaðgerðum gegn Suður-Afríku vegna aðskilnaðarstefnunnar, en nefndi engar refsiaðgerðir gegn Sovétríkjunum vegna framferðis þeirra í Afganistan. Þjóðkirkjan gerir sér þannig mannamun.

En í Suður-Afríku tapaði stjórnarflokkurinn í aukakosningum fylgi og þingsæti til öfgaflokks, sem berst harðlega gegn hvers konar eftirgjöfum við svarta meirihlutann. Þetta var fyrsta afleiðing hinna efnahagslegu refsiaðgerða gegn Suður-Afríku.

Síðan hefur stjórnarflokkurinn í Suður-Afríku færzt í átt til aukinna öfga til að vernda stöðu sína meðal hinna hvítu kjósenda. Á laugardaginn bannaði stjórnin fréttaflutning frá óeirðasvæðunum. Hún er með því að reyna að slá hulu yfir hryðjuverk sín.

Næsta stig málsins verður, að hinn svarti meirihluti lætur af stuðningi við stefnu hinna friðsamlegu mótmæla. Minnka munu áhrif Tutu biskups og annarra leiðtoga, sem vilja forðast ofbeldi. Aukið ofbeldi hinnar hvítu ríkisstjórnar mun framkalla svart ofbeldi.

Hingað til hefur borgarastyrjöldin í Suður-Afríku eingöngu geisað í hverfum og byggðum svarta fólksins. Þeir, sem fallið hafa, eru nærri eingöngu svartir. Þeir hafa ýmist verið drepnir af hryðjuverkasveitum lögreglunnar eða af andstæðum hópum svertingja.

Fyrri dæmi úr öðrum löndum Afríku benda til, að svartir menn í Suður-Afríku muni sækja rétt sinn með ofbeldi, þegar komið er í ljós, að hvíta ríkisstjórnin gefur hvergi eftir, heldur eykur hörkuna til að þjóna vaxandi ofbeldishyggju og þjóðrembu hvíta minnihlutans.

Kenyamenn og Zairemenn sóttu með ofbeldi sjálfstæði sitt í hendur hvíts minnihluta, sem neitaði að láta völdin af hendi. Á báðum stöðum færðu hinir svörtu ofbeldið heim til hvíta mannsins. Þeir færðu hryðjuverkin inn í hverfi og byggðir hvítra og inn á heimili þeirra.

Þessi gagnsókn er enn ekki hafin í Suður-Afríku. En hún er óhjákvæmileg, þar sem efnahagslegar refsiaðgerðir vesturlanda hafa leitt til aukinnar þjóðrembu og ofbeldisstefnu hvíta minnihlutans. Blóðbaðið í Suður-Afríku verður margfalt meira en það er nú.

Segja má, að refsiaðgerðirnar stuðli þannig óbeint að réttmætri valdatöku svarta meirihlutans í Suður-Afríku og séu þannig af hinu góða, þrátt fyrir blóðbaðið. En hin beinu áhrif eru ekki þau að knýja hvíta minnihlutann til að láta af ógnarstjórn, heldur eru þau þveröfug. Þær magna blóðbaðið.

Jónas Kristjánsson

DV

Ótímabær öskustó.

Greinar

Uppgjöf og vonleysi gera vart við sig í sjávarútvegi um þessar mundir. Sumpart stafar þetta af vantrú á, að stjórnvöld dragi úr millifærslum frá sjávarútvegi til annarra þarfa í þjóðfélaginu. Vegur þar þyngst, að ríkisstjórnin er andvíg markaðsgengi á erlendum gjaldeyri.

Þótt stjórnvöld skipuleggi taprekstur í sjávarútvegi, eru í greininni enn til fyrirtæki, sem rekin eru með hagnaði. Það bendir til, að svartsýnin sé meiri en efni standa til. Fleiri forstjórar gætu tekið sér tak og náð fyrirtækjum sínum upp úr taprekstri og annarri eymd.

Sjávarútvegurinn er almennt séð of íhaldssamur um þessar mundir. Hann hefur glatað forustunni í hagkvæmni, sem hann hafði í alþjóðlegum samanburði fyrr á tímum. Hann er of seinn að tileinka sér nýjungar í tækni og rekstri, hráefni og afurðum.

Fyrr á þessu ári leiddi athugun í ljós, að dönsk fiskvinnsla keypti fiskinn á 40 krónur á meðan hin íslenzka keypti hann á 18 krónur. Á sama tíma greiddi danska fiskvinnslan 260 krónur á tímann í kaup, en hin íslenzka 126 krónur. Samanlagt stóðu Danir sig fjórum sinnum betur en við.

Tilraunir talsmanna frystiiðnaðarins til að útskýra þennan hrikalega mun hafa ekki verið sannfærandi. Ormatínslan, sem kostar okkur um hálfan milljarð króna árlega, skýrir ekki nema lítinn hluta þessa. Og skortur á sérhæfingu fiskvinnslustöðva er engin afsökun.

Þeir, sem kaupa íslenzkan gámafisk og annan ísfisk á markaði í Bretlandi, eru oft að sækjast eftir ákveðinni fisktegund af ákveðinni stærð, sem hentar nákvæmlega hinni sérhæfðu vinnslu þeirra. Þeir láta sig ekki muna um að aka fiskinum nokkurhundruð kílómetra.

Víða um land hagar hér svo til, að forstjórar fiskvinnslustöðva gætu komið upp sérhæfingu. Svo er til dæmis í Eyjafirði, utanverðu Ísafjarðardjúpi og á norðanverðu Snæfellsnesi, svo ekki sé talað um allt suðvesturhornið frá Þorlákshöfn til Reykjavíkur.

Ef akstur með fisk er tiltölulega ódýr í samanburði við hagnaðinn af sérhæfingu, er sjálfsagt fyrir íslenzka fiskvinnslustjóra að læra af erlendri reynslu, hætta að líta á sína stöð sem eina í heiminum og hefja samstarf sín í milli um sérhæfan og arðsaman rekstur.

Markaðsverð á fiski við löndun er aðferðin, sem erlendir keppinautar okkar nota til að ná árangri á þessu sviði. Hér á landi er of lítið hlustað á þá, sem mæla með fiskmarkaði í stað núverandi nefndarákvörðunar á fiskverði. Þetta er dæmi um íhaldssemi sjávarútvegsins.

Heldur betur hefur útgerðinni gengið að feta sig á braut nýjunga. Stöðugt fjölgar frystitogurum. Þeir eru reknir með örlitlum hagnaði á sama tíma og aðrir eru reknir með dúndrandi tapi. Þetta er ein leið af mörgum til að mæta andúð ríkisvaldsins á sjávarútvegi.

Þá er fólk smám saman að átta sig á, að ferskur fiskur er verðmætari en frystur, þótt enn vaði stjórnmálamenn í villu og svima og kvarti um, að “óunninn” fiskur sé fluttur úr landi. Sú kvörtun er raunar jafnvitlaus og fullyrðingin um, að markaðsgengi henti ekki sjávarútvegi.

Ýmis önnur atriði gætu orðið til framfara svo sem endurfrysting í landi, nýting á slógi, lifur og marningi, beiting enzyma, skelfrysting rækju og veiði krabbategunda. Þótt ríkisvaldið sé sjávarútveginum harðdrægt um þessar mundir, er ekki ennþá ástæða til að leggjast í öskustó.

Jónas Kristjánsson.

DV