Author Archive

Síbylja í sífurtóni

Greinar

Þegar við lærðum og náðum tökum á að beita frystingu til að verja fisk skemmdum og geyma hann í langan tíma, opnaðist Bandaríkjamarkaður og blómaskeið hófst í sjávarútvegi okkar. Við urðum svo ánægð með nýjungina, að við misskildum, hvað hún fól í sér.

Almennt er talið, að svokölluð fullvinnsla felist í að fara með fisk í gegnum frystihús með ærnum tilkostnaði, í stað þess að selja hann beint til útlanda eins og hann kemur upp úr sjónum. Það síðara er kallað að selja útlendingum hráefni í stað fullunninnar vöru.

Ekkert þýðir að benda á, að hærra verð fæst fyrir svokallað hráefni en svokallaða fullunna vöru. Enda sjá ráðamenn og talsmenn fiskvinnslunnar, einkum samtaka frystihúsa, sér hag í að viðhalda misskilningi sundurgreiningar milli hráefnis og fullvinnslu.

Umræður um stöðu fiskvinnslu eru að verða eins vonlausar og umræður um hinn hefðbundna landbúnað. Talsmenn fiskvinnslunnar endurtaka bara í síbylju gömlu slagorðin um hráefni og fullvinnslu, þegar þeir berjast gegn frjálsu fiskverði, fiskmarkaði og gámafiski.

Þetta kom greinilega fram í síðustu viku í ræðum stjórnarformanns og nýlegs forstjóra Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna á aðalfundi fyrirtækisins. Svipuð síbylja kom skömmu áður fram í viðtali nýlegs forstjóra Sölusambands íslenzkra fiskframleiðenda við DV.

Sífrað er um, að efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar sé í voða, ef útgerðarmenn og sjómenn græða stórfé á að selja verðmætan ísfisk til landa Evrópubandalagsins, í stað þess að selja hann á lágu verði til fiskvinnslu, svo að þar megi varðveita vítahring lága kaupsins.

Þetta sífur er athyglisvert í þjóðfélagi fullrar atvinnu, þar sem barizt er um vinnuaflið. Í stað þess að ýta fólki út í arðsamari atvinnugreinar, sem gefa meiri laun, er verið að reyna að byggja upp landbúnaðarlegt verndarkerfi utan um lágu launin í fiskvinnslunni.

Síbylja forvígismanna fiskvinnslunnar stríðir gegn grundvallarlögmáli, sem segir, að hagkvæmast sé að ná sem mestum árangri með sem minnstri fyrirhöfn. Þetta grundvallarlögmál vinnsluvirðis og markaðar er meginþáttur allrar skynsamlegrar hagfræði.

Frá Japan eru okkur sagðar þær fréttir, að markaðsverð sé mun hærra og jafnvel margfalt hærra á ferskum fiski en á frystum. Þetta stafar af, að Japanir hafa mun meira vit á fiskgæðum en Vesturlandabúar. Japönskum sjónarmiðum mun vaxa fiskur um hrygg hér vestra.

Ferskur fiskur er enn innan við 20% af sölu íslenzkra þorskfiskafurða. Eðlilegt er, að hlutdeildin fari vaxandi með auknu áliti erlendra neytenda á ferskum fiski og tilsvarandi hækkun á verði hans. Ekki er fráleitt að stefna að um það bil helmingi útflutningsins.

Frystur fiskur mun áfram verða mikilvægur í útflutningi. Nóg er til í útlöndum af skólum, sjúkrahúsum og fangelsum, sem vilja kaupa slíka vöru. Og einnig er þar nóg til af sjónvarpssjúklingum, sem vilja kaupa þrautunninn ruslmat, sem er tilbúinn í örbylgjuofninn.

Mestu máli skiptir, að við vörum okkur á tilraunum forustumanna fiskvinnslunnar til að bregða fæti fyrir útflutning á ferskum fiski, alveg eins og við vörum okkur á tilraunum þeirra til að koma í veg fyrir aðra markaðshyggju, svo sem frjálst fiskverð og fiskmarkaði.

Þegar talsmenn fiskvinnslunnar eru komnir með síbylju í sífurtóni, sem við þekkjum úr landbúnaðinum, megum við vita, hver á að borga brúsann, ­ þjóðin.

Jónas Kristjánsson

DV

Burðarþol í bananaborg

Greinar

Komið hefur í ljós við athugun á vegum félagsmálaráðuneytisins, að hús í Reykjavík hafa mörg hver allt of lítið burðarþol. Hafþór Jónsson hjá Almannavörnum kallar niðurstöðurnar “skelfilegar” og Stefán Thors, skipulagsstjóri ríkisins, kallar þær “hrikalegar”.

Í greinum í nýlegu blaði byggingatæknifræðinema hafa Guðbrandur Steinþórsson, deildarstjóri byggingatæknideildar Tækniskóla Íslands, og Gunnar Torfason byggingaverkfræðingur gagnrýnt harðlega fúsk sumra byggingamanna og eftirlitsleysi opinberra aðila.

Í grein Gunnars segir m.a.: “Virkasti hópurinn af slíkum fúskurum er ekki stór, kannski innan við 20 manns. Flest nöfnin þekkja byggingafulltrúarnir á höfuðborgarsvæðinu og væri því leikur einn að stöðva þetta fúsk í gegnum skrifstofur embættanna. En einnig hér er ríkjandi landlæg drullusokkadýrkun og linka.”

Rúmt ár er síðan fram kom í nefndaráliti til félagsmálaráðherra rökstuddur grunur um, að ekki væri allt með felldu í byggingaeftirliti Reykjavíkur, að því er varðar burðarþol húsa. Í kjölfarið voru tíu hús rannsökuð. Þau reyndust öll hafa of lítið burðarþol.

Niðurstöðurnar voru sendar borgarverkfræðingi 9. apríl. Hann virðist lítið hafa sinnt þeim, því að málið kom borgarstjórn á óvart, þegar félagsmálaráðuneytið hélt blaðamannafund um það 19. maí. Borgarverkfræðingur hafði 11. maí verið boðaður á þann fund.

Allir málsaðilar hins opinbera virðast sammála um að halda leyndu fyrir fólki, hvaða tíu hús þetta séu. DV hefur upplýst, að eitt þeirra sé Foldaskóli. Það hefur verið staðfest. Hinum níu húsunum er enn haldið leyndum, væntanlega á þeirri forsendu, að þekking sé fólki hættulegri en hús með of litlu burðarþoli.

Mál þetta hefur leitt til, að Almannavarnir ríkisins verða að endurskoða fyrri áætlanir um neyðaraðgerðir. Þær gera ráð fyrir, að hús séu byggð í samræmi við ákveðna jarðskjálftastuðla. Þau valdi því ekki tjóni í jarðskjálftum og nýtist eftir þá í starfi almannavarna.

Málið felst í, að nafnkunnir fúskarar komast ýmist upp með að skila ekki burðarþolsteikningum til byggingafulltrúa eða fá þær áritaðar athugunarlaust, ef þeir leggja þær fram. Eðlilegt er, að reiði ráðamanna og almennings beinist helzt að byggingafulltrúanum.

Athyglisvert er, að þessi sami byggingafulltrúi Reykjavíkur sætti í vetur gagnrýni vegna skorts á eftirliti með lélegri steypu. Augljóst má því vera, að vítavert sinnuleysi ræður almennt ríkjum hjá þessu embætti.

Ekki er síður athyglisvert, að borgarverkfræðingur hefur ekki aðeins reynzt seinfær og fáskiptinn um burðarþolsskýrsluna, heldur hefur hann heimilað starfsmönnum byggingaeftirlitsins að hanna hús, sem þeir síðan samþykkja og stimpla fyrir hönd stofnunarinnar.

Athyglisverðast er þó, að úrbótatillögur borgarstjóra og meirihluta hans í borgarstjórn fjalla nær eingöngu um, að hér eftir verði burðarþolsútreikningar að fylgja teikningum af ákveðnum tegundum húsa. Ekkert er reynt að taka á innri vanda borgarkerfisins.

Nærtækast væri þó að svipta réttindum frægustu fúskarana tuttugu, reka byggingafulltrúann og víta borgarverkfræðinginn, sem hafa árum saman látið viðgangast “hrikalegt” og “skelfilegt” ástand í burðarþoli mannvirkja, sem hæglega geta orðið tugum eða hundruðum borgara að bana í myndarlegum jarðskjálfta.

En Reykjavík kvað vera hálfgert bananalýðveldi.

Jónas Kristjánsson

DV

Úr búð í Björgvin

Greinar

Samanburður Verðlagsstofnunar á verði í Björgvin og Reykjavík er mikið áfall stuðningsmönnum frjálsrar samkeppni. Komið hefur í ljós, að við sambærilegar aðstæður hefur markaðnum ekki tekizt að færa íslenzkum neytendum lægra vöruverð með frjálsri álagningu.

Heildsölum eru ekki lengur haldbærar röksemdirnar frá samanburðinum við Glasgow í fyrra. Björgvin er á stærð við Reykjavík og er einnig tiltölulega afskekktur staður. Lítið vörumagn og langar flutningsleiðir gera þennan samanburð því ekki of óhagstæðan Reykjavík.

Íslenzkar heildsölur gera að meðaltali 20% óhagkvæmari innkaup en tíðkast í nágrenninu. Sennilega er rétt sú skýring verðlagsstjóra, að þetta stafi af umboðslaunum erlendis, sem hafi haldið velli, þótt fyrirtækin geti náð sínu í frjálsri álagningu innanlands.

Hin gamla álagningaraðferð umboðslauna er neytendum þung í skauti. Hún hækkar nefnilega grunninn, sem aðrar prósentur leggjast á, svo sem í tollum, vörugjaldi og álagningu í heildsölu og smásölu. Hún átti að hverfa samkvæmt formúlu frjálsrar álagningar.

Samanburðurinn sýnir líka, að frjálsa álagningin er há í krónum, þótt hún líti ekki illa út í prósentum. Með undangengnum prósentum ofan á prósentur er búið að hækka grunninn svo mjög, að lág álagningarprósenta getur verið í krónum talið hærri en innkaupsverðið!

Hin hörmulega frammistaða íslenzkrar heildsölu hefur endurvakið hugmyndir um aukið aðhald, jafnvel verðlagshöft í gamla stílnum. Augljóst er, að hingað til hefur hin frjálsa verzlun ekki megnað að skila viðskiptavinunum þeim árangri, sem að var stefnt.

Bent hefur verið á, að á ýmsum sviðum ríki enn hálfgerð einokun í innflutningi og að hugsanlega sé um að ræða samtryggingu nokkurra heildsala á öðrum sviðum. Samkvæmt formúlu frjálsrar verzlunar hefðu nýir aðilar átt að geta séð sér hag í að rjúfa þessa fjötra.

Ef til vill hafa neytendur ekki verið nógu duglegir við að gæta hagsmuna sinna með því að verzla þar, sem hagkvæmast er. En þeir hafa þó sýnt í viðskiptum við stórmarkaði, sem státa sig af tilboðsverðum, að Hagkaupsstefnan á hljómgrunn meðal íslenzkra neytenda.

Formaður Neytendasamtakanna hefur stungið upp á afmörkuðum verðlagshöftum á þeim sviðum, þar sem okrið í heildsölunni er grófast. Hann telur það geti orðið til viðvörunar hinum, sem næstir standa í okursamanburðinum. Og sýnt er, að eitthvað þarf að gera.

Forseti Alþýðusambandsins hefur lagt fram enn róttækari og rökréttari hugmynd. Hún er, að á þessum okursviðum verði ákveðið hámarksverð út úr búð í Reykjavík, sem skuli vera hið sama og út úr búð í Björgvin. Milliliðirnir geti svo bitizt um skiptingu teknanna.

Önnur aðferð gæti einnig orðið til hjálpar. Hún felst í að auka verðmæti þess varnings, sem ferðafólki sé heimilt að hafa með sér til landsins. Þannig má veita íslenzkum kaupmönnum viðvörun með því að flytja meira af verzluninni úr landi til góðra kaupmanna.

Nú reynir verulega á talsmenn og baráttumenn frjálsrar verzlunar í landinu. Á þeim hvílir kvöðin að finna leiðir til að láta hugsjón þeirra leiða til lægra vöruverðs og meiri vörugæða í þágu neytenda. Annan tilgang hefur frjáls verzlun ekki og á ekki að hafa.

Umfram allt þurfum við þó tíðari og fjölbreyttari samanburð Verðlagsstofnunar á frjálsri verzlun í út-öndum og svokallaðri frjálsri verzlun hér á landi.

Jónas Kristjánsson

DV

Kjallaralið gegn lýðræði

Greinar

Lýðræði á í vök að verjast í þriðja heiminum þessa dagana eins og oftast áður. Stundum gengur betur sums staðar, en oftast gengur þó verr víðast hvar. Síðustu daga höfum við fengið fréttir af margs konar vandræðum, er steðja að þessu illskásta þjóðskipulagi jarðar.

Svo virðist á yfirborðinu, að lýðræði hafi unnið sigur á Filippseyjum í síðustu viku, þegar Corazon Aquino vann yfirburðasigur í heiðarlegustu þingkosningum, sem þar hafa farið fram. Enrile og Marcosarmenn fengu þar hina háðulegu útreið, sem þeir áttu skilið.

Undir niðri hafa vandamál Filippseyja hrannast upp. Aquino hefur tregðast við að framkvæma loforð um skiptingu lands milli fátækra bænda og þar með fært skæruliðum kommúnista vopn í hendur. Jafnframt hefur hún í vaxandi mæli hallað sér að Bandaríkjunum.

Sendimenn bandarísku leyniþjónustunnar og varnarmálaráðuneytisins hafa verið að flykkjast til Filippseyja. Þar er nú verið að endurtaka í hundraðasta skipti hinn alþjóðlega sorgarleik um ljóta Ameríkanann, sem hvarvetna hefur óafvitandi komið þjóðum í klandur.

Síðan Marcos var hrakinn frá völdum og gerður að óvirkum þjófi, hefur Suharto, forseti Indónesíu, verið stórtækasti virki þjófur heimsins. Hann hefur löngum getað nuddað sér utan í Bandaríkin, síðan hann lét í upphafi ferils síns myrða nokkur þúsund kommúnista.

Um daginn hélt Suharto gervikosningar til þingsins í landi sínu. Allt var notað til að tryggja hans mönnum sigur, þar á meðal allt litróf siðleysisins. Nú má búast við, að hann noti kosningasigurinn til að slá sig til riddara í augum hins fávísa Bandaríkjaforseta.

Ekki er langt síðan vinstri menn unnu meirihluta af hægri mönnum í þingkosningum á Fidji-eyjum. Um daginn var her landsins notaður til að reyna að strika yfir niðurstöðu lýðræðisins. Síðustu fréttir herma, að þetta hafi ekki tekizt, en í nokkra daga var staðan tæp.

Víðar í austurálfum jarðar stendur lýðræði höllum fæti. Suður-Kóreu er stjórnað með ofbeldi, þótt skammt sé til ólympíuleikanna þar í landi. Í Singapúr hefur prentfrelsi verið stórlega skert, auk þess sem stjórnarstörf einræðisherrans verða sífellt sérvizkulegri.

Suður-Ameríku hefur ekki tekizt að feta áfram í átt til lýðræðis, þar sem Alfonsín Argentínuforseti er fremstur í flokki. Hann hefur átt í mestu erfiðleikum með herinn í landinu og varð að ganga til samninga til að hindra, að uppþot í hernum yrðu að uppreisn.

Alfonsín hefur reynt að koma lögum yfir nokkur hundruð af verstu glæpamönnunum, sem léku lausum hala á valdatíma hersins. Í því hefur hann sérstöðu meðal lýðræðislega kjörinna valdhafa í Rómönsku Ameríku, því að þeir hafa engum lögum komið yfir slíka.

Þetta varnarleysi gegn hernum einkennir alla álfuna. Valinkunnir leiðtogar á borð við Duarte í El Salvador, Cerezo í Guatemala og Sanguinetti í Uruguay hafa neyðzt til að halda hlífiskildi yfir dauðasveitum hersins. Sömu sögu er að segja frá Brasilíu og Perú.

Herinn í þessum löndum skákar óbeint í bandarísku skjóli, því að reynslan sýnir, að bandaríska leyniþjónustan og varnarmálaráðuneytið hafa tekið opnum örmum dólgum suður-amerískra herja, en litið af tortryggni á lýðræðislega kjörna valdhafa álfunnar.

Sorglegt er, að Bandaríkin skuli leyfa leyniþjónustunni, varnarmálaráðuneytinu og kjallaramönnum í Hvíta húsinu að stjórna utanríkisstefnu ríkisins.

Jónas Kristjánsson

DV

Hún spillti góðærinu

Greinar

Hin litla stjórn, sem var á fjármálum ríkisins, hefur horfið eftir kosningar. Áætlanir um fjárlagahalla ársins eru komnar upp í fjóra milljarða, sem þýðir, að raunverulegur þensluhalli ríkisins fer upp í sex milljarða á þessu ári. Báðar tölurnar eru uggvænlegar.

Gælur við hugmyndir um skaðleysi ríkishalla eru til marks um uppgjöfina í baráttunni gegn hallarekstri ríkissjóðs. Hið eina vitlega í þeim gælum er, að illskárra er að stofna til ríkisskulda innanlands en á erlendum markaði. Samt sem áður er það slæmt.

Ríkishalli er sérstaklega hættulegur, þegar mikil þensla er í þjóðfélaginu, ­ þegar verkefni þjóðarinnar eru meiri en starfskraftar hennar. Þetta er sjaldgæft fyrirbæri í umheiminum, þar sem hagfræðikenningar eru samdar, en algengt hér á landi, sem betur fer.

Við slíkar aðstæður er mikilvægt, að ríkið haldi sínum eigin verkefnum í skefjum til að vega á móti þenslunni. Með þeim hætti nýtast kraftar þjóðarinnar bezt til sóknar í atvinnulífinu, án þess að veruleg hætta sé á, að spennan leiði til vaxandi verðbólgu.

Undir núverandi stjórn fjármála ríkisins hefur hins vegar verið stefnt í þveröfuga átt. Hinn mikli og vaxandi halli á rekstri ríkisins hefur magnað þensluna og er langstærsta orsök þess, að verðbólgan er byrjuð að leika lausum hala á nýjan leik og stefnir til skýja.

Þorsteinn Pálsson hefur sér til forláts að hafa í farteskinu ráðherra á borð við Sverri Hermannsson, sem hækkar afnotagjald Ríkisútvarpsins um 67% í einu vetfangi, og Jón Helgason, er semur við landbúnaðinn um, að ríkið ábyrgist 28 milljarða á fjórum árum.

Það er samt verkefni fjármálaráðherra að reyna að halda aftur af samráðherrum sínum, sem eru allra manna örlátastir á annarra fé. Þetta hefur illa tekizt, síðan Þorsteinn varð fjármálaráðherra, og alls ekki nú eftir kosningar, þegar allt rekur á reiðanum.

Hinn mikli halli á ríkisrekstrinum margeflir þensluna í þjóðfélaginu. Hallinn og þenslan hafa þegar leitt til launaskriðs á almennum vinnumarkaði og hárra samninga við ýmsa opinbera starfsmenn. Verðbólgan nú í maí er komin yfir það, sem hún átti að verða í september.

Öðrum hvorum megin við síðustu áramót hætti verðbólgan að stefna niður á við, þegar hún var farin að nálgast siðmenningarlega eins stafs tölu. Nú er hraði hennar kominn upp undir 20% og stefnir hraðbyri upp fyrir 30% í árslok. Þetta stafar af ríkishallanum.

Þessi afturför skiptir öllu máli í umræðum um ríkishallann. Í ljósi hennar er skammsýnt að gæla við kenningar um, að þjóðin skuldi ríkinu meira en ríkið þjóðinni, og gæla við óstaðfærðar tilgátur um, að lántökur ríkisins innanlands valdi ekki verðbólgu.

Við sjáum vaxandi ríkishalla leiða til vaxandi samkeppni, ekki bara um starfskrafta, heldur einnig um lánsfé. Í bönkunum hefur myndazt útlánahalli og gagnvart útlöndum hefur myndazt viðskiptahalli. Þetta mun fljótlega leiða til hækkunar á háum vöxtum.

Fyrstu mánuði ársins þurftum við að þola ríkisstjórn, sem reyndi að kaupa sér atkvæði með gjafmildi á annarra fé. Eftir kosningar þurfum við að þola sömu stjórn, sem þykist nú alls ekki þurfa að stjórna, af því að hún sé bara að passa sjoppuna fyrir næstu stjórn.

Niðurstaðan er að verða sú, að ríkisstjórnin skilji ríkisfjármálin eftir í mun verra ófremdarástandi en var, þegar hún tók við. Hún hafi spillt góðærinu.

Jónas Kristjánsson

DV

Eignarréttur á fylgi

Greinar

Talsmenn flokkanna, sem halloka fóru í alþingiskosningunum, hafa velt fyrir sér reikningsdæmum um, að fylgið hafi ekki glatazt, heldur sé það í eins konar láni hjá nýjum og nýlegum flokkum. Þannig komast þeir hjá að fjalla um sjálft efni málsins, fylgistapið.

Á þennan hátt eignar Sjálfstæðisflokkurinn sér fylgi Borgaraflokksins, Alþýðubandalagið eignar sér fylgi Kvennalistans og Framsóknarflokkurinn eignar sér fylgi Stefáns Valgeirssonar. Útkoman er, að enginn gömlu flokkanna hafi í rauninni tapað neinu.

Kenningin um lán á fylgi er studd fleiri dæmum. Meðal annars er sagt, að Alþýðuflokkurinn hafi í rauninni ekki grætt neitt í alþingiskosningunum, heldur hafi hann fengið skilað til baka Vilmundarfylgi, sem hafi verið í láni hjá Bandalagi jafnaðarmanna.

Dæmið er þó ekki svona einfalt. Við hvarf Vilmundarfylgisins úr Alþýðuflokknum lækkaði þingmannatala flokksins úr fjórtán í sex. Í síðustu kosningum tókst flokknum aðeins að ná til baka hálfum mismuninum eða fjórum þingmönnum af átta, ­ að fara upp í tíu.

Því má búast við, að hinum gömlu flokkunum muni reynast erfitt að ná til baka fylgi, sem þeir segjast hafa lánað nýjum og nýlegum flokkum. Kjósendur eru ekki eins traust fasteign og þeir voru áður fyrr. Skynsamlegra er að líta á fylgi sem lausafé en sem fasteign.

Dæmi Stefáns Valgeirssonar er tiltölulega einfalt. Ef flokkur hans býður ekki fram í næstu alþingiskosningum, veltur á ýmsu, hvert fylgið fer. Líklegast er, að það dreifist víða og leiti einkum til þeirra flokka, sem þá vekja mesta athygli, en ekki til Framsóknarflokksins.

Ekki styður það kenningarnar um lán á fylgi, að spenna og úlfúð léku lausum hala í kosningabaráttu Stefánsmanna og Framsóknarflokksins í Norðurlandskjördæmi eystra. Erfitt er að sjá fyrir, að gróið verði um heilt, þegar næst verður gengið til kosninga.

Talsmenn Alþýðubandalagsins hafa hagað sér greindarlegar gagnvart því fylgi, sem þeir telja sig hafa lánað Kvennalistanum. Þeir leggja sig í líma við að vera almennilegir við konurnar, styðja málefni þeirra og vekja athygli á þeim í Þjóðviljanum. Þeir bíða færis.

Þeir hafa hagað sér gagnvart Kvennalistanum eins og Alþýðuflokkurinn hefur hagað sér gagnvart forustuliði Bandalags jafnaðarmanna. Hugsanlegt er, að þeir nái svipuðum árangri, ef Kvennalistinn hættir, ­ um það bil helmingi fylgisins, en hitt dreifist eftir aðstæðum.

Forustumenn Sjálfstæðisflokksins eru ekki á slíkum buxum. Þeir sýna Borgaraflokknum fullkomna óvild. Yfirlýsingar um, að ekki komi til mála að fara í stjórn með honum, eru eitt dæmið um gamla heygarðshornið. Flokkseigendafélagið fyrirgefur aldrei neitt.

Gaman verður að sjá, hvernig forustumönnum Sjálfstæðisflokksins tekst að endurheimta lánið á fylgi, þegar komið er að næstu kosningum og annar flokkurinn hefur verið innan stjórnar og hinn utan. Refsingarstefna hins reiða guðs mun þá koma að litlu gagni.

Ef Borgaraflokkurinn býður þá ekki fram, er líklegast, að ráðamenn Sjálfstæðisflokksins telji sér áfram skylt að halda stuðningsmönnum Borgaraflokksins frá áhrifum. Fylgi hans muni því dreifast til Alþýðuflokksins og annarra flokka fremur en til Sjálfstæðisflokksins.

Af þessu má ráða, að þeir flokkar, sem töpuðu fylgi, mega hafa sig alla við ­ og vera heppnir að auki, ef þeir ætla að eiga von í að erfa helming þess til baka.

Jónas Kristjánsson

DV

Miðjustjórn eða kantstjórn

Greinar

Einna sérkennilegustu afstöðu í viðræðum um myndun nýrrar ríkisstjórnar hér á landi er að finna hjá ráðamönnum Sjálfstæðisflokksins. Þótt sá flokkur hafi tapað mest allra flokka í kosningunum, eru oddvitar hans önnum kafnir við að leika guðshlutverk í pólitík.

Óraunsæi þeirra kemur annars vegar fram í, að þeir telja sér kleift að reyna að refsa grasrótinni í flokknum fyrir að styðja nýjan flokk til áhrifa. Hins vegar kemur það fram í, að þeir telja sér kleift að reyna að refsa forsætisráðherra fyrir að vera úr hófi vinsæll.

Viðhorf leiðtoga Sjálfstæðisflokksins eru skýrustu dæmin um, að hér á landi skipta úrslit kosninga ekki sköpum um völd í þjóðfélaginu. Hér er kosningasigur ekki talinn vera ávísun á þátttöku í ríkisstjórn, heldur fremur sem smitsjúkdómur, er einangra beri stranglega.

Ef allt væri með felldu hér á landi, væri fyrst og fremst litið á sigurvegara alþingiskosninganna sem nauðsynlega og sjálfsagða aðila að nýrri ríkisstjórn. Þar færi fremstur í flokki Borgaraflokkur Alberts Guðmundssonar, sem stærstan sigurinn vann.

En þvert á móti eru flestir oddvitar og sérfræðingar stjórnmálanna sammála um, að ekki komi til greina, að Borgaraflokkurinn taki þátt í ríkisstjórn. Meira að segja Albert sjálfur hefur látið frá sér fara, að bezt sé, að flokkur hann byrji ferilinn í stjórnarandstöðu.

Næst á eftir Borgaraflokknum var Kvennalistinn sigurvegari kosninganna. Til að sporna gegn staðreyndinni eru oddvitar og sérfræðingar stjórnmálanna sammála um að gera til listans meiri kröfur en til annarra um málatilbúnað, svo að hann detti sem fyrst úr myndinni.

Þriðji sigurvegari kosninganna er Alþýðuflokkurinn, sem náði hálfu Vilmundarfylgi til baka. Ef mark væri tekið á kosningaúrslitum, ætti hann að vera aðili að nýrri ríkisstjórn eins og Borgaraflokkur og Kvennalisti. Þá vantar aðeins fjórða flokkinn í þingmeirihluta.

Ekkert er til fyrirstöðu, að fjórir flokkar myndi stjórn. Það er ekki lakara mynztur en þriggja flokka stjórn og er algengt í öðrum löndum. Kenningar um annað eru bara illa dulbúin tilraun til að segja, að stjórnaraðild Sjálfstæðisflokks sé eins konar náttúrulögmál.

Fjórði flokkurinn í nýrri ríkisstjórn ætti efni málsins vegna að vera Framsóknarflokkurinn, sem tapaði nánast engu í kosningunum og getur þar á ofan lagt fram vinsælasta stjórnmálamann landsins sem forsætisráðherra. Þetta yrði fjögurra flokka miðjustjórn.

Utan stjórnar ættu að sjálfsögðu að vera þeir flokkar, sem hrundu, Sjálfstæðisflokkur og Alþýðubandalag. En það er dæmigert um sambandsleysi kosningaúrslita og stjórnarmyndunar, að nú er talað um þessa tvo sigruðu flokka sem hornsteina nýrrar ríkisstjórnar.

Í kosningunum gekk bezt nýjum og nýlegum flokkum, sem töldu sér til ágætis að vera með mildari stefnu en kantflokkarnir tveir til vinstri og hægri. Niðurstaðan ætti að vera ávísun á ríkisstjórn á miðjunni, án þátttöku Alþýðubandalagsins og Sjálfstæðisflokksins.

Því miður er marklítið að fjalla á þennan hátt um, hver sé eðlileg niðurstaða kosninganna. Ráðamenn flokka, með oddvita Sjálfstæðisflokksins í broddi fylkingar, telja heppilegast, að hinir sigruðu myndi ríkisstjórn, enda eigi þeir í rauninni fylgi sigurvegaranna.

Óraunsæjar hugmyndir um gamalt eignarhald á fylgi annarra og um refsingar fyrir vinsældir valda því, að nú er ekki talað um miðjustjórn heldur kantstjórn.

Jónas Kristjánsson

DV

Auglýsa ósjálfstæði sitt

Greinar

Á götum New York sjást konur ganga með leðurtöskur, sem þær hafa keypt á 1.000 dali í tízkuverzlun. Á leðurtöskunum stendur stórum stöfum: Gucci. Það er nafn eins af mörgum sjónhverfingamönnum, sem taka prósentur fyrir að leigja nafn sitt á tízkuvarning.

Með því að ganga um stéttar New York með stóra auglýsingu fyrir Gucci eru konur þessar að kynna fyrir öðrum, að þær tolli í fyrsta lagi í tízkunni og að þær hafi í öðru lagi ráð á að kaupa 100 dala tösku á 1.000 dali. Og Gucci hlær í hvert skipti, sem taska er seld.

Við sjáum sama mynztrið í smærri stíl hér á landi. Gallabuxur eru áberandi merktar Levi’s og hálsbindi merkt Lanvin, svo að dæmi séu nefnd. Þetta er ekkert einkamál kvenna, því að karlmenn ganga ekki síður í auglýsingum, sem eru merktar sjónhverfingamönnum.

Tízka, sem er svo ljót, að skipt er um hana tvisvar á ári, er ekki heldur lengur neitt einkamál Vesturlanda. Tízkukóngar, sem gamna sér við að láta fólk borga stórfé fyrir að ganga um með auglýsingar sínar á almannafæri, eru ekki heldur neitt einkamál Vesturlanda.

Fyrr í þessum mánuði kom út í Moskvu fyrsta tölublað tízkublaðsins Burda á rússnesku. Þar geta félagar skoðað auglýsingar frá Cartier, Chanel og Calvin Klein, svo að dæmi séu nefnd. Blaðinu var hleypt af stokkunum að viðstaddri Raisu Gorbatsjov Reykjavíkurfara.

Sovétmenn geta því farið að herma eftir Vesturlandabúum í að borga stórfé fyrir að fá að klæða sig eftir tilskipunum tvisvar á ári. Slíkt ósjálfstæði ætti raunar að falla vel í kramið á Volgubökkum, því að þar þykir sporganga heppileg leið til pólitísks frama.

Eftirhermustefna tízkuiðnaðarins hefur einnig haldið innreið sína í Kínaveldi. Þar er hægt að kaupa Cardin-föt til þess að nota í heimsóknum í Maxim’s veitingahús, sem stofnað hefur verið í Peking. Kínverjar þurfa eins og Rússar að auglýsa, að þeir tolli í tízkunni.

Cardin er gott dæmi um þessa atvinnugrein. Sá, sem vill selja vöru, biður Cardin um að lána sér nafnið gegn ákveðnu prósentugjaldi af hveri sölu. Þannig hefur Cardin gert um 840 samninga um notkun á nafni sínu á fatnað, glingur, kaffikönnur, skyndisúpur og sardínur.

Tízkukóngarnir mynda um sig hirð sporgöngufólks, sem lifir og hrærist í vörum og þjónustu, er ber töfranafn viðkomandi tízkukóngs. Ósjálfstæða sporgöngufólkið er hentug hirð, af því að það er reiðubúið að borga tífalt verð fyrir að fá að þjóna kóngi.

Eitt hið broslegasta við þetta er, að fólkið, sem lætur skipa sér að skipta um tízku tvisvar á ári, ímyndar sér, að það sjálft sé eins konar forustufólk, af því að það tollir í tízkunni. Það sér ekki, að það er fyrst og fremst að auglýsa ósjálfstæði sitt, sporgönguna, eftirhermuna.

Íslendingar eru orðnir svo gegnsýrðir þessum þrældómi, að inn um bréfarifur fólks eru farnir að berast kosningabæklingar, sem líkjast fremur tízkubæklingum en áróðursbæklingum. Þar eru sýndar litmyndir af frambjóðendum í pússi, sem fylgir kröfum tízkunnar.

Senn fáum við hinn fullkomna frambjóðanda, sem klæðist skyrtu, merktri Dior; bindi, merktu Saint Laurent; jakka, merktum Boss; berandi stresstösku, sem á stendur Gucci, stórum stöfum, svo að greinilega sjáist úr fjarlægð, að frambjóðandinn sé steyptur í mótið.

Í rauninni þarf mikið ósjálfstæði til að skipta tvisvar á ári um útlit, sem er svo ljótt, að skipta þarf um það tvisvar á ári, þegar endurnýja þarf tízkuvörubirgðirnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Þjófnaður aldarinnar

Greinar

Ríkisstjórnin framdi þjófnað aldarinnar á föstudaginn í síðustu viku. Þá ritaði landbúnaðarráðherra undir samning um, að ríkið ábyrgist sölu á kindakjöti og mjólkurafurðum fyrir 28 milljarða króna á næstu fjórum árum. Neytendur og skattgreiðendur borga tjónið.

Þegar búið er að deila samningsupphæðinni niður á fjölskyldurnar í landinu, kemur í hlut hverrar fjögurra manna fjölskyldu að greiða 480.000 krónur á fjögurra ára samningstíma. Það er árleg 120.000 króna greiðsluskylda á hverja fjögurra manna fjölskyldu.

Engu máli skiptir, hvort hinir rændu vilja nota þessar vörur í því magni, sem ríkisstjórnin hefur samið um, eða borga þær á hinu svokallaða fulla verði. Þeir, sem ekki vilja það, borga tjónið í skattinum. Hinir borga það í skattinum og í verðinu yfir búðarborðið.

Með samningi föstudagsins svarta er reynt að hindra markaðsaðlögun hins hefðbundna landbúnaðar kúa og kinda. Samningurinn frystir árlega framleiðslu sauðfjárafurða í 11.000 tonnum og eykur árlega mjólkurframleiðslu úr 102.000 lítrum í 104.000 lítra.

Sérfræðinganefnd úr landbúnaðinum, svokölluð landnýtingarnefnd, hefur komizt að þeirri niðurstöðu, að framleiðendur í hinum hefðbundna landbúnaði séu tvöfalt fleiri en þörf er fyrir. Þessi óþarfa framleiðsla á að haldast áfram samkvæmt nýja samningnum.

Þess vegna verður áfram haldið að greiða niður búvöru á kostnað skattgreiðenda til að koma henni út. Þess vegna verður áfram haldið að gefa osta, mjólkurduft og kjöt til útlanda, svo að ekki hlaðist upp meiri fjöll afurða þeirra, sem ríkið hefur ábyrgzt.

Í rauninni er offramleiðslan meiri en fram kemur í niðurgreiðslum og útflutningsuppbótum. Ef almenningur hefði aðgang að ódýrari búvöru frá útlöndum, kæmi í ljós, að markaður í landinu fyrir afurðir kúa og kinda er ekki nema brot af því, sem ráðamenn halda.

Ef ríkið telur sig, fyrir hönd neytenda og skattgreiðenda landsins, hafa efni á að kaupa á einu bretti fjögurra ára framleiðslu hefðbundinnar búvöru, væri skynsamlegra að bjóða viðskiptin út á ódýrum alþjóðamarkaði og láta útlendinga undirbjóða hver annan.

Þá kæmi í ljós, að ríkið þarf ekki að sæta afarkostum einokunarsamnings upp á 28 milljarða. Það getur fengið handa þjóðinni sams konar vörur, svipaðar og hliðstæðar, fyrir svo sem fimm milljarða. Þar með mundi ríkið spara almenningi í landinu um 23 milljarða.

Með því að beita ekki útboði á þessu mikilvæga sviði kemur ríkisstjórnin í veg fyrir, að lífskjör fjögurra manna meðalfjölskyldu batni um 100.000 krónur á hverju ári eða um 8.000 krónur á hverjum mánuði í fjögur ár. Á sama tíma er hart barizt um kaup og kjör.

Um leið er ríkisstjórnin að binda hendur þeirrar ríkisstjórnar, sem við tekur eftir kosningar. Hún er búin að leggja á herðar hennar greiðsluklafa út allt kjörtímabilið. Viðtakandi ríkisstjórn getur því lítið lagfært núverandi öngþveiti í fjármálum ríkissjóðs.

Þetta er að sjálfsögðu gersamlega siðlaust. Atkvæði bænda eru keypt í trausti þess, að almenningi sé sama. Svona samning, einokunar- eða útboðssamning, á fráfarandi ríkisstjórn ekki að gera mánuði fyrir kosningar, heldur ný ríkisstjórn mánuði eftir kosningar.

Með þjófnaði aldarinnar hafa Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur lýst yfir, að kjósendur þeirra í þéttbýli og við sjávarsíðuna séu algerir bjöllusauðir.

Jónas Kristjánsson

DV

Glöp Alberts og Þorsteins

Greinar

Þorsteinn Pálsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, vissi fyrir nokkrum vikum af bréfi skattrannsóknastjóra til Alberts Guðmundssonar, iðnaðarráðherra og fyrsta manns á framboðslista flokksins í Reykjavík. Hann vissi af bréfinu fyrir landsfund Sjálfstæðisflokksins.

Á landsfundinum var rétti staðurinn og rétta stundin til að ræða alvarleg mál á borð við stöðu Alberts. Ekkert gerðist í máli hans frá því fyrir landsfund og fram að blaðamannafundi Þorsteins á fimmtudaginn var, þegar formaðurinn sagði, að málið væri alvarlegt.

Gagnrýnivert hlýtur að teljast að taka ekki upp á landsfundinum svo alvarlegt mál fyrir flokkinn, úr því að formaðurinn vissi þá þegar um málið. Ef deilur hefðu risið þar vegna þessa, hefði Þorsteinn að vísu ekki fengið rússneska endurkosningu sem formaður.

En hann átti að telja sig nógu sterkan á fundinum til að taka svokallaðan Albertsvanda flokksins föstum tökum, ­ til að taka slaginn á réttum stað og tíma. Hann kynni að hafa fengið dálítið af mótatkvæðum, en ekki verið sakaður um skort á forustu og hugrekki.

Hins vegar er Þorsteinn ranglega sakaður um að hafa skipulagt og tímasett aðför að Albert. Hann var að vísu búinn að sá til fjölmiðlunar með því að kynna málið í hriplekum þingflokki sjálfstæðismanna. En hann gat ekki séð fyrir, hvernig atburðarásin yrði.

Þorsteinn neyddist einfaldlega til að halda blaðamannafundinn á fimmtudaginn. Það var ekki heldur honum að kenna, að fjölmiðlar litu réttilega á fundinn sem stórfrétt. Og tímasetningin hindrar Albertsmenn ekki í sérframboði í tæka tíð, ef þeir telja þess þörf.

Þorsteinn verður því ekki sakaður um aðför að Albert. Hann verður hins vegar sakaður um skort á dómgreind og hugrekki á landsfundi flokks síns, svo og um að hafa farið aftan að landsfundarmönnum og þjóðinni með því að geyma til seinni tíma að ræða málið.

Albert er ekki síður gagnrýniverður. Löng hefð er fyrir, bæði hér á landi og í nágrannalöndunum, að ráðherrar segi af sér, ef þeir eru grunaðir um misferli, enda þótt saklausir séu. Tveir íslenzkir ráðherrar hafa gert það og annar tók sæti sitt á ný eftir sýknu Hæstaréttar.

Raunar átti Albert að segja af sér fyrr í vetur, þegar í ljós kom, að hann hafði tekið við gjöfum og endurgreiðslum frá Hafskipi. Þá var hann kominn í kreppu, svo að heppilegast var fyrir hann og lýðræðið, að hann sæti ekki að sinni við stjórnvöl í ráðuneyti.

Öðru máli gegnir um fyrsta sæti hans á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Því sæti náði hann eftir að upplýst var um gjafirnar og endurgreiðslurnar. Því ber að líta svo á, að þátttakendur í prófkjörinu hafi viljað Albert, þrátt fyrir skuggann, sem á hann bar.

Þótt Albert eigi að segja af sér sem ráðherra, á hann ekki að segja lausu sætinu á framboðslistanum. Og fulltrúaráðið á ekki að svipta hann því sæti. Hann fékk traust sjálfstæðismanna til þess sætis, þrátt fyrir vandamálin, sem hann var kominn í fyrir prófkjör.

Þannig má segja um þá félaga báða, að sumt hafa þeir gert rétt og annað rangt í efni þessu. Þorsteinn hlaut að fjalla opinberlega um málið. En hann átti að gera það strax á landsfundi Sjálfstæðisflokksins.

Albert átti að segja af sér ráðherraembætti fyrr í vetur og á nú að gera það, sóma síns vegna. En hann á ekki að verða við kröfum um að segja af sér fyrsta sæti á lista flokks síns í Reykjavík.

Jónas Kristjánsson

DV

Of lítið of seint

Greinar

Sumir bændur, sem eru andvígir nýlegum áherzlubreytingum á landbúnaðarstefnu hins opinbera, hafa sakað ráðamenn stefnunnar um að gera sjónarmið DV að sínum. Segja þeir, að kvótakerfi búmarks og fullvinnsluréttar sé upprunnið hjá bændaóvininum sjálfum.

Þetta er hinn mesti misskilningur. Hið eina, sem gerzt hefur, er, að ráðamenn ríkjandi landbúnaðarstefnu hafa viðurkennt fimmtán ára gamalt sjónarmið úr þessu blaði og forverum þess, ­ að draga þurfi saman seglin í hefðbundnum landbúnaði sauðfjár og nautgripa.

Hins vegar eru sjónarmiðin, sem flutt voru í Vísi fyrir fimmtán árum, fyrir nokkru orðin úrelt, því að ástandið hefur stórversnað síðan þá. Ekki er lengur unnt að mæla með opinberum stuðningi við rólega aðlögun hins hefðbundna landbúnaðar að veruleikanum.

Fyrir fimmtán árum var unnt að verja, að framlög hins opinbera til hins hefðbundna landbúnaðar yrðu nokkurn veginn óbreytt um skeið, en þeim yrði breytt úr stuðningi við framleiðslu yfir í stuðning við atvinnuskipti í aðrar búgreinar eða störf í þéttbýli.

Þá var í Vísi lagt til, að niðurgreiðslufé, uppbótafé og annað styrkjafé væri notað til að byggja upp fiskeldi og loðdýrarækt í sveitum, iðngarða í bæjarfélögum og til að kaupa jarðir úr ábúð, svo að bændur gætu keypt sér húsnæði og endurmenntun í þéttbýli.

Ef hlustað hefði verið á þessi sjónarmið fyrir fimmtán árum, væri hinn hefðbundni landbúnaður núna ekki þjóðaróvinur númer eitt, tvö og þrjú. Þá væru aðeins um 1500 bændur í hefðbundnum landbúnaði og hann hefði lagað sig að raunhæfum markaði í landinu.

Raunhæft var og er að stefna að framleiðslu hefðbundinnar búvöru upp í hluta heildarmarkaðarins innanlands, eins og hann væri án niðurgreiðslna og með innflutningsfrelsi, ­ það er að segja með fullu tilliti til hagsmuna skattgreiðenda og neytenda.

Fyrir fimmtán árum var hægt að sætta sig við tímabundið framhald útgjalda til landbúnaðar, af því að aðgerðirnar, sem mælt var með, hefðu leitt að nokkrum árum liðnum til sparnaðar í útgjöldum skattgreiðenda og lækkunar á matarkostnaði heimilanna.

Vandinn hefur hins vegar aukizt á fimmtán árum. Bilið milli markaðshæfni og framleiðslu hefur breikkað svo, að sambandslaust er orðið á milli. Vandinn hefur aukizt svo, að almenningur yrði stórauðugur á einu bretti, ef hann fengi aðgang að erlendri búvöru.

Vandinn hefur belgzt svo út, að hinn hefðbundni landbúnaður er orðinn að þrautskipulögðu ríkiskerfi, þar sem hið opinbera ábyrgist ekki aðeins tekjur bænda, heldur kaupir einnig í raun ákveðið framleiðslumagn, sem er langt umfram þarfir heilbrigðs markaðar.

Vandinn er orðinn svo hrikalegur, að ekki er fyrirsjáanlegt, að byrði ríkisins af þessum niðursetningi sínum geti nokkuð lækkað. Hver króna, sem fer frá útflutningsuppbótum yfir í framleiðnisjóð, er notuð til að halda í horfinu, ­ halda óbreyttri framleiðslu.

Liðið er fimmtán ára tímabilið, þegar þjóðin hefði getað lagað niðursetninginn tiltölulega sársaukalítið að hinum kalda veruleika. Nú er það aðeins hægt með harkalegum aðgerðum, ­ með því að skera á hnútinn og friða heil héruð fyrir bændum og fylgidýrum þeirra.

Undanhald forustuliðs landbúnaðarstefnunnar er of lítið og kemur of seint. Ekki verður komizt hjá uppgjöri þjóðarinnar við óvin sinn númer eitt, tvö og þrjú.

Jónas Kristjánsson

DV

Aðalþarfir og sérþarfir

Greinar

Auðvelt er að kaupa og selja bíla í Bandaríkjunum. Jón og Páll fylla út einn miðann, sem fylgir gögnum hvers bíls. Þeir fara síðan með miðann til næsta lyfsala, er staðfestir undirskriftir þeirra með stimpli sem notarius publicus. Þeir póstleggja síðan miðann til við komandi stofnunar. Ekki er skipt á númerum og enginn kostnaður greiddur, nema einn dollar til lyfsalans.

Í Bandaríkjunum er fólk með sérþarfir eins og annars staðar í heiminum. Munurinn er þó sá, að þar vestra er slíkum sérþörfum fullnægt, ­ fyrir peninga. Fólk getur til dæmis haldið bílnúmerum sínum, en verður þá að sæta dýrari bílaskiptum, svo sem tíðkast hér á landi.

Þar getur fólk fengið fullnægt margvíslegum öðrum sérþörfum um bílnúmer en lágum tölum einum saman. Það getur fengið bókstafanúmer, til dæmis með nafninu sínu. Fólk segir bara, hvað það vill, og borgar fyrir það. Málið er úr sögunni og allir eru ánægðir.

Hér á landi er Alþingi Íslendinga hins vegar sett á annan endann dögum saman í einu versta tímahraki í sögu þess, af því að þingmenn deila um, hvort bílnúmer skuli fylgja bílum eða bíleigendum. Enginn má vera að því að láta sér detta í hug að leysa málið skynsamlega.

Bílnúmeramálið velkist milli þingdeilda, ýmist af því að eigendur lágra bílnúmera eru fjölmennari í neðri deild en í hinni efri, eða af því að einn stuðningsmaður þess, að bílnúmer fylgi bílum, er í stólnum hjá tannlækni, þegar boðað er til atkvæðagreiðslu um málið.

Ef vinnubrögð Alþingis væru ekki með þeim endemum, sem greinilega hafa komið í ljós í æðibunugangi þessarar viku, væri hægt að leysa mál á borð við bílnúmerin með tiltölulega almennu samkomulagi, sem tæki tillit til beggja sjónarmiða, ­ amerískri lausn málsins.

Við erum ekki óvön slíkum lausnum. Skemmst er að minnast, að hatrammar deilur um hundahald í bæjum á Reykjavíkursvæðinu voru víðast hvar leystar með grundvallarreglu um bann við hundahaldi og með því að menn gátu með gjaldi keypt sig undan reglunni.

Við getum ennfremur beitt hliðstæðri skynsemi í öðrum ágreiningsefnum, bara ef menn gefa sér tíma til að setjast niður og hugsa. Þannig hefði mátt leysa bílnúmeramálið án sárinda og eftirmála. Og þannig hefði líka verið hægt að leysa bílbeltamálið vandræðalaust.

Þegar Alþingi ákvað í vikunni, að heimilt yrði að sekta fólk fyrir að nota ekki bílbelti, hefði það getað sett inn ákvæði um sérþarfir. Unnt hefði verið að heimila þeim, sem ekki lærðu upphaflega að nota þau og hafa ekki vanizt þeim, að kaupa sig undan reglunni.

Þannig væri smám saman hægt að koma á almennri notkun bílbelta eftir því sem nýir ökumenn koma til sögunnar og gamlir detta úr skaftinu. En ekki væri troðið á þeim, sem aldrei lærðu að nota beltin og eru fúsir til að borga fyrir sérstaka undanþágu, ­ sérþarfirnar.

Hér á ritstjórninni var zetustríðið leyst fyrir löngu með því að hætta almennt við zetu, en heimila þeim, sem höfðu lært zetu og höfðu á henni sérstakt dálæti, að halda áfram að skrifa zetu. Allir urðu sáttir um þessa lausn. Hefur síðan ekki verið deilt um zetu á blaðinu.

Alþingi á að hætta að afgreiða umdeild mál í belg og biðu á síðustu vinnudögum þings. Það á að fresta þeim til næsta þings og fá greinda menn, Ljósvetningagoða nútímans, til að leggjast undir feld til að finna lausnir eins og þær, sem hér hafa verið nefndar, ­ sem hafa aðalþarfir í fyrirrúmi, en taka tillit til sérþarfa.

Jónas Kristjánsson

DV

Örir á annarra fé

Greinar

Nýjustu verðbólgutölur benda til, að rætast muni spá Þráins Eggertssonar prófessors um 40% verðbólgu í lok þessa árs. Hún var komin niður í 12% undir lok síðasta árs, en er nú komin á skrið á nýjan leik og mældist 23% 1. marz á mælikvarða vísitölu framfærslukostnaðar.

Veigamesta skýringin á þessari skyndilegu öfugþróun er, að ríkisstjórnin hefur misst tök á fjármálum ríkisins. Þorvaldur Gylfason prófessor hefur bent á, að þensluhalli ríkisfjárlaga þessa árs sé röskir fimm milljarðar eða næstum 4% af landsframleiðslunni.

Seðlabankastjórar vöruðu líka við þessu í lok síðasta árs. Þeir sögðu: “Halli ríkissjóðs í ár og á hinu næsta á sér stað þrátt fyrir mikið góðæri og hlýtur því að teljast til marks um grundvallarveilu í ríkisfjármálum”.

Þjóðhagsstofnun, sem jafnan þykir höll undir ríkisstjórnir, hefur einnig þorað að æmta. “Betra jafnvægi í opinberum fjármálum og peningamálum er forsenda …” þess, að hægt sé að nota hin hagstæðu ytri skilyrði þjóðarbúsins til að varðveita árangurinn.

Góðærið hefur fært okkur verðhrun á innfluttri olíu, góðan afla og verðhækkanir á útfluttum sjávarafurðum. Til skamms tíma færði það okkur einnig sæmilegt samkomulag á vinnumarkaði um skiptingu gróðans á þann hátt, að lífskjör almennings bötnuðu verulega.

Þótt góðæri sé gott, getur það haft óþægileg og jafnvel hættuleg hliðaráhrif, ef ríkisstjórnin gætir sín ekki. Góðæri veldur nefnilega þenslu í þjóðfélaginu, sem veldur skorti á vinnuafli, er síðan veldur launaskriði og loks auknum innflutningi á vöru og þjónustu.

Ríkisstjórnin má alls ekki magna þessa þenslu með fimm milljarða þensluhalla á fjárlögum. Ríkið verður að fresta framkvæmdum, þótt þær séu taldar mikilvægar og jafnvel nauðsynlegar. Það verður að neita sér um að fjármagna ýmis gæluverkefni og niðursetninga.

Ríkisstjórnin getur neitað sér um að leggja fé til að halda steinullarverksmiðju á floti eitt ár í viðbót. Hún getur frestað að bora göt í fjöll til að leggja þar vegi. Hún getur unnið skipulega að afnámi fjárhagslegra afskipta hins opinbera af landbúnaði. Þetta eru örfá dæmi.

Á núverandi ríkisstjórn sést eins og öðrum slíkum, að jafnan er torvelt að fara sparlega með annarra fé, í þessu tilviki skattgreiðenda. Sérstaklega vill það reynast erfitt á kosningaárum, þegar freistingar sækja að veiklunduðum og skelkuðum stjórnmálamönnum.

Ofan á venjulegar freistingar kosningabaráttunnar leggst að þessu sinni órói á vinnumarkaði opinberra starfsmanna. Hætt er við, að ríkisstjórnin sem vinnu veitandi leiðist til meiri eftirgjafa en ella til að kaupa sér frið og vinsældir hjá starfsfólki, í stað óvinsælda.

Ríkisstjórnin hefur lyft verðbólgunni úr 12% í 23% með því að efna til fimm milljarða þensluhalla á fjárlögum ríkisins á þessu kosningaári. Ef ekki er að gert í tíma, fer sveiflan í 40% verðbólgu í árslok. Frekari atkvæðakaup munu enn magna skrið verðbólgunnar.

Sorglegt er, að ríkisstjórn, sem fór vel af stað og náði verðbólgunni niður í nágrenni við þær tölur, er tíðkast í nágrannalöndunum, skuli missa stjórnina úr höndum sér á síðustu mánuðum fyrir kosningar, af því að hún hefur ekki kjark til að segja fólki sannleikann.

Flest bendir til, að ríkisstjórnin muni ekki bera gæfu til að fá um sig betri eftirmæli en þau, að fjármálastjórn hennar sjálfrar hafi komið í veg fyrir, að þjóðinni tækist að hagnýta sér góðærið sem skyldi.

Jónas Kristjánsson

DV

Fát og fum á Alþingi

Greinar

Alþingi er sér enn einu sinni til skammar með óðagoti á síðustu dögum þinghaldsins. Flaustrið er raunar óvenju mikið í þetta skipti, af því að reynt er að flýta þinglokum vegna kosninganna, sem verða 25. apríl. Margt málið fær miklu minni skoðun en eðlilegt er.

Sem dæmi um vinnubrögðin má nefna, að nýju umferðarlögin voru afgreidd án breytingar á númerakerfi bíla, af því að ekki náðist að boða einn þingmann á aukalegan atkvæðagreiðslufund, sem haldinn var á óvenjulegum tíma. Þetta eina atkvæði réð úrslitum.

Fólk getur verið ósammála um, hvort réttara sé að taka upp nýtt bílnúmerakerfi, sem er einfaldara og ódýrara í meðförum en núgildandi kerfi eða að taka tillit til hagsmuna þeirra, sem hafa komið sér upp númerum, er þeir hafa dálæti á og vilja helzt ekki missa.

Hitt ætti fólk að geta verið sammála um, að niðurstaða eigi ekki að ráðast af því, hvort einn þingmaður finnst ekki, þegar í skyndingu og pati er verið að boða til aukalegs fundar, utan venjulegs fundartíma, til þess að greiða atkvæði um ekki ómerkara atriði en landslög.

Annað dæmi um skeytingarleysið voru umræður síðasta mánaðar um, hvenær skyldi kjósa. Framsóknarþingmenn höfðu bent á 9. maí, sem heppilegan dag. Þingflokksformanni sjálfstæðismanna og ýmsum öðrum þingmönnum lá mjög á og þótti þetta alltof seint.

Þeir sögðu opinberlega, að réttast væri að hafa Alþingiskosningar mánuði fyrr, 4. eða 11. apríl. Samkomulag varð um að fara bil beggja og velja ómögulegan dag, 25. apríl, beint ofan í sumardaginn fyrsta, páska og dymbilviku. Þingmenn virtust ekki eiga dagatal.

Síðan kom í ljós, að niðurstaðan var beinlínis tæknilega röng, því að stytta þurfti flesta lögbundna fresti vegna of skamms tíma til stefnu. Gott var þó, að tillagan um 4. eða 11. apríl náði ekki fram að ganga, því að þá hefði Alþingi orðið að algeru viðundri.

Mikið af óðagoti síðustu daga hefur farið í að knýja fram lög, sem ýmist eru umdeild eða of seint fram komin. Þar á meðal eru stórir lagabálkar, sem þingmenn ættu að fá að sofa á í heilt sumar, áður en ákvörðun er tekin í betra tómi og við nánari skoðun næsta vetur.

Áðurnefnd umferðarlög eru dæmi um mál, sem er allt í senn, viðamikið, umdeilt og seint fram komið. Samt hefur miklum tíma verið varið í að keyra það í gegn. Alþingi hefði síður glatað virðingu, ef umferðarlögunum hefði verið ýtt til næsta þings á komandi vetri.

Einnig er vafasamt að brýnt hafi verið að samþykkja í fáti umboðsmann Alþingis, lögbundinn sjómannadag og afnám prestskosninga, svo að örfá dæmi séu tekin. Tímanum hefði verið betur varið til að kryfja til beins hið brýna lagafrumvarp um staðgreiðslu skatta.

Breytingin í staðgreiðslukerfi skatta er svo afdrifarík, að hún ætti að fá rækilega skoðun á Alþingi. Þar sem ekki vinnst tími til þess, er í staðinn skipuð milliþinganefnd, sem á í sumar að leiðrétta lögin og leggja breytingartillögur fyrir næsta þing í haust.

Þetta eru að sjálfsögðu engin vinnubrögð. Enda hafa þingmenn ekki hugmynd um, hvort þeir eru að setja lög, sem minnka skattbyrði fólks eða auka hana. Báðum kenningum hefur verið haldið fram um staðgreiðsluna, svo að ljóst er, að hún þarf rækilegri skoðun.

Ekki er unnt að ætlast til, að þjóðin beri virðingu fyrir Alþingi, sem gerir sig bert að fáti og fumi í vinnubrögðum á borð við þau, sem hér hefur verið lýst.

Jónas Kristjánsson

DV

Hengið heldur smiðinn

Greinar

Hin harða gagnrýni, sem lyfsalar, bæði í heildsölu og smásölu, hafa sætt að undanförnu, hefur beinzt að röngum aðila, því að sökin virðist í flestum tilvikum eiga heima í heilbrigðisráðuneytinu og undirstofnunum þess, sem eiga að hafa stjórn á lyfsölu í landinu.

Hið sama má segja um þann hluta gagnrýninnar, sem snúið hefur að læknum. Efnisatriðin benda til, að þar liggi sökin fremur hjá landlæknisembættinu, sem á að hafa og getur haft eftirlit með störfum lækna, þar með töldum ávísunum þeirra á lyf af ýmsu tagi.

Ekki hefur enn verið hrakin fullyrðing um, að átta læknar í Reykjavík gefi út helming allra lyfjaávísana í borginni, að einn læknir af tuttugu gefi út helming allra lyfjaávísana á Reykjanesi og að einn læknir gefi út helming allra lyfjaávísana í Árnessýslu.

Landlæknir hefur slíkar upplýsingar í höndunum og getur gripið til aðgerða. Það var einmitt gert fyrir áratug, árin 1976-1980. Á þeim tíma tókst að minnka um helming útgáfu ávísana á róandi lyf og svefnlyf, þar með talin lyf af valíumætt. Þetta var mikil hreinsun.

Síðan hefur því miður verið slakað á klónni. Ávísunum á þessi lyf hefur aftur fjölgað um fjórðung. Virðist því hæfilegt, að á ný verði gerð atlaga að þessari útgáfu, auk þess sem kannaðar verði ásakanir um, að útgáfukóngar sitji í leiguhúsnæði hjá lyfsölum.

Þótt lyf séu bráðnauðsynleg í mörgum tilvikum, kunna þau að vera óþörf og jafnvel skaðleg í öðrum tilvikum. Það gildir raunar um fleiri lyf en þau, sem notuð eru til að komast í vímu. Til dæmis virðist óhæfilegt frjálslyndi ríkja í útgáfu fúkalyfja handa börnum.

Viðurkennt hefur verið, að lyfjaframleiðendur eða dreifingaraðilar lyfja kosti ýmsan funda- og ferðakostnað lækna eða taki þátt í honum. Landlæknir þarf að snúast gegn þessum vanda og fá aðstöðu til að flytja meira af lyfjafræðslu úr höndum hagsmunaaðilanna.

Lyfjakostnaður er allt of hár hér á landi og fer óhugnanlega vaxandi. Á einum áratug hefur lyfjakostnaður utan sjúkrahúsa rúmlega tvöfaldazt í raunverði á hvern íbúa. Þetta er orðið að meiriháttar rekstrarlið í þjóðfélaginu, 2.500 krónur árlega á hvern íbúa landsins.

Það eru ekki lyfsalar, sem stjórna þessu, heldur ráðuneytið og stofnanir þess, er miðstýra öllum lyfjamálum landsins. Ráðuneytið getur hæglega lækkað smásöluálagningu um helming, úr 68% í 33%, svo að hún komist í það, sem hæfilegt er talið í Noregi og Svíþjóð.

Forsendur hárrar álagningar eru fallnar úr gildi. Lyfsalar blanda ekki lengur lyfin sjálfir, þurfa ekki að halda uppi miklum lyfjabirgðum og geta þar að auki skilað lyfjum, sem ekki seljast. Ráðuneytið á því að láta setja reglur um 33% álagningu í smásölu.

Ráðuneytið hefur ennfremur í hendi sér að fá breytt reglum um álagningu, til dæmis á þann hátt, að hún sé föst krónutala, en leggist ekki með auknum þunga á dýru lyfin. Einnig getur það hagað endurgreiðslum sínum þannig, að hvatt sé til notkunar ódýrra lyfja.

Loks hefur verið bent á, að ráðuneytið getur reynt að hagnýta sér kostina, sem markaðurinn hefur sýnt á ýmsum öðrum sviðum í ríkiskerfinu, svo sem í vegagerð. Ríkið greiðir meginhluta lyfjakostnaðar og getur hæglega efnt til útboða til að ná niður verðinu.

Ráðuneytið getur þetta allt, ýmist sjálft eða með breyttri skipan lyfjaverðlagsnefndar og annarra undirdeilda sinna. Ráðuneytið er smiðurinn, sem á að hengja.

Jónas Kristjánsson

DV