Author Archive

Steingrím á þríhjólið

Greinar

Almenningsálitið hér á landi er eindregið fylgjandi, að mynduð verði ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Alþýðuflokks og að Steingrímur Hermannsson verði forsætisráðherra. Þetta kom fram í skoðanakönnun DV, sem birtist í blaðinu í gær.

Hvorugt kemur á óvart og sízt gengi Steingríms. Undanfarna mánuði hefur hann jafnan borið höfuð og herðar yfir aðra stjórnmálamenn í könnunum af þessu tagi. Ljóst er því, að ríkisstjórninni, sem nú er verið að mynda, kæmi bezt, að Steingrímur yrði í forsæti.

Segja má, að Steingrímur haldi persónulega uppi Framsóknarflokknum. Án hans væri flokkurinn nánast rúinn öllu fylgi á suðvesturhorninu, þar sem tveir þriðju hlutar þjóðarinnar búa. Búast má við, að flokkurinn andist á eðlilegan hátt, þegar Steingrímur hættir.

Þorsteini Pálssyni og Jóni Baldvin Hannibalssyni hefur ekki tekizt að vinna sér þjóðarleiðtogatraust. Tölur könnunar DV sýna, svo ekki verður um villzt, að þeim ber að láta Steingrími eftir forsætið. Þannig verður hin annars veika ríkisstjórn sterkari en ella.

Hér er hin fyrirhugaða ríkisstjórn kölluð veik, þótt að henni standi þrír stærstu þingflokkarnir, sem hafa óvenju ríflegan meirihluta þjóðarinnar að baki sér. Hún er veik af mörgum ástæðum, til dæmis vegna þess að hún verður tekin með keisaraskurði í fæðingu.

Þjóðin hefur í fjórar vikur horft á stjórnarsamninga, sem boða hættur í fyrirhuguðu samstarfi. Flokksleiðtogarnir væna hver annan um lygar og fals og keppast um að gefa yfirlýsingar, sem lyfta þeim sjálfum á kostnað hinna tveggja. Allt innra traust skortir.

Ríkisstjórnin er einnig veik, af því að hún er beint framhald fyrri ríkisstjórnar. Alþýðuflokkurinn gerist þriðja hjólið undir stjórnarvagninum og býður fram sem ráðherra helzta efnahagsfræðing fyrri ríkisstjórnar. Engin málefni fylgja þátttöku Alþýðuflokksins.

Þríhjólið hefur beinlínis samið um óbreytt ástand á ýmsum sviðum, til dæmis í landbúnaði. Því er ljóst, að næstu árin verður kastað á glæ þeim peningum, sem stjórnin þyrfti að geta notað til að stuðla að framförum í landinu. Hún verður rígbundin á landbúnaðarklafa.

Samt er þetta ríkisstjórnin, sem kjósendur vilja fá, samkvæmt könnun DV. Ef til vill stafar stuðningurinn af, að kjósendur telji þriggja flokka stjórn vera illskárri en fjögurra flokka stjórn og að þessi þriggja flokka kostur hefur lengi verið einn til umræðu.

Þrátt fyrir annmarkana kemur niðurstaða könnunarinnar ekki á óvart. Það stafar af, að gamla ríkisstjórnin hafði ekki bakað sér neina óvild kjósenda og að þetta mynztur gengur að mati kjósenda einna næst hinu fyrra samstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Hin nýja ríkisstjórn sækir bæði styrk og veikleika til gömlu stjórnarinnar. Styrkurinn felst í, að þjóðin er í stórum dráttum sátt við gömlu stjórnina. Og veikleikinn felst í, að gamla stjórnin var búin að ljúka því góða, sem hún gat sameinazt um, og átti vandamálin ein eftir.

Hin óviðkunnanlega togstreita flokkanna þriggja og ráðherraefna þeirra um stóla virðist ekki hafa spillt almenningsáliti væntanlegrar stjórnar. Líklega skilja kjósendur, að í raun hafa ráðherrastólar meira stjórnmálagildi en orðskrúð og óskhyggja málefnasamninga.

Líklega verður nú myndað stjórnarþríhjólið, sem almenningur hefur óskað eftir í könnun DV. Hitt er vafasamara, að valinn verði réttur stýrimaður hjólsins.

Jónas Kristjánsson

DV

Illorðir í Alþýðubandalagi

Greinar

Ekkert fólk í landinu talar verr um eigin flokkssystkin en alþýðubandalagsfólk. Þar talar fólk hvað um annað af fullkomnu hatri. Ekkert þessu líkt þekkist annars staðar í stjórnmálunum. Til dæmis talar annarra flokka fólk ekki svona um alþýðubandalagsfólk.

Dæmi eru um, að framámenn í Alþýðubandalaginu tali þannig hver til annars á almannafæri, þar sem annarra flokka fólk má vel heyra, að það fer hreinlega hjá sér. Fyrirlitningin og hálfkveðnu vísurnar ganga á víxl eins og hnúturnar hjá Goðmundi á Glæsivöllum.

Miðstjórnarfundur Alþýðubandalagsins um helgina sýndi, að ástandið fer versnandi og stefnir að formlegu uppgjöri á landsfundi flokksins í haust. Ágreiningurinn er sumpart málefnalegur, en væri ekki svona hatrammur, ef hann væri ekki fyrst og fremst persónulegur.

Línurnar liggja í stórum dráttum þannig, að ótryggt bandalag flokkseigenda og verkalýðsrekenda stendur andspænis menntasveit opinberra starfsmanna. Þessi klofningur endurspeglar málefnalegan ágreining um, hvaða hagsmuna Alþýðubandalagið eigi helzt að gæta.

Verkalýðsrekendur gæta einkum hagsmuna vel stæðs miðstéttarfólks í bláflibbastörfum, til dæmis uppmælingaraðals. Oddamaður þeirra er Ásmundur Stefánsson, sem hefur bakað sér innanflokksóvild með því að stjórna landinu í samstarfi við Vinnuveitendasambandið.

Menntasveitin gætir aftur á móti hagsmuna meðal- og langskólagengins fólks í opinberum stöðum. Oddamaðurinn er Ólafur Ragnar Grímsson, sem hefur bakað sér innanflokksóvild með því að vera klárari og ósvífnari en aðrir valdastreitumenn Alþýðubandalagsins.

Milli þeirra stendur formaðurinn, Svavar Gestsson, oddamaður flokkseigendafélagsins, sem undanfarið hefur stjórnað með bandalagi við verkalýðsrekendur flokksins. Svavar hefur bakað sér innanflokksóvild sem persónugervingur hins óheilbrigða ástands í flokknum.

Í sjónvarpi sýnir Svavar mynd hrokafulls manns með höfuðverk. Hann er þar brúnaþungur, reiðilegur og frámunalega yfirlætislegur. Áhorfendur tengja þetta við flokkinn og telja hann margir hverja vera svartagallsflokk pirraðra merkikerta, sem hafi allt á hornum sér.

Myndin styðst við þá staðreynd, að stefna Alþýðu bandalagsins og alþýðubandalagsfólks er að mörgu leyti öfundsýkt og á annan hátt neikvæð, til dæmis í garð verzlunar og viðskipta, bifreiða- og íbúðaeignar, sjónvarps og myndbanda ­ og lífsstíls nútímans yfirleitt.

Raunar er ekki sanngjarnt að gera Svavar að persónugervingi þessa, því að hann hefur sem sjóaður flokkseigandi betri sýn yfir þjóðfélagið en margt af stofublómaliði Ólafs, er ber skýrari merki öfundar og óbeitar út af peningadýrkun og lífsstíl nútímans.

Á hinn bóginn er Ólafur svo fyrirferðarmikill, að á hann duga aðeins tvö ráð. Annað er að reka hann út eins og Framsóknarflokkurinn gerði. Hitt er að fela honum völdin. Hvar sem Ólafur er, verður ekki rúm fyrir fleiri á tindinum. Hann er flokkur út af fyrir sig.

Meðan Ólafur er ekki orðinn oddviti Alþýðubanda lagsins, mun hann grafa undan þeim, sem fyrir sitja á fleti, og þannig rækta upplausnina og úlfúðina í flokknum. Nái hann svo völdum, kann hann aftur á móti sennilega ráð til að breyta dapurri ímynd flokksins.

Meðan streitt og herpt Alþýðubandalag étur sig upp í innra hatri, fá önnur stjórnmálaöfl að valsa á grundum, sem það taldi einu sinni heimavöll, í alþýðutúninu.

Jónas Kristjánsson

DV

Braggablús í Tjörninni

Greinar

Braggarnir tveir, sem borgarstjórnin ætlar að reisa í Tjörninni og kallar ráðhús, eru tiltölulega látlausir og skemmtilegir. Beztir eru þeir þó fyrir að bera engan veginn utan á sér, að þeir séu veizlu- og monthús. Þeir eru ekki þrúgaðir af þykjustuleik hefðarinnar.

Merkilegt er, hversu illa fjölmiðlar hafa sinnt úrslitum verðlaunasamkeppninnar um ráðhús í Tjörninni. Yfirleitt hafa þeir aðeins sýnt almenningi, hvernig braggarnir tveir munu líta út í augum flugmanna, sem eru búnir að hefja sig á loft eftir 02 flugbrautinni.

Aðeins hér í DV hafa verið birtar myndir, sem sýna, hvernig ráðhúsið blasir við vegfarendum um Tjarnargötu, Vonarstræti og Fríkirkjuveg. Þær sýna, að fleira er við ráðhúsið en braggaþakið eitt. Þær sýna tiltölulega hógvært og létt hús, sem fellur að umhverfinu.

Ekki er allt gott við þetta ráðhús. Í fyrsta lagi er það síður en svo fallegra en húsið, sem stendur fyrir á lóðinni. Er því enn einu sinni ástæða til að ítreka spurninguna um, hvenær borgarstjórn hyggist láta af niðurrifi gamalla og fagurra húsa til að rýma fyrir öðrum lakari.

Áður hefur hér í blaðinu verið bent á, að umhverfisstefna borgarstjórnar er mjög neikvæð gagnvart gamla miðbænum í Kvosinni. Þar er ráðgert að láta sögulega fræg hús víkja fyrir hollenzkum síkishúsum, sem raðað er upp, svo að þau myndi mannfjandsamlegar stormgjár.

Í öðru lagi verða hinir fyrirhuguðu ráðhúsbraggar byggðir langt út í Tjörnina, því að núverandi lóð er ekki nógu stór. Þar með skerðist Tjörnin. Það er skaðleg iðja, ekki sízt, ef hún er skoðuð í samhengi við áform um að breikka Fríkirkjuveginn út í Tjörnina.

Ætlunin er að bæta skerðingu Tjarnarinnar með smátjörn að ráðhúsbaki við hornið á Tjarnargötu og Vonarstræti. Það er út af fyrir sig fallega hugsuð tjörn, eins konar lón úr Tjörninni með ós milli bragganna, en bætir þó ekki upp skerðingu stóru Tjarnarinnar.

Í þriðja lagi virðast braggarnir fyrirhuguðu ekki vera svo einstakir, frábærir eða merkilegir, að þeir megni að eyða efasemdum um, að rétt eða þarft sé að hola ráðhúsi niður í Tjörnina. Margoft hefur verið bent á betra svigrúm til ráðhúss annars staðar í borginni.

Miklu ódýrara væri til dæmis fyrir borgina að kaupa Landsbókasafnið, þegar það flyzt í Þjóðarbókhlöðuna. Það er fallegra hús og hentar vel til veizluhalda. Og svo má ekki gleyma, að borgin á fyrir eins konar veizluráðhús í Höfða og að Kjarvalsstöðum. Þarf hið þriðja?

Í fjórða lagi stríðir ráðhúsið gegn því, sem ætti að vera grundvallarlögmál borgarskipulags, að nýja miðbæi skuli ekki byggja ofan í gamla. Um allan heim er algilt, að heppilegast og fegurst hefur reynzt að leyfa gömlu miðbæjunum að halda sér, þótt fátæklegir séu.

Öll stefna borgarstjórnar um fjögurra hæða síkishús í miðbænum er gegnsýrð af minnimáttarkennd hinna nýríku menningarleysingja, sem ímynda sér, að gamlir timburskúrar, eins og þeir í Bakarabrekkunni, séu eins konar fátæktarmerki, er stingi í stúf við nútímann.

Þrátt fyrir þessa fjórþættu gagnrýni felst í fyrirhuguðu ráðhúsbröggunum tveim í Tjörninni mun skárri misþyrming á Kvosinni en í hinum hræðilega alþingiskassa, er nú á að fullhanna fyrir nokkrar milljónir króna, sem sljóir þingmenn veittu í vetur sem leið.

Bezt væri að losna við byggingu ráðhússins. En þolanlegt væri að skipta á því og alþingiskassanum fyrirhugaða. Margt mætti þola til að fá hann úr sögunni.

Jónas Kristjánsson

DV

Hastarleg ráðherraveiki

Greinar

Af mörgu undarlegu í langdreginni tilraun Jóns Baldvins Hannibalssonar og Jóns Sigurðssonar til að verða ráðherrar er einna sérkennilegast, að aldrei er minnst á sparnað í ríkisrekstri. Niðurskurður ríkisútgjalda er algert bannorð í stjórnarmyndunarviðræðum þeirra.

Þótt margar undirnefndir hafi framleitt handa Jónunum og viðmælendum þeirra mikið af pappír um fjármál ríkisins, er þar hvergi vikið að sparnaði. Hin mikla reiknivinna undirnefndanna fjallar eingöngu um aukna skattheimtu, aðallega vegna kúa og kinda.

Einnig er eftirminnilegt, að ráðherraveikin er svo hastarleg, að Alþýðuflokkurinn hefur kastað fyrir róða öllum sínum skoðunum, þar á meðal á landbúnaði. Tilraun Jónanna fjallar að verulegu leyti um verndun og aukningu fjárveitinga til kúa og kinda.

Athyglisvert er, að Jónarnir eru búnir að verja 23 dögum, meira en þremur vikum, í tilraunir sínar til að verða þriðja hjólið undir kerru núverandi ríkisstjórnar. Þorsteinn Pálsson var skammaður fyrir seinagang, en hann notaði þó ekki nema 16 daga, rúmar tvær vikur.

Eftirtekt hlýtur líka að vekja, að stjórnarmyndendur telja reiknivinnu langt fram í tímann vera höfuðmálið. Það er eins og þeir þykist geta reiknað þorsk á miðin, verðgildi í dollarann og hagþróun í viðskiptalönd okkar. Þeir virðast trúa blint á vafasamar spátölur.

Þegar málsaðilar voru búnir að mála sig út í horn, fann Þorsteinn Pálsson upp á munnlegu snjallræði til að draga viðræðurnar á langinn. Hann lagði til, að stjórnkerfið yrði stokkað upp í stjórnarmynduninni með því að sameina ráðuneyti og sundra þeim á ýmsa vegu.

Þessi skondna hugmynd kallar á sérstök bráðabirgðalög. Merkara er þó, að málsaðilar skuli telja rétt að blanda í stjórnarmyndunarviðræður tæknilegum stjórnkerfisbreytingum, sem annað fólk telur, að eigi að taka langan tíma og hafa auk þess kosningar á milli.

Þegar búið var að sóa viku í að ræða flutning ráðuneyta fram og aftur, fann svo hinn sami formaður Sjálfstæðisflokksins upp á þveröfugri skoðun í sama máli, það er að segja, að stokkunin skipti litlu máli. Þetta var síðbúin hugljómun, en óneitanlega réttmæt.

Þá hefur komið fram í viðræðunum, að fulltrúum Alþýðuflokks finnst erfitt að hnika Sjálfstæðisflokki í neinu, sem máli skiptir. Hinn síðarnefndi hefur að leiðarljósi, að flest sé í stakasta lagi í fjármálum ríkisins, eftir góða fjármálastjórn Alberts og Þorsteins.

Í raun eru það þó fulltrúar Framsóknarflokksins, sem hafa sýnt og sýna enn viðræðunum minnstan áhuga. Steingrímur Hermannsson gaf sér tíma til að skreppa til Portúgal. Nokkru síðar fór hann í lax og kom ekki í bæinn fyrr en kominn var tími til að heilsa kónginum.

Steingrímur fór í laxinn um leið og Halldór Ásgrímsson fór til Bournemouth til að spilla meira en orðið er fyrir áliti Íslands í útlöndum. Að sjálfsögðu er mikilvægt fyrir Halldór að sýna fram á, að hann geti ekkert lært og kunni alls ekki að hætta vonlausu máli.

Hitt er merkilegra, að Steingrímur skuli nota þessa bráðnauðsynlegu fjarveru hins mikla hugsjónamanns hvalveiða til að fara sjálfur til laxveiða og skilja Guðmund Bjarnason eftir í reiðileysi í viðræðum við hina óvenjulega ráðherrasjúku fulltrúa Alþýðuflokksins.

Meðan viðmælendur hlaupa þannig út og suður, hefur Jón Hannibalsson í rúmar þrjár vikur verið stórorður um, að allt væri að renna saman. En úti er ævintýri.

Jónas Kristjánsson

DV

Ríkir gegn fátækum

Greinar

Mörgum þætti einkennilegt, ef spurt væri, hvað sé líkt með Thatcher sigurvegara á Bretlandi og Alþýðusambandi Íslands. Fleirum þætti einkennilegt, ef svarað væri, að hvorir tveggja stæðu með hinum ríku gegn hinum fátæku. Svarið er samt tiltölulega rökrétt.

Hagfræðingur Alþýðusambandsins kaus sér nýlega að standa frammi fyrir umræðu um lögfestingu lágmarkslauna. Hann hefði getað sagt, að kjarajöfnun væri æskileg, ekki framkvæmanleg með þessum hætti, en hins vegar á annan hátt, sem hann síðan rekti.

Þetta gerði hann ekki, heldur lét sér nægja að segja, að lögfesting lágmarkslauna næði ekki tilgangi sínum. Auk þess bætti hann við, að kjarajöfnun í landinu væri komin á svipað stig og var í Mesópótamíu fyrir nokkur þúsund árum, líklega hjá Hammúrabí í Babýlon.

Hagfræðingurinn notaði enga hugmyndafræði til að rökstyðja, hvers vegna eðlilegt væri, að lífskjaramunur Íslendinga frysi í ástandi sem ríkti fyrir Krist í Mesópótamíu. Hann þurfti það ekki, af því að samtök hans standa með hinum vel settu í launakerfinu.

Margoft hefur komið fram, að í raun ráða uppmælingaraðall og ýmsir forréttindahópar ferðinni í Alþýðusambandinu og flestum sérsamböndum þess. Þegar upp er staðið eftir kjarasamninga, hafa þessir aðilar yfirleitt hirt rjómann og smjörið af niðurstöðunni.

Málsvarar launþega komast upp með þetta á sama hátt og frú Thatcher kemst upp með sína stefnu á Bretlandi. Vestrænt þjóðfélag hefur nefnilega breytzt svo, að hinir tiltölulega vel settu eru orðnir fleiri en einstæðar mæður og aðrir þeir, sem skipa undirstéttina.

Um allan hinn vestræna heim hefur myndast tiltölulega vel stæð miðstétt sem er fjölmennust allra stétta. Hún er orðin kjölfestan í þjóðfélaginu. Hún á sínar eigin íbúðir og er farin að kaupa hlutabréf og verðbréf. Hún er farinn að finna til sinna eigin hagsmuna.

Miðstéttarfólk Vesturlanda kemst smám saman á þá skoðun að þjóðfélagið sé um of reyrt í viðjar velferðar. Það hallast sífellt meira að markaðshyggju. Það styður stjórnmálamenn sem leggja áherzlu á stækkun þjóðarauðsins, en sinna síður jafnri dreifingu hans.

Slíkt fólk hefur borið Reagan til valda í Bandaríkjunum og Thatcher í Bretlandi. Það lætur sér vel líka, að Thatcher smjaðri ekki fyrir fátæklingum og segi letingjum til syndanna. Það lætur sér fátt um finnast, þegar hana er sögð skorta hlýju í garð hinna lakast settu.

Í kringum þetta hefur verið smíðuð hugmyndafræði, sem segir, að stjórnaraðgerðir í þágu hinna vel settu, svonefnd örvandi hagstjórn, efli þjóðarhag og myndi auð sem síðan sáldrist frá hinum ríku niður til hinna fátæku, í mynd aukinnar og betur borgaðrar atvinnu.

Raunar er þetta einkar rökrétt hugmyndafræði. Stækkun þjóðarköku er yfirleitt til góðs fyrir alla um síðir, þótt hún komi fyrst að gagni þeim, sem aðstöðu hafa til að nota sér hvetjandi stjórnaraðgerðir á borð við háskattalækkanir og aðra þrengingu skattstiga.

Thatcher og Reagan telja sér brýnt að beita hugmyndafræði til varnar stuðningi við hina ríku. Uppmælingaraðall Alþýðusambandsins hefur hins vegar ekkert fyrir slíku, heldur vísar bara til Mesópótamíu.

Íslenzkir stjórnmálamenn munu líka höfða meira til eiginhagsmuna, þegar þeir fara að átta sig á, eins og Thatcher, að hinir vel stæðu eru orðnir fjölmennasta stéttin. Fá atkvæði eru hins vegar í einstæðum mæðrum.

Jónas Kristjánsson

DV

Við erum enn að læra

Greinar

Fiskmarkaðurinn, sem hófst í Hafnarfirði í þessari viku, er mikilvægt spor í atvinnusögu Íslendinga. Hann er þáttur í hruni skipulagsstefnunnar, sem átti fyrra blómaskeið sitt á einokunartíma einveldiskonunga og hið síðara á verðlagsráðatíma framsóknarmanna.

Loksins er farið að verðleggja fisk hér á landi á sama hátt og tíðkazt hefur frá örófi alda annars staðar í heiminum. Við erum að eignast okkar Billingsgate, Fulton og Rungis. Markaðshyggjan hefur haldið innreið sína í langsamlega mikilvægustu atvinnugrein okkar.

Fyrsta uppboðið er strax farið að hafa áhrif. Kaupendur kvarta um, að seljendur kunni ekki að ísa fisk í kassa. Vafalaust mun misjafnt markaðsverð fljótlega leiða til, að sjómenn og skipstjórar læri að ganga þannig frá vörunni, að hún gefi hæst verð á markaði.

Eftir upphafið getum við farið að furða okkur á, hvernig okkur tókst að halda áratugum saman slíku dauðahaldi í skipulagsstefnuna, að við erum nú fyrst að veita okkur munað markaðsins. Við munum fljótlega hætta að skilja, hvernig gamla kerfið var kleift.

En á þessu andartaki þróunarinnar getum við um leið skilið, hvers vegna öll stjórnmálaöfl þjóðarinnar eru enn sammála um að halda áfram skipulögðu og dauðvona kerfi ríkisrekstrar í landbúnaði. Menn eru einfaldlega svona rígbundnir í hefðbundnum formum.

Allt til hins síðasta olli tilhugsunin um fiskmarkað mikilli skelfingu framsóknarflokksmanna allra flokka. Afturhaldsmönnum tókst að koma í veg fyrir, að fiskmarkaðir hæfust í vertíðarbyrjun eftir áramótin. Þeir gerðu það með því að halda áfram opinberu fiskverði.

Alþingismenn sæta oft strangri gagnrýni. En þeim til mikils hróss má þó segja, að þeir settu á ofanverðum vetrinum lög, sem heimiluðu stofnun fiskmarkaða í landinu. Þar með var grundvellinum skyndilega kippt undan hinu gamla verðlagningarkerfi hins opinbera.

Afturhaldið virðist ekki hafa áttað sig á, hvað var að gerast. Meðan menn kepptust við að innrétta fiskmarkaði í Hafnarfirði og Reykjavík, voru málsvarar hinna gömlu tíma að dunda sér í varnarstríði gegn frjálsu fiskverði og í heilagri krossferð gegn gámafiski.

Samband íslenzkra samvinnufélaga og helmingurinn af Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna höfðu forustu um að verjast frjálsu fiskverði. Þegar fyrsti söludagur nýja markaðsins í Hafnarfirði var kominn í einnar viku nálægð, gafst þessi armur afturhaldsins skyndilega upp.

Lífseigari og alvarlegri er krossferðin gegn gámafiskinum. Forstjórar Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna og Sölusambands íslenzkra fiskframleiðenda hafa skipulega reynt að blekkja þjóðina á því sviði, með öflugum stuðningi grófra fréttafalsana í Ríkissjónvarpinu.

Afturhaldið er enn að reyna að fá þjóðina til að trúa, að freðfiskur sé verðmætari en ferskur fiskur og að Evrópubandalagið tolli freðfisk meira en ferskan fisk í atvinnubótaskyni fyrir sinn eigin fiskiðnað. Allt er þetta hin aumasta lygi, sem hefur því miður síazt inn.

Fiskmarkaðurinn í Hafnarfirði og förunautar hans í Reykjavík og vonandi víðar um land munu slá vopnin úr höndum afturhaldsins. Íslenzkur fiskur mun hér eftir strax á hafnarbakkanum finna sitt markaðsverð, hvort sem hann síðan lendir í gámi, frystingu eða söltun.

Með fiskmörkuðum hafa Íslendingar stigið síðbúið risaskref inn í efnahagslega framtíð, sem öðrum þjóðum hefur verið kunn fortíð öldum og árþúsundum saman.

Jónas Kristjánsson

DV

Ofbeitarfé á öskuhauga

Greinar

Fimmtán þúsund dilkum var ekið í kyrrþey á öskuhauga Reykjavíkur í Gufunesi í síðustu viku. Þar var jarðýta látin moka yfir 250 tonn af kindakjöti frá 1985. Okkar menn voru á varðbergi eins og oft áður, svo að lesendur DV fengu að vita af myrkraverkinu.

Mistökin, sem ollu þessari offramleiðslu, voru ekki grafin með dilkunum fimmtán þúsund. Þau er verið að endurtaka í ár og verða endurtekin á næstu árum. Allir stjórnmálaflokkar, sem hafa komið nálægt viðræðum um nýja stjórn, eru sammála um að halda þeim áfram.

Fyrir skömmu kvartaði Landgræðsla ríkisins yfir, að sauðfé hefði verið rekið allt of snemma inn á viðkvæman Austurafrétt Mývetninga, þar sem Landgræðslan hefur girt fimm stór friðunarsvæði til að tefja af veikum mætti fyrir, að þar myndist alger sandauðn.

Mývatnsmálið og Gufunesmálið sýna í hnotskurn, hvernig komið er fyrir sauðfjárrækt hér á landi. Ísland er ofbeitt af óhóflegum fjölda sauðfjár, sem síðan verður að fleygja á öskuhaugana. Allir stjórnmálaflokkar eru í raun sammála um að standa vörð um þennan glæp.

Norðanverðar Strandir eru eini hluti landsins, þar sem gróðri hefur farið fram í stórum stíl. Þær hafa líka verið í eyði um langt skeið. Þær fá því að vera í friði fyrir höfuðóvinum landsins, sauðkindinni og sauðfjárbændum. Samt er reynt að hindra, að meira fari í eyði.

Áður en 15.000 dilkunum var fleygt á öskuhauga Reykjavíkur, var búið að reyna margt til að koma út afleiðingum ofbeitarinnar, hinu óþarfa dilkakjöti. Lengi var hægt að gefa dilkakjötið útlendingum, en þeir hafa gerzt slíkum gjöfum fráhverfir á undanförnum árum.

Enda kemur féð svo magurt af hinum ofbeittu afréttum, að bændur telja sig neydda til að beita því á vegkanta og fóðurkál til að ná upp þyngdinni í fitu. Þaðan koma hin fóðurkálsöldu vegalömb, sem reynt er að selja sem villibráð, en auðvitað án árangurs.

Næsta skref feigðarflansins var stigið í síðasta mánuði, þegar kerfið var látið kaupa í refafóður kjöt af 25 þúsund kindum, samtals 500 tonn, svo og 600 tonn af nautgripakjöti. Refabændur borguðu fimm krónur fyrir hvert kíló, gegn því að lofa að borða það ekki sjálfir.

Þetta dugði skammt, því að ekki er nóg af loðdýrum og loðdýrabændum í landinu. Þess vegna var gripið til örþrifaráðsins á sorphaugunum í síðustu viku. Og áfram munu kerfismenn þurfa að læðast á haugana á næstu mánuðum, því að þeir þurfa að losna við 6.500 tonn.

Tonnin 6.500 eru gamlar birgðir, sem verða fyrir í sláturtíðinni í haust, þegar til falla 12.900 tonn til viðbótar. Þrátt fyrir niðurgreiðslur og uppbætur verður ekki unnt að borða nema um 10.000 tonn af öllu þessu ofbeitarkjöti. Afgangurinn er öskuhaugamatur.

Í stjórnarmyndunarviðræðunum hefur komið í ljós, að kostnaður ríkisins af umsamdri offramleiðslu í landbúnaði verður miklu meiri en fram kemur í fjárlögum ársins. Jón Helgason landbúnaðarráðherra áætlar, að um 1,2 milljarða vanti til viðbótar í ofbeitarhítina.

Þess vegna er verið að tala um að leggja á okkur bílaeignarskatt, aukinn bensínskatt, krítarkortaskatt og aukinn söluskatt, svo að unnt sé að mynda ríkisstjórn um það meginmarkmið stjórnvitringanna, að haldið verði áfram að rækta ofbeitarfé í öskuhaugamat.

Sérkennileg er sú þjóðaríþrótt að misþyrma Íslandi með ofbeit til að afla dilkakjöts, sem sumpart er selt á fimm krónur í refafóður og afganginum hent á hauga.

Jónas Kristjánsson

DV

Elliheimilið var hér

Greinar

Einn gesta á fundi Atlantshafsbandalagsins í Reykjavík dáðist að eskimóunum, sem hann taldi nýstigna úr kajökum sínum. “Þeir eru í sjálflýsandi veiðigöllum”, sagði hann. Hann átti við björgunarsveitarmenn, er stóðu umhverfis Hótel Sögu og nöguðu prinspóló.

Hinir skrautbúnu varðmenn Íslands þóttu nokkuð fyndnir, því að sjaldgæft er, að varðsveitamenn séu í sjálflýsandi fötum. Annars staðar í heiminum er lögð áherzla á, að þeir stingi ekki mjög í stúf við umhverfið. Þeir séu á staðnum, en sjáist helzt ekki.

Sumir útlendinganna töldu öryggisgæzlu umfangsmeiri hér en verið hefur á hliðstæðum ráðherrafundum bandalagsins. Lögreglumenn léku hlutverk blindra bókstafstrúarmanna af stakri prýði, eins og heimsstyrjöld væri vís, ef vikið yrði millímetra frá settum reglum.

Samt var erlend fréttastofa að grínast með, að Íslendingar ættu í mesta basli við skipulag fundarins. Í frétt hennar var fjallað um, hversu lítil Reykjavík væri fyrir svona stóran fund. Er þó mannfærra umhverfis Nató-undinn en var, þegar leiðtogar heimsveldanna hittust.

Ekki er laust við, að einnig sumum heimamönnum finnist fundur vera of umfangsmikill, ef hann raskar háttum manna, sem eru alsaklausir af þátttöku í tilstandinu. Unnt er að efast um, að skynsamlegt sé að sækjast eftir komu margra slíkra, marklítilla stórfunda.

Hin tímabundna nálægð við Nató er þó fróðleg þeim, sem vilja fylgjast með alþjóðamálum og ófriðarhættu. Ráðherrafundurinn í Reykjavík í síðustu viku auglýsti fyrir Íslendingum, hversu fótafúin eru orðin þessi samtök, sem lengi hafa þakkað sér Evrópufriðinn.

Á einu ári hefur allt frumkvæði í samskiptum austurs og vesturs færst í hendur Gorbatsjovs, flokksleiðtoga í Sovétríkjunum. Hann hefur spilað út hverju sáttaspilinu á fætur öðru ­ við síðbúnar eða alls engar undirtektir viðsemjendanna í Atlantshafsbandalaginu.

Georgi Shultz, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, varð orðvant í Moskvu fyrir nokkrum vikum, þegar Gorbatsjov bauðst til að gefa einhliða eftir skammdrægar eldflaugar sínar í Evrópu sem kaupbæti upp á samkomulag um afnám meðaldrægra eldflauga í álfunni.

Af sanngirnisástæðum verður þó að taka fram, að nýjasta tilboð Sovétleiðtogans fjallar í raun um að færa kjarnorkuviðbúnaðinn aftur á stigið, sem hann var á fyrir ellefu árum, þegar Sovétmenn hófu einhliða vígbúnaðarkapphlaup, sem hefur raskað öryggi í Evrópu.

En óneitanlega hafa síðustu útspil Gorbatsjovs sett Nató út í horn. Þar á bæ virðist skorta getu til að mæta frumkvæðinu að austan með viðbrögðum og gagnfrumkvæði, sem endurheimti traust Vesturlandabúa á gagnsemi hins aldraða og þreytta bandalags.

Fleiri eru nefnilega skondnir en sjálflýsandi varðmenn við Sögu. Ráðamenn Atlantshafsbandalagsins eru sjálfir dálítið broslegir, þegar þeir taka fullir tortryggni og efasemda við austrænum tilboðum, sem eru orðréttar þýðingar á nokkurra ára gömlum Nató-tilboðum.

Reykjavíkurfundur bandalagsins staðfesti enn einu sinni, að kominn er tími til að hrista upp í elliheimili Nató. Í áróðurskapphlaupi austurs og vesturs er nauðsynlegt, að Vesturlönd nái á ný frumkvæði í viðræðum um gagnkvæma minnkun vígbúnaðar í austri og vestri.

Fyrst og fremst er Atlantshafsbandalaginu brýnt að endurheimta traust Vesturlandabúa sem lifandi stofnun, er sé í samræmi við öryggisþarfir nútímafólks.

Jónas Kristjánsson

DV

Stólar skipta öllu máli

Greinar

Jón Sigurðsson, fyrrum forstjóri Þjóðhagsstofnunar, hefur nú tvisvar reynt að mynda nýja ríkisstjórn. Fyrri tilraunina gerði hann, þegar Þorsteinn Pálsson hafði umboð til stjórnarmyndunar, og hina síðari er hann að gera núna, þegar Jón Hannibalsson hefur umboðið.

Margt er svipað með báðum tilraunum Jóns Sigurðssonar. Í báðum tilvikum hefur hann reynzt vera hinn ókrýndi leiðtogi viðræðnanna, þótt aðrir hafi að formi til haft forustu. Hann hefur reynt að berja saman niðurstöðu eins og gamall oddamaður úr verðlagsnefndum.

Í fyrra skiptið lék Kvennalistinn hlutverk vandræðabarnsins. Honum var falið að koma með tillögur, sem þá voru kallaðar kröfur. Í þetta sinn hefur Alþýðuflokkurinn leikið hlutverkið. Hann hefur lagt fram tillögur, eins og Kvennalistinn gerði í fyrra skiptið.

Þá lögðu Alþýðuflokkur og Sjálfstæðisflokkur lítið til málanna og létu sér nægja að hlusta. Fyrst kinkuðu menn kolli, en síðan hristu þeir hausinn. Nú leggja Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur lítið til málanna og hafa til skamms tíma látið sér nægja að hlusta.

Þá snérust viðræður þriggja stjórnmálaflokka um, hvort Kvennalistinn væri fáanlegur ókeypis til að punta upp á nýja útgáfu af viðreisnarstjórn. Í ljós kom, að listinn vildi eitthvað fyrir snúð sinn. Þess vegna fór út um þúfur sú tilraun til stjórnarmyndunar.

Í tilrauninni, sem stendur yfir þessa daga, snúast viðræðurnar um, hvort Alþýðuflokkurinn sé fáanlegur ókeypis til að blása lífsanda í líkið af ríkisstjórninni, sem nú er við völd. Í ljós er að koma, að Alþýðuflokkurinn þarf lítið fyrir sinn snúð. Nema ráðherrastóla.

Vandamálin úr fyrri tilrauninni hafa verið afnumin með nýju slagorði, sem heitir fjölskyldustefna. Aðilar viðræðnanna hafa tekið orðinu fegins hendi, því að það felur í sér, að hægt er að fjalla um óþægilegt mál á þægilegan hátt með almennu og verðlausu snakki.

Alþýðuflokkurinn gafst fyrst upp á umbótum í landbúnaði. Síðan gaf hann eftir lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn. Kaupleiguíbúðirnar lágu óafgreiddar, þegar þetta var skrifað. Þá hafði ekki heldur verið tekið á tillögum Alþýðuflokks um skatta upp í allt sukkið.

Núna undir helgina er að koma í ljós, hvort Morgunblaðið fær strax þá ríkisstjórn, sem það pantaði í leiðara, þegar hófst önnur tilraun Jóns Sigurðssonar. En Morgunblaðsmynztrið getur orðið síðari niðurstaða, þótt ekki takist að vefa það saman í þessari umferð.

Gangur viðræðnanna hefur verið svipaður undir merki Jóns Hannibalssonar og var hjá Þorsteini Pálssyni. Samningamenn hafa aflað sér upplýsinga um stefnuskrár flokkanna og almennt látið eins og þeir séu álfar út úr hól eða nýkomnir til jarðarinnar frá Mars.

Eftir tvær vikur í þessari umferð er nú að koma í ljós kjarni málsins, sem er, hvort Steingrímur Hermannsson sættir sig við að verða utanríkisráðherra. Ef hann gerir það ekki, þarf boltinn að rúlla eitthvað áfram, unz aðrir málsaðilar komast að, hver ræður.

Steingrímur á fjóra mismunandi kosti á fjögurra flokka vinstri stjórn, með eða án Borgaraflokksins. Hann getur þurft að veifa því sverði dálítið meira til að láta Sjálfstæðisflokkinn átta sig á, að heppilegt sé að fórna forsæti Þorsteins fyrir hægri stjórn.

Stjórnarviðræður verða marktækar, þegar þær hætta að snúast um fjölskyldustefnu og fara að snúast um, hverjir verða ráðherrar og hver verður í forsæti.

Jónas Kristjánsson

DV

Næstmesti skaðvaldurinn

Greinar

Þessa dagana er að renna upp fyrir fólki, að fjórhjólin nýstárlegu hafa á einu vori valdið meiri skaða á náttúru landsins en jepparnir hafa gert í nærri hálfa öld. Fjórhjólin hafa reynzt ganga næst sauðkindinni í röð hættulegustu óvina náttúru þessa lands.

Skemmdirnar sjást víða á höfuðborgarsvæðinu, til dæmis í Öskjuhlíð og á Valhúsahæð, í Elliðaárdal og í Heiðmörk. Hvarvetna hafa auð svæði dáleitt þá, er hafa nautn af að þjösnast um vegleysur á vélknúnu ökutæki, sem hægt er að nota í leysingum að vori.

Vélknúin leiktæki hafa misjöfn áhrif á náttúruna. Beztir eru vélsleðarnir, er skilja slóð sína eftir í snjó, sem hverfur. Spyrnubílar og torfærutröll hafa eigin leiksvæði. Jepparnir eru oftast notaðir að vetri eða sumri, en síður að vori, þegar náttúran er viðkvæmust.

Fjórhjólin er hins vegar auðvelt að nota á vorin, þegar frost er að fara úr jörð. Á þeim tíma geta þjösnar ekki notað önnur ökutæki að gagni, svo að þeir hafa tekið fjórhjólunum fegins hendi ­ með hinum hörmulegu afleiðingum, sem hvarvetna má sjá í kringum okkur.

Íslendingar eru dellukallar og hafa fengið skyndilegt æði á þessu sviði. Yfir 1200 fjórhjól hafa verið flutt til landsins á örskömmum tíma. Verið er að koma á fót sérstökum fjórhjólaleigum til að veita útrás þeim, sem ekki hafa ráð á að kaupa sér fjórhjól sjálfir.

Notkun þessara leiktækja er í nærri öllum tilvikum ólögleg. Samkvæmt náttúruverndarlögum er allur óþarfur akstur óheimill utan vega og merktra vegaslóða. Og samkvæmt umferðarreglugerðum er óheimilt að nota fjórhjól á vegum og götum landsins.

Hin eina leyfilega notkun fjórhjóla er á einkalóðum, til dæmis við sveitabæi, þar sem slík farartæki geta komið að gagni, til dæmis við ferðir í útihús. En hingað til hafa fjórhjól svo til eingöngu verið notuð á ólöglegan hátt sem leiktæki í torfærum náttúrunnar.

Af 1200-1800 fjórhjólum, sem flutt hafa verið til landsins, er aðeins lítill hluti, eða innan við 200 hjól, löglega skráð. Hin eru í sjálfu sér ólögleg og á skilyrðislaust að gera upptæk sem slík. Eitthvað hefur verið gert að því, en alls ekki nógu rösklega.

Ennfremur er nauðsynlegt að margfalda árlegt gjald eigenda af notkun fjórhjóla sinna. Það þarf að gera til að kosta margfaldað eftirlit með notkun þeirra, því að núverandi eftirlit er allt of ófullkomið og lélegt, enda komu fjórhjólin lögreglunni í opna skjöldu.

Á vorin þarf löggæzlan að hafa ráð á þyrlum og öðrum tæknibúnaði til að standa fjórhjólamenn að verki í náttúrunni. Sanngjarnt er, að kostnaður af öllu slíku greiðist af notkun sjálfra tækjanna, sem hafa reynzt svo skaðleg, að eftirlitið verður bæði brýnt og dýrt.

Dómsmálaráðuneytið hefur sent öllum lögreglustjórum bréf, þar sem bent er á ólöglega notkun fjórhjóla. Bréfið sýnir, að yfirvöld eru að vakna til lífsins. Það er að vísu of seint til að bjarga þessu vori, en ætti að geta dregið úr frekara tjóni í framtíðinni.

Mikilvægt er, að stjórnvöld kveði fastar að orði um fjórhjól í lögum og reglugerðum, svo að öllum megi ljóst vera, að ólögleg notkun þeirra leiði til sekta og upptöku hjóls. Ennfremur er æskilegt, að bæjarfélög taki þátt í vörninni með því að banna fjórhjól í bæjarlandinu.

Eigendur fjórhjóla eiga svo að geta fengið að leika sér, eins og torfæru- og spyrnumenn, á afmörkuðum svæðum, sem þeir kaupa sameiginlega eða taka á leigu.

Jónas Kristjánsson

DV

Ört safnað í gengislækkun

Greinar

Spádómar um gengislækkun, sem heyrzt hafa í þessari viku, eru ekki ástæðulausir, þótt aðstæður séu að ýmsu leyti aðrar en venjulega eru undanfari gengislækkunar. Í þetta sinn kallar óstand ríkisfjármála, en ekki útflutningsatvinnuveganna, á gengislækkun.

Fiskveiðar og fiskvinnsla hafa hagnað um þessar mundir, þótt genginu hafi lengi verið haldið stöðugu og kostnaður samt farið hækkandi í landinu. Aukin samkeppni annarra greina um vinnuafl og fjármagn hefur ekki hindrað sjávarútveginn í að byggja sig upp.

Mikil og vaxandi spenna er á vinnumarkaði. Fyrir ári voru 1.900 laus störf í þjóðfélaginu. Í haust voru þau komin upp í 2.700. Og nú eru lausu störfin orðin 3.200 alls, þar af um 1.700 utan höfuðborgarsvæðisins. Á móti þessu koma ekki nema 560 atvinnuleysingjar.

Athyglisvert er, að í fiskvinnsluna eina vantar 650 manns til starfa utan Reykjavíkursvæðisins. Vinnuaflsskorturinn stingur í stúf við sífellt sífur fiskvinnslumanna um, að útflutningur á ferskum fiski sé að drepa fiskvinnsluna og valda landauðn í sjávarplássunum.

Í þessari gífurlegu þenslu reynir ríkisvaldið ekki að hamla á móti með sparnaði og samdrætti. Þvert á móti hefur hið opinbera haft forustu í að magna þensluna. Það jók raunar forustuna síðustu mánuðina fyrir kosningar, þegar atkvæðakaup stjórnarflokkanna voru mest.

Svo er nú komið fjármálum ríkisins, að undir mitt ár eru horfur á, að þensluhalli þeirra verði um fimm milljarðar á þessu ári og heildarþörf ríkisins fyrir lánsfé verði tæpir níu milljarðar á árinu. Hvort tveggja eru tölur af áður óþekktri stærðargráðu.

Ríkið þarf auðvitað að fá aura upp í þennan halla í útlöndum og heima fyrir. Ekki er vænlegt að leita mjög á fjarlæg mið, því að erlendar skuldir þjóðarinnar eru komnar upp í 310 þúsund krónur á hvert einasta mannsbarn í landinu og lánstraust okkar er tiltölulega lítið.

Ríkið þarf að bjóða hærri vexti á spariskírteinum sínum til að brúa bilið. Þar með stuðlar ríkið að almennri hækkun vaxta í þjóðfélaginu. Miklu verra er þó, að þetta hleypir kjarki í skottulækna, sem segja, að í lagi sé að hafa mikinn halla á ríkisbúskapnum.

Ekkert lát er á eyðslusemi ríkisstjórnarinnar, þótt hún hafi misst þingmeirihluta sinn í kosningunum og eigi bara að vera að gæta sjoppunnar að beiðni forseta, meðan verið er að mynda nýja ríkisstjórn. Daglega grýtir hún tugum milljóna króna út um gluggann.

Einn daginn kaupir hún nýtt hlutafé í vonlausri Steinullarverksmiðju fyrir nokkra tugi milljóna. Næsta daginn kaupir hún sjúkrahús í Hafnarfirði fyrir enn fleiri tugi milljóna. Hinn þriðja lofar hún að ábyrgjast alþjóðlegt handboltamót einhvern tíma í framtíðinni.

Á sama tíma hvetur hún verðbólguna með því að hafa opinberar verðhækkanir tvöfalt hærri en gert hafði verið ráð fyrir í almennu kjarasamningunum í vetur. Þar með fer hún yfir öll rauð strik og slær svo sérstakt met með því að hækka afnotagjald ríkisútvarps um 67%.

Í viðræðum um stjórnarmyndun hefur birzt almenn hugsjón stjórnmálamanna, að brennsla opinberra peninga í landbúnaði verði ekki minnkuð á þessu kjörtímabili og að staðið verði við 28 milljarða króna samning ríkisins frá í vetur um kaup á mjólk og kjöti.

Að öllu samanlögðu er engin furða, þótt ástand og horfur ríkisfjármála leiði til spádóma kunnáttumanna um, að í aðsigi sé lækkun gengis hinnar hrjáðu krónu.

Jónas Kristjánsson

DV

Kunnáttulítill hægagangur

Greinar

Hægagangur er að verða hættuleg hefð í stjórnarkreppum. Rosatíma er eytt í einfalda hluti á borð við að leita að stefnuskrám flokka, setja óskir í númeraröð og láta reikna þær út. Hið raunverulega pólitíska innsæi, ­ að kunna list hins mögulega, verður útundan.

Svokallaðar könnunarviðræður taka heila viku. Á þeim tíma þykist formaður eins stjórnmálaflokksins vera að kanna, hvort ákveðnir flokkar vilji ræða þáttöku í ríkisstjórn. Í venjulegum viðskiptum væri slíkt afgreitt í nokkrum símtölum fyrir klukkan tíu.

Síðan hefjast svokallaðar samningaviðræður, sem taka aðra viku. Í þeirri viku kynnir fyrrgreindur formaður sér, hverjar séu stefnuskrár hinna flokkanna í viðræðunum. Allir flokkarnir, sem þátt taka, draga úr pússi sínu kosningastefnuskrár og afhenda þær.

Í venjulegum samskiptum og viðskiptum er mönnum kunnugt um slík atriði og þurfa ekki að spyrja um þau. Raunar þætti á öðrum sviðum þjóðlífsins skrítið, að fólk setjist að samningaborði án þess að hafa fyrir hádegi hugmynd um, hvað hinir hafa til málanna að leggja.

Stefnuskrár stjórnmálaflokkanna eru aðgengilegar á prenti löngu fyrir kosningar. Verkstjórar í stjórnarmyndunarviðræðum eru að gera sér upp fánahátt með því að verja heilli viku í að kynna sér eftir kosningar, hvað flokkarnir höfðu fram að færa fyrir kosningar.

Að þessu loknu kemur þriðji liður hægagangsins, sem felst í, að verkstjórinn kynnir sér á heilli viku, hvaða atriði í stefnuskrám flokkanna skipti þá meira máli en önnur. Á þessari þriðju viku virðast samningsaðilar fyrst uppgötva það, sem alþjóð vissi fyrir kosningar.

Í venjulegum samskiptum eru menn beðnir um að númera áhugamál sín í röð mikilvægis eins og á hverjum öðrum óskalista, þegar þeir leggja fram gögn sín. Upplýsingar um úrslitamálin eiga að liggja á samningaborðinu strax síðdegis á fyrsta degi viðræðnanna.

Síðast eru óskalistar aðila viðræðna um stjórnarmyndun sendir til opinberra stofnana, sem hafa að hlutverki að framleiða tölur fyrir stjórnvöld. Fjórða vikan fer í að afla hagfræðilegra spádóma, sem ættu að hafa verið til, áður en viðræðurnar hófust.

Þjóðhagsstofnun á að fylgjast með þjóðarhag. Fyrir kvöldmat á fyrsta degi viðræðna um stjórnarmyndun á stofnunin að geta svarað fyrirspurnum verkstjóra viðræðnanna um, hvaða áhrif á þjóðhagsspár hafi hinar ýmsu útgáfur atriðanna, sem efst eru á óskalistunum.

Þannig ætti á einum degi að vera hægt að átta sig á, hvort takast kunni stjórnarmyndun á borð við þá, sem Þorsteinn Pálsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, var að dunda við að undirbúa í langan tíma, áður en kom í ljós, að stjórnarmyndun er ekki einfalt hagdæmi.

Tilraun hans til stjórnarmyndunar var kunnáttulítil. Raunveruleg stjórnmál felast í list hins mögulega, eins og Gunnar Thoroddsen sýndi, þegar hann myndaði ríkisstjórn á fjórum dögum, eftir að annar verkstjóri hafði safnað gagnslitlum hagskýrslum í 38 daga samfleytt.

Stjórnmálin taka við, er hagspánum sleppir. Glöggur stjórnmálamaður áttar sig á, hvað er í rauninni kleift og hvað ekki. Hann býst ekki við, að Þjóðhagsstofnun reikni saman ríkisstjórn. Hann býr til samkomulag í stöðu, sem kunnáttulitlir menn töldu vonlausa.

Í tilraunum til myndunar ríkisstjórna á Íslandi hefur síðustu tvo áratugina oft skort hið pólitíska þefskyn, innsæi og lipurð, sem einkenndi suma gömlu foringjana.

Jónas Kristjánsson

DV

Étið þið hvítkál

Greinar

Komið hefur í ljós, að landbúnaðarráðherra er enn að bauka við að lemja á neytendum til að halda uppi offramleiðslu og milljarðasóun í gælugrein allra stjórn málaflokka, landbúnaðinum. Í ár voru settar reglur í ráðuneytinu, sem takmarka aðgang fólks að grænmeti.

Í ráðuneytinu er sérstök nefnd, sem á að gæta þess, að íslenzkt grænmeti hafi forgang fram yfir erlent. Í nýju starfsreglunum er nefndin skylduð til að taka tillit til þess, ef ein tegund innflutts grænmetis hamlar sölu á annarri tegund, sem ræktuð er innanlands.

Fræðilega séð skylda reglurnar nefndina til að banna innflutning á hrísgrjónum, ef mikið framboð er af innlendum kartöflum. Neytendur gætu nefnilega látið sér detta í hug að kaupa hrísgrjón, þegar kartöflur væru betur við hæfi að mati ráðherra og ráðuneytis.

Líklegra er, að nefndin byrji á mildari aðgerð, svo sem að banna innflutning á kínakáli og ísbergssalati, þegar mikið framboð er af innlendu hvítkáli. Samkvæmt starfsreglunum ætti þessi innflutningur að leggjast af, þar sem hann hamlar sölu á innlendu vörunni.

Vopn landbúnaðaráðuneytisins snúa að fleirum en innlendum neytendum. Erlendir ferðamenn þyrftu auðvitað einnig að borða kartöflur og hvítkál, þótt þeir vildu hrísgrjón og kínakál. Má búast við, að Íslendingar verði fljótt kunnir af slíkri meðhöndlun ferðamanna.

Í raun er ráðherra með starfsreglunum að færa klukkuna aftur á bak til fyrri einokunartíma, þegar lands menn áttu í mesta lagi kost á eplum um jólin. Verið er að setja upp þá grundvallarreglu, að neytendur borði það, sem hentar í milljarðasukki landbúnaðarins.

Neytendasamtökin hafa mótmælt starfsreglum nefndarinnar í ráðuneytinu. Forustumenn þeirra hafa beðið um viðtal við forsætisráðherra, af því að þeir segja gamla reynslu af, að ekkert þýði að tala við landbúnaðarráðherra. Hann sé staurblindur sérhagsmunamaður.

Um leið er gott fyrir kjósendur að átta sig á, að vaxandi einokun í landbúnaði er ekkert náttúrulögmál. Það eru þeir sjálfir, sem hafa kosið hana yfir sig með eindregnum stuðningi við stjórnmálaflokka, sem alltaf hossa hagsmunum landbúnaðarins á kostnað neytenda.

Í stjórnarmyndunarviðræðum síðasta mánaðar kom greinilega fram, að enginn flokkur er fáanlegur til að víkja frá ríkjandi gæludýrastefnu í landbúnaði. Alþýðuflokkurinn amaðist lítillega við 28 milljarða búvörusamningnum, en gafst fljótlega upp á því.

Með milljarðasamningnum ábyrgðist ríkið 120 þúsund króna greiðsluskyldu á hverja fjögurra manna fjölskyldu á ári. Ef ríkið hefði gert sömu vörukaup í útlöndum, hefði verið unnt að hækka tekjur hvers einasta Íslendings um 8.000 krónur á mánuði.

Stjórnmálamenn okkar hafa verið að láta reikna og reikna fyrir sig skiptimynt á borð við kostnað af hækkun lágmarkslauna upp í 36.000 krónur á mánuði, á sama tíma og þeir ítreka, að ekki komi til mála að hrófla við milljarðabrennslu peninga í landbúnaði.

Kjósendur, sem í kosningum eftir kosningar fela stjórnmálamönnum af því tagi umboð til að stjórna landinu og fara með fjármál þess, þurfa ekki að verða hissa, þótt landbúnaðarráðherra skyldi þá til að borða kartöflur og hvítkál í stað hrísgrjóna og kínakáls.

Spurningin er raunar, hvort kjósendur og neytendur eiga ekki bara fyllilega skilið að sæta því, sem leiðtogi þeirra í landbúnaðarráðuneytinu skipar fyrir.

Jónas Kristjánsson

DV

Veitingaþjónusta

Veitingar

Íslendingar eru í stórum dráttum vel búnir undir að veita beina auknum fjölda erlendra ferðamanna. Veitingahús eru mörg og fjölbreytt; skólamenntun matreiðslumanna og þjóna er tiltölulega vönduð; og nýir straumar í matargerðarlist hafa átt greiðari aðgang hér en í flestum nágrannalöndunum. Höfuðborgarsvæðið hefur algera forustu í þessum efnum.

Á síðustu sjö árum hefur risið mikill fjöldi veitingahúsa, einkum á Reykjavíkursvæðinu. Einn mikilvægasti aflgjafi þeirrar þróunar er draumur veitingamanna, bæði matreiðslumanna og þjóna, um að verða sínir eigin húsbændur. Þessi þáttur er öflugri en ferðaþjónustuþátturinn, sem felst í veitingarekstri í tengslum við hótel, í tengslum við aðra ferðaþjónustu og í tengslum við erlenda keðjuútgerð veitingahúsa.

Hinn sérhæfða ferðaþjónustuþátt veitingamennskunnar ber alls ekki að lasta, en hann er þó einkum bundinn ferðamanni sem fanga aðstæðna. Hann er gestur á ákveðnu hóteli, hann er á matmálstíma á vissum stað á hringveginum eða hann þekkir hið alþjóðlega keðjumerki veitingahússins. Hann getur ekki vænzt að fá sem slíkur fangi sömu gæði fyrir peningana og hann getur vænzt að fá í veitingahúsi, sem er í fullri samkeppni án stuðnings af hóteli eða hringvegi eða erlendri auglýsingatækni.

Hin mörgu sjálfstæðu veitingahús, sem hafa risið á Reykjavíkursvæðinu, eru afar traustur grunnur að þjónustu við erlenda ferðamenn. Þau hafa stuðlað að því áliti útlendinga, sem til þekkja og sem ég þekki, að matargerðarlist og veitingamennska sé á tiltölulega háu stigi hér á landi.

Í fyrsta lagi er framboðið meira en eftirspurnin. Það leiðir til samkeppni um verð og gæði. Auk þess býr það yfir afkastagetu, sem getur þjónað miklu fleiri ferðamönnum, en nú sækja landið heim. Þessi afkastageta er einkum mikilvæg á sumrin, þegar við heimamenn sækjum veitinahúsin í minna lagi. Hinir misjöfnu vertíðir heimamanna og útlendinga hafa auk þess heppileg jafnvægisáhrif í veitingarekstrinum, -dreifa honum betur yfir árið.

Í öðru lagi eru yfirleitt fagmenn að verki. Algengast er, að stjórnendur í eldhúsi og sal séu menntaðir úr Hótel- og veitingaskólanum, þar sem veitt er staðgóð menntun í hefðbundnum stíl, þrátt fyrir margvíslega erfiðleika vegna húsnæðisvandræða skólans. Þessu fylgir töluvert öryggi fyrir viðskiptavininn, -tryggir honum ákveðin lágmarksgæði í matreiðslu og þjónustu. Þetta öryggi er að meðaltali nokkru traustara hér á landi en í nágrannalöndunum.

Í þriðja lagi héldu nýir straumar í matargerðarlist innreið sína hér á landi fyrir fimm til sjö árum. Það voru áhrif frá nýju, frönsku línunni, sem fór sigurför um Frakkland fyrir um það bil fimmtán árum. Þessi nýja lína felur í sér mun betri matreiðslu en áður tíðkaðist. Hún hefur í hávegum það hráefni, sem bezt er hér á landi, -sjávaraflann. Enda eru það sjávar- réttirnir, sem erlendir gestir lofa helzt hér á landi.

2.

Þar með er ég engan veginn að segja, að allt sé fullkomið á þessum sviðum hér á landi. Enn er mikið svigrúm til endurbóta og vil ég benda á nokkur dæmi um það hér á eftir.

Verðskyni matreiðslumanna er ábótavant. Þeir hafa ekki lært að umgangast hráefni af nægilegri nýtni. Það verður oft ódrjúgt í höndum þeirra. Gífurlegu magni er beinlínis kastað. Þar á ofan er oft valið dýrt hráefni, til dæmis ýmis sérvara, sem flutt er til landsins með ærnum tilkostnaði. Þetta gerir hráefniskostnaðinn óþarflega mikinn, sérstaklega í fínu húsunum, og gerir hátt verðlag þeirra enn hærra en vera þyrfti.

Eigi að síður er að vissu leyti ánægjuleg fjölbreytni í verðlagi íslenzkra veitingahúsa. Mikið svigrúm er milli Arnarhóls annars vegar og Laugaáss hins vegar, svo að ég nefni tvö fyrirmyndarhús á sitt hvorum enda litrófsins í verðlagi, auðvitað að mörgum öðrum húsum ólöstuðum. Erlendir ferðamenn eiga því að geta valið sér veitingahús við það hæfi verðlags, sem þeir kjósa.

Í heild sýnist mér ekki, að verðlag íslenzkra veitingahúsa sé til vanza í ferðamálum, þótt það sé tiltölulega hátt að meðaltali. Mér sýnist einnig ljóst, að stefnan í ferðamálum hljóti að reyna að soga hingað þá útlendinga, sem mest hafa handa á milli, það er að segja viðskipta- og ráðstefnugesti.

Reynslan sýnir, að viðskiptafólk og ráðstefnugestir nota miklu meira fé en aðrir ferðamenn og gera sér tiltölulega litla rellu út af verðlaginu. Þeir taka það bara sem þátt í þeirri staðreynd, að verðlag er almennt séð nokkuð hátt hér á landi. Þeir tala miklu meira um, hversu góður matur sé, en hversu dýr hann sé. Svo megum við ekki gleyma, að megintilgangur ferðaþjónustu er að hafa af henni sómasamlegar tekjur.

Annað vandamál er landsbyggðin. Utan Reykjavíkursvæðisins og Akureyrar er yfirleitt tiltölulega lítil samkeppni í veitingarekstri. Framfarirnar á þessum áratug hafa einkum verið í þéttbýlinu. Strjálbýlið hefur setið eftir, ekki sízt við hringveginn, þar sem ástandið er víða ömurlegt enn sem fyrri daginn. Fagmennska er þar minni og áhrif hinna nýju strauma eru minni.

Þriðja vandamálið er stöðnunin sem hefur orðið, síðan framþróunin varð í matargerðarlist fyrir fimm til sjö árum. Veitingamenn eru orðnir of ánægðir með sig. Þeir hafa sofnað á lárviðarsveigunum, sem stéttin aflaði sér, þegar matargerðarlist var áberandi fremri hér á landi en í nágrenninu. En munurinn hefur minnkað, því að nágrönnunum hefur farið fram, meðan okkar menn hafa staðið í stað.

Áberandi er í nýju húsunum, sem stofnað hefur verið til á síðustu fimm árum, að mest áherzla er lögð á vandaðar innréttingar og góða þjónustu, en í matreiðslu étur hver upp eftir öðrum. Margir matseðlar eru í stórum dráttum hver öðrum líkir og matreiðsluaðferðir eru nokkurn veginn hinar sömu. Allt of lítið er um ferskan blæ á borð við þann, sem við finnum í veitingahúsinu Við Tjörnina.Íslenzkir veitingamenn eru enn of bundnir við mildar útgáfur af gömlu stefnunum tveimur, sem ég hef kallað belgfyllingarstefnu og barokkstíl. Belgfyllingarstefnan felst meðal annars í, að á diska kjöts eða fiskjar er hlaðið þremur til fjórum hrúgum af mjögsoðnu grænmeti, svo sem rósakáli, brokkáli, gulrótum og kartöflu í álpappír. Þetta er hin hefðbundna, danska matargerð, sem til skamms tíma var alls ráðandi hér á landi.

3.

Barokkstíllinn kemur meðal annars fram í óhóflegri áherzlu á skreytilist og langan undirbúning matargerðar í stað þess meginsjónarmiðs, að maturinn sé ætur. Hástig íslenzks barokks í matargerð er norræna hlaðborðið, sem jafnan veldur mér missi matarlystar. Það er hvergi óhugnanlegra en á sýningum þeim í Bella Center, þar sem íslenzkir matreiðslumenn sækja ákaft til verðlauna.

Barokkstefnan frá Careme og Escoffier hefur misst sjónar á eiginleikum og eðlisbragði hráefna, ferskleika og heilnæmi. Hún veltir sér til dæmis upp úr hveiti og smjöri. Hún misþyrmir mildu hráefni með sterku meðlæti og vefur jafnvel beikoni um skötuselinn. Einkum misnotar hún þó uppfinningar nútímans, fyrst dósahnífinn, síðan frystikistuna og nú síðast örbylgjuofninn. Hún notar langa og fasta matseðla. Matur er forunninn klukkustundum fyrir notkun. Hann er hálfeldaður fyrst og loks kýldur upp í ofni, þegar á að bera hann fram. Þessa meðferð þolir matur ekki, allra sízt fiskur og gærnmeti.

Í stað barokksins, sem nær hástigi í hlaðborðinu, þarf að auka áherzlu á hinar tíu reglur nýju, frönsku línunnar í matargerðarlist. Þær eru einfaldar:
1. Aðeins eru notuð fersk hráefni árstíðarinnar.
2. Lítið er notað af frystum hráefnum og ekkert af niðursoðnum.
3. Notað er grænmeti og fiskur í stórauknum mæli.
4. Fita er spöruð sem mest, ekki sízt í brúnuðu formi.
5. Mjöl er ekki notað í sósur eða súpur til þykktar.
6. Afnumin er forvinna og upphitun fyrir máltíð og örbylgjuofnar eru ekki misnotaðir.
7. Eldunartími er ekki hafður lengri en nákvæmlega þarf.
8. Borin er virðing fyrir eðlisbragði og næringarefnum hráefna.
9. Matseðlar eru stuttir og breytilegir eftir árstíðum og fáanlegum hráefnum, helzt hreinir matseðlar dagsins.
10. Eldamennskan tekur tillit til staðbundinna hráefna og hefða.

Þessi tíu atriði eru stíll nútímans. Allir heimsfrægir kokkar eru á þessari línu. Hún er eldamennska nútímans, en er samt engin dægurfluga, sem kemur og fer. Hún felur í sér varanlega breytingu á viðhorfi fólks til þess, sem það lætur ofan í sig. Tímarit á borð við Newsweek og Economist hafa nýlega verið með hana sem forsíðuefni hjá sér.

Áhugi nútímafólks á heilsufari sínu leiðir beint til hinnar nýju, frönsku línu. Menntað fólk hafnar offitu, kransæðastíflu og krabbameini. Við munum verða vör við þetta í auknum mæli hjá fólki, sem sækir Ísland heim, ekki sízt hjá viðskiptafólki og ráðstefnugestum.

Við erum svo heppin hér á landi, að hafa hráefni, sem nýja línan hampar. Það er fiskurinn, beint úr sjónum. Vægilega eldaðir sjávarréttir, ekki gratineraðir, heldur gufusoðnir eða grillaðir, eru okkar helzta tromp á þessu sviði. Þeir fara vel í maga og eru í samræmi við vilja og þarfir nútímafólks.

Lambakjötið okkar er hins vegar alvarlegt vandamál. Við erum einir í heiminum um að telja fóðurkálsalin vegalömb vera eins konar villibráð. Enda sýnist mér, að þeir útlendingar, sem ég hef haft afskipti af hér á landi, taki vægilega eldaðan fisk fram yfir lambakjöt. En því verður víst seint breytt, því að gildandi stefna ríkisrekstrar í hinum hefðbundna landbúnaði er traustari í sessi en nokkru sinni fyrr.

4.

Opinber gagnrýni á íslenzka veitingamennsku er mikils virði. Hún veitir aðhald, sem er nauðsynlegt á þessu sviði eins og öðrum. Því miður er ég nokkurn veginn hinn eini, sem hef, með hléum þó, haldið úti dálkum um þetta efni í allmörg ár. Ég held, að þau skrif hafi verið til góðs, en auðvitað væri fjölbreyttara og betra, að fleiri legðu skipulega hönd á þann plóg.

Íslenzk veitingamennska hefur öll skilyrði að mæta vaxandi ferðamanna- straumi og auka hróður landsins sem ferðamannalands. Þau atriði, sem ég og aðrir hafa gagnrýnt, eru yfirleitt þess eðlis, að tiltölulega auðvelt ætti að vera að bæta um betur.

Ég tel mikilvægast í þessu efni, að Hótel- og veitingaskólinn fái mun betri starfsskilyrði en verið hafa og að hann fáist til að taka á þeim göllum íslenzkrar veitingamennsku, sem ég hef nefnt. Ef hann er fáanlegur til þess, er æskilegt, að hann starfi ekki aðeins sem forskóli fyrir starf, heldur einnig sem símenntunarskóli, er leggi áherzlu á námskeið fyrir áður útskrifaða fagmenn.

Babýlon hin nýja

Greinar

Garðastrætis-ríkisstjórnin, það er að segja Alþýðusambandið og Vinnuveitendasambandið, hefur upplýst, að ekki þurfi að minnka kjarabilið í landinu. Alþýðusambandið hafi sjálft þegar náð sama árangri og var í Mesópótamíu fyrir 3500 árum og sé það nóg í bili.

Þetta er í fyrsta skipti í veraldarsögunni, sem menn hrósa sér af samanburði við Babýlon. Eftir það má búast við, að Jón Helgason dómsmálaráðherra segi, að ekki þurfi fleiri lög í landinu, af því að lagasafnið sé orðið nokkurn veginn eins gott og hjá Hammúrabí.

Garðastrætis-ríkisstjórnin hefur verið á móti stjórnarmyndunartilraun vikunnar frá því fyrir upphaf hennar. Raunar má undrast, að Sjálfstæðisflokkurinn skyldi fá leyfi til að reyna þetta mynztur. En tilraun hans reyndist að lokum hafa verið gerð til málamynda.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins voru undir lokin ákveðnir í að víkja hvergi frá stefnu núverandi stjórnar með Framsóknarflokki. Fulltrúar Kvennalistans voru allan tímann ákveðnir í að víkja ekki frá launajöfnun, þótt það kostaði eftirgjafir gagnvart varnarliðinu.

Fulltrúar Alþýðuflokksins voru hinir einu, sem raunverulega reyndu að semja. Þeir lögðu til, að reynt yrði að ná markmiði Kvennalistans með annarri leið og hægar. Alþýðublaðið segir, að málamiðlunin hafi strandað á kergju beggja hinna. Er það nærri lagi.

Slæm reynsla er af tilraunum til að minnka launabil með valdboði stjórnvalda. Það stafar af, að verið er að reyna að lina félagslegt vandamál á verksviði markaðarins, í stað þess að reyna að lina það í félagslegum geira hins opinbera, ­ hjá Tryggingastofnun ríkisins.

Konur hafa tekið að sér störf, sem karlar vilja ekki. Það eru verst launuðu störfin í arðminnstu atvinnugreinunum. Þessar greinar verða sízt arðmeiri, þegar reynt er að hífa upp lágmarkslaunin. Launajöfnunartilraunir leiða hjá sér slíkar staðreyndir lífsins.

Miklu nær er að viðurkenna, að markaðsbúskapurinn megnar ekki að búa til næga arðsemi í lélegustu atvinnugreinunum til að fólk geti lifað mannsæmandi lífi af verst launuðu störfunum þar. Mannsæmandi líf við slíkar aðstæður er frekar viðfangsefni samfélagsins.

Hópurinn, sem stendur fjærst mannsæmandi lífi, felur í sér einstæðar mæður og börn þeirra. Vandamál þeirra er skynsamlegast að lina með barnabótum úr sameiginlegum sjóði, í stað þess að rugla markaðskerfið. Veruleg hækkun barnabóta er raunar sjálfsagt réttlætismál.

Hækkun barnabóta kostar að sjálfsögðu peninga eins og hækkun á lífeyri aldraðs fólks og öryrkja. Það ætti ekki að koma á óvart þeim fjármálaráðherra, sem hefur komið halla ríkisrekstrarins upp í níu milljarða á þessu ári og þar með slegið flest met frá dögum Babýlons.

Auðvitað er líka unnt að fá peninga í mjúku málin með því að leggja niður árlegar milljarðagreiðslur til hins hefðbundna landbúnaðar. Allt er spursmál um vilja og forgangsröð, ekki hvort peningar séu til í þetta eða hitt, jafnvel í aukið steinullarhlutafé þessa dagana.

En milljarðaflokkarnir tveir, Sjálfstæðisflokkur og Kvennalisti, eru þó sammála um það eitt, að ekki megi hreyfa við milljarðasukki landbúnaðarins. Því hefðu milljarðarnir til barna og gamals fólks ekki fundizt með sparnaði hjá ríkinu, heldur með auknum sköttum.

Nú er það mál úti. Undir handleiðslu Garðastrætis er unnt að fara að endurmynda gamalkunnar stjórnir um, að allt skuli áfram vera eins og var í Babýlon.

Jónas Kristjánsson

DV