Author Archive

Arnarhóll

Veitingar

Enn fínni en fyrrum

Arnarhóll hefur staðnað og raunar lítillega dalað upp á síðkastið, þótt veitingahúsið sé enn bezti eða annar af tveimur beztu veitingastöðum landsins. Hinn ytri umbúnaður í þjónustu og verðlagi er heldur fínni en áður og var þó afar fínn fyrir. En hornsteinninn sjálfur, matreiðslan, er ekki alveg á sama stigi og hún var, þegar Arnarhóll hóf göngu sína. Hún er afar góð, en hefur fallið í allt of fastmótaðar klisjur.

Kaffistofan inn af borðsalnum er orðin vistlegri en hún var upphaflega og líkari fordrykkjastofunni, í harðviðarstíl. Ýmis önnur atriði hafa verið lagfærð. Smjör er borið fram í sérstökum smjörskálum. Heitir réttir eru bornir fram undir hjálmi, sem upprunalega átti að halda mat heitum, en eru nú einkum notaðir til að magna helgisiði við framreiðslu aðalrétta á borð gesta, enda eru réttirnir hér stundum bara volgir undir hjálminum.

Erlendis hafa skoðendur veitingahúsa stundum notkun slíkra hjálma til marks um hátt verðlag staðarins. Arnarhóll er trúr þeirri stefnu. Verðlagið hefur hækkað um 40% á einu ári í aðeins 20% verðbólgu. Hefur staðurinn nú eindregna forustu í verðlagi veitingahúsa hér á landi. Þetta er ekki sagt honum til hnjóðs, því að veitingasalir eiga að vera misdýrir í samræmi við misjöfn gæði. Segja má þó, að fáir hafi efni á að borða hér, nema fyrir annarra fé, það er að segja fyrirtækja og stofnana. Enda sýnist mér aðsóknin ekki vera umtalsverð. Og í sumar hefur meira að segja verið lokað í hádeginu, sem er þó hinn hefðbundni tími viðskipta-málsverða.

Eðalvindlar og -vín

Ein nýjunganna, sem Arnarhóll státar af, eru vindlarnir Davidoff Chateau Mouton Rotschild á tæplega 1000 krónur stykkið. Þetta eru handvafðir Havana-vindlar, afgreiddir úr virðulegum rakakassa. Davidoff er frægasta og dýrasta af örfáum tegundum ekta Havana-vindla. hinir eru Montechristo, Romeo et Juliet og Upman. Mér finnst þessir Davidoff-vindlar ekki nógu þétt vafðir og ekki eins góðir og hinir töluvert ódýrari Montechristo nr. 1. Samt er framtak Arnarhóls virðingarvert, því að í verkahring fínna og dýrra veitingahúsa er að hafa fína og dýra vindla á boðstólum.

Önnur hliðstæð nýjung felst í nokkrum árgöngum af heimsfrægu víni, Torres Gran Coronas Black Label, á verði frá 2.600 krónum upp í rúmar 10.000. Sérfræðingur minn í borðvínum hefur prófað árganginn 1976, sem kostar 3.300 krónur flaskan, og segir vínið hið langbezta sem fáanlegt sé í landinu. Það ilmar þungt og hefur mikla fyllingu og mýkt. Vín þetta er bruggað úr franskættuðum cabernet-vínberjum í héraðinu Penedes, sem er í Katalúníu nokkru sunnan við Barcelona, nálægt Costa Brava, er sumir sólarlandafarar þekkja.

Þjónustan í Arnarhóli er enn sem fyrr í hæsta gæðaflokki. Um hana er raunar ekkert hægt að segja annað en, að hún er öðrum stöðum til fyrirmyndar að öllu leyti.

Matseðill Arnarhóls hefur slaknað með árunum. Hann er orðinn fastur og prentaður til langs tíma í senn, svo að hann fer nærri ekkert eftir framboði hráefna hverju sinni. Slíkt er oft haft til marks um, að þreytumerki séu komin á eldhúsið og kemur í útlöndum í veg fyrir, að veitingahús teljist til matargerðarmustera.

Fátt er um fisk

Auðvitað er ekki auðvelt að bjóða upp á ætan fisk af föstum matseðli,l því að fiskur er stundum til og stundum ekki. Þess vegna sést varla annar fiskur á matseðlinum en ræktaður lax og regnbogasilungur í ýmsum myndum, afurðir, sem yfirleitt er unnt að fá árið um kring. Eina undantekning eru ristuð kolaflök, sem óhjákvæmilega hljóta stundum að koma úr frysti. Með því að taka upp þetta úrelta fyrirkomulag neitar Arnarhóll sér um að geta boðið gestum fjölbreytni í fiski og öðrum sjávarréttum, bezta hráefni landsins og um leið þeim mat, sem gefur kost á mestum tilþrifum í matreiðslu.

Arnarhóll hefur tekið upp fasta matseðla, þar af einn langan, sjö rétta. Slíkir smakkseðlar tíðkast mjög í erlendum frægðarhúsum, en þá eru þetta undantekningarlaust seðlar dagsins, raðað saman eftir hráefnum dagsins. Sjö smárétta röð á prentuðum matseðli, sem liggur frammi mánuðum saman, líkist skopstælingu á upprunalegri hugsun að baki slíkra smakkseðla eða jafnvel móðgun við hana. Og samtals býður Arnarhóll daglega nærri 40 mismunandi rétti, sem er ofviða hverju eldhúsi, þar sem menn reyna að vanda sig. Svona umfangsmiklir matseðlar urðu úreltir fyrir löngu.

Eftir allar þessar kvartanir er nauðsynlegt að taka skýrt fram, að matur er yfirleitt mjög góður í Arnarhóli, mun betri en víðast hvar í landinu. Eina nýlega undantekningin, sem ég man eftir, voru nautalundir, sem greinilega höfðu verið hamraðar svo ákaft, að vöðvabyggingin var komin í graut. Slíkur groddagangur er raunar andstæður hinni venjulegu, fínlegu matreiðslu staðarins.

Nýlega prófaði ég bragðsterka og afar góða laxahrognakæfu. Einnig mjög gott humarjukk, sem fólst í stórum humarbitum í rjómasósu, blandaðri blaðlauk og sveppum. Ennfremur sérlega góðan, kryddleginn lax, sem borinn var fram í næfurþunnum, víðáttumiklum sneiðum, er þöktu diskinn. Og ágætan regnbogasilung, sem var reyksoðinn og borinn fram með kryddaðri eggjahræru og sýrðum rjóma dillkrydduðum. Sömuleiðis ljómandi góða samsetningu á graflaxi og hörpudiski í smjörjukki. Sem og afbragðs humar sítrónuleginn. Og loks grásleppuhrogn, er höfðu þann frábæra kost að vera glær, en ekki svört eða ógeðslega bleik, eins og hrognin í verzlunum. Þetta voru allt forréttir.

Svartfugl og önd

Svartfugl er einstaklega frábær aðalréttur í Arnarhóli, næstum alltaf nógu lítið steiktur og rauður að innan, síðast borinn fram með vínberjum og rifsberjum, svo og kartöflugratíni og léttsoðnum gulrótum. Annar einkennisréttur staðarins, einnig kostulegur, er gljáð aliönd, sérstaklega meyr og ljúffeng, borin fram með sætri appelsínusósu, gulrótastrimlum og vínberjum. Einnig eru á seðlinum ágætis lambarif, þykkt söguð og fituskorin og afar léttilega steikt. Í fyrra fékk ég svo einu sinni fyrirtaks skarfa-unga og mjög góða hreindýrasteik.

Af nýlegum eftirréttum man ég eftir góðri bananatertu með appelsínuhjúp. Einnig ágætum jarðarberjum ferskum. Ennfremur karamelluhorni með þremur kraumísum, með kampavíns-, jarðarberja- og kiwi-bragði. Og loks svonefndum Reykjavíkurvöfflum, fylltum jarðarberjum og rjóma, umflotnum jarðarberjasósu að hálfu og kiwi-sósu að hálfu, báðum sósum úr maukuðum ávöxtum.

Þriggja rétta kvöldverðarveizla með kaffi, en án víns og vindla, kostar að meðaltali 2449 krónur í Arnarhóli. Veitingahús á því verði auglýsa ekki sérstaklega á matseðli, að þau bjóði upp á Blue Nun hvítvín.

Jónas Kristjánsson

Nýr matseðill:
985 Nýr reyktur stór lax
1085 Ferskt sjávarréttaragout í rjóma-kampavínssósu
895 Grafinn regnbogasilungur með dillsósu
495 Rjómalöguð humarsúpa
355 Kjötseyði með ferskum graslauk
1395 Léttsoðinn lax með sítrónusósu
1035 Pönnusteikt regnbogasilungsflök með rjómaheslihnetusósu
995 Léttsteikt hörpuskel með smjördeigsskel og earl gray sósu
915 Ristuð kolaflök með rækju-fricassé
1565 Gljáð aliönd með appelsínusósu
1450 Nautalundir með villtum steinasveppum
490 Íslenzkir ostar
525 Vanillu-mousse í karamelluhjúp með ferskum jarðarberjum
375 Bananaterta með appelsínuhjúp
340 Sorbet árstíðarinnar
565 Fersk jarðarber eða bláber
375 Súkkulaðifrauð með koníaksbragði
445 Karamelluhorn fyllt með ís
675 Arnarhóls blandaðir eftirréttir
1125 Réttur dagsins: Léttsteikt lambarif með hvítlauk
2010 3ja rétta seðill: Reyksoðinn regnbogasilungur og fersk grásleppuhrogn með sýrðum rjóma. Léttsteikt svartfuglsbringa með sérrí-trönuberjasósu. Karamelluhorn fyllt ískraumi árstíðarinnar.
2365 3ja rétta seðill: Ferskur spergill. Léttsteiktur lax með eggjasósu. Nýir blandaðir ávextir í kampavíni.
2640 4ra rétta seðill: Laxahrognakæfa með dillsósu. Kampavíns-ískraum. Innbakaðar nautalundir í smjördeigi. Frönsk eplakaka með þeyttum rjóma.
3330 7 rétta seðill: Nýr lax og loðnuhrogn, kryddlegin í olífu-timjam-legi með ferskri piparrót. Kjötseyði með steinsveppum. Blandað fuglapaté. Ískraum árstíðarinnar. Snigla-ragout í rjómahvítlaukssósu. Léttsteikt lambarif. Arnarhóls blandaðir eftirréttir.

DV

Pólitískur sumartími

Greinar

Ríkisstjórnin hefur ekki fengið við upphaf ferils síns hinn venjulega tíma friðar og hvíldar, sem notið hafa flestar ríkisstjórnir, er myndaðar hafa verið í sumarfríi Alþingis. Þvert á móti hefur allt gengið á göflunum í kringum hana. Og þetta er af hennar eigin völdum.

Sjálfur stjórnarsáttmálinn vakti mikla óánægju langt út fyrir raðir stjórnarandstöðunnar. Síðan kom fálmið og fátið við framkvæmd og frestun fyrstu aðgerða. Landbúnaðurinn hefur fengið að leika lausum hala. Útgáfa spariskírteina og nýtt söluskattstig magna ófriðinn.

Merkilegt er, að ríkisstjórn skuli lenda í svona miklum hremmingum við upphaf ferils síns. Eiginlega ætti hún að vera mjög sterk. Hún hefur verulegan þingmeirihluta að baki sér og tiltölulega ósamstæða stjórnarandstöðu á móti sér. Hún ætti því að þora að taka á málum.

Um þessar mundir þarf þjóðin einmitt fumlausa ríkisstjórn, sem þorir. Óveðursskýin hrannast á loft. Verzlunarráð spáði fyrr í vikunni stóraukinni verðbólgu næstu árin, gengislækkun eftir áramót og átökum á vinnumarkaði í kjölfar verðbólgu og skattahækkana.

Álit Verzlunarráðs er óvenju harðort. Þar segir, að fyrstu aðgerðir ríkisstjórnarinnar í skattheimtu gangi þvert á meginstefnu hennar í skattamálum. Ennfremur, að ekkert hafi verið stokkað upp í allt of dýrum velferðarmálum á borð við landbúnað og húsnæðislánakerfi.

Ríkisstjórnin hefur mest misstigið sig í landbúnaðarmálum og ríkisfjármálum. Óbreytt landbúnaðarstefna var fyrsta samkomulagsatriðið. Stjórnarsáttmálinn staðfesti nýja búvörusamninginn og fjögurra ára þrælkun neytenda og skattgreiðenda í þágu kinda og kúa.

Landbúnaðarráðherra hefur á fyrstu vikum ríkisstjórnarinnar fengið að ganga berserksgang við að efla þrönga sérhagsmuni í landbúnaði. Einkum hefur honum orðið verulega ágengt við að þrengja völ neytenda á grænmeti á hagstæðu verði. Full einokun er í augsýn.

Meira að segja hefur íslenzkum málvenjum verið breytt á svipaðan hátt og alræðisstjórnin gerði í sögunni “1984″ eftir George Orwell. Að undirlagi landbúnaðarráðherra notar ríkisstjórnin orðin “nýtt” yfir gamalt grænmeti og “markað” yfir grænmetiseinokun.

Fyrsta skref ríkisstjórnarinnar í eigin fjármálum var að hafna niðurskurði og sparnaði í ríkisrekstri og taka upp stefnu hækkaðra skatta, sem mun leiða til átaka á vinnumarkaði að mati Verzlunarráðs. Hefðbundinn landbúnaður og önnur hefðbundin hít eru heilagar kýr.

Annað skrefið í ríkisfjármálunum var að reyna að hækka vexti á spariskírteinum án þess að hækka þá. Stjórnin reyndi að komast hjá hinni óhjákvæmilegu staðreynd, að mögnuð innrás ríkissjóðs á lántökumarkaðinn mun breyta hlutföllum framboðs og eftirspurnar.

Ríkisstjórnin virðist hafa takmarkaðan skilning á fjármálum. Hún kvartar um, að aukinn ríkishalli stafi af vansköttun ársins. Samt er sífellt verið framhjá fjárlögum að greiða úr ríkissjóði og skuldbinda hann á annan hátt til að kaupa óperur og mjólkursamsölur.

Þriðja skref stjórnarinnar fólst í að bæta við söluskattsþrepi, sem leggst á harðfisk, en ekki saltfisk, suma svaladrykki, en ekki aðra, soðin svið, en ekki ósoðin og svo framvegis út í það fáránlega. Hún hefur flækt söluskattinn og boðið heim auknum skattsvikum.

Verkhræðsla og fálm á þessum mörgu sviðum hefur magnað ótrú fólks á stjórninni, aflað henni stjórnarandstöðu utan Alþingis og gert sumarfríið pólitískt.

Jónas Kristjánsson

DV

Hræddir snyrta og fresta

Greinar

Nýir vextir nýrrar ríkisstjórnar af spariskírteinum ríkissjóðs sýna óttaslegin vinnubrögð, sem minna á fyrstu ráðstafanir hennar í efnahagsmálum. Fyrst er reynt að snyrta verkin í veikburða viðleitni við að blekkja. Svo er öllum vanda meira eða minna frestað.

Uppruni flestra þyngstu vandamála stjórnarinnar er, að hún tók við óvenju hastarlegu sukki í fjármálum ríkisins og neitaði algerlega að taka á því með niðurskurði og sparnaði í ríkisrekstri. Þess vegna þarf hún að ná í meiri tekjur, meðal annars með spariskírteinum.

Áður hafði verið ráðgert að ná hálfum öðrum milljarði í útgáfu nýrra spariskírteina. Fyrri ríkisstjórn spillti þeim möguleika í september í fyrra, er hún vildi þykjast fyrir fólki með því að sýna, að raunvextir færu lækkandi. Hún gerði skírteinin þar með illseljanleg.

Hingað til hefur aðeins náðst í um það bil 15% af hálfa aðra milljarðinum. Afganginn af skírteinunum hyggst nýja stjórnin selja með því að gera þau girnilegri á markaðinum. Það gerir hún auðvitað með því að hækka raunvextina, en það er einmitt feimnismál.

Fyrst sagði fjármálaráðherra, kotroskinn að venju, að ekki þyrfti að hækka vextina nema lítillega, af því að selja mætti skírteinin með afföllum í staðinn. Í fjölmiðlum var honum þá vinsamlega bent á, að afföll af skuldaviðurkenningum jafngiltu illa dulbúnum vöxtum.

Þess vegna hefur nú afföllunum verið frestað. Spariskírteinin fara á flot með tiltölulega lítilli hækkun raunvaxta. Ef þeir reynast ekki nógu háir til að selja bréfin eins grimmt og ríkisstjórnin telur þurfa, verður enn að hækka vextina, hreina eða dulbúna sem afföll.

Raunvextirnir voru hækkaðir úr 6,5% í 7,2%­8,5%. Sagt er, að það dugi lífeyrissjóðunum, sem ætlað er að reiða fram megnið af peningunum. Spurningin á þó ekki að vera, hvað dugi þeim, heldur hvernig þeir geti bezt ávaxtað féð, sem fólk er að safna til elliáranna.

Lífeyrissjóðirnir munu vafalaust athuga fyrst, hvort skírteinin seljast nógu vel á þessum kjörum. Þannig mun markaðurinn leiða í ljós, hverjir raunvextir þurfa að vera. Síðan munu vextir húsnæðislána fylgja á eftir. Og þá er komið að einu feimnismáli stjórnarinnar enn.

6,5% húsnæðisraunvextir skiptast nú þannig, að húseigendur greiða 3,5% og hið opinbera niðurgreiðir 3% á móti, fyrir hönd skattgreiðenda. Ljóst er, að hækkun raunvaxta, hversu mikil sem hún verður, mun endurspeglast í beinum eða niðurgreiddum húsnæðisvöxtum.

Raunvaxtadæmið felst ekki í ógáfulegum vangaveltum um, hvaða raunvextir nægi lífeyrissjóðunum og hvort fundin séu svokölluð hlutleysismörk raunvaxta af spariskírteinum, það er að segja næsta stig áður en þeir fara að hafa áhrif á aðra vexti í þjóðfélaginu.

Stóra málið er auðvitað framboð og eftirspurn peninga. Þegar ríkið ryðst af miklum þunga inn á þennan markað og ætlar á hálfu ári að ná í 1,3 milljarða að láni, þar af 1,2 milljarða umfram innlausn eldri lána, hlýtur óhjákvæmilega eitthvað mikið undan að láta.

Þessa merku staðreynd er ekki unnt að galdra brott með sjónhverfingum. Engu máli skiptir, hversu mjög ríkisstjórnin reynir að blekkja fólk með því að snyrta vandamálið og fresta því til hausts. Hinni geigvænlegu fjárþörf stjórnarinnar hlýtur að fylgja keðjuverkun.

Hrædd ríkisstjórn, sem hagar fjármálum sínum eins illa og þessi gerði strax fyrir fæðingu, hlýtur að sprengja upp raunvextina, sem voru þó óþægilega háir fyrir.

Jónas Kristjánsson

DV

Mafían sækir fram

Greinar

Daginn eftir síðustu kosningahelgi gaf landbúnaðarráðherra út grænmetisreglugerð, sem þrengdi verulega rétt neytenda frá því, sem lög gera ráð fyrir. Eftir þessum nýju starfsreglum er nú verið að vinna til að endurreisa fyrri einkasölu í hertri og grimmari mynd.

Athyglisvert er, að ráðherra skyldi velja mánudaginn eftir kosningar til að setja reglur, sem taka til baka hinn tímabundna ávinning, er neytendur náðu, þegar djarfir heildsalar rufu kartöflueinokun Grænmetisverzlunar ríkisins eftir fræga, finnska kartöfluævintýrið.

Þannig malar kerfið hægt, en örugglega. Það reynir að gefa sem minnst eftir, þegar hneykslismálin eru komin í forsíðufréttir. Þegar svo storminn lægir, fer samsæri landbúnaðarkerfisins aftur í gang til að geta afturkallað ávinninginn, þegar búið er að telja atkvæði neytenda.

Þegar boðað er til blaðamannafundar út af haugakjöti, er hann haldinn hjá Sambandi íslenzkra samvinnufélaga. Þar hefur Landbúnaðarráðuneytið orð fyrir mafíunni, en fulltrúar Búnaðarfélags, Stéttarsambands og Framleiðsluráðs fylla fjölskyldumyndina.

Þannig er mafían ein og heil, hvaða nafni sem hún nefnist eftir aðstæðum hverju sinni. Hún fyrirlítur neytendur og skattgreiðendur og telur tilverugrundvöll þeirra vera þann einan að standa undir andstyggilegu búvörukerfi, sem heldur þjóðinni í sífelldum fjárskorti.

Ekki hefur tekizt að gera gælufyrirtækin Ísfugl og Ísegg að fullgildum félögum í einkasölukerfi land búnaðarins. Það stafar þó ekki af, að haldið hafi verið uppi nægum vörnum fyrir neytendur, heldur hreinlega af, að fyrirtækin eru svo illa rekin, að með eindæmum er.

Hins vegar hefur tekizt að gera Sölufélag garðyrkjumanna að verðugum arftaka Grænmetisverzlunar landbúnaðarins í mafíunni. Í skjóli reglugerðar ráðherrans hefur félaginu tekizt að kúga og knýja framleiðendur til að skríða undir verndarvæng einokunarinnar.

Neytendur hafa ef til vill tekið eftir, að súlurit DV um grænmetisverð sýna, að í sumar hefur að verulegu leyti lagzt niður samkeppni í grænmetisverði. Hún hefur verið nokkurn veginn afnumin í framleiðslu og heildsölu og hefur því lítið svigrúm í smásölunni einni.

Afleiðingarnar eru margar og meðal annars sú, að neytendur borga kúafóður á borð við hvítkál á 80 krónur kílóið eða á svipuðu verði og kílóið af eplum. Auðvitað leiðir þetta til, að neytendur kaupa frekar epli og mafían verður að fleygja vöru sinni á haugana.

Starfsreglur ráðherrans miða líka að því, að framvegis megi banna innflutning á grænmeti, þótt sama tegund sé ekki framleidd innanlands, heldur hliðstæð tegund. Þannig má banna innflutning á hrísgrjónum, ef kartöflur seljast illa. Þetta mun hann reyna næst.

Lygin er mikilvægur hornsteinn þessa kerfis. Sama daginn og talsmaður mafíunnar sagði ekki koma til greina, að tómötum yrði fleygt á haugana, gat DV náð ljósmynd af þeim hinum sama verknaði. Og mafían notar núna orðið “markaður” yfir einokunarkerfið.

Neytendur hafa litla vörn. Stjórnmálaflokkarnir styðja mafíuna allir sem einn. Verðlagsstjóri vísar frá sér öllu, sem varðar hina heilögu kú, landbúnaðinn. Neytendasamtökin hafa ekki bolmagn til mikillar baráttu, en þau reyna þó að klóra í bakkann eftir beztu getu.

Ef neytendur vildu losna úr þrældómnum, gætu þeir þó sameinazt um að neita alveg að kaupa vörur mafíunnar. Það gera þeir þó ekki og því versnar ástandið.

Jónas Kristjánsson

DV

Rétt skal vera rétt

Greinar

Þegar ekki er gert, þegar gera á, vill framkvæmdin dragast og falla niður. Þetta þekkja margir húsbyggjendur vel. Ef tækifæri sjálfra byggingaframkvæmdanna er ekki notað til að ljúka þeim, getur farið svo, að endahnúturinn verði seint eða aldrei bundinn á þær.

Þannig er það líka í göngu þjóðanna fram eftir vegi. Við höfum oft fylgt í kjölfar Danmerkur og annarra Norðurlanda í nytsamlegri nýbreytni. En fari svo, að við missum af lestinni, verðum við oft að bíða án árangurs eftir annarri lest. Því höfum við enn sýslumenn.

Bandaríkjamenn eru heppnir að hafa notað tækifæri sjálfstæðis síns til að semja stjórnarskrá, sem tók mjög alvarlega ýmis grundvallaratriði, er voru mönnum þá ofarlega í huga. Þessi gamla forsenduharka lýsir nú leið þeirra um myrkviði kúrekanna í Hvíta húsinu.

Þegar Bandaríkjamenn sömdu stjórnarskrá sína og lögðu önnur drög að sjálfstæðu ríki, skildu þeir mjög kerfisbundið að hina nýuppgötvuðu þrjá meginþætti valdsins, framkvæmdavald, dómsvald og löggjafarvald. Þessi aðskilnaður varð þar skýrari en víðast hvar.

Við Íslendingar notuðum hvorki sjálfstæðið 1918 né lýðveldið 1944 til að veita grundvallaratriðum samskipta borgaranna innan ríkisins í farvegi, sem skynsamlegastir voru að beztu manna yfirsýn. Við höfum sífellt dregið að semja okkur nýja stjórnarskrá.

Við höfum eins og húsbyggjandinn komizt að raun um, að vel er unnt að búa í húsinu, þótt það sé ekki fullfrágengið. Þetta hefur á löngum tíma sljóvgað tilfinningu okkar fyrir því, að húsið er í raun ekki tilbúið til notkunar. Við búum því við ófullkomna stjórnarskrá.

Meðal augljósra vankanta á ríkiskerfi okkar er sameining framkvæmdavalds og dómsvalds í sýslumönnum og bæjarfógetum. Til stóð að kljúfa þetta sundur um svipað leyti og Danir lögðu niður sýslumenn. En einhverra hluta vegna varð ekki af því þá. Og stendur svo enn.

Í rauninni höfum við komizt sæmilega af með vankanta þennan. Sýslumenn og fógetar hafa í friði fengið að dæma fólk eftir vitnisburði undirmanna sinna í lögreglunni. Yfirleitt hafa þeir reynt að gera þetta af samvizkusemi. En enginn veit, hvenær það bregzt.

Rannsóknir í útlöndum hafa sýnt, að lögreglumönnum er ekki síður en öðrum hætt við að bera rangt fyrir dómi. Almennir borgarar eiga að njóta þess réttar, að kærumál lögreglunnar á hendur þeim séu þegar á fyrsta dómstigi alls ekki dæmd af sjálfum lögreglustjóranum.

Menn eru orðnir svo sljóir fyrir þessu, að jafnvel er þvælst fyrir með því að tala um, að skipting sýslumannsembætta sé of dýr. Er þó ekkert hægara en að stækka umdæmin úr sýslum í kjördæmi, þegar embættunum er skipt milli héraðsdómara og lögreglustjóra.

Einnig er þvælzt fyrir með því að segja menn geta að lokum náð rétti sínum hjá Hæstarétti. Það er hundarökfræði ráðuneytisstjóra dómsmála. Hann er með þessu að segja, að öllum málum, sem sýslumenn úrskurða, eigi í raun að bæta við málaflóð Hæstaréttar.

Íslendingar hafa ekki mikinn áhuga á nákvæmni í grundvallaratriðum. Til dæmis fékk Bandalag jafnaðarmanna lítinn hljómgrunn í stjórnmálum, þótt mörg helztu málefni þess fjölluðu einmitt um vandaðri lagningu ýmissa hornsteina á borð við aðskilnað valdsins.

Við erum svo sljó, að bezt er, að Evrópuráðið noti mál Jóns Kristinssonar til að þvinga okkur til að gera það, sem við áttum að vera búin að fyrir löngu.

Jónas Kristjánsson

DV

Stofnun trausti rúin

Greinar

Fyrir nokkrum áratugum var útilokað að rökræða af viti um þjóðhagslegar stærðir. Hagstofur voru veikburða, að svo miklu leyti sem þær voru til. Deiluaðilar, til dæmis í vinnudeilum, fóru sínu fram og bjuggu til eigin mynd af þjóðarhag eftir þörfum hverju sinni.

Smám saman lagaðist þetta töluvert. Samtök atvinnurekenda og launamanna fóru að geta talað saman á sameiginlegu tungumáli hagtölufræðinnar. Um tíma var mest mark tekið á upplýsingum forvera þeirrar stofnunar, sem nú er kölluð Þjóðhagsstofnun.

Síðan jókst samkeppni í hagspám. Samtök öflugustu aðila vinnumarkaðarins komu sér upp eigin hagdeildum. Hið sama gerðist hjá öðrum heildarsamtökum og allra stærstu stofnunum og fyrirtækjum. Tölur sumra þessara fóru oft nær hinu rétta en Þjóðhagsstofnunar.

Fyrir tæplega tveimur árum var farið að kvarta á nýjan leik yfir, að hagspár Þjóðhagsstofnunar ein kenndust af þjónustu við sjónarmið ríkisstjórnarinnar. Stofnunin spáði þá jafnan miklum mun lægri verðbólgu en aðrar hagdeildir í þjóðfélaginu gerðu.

Þá hafði ríkisstjórnin lagt fram fjárlagafrumvarp, sem ljóst var, að mundi stuðla að meiri verðbólgu en annars yrði. Þjóðhagsstofnun tók ekki tillit til þessa verðbólguhvata í næstu verðbólguspá, þótt aðrar hagstofur, óháðar ríkinu, gerðu það á almennri spástefnu.

Þáverandi forstjóri Þjóðhagsstofnunar hefur dregið eðlilega ályktun af gagnrýninni, sem stofnun hans hefur sætt á síðustu árum. Hann hefur fundið sér heppilegri vettvang í stjórnmálum. Þar getur hann nýtt diplómatíska hæfileika, sem áður sköðuðu reiknistofnunina.

En enginn veit, hvað átt hefur, fyrr en misst hefur. Ástandið hefur versnað með nýjum forstjóra. Forsmekkinn fékk þjóðin, þegar Þjóðhagsstofnun spáði mildri verðbólgu og indælum þjóðarhag fyrir kosningar, þótt allir aðrir vissu, að ríkið kynti undir verðbólgu.

Eftir síðustu áramót gekk ríkisstjórnin til verðbólgusamninga við opinbera starfsmenn til að kaupa sér frið fyrir kosningar. Í sama skyni var hún einnig að ýmsu öðru leyti örlát á fé skattgreiðenda. Þessa verðbólguhvata vanmat Þjóðhagsstofnun í hagspám sínum.

Ekki varð öllum þó ljóst, hvað var á seyði í Þjóð hagsstofnun, fyrr en Efnahagsþróunarstofnunin birti Íslandsspá sína í júní. Þar var ríkisstjórnin gagnrýnd óvenju harðlega fyrir skort á aðhaldi í fjármálum ríkisins sjálfs. Var hún vöruð við frekari hallarekstri.

“Skýrsla OECD undirstrikar mikinn árangur”, voru hin opinberu viðbrögð forstjóra Þjóðhagsstofnunar við gagnrýninni að utan. Hann lagði sérstaka áherzlu á að verja fjármálastjórn ríkisstjórnarinnar og sagði Íslandsspána síður en svo vera áfellisdóm yfir henni.

Steininn tók svo úr, þegar Þjóðhagsstofnun afhenti nýmyndaðri ríkisstjórn nýja þjóðhagsspá, þar sem verðbólguspáin hafði nærri tvöfaldast á fimm mánuðum, úr 11,5% í 20%. Þjóðhagsstofnun var, eins og í fyrri spá sinni, réttum yfirvöldum til þjónustu reiðubúin.

Gömlu ríkisstjórninni hentaði rétt fyrir kosningar að fá þjóðhagsspá, sem teldi kjósendum trú um, að gífurlegt góðæri ríkti fyrir tilverknað ríkisstjórnarinnar. Nýju ríkisstjórninni hentar hins vegar að fá spá, sem telur launafólki trú um, að allt sé á hverfanda hveli.

Þjóðhagsstofnun, sem venur sig á að þjónusta ósk hyggju ríkisstjórna á færibandi, er rúin öllu trausti. Réttilega er ekkert mark lengur tekið á tölum hennar.

Jónas Kristjánsson

DV

Umbúðir eyðist skjótt

Greinar

Léleg umgengni er áberandi í fari margra Íslendinga. Mest tengist hún drykkjusiðum þjóðarinnar, sem felast í að taka heilann úr sambandi með mikilli notkun áfengis á skömmum tíma. Við það hverfa um tíma ýmsar góðar venjur, sem siðmenntaðar þjóðir temja sér.

Um daginn var skýrt frá, að ráðizt hefði verið á líkneski af Maríu guðsmóður í garði Kristskirkju. Þessa dagana er verið að segja frá þungum áhyggjum eigenda sumarhúsa af skemmdarverkum á fyrirhugaðri Húsafellshátíð. Og alkunn er meðferðin á almenningssímum.

Undir annarlegum áhrifum grýta menn frá sér, hvar sem er, hverju sem er, einkum umbúðum. Þetta gera einnig margir, sem ekki geta afsakað sig með að hafa verið ósjálfráðir gerða sinna. Þeir eru einfaldlega ekki búnir að ná áttum í umbúðaflóði nútímaþjóðfélagsins.

Töluvert hefur að undanförnu verið rætt um aukna umbúðamengun á Íslandi. Hún er brýnt viðfangsefni, en umræðan hefur að ýmsu leyti verið reist á röngum forsendum. Margnota umbúðir eru ekki eins góð lausn og margir halda og brennanlegar umbúðir ekki heldur.

Umbúðir ropvatns stinga mest í augun. Einna illskástar þeirra eru hálfs annars lítra plastflöskurnar. Þær rúma mikið magn og eru því lengi að tæmast. Ennfremur sjást þær vel og eru auðtíndar. Þær eyðast hins vegar ekki af sjálfu sér í náttúrunni.

Næstar koma málmdósirnar, sem mest hafa verið gagnrýndar. Þær er ekki hægt að brenna. Hins vegar verða þær skjótt ryðbrúnar og falla þannig að nokkru leyti inn í landslagið og eyðast síðan að lokum. Gallinn er sá, að allt of hægt ryðga þær og eyðast.

Verri eru plastdósirnar nýju, þótt þær brenni. Þeir, sem eru sóðar og taka ekki umbúðir með sér heim, munu ekki brenna dósirnar. Auk þess er slík brennsla oft vandkvæðum bundin, þótt viljann vanti ekki. Og verst er, að plastið ryðgar ekki á sama hátt og málmur.

Í rauninni eru svo verstar hinar margnota umbúðir, sem margir mæla með. Glerið má að vísu nota aftur, svona fræðilega séð. En reynslan sýnir, að það framkallar sérstaka athafnaþrá í fullum og ófullum Íslendingum, sem telja, að gosflöskum beri að varpa í nálægt grjót.

Nokkrir áhugamenn, sem nýlega hreinsuðu úr náttúrunni ropvatnsumbúðir af öllu tagi, bölvuðu glerinu mest. Hver flaska hafði brotnað í þúsund mola, sem ógerlegt var að ná upp. Vinnan við að hreinsa hverja flösku var á við hundrað dósir og þúsund plastflöskur.

Engu máli skiptir, þótt unnt sé að skila glerflöskum og fá fyrir þær peninga. Íslendingar eru svo ríkir, að þeir þykjast ekki þurfa á því fé að halda, allra sízt yngstu kynslóðirnar, sem eyðslusamastar eru. Gler er þessu fólki einnota umbúðir, hvað sem fræðin segja.

Ropvatnsmengun verður því ekki minnkuð hér á landi með því að banna einnota umbúðir, svo sem sumir virðast halda og reynt hefur verið í öðrum löndum, þar sem árátta til glerbrota er minni en hér á landi. Við erum einfaldlega ekki eins siðmenntaðir og Danir.

Ropvatnsmengun verður ekki heldur minnkuð með því að taka upp brennanlegar plastdósir í stað ryðganlegra málmdósa. Hún verður fyrst og fremst minnkuð við að taka upp nýlega uppgötvun, dósir sem eyðast á undraskömmum tíma eftir að þær hafa verið opnaðar.

Þessari japönsku nýjung þurfum við að kynnast. Hún hentar sennilega vel íslenzkum umgengnisvenjum og getur leitt til, að banna megi aðrar umbúðir ropvatns.

Jónas Kristjánsson

DV

Vernduð þjóðfélög tapa

Greinar

Fulltrúar Íslands eru nú í Washington að reyna að fá bandarísk stjórnvöld til að hætta við að beita okkur viðskiptaþvingunum vegna hvalveiðanna, sem við köllum vísindaveiðar og stundum enn í trássi við heilbrigða skynsemi og hagsmuni okkar í utanríkisviðskiptum.

Hingað til hafa Bandaríkjamenn verið hinir þverustu og vísað til laga, sem skylda stjórnvöld til að beita okkur viðskiptaþvingunum vegna þessa leiðindamáls. Er nú svo komið, að lagakrókar og orðhengilsháttur vísindaveiða duga okkur tæpast lengur í vörninni.

Hvalveiðikárínur okkar eru dæmi um, hvernig þrýstihópar geta stjórnað viðskiptastefnu voldugra ríkja. Þar vestra ráða ferðinni tiltölulega fámennir en afar háværir hópar róttækra náttúru- og dýravina, alveg eins og hér stjórna afar þröngir eiginhagsmunir Hvals hf.

Fleira getur orðið okkur að harmi en hin mikla og síðbúna vísindahugsjón. Við gerum okkur vonir um að geta selt mikið af eldislaxi til Bandaríkjanna. Sá útflutningur mun rekast á þrönga hagsmuni bandarískra laxeldismanna, svo sem Norðmenn hafa fundið fyrir.

Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna hefur hótað innflutningsbanni á norskan eldislax á þeim forsendum, að laxinn sé fóðraður á rækjuskel, sem geti haft að geyma skaðleg efni. Rækjuskel er einmitt fóðrið, sem Íslendingar nota til að gera laxinn rauðan og girnilegan.

Skaðsemi rækjuskeljar er yfirskin. Matvælaeftirlitið bandaríska er notað þar á svipaðan hátt og embætti yfirdýralæknis hér á landi til að vernda innlenda hagsmuni. Hér er bannað að flytja inn kjöt til að vernda landbúnaðinn, en ekki til að varðveita heilsu neytenda.

Við getum ekki kvartað um höft í Bandaríkjunum og öðrum löndum, þegar við sjálf bönnum að flytja til landsins kjöt og smjör, osta og stundum grænmeti. Við erum sjálf á fullu í sjálfseyðingarstefnu haftanna. Við tökum þátt í leik, sem heitir: Allir gegn öllum.

Þegar sérhagsmunir ríkja, verða almannahagsmunir að víkja. Haftastefnan er rekin á kostnað neytenda. Í Bretlandi var nýlega reiknað út, að verndun innlendrar framleiðslu á skóm úr gerviefnum kostaði brezkt þjóðfélag tólf sinnum meira en fríverzlun mundi gera.

Íslenzkir neytendur borga íslenzka haftastefnu með því að greiða miklu meira og í sumum tilvikum margfalt meira en þeir þyrftu fyrir kjöt og smjör, osta og grænmeti. Við gætum öðlazt glæsileg lífskjör með því einu að leyfa frjálsa milliríkjaverzlun þessara vara.

Ef Bandaríkjamenn refsa okkur fyrir hvalveiðar með því að leggja stein í götu íslenzks freðfisks, eru þeir um leið að þrengja samkeppnina og hækka vöruverð í landinu. Hið sama er að segja, ef þeir reyna að koma í veg fyrir innflutning á norskum og íslenzkum eldislaxi.

Því miður blása haftavindar í Bandaríkjunum. Fyrir þinginu í Washington liggja nokkur hundruð þingmannafrumvörp, sem stefna að varðveizlu þröngra hagsmuna gegn innflutningi. Smám saman er þannig verið að smíða efnahagslífinu verndað umhverfi.

Fáar þjóðir eru eins háðar utanríkisviðskiptum og Íslendingar eru. Við ættum því að hafa forustu um að afnema eigin höft á viðskiptum milli landa og beita okkur af alefli á alþjóðlegum vettvangi fyrir eins mikilli fækkun slíkra hafta og frekast er unnt.

Allir tapa í leiknum: Allir gegn öllum. En mest tapa þeir, sem ekki telja sig þola vinda erlendrar samkeppni og búa sér, með höftum, verndað umhverfi sérhagsmuna.

Jónas Kristjánsson

DV

Vesturbrestir varða okkur

Greinar

Vestræn ríki eru sundurþykkari um þessar mundir en þau hafa lengi verið. Ekki eru horfur á, að ástandið batni. Miklu frekar má reikna með, að þau rási enn frekar sitt á hvað á næstu árum. Ágreiningsefnin eru helzt í varnarmálum og alþjóðlegum viðskiptum.

Í flestum tilvikum hafa úfar tilhneigingu til að rísa í samskiptum Bandaríkjanna annars vegar og annaðhvort Japans eða ríkja Evrópubandalagsins hins vegar. Þótt Bandaríkin séu að þessu leyti í sviðsljósinu, er óvíst, að þeim einum sé um að kenna, þegar tveir deila.

Til dæmis er eðlilegt, að Bandaríkjamenn hafi áhyggjur af, að Vestur-Evrópa leggi of lítið til sameiginlegra varna. Velmegun ríkja Evrópubandalagsins er orðin hin sama og í Bandaríkjunum og íbúafjöldinn raunar meiri en í Bandaríkjunum og Sovétríkjunum.

Bandaríkjamenn leggja sífellt meiri áherzlu á, að Vestur-Evrópa sjái sjálf um og kosti sínar varnir, svo að Bandaríkin geti einbeitt sér að vandamálum utan Evrópu. Sú tíð nálgast, að Bandaríkjamenn fækki verulega í herliði sínu í löndum evrópskra bandamanna.

Til viðbótar sjá Evrópuríki Atlantshafsbandalagsins nú fyrir sér, að yfirvofandi sé samkomulag heimsveldanna tveggja, Bandaríkjanna og Sovétríkjanna, um róttækan samdrátt í kjarnorkuviðbúnaði. Þá má búast við, að gisni hin bandaríska kjarnorkuregnhlíf Evrópu.

Viðbrögðin eru margvísleg. Talað hefur verið um að endurreisa hið andvana fædda varnarbandalag Evrópu. Í Vestur-Þýzkalandi heyrast raddir um, að stofna þurfi sameiginlegan her Frakka og Þjóðverja undir frönskum yfirhershöfðingja og franskri kjarnorkuregnhlíf.

Aðrir telja skynsamlegt, að Vestur-Þýzkaland stefni að sameiningu við Austur-Þýzkaland í hlutlausu ríki, sem verði þungamiðja Mið-Evrópu og hafi víðtæk áhrif á Austur-Evrópu, þar sem nú eru leppríki Sovétríkjanna. Þeir telja sögulegt samhengi í slíkri stefnu.

Altjend má reikna með, að væntanlegur samningur Bandaríkjanna og Sovétríkjanna um samdrátt kjarnorkuviðbúnaðar muni verða fyrsta skrefið frá núverandi jafnvægiskerfi Atlantshafs- og Varsjárbandalaga. Núgildandi trúarsetningar geta orðið harla lítils virði.

Íslendingar þurfa að fylgjast vel með þessari framvindu. Við þurfum að átta okkur á, hvaða möguleikum við getum haldið opnum og hvert við viljum helzt halla okkur, þegar á reynir. Við höfum ekki eigin varnir að neinu gagni og erum háðir bandalögum við nágranna.

Ofan á þetta sjáum við fyrir, að samningar um mikla fækkun kjarnorkuvopna á meginlandi Evrópu geta leitt til aukins kjarnorkuviðbúnaðar í Norður-Atlantshafi. Þar með erum við komnir enn fjær gömlu einangruninni og nær spennumiðju í glímu heimsveldanna.

Við stöndum einnig andspænis örlagaríkum ákvörðunum um afstöðu okkar í breyttu mynztri viðskipta. Milli Bandaríkjanna, Japans og Evrópubandalagsins fara vaxandi hin efnahagslegu illindi. Hver sakar annan um haftastefnu og magnar viðskiptastríð Vesturlanda.

Hvort sem litið er á samstarf um varnir eða um verkaskiptingu í viðskiptum og efnahagsmálum, er ljóst, að gífurlegir brestir eru komnir í hina tiltölulega heildstæðu mynd iðnþróaðra ríkja vestantjalds. Brestunum fjölgar og þeir gliðna, þótt reynt sé að mála yfir þá.

Við erum þjóð, sem lifum annars vegar á alþjóðlegri fríverzlunarstefnu og hins vegar í hernaðarlegu skjóli. Brestirnir varða okkur meira en flestar aðrar þjóðir.

Jónas Kristjánsson

DV

Kærkomin hvíld til hausts

Greinar

Íslenzk stjórnmál munu nú leggjast í dvala, þegar nýja ríkisstjórnin hefur komið sér fyrir í hægum sessi. Hvorki stjórn né stjórnarandstaða er líkleg til átaka fyrr en í byrjun október, því að þreytan er mikil eftir kosningar vorsins og stjórnarmyndun sumarsins.

Ekki gekk þrautalítið hjá stjórnmálamönnum okkar að koma sér í laxveiðar og annað dútl við hæfi. Ríkisstjórnin fór afar illa af stað. Aðgerðir hennar komu út með afturfæturna á undan, svo að fyrsta aðgerð hennar reyndist verða sú að fresta fyrstu aðgerðum.

Úti í atvinnulífinu þætti auðvitað til skammar að vera vikum saman á svokölluðum rífandi gangi við að mynda stjórn, með þeim árangri, að útkoman verður slíkt rugl, að ekki er unnt að framkvæma það að sinni. En það er tæpast nýtt, að stjórnmálamenn klúðri málum.

Eðlilegt er, að kjósendur velti fyrir sér, hvort umboðsmenn þeirra gætu unnið fyrir sér í öðru starfi, til dæmis úti í atvinnulífinu. Líklega yrði það erfitt, því að stjórnmálin fjalla að verulegu leyti um annað en árangur. Þau fjalla um risnu og stóla, fé og ráðherrabíla.

Stjórnarandstaðan mun hafa hægt um sig til hausts. Alþýðubandalagið vék sér skynsamlega undan tilraunum til stjórnarmyndunar, enda mun það ekki hafa orku til annars næstu mánuði en að höggva á hnút ágreiningsins um, hver eigi að stjórna flokknum næstu árin.

Kvennalistinn var ekki eins heppinn. Eftir atrennu að stjórnarmyndun sat hann uppi sem sértrúarflokkur, er verður seint beðinn aftur um að taka þátt í ríkisstjórn. Hann kann ekki að sveigja málefni sín í farveg, sem hægt er að ná samkomulagi um að sigla eftir.

Fyrir neytendur var fróðlegt að heyra í síðustu viku, að Kvennalistinn vill lækka dilkakjötsfjallið með því að hætta að borða ýmsa innflutta neyzluvöru, væntanlega með valdboði. Þetta er miðaldaskoðun þess flokks, sem sennilega verður harðastur í stjórnarandstöðu.

Kvennalistinn mun halda áfram að rækta sértrú sína og sérstöðu með hinni grónu sjálfsvorkunn, að allir séu vondir við hann. Kvartað verður áfram um lítinn aðgang að fjölmiðlum, þótt listinn hafi í rauninni ekki nennt að nota sér hinn mikla aðgang, sem hann hefur.

Borgaraflokkurinn hefur svo gersamlega týnzt eftir kosningar, að erfitt er að trúa, að hann hafi sjö fulltrúa á þingi. Samanlögð er fyrirferð þeirra eins og tæplega einnar kvennalistakonu. Hugsanlegt er, að enginn nenni að auglýsa í haust eftir hinum týnda flokki.

Af stjórnarflokkunum er hlutur Alþýðuflokksins sýnu verstur. Allir virðast vera sammála um, að flokkurinn hefur einfaldlega gerzt þriðja hjólið undir gömlu stjórnarkerrunni. Flokkurinn fær engum stefnumálum framgengt að launum, ekki einu sinni kaupleiguruglinu.

Í stöðu Alþýðuflokksins sjáum við í hnotskurn hinn pólitíska raunveruleika. Flokkar virðast ekki vera mjög virk tæki til að koma stefnumálum fram, en geta við vissar aðstæður komið að gagni við að bæta kjör og aðstöðu þeirra flokksforingja, sem verða ráðherrar.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur fá og valdalítil embætti í ríkisstjórn, sem hann hefur þó tekið forustu fyrir. Næstum útilokað er, að flokkurinn geti notað ríkisstjórnina til að marka slík spor í þjóðlífið, að hann geti borið höfuðið hátt í næstu kosningabaráttu.

Ríkisstjórnin ekur í sumarleyfið í gamalli kerru, þar sem Jón Baldvin er viðgerðarmaðurinn, Þorsteinn vagnstjórinn og Steingrímur farþeginn, sem ræður ferðinni.

Jónas Kristjánsson

DV

Ollie skáti í leikhúsinu

Greinar

“Ef þingið hefði gert skyldu sína, hefði ég ekki þurft að gera þetta”, sagði Oliver North, fyrrum öryggisfulltrúi Reagans Bandaríkjaforseta, nýlega í yfirheyrslu hjá þingnefnd. Hann hefði ekki þurft að ljúga og stela, falsa skjöl og eyða þeim, ef þingið hefði gert skyldu sína.

Þetta brenglaða viðhorf til leikreglna þjóðfélagsins er gamalkunnugt og útbreitt. Við þekkjum spakmæli, sem segir, að nauðsyn brjóti lög. Við eigum nýjan forsætisráðherra, sem keypti Mjólkursamsöluhús og óperu, af því að Alþingi hafði ekki gert skyldu sína.

Komið hefur greinilega í ljós, að öryggisnefndarliðið í kjallara Hvíta hússins, allt frá Fanny Hall og upp úr, taldi nauðsyn brjóta lög og naut til þess stuðnings þáverandi yfirmanns leyniþjónustunnar, sem nú er látinn. “Stundum verður að fara hærra en lögin”, sagði Fanny.

Efnisatriði þessa máls hafa vakið minni ólgu í Bandaríkjunum en leikhúsið í kringum höfuðpersónurnar. Samanlagt eru Fanny og Ollie og fleira fólk eins og í óraunverulegri James Bond bíómynd. Sem hetjur tjaldsins og skjásins eru þau orðin að almenningseign.

Framganga Olivers Norths í sjónvarpi vekur mikla athygli. Í yfirheyrslum leikur hann hlutverk hins góða skáta, sem ávallt er reiðubúinn. Með barnslegum og heiðskírum svip rekur hann, hvernig hann hefur barizt við hið illa og gert skyldu sína, er þingið brást.

Þetta hefur gert hann að ljúflingi fjölda fólks í Banda ríkjunum. Aðdáunarbréfin berast í stríðum straumum. Háværar hugmyndir eru um, að hann verði kosinn næsti forseti Bandaríkjanna. Við liggur, að telja megi, að hann yrði sjálfkjörinn, ef hann kvæntist Fanny Hall.

Vestrænt þjóðskipulag er komið í mikla hættu, þegar viðbrögð mikils fjölda fólks eru í þessum dúr. Áhorfendur eru þá í nokkrum mæli hættir að gera greinarmun á draumaheimi Bonds og raunverulegum afbrotaheimi Norths. Sjónvarpsfréttir og sápa renna saman í eitt.

Sjónvarpið er að eðlisfari afþreyingarmiðill fremur en fréttamiðill. Fréttir þess þarf að beygja undir hin myndrænu lögmál leikhússins. Áhorfendur muna betur eftir einföldum eða flóknum klæðasmekk fréttaþularins en innihaldi fréttanna, sem hann var að segja.

Kenning Marshalls McLuhans er, að miðillinn sjálfur sé skilaboðin, sem hann flytur. Það skilst illa á íslenzku. Hefði hann unnið á Keflavíkurvelli á tíma frægrar gamansögu, hefði hann orðað þetta svo, að hjólbörurnar séu hlassið, sem smyglað er út af vellinum.

Hið alvarlegasta í máli þessu er, að áhorfendur trúa betur fréttum sjónvarps en lesendur trúa fréttum prentaðra fjölmiðla. Þetta hefur hvað eftir annað verið mælt í Bandaríkjunum og raunar einu sinni líka hér á Íslandi. Leikhúsið er trúverðugra en raunveruleikinn.

Bandaríkjamenn eru orðnir svo grátt leiknir af sjónvarpi, að sjónvarpssápa er orðin að veruleika margra. Einföld og brengluð heimsmynd sækir fram. Þetta hefur á síðustu árum meðal annars komið fram í grófari dólgshætti í bandarískri framkomu við bandamannaþjóðir.

Mesta hvalveiðiþjóð heims ætlar að beita viðskiptaofbeldi til að skrúfa fyrir tiltölulega litlar hvalveiðar Íslendinga. Mesta haftaþjóð heims er sífellt að beita viðskiptaofbeldi gegn Japönum og Vestur-Þjóðverjum. Stefnan vestra er að sjá aldrei bjálka í eigin auga.

Hetja hins nýja óraunsæis úr bíómyndum og sjónvarpsfréttum er þessa dagana skúrkurinn Oliver North, sem hefur svo einstaklega skátalegan svip í leikhúsinu.

Jónas Kristjánsson

DV

Gorbatsjov og gróðinn

Greinar

Gorbatsjov Sovétleiðtogi er að reyna að efla hagstyrk Sovétríkjanna og auka hagkvæmni efnahagslífsins. Hann hefur áttað sig á, að til þess þarf hann að virkja gróðahvatir og leyfa markaðsöflum að leysa miðstýringu af hólmi. Um þetta standa deilur í flokki hans.

Aðgerðir Gorbatsjovs stefna ekki að annarri þróun í átt til lýðræðis og mannúðar en nauðsynleg kann að reynast til að ná hinum hagrænu markmiðum. Opnun í þjóðfélaginu er ekki markmið út af fyrir sig, heldur ill nauðsyn til að gera Sovétríkin arðsamari og ríkari.

Hinn villimannlega styrjöld Sovétríkjanna í Afganistan er rekin af sömu hörku og fyrr. Fólki hefur ekki verið gert auðveldara að flytjast frá Sovétríkjunum. Ekkert lát er á misþyrmingum andófsmanna á geð veikrahælum. Leppríkin eru tugtuð í sama mæli og áður.

Jákvæð áhrif af hagstefnu Gorbatsjovs sjást helzt í samskiptum austurs og vesturs. Frumkvæði Sovétríkjanna í tilraunum til samkomulags um takmörkun og samdrátt vígbúnaðar er mikilvægur þáttur í að beina afli atvinnulífsins að hagkvæmari verkefnum.

Hin hagrænu sjónarmið, sem eru að baki þíðustefnunnar, draga ekki úr gildi hennar fyrir Vesturlönd. Atlantshafsbandalagið þarf að mæta frumkvæðinu á virkari hátt en gert hefur verið að undanförnu og láta þíðuna leiða til samninga um hjöðnun vígbúnaðar.

Heima fyrir má búast við frekari deilum um hina nýju hagstefnu Gorbatsjovs. Yfirstétt kommúnistaflokksins mun ekki átakalaust sleppa neinu umtalsverðu af völdum sínum og lífsþægindum. Þegar hefur verið reynt að spilla fyrir breytingunum og tefja þær.

Herferðin gegn ofneyzlu áfengis hefur gengið fremur illa. Ennfremur hafa tilraunir til að leyfa mönnum að stunda brask utan vinnu í mörgum tilvikum haft þveröfug áhrif, því að kerfið hefur einmitt tekið þá hastarlega í gegn, sem ætluðu að hafa hag af nýbreytninni.

Hinir fjölmörgu og valdamiklu, sem hafa hag af kyrrstöðu, bíða þess færis, að í ljós komi, að efnahagsávinningur breytinganna reynist lítill, en herkostnaður sé of þungbær, til dæmis í formi of mikillar tilætlunarsemi hinnar nýju miðstéttar, sem eflist í breytingunum.

Mikil valdastreita út af þessu getur á óbeinan hátt aukið ófriðarhættuna í heiminum. Það er gamalkunnug saga, að menn reyna að draga úr ágreiningi inn á við eða breiða yfir hann með því að draga upp ýkta mynd af erlendum óvini, sem menn verði að sameinast gegn.

Ef hins vegar Gorbatsjov tekst að herma vel eftir Ungverjum og Kínverjum í að virkja markaðshyggjuna, er óhjákvæmilegt, að sovézka þjóðfélagið fari að ókyrrast og vilji losna úr fleiri spennitreyjum. Það getur leitt til friðsamari og hættuminni Sovétríkja í framtíðinni.

Gorbatsjov er að hreinsa flokk, ríkisbákn, her og leyniþjónustu. Hafin eru endurmenntunarnámskeið til að sníða nýja tegund stjórnenda. Alls staðar er þörf á menntuðu fólki til að gera Sovétríkjunum kleift að fylgja efnahagslega í humátt á eftir vestrinu.

Þetta hámenntaða fólk sættir sig ekki endalaust við að hafa ekkert að segja í stjórnmálum og þurfa að sæta ömurlegum fjölmiðlakosti. Það fer að heimta frelsi til að hafa fjölbreyttar skoðanir og til að njóta fjölbreytts upplýsingaflæðis utan kerfis ríkis og flokks.

Gorbatsjov getur misst völdin eins og Krjústjov. Tilraun hans er vörðuð hættum, bæði heima fyrir og út á við. En hún getur einnig reynzt efla frelsi og frið.

Jónas Kristjánsson

DV

Út á gaddinn með hann

Greinar

Sjávarútvegur okkar sækir afurðir í takmarkaða auðlind. Fiskifræðingar áætla, hversu mikið sé óhætt að veiða af hverri tegund. Þetta mat þeirra samþykkja málsaðilar undanbragðalítið. Settur er veiðikvóti, sem endurspeglar í stórum dráttum mat fiskifræðinga.

Þjóðaróvinurinn sækir líka afurðir í takmarkaða auðlind. Hinn hefðbundni landbúnaður ber höfuðábyrgð á, að gróður á afréttum minnkar þrisvar sinnum meira en sem svarar uppgræðslu. Ekkert mark er tekið á viðvörunum gróðurfræðinga um hnignun auðlindarinnar.

“Nálin er svo holl”, segja bændur, þegar þeir reka sauðfé á fjall á viðkvæmasta tíma í trássi við óskir landgræðslumanna. Þannig er hratt og örugglega verið að eyðileggja flesta afrétti landsins, fremsta í flokki afrétti Mývetninga, Landmanna og Biskupstungna.

Þótt sjávarútvegurinn taki ekki meira en svo af sinni auðlind, að hún haldi heildarverðgildi sínu, er aflinn oft meiri en góðu hófi gegnir, til dæmis núna. Fiskvinnslan getur ekki tekið við honum. Aukið magn er selt á lágu sumarverði á erlendum uppboðsmarkaði.

Hið lága verð, sem kemur út úr slíkum viðskiptum, hvetur sjómenn og útgerðarmenn til að haga veiðum sínum með auknu tilliti til markaðarins. Útgerðarmenn dreifa togarasölum erlendis og eru að reyna að byrja að stuðla að hliðstæðu framboðsjafnvægi í gámafiski.

Lögmál framboðs og eftirspurnar, gæða og verðlags hafa haldið innreið sína í verzlun sjávarafurða innanlands. Fiskmarkaðir hafa tekið til starfa og fiskverð hefur verið gefið frjálst. Þessar breytingar munu enn treysta stöðu sjávarútvegs sem sjálfstæðs atvinnuvegar.

Í höfuðóvini þjóðarinnar er engin slík samræming á framboði og eftirspurn. Ríkið hefur nýlega gert samning til fjögurra ára um að ábyrgjast óskerta offramleiðslu á dilkakjöti og mjólk, á 11 þúsund lestum af kjöti og 104 milljón lítrum af mjólk, hvort tveggja á ári hverju.

Ríkið reynir að koma hluta af þessu út á innlendum markaði með því að niðurgreiða verð á afurðum heilagra kúa og kinda og með því að leggja ofsahátt kjarnfóðurgjald á afurðir vanhelgra alifugla og svína, sem ekki teljast til hefðbundins landbúnaðar.

Dálítið af kjötinu er gefið Japönum á 15 krónur kílóið og refum á 5 krónur kílóið. Afgangurinn er svo notaður í nokkur ár til að hjálpa vinnslustöðvum til að greiða niður fjármagnskostnað af frystigeymslum. Síðan er honum ekið á haugana, svo sem frægt er orðið.

Ef ríkið væri ekki að reyna að hagræða matarvenjum þjóðarinnar og halda uppi fáránlega dýrri framleiðslu á smjöri, ostum og annarri búvöru, væri markaður hér fyrir um það bil 5.000 lestir af dilkakjöti og um 40.000 lítra af mjólk eða innan við helming núverandi magns.

Ríkið á að hætta niðurgreiðslum, uppbótum, millifærslum, styrkjum og öðrum peningatilfærslum í landbúnaði og gefa verzlun búvöru frjálsa innanlands og milli landa. Þar með réði markaðurinn framleiðslumagninu og ofbitið Ísland fengi langþráðan frið.

Því miður felst hin pólitíska staða í, að flokkar hinnar nýju ríkisstjórnar vilja óbreytta ofbeit og offramleiðslu, og stjórnarandstaðan vill yfirbjóða stjórnina í stuðningi við ofbeit og svokallað jafnvægi í byggð landsins. Enginn einasti flokkur vill lina á vitleysunni.

Íslendingar væru ríkasta þjóð í heimi, ef landbúnaðinum væri hleypt út á gaddinn, þar sem fyrir er frískur sjávarútvegurinn, hornsteinn velmegunar þjóðarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Nýja stjórnin er gömul

Greinar

Nýja ríkisstjórnin, sem tekur við á morgun, mun starfa nokkurn veginn í sama anda og hin fyrri. Helzta breytingin er, að nýir menn koma inn fyrir gamla. Að stefnu til felst veganesti nýju stjórnarinnar í að halda áfram í sama farvegi og gamla stjórnin.

Eina umtalsverða frávikið í stjórnarstefnunni er, að nýja stjórnin hefur fyrirfram gefizt upp við tilraunir til að spara og skera niður í opinberum rekstri. Slík voðamál voru alls ekki rædd í samningum um myndun stjórnarinnar. Áður gátu menn ekki, en reyndu þó.

Úr því að hvorki má spara né skera niður, að mati nýju stjórnarinnar, er illskárra að hækka skatta en að halda áfram miklum halla á ríkisbúskapnum. Nýja stjórnin ætlar sem betur fer að hækka skatta í stað þess að hlýða skottulæknum, sem segja halla meinlítinn.

Að mörgu leyti er hinn gamli farvegur ágætur. Raunvextir hafa innleitt bætta notkun peninga og aukið framboð á lánsfé. Fiskmarkaður og frjálst fiskverð hafa ýtt sjávarútvegi á framtíðarbraut. Verðbólga hefur verið mun minni en allar götur síðan í Viðreisn.

Ef nýja stjórnin varðveitir þessa nýlegu hornsteina velmegunar, verður hægt að fyrirgefa henni margt annað. En í margorðum gögnum hennar bendir fátt til, að hún ætli að bæta við nýjum hornsteinum. Það er ekki kjarkmikil ríkisstjórn, sem tekur við á morgun.

Stóri meginþröskuldurinn í vegi framfara verður látinn liggja óhreyfður. Fyrsta atriðið, sem flokkarnir þrír komu sér saman um, var, að ekki skyldi hreyfa við stefnunni í hefðbundnum landbúnaði. Hún felst m.a. í ríkisábyrgð í nýlegum og umdeildum búvörusamningi.

Ekki skiptir miklu, hver framkvæmir þessa makalausu verðmætabrennslu. Jón Helgason er að því leyti heppilegri en margir aðrir, að hann hefur ekkert samvizkubit. Önnur efni í öskuhaugaráðherra gætu farið á taugum, þegar gefur á bátinn. Sem verður oft.

Hið eina, utan nýrra ráðherra, sem Alþýðuflokkurinn hefur í farteski sínu í flutningnum upp í stjórnarkerruna, er óljóst og lítt áþreifanlegt tillit, sem á að taka til sérútgáfu Jóhönnu Sigurðardóttur af gömlu kerfi verkamannabústaða og af nýjum kenningum um búsetu.

Líklega verður Jóhanna eini ráðherrann, sem ekki mun líða feiknarvel í sessi. Hætt er við, að áhugamál hennar hafi lítinn hljómgrunn í þessari ríkisstjórn. Því verður henni nánast ókleift að mæta kjósendum aftur í kosningum sem eins konar íslenzk Jóhanna af Örk.

Atriðin, sem hér hafa verið nefnd, má lesa milli lína í annars marklitlum gögnum á borð við stefnuyfirlýsingu og verkefnaskrá. Sjálfur textinn er hins vegar meiningarlaust hjal um takmarkalaust góðan, 24 blaðsíðna vilja hinnar nýju ríkisstjórnar á öllum sviðum.

Auðvitað eru það svo mennirnir, en ekki málefnin, sem mestu skipta. Málefnin eru bara orð á pappír, en mennirnir hafa völd. Íslenzka stjórnkerfið afhendir ráðherrum mikil völd og því miður líka mikla möguleika á að misnota völdin og hundsa stjórnarskrá og lög.

Sem betur fer bendir allt til, að Sverrir Hermannsson verði ekki aftur ráðherra. Ráðherraferill hans var með þeim hætti, að Bandaríkjamenn hefðu sagt, að hann sveipaði sig þjóðfánanum og hrækti á stjórnarskrána. Bezt væri að fá að líta á þetta sem afmarkað slys.

Annars er nýja stjórnin framhald gömlu stjórnarinnar og markar engin sérstök tímamót. Hún flytur ekki með sér nýjar hættur og ekki heldur ný ævintýri.

Jónas Kristjánsson

DV

Ný mýri í fenjaráðuneytinu

Greinar

Margar eru góðgerðarstofnanirnar og mörg eru samtökin, sem leita ásjár hjá skattborgaranum. Á hverju hausti eru lögð inn hundruð umsókna um fé úr ríkissjóði. Hjá sumum eru nokkur hundruð þúsunda króna í húfi, en aðrir telja sig þurfa á milljónum að halda.

Fjárveitinganefnd Alþingis úthlutar skattborgarafé til þessara þarfa sem annarra. Heildarfjármagnið takmarkast af pólitísku mati á, hversu mikil velta megi vera á ríkissjóði hverju sinni. Peningarnir fara mest í fastan rekstur og lítið er afgangs til ýmissar ölmusu.

Fjárveitinganefnd er skipuð meirihluta, sem ræður ferðinni í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar, og minnihluta, sem gagnrýnir gerðir meirihlutans. Úr þessu fæst niðurstaða, sem byggist á umfjöllun, er nú á tímum getur talizt meira eða minna málefnaleg.

Sameinað Alþingi staðfestir síðan fjárlögin frá fjárveitinganefnd rétt fyrir áramót og setur þannig skorður ríkisrekstri næsta árs. Þetta er veigamikill þáttur í þjóðskipulagi okkar og einn af helztu hornsteinum lýðræðisins. Þetta á að vera vörn gegn geðþóttastjórn.

Við skömmtun fjármagnsins verður útundan langur listi góðra mála. Ekki er hægt að kaupa ákveðin hjálpar tæki handa fötluðum börnum. Ekki er hægt að veita ýmsar tegundir sérkennslu. Ekki er hægt að aðstoða ýmsa merka rithöfunda við að ná mannsæmandi tekjum.

Einn þeirra ótal aðila, sem hafa farið bónleiðir til búðar, er Íslenzka óperan í Gamla bíói. Ekki náðist pólitískt meirihlutasamkomulag um, að þarfir hennar væru eins brýnar og þarfir annarra, sem komust á fjárlög ársins. Enda eru Íslendingar ekki milljónaþjóð.

Óperumenn snéru sér þá að því að sleikja ráðherra menntamála, sem er orðinn illræmdur fyrir algeran skort á skilningi á eðlilegum vinnubrögðum í ríki lýðræðis og þingræðis og hefur víðtæka minnimáttarþörf á að baða sig í málskrúði um íslenzka menningu.

Sverrir Hermannsson hafði áður afhent Kvikmyndasjóði húsnæði og tíu milljónir króna, þótt hann hefði ekki til þess heimild, þar sem þær þarfir komust ekki gegnum nálarauga Alþingis. Hann hefur líka keypt Mjólkursamsölu undir Þjóðskjalasafn, án leyfis.

Sem betur fer fyrir lýðræðið í landinu er Sverrir að hætta skrautlegum ráðherraferli sínum. Hann getur því ekki efnt loforð um, að stóreignaskattur Þjóðarbókhlöðu verði innheimtur áfram til að byggja Tónlistarhöll. Örlæti hans á annarra fé verða takmörk sett.

Því miður gildir ekki hið sama um fjármálaráðherrann, sem hefur í vetur verið meðsekur menntaráðherranum í hinum ólöglegu fjármagnsflutningum, þar á meðal í ríkisrekstri Óperunnar. Þorsteinn Pálsson verður í næstu viku gerður að forsætisráðherra.

Þeir hafa tekið saman höndum um að veita Óperunni þrettán milljónir króna framhjá fjárlögum þessa árs og lofa henni átta milljónum króna á ári næstu þrjú árin. Samtals hafa þeir skuldbundið hina örlátu skattgreiðendur til að greiða Óperunni 37 milljónir króna.

Með þessu hafa tveir ráðherrar í stjórn, sem ekki hefur meirihluta á Alþingi, ákveðið að gera Óperuna að hliðstæðu ríkisfyrirtæki og Þjóðleikhúsið, án þess að spyrja Alþingi ráða eða fara á nokkurn hátt eftir þeim reglum, sem fylgt hafa og fylgja eiga þingræði.

Ekki er víst, að Óperan blómstri lengi sem ný mýri í því fenjaráðuneyti, sem menntaráðuneytið er orðið. En hún þarf ekki lengur á velvild almennings að halda.

Jónas Kristjánsson

DV