Author Archive

Gámar og útlendingar

Greinar

Þessa dagana er einu sinni sem oftar verið að reyna að fá útlendinga til að starfa í frystihúsunum, svo að þau komist yfir að varðveita aflann, sem berst að landi. Á sama tíma er verið að amast við, að fiskurinn, sem frystihúsin komast ekki yfir, sé fluttur út í gámum.

Veiðikvóti skipa, sem selja í gáma, er skertur um 10% af þeim hluta aflans. Þar á ofan er greitt sérstakt 90 aura gjald á hvert kíló af þorski og 25 aura gjald af öðrum fiski, sem fluttur er út í gámum. Fiskvinnslu-sölusamtökin eru að reyna að fá þessar álögur auknar.

Gjaldið er ólíkt öðru verðjöfnunargjaldi í sjávarútvegi. Það rennur ekki eftir árferði fram og til baka til þeirra, sem greiða það. Ísfiskútflutningurinn fékk til dæmis enga endurgreiðslu, þegar Þýzkalandsmarkaðurinn hrundi vegna hringormakvikmyndar í sjónvarpi.

Í gámamálinu hefur Vestmannaeyjabær fengið gert fyrir sig áróðursplagg, sem kallað er skýrsla. Höfundur þess hefur ítarlegar skoðanir á málinu og flytur þær ákaft, en lætur fylgja með tölur, til að menn haldi, að raunvísindi séu á ferð, en ekki þrætubókarlist.

Með áróðursplaggi þessu hefur Vestmannaeyjabær tekið málstað frystihúsa og fiskvinnslufólks gegn málstað útgerðar og sjómanna í hagsmunaárekstri þessara aðila. Kaupstaðurinn hefur skipað sér í sveit með einokunarsamtökum útflutningsfyrirtækja fiskvinnslunnar.

Þessum hagsmunaaðilum hefur tekizt að knýja fram gámaálögur á útgerð og sjómenn og vilja fá þær auknar. Þar með vilja þeir fá vernduð frystihús, sem hafa svo litla og lélega framleiðni, að þau geta ekki greitt nægilegt kaup til að fá íslenzkt fólk til starfa.

Með færslu fjármuna frá útgerð og sjómönnum til fiskvinnslu vilja frystihúsin geta staðið undir kostnaði við að útvega útlendinga til starfa, greiða ferðir þeirra og uppihald og almennt séð forðað sér frá því að takast á við vanda lítilfjörlegrar framleiðni og lágs kaups.

Eitt helzta markmið okkar ætti að vera að efla atvinnugreinar, sem hafa gífurlega framleiðni og geta borgað sældarlaun, svo sem er í sjómennsku, en draga úr og breyta greinum, sem hafa dapra framleiðni og borga svo vond laun, að fá þarf útlendinga til starfa.

Lág laun í fiskvinnslu stafa af, að verðmætisaukningin er lítil. Ísfiskur selst til dæmis erlendis á sama verði og freðfiskur. Bezti fiskurinn selst á mun hærra verði sem ísfiskur. En lægra ísfiskverð er á ýmsum afgöngum, sem fiskvinnslan hendir í gáma vegna manneklu.

Til að breiða yfir þessar staðreyndir endurtaka talsmenn fiskvinnslunnar sífellt þá blekkingu, að hún sé fullvinnsla, en ísfiskurinn sé hráefni. Hið rétta er, að fiskvinnslan er að verulegu leyti bara geymsluaðferð, sem á í vök að verjast vegna bættrar flutningatækni.

Fiskmarkaðirnir nýju hafa breytt mati á verðgildi afla upp úr sjó og hvatt til nýrra framleiðslurása í fiskvinnslu, sem geta staðið undir markaðsverði á fiski. Slíkum mörkuðum mun fjölga og þeir munu knýja fram endurhæfinguna, sem fiskvinnslan vill forðast.

Fiskmarkaðir eru mun heilbrigðari vörn gegn óhóflegum gámafiski en skattlagning, kvótafrádráttur og aðrar kvaðir, sem færa fé frá arðbærri og launadrjúgri starfsemi yfir til hinnar þreyttu, sem vill verða kvígildi eða ómagi á borð við hefðbundinn landbúnað.

Mikilvægt er, að þjóðin verði á varðbergi gegn freistingum stjórnmálamanna, sem hneigjast til að þjóna hagsmunum útflutningshringa fiskiðnaðarins.

Jónas Kristjánsson

DV

Bákninu tekið haustak

Greinar

Bezta eða skásta hlið hinnar nýju ríkisstjórnar felst í viðleitni Jóns Hannibalssonar fjármálaráðherra við að koma viti í fjárlagafrumvarpið, sem lagt verður fyrir Alþingi eftir mánuð. Hann kynnti ríkisstjórninni raunhæfar hugmyndir um þetta fyrr í vikunni.

Viðskilnaður fyrrverandi fjármálaráðherra, Þorsteins Pálssonar, var óvenjulega ömurlegur, þriggja milljarða halli á A-hluta fjárlaga á þessu ári og spá um hálfs fjórða milljarðs halla á A-hlutanum á næsta ári. Við þetta bætist svo halli á B og C hluta ríkisfjármála.

Jón hefur lagt til, að halli næsta árs verði skorinn niður úr hálfum fjórða milljarði í tæplega hálfan annan milljarð og að síðan verði ríkissjóður gerður út hallalaust árið þar á eftir, 1989. Hingað til hefur ríkisstjórnin talað um, að ná þessu marki á þremur árum.

Réttar eru röksemdir Jóns fyrir harkalegri viðbrögðum. Hinn mikli halli ríkisbúskaparins er veigamesti spennuvaldurinn í atvinnulífinu og grefur hratt undan áformum um stöðugt verðlag og fast gengi krónunnar. Þennan spennuvald verður að taka strax frá þjóðinni.

Æskilegast er að ná sem mestum hluta mismunarins með því að skera niður ríkisútgjöld. Þau eru því miður meira eða minna mörkuð ákveðnum verkefnum eða hafa tilhneigingu til að hækka sjálfvirkt. Þessa mörkun og sjálfvirkni þarf að afnema til að ná árangri.

Til dæmis verður að setja hömlur við smíði sjúkrahúsnæðis, sem ekki er hægt að reka. Einnig verður að setja sjúkrahúslið fjárlaga ákveðið hámark, til dæmis hundraðshluta af þjóðartekjum, og halda rekstrarútgjöldum innan rammans, þótt kveinað verði um allt land.

Annar liður, sem hingað til hefur haft siðferðilegt haustak á kerfinu, eru vegamálin. Einnig þar verður að setja framkvæmdum og rekstri eitthvert hámark, hundraðshluta af þjóðartekjum, og láta ekki óskhyggju eða aðrar fagrar hugsjónir trufla einbeittan niðurskurð.

Fjármálaráðherra hefur réttilega staðnæmzt við niðurgreiðslur búvöru sem vænlegasta niðurskurðarliðinn, heilan milljarð króna. Það hefur vakið lítinn fögnuð í hjörtum annarra ráðherra, sem yfirleitt gæta hagsmuna hefðbundins landbúnaðar gegn þjóðarhagsmunum.

Þeir benda á, að niðurskurður dragi úr sölu þessara afurða, og viðurkenna um leið, að niðurgreiðslur eru fyrir landbúnaðinn, en ekki neytendur. Þeir benda á, að söluminnkunin auki þörfina á útflutningsuppbótum, af því að ríkið tekur ábyrgð á öllu sukkinu.

Þessar ábendingar minna á, að fyrrverandi ríkisstjórn framdi undir andlátið verknað, sem líklega er lögbrot. Hún ábyrgðist kaup á einokunarverði á verulegu magni af kindakjöti og mjólkurafurðum, sem er langt umfram það, er þjóðin þarf að nota.

Að svo miklu leyti sem niðurskurður dugar ekki til að ná endum saman kemur til greina að hækka skatta. En þá verður ríkisstjórnin að gera sér grein fyrir, hvern hún telur vera eðlilegan hámarkshlut ríkisbáknsins af þjóðarbúskapnum. Sá hlutur er nú um þriðjungur.

Alltaf er freistandi að leysa mál ríkissjóðs með því að hækka skatta. Smám saman verður hlutur hans of hár og sligar undirbyggingu efnahagslífsins. Skattahækkanir hafa tilhneigingu til að enda með skelfingu. Um það eru ótal dæmi í veraldarsögunni, fyrr og síðar.

Miklu nær er að líta á þriðjung ríkisins sem hámark og skipta honum síðan í samræmi við handbært fjármagn, en ekki meintar þarfir, sem vaxa endalaust.

Jónas Kristjánsson

DV

Potturinn og pannan

Veitingar

Nýr seðill tvisvar á dag

Potturinn og pannan líður dálítið fyrir samanburðinn við Úlfar og Ljón, þar sem ríkjum ræður fyrri eigandi Pottsins og pönnunnar. Ef þessi óhagstæði samanburður truflaði ekki, væri auðveldara að taka eftir, að í sjálfu sér er Potturinn og pannan ánægjulegt veitingahús, sem skiptir um matseðil tvisvar á dag og býður innlendum fjölskyldum og erlendum ferðamönnum góðan mat við vægu verði.

Þar ber hæst vandað salatborðið, sem líkist í flestu hliðstæðu borði Úlfars og Ljóns. Potturinn og pannan virðist hins vegar ekki hafa náð úthaldi í grænmetisréttum, sem kynntir voru þar upp úr síðustu áramótum, þegar náttúrulækningastofunni hafði verið lokað. Ég hef ekki orðið var við þá í sumar.

Undanfarna mánuði hefur staðurinn að venju verið vinsæll ferðamannastaður. Þeir hafa komið um sjöleytið á kvöldin og í þrengslunum við diskinn hafa þeir beðið þolinmóðir þess, að borð losnaði. Þrátt fyrir álagið og þrengslin er gott skipulag á afgreiðslu og fólk kemst von bráðar að borði.

Innréttingin er nytsamleg og kemur rúmlega 40 manns í sæti á tiltölulega litlu gólfflatarmáli. Við innganginn er ágætur barnakrókur. Falska loftið er einfalt og sniðugt, aðallega myndað af ljósum. Smekklegir veggir, breytilegir að formi, eru skreyttir eldhúsáhöldum og auglýsingaspjöldum. Skilrúm skipta salnum. Í borðplötum er límdur viður og málmþynnur undir heita diska. Stólar eru þægilegir. Þungamiðja innréttingarinnar er frægt borð uppbúið, sem er á hvolfi í loftinu yfir salatbarnum.

Fimm tegundir brauðs

Veikasta hlið matreiðslunnar felst í súpum dagsins. Þær virðast oftast vera þykkar hveitisúpur, til dæmis svokölluð rjómalöguð sveppasúpa, svokölluð rjómalöguð paprikusúpa og svokölluð rjómalöguð blómkálssúpa, sem þar á ofan var kekkjuð. Undantekningin var tær lúðu- og hörpufisksúpa. Með súpunum geta gestir valið sér gott brauð milli um það bil fimm tegunda, sem eru á borði við hlið salatbarsins.

Það er salatborðið, sem er sterka hliðin. Það er jafnan mjög fjölbreytt og frísklegt. Sveppirnir eru nýir og tómatarnir ekki farnir að linast að ráði. Flest grænmetið er hrátt og óblandað, til dæmis ágætt blómkálið. Undantekning er ólystugt kartöflusalat, sem ferðamenn úða í sig með sælubrosi á vör, af því að þeir eru margir hverjir þýzkir og af því að þetta er einmitt þeirra tros. Heimþrá er ekki lambið að leika sér við. Dreymir okkur ekki í útlöndum um þorramat.

Fiskréttir eru fyrirferðarmiklir á matseðlinum, sem breytist lítillega tvisvar á dag. Grillsteiktur steinbítur með kryddsmjöri var afar léttilega eldaður, góður, borinn fram með mauksoðnum dósagulrótum, bakaðri kartöflu og hörðu smjöri. Pönnusteikt rauðspretta með súrsætu grænmeti í strimlum var mjög góð. Sama er að segja um steinbítspiparsteik með piparsósu. Yfirleitt eru fiskréttir staðarins góðir, en meðlætið breytilegt að gæðum.

Ensk nautabuffsteik var létt, meyr og bragðgóð, borin fram með sveppum, bakaðri kartöflu og skánaðri béarnaise-sósu. Svartfuglsbringur með villibráðarsósu voru ofeldaðar og þurrar. Heimalagaður ís er oft á matseðlinum og þá einn eftirrétta, en einhvern veginn hef ég misst af honum.

Traustur matstaður

Í heildina er Potturinn og pannan traustur matstaður, sem býður tiltölulega góða matreiðslu, þótt hann sé í hópi hinna ódýru í borginni. Hann er nokkru dýrari en Laugaás og örlítið dýrari en Úlfar og Ljón. Súpa, salat og kaffi er innifalið í verði aðalrétta, sem nemur að meðaltali 687 krónum. Þríréttuð máltíð með kaffi kostar 837 krónur að meðaltali.

Jónas Kristjánsson

Dæmigerður matseðill
Rjómalöguð sveppasúpa
395 Súpa og salat
630 Steikt ýsuflök með rækjum, gratineruð
610 Soðið heilagfiski með camembert-ostasósu
580 Grillsteiktur steinbítur með kryddsmjöri
630 Heilsteikt rauðsprettuflök með súrsætu grænmeti
580 Smjörsteiktur karfi með púrru, tómati og osti
630 Pönnuristuð smálúðuflök með sjávarréttasósu
860 Glóðarsteikt lambalæri béarnaise
860 Moðsteiktur nautavöðvi með steiktum sveppum
630 Léttsteiktur svartfugl með perum og villibráðarsósu
930 Nautabuffsteik að hætti hússins með bakaðri kartöflu

DV

Greindarlægð við Háaleiti

Greinar

Ef Reykjavíkurborg heimskast til að afhenda Iðnaðarbankanum hina umdeildu lóð á horni Miklubrautar, Háaleitisbrautar og Safamýrar, er líklegt, að borgin þurfi síðar að kaupa bankahúsið til niðurrifs, ­ ekki í þágu nágrannanna, heldur vegna umferðarslaufu.

Umferðarkerfið í Reykjavík er að hrynja. Misræmi flutningaþarfar og flutningagetu hefur í sumar orðið meira en það hefur verið í að minnsta kosti nokkra áratugi. Umferðarþunginn hefur reynzt vanáætlaður í meira lagi og á enn eftir að magnast verulega.

Reykjavíkurborg á erfitt með að létta hluta umferðarþungans af Miklubraut. Kleppsvegurinn er of afskekktur í borgarstæðinu. Svigrúmið við Bústaðaveginn er of þröngt, einmitt vegna þröngsýninnar, sem hefur lengi einkennt og einkennir enn borgarskipulag Reykjavíkur.

Tálsýnin um Fossvogsbraut er svo kapítuli út af fyrir sig. Þar skipulagði Reykjavík hraðbraut á útivistarsvæði Kópavogs. Borgaryfirvöld ímynda sér enn, að þau komist upp með þá óvenjulegu frekju, enda er borgarstjóri vanur að komast upp með ýmsan yfirgang.

“Þessari ákvörðun verður ekkert breytt”, getur borgarstjóri sagt við íbúa Safamýrar, sem hafa valið hann til embættis. En hann getur ekki sagt þetta við íbúa Kópavogs, sem hafa ekkert með borgarstjórann að gera og láta hann auðvitað ekki komast upp með moðreyk.

Niðurstaðan verður, að Miklabraut þarf að taka við meginhlutanum af austur-vestur umferðinni í borginni. Nú þegar er ástandinu bezt lýst sem hreinu öngþveiti, sem nær austur alla brautina, síðan áfram Vesturlandsveg og loks Suðurlandsveg upp undir Rauðavatn.

Tímabært er orðið fyrir borgarstjóra og hirðmenn hans að átta sig á, að líklegt er orðið, að öll gatnamót Miklubrautarássins þurfi um síðir að verða á brúm, allt vestan frá Umferðarmiðstöð austur í Smálönd. Líkurnar nægja til að kalla á, að land sé tekið frá.

Víða sjáum við slys, sem felast í, að leyft hefur verið að byggja á lóðum, sem síðan kom í ljós, að þurfti að nota til annars. Þrengslin við Bústaðaveg eru bara eitt dæmið um þetta. Komið hefur í ljós, að eitt alvarlegasta dæmið er nýi miðbærinn við Kringlumýrarbraut.

Opnun Kringlunnar hefur sýnt, að byggt hefur verið allt of þröngt á þessu svæði. Götur og bílastæði samsvara ekki þörfinni. Þetta er afar sérkennilegt, því að allt er þetta nýbyggt svæði og ætti að vera skipulagt í samræmi við þekkingu og reynslu líðandi stundar.

Við nýja miðbæinn hefur Reykjavíkurborg orðið að breyta of þröngu skipulagi, nýlegu, og setja flóknar slaufur og brú við erfiðar aðstæður í kringum benzínstöðvar Miklubrautar. Betra hefði verið að sýna framsýni á sínum tíma og taka frá land í þessu skyni.

Stóraukin verzlun í nýja miðbænum er einn mikilvægasti þáttur hins aukna álags á Miklubraut. Það mátti auðvitað sjá fyrir. Þetta gæti borgarstjóri nú séð eftir dúk og disk og sparað sér digurbarkalegar yfirlýsingar um bankabyggingu í slaufurými götunnar.

Hinn sérstæði stjórnunarstíll Reykjavíkur, þar sem kokhraustur borgarstjóri situr með jámenn eina í kringum sig, eilífðar-embættismenn á aðra hönd og beinleysis-borgarfulltrúa á hina, dregur úr möguleikum á, að unnt sé að sjá að sér og leiðrétta ranga kúrsa.

Þetta eru kjörnar aðstæður til að detta beint ofan af háaleiti hrokans niður í greindarlægð aukinna þrengsla við mikilvægustu umferðaræð borgarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Kveinað í heitum pottum

Greinar

Fyrir kosningar gaf Sjálfstæðisflokkurinn þjóðinni flugstöð við Keflavíkurflugvöll. Mikið var um dýrðir, þegar stjórnmálamenn og embættismenn stimpluðu í þjóðarsálina, hver væri gefandinn. Eftir kosningar hefur þjóðin smám saman verið að fá reikningana senda.

Þetta eru venjuleg vinnubrögð, sem hafa tíðkazt hér á landi áratugum saman. Stjórnmálaflokkarnir eru alltaf að gefa kjósendum eitthvað fyrir kosningar. Reikningar eru aldrei gerðir upp fyrr en að kosningum loknum. Þá kemur alltaf í ljós, að kjósendur borga.

Kröfluvirkjun hefur þá sérstöðu meðal gjafanna, að hún var svo dýr, að Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinn og Alþýðubandalagið hafa ekki enn þorað að láta þjóðina borga. Krafla er enn að mestu ógreidd í skuld og bíður eftir greiðslugetu barna okkar.

Viðbrögð hins svokallaða almenningsálits eru ævinlega hin sömu. Í heitum pottum sundlauga og annars staðar, þar sem menn hittast á förnum vegi, er kvartað og kveinað út af framferði stjórnmálamanna. Svo kjósa kveinendur hina sömu leiðtoga í næstu kosningum.

Yfirgripsmesta og langdýrasta hneyksli stjórnmálasögu síðustu þriggja áratuga eru gerðir allra íslenzkra stjórnmálaflokka í hefðbundnum landbúnaði. Framsóknarflokknum er oftast kennt um þær, en aðrir flokkar bera þó á þeim nákvæmlega hina sömu ábyrgð.

Núverandi stjórnmálaflokkar, sem eiga fulltrúa á Alþingi, hafa annað hvort skipað ríkisstjórnir, sem hafa rekið stefnu móðuharðinda af mannavöldum í hefðbundnum landbúnaði, eða verið í stjórnarandstöðu, sem hefur heimtað meiri peninga í botnlausu hítina.

Kjósendum er að sjálfsögðu heimilt að verðlauna með stuðningi sínum hvern þessara flokka sem er. Hitt er undarlegt, að þeir skuli líka kvarta og kveina yfir því, sem þeir kalla yfir sig. Það sýnir starblindu þeirra sjálfra á eðlilegt pólitísk samhengi í lýðræðiskerfi.

Okkar þjóðskipulag reiknar með, að kjósendur taki þátt í stjórnmálaflokkum til að hafa áhrif á stefnu þeirra. Það gerir ráð fyrir, að þeir kjósi menn og stefnur, sem þeir telja mest til heilla. Og loks býst það við, að kjósendur láti ekki ljúga að sér nema einu sinni.

Íslenzkir kjósendur láta hins vegar gabbast hvað eftir annað. Í stað þess að sjá samhengið og taka afleiðingunum, safnast þeir saman í heita potta sundlauganna eða á öðrum stöðum og fárast út af eigin sök, hrista höfuðið út af leiðtogum, sem þeir hafa sjálfir endurkosið.

Síðasti samgönguráðherra hafði að lokaverkefni að gefa gæludýrum útboðsframkvæmdir við Egilsstaðaflugvöll. Bráðum verður farið að taka við hann viðhafnarviðtöl sem aldraðan stjórnvitring. Og eftirmaður hans hefur ekki enn stöðvað gæludýrin.

Íslendingar þurfa ekkert að furða sig á, að þeir fái boruð göt í gegnum fjöll, ef einhverjum stjórnmálamanni dettur í hug að gefa kjósendum sínum göt. Þeir þurfa ekkert að verða hissa, þótt byggður sé forljótur alþingiskassi til að gleðja forseta sameinaðs Alþingis.

Kveinendur heitu pottanna geta sjálfum sér um kennt, þegar þeir kvarta um, að leiðtogar séu að pexa um, hver hafi sagt hvað í hvaða sandkassa. Eða öllu heldur í hvaða bíltúr, því að þeir hafa verið í tízku í sumar. Það eru kjósendur, sem halda pexurum uppi.

Svo glápa menn eins og naut á nývirki, þótt ríkisstjórnin sé í hefðbundnum helmingaskiptum að finna jafnvægi í bankagjöfum til Sambands og Pilsfaldaliðs.

Jónas Kristjánsson

DV

Komið að skuldadögum

Greinar

Íslendingar nútímans geta ekki áfellzt forfeður sína á fyrri öldum fyrir að hafa kollvarpað gróðurjafnvægi landsins, fyrir að hafa nálega eytt skóginum og minnkað gróðurflötinn um helming. Þetta var samfelld sorgarsaga, en þjóðin átti öldum saman engra kosta völ.

Nú er öldin önnur og hefur raunar lengi staðið. Þjóðin á vel til hnífs og skeiðar. Miklu meira af matvælum er framleitt hér en við þurfum sjálf að nota. Munar þar mest um fiskinn, sem við seljum útlendingum og fáum fyrir flestar þekktar heimsins lystisemdir.

Þar á ofan höfum við áratugum saman búið við öfundsvert hungur í starfskrafta. Við þekkjum ekki lengur atvinnuleysisvofu erlendra þjóða. Þúsundir fólks vantar til að sinna arðbærum störfum, sem auglýst eru í fjölmiðlum. Ný verkefni blasa við á framtíðarvegi.

Við þessar aðstæður er komið að skuldadögum í viðskiptum þjóðar við landið sitt. Þjóðin er gengin svo langt götuna fram eftir vegi, að tímabært er orðið að snúa vörn í sókn, fara að skila landinu aftur því, sem forfeður okkar tóku af því í volæði fyrri alda.

Tilraunir okkar til landverndar og landgræðslu eru enn feimnislegar og fátæklegar. Viðskiptareikningur okkar gagnvart landinu er enn neikvæður um 1000 hektara á hverju ári. Á móti 2000 hektörum, sem við vinnum, töpum við 3000 hektörum út í veður og vind.

Allt of lítið gagn er í friðuðum reitum, sem víða hefur verið komið upp. Fjárbændur rífa bara niður girðingar og reka fé sitt hvert sem þeim þóknast, í krafti þess, að svoleiðis hafi það alltaf verið. Girðingamenn þora varla að æmta, af því að kindur virðast heilagar.

Kominn er tími til að taka til hendinni. Allar móbergsafréttir landsins þarf að alfriða fyrir ágangi húsdýra. Það á einkum við um miðhálendið og afréttir Sunnlendinga og Þingeyinga, sem sauðféð hefur leikið verst. Þetta svæði þarf að girða rammlega og rækta.

Langan tíma tekur að láta skóginn vaxa saman yfir Kjöl á nýjan leik. Víða þarf að nota lúpínu til að búa til jarðveg, svo að hefðbundinn gróður geti síðan numið land. Og ekki er skuldin fullgreidd, fyrr en kominn er skógur, sem bindur jarðveginn til langframa.

Alfriðun verulegs hluta hálendisins kallar að sjálfsögðu á mikla fækkun sauðfjár, að minnsta kosti helmings fækkun, enda þurfum við hvorki á að halda öskuhaugakjöti né framleiðsluhvetjandi og söluhvetjandi styrkjum á borð við uppbætur og niðurgreiðslur.

Mál hafa æxlast þannig, að sauðféð er á ofsakaupi við að eyðileggja landið. Með fækkun sauðfjár sparast stórfé í styrkjum og annarri fyrirgreiðslu. Þessa peninga má sumpart nota til að kosta hina nýju landgræðslu, nota þá til uppbyggingar í stað niðurrifs.

Um leið fást starfskraftar til að sinna margfaldaðri landgræðslu, að svo miklu leyti sem önnur arðbær störf í þjóðfélaginu kalla ekki á þá, sem nú sóa tíma sínum í sauðfjárhald á kostnað neytenda og skattgreiðenda. Allir liðir uppgjörsdæmisins við landið eru jákvæðir.

Við erum að svíkjast undan merkjum, þegar við látum líða hvert velmegunarárið á fætur öðru, hvert ofbeitarárið á fætur öðru, hvert offramleiðsluár kindakjöts á fætur öðru, hvert eftirspurnarár atvinnu á fætur öðru, ­ án þess að byrja að endurgreiða skuldina við landið.

Öll rök málsins falla á einn veg. Þjóðin verður að hrista af sér ok þjóðaróvinarins og gera upp skuld sína við landið, sem hefur fóstrað hana í ellefu aldir.

Jónas Kristjánsson

DV

Djúpavík

Veitingar

Á ferðum um Ísland er tryggastur hinn gamli siður að hafa með sér tjald og prímus og ótryggastur hinn enn eldri siður að stanza hjá veitingastöðum við þjóðveginn. Þar er samkeppnin lítil og meðferð ferðamanna harkalegust. Flestir veitingastaða í þjóðbraut sérhæfa sig í illa matreiddu ruslfæði á hærra verðlagi en er á vandaðri ruslfæðisstöðum í Reykjavík.

Ástríða eða atvinnubót

Önnur ferðaþjónusta á landsbyggðinni er mörg hver ekki upp á marga fiska, enda oftar orðin til af handafli en ástríðu. Menn lesa og heyra, að búgreinar nútímans séu refaeldi, laxarækt og ferðaþjónusta, og í vali milli þessara kosta ræður kylfa kasti. Þannig verður niðurstaðan oft meira í ætt við atvinnubótavinnu en athafnamennsku.

Í umbúnaði ferðaþjónustu ráða heimavistarskólarnir ferðinni. Of margir þeirra, einkum hinir eldri, hafa verið innréttaðir og búnir húsgögnum eins og fangelsi eða hæli. Hin mannfjandsamlegu sjónarmið koma skýrt fram í sjúkrahúshvítum veggjum, óhóflegri notkun einföldustu stál- og plasthúsgagna, of stuttum og mjóum rúmum og skorti á leslömpum við höfðagafla, svo að dæmi séu nefnd. Svefnherbergi eru kuldaleg og borðsalir beinlínis frystikistulegir. Þetta þurfa aumingja skólabörnin að þola á veturna, en ferðamenn ekki endilega á sumrin.

Þar sem gisting af ýmsu tagi er rekin af heimafólki í atvinnubótavinnu, má víða reikna með góðlátlegu getuleysi. Leita þarf uppi fólk til að fá sundlaugar opnaðar á auglýstum opnunartíma. Tímaskyn er víða af skornum skammti, einkum á morgnana. Dæmi hef ég um, að morgunverður hafi fyrst verið tilbúinn klukkan hálftíu.

Annars er morgunmatur öruggasta máltíðin úti á landi, því að hann er bara að litlu leyti eldaður. Þó er algengast, að egg séu soðin, unz þau verða græn. Og nú eru farnar að sjást frá Sláturfélaginu blautar og grunsamlegar þynnur, sem kallaðar eru “fitulítið hangikjöt”.

Miklir eldunartímar eru einkennisatriði matreiðslu utan allra stærstu þéttbýlisstaða. Kjöt og fiskur verða hart úti. Nákvæmni í eldunartíma er framandi fólki í ferðaþjónustu á stórum svæðum úti á landi. Þá virðist einnig algengt, að súpur séu taldar því betri, sem meira hveiti er í þeim. Niðurstaðan getur verið ótrúlega fráhrindandi.

Vinalegt hótel

Eftir hálfs annars klukkutíma akstur um óbyggða strönd frá Bjarnarfirði norður Strandir til Djúpuvíkur má búast við öllum ofangreindum vandamálum, því að engin er samkeppnin á svæðinu. Engra kosta er annarra völ en hótelsins í hinum gamla kvennabragga síldarverksmiðjunnar. Þeim mun ánægjulegra er að uppgötva þar eina af undantekningunum, sem sanna reglurnar, er hér hafa verið settar fram.

Hótelið er vinalegt að innan sem utan. Sjálf byggingin er ekki ríkmannleg, enda upphaflega reist sem verbúð. Trégólfin eru einkar fátækleg. En húsbúnaðurinn bætir þetta upp. Í borðsalnum eru þægileg nútímahúsgögn og skemmtilegir forngripir á borð við stóra kolaeldavél. Lúinn stigi liggur upp á loft, þar sem notalegum húsgögnum hefur verið komið fyrir í nokkrum svefnherbergjum fyrir gesti. Þarna búa Ásbjörn og Eva með börnum sínum og hafa rekið hótel í þrjú ár.

Djúpavík er svo sem engin Mekka í matargerðarlist, en forðast þó helztu galla íslenzkrar strjálbýlismatreiðslu. Maturinn er betri en víðast hvar við þjóðveginn. Við prófuðum steiktan þorsk, steiktar hakkbollur og steiktar lambakótilettur, allt saman sómasamlegt.

Skemmtilegast var, að staðurinn bauð upp á nýja alvörumjólk úr kú af næsta bæ í stað hinnar gömlu og fúlu, fitusprengdu og gerilsneyddu verksmiðjumjólkur, sem Íslendingar verða að þola. Þetta er sérstætt, því að víðast hvar úti á landi er mjólk flutt aðra áttina af sveitabæjum langar leiðir í ostagerð og hina áttina er svo flutt enn lengri leiðir verksmiðjumjólk frá Reykjavík eða Akureyri.

Dulrænn staður

Djúpavík er sérkennilega dulrænn staður vegna samspils náttúrunnar og hins mikla kastala síldarbræðslunnar gömlu. Þaðan eru líka skemmtilegar gönguleiðir, til dæmis út ströndina til hins gamla kaupstaðar í Kúvíkum. Einnig er akvegur áfram norður til Trékyllisvíkur, þar sem er ein af elztu timburkirkjum landsins, afar vönduð rekaviðarkirkja, sem nú er verið að sýna sóma í viðhaldi, gegn vilja sóknarnefndar og vinar míns, Guðmundar P. Valgeirssonar. Nálægt vegarenda á ströndinni rétt norðan Norðurfjarðar er fræg sundlaug í sjávarkambi Dumbshafs. Frá vegarenda sést í góðu skyggni til hinna mögnuðu Drangaskarða.

Þótt Djúpavík sé á mörkum eða handan marka hins byggilega heims og vegurinn lokaður meirihluta ársins, er hótelið rekið allt árið, enda stutt til flugvallar á Gjögri, þangað sem flogið er tvisvar í viku. Í Djúpuvík er berjaland, rjúpnaland og skíðagönguland, svo og sjóstangaveiði. Íslenzkir ferðamenn eru rétt að byrja að átta sig á tilveru þessa alvöruhótels, sem er svo þægilega ólíkt þeim, er ferðamenn á Íslandi þurfa yfirleitt að þola.

Munurinn er, að hótelreksturinn í Djúpuvík er ekki atvinnubótavinna, heldur ástríða.

Tveggja manna herbergi kostaði 1.900 krónur, morgunverður 360 krónur, þorskur 550 krónur, hakkbollur 650 krónur, lambakótilettur 740 krónur og kaffi eftir mat 60 krónur. Síminn er 95-3037.

Jónas Kristjánsson

DV

Toppfundur í nóvember

Greinar

Síðasti hjalli viðræðna heimsveldanna tveggja um fækkun skammdrægra og meðaldrægra kjarnorkueldflauga hefur reynzt greiðfærari en reiknað var með. Bendir nú flest til, að samkomulag sé á næsta leiti og verði undirritað fyrir lok þessa árs, líklega í nóvember.

Þessi velgengni viðræðnanna um svokallaðar Evrópuflaugar er eðlilegt framhald af hinni óvæntu og jákvæðu stefnu toppfundar Gorbatsjovs og Reagans í Reykjavík fyrir ári. Þótt þar næðist ekki samkomulag, varð ljóst, að bilið milli aðila hafði þrengzt skyndilega.

Fyrir tæpu ári var talað um, að Reykjavíkurfundur heimsveldanna tveggja hefði farið illilega út um þúfur. Það var rangt mat. Sá fundur braut ísinn í afvopnunarviðræðunum og hefur gefið tóninn í margvíslegum eftirgjöfum, sem nú gera senn undirritun mögulega.

Ánægjulegast við gang viðræðna á síðustu vikum er, að eftirlit með efndum á samkomulagi virðist ekki ætla að verða ófær þröskuldur. Margir hafa alla tíð óttazt, að samkomulag mundi að lokum stranda á andúð ráðamanna Sovétríkjanna á virku eftirliti með vopnabanni.

Það létti mjög þennan þátt málsins, að viðræðurnar víkkuðu úr banni við Evrópuflaugum yfir í bann við öllum flaugum á umræddu sviði, þótt þær væru geymdar í Asíu eða Ameríku. Auðveldara er að fylgjast með efndum á algeru banni en svæðisbundnu banni.

Um leið kom í ljós, að leyniþjónustur Bandaríkjanna höfðu áhyggjur af of miklu svigrúmi Sovétríkjanna til að notfæra sér eftirlitsrétt til að stunda njósnir gagnvart Bandaríkjunum. Þetta deyfði bitið í kröfu Bandaríkjanna um mjög nákvæman eftirlitsrétt aðilanna.

Eftirlit með efndum getur verið af ýmsu tagi, til dæmis réttur til að skoða á reglubundinn hátt verksmiðjur og geymslur, þar sem hin bönnuðu vopn gætu leynzt. Einna mestu máli skiptir réttur til ákveðins fjölda óvæntra skyndiskoðana á hverju ári.

Æskilegast væri, að heimsveldin næðu samkomulagi um strangt eftirlit. Hins vegar er betra en ekki, að þau nái samkomulagi um virkt eftirlit, þótt ekki sé af strangasta tagi, til dæmis úrtakseftirlit eða sýnishornaeftirlit, ef ekki næst samkomulag um heildareftirlit.

Þungum steini var rutt úr vegi samkomulags, þegar kanzlari Vestur-Þýzkalands féllst á, að í kjölfar samkomulags heimsveldanna yrðu meðaldrægar kjarnorku flaugar Vestur-Þýzkalands lagðar niður í áföngum samhliða flaugum Bandaríkjanna og Sovétríkjanna.

Í stórum dráttum má segja, að verið sé að semja um 2.000 kjarnaodda fækkun, 1.500 austan tjalds og 500 vestan þess. Þar með hefur klukka kjarnorkuviðbúnaðar verið færð aftur til ársins 1976, þegar Sovétríkin fóru að hraða kapphlaupinu með SS-20 flaugum sínum.

Hlutföllin í væntanlegu samkomulagi heimsveldanna tveggja eru sanngjörn í ljósi þess, að Sovétríkin hafa í rúman áratug verið mun harðskeyttari í kjarnorkuvígbúnaði en Bandaríkin. Vesturveldin hafa eftir sem áður ástæður til að hafa áhyggjur af öryggi sínu.

Enn er eftir að semja um 10.000 kjarnaodda, sem eru á langdrægum eldflaugum heimsveldanna. Einnig er eftir að semja um vaxandi yfirburði Sovétríkjanna í eiturvopnum og hefðbundnum vopnum og um stjörnustríðsáætlun Bandaríkjanna á sviði geimvarnavopna.

Undirritun á toppfundi í nóvemberlok um afnám 2.000 kjarnaodda skammdrægra og meðaldrægra eldflauga er því aðeins fyrsta skrefið af mörgum nauðsynlegum.

Jónas Kristjánsson

DV

Bakkinn

Veitingar

Sagan endurtók sig

Of ótrúlegt til að vera satt. Það gat varla verið á stefnuskrá veitingahúss að bjóða illa gerðan mat. En sagan endurtók sig, þótt ég kæmi eins og hver annar sjálfspyndari aftur og aftur í Bakka til að fá aðra reynslu. Reglubundið og eingöngu kom úr eldhúsinu matur, sem var langt frá því að vera frambærilegur. Þetta hlýtur að vera Íslandsmet í skorti á tilfinningu fyrir eldamennsku.

Við slíkar aðstæður gagnar lítt, að þjónustan sé þægileg og elskuleg og húsnæðið gamalt og notalegt í rúmlega aldargömlu Landlæknishúsi. Ekki gagnar heldur að vera á góðu ferðamannahorni í Kovsinni. Viðskiptavinir halda sig fjarri og eftir stendur hálfauður salur, sem færi ólíkt betur að vera fullur af skrafhreifu fólki. Helzt virðist mér, að erlendir ferðamenn hafi slæðst inn, þegar þeir hafa látið freistast af matseðli dagsins á auglýsingatrönum Bakka úti á gangstétt, – þótt verðlag dagsseðilsins sé aðeins lítillega lægra en fastaseðilsins.

Kjörinn staður kaffihúss

Raunar væri þetta kjörinn staður fyrir eitt helzta kaffihús ferðamanna í miðborginni. Gluggarnir eru áleitnir, bæði þeim, sem inni sitja og úti eigra. Fólk horfist gjarna í augu gegnum glerið. Enda er Lækjargatan ein helzta röltgata ferðamanna, með Lærða skólann og Íþöku að rólegu baksviði. Á góðviðrisdögum, svo sem verið hafa í sumar, mætti hafa létta stóla úti á stétt til að magna andrúmsloft gangstéttar-kaffihúss.

Frönsku smárúðurnar eru í rauninni ekki ekta, því að gluggapóstarnir eru einfaldlega lagðir beggja vegna ofan á stórar nútímarúður. En við þurfum ekki að vera að gægjast í slík smáatriði. Inni í opnum og rúmgóðum salnum eru bjartir veggir og loft. Allt er einfalt og opið. Andspænis gluggahliðinni er mikill speglaveggur, sem stækkar staðinn og endurspeglar smárúðu-ímyndina. Yfir speglunum er flóð af pottaplöntum og nokkrar slíkar eru einnig í gluggunum. Bleikir dúkar, bleik blóm og bleikar pappírsþurrkur eru á borðum í hádeginu, en á kvöldin eru notaðar hvítar tauþurrkur. Við borðin eru málmstólar með plastsetum. Í einu horninu er bar og þar við hliðina þrjár gamlar Reykjavíkur-ljósmyndir. Þetta lofar allt fremur góðu og allra sízt matreiðsluslysi.

Frosið smjör er sérgrein

Súpur staðarins hafa reynzt mér flestar vera kekkjaðar hveitisúpur, sem minna á pakkasúpur, sem gleymst hefur að hræra. Þannig var rjómalöguð blómkálssúpa, borin fram með heitu og mjög grófu rúsínubrauði góðu. Þannig var líka snarpheit grænmetissúpa, einnig kölluð rjómalöguð. Undantekningin var mild humarsúpa með koníaki, en að henni var þó óvenjulega lítið humarbragð, ef nokkuð. Með humarsúpunni var borin venjuleg heilhveitiflauta með nánast frosnu, óskerandi og ósmyrjandi smjöri í álpappír, sérgrein hússins í matargerðarlist.

Hvítlaukssteikt ýsa var ofsalega söltuð, borin fram með dósasveppum og rækjum, svo og hrísgrjónum í karrí. Gufusoðin smálúða var ofsoðin og afar þurr, borin fram með hvítum kartöflum og léttsteiktu grænmetisjukki. Séstaklega var mælt með grillsteiktum laxi, sem var ofsalega ofgrillaður og svo þurr orðinn, að ekkert laxabragð var lengur að honum. Lyktin af réttinum var svínakjötslykt, sem lagði af kjötbitum, sem voru í tómatfyllingu á diskinum. Ætli enn sé kennt í hótelskólanum að bera fram svínakjöt með laxi? Til hvers er þá laxinn yfirleitt?

Beðið var um heilsteiktu nautahryggsneiðina lítið steikta, en hún kom samt rúmlega miðlungi steikt, rétt aðeins bleik í miðju, afar þurr, ekki góð, borin fram með brúnni hveitisósu. Enn verri voru grillsteiktu lambalundirnar, sem áttu að vera lítið steiktar. Þær komu þrælsteiktar og nánast óætar, líklega teknar úr frysti og hitaðar í örbylgjuofni. Með þeim fylgdi smjör, sem var svo frosið, að það rann ekki einu sinni á kjötinu, svo og afhýddar og upphitaðar kartöflur. Sannarlega afleitur matur.

Banani í brunarúst

Ofeldunaræðið í eldhúsinu náði loks hámarki í gljáðum banana, sem líktist brunarúst og hafði löngu tapað síðasta votti bananabragðs, borinn fram í brúnu kremi með daufri karamellulykt. Ég hef aldrei séð neitt þessu líkt.

Kaffi eftir mat var frekar dapurlegt og kostaði 85 krónur. Vínlisti er lítilfjörlegur – og opnu vínin, seld í glasatali, eru afar léleg, Chevalier de France og Valpolicella. Boðið er uppi á barnamatseðil og brauðseðil.

Verð þriggja rétta máltíðar með kaffi er að meðaltali 1.583 krónur.

Jónas Kristjánsson

Dæmigerður matseðill
190 Rjómalöguð grænmetissúpa
530 Gratineraður steinbítur
620 Gufusoðin smálúða með smjörsteiktu grænmeti
790 Smjörsteiktur lax með hvítvínssósu
910 Heilsteikt nautafillet með rjómasveppasósu

Fasti matseðillinn
220 Sveppasúpa
290 Humarsúpa með koníaki
245 Frönsk lauksúpa
545 Graflax með sinnepssósu
455 Grillaðir sniglar með hvítlauksbrauði
1260 Glóðaðir humarhalar í skelinni
790 Smjörsteiktur skötuselur með valhnetum og vínberjum
860 Gufusoðinn eða grillsteiktur lax með hvítu smjöri
795 Kryddsteiktur/djúpsteiktur smokkfiskur með engifersósu
1230 Piparsteik með grænum pipar og villisveppum
995 Grillsteiktar lambalundir með sniglasmjöri
1140 Grillsteiktur turnbauti með rauðvínssósu
885 Ofnsteiktur lambahryggur með rósinpiparsósu
340 Djúpsteiktur camembert-ostur með rifsberjahlaupi
280 Gljáður banani með enskri kremsósu
265 Fylltar pönnukökur með rjómaís og ávöxtum

DV

Eldvagninn

Veitingar

Allt er pönnusteikt

Í Eldvagninum er notuð einföld matreiðsluformúla. Aðeins sjö aðalréttir, sennilega allir pönnusteiktir, eru á seðlinum, hinir sömu dag eftir dag, árið út og inn. Kokkurinn stendur inni í miðjum borðsal. Í augsýn gesta pönnusteikir hann réttina á eldvagni, það er að segja voldugum og afskaplega göfugum prímus. Þetta er fljótlegt og þægilegt fyrir alla aðila. Einnig veitir það í hugann óljósum, en unaðslegum minningum úr gömlum útilegum fyrir daga útigrillanna. Ennfremur minnir það á eldhöf, sem fyrr á tímum þótt fínt að láta gjósa upp í matsölum góðborgaralegra hótela.

Annar helzti kostur þessarar tegundar sýningar-matreiðslu er, að hún gefur engum kokki tækifæri til að skilja matinn of lengi eftir á pönnunni. Hraðinn verður að vera svo mikill, að ekki gefst tími til að spilla matnum með löngum eldunartíma. Meðal annars vegna þessa kemur, að frátöldum sósum og súpum, sómasamlegur matur úr því leikhúsi, sem Eldvagninn er öðrum þræði. Auk þess getur kokkurinn líka verið ágætur út af fyrir sig. Á það reynir bara lítið, þegar þessi snjalla formúla er notuð.

Hinn kosturinn er, að opinber matreiðsla gerir sumum gestanna kleift að sjá, hversu fallega eða illa útlítandi hráefni er og hvaða kunnáttu og hreinlætis er gætt við eldun þess. Þetta gulltryggir eiginlega, að vandað er til vals á hráefnum og reynt er að fara snyrtilega og kunnáttusamlega með það. Á leiksviði er óheppilegt að gera mistök og því eru þau ekki gerð í góðum leikhúsum.

Fura í mörgum útgáfum

Eldvagninn er dálítið sérstakur í útliti og verður tæpast kallaður stílhreinn. Einkenni hans er fura í ýmsum útgáfum. Fremst er mikið glerhús með grófri, hrásmíðaðri og ómálaðri furugrind og miklu af stórum pottaplöntum uppi um allt. Glerhúsið er nokkuð berangurslegt og kaldranalegt, af því að það kúrir í kjallara undir tröppunum niður að veitingahúsinu, andspænis voldugum bankavegg. Ekki virðist smíðinni vera endanlega lokið, þótt meira en ár sé liðið frá opnun, því að málningarbrún frá hliðarvegg nær hirðuleysislega út á grindina.

Hið innra er smíðin vandaðri og því vandaðri sem neðar dregur í salnum. Í loftinu er furupanill, í bitum og stoðum hefluð eða spónlögð fura og í skenkjum og borðum er límd fura.

Tveir skenkir eða vinnupláss eru í litlum 32 sæta salnum. Á hinum ytri er girnilegt brauðval hússins, að minnsta kosti þrjár tegundir. Ennfremur minna forvitnilegar vínflöskur. og loks skál með ísbergi, er gegnir hér hlutverki hrásalats. Við innri skenkinn vinnur kokkurinn af miklum tilþrifum.

Inni í þessum sal ferns konar furu eru svo ljósblár litur í gólfi, stólasessum og stólbökum og bleikur í stólum, kertum og pappírsþurrkum. Sums staðar eru múrsteinsveggir í húsinu, annars staðar ljósbleikir veggir. Koparpönnur og koparáhöld eru á innsta vegg og heljarlangt málverk á vegg þar við hliðina.

Sumum kann að finnast traustvekjandi að fá að sjá, að þjónustufólkið við skenkinn getur skorið brauð, opnað vínflöskur og mokað ísbergi upp úr salatskál. Verra var, að þjónninn sá ekki matarleifar síðasta gests á borðinu, sem ég sat við. Að öðru leyti var þjónustan í góðu lagi, og þjónninn mundi til dæmis eftir að bera gestum vatn og heitara kaffi.

Ostakaka var bezt

Brokkálssúpa virðist vinsæl súpa dagsins. Í bæði skiptin var hún venjuleg hveitisúpa með mauksoðnu káli og í annað skiptið með þeyttum rjóma út á. Annars virðist mér samkvæmt biturri reynslu, að almennt hér á landi þýði orðalagið “rjómalöguð” súpa, að um hveitisúpu sé að ræða. Með súpunni fylgdi mikið af góðu brauði og smjör í smjörskál. Kalt laxasalat sem forréttur var borið fram í eftirréttaglasi og minnti á eftirrétt, því að notuð voru jarðarber, bláber og kiwi til að gera réttinn litskrúðugan. Laxinn var ekki þurr.

Smálúða var ágætlega milt steikt, borin fram með vermút-steiktri blöndu af möndlum, papriku og blaðlauk, pönnusteiktri papriku í þremur litum, brokkáli og bakaðri kartöflu, svo og sterkri karrísósu úr hveiti. Piparsteik var afar meyr, hæfilega pipruð, borin fram með sterkri hveitisósu með piparkornum, smjörsteiktum gúrkum, mauksoðnum sveppum og léttsteiktu grænmeti. Allar sósur virtust bornar fram með skán og allir réttir með bakaðri kartöflu í álpappír og ísbergi, misjafnlega fersku.

Ostakaka var mjög góð, borin fram með girnilegum ávöxtum ferskum, svo sem ananas, melónu, grapefruit og kiwi, svo og þeyttum rjóma, sennilega bezti réttur staðarins. Sæmilegasta kaffi var borið fram með mintusúkkulaði.

Í hádeginu er ekki eldað við prímus. Þá er boðið ódýrt hlaðborð á 440 krónur, sem þýðir 500 krónur með kaffi. Á borðinu var hveitisúpa dagsins, margs konar fyrirmyndarbrauð, nokkrar tegundir af hráu grænmeti, nokkrir síldarréttir, pottréttur og ferskir ávextir, svo sem ananas og melóna. Þetta hlýtur að teljast hagkvæmt tilboð.

Eldvagninn er ekki áberandi að utanverðu. Hætt er við, að sumir, sem sjá skiltið uppi við Laugaveginn, rambi niður tröppurnar beint inn í nágrannann Sombrero í stað þess að beygja í 180 gráður að ósýnilegum dyrum Eldvagnsins.

Frekar ódýr staður

Samt hefur staðurinn venjulega verið þétt setinn erlendum ferðamönnum, þegar ég hef komið þar. Virðist mér, að einhverjir í ferðaþjónustu bendi fólki á staðinn, enda er hann fremur ódýr af vínveitingahúsi að vera, raunar í lægsta verðflokki slíkra staða. En úrval borðvína er bæði fátæklegt og ómerkilegt.

Í heild fannst mér Eldvagninn hafa það umfram marga nýlega og nýja staði, að hann hefur sinn sérstaka stíl, bæði í matreiðslu og útliti og á því fyllilega rétt á sér.

Miðjuverð þriggja rétta máltíðar með kaffi er 1330 krónur

Jónas Kristjánsson

Matseðillinn
170 Rjómalöguð súpa kvöldsins
310 Sveitapaté
280 Kalt laxasalat með sýrðum rjóma
380 Pönnusteiktir sniglar
350 Rækjuskál með þúsund eyja sósu
680 Blandaðir sjávarréttir
510 Pönnusteikt smálúða með hvítvínssósu
610 Smjörsteiktur lax með sjávarréttasósu
980 Nautapiparsteik með koníakssósu
790 Lambafillet með malíbúsósu
690 Eldsteiktar kjúklingabringur í barbeque
890 Heilsteikt nautafillet með frönskum kartöflum
310 Ostaterta með ferskum ávöxtum
280 Ferskur ananas með púrtvínsstaupi
365 Djúpsteiktur camembert með rifsberjahlaupi
190 Eplapæ með rjóma

DV

Sumarsögur af sauðfé

Greinar

Snemma í sumar var rafmagnsgirðing rifin niður á Auðkúluheiði og rúmlega þúsund fjár hleypt inn á friðaðan tilraunareit. Umsjónarmenn reitsins forðuðust að skoða mörkin á sauðfénu og sögðu einfaldlega, að “ómögulegt væri að komast að því, hver gerði þetta”.

Fyrr í vor var fé hleypt á ólöglegum tíma inn á Austurafrétt í Suður-Þingeyjarsýslu. Landgræðsla ríkisins, sem hafði bundizt skyldum um að vernda svæðið, féll frá kæru í von um, að þetta gerðist ekki aftur. Sauðfjárbændur voru friðhelgir í þessum tveimur dæmum.

Sauðfjárbændur og sveitarstjórnin í Grafningi komu í sumar í veg fyrir, að jörðin Hlíð yrði keypt úr sauðfjárrækt og friðuð. Séð var um, að nýr ábúandi stundaði sauðfé. Grafningur er eitt mest beitta og lengst beitta dæmið um yfirgang sauðfjárræktar hér á landi.

Margir þeirra, sem um málið fjalla, velta sér kollhnísa til að draga úr broddinum gagnvart sauðfjárbændum. Landgræðslustjóri sagði nýlega sauðfjárrækt til afsökunar, að “náttúruleg gróðureyðing hefði alltaf orðið einhver”, þótt sauðféð hefði ekki komið til.

Það er eins og landgræðslustjóri haldi, að eldfjöll hafi ekki gosið fyrir landnám og ekki orðið öskufall. Það er eins og hann haldi, að ekki hafi orðið sveiflur í árferði fyrir landnám. Hvort tveggja gerðist fyrir landnám og var láglendið þó gróið saman yfir Kjöl.

Í ofbeit og uppblæstri á Kili komu í sumar fram kolagrafir frá fyrri tíma. Þær staðfesta orð gamalla bóka um, að áður fyrr var jafnvel uppi á hálendinu nægur skógur til að gera til kola á Kili. Gróðureyðingin stafar alls ekki af náttúrunnar völdum, heldur mannsins.

Hinn sami landgræðslustjóri, sem afsakar sauðfjárbeitina, neyðist til að sjá nálina étna, ­ að 2000 hektara árleg landgræðsla í landinu nægir ekki til að vega á móti 3000 hektara gróðureyðingu af völdum ofbeitar. Hið árlega tap landsins og hans nemur 1000 hekturum.

Verjendur sauðfjárræktar kenna ekki bara náttúrunni um ofbeit sauðfjárins, heldur líka hrossum þéttbýlismanna. Samt er sú þaulræktun hrossa, sem nú er stunduð í þéttbýli og strjálbýli, að nærri öllu leyti á ræktuðu landi og þá nær eingöngu sem sumarbeit.

Hinn óþarfi hluti hrossastofnsins er að verulegu leyti í eigu sömu manna og þeirra, er reka sem sauðfjárbændur rányrkju á gróðri landsins. Undir forustu þingmanna reka þeir stóð sitt á fjall eins og þeim þóknast, þrátt fyrir lagaákvæði. Þéttbýlismenn koma þar ekki nærri.

Auk þess að kenna eldfjöllum og hrossum um afrek sauðfjár hefur einnig verið reynt að skella skuldinni á jeppa, fjórhjól og jafnvel vélsleða. Er þó hreinn og beinn eðlismunur á útlitsmengun, sem getur fylgt þessari tækni, og á hreinni landeyðingu, sem leiðir af sauðfé.

Undanbrögð af ýmsu því tagi, sem hér hafa verið rakin, eru sett fram til að drepa málinu á dreif, svo að sauðfjármenn geti haldið áfram hinni þjóðlegu iðju að láta kindur sínar éta upp landið. Ofbeitin var líka skiljanleg áður, þegar þjóðin átti varla málungi matar.

Nú eru hins vegar aðstæður slíkar, að hvarvetna þarf þjóðfélagið fólk til starfa í alvöru atvinnugreinum. Ennfremur mundi lausum störfum fjölga, ef þjóðfélagið þyrfti ekki lengur að borga árlega stórfé í styrki, uppbætur og niðurgreiðslur til að halda uppi ofbeit.

Dæmi þessa sumars eru enn ein sönnun þess, að brýnasta mál lands og þjóðar er að fækka sauðfé með því að afnema hvers konar stuðning við ræktun þess.

Jónas Kristjánsson

DV

Vinsælt vandræðabarn

Greinar

Eitt helzta vandræðabarn ríkisins, Útvegsbankinn, er skyndilega orðið að söluhæfri vöru, sem margir vilja eignast. Svo er fyrir að þakka samvinnuhreyfingunni, sem fyrir helgina lagði fram djarft og gilt tilboð í bankann, innan þess ramma, sem ríkið hafði sett sölunni.

Þeir, sem litu málefnalega á tilboð Sambands íslenzkra samvinnufélaga og fylgifyrirtækja þess, sáu, að því var ekki hægt að hafna, eins og fjármálaráðherra orðaði það réttilega. Samvinnuhreyfingin ein hafði boðizt til að taka Útvegsbanka-kaleikinn af ríkissjóði.

Tilþrif Sambandsins ollu framámönnum Sjálfstæðisflokksins nokkrum hugklofa með tilheyrandi geðshræringu. Annars vegar fól tilboðið í sér þátt í þeirri stefnu flokksins, að ríkið losaði sig við fyrirtæki sín. Hins vegar var kaupandinn ekki flokknum að skapi.

Þegar flokksbroddarnir höfðu auglýst vandræði sín á misjafnlega broslegan hátt, gafst þeim tími til að átta sig á, að eina vörnin í stöðunni fælist í, að einkaaðilar, sem flokknum væru þóknanlegri en gamli óvinurinn í SÍS, byðu ríkinu betur í hlutabréf bankans.

Fyrir hádegi í dag hófst fundur ríkisstjórnarinnar, þar sem fjalla átti um, hvernig hún eigi að meta biðlana, sem eru orðnir tveir. Fjárhagslega er skynsamlegast að selja bankann þeim aðila, sem bezt býður að lokum, en siðferðilega ætti SÍS að hafa forgang.

Þótt hinn nýi hópur útgerðarmanna og Iðnaðarbankamanna hafi boðið nokkru betur en SÍS-hópurinn, verður hið minnsta að gefa hinum síðarnefnda tækifæri til að hækka sig. Úr þessu getur orðið hið skemmtilegasta uppboð, afar nytsamlegt ríkissjóði.

Ekki dugir að hafna SÍS á þeim forsendum, að æskilegt sé, að bankinn verði í höndum margra. Ef litið er á Sambandið og fylgifiska þess sem einingu, væntanlega hlynnta Framsóknarflokknum, má líta á einkaframtakshópinn sem einingu, hlynnta Sjálfstæðisflokknum.

Raunar svipar samvinnuhreyfingunni að ýmsu leyti til almenningshlutafélags. Formlegir eigendur eru afar margir, skipta raunar tugum þúsunda. Ef tilboði Sambandsins verður tekið, munu eigendur að baki bankans skipta þessum tugum þúsunda einstaklinga.

Efnislega eru þeir að vísu álíka valdalausir og hluthafar almenningshlutafélaga. Í báðum tilvikum eru nærri öll völd í höndum stjórnenda fyrirtækjanna. Þeir “eiga” fyrirtækin, hvort sem þeir eiga formlega séð krónu í þeim eða ekki. Það gildir bæði um SÍS og hina.

Hið eina, sem skiptir ríkissjóð og skattgreiðendur verulegu máli, er að losna fyrir sem hæst verð við fyrirtæki, sem löngum hefur verið illa stjórnað og hefur hvað eftir annað þurft á að halda peningagjöfum og eftirgjöfum af hálfu hins sameiginlega sjóðs okkar.

Hitt er svo hliðaratriði, hvort þessu happi ríkissjóðs og þjóðar fylgir samruni í bankakerfinu, annað hvort Útvegsbanka með Samvinnubanka og Alþýðubanka eða með Iðnaðarbanka og Verzlunarbanka. Í báðum tilvikum rætist gömul og ný ósk stjórnvalda.

Menn hafa auðvitað misjafnar skoðanir á, hvort æskilegra sé, að þriðji stórbankinn við hlið Landsbankans og Búnaðarbankans verði banki einkaframtaks eða samvinnuframtaks. Ágreiningurinn má þó ekki hindra, að sá fái verkefnið, sem bezt býður.

Hvernig sem máli þessu lyktar, hefur SÍS aukið hróður sinn sem stofnun framtaks og áræðis. Stjórnendur þess þorðu, þegar aðrir tvístigu og horfðu í gaupnir sér.

Jónas Kristjánsson

DV

Laugaás

Veitingar

Frumkvöðull stefnunnar

Laugaás er afar traustur vinur, sem heldur nákvæmlega stefnunni, er hann tók strax í upphafi. Þar er farið eftir hvorugri íslenzku hefðinni að slaka á gæðunum, þegar fer að reyna á úthaldið, eða elta allar nýjungar, sem rekur á fjörurnar. Laugaás er og hefur alltaf verið sjávarréttahús, þar sem fá má góðan mat fyrir lítið fé, frumkvöðull slíkra staða. Festan og úthaldið stafa af, að eigendurnir eru alltaf á vaktinni og elda sjálfir.

Laugaás verður bezt lýst með samanburði við tvo aðra uppáhaldsstaði mína, Múlakaffi og Úlfar og Ljón. Laugaás er mjög líkur Úlfari, en er heldur ódýrari en hann og ekki eins eindreginn sjávarréttastaður. Laugaás beitir ekki alveg eins góðri matreiðslu, státar ekki af salatborði eins og Úlfar, en býður gagnstætt honum litla og ódýra eftirrétti, í sumum tilvikum innifalda í verðinu. Laugaás er heldur fallegri staður, en veitir ekki alveg eins notalega þjónustu.

Nýr seðill tvisvar á dag

Til samans sjá þessir tveir staðir um, að íbúar og gestir höfuðborgarinnar geti fengið gott að borða fyrir lítið fé, þótt þjónusta sé veitt til borðs. Til samans halda þeir einnig á lofti gildi sjávarrétta í mataræði landsmanna og hinni sjálfsögðu stefnu að skipta daglega eða tvisvar á dag um matseðil.

Verðið í Laugaási á þríréttaðri máltíð er samkvæmt reikningsaðferð minni svipað og í Múlakaffi, sem er sjálfsafgreiðslustaður og raunar sennilega hinn bezti slíkra í borginni. Grunnverð súpu og aðalréttar er hærra í Laugaási, en aukahluta, svo sem eftirréttar og kaffis er lægra. Þar sem Múlakaffi er sjálfsafgreiðslustaður, er mikið af matnum geymt heitt í stálkerjum við diskinn. Gestir rogast síðan með birgðirnar til borðs. Þetta hlýtur óhjákvæmilega að leiða til lakari matar og til kólnunar aðalréttar, meðan súpan er borðuð. Í Laugaási mætum við ekki slíkum vanda. Hver réttur er séreldaður, meðan gesturinn borðar súpuna, og síðan færður honum til borðs.

Látlaust menningarheimili

Laugaás er lítill staður og oft þröngt setinn á annatímum. Merkilegt er, að álagið hefur ekki gert matstofuna þreytulega. Útlitið er frísklegt og geðslegt eins og á fyrsta degi. Laugaás minnir dálítið á gróið og látlast menningarheimili hreinlætis.

Á matseðlinum eru oftast um 15-20 réttir, þar á meðal súpa dagsins og eftirréttur dagsins. Hinir skiptast nokkurn veginn jafnt milli fiskrétta og kjötrétta. Í stórum dráttum breytist matseðillinn oft aðeins að hluta til frá degi til dags. Samt endurspeglar hann breytingar á framboði hráefnis, einkum fisks. Öðrum réttum, sem minna eru háðir framboði, er skipt út og inn til að auka fjölbreytnina.

Súpurnar eru yfirleitt góðar, einkum hinar tæru. Ég man eftir góðri grænmetissúpu og mjög góðri spergilsúpu, sem kölluð var prinsessusúpa. Ég man líka eftir annarri spergilsúpu, sem var hversdagsleg og hveitileg, enda hét hún ekki jafn virðulegu nafni, var bara spergilsúpa, kölluð rjómalöguð. Það lýsingarorð gefur mér af slæmri reynslu ætíð grunsemdir um, að hveitisúpa búi að baki.

Matreiðslan rokkar

Nýlega hef ég fengið í Laugaási frábærlega léttsteikt og mjúkt heilagfiski með léttsteiktu grænmeti og rækjum. Einnig dálítið ofsteikt og heldur of þurrt heilagfiski með miðlungi þunnri eggjasósu. Dæmin tvö af heilagfiski og spergilsúpu sýna mér, að matreiðslan rokkar nokkuð upp og niður, eins og hún hefur raunar ætíð gert. Kokkarnir eru einfaldlega misjafnlega nákvæmir, til dæmis í eldunartíma.

Af öðrum aðalréttum, sem ég hef nýlega prófað, má nefna góðan steinbít með hæfilega litlu magni af brie-osti. Ennfremur frábæran svartfugl, rauðan og meyran, einn hinn bezta, sem ég hef fengið, borinn fram með eplasalati.

Dæmi um eftirrétti dagsins eru góður búðingur í tveimur lögum með þeyttum rjóma og ávaxtaskreytingu, svo og ferskt og gott trifle, létt í maga. Þegar eftirréttir eru ekki innifaldir í matarverðinu, kosta þeir aðeins 60 krónur. Kaffi eftir mat er sæmilegt og kostar aðeins 20 krónur.

Miðjuverð þriggja rétta máltíðar með kaffi er 598 krónur í Laugaási. Það er lítið fé fyrir góða veizlu.

Jónas Kristjánsson

Dæmigerður matseðill
Prinsessusúpa
495 Steiktur fiskur gratineraður
480 Gratineraður plokkfiskur með rúgbrauði
495 Pönnusteiktur karfi St. Germain
495 Steiktur skötuselur með camembert
550 orly-steiktur skötuselur béarnaise
580 Steikt rauðsprettuflök með rækjum og brie
580 Pönnusteikt smálúða meistarans
580 Steiktur Laxalóns-silungur meuniere
495 Bixiematur með pönnueggi
530 Indverskur karríréttur með hrísgrjónum
530 Léttsteiktur svartfugl með eplasalati
540 Grillsteiktur kjúklingur
540 Köld nautatunga með kartöflusalati
670 Ali-hamborgarlæri með rauðvínssósu
695 Glóðarsteikt lambalæri béarnaise
720 Nautakótiletta hússins
795 Marineraðar lambalundir í rjómasósu
60 Búðingur. Fylgdi ókeypis með rauðsprettu, smálúðu, lamba- og nautakjöti.

DV

Spennusig og spennuris

Greinar

Hafið hefur löngum verið mikilvægur þáttur í hervaldi. Grikkir byggðu landnám sitt á sæveldi. Rómverjar héldu heimsveldi sínu saman á skipum. Portúgalir og Spánverjar sigruðu heiminn á flotanum. Bretar tóku við sem flotaveldi og urðu helzta nýlenduþjóðin.

Eftir síðari heimsstyrjöldina voru Bandaríkin helzta flotaveldi heims, alls ráðandi á Atlantshafi og Kyrrahafi. Smám saman hafa Sovétríkin tekið upp þráðinn í samkeppninni. Þegar nýtt flotaveldi ógnar gamalgrónu flotaveldi, er líklegt, að spenna færist í leikinn.

Þegar rætt er um, að þungamiðjan í spennu flotaveldanna hafi færzt nær Íslandi, byggist það á hinum miklu flotastöðvum, sem Sovétríkin hafa komið upp við Kolaskaga. Barentshafið hefur leyst Eystrasalt og Svartahaf af sem langmesta flotahreiður heimsveldisins.

Um nokkurt skeið hafa Bandaríkin og bandamenn þeirra í Atlantshafsbandalaginu byggt viðbúnað sinn gegn hinni nýju ógnun á því að geta lokað svonefndu Giuk-hliði, en það er herfræðilegt nafn á hafþrengslunum milli Grænlands, Íslands og Bretlandseyja.

Eftirlitsstöðin á Keflavíkurvelli er hlekkur í varnar-eðju, sem liggur þvert yfir Atlantshaf frá Thule um Færeyjar til Skotlands. Sem slík er hún í senn hernaðarlega mikilvægur og hernaðarlega viðkvæmur staður, er hefur valdið miklum deilum hér heima fyrir.

Tilvist stöðvarinnar getum við og höfum afsakað með því að benda á, að um ómunatíð hafa menn ýmist myndað bandalög með nágrönnum sínum eða vinum. Í Atlantshafsbandalaginu erum við með nágrönnum okkar og þeim, sem við eigum mest sameiginlegt með.

Önnur þessara forsenda hefði út af fyrir sig verið nægileg, en við höfum þær báðar. Að vísu er vinskapur ríkja Atlantshafsbandalagsins stundum blendinn, þegar kemur að sumum hagsmunamálum. En þau hanga þó saman á að búa við skásta þjóðskipulag í heimi.

Hingað til höfum við tekið því með þolinmæði, er mikilvægi Keflavíkurvallar hefur verið talið aukast í takt við vöxt flotaveldis Sovétríkjanna við Kolaskaga. Við höfum fallizt á margvíslegar endurbætur, þar á meðal á smíði ratsjárstöðva í öllum landshornum.

Hugmyndir í Bandaríkjunum um að færa átakalínu flotaveldanna til norðurs frá svonefnda Giuk-hliðinu hafa ekki veruleg áhrif á hina hernaðarlegu spennu, sem segja má, að tengist Keflavíkurvelli og Íslandi. Líklegt er þó, að hún minnki fremur en vaxi.

Ef gert er ráð fyrir, að átök flotaveldanna verði í nágrenni Jan Mayen og Svalbarða, er Ísland komið í þægilegri stöðu en áður að baki hættulegustu víglínunni. Þess vegna getum við fagnað hinum bandarísku hugmyndum um nýja átakalínu í Atlantshafinu.

Þær valda því, að í bili eru horfur á, að spennan við Ísland minnki. Því miður er ekki við langvinnu spennusigi að búast. Önnur atriði og fjarlægari munu valda því, að hafið í heild verði enn mikilvægari vígvöllur en áður var, þótt hlutföll einstakra svæða breytist.

Ef risaveldin ná samkomulagi um mikla fækkun kjarnaodda á landi, er líklegt, að um tíma að minnsta kosti muni þau leggja stóraukna áherzlu á kjarnaodda sína í hafi, einkum þá, sem kafbátar þeirra bera. Þar með flytzt spennan í auknum mæli af landi og út á haf.

Tímabundið spennusig í hafinu umhverfis okkur getur fyrr en varir breytzt í nýtt spennuris, sem færir okkur ný úrlausnarefni í samskiptum við önnur ríki.

Jónas Kristjánsson

DV

Hóf er á örlætinu bezt

Greinar

Húsnæðislánakerfið má laga verulega með því að hætta að niðurgreiða vexti af lánum til annarra en þeirra, sem eru að byggja eða kaupa í fyrsta skipti. Þeir, sem eiga íbúðir fyrir eða eru að minnka við sig húsnæði, eigi kost á húsnæðisláni með raunvöxtum.

Undanfarið hefur húsnæðislánakerfi ríkisins keypt peninga af lífeyrissjóðunum á 6,5% vöxtum og endurlánað þá á 3,5%. Niðurgreiðsla ríkisins nemur 3%, nærri helmingi raunvaxtanna. Þessi niðurgreiðsla er hugsuð sem aðstoð við ungt fólk, sem er nýlega byrjað á búskap.

Deila má um, hvort yfirleitt sé rétt að greiða niður raunvexti húsnæðislána, alveg eins og deilt er um raun vexti námslána. Í báðum tilvikum ríkir þó réttmætur pólitískur skilningur á, að ungu fólki reynist ella harðsótt að brjótast til mennta og festu í þjóðfélaginu.

Stefnan gengur hins vegar út í öfgar, þegar allir fá slík vildarkjör með sjálfvirkum hætti. Félagar í lífeyrissjóðum, sem fjármagna húsnæðislánakerfi ríkisins, fá sjálfvirkan aðgang að kerfinu á fimm ára fresti, þótt þeir séu að bæta við sig íbúð eða fara í minni íbúð.

Ógöngurnar eru orðnar slíkar, að samþykkt hefur verið umsókn frá manni, sem á fimm íbúðir fyrir. 1.200 lánshæfar umsóknir eru frá aðilum, sem hver um sig á fyrir yfir þrjár milljónir í skuldlausri eign. Samanlagt geta lán til þeirra numið hálfum öðrum milljarði króna.

Sóknin í ódýra lánsféð er orðin svo mikil, að tveggja ára biðtími er eftir lánum. Peningar þessa árs og hins næsta munu rétt rúmlega duga fyrir umsóknum, sem voru komnar fyrir 12. marz. Þeir, sem lögðu inn umsóknir í júnílok mega bíða úrlausnar fram á haustið 1989.

Svona fer gjarna, þegar reynt er að skipuleggja góðmennsku af hálfu hins opinbera. Menn sjá ekki fyrir hliðarverkanir og sitja uppi með meira eða minna ónothæft kerfi. Segja má, að húsnæðislánakerfi ríkisins sé risavaxin góðgerðastofnun án fjárhagslegs innihalds.

Samt er þetta nokkurn veginn nýtt kerfi, sem komið var á fót í tíð síðustu ríkisstjórnar í samvinnu við samtök launafólks og atvinnurekenda. Og raunar hefur það veitt stórauknu fé til húsnæðislána og stórhækkað lánin, svo að miklu fleiri en áður geta eignazt húsnæði.

Hins vegar var strax vitað, að kerfið hafði ekki fjárhagslegt bolmagn til að standa við háleitt markmið sitt. Þáverandi húsnæðisráðherra þoldi ekki að heyra slíkt og bolaði úr starfi þeim embættismanni, sem gaf almenningi beztar upplýsingar um raunverulega stöðu mála.

Þetta var Stefán Ingólfsson verkfræðingur, sem síðan hefur skrifað fjölda kjallaragreina um húsnæðismál í DV. Hinn nýi húsnæðisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, hefur nú fundið upp á því snjallræði að ráða hann sem sérstakan ráðgjafa í húsnæðismálum.

Þetta er merkasta aðgerð hinnar nýju ríkisstjórnar og hefur þegar leitt til, að spilin liggja á borðinu, almenningi til sýnis. Félagsmálaráðuneytið hefur sent frá sér fréttatilkynningu, þar sem alvarleg staða og þver brestir kerfisins eru skýrð á auðskilinn hátt.

Lausn málsins felst ekki í að hrúga í húsnæðismálin meiru af opinberu fé, sem ekki er til. Lausnin hlýtur miklu fremur að vera sú að draga úr lánaþorsta eignafólks með því að krefja það um raunvexti. Þannig munu biðlistar grisjast og færri en ella bætast á þá.

Hinir niðurgreiddu vextir eiga að vera gjöf þjóðfélagsins aðeins til fólks, sem er að byrja lífsbaráttuna og er að reyna að eignast þak yfir höfuðið í fyrsta sinn.

Jónas Kristjánsson

DV