Author Archive

Kínahofið

Veitingar

“Dýrð er að djörfu tapi!”

“Dýrð er að djörfu tapi”, mætti þýða málsháttinn, sem ég fékk í kínversku forlagakökunni með reikningi Kínahofsins. “In great attempts it is glorious even to fail” stóð þar á miða eins og við þekkjum úr páskaeggjum.

Helzt held ég, að málshátturinn vísi til endurtekinna tilrauna til að koma á legg kínversku veitingahúsi í þessu húsnæði við Nýbýlaveginn í Kópavogi. Þær hafa mistekizt, nema þessi síðasta, sem hefur það fram yfir hinar að hafa góðan mat í farteskinu. Vonandi leiðir sú djarfa dýrð til sigurs.

Hér voru áður Mandarín og Kínahúsið. Það voru að mínu viti staðir eins konar markaðstízku. Hressir menn höfðu látið sér detta í hug að “markaðssetja” þyrfti kínverskt veitingahús á Íslandi. Svo var það gert, væntanlega samkvæmt viðskiptalögmálum, en þess ekki gætt, að veitingahús er fyrst og fremst eldhús og innihald, en ekki markaðssetning. Kínahofið forðast þessi slys og á vonandi framtíð fyrir sér.

Hátt til lofts – langt til sjarma

Innréttingar eru að mestu hinar sömu og áður. Horfnir eru pappírsdrekarnir í loftinu, en eftir eru kínverskar ljósakrónur og vegglampar með gegnsæjum myndum og löngum dúskum, svo og blævængir og rómanskir speglar. Í heild er kínverska yfirbragðið mildara og þægilegra en áður var. Á borðum eru hvítir og rauðir taudúkar, rauðar pappírsþurrkur, hvít plastblóm og sojasósa. Hátt er til lofts og langt til sjarma í Kínahofi.

Þjónustan er sumpart afar góð og man meira að segja nokkurn veginn, hver af sex gestum við borð pantaði hvern hinna tólf rétta. Slíkt geta fáir skólagengnir þjónar hér á landi. En sumpart er þjónustan ófagleg og áhugalítil, á svipaðan hátt og hún var, þegar staðurinn hét öðrum Kínanöfnum.

Matseðillinn er svipaður því, sem tíðkast í kínverskum veitingahúsum á Vesturlöndum. Boðið er upp á allmarga grunnrétti í nokkurn veginn stöðluðum útgáfum. Grunnréttirnir eru til dæmis fiskur, rækjur, lamb, naut, kjúklingur og svín.

Útgáfurnar eru til dæmis súrsæt sósa, sjopsúei-sósa og hojsin-sósa, svo og karrí, sem ekki er kínverskt fyrirbæri, heldur indverskt. Allt er þetta skorið niður í bita, sem hægt er að borða með prjónum.

Kaffi fyrir matinn

Önd er á matseðlinum, en var ekki fáanleg í raun. Nokkur vín eru í boði, öll með afbrigðum léleg, þar á meðal húsvín í glasatali. Á boðstólum er aðeins ein einasta tegund af tei, þótt veitingahúsið sé kínverskt. Í hádeginu er gestum að bandarískum sið boðið að sötra kaffi, meðan þeir bíða eftir pöntuninni. Ég hef aldrei séð slíkt áður í siðmenntuðu veitingahúsi, hvað þá í kínversku húsi.

Eggjadropasúpa með grænmeti og karrísúpa með kjúklingi voru bragðsterkar og góðar. Súr fiskisúpa var einnig góð, en minna var spunnið í kjúklingasúpu með dósasveppum og hádegissúpu með grænum dósabaunum. Grænmetið í súpunum var yfirleitt mildilega soðið. Vorrúllur reyndust mjög harðar og stökkar, betri en venjulega fást hér á landi.

Súrsætur fiskur var afar góður, svo milt meðhöndlaður, að fiskbragðið hélzt, sem ekki er algengt í vestrænum Kínastöðum. Djúpsteikti fiskurinn var líka með fiskbragði, bragðsterkur og góður réttur. Undurmeyr hörpufiskur og rækjur með grænmeti voru frábær matur og reyndust það líka í annarri atrennu. Þetta var í bæði skiptin betri hörpufiskur en ég hef áður fengið að heiman.

Kjúklingur með ananas og papriku var meyr og góður. Enn meyrara og fínna var lambakjöt í sjopsúei. Nautakjöt með bambus-spírum og sveppum var hins vegar bara í meðallagi gott. Sama var að segja um kjúkling í karrí.

Eftirréttir voru lítils virði, niðursoðið litsí með ís, djúpsteiktur ananas með ís og rjómaís með súkkulaðisósu, sem reyndist vera súkkulaðiís með þeyttum rjóma. Teið var gott, líklega jasmín-ættar.

Kópavogsferðar virði

Í hádeginu er ekki gefið eftir í matreiðslunni, þótt þá séð boðið, í þessari röð, kaffi, súpa og val úr fjórum réttum, á 350 krónur að meðaltali. Á kvöldin er boðin súpa og þrír réttir á 1050 krónur. Af fastaseðlinum er miðjuverð þriggja rétta máltíðar með tei 1087 krónur. Hörpufiskurinn á 690 krónur og lambakjötið á 620 krónur eru virði ferðalags í Kópavog.

Jónas Kristjánsson

DV

Bleika skýið er horfið

Greinar

Heimskreppa er ekki í aðsigi, þótt verðbréfamarkaðurinn í Wall Street hafi á mánudaginn var tekið dýfu, sem tölulega séð jafnast á við svarta fimmtudaginn á sama stað fyrir tæpum sex áratugum. Dýfan hefur stöðvazt og mun ekki hafa veruleg áhrif til skamms tíma.

Líkja má verðlagi pappíra í Bandaríkjunum við blöðru, sem einfeldningar, bjartsýnismenn og Reaganistar hafa verið að þenja út í fimm ár og hættulega mikið síðasta árið. Nú hefur blaðran verið sprengd og verðlagið hefur nálgast gráan raunveruleikann.

Reikna má með, að stjórn Reagans Bandaríkjaforseta geti ekki lengur flotið á bleiku skýi í fjármálum. Hún neyðist til að hefja baráttu við geigvænlegan halla á rekstri ríkisins og á utanríkisviðskiptum landsins. Hún lærir sennilega mánudagslexíuna frá Wall Street.

Fjölmiðlar í Bandaríkjunum og víðar hafa undanfarnar vikur spáð dýfunni, svo að hún átti ekki að koma á óvart þeim, sem hagsmuna hafa að gæta. Öll lögmál bentu til, að blaðran hlyti að springa fyrr en síðar, því að ekki er hægt að fljóta á bleiku skýi til eilífðarnóns.

Það var ekki aðeins í Bandaríkjunum, að verðlag hlutabréfa var komið langt fram úr afkastagetu bréfanna til arðgreiðslu. Einnig í Japan hlaut slík blaðra að springa og gerði það. En víða annars staðar í heiminum voru dýfurnar minni og jöfnuðu sig fljótt og vel.

Til langs tíma er aðalhættan sú, að útlendingar fái varanlega ótrú á fjárfestingu í Bandaríkjunum og dragi jafnvel til baka fjármagn, sem þeir hafa fjárfest þar. Slíkt mun hafa alvarleg áhrif á hagþróun vestra og á kaupgetu fólks, sem hefur vanizt að lifa um efni fram.

Sennilega hefur þetta lítil áhrif á helztu útflutningsafurð Íslendinga, freðfiskinn. Hann er matur, sem fólk vill og getur síður sparað við sig en margt af eyðsluvörunum. Fiskur verður því áfram keyptur og ætti að geta haldið eðlilegum verðhlutföllum, miðað við annan mat.

Þá eru ekki heldur teikn á lofti um, að dollarinn muni halda áfram að falla gagnvart hörðu gjaldmiðlunum og magna enn frekar þann halla okkar, sem stafar af tiltölulega mikilli sölu í dollurum og miklum kaupum í annarri mynt. Dollarinn hefur þegar fallið nóg.

Að sjálfsögðu þurfum við að fylgjast vel með þróun mála. Við rekum sérhæft atvinnulíf og erum þjóða háðastir viðskiptum við önnur ríki. Allar dýfur í viðskiptalöndunum eru óþægilegar. Verstar eru útblásnar blöðrur, sem springa skyndilega og jafnvel óvænt.

Vítahringur Bandaríkjanna var ekki flókinn. Gífurlegur viðskiptahalli rýrði gengi dollarans í sífellu. Gengissigið framkallaði vaxtahækkanir, sem gerðu hlutabréf arðminni en áður. Framan af neituðu menn að horfast í augu við þetta og fengu loks stóran skell.

Við getum lært af þessu hér norður í höfum. Við búum við gífurlegan viðskiptahalla, samfara krampakenndri fastgengisstefnu og ótrúlegri tregðu ríkisstjórnar við að draga saman seglin í ríkisrekstri. Við fáum af þessu efnahagslega skelli eins og Bandaríkjamenn.

Kauphallarhrunið getur orðið öllum ríkjum til góðs, ef menn læra af reynslunni. Bandaríkjamenn geta til dæmis farið að snúa sér að öflun tekna með samkeppnishæfri framleiðslu og að minnkaðri ofneyzlu. Og eftir rúmt ár fer Reagan forseti hvort sem er frá völdum.

Við Íslendingar megum svo hætta að trúa, að leiðtogar okkar geti komið okkur hjá óþægindum með því að reisa stíflur, er stöðvi framrás efnahagslegra fljóta.

Jónas Kristjánsson

DV

Unesco verður endurreist

Greinar

Í augsýn er hinn langþráði nóvemberdagur, er Amadou Mahtar M’Bow lætur af embætti framkvæmdastjóra Unesco, menntastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Við hlutverki hans tekur væntanlega Spánverjinn Federico Major, er ætti að geta endurreist Unesco.

Federico Major er líffræðingur, sem sneri sér að stjórnmálum á vegum spánskra jafnaðarmanna. Hann hefur gott orð á sér og er talinn geta tekizt á við hvort tveggja, stjórnleysið og spillinguna í stofnuninni, svo og andstöðu hennar við vestrænar lýðræðishefðir.

Þótt Major yrði á endanum eini frambjóðandinn í síðustu atkvæðagreiðslunni, fékk hann tuttugu mótatkvæði af fimmtíu. Það bendir til, að sumir harðstjórar þriðja heimsins geti hugsað sér að blása saman liði gegn honum á aðalfundi stofnunarinnar í nóvember.

Fulltrúar frá fimmtíu ríkjum áttu aðild að atkvæðagreiðslunni í stjórn stofnunarinnar. Á aðalfundinum verða fulltrúar frá öllum aðildarríkjunum 158. Á báðum stöðum eru í meirihluta lögreglu- og ofbeldisríki af ýmsu tagi, svo að málið er ekki alveg komið í höfn.

Herforingjastjórnin í Pakistan harmar fall frambjóðanda síns, hershöfðingjans Jakub Kahn. Hún er nú að reyna að tefla honum fram á nýjan leik til málamiðlunar og æsir í því skyni til andstöðu harðstjóra þriðja heimsins gegn Major sem vestrænu forstjóraefni.

Kahn hefði orðið betri forstjóri en M’Bow, enda væri leitun að manni, sem ekki væri það. Hins vegar geta Vesturlönd aldrei stutt til valda í Unesco fulltrúa ríkisstjórnar, sem brýtur gróflega gegn mannréttindum. Því verðum við að vona, að kjör hins spánska Majors standi.

Fyrstu viðbrögð brezku og bandarísku ríkisstjórnanna við úrslitum atkvæðagreiðslunnar í París eru dapurleg. Í stað þess að fagna niðurstöðum og gefa góð orð um, að þær gerist aðilar að Unesco á nýjan leik, hafa þær látið í ljós efasemdir um, að svo verði.

Auðvitað er eðlilegt, að útgönguríkin taki heimferðina rólega og fylgist með, hvort endurreisn og siðvæðing Unesco verður að veruleika, áður en þau ákveða endanlega að vera aftur með. En viðbrögð Bretlands og Bandaríkjanna hefðu mátt vera bjartsýnni og jákvæðari.

Þegar farið verður að taka til hendinni í Unesco, er gott að hafa með í ráðum þau ríki, sem ætlazt er til, að leggi mest fé af mörkum, og sem hafa einna lengsta reynslu allra ríkja af lýðræði og mannréttindum. Meira en nóg er af auralausu harðstjóraríkjunum í Unesco.

Brýnasta verkefni Majors verður að hreinsa til í starfsmannaskrá stofnunarinnar, einkum efst í henni. Losna þarf við hirðmenn M’Bows og aðra getuleysingja, sem hafa komið í stað hinna, er flúið hafa sukkið og svínaríið. Allt æxli M’Bows þarf að nema á brott.

Hitt fylgir svo í kjölfarið, að hætt verði að sóa fjórum krónum af hverjum fimm í rekstur höfuðstöðvanna í París og farið að nota meginhluta fjárins til að sinna hinum raunverulegu verkefnum stofnunarinnar, svo sem baráttu fyrir læsi og menntun í þriðja heiminum.

Einnig er tímabært, að Unesco hætti að þjóna hagsmunum harðstjóra. Stofnun M’Bows hefur mælt með einokun þeirra á upplýsingaflæði innan ríkja þeirra, til þeirra og frá þeim. Major hefur hins vegar spánska reynslu af Franco og hættum, sem fylgja slíkri einokun.

Fulltrúar Íslands í Unesco og stjórn þess eiga að vinna af alefli að staðfestingu á kjöri Majors og að árangri í miklu starfi, sem framundan er í menntastofnuninni.

Jónas Kristjánsson

DV

Hókus pókus

Greinar

Fjárlagafrumvarpið, lánsfjáráætlun ríkisins og þjóðhagsáætlun ríkisstjórnarinnar valda áhyggjum um velferð þjóðarinnar undir handleiðslu hinnar nýju ríkisstjórnar. Í gögnum þessum og ýmsum hliðargögnum eru meiri sjónhverfingar og minni hagfræði en ætlað var.

Spámenn ríkisstjórnarinnar tala um aðgerðir gegn sex milljarða viðskiptahalla á næsta ári og spámenn Verzlunarráðs tala um allt að tíu milljarða. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar gegn þessum vanda eru of vægar og munu ekki leiða til fullnægjandi minnkunar hallans.

Ráðherrar, sem standa fyrir umfangsmikilli prentun verðlausra peningaseðla á vegum Seðlabankans, fara villir vegar, ef þeir halda, að sífelldar yfirlýsingar þeirra um, að gengið verði áfram fast, séu teknir trúanlegar af þeim, sem taka þátt í kapphlaupi við gengislækkanir.

Stjórnin er að koma sér í þær ógöngur að neyðast til að halda dauðahaldi í fastagengið miklu lengur en hollt er, bara til að geta kennt öðrum um gengislækkunina, er hún kemur. Stjórnin mun segja, að þeir, sem spá gengislækkun, séu að biðja um hana og framkalla hana.

Hins vegar hefur ríkisstjórninni næstum tekizt að telja flestum trú um þá firru, að gerðir hennar stefni að hallalausum ríkisbúskap á næsta ári. Þá er einblínt á svonefndan A-hluta fjárlaga og neitað að horfast í augu við hallann, sem felst í lántökum ríkisins.

Ennfremur er of mikið af fjárlaganiðurskurði síðustu vikna fólgið í handahófskenndum lækkunum holt og bolt, sem ekki fela í sér neinar efnislegar aðgerðir, er tryggi, að hinn góði ásetningur verði að veruleika. Þetta er ekki lækning, heldur snyrting, það er sjónhverfing.

Reynslan sýnir, að pennastrik af þessu tagi leiða til aukafjárveitinga eða umframeyðslu, þegar til kastanna kemur. Við höfum gott dæmi af niðurgreiðslum landbúnaðarafurða, sem oft eru skornar niður í fjárlögum, en belgjast síðan aftur út í meðförum ríkisstjórnar.

Annars er fjármögnun landbúnaðarins bezta dæmið um vel heppnaða sjónhverfingu ríkisstjórnarinnar. Framleiddur hefur verið stormur í vatnsglasi, þar sem mikill fjöldi leikara hefur komið fram og grátið út af illri meðferð á landbúnaði í fjárlagafrumvarpinu.

Staðreyndin er hins vegar þveröfug. Milli ára hækka tveir stærstu landbúnaðarliðir frumvarpsins, niðurgreiðslur og útflutningsuppbætur, um 700 milljónir eða tæplega 40%, sem er langt umfram verðbólgu milli ára. Aðrir liðir eru skiptimynt í samanburði við þessa tvo.

Í heild hefur verið reynt að gefa falska mynd af fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar. Látið er í veðri vaka, að hún hafi í farangrinum hallalausan ríkisrekstur, fast gengi krónunnar, hóflegan viðskiptahalla þjóðarbúsins og niðurskurð hins hefðbundna landbúnaðarskrímslis.

Við raunsæju fólki blasir hins vegar önnur mynd, sem sýnir á næsta ári óvenjulega mikinn hallarekstur ríkisins, hastarlega gengislækkun krónunnar, methalla á viðskiptum þjóðarinnar við útlönd og aukna byrði skattborgara og neytenda af hinum heilögu kindum og kúm.

Of snemmt er að spá, að allt fari þetta á versta veg hjá ríkisstjórninni. En óneitanlega er uggur við hæfi, því að allt of margt í fjármálaverkum stjórnarinnar ber meiri keim af sjónhverfingum en hagfræði og að á allt of mörgum sviðum er þetta tvennt í óskýrri blöndu.

Mikilvægast í stöðunni er, að fólk átti sig á ofangreindum hættum og láti ekki ráðherra komast upp með að láta sjónhverfingar leysa hagfræði af hólmi.

Jónas Kristjánsson

DV

Arias gegn róttæklingum

Greinar

Oscar Arias Sánchez er vel að friðarverðlaunum Nóbels kominn. Hann er forseti Costa Rica, herlauss ríkis á ófriðarsvæði Mið-Ameríku, og höfundur friðarsamkomulagsins 7. ágúst, sem varð grundvöllur aukins lýðræðis í Nicaragua, er áður var á leið til einræðis.

Arias er betur að verðlaununum kominn en þjóðarleiðtogarnir Corazon Aquino á Filippseyjum og Raul Alfonsin í Argentínu, sem eru meira eða minna undir hælnum á herforingjum ríkja sinna. Val Ariasar bendir til, að verðlaunanefndin hafi hugsað málið vandlega.

Róttæklingurinn Reagan Bandaríkjaforseti var seinheppinn um daginn, þegar hann reyndi á ýmsan hátt að lítillækka Arias við komu hans til Bandaríkjanna, meðal annars með því að láta ekki embættismenn vera viðstadda, þegar hann ávarpaði bandaríska þingið.

Friðarsamkomulag Ariasar var einnig undirritað af Ortega frá Nicaragua, Duarte frá El Salvador, Azcona frá Honduras og Cerezo frá Guatemala. Það leggur þessum Mið-Ameríkuríkjum ýmsar skyldur á herðar til að ná friði innan landamæra sinna og milli þeirra.

Hingað til hefur stjórn sandinista í Nicaragua framkvæmt það, sem hún lofaði í samkomulaginu. La Prensa, óháða dagblaðið, sem barðist áður gegn einræðisherranum Somoza og síðan gegn sandinistum, hefur hafið útgáfu að nýju og er að þessu sinni ekki ritskoðað.

Útvarpsstöð kaþólikka er aftur tekin til starfa. Talsmanni kaþólsku kirkjunnar, Bismarck Carballo, hefur verið hleypt inn í landið að nýju. Kardínálinn og stjórnarandstæðingurinn Miguel Obando y Bravo hefur verið gerður að formanni svokallaðrar Þjóðarsáttarnefndar.

Margt bendir til, að sandinistar séu meira að snyrta á yfirborðinu en undir niðri. Nýlega voru handteknir Lino Hernandez, formaður mannréttindanefndar landsins, og Alberto Saborio, forseti lögmannafélagsins. Lögregluhundum er sigað á mannréttindafundi

Þegar Cruz Flores frá La Prensa tók mynd 15. ágúst af lögregluhundum, sem sigað var á friðsamt fundar fólk, var filman gerð upptæk og ljósmyndaranum varpað í svartholið. Það er í ýmsu slíku afar grunnt á stalínismanum í sandinisma stjórnvaldanna í Nicaragua.

Sandinistar treysta völd sín með því að skipa hvarvetna hverfisnefndir sandinista, sem hafa tvenns konar hlutverk. Þær útdeila nauðsynlegum skömmtunarseðlum til sumra, en ekki annarra. Og þær gefa skýrslur til leyniþjónustunnar um stjórnmálaskoðanir fólks.

Raunar hafa sandinistar ekki lýðræðislegt umboð til að fara með völd í Nicaragua. Stjórnarandstaðan tók ekki þátt í síðustu kosningum, af því að sandinistar réðu öllum fjölmiðlum landsins og beittu slagsmálaliði til að hleypa upp fundum stjórnarandstöðuflokkanna.

Í þessum efnum skjóta sandinistar sér á bak við Reagan Bandaríkjaforseta. Þeir segjast verða að láta hart mæta hörðu, því að hann haldi uppi sveitum skæruliða í landinu. Þetta eru svonefndir Contras, hópar ribbalda undir stjórn glæpamanna frá Somoza-tímanum.

Bandaríkin ættu að reyna að bæta fyrir brot sín frá Somoza-tímanum með því að stuðla að friði í Nicaragua. Í staðinn bætir forsetinn gráu ofan á svart með því að halda uppi glæpasveitum Contras með löglega og ólöglega fengnu fé, meðal annars frá vinunum í Íran.

Arias verðlaunahafi hefur hins vegar sómann af að hafa tekizt að vinda lítillega ofan af ósómanum, sem róttæklingar Reagans og sandinista hafa undið upp.

Jónas Kristjánsson

DV

Gufuvélin er að springa

Greinar

Síðari atlaga ríkisstjórnarinnar að fjárlagahallanum er raunhæfari en hin fyrri. Í aðgerðum síðustu helgar er minna af sjónhverfingum en var í lotunni fyrir þremur vikum. Lagfæring fjárlagafrumvarpsins er því markverðari og áhrifameiri í þetta síðara skipti.

Ástandið er orðið svo alvarlegt, að sjónhverfingar nægja ekki lengur. Ríkisstjórnin hefur orðið uppiskroppa með töfrabrögð og telur sér sem betur fer skylt að mæta vandanum að hluta til með raunverulegum aðgerðum. Hún er farin að skera niður og skattleggja.

Í stórum dráttum má segja, að vandinn felist aðallega í, að þjóðin lifir um efni fram. Ríkið, fyrirtækin og fjölskyldurnar nota peninga, sem hafa ekki verðmæti að baki. Á næsta ári stefnir þessi þensla í viðskiptahalla, sem metinn hefur verið á sex til tíu milljarða króna.

Við þessar aðstæður verður að stíga hemlana í botn. Ríkið þarf að skera niður ráðagerðir um framkvæmdir og rekstur á næsta ári. Fyrirtækin verða að sæta tekjurýrnun vegna skattlagningar. Og fjölskyldurnar neyðast til að sætta sig við óbreyttan eða skertan kaupmátt.

Ef ríkisstjórninni tekst að láta aðgerðirnar gegn þenslunni koma tiltölulega jafnt niður á öllum þessum þremur aðilum, getur hún vænzt friðar um þær, ekki sízt ef ríkið verður látið bera sinn hlut að fullu. Nýja atlagan bendir til, að svo geti hugsanlega orðið.

Til að ríkið sæti nægu aðhaldi er brýnt, að umræðan um aukafjárveitingar leiði til nýrra vinnubragða, sem Magnús Pétursson hagsýslustjóri hefur bent á. Í kjölfar fjárlagafrumvarps þarf að leggja fram frumvarp til fjáraukalaga, sem afgreitt verði fyrir þinglok í vor.

Í raun þurfa ríkisstjórn og fjárveitinganefnd Alþingis að hafa nokkurn veginn frá degi til dags rétta hugmynd um, hvað er að gerast í ríkisfjármálunum og hver eru frávikin frá áætlun fjárlaga. Frávikin á að rekja í fjáraukalögum á sjálfu fjárhagsárinu, en ekki löngu síðar.

Sumar aukafjárveitingar eru eðlileg afleiðing breyttra aðstæðna, til dæmis í verðlagi eða kauptöxtum, í tilboðsverðum eða lagabreytingum. Aðrar stafa af skorti á aðhaldi í einstökum stofnunum eða skyndilegri gjafmildi ráðherra í skálaræðum á hátíðastundum.

Hvert svo sem eðli aukafjárveitinga er hverju sinni, mega þær ekki vera leyndarmál. Þær eiga skilið eðlilega umfjöllun ríkisstjórnar og fjárveitinganefndar, þar sem eru fulltrúar allra þeirra stjórnmálaflokka, sem sæti eiga á Alþingi, svo og opinbera umræðu í fjölmiðlum.

Til þess að ríkisstjórn, Alþingi og aðrir, sem um málið fjalla, geti hugsað og talað af fullu viti um stöðu ríkisfjármála, er brýnt, að fjárlagafrumvarpið nái yfir alla þætti ríkisins og stofnana á þess vegum. Deilur um jafnvægi í svokölluðum A-hluta þess segja of litla sögu.

Einnig er komið í eindaga, að ráðamenn þjóðarinnar átti sig á, að sífelldur niðurskurður félagslegra útgjalda og stöðug skattaukning leiðir til, að augu fólks beinast eindregnar að óeðlilegum forgangi niðurgreiðslna, uppbóta og annarra styrkja til hefðbundins landbúnaðar.

Með síðustu aðgerðum hefur ríkisstjórnin stigið léttilega á hemlana til að draga úr þenslunni, sem hótar sex til tíu milljarða viðskiptahalla og viðeigandi gengishruni krónunnar á næsta ári. Hér hefur verið bent á nokkur atriði, sem þurfa að fylgja, svo að árangur náist.

Efnahagsvél þjóðarinnar leikur nú á reiðiskjálfi. Draga verður snarlega úr þrýstingnum, áður en hún springur. Okkur er engrar annarrar undankomu auðið.

Jónas Kristjánsson

DV

Andarslitur í áratug

Greinar

Íslendingar bera hluta ábyrgðarinnar á, hvernig komið er fyrir menntastofnun Sameinuðu þjóðanna, Unesco. Við höfum ekki aðeins vannýtt hið heila atkvæði, er við höfum þar sem aðildarþjóð, heldur einnig stjórnarsætið, er við höfum haft þar allra síðustu árin.

Menntamálaráðherrar og ríkisstjórnir síðasta áratugar hafa ekki sér til afsökunar að vita ekki, hvað hefur verið að gerast í Unesco. Í rúm ellefu ár hefur í að minnsta kosti jafnmörgum leiðurum hér í blaðinu verið varað við öfugþróuninni í hinni heillum horfnu stofnun.

Valdamenn okkar hafa eins og valdamenn Norður landa og margra Vesturlanda ekki tekið Unesco nógu alvarlega. Þangað hafa verið sendir fulltrúar og stjórnarmenn, sem hvorki hafa taflgetu né harðfylgi til að etja kappi við glæpalið M’Bows framkvæmdastjóra.

Stjórnarmönnum Vesturlanda í Unesco og öðrum fulltrúum þeirra þar hefur mistekizt að finna frá þriðja heiminum frambjóðanda, er geti náð öruggu kjöri sem nýr framkvæmdastjóri menntastofnunarinnar. Fylgið gegn M’Bow hefur dreifzt á of marga frambjóðendur.

Í fyrstu atkvæðagreiðslum hefur næstur á eftir M’Bow komið pakistanski hershöfðinginn Jakub. Hann er auðvitað, eins og aðrir, illskárri en M’Bow. Eigi að síður er hann óviðeigandi, því að hann er fulltrúi herforingja, sem komu lýðræðislega kjörinni stjórn Pakistans á kné.

Leiðtogum þriðja heimsins er auðvitað flestum sama um slíkt, en Vesturlönd mega ekki sætta sig við framkvæmdastjóra af því tagi. Bezt hefði verið að fá mann frá þjóðum Suður-Ameríku, sem hafa verið að losa sig við harðstjórnir herforingja á undanförnum árum.

Enn er ekki loku fyrir það skotið, að samkomulag náist um ágætis mann á borð við Iglesias, utanríkisráðherra Uruguay. Horfurnar virðast samt mjög daufar, því að M’Bow trónir á tindi hverrar atkvæðagreiðslunnar á fætur annarri og hershöfðinginn nær öðru sæti.

Meira en áratugur er síðan öllum mátti ljóst vera, að M’Bow mundi rústa Unesco. Síðan hafa dæmin hvert á fætur öðru sannað kenninguna. Menntastofnunin rambar á barmi siðferðilegs og fjárhagslegs hruns. Stjórnarmenn hennar hafa ekki náð neinu taumhaldi.

Nær allir embættismenn, sem eitthvað hafa getað unnið, hafa flúið Unesco eða verið hraktir þaðan. Í staðinn hafa komið frændur M’Bows og aðrar pöddur, sem hafa það eitt hlutverk að verja veldi hans. Þremur fjórðu af peningum stofnunarinnar er sóað í Parísarsukk.

Hið litla, sem Unesco megnar að gera, er neikvætt. M’Bow hefur beint fé og kröftum stofnunarinnar að málum, sem auðvelda harðstjórum að kúga þjóðir þriðja heimsins, meðal annars með því að takmarka upplýsingaflæði og efla áróðursráðuneyti harðstjóra.

Unesco er beitt gegn mannréttindahugsjónum Vesturlanda. Þess vegna nýtur M’Bow mikils stuðnings meðal harðstjóra þriðja heimsins, arabaríkjanna og austurblakkarinnar, jafnvel þótt þeim sé ljóst, að hann er einnig búinn að koma menntastofnuninni á vonarvöl.

Seta íslenzks fulltrúa í stjórn Unescos á þessum hörmungatíma er okkur til vansæmdar. Við hefðum betur farið frá borði í tæka tíð, áður en við tókum ábyrgð á ósómanum. En raunar er þó aldrei of seint að játa sannleikann og ganga úr hinni vegavilltu menntastofnun.

Hinn nýi menntaráðherra okkar hefur því miður aðeins sagt, að Ísland taki aðild sína til endurskoðunar, ef M’Bow nær endurkjöri. Það er allt of vægt orðað.

Jónas Kristjánsson

DV

Þrír Frakkar

Veitingar

Búða-menn á toppnum

Þrír Frakkar eru ein notalegasta matstofa landsins, – veitingahús franska stærðfræðingsins Matthíasar Jóhannssonar, sem fyrir nokkrum árum hjálpaði Rúnari Marvinssyni að gera garðinn frægan að Búðum á Snæfellsnesi. Nú hafa þeir félagar báðir haslað sér völl í Reykjavík og komizt þar á toppinn.

Þrír Frakkar Matthíasar eru að vísu ekki alveg eins góðir og Við Tjörnina Rúnars og vantar enn herzlumuninn að komast í flokk hinna sárafáu þriggja húfu veitingahúsa. En Þrír Frakkar eru einna fremstir þeirra, sem skarta tveimur húfum. Og enn jákvæðara er, að staðnum hefur ekki hnignað, heldur hefur honum smám saman vaxið ásmegin í matreiðslu.

Viðskiptalífið virðist ekki nógu duglegt við að halda uppi góðum veitingahúsum í hádeginu. Svo virðist sem íslenzkir kaupsýslumenn séu ekkert spenntir fyrir nýjungum í veitingarekstri og matargerð og fari jafnan í sömu, gömlu hótelsalina til að fá sömu, gömlu réttina. Sumir beztu matstaðanna eru lokaðir í hádeginu á sumrin, svo sem Arnarhóll, og sumir allt árið, þar á meðal Þrír Frakkar.

Húsnæði Matthíasar og félaga ber menningarlegan, franskan svip. Það er innréttað í gömlu húsnæði, í einni, lítilli 16 sæta stofu, herbergi inn af henni og garðskála út frá henni. Veggirnir eru ljósmálaðir að ofan og klæddir dökkum viði að neðan. Skemmtileg smíðajárnsborð með rauðleitum marmaraplötum eru að mestu falin undir borðdúkum. Svörtu viðarstólarnir eru þægilegir. Á borðum eru tauþurrkur, kerti og afar fallega skorin vínglös, sem hljóta að vera viðkvæm í uppþvotti og eftir því dýr í rekstri.

Þjónusta hefur verið misjöfn þessi fáu ár, sem Þrír Frakkar hafa verið opnir. Stundum hefur hún verið mjög góð, stundum sæmileg og einu sinni var hún broslega leikræn. Það var þegar þjónninn sagði: “ÉG býð í dag upp á…” Í seinni tíð hefur þjónustan undantekningarlaust verið til fyrirmyndar.

Sagt frá árgöngum

Vínlistinn hefur það umfram flesta bræður sína hér á landi, að árganga er getið. Þannig mátti um daginn til dæmis sjá, að til var árgangur 1985 af Chateau Barthez de Luze, 1983 af Chateau Cantenac, 1985 af Chateau Fontareche, 1985 af Chateau Cléray, 1985 af Gewürztraminer og 1986 af Riesling Hugel. Samanlagt eru þetta mörg af beztu vínum Áfengis- og tóbaksverzlunar ríkisins.

Ekki er síður mikilvægt, að vínin, sem seld eru í glasatali, eru bæði góð, Chateau Fontareche og Riesling Hugel. Annars staðar hér á landi eru yfirleitt valin hin verstu vín til að gegna þessu mikilvæga hlutverki. Þrír Frakkar eru sem sagt einn fárra staða eða kannski eini staðurinn á landinu, þar sem hægt er, í orðsins fyllstu merkingu, að fá sér glas af góðu víni.

Þá fæst í Þremur Frökkum, einum íslenzkra matstaða, franskur Kronenbourg-bjór, blandaður ýmsum tegundum ávaxtasafa, til dæmis kiwi og ananas saman.

Stakkaskipti seðils

Hér er oft skipt um matseðil, en ekki þó daglega, eins og bezt væri. En matseðillinn tekur líka algerum stakkaskiptum hverju sinni, svo að breytingin er alls ekki bara til málamynda eins og hjá sumum öðrum. Seðillinn er hæfilega stuttur, yfirleitt með þremur forréttum, þremur fiskréttum, þremur kjötréttum og þremur eftirréttum.

Rjómalöguð fiskisúpa var snarpheit og afar góð, full af rækjum og stórum humarbitum. Með henni var dökkt brauð með smjöri í skál. Mjög góður beitukóngur var borinn fram í eldtraustum leirbolla, afar heitur og ákaflega mikið kryddaður, blandaður mikilli papriku og í fylgd með hrísgrjónum til hliðar. Sniglar voru líkir því, sem annars staðar eru boðnir. Lárperu-kraumís var sérkennilegur forréttur, sérstaklega frískur og áberandi góður.

Skötuselur var sæmilegur, ekki sérstaklega meyr, töluvert hvítlaukskryddaður, borinn fram með góðri sósu, hrísgrjónum, rækjum og léttsoðnum gulrótum. Afar góð humarkássa var rækilega pipruð og tilbrigðarík og fól í sér mikinn humar og blaðlauk, olífur, appelsínur, sveppi og góða sósu.

Frábær villibráðarsósa

Hreindýr var mildilega steikt, einstaklega meyrt og afar gott, borið fram með frábærri villibráðarsósu og óhóflegu magni af margvíslegu meðlæti. Grilluð lambasteik, næstum jafngóð, var einnig létt og meyr, óvenju ljós, fyllt lárperumauki, er átti vel við kjötið og með óhóflegu magni af meðlæti, sem var ekki hið sama og með hreindýrakjötinu.

Heimalagaður appelsínukraumís var góður, borinn fram með jarðarberjum og þeyttum rjóma. Afar góð súkkulaðikaka var vætt í koníaki og borin fram með þeyttum rjóma. Döðlutertan var mýkri og ekki síður góð, einnig með þeyttum rjóma. Mjúklega eldsteiktur banani var ljúffengur, borinn fram með góðri appelsínusósu.

Þriggja rétta kvöldverður með kaffi, en án víns, kostar að meðaltali 1.682 krónur í Þremur Frökkum.

Jónas Kristjánsson

Matseðill
320 Rjómalöguð spergilsúpa
410 Beitukóngur piperade
440 Sniglar að hætti Flandrarans
780 Smálúða með sveppum og brie-osti
760 Steinbítur í rauðvíni
750 Smokkfiskur í karrí
970 Kanína með sveskjum
990 Grilluð lambasteik fyllt með lárperumauki
1200 Nauta-piparsteik
1400 Hreindýr með bökuðum eplum
350 Döðlutertan hennar Önnu
370 Krapís Þriggja Frakka með mokka, te og súkkulaði
380 Eldsteiktur banani með appelsínusósu

DV

Friðarstofnun á Íslandi

Greinar

Of snemmt er að gera því skóna, að alþjóðlegri friðarstofnun verði komið upp á Íslandi. Það er enn bara hugmynd, sem Steingrímur Hermannsson kom á framfæri við sovézka og bandaríska ráðamenn, er hann var forsætisráðherra. En henni hefur ekki verið illa tekið.

Frá okkar sjónarmiði er að flestu leyti gott að fá slíka stofnun hingað til lands. Auðvitað eru slæmar hliðar á því eins og raunar á öllum málum. Þær vega þó ekki þungt í samanburði við hinar góðu, auk þess sem unnt er að milda þær með því að vita af þeim fyrirfram.

Íslendingar eru yfirleitt andvígir sumu því tilstandi, er víða fylgir yfirstéttunum, sem ráða ferðinni í alþjóðlegum samskiptum. Hraðakstur bílalesta undir sírenuvæli er dæmi um fíflaskap, sem við munum ekki sætta okkur við sem fastan þátt í þjóðlífinu.

Unnt er að sætta sig við meiriháttar röskun af og til, ef við getum lagt eitthvað af mörkum til að gera fundi heimsleiðtoga árangursríka. En við venjulega fyrirmannafundi munum við frábiðja okkur fyrirgang á borð við þann, sem tengdist Nató-fundinum í sumar.

Hefðbundið mun vera, að ákveðinn hluti sendimanna heimsvelda starfi undir fölsku flaggi og sinni í raun njósnum. Við þurfum ekki að hafa miklar áhyggjur af slíku og getum raunar litið svo á, að slík vinna hér á landi jafngildi í stórum dráttum sóun á starfskröftum.

Margt kemur á móti þessu, auk ánægju okkar af að hjálpa til við gagnlega vinnu í alþjóðlegum samskiptum. Alþjóðastofnun í Reykjavík mundi verða okkur eins konar gluggi að umheiminum, gera okkur heimsvanari og raunsærri í viðhorfum okkar til umhverfisins.

Einnig skiptir máli, að stofnunum af þessu tagi fylgja margvísleg störf, sem mörg hver hafa tilhneigingu til að vera hátekjustörf. Þau eru auk þess á sviðum, sem við þurfum að efla hjá okkur til að draga úr atvinnueinhæfni og verða fullgildir þáttakendur í nútímastörfum.

Loks má hafa í huga, að föst alþjóðastofnun treystir grundvöll ferðaþjónustunnar í landinu. Viðskipti hennar dreifast betur og jafnar yfir allt árið, svo að ekki þarf að miða fjárfestingu nærri eingöngu við afar stutta sumarvertíð. Jafnvægi er gott í þessu eins og ýmsu öðru.

Á þetta er bent hér til að hvetja ráðamenn til að taka á máli þessu af alvöru. Afleitt er, þegar Þorsteinn Pálsson forsætisráðherra svarar út í hött og raunar með hálfgerðum skætingi, þegar hann er spurður um, hvað hann sé að gera til að fá hingað nýjan toppfund.

Ísland verður ekki tíðari eða fastur vettvangur alþjóðlegra samskipta, ef okkar menn vinna að því með hangandi hendi. Margir aðrir staðir koma til greina, svo sem Vínarborg og Helsinki, þar sem góð reynsla er af mikilvægum ráðstefnum og toppfundum af ýmsu tagi.

Forseti Íslands, ríkisstjórn og utanríkisþjónusta eiga að stunda samræmda og öfluga viðleitni að áþreifanlegu marki á þessu sviði. Hin umrædda friðarstofnun austurs og vesturs er einmitt slíkt markmið. Henni verður fyrr en síðar komið á fót, ­ einhvers staðar í heiminum.

Í friðarstofnun verður væntanlega rætt um samdrátt kjarnorkuvopna, bann við eiturvopnum og stjörnustríði, samdrátt hefðbundinna vopna, herlaus landamærabelti og friðun hafsins. Ef til vill líka um aðgerðir gegn ozon-eyðingu og gegn annarri viströskun jarðar.

Okkur Íslendingum væri mikill heiður og ánægja af, að starf af slíku tagi tengdist á stöðugan og varanlegan hátt nafni landsins eða höfuðborgar þess.

Jónas Kristjánsson

DV

Ópera

Veitingar

Vélrænt og vanhugsað

Á mesta bláberjahausti í manna minnum hafa flestir bragðað góð, íslenzk bláber. Þeir, sem ekki hafa tínt sjálfir og þekkja enga, sem hafa tínt, hafa oft getað keypt þau í framsæknum verzlunum. Á hátíma þessarar einstæðu bláberjaveizlu bauð Óperan í Lækjargötu bandarísk bláber í eftirrétt, eins bragðlaus og þau hafa alltaf verið og vafalaust jafndýr í innkaupi og þau hafa alltaf verið.

Eitthvað vélrænt og vanhugsað er að baki framboðs Óperunnar á bandarískum og bragðlausum bláberjum, þegar nóg er til af íslenzkum alvöruberjum. Þar voru bláberin þáttur í fersku ávaxtasalati, sem er á fasta matseðlinum. Þar sem húsið verður að hafa þau daglega á boðstólum, er treyst á innflutninginn og ekki nennt að athuga, að betri bláber eru stundum til, meira að segja í borgarlandinu.

Svipuð vélræna og vanhugsun kemur fram í skeldýrahlaðborði, sem staðurinn fór nýlega að bjóða í hádeginu. Það byggðist, þegar ég sá það, á innfluttum dósakræklingi úr Limafirðinum. Hann var í báðum heitum réttum þess, súpunni og gratíninu, í síðara tilvikinu með rækjum, sem voru hitt einkennistákn hlaðborðsins.

Rækjur eru dýrar og viðkvæmar, enda nutu þær sín ekki, þar sem þær lágu langtímum saman í gratíni, sem haldið var heitu. Ekki heldur í réttinum, þar sem rækjurnar voru ein og ein á stangli í glæru hlaupi. Þær nutu sín tæpast sem skraut á tvílitu fiskihakki, er var formað eins og terta. Og allra sízt í eins konar risotto, sem hafði kólnað og einkenndist aðallega af þurrum kjötbitum.

Beztur var sítrónuleginn hörpufiskur, sem mátti teljast frambærilegur. Skeldýrahlaðborðinu er þar með að mestu lýst, ef við gleymum hrásalati, sósum og öðrum slíkum hliðaratriðum. Þetta borð kostaði 680 krónur fyrir utan kaffi, sem er ekki mikið, ef tekið er tillit til innkaupsverðs hráefna. En mig langar ekki til að kynnast því aftur. Er þó hér á landi ekki um að gresja auðugan garð slíkra hádegis-sjávarréttaborða.

Bæði gott og misgott

Betri reynslu, en eigi að síður misjafna, hef ég af annarri matreiðslu Óperunnar. Villisveppasúpa fastaseðilsins hafði að geyma þurrkaða sveppi og þeyttan rjóma. Grænmetissúpa, sem kölluð var að hætti Fönixbúa, var hveitisúpa með mauksoðnu grænmeti, aðallega spergli. Svokölluð silungasúpa hafði ekkert silungsbragð, en var hins vegar mild dill-súpa með þeyttum rjóma, stráðum dilli, ágæt sem slík. Súpunum fylgdu nokkrar tegundir af góðu brauði.

Kaldur sjávarréttadiskur fól í sér meyran hörpufisk, góðar rækjur, einn humar með falllegum klóm, hin óhugnanlega bleiku og svörtu steinbítshrogn frá Akranesi, krækling, eggjarauðu – og var frambærilegur matur. Í fersku grænmetissalati var aðallega ísberg, skreytt grænum olífum, hálfu eggi, gulrótarstrimlum, dósa-rauðrófu, tómati, papriku og kotasælu, borið fram með góðri laukídýfu, blandaðri olíu og ediki. Snigla-ragout var snarpheitt og gott, í för með linum sveppum og hæfilega lítið eldaðri púrru og papriku.

Pönnusteiktur hörpufiskur var aðalréttur, borinn fram með sveppum í estragon-sósu, of seigur. Gufusoðin smálúðuflök, sem sögð voru komin að landi að morgni og mælt var sérstaklega með, voru of þurr, en samt nokkurn veginn frambærileg, liggjandi ofan á bleikri sósu, ekki girnilegri, kallaðri hvítvínssósu, borin fram með léttsoðnu grænmeti. Staðlað grænmeti fylgdi fiskréttunum.

Fyrirmyndar nautastrimlar

Steiktir nautastrimlar með hvítlauk og steinselju voru afar góðir og bentu til, að hæfileikar leyndust í eldhúsinu. Þeir voru meyrir, bleikir, bragðmiklir og vel kryddaðir, bornir fram með eggaldini, sem er of sjaldgæft á íslenzkum veitingahúsum, léttsoðnum gulrótum, kartöflum og kjötsoði. Þetta var sannkallaður fyrirmyndarréttur.

Svartfuglsbringa var léttsteikt, svo sem sagt var á matseðlinum, í fylgd með bragðlítilli sósu, er kölluð var trönuberjasósa, svo og stöðluðu grænmeti, sem fylgdi kjötréttunum, gúrkum í tómatkrafti og tómötum á maís. Glóðarsteikt lambabuff átti að vera lítið steikt, en reyndist frekar grátt, en þó sæmilega meyrt, borið fram með hlutlausri sósu. Piparsteikin var meyr og góð, en lítið pipruð, alveg eins og sósan. Til að finna piparbragð varð að naga piparkornin í sósunni. Nautalundir voru bragðminni, en meyrar og rauðar, með bragðdaufri sósu, sem hét rjómasósa.

Ostakaka var mjög góð, dálítið stíf og súr, borin fram með kiwi, jarðarberjum og banana. Fersk jarðarber voru góð, borin fram með þeyttum rjóma. Kiwi-ís var frambærilegur, borinn fram með súkkulaðihúðuðum vínberjum. Ferska ávaxtasalatið fól í sér fallega, holaða melónu, fyllta melónukjöti, jarðarberjum, kiwi og hinum umræddu bláberjum frá Bandaríkjunum. Kaffi var sæmilegt, borið fram með After Eight konfekti.

Vín á hálfum flöskum

Einn bezti kostur Óperunnar er, að allt borðvín má fá á hálfum flöskum, svo að fólk er ekki skyldað til að drekka sig fullt. Þetta kemur sér til dæmis vel fyrir marga í hádegi og bætir auðvitað upp nýjan vínseðil, sem varð öllu lakari í haust en hinn fyrri hafði verið í sumar og sem sýnir þar að auki ekki lengur árganga vínsins.

Þjónusta var í nokkuð góðu lagi, að öðru leyti en því, að hún mundi ekki, hvor pantaði hvað, þótt aðeins væru tveir til borðs. Ekki var hægt að fá meira af vatni í glas, nema biðja um það.

Einna bezt er húsnæðið

Þá er ótalinn einn bezti kostur Óperunnar, sem felst í húsakynnunum sjálfum, annarri hæð hins gamla húss á horni Lækjargötu og Austurstrætis. Þetta er Knudtzons-hús, neðri hæðin frá 1852, síðar nefnt Prófastshús. Matsala var í þessu húsi frá 1921, þegar stúdentaráð rak þar matsölu, Mensa Academia. Þess vegna er vel við hæfi, að aftur skuli vera komið veitingahús á þessu mikilvæga götuhorni.

Vonandi tekst skipulagssjúklingum Reykjavíkurborgar ekki að rífa húsið, því að þeir hafa þegar fengið meira en nóga útrás í Kvosinni fyrir menningar- og mannlífshatur sitt. Vonandi tekst þeim ekki heldur að gera það að Pótemkin-tjaldi fyrir glerkastala að baki.

Veitingasalurinn er hvítmálaður og hefur sjáanlegan múrstein í bindingsverki þverveggjar. Trégólfið gamla hefur fengið að halda sér. Húsgögnin eru svört og hvítt tau er í dúkum og þurrkum. Á borðum eru kerti á kvöldin og vandaður borðbúnaður. Pottablóm hæfa vel gluggunum og útsýni þeirra til umferðar gangandi fólks í neðsta hluta Bakarabrekku. Uppi á lofti, þar sem eru leðursófar og bar undir súð, eru pottablómin öllu laslegri.

Einar Logi spilar oft þægilega málsverðartónlist. Gaman er að málverkum Guðmundar Björgvinssonar af grúttimbruðu fólki með græn og blá andlit, sem reynir að teygja skemmtanalopann á dauðalegri krá. Sjálf Óperan getur hins vegar verið hin líflegasta, þegar mikið er þar af fólki. Þá verður hún eins og bistró. En stundum er þar líka fátt um mannskapinn og það fer staðnum ekki eins vel.

Skeldýra-hlaðborðið í hádeginu kostar 770 krónur með kaffi. Miðjuverð þriggja rétta kvöldverðar með kaffi er 1682 krónur.

Jónas Kristjánsson

Matseðillinn
430 Kaldur sjávarréttadiskur
480 Snigla-ragout í hvítlauk
480 Graflax í sinnepssósu með ristuðu brauði
340 Ferskt grænmetissalat
260 Rjómalöguð silungssúpa með dill-rjóma
220 Villisveppasúpa
810 Sítrónukryddaðir sjávarréttir
880 Soðinn lax með súrum gúrkum og sítrónusneið
720 Steiktur skötuseldur í gráðostssósu
710 Pönnusteiktur hörpufiskur með ferskum sveppum
690 Gufusoðin smálúðuflök í hvítvínssósu
780 Léttsteikt svartfuglsbringa á trönuberjasósu
960 Grísalundir í Dijon-portvínssósu
890 Glóðarsteikt lambabuff með jurtakryddi
1160 Piparsteik í viskísósu
980 Nauta- og grísalundir í rauðvíns- og sinnepssósu
1160 Nautalundir og smjörsteiktir sveppir á rjómasósu
470 Kiwi-ís með súkkulaðihjúpuðum vínberjum
450 Fersk jarðarber með þeyttum rjóma
340 Ferskt ávaxtasalat
360 Ostakaka með ýmsum tegundum af ávöxtum

DV

Samið um öryggisventil

Greinar

Fáir tóku eftir heimssögulegum viðburði í síðustu viku, þegar utanríkisráðherrar heimsveldanna, Shultz og Shevardnadze, hittust til að undirbúa væntanlegan leiðtogafund í vetur. Þeir undirrituðu samkomulag um gagnkvæmar öryggis- og aðvörunarstofnanir.

Bandaríkjamenn munu koma slíkri stofnun á fót í Moskvu og Sovétmenn hliðstæðri í Washington. Markmið þeirra verður að draga úr hættu á, að slysni eða mistök leiði til kjarnorkustyrjaldar heimsveldanna, svo að fyrirvaralaust sé hægt að víkja af braut dauðans.

Samningur þessi er síðbúið en rökrétt framhald af aldarfjórðungs gömlum samningi um beina símalínu milli Kremlar og Hvíta hússins. Stofnanirnar tvær eiga að vera skipaðar mönnum, sem hafa þekkingu og aðstöðu til að grípa í taumana gegn sjálfvirkni stríðskerfa.

Nýi samningurinn var tímabær. Kjarnorkutækni hefur fleygt svo fram, að saman hefur skroppið tíminn, sem stjórnendur varnarkerfa hafa til að meta tölvuupplýsingar um, að árás óvinar sé hafin. Klukkutími fyrir aldarfjórðungi jafngildir fimm mínútum nú á tímum.

Þessi samdráttur tímans hefur breytt eðli kjarnorkuvopna. Áður voru þau fyrst og fremst regnhlíf, sem tryggðu frið. Vesturlönd notuðu tilvist vopna sinna til að hræða Sovétríkin frá útþenslustefnunni, sem hefur riðið húsum Rússlands frá því löngu fyrir byltingu.

Nú eru vopnin hins vegar orðin að ógn í sjálfu sér. Segja má, að atómbyssurnar skjóti sjálfar, því að mannshugurinn hefur knappan tíma til að meta tölvuskjámyndir, sem sýna árás, er svara þurfi samkvæmt fyrirfram gerðri áætlun. Þannig verður óvart stríð.

Símalína milli leiðtoga dugir ekki lengur, til dæmis að næturlagi á öðrum hvorum staðnum. Hinar nýju stofnanir eiga að mæta tímaskortinum. Þær eiga að gera sérfræðingum kleift að meta á augabragði rangar eða skakkar upplýsingar og hindra sjálfvirk viðbrögð.

Samningurinn um þær hefur ekki minna gildi en væntanlegur samningur um afnám skammdrægra og meðaldrægra eldflauga, því að miklu meira en nóg verður samt til af langdrægum kjarnorkuflaugum. Samningnum ber mun meiri athygli en hann hefur fengið.

Undirritun hans í síðustu viku styrkir vonir um tryggari framtíð mannkyns. Honum hafa líka fylgt lausafréttir um, að minna bil en áður sé milli heimsveldanna á ýmsum sviðum viðbúnaðar. Meðaldrægu og skammdrægu eldflaugarnar eru bara hluti málsins.

Líklegt er, að í framhaldi þess eldflaugasamnings geti heimsveldin náð samkomulagi um helmings fækkun langdrægra eldflauga og síðan enn meiri fækkun þeirra. Einnig er farið að ræða í alvöru um hugsanlegt afnám efnavopna og fækkun hefðbundinna vopna.

Eitt bjartasta ljósið á slökunarhimninum eru hugmyndir um að búa til 150 kílómetra breitt vopnalaust svæði á mörkum Austur- og Vestur-Evrópu. Slíkt belti mundi lengja mjög tímann, sem þarf til undirbúnings árásar og gera ókleifar leiftursóknir á landi.

Ef samningamylla heimsveldanna fær að mala hægt og örugglega næstu mánuði og misseri, eru mestar líkur á, að jörðin verði mun traustari mannabústaður en hún er nú og að aukið fé verði aflögu til friðsamlegrar uppbyggingar og aukinnar velmegunar víða um heim.

Sumt af þessu gerist, án þess að blásið sé í fagnaðarlúðra. Kyrrlátur samningur síðustu viku um öryggisstofnanir í Moskvu og Washington er gott dæmi um slíkt.

Jónas Kristjánsson

DV

Sjónhverfingar sameina

Greinar

Um helgina kom í ljós, að nýja stjórnarsamstarfið er traust. Ríkisstjórnin mun sitja langt fram eftir kjörtímabilinu. Hún mun ekki láta innri ágreining á sig fá, heldur leita sátta í allra ódýrustu lausnum. Það sýnir sjónhverfingameðferð hennar á fjárlagahallanum.

Um tíma leit svo út, að fjárlagasmíðin yrði ríkisstjórninni að fótakefli. Fjármálaráðherra lagði þunga og leikræna áherzlu á alvöru málsins og setti fram skynsamlegar hugmyndir um minnkun vandans. En síðan beygði hann sig fyrir svokallaðri pólitískri nauðsyn.

Í heimi stjórnmálanna þýðir ekki að tala mikið eða lengi um afnám niðurgreiðslna á forréttindavöxtum og landbúnaðarvörum. Þar hrista menn höfuðið yfir tillögum um hægari ferð í ljúfum málum á borð við sjúkrahús og skóla eða heilögum málum á borð við vegi og risnu.

Ríkisstjórnin hefur sætzt á að minnka hinn formlega fjárlagahalla niður í 1,2 milljarða króna, sem er 2% af fjárlögum. Það væri ágætis árangur, ef hann hefði einkum náðst eftir öðrum leiðum en sjónhverfingum. Og hann segir ekki alla söguna um hallarekstur ríkisins.

Tölurnar, sem sífellt hefur verið fjallað um, ná eingöngu yfir A-hluta fjárlaga. Þær fela hvorki í sér B-hlutann, þar sem ríkisfyrirtækin eru, né C-hlutann eða lánsfjárlögin, þar sem hallarekstur ríkisins og fyrirtækja þess hefur yfirleitt verið og er enn falinn.

Opinber umfjöllun fjármálaráðherra og ríkisstjórnar ber ekki með sér neinn skilning á samhengi lánamarkaðarins í heild. Í ríkisstjórninni er rætt um að miðstýra leigukaupum í þjóðfélaginu út af fyrir sig, án þess að fjallað sé um þau sem þátt í almennu lánahungri.

Ríkisvaldið og aðrir aðilar keppast um að komast yfir lánsfé. Ríkið ber sjálft fulla ábyrgð á sínum hluta þess kapphlaups. Þegar aðrir aðilar nota erlenda peninga í leigukaupum, eru þeir sumpart að víkja fyrir þrýstingi af fyrirferð ríkisins á innlendum lánamarkaði.

Ríkið ætti auðvitað að sjá lánahungrið í heild og stuðla að jafnvægi framboðs og eftirspurnar á peningum, í stað þess að einblína á eina afleiðingu þess, leigukaupin. Og auðvitað ætti ríkið á þenslutímum að vega á móti þenslu með því að draga úr eigin lántökum.

Dapurlegt er að horfa á fjármálaráðherra segja hæfilega vexti ríkisins til lífeyrissjóða vera 3-4% ­ á sama degi og hann sendir bréf til fólks, þar sem hann grátbiður það um að lána ríkinu fé á 8,5%. Þessi gífurlegi munur verður ekki skýrður með misjöfnum lánstíma.

Eini sjáanlegi niðurskurðurinn á ráðgerðum útgjöldum ríkisins á næsta ári er á niðurgreiðslum vaxta á húsnæðislánum, enda var áður búið að áætla þessi útgjöld upp úr öllu valdi. Eftir niðurskurðinn verða þessi útgjöld í rauninni meiri á næsta ári en þessu ári.

Dæmigert fyrir sjónhverfingar í niðurskurði fjárlagafrumvarpsins er, að ríkisstjórnin hefur ákveðið að skera 600 milljónir jafnt á línuna. Gömul og ný reynsla segir, að þetta felur ekki í sér neinn niðurskurð áþreifanlegra verkefna, heldur meiri vanáætlun útgjalda.

Grunsamlegt er, að ríkisstjórnin hefur skorið niður 800 milljónir með því að finna “skekkju” í fyrri útreikningum, þar af 200 milljónir í niðurgreiðslum landbúnaðarafurða og 600 milljónir í tekjuskatti. Tölvur ríkisins hafa líklega verið taugaveiklaðar eða timbraðar!

Meginatriði þessara reikniæfinga er, að þær fela ekki í sér niðurskurð ríkisútgjalda, heldur eru þær sjónhverfingar, sem ætlað er að sameina ríkisstjórnina.

Jónas Kristjánsson

DV

Wörner eða Willoch

Greinar

Við valið milli Manfred Wörner og Kåre Willoch sem framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins þurfa ríkisstjórnir aðildarríkjanna að sjá yfir tímamótin, sem nú eru í sögu þess. Um leið verða þær að reyna að losa bandalagið við elligigtina, er hrjáir það.

Hafa þarf í huga, að keppinauturinn, Varsjárbandalagið, lýtur nú mun betri forustu. Hvort sem menn telja, að Gorbatsjov Sovétleiðtogi sé að leiða Sovétríkin og fylgiríki þeirra til betri vegar eða ekki, er ljóst, að hann er snjallari í áróðri en vestrænir leiðtogar.

Reiknað er með, að Gorbatsjov og Reagan Banda ríkjaforseti undirriti í vetur sáttmála um afnám skammdrægra og meðaldrægra kjarnorkuflauga. Breytingin mun hafa áhrif á stöðu Vestur-Evrópu og kalla á ný viðhorf í varnarbandalagi vestrænna ríkja.

Engum, sem fylgdist með fundi Atlantshafsbandalagsins í Reykjavík í sumar, gat dulizt, að þreyta og ellimæði hrjáir samtökin. Forustumenn Nató horfðu eins og glópar, sem klóruðu sér, þegar Gorbatsjov skoraði hjá þeim hvert áróðursmarkið á fætur öðru.

Formlega séð hafa Sovétríkin gefið eftir miklu meira en Bandaríkin í viðræðunum um kjarnorkusamdrátt. Efnislega er jafnræði í eftirgjöfum, því að kapphlaup Sovétríkjanna hefur verið hraðara í rúman áratug. En eftirgjafir Gorbatsjovs hafa komið Nató á óvart.

Í sumum tilvikum hafa fulltrúar Sovétríkjanna tekið upp gamlar tillögur frá Bandaríkjunum eða Atlantshafsbandalaginu og gert að sínum, en Nató-menn hafa átt erfitt með að kannast við eigin króga. Þeir hugsa hægt, eins og aldraðir embættismenn og herforingjar.

Afleiðingin er, að Atlantshafsbandalagið hefur glatað trausti víða í aðildarríkjunum. Þetta traust þarf bandalagið að endurheimta með því að breyta forustunni. Hún þarf að geta brugðizt á virkan hátt við framtaki Gorbatsjovs og allra helzt tekið sjálf frumkvæðið.

Manfred Wörner, varnaráðherra Vestur-Þýzkalands, er einn herfræðinganna á Vesturlöndum. Það þýðir, að hann talar tungumál gamlingjanna í aðalstöðvum Nató. Hann hefur lent í að fara undan í flæmingi með margvíslegum efasemdum gagnvart frumkvæðinu að austan.

Verið getur, að Bandaríkjastjórn sé að gera mistök með því að semja um algert afnám skammdrægra og meðaldrægra eldflauga og að þrýsta Vestur-Þýzkalandi til að gefa eftir Pershing-flaugarnar. En það virðist búið og gert. Málstaður Wörners tilheyrir liðinni tíð.

Kåre Willoch, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, hefur hins vegar reynzt einn leiknasti stjórnmálamaður Vesturlanda. Hann hefur átt auðvelt með að sætta ólík sjónarmið og er fljótari að hugsa en flestir aðrir. Hann er réttur maður í réttu vandræðamáli.

Atlantshafsbandalagið þarf að geta nýtt sér til fulls hið jákvæða í stefnubreytingu Sovétríkjanna og áttað sig á svipstundu á hinu neikvæða, svo að ekki sé ætíð of seint í rassinn gripið. Samtökin þurfa menn, sem geta teflt skákirnar við Sovétríkin til góðs.

Nató þarf líka menn, sem geta slípað samstarfið og virkjað það á ýmsa vegu. Sum dýr hugsjónamál eru orðin úrelt og ættu eð gleymast sem fyrst. Önnur mál eru jafndýr og bráðnauðsynleg, en skortir samstöðu þátttökuríkjanna. Allt bendir þetta á Willoch.

Wörner táknar meira af hinu gamalkunna og þreytulega, en Willoch er maður þeirra hæfileika, sem Atlantshafsbandalaginu eru allra brýnastir núna.

Jónas Kristjánsson

DV

Sjávarsíðan

Veitingar

Sami gamli seðillinn

Sjávarsíðan er ekki aðeins falleg, heldur einnig ágæt matstofa, sem matreiðslulega séð er í hinum hefðbundna og dýra hótelstíl landsins og þarf ekki að fyrirverða sig fyrir það. En ekki er hægt að skilja, hvers vegna staðurinn er kynntur sem fulltrúi hinnar nýju, frönsku línu í matargerðarlist, því að það er hann engan veginn. Hinn rangi fáni, sem veifað er við Sjávarsíðuna, veldur vonbrigðum þeim, sem betur vita, og varpar skugga á annars frambærilegt veitingahús.

Nýfrönsk veitingahús skipta daglega um matseðil. Sjávarsíðan hefur hins vegar lengi notað matseðil, sem er orðrétt eins frá degi til dags. Á kvöldin felst eina tilbreytingin í einum fiski dagsins, en í hádeginu er þó hægt að velja milli fjögurra fiskrétta dagsins.

Í síðustu skiptin, sem ég hef sótt staðinn heim, hefur fiskur dagsins ýmist verið lax eða karfi. Hvorugt er í fullkomnu samræmi við reglur nýfranska eldhússins um fersk hráefni dagsins. Þessar tegundir má oftast fá ferskar og gætu því þess vegna verið á fastaseðli. Tilboð dagsins á fremur að felast í fiski, sem er ekki oftast, heldur aðeins stundum á boðstólum eftir árstíðum eða aflabrögðum, til dæmis rauðsprettu, sólkola, sjóbirtingi eða blálöngu.

Mér sýnist ekki heldur, að Sjávarsíðan hafi sérstöðu í lítilli notkun fitu í matreiðslu, né í engri notkun brúnaðar fitu. Ekki forðast staðarmenn heldur að nota mjöl til að þykkja súpur og sósur. Í þessum efnum taka þeir lítið mark á nýfranska eldhúsinu. Mér sýnist ekki heldur, að þeir taki þátt í áhuga nýfrönsku línunnar á fersku grænmeti, lítt eða ekki soðnu.

Fiskréttir í fyrirrúmi

Það, sem eftir stendur af trúnaði staðarins við nýfrönsku línuna, felst í að hampa fiskréttum, sem eru fleiri en kjötréttir; að forðast notkun frystrar og niðursoðinnar vöru; að gæta oftast, en ekki alltaf, hófs í eldunartíma; að forðast upphitun og óhóflega forvinnu; og að virða eðlisbragð hráefnanna, sem notuð eru. Þetta er allt saman ágætt og virðingarvert, en gerir veitingastaðinn samt tæpast nýfranskari en ýmsa aðra í Reykjavík, sem ekki flagga slíku heiti.

Reykþurrkaður nautavöðvi var skemmtileg tilbreyting sem forréttur, bragðgóður, en nokkuð seigur, borinn fram með soðnum eplum og grænmeti í skreytingu, svo og ágætri eplasósu. Fiskikæfa var afar góð, bragðsterk, borin fram með paprikubitum og sterkri fennel-sósu, sem hæfði vel. Andakæfa var góð, borin fram með rauðri papriku og lauk, sem var skemmtilega rauður af völdum vínsósu.

Humarsúpa reyndist vera mild rjómasúpa með stórum humarbitum og einum heilum humarhala, afar góð súpa. Fiskisúpa var hveitisúpa með réttu silungsbragði, ólík mörgum öðrum svokölluðum fiskisúpum, sem hampa annaðhvort humarskeljabragði eða saffran-bragði, full af meyrum rækjum.

Staðlað meðlæti misgott

Með forréttum og súpum voru bornar fram tvenns konar brauðkollur, stundum aldraðar, svo og smjör í sérstökum smjörskálum. Með aðalréttum var borið fram soðið grænmeti, sem stundum var léttsoðið og rúmlega miðlungi í annan tíma, en yfirleitt staðlað að mestu.

Gufusoðin smálúða var afar heit og góð, borin fram með bragðdaufri, en vel gerðri humarsósu. Smjörsteikt rauðspretta var nokkuð góð, borin fram með sæsniglum úr dós. Glóðarsteiktir humarhalar voru ofeldaðir, sem fer illa svo dýrum rétti. Steiktur smokkfiskur var hversdagslegur, borinn fram með hvítlauk og olífum.

Villibráð dagsins var eitt sinnið lítillega ofeldaður svartfugl og í annað skiptið létteldaður, meyr og góður lundi með góðri, þunnri rauðberjasósu. Gráðostfyllt lambasneið var ofelduð og grá, borin fram með vínberjasósu.

Karamellurönd með ristuðum og heitum hnetum, kiwi og þeyttum rjóma, var mjög góð. Súkkulaðihjúpaðir ávextir voru góðir, en nokkuð mikið húðaðir. Piparmintuís var einnig góður. Kaffi var nokkuð þunnt og ekki mjög heitt, borið fram með konfektmolum á kvöldin.

Vínlisti Sjávarsíðunnar er hversdagslegur, fyrir utan sérvín staðarins, Cornas Coteau á 1560 krónur og Cornas Pied de Coteau á 1320 krónur, dæmigerð Rhonardalsvín, sem eru lengi að þroskast og minntu á Chateauneuf-du-Pape. Árgangurinn 1982 var of ungur til notkunar á miðju ári 1986. Önnur frambærileg vín eru ekki mörg, Chateau Cléray, Gewürztraminer, Riesling Hugel, Chateau Barthez de Luze og Chateau Fontareche. Vín hússins í glasatali eru fremur vond.

Sjávarsíðan er glæsilegur veitingastaður með nýtízkulegum húsbúnaði, speglaveggjum, steinflísum, flóknum tjöldum og bakháum hægindastólum. Á borðum er Rosenthal-vara, gulbrúnir dúkar, kerti á kvöldin og tauþurrkur bæði á kvöldi og í hádegi. Nokkuð hljóðbært er í salnum.

Hvað finnst herranum

Þjónustan er skóluð og ágæt, ef menn sætta sig við að vera ávarpaður í þriðju persónu: “Hvað vill herrann, hvað finnst herranum, má bjóða herranum?” Grunnt virðist vera á kvenhatri eða að minnsta kosti dónaskap, því að borð, sem pantað var í nafni konu, reyndist vera versta borð hússins að súlubaki, en salurinn var þó hálftómur allt kvöldið og nóg laust af góðum borðum af sömu stærð.

Miðjuverð súpu, fiskréttar og kaffis af seðli dagsins í hádeginu er afar hagstætt, 720 krónur. Þriggja rétta kvöldverður með kaffi, án víns, kostar 2007 krónur, sem er ekki fjarri hinu dýrasta, er þekkist hér á landi.

Jónas Kristjánsson

Hádegisseðill
Fiskisúpa
720 Smjörsteikt heilagfiski með humarsósu
780 Ristaður lax með sveppum og sítrónusósu
720 Gufusoðin lúða með rósinpipar
590 Pönnusteiktur karfi með hrísgrjónum og karrí
Kaffi

Fasti matseðillinn
490 Saffran-humarsúpa
480 Matarmikil fiskisúpa
390 Villisveppasúpa
480 Grænmetissalat
590 Reyktur lax með kavíar
790 Glóðarsteiktir humarhalar í steinseljusmjöri
490 Fiskipaté með fennel-sósu
540 Grænmetisbaka með piparrótarsósu
590 Andapaté með rauðvínssoðnum lauk
590 Reykþurrkaður nautavöðvi með sérrísoðnum eplum
1180 Skeldýragratín
790 Ristaður regnbogasilungur með estragon-sósu
820 Steiktur smokkfiskur með hvítlauk og olífum
740 Gufusoðin smálúða með humarsósu
840 Lúðu-piparsteik með blönduðum pipar
790 Smjörsteikt rauðspretta með sniglasmjöri
1180 Buff tartar
1390 Koníakslegnar nautalundir með villisveppum
1080 Gráðostfyllt lambasneið með vínberjasósu
960 Kjúklingabringa jurtafyllt með hvítvínssósu
980 Villibráð dagsins: Lundi með rauðberjasósu
440 Íslenzkir ostar
450 Súkkulaðihjúpaðir ávextir með appelsínurjóma
420 Karamellurönd með ristuðum hnetum
390 Heimalagaður piparmintuís með súkkulaðisósu

DV

Gorbatsjov skorar mörkin

Greinar

Undir stjórn Gorbatsjovs hafa Sovétríkin á síðustu vikum stigið mikilvæg skref, sem ekki eru sjónhverfingar. Þau fela í sér raunverulega slökun, sem vekur vonir um, að unnt verði að gera jörðina að friðvænlegri bústað en verið hefur um allt of langt skeið.

Á sama tíma hefur atburðarásin varpað óþægilegu kastljósi að Reagan Bandaríkjaforseta sem hættulegum hugsjónamanni, er standi í vegi heimsfriðar. Í hverju málinu á fætur öðru hafa Bandaríkin lent í vandræðum við að svara af viti slökunarskrefum Sovétríkjanna.

Sanngjarnt er þó að taka fram, að Sovétríkjunum bar að stíga fyrstu skrefin. Þau bera meira en helming ábyrgðar á vígbúnaðarkapphlaupi síðustu tíu­tólf ára. Og þau hafa áratugum saman ógnað umhverfi sínu með Brezhnevs-kenningunni um einstefnugötu sósíalisma.

Ennfremur er nauðsynlegt að taka fram, að á sumum sviðum hefur ekkert komið áþreifanlegt fram, sem bendir til mildaðrar afstöðu Sovétríkjanna. Hæst ber þar grimmdarstríð Rauða hersins í Afganistan. Sovézka friðarhjalið á þeim slóðum hefur reynzt innihaldslítið.

Heima fyrir virðist stjórnarfar Sovétríkjanna hafa mildazt. Aukizt hefur gagnrýni á einstök atriði kerfisins. Fleiri andófsmenn fá að flytjast úr landi. Hafnar eru tilraunir til að bjóða fram í kosningum fleiri flokksmenn en einn á hvert sæti, sem er til ráðstöfunar.

Í Persaflóa hafa Sovétríkin farið gætilega, þótt þau hafi reynt að skara eld að sinni köku, svo sem heimsveldi gera gjarna. Minna hefur farið fyrir þeim en Bandaríkjunum, sem hafa fetað áhættusama braut og orðið óbeinir fangar hernaðaraðgerða Íraks á sjó.

Sovétríkin hafa neitað að láta Nicaragua í té meiri olíu og tilkynnt í staðinn verulegan samdrátt þeirra viðskipta. Þetta spillir rekstri hernaðartækja sandinistastjórnarinnar og bendir til, að Sovétstjórnin geti hugsað sér að draga úr þrýstingi í Mið-Ameríku.

Á sama tíma fer stjórn Reagans fram á nærri tvöföldun hernaðarstuðnings við glæpalýð gamalla somozista, svokallaðra contra-skæruliða. Með þessu grefur Reagan undan tilraunum leiðtoga Mið-Ameríku til að fá fram fylgt friðarsamkomulagi þeirra frá 6. ágúst.

Þar á ofan hefur Reagan rekið hinn sérstaka Mið-Ameríkusendiherra Bandaríkjanna, Philip Habib, sem hefur langa reynslu af friðartilraunum, bæði þar og í Miðausturlöndum. Sök Habibs var að vilja lægja öldurnar, gegn vilja róttæklingsins í Hvíta húsinu.

Sovétstjórnin, sem lengi hefur verið andsnúin virku eftirliti með banni við kjarnorkuvopnum, hefur nú snúið við blaðinu og komið aftan að Bandaríkjastjórn, sem ekki virðist vita, hvaðan á sig stendur veðrið. Gorbatsjov hefur þar slegið væna pólitíska keilu.

Komið hefur í ljós, að Bandaríkin studdu virkt eftirlit í trausti þess, að Sovétríkin gerðu það ekki. Þegar blóraböggullinn hvarf, fengu þeir hland fyrir hjartað, sem vilja ekki, að sovézkir snuðrarar séu á ferli á hernaðarlega mikilvægum stöðum í Bandaríkjunum.

Allt bendir þetta til, að Reagan sé enginn bógur til að stjórna heimsveldi til kapps við Gorbatsjov í Sovétríkjunum. Reagan er haldinn róttækum hugsjónum, sem þvælast fyrir skynsamlegri hugsun, en Gorbatsjov er sem óðast að láta róttækar hugsjónir víkja fyrir viti.

Hið bjarta við þetta er, að Gorbatsjov er að festa sig í sessi og að Reagan mun eftir hálft annað ár víkja fyrir nýjum forseta, sem getur tekið á heimsvandamálum.

Jónas Kristjánsson

DV