Author Archive

Bænarskrár-andrúmsloft

Greinar

Þegar 32 þingmenn senda bænarskrá til fiskveiðinefndar, sem á að gefa Alþingi góð ráð í kvótamálum, er ljóst, að svo mikið er orðið valdaafsal löggjafans, að meirihluti þingmanna áttar sig ekki lengur á, að þeir fara enn formlega séð með löggjafarvaldið í landinu.

Sjávarútvegurinn er bara eitt, en gott dæmi um reglugerðabáknið, sem er að myndast hér á landi. Fyrir löngu var varpað fyrir róða náttúrlegri stjórn framboðs og eftirspurnar í þessari atvinnugrein. Og upp á síðkastið hafa heimildir og reglugerðir tekið við af lögum.

Nú orðið hefur einn lítt öfundsverður ráðherra lagaheimildir til að ákveða örlög útgerðar smábáta og frystitogara, staðsetningu rækjuvinnslu og framtíð sjávarútvegs á suðvesturhorninu, svo að dæmi séu nefnd. Sér til aðstoðar lætur hann semja mýgrút reglugerða.

Því flóknari sem málin eru, þeim mun þyngra er að stjórna þeim með þessum hætti. Enginn ráðherra, nefnd og þingmannahópur getur séð fyrir hinar margvíslegu óbeinu afleiðingar út um allar trissur af tiltölulega góðviljuðum tilraunum til að koma stjórn á sjávarútveg.

Hart er deilt um kvótakerfið þessa dagana. Sumir finna því allt til foráttu og aðrir telja það allra meina bót. Verst er, að hvorir tveggja hafa nokkuð til síns máls. Kvótakerfið hefur sumpart góð áhrif og sumpart vond. En einkum hefur það þó ófyrirséð áhrif.

Mest er deilt um, hverjum beri kvótinn. Margir harma, að hann fylgir skipum og þar með útgerðinni beint og sjómönnum óbeint, en ekki fiskvinnslu eða sveitarfélögum. Eftir á að hyggja er orðið ljóst, að handhöfum kvótans hafa verið afhent gífurleg verðmæti.

Svo er nú komið, að söluverð notaðra fiskiskipa endurspeglar fyrst og fremst kvótann, sem fylgir í kaupbæti. Ennfremur sogast skip af suðvesturhorninu til annarra landshluta vegna mismununar í kvóta, sem kerfið hefur komið á fót til að efla jafnvægi í byggð landsins.

Til er leið, sem getur grisjað myrkvið laga, heimilda og reglugerða og hleypt inn birtu hinnar gömlu sjálfvirkni markaðsins, sem við höfum í ár séð ná árangri í hinum nýju fiskmörkuðum. Æ fleiri benda á þessa leið, sem felst í, að kvótinn verði seldur hæstbjóðandi.

Út af fyrir sig varðar ekki mestu, hvort kvótinn er gefinn eða seldur. Aðalatriðið er, að hann geti gengið kaupum og sölum, svo að hann finni verðgildi sitt á sjálfvirkan hátt. Það leiðir til, að fiskveiðin færist á hendur þeirra sjómanna og skipstjóra, sem bezt kunna til verka.

Þorkell Helgason prófessor lagði nýlega til, að 20% kvótans yrðu seld árlega í fimm ár. Hér í blaðinu bar Guðmundur G. Þórarinsson alþingismaður upp, að kvótinn yrði seldur í árlegum 10­20% áföngum. Báðir eru að reyna að vísa á milda leið til markaðskerfis.

Gallinn er, að hvorki fólk né ráðamenn skilja, hvílíkt þjóðfélagslegt réttlæti felst í frjálsri kvótaverzlun. Þess vegna mun verða reynt í lögum, heimildum og reglugerðum að setja markaðnum þröngar skorður með alls konar parta-réttlæti, það er að segja sérhagsmunum.

Í rauninni er þjóðin ekki næm fyrir skynsemi í skipulagi sjávarútvegs. Sem dæmi má nefna, að útvegsmenn samþykktu nýlega að hafna frjálsu fiskverði, bara til að spara sér óþægindi af viðræðum við sjómenn. Undir niðri vildu útvegsmenn helzt friðsælt ríkisverðlag.

Í þessu andrúmslofti er ráðherra gerður að slíkum einræðisherra, að þingmenn hafa gleymt löggjafarvaldi sínu og eru farnir að senda bænarskrár að gömlum sið.

Jónas Kristjánsson

DV

Ráðizt að Tjörn og Kvos

Greinar

Mikill meirihluti Reykvíkinga og einnig Íslendinga er andvígur fyrirhuguðu ráðhúsi í norðvesturhorni Tjarnarinnar. Skoðanakönnun DV hefur leitt í ljós, að borgarstjórn Reykjavíkur er á hálum ís á Tjörninni, sem á sér fleiri vini en steypusinnar hafa gert ráð fyrir.

Ráðhúsið í Tjörninni er aðeins eitt dæmið af mörgum um eyðingarafl hins opinbera, sem ræðst að Tjörninni og Kvosinni úr ýmsum áttum. Til dæmis eru rökstuddar grunsemdir um, að nýja uppfyllingin við Fríkirkjuveg sé lævís undanfari breikkunar bílaumferðar-holræsis.

Tímabært er, að yfirvöld skipulags Reykjavíkur láti almennt af smíði nýs og stórkarlalegs miðbæjar ofan í hinum gamla og látlausa. Almennt á að hætta að rífa gömul hús og fara fremur að láta nýleg hús víkja, ef alvarlegir árekstrar verða milli gamals og nýs tíma.

Annað fyrirhugað hús er enn óvinsælla en ráðhúsið. Það er steindauði alþingiskassinn, sem stjórnmálaflokkarnir hyggjast reisa alla leið frá ráðhúsinu fyrirhugaða og að Austurvelli, teiknaður í óvenjulega víðáttumiklum bankakassastíl, sem við höfum miklu meira en nóg af.

Ekki er auðvelt að sporna við framkvæmdum af þessu tagi, nema benda jafnframt á, hvernig lina megi húsnæðisskortinn, án þess að reisa þurfi stóra og freka steypukassa á viðkvæmum og fínlegum stöðum. Það er raunar auðveldara en ætla mætti við allra fyrstu sýn.

Hafa þarf í huga, að suma starfsemi ber að laða að miðbæ og ýta annarri frá honum. Glæða þarf verzlanir og aðra afgreiðslu fyrir almenning, en losna við umfangsmiklar skrifstofur, sem ekki eru í miklu sambandi við fólkið á götunni, til dæmis sumar borgarskrifstofur.

Meðal kontóra, sem hrekja mætti úr Kvosinni, eru þeir hlutar bankanna, sem ekki eiga bein viðskipti við fólkið af götunni. Ennfremur forstjóraskrifstofur og flestar aðrar skrifstofur stofnana á borð við Póst og síma og heilar stofnanir á borð við Reiknistofu bankanna.

Hin upprunalegu hús Landsbankans og Útvegsbankans gætu hvort um sig hentað vel sem ráðhús. Því miður yrði dýrt að fjarlægja hinar afkáralegu viðbætur þessara húsa, sem yrði að sjálfsögðu nauðsynlegt, ef auka ætti virðingu þeirra sem ráðhúsa eða Hæstaréttarhúsa.

En önnur hús eru hentugri. Nýja Seðlabankahúsið hefur það umfram önnur ný hús að vera ekki ljótt og hentar því prýðilega sem ráðhús við höfnina. Starf Seðlabanka, Þjóðhagsstofnunar og Reiknistofunnar getur flutzt brott og raunar hvert á land sem er.

Annað hús, sem kemur ekki síður til greina, er gamla Landsbókasafnshúsið, sem er með fegurri húsum miðbæjarins. Eftir nokkur ár flytzt safnið í Þjóðarbókhlöðuna. Þá er kjörið, að borgin kaupi húsið fyrir ráðhús. Sá hængur er þó á, að húsið hentar líka Hæstarétti.

Þriðja húsið er Hótel Borg, sem ber sig tígulega við hefðartorg borgarinnar og er hannað í eðlilegu framhaldi borgarskrifstofanna í Pósthússtræti. En sárt væri að missa eina hótelið í Kvosinni, því að evrópsk hefð er fyrir grónum virðingarhótelum við aðaltorg.

Hótel Borg gæti raunar líka verið útibú Alþingis. En svo vel vill til, að andspænis við Austurvöll standa ein mitt hinir dauðu og gestasnauðu kastalar Pósts og síma, kjörnir fyrir kontóra þingmanna og starfsmanna Alþingis, svo að forðast megi nýjan alþingiskassa.

Af þessu má sjá, að nægir og góðir kostir eru aðrir en þeir að reisa fyrirhugað ráðhús í Tjörninni og fyrirhugaðan alþingiskassa ofan í stóran hluta Kvosarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Leyndarstefnan hefnir sín

Greinar

Bezt er, að fólk rasi ekki um ráð fram í mati á fregnum af lausagangi fyrrverandi leyndarskjala, þar sem fjallað er útlendum augum um samskipti Íslands við umheiminn. Hins vegar er upphlaupið út af Stefáni Jóhanni gagnlegt, því að það bendir á, hvað gera þarf.

Umræður á Alþingi í fyrradag um leyniskjalamálið beindust í stórum dráttum í réttan farveg. Margir þingmenn og ráðherrar bentu á, hve nauðsynlegt er, að íslenzk trúnaðarskjöl séu birt þjóðinni eftir föstum reglum að ákveðnum tíma liðnum. Það er kjarni málsins.

Því miður er upplýsingaskylda íslenzkra stjórnvalda miklu minni en í flestum nágrannalöndunum, til dæmis Norðurlöndunum og Bandaríkjunum. Verra er, að kerfiskarlar ráðuneytanna hafa látið semja frumvarpsdrög, sem staðfesta, að allt skuli alltaf fara leynt.

Þegar menn kerfisins festa ekki viðkvæm mál á blað eða gæta þess, að þau fréttist ekki út, eru þeir að magna vanþekkingu og grunsemdir þjóðarinnar. Auk þess eru þeir óbeint að sverta minningu látinna manna, í þessu tilviki Stefáns Jóhanns Stefánssonar forsætisráðherra.

Afleiðing leyndaráráttunnar hér á landi er, að utanríkissaga Íslands er skoðuð með útlendum augum. Sagnfræðingar fara í erlend söfn til að skoða skjöl, þegar leyndinni hefur verið létt af þeim. Þessi skjöl varpa dýrmætu ljósi á Íslandssöguna, en segja hana ekki alla.

Sérstaklega er varhugavert að horfa á söguna augum bandarískra embættismanna. Saga utanríkisþjónustu Bandaríkjanna er stráð stórslysum, sem stafa af, að fulltrúar þeirra hafa átt furðulega erfitt með að skilja hugarfar, venjur og stjórnmál í öðrum ríkjum.

Hugsanlegt er, að bandarískir embættismenn hafi á tímum kalda stríðsins talið, að sumir ráðamenn Íslands væru þeim sammála um, að Rússarnir væru að koma. Sú skoðun mundi þó ekkert segja um, hvort hinir íslenzku ráðamenn voru í raun sammála þeim eða ekki.

Hið gagnlega við bandarísku skjölin er, að fjölmiðlar geta sagt frá þeim og þar með þrýst á ráðamenn heima fyrir um, að settar verði traustar reglur um upplýsingaskyldu stjórnvalda og þar á meðal um birtingu leyndarskjala að liðnum aldarfjórðungi frá atburðum.

Sem betur fer er enn á lífi einn ráðherranna þriggja, sem fóru á sínum tíma vestur um haf til að ræða öryggismál við Bandaríkjastjórn. Brýnt er, að Eysteinn Jónsson verði nú fenginn til að gera opinbera grein og ítarlegri en áður fyrir rás hinna umtöluðu atburða.

Meirihluti þjóðarinnar mun frekar treysta því, sem gamli fjármálaráðherrann segir um mál þetta, en því, sem norskan sagnfræðing minnir að hafa séð í bandarísku safni. Einnig betur en því, sem stendur í skáldsögunni Atómstöðinni um sama efni eftir Halldór Laxness.

Liðinn er sá tími, að umtalsverður hluti þjóðarinnar sé reiðubúinn að stimpla fjölda manna sem landráðamenn fyrir að stýra utanríkisstefnu Íslands í þann farveg, sem að fjórum áratugum liðnum hefur í helztu dráttum reynzt vera farsæll og verður fram haldið.

Þjóðin var fyrir löngu undir það búin, að kerfið opnaði skjöl sín til skoðunar og birtingar, jafnt í hinum viðkvæmu varnarmálum sem í öðrum málum. Nú er komið tækifæri til að ítreka, að brýnt er að setja lög um nánast skilyrðislausa upplýsingaskyldu stjórnvalda.

Ógæfulegt er, að stjórnvöld komist áratugum saman upp með að telja þjóðina óhæfa um að draga ályktanir af upplýsingum um mikilvægustu þætti þjóðmálanna.

Jónas Kristjánsson

DV

Alex

Veitingar

Rauð og grá rómantík

Fáir hafa enn tekið eftir, að Alex við Hlemm er orðinn einn hinna betri veitingasala borgarinnar, þótt hann sé enn nokkuð að baki hinum beztu. Staðurinn er hæfilega lítill, tekur aðeins um 32 manns í sæti í vinkillaga sal. Smæðin á drjúgan þátt í að gera salinn notalegan og matreiðsluna tiltölulega góða, vegna hóflegs álags á starfsliðið. Og á kvöldin er Alex nánast rómantískur, þegar hinir rauðu og dimmgráu litir innréttinganna flökta í kertaljósi og þögulum snúningi loftvifta.

Uppvafin og þung gluggatjöld eru rauð og svört. Grannir húsmunir eru dökkgráir og borðdúkar rauðir, á myrkgráum undirdúkum í hádeginu. Í gluggum er sægur pottablóma. Rauðar munnþurrkur eru úr pappír í hádeginu og taui á kvöldin. Grannir stálstólar eru þægilegir og ekkert mötuneytislegir að útliti. Parket er í gólfi og ljós viður í veggjum, þar sem hanga trúðamyndir eftir Kristján Hreinsmög.

Þjónusta er góð í Alex, bæði fagleg og geðsleg, svo sem við eigum raunar að venjast vítt um borg í þessum verðflokki og hinum hærri. Húsvín eru hér betur valin en annars staðar í landinu, því að hægt er að fá Gewürztraminer og Marqués de Riscal í glasatali. Að öðru leyti er vínlisti hússins fremur góður, miðað við íslenzkar einokunaraðstæður. Í boði eru Quinta do Noval púrtvín og Tio Pepe sérrí, Cantenac-Brown, Barthez de Luze, Riscal og Santa Christina rauðvín, svo og Senheimer Rosenhang, Kallstadter Kobnert, Gewürztraminer og Riesling Hugel hvítvín.

Sínýir seðlar dagsins

Eitt aðalsmerkja Alex er að hafa breytilega og fullnægjandi seðla dagsins í hádegi og að kvöldi. Þeir telja sjö rétti, þar af fjóra aðalrétti, tvo úr sjónum og tvo af landi. Á kvöldin er notaður fastaseðill til viðbótar. Í hádeginu er svo fastaseðill tólf smárétta, sumra heitra og annarra kaldra. Verð smáréttanna er tiltölulega lágt. Framboð þetta minnir nokkuð á danska hádegisverðarstaði og er þar ekki leiðum að líkjast. Þar mátti til dæmis sjá legna saltsíld, pönnuristaðan smokkfisk og reykta grálúðu.

Pönnusteiktur beitukóngur var skemmtilegur réttur, en dálítið seigur og minnti á smokkfisk. Hann var hvítlaukskryddaður og í fylgd gífurlegs magns af mildri Pernod-sósu, svo og sveppa, sem ekki voru ofsoðnir. Andalifur var sæmileg, dálítið gróf, borin fram í smjördeigshorni og með hveitilegri sérrísósu, sveppum og vínberjum. Léttristaður humar var sérstaklega ljúffengur, enda undurmeyr, borinn fram í miklu magni af bragðsterkri oregano-sósu. Rjómabætt trönukrabbasúpa var bragðmikil og góð. Rjómasúpa með fersku grænmeti var hins vegar hveitisúpa, en snarpheit og bjó yfir grískum feta, geitaosti.

Forréttunum fylgdu volgir heilhveitihnúðar með smjörkúlum. Á kvöldin kom hrásalat á undan aðalréttunum. Í síðustu heimsókn var það einfalt að grunni, en fól í sér sterkan geitaost rifinn og möndluflögur, sem gerðu það eftirminnilegt.

Miklar sósur og meðlæti

Steinbítur var mátulega soðinn og bragðgóður, en kúgaður í bragði af kryddi og sterkri sósu og í útliti af tjöldun þess, sem til var í eldhúsinu. Þar voru sveppir, gúrka, blómkál, hörpufiskur, sítróna, kartafla og seljustöngull, allt milt soðið. Pönnusteiktur karfi var mjög góður, meyr og bragðmildur, með sterkri sólseljusósu, lime, rósakáli, brokkáli, hvítum kartöflum og gulrótum, samanlagt allt of miklu meðlæti, en varfærnislega soðnu.

Koníakslegin kjúklingalifur með grænum pipar reyndist vera umfangsmikill smáréttur, snarpheitur og góður, en með allt of mikilli sósu og kraðaki af grænmeti, svo sem gulrótarstrimlum, sveppum, seljurótarstönglum og papriku.

Léttsteikt nautafillet var meyrt og gott, í fylgd sætrar sósu, en ekki kryddjurta og vínberja, sem boðað var í matseðli, heldur bakaðrar kartöflu, rósakáls, gulrótar og sveppa, hins staðlaða meðlætis allra kjötrétta kvöldsins. Pönnusteiktur lambahryggur var góður réttur, borinn fram sem falleg lambarif, fituskorin og meyr, með villibráðar-bragðsterkri trönuberjasósu og hinu staðlaða meðlæti. Pönnusteiktur svínahryggur salvíukryddaður var meyr og góður, í fylgd staðlaða grænmetisins, nema hvað soðnar perusneiðar komu í stað bökuðu kartöflunnar.

Grískur geitaostur

Innbökuð dalayrja í smjördeigsbollu var mjög góð og bjó yfir andstæðu sterkrar sósu og milds osts. Rjómaís á kanilkökubotni með mildri Madeira-sósu og ýmsu skrauti var góður eftirréttur. Sérgrein staðarins var svo innfluttur feta, geitaostur frá Grikklandi. Ostkúlan var húðuð möndluflögum og djúpsteikt, í fylgd berjahlaups í paprikuhulstri. Þetta var bæði óvenjulegur og mjög góður réttur. Kaffi var sæmilegt, vel heitt, en dauft, borið fram með konfekti.

Miðjuverð þriggja rétta máltíðar með kaffi, en án víns, er 1.945 krónur að kvöldi og 1.702 krónur af dagsseðli í hádegi. Það er fremur hátt verð, en er ekki í hæsta kanti og býður margvíslegt fyrir peningana. Af smáréttaseðli í hádeginu er meðalverð súpu, aðalréttar og kaffis afar hagstætt, 700 krónur.

Jónas Kristjánsson

Dæmigerður kvöldseðill

560 Pönnusteiktur beitukóngur með pernod og hvítlauk
370 Trjónukrabbasúpa bætt með rjóma
780 Pönnusteiktur karfi með fersku dilli og lime
820 Smjörsteikt smálúðuflök með kræklingi og karrí
970 Pönnusteiktur svínahryggur með peru, rúsínum og sage
1310 Léttsteikt nautaframfillet með kryddjurtum og vínberjum
410 Innbökuð dalayrja í smjördeigi

Hádegisseðill

430 Sérrílegin andalifur í smjördeigshorni
295 Rjómasúpa með sveppadúett
740 Steinbítssteik með hörpuskel, tómati og hvítlauk
770 Gufusoðið heilagfiski og silungs-soufflé með dillsósu
960 Pönnusteiktur svínahryggur með humarhala í rauðvínssósu
920 Heilsteikt kjúklingabringa með sítrónusósu
395 Pönnulöguð ostaterta með ávaxtasósu

DV

Helmingafélag hrökk í kút

Greinar

Viðbrögð formanna stóru hagsmunaflokkanna tveggja við auknu frelsi til útflutnings eru skiljanleg. Einhverjir hinna sex nýju aðila í útflutningi freðfisks til Bandaríkjanna gætu náð betri árangri en einokunarfyrirtæki Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins.

Engum kemur á óvart, að Framsóknarflokkurinn skuli gæta hagsmuna Sambands íslenzkra samvinnufélaga. Það hefur hingað til verið og verður áfram aðalverkefni flokksins. Og uppákoman í Útvegsbankasölunni rifjaði upp gamalkunna stöðu Sjálfstæðisflokksins.

Fyrr á árum voru hinar tiltölulega tíðu ríkisstjórnir Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks kallaðar helmingaskiptastjórnir vegna þeirrar áráttu að misnota óhóflegt ríkisvald til að hygla Sambandinu annars vegar og nokkrum gælufyrirtækjum í Reykjavík hins vegar.

Í núverandi þríhyrningsstjórn hefur viðskiptaráðherra Alþýðuflokksins á skömmum tíma lent tvisvar milli þessara öflugu hagsmunaafla, sem stundum keppa og stundum starfa saman. Í Útvegsbankamálinu kepptu þau, en í nýja freðfiskmálinu vinna þau saman.

Jón Sigurðsson viðskiptaráðherra fór sem gæzlumaður almannahagsmuna halloka í Útvegsbankamálinu. Þar skar hann ekki á hnútinn, svo að bankinn er enn óseldur og selzt tæplega fyrir svipaðar upphæðir og boðnar voru í slag Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks.

Í freðfiskmálinu hefur Jón hins vegar gætt almannahagsmuna. Hann hefur þar dregið úr ríkisafskiptum í atvinnulífinu, hvatt til flutnings viðskiptahæfileika frá innflutningi til útflutnings og stofnað til aukinnar fjölbreytni í framboði íslenzkra útflutningsafurða.

Fyrirtækin sex, sem fengu tímabundna undanþágu til að selja freðfisk til Bandaríkjanna, hafa flest, ef ekki öll, unnið sér sess í útflutningi annarra fiskafurða. Þau hafa tekið þátt í að opna nýja markaði á nýjum stöðum fyrir nýjar afurðir. Þau eru þáttur í vaxtarbroddinum.

Þegar fyrirtækjum hefur verið treyst fyrir frjálsum útflutningi margs konar sjávarafurða til Evrópu og Japans og það með góðum árangri, er orðið tímabært að leyfa þeim að spreyta sig á freðfiski í Bandaríkjunum, í þágu íslenzkra almannahagsmuna, ekki sérhagsmuna.

Athyglisvert er, að formaður þess stjórnmálaflokks, sem löngum hefur þótzt vera flokkur einkaframtaksins og stundum hefur gælt við frjálshyggju, skuli sem forsætisráðherra snúast gegn framtaki viðskiptaráðherra og afgreiða það sem eins konar skort á mannasiðum.

Einnig er athyglisvert, að formaður stjórnmálaflokks Sambandsins skuli nú sem utanríkisráðherra vara fyrirtækin sex við að nota hið nýfengna frelsi, því að hann muni taka við utanríkisviðskiptunum eftir nokkrar vikur og hugsanlega afturkalla þetta verzlunarfrelsi.

Viðskiptaráðherra vakti í september athygli forsætis-, utanríkis- og sjávarútvegsráðherra á fyrirætlunum sínum. Auk þess eru hin veittu leyfi tímabundin. Þannig hefur hann gefið stjórnmálaflokkum hagsmunaaflanna gott og nægilegt tækifæri til áhrifa á gang mála.

Í freðfiskmálinu eru helmingaskiptaflokkarnir tveir að venju að gæta annarlegra sérhagsmuna. Fólk áttar sig ef til vill ekki á þessu, því að helmingaskiptin í freðfiskútflutningi eru í senn gamalgróin og klædd margþvældu kenningakerfi um snilld einokunarfyrirtækja.

Hávaðinn í freðfiskmálinu sýnir, að helmingafélagið hefur hrokkið í kút, eins og skiljanlegt er, þegar framtíð og fortíð takast á. Og máttur fortíðarinnar er mikill.

Jónas Kristjánsson

DV

Fiskvinnsla er félagsmál

Greinar

Sjávarútvegsráðuneytið hyggst auka verndun láglaunastarfa í fiskvinnslu með því að auka skattlagningu hálaunastarfa í sjómennsku. Þessi lífskjarajöfnun niður á neðsta samnefnara felst í tvöföldun úr 10% í 20% á svokölluðum kvótaskatti á útfluttan ísfisk.

Þetta er hluti hinnar almennu, pólitísku hugsjónar Íslendinga að draga máttinn úr vaxtarbroddinum og hlúa að kalviðnum. Þessi hugsjón er rekin áfram af öllum stjórnmálaflokkunum og hefur náð fullkomnun í ríkisrekstri hins hefðbundna landbúnaðar kúa og kinda.

Ríkiskerfið er smám saman að byrja að taka fiskvinnsluna upp á sína arma. 20% kvótaskatturinn er skref á þeirri leið, vegvísir á leið greinarinnar úr atvinnulífinu inn í eins konar félagsmálastofnun á borð við þá, sem skattgreiðendur þekkja í landbúnaði.

Miklu nær væri, að ríkið styddi fiskvinnsluna til sjálfshjálpar. Á vegum Rannsóknaráðs ríkisins hefur verið fundið, að unnt væri að spara milljarða í fiskvinnslu með 500­600 milljóna tæknivæðingu. Ríkið gæti hjálpað við að útvega lánsfé til að knýja þetta fram.

Ríkismat sjávarafurða hefur reynt, að fjórðungur frystihúsa notar gallað vatn eða óhæft til framleiðslunnar. Sveitarfélögin, sem einna hæst jarma um byggðastefnu, gætu lyft litla fingri til stuðnings fiskvinnslu sinni með því að útvega henni frambærilegt vatn.

Meirihluti þjóðarinnar telur enn, að fiskvinnsla auki verðmæti fisks. Fólk er næmt fyrir órökstuddum fullyrðingum um, að “fullvinna” eigi aflann hér heima og ekki selja útlendingum of mikið af “óunnum” fiski. Þess vegna er reynt að draga aflann inn í frystihúsin.

Samt er óunni fiskurinn, ísfiskurinn, verðmætasti fiskurinn. Hlutverk fiskvinnslunnar er raunar einkum að bjarga undan skemmdum þeim afla, sem ekki er hægt að selja sem verðmætan ísfisk. En þessi rök mega sín lítils gegn grónum trúarbrögðum meirihlutans.

Fiskvinnslan er orðin að hálfgerðri óperettu. Til hliðar á sviðinu syngur grátkór Verkamannasambandsins sorgarlög um láglaunastörfin í greininni. Í hinum kantinum eru umboðsmenn frystihúsanna í símanum til London að gabba saklausa útlendinga í vinnu til sín.

Því meira sem alvöruatvinnuvegi með hálaunafólki er refsað fyrir að sigla með ferskan fisk eða senda hann í gámum til útlanda, þeim mun meira fyllast frystihúsin af fiski, sem mannafla skortir til að bjarga undan skemmdum, vegna lágra launa og lélegrar tækni.

Ef við lifðum í alvöruþjóðfélagi, heimtaði fólk, að stjórnvöld notuðu sameiginlega sjóði okkar til að efla hálaunagreinar, svo sem tölvutækni, fiskveiðar, ísfiskútflutning og orkubúskap, svo og til að skapa nýjar, einkum á sviði alþjóðlegra viðskipta og fjármála.

Hér vilja menn hins vegar halda sem flestum á lága kaupinu í fiskvinnslu og flytja inn til viðbótar farandverkafólk frá útlöndum til þess að halda uppi sem mestum umsvifum í grein, er siglir í höfn hliðstæðrar félagsmálastofnunar og er í hefðbundnum landbúnaði.

Að baki fiskvinnslunnar eru sölusamtök, sem gegna sama hlutverki og Sambandið í landbúnaði. Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og Sölusamband íslenzkra fiskframleiðenda hafa misst spón úr aski til ísfiskútflutnings og eru að verja hagsmuni sína, svo sem eðlilegt er.

Ef þjóðin skildi hagsmuni sína, kæmust fiskvinnslan og sölusamtökin ekki upp með tilraunir sínar til að draga úr framtíðargrein hins arðsama ísfiskútflutnings.

Jónas Kristjánsson

DV

Tími ímynda og eftirlæsis

Greinar

Sumir bandarískir fræðimenn hafa lengi gert greinarmun á ólæsi, læsi og eftirlæsi. Fyrst í tímaröð er ólæsi, síðan kemur tímabil læsi og loks rekur lestina eftirlæsi, sem er nýlegt af nálinni. Hinir eftirlæsu eru þeir, sem eiga að hafa lært að lesa, en notfæra sér það ekki.

Tækninni hefur fleygt svo fram, að fólk getur lifað góðu lífi og jafnvel komizt áfram í heiminum án þess að þurfa að lesa og skrifa. Til dæmis er prentað mál ekki lengur aðgöngumiði að upplýsingum. Það breyttist fyrst með útvarpi og síðan einkum með sjónvarpi.

Breytingar af þessu tagi valda ýmsum vandamálum, sem hér er ekki rúm til að rekja. Eitt þeirra er myndin, sem fjarlægist raunveruleikann, er hún átti upphaflega að endurspegla, og verður að ímynd. Fólk horfir á ímynd aðstæðna og atburða og á ímynd fólks, persónu þess.

Þegar sjónvarp hóf göngu sína hér, komust helztu stjórnmálamenn landsins inn á gafl á heimilum fólks. Sumir þeirra risu við þetta og aðrir hnigu, allt eftir ímyndinni, sem þeir megnuðu að sýna á skjánum. Aðrir áttu í erfiðleikum, sem þeir smám saman sigruðust á.

Langt er í land, að Íslendingar nái tökum á umgengni við hina nýju tækni, svo sem sjónvarpið. Bandaríkja menn hafa búið við hana miklu lengur og miklu harkalegar en við. Samt hefur mikill hluti þeirra ekki enn lært að gera greinarmun á ímynd og raunveruleika.

Ýmsir illa hæfir og óhæfir menn hafa komizt langt í tilraunum til að ná völdum í Hvíta húsinu í Washington. Reagan Bandaríkjaforseti er skólabókardæmi um ímynd, sem geislar frá sér hlýju, karlmennsku og jafnvægi, en hefur að baki dapran raunveruleika getuleysis.

Frambjóðendur til forsetaembættis næsta kjörtímabils hafa risið á grundvelli ímyndar í sjónvarpi, en hafa síðan sumir hverjir hrapað til jarðar á grundvelli uppljóstrana í dagblöðum. Ef til vill er þar að koma í ljós merki þess, að ímyndir séu loksins á undanhaldi.

Athyglisvert er þó, að fleiri Bandaríkjamenn treysta enn upplýsingum sjónvarps betur en dagblaða. Hinn ímyndaði heimur á skjánum virðist fólki raunverulegur, eins og því finnst leikhús raunverulegt. Og fréttasjónvarp er einmitt leikhús eins og annað sjónvarp.

Fólk horfir á skjáinn og því finnst það sjá veruleikann, af því að fréttirnar virðast gerast á skjánum. Það gerir sér ekki grein fyrir, hvort fall verðbréfa í Wall Street er sambærilegt við hrunið á undan kreppunni miklu, þegar það horfir á leikþátt eftir Yngva Hrafn.

Í Bandaríkjunum hafa margir lengi haft afar arðbæra vinnu við að framleiða ímynd vöru, þjónustu, fyrirtækja, skemmtifólks, leikara og stjórnmálamanna. Hér á landi er þessi atvinnugrein að skjóta rótum. Við því er ekkert að segja ­ annað en að vekja athygli á því.

Um þetta gildir hið sama og um önnur neytendamál, að fólk verður að læra að umgangast sjónvarp og aðra framleiðendur ímynda af meiri varúð. Fólki er til dæmis skynsamlegt að hætta að ímynda sér, að fréttir í sjónvarpi séu áreiðanlegri en fréttir á prenti.

Sjónvarp er í eðli sínu fremur afþreying eða leikhús, en ekki fréttamiðill eins og dagblöð. Sjónvarpið er mikilvægur þáttur í breytingunum, sem bandarísku fræðimennirnir voru að hugsa um, þegar þeir fundu orðið “eftirlæsi” til að lýsa nýju menningarástandi.

Ef fólk nær áttum, er ástæða til að vona, að eftirlæsi verði hér ekki alls ráðandi og að ímyndir í leikhúsi sjónvarps muni ekki stjórna viðhorfum fólks til skaða.

Jónas Kristjánsson

DV

Óðinsvé

Veitingar

Matreiðslan getur bilað

Óðinsvé eru sannkallaður öndvegisstaður. Þau eru einn af notalegustu veitingasölum landsins og búa í sal yfir starfsliði, sem bæði er elskulegt og kann betur til verka en við höfum séð víðast annars staðar. Þar á ofan er verðlag staðarins neðan við meðallag. Ekkert vantar raunar upp á fullkomnunina, nema bara matreiðsluna, sem oftast er mjög góð eða bara góð, en getur þó bilað stundum.

Í hádegi fékk ég kálfakjöt, sem var fallega rósrautt að innan og bragðgott eftir því, með hæfilega léttsoðnu grænmeti í kring, en ekki lerkisveppunum, sem boðaðir voru. Réttinum var svo spillt af samkeppni hveitisósu og bráðins smjörs, sem yfirgnæfðu diskinn og runnu saman í fjölbreytilega leðju. Og að kvöldi var þykkur og girnilegur nautahryggvöðvi, að vísu með góðri og hveitilausri rjómapiparsósu, grænmeti og bakaðri kartöflu, en þó rétt sæmilegur matur, af því að kjötið var of seigt.

Rjómalöguð blaðlaukssúpa var til fyrirmyndar öðrum slíkum súpum. Gæsakæfa var gróf, en samt mjúk og mild á bragðið, borin fram með bláberjasósu og trönuberjum, en boðað kiwi gleymdist. Kjúklingakæfa var líka mjúk og mild, en fínlegri að sjá, í fylgd með trönuberjum og sýrðum graslauksrjóma. Báðar kæfurnar voru afar góðar.

Andalifur var hins vegar ekkert sérstakur forréttur, sem fólst aðallega í linum skógarsveppum og góðri rauðvínssósu, en minna í litlu magni af góðri andalifur, er var á þunnri, stökkri og góðri smjördeigsköku, svo og títtnefndum trönuberjum, sem greinilega voru í hátízku eða of miklu upplagi á staðnum.

Frábærir fiskréttir

Fiskréttir reyndust allir vel og sumir frábærlega vel. Smjörsteikt lúðukótiletta var ótrúlega létt elduð og meyr, borin fram með rækjum og ostasósu. Smjörsteikt rauðspretta með allt of fjölbreyttu meðlæti var ekki minna nærfærnislega elduð og eftir því góð. Gufusoðið karfaflak féll í skugga þessara tveggja fiskrétta, en var eigi að síður gott, hvítlaukskryddað og sérkennilega fram sett með afar góðri rauðvínssósu brúnni.

Léttsteiktur lambageiri var meyr og góður, en dálítið yfirkeyrður af kryddi, borinn fram með hæfilega léttsoðnu grænmeti og þungsteiktum sveppum, en ekki bökuðu kartöflunni, sem boðuð var. Með hliðsjón af því, sem áður hefur verið sagt hér um nauta- og kálfarétti staðarins, mætti ætla, að kjöt væri veikari hlekkur en fiskur í matreiðslunni.

Allir réttir, sem hér hafa verið nefndir, voru boðnir á töflu, sem komið var fyrir á trönum, er bornar voru milli borða. Komið hefur fram hér að framan, að ósamræmi var stundum milli hinna tiltölulega löngu, handskrifuðu lýsinga á réttunum á töflunni og á raunveruleikanum, sem kom á borðið. Þetta er einkennilegt, því að tæpast er ástæða til langra lýsinga, ef ekki er ætlunin að taka neitt mark á þeim.

Réttirnir, sem sagt var frá á töflunni, voru yfirleitt á lægra verðlagi en réttirnir á fastaseðlinum og til í nógu úrvali, svo að gestir þurfa ekki að fletta seðlinum fyrr en kemur að eftirréttum. Djöflaterta reyndist sæmilega, en heit eplakaka var sérkennileg, eins konar rúlluterta, sem fól í sér meira af rúsínum en eplum og hafði í för með sér ískúlu og þeyttan rjóma.

Annars er fasti matseðillinn athyglisverður fyrir þá sök, að þar er sérstaklega mælt með hvalkjöti, pönnusteiktri langreyði í rauðvínssósu og Madeira, og vegna þess að þar er boðin matarveizla eftir höfði kokksins, það er að segja röð leyndardómsfullra rétta. Hún er afgreidd fyrir minnst fjóra og kostar 2.450 krónur á mann. Slíkar veizlur tíðkast víða í frönskum veitingahúsum, en ég hef ekki prófað veizluna í Óðinsvéum.

Fyrirmyndar vínlisti

Enn merkilegri er raunar vínlistinn. Hann nær yfir flest hið bezta, sem fáanlegt er borðvína í Ríkinu, þar á meðal vín, sem sjaldséð eru í veitingasölum, svo sem Siglo, Riserva Ducale og Saint Emilion Luze. Til viðbótar er svo langur listi vína, sem sérstaklega eru flutt inn fyrir Óðinsvé og eru hvergi annars staðar fáanleg. Þeim lista, sem og venjulega listanum, fylgja lærdómsríkar útlistanir á eðli og eiginleikum vínanna.

Þetta eru um tuttugu vín, öll frá Bordeaux. Flest eru þau lítt þekkt og sumpart frá afskekktum héruðum. Sum eru til dæmis frá svæðinu milli fljótanna Garonne og Dordogne, sem fáir vínþekkjendur kunna til hlítar. Nokkur eru nær óþekkt vín frá Graves. Verðlagið er frá 1.180 krónum upp í 1.760 krónur fyrir flöskuna af flestum þessara vína.

Svo eru líka á boðstólum dýrari Bordeaux-vín. Hæst ber þar Chateau Léoville-Poyferré frá St.-Julien af hinum góða árgangi 1979 á 4.593 krónur. Ennfremur Chateau Lagrange frá St.-Julien af hinum enn betri árgangi 1978 og loks Chateau Duhart-Milon frá Pauillac af hinum heldur lakari árgangi 1980. Betri kaup kunna að vera í hinu vanmetna Chateau Troplong-Mondot frá St.-Emilion af árganginum 1979 á 2.960 krónur.

Ljúfleg og fagleg

Starfsliðið í Óðinsvéum var svo þægilegt, að viðbrigðin við að koma úr hádegisverði í Sjanghæ í kvöldverð í Óðinsvéum var eins og að koma úr hreinsunareldinum í himnaríki. Þjónustan í Óðinsvéum reyndist ekki aðeins ljúfmannleg, heldur einnig fagmannleg. Sex gestir við sama borð fengu hver sinn rétt, án þess að þjónustuliðið þyrfti að spyrja, hver hefði pantað hvað. Slíkt er sjaldgæft hér á landi, jafnvel á dýrustu stöðum.

Óðinsvé eru notaleg, einkum meginsalurinn. Garðstofan er hins vegar kuldaleg marga daga ársins. Hún er líka löng og mjó og þéttskipuð ljósleitum límviðarborðum og eins konar garðstólum. Þar eru viftur í lofti og steinflísar á gólfi.

Í aðalsalnum eru naktar perur og reitaskreyting í lofti, riffluð súla með speglum á miðju gólfi, málverk, speglar og smámyndir á ljósum veggjum, mikið af pottblómum í gluggum og teppi á gólfi. Til hótelanddyris sést gegnum vínskápinn. Gestir sitja í vönduðum, dökkbrúnum armstólum við samlit og gljáandi viðarborð. Á borðum voru plattar, afskorin blóm og vandaður borðbúnaður, tauþurrkur á kvöldin og úr pappír í hádeginu. Í kjallara er fordrykkja- og kaffistofa í sama stíl.

Þriggja rétta máltíð með kaffi, valin af seðli dagsins, sem býður fullnægjandi úrval, kostar að meðaltali 1.555 krónur að kvöldi og 1.387 krónur í hádegi. Það er tiltölulega lágt verð miðað við gæði. Val af fastaseðli kostar heldur meira, 1.809 krónur.

Jónas Kristjánsson

Dæmigerður matseðill

210 Rjómalöguð blaðlaukssúpa
480 Gæsakæfa með ávaxtasósu, kiwi og ristuðu brauði
480 Kjúklingakæfa með rjómasoðnum graslauk
420 Steikt andalifur með skógarsveppum og vínsósu
620 Gufusoðið karfaflak með lauk og lerkisveppum
650 Smjörsteikt rauðspretta með ristuðum banana
690 Smjörsteikt lúðukótiletta með rækjum og ostasósu
890 Léttsteiktur lambageiri með Café-de-Paris-sósu
1090 Nautalundir með rjómapiparsósu og bakaðri kartöflu
780 Snitzel Cordon bleu, fyllt með osti og skinku
350 Ferskt ávaxtasalat með eggjasósu og þeyttum rjóma

DV

Vafasamir umbótamenn

Greinar

Hvarf Íslendinga frá kaþólsku til lútersku var áður fyrr oft nefnt “siðbót”. Þær leifar af hlutdrægni sigurvegarans hurfu að mestu fyrir nokkrum áratugum. Nú er breytingin jafnan réttilega kölluð “siðaskipti”. Það er skynsamlegt orð, sem felur ekki í sér hlutdrægni.

“Umbót” er hlutdrægt orð, sem er í tízku um þessar mundir. Deng hinn gamli í Kína og Gorbatsjov í Sovét ríkjunum eru kallaðir “umbótasinnaðir”, þótt ábyrgara væri að kalla þá “umskiptasinnaða”, því að þeir vilja breytingar, sem deila má um, hvort séu til bóta.

Blaða- og fréttamenn eiga að kunna að verjast tilraunum til að lita upplýsingar þeirra. Þess vegna er undarlegt að sjá í sjónvarpi, heyra í útvarpi og lesa í blöðum, að “umbótasinnar” hafi tekið við stjórnvelinum í Beijing og “umbótasinnum”Gorbatsjovs fjölgi í Moskvu.

Við skulum líta nánar á stefnu Dengs og þeirra manna, sem hann hefur stutt til valda í Kína. Hann hafði frumkvæði að stöðvun veggblaðanna í Beijing, þar sem fólk hafði getað sagt meiningu sína. Hann lét refsa höfundum blaðanna til að fæla aðra frá sömu iðju.

Tíbetbúar hafa ekki orðið varir við neinar umbætur af hálfu Dengs og hans manna. Þar í landi urðu í síðasta mánuði uppþot, er hin kínversku stjórnvöld bældu niður harðlega. Ekki eru séð nein merki þess, að menn Dengs hyggist bæta fyrir kínverska glæpi í Tíbet.

Lengst af voru Tíbetar sjálfstæð þjóð og bjuggu við afar sérstæða menningu munklífis. Kínverski herinn réðst inn í landið 1950 og innlimaði það í Kína. Í menningarbyltingunni 1966 voru um 6000 klaustur skemmd og eyðilögð til að útrýma þjóðareinkennum Tíbeta.

Uppþotin í síðasta mánuði sýna, að enn lifir í þjóðernisglæðum Tíbeta, á svipaðan hátt og Eistlendingar, Lettar og Lithaugamenn reyna að hlúa að þjóðerni sínu, þrátt fyrir sífelldar ofsóknir Kremlverja. Þau sýna líka, að valdhafarnir hafa ekki sett upp silkihanzka.

Hinar meintu umbætur Dengs felast ekki í virðingu fyrir sjálfstæðri hugsun í veggblöðum eða fyrir sjálfsákvörðunarrétti kúgaðra þjóða. Þær felast fyrst og fremst í, að hann vill beizla gróðafíkn manna til að efla þjóðarhag, eins og gefizt hefur vel á Vesturlöndum.

Umskiptastefnur Dengs og Gorbatsjovs miða ekki að auknu lýðræði og meiri mannréttindum. Þær eru aðferðir til að knýja meiri afköst út úr þjóðarbúskapnum með því að gefa þrælunum tímabundna og óvissa hlutdeild í hagnaðinum af auknum afköstum þeirra.

Einnig felast þær í auknu aðhaldi og eftirliti með, að settum markmiðum verði náð. Í því skyni vill Gorbatsjov til dæmis draga úr, að íbúar Sovétríkjanna eyði dýrmætum tíma til að drekkja sorgum sínum í vodka. Þetta á að fá þá til að vinna meira og slóra minna.

Hugsanlegt er, að einstök atriði breytinganna í Kína og Sovétríkjunum megi flokka undir umbætur, ekki sízt bætt samskipti við umheiminn. Séu þær hins vegar skoðaðar í heild, er traustara að forðast fullyrðingar um, að breytingarnar feli í sér “umbótastefnu”.

Erfitt er að hugsa sér sem umbótasinna þá valdhafa, sem kúga fólk í svipuðum mæli og fyrirrennararnir gerðu og eru næstum eins hættulegir umhverfi sínu og fyrirrennararnir voru. Allra sízt ættu lífsreyndir fjölmiðlungar að falla í slíka gryfju hugsanaletinnar.

Íslenzka lúterskan bauð af sér betri þokka, en verður þó að sæta því raunsæi í orðavali að vera ekki lengur kölluð “siðbót”, heldur eingöngu “siðaskipti”.

Jónas Kristjánsson

DV

Stór og tíð friðarskref

Greinar

Skammt er nú stórra högga milli í samningum heimsveldanna tveggja um aukið öryggi. Í september var undirritaður samningur um gagnkvæmar öryggis- og aðvörunarstofnanir. Og í næsta mánuði á að skrifa undir bann við skamm- og meðaldrægum kjarnaflaugum.

Ef þessir samningar virðast ætla að gefast vel, má reikna með, að fleiri geti fljótlega fylgt í kjölfarið. Fulltrúar heimsveldanna hafa rætt helmings minnkun langdrægra eldflauga, takmörkun efnavopna, samdrátt hefðbundinna vopna og friðarbelti við járntjaldið.

Þeir Gorbatsjov og Reagan munu væntanlega undirrita 7. desember samkomulagið um afnám skamm- og meðaldrægra kjarnorkuvopna, sem þeir voru næstum búnir að ná í Reykjavík fyrir rúmu ári. Toppfundur hefði ekki verið boðaður, ef slíkt stæði ekki til.

Mikilvægi september- og desembersamninga þessa árs felst einkum í, að þeir lengja svigrúm beggja til að íhuga viðbrögð, ef viðbúnaðartækni þeirra gefur vísbendingu um, að hinn aðilinn hafi gert árás. Þannig verður dregið úr líkum á tæknilegum mistökum.

Sameiginlegar stofnanir í höfuðborgum heim- og meðaldrægra flauga eyðir hættunni, sem skemmstan flugtíma hefur. Hvort tveggja eflir raunsætt mat á hugsanlegu hættuástandi.

Margs er að gæta við þessa samningagerð. Reynslan hefur sýnt, að stjórn Sovétríkjanna brýtur stundum gegn gerðum samningum, ef hún telur sér það henta. Og stjórn Bandaríkjanna er ekki heldur yfir það hafin að flytja nýja og langsótta túlkun gamalla samninga.

Strangt og virkt eftirlit með efndum hlýtur að vera einn mikilvægasti þáttur allra slíkra samninga. Lengst af hafa menn óttazt ­ og ekki að ástæðulausu ­ að stjórn Sovétríkjanna væri ófáanleg til að samþykkja eftirlit, sem gengi nógu langt. Hún hefur kallað það njósnir.

Á Vesturlöndum hafa menn staðið fast á, að fráleitt væri að treysta sovézkum orðum um góðan vilja. Þess vegna þyrfti ákvæði um eftirlit með efndum, þótt það ylli herstjórum hugarangri. Sovétstjórnin virðist nú hafa gefið þetta eftir, svo að brautin er beinni en áður.

Með ströngu og virku eftirliti er meðal annars átt við rétt til reglubundinnar skoðunar á verksmiðjum og geymslum vopna og rétt til ákveðins fjölda óvæntra skyndiskoðana á hverju ári. Ef einhverjir telja þetta njósnir, verða þeir bara að sætta sig við þær.

Ef allt gengur þetta vel, má vona, að fyrr en síðar verði samið um helmings fækkun langdrægra eldflauga, um bann við framleiðslu, söfnun og notkun efnavopna og um samdrátt hefðbundinna vopna, einkum á viðkvæmum svæðum, svo sem á breiðu belti við járntjaldið.

Menn Gorbatsjovs í Moskvu hafa gefið ádrátt um, að Sovétstjórnin sé til viðræðu um alla þessa mikilvægu þætti aukins öryggis jarðarbúa. Við verðum að vona, að hugur fylgi máli og að þessi nýja stefna nái að festa rætur, þrátt fyrir andstöðu harðlínumanna í Kreml.

Með slíkum samningum draga Vesturlandabúar ekkert úr þeim rétti, sem þeir áskilja sér til að draga Sovétríkin til ábyrgðar fyrir hernaðinn í Afganistan, mannréttindabrot og svik við samninga, sem kenndir eru við Helsinki og Jalta, svo að örfá dæmi séu nefnd.

Með tíðum viðræðum heimsveldanna aukast ört horfur á, að í fyrsta sinn frá upphafi kjarnorkualdar hætti öryggi fólks að minnka og byrji að vaxa á nýjan leik.

Jónas Kristjánsson

DV

Of háir og of lágir vextir

Greinar

Stjórnmálamenn okkar, og þá ekki síður ráðherrar en aðrir, tala af töluverðu ábyrgðarleysi um vexti. Mætti ætla af orðum þeirra, að vextir séu fyrirbæri, sem Seðlabankinn eða einhver önnur opinber stofnun geti hækkað og lækkað með eins konar handafli.

Þeir sjá, að vextir og jafnvel raunvextir geta verið óþægilega háir. Við sjáum til dæmis vel í húsnæðisumræðunni, að vandinn felst að töluverðu leyti í, að íbúðaeigendum er ekki talið kleift að borga sömu vexti í húsnæðislán og kerfið borgar lífeyrissjóðunum.

Vextirnir, sem lífeyrissjóðirnir fá, eru byggðir á erfiðum samningum húsnæðisstjórnar ríkisins og sjóðanna. Þeir eiga að endurspegla markaðsvexti í þjóðfélaginu. Væru þessir vextir allt of lágir, gætu lífeyrissjóðirnir ávaxtað fé síns fólks á annan og skynsamlegri hátt.

Ríkið tekur svo á sig að niðurgreiða þessa vexti um þriðjung eða meira til venjulegs fólks og um meira en tvo þriðju til forréttindahópa verkamannabústaða. Þetta er svo dýr niðurgreiðsla, að reiknað er með, að eftir nokkur ár gleypi hún allt húsnæðisfé ríkisins.

Hins vegar sýnist erfitt að minnka þessa niðurgreiðslu og ókleift að afnema hana með öllu. Enda má segja, að fráleit sé slík arðsemi í húsnæðiskaupum, að hún standi undir raunvöxtum markaðarins. Á sama hátt er slík arðsemi ekki sögð vera í lánum námsmanna.

Útilokað er, að peningar geti borið núverandi raunvexti um aldur og ævi. Uppsafnaður arður þeirra næmi fljótlega miklu meiri upphæð en sem svarar öllum peningum þjóðarinnar. Núverandi raunvextir hljóta því að vera tímabundin blaðra, sem springur einhvern tíma.

Þetta er flókinn vandi, því að stjórnvöld geta ekki með handafli náð raunvöxtum niður í tölur, sem húseigendur, námsmenn og aðrir geta borgað. Til þess að geta lánað þarf nefnilega peninga. Af þeim er alls ekki nóg, svo sem auglýsingar bankanna sýna greinilega.

Hægt væri að nálgast eðlilega og greiðanlega raunvexti, ef jafnvægi væri í lánamarkaðinum. Við mundum þekkja slíkt jafnvægi á, að bankarnir auglýstu útlán sín og útlánakjör jafngrimmt og þeir auglýstu innlánin og innlánakjörin. Engum banka dettur slíkt í hug núna.

Við stöndum því andspænis þverstæðunni, að raunvextir eru í senn of háir og of lágir. Þeir eru ekki nógu háir til að framkalla svo mikinn sparnað, að nægilegt lánsfé myndist fyrir meintar lánsþarfir. Um leið eru þeir svo allt of háir, að ríkið þarf að niðurgreiða þá.

Ríkið gæti reynt að lina þessa spennu með því að hætta að niðurgreiða vexti og draga þannig úr eftir spurn lána. En margvíslegar ástæður valda því, að slík markaðshyggja er af öllum þorra fólks talin óframkvæmanleg frá félagslegu og menningarlegu sjónarmiði.

Í staðinn reyna ríki og Seðlabanki að hafa raunvexti hverju sinni eins háa og framast er unnt til að draga úr eftirspurn. Þetta hefur minnkað spennu, en aldrei nálgast raunverulegt jafnvægi. Miklu fleira þarf að gera til að draga úr eftirspurn, svo að vextir megi lækka.

Á þenslutíma þarf ríkið að draga úr eigin framkvæmdum og rekstri til að minnka samkeppnina um hið takmarkaða fjármagn. Sömuleiðis þarf ríkið að skrá gengi peninganna rétt, svo að innflutningsspenna magni ekki peningaþörf. Hvorugt er gert af nokkurri alvöru.

Meðan ríkið keyrir á fullu og gengi krónunnar er skakkt, verða raunvextir allt of háir og lágir í senn og verða ekki læknaðir með stjórnvaldi eða öðru handafli.

Jónas Kristjánsson

DV

Kvosin

Veitingar

Gatan fram eftir vegi

Svartfugl og villigæs höfum við hvergi bragðað betri en hjá Francois Fons í Kvosinni nú í vetrarbyrjun. Ef til vill jafngóða hjá Skúla í Arnarhóli, en hvergi betri. Enda er Fons einn af beztu matreiðslumeisturum landsins, enda þótt hann sé stundum mistækur og ekki jafnvígur á allt. Hann hefur um nokkurt skeið ráðið ríkjum í eldhúsi Kvosarinnar, sem hefur gengið götuna fram eftir vegi frá slæmri byrjun á sínum tíma.

Kjöt svartfuglsins og villigæsarinnar var rautt og meyrt, í eindregnum, frönskum nútímastíl. Með svartfuglinum fylgdi þung ravigote-sósa, sem var olía með létt pönnusteiktu jukki úr asíum, papriku og brytjuðum eplum. Með villigæsinni var létt og bragðmild rifslaufssósa með skemmtilega eindregnu villibráðarbragði. Stöðlunar gætti, því að báðum réttunum fylgdu hvítar kartöflur og léttsoðið blómkál.

Annars er Fons enginn baráttumaður nútíma matreiðslu. Hann stendur föstum fótum í gamalli, franskri hefð. Hann er til dæmis lítið fyrir fisk og súpur, en breiðir sig út yfir kjötrétti og kjötkæfuforrétti af ýmsu tagi. Í stórum dráttum er matreiðsla hans gamaldags. Hún er ekkert verri fyrir það. Fyrir okkur kemur það ekki að mikilli sök, því að hér á landi er ýmislegt nýstárlegt í þessu, þótt það teldust gamlar lummur í heimalandinu.

Þar þætti til dæmis gamaldags að bjóða rjúpnakæfu, þegar hráefnið er að verða ársgamalt og ný vertíð að hefjast. En þetta var afar mögnuð og góð kæfa í bragðlausu hlaupi.

Tilviljanakennt orðskrúð

Rétturinn nefndist “rjúpnaljúfmeti” og er dæmi um tilhneigingu til að leyna matreiðsluaðferðum á bak við tilviljanakennt orðskrúð. Þannig eru grísalundir “að hætti ömmu”, “syndandi” hörpuskel og undarlega titlað langvíubrjóst “Egils Skallagrímssonar”.

Hlaupið er frjálslega milli tungumála. Rétt neðan við “grísalundir að hætti ömmu” lesum við “tatinade de nos sorbets”. Eitthvað er franskan samt farin að lasnast, því að fyndið var að sjá nautasteik þýdda “fillet de porc boeuf” á frönsku.

Fons skiptir oft um matseðil og breytir þá um alla réttina, þótt hann haldi óhreyfðum meginlínum. Hann virðist til dæmis alltaf vera með hrútspunga á boðstólum, svokölluð “kviðsvið” á máli matseðilsins. Í haust bauð hann kjúkling og hrútspunga á rosettu-sósu, en í vetrarbyrjun hrútspungastöppu og rækjur “á grænu túni”. Fyrri rétturinn var fagur að sjá, hæfilega lítið súr á bragðið og myndaði samræmda heild. Mikil og bleik sósa var í sætasta lagi, með gulri og brúnni súkkulaðiskreytingu í blómamynd. Þetta var afar góður réttur.

Sölvasósa með humri

Ekki er hugmyndaflugið alltaf vel heppnað. Sölvasósa með humri, kölluð sölsósa á matseðli, var grimmdarlega dimmbrún og bragðsterk og hæfði hvítum og bragðmildum humri hvorki í útliti né bragði. Þar á ofan var humarinn ofsoðinn og því ekki eins meyr og hann hafði verið hjá Skúla eða Rúnari við Tjörnina, sem kunna fisk fram í fingurgómana.

Smálúðan var ekki heldur fullkomin hjá Fons, óþarflega mikið soðin, en fallega sett á diskinn, í fylgd með rauðum og grænum piparkornum. Til hliðar voru næfurþunnar gúrkusneiðar, ekki sýrðar. Þessi réttur var gott dæmi um áherzluna, sem Fons leggur á útlit rétta sinna.

Á tveimur matseðlum var annars vegar engin súpa og hins vegar aðeins tvær súpur. Önnur var fiskisúpa að hætti marseille, sterkkrydduð og mögnuð súpa úr fiskisoði, tómatkrafti og rjóma, þykk súpa, en þó alveg hveitilaus og án fiskbita.

Saltað villigæsarbrjóst var gott, borið fram á möndlum í góðri, þunnri sósu, í fylgd með hvítlaukseggjasósu og rifnum osti mildum.

Eftirréttir eru oft skemmtilegir í Kvosinni. Fersk jarðarber rauðvínslegin voru mild og merkilega góð. Rifsber “Royale” voru líka mjög góð, borin fram með rifsberja-sorbet og rifsberjasósu úr berjasaft og þeyttum rjóma. “Pitkiever” nefndist lítt merkileg, eplafyllt smjördeigskaka, sem var aðallega kaka og lítils háttar epli, á góðri eplasósu. “Arlequinade” var góður hindberja-sorbet í hindberjasósu, skreyttur jarðarberjum, kiwi, vínberi, rauðvínsperu og súkkulaðifroðu.

Kampavínsflösku-málverk

Kaffið var sæmilegt, ekki sérlega heitt, en borið fram með mjög sætu, en góðu konfekti, sem búið er til á staðnum. Vínlistinn er fremur góður og ekki eins hátt verðlagður og í öðrum veitingahúsum landsins. Stolt staðarins eru Perrier Jouet kampavínin, þar á meðal Special Reserve í handmálaðri flösku, sem kostar um 5.000 krónur. Þessi vín voru uppseld í síðustu heimsókn.

Um þjónustu og umhverfi Kvosarinnar er fátt nýtt að segja, því að hvorugt hefur breytzt að ráði. Þjónustan er eins góð og í öðrum beztu veitingasölum landsins, en nær ekki alltaf að muna, hvor af tveimur hafði pantað hvað. Útlitið er líka óbreytt að mestu, þótt kyrralífsmálverk af matvælum hafi komið í staða teppa á einum veggnum.

Andrúmsloftið er virðulegt, þungt og dýrt, en tímabært er orðið að lagfæra naktar mahoní-borðplöturnar, því að brunablettir eru orðnir óhæfilega margir. Þá væru plöturnar í meira samræmi við skrautlegt teppi, bakháa stóla, þungan við í húsbúnaði og þiljum, sérlýst málverk, tvær spegilsúlur í miðjum sal, glerbútakrónur og málað gifsflúr í lofti.

Kvosin heitir ýmist “í Kvosinni” eða “Café Rosenberg”. Staðurinn er lokaður í hádeginu og mánudags- og þriðjudagskvöld. Miðjuverð þriggja rétta kvöldverðar er 2.103 krónur fyrir utan vín.

Jónas Kristjánsson

Matseðill
530 Kviðsviðsmús og rækjur á grænu túni
650 Grafinn lax með dillsósu
580 Laxa-ballotine með hibiscus-sósu
530 Humarbrauð á grófum grunni
550 Kanínulifrarmósaík
610 Sniglar og smokkfiskur mariage
580 Saltað villigæsarbrjóst
350 Fiskisúpa að hætti Marseille
320 Villisveppasúpa
850 Steiktur heill regnbogasilungur með möndlum
750 Djúprækjur í hvítlauk
830 Syndandi hörpuskel
845 Skötuselur a la tapenade
1470 Nautasteik bordelaise
1490 Nautasteik með grænum pipar
1345 Grísalundir að hætti ömmu
930 Léttsoðinn svartfugl með ravigote-sósu
1630 Pönnusteikt villigæsar-medalía með rifslaufssósu
870 Smjörsteikt kanínulifur persillade
390 Pitkivier
450 Tatinade de nos sorbets
490 Arlequinade

DV

Frekjan er þjóðaróvinur

Greinar

Nýlega bað landssamband kartöflubænda landbúnaðarráðuneytið um að banna innflutning á kartöfluflögum, þar sem framleiðsla kartaflna hefði verið mikil innanlands í sumar. Ennfremur krafðist það útflutningsuppbóta, svo að minna magni þyrfti að henda á haugana.

Framleiðendur morgunkorns hafa ekki beðið um innflutningsbann til að sitja einir að markaðinum og ekki heldur beðið um útflutningsuppbætur, svo að þeir geti gefið útlendingum umframmagnið, sem Íslendingar vilja ekki kaupa. Milli þessara tveggja viðhorfa er hyldjúp gjá.

Annars vegar eru til í landinu menn, jafnvel heilar stéttir, sem telja þjóðfélagið skulda sér lífsframfæri. Ef þeim dettur í hug að framleiða eitthvað, telja þeir samfélaginu skylt að ábyrgjast kaup á öllu framleiðslumagninu og á verði, sem endurspeglar tilkostnað þeirra.

Á hinum, heilbrigða kantinum er fólkið, sem telur sér skylt að svara spurningum um, hvort neytendur þurfi á afurð þess að halda, í hvaða magni og á hvaða verði. Það verður að finna rétt svör, svo að framtak þess leiði ekki til gjaldþrots eða annars ófarnaðar.

Stjórnmálamenn hafa hér á landi reynzt mjög liprir við að styðja málstað fámennra og þröngra sérhagsmunahópa, sem vilja fá sitt fram á kostnað hins fjölmenna, en dreifða hóps neytenda og skattgreiðenda. Fáir stjórnmálamenn styðja í raun hina síðarnefndu.

Sláturhúsmálið á Bíldudal er dæmi um, að margir þingmenn eru reiðubúnir að heimta sérstök lög gegn gildandi lögum og reglugerðum um heilbrigðismál, svo að unnt sé að slátra á heimaslóðum og framleiða kjöt, sem neytendur séu síðan forspurðir látnir borða.

Eitt bezta dæmið um hina landlægu frekju sérhagsmunahópa var ferð nokkurra Austfirðinga að sjúkrabeði samgönguráðherra til að fá hann ofan af ráðagerð um að bjóða út framkvæmdir við flugvöllinn á Egilsstöðum. Þeir þóttust eiga forgang að verkinu.

Fyrri samgönguráðherra var sérfræðingur í dekri við sérhagsmuni af þessu tagi, enda nýlega helzti upphlaupsmaður Bíldudalsmálsins. Í Egilsstaðamálinu var hann að láta semja beint við nokkra heimamenn á grundvelli kostnaðaráætlunar, er hann datt úr embætti.

Nú er verið að bjóða verkið út. Árangurinn felst eins og venjulega í lægri kostnaði fyrir skattgreiðendur. Sérhagsmunir hafa vikið fyrir almannaheill í flugvallarmálinu, eins og þeir hafa raunar líka gert í sláturhúsmálinu. Hið heilbrigða sigrar öðru hvoru hér á landi.

Stundum verða heimamenn varir við kosti réttlætisins. Nýlega börðust Vestfirðingar gegn innrás steypustöðvarútibús frá Reykjavík. Nú verða þeir að viðurkenna, að nýja steypustöðin hefur kollvarpað einokun heimaaðila og lækkað byggingarkostnað á svæðinu.

Hrikalegasta dæmið um frekju sérhagsmunaaðila er hinn hefðbundni landbúnaður. Hann telur neytendum skylt að borða afurðir sínar og skattgreiðendum skylt að ábyrgjast tiltekið magn á tilteknu verði, ýmist með styrkjum, niðurgreiðslum eða útflutningsuppbótum.

Í þessu tilviki ráða sérhagsmunirnir. Neytendum er meinað að nota samkeppnisvöru frá útlöndum og skattgreiðendur eru látnir borga offramleiðsluna, ekki bara með styrkjum, niðurgreiðslum og uppbótum, heldur nú síðast einnig í flutningi kjöts á haugana.

Þannig er frekjan sumpart löggilt, en verður annað veifið að láta undan síga. Í öllum tilvikum er barátta gegn henni eitt brýnasta hagsmunamál þjóðarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Saurgerlasaga

Greinar

Nýlega var sendur hingað dýralæknir frá Evrópubandalaginu vegna hugsanlegrar sölu íslenzks dilkakjöts til Vestur-Evrópu. Hann skoðaði þrjú hin beztu af fimmtíu sláturhúsum landsins og taldi ekkert þeirra þriggja nógu gott að viðhaldi, aðstöðu og búnaði.

Okkar kröfur eru vægari, því að sautján sláturhús hafa löggildingu til að slátra sauðfé fyrir innlendan markað. Þau eru mjög afkastamikil, enda telur sláturhúsanefnd, að þau geti annað allri sauðfjárslátrun í landinu og raunar þótt víðar væri leitað.

Ýmsir þröngir sérhagsmunir valda því, að tvöfalt fleiri sláturhús til viðbótar, eða 33 alls, hafa undanþágu til rekstrar, þótt þau séu ekki frambærileg samkvæmt hinum vægu heilbrigðiskröfum, sem hér eru gerðar. Undanþágur hafa hreinlega verið veittar á færibandi.

Samanlögð afköst hinna samtals fimmtíu sláturhúsa landsins eru 43.450 fjár á dag. Í fyrra jafngilti það 19 daga notkun að meðaltali á ári. Þessi lélega nýting afkastagetunnar stuðlar að háum fjármagns- og rekstrarkostnaði og gerir slátrun afar dýra hér á landi.

Lýsing sláturhúsanefndar á undanþáguhúsunum er löng og ekki fögur. Víða er slátrað í gömlum kofum, jafnvel timburkofum, eða í fiskverkunarhúsum, sem tímabundið er breytt í sláturhús, með skaðlegum áhrifum á hvort tveggja, fiskvinnsluna og slátrunina.

Undanþágurnar eru veittar með pólitísku handafli. Stundum tregðast dýralæknar staðarins og yfirdýralæknir við að veita leyfin. Þá knýja þingmenn kjördæmisins landbúnaðarráðherra til að kreista út undanþágu. Það gerðist til dæmis í haust í Vík í Mýrdal.

Sláturhúsið á Bíldudal í Arnarfirði er hins vegar svo lélegt, að ráðherra treysti sér ekki til að keyra yfir dýralæknana, enda eru aðeins 30 kílómetrar frá Bíldudal til löggilts sláturhúss á Patreksfirði. Vegna þessa hafa nokkrir þingmenn gengið berserksgang við Austurvöll.

Undir forustu Eyjólfs Konráðs Jónssonar og Matthíasar Bjarnasonar var í skyndi búið til frumvarp til sérstakra laga um þetta hús. Ráðgert var að keyra málið í gegn á einum sólarhring með því að beita afbrigðum. Fjölmiðlar hafa skýrt rækilega frá gangi málsins.

Sem betur fer sáu ýmsir aðrir alþingismenn, að mál þetta var Alþingi til hinnar mestu vansæmdar. Þess vegna fékk Bíldudalsfrumvarpið ekki þann forgang, sem ráðgerður var, og málið féll á tíma. Nú er sauðfénu ekið skamman veg til slátrunar á Patreksfirði.

Upphlaupið skilur hins vegar eftir óbragð í munni. Það hefur hreyft ýmsum spurningum, sem ekki hefur verið svarað. Er til dæmis rétt hjá sumum þingmönnum, að sláturhús kaupfélaga megi að mati dýralækna vera skítugri en hin, sem eru í eigu hlutafélaga.

Þá er ekki síður athyglisvert, að í umræðunni á Alþingi taldi enginn þingmanna sig knúinn til að ræða málið frá sjónarhóli neytenda og með hagsmuni þeirra í huga. Af 63 þingmönnum voru margir fúsir að þjóna sérhagsmunum, en fáir fúsir að þjóna neytendum.

Í rannsókninni, sem væntanlega siglir í kjölfar upphlaupsins, verður vonandi fjallað um, hvort eftirlit með sláturhúsum og leyfisveitingar þeirra séu eða eigi að vera fyrir neytendur eða einhverja aðra og þá hverja. Einnig hvers konar handalögmál stjórni undanþágum.

Þótt málið hafi til þessa verið Alþingi til vansæmdar, er hægur vandi að veita umræðunni framvegis í þann farveg, að leiði um síðir til heilla fyrir landsmenn.

Jónas Kristjánsson

DV

Dagur hrakmennafélags

Greinar

Suður-Afríka hefur um langan aldur verið helzta hneykslunarhella Sameinuðu þjóðanna. Það stafar af, að þar í landi beitir fámennur hvítur minnihluti lög regluofbeldi og aðskilnaðarstefnu, þar á meðal búsetureglum, til að kúga fjölmennan meirihluta svartra.

Sameinuðu þjóðirnar amast hins vegar ekki við, að fámennur kommúnistaflokkur í Sovétríkjunum beiti þjóðir þeirra ofbeldi, sem í flestu er hliðstætt hinu suðurafríska. Lögmál hræsninnar hjá Sameinuðu þjóðunum veldur því, að Sovétfulltrúar bera höfuðið hátt.

Einfaldast er að bera Suður-Afríku saman við Eþiópíu. Í síðara landinu beitir fámennur stjórnarhópur þjóðina ofbeldi hers og lögreglu, skipuleggur nauðungarflutninga, þar sem þúsundir farast úr hungri, og drekkur viskí á meðan Vesturlönd stunda hjálparstörf.

Fulltrúar harðstjóranna í Eþiópíu þykja samt húsum hæfir í sölum Sameinuðu þjóðanna. Svo blindir eru Vesturlandamenn á varmenni þriðja heimsins, að jafnvel Amnesty gefur félögum sínum forskrift að skjallbréfi til Mengistu harðstjóra til að milda grimmd hans.

Öll fleðulæti í garð hrakmenna þriðja heimsins, hvort sem þau koma fram í skjallbréfum frá Amnesty eða í sölum Sameinuðu þjóðanna, staðfesta trú harðstjóranna á, að þeim sé í stórum dráttum kleift að halda áfram að kúga og kvelja þjóðir sínar, rupla þær og ræna.

Næst á eftir Suður-Afríku í óvinsældum hjá Sameinuðu þjóðunum er Ísrael, sem óneitanlega er orðið ofbeldisríki, þar sem gamlir hryðjuverkamenn í Likud-bandalaginu hafa náð hlutdeild í völdum og beita arabíska landa og nágranna ójöfnuði af ýmsu tagi.

Hins vegar er vanzi ráðamanna Ísraels sízt meiri en ráðamanna arabaríkjanna, sem mest hamast gegn Ísrael. Begin og Shamir og Sharon í Ísrael blikna í samanburði við Assad í Sýrlandi og Hussein í Írak, svo ekki sé minnzt á Khomeini í Íran og Kaddafi í Líbýu.

Raunar má segja, að um það bil 120 ríki Sameinuðu þjóðanna búi við meiri harðstjórn og ofbeldi en stjórn Ísraels stendur fyrir. Ráðamenn þessara ríkja hafa komizt til valda eða halda völdum á meira eða minna ólýðræðislegan hátt og margir á mjög hraklegan hátt.

Vesturlönd eiga að láta fulltrúa sína á vettvangi Sameinuðu þjóðanna neita að taka þátt í hræsninni, sem felst í síbylju samtakanna um Suður-Afríku og Ísrael og dauðaþögn þeirra um harðstjórn um það bil 120 ríkja þriðja heimsins, sem ráða ferðinni í samtökunum.

Sameinuðu þjóðirnar og ýmsar sérstofnanir þeirra, svo sem menntastofnunin Unesco, hafa smám saman verið að breytast úr musterum í ræningjabæli. Þar hefur allt fyllzt af umboðsmönnum harðstjóra, sem ekkert lýðræðislegt umboð hafa til valda í aðildarríkjunum.

Bandaríkin og Bretland gengu úr Unesco og flest önnur Vesturlönd fóru að andæfa gegn stjórnarháttum M’Bows framkvæmdastjóra. Slíkt andóf þarf að efla og færa yfir á vettvang allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna, ýmissa nefnda samtakanna og sérstofnana þeirra.

Vesturlönd mega ekki missa sjónar á grundvallarforsendu Sameinuðu þjóðanna, er lesa má í mannréttindasáttmála samtakanna. Þar má ljóst sjá, að stjórnir alls þorra þátttökuríkjanna vanvirða mannréttindi íbúanna, eins og þau eru skilgreind í mannréttindasáttmálanum.

Dag Sameinuðu þjóðanna er gott að nota til að minna Vesturlönd á að fá samtökunum breytt í upprunalega mynd eða ganga að öðrum kosti úr félagi hrakmenna.

Jónas Kristjánsson

DV