Author Archive

Evrópuaðild er hugsanleg

Greinar

Evrópubandalagið er ágæt röksemd með þjóðareign íslenzkra fiskimiða og sölu veiðileyfa. Með því að leggja niður óskapnað kvótakerfisins og fara að bjóða út veiðar í hinni takmörkuðu auðlind, sem fiskistofnarnir eru, treystum við samningsstöðu okkar gegn bandalaginu.

Í leiðara DV á fimmtudaginn var rökstutt, að við þurfum ekki að einblína á Evrópubandalagið, kosti þess og galla, heldur leggja áherzlu á að halda einnig opnum viðskiptaleiðum til Vesturheims og Austur-Asíu til þess að geta hagað seglum eftir vindi í milliríkjaviðskiptum.

Evrópubandalagið er samt álitlegur kostur, því að það er nálægur markaður, sem spannar nú þegar rúmlega helming utanríkisviðskipta okkar. Aðild að því verður áleitnari með hverju ríkinu, sem flytur sig um set úr Fríverzlunarsamtökunum yfir í bandalagið.

Við höfum gert við Evrópubandalagið nothæfan samning, sem ekki rennur út, nema menn hafi sérstaklega fyrir að segja honum upp. Við getum reynt að víkka fisksölufrelsið með beinum þrýstingi og einnig óbeinum, á vegum Fríverzlunarsamtakanna og Norðurlandaráðs.

Ekki er samt hægt að neita, að auknar líkur á aðild Noregs að bandalaginu setja okkur í nokkurn vanda vegna versnandi samkeppnisaðstöðu gagnvart Norðmönnum, ef þeir verða innan bandalagsins, en við utan. Þetta hlýtur að endurvekja hugmyndir um aðild okkar.

Hingað til hafa menn staðnæmzt við kröfur Evrópubandalagsins um gagnkvæma aðild að auðlindum. Íslendingar hafa réttilega verið sammála um, að fiskimiðin væru einmitt gulleggjahænan, sem við mættum ekki selja í hendur öðrum, heldur halda í eigin höndum.

Aðild að auðlind jafngildir ekki ókeypis aðild. Ef íslenzka ríkið færi að bjóða upp leyfi til fiskveiða og við værum innan bandalagsins, gætu erlendir aðilar að vísu reynt að bjóða. Ef þeir væru ríkisstyrktir, mundi boðunum vera hafnað eða lagður á þau samsvarandi skattur.

Útgerð í löndum Evrópubandalagsins er ríkisstyrkt á borð við landbúnað og getur ekki keppt við íslenzka útgerð á jafnréttisgrunni. Þess vegna mundu veiðileyfin lenda hjá íslenzkum aðilum og þjóðfélag okkar hafa tekjurnar af hvoru tveggja, veiðunum og leyfunum.

Önnur hindrun í vegi aðildar Íslands að Evrópubandalaginu er hinn frjálsi flutningur starfsfólks milli landa. Ekkert bendir til, að útlendingar muni sækjast eftir að setjast að í hráslaganum hjá okkur, þótt lífskjör séu góð. Þeir hafa hingað til ekki verið áfjáðir.

Að vísu erum við svo fámennir, að við getum ekki leyft okkur að taka neina áhættu á þessu sviði. Við hljót um að skammta aðgang að ríkisborgararétti nógu þröngt til að laga nýja borgara að tungu og háttum okkar. Þetta er án efa alvarlegasta hindrun bandalagsaðildar okkar.

Frjálsi fjármagnsmarkaðurinn ætti hins vegar að vera lítil hindrun í vegi aðildar, ef við lítum hann réttum augum. Við ættum að fagna því, að erlent hlutafé leysi erlent lánsfé af hólmi, enda erum við farnir að auka erlendar skuldir okkar um tíu milljarða árlega.

Við ættum einmitt að fylgja fordæmi Svisslendinga og Lúxemborgara og nota smæð okkar til að freista erlendra banka, sjóða og annarra stofnana, sem annast varðveizlu og flutning peninga, til að koma sér upp útibúi eða aðalstöðvum hér á eyju í miðju Atlantshafi.

Að öllu samanlögðu á frelsi í fiskveiðum, flutningi starfsfólks og í fjármálum ekki að vera ókleif hindrun í vegi aðildarviðræðna okkar við Evrópubandalagið.

Jónas Kristjánsson

DV

Hvorki váleg né brýn

Greinar

Hvorki er aðild að Evrópubandalaginu Íslendingum eins váleg né eins brýn og stjórnmálamenn vilja vera láta. Umræða þeirra um bandalagið er þó gagnleg og mætti vera meiri, því að hún beinir athyglinni að framtíð okkar í samfélagi og viðskiptum þjóða heims.

Viturlegast er að hafa svigrúm og eiga ýmissa kosta völ. Við þurfum að efla markaði okkar í Japan og öðrum nýríkum löndum á þeim slóðum, meðal annars með því að opna þar viðskiptaskrifstofu, jafnvel sendiráð. Þar er markaðurinn, sem stækkar hraðast nú um hríð.

Til að draga úr áhættu þurfum við að leggja jafna áherzlu á þrjú auðug markaðssvæði, Norður-Ameríku, þar sem Bandaríkin eru í þungamiðju, Vestur-Evrópu, þar sem Evrópubandalagið er í þungamiðju, og Suðaustur-Asíu, þar sem Japan er í þungamiðju.

Um þessar mundir er Evrópubandalagið okkur veigamesta horn þríhyrningsins. Rúmur helmingur utanríkisviðskipta okkar er við það. Engar horfur eru á mikilli breytingu á hlutfallinu á allra næstu árum. Hins vegar er ýmissa veðra von, þegar líður á næsta áratug.

Vaxandi horfur eru á, að ríki Fríverzlunarsamtakanna renni eitt af öðru inn í Evrópubandalagið og samtökin leysist smám saman upp. Alvarlegust fyrir okkur verður aðild Norðmanna að bandalaginu, því að þeir eru helzti keppinautur okkar í sölu fiskafurða.

Mikilvægt er að nota fjölþjóðavettvang, sem við höfum aðgang að, til að vinna að sem mestu frelsi í viðskiptum með sjávarfang. Þess vegna er rétt að hamra í Norðurlandaráði og Fríverzlunarsamtökunum á Svíum fyrir andstöðu þeirra, svo sem raunar hefur verið gert.

Þótt Fríverzlunarsamtökin séu komin á hrörnunaraldur, er mikilvægt, að þau geri frjálsa fiskverzlun að stefnumáli, því að slíkar yfirlýsingar hafa töluvert fordæmisgildi. Reynslan sýnir, að unnt er að beita þeim í viðræðum við aðra, til dæmis Evrópubandalagið.

Samningur okkar við bandalagið og tilheyrandi bókanir hafa reynzt okkur bærilega, þótt við viljum gjarna aukið svigrúm fyrir saltfisk. Við eigum að leggja höfuðáherzlu á, að ekki sé hróflað við þessari hefð, nema til að draga úr hindrunum í vegi fiskverzlunar.

Sem smáþjóð í heimsins ólgusjó er heppilegast fyrir okkur að bindast sem minnst samtökum, sem krefjast afsals á hluta fullveldis, svo sem Evrópubandalagið gerir. Okkur mun ganga betur sem fátækum herrum í eigin landi en sem ríkum þrælum útlendra embættismanna.

Til þess að sigla slíkan sjálfstæðissjó, þurfum við að læra af öðrum smáþjóðum, sem hafa snúið smæðinni sér í hag. Við þurfum til dæmis að skapa hér fríhöfn fyrir vörur og þjónustu, einkum fjármagnsflutninga. Og við þurfum að gera frímerkjaútgáfu að gróðalind.

Svisslendingar og Luxemborgarar hafa sýnt okkur, að unnt er að hafa góðar tekjur af fjármagnsflutningum, en þá þurfum við að hleypa inn erlendum bönkum og sjóðum. San Marinómenn og Lichtensteinar hafa sýnt okkur, að unnt er að gera póstþjónustu að gullnámu.

Ef þróunin þvingar okkur til aðildar að Evrópubandalaginu, þurfum við ekki að örvænta, því að öðrum smáþjóðum hefur vegnað vel í fangi þess. Við getum til dæmis komið í veg fyrir það, sem margir óttast, að útlendingar gleypi gullkistuna okkar, sjávarútveginn.

Við sláum bara þjóðareign á fiskimiðin, hefjum uppboð á veiðileyfum og tryggjum okkur gegn þeim, er telja sér trú um, að þeir geti keppt við okkur í fiskveiðum.

Jónas Kristjánsson

DV

Við heiðrum skálkinn

Greinar

Við höfum ekki sendiherra í lýðræðisríkinu Japan, þótt það sé okkur mikilvægur og vaxandi markaður, sem eykur fjölbreytni útflutningsmöguleika okkar og gerir okkur minna háð tollahækkunum og öðrum viðskiptaþvingunum í Bandaríkjunum og Evrópubandalaginu.

Nýútkomin utanríkisskýrsla ríkisstjórnarinnar vekur umhugsun um, að stjórnmálasamband Íslands við önnur ríki er tilviljunum háð. Sambönd af því tagi ættu að eiga sér stoð í stjórnmálastöðu okkar og viðskiptahagsmunum og ættu að byggja markvisst á slíkri stoð.

Athyglisvert er, hve víða hefur tilefnislítið verið komið á fót stjórnmálasambandi, sem kostar fé, þótt enginn sendiherra sé á staðnum. Hrikalegur er hinn hefðbundni ferða- og veizlukostnaður í tengslum við afhendingu trúnaðarbréfa á nokkurra ára fresti.

Við höfum til dæmis stjórnmálasamband við Mongólíu, þótt við höfum hvorki átt pólitíska né viðskiptalega samleið með því ríki. Þetta samband kostar okkur dýrt ferðalag og mikinn veizlukostnað á nokkurra ára fresti, þegar skipt er um sendiherra á hefðbundinn hátt.

Miklu merkilegra er samband okkar við stjórnvöld, sem ekki mundu teljast húsum hæf á Vesturlöndum. Við höfum meðal annars stjórnmálasamband við Norður-Kóreu, þar sem við völd eru feðgar, er láta sendimenn sína stunda eiturlyfjasölu og morð í öðrum löndum.

Við höfum líka stjórnmálasamband við Kólumbíu, þar sem ríkjum ráða eiturlyfjasalar, er valda miklum hörmungum á Vesturlöndum. Hin formlega ríkisstjórn í Kólumbíu er valdalaus, enda eru menn þar myrtir átölulaust, ef þeir eru fyrir eiturlyfjasölunum.

Ekki er síður dapurlegt, að ríkisstjórn okkar heldur uppi stjórnmálasambandi við ógnarstjórn Pinochets í Chile. Um langt árabil hefur sú stjórn verið andstyggð góðra manna, á svipaðan hátt og herforingjastjórnir hafa yfirleitt verið í ríkjum Suður-Ameríku og víðar.

Sérkennilegt er samband okkar við stjórnvöld í Íran, sem eru til vandræða á öllum sviðum, svívirða mannréttindi heima fyrir, standa í styrjöld við nágranna, stuðla að mannránum og hatast við allt og alla á Vesturlöndum. Þetta samband jaðrar við sjálfspíslarstefnu.

Á listanum yfir sérstaka vini Íslands, sem kosta okkur stjórnmálasamband, eru stjórnvöld í Eþiópíu. Þau hafa hvað eftir annað framleitt í landi sínu hungursneyð af mannavöldum og hafa sýnt högum íbúanna fádæma fálæti, eins og kreddukommúnistar eru vanir.

Austurríkismenn hafa að undanförnu sætt óþægindum út af pólitískri samskiptafrystingu vegna Waldheims forseta. Þrýstingur af slíku tagi hefur áhrif. Því væri æskilegra að efla samstöðu um frystingu ýmissa glæpastjórna í Þriðja heiminum fremur en Austurríkis.

Erfitt er að draga mörkin, því að meirihluti ríkisstjórna á jörðinni er tæplega húsum hæfur. Í Mexíkó hefur glæpaflokkur verið við völd áratugum saman. Í Tanzaníu hefur ríkisstjórninni tekizt, með hjálp Norðurlanda, að breyta ríkri nýlendu í örbirgðarbæli.

Miða má við Sovétríkin, sem við verzlum töluvert við. Ef stjórn ríkis er verri en í Sovétríkjunum og viðskiptahagsmunir léttvægari, ættum við að geta neitað okkur um stjórnmálasamband. Þess vegna gætum við haldið tengslum við ríki á borð við Indland og Kenya.

Fáránlegt er að eyða fé í að sýna virðingu ýmsum heimsfrægum glæpamönnum og illmennum með því að senda fulltrúa til að afhenda þeim trúnaðarbréf.

Jónas Kristjánsson

DV

Enginn roðnar ­ fáir mögla

Greinar

Upphrópanir samtaka neytenda og kaupmanna út af 190% verndartolli á frönskum kartöflum eru gott dæmi um eitt af lögmálum Parkinsons. Ef upphæðin, sem fer í súginn, er nógu lítil skilja menn hana og rífast um hana. Stóru summurnar eru hins vegar látnar í friði.

Herkostnaður neytenda við að vernda tvo innlenda framleiðendur franskra nemur um 100 milljónum króna á þessu ári. Það er samanlögð verðhækkun á öllum frönskum, flögum, skrúfum og öðru ruslfæði, svo og á allri tilbúinni kartöflustöppu, sem fólk snæðir.

Þetta eru 1.700 krónur á árinu á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Þessi skattur, sem ríkisstjórnin hefur lagt á herðar fólks, er nógu lítill til að menn skilji hann. Hann nemur þremur fimm hundruð króna seðlum og tveim tvö hundruð króna seðlum í veskinu.

Neytendasamtökin reyndu fyrr í vetur að vekja fólk til vitneskju um mun harðari ránsferð landbúnaðarins og stjórnarinnar, þegar framleiðsla eggja og kjúklinga var gerð að embættisstarfi á vegum ríkisins á sama hátt og verið hefur í hefðbundnum landbúnaði.

Vakningin mistókst. Neytendur héldu áfram að kaupa egg og kjúklinga eins og ekkert hefði gerzt. Enda hefur verið reiknað, að herkostnaður þeirra af innlendri einokun eggja- og kjúklingamarkaðarins nemur ekki hundrað milljónum, heldur heilum milljarði.

Ef heimilt væri að flytja inn þessar tvær vörutegundir, mundi fjögurra manna fjölskylda spara að meðaltali 17.000 krónur á árinu. Þetta virðist vera svo há upphæð, að fólk lætur sér hana í léttu rúmi liggja. Hún er hætt að vera heimilisfræði og orðin að hagfræði.

Neytendur og skattgreiðendur eru svo sammála um að láta kyrrt liggja, að umboðsmenn þeirra á Alþingi samþykki árlega að verja sex milljörðum króna til að halda úti framleiðslu hefðbundinnar búvöru. Þetta er svo há upphæð, að fólk tekur hana ekki alvarlega.

Ef ríkið hætti þessum peningalegu afskiptum af landbúnaði, mundi hver fjögurra manna fjölskylda spara að meðaltali 100.000 krónur á þessu ári. Það eru rúmlega 8.000 krónur í hverjum einasta mánuði. Lífskjör í landinu mundu batna langt umfram alla kjarasamninga.

Verkalýðsrekendur hafa jafnan látið sér þetta í léttu rúmi liggja. Formenn Alþýðusambands og Verkamannasambands hafa sjaldan harmað, að ríkið skuli ræna svona miklu af hverri fjölskyldu. Alþýðusambandið tók meira að segja lengi þátt í Sexmannanefnd.

Fiskverkunarkonur, sem nú fella samninga, er fela í sér 32.000 króna lágmarkslaun, mundu vafalaust geta notað 8.000 króna skattfrjálsan kjaraauka, er fengist með afnámi ríkisafskipta af fjármálum hins hefðbundna landbúnaðar. En þær segja ekki orð um ránið.

Íslenzkur landbúnaður kostar ekki bara 100.000.000 krónur á ári í kartöfluflögum, 1.000.000.000 krónur á ári í innflutningsbanni eggja og kjúklinga og 6.000.000.000 krónur á ári á fjárlögum ríkisins. Hann er þar fyrir utan vandamálaframleiðsla, sem daglega kemur á óvart.

Fyrir nokkrum misserum var bændum borgað fyrir að fara að rækta ref og kaupa fóður af stöðvum, sem ríkið kostaði. Nú á að fara að borga þeim fyrir að hætta að rækta ref og borga fóðurstöðvunum fyrir tilheyrandi viðskiptatap. Stjórnmálaöflin eru sammála um þetta.

Svo situr Búnaðarþing þessa daga á kostnað almennings og gerir daglega nýjar kröfur á hendur þjóðfélaginu. Enginn roðnar á þinginu og fáir mögla úti í bæ.

Jónas Kristjánsson

DV

Ráðalaus og rænulaus

Greinar

Fyrsta afleiðing vaxtalækkunar ríkisstjórnarinnar er, að spariskírteini og aðrir ríkispappírar rokseljast. Fólk flýtir sér að kaupa þessar skuldbindingar, meðan vextir þeirra eru enn háir. Vextir haldast nefnilega háir á bréfum, sem fólk er búið að afla sér fyrir lækkun.

Þetta þýðir, að staða ríkissjóðs batnar um stundarsakir og fjármálaráðherra verður afar kátur. Markmið ráðstafana stjórnarinnar er nefnilega ekki að leysa neinn vanda, heldur lina þjáningar líðandi stundar og vernda ímyndunina um, að eiturlyf lækni sjúkdóminn.

Timburmennirnir koma svo síðar, þegar stjórnin fremur hina tilefnislausu vaxtalækkun. Þá mun sala ríkispappíra stöðvast og fjármagnið flýja á önnur mið. Stjórnin mun reyna að elta það uppi með nýjum ráðstöfunum, því að sjúklingurinn þarf sífellt nýjar sprautur.

Flest bendir til, að ríkisstjórnin geti ekki hætt eltingaleiknum, fyrr en hún er búin að þvinga fólk til að kaupa frystikistur og annað slíkt fyrir peningana, í stað þess að leggja þá fyrir og magna þar með þjóðarauð. Vaxtalækkunin er því gott dæmi um afar skaðlega ráðstöfun.

Gengisskráning stjórnarinnar stuðlar að harmleiknum. Eftir 6% lækkun er gengi krónunnar allt of hátt skráð, svo að frystikistur og aðrar innfluttar eyðsluvörur verða áfram miklu ódýrari en þær væru við heilbrigðar aðstæður. Þetta eflir eyðslu og minnkar sparnað.

Eftir ráðstafanir ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir yfir tíu milljarða halla á viðskiptum Íslands við um heiminn. Engin hagtala sýnir betur en sú, hvílík reginvitleysa felst í að reyna að halda með handafli óeðlilega lágum vöxtum og óeðlilega háu krónugengi.

Niðurskurður ríkisútgjalda um 300 milljónir króna er kák eitt, svo sem sést af samanburðinum við 260 milljónirnar, sem ríkisstjórnin vill, að sveitarfélögin í landinu skeri niður. Það er sama gamla sagan, að ríkið gerir miklu meiri kröfur til allra annarra en sjálfs sín.

Oft hafa íslenzkar ríkisstjórnir lent í erfiðleikum við að vernda ímyndanir, en sjaldan hefur blekkingin verið jafn eindregin og einmitt núna. Margar ríkisstjórnir hafa verið ráðafáar og rænulitlar, en þessi virðist komast þeirra næst því að vera bæði ráðalaus og rænulaus.

Meðan ríkisbú og þjóðarbú eru á samfelldum fíknisprautum ríkisstjórnarinnar, eru ráðherrar í einleik, alveg eins og hver stund sé hin síðasta þeirra í starfi. Landbúnaðarráðherra skellir 190% jöfnunargjaldi á franskar kartöflur til að hefna sín á fjármálaráðherra.

Ekki er minni einleikur húsnæðisráðherra, sem leggur fram hvert lagafrumvarpið á fætur öðru, meira eða minna án samráðs við aðra. Frumvörp þessi vernda ímyndunina um, að eitthvað sé verið að gera til að fjármagna íbúðir landsmanna, nú síðast með kaupleigu.

Á sama tíma og reynt er að fá fólk til að ímynda sér, að pappírar á borð við kaupleigufrumvörp útvegi lánsfé, sem ekki er til, er ríkisstjórnin beinlínis að skera niður peningana, sem renna til íbúðalánakerfisins. Þriðjungur alls niðurskurðarins er á því sviði einu.

Gott væri, ef sjónhverfingarnar væru boðberi afsagnar ríkisstjórnarinnar. Sjaldan hefur verið meiri þörf á, að ríkisstjórn taki afleiðingum eigin getuleysis. Sjaldgæft er, að ríkisstjórn þurfi að láta ráðstafanir koma linnulaust á hæla ráðstafana til að vernda ímyndanir.

Því miður bendir ekkert til, að stjórnin fari frá. Hún er svo ráðalaus og rænulaus, að hún trúir enn á kraftaverk í eiturlyfjasprautum, svokölluðum ráðstöfunum.

Jónas Kristjánsson

DV

Milljón króna menn

Greinar

Þegar Verkamannasambandið semur um 35.000 króna lágmarkslaun, berast fréttir af ágreiningi æðstu manna Sambands íslenzkra samvinnufélaga um túlkun á forstjórasamningi, þar sem milljónir ber á milli. Þetta eykur tal um eðlilegt og óeðlilegt tekjubil í landinu.

Samanburður af þessu tagi er ýmsum annmörkum háður, ekki sízt þegar hærri launin eru í raun hluti af tekjubili í öðru þjóðfélagi. Í Bandaríkjunum hefur jafnan tíðkazt mikið bil í lífskjörum fólks, en hér hefur lengst af verið státað af tiltölulega miklum tekjujöfnuði.

Ekki virðist óeðlilegt, að forstjórar íslenzkra fyrirtækja í Bandaríkjunum hafi kjör, sem dragi dám af kjörum starfsbræðra í þarlendum fyrirtækjum, sem hafa svipaðan arð og íslenzku fyrirtækin. Hægt er að ímynda sér, að forstjórarnir vinni fyrir slíkum kjörum.

Léttara er að gagnrýna háar tekjur forstjóra ýmissa fyrirtækja hér heima, þar sem yfirleitt er ekki þvílík arðsemi, sem algeng er vestan hafs. Í sumum tilvikum virðist markmið íslenzkra fyrirtækja fremur vera að framfleyta forstjórum en magna arð og þjóðararð.

Hafa verður í huga, að góð lífskjör eins eru ekki endilega eða oftast fengin á kostnað lífskjara annars. Þess er krafizt af stjórnendum, að þeir búi til verðmæti, sem ekki voru til, finni til dæmis leiðir til að framleiða eða selja vöru eða þjónustu mun ódýrar en áður var gert.

Ef lögð eru saman einstök dæmi um lífskjör, sem að almannaáliti eru óeðlilega góð, er ólíklegt, að heildarmismunurinn verði þvílíkur, að hann skipti umtalsverðu máli í heildarrekstri þjóðfélagsins, ekki sízt þar sem lífskjör almennings eru meðal hinna beztu í heimi.

Málið verður alvarlegra, þegar það er skoðað í samhengi við einstæðu mæðurnar og aðra, sem hafa 35.000 krónur á mánuði. Í slíkum lágtekjum, jafnvel þótt umsamdar séu, felst þjóðfélagslegt vandamál, jafnvel þótt segja megi, að sum störf séu ekki meiri peninga virði.

Til dæmis er örugglega ekki 35.000 króna virði að prjóna trefla handa Sovétmönnum. En það er ekki prjónakonum að kenna, heldur stjórnvöldum, sem gera margvíslegar tilraunir til að halda úti arðlausri iðju, jafnvel heilum atvinnuvegum, svo sem landbúnaði.

Væru þjóðminjar af þessu tagi lagðar af, yrðu prjónakonur og bændur af tekjum. Sem betur fer er nóg af arðbærum verkefnum í þjóðfélaginu, eins og atvinnuauglýsingar í dagblöðum sýna. Við höfum verk að vinna að þjálfa bændur og marga aðra til arðbærra starfa.

Eitt veigamesta verkefni stjórnmálanna ætti að vera fólgið í að leggja niður hindranir í vegi atvinnuþróunar úr arðlitlum fortíðargreinum í arðmiklar framtíðargreinar og að bjóða fólki margvíslega endurmenntun til að auðvelda því breytinguna og hraða henni.

Aldrei verður unnt að lögbinda ákveðið hámarksbil launa í þjóðfélaginu. Veruleikinn skýtur sér alltaf undan stjórnmálamönnum og embættismönnum, sem reyna að skipuleggja hann. Hins vegar þarf að vera umræða um bilið, svo að um það sé eins konar þjóðarsátt.

Fullyrða má, að Íslendingar séu svo jafnréttissinnaðir, að þeir telji launabil frá 35.000 krónum upp í milljón krónur á mánuði vera ósiðlegt. Ekki er fráleitt, að óformlegt samkomulag geti verið um, að siðlegt sé, að þetta bil sé frá 50.000 krónum upp í 250.000 krónur.

Neðri kantinum má lyfta með breytingu á atvinnuháttum. Um efri kantinn er minna hægt að segja, þótt ótrúlegt sé, að margir geti hér verið milljón króna menn.

Jónas Kristjánsson

DV

Orðaslæður gefast illa

Greinar

Rétt eins og ríkisstjórnin mun snarlega lækka hina formlegu skráningu á gengi krónunnar, þótt hún haldi öðru fram, er hún einnig að hækka raunvextina, þótt hún þykist vera að gera annað. Hvort tveggja fer eftir blekkingarhefð, sem hér er talin til stjórnvizku.

Í sjónhverfingum af þessu tagi er jafnan talið brýnt að nefna hlutina aldrei réttum nöfnum. Nýjasta vaxtahækkunin heitir til dæmis lántökuskattur. Ríkisstjórnin er að undirbúa slíkan skatt á erlend lán til að gera vexti þeirra jafnháa hinum háu vöxtum af innlendum lánum.

Með gjaldinu er girt fyrir, að lántakendur geti vikið sér undan háum vöxtum í landinu með því að nýta sér lægri vexti í útlöndum. Þetta jafngildir hækkun heildarvaxta lántakenda um nokkur hundruð milljónir króna á ári, hugsanlega nokkuð yfir heilan milljarð króna.

Um leið nælir ríkið sér í sömu peningaupphæð án þess að kalla það nýja skattheimtu. Ríkið eykur veltu sína á einfaldan hátt, um leið og það hækkar heildarupphæð þeirra vaxta, sem greiddir eru í landinu. Svona vinnubrögð þykja afar sniðug í stjórnmálunum.

Sennilega er þessi vaxtahækkun og þessi skattahækkun gagnleg ráðstöfun, alveg eins og gengislækkunin er gagnleg. Hins vegar má efast um, að nauðsynlegt sé að fela slíkar ráðstafanir undir fölskum nöfnum, þegar málsaðilar og almenningur vita í rauninni betur.

Seðlabankinn hefur verið einna duglegastur opinberra stofnana við að slá ryki í augu fólks. Hann fann á sínum tíma upp á að nota orðið gengisbreytingu yfir gengislækkun. Það er samkvæmt reglunni, að orð eigi að gefa sem minnstar upplýsingar um innihaldið.

Orðið gengisbreyting er lævísara en fræg orð stjórnmálamanns um eina gengislækkunina, að hún væri ekki gengislækkun, heldur hratt gengissig í einu stökki. Seðlabankinn var þó snjallastur í orðaslæðum, þegar hann tók upp á að nota orðið frystingu um sparifé.

Orðið frysting gaf í skyn, að peningar væru læstir inni í Seðlabanka til að minnka verðbólgu. Í rauninni voru þessir peningar teknir af hinum tiltölulega heiðarlega lánavettvangi bankanna og notaðir í ósæmileg gæluverkefni stjórnvalda, með milligöngu Seðlabanka.

Einnig hafa fastmótaðar klisjur, sem eru endurteknar í síbylju, öðlast sess sem mikilvægur þáttur í að þyrla upp ryki til að hylja raunveruleikann. Ein klisjan, sem heyrist daglega um þessar mundir, er setningin: “Gengislækkun leysir ein út af fyrir sig engan vanda”.

Þessi klisja hefur til dæmis ruglað ýmsa frystihúsamenn svo í ríminu, að þeir telja brýnna en gengislækkun að fá aðgerðir stjórnvalda til að koma í veg fyrir, að fólk fái gott kaup í þjónustu á Reykjavíkursvæðinu, svo að það hlaupi ekki frá færiböndum fiskvinnslunnar.

Með alls konar rugli af þessu tagi er reynt að viðhalda þeirri blekkingu, að stjórnvöld geti leyft eða bannað efnahagslögmál, sem minna á náttúrulögmál. Tilraunir til slíks hafa alltaf skaðað þjóðarhag og munu halda áfram að gera það. Þær skaða þjóðarhag núna.

Skyld þessu er hefðin að framleiða pappír, þegar peningar eru ekki til. Löngum hefur til dæmis verið reynt að leysa húsnæðisskortinn með nýjum lögum og reglum um húsnæðislán, verkamannabústaði og nú síðast kaupleigu, eins og þannig sé unnt að búa til fé úr engu.

Auðveldara væri að stjórna landinu til lengdar, ef ráðmenn vildu hverju sinni taka á sig óþægindin af að neita sér um að bregða slæðu yfir raunveruleikann.

Jónas Kristjánsson

DV

Fleira er dýrt en feitt kjöt

Greinar

Þegar nýir menn koma til skjalanna í áróðursstofnunum landbúnaðar svo sem á tíu ára fresti, finnst þeim snjallt til varnar að benda á, að fleira sé dýrt en feitt kjöt, til dæmis Alþýðublaðið, ef verð á grammi af því sé borið saman við verð á grammi af útlendu dagblaði.

Þessi sjaldséði samanburður er kærkominn, því að hann kemst nær kjarnanum en flest annað, sem frá samtökum landbúnaðarins kemur. Samanburðurinn leiðir nefnilega athyglina að þeirri hlið landbúnaðarvandans, sem sjaldan er skoðuð, innflutningsbanninu.

Við höfum leyfi til að kaupa hvaða útlend dagblöð sem er og án þess að þau kaup séu tolluð eða sköttuð sérstaklega. Við getum, ef við viljum, tekið ódýrt gramm af Politiken eða New York Times fram yfir dýrt gramm af Alþýðublaðinu, nákvæmlega eins og okkur þóknast.

Ef eitthvað selzt af Alþýðublaðinu, sem einn áróðursfulltrúa landbúnaðarins telur mjög dýrt, stafar það væntanlega af, að blaðið þjónar einhverjum sérstökum þörfum kaupandans. Hann getur valið milli þess og margra annarra innlendra og útlendra dagblaða.

Þetta er svipað því, að neytendur gætu tekið rosalega dýrt íslenzkt smjör fram yfir tíu króna smjör frá Bandaríkjunum eða Evrópubandalaginu, af því að þeir sjálfir teldu það henta sér, en ekki af því að landeigendur hafi fengið stjórnvöld til að banna honum útlenda smjörið.

Innflutningsbannið er einmitt versti þáttur landbúnaðarstefnu stjórnmálaflokkanna og meirihluta þjóðarinnar. Það kemur í veg fyrir, að neytendur geti magnað kaupmátt sinn með því að velja frá útlöndum ódýrar afurðir, sem mundu einmitt henta láglaunafólki.

Hitt er líka alvarlegt, en fær þó aðeins önnur skammarverðlaun, að ríkið skuli borga sex milljarða árlega til að beina neyzlunni frá ódýrum matvælum til hinna dýru afurða landbúnaðarins. Það er hliðstætt þeim milljónum, sem ríkið ver til að greiða niður Alþýðublaðið.

Heppilegast væri tollfrjálst innflutningsfrelsi, samfara afnámi fjárhagslegra afskipta ríkisins, hvort sem er af Alþýðublaði eða smjörstykki. Þá þarf ekki lengur að ræða, hvað fólk vill eða hvað á að leyfa því, heldur fær það sjálft að ákveða, hvaða vöru það notar.

DV er ekki að væla um, að markaður sé lítill hjá 250.000 manna þjóð og að erfitt sé að halda úti íslenzkri tungu. Blaðið biður hvorki um ríkisstyrki né innflutningsbann dagblaða. Eins og aðrir seljendur telur blaðið eðlilegt, að kaupendur ráði, hvort blaðið sé gefið út.

Sömu reisn á íslenzki landbúnaðurinn að hafa. Hann á að hafna innflutningsbanni og ríkisstyrkjum og láta reyna á, hve mikið neytendur vilja kaupa af svokölluðu fjallalambi og á hvaða verði. Í ljós kann að koma, að sumir séu tilbúnir að greiða margfalt verð fyrir það.

Íslendingar eiga að hafa borgaralegan rétt til að velja milli styrkjalauss Alþýðublaðs og ótollaðs Politiken. Og þeir eiga líka að hafa borgarlegan rétt til að velja milli styrkjalauss fjallalambs annars vegar og hvers konar hliðstæðrar, ótollaðrar vöru frá útlöndum hins vegar.

Þá fyrst hefðu áróðursstofnanir landbúnaðarins siðferðilegan rétt á að birta landslýð upplýsingar um, hversu miklu ódýrara sé að kaupa helgarútgáfu New York Times en Alþýðublaðið, alveg eins og blöðin hafa siðferðilegan rétt á að birta slíkt um búvöruna.

Án banna og millifærslna á fólk rétt á að fá að velja sér vöru, hvort sem það er innlent eða útlent dagblað, innlend eða útlend afurð landbúnaðar. Það er kjarninn.

Jónas Kristjánsson

DV

Tölva er þjónn en ekki guð

Greinar

Tölvur eiga að vera þjónar manna, en ekki húsbændur og allra sízt guðir þeirra. Við neyðumst þó í mörgum tilvikum að líta á tölvuna sem eins konar guð, sem ekki náist samband við, nema fyrir milligöngu klerkastéttar sérfræðinga í tölvumálum.

Einkatölvur eru að byrja að rjúfa hin óviðkunnanlegu trúarbrögð, þótt þjóðfélagið sé enn fullt af gufuvélum gamla tímans, sem valda sífelldum vandræðum og embættisverkum klerkastéttar í tölvuvæddum stórfyrirtækjum, svo sem í Reiknistofnun bankanna.

Sá tími er liðinn, að niðri í kjallara muldri eins konar guð, sem stjórni mörgum tugum útstöðva úti um allt fyrirtæki eða allt land. Einkatölvur eru orðnar nógu öflugar til að leysa gufuvélar af hólmi og geta með sameiningu samhæft þessa nýju krafta.

Einkatölvunum fylgir herskari hugbúnaðarfyrirtækja, sem veita okkur miklu meira og sveigjanlegra úrval verkfæra en gömlu gufuvélarnar í tölvustétt hafa getað veitt. Mun líklegra er en áður, að tölvunotendur geti fundið sér hugbúnað við sérhvert hæfi.

Íslendingar hafa tekið einkatölvum tveim höndum, en hafa þær þó í mörgum tilvikum aðeins til skrauts á skrifborðum sínum. Það stafar sumpart af, að tölvurnar hafa sjaldnast verið hannaðar sem þjónar, ekki verið nógu strangt miðaðar við þarfir notenda.

Við höfum mest keypt tölvur með svokölluðu Dos-stýrikerfi. Það hefur lengst af krafizt skipana í mynd ásláttar stafaruna á lyklaborð. Það hefur haft litla grafíska hæfni. Það býður agaleysi í gerð hugbúnaðar, svo að við þurfum að eyða tíma í að læra ný forrit.

Dosinn, stundum kallaður PC, er úreltur. IBM er að yfirgefa hann og fara í humátt á eftir Macintosh yfir í eigið OS-2 kerfi, sem erfitt verður að stæla. Meðan sú Maginot-lína er í smíðum til varnar gegn Macintosh, er þriðji staðallinn í uppsiglingu, svokallaður Unix.

Framtíð einkatölva verður á þessum þremur brautum, sem munu nálgast hver aðra, þegar fram líða stundir. Í þeim heimi verður lítið rúm fyrir Dosinn, sem Íslendingar hafa gert að hálfgildings staðli, þótt hann sé beinlínis fjandsamlegur notendum.

Við þurfum hins vegar tölvur, er þjóna okkur. Við þurfum tölvur og hugbúnað, sem ekki kostar okkur tugþúsunda króna námskeið að kynnast. Við þurfum tæki, er spara okkur að miklu leyti tölvufræðsluæðið, sem heltekur veski okkar um þessar mundir.

Við þurfum tölvur, er ekki nýtast bara í reikningi og vélritun, heldur eru jafnvígar á texta og myndir; tölvur sem kunna að setja fram gögn sín á grafískan og myndrænan hátt, sem fólk skilur, ­ og á fagran og myndrænan hátt, þar á meðal á góðri íslenzkri tungu.

Við þurfum tölvur, er ekki krefjast flettinga í handbókum eða minnis á bókstafi og bókstafarunur, heldur gera okkur kleift að benda á þá þjónustu, sem við viljum fá og leiða okkur sjálfkrafa um hina víðfeðmu akra, sem áður töldust myrkviðir tölvuheima.

Við þurfum tölvur, er gera okkur kleift að spila af fingrum fram milli alls konar sérhæfðra forrita og gera okkur kleift að nota óundirbúið áður ókannaðan hugbúnað. Við þurfum og við fáum tölvur, sem ekki eru handa tölvufræðingum, heldur handa notendum.

Gufuvélarnar gömlu munu áfram duga sæmilega til færibandavinnu, en eru engir guðir og munu senn víkja fyrir einkatölvum, sem verða gerðar fyrir fólk.

Jónas Kristjánsson

DV

Íslandsklukka í útlegð

Greinar

Tveir stjórnmálamenn boðuðu hér í blaðinu í fyrradag, að ríkisvaldið mundi sitja með hendur í vösum og ekkert hafast að til að ná til landsins átta alda gamalli kirkjuklukku, sem hefur verið í útlegð í London. Vildu þeir láta þjóðina spreyta sig á 650.000 króna smásöfnun.

Rétt er, að upphæðin ætti að vera lítil í augum þjóðar, sem hefur náð úr útlegð síðasta geirfuglinum og Skarðsbók. Reynir nú á, hvort sögutilfinning okkar nær til Íslandsklukku þessarar, sem er sennilega merkasti forngripurinn, sem nú er unnt að endurheimta að utan.

Athyglisverður tvískinnungur kom þó fram í ummælum stjórnmálamannanna. Menntaráðherra afsakaði aðgerðaleysi sitt með, að “menntamálaráðuneytið hefur … ekki úr digrum sjóðum að spila”. Ráðuneyti hans veltir rúmlega tíu milljörðum króna árlega.

Sami ráðherra sagðist um daginn “blása á” þær tæpu hundrað milljónir, sem einhverjir kvörtuðu um, að væri kostnaður umfram áætlun við byggingu Listasafns ríkisins. Var í því máli þó rætt um hugsanlegan skort á ráðdeild eða nákvæmni í meðferð opinberra peninga.

Af þessu mætti ætla, að útgjöld til einstakra þátta menntamála yrðu annaðhvort að fara yfir einhver peningamörk eða út í nægilegt sukk til að hrífa menntaráðherrann. Lítil og

sukklaus fjárhæð til að kaupa litla og gamla klukku kveikir ekki hugsjónaeld ráðherrans. Formaður fjárveitinganefndar afsakaði sig með, að nefndin “hefði ekki heimild til að úthluta fé í kaup sem þessi”. Það er út af fyrir sig rétt, en virðist bara gilda um klukkuna, en ekki þegar um er að ræða alvörumál, sem formaðurinn og aðrir leiðtogar telja brýn.

Aukafjárveitingar skipta tugum á hverju ári og nema yfirleitt margföldu klukkuverði. Sú notkun peninga, sem ekki eru til, er, eins og annarra peninga ríkisins, á vegum Alþingis og fjárveitinganefndar þess. Það er Alþingi, sem setur lög og aukalög, en ekki ríkisstjórn.

Sumar þjóðminjar njóta þegjandi samkomulags ríkisstjórnar og fjárveitingavalds um meðferð brýnna mála. Mörgum sinnum á hverju ári þarf utan fjárlaga að verja hundraðföldum klukkuverðum til að tryggja rekstur dýrustu þjóðminjanna, hins hefðbundna landbúnaðar.

Ríkisstjórnin, Alþingi og fjárveitinganefnd þess ákveða hverju sinni, hvenær beita skuli afbrigðum eða láta þau viðgangast. Framangreindar tilvitnanir gætu bent til, að stjórnmálamennirnir tveir ætluðu að standa fyrir nýrri og siðlegri meðferð á fé skattborgaranna.

Ef hins vegar kemur í ljós, að áfram verður beitt aukafjárveitingum, verður ekki komizt hjá að álykta, að stjórnmálamennina tvo skorti áhuga á að stuðla að heimkomu hinnar átta alda gömlu Íslandsklukku. Yfirlýsingar þeirra um annað reynast þá vera hræsni.

Auðvitað verður þjóðin að grípa sjálf í taumana og ná klukku Tröllatungukirkju úr útlegð. Þessi klukka er frá miðri tólftu öld og var hluti af lífi og dauða þjóðarinnar í hálfa áttundu öld, unz hún lenti með öðrum kirkjumunum á uppboði í byrjun þessarar aldar.

Ef þjóðin gefur sér klukkuna, er það góð áminning til landsfeðra um, að fólk lítur niður á skeytingarleysi þeirra um íslenzkar minjar, bæði þjóðminjar og náttúruminjar, sem endurspeglast í lélegum og engum aðbúnaði að söfnum, sem ætlað er að hýsa þessar minjar.

Skorað hefur verið á þjóðina að leysa kirkjuklukkuna út til Íslands fyrir 650.000 krónur. Sómi okkar býður, að við vinnum það til skilnings á eigin þjóðarsögu.

Jónas Kristjánsson

DV

Öfund fylgir lítil reisn

Greinar

Ríkisstjórnin hefði betur tekið boði Sovétríkjanna til forseta Íslands um að koma í opinbera heimsókn um næstu mánaðamót. Rökin gegn tímasetningu boðsins eru að verulegu leyti fyrirsláttur, því að með sæmilegum vilja hefði verið hægt að þola þennan nauma tíma.

Hið eina óþægilega við tímann er, að hann rekst á forsætis- og utanríkisráðherrafund ríkja Atlantshafsbandalagsins. Utanríkisráðherra hefði því líklega orðið að hraða sér vestur í miðri forsetaheimsókn og annar ráðherra orðið að taka við í föruneyti forsetans.

Hugsanlegt er, að skörun forsetaheimsóknar og Natófundar hefði getað orðið nytsamleg. Til stóð, að Gorbatsjov Sovétleiðtogi hitti forseta Íslands og utanríkisráðherra 29. febrúar. Það hefði verið hentugt tækifæri til að biðja Steingrím fyrir skilaboð til vesturs.

Heimsfriðurinn stendur að vísu ekki og fellur með einum skilaboðum frá Sovétríkjunum til ríkja Atlantshafsbandalagsins. Hins vegar er mikilvægt, að næg tækifæri séu til slíkra skilaboða, ekki sízt þegar heimsveldin stíga sátta- og slökunardans, svo sem nú er.

Eðlilegt er, að fólki detti í hug öfund, þegar forsætisráðherra og ráðherrar Alþýðuflokksins beita fyrirsláttarrökum til að koma í veg fyrir, að utanríkisráðherra geti baðað sig í sviðsljósi ráðherra Atlantshafsbandalagsins, beint ofan í heimsókn til Gorbatsjovs í Kreml.

Samkvæmt öfundarkenningunni hafa hinir heimasitjandi ráðherrar líka áhyggjur af, að ferðin til Kremlar mundi verða notuð til að lýsa yfir samkomulagi um verð á ullarvörum og einhverju slíku, sem hefur lengi verið alfa og ómega samskipta okkar við Sovétríkin.

Það styður kenninguna, að Steingrímur Hermannsson hefur í vaxandi mæli leikið einleik í ríkisstjórninni sem eins konar landsfaðir í sumarfríi, án þátttöku og ábyrgðar í umdeildum aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Margir telja hann ekki eiga skilið meira sólskin.

Ljóst mátti vera, að ákvörðun um að meina utanríkisráðherra að fara til Kremlar mundi magna grunsemdir um, að öfundin og reiðin í garð Steingríms væri á svo háu stigi, að ekki mætti einu sinni fá út á ferðalagið frambærilegt ullarverð og góða kveðju til Nató.

Ennfremur mátti ljóst vera, að höfnun boðs með þessari tímasetningu mundi draga embætti forseta Íslands inn í ágreining, sem fólk úti í bæ kallar ráðherrapóker. Með hliðsjón af þessu öllu hefði verið skynsamlegt að velja ekki fyrirsláttarrökin gegn Kremlarferðinni.

Sem dæmi um fyrirsláttareðli rakanna gegn ferðinni er, að forsætisráðherra og Morgunblaðið leggja feiknarlega áherzlu á, að utanríkisráðherra hafi lagt fram bókun sína gegn niðurstöðu ríkisstjórnarinnar í málinu eftir ráðherrafundinn, en ekki á honum sjálfum.

Utanríkisráðherra hefur svarað í sömu mynt og sagzt hafa lagt fram bókunina á fundinum. Ekki skiptir miklu, nema ef til vill lögfræðilega, hvað rétt er í málinu. Ljóst er hins vegar, að verið er að gera hliðaratriði, lögfræðilegan orðhengilshátt, að meginatriði.

Ólíklegt er, að forsætisráðherra og ráðherrar Alþýðuflokksins auki dræmar vinsældir sínar með að skaða hagsmuni Íslands og friðsamlegrar sambúðar í heiminum og draga forsetaembættið í pókerinn. Ef tugta þarf utanríkisráðherra, á að velja hentugra tækifæri.

Enn einu sinni hefur atvik orðið til að efla þá skoðun, að ráðherrarnir séu margir hverjir of litlir karlar og að ríkisstjórnina í heild skorti þá reisn, sem þarf.

Jónas Kristjánsson

DV

Þeir vilja skipuleggja plastið

Greinar

Erlendis auglýsa margar verzlanir, að þær gefi staðgreiðsluafslátt, sé greitt í reiðufé. Önnur fyrirtæki auglýsa, að krítarkortahafar fái staðgreiðsluafslátt. Kaupmenn ráða, hvorum kostinum þeir stuðla að og viðskiptamenn ráða, hvar þeir verzla.

Nokkuð fer eftir tegundum viðskipta, hver er staða greiðslukorta í útlöndum. Bandarískir kaupmenn, sem sérhæfa sig í ódýrum afsláttarvörum, kjósa sumir hverjir peningaseðla og hækka vöruverðið, þegar greitt er með plasti, ef það er þá hægt.

Ýmsir kæra sig ekki um, að nafn þeirra og númer tengist sumum tegundum viðskipta. Allir, sem stunda ljósfælin viðskipti, nota eingöngu peningaseðla, svo að forvitnir geti ekki síðar séð, hver greiddi hverjum hvenær hvaða fjárupphæð.

Þetta síðasta stuðlar svo aftur á móti að notkun krítarkorta, þegar trausts er krafist í viðskiptum, til dæmis þegar viðskiptamanni er trúað fyrir verðmæti bíls, sem tekinn er á leigu. Algengt er, að slíkir bílar fáist aðeins leigðir gegn framvísun plastkorts.

Þegar senda þarf vöru langar leiðir, til dæmis tímarit í áskrift, þykir mörgum seljendum töluvert hald í að fá senda undirritaða pöntun með skrásettu númeri greiðslukorts, jafnvel þótt ekki sé ástæða til að taka afrit af korti á hefðbundinn hátt.

Sameiginlegt með öllum þessum dæmum er, að seljandi og kaupandi ákveða, hvaða greiðsluháttur hentar þeim bezt. Enginn stóri bróðir ákveður fyrir þá, hvernig gera skuli, hvorki einokunarsamtök né ríkið sjálft. Slíkt er hins vegar gert hér á landi.

Fyrir helgina skrifuðu ferðaskrifstofurnar og krítarkortafyrirtækin á Íslandi undir samning um að láta kortafólk borga 5% meira en aðra. Þannig eru aðilarnir, sem einoka markaði ferða og korta, farnir að hafa með sér hættulegt samráð um verð.

Alvarlegri eru hugmyndir stjórnmálamanna og embættismanna í viðskiptaráðuneytinu um að skylda kaupmenn til að taka seðlaviðskipti fram yfir kortaviðskipti með því að þvinga þá til að veita sérstakan staðgreiðsluafslátt út á peningaseðla.

Hingað til hafa krítarkortin fengið að finna sér sess í þjóðfélaginu án mikilla afskipta ríkisins, alveg eins og verðbréfamarkaður hefur byrjað að dafna án þess að stjórnmálamenn og embættismenn hafi sér til máttar og dýrðar smíðað um hann lög og reglugerðir.

Það er hins vegar hluti af náttúru þessara valdastétta, einkum þegar þær koma saman í ráðuneytum, að telja sig vita betur en reynslan, hvernig skuli haga ýmsum samskiptum í þjóðfélaginu. Þess vegna er framleidd skæðadrífa af lögum og reglugerðum.

Stjórnmálamenn og embættismenn öðlast meiri völd við að skipuleggja þjóðfélagið sem mest. Embættismenn verða stjórar fjölmennra eftirlitsdeilda hins opinbera. Stjórnmálamenn kaupa sér atkvæði út á undanþágur og aðgang að ódýru lánsfé.

Með opinberum úrskurði um eins konar sektir fyrir notkun krítarkorta í staðgreiðsluviðskiptum er ríkið að leggja drög að útþenslu báknsins um eina stjórnardeild, sem fylgist með því, að kaupmenn og neytendur fari eftir óþörfum lögum og reglugerðum.

Embættis- og stjórnmálamenn eins og viðskiptaráðherra virðast ekki vilja sjá, að skipulag að ofan er yfirleitt óþarft og oft beinlínis skaðlegt.

Jónas Kristjánsson

DV

Embættispróf bænda

Greinar

Ekki er furða, þótt ríkisstjórnin og þingflokkar hennar séu þessa dagana í fullri alvöru að ræða frumvarp landbúnaðarráðherra um embættispróf fyrir bændur, enda mun lögverndun embættisheitis þeirra væntanlega fylgja í kjölfarið, eins og hjá kennurum í fyrrahaust.

Samanlagt velta bændur um tíunda hluta fjárlaga ríkisins. Það er næstum eins mikið fé og skólakerfið veltir. Eðlilegt er, að ríkisvaldið skipuleggi menntun og miðstýri stöðu þeirra eins og annarra embættismanna, sem fara þó með minni fjárfúlgur á vegum ríkisins.

Íslenzkur landbúnaður er ekki atvinnuvegur, heldur hluti ríkisgeirans, dæmigerð opinber starfsemi. Þess vegna er ekki eðlilegt, að bændur valsi um meira eða minna próflausir eins og hverjir aðrir iðnrekendur eða kaupsýslumenn, sem búa við sviptingar markaðsafla.

Einnig verður að hafa í huga, að mikilvægi og þyngd þessa hluta ríkisgeirans fer vaxandi með hverju árinu. Fyrir stuttu ákvað landbúnaðarráðherra að veita eggja- og kjúklingabændum opinber embætti eins og bændum í hinum hefðbundnu greinum kúa- og kindaumsýslu.

Svokölluð sexmannanefnd, sem hefur áratuga reynslu af að reikna laun embættismanna í hefðbundnum búgreinum, hefur nú tekið að sér að reikna laun eggja- og kjúklingabænda á sama hátt. Í því skyni verður almenningur að venju látinn taka upp budduna.

Senn líður að inngöngu refabænda í embættiskerfi ríkisins. Vegna misskilnings hafa þeir verið látnir keppa á erlendum markaði eins og um einhvern atvinnuveg væri að ræða. Að vísu hafa opinberir sjóðir borgað fjárfestinguna og ekki rukkað neinar afborganir.

Svo virðist sem hinir opinberu hafi aldrei reiknað með að fá neitt til baka af milljarðinum, sem þeir hafa sökkt í refina. Og nú gera þeir ráð fyrir að byrja að borga með rekstri refabúa og fóðurstöðva. Síðar má endanlega gera þessi störf að embættum hjá ríkinu.

Undanfarið hefur gætt vaxandi óánægju meðal embættismanna í landbúnaði út af of miklum fjölda í stéttinni. Sex milljarðarnir, sem ríkið ver til þessa geira hins opinbera, fara í of marga vasa, svo að flestir þeirra eru á of lágum launum eins og aðrir embættismenn.

Þegar embættispróf í landbúnaði leysa frjálsa aðgöngu af hólmi, hefur skipulag landbúnaðar nálgazt fullkomnun. Prófin draga úr líkum á, að ungir menn með nýjar hugmyndir fari að raska ró gömlu embættismannanna. Síðar má svo loka stéttinni alveg.

Sérstakur yfirdýralæknir er hafður til að verja innflutningsbann, sem verndar embættiskerfið í landbúnaði. Bannið dregur úr óæskilegum verðsamanburði, sem gæti komið illu af stað. Enn mikilvægara er, að það tryggir ákveðin lágmarksumsvif í þessum ríkisgeira.

Ríkið kaupir framleiðsluna fyrir hönd skattgreiðenda og niðurgreiðir hana til neytenda og útlendinga eða gefur hana rottunum, allt til að halda festu og öryggi í hinum virðulega embættisrekstri, sem ýmsir telja, að sé sjálfur hornsteinn menningar okkar og þjóðernis.

Ekki er amalegt að hugsa til, að handhafar íslenzkrar menningar og þjóðernis hafi framvegis skólapróf í skattabókhaldi og efnahagslegum fræðum, svo að við getum treyst, að jafnan hafi þeir þjóðarhag að æðstu hugsjón, svo sem allir sannir embættismenn hafa.

Á tíma þyngdarauka landbúnaðar er embættispróf bænda einmitt þáttur í, að þjóðin enduröðlist sem fyrst gullöldina 1602­1786 og kaupi ekki ólögmæt snæri.

Jónas Kristjánsson

DV

Hræsni á grafarbakka

Greinar

Hinir hefðbundnu stjórnmálaflokkar á Íslandi eru komnir á elliárin og eiga fyrir sér hægt andlát á næsta áratug. Þeir þjóna ekki þörfum kjósenda og eru ekki í stakk búnir til að taka upp slíka þjónustu í tæka tíð, áður en ný stjórnmálaöfl taka völdin í landinu.

Stjórnmálaflokkarnir eru þungar stofnanir með flóknum virðingarstigum og hagsmunatengslum. Valdastöðvar þeirra eru þéttskipaðar fólki, sem telur sig þurfa að vernda stöðu sína innan flokkanna, bæði hennar vegna og vegna áhrifa hennar úti í þjóðfélaginu.

Þótt Sjálfstæðisflokkurinn hafi sigið úr 40% flokki niður í 30% flokk, hafa margir áhrifamenn þar enn þann dag í dag minni áhyggjur af því heldur en hinu, hvort ýmsir fyrrverandi eða núverandi flokksfélagar eigi skilið að vera þar með í ráðum eða ekki.

Þeir, sem ríkjum ráða í stjórnmálaflokkum, hafa meiri hag af að sitja áfram efst á haugnum, þótt hann fari minnkandi, heldur en þeir hefðu af stækkandi haug, ef einhverjir aðrir en þeir tækju sér sæti efst á honum. Þetta er sjálft tregðulögmál stjórnmálaflokkanna.

Þróunin mun ekki stöðvast við, að Sjálfstæðisflokkur hefur sigið úr 40% í 30% fylgi, Framsóknarflokkur úr 25% í 20%, Alþýðubandalag úr 20% í 10% og Alþýðuflokkur úr 15% í 10% fylgi. Tímans tönn nagar áfram hægt og bítandi, en með afturkippum inn á milli.

Þegar skýringa er leitað á sókn Kvennalistans, ekki aðeins í atkvæði frá Alþýðubandalaginu, heldur upp á síðkastið í vaxandi mæli frá Sjálfstæðisflokknum, nægir ekki að vísa til stefnumála. Sífellda fylgisránið stafar ekki nema að hluta af aukinni félagshyggju þjóðarinnar.

Rangt væri einnig að telja fylgisvöxt Kvennalistans stafa af, að hann hafi horfið frá marxismanum, sem einkennir alla gömlu flokkana ­ mest Sjálfstæðisflokkinn ­ og felst í að telja hagkerfið vera grunn að öðrum kerfum þjóðfélagsins. Listinn líkist öðrum í þessu efni.

Miklu nær er að bera rísandi gengi Kvennalista saman við hnígandi gengi Borgaraflokks. Síðari flokkurinn er með hefðbundnu sniði og virðist, ef honum endist aldur til, ætla að efla þátt sinn í hinni hefðbundnu valdastreitu flokkanna, sem kjósendur eru einmitt að hafna.

Smám saman eru kjósendur að átta sig á, að hefðbundin stjórnmál á Íslandi byggjast á takmarkalítilli hræsni. Á vegum flokka eru samdar stefnuskrár, sem aldrei er reynt að framkvæma. Í þess stað fer orkan í stríð um peninga og völd, hagsmuni og fyrirgreiðslur.

Sumir flokkar þykjast til dæmis styðja skattgreiðendur og neytendur. Sömu flokkar taka virkan þátt í og hafa jafnvel forustu um að magna ofbeldið, sem þessir víðtæku hagsmunir þurfa að sæta af hálfu sérhagsmuna, er sitja að kjötkötlum í skjóli flokkanna.

Stækkandi hópur kjósenda hafnar stjórnmálaflokkum, sem eru á kafi í bankaráðum, bankastjóraráðningum, sjóðakerfum, arðsömum millifærslum, stórgjöfum af almannafé til gæludýra sinna og eflingu eigin miðstjórnarvalds til að geta millifært ennþá meira.

Ekki hefur enn komið í ljós, að Kvennalistinn taki þátt í hinu umfangsmikla sjónhverfingakerfi hræsninnar. Sumir telja, að hann muni smám saman gera það, þegar hann fái völd, því að allt vald spilli. Að minnsta kosti nýtur listinn þess nú, að vera fjarri fnyknum.

Hver sem framtíð Kvennalistans verður, er líklegt, að stjórnmálin erfi samtök, er hafna eins og hann þáttöku í bralli, sem kjósendur eru að byrja að skilja.

Jónas Kristjánsson

DV

Refirnir gerðir arðlausir

Greinar

Refaræktin ætti að vera okkur skólabókardæmi um margar af gildrunum, sem felast í byggðastefnu þjóðarinnar. Atvinnuvegur, sem ætti að vera arðbær og er það víða um lönd, hefur verið gerður að beiningamanni, er leitar nú á náðir skattgreiðenda til að verjast hruni.

Bændastjórar í Reykjavík hafa ýtt nærri tvö hundruð embættismönnum úr ríkisrekna landbúnaðinum og dubbað þá upp sem athafnamenn í áhættuiðnaði. Stjórarnir víkjast nú undan ábyrgðinni og segja, að bændum hafi ekki verið ýtt, heldur hafi þeir verið “hvattir”.

Hinir ógæfusömu embættismenn eru vanir hinu örugga lífi lágtekjumannsins, þar sem reikningsmenn bændastjóranna framleiða tölur um, hversu miklar tekjur kúa- og kindabændur “þurfa” hverju sinni. Síðan eru tekjur hefðbundinna bænda lagaðar að tekjuþörf þeirra.

Þetta veldur rosaverði á kjöti og mjólkurvörum. Það eru skattgreiðendur látnir greiða niður, svo þeir hafi sem neytendur efni á að kaupa mestan hluta afurðafjallsins, sem ríkið hefur ábyrgzt. Afgangurinn er sendur úr landi fyrir farmgjöldum eða brenndur á sorphaugum.

Framleiðendur kjöts og mjólkurafurða eru í slíku kerfi eins konar embættismenn, sem fá öruggar lágtekjur eftir þörfum. Þeim er svo skyndilega kastað út í raunverulega atvinnugrein, þar sem menn búa ekki við reiknuð kjör, heldur kaldranalegt markaðsverð.

Skinnamarkaðurinn er meira að segja svo frjáls, að þar duga hvorki persónuleg sambönd að íslenzkum fyrirgreiðsluhætti né sölutæknibrellur, sem við erum að reyna að læra af útlendingum. Skinnin eru einfaldlega seld á uppboði, þar sem hæst verð fæst fyrir mest gæði.

Stundum er hátt verð á þessum markaði og í annan tíma er það lágt. Þegar verðlagið lækkar, minnkar kjarkur framleiðenda og heildarframleiðslan minnkar. Þeir þrauka, sem minnstan tilkostnað hafa að baki hæsta verðinu, og græða síðan, þegar verð hækkar að nýju.

Kostnaður refaræktar hefði orðið Íslandi mjög í vil, ef iðnaðarleg hagkvæmnissjónarmið hefðu fengið að ráða ferðinni. Nytsamlegast hefði verið að þjappa búunum saman á tiltölulega fáa staði við sjávarsíðuna, þar sem mest fellur til af ódýru og hentugu refafóðri.

Byggðahugsjón bændastjóranna í Reykjavík réð því hins vegar, að á kostnað skattgreiðenda voru settar upp ellefu fóðurstöðvar víðs vegar um land og refabú stofnuð inn um alla dali. Fóðurframleiðslan verður því dýrari en ella og flutningskostnaðurinn miklu dýrari.

Sem gæludýr stjórnmálanna fékk refaræktin stofnkostnaðinn að mestu greiddan af almannafé. Það leiddi til offjárfestingar, sem er gamalkunnugt fyrirbæri í vinnslustöðvum búvöru og hefðbundnum landbúnaði. Afborganir af ódýrum lánum eru að sliga refabændur.

Ofan á óhóflegan fjárfestingar- og flutningskostnað bætist síðan herkostnaður óðagotsins. Á skömmum tíma hefur refafjölgunarþörfin þynnt stofninn, því að menn hafa ekki haft ráðrúm til að setja aðeins beztu dýrin á. Viðkoman er því minni en hjá erlendum keppinautum.

Allt væri þetta í hefðbundnu lagi, ef ríkið keypti skinnin á útreiknuðu tilkostnaðarverði fyrir fé skattborgara. En sérhvert þessara atriða gerir gæfumuninn, þegar uppboðsmarkaður ákveður óbeint, að finnski bóndinn græði, en hinn íslenzki fari á hausinn.

Nú sjá bændastjórar, að láglauna-embættismönnum gengur illa að leika hlutverk áhættu-iðnrekenda á markaðsvelli. Skattborgarar greiða hina síðbúnu uppgötvun.

Jónas Kristjánsson

DV