Author Archive

Hómilía bólgubankans

Greinar

Allt frá því er Seðlabankinn var töfraður upp úr skrifborðsskúffu í Landsbankanum fyrir þremur áratugum og unz hann er nú orðinn að svörtum steinkastala með 149 manns á launum, hefur hann átt mikinn þátt í að framleiða hina heimatilbúnu verðbólgu Íslands.

Seðlabankinn hefur gegnt þessu verðbólguhlutverki með ýmsum hætti, til dæmis með því að haga seglum eftir pólitískum vindum. Hann hefur alltaf þjónustað ríkisstjórnina, hver sem hún hefur verið, einkum með því að búa til handa henni seðla, sem ekki var til fyrir.

Óhófleg seðlaprentun Seðlabankans hefur stuðlað að verðbólgu. Hið sama er að segja um svokallaða frystingu hans á sparifé. Það var og er engin frysting, heldur upptaka peninga af lánamarkaði til notkunar í óarðbær eða arðfjandsamleg hugsjónalán á vegum stjórnvalda.

Í þessu skyni hefur Seðlabankinn verið laginn við að töfra fram þoku til að leyna ásetningi sínum og ríkisstjórnarinnar. Orðið “frysting” er frábært dæmi um þetta og minnir á orðaleiki Georges Orwells. Önnur orðaslæða var “gengisbreyting” yfir gengislækkun.

Sá orðaleikur Seðlabankans er frá tímum, er bankinn taldi sig þurfa að búa í haginn fyrir gengislækkanir. Nú er öldin önnur, því að við völd er fastgengisstjórn, sem bankinn telur sig þurfa að þjónusta. Orðið “gengisbreyting” er horfið og gamla orðið nothæft að nýju.

Áhugamenn um holtaþokuorðfæri ættu að kynna sér hómilíur þær, sem formaður bankastjórnar Seðlabankans hefur flutt andagtugum leiðtogum stjórnmála og fjármála á svokölluðum ársfundi bankans í þrjá áratugi. Sérstaklega er gaman að lesa þær allar í einni bunu.

Hómilíur þessar eru kennslubók í japli og jamli, en hafa þó grunntón, sem felst í að segja pakkinu, að vandamál þess komi ekki að ofan, heldur sé íslenzka þjóðin með þeim ósköpum gerð, að hún eyði um efni fram. Engin ráð séu við því nema prédikanir bankastjórans.

Seðlabankinn er ekki einn um ósvífna frávísun ábyrgðar af þessu tagi. Fyrr í þessari viku var haft eftir efnahagsráðunaut ríkisstjórnarinnar, að fastgengis stefna hennar væri komin á fínan grundvöll, af því að hún væri búin að koma á hallalausum rekstri ríkissjóðs.

Staðreyndin er hins vegar, að halli ríkisins er mikill og fer vaxandi, einkum á þeim sviðum, sem eru utan við svokallaðan A-hluta fjárlaga. Þessi mikli og vaxandi halli veldur því, að dæmi fastgengisstefnunnar gengur ekki upp og bakar þjóðinni gífurleg vandræði.

Fastgengisstefna ríkisstjórnar og Seðlabanka hefur magnað hungur þjóðarinnar í óeðlilega ódýrar vörur frá útlöndum og tilsvarandi skuldasöfnun. Það hungur slær þó ekki við hungri ríkisvaldsins, sem hefur að undanförnu gengið fram fyrir skjöldu við að slá erlend lán.

Athyglisvert er, að hinir bersyndugu, viðskiptaráðherrann og bankastjórinn, keppast um að kenna kauphöllum og kaupleigum um skuldasöfnunina. Hefur þó verið sýnt fram á, að lán þeirra eru skiptimynt í samanburði við fúlgurnar, sem kerfið sjálft hefur sníkt.

Í þessu sem öðru kemur fram, hvert er meginhlut verk Seðlabankans. Það er að slá upp þoku, svo að fólk sjái ekki afglöp bankans og stjórnvalda og trúi prédikunum formanns bankastjórnar um, að syndirnar komi ekki að ofan, heldur frá almenningi sjálfum.

Í fyrradag var flutt nýjasta hómilían af þessu tagi. Ekki er ástæða til að taka mark á henni fremur en ástæða var til að taka alvarlega hinar fyrri.

Jónas Kristjánsson

DV

Meðferð tóbaksfíknar

Greinar

Við höfum, eins og ýmsar aðrar vestrænar þjóðir, náð nokkrum árangri í að minnka notkun tóbaks. Sérstaklega er ánægjulegt, að meðal skólabarna fer þeim sífellt fækkandi, sem reykja. Þetta bendir til, að fræðsla um skaðsemi tóbaksreykinga hafi haft töluverð áhrif.

Liðin eru 35 ár síðan fyrst kom í ljós í vísindalegri rannsókn í Bandaríkjunum, að tóbak væri eitur. Síðan hafa niðurstöðurnar verið staðfestar mörg hundruð sinnum, svo að langt er síðan efasemdir voru kveðnar í kútinn. Raunar fer syndaskrá tóbaks ört vaxandi.

Skaðsemi tóbaks er ekki bundin við lungnakrabbamein eitt, svo sem menn héldu í fyrstu. Komið hefur í ljós, að tóbak veldur einnig banvænum hjartasjúkdómum og ýmsum öðrum óþægindum. Að öllu samanlögðu er tóbak mesti manndráparinn á Vesturlöndum.

Í Bretlandi og Bandaríkjunum er talið, að tóbak drepi tíu sinnum fleira fólk en áfengi, sem er það fíkniefni, er næst gengur tóbaki í framleiðslu banvænna vandamála. Í Bandaríkjunum er talið, að sjö sinnum fleira fólk látist af notkun tóbaks en í umferðarslysum.

Þótt tóbak sé tíu sinnum banvænna en áfengi, fer minna fyrir tilraunum yfirvalda til að draga úr neyzlu tóbaks. Það er fíkniefnið, sem nýtur þeirrar sérstöðu að vera selt fullorðnu fólki án lyfseðils í annarri hverri verzlun. Segja má, að sölu tóbaks séu lítil takmörk sett.

Fræðslan ein skiptir þó miklu máli, því að hér á landi þarf hún ekki að berjast við auglýsingar á tóbaki, sem tröllríða fjölmiðlum í mörgum öðrum löndum. Í þeim auglýsingum er reynt að búa til útilífs-ímynd reykingamannsins sem hestamanns við varðeld í villiskógum.

Enn meiri áhrif hafa ákvarðanir, sem þrengja kosti reykingamanna á almannafæri. Reykingar eru bannaðar í almenningsvögnum og í þjónustudeildum opinberra fyrirtækja, svo að dæmi séu nefnd. Reykingafólk sætir sífellt auknum takmörkunum á reykingafrelsi sínu.

Að baki viðleitninnar eru nýlegar upplýsingar um, að reykingar séu ekki bara skaðlegar þeim sem reykja, heldur líka hinum, er ekki reykja, en anda að sér sama lofti. Það eru kallaðar óbeinar reykingar, sem eru skaðlegar, þótt þær séu ekki eins banvænar og hinar beinu.

Þar með er komið að lýðræðisreglunni um, að frelsi eins endar, þar sem nef hins byrjar. Þess vegna er reykleysisréttur þeirra, sem ekki reykja, æðri en reykingaréttur hinna. Þess vegna er með lögum og reglum verið að ýta reykingum af almannafæri inn í sérstök herbergi.

Þróunin er komin svo langt á veg, að beina þarf athyglinni í vaxandi mæli að fólki, sem vill hætta að reykja, en hefur ekki getað það, af því að notkun tóbaks er afar brýn fíkn, sem lætur ekki að sér hæða. Margt fólk hefur ótal sinnum reynt að hætta, en án árangurs.

Kanna þarf til dæmis, hvort árangurs sé að vænta af aðferðum, sem væru hliðstæðar þeim, er hafa reynzt ótrúlega árangursríkar við meðferð fíknar í áfengi, ekki sízt hér á landi. Þær aðferðir hafa þegar verið teknar upp við meðferð fíknar í eiturefni, róandi lyf og svefnlyf.

Sjúkrahús landsins eru full af dýrum sjúklingum, sem ekki væru þar, ef þeir hefðu ekki reykt. Þjóðfélagið gæti sparað stórfé á fyrirbyggjandi aðgerðum, svo sem ódýrri tóbaksmeðferð, er gæti komið í veg fyrir, að fólk legðist á dýr sjúkrahús af völdum tóbaksreykinga.

Margt tóbaksfólk flýr á náðir skottulækninga til að losna undan tóbaksfíkninni. Betra væri, að hin opinbera heilsugæzla tæki frumkvæði í að hjálpa þessu fólki.

Jónas Kristjánsson

DV

“Óþolandi höfuðverkur”

Greinar

“Það getur ekki verið okkar höfuðverkur”, sagði formaður Stéttarsambands bænda fyrir nokkrum dögum í blaðaviðtali. Hann var að tala um, að ríkið er á þremur mánuðum búið að greiða milljarð ársins í útflutningsuppbætur og framleiðnisjóð landbúnaðar.

Rétt fyrir páska kom í ljós, að einungis voru eftir 30 milljónir af 550 milljónum, sem skattborgararnir áttu samkvæmt fjárlögum ársins að greiða til útflutningsuppbóta. Ennfremur kom þá í ljós, að eftir voru 90 milljónir af 500, sem áttu að fara til framleiðnisjóðs.

Til að endar nái saman á þessu ári í ríkisrekstri íslenzkrar sauðfjárræktar vantar 800 milljónir í viðbót. Formaður Stéttarsambands bænda telur, að skattgreiðendur eigi kost á að greiða aukafjárveitinguna á árinu eða taka hana að láni og borga á næstu árum.

En það er ekki höfuðverkur Stéttarsambandsins, hvernig þessar 800 milljónir verða fundnar og greiddar. Formaðurinn bendir á, að ríkið hafi gert samning um að tryggja landbúnaðinum sölu á föstu magni af kindakjöti. Raunar nær tryggingin líka til verðs kjötsins.

“Það er óþolandi”, segir formaðurinn um þá ósvinnu, að ríkið er farið að safna upp ógreiddum birgðum af kindakjöti, sem búizt er við, að nemi um 2.400 tonnum í lok verðlagsársins. Þá hefst ný slátrun, sem mun fela í sér 1.500 tonna offramleiðslu kindakjöts til viðbótar.

Samningurinn, sem vísað er til, var eitt síðasta verk núverandi landbúnaðarráðherra, þegar hann var landbúnaðarráðherra næstu ríkisstjórnar á undan þessari. Hann samdi þá við landbúnaðinn um ríkisábyrgð á offramleiðslu hans heil fjögur ár fram í tímann.

Með þessu setti Jón Helgason þjóðina og núverandi ríkisstjórn í skuldafangelsi. Lítið er hægt að gera til að byggja upp þjóðfélagið á því kjörtímabili, sem nú stendur, af því að allt fé, sem tiltækt er, og meira til, er frátekið til að borga samninginn við landbúnaðinn.

Komin er hefð á, að ráðherra og ráðuneyti landbúnaðar gæta ekki hagsmuna ríkisins, heldur landbúnaðarins. Raunar er ráðuneytið helzti málsvari landbúnaðarins. Samningurinn illræmdi frá í fyrra var í raun samningur landbúnaðarins við sjálfan sig.

Í ráðuneyti og öðrum stofnunum landbúnaðarins hafa frá ómunatíð verið smíðaðar áætlanir, sem kerfisbundið gera ráð fyrir meiri neyzlu landbúnaðarafurða en síðan reynist verða. Í að minnsta kosti aldarfjórðung hefur ekki verið hlustað á aðvaranir óháðra aðila.

Reynt er að halda neyzlunni uppi með því að láta yfirdýralækni banna innflutning samkeppnisvöru á borð við kjöt og smjör og með því að setja fjallhá gjöld á innlenda samkeppnisvöru, svo sem kjúklinga og svínakjöt. Samt torga Íslendingar ekki öllu því, sem spáð er.

Ef ríkið hætti þessum afskiptum, sparaðist nægur gjaldeyrir í aðföngum landbúnaðar til að mæta auknum innflutningi búvöru. Ennfremur lækkaði matvöruverð og kaupmáttur neytenda ykist verulega. Loks spöruðu ríki og skattgreiðendur sex milljarða króna á ári.

Kerfið er samt ekki afnumið, heldur fært nær því að verða sjálfvirkt. Landbúnaðurinn fær fyrst sitt, sem er það, er hann hefur samið um við sjálfan sig. Síðan fær þjóðfélagið afganginn, ef einhver er. Þetta er þrælahald nútímans á Íslandi, ákveðið til fjögurra ára í senn.

Ef ríkið sligast svo undir byrðunum, að það borgar ekki í grænum hvelli, er ástandið “óþolandi” að mati bændastjóra, enda hafna þeir slíkum “höfuðverk”.

Jónas Kristjánsson

DV

Víetnam í Afganistan

Greinar

Afganistan eru eins konar Víetnam Sovétríkjanna. Þau hafa þar orðið fyrir svipuðu heimsveldisáfalli og Bandaríkin urðu fyrir í Víetnamstríðinu. Rauði herinn hefur ekki ráðið við skæruliða og neyðist til að hverfa heim við lítinn orðstír og skert sjálfstraust ríkisins.

Afganistan var orðið að myllusteini um háls Sovétríkjanna. Ungu mennirnir komu vonsviknir og eiturlyfjasjúkir úr stríðinu. Paradís öreiganna sætti álitshnekki í ríkjum múhameðstrúar og þriðja heimsins. Lepparnir í Kabúl voru hvarvetna fyrirlitnir.

Að undirlagi Gorbatsjovs flokksleiðtoga hafa Sovétríkin lært af reynslunni í Afganistan. Þau fara sér mun varlegar en áður í valdatafli heimsveldanna. Brottför Rauða hersins frá Afganistan er mikilvægt skref í átt til þolanlegrar sambúðar heimsveldanna á næstu árum.

Á yfirborðinu er hrakför Sovétríkjanna í Afganistan minni en hrakför Bandaríkjanna í Víetnam á sínum tíma. Leppstjórnin fær enn um sinn að lafa í Kabúl og Bandaríkin hafa tekið á sig hluta af ábyrgð á svokallaðri hlutleysisstefnu Afganistans í framtíðinni.

Ekki er samt hægt að reikna með langlífi Nadsíbúlla lepps í Kabúl. Her hans var ótryggur, þegar hann hafði stuðning Rauða hersins, og hrynur væntanlega, þegar skjólið er farið. Eftir mun berjast glæpalýðurinn, sem hefur engu að tapa, þegar hefnd skæruliða nálgast.

Vesturlandabúar hafa þrátt fyrir allt þetta enga ástæðu til að líta með fögnuði til framtíðar Afganistans. Meðal skæruliða er hver höndin uppi á móti annarri. Öflugastir eru þeir, sem fyrirlíta Vesturlönd jafnmikið og Sovétríkin og vilja stofna múhameðskt klerkaríki.

Að undanförnu hafa skæruliðar skipzt í sjö fylkingar, sem gætu hæglega sundrazt í nokkra tugi á næstu árum. Fjórar af fylkingunum sjö eru múhameðskrar ofsatrúar, þótt þær gangi yfirleitt ekki eins langt og róttæku klerkarnir í nágrannaríkinu Íran.

Barátta skæruliða innbyrðis mun tefja fyrir, að tæplega sjö milljón flóttamenn geti snúið aftur til síns heima. Þeir, sem það geta, munu koma að hrundum húsum, brenndum ökrum og sprengdum áveitum. Vandamálin í Afganistan munu áfram vera hrikaleg.

Allir aðilar munu hafa fullar hendur vopna, þegar Rauði herinn fer. Sovétríkin og Bandaríkin grýta vopnum inn í landið til að bæta sem bezt stöðu sinna manna, áður en heimsveldasamningurinn um Afganistan tekur gildi á næstu mánuðum. Blóðbaðið mun lítið minnka.

Samkomulag heimsveldanna gerir ráð fyrir, að hernaðaraðstoð þeirra minnki í takt á þessu ári og leggist niður um áramót, þegar síðustu hermenn Sovétríkjanna eiga að yfirgefa landið. Vonandi leiðir þetta til hjöðnunar innanlandsátaka, þegar líður fram á næstu ár.

Skásta niðurstaðan í Afganistan væri sigur bandalags tiltölulega hægfara skæruliða, sem ekki færu að reyna að stjórna heiminum eins og klerkarnir í Persíu, héldu sæmilegan frið við björninn í norðri og sköpuðu aðstæður fyrir flóttamenn til að snúa heim til sín.

Miklu máli skiptir, að menn vænti ekki of mikils af brottför Rauða hersins. Engin rök mæla með, að Afganistan verði hluti hins frjálsa heims. Landið verður hluti múhameðska heimsins, vonandi ekki eins hvimleitt og Íran, en sennilega jafnerfitt og Líbanon eða Írak.

Fagnaðarefni er einkum fólgið í, að Sovétríkin hafa loksins lært sömu lexíu og Bandaríkin voru áður búin að læra, ­ að jafnvel heimsveldi eru takmörk sett.

Jónas Kristjánsson

DV

Uppreisn undirstéttar

Greinar

Formaður Verzlunarmannafélags Reykjavíkur á vafasaman heiðurinn af að hafa í tvígang látið fella fyrir sér kjarasamninga. Hann vísar samt allri gagnrýni frá sér og hefur tíma til að stæla Davíð Oddsson borgarstjóra og rífast út í Reykvíkinga vegna ráðhússins.

Allt bendir þetta til skorts á sambandi við umheiminn og einkum við verzlunarmenn í Reykjavík. Sjaldgæft er, að stéttarfélagsmenn sýni forsvarsmönnum sínum það vantraust að fella fyrir þeim samning. Og einsdæmi er, að það gerist í tvígang með stuttu millibili.

Formaðurinn hefur sér til afsökunar, að fleiri verkalýðsstjórar hafa vanmetið félagsmenn sína, þótt dæmin séu ekki eins gróf og í Verzlunarmannafélagi Reykjavíkur. Guðmundur J. Guðmundsson og Karvel Pálmason létu líka fella fyrir sér samning, en bara einu sinni.

Athyglisverð er hin almenna frávísun ábyrgðar, sem slíkir foringjar hafa sýnt að undanförnu. Karvel lýsti til dæmis sérstökum fögnuði sínum, þegar skjólstæðingar hans felldu samning, sem hann hafði gert og undirritað. Síðan hafa aðrir leiðtogar hermt þetta eftir Karvel.

Átakanlegt er að horfa á forustumann atvinnurekenda koma daglega í sjónvarp með harmþrunginn ábyrgðarsvip út af hverju nýjasta áfalli og fjölyrða um, að atvinnulífið hafi ekkert frekar efni á að borga kaup, þótt samningar séu felldir, jafnvel tvisvar í röð.

Miklu nær væri fyrir hann að lýsa vantrausti á sambandslausa og ábyrgðarlausa viðsemjendur sína og heimta nýja umboðsmenn, sem séu í sambandi við umbjóðendur sína, fólkið í stéttarfélögunum, og geti þess vegna staðið við það, sem þeir skrifa undir.

Málsaðilar keppast við að útskýra vandamálið í burtu, en þeim hefur ekki tekizt það. Fyrst voru verzlunarmenn úti á landi sagðir hafa fellt samning, af því að þeir væru á berum töxtum, en ekki yfirborgaðir eins og verzlunarmenn á Reykjavíkursvæðinu.

Síðan voru verzlunarmenn í Reykjavík sagðir hafa fellt samning, af því að starfslið stórmarkaða vildi ekki vinna á laugardögum. Sagt var, að það hefði fjölmennt á fund í því skyni. Næst var ekið með kjörkassa út í fyrirtæki til að fá fleiri atkvæði, en allt kom fyrir ekki.

Samningamenn hafa ekki áttað sig á, að fólk er orðið þreytt á þversögnum lífskjara á Íslandi. Það skilur ekki, að fyrirtæki og þjóðarbú skuli hafa efni á gífurlegri yfirvinnu, yfirborgunum og launaskriði, en að allt þurfi svo að fara á hvolf út af hækkun á lægstu launum.

Fólk skilur ekki heldur, að verzlunin geti byggt stórar verzlunarhallir á skömmum tíma og að í Sambandi íslenzkra samvinnufélaga geti menn deilt um milljónamun í túlkun forstjóralauna, án þess að hafa efni á að borga venjulegu starfsfólki sómasamleg laun.

Kringlan í Reykjavík og forstjóralaun hjá Sambandsfyrirtækjum eru dæmi um ástand, sem hefur hleypt illu blóði í fólk. Slíkir minnisvarðar eru slæmur bakgrunnur hefðbundinna röksemda um, að hækkun láglauna sé hættuleg, af því að hún kyndi undir verðbólgu.

Þjóðfélagið hefur klofnað í fjölmenna og vel stæða millistétt, sem hefur nóg að bíta og brenna í krafti ætternis, menntunar, aðstöðu, hæfileika eða dugnaðar, og mun fámennari undirstétt, sem lepur dauðann úr skel á taxtalaunum. Þessi klofningur stenzt ekki til lengdar.

Jafnan hafa samningamenn stéttarfélaga einkum gætt hagsmuna vel stæðra félagsmanna og verið án sambands við hina, sem nú hafa gert uppreisn.

Jónas Kristjánsson

DV

Gengi, vextir og gæludýr

Greinar

Ráðamenn þjóðarinnar eru sumir hverjir að byrja að skilja, að viðskiptahalli Íslands er orðinn hættulegur og fer ört vaxandi. Forustumenn í Framsóknarflokknum hafa lýst áhyggjum út af því, að ekkert er gert til varnar, og eru búnir að kalla saman sitt lið til fundar.

Hugmyndir þeirra um, hvað gera skuli, eru hins vegar ekki upp á marga fiska. Formaður þingflokksins heldur fram, að lækka beri vexti og auka byggðastefnu. Hvort tveggja mun þvert á móti magna spennu og peningaþörf og stuðla að innflutningi og skuldasöfnun.

Eitt af því, sem gera þarf til að draga úr viðskiptahalla, er að leyfa vöxtum að halda áfram að hækka, unz jafnvægi næst milli sparnaðar og notkunar á peningum. Slíkt jafnvægi hefur ekki náðst, af því að stjórnvöld hafa í hræðslu hamlað gegn eðlilegri hækkun vaxta.

Lágir vextir og óhófleg sókn í lánsfé leiðir til aukins innflutnings á erlendum vörum og erlendu lánsfé. Með því að leyfa vöxtum að finna jafnvægi í hærri tölum er unnt að draga úr þessari spennu, sem þegar hefur gert Íslendinga að langsamlega skuldugustu þjóð í heimi.

Of hátt skráð gengi íslenzku krónunnar er annað atriði, sem hvetur til notkunar á innfluttum vörum og þjónustu í stað innlendrar og gerir útflutningi á vöru og þjónustu erfitt fyrir í samkeppni við útlenda vöru og þjónustu. Krónan fær ekki sjálf að finna sitt jafnvægi.

Hin ranga gengisskráning, sem er stefnuskrármál ríkisstjórnarinnar, spillir til dæmis samkeppnisstöðu fiskvinnslu og flugfélaga á erlendum vettvangi. Slík fyrirtæki hafa tiltölulega mikinn innlendan kostnað og fá ekki nóg af krónum úr gjaldeyrinum, sem þau afla.

Ekki skiptir minna máli, að frjálst eða rétt gengi krónunnar fer ekki allt í súginn, þótt innlendar kostnaðarhækkanir hafi tilhneigingu til að elta eigið skott og skekkja gengið á nýjan leik. Rétt gengi hlýtur að draga varanlega úr notkun innfluttrar vöru og þjónustu.

Með réttum hliðarráðstöfunum má koma í veg fyrir, að gengislækkun krónunnar leiði til lífskjaraskerðingar. Með frjálsari innflutningi búvöru er hægt að gefa neytendum kost á ódýrari mat. Tollfrjáls innflutningur búvöru mun snarlækka vísitölur framfærslukostnaðar.

Marklaust er að tala um aukna gjaldeyrisnotkun við innflutning búvöru. Oft hefur verið bent á, að landbúnaðurinn kostar miklu meira í erlendum aðföngum á borð við benzín og olíur, vélar og tæki, fóður og áburð, en hann sparar í minni innflutningi búvöru.

Raunar má finna lykilinn að brúun viðskiptahallans og stöðvun skuldasöfnunar í útlöndum með því að hætta stuðningi ríkisins við gæludýr þess, hvort sem þau heita landbúnaður eða eitthvað annað, sem kallar á ódýrt lánsfé, styrki, niðurgreiðslur, uppbætur og aðra vernd.

Hinar pólitísku gælur hafa leitt til sextíu milljarða króna offjárfestingar í landinu. Hún kostar okkur sex milljarða króna í vexti á þessu ári. Og til að þjónusta rekstur offjárfestingarinnar í landbúnaði einum þurfum við að borga aðra sex milljarða króna á þessu ári.

Við getum ekki forðað okkur frá tólf milljarða viðskiptahalla með sýndarmennsku og káki. Við verðum að höggva að rótum vandans, ódýrum lánum og offjárfestingu gæludýra og ríkisrekstri landbúnaðar, sem samtals kosta okkur tólf milljarða á þessu ári.

Til þess þarf að leggja niður búvörusamninga og önnur afskipti ríkisins af landbúnaði og öðrum gæludýrum og hætta að skrá gengi og vexti með pólitísku handafli.

Jónas Kristjánsson

DV

Ofbeldi fylgir trúarofsa

Greinar

Flugræningjarnir, sem undanfarna daga hafa verið að misþyrma farþegum og drepa á vegum guðs síns, segjast stefna að sigri eða píslarvættisdauða fyrir Allah. Þeir eru félagar í vopnuðum ofsatrúarflokki í Líbanon, sem fylgir trúarsjónarmiðum Khómeinis klerks í Persíu.

Múhameðstrúarmenn, einkum af sérgrein sjíta, standa framarlega í trúarofstæki, sem hefur einkennt heimsbyggðina síðustu áratugi. Þeir eru samt ekki einir um hituna. Menn af öllum helztu trúarbrögðum heims standa fyrir hryðjuverkum og styrjöldum í nafni guðs.

Kristnir menn á Norður-Írlandi skipast í ofbeldissveitir eftir sértrúarskoðunum rómversku og skozku kirkjunnar og drepa hver annan úr launsátri. Undir hatrinu kynda klerkar á borð við Ian Paisley, sem þar gegnir eins konar hlutverki Khómeinis í röðum andpápista.

Í þessum heimi trúarofbeldis hefur tiltölulega veraldlegur félagsskapur á borð við Palestínusamtökin PLO ekki vakið athygli fyrir hryðjuverk á síðustu árum. Þau hafa þvert á móti gerzt friðsamari með tímanum og reyna núna jafnvel að hafa vit fyrir flugræningjunum.

Margir þeir, sem vilja ekki, að utanríkisráðherra okkar tali við Arafat eða aðra fulltrúa samtaka Palestínumanna, láta sér í léttu rúmi liggja, að við höfum stjórnmálasamband við afar herskátt ofsatrúarríki, Ísrael, sem er að verða æxli á Miðausturlöndum.

Um langt árabil hafa stjórnendur Ísraels verið gamlir hryðjuverkamenn á borð við Begin og Shamir. Í vetur hafa þeir látið herinn stunda skipuleg hryðjuverk á arabískum unglingum, ákaft hvattir af hálftrylltum klerkum, sem ráða stjórnarmyndunum á þingi Ísraels.

Á sama tíma hafa kristnir Armenar og múhameðskir Azerbadsjar verið að slátra hver öðrum í Kákasusfjöllum Sovétríkjanna. Reynt hefur verið að breiða yfir fréttirnar, en ljóst er, að hin verstu fólskuverk hafa verið unnin í nafni tveggja höfuðtrúarbragða heims.

Í Indlandi ganga hryðjuverkin í þríhyrning. Þar stendur stríðið milli hindúa, múhameðstrúarmanna og sjíka. Í nágrannaríkinu Sri Lanka eru hryðjuverkin enn stórkarlalegri, þar sem eigast við tamílar og sinhalar, það er að segja hindúar og búddistar.

Í Afríkuríkinu Súdan ríkir blóðbað milli kristinna Dinka í suðurhlutanum og múhameðskra valdhafa í norðurhlutanum og höfuðborginni Kartúm. Á Filippseyjum er taflið öfugt. Þar berjast múhameðskir Moros á úteyjum við kristna valdhafa í höfuðborginni Manila.

Trúarbragðasagan er blóði drifin. Þegar frumkristnir menn komust til valda í Rómaveldi, fóru þeir strax að kvelja og myrða heiðið fólk. Síðan skiptust þeir í fylgismenn biskupanna Aríanusar og Aþaníasar, steiktu hver annan á víxl og stunduðu útrýmingarherferðir.

Kunnugt er aldagamalt blóðbað kaþólskra í Róm og orþódoxra í Miklagarði og síðar þrjátíu ára stríð kaþólskra og mótmælendatrúarmanna norðan Alpafjalla, svo og rannsóknarrétturinn á Spáni. Alls staðar voru klerkar í fararbroddi ofstækis, ofbeldis og hryðjuverka.

Hið eina, sem kemst í samjöfnuð við trúarbrögð annars heims í að baka mannkyni þjáningar, eru trúarbrögð þessa heims, svo sem í Sovétríkjum Stalíns og í Kambodsíu Pols Pots. Á síðustu árum hafa slík hryðjuverk þó vikið fyrir hryðjuverkum í nafni annars heims.

Íslenzk kirkja ætti að hvetja kristna klerka um heim allan til að leita samstarfs við klerka annarra trúarbragða um andóf gegn ofbeldishneigðu trúarofstæki.

Jónas Kristjánsson

DV

Dreift fjölmiðlavald

Greinar

Ef fréttastjóri Ríkissjónvarpsins hefur einhvern tíma verið ráðherraígildi eða þriðji valdamesti maður landsins, eins og haldið hefur verið fram, þá er hann það ekki lengur. Notkun fjölmiðla hefur breytzt á þann veg, að enginn fjölmiðill sameinar lengur mestalla þjóðina.

Áratugum saman gegndi fréttastofa Gufunnar þessu hlutverki. Allur þorri þjóðarinnar vissi hvað hafði verið sagt í helztu fréttatímum hennar. Þegar sjónvarp hóf göngu sína, tók fréttastofa Sjónvarps við hlutverkinu. Allur þorri landsmanna horfði á kvöldfréttir þess.

Fyrstu skrefin í átt til frelsis fjölmiðlunar í lofti hafa þegar eytt þessari stöðu, sem kalla mátti einokun. Skoðanakannanir hafa hvað eftir annað sýnt, að notkun útvarps og sjónvarps hefur ekki aukizt með nýjum fjölmiðlum, heldur hefur notkunin dreifzt á fleiri fjölmiðla.

Þegar sjónvarp kom til skjalanna, datt hlustun vinsælustu útvarpsþáttanna, hádegis- og kvöldfrétta, niður fyrir 50%. Þegar fleiri útvarpsstöðvar komu til sögunnar, fór hlutur þessara fyrri hornsteina niður fyrir 40%. Fréttir Gufunnar eru bara eins og hverjar aðrar fréttir.

Þegar sjónvarpsstöðvarnar urðu tvær, datt heildarnotkun Ríkissjónvarpsins úr 75% í innan við 50% þeirra, sem spurðir hafa verið í skoðanakönnunum. Ákvarðanir á fréttastofu þess eða ritskoðunarhneigð að ofan ráða ekki lengur, hvað þjóðin telur vera í fréttum.

Athyglisvert er, að aukin samkeppni hefur ekki veikt stöðu dagblaðanna, heldur styrkt hana. Morgunblaðið nær samkvæmt skoðanakönnunum lestri 75% þjóðar innar og DV 67%. Þetta eru töluvert hærri tölur en loftfjölmiðlarnir ná og hafa ekki verið vefengdar.

Samkvæmt þessu er Morgunblaðið orðið mest notaði fjölmiðill á Íslandi og DV hinn næstmesti. Ríkissjónvarpið kemur í þriðja sæti, Gufan í fjórða og Stöð 2 í fimmta. Stjarnan, Bylgjan og Rás 2 eru svo á lægra róli, meira að segja rétt neðan við Tímann og Þjóðviljann.

Þessi dreifing fjölmiðlunarvaldsins er að flestu leyti af hinu góða. Ekki er hollt, að á einum stað eða tveimur séu teknar ákvarðanir um, hvað sé í fréttum og hvað ekki. Bezt er, að það sé ákveðið í samkeppni margra fjölmiðla, svo sem nú er orðið á fréttamarkaðnum.

Þegar svo er komið, geta stjórnmálamenn, útvarpsráðsmenn og aðrir sérfræðingar í ritskoðun frétta hætt að eyða tíma í iðju, sem ekki kemur að gagni. Ritskoðun á einum stað hefur ekki lengur nein áhrif, því að allir aðrir en hinn ritskoðaði eru undanþegnir ritskoðun.

Þegar svo er komið, geta áhugamenn um fjölmiðlun líka hætt að hafa umtalsverðar áhyggjur af, að einhver fréttastjóri sé næstum fremst í númeraröð valdastigans í þjóðfélaginu. Með núverandi dreifingu valdsins stefnir allt að minnkandi völdum hliðvarða í fjölmiðlakerfinu.

Í útlöndum er hefðbundið að tala um fjölmiðlunga sem fjórðu stéttina og þá í rauninni átt við, að þeir séu og eigi að vera utan stétta, þar með valdastétta. Það er gott, að íslenzkir fjölmiðlamenn venji sig við þá hugsun, að þeir séu utan valdakerfa og megi vera það.

Samkvæmt nýjustu tölum eru félagsmenn Blaðamannafélags Íslands orðnir 360. Allir hafa þeir hlutdeild í ábyrgð og valdi, en enginn einn getur haft umtalsverð áhrif á hugsanir þjóðarinnar. Þannig á það að vera og þannig getur fjölmiðlun smám saman öðlazt traust.

Þjóðinni er gott vegarnesti til framtíðarinnar að hafa marga fjölmiðla, sem bjóða fjölbreyttar útgáfur upplýsinga, er þjóðin getur metið eins og henni sjálfri hentar.

Jónas Kristjánsson

DV

Hreint og tært verð

Greinar

Verðlagsstofnun gæti tekið upp á að bera saman verð málverka. Í niðurstöðunum kæmi sennilega í ljós, að fermetraverðið hjá Jóni frænda væri mun lægra en hjá Kristjáni Davíðssyni. Þetta væri nytsamleg ábending þeim, sem þurfa að klæða bera veggi málverkum.

Í rauninni væri fróðlegt að vita, hvert sé markaðsverð fermetrans hjá ýmsum listmálurum, lífs og liðnum. Verð er alltaf þáttur í mati á vörum og öðrum gæðum. En mat fólks á innihaldinu hlýtur einnig að vera mikilvægt. Það er bara erfiðara að meta innihald gæðanna.

Verðlagsstofnun hefur borið saman verð fermingarmynda hjá ýmsum ljósmyndastofum og komizt að raun um, að það er afar misjafnt. Munurinn var mestur þrefaldur. Þetta eru afar hagnýtar upplýsingar, þótt þær segi ekkert um listrænt innihald fermingarmyndanna.

Ástæðulaust er að gagnrýna Verðlagsstofnun fyrir að skoða eingöngu verðlagið. Hlutverk hennar er að segja fólki, hvernig það geti verzlað á sem hagkvæmastan hátt. Þeir, sem vilja borga meira fyrir það, sem þeir telja vera meiri list, ráða áfram gerðum sínum.

Kannanir Verðlagsstofnunar eru raunar að flestu leyti til fyrirmyndar, sem og annarra þeirra, er hafa fengizt við verkefni af því tagi. Um langan aldur hafa verðkannanir til dæmis verið mikill og vaxandi þáttur í upplýsingamiðlun DV og munu verða það áfram.

Við höfum ekki umtalsverðar áhyggjur af, að innihald kunni að einhverju leyti að vera misjafnt, þannig að samanburður á verði segi ekki alla söguna. Það nægir, að samanburðurinn segi nokkra sögu, sem eigi erindi til þeirra, er hafa lítið fé handa milli.

Hitt er svo líka þarflegt að reyna að bera saman fleira en verðið, þegar það er mögulegt. Í matvöru er til dæmis hægt að skoða efnainnihald. Í sumum tilvikum er fróðlegt að kanna bilanatíðni og viðgerðakostnað. Hér á DV höfum við árvisst kannað bragðgæði páskaeggja.

Æskilegt væri, að Verðlagsstofnun, Neytendasamtökin og aðrir aðilar, sem hafa kannað mál með þessum hætti, reyni að víkka könnunarsviðið frá verðinu einu og láti það ná yfir alla þætti gæðanna, sem fólk sækist eftir, þegar það hyggst verja peningum til einhvers.

Meira að segja er unnt að fá sérfróða menn til að meta listrænt gildi fermingarmynda. Alls staðar er verið að meta listrænt gildi. Dagblöðin eru til dæmis full af greinum, sem meta gæði ritverka, tónleika, leiksýninga, kvikmyndaspóla og jafnvel veitingahúsa.

Margt fleira mætti kanna einstaka sinnum. Það er til dæmis ekki nóg að vita, að nokkrir stórmarkaðir hafi lægra vöruverð en almennt gildir. Við þurfum að vita, hvort strimlarnir, sem við fáum við greiðslukassann, séu í samræmi við vörurnar, er við höfum keypt.

Í erlendum stórmörkuðum eru vörur merktar á sama hátt og gert er hjá Ríkinu í Kringlunni. Á strimlunum er vöruheiti í hverri línu. Við getum því auðveldlega séð, hvort reikningurinn er í samræmi við raunveruleikann. Það getum við hins vegar ekki í stórmörkuðum.

Við kassann er enginn tími til að kanna innihald 50­100 lína strimils. Hann gæti, auk okkar viðskipta, náð yfir viðskipti þess, sem var næstur á undan. Gróði viðskiptavina af lágu vöruverði er fljótur að fara í súginn, ef einstöku sinnum verða mistök af slíku tagi.

Allt slíkt þarf að kanna. Samt hlýtur helzta verkefni Verðlagsstofnunar að vera að kanna hreint og tært verð út af fyrir sig, einnig fermingarmynda og páskaeggja.

Jónas Kristjánsson

DV

Guðjón á Sambandið

Greinar

Erlendir fræðimenn hafa vakið athygli á, að formlegt eignarhald skiptir litlu máli í öflugum og grónum fyrirtækjum. Þeir hafa dæmi sín úr hlutafélögum, en gætu þó fengið mun betri dæmi úr samvinnurekstri, þar sem eignarhald er frá upphafi fremur lítt áþreifanlegt.

Hlutafé, sem upphaflega var í eigu fárra manna, dreifist smám saman til erfingja, sem ekki hafa sömu samstarfshagsmuni og upprunalegu eigendurnir. Algengt er, að fjölskyldufyrirtæki séu komin úr ættarhöndum á tímum annarrar kynslóðar frá stofnendum.

Erlendis er algengt, að almennt hlutafjárútboð flýti fyrir þessari þróun. Fyrirtæki í örum vexti þurfa meira fé en þau treystast til að taka að láni eða geta tekið að láni. Afleiðingin verður fljótlega sú, að öflugustu fyrirtækin hafa dreifðan og ósamstæðan eigendahóp að baki.

Komið hefur í ljós, að slík fyrirtæki eru traustari en fjölskyldufyrirtæki, sem gjarna eru undir stjórn óhæfra erfingja, sem hafa fengið stöðu sína í ætternisskjóli. Að fyrirtækjum með dreifðu eignarhaldi ráðast hins vegar forstjórar, sem kunna til verka.

Í útlöndum eru flest stærstu og öflugustu fyrirtækin í eigu nafnleysingja, sem klippa arðmiða og hafa engin áhrif á reksturinn. Hlutafé þeirra fellur meira eða minna dautt á hluthafafundum. Slíka fundi sækja menn, sem eru hallir undir forstjórana og hlýða vilja þeirra.

Mál þróast gjarna á þann veg, að forstjórar stórfyrirtækjanna beita áhrifum sínum til að setja hliðholla menn yfir hlutafjárpakka og fá þá til að mæta á hluthafafundi. Hinir almennu hlutafjáreigendur hafa enga ástæðu til að hópa sig saman gegn stjórn og forstjórum.

Að lokum verður niðurstaðan sú, að fyrirtækjum er stjórnað af forstjórum í bandalagi við stjórnarmenn, sem eru í senn kunningjar og forstjórar í öðrum fyrirtækjum. Forstjórarnir sitja á víxl í stjórnum hver hjá öðrum og mynda sameiginlega peningalega yfirstétt í landinu.

Þessa þróun í átt til forstjóraveldis sjáum við hér á landi í nokkrum stórum fyrirtækjum á borð við Eimskipafélagið, Flugleiðir og einkabankana. Vegna dreifingar hlutafjár gætu þetta kallazt almenningshlutafélög, en almennir hluthafar ráða þar í rauninni engu.

Samband íslenzkra samvinnufélaga er svo langsamlega bezta íslenzka dæmið um, hvernig völd færast frá hinum mörgu og smáu til hins eina og sterka forstjóra. Í tilviki Sambandsins er ekki einu sinni um að ræða, að eigendur sitji úti í bæ og klippi þar hlutafjármiða.

Hinir formlegu eigendur Sambandsins geta ekki bjargað sér undan gjaldþroti með því að bjóða hlutabréf á margfeldisverði, sem endurspeglar heildarstöðu fyrirtækisins. Þeir geta aðeins fengið þann hluta eignarinnar, sem skráður er sem stofnfjársjóðshluti þeirra.

Þannig varð Kaupfélag Svalbarðseyrar gjaldþrota, og þannig eru bændurnir í stjórn þess persónulega komnir á höggstokkinn. Ef kaupfélög halda áfram að fara á hausinn, mun Sambandið hins vegar dafna og þeim mun meira, sem minni verða skyldur þess við strjálbýlið.

Ekki er síður athyglisvert, að nýlega ráðinn forstjóri Sambandsins hefur þegar safnað að sér slíkum völdum, að stjórnarformaður þess og meirihluti stjórnarmanna telja affarasælast að halda friðinn og láta hann ráða ferðinni, þótt deilt sé um, hvaða laun honum beri.

Afdrif þeirra Sambandsmanna, sem tóku þátt í atlögunni að forstjóranum, munu á næstu árum staðfesta kenninguna. Ef einhver á Sambandið, er það Guðjón.

Jónas Kristjánsson

DV

Faðmlög kæfa gæludýr

Greinar

Víða í Bandaríkjunum er notuð sérhæfð prentvél, sem er svo dýr, að einungis geta rekið hana þau fyrirtæki, sem treysta sér til að keyra hana allan sólarhringinn, alla daga vikunnar, og nota til þess starfslið á fjórum vöktum. Þrjár vaktir duga ekki til að greiða niður vélina.

Hér á Íslandi er hins vegar allt fullt af dýrum vélum, sem sjaldnast eru í gangi. Til dæmis eru sagðar hér vélar, sem geti annað þörfum alls mannkyns fyrir kantlímingar og gluggatjaldatappa, svo ekki sé minnst á allan vélakostinn í greinum, sem hafa forgang að lánsfé.

Í fréttum DV að undanförnu hafa verið rakin dæmi um offjárfestingu í atvinnulífinu. Þótt ekki hafi allt verið tínt til, náði heildarupphæð hennar rúmum sextíu milljörðum króna. Gera má ráð fyrir, að árlega kosti þjóðina sex milljarða að standa undir óþarfanum.

Þessar tölur benda til, að offjárfestingin sé álíka viðamikið vandamál og hinn hefðbundni landbúnaður, sem kostar ríkið einmitt líka sex milljarða króna á hverju ári. Hvor sex milljarðurinn út af fyrir sig jafngildir öllum tekjuskattinum, sem þjóðin greiðir ríkinu árlega.

Ef við hefðum hvorki búið við forgang að ódýrum lánum né ríkisrekstur hefðbundins landbúnaðar á undanförnum árum, gætum við ekki aðeins verið laus við tekjuskatt, heldur hefðum aðra eins upphæð til ráðstöfunar til viðbótar til að bæta lífskjör okkar.

Skýringin á offjárfestingunni er í mörgum tilvikum, en ekki öllum, hin sama og á hinum hefðbundna landbúnaði. Stjórnmálakerfið hefur tekið ákveðna þætti atvinnulífsins upp á sína arma og ákveðið, að gæludýrin njóti forgangs að ódýru lánsfé og jafnvel styrkjum.

Ekki græða gæludýrin á atlætinu. Frystihúsin ættu til dæmis ekki í sömu erfiðleikum við að greiða fiskverkunarkonum mannsæmandi laun, ef þau hefðu ekki fengið of frjálsan aðgang að peningum til að kaupa vélar, sem standa meira eða minna ónotaðar í sölunum.

Þorskflökunarvélar íslenzkrar fiskvinnslu gætu afgreitt allan þorskafla okkar á sex dögum og allan ýsu- og ufsaaflann á tveimur dögum til viðbótar. Karfaflökunarvélarnar gætu skilað sínu verki á átján sólarhringum og flatfiskflökunarvélarnar á tíu sólarhringum.

Alkunnugt er, að kvótakerfið í fiskveiðum er notað til að skipta takmörkuðum afla milli allt of margra skipa. Sérfræðingar eru ekki alveg sammála um, hversu mikil offjárfesting er á þessu sviði, en mat þeirra á henni nemur frá fjórðungs og upp í helmings offjárfestingu.

Í landbúnaði er sama sagan. Sláturhúsin geta annað allri slátrun á nítján dögum ársins. Mjólkursamlögin geta annað tvöfaldri mjólkurframleiðslu hið minnsta. Og svo er búið að koma upp kvótakerfi, sem gerir bændum ókleift að nýta fjárfestingu sína að marki.

Í orkuverum er líka búið að festa meiri peninga en við höfum þurft að nota. Annar hverfill Kröfluvirkjunar var aldrei tekinn upp úr kössunum. Framkvæmdir við algerlega óþarfa Blönduvirkjun liggja niðri. Samt er framleiðslugeta orkukerfisins um 10% umfram þörf.

Af ýmsum hugsjónaástæðum, til dæmis vegna byggðastefnu eða vegna misjafnrar virðingarstöðu atvinnugreina, færir stjórnmálakerfið til peninga, sem búa til offjárfestingu, er síðan veldur vandræðum gæludýranna. Þeir, sem njóta faðmlaganna, kafna í þeim.

Ákaflega væri þetta rík þjóð, ef ráðamenn væru ekki alltaf að skipuleggja tilfærslu á peningum til gæluverkefna, sem þeir og þjóðin ímynda sér, að séu brýn.

Jónas Kristjánsson

DV

Vorhreinsun mannréttinda

Greinar

Margs þarf að gæta, þegar lögð verður síðasta hönd á frumvarpið, sem á að koma í veg fyrir, að mannréttindadómstóllinn í Strasbourg smækki Ísland í máli Jóns Kristinssonar á Akureyri. Jafnframt þarf að hraða frumvarpinu, því að skammt er eftir af þingi vetrarins.

Hreinsa þarf frumvarpið af orðalaginu: “Ákveðið skal með reglugerð…” og “Dómsmálaráðherra er heimilt, að…” Slíkt afsal löggjafarvalds hefur tíðkazt allt of lengi í lögum, sem samþykkt hafa verið á þreyttu Alþingi og eru því til sífelldrar minnkunar og ævarandi háðungar.

Á síðustu misserum hefur oft verið bent á þetta afsalshneyksli, sem hefur farið vaxandi og náð hámarki í nýjustu fiskveiðikvótalögunum. Tímabært er orðið að stöðva hliðrun löggjafarvaldsins til ráðherrareglugerða og ráðherraúrskurða og að nota einmitt þetta tækifæri.

Ráðherrar eiga að fara með framkvæmdavald og ekki löggjafarvald. Enn síður eiga þeir að fara með þriðja valdið, dómsvaldið, svo sem sjá má merki um í drögum að frumvarpi til laga um skipan dómstóla og ríkisumboða, er framleidd hafa verið í ýmsum útgáfum í vetur.

Frumvarpið er einmitt samið til að sýna mannréttindadómstólnum, að Ísland virði þrískiptingu valdsins, sem er hornsteinn vestræns samfélags. Því er mjög gróft að fylla einmitt það frumvarp af endalausum þráðum framkvæmdavaldsins til dómsvalds og löggjafarvalds.

Annað atriði, sem ber að varast, er, að hagsmunaaðilar nái að hafa of mikil áhrif á frumvarpið. Til dæmis er óþarfi, að fulltrúar við embætti sýslumanna og bæjarfógeta noti tækifæri kerfisbreytingarinnar til að búa til fleiri stöður hjá kerfinu á kostnað skattborgaranna.

Drögin gera af skynsemi ráð fyrir, að fimm embætti sýslumanna og bæjarfógeta verði lögð niður, en í stað inn stofnuð sjö embætti héraðsdómara. Hagsmunaðilarnir vilja stofna fleiri embætti. Þeir fela græðgina að baki hugsjónarinnar um jafnvægi í byggð landsins.

Margt má gera til að hindra, að kerfisbreytingin færi sýslumenn og héraðsdómara fjær fólki í strjálbýli. Þeir geta haft gagnkvæma vinnuaðstöðu og farið milli kaupstaða, til dæmis til að halda dómþing, án þess þó að það þurfi að kosta fjárfestingu í auknu húsnæði.

Eðlilegt er, að hinir nýju héraðsdómarar hafi aðsetur á þeim stöðum, þar sem embætti bæjarfógeta eða sýslu manna verða lögð niður. Þannig missa í rauninni engir kaupstaðir frá sér embætti og þannig fær ríkið húsnæði og aðstöðu fyrir hina nýju embættismenn.

Þriðja atriðið, sem þarf að gæta, er að koma í veg fyrir pólitíska tortryggni með því að ákveða, að núverandi sýslumenn og bæjarfógetar, sem verða lagðir niður í því hlutverki, verði sjálfkrafa skipaðir héraðsdómarar, nema aðrir sýslumenn og fógetar vilji skipta við þá.

Hingað til hefur ráðherravald yfirleitt verið pólitískt misnotað við skipun í þessi embætti. Eðlilegt er, að menn fyllist tortryggni, þegar pólitískur ráðherra á í einu vetfangi að fá vald til að skipa í fjölmargar stöður héraðsdómara. Þessari tortryggni þarf að eyða strax.

Mikilvægt er, að strax eftir páska verði lagt fram nothæft frumvarp til laga um aðskilnað dómsvalds og framkvæmdavalds í héraði, með tvískiptingu þess í embætti héraðsdómara og sýslumanna. Ekki er þó nauðsynlegt, að frumvarpið verði að lögum fyrir vorið.

Kosturinn við aðild okkar að mannréttindadómstólnum í Strasbourg er, að hún knýr okkur til að gera ærlega og síðbúna vorhreinsun í okkar eigin mannréttindum.

Jónas Kristjánsson

DV

Ábyrgðin er kennara

Greinar

Þegar Þjóðverjar hófu síðari heimsstyrjöldina með því að ráðast á Pólverja, sagði Hitler, að það væri Pólverjum að kenna. Þeir hefðu getað komið í veg fyrir stríð með því að fallast á nokkrar kröfur. Með því að hafna hógværum kröfum bæru þeir ábyrgð á stríðinu.

Röksemdafærsla Hitlers hefur æ síðan verið notuð sem kennslubókardæmi um rökleysu eða hundalógík. Sá sem fremur verknað, svo sem að fara í stríð eða í verkfall, ber á verknaðinum fulla ábyrgð og getur ekki kennt hinum aðilanum um, hvernig málum sé komið.

Samtök kennara á Íslandi beita nú rökleysu Hitlers, þegar þau vísa ábyrgð á fyrirhuguðu verkfalli kennara á hendur fjármálaráðherra, ríkisstjórn eða stjórnvöld um almennt. Þessi frávísun verkfallsábyrgðar hefur einkennt áróðursherferð kennara að undanförnu.

Fundir kennara hafa þessa daga verið að “átelja stjórnvöld harðlega fyrir að etja kennurum enn einu sinni út í verkfallsaðgerðir”. Orðalagið er fengið beint frá Hitler sáluga, sem að eigin sögn lét Pólverja etja sér út í hernaðaraðgerðir og átaldi þá harðlega fyrir.

Fólk getur haft deildar skoðanir um, hvort fyrirhugað verkfall sé nauðsynlegt eða ekki og hvort ríkisvaldið hafi með stífni stuðlað að því eða ekki. Það breytir ekki því, að sá sem framkvæmir verkfall, getur ekki með neinum rökum vísað ábyrgðinni á annarra herðar.

Fróðlegt er, að kennarar saka stjórnvöld um að hafa ítrekað att sér út í verkfall. Það vísar til, að kennarar hafa á síðustu árum verið verkfallsfíknasta stétt landsins. Margir hópar hafa mátt sæta stífni ríkisins í samningum, en enginn látið etja sér á borð við kennara.

Fjármálaráðuneytið semur við marga hópa. Ef einn þessara hópa fer miklu oftar í verkfall en aðrir, er óhjákvæmilegt að álykta, að afar líklegt sé, að mikinn hluta orsaka og ábyrgðar ágreiningsins megi finna hjá einmitt þessum aðila, sem fer oftar í verkfall en aðrir.

Fyrr í vetur þótti kennurum eins menntaskólans í Reykjavík ekki í frásögur færandi, þótt kennsla félli niður í viku vegna erfiðleika á tölvukeyrslu stundataflna. Kennarar segja hins vegar óbærilegt, að nemendur missi af leiðsögn, ef orsökin sé ríkisstífni.

Satt að segja verða stjórnvöld að gefa sér sem staðreynd, að skólastarf geti á nokkurra ára fresti fallið niður um nokkurra vikna skeið, af því að kennarar telja sig þurfa meiri laun. Ríkið verður að geta mætt með æðruleysi þessum hversdagslega og endurtekna vanda.

Stjórnvöld verða líka að líta á það sem náttúrulögmál, að kennarar reyni að koma verkföllum sínum þannig fyrir, að þau trufli skólastarf sem mest, svo að þau hafi sem mest kúgunargildi. Ríkið má ekki taka á sig neina ábyrgð af skaðlegum áhrifum truflunarinnar.

Þjóðin sekkur ekki í neitt fen fáfræðinnar, þótt nokkrum sinnum sé gripið til þess ráðs að hleypa nemendum próflaust milli ára. Í sumum tilvikum getur það valdið tæknilegum erfiðleikum. Þeir verða þó seint flóknari en önnur vandamál, sem menn eru alltaf að fást við.

Ennfremur er líklegt, að ríkisvaldið verði að geta sýnt fram á, að stjórnlítil verkfallafíkn leiði ekki til árangurs. Þess vegna væri skynsamlegt að gera strax ráð fyrir, að skólastarf liggi niðri frá páskum og fram á haust, svo að menn fái tíma til að kæla sig niður.

Meginatriðið er, að ríkið neiti að taka við ábyrgðinni úr höndum kennara og neiti að láta sífellt kúga sig til hlýðni, jafnvel þótt festan kosti nokkuð langt stríð.

Jónas Kristjánsson

DV

Láglauna-varðveizla

Greinar

Íslendingar reka umfangsmikla og kostnaðarsama fiskgeymslu um alla sjávarsíðuna. Við köllum hana fiskiðnað og teljum okkur trú um, að hún sé eins konar iðnaður, eins og í bílaverksmiðjum. Enda er hún rekin með flóknum færiböndum og hugvitsamlegum tækjum.

Svo skiljum við ekkert í, að fiskvinnslan er rekin með tapi og getur ekki borgað starfsfólki nógu mikil laun til að lifa í nútímaþjóðfélagi. Samt borgar atvinnugreinin yfirleitt mun minna fyrir fiskinn en hliðstæð samkeppnisfyrirtæki geta borgað í öðrum löndum.

Samningaviðræður samtaka verkamanna og vinnuveitenda sprungu einmitt á fiskvinnslunni. Þar geta vinnuveitendur sízt borgað hærri laun og þar þurfa starfsmenn jafnframt allra helzt á hærri launum að halda. Þverstæðan hefur nú hleypt vítahring af stað.

Verkfall er hafið hjá fiskvinnslukonum í Vestmannaeyjum og ástand er orðið ótryggt í fjölmörgum verstöðvum. Þetta virðist vera torleystur vandi, því að fáir fiskverkendur hafa eins góða afkomu og þeir, sem sömdu í Grindavík um 2000 króna mánaðaruppbót.

Bæta mætti margt í sjávarútvegi og þjóðfélaginu í heild, ef ríkisstjórnin félli frá fastgengisstefnu og hætti opinberri skráningu á gengi krónunnar. En það mundi aðallega gagnast fiskveiðunum, en miklu síður fiskvinnslunni, svo sem sjá má af samanburði við útlönd.

Fiskveiðarnar eru svo hagkvæmar og samkeppnishæfar, að þær blómstra, þótt þær selji afurðir sínar til innlendrar fiskvinnslu á lægra verði en til útlendrar fiskvinnslu. Í rauninni borgar sig fyrir þær, að skipin sigli með aflann eða afhendi hann í gáma til útflutnings.

Um leið er fiskvinnslan svo óhagkvæm og ósamkeppnishæf, að hún er rekin með tapi, þótt hún fái aflann á lægra verði en útlendir keppinautar. Á afkomu fólks og fyrirtækja í útgerð og fiskvinnslu er því eðlismunur, sem ekki verður skýrður með krónugengi.

Bent hefur verið á, að unnt er að auka hagkvæmni í fiskvinnslu. Áætlað hefur verið, að með hálfs milljarðs króna tæknivæðingu mætti spara nokkra milljarða á ári í greininni. Þetta er nauðsynlegt að gera, en leysir ekki vanda, sem á dýpstu rætur sínar annars staðar.

Vítahringur fiskvinnslu felst í, að hún er ekki fyrst og fremst iðnaður, er framleiðir verðmæti og há laun, heldur geymsla, er varðveitir verðmæti og lág laun. Afurðirnar, sem koma út úr frystihúsunum, eru í ýmsum tilvikum verðminni en afurðirnar, sem koma inn í þau.

Ísfiskurinn er í rauninni verðmætasta ástand aflans, því að kröfuharðir viðskiptavinir taka ísfisk fram yfir freðfisk eða annan verksmiðjufisk. Því er hagkvæmara að koma ísfiski í sem ferskustu ástandi á markað heldur en að breyta honum í varanlegt geymsluástand.

Þetta endurspeglast í kröfum um skattlagningu gámafisks í þágu fiskvinnslu. Það er í samræmi við hina útbreiddu skoðun hér á landi, að vaxtarbrodd skuli kæfa til að vernda kalvið hefðbundinna greina. Í því skyni er talað óvirðulega um ísfisk sem “óunninn” fisk.

Þegar slíkar kröfur ná ekki fram að ganga, er farið fram á, að ríkið komi til skjalanna og greiði hluta af launum starfsfólks, til dæmis með því að veita því sérstakan skattaafslátt. Þessar óskir, sem heyrast núna, varða veg fiskvinnslunnar í átt til félagsmálastofnunar.

Rætur kjaraátakanna í fiskvinnslu liggja í þróun tækni og samgangna í heiminum. Vandanum mun linna, er þjóðin lítur upp frá færiböndum fiskvinnslunnar.

Jónas Kristjánsson

DV