Author Archive

Á mörkum tveggja heima

Greinar

Tilraunin til að drepa Turgut Özal forsætisráðherra segir í sjálfu sér ekkert um Tyrkland eða Tyrki. Síðan Olof Palme var myrtur í Svíþjóð, gera menn sér grein fyrir, að voðaverk eru framin hvar sem er í heiminum, jafnvel þar sem siðareglur eru í heiðri hafðar.

Tyrkir líkjast Grikkjum um margt. Þeir eiga sameiginlegar rætur í meira en tveggja árþúsunda sögu, frá því er Grikkir settust að í Litlu-Asíu. Matur og drykkur er svipaður í þessum löndum, svo og dansar og skemmtanir. Heiðarleiki einkennir Grikki og Tyrki í senn.

Munurinn sést á hvítu skyrtunum í stoltu Grikklandi og hinum svörtu í feimnu Tyrklandi. Grikkir brosa líka meira en Tyrkir. Þeim finnst ferðamenn vera heppnir að vera í Grikklandi, meðan Tyrkjum finnst þeir sjálfir vera heppnir að hafa ferðamenn í landi sínu.

Grikkir eru stoltir af sér sem tiltölulega nýfrjálsri þjóð á uppleið og tengja sig vel við gullöld fornaldar. Tyrkir sitja hins vegar í fátækum rústum gamals heimsveldis og eiga erfitt með að ná sambandi við fortíðina. Martröð soldánanna hvílir enn á herðum þeirra.

Í Tyrklandi er sagnfræðilega allt miðað við árið 1923, þegar Mústafa Kemal Tyrkjafaðir steypti síðasta soldáninum og stofnaði lýðveldi. Hann fetaði í fótspor Péturs mikla í Rússlandi og hófst þegar handa með heimsfrægu offorsi við að þvinga evrópskum háttum upp á Tyrki.

Hann lét þá taka upp latneskt letur í stað arabísks, skildi að ríki og íslamska trú, skipaði fólki að klæðast að evrópskum hætti, bannaði andlitsslæður kvenna og fez-húfur karla, tók upp vestur-evrópska lagabálka og skozkt viskí. Tyrkir skyldu verða evrópsk þjóð.

Tyrkir hafa ekki enn náð hinu nýja hlutverki. Undir niðri kraumar trúin á Allah, sem meðal annars veldur því, að bönnuð eru ritverk höfunda á borð við David Hume og Henry Miller og brenndar eru 109 kvikmyndir Tyrkjans Yilmaz Günev, svo að örfá dæmi séu nefnd.

Fjölmiðlar í Tyrklandi verða að fara afar varlega gagnvart stjórnvöldum. 25 blaðamenn og ritstjórar sitja í fangelsi. Sjónvarp er algerlega undir hæl ríkisstjórnarinnar og má lítið segja frá stjórnarandstæðingum, sem sumir mega alls ekki taka þátt í stjórnmálum.

Verst er framganga lögreglunnar. Pyndingar eru enn stundaðar í fangelsum og stjórnvöld gera lítið til að draga úr þeim. Saffet Beduk lögreglustjóri segir bara, að mistök geti orðið og lítið sé við því að gera. 169 manns hafa dáið af pyndingum í fangelsum landsins síðan 1980.

Mjög mikið er bogið við stjórnvöld, sem láta sig litlu varða, þótt mannréttindasamtök landsins hafi upplýst, að fimm ára drengur var pyndaður fyrir framan foreldra sína til að fá þá til að játa misgerðir. Á öllu þessu bera ábyrgð Turgut Özal og herstjórarnir að baki hans.

Vandi þessi á sér rætur í, að ekki eru nema nokkrir áratugir síðan Tyrkir losnuðu undan aldagamalli grimmdarhefð soldánaveldisins. Lögregla og her hafa ekki verið siðvædd nægilega á evrópska vísu, þrátt fyrir róttækar tilraunir Kemals Tyrkjaföður í þá átt.

Stjórnarfar í Tyrklandi þarf að verða lýðræðislegra og mannlegra, áður en Vestur-Evrópa getur tekið landið sem fullgildan aðila í sinn hóp. Fram að því ber Evrópubandalaginu að hafna beiðni Tyrklandsstjórnar um aðild og Evrópuráðinu að meina henni fullgilda þátttöku.

Tilraunin til að myrða Turgut Özal minnir á, að Tyrkland stendur á mörkum tveggja heima og hefur enn ekki ákveðið, hvorum megin það ætlar að festa rætur.

Jónas Kristjánsson

DV

Kerfið skiptir ekki miklu

Greinar

Aðfaraumræður forsetakosninganna um vald og stöðu forseta Íslands eru að mörgu leyti gagnlegar. Af þeim er ljóst, að túlka má stjórnarskrána á ýmsa vegu í þessu tilliti. Engan veginn er tryggt, að sú túlkun, sem farið hefur verið eftir, sé hin eina rétta og nothæfa.

Ef stjórnarskráin gerir ráð fyrir, að forsetinn sé nokkurn veginn valdalaus í pólitískum skilningi, segir hún það óneitanlega með afar óljósum og villandi orðum. Þess vegna er ekki ástæða til að vísa algerlega á bug nýjum túlkunum á valdastöðu forsetans í kerfinu.

Hins vegar er þungt á metunum, að frá upphafi hefur verið farið eftir túlkun þeirri, sem nú er í gildi. Sennilega er þorri þjóðarinnar á þeirri skoðun, að sú túlkun hafi gefizt nægilega vel til þess, að ekki sé augljós ástæða til að breyta nærri hálfrar aldar gamalli hefð.

Eðlilegt er, að mörgum finnist freistandi að hugsa til þess, að góður forseti getið bjargað þjóðinni frá slysum lélegra alþingismanna og skotið vandræðamálum til þjóðaratkvæðagreiðslu, svo að þjóðin fái sjálf að úrskurða milliliðalaust, hver skuli vera lög í landinu.

Satt að segja er þjóðaratkvæðagreiðslum allt of lítið beitt hér á landi. Gott væri til dæmis, ef kerfið gerði ráð fyrir ákveðnum kosninga-laugardegi á hverju vori. Þá mætti bera undir þjóðina ýmis mál, auk þess sem kosið væri til alþingis og byggðastjórna, þegar það á við.

Um kostnað við kosningar hefur í blöðum verið slegið fram tölum, sem ekki eru ógnvekjandi. Með árvissum kosningum og aukinni rafeindatækni við framkvæmd þeirra og talningu atkvæða má auðveldlega minnka kostnaðinn. Lýðræði þarf alls ekki að vera dýrt.

Óskir um fleiri þjóðaratkvæðagreiðslur þurfa ekki að fara saman við óskir um meiri völd forseta Íslands. Ástæða er til að efast um, að hið síðara nái þeim markmiðum, sem sótzt er eftir. Breytingar leiða oftar en ekki til annarrar niðurstöðu en reiknað var með í upphafi.

Ef forsetinn hefði meiri afskipti en nú af meðferð Alþingis á pólitískum málum, má reikna með, að forsetakosningar yrðu miklu pólitískari en verið hefur. Til framboðs mundu sumpart veljast annars konar forsetaefni en valin eru nú á þeim forsendum, sem nú gilda.

Hugmyndir um þvílíkar kerfisbreytingar á landsstjórninni eru ekki nýjar af nálinni. Fyrir nokkrum árum byggði Bandalag jafnaðarmanna tilveru sína að verulegu leyti á þeirri trú, að það, sem þjóðina vantaði, væru einmitt kerfisbreytingar sem lækningatæki.

Þjóðin tók ekki þessa trú Bandalagsins. Af náttúrugreind sinni sá hún þá og sér núna, að kerfi skiptir miklu minna máli en innihald. Bretar hafa önnur lýð ræðiskerfi en Bandaríkjamenn, sem hafa önnur lýðræðiskerfi en við. Öllum þjóðunum vegnar lýðræðislega vel.

Á lýðveldishátíðinni á morgun getum við raunar fagnað gæfu okkar. Við erum í hópi örlítils minnihluta þjóða heims, sem býr við raunverulegt lýðræði. Við höfum að vísu vandamál, en þau liggja ekki í kerfum, heldur í okkur sjálfum sem sjálfstæðum borgurum.

Þrátt fyrir náttúrugreindina í þjóðfélaginu, skortir nokkuð á rökhyggjuna. Fámennið veldur því líka, að erfitt er að manna vel allar mikilvægar stöður. Innihald formsins er því oft lítið og lélegt. Mikilvægasta lækningatæki okkar ætti að vera að þjálfa rökræna hugsun.

Þótt fólk sjái vitleysur gerðar allt í kringum sig, má það ekki verða svo bergnumið af útsýninu, að það telji kerfisbreytingar einar geta orðið þjóðinni til bjargar.

Jónas Kristjánsson

DV

Glannafengið ævintýri

Greinar

Fiskeldismenn kenna stjórnvöldum um offramleiðslu laxaseiða. Þannig virðast þeir líta á ríkið sem stóra bróður. Að því leyti er hugarfar þeirra ekki hið sama og annarra framkvæmdamanna, sem hafa hliðsjón af markaði, þegar þeir hefjast handa eða stækka við sig.

Fiskeldismenn segjast fyrir löngu hafa sent landbúnaðarráðuneytingu upplýsingar um, að framleidd yrðu í ár tólf milljón laxaseiði í stað þeirra sjö milljóna, sem talið var unnt að koma í lóg. Þessum upplýsingum hafi verið stungið niður í skúffu í ráðuneytinu.

Ekki er auðvelt að skilja, að það eigi að vera mál stjórnvalda, hvort menn hagi sér skynsamlega eða óskynsamlega í einhverri atvinnugrein, nema greinin sé landbúnaður, þar sem menn hafa leyfi stjórnvalda til að offramleiða á kostnað neytenda og skattgreiðenda.

Löngum hefur verið undrunarefni áhorfenda, hvernig fiskeldi hefur getað blómstrað hér á landi, þótt flestir fiskeldismenn hafi eingöngu treyst sér til að framleiða seiði handa öðrum til fóstrunar. Hefur oftast verið treyst á, að Norðmenn keyptu afganginn af seiðum ársins.

Óráðlegt er að byggja nýja atvinnugrein á þeirri forsendu, að Norðmenn kaupi offramleiðsluna. Þeirra menn vilja sjálfir útvega seiðin, ef þeir geta, og fá áreiðanlega forgang umfram íslenzka fiskeldismenn, ef á þarf að halda. Þeir fá vernd síns landbúnaðarráðuneytis.

Einhvern tíma hljóta íslenzku seiðamilljónirnar að eiga að verða að stórum matfiski, sem fari á borð neytenda. Fáir hafa lagt út í slíka framleiðslu, enda virðast tekjur vera seinteknari í henni en í skjótræktuðum seiðum. Einnig þarf þá að hugsa dæmið alla leið til neytenda.

Tilraunir íslenzkra fiskeldismanna til útflutnings á laxi hafa gengið misjafnlega. Á fiskmarkaðinum í New York hefur íslenzkur eldislax fengið hættulegt óorð fyrir að vera linur og hreisturskemmdur. Hann hefur selzt þar á lægra verði en eldislax frá öðrum löndum.

Fiskeldismenn hafa ekki komið sér upp neinu sameiginlegu gæðakerfi til að tryggja lágmarksgæði í útflutningi. Aðeins þrjár vinnslustöðvar í landinu standast kröfur Bandaríkjamanna, en laxinn er unninn hér við frumstæðar aðstæður í tíu vinnslustöðvum öðrum.

Fiskeldismenn þurfa að gera sér grein fyrir, að erlendis er lax markaðsvara eins og annar fiskur. Þar verður að heyja baráttu við mikið framboð af laxi frá erlendum aðilum, sem hafa aflað sér nákvæmrar þekkingar á þörfum neytenda á hinum og þessum stöðum.

Hér virðast fiskeldismenn hafa hugsað eins og gert er í landbúnaðinum. Þeir hefjast bara handa með gassagangi við að framleiða seiði. Ekkert er unnt að spá um, hvort einhverjir vilji kaupa seiðin og enn síður, hvort einhverjir vilji um síðir borða fullvaxinn laxinn.

Fjárfesting í fiskeldi nemur nú 3,5 milljörðum króna hér á landi. Til að verja þessa fjárfestingu hefur ríkið ákveðið að bjarga gullæðismönnum fiskeldisins fyrir horn með því að lána þeim 800 milljónir króna til að koma offramleiðslu seiða í framhaldseldi innanlands.

Síðan má búast við árlegu upphlaupi út af erfiðleikum við að koma seiðum ársins í verð. Eftir um það bil tvö ár hefst svo nýtt árlegt upphlaup út af erfiðleikum við að koma fullvöxnum laxi ársins í verð. Eiga íslenzkir skattgreiðendur að taka allt þetta á bakið?

Senn þarf að finna skynsamleg mörk á fyrirgreiðslu þjóðarinnar við grein, sem rambar glannalega milli ævintýralegra möguleika og ævintýralegrar óráðsíu.

Jónas Kristjánsson

DV

Sjá ei ­ heyra ei ­ tala ei

Greinar

Samvinnumenn hafa valið kost, sem veldur þórðargleði andstæðinga Sambands íslenzkra samvinnufélaga. Fulltrúar á aðalfundi Sambandsins í gær og fyrradag kusu að sjá ekki, heyra ekki og tala ekki. Vandamálin fá því að hreiðra um sig í samvinnuhreyfingunni.

“Menn sneru bökum saman”, sagði í gær á forsíðu málgagns Sambandsins. Við nánari athugun kemur í ljós, að þetta felur í sér, að fundarmenn stóðu saman um að ræða ekki mörg þeirra vandræðamála, sem samvinnuhreyfingin hefur ratað í að undanförnu.

Þetta eru kunnugleg viðbrögð. Fólk hættir oft að vera reiðubúið að ræða fjölskylduvandann, þegar hann er kominn á það stig, að um hann er fjallað úti í bæ, stundum fremur illkvittnislega. Þá er varpað gegnsærri dulu yfir ágreininginn og reynt að sýna samstöðu út á við.

Þetta er verulega athyglisvert og afdrifaríkt mál, því að samvinnuhreyfingin er að grunni til afar öflug hér á landi, þótt innviðir hennar hafi fúnað. Heildarvelta hennar nemur tæpum 90 milljörðum króna á ári, sem nemur einum fimmta hluta allrar veltu í landinu.

Segja má, að samvinnuhreyfingin eigi landbúnaðinn eins og hann leggur sig og tíu sjávarpláss í ofanálag. Í þessum tíu bæjum fer allur fiskur um hendur hreyfingarinnar. Í ellefu verstöðvum öðrum fer meirihluti aflans inn í veldi Sambands íslenzkra samvinnufélaga.

Því er afkoma heilla byggða háð getu þessarar hreyfingar til að standa sig í lífsbaráttunni. Svo virðist sem breytingar á samkeppnisskilyrðum hafi veikt Sambandið og kaupfélögin. Í fyrra tapaði hreyfingin í heild 560 milljónum króna eða meira en hálfum milljarði.

Forréttindi Sambandsins og aðildarfélaga þess hafa farið rýrnandi á undanförnum árum. Rekstur fyrirtækja byggist ekki eins mikið og áður á pólitískum ákvörðunum stjórnvalda á borð við þær að beita handafli til að halda vöxtum fjárskuldbindinga neikvæðum.

Á tímabilinu 1979­1984 breyttust útlánavextir úr því að vera neikvæðir um 15,4% í að vera jákvæðir um 4,9%. Mörgum fyrirtækjum veittist erfitt að laga sig að þessum nýju aðstæðum og kaupfélögunum sérstaklega. Í fyrra jókst fjármagnskostnaður þeirra um 600 milljónir.

Samvinnumenn eiga að vita, að hættulegt er, ef rekstur þeirra er orðinn svo háður pólitískri fyrirgreiðslu, að hann getur ekki lifað við heilbrigðar aðstæður. Það er til dæmis glæfralegt til lengdar að byggja afkomu sína á að stela sparifé landsmanna. Gæludýrin eiga bágt.

Rekstur rotnar að innan, ef hann venur sig á að geta haft að láni 800 milljónir frá bönkum án þess að leggja veð á móti eins og aðrir. Hann grotnar niður, ef hann venur sig á að geta þvingað Landsbankann til að kaupa af sér verðlausa Nígeríuvíxla fyrir 160 milljónir króna.

Ofan á peningaraunir, sem stafa meira eða minna af óhóflega löngum legum við kjötkatla þjóðfélagsins, koma svo hin siðferðilegu vandamál samvinnuhreyfingarinnar, allt frá kaffibaunamálinu yfir í meðferðina á bændum í stjórn Kaupfélags Svalbarðseyrar.

Siðblindir menn bola kaupfélagsstjóra úr stjórn fyrir að hafa aðrar skoðanir en forstjórinn á kjaramálum forstjórans. Siðblindir menn koma upp stéttaskiptingu starfsfólks, sem er í launagreiðslum töluvert umfram það, er þekkist annars staðar í þjóðfélaginu.

Aðalfundur Sambandsins aðhafðist hvorki nokkuð til að lækna siðblindu né til að gera gæludýrinu kleift að lifa af úti í hinu náttúrulega umhverfi markaðarins.

Jónas Kristjánsson

DV

“Stétt með stétt”?

Greinar

Til skamms tíma hrósuðum við okkur af að vera ein þjóð í einu landi. Við bárum okkur saman við erlendar þjóðir og sögðumst hafa komið á meira jafnrétti hárra og lágra en þekktist annars staðar. “Stétt með stétt” sagði þá í slagorði stærsta stjórnmálaflokksins.

Í leiðurum DV hefur nokkrum sinnum verið fjallað um fráhvarf okkar frá þessari stefnu stéttajafnaðar, nú síðast á laugardag og þriðjudag. Þetta fráhvarf er engin ímyndun, heldur má lesa það í nýbirtum greinargerðum Kjararannsóknanefndar og Þjóðhagsstofnunar.

Hjá Kjararannsóknanefnd kom fram, að stéttaskipting, mæld í kaupmætti, jókst verulega frá því í árslok 1984 fram á mitt ár 1985 og síðan aftur frá árslokum 1986 og allt til þessa dags. Góðæri þessara síðustu ára hefur algerlega farið fram hjá lágkjarafólkinu.

Hjá Þjóðhagsstofnun kom fram, að hátekjufólk er margt og hefur það mjög gott. Á þessu ári er reiknað með, að hinn bezt setti tíundi hluti launþega landsins hafi 252.000 króna mánaðarlaun á sama tíma og lágmarkslaun hafa nýlega verið hækkuð í 36.500 krónur.

Afleiðingarnar hafa ekki látið á sér standa og það á mörgum sviðum. Hin hörðu átök á vinnumarkaðnum í vor fólu í sér örvæntingarfulla, en misheppnaða tilraun láglaunafólks, einkum í verzlun og fiskvinnslu, til að fá stefnuna leiðrétta á nýjan leik til fyrra jafnvægis.

Hin mikla þensla í fylgi Kvennalistans er einnig að hluta afsprengi ójafnaðarins, er hefur síazt inn í þjóðfélagið á síðustu árum, því að konur eru fjölmennar í þeim hópi, sem orðið hefur útundan í góðærinu. Gremja þeirra hefur magnazt um allan helming á þessu ári.

Á hvorugu sviðinu hefur láglaunafólkið sagt sitt síðasta orð. Búast má við vaxandi hörku í vinnudeilum á næstu árum. Og um síðir kemur einnig að þingkosningum, þar sem meðal annars verður kosið með og móti hinni auknu stéttaskiptingu í þjóðfélaginu.

Yfirstéttin í landinu getur auðvitað haldið áfram að láta eins og ekkert hafi gerzt. Hún getur fært gild rök að því, að flestar tilraunir til endurheimts jafnaðar hafi farið út um þúfur og sumar raunar haft þveröfug áhrif, svo sem lágmarkslaunaákvæði í kjarasamningum.

Hitt er svo jafnljóst, að sómasamlegur stéttafriður og þolanlegur vinnufriður næst ekki hér á landi, nema fundnar verði leiðir til að minnka hinn nýja lífskjaramun. Hér í blaðinu hefur verið lagt til, að þjóðin setji sér að marki að færa hann úr sjöföldu niður í fimmfalt.

Er þá miðað við, að mánaðarlaunabilið er núna frá 36.500 króna lágmarkslaunum upp í 252.000 laun þess tíunda hluta þjóðarinnar, sem hefur það bezt. Þetta er sjöfaldur munur. Ef lágmarkslaun hækkuðu úr 36.500 krónum í 55.000 krónur, minnkaði bilið í fimmfalt.

Hugsanlegt er, að Alþingi setji lög að bandarískri fyrirmynd, þar sem ákveðin séu lágmarkslaun á föstu eða lausu verðlagi, miðað við fullan vinnudag. Hér í blaðinu var á laugardaginn rökstutt, að slíkt er auðveldara í landi fullrar atvinnu en í löndum atvinnuleysis.

Einnig gætu pólitísku öflin, sem fylgja öll minnkuðum ójöfnuði, sameinazt um að láta ríkið sem vinnuveitanda ganga á undan með góðu fordæmi. Það gæti verið undirbúningsskref að lögum um almenn lágmarkslaun í landinu, að ríkið greiddi sínu fólki minnst 55.000 krónur.

Aðalatriðið er þó, að þessi vandi, sem ógnar samstöðu og samkennd þjóðarinnar, verði viðurkenndur og fái almenna og fjölbreytta umfjöllun í fjölmiðlum.

Jónas Kristjánsson

DV

Endurheimtum stéttafrið

Greinar

Hremmingar ríkisstjórnarinnar byrjuðu í alvöru í vinnudeilum vorsins. Hin vanhugsuðu bráðabirgðalög hennar voru tilviljanakenndur áfangi í þokugöngu, sem varð fyrst mögnuð í sífelldu vanmati hennar og raunar flestra annarra á þunganum í gremju láglaunafólks.

Það var verzlunar- og skrifstofufólk utan Reykjavíkursvæðisins, sem kom mest á óvart í vinnudeilunum. Hvað eftir annað kom í ljós, að það sætti sig ekki við niðurstöður, sem reyndir menn töldu vera í þolanlegu samræmi við hefðir og reynslu fyrri ára á þessu sviði.

Eftir á að hyggja eru á þessu gildar skýringar. Kjarni verzlunarstéttar þessa svæðis starfar hjá kaupfélögum og öðrum samvinnufélögum, sem hafa verið í fararbroddi hinnar auknu stéttaskiptingar í landinu á undanförnum árum. Þetta starfsfólk gerði uppreisn.

Láglaunafólk verzlunarmannafélaga landsbyggðarinnar taldi sig ekki eiga frumkvæði að rofi hefða. Það taldi sig vera í vörn gegn atvinnurekendum, sem hefðu rofið hefðbundin hlutföll í stéttakjörum þjóðarinnar. Það bar sig saman við nýráðinn Sambandsforstjóra.

Enginn vafi er á, að óvæntar upplýsingar um kjör dýrustu yfirmanna samvinnuhreyfingarinnar voru olía á eld óánægju láglaunafólks. Hin afbrigðilegu launakjör forstjóra sölufélags íslenzkra samvinnumanna í Bandaríkjunum voru borin saman við eigin smánarkjör.

Samvinnuhreyfingin er ekki ein um að hafa rofið hefðbundin hlutföll í kjörum starfsfólks, þótt hún hafi gengið einna lengst. Milljón krónur á mánuði þekkjast ekki í einkarekstri, en þar eru menn þó farnir að skríða í hálfa milljón, meðan þrælarnir hafa tæp 40 þúsund.

Samkvæmt nýrri úttekt Þjóðhagsstofnunar er tíundi hluti launþega með rúmlega 250 þúsund krónur á mánuði að meðaltali um þessar mundir. Þetta er tekjuyfirstétt þjóðarinnar, þau 10%, sem fá 27% kökunnar. Í rauninni er þetta furðulega fjölmennur hópur.

Í hinum endanum eru þeir, sem taka lágmarkslaunin, sem tókst með hörku í vor að hækka upp í 36.500 krónur, einn sjöunda af launum hátekjufólks. Úttekt Þjóðhagsstofnunar sýnir að vísu mun lægri tekjutölur á botninum, en það eru tekjur fólks í hlutastörfum.

Samkvæmt útreikningum Kjararannsóknanefndar hófst misgengi almenns kaupmáttar og kaupmáttar lágmarkslauna eftir samningana í árslok 1984. Í stað þess að jafna kjörin, juku þeir ójöfnuðinn fram á mitt ár 1985. Síðan varð hlé, sem stóð fram undir árslok 1986.

Misræmið magnaðist svo í alvöru í fyrra. Hefur ekki annar eins aðskilnaður tekjuþróunar hálauna- og láglaunafólks orðið í manna minnum. Verulegur hluti þjóðarinnar baðaði sig í góðærinu, meðan sá hluti hennar, sem verst var settur, mátti sæta skerðingu lífskjara.

Þetta misgengi hleypti illu blóði í kjarasamingana í vor. Láglaunafólkið setti hnefann í borðið. Niðurstaða upphlaupsins varð engin. Það þýðir ekki, að málið sé úr sögunni. Búast má við harðnandi stéttaátökum í landinu á næstu árum, ef misgengið verður ekki leiðrétt.

Slæm reynsla er af minnkun tekjubils í kjarasamningum. Launaskriðið hefur jafnan eyðilagt slíkar tilraunir og jafnvel breikkað bilið enn frekar. Hér í leiðaranum á laugardag var bent á kosti og galla annarrar leiðar, lagasetningar, svo sem tíðkast í Bandaríkjunum.

Þótt málið sé erfitt í framkvæmd, er nauðsynlegt, að þjóðin geri sér grein fyrir, að sæmilegur stéttafriður næst ekki nema með minnkun munar lífskjara í landinu.

Jónas Kristjánsson

DV

Minnkum ójöfnuð

Greinar

Þjóðarsátt hefur verið og er um, að nauðsynlegt sé að hækka lágmarkslaun í landinu. Undanfarin ár hafa kjarasamningar meira eða minna snúizt um þetta. Síðustu kjarasamningar einkenndust af kröfunni um 42.000 króna lágmarkslaun og 36.500 króna niðurstöðunni.

Árangurinn hefur látið á sér standa. Með launaskriði hefur hækkun lágmarkslauna gengið upp allan launastigann og skilið láglaunafólkið eftir í sömu súpu og áður. Enn hefur ekki verið fundin lausn á þessum vanda, sem framkallar verðbólgu í stað kjarajöfnunar.

Erlendis hefur sums staðar, til dæmis í Bandaríkjunum, verið farin sú leið að semja ekki um lágmarkslaun í kjarasamningum aðila vinnumarkaðarins, heldur lögfesta þau á þjóðþinginu sem pólitíska ákvörðun. Nú stendur þar fyrir dyrum ný hækkun lágmarkslauna.

Á þann hátt má líta á, að lágmarkslaun séu orðin hluti af hinu opinbera tryggingakerfi og þá á þann hátt, að löggjafarvaldið skyldar atvinnurekendur til að borga ákveðið lágmark í laun, jafnvel þótt þeir telji vinnuna, sem þeir kaupa, ekki vera þeirra peninga virði.

Margir hagfræðingar eru andvígir þessari aðferð. Þeir segja réttilega, að hún leiði til fækkunar atvinnutækifæra. Ríkið geti að vísu skyldað atvinnurekendur til að borga ákveðin laun, en það geti ekki skyldað þá til að ráða fólk til starfa á hinum lögskipuðu launum.

Samkvæmt þessu eru færri en ella ráðnir til starfa, sem álitin eru ómerkari en sem svarar lágmarkslaunum. Þetta kemur mest niður á ungu fólki, sem er að sækja inn á vinnumarkaðinn, og á konum, sem löngum hafa skipað lægstu þrep launastiga í flestum greinum.

Einnig er þetta talið leiða til, að niður leggist rekstur fyrirtækja, sem byggja afkomu sína á ódýru vinnuafli. Andstæðingar lágmarkslauna segja, að betra sé að hafa prjónastofur, er borgi konum lágt kaup, en hafa alls engar prjónastofur, sem gerir þær atvinnulausar.

Reiknað hefur verið út, að sérhver 10% hækkun lágmarkslauna eyði 200.000 störfum í Bandaríkjunum. Það svarar til 200 starfa hér á landi. Þetta þykir afleitt í löndum, þar sem atvinnuleysi er eitt helzta vandamálið, sem stjórnvöld glíma við. En það þarf ekki að gilda hér.

Við erum svo heppin á Íslandi að búa við langvinna umframatvinnu, sem metin er á nokkur þúsund störf. Það er mismunurinn á lausum störfum og skráðu atvinnuleysi. Er þá að vísu ekki tekið tillit til dulbúins atvinnuleysis í landbúnaði og fleiri atvinnugreinum.

Vel má hugsa sér, að í þjóðfélagi umframatvinnu sé heppilegt að setja lög, sem hvetji til samdráttar og lokunar fyrirtækja í láglaunagreinum á borð við prjónastofur og frystihús, svo að slík atvinna sé ekki lengur eins konar gildra, sem hindri straum í arðbærari störf.

Með talnaleik má hugsa sér, að hækkun íslenzkra lágmarkslauna úr 36.500 krónum í 55.000 krónur sé 50% aukning og muni leiða til 1000 starfa fækkunar. Hagkerfið ætti að þola slíkt, án þess að atvinnuleysi verði meira en fjöldi lausra starfa í þjóðfélaginu.

Ef lögfesting 55.000 króna lágmarkslauna leiddi ekki til launaskriðs, væri hægt að minnka kjarabil undirstéttar og yfirstéttar í landinu úr sjöföldu í fimmfalt. Það er hæfilegt launabil í jafnréttisþjóðfélagi, sem hefur tekið upp flatan tekjuskatt í stað skattþrepa.

Þótt hingað til hafi ekki tekizt að bæta kjör láglaunafólks með slíku handafli, er ekki ástæða til að gefast upp, því að þjóðarvilji vill minni ójöfnuð í tekjum.

Jónas Kristjánsson

DV

Kvartmilljón á fjölskyldu

Greinar

Með vorinu er að koma í ljós, að breytingar stjórnvalda á sköttum í vetur valda þjóðinni aukinni skattbyrði. Aukningin kemur út af fyrir sig ekki á óvart, því að ríkisstjórnir hafa áratugum saman notað breytingar á skattkerfi til að hafa meiri peninga af fólki.

Athyglisvert er hins vegar, að aukningin er óvenjulega mikil og raunar nokkru meiri en gagnrýnendur ríkisstjórnarinnar héldu fram í vetur. Þetta er smám saman að koma í ljós í mánaðarlegum skýrslum hins opinbera um innheimt skattfé á fyrstu mánuðum ársins.

Einna hrikalegust er hækkun söluskatts, sem felur nú í sér matarskattinn, er kom til sögunnar eftir áramót. Söluskatturinn var í marz 50% hærri en hann var í sama mánuði í fyrra. Er þá reiknað á föstu verðlagi, búið að draga frá verðbólguhækkun milli ára.

Á móti hækkun söluskattsins vegur lækkun ýmissa tolla. Þegar allt er reiknað, hækkuðu óbeinir skattar um 10% milli ára á þremur fyrstu mánuðum þessa árs, að verðbólgunni frádreginni. Þar að auki hefur svo orðið umtalsverð hækkun gjalda á bílum og fóðri.

Þegar matarskatturinn var lagður á, var fullyrt, að verið væri að einfalda innheimtu óbeinna skatta, en alls ekki verið að auka hana. Nú hefur nokkrum mánuðum síðar hins vegar komið í ljós, að réttar voru viðvaranir gagnrýnenda, sem þá voru sagðir fara með fleipur.

Enn verri hefur þróun tekjuskatta orðið. Hún er nákvæmlega sú, sem sagt var fyrirfram hér í blaðinu. Ríkisstjórnin notaði kerfisbreytingu staðgreiðslunnar til að hækka tekjuskatt einstaklinga um 35% og fyrirtækja um annað eins, hvort tveggja að frádreginni verðbólgu.

Ekki eru öll kurl komin til grafar í tekjuskatti. Fjármálaráðuneytið gerir sjálft ráð fyrir 35% hækkun milli ára, en rök hafa verið færð að tölunni 45% sem líklegri niðurstöðu. Tekjuskattur ársins verður þá tæplega 8,7 milljarðar í stað tæplega 5,9 milljarða að óbreyttu.

Þetta spáir ekki góðu um virðisaukaskattinn, sem verður næsta aðferð ríkisstjórnarinnar við að ná meiri peningum út úr þjóðfélaginu. Við munum þá heyra enn á ný sömu, gömlu og innihaldslausu rökin um, að æskilegt sé að einfalda skattkerfið og bæta það.

Skattanefnd samstarfsráðs verzlunarinnar hefur spáð, að ríkissjóður muni á árinu auka herfang sitt um sem svarar 2,3% landsframleiðslunnar. Það þýðir heildaraukningu skattbyrðar um 5,7 milljarða. Á hverja fjögurra manna fjölskyldu er aukningin 90.000 krónur.

Í skattheimtu heldur núverandi ríkisstjórn áfram stefnu fyrri ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Innganga Alþýðuflokksins í stjórnarsamstarfið í fyrrasumar hefur engin áhrif haft til bóta, þótt flokkurinn hafi fengið embætti fjármálaráðherra.

Ef litið er þrjú ár til baka og rakinn skattheimtuferillinn frá 1985 til 1988, kemur í ljós, að ríkið tekur nú 15 milljörðum meira umfram verðbólgu en það gerði þá. Þetta eru 230.000 krónur á hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu. Ekki er furða, þótt fólk kveinki sér.

Árum saman hefur í leiðurum þessa blaðs verið varað við hverri skattkerfisbreytingunni á fætur annarri. Blaðið hefur reynzt sannspátt um, að hver einasta breyting hefur verið notuð til að ná til ríkisins meiri hluta af þeim verðmætum, sem þjóðin hefur til skiptanna.

Þegar fjármálaráðherra fer í haust að sverja fyrir annarleg sjónarmið að baki virðisaukaskattinum, skulum við muna, hver reynslan hefur hingað til verið.

Jónas Kristjánsson

DV

Glæfrar í vaxtakukli

Greinar

Fát og fum er ekki traustvekjandi, allra sízt þegar það er öllum sýnilegt. Endurteknar tilraunir ríkisstjórnarinnar til bráðabirgðalaga hljóta að efla fyrri kröfur um, að hún segi af sér, þar sem fólki er ljóst, að hún gerði sér litla grein fyrir afleiðingum gerða sinna.

Forsætisráðherra tók af skarið hér í blaðinu á föstudaginn og sagði öllum ráðherrum það mátt vera ljóst, að ákvæði laganna um afnám verðtryggingar átti að gilda bæði um innlán og útlán. Enda er ekki auðvelt að sjá, að unnt sé að verðtryggja bara aðra áttina.

Í þessu tilviki er meiri ástæða til að trúa forsætisráðherra en utanríkisráðherra, sem gerði sér upp fákænsku eins og stundum áður, þegar hann hefur sagt sig gabbaðan og komizt upp með það. Ófært er, að hann geri sér tilbúna einfeldni hvað eftir annað að skálkaskjóli.

Ekki er góð lykt af fullyrðingu utanríkisráðherra um, að Framsóknarflokkurinn hafi alls ekki lagt til, að verðtrygging yrði afnumin strax. Allt fikt ríkisstjórnarinnar við afnám verðtryggingar er upprunnið hjá hinum pólitíska armi Sambands íslenzkra samvinnufélaga.

Framsóknarflokkurinn hefur þann megintilgang í lífinu að vernda Sambandið og fyrirtæki þess, svo og landbúnaðinn og nokkra fleiri skuldara, sem eiga erfitt með að standa undir vöxtum. Þessir aðilar eru góðu vanir og heimta allir, að þjóðin borgi fyrir þá vextina.

Allt frá 1982 hefur verið reynt að koma á raunvöxtum í landinu. Í fyrra náðist svo góður árangur, að spariinnlán voru ekki með nema tæpt 1% í öfuga vexti. Þetta hefur aukið sparnað í landinu frá 1982 úr sem svarar 50% af landsframleiðslu í sem svarar 80% af henni.

Vaxtabjörgun Sambandsins og annarra gæludýra Framsóknarflokksins hefði dregið á nýjan leik úr sparnaði þjóðarinnar, minnkað framboð á lánsfé á innlendum vettvangi og bundið þjóðarhag í hnút. Bankamenn sáu fram á hrun hinna margauglýstu sparireikninga.

Athyglisverður og ömurlegur er þáttur hagfræðingsins, sem Alþýðuflokkurinn hefur gert að bankaráðherra ríkisstjórnarinnar. Hann lét hinn pólitíska arm Sambandsins vaða á skítugum skónum yfir sig og málaflokkinn, þar sem hann ber hina stjórnarskrárlegu ábyrgð.

Þegar allt kerfi fjármálastofnana og hagfræðikunnáttu í þjóðfélaginu rak upp ramakvein, faldi bankaráðherrann sig í tæpa viku. Þegar hornsteinn peningamálanna var að molna, fannst hvergi ráðherra þeirra mála og hafði ekkert um málið að segja í tæpa viku.

Einnig er slæmur þáttur forsætisráðherra, sem hefur látið meira en aðrir slíkir undan þeirri þróun, að starf hans verði valdalítið embætti fundarstjóra, er reyni að bræða saman einhverja niðurstöðu, sama hverja, úr þverstæðum kröfum sér kónganna í ráðherrastólum.

Ekki er málinu lokið, þótt samin hafi verið ný bráðabirgðalög til að afnema hluta hinna fyrri. Eftir lagfæringuna er komið hið sérkennilega ástand, að fjárskuldbindingar eru verðtryggðar inn, en ekki út. Lítill hagfræðiljómi er af því skyni skroppna ráðalagi.

Misræmið milli peningahreyfinga út og inn mun leita jafnvægis í hækkuðum nafnvöxtum útlána. Sambandið og önnur gæludýr munu þá reka sig á, að til skamms tíma er þyngra að búa við háa nafnvexti en verðtryggingu. Framsókn mun því fljótt ókyrrast á nýjan leik.

Komið hefur í ljós, að ríkisstjórnin er skipuð ábyrgðarlitlum kuklurum, sem hneigjast til glæfra í fjármálum og ættu að hætta, áður en þeir hafa bakað meira tjón.

Jónas Kristjánsson

DV

Óvinsæl ótíðindi

Greinar

Erfiðleikar lögreglunnar í samskiptum við almenning stafa af vandamálum, sem eiga rætur sínar hjá lögreglunni sjálfri, en ekki hjá fjölmiðlum, sem stundum segja frá þessum erfiðleikum. Fráleitt er að kenna sögumanni um atburði, sem hann skyldu sinnar vegna segir frá.

Skaftamálið rak á sínum tíma fleyg milli lögreglunnar annars vegar og hluta almenningsálitsins hins vegar. Hið nýlega Sveinsmál hefur breikkað gjána og aukið vantrú meðal fólks á lögreglunni. Í báðum tilvikum voru gerendur lögreglumenn, en ekki fjölmiðlungar.

Viðbrögð yfirstjórnar lögreglu eru yfirvegaðri og betri núna en þau voru áður. Horfin er hin skilyrðislausa vernd, sem fyrri lögreglustjóri veitti liði sínu, á hverju sem dundi. Núverandi lögreglustjóri hefur meiri tilhneigingu til að meta slík mál eftir aðstæðum.

Að vísu er óþægilegt, að lögreglumenn þeir, er nú síðast hafa varpað skugga á stéttina, eru skjólstæðingar lögreglustjórans, sem hann flutti með sér úr héraði, þegar hann tók við embætti. En viðbrögð hans við vandanum benda til, að hann átti sig á þeim mistökum.

Í öllum lýðræðisþjóðfélögum þarf lögreglan að skilja vandamál í samskiptum við þá, sem hún er ráðin til að vernda, það er að segja borgarana. Sums staðar hefur lögreglan haft frumkvæði að bættum samskiptum. Annars staðar ber hún höfðinu við steininn.

Fyrir nokkrum árum leiddi rannsókn brezkra lögregluyfirvalda í ljós, að ekki var mark takandi á vitnisburði lögreglumanna fyrir rétti, ef hann varðaði stéttarbræður þeirra. Ennfremur leiddi hún í ljós algenga fyrirlitningu lögreglumanna á smælingjum og sérvitringum.

Samt þykir brezka lögreglan hafa náð betri árangri í samskiptum við fólk en lögregla flestra landa. Rannsóknin, sem sagt er frá hér að ofan, dugði þó ekki til að hindra Stalker-málið, sem varpað hefur alvarlegum skugga á álit brezkra borgara á lögreglumönnum.

Stalker var einn helzti rannsóknalögreglumaður Bretlands, ofsóttur og beittur ljúgvitnum af lögreglumönnum og loks hrakinn úr starfi, þegar honum var falið að rannsaka meint mistök lögreglumanna og í ljós kom, að hann tók það hlutverk sitt alvarlega.

Stalker hefur síðan verið hreinsaður og þykir hafa staðið sig af miklum hetjuskap gegn sameinuðu fölsunarafli lögreglunnar. Hið sama er að segja um tvo norska fræðimenn, sem lentu í útistöðum við lögregluna í Björgvin, er verndaði ofbeldismenn í röðum sínum.

Eins og í Bretlandi kom í ljós í Noregi, að lögreglumenn lugu fremur fyrir rétti en að vinna gegn starfsbræðrum sínum. Þar kom einnig í ljós, að lögreglan sem stétt bar ábyrgð á, að hinir fáu ofbeldismenn stéttarinnar komust upp með að misþyrma varnarlausu fólki.

Viðbrögð íslenzkrar lögreglu voru mjög slæm í Skaftamálinu, en mun betri í Sveinsmálinu. Svo virðist sem yfirvegaðir lögreglumenn sjái nú betur en áður, að ekki er í þágu stéttarinnar, að haldið sé verndarhendi yfir skaphundum, sem ekki eiga erindi í starfið.

Samt er í þessu tvískinnungur. Öðrum þræði bölsótast yfirmenn í lögreglunni út af fréttum af slíkum málum. Þeir gagnrýna meðal annars, að fjölmiðlar séu of opnir fyrir alls kyns umkvörtunum á hendur lögreglunni, og séu jafnvel neikvæðir í umfjöllun sinni.

Orkan, sem fer í að kenna sögumanni um ótíðindin, kæmi að meira gagni í virkari aðgerðum lögreglunnar til að hreinsa til í stéttinni og aga hana betur.

Jónas Kristjánsson

DV

Stríðni í dauðastríði

Greinar

Við sjáum nú, hversu mikils þjóðin missti, er Jón Baldvin Hannibalsson varð ekki bankaráðherra í ríkisstjórninni og fékk ekki tækifæri til að kvelja Seðlabankann eins mikið og sá banki á skilið fyrir langvinna óstjórn á peninga- og gengismálum þjóðarinnar.

En fjármálaráðherra gerði vel þá daga, sem hann leysti af flokksbróður sinn í embætti bankaráðherra. Hann náði að vekja almenna athygli á, að Seðlabankanum tókst að hámarka skaða þjóðarinnar af nýjustu gengislækkuninni, er fuku 2,5 milljarðar gjaldeyris.

Svo er komið, að allir, sem verulegra hagsmuna eiga að gæta, vita nákvæmlega, hvenær gengi krónunnar verður fellt. Það er þegar seðlabankastjóri fjölyrðir sem mest um, að það verði alls ekki fellt, af því að það leysi alls engan vanda, heldur framleiði bara verðbólgu.

Hrun gjaldeyrisforðans er áminning til okkar um, að ekki borgar sig að leyfa ríkisstjórn og Seðlabanka að ráðskast með gengi krónunnar og láta það hrapa í áþreifanlegum stökkum. Skynsamlegra er að taka upp frjálst gengi og leyfa markaðinum að ráða útkomunni.

Hrun gjaldeyrisforðans er einnig áminning um, að Seðlabankinn er óþörf og skaðleg stofnun. Hann ofstjórnar ekki aðeins gengisskráningunni, heldur skipuleggur hann líka verðmætabrennslu í svokallaðri frystingu sparifjár, sem hefur farið vaxandi upp á síðkastið.

Fjármálaráðherra hefur ekki aðeins tekizt að gera Seðlabankann hlægilegan, heldur einnig utanríkisráðherra, sem enn einu sinni hefur verið staðinn að ósannindum og bakreikningum út af Leifsstöð. Það var þarft verk, ekki síður en uppákoman út af Seðlabankanum.

Þegar Leifsstöðvaruppgjörið fór fram með látum á Alþingi í haust, var fullyrt, að öll kurl væru komin til grafar. Nú hefur hins vegar komið í ljós, sem fjölmiðlar og stjórnarandstaða héldu þá fram, að enn væri lumað á bakreikningum, sem ekki væru komnir fram.

Framtak ráðherrans út af Seðlabanka og Leifsstöð er hið eina jákvæða, sem sézt hefur eða heyrzt til ríkisstjórnarinnar í margar vikur. Efnahagsráðstafanirnar svokölluðu, sem menn eru að reyna að skilja, verða engin rós í hnappagatið, heldur nagli í líkkistuna.

Komið hefur í ljós, að í fyrra voru raunvextir sparireikninga neikvæðir um 1%, þrátt fyrir ýmis gylliboð bankanna. Nú er verðbólgan í þann mund að rjúka úr 16% í 40% og þá er ríkisstjórnin einmitt að þrengja möguleika sparenda á jákvæðum raunvöxtum.

Afleiðing aðgerða ríkisstjórnarinnar verður sú, að menn munu draga sparifé sitt úr bönkum og öðrum fjármálastofnunum og nota það í verðbólgufjárfestingu, svo sem tíðkaðist hér fyrr á árum, áður en farið var að streitast við að koma á raunvöxtun sparifjár.

Þetta mun hafa afar hættuleg áhrif á bankakerfið. Landsbankinn er mjög illa stæður um þessar mundir og hefur orðið að fá örþrifa-fyrirgreiðslu í Seðlabankanum. Erfitt verður fyrir Landsbankann að mæta sparifjárflóttanum, sem nú er að hefjast af þunga.

Í heild bendir efnahagsyfirlýsing ríkisstjórnarinnar til, að hún geri sér litla grein fyrir afleiðingum aðgerðanna. Yfirlýsingin er óljós og loðin, svo sem búast má við, þegar verið er að sætta ósamrýmanleg sjónarmið í stað þess að hætta hinu sjálfdauða stjórnarsamstarfi.

Nytsamleg stríðni fjármálaráðherra er eini ljósi punkturinn í allt of hægu dauðastríði ríkisstjórnar, sem hefur setið lengur en sætt er, þjóðinni til mikils tjóns.

Jónas Kristjánsson

DV

Hollur og illur bjór

Greinar

Bjór er hollur eins og annað áfengi, ­ í hófi. Margar, umfangsmiklar rannsóknir, sem staðið hafa áratugum saman í Bandaríkjunum, benda til, að áfengi, í mjög litlu magni, víkki æðarnar og dragi úr líkum á einkennis sjúkdómum nútímans, hjarta- og æðasjúkdómum.

Gallinn er sá, að þetta hóf felst í afar litlu magni, svo sem einum litlum bjór, einum snafsi eða tveimur rauðvínsglösum á dag. Það er hóf, sem temja sér tiltölulega fáir af þeim, sem á annað borð nota áfengi. Það er raunar innan við magn hefðbundinnar menningardrykkju.

Í gamalgrónum vínlöndum, svo sem við Miðjarðarhafið, er drukkið mun meira en þessu nemur, án þess að til ofdrykkju eða ósiðar sé talið. Sjúkrahús í þessum löndum eru þéttsetin fólki, sem þjáist af skorpulifur af völdum hefðbundinnar og óátalinnar dagdrykkju.

Íslendingar hafa verið blessunarlega lausir við skorpulifur. Það stafar af, að við drekkum ekki daglega, heldur um helgar, og leyfum lifrinni að jafna sig á milli. Líklegt má telja, að sterki bjórinn muni auka dagdrykkju og þar með líkur á skorpulifur hér á landi.

Við höfum hins vegar meira en nóg af öðrum sjúkdómi, sem sjaldgæfari er í gamalgrónum vínlöndum. Það er áfengissýki eða alkóhólismi. Margar bandarískar rannsóknir hafa leitt í ljós, að sá sjúkdómur er líkamlegs eðlis og felst í röngum efnaskiptum í lifur.

Í áfengissjúklingum eru efnaskipti áfengis í lifur of hæg, svo að acetaldehýð hleðst þar upp og breytir boðskiptum uppi í heila. Þetta leiðir oft til ýmissa annarra vandræða, sem geta verið sálræn, félagsleg eða fjárhagsleg og gjarna fylgja í kjölfar alkóhólisma.

Menn drekka ekki af því, að þeir eigi bágt, heldur eiga þeir bágt, af því að þeir drekka. Þessi orðaleikur segir, að áfengissýki verður ekki hamin með sálrænum, félagslegum eða fjárhagslegum aðgerðum, heldur með þeim einfalda hætti, að menn hætti alveg að drekka.

Sem betur fer eru horfur á, að fljótlega verði hægt að mæla mjög snemma á ferli áfengissýkinnar, hvort menn þjáist af henni. Þá verður hægt að benda verðandi alkóhólistum á hina einu gagnaðgerð, sem reynslan sýnir, að dugir og notuð er hér á meðferðarstofnunum.

Ekki verður í fljótu bragði séð, að ný áfengistegund á borð við sterkan bjór muni auka áfengissýki hér á landi. Ákveðinn hluti þjóðarinnar býr í lifrinni við röng efnahvörf, sem leiða til áfengissýki, hvort sem það er með hjálp bjórs, borðvína eða brenndra drykkja.

Einn versti áfengisvandi okkar felst í uppákomum, sem fylgja mikilli drykkju á skömmum tíma, einkum um helgar, til dæmis meiðingum og manndrápum, sem eru stöðugt í fréttum. Engar líkur eru á, að sterkur bjór muni magna hinn mikla brennivínsofsa, sem fyrir er.

Í heild má segja, að ólíklegt sé, að bjór auki að ráði áfengisvandamál okkar, önnur en skorpulifur, og að líklegt sé, að bjór geti orðið til heilsubótar mörgum þeim, sem annars fengju hjartasjúkdóma. Bjórinn hefur kosti og galla eins og annað áfengi, sem okkur er leyft að nota.

Vangaveltur af þessu tagi geta leitt til þeirrar niðurstöðu, að gallar bjórsins séu mikilvægari en kostirnir, það er að segja að bjórinn sé meira illur en hollur. Samt er ekki ástæða til, að þeir, sem slíku trúa, hindri aðra en sjálfa sig í að nota þessa umdeildu og útbreiddu vöru.

Ríkisvald, sem leyfir almenna sölu tíu sinnum lífshættulegra efnis, tóbaks, á ekki að meina bjórinn þeim meirihluta þjóðarinnar, sem langar að nota hann.

Jónas Kristjánsson

DV

Er óvissa óbærileg?

Greinar

Rétt er hjá fastgengissinnum, að óeðlilegt er að miða skráningu á gengi krónunnar við afkomu fiskveiða og fiskvinnslu. Slík viðmiðun leiðir til að atvinnugreinin er árum saman rekin á núlli, hvort sem hún eykur hagkvæmni og framleiðni sína eða stendur í stað.

Í fiskvinnslustöðvum okkar eru flökunar- og flatningsvélar, sem geta tekið við öllum þorskafla ársins á sex dögum og öllum afla af ýsu og ufsa á tveimur dögum til viðbótar. Flatfiskvélarnar geta sinnt sínu hlutverki á tíu dögum og karfavélarnar á átján dögum.

Offjárfesting í fiskvinnslu, einkum í frystihúsum, bendir til, að skort hafi aðhald og að landað sé í of mörgum höfnum. Menn kaupa ekki eina vél af hverri gerð, ef þeir þurfa að velta hverri krónu fyrir sér og ef þeir geta komið á sérhæfingu vinnslustöðva á staðnum.

Fiskvinnslan er að neyðast til að auka framleiðni sína með sérhæfingu. Samkeppni hennar við útflutning á ferskum fiski þvingar hana til að einfalda vinnsluna. Og fiskmarkaðirnir nýju gera miklum hluta hennar kleift að velja fisk við hæfi og að einfalda vinnsluna.

Ferskfiskútflutningur og fiskmarkaðir eru tæki, sem aukið athafnafrelsi færir okkur til að magna arðsemi þjóðfélagsins. Fiskmarkaðir munu blómstra í þéttbýli og gera fiskvinnslu þar arðbæra. Hins vegar verður strjálbýlið fremur að treysta á ferskfiskútflutning.

Þetta höfum við ekki fengið með auknu skipulagi að ofan, heldur með minnkun þess og afnámi. Við erum ekki lengur í viðjum opinberrar ákvörðunar fiskverðs og ekki háð eins miklum höftum á útflutningi og áður var. Frjálst krónugengi er næsta skrefið á þessari braut.

Viðurkenning þess, að gengi krónunnar skuli ekki miða við útreikning Þjóðhagsstofnunar á afkomu fiskvinnslu, á sér ekki rökrétt framhald í fastgengisstefnu ríkisstjórnarinnar, hagstjóra hennar og Seðlabanka. Rökrétt framhald felst í markaðsgengi krónunnar.

Fastgengisstefnan hefur hættuleg hliðaráhrif. Hún eykur innflutning erlendrar vöru og þjónustu og dregur úr getu útflutningsgreina til að keppa við aðrar atvinnugreinar í þjóðfélaginu. Hún eykur halla viðskiptanna við útlönd og stækkar skuldasúpu okkar í útlöndum.

Að fara úr sjávarútvegsviðmiðun á gengi krónunnar yfir í fastagengi er að fara úr öskunni í eldinn. Í stað gamalkunnugs vandamáls, sem felst í skorti á hagkvæmni í einni atvinnugrein, fáum við miklu stærri vanda, sem felst í óhagkvæmara þjóðfélagi yfirleitt.

Sjávarútvegsviðmiðun og fastagengi eiga það sameiginlegt að vera ákvörðun að ofan, byggð á útreikningum í stofnunum. Hvort tveggja er í stíl opinbers fiskverðs, kvótakerfis og annarra hafta, sem stjórnmálamenn hafa notað til að leysa lítinn vanda með stórum vanda.

Markaðsverð á gengi er hins vegar í stíl nýja tímans, sem tekur kaleik skipulagsins af valdamönnum og hagstjórum þeirra. Ákvarðanir í þeim stíl hafa gefizt okkur vel. Alþjóðleg reynsla segir okkur líka, að markaðurinn sé bezti skipuleggjandi efnahags- og fjármála.

Í hvert einasta skipti, sem við höfum staðið andspænis ákvörðunum um að létta af höftum og skipulagi, hafa menn fengið hland fyrir hjartað og ímyndað sér, að upplausn mundi fylgja í kjölfarið. Því óttast margir núna markaðsgengi krónunnar og vilja fastagengi.

Ríkisstjórnin, hagstjórar hennar og Seðlabankinn eru sammála um, að óvissa frelsisins sé svo óbærileg, að betra sé að setja þjóðfélagið í spennitreyju fastagengis.

Jónas Kristjánsson

DV

Markaðsgengi og -vextir

Greinar

Stjórnmálamenn og hagstjórar eiga sumir hverjir afar erfitt með að sætta sig við tilhugsunina um, að betra sé að leyfa ýmsum efnahagslegum fyrirbærum að vera í friði heldur en að skipuleggja þau á ýmsan hátt í samræmi við umdeilanlegar hugsjónir og fordóma.

Athyglisverðasta dæmið um þetta er skjaldborgin, sem slegin hefur verið um hina kolröngu skráningu Seðlabanka og ríkisstjórnar á gengi íslenzku krónunnar. Þetta er fastgengisstefnan, sem nú saumar að alvöruatvinnuvegunum og viðskiptastöðu þjóðarinnar.

Aðstandendur stefnunnar geta ekki af neinu viti svarað spurningunni um, hvers vegna ekki megi vera jafnvægi milli eftirspurnar og framboðs á erlendum gjaldeyri. Á tíma verðbólgumunar milli Íslands og útlanda er ótrúlegt, að fast ríkisverðlag sé betra.

Opinber skráning á verði ýmissa annarra fyrirbæra en erlends gjaldeyris hefur undantekningarlaust gefizt illa. Ríkisvaldið hefur stundum ákveðið að stöðva laun fólks eða verð þjónustu og vöru við ákveðnar krónutölur, en ævinlega runnið á rassinn með afskiptasemina.

Fastgengisstefnan er dauðadæmd. Fólk sér betur en ráðamenn og hagstjórar þeirra, að hún felur í sér niðurgreiðslu á gjaldeyri til óhæfilega mikils innflutnings á erlendri vöru og þjónustu, sem magnar allt of mikla og vaxtadýra skuld þjóðarinnar í útlöndum.

Fólk sér líka betur en ráðamenn og hagstjórar þeirra, að fastgengisstefnan refsar einmitt þeim atvinnuvegum og starfsmönnum, sem vinna að öflun gjaldeyristekna. Þessa má sjá ótal merki í taprekstri og lágum launum, allt frá Granda yfir í Flugleiðir.

Sjávarsíða Íslands mundi hagnast á að afsala sér núverandi byggðastefnu og fá í staðinn markaðsbúskap á gjaldeyri. Núverandi sníkjukerfi veitir sjávarsíðunni ruður af nægtaborði landbúnaðar og beinir athyglinni frá því, að Reykjavík er ekki óvinurinn, heldur gengið.

Gegn þessum röksemdum þýðir ekki lengur að þylja í sífellu, að gengislækkun ein leysi ekki allan vanda. Engin ein aðgerð út af fyrir sig leysir allan vanda. En stórt skref fram eftir vegi fælist í að taka kaleik gengisskráningar frá stjórnmálamönnum og hagstjórum.

Mjög svipað má segja um kröfurnar um, að gengi vaxta af fjárskuldbindingum verði skráð af öflugra handafli en nú er gert. Skuldarar segja, að lækka verði svokallaða okurvexti af lánum, því að atvinnulífið sé að sligast undir þeim. Samt vantar alltaf lán.

Vaxtalækkunarsinnar neita að horfast í augu við, að núverandi vextir eru ekki meiri okurvextir en svo, að fleiri vilja taka lán en veita lán, jafnvel til nýrra framkvæmda, sem menn gætu frestað, ef þeim ógnaði vaxtabyrðin. Í raun eru vextirnir nefnilega of lágir.

Þrátt fyrir nokkra hækkun raunvaxta úr neikvæðum tölum í jákvæðar á síðustu árum hefur enn aldrei reynt á, hvar jafnvægi næst milli eftirspurnar og framboðs. Tímabært er, að kákinu verði hætt og vöxtum leyft að finna sitt svigrúm á frjálsum markaði.

Valdastofnanir og valdamenn hafa tilhneigingu til að vilja ráðskast með margvísleg fyrirbæri, því að skipulagshyggja færir þeim völd, sem markaðshyggja tekur frá þeim. Þess vegna hefur þjóðin ekki enn fengið að hagnast á frjálsu markaðsgengi og markaðsvöxtum.

Valdamenn á Íslandi hafa alltaf verið hræddir við, að upplausn mundi fylgja í kjölfar afnáms opinberrar verðskráningar. Sá ótti hefur jafnan reynzt ástæðulaus.

Jónas Kristjánsson

DV

Kvennalisti og fjórflokkur

Greinar

Velgengni Kvennalistans og hugsanleg þáttaka hans í næstu ríkisstjórn eru á margra vörum þessa dagana, þegar hann hefur reynzt fylgisríkasti stjórnmálaflokkurinn í hverri skoðanakönnuninni á fætur annarri. Spurt er, hvað Kvennalistinn hafi umfram aðra flokka.

Þegar gömlu flokkarnir og Borgaraflokkurinn eru bornir saman við Kvennalistann, er ljóst, að grundvallarhugsunin er ólík. Allir flokkar aðrir en Kvennalistann túlka stjórnmál í stórum dráttum á hefðbundinn hátt og saka Kvennalistann um að vera ekki “í pólitík”.

Í þessum samanburði geta skipt miklu máli lítil atriði á borð við, að Kvennalistinn neitar að taka þátt í hinni árlegu veizlu alþingismanna og ýmsum öðrum fríðindum, sem hefðbundnir stjórnmálamenn telja sig eiga skilið. Kvennalistinn er ekki herfangsflokkur.

Þjóðin hefur á allra síðustu árum verið að átta sig á, að hinir hefðbundnu stjórnmálaflokkar hafa engan áhuga á að framkvæma stefnuyfirlýsingar sínar, en hins vegar gífurlegan áhuga á að taka þátt í að þjónusta hvers konar sérhagsmuni á kostnað almannahagsmuna.

Orka gömlu flokkanna og Borgaraflokksins fer í peningavaldastreitu á borð við skipan manna í bankaráð og aðrar skömmtunarstofur fjármagns og fyrirgreiðslu, kvótakerfi í atvinnuvegunum. Hver flokkur hefur sín gæludýr, sem þurfa margvíslegan forgang til að lifa.

Gæludýraþjónustan getur farið upp í sex milljarða króna á ári fyrir aðeins einn aðila, svo sem dæmi hins hefðbundna landbúnaðar sýnir. Í heild hefur fyrirgreiðslustefnan, sem gömlu flokkarnir og Borgaraflokkurinn reka, gert okkur að skuldugustu þjóð veraldar.

Kvennalistinn hefur sín gæludýr, en þau eru önnur, svo sem mæður, börn, námsmenn og fiskverkunarkonur. Ekki er vitað, hvort þessir mjúku hagsmunahópar verði þjóðfélaginu ódýrari eða dýrari en hinir hörðu, sem nú orna sér við elda hinna hefðbundnu flokka.

Ekki er heldur vitað, hvort Kvennalistinn mun, þegar á reynir, treysta sér til að taka snuðið af gömlu gæludýrunum. Til dæmis verður fróðlegt að vita, hvort landbúnaðurinn verður jafnfrekur á fóðrum fjármálaráðherra Kvennalistans og hann er hjá Alþýðuflokknum.

Eina leiðin til að rýma til við jötuna fyrir gæludýr Kvennalistans er að hrekja frá eitthvað af gömlu gæludýrunum. Og raunar þarf að reka í burtu fleiri en kalla má til, ef stefna hinnar hagsýnu húsmóður á að endurspeglast í hallalausum rekstri ríkisbús og þjóðarbús.

Rangt er að segja Kvennalistann ekki vera “í pólitík”, þótt hann sé í annarri pólitík en hefðbundnir valdastreitu- og goggunarflokkar stjórnmálamanna, sem láta eins og hanar á haug eða apar í dýragarði. Hins vegar má vefengja, að pólitík hans sé raunhæfari.

Skoðanakannanir sýna, að sífellt fjölgar þeim kjósendum, sem vantreysta málfundadrengjum sérhagsmuna og eru, að nokkurn veginn óséðu, tilbúnir að veita Kvennalistanum traust. Það verður svo síðari tíma mál, ef kjósendur telja listann hafa brugðizt sér.

Sennilega áttar Kvennalistinn sig á, að höfuðáhugamál samstarfsflokka hans í ríkisstjórn mundi verða að sýna kjósendum, að misráðið hafi verið að styðja listann. Þess vegna hljóta kröfur listans í stjórnarmyndunarviðræðum að verða afar harðar og harðsóttar.

Líklega leiðir gengi Kvennalistans ekki til þátttöku hans í stjórn á næstu árum, heldur til nánari samstarfs milli hefðbundnu flokkanna, -fjórflokksins svonefnda.

Jónas Kristjánsson

DV