Author Archive

Blandin ánægja af áli

Greinar

Þótt nýtt álver í Straumsvík auki þjóðarframleiðslu, er margt, sem getur komið í veg fyrir, að það verði okkur óblandið ánægjuefni. Sumt af því þekkjum við frá Ísal, sem þar er fyrir, eða getum gert okkur grein fyrir, einmitt í ljósi reynslunnar af fyrsta stóriðjuverinu.

Að þessu sinni eru sjónarmið byggðastefnu miklu harðvítugri en þau voru, þegar Ísal var reist. Reyðfirðingar, Akureyringar og Sunnlendingar hafa heimtað þetta álver eða annað álver til sín. Málgagn iðnaðarráðherra þræðir slík ver daglega upp á fréttakrókinn.

Einn gæludýraforstjórinn á Akureyri hefur lagt til, að gerð verði byggðakaup um álverið. Reykvíkingar og Reyknesingar afsali sér einhverjum öðrum gæðum í skiptum fyrir álver í Straumsvík, til dæmis fiskveiðikvóta. Ummæli hans gefa tóninn um framhaldið.

Reykvíkingar og Reyknesingar hafa ekki verið spurðir um, hvort þeir vilji fá álver. Ólíklegt er, að þeim sé það slíkt hjartans efni, að þeir séu reiðubúnir að fórna því sínum litlu molum af nægtaborði skömmtunarstjóranna í ráðherrastólum núverandi ríkisstjórnar.

Líklegra er, að Reykvíkingar og Reyknesingar væru fegnir að sjá á eftir álverinu og vandamálum þess til Reyðarfjarðar, Akureyrar eða Þorlákshafnar. Gallinn er bara sá, að útlendingarnir, sem borga brúsann, vilja ekki leggja krónu í hina séríslenzku byggðastefnu.

Kísilmálmverksmiðjan varð aldrei að raunveruleika, af því að hún var bundin við Reyðarfjörð. Ef hana hefði mátt byggja við hlið járnblendiverksmiðjunnar í Hvalfirði, væri hún nú í smíðum, af því að útlendingarnir hefðu þá talið hana nokkurn veginn arðbæra.

Ætlunin er að nota fyrirhugað álver í Straumsvík til að hefja nýjan öfundarsöng í garð Reykjavíkursvæðisins. Því er nærtækt að sleppa álverinu, alveg eins og við létum kísilmálmverksmiðjuna eiga sig. Næg er spenna dreifbýlis og þéttbýlis, þótt álver bætist ekki við.

700­900 manns þarf til að reisa álverið nýja og virkjanir, sem því fylgja. 400­500 manns þarf til að reka verið, þegar það er fullgert. Hvort tveggja veldur töluverðri þenslu, þótt á Reykjavíkursvæðinu sé. Hún leggst ofan á hina miklu þenslu, sem fyrir er á þessu svæði.

Stjórnvitringar okkar geta varla litið upp úr vandræðalegri og vonlausri baráttu sinni við að koma niður verðbólgu og vöxtum í landinu og að ná jafnvægi í atvinnulífi þjóðarinnar. Nýtt álver mun gera þetta eilífðarstríð þeirra enn minna marktækt en það er núna.

Ekki hefur verið mikið fjallað um, hve hættulegt er að hafa mörg egg í einni körfu. Ef við gerum útflutning áls að uppsprettu þriðjungs útflutningstekna okkar, erum við orðin eins háð heimsmarkaðsverði áls og sumar þjóðir þriðja heimsins eru háðar sinni einhæfu stóriðju.

Ekki er nóg með, að við lendum í dæmigerðum þriðja heims vanda í sveiflum verðs á áli sem útflutningsafurðar. Að auki koma svo sveiflur orkuverðs, sem sennilega verða látnar fylgja heimsmarkaðsverði áls. Það hefur nú á hálfu öðru ári sveiflazt milli 12,5 og 18,5 mills.

Einnig er áhyggjuefni, að hugsjónamenn stóriðju gera ráð fyrir, að nýtt álver í Straumsvík gleypi flesta hagkvæmustu virkjanakostina. Það þýðir óbeint, að við þurfum síðar að virkja dýrar fyrir okkur sjálf, og hækkar þannig óbeint orkuverð til almennings í framtíðinni.

Aukin byggðaöfund, þensla, mengun og einhæfni og hækkað orkuverð almennings eru atriði, sem við verðum að hafa í huga, áður en við fögnum nýju álveri.

Jónas Kristjánsson

DV

Sanngirni villir sýn

Greinar

Vextir á Íslandi eru sagðir sanngjarnir eða ósanngjarnir eftir sjónarhóli hvers og eins. Sama er að segja um verðtryggingu vaxta og vísitöluna, sem látin er mæla hana. Um fjármagnskostnað af ýmsu tagi ræða menn á þeim grundvelli, að sanngirni þurfi að ráða.

Þeir, sem fylgjandi eru háum eða hærri vöxtum, verðtryggingu og lánskjaravísitölu, ræða gjarna um gamla fólkið, sem hafi með þrotlausri vinnu á langri starfsævi safnað sér til ellinnar og þurfi að sjá óverðtryggt sparifé sitt brenna upp á neikvæðum vöxtum í bönkunum.

Hinir, sem andvígir eru háum eða hærri vöxtum, verðtryggingu og lánskjaravísitölu, sjá allt annað peningafólk gegnum sín gleraugu. Þeir sjá slefandi okrara, sem leika sér að því að eyðileggja framtíð fólks með því að drepa það í skuldadróma frá unga aldri.

Fyrra hópnum finnst sanngjarnt, að sparendur fái umbun erfiðis síns og síðari hópnum finnst ósanngjarnt, að peningamönnum sé gert kleift að níðast á auralausu fólki. Í báðum tilvikum er málið metið á grundvelli þess, hvað sé sanngjarnt og ósanngjarnt.

Sé litið á viðtakendur lánsfjárins, þá sér annar hópurinn gegnum sín gleraugu margs konar gæludýr hins opinbera, fyrirtæki á borð við SÍS og aðra slíka aðila, sem hafa meira eða minna lifað á aðgangi að peningum, sem ekki þurfti að endurgreiða að fullu.

Hinn hópurinn sér aftur á móti vaxtarbrodd atvinnulífsins. Hans gleraugu sýna þjóðhagslega hagkvæmar hugmyndir, sem ekki komast til framkvæmda eða eru kæfðar í fæðingu af hrikalegum fjármagnskostnaði. Enn er talað um, hvað sé sanngjarnt og ósanngjarnt.

Þegar byggt er á slíku gæðamati, er venjulega skammt í handaflslausnir. Vextir eru hækkaðir eða lækkaðir með handafli til að auka sanngirni. Verðtrygging og vísitala eru teknar upp eða afnumdar með handafli til að auka sanngirni. Menn skipuleggja vandamálið.

Í öllum þessum tilvikum er litið á lánsfjármarkaðinn sem ákveðna stærð, sem sé til skiptanna. Síðan er litið á útlönd sem almenna fjáruppsprettu, sem ganga megi í til viðbótar eftir þörfum. Í þessum hugmyndaheimi er gott rúm fyrir mat á sanngirni og ósanngirni.

Í reynd er leitast við að taka frá eins mikið af peningum, sem koma á lánsfjármarkaðinn. Þessu fé er beint í farvegi til gæludýra og forgangsverkefna og gjarna á lágum vöxtum, sem ákveðnir eru með sanngjörnu handafli. Ýmsir opinberir sjóðir gegna þessu hlutverki.

Ennfremur er í reynd leitast við að fá sem mest af peningum frá útlöndum. Sú leið hefur verið ofnotuð svo lengi, að jafnvel sérfræðingum í sanngirni er farið að ofbjóða. Enda erum við nú orðin ein allra skuldugasta þjóð heimsins og senn komin þar á leiðarenda.

Einnig hafa í reynd yfirleitt orðið hlutadrýgst þau sjónarmið, að sanngjarnt sé, að lántakendur borgi hóflega vexti, það er að segja lága. Með því handafli hefur verið dregið úr sparifjármyndun í landinu. Hungrið í lánsfé er alltaf miklu meira en hægt er að seðja.

Þegar saman koma langvinn ofnotkun á erlendu lánsfé, langvinnur forgangur gæludýra og forgangsverkefna að ódýru lánsfé og langvinnir öfugvextir á almennum markaði, verður útkoman óhjákvæmilega óstjórnleg lántökufíkn, sem ekki sefast, þótt vextir hækki um skeið.

Hlutverk stjórnvalda er samt ekki að beita handafli til að auka vaxtasanngirni, heldur að haga svo málum, að meira lánsfé en ella verði til á innlendum markaði.

Jónas Kristjánsson

DV

Algerlega umboðslaus

Greinar

Niður fljótin runnu atkvæðaseðlar, þar sem krossað hafði verið við nöfn frambjóðenda stjórnarandstöðunnar. Á öskuhaugum til sveita fuku slíkir atkvæðaseðlar til og frá. Öllum þekktum leiðum til atkvæðafölsunar var beitt í nýafstöðnum forsetakosningum í Mexíkó.

Glæpaflokkur að nafni Byltingarstofnunarflokkurinn hefur í nærri sex áratugi ráðið ríkjum í Mexíkó í skjóli vinnubragða af þessu tagi. Nokkrum dögum fyrir kosningarnar lét hann myrða manninn, sem sá um eftirlit stjórnarandstöðu með framkvæmd kosninganna.

Hið hefðbundna kosningasvindl nægði ekki til sigurs. Þegar fyrstu tölur komu á borð kosningastjórna, var ljóst, að annar af frambjóðendum stjórnarandstöðunnar, Cuauhtémoc Cárdenas, mundi verða sigurvegari, ef ekki yrði gripið til aukinna og nýrra falsana.

Tæknimenn voru látnir slá nýjar atkvæðatölur inn á talningartölvurnar. Sjálf talningin tafðist í marga daga umfram venju, meðan stjórnin tryggði sínum manni ímyndaðan meirihluta með þessum hætti. Fjöldi útlendinga hefur verið vitni að talningarsvindlinu.

Hægri andstöðuflokkurinn hefur árum saman haft mikið fylgi og sennilega meirihluta í ýmsum norður fylkjum landsins. Það kom þó ekki á óvart, að undir lok talningarinnar birtust þaðan tölur, sem sýndu, að stjórnarflokkurinn hefði hirt nærri allt fylgið.

Þessi grófi endasprettur talningarinnar var talinn nauðsynlegur til að koma Carlos Salinas de Gortari, frambjóðanda glæpaflokksins, yfir 50% atkvæða í forsetakosningunum. Í rauninni fékk hann mun minna, sennilega minnst fylgi frambjóðendanna þriggja.

Salinas mun nú taka við þrælkun 75 milljón Mexikana úr höndum Miguels de la Madrid, sem hér á landi er þekktur fyrir þáttöku í klúbbi nokkurra misindismanna úr þriðja heiminum, sem vilja, með aðstoð Ólafs Ragnars Grímssonar, segja stórveldunum fyrir verkum.

Athyglisvert er, hvernig menn, sem hafa flesta hugsanlega glæpi á samvizkunni, og það í stórum stíl, komast upp með að láta taka sig fullgilda í umheiminum. Fyrirrennari Madrids, Echeverria, lét sig til dæmis dreyma um að verða forstjóri Sameinuðu þjóðanna.

Echeverria, Madrid og Salinas hafa notað og nota enn Mexíkó sem þrælabúðir til að halda uppi glæpaflokknum. Efnahagslíf landsins er meira eða minna ríkisrekið. Forstjórarnir og verkalýðsrekendurnir stela öllu steini léttara og halda fólki í sárustu örbirgð.

Einn versti leikur harðstjóranna í Mexíkó er svipaður og sálufélaga þeirra úti um allan heim, svo sem í Tanzaníu, að raka saman erlendum lánum, sem ekki eru notuð til að bæta hag þjóðarinnar. Í Mexíkó hverfa lánin í gráðugar hendur glæpaflokks Salinas de Gortari.

Þannig stelur Byltingarstofnunarflokkurinn ekki aðeins þeim verðmætum, sem 75 milljón þrælar framleiða, heldur leggur þeim þar á ofan á herðar byrðina af ógreiðanlegum skuldum, sem stofnað er til í Bandaríkjunum og víðar. Ánauðin í Mexíkó verður varanleg.

Við getum harla lítið gert í málum Mexikana. Við getum hins vegar neitað að tala við fulltrúa glæpaflokksins sem umboðsmenn fólksins. Ástæðulaust er fyrir okkur að vera í stjórnmálasambandi við óþokka og þrælahaldara, sem hafa falsað umboðið, er þeir sýna.

Forsetakosningarnar í Mexíkó hafa ekkert gildi annað en að staðfesta fyrir umheiminum, að Carlos Salinas de Gortari er algerlega umboðslaus valdhafi í Mexíkó.

Jónas Kristjánsson

DV

Forneskjan lifir hér

Greinar

Þetta voru dökkklæddir menn, sem töluðu ekki um mat, heldur um afurðir, einingar, flök eða blokkir. Það voru þátttakendur heimsráðstefnu frystiiðnaðar í Nizza, sem alþjóðablaðið International Herald Tribune gerði grín að um daginn í grein yfir þvera baksíðuna.

Með greininni fylgdi skrípamynd eftir Niculae Asciu, sem sýndi dökkklæddu mennina lokaða við frystikisturnar inni í fílabeinsturni sínum, meðan allt iðaði af lífi og fjöri og gerlum á ferskvörumarkaðinum í Cours Saleya, nokkur hundruð metra frá ráðstefnunni.

International Herald Tribune sagði, að frystimennirnir hefðu á ráðstefnunni verið að fárast yfir, að almenningur tæki í vaxandi mæli ferska vöru fram yfir frysta. Bætt flutningatækni og gæðaeftirlit hefur innleitt ferska vöru á ný til vegs og virðingar.

Heimsráðstefna frystimanna hefði átt að fá forneskjuna beint í æð með því að láta sjávarútvegsráðherra Íslendinga segja frá, hvernig hann fór að því að takmarka sölu á ferskum fiski frá Íslandi. Það hefði líklega þítt freðin hjörtu dökkklæddu mannanna.

Heimsráðstefna frystimanna hefði líka átt að fá formann Landssambands íslenzkra útvegsmanna til að segja frá, hvernig honum tækist enn á tölvu- og telexöld að hrúga mestöllum ferskfiski landsins inn á örfáa markaði, í stað þess að haga seglum eftir vindi.

Á sama tíma eru framtakssamir Íslendingar að tengjast gagnabanka, sem gefur upplýsingar um verð morgunsins á fjölda fiskmarkaða, einkum í Evrópu, rétt eins og DV gefur á hverjum degi upplýsingar um verð á innlendu fiskmörkuðunum. Þetta er nýjung hér á landi.

Gagnabankinn leiðir í ljós, að skortur er á ferskum fiski og að verðlag er hátt á flestum mörkuðum, þótt mikið framboð og lágt verð sé á þeim mörkuðum, sem íhaldssamir Íslendingar nota. Aðeins sjö aðilar á Íslandi eru tengdir tuttugustu öldinni á þennan hátt.

Á Bretlandi hefur verð á þorski verið um 87 krónur á kíló að meðaltali síðustu daga. Augljóst er, að íslenzkir ráðherrar, sem skammta útflutning á ferskfiski, valda þjóðarbúinu miklu tjóni, að því er virðist til að þjóna úreltum sérhagsmunum frystiiðnaðarins í landinu.

Verð á innlendum mörkuðum er fremur lágt um þessar mundir, enda er sumum fiskvinnslustöðvum lokað vegna sumarleyfa eða þær hafa ekki fólk til að bjarga fiskinum sómasamlega undan skemmdum. Á sama tíma er þjóðarbúinu neitað um 87 króna verð í Evrópu.

Sjávarútvegsráðherra og utanríkisráðherra eru báðir úr Framsóknarflokknum. Þeir höfðu samráð á föstudaginn um að banna útflutning 550 tonna í þessari viku, en hleypa 650 tonnum í gegn. Með banni einnar viku skaða ráðherrarnir þjóðarbúið um 50 milljónir króna.

Sú hugsun er áleitin, að skemmdarverk ráðherranna sé til að útvega frystihúsum samvinnufélaganna meira af ódýrum fiski. Þeir, sem ekki hlutu náð við hið leynilega skömmtunarborð ráðherranna, telja svo, að fjórir aðilar hafi fengið óeðlilegan forgang í skömmtuninni.

Meðan íslenzkir ráðherrar eru önnum kafnir við að raka saman völdum sem skömmtunarstjórar í eysteinskum stíl og reyra sjávarútveginn í viðjar hafta-, kvóta- og fátæktarkerfis, er komin til sögunnar tækni, sem gerir þjóðinni kleift að nota erlenda markaði.

Næsta heimsþing frystivöru ætti að halda á Íslandi, undir vernd ráðherranna tveggja. Hér á landi ríkir einmitt rétta forneskjan fyrir þing af slíku tagi.

Jónas Kristjánsson

DV

Allir vildu spána kveða

Greinar

Ekki er unnt að sjá, hvern forstjóri Þjóðhagsstofnunar var að reyna að blekkja, þegar hann sagði í yfirlýsingu hér í blaðinu í gær, að nýjasta þjóðhagsspá hefði ekki velkzt um í kerfinu, heldur orðið til á þriðjudaginn var, þegar hún var kynnt ríkisstjórn og fjölmiðlum.

Öllum þeim, sem fylgjast með, var þó kunnugt um, að fyrir þá helgi höfðu bæði forsætisráðherra og fjármálaráðherra komið fram í fjölmiðlum til að ræða innihald þeirrar þjóðhagsspár, sem forstjórinn segir nú, eins og hann sé nýkominn frá Marz, að hafi ekki verið til.

Munurinn á þessu volki þjóðhagsspár og hinum fyrri er, að í þetta sinn tókst pólitískum hagsmunum í ríkisstjórninni ekki að fá spánni breytt, áður en hún var birt almenningi. Stafar það af, að Þjóðhagsstofnun er að reyna að reka af sér orðspor þjónustulundar.

Í þetta sinn verður því að taka meira mark á þjóðhagsspá en löngum áður hefur verið hægt. Hún er ekki lengur eins eindregin stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar og hún hefur allt of oft verið áður. Hins vegar er engin ástæða til að taka hana allt of bókstaflega.

Ef þjóðhagsspáin er skökk, er það ekki í áttina, sem fjármálaráðherra heldur fram. Spáin ofmetur ekki fjárhagserfiðleika ríkissjóðs eða forustu ríkisins í framleiðslu heimatilbúinnar verðbólgu. Hún er ekki of svartsýn, heldur of bjartsýn, ef einhverju skeikar.

Í umræðunni um þjóðhagsspá kemur á óvart, hversu dólgslega fjármálaráðherra hefur haldið fram atriðum, sem ekki er sjáanlegt, að séu annað en algerar firrur og þverstæður. Breytingar á tekjukerfi ríkissjóðs hafa ekki dregið úr tekjum hans, heldur stóraukið þær.

Þótt ríkissjóður sé á hausnum, hafa tekjur hans aukizt um 4,3 milljarða umfram áætlun fjárlaga. Skattheimtan hefur verið langt umfram fyrri venju. Það er einkum vegna eftirminnilegra skattabreytinga, svo sem matarskattsins og staðgreiðslu tekjuskatts og útsvars.

Líta má á spá fjármálaráðherra um enn auknar tekjur síðari hluta ársins sem yfirlýsingu um, að fyrri orð hans séu ómerk, og sem eins konar almenna hótun um, að skattbyrði ársins verði ekki eins þung og hörðustu gagnrýnendur héldu fram í vetur, heldur enn þyngri.

Tekjurnar, sem þegar hafa innheimzt, benda til, að ríkissjóður ætli að taka til sín stærri hlut landsframleiðslunnar en áður hefur tíðkazt, 24,7% í stað 22,4%. Nú er fjármálaráðherra að hóta því, að Íslandsmet hans verði enn stærra, þótt hann hafi áður neitað metinu.

Þessa gífurlegu tekjuaukningu hefur fjármálaráðherra ekki notað til að koma ríkissjóði á réttan kjöl, heldur til að sóa henni í allar áttir og einkum þó í landbúnað, sem er svo þurftarfrekur, að ekki virðast til þeir peningar í heiminum, er hann gæti ekki torgað.

Í stað tekjuafgangsins, sem ráðgerður var, er kominn hálfs milljarðs fjárlagahalli. Þar á ofan er lánsfjáráætlun ríkisins komin þrjá milljarða fram úr áætlun. Í hvorugu tilvikinu eru öll kurl komin til grafar, svo að ástandið á enn eftir að versna, þegar líður á síðari hluta ársins.

Nú síðast er fjármálaráðherra farinn að heimta meira fé úr bönkunum og hótar þeim ella aukinni frystingu sparifjár. Augljóst er, að frystingin fer til verðbólgu hvetjandi verkefna og magnar enn hina gífurlegu samkeppni um rándýrt fjármagn, sem einkennir þjóðfélagið.

Eitt atriði er öruggt í þjóðhagsspánni. Það er, að fjármálaráðherra hefur rækilega misst tökin á starfi sínu. Þess vegna vildi hann fá að ráða niðurstöðum spárinnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Hryðjuverkaríki

Greinar

Hryðjuverkaríkið Ísrael er orðið alvarlegt vandamál og á eftir að versna. Telja má fullvíst, að það búi nú yfir kjarnorkuvopnum, sem það mun nota til að reyna að hræða nágranna sína til hlýðni. Ógnanir eru nefnilega eina umgengnisvenjan, sem Ísraelsríki kann.

Þótt minna hafi frétzt af ógnarstjórn Ísraela á herteknum svæðum, af því að fjölmiðlar hafa ekki staðið sig sem skyldi gegn aðgerðum þarlendra stjórnvalda til að skrúfa fyrir fréttaflutning, hefur ástandið síður en svo batnað. Villimennskan hefur þvert á móti aukizt.

Helzt er hægt að líkja ógnarstjórninni við aðgerðir þýzkra SS-manna á hernumdum svæðum í síðari heimsstyrjöldinni. Með skipulögðum hrottaskap er reynt að kúga almenning til uppgjafar, sem ekki tekst, af því að hryðjuverkaríkið neitar að skilja þjóðfrelsishugsun.

Þetta er sorgarganga, sem hófst, þegar gamlir hryðjuverkamenn á borð við Menachem Begin, Yitzhak Shamir og Ariel Sharon komust til ísraelskra valda í stað siðmenningarfólks á borð við David Ben Gurion, Goldu Meir og Abba Eban. Og sorgargangan er fetuð án afláts.

Siðferðilega er Ísrael hrunið ríki. Það er orðið æxli heimshlutans. Vestræn hugmyndafræði á þar ekki lengur bandamann, heldur ólánsmann, sem kemur óorði á Vesturlönd, því að þar um slóðir er Ísrael álitið vera eins konar skjólstæðingur hins vestræna heims.

Æxlið stafar frá Bandaríkjunum, sem hafa stutt Ísrael í blíðu og stríðu. Herkostnaður hryðjuverkaríkisins er greiddur af bandarískum peningum. Þar vestra má stjórnmálamaður vart opna munninn gegn Ísrael án þess að sæta skipulegum andróðri í næstu kosningum.

Aipac heitir áróðurs-, ímynda- og þrýstistofnunin, sem gætir hagsmuna Ísraels í Bandaríkjunum. Hún virðist hafa heljartök á þarlendum stjórnmálamönnum og mikil áhrif á fjölmiðlun. Aðrar stofnanir af slíku tagi eru sem smáfuglar í samanburði við Aipac.

Engar horfur eru á, að tengsl Bandaríkjanna og Ísraels muni minnka við forsetaskipti vestra. Forsetaefni repúblikana heldur fram óbreyttri stefnu og forsetaefni demókrata hefur gengið úr vegi til að leggja áherzlu á aukinn og óbrigðulan stuðning sinn við Ísraelsríki.

Ísrael mun áfram nota sér bandarísku aðstöðuna til að fara sínu fram og hita undir suðukatli Miðausturlanda. Það mun hafa þau hliðaráhrif að fæla arabíska heiminn enn frekar frá hinum vestræna en þegar er orðið og gera hann róttækari í trú og stjórnmálum.

Í baráttunni um áhrif á hnetti okkar kæmi sér vel fyrir Vesturlönd að ná sómasamlegum tökum á sambúð við arabíska heiminn, svo að þau séu ekki að eyða kröftum í margar vígstöðvar. Vestræn menning og arabísk þyrftu að geta ræktað betur snertifleti sína.

Íslendingar hafa sérstaka ástæðu til að harma ummyndun Ísraels í hryðjuverkaríki, því að löngum var sérstaklega gott samband milli ríkjanna, þegar hinir siðmenntuðu voru enn við völd í Ísrael. En við getum lítið gert, því að Ísraelsmenn vilja ekki hlusta á ráð.

Öðru máli gegnir um Bandaríkin. Þar verða fjölmiðlar og stjórnmálamenn að brjótast undan skoðanakúgun Aipac og fara að átta sig á, hversu grátt Ísraelsríki leikur ímynd og aðstöðu Bandaríkjanna, svo og Vesturlanda allra, í löndum Suðvestur-Asíu og Norður-Afríku.

Ísrael nútímans er lítið, en frekt kjarnorkuríki hryðjuverkamanna, sem eiga eftir að valda okkur miklum og vaxandi vandræðum á næstu árum og áratugum.

Jónas Kristjánsson

DV

Hannes er kominn heim

Greinar

Fjaðrafokið í hænsnabúinu bendir til, að rebbi sé kominn í heimsókn og kjúklingarnir séu hræddir við að vera étnir í þrætubókarlist. Sjálfsagt verða félagshyggjumennirnir að gæta sín, þegar einn frjálshyggjumaður er kominn í deildina til að fokka upp fræðunum.

Þótt flestir geti verið sammála um, að hvergi eigi Hannes H. Gissurarson fremur heima en hjá kennurum félagsvísindadeildar, er eðlilegt, að háskólamenn séu lítið hrifnir af aðferðinni, sem notuð var, ­ að pólitískur ráðherra skipaði pólitískan mann í lausa kennarastöðu.

Allt frá upphafi háskólans hafa menntaráðherrar einstaka sinnum skipað flokksgæðinga í kennarastöður gegn vilja háskólamanna. Bezt væri, að sá kaleikur yrði tekinn frá ráðherrunum og fundin önnur leið til að gæta þeirra sjónarmiða, sem ráðherra ætti að hafa.

Flestir aðrir en starfsmenn háskólans mundu að athuguðu máli telja nauðsynlegt, að fleiri en starfsmenn hans fjölluðu um ráðningu nýrra starfsmanna og réðu jafnvel úrslitum við slíka ákvörðun. En þessi utanaðkomandi aðili þarf ekki að vera pólitískur ráðherra.

Ætla má, að í eðlilegum stofnunum myndist óformlegur klúbbur starfsmanna, sem þekkja hver annan. Þeir taka hver annan fram yfir utanaðkomandi menn og reyna að hagræða málum á þann veg, að slíkt sé fram kvæmanlegt. Afleiðingin er, að þessar stofnanir staðna.

Algengasta aðferðin við að útvega innanhússmanni stöðu í samkeppni við utangarðsmann er að búa stöðuna til á þann hátt, að hún sé klæðskerasaumuð fyrir starfsmanninn. Þannig hafa ýmsir hæfir menn óbeint verið hindraðir í að sækja um stöður við háskólann.

Íslendingar, sem hafa náð langt í starfi fyrir erlenda háskóla og vildu gjarna hverfa heim, þjóðinni til mikils gagns, hafa sumir ekki treyst sér til að sækja um lausar stöður við íslenzka háskólann, af því að stöðuauglýsingar hans eru sniðnar fyrir ákveðna innanhússmenn.

Smíði stöðunnar er miklu virkara tæki að þessu leyti heldur en skipun dómnefnda. Dæmin benda svo líka til, að starfsmenn félagsvísindadeildar hafi óeðlilega háar hugmyndir um getu sína til að vera algerlega óháðir starfsbræðrum sínum, þegar þeir sitja í dómnefndum.

Háskólinn þarf meira en flestar aðrar stofnanir á því að halda, að þangað streymi hæfileikar að utan, úr þjóðlífinu og frá erlendum háskólum. Satt að segja er okkar háskóli að mörgu leyti orðinn mosavaxinn og illa samkeppnisfær, ­ meira að segja í íslenzkum fræðum.

Til þess að hindra háskólann í að verða mosagróinn hvíldarstaður starfsmanna þarf einhver utanaðkomandi aðili að ráða úrslitum, bæði um, hvernig stöður eru auglýstar og hverjir eru ráðnir í þær. Það ætti ekki að vera ráðherrann, heldur valinkunnir menn úti í bæ.

Þessir menn ættu allir að vera gersamlega óháðir háskólanum. Einhverjir þeirra mættu gjarna hafa sýn yfir það, sem er að gerast úti í löndum, og vita um, hvort einhverjir Íslendingar koma þar nærri. Þeir ættu að líta á sig sem mótvægi við klíkuskapinn innanhúss.

Liður í slíku mótvægi fælist í að koma svo sem einum frjálshyggjumanni og doktor á borð við Hannes H. Gissurarson inn í hálfmenntað félagshyggjuhreiður félagsvísindadeildar háskólans, ­ í von um, að rebbi éti ekki öll hænsnin, heldur lífgi bara þrætubókarlistina.

Altjend er Hannes kominn heim. Hann verður félagsvísindadeild háskólans til hressingar og álitsauka, þótt það sé gegn makráðum vilja hennar og háskólans.

Jónas Kristjánsson

DV

Þjóðin vill Jón Helgason

Greinar

Jón Helgason landbúnaðarráðherra hefur hvað eftir annað beygt ráðherra Alþýðuflokksins á eins árs ferli ríkisstjórnarinnar. Hér í blaðinu í dag er rakin þessi harmsaga, sem sýnir, að flestar hinna stórtæku fjárkrafna landbúnaðarins hafa náð fram að ganga.

Fjármálaráðherra varð að fella söluskatt af mjólkurafurðum. Hann varð að falla frá niðurskurði útflutningsbóta og niðurgreiðslna. Hann varð að greiða meiri útflutningsbætur og niðurgreiðslur en fjárlög gerðu ráð fyrir. Hann varð að veita fé aukalega í riðuveiki.

Fjármálaráðherra varð að falla frá tollfrelsi grænmetis. Og þegar hann lækkaði verndartolla á innfluttum kartöflum, setti landbúnaðarráðherra margfalt jöfnunargjald á móti og hafði sitt fram. Og núna um daginn varð fjármálaráðherra enn að auka niðurgreiðslurnar.

Þessi skák Jónanna er ójöfn, því að sætabrauðsarmur Framsóknarflokksins, svokallaður Sjálfstæðisflokkur, stendur jafnan með landbúnaði og gegn neytendum og skattgreiðendum, þegar á herðir. Þannig er ekið langsum og þversum yfir Alþýðuflokkinn í stjórninni.

Utan við ríkisstjórn sitja svo stjórnmálaflokkar á borð við Kvennalista og Alþýðubandalag, sem einnig eru andvígir neytendum og skattgreiðendum, þegar hagsmunir landbúnaðar eru í húfi. Því eru ekki horfur á, að linni kverkataki landbúnaðar á þjóðfélaginu.

Allur þorri stjórnmálaflokka landsins styður ekki að ástæðulausu í reynd fjárkröfur landbúnaðarins á hendur neytendum og skattgreiðendum. Þessir tveir hagsmunahópar eiga sér engan málsvara, ­ engin samtök á borð við þau, sem gæludýrin hafa komið sér upp.

Neytendur eru að því leyti verst settir, að þeir hafa að nafninu til samtök, sem heita Neytendasamtök, en standa í veigamiklum atriðum með landbúnaði og gegn neytendum, þegar á reynir. Um þetta vitnar stefnugrein formannsins í nýútkomnu blaði samtakanna.

Þar segir berum orðum, að Neytendasamtökin styðji innflutningsbann á landbúnaðarvörum meðan innlend gæðaframleiðsla sé til í landinu. En svo vill til, að engin ein aðgerð mundi bæta hag íslenzkra neytenda stórfenglegar en einmitt afnám þessa innflutningsbanns.

Einfalt er að minnast smjörsins. Ef það væri keypt á skynsamlegan hátt í útlöndum, mundi það kosta á borði íslenzkra neytenda tíu sinnum minna en smjörið kostar í dag, auk þess sem kostnaður við niðurgreiðslu þess hyrfi alveg úr byrðum íslenzkra skattgreiðenda.

Svo virðist sem Neytendasamtökin telji sér skylt að bætast í hinn fjölmenna hóp verjenda hagsmuna landbúnaðarins, jafnvel þótt það kosti minni áherzlu á hagsmuni neytenda, sem eiga sér formælendur fáa, ekki einu sinni verkalýðsfélögin, þegar til kastanna kemur.

Í grein formanns Neytendasamtakanna er innflutningsbannið sagt vera annað grundvallaratriðið í landbúnaðarstefnu samtakanna. Hitt grundvallaratriðið er yfirstjórn hins opinbera á málefnum landbúnaðarins, en hún er einmitt hin stóra byrðin á herðum neytenda.

Meðan samtök, sem kalla sig Neytendasamtökin, haga sér eins og útibú frá landbúnaðinum, er engan veginn unnt að vona, að öflugir stjórnmálaflokkar sjái sér hag í að hætta að sparka í neytendur, þegar hagsmunir þeirra og landbúnaðarins stangast á.

Niðurstaðan er, að þjóðin styður landbúnað gegn neytendum og skattgreiðendum. Ráðherrar, sem halda annað, verða að beygja sig fyrir Jóni Helgasyni.

Jónas Kristjánsson

DV

Sitja kyrrir og kasta sandi

Greinar

Sandkassaslagurinn í ríkisstjórninni hefur verið harðari að undanförnu en nokkru sinni fyrr og er þá mikið sagt. Munurinn á þessu sandkasti og hinum fyrri er, að forsætisráðherra hefur hætt að leika friðsaman fundarstjóra og er farinn að taka þátt í slagnum.

Hingað til hefur ríkisstjórnin hangið saman á fundarstjóranum, sem hefur séð um, að mál fengju afgreiðslu, þótt smákóngarnir í kringum hann steyttu hnefann hver framan í annan. Nú, þegar hann er hættur að sitja á friðarstóli, er farið að spá endalokum stjórnarinnar.

Forsætisráðherra segir formann þingflokks Framsóknar vera með ómálefnalegan skæting; flokkinn vera með kröfur um vinstristjórnarmennsku, sem ekki verði sinnt; utanríkisráðherra vera að búa til ágreining út af engu; og gelt framsóknarhvolpa sé ekki svaravert.

Allt eru þetta þung orð, sem gætu hentað vel í efnislegri gagnrýni úti í bæ, svo sem í leiðara dagblaðs. Hins vegar eru þau óvenjuleg í munni þess, sem hefur meðal annars það verkefni að stýra fundum þeirra manna, sem hann telur eiga skilið svona hvassa umfjöllun.

Hin nýfengna orðgnótt forsætisráðherra er skýrð á þann hátt, að hann sé í rauninni varfærinn geðprýðismaður, seinþreyttur til vandræða, en hafi loksins látið ganga fram af sér hinar stöðugu árásir framsóknarmanna á meðreiðarmenn sína í ríkisstjórninni.

Forsætisráðherra hefur í rauninni áttað sig á, að Framsóknarflokkurinn og Steingrímur Hermannsson hafa skapað sér þægilega sérstöðu í stjórninni. Sérstaðan hefur gert flokknum kleift að halda fylgi í skoðanakönnunum, þótt öðrum stjórnarflokkum vegni miður.

Sérstaða Framsóknarflokksins felst annars vegar í, að hann gerir harðar kröfur fyrir hönd gæludýra sinna og fær þeim framgengt um síðir, svo sem dæmin sanna í landbúnaði. Hins vegar leikur hann hlutverk andstæðings eða hlutlauss áhorfanda innan ríkisstjórnarinnar.

Sérstöðuleikur er stundaður meira eða minna af öllum aðilum ríkisstjórnarinnar. Ráðherrar eru meira að segja farnir að bera fram mál á þingi, án þess að um þau sé samkomulag í ríkisstjórninni. Ráðuneytin koma í vaxandi mæli fram sem sjálfstæð og óháð ríki.

Ágreiningur hefur verið í vetur um fjárlög, matarskatt, húsnæðislánakerfi, sýslumannastörf, útgerðarkvóta, vexti og verðtryggingu, og svo auðvitað um allan skattfjárausturinn í landbúnað, svo að fræg dæmi séu nefnd. Slíkur ágreiningur mun halda áfram í haust.

Í flestum ágreiningsmálunum hefur niðurstaðan orðið sú, að ráðherra málaflokksins hefur fengið sínu framgengt. Þetta hefur einkum skipt miklu í landbúnaði. Á því sviði hefur ráðherranum tekizt að vinna hverja einustu orrustu við ráðherra Alþýðuflokksins.

Þótt stríðið innan ríkisstjórnarinnar hafi magnazt með þáttöku forsætisráðherra, er ekki þar með sagt, að hún sé nær falli en hún var á slagsmálatímum í vetur. Raunar má segja, að hún sé orðin svo vön ágreiningi, að hún hafi lært að búa við hann ­ sé orðin ónæm.

Við megum ekki gleyma, hversu mikill viðloðunarkraftur felst í sambandi ráðherra og stóls, þegar þeir fara að gróa saman. Það er ánægjulegra að vera ráðherra í sundurþykkri óstjórn, en að vera einn leiðtoga stjórnarandstöðunnar, hrópandi úti í eyðimörkinni.

Vegna þess, sem hér hefur verið rakið, verður sandi áfram kastað í sandkassanum, en stjórnin mun sitja áfram lengi enn og halda áfram að skaða þjóðarhag.

Jónas Kristjánsson

DV

Alfaðir kvótanna

Greinar

Varðgæzlumenn kvótakerfa sjávarútvegsráðherrans treysta sér ekki til að andmæla rökum gegn þeim. Þeir játa meira að segja annmarka kerfanna, en segja þau varðveita byggðastefnu og vera smíðuð eftir margvísleg samráð við ýmsa aðila, sem hagsmuna hafi að gæta.

Sjávarútvegsráðherra er vanur að tefla saman ýmsum hagsmunum í svokölluðu samráði hans við sjávarútveg. Í samráðinu er reynt að finna leið, sem veldur öllum hagsmunaaðilum nokkrum vandræðum, en engum aðila yfirþyrmandi miklu meiri vandræðum en öðrum.

Niðurstaðan er jafnan sú, sem sótzt er eftir í sjávarútvegsráðuneytinu og í Landssambandi íslenzkra útvegsmanna. Með lögum og reglugerðum er sjávarútvegsráðherra “heimilað” að stjórna eftir eyranu hverju sinni. Geðþótti ráðherra leysir fastar leikreglur af hólmi.

Rækjukvótinn er gott dæmi um þetta ástand, sem fullkomnazt hefur í tíð núverandi sjávarútvegsráðherra. Á grundvelli samanlagðra byggðahugsjóna eru útvegaðir ódýrir forgangspeningar á allt of marga staði, sem síðan sitja uppi með ónotaða framleiðslugetu.

Þá er komið á fót opinberu kvótakerfi til að bjarga málunum fyrir horn. Hinn mikli alfaðir í sjávarútvegsráðuneytinu, sjálfur ráðherrann, situr með sveittan skallann við að finna af innsæi sínu, hverjir eigi skilið 500 tonna kvóta og hverjir eigi skilið 2000 tonna kvóta.

Enginn má heyra minnzt á, að ekki hefði átt að útvega með handafli alla þessa ódýru peninga til að búa til offramleiðslugetu í rækjunni. Slík rök eru talin vera villutrú, er stríði gegn byggðastefnu, sem í íslenzkum sið jafngildir fyrsta boðorðinu í kristnum sið.

Þannig er búin til ein tegund byggðagildru. Sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklingar, sem falla undir byggðastefnu, fá tækifæri til að taka á sig skuldabagga, sem síðan verða svo yfirþyrmandi, að fólk verður að flýja staðinn og alla offjárfestinguna, sem þar liggur.

Allt er þetta svo rökfræðilega allsnakið, að ráðherrann hefur neyðzt til að finna ný nöfn til að dylja ofskipulagið. Kvótinn má til dæmis ekki lengur alltaf heita kvóti. Orðaleikir ráðuneytisins minna á landbúnaðinn, þar sem kvótinn heitir fullvirðisréttur eða búmark.

Fyrir helgina var settur kvóti á útflutning ferskfisks, þótt verð hans á erlendum markaði sé hátt í samanburði við vinnslufisk og þótt verðið hafi einmitt hækkað þá í vikunni. Þetta var gert til að framleiða verkefni handa fiskvinnslustöðvum, ­ “fullvinna” aflann heima.

Sjávarútvegsráðherrann sagði, að þessi kvóti væri raunar alls ekki kvóti, enda væri raunar óheppilegt að hugsa um kvótann sem kvóta. Þetta væri bara takmörkun á ferkfiskútflutningi við 600 tonn á viku. Það er helmingur af því, sem hefði orðið án afskipta ráðherrans.

Athyglisvert er, að sjávarútvegsráðherra og helztu varðgæzlumenn kvótakerfa hans viðurkenna, að Nýsjálendingar hafa komizt framhjá verstu göllum okkar fiskveiðikvóta og búa við hagkvæmara kerfi. En það samrýmist bara ekki okkar byggðastefnu, segja þeir svo.

Með þessu eru þeir að saka byggðastefnu um, að hún valdi tjóni víðar en í hefðbundnum landbúnaði og loðdýrarækt. Þeir eru að segja, að ekki megi reka hér hagkvæman sjávarútveg, af því að það geti skaðað fámenn kauptún. Hvað má þá gera á arðbæran hátt hér á landi?

Þegar við höfum losnað við alföðurinn úr ráðuneytinu, verður mikið verk að hreinsa brott alla kvótana, sem hann hefur í góðsemi hert að hálsi sjávarútvegs.

Jónas Kristjánsson

DV

Nýsjálenzkur gustur

Greinar

Nýsjálendingar voru fyrir sex árum komnir í svipaðan sjávarútvegsvanda og við erum í. Þeir ofveiddu fiskinn og höfðu samt lítið upp úr krafsinu. Þeir voru hins vegar svo gæfusamir að taka þá upp kvótakerfi, sem er miklu betra en okkar og gerði útgerð þeirra arðbæra.

Veigamesti munur nýsjálenzka og íslenzka kerfisins er, að þar er frjáls markaður með kvótann. Hann gengur kaupum og sölum eins og hver vill, að öðru leyti en því, að útlendingar mega mest eiga 50% í hverri útgerð. Árangurinn er frábær og minnir helzt á kraftaverk.

Hér hins vegar er drottnunargjarn sjávarútvegsráðherra látinn skammta kvótann á nokkurra ára fresti eftir flóknum reglum og enn flóknari undantekningum. Sú aðferð hæfir þjóðfélagi, þar sem almenningur telur embættismenn hæfasta til að reka atvinnulífið.

Annar mikilvægasti munur nýsjálenzka og íslenzka kerfisins er, að þar er kvótinn ekki miðaður við skip. Þar þurfa menn því ekki eins og hér að liggja á gömlum manndrápsfleytum eða komast yfir þær með ærnum tilkostnaði til að halda kvóta eða komast yfir hann.

Hitt skiptir svo minna máli, hverjum upphaflega var úthlutaður kvótinn í gamla daga á Nýja-Sjálandi. Það er orðin sagnfræði, því að 20% kvótans ganga kaupum og sölum á hverju ári. Einhverjir hafa þénað vel fyrir sex árum, en nú er það þjóðfélagið, sem þénar mest.

Árum saman hefur hér í blaðinu og af mörgum fleiri aðilum verið mælt með, að íslenzki kvótinn færi á frjálsan markað. Ragnar Árnason lektor hefur lagt til, að hver einasti Íslendingur fái eignarbréf upp á sinn hluta kvótans til ráðstöfunar að sínum eigin geðþótta.

Slíkt hljómar eins og klám í eyrum Framsóknarmanna allra flokka og ráðuneyta, sem vilja hafa vald til að deila og drottna. Þeir vilja hafa einhvern guð almáttugan á borð við núverandi sjávarútvegsráðherra til að skammta brauðið ofan í gæludýr og útigangshross.

Hinn þriðji meginmunur nýsjálenzka kerfisins og hins íslenzka er, að þar er kvótinn ekki ókeypis, heldur tekur samfélagið af honum leigugjald eða skatt. Það minnir á tillögur um sölu veiðileyfa, sem mætustu menn hafa löngum lagt til, að komið verði á fót hér á landi.

Raunar er ekkert í nýsjálenzka kerfinu, sem ekki hefur verið tönnlast á hér á landi árum saman. Í þeirra gæfu er ekkert, sem meinar hana Íslendingum. Með hæfari útvegsráðherrum og hæfari oddamönnum hagsmunaaðila hefðum við getað náð nýsjálenzkum árangri.

Þar hefur fækkað skipunum, sem gerð eru út. Það hefur lækkað fastakostnað útgerðarinnar langt umfram leigugjaldið, sem tekið er. Allir hafa grætt á þessu, sjómenn, útvegsmenn, fiskvinnslan og samfélagið. Enginn vill þar í landi snúa frá þessu hagkvæma frelsi.

Frjáls verzlun með kvóta er leið markaðskerfisins að þeim árangri, að beztu skipin séu notuð og að þar stjórni beztu skipstjórarnir, sem hafi sér við hlið beztu áhafnirnar og hafi beztu útgerðarstjórana sér til halds og trausts í landi. Þetta getur orðið raunveruleiki hér.

Komu Nýsjálendinga til Íslands á ráðstefnu um kvóta fylgir hressilegur gustur, sem feykir burt mollunni, sem gufað hefur upp af skrifborðum mæðulegra skömmtunarstjóra í sjávarútvegsráðuneyti og í skrifstofum hagsmunaaðila og lagzt yfir íslenzkan sjávarútveg.

Leggja þarf niður samráðin í kjaftaklúbbum sjávarútvegsráðherrans og gefa kvótann frjálsan, svo að menn fái loksins frið til að ganga til arðbærra verka sinna.

Jónas Kristjánsson

DV

Sjá ekki eigin hag

Greinar

Einn helzti vandi okkar sem þjóðar er, að við erum yfirleitt ófáanleg til að líta pólitískt á okkur sem neytendur og skattgreiðendur. Fólk greiðir atkvæði á ýmsum forsendum, allt öðrum en þessum. Stundum eru hagsmunir að baki, en þá allt aðrir en þessir.

Við greiðum ekki lengur atkvæði í kosningum á grundvelli vanans. Liðin er sú tíð, að stjórnmálaviðhorf gengu í ættir og að kosningastjórar gátu nokkurn veginn nákvæmlega getið sér til um niðurstöðutölur kosninga. Núna rambar stór hluti kjósenda milli fylkinga.

Að einhverju leyti kunna hugsjónir að hafa komið í staðinn. Það er kannski helzta skýringin á lélegum árangri af pólitískri þátttöku almennings. Það er ekki gæfulegt að láta stjórnast af ýmsum hugsjónaklisjum á borð við þær, sem við lesum í leiðurum sumra blaða.

Þegar fólk trúir til dæmis, að brýnt sé, að “fullvinna” afla hér á landi, að hamla gegn “röskun” á búsetu og að búa við innlent “matvælaöryggi”á ófriðartímum, er fljótlega kominn saman eins konar fátæktar- og Framsóknarpakki í pólitískum trúarbrögðum.

Að öðru leyti hafa hagsmunir komið í stað hefðbundinna og ættgengra hugsjóna. Þeir hafa raunar alltaf staðið við hlið hugsjóna og tengst þeim mjög náið. Þannig hafa byggðahagsmunir og byggðahugsjónir runnið saman í órjúfanlega og allsráðandi heild.

Þessi heild vinnur í flestum tilvikum gegn hagsmunum þeirra, sem af hagsmunaástæðum styðja allan byggðapakkann. Íbúar Akureyrar, Ísafjarðar, Reyðarfjarðar og Vestmannaeyja eru ekki aðallega landsbyggðarfólk, heldur einnig neytendur og skattgreiðendur.

Kaupmætti íbúa þessara staða er haldið niðri eins og kaupmætti annarra Íslendinga með banni við innflutningi á þeim landbúnaðarafurðum, sem eru í samkeppni við afurðir innlends landbúnaðar. Þetta bann, sem flestir styðja, kostar alla miklar fjárhæðir.

Margfalt fleiri eru milljarðarnir, sem landsbyggðarfólk fórnar árlega á altari þeirrar sjálfsmennskustefnu í landbúnaði, er felst í innflutningsbanni, en þeir, sem það fær til baka í niðurgreiðslum. Það eru ekki bara Reykvíkingar, sem tapa á að neita sér um ódýra búvöru.

Kaupmætti íbúa Akureyrar, Ísafjarðar, Reyðarfjarðar og Vestmannaeyja er líka haldið niðri með flóknu styrktarkerfi, sem einkum beinist að landbúnaði. Þetta kerfi er stór liður hinna sameiginlegu útgjalda, sem þjóðin reiðir af hendi í síhækkandi óhófssköttum.

Margfalt fleiri eru milljarðarnir, sem landbyggðarfólk fórnar árlega í uppbætur, niðurgreiðslur og beina styrki til framkvæmda og rekstrar á sviðum, er falla undir hinar ráðandi pólitísku hugsjónir í landinu, en þeir, sem það fær hugsjónanna vegna til baka í staðinn.

Akureyringar, Ísfirðingar, Reyðfirðingar og Vestmannaeyingar eru ginntir til fylgis við gæludýrafóðrun kerfisins með því að hengja hana á almenna landsbyggðarhugsjón, sem ætlað er að hamla gegn ofurvaldi Reykjavíkur, er sögð er liggja uppi á landsbyggðinni.

Íbúar sjávarsíðunnar úti á landi eru ófáanlegir til að líta á hina yfirþyrmandi hagsmuni sína sem neytendur og skattgreiðendur, en þeim mun fúsari að gína yfir ruðunum, er þeir fá af hagsmunagæzluborði landsbyggðarstefnu, þar sem landbúnaður situr í hásæti.

Lífskjör við sjávarsíðuna munu þá fyrst taka stökk fram á við, þegar íbúar hennar átta sig á þungu vægi hagsmuna sinna sem neytendur og skattgreiðendur.

Jónas Kristjánsson

DV

Hér hafa þeir hitann úr

Greinar

Freðfisksalar Íslendinga í Bandaríkjunum eru loksins byrjaðir að segja frá viðskiptatjóni vegna hvalveiðihugsjónar sjávarútvegsráðherra og meirihluta íslenzku þjóðarinnar. Til skamms tíma báru freðfisksalarnir sig vel, en eru nú byrjaðir að kveina í viðtölum á prenti.

Um helgina kom fram, að stór skyndibitakeðja hafði gert drög að samningi við Coldwater um að kaupa töluvert magn fiskbita. Á síðustu stundu hættu skyndibitamenn við að skrifa undir og sögðust ekki þora að kaupa af Íslendingum af ótta við missi viðskiptavina.

Freðfiskmarkaðurinn í Bandaríkjunum hefur áratugum saman verið hornsteinn útflutningstekna Íslendinga. Hann hefur látið á sjá á síðustu árum vegna aukinnar samkeppni annarra freðfiskþjóða og lækkaðs verðgildis dollarans. Nú bætist hvalveiðin við vandann.

Við eigum undir högg að sækja í fisksölu víðar en í Bandaríkjunum. Í Kanada og Vestur-Þýzkalandi hafa verið sýndar sjónvarpsmyndir af iðandi hringormum í fiski frá Íslandi. Þessar myndir fæla suma neytendur frá íslenzkum fiski og raunar frá fiski yfirleitt.

Andstæðingar hvalveiða hafa áttað sig á, hversu viðkvæmir markaðir okkar eru fyrir kvikmyndum af þessu tagi. Þeir hafa imprað á hótunum um að stuðla að frekari framleiðslu slíkra mynda og dreifingu þeirra á almennum markaði, en ekki komið því enn í verk.

Meiri áherzlu hafa þeir lagt á að hafa upp á íslenzku hvalkjöti í gámum í evrópskum höfnum, þar sem það er á leið til Japans. Þeim hefur tekizt að vekja almenna og neikvæða athygli í Þýzkalandi og Finnlandi á hvalveiðum okkar og tilraunum til að smygla hvalkjöti.

Erfitt hefur verið að sannfæra Þjóðverja og Finna um, að okkur beri skylda til að reyna að brjóta þarlend lög um flutninga á hvalkjöti um þarlendar hafnir. Þeir skilja ekki, hvaða brennandi hugsjónir knýja okkur til að ofbjóða gömlum kunningsskap við þessar þjóðir.

Hvalveiðar Íslendinga má einmitt flokka sem hugsjón fremur en atvinnugrein, á svipaðan hátt og einn helzti hagfræðingur Íslendinga flokkaði nýlega landbúnað sem listgrein fremur en atvinnugrein. Hugsjón hvalveiða á sér djúpar rætur í þrjózkum þjóðarvilja okkar.

Hvalveiðar eru orðnar nánast alveg marklaus þáttur í atvinnulífi okkar, enda er hvalafjöldinn, sem Bandaríkjastjórn heimilar okkur að veiða, orðinn svo lítill, að veiðarnar og vinnslan geta ekki talizt arðbær. Samt er eitthvað brýnt, sem knýr okkur til að halda áfram.

Í fyrsta lagi er útvegsráðherra okkar og raunar þjóðarmeirihluti haldinn brennandi vísindaáhuga á hinu afmarkaða sviði. Hugsjónafólkið talar um “vísindaveiðar” af slíkri innlifun, að telja verður vísindi vera forsendu iðjunnar, sem spillir fiskmörkuðunum.

Hvorki ráðherrann né meirihlutinn hafa nokkru sinni sýnt minnsta áhuga á vísindaafrekum á öðrum sviðum íslenzks atvinnulífs. Gott er því, að til sé þó eitt svið vísinda, þar sem við erum reiðubúin að fórna miklu fé og mikilli erlendri virðingu til að ná árangri.

Í öðru lagi er meirihluti þjóðarinnar afar andsnúinn því, að útlendingar séu að segja okkur fyrir verkum, og allra helzt, ef það er að undirlagi ríkra, bandarískra kerlinga, sem borgi brúsann fyrir Watson og grænfriðunga. Þetta telja menn árás á sjálfstæði Íslendinga.

Hugsjónir vísindaveiða og þjóðrækni munu vafalaust verma hjörtu ráðherra og þjóðar, þegar fiskmarkaðir hafa hrunið og lítið annað verður að orna sér við.

Jónas Kristjánsson

DV

Skipulögð skuldasöfnun

Greinar

Skiljanlegt er, að ríkisstjórnin reyni að hamla gegn óskum fyrirtækja um að fá að taka ódýr lán í útlöndum í stað dýrra eða alls engra lána á innlendum markaði. Lánsumsóknirnar í viðskiptaráðuneytinu eru komnar upp í átta milljarða króna, sem er hrikaleg tala.

Ríkisstjórnin er að reyna að halda niðurstöðutölu lánsheimildanna í hálfum öðrum milljarði króna. Það er aðeins lítill hluti af heildarupphæð umsóknanna og hefur samt í för með sér hækkun erlendrar lántöku ársins úr 9,2 milljörðum króna í 10,8 milljarða.

Þótt þannig takist að halda erlendu lántökunum í nokkrum skefjum, verða erlendar skuldir þjóðarinnar komnar yfir 110 milljarða í árslok. Það jafngildir 1,7 milljónum króna á hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu, svo að notaður sé auðskiljanlegur mælikvarði.

Engin fátæktarþjóð heims er jafnskuldug við útlendinga og við erum hér á landi. Fólkið í Costa Rica, Nicaragua og Jamaica stendur okkur langt að baki. Helzt er það styrjaldarþjóðin Ísraelar, sem nálgast okkur, en hún hefur ótæmandi fjáruppsprettur í Bandaríkjunum.

Vegna mikillar þjóðarframleiðslu höfum við lengi haft betri aðstöðu en flestir aðrir til að standa undir skuldum. Sú aðstaða er þó farin að versna á nýjan leik eftir nokkurra ára stöðugleika. Í ár hækka heildarskuldirnar úr 40% af þjóðarframleiðslu ársins upp fyrir 45%.

Byrðin, sem við berum af vöxtum og afborgunum þessara miklu skulda, hefur að undanförnu numið um 16% af útflutningstekjum, en fer í ár upp í 20%. Með öðrum orðum fór sjötta hver króna útflutningstekna í rekstur skulda, en í ár fer fimmta hver króna í þá hít.

Í ljósi þessara alvarlegu staðreynda kann að koma á óvart, að mælt sé með, að stjórnvöld láti af stjórn á erlendum lántökum. En staðreyndin er þó sú, að hið opinbera skipulag, sem við búum við, kallar einmitt á meiri þrýsting á lántökur í útlöndum en góðu hófi gegnir.

Með opinberum bankaábyrgðum tekur þjóðin óbeint á sig ábyrgð af skuldum, sem fyrirtæki og stofnanir efna til í útlöndum. Ef þjóðin tæki sem heild enga ábyrgð á þessum skuldum, er líklegt, að hinir erlendu aðilar mundu aðeins lána þeim, sem þeir teldu trausta lántaka.

Þar með mundi hin meinta lánaþörf grisjast verulega. Auk þess mundu lánin ekki endurgreiðast, ef fyrirtækin færu á höfuðið. Þetta er hinn eðlilegi gangur lífsins. Skömmtunarkerfi bankaábyrgða er hins vegar dæmi um óheilbrigt ofskipulag af hálfu hins opinbera.

Í rauninni hafa stjórnmálaflokkarnir búið til sóunarkerfi, sem gerir gæludýrum þeirra í efnahagslífinu kleift að fá ódýr lán í útlöndum á ábyrgð þjóðarheildarinnar. Það kerfi þarf að afnema og gera lántakendur sjálfa ábyrga fyrir sínum lántökum. Þá mundi þörfin minnka.

Framundan er mikil dýrð gæzlumanna hinna pólitísku hagsmuna í bönkunum. Þeir fá enn eitt tækifærið til að deila og drottna. Einn bankastjórinn sagði í viðtali við DV í vikunni: “Það er náttúrlega alltaf hættan sú, að amlóðarnir verði látnir sitja fyrir.”

Í heild má segja, að árátta stjórnmálamanna við að deila og drottna hafi búið til óeðlilega mikinn þorsta í erlend lán og hlaðið upp óhóflegum skuldum þjóðarinnar í útlöndum. Hin væntanlega úthlutun leyfa upp á einn til tvo milljarða er angi af þessari spillingu.

Vandinn felst ekki í frelsi fólks til að taka lán, heldur í pólitísku valdi til að búa til ódýr lánakjör, sem skekkja jafnvægið og drekkja þjóðinni í óþarfri skuldasúpu.

Jónas Kristjánsson

DV

Sterk stjórn í vændum

Greinar

Stundum sakna menn hinna sterku ríkisstjórna, sem þeir telja, að hafi oftar verið myndaðar fyrr á árum, þegar stjórnmálaflokkar voru færri á þingi. Eiga menn þá við tveggja flokka stjórnir, sem hafa orðið fátíðar á síðari árum og eru orðnar fegurri í fjarlægð tímans.

Umræða af þessu tagi vaknar einkum, þegar við völd er veik stjórn margra flokka eins og sú, sem nú situr. Auðvelt er að sjá, að núverandi ríkisstjórn veldur ekki hlutverki sínu og er raunar hin þyngsta byrði á þjóðinni. Ósamkomulag og hrossakaup einkenna hana.

Aðstæður eru þannig, að þjóðin gæti fengið hina svokölluðu sterku ríkisstjórn, ef gengið yrði til kosninga innan tíðar. Skoðanakannanir í vetur og vor hafa kerfisbundið leitt í ljós, að tveir stjórnmálaflokkar gnæfa í fylgi yfir aðra flokka. Þeir hafa 30% fylgi hvor um sig.

Sjaldgæft hefur verið í stjórnmálasögu landsins, að unnt væri að mynda tveggja flokka ríkisstjórn með samtals 60% fylgi að baki sér. Það getur orðið kleift eftir næstu kosningar, ef Sjálfstæðisflokkurinn og Kvennalistinn ná saman um myndun nýrrar ríkisstjórnar.

Svo sérkennilega vill til, að þessum tveimur stjórnmálaöflum svipar saman um margt. Er þá annars vegar miðað við reynsluna, sem fengizt hefur af aðild Sjálf stæðisflokksins að ríkisstjórnum, og hins vegar spáð í, hver framkvæmdin yrði á stjórnaraðild Kvennalistans.

Báðum flokkum svipar í reynd til Framsóknarflokksins. Í núverandi ríkisstjórn stendur Sjálfstæðisflokkurinn jafnan með sérhagsmunum gegn almannahagsmunum og yfirbýður jafnvel Framsóknarflokkinn í fyrirstöðu, þegar Alþýðuflokkurinn vill minnka spillingu.

Þessi aðgreining núverandi stjórnarflokka skiptir að vísu ekki miklu í raun, því að Alþýðuflokkurinn hefur lítið úthald. Ráðherrar hans láta sér nægja að þjarka um tíma út af fyrirgreiðslum á borð við þær, sem landbúnaðurinn vill fá um þessar mundir og mun fá.

Hins vegar má treysta því, að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins vilja, að sérhagsmunir eins og landbúnaðarins fái sitt á hreint og þá auðvitað á kostnað almannahagsmuna eins og neytenda og skattgreiðenda. Þetta kemur fram í deilum ríkisstjórnarinnar þessa dagana.

Sjálfstæðisflokkurinn má ekkert aumt sjá í atvinnulífinu. Hann leyfði Framsóknarflokknum að gera hinn illræmda búvörusamning til fjögurra ára. Þingmenn hans eru jafnan fremstir í flokki í fyrirgreiðslum vegna staðbundinna vandamála í lélegum fyrirtækjum.

Einnig Kvennalistinn líkist Framsóknarflokknum og má ekki sjá neitt aumt í atvinnulífinu. Hann mun styðja fjárveitingar, sem ætlað er að tryggja búsetu bændakvenna í sveitinni, stöðu frystihúsakvenna við færiböndin og setu prjónakvenna við prjónavélarnar.

Kvennalistinn og Sjálfstæðisflokkurinn mundu í ríkisstjórn sameinast um stefnu Framsóknarflokksins og veita fjármagni úr arðbærum rekstri yfir í arðlausan rekstur til þess að konur geti fengið hærra kaup fyrir arðlaus störf við færibönd, prjónavélar og búskap.

Ríkisstjórn Kvennalista og Sjálfstæðisflokks gæti orðið eindræg og sterk ríkisstjórn, eins konar hæna, sem breiddi vængi sína yfir gæludýrin, og sendi síðan reikninginn til neytenda og skattgreiðenda, sem jafnan verða að borga fyrir takmarkalitla gæzku stjórnmálaflokka.

Þjóðin lítur aldrei á sig sem neytendur og skattgreiðendur og fær eftir næstu kosningar ríkisstjórn, sem hún á skilið, sterka gæzlustjórn sérhagsmuna gæludýranna.

Jónas Kristjánsson

DV