Author Archive

Kaupmannahöfn veitingar

Ferðir

Mikil breyting hefur orðið í veitingamennsku Kaupmannahafnar, síðan fyrsta útgáfa þessarar bókar var rituð. Þar hefur á síðustu fimm árum orðið hliðstæð bylting nýfranskra áhrifa og varð um svipað leyti á Íslandi. Danir hafa lagað hefð sína að nýjum siðum og bjóða nú betri mat en nokkru sinni fyrr.

Fyrst segjum við frá tveimur stöðum, sem við höfum tekið sérstöku ástfóstri við. Síðan víkur sögunni að hinum matargerðarmusterunum fjórum. Þá er röðin komin að ýmsum öðrum góðum og skemmtilegum matstofum. Loks fjallar lengsti hluti kaflans um hina beztu af einkennis-matsölum Kaupmannahafnar, ódýru hádegisverðarstöðunum.

Els

Eitt notalegasta veitingahús Danmerkur er Els við Store Strandstræde, rétt við hornið á Kongens Nytorv. Húsið og innréttingin eru frá 1853, þar á meðal hinn glæsilegi, næstum austurríski kaffihúsastíll. Til skamms tíma lifði Els á fornri frægð, en fyrir nokkrum árum hélt nýja, létta matreiðslan þar innreið sína og staðurinn skauzt upp á tindinn á nýjan leik.

Einn bezti kostur Els er þó, að gæði innréttinga, matreiðslu og þjónustu endurspeglast ekki í verðlagi. Veitingastofan er mun ódýrari en aðrar í sama gæðaflokki matreiðslu. Raunar er verðlagið í Els undir meðalverði í Kaupmannahöfn.

Skemmtilegust er innréttingin í innri salnum, þar sem sex stórar myndir eru málaðar beint á tréveggina og hafa verið gerðar svo vel upp, að þær eru eins og nýjar. Á borðplötum úr bláum flísum með tréramma í kring eru logandi kerti, einnig í hádegi. Gólfið er teppalagt. Yfir öllu hvílir rólegur og virðulegur bragur, sem magnar síðan matarstemmningu við góða þjónustu og óvenju góðan mat.

Í Els er að góðum sið skipt um matseðil tvisvar á dag. Síðast prófuðum við í forrétt ágætt perluhænsnasalat með hunangs- og appelsínusósu og frábæra, heita fiskirjómasúpu með sveppum og jurtum, í aðalrétt bragðmikið, fyllt langlúruflak með laxafroðu og laxahrognum og góðan turnbauta af Charolais-nauti með jurtakássu og tómötum, og loks í eftirrétt mjög góða ferskjuköku með sólberjamauki og jarðarberjum og enn betri koníakstertu með rjóma og ferskum bláberjum.

Áður höfðum við fengið í sex rétta veizlu reyktan lax með svartsveppum, þykkvalúru í koníakssoði, sítrónu-kraumís með kampavíni, hjartarhryggjarsneið með svartsveppum í madeira, fjallaost með vínberjum og val af eftirréttavagni. Vínlistinn er langur og girnilegur.

Hádegissnarl kostaði DKK 93 á mann, kvöldverðarveizla DKK 261 og sex rétta veizla DKK 445. Nauðsynlegt er að panta borð, einnig í hádeginu.

(Els, Store Strandstræde 3, sími 14 13 41, opið mánudaga-laugardaga 11:30-15 og 17:30-22, sunnudaga 12-15 og 17:30-22, D3)

Remis

Annar óskastaður okkar er hinn nýi veitingakjallari meistarkokksins René Bolvig við Badstuestræde, rétt við Strikið. Þar er kominn til skjalanna einn af allra beztu matreiðslumönnum Dana, sem áður gerði garðinn frægan á Leonore Christine. Hann býður framúrskarandi málsverð og góða þjónustu á lægra verði en gengur og gerist í Kaupmannahöfn.

Að innan er litli veitingasalurinn látlaus, en stranglega stílhreinn og fagur, með gráleitum veggjum, teppi á gólfi og marmarastíl í diskum. Bolvig er sjálfur mikið á ferðinni inni í sal til að færa gestum rétti og ræða við þá. Matseðillinn er stuttur, en býr þó yfir ýmsu óvenjulegu. Vínseðilinn er ekki síður girnilegur.

Okkur var boðið upp á mjög gott humar-lasagne með sveipjurtum og blóðbergi, svo og kræklingakremsúpu í forrétt; í aðalrétt frábærar krónhjartar-lærissneiðar með steinseljusoði og steinseljurót, svo og lax, ofnsoðinn í eigin soði, með graslauk og sítrónusteiktri rauðrófu; og í eftirrétt indælis súkkulaði-smákökur með aprikósu, peru og blóðappelsínu.

Einnig mælum við með reyktum laxi í paprikumauki, innbökuðu kjúklingabrjósti, legnu í sítrónuediki, og steiktri nautamörbráð með gúrku, spínati og rauðvínssoði
Remis er nýjasta og langódýrasta matargerðarmusterið í borginni.

Kvöldverðarveizla kostaði DKK 293 á mann og DDK 303, ef valinn var fjögurra rétta matseðill kvöldsins. Nauðsynlegt er að panta borð, einnig í hádeginu.

(Remis, Badstuestræde 10, sími 32 80 81, opið 12-15 og 18-22 mánudaga-föstudaga, C3/4)

Cocotte

Bezta matargerðarmusteri nýfranska stílsins í Kaupmannahöfn er enn Cocotte á Richmond-hótelinu. Þar ráða ríkjum meistarakokkurinn Jan Pedersen og vínþekkjarinn Niels Monberg og skipta með sér umsjón á kvöldin.

Svipur veitingahússins er nákvæmlega hinn sami og alltaf hefur verið. 40 manna salurinn er víðáttumikill, svo að feiknarlangt er milli borða. Á veggjum eru innrammaðir og áritaðir matseðlar hinna frönsku frumkvöðla nýja stílsins. Innan um nútímaleg húsgögn eru ýmsir forngripir, svo sem skápar með vínflöskum, glösum, matreiðslubókum og kryddstaukum.

Við annan endann sér inn í opið eldhús, þar sem fumlausir kokkar sjást að störfum. Í hinum endanum er lauslega aðskilin fordrykkja- og kaffistofa, þar sem gott er að setjast í hægindastóla fyrir og eftir mat. Um salinn á milli sigla rólegir þjónar eins og tíminn standi í stað, enda er reiknað með, að gestir séu ekki í dagsins önn.

Matseðill dagsins er handskrifaður og stuttur. Helzta tromp hans er sjö rétta Menu Degustation, sem verður að panta daginn áður. Sú veizla er það, sem flestir sækjast eftir, þegar farið er í pílagrímsferð til Cocotte, en að sjálfsögðu er unnt að snæða mun ódýrar, einkum í hádeginu.

Við byrjuðum síðast sjö rétta málsverðinn á frábærum langlúruflökum í þykkvalúrusoði með blaðlauk, fengum næst góðan humargraut, síðan sítrónuleginn lax, þá vermút-kraumís, svo aðalréttinn, sérstaklega gott dádýralæri, rautt og fínt, ennfremur mjög góðan geitaost með grænmeti og ávöxtum og loks disk með nokkrum eftirréttum.

Áður höfðum við fengið samkvæmt matseðli dagsins þykkvalúru með spínati í ljúfu soði, góða nautalund, steikta öðrum megin, borna fram með mjög góðri rjómasósu, og loks þrenns konar eftirrétt, kraumís með perubragði, súkkulaðifroðu og rúllutertu með kastaníuhnetum og hunangi.

Eins og venjulega kynntu hinir frábæru þjónar hvern rétt fyrir sig, þegar hann var borinn á borð. Þeir aðstoðuðu líka af kunnáttusemi við val á víni í samræmi við verðhugmyndir gestanna. Á vínseðlinum kenndi margra grasa, ódýrra og dýrra, en við rákum augun í eðalvínið Chateau Pichon-Lalande frá 1980 á DKK 250.

Að koma í Cocotte er eins og að hitta gamlan vin. Allt var óbreytt og allt var frábært í þessum rólega og notalega útverði menningarinnar á norrænum vettvangi.
Sjö rétta veizlan kostaði DKK 503 á mann. Venjuleg kvöldverðarveizla kostaði DKK 388, sem ekki er meira en á mörgum öðrum virðingarstöðum borgarinnar. Nauðsynlegt er að panta borð, einnig í hádeginu.

(La Cocotte, Vester Farimagsgade 33, sími 14 04 07. opið 12-14 og 17-22, lokað sunnudaga, A3)

Saison

Nú er fljótlegra að heimsækja meistarkokkinn Erwin Lauterbach, sem áður gerði Primeur að matargerðarmusteri Málmeyjar. Hann er fluttur heim til Hafnar og hefur opnað veitingastaðinn Saison á Hotel Österport, andspænis samnefndri járnbrautarstöð.

Sjálfur staðurinn er ekki eins aðlaðandi og margir aðrir, sem fjallað er um í þessari bók. Hann er fyrir neðan anddyri hótelsins, hljóðbær og hár til loftsins. Að öðru leyti er vandað til innréttinga og Hornung-málverk hanga á veggjum. Plöntuvafin burðarsúla í miðjum sal mildar heildarsvipinn verulega.

Þjónusta er sérstaklega góð í Saison, en annasöm, því að oft er mikið um að vera. Samt er þess jafnan gætt, hvernig gestir hafi það hverju sinni, hellt í glösin og notaðir diskar fjarlægðir. Eins og í Cocotte eru þjónar afar fróðir um matinn og vínlistinn er einstaklega vel valinn.

Lauterbach leggur mikið upp úr góðu grænmeti og hefur þá sérstöðu meðal meistara Kaupmannahafnar að bjóða sérstakan matseðil fyrir grænmetisætur. Við heimsóttum staðinn í fylgd slíkra, sem sögðu þá rétti bera af öðrum í borginni.

Við völdum stóra, sjö rétta matseðilinn og fengum fyrst ljómandi góðar sveipjurtir með laxahrognum, síðan ágæta humarsúpu, þá frábæra, ofnsteikta slétthverfu með blóðbergi og mauksoðnum rótarávöxtum, næst rauðvíns-krapís, svo aðalréttinn, mjög góða æðarfuglsbringu með steinselju, og síðast osta dagsins og úrval eftirrétta. Með þessu fundum við frábært rauðvín, Chateau Vignelaure 1980 á DKK 240.

Stóra kvöldverðarveizlan kostaði DKK 530 á mann, venjuleg kvöldverðarveizla DKK 395 og grænmetisveizla DKK 315. Hádegissnarl kostaði DKK 167. Nauðsynlegt er að panta borð.

(Saison, Oslo Plads 5, sími 11 22 66, opið þriðjudaga-föstudaga 12-14:30 og 18-22, laugardaga 18-22, lokað sunnudaga, D1)

Kong Hans

Í hópi matargerðarmustera borgarinnar er dýrasta veitingahús Danmerkur, Kong Hans. Það felur sig í kjallara í næsta nágrenni Kongens Nytorv og lætur lítið yfir sér að utanverðu. Þar setjast menn fyrst á bar til að fá sér fordrykk og fylgjast með störfum í opnu eldhúsi fyrir innan, meðan þeir velja sér af matseðli. Fyrst, þegar við komum í Kong Hans fyrir sjö árum, töluðu þjónarnir frönsku, en nú er tungumálið orðið danska.

Síðan er gestum vísað til lítils og fagurs og rómantísks veizlusalar að baki. Hann einkennist af hvítkölkuðum og rifjuðum kjallarahvelfingum, sérkennilegum listaverkum við veggi, virðulega bakháum stólum og afar höfðinglegum borðbúnaði. Fyrir innan er svo koníaksstofa, þar sem gestir setjast í djúpa stóla og láta færa sér kaffi að máltíð lokinni.

Í síðustu heimsókn okkar virtist þjónustan vera farin að gefa sig. Þótt farið væri að fækka í salnum síðla kvölds, voru gestir önnum kafnir við að veifa og vekja athygli þjónanna á þörfum sínum. Og gestir í koníaksstofu urðu að koma fram til að panta meira kaffi. Slíkt á aldrei að þurfa að gerast á stöðum svimandi verðlags. Vonandi hafa þetta aðeins verið tímabundin frávik frá fyrri þjónustu, sem hafði ætíð verið mjög góð.

Í þetta skipti var hægt að velja milli þriggja, fjögurra, sex og átta rétta matseðla. Við völdum sex rétta seðilinn og fengum mjög góða gæsalifur og kálfabris með súru grænmeti, sérstaklega góð spörfuglsegg með zucchini-gúrku, sveppum, laxahrognum og kavíar, kampavínskraumís, frábæra nautamörbráð með sveppum og rauðvínssósu, fjóra osta góða og nokkra eftirrétti á diski. Matreiðslan var greinilega enn í bezta formi, þótt þjónustunni hefði fatazt flugið.

Þriggja rétta veizlan kostaði DKK 525 á mann, fjögurra rétta DKK 625, sex rétta DKK 710 og átta rétta veizlan hvorki meira né minna en DKK 850, sem hlýtur að nálgast heimsmet. Hið sama má segja um sumar tölurnar á frábærum vínlista, þótt einnig megi finna þar lægri tölur við hæfi. Nauðsynlegt er að panta borð.

(Kong Hans Kælder, Vingårdstræde 6, sími 11 68 68, opið 18-22, lokað sunnudaga, D3)

Etoiles

Með hálfum huga tökum við með síðasta matargerðarmusterið, Hos Jan Hurtigkarl, sem nú heitir Etoiles. Staðurinn reyndist að vísu nákvæmlega eins útlits og bauð upp á sömu góðu þjónustuna og frábæra matreiðsluna og undir gamla nafninu. En Jan Hurtigkarl er orðinn þreyttur, þótt ungur sé, og staðfesti við okkur orðróm um, að hann ætlaði að selja staðinn.

Jan Hurtigkarl er kunnur sjónvarpskokkur, sem fyllir með Jan Pedersen í Cocotte, Erwin Lauterbach í Saison og Réne Bolvig í Remis sveit hinna fjögurra meistarakokka borgarinnar. Hann er einn upphafsmanna nýju, frönsku matargerðarlínunnr í Danmörku, ör maður og orðinn nokkuð starfsmóður.

Etoiles er rétt austan við Kongens Nytorv, á fyrstu hæð íbúðarblokkar við torg á Dronningens Tværgade. Utan að sjá lætur það lítið yfir sér. Inni eru sömu brúnu og bláu litirnir og fyrr og næstum því eins rúmt milli borða og í gamla daga.

Eins og í öðrum veizlusölum borgarinnar er vandaður, fjölbreyttur og vel valinn vínlisti í Etoiles, ólíkur listum annarra staða. Þessi gæði og fjölbreytni stafa af því, að Danir hafa ekki áfengiseinkasölu, heldur pantar hvert veitingahús hvaða vín, sem ráðamenn þess vilja hafa á boðstólum. Í Etoiles fundum við ágætis Saint Joseph á DKK 190.

Sérgrein Jan Hurtigkarls er að bjóða þrjá matseðla, einn matseðil dagsins, annan fiskréttaseðil og hinn þriðja veizluseðil langan. Af fiskréttaseðlinum fengum við fyrst afar góð laxahrogn með fiskikæfu, síðan ljúffenga langlúru og síðan franska osta og eftirrétti hússins. Af langa seðlinum fengum við laxahrognin, góða grænmetissúpu og frábæra humarfroðu með spínati, svo og indælis dádýrasteik, osta og eftirrétti.

Áður höfðum við af hádegisverðarseðli fengið reyktan lax og reyktan kalkún frá Standager. Einnig af seðli dagsins andakjötshlaup, steiktan sjóbirting með rósapaprikusósu og svo franska osta og sæturétti að eigin vali.

Um þennan stað gildir eins og um önnur vildarhús og matarmusteri, sem þegar hafa verið nefnd, að ekki skiptir máli, hvað valið er, því að reikna má með, að til allra rétta sé vandað í eldhúsi. Svo er bara að vona, að Jan hætti við að hætta.

Kvöldverðarveizla kostaði DKK 378 á mann af seðli dagsins, DKK 408 af fiskseðlinum og DKK 508 af langa seðlinum. Nauðsynlegt er að panta borð.

(Les Etoiles, Dronningens Tværgade 43, sími 15 05 54, opið 17:30-21:30, lokað sunnudaga, C2)

Fiskekælderen

Gamall kunningi okkar og bezta fiskréttastofan í röðinni við Stranden og Gammel Strand, andspænis Hallarhólma og Kristjánsborg, er Fiskekælderen undir veitingasalnum Den Gyldne Fortun. Árum saman hefur kjallari þessi boðið nútímalegri og varfærnari eldamennsku á fiski en hinir staðirnir á svæðinu, þar á meðal Fiskehuset og ekki sízt hinn forni Kroghs.

Fiskekælderen er í tæplega 200 ára gömlum kjallara og rúmar ekki mikinn fjölda gesta. Innréttingar eru notalegar, en mjög þröngt er í bekkjunum við tréborðin. Þjónarnir eru þægilegir og snarir í snúningum.

Bezt er þó nákvæmnin í eldhúsinu, þar sem mikil áherzla er lögð á gufuhitun. Því miður er þó notaður frystur fiskur. Það sést strax af matseðlinum, sem er prentaður til margra vikna í senn. Hins vegar er á krítartöflum á veggjum boðinn ferskur fiskur, sem við mælum frekar með.

Þegar við vorum síðast í Fiskekælderen, voru humar og sjóbirtingur á boðstólum dagsins. Humarinn kostaði DKK 88 hver 100 grömm. Hann var grillaður og bragðgóður. Enn betri var þó sjóbirtingurinn, hvítvínsdampaður og borinn fram með laxahrognum og kavíar. Við gátum ekki neitað okkur um gamalkunnan og fílsterkan eftirrétt, fíkjur, eldsteiktar í anis-brennivíni, bornar fram með hjartaaldinhnetuís.

Meðalkvöldverður kostaði DKK 360 á mann.

(Fiskekælderen, Ved Stranden 18, sími 12 20 11, opið mánudaga-laugardaga 11-23, sunnudaga 17:30-23, C4)

Leonore Christine

Í elzta húsi Nýhafnar, þriggja alda gömlu, frá 1681, er litla veitingastofan Leonore Christine með góðu útsýni frá sumum borðum út um þrjá glugga yfir höfnina. Húsið hefur varðveitzt í upprunalegu horfi. Innan dyra er allt með einföldu og látlausu sniði, hvítum veggjum og stóru og mjög svo áberandi pottatré á miðju gólfi.

Staðurinn hefur örlítið dalað, síðan hann komst í tízku í viðskiptalífinu, og er oft fremur hávaðasamur, þegar margir karlar sitja við sama borð. Þjónustan er misjöfn, en oftast góð. Matseðlinn er stuttur og handskrifaður og ber greinileg merki nútímalegrar matreiðslu, sem reyndist okkur vera fínleg og að sumu leyti óvænt. Þetta er bezti matstaður Nýhafnar. Verðlag vínlistans er of hátt.

Í forrétt fengum við hrátt, skafið rádýrskjöt með fáfnisgrasi og pönnusteiktu spörfuglseggi, svo og gott mauk tvenns konar sveppa. Í aðalrétt mjög gott andabrjóst með skalotlauk og rauðvínssoði, svo og jafngóðar dádýralærissneiðar með vetrarkáli í gæsafeiti. Í eftirrétt kandíseraðan hnetuís með sveskju-sabajon, svo og disk með blöndu fimm mjög góðra eftirrétta dagsins.

Kvöldverðarveizla kostaði DKK 383 á mann. Ráðlegt er að panta borð.

(Leonore Christine, Nyhavn 9, sími 13 50 40, opið mánudaga-föstudaga 12-15 og 18-22, laugardaga 18-22, lokað sunnudaga, D3)

Alsace

Eitt fínu veitingahúsanna í Kaupmannahöfn er Alsace við hina skemmtilegu göngugötu Pistolstræde, sem liggur til norðurs frá Strikinu austarlega. Hluti Alsace er eins konar gangstéttarveitingahús, en hinn eiginlegi veitingasalur er í einföldum, hvítum múrsteinskjallara að baki. Þar eru miklir vendir ferskra blóma, grænir sófar með veggjum og flísar á gólfi. Salurinn er tvískiptur og sést úr öðrum hlutanum inn í eldhúsið.

Vínlistinn einkennist að sjálfsögðu af Elsassvínum. Þar mátti þó einnig sjá ágætis Barolo frá 1979 á DKK 176. Boðið er upp á tvo matseðla, auk margs konar sérrétta, þar á meðal súrkáls. Við prófuðum seðlana tvo.

Annar var með tærri svartsveppasúpu í forrétt, góðri rádýrasteik með kantarellu-sveppum í aðalrétt, ágætum Münster-osti og vanilluís með ávöxtum í eftirrétt. Hinn bauð í forrétt indæla gæsalifrarkæfu með ristuðu brauði, í millirétt ostrusúpu, í aðalrétt ágæta akurhænu, smjörsteikta með vínberjum, í eftirrétti grillaðan geitaost og kampavíns-kraumís.

Kvöldverðarveizla kostaði DKK 376 á mann.

(Alsace, Ny Østergade/Pistolstræde, sími 14 57 43, opið 11:30-24, lokað sunnudaga, C3)

Lumskebugten

Norður við Tollbúð, yzt á Esplanaden, er gamalkunnug kaffistofa, Lumskebugten, sem fyrir nokkrum árum gekk í endurnýjun lífdaganna. Þar ríkir nú matreiðsla nútímans og góð þjónusta í látlausri og fagurri umgerð.

Húsið er hvítt, langt og mjótt, með aðalmatsal fremst á horninu og bar og tveimur smástofum þar inn af, með frönskum rúðuhurðum á milli. Allt er þetta bjart og ljóst, gamalt og rúmgott, skreytt gömlum ljósmyndum og plakötum. Á borðum eru glansandi hvítir dúkar og munnþurrkur, svo og lifandi blóm og logandi kerti.

Við prófuðum ágætt, hrátt og skafið nautakjöt, mjög góða skötu, fyllta salati og laxahrognum, gott dádýralæri með hnetusoði, eplum og brómberjum, svo og súkkulaðikremköku með ávaxtamauki og ís.

Þetta var valið af tilboði dagsins á krítartöflu, en að auki eru til lengri matseðlar handskrifaðir, annar hádegisverðar og hinn kvöldverðar. Nær allir réttirnir eru samkvæmt nýjum stíl, en þó mátti sjá þar lafskássu til minningar um fyrri sögu staðarins. Verð á vínlista voru tiltölulega skynsamleg.

Kvöldverðarveizla kostaði DKK 395 á mann og hádegissnarl DKK 207. Lumskebugten er þannig einn hinna dýru matstaða borgarinnar. Ráðlegt er að panta borð.

(Café Lumskebugten, Esplanaden 21, sími 15 60 29, opið 11-24, lokað sunnudaga, E1)

Spinderokken

Við höfum jafnan haldið tryggð við Spinderokken, síðan við fundum hann fyrir tveimur áratugum. Hann lítur alltaf eins út, þótt eigendaskipti hafi verið tíð. Ætíð er jafn notalegt að koma beint af flugvellinum til að fá sér síld, grænt öl og snafs við hlið blómapotta og steindra glugga á götuhlið Spinderokken.

Þetta er friðsæll og værukær staður þungra innréttinga, þar sem tíminn stendur í stað. Það gildir einkum um gamla hlutann, en síður um nýja salinn til hliðar. Í Spinderokken eru gestir ekki að flýta sér, heldur rabba langtímum saman, meira að segja í hádeginu yfir hlaðborðinu, sem farið var að bjóða fyrir DKK 89 eftir síðustu eigendaskipti.

Sumir hlaðborðsréttirnir eru ekki girnilegir, en síldin var góð, sömuleiðis skinka með melónu, hrásalat og ostar.

Með öli kostaði hlaðborðið DKK 107 á mann. Kvöldveizla kostaði DKK 315.

(Spinderokken, Trommesalen 5, sími 22 13 14, opið 11-24, A5)

Bee Cee

Þá er röðin komin að fyrsta hádegisverðarstaðnum, Bee Cee, í kjallara við göngugötuna Pistolstræde út frá Strikinu. Hann er ekki dæmigerður, því að hann er dýrari en venjulegt er, en býður líka sérstaklega góðan mat. Kjallarinn er langur og mjór, í ljósum nútímastíl, með bekkjum meðfram veggjum og stálstólum úti á gólfi, skreyttur abstraktverkum — og státar af mjög góðri þjónustu.

Við fengum gott, grænt salat og mjög góðar laxabollur í mildu remúlaði síðast, er við vorum í Bee Cee. Einnig mælum við með reyktum lax, piparrót og gúrku, svo og andalifrarkæfu með hnetum.

Hádegissnarl kostaði DKK 156 á mann.

(Bee Cee, Østergade 24, sími 15 02 77, opið 11-20, lokað sunnudaga, C3)

Victor

Victor að baki Angleterre hefur í nokkur ár verið tízkustaður ungra og efnaðra menningarvita, nokkuð opinn og kuldalegur, en einkum þó hávær. Hann er mest notaður sem kaffistofa, enda er barinn notalegri en matsalurinn, sem þykir þó hinn sæmilegasti hádegisverðarstaður. Gluggar eru stórir og naktir og speglar eru að barbaki eins og víðar í salnum. Allt er gert til að allir sjái alla, meira að segja utan af götu. Þjónusta er góð.

Hádegissnarl kostaði DKK 124 á mann.

(Café Victor´s, Hovedvagtsvej/Ny Østergade 8, sími 13 36 13, opið 10-02, C3)

Copenhagen Corner

Þótt Copenhagen Corner við Ráðhústorgið sé greinilega einkum gert út á ferðamenn, er þetta vandaður matstaður með tiltölulega hóflegu verðlagi, verðugt framhald af gamla Frascati, sem sumir muna enn eftir. Gróðurhúsið við stéttina er nýtízkuleg útgáfa af gamla gangstéttarkaffihúsinu, sem hér var á sínum tíma.

Hér höfum við meðal annars reynt heitreyktan lax, ferskan krabba, vel rautt andabrjóst í calvados, góðan steinbít í áfengisblandaðri grænmetissósu, heilsteikta nautalund og mjög góðar pönnukökur, fylltar rúsínum og rifsberjum.
Í Copenhagen Corner er hægt að fá ýmis eðalvín í glasatali. Þau eru dregin úr flöskunni með svonefndri Cruover-tækni, sem sjaldséð er utan Frakklands og Bandaríkjanna.

Hádegissnarl kostaði DKK 112 á mann.

(Copenhagen Corner, Rådhuspladsen, sími 91 45 45, opið 11:30-24, B4)

Christiansborg

Christiansborg er aðeins steinsnar frá anddyri þinghúss Dana, handan Týhúsbrúar og fær slæðing þaðan af þeim, sem ekki eru uppteknir á Snapsetinget. Staðurinn er í hreinlegum alþjóðastíl, rúmgóður og þægilegur, með virðulegum ljósmyndum af dönskum forsætisráðherrum yfir barnum. Síðast þegar við vorum þar, sá Íslendingurinn Viðar Birgisson um þjónustu í sal.

Fyrir nokkrum árum var Christiansborg hádegisverðarstaður, sem var einkum frægur fyrir risastórt hlaðborð. Nú hefur það verið lagt niður og staðurinn er einnig opinn á kvöldin, þegar þar er stundaður píanóleikur fyrir gesti. Við þekkjum ekki þá hlið matstofunnar.

Af nýja seðlinum prófuðum við ágætan mat, þykkvalúruflök, annað gufusoðið og hitt pönnusteikt, með kröbbum, rækjum og laxahrognum, svo og reykt dádýralæri með salati og melónurjóma, einnig gott.

Hádegissnarl kostaði DKK 112 á mann.

(Christiansborg, Ny Kongensgade 15, sími 14 55 60, opið mánudaga-föstudaga 11:30-24, laugardaga 17-24, C5)

Ostehjørnet

Niðri í kjallara við Store Kongensgade er ágæt ostabúð og uppi á hæðinni stílhreint veitingahúsið Ostehjörnet, sem hefur osta að sérgrein, þar á meðal franska og fína. Salöt, ostar og kalt kjöt eru til sýnis við diskinn, svo sem títt er í dönskum hádegisverðarstöðum. Munnþurrkur voru því miður úr pappír.

Við höfum einkum hallað okkur að ostabakkanum, sem kostaði DKK 35 á mann. Síðast prófuðum við ostana emmenthaler, camembert, bresse bleu, franskan geitaost og brie, alla hæfilega þroskaða. Starfsliðið hefur vit á osti. Bezt er að fá sér bjór með ostinum, því að vínið er ekki nógu gott.

Meðalverð á hádegissnarli var DKK 108 á mann.

(Ostehjörnet, Store Kongensgade 56, sími 15 85 77, opið mánudaga-föstudaga 11:30-18, laugardaga 11:30-15, D2)

Tivolihallen

Saltfiskhús Kaupmannahafnar er hinn 125 ára gamli kjallari, Tivolihallen, að baki ráðhússins. Þar sitja fastagestir á slitnum bekkjum og rifnum stólum í tveimur þreytulegum og þægilegum stofum og úða í sig stórum skömmtum af saltfiski eða öðrum hefðbundnum húsmóðurmat. Þótt umhverfið sé laslegt, er alltaf jafn skjannahvítt og hreint í dúkum og munnþurrkum úr taui. Engin verðskrá er í Tivolihallen.

Saltfiskinn verður annað hvort að panta fyrirfram eða bíða eftir honum í 25 mínútur. Við biðum og fengum góðan fisk, matreiddan upp á íslenzku, en þó án hamsatólgar. Ennfremur fengum við ágætan, mjúkan lax.

Hádegissnarl kostaði DKK 105 á mann.

(Tivolihallen, Vester Voldgade 91, sími 11 01 60, opið mánudaga-föstudaga 11:30-22, B4)

Nybro

Einn af beztu hádegisverðarstöðunum er hinn notalegi Nybro, næstum andspænis Thorvaldsenssafni, handan síkisins, í einu hinna svonefndu brunahúsa, sem reist voru eftir brunann mikla árið 1728, fyrir rúmlega 250 árum. Nybro er í kjallara og á 1. hæð hússins. Niðri eru grófir veggir og gulir dúkar, en uppi er fínlegra og dúkar bláir. Skemmtilegra er að vera niðri, þar sem tilboð dagsins eru skráð á krítartöflur.

Staðurinn er frægur fyrir frábæra þjónustu vingjarnlegra eigenda, sem bentu okkur meðal annars á Oswald-öl og snafs, sem sjaldfenginn er í veitingahúsum borgarinnar, bragðmilt Bröndums kúmen-ákavíti. Staðurinn er yfirleitt fullur af fastagestum.

Við prófuðum frábæra kræklingasúpu, góða nautamörbráð, hráa og legna, indæl þykkvalúruflök gufusoðin og ágæta andalifur í sveppasósu, allt saman ótrúlega góðan mat.

Hádegissnarl kostaði DKK 99 á mann. Ráðlegt er að panta borð.

(Nybro, Nybrogade 18, sími 15 14 43, opið mánudaga-laugardaga 11-16, C4)

Caféen i Nicolai

Óneitanlega er sérkennilegt að sitja í kirkju og borða. En það er hægt að gera í Nikulásarkirkju, sem er rétt við Strikið. Vítt er til lofts og hátt til veggja í syðra þverskipi kirkjunnar, þar sem veitingastofan er. Rúmgott og bjart er í skipulagslítið innréttuðum salnum, innan við stóra og steinda kirkjuglugga. Stór málverk á veggjum og dökkir bitar í lofti draga nokkuð úr kulda staðarins, en pappírsdúkar og heimalagað sinnep ofan á taudúkum auka hann á móti.

Við prófuðum ágæta fiskisúpu með óvenjulega góðu brauði og hæfilega lítið smjörsteikt þorskhrogn og komumst að raun um, að hér leyndist einn hinna betri matstaða borgarinnar. Skipt er um handskrifaðan matseðil tvisvar á dag, svo sem vera ber. Þar mátti meðal annars sjá girnileg, appelsínulegin steinbítshrogn og danskan geitaost.

Hádegissnarl kostaði DKK 97 á mann og kvöldveizla DKK 366.

(Caféen i Nicolai, Nikolaj Plads, sími 11 63 13, opið þriðjudaga-laugardaga 12-24, C3)

Sankt Annæ

Við hlið Neptun-hótels á Sankt Annæ Plads er lítil hádegisverðarhola, þar sem 32 sáttir mega þröngt sitja, ef þeir komast inn um mjótt anddyrið. Þetta er einkar snyrtileg matstofa, skreytt vagnhjólum og gömlum teikningum af vögnum. Hún er fjölskyldufyrirtæki, sem þekkt er fyrir, að allt er lagað á staðnum. Engan matseðil eða verðlista er að finna. Gestir fara að diskinum, þar sem maturinn er, fá að vita, hvað hann kostar, og benda á það, sem þeir girnast.

Við prófuðum lax með rækjum, svo og egg með rækjum, hvort tveggja góðan mat. Áður höfðum við fengið þar ágæta síld og osta.

Hádegissnarl kostaði DKK 96 á mann. Ráðlegt er að panta borð.

(Sankt Annæ, Sankt Annæ Plads 12, sími 12 54 97, opið mánudaga-föstudaga 11-16, D3)

Cranks Grönne Buffet

Helzti grænmetisréttastaður borgarinnar, Cranks Grönne Buffet, er í einu gömlu húsanna, 250 ára gömlu, milli Pistolstræde og Grönnegade, rétt norðan Striksins. Þar fara kuldalega norrænar og hreinlífislegar viðarinnréttingar vel við notalega timburveggi og litlar gluggarúður átjándu aldarinnar.

Gestir velja sér grænmetisrétti við diskinn og þjóna sér sjálfir til borðs. Matreiðslan er upprunalega frá hliðstæðum veitingastað í London og byggist á svokölluðum “biodynamiskum” hráefnum, sem ræktuð eru á náttúrulegan hátt, en ekki með tilbúnum áburði eða skordýraeitri.

Á boðstólum var fjöldi ágætra rétta, meðal annars linsubaunakæfa, laukterta, lárperustappa, eggaldinfylling, ýmis hrásalöt, ávaxta- og grænmetissafar, ostabollur og trönuberjaterta, allt samkvæmt uppskriftum úr valinkunnri matreiðslubók staðarins.

Hádegissnarl kostaði DKK 95 á mann. Kvöldverðarveizla hefði kostað DKK 185.

(Cranks Grönne Buffet, Grönnegade 12-14, sími 15 16 90, opið mánudaga-laugardaga 11-21, C3)

Esbern Snare

Í einna skemmtilegustu götu gamla bæjarins, Snaregade, er veitingastaðurinn Esbern Snare í kjallara og á fyrstu hæð. Staðurinn hefur hið rólega yfirbragð ellinnar. Viðarinnréttingar eru einfaldar og á ljósum veggjum hanga stór, þokukennd málverk. Á borðum eru fínir dúkar og munnþurrkur.

Um nokkurt skeið hefur Jytte Fich ráðið hér ríkjum og þjónar sjálf til borðs. Hún hefur ræktað hinn nýja matreiðslustíl og gert staðinn vinsælan meðal ungs fólks. Við prófuðum sérstaklega góðan, reyktan ál með eggjahræru, vel skafið, hrátt nautakjöt, svo og bragðmikinn og vel þroskaðan fornost.

Hádegissnarl kostaði DKK 90 á mann. Kvöldverðarveizla hefði kostað DKK 324.

(Esbern Snare, Snaregade 4, opið mánudaga-laugardaga 11:30-22, C4)

Amalie

Rétt við Amalienborg er hin tiltölulega nýlega hádegisverðarstofa Amalie í litlum og notalegum, gömlum og friðuðum kjallara, þar sem lágt er til lofts. Hvítmáluðu veggirnir eru grófir fyrir ofan gulleitt tréverkið, sem nær upp á þá miðja. Þeir eru skreyttir gömlum koparstungum. Á borðum eru blóm, fínir hekludúkar og munnþurrkur úr pappír.

Við fengum ágætan ál reyktan, fyrirtaks þorskhrogn, fullkomnar fiskibollur og hrátt nautakjöt skafið, eitt hið bezta, sem við höfum fengið.

Hádegissnarl kostaði DKK 89 á mann. Ráðlegt er að panta borð.

(Amalie, Amaliegade 11, sími 12 88 10, opið mánudaga-föstudaga 11-16, D/E2)

Kanal-Caféen

Kanal-Caféen er gamall og sögufrægur hádegisverðarstaður í tveimur ellilegum og notalegum stofum rétt við Marmarabrú, afar lítið áberandi að utanverðu. Þar er lágt undir bitaloft, skipslíkön í gluggum, siglingamyndir á veggjum og fastagestir á reyrviðarstólum við dúkuð borð. Andrúmsloftið er gott og þjónustan snör.

Við prófuðum graflax, reyktan lax, lambarúllupylsu, heimalagaða kjötsultu og fornost, allt afar vel heppnað.

Hádegissnarl kostaði DKK 85 á mann, hið næstminnsta í þessari bók.

(Kanal-Caféen, Frederiksholms Kanal 18, sími 11 57 70, opið mánudaga-föstudaga 10:30-24, C4)

Rex

Café Rex heitir öðru nafni Hos fru Lind, lítil og fátækleg hádegisverðarstofa fastagesta, andspænis Skarfinum við Pilestræde. Innréttingar eru gamlar og slitnar, veggir þaktir ótal málverkum og steinprenti af ýmsu tagi og matseðillinn krítaður á töflu. Á veggjum eru fornir skápar og í lofti hanga þurrkuð blóm.
Frú Lind er kunnust fyrir ágæta síldarrétti. Við fengum hins vegar fyrirtaks rækjur í eggjahræru og nokkuð góða kjötsultu.

Hádegissnarl kostaði DKK 85 á mann, hið sama og í Kanal-Caféen. Nauðsynlegt er að panta borð.

(Café Rex, Pilestræde 50, sími 12 71 87, opið mánudaga-laugardaga 12-01, C3)

Bernstorff

Ódýrasti hádegisverðarstaðurinn í þessari bók er Bernstorff, andspænis aðaljárnbrautarstöðinni og við hlið Tivoli, snyrtileg matstofa með tandurhvítum borðdúkum og munnþurrkum úr taui, tívolílömpum yfir skenk og gömlum tívolíminjum á veggjum.

Frægast er hér hlaðborðið, frjálst val rétta af skenknum fyrir DKK 88, líklega eitt hið ódýrasta í bænum. Það leit óvenjulega lystarlega út, en við höfðum aðeins tíma til að fá okkur indælis laxakæfu og frábæran hrálax leginn. Þjónustan var sérstaklega þægileg.

Hádegisverðarsnarl kostaði DKK 83 og hefði kostað DKK107, ef hlaðborðið hefði verið valið.

(Bernstorff, Bernstorffsgade 7, sími 11 06 68, opið mánudaga-föstudaga 11:30-16:30, A/B5)

1981, 1989

© Jónas Kristjánsson

Kaupmannahöfn verzlun

Ferðir

Við lítum í búðir, þegar við komum til Kaupmannahafnar. Ekki til að verzla ódýrt, því að verðlag er þar hærra en víðast annars staðar í heiminum. Við förum í búðir til að skoða og handleika hagnýta listmuni, sem Danir eru frægari fyrir en flestar aðrar þjóðir.

Verzlanir Kaupmannahafnar eru sannkallað ævintýraland fágaðrar smekkvísi og rótgróins handverks. Engin verzlunargata heims jafnast á við Strikið í samþjappaðri fegurð og einfeldni nytjahluta. Á 15 mínútna gönguleið er verzlun við verzlun, fullar ævintýra til að njóta.

Búðaráp er einfaldast að stunda á Strikinu og göngugötunum út frá því. Þar standa þéttast þær verzlanir, er hafa á boðstólum vörur, sem ferðamenn hafa áhuga á að skoða og handleika og kannski kaupa. Þar eru einkennisvörur Dana seldar.

Í framhaldi af Strikinu til beggja enda eru líka vinsælar verzlunargötur. Handan Kóngsins Nýjatorgs er Stóra Kóngsinsgata, þétt skipuð verzlunum, og handan Ráðhústorgs er Vesterbrogade, þar sem enn er búð, sem lengi var kunnasta verzlun Danmerkur, Den Permanente.
Mesta samþjöppun frægðarbúða er við austanvert Strikið, frá Heilagsandakirkju að Kóngsins Nýjatorgi. Við förum í stutta göngu þessa leið, um Amákurtorg og Austurgötu.

Hans Hansen

Á horninu við Heilagsandakirkju, þar sem mætast Amákurtorg og Hemmingsensgade, er bezta silfurbúðin, Hans Hansen, sem við tökum fram yfir keppinautinn og nágrannann Georg Jensen við Austurgötu 40 á Strikinu, af því að frægð hins síðarnefnda hefur stigið honum, ef ekki til höfuðs, þá til verðlagningar. Og Hansen býður líka nútímalegri vörur.

Þarna sáum við mjög fallegt og einfalt silfurarmband á DKK 1300. Sérgrein hússins er annars silfurlagt palisander í rúmlega 50 mismunandi hlutum. Einkenni hönnunar eigandans, Karl Gustav Hansen, er strangt og kantað form, sem líklega verður enn í gildi á 21. öld.

(Hans Hansens Sølv, Amagertorv 16, C3)

Illums Bolighus

Aðeins austar með götunni, sömu megin hennar, er Illums Bolighus, draumabúðin okkar í Kaupmannahöfn, án efa ein bezta og merkilegasta húsbúnaðarverzlun heimsins. Þetta er fjögurra hæða ævintýraheimur, þar sem enginn hlutur er hversdagslegur.

Margir helztu húsmunahönnuðir Dana eigi gripi þarna, mest þó Bjørn Wiinblad, sem er sennilega frægasti og mikilvirkasti nytjalistamaður veraldar. Og sumir gripa hans eru meira að segja ódýrir, þótt það sé auðvitað undantekningin, sem sannar regluna.

Á þessum stað grípur okkur sú tilfinning, að allir okkar húsmunir séu þess eins virði að setja um þá smáauglýsingu í DV og að nauðsynlegt sé að fá svo sem einn skipsgám af hinum listrænu, vönduðu og tæknilegu munum frá Illums Bolighus.

Í einni heimsókn okkar beindist athyglin að einföldum lampaskermum með innfelldum, þurrkuðum jurtum. Þeir voru ódýrir og fallegir í senn. Það eina, sem hindraði okkur í að kaupa einn, var hið venjulega takmarkaða töskupláss ferðafólks.

Schultz verzlunarstjóri fór með okkur um húsið og sagði sögu þess, hvernig miðsalurinn var upphaflega húsagarður með mörgum háum og mjóum húsum í kring og hvernig verzlunin hefur smám saman vaxið utan um portið og húsin.

(Illums Bolighus, Amagertorv 10, C3)

Bing & Grøndahl

Við hlið Illums á Amákurtorgi standa hinir fyrri keppinautar, Bing & Grøndahl og Den Kongelige Porcelainsfabrik, sem nú hafa verið sameinaðir. Þeir eru frægir fyrir jólaplatta og postulínshunda, mæðradagsplatta og máfastell.

Okkur líkar betur við Bing & Grøndahl, enda eru þeir ekki eins gamaldags og nágranninn. Að vísu er postulín þess eðlis, að það hlýtur alltaf að vera gamaldags í nútíma, sem hafnar postulíni fyrir leir og keramik.

Bing & Grøndahl urðu fyrstir fyrir 90 árum til að skreyta postulín undir húðun. Fyrst réðu þeir við bláa litinn, sem síðan hefur orðið einkennislitur þeirra. Frægastur er hann af máfastelli og empire-borðbúnaði.

Síðan náðu þeir tökum á svarta litnum og seldu “fallandi lauf” um allan heim. Þeir urðu fyrstir til að gefa út jólaplatta 1895 og mæðradagsplatta 1969. Mótin af þeim eru jafnan eyðilögð, svo að þeir eru einu hlutirnir, sem ekki er alltaf hægt að panta inn í.

Þarna gefur að líta hundrað mismunandi tegundir borðbúnaðar, svífandi fugla, syndandi fiska, brosandi börn, styttur, lampa, vasa og öskubakka, svo og tólf skemmtilega Kaupmannahafnarplatta. Margt af þessu hefur sérstæða, fíngerða töfra.

(Bing & Grøndahl, Amagertorv 4, C3)

Larsen

Handan við torgið er helzta pípu- og tóbaksbúð Dana, W. O. Larsen, 125 ára gömul, í eign sömu fjölskyldu í fimm ættliði. Til hægri við innganginn er lítið safn um sögu tóbaksreykinga. Þar eru til sýnis alls kyns pípur, allt frá indjánskri friðarpípu yfir í krítar- og postulínspípur.

Búðin sjálf er vinstra megin, löng og mjó. Þar er hægt að kaupa fágætar pípur, fágætt píputóbak og fágætt neftóbak, svo og fínustu vindla heims, Davidoff-vindlana frá Kúbu.

(W. O. Larsen, Amagertorv 9, C3)

Dansk Kunsthåndværk

Rétt hjá Larsen, á horni Amákurtorgs og Højbro Plads, er Dansk Kunsthåndværk, þar sem sextíu handverksmenn selja margs konar nytjalist úr gleri, leir, vefnaði, prjóni, gulli og silfri. Þetta er ein nýjasta stjarnan á skærum listiðnahimni Kaupmannahafnar, kjörinn heimsóknarstaður þeirra, sem héldu, að þeir þekktu borgina út og inn.

(Dansk Kunsthåndværk, Amagertorv 1, C3)

Købmagergade

Hér liggur göngugatan Kjötmangarinn eða Købmagergade til norðurs frá Strikinu. Við götuna eru þrjár kunnar sælkeraverzlanir, næstum í hnapp. Vinstra megin eru hlið við hlið Melhede kjötbúðin og J. Chr. Andersen´s Efterfölgere ostabúðin, á númer 30 og 32. Þar má renna augum yfir tugi tegunda af bjúgum og sennilega yfir hundrað tegundir af ostum, frönskum jafnt sem dönskum. Af hinum dönsku eru kunnastir hinir bláu Danablu og Mycella, hinir linu Havarti og Esrom, hinir þéttu Samso, Danbo, Fynbo og Maribo, og loks hinir hörðu Hingino og Svenbo.

Handan götunnar, á númer 19, er Marstrand bakarí, sem ilmar af glóðvolgum Vínarbrauðum, Napóleonskökum og öllu því góðgæti, sem fær Dani til að gleyma matarkúrum og öðrum góðum áformum.

Pistolstræde

Ef við höldum áfram eftir Strikinu, komum við brátt að sundi, sem heitir Pistolstræde. Það er skemmtilegasta verzlunargata borgarinnar, lítið göngusund, sem liggur frá Strikinu, þar sem það heitir Austurgata 24, næstum andspænis Holmegård. Þar göngum við inn í átjándu og nítjándu öldina, að vísu gerilsneydda og lyktarlausa.

Birger Christensen feldskeri vann um árabil að því með oddi og egg að endurreisa þessa gömlu götu, sem komin var á grafarbakkann. Við það naut hann hæfileika Eriks Møller arkitekts, sem gerði upp gömlu bindingshúsin í götunni.

Við innganginn er vinstra megin verzlunin Bee Cee, sem er eins konar útibú frá Birger Christensen fyrir ungar konur. Hægra megin er svo Saint Laurent, sem er ekta Parísarverzlun með sama háa verðinu og þar.

Þegar við göngum inn sundið, verður fyrst fyrir okkur á hægri hönd hádegisverðarstofan Bee Cee í kjallara, þar sem glaðlegar myndir Jean Dewasne lífga hvíta veggina. Hinum megin, einnig í kjallara, er Court Gallery, alþjóðlegur sýningarsalur, þar sem Sam Kaner er í aldarfjórðung búinn að sýna abstrakt list, allt frá Miro yfir í Cobra-hópinn, sem hér varð frægur.

Við förum framhjá Chanel og More & More vinstra megin og hægra megin framhjá bakdyrum Skandinavisk Glas og Duzaine Hansen, sem snúa aðaldyrum út í Nýju Austurgötu. Skandinavisk Glas selur gler frá öllum Norðurlöndum, þar á meðal Orrefors og Kosta.

Ting & Sager

Síðan beygir Pistolstræde í vinkil. Þar er mikið af blómum, borðum og sólhlífum, sem tilheyra veitingahúsinu l´Alsace. Við blasa fallegustu hús götunnar með gulum tilbrigðum í bindingsverki, reist á átjándu öld.

Þar er Cranks Grönne Buffet í húsi frá 1728, helzta matstofa grænmetissinna í borginni. Í næsta húsi, frá 1750, er tuskubúðin Ting & Sager. Þar er þröngt um alls konar ólíklegustu hluti, eldhúsáhöld, blússur, pils og teppi, allt hið skemmtilegasta. Inn í búðina og matstofuna er gengið úr hinni áttinni, frá Grønnegade.

Þar sem Pistolstræde mætir Ny Østergade er sniðug peysubúð, sem heitir Les Tricots Caroll, svo og Bogbinder Henning Jensen.

Bjørn Wiinblad´s Hus

Hér á vinstri hönd, í Nýju Austurgötu, er Björn Wiinblad´s Hus, sem Birger Christensen hefur gert að blöndu safns og verzlunar, þar sem allir gripir eru eftir hinn mikilvirka hönnuð.
Þetta átjándu aldar hús með gosbrunni í lokuðum innigarði er orðið að álfaheimi Þúsund og einnar nætur. Þar eru heimsfræg verk Wiinblads, svo sem keramikplattar, stór hringborð, skrítnir pósterar, endurprentanir af skissum hans fyrir ballet og leikrit, rúmföt og skartgripir. Handbragð hans er auðþekkjanlegt, öðruvísi en annarra.

Ef við beygjum svo enn til vinstri, komum við að inngangi Ting & Sager og Cranks Grønne Buffet.

Holmegård

Við snúum til baka að Strikinu, annað hvort eftir Pistolstræde eða Ny Østergade. Handan Striksins er glervörubúðin Holmegård, sem meðal annars framleiðir hin sérstaklega fallegu President vínglös, er við höfum mikla ágirnd á, ekki vegna nafnsins, heldur formsins.

Aðalhönnuður Holmegård er Per Lütken, sem einna frægastur er fyrir “skipasettið” af glösum. Annar er Michael Bang, sem hefur hannað Globetrotter glösin. Svo eru auðvitað seld þarna margvísleg önnur glerílát en glös, sem Henning Lundsgård verzlunarstjóri mun án efa útskýra af sérstakri lipurð.

(Holmegård, Østergade 15, C3)

Birger Christensen

Hinum megin götunnar er höfuðverzlun áðurnefnds Birger Christensen, frægasta pelsabúð heims, nútímalegri en nágranninn A.C. Bang við Austurgötu 27, sem einnig er víðkunnur. Fróðir menn segja, að hvergi séu til meiri birgðir og meira úrval pelsa en einmitt hjá Birger Christensen.

Þarna er hver pels sérstakur, fallega og einfaldlega hannaður. Þetta er eitt fárra fyrirtækja í heiminum, sem lætur eingöngu starfsmenn sína hanna og sauma alla sína pelsa. Og þetta er eitt fárra tízkuhúsa, sem koma með nýja línu tvisvar á ári.

Við getum valið um pelsa frá DKK 6000 upp í DKK 200000. Sérgrein hússins er Saga-minkurinn, sem tekizt hefur að rækta í tuttugu litbrigðum. Þeir, sem fá jólavinninginn í happdrættinu, ættu endilega að heimsækja þessa merkilegu búð.

(Birger Christensen, Østergade 38, C3)

Bang & Olufsen

Dönsk hönnun kemur skýrt fram í hljómtækjum Bang & Olufsen, sem hafa aðalverzlun sína hér, nánast á enda Striksins, við Austurgötu 3. Allir þekkja hinn þokkafulla og flata stíl umgerðarinnar um ýmis tæknileg undur, sem við kunnum ekki að nefna.

(Bang & Olufsen, Østergade 3, D3)

Østergades Vinhandel

Allt úir og grúir af vínbúðum í Kaupmannahöfn, enda ríkir þar frjáls vínverzlun, þótt ríkið taki sinn toll eins og hér. Þess vegna er úrvalið hundraðfalt á við það, sem Íslendingar þekkja.

Ein þekktasta vínverzlun borgarinnar er hin krambúðarlega Østergades Vinhandel á enda Striksins, þar sem það mætir Kóngsins Nýjatorgi. Þar er gott að skjótast inn til að kaupa gjöf, þegar gestrisnir Danir hafa boðið okkur heim til sín.

(Østergades Vinhandel, Østergade 1, D3)

Couronne de Lierre

Hina gjöfina, blómin, er líka hægt að kaupa hér við Kóngsins Nýjatorg. Ef við göngum til vinstri meðfram hótelinu Angleterre, komum við handan þess að einni merkustu blómabúð heims, Couronne de Lierre, sem felur sig rækilega í höll Stóra Norræna við torgið.

Þar eru falleg blóm og sum hver sjaldgæf. Tage Andersen er snillingur í að búa til sérkennilega blómvendi. Búðin hans er heimsóknar virði.

(Couronne de Lierre, Kongens Nytorv, D3)

Magasin du Nord

Ef við beygjum í hina áttina frá enda Striksins, komum við fljótt að stærstu stórverzlun Norðurlanda, Magasin du Nord. Verzlunin er heill heimur, sem rétt er að heilsa upp á, þegar tíminn er naumur, því að hluturinn hlýtur að fást þar, þar á meðal vörur flestra þeirra sérverzlana, sem sagt hefur verið frá í þessum kafla.

(Magasin du Nord, Kongens Nytorv 13, D3)

Israels Plads

Engin borg er án útimarkaðar. Kaupmannahafnarbúar hafa sinn miðbæjarmarkað á Israels Plads, rétt utan við Nørreport brautarstöðina. Þetta er svo sem ekki stór markaður á alþjóðlega vísu, en býður ótrúlega fjölbreytt úrval grænmetis, ávaxta og blóma. Verðið er svona helmingur af því, sem það er í búðum, og auðvitað ekki nema þriðjungur af því, sem það er á Íslandi. Þessi staður er lærdómsríkur fyrir Íslendinga, sem lítt þekkja til slíkra markaða (B2).

1981, 1989

Jónas Kristjánsson

Allt snýst um mennina

Greinar

Fátt getur komið í veg fyrir, að afgangur Borgaraflokksins taki þátt í ríkisstjórninni, þegar búið verður að finna tvö ráðherraembætti handa honum upp úr áramótum. Svo vel vill til, að tvö sæti voru geymd í haust, þegar ráðherrar urðu níu í stað ellefu áður.

Engir núverandi ráðherrar þurfa að gefa eftir starf sitt, þótt tveir ráðherrar Borgaraflokksins bætist við fríða sveit. Engin persónuleg sárindi munu því koma í veg fyrir, að ríkisstjórnin bæti með þessum hætti stöðu sína á Alþingi upp í eðlilegt meirihlutafylgi.

Snjallir stjórnmálarefir voru þeir, er skipulögðu þessa framvindu strax í haust, þegar ríkisstjórnin var mynduð á grundvelli huldumanna, sem þá var ekki greinilega vitað, hverjir voru. Djúphugsuð leikflétta Steingríms og félaga er nú í þann mund að ganga endanlega upp.

Aðeins tveimur og hálfum sólarhring eftir að Albert Guðmundsson hafði bitið á Parísaragnið, var afgangurinn af Borgarflokknum búinn að ákveða að reyna að komast í ríkisstjórnina. Miklu máli skiptir fyrir þingmenn flokksins, að sú verði niðurstaðan eftir áramót.

Skoðanakannanir hafa í síbylju sýnt lítið fylgi Borgaraflokksins. Brotthvarf Alberts eyðir villtustu ósk hyggju flokksmanna um framhaldslíf á þingi. Oddamenn flokksins töldu sig þess vegna fyrst og fremst þurfa að koma í veg fyrir, að kosningar yrðu fljótlega.

Þingmenn flokksins verða að leita sér að nýrri atvinnu á næstu mánuðum, ef kosið verður í febrúar eða marz. Með þátttöku í ríkisstjórn geta þeir, fræðilega séð, framlengt atvinnu sína um það hálft þriðja ár, sem lifir af kjörtímabilinu. Og þeim finnst gaman að vera á þingi.

Þar á ofan eiga þeir Júlíus Sólnes og Óli Guðbjartsson kost á því að verða ráðherrar þetta hálfa þriðja ár. Það má telja virðulegan, vel borgaðan og valdamikinn endi á snöggum stjórnmálaferli. Þeir hafa allt að vinna og engu að tapa, sem ekki var hvort sem er tapað.

Þetta má líta á sem skammtímahagnað ráðamanna Borgaraflokksins. Hinn gersamlega fylgislausi flokkur getur einfaldlega setið við kjötkatla ofstjórnarkerfis íslenzkra stjórnmála í hálft þriðja ár. Svo lýkur ævintýri flokksins, en það verður ljúft, meðan það endist.

Þar að auki er hugsanlegt, að einstakir ráðamenn flokksins eigi sér lengri framtíð í stjórnmálum. Til dæmis getur komið til mála, að Alþýðuflokknum henti að fá Óla Guðbjartsson sem þingmannsefni á Suðurlandi, ef fréttastjóri Stöðvar tvö kærir sig ekki um hnossið.

Hagsmunir oddamanna stjórnarflokkanna eru svipaðir, þótt þeir séu ekki eins brýnir. Þeirra flokkar munu halda áfram að lifa eftir kosningar, af því að þjóðin hefur ríka þörf fyrir sjálfspyndingar. En völd andartaksins eru fíkniefni, sem ráðherrar ánetjast fljótt.

Steingrímur Hermannsson getur, í stíl föður síns, ekki hugsað sér að vera ómerkari ráðherra en forsætisráðherra. Jón Baldvin Hannibalsson og Ólafur Ragnar Grímsson eru ekki eins kröfuharðir og líður einfaldlega betur sem ráðherrum en sem valdaminni þingmönnum.

Þannig hafa þeir, sem máli skipta, nokkurn hag af framvindu íslenzkra stjórnmála á síðustu og næstu vikum. Hitt er svo hliðaratriði, að þjóðin mun í leiðinni áfram búa við ráðherra, sem hafa afar mikinn áhuga á að draga völd og fé frá þjóðinni til stjórnvalda.

Atburðir jólaföstunnar eru sönnunargagn þess, að enn gildir hið gamalkunna, að stjórnmál snúast ekki um málefni, heldur um menn, völd þeirra og peninga.

Jónas Kristjánsson

DV

Með bónus og afgangi

Greinar

Happaþrenna með bónus var núverandi ríkisstjórn kölluð, þegar þrír stjórnmálaflokkar mynduðu hana með hjálp Stefáns Valgeirssonar. Nú má kalla hana happaþrennu með bónus og afgangi, þar sem afgangur Borgaraflokksins styður hana óbeint, þegar á herðir.

Eðlilegt er því, að viðræður hefjist milli ríkisstjórnarinnar og afgangsins af Borgaraflokknum um beina stjórnaraðild afgangsins, sem komist til framkvæmda upp úr áramótum. Þá fær Steingrímur loks huldumanninn, sem hann vantaði. Eða öllu heldur hulduherinn.

Ef ekki verður af inngöngu Borgaraflokksafgangsins eða hluta afgangsins í ríkisstjórnina upp úr áramótum, er eðlilegt, að Steingrímur gefist upp á að stjórna landinu með sífelldum upphlaupum og handarbakaafgreiðslu á borð við það, sem nú er að gerast. Og kosið verði í vor.

Þjóðin borgar kostnaðinn af öllum látunum. Hún borgar fyrirgreiðslukerfið, sem komið var á fót í haust til að fá eitt atkvæði Stefáns Valgeirssonar til stuðnings við ríkisstjórnina. Þetta kerfi á mikinn þátt í erfiðleikunum við að ná saman endum í sjóði skattgreiðenda.

Þjóðin borgar svo núna fjölgunina í utanríkisþjónustunni, sem verður við að losna við Albert úr stjórnmálum, svo að Steingrímur geti fengið beint og óbeint liðsinni hjá afganginum af Borgaraflokknum. Öll herkænska hans endar í reikningum til skattgreiðenda.

Eitt alvarlegasta atriði svokallaðrar kænsku í stjórnmálum er, hversu ófeimnir þjóðarleiðtogar eru orðnir við að senda okkur reikninga. Sum gjafmildi ráðherra er að vísu ódýr, svo sem að gefa fegurðardísum rauða passa, en önnur er dýr, eins og handboltahöllin fræga.

Hulduherinn hljóp inn í hlýjuna til Steingríms fyrir eitt stjórnarsæti í fyrirgreiðslusjóði Stefáns Valgeirssonar og væntanlega fleiri bitlinga síðar. Þar með slapp ríkisstjórnin með minni breytingar á bráðabirgðalögunum en verið hefði með sameinaðri stjórnarandstöðu.

Afgangurinn af Borgaraflokknum ber auðvitað á því fulla ábyrgð, að breytingar bráðabirgðalaganna urðu minni en ella. Hann ber líka ábyrgð á lögunum í heild, allt frá upphafi þeirra, því að hann hefur með atkvæðum sínum staðfest, að þau voru gild á sínum tíma.

Til dæmis hefur Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir tekið ábyrgð á ákvæðum bráðabirgðalaganna um afnám samningsréttar um nokkurn tíma, þótt endanleg útgáfa laganna feli í sér, að réttinum sé skilað aftur. Hún hefur með staðfestingu fallizt á heildarsögu laganna.

Sennilega hafa herkænskumenn ríkisstjórnarinnar lengi vitað, að gefið sendiherraembætti í París mundi tryggja ríkisstjórninni líf fram yfir áramótin. Það mundi skýra, af hverju oddvitar stjórnarliðsins á alþingi keyrðu fram og aftur yfir stjórnarandstöðuna.

Að þessu sinni var vikið frá venjubundnu samráði stjórnarliðs við stjórnarandstöðu á þingi. Reglubundnir samráðsfundir lágu að mestu niðri. Þar á ofan tók formaður þingflokks Framsóknar upp grófari siði en áður við færibanda- og handarbakaafgreiðslu úr nefnd.

Æðibunugangur og yfirgangur formannsins var slíkur, að ætlunin var greinilega ekki, að nýbyrjaðar viðræður við stjórnarandstöðuna leiddu til samkomulags um niðurstöðu. Ætlunin var allan tímann að treysta á lítilþægni afgangsins af kjósendalausum Borgaraflokki.

Vel fer á, að happaþrenna með bónus og afgangi mæti kjósendum sameinuð með allt á hælunum, er ekki verður lengur með herkænsku vikizt undan örlögunum.

Jónas Kristjánsson

DV

Gegnsætt bókhald

Greinar

Oft finnst mönnum kyndugt og að minnsta kosti flókið, þegar ríkið er að taka fé úr einum vasa sínum til að láta í annan. Slíku var til dæmis haldið fram á vegum Morgunblaðsins um helgina í niðurlagi fréttar um samdrátt í kindakjötssölu eftir innreið söluskattsins.

Skiljanlegt er, að sumum finnist skrítið, að ríkið skuli í senn taka söluskatt af kindakjöti og greiða kjötið jafnóðum niður um mun hærri upphæð. Víða í kerfinu er líka reynt að forðast gagnverknað af slíku tagi. Til dæmis selur ríkið sjálfu sér áfengi á kostnaðarverði.

Dæmi um þetta eru mörg. Ýmis þjónusta ríkisins, svo sem lyf og læknisþjónusta, er veitt beint, án þess að viðskiptavinurinn þurfi fyrst að borga hana og fái hana síðan endurgreidda. Þá lætur ríkið ýmsa sjóði á sínum vegum greiða niður vexti fyrir viðskiptavinina.

Ýmis rök mæla samt með, að oftar en ekki beri að millifæra á slíkan hátt á vegum ríkisins. Bókhaldslega séð eru færslurnar ekki til mikillar fyrirhafnar, því að öll þrælavinna þeirra vegna fer nú fram í tölvum, sem ekki kvarta mikið, þótt álagið á þær aukist.

Flestir telja hagkvæmt að hafa skatta sem flatasta, það er að segja að leggja sömu prósentu, eða að minnsta kosti sem fæstar mismunandi prósentur, ofan á hvern skattstofn. Þetta er talið einfalda skattakerfið og auka líkur á, að skattstofni sé ekki haldið leyndum.

Til þess að koma sjónarmiðum félagslegs réttlætis inn í skattakerfi ríkisins er svo ýmsum skattgreiðendum skilað peningum til baka, til dæmis í formi barnabóta. Þeir peningar fara út og inn úr hinu opinbera kerfi, en er samt haldið bókhaldslega út af fyrir sig.

Færa má rök að því, að millifærslur af þessu tagi mættu vera mun meiri en þær eru núna. Til dæmis gæti verið gagnlegt, að ráðuneyti og aðrir forgangsaðilar hins opinbera yrðu að kaupa áfengi á fullu verði í Ríkinu, þótt þar með væri ríkið að borga sjálfu sér.

Ef fullt áfengisverð kæmi fram í bókhaldi og fjárreiðum einstakra ráðuneyta, er líklegt, að ráðamenn þeirra gætu áttað sig betur á umfangi þeirra áfengiskaupa í heildarsamhengi áfengiskaupa landsmanna og reyndu að hafa þau hóflegri en hingað til hefur tíðkazt.

Oft hefur verið lagt til, að þjónusta ríkisins á ýmsum sviðum, svo sem á sjúkrahúsum, væri bókfærð út og inn á eins konar reikningum, sem færu um hendur starfsliðs og sjúklinga, svo að allir, sem málið varðar, geti séð, hversu mikils virði þjónustan er í rauninni.

Sjaldnar hefur verið minnzt á aðra mikilvæga millifærslu, sem gjarnan mætti koma fram í bókhaldi. Í stað þess að niðurgreiða vexti ýmissa opinberra sjóða, svo sem Byggingarsjóðs ríkisins, Byggðasjóðs og Lánasjóðs námsmanna, væri heppilegt að styrkja lánþega beint.

Slíkt yki skilning í þjóðfélaginu á því meginhlutverki vaxta að kalla á sparifé. Um leið drægi það úr líkum á, að menn séu að fela fyrir sjálfum sér og öðrum hinn félagslega, menningarlega og annan kostnað við hlutverkið, sem þessum sjóðum er falið að gegna.

Á svipaðan hátt er eðlilegt, að skattar hins opinbera leggist á kindakjöt eins og aðra vöru, jafnvel þótt ríkið missi peningana til baka í niðurgreiðslur og ýmsa styrki vegna fáránlegs búvörusamnings, sem stuðlar að óhóflegu sauðfjárhaldi í landinu og ofbeit á afréttum.

Þannig er oft heppilegt og jafnvel brýnt, að ríkið taki fé úr einum vasa sínum til að láta í annan vasa sinn, svo að heildarbókhaldið sé gegnsætt og heilbrigt.

Jónas Kristjánsson

DV

Drottning Undralands

Greinar

Ísland er farið að minna á Undraland og Steingrímur Hermannsson á drottninguna, sem var með nefið ofan í hvers manns koppi og gaf marklausar fyrirskipanir í allar áttir. Á heimleið í flugi minna Íslendingar á Lísu, þegar þeir lesa dagblöðin um borð í vaxandi undrun.

Dæmigerð sjónhverfing síðustu og verstu ríkisstjórnar lýðveldisins er yfirlýsing forsætisráðherra um, að verkfallsbannið verði fellt úr bráðabirgðalögum ríkisstjórnarinnar. Þetta á að draga úr líkum á, að Steingrími verði áfram líkt við Jaruzelski hinn pólska.

Í rauninni er brottfallið marklaust, þar sem það heimilar aðilum vinnumarkaðarins aðeins að ræða saman, sem þeir hefðu auðvitað hvort sem er getað gert. Eftir sem áður eru samningar aðilanna framlengdir til miðs febrúar á næsta ári og aðgerðir bannaðar á þeim tíma.

Í dag opinberast hugsanlega örlög bráðabirgðalaganna. Ef enginn huldumaður kemur í ljós í neðri deild Alþingis, verða þau felld eða dregin til baka. Þá mun Steingrímur yppta öxlum og halda áfram að ráðskast með landshagi, eins og í rauninni hafi ekkert gerzt.

Ljósasta dæmið um draumaheim ríkisstjórnarinnar er vaxtastefna hennar. Hún ákvað til dæmis, að vextir ríkisskuldabréfa skyldu verða 7­7,3% og skyldaði bankana til að taka við þeim á þeim vöxtum og koma þeim út. Afleiðingin sést í óseldum og óseljanlegum bréfum.

Bankarnir hafa neyðzt til að bjóða 8% vexti til að koma bréfunum út. Þannig greiða þeir niður draumavexti ríkisstjórnarinnar, svo ekki er furða, þótt bankar séu dýrir í rekstri. Samt er reiknað með, að tæpir tveir milljarðar króna í bréfum verði óseldir um áramót.

Nú er drottningin í Undralandi farin að ræða við forviða lífeyrissjóði um 5% raunvexti af peningum, sem þeir lána til sjóða á vegum ríkisins. Þetta gerist í umheimi, þar sem raunvextir eru 8­10% og þar sem ástand efnahagsmála er mun fastara fyrir en er hér á landi.

Annað nýlegt dæmi um draumaheiminn eru skattahækkanir, sem fjármálaráðherra segir sumpart ekki vera hækkanir og jafnvel lækkanir. Í frumvörpum hans um þessi efni er vandlega reynt að fela eðli og umfang breytinganna á skattbyrði fólks og fyrirtækja.

Þar er gefið í skyn, að fólk með 60.000 króna mánaðartekjur verði skattlaust, þótt það muni í raun borga um 45.000 króna skatta. Ennfremur gefur hann í skyn, að skattar séu lægri hér en annars staðar, þótt þeir séu hinir tíundu hæstu aðildarríkja OECD-hagstofnunar.

Fleira vekur furðu Lísu. Drottningin í Undralandi hefur lengi lagt áherzlu á, að reglum verði breytt um útreikning vísitalna og að þær verði síðan lagðar niður. Allir, sem um breytingarhugmyndir hans hafa fjallað, eru á einu máli um, að þær séu gersamlega út í hött.

Ríkisstjórnin umgengst efnahagsmál eins og töframaður, sem dregur dauðar kanínur upp úr hatti. Meginatriði stjórnarstarfsins er sviðsframkoman, enda eru sumir helztu ráðherrarnir sérfræðingar í að slíta stjórnarsamstarfi í beinni útsendingu sjónvarps.

Athyglisýki ráðherra er helzta haldreipi stjórnarinnar. Formenn stjórnarflokkanna eru ábyrgðarlitlir og vilja gjarna baða sig í sviðsljósi. Þeir munu því halda áfram skaðlegu brambolti sínu og hljóðfæraslætti, þótt Róm brenni og þótt meirihluta skorti á Alþingi.

Sérkennilegastir í Undralandi drottningarinnar eru þó kjósendur sjálfir, sem hafa kallað yfir sig athyglisjúka ráðamenn og leitt ímyndunina til hásætis.

Jónas Kristjánsson

DV

Þrír leikfléttumenn

Greinar

Steingrímur Hermannsson kemur fram í sjónvarpi eins og hann trúi því, sem hann er að segja, og hann talar ekki niður til fólks. Á þessu byggjast vinsældir hans sem stjórnmálamanns. Ofan á þetta bætist svo færni Steingríms við að spila eftir eyranu í stjórnmálum.

Jón Baldvin Hannibalsson og Ólafur Ragnar Grímsson kunna líka að spila eftir eyranu. Þeir eru hins vegar ekki vinsælir, nema innan hluta eigin flokka. Þeir tala niður til fólks í sjónvarpi og koma þar fram eins og þeir séu að reyna að telja fólki trú um eitthvað.

Samanlagt eru þessir þrír flokksforingjar dæmi um nýja kynslóð stjórnmálamanna, sem sérhæfa sig meira en áður hefur tíðkazt í að spila eftir eyranu. Þeir minna á skákmenn, sem eru hugkvæmir í fléttum, en hafa ekki eins nákvæma sýn yfir skákina í heild.

Steingrími hefur gengið bezt í þessu. Hann hefur reynt að líkja eftir Schlüter, starfsbróður sínum í Danmörku. Schlüter hefur reynzt snillingur í að tefla saman pólitískum fléttum á þann hátt, að hann sjálfur er oftast ofan á sem forsætisráðherra í minnihlutastjórnum.

Steingrímur lítur á sig sem hliðstæðan listamann, er getur látið ríkisstjórn, sem hefur ekki starfhæfan meirihluta á þingi, sigla frá einu skerinu til annars, án þess að steyta á neinu þeirra. Hann telur sig geta fundið jafnóðum ráð við hæfi til að haga seglum eftir vindi.

Ríkisstjórn Steingríms hefur ekki tryggt sér meirihluta með neinu mikilvægu máli. Hún hefur ekki stuðning við frumvarpið til staðfestingar bráðabirgðalögunum, ekki við fjárlagafrumvarpið og ekki við ýmis tekjuaukafrumvörp. Hún á engan vísan huldumann á þingi.

Listamennirnir eða tækifærissinnarnir þrír, sem hafa forustu fyrir stjórnarflokkunum, hyggjast útvega sér huldumenn eftir aðstæðum hverju sinni. Nokkrar líkur eru á, að þingmenn úr Borgaraflokknum taki að rása, þegar Albert formaður er floginn til Parísar.

Ríkisstjórnin getur teflt fram möguleikum á samningum við einstaka þingmenn úr Borgaraflokknum eða Kvennalistanum, annaðhvort í heild eða í einstökum málum. Hún á jafnvel tvö ráðherraembætti laus, þannig að hún getur enn samið um stuðning heilla þingflokka.

Formennirnir þrír stefna ekki að neinu sérstöku markmiði með þessari ríkisstjórn, öðru en því að prófa, hvað þeim takist að láta hana lifa lengi, þótt hún hafi ekki starfhæfan meirihluta á þingi. Um annað innihald stjórnarsamstarfsins kæra þeir sig kollótta.

Þess vegna lætur Steingrímur sér í léttu rúmi liggja, þótt Jón Baldvin hverfi frá afstöðunni, sem hinn fyrr nefndi mótaði hjá Sameinuðu þjóðunum. Þess vegna lætur Ólafur Ragnar sér í léttu rúmi liggja, þótt Jón Sigurðsson stefni af fullum krafti að nýju álveri.

Í samræmi við leikfléttuhugsjónir þremenninganna hafa þeir ekki ákveðið sameiginlega eða hver í sínu lagi, hvort kosningar verði í vor. Þeir hafa þann möguleika í myndinni og vilja haga skákinni á þann hátt, að þeir geti, ef svo verkast, mætt kjósendum sínum í vor.

Málefnalega standa þremenningarnir illa. Nærri allar tölur um þjóðarhag stefna í óhagstæða átt. Enginn áhugi eða dugur virðist vera í þeirra hópi að hverfa frá dauðastefnunni, sem felst í frystingu efnahagsástandsins og skömmtun opinberra gæða til margs konar gæludýra.

Þeir tefla sig áfram frá einni leikfléttunni yfir á þá næstu og hugsa mest um, hvaða sjónhverfing henti í næsta viðtali dagsins í fréttaleikhúsum sjónvarpsins.

Jónas Kristjánsson

DV

Umbúðir um nánast ekkert

Greinar

Norrænt samstarf hefur ungað út 114 blaðsíðna skýrslu um varðveizlu leðurhúsgagna. Brezka tímaritið Economist hefur raðað saman nokkrum slíkum brosleg um dæmum um norrænt samstarf. Það birti fyrir viku grein, þar sem gert er grín að þessu samstarfi.

Blaðið hefur reiknað út, að við Norðurlandaráð og ráðherranefndir Norðurlanda sitji 23 embættismannanefndir að norrænum verkefnum, 74 norrænar stofnanir, 152 nefndir og svokallaðir starfshópar, og unnið sé að 2000 norrænum verkefnum í þessu samstarfi.

Kostnaður þessa hátimbraða kerfis norræns samstarfs nam um 7,7 milljörðum króna á síðasta ári. Tímaritið Economist telur, að lítið gagn sé að þessu fé, nema fyrir flugfélagið SAS, sem sér um að flytja embættis- og stjórnmálamennina milli horna þessa heimshluta.

Fleirum en utangarðsmönnum er ljóst, að mikið fé fer í súginn í norrænu samstarfi. Sænski fjármálaráðherrann hefur sagt, að unnt sé að verja tímanum til nytsamlegri hluta en gerð norrænna efnahagsáætlana. Sú vinna hefur nú blessunarlega verið lögð niður.

Langt er síðan norræn samvinna náði árangri, sem svaraði til fyrirhafnarinnar. Á sjötta áratug aldarinnar var aflétt vegabréfsskoðun milli Norðurlanda. Þau voru þá gerð að einum vinnumarkaði. Þá var samið um gagnkvæm réttindi í tryggingum og heilsugæzlu.

Síðan hefur lítið gerzt. Economist telur, að tollmúrar milli Norðurlanda hafi ekki farið að lækka fyrr en suðlægari ríki á borð við Austurríki og Sviss komu til samstarfs við þau og mynduðu með þeim Fríverzlunarsamtökin. Framfaramáttur fríverzlunar hafi komið að utan.

Í viðtali DV um þessa gagnrýni við hinn íslenzka ráðherra norrænna samstarfsmála, Jón Sigurðsson, bar hann í bætifláka fyrir Norðurlönd, þótt hann viðurkenndi, að norrænt samstarf væri þunglamalegt og umbúðasamt eins og fjölþjóðlegt samstarf væri yfirleitt.

Jón benti á tiltölulega óáþreifanleg atriði eins og menningarmál og umhverfismál, þar sem norrænt samstarf skilaði árangri. Hann vísaði einnig á Norræna fjárfestingarbankann. Sá banki hefur verið umdeildur hér á landi að undanförnu, en kann að hafa komið að gagni.

Ekki verður komizt hjá að viðurkenna, að norrænt samstarf felst að umtalsverðu leyti í ferðalögum og veizluhöldum embættis- og stjórnmálamanna, þótt sitthvað gagnlegt fljóti með. Íslenzki samstarfsráðherrann viðurkenndi þetta raunar í áðurnefndu viðtali við DV.

Norrænt samstarf er svo fyrirferðarmikið hér á landi, að forsetar Sameinaðs alþingis telja sig neydda til að umgangast skyldur handhafa forsetavalds af slíkri léttúð, að þeir voru allir á norrænu flandri einmitt í vikunni, sem forseti Íslands var á ferðalagi í útlöndum.

Þessa sömu viku, þegar forseti Sameinaðs alþingis óvirti skyldur sínar, var Alþingi óstarfhæft vegna aukafunda í norrænu samstarfi. Þannig leggst starfsemi þingsins hvað eftir annað niður, af því að leiðtogar þings og flokka leggjast í norræn ferðalög og veizluhöld.

Minni athygli vekur, þótt embættismenn séu á þessu flandri, því að ekki er vitað, hvort þeir mundu gera eitthvað, þótt þeir væru við skrifstofuna. En ekki dylst neinum, sem fer til útlanda, að á leiðum til Norðurlanda er “Saga Class” hálffullt af slíku liði á hverjum morgni.

Svona skrautlegar umbúðir utan um nærri ekki neitt stafa auðvitað af, að embættismenn og stjórnmálamenn vilja ekki missa af veizluhöldum og ferðalögum.

Jónas Kristjánsson

DV

Fólk lætur plata sig

Greinar

Vikulega berast fréttir um, að halli ríkisins á þessu ári verði meiri en áður var gert ráð fyrir. Á þremur mánuðum hefur hallaspáin hækkað úr 0,7 milljörðum í 5 milljarða. Þetta bendir til, að ríkið láti reka á reiðanum sem fyrirtæki og yrði gjaldþrota, ef slíkt væri hægt.

Þótt íslenzkir stjórnmálamenn og aðrir félagsmálaberserkir, svo og æðstu embættismenn, geti ekki rekið fyrirtæki, er þeim margt til lista lagt. Þeim er mörgum vel gefið að þyrla upp ryki og leggja á þokur blekkinga á víxl. Um slíkt höfum við mörg nýleg dæmi.

Sjávarútvegsráðherra dró frá stíflu gegn flutningi ísfisks til erlendra hafna. Við það skall á flóð landana og verðið lækkaði. Slíkt gerist alltaf, þegar stíflur eru teknar. Uppsafnaður vandi þarf fyrst að leita útrásar, áður en ástandið fellur í hefðbundinn markaðsfarveg.

Stíflan var ekki tekin til að kanna, hvort unnt sé að endurnýja frelsi í útflutningi á ísfiski. Hún var tekin til að geta sagt, að frelsi sé skaðlegt og að skipulag eigi áfram að vera í höndum ráðherra og ráðuneytis. Hún var tekin til að geta byggt stærri stíflu í næstu viku.

Dæmi úr ólíkri átt er útskýring utanríkisráðherra á afstöðu hans gegn Palestínumönnum, er hann breytti atkvæði Íslands á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Hann sagði, að ályktun þingsins væri öðruvísi orðuð en árið áður og full af skítkasti í garð Ísraels.

Athugun hefur hins vegar leitt í ljós, að efnislega er þessi ályktun svipuð þeim, sem áður hafa verið samþykktar á þessum vettvangi, en tekur líka tillit til hryðjuverkanna, sem Ísraelsher hóf fyrir ári á hernumdu svæðunum. Og alls ekkert skítkast er í henni.

Víðar hafa menn uppi villuljós en í ráðuneytunum. Neytendasamtökin segjast bera hag neytenda fyrir brjósti, en vinna gegn hagsmunum þeirra í mikilvægum málum. Dæmi um það er andstaða samtakanna gegn strikamerkingum og innflutningi landbúnaðarafurða.

Samtökin andæfa gegn strikamerkingum með því að segja, að ekki sé nóg að verðmerkja í hillum, heldur verði einnig að halda áfram verðmerkingu vörunnar sjálfrar. Sú merking er dýr í verðbólguþjóðfélagi og endurspeglast að sjálfsögðu í verði vörunnar.

Miklu skiptir fyrir neytendur, sem kaupa mikinn fjölda af vörum í einu, að ræman, sem þeir fá við peningakassann, telji upp vörurnar, er þeir hafa keypt. Að öðrum kosti hafa þeir ekki hugmynd um, hvort summan er rétt eða ekki. Úr þessu bæta strikamerkingar.

Enn mikilvægara fyrir neytendur er, að leyfður verði innflutningur búvöru í samkeppni við búvöruna, sem framleidd er í landinu. Það mundi halda niðri verði til neytenda og raunar stórlækka það. Þessu hafa Neytendasamtökin verið andvíg og er það svívirðilegt.

Í Alþýðusambandinu eru á þingum höfð uppi fögur orð um, að bæta þurfi kjör hinna verst settu og að fá þurfi þar nýtt fólk, ekki sízt konur, inn í forustuliðið til að ná þeim árangri. Við höfum nýlega orðið vitni að skrautlegri blekkingarsýningu af því tagi.

Eftir hana hafa stjórnmálaflokkarnir sem eins konar hluthafar haldið áfram að skipta með sér Alþýðusambandinu eins og Neytendasamtökunum. Og brátt kemur í ljós, að í ASÍ munu hátekjuhópar halda áfram að beita lágtekjufólki fyrir vagn aukinnar misskiptingar tekna.

Ríkið, Neytendasamtökin og Alþýðusambandið eru bara örfá dæmi um, að víða er ekki allt sem sýnist, ef skyggnzt er undir þokuna. Fólk lætur almennt plata sig.

Jónas Kristjánsson

DV

Var það nokkuð fleira

Greinar

Hætt er við, að margir sakborningar, sem koma fyrir Hæstarétt á næstunni, geti ekki varizt brosi, þegar þeir sjá skikkjuklædda dómara réttarins stíga af þungri alvöru upp í hásæti sín. Brennivínsmálið hefur skaðað álit Hæstaréttar og þannig valdið lýðveldinu tjóni.

Þekktur lögmaður gaf fyrir ári út bók um Hæstarétt, þar sem meðal annars voru rakin dæmi um lítinn og lélegan rökstuðning réttarins fyrir úrskurðum sínum. Þetta telja margir óheppilegt, því að ýtrustu rök lögfróðustu manna ættu að geta bætt dómgæzlu á lægri stigum.

Nú er fengin skýring á stuttum véfréttatexta í dómum Hæstaréttar. Hún segir ekki, að þar séu menn of drukknir eða timbraðir til að tjá sig á blaði. Hún segir bara, að þar séu dómarar, sem hafi ekki næga dómgreind til að setja saman góðan rökstuðning fyrir máli sínu.

“Síðan rjúka fjölmiðlar upp til handa og fóta eins og að tólf lík hefðu fundizt uppi á lofti hjá mér” er haft eftir forseta Hæstaréttar. Þessi samanburður er afar óheppilegur, því að “líkin” gátu verið 1440. Glöggir menn eiga ekki að láta svona samanburð frá sér fara.

“Mér hafa aldrei verið sýndar neinar reglur um þessi áfengiskaup” er haft eftir forseta Hæstaréttar. Auðvitað átti hann fyrirfram og að eigin frumkvæði að kynna sér reglurnar, því að hann átti að vita, að annars gæti hugsanlega verið um misnotkun að ræða af hans hálfu.

Úti í þjóðfélaginu er ætlazt til, að dómarar Hæstaréttar séu vammlausir. Þeir mega að almannadómi ekki vera á ferðalögum á gráum svæðum, sem eru á mörkum þess að vera siðlaus, ef ekki löglaus. Ennfremur sættir fólk sig illa við, að dómarar Hæstaréttar séu gráðugir.

“Ég tel þetta ekki brjóta í bága við almenna réttlætiskennd eða siðgæði” er haft eftir forseta Hæstaréttar. Þessi ummæli benda til, að hann geri sér afar litla grein fyrir, hver sé almenn réttlætiskennd og hvert sé almennt siðgæði í landinu. Og vanmeti hvort tveggja.

“Þetta eru hlunnindi, sem fylgja starfinu” er haft eftir forseta Hæstaréttar. Hann telur því árlegan flutning á 1440 áfengisflöskum heim til sín, á verði, sem er ekki nema lítið brot af almennu söluverði, vera eins konar herfang, er ekki komi við opinberri gestamóttöku.

Svo virðist sem hann hafi að nokkru leyti rétt fyrir sér. Handhafar forsetavalds í fjarveru forseta Íslands hafa engar risnuskyldur, sem ekki er séð um á öðrum vettvangi. Brennivínsfríðindi þeirra eru því eins konar hlunnindi, sem þarf að afnema af þessu gefna tilefni.

Forseti sameinaðs Alþingis hefur játað að hafa sem einn þriggja handhafa forsetavalds tekið út með sama hætti 100­200 áfengisflöskur á ári. Munurinn á honum og forseta Hæstaréttar er, að annar heldur notkun fríðindanna innan marka, sem vekja takmarkaðri athygli.

Búast má við, að græðgi forseta Hæstaréttar leiði til, að hlunnindi þessi verði afnumin með öllu. Vel er á annan hátt séð fyrir allri gestamóttöku, sem fara þarf fram á vegum ríkisins. En betur mætti almennt fylgjast með, að veizluföng leki ekki heim til gestgjafanna.

Brýnast í málinu er þó, að Hæstiréttur sjálfur átti sig á, að virðing hans, sem var of lítil fyrir, hefur skerzt við uppljóstrun brennivínsmálsins. Erfitt verður fyrir hann að öðlast virðingu í hugum fólks, meðan dómari við réttinn lætur frá sér fara eftirfarandi ummæli:

“Starfsmenn ÁTVR hafa aldrei séð ástæðu til að hreyfa athugasemdum. Í lok samtala okkar hafa þeir einfaldlega spurt: “Var það nokkuð fleira?” “

Jónas Kristjánsson

DV

Píramíðaþjóðin

Greinar

Ef byggð væri í Dritvík á Snæfellsnesi á okkar tímum, væri mikið lagt í sölurnar til að hindra brottflutning og búseturöskun. Ríkishöfn hefði verið gerð þar fyrir ærið fé og frystihúsið væri inni á gafli hjá atvinnutryggingarsjóði hinnar nýju Stefaníu landsins.

En Dritvík lagðist í eyði fyrir okkar tíma eins og Aðalvík og margar aðrar verstöðvar, sem þekktar eru í þjóðarsögunni. Það er tiltölulega nýtt fyrirbæri, aðeins fárra áratuga gamalt, að almannavilji reyni að frysta búsetu og atvinnu og hamla gegn hvers konar röskun.

Efnahagslegar framfarir byggjast á röskun. Menn kasta fyrir róða gamalli búsetu, gömlum fyrirtækjum og gamalli hefð. Forsenda hagþróunar þessarar aldar á Íslandi var, að þjóðin flúði úr sveit út á mölina og einkum til Reykjavíkur. Ríkidæmið dafnaði í þéttbýlinu.

Xerox heitir frægt fyrirtæki í útlöndum. Upp úr engu reisti það 50.000 milljarða veltu á sjöunda áratug þessarar aldar. Það hafði forystu í framleiðslu ljósritunarvéla og náði 95% af heimsmarkaðinum. Erlendis varð nafn fyrirtækisins víða samnefnari allra ljósritunarvéla.

Hluta af hagnaðinum notaði Xerox til að hanna borðtölvur, sem þá voru ekki til. Þegar aðeins var eftir að leggja hálfan milljarð í dæmið til að ljúka því og hefja borðtölvubyltingu, fengu ráðamenn fyrirtækisins hland fyrir hjartað. Þeir óttuðust óvissu, forðuðust röskun.

Afleiðingin var, að fyrirtæki á borð við IBM og Apple tóku upp merkið og eignuðust markað, sem var hundrað sinnum stærri en markaðurinn fyrir ljósritunarvélar hafði verið. Þannig missti Xerox af lestinni á níunda áratugnum eftir gífurlega velgengni á hinum sjöunda.

Þetta útlenda dæmi sýnir, að heimur velgengninnar stendur ekki í stað. Lestirnar eru stöðugt að renna hjá brautarstöðinni. Ef menn hoppa ekki upp í þær, þegar andartakið er komið, missa menn af þeim og sitja eftir með sárt ennið, hver í sinni Dritvík eða Aðalvík.

Xerox réði sjálft örlögum sínum, því að það er rekið í opnu þjóðfélagi. Við erum ekki svo heppnir hér í hálflokuðu Íslandi. Árum saman þorðu menn til dæmis ekki að hella sér út í fiskirækt af ótta við ofsóknir af hálfu hins opinbera embættis veiðimálastjóra.

Saga Skúla í Laxalóni er mörgum kunn af blaðafréttum fyrri áratuga, en er nú komin út í bókarformi. Hún er öðrum þræði þungur áfellisdómur yfir þjóð, er reisir yfir sig lokað miðstýringarkerfi, sem berst með oddi og egg gegn sumum þeim, er leita á mið óvissunnar.

Nú er fiskirækt loksins orðin viðurkennd atvinnugrein. En þá erum við líka orðin að minnsta kosti áratug á eftir Norðmönnum. Þeir hafa byggt upp sína fiskirækt á tímum hagstæðs verðlags og greitt niður stöðvarnar að hluta. Okkar ævintýri er hins vegar allt í skuld.

Við látum ríkisvaldið sóa fjármunum okkar í vaxandi mæli í að vernda fortíðina gegn framtíðinni. Við viljum, að fólkið búi, þar sem það er. Við viljum, að fyrirtækin séu hin sömu og áður, þótt dauðvona séu, og höldum í þeim lífi. Við viljum, að togarar séu ekki fluttir.

Þjóð, sem er orðin svona upptekin af frystingu núverandi ástands, getur ekki mætt breytingum framtíðarinnar. Hún staðnar og verður sífellt fátækari, af því að umheimurinn stendur ekki í stað. Hún leggur á sig sífellt þyngri byrðar við að tryggja eilífð fortíðarinnar.

Hér er píramíðaþjóð nútímans. Við stritumst við að hlaða undir kýr og kindur og vernda jafnvægi í byggð landsins. Við skattleggjum ófædd börn okkar í því skyni.

Jónas Kristjánsson

DV

Varðveizla fortíðar

Greinar

Hver vikan, sem líður, staðfestir betur, að nýja ríkisstjórnin rekur hagstefnu, sem kenna má við Stefán Valgeirsson. Í megindráttum felst stefnan í að varðveita fortíðina gegn framtíðinni. Þetta kemur fram í ýmsum myndum, sem hafa smám saman verið að koma í ljós.

Unnt er að lýsa stefnunni á ýmsan hátt eftir hliðum hennar, sem horft er á hverju sinni. Síðustu dagana hefur hún komið í ljós í kröfum um, að þjóðfélagið, það er skattgreiðendur, styrki verzlun kaupfélaga í strjálbýlinu og rekstur nokkurra hreppa á svipuðum stöðum.

Þegar slíkum kröfum er bætt við fyrri kröfur um, að styrkt verði frystihús á sömu slóðum, og gjarna í eigu aðildarfélaga Sambands íslenzkra samvinnufélaga, má segja, að þetta sé um leið ákveðin tegund byggðastefnu, það er að segja sú, sem horfir til fortíðarinnar.

Ekki er eingöngu hægt að líta á þetta sem byggðastefnu, því að hún tengist almennri velferðarstefnu fyrirtækja, hvort sem þau eru í þéttbýli eða strjálbýli. Samkvæmt þeirri stefnu er eðlilegt, að ríkið grípi í taumana, ef fyrirtækjum gengur illa í lífsins ólgusjó.

Fólk lítur þá á það sem óbærilegan vanda, að starfsliði fækki hjá fortíðarfyrirtækjum, jafnvel þótt stöðugt sé verið að stofna fyrirtæki á framtíðarsviðum og slík fyrirtæki séu að færa út kvíarnar. Suðurnesjamenn vilja til dæmis ekki minnka hallærisrekstur í fiskvinnslu.

Hinar ýmsu hliðar stefnunnar sameinast í heildarmynd, sem sýnir stefnu, er berst gegn röskun í atvinnurekstri. Hún er á móti því, að fyrirtæki leggist niður. Hún vill ekki, að atvinna færist til, og alls ekki, að hún færist milli landshluta. Þetta er fortíðardýrkun.

Þótt ástæða sé til að hafa verulegar áhyggjur af miklu gengi fortíðarstefnu þessa dagana, er samt hægt að fagna því, að hún kom ekki í veg fyrir atvinnubyltingar fyrri áratuga þessarar aldar. Verra hefði verið, ef núið hefði verið fryst fyrr, til dæmis um síðustu aldamót.

Oftast renna hugsjónir og hagsmunir saman í órjúfanlega heild í verndarstefnu fortíðar gegn ásókn framtíðar. Þeir, sem reka eða starfa við fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög, er gengur illa, vilja auðvitað, að stóri bróðir hjálpi sér. Og þeir æpa miklu hærra en hinir.

Þetta tengist svo hagsmunum Sambands íslenzkra samvinnufélaga, sem hefur tapað miklu fé að undanförnu. Aðildarfélög þess eru á kafi í frystingu og dreifbýlisverzlun, svo að ekki er nein furða, þótt fortíðarverndin njóti velvildar í stjórnmálum landsins.

Sérstakir fyrirgreiðslusjóðir, sem stundum eru kallaðir skussasjóðir, eru eðlilegar afleiðingar af vinsældum fortíðarstefnunnar. Ennfremur verður ljóst, hvers vegna ríkisstjórnin leggur ofurkapp á að lækka vexti, þótt fyrri vextir hafi ekki halað inn lánsfé.

Stefán Valgeirsson og atvinnutrygginarsjóður hans eru auðvitað einkennistákn stjórnarstefnu, sem hefur fortíðarvarðveizlu eða frystingu á núinu að meginmarkmiði. Í ljósi þess ber að skoða gífurlegt hól, sem formaður Alþýðubandalagsins hefur hlaðið á Stefán.

Í leiðurum þessa blaðs hefur oft verið útskýrt, hvernig allir flokkar hafa í valdastóli stundað fortíðarstefnu Framsóknarflokksins. Munurinn á síðustu ríkisstjórn og þessari er, að sú fyrri fylgdi stefnu Framsóknarflokks, en hin síðari rekur róttækari stefnu Stefáns.

Efnahagsvandi þjóðarinnar felst einkum í, að stór hluti hennar sættir sig við fortíðarstefnuna eða styður hana beinlínis, ýmist í mildri eða róttækri útgáfu.

Jónas Kristjánsson

DV

Seiðkarlafræðin gleður

Greinar

Ánægja flokksmanna með forustumenn sína virðist núna vera almenn á yfirborði flokkakerfisins. Sjálfstæðisflokkurinn var ekki fyrr búinn að standa upp og hylla sinn mann, er forustumenn Framsóknar- og Alþýðuflokks hlutu einnig rússneska kosningu hjá sínu liði.

Virðingin er svo mikil, að formenn Framsóknar- og Alþýðuflokks eru byrjaðir að fara í opinberar heimsóknir á víxl, eins og um erlenda þjóðhöfðingja væri að ræða. Móttökur hafa verið kurteislegar, þótt sumir hafi ekki getað dulið gremju sína að heimsókn liðinni.

Þessir vinsælu afreksformenn eiga eitt sameiginlegt. Þeir störfuðu saman, eða öllu heldur sundur, í verstu ríkisstjórn lýðveldisins, þeirri sem splundraðist í sumar, er hún hafði splundrað þjóðarhag hraðar en nokkur önnur stjórn hefur gert á síðustu áratugum.

Formennirnir hafa nú fylkt liði á nýjan hátt um sömu óheillastefnu og áður. Sjálfstæðisflokkurinn er farinn út í kuldann, en Alþýðubandalagið komið inn í hlýjuna í staðinn. Öll línurit hagfræðinnar halda óbreyttum bratta eftir þessa lítilvægu breytingu.

Á tveimur árum, frá 1987 til 1989, mun ríkissjóður stækka sneið sína af þjóðarkökunni úr 23,7% í 28,1%. Þetta er stökkbreyting á hlutfalli, sem áður rokkaði lítið milli ára og ætti raunar að vera fast. Þessi stökk breyting er helzta undirrót efnahagsvandræðanna.

Ein alvarlegasta afleiðing útþenslu ríkisins á valdaskeiði allra þessara vinsælu formanna er, að skuldir þjóðarinnar í útlöndum fara ört vaxandi og sömuleiðis skuldabyrðin. Helmingur allra skuldanna er á vegum opinberra aðila og ríkisábyrgð er á mörgum hinna.

Tvennt til viðbótar er hliðstætt í stefnu ríkisstjórnarinnar, sem fór frá, og hinnar, sem tekin er við. Annað er fastgengisstefnan, sem hefur rústað sjávarútveginn og á að fá að gera það áfram. Hitt er lágvaxtastefnan, sem hefur hindrað og mun hindra sparnað í landinu.

Athyglisvert er, að allir virðast viðurkenna, að gengi krónunnar sé skráð of hátt. Á flokksþingi Framsóknar var sagt, að mismunurinn nemi 10­15%. Samt vilja menn ekki taka afleiðingunum, af því að það spillir tilraunum stjórnvalda til að falsa vísitölur og verðbólgu.

Lágvaxtastefnan er farin að hafa alvarlegar afleiðingar. Byrjað var á að lækka vexti á skuldabréfum ríkisins. Síðan hafa slík bréf ekki selzt. Nú er enn verið að lækka almenna vexti í þessari viku, þótt þeir hafi alls ekki gefið tilefni til sparnaðar að undanförnu.

Í hruni innlends sparnaðar er merkisberi ríkisstjórnarinnar fyrrverandi þjóðhagsstjóri. Hann mænir vongóður á lækkandi vísitölur, sem eru búnar til með verðstöðvun, þannig að verðhækkanir safnast fyrir í pípum efnahagskerfisins til að fá síðar útrás í offorsi.

Að einu leyti er nýja ríkisstjórnin öðruvísi en hin fyrri. Af ríkidæmi þjóðarinnar hefur hún lagt nokkra milljarða í sérstakan skussasjóð handa Stefáni Valgeirssyni. Og stjórnarformaður Sambandsins hefur þar á ofan krafizt ríkisstuðnings við kaupfélög úti á landi.

Sameiginlegt einkenni hagsstefnu þessara tveggja ríkisstjórna er það sambland af rugli og óskhyggju, sem George Bush kallaði á sínum tíma “voo-doo” hagfræði forvera síns í forsetaembætti Bandaríkjanna. Þessa tegund hagfræði mætti kalla seiðkarlafræði á íslenzku.

Ekki er hægt að búast við, að þjóðin hafi mikið gagn af stjórnmálaflokkum, sem fagna seiðkarlafræði eins ákaft og gert hefur verið á nýliðnum flokksþingum.

Jónas Kristjánsson

DV

Gjaldþrot Halldórs

Greinar

Ekki má kenna Steingrími Hermannssyni einum um hrun sjávarútvegsins, sem hann segir sjálfur, að nálgist þjóðargjaldþrot. Höfuðpaur miðstýringarinnar, sem hefur leikið sjávarútveginn grátt í tíð nokkurra skaðlegra og síversnandi ríkisstjórna, er Halldór Ásgrímsson.

Steingrímur afsakar sig líka með því að hafa verið í fílabeinsturni, meðan hann fékk ekki að vera forsætisráðherra. En nú er hann orðinn landsfaðir að nýju og ætlar sér að ganga lengra á braut miðstýringarinnar, sem stefnir að gjaldþroti sjávarútvegs og þjóðfélags.

Fastgengisstefna síðustu stjórnar var einn mikilvægasti þátturinn í hruni sjávarútvegsins. Hún hefur löngum verið trúaratriði Steingríms og hin síðustu ár notið óverðskuldaðs stuðnings úr hópi hagfróðra manna. Með henni keypti þjóðin meira vandamál fyrir minna.

Steingrímur og raunar fleiri höfðu séð, að gengislækkanir átust yfirleitt upp á nokkrum tíma. Þær voru yfirleitt undanfari kröftugrar sveiflu verðbólguhjólsins. Því var farið að kenna þeim um ýmislegt, sem aflaga fór í þjóðfélaginu. Þær fengu á sig illt orð.

Þótt segja megi, að áhrif gengislækkana séu slæm, eru þó margfalt verri áhrif gengisfrystingar. Þjóðin hefur lifað af ótal gengislækkanir og eflt hag sinn um leið. En hún hefur ekki þurft nema tveggja ára fastgengisstefnu til að komast í námunda við gjaldþrot Halldórs.

Steingrímur og félagar hans í fyrri ríkisstjórn losnuðu við vandamál gengislækkana með því að fá í staðinn margfalt hættulegri vanda fastgengisstefnu. Með henni neita menn nefnilega að gefast upp fyrir staðreyndum lífsins og berjast um á hæl og hnakka.

Persónugervingur þrjózkunnar er ekki Steingrímur, heldur Halldór Ásgrímsson. Hann mun seint gefast upp í hvaladeilunni, hvernig sem viðrar, því að hann kann ekki að hætta. Hann mun ekki heldur hætta við miðstýringuna, sem hann hefur leitt yfir sjávarútveginn.

Bezt væri auðvitað að hætta þessari gengisskráningu af hálfu stjórnmálamanna. Bezt væri að leyfa genginu að skrá sig sjálft frá degi til dags, án kollhnísanna, sem stjórnmálamenn miðstýringarstefnunnar framleiða, þegar þeir viðurkenna staðreyndir seint og um síðir.

Til þessa er Steingrímur ófáanlegur, enda telur hann, að svart sé hvítt og hvítt sé svart. Að hans mati er það ekki miðstýring ráðherranna, sem hefur gert sjávarútveginn gjaldþrota, heldur stefna frjálshyggjugaura úti í bæ og úti í Efnahagsframfarastofnuninni, OECD.

Sú ágæta stofnun, sem fer í taugar Steingríms, hefur ekki alltaf rétt fyrir sér og fylgist of seint með breyttum aðstæðum á Íslandi. En pappírar hennar segja þó í stórum dráttum ekki aðra sögu en heilbrigð skynsemi sagði, löngu áður en hagfræðingagengin komu til sögunnar.

Efnahagsframfarastofnunin hefur lagt til, að milduð verði miðstýring kvótakerfisins með því að kvótar verði seldir og keyptir á opnum markaði. Þessi sjálfsagða tillaga hljómar eins og grimmasta frjálshyggja í eyrum Steingríms Hermannssonar og Halldórs Ásgrímssonar.

Þessir tveir menn hafa meira eða minna stjórnað sjávarútveginum um langt skeið. Þeim hefur með aðstoð Sjálfstæðisflokks tekizt að breyta góðæri í heimatilbúna kreppu á aðeins tveimur árum. Samkvæmt síðustu upphrópunum Steingríms verður kreppan nú enn hert.

Forsenda þess, að þjóðinni fari að vegna betur að nýju, er að hún losi sig við þessa tvo ráðherra, einkum þó þann, sem hefur límt sig við stól sjávarútvegsins.

Jónas Kristjánsson

DV

Óraunhæfa ævintýrið

Greinar

Í ævintýrinu, sem ekki gerðist, fór dagblaðið Tíminn að skrifa um Sambandið á svipuðum tíma og Helgarpósturinn hóf skrifin um Hafskip. Skrif blaðsins snerust um meinta óráðsíu og rugl í rekstri fyrirtækisins og um óeðlilegan forgang þess í Landsbankanum.

Þjóðareigendafélagið í ýmsum stjórnmálaflokkum tók málið upp á sína arma. Málið snerist fljótlega upp í árásir á Kristin Finnbogason, sem hafði verið formaður bankaráðs Landsbankans um skeið og var ýmsum til ama. Málareksturinn tók mörg ár í ævintýrinu.

Af fréttum Tímans og annarra fjölmiðla mátti ráða, að Sambandið hefði brotið lög með kaffibaunabókhaldi, sem virtist miða að því að hlunnfara þjóðarheildina og rétta hag ráðamanna fyrirtækisins örlítið í leiðinni. Slíkt hefði auðvitað aldrei getað gerzt í raun og veru.

Af fréttunum mátti líka ráða, að bankaráðsmenn og bankastjórar Landsbankans væru löngum stundum í eins konar Sambandsvímu. Til dæmis lánuðu þeir því stórar fjárhæðir án nokkurra veða, þótt ekki fengju lán margir þeir, sem gátu boðið fullnægjandi veð.

Í fréttum ævintýrisins var ennfremur haldið fram fullum fetum, að Landsbankinn hefði keypt á nafnverði af Sambandinu gífurlegt magn af verðlausum Nígeríuvíxlum, sem greiddir höfðu verið fyrir skreið og allir vissu, að mundu aldrei verða að krónu í peningum.

Af því að þetta gerðist í ævintýralandi, voru ráðamenn Sambandsins settir í gæzluvarðhald í nokkra mánuði. Helmingur bókhaldsfræðinga þjóðarinnar hófst handa við að kafa ofan í fyrirtækið. Þeim var sagt að láta sér ekki nægja að skoða kaffibaunamálið.

Ekki er rúm hér til að rekja niðurstöðu bókhaldsrannsóknarinnar, en vísað til sjötugasta kafla ævintýrisins, sem ekki gerðist. Ekki er heldur rúm til að rekja hér niðurstöðu úttektarinnar á Landsbankanum, sem var afar ítarleg, svo sem lýst var í hundraðasta kaflanum.

Sérlegur saksóknari ákvað, að rétt væri að kæra bankann ekki aðeins fyrir viðskipti hans við Sambandið, heldur öll viðskipti, þar sem bankinn hafði lánað gegn ófullkomnari tryggingum en þeim, sem boðnar voru á sama tíma af hálfu annarra, er ekki fengu lán.

Röksemdafærsla saksóknarans í ævintýrinu var sú, að ráðamenn bankans í stjórn hans og ráði hefðu með þessu misræmi ekki gætt hagsmuna bankans sem skyldi. Þeim hefði verið skylt að fara í hvívetna eftir almennum bankareglum og bannað að kjassa gæludýr.

Þegar hér var komið sögu í ævintýrinu, hafði hið opinbera stöðvað rekstur Sambandsins. Eignir þess fóru fyrir lítið, eins og algengt er við slíkar aðstæður, og var kaupandinn Samvinnufélagið Hótel Örk. Fyrir bragðið náði Landsbanki ævintýrisins litlu af lánsfé sínu.

Þar sem ríkið átti Landsbankann og var í ábyrgð fyrir rekstri hans, var hann tekinn undir verndarvæng ríkissjóðs. Bankinn hóf þegar að auglýsa, hversu tryggt væri að nota bankann, því að ríkissjóður ábyrgðist allt. Þetta gafst bankanum vel og vildi Hafskip kaupa hann.

Ekki er rúm til að rekja síðari hluta ævintýrisins, sem fjallar að mestu um málarekstur hins opinbera gegn bankastjórum og bankaráði. Eftir það fékkst enginn stjórnmálamaður til að taka að sér bitling fyrir óeigingjörn störf. En Tíminn fór á haus eins og Helgarpóstur.

Hið fagra í ævintýrinu var, að Kristinn Finnbogason var aðlaður sem greifinn af London. Var hann svo löngum með Parísargreifanum á siglingum um Ermarsund.

Jónas Kristjánsson

DV