Author Archive

Valdshyggja í sandkassa

Greinar

Sverrir Hermannsson bankastjóri sagði hróðugur, að bankarnir hefðu “niðurlægt” ríkisstjórnina, en Ólafur Ragnar Grímsson fjármálaráðherra sagði hreykinn, að ríkisstjórnin hefði hrundið “atlögu” bankanna. Báðir voru að tala um sama hlutinn, hækkun vaxta um 1­2%.

“Pabbi minn er sterkari en pabbi þinn” er það, sem þessir tveir valdamenn þurftu helzt að koma á framfæri eftir vaxtahækkunina. Hugarfarið að baki ummælanna er dæmigert um sandkassa-valdshyggju, sem er smám saman að ná undirtökum í stjórnmálunum.

Fjármálaráðherrann virðist líta á sig sem annað og meira en gjaldkera ríkisstjórnarinnar. Hann telur sig settan yfir öll fjármál þjóðarinnar, alveg eins og í Sovét ríkjunum fyrir tíma Gorbatsjovs. Hvað eftir annað hótar hann að misbeita ráðherravaldi til að beygja aðra.

Með innreið þjóðarleiðtoga á borð við Ólaf Ragnar Grímsson er verið að fjarlægjast hið lýðræðislega kerfi fjölmargra valdamiðstöðva og stefna að söfnun valds í eina hönd. Viðhorf hans eiga mikinn hljómgrunn, því að margir vilja líta á þjóðina sem eitt fyrirtæki.

Við höfum miklu meiri en næg vandamál af miðstýringunni, sem fyrir er, þótt hún sé nú ekki enn aukin. Við sjáum í ótal dæmum, að allt vald spillir. Þau eru daglega rakin í fjölmiðlum. Og margsönnuð sagnfræðiformúla segir, að allt gerræðisvald gerspillir.

Þjóðin þarf að átta sig á, að stjórnarfar verður ekki því betra, sem það er öflugra, sýnilegra og fyrirferðarmeira. Hvergi í heiminum er landsmálum betur stjórnað en í Sviss. En þar fer svo lítið fyrir ríkisstjórninni, að menn vita varla, hvað ráðherrarnir heita.

Lao Tse sagði, að sú ríkisstjórn væri bezt, sem léti fólkið í landinu í friði. Þau sannindi eru enn í fullu gildi. Ef ríkisstjórn er afskiptalítil um hagi fólks, hefur það tíma til að rækta garðinn sinn og græða fyrir sína hönd og þjóðarinnar í heild. Eins og þeir í Sviss.

Hér erum við hins vegar á hraðri leið til miðstýringar, þegar flestir aðrir, þar á meðal Sovétmenn, eru að hverfa frá henni. Hvert nýtt kerfi kvóta, búmarks, fullvinnsluréttar og útflutningsleyfa kallar á ný vandamál, sem leyst eru með flóknari kerfum og meiri vandræðum.

Hér stefna flestir þjóðarleiðtogar að söfnun valds í sínar eigin hendur. Þeir velta til dæmis vöngum yfir, hvaða fyrirtæki skuli fá að lifa og hvaða fyrirtæki skuli deyja. Þeir hafa tekið að sér að leika hlutverk guðs í þjóðfélaginu. Og þeir ímynda sér, að slíkt sé í lagi.

Skemmtilegasta iðja hinnar nýju kynslóðar stjórnmálamanna er þó ekki sú, að kássast í annarra manna högum. Þeir blakta mest, þegar þeir geta búið sér til sandkassa eða leikvöll úti á torgi, þar sem þeir geta safnað saman áhorfendum að pólitískum burtreiðum.

Leiksýningar stjórnmálamanna fara nú sigurför um landið. Þar standa þjóðarleiðtogarnir eins og hanar á haug, sperra sig og baða sig í sólskini fimmaurabrandara og leikrænna orðaskipta, alveg eins og slíkir gerðu í kappræðum í gagnfræðaskóla fyrir ótalmörgum árum.

Þetta væri í lagi, ef þetta væri bara ódýrt leikhús. En stjórnmálamenn nútímans heimta annað og meira en óskipta athygli þjóðarinnar í samkomuhúsum og fjölmiðlum. Þeir heimta að fá að skipa högum allra manna eins og guðfeður í bandarískum mafíu-bíómyndum.

En hættulegust er valdshyggju-hagfræði formanna stjórnarflokkanna þriggja fyrir þá sök, að mikill fjöldi kjósenda er reiðubúinn til að samþykkja hana og þola.

Jónas Kristjánsson

DV

Leiksýningin fellur

Greinar

Ríkisstjórnin er byrjuð að uppskera laun syndarinnar. Í skoðanakönnun DV í gær kom í ljós, að hún er komin í minnihluta meðal kjósenda, með 45% fylgi á móti 55%. Enn neðar er komið fylgi stjórnarflokkanna hvers fyrir sig. Samanlagt er það núna ekki nema 40%.

Þetta bendir til, að lokið sé hveitibrauðsdögum verstu ríkisstjórnar síðustu áratuga og að kjósendur séu að byrja að átta sig á staðreyndum. Vonandi verður fylgi stjórnarinnar fljótt komið niður í þau 40%, sem næstsíðasta stjórn hafði í sumar, rétt áður en hún sprakk.

Ánægjulegt er, að svarendur í skoðanakönnuninni skuli refsa Framsóknarflokknum og Alþýðuflokknum fyrir að leiða fremsta valdshyggjumann þjóðarinnar til fjármálastjórnar, þar sem hann getur svalað sér með tíðum upphrópunum hótana um fjárhagslegt ofbeldi.

Eitt fyrsta verk hins valdasjúka fjármálaráðherra var að hóta eigin flokkssystkinum í stjórn flokksmálgagnsins, að hann skyldi taka ríkisstyrkinn af blaðinu og skrúfa fyrir auglýsingar ríkisins í því, ef vilji margfalds meirihluta í blaðstjórninni fengi að ráða ferðinni.

Mátulegt er á Alþýðubandalagið að hafa slíkan oddamann, sem vikulega er með hótanir gagnvart andmælendum sínum um að hefna þess í héraði, sem hallaðist á alþingi. Það hæfir flokknum vel að láta stjórnast af ýktri útgáfu af afleiðingum óhóflegrar valdshyggju.

Greinilegt er, að stjórnsýsla er ekki helzta viðfangsefni höfuðsmanna ríkisstjórnarinnar. Þeir eru allir þrír fyrst og fremst á leiksviði og meta árangur sinn eftir því. Fundaherferðin hans Ámunda er eðlilegur þáttur í leikaraskapnum, þótt skemmtanaskattur greiðist ekki.

Öll framganga og fjölmiðladans þeirra tveggja þjóðarleiðtoga, sem nú ferðast um landið á rauðu ljósi, framkallar hugrenningar um, að þeir hljóti að hafa staðnað í málfundaskóla hjá JC eða í málfundafélagi gagnfræðaskóla, þar sem óheftur leikaraskapur ræður ferð.

Formaður Framsóknarflokksins er miklu nærfærnari í að spila á almenningsálitið, þótt ekki hafi það dugað flokki hans og stjórn í þessari skoðanakönnun. Hans vandi er fyrst og fremst fólginn í, að fólk er að byrja að skilja, að hann er úti að aka í efnahagsmálum.

Ekki kemur á óvart, að Borgaraflokkurinn er heillum horfinn í skoðanakönnuninni. Hann hafði lítil spil og hefur ekki fengið á þau neina slagi. Eina von oddamanna hans er, að þeim verði hleypt í ríkisstjórn, svo að þeir fái að ljúka pólitískum ferli sínum sem ráðherrar.

Samkvæmt könnuninni nýtast Kvennalistanum ekki hinar vaxandi óvinsældir ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna. Ekki verður samt séð, að listinn hefði verið bættari með aðild að hinni ógæfulegu stjórn, þótt sumir hafi haldið fram, að hann ætti heima í henni.

Hagnaðurinn af hrakförum stjórnar og stjórnarflokka í skoðanakönnuninni lendir allur hjá Sjálfstæðisflokknum, sem blómstrar í hlutverki forustuflokks stjórnarandstöðunnar á þann einfalda hátt að láta ekki mikið á sér bera og láta leikara stjórnarinnar um leiksviðið.

Hinir raunverulegu sigurvegarar skoðanakönnunarinnar eru þó hinir óákveðnu, sem mynda langstærsta flokkinn, með 42% fylgi. Svo hátt hlutfall óákveðinna hefur ekki mælzt um langan aldur. Það bendir til, að óánægja með stjórnmálaflokkana sé mikil og vaxandi.

Aðalmálið er þó, að kjósendur virðast ekki ginnkeyptir fyrir leikaraskap og öðrum sölubrögðum ímyndarfræðinga, sem telja, að umbúðirnar skipti öllu máli.

Jónas Kristjánsson

DV

Viðreisnarþol er lítið

Greinar

Hætt er við, að senn blási svalir vindar um Mikhail Gorbatsjov, forseta Sovétríkjanna. Vinsældir hans á Vesturlöndum duga honum skammt heima fyrir, ef honum verður kennt um óþægindin, sem fylgja tilraunum hans til þjóðfélagsopnunar og efnahagsviðreisnar.

Margir forustumenn í Sovétríkjunum fylgja honum aðeins með hálfum huga að málum. Þeir gera sér grein fyrir, að þjóðfélagið var komið í blindgötu. Þeir vilja prófa endurbætur Gorbatsjovs, en eru samt álíka hræddir við þær og Íslendingar eru við raunvexti.

Þolinmæði þessara hálfvolgu stuðningsmanna eru takmörk sett. Við þekkjum slíkt vel hér á Íslandi. Okkar stjórnvöld gerðu í haust tilraun til frelsis í útflutningi á ferskum fiski. Það olli óhóflegum útflutningi, þegar flóðgáttin opnaðist, svo sem við mátti búast.

Í stað þess að bíða og sjá, hver atburðarásin mundi verða á löngum tíma, fengu hin miðstjórnarlega sinnuðu stjórnvöld okkar hland fyrir hjartað strax í fyrstu vikunni. Eftir viku tilraun til efnahagslegrar opnunar á þessu afmarkaða sviði var frelsið dregið til baka.

Hin almenna regla er, að viðreisn efnahags með opnun hagkerfis hefur alltaf þjáningar í för með sér og að þær koma fyrr fram en hagurinn. Þetta höfum við séð greinilega hér á landi í fálmkenndri leit fyrri stjórnvalda okkar í leit að sparifjármyndandi raunvöxtum.

Í augun skera þjáningar fyrirtækja vegna aukins fjármagnskostnaðar. Minni athygli vekur, að sparnaður í landinu fór að aukast og nálgast það, sem þekkist í öðrum löndum. Niðurstaða núverandi ríkisstjórnar er ótímabært hvarf frá brýnni raunvaxtastefnu.

Þegar íslenzk stjórnvöld hafa eins lítið þol til góðra verka og dæmin hér að ofan sýna, er ekki unnt að búast við, að stjórnvöld í Sovétríkjunum hafi margfalt meiri seiglu. Þar voru líka margir orðnir meira eða minna samgrónir gömlu hafta- og kreppustefnunni.

Hætt er við, að hugur sovézkra ráðamanna hneigist til endurnýjaðrar miðstýringar, alveg eins og íslenzkum ráðamönnum dettur strax í hug aukin miðstýring, þegar eitthvað bjátar á. Hin sovézka Eysteinska í efnahagsog fjármálum er grunnmúruð í sjö áratuga hefð.

Viðreisnarstefnan í Sovétríkjunum hefur, eins og við mátti búast, fyrst leitt til verðbólgu, sem áður þekktist lítt eða ekki þar í landi. Hún hefur leitt til krafna um launahækkanir, sem lítið var um áður. Afnám niðurgreiðslna og uppbóta mun gera þetta tilfinnanlegra.

Krafa Gorbatsjovs og manna hans um vel rekin fyrirtæki stríðir gegn sameiginlegum hagsmunum værukærra forstjóra og værukærra starfsmanna, sem sjá gjaldþrot og uppsagnir á næsta leiti. Þegar hafa rúmlega 40.000 störf verið lögð niður í verkalýðsfélögum.

Þar á ofan er viðreisnarstefnan í Sovétríkjunum svo fálmkennd, að ekki er unnt að búast við bættum lífskjörum hennar vegna á næstu árum. Þess vegna er hugsanlegt, að hálfvolgir stuðningsmenn stefnunnar missi móðinn og flýi í faðm harðra andstæðinga hennar.

Þetta er ekkert ólíkt því, sem er að gerast hér á landi, er daufir stuðningsmenn opins hagkerfis, svo sem fyrrverandi þjóðhagsstjóri, leita í hlýjuna hjá kreppu- og haftasinnum og gerast ráðherrar í ríkisstjórn Framsóknar, sem telur, að miðstýra beri öllum vandamálum.

Ekki er heldur ótrúlegt, að Gorbatsjov gefi sjálfur eftir fyrir afturhaldinu, þegar hann sér stuðningsliðið leysast upp og hverfa, af því að þolinmæðina skortir.

Jónas Kristjánsson

DV

Trúarstyrjöldum fækkar

Greinar

Langt er síðan minni ófriður hefur verið í heiminum í upphafi nýs árs en er að þessu sinni. Árið 1988 var eitt af mestu friðarárum þessarar aldar, þegar frá eru talin lok heimsstyrjaldanna tveggja. Í nærri öllum heimsálfum hafði fólk ástæðu til að anda léttar á síðasta ári.

Mestu skiptir, að samið var um vopnahlé í mannskæðu trúarstríði sjíta í Íran og sunníta í Írak. Hundruð þúsunda manna féllu þar í baráttu milli tveggja megingreina múhameðstrúar. Írakar hófu stríðið, en höfðu ekki árangur sem erfiði, því að niðurstaðan varð patt.

Styrjöldin varð svo alvarleg um tíma, að hún ógnaði olíuhagsmunum Vesturlanda, sem sendu herskip á vettvang til að halda opnum siglingaleiðum olíuskipa um Persaflóa. Sameinuðu þjóðirnar áttu að lokum umtalsverðan þátt í að stilla til friðar á svæðinu.

Sovétstjórnin ákvað á árinu að hætta hernaði í Afganistan og hóf brottflutning herja sinna þaðan. Hún skilur landið eftir í rústum og milljónir manna landflótta í öðrum löndum, aðallega í Pakistan. Samt tókst henni ekki að kúga öfl múhameðstrúar í landinu.

Ósigur Sovétríkjanna í Afganistan hefur heimssögu legt gildi. Í hrjóstrugum fjallgörðum smáríkis komst annað heimsveldið að því, að takmörk eru á valdi, alveg eins og hitt heimsveldið hafði áður komizt að í fenjum Víetnams. Heimsvaldastefna hlaut varanlegan hnekki.

Víðar í Asíu er friðvænlegra um þessar mundir. Víetnamar hafa dregið úr herafla sínum í Kambódsíu og segjast vera að hætta hernámi grannríkisins. Fólk vonar, að þetta leiði til nýrrar valdatöku hófsamra afla, en ekki hinna geðveiku kommúnista í Rauðu kmerunum.

Í Sri Lanka tókst að halda lýðræðislegar kosningar, þrátt fyrir ógnanir ofbeldissinna í röðum Tamíla og Sinhalesa, sem eru enn eitt dæmið um ofstækið í trúarbrögðum heims. Ánægjulegt er, hversu góðum rótum lýðræðisskipan er að skjóta í ríkjum Suður-Asíu.

Allan mátt hefur dregið úr stríðsmætti Afríkuríkja. Í Súdan eru deiluaðilar farnir að tala saman og friður er á landamærum Tsjad og Líbýu. Erlendir herir búa sig til brottfarar, Kúbverjar frá Angóla og Suður-Afríkumenn frá Namibíu. Allt er þetta betra en ekki neitt.

Í Mið-Ameríku er friðvænlegra á landamærum Nicaragua, þar sem Contra-skæruliðar hafa að mestu lagt niður vopn. Því miður stefnir innanlandsþróunin í Nicaragua í átt til hliðstæðs stalínisma og ríkir á Kúbu, en það stafar af fávísi öfgamanna í Washington.

Reiknimeistarar hafa skýrt frá, að blóðugum ófriðarbálum á hnetti mannkyns hafi fækkað eða sé að fækka úr 26 í 14 í fyrra og í upphafi hins nýja árs. Þetta er frábær árangur á tiltölulega stuttum tíma. En sums staðar hefur ástandið versnað á móti, svo sem í Palestínu.

Allt er þetta staðbundinn ófriður. Hagstæðar breytingar hafa einnig orðið á þeim ófriði, sem mestu máli skiptir, kalda stríðinu milli austurs og vesturs. Undirritaðir hafa verið samningar um samdrátt kjarnorkuvopna og fleiri samningar af því tagi eru í smíðum.

Að vísu er enn mikil óvissa um framvindu samdráttar kalda stríðsins, af því að Gorbatsjov og stefna hans standa höllum fæti heima fyrir í Sovétríkjunum. Kerfisliðið þar eystra kennir honum og stefnu hans um efnahagslega stöðnun og vaxandi hávaða í skoðanaskiptum.

Í heild getur mannkyn fagnað friðsamari jörð á nýju ári og hugleitt um leið, að fremur en efnahagslegir hagsmunir er trúarofsi af ýmsu tagi yfirleitt forsenda ófriðar.

Jónas Kristjánsson

DV

Dularfullt sinnuleysi

Greinar

Óskiljanlegt er með öllu, hversu lítinn áhuga tryggingafélög hafa á brunavörnum í landinu. Í hverjum stórbrunanum á fætur öðrum kemur í ljós, að tryggingafélög gera lítinn og helzt engan greinarmun á mannvirkjum, sem hafa brunavarnir í misjafnlega góðu lagi.

Flest virðist hafa farið úrskeiðis í brunavörnum í stórhýsinu að Réttarholti 2. Samt hafði mannvirkið fengið brunatryggingu á almennum kjörum hjá Húsatryggingum Reykjavíkurborgar, alveg eins og þau mannvirki, þar sem farið er eftir bókstaf brunavarna.

Húsatryggingar Reykjavíkurborgar eru ekki einar um þetta skeytingarleysi. Frystihús brenna ótt og títt víðs vegar um land. Við lesum þá jafnan í fréttum, að ekki hafi verið sinnt athugasemdum eldvarnareftirlits. Samt borga og brosa tryggingafélögin í sífellu.

Fljótt á litið virðast markaðslögmál ekki gilda um tryggingar á Íslandi. Tryggingafélög virðast ekki telja sér hag í að afla sér betri kjara hjá endurtryggjendum úti í heimi með því að sýna fram á lægri tjónagreiðslur í kjölfar strangara aðhalds og misjafnra iðgjalda.

Tryggingafélögum í landinu virðist nákvæmlega sama, þótt venjulegir viðskiptavinir þeirra þurfi að borga óþarflega há iðgjöld, af því að skussarnir í brunavörnum greiða of lág iðgjöld og af því að iðgjöldin brenna upp í greiðslum bóta til þessara sömu skussa.

Tryggingafélög geta ekki kannað öll smáatriði brunavarna. En eðlilegir viðskiptahættir fælust í, að þau tækju sjálf út þau mannvirki, sem þyngst vega í tjónagreiðslum, og gengju í öðrum tilvikum hart eftir, að farið væri strax og í hvívetna eftir kröfum eldvarnaeftirlits.

Oft hafa tryggingafélögin verið spurð, hverju þetta sæti. Engin haldbær svör hafa enn fengizt. Sofandaháttur þeirra væri skiljanlegur, ef þau væru opinberar stofnanir á borð við Búnaðarfélagið. En þau vaka ekki eins og samkeppnisaðilar á opnum tryggingamarkaði.

Það hlýtur að vera krafa endurtryggjenda og almennra viðskiptavina, að tryggingafélögin vakni til lífsins. Og það hlýtur að vera merkilegt rannsóknarefni vísindamanna í hagfræði að kanna, af hverju markaðslögmál gilda ekki um íslenzk tryggingafélög.

Ekkert væri jafnlíklegt til að efla brunavarnir í landinu og aukið aðhald af hálfu tryggingafélaga. Þau eiga að kynna sér betur, hvaða brunagildrur þau eru að leggja á herðar endurtryggjenda og almennra viðskiptavina, sem borga brúsann af sinnuleysinu.

Tryggingafélögum ber að neita að taka verstu brunagildrurnar í tryggingu fyrr en að loknum endurbótum. Þeim ber að leggja hátt álag á syndaseli, er fá tryggingu, en trassa að koma upp eldvörnum, sem krafizt er. Þeim ber að lækka iðgjöld almennra viðskiptamanna.

Reykvískir útsvarsgreiðendur þurfa nú að borga marga tugi milljóna, ef ekki eitt hundrað milljónir vegna vanrækslu Húsatrygginga Reykjavíkurborgar og kæruleysis Eldvarnaeftirlits Reykjavíkurborgar. Vonandi verður sá biti til að hreyfa við brunavörnum í borginni.

Mikilvægast er að finna, hvernig í ósköpunum stendur á, að tryggingafélög haga sér ekki eins og samkeppnisaðilar á markaði, heldur eins og opinberar stofnanir, sem sofa værum svefni og lyfta ekki litla fingri í þágu almennra iðgjaldagreiðenda og endurtryggjenda.

Ef vísindaleg skýring finnst á hinu dularfulla sinnuleysi, ætti að vera unnt að finna leiðir til að komast framhjá því og draga úr óþörfu brunatjóni í landinu.

Jónas Kristjánsson

DV

Böl bætt með meira böli

Greinar

Í heimi miðstýringar er gamalt skipulagsklúður leyst með nýju og auknu skipulagsklúðri, þegar hinu fyrra klúðri er ekki lengur vært. Þannig hefur sjávarútvegsráðherra lagt til breytt skipulag á kvótakerfinu, sem hann hefur verið að herða um háls sjávarútvegsins.

Andstaða samtaka útvegsmanna við nýju tillögurnar byggist því miður ekki á þessu. Hún stafar nær eingöngu af, að ráðherra hyggst ekki lengur gefa útvegsmönnum hinn árlega veiðikvóta, heldur taka 2% hans í sérstakan sjóð hins opinbera og selja þann hluta.

Útvegsmenn segja þetta vera upphaf að hinum versta auðlindaskatti og má það til sanns vegar færa. Hins vegar er þessi upptaka á hluta árlegrar gjafar þjóðfélagsins til útvegsmanna ekki í þeim stíl, sem fræðimenn hafa lagt til, heldur með sérstöku Framsóknarsniði.

Verði á kvóta ríkisins er ætlað að taka mið af markaðsverði á hverjum tíma. Það verður erfitt í framkvæmd, því að helmingnum af kvóta sjóðsins er ætlað að tryggja fiskvinnslu á landsvæðum, sem hafa ótryggan aðgang að hráefni eða búa við lélegt atvinnuástand.

Til að efla þennan nýja sjóð til aukinnar miðstýringar og aukinnar skömmtunar hyggst sjávarútvegsráð herra gera upptækar 330 milljónir, sem eru í Úreldingarsjóði fiskiskipa og Aldurslagasjóði fiskiskipa. Lögfræðilega séð er ótrúlegt, að ríkið megi stela þessu fé.

Athyglisvert er, að sjávarútvegsráðherra hefur viðurkennt með tillögunum, að hann og forveri hans, sem nú er forsætisráðherra, hafa haldið áfram þeirri stefnu Lúðvíks Jósepssonar að byggja upp of stóran sjávarútveg og að halda úti of miklum tilkostnaði við hann.

Nú á að viðurkenna þetta, fækka fiskiskipum og fiskvinnslustöðvum annars vegar og sjómönnum og fiskvinnslufólki hins vegar. Þetta á samkvæmt tillögunum samt ekki að koma niður á stöðunum, sem liggja verst við sjósókn og hafa ótryggt framboð á atvinnu.

Sennilega er nauðsynlegt, að rekstrareiningum í sjávarútvegi fækki að minnsta kosti að marki tillagna sjávarútvegsráðherra og að starfsliði atvinnugreinarinnar fækki því um ein 500 á sjó og önnur 500 á landi. Slíkt ætti að geta aukið hagkvæmni og samkeppnisfærni.

En fækkun þessi er gagnslítil, ef hún verður ekki einmitt þar, sem aðstaða er verst. Ef fækkunin á fyrst og fremst að koma niður á öflugum sjósóknarplássum, til að vernda hin, sem ramba á heljarþröm, leiðir fækkunin ekki til árangursins, sem sótzt er eftir.

Framsóknarflokkur nútímans er eðlilegt framhald af stefnu landeigendavaldsins á einokunartímanum, þegar farið var að mjólka sjávarútveginn í þágu landbúnaðar. Þetta framhald náði hámarki á kreppuárunum, sem flokknum tókst að framlengja í tæpan áratug.

Framsóknarflokkurinn stefnir enn að miðstýringu þjóðfélagsins og fjármagns þess, svo að sjávarsíðan megi halda uppi dalabyggðum. Í þessu skyni hefur flokknum tekizt að telja sjávarsíðufólki trú um, að óvinur hennar sé þéttbýlið á Reykjavíkursvæðinu.

Sú sjónhverfing hefur þvingað hina stjórnmálaflokkana til að fylgja í reynd stefnu Framsóknar. Þannig hefur sjávarsíðunni verið neitað um frjálsar veiðar og frjálst gengi krónunnar og íbúum hennar í staðinn kennt að nota ruðurnar af skömmtunarborði byggðastefnu.

Markmið þessa leiks er, að miðstýringarmenn geti ráðskazt með líf fólks og fyrirtækja, – að sem flestir verði að kyssa tær stjórnmálamanna og kommissara.

Jónas Kristjánsson

DV

Hliðaráhrifin gleymast

Greinar

Stuðningsmenn hinnar miklu hækkunar, sem varð á eignaskatti um áramótin, segja, að sanngjarnt sé, að breiðu bökin í þjóðfélaginu borgi hlutfallslega meira en áður í sameiginlegan sjóð landsmanna, enda hafi bilið milli auðfólks og almennings aukizt á síðustu árum.

Andstæðingar hækkunarinnar segja hins vegar, að ósanngjarnt sé, að kerfið taki upp eignir fólks með þessum hætti. Fyrst hafi fólk greitt háa skatta af tekjum sínum. Ef það síðan spari af hinum skattlögðu tekjum í stað þess að sóa þeim, sé því refsað með eignaskatti.

Eignaskattsdeilan er dæmi um, að almennt er auðveldast fyrir þjóðina að ræða um hagmál á grundvelli tilfinninga á borð við, hvað sé sanngjarnt og hvað sé ósanngjarnt. Annað dæmi er umræðan um raunvexti, sem snýst að miklu leyti um sanngirni og ósanngirni.

Minna fer fyrir skoðunum, sem byggjast á því, hvað sé hagkvæmt og hvað sé óhagkvæmt. Að svo miklu leyti sem umræðan víkur frá hugtökum sanngirninnar, fjallar hún um hagsmuni á borð við þá, sem nú stjórna tilraunum ráðamanna til að draga úr vaxtabyrði fyrir tækja.

Eignaskattur var um áramótin hækkaður úr 1,2% í 2,7% á eignir umfram sjö milljónir hjá einstaklingi og fjórtán hjá hjónum. Ef dreginn er frá meðalbíll og aðrar smáeignir, má segja, að skattþrepið sé ofan við myndarlega íbúð einstaklings og myndarlegt einbýlishús hjóna.

Af hálfu fjármálaráðuneytisins var með vafasömu orðalagi reynt að láta líta svo út sem hækkunin væri úr 1,2% í 1,5%. Sú tilraun til blekkingar tókst auðvitað ekki, en sýnir, hvað menn láta sér detta í hug á þeim bæ, þegar nógu ósvífnir pólitíkusar eru við völd.

Í umræðunni hefur ekki verið fjallað að neinu ráði um hliðarverkanir þessarar lyfjagjafar handa fársjúkum ríkissjóði, enda er sjaldgæft, að stjórnmálamenn og möppudýrin í kringum þá geri sér grein fyrir afleiðingum umfangsmikilla ákvarðana landsstjórnarinnar.

Þeir, sem þurfa að borga rúmlega tvöfaldaðan eignaskatt, reyna sumir hverjir að finna ráð til að losna við hann. Einfaldasta leiðin er að færa fjárfestingu sína úr skatttækri mynd yfir í skattfrjálsa, til dæmis með því að selja fasteignir og kaupa ríkisskuldabréf.

Meðan slíkar undankomuleiðir eru til, má búast við, að heildarskatttekjur ríkisins af hækkuninni verði mun minni en ráð er fyrir gert. Þetta er samt hagkvæmasta undankomuleiðin fyrir þjóðfélagið, því að sparnaðurinn er áfram til, þótt margir hafi skipt um tegund hans.

Verra er, ef margir greiðendur eignaskatts telja skynsamlegra eða þægilegra að fara að eyða í stað þess að spara. Sum eyðsla er meira eða minna skattfrjáls, til dæmis ferðalög í útlöndum. Líklegt er, að einhverjir velji slíka leið til að komast hjá ránshendi ríkisins.

Sú hliðarverkun gerir heildarsparnaðinn í þjóðfélaginu minni en ella og er þannig hin sama og hliðarverkunin af lækkun raunvaxta. Þjóðfélagið hefur minna en ella aflögu til að efla landshagi og meira þarf af erlend um lánum, sem þyngja skuldabyrði þjóðarinnar.

Íslendingar hafa oft rekið sig á þennan vanda. Aukin skattheimta hefur tilhneigingu til að minnka stofninn, sem skatturinn er sóttur í. Skattahækkunin nær því tilgangi sínum aðeins að hluta og hefur ýmsar hliðarverkanir, sem eru utan sjóndeildarhrings ráðamanna.

Lukkuriddararnir, sem fara með völd í landinu um þessar mundir, hneigjast til umfangsmikilla og afdrifaríkra aðgerða, sem þeir hafa ekki hina minnstu sýn yfir.

Jónas Kristjánsson

DV

Verndum himin og jörð

Greinar

Ánægjulegt er, að ríkisstjórnin hefur ákveðið, að Ísland verði aðili að tveimur fjölþjóðasamþykktum um takmörkun á notkun efna, sem talin eru spilla ózonlaginu í himinhvolfinu. Úðabrúsar verða merktir frá 1. júní á þessu ári og bannaðir frá 1. júní á næsta ári.

Ekki er vonum fyrr, að Ísland leggur sitt lóð á vogarskál verndunar himinhvolfsins. Um áratugur er síðan Bandaríkin og Norðurlönd tókust á herðar svipaðar skyldur og Ísland hefur nú gert. En hér eftir þurfum við ekki að skammast okkar í þessu umhverfismáli.

Ózonlagið dregur úr útfjólublárri geislun frá sólinni og verndar fólk fyrir húðkrabbameini, ónæmisminnkun og augnsköðum. Það hefur farið minnkandi síðustu tvo áratugina. Heildarminnkunin er um 3% á þessum tíma, en nokkru meiri yfir köldustu svæðum jarðarinnar.

Talið er, að hvert 1% í þessari minnkun ózons auki húðkrabbamein um 5% og illkynjuð sortuæxli í húð um 2%. Um 5000 Bandaríkjamenn deyja úr þessum sjúkdómum á hverju ári. Þetta er aðeins lítið dæmi um, hversu alvarleg er þynning ózonlagsins í háloftunum.

Ózoneyðandi efni eru í úðabrúsum, sem eru mikið notaðir utan um snyrtivörur og í málningu fyrir bíla og hús. Einnig eru þau í kæli- og frystikerfum, froðueinangrun, leysiefnum, slökkvitækjum og brunavarnaefnum. Yfirleitt má fá önnur jafngóð efni í staðinn.

Stefnt er að minnkun heildarnotkunar ózoneyðandi efna um helming á næstu fimm árum. Ríkið telur, að þetta kosti 30­40 milljónir króna. Að fenginni reynslu af kostnaðaráætlunum þess má búast við, að útgjöldin fari í 200 milljónir króna, sem samt er fremur lág tala.

Þrátt fyrir aðgerðir okkar og annarra auðþjóða heims má búast við, að ózonlagið haldi áfram að þynnast um sinn. Í fyrsta lagi eru ózoneyðiefnin lengi að stíga upp í háloftin, svo að mengunin er hægvirk. Í öðru lagi telja þróunarlöndin sig ekki hafa efni á slíkum aðgerðum.

Mikilvægt er, að ríkin, sem vinna gegn ózoneyðingu, taki upp samstarf við að útbreiða fagnaðarerindið til annarra ríkja, svo að samstaðan verði alþjóðlegri. Sérstaklega er brýnt að hvetja til dáða austantjaldsríkin, sem eru annálaðir mengunarvaldar á flestöllum sviðum.

Einnig er mikilvægt að auka aðgerðir gegn mengun af völdum koltvísýrings og hliðstæðra efna, sem geta valdið svokölluðum gróðurhúsáhrifum í himinhvolfinu. Margir hafa áhyggjur af hækkandi hita á jörðinni og kenna um lofttegundum, sem mannkynið framleiðir.

Lítið er enn vitað um, hvort hækkun hita er mannanna verk eða ekki. En vitað er, að fjögur heitustu árin af hinum 150 síðustu hafa einmitt verið á níunda áratug þessarar aldar. Grunur er um, að samband kunni að vera milli þess og lifnaðarhátta á iðnaðaröld.

Hitaaukningunni hafa fylgt miklir þurrkar víða um heim. Ennfremur bræðir hitinn ís, veldur ágangi sjávar á land og spillir búsetu við sjávarsíðuna. Og hitaaukningin getur fælt fisk frá fyrri slóðum. Í viðbrögðum er betra að ganga of langt í hræðslu en í áhyggjuleysi.

Verndun himins og jarðar gegn mannanna verkum, er geta haft skaðleg áhrif á framtíð mannkyns, er ekki auðveld, því að löng og órekjanleg leið er milli einstakra orsaka mengunarinnar og síðari afleiðinga. Þess vegna er alþjóðastarf svo mikilvægt í þessum efnum.

Aðild Íslands að fjölþjóðasamþykktum um varnir gegn minnkun ózons er fyrsta skref okkar í samstarfi um varðveizlu himinhvolfsins og lífsskilyrða á jörðinni.

Jónas Kristjánsson

DV

Seinþvegnar eru syndirnar

Greinar

Syndir margra fyrri ára koma um þessar mundir niður á Þjóðhagsstofnun. Þær valda útbreiddri ótrú á spá hennar fyrir þetta ár. Ríkisstarfsmannadeild Bandalags háskólamanna hefur sérstaklega tekið fram, að í næstu kjaraviðræðum verði ekki tekið mark á þeim.

Við þessu mátti búast fyrr eða síðar. Einhvern tíma hlaut að koma að formlegum yfirlýsingum deiluaðila á vinnumarkaði um, að tölur Þjóðhagsstofnunar yrðu ekki hafðar til hliðsjónar, heldur mundi hver fyrir sig nota eigin tölur eða hverjar þær, sem henta hverju sinni.

Raunar gerist þetta ekki vonum fyrr. Lengi hefur verið bent á óeðlilega mikinn og varanlegan mun á spá tölum Þjóðhagsstofnunar og raunveruleikanum, eins og hann síðar kom í ljós. Bent hefur verið á, að spár stofnunarinnar hafa oft verið lakari en spár annarra.

Segja má, að ósanngjarnt sé að saka Þjóðhagsstofnun líðandi stundar um syndir fyrri ára. Upp á síðkastið hefur stofnunin sýnt vaxandi tregðu á að þjóna hagsmunum stjórnvalda. Í sumar varð til dæmis uppistand í fyrri ríkisstjórn út af óþægilegum tölum hennar.

Fjármálaráðuneytið taldi á sig hallað í miðsumarspá stofnunarinnar. Það leiddi til opinberrar umræðu forsætisráðherra og fjármálaráðherra um innihald spár, sem þáverandi forstjóri stofnunarinnar sagði, að ekki væri til. Fjármálaráðherra tókst ekki að breyta spánni.

Þetta atvik sýndi tvennt. Annað var illt og hitt gott. Í fyrsta lagi töldu frekir ráðherrar sér heimilt að krukka í spár Þjóðhagsstofnunar til að gera þær sér hagstæðari. Í síðara lagi tókst stofnuninni í þetta ákveðna skipti að verja tölur sínar gegn ágangi ráðuneytismanna.

Hitt er svo ljóst, að erfitt er fyrir ríkisstjórnina að nota tölur Þjóðhagsstofnunar gegn hagsmunaaðilum úti í bæ, fyrr en einhver reynsla er komin á, að unnt sé að taka mark á tölunum. Það getur tekið svo sem tvö ár, frá því að nothæfar tölur eru farnar að sjást.

Þjóðhagsstofnun er deild í forsætisráðuneytinu. Hún er þess vegna í erfiðri aðstöðu, þegar hagsmunir forsætisráðherra og ríkisstjórnar hans eru annars vegar. Til dæmis krefjast hagsmunirnir þess yfirleitt, að tölur sýni, að ekki sé grundvöllur fyrir miklar kauphækkanir.

Um langt árabil var stofnunin misnotuð af ráðamönnum. Sú fortíð verður ekki þurrkuð út í einu vetfangi, þótt marktækar spár og aðrar tölur byrji að koma frá henni, sem alls ekki hefur verið sannað enn. Þess vegna er eðlilegt, að stéttarfélag lýsi frati á hana.

Sem betur fer er óhjákvæmilegt, að Þjóðhagsstofnun láti af óeðlilegri fylgispekt fyrri ára við hagsmuni ríkisstjórna. Úti í bæ eru ótal aðilar farnir að keppa við stofnunina. Þeir gefa út spár, sem margar hverjar eru hreinar þjóðhagsspár á verksviði Þjóðhagsstofnunar.

Samkeppni í spámennsku er til góðs. Spárnar eru bornar saman, ræddar og síðan skoðaðar í ljósi reynslunnar. Ef í ljós kemur, að meira mark er takandi á spám aðila á borð við Verzlunarráð, Félag íslenzkra iðnrekenda eða Alþýðusamband Íslands, verða þær notaðar.

Hagspár og aðrar hagtölur eru brýnar undirstöður stjórnmálaumræðunnar í landinu. Fyrirsjáanleg þróun slíkra talna verður þess vegna til góðs fyrir þjóðina. Þróunin hjálpar henni við að greina veruleikann gegnum þokuna, sem stjórnmálamenn aðhyllast gjarna.

Enn um sinn verður Þjóðhagsstofnun að sætta sig við, að fólk taki tölum hennar varlega. Aukið gengi hennar er háð dómi reynslunnar á tölum hennar.

Jónas Kristjánsson

DV

Kaupmannahöfn göngur

Ferðir

Flest markvert í borgarmiðju Kaupmannahafnar er hægt að skoða í þremur þriggja klukkustunda gönguferðum. Tímalengdin er miðuð við rólegt rölt og ekki talinn með sá tími, sem færi í að skoða innan dyra söfn og mannvirki, sem opin eru almenningi. Áhugamenn þyrftu auðvitað miklu lengri tíma.
Fyrsta gönguleiðin liggur um gamla bæinn milli Kóngsins Nýjatorgs og Ráðhústorgs. Önnur liggur um Friðriksbæ frá Kóngsins Nýjatorgi út að Hafmeyjunni við Löngulínu. Hin þriðja liggur svo um Kristjánshöfn, handan brúnna yfir höfnina.

1. ganga:

Kóngsins Nýjatorg

Við hefjum gönguna á mótum Kóngsins Nýjatorgs og Austurgötu, við enda Striksins, á horninu fyrir framan hótelið Angleterre og lítum þar í kringum okkur. Hér er stærsta torg borgarinnar, yfir þrír hektarar að flatarmáli. Það er líka eitt fegursta torgið, girt mörgum frægum og fallegum húsum og höllum.

Gróðurreitur, kallaður Krinsen, er á miðju torginu, umhverfis riddarastyttu af Kristjáni V Danakonungi. Styttan er nýleg bronsstytta af hinni upprunalegu blýstyttu frá 1688. Í aldanna rás höfðu blýfætur hestsins sigið saman, svo að ráðlegt þótti 1946 að skipta til harðara efnis.

Handan við torgið sjáum við menningarhöllina Charlottenborg, þar sem Listaakademían er til húsa. Höllin var reist í hollenzkum hlaðstíl 1672-83 og þótti á sínum tíma glæsilegasta hús borgarinnar. Akademían hefur verið hér síðan 1754. Að baki hennar er sýningarsalur, þar sem hver merkissýningin rekur aðra.

Til hægri sjáum við hið mun glæsilegra Konunglega leikhús frá 1872-74, sem einnig hýsir óperuna og balletinn. Aðalsalurinn rúmar 1.500 gesti og hliðarsalurinn 1.000 gesti. Við getum skoðað þessar hallir danskrar menningar í síðari gönguferð og látum nú nægja að átta okkur á staðháttum.

Við röltum til hægri framhjá Hvíti (Hviids Vinstue), yfir Litlu Kóngsinsgötu (Lille Kongensgade), framhjá Mjóna (Stephan á Porta) og höll vöruhússins Magasin du Nord, þar sem áður var sögufrægt hótel, Hótel du Nord, og beygjum til hægri í Víngarðsstræti (Vingårdstræde).

Brimarhólmur

Hér við hægri hlið götunnar er falið í kjallara matarmusterið Kong Hans (sjá bls.23). Við förum ekki þangað svo snemma dags, heldur göngum áfram út að Brimarhólmi (Bremerholm), sem áður var illræmdur og hét Hólmsinsgata (Holmensgade).

Við erum komin í hverfi, sem að stofni til er frá árunum eftir borgarbrunann 1795. Á síðustu árum hafa mörg hinna gömlu húsa verið rifin og ný reist í staðinn, svo að gamli heildarsvipurinn er horfinn. Við getum kíkt inn í sumar litlu og gömlu hliðargöturnar, áður en við höldum til vinstri niður Brimarhólm.

Í gamla daga var þetta þröng gata með öldur- og vændishúsum á báða vegu. Sukkinu var útrýmt héðan með gömlu húsunum og flutt til Nýhafnar fyrst og síðan Istedgade. Nú ríkir hér siðprýðin ein, en hvorki tangur né tetur af fornri frægð.

Við höldum þvert yfir Hólmsinssíki (Holmens Kanal), sem áður var eitt af síkjum borgarinnar, og göngum eftir Hafnargötu (Havnegade) inn á hinn forna Brimarhólm. Þar var áður fyrr skipasmíðastöð konungs og flota. Vinnuaflið var fengið úr þrælakistu Brimarhólms, þar sem geymdir voru lífstíðarfangar.

Danmörk var mikið flotaveldi á fyrri tímum. Veldi konungs byggðist mest á flotanum, sem hér var smíðaður, nánast undir glugggum konungshallar Kristjánsborgar. Í eina tíð réð þessi floti öllum Norðurlöndum og í annan tíma teygði hann arma sína til fjarlægra heimsálfa.

Á hægri hönd okkar er Hólmsinskirkja (Holmens Kirke), upprunalega reist sem akkerasmiðja skipasmíðastöðvarinnar 1563. Þessa gömlu smiðju í endurreisnarstíl lét hinn mikli byggingastjóri, Kristján IV konungur, dubba upp í kirkju fyrir flotann 1619. Síðan hefur kirkjan nokkrum sinnum verið endurbyggð og lagfærð.

Hún er opin 9-12 virka daga og á sumrin 9-15 mánudaga-föstudaga. Aðgangur er ókeypis. Við látum duga snögga heimsókn og höldum áfram Hafnargötu út að síkinu. Nú verða senn kaflaskil á göngu okkar. Við yfirgefum Brimarhólm og erum senn komin út á Hallarhólma, þá eyju, sem öldum saman hefur verið pólitísk þungamiðja Danmerkur. Við nemum staðar á Kauphallarbrú (Børsbroen).

Hallarhólmi

Framundan sjáum við Kauphöllina (Børsen), handan brúarinnar, reista í hollenzkum fægistíl 1619-40 að tilhlutan Kristjáns IV konungs. Kauphöllin er ríkulega skreytt, bæði innan dyra og utan. Mesta athygli okkar vekur turnspíran mikla, ofin saman úr fjórum drekasporðum.

Við beygjum af brúnni til vinstri, förum í kringum Kauphöllina og göngum eftir Hallarhólmagötu (Slotsholmsgade) út á hallartorg Kristjánsborgar. Framhlið hennar blasir við okkur. Að baki styttunnar af Friðriki VII konungi eru svalirnar, þar sem Margrét II Þórhildur drottning var hyllt við valdatöku.

Núverandi Kristjánsborg var reist 1907-28 eftir hallarbrunann 1884. Hún er klædd marglitu graníti frá Borgundarhólmi og ber ógrynni af kopar á þaki, eins og svo margar hallir borgarinnar. Hún hefur að geyma hæstarétt Danmerkur, þjóðþing Dana, svo og hluta utanríkisráðuneytis og veizlusali konungs og ríkisstjórnar.

Undir höllinni hafa fundizt leifar af fyrsta kastala Kaupmannahafnar, borg Absalons erkibiskups frá 12. öld. Á þeim grunni voru síðan reistar konungshallir Dana, allt til hallarbrunans 1794, er heimkynni konungs voru flutt úr rústum Kristjánsborgar til fjögurra halla Amalíuborgar.

Meðan konungar sátu í Hróarskeldu (Roskilde) höfðu völdin hér arftakar Absalons biskups. Á 15. öld komst borgin í hendur Danakonunga. Þeir tóku þá sæti biskupa á Hallarhólma. Og loks á tíma lýðræðis tóku þingmenn og ráðherrar sæti konungs. Hallarhólmi hefur þannig staðið af sér allar veltur stjórnmálasögunnar.

Ekki voru Kaupmannahafnarbúar alltaf jafn uppnæmir fyrir konungi og hirð. Höllin stendur að hluta, þar sem áður voru öskuhaugar borgarinnar, Skarnholmen. 1650 neyddist konungur til að gefa út tilskipun um bann við, að borgarbúar notuðu nafnið Skarnhólma yfir Hallarhólma.

Við yfirgefum umferðargný torgsins og förum göngin milli hallar til hægri og ríkisskjalasafns til vinstri og komum inn í Þjóðþingsport (Rigsdagsgården). Þar er til hægri voldugt anddyri Þjóðþingsins. Við beygjum hins vegar til vinstri inn fyrstu göng og erum komin inn í rósagarð Konunglegu bókhlöðunnar.

Hér ríkir friður og ró, aðeins steinsnar frá ys og þys nútímans. Við hvílumst um stund á bekk, andspænis styttu heimspekingsins Søren Kierkegård, sem sómir sér vel á þessum stað. Við virðum fyrir okkur Ríkisskjalasafnið að baki, Týhúsið (Tøjhuset) til hægri, Konunglega bóksafnið framundan og Próvíanthúsið (Proviantgården) til vinstri.

Þar sem þessi garður er nú, var áður herskipahöfn konunga Danmerkur. Þá voru vistageymslur flotans í Próvíanthúsinu og aðsetur lífvarðar konungs í Týhúsinu. Það hús lét Kristján IV konungur reisa 1598-1604. Nálægðin við Kristjánsborg sýnir, hve mikilvægt var konunginum að hafa flotann undir handarjaðrinum.

Eftir hvíldina förum við aftur út í Þjóðþingsport og beygjum þar til vinstri að anddyri Týhússins. Þar var 1928 komið upp merku vopnasafni, þar sem mest áberandi eru margir tugir, ef ekki hundruð, fallstykkja frá fyrri tímum. Safnið er opið 13-15 virka daga og 11-16 sunnudaga á veturna og 13-16 virka daga og 10-16 sunnudaga á sumrin. Aðgangur er ókeypis.

Við erum á morgungöngu og safnið lokað, nema sunnudagur sé. Við verðum því að láta heimsókn bíða betri tíma. Andspænis Týhúsinu er hesthús konungs og við förum inn sund milli þess og Þjóðþings. Við okkur blasir paðreimur Kristjánsborgar í skjóli hallar á alla vegu.

Í framhaldi af honum er innri hallaragarðurinn, þaðan sem hægt er að fara í skoðunarferðir um veizlusali hallarinnar 13 og 15 alla daga nema mánudaga á sumrin og 14 alla daga nema mánudaga og laugardaga á veturna. Ennfremur fornleifar kastala Absalons 9:30-16 alla daga á sumrin og alla daga nema laugardaga á veturna.

Af skeiðvellinum er gengið inn í leiklistarsafnið, sem er til húsa í hirðleikhúsi Kristjánsborgar. Það er opið sunnudaga og miðvikudaga 14-16 og á sumrin að auki föstudaga 14-16.

Við komumst ekki þangað að sinni og göngum frá höllinni af skeiðvellinum út á Marmarabrú (Marmorbro). Á hinum bakkanum vinstra megin er hádegisverðarkjallarinn Kanal Caféen við Frederiksholms Kanal 18 (sjá bls. xx).

Andspænis okkur hægra megin er eitt elzta og stærsta þjóðminjasafn heims, Nationalmuseet, í Prinsens Palæ. Í húsinu eru níu söfn, flest opin 10-16 á sumrin og 11-15 á veturna, lokuð mánudaga. Hér eru sýndir danskir og erlendir forngripir, myntir og ótalmargt fleira.

Við getum litið á safnið, gengið inn frá Ny Vestergade í framhaldi Marmarabrúar. Við getum líka haldið áfram götuna og yfir Dantes Plads, þar sem blasir við Glyptoteket, eitt af meiriháttar söfnum Evrópu á sviði fornlistar Egypta, Grikkja og Rómverja. Það er opið þriðjudaga-laugardaga 10-16 á sumrin, 12-15 á veturna og sunnudaga 10-16 allt árið.

Ef við höfum ekki hug á þessum söfnum að sinni, beygjum við síkisbakkann til hægri frá Marmarabrú og förum aftur yfir næstu brú út á Hallarhólma. Þar göngum við síkisbakkann í átt til Thorvaldsensafns og virðum fyrir okkur húsin við Nybrogade, handan síkis.

Þar er húsið nr. tólf eitt glæsilegasta svifstílshús borgarstéttar gamla tímans í Kaupmannahöfn, ríkulega skreytt sandsteini. Og húsin nr. 14-20 eru dæmigerð “brunahús” með kvistgöflum í hlaðstíl, reist eftir brunann 1728. Í nr. 18 er hádegisverðarstofan Nybro (sjá bls. xx)

Næst liggur leið okkar í Thorvaldsensafn, byggt 1839-48 yfir listaverk og minjar, sem frægasti myndhöggvari danskrar og íslenzkrar ættar, Bertel Thorvaldsen, gaf dönsku þjóðinni. Mest er þar um hvít og virðuleg, nýklassisk verk úr grískri goðafræði. Safnið er opið 10-15 alla daga nema þriðjudaga á veturna og 10-16 alla daga á sumrin. Aðgangur er ókeypis.

Þegar við komum úr safninu, beygjum við til vinstri framhjá Hæstarétti Danmerkur og aftur til vinstri milli safns og Hallarkirkju Kristjánsborgar og komum út á síkisbakkann. Handan síkis sjáum við húsaröðina við Gömluströnd (Gammel Strand), sem við munum senn kynnast nánar.

Kaupmannabærinn

Við förum til vinstri yfir Hábrú (Højbro) og virðum fyrir okkur framboð og ferskleika þess, sem fiskisölukonan við brúarsporðinn hefur á boðstólum. Síðan förum við inn á Højbro plads og skoðum styttuna af Absalon biskupi, stofnanda Kaupmannahafnar, og fögur, gömul hús á nr. 6, 9 og 17-21.

Héðan er ágætt útsýni til baka, til Hólmsinskirkju, Kauphallar, Kristjánsborgar, Hallarkirkju og Thorvaldsenssafns. Hér er líka skammt til góðra fiskréttahúsa, ef við erum sein fyrir og hádegissultur farinn að segja til sín. Vinstra megin, í kjallara hornhússins á Ved Stranden 18 og Fortunstræde, er Fiskekælderen (sjá bls. 26). Hægra megin, á Gömluströnd, eru Fiskehuset og Kroghs.

Við göngum einmitt Gömluströnd meðfram síkinu og virðum fyrir okkur hin gömlu hús, einkum Frænda (Assistenshuset) frá 1728, aðsetur menntamálaráðuneytisins, við hinn enda götunnar. Hægra megin þess förum við inn í skemmtilega þorpsgötu, hlaðna rómantík fyrri tíma. Þetta er Snaragata (Snaregade), mjó og undin, með gömlum kaupsýsluhúsum á báða vegu. Á nr. 4 er veitingastaðurinn Esbern Snare (sjá bls. xx).

Við erum komin inn í hina gömlu Kaupmannahöfn borgarastéttarinnar, kaupmanna og iðnaðarmanna. Hér heita margar götur eftir gömlum einkennisstörfum þeirra, Skindergade, Vognmagerstræde, Farvergade, Brolæggerstræde og Læderstræde. Ein heitir Hyskenstræde eftir húsum, “Häuschen”, þýzkra Hansakaupmanna.

Á mótum Snaragötu og Magstræde göngum við spölkorn til hægri inn í Knabostræde að gatnamótum Kompagnistræde, bæði til að drekka í okkur meira af gömlum tíma og til að fá útsýni til Frúarkirkju, sem við munum skoða nánar síðar. Förum síðan Knabostræde til baka og beygjum til hægri í Magstræde.

Þetta er önnur dæmigerð gata gamla tímans í Kaupmannahöfn. Húsin nr. 17 og 19 eru af sumum talin vera elztu hús borgarinnar. Á nr. 14 er Huset, sem er eins konar klúbbur eða félagsmálamiðstöð ungra Kaupmannahafnarbúa.

Við förum ekki óðslega hér í gegn, því að Snaragata og Magstræde eru sennilega þær götur, sem bezt hafa varðveitt andrúmsloft gamalla tíma. Vindingur þeirra veldur því, að við sjáum ekki til nútímalegri gatna og stöndum því hér eins og í lokuðum heimi.

Við hinn enda Magstræde er agnarlítið torg, Vandkunsten, þar sem áður stóð vatnsdæla Kristjánsborgar. Við beygjum til hægri eftir Ráðhússtræti (Rådhusstræde) upp á Nýjatorg (Nytorv) og Gamlatorg (Gammeltorv). Þessi torg voru áður fyrr miðstöð daglega lífsins í Kaupmannahöfn. Enn er fjörugt hér, en eingöngu vegna þess, að Strikið liggur þvert í gegn.

Bæjarþing voru háð á Gamlatorgi. Ráðhúsið var á mótum torganna efst á Nýjatorgi fram að brunanum 1795. Þá var það ekki endurreist á sama stað. Torgin voru í staðinn sameinuð í eitt og mynda nú langan ferhyrning með virðulegum húsum á alla vegu.

Hér héldu konungar burtreiðar til að skemmta lýðnum. Hér voru framkvæmdar hýðingar og aftökur, lýðnum bæði til viðvörunar og skemmtunar. Hér var auðvitað gapastokkurinn og svartholið. Hér var bjórsala borgarráðsmanna í Ráðhúskjallaranum. Hér komu fram farandtrúðar og -listamenn. Hér var húllum og hér var hæ.

Nú er neðst til vinstri við Nýjatorg dómhús Kaupmannahafnar. Á miðju Gamlatorgi er eitt elzta augnayndi borgarinnar, brunnurinn frá 1608-10. Þar eru gulleplin látin skoppa á konunglegum afmælisdögum. Og hér á torginu eru sæti, svo að við getum fengið okkur kaffi eða öl og horft á fólksstrauminn fara hjá.

Við beygjum síðan norður Strikið, fyrst eftir Nýjugötu (Nygade), síðan Vimmelskaftet, unz við komum að Heilagsandakirkju (Helligåndskirken) á mörkum Amákurtorgs (Amagertorv), endurreistri 1730-32 eftir borgarbruna. Við göngum hjá kirkjunni og beygjum til vinstri inn Hemmingsensgade til að skoða Heilagsandahúsið að baki kirkjunni.

Það er sambyggt kirkjunni og er eitt allra elzta mannvirki Kaupmannahafnar, reist um miðja 14. öld. Það var upprunalega sjúkrastofa Ágústínusarklausturs, er þarna var á kaþólskum tíma.

Latínuhverfið

Eftir skoðun Heilagsandahúss liggur leið okkar áfram Hemmingsensgade upp á Grábræðratorg (Gråbrødretorv). Nafn þess minnir á Fransiskusar-munkana, er bjuggu við torgið. Hér í kjallara á nr. 11 og 13 hafa fundizt leifar sjálfs klausturs þeirra, þar sem nú er veitingastofan Bøf & Ost.

Grábræðratorg er ennfremur mannlegasta torg borgarinnar, lokað bílum, en í þess stað iðandi af fólki. Hér sitja hinir ungu úti og hlusta á hljómlist eða stinga sér niður í einn hinna mörgu veitingakjallara (sjá bls. xx), sem einkenna torgið.

Nú er gamla kaupmannahverfið að baki og við erum komin inn í háskólahverfið eða Latínuhverfið eins og það hefur verið og er venjulega kallað.
Grábræðratorg er þægilegt anddyri þessa hverfis, sem öldum saman hefur ómað af söng og skálaglammi.

Þess vegna skulum við hvílast hér um sinn á torginu og virða fyrir okkur átjándu aldar húsin, máluð sterkum litum. Síðan göngum við norður af torginu eftir stytztu götu borgarinnar, er ber hið virðulega nafn Keisaragata (Kejsergade).

Fyrst lítum við til hægri eftir Skinnaragötu (Skindergade) til að sjá fornlega götumynd, áður en við höldum götuna til vinstri. Hún liggur út að Gamlatorgi og síðan áfram undir nafninu Vesturgata (Vestergade) í mjúkum sveigjum alla leið að Ráðhústorgi (Rådhuspladsen). Hin virðulegu hús við Vesturgötu eru flest frá því um 1800.

Á torginu blasir ráðhúsið við til vinstri, frægt af myndum, en ekki að sama skapi stílhreint. Það var byggt 1892-1905 í svonefndum sögustíl, sem stældi endurreisnarstíl norðurítalskra borga og þótti mikið hneyksli á sínum tíma.

Höfuðprýði ráðhússins er raunar heimsklukka Jens Olsen innan við aðaldyrnar. Hún sýnir margs konar tíma og gang himintungla, einstæð í sinni röð í heiminum. Ráðhúsið er opið mánudaga-föstudaga 10-16, laugardaga 10-13 og lokað sunnudaga.

Eftir að hafa virt fyrir okkur hinn samfellda straum fólks og bíla um þetta önnum kafna torg, höldum við í átt frá ráðhúsinu eftir Vesturvegg (Vester Voldgade) yfir Stúdíustræti (Studiestræde) að Jarmerstorgi. Þar á miðju torgi má sjá leifar turns frá 1528 úr hinum gamla borgarmúr, er lá, þar sem nú er Vesturveggur, Norðurveggur (Nørrevoldgade) og Austurveggur (Øster Voldgade).

Við förum Vesturvegg til baka að Stúdíustræti og beygjum þar til vinstri. Þar hefur fornbókaverzlunum fækkað, en þó má enn sjá bókakassa úti á stétt. Ef við getum stillt okkur um að eyða tíma í að róta í kössunum, erum við von bráðar komin yfir Larsbjörnsstræti út á Norðurgötu (Nørregade), þar sem við beygjum til vinstri.

Hér á horninu er Biskupsgarður, sem einu sinni var ráðhús Kaupmannahafnar. Handan götunnar rís hin kuldalega Frúarkirkja (Vor Frue Kirke), dómkirkja borgarinnar, endurreist 1811-29 eftir fallstykkjahríð brezka flotans 1807. Kirkjan er kunnust fyrir listaverk Thorvaldsens innan dyra.

Við sjáum háskóla Kaupmannahafnar snúa framhlið að stjórnborða kirkjunnar handan Norðurgötu. En hérna megin götunnar er “brunahús” frá 1728 á nr. 13. Og á horni Norðurgötu og Pétursgötu (Sankt Petersgade) sjáum við elztu kirkju borgarinnar, Sankti Péturskirkju. Hennar er fyrst getið í heimildum 1304. Hún hefur margsinnis verið endurreist eftir bruna.

Við förum yfir Norðurgötu og lítum inn í háskólaportið. Þar inni ríkir miðaldaró aðeins steinsnar frá nútímanum. Og þar er konsistoríið, einu leifar hins kaþólska biskupsseturs miðaldanna. Í kjallara þess hvíla sex hvelfingar í rómönskum stíl á granítsúlum.

Úr portinu beygjum við til hægri og göngum meðfram byggingum háskólans. Hér við Norðurgötu var Kannibalen, mötuneyti stúdenta. Nafnið bendir til, að þar hafi matur ekki verið góður. Við beygjum síðan enn til hægri fyrir háskólahornið og göngum Kristalsgötu (Krystalgade) framhjá vöruhúsi Daells að Fjólustræti (Fiolstræde), einni af göngugötum borgarinnar.

Á horninu er útsýni eftir Kristalsgötu til Sívalaturns, sem við munum skoða nánar síðar. Fyrst beygjum við krók til vinstri eftir Fjólustræti og þræðum milli torgsölutjaldanna til að grúska um stund í fornbókaverzlunum götunnar, en snúum síðan til baka suður götuna.

Við tökum eftir fallegu, gömlu bindingshúsi á horni Fjólustrætis og Kristalsgötu og göngum framhjá háskólabókhlöðunni á hægri hlið, unz við komum aftur að Frúarkirkju, en í þetta sinn aftan að henni.

Við nemum staðar til að virða fyrir okkur kirkjuna og háskólann frá nýju sjónarhorni, áður en við beygjum til vinstri inn Stóra Kanúkastræti (Store Kannikestræde), götu stúdentagarðanna. Við erum hér í hjarta Latínuhverfisins, í götunni, sem stúdentar gengu löngum milli Garðs og skóla.

Við þessa götu hafa flest hús áratugum og öldum saman verið beint eða óbeint tengd stúdentum og starfi háskólans. Hér eru frægir stúdentagarðar á báðar hendur, Borchs Kollegium á nr. 12, Ehlers Kollegium á nr. 9 og Admiral Gjeddes Gård á nr. 10. Við lítum andartak inn í friðsælan garð Borchs Kollegium til að fá snertingu við gamlan tíma.

Við hinn enda götunnar, vinstra megin, er stærsti og merkasti stúdentagarður götunnar, Garður (Regensen). Hann var reistur 1623-28, en brann að nokkru 1728. Frá þeim tíma eru rauðu tígulsteinsveggirnir, sem setja svip á húsið. Hér getum við gengið inn í portið og setzt um stund við linditréð.

Þegar við komum úr garðinum blasir við Sívaliturn (Rundetårn) handan Kjötmangarans (Købmagergade). Hann var reistur eins og fjöldi frægra húsa að tilhlutan Kristjáns IV konungs 1637-42. Turninn er í senn stjörnuskoðunarstöð og kirkjuturn Þrenningarkirkju (Trinitatis Kirke), sem er hér að baki, fullbyggð 1656. Turninn er opinn 10-20 á sumrin og 11-16 virka daga og 12-16 sunnudaga á veturna.

Sívaliturn er 36 metra hár og rúmlega 15 metra breiður. Upp hann liggur 209 metra löng snigilbraut, sem rússneska keisaraynjan Katrín ók einu sinni upp í hestvagni, meðan maður hennar, Pétur mikli, fór ríðandi. Þetta var 1716 og fara engar sögur af slíku framtaki hefðarfólks á síðari öldum.

Það er léttara að ganga upp Sívaliturn en aðra kirkjuturna, af því að brautin er slétt, en ekki í tröppum. Uppi er gott útsýni yfir þök og turna miðborgarinnar. Þar fáum við góða hugmynd um, hve þröngt er byggt innan gömlu borgarmúranna. Hvarvetna lítum við þétt húsþakahrjóstur.

Við förum aftur út á Kjötmangarann, beygjum til vinstri og göngum þessa bílalausu viðskiptagötu í átt til Striksins. Ef við viljum skoða gömul “brunahús” frá 1728 við Gömlumynt (Gammelmønt), beygjum við til vinstri inn Klörubúðir (Klareboderne) og Möntergade og síðan til hægri í Gömlumynt. Úr henni beygjum við svo enn til hægri eftir Sværtegade og Kronprinsengade til Kjötmangarans.

Við höldum þar til vinstri eftir Kjötmangaranum yfir Silkigötu (Silkegade) niður á Strik, sem hér heitir Amákurtorg (Amagertorv). Þar beygjum við til vinstri eftir að hafa skoðað okkur um á torginu og ef til vill sezt niður á gangstéttarkaffihúsi.

Við göngum Strikið eftir Austurgötu (Østergade), sem er austasti endi hinnar frægu göngugötu. Austurgötu og Amákurtorgi er nánar lýst í verzlunarkafla þessarar bókar (sjá bls. xx-xx). Við förum framhjá litlum þvergötum og Brimarhólmi, sem áður var nefndur í þessari leiðarlýsingu, og höfum auga með þröngu sundi, Pistolstræde, á vinstri hönd.

Af þessu sundi megum við ekki missa (sjá bls. xx). Þar er margt skemmtilegt að skoða, einkum gömul bindingshús. Við göngum í vinkil, framhjá veitingastofunni Alsace (sjá bls. xx ) og komum úr sundinu í Nýju Austurgötu (Ny Østergade). Andspænis okkur er kaffistofan Victor (sjá bls. xx). Við sjáum fallegt bindingshús á horni Nýju Austurgötu og Grænugötu (Grønnegade).

Grænagata er rétt að baki hins fína Kóngsins Nýjatorgs. Hér var áður eitt illræmdasta fátækrahverfi borgarinnar, fullt af tæplega manngengum sundum, sem voru engir þröngir vegir dyggðarinnar. Hér í Grænugötu ólst myndhöggvarinn Bertil Thorvaldsen upp við drykkjuskap föður og ósamlyndi foreldra.

Nýju Austurgötu göngum við til baka til Striksins, beygjum þar til vinstri og erum eftir andartak komin aftur að Kóngsins Nýjatorgi, nákvæmlega þeim stað, þar sem við hófum hringferðina.

Þetta hefur verið krókaleið um elzta hluta Kaupmannahafnar. Ekki þurftum við nauðsynlega að byrja ferðina og enda á torginu. Við gátum til dæmis byrjað á Ráðhústorgi eða hvar sem betur kynni að liggja við ferðum okkar.

Ef við erum ekki mjög gönguhraust, getum við líka skipt leiðinni í þrjá hluta. Í einum hluta hefðum við þá skoðað Brimarhólm og Hallarhólma og endað á torginu Hábrú við Strikið. Í öðrum hluta hefðum við skoðað kaupmannahverfið, byrjað á Hábrú og endað á Amákurtorgi. Í þriðja hluta latínuhverfið frá Amákurtorgi til Kóngsins Nýjatorgs. Í öllum tilvikum byrja ferðirnar og enda í nágrenni Kóngsins Nýjatorgs.

2. ganga:

Kóngsins Nýjatorg

Enn hefjum við göngu á Kóngsins Nýjatorgi, við enda Striksins og byrjum eins og áður á því að ganga yfir Litlu Kóngsinsgötu, en förum svo yfir torgið að Konunglega leikhúsinu. Handan þess er Tordenskjoldsgade með listamannakránni Brönnum. Síðan tekur við Konunglega akademían í Charlottenborg og þá erum við komin að Nýhöfn (Nyhavn).

Framundan, vinstra megin Breiðgötu (Bredgade), er Thottshöll. Á hinu horninu við Breiðgötu er kyndugt hús, “Kanneworffske Hus”. Í framhaldi af því sjáum við svo húsaröð Nýhafnar, sem við skulum virða fyrir okkur, áður en við förum yfir götuna fyrir botni hafnarinnar. Við skulum líka horfa til baka yfir torgið og taka eftir, hvernig hótelið Angleterre ber í hvítum glæsibrag af öðrum höllum torgsins.

Nýhöfn

Milli Kanneworffske Hus og oddmjóa hússins göngum við inn Store Strandgade, þar sem veitingahúsið væna, Els, er strax á vinstri hönd, á nr. 3. Við göngum þá götu áfram og síðan til baka til hægri eftir Lille Strandgade út að Nýhöfn. Í þessum götum er margt gamalla húsa frá síðari hluta átjándu aldar. Við tökum sérstaklega eftir nr. 3 og 18 við Stóru og nr. 14 og 6 við Litlu Strandgötu.

Hér ætlum við að rölta til vinstri eftir Nýhöfn í átt til sjávar. En fyrst förum við spölkorn til hægri að botni Nýhafnar til að missa ekki af innstu húsunum. Við förum hægt yfir, því að hér er margt smáskrítið og skemmtilegt að sjá í gömlum skreytingum húsanna. Allt það yrði of langt mál að telja upp.

Elzta húsið við götuna er nr. 9, frá 1681. Við missum ekki af sérkennilegri klukku uppi á nr. 11 og gömlu ölkrárskilti frá 1803 á nr. 23, meðan við göngum í rólegheitum í átt til sjávar, fyrst framhjá Tollbúðargötu (Toldbodgade) og síðan Kvesthúsgötu (Kvæsthusgade), unz við nemum staðar fyrir utan hótelið Nyhavn 71 (sjá bls. 8) við enda götunnar.

Á leiðinni lítum við inn í eina eða tvær ölkrár til að finna reykinn af réttum gamla tímans, þegar þetta var hafnarhverfi Kaupmannahafnar. Erlendar tungur eru enn talaðar í öðru hverju horni, en þær eru fæstar sjómanna, heldur ferðamanna. Hnútur fljúga ekki lengur um borð né hnífar hafnir á loft.

Fleiri minningar eru bundnar við Nýhöfn en hrossahlátrar sjómanna. Ævintýraskáldið H. C. Andersen batt mikla tryggð við götuna. Hann ritaði fyrstu ævintýri sín í húsinu nr. 20, bjó með hléum 1854-64 á þriðju hæð hússins nr. 67 og varði tveimur síðustu árum ævinnar á nr. 18.

Fyrir utan hótelið Nyhavn 71, sem er innréttað í rúmlega 200 ára pakkhúsi, höfum við gott útsýni til hafnarbakka Málmeyjarbátanna, yfir innri höfnina og til Kristjánshafnar (Christianshavn) handan hennar.

Síðan förum við eftir Kvesthúsbrúnni (Kvæsthusbroen) meðfram innri höfninni að götunni Sankt Annæ Plads. Við beygjum til vinstri og þar eru brátt á vinstri hönd hótelið Neptun (sjá bls. xx) og hádegisverðarstofan Sankt Annæ (sjá bls. xx) á nr. 12. Til hægri, við þvergötuna Tollbúðargötu, er hótelið Admiral (sjá bls. xx) í rúmlega 200 ára kornþurrkunarhúsi.

Amalíuborg

Við höldum áfram eftir Sankt Annæ Plads og beygjum til hægri inn í Amalíugötu (Amaliegade). Ef komið er hádegi, er kjörið að líta inn í áðurnefnt Sankt Annæ eða í Amalie, sem hér er framundan vinstra megin, á nr. 11. — Konungshöllin Amalíuborg er skammt undan. Við göngum inn á hallartorgið og svipumst um.

Amalíuborg er einkar viðfelldin og sérkennileg konungshöll í fjórum höllum í svifstíl, aðskildum af krossgötum. Hallirnar mynda átthyrning umhverfis torgið. Upphaflega voru þetta hallir fjögurra aðalsmanna, en voru gerðar að konungshöll, þegar Kristjánsborg brann 1794.

Við förum undir tengibyggingu, þegar við komum inn á torgið. Hægra megin tengiálmunnar er bústaður Margrétar II Þórhildar drottningar og Hinriks prins. Vinstra megin eru veizlusalir drottningar. Í þriðju höllinni, hægra megin, býr Ingiríður, ekkjudrottning Friðriks VIII. Og í fjórðu höllinni, vinstra megin, bjó Kristján X.

Tjúgufáni yfir höll Margrétar sýnir, hvort hún er heima eða ekki. Við stillum helzt svo til að vera hér kl. 12 til að sjá varðsveitina koma með lúðrablæstri eftir Amalíugötu inn á torgið, þegar skipt er um varðmenn með tilheyrandi serimoníum.

Hverfið umhverfis Amalíuborg heitir Friðriksbær, byggt eftir ströngum og þá nýtízkulegum skipulagsreglum um miðja átjándu öld. Göturnar eru tiltölulega breiðar og húsin einkar virðuleg. En mannlíf er hér miklu minna og fátæklegra en í gamla bænum, sem við lýstum í fyrstu gönguferð. Helzt er líf í verzlunargötunni Stóru Kóngsinsgötu (Store Kongensgade), sem liggur samsíða Amaliegade.

Frá torgmiðju sjáum við Marmarakirkjuna (Frederikskirke) gnæfa yfir Friðriksgötu (Frederiksgade) með einn af hæstu kúplum heims, 45 metra á hæð og 30 metra á breidd, grænan af kopar. Smíði kirkjunnar hófst 1746 og varð ekki lokið fyrr en 1894. Hún er opin 9-15 alla daga nema sunnudaga á veturna, 9-16 mánudaga-föstudaga og 9-12 laugardaga á sumrin. Aðgangur er ókeypis.

Hér eiga hinir göngumóðu þess kost að ganga nær kirkjunni og beygja til vinstri eftir Breiðgötu (Bredgade) til Kóngsins Nýjatorgs, þar sem gangan hófst. Hinir beygja til hægri eftir sömu götu.

Brátt komum við að Listiðnasafninu (Kunstindustrimuseet), sem er hægra megin götunnar, í fyrri húsakynnum Friðriksspítala. Þar er fjöldi fornra og nýrra listmuna, danskra og erlendra. Hægt er að ganga inn í safnið bæði frá Breiðgötu og Amalíugötu. Safnið er opið 13-16 alla daga nema mánudaga. Aðgangur er ókeypis virka daga nema í júlí-ágúst.

Langalína

Þegar við komum aftur út á götuna, beygjum við til hægri og förum Breiðgötu á enda. Við göngum stuttan spöl til hægri framhjá Frelsissafninu (Frihedsmuseet), sem er timburhús handan götunnar Esplanaden. Þar eru sýndar minjar andspyrnuhreyfingarinnar dönsku frá stríðsárunum síðustu.

Safnið er opið á sumrin 10-16 virka daga og 10-17 sunnudaga og á veturna 11-15 virka daga og 11-16 sunnudaga, en lokað alla mánudaga. Aðgangur er ókeypis.

Að baki safnsins er Churchill-garður. Þar sjáum við álengdar ensku kirkjuna og til hægri við hana Gefjunarbrunn (Gefionspringvandet). Gosbrunnurinn sýnir, hvernig gyðjan Gefjun bjó til Danmörku með því að breyta sonum sínum í naut og beita þeim fyrir plóg, sem hún notaði til að plægja upp Skán.

Við getum haldið áfram eftir Esplanaden til að fá okkur að borða í Lumskebugten, á nr. 21 (sjá bls. xx). Eða farið gönguleið hjá Gefjunarbrunni út Löngulínu (Langelinie). Á leiðinni er Langelinie Pavilionen, þar sem við getum fengið snarl við ágætt útsýni. Síðan höldum við áfram út Löngulínu að Hafmeyjunni litlu, höggmynd Edvard Eriksen frá 1913, kunnasta einkennistákni Kaupmannahafnar.

Gatan sveigir hér frá sjónum og við göngum hana spölkorn, förum yfir brú og beygjum út af til vinstri í átt til Kastellet, aðalvirkis borgarinnar, reist 1662-65, en þá byggt á eldra grunni. Ytri virkin eru sumpart eyðilögð, en eftir stendur fimmstrendur kjarninn.

Þar sjáum við falleg hlið og kastalakirkjuna, sem er áföst fangelsinu á þann sérkennilega hátt, að í gamla daga gátu fangar hlýtt messu án þess að yfirgefa svartholið. Fallegust er vindmyllan, sem prýðir vesturhorn virkisveggjarins. Kastellet er opið frá 6 til sólarlags, en kirkjan aðeins til 18. Aðgangur er ókeypis.

Við förum aftur gegnum Churchill-garð og Esplanaden til hægri að enda hennar við Stóru Kóngsinsgötu (Store Kongensgade). Þar á horninu lítum við fyrst til hægri og sjáum hluta af Nýbúðum (Nyboder), hverfi, sem Kristján IV konungur lét reisa fyrir starfsfólk flotans upp úr 1631.

Síðan beygjum við til vinstri inn í Stóru Kóngsinsgötu og svo strax til hægri inn í Sankt Paulsgade. Þar hægra megin götunnar undir Pálskirkju sjáum við húslengju í upprunalegri mynd Nýbúða. Henni hefur verið breytt í minjasafn um Nýbúðir, opið 14-16 á sunnudögum.

Við göngum Pálsgötu á enda, beygjum til hægri í Riegensgade og síðan til vinstri í Stokkhúsgötu (Stokhusgade), er heitir eftir alræmdu fangelsi, sem tók við af áðurnefndum Brimarhólmi 1741 og þótti jafnvel enn grimmilegra. Af því sést nú ekki lengur tangur eða tetur og standa þar nú jarðfræðihús háskólans.

Garðarnir

Úr Stokkhúsgötu förum við framhjá húsi Jóns Sigurðssonar yfir Austurvegg (Øster Voldgade) og brúna yfir járnbrautina út í Østre Anlæg. Þar skoðum við okkur um eins lengi og við höfum tíma til og njótum náttúrunnar í þessum fallega garði, sem er í virkisgröfum hins gamla borgarveggs. Enn sést greinilega, hvernig virkisgrafirnar hafa litið út.

Um síðir tökum við stefnuna á Listasafn ríkisins, sem er í suðurhorni garðsins. Þar er gaman að skoða myndir gamalla meistara, einkum hollenzkra. Uppi hanga verk eftir Rubens, Rembrandt, Cranagh, Tintoretto, Mantegna, Matisse og Picasso. Dönskum listaverkum er líka sómi sýndur. Safnið er opið 10-17 alla daga nema mánudaga. Aðgangur er ókeypis.

Úr safninu förum við yfir Silfurgötu (Sølvgade) út í Grasgarðinn (Botanisk Have). Þar er fjölskrúðugan gróður að sjá, meðal annars regnskógajurtir innan dyra. Úr garðinum förum við aftur yfir Austurvegg og göngum hann til baka að Silfurgötu, þar sem við förum á horninu inn í Rósinborgargarð eða Kongens Have.

Kongens Have er elzti garður borgarinnar og með hinum stærri. Þar má sjá hinar fegurstu rósir og linditré. Eitt helzta skart garðsins er þó talið vera höllin Rósinborg (Rosenborg), þar sem varðveitt eru krýningardjásn konungsættarinnar og minjasafn hennar.

Rósinborg var reist 1606-17 í endurreisnarstíl að tilhlutan Kristjáns IV konungs hins byggingaglaða. Höllin var upphaflega sveitasetur Danakonunga, en var síðan notuð til veizluhalda þeirra, unz hún var gerð að minjasafni konungs 1858. Safnið er opið á sumrin 11-15 alla daga og á veturna 11-13 þriðjudaga og föstudaga, 11-14 sunnudaga.

Að lokum rennum við okkur út um annað suðurhlið garðsins yfir í Gothersgade. Við göngum eftir henni beint út á Kóngsins Nýjatorg, þar sem við erum á ný á kunnugum slóðum, upphafspunkti gönguferða okkar.

Þar bregðum við okkur inn á Hvít og fáum okkur glas af ágætu víni hússins. Á meðan hugleiðum við, hvort eitthvert safnið eða höllin freisti til nánari skoðunar síðar, ef tími vinnst til.

3. ganga:

Kristjánshöfn

Við eigum eftir að skoða eitt hverfi gamla bæjarins innan borgarmúranna. Það er Kristjánshöfn (Christianshavn) handan innri hafnarinnar. Þar er ýmislegt að skoða, svo að við fáum okkur leigubíl eða strætisvagn nr. 2, 8, 9, 31 eða 37 yfir Knippelsbro að horni Torvegade og Strandgade.

Fyrst lítum við til hægri inn í Strandgade, þar sem Kristjánskirkja (Christianskirke) frá 1755 hvílir fyrir enda götunnar, með smáhöllum á báðar hendur. Á horninu, á nr. 14, er gamla ráðhúsið í Kristjánshöfn.

Við förum í hina áttina og göngum Strandgötu til norðurs. Okkur á vinstri hönd, andspænis Sankt Annægade, er höll Asiatisk Kompagni frá 1740, með minningum frá gullöldinni, þegar danski flotinn sigldi um heimshöfin og Danmörk var nýlenduveldi. Nú er utanríkisráðuneytið í höllinni.

Við lítum inn í bakgarð hússins nr. 44, þar sem áður voru búðir stórskotaliðsins, sem gerðar hafa verið að íbúðum. Síðan höldum við áfram Strandgötu að síkinu, þar sem við snúum til hægri. Hér komum við í hinn amsturdammska hluta Kaupmannahafnar, hannaðan 1618 af hollenzkum arkitektum, sem hinn títtnefndi byggingastjóri og konungur, Kristján IV, kallaði til.

Þegar við komum að horni Overgaden Neden Vandet, fáum við fyrirtaks útsýni eftir Kristjánshafnarsíki (Christianshavn Kanal), þar sem nýmálaðir bátar hvíla við bakka og gömul hús og vöruskemmur kúra við götur. Við tökum eftir gálgum og blökkum efst á mjóum stöfnum húsanna.

Við snúum til vinstri yfir næstu brú, inn í Sankt Annægade, þar sem við virðum fyrir okkur hinn einstæða vindingsturn Frelsarakirkjunnar (Vor Frelsers Kirke). Honum var bætt 1747-52 við hlaðstílskirkjuna, sem er frá 1682. Spíran er 87 metra há, næsthæst í bænum á eftir ráðhústurninum. Við getum klifrað upp turninn að innanverðu og spíruna að utanverðu. Kirkjan er opin á sumrin 9-16:30 virka daga og 12-16:30 sunnudaga og á veturna 10-13:30 virka daga og 12-13:30 sunnudaga.

Handan kirkjunnar beygjum við til vinstri í Prinsessegade og förum hana að innganginum í Kristjaníu (Christiania) á horni Bátsmannsstrætis (Bådmandsstræde). Kristjanía hefur verið eins konar fríríki ungs utangarðsfólks síðan 1971, þegar þessar 170 húsa herbúðir voru teknar úr notkun og ætlaðar til niðurrifs.

Eftir miklar deilur hústökufólks og yfirvalda var Kristjaníutilraunin samþykkt í verki tímabundið. Síðan hefur Kristjanía verið litríkur hluti borgarinnar, með ódýrum veitingahúsum og tilraunaleikhúsum. Borgaralegir gestir með myndavélar eru ekki vel séðir.

Síðast þegar við komum til Kristjaníu, virtist staðurinn þreytulegur og sóðalegur, skuggi fyrri frægðar. Aðeins fíknilyfjagrösin voru fersk og litsterk í skarpri birtu sunnudagsmorguns. Og smám saman hefur staðurinn fyllzt af fíkniefnasölum og smáglæpamönnum í stað margra hinna upprunalegu sakleysingja.

Þegar við komum til baka úr Kristjaníu, förum við til vinstri eftir Bátsmannsstræti að borgarvirkjum 17. aldar. 1659 vörðu virkin borgina gegn árás Svía, en nú hefur þeim verið breytt í friðsæla garða. Við röltum rólega um þá og hressum okkur eftir ömurleikann í Kristjaníu.

Þegar við komum að Overgaden Over Vandet, yfirgefum við virkin og höldum áfram eftir síkinu. Hérna megin eru mörg falleg, gömul hús, aðallega reist af kaupmönnum á 18. öld. Í nr. 10 var sýning fornminja frá Kristjánshöfn.
Að lokum lýkur göngunni á Kristjánshafnartorgi við horn Torvegade, þar sem við getum tekið leigubíl, strætisvagn eða gengið yfir Knippelsbro til meginlands Kaupmannahafnar.

1981, 1989

© Jónas Kristjánsson

Kaupmannahöfn gisting

Ferðir

Mikið úrval góðra hótela er í miðborg Kaupmannahafnar, þar sem mest hið skoðunarverða er, flest áhugaverðustu veitingahúsin og bjórkrárnar, skemmtana- og menningarlífið. Enginn ætti að vera í vandræðum með að finna hótel sér við hæfi á þessum slóðum gangandi fólks. Eini gallinn er, að svigrúm verðs, frá hinu dýrasta til hins ódýrasta, er þrengra en í flestum öðrum stórborgum, frá DKK 1.500 niður í DKK 680 á sumarvertíðinni.

Að dönskum hætti eru hótelherbergi yfirleitt tandurhrein og snyrtileg. Sími og sjónvarp þykja nokkurn veginn sjálfsögð alls staðar og eigið baðherbergi er fyrir löngu orðið að almennri reglu. Sum hótelin hafa verið innréttuð á listfenginn hátt innan í gömlum húsum og skara að því leyti fram úr öðrum hótelum, hvað þá hinum ópersónulegu keðjuhótelum.

Verðið er frá sumrinu 1987. Á veturna er yfirleitt slegið af því, oft um 20%. Flugleiðir og íslenzkar ferðaskrifstofur hafa þar að auki hagstæðari afsláttarsamninga við sum þessara hótela, einkum á veturna.

Nyhavn 71

Hótelið “okkar” í Kaupmannahföfn er Nyhavn 71, þar sem gott er að sofna í rúmlega tveggja alda gömlu húsi við opinn glugga og öldugjálfur hafnarinnar og vakna svo við eimpípur hraðferjanna, sem koma að morgni frá Málmey. Eða þá við lokaðan glugga og algeran frið.

Hótelið var byggt yzt á sporði Nýhafnar sem vöruhús fyrir salt og krydd, stóð af sér fallstykkjahríð Breta 1807, en dagaði svo uppi sem húsgagnageymsla á ofanverðri þessari öld. 1971 var því svo breytt í hótel við fögnuð borgaryfirvalda, sem veittu því tvenn verðlaun fyrir húsfriðun og borgarfegrun.

Þegar við nálgumst, er ekki auðvelt að sjá, að þetta sé hótel. Að ytra útliti ber það óbreyttan pakkhússvip og er fremur óárennilegt. Meira að segja lúnir gluggahlerarnir eru flestir hinir upprunalegu. Ekki er fyrr en að húsabaki, að við sjáum látlausan hótelinnganginn.

Hið innra hefur burðargrindin úr voldugri furu verið látin halda sér. Hún kemur skýrt fram í stoðum og bitum í hverju einasta herbergi. En inni í þessari gömlu beinagrind hefur verið komið fyrir flestum nútíma þægindum. Að búa á Nyhavn 71 er eins og að hverfa til fortíðarinnar á fyrsta farrými.

Töskur eru bornar fyrir okkur að siðmenntuðum hætti. Og hótelið er svo lítið, aðeins 82 herbergja, að starfsfólkið mundi eftir okkur og númeri okkar og var komið með lykilinn á loft, áður en eftir væri leitað. Nyhavn 71 er persónulegt hótel með góðu atlæti vingjarnlegs starfsfólks. En því miður hefur verðlag hótelsins hækkað hlutfallslega með árunum og vinsældunum.

Við biðjum alltaf um herbergi Nýhafnarmegin utarlega og með glugga, sem nær niður í gólf. Þannig er herbergi nr. 340, nýtízkulegt og þægilegt, en afar lítið, eins og önnur herbergi hótelsins. Þeir, sem vilja meira rými, geta pantað svítu í austurendanum, til dæmis nr. 225, þar sem fólk sekkur í leðursófa og persateppi.

Stóri glugginn og útsýnið víkka herbergið. Einkar notalegt er að sitja í djúpum hægindastól og njóta þess að skoða skip á ferð og flugi um innri höfnina og hafa litla truflun af umferð bíla, sem eiga raunar fá erindi út á þennan hafnarsporð. Úr hægindastólnum er svo aðeins fimm mínútna ganga til Kóngsins Nýjatorgs.

Í anddyrinu er lítill og ákaflega notalegur bar, ekkert líkur þeim, sem sjómenn eru sagðir hafa notazt við í Nýhöfn fyrri tíma. Í gamla daga mæltum við með veitingasal hótelsins, Pakhuskælderen, þótt hótelmatur sé sjaldan góður. Sú hefur líka orðið raunin, að við mælum ekki lengur með snæðingi á þessum stað.

Herbergi nr. 340 kostaði DKK 1.498 fyrir tvo, en tveggja manna herbergi fengust niður í DKK 1.078 og svíta nr. 225 kostaði DKK 1.938, allt að hlaðborðsmorgunverði meðtöldum.

(Nyhavn 71, Nyhavn 71, sími 11 85 85, telex 27558, E3)

Admiral

Frumlegasta hótel borgarinnar er Admiral, innréttað í rúmlega 200 ára kornþurrkunarhúsi við höfnina, aðeins steinsnar frá Amalíuborg og Kóngsins Nýjatorgi. Það er eitt fárra stórhýsa, sem stóð bæði af sér borgarbrunann 1795 og fallstykkjahríð Breta 1807.

Útliti hins stranga nytjahúss dansks kaupskapar hefur verið haldið. Innan dyra kemur hvarvetna í ljós grind hússins, þungar stoðir og bitar úr furu frá Pommern. Ekket stál og engin steypa er í þessu hóteli, en hins vegar er göngunum prýði að þykkum múrsteinsbogaveggnum eftir endilöngu húsinu.

Hótelinu svipar nokkuð til Nyhavn 71, en er mun stærra, 366 herbergja, og ópersónulegra, fullt af ráðstefnu- og ferðamannahópum
Við óskum eftir herbergi ofarlega við austurhliðina með útsýni til hafnarinnar, helzt uppi undir súð, þar sem herbergin eru raunar á tveimur hæðum. Niðri er forstofa, bað og setustofa, en uppi svefnloft. Slíkt fyrirkomulag gefur gott svigrúm, til dæmis handa fjölskyldu eða fyrir gestaboð.

Raunar eru önnur herbergi hótelsins einnig óvenjulega rúmgóð. Flest hafa þau Wiinblads-myndir og gamlar borgarmyndir á veggjum.

Milli hvíts strigans á veggjunum koma brúnir bitar og stoðir hússins greinilega fram. Undinn tréstigi liggur milli hæða. Niðri eru tveir góðir og leðurklæddir hægindastólar og tveggja sæta sófi, sem breyta má í rúm. Baðherbergið er stórt og flísalagt, svo sem venja er í Kaupmannahöfn. Ekkert sjónvarp er í herberginu og má það teljast óvenjulegt.

Tveggja manna og tveggja hæða herbergið nr. 6247 kostaði DKK 980 og venjulega tveggja manna herbergið nr. 2289 kostaði DKK 815.

(Admiral, Toldbodgade 24-28, sími 11 82 82, telex 15941, E3)

Park

Þriðja vildarhótel okkar í miðbænum er hið litla, 66 herbergja Park við Jarmers Plads, þar sem mætast Vester Voldgade og Nørrevoldgade. Það er ódýrara en flest hótelin í þessum kafla, en býður þó gamaldags þægindi á borð við burð á töskum upp á herbergi, svo og nútímatækni á borð við hárþurrku. Þjónusta reyndist okkur notalega dönsk.

Ónæðissamt er í hinum upprunalega hluta hótelsins, sem snýr að umferðinni á Jarmers Plads. Hins vegar er rólegt í álmu, sem nýlega var innréttuð í gömlu bakhúsi. Þar sést bindingsverkið í sumum herbergjum.

Þau eru hvert með sínu sniði. Nr. 102 er stórt og glæsilegt, með sérstökum setukrók, frístandandi skrifborði, marmaraflísuðu baðherbergi og þremur stórum gluggum út að torginu. Nr. 402 er minna og rólegra, en einnig afar vel búið húsgögnum og öðrum þægindum. Nr. 315 er minnst, en rómantískast, með bindingsverki í vegg. Öll voru þau gersamlega óslitin sem ný væru, búin fyrirtaks baðherbergjum.

Síðastnefndu tveggja manna herbergin kostuðu DKK 710, en hið fyrstnefnda DKK 900.
(Park, Jarmers Plads 3, sími 13 30 00, telex 15692, A3)

Plaza

Bezta hótel borgarinnar er sem fyrr Plaza við hlið aðaljárnbrautarstöðvarinnar, þótt Sheraton-keðjan hafi klófest það, þótt Denna hafi ekki líkað að vera þar, þótt veitingasalurinn Baron of Beef hafi glatað fyrri virðingu og þótt það hafi sett dálítið niður við ferðamannahópa. Það er jafndýrt og Angleterre, en nokkru minna, 96 herbergja, og persónulegra, svo að starfsfólk þekkti gesti strax með nafni og herbergisnúmeri.

Þungur viður og þykkt leður eru einkennistákn hótelsins. Allt tal rennur út í hvísl á svo virðulegum stað, þar sem bókasafnsbarinn í miðju húsi er hápunkturinn. Annar eins glæsibragur í notalegum stíl er sjaldséður á hóteli, enda koma menn víða að til að sjá Library Bar á Plaza.

Úr virðulegu anddyri flytur ákaflega glæsileg glerlyfta með daglegu spakmæli okkur upp til herbergis, þar sem bíða okkar notalegar og stórar vistarverur. Herbergi nr. 602, sem við gistum síðast, er nokkuð óvenjulegt, undir súð, búið húsgögnum í gömlum stíl, en herbergi nr. 408 er með hefðbundnara sniði, bæði jafnglæsileg.
Þessi tveggja manna herbergi kostuðu DKK 1.350. Verð slíkra herbergja var á bilinu DKK 1.150-1.550.

(The Plaza, Bernstorffsgade 4, sími 14 92 62, telex 15330, A5)

Palace

Glæsilegustu hótelherbergi borgarinnar eru þau, sem snúa út að Ráðhústorginu — á Palace, þar sem Guðsgjafaþula Halldórs Laxness segir, að Íslandsbersi hafi haldið fræga veizlu sænskum síldarkaupmönnum og ýmsu skrítnu fólki. Hótelið ber einkar virðulegan svip við torgið, ekki sízt vegna voldugs turnsins, sem dregur athygli torgfara að sér.

Lengi var Palace í niðurníðslu, en nú hefur það verið gert glæsilega upp. Í þjónustu jafnast það þó engan veginn á við Plaza og Angleterre, en herbergin eru bæði víðáttumikil og sérstök að vönduðum og ríkmannlegum frágangi.

Úr herbergi nr. 308 er frábært útsýni af litlum svölum beint á Lúðurþeytara Wagners og yfir sjálft torgið. Þegar svalahurðunum er lokað, ríkir alger friður fyrir innan. Virðulegri innréttingar höfum við ekki séð á mörgum hótelum.
Verðið var DKK 1.395, fyrir tvo. Morgunverður var innifalinn.

(Palace, Rådhuspladsen 57, sími 14 40 50, telex 19693, B4)

Angleterre

Fína hótelið í borginni er Angleterre, eitt elzta lúxushótel heims, stofnað fyrir 226 árum. “Hvíta norðurfrúin” hefur æ síðan verið áningarstaður konunga og forseta, virðingar- og snobbfólks, hótelið á bezta stað borgarinnar. Lengi hefur það lifað að nokkru á fornri frægð og gerir sumpart enn, þótt það sé farið að sækjast eftir ferðahópum. Það er fremur lítið, hefur aðeins 139 herbergi.

Angleterre ber sig glæsilega við Kóngsins Nýjatorg, skyggir fannhvítt á Akademíuna og hið Konunglega sem væru þær hallir hesthús hótelsins. Að innan er það ekki eins glæsilegt, því að endurbætur, sem hófust fyrir minnst sjö árum, stóðu enn, þegar þessi útgáfa bókarinnar var gerð.

Burðarmaðurinn ræddi um Halldór Laxness og Vigdísi Finnbogadóttur sem gamla vini meðan hann vísaði til stórs herbergis, vel búnu húsgögnum, sem eru hvorki nýtízkuleg né forngripir. Stíllinn er ekki eins ákveðinn og næmur og á Plaza og Palace, en allur búnaður er í bezta lagi. Eins og önnur herbergi fjórðu hæðar hefur það svalir út að götunni.

Tveggja manna herbergið nr. 427 kostaði DKK 1.350.

(Angleterre, Kongens Nytorv 34, sími 12 00 95, telex 15877, D3)

Opera

Lítið og gott hótel, vel í sveit sett að baki Konunglega leikhússins, er hið 66 herbergja Opera með þægilegum og rúmgóðum bar, sem margir nota fyrir og eftir sýningar. Það hefur virðulegan brag og þægilegt starfsfólk, sem þekkti gesti með nafni.

Herbergi nr. 316 er afar flókið í laginu og snýr raunar í tvær áttir. Fremst er forstofa með skáp, síðan setustofa og hornrétt á hana svefnkrókur með fullflísuðu baðherbergi. Á milli stofanna er gamalt púlt, sem gott var að nota til að skrifa við.

Herbergið kostaði DKK 1.148 fyrir tvo, en hægt var að fá tveggja manna herbergi niður í DKK 898. Morgunverður af hlaðborði var innifalinn.

(Opera, Tordenskjoldsgade 15, sími 12 15 19, telex 15812, D3)

Richmond

Richmond er fremur lítið, 135 herbergja hótel nálægt skrifstofu Flugleiða við Vester Farimagsgade og er kunnast fyrir að hýsa bezta veitingasal borgarinnar, Cocotte. Hótelið er rólegt, en ráðlegt er að panta herbergi, sem snúa frá umferðargötunni.

Herbergi nr. 502, sem snýr því miður að götunni, er fremur rúmgott og í dálítið íhaldssömum Norðurlandastíl, virðulegt að innréttingu og vandað að öllum búnaði. Það kostaði DKK 990 fyrir tvo, en hægt var að fá betri herbergi allt upp í DKK 1.275. Öll verð fela í sér morgunverð af hlaðborði.

(Richmond, Vester Farimagsgade 33, sími 12 33 66, telex 19767, A3)

Neptun

Neptun er lítið, 60 herbergja hótel, sem er vel sett í næsta nágrenni Kóngsins Nýjatorgs, á svipuðum slóðum og hótelin Nyhavn 71 og Admiral. Það státar af litlum hótelgarði að húsabaki og af virðulegum og gömlum húsgögnum í nokkrum stofum inn af móttökunni. Hádegisverðarstaðurinn Sankt Annæ er við hlið hótelsins.

Herbergi nr. 204 er fremur þröngt hornherbergi, sem snýr að kyrrlátum hótelgarðinum. Það er einkar snyrtilegt og vel búið, þar á meðal hárþurrku og buxnapressu. Verðið var DKK 850 fyrir tvo, en hægt var að fá stærri herbergi fyrir DKK 900. Morgunverður af hlaðborði var innifalinn.

(Neptun, Sankt Annæ Plads 18, sími 13 89 00, telex 19554, D/E3)

Ascot

Gamall vinur okkar er hið litla, 58 herbergja Ascot rétt hjá Ráðhústorginu. Það er eitt vingjarnlegasta hótel borgarinnar, friðsælt og heimilislegt, allt fullt af blómskrúðsmyndum eftir Björn Wiinblad, sem er eins konar blómálfur hótelsins.

Herbergi nr. 103 er fremur lítið, en vel búið að öllu leyti. Það kostaði DKK 890 fyrir tvo, en hægt var að fá minni herbergi niður í DKK 690. Við höfum gist á einu slíku, nr. 305 og það var einnig ágætt. Morgunverður var innifalinn.

(Ascot, Studiestræde 57, sími 12 60 00, telex 15730, A4)

Danmark

Rétt að baki ráðhússins, í nýlegu húsi, er mjög lítið hótel, Danmark, með aðeins 49 herbergjum, afar vel í sveit sett og tiltölulega ódýrt. Herbergi nr. 508 er nýlega innréttað og snýr stórum gluggum út að götunni, en er þó einkar friðsælt. Baðherbergið er gott og flísalagt. Verðið var DKK 725 fyrir tvo, að morgunverði inniföldum.

(Danmark, Vester Voldgade 89, sími 11 48 06, B4)

Mayfair

Nú er búið að gera upp gamla missionshótelið Westend í Helgolandsgade og skíra það Mayfair. Herbergin, 126 að tölu, eru komin með nýjasta búnað, þar á meðal hárþurrku og buxnapressu. Verðið var samt ekki nema DKK 720 fyrir tvo, meðtalinn morgunverður af hlaðborði.

(Mayfair, Helgolandsgade 3, sími 31 48 01, telex 27468, A5)

Hebron

Andspænis Mayfair við Helgolandsgade er gamla og góða missionshótelið Hebron, sem mörgum hefur veitt húsaskjól fyrir tiltölulega vægt gjald. Verðið á tveggja manna herbergi var hið lægsta í þessari bók, DKK 680, að meðtöldum morgunverði af hlaðborði.

(Hebron, Helgolandsgade 4, sími 31 69 06, telex 27416, A5)

1981, 1989

© Jónas Kristjánsson

Kaupmannahöfn inngangur

Ferðir

LEIÐSÖGURIT

FJÖLVA

JÓNAS KRISTJÁNSSON

ritstjóri

KÓNGSINS

KAUPMANNAHÖFN

Leiðsögurit fyrir

íslenzka ferðamenn

Ljósmyndir:

KRISTÍN HALLDÓRSDÓTTIR

Fjölvaútgáfa

Bókarstefna

Við höfum lesið mikinn fjölda leiðsögubóka fyrir ferðamenn og okkur fundizt þær að ýmsu leyti takmarkaðar.

Við höfum lesið bækurnar, sem ekki taka tillit til, að mikill hluti ferðamanna ver nokkrum hluta tímans á hóteli og í veitingahúsum og hefur þess á milli töluverðan áhuga á að skemmta sér og líta í búðarglugga, en er ekki allan sólarhringinn að skoða söfn og merka staði. Við viljum taka tillit til þessa og reyna að semja raunsæja bók.

Við höfum líka lesið bækurnar, sem leggja dóm á hótel, veitingahús, verzlanir og skemmtistaði, en eru þá fremur að þjónusta þessar stofnanir en lesendur. Við teljum svo eindregið, að upplýsingar af því tagi eigi að vera óháðar, að við prófuðum allar þessar stofnanir og komum hvarvetna fram sem venjulegir gestir, greiðandi almennt og afsláttarlaust verð og gáfum okkur ekki fram fyrr en að reikningum greiddum. Á þann hátt teljum við mestar líkur á, að reynsla lesenda muni koma heim og saman við þá reynslu, sem hér er lýst.

Þá höfum við skoðað bæklinga hótela, veitingahúsa og ferðamálaráða og fundizt myndirnar falsaðar. Innanhúss eru þær stúdíoteknar og sýna ekki raunveruleikann, hvað þá þegar þær eru teknar í hótelsvítu, en viðskiptavinurinn fær venjulegt herbergi. Utanhúss er beðið dögum saman eftir réttri birtu og réttu birtuhorni og myndirnar sýna ekki þungskýjaðan raunveruleika ferðamannsins.

Við höfnuðum öllum gjafamyndum af slíku tagi, tókum okkar eigin og teljum þær gefa raunhæfari mynd en glansmyndir áróðursbæklinga.

Jónas Kristjánsson og Kristín Halldórsdóttir

Litla heimsborgin

Ferðamenn úr öllum heimshornum hafa borið Kaupmannahöfn þá sögu, að hvergi sé betra að vera gestur en einmitt þar. Hin lífsglaða borg er ein hin vingjarnlegasta í heimi, opinská og alþjóðleg, án þess að hafa glatað dönskum siðum, hefðum og menningu.

Danir hafa tamið sér áhyggjulausa framkomu heimsmanna, stríðnislega gamansemi prakkara og listræna dirfsku handverksmanna. Þeir hafa opnað upp á gátt glugga sína til umheimsins og eru þó engum líkir.

Auðlindir eiga þeir fáar, aðrar en hugvitið, sem bezt kemur fram í heimsfrægum listmunum. Allt verður að gersemi í höndum þeirra, gler, leir og viður, silfur, stál og skinn. Og hvergi er betra að sjá þetta en einmitt í Kaupmannahöfn.

Ekkert er þar stærra eða í sjálfu sér merkilegra en í hvaða annarri heimsborg. Til eru stærri kastalar, söfn og fornminjar, garðar og verzlanir. En slíkir áningastaðir ferðamanna hafa sérstakt, danskt aðdráttarafl í Kaupmannahöfn.

Og svo er það lífið sjálft, sem dregur ferðamenn til borgarinnar, er endurspeglar nútímann, blíðan og stríðan í senn, allt frá vonleysi fíkniefnaneytandans upp í hófsama lífslyst. Í þessari bók munum við einkum staðnæmast við hið síðarnefnda.

Hér flýtur bjór og vín með góðum mat. Hér er samvera og einvera á kaffihúsum og krám, í göngugötum og görðum. Hér er notalegt að vera, því að gestir að utan eru yfirleitt fljótir að finna hinn danska takt.

Almennar upplýsingar

Bankar

Bankar eru opnir 9:30-16 mánudaga-föstudaga, -18 fimmtudaga. Laugardaga og sunnudaga er opið á aðaljárnbrautarstöðinni.

Barnagæzla

Hringdu í (02) 45 90 45 virka daga 7-12 og 15-20, laugardaga 12-19 og sunnudaga 17-19 til að fá barnagæzlu hjá samtökum stúdenta, Minerva.

Copenhagen Card

Copenhagen Card fæst á járnbrautarstöðvum, hótelum og ferðaskrifstofum. Það veitir aðgang að strætisvögnum, ótal söfnum og Tivoli. Eins dags kort kostar DKK 70, þriggja daga DKK 150. Börn greiða hálft gjald.

Ferðir

Upplýsingastofa danska ferðamálaráðsins er við H.C.Andersens Boulevard 22a, sími 11 13 25, opin mánudaga-föstudaga 9-18 á sumrin og 9-17 á veturna, laugardaga 9-12.

Fíkniefni

Ólöglegt er að bera fíkniefni á sér.

Flug

Flugvallarrútan fer frá aðaljárnbrautarstöðinni á 15-20 mín. fresti og er hálftíma á leiðinni til Kastrup. Í síma 58 58 11 eru gefnar upplýsingar um komu- og brottfarartíma flugvéla.

Flugleiðir

Söluskrifstofa Flugleiða er við Vester Farimagsgade 1, sími 12 33 88.

Framköllun

Víða í miðbænum er unnt að fá framkallað og kóperað á hálftíma.

Gisting

Kiosk P á aðaljárnbrautarstöðinni er opinn 9-24 alla daga á sumrin, -17 á veturna og útvegar húsnæðislausu ferðafólki gistingu.

Leigubíll

Leigubíla má panta í símum 35 35 35, 35 14 20 og 34 32 32, en venjulega er kallað í þá af gangstéttinni. Ljós logar á þakmerki lausra leigubíla.

Lyfjabúð

Steno Apotek við Vesterbrogade 6c, sími 14 82 66, er opin allan sólarhringinn.

Læknir

Hringdu í 0041 til að kalla í lækni á kvöldin, um nætur og helgar.

Löggæzla

Hringdu í neyðarsímann 000.

Peningar

Plastkort eru almennt notuð í ferðamannaþjónustu.

Póstur

Aðalpósthúsið við Tietgensgade 37 er opið 9-19 mánudaga-föstudaga og 9-13 laugardaga.

Reiðhjól

Reiðhjól eru til leigu í Köbenhavn Cyklebørs & Velonia, Gothersgade 157-159, sími 14 07 17.

Samgöngur

Strætisvagnar og neðanjarðarlestir ganga 5-24:30 mánudaga-laugardaga, 6-24:30 sunnudaga. Nokkrir vagnar ganga til 2:30.

Sendiráð

Sendiráð Íslands er við Dantes Plads 3, opið 9:30-16 mánudaga-föstudaga, símar 15 96 04 og 15 96 75.

Sími

Almenningssímar eru víða. Svæðisnúmer miðborgarinnar er 1. Til Íslands er númerið 009 354. Athugaðu, að mun ódýrara er að hringja úr almenningssímum en frá hótelherbergjum. Notaðu alltaf tvo 25-eyringa fyrst, þótt þú hringir til útlanda, því að fyrstu tvær myntirnar fást ekki til baka, ef númerið er á tali. Láttu síðan krónurnar í, þegar þú ert búinn að fá samband.

Sjúkrabíll

Hringdu í neyðarsímann 000.

Sjúkrahús

Sjúkrahús miðborgarinnar er Kommunehospitalet i Øster Farimagsgade, sími 15 85 00.

Skemmtun

Upplýsingar um skemmtana- og menningarlífið fást í mánaðarritinu Copenhagen This Week

Slökkvilið

Hringdu í neyðarsímann 000.

Tannlæknir

Mættu í eigin persónu á Oslo Plads 14 alla daga 20-22, einnig 10-12 laugardaga og sunnudaga.

Vatn

Kranavatn er fullkomlega drykkjarhæft, en margir nota vatn af flöskum til öryggis.

Verðlag

Verðlag hér í bókinni er frá vori 1987. Þeir, sem síðar nota bókina, ættu að reikna með um 7% verðbólgu á ári í Danmörku.

Verzlun

Verzlanir eru yfirleitt opnar mánudaga-fimmtudaga 9-17:30, föstudaga 9-19/20 og laugardaga 9-12/14. Vörumarkaðurinn á aðaljárnbrautarstöðinni er opinn daglega 8-24. Útlendingar geta oft fengið 22% virðisaukaskattinn endurgreiddan.

Þjórfé

Þjórfé er innifalið í reikningum hótela og veitingahúsa og á gjaldmælum leigubíla, en sumir viðskiptavinir slétta tölurnar upp á við.

1981, 1989

© Jónas Kristjánsson

Kaupmannahöfn Íslendingaslóðir

Ferðir

Kóngsins Nýjatorg

Við stöndum á mótum Striks og Kóngsins Nýjatorgs í sporum ótaldra þúsunda Íslendinga, sem hafa búið í Kaupmannahöfn um langan eða skamman tíma, allt frá því er Arnaldur Íslendingur var á ofanverðri tólftu öld í föruneyti Absalons biskups, stofnanda borgarinnar við sundið.

Við munum nokkurn veginn fylgja sömu leið og við lýstum í fyrstu gönguferðinni um gamla bæinn (sjá bls. xx). Í þetta sinn erum við eingöngu á höttunum eftir slóðum Íslendinga, bæði gömlum og nýjum. Af nógu er að taka, því að Kaupmannahöfn var eftir Þingvöll og fyrir Reykjavík hin raunverulega höfuðborg Íslands í fimm aldir.

Hér verður aðeins stiklað á stóru. Þeim, sem vilja fá meira að vita, er bent á bráðskemmtilega og fróðlega bók Björns Th. Björnssonar listfræðings: “Á Íslendingaslóðum í Kaupmannahöfn”, sem kom út hjá Máli og menningu árið 1961 og var enn fáanleg fyrir stuttu.

Okkur á vinstri hönd er hótelið Angleterre, þar sem Halldór Laxness hefur stundum gert garðinn frægan og þar sem Vigdís Finnbogadóttir hélt 1000 manna veizluna. Þar sat líka löngum um miðja síðustu öld hinn skapstóri sérvitringur “Repp”, mesti Danahatari Íslandssögunnar.

Repp hét raunar Þorleifur Guðmundsson og var úr Hreppunum. Hann var skarpur og verðlaunaður námsmaður, en missti af meistaratign, þegar hann missti stjórn á skapi sínu í ræðustól. Hann samdi ensk-danska orðabók og enskar þýðingar, var í góðum efnum og bjó hér handan við hornið, í Austurgötu, á dýrasta stað borgarinnar. Hann var vinur Jóns Sigurðssonar, tók mikinn þátt í stjórnmálafundum og gaf út hvert blaðið á fætur öðru, Dagen, Krigen og Tiden, mestmegnis með hóli um sig sjálfan.

Hér í nágrenninu eru fleiri og eldri spor Laxness. Handan torgsins er Stóra Kóngsinsgata, þar sem hann bjó hjá Scheuermann á nr. 96 fyrstu mánuði sína í hinum stóru útlöndum og vakti að eigin sögn nokkra undrun fyrir matvendni.

Gothersgade liggur hér frá torginu í öndverða átt við Nýhöfn. Þar á nr. 15 var til skamms tíma og er kannski enn næturklúbburinn Bonaparte, þar sem Þorsteinn Viggóson veitingamaður hélt úti höfðinglegri stammbúlu fyrir íslenzka nátthrafna. Hann seldi síðan staðinn öðrum, en hefur samt stundum haft afskipti af rekstrinum.

Handan torgsins, til hægri séð frá Angleterre, sjáum við tvær hallir. Fyrst er þar Charlottenborg, þar sem Konunglega listaakademían hefur lengi verið til húsa. Þar hafa margir íslenzkir listamenn og arkitektar komið við sögu, allar götur síðan séra Sæmundur Hólm var þar við nám 1776.

Hér lærðu Ásgrímur Pálsson, Einar Jónsson, Jóhannes Kjarval, Muggur, Sigurður málari, Sigurjón Ólafsson, Svavar Guðnason og margir fleiri. Hér drukku til skamms tíma flestir íslenzkir listamenn af brunnum evrópskrar menningar. Charlottenborg er meginþáttur í lista- og húsasögu Íslands.

Þar til hægri er Konunglega leikhúsið, þar sem Anna Borg lék og þar sem stundum eru sett á svið leikrit Jóhanns Sigurjónssonar og Guðmundar Kamban. Íslenzku tengslin eru þó öllu meiri við óperuna í sama húsi, því að hér sungu Einar Kristjánsson, Friðbjörn Björnsson, Magnús Jónsson og Stefán Íslandi.

Við höldum nú af stað frá Angleterre og göngum yfir enda Austurgötu að Østergades Vinhandel. Þar var á síðustu öld veitingahúsið Genelli, sem Íslendingar kölluðu Njál og sóttu stíft.

Einn af hinum kunnari Njálsmönnum var “Frater”, sem raunar hét Magnús Eiríksson, en fékk viðurnefnið af því að kalla viðmælendur sína “bræður”. Hann var vinsæll og ljúfur maður, sem sat hér með nokkrum kynslóðum Hafnarstúdenta. Hann var guðfræðingur að mennt og skrifaði marga ritlinga, þar sem hann lýsti Martensen Sjálandsbiskupi sem persónugerðum antikristi og fógeta andskotans hér á jörð.

Við förum suður torgið að Litlu Kóngsinsgötu, þar sem enn er í kjallara kráin Hvítur. Þar sat Jónas Hallgrímsson löngum einn að drykkju og þaðan er hann sagður hafa komið, þegar hann fótbrotnaði í stiga heima hjá sér og hafði bana af. Og hér hangir uppi mynd Örlygs Sigurðssonar af Jónasi, Sverri Kristjánssyni, Árna Pálssyni og Jóhanni Sigurjónssyni að tímaskökku sumbli.

Hér við hlið Hvíts, á nr. 21, var Vincent, annar samkomustaður Íslendinga á síðustu öld. Frægari er þó Mini, sem Íslendingar kölluðu Mjóna, hér á horninu á móti Hvíti, þar sem nú heitir Stephan á Porta. Þetta var vinsælasti samkomustaður Íslendinga um miðja síðustu öld, svo vinsæll, að sumir þeirra virðast hafa varið þar lunganum úr deginum.

Einna harðastir Mjónamanna voru Gísli Brynjólfsson og Brynjólfur Pétursson. Aðrir þaulsætnir voru m.a. Jón Sigurðsson forseti, Konráð Gíslason, Grímur Thomsen og Benedikt Gröndal. Yfirleitt voru hér þeir, sem komnir voru til embætta og tekna, og virðast hafa lifað hér í hóglífi í mat og drykk.

Hólmsinsgata og Brimarhólmur

Þegar íslenzkir námsmenn voru búnir að spássera á Strikinu og fá sér nokkra bjóra við Kóngsins Nýjatorg, læddust freistingarnar að sumum þeirra. Þeir komu sér suður í lastahverfið milli torgs og síkis, þar sem voru hinar illræmdu götur, Hólmsinsgata og Laxagata. Við höldum í humátt á eftir.

Við göngum Laxagötu út að Hólmsinsgötu, sem nú heitir raunar Brimarhólmur. Við Laxagötu eru hús frá miðri síðustu öld, en við Brimarhólm eru lítil merki um hinn sterka segul, sem á síðustu öld sogaði til sín ótal íslenzka erfiðismenn drykkjuskapar og kynlífs.

Einn þessara erfiðismanna var Ögmundur Sivertsen, sem orti svo, líklega liggjandi í sárasótt á sjúkrahúsi: “Kaupinhafn er slæmur staður, / Hólmsinsgötu þý og þvaður / þér af alhug forðast ber”. Annar gestur barnslegri, Eiríkur frá Brúnum, lýsti “kvennabúrum” götunnar með lotningarfullum ævintýraorðum í ferðasögu sinni.

Stundum kom fyrir, að ölóðir Íslendingar féllu eða fleygðu sér í Hólmsinssíki, beint undan Hólmsinsgötu, þar sem nú er komin breiðgata. Þar fundust lík Högna Einarssonar 1832 og Skafta T. Stefánssonar 1836. Lík Jóhanns Halldórssonar fannst nokkru vestar, undan Gömluströnd.

Við förum yfir Hólmsinssíki og inn Hafnargötu. Okkur á vinstri hönd var um langan aldur fangelsi íslenzkra lífstíðarfanga, Brimarhólmur. Það var við lýði frá miðri 16. öld til 1741, er fangarnir voru fluttir í Stokkhúsið. Um tíu af hundraði fanganna voru Íslendingar og unnu við skipasmíðar eða réru á galeiðum.

Þetta var þrælahald, sem undantekningarlítið dró menn til dauða á skömmum tíma. Árni frá Geitastekk var þó svo heppinn að losna og ná að skrifa ævisögu sína um fjölbreytta reynslu frá Indlandi til Brimarhólms.

Skemmtilegri minningar eru tengdar kirkjunni á hægri hönd, Hólmsinskirkju. Þar voru um tíma varðveittar bækur Árna Magnússonar eftir brunann 1728. Og þar var skírður og fermdur Jón Vestmann, 33 ára, 1644 eða 1645, eftir tæplega tveggja áratuga dvöl í barbaríinu, þar sem hann var m.a. skipherra sjóræningja.

Hér í kirkjunni gekk til spurninga tossi nokkur og pörupiltur, sonur Gottskálks frá Miklabæ Þorvaldssonar, Bertel Thorvaldsen, sem síðar varð heimsfrægur listamaður. Og hér voru prestar þeir Þorgeir Guðmundsson 1831-1839 og Haukur Gíslason 1915-1946.

Í Hafnargötu 19 stendur enn húsið, þar sem Tryggvi Gunnarsson Gránufélagsstjóri og síðar bankastjóri hafði aðsetur á mektardögum sínum í Kaupmannahöfn. Þaðan var stutt að ganga til Kauphallarinnar, en þangað hefur Einar Benediktsson þó trúlega meira vanið komur sínar.

Hallarhólmi

Við göngum götuna yfir Kauphallarbrú og út á Hallarhólma. Við förum bak við Kauphöllina og göngum Hallarhólmagötu í átt til Kristjánsborgar. Þar er á vegi okkar Kansellíið, en þaðan var Íslandsmálum stjórnað á 18. og 19. öld. Atvinnumál og fjármál voru í rentukammerinu í vinstri álmu og dóms-, kirkju- og fræðslumál í kansellíinu í hægri álmu.

Hér hafa ótal Íslendingar unnið og sumir komizt til metorða. Jón Eiríksson var deildarstjóri í rentukammeri frá 1772 til dauðadags og Vigfús Thorarensen varð fulltrúi í kansellíi 1840. Við stofnun Íslandsdeildar 1848 varð Brynjólfur Pétursson forstöðumaður hennar, síðan Oddgeir Stephensen, Jón Hilmar Stephensen og síðastur Jón Sveinbjörnsson, sem varð konungsritari 1919.

Nú verður fyrir okkur Kristjánsborg. Þar var utanríkisráðuneytið, sem varð Grími Thomsen tilefni línanna: “…kaldara und rifjum er konungsmönnum hjá, / kalinn á hjarta þaðan slapp ég”. Grímur var þá fluttur heim til Bessastaða, eftir að hafa gengið metorðastigann í utanríkisþjónustunni og endað sem virðulegur “legationsråd”.

Hér undir höllinni sjást enn leifar Bláturns, hins fræga fangelsis, sem hýsti hina fínni afbrotamenn á borð við hirðmenn og drottinsvikara. Þar sat Jón Indíafari fanginn um skeið. Og þar datt niður úr turninum um miðja sautjándu öld Guðmundur Andrésson, er þar sat vegna boðunar fleirkvænis. Hann slapp eins og Jón og lifði að semja íslenzk-latneska orðabók.

Þegar við göngum vinstra megin hallar inn í Þjóðþingsport og þaðan til vinstri inn í rósagarð Konunglegu bókhlöðunnar, fækkar ekki gömlum slóðum Íslendinga. Að baki okkur, tengt höllinni, er Leyndarskjalasafnið, sem var í umsjá prófessoranna Árna Magnússonar 1715-1719, Gríms Thorkelín 1791-1829 og Finns Magnússonar 1829-1847.

Vinstra megin er Próvíanthúsið með Landmælingastofnun danska herforingjaráðsins, sem gerði út ótal liðsforingjaefni til vandaðrar kortagerðar af Íslandi. Í fjarlægari enda þess var Árnasafn til húsa 1957-1981 undir forsjá Jóns Helgasonar prófessors. Það er nú flutt út á Amákur.

Fyrir enda garðsins er svo Konunglega bókhlaðan, þar sem Sigfús Blöndal orðabókarhöfundur var safnvörður og Jón Eiríksson forstöðumaður. Þar eru geymd merk bréfasöfn Íslendinga, svo sem Finns Jónssonar, Þorvaldar Thoroddsen og Boga Melsted. Ennfremur eru þar ritgerðir um Ísland frá 18. öld.

Fjórða hliðin að garðinum er Týhúsið, þar sem margir Íslendingar þjónuðu áður fyrr í lífverði konungs. Til mestra metorða komust Magnús Arason verkfræði-lautinant á fyrri hluta 18. aldar og Ketill Jónsson lautinant, sem féll í orrustu 1811 undir tignarheitinu “von Melsted”.

Hér þjónuðu þrír Íslendingar, sem áttu það sameiginlegt að hafa komizt alla leið til Indlands á skipum hans hátignar og að hafa ritað ævisögur sínar. Kunnastur þeirra er Jón Ólafsson Indíafari, en hinir eru Eiríkur Björnsson og Árni Magnússon frá Geitastekk.

Við göngum áfram sömu leið og rakin er í fremri leiðarlýsingu og förum yfir Marmarabrú eftir Nýju Vesturgötu að danska þjóðminjasafninu, sem hefur að geyma fjölda íslenzkra forngripa. Þar eru íslenzkir kaleikar, víravirki, útskurður, drykkjarhorn, mítur, klæði, annar Grundarstóllinn og stóll Ara Jónssonar lögmanns, svo eitthvað sé nefnt.

Í framhaldi af Nýju Vesturgötu er Dantes Plads, þar sem er til húsa sendiráð Íslands.

Ef við förum kringum þjóðminjasafnið og göngum Stormgötu í átt til síkis, sjáum við, að hluti safnsins nær yfir Stormgötu 5, þar sem áður var hús áðurnefnds Jóns Eiríkssonar, deildarstjóra í rentukammeri, meðdómara í hæstarétti og yfirmanns Konunglegu bókhlöðunnar. Jóni varð enn kaldara en Grími konungsmönnum hjá, því að hann hvarf á Löngubrú, saddur valdatafls.

Neðst við Stormgötu, rétt við síkið, var einu sinni kráin Kristín doktor, þar sem Jón Indíafari lenti í barsmíðum og þar sem Halldór Laxness lætur Jón Marteinsson sitja að drykkju með Jóni Hreggviðssyni.

Við göngum síkisbakkann eftir Vindubrúargötu og komum að höllinni, sem Danir reistu pörupilti og tossa þeim, sem áður er getið. Þar sjáum við mikið af listaverkum Bertels Thorvaldsen, en ekkert minnir á Ísland í hinum gestasnauðu og grafardauðu sölum. Við höldum svo úr Thorvaldsensafni yfir Hábrú út af Hallarhólma.

Latínuhverfið

Gömluströnd göngum við til baka eftir síkisbakkanum og stefnum á Frænda við enda götunnar. Við förum að baki hans inn í Snaragötu. Frændi var veðlánastofa, sem Íslendingar skiptu mikið við, þegar þeir voru blankir og biðu eftir peningum að heiman, sem virðist hafa verið nokkru tíðara en nú, enda símatékkar ekki komnir til sögunnar. Stofnun þessi er nú aflögð og húsið er sjálft menntaráðuneyti Danmerkur.

Við höldum áfram fyrri gönguleið eftir Magstræde, Ráðhússtræti, Nýjatorgi, Nýjugötu og Vimmelskafti, þar sem við förum bak við Heilagsandakirkju og finnum þar í skoti milli kirkju og klausturs legstein Gísla Þórðarsonar, er var rektor Hólavallaskóla 1786-1804, einn stórkarlalegasti slarkari Íslandssögunnar.

Síðan förum við Hemmingsensgade framhjá Grábræðratorgi upp á Skinnaragötu, þar sem Konráð Gíslason bjó á nr. 6, eftir að hann flutti af garði Borchs. Við göngum svo Skinnaragötu og Vesturgötu alla leið út á Ráðhústorg nútímans.

Hér vinstra megin, handan Striksins, er hótel Pallas (Palace), sem hefur átt fjölbreytta sögu, síðan Halldór Laxness lét Íslandsbersa halda þar hina frægu veizlu, sem lýst er í Guðsgjafaþulu.

Við snúum á hæl og göngum Vesturvegg að Pétursstræti og leitum þar að veggskildi á húsi nr. 22 vinstra megin götunnar. Í þessu húsi, á 3. hæð til vinstri, með gluggum út að húsagarði, bjó Jónas Hallgrímsson. Hér missti hann fótanna seint um kvöld hinn 15. maí 1845, er hann kom af Hvíti og var að fara upp stigann. Hægri fóturinn brotnaði ofan við ökla, en Jónas dróst til sængur.

Hann sagði ekki til sín, en var mjög sjúkur, þegar komið var til hans að morgni. Var hann þá fluttur í Friðriksspítala, þar sem nú er Listiðnasafnið, og andaðist þar 26. maí. Við getum kannski fengið leyfi til að skreppa inn í Pétursstræti 22 og líta á hinn illræmda stiga, því að húsráðandi í herbergi Jónasar var til skamms tíma vingjarnlegur, ungur maður.

Næst förum við til hliðar til hægri inn í Larsbjörnsstræti, þar sem bjó hægra megin á nr. 23 brautryðjandi sjálfstæðisbaráttu Íslendinga, Baldvin Einarsson, og samdi hér síðari hefti Ármanns á alþingi. Hann fórst hér af brunasárum, sem hann hlaut í svefni í árslok 1832. Á undan honum bjó í húsinu Grímur Jónsson amtmaður.

Við sveigjum til vinstri í Stúdíustræti og komum að Biskupstorgi fyrir framan Frúarkirkju. Í lúterskum sið hafa öll íslenzk biskupsefni, sem fengu vígslu í Kaupmannahöfn, verið vígð í Frúarkirkju og setið að veizlu í Biskupsgarði, sem er hér á horninu andspænis kirkjunni.

Til vinstri er Kaupmannahafnarháskóli, sem var háskóli Íslendinga allt frá miðri 16. öld og þangað til Háskóli Íslands var stofnaður 1911. Þennan skóla sóttu margir kunnustu Íslendingar á síðustu öldum og það var dvöl þeirra þar, sem gerði Kaupmannahöfn að höfuðborg Íslands og mesta menntasetri landsins.

Við göngum Norðurgötu meðfram gömlum byggingum háskólans, þar á meðal stúdentamötuneytinu Kannibalen, sem Íslendingar kölluðu alltaf Klaustur, af því að það var upprunalega stofnað í Ágústínusarklaustri við Heilagsandakirkju 1569, þegar munkarnir höfðu verið reknir þaðan brott.

Árið 1579 fengu Íslendingar forgang að frímáltíðum Klausturs. Hélzt svo, unz mötuneytið var lagt niður 1736 og farið að afhenda stúdentum matarfé í staðinn. Kölluðu Íslendingar það síðan “að fá Klaustur”. Hér var Oddur Einarsson, síðar biskup, “prófastur” eða borðhaldsstjóri.

Við göngum meðfram háskólanum til hægri Kristalsgötu og síðan til hægri Fjólustræti. Háskólabókasafnið er hér á hægri hönd og þar var Árnasafn til húsa við þröngan kost, frá því er það var flutt af lofti Þrenningarkirkju og unz það var flutt í Próvíanthúsið.

Hér sat Jón Helgason prófessor og orti: “Innan við múrvegginn átti ég löngum mitt sæti / utan við kvikaði borgin með gný sinn og læti”.

Við erum aftur komin að Frúarkirkju. Hér að baki hennar er Metropolitan-skólinn, sem áður hét Frúarskóli. Þar lærðu Hallgrímur Pétursson sálmaskáld, Grímur Thorkelín, síðar leyndarskjalavörður, og Sigurður Sigurðsson, síðar landþingsskrifari. Skúli Þ. Thorlacius var rektor skólans 1777-1803.

Hér beygjum við til vinstri inn Stóra Kanúkastræti og hægjum ferðina verulega, því að hér er íslenzk saga við hvert fótmál. Í götunni hefur íslenzka hljómað öldum saman, þegar námsmenn gengu milli garða og skóla.

Á fjarlægara horni Stóra og Litla Kanúkastrætis stóð áður hús Árna Magnússonar prófessors, Það er brann í hinum mikla Kaupmannahafnareldi í október 1728. Með húsinu brann hluti fornbókasafns hans, Árnasafns.

Andspænis húsi Árna er enn Borchs Kollegium, er var einn fínasti stúdentagarður borgarinnar. Þar voru umsjónarmenn Einar Guðmundsson og Skúli Thorlacius. Meðal annarra garðbúa voru Árni Magnússon, Jón Eiríksson, síðar konferensráð, Vilhjálmur Finsen, síðar landfógeti, og Konráð Gíslason, áður en hann flutti í Skinnaragötu.

Við hlið húss Árna var Londemanns hús, heitið eftir þeim Íslendingi, sem mest tignarheiti hefur borið í aðalsmannastíl, næst jarli og hirðstjórum Noregskonunga. Londemann var sonur Hans Londemann, sýslumanns Árnesinga, og Guðríðar Markúsdóttur. Hann varð prófessor, konsistorialráð, biskup og loks barón Rosencrone.

Við hlið Borchs Kollegium komum við næst að húsi Gjedde aðmíráls, þar sem Árni Magnússon var forstöðumaður garðbúa næstur á undan Ludvig Holberg leikritaskáldi. Hér bjuggu m.a. Finnur Jónsson og Hannes Finnsson, síðar biskupar, svo og Bjarni Thorarensen, er hér orti saknaðarljóðið Eldgamla Ísafold.

Garður

Loks komum við vinstra megin að merkasta húsi götunnar, Garði, sem öldum saman hýsti mikinn meirihluta íslenzkra námsmanna í Kaupmannahöfn. Hér fengu þeir forgangsvist samkvæmt konungsúrskurði, alveg eins og þeir höfðu forgangsfæði í Klaustri.

Danir kvörtuðu stundum sáran um, að íslenzkir ríkismannasynir og Íslendingar án nokkurra prófa og hæfnisvottorða voru orðalaust teknir fram yfir Dani, sem ekki komust yfir þröskuldinn í vali úr stórum hópi umsækjenda. Og það er merkilegt rannsóknarefni, að konungur lét þetta kíf jafnan sem vind um eyru þjóta.

Með forgangi Íslendinga að Klaustri og Garði var auðvitað stuðlað á einkar virkan hátt að menntun Íslendinga á erfiðum öldum. Mjög er óvíst, að forfeður okkar hefðu getað tekið íslenzk mál í eigin hendur, ef forréttindin í Kaupmannahöfn hefðu ekki undirbúið jarðveginn og haldið honum við. Þetta gleymdist stundum í Danahatrinu.

Skrár Garðs sýna mikil afföll Íslendinga. Margir þeirra lágu í svalli og spilum meðan hinir dönsku félagar lágu yfir bókum. Ófagrar eru lýsingar á hinni illræmdu þrenningu Ögmundar Sívertsen, Högna Einarssonar og Torfa Eggerz, svo og á Magnúsi og Gunnlaugi Blöndal um miðja síðustu öld, púlsmönnum “hjá Bacchi og Veneri”.

Íslendingar bjuggu mikið út af fyrir sig á sjötta stigagangi á Garði, blönduðu lítt geði við Dani og tróðu frekar illsakir við þá. Klemenz Jónsson, síðar landritari, var þó kosinn prófastur Garðbúa með atkvæðum róttækra Dana. Hannes Hafstein, Skúli Thoroddsen, Indriði Einarsson og Björn Olsen nutu líka álits inn í raðir Dana.

Héðan af Garði kemur endalaus röð forustumanna Íslendinga. Á 17. öld menn eins og Brynjólfur biskup Sveinsson, Vísi-Gísli lögmaður, Árni prófessor Magnússon og Þormóður kvennamaður Torfason. Á 18. öld menn á borð við Skúla fógeta, Eggert Ólafsson og Magnús Stephensen.

Hinum þekktu nöfnum Íslendinga meðal Garðbúa fjölgar á 19. öld. Þá búa þar Jón Sigurðsson, Tómas Sæmundsson, Brynjólfur Pétursson, Konráð Gíslason, Páll Melsteð, Skúli Thoroddsen, Hannes Hafstein, Grímur Thomsen, Steingrímur Thorsteinsson, Gestur Pálsson og Þorsteinn Erlingsson.

Hins vegar hafa mjög fáir forustumenn 20. aldar átt hér viðdvöl. Og vorið 1981 var svo komið, að ekkert íslenzkulegt nafn var lengur að finna í garðverjaskrá portsins. Hér verður því ekki lengur neinn “Rúki” prófastur (Eiríkur Jónsson) til að láta söng og ærsl, kvennafar og svall, fara í taugar sér, svo sem hann gerði á síðasta aldarfjórðungi síðustu aldar.

Við verðum að lokum að slíta okkur frá þessari þungamiðju sögu Íslendinga í Kaupmannahöfn. Framundan, handan Kjötmangarans, er Sívaliturn, þaðan sem gengið var inn á loft Þrenningarkirkju, en þar var Árnasafn lengi. Þar “sat á turni” Jón Grunnvíkingur. Og fyrir utan turn er talið, að 60-70 Íslendingar séu grafnir í kirkjugarði, sem nú er orðinn stétt.

Strikið

Íslendingar virðast hafa meiri sögulega tilfinningu fyrir tungumáli en Danir. Þeir mundu, að mötuneytið hafði einu sinni verið í klaustri. Og þeir mundu, að Købmagergade var einu sinni nefnt eftir slátrurum, en ekki kaupmönnum, og notuðu því yfirleitt hið rétta orð, Kjötmangarinn.

Við göngum hér til hægri Kjötmangarann niður á Strik og það síðan út á Kóngsins Nýjatorg. Við erum hér á Rúnti íslenzkra hafnarstúdenta. Á horni Kjötmangarans og Skinnaragötu voru krárnar Himnaríki (Himmerige) og Helvíti (Café d´Enfer), mikið sóttar af Íslendingum. Síðast er um Himnaríki í frásögur fært, að þar sátu Halldór Laxness og Jón prófessor Helgason og gerðu úttekt á Þórbergi Þórðarsyni.

Ef við tökum hér krók til vinstri út í Gömlumynt og Grænugötu, erum við komin á æskuslóðir Bertels Thorvaldsen, er bjó á ósamlyndu og ömurlegu heimili drykkfellds föður í Grænugötu 7, í einu versta skuggahverfi borgarinnar. Frá Gottskálki föður hefur Bertel þó væntanlega fengið handbragðið, sem síðan þróaðist í átt til heimsfrægðar.

Hér liggur Pílustræti samhliða Kjötmangaranum. Þar er kráin Skarfurinn, sem fyrir nokkrum árum var einn helzti skemmtistaður Íslendinga, og deildu þeir honum með Grænlendingum.

Þegar við komum niður á Strik, skulum við taka eftir húsinu Austurgötu 6, þar sem er Den Københavnske Bank. Þar fæddist Jörundur hundadagakonungur, sonur Urbans úrsmiðs og Önnu Leth, sem hvatti H. C. Andersen til dáða. Skólabróðir Jörundar, Adam Øhlenschläger, getur þess, að þá þegar hafi hann verið duglegur við strákapörin.

Á þessum fínu slóðum bjó líka áðurnefndur Repp. Hér var og fullt af krám og veitingahúsum, sem nú eru horfin, en voru vinsælir áningarstaðir á kvöldgöngum Íslendinga fyrri alda. Á Amákurtorgi 4 var Blesi (Pleisch), þar sem nú er Bing & Grøndahl. Pétur drengur (Pedrin) var í Austurgötu.

Og svo getum við líka gengið fyrir hornið og byrjað nýja hringferð á Njáli, Hvít og Mjóna.

Utan elzta hlutans

Hér hefur aðeins verið lýst Íslendingaslóðum í elzta hluta miðbæjar Kaupmannahafnar. Við höfum ekki farið út í Kristjánshöfn til að skoða hús Íslandskaupmanna við Strandgötu eða minnast Spunahúss og Rasphúss, sem biðu fyrr á öldum sekra manna af Íslandi.

Við höfum ekki heldur farið norður í átt til Klampenborg til að skoða Bernstorffshöll, þar sem Eiríkur á Brúnum sat með konungafólki, Andrésarklaustur, þar sem Nonni (séra Jón Sveinsson) bjó í þrjá áratugi, eða heilsuhælið í Klampenborg, sem Jón Hjaltalín læknir stofnaði 1844.

Á leið okkar höfum við einkum staldrað við menn og atburði fyrri alda. Íslendingar 20. aldar eru ekki eins tengdir gamla miðbænum og fyrri kynslóðir þeirra voru, því að borgin hefur þanizt svo út um allt, að eingin leið er að rekja íslenzk spor 20. aldar í einni leiðarlýsingu.

Jónshús

Eitt hús skulum við þó heimsækja að lokum, því að það er orðið og verður sennilega áfram miðpunktur Íslendinga í Kaupmannahöfn. Það er Jónshús á horni Stokkhúsgötu og Austurveggs og rís þar móti okkur eins og hóftungufar Sleipnis í Ásbyrgi.

Á þriðju hæð hússins bjuggu þau hjónin Jón Sigurðsson og Ingibjörg Einarsdóttir 1852-1879. Þar sat Jón löngum stundum við stafngluggann og skrifaði. Þar réðust mörg þau ráð, sem mörkuðu spor í sögu Íslands. Og þar áttu margir Íslendingar sitt athvarf í Hafnarferðum.

Carl Sæmundsen gaf Alþingi Íslendinga húsið 1966 og það hefur síðan sýnt því þann sóma að láta innrétta það í þágu Íslendinga í Kaupmannahöfn, svo að nú er það orðinn helzti samkomustaður þeirra.

Á tveimur neðstu gólfunum er hið eiginlega félagsheimili. Í kjallara er snyrtiaðstaða og lítill samkomusalur. Á næstu hæð er veitingasalur og setustofa, þar sem íslenzk blöð liggja frammi.

Veitingasalan er opin mánudaga, miðvikudaga-föstudaga 17-22, laugardaga-sunnudaga 14-20, en lokuð þriðjudaga. Síminn er 14 60 35. Íslendingafélagið og Félag íslenzkra námsanna í Kaupmannahöfn sjá um rekstur félagsheimilisins. Á sumrin er lögð áherzla á að taka á móti gestum og ferðamönnum heiman frá Íslandi.

Á annarri hæð er fræðimannsíbúðin, þar sem íslenzkum vísindamönnum gefst kostur á að búa endurgjaldslaust í þrjá mánuði. Á fjórðu hæð er íbúð íslenzka sendiráðsprestsins, sem jafnframt hefur umsjón með húsinu og minningarsafninu, sem er á þriðju hæð.

Minningarsafnið er opið mánudaga-laugardaga 17-19 og auk þess eftir samkomulagi við prestinn eða veitingamanninn. Í fremsta herberginu, sem var gestaherbergi á tímum Jóns og Ingibjargar, er fjallað um uppruna Jóns, æsku hans og skólaár.

Í stafnherberginu, sem var jafnt setustofa og vinnuherbergi Jóns, má sjá eftirlíkingar af skrifborði og stóli hans, sem varðveitt eru í Þjóðminjasafni Íslands, og aðrir munir eru í stíl þess tíma. Þar er einnig safn bóka eftir Jón og um hann.

Í þriðja herberginu, sem var áður borðstofan, er sýning, sem fjallar um ævi Jóns og störf, svo og heimilishagi þeirra hjóna. Þar sem áður var svefnherbergi hjóna, eldhús og stúlknaherbergi, er nú hýst bókasafn Íslendinga í Kaupmannahöfn. Þar eru einkum íslenzkar bækur til útlána og er safnið opið sunnudaga 16-18.

Vorið 1987 var sr. Ágúst Sigurðsson prestur í Jónshúsi, Bergljót Skúladóttir veitingamaður og Kristín Oddsdóttir bókavörður.

Við ættum öll að koma hér við á leið okkar um Kaupmannahöfn.

Landar á ferð

Einum Íslendingaslóðum megum við ekki gleyma, nútímanum í miðborginni. Á hverjum degi eru tugir Íslendinga staddir í Kaupmannahöfn í fríi, alveg eins og við. Marga kunnuga sjáum við á Strikinu rétt eins og í Bankastræti. Munurinn er bara sá, að á Strikinu eru Íslendingar í fríi, lausir við streitu og gefa sér tíma til að spjalla. Slík samtöl geta dregizt á langinn yfir bjórglasi á næstu krá. Kaupmannahöfn er þannig alveg kjörinn staður fyrir Íslendinga til að hitta Íslendinga.

Góða ferð!

1981, 1989

© Jónas Kristjánsson

Kaupmannahöfn skemmtun

Ferðir

Tivoli

Vorið er talið komið til Kaupmannahafnar, þegar hlið Tivoli eru opnuð 1. maí ár hvert. Þá flykkjast Danir og ferðamenn til að skemmta sér í þessum garði, sem tæpast á sinn líka í heiminum að fjölbreytni og hinu sérstaka danska fyrirbæri, sem kallast “hygge”.

Ekkert er líklegra til að dreifa streittu og eyða döpru geði en einmitt Tivoli. Staðurinn er svo magnaður áreynslulausri, danskri glaðværð, að hann ber höfuð og herðar yfir nafna sína og Disneylönd í öðrum löndum. Og hann er enn danskur, þótt ferðamenn setji líka svip á hann.

Frá 1843 hefur þessi merki skemmtigarður verið í hjartastað Kaupmannahafnar, ánægjulegur staður hvíldar og tilbreytingar, aðeins steinsnar frá umferðarþunga miðborgarinnar. Hér göngum við úr raunveruleikanum inn í furðulegan og fallegan ævintýraheim.

Við sjáum ímynd fjarlægra landa í hvolfþökum, minarettum og kínaþökum. Við verðum börn í annað sinn í þessum fáránlega samsetningi ólíklegustu hluta. Við skreppum inn í sjálft ímyndunaraflið.

Tivoli er líka eins konar lýðræði, þar sem háir og lágir, ungir og gamlir skemmta sér hver við annars hlið. Þeir eru allir jafnir, allir kumpánlegir, jafnt sendiherrann sem öskukarlinn.

Tónlistin er mikilvægur þáttur Tivolis. Miðpunktur hennar er konserthöllin, þar sem sinfóníuhljómsveit staðarins leikur. Þar koma líka fram heimsfrægir söngvarar og hljóðfæraleikarar til að gleðja gesti. Og svo leika hljómsveitir á palli á tveimur öðrum stöðum í garðinum.

Páfuglsleikhúsið hefur verið sérgrein Tivolis í heila öld. Þar er leikið án tals eftir feneyskum reglum frá endurreisnartímanum. Við sjáum Harlekin, Kólumbínu, Kassandra og Pjerrot sýna hinn hefðbundna látbragðsleik, sem yfirleitt er ekki hægt að sjá annars staðar.

Í Tivolisveitinni eru 109 drengir, 9-16 ára. Þessi sveit, sem er jafngömul garðinum, kemur fram ýmist marsérandi eða á sviði á laugardögum, sunnudögum og helgidögum, leikandi á alls kyns hljóðfæri. Út um heim er þessi sveit frægasti þáttur Tivolis.

Í vaxmyndasafninu sjáum við Karl Bretaprins og Karl Gústaf Svíakonung í boði hjá Margréti drottningu, Gorbatsjov og Reagan á fundi, Hemingway og Shakespeare í bókasafninu og margs konar persónur úr ævintýrum Grimmsbræðra og H. C. Andersen.

Tivoli hefur margar hliðar. Við getum setið í kyrrð og ró að morgni við lygnan vatnsbakkann. Við getum prófað hin fjölmörgu leiktæki síðdegis. Og að kvöldi getum við iðkað fimleika á diskóteki eða horft á flugeldasýningu.
Tivoli er opnað 10 á morgnana. Þá koma barnapíurnar og skilja börnin eftir á gæzluvellinum. Þá koma líka rosknu eftirlaunakonurnar, sem hafa keypt sér ársmiða að garðinum, til að skoða blómin og hvíla sig á bekkjunum. Í hádeginu koma jafnvel kaupsýslumenn til að gera út um viðskipti undir borðum.

Straumþunginn eykst, þegar líður á daginn og fólk losnar úr vinnu. Barnatækin eru sett í gang upp úr 11:30. Eftir 14:30 eru skemmtitækin stanzlaust í gangi, rússíbani, parísarhjól, speglasalur, draugagöng, spilavélar og allt, sem mönnum hefur dottið í hug að smíða af slíku tagi.

Barnaleikhúsið Valmúinn hefur sýningar 12:30, 13:30 og 14:30 laugardaga og sunnudaga, og 2. júlí-15. október einnig aðra daga, nema þriðjudaga.

Tivolisveitin leikur á útisviðinu laugardaga 15:15 og marsérar um garðinn fimmtudaga 16:45 og laugardaga og sunnudaga 18:30 og 20:30.

Útitónleikar hefjast í Promenade-Pavilionen um 16 og eru með hléum fram til miðnættis. Fjöllistamenn sýna á Plænen 19:15 alla daga nema mánudaga, og einnig 17 laugardaga og sunnudaga. Leiksýningar i Tivoli-Revue eru yfirleitt 19:45 og 21:45.

Fyrsti konsert kvöldsins hjá sinfóníuhljómsveitinni í Konserthöllinni er venjulega 19:30 og hinn síðasti 21. Inn á milli koma þar fram þekktir listamenn úr öllum heimshornum, kannski Ashkenazy, Oscar Peterson, The Mills Brothers eða Victor Borge.

Látbragðsleiksýning er í Páfuglsleikhúsinu virka daga 19:45. Á sama sviði er balletsýning virka daga 22.

Um 19 fara veitingahúsin, sem eru 25 að tölu, að fyllast. Og 20 hefst dansinn á Dansette og jazzinn á Slukefter.

Fjörið magnast í Tivoli á kvöldin, þegar skyggja fer. 110.000 marglitir lampar og ljós í gosbrunnum og skrúði 160.000 blóma setja svip á garðinn. Og þegar 40.000. gestur dagsins er kominn, lýkur hátíðinni með flugeldasýningu 23:45 miðvikudaga og laugardaga, svo og föstudaga eftir 20. júní, og sunnudaga 23:15.

Aðgangur að Tivoli kostaði 6 krónur. 5-12 ára börn greiða hálft gjald. Verulegur hluti skemmtiatriðanna eru ókeypis og önnur við vægu verði. Hins vegar er selt í leiktækin og kostaði það 6 eða 12 krónur. Sérstakur Tur-Pas, sem veitir ótakmarkaðan aðgang, hversu oft sem vill, að öllum helztu 25 leiktækjunum, kostaði 88 krónur.

Ástæðulaust er að skipuleggja nákvæmlega gönguferð um Tivoli. Miklu skemmtilegra er að villast þar um, tapa áttum og láta sig berast með glaðværum straumnum, hvert sem verða vill. Hér verður þó bent á hringferð um garðinn til að ná yfirsýn.

Við göngum inn um aðaldyrnar, sem snúa út að Vesterbrogade. Okkur á hægri hönd er fyrst upplýsingastofa og póstkortasala og síðan barnaleiksviðið Valmuen. Við göngum beint af augum fram hjá Promenade-útihljómpallinum á hægri hönd og útisviðinu Plænen til vinstri.

Andspænis Plænen er veitingastofan Balkonen. Þar er tilvalið að fá sér langdreginn kvöldverð og geta um leið fylgzt með því, sem fram fer á Plænen, látum fjöllistamanna og flugeldasýningu, svo og þrammi tónlistardrengja Tivolisveitarinnar.

Við förum hægra megin við gosbrunnasvæðið og nálgumst leiktækin, þar sem frægastur og vinsælastur er rússíbaninn og nýstárleg Óðins-hraðlestin. Hér er líka parísarhjól og rúmlega 20 önnur leiktæki.

Við göngum milli leiktækja og spilakassa framhjá danshúsinu Dansette og förum bak við Konserthöllina, framhjá Kínverska turninum og speglasalnum. Við göngum rangsælis eftir vatnsbakkanum, þar sem er miðja vega hin vinsæla Færgekro með rómantísku útsýni að kvöldlagi.

Við göngum áfram kringum vatnið, framhjá gæzluvelli litlu barnanna að höll H. C. Andersen, sem er ein nýjasta viðbótin við garðinn. Þar inni er vaxmyndasafnið.

Við höldum svo áfram kringum vatnið gegnum blómagarðinn alla leið að Harmonia-Pavilionen, þar sem við beygjum til hægri og förum framhjá Tivolileikhúsinu að veitingahúsinu Gröften, sem er líklega glaðlegasta matstofa garðsins og sú danskasta.

Að lokum höldum við framhjá Páfuglsleikhúsinu og erum aftur komin að innganginum við Vesterbrogade. Við höfum kynnzt andliti Kaupmannahafnar og erum reiðubúin að kynnast öðrum hliðum hinnar hugnæmu borgar við sundið. En fyrst og fremst erum við reiðubúin að koma aftur í Tivoli, draumagarð barna á öllum aldri, þar á meðal okkar.

Circus Benneweis

Circus Benneweis er mikilvægur þáttur aðdráttarafls Kaupmannahafnar. Sirkushúsið frá 1887, hundrað ára gamalt, er í hjarta borgarinnar, í næsta nágrenni Tivoli. Þar sér um fjörið fimmta kynslóð elztu sirkusfjölskyldu Evrópu, Benneweis fjölskyldan.

Frá 1. apríl til októberloka ár hvert er boðið upp á hálfs þriðja tíma dagskrá á degi hverjum og tvisvar á laugardögum og sunnudögum. Yfir vetrarmánuðina bregður sirkusinn svo undir sig betri fætinum og heimsækir nálæg lönd.

Fasta uppistaðan í sýningum sirkusins eru dýrin, sem Benneweis fjölskyldan hefur þjálfað. Diana Benneweis sýnir hvíta, arabiska gæðinga, sem kunna ýmsar listir. Miller Benneweis sýnir fíla, sem ganga yfir og leggjast á konu hans, Bettinu, án þess að gera henni mein.

Til viðbótar eru svo á vori hverju fengnir nýir fjöllistamenn, svo sem trúðar, línudansarar, loftfimleikafólk, kraftakarlar, töframenn og jonglarar. Þegar við síðast heimsóttum Benneweis, voru gestalistamennirnir allir frá rússneska ríkissirkusnum í Moskvu.

Fyrst skal frægan telja trúð trúðanna, sólskinstrúðinn Oleg Popov. Hann kom jafnan fram milli atriða og lét okkur veltast um af hlátri, svo sem er hann lék sér við sólargeisla og endaði með því að pakka honum saman og stinga niður í körfu.

Annar ótrúlegur listamaður var jonglarinn Evgeni Biljauer, sem hafði fleiri kúlur á lofti en við höfum haft spurnir af annars staðar. Ennfremur kraftakarlinn Valeri Gurjev, sem greip þung fallstykki með hálsinum. Og Schemschur hópurinn, sem sýndi allt öðru vísi fimleika en sirkusgestir eru vanir að sjá.

Margt fleira var að sjá á þessari óvinjafnanlegu kvöldstund hjá Benneweis, konu rokkandi á línu, hund skjögrandi af ölvun, sæljón dansandi á línu og hunda stökkvandi tvöföld heljarstökk. Allt fór þetta fram við örugga kynningu Nelly Jane Benneweis.

Í Circus Benneweis veinuðu allir af hlátri og tóku andköf af skelfingu, börn og gamalmenni -og við sjálf. (Circus Benneweis, Jernbanegade 8, sími 14 59 92, A4)

Dýragarðurinn

Með góðri samvizku eyðum við hálfum degi í dýragarði Kaupmannahafnar og helzt heilum, ef börnin eru með í för. Hann var stofnaður 1859 og er einn af elztu dýragörðum heims. Engin ellimörk eru þó á honum, enda er hann í stöðugri endurnýjun.

Í þessum dýragarði hefur tekizt betur en víðast annars staðar að láta dýrunum líða vel við aðstæður, sem þeim eru ekki náttúrulegar. Þetta er líklega eini dýragarðurinn, þar sem tekizt hefur að fá indverska fíla, hvíta nashyrninga og Congo-páfugla til að eignast afkvæmi.

Þetta er þeim mun athyglisverðara fyrir þá sök, að garðurinn er inni í borginni og hefur takmarkað rými. En ráðamenn og náttúrufræðingar staðarins hafa um langan aldur lagt sérstaka áherzlu á að reyna að láta dýrunum líða vel, þrátt fyrir aðstæður.

Þegar við komum síðast í dýragarðinn, hafði fílskálfurinn Maja mesta aðdráttaraflið fyrir gesti, sem voru furðumargir á köldum, en björtum vordegi. Garðurinn er opinn allt árið, en skemmtilegast er að heimsækja hann, þegar gróðurinn er í blóma.

Garðurinn státar af 500 tegundum dýra, sem sum hver eru sjaldséð í dýragörðum. Má þar nefna bengalska tígrisdýrið, moskusuxann og Congo-páfuglinn. Svo eru þar auðvitað ljón og pardusdýr, úlfaldar og zebrahestar, nashyrningar og flóðhestar, gíraffar og strútar, birnir og antílópur, svo sitthvað vinsælt sé nefnt.

Bezt er að haga göngunni um garðinn eftir fóðrunartíma dýranna, því að þá eru þau líflegust. Séu börnin með, verður að ætla þeim góðan tíma í barnagarðinum, þar sem þau fá að komast í snertingu við dýrin og leika sér meðal þeirra.

(Zoologisk Have, Roskildevej/Söndre Fasanvej, strætisvagnar nr. 28 og 41, í átt frá A5)

Strikið

Mesta fjörið í Kaupmannahöfn er ef til vill á Strikinu, hinum eina og sanna ás Kaupmannahafnar, milli höfuðtorganna Kóngsins Nýjatorgs og Ráðhústorgs. Þessi mannmarga göngugata er ein hin lengsta í heimi af slíku tagi og hefur orðið fyrirmynd margra annarra.

Í straumþunga mannlífsins á Strikinu ægir saman hraðstígum kaupsýslumönnum, virðulegum fyrirstríðsfrúm með hatta, öldruðum hippum með grátt í vöngum, bláhærðum ræflarokkurum og venjulegu fólki á öllum aldri. Og allt virðist þetta eiga vel saman.

Við gengum fram á fjörugan jazz hljómsveitar á horni Brimarhólms, gítarsöng útlendra hippa í dyrum lokaðs banka í Austurgötu, miðadreifingu kjarnorkuvina við Kjötmangarann, mótmælagöngu grunnskólabarna á Hábrú, trúarbragðafræðslu mormóna á Amákurtorgi, söng kennaranema á Vimmelskaftet gegn niðurskurði skólafjár og skopleik félaga þeirra á Nýjatorgi af sama tilefni.

Strikið er í rauninni margar götur, sem liggja misbreiðar í sveigjum milli torganna stóru. Austast er Östergade, síðan kemur Amagertorv, Vimmelskaftet, Nygade, Gammeltorv og vestast Frederiksberggade. Öll leiðin er um stundarfjórðungs rölt, ef uppákomur og verzlun tefja ekki.

Þungamiðja Striksins er Amákurtorg. Þar og við Austurgötu eru vöruhúsin og fínustu búðirnar, enda er aðeins steinsnar til Kóngsins Nýjatorgs, sem er miklu fínna en Ráðhústorgið. Þarna er í búðum yfirleitt ekki boðið upp á ódýrustu hlutina, en hins vegar margt af hinum beztu.

Lítið er um gangstéttarkaffihús á Strikinu. Helzt er sætis von á Gamlatorgi eða Amákurtorgi til að fá sér kaffibolla og líta yfir fjölbreytilegt mannhafið. En látið ekki glepjast inn í pizzeríur og börgera Striksins, heldur leitið inn í hliðargöturnar, þar sem almennilegan mat er að fá.

Sem betur fer er klámið horfið af Strikinu. Aðeins eina einstæðingslega sjoppu sáum við í hliðargötu. Að þessari breytingu er veruleg landhreinsun. Gerir þá minna til, þótt einstaka skyndifæðustaðir komi í staðinn. Að öllu samanlögðu gegnir Strikið hlutverki sínu af engu minna fjöri en áður. Þar er sem fyrr slagæð Kaupmannahafnar.

Kóngsins Nýjatorg

Hvítur (Hviids Vinstue) er elzti, en ekki að sama skapi virðulegasti fulltrúi gamla kráarlífsins við Kóngsins Nýjatorg. Þar er allt við þau ummerki, sem við ímyndum okkur, að hafi verið á síðustu öld, hvert smáherbergið og holan inn af annarri í heilan hring.

Lágt er til lofts og skuggsýnt og gestir þaulsætnir við bjór og tóbaksreyk. En hér er líka hægt að fá gott og ódýrt vín hússins, sem fáir notfæra sér. Upp úr hádeginu var strjált setið af kófdrukknum iðjuleysingjum, en við vinnulok fylltist allt af glaðværu fólki, sem hér mælir sér mót, áður en farið er heim eða út á lífið.

Aðeins innar í Litlu Kóngsinsgötu er smáholan Skinnbrókin (Skindbuksen), þar sem sumir störðu nokkuð stjarfir ofan í ölglasið sitt, þegar leið á kvöldið. Þar er botn virðingarstigans í kráarlífi torgsins.

Efsta þrep þess virðingarstiga er auðvitað langa gangstéttarkaffihúsið á Angleterre hóteli, þar sem fína fólkið virti fyrir sér pupulinn, sem gekk hjá með hendur í vösum. Þar hugsuðu margir, að heimur versnandi færi.

Hér til hliðar við Angleterre er veitingastofan Egoisten, hreinleg og falleg stofa með miðlungs verðlagi og stílar meira á matargesti en öldrykkjumenn. Öllu frægari og um leið ódýrari og ekki síður þægilegur er hinn ítalski Mjóni, sem lengi hefur heitið Stephan á Porta, andspænis Hvíti við Litlu Kóngsinsgötu.

Handan torgsins er svo Brönnum, milli Konunglega leikhússins og Listaakademíunnar, hin fína listamannakrá Kaupmannahafnar með ölstofu úti við dyr og veitingasal hið innra. Þjónustan er léleg og maturinn vondur, en gott er að mæla sér mót á barnum.

Eftir að hafa rölt hringinn, var greinilegt, að segulmagnið kom frá hinu gamla og trausta Hviids Vinstue. Þar stungum við okkur inn á nýjan leik til að ljúka kvöldinu.

Grábræðratorg

Grábræðratorg er griðastaður menntamanna í Latínuhverfi Kaupmannahafnar. Þar kemur unga fólkið saman, laust við umferðarhávaða bílagatna og straumþunga gangandi fólks á Strikinu. Þar eru margar krár og veitingahús með borðum og sólhlífum úti á stétt.

Torgið er heimur út af fyrir sig, ekki sízt þegar þar eru haldnir hljómleikar undir beru lofti. Við sitjum við gosbrunninn, á bekkjum, við eitthvert borðið eða stöndum í hnapp úti á miðju torgi. Hér þekkjast menn og kasta kveðju hver á annan.

Hér eru hávaðasamar holur á borð við bjórkrána Frimands Quarteer á númer 12 og vínkrána Oxe´s Vinkælder á númer 11, þar sem er hver rangalinn inn af öðrum, með skotum og hornum hér og þar. Eða þá tiltölulega friðsamur Sporvejen á númer 17, sem er innréttaður eins og sporvagn.

Hér er líka matstofan Bøf og Ost í kjallaranum á Grábræðratorgi 13. Þar fengum við fremur ódýran mat og sæmilegasta ost í skemmtilegum kjallara, sem einu sinni var hluti af klaustri. Sumt af gripunum, sem fundizt hafa við fornleifagröft á þessum stað, eru til sýnis í skotum í veggjum. Húsið sjálft er frá 1735, en hluti kjallarans er frá sextándu öld.

Gråbrødretorv 14 er snyrtilegt veitingahús við hlið Frimands Quarteer. Þar er verðlagið komið upp í milliverð og kjósa þá fleiri námsmenn að fara fyrir svipað í salatborðið á Peder Oxe, sem er uppi yfir kránum Oxe´s Vinkælder og Bøf og Ost á númer 11 og 13. Þetta var góður matstaður, sem hefur sett niður á síðustu árum.

Í Kaupmannahöfn látum við aldrei hjá líða að skreppa steinsnar frá Strikinu og fá okkur glas af víni eða öli við þetta notalega torg brattra húsa frá 18. öld. Það er góð hvíld frá niði umferðar gangandi og akandi fólks.

Vin & Ølgod

Mikið og fjörugt húllumhæ er jafnan á Vin & Ølgod, ódýrri 400 gesta knæpu, þar sem menn standa á bekkjum og borðum og syngja gamalkunn ljúflingslög á borð við “Í Hlíðarendakoti”. Þar sáum við aðeins einn gest, sem ekki ljómaði af ánægju. En hann var ekkert sérstaklega fýlulegur heldur.

Þarna skemmta sér bæði Danir og ferðamenn með aðstoð hljómsveitar og skemmtistjóra. Staðurinn er of gamaldags fyrir táninga, en þar fyrir utan eru gestir á öllum aldri. Ölið er kneifað ótæpilega úr lítrakrúsum og sumir fá sér smørrebrød með.

Vin & Ølgod minnir dálítið á bjórhallir Bæjaralands. Hér er þó ekki lúðraþytur eða stapp, hí og hopp, heldur mildari tónlist og söngvar, sem allir þekkja eða geta fylgzt með í söngbókum, sem eru við hvers manns disk.

Viljum við beint í fjörið, hafandi borgað lágan aðgangseyri fyrir karlmanninn og 0 krónur fyrir konuna, er ráð að fara í aðalsalinn, setjast þar við langborðin og deila geði við nágrannann, veifa fánum, dansa vals og rúmbu og taka saman höndum og róa.

Viljum við láta fara minna fyrir okkur, getum við pantað borð uppi á English Pub, þar sem útsýni er ágætt yfir gleðskapinn. Einnig má nota hina portúgölsku Bistro, þaðan sem líka er hægt að horfa yfir salinn
Viljum við kneyfa ölið sem fastast, eru langborð niðri í Rådhuskælderen, þar sem menn skemmta sér undir sjö alda gömlum steinbogum og fangahringjum., svona nánast sem í helli væri. Hér er semsagt eitthvað fyrir alla og það í ekta dönskum stíl.

(Vin & Ølgod, Skindergade 45, sími 13 26 25, opið 20-02, lokað sunnudaga, B3)

Önnur skemmtun

Leikhús, ópera og ballet eru háu stigi í Kaupmannahöfn. Þeim, sem vilja líta inn á slíkum stöðum, bendum við á bæklinginn Copenhagen This Week, sem kemur út mánaðarlega, eða dönsku dagblöðin. Í blöðunum er líka sagt frá bíómyndum, sem koma og fara.

Diskótek og næturklúbbar eru hverful fyrirbæri. Ef við vildum hér mæla með einum umfram aðra, væri eins víst, að hann yrði horfinn, þegar lesandinn vildi notfæra sér ráðgjöfina. Slíka staði verður áhugafólk að þefa uppi, þegar það kemur til Kaupmannahafnar. Jazz er sennilegra stöðuglyndari á Montmartre í Nørregade 41 og á De Tre Musketerer á Nikolaj Plads 25.

Skemmtigarður í stíl við Tivoli, en eldri, er Bakken í Klampenborg, sem er úthverfi borgarinnar. Margir Danir taka hann fram yfir Tivoli, enda er rýmið meira. En Tivoli hentar betur ferðamönnum, sem hafa knappan tíma. Hafi menn tímann, er Bakken til reiðu frá 1. apríl ár hvert.

1981, 1989
© Jónas Kristjánsson

Kaupmannahöfn útrásir

Ferðir

Útrás um Sjálandsbyggðir

Við erum nú orðin svo kunnug Kaupmannahöfn, að við höfum dag aflögu fyrir danska sveitasælu. Við fáum okkur bíl á leigu til að skoða á Norður-Sjálandi hið dæmigerða danska landslag, kastala, söfn og dómkirkju. Við getum auðvitað farið í hópferðir til þessara staða, en frjálslegra er að fara með eigin tímaskyni á eigin spýtur.

Ef við ætlum að skoða allt, sem hér er lýst, á einum degi, verðum við að láta hendur standa framúr ermum. Leiðin er 175 kílómetrar og tekur tæpar fjórar klukkustundir í akstur. Vegna takmarkaðs opnunartíma merkisstaða verða þá ekki nema fimm stundir aflögu til skoðunar.

Þá er um að velja að sleppa einhverju og skoða annað lauslega, sem við höfum á minnstan áhuga, eða taka tvo daga í ferðina. Þá gistum við annaðhvort á Hotel Marienlyst á Nordre Strandvej 2, Helsingjaeyri, eða á Hotel Store Kro á Slotsgade 6, Fredensborg.

Við leggjum af stað 9 að morgni, finnum Østerbrogade og ökum hana til norðurs. Nafn hennar breytist fljótlega í Strandvejen, enda fylgjum við ströndinni úr borginni. Þetta er engin hraðbraut, heldur mjór vegur, sem bugðast um sjávarpláss, sumarhús og sveitasetur. Í góðu veðri sjáum við til Hveðnar (Ven) og Svíþjóðar.

Louisiana

Með rólegum akstri komum við til þorpsins Humlebæk um 10, þegar Louisiana-safnið er opnað. Þetta er gamalt sveitasetur í stórum og glæsilegum garði nyrzt í þorpinu, heilt völundarhús nútímalistar, bæði úti og inni, í gamla húsinu og í nýjum sölum. Þetta er eitt frjálslegasta safn, sem um getur, umvafið fersku sjávarlofti. Þegar við heimsóttum það síðast, var þar mjög stór sýning á verkum Picasso.

ð er meira virði en klukkustundar skyndiheimsóknar, sem lýst var hér að framan í ferðinni um Sjálandsbyggðir. Betra væri að hafa aflögu heilan daga til að skoða safnið, sem er eitt hið notalegasta í heiminum.

Safnið er í mörgum samtengdum sölum og glergöngum, sem mynda stóran hring í fögrum garði við Eyrarsund. Salirnir eru byggðir út frá nítjándu aldar herragarði, sem Alexander Brun lét reisa. Hann var þrígiftur og hétu allar konur hans Louise. Því nefndi hann bústaðinn Louisiana og hefur nafnið flutzt yfir á safnið, sem stofnað var 1958.

Safnið nær yfir innlenda og alþjóðlega list nútímans, það er að segja eftirstríðsáranna. Ýmis söfn í helztu heimsborgunum hafa meira úrval listaverka nútímans, en safngripir Louisina eru vel valdir og búa við skemmtilegra umhverfi en munir í söfnum á borð við Museum of Modern Art í New York.

Í góðu veðri er ánægjulegt að rölta um höggmyndagarðinn innan í safnhringnum og skreppa niður í skógarbrekkuna, er liggur niður að Eyrarsundi og anda að sér sjávarlofti. Hægt að matast undir beru lofti eða fá sér hressingu, því að veitingasalur er á svæðinu. Enginn vandi er að láta heilan dag líða hjá í Louisiana.

Safnið er ekki hvað sízt þekkt fyrir höggmyndir. Venjulega falla slík verk í skugga málverka á söfnum. Hér njóta þær hins vegar forgangs og þess er gætt, að þær hafi nóg rými í garðinum, svo að þær njóti sín vel við eðlilega lýsingu úti í náttúrunni.

Í hryssingsveðri má líka virða fyrir sér verkin innan frá, því að þau eru nálægt glerveggjum safnskálanna. Falla þau þá vel inn í grænan ramma grass og trjáa. Þess vegna er gott veður ekki nauðsynleg forsenda heimsóknar í Louisiana, þótt auðvitað sé það heppilegra.

Þarna eru verk ýmissa helztu höggmyndasmiða heims. Næst aðaldyrunum eru listaverk eftir Jean Arp. Síðan koma höggmyndir Max Ernst, þá Henry Moore, Joan Miró og loks Alexander Calder. Hver þessara listamanna hefur dálítið svæði út af fyrir sig. Einnig eru í safninu höggmyndir eftir Nobuo Sekine og Alberto Giacometti. Þrettán verk hins síðastnefnda eru raunar eitt helzta tromp staðarins.

Hvergi í Danmörku er betra safn nútímalistar. Glyptoteket og Ríkislistasafnið í Kaupmannahöfn skilja að mestu við hana, þegar lýkur tímabili hinna frönsku málara frá 1850-1920. Abstrakt list er til dæmis ekki til sýnis í þessum tveimur merku söfnum. Hennar þarf að leita í Louisiana.

Safnið skiptist í deild fastra og breytilegra sýningargripa. Í föstu deildinni má fyrst nefna Cobra-hópinn, þar á meðal Svavar Guðnason, sem á tvö verk í Louisiana. Ennfremur nokkra abstrakt-frömuði á borð við Vassily Kandinsky, Victor Vasarely, Jean Devasne og Auguste Herbin. Eitt verk er eftir Erró, “Rauði síminn”. Þriðji íslenzki fulltrúinn er Sigurjón Ólafsson.

Af listamönnum sjötta áratugsins má nefna áðurnefndan Giacometti, svo og Jean Dubuffet, Francis Bacon, Yves Klein, Lucio Fontana og Sam Francis. Fulltrúar sjöunda áratugsins eru meðal annarra JeanTinguely og César. Frá sama tíma eru poppararnir Roy Lichtenstein, Robert Rauschenberg og Andy Warhol. Gisnara er um listamenn, sem einkenna áttunda og níunda áratuginn.

Athyglisvert er, að Louisiana er ekki í opinberri eigu og nýtur lítils sem einskis beins stuðnings ríkisins. Safnið er sjálfseignarstofnun, sem nýtur gjafmildi einstaklinga, fyrirtækja og stofnana, svo sem Carlsberg-sjóðsins, sem kostar kaup á einu meginlistaverki á hverju ári.

Louisiana er samspil náttúru, byggingalistar og nútímalistar. Salirnir hafa verið reistir smám saman á þremur áratugum. Þeir eru hver með sínu sniði, sumir lágir og breiðir, aðrir háir og mjóir, en falla samt inn í samræmda heild, þar sem þess er gætt, að byggingar beri listaverk og náttúru ekki ofurliði.

Talsvert er um tónleika, bíósýningar, umræðufundi, leiksýningar og bókmenntaupplestur í safninu, einkum um helgar. Ferðamenn geta fyrirfram kynnt sér, hverjar eru slíkar uppákomur og tímabundnar listsýningar.
Það er ánægjulegt að líta inn í Louisiana, en stórkostlegt að geta gefið sér þar góðan tíma.

Krónborg

Eftir 30 mínútna akstur til viðbótar komum við til Helsingjaeyrar (Helsingör). Við höldum okkur þar við Strandvejen að höfn Svíþjóðarferjanna, því að þaðan er leiðin að Krónborg greinilega merkt. Við erum komin að gömlum hornsteini Danaveldis, þaðan sem skotið var á skip þau, er ekki greiddu Eyrarsundstoll.

Krónborg var reist 1574-85 í hollenzkum endurreisnarstíl, fremur kuldaleg að sjá, úr rauðum tígulsteini og með koparþaki. Inni má skoða einn af stærstu hallarsölum Evrópu, upprunalegar eikarinnréttingar í kirkju, svo og híbýli konungs og drottningar. Einna merkast er þó danska sjóferðasafnið, sem er til húsa í kastalanum. Krónborg er opin 10-17 á sumrin og 11-15 á veturna.

Hér lætur Shakespeare harmleik Hamlets gerast, og á þeim forsendum flykkjast hingað enskumælandi ferðamenn. Við bíðum þó ekki eftir draugagangi, heldur förum í bæinn og finnum rólegt markaðstorgið innan um gömul hús og miðaldagötur. Við fáum okkur hádegissnarl á Gæstgivergården Torvet til að njóta betur hins gamla tíma.

Fredensborg

Við megum ekki slóra of lengi. Við yfirgefum Helsingjaeyri á vegi A3 og beygjum inn á A6 eftir sex kílómetra akstur. Við komum eftir 20 mínútur að nýjum áningarstað, sveitasetri Danadrottningar, Fredensborg. Þessi “höll friðarins” er opin almenningi í júlí, en hinn mikli hallargarður allt árið. Vegvísarnir að höllinni eru merktir “Fredensborg Slot”, því að þorpið sjálft heitir Fredensborg.

Fredensborg var reist 1719-26 á vegum Friðriks IV konungs í ítölskum stíl. Hún var eins konar miðpunktur Evrópu á tímum Kristjáns IX, sem var kallaður tengdafaðir Evrópu. Hér hélt hann sumarveizlur ættingjum sínum og tengdafólki, þar á meðal Alexander III Rússakeisara og Játvarði VII Bretakonungi.

Friðriksborg

Við ökum svo áfram A6 tíu mínútna veg gegnum Gribskov, einn stærsta skóg Danmerkur, til Hillerød. Þar fylgjum við vegvísum til hins volduga og glæsilega kastala, Friðriksborgar, sem Friðrik II konungur lét reisa 1560 í hollenzkum endurreisnarstíl. Sonur hans, Kristján IV, sem fæddist hér, lét breyta höllinni og endurbæta 1602-20.

Friðriksborg er raunar mun skoðunarverðari en Krónborg. Hún er meiriháttar þjóðminjasafn með afar skrautbúinni kapellu, þar sem er hásæti og orgel frá 1610. Aðalsalur kastalans er einnig skartlegur í meira lagi. Hér voru konungar Danmerkur krýndir, meðan sá siður hélzt. Á safninu er ótrúlegur fjöldi málverka og gamalla húsmuna.

Víkingaskipasafnið

Eftir þessa skoðun höldum við okkur enn við A6 og ökum þriggja stundarfjórðunga leið til Hróarskeldu (Roskilde). Við fylgjum þar fyrst vegvísum til miðbæjarins, en höfum við hringtorg augun opin fyrir vegvísi til Víkingaskipasafnsins á hægri hönd.

Safnið var opnað 1969. Þar eru til sýnis fimm skip frá 1000-1050, sem sökkt var í mynni fjarðarins á sínum tíma, sennilega til að hefta för norskra víkinga. 70% viðar skipanna hafa varðveitzt og hafa skipin verið lagfærð af nostursemi.
Hér er líklega að finna eina skipið þeirrar tegundar, sem víkingaaldarmenn notuðu til siglinga til Íslands, Grænlands og Ameríku. Það er knörrinn. Hin skipin eru kaupskip, ferja, fiskibátur og langskip til hernaðar. Safnið er opið á sumrin 9-17 og á veturna 10-16.

Hróarskeldukirkja

Við förum til baka afleggjarann að hringtorginu og höldum inn í miðbæinn til dómkirkjunnar, sem er opin á sumrin 9-17:45 virka daga og 12:30-17:45 sunnudaga og á veturna 10-15:45 virka daga og 12:30-15:45 sunnudaga. Undirstöður hennar eru taldar vera frá tíma Absalons biskups um 1170, en turnspírurnar komu ekki á hana fyrr en 1635.

Í dómkirkjunni eru líkkistur danskra konunga og drottninga frá síðustu 1000 árum, gerðar sumar úr marmara og aðrar úr alabastri. Í kapellu Kristjáns I er súla, þar sem merkt er hæð konunglegra gesta. Kirkjan skemmdist í eldi 1968, en hefur verið lagfærð.

Járnaldarþorpið

Ef við höfum enn tíma og þol, þegar við yfirgefum Hróarskeldu, gæti verið gaman að koma við í Lejre til að skoða járnaldarþorp, sem þar hefur verið endurreist í fornleifarannsóknastöð. En þorpið er því miður aðeins opið til 17, svo að við kunnum að vera orðin of sein fyrir, ef við höfum kosið eins dags ferðina.
Til að finna Lejre förum við A1 til suðurs frá Hróarskeldu og komum brátt að vegvísi til staðarins. Þetta er um fimmtán mínútna leið. Að öðrum kosti förum við A1 í hina áttina og eigum þá ekki nema rúmlega hálftíma ferð á greiðri hraðbraut til Kaupmannahafnar.

Þar ljúkum við þessari snöggu ferð um hina eiginlegu Danmörku utan stórborgarinnar. Við höfum kynnzt landslagi Danmerkur, þorpum hennar og höllum á eins fljótlegan hátt og mögulegt er.

Málmey

Ef við höfum annan dag til umráða, er spennandi að taka flugbát til Málmeyjar í Svíþjóð frá horni Nýhafnar og Hafnargötu. Ferðin tekur 35 mínútur. Handan sundsins er síðan hægt að skoða Málmey og háskóla- og biskupsborgina Lund. Dómkirkjan í Lundi er fegursta dæmi rómanskrar byggingarlistar á Norðurlöndum, byggð 1080-1145.

Drageyri

Svo er líka til í dæminu, að við höfum ekki einu sinni heilan dag til umráða. Þá er heppilegast að fara til Drageyrar (Dragør) úti á Amager. Það er syfjulegt sjávarpláss í nágrenni Kastrup-flugvallar, með gömlum, rómantískum húsum og þröngum göngugötum, stofnað af hollenzkum innflytjendum á fyrri hluta 16. aldar.

Danmerkurhringur

Ef við höfum nægan tíma, til dæmis viku, getum við kannað aðdráttarafl sveitanna að baki borginni, ræturnar, sem stórborgarstilkur Kaupmannahafnar rís upp af. Við getum heimsótt gamla kastala og kirkjur og þorp og sveitir, sem hafa ræktað danska “huggu” um aldir. Ef börn eru með í ferð, er auðvelt að láta leiðina liggja um opna dýragarða og Legoland.

Hér er stungið upp á 900 km akstri og fjórum ferjuleiðum um Danmörku. Það felur í sér rólegar, 130 km dagleiðir með nægum tíma til skoðunar og hvíldar. Með meiri flýti má fara þessa hringleið á færri dögum, sérstaklega ef við veljum og höfnum úr því, sem hér verður boðið á næstu síðum.

Sjáland

Fyrst pöntum við hótel ferðarinnar og leggjum síðan um níuleytið af stað í bílaleigubíl frá gististað okkar í Kaupmannahöfn. Leiðin liggur suður eftir A2/E4 38 km til bæjarins Køge, þar sem við fylgjum vegvísum til bæjarmiðju, unz við komum að aðaltorginu, Torvet. Þar getum við staðnæmzt og ef til vill keypt vistir á torgmarkaðinum.

Á torginu og tveimur strætum, sem liggja að því, Kirkestræde og Vestergade, eru nokkur bindingshús frá 16. öld. Í Kirkestræde má líka líta Sankt Nicolaj kirkju frá 17. öld. Úr turni hennar fylgdist Christian V með sjóorrustu Dana og Svía á Køge-flóa 1677.

Þetta er stutt kynning á því, sem koma skal í þessari ferð, svo að við skellum okkur af stað til Vordingborg á venjulega veginum, ekki hraðbrautinni A2/E4. Eftir um 20 km komum við að síðara skiltinu af tveimur, sem vísa veginn til Haslev til hægri. Við beygjum þar, ef við viljum sjá sveitasetrin Bregentved og Gisselfeld. Að öðrum kosti höldum við áfram og höfum auga með vegvísi til Næstved, 5 km sunnar.

Frá áðurnefndum vegamótum eru 2 km að svifstíls-setrinu Bregentved. Hinn stóri garður þess, með tjörnum og blómabeðum, trjágöngum og víðáttumiklum túnum, er opinn almenningi miðvikudaga, sunnudaga og helgidaga, án aðgangseyris.
Eftir 2 km í viðbót beygjum við til vinstri að endurreisnarhöllinni Gisselfeld, sem var byggð 1547 sem kastali, umkringdur síki. Líka þar er fallegur garður, sem er opinn almenningi.

Á sömu leið komum við brátt að vegvísinum til Næstved. Þegar við höfum farið hjá Holme-Olstrup, beygjum við til hægri að Holmegård gleriðjunni, þar sem dýrasta gler er handblásið eftir hefðbundnum leiðum. Holmegård er ein frægasta gleriðja Danmerkur og sennilega hin bezta, stofnuð 1825. Hún er opin án aðgangseyris 9-13:30 og lengur um helgar. Hér er gaman að tefja tímann, ef við þolum hitann frá 1.450°C heitu gleri.

Við setjum bílinn í gang og höldum sem leið liggur allt til Næstved. Þegar við komum að bænum, förum við nokkur hundruð metra krók til gamla klaustursins Herlufsholm, sem er frá 1560. Þar er merkust 12. aldar kirkjan, sem enn ber 13. aldar svip, opin 11-17 á sumrin, 12-14 á veturna.

Nú er kominn tími til hádegisverðar. Við förum beint inn í bæjarmiðju í Næstved og leggjum bílnum undir hæðinni, þar sem rís Sankt Pederskirke, stærsta kirkja Danmerkur í gotneskum stíl, frá 13. og 14. öld. Við göngum upp á kirkjutorgið og förum beint í hádegismat á hótel Vinhuset, Sankt Peders Kirkeplads, sími (03) 72 08 07. Við höfum lagt 59 km að baki frá Køge.

Eftir mat og langvinnt kaffi röltum við út á hitt kirkjutorgið, Akseltorv, förum um Torvestræde til Sankt Mortenskirke frá 12. öld. Þaðan förum við eftir Riddergade, sem ber endurreisnarsvip, vörðuð bindingshúsum frá 1500. Til baka förum við Købmagergade og Sankt Peders Kirkeplads, framhjá gömlu prestssetri frá 1450 og bæjarsafninu, að bílnum.

Við höfum andað að okkur minningum frá þessum miðaldabæ kaupmennsku og klausturs og leggjum nú í 29 km ferð beint til Vordingborg. Sá bær er fallega í sveit settur, reistur umhverfis 12. aldar kastala, er þjóðarhetjan Valdemar konungur mikli lét reisa sem brottfararstað herferða til Þýzkalands og Póllands.

Leið okkar liggur um Algade beina leið til bæjarmiðju og rústa kastalans, þar sem Valdemar konungur dó 1182. Við sjáum veggi, undirstöður og kjallara, auk Gåsetårnet, sjö hæða turns, sem enn stendur. Hann var bæði virkisturn og svarthol, með 3,5 m þykkum veggjum og 36 metra hæð upp að gullnu gæsinni efst.

Hann er opinn 10-12 og 13-16.

Falstur

Enn leggjum við í hann og í þetta sinn yfir lengstu brú Danmerkur, 3,2 km yfir Storströmmen til eyjarinnar Falster, samtals 31 km leið beint til Nykøbing. Þar förum við eftir skiltum til austurhluta bæjarmiðjunnar og finnum fljótlega horn Brovejen og Jernbanegade. Þar er hótelið Baltic, Jernbanegade 45-47, sími (03) 85 30 66, þar sem við eigum pantað herbergi. Þar látum við taka frá borð fyrir kvöldverð í Czarens hus, Langgade 2, sími (03) 85 28 29.

Ráðlegt er að panta ferjur næsta dags frá hótelinu, svo að við verðum hvergi strandaglópar á leiðinni. Síminn hjá Tårs-Spodsbjerg ferjunni er (03) 93 13 03, hjá Rudkøbing-Marstal ferjunni (09) 53 17 22 og hjá Søby-Fåborg ferjunni (09) 58 14 88.

Eftir sturtu og stutta hvíld göngum við Jernbanegade að Gråbrødrekirken, sem er frá 1532, tengd klaustri. Frá kirkjunni förum við inn göngugötuna Lille Kirkestræde, sem heldur andrúmslofti fyrri tíma. Við beygjum til hægri í Friesgade/Langgade, framhjá elzta borgarahúsinu, á nr. 18, frá 1580, að Czarens hus, sem er frá um það bil 1700.

Pétur Rússakeisari snæddi hér einu sinni 1716 og hið sama ætlum við nú að gera. Húsið er í senn minjasafn og veitingahús. Safnið er lokað á þessum tíma, en verður opnað 10 í fyrramálið, ef við höfum áhuga. En veitingahúsið sjálft er eiginlega safn líka.

Láland

Næsta morgun um níuleytið förum við Brovejen yfir brúna milli eyjanna Falster og Lolland. Annað hvort förum við beint eftir A7 til Sakskøbing og Maribo eða förum krókinn um Nysted til að sjá Fuglsang sveitasetrið og Ålholm kastala. Leiðin frá Nyköbing til Nysted er 16 km og síðan eru 24 km þaðan til Maribo.

Fljótlega komum við að Fuglsang, sem er í blöndu gotnesks stíls og endurreisnarstíls. Þar fáum við okkur morgungöngu í fögrum hallargarði, þar sem aðgangur er ókeypis. Síðan höldum við áfram til Nysted og tökum krók til Ålholm kastala í þann mund, er við komum að bænum.

Hinn stóri kastali frá 12. öld lítur út eins og ræningjavirki úr ævintýrunum. Hann er byggður í ýmsum stílum frá ýmsum tímum. Norðausturturninn er frá 14. öld og vesturveggirnir frá 13. öld. Kastalinn var einu sinni konungsbústaður. Hann er opinn júní-ágúst 11-18. Ef við lögðum nógu tímanlega af stað í morgun, getum við notað tímann 10-11 í Ålholm Automobil Museum í nágrenninu, þar sem sýndir eru 200 gamlir bílar.

Frá Ålholm förum við eftir Saksköbing-veginum til Maribo, bæjar, sem reistur var umhvefis nunnu- og munkaklaustur frá upphafi 15. aldar. Nærri miðtorginu Torvet verður fyrir okkur dómkirkjan í Maribo, áður klausturkirkja, byggð 1413-70. Hún nýtur sín vel við hin ljúfu Maribo vötn.

Eftir 3 km á A7 í átt til Nakskov beygjum við til hægri Bandholm-veg til að taka 5 km krók til Knuthenborg. Það er opinn dýragarður, stærsti sveitaseturs-garður í Skandinavíu. Hann hefur verið svokallaður safari-garður síðan 1970. Tígrisdýr frá Bengal voru helzta aðdráttaraflið, þegar við ókum um garðinn. Kjörið er að fá hádegissnarl í Skovridergård Cafeteria í miðjum garðinum.

Auk tígrisdýranna státar garðurinn af villtum antílópum, gíröffum, zebradýrum, úlföldum, flóðhestum, strútum, öpum og mörgum fleiri dýrum, en fílana vantaði. Þar er líka stór barnagarður, þar sem boðnir eru reiðtúrar. Sýndar eru eftirlíkingar af sjö enskum höllum og kastölum. Einnig eru þar 500 mismunandi tegundir trjáa.

Hér er gott að verja heilu síðdegi, ef börnin eru með. En við verðum að gæta þess að missa ekki af ferjunum tveimur, sem við þurfum að ná, ef við ætlum að komast til Ærøsköbing í kvöld. Í tæka tíð verðum við að fara til baka á A7 til að halda áfram leiðinni frá Maribo til Nakskov, 27 km, og síðan 4 km til viðbótar að ferjuhöfninni í Tårs.

Langaland

Ferjan frá Tårs til Spodsbjerg á Langeland-eyju fer á klukkustundar fresti og á hálftíma fresti á annatímum. Ferðin tekur 45 mínútur. Frá höfninni í Spodsbjerg er aðeins stutt, 8 km leið til hafnarinnar í Rudkøbing, hinum megin á eyjunni. En áður en við yfirgefum Rudkøbing verðum við að gefa okkur tíma til að skoða og fara fram og til baka yfir hina voldugu Langalandsbrú, 1,7 km langa, hina þriðju lengstu í Danmörku. Og við verðum að skoða okkur um í Rudkøbing.

Við göngum frá höfninni upp Brogade að Gåsetorvet, rammað gömlum húsum. Síðan förum við spölkorn lengra, að kirkjunni, sem er að hluta frá um það bil 1100 og hefur endurreisnarturn frá 1621. Þaðan röltum við í fornlegu andrúmslofti um Smedegade, Vinkældergade, Ramsherredsgade, Gammel Sømandsgade, Strandgade, Sidsel Bagersgade, Østergade og síðan til baka Brogade að höfninni.

Ærey

Síðasta ferjan til Marstal á Ærø fer 20:15 og um helgar 21:15. Hin næstsíðasta fer 17:55 og 18:15 um helgar. Siglingin tekur um 60 mínútur. Frá höfninni í Marstal er skammur 5 km akstur til Ærøskøbing. Þar staðnæmumst við nákvæmlega í miðju gamla bæjarins, á bílastæði hótelsins Ærøhus, Vesterbrogade 38, sími (09) 52 10 03. Það er rólegt, gamalt hótel með nýtízkulegum herbergjum í garðhúsum.

Orðið er áliðið, svo að við flýtum okkur í Mumm, Söndergade, sími (09) 52 12 12, þar sem við eigum pantað borð. Eftir kvöldmat röltum við um gömlu strætin, Söndergade, Gyden, Nørregade, Smedegade og þvergöturnar Vestergade og Brogade. En við höfum betri tíma á morgun til að kanna þennan 17. og 18. aldar bæ, sem er betur varðveittur en aðrir slíkir í Danmörku.

Ærøskøbing er raunar hápunktur ferðar okkur inn í rómantíska fortíð. Allur bærinn er eins og safn. Þar eru 36 friðuð hús, en öll í fullri notkun. Um morguninn mætum við nútímabörnum á leið um göngugöturnar til skóla. Og ferðamenn eru ekki of margir, af því að staðurinn er úr alfaraleið.

Virka daga getum við tekið 10:45 ferjuna frá Søby, 16 km vestur frá Ærøskøbing. Alla daga náum við 13:15 ferjunni, sem gefur okkur lengri tíma í andrúmsloftinu í Ærøskøbing, en þá þurfum við líka að hringja í vertinn í Faldsled kro til að segja, að við verðum sein í hádegisverð, um 14:30. Ferjan er 60 mínútur á leiðinni til Fåborg á eyjunni Fyn.

Fjón

Ef við komum með seinni ferjunni, látum við skoðun Fåborg bíða til síðdegis og ökum greiða leið til Faldsled, 10 km lengra eftir veginum til Assens. Þar bíður okkar eina listamáltíðin á allri leiðinni frá Kaupmannahöfn til Árósa. Faldsled kro, sími (09) 68 11 11, í fjarlægari enda þorpsins, er bæði hótel og veitingastaður, einn hinn bezti í landinu. Þar var franskur kokkur og sennilega bezti vínlisti landsins. Þetta er rólyndislegt hús með stráþaki, að hluta til úr bindingsverki. Umhverfið er fagurt við ströndina. Þetta er dæmigerð lúxuskrá.

Þegar við höfum drepið tímann yfir kaffi og borgað háan reikninginn, snúum við til baka til Fåborg. Þar stönzum við á Torvet til að skoða gamla götuhluta umhverfis Vesterport, í Vestergade, Holkegade og Østergade, alla í næsta nágrenni turnsins, sem er leifar af Sankt Nicolai kirke, við hlið bílastæðis okkar.

Frá Fåborg leggjum við í 47 km ferð eftir A8 til Nyborg. Fyrst förum við framhjá klaustri, kirkju og kastala sistersíana-munka í Brahetrolleborg, 1 km handan við þorpið Korinth. 10 km síðar förum við 1 km krók til Egeskov. Það er endurreisnarkastali með síki umhverfis, hinn bezt varðveitti slíki í Evrópu. Þar er einstakur garður með 200 ára gömlum runnum og kryddjurtagarði. Kastalinn var byggður 1524-54 á eikarstaurum, sem voru reknir niður í vatnsbotn. Garðurinn er opinn til 19 á sumrin.

Þegar við komum til Nyborg, ökum við beint gegnum miðbæinn að Nyborg Strand í leit að næturgistingu á hótelinu Hesselet, Nyborg Strand, sími (09) 31 30 29. Það er eitt bezta hótel Danmerkur, þótt það sé ráðstefnuhótel.

Þar eru rúmgóð og óvenjulega vel búin herbergi. Hin dýrari snúa að hafinu, en hin að skóginum. Matargerðarlist er tekin alvarlega á þessum stað, svo að við snæðum kvöldverð á hótelinu. Starfsliðið er sérstaklega skapgott og þægilegt, jafnvel þótt hin japönsku áhrif hafi minnkað með árunum. Við notum tækifærið til að biðja um, að pöntuð sé fyrir okkur ferja frá Árósum til Kalundborg, sem við notum síðar í ferðinni.

Umhverfi Hesselet er afar vel fallið til morgungöngu eða hjólreiða að morgni dags. Hótelið lánar reiðhjól. Síðan snúum við bílnum inn í bæinn til að skoða hann, einkum Nyborg Slot, sem er frá 1170. Sá kastali var löngum áningarstaður konunga og aðalsfólks, nú opinn frá 9 á morgnana, 10 að vetrarlagi.

Óðinsvé

Brátt erum við komin á fulla ferð á A1/E66 skamman, 29 km spöl til Odense. Það er þriðja stærsta borg Danmerkur, ein hin elzta á Norðurlöndum. Óðinsvé hafa verið biskupssetur frá 1020. Frægust er borgin þó fyrir son sinn, ævintýraskáldið H. C. Andersen. Við förum beint í borgarmiðju, þar sem við getum lagt bílnum neðanjarðar, undir torginu, sem er andspænis Sankt Albani Kirke.

Fyrst förum við af torginu framhjá ráðhúsinu og Sankt Knuds Kirke, sem er frá miðri 13. öld, ein hinna mikilvægari kirkna landsins í gotneskum stíl. Þar eru grafir nokkurra danska konunga og drottninga. Kirkjan er stílhrein, sérstaklega að innanverðu. Örstuttu handan kirkjunnar er Munkemøllestræde, þar sem er bernskuheimili H. C. Andersen, opið 10-17 á sumrin og 12-15 á veturna.

Við hörfum til baka að Sankt Albani Kirke og förum inn í Overgade, Bangsboder, Jensensstræde, Ramsherred og Sortebrødretorv, sem mynda gamalt þorp innan í borginni. Í Jensensstræde 39-43 er H. C. Andersen safnið opið 9-19 á sumrin og 10-15 á veturna. Þar eru sýndir persónulegir munir hans, bækur og teikningar.

Andspænis safninu, við Ramsherred 2, er veitingastofan Under Lindetræet, sími (09) 12 92 86, hentug fyrir aðdáendur rithöfundarins og bauð okkur raunar ágætis hádegissnarl. Þeir, sem vilja borða í fornlegu andrúmslofti og gera sér ekki rellu út af matnum, geta snætt í Den Gamle Kro í Overgade 23, sími (09) 12 14 33. Það er bindingshús frá 1683, byggt umhverfis húsagarð, og hefur verið veitingastaður síðan 1771.

Jótland

Síðla dags förum við aftur út á A1 og ökum klukkustund 67 km leið til Kolding á Jótlandi, það er að segja meginlandi Evrópu. Þangað förum við á nýju hengibrúnni yfir Litlabelti. Hún var byggð 1970, spannar 1 km haf og hleypir 42 metra háum skipum undir sig.

Í Kolding stönzum við í bæjarmiðju, við hlið kastalans Koldinghus. Hann er frá 13. öld og hefur að hluta verið uppgerður sem safn, opið -17 á sumrin og -15 á veturna. Notalegt er að rölta “ástarbrautina” meðfram vatninu fyrir framan kastalann. Handan vatnsins er borgargarðurinn, þar sem er hótelið Tre Roser, Byparken, sími (05) 53 21 22. Þar borðum við kvöldverð og tökum á okkur náðir. Hótelið Saxildhus kemur einnig til greina.

Næsta morgun leggjum við enn af stað um níuleytið og förum úr bænum á A10/E3. Fljótlega beygjum við af honum í átt til Billund. Ferðin til Billund er 40 km löng. Við komum að hliðum Legoland, þegar sá ævintýraheimur barna er opnaður kl. 10. Hér sleppum við börnunum lausum fram yfir hádegið og gerum bara hlé til að fá hádegissnarl í Vis-a-Vis, sem er í beinum tengslum við garðinn.

Legoland er eign Lego System, framleiðanda hinna frægu, litlu kubba. Aðalaðdráttaraflið er lítið land, byggt úr 20 milljónum legó-kubba. Þar eru miðaldabæir og þorp, stæling á Amsterdam og öðrum þekktum bæjum í Rínarhéruðum, Noregi, Svíþjóð og Hollandi. Við dáumst að notkunarmöguleikum þessara kubba.

Börnin hafa líka gaman af að reyna ökuhæfni sína í bílskólanum og fá skírteinin sín á eftir. Þarna er líka sérstætt safn með 350 gömlum dúkkum og um 40 brúðuhúsum, brúðuleikhús með sex sýningum á dag, þorp úr villta vestrinu og Indjánabúðir, gullgröftur og smáhestagarður, lest, bílar, bátar og smábarnaleikvellir. Lego-hljómsveitin þrammar laugardaga, sunnudaga og frídaga 13-15.

Frá Billund förum við veginn til Give. Þegar við erum komin gegnum þorpið, beygjum við til hægri í átt til Vejle. Eftir um 25 km frá Legolandi komum við að ljónagarðinum Givskud. Það er eins konar safari-garður, sem hefur ljón að helzta aðdráttaraflinu. Hann minnir á Knuthenborg að því leyti, að gestir geta ekið um hann og þurfa stundum að krækja fyrir dýr, sem liggja á veginum.

Auk ljóna eru í Givskud fílar, villisvín, antilópur, úlfaldar, tapírar, flóðhestar, zebradýr, strútar, lamadýr og margir sjaldgæfir fuglar. Þar er einnig leikvöllur, þar sem börn geta fengið að kynnast dýrum. Givskud er lokað hálfum þriðja tíma fyrir sólarlag á sumrin.

Frá Givskud höldum við áfram þá 20 km, sem eftir eru til Vejle, en stönzum á leiðinni í Jelling. Þar klifrum við upp á haugana beggja vegna kirkjunnar, grafir Gorms konungs og Týru drottningar frá 10. öld. Í kirkjugarðinum skoðum við rúnasteinana tvo. Hinn minni reisti Gormur konungur til minningar um Týru og hinn stærri reisti Haraldur blátönn til minningar um Gorm. Þarna eru líka 50 bautasteinar.

Við ökum rólega um fagurlega sveigt landslagið á leið til Vejle. Þar förum við um bæinn í suðurátt eftir A18/E67 og skimum eftir vegvísinum til Munkebjerg til vinstri í úthverfi bæjarins. Eftir 8 km akstur á hliðarveginum með ströndinni komum við að hótelinu Munkebjerg, sími (05) 82 75 00, þar sem við borðum og gistum.

Þeir, sem hafa nóga peninga, geta pantað svítuna með útsýnisgluggum að skóginum og Vejle-flóa. Munkebjerg er óvenju notalegt hótel, þótt þar séu stöðugt haldnar ráðstefnur. Umhverfis hótelið eru margir ánægjulegir og hressandi göngustígar niður að ströndinni.

Eftir morgungönguna ættum við að leggja í hann ekki síðar en um tíuleytið í 80 km ferð til Árósa. Fyrst förum við frá ströndinni, leitum að vegvísi til Horsens og Árósa, förum á nýju og háu brúnni yfir fjörðinn og fylgjum A10 alla leið til Árósa, næststærstu borgar Danmerkur.

Árósar

Við finnum höfnina í Århus og ökum þaðan suður Spanien og Strandvejen, þar sem við finnum brátt við hafið næsta hótel okkar, Marselis, Strandvejen 25, sími (06) 14 44 11. Þar hendum við inn farangrinum og pöntum borð fyrir hádegissnarl og kvöldverð í veitingahúsum inni í bæ.

Nú dugar ekkert dosk. Við höldum áfram Strandvejen framhjá tjaldstæðinu og fylgjum vegvísunum til Moesgård safns. Það er fornleifa- og þjóðfræðisafn í skóginum og sérhæfir sig í forsögu Danmerkur. Þar er til dæmis hinn heimsfrægi og vel varðveitti Grauballe-maður, sem lítur út eins og honum hafi verið fórnað guðunum fyrir nokkrum mánuðum. Hann er 1600 ára gamall, óhugnanlegri en nokkuð í safni Madame Tussauds.

Á bakaleiðinni förum við framhjá hótelinu og finnum í miðborginni Café Mahler, Vestergade 39, sími (06) 19 06 96, þar sem matur er ekki dýr, miðað við, hversu óvenjulega góður hann er. Við látum okkur dveljast yfir kaffinu, áður en við röltum skamman veg yfir Vesterbrotorv og Vesterbrogade yfir í Den gamle by.

Þessi gamli bær er eins konar Árbær, útisafn 60 gamalla húsa, sem hafa verið flutt hingað og endurreist. Þau eru fullbúin með innréttingum, sem sýna okkur hagkerfi liðins tíma, byggingarlist, lifnaðarhætti, viðskipti og handiðnir. Athyglisverðast er borgarstjórahúsið frá 1597 við aðaltorgið. Mörg húsin eru skemmtileg að innanverðu, til dæmis verkstæði úrsmiðsins, brugghúsið og apótekið, fullt af skrítnum krukkum og lyfjagerðaráhöldum.

Þetta er slökunarmiðstöð Árósa, full af fólki um helgar. Den gamle by er í senn forn draumur og nýtt tivoli, þar sem mikið er um að vera á frídögum. Við hliðina er grasgarður borgarinnar, kjörinn til körfumáltíða í góðu veðri.

Af öðru skoðunarverðu í Árósum má nefna náttúruminjasafnið í háskólagarðinum, þekkt fyrir sýningar á upphafi og þróun lífs á jörðinni. Ennfremur dómkirkjan, stofnuð 1201, helguð Sankt Clemens. Hún var upprunalega rómönsk múrsteinskirkja, sem var síðan lagfærð og stækkuð á 15. öld í gotneskum stíl. Hún er lengsta kirkja Danmerkur.

Þegar við erum búin að fara inn á hótel í sturtu og fataskipti, ökum við enn inn í miðborg, að þessu sinni til hins virðulega matargerðarmusteris nýfranska stílsins, De 4 Årstider, Åbulevarden 47, sími (06) 19 96 96, þar sem við fáum gott að borða og góð vín með matnum.

Næsta morgun förum við snemma á fætur til að ná 8-ferjunni frá höfninni til Kalundborg á Sjálandi. Við getum sleppt morgunverði á hótelinu, af því að við getum snætt hann í þriggja tíma rólegheitum um borð í ferjunni. Ef við eigum bókað, nægir okkur að leggja af stað frá hótelinu 7:30.

Sjáland

Þegar við erum komin í land í Kalundborg, ökum við beint upp hæðina að kirkjunni, þar sem við leggjum bílnum í Adelgade og virðum fyrir okkur gömlu húsin og kirkjuna við torgið. Kirkjan er býzönsk, reist 1170 í mynd fimm turna, sem hafa grískan kross að grunnplani. Þessi kirkja er byggingarlistalega séð einstök í sinni röð í Danmörku.

Á leiðinni úr bænum til Slagelse sýnir vegvísir leiðina til hægri, 4 km til hallarinnar Lerchenborg. Það er hlaðstíls-höll frá 1743-53 í stórum garði 20.000 rósa og fleiri blóma og trjáa. Garðurinn er opinn á sumrin, en lokaður daglega 12-14.

Við höldum aftur út á aðalveginn og ökum áfram 38 km til Slagelse. Þegar þangað er komið, finnum við Korsör-veginn frá bæjarmiðju og skyggnumst um eftir vegvísi til hægri að Trelleborg. Þangað er 5 km krókur að afar undarlegu víkingavirki frá 1000-50.

Trelleborg er síki og aðalvirki, umlukt háum, hringlaga vegg. Á veggnum eru fjögur hlið, sem snúa til höfuðáttanna. Inni í virkinu eru minjar um sextán hús, reist eftir ströngu, flatarmálsfræðilegu mynztri. Fyrir utan hefur verið reist eftirlíking eins þessara húsa.

Ef menn telja víkinga ekki hafa orðið fyrir áhrifum rómverskrar verkfræði og nákvæmni, geta þeir skipt um skoðun hér. Eini munurinn er, að hin rómversku castra voru rétthyrnd, en Trelleborg er hringlaga.

Við snúum til baka til Slagelse og finnum þar A1/E66, sem liggur til Kaupmannahafnar, um bæina Sórey og Ringsted. Fyrsti hlutinn, til Sórey, er 15 km. Við stönzum í borgarmiðju á Torvet, við hlið nunnuklaustursins og förum yfir götuna til að fá okkur síðbúið hádegissnarl í bakaríinu.

Síðan förum við um hliðið inn í stærstu nunnuklausturkirkju Danmerkur. Það er sistersíanskt og stofnað 1160-70 að undirlagi þjóðhetjunnar og erkibiskupsins Absalons, sem er grafinn að kórbaki eins og önnur þjóðhetja, Valdemar Atterdag, og nokkrir aðrir konungar.

Við röltum líka niður að vatninu í fögru umhverfi, sem hentar til gönguferða. Hluti garðsins, nálægt vatninu vinstra megin, er í enskum stíl.

Frá Sórey eru um 16 km sama veg til Ringsted. Þar ökum við til bæjarmiðju, þar sem Benedikts-reglu-kirkjan, helguð Sankt Bendt, leynir sér ekki. Hún er í rómönskum stíl, eitt allra fyrstu múrsteinshúsa Danmerkur. Gotneska ívafinu var bætt við eftir eldsvoða 1241. Í kirkjunni eru yfir 20 konungagrafir.

Nú snúum við bílnum síðustu 60 km til höfuðborgarinnar, Kaupmannahafnar, þar sem við hófum þessa ferð um sveitir, garða, þorp, bæi, kirkjur, söfn, hallir og kastala Danmerkur, um sögu hennar, rómantík hennar, “huggu” hennar. Við erum reiðubúin að fara í aðra slíka ferð. Og við skiljum bókarefnið, Kaupmannahöfn, betur en áður.

Góða ferð!

1981, 1989
© Jónas Kristjánsson