Author Archive

Þreytt samstarf norrænt

Greinar

Úti í hinum stóra heimi er gert góðlátlegt grín að norrænu samstarfi. Vikuritið Economist taldi einu sinni 23 norrænar embættismannanefndir, 152 aðrar nefndir og hópa Norðurlandaráðs og 2000 norræn samstarfsverkefni, þar á meðal um varðveizlu leðurhúsgagna.

Við þekkjum ekki mörg dæmi þess, að önnur eins fyrirhöfn skili jafnlitlum árangri. Norrænt samstarf kostar yfir 8 milljarða króna á ári og hefur ekki skilað neinu síðan á sjötta áratugnum, þegar vegabréfsskoðun var afnumin og samið var um ýmis gagnkvæm réttindi.

Síðan eru liðnir meira en þrír áratugir og ekkert hefur gerzt annað en, að flugfélögin blómstra, með fullar vélar stjórnmála- og embættismanna á leið til funda-og veizluhalda af margvíslegu norrænu tagi, þar sem meðal annars er rætt um varðveizlu leðurhúsgagna.

Norrænt samstarf megnaði ekki einu sinni að lækka tolla milli Norðurlanda. Það gerðist ekki fyrr en suðlægari ríki á borð við Austurríki og Sviss, Spán og Portúgal, Bretland og Írland, komu til skjalanna í samstarfi á breiðari grundvelli í Fríverzlunarsamtökum Evrópu.

Nú eru flest þessi ríki gengin í Evrópubandalagið, sem er orðin valdamiðja Evrópu. Norðurlönd sitja áfram á sínum hjara veraldar, stunda norrænar veizlur sínar og aðrar skrautlegar umbúðir utan um ekki neitt eða þá langvinna draumóra um norræna gervihnetti.

Norðurlandaráð og ráðherrafundir Norðurlanda eru getulaus fyrirbæri út á við. Er Eystrasaltsríkin biðja um stuðning, segja þessar norrænu stofnanir ja og humm. Hið eina, sem gert hefur verið af norrænu viti í málum þessara ríkja, er einkaframtak Íslendinga.

Íslenzka veizlugengið á norrænum vettvangi hefur nú fengið ágætan skell, er frændur þess á hinum Norðurlöndunum hafa tekið frá því formennsku í nefndum. Vonandi verður nokkur sparnaður af brottrekstrinum, því að utanferðum hlýtur að fækka við embættamissinn.

Samstarf Norðurlanda í menningarmálum hefur ekki menningargildi, því að það miðast við að halda listamönnum uppi sem eins konar launuðum embættismönnum utan við hinn kröfuharða listamarkað. Enda hafa Norðurlönd dottið út af heimskorti listasögunnar.

Halldór Laxness sagði einu sinni í blaðaviðtali, að Ísland hefði í bókmenntum ekki neitt til Norðurlanda að sækja. Við værum nokkur hundruð árum á undan þeim og yrðum að bera okkur saman við stórveldin, þar sem hin raunverulega bókmenntasaga er að gerast.

Norrænu fólki hefur gengið vel í lífinu. Notalegt þjóðfélag hefur verið búið til á Norðurlöndum. En þessi þægilegi heimur er í auknum mæli að verða afdalur í umheiminum, einangrað fyrirbæri, sem skiptir litlu um framvindu mála í pólitík, efnahag og listum.

Norrænt samstarf hefur í meira en þrjá áratugi verið næsta marklaust. Það sogar samt til sín fé, tíma og krafta, sem ættu frekar að beinast að samskiptum okkar við hinn raunverulega umheim. Við eigum ekki að láta frysta okkur niður í steingeldum félagsskap.

Norrænt samstarf er svo fyrirferðarmikið, að rekstur Alþingis leggst nánast niður í hvert sinn, sem haldið er þing Norðurlandaráðs. Í þessari viku er hið norræna gengi íslenzkra stjórnmála í Kaupmannahöfn að hjálpa við að framleiða auknar umbúðir utan um ekki neitt.

Miklu nær væri að einbeita okkur að eflingu samskipta okkar við hinar raunverulegu miðstöðvar valda, efnahags, menningar og lista í hinum stóra heimi.

Jónas Kristjánsson

DV

Stríðið er ekki um Kúvæt

Greinar

Tvisvar hefur framvinda stríðsins við Persaflóa ógnað tökum bandamanna á sjálfri framvindunni. Í fyrra skiptið gerðist það, þegar eldflaugar Saddams Hussein hittu ísraelskar borgir. Þá var um tíma hætta á, að Ísrael flæktist inn í stríðið, en því tókst að afstýra.

Í síðara skiptið reyndi Gorbatsjov Sovétforseti að leika tveimur skjöldum með því að lýsa almennum stuðningi við markmið bandamanna, en búa um leið til lausn, sem hefði þýtt, að Sovétríkin hefðu Saddam Hussein að skjólstæðingi og birgðu hann vopnum að nýju.

Þetta tókst ekki. Bandamenn höfnuðu milligöngu Gorbatsjovs á kurteisan hátt og héldu áfram ætlunarverki sínu. Hingað til hefur allt gengið í samræmi við þá kenningu, að Írakar standi ekki að baki Saddam Hussein, heldur þjóni honum af ótta og skelfingu.

Venjulegir hermenn og liðsforingjar í her Saddams Hussein hafa engar vöflur. Þeir hreinlega gefast upp um leið og þeir eru vissir um, að eftirlitsmenn harðstjórans skjóti þá ekki í bakið. Einu hermennirnir, sem verjast, eru í sérþjálfuðum lífvarðasveitum foringjans.

Úr því að bandamenn hafa komizt yfir þröskulda Ísraels og Sovétríkjanna, er mikilvægt, að þeir komist líka yfir þriðja þröskuldinn, Kúvæt. Það er að segja, að þeir líti ekki á frelsun Kúvæt sem niðurstöðu stríðsins, heldur felist hún í að hrekja Saddam Hussein frá völdum.

Stríðinu má ekki ljúka með því einu, að bandamenn nái Kúvæt á sitt vald og komi þar á skaplegu stjórnarfari. Stríðinu lýkur nefnilega ekki í raun fyrr en gengi Saddams Hussein hefur verið komið frá og efnt hefur verið til réttarhalda yfir helztu mönnum þess.

Enginn minnsti vafi er á, að Saddam Hussein og fylgismenn hans hafa framið bæði stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyninu, þar á meðal glæpi gegn vistkerfi mannkyns. Margir aðrir hafa að vísu framið slíka glæpi, en þetta gengi er eitt hið versta, sem sézt hefur.

Réttarhöld mundu hjálpa fólki til að átta sig á, hve hroðalegt er stjórnarfar í sumum löndum. Þau mundu líka hjálpa öðrum harðstjórum til að átta sig á, að slíkt stjórnarfar getur um síðir haft alvarlegar afleiðingar fyrir harðstjórann sjálfan og sérsveitir hans.

Þetta stríð hefur kostað mikið og á eftir að kosta mikið enn. Mikilvægt er, að sem mest fáist fyrir fórnirnar, sem færðar hafa verið. Sigurinn yfir Saddam Hussein ber að nota til að koma á betri venjum í samskiptum þjóða og í samskiptum yfirvalda við borgarana.

Samkvæmt stofnskrá og mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna eru til reglur um lýðréttindi, sem ekki eiga að þurfa að vera sérstaklega vestrænar, heldur hafa algilt innihald. Þessar reglur mættu gjarna síast í gegn í heimi íslams og í þriðja heiminum.

Á velgengnistíma Saddams Hussein var hann studdur minnihluta íslama, nema í Jórdaníu og hugsanlega í einhverjum ríkjum Norður-Afríku. Í fjölmennustu ríkjunum, svo sem Egyptalandi og Tyrklandi, var ekki nein umtalsverð andstaða gegn aðgerðum bandamanna.

Þegar kemur í ljós, að Saddam Hussein er pappírstígrisdýr, mun stuðningur við hann hjaðna meðal íslama um allan heim. Mikilvægt er að nota fall hans til að koma á framfæri því sjónarmiði, að mannréttindi og lýðréttindi henta íslömum eins og öðru fólki.

Úr því að bandamenn komust yfir þröskulda Ísraels og Sovétríkja í Persaflóastríðinu geta þeir líka komizt yfir þann þriðja, að stríðið snúist bara um Kúvæt.

Jónas Kristjánsson

DV

Mastrið bilaði ekki

Greinar

“Ég tel, að ástandið hjá sjómönnum hafi skánað mikið við, að langbylgjumastrið á Vatnsenda fauk niður. Eftir það voru allir veðurfréttatímar sendir út á stuttbylgju í gegnum Gufunes og við sjómenn erum allt í einu farnir að heyra þær.”

Þetta sagði einn sjómaðurinn í viðtali við DV eftir ofsaveðrið mikla í upphafi þessa mánaðar. Sjónarmið hans hafa síðan endurspeglazt víða í fréttum og greinum, þar sem tæknimenn og sjómenn hafa fjallað um, hvort við þurfum nýtt langbylgjumastur fyrir milljarð.

Víðast hvar hefur verið fjallað um þetta á vitrænan hátt, nema í sölum Alþingis. Þar hóf Árni Johnsen umræðu utan dagskrár um, hvílík vá væri fyrir dyrum sjómanna. Þingmenn kepptust síðan hver um annan þveran um að lofa milljarði í langbylgjumastur.

Daginn eftir umræðuna utan dagskrár gaf Svavar Gestsson menntamálaráðherra út svofellda yfirlýsingu: “Ný langbylgjustöð verður byggð og það verður hafizt handa við undirbúning strax.” Þessi viðbrögð Alþingis og ríkisstjórnar sýna óþarfa æðibunugang á þeim bæjum.

Rétt er að hafa í huga, að mastrið mikla á Vatnsendahæð féll ekki í óveðrinu af því að það væri orðið 60 ára gamalt og fúið. Það féll ekki heldur af því, að eigandi þess hefur ekki hirt um að halda því við í 20 ár. Það féll, af því að festing á stagi bilaði niðri við jörð.

Ef menn hirða um slíkt, er mjög einfalt mál að halda við festingum á stögum, ef þeir hafa einhverjar raunverulegar áhyggjur af mannvirkjum sínum. Það kostar sáralitla peninga, meðan menn eru að gamna sér við skýjaborgir um nýtt mastur fyrir einn milljarð.

Einnig er gott að hafa í huga, að Ríkisútvarpið gat reist nýtt mastur, ef það hefði í rauninni talið slíkt vera þvílíkt forgangsmál, sem nú er gefið í skyn. Á liðnum áratugum hefur stofnunin fjárfest gífurlega í öðru, þar á meðal í kastala sínum við Efstaleiti í Reykjavík.

Langbylgjan er orðin svo úrelt, að framleiðsla senditækja er um það bil að leggjast niður. Í Bandaríkjunum hafa miðbylgja og örbylgja tekið við. Í öllum þorra útvarpstækja, sem hér á landi hafa verið seld um langan aldur, hefur alls ekki verið nein langbylgjumóttaka.

Stuttbylgjusendingarnar, sem tóku við, þegar stagfestingin brotnaði á Vatnsendahæð, eru mörgum sinnum ódýrari lausn. Einnig kemur til greina, að efla búnaðinn á strandstöðvum Landssímans til að koma þar fyrir veðurspám og tilkynningum til sjómanna.

Loks fer að koma að því, að gervihnattastöðvar leysi landstöðvar af hólmi. Það er mjög freistandi leið, því að hún er óháð truflunum, sem verða á raforkudreifingu hér á landi, ef eitthvað er að veðri, enda virðist dreifikerfið vera miðað við suðlægari slóðir.

Við eigum nóga kosti í þessu máli, aðra en að reisa nýtt langbylgjumastur fyrir milljarð króna. Vandinn er miklu fremur fólginn í að velja milli nokkurra annarra leiða, sem hver fyrir sig hefur kosti umfram hinar. Þær geta jafnvel farið saman að töluverðu eða öllu leyti.

Athyglisvert er, hversu auðvelt er að æsa þingmenn og ráðherra til örlætis á peninga, sem þeir eiga ekki. Á Alþingi og í ríkisstjórn ríkir þvílík óreiðustefna í meðferð fjármuna, að menn voru tilbúnir til að kasta milljarði í skyndilega geðsveiflu 4. og 5. febrúar.

Nýtt landbylgjumastur er óþarft. Það vissu þeir, sem létu hjá líða að styrkja stagfestingar á Vatnsendahæð, svo að forngripurinn mætti standa í önnur 60 ár.

Jónas Kristjánsson

DV

Skammtíma-raunsæi

Greinar

Utanríkisráðherrar Evrópubandalagsins hafa ákveðið að frysta ekki lengur fjárhagsaðstoð bandalagsins við Gorbatsjov Sovétforseta. Fyrir hönd Vestur-Evrópu hafa þeir fetað í fótspor Bush Bandaríkjaforseta, sem einnig hefur veðjað á, að framtíð sé falin í Gorbatsjov.

Pólitísk framganga Bandaríkjastjórnar og flestra stjórna í Vestur-Evrópu gagnvart Sovétríkjunum segir lýðræðisöflum og sjálfstæðisöflum Sovétríkjanna að hafa sig hæg. Um leið segir hún afturhaldsöflum Sovétríkjanna, að þau hafi frjálsar hendur til kúgunar.

Viðhorf af þessu tagi eru mótuð af svokölluðum “raunsæismönnum” í utanríkisráðuneytum vestrænna ríkja. Eðlilegast væri að kalla þau “skammtímaviðhorf”, því að þau fela nánast undantekningarlaust í sér stuðning við ríkjandi ástand og valdhafa hvers tíma.

Reagan Bandaríkjaforseti og Kissinger utanríkisráðgjafi voru á sínum tíma helztu talsmenn svokallaðrar “raunsæisstefnu” gagnvart harðstjórum úti í heimi. Þeir voru til dæmis sá Drakúla greifi, sem bjó til Frankenstein þann, sem við þekkjum sem Saddam Hussein.

Eftir innreið klerkaveldis í Persíu ákvað Bandaríkjastjórn að setja hald sitt og traust á Saddam Hussein í Írak til jafnvægis við klerkana í Persíu. Ekkert var hlustað á þá, sem sögðu, að það væri að fara úr öskunni í eldinn að halla sér að enn verri harðstjóra.

Í kjölfar Reagans og Kissingers sigldu svo vopnasalar Vesturlanda. Saddam Hussein átti olíupeninga eins og skít og keypti hvað sem var, einnig búnað til undirbúnings efna- og eiturhernaðar, svo og kjarnorkustyrjaldar. Þannig var vakinn upp sá draugur, sem nú er barizt við.

Reagan og Kissinger studdu einnig Suharto í Indónesíu, einn versta harðstjóra tuttugustu aldar. Bush hefur erft þá raunsæisstefnu, sem á eftir að verða Vesturlöndum dýr, þegar reikningar Indónesa við Suharto-gengið verða gerðir upp um síðir, líklega á þessum áratug.

Raunsæisstefnan stuðlaði einnig að stuðningi við helztu fúlmenni Suður- og Mið-Ameríku. Afleiðingin er auðvitað sú, að almenningur í þessum heimshluta lítur á Bandaríkin sem hið illa afl. Tjónið, sem Kissinger hefur valdið, verður seint mildað og hvað þá bætt upp.

Bush Bandaríkjaforseti er með fjölda uppvakninga á bakinu. Hann hefur persónulega lagt áherzlu á, að halda góðu sambandi við stjórnvöld í Kína og efla samskiptin við þau á nýjan leik eftir andartaks hlé, sem varð við blóðbaðið á Torgi hins himneska friðar árið 1989.

Meðan leikin var heimsveldaskák Bandaríkjanna og Sovétríkjanna höfðu hinir svokölluðu “raunsæismenn”, það er að segja “skammtímamenn” sér lélega afsökun í, að harðstjórarnir mundu halla sér að Sovétríkjunum, ef Bandaríkin veittu þeim ekki stuðning.

Þessi afsökun gildir ekki lengur, því að Sovétstjórnin er horfin frá taflborði heimsveldastefnu og einbeitir sér að kúgun innan eigin landamæra. Það er því liðin tíð að meiri og minni háttar Frankensteinar eigi sér öruggt skjól sem eins konar peð í alþjóðlegu valdatafli.

Stríðið við Persaflóa er alvarleg áminnig um gjaldþrot hinnar svokölluðu “raunsæisstefnu” í alþjóðamálum. Miklu nær væri að haga samskiptum Vesturlanda við stjórnir í öðrum heimshlutum í samræmi við stöðu þeirra á kvarða mannréttinda og lýðræðis.

Ef Vesturlönd hætta að moka peningum og vopnum í hvers konar harðstjóra, mun það fljótt leiða til stórkostlegrar sveiflu í átt til lýðræðis og mannréttinda.

Jónas Kristjánsson

DV

Stríðið gengur vel

Greinar

Gagnsókn bandamanna við Persaflóa gengur nokkuð vel, að minnsta kosti nógu vel til sigurs. Senn má búast við hernaði á landi, ef diplómötum tekst ekki að breyta hernaðarsigri í stjórnmálaósigur. Eina alvarlega hættan í ófriðnum er, að það bresti á með ótímabærum friði.

Víða um heim er verið að reyna að fá sleginn botn í stríðið á einhvern þann hátt, að valdahópurinn í kringum Saddam Hussein haldi stöðu sinni og geti farið að undirbúa nýtt stríð gegn nágrönnum sínum. Sovétstjórnin er fremst í flokki þeirra, sem að þessu vinna.

Tareq Aziz, utanríkisráðherra Saddams Hussein, var í Kreml í gær til að ræða undankomuleiðir. Gömul og ný reynsla segir, að orð hans binda ekki hendur Saddams Hussein. Utanríkisráðherrann er valdalaus sýningargripur, sem á að slá ryki í augu útlendinga.

Það væri sterkasti leikur Saddams Hussein í skákinni að lýsa yfir skilyrðislausri brottför herja sinna frá Kúvæt. Hann getur lýst yfir sigri og farið heim. Þá vandast hlutur bandamanna, ef óargadýrið liggur enn í greni sínu og bíður næsta færis til að kúga nágranna sína.

Vandinn felst meðal annars í, að ályktanir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna fjalla um, að ná megi Kúvæt úr klóm Saddams Hussein. Þær fjalla ekki um, að velta eigi honum og gengi hans úr sessi í Írak. En það er einmitt verkið, sem bandamenn mega til með að vinna.

Eftir því sem stríðið dregst á langinn, aukast friðarmöguleikar diplómata frá Sovétríkjunum og öðrum ríkjum, sem hyggjast gera sátt við Saddam Hussein eftir stríð. Þess vegna er mikilvægt, að í tæka tíð hefjist landhernaður bandamanna innan landamæra Íraks.

En herstjórar bandamanna verða að sjálfsögðu um leið að haga stríðinu á þann hátt, að hermenn bandamanna verði fyrir sem minnstu tjóni. Landhernaður leiðir til aukinnar hættu á notkun efna- og eiturvopna, nema stríðið hafi áður verið að mestu unnið úr lofti.

Hingað til hefur töfin verið í lagi. Ísrael hefur ekki verið flækt inn í stríðið og bandalagið milli Vesturlanda og íslamskra landa hefur ekki bilað. Aðeins fjórðungur fólks í íslömskum aðildarríkjum bandalagsins lýsir í skoðanakönnunum stuðningi við Saddam Hussein.

Í fyrsta skipti í hernaðarsögunni hefur loftárásum verið hagað af tillitssemi við íbúa landsins, sem árásunum er beint að. Má heita furðulegt, hversu vel bandamönnum hefur tekizt að koma í veg fyrir mannfall óbreyttra borgara í Írak. Undantekningar eru fáar.

Ekkert hefur enn komið fyrir, sem hindrar, að Vesturlönd og framfarasinnuð ríki íslams geti unnið friðinn að loknu stríði. Mestu máli skiptir, að lýðræðissinnuð öfl nái saman yfir múrinn milli vesturs og íslams og að reynt verði að koma af stað lýðræði í Írak.

Síðan verða Vesturlönd í sínum hópi að koma á fót virku eftirliti og takmörkunum á vopnasölu til harðstjóra í þriðja heiminum. Það er ófært, að Vesturlönd framleiði Frankensteina á borð við Saddam Hussein, sem síðan kostar blóðbað og morð fjár að losna við.

Þessa dagana verða herstjórar bandamanna að finna jafnvægi milli umhyggjunnar um velferð landhermanna sinna gagnvart efna- og eiturvopnum og hins hvikula almenningsálits í löndum íslams og á Vesturlöndum. Þeir þurfa fyrr en síðar að fara í stríð á landi.

Bandamenn eru núna hársbreidd frá sigri í stríðinu við Persaflóa. Mikilvægt er, að sigurinn fjari ekki út í diplómatískum millileikjum úr áhorfendapöllum.

Jónas Kristjánsson

DV

Með hindurvitni við hún

Greinar

Hindurvitni af ýmsu tagi hafa verið í mikilli sókn á íslenzkum markaði á undanförnum árum. Opnaðar hafa verið verzlanir á sviði hindurvitna og sett á fót fyrirtæki, sem halda námskeið á sama sviði. Allur pakkinn í heild hefur verið markaðssettur sem “nýöldin”.

Hvarvetna má sjá þess merki, að þetta er ekki lengur grín, heldur fúlasta alvara. Ráðherrar trúa á konur með svarta kassa eða álfa út úr hól. Fólk gengur með segularmbönd og kristalla. Það les framtíð sína úr stjörnum eða spilum, kindagörnum eða með samtölum við látna.

Sameiginlegt eiga öll þessi hindurvitni, að þau stríða eindregið gegn kristinni trú og vísindum nútímans. Það er eins og fólk hafi gert einhverjar þær kröfur til þessara tveggja höfuðstrauma vestrænnar hugmyndafræði, sem þeir hafa ekki getað staðið undir.

Forlagatrú er sterkur þáttur í mörgum greinum hindurvitna, svo sem skýrast kemur fram í stjörnuspekinni. Innhverf heimsmynd eða naflatrú er líka afar öflug og andstæð hinni opnu heimsmynd, sem kemur fram bæði í kristinni trú og í vísindum nútímans.

Þriðji þátturinn, sem er áberandi í ýmissi nýaldarhyggju, er hin gamla trú á stokka og steina, segulmátt og náttúruöfl. Í hindurvitnum nútímans er forn heiðni í rauninni að sækja fram að nýju gegn háþróuðum trúarbrögðum og ennþá þróaðri og flóknari vísindahyggju.

Bæði kristin kirkja og vísindin hafa snúizt til varnar. Hér á landi hefur þjóðkirkjan reynt, með takmörkuðum árangri, að vekja athygli á, hvílíkur grundvallarmunur er á kennisetningum hinna ýmsu kirkjudeilda kristninnar annars vegar og hindurvitnum hins vegar.

Íslenzkir vísindamenn hafa ekki hirt um að leggja í hliðstæða vinnu. Erlendis er þó reynt að skoða hindurvitni á vísindalegan hátt. Til er sérstakt tímarit, “The Sceptical Inquirer”, þar sem tekin hafa verið í gegn ýmis hindurvitni, sem markaðssett hafa verið.

Svo virðist sem Íslendingar séu sem þjóð hvorki eins kristnir og kirkjan æskir né eins upplýstir og vísindin æskja. Við erum óeðlilega móttækileg fyrir fornum hindurvitnum, ekki sízt ef þau eru markaðssett sem eins konar ný sannindi í eins konar “nýaldarhyggju”.

Halldór Laxness segir á einum stað um okkur: “Því hefur verið haldið fram, að Íslendingar beygi sig lítt fyrir skynsamlegum rökum, fjármunarökum varla heldur, og þó enn síður fyrir rökum trúarinnar, en leysi vandamál sín með því að stunda orðhengilsháttô.ô.ô.”

Þótt við höfum marga kosti, er áberandi, hve lítið mark er tekið á skynsamlegum rökum og rökum krist-innar trúar hér á landi. Ef eitthvað er sagt eða skrifað, eru viðbrögð manna ekki: “Hvað var sagt?”, heldur t.d.: “Hver sagði það?” og “Hvaða hvatir lágu að baki?”

Ef hagfræðingar rökstyðja rækilega, að háir vextir dragi úr verðbólgu, segir forsætisráðherra hið gagnstæða og stýrir þjóðfélaginu í samræmi við það. Ef ótal fræðimenn á mörgum sviðum rökstyðja sölu veiðileyfa á rækilegan hátt, er því svarað með skætingi.

Ef ótal fræðimenn rökstyðja rækilega, að þjóðin tapi um það bil tuttugu milljörðum á hverju ári á hinum hefðbundna landbúnaði, er því ekki svarað efnislega, heldur með útskýringum á sálarlífi þessara fræðimanna, illum hvötum þeirra og skorti á þjóðhollustu.

Þannig mótast viðhorf af hindurvitnum, hvort sem fjallað er um stjórn- og efnahagsmál eða um sannindi tilverunnar, hvort sem það er á sviði trúar eða vísinda.

Jónas Kristjánsson

DV

Þjóðarsátt um búvöru

Greinar

Samtök launþega og vinnuveitenda eru í þann veginn að taka á sig ábyrgð af herkostnaði þjóðfélagsins af nýjum búvörusamningi til sex ára, sem felur í sér aukin milljarðaútjöld ríksins til landbúnaðarins á hverju ári. Þetta er verðugur þáttur í minnisstæðri þjóðarsátt.

Forustumenn Alþýðusambandsins og Vinnuveitenda-sambandsins hafa áður þrammað úr Garðastræti niður á Lækjartorg til að taka þátt í landsstjórninni. Sællar minningar komu sömu menn á því kerfi húsnæðislána, sem nú er orðið gjaldþrota með elegans.

Þjóðarsáttin gengur út á frystingu fortíðarinnar og framlengingu hennar, þar á meðal frystingu lífskjara. Þess vegna er eðlilegt, að þjóðarsátt meginaðila vinnumarkaðarins nái einnig til frystingar og framlengingar á ríkisrekstri hins hefðbundna landbúnaðar.

Skiljanlegt er, að samstaða myndist meðal helztu afturhaldsafla landsins, það er að segja samtaka vinnumarkaðarins og landbúnaðarins. Þjóðarsáttin í heild er einmitt tilraun til að taka markaðslögmál úr sambandi og skipuleggja vandamálin í þess stað að ofan.

Þjóðarsáttin kemur til Íslands frá ítölsku fasistunum fyrir stríð og með milligöngu Framsóknarflokksins. Samkvæmt heimspeki eða hugmyndafræði þjóðarsáttarinnar er þjóðfélagið ein stór fjölskylda og jafnvel einn stór líkami, sem þarf að vinna saman í þjóðarsátt.

Sovétríkin, Albanía og Ísland sitja eftir í þessari hugmyndafræði, á sama tíma og Austur-Evrópa hefur ákveðið að fara hina leiðina, í átt til röskunar og markaðsbúskapar. Kvótar, búmark, fullvirðisréttur, skömmtun og tilskipanir eru hornsteinn íslenzka fasismans.

Í rauninni þurfa Íslendingar meiri röskun til að geta fylgt í humátt á eftir auðþjóðum heimsins. Við þurfum meiri fólksflutninga milli landshluta og milli atvinnugreina. Við þurfum líf í tuskurnar, en ekki doða og frystingu þjóðarsáttar og nýs búvörusamnings til sex ára.

Garðastrætisgengið getur haldið fram, að skárra en ella sé að gera búvörusamning, þar sem gert sé ráð fyrir beinum greiðslum til bænda í stað útflutningsbóta og niðurgreiðslna og þar sem gert sé ráð fyrir skipulegum, 3.800 tonna samdrætti í framleiðslu kindakjöts.

Verra er hins vegar, að þjóðarsátt þeirra gengur út á, að ríkið borgi einum milljarði meira á ári en það gerir samkvæmt gamla samningnum, sem rennur út á næsta ári. Þjóðarsátt um nýjan búvörusamning eykur því herkostnað þjóðarinnar af varðveizlu fortíðar.

Aðrar þjóðir hafa útgjöld til hermála, sem koma í veg fyrir, að lífskjör séu eins góð og þau gætu verið. Hinn hefðbundni landbúnaður kemur hér á landi í stað herkostnaðar í útlöndum. Hann kostar skattgreiðendur um átta milljarða króna á ári og neytendur tólf milljarða.

Svo virðist sem umbjóðendur stjórnenda Alþýðusambandsins séu hvorki skattgreiðendur né neytendur, úr því að verkalýðsrekendur eru í þann veginn að verða aðilar að þjóðarsátt um of háa skatta og of hátt verð á matvælum, samtals um tuttugu milljarða króna á ári.

Hver hagfræðingurinn á fætur öðrum hefur gert tilraun til að reikna herkostnaðinn og allir komizt að svipaðri niðurstöðu, um tuttugu milljörðum. Það er árlegur herkostnaður okkar af stuðningi við hefðbundinn landbúnað, þar á meðal innflutningsbann á búvöru.

Vonandi stuðlar þáttur Garðastrætisgengisins í nýjum búvörusamningi að skilningi fólks á þjóðhagslegri skaðsemi fortíðarvarðveizlu í formi þjóðarsáttar.

Jónas Kristjánsson

DV

Frestur er beztur

Greinar

Blönduvirkjun var upphaflega afsökuð með því, að við þyrftum að vera byrjaðir að virkja fyrir stóriðju til að geta farið út í tugmilljarða samninga á borð við þá, sem nú standa yfir milli Landsvirkjunar og Atlantals. Sjálfir höfum við ekkert að gera við orku frá Blöndu.

Samt var ekki gert ráð fyrir kostnaði við virkjun Blöndu, þegar reiknað var út, hvað mundi kosta að selja orku til álversins á Keilisnesi. Þeir, sem áður höfðu ýtt okkur út í þessa virkjun, sögðu, að Blönduvirkjun væri bara mistök, sem ekki mætti reikna upp á álverið.

Þetta minnir á aðferðir Vegagerðar þingmanna, þegar hún lætur fyrst undirbyggja vegi í strjálbýli, afskrifar svo framkvæmdirnar sem sagnfræðilega vitleysu úr þingmönnum og reiknar arðsemi í slitlagið eitt og sér, því að undirbyggingin hafi verið til á staðnum.

Landsvirkjun hefur alltaf þurft að hafa orkuver í smíðum, meðal annars til að halda uppi verkefnum fyrir fjölmennt starfslið. Hún hefur vanáætlað kostnað við allar virkjanir til að selja stjórnmálamönnum og almenningi hugmyndina um að láta reisa orkuverin.

Sigalda fór mjög langt fram úr áætlun. Hún átti að vera fremur ódýr, en samt kostar rafmagnið frá henni sem svarar 25 mills. Hún jafnast þó engan veginn á við Blöndu, sem er þegar komin 50% fram úr kostnaðar-áætlun, án þess að öll kurl séu komin til grafar.

Landsvirkjun er meðal annars búin að greiða meira en 700 milljónir króna í ýmsar skaðabætur til landeigenda á svæðinu. Fulltrúi þeirra er þingmaðurinn á Höllustöðum og stjórnarmaður Landsvirkjunar, sem nú er að semja við Atlantal til að koma Blöndu í rekstur.

Undirbúningur samninganna við Atlantal hefur verið sérkennilegur í meira lagi. Hann byrjaði með því að Landsvirkjun flutti vinnuskúra til Búrfells. Þetta óðagot sagði aðstandendum Atlantals, að þeir gætu verið harðir í samningum af því að okkur væri svo mikið mál.

Næst efndi Jón Sigurðsson orkuráðherra til mikils kapphlaups sveitarfélaga og samtaka sveitarfélaga á Suðurnesjum, í Eyjafirði og á Austurlandi um að bjóða niður lóð, höfn og aðra þjónustu hvert fyrir öðru, svo að Atlantal fengi sem hagstæðust kjör á Keilisnesi.

Síðan ritaði orkuráðherra í október á síðasta ári undir rammasamning, sem gerði ráð fyrir fremur litlum mengunarvörnum og allt of mikilli áhættu Íslendinga vegna tengingar orkuverðs við heimsmarkaðsverð á áli, án nokkurs verðlágmarks á innlendu orkunni.

Þegar farið var að rífast í þessum atriðum, fór forstjóri hins sænska Gränges í fýlu í sænska útvarpinu og hélt því fram, að íslenzkir þingmenn væru að klúðra málinu með sjálfsfremdarpoti og ósamlyndi. Sú fýla lýsir sér nú í sífelldum töfum á undirritun samnings.

Því miður tefst málið varla svo, að við missum af þátttöku í happdrætti, þar sem miðinn kostar 42 milljarða króna og vinningur er jafn ósennilegur og í hverju öðru happdrætti. Okkar menn þykjast þurfa að finna kaupanda að orkunni frá Blöndu, hvað sem það kostar.

Því miður er Atlantal ekki reiðubúið að greiða fyrir raforku það verð, sem við þurfum að fá til að standa undir virkjanakostnaði. Þetta neita samningamenn okkar að viðurkenna og hörfa því úr einu víginu í annað til að ná einhvers konar nauðungarsamningum.

Það er gott, að niðurstaða skuli frestast til hausts, því að alltaf er á meðan fræðilegur möguleiki á, að málið eyðist af sjálfu sér. Frestur er á illu beztur.

Jónas Kristjánsson

DV

Lögmálin gilda ekki

Greinar

Erlendis hafa tryggingafélög á sínum snærum svokallaða tryggingafræðinga. Það eru stærðfræðingar, sem reikna líkur á, að upp komi tilvik, er leiði til bótagreiðslna. Útreikningar tryggingafræðinganna endurspeglast síðan í misháum iðgjöldum eftir áhættu.

Svo virðist sem íslenzk tryggingafélög notfæri sér ekki slíka þjónustu. Mjög lítið er um, að þau bjóði viðskiptamönnum sínum misháar iðgjaldagreiðslur eftir áhættuflokkum. Sá, sem hefur eld- eða fokvarnir í lagi, borgar hið sama og hinn, sem ekki hefur það.

Í fárviðrinu um síðustu helgi kom enn einu sinni í ljós, að sum þök í landinu eru fest með hnykktum saum og jafn þétt og reglur mæla fyrir um. Önnur þök eru fest með lélegum saum og mun gisnar, til dæmis á rúmlega 100 sentímetra bili í stað 70 sentímetra bils.

Þetta skiptir ekki aðeins máli vegna tjónsins, sem verður á húsinu sjálfu. Þegar þakplötur fljúga um, valda þær tjóni á öðrum húsum og bílum, þannig að kostnaðurinn hleður utan á sig. Auk þess er mikil hætta á mannskaða, þótt svo hafi ekki orðið um helgina.

Í fárviðrinu um helgina kom líka í ljós, að skortur er á leiðbeiningum og stöðlum um frágang mannvirkja, einkum í sveitum landsins. Sum hús eru eins og spilaborgir, sem hrynja, ef þau gefa eftir á einum stað. Enginn aðili virðist halda uppi aga að þessu leyti.

Áður hefur komið fram, að tryggingafélög gera engan greinarmun á forvörnum, þegar þau gera upp tjón vegna bruna. Frægt er dæmið um Réttarhálsbrunann, þar sem brotnar höfðu verið flestar reglur, sem hægt er að brjóta. Og þannig hefur hvert frystihúsið brunnið af öðru.

Öll greidd tjón, sem stafa af slælegum forvörnum, hækka iðgjöld þeirra, sem hafa sín mál í lagi. Þess vegna verða iðgjöld hærri en þau þyrftu að vera og fæla fólk frá því að taka tryggingar á borð við húsa- eða foktryggingu. Málið verður að vítahring, sem skaðar alla.

Samkvæmt lögmálum markaðarins ætti þetta alls ekki að vera svona. Þau segja, að tryggingafélög eigi að hafa hag af, að viðskiptamenn þeirra hafi sína hluti í sem beztu lagi. Þess vegna eigi þau að bjóða upp á mishá iðgjöld eftir líkum á, að tjón hljótist.

Markaðslögmálin segja, að viðskiptamenn, sem standa andspænis misháum iðgjöldum, leitist við að ganga betur frá atriðum eins og eldvörnum og fokvörnum til að spara sér iðgjöld. Markaðslögmálin eiga að breyta vítahring í jákvæðan hring, sem allir græði á.

Lögmálin segja, að tryggingafélög séu í samkeppni um að fá sem flesta og bezta viðskiptamenn. Þess vegna muni þau bjóða mishá iðgjöld og hafa á sínum snærum skoðunarmenn, sem meti hið tryggða, svo sem hús, með tilliti til áhættu, svo sem af bruna eða foki.

Markaðslögmálin segja raunar, að ekki þurfi nein boð og bönn um frágang húsa, heldur eigi samkeppni tryggingafélaga að nægja til að hvetja húseigendur til að ganga þannig frá málum, að ekki hljótist af eldsvoðar eða foktjón. En lögmálin virka því miður ekki hér.

Forstjóri annarrar samsteypunnar, sem eru alls ráðandi á íslenzka tryggingamarkaðinum, sagði í viðtali við DV í fyrradag, að ekki væri hægt að flokka hús í mismunandi áhættuflokka. Á íslenzku þýðir þetta, að hann nennti ekki að flokka hús eftir áhættu.

Hann nennir ekki að flokka hús eftir áhættu, af því að markaðslögmálin gilda ekki hér á landi að þessu leyti, vegna þess að tryggingafélögin eru of fá.

Jónas Kristjánsson

DV

Dregið í land

Greinar

Ríkisstjórn okkar er komin á fremur óvirðulegan flótta undan ákvörðuninni um að taka upp stjórnmálasamband við Litháen. Forsætisráðherra fer undan í flæmingi, ef minnzt er á Litháen, og utanríkisráðherra missti skyndilega málið, aldrei þessu vant.

Ríkisstjórnin virðist um síðir hafa fundið þann hundalógíska millileik í stöðunni, að Jeltsín Rússlandsforseti þurfi fyrst að viðurkenna Litháen fyrir hönd Rússlands, svo að Ísland geti siglt í kjölfarið. Hún vill heldur stunda sporgöngu en forgöngu í málinu.

Steingrímur Hermannsson hefur flest á hornum sér, þegar minnzt er á þá frelsissinna, sem flokksbróðir hans, Páll Pétursson þingflokksformaður, kallaði “mótþróalið” fyrir einu ári. Þeir félagar þykjast enn hafa hald-reipi í, að Danmörk viðurkenndi Litháen árið 1922.

Fyrir tæplega sjö áratugum tóku dönsk stjórnvöld ákvarðanir fyrir okkar hönd, því að við vorum þá undir dönsku krúnunni. Viðurkenningin frá 1922 var fyrst og fremst dönsk viðurkenning, ekki íslenzk. Og meira eða minna fallin úr gildi eftir marga ónotaða áratugi.

Forsætisráðherra spyr, hvað Sovétríkin geti gert okkur, ef við fylgjum sannfæringu okkar í málum Eystrasaltsríkjanna. Hann spyr til dæmis, hvort Sovétríkin muni slíta stjórnmálasambandi við Ísland. Verður sendiherra okkar rekinn frá Moskvu? Og svo framvegis.

Hugsanlegur mótleikur í þeirri stöðu er að óska eftir stjórnmálasambandi við Rússland og fela sendiherra okkar í Moskvu að undirbúa slíkt samband. Ef sendiherrann verður samt rekinn, getum við altjend losnað við sovézka sendiráðið hér og væri það landhreinsun.

Ef sovétstjórnin sliti stjórnmálasambandi við Ísland, mundi vegur okkar fremur en hitt vaxa á alþjóðlegum vettvangi. Og þar á ofan yrði minni hætta en ella á viðskiptum við Sovétríkin, sem yrðu okkur skaðleg, því að þau munu lítið eða ekkert borga á næstu árum.

Ömurlegust er sú kenning forsætisráðherra, að Litháar séu svo vitgrannir, að þeir viti ekki sjálfir, hvað sé þeim fyrir beztu, enda hafi hann orð sænskra stjórnvalda fyrir því, að þau telji varhugavert og raunar jafnvel skaðlegt að viðurkenna Litháen að svo stöddu.

Stundum er talað um, að börn og unglingar viti ekki, hvað þeim sé sjálfum fyrir beztu. En stjórnmálamenn ættu að fara varlega í að tala á svo móðgandi hátt um erlendar þjóðir, svo sem Steingrímur Hermannson hefur gert í blaðaviðtölum og haft af lítinn sóma.

Hér í blaðinu hefur verið bent á, að Ísland og Litháen geti skipzt á formlegum nótum um tvö mikilvæg og brýn atriði. Í fyrsta lagi, að viðurkenningin frá 1922 sé enn í gildi. Og í öðru lagi, hvernig standa skuli að verklegri endurnýjun hennar gagnvart hersetnu ríki.

Íslendingar hafa fengið ótímabært hrós í erlendum fjölmiðlum fyrir að ganga fram fyrir skjöldu í stuðningi við Litháen og önnur Eystrasaltsríki, á sama tíma og Finnar og Svíar hafa fengið skömm fyrir að gera það ekki. Og orðstír okkar verðum við að varðveita.

Vont er, ef ríkisstjórnin ætlar að hlaupast undan merkjum, eftir að hafa farið vel af stað, knúin almenningsáliti Íslendinga. Þá er verr af stað farið en heima setið. Menn verða að hafa innri kraft til að standa við sín góðu áform og leggjast ekki í ósæmilegt undanhald.

Viðurkenning Litháens er óbein ítrekun réttar íslenzku þjóðarinnar til eigin sjálfstæðis. Hún er óbein staðfesting á okkar tilverurétti í eigin þjóðríki.

Jónas Kristjánsson

DV

Vanhirtar almannavarnir

Greinar

Fárviðrið á sunnudaginn sýndi, að Íslendingar eru vel skipulagðir til átaka. Björgunarsveitir slysavarnamanna, skáta og flugbjörgunarmanna hafa á að skipa hundruðum tiltölulega þjálfaðra og vel búinna manna, sem hér gegna hlutverki eins konar heimavarnaliðs.

Með aðstoð iðnaðarmanna og sjálfboðaliða tókst björgunarmönnum að hefta skaðsemi fárviðrisins. Víða lögðu þessir menn sig í hættu, til dæmis á húsþökum. Almennt var sýnt æðruleysi og framtak, án þess að björgunarmenn yrðu fyrir alvarlegum meiðslum.

En margt er í ólagi hjá okkur, þegar frá er skilinn þáttur björgunarsveita og starfsliðs veitustofnana af ýmsu tagi. Einkum eru forvarnir okkar í ólagi, svo sem bezt kemur í ljós af loftárásum bárujárnsplatna, sem eru árviss þáttur í fárviðri af þessu tagi.

Húsbyggjendur, húsasmiðir og húseigendur þurfa að hafa handbærar tæknilegar upplýsingar um, hvernig ganga skuli frá þökum og þakplötum á þann hátt, að standist fárviðri. Þessa vitneskju ber stjórnvöldum að birta mönnum í bæklingum og á námskeiðum.

Afleitt er, að nýleg hús skuli vera hættuleg umhverfi sínu, þrátt fyrir reynslu fyrri ára af þörfinni á að ganga vel frá húsþökum. Líklega þarf að koma þeirri reglu á, að með úttekt eftirlitsaðila á vönduðum frágangi geti húseigendur fengið afslátt af foktryggingum.

Tryggingafélögin hafa sofið á verðinum í þessu máli sem ýmsum öðrum. Þau veita til dæmis ekki heldur afslátt af tryggingum þeirra, sem hafa brunavarnir í lagi, en borga eigi að síður tjón hinna, sem hafa allt í ólagi. Þannig stuðla tryggingafélögin að slóðaskap.

Einnig er mikilvægt, að línur og tengistöðvar Landsvirkjunar og helztu rafveitna í þéttbýli séu hannaðar og reistar á þann hátt, að minni líkur séu en núna á, að rafmagn fari af í fárviðri. Svo virðist sem álagsstaðlar séu of lágir miðað við aðstæður hér á landi.

Rafmagnið er sérstaklega mikilvægt, af því að svo margt annað mikilvægt er háð því, svo sem örbylgjustöðvar útvarps og hitaveitur, svo og frystigeymslur fiskvinnslustöðva. Með vandaðri frágangi á línum og tengistöðvum á að vera unnt að draga úr vandræðum.

Þar á ofan er æskilegt, að fleiri mannvirki en núna séu með olíukyntar vararafstöðvar. Það gildir einkum um framangreindar örbylgjustöðvar, hitaveitur og frysti-geymslur. Bezt væri að hafa sem víðast olíukyntar toppstöðvar á innanbæjarkerfum og hverfiskerfum.

Eitt allra mikilvægasta öryggisatriðið er, að þjóðin auki olíubirgðir sínar úr þriggja mánaða notkun í heils árs birgðir. Við þurfum að vera búin undir olíuskort vegna atburða í útlöndum ofan á okkar eigin vandamál af eldgosum, jarðskjálftum og fárviðrum.

Ekki er hægt að ætlast til, að einstakar stofnanir á borð við Ríkisútvarpið verji miklu af eigin aflafé til að bæta almannavarnir í landinu. Þjóðfélagið þarf að taka pólitíska afstöðu til að fjármagna öryggi sitt með sérstöku framlagi til landvarna á fjárlögum hvers árs.

Þjóðin hefði nóga peninga úr ríkissjóði, ef hún neitaði sér um að leggja árlega marga milljarða til að styrkja hefðbundinn landbúnað með uppbótum, niðurgreiðslum, styrkjum og innflutningsbanni. Þessi þáttur kostar okkur eins mikið og landvarnir kosta aðrar þjóðir.

Sá þáttur almannavarna, sem snýr að björgunarstarfi sjálfboðasveita, er í góðu lagi hjá okkur. Forvarnir ríkis og sveitarfélaga eru hins vegar í vanhirðu.

Jónas Kristjánsson

DV

Mannréttindaeinkunn

Greinar

Bandaríkjastjórn hefur sent Þýzkalandsstjórn lista yfir rúmlega 100 þýzk fyrirtæki, sem hafa reynt að rjúfa bann Sameinuðu þjóðanna á viðskiptum við Írak. Svipaðir listar hafa borizt ýmsum öðrum ríkisstjórnum og sýna vel, hve erfitt er að hemja öfgamenn í kaupsýslu.

Saddam Hussein varð ekki hjálparlaust að skrímslinu, sem hann er nú. Sovétríkin byggðu hann upp, þegar Bandaríkin voru í bandalagi við keisarann í Persíu. Eftir valdatöku erkiklerka í Persíu varð Saddam Hussein að gæludýri Bandaríkjanna og Vestur-Evrópu.

Töluverður hluti af áþján mannkyns stafar annars vegar af aðgerðum vopnasala á borð við Bofors í Svíþjóð og aðgerðum misheppnaðra utanríkisfræðinga á borð við Kissinger í Bandaríkjunum. Slíkir aðilar hafa víðs vegar vakið upp drauga á borð við Saddam Hussein.

Kalda stríðið milli austurs og vesturs hefur auðveldað líf harðstjóra. Þeir hafa hallað sér að öðru heimsveldinu eða hótað að styðja sig við hitt. Þeir hafa teymt utanríkisfræðinga og ríkisstjórnir heimsveldanna á asnaeyrunum og komið sér upp ógrynni vopna í skjóli þeirra.

Sumir harðstjórar eru ekki mikið skárri en Saddam Hussein. Dæmi um slíkan er Suharto Indónesíuforseti, sem er einn mesti fjöldamorðingi síðustu áratuga. Hann hefur blómstrað í skjóli Bandaríkjanna og nýtur meira að segja stjórnmálasambands við fjarlægt Ísland.

Suharto hefur stundað hliðstæða landvinninga og Saddam Hussein með öllu meiri manndrápum og heldur minni pyndingum. Að auki er hann sjálfur einn mesti stórþjófur síðustu áratuga, næst á eftir Marcosi Filippseyjaforseta, sem var amerískur skjólstæðingur.

Nú hafa Sovétríkin horfið af velli heimsmálanna. Sovétstjórnin er önnum kafin við vonlausa viðleitni til að halda saman sjálfu ríkjasambandinu innan landamæranna og hefur enga orku aflögu til að etja kappi við Bandaríkjastjórn á alþjóðlegum vettvangi.

Um þessar mundir er því aðeins eitt heimsveldi. Og á sama tíma sker einn harðstjórinn sig úr í landvinningum og hroðalegu stjórnarfari. Þess vegna gat heimsveldið, sem eftir var, náð saman alþjóðlegu samkomulagi um að senda á vettvang fjölþjóðaher bandamanna.

Þetta tækifæri þurfa stuðningsmenn stofnskrár og mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna að nota til að krefjast breyttra vinnubragða í samskiptum vesturs við ríki íslams og þriðja heimsins. Hér eftir verður að gera kröfur til þeirra, sem eru í bandalagi við vestrið.

Hugmyndafræði stofnskrár og mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna hefur skyndilega sigrað í Austur–Evrópu. Hún hefur einnig skotið rótum utan hins vestræna menningarheims, svo sem í Japan, Indlandi og Botswana. Hún er ekkert vestrænt einkamál.

Talsmenn harðstjóra íslams og þriðja heimsins hafa linnulaust reynt að sannfæra Vesturlandabúa um, að vestrænt lýðræði henti ekki í þeirra menningarheimi. Harðstjórafræðingur Morgunblaðsins skrifaði árið 1973, að “hæfilegt einræði” hentaði Grikkjum bezt!

Staðreyndin er hins vegar sú, að lýðræði hentar almenningi um allan heim, þar á meðal í svörtu Afríku og í löndum íslama. Í stefnu utanríkisviðskipta og hergagnaviðskipta við þriðja heiminn og heim íslams verða Vesturlönd nú að fara að gera mannréttindakröfur.

Bezt væri að fela Amnesty og skyldum samtökum að mæla mannréttindi ríkja eftir einkunnaskala og haga samskiptum við ríkin með hliðsjón af einkunninni.

Jónas Kristjánsson

DV

Lýðræði hentar íslam

Greinar

Styrjöldin við Persaflóa markar tímamót í hinni sálrænu kreppu, sem í vaxandi mæli hefur einkennt heim araba og íslams. Þar togast á hatur á Vesturlöndum og dálæti á afurðum Vesturlanda, svo sem hergögnum, öðrum tæknibúnaði, verkfræði og læknisfræði.

Afurðir Vesturlanda verða ekki skildar frá hugmyndaheiminum að baki. Ef vestræn tækni og vísindi henta fólki í heimi íslams og í þriðja heiminum, er óhjákvæmilegt, að vestræn valddreifing og lýðræði hentar því einnig, alveg eins og kom í ljós í Austur-Evrópu.

Þessu þjóðskipulagi er bezt lýst í stofnskrá og mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Vesturlönd fara í stórum dráttum eftir þessu, svo og ýmis ríki í Suður-og Austur-Asíu, Kyrrahafi og Suður-Ameríku. Ríki íslams og þriðja heimsins gera það hins vegar ekki.

Í löndum íslams eru margir, sem átta sig á, að fólk er þar ekki allt öðruvísi en annað fólk. Það getur nýtt sér kosti lýðræðis, ef upp á það er boðið. Það vill kjósa, skipta um valdhafa, búa við upplýsingafrelsi og skoðanafrelsi og frelsi gegn geðþótta valdamanna.

Sum ríki íslams hafa fetað þessa vestrænu slóð. Tyrkland er orðið að hálf-evrópsku ríki, sem vantar bara herzlumuninn að verða tækt í Evrópuráðið. Lýðræði er skemmra á veg komið í Egyptalandi, en þó er þar töluvert málfrelsi og frelsi til að kjósa til þings.

Yfirstéttin í mörgum löndum íslams reynir að halda uppi svipaðri skoðun og yfirstéttin í þriðja heiminum gerir, þeirri, að vestrænt lýðræði henti ekki sínu fólki. Þessu heldur yfirstéttin fram til að koma í veg fyrir eða tefja aðstöðujöfnunina, sem fylgir vestrænu lýðræði.

Búin hefur verið til ímynd hins sjúklega barnalega araba, sem telur miðaldaklerka á borð við Khomeini erkiklerk og sterka fjöldamorðingja á borð við Saddam Hussein vera leiðtoga lífs síns. Þessi ímyndaði íslami er til, en er engan veginn hinn dæmigerði íslami.

Þrátt fyrir trúarbrögð og sögu arabískra þjóða, er ekkert, sem bannar, að fólk vilji þar vera laust við ofsóknir hers og lögreglu; geti tjáð sig óttalaust; sé ekki hrætt við að fá upplýsingar utan úr hinum stóra heimi, og vilji sjálft kjósa og fella eigin valdhafa.

Ef Saddam Hussein sleppur út úr stríðinu við Persa-flóa án þess að hrekjast frá völdum, munu eflast sjónarmið, sem blunda víða undir niðri í ríkjum íslams. Þá mun þessi heimshluti stofna í hættu hugmyndaheiminum á bak við margnefndan mannréttindasáttmála.

Þá mun stjórnarfar í ríkjum íslams færast nær stjórnarfari í Írak. Á tindinum verður harðstjóri, sem treður á mannréttindum. Efnahagslífið verður ríkisrekið og máttvana. Í utanríkismálum verða þessi ríki til miklu meiri vandræða en Sovétríkin voru til skamms tíma.

Ef Saddam Hussein verður hins vegar gersigraður með aðstoð Egypta og Tyrkja, munu um allan heim íslams eflast þau sjónarmið, að vestrænt valddreifingarkerfi henti þar eins og í Austur-Evrópu. Slíkur sigur mun vekja íslama til vitundar um, að 21. öldin nálgast.

Ef Persaflóastríðinu lýkur með algerum sigri bandamanna, er stigið fyrsta skrefið í átt til þess að vinna friðinn, sem verður þrautin þyngri. Vesturlönd verða þá að hjálpa nútímasinnuðum aröbum og íslömum að vinna stríðið um hugi fólksins á þessum slóðum.

Ef stríðinu lýkur hins vegar með eins konar málamiðlun, má búast við vaxandi erfiðleikum í alþjóðlegum samskiptum á næstu árum og atómstríði fyrir rest.

Jónas Kristjánsson

DV

Friðardúfur baka ófrið

Greinar

Þótt mikill meirihluti Íslendinga sé samþykkur hernaði bandamanna við Persaflóa, er hér fjölmennur minnihluti, sem er andvígur þessum hernaði. Hér, eins og annars staðar á Vesturlöndum, hafa hópar manna undirritað skjöl um þetta efni og sótt útifundi.

Ein algengasta orsök þessa sjónarmiðs er óbeit manna á manndrápum. Margir ganga svo langt að segja, að stríð sé aldrei réttlætanlegt, ekki frekar en dauðarefsing. Þessi skoðun nýtur stuðnings af þeim anda í kristinni trú, sem segir, að sælir séu friðflytjendur.

Vestræn menning á sér tvær meginrætur, annars vegar í kristni og hins vegar í grískri klassík. Smám saman hafa Vesturlönd komið sér upp leikreglum, sem byggðar eru á þessum forna grunni. Í þeim leikreglum er meira rými fyrir flutning á friði en dauða.

Innan hvers vestræns ríkis gilda lög og reglur, sem stefna að mannréttindum og lýðréttindum. Milli ríkja gilda hliðstæðar reglur, sem bezt og skýrast hafa verið settar fram í stofnskrá og mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þær eru hástig vestræns þjóðfélags.

Um leið og fólk, þjóðir og ríki verða færari um að leysa samskipti sín inn á við án ofbeldis, verða þessir aðilar verr í stakk búnir að mæta valdbeitingu að utan. Vesturlönd eru orðin veikgeðja í háþróun sinni. Þau eru tæpast fær um að verja sinn eigin grundvöll.

Þótt allur þorri ríkisstjórna í heiminum taki þátt í Sameinuðu þjóðunum og styðji þar með í orði hinar vestrænu hugmyndir, sem lýst er í stofnskrá og mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna, er fjarri því, að þær taki nokkuð mark á þeim fyrir sitt leyti.

Verra er, að margir harðstjórar fyrirlíta Vesturlönd einmitt fyrir hugmyndafræðina að baki stofnskrá og mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þeir telja, að Vesturlönd séu að breytast í pappírstígrisdýr. Saddam Hussein trúði því og hóf því landvinningastríð.

Hann misreiknaði sig. Í ljós kom, að Bandaríkin höfðu í sér innri kraft til að efna til hernaðarbandalags gegn honum og hefja gagnsókn, sem jafngildir yfirlýsingu til annarra harðstjóra heimsins um, að þeir eigi ekki að flytja illmennsku sína út fyrir landamærin.

Þar á ofan eru sérstakar aðstæður, sem gera Vestur-löndum kleift að grípa til vopna undir forustu Bandaríkjanna, þótt þau treysti sér ekki til að verja Eystrasalts-lönd. Þau leggja einfaldlega í Saddam Hussein, af því að hann er kjörinn óvinur og er þar á ofan minni máttar.

Friðflytjendur á Vesturlöndum eiga óbeinan þátt í stríðinu við Persaflóa. Það eru þeir, sem hafa fengið Saddam Hussein til að halda, að hann komist upp með landvinninga sína. Sá, sem boðar skilyrðislausan frið, er nytsamur sakleysingi, sem sogar að sér ófrið.

Friðardúfur og nytsamir sakleysingjar eiga mikla sök á því, að kalda stríðið framlengdist áratug eftir áratug. Löngu eftir að Sovétríkin voru orðin aðframkomin í efnahagsmálum, héldu foringjar þeirra áfram að leita leiða til að ná tökum á lingeðja Vesturlöndum.

Enn eru friðflytjendur að grafa undan vestrænum hugsjónum. Þeir halda mótmælafundi og skrifa undir mótmælaskjöl gegn hernaði bandamanna við Persaflóa. Þeir fara í skólana og hræða börnin gegn stríði. Þeir vilja, að komandi kynslóðir hafni stríði algerlega.

Hugsjónir mannréttinda munu hrynja, nema fylgismenn þeirra geti gripið til vopnaðra varna, þegar friðflytjendur hafa bakað okkur ófrið af hálfu harðstjóra.

Jónas Kristjánsson

DV

Ráðherra ræktar spillingu

Greinar

Ólafur Ragnar Grímsson fjármálaráðherra er ekki sammála Ríkisendurskoðun, sem segir, að hann hafi átt að gæta betur hagsmuna ríkissjóðs við sölu Þormóðs ramma á Siglufirði. Fjármálaráðherra hefur raunar aldrei verið sammála gagnrýni, sem hann hefur sætt.

Fjármálaráðherra var ekki heldur sammála Ríkisendurskoðun á sínum tíma, þegar hún átaldi hann fyrir að gefa eftir opinber gjöld Tímans og Svarts á hvítu, þegar hann gekk sem harðast fram í að loka fyrirtækjum, sem ekki voru í sömu stjórnmálanáð og þessi tvö.

Fjármálaráðherra er auðvitað ekki heldur sammála Umboðsmanni alþingis, sem hefur látið fara frá sér óþægilegar álitsgerðir, sem ráðherrann telur sína menn ekki hafa tíma til að svara. Ráðherrann hefur reynt að fá Alþingi til að draga úr fjárveitingum til umbans.

Næst má búast við, að fjármálaráðherra geri tilraun til að fá Alþingi til að minnka fjárveitingar til Ríkisendurskoðunar eins og Umboðsmanns. Það væri í stíl við fyrri vinnubrögð hans á því sviði. Hann er afar ósáttur við, að stofnanir Alþings kássist upp á ráðherra.

Fjármálaráðherra seldi Þormóð ramma til alþýðubandalagsmanna án þess að gæta jafnræðissjónarmiða. Hlutabréfin voru aldrei auglýst formlega til sölu. Þess vegna voru ekki heldur til neinir almennir útboðsskilmálar, sem allir lysthafendur ættu að fara eftir.

Verðgildi hlutabréfa finnst aðeins á þann hátt, að þau séu boðin til frjálsrar sölu með opinberlega birtum skilmálum, svo að allir geti boðið í þau á sömu forsendum. Verðgildi hlutabréfa finnst ekki í deilum milli endurskoðenda um, hvaða reikningsaðferðir séu beztar.

Stjórnmálaandstæðingar ráðherrans á Norðurlandi vestra hafa vakið athygli á, að verðmæti aflans í vinnslu hjá Þormóði ramma væri eitt út af fyrir sig meira en allar skuldir fyrirtækisins, auðvitað fyrir utan eign þess á þremur togurum og fiskiðjuverinu á Siglufirði.

Endalaust má svo deila um, hvort endurskoðunarreglur séu réttari hjá Þormóði ramma eða Ríkisendurskoðun. Þær eru samt ekki kjarni málsins. Hann felst í, að ráðherra vék sér undan því að láta fyrirtækið í sölu á frjálsan, opinn og almennan jafnræðismarkað.

Fjármálaráðherra tók fram, að Ríkisendurskoðun væri ekki dómstóll, þegar hún amaðist við, að hann skyldi strika út opinber gjöld Tímans og Svarts á hvítu. Það er út af fyrir sig rétt, en er þó haldlítið, því að í báðum tilvikum var mismunað með ráðherravaldi.

Þegar fjármálaráðherra víkur átta milljónum að einu gæludýri flokks síns, 23 milljónum að öðru og meira en hundrað milljónum að hinu þriðja, getur hann auðvitað í hvert skipti útvegað sér langsótta útúrsnúninga, sem hann teflir fram gegn athugasemdum eftirlitsmanna.

Þegar fjármálaráðherra hélt flokksbræðrum sínum fræga veizlu í Ráðherrabústaðnum, sagði hann, að veizlan hefði verið haldin til að fagna sigri Íslendinga í landhelgisdeilunni, sem vannst tíu árum áður en veizlan var haldin og var ekkert einkamál Alþýðubandalagsins.

Ólafur Ragnar Grímsson er ekki einn um misbeitingu ráðherravalds, þótt hann gangi fram í því af óvenjulegum ofstopa. Misbeiting ráðherravalds er svarti bletturinn á íslenzka lýðveldinu og minnir mjög á þriðja heiminn. Þormóður rammi er bara hluti þessarar harmsögu.

Íslendingum er minnkun að því sem sjálfstæðri þjóð að hafa ekki komið upp viðskiptaháttum, sem þrengja að svigrúmi ráðherra til ræktunar á spillingu.

Jónas Kristjánsson

DV