Author Archive

Nýtt fordæmi í Madrid?

Greinar

Samkvæmt alþjóðalögum er hernámsríki óheimilt að reka íbúa af hernumdum svæðum og ennfremur er því óheimilt að nema land á slíkum svæðum. Á hernumdum svæðum Palestínu hefur Ísraelsríki brotið báðar þessar lagagreinar, síðari lagagreinina mjög gróflega.

Æskilegt er, að þessi staðreynd verði í sviðsljósi í tengslum við friðarráðstefnu Miðausturlanda, sem Bandaríkin hafa með stuðningi Sovétríkja boðað til í Madrid á Spáni. Einnig er mikilvægt, að tækifærið verði notað til að minna á hryðjuverk Ísraels í Palestínu.

Framferði Ísraelsríkis á hernumdum svæðum Palestínu má ekki verða að fordæmi annars staðar, þar sem hliðstæð vandamál geta magnazt vegna þjóðernis- eða trúardeilna, svo sem á þeim svæðum, sem við höfum lengi þekkt undir nöfnunum Sovétríkin og Júgóslavía.

Rússneskir og serbneskir yfirgangsmenn fylgjast vel með gangi mála. Ráðamenn í Rússlandi hafa gert tilkall til landsvæða í öðrum löndum, þar sem Rússar búa, svo sem í Úkraínu. Vegna hneykslunar að vestan hefur þessi krafa verið látin niður falla að sinni.

Serbía hefur komizt upp með að reyna landvinninga í Króatíu, á þeim forsendum, að þar búi mikið af Serbum. Ráðamenn Vesturlanda hafa reynt að benda Serbum á, að þeir komist ekki upp með þetta, en Serbíuforseti og sambandsher Júgóslavíu ekki viljað trúa.

Stefna Serbíuforseta og Júgóslavíuhers er að hrekja Króata burt af hernumdu svæðunum, svo að þar séu Serbar einir eftir. Ætlunin er að neyða Vestur-Evrópu til að sætta sig við orðinn hlut, þegar setzt verður í alvöru við samningaborð að loknum landvinningum.

Meðal ríkja heims er mikil andstaða við tilraunir af þessu tagi til að breyta landamærum, hvort sem það eru ytri landamæri eða innri landamæri í ríkjasambandi. Sem dæmi má nefna, að ríkjum Rómönsku Ameríku hefur að mestu tekizt að útrýma landamæraerjum.

Þótt Afríka hafi lengi verið eitt mesta ófriðarbæli heims, hefur verið þar nokkuð góð samstaða um, að landamæri séu heilög. Undantekningar á því hafa verið fáar og ekki náð fram að ganga. Dæmi um það er misheppnuð tilraun Líbýu til þenjast til suðurs.

Ísraelsríki hefur tekizt að nema land á hernumdum svæðum í Palestínu í skjóli Bandaríkjanna, þrátt fyrir alþjóðalög og alþjóðahefðir. Þetta hefur stuðlað að réttmætri einangrun ríkisins á alþjóðavettvangi og valdið Bandaríkjunum erfiðleikum í vestrænni samvinnu.

Um langt skeið hafa Bandaríkin haldið Ísraelsríki fjárhagslega á floti. Þau hafa líka að meira eða minna leyti kostað flutning fólks frá Sovétríkjunum til Ísraels. Þessir fjármunir hafa að hluta, beint og óbeint, verið notaðir til ísraelsks landnáms á hernumdu svæðunum.

Palestínumenn eiga undir högg að sækja vegna stuðnings þeirra við Saddam Hussein Íraksforseta. Þeir verða látnir gjalda þess á friðarfundunum í Madrid, þar sem yfirvöld í mörgum arabaríkjum eru meira á móti stjórn Saddams Hussein en þau eru á móti stjórninni í Ísrael.

Þess vegna eru horfur á, að alþjóðalög og alþjóðahefðir nái ekki fram að ganga á fundunum í Madrid. Það mun draga úr gildi slíkra laga og hefða og hafa slæm áhrif á alla þá sem áhuga hafa á að beita hryðjuverkum og ofbeldi til útþenslu í stíl Ísraels í Palestínu.

Bandaríkin, betlandi Sovétríki, Ísrael og örfá ólýðræðisleg arabaríki eru ekki réttir aðilar til að rjúfa lög og staðfesta árangur af yfirgangi Ísraels í Palestínu.

Jónas Kristjánsson

DV

Fríverzlunarsigur í nótt

Greinar

Gott er samkomulagið, sem tókst í nótt milli Efnahagsbandalagsins og Fríverzlunarsamtakanna. Það er svipaðs eðlis og óformlega samkomulagið, sem náðist næstum því á fundum þessara sömu aðila í júní í sumar og Efnahagsbandalagið gat þá ekki staðið við.

Tollfrelsi á saltfiski og ferskum flökum næst hægar en gert var ráð fyrir í sumar. Niðurstaðan verður þó í stórum dráttum hin sama. Hún felur í sér, að Ísland þarf ekki að gera ráðstafanir til að beina útflutningi sínum í aðrar áttir en til hins auðuga Evrópumarkaðar.

Ef Ísland hefði verið skilið eftir á lokaspretti viðræðnanna um evrópskt efnahagssvæði, hefðum við orðið að beina útflutningi okkar meira til Bandaríkjamarkaðar, sem gefur minna af sér, og til Japansmarkaðar, sem hefði þurft að byggja upp með ærnum sölukostnaði.

Samkomulagið í nótt leiðir af sér, að Ísland verður hluti hins frjálsa Evrópumarkaðar. Landið mun dragast nær Evrópu í viðskiptum. Það er fjárhagslega hagkvæmt, því að Evrópa er markaðurinn, sem borgar mest fyrir flestar vörurnar, sem við höfum að bjóða.

Samt þurfum við ekki að veita erlendum aðilum meiri aðgang að atvinnulífi landsins en lög gera þegar ráð fyrir. Við þurfum ekki að veita erlendum aðilunum neinar umtalsverðar veiðiheimildir í auðlindalögsögu landsins. Við erum eins frjáls og við vorum áður.

Þetta er heilbrigður samningur í anda Fríverzlunarsamtakanna. Hann fjallar um frelsi í viðskiptum, en ekki um afsal landsréttinda. Hvað okkur snertir er hann víkkun á hugsuninni, sem felst í viðskiptasamningnum, er við höfðum áður gert beint við Evrópubandalagið.

Af því að þetta er fríverzlunarsamningur þurfum við ekki að hefja innanlandsdeilur um, hvort við eigum að sækja um aðild að Evrópubandalaginu. Samningurinn veldur því, að við þurfum ekkert á slíkri aðild að halda, því að við höfum fríverzlunina, sem skiptir okkur máli.

Ef Ísland hefði verið skilið eftir á fundinum í nótt, hefðu óhjákvæmilega hafizt hér á landi heitar deilur milli þeirra, sem vildu beina aðild að Evrópubandalaginu og hinna, sem höfnuðu slíkri aðild. Nú þarf þjóðin ekki að kljúfa sig í herðar niður í slíkum deilum.

Flestar aðrar þjóðir Fríverzlunarsamtakanna líta á samninginn um evrópskt efnahagssvæði sem formála að fullri aðild sinni að Evrópubandalaginu. Við lítum hins vegar á hann sem endastöð. Hér á landi er enginn jarðvegur fyrir beina aðild að Evrópubandalaginu.

Þótt allar þjóðir Evrópu gangi um síðir í Evrópubandalagið, þurfum við ekki að gera það, úr því að við höfum náð fríverzlun. Við getum haldið áfram að rækta viðskiptafrelsi okkar til annarra átta, svo sem Bandaríkjanna og sérstaklega Japans, sem er framtíðarmarkaður.

Þeir, sem hafa unnið fyrir Íslands hönd að samningum um evrópskt efnahagssvæði, hafa staðið sig mjög vel. Þeir hafa ekki látið taka sig á taugum, þótt samningamenn Evrópubandalagsins hafi beitt þeirri tækni til hins ýtrasta og gjarna leikið sér á yztu nöf.

Þeir, sem hafa unnið fyrir Íslands hönd að samningunum, hafa metið rétt, að Evrópubandalagið mundi bila á síðustu stundu, þegar fulltrúar þess væru búnir að fullvissa sig um, að ekki væri unnt að kreista kúna meira. Íslendingar létu aldrei bugast í pókernum.

Aðild okkar að evrópsku efnahagssvæði felur fyrst og fremst í sér aukið tollfrelsi. Hún felur ekki í sér afsal landsréttinda. Þetta er fríverzlunarsigur.

Jónas Kristjánsson

DV

Trúbadorinn

Veitingar

Trúbadorinn er lítill og fremur notalegur veitingastaður með fremur góðum mat á fremur hóflegu verði. “Fremur” gæti verið einkennisorð þessa staðar, sem er í kjallara neðan við Landsbankahúsið á Laugavegi 77, undir sömu tröppum og veitingastaðurinn Pétursklaustur.

580 krónur
í hádeginu

Fjölbreyttur salatbar er á boðstólum í hádeginu á 580 krónur og á 680 krónur, ef tekinn er heitur pottréttur til viðbótar. Þetta hagstæða verð felur í sér súpu og eftirréttaávexti. Súpan var fremur góð og pottrétturinn stórfínn, létteldað kjöt með brúnni sósu og hrísgrjónum. Ég man ekki eftir svona milt elduðum pottrétti annars staðar.

Á salatbarnum var appelsínupressa, svo að gestir gátu pressað sér alvöru safa. Þar var flest það, sem fólk tengir slíkum salatbörum, nema ferskir sveppir, og ýmislegt að auki, svo sem hnetur og rúsínur og þurrkaðir ávextir. Allt leit þetta út fyrir að vera vel ferskt og starfsfólk fylgdist vel með, að borðið liti vel út.

Pöstur og
tortillur

Að öðru leyti eru mjög einfaldir mexikanskir og ítalskir réttir einkenni staðarins. Pöstur og tortillur eru fyrirferðarmiklar á matseðlinum og senn munu pizzur bætast við, því að “fólkið vill þær”, eins og þjónninn orðaði það. Miðjuverð þriggja rétta máltíðar með kaffi var 2.200 krónur, sem telst vera fremur ódýrt.

Staðurinn er fremur þröngur og þar að auki mjög dimmur á kvöldin, þegar höfð er týra á perum og kerti látin loga. Aðeins haukfránir geta lesið matseðil við þessar aðstæður. Bólstraðir bekkir eru meðfram veggjum og fremur þægilegir stólar á móti. Tvöfaldir dúkar eru á borðum og þurrkur úr pappír.

Á grófum veggjum hanga hljóðfæri og Mexikanahattar, tunnubotnar og Mexikanaslár. Í lofti hangir ógrynni af bastklæddum flöskum af Toskaníuvíni. Niðursoðin tónlist er fremur róleg. Segja má, að þetta sé fremur rómantískt og suðrænt, en ekki þó í fókus sem slíkt, því að skrautið rambar milli Ítalíu og Mexikó.

Bragðsterkt
og bragðgott

Avocadomauk var fremur gott, en mjög kryddað, borið fram með bragðsterkum kornflögum úr pökkum. Sömu flögur, kallaðar “tortilla chip” á matseðlinum, fylgdu með afar sterkri mexikanskri sósu, sem var annar forréttur.

Þriðji forrétturinn, sem ég prófaði, var hvítlauksristaður hörpufiskur á skrúfupasta, sæmilegur réttur, en hefði mátt vera skemur eldaður. Rjómalöguð kaktussúpa var heit og góð, ekki of þykk, skemmtilega sérkennileg á bragðið.

Sjávarréttaspaghetti var gott, aðallega hörpufiskur og rækjur, í góðri og hæfilegra sterkri tómatsósu. Ostbakaður flatfiskur á spaghetti var líka góður, fremur hóflega eldaður.

Tortillur eru mexikanskar pönnukökur, sem eru vafðar um mat, kallaðar “tortillas”, “enchiladas” eða “tacos” eftir aðstæðum, venjulega pönnusteiktar og stundum djúpsteiktar. Þar í landi eru þær úr maís, en í Trúbador virtust þær yfirleitt vera úr hveiti.

Tortilla með kjötstrimlum, osti, avocado og pipar var góð. Sama var að segja um tortillu með nautahakki, grænmeti, osti og pipar.

Djúpsteikt pönnukaka með mangó-ís, borin fram með kanilkrydduðum rjóma, var skemmtilegur eftirréttur, sem áreiðanlega er sjaldséður hér á landi. Kaffi var fremur gott, borið fram með konfektmolum.

Pizzur efla
fábreytnina

Á mexikönskum veitingastað hefði ég kosið sitthvað fleira en tortillur, svo sem hráan fisk, kryddleginn í sítrónusafa, er Mexikanar kunna vel að meta. Á ítölskum veitingastað hefði ég kosið sitthvað fleira en spaghetti og skrúfupasta, svo sem sjávarrétta-risotto, er Feneyingar kunna vel að meta.

En fólk biður ekki um slíkt. Það biður um pizzur og fær þær. Poppið blífur í amöbu-þjóðfélaginu.

Þjónusta var í stíl staðarins, “fremur” góð.

Jónas Kristjánsson

DV

Betri í bridge en pólitík

Greinar

Sigur íslenzkra bridgemanna í heimsmeistarakeppninni í Japan sýnir, hvað hægt er að gera með því að hafa viðfangsefnið í fókus. Keppnismennirnir eru ekki eðlisbetri spilamenn en þeir voru í sumar, en hafa fetað markvissa þjálfunarbraut, sem færði þeim mismuninn.

Heimsmeistararnir hættu í haust að spila bridge, sem þeir kunnu fyrir. Í stað þess lögðu þeir áherzlu á að byggja upp aðra hluti, svo sem líkamlegt úthald, jákvæðan liðsanda og harðan aga af hálfu liðsstjórans. Þannig mættu þeir til leiks án hins fræga Akkillesarhæls.

Hvort sem fólk spilar bridge í frístundum eða ekki, þá gleðst það yfir sigrinum. Atburðir af þessu tagi eru kærkomnir fámennri þjóð, sem er að reyna að sýna sjálfri sér og öðrum fram á, að hún hafi tilverurétt út af fyrir sig. Við fáum hreinlega meira sjálfstraust.

Bridge er leikur, sem krefst gífurlegrar einbeitingar, rétt eins og skákin. Það er ánægjulegt, að einmitt þessir tveir leikir eða tvær listgreinar hafa fest rætur í hugum Íslendinga. Það bendir til, að margir Íslendingar geti einbeitt sér, geti sett verkefni sín í fókus.

Við höfum á ýmsum öðrum sviðum séð ánægjuleg merki einbeitingar. Í atvinnulífi og tækni hefur borið á nýbreytni og uppfinningum, sem hafa skilað góðum arði. Dæmi um það eru hin fjölmörgu tölvuforrit, sem byggjast á einbeitingu og hugviti margra í greininni.

Ein grein hefur setið eftir hér á landi. Það er pólitíkin, sem sjaldan er í fókus. Það er í henni, að framleiddar eru hvítar bækur með endemis þvaðri um ímyndaða stefnu og starfsáætlun ríkisstjórna, sem stangast fullkomlega á við raunveruleg verk þeirra frá degi til dags.

Í pólitíkinni leyfa menn sér að skrifa með annarri hendi hvítar bækur um, að nú eigi að stórefla neytendamál, en efla með hinni hendinni einokun í flugi og skera niður fjármagn til neytendamála um tugi milljóna. Þetta er lítið, einfalt og gott dæmi um íslenzka pólitík.

Í pólitíkinni standa menn andspænis samdrætti í sameiginlegri tekjuöflun landsmanna og byrja á að gefa sér sem fjárlagaforsendu, að útgjöld til landbúnaðar þurfi að aukast út yfir allan þjófabálk, af því að lögmaður á ríkiskontór segi fáránlegan búvörusamning friðhelgan.

Í pólitíkinni byggist tilvera heils stjórnmálaflokks á yfirlýsingum um nýskipan veiðileyfa í sjávarútvegi, brottfall búvörusamninga og flutning umhverfisverkefna frá landbúnaðarráðuneyti til umhverfisráðuneytis, sem svo er alls ekki fylgt eftir í ríkisstjórn.

Samt er engan veginn svo, að hæfileikar Íslendinga liggi svo eindregið í skák og bridge og tölvum, að ekkert sé afgangs fyrir pólitík. Sem dæmi má nefna, að góðir hlutir hafa verið gerðir í utanríkismálum, svo sem frumkvæði í viðurkenningu á fullveldi Eystrasaltsríkja.

Þá hefur verið haldið vel á málum Íslands í viðræðum við stóra kúgunaraflið í Evrópu. Í viðræðum við Evrópubandalagið um þáttöku Íslands í evrópsku efnahagssvæði hefur ekki verið vikið frá kröfum um sjálfsforræði og auðlindaforræði okkar og um gagnkvæman hag.

Góðir spilamenn í pólítík mundu bæta um betur og setja í fókus, hvað við ætlumst fyrir utan evrópska efnahagssvæðisins; hvernig hægt sé að leggja niður verðmætabrennslu í landbúnaði og í atvinnuvegasjóðum; og hvernig íslenzkt þjóðfélag verði samkeppnishæft.

Ef við værum eins góð í pólitík og við erum í bridge, mundum við ekki gefa út fókuslausar hvítbækur, fullar af þvaðri um góð áform, sem varða veginn til vítis.

Jónas Kristjánsson

DV

Gullni haninn

Veitingar

Gullni haninn við Laugaveg ofanverðan er fínlegt veitingahús með fyrsta flokks mat og fyrsta flokks þjónustu. Hann er í hópi þeirra matstaða, sem gera Reykjavík að marktækri veitingaborg, hæfilega lítill og hæfilega vel vaktaður af eigandanum.

Gullinn staður
í eyðimörkinni

Langan tíma hefur tekið að vinna upp Gullna hanann, sem er á næsta ótrúlegum stað, sem sést illa frá götu vegna bílastæðanna fyrir framan. Þarna var einu sinni Smárakaffi með eftirminnilega vondan mat og síðan Halti haninn með pizzur.

Þetta svæði í bænum er hálfgerð eyðimörk, en með þolinmæði hefur tekizt að koma lífi í viðskipti Gullna hanans. Það er jafnvel ös kaupsýslumanna í hádeginu, þótt slíkt sjáist óvíða í veitingahúsum borgarinnar á þessum síðustu og verstu tímum.

Gullni haninn hefur frá upphafi verið fremur virðulegur, en ekkert sérstaklega smekklegur. Fatahengið er nokkuð áberandi innan um fínheitin og barinn er skræpulegur. Sem betur fer sést lítið inn í hann úr salnum.

Þarna er fremur hljóðbært, þótt teppi sé á gólfi og panill upp á veggi. Mikill kostur var þó, að engin niðursuðutónlist dunaði á eyrum. Nokkuð næðingssamt getur orðið á borðinu, sem er fremst innan við anddyrið, ef mikill er gestagangur. Ættu gestir að forðast það borð, ef hvasst er úti.

Sjaldséðir
sjávarréttir

Gullni haninn hefur hallað sér æ meira að nýfrönsku línunni. Litlir skammtar af margvíslegum fisktegundum eru fagurlega upp settir á diska. Boðið er upp á furðudýr hafsins á borð við háf og skrápflúru og slétthala.

Því miður eru hinir forvitnilegu fiskréttir á fastaseðli hússins og þurfa því alltaf að vera til. Þeir hljóta því stundum að koma úr frysti. Slíkt hlýtur að minnsta kosti að henta skrápflúru afar illa, þótt háfurinn þoli það líklega betur.

Í raun hef ég aldrei rekið mig á annað en góða fiskrétti í Gullna hananum, þrátt fyrir þennan annmarka. Kannski hef ég verið heppinn með daga, þegar vel hefur aflazt.

Í hádeginu er boðinn þrírétta máltíð á 1100 krónur að meðaltali. Það er mjög hagstætt verð, því að réttirnir eru að mörgu leyti spennandi og ekkert er gefið eftir í þjónustu eða öðrum aðbúnaði gesta.

Af þessum seðli prófaði í forrétti ég afar fínlegan lunda, ofnreyktan, og borinn fram með mildri karamellu-jógúrtsósu. Ennfremur góða, villikryddaða svartfuglsbringu með eplasalati.

Meðal aðalrétta þessa seðils var fremur góður skötuselur, pönnusteiktur í smjöri með tómati, lauk og papriku, og borinn fram með hæfilega soðnum katöflum. Einnig meyr og góður grísapottréttur með sætsúrri og bragðsterkri sósu og afar bragðgóðum náttúru-hrísgrjónum.

Af eftirréttunum prófaði ég fremur góða osta á blönduðum diski, borna fram með rifsberjasultu. Einnig rjómafrauð með daufum ananaskeim, borið fram í súkkulaðigrind, með ávöxtum í kring.

Frábær
blaðdeigskarfa

Á kvöldin er verðið mun hærra eða eins og gengur og gerist í hinum fínni stöðum borgarinnar. Miðjuverðið er um 3113 krónur fyrir þrjá rétti og kaffi. Engir réttir dagsins eru þá í boði, aðeins réttir af fastaseðli og svo fjögurra rétta smakkseðill á 3.650 krónur, sem er nokkuð dýrt.

Vínlistinn er ekki merkilegur. Þar má eins og víðar sjá Chateau Beau Rivage í hvítu og rauðu, heilu og hálfu. Rauðvínið var frá 1986, fremur gróft, en gott. Hvítvínið var frá 1989, afar dauft og einkennislítið.

Í fína kantinum er boðið upp á hágæðavínið Chateau Mouton Rotschild frá 1984 á 9.890 krónur og á Chateau Clerc-Milon frá 1987 á 3.940 krónur. Þetta tel ég vera fremur hagstætt verð, enda eru árgangarnir svo sem ekkert sérstakir.

Rjómasúpa með ferskum kjörsveppum var hæfilega þunn og bragðmild. Reyktur háfur með fenniku og sólselju var góður, en svo lítill að magni, að hann sást varla. Með honum var mild sósa og gott salat einfalt.

Bezt forréttanna var frábær blaðdeigskarfa fyllt af eldsteiktu humarkjöti með koníakssósu. Karfan var næfurþunn og stökk, full af hæfilega lítið soðnum og góðum humri, borin fram með hrísgrjónum, sem voru afar góð eins og venjulega á þessum stað.

Ristaður háfur með rabarbara, blaðlauk og reyktum lax var óvenjulegur aðalréttur með óvenjulegu bragði, sem mér fannst gott, en öðrum kann að falla miður í geð. Heilsteikt skrápflúra með búgundarvínsósu var mátulega elduð og áberandi góð á bragðið. Appelsínugljáð skötubörð með piparbasilikum-sósu voru fremur góð, en appelsínubragðið yfirgnæfði réttinn.

Piparsteik með grænum pipar og sinnepssósu var mjög meyr, fínleg og góð.

Dúndurgóðir
ísar

Í boði voru góðir og fjölbreyttir ísar, salthnetuís með súkkulaðisósu og frábær konfektís með sykurflossi. Ennfremur súkkulaði- og ananasfrauð með því sérkenni, að súkkulaðifrauðið var grjóthart og ananasfrauðið fljótandi, en eigi að síður góður réttur. Tveggja bragða ískrem með ferskum ávöxtum var nokkuð gott.

Venjulegt kaffi var gott, espresso fremur þunnt, en ódýrt, aðeins 100 krónur bollinn.

Ánægjulegt er að sjá íslenzkt fyrirtæki seiglast fram veg gæfunnar og bæta sig stöðugt í stað þess að fara af stað með látum og lyppast svo niður. Gullni haninn virðist vera að festa sér traustar rætur í þjóðlífinu.

Jónas Kristjánsson

DV

Ráðlausir landsfeður

Greinar

Landsfeður ættu að segja okkur, hvernig þeir hyggist bregðast við ýmsum vanda, sem steðjar að þjóðinni, á þann hátt, að hann verði að verkefni til að leysa. Þetta gera landsfeður ekki, af því að þeir vita ekki, hvernig skuli bregðast við, eða vita ekki, að vandinn sé til.

Dæmi um þetta er Evrópska efnahagssvæðið, sem farið er út um þúfur. Komið hefur í ljós, að nokkur ríki innan Efnahagsbandalagsins telja sig þurfa að gæta staðbundinna sjávarútvegshagsmuna og munu ekki fallast á neina niðurstöðu, sem kemur Íslandi að gagni.

Unnt er að skilja þessi þröngu sjónarmið, sem eru hin sömu og ráða landbúnaðarstefnu íslenzkra stjórnvalda. Einangrunar- og haftastefna er eins vinsæl í höfuðstöðvum Evrópubandalagsins og hún er í landbúnaðarráðuneyti Íslands. Af því súpum við seyðið.

Jafnvel þótt bjartsýnismenn geti ímyndað sér, að þjóðir Evrópubandalagsins þurfi íslenzkan fisk, munu viðsemjendur okkar ekki líta þannig á málin. Þeir eru fyllilega færir um að tefla málinu í þá stöðu, að útflutningur á fiski frá Íslandi verði sífellt erfiðari.

Íslenzkir landsfeður ættu því að segja okkur, hvernig þeir hyggist tefla málum í þá stöðu, að við eigum um langan aldur kost á arðbærri fríverzlun við fleiri aðila en í Evrópu einni, sem nú borgar hæst verð, meðal annars vegna þess að ferskur fiskur fer mest þangað.

Landsfeður mættu svara þeirri spurningu, hvort gáfulegt sé að leggja steina í götu á afurðinni, sem gefur bezt, svokölluðum “óunnum” fiski, það er að segja ætum fiski. Þeir mættu líka svara, hvort gáfulegt sé að leyfa Flugleiðum að einoka afgreiðslu á ferskfiskflugi.

Annað dæmi er álverið á Keilisnesi, sem hefur þegar kostað okkur orkuver við Blöndu með hækkun á rafmagnsreikningum heimilanna. Þetta álver átti að reka á undirverði rafmagns. Markmiðið með því virðist af okkar hálfu vera að fá framkvæmdir í landið í örfá ár.

Ef hraður samdráttur í vopnabúnaði risaveldanna leiðir til hruns í hergagnaiðnaði og minnkandi sölu áls í heiminum, má búast við, að álverið verði ekki reist. Hvað ætla landsfeður þá að gera við Blönduver annað en að senda reikninga þess til almennings?

Þriðja dæmið er samdráttur í fiskafla, sem virðist stafa af ofveiði, úr því að fleiri lélegir árgangar hafa komið í röð en áður hefur þekkzt. Landsfeður hafa ekki skýrt fyrir okkur, hvernig þeir hyggist mæta þeim vanda, að útflutningstekjur verði litlar á næstu árum.

Fjórða dæmið er skeytingarleysi landsfeðra um fjármögnun á tveimur risavöxnum vandamálum, sem hafa hlaðizt upp, annars vegar lífeyrissjóðum opinberra starfsmanna og hins vegar peningabrennslusjóðum, sem landsfeður hafa komið á fót við Rauðarárstíg.

Fimmta dæmið er nýr búvörusamningur, sem landsfeður virðast ætla að þola fyrir okkar hönd, þótt ljóst sé, að hann tekur á hverju ári nokkra milljarða af möguleikum okkar til að fást við vandamál eða verkefni á borð við fjögur dæmin, er hér hafa verið rakin.

Í stað þess að reyna að skilja þessi vandamál, svo að þeir geti sagt okkur frá tillögum um, hvernig megi leysa þau, eru landsfeður önnum kafnir við að kaupa sér Kadillakka; skipuleggja ferðalög til útlanda til að drýgja tekjur sínar; og halda vinum sínum dúfnaveizlur.

Við erum að sigla inn í langvinna kreppu, sumpart af völdum landsfeðra, án þess að þeir geti útskýrt fyrir sjálfum sér eða öðrum, hvernig eigi að mæta henni.

Jónas Kristjánsson

DV

Ógæfuspor

Greinar

Ef ríkisstjórnin væri raunverulega andvíg búvörusamningnum, sem fyrri ríkisstjórn gerði í andarslitrunum, mundi hún afla sér lögfræðiálits, sem segði hana ekki bundna af honum. Hún léti þennan samning ekki standa í vegi skynsamlegra aðgerða í ríkisfjármál-um.

Þótt ríkislögmaður segi þennan samning heilagan, er hann ekkert færari lögmaður en ótal aðrir hér í bæ. Enda var það yfirlýst skoðun og afsökun ráðherranna, sem skrifuðu undir samninginn í vor, að endurskoða mætti hann eftir valdatöku nýrrar ríkisstjórnar.

Búvörusamningur þessi gerir ráð fyrir stórfelldri aukningu ríkisútgjalda til velferðarkerfis landbúnaðarins. Þessi aukning er svo mikil, að hún nægir til að útskýra allan niðurskurð, sem gert er ráð fyrir á öðrum sviðum í nýútkomnu fjárlagafrumvarpi fyrir 1992.

Ríkisstjórnin telur einfaldara fyrir sig að skera niður skóla og heilbrigðisstofnanir og ýmsa þætti velferðarkerfis heimilanna en að horfast í augu við velferðardrekann mikla, sem sogar allt blóð úr þjóðfélaginu. Velferð heimilanna víkur fyrir velferðarkerfi landbúnaðarins.

Þetta er pólitísk ákvörðun, en ekki lögfræðileg. Hún byggist á tveimur staðreyndum. Í fyrsta lagi er Sjálfstæðisflokkurinn í rauninni framsóknarflokkur. Og í öðru lagi er Alþýðuflokkurinn fyrst og fremst hagsmunabandalag nokkurra manna um ráðherrastóla.

Ef ríkisstjórnin hefði ætlað sér að snúa af hörmungabraut fyrri ríkisstjórnar, hefði hún ráðist til atlögu við þrjú vandamál, þar á meðal búvörusamninginn mikla. Hún hefði einnig snúið sér að leiðum til að fjármagna skuldbindingar vegna lífeyris- og atvinnuvegasjóða.

Ríkið er þegar búið að hlaða upp lífeyrisgreiðslu- loforðum upp á 50-60 milljarða króna, þótt nú verði ákveðið að bæta ekki meiru við. Ástandið er orðið þannig, að opinberir starfsmenn þyrftu að borga 25% af launum sínum til að standa undir ellilífeyri sínum.

Ríkið er þegar búið að ábyrgjast greiðslur á 5-8 milljörðum króna, sem brenndir hafa verið í atvinnuvegasjóðum af ýmsu tagi, svo sem Atvinnutryggingasjóði, Framkvæmdasjóði, Byggðasjóði og fleiri slíkum, sem einu nafni hafa verið kallaðir Sjóðasukkið.

Ríkisstjórninni ber auðvitað að leggja fram áætlun um, hvernig vitleysa lífeyrissjóðanna og atvinnuvegasjóðanna verði greidd niður á einhverju árabili. Í fjárlagafrumvarpi næsta árs bar henni að gera ráð fyrir greiðslu fyrstu afborgana af sjóðasukkinu tvíþætta.

Augljóst er, að eina leiðin til að koma reglu á fjárhag ríkisins er að létta af því byrðunum af velferðarkerfi landbúnaðarins og nota sparnaðinn til að greiða niður skuldir, sem nú er haldið utan við fjárlagafrumvarp til að trufla ekki þægilegar niðurstöðutölur þess.

Í stað þess að takast á við þetta, lætur ríkisstjórnin sem sjóðavandamál lífeyris og atvinnuvega séu ekki til og magnar þar á ofan fjáraustrið í velferðarkerfi landbúnaðarins í stað þess að minnka það. Til að greiða það gerir hún harða hríð að velferð heimilanna í landinu.

Engin þjóðarsátt verður um verk ríkisstjórnar, sem stígur fyrstu sporin á jafn ógæfusaman hátt og þessi stjórn gerir með sáttmála sínum og fjárlagafrumvarpi.

Jónas Kristjánsson

DV

Þeir lugu sig inn á þjóðina

Greinar

Ef ríkisstjórn svokallaðrar einkavæðingar yrði við völd í 46 ár, yrði að þeim tíma liðnum ekkert eftir á Íslandi nema opinberi geirinn. Er þá gert ráð fyrir, að hlutur ríkissjóðs belgist út á hverju ári í stíl við það, sem hann á að gera samkvæmt nýju fjárlagafrumvarpi.

Þetta frumvarp er skýrt dæmi um, að stjórnmálaflokkarnir og stjórnmálamennirnir eru nokkurn veginn alveg eins, þótt þeir séu alltaf að auglýsa, að þeir séu öðruvísi en hinir. Allir stækka þeir hlut ríkisins af þjóðarkökunni í heild og styðja þannig miðstýringarstefnu.

Ríkisstjórnin hefur ekki treyst sér til að mæta fjárlagahallanum með niðurskurði útgjaldaáætlana, þegar á heildina er litið. Hún framleiðir í þess stað þjónustugjöld, sem hún segir, að séu ekki skattar, en fela í sér sömu aukningu á tekjum ríkisins og skattar hefðu gert.

Orðaleikir fjármálaráðherra fá ekki dulið, að hann er að auka hlutdeild ríkisins á kostnað annarra þátta þjóðarbúsins, svo sem atvinnulífs og heimila. Hann er að auka hlutdeild ríkisins í kökunni úr tæpum 29% í 30%, nákvæmlega í stíl fyrrverandi fjármálaráðherra.

Þegar harðnar í ári, neyðast fyrirtæki og heimili til að spara, svo að þau fari ekki á hausinn. Ríkisvaldið virðist ófært um að herða sultarólina með sama hætti, jafnvel þótt svokallaðir einkavæðingarmenn séu við völd. Ríkið er orðið að óviðráðanlegu náttúruafli.

Þetta birtist í nýju fjárlagafrumvarpi sem framhald á hallarekstri ríkisins, þrátt fyrir aukna fjárheimtu í formi svonefndra þjónustugjalda. Skýrar getur einkavæðing og frjálshyggja ekki orðið gjaldþrota. Hraðar getur stefna nýrrar ríkisstjórnar ekki orðið gjaldþrota.

Ofan á allt þetta getuleysi stendur ríkisstjórnin fyrir alvarlegum tilfærslum innan báknsins. Þetta eru tilfærslur frá velferðarkerfi heimilanna til velferðarkerfis landbúnaðarins. Í frumvarpinu eru milljarðar fluttir frá sjúklingum, barnafólki og skólafólki til kúa og kinda.

Ríkisstjórnin mun reyna að verja mikla og óvenjulega útþenslu landbúnaðarútgjalda sem einstakt tilfelli, er sé liður í endurskipulagningu og verði bara þetta eina ár. Slíka markleysu höfum við heyrt hundrað sinnum áður, þegar talað er um álögur, sem séu tímabundnar.

Við stöndum andspænis því, að verðmætabrennsla í hefðbundnum landbúnaði heldur áfram að vaxa, hvort sem Framsóknarflokkurinn er í ríkisstjórn eða ekki, alveg eins og ríkisgeirinn í heild heldur áfram að vaxa, hvort sem Alþýðubandalagið er í stjórn eða ekki.

Þetta stafar af, að ríkisstjórnina skipa miðstýringarmenn, öðru nafni framsóknarkommar, sem eru að því leyti hættulegri en Steingrímur Hermannsson og Ólafur Ragnar Grímsson að þeir villa á sér heimildir, telja kjósendum trú um, að þeir hafi annað og þveröfugt í hyggju.

Blekkingar hafa löngum verið hornsteinn íslenzkra stjórnmála, en fátítt er, að ríkisstjórn hafi logið sig inn á þjóðina með jafn grófum hætti og þessi ríkisstjórn, sem upphaflega var orðuð við frjálshyggju og einkavæðingu. Ef kjósendur kyngja henni, munu þeir kyngja öllu.

Í sínu fyrsta fjárlagafrumvarpi hefur þessi ríkisstjórn miðstýringarmanna sameinað framhald á hallarekstri ríkisins; aukna fjárheimtu á hendur almenningi og atvinnulífi; og aukinn hraða í tilfærslunni úr velferðarkerfi heimilanna til velferðarkerfis landbúnaðarins.

Ríkisstjórnarstefna frumvarpsins leiðir til ófriðar á vinnumarkaði, síðan til verðbólgu, næst til gengisfrystingar og loks til hruns. Þjóðin hefur ekki ráð á henni.

Jónas Kristjánsson

DV

Hafmeyjan

Veitingar

Þú vilt verða sjálfstæður. Þú ferð í bankann og slærð lán. Þú kaupir veitingaaðstöðu, sem er laus vegna flutnings eða eins af hinum tíðu gjaldþrotum í greininni. Þú lætur inn frystikistu og örbylgjuofn og fyllir kistuna af alls konar fiski. Þú ferð á Hótel Holt og skrifar upp verð af matseðlinum. Þú setur Dóra trukk í eldhúsið og opnar staðinn. Enginn kemur. Þar sem enn er eftir hluti af bankaláninu, ferðu í sumarfrí og biður Öddu frænku að passa sjoppuna á meðan. Þú kemur aftur. Enn kemur enginn. Þú gerist einn af mörgum fyrrverandi veitingamönnum.

Auðveldara í
pólitíkinni

Syrpu af þessu tagi hef ég nokkrum sinnum séð endurtekna í ýmsum tilbrigðum á undanförnum árum. Ég veit ekki, hvort Hafmeyjan við Laugarveg fellur undir lýsinguna að einhverju leyti. En mér finnst ég kannast við vandamálið. Ég get ekki varist þeirri hugsun, að eigendurnir eigi freka
r heima í pólitík, þar sem menn komast langt á bjartsýninni einni.
Erfitt er að hugsa sér, að veitingahús þrífist á þessum stað, sem er orðinn einkar fátæklegur, síðan austurlenzka skrautið hvarf við brottflutning Taj Mahal niður á Hverfisgötu. Eftir er fremur skuggalegur staður með glerplötum á borðum í þröngum básum eins og í mötuneyti fyrir róna í París. Eins og er hefur staðurinn enga jákvæða ímynd.

Svo mikil samkeppni er í veitingabransanum, að nýir staðir fá ekki staðizt, nema þeir hafi eitthvað fram að færa, sem getur dregið að, annaðhvort innihald eða ímynd eða hvort tveggja. Nýir veitingastaðir þurfa annað hvort að vera með sérstaklega góðan mat, sérstaklega ódýran mat eða byggja í þess stað á einhverri ímynd, það er að segja stælum eða rugli, sem gengur í pupulinn, svo sem að hann eldi sjálfur við borðið.

Óvenjulega
vondur matur

Úr eldhúsinu kom óvenjulega vondur matur. Einkum á það við um sjávarréttina, sem sagðir eru vera sérgrein Hafmeyjarinnar. Helzta undantekningin fólst í léttsteiktum lambalundum, sem voru meyrar og fínar, bornar fram með bakaðri kartöflu.

Auglýst voru ágæt tilboð úti á stétt, þar á meðal þetta lambakjöt, sem kostaði 1890 krónur með súpu á undan og kaffi á eftir. Hitt tilboðið var enn girnilegra, 12-15 humrar með súpu á undan og kaffi á eftir á einungis 1790 krónur. Þessu tilboði er ekki auðvelt að hafna.

Þetta er frábært verð fyrir dýrt hráefni, þótt humarinn sé smár. Hann var borinn fram á haugi af rækjublönduðu hrásalati. Því miður hefði kokkurinn mátt þiggja faglega leiðsögn um, að humar má einungis snöggelda. Hann verður fljótt þurr og seigur, ef ekki er passað upp á sekúndurnar.

Hafmeyjan bauð einnig upp á grafið og oregon-kryddað lamb með melónu og jarðarberjasultu í forrétt. Ég skildi ekki hlutverk sultunnar, en oregonið gaf kjötinu skemmtilega ákveðið bragð.

Súpur dagsins reyndust jafnan vera sama súpan, hversdagsleg spergilsúpa, þar sem hveiti hafði ekki verið sparað, borin fram með volgu brauði og smjöri.

Fullunnin ýsa og
fullunninn lax

Ýsa dagsins, borin fram með blaðlauk og sveppum, var úr frysti og sennilega hituð í örbylgjuofni. Hún minnti lítið á ýsuflökin, sem Reykvíkingar eru vanir að kaupa í fiskbúðum.

Ég legg til, að áhugamenn um bann við útlutningi á ferskum fiski, sem þeir kalla ,,óunninn”, séu látnir svæla í sig freðýsunni í Hafmeyjunni, svo að þeir viti, hvernig er sú “fullunna” vara, sem þeir vilja, að hafi forgang í útlutningi, til milljarðaskaða fyrir þjóðarbúið.

Grillaður lax var borinn fram með hvítri mjólkursósu, sem hét hvítvínssósa. Hann var hinn versti, sem ég man eftir að hafa fengið um árabil, þurr og skorpinn, feiknarlega mikið steiktur og kryddaður einhverju annarlegu kryddi. Lax minnir á humar að því leyti, að hann krefst nokkurrar nákvæmni í eldunartíma.

Ferskir ávaxtabitar í ísvöffluhorni voru frambærilegir. Ís var sæmilegur, borinn fram með staupi af Grand Marnier til hliðar. Súkkulaðibúðingur var mjög vondur, borinn fram með gamalþeyttum rjóma.

Útvarp
á fullu

Í hádeginu var útvarpið látið glymja með gauli og auglýsingum á fullu. Um kvöldið var mild músík á bandi. Mikið er um plastblóm milli bása. Þau eru arfur frá fyrra veitingahúsi staðarins, svo og japanskar lugtir yfir barnum.

Þegar frá eru talin tilboð dagsins, sem skráð eru úti á stétt, og þrír aðalréttir á seðli dagsins, var staðurinn fremur dýr. Miðjuverð þriggja rétta af fastaseðli að kaffi meðtöldu var 2.945 krónur. Hvergi í bænum hef ég keypt dýrari bolla af expresso-kaffi, 190 krónur takk.

Aldrei sá ég neinn viðskiptavin á þessum einkennilega stað.

Jónas Kristjánsson

DV

Hagsmunir í hafi

Greinar

Óhjákvæmilegt er, að öryggishagsmunir Bandaríkjanna og Íslands stangist á í auknum mæli, því að Bandaríkjastjórn hefur ákveðið að gera hafið að helzta gereyðingarvopnabúri sínu til þess að halda sérstöðu sinni sem sjóveldi heimsins, þegar öðrum vopnum fækkar.

Gagnkvæmar tilkynningar Bandaríkjanna og Sovétríkjanna um einhliða samdrátt í viðbúnaði eru að mestu á sviðum, þar sem einhvers konar gagnkvæmni verður komið við, þótt allt séu þetta kallaðar einhliða aðgerðir. Þetta er afleitt fyrir þá, sem vilja hreinsa hafið.

Ísland hefur mikla hagsmuni af því, að höfin verði ekki helzta hættusvæðið, ef til átaka kemur. Það magnar líkur á, að eyja á siglingaleiðum herskipa og kafbáta verði skotmark eða nálægt skotmarki í hugsanlegum átökum, sem geta jafnvel orðið fyrir misskilning.

Við þessa hættu bætist svo mengunarhættan, sem fylgir kjarnorkuknúnum og kjarnorkubúnum herskipum og kafbátum. Alvarlegt slys getur haft víðtæk og varanleg áhrif á lífríki hafsins og síðan hliðstæð áhrif á útflutningstekjur og efnahag þjóðarinnar.

Mikilvægt er, að forsætisráðherrar hvers tíma og aðrir valdamenn þjóðarinnar leggi jafnan mikla áherzlu á þessa hagsmuni Íslendinga, þegar þeir hitta Bandaríkjaforseta eða aðra bandaríska valdamenn, en eyði ekki of miklum tíma í hliðarmál á borð við hvalinn.

Þótt hafið hafi að mestu orðið útundan í yfirlýsingum síðustu daga um samdrátt geryðingarvopna og hefðbundins herbúnaðar, hefur Ísland eins og önnur lönd hag af minni spennu og minni viðbúnaði, sem dregur auðvitað úr líkum á, að atómstríð verði fyrir slysni.

Enn meira máli skiptir fyrir Ísland, að hjaðni hin hefðbundna spenna í gagnkvæmum viðbúnaði Bandaríkjanna og Sovétríkjanna. Þótt annars konar hætta leysi af hólmi þá hættu, sem fylgir hinni hefðbundnu spennu, kemur hún ekki eins mikið við okkur.

Svo virðist sem minni hætta sé á skipulögðu atómstríði heimsvelda, en meiri hætta á, að skjótráðir smákóngar beiti slíkum vopnum í hryðjuverkastíl. Nægir þar að minna á Saddam Hussein, einræðisherra Íraks, sem hefur reynt af alefli að ná sér í slík vopn.

Bandaríkjastjórn hefur líka áhyggjur af, að óhjákvæmileg sundrun Sovétríkjanna leiði til, að sovézk kjarnorkuvopn falli í hendur meira eða minna óútreiknanlegra þjóðernissinna eða einræðisherra í einstökum ríkjum, sem myndast kunna úr rústum Sovétríkjanna.

Ólíklegt er, að Saddamar Husseinar heimsins beini sjónum sínum að Íslandi, ef þeir hafa hryðjuverk í huga. Þeir munu telja önnur skotmörk hafa meira auglýsinga- eða ógnargildi. Þess vegna snertir hin nýja smákóngahætta okkur minna en sumar aðrar þjóðir.

Þar sem yfirlýsing Bandaríkjaforseta dregur úr hættu á skipulögðu atómstríði, er hún gagnleg okkur eins og mannkyninu yfirleitt. Sama má segja um viðbrögð sovézka varnarmálaráðuneytisins um nærri helmings minnkun heraflans og um miðstýringu hans í Moskvu.

Á aðeins einni viku hefur jörðin orðið mun öruggari dvalarstaður mannkyns. Frumkvæðið kom frá Bandaríkjastjórn og var vel svarað af hálfu Sovétstjórnarinnar. Við getum fagnað frumkvæðinu, þótt hafið hafi orðið að mestu útundan í þessum áformum um samdrátt.

Þetta þýðir líka, að við verðum að efla áherzlur okkar gegn stríðs- og mengunarhættu í hafinu, þótt hagsmunir okkar séu þar aðrir en sjóveldis Bandaríkjanna.

Jónas Kristjánsson

DV

Sænska leiðin valin

Greinar

Eftir vel heppnaða notkun íslenzku leiðarinnar við að viðurkenna fullveldi Eystrasaltsríkjanna hyggst utanríkisráðuneyti Íslands nú nota sænsku leiðina gagnvart Slóveníu og Króatíu í Júgóslavíu til að þurfa ekki að vera á undan öðrum og veigameiri ríkjum.

Sænska aðferðin felst í að telja, að ríkisstjórnir, sem eru lýðræðislega kjörnar og hafa almannafylgi að baki sér, séu ekki dómbærar um, hvað sé ríkinu fyrir beztu, heldur þurfi á því alvarlega athugun, sem getur tekið allan þann tíma, sem þarf til að hindra ákvörðun.

Ísland hafnaði þessari leið, þegar ákveðið var að viðurkenna fullveldi Eystrasaltsríkjanna. Þá var talið, að þjóðir og ríkisstjórnir ríkjanna gætu sjálfar metið, hvort viðurkenning kæmi þeim að gagni eða ekki, og að ástæðulaust væri að reyna að hafa vit fyrir þeim.

Nú er annað uppi á teningnum. Utanríkisráðherra fer undan í flæmingi, þegar utanríkisráðherra Króatíu biður um viðurkenningu. Hann segir, að Austurríki verði að vera á undan, alveg eins og nauðsynlegt hefði verið, að Finnland yrði á undan að viðurkenna Eistland.

Utanríkisráðherra okkar segir líka, að Evrópubandalagið verði að fá að skoða málið í friði fyrir okkur, alveg eins og nauðsynlegt hefði verið að láta Norðurlandaráð skoða mál Eystrasaltslanda í friði, áður en við færum að rugga bátnum með ótímabæru upphlaupi.

Ef við hefðum beðið eftir Finnlandi eða Norðurlandaráði, þegar við vorum að skoða mál Eystrasaltslanda, hefðum við ekki brotið ísinn eins og við gerðum. Á báðum þessum stöðum var andstaða gegn viðurkenningu, einmitt á þeim forsendum, sem við notum gegn Króatíu.

Ef við bíðum nú eftir Austurríki eða Evrópubandalaginu, brjótum við ekki ísinn og skiptum auðvitað engu máli. Það er út af fyrir sig í lagi, ef menn hafa fengið nóg af þeirri ævintýramennsku, sem réð ferð okkar, þegar Eystrasaltsríkin fengu viðurkenningu.

Ekki verður hins vegar séð, að reynslan af fullgildingu Eystrasaltsríkja sé tilefni til að láta af íslenzku stefnunni og taka upp sænska varfærnisstefnu. Þvert á móti ætti sú reynsla að hvetja okkur til að halda áfram á þeirri braut, sem varð okkur til metnaðar og gæfu.

Við eigum að stefna að viðurkenningu Slóveníu og Króatíu, ef ríkisstjórnir þessara ríkja fara fram á það við okkur. Þetta eru lýðræðislega kjörnar stjórnir, sem biðja ekki um fullgildingu nema vera fullvissar um, að almenningur í landinu sé samþykkur slíkri ósk.

Málið er enn brýnna en það var í Eystrasaltsríkjum, þar sem Slóvenía og Króatía hafa sætt miklu harðvítugra ofbeldi Júglóslavíuhers en Eistland, Lettland og Litháen máttu sæta af hálfu Rauða hersins í Sovétríkjunum og sveita sovézka innanríkisráðuneytisins.

Íslendingar eru fámenn þjóð, sem skiptir litlu í alþjóðlegum samskiptum. Sem lítil þjóð höfum við um leið meira frelsi en sumar stærri til að taka fljótvirkari ákvarðanir um grundvallaratriði í samskiptum þjóða, sem búa við lýðræðislegt og opið fjölvaldakerfi.

Ef sú venja skapast, að Íslendingar verði fyrstir þjóða til að viðurkenna þær þjóðir, sem á lýðræðislegan hátt kjósa að segja skilið við fjölþjóðaríki, sem haldið er saman með þvingunum, þá erum við að efla virðingu og sóma okkar á alþjóðavettvangi, hvað sem sænskir segja.

Næsta skref á þeirri leið er, að utanríkisráðherra hætti að tala um, að aðrir en Slóvenar og Króatar hafi meira vit en þeir á því, hvað sé þeim fyrir beztu.

Jónas Kristjánsson

DV

Umhverfisóbeit

Greinar

Seltjarnarnesbær lét nýlega ýta jarðvegi yfir setlög og steingervinga frá síðjökultíma við Svartabakka. Þessi setlög voru á náttúruminjaskrá. Yfirmönnum Seltjarnarnesbæjar var kunnugt um tilvist þessarar náttúruminjaskrár, en hafa ekki áhuga á að fara eftir henni.

Fyrr í sumar lét Seltjarnarnesbær ýta jarðvegi yfir skógræktarreit Kvenfélags Seltjarnarness vestan við íþróttavöllinn. Að baki beggja þessara aðgerða liggur athafnaþrá, sem lætur ekki beizla sig af mannasiðum og hefðum í umgengni við gróður og náttúru landsins.

Seltjarnarnesbær hefur árum saman unnið að hnignun Valhúsahæðar sem útivistarsvæðis. Þar skiptust áður á jökulsorfnar klappir og náttúrulegur gróður, sem börn og fullorðnir notfærðu sér. Nú er búið að raska meirihluta hæðarinnar og draga úr mannaferðum.

Árásin á hæðina er þríþætt. Gerður hefur verið íþróttavöllur, sem enginn notar. Byggð hafa verið einbýlishús, sem enginn vill kaupa. Og gerðar hafa verið tvær risagryfjur fyrir áramótabrennur, sem notaðar verða í mesta lagi einu sinni á ári, ef báðar nýtast.

Ekki eru allir sammála um, hvort fjórða atriðið eigi heima í þessum flokki árása Seltjarnarnesbæjar á náttúru hæðarinnar. Það er kirkjan, sem ekki var byggð á góðu svæði í suðurhlíðum hæðarinnar, heldur nálægt toppi hennar, þar sem hún rýfur útsýnishringinn.

Nú er svo komið, að eini hluti hæðarinnar, sem börn og fullorðnir kæra sig um að nota, er norðvesturhornið, sem hrammur bæjaryfirvalda hefur ekki enn náð til. Þetta er löng sorgarsaga, sem byggist á óbeit bæjaryfirvalda á náttúru, sem þau virðast telja vinstri sinnaða.

Allt eru þetta þó smámunir í samanburði við langræknar ráðagerðir bæjarstjóra Seltjarnarness um að byggja frekar en orðið er á svæðinu umhverfis Nesstofu og leggja þar stóra bílahraðbraut gegnum Bakkatjörn og út undir Seltjörn og Snoppu í nágrenni Gróttu.

Á þessum slóðum var til skamms tíma fjölbreytt fuglalíf, sem hefur verið á undanhaldi, einkum eftir að kríunni fækkaði svo, að náttúruleg löggæzla hennar hvarf að mestu úr sögunni. Þarna hafa verið æðarfugl, maríuerla, þúfutittlingur, tjaldur og músarindill.

Áhugafólk hefur reynt að hlúa að tilvist þessara fugla og náttúrunnar, sem þeir þurfa. Einkum hefur verið reynt að verja varp æðarfugls í Gróttu, sem hefur verið friðuð. Þetta hefur verið erfitt, en samt hefur tekizt að vernda leifar þessarar skemmtilegu fuglabyggðar.

Endur fyrir löngu var gert aðalskipulag fyrir höfuðborgarsvæðið, áður en hugtakið náttúruvernd varð til. Illu heilli var þar gert ráð fyrir hraðbraut kringum nesið og aukinni byggð umhverfis Nesstofu. Þetta skipulag hefa bæjaryfirvöld Seltjarnarness verndað.

Ef bæjaryfirvöld á Seltjarnarnesi fá að ráða ferðinni, verður nesið allt steypt og malbikað frá fjalli til fjöru. Það verður eyðilagt eins og Kársnesið í Kópavogi. Íbúar á Seltjarnarnesi skilja þetta fremur illa og endurkjósa jafnan berserki malbiks og steinsteypu til bæjarforráða.

Brýnt er, að fólk, sem skilur þessi mál betur en bæjaryfirvöld og kjósendur á Seltjarnarnesi, taki ströndina við Seltjörn og Bakkatjörn í fóstur, svo og leifar Valhúsahæðar, og taki saman höndum um að hamla gegn frekari yfirgangi náttúru- og umhverfisandstæðinga.

Ef malbiks- og steinsteypuliðið verður stöðvað við Nesstofu, má hafa það til marks um vatnaskil á leið þjóðarinnar frá braggabúskap til heimsmennsku.

Jónas Kristjánsson

DV

Hlaðborð

Veitingar

Útlendingar fá misjafnan viðurgerning við hlaðborð stóru hótelanna í Reykjavík. Gott er hlaðborðið á Hótel Esju, en einnig fremur gott á Hótel Loftleiðum. Lakara er það á Hótel Holiday Inn og lakast á Hótel Sögu.
Holiday Inn og Esja hafa til skamms tíma verið með sjávarréttahlaðborð, bæði í hádegi og að kvöldi. Saga og Loftleiðir hafa verið með hefðbundið hlaðborð og Loftleiðir aðeins með það í hádeginu.

Öfug hlutföll
verðs og gæða
Aðgangur að hlaðborði var ódýrastur, þar sem maturinn var beztur, á Hótel Esju. Þar kostaði hann 980 krónur í hádegi og 1380 krónur að kvöldi. Næst kom borðið á Sögu, 1290 krónur í hádegi og 1970 krónur að kvöldi. Síðan komu Loftleiðir með 1395 krónur í hádegi. Dýrast var loks Holiday Inn, þar sem hlaðborðið kostaði 1450 krónur í hádegi og 1950 krónur að kvöldi.
Í flestum tilvikum er heldur minna úrval í hádeginu en kemur fram í lýsingum hér að neðan.
Hlaðborðið í Esju er í veitingasalnum Laugaási, sem rekinn er af sömu mönnum og reka samnefnt veitingahús við Laugarásveg. Hlaðborðið á Loftleiðum er í veitingasalnum Lóni, á Sögu er það í veitingasalnum Skrúði og á Holiday Inn er það ýmist inni á Setri eða frammi í Lundi.
Í öllum þessum veitingasölum var þjónusta góð, enda veitt af lærðu fagfólki. Hvarvetna var tekið á móti gestum við innganginn og þeim leiðbeint eftir þörfum. Alls staðar var starfsfólk á sveimi við að hirða notaða diska, svo að gestir gætu fengið sér nýja diska, er þeir legðu til atlögu við nýja þætti hlaðborðsins.
Tæpast stóð þetta á Esju, enda var langsamlega mest að gera þar, mun meira en á hinum stöðum til samans.

Stæling á
smörgåsbord
Íslenzk hlaðborð eru angi af hinu sænska smörgåsbord, sem Norðurlönd virðast óvart hafa komið sér saman um, að væri gott samnorrænnt einkenni til að bjóða erlendum ferðamönnum.
Stundum er byrjað á súpu, en hefðbundið er að byrja á síldarréttum. Síðan er skipt um diska og farið í kalda rétti. Þá er skipt um diska fyrir heita rétti, fyrst sjávarrétti og síðan kjötrétti. Síðast eru ostar og eftirréttir.
Fólk verður að fara varlega í hina löngu röð rétta, sem tíðkast á hlaðborðum. Ekkert vit er í að bragða á öðru en því, sem því lízt bezt á, því að hitaeiningar rjúka annars upp úr öllu valdi. Það eru bara atvinnusmakkarar, sem neyðast til að sæta öllu gumsinu.
Vafasamt er, að síld eigi heima í þessari röð, þótt hún tilheyri smörgåsbord. Síld er svo bragðsterk, að hún yfirgnæfir þá rétti, sem koma á eftir, þannig að þeir virðast meira eða minna bragðlausir. Síld á heima í sérstakri síldarmáltíð út af fyrir sig, en ekki á hlaðborði.
Það má hafa til marks um lítinn skilning hugmyndafræðinga hlaðborðsins á matargerðarlist, að þeir skuli hafa gert síld að þætti hlaðborðs og meira að segja að upphafsþætti þess.

Sítrónusilungur
í Laugaási
Helzti galli sjávarréttahlaðborðsins í Laugaási Hótels Esju er, að þar er ekki boðið upp á neinn einasta eftirrétt, hvorki ost né sæturétt. Menn verða að kaupa hann sérstaklega, ef þeir vilja standa upp með sætt bragð eða ostabragð í munninum. Þar á ofan er framboð eftirrétta lítið á staðnum.
Sveppasúpan var nokkuð góð á Esju, með tvenns konar brauði. Síldarréttirnir voru góðir og fjölbreyttir, fimm talsins. Fiskikæfan var mjög bragðgóð, þótt hún fengi engin fegurðarverðlaun fyrir útlit. Steikt ýsa legin og borin fram köld var ekki góð. Graflax var góður og sítrónuleginn silungur mjög góður. Túnfiskpasta var næstum frambærileg.
Í heita borðinu voru margar fisktegundir, hver með sinni matreiðslu, steinbítur, ýsa, smálúða, silungur og fleira. Þetta var meiri fjölbreytni en boðin var á öðrum stöðum.
Sætsúr steinbítur var góður og smálúðan sæmileg. Blanda af hörpufiski og rækju var ekkert sérstök. Léttsteiktur silungur var nokkuð góður og saltfiskur ágætur. Þetta var eina hlaðborðið, sem bauð hinn þjóðlega saltfisk.
Í heild má segja, að þetta hlaðborð hafi ekki verið neitt afreksverk matargerðarlistar, en það hafði að geyma nóg af frambærilegum eða beinlínis góðum réttum.
Laugaás í Esju er notalegur staður, fremur þétt skipaður borðum. Mikið speglaverk gefur staðnum stækkaða ímynd. Gestir sitja í þægilegum armstólum við einföld, en snyrtileg borð með leðurmottum. Á kvöldin um helgar er góður og hófsamur hljómlistarmaður við vandað hljómborð.

Reyksvín
í Lóni

Á Loftleiðum var boðið upp á fjórar fiskikæfur og voru þrjár þeirra mjög góðar. Hreindýrakæfan var hins vegar bragðlaus. Síldarréttirnir tveir voru of þurrir. Reyktur lax, reyktur silungur og graflax voru allt vel heppnaðir réttir. Gellur voru hins vegar misheppnaðar, í súrum legi, sem hæfir gellum engan veginn. Blaðlaukssúpa var ómerkileg.

Hrásalat var ferskt og gott og sömuleiðis pastaréttur hlaðborðsins. Skinkutartalettur voru sæmilegar og sama má segja um kjöthakk. Heitt lambalæri var frambærilegt, en langbezt var reykt svínakjöt, mjög meyrt og gott.

Eftirréttir Lóns báru af öðrum réttum þess. Þar voru hæfilega þroskaðir ostar, svo sem camembert, en sjaldgæft er, að ostar séu rétt fram bornir í veitingahúsum landsins. Ennfremur voru þar fjölmargir ferskir ávextir, auk krækiberja, legin jarðarber og perur, svo og royal-búðingur í súkkulaðibolla.

Þótt Lón sé opinn staður, er hann ekki óþægilega ónæðissamur, enda er vítt milli borða. Stólar eru góðir og húsbúnaður allur hinn vandaðasti.

Athugið, að þetta hlaðborð er aðeins í hádeginu.

Graflax
á Setri

Mestur glæsibragur og mest handavinna lá að baki sjávarréttahlaðborðsins í Holiday Inn. Árangurinn var hins vegar ekki í samræmi við fyrirhöfnina, enda mest áherzla á útliti og minni á innihaldi.

Fiskurinn var þurr af langvinnri suðu, þar á meðal laxinn. Hið sama var að segja um rækjurnar, sem sízt mega við slíkri meðferð. Steiktur fiskur var þurr og skorpinn. Fiskikæfur af ýmsu tagi voru undantekningarlaust hvimleiðar, þar á meðal laxakúlubjakk. Innbakaður lax var sæmilegur. Beztur var graflax.

Setrið er að útliti fremur hugmyndasnauður hótelsalur. Frískara umhverfi er í Lundi, sem er alveg opinn inn í anddyri, eftir formúlu, er um nokkurt skeið hefur verið í tízku, svo sem einnig má sjá í Lóni og Skrúði.

Rækjur
í Skrúði

Kæfur Skrúðs voru bragðlausar með öllu, en fínt upp færðar. Rækjur og hörpufiskur í hlaupi voru aðallega gamaldags hlaup, sem er orðið sjaldséð nú til dags. Reyktur og grafinn lax var góður. Köld skinka og kalt lamb voru ekki í frásögur færandi.

Rækjur og síld voru góðir réttir úr kalda borðinu. Heita borðið var mun lakara. Þar var skraufaþurrt og grátt lambakjöt og enn lakara grísakjöt. Hvoru tveggja hafði verið misþyrmt með langri upphitun.

Eftirréttir voru ómerkilegir, einkum kryddblönduostar af ýmsu tagi. Þar voru þó melónur og tvenns konar vínber, svo og skyr. Búðingur var frambærilegur.

Þurrkur voru lélegar í Skrúði, en umbúnaður að öðru leyti góður. Nokkuð ónæði er af umgangi milli hótelanddyra. Staðurinn er hannaður í vetrargarðsstíl, en skortir plöntur til að vera notalegur sem slíkur. Stólar eru góðir eins og á öðrum stöðum, sem fjallað hefur verið fjallað um í þessari grein.

Bolli af espresso-kaffi kostar 170 krónur í Skrúði. Hann kostar 190 krónur í Lóni, 185 krónur í Setri og 150 krónur í Laugaási. Sem fyrr er hið bezta ódýrast.

Jónas Kristjánsson

DV

Sovét-Reykjavík

Greinar

Goðsögnin er hrunin um góða stjórn Reykjavíkurborgar og traust kerfi embættismanna hennar. Byggingarsaga Perlunnar á Öskjuhlíð og ráðhússins í Tjörninni sýnir lélega stjórn borgarinnar og ótraust kerfi embættismanna, reykvískum borgurum til mikils peningatjóns.

Raunar minnir Reykjavík mjög á kerfi, sem verið er að reyna að leggja niður í Rússlandi. Það er eins flokks kerfi með náinni sambúð embættismanna og Flokksins, sem leiðir til allsherjar ábyrgðarleysis og gífurlegrar sóunar á meðferð útsvars- og hitaveitupeninga.

Að mati þessa samtvinnaða kerfis Flokksins og framkvæmdavalds Reykjavíkur er enginn ábyrgur fyrir óhæfilega dýrri byggingarsögu þessara tveggja húsa. Fyrrverandi borgarstjóri er ekki ábyrgur og ekki heldur hinn litlausi borgarstjórnarmeirihluti hans.

Að mati þessa samtvinnaða kerfis er borgarverkfræðingur og hitaveitustjóri ekki heldur ábyrgir, ekki heldur verkefnisstjórar og hönnunarstjórar húsanna tveggja. Allt þetta kerfi verður látið standa óbreytt eins og ekkert hafi í skorizt, enda er ástandið næsta sovézkt.

Athyglisvert er, að kjarni varnarinnar fyrir óráðsíu stjórnmála- og embættismannanna, sem ráða fyrir Reykjavík, felst í, að gagnrýnendur séu andvígir mannvirkjum af þessu tagi yfirleitt og að fátt muni gleðja augað, ef músarholusjónarmið þeirra mundu ráða.

Að vísu eru sumir gagnrýnendur andvígir því, sem þeir kalla monthús. En aðrir eru einfaldlega andvígir vinnubrögðum, sem fela í sér, að kostnaðaráætlanir upp á hálfan þriðja milljarð hækka í tæpa fimm milljarða á skömmum tíma, þegar raunveruleikinn síast í ljós.

Svo virðist sem þessi tvö hús hafi meira eða minna verið hönnuð út í loftið og síðan notuð á byggingarstigi sem tilraunadýr fyrir æfingar hönnuða, í stað þess að hanna húsin fyrst og byggja þau svo. En þá hefði ekki verið hægt að reisa þau fyrir síðustu kosningar.

Meðan þessi teiknivinna með loftpressum stóð í blóma, gættu embættis- og stjórnmálamenn borgarinnar þess að veita varfærnar upplýsingar um fram kominn og áætlaðan kostnað. Þess vegna hefur hvert reiðarslagið komið í kjölfar annars á byggingartímanum.

Með vandaðri undirbúningi í samræmi við alþjóðlega staðla hefði mátt reisa húsin fyrir lægri upphæð, líklega fyrir um það bil hálfum milljarði minna af peningum útsvarsgreiðenda og hitaveitugreiðenda. Þannig hefði mátt hindra, að sukkið bættist ofan á montið.

Merkilegast í þessu öllu saman er, að greiðendur útsvars og hitaveitu í Reykjavík, þegnar Bubba kóngs, láta sér fátt um finnast. Þeir flykkjast í Perluna, dásama höfðingsskapinn að baki henni og hneykslast á, að menn séu að fárast um, þótt dýrðin “kosti eitthvað”.

Munurinn á Reykvíkingum og Rússum felst í, að hinir síðarnefndu hamast við að reyna að höggva sundur samtvinnað kerfi eins flokks og embættismanna, en hinir fyrrnefndu eru sáttir við að láta misþyrma sér í fjármálum. Þannig er Sovét-Reykjavík enn í blóma.

Þótt hinn nýi borgarstjóri hafi látið stöðva að sinni framkvæmdir við Perluna, bendir ekkert til, að hann hyggist breyta hinu sovézka ástandi. Hann hefur sérstaklega tekið fram, að verðlauna eigi framkvæmdastjórn hússins með því að leyfa henni að starfa áfram.

Montið og sukkið hefur þó haft það gott í för með sér, að horfin er goðsögnin um góða stjórn Reykjavíkur og kemur ekki aftur fyrr en sovézka kerfið leggst niður.

Jónas Kristjánsson

DV

Sæmd er gróði

Greinar

Þjóðum líður betur, ef þær halda reisn sinni. Þær eru sáttari við sjálfar sig en ella, ef þær haga sér þannig út á við, að til sóma er. Skiptir þá litlu, hvort fjárhags- eða efnahagstjón verður af sæmdinni eða ekki. Sumar þjóðir sæta hörmungum og jafnvel blóðbaði fyrir sóma sinn.

Er Íslendingar urðu fyrstir til að viðurkenna Eystrasaltsríkin án orðhengilsháttar, var almannarómur fyrir, að rétt hafi verið staðið að undirbúningi og niðurstöðu málsins. Menn létu sér lynda, að sovézki sendiherrann færi heim og að saltsíldaráhætta væri tekin.

Danir fylgdu fast á eftir og höfðu einnig sóma af sinni afstöðu. Svíar guldu hins vegar þáverandi ríkisstjórnar, þar sem fremstur fór forsætisráðherra, sem sagði sjónarmið Íslendinga óskiljanleg, og næstur utanríkisráðherra, sem fór hrakyrðum um frelsisbaráttu Litháa.

Viðskiptaáhætta Íslendinga bliknar svo vitanlega í samanburði við sómann, sem Eystrasaltsþjóðirnar hafa sjálfar af sinni sjálfstæðisbaráttu. Skiptir þá litlu, þótt miklar fjárhags- og efnahagsþrengingar hljótist að sinni af skilnaðinum við miðstýrt yfirríkið í austri.

Höfundur þessa leiðara var í síðustu viku í Eistlandi, þar sem sovézkir landamæraverðir stimpluðu vegabréfsáritun frá sendiráði eistneska lýðveldisins í Helsinki. Þessi stimplun var ljóst dæmi um, að yfirríkið hefur í raun viðurkennt núverandi fullveldi Eistlands.

Virka fólkið í Eistlandi er unga fólkið, sem hratt oki Ráðstjórnarríkjanna af baki sér. Hinum nýju fjölmiðlum er til dæmis stjórnað af ungu fólki, sem hafði hugrekki til að brjóta upplýsingum og skoðunum leið framhjá ritskoðurum og leynilögreglu og flokkskerfi.

Í krafti hugrekkis síns hefur unga fólkið tekið völdin í löndum Eystrasalts. Það gerir sér grein fyrir, að fátækt mun lengi enn verða almenn, en það hefur strax öðlazt þá reisn, sem skiptir öllu máli, þegar spurt er um, hvort þjóðir geti staðið undir sjálfstæði og fullveldi.

Ungur maður, fæddur í Englandi af eistneskri móður, fór úr góðu markaðsstarfi í London til að taka þátt í ævintýri Eystrasaltslanda, þótt hann vissi, að þar þarf skömmtunarseðla fyrir flestum nauðsynjum og að mánaðarlaun hans mundu nema 1200 íslenzkum krónum.

Þessi maður bar höfuðið hátt eins og margt annað ungt fólk í Eystrasaltslöndunum um þessar mundir. Það hefur ekkert handa milli, en á framtíðina fyrir sér, óflekkað af aðild að Flokknum illa, sem lá eins og mara forneskjunnar yfir allri Austur-Evrópu til skamms tíma.

Þótt margir stjórnmálamenn Eistlands hafi sýnt mikið hugrekki, fer ekki milli mála, að enginn raunsæismaður kemst með tærnar þar sem hugsjónamaðurinn Landsbergis í Litháen hefur hælana. Eistlendingar vita, að hann var sá, sem aldrei vék einn millímetra af leið.

Þjóðir Eystrasaltsríkja munu komast langt á kraftinum, sem fylgir reisn og stolti. Vegartálmar úr granítbjörgum við þinghúsið í Tallinn verða um langan aldur veglegri minnisvarðar en höggmyndir hins félagslega raunsæis, sem Eistar munu fljótlega færa á brott.

Gaman er að komast að raun um, að unga fólkið, sem er að taka völdin í Eistlandi, gerir sér ljósa grein fyrir frumkvæði Íslands í máli þeirra. Það veit, að Ísland braut ísinn, þegar önnur Norðurlönd tvístigu undir sænskri forustu og umheimurinn tilbað Gorbatsjov.

Ekki er að efa, að við erum enn sáttari við okkur en áður að undirritaðri viðurkenningu á fullveldi Eystrasaltsþjóða. Gróði verður ekki alltaf mældur í fé.

Jónas Kristjánsson

DV