Author Archive

Undraland

Greinar

Alþingi er komið fram yfir fjárlög í útgjöldum fyrsta mánaðar ársins, af því að fundir þess hafa verið fleiri og lengri en gert var ráð fyrir. Töluverð næturvinna starfsliðs og nokkurt pappírsflóð fylgir næturfundum á borð við þá, sem hafa verið tíðir að undanförnu.

Ef sérkennileg hugmynd fjármálaráðuneytisins um brottfall launagreiðslna við slíkan framúrakstur hefði náð fram að ganga, væru alþingsmenn væntanlega fyrstu fórndardýrin. En óneitanlega hefði verið gaman að sjá hugmyndina framkvæmda á launum þingmanna.

Sumt gerist skondið við þessa miklu fundi Alþingis. Þar þegir heilbrigðisráðherra þunnu hljóði vikum og raunar mánuðum saman, en stekkur svo í miðri atkvæðagreiðslu upp í ræðustól til að veitast á ómaklegan og ósmekklegan hátt að forvera sínum í embætti.

Ráðamenn Alþingis ættu að velta fyrir sér, hvort það kunni ekki að skaðast af tíðum sjónvarpssendingum frá undarlegum atburðum á Alþingi. Stundum styðja þessar myndir þá skoðun sumra úti í bæ, að Alþingi sé eins og tossabekkur eða málfundur í gagnfræðaskóla.

Undarlegir atburðir gerast víðar en á Alþingi. Eitt helzta hermangsfyrirtækið fann leið til að dreifa 900 milljónum til hluthafa sinna á sama tíma og ríkisspítalarnir voru í óða önn að skera niður 550 milljón króna útgjöld með því að leggja niður ýmsa þjónustu.

Oft hefur verið krafizt þess, að hermang verði lagt niður hér á landi og í stað þess boðin út verkefni á heiðarlegan hátt. 900 milljónirnar hljóta að ýta undir þá skoðun, að tímabært sé að hreinsa þjóðfélagið af þeim svarta bletti, sem hermangið hefur sett á það.

Sumir óvæntir atburðir nýbyrjaðs árs eru ekki eins sorglegir og þessi. Það hefur til dæmis gerzt sennilega í fyrsta skipti, að hagsmunaaðilar, sem telja að sér vegið í sparnaðaráformum stjórnvalda, virðast átta sig á, hvers vegna þeir lenda undir niðurskurðarhnífnum.

Rektor Háskóla Íslands og að minnsta kosti einn skólastjóri hafa kvartað um, að stjórnvöld séu að draga úr menntun landsmanna, af því að þau þori ekki að takast á við hið raunverulega fjárhagsvandamál þjóðfélagsins, gífurlegan peningaaustur í landbúnað.

Þetta er einmitt ástæðan fyrir árás stjórnvalda á menntun eins og árás þeirra á öryrkja, gamalt fólk, sjúklinga og barnafólk. Á samdráttartíma verða smælingjarnir undir, þegar varðveitt er velferðarkerfi í atvinnulífinu. Þjóðin hefur hingað til neitað að sjá þetta.

Ummæli skólastjóranna tveggja eru óvenjuleg og gleðileg. Hins vegar mun þorri skólamanna ekki enn sjá neitt samhengi milli landbúnaðarstefnu og smábyggðastefnu stjórnvalda annars vegar og niðurskurðar í skólamálum hins vegar. Orsakasamhengi eru óvinsæl.

Skoðanakannanir hafa sýnt, að meirihluti þjóðarinnar er sæmilega sáttur við velferðarkerfi atvinnulífsins, sem hefur náð fullkomnun í landbúnaði. Þess vegna er ekki hægt að segja annað en, að þjóðin eigi fyllilega skilið þá útreið, sem hún er að fá hjá stjórnvöldum.

Á sama tíma og hremmingar kerfisins koma niður á öryrkjum, gamalmennum, námsmönnum, sjúklingum og barnafólki safnast þjóðin saman á fjölmenna fundi, ekki til að finna lausn á vanda velferðarinnar, heldur til að mótmæla aðild Íslands að meira viðskiptafrelsi.

Þjóð, sem rökræðir með frásögnum af skældum hrútum, er hún nefnir í höfuð fólks, sem henni er illa við, hefur nákvæmlega það Alþingi, sem hún á skilið.

Jónas Kristjánsson

DV

Minna gildi herstöðvar

Greinar

Gildi herstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli hefur snöggminnkað og mun áfram minnka á næstu árum, ef ekki verða snögg skipti á stjórnarfari í Rússlandi. Eftirlit með hernaðarskipum, -kafbátum og -flugvélum verður ekki eins brýnt og var á dögum Sovétríkjanna.

Lýðræðislegt Rússland hefur erft hernaðarmátt Sovétríkjanna í Murmansk og á Kólaskaga. Þaðan hafa komið og munu koma þau hernaðartæki, sem talið hefur verið og talið verður skynsamlegt að fylgjast með í nágrenni við íslenzku hliðin í Norður-Atlantshafi.

Meðan enn er hætta á bakslagi í Rússlandi heldur herstöðin á Keflavíkurflugvelli hluta af fyrra gildi sínu. Mikil óánægja er með verðhækkanir í Rússlandi. Afturhaldsöflum í her og kommúnistaflokki landsins gæti tekizt að virkja hana til gagnbyltingar.

Ef Rússum tekst að varðveita nýfengið lýðræði, dregur smám saman úr möguleikum afturhaldsaflanna á að hrifsa til sín völd. Um leið minnkar hættan við íslenzku hliðin á Norður-Atlantshafi og verður fljótlega fyrst og fremst fræðilegs eðlis, en ekki raunveruleg.

Átök í sunnanverðum erfðaríkjum Sovétríkjanna og á Balkanskaga skipta litlu hér norður í höfum. Erfðadeilur og önnur eftirmál heimsveldishrunsins hafa ekki og munu ekki hafa áhrif á öryggi á Íslandi og hafsvæðum þes. Sá vandi verður austar og sunnar í álfunni.

Staðreyndin er einfaldlega sú, að dauður er “vondi” karlinn í tilveru Atlantshafsbandalagsins og varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Þetta bakar bandalaginu tilvistarvanda og varnarliðinu tilvistarhrun. Þannig veit enginn, hvað átt hefur, fyrr en misst hefur.

Í sjónmáli er nýr óvinur vestursins. Sá verður erfiðari viðfangs en Sovétríkin, því að hann hefur meiri innri sannfæringarkraft og hefur önnur markmið en hinn fyrri óvinur. Þetta er Íslam, eini marktæki hemillinn á útbreiðslu vestræns lýðræðis um allan hnöttinn.

Hættan frá Íslam kemur einkum fram á suðurmörkum hins vestræna heims, við Miðjarðarhaf og Svartahaf, fjarri Íslandi og varnarliði þess. Atlantshafsbandalagið mun varðveita tilverurétt sinn með því að beina sjónum sínum frá norðri til þessara suðlægu átta.

Hryðjuverkahætta, sem einkum stafar frá Íslam, mun einnig fara vaxandi með aukinni spennu vesturs og Íslams. Hættan er ekki bundin við suðurmörk vestræns lýðræðis. Hana getur borið niður hvar sem er, til dæmis á Íslandi, en einkum í stórborgum Vesturlanda.

Skynsamlegt væri að beina viðbúnaði á Keflavíkurflugvelli í auknum mæli gegn hugsanlegum árásum fámennra hryðjuverkahópa. Sá viðbúnaður hlýtur að vera allt annars eðlis en hinn hefðbundni viðbúnaður, sem var miðaður við atómstríð vesturs og austurs.

Minnkandi gildi herstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli og breytt viðfangsefni í vörnum landsins munu kalla á endurskoðun varnarmála. Betri efnisrök verða fyrir því, að Íslendingar taki sjálfir að sér eftirlit og hryðjuverkavarnir að töluverðu eða öllu leyti.

Þar sem Norður-Atlantshafið er ekki lengur í spennumiðju alþjóðamála, er komin ný staða, sem kann að auðvelda Bandaríkjunum og Atlantshafsbandalaginu að komast að raun um, að bezt sé, að Íslendingar taki við leifunum af hlutverki Keflavíkurflugvallar.

Ekki þýðir að láta eins og ekkert hafi í skorizt, þótt kalda stríðið hafi hrunið. Gildi Keflavíkurflugvallar verður óhjákvæmilega annað og minna en verið hefur.

Jónas Kristjánsson

DV

Án virðingar og aga

Greinar

Ríkisstjórnin nýtur ekki virðingar og trausts svokallaðra stuðningsmanna sinna á Alþingi. Þeir standa margir hverjir uppi í hárinu á henni. Hún á í erfiðleikum í hverju málinu á fætur öðru, allt frá sjómannaafslætti og námsgjöldum yfir í síldarsölu og sölu Ríkisskipa.

Verkstjórn af hálfu stjórnarflokkanna er ekki greindarleg á því þingi, sem nú stendur. Óþarfa yfirgangur þingforseta og þingflokksformanna gagnvart stjórnarandstöðu, til dæmis í vali í stjórnunarstöður, veldur því, að samstarf um rennsli mála er lítið sem ekkert.

Er oddvitar stjórnarflokkanna kjósa að hunza stjórnarandstöðuna með þeim hætti, sem gerðist í haust, er þeim mun nauðsynlegra fyrir þá að hafa aga á sínum eigin mönnum. Það hefur brugðizt og nokkrir þingmenn stjórnarflokkanna hlíta ekki hefðbundnum aga.

Mál eru orðin svo brengluð á Alþingi, að ein þingnefnd er farin að senda bænarskrár út í bæ eins og hver annar þrýstihópur. Hún hefur beðið Seðlabankann um að skipta um skoðun á því, hvort rétt sé af ríkinu að ábyrgjast síldarkaupalán Landsbanka til Rússa.

Hefðbundið er, að þingnefndir taki við frumvörpum og tillögum, sem koma fram; kalli á munnlegar og skriflegar athugasemdir utan úr bæ; síi sjónarmið þrýstihópanna; og geri síðan breytingar á þessum frumvörpum og tillögum fyrir endanlega afgreiðslu þeirra á þingi.

Þingnefndir eru þjónustunefndir þings, innanhússnefndir þess. Ef þær taka nú upp þann sið að fara sjálfar að þrýsta á aðila úti í bæ, er hætt við, að sumir aðilar úti í bæ hætti alveg að skilja, hvaðan á sig stendur veðrið. Hvernig ber að túlka bænarskrár þingnefnda?

Bandormur ríkisstjórnarinnar er lykillinn að framkvæmd stefnu hennar á þessu ári. Hann tafði afgreiðslu fjárlaga fyrir jól og er sjálfur enn ekki kominn í gegn. Dapurlegt gengi hans er bezta dæmið um, að ríkisstjórnin hefur ekki náð tökum á lífi sínu og vegferð sinni.

Tímabært er, að ráðherrar stjórnarflokkanna, verkstjórar þeirra á Alþingi og uppreisnargjarnir þingmenn þeirra komi saman til að finna nýjar vinnureglur um meðferð ágreiningsefna innan stjórnarliðsins, ef hinar gömlu duga ekki lengur í nýju virðingarleysi.

Þrennt þarf að koma til. Þingmenn verða að reyna að hafa hemil á sjálfstæði sínu eða fella það í einhvern formfastan farveg, sem gerir kleift að starfrækja ríkisstjórn í þessu landi. Þá þarf að vera á Alþingi verkstjórn, sem tengir saman ríkisstjórn og þingmenn.

Í þriðja lagi verður ríkisstjórn að starfa þannig, að hún njóti sæmilegs trausts, bæði inni á þingi og úti í bæ. Það gerir þessi ríkisstjórn alls ekki. Raunar hefur hún hafið feril sinn að þessu leyti með meiri hrakföllum en nokkur önnur ríkisstjórn á síðasta mannsaldri.

Ráðherrarnir eru persónulega ekki nógu siðaðir og hafa til dæmis ekki breytt undarlegum tekjuöflunarleiðum sínum. Þeir hafa ekki afnumið ferðahvetjandi greiðslur til sín. Sumir eru ölvaðir á almannafæri. Allt þetta smækkar ráðherrana í almenningsálitinu.

Í niðurskurði ríkisgeirans hefur ríkisstjórnin ekki treyst sér til að leggja til atlögu við hina sterku, það er að segja forréttindagreinar atvinnulífsins, og beinir spjótum sínum eingöngu að hinum veiku, börnum, gamalmennum, sjúklingum, öryrkjum og námsmönnum.

Siðblind ríkisstjórn með brenglaða útgáfu af frjálshyggju nýtur ekki trausts og nær ekki þeim aga á Alþingi, sem framkvæmdavaldi er brýnn í þingræðiskerfi.

Jónas Kristjánsson

DV

Bush skilur ekki útlönd

Greinar

Saddam Hussein og flokkur hans eru enn við völd í Írak, þótt ár sé liðið frá gagnárás bandamanna í stríðinu við Persaflóa. Sá maður, sem Bush Bandaríkjaforseti kallaði Hitler nútímans, heldur um þessar mundir sigurhátíðir í Bagdad til að minnast sigurs í þessu stríði.

Þegar fyrri bandamenn hófu gagnárás gegn Hitler á sínum tíma, hættu þeir ekki fyrr en þeir höfðu komið honum frá völdum og tryggt lýðræðissinnum völd í Þýzkalandi. Það land er nú orðið að þungamiðju í vestrænu samfélagi. En Írak er verra en það var.

Það var persónuleg ákvörðun Bush Bandaríkjaforseta að stöðva gagnárásina á Saddam Hussein og flokk hans. Hann gerði það gegn ráðum bandamanna og gegn ráðum sinna eigin herstjóra. Hann ákvað að lýsa yfir sigri, sem ekki var tímabær, og fara heim með liðið.

Það var líka persónuleg ákvörðun Bush Bandaríkjaforseta að hvetja Kúrda til uppreisnar gegn Saddam. Þeir fóru eftir því og reiknuðu með aðstoð hans. En þá leyfði hann Saddam Hussein að halda landher sínum og flugher undir vopnum til að reka Kúrda á flótta.

Hin ótímabæru stríðslok voru alvarleg mistök manns, sem skortir skilning á alþjóðamálum. Að hann skyldi þar á ofan verða upphafsmaður að nýjum harmleik Kúrda er ekkert annað en stríðsglæpur, sem mannkynssagan mun láta Bush standa reikningsskap fyrir.

Stríð Bush Bandaríkjaforseta við Persaflóa leysti ekki pólitísk vandamál þar og allra sízt í Kúveit. Þar er aftur komin til valda fádæma íhaldssöm furstaætt, sem einbeitir sér að því að brjóta niður lýðræðistilhneigingar, er brutust út í andófinu gegn hernámi Íraka.

Utanríkismál Bush eru raunar samfelld harmsaga. Nýjasti ósigur hans var sneypuförin til Japan, þar sem hann mætti með lið vælukjóa úr atvinnulífinu á borð við Lee Iacoca og uppskar fyrirlitningu Japana, sem vita, að vandræði Bandaríkjanna eru heimatilbúin.

Í júní í fyrra æsti utanríkisráðherra Bandaríkjaforseta Serba til stríðs gegn Slóvenum og Króötum með yfirlýsingu í Belgrad um, að varðveita bæri einingu Júgóslavíu. Stjórn Bush hefur verið allra stjórna síðust að átta sig á, að dagur sambandsríkja er liðinn.

Í ágúst í fyrra lýsti Bush Bandaríkjaforseti því sjálfur yfir í höfuðborg Úkraínu, að framtíð þess lands væri falin í sovézka sambandinu, sem nú hefur verið afnumið. Allt fram á síðasta dag hélt Bush dauðahaldi í það pólitíska lík, sem Gorbatsjov hefur lengi verið.

Bush og ráðgjafar hans hundsuðu sjálfstæðisvilja Eystrasaltsþjóða alveg eins og Úkraínumanna, Slóvena og Króata. Hvarvetna í Austur-Evrópu hefur stjórn hans verið síðust allra að átta sig á óumflýjanlegum breytingum. Hvergi hefur örlað á bandarískri forustu.

Bush, ráðgjafar hans og landsmenn eru haldnir þeirri firru, að hann sé hæfur í utanríkismálum. Svo langt gengur auðnuleysi hans á því sviði, að hann hefur misreiknað einmitt það land, sem hann ætti að þekkja bezt, því að hann var sendiherra þar. Það er rauða Kína.

Bush lætur hina óvenjulega ógeðfelldu valdamenn í Kína njóta beztu viðskiptakjara í Bandaríkjunum. Þeir launa honum með því að gera ekki neitt af því, sem hann mælir með, og reyna fremur að ganga þvert á ráðleggingar hans. Þeir hafa betur í þeirri skák.

Vesturlöndum kemur illa, að sjálft forusturíki þeirra skuli smám saman vera að afsala sér forustu með því að vera kerfisbundið úti að aka í utanríkismálum.

Jónas Kristjánsson

DV

Skammtímamenn

Greinar

Churchill og de Gaulle löguðu ekki skoðanir sínar að því, sem þeir lásu í skoðanakönnunum. Þeir héldu fast við sitt og sættu sig við að fara frá völdum. Síðan kölluðu þjóðir þeirra aftur á þá, þegar harðnaði á dalnum. Þess vegna eiga þeir báðir sess í mannkynssögunni.

Nú á tímum er minna um, að þjóðarleiðtogar leiði þjóðir. Í vaxandi mæli eru forustumenn þjóða leiddir af stundarfyrirbærum á borð við skoðanakannanir. Þeir hafa engin sérstök sjónarmið, en reyna að haga seglum á þann hátt, að þeir vinni næstu kosningar.

Skammtímamenn og einnota hafa í auknum mæli leyst langtímamenn af hólmi. Margir stjórnmálamenn nútímans beygja sig eftir meintum þörfum hvers tíma, þar á meðal duttlungum líðandi stundar og sérhagsmunum þeim, sem háværastir og frekastir eru hverju sinni.

Gott dæmi um breytinguna er tollfrelsisklúbburinn GATT, sem komið var á fót af víðsýnum stjórnmálamönnum eftir stríð. Þeir sáu, að allar þjóðir mundu græða á að lækka tolla og minnka aðrar samkeppnishindranir, þótt einstakir sérhagsmunir yrðu að víkja.

Nú vantar þessa yfirsýn. Stjórnmálamenn, allt frá Evrópubandalaginu til Íslands, eru ófærir um að þróa GATT áfram til enn meiri framtíðargróða fyrir alla. Þeir eru þvert á móti fastir á bólakafi í þjónustu við mjög þrönga sérhagsmuni. Þeir eru að drepa GATT.

Ætla mætti, að stjórnmálamenn, sem hafa náð langt, öðluðust yfirsýn með því að hugleiða stöðu sína í sögunni. Ætla mætti, að þeir leiddu hugann að því, hvað verði sagt að þeim látnum eða hvað verði sagt um þá á næstu öld. Ætla mætti, að þeir vildu eignast orðstír.

Í stað þess eru þeir uppteknir við skammtíma á borð við háværa þrýstihópa, sveiflu í næstu skoðanakönnunum eða í mesta lagi niðurstöðu næstu kosninga. Þeir vilja sigra í bardögum og gera það oft, en tapa styrjöldunum að baki. Þeir minna á Phyrros og Hannibal.

Iðkendur stjórnmála eru farnir að meta árangur sinn eftir því, hvernig þeir geti sloppið fyrir horn frá degi til dags. Þeir hafa enga þolinmæði, ekkert úthald til að spá í, hver verði staða mála að tíu eða tuttugu árum liðnum. Þeir lifa í skammtímanum og velkjast um í honum.

Bandaríkin eru lengst komin á þessari braut. Þar er forseti, sem hefur enga yfirsýn eða siðferðiskjarna, en getur unnið kosningar. Þar er atvinnulífinu meira eða minna stjórnað af mönnum, sem ekki sjá lengra en til næsta aðalfundar, næstu birtingar reikninga.

Af þessum ástæðum fara Bandaríkin halloka í viðskiptasamkeppni við Japan. Af þessum ástæðum er þar í landi rekin hallastefna í efnahagsmálum, sem byggist á að eyða því í dag, sem aflast kann á morgun. Þessi stefna kom með Reagan og hefur haldizt með Bush.

Okkar menn fara í humátt á eftir þessu. Þeir hrökkva í kút í hvert sinn, sem þröngir sérhagsmunir reka upp vein. Þeir grípa skjálfandi höndum um niðurstöður skoðanakannana. Þeir eru svo einnota, að þeir sjá varla fram til næstu kosninga. Þeir bara sitja meðan sætt er.

Ráðherrar þessarar stjórnar og nokkurra næstu á undan henni hafa flestir sérhæft sig í að taka tillit til þrýstihópa og bjarga stjórnarsetu sinni fyrir horn frá degi til dags. Þeir berja ekki í borðið og segja nei, líklega af því að þá skortir grundvallarsjónarmið.

Ráðamönnum ber að stjórna og standa og falla með gerðum sínum. Reyni þeir bara að sitja, er hætt við að orðstír þeirra verði lítill í eftirmælum sögunnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Sjálfspyndingarstefna

Greinar

Fáir rísa upp til andmæla, þegar stjórnvöld bregða hnífi sínum á kjör sjúklinga, gamals fólks, öryrkja og námsmanna. Allt ætlar hins vegar af göflunum að ganga, þegar stjórnvöld eru að reyna að spara eitthvað á sviði byggðamála og annarra atvinnubótamála.

Það eru helzt starfsmenn þeirra stofnana, sem niðurskurðurinn beinist gegn, sem rísa upp til andmæla, svo sem kennarar og skólastjórar eða læknar og hjúkrunarkonur. Meirihluti almennings í landinu lætur sig hins vegar litlu varða um fjármál þessara stofnana.

Þetta er meginskýringin á, að ríkisstjórninni hefur tekizt eða er að takast að ná fram niðurskurði í heilbrigðismálum, tryggingamálum og menntamálum, sem nemur nokkur hundruð milljónum króna hér og þar. Þetta eru nefnilega mjúku málin, sem þjóðin hafnar.

Ríkisstjórninni tekst hins vegar ekki að fresta borun gata í fjöll eða atvinnubótavinnu í ríkisframkvæmdum. Hún bakar sér andstöðu meirihluta fólks, ef hún reynir að hrófla við ríkisrekstri landbúnaðarins. Fjármálaumræðan á Alþingi endurspeglar þessar staðreyndir.

Verst láta Íslendingar, þegar senda þarf álit ríkisstjórnarinnar á tillögum GATT-forstjórans um aukna og ódýrari strauma vöru og þjónustu um heiminn. Þá eru haldnir fundir um allt land til að koma í veg fyrir, að neytendastefna GATT nái fram að ganga hér á landi.

GATT er tolla- og viðskiptafélag rúmlega 100 ríkja. Níu af hverjum tíu krónum heimsviðskipta eru á sviðum, sem þessi stofnun lætur til sín taka. Hún er sjálfur hornsteinn þeirrar velmegunar, sem alþjóðleg viðskipti hafa fært Vesturlöndum á síðustu áratugum.

Það er meira eða minna fyrir tilstilli GATT, að ekki er innflutningsbann á íslenzkum fiskafurðum í öðrum löndum til að vernda sjávarútveg. Það er meira eða minna fyrir tilstilli GATT, að ekki eru háir tollar á íslenzkum fiski til að vernda útveg í öðrum löndum.

Engin þjóð í heiminum hefur grætt eins mikið á GATT og Íslendingar, ef miðað er við íbúafjölda. Engin þjóð á eins mikið undir því, að stefna GATT í utanríkisviðskiptum haldi áfram að eflast, en koðni ekki niður í nýju andrúmslofti verndarstefnu og viðskiptastríðs.

Í fimm ár hefur verið þjarkað án árangurs í GATT um frekari útvíkkun frelsis. Hún hefur strandað á sérhagsmunum, einkum landbúnaðar, sem víða um heim eru teknir fram yfir almannahagsmuni. Tillaga forstjórans er úrslitatilraun til að knýja fram niðurstöðu.

Þegar sjálf tilvera GATT er í húfi og heimsbyggðin stendur andspænis hættu á aukinni verndarstefnu og nýju viðskiptastríði, koma Íslendingar saman á hverjum fundinum á fætur öðrum til að heimta, að Ísland taki þátt í að grafa undan tillögum GATT-forstjórans.

Það er dæmigert fyrir Íslendinga að láta sig litlu skipta, þótt rifuð séu segl í heilbrigðismálum, velferðarmálum og menntamálum, svo skiptir nokkrum hundruðum milljóna, en vilja ekki láta snerta á milljarðasparnaði í velferðar- og verndarkerfi í atvinnulífinu.

Það er dæmigert fyrir okkur, sem höfum ekki efni á núverandi úthaldi í heilbrigðisstofnunum, elli- og örorkupeningum, svo og í skólahaldi, að við höfum efni á að vernda fortíðina í atvinnumálum og stuðla að sundrungu í alþjóðaviðskiptum, sem skaðar fiskútflutning.

Ef stjórnvöld taka þátt í að bregða fæti fyrir lokatilraun GATT-forstjórans, haga þau sér samkvæmt þjóðarvilja, sem vill sjálfspyndingu, en ekki langtímagróða.

Jónas Kristjánsson

DV

Höfuðóvinurinn er íslam

Greinar

Íslam verður Vesturlöndum og hugmyndaheimi okkar hættulegri höfuðóvinur en Sovétríkin voru. Í stað járntjalds um þvera Evrópu er að myndast öflugra tjald, sem liggur um þvert Miðjarðarhaf og Svartahaf, milli Vesturlanda í norðri og íslamskra landa í suðri.

Roðinn í austri varð að gjalti í ljóma Vesturlanda, enda var ágreiningurinn fremur um leiðir en markmið. Sovétríkin gáfust upp, þegar ljóst varð, að kerfi þeirra var lakari leið til að ná sama árangri og Vesturlönd kepptu að. Austrið rann inn í vestrið á síðasta ári.

Íslam er annars eðlis en austrið. Múhameð spámaður býður annars heims trúarbrögð í stað þessa heims trúarbragða Marx spámanns og arftaka hans. Múhameð býður hugmyndafræði, sem er í mikilli sókn í þriðja heiminum og etur þar til kapps við vestræna hugmyndafræði.

Lýðræði í vestrænum skilningi á erfitt uppdráttar í heimi íslams, þótt það renni ljúflega um nærri alla Austur-Evrópu og búi við vaxandi gengi í þeim hluta þriðja heimsins, sem ekki er íslamskur. Þessi þröskuldur milli vesturs og íslams er alls ekki að lækka.

Í sumum ríkjum íslams er valdabarátta milli vestrænt hugsandi fólks og strangtrúarmanna. Í Tyrklandi eru völdin í höndum hinna vestrænu og í Egyptalandi eru þeir í ótryggri valdastöðu. Víðast annars staðar í heimi íslams eru strangtrúarmenn í öflugri sókn.

Þeir unnu mikinn kosningasigur í fyrri umferð þingkosninga í Alsír. Skoðanakannanir benda til, að í seinni umferðinni nái þeir nægilegum meirihluta til að breyta stjórnarskránni. Og það var einmitt kosningamál þeirra að breyta Alsír í klerkaveldi á grundvelli Kóransins.

Þetta mun í framkvæmd leiða til hörkulegs réttarfars og villimannlegra refsinga að mati Vesturlandabúa. Það mun leiða til vaxandi ójafnaðar milli karla og kvenna. Það mun leiða til markvissrar herferðar gegn vestrænu gildismati í efnahagsmálum og mannréttindamálum.

Armar íslams teygja sig líka til Vesturlanda. Þekktur rithöfundur verður að fara huldu höfði á Vesturlöndum, af því að klerkar íslams hafa lýst hann réttdræpan og hafa lagt fé til höfuðs honum. Vesturlönd geta ekki tryggt honum eðlilegt líf á grunni vestræns öryggis.

Svo langt ganga þessi áhrif, að íslamskir trúarleiðtogar á Vesturlöndum taka undir morðhótanir klerkanna. Eftir áramótin ítrekaði íslamskur trúarleiðtogi í Bretlandi, að íslömum væri skylt að hafna brezkum lögum, ef þeir telja þau brjóta í bága við reglur íslams.

Ástandið er orðið alvarlegt, ef ríkisborgarar í vestrænum ríkjum lýsa opinberlega yfir, að fólk eigi ekki að taka mark á lögum viðkomandi ríkis. Slíka leiðtoga ber hiklaust að svipta borgararétti og senda til íslamskra klerkaríkja, þar sem þeir eiga betur heima.

Vesturlönd mega ekki verða svo lin, að þau sætti sig við, að eigin borgarar hvetji til beinna brota á lögum og stjórnarskrá. Hugmyndaheimur Vesturlanda gerir ráð fyrir, að andóf og önnur andstaða við ríkjandi reglur fari eftir fastmótuðum leikreglum vestræns lýðræðis.

Vesturlönd þurfa líka að vera viðbúin að taka afstöðu til straums fólks, sem mun flýja ríki íslams af efnahagslegum og trúarlegum ástæðum. Vaxandi klerkaveldi mun fylgja aukin grimmd og aukin fátækt, sem mun ýta við fólki, er telur sér henta betur vestrænt líf.

Erfiðast verður að fást við íslamska hryðjuverkamenn, sem munu koma sér upp skæðari vopnum, þar á meðal atómsprengjum, er rúmast í ferðatöskum.

Jónas Kristjánsson

DV

Einokun í jólagjöf

Greinar

Jólagjöf utanríkisráðherra og ríkisstjórnarinnar til þjóðarinnar var fjögurra ára framlenging á einkarétti Flugleiða til afgreiðslu á vöruflugi á Keflavíkurflugvelli. Að sögn talsmanns Flugleiða er framlengingin á svipuðum nótum og fyrri einokunarsamningur.

Flugleiðir hafa notað þessa einokun til að reka brott þau flugfélög, sem hafa reynt að koma á fót ódýru vöruflugi milli Íslands og fjarlægra landa. Þannig hafa Flugleiðir á síðustu árum losnað við Flying Tigers, Pan American og Federal Express af Keflavíkurflugvelli.

Lág farmgjöld í flugi eru helzta forsenda þess, að við getum komið dýrustu sjávarafurðum okkar á beztu markaði í fjarlægum löndum. Án þeirra getum við ekki nýtt Japansmarkað að neinu gagni, þann markað, sem að öðru leyti virðist hafa mesta þróunarmöguleika.

Lág farmgjöld í flugi eru líka helzta forsenda þess, að við getum komið upp fríiðnaðarsvæði við Keflavíkurflugvöll. Engum erlendum forstjóra mun detta í hug að ræða við Íslendinga um notkun slíks svæðis nema tryggt sé frjálst samkeppnisverð í vöruafgreiðslu.

Það er náttúrulögmál í viðskiptum, að lág gjöld þrífast ekki við einokun. Sú staðreynd hefur lengi verið kunn á Vesturlöndum og upp á síðkastið einnig í Austur-Evrópu. Þess vegna er alls staðar beitt samkeppni til að útvega lægsta verð, sem fáanlegt er hverju sinni.

Aðeins hér á landi láta embættismenn og stjórnmálamenn sér detta í hug að hægt sé á einhvern annan hátt að finna lágt verð. Hér á landi telja valdamenn enn frambærilegt, að unnt sé að láta verðútreikninga og meinta sanngirni koma í stað verðmyndunar í samkeppni.

Ekki hefur enn verið í alvöru reynt að koma á fót einokun Eimskipafélags Íslands á vöruafgreiðslu í Reykjavíkurhöfn. Önnur skipafélög mega afgreiða sig sjálf og óháðir aðilar geta boðið vöruafgreiðslu hverjum sem er. Þannig ætti þetta að vera á Keflavíkurvelli.

Í hinum nýja einokunarsamningi er ákvæði um endurskoðun, ef komið verði á fót fríiðnaðarsvæði við Keflavíkurflugvöll. Þar kann að vera undankomuleið fyrir síðari ríkisstjórn, sem hugsanlega verður ekki eins fjandsamleg frjálshyggju í atvinnulífinu og þessi.

Að vísu þyrfti slík ríkisstjórn að sannfæra erlenda aðila, sem hugsanlega vildu taka þátt í fríiðnarsvæði, um, að hún muni falla frá ástarsambandinu, sem einkennt hefur samlíf Flugleiða og hverrar ríkisstjórnarinnar á fætur annarri. Og það verður afar erfitt.

Af biturri reynslu allra erlendra aðila, sem hafa reynt að koma upp ódýru vöruflugi til Íslands og frá því, munu aðrir draga þá ályktun, að íslenzkum stjórnvöldum sé ekki treystandi til að leyfa markaðslögmálum að njóta sín í vöruafgreiðslu á Keflavíkurflugvelli.

Í hinum nýja einokunarsamningi er ekkert ákvæði um endurskoðun, ef íslenzkur sjávarútvegur uppgötvar, að einokunin kemur í veg fyrir eðlilega þróun í tækni Íslendinga við að koma sjávarafurðum í sem hæst verð á erlendum markaði. Menn verða að bíða í fjögur ár.

Einokunarsamningurinn sýnir, að valdakerfið tekur hagsmuni Flugleiða fram yfir hagsmuni almennings og atvinnuvega. Það kemur líka fram í einokun á flugleiðum innanlands og utan, í takmörkunum á leiguflugi, svo og í undanþágum frá greiðslu ýmissa gjalda.

Með nýja einokunarsamningnum hefur utanríkisráðherra og ríkisstjórnin lýst frati á strauma frjálsræðis, sem einkenna atvinnulíf umheimsins í auknum mæli.

Jónas Kristjánsson

DV

Amsterdam göngur

Ferðir

1. ferð:

Grachten

Sú ferð, sem nýkomnir ættu að byrja á, er raunar engin gönguferð, heldur þægileg bátsferð um Grachten, síki borgarinnar. Þannig kynnumst við Amsterdam frá því sjónarhorni, sem áður fyrr var hið eðIilega. Við sjáum hana eins og siglandi gestir fyrri alda sáu hana.

Auk þess er bátsferð um síkin ágæt aðferð til að átta sig á lögun borgarinnar og afstöðu ýmissa merkisstaða, sem gaman væri að skoða nánar síðar á hestum postulanna. Við finnum líka, hvernig síkin liggja eins og skeifur, hver utan yfir aðra, og hvernig umferðargöturnar liggja eins og geislar út frá borgarmiðju, yfir hvert síkið á fætur öðru.

Úr bátnum kynnumst við gaflhúsagerðinni og ýmsum tilbrigðum hennar. Húsin voru reist svona há og mjó, af því að borgarskattur manna fór eftir því lengdarmáli, sem þeir tóku af síkisplássi. Persónuleiki byggingarmeistara fékk svo útrás í nánari útfærslu gaflanna.

Tígulsteinn gaflanna er misjafn á litinn. Sum húsin eru ljósgrá, önnur brúnleit, gul, ljósrauð eða jafnvel blárauð. Þá er toppstykkið útfært á misjafnan hátt, sumpart vegna tízkustrauma á 17. og 18. öld, og höfðu tilhneigingu til að verða voldugri, eftir því sem auður kaupmanna jókst með tímanum.

Þessi saga byggingalistar, samþjappaðrar í mjóum göflum, rennur saman við fegurð ótal bogabrúa yfir síkin og voldugra trjáa á síkisbökkunum. Úr þessu verður heildarmynd, sem bezt er að njóta úr báti á miðju síki.

Mörg fyrirtæki reka bátsferðir og hafa brottfararstaði víðs vegar um miðborgina. Sama er, hvar við byrjum hringferðina, sem tekur eina stund. Bátarnir eru svipaðir, verðið svipað og leiðin í stórum dráttum hin sama.

Singel

Innsta skeifusíkið umhverfis gamla miðbæinn er Singel, og framhald þess til norðausturs, handan Amstel, í Oudeschans. Singel var upprunalega síkið framan við borgarmúrana og var svo fram að gullöld Hollands og Amsterdam, sem hófst um 1600.

Við tökum eftir grennsta húsi borgarinnar, við Singel 7. Það er jafnmjótt og útidyrnar. Nokkru ofar, þar sem við komum að fyrstu beygjunni á síkinu, sjáum við sérkennilegt fangelsi í brúnni, sem við förum undir. Að fangelsinu verður einungis komizt á báti.

Við Singel eins og við Herengracht, Keizersgracht og Prinsengracht eru hús númeruð frá norðurendanum til suðurs og síðan til austurs að ánni Amstel.

Herengracht

Næsta skeifusíki utan við Singel er Herengracht, „herramannasíki“, sem varð í upphafi 17. aldar að fína heimilisfanginu í Amsterdam. Þar reistu ríkustu kaupmennirnir hús sín og kepptu hver um annan þveran í glæsibrag.

Þessi hús standa nærri öll enn og hýsa skrifstofur og banka. Glæsilegust eru þau við aðra beygju síkisins, „gullbeygjuna“, við um það bil nr. 390, þar sem Nieuwe Spiegelstraat mætir síkinu. Rétt ofan við þriðju beygju, á nr. 502, er svo borgarstjórabústaðurinn.

Keizersgracht

Þriðja skeifusíkið heitir Keizersgracht eftir Habsborgaranum Maximilian I, sem meðal annarra landa réði Hollandi í upphafi 16. aldar. Við sjáum á húsunum, að þau eru ekki alveg eins ríkmannleg og við Herengracht. Hér bjuggu miðlungskaupmenn og vel stæðir iðnrekendur. Einnig hér standa 17. aldar húsin enn.

Prinsengracht

Yzta skeifusíkið innan við nýrri borgarmúrana á 17. öld er Prinsengracht. Þar eru íbúðarhúsin enn minni um sig og mikið er um vöruhús í bland. Mörgum þessara vöruhúsa hefur nú verið breytt í lúxusíbúðir, þótt ytra útlit sé óbreytt, enda eru þau yfirleitt friðuð.

Singelgracht

Utan um þessi hverfi 17. aldar var svo reistur nýr virkisgarður, innan við hann skeifusíkið Lijnbaansgracht og utan við hann síðasta skeifusíkið, Singelgracht. Það var raunverulegt virkissíki og engin borgarbyggð við það. Seint á 19. öld voru borgarvirkin rifin og fékkst þá dýrmætt rými fyrir samgönguæðar, garða, torg, opinberar byggingar og söfn.

Til greina kemur að endurtaka bátsferðina að kvöldlagi, þegar fallegu brýrnar eru lýstar miklum fjölda rafmagnspera. Þá lítur Amsterdam út eins og ævintýraborg.

2. ferð:

Allar gönguferðirnar þrjár í þessari bók byrja og enda við aðaltorgið Dam. Fyrsta ferð leiðir okkur um austurhluta gömlu miðborgarinnar.

Dam

Þar sem nú er Dam, var fyrsta stíflan í ánni Amstel gerð einhvern tíma á 13. öld. Eftir þeirri stíflu fékk borgin nafn og kallaðist Amsteldamme. Við stífluna myndaðist höfn og út frá henni stækkaði fiskiþorpið upp í kaupsýsluborg.

Við hefjum gönguna framan við Krasnapolsky hótel og frestum því að skoða konungshöllina og Nieuwe Kerk handan torgsins. Í okkar enda þess trónir þjóðarminnisvarðinn (sjá líka bls. 42), sem reistur var 1956 fyrir samskotafé til að minnast afreka Hollendinga í síðari heimsstyrjöldinni.

Hægra megin við hótelíð, handan lítils sunds, er ein af hinum gömlu Bruine kroegs, De Wildeman, í elzta húsi torgsins, frá 1632. Þar væri gott að styrkja sig á kaffi fyrir gönguna og skoða um leið veggskreytingu hinna mörgu peningaseðla gamalla tíma frá ýmsum löndum.

Við getum líka litið inn í vetrargarðinn Wintertuin, morgunverðarsal Krasnapolsky (sjá bls. 18), sem er einstakur í sinni röð, ekki sist ef við erum á ferðalagi að vetrarlagi.

Warmoesstraat

Frá hótelinu göngum við til hægri eftir Warmoesstraat, elztu götu borgarinnar. Þar bjuggu á 15. öld fínustu borgararnir. Þegar þeir fluttu á 17. öld til Herengracht, varð þessi gata að helztu verzlunargötunni og hótelgötunni. Hertoginn af Alba bjó hér, þegar hann vildi sauma að Hollendingum.

Tvær kaffiverzlanir endurspegla enn hina gömlu tíma. Thee en koffiehandel á nr. 102 og Geels & Co á nr. 67. Og farfuglaheimilið á nr. 87, sem bauð gistingu á Fl 17 og Fl 12 í sal, síðast þegar við gengum hjá, endurspeglar líka gamla tímann.

Við tökum fljótt eftir, ef við höfum ekki gert það á siglingunni um síkin, að mjóu gaflhúsin slúta í rauninni fram. Þau eru byggð svona af ásettu ráði. Efst í gaflinum er bálkur fyrir blokk. Þannig má á reipi draga stóra muni upp á hæðirnar, án þess að reka þá utan í. Engin leið er að koma þeim upp þrönga stigana. Þessa iðju verða menn að stunda enn þann dag í dag um alla borg.

Við förum götuna út að Oudebrugsteeg, sem liggur til vinstri og lítum aðeins inn í hana, því að þar er þétt setinn bekkurinn af smáhótelum, börum og búðum. Síðan förum við spölkorn til baka eftir Warmoesstraat, unz við sjáum Oudekerk til vinstri.

Oudekerk

Við göngum kringum Oudekerk, Gömlukirkju, og furðum okkur á tvennu. Annars vegar litlu húsunum, sem skotið er inn í króka kirkjuveggjanna til að nýta plássið. Og hins vegar, að hálfklæddu og digru dömurnar í rauðlýstu gluggunum skuli stunda iðju sína beint undir kirkjuveggjunum.

Oudekerk er elzta kirkja borgarinnar, frá því um 1300, næstum því eins gömul og Sturlungaöld. Hún er byggð úr tígulsteini og er í rómönskum stíl, en þó með miklum gluggum, fallega steindum, eins og tíðkaðist á síðari gotneskum tíma. Turninn er yngri, frá miðri sextándu öld, í blandstíl gotnesku og endurreisnar.

Turninn er raunar furðuleg smíði. Neðsti stallurinn er voldugur og ferstrendur með klukkuskífum til allra átta. Þar á ofan kemur port hárra og mjórra súlna. Síðan kemur næpa. Málið er ekki enn búið, því að þar á ofan kemur annað súlnaport og loks önnur, gullin næpa efst uppi.

Oudezijds Voorburgwal

Kirkjan er við Oudezijds Voorburgwal, sem er þungamiðja gleðikvennahverfisins, ásamt með hinu samhliða Oudezijds Actherburgwal. Íflestum húsunum umhverfis síkin tvö sitja þær í stórum gluggum og bíða viðskiptavina um bjartan dag sem á kvöldin.

Við höldum til vinstri norður eftir bakkanum og tökum fljótlega eftir mjóstu götu borgarinnar, milli nr. 54 og 62. Þaðer nafnlaust og liggur inn að rauðum ljósum.

Museum Amstelkring

Örlitlu norðar komum við að Museum Amstelkring á nr. 40. Þar uppi á lofti er leynikirkja kaþólskra frá 1663. Hún var notuð í tvær aldir, meðan Kalvínismi Hollendinga var sem strangastur. Talið er, að 60 slíkar leynikirkjur hafi verið í borginni, en þessi er hin eina í upprunalegu ástandi.

Kirkjan er innréttuð á efstu hæðum og í risi þriggja íbúðarhúsa. Hún er sjálf á þremur hæðum. Kirkjugestir skutust úr hliðargötu inn um litlar dyr upp þrönga og flókna stiga. Við tökum eftir, hversu slitin þrepin eru.

Kirkjan er til sýnis og sömuleiðis neðri hæðir hússins, þar sem innréttað hefur verið minjasafn, sem sýnir híbýli og húsbúnað hins vel stæða fólks, er lét gera kirkju uppi á lofti.

Sint Olofssteeg

Við förum áfram norður meðfram síkinu og sjáum framundan kirkjuna, sem tók við, þegar kaþólikkar máttu aftur þjóna guði opinberlega. Það er St Nicolaaskerk.

Við enda síkisins hægra megin brúar sjáum við hrörlegt hús hanga yfir síkinu. Það er frá því um 1500, eitt elzta hús borgarinnar. Þar var til skamms tíma hið fræga veitingahús Le Chat qui pelote, sem orðið hefur mörgum harmdauði.

Áfram höldum við síðan ferð okkar eftir Sint Olofssteeg upp á hina frægu götu Zeedijk. Á horninu verða fyrir okkur smáhópar iðjuleysingja frá fyrrverandi nýlendum Hollands. Þeir eru sumir í vímu og taldir meinlitlir, en lögreglan er þó oftast hér á vakki.

Út á brúna förum við og virðum fyrir okkur útsýnið til baka eftir Oudezijds Voorburgwal og enn fremur í gagnstæða átt eftir þröngu síkinu Oudezijdskolk, þar sem er bakhlið St. Nicolaaskerk innan um gömul vöruhús. Síðan snúum við til baka af brúnni og höldum til vesturs Zeedijk stuttan spöl að Prins Hendrikkade.

Beurs

Hér sjáum við til vinstri, handan bátalægisins við Damrak, kauphöllina í Amsterdam, Beurs. Það er skrítin höll, reist um aldamótin í eins konar Jugend-stíl. Hún þótti mikið hneyksli á þeim tíma og þykir jafnvel enn. Þetta er þunglamalegt tígulsteinshús, sem tekur sig einna bezt út frá þessu sjónarhorni.

Jugendstíll, ungstíll, eða Art Nouveau, nýstíll, kom til skjalanna rétt fyrir síðustu aldamót, þegar byggingarmeistarar voru orðnir þreyttir á stælingum gamalla stíla, á nýgrísku, nýrómversku og nýgotnesku. Mælirænni formfestu var kastað fyrir róða og frelsið fekk að ríkja. Stíllinn stóð ekki lengi, því að milli heimsstyrjaldanna leysti nytjastíll nútímans hann af hólmi.

Sá, sem hér horfir á tilviljanakennt útlit Beurs, á erfitt með að trúa, að eins konar nytjastíll ríkir að innanverðu, þar sem gríðarlegir stálbogar spanna yfir margra hæða kauphallarsal undir risavöxnum þakgluggum. Þannig blandaði byggingameistarinn Berlage saman innra svifi og ytri þunga.

Gamla kauphöllin, sem brann, var reist hér á sama stað árið 1611. Hún var þannig gerð, að skipin gátu siglt eftir henni miðri, undir þaki. Til beggja hliða voru svo sölubúðir á tveimur hæðum. Eftir lýsingum og myndum hlýjur það að hafa verið miklu skemmtilegri kauphöll en þessi.

Centraalstation

Í hinni áttinni, til hægri, sjáum við aðaljárnbrautarstöðina í 19. aldar nýgotneskum stíl, teiknuð af Petrus Cuypers þeim, sem líka teiknaði Rijksmuseum. Stöðin er reist á þremur tilbúnum eyjum og hvílir á 8687 tréstaurum. Hún er þarna nánast úti í sjó, af því að hvergi var annars staðar rúm fyrir hana.

Fyrir framan er fjörlegt, hvítt timburhús, Noord-Zuid Hollands Koffiehuis, þar sem er veitingastofa og upplýsingastofa ferðamálaráðs borgarinnar.

St Nicolaaskerk

Við göngum eftir Prins Hendrikkade framhjá St Nicolaaskerk, höfuðkirkju kaþólikka, um það bil 100 ára gamalli. Nicolaas þessi er verndardýrlingur sjómanna og barna. Samkvæmt siðvenju í Amsterdam kemur hvítskeggjaður náungi í rauðri biskupsskikkju til borgarinnar í lok nóvember á hverju ári. Hann heitir Sinterklaas og heimsækir borgarstjórann til að kynna sér, hvort borgarbörnin hafi hegðað sér nógu vel til að fá gjafir.

Þannig varð St Nicolaas að Sinterklas og síðan að Sankti-Kláusi eða þeim jólasveini, sem breiðzt hefur út um allan heim, einmitt frá Amsterdam. Og þetta er kirkjan hans.

Schreierstoren

Við tökum beygjuna á Prins Hendrikkade og sjáum strax turninn Schreierstoren á hægri hönd. Þessi turn frá 1482 var upphaflega hluti borgarmúrsins og þá náði höfnin hingað. Sagan segir, að nafnið stafi af, að hingað komu konurnar og börnin til að veifa og gráta, þegar karlarnír lögðu á hafið.

Scheepvaart Museum

Frá turninum sjáum við handan vatnsins miklar byggingar, reistar 1656 sem birgðaskemmur flotans á 18.OOO tréstaurum í höfninni. Þar er nú Scheepvaart Museum eða hollenzka siglingasafnið með ótal líkönum skipa, korta, hnatta og annars, sem minnir á siglingar.

Siglingasafnið er um leið hollenzkt sögusafn, því að saga landsins er saga siglinga. Á stórveldistíma Amsterdam náðu Hollendingar í sínar hendur mestöllum siglingum um Evrópu vestanverða og norðanverða. Þeir endurbættu gamlar skipagerðir og fundu upp á nýjum. Hvarvetna hleyptu þeir nýju blóði í handverk og kaupsýslu. Hvarvetna voru þeir aufúsugestir, nema hjá hirðum einvaldshneigðra konunga, sem stefndu að verzlunareinokun, til dæmis Kristjáns IV yfir Danmörku og Íslandi.

Binnenbantammer

Okkur finnst of langt þangað að sinni og beygjum heldur til hægri eftir austurbakka Geldserkade. Þriðja þvergatan til vinstri er Binnenbantammerstraat, miðpunktur Kínahverfisins í borginni. Þar eru kínversku veitingahúsin í röðum, þar á meðal Azïe (sjá bls. 26). Á þessum slóðum er einna ódýrastan veitingahúsamat af almennilegu tagi að fá í miðborginni.

Zedijk

Úr Binnenbantammerstraat göngum við til baka yfir Geldserkade og beygjum til hqri eftir hinum síkisbakkanum. Síðan förum við næstu þvergötu til vinstri, Waterpoortsteeg, og erum strax komin inn á Zeedijk enn án ý, en á öðrum stað en í fyrra skiptið.

Þetta er hin hefðbundna sjómanna-skemmtigata borgarinnar. Barirnir og búlurnar eru hlið við hlið og mikill mannfjöldi er úti á götu að kvöldlagi. Á morgnana er gatan hins vegar steindauð og hasslyktin horfin.

Við getum gengið götuna til hægri og komizt fljótlega á fyrri slóðir þessarar gönguferðar. En við kjósum heldur að fara til vinstri. Nálægt endanum ber fyrir okkur sjón, sem kemur á óvart í þessari gleðskapargötu. Það er leikvöllur með skrítnum leiktækjum, bleikum fíl og skærum veggmálverkum.

Nieuwmarkt

Hér komum við út á Nieuwmarkt, sem einu sinni var fiskmarkaður borgarinnar. Enn eru hér ýmsar góðar verzlanir, þar sem höndlað er með fisk, kjöt, osta, vín og annað góðgæti. Á torginu er dálítill blómamarkaður og svo fjörlegur fornminjamarkaður á sunnudögum.

Waag

Á miðju torginu er gamall turn, sem eitt sinn var hlið á virkisvegg borgarinnar. Hann hét áður St Anthoniespoort, en hefur lengi verið kallaður Waag, því að þar voru hinar opinberu vigtir, þar sem tryggt var, að vörur væru rétt mældar.

Waag hefur sjö turna og margar dyr, byggður 1488. Lengst af var hann aðsetur ýmissa gilda iðnaðarmanna og hafði hvert gildi sínar útidyr. Meðal þeirra var gildi skurðlækna, sem leyfði Rembrandt að mála hér hinar tvær frægu myndir: Kennsla í anatómíu. Myndin af dr. Tulp er í Mauritzhuis í Haag og myndin af dr. Deijman í Rijksmuseum hér í Amsterdam.

Nú er Waag Sögusafn gyðinga, opið 9:30-17, sunnudaga 13-17. Þar eru til sýnis ýmsir heilagir gripir gyðinga og minjar um hernámið í seinni heimsstyrjöldinni.

Kloveniersburgwal

Af torginu förum við suður eftir síkinu Kloveniersburgwal, fyrst á hægri bakka, en færum okkur svo á fyrstu brú yfir á vinstri bakka. Við sjáum hægra megin, á nr. 26, eitt af grennstu húsum borgarinnar, hús vagnstjóra Tripps. Að baki þess er sú saga, að vagnstjórinn óskaði sér eigin húss, jafnvel þótt það væri ekki breiðara en dyrnar á húsi húsbóndans. Sá heyrði óskina og uppfyllti hana, nákvæmlega.

Zuiderkerk

Við beygium til vinstri inn Zandstraat og komum að Zuiderkerk. Hún var reist 1611 af hinum þekkta byggingameistara Hendrick de Keyser og er fyrsta kirkja borgarinnar í kalvínskum sið. Mesta skart hennar er turninn, sem er sagður hafa haft mikil áhrif á kirkjuturna Christophers Wren í London.

Montelbaanstoren

Við höldum áfram Zandstraat og út á brúna yfir Oudeschans. Af henni er ágætt útsýni til vinstri til turnsins Montelbaanstoren. Hann er einn af 15. aldar virkisturnum borgarinnar. Árið 1606 bætti Hendrick de Keyser ofan á hann tæplega 50 metra hárri spíru. Margir telja þetta fallegasta turn borgarinnar, enda sést hann oft á málverkum og ljósmyndum.

Rembrandthuis

Áfram höldum við yfir brúna og sjáum strax á hægri hönd hús með rauðum gluggahlerum. Það er Rembrandthuis, þar sem sjálfur meistarinn bjó mestu velgengnisárin, frá 1639 til 1658, þegar hann varð gjaldþrota. Hér málaði hann mörg þekktustu verk sín.

Nú er húsið minningasafn um Rembrandt, opið 10-17, sunnudaga 13-17. Sjá má prentvél hans og rúmlega 250 stungur, en húsbúnaður er ekki hans, heldur annarra samtíðarmanna. Heimilisfangið er Jodenbreestraat 4-6 og minnir á, að þetta var miðja gyðingahverfisins fram að síðari heimsstyrjöld.

Mozes en Aaronkerk

ið förum áfram Jodenbreestraat út að torginu Mr Visserplein. Við enda götunnar er á hægri hönd afturendi kirkju, sem ber hið gyðinglega nafn Mozes en Aaronkerk. Hún var samt upphaflega kaþólsk, en hefur verið breytt í félagsmálamiðstöð.

Hér er nú griðastaður fyrir erlenda verkamenn og ungt ferðafólk. Selt er gos og snarl og boðið upp á sýningar á handíð og list eða á vandamálum íbúa þriðja heimsins. Einnig eru þar á sunnudögum sérhæfðar poppmessur fyrir ungt fólk. Þannig er þetta fjörugasta kirkjan í borginni.

Valkenburgerstraat

Vinstra megin við torgið förum við á flóamarkaðinn í Valkenburgerstraat (sjá bls. 45)

Portugese Synagoge

Þegar við komum aftur inn á Mr Visserplein, höfum við kassalagað stórhýsi á vinstri hönd. Það er höfuð-sýnagóga gyðinga, reist 1675. Þá hafði mikill fjöldi gyðinga streymt frá ofsóknum rannsóknaréttarins á Spáni og í Portúgal til trúfrelsisins og uppgangsins í Amsterdam.

Synagógan er í eins konar jónískum stíl og á að vera stæling á meintu útliti musteris Salómons í Jerúsalem. lnni standa tólf voldugar súlur undir kvennasvölum. Mest áberandi eru kertaljósakrónurnar miklu, er bera þúsund kerti, sem öll eru látin loga við guðsþjónustur á laugardögum.

Portugese Synagoge er opin til skoðunar 10-15, sunnudaga 10-13, lokuð laugardaga.

Blauwbrug

Frá torginu göngum við Nieuwe Amstelstraat að ánni Amstel, þar sem er brúin Blauwbrug. Hún er eftirlíking af brú Alexanders lll Rússakeisara yfir Signu í París, byggð 1880, skreytt miklum ljósakúplum. Þaðan er eitt bezta útsýni í borginni, til suðurs að hinni hvítu Magere Brug.

Við Blauwbrug sjáum við sérkennilega gróinn húsbát í eigu listamannsins Bulgar. Þetta er einn af rúmlega 2000 húsbátum á síkjum borgarinnar. Um helmingur þeirra er þar í óleyfi, en borgaryfirvöld hafa ekki mátt til aðgerða, af því að húsbátamenn í Amsterdam eru jafn harðir af sér og hundaeigendur í Reykjavík. Sumir þessara báta eru verstu hreysi, en aðrir eru lúxusíbúðir með öllum þægindum, þar á meðal rafmagni úr landi. Öllum er þeim sameiginlegt að nota síkin fyrir úrgang, en ekki ræsi borgarinnar.

Magere Brug

Við förum yfir Blauwbrug, Bláubrú, og göngum eftir bakka Amstel í átt til Magere Brug, Mögrubrúar, frægustu og fegurstu brúar borgarinnar. Hún er orðin nærri 3OO ára gömul og þykir sérstaklega falleg að næturlagi, þegar hún er prýdd ótal ljósum. Þessi mjóa trébrú er mikill umferðarhnútur og sýnir því verndun hennar, hve mikla virðingu borgarar Amsterdam bera fyrir hinu gamla.

Museum Willet-Holthuysen

Frá Magere Brug göngum við til baka meðfram Amstel að Herengracht og göngum þar inn hægri bakka síkisins. Þar komum við fljótt að Museum Willet-Holthuysen á Herengracht 605. Það var reist 1687 sem auðmannsheimili og er nú minjasafn um lífið á slíkum heimilum í þá daga. Allt er þetta svo eðlilegt, að það er eins og fjölskyldan hafi skroppið út fyrir klukkustund, en ekki fyrir tæpum 300 árum.

Að húsabaki er skemmtilegt dæmi um húsagarð eins og þeir tíðkuðust hjá auðugum 17. og 18. aldar borgurum, sem höfðu lítið rými, en reyndu þó að stæla garða franskra aðalsmanna.

Thorbeckeplein

Við göngum Herengracht út að Thorbeckeplein og förum þar út á brúna yfir Herengracht. Þaðan er skemmtilegt útsýni til margra brúa á Herengracht og Reguliersgracht. Síðan förum við norður Thorbeckeplein inn á Rembrandtsplein.

Rembrandtsplein

Skemmtanalífsins á Thorbeckeplein og Rembrandtsplein var getið framar í bókinni (sjá bls. 42). Í þetta sinn göngum við inn í garðinn á miðju torgi og skoðum styttuna af Rembrandt. Kannski er líka kominn tími til að fá sér fiskrétt í hádegisverð á Seepaerd (sjá bls. 32).

Í norðausturhorni torgsins er pínulítil lögreglustöð milli Reguliersbreestraat og Halvemansteeg, sögð sú minnsta í heimi. Þar kveðjum við þetta torg, sem einu sinni var smjör- og ostamarkaður borgarinnar, og göngum norður Halvemansteeg og yfir ána Amstel á brú.

Groenburgwal

Komin yfir Amstel göngum við skamman veg meðfram Kloveniersburgwal, unz við komum að fremstu brúnni yfir það síki. Það er ein af hinum skemmtilegu járnvindubrúm frá gömlum tíma, þegar slíkar brýr tóku við af trévindubrúm á borð við Magere Brug.

Að þessu sinni förum við ekki strax yfir brúna, heldur göngum spölkorn í gagnstæða átt eftir Staalstraat að litlu og Iaglegu síki, sem nefnist Groenburgwal. Af brúnni þar er skemmtilegt útsýni til Zuiderkerk (sjá bls. 65)

Oudemanhuispoort

Síðan förum við sömu leið til baka, göngum yfir áðurnefnda járnvindubrú og beygjum svo til hægri eftir vinstri bakka Kloveniersburgwal.

Brátt komum við að mjóu húsasundi til vinstri og förum þar inn. Það er Oudemanhuispoort eða Gamalmennahússund, sem heitir svo, af því að þetta var einu sinni inngangurinn í fátækrahæli borgarinnar. Nú er þetta inngangurinn í háskólann. Aðalbyggingu hans sjáum við brátt hægramegin, handan húsagarðs. Á vinstri hönd er hins vegar bókamarkaðurinn (sjá bls 46)

Grimburgwal

Þegar við erum komin út úr Oudemanhuispoort, förum við yfir brúna framundan. Þar á horninu fyrir framan er Þriggjasíkjahús, sem heitir svo, af því að það liggur að síkjum á þrjá vegu. Framhlið hússins, fallegri hliðin, er hinum megin.

Við göngum áfram með Grimburgwal, sem við höfum á vinstri hönd. Það er lítið og ljúft síki með háskólabyggingum á vinstri bakka.

Við vorum búin að fara yfir brúna á Oudezijds Achterburgwal og förum nú yfir brúna á Oudezijds Voorburgwal. Af brúnni lítum við til baka að Þriggjasíkjahúsi. Síðan höldum við áfram meðfram Grimburgwal, unz við komum að nokkrum gömlum húsum á síkisbakkanum vinstra megin götunnar.

Þar leynist lítil hurð og að baki hennar þröngur og brattur stigi upp að örsmárri kökustofu, Carla lngeborg‘s Pannekoekenhuis, þar sem er kjörið tækifæri til að fá sér eina stóra, hollenzka pönnuköku með hunangi.

Pijlsteeg

Við göngum síðan aftur til baka að Oudezijds Voorburgwal og röltum nokkurn veg eftir vinstri bakka síkisins. Við förum yfir Damstraat og beygjum síðan inn næsta húsasund til vinstri, Pijlsteeg. Þar er miðja vega jenever-búlan Wijnand Fockink, þar sem við fáum okkur glas ítilefni af, að nú er fyrstu gönguferðinni lokið. Héðan eru aðeins nokkur skref út að Dam og Krasnapolsky, þaðan sem við hófum ferðina

2. ferð:

Enn hefjum við ferð frá Dam, en í þetta sinn byrjum við í hinum enda torgsins, fyrir framan konungshöllina og Nieuwe Kerk. Við höfum áður lýst lífinu á torginu (sjá bls. 42), svo að við snúum okkur strax að konungshöllinni.

Koninklijk Paleis

Höllin var reist 1655 sem ráðhús borgarinnar á miðri auðsældaröld hennar. Hún er teiknuð af Jacob van Campen í síðbúinni, hollenzkri útgáfu af endurreisnarstíl, svokölluðum palladískum fægistíl. Við tökum eftir einkar formföstum hlutföllum hallarinnar, mildum útskotum, veggsúlnariðum og láréttri skiptingu milli hæða.

Höllin minnir raunar á sum ráðhús 16. aldar. Allur útskotni miðbálkurinn er einn risastór og bjartur salur, sem lengi var hinn stærsti í heimi. lnni í höllinni eru ein hin beztu dæmi um Empire húsgögn, arfur frá Louis Bonaparte, er skyndilega hafði sig á brott héðan.

Þessi volduga höll var sem ráðhús ein helzta miðstöð hollenzka heimsveldisins í hálfa aðra öld. Þegar Napóleon Bonaparte tók Holland 1808, gerði hann bróður sinn, Louis, að kóngi í ráðhúsinu. Það konungsveldi varð skammvinnt, en síðan hefur ráðhúsið verið konungshöll landsins.

Að vísu býr drottningin ekki þar, því að tæpast er hægt að búa í höll með háværum umferðaræðum á alla vegu, hafandi ekki einu sinni garð á milli. Hún býr að venju í Haag og kemur bara hingað í opinberar móttökur eða til að gista eina nótt í senn.

Höllin er opin almenningi á sumrin 12:30-16 og veturna sömu tíma á miðvikudögum. Gestir geta gert sér í hugarlund, að það þurfti 13.659 tréstaura til að halda höllinni uppi í mýrinni. Að skilnaði skulum við minnast þess, að höllin er eitt fullkomnasta skólabókardæmi um ákveðinn byggingarstíl í fortíðinni.

Sint Luciensteeg

Frá höllinni skellum við okkur í mannhafið og látum okkur berast suður eftir Kalverstraat (sjá bls. 43). Við förum svo til hægri í Sint Luciensteeg, þar sem fyrir okkur verða á vegg vinstra megin húsmerkingarsteinar. Þetta eru eins konar skjaldarmerki, höggvin í stein, sem í gamla daga komu í staðinn fyrir götunúmer í Amsterdam. Hvert hús í fínni hverfunum hafði slíkan húsmerkingarstein. Á göngum okkar um borgina sjáum við marga slíka, en hér hefur verið safnað á einn stað nokkrum steinum af húsum, sem hafa verið brotin.

Við getum litið inn á Nieuwezijds Voorburgwal. Á þessum parti þeirrar götu er frímerkjamarkaðurinn haldinn (sjá bls. 47)

Hlstorisch Museum

Við förum Sint Luciensteeg til baka og höldum áfram suður Kalverstraat nokkra metra, unz við komum að nr. 92 hægra megin. Þar er inngangurinn í borgarminjasafnið Historisch Museum, sem áður var munaðarleysingjahæli borgarinnar.

Þetta er safn fyrir þá, sem ekki hafa áhuga á söfnum. Það er svo vel gert, að óhjákvæmilegt er, að við öðlumst dálítinn áhuga á merkri sögu Amsterdam. Við förum sal úr sal og fylgjumst með þróun og vexti borgarinnar öld fyrir öld.

Amsterdam var upprunalega fiskipláss, sem fékk eins konar kaupstaðarréttindi 1275. Íbúarnir voru aðallega Frísar. Fátt segir af borginni, fyrr en eftir brunann mikla 1452, er timburhús voru bönnuð og fyrirskipað var að byggja úr tígulsteini. Í ríkjamyndunum miðalda komst Amsterdam fyrst undir veldi Búrgundarhertoga og síðan Habsborgara.

Sextánda öldin einkenndist af tilraunum Hollendinga til að losna undan oki hinnar spönsku deildar Habsborgara. Vilhjálmur þögli barðist við hertogann af Alba og varð forfaðir konungsættarinnar af Oranje. Á þessum tíma voru Hollendingar knúnir áfram af kalvínismanum, sem var í ofsafenginni andstöðu við ofsafengna kaþólsku Filipusar II af Kastilíu.

Árið 1602 var Austur-Indíafelagið stofnað, 1609 Amsterdambanki og 1611 kauphöllin. Borgin var virkur aðili að þessum fyrirtækjum og varð heimsveldi á þessum áratug. Um þetta leyti voru gerðir Herengracht, Keizersgracht og Prinsengracht. Miðborgin fékk þann svip, sem hún ber að mestu enn. Holland eignaðist nýlendur út og suður og fræga flotaforingja, sem eru grafnir í Nieuwe Kerk.

Á stórveldístíma sínum mynduðu Hollendingar mikilvægan hlekk í þróunarkeðju Norðvestur-Evrópu, sem fól í sér tæknilegt stökk frá miðöldum inn í vísindatíma nútímans. Siglingar örvuðu handverk, sem örvaði svo aftur siglingar. Þetta hlóð upp á sig og Amsterdam varð Evrópumiðstöð fjármála, kaupsýslu, iðnaðar, tækni, vísinda, lista og menningar.

Amsterdam og Hollendingar urðu á öldinni átjándu að víkja fyrir afli London og Englendinga. Hollendingar voru samt búnir að koma sér vel fyrir, svo sem sýna dæmin af Unilever, Royal Dutch Shell og Philips, stórveldisfyrirtækjum nútímans. Á síðustu áratugum felast þó mestu afrek Hollendinga í gífurlegri tækni við gerð flóðgarða.

Safnið er opið 9:30-17, sunnudaga 13-17.

Begijnensteeg

Við yfirgefum fortíðina í Historisch Museum og höldum áfram suður Kalverstraat. Næsta hliðargata til hægri er Begijnensteeg, þar sem við beygjum til hægri. Þar er skemmtileg bjórkrá, Pilsener Club (sjá bls. 49). Einnig er þar rómantískt veitingahús, Bistrogijn, með steindum gluggum, gamalhollenzkum húsbúnaði og kertaljósum. Gatan stefnir beint að hliðinu á Begijnhof.

Við hefðum líka getað komizt hingað beint úr safninu bakdyramegin. Þá hefðum við farið um Varðmannasalinn, sem er tveggja hæða glerskáli með stórum málverkum af hetjum Amsterdam, er söfnuðust saman 1580 til að verja borgina fyrir hertoganum af Alba.

Begijnhof

Begijnhof er kyrrlátur unaðsreitur mitt í ys og þys stórborgarinnar. Þar kúra saman smáhýsi í kringum stóra garðflöt og kirkju. Þetta var öldum saman heimili kristilegra kvenna, sem þó voru ekki vígðar sem nunnur. Slík kristileg kvennaþorp hafa hvergi varðveitzt nema hér og í Breda.

Ferðamenn koma lítt við hér, enda eru dyrnar að Begijnhof ekki áberandi. En þetta er einmitt ánægjulegur hvíldarstaður frá hávaða, þrengslum og mannhafi umhverfisins. Sérstaklega er notalegt að koma hingað á sunnudagsmorgnum, þegar orgeltónarnir hljóma úr kirkjunum. Ef Shangri La er einhvers staðar, þá er það hér.

Kirkjan á flötinni er mótmælenda, kölluð Enska kirkja. Andspænis henni er kaþólska kirkjan felld inn í húsaröðina, á nr. 31. Hún er hin raunverulega kirkja Begijnen, kristilegu kvennanna.

Rétt vinstra megin við kaþólsku kirkjuna er elzta íbúðarhús borgarinnar, timburhús frá 1478, meira en 500 ára gamalt. Það er eins gamalt og hálf Íslandssagan. Í skotinu að baki hússins eru nokkrir húsmerkingarsteinar eins og þeir, sem áður hefur verið lýst.

Spui

Við förum úr þessum enda Begijnhof um flísalagt portið út á torgið Spui. Þar getum við litið inn í 3OO ára gamla bjórkrá, Hoppe (sjá bls. 48).
Síðan förum við aftur í Kalverstraat, sem liggur um austurenda torgsins. Þar komum við brátt á hægri hönd að vaxmyndasafninu Madame Tussaud, sem er eitt útibúið frá móðursafninu í London, opið 10-18.

Leldsestraat

Við beygjum næst til hægri inn Heiligeweg og í beinu framhaldi af honum Koningsplein og Leidsestraat. Við fylgjum þannig áfram verzlunarás borgarinnar, sem hófst í hinum enda Kalverstraat við konungshöllina og mun halda áfram handan Leidseplein í P.C.Hooftstraat og von Baerlestraat.

Leidsestraat er göngugata eins og Kalverstraat, full af fólki á öllum tímum dags og jafnvel nætur, því nú erum við farin að nálgast Leidseplein. Við förum á brúm yfir Herengracht, Keizersgracht og Prinsengracht og erum óheppin, ef eitt einkennistákna borgarinnar, handknúið og ríkulega litskreytt götuorgel eða lírukassi, verður ekki á vegi okkar.

Við skulum staðnæmast á brúnni yfir Herengracht og virða fyrir okkur Gullbogann á síkinu vinstra megin. Þar eru fínustu heimilisföngin í borginni, áður heimili auðugustu borgarherranna og nú virðulegustu bankanna.

Komin á Keizersgracht getum við tekið smákrók til hægri til að líta á hús nr. 446, vinstra megin síkis. Þar átti Casanova um tíma í platónsku ástarsambandi við Esther, dóttur Hope bankastjóra.

Við getum líka staðnæmzt við Prinsengracht. Þar í húsinu á hægra horninu er hótelið Alexander (sjá bls. 11), veitingahúsin Dikker en Thijs og Prinsenkelder (sjá bls. 40) og sælkerabúðin Dikker en Thijs. Hún er hin fremsta hér í borg og vitnar því miður ekki um, að Hollendingar séu miklir matgæðingar.

Leidseplein

Og þá erum við komin á Leidseplein, miðstöð hins ljúfa lífs. Hér eru í röðum veitingahúsin góðu, krárnar fínu og allar útgáfur skemmtanalífsins. Margir eru þeir, sem búa á American hóteli (sjá bls. 18) við torgið og sjá enga ástæðu til að fara út fyrir torgið.

Við Leidseplein eru veitingahúsin Oesterbar (sjá bls. 32), Djawa (sjá bls. 26), Borderij (sjá bls. 38) og Swarte Schaep (sjá bls. 38). Hér eru krárnar Wiinlokaal (siá bls. 48), Continental Bodega (sjá bls. 48), Reynders (sjá bls. 47) og Eylders (sjá bls. 47). Hér er næturklúbburinn Blue Note (sjá bls. 53) og rétt hjá ungmennastaðirnir Melkweg (sjá bls. 52) og Paradiso (sjá bls. 52).

Og á miðju torgi trónir Stadsschouwburg í öllu sínu veldi, borgarleikhúsið, ríkisóperan og ríkisballettinn. Við setjumst handan þess á stól fyrir framan Café Americain og hvílum lúin bein, virðum fyrir okkur mannlífið og sötrum sérgrein hússins, lrish Koffie.

P.C.Hooftstraat

Handan við Singelgracht eru hótelin Marriott (sjá bls. 16) og Centraal (sjá bls. 20). Milli þeirra er gatan Vondelstraat og inn af henni Roemer Visscherstraat með nokkrum ódýrum hótelum, þar á meðal Owl (sjá bls. 21), Vondel, Parkzicht, Sipermann og Engeland.

Við förum brúna yfir Singelgracht og beygjum síðan til vinstri. Þar verður á vegi okkar enn eitt einkennistákn borgarinnar, einn af mörgum síldarvögnum hennar. Þar er hægt að stýfa úr hnefa ýmsar tegundir af síld, ólíkt matarlegri en pylsurnar hjá okkur.

Við göngum suður garðinn og Stadhouderskade, unz við komum að Hobbemastraat til hægri. Þar á hægra horninu er veitingahúsið Mirafiori (sjá bls. 32). Síðan beygjum við til hægri inn í P.C.Hooftstraat, þar sem sitt á hvoru horninu eru veitingahúsin Sama Sebo (sjá bls. 25) og Rembrandt (sjá bls. 31).

P.C.Hooftstraat er fínasti hluti verzunarássins, sem við höfum fylgt á göngu okkar. Hér eru tízkubúðirnar og ýmsar sérverzlanir með dýrar vörur. Og hér er veitingahúsið Fong Lie (sjá bls. 27).

A mótum P.C.Hooftstraat og Constantijn Huygenstraat getum við beygt til hægri og farið í Vondelpark, notalegan útilífsgarð, sem er mikíð stundaður af trimmurum, hjólreiðafólki og hassreykingamönnum.

Ef við tökum ekki krókinn í garðinn, beygjum við á horninu tíl vinstri og förum von Baerlestraat alla leið að Concertgebouw, sem er hægra megin götunnar. Concertgebouw hýsir samnefnda sinfóníusveit, sem er í frægara lagi (sjá bls. 50).

Concertgebouw snýr út að gras- og blómatorginu Museumsplein. Handan þess sjáum við hið volduga Rijksmuseum, ríkislistasafnið, og á vinstri hönd Stedelijk Museum, borgarlistasafnið, og Rijksmuseum Vincent van Gogh.

Stedelijk Museum

Við höfum nú lokið göngu okkar um verzlunargöturnar Kalverstraat, Heiligeweg, Koningsplein, Leidsestraat og P.C.Hooflstraat og getum hætt að líta í búðarglugga. Hér tekur við menningarsagan.

Við förum til baka götuna, yfir hana og inn í hina nýju álmu Stedelijk Museum, Kjarvalsstaði Amsturdammara. Það er opið 9:30-17, sunnudaga 13-17. Hér skoðum við svokallaða nútímalist, þaðer að segja 20. aldar list frægra nafna.

Á veggjum hanga verk eftir Cézanne, Picasso, Renoir, Monet og Manet, einnig Chagall, Malevich, Kandinsky og Mondrian, svo og málverk eftir Cobra-hópinn. Þar eru líka yngri stefnurnar, popplist og conceptual list og hvað þær nú annars allar heita.

Þetta safn nýtur mikils álits, enda er það stöðugt að kaupa ný listaverk og heldur næstum þrjátíu sérsýningar á ári hverju.

Rijksmuseum Vincent van Gogh

Komin úr Stedelijk Museum förum við til hægri og síðan aftur til hægri inn Paulus Potterstraat, framhjá eldri álmu safnsins og að van Gogh safninu, sem er sömu megin götunnar. Það er í nútímabyggingu frá 1973, sem þykir merkilegur aldur í miðborginni!

Rijksmuseum Vincent van Gogh er opið 10-17, sunnudaga 13-17. Það er eitt skemmtilegasta listasafn í heimi. Hvergi er til jafn heildstætt safn málverka eins, heimsfrægs málara. Hér eru til sýnis um 200 málverk hans í réttri tímaröð. Hægt er að fylgjast mánuð fyrir mánuð með listþróun hans og vaxandi brjálsemi undir ævilokin, er hann framdi sjálfsmorð 37 ára gamall árið 1800. Hér eru einnig 500 rissmyndir hans.

Svo merkilega vill til, að mestur hluti afgangsins af málverkum Vincent er líka í Hollandi, ekki langt frá Amsterdam, í safni Kröller-Müller í Hoge Veluwe skógi. Þannig einokar Holland van Gogh gersamlega, öfundað af listvinum í öðrum löndum. En skýringin er, að enginn vildi kaupa myndir Vincents, meðan hann lifði. Síðar sáu ættingjar hans um, að „ruslið“, sem hann skildi eftir í Frakklandi, yrði flutt til heimalandsins.

Coster

Við göngum áfram Paulus Potterstraat að Rijksmuseum. Á enda götunnar, vinstra megin, er gimsteinasalan Coster. Í borginni eru margir góðir gimsteinasalar, sem sýna ferðamönnum slípun gimsteina, og Coster er einn sá besti. Það kostar ekkert að fylgjast með gamla manninum stunda þessa nákvæmnisvinnu með þar til gerðum vélakosti. En viljir þú kaupa, skaltu bara nefna upphæðina. Það er sama, hversu há hún er, Coster hefur eitthvað fyrir þig.

Rijksmuseum

Þunglamaleg höllin Rijksmuseum stendur klofvega yfir Museumstraat. Við komum hér aftan að henni og förum göngin til að komast að framhliðinni, þar sem inngangurinn er.

Rijksmuseum er ekki beinlínís á borð við Louvre, Ufflzi, Prado og National Gallery, en slagar þó hátt upp i þessi söfn Parísar, Flórens, Madrid og Lundúna. Gimsteinn þess er auðvitað Rembrandt og síðan aðrir Hollendingar á borð við Frans Hals og Vermeer.

Hinir miklu málarar Hollands voru uppi á 17 öld, einmitt gullöldinni, þegar opinberar stofnanir og einstaklingar höfðu nóg fé til að moka i listamenn. Þannig fylgdi menningin gróðanum.

Erfitt er að veita leiðsögn um samið, því að í seinni tíð hefur það ekki haft starfslið til að halda öllum vængjum opnum samtímis. Til að komast í alla vængina yrðum við að hafa allan daginn til ráðstöfunar. Til að þjóna þeim, sem ekki hafa tíma til slíks, hafa frægustu málverkin verið látin í míðsalina hægra megin, sem áður voru fyrir sérsýningar. Þessir miðsalir eru alltaf opnir.

Þar er mest látið með risastórt málverk Rembrandts af varðsveit Frans Banning Cocq og Willem van Ruytenburgh, oftast kallað Næturvaktin. Tveir varðmenn vaka yfir Næturvaktinni, sem í rauninni er dagvakt, svo sem í ljós kom, þegar fernisinn var hreinsaður af málverkinu skömmu eftir stríð.
Safnið er opið 10-17, sunnudaga 13-17.

Nieuwe Spiegelstraat

Þegar við komum úr safninu, höldum við beint af augum yfir Singelgracht og götuna Weteringschans, þar sem veitingastofan Opatija (sjá bls. 33) er nálægt horninu hægra megin.

Við höldum áfram yfir Lijnbaansgracht og síðan meðfram Spiegelgracht, þar sem við erum komin inn í hverfi forngripasala. Þeir eru hér á stóru svæði við Spiegelgracht, Prinsengracht og Keizersgracht, en þekktastir og flestir eru þeir við Nieuwe Spiegelstraat, sem er í beinu framhaldi af Spiegelgracht. Á kaflanum milli Prinsengracht og Keizersgracht er einmana vínbúð innan um þrjá tugi forngripasala.

Þessi samþjöppun er einkar þægileg fyrir áhugafólk um þessi efni. Á nokkrum tugum metra er hægt að finna sérfræðinga í flestum greinum forngripasölu. Og þeir selja ekki bara hollenzka forngripi, heldur hvaða lands sem er. Fransk- og brezkættaðir hlutir eru áberandi í þessum búðum.

Museum Van Loon

Þegar við erum komin út að Keizersgracht, beygjum við til hægri meðfram síkinu, förum yfir umferðargötuna Vijzelstraat að Keizersgracht 672, þar sem Museum Van Loon er til húsa. Það er ættarsafn van Loon ættarinnar, sem löngum hefur verið áberandi í opinberu lífi Amsterdam. Skemmtilegastur er skrautgarðurinn að húsabaki. Safnið er opið 10-12 og 13-16, lokað miðvikudaga.

Museum Fodor

Við þurfum að krækja út á brúna til baka til að komast í Museum Fodor, sem er andspænis Van Loon, við Keizersgracht 672. Þar eru sýnd málverk þeirra, sem enn eru ekki orðnir nógu frægir til að koma verkum sínum í Stedelijk Museum. Þess vegna fara menn hingað til að kynnast nýjum straumum i myndlist.

Verkaskipting þriggja safna er með þeim hætti, að Fodor sýnir list dagsins í dag, Stedelijk list 20. aldar og Rijksmuseum list fyrri alda. Hér á Museum Fodor gerðu Íslendíngar garðinn frægan í árslok 1983, fyrstir erlendra málara. Þetta safn á því stað í hjarta okkar.

Íslendingarnir, sem sýndu á Fodor, voru Árni Ingólfsson, Daði Guðbjörnsson, Eggert Pétursson, Helgi Þorgils Friðjónsson, Ingólfur Arnarson, Ívar Valgarðsson, Kristinn Harðarson, Steingrímur Eyfjörð Kristmundsson og Tumi Magnússon.

Bloemenmarkt

Við förum til baka út á Viezelstraat, ljótustu götu borgarinnar, og göngum hana til norðurs fram hjá Algemene Bank Nederland, sem er svo stirður, að hann tekur ekki einu sinni gildar eigin ávísanir. Á brúnni yfir Herengracht stönzum við stutta stund til að virða fyrir okkur Gullbogann til vinstri, sem við vorum áður búin að sjá frá Leidsestraat.

Síðan förum við áfram að blómamarkaðinum, Bloemenmarkt (sjá bls. 46) við Singel og drekkum í okkur litskrúð blómanna. Slíkan blómamarkað sjáum við tæpast í öðrum borgum.

Munttoren

Við erum komin að torginu Muntplein, sem heitir eftir turninum Munttoren. Hann er einn af turnum hins gamla borgarvirkis frá miðöldum og hét áður Reguliers, en fekk nafnið Munttoren, af því að borgin sló eigin mynt í honum um tíma. Á 17. öld brann turninn að mestu og fékk þá nýjan efri hluta. Sjálft torgið er mesta umferðartorg bíla í borginni.

Rokin

Handan Rokin síkis blasir við okkur hótelið Europe (sjá bls. 14) með veitingasalnum Excelsior (bls. 34) og matreiðslumönnunum í kjallaranum undir yfirborði vatnsins. Að baki okkar er veitingahúsið Indonesia (sjá bls. 26) á annarri hæð í hótelinu Carlton.

Við göngum norður eftir Rokin, þar sem við getum á ný tekið upp á að skoða í búðarglugga, ef við fáum okkur ekki bara að borða á Kopenhagen (sjá bls. 34). Margar verzlanir, sem hafa dyr út að Kalverstraat, hafa einnig dyr út að Rokin. Innan skamms erum við komin á Dam, þar sem þessi ferð var hafin. Við höfum skoðað suðvesturhluta miðborgarinnar.

4. ferð:

Þá er ekki annað eftir en norðvesturhlutinn. Við byrjum enn á Dam og í þetta sinn fyrir framan Nieuwe Kerk.

Nieuwe Kerk

Nieuwe Kerk er, þrátt fyrir nafnið, ein elzta kirkjan í Amsterdam, reist á 15. öld. Hún er eins konar Westminster Abbey Hollendinga, krýningarkirkja konungsættarinnar. Þar hafa þrjár Hollandsdrottningar verið krýndar í röð, Vilhelmína 1898, dóttir hennar Júlíana 1948 og dótturdóttirin Beatrix 1980. Svo virðist sem kvennaveldi hafi í heila öld ríkt í ættinni Oranje-Nassau. En nú hefur Beatrix eignast krónprins til að taka við ríkinu.

Nieuwe Kerk er ef til vill frægust fyrir að vera án turns. Mjó spíra var sett á hana til málamynda á 19. öld. Um miðja 17. öld höfðu borgarfeður deilt um, hvort byggja skyldi kirkjuturn eða ráðhús og varð ráðhúsið ofan á. Kirkjan er opin 12-16, sunnudaga 13-17.

Gravenstraat

Að baki Nieuwe Kerk eru nokkur skemmtileg húsasund. Næst kirkjunni er Gravenstraat. Þar á nr. 28 er skemmtileg, lítil ostabúð, Crignon, sem rúmar varla fleiri en einn viðskiptavin í einu, en býður þó upp á rúmlega hundrað tegundir osta frá ýmsum löndum. Að búðarbaki er ostaveitingastofa. Við sömu götu, á nr. 16, er gamla jenever-búlan Drie Fleschjes (sjá bls. 50).

Nieuwendijk

Við förum Gravenstraat til austurs að Nieuwendijk, sem er eins konar framhald Kalverstraat til norðurs frá Dam. Það er gata verzlunar og býður upp á ótal hliðarsund, sem meira að segja höfundar þessarar bókar hafa ekki kannað öll. Eftir því sem norðar dregur, vex skemmtanalífið á kostnað verzlunarinnar. Gatan tekur þverbeygju til vesturs og endar við Singel.

Ronde Luterse Kerk

Við tökum örstuttan krók suður með vinstri hlið Singel, bæði til að virða fyrir okkur mjósta hús borgarinnar, sem er á Singel nr. 7, og til að skoða Ronde Luterse Kerk, sem er kúpulkirkja frá 1671.

Tvær milljónir tígulsteina og þakkopar frá Karli XI Svíakonungi fóru í þessa tæplega 50 metra háu kirkju í barokk- eða hlaðstíl. Hún var um síðir afvígð og gerð að pakkhúsi, unz Sonesta hótelið (sjá bls. 16) endurlifyaði hana.

Brouwersgracht

Til baka förum við og yfir Singel, göngum spölkorn inn Haarlemmerstraat, þar sem á nr. 43 er mjósta veitingahús heims, Groene Lanteerne í 17. aldar stíl og þjónusturnar bera eins konar þjóðbúninga.

Síðan göngum við götuna til baka, beygjum til hægri og síðan aftur til hægri eftir Brouwersgracht. Við þetta síki byrja hin margnefndu skeifusíki Herengracht, Keizersgracht og Prinsengracht. Hér er síkjastemmningin í algleymingi. Við tökum sérstaklega eftir fallega endurnýjuðu pakkhúsi á nr. 118.

Hér erum við um það bil að detta út af kortinu á bls. 36, svo að nú verða menn að fylgja þessari leiðarlýsingu undanbragðalaust. Við höldum áfram eftir hægri bakka Brouwersgracht framhjá Herenmarkt, sem er greinilega huggulegt torg, úr því að gamla fólkið situr þar og ungu börnin leika sér þar.

Jordaan

Þegar við komum að Prinzengracht, beygjum við til vinstri eftir henni, förum yfir á hægri bakkann og heilsum upp á Norderkerk og markaðinn við hana (sjá bls. 46). Kirkjan var reist 1623 og er í laginu eins og grískur kross.

Við erum komin í Jordaan, hverfið milli Prinsengracht og Lijnbaansgracht. Það var upphaflega fetækrahverfi franskra Húgenotta, en hefur á síðustu árum verið endurlífgað af miðaldra hippum, sem hafa innréttað dýrar íbúðir í gömlum pakkhúsum. Og við erum aftur komin inn á kortið á bls. 36.

Suður eftir Prinsengracht göngum við og lítum að vild inn í hliðargöturnar á hægri hönd. Á kránni Prins við Prinsengracht lO4 er kjörið að hvíla lúin bein.

Á næsta horni förum við inn Egelantiersgracht, afar notalegt síki, sem er dæmi um, hve vel hefur tekizt að endurreisa Jordaan. Af 8000 húsum hverfisins hafa 800 verið tekin undir verndarvæng húsfriðunarnefndar borgarinnar.

Anne Frank Huis

Við göngum hinn bakka Egelantiersgracht út að Prinsengracht og förum þar yfir næstu brú. Þar komum við á vinstri bakkanum að Anne Frank Huis á Prinsengracht 263. Það er opið 9-17, sunnudaga 10-17.

Hér bjó Anna Frank með sjö ððrum gyðingum í felum frá 1942 og þangað til þau voru svikin í hendur nazista í ágúst 1944. Hér skrifaði Anna dagbókina, sem hefur öðlazt heimsfrægð. Hér sjáum við bókaskápinn, sem var um leið hurð að felustað flóttafólksins.

Við sjáum einnig blaðaúrklippurnar, sem 13 ára stúlkan límdi á vegginn fyrir ofan rúmið sitt. Þar er mynd af Deanna Durbin og Margréti Bretaprinsessu. Fyrir tilviljun fannst þetta allt og þar á meðal dagbókin.
Lesendur fjögurra milljón eintaka af dagbók Önnu Frank geta hér endurlifað bókina á dramatískan hátt. Íslenzkir lesendur geta glaðzt yfir, að íslenzka útgáfan er þar til sýnis með öðrum útgáfum bókarinnar. Þetta er án efa eitt af allra merkustu söfnum borgarinnar.

Westerkerk

Aðeins ofar og sunnar við Prinsengracht er Westerkerk, byggð 1631 af feðgunum Hendrick og Pieter de Keyser í hreinskornum formum og mælirænum einingum. Hún hefur tvö snubbótt þverskip og kubblaga turn. Hún er dæmigerð kalvínsk kirkja, hefur engar hliðarkapellur fyrir dýrlinga og kórinn er stuttur, svo að skammt sé milli prests og safnaðar.

Turninn er hinn hæsti í Amsterdam, 85 metra hár, og býður dugnaðarfólki upp á óviðjafnanlegt útsýni í góðu skyggni. Í turninum er klukknasamstæða eftir Francois Hemony, sem raunar hefur sett saman slíkar klukkur í fleiri turnum borgarinnar. Samstæður þessar spila fjörug lög, sem klingja í eyrum ferðamanna, löngu eftir að þeir eru farnir heim.

Á torginu fyrir framan bjó franski heimspekingurinn Descartes um tíma á nr. 6. Þaðan skrifaði hann í bréfi: „Í hvaða landi væri að finna slíkt fullkomið feelsi?“ Þar vísaði hann til þess, að Holland, með Amsterdam í fararbroddi, hefur löngum verið griðastaður flóttamanna og annarra þeirra, sem ekki bundu bagga sína sömu hnútum og samferðamenn.

Héðan getum við farið til baka yfir Prinsengracht og kynnst Jordaan nánar. Slíkri könnun hæfir engin sérstök leiðarlýsing. Ef við höfum hins vegar fengið nóg af rölti í bili, þá göngum við Raadhuisstraat til austurs að fyrrverandi ráðhúsi og núverandi konungshöll, þar sem við hófum þessa göngu.

Leiðsögninni um Amsterdam er lokið og við getum stungið okkur inn á Drie Fleschjes að baki Nieuwe Kerk eða farið yfir torgið til að prófa nýjan snafs hjá Gijsberti Hodenpijl.

1984 og 1992

© Jónas Kristjánsson

Amsterdam gisting

Ferðir

Í hverjum áningarstað er gisting frumþörf ferðamannsins. Ef við búum ekki hjá vinum, eru hótelin hið fyrsta, sem við þurfum á að halda í ókunnri borg. Við byrjum því leiðsögnina um Amsterdam á hótelunum.

Hollensk hótel eru yfirleitt hreinleg og hafa allan búnað í góðu lagi. Sjálfsagt þykir orðið, að baðherbergi fylgi hverju herbergi. Hér verður aðeins vikið að gistingu, þar sem rykugur ferðamaður getur þvegið sér í eigin baðkeri eða sturtu.

Í öllum tilfellum setjum við það skilyrði, að sími sé í herberginu.

Helst viljum við búa í gömlu húsi með útsýni út á eitthvert síkið, varðað trjám, til þess að hafa Amsterdam fyrir augunum, einnig þegar við hvílum okkur. Um leið viljum við, að þreyttir ferðamenn hafi um nætur sæmilegan svefnfrið í herbergjum sínum, þótt þau snúi út að síkisgötu.

Síðast en ekki sízt finnst okkur nauðsynlegt, að hótelið sé í miðborginni, svo að unnt sé að ganga í rólegheitum í 17. aldar andrúmslofti til allra áhugaverðustu staðanna. Leigubílar eru ekki á hverju strái og bílstjórar aka sumir eins og brjálaðir menn milli umferðarhnúta.

Hér verður sagt frá nokkrum völdum hótelum, sem hafa reynst okkur vel á undanförnum árum. Þau eru í ýmsum verðflokkum, allt frá Fl. 135 fyrir tvo með morgunverði, upp í Fl. 610 fyrir tvo með morgunverði. Öll prófuðum við veturinn 1991-92 til öryggis, því að allt er í heiminum hverfult.

Við prófuðum líka önnur hótel, sem við getum ekki mælt með, af því að okkur fannst þau ekki standast samkeppni við hin, hvert í sínum verðflokki.

Ambassade

Hótelið „okkar“ í Amsterdam er Ambassade. Ástæðurnar eru margar. Í fyrsta lagi er það vel í sveit sett, nálægt miðju borgarkortsins á bls. 12-13. 1 öðru lagi er það ódýrt, miðað við gæði, kostar Fl. 250, meðan jafnfín hótel kosta yfir Fl. 350.

Mikilvægast er þó, að Ambassade gefur hótela bezt næma stemmningu 17. aldar heimilis auðugs kaupmanns. Það er aðeins búið 46 herbergjum, svo það er nánast heimilislegt, fullt af gömlum húsgögnum.

Öldruð gólfklukka í fallegu anddyri gaf vonir um framhaldið, sem magnaðist í setustofu persateppis og fornminja og einfaldari morgunverðarstofu á tveimur gólfum uppi á annarri hæð. Þaðan er fallegt útsýni yfir virðulegt Herengracht síki.

Starfslið og eigendur voru sérdeilis vingjarnlegir. Þeir létu næturhröfnum í hópi gesta í té útidyralykil, svo að þeir þyrftu ekki að trufla aðra við heimkomu.

Herbergi nr. 28 er uppi á fjórðu hæð, heil húsbreidd með góðu útsýni yfir síkið úr þremur stórum gluggum. Það er stórt og var meðal annars búið gamalli kommóðu og gömlum borðstofustól og tveimur voldugum hægindastólum. Þriðja rúmið í herberginu var fellt upp að vegg. Baðherbergið var fullflísað og hið vandaðasta að búnaði.

Héðan eru ekki nema 500 metrar til Dam og 800 metrar til Rembrandtsplein og Leidseplein. Betri getur staðsetningin tæpast orðið.

Tveggja manna herbergi kostaði Fl. 250 með morgunverði.

(Ambassade, Herengracht 341, sími 626 2333, fax 624 5321, telex 10158, B3)

Classic

Eitt af þremur öðrum uppáhaldshótelum okkar er Classic, í göngugötu að baki Nieuwe Kerk, aðeins 80 metrum frá aðaltorginu Dam. Það er nýtízkulega innréttað í gömlu genever-brugghúsi við hlið smakkstofunnar Drie Fleschjes.

Þrátt fyrir nálægðina við ys og þys stórborgarinnar, er þetta hljóðlátt og rólegt hótel, en of hljóðbært er milli herbergja. Flest er lítið við þetta hótel. Það hefur lítið anddyri með litlum bar og setukrók, opið inn í morgunverðarsal. Herbergin eru aðeins 33 að tölu og verðið lágt.

Það eina, sem ekki var lítið, var sjálft herbergið nr. 110. Það var fremur stórt, hafði glugga til tveggja átta og var búið samstæðum reyrhúsgögnum af vandaðasta tagi. Enginn var minibarinn, en hins vegar hin ágætasta kaffivél. Baðið var fullflísað.

Tveggja manna herbergi kostaði Fl. 225 með morgunverði.

(Classic, Gravenstraat 14-16, sími 623 3716, fax 638 1156, B2)

Pulitzer

Þriðja vildarhótelið okkar er Pulitzer, þar sem við höfum notið eins fegursta hótelherbergis, sem við höfum séð. Allt hótelið er innréttað af frábærri smekkvísi í nútímastíl innan í sautján samliggjandi húsum. Þau eru flest frá fyrri hluta 17. aldar og sum frá því um 1600, frá tíma Guðbrands biskups Þorlákssonar.

Flest hinna 236 herbergja hótelsins snúa að Prinsengracht, en í rauninni nær hótelið meira eða minna yfir heila húsablokk milli þess síkis og Keizersgracht. Þar að aftanverðu er gengið til hótelbars og veitingastofunnar Goedsbloem, sem er þekkt fyrir hina nýju, frönsku matargerðarlist.

Að utanverðu bendir fátt til, að hér sé hótel hið innra. Anddyrið er lítið og yfirlætislaust og starfsliðið var þægilegt og afslappað. Á jarðhæðinni eru miklir rangalar inn húsagarðinn að hótelpartinum við Keizersgracht.
Lyfta er í hótelinu, en eigi að síður þurfa menn sífellt að ganga upp og niður smátröppur, því að gólfin í húsunum sautján standast engan veginn á. Þetta eru skemmtilegir gangar fyrir þá, sem ekki eru fatlaðir.

Herbergi nr. 419 var óvenjulega smekklegt, með öllum nútímaþægindum undir berum bitum hinnar öldnu burðargrindar. Í sumum öðrum herbergjum eru bitar meira áberandi, svo og berir múrsteinsveggir. Herbergið nær yfir heila húsbreidd út að Prinsengracht og var fullt af sólskini.

Hinir björtu og samstæðu litir herbergisins og búnaðar þess mögnuðu sumarstemmninguna. Stólar og annar búnaður var hinn þægilegasti og vandaðasti. Sama var að segja um baðherbergið. Allt var hreint og nýtt sem ónotað væri, indæl hótelvin í Amsterdam.

Yfirleitt mælum við með slíkum herbergjum, sem snúa út að síkjum. En á Pulitzer er víða fallegt útsýni úr bakherbergjum niður í friðsælan hótelgarðinn með indælu kastaníutré, svo að hinir óheppnu verða líka heppnir.

Frá Pulitzer eru aðeins 300 metrar að Húsi Önnu Frank og annað eins að tískuhverfinu Jordaan.

Tveggja manna herbergi kostaði Fl. 470 með morgunverði.

(Pulitzer, Prinsengracht 323, sími 523 5235, fax 627 6753, telex 16508, A4)

Rembrandt

Fjórða hótelið í þessum fyrirmyndarhópi er Rembrandt. Það er innréttað með svipuðu hugarfari og Pulitzer, en er þó ekki eins smart. Hins vegar er það sérlega vel í sveit sett, aðeins 300 metra frá Spui og 400 metra frá Dam.

Hótelið er í einu stóru húsi, sem snýr út að Herengracht og þremur litlum, sem snúa að Singel síki. Anddyrið er lítið og látlaust, en herbergin 111 eru stílhrein og skemmtileg, ekki síst uppi í risi, þar sem burðarbitarnir njóta sín.

Herbergi nr. 407 var rúmgott og bjart eins og önnur, sem lýst hefur verið hér að framan. Burðarbitarnir voru alls ráðandi í innréttingunni. Útsýnið úr tveimur voldugum gluggum út á Herengracht var einkar skemmtilegt. Búnaður í herbergi og á baði var vandaður.

Tveggja manna herbergi kostaði Fl. 300 með morgunverði.

(Rembrandt, Herengracht 255, sími 622 1727, fax 625 0630, telex 15424, 83)

Europe

Annað af tveimur fínustu hótelunum í borginni er Europe, sem raunar heitir „de l‘Europe“ upp á frönsku. Við tökum það fram yfir Amstel, þótt opinberu salarkynnin séu ekki eins fín, því að það er í fyrsta lagi minna og í öðru lagi svo miklu meira miðsvæðis.

Raunar er Europe í hjarta borgar innar, ekki síður vel staðsett en Ambassade, sem fremst var getið. Til Rembrandtsplein eru 300 metrar. 600 metrar til Dam og 900 metrar til Leidseplein. Hótelhöllin rís andspænis Munttoren, þar sem mætast áin Amstel og síkin Rokin og Singel.

Þessu 100 herbergja hóteli frá 1895 hefur verið líkt við risastóra afmælistertu á floti. Mesta athygli þeirra, sem hjá fara að kvöldlagi, vekur þó upplýst eldhúsið í kjallaranum, því að yfirborð vatnsins nær upp að gluggum og kokkarnir virðast vinna í kafi.

Europe er eitt af þessum gömlu aðalshótelum, sem eru virðuleg, án þess að vera merkileg með sig. Að innanverðu hefur það verið endurnýjað hátt og lágt, svo að tæknilega stenst það samkeppni við keðjuhótel kaupsýslumanna á borð við Hilton og Marriott.

Persónuleg þjónusta er auðvitað mun betri á hóteli af þessu tagi en keðjuhótelunum. Gestir eru fljótlega ávarpaðir með nafni. Enga stund tekur að fá það, sem óskað er eftir, hvort sem það er miðnæturverður eða bílaleigubíll.

Eins og opinberu salirnir var herbergi nr. 316 innréttað í hvítu og daufbláu í frönskum stíl, með samræmdum, gömlum húsgögnum. Það var risastórt og með vel opnanlegum glugga, sem vísaði beint út á Muntplein og umferð ferðamannabáta á Amstel. Umferðarhávaðans vegna var þægilegra að hafa gluggann lokaðan.

Baðherbergið var kapítuli út af fyrir sig, allt klætt í marmara, vel búið sápuvörum og risastórum handklæðum, svo og þykkum baðslopp. Í náttborðum voru stjórntæki fyrir allt, sem þurfti, þar á meðal fyrir sjónvarpstækið og ýmiss konar hótelþjónustu, sem kom að vörmu spori. Á jarðhæð, með svipuðu útsýni, er veitingasalurinn Excelsior, sem áður bauð einn bezta franskættaða mat í borginni, en hefur dalað upp á síðkastið og hefur dottið úr þessari bók.

Tveggja manna herbergi kostaði Fl. 610 með morgunverði.

(Europe, Nieuwe Doelenstraat 2, sími 623 4836, fax 624 2962, telex 12081, C2)

Marriott

Eina bandarískt-ættaða keðjuhótelið fyrir kaupsýslumenn í Amsterdam, sem kemst með tærnar, þar sem Europe og Amstel hafa hælana, er Marriott, sem stendur andspænis Leidseplein, handan Singelgracht, með góðu útsýni yfir miðborgina.

Eins og á öllum slíkum hótelum minnir anddyrið á járnbrautarstöð. Gestir eru sífellt að koma og fara úr hinum 393 herbergjum hótelsins. Rétt að baki er þó friðsæll hótelbar, sem er innréttaður á nokkrum pöllum í stíl bókasafns. Í kjallaranum er annað tveggja bestu diskóa borgarinnar, Windjammer Club (sjá bls. 53).

Herbergi nr. 307 snýr út að Leidseplein eins og vera ber. Það var rúmgott, búið þungum húsgögnum í stílhreinu samræmi við litskrúðug gluggatjöld og djarflita veggi. Sérkennilegt var, að vel búið og smekklegt baðherbergi var veggfóðrað, en ekki flísalagt.

Tveggja manna herbergi kostaði Fl. 500 með morgunverði.

(Marriott, Stadhouderskade 21, sími 607 5555, fax 607 5511, telex 15087, D5)

Ramada

Ein skærasta stjarnan á himni hótela kaupsýslumanna og ráðstefnufólks í Amsterdam er Ramada. Það er byggt í samráði við yfirvöld húsfriðunarmála í borginni, en í andstöðu við róttækari húsfriðunarsinna.

Ráðstefnusalur hótelsins er hin hringlaga Ronde Luterse Kerk, sem hefur verið afvígð vegna skorts á Lúterstrúarmönnum í borginni. Andspænis kirkjunni hafa þrettán friðuð hús frá 17. öld verið felld inn í nýja stórbyggingu, sem er í hefðbundnum gaflastíl borgarinnar. Milli hótels og kirkju liggja göng undir götuna.

Þessu afreki sameiningar gamals og nýs tíma hefur fylgt nýtt líf, sem hefur skotið rótum í þessu gamla hverfi pakkhúsa. Umhverfis hafa verið innréttuð skemmtileg veitingahús af ýmsu tagi, ölstofur og léttvínssalir, enda er mikil umferð í kringum 432 herbergja hótel. Þar sem áður var doði, er nú líf og fjör.

Hótelið snýr einni hlið að götu, sem liggur samsíða Damrak, í næsta nágrenni aðaljárnbrautarstöðvarinnar. Það liggur því vel við nyrðri hluta gömlu miðborgarinnar, en síður við hverfunum umhverfis Leidseplein og Rembrandtsplein.

Anddyrið er hávaðasamt, eins og við er að búast á svona stóru hóteli, sem hefur fullt af verzlunum og dálítið af veitingasölum innanborðs. Hótelið er raunar smábær út af fyrir sig handa þeim, sem ekki vilja fara út undir bert loft eða meira en 25 metra frá næsta hótelbar. Þarna er meira að segja annað af tveimur beztu diskóum borgarinnar, Boston Club (sjá bls. 53).

Herbergi nr. 806 var rúmgott, vel innréttað og notalegt. Þykkt, vínrautt teppi var á gólfi og allir húsmunir í samræmi. Baðherbergið var fullflísað og fullkomið að búnaði. Við höfðum ekki haft vit á að panta herbergi með útsýni til betri áttar.

Tveggja manna herbergi kostaði Fl. 525 með morgunverði.

(Ramada, Kattengat 1, sími 621 2223, fax 627 5245, telex 17149, A2)

American

Eitt skemmtilegasta hótel borgarinnar er 188 herbergja American, vel í sveit sett við Leidseplein. Það var reist 1897 í geðveikislegum „art nouveau“ eða „Jugend“-stíl með gotneskum tilþrifum og minnir á Walt Disney-kastala. Það er orðið svo sögufrægt í byggingarlistinni, að það hefur verið alfriðað. Frægasti hlutinn er innréttingin á Café Americain (sjá bls. 47).

Þetta er hefðbundinn áningarstaður listvina, listamanna og skemmtikrafta. Borgarleikhúsið, óperan og ballettinn eru í næsta húsi, alls staðar í kring eru næturklúbbarnir og kabarettarnir og hinum megin við Singelgracht eru öll heimsfrægu söfnin og sinfóníuhöllin. Á þessu hóteli skríða gestir úr rúmum um hádegisbil.

Fjörlegast er að fá herbergi með svölum út að Leidseplein og gangstéttarkaffistofu hótelsins, en því fylgir töluverður hávaði frá sporvögnum, þegar gluggar eru opnir. Friðsælla og fegurra er útsýnið að breiðum Singelgracht.

Herbergi nr. 416 snýr út að Singelgracht með fallegu og notalegu útsýni gegnum voldugar trjákrónur. Herbergið var sæmilega rúmgott og vel búið húsgögnum og öllum aðbúnaði á baði.

Tveggja manna herbergi kostaði Fl. 450 með morgunverði.

(American, Leidsekade 97, sími 624 5322, fax 625 3236, telex 12545, C5)

Krasnapolsky

Í verðflokki með American er eitt af einkennistáknum borgarinnar, hótelið Krasnapolsky við Dam, andspænis konungshöllinni. Þetta rúmlega 100 ára gamla hótel býður gestum sínum til morgunverðar í víðfrægum vetrargarði, Wintertuin, þar sem risastórar plöntur héngu til skamms tíma niður úr glerþakinu og gera vonandi aftur, þegar breytingum er lokið.

Smám saman hefur Krasnapolsky vaxið út í næstu hús, upp í 323 herbergi, svo að ekki er auðvelt að rata, en lyftur eru hér og þar til bóta. Viturlegast er auðvitað að panta sér herbergi í elzta hlutanum með útsýni yfir á torgið til konungshallarinnar. Innréttingar þar hafa að verulegu leyti verið endurnýjaðar. Boðið er upp á reyklausar vistarverur.

Herbergi nr. 2032 bjó yfir tilætluðu útsýni yfir aðaltorg borgarinnar, þar sem uppákomur skemmtikrafta, ofsatrúarmanna og mótmælafólks lífga hellurnar frá morgni til kvölds. Þetta er kjörinn útsýnisstaður, með stuttum vegalengdum til allra átta í gömlu miðborginni.

Sjálft herbergið bar þess merki, að innanhússarkitekt hafði nýlega fengið að leika lausum hala. Allir litir voru í svörtu, hvítu og silfruðu í leikrænni samsetningu. Meiri dirfsku höfum við ekki séð annars staðar í innréttingu hótelherbergja. En allur búnaður verkaði eins og í sögu, bæði í herbergi og á baði.

Herbergi nr. 4018 var með yngri mahóní-innréttingu, sem var afar vönduð og samræmd, en ekki eins skemmtileg, því að hún gat verið á hvaða fyrsta flokks hóteli sem er.

Tveggja manna herbergi kostaði Fl. 425 með morgunverði.

(Krasnapolsky‚ Dam 9, sími 554 9111‚ fax 622 8607, telex 12262, B2)

Scandic Crown

Í næsta verðflokki fyrir neðan er sögufrægt, en ekki litríkt Scandic Crown, sem áður hét Victoria, með 321 herbergi eftir mikla stækkun. Það er virðulegt hús við norðurenda aðalgötunnar Damrak, andspænis aðaljárnbrautarstöðinni, rétt hjá áðurnefndu Ramada hóteli. Eftir endurnýjun sómir það sér vel á nýjan leik.

Herbergi nr. 411 var í gamla hlutanum, mjög stórt og næstum tómlegt, af því að fínu húsgögnin fylltu það ekki. Tveir gluggar veittu útsýni til járnbrautarstöðvarinnar. Hávaðinn frá umferðargötunum barst ekki inn í herbergið. Baðherbergið var líka vel búið að öllu leyti.

Tveggja manna herbergi kostaði Fl. 395 með morgunverði.

(Scandic Crown, Damrak 1, sími 623 4255, fax 625 2997, telex 16625, A1)

Doelen

Rétt hjá Europe, einnig við Amstel, þar sem hún mætir Kloveniersburgwal, er virðulegt og gamaldags Doelen, sem minnir á Europe, en er ekki eins fínt. Hótelið er langt og mjótt með þekktum hótelbar í mjóa endanum við síkið. Helmingurinn af 85 herbergjum snýr út að síki og á og eru þau æskilegri til búsetu en hin.

Herbergi nr. 218 var rúmgott, búið flestum þægindum í gamaldags og ópersónulegum stíl og tveimur stórum gluggum, sem vísuðu út á svalir að ánni.

Tveggja manna herbergi kostaði Fl. 375.

(Doelen, Nieuwe Doelenstraat 24, sími 622 0722, fax 622 1084, telex 14399, C2)

Ascot

Hentugt hótel við breiðgötuna Damrak, um 50 metrum frá aðaltorginu Dam, er Ascot með 109 vel búnum herbergjum, en fremur kuldalegu starfsliði. Annar galli er á þessum stað, að morgunmatur var fremur vondur og sama var að segja um annan mat, svo að ráðlegt er að fara út að snæða.

Herbergi nr. 311 var fremur stórt og notalegt, búið ljósbláum ábreiðum og gluggatjöldum og bauð upp á gott útsýni út á breiðgötuna. Baðherbergið var marmaraslegið og vandað eftir því.

Tveggja manna herbergi kostaði Fl. 360.

(Ascot, Damrak 95-98, sími 626 0066, fax 627 0982, telex 16620, B2)

Dikker en Thijs

Ágætt hótel er Dikker en Thijs á horni Prinsengracht og verslunargötunnar Leidsestraat, aðeins 100 metrum frá skemmtanatorginu Leidseplein. Það er með minnstu hótelum bókarinnar, aðeins búið 25 herbergjum.

Dikker en Thijs er útibú frá samnefndri kaffistofu á jarðhæðinni, þar sem áður var fræg sælkerabúð. Undir kaffihúsinu er Prinsenkelder veitingahúsið (sjá bls. 40), yfir henni Dikker en Thijs veitingahúsið (sjá bls. 40) og þar fyrir ofan hótelið, allt í sömu eign.

Uppi á hverri hæð er dálítil forstofa fyrir framan fjögur herbergi. Það eykur einkaíbúðabraginn á hótelinu. Bezt er að vera ofarlega til að fá útsýni og í herbergjum með tölum sem enda á 03 og 04, því að þau snúa út að Prinsengracht með útsýni yfir kirkjuturna miðborgarinnar.

Herbergi nr. 504 beið okkar nýtízkulegt, með ferskum ávöxtum í skál. Plastinnréttingarnar voru hvítar og dálítið kuldalegar. Rúm var fyrir tvo hægindastóla við stóran útsýnisglugga, sem opnaðist út á örlitlar svalir. Tvöfalt glerið hindraði hávaða frá Leidsestraat. Baðherbergið var fullflísað, vel búið og hafði einnig stóran útsýnisglugga.

Tveggja manna herbergi kostaði Fl. 350 með morgunverði.

(Dikker en Thijs, Prinsengracht 444, sími 626 7721, fax 625 8986, telex 13161, C4)

Port van Cleve

Enn eitt mjög vel í sveit setta hótelið er 99 herbergja Port van Cleve, sem er að baki konungshallarinnar, við hlið gamla aðalpósthússins, er hefur verið breytt í eins konar Kringlu. Þetta er lítið og notalegt hótel með vingjarnlegu starfsliði. Niðri er einn af frægustu veitingasölum borgarinnar.

Herbergi nr. 518 sneri að húsabaki með útsýni yfir nálæg þök. Það var mjög stórt og stílhreint að búnaði, með stóru og fullflísuðu baðherbergi.

Tveggja manna herbergi kostaði Fl. 310 með morgunverði.

(Port van Cleve, Nieuwezijds Voorburgwal 178-180, sími 624 4860, fax 622 0240, telex 13129, A3)

Frommer

Eitt skemmtilegu hótelanna í Amsterdam er Arthur Frommer, 90 herbergja hótel nálægt Rembrandtsplein og Museum Fodor. Það er innréttað í sambýlishúsi þrettán vefara.

Herbergi nr. 214 var búið sérkennilegum húsgögnum, þar á meðal útskornum hægindastólum og ruggustól, sem var um það bil að fara úr límingu. Geysiþykkar ábreiður voru á rúmum. Húsbúnaðurinn var dálítið byrjaður að láta á sjá.

Baðherbergið var lítið en hafði að geyma stóran, niðurgrafinn sturtubotn. Engin herbergisþjónusta var veitt.
Tveggja manna herbergi kostaði Fl. 240 með morgunverði.

(Arthur Frommer, Noorderstraat 46, sími 622 0328, fax 620 3208, telex 14047, D3)

Agora

Af ódýru hótelunum reyndist okkur drýgst Agora, sem er við Singel, rétt við Koningsplein. Það er ákaflega vel í sveit sett, rétt hjá hótelinu Ambassade, og skemmtilega lítið, aðeins 14 herbergja. Útidyrnar eru alltaf læstar, en hótelgestir fá útidyralykil. Morgunverðarstofan er smekkleg, með stórum glugga út að litlum garði. Hótelhaldarar eru afar viðkunnanlegir. Lága verðið stafar að einhverju leyti af, að ekki er lyfta í húsinu.

Herbergi nr. 27 var fremur lítið og búið öldruðum húsgögnum vönduðum, þar á meðal póleruðu skrifborði. Allt var í góðu lagi í baðherberginu, sturta til dæmis einkar öflug.

Tveggja manna herbergi kostaði Fl. 180.

(Agora, Singel 462, sími og fax 627 2200, telex 12657, C3)

Owl

Einna ódýrust af þeim sómasamlegu hótelum með baði á herbergjum, sem við fundum í Amsterdam, eru nokkur hótel víð Roemer Visscherstraat að baki Marriott hótels og í næsta nágrenni við söfnin frægu umhverfis Museumsplein.

Skemmtilegast þeirra er Owl, við þann enda götunnar, sem næstur er Marriott. Þetta er friðsælt, lítið, 34 herbergja hótel með vingjarnlegu starfsliði. Morgunverðarsalur í kjallara er snyrtilega innréttaður.

Herbergi nr. 444 sneri út að garði að húsabaki. Það var lítið, en sómasamlegt og hafði fullflísað baðherbergi. Nokkuð hljóðbært er í húsinu.

Tveggja manna herbergi kostaði Fl. 175 með morgunverði.

(Owl, Roemer Visscherstraat 1, sími 618 9484, fax 618 9441, telex 13360, D5)

Vondel

Við enda sömu götu, enn nær Marriott, er 35 herbergja Vondel, notalegt hótel með vingjarnlegu starfsliði og svipuðum kostum og göllum og Owl. Herbergi nr. 5 var þó mun stærra en tilsvarandi herbergi á Owl, hefur raunar setustofupart og samt pláss fyrir þriðja rúmið. Húsgögn voru gömul, en hreinleg. Baðið var flísalagt.

Tveggja manna herbergi kostaði Fl. 175 með morgunverði.

(Vondel, Vondelstraat 28, sími 612 O120, ekki telex, C5)

Parkzicht

Þetta er lítið og notalegt hótel með aðeins 15 herbergjum, sem sum snúa út að Vondelpark. Herbergi nr. 5 var búið gamaldags húsgögnum í góðu lagi. Baðherbergi var með fullnægjandi búnaði.

Tveggja manna herbergi kostaði Fl. 145 með morgunverði.

(Parkzicht, Roemer Visscherstraat 35, sími 618 1954, ekki telex, D5)

Önnur hótel á sama verði á svipuðum stað við götuna eru Sipermann, Roemer Visscherstraat 35, sími 616 1866, Fl. 135 með morgunverði; og Engeland, Roemer Visscherstraat 30a, sími 612 9691, Fl. 155 með morgunverði. Athugið, að ekki eru öll herbergi með baði á þessum hótelum.

1984 og 1992

© Jónas Kristjánsson

Amsterdam inngangur

Ferðir

Ævintýralega Amsterdam

— 17. aldar safn

Miðborg Amsterdam er stærsta safn heims, einstæð vin þúsunda húsa og hundraða brúa frá sautjándu öld, blómaskeiði siglinga og kaupsýslu Hollendinga. Um 7.000 hús í miðborginni hafa beinlínis verið friðuð, svo að sautjánda öldin megi varðveitast um ókomna framtíð.

Kílómetra eftir kílómetra rýfur ekkert samræmið í mjóum húsgöflum, fagursveigðum síkisbrúm og laufskrýddum trjám. Borgarsíkin eru lengri en í Feneyjum og mynda svigrúm og andrúm í annars þröngt byggðri borg. Hið eina, sem truflar myndina, er‚ eru bílarnir, sem komast vart leiðar sinnar.

Síkin eru nú orðið lítið notuð, nema fyrir útsýnisbáta ferðamanna. Hjólhesturinn og fætur postulanna eru samgöngutækin, sem henta borginni. Vegalengdirnar eru raunar svo stuttar, að á annatíma er oft fljótlegra að ganga milli staða en að aka stóran krók einstefnugatna.

Í Amsterdam er fullt af söfnum með minjum frá gullöldinni, þegar hér var meðal annars prentuð Specimen lslandiae historicum eftir Arngrím Jónsson lærða. En ferðamenn þurfa ekki að sækja söfnin til að kynnast sautjándu öldinni. Þeir hafa andrúmsloftið allt í kringum sig‚ bæði úti og inni.

Mörg notaleg hótel hafa verið innréttuð í mjóu, 300-350 ára gömlu húsunum við síkin. Enn fleiri veitingahús eru í þessum gömlu húsum, mörg hver prýdd forngripum sautjándu aldarinnar. Ekki má heldur gleyma knæpunum, sem margar eru óbreyttar enn þann dag í dag.

Að baki hins íhaldssama yfirbragðs borgar kaupsýslumanna ríkir svo um leið óvenjulegt og að sumra viti óhóflegt frjálslyndi, sem spannar frá gleðikonum í búðargluggum yfir í frjálsa dreifingu vímuefna til sjúklinga á læknabiðstofum og til ungmenna á opinberum félagsmiðstöðvum.

Við höfum lesið mikinn fjölda leiðsögubóka fyrir ferðamenn og fundist þær að ýmsu leyti takmarkaðar. Við höfum lesið bækurnar, sem ekki taka tillit til, að mikill hluti ferðamanna ver miklum hluta tímans á hóteli og veitingahúsum og hefur þess á milli töluverðan áhuga á að skemmta sér og líta í búðarglugga, en er ekki allan sólarhringinn að skoða sinn að skoða söfn og merka staði. Við viljum taka tillit til þessa og reyna að semja raunsæja bók. Við höfum líka lesið bækurnar, sem leggja dóm á hótel, veitingahús, verslanir og skemmtistaði, en eru þá fremur að þjónusta þessar stofnanir en lesendur.

Við teljum svo eindregið, að upplýsingar af því tagi eigi að vera óháðar, að við prófuðum allar þessar stofnanir og komum hvarvetna fram sem venjulegir gestir, greiðandi almennt og afsláttarlaust verð og gáfum okkur ekki fram, fyrr en að reikningum greiddum. Á þann hátt teljum við mestar líkur á, að reynsla lesenda muni koma heim og saman við þá reynslu, sem hér er lýst.

Þá höfum við skoðað bæklinga hótela, veitingahúsa og ferðamálaráða og fundist myndirnar falsaðar. Innanhúss eru myndirnar stúdíóteknar og sýna ekki raunveruleikann, hvað þá þegar þær eru teknar í hótelsvítu, en viðskiptavinurinn fær venjulegt herbergi. Utanhúss er beðið dögum saman eftir réttri birtu og réttu birtuhorni og myndirnar sýna ekki þungskýjaðan raunveruleika ferðamannsins. Við höfnuðum öllum gjafamyndum af slíku tagi, tókum okkar eigin og teljum þær gefa raunhæfari mynd en glansmyndir áróðursbæklinganna.

Jónas Kristjánsson og Kristín Halldórsdóttir

Bankar

Bankar eru opnir mánudaga-föstudaga 9-16, sumir fimmtudaga -19 og á aðaljárnbrautarstöðinni 7-22:45 alla daga. Farðu ekki með ávísun til Hollands, aðeins reiðufé, ferðatékka eða plastkort.

Barnagæsla

Hringdu í Oppascentrale Kriterion, sími 624 5848.

Bátar

Farið er frá 11 stöðum í 1 stundar bátsferðir um síkin.

Ferðir

Upplýsingastofa Ferðamálaráðs er fyrir framan aðaljárnbrautarstöðina, Stationsplein 10, opin mánudaga-laugardaga 9-23, sunnudaga -21, á veturna mánudaga-föstudaga 9-18, laugardaga -17, sunnudaga 10-13 og 14-17, sími 626 6444.

Fíkniefni

Ólöglegt er að hafa fíkniefni með höndum, þótt sums staðar sé það látið afskiptalaust.

Flug

Flugvallarvagninn til Schiphol fer á 15 mínútna fresti frá nokkrum helztu hótelunum. Hann er venjulega tæpan hálftíma á leiðinni. Leigubíll er 20 mínútur á leiðinni og kostar Fl. 70.Í síma 601 0966 eru gefnar upplýsingar á ensku um komu og brottför flugvéla.

Flugleiðir

Skrifstofa Flugleiða er á Apollolaan 7, opin 9-17, sími 76 95 35.

Framköllun

Víða í miðbænum er unnt að fá framkallað og kóperað á klukkutíma.

Gisting

Upplýsingastofa Ferðamálaráðs (sjá „Ferðir“ hér að ofan) útvegar húsnæðislausu ferðafólki gistingu.

Hótel

Ef þú vilt útsýni úr hótelherbergi, skaltu panta herbergi með „canal view“. Þá eru „twin room“ oft stærri en „double room“ fyrir sama verð.

Krítarkort

Ef þú hefur glatað krítarkorti, er heima svarað allan sólarhringinn í 354-1-68 54 99 fyrir Eurocard og í 354-1-67 17 00 fyrir Visa.

Leigubílar

Hringdu í 677 7777 eða farðu á næstu biðstöð leigubíla. Aðeins er unnt að veifa í leigubíl á förnum vegi, ef þakskilti hans er upplýst. Sumir leigubílstjórar vita lítið um götunöfn og heimilisföng í borginni.

Lyfjabúð

Hringdu í 664 2111 til að fá að vita, hvar sé næsta næturvarsla.

Læknir

Hringdu í 664 2111 til að fá upplýsingar um læknisþjónustu.

Löggæsla

Hringdu í neyðarsímann 06 11 til að ná sambandi við lögreglu. Hún er ekki eins hjálpleg við útlendinga og hún er í Kaupmannahöfn og London.

Peningar

Hollenski gjaldmiðillinn heitir formlega Flórína, skammstafað Fl., en hversdagslega er hann kallaður Guilders eða Gyllini. Smámynt er centímur. Flest hótel og veitingahús taka bæði Eurocard og Visa.

Pósthús

Aðalpósthúsið við Singel 250-256 er opið mánudaga-föstudaga 8:30-18, fimmtudaga -20:30 og laugardaga 9-12.

Rafmagn

Rafspenna er sama og hér heima, 220 volt.

Reiðhjól

Best staðsetta reiðhjólaleigan er Koenders, 33 Stationsplein, við aðaljárnbrautarstöðina.

Ræðismaður

Aðalræðismaður íslands er við Herengracht 176, sími 626 2658.

Salerni

Þú mátt nota salerni kaffihúsa og barstofa, af því að það eru taldir opinberir staðir.

Samgöngur

Ódýr dagskort, 2ja, 3ja og 4urra daga kort, sem gilda á öllum leiðum strætisvagna, sporvagna og neðanjarðarlesta, fást á upplýsingastofu Ferðamálaráðs (sjá „Ferðir“ hér að ofan).

Sími

Mun ódýrara er að hringja heim úr almenningssímum en frá herbergjum hótela. Á Tele Talk Center við Leidsestraat 101 og Telehouse við Raadhuisstraaat 46-50 er allan sólarhringinn alþjóðleg símaþjónusta.

Sjúkrabíll

Hringdu í neyðarsímann 06 11 til að fá sjúkrabíl.

Skemmtanir

Upplýsingar um skemmtana- og menningarlífið fást í vikuritinu What is on in Amsterdam.

Slökkvilið

Hringdu í neyðarsímann 06 11 til að ná sambandi við slökkvilið.

Tannlæknir

Hringdu í 664 2111 til að fáupplýsingar um tannlæknaþjónustu.

Vatn

Þótt ótrúlegt megi virðast er kranavatnið drykkjarhæft .

Verðlag

Verðlagið hér í bókinni er frá vetri 1992. Þeir, sem síðar nota bókina, ættu að reikna með um 5% verðbólgu á ári í Hollandi.

Verslun

Flestar verslanir eru opnar mánudaga-laugardaga 9-17:30 eða -18 og fimmtudaga -21 . Margar eru lokaðar mánudagsmorgna.

Þjórfé

Þjórfé er innifalið í reikningum hótela og veitingahúsa og í gjaldmælum leigubíla. Sumir viðskiptavinir slétta upphæðir upp í næstu tölu, sem endar á 5 eða 10 gyllinum. Hótelverðir, sem útvega leigubíl, fá eitt-tvö gyllini og sömuleiðis fatageymslufólk.

1984 og 1992

© Jónas Kristjánsson

Amsterdam skemmtun

Ferðir

Dam

Torgin eru meðal hins skemmtilegasta í Amsterdam. Fremst er þar Dam, torgið fyrir framan konungshöllina. Þetta torg er miðjan, sem gamla miðborgin óx í kringum. Það er afar fjörlegt torg, ekki bara vegna dúfnanna, heldur vegna mannfjöldans, er fylgist með eða tekur þátt í uppákomum.

„Jesús elskar þig!“ stóð á fána hjá uppákomu „Ungs fólks með hlutverk“, sem stóð yfir, þegar við litum þar við síðast. Enskumælandi prédikari reyndi að stunda múgsefjun með reifabarn í fangi, milli þess sem stúlkur í rauðum pilsum og hvítum skyrtum stigu helgidans.

Þar rétt hjá sat gítarspilari á kassa og raulaði þjóðlög. Á þriðja staðnum var enn annar, sem lék á nokkur hljóðfæri í senn. Báðir höfðu myndarlegan áheyrendahóp eins og prédikarinn. Í hinum enda torgsins sátu ungmenni á tröppum stríðsminnisvarðans, sem í Amsterdam gegnir svipuðu hlutverki og styttan af Eros á Piccadilly Circus. (B2)

Leidseplein

Hitt skemmtilega torgið í borginni er Leidseplein, miðpunktur skemmtanalífsins. Þar í kring eru leikhúsin, söfnin, veitingastaðirnir og næturklúbbarnir í röðum. Yfir torginu trónir borgarleikhúsið og í næsta nágrenni eru hinir frægu ungmennastaðir Melkweg og Paradiso.

Á torginu sjálfu er yfirleitt eitthvað um að vera, þótt í smærri stíl sé en á Dam. Síðast sáum við þar gítarleikara og látbragðsleikara, sem við höfðum séð hálfu ári áður í Covent Garden í London. Og svo er á Leidseplein dálítið af gangstéttarkaffihúsum, frægast Café Americain með Parísarstemmningu. (C4-5)

Rembrandtsplein

Einu sinni var Rembrandtsplein þungamiðja skemmtanalífsins. Torgið hefur nú látið á sjá. Klámbíó og lélegir næturklúbbar hafa hrakið hinn heilbrigðari hluta kvöld- og næturlífsins yfir á Leidseplein. Enn eru þar þó ágæt veitingahús og útikaffihús. Og gróðurreiturinn á miðju torgi gerir staðinn vinalegan, þrátt fyrir æpandi neon-auglýsingar. Við hlið Rembrandtsplein er Thorbeckeplein með miklu safni næturklúbba, en styttan af Thorbecke gamla snýr baki í þá. (C-D2)

Kalverstraat

Markaðirnir í Amsterdam eru skemmtilegir eins og torgin. Fjölsóttastur er Kalverstraat, sem í rauninni er ekki markaður, heldur göngugata með verzlunum á báðar hendur. En þröngin og fyrirgangurinn á mjórri götunni er slíkur, að minnir á útimarkað af betra tagi.

Einu sinni var Kalverstraat gata fínna verslana. Nú hefur hún hins vegar að nokkru leyti breytzt í götu gallabuxnasala, þar sem margt er selt við vægu verði. Inn á milli eru dýru tízku- og demantabúðirnar.

Sums staðar í heiminum hafa göngugötur af þessu tagi pláss fyrir útikaffihús. En því er ekki fyrir að fara hér. Sá, sem ætlar að rölta um í ró og næði, neyðist til að greikka sporið til að halda sama hraða og mannhafið. Áhrifin eru semsagt eins og af markaði, en ekki göngugötu.

Kalverstraat verslanirnar eru lokaðar á sunnudögum. (B3)

Albert Cuypstraat

Þetta er aðalmarkaðurinn í Amsterdam og nær nokkrar blokkir til austurs frá horni Ferdinand Bolstraat. Hann hefur magnazt á síðustu árum vegna flutnings Súrinama frá fyrrverandi hollenzku Guyana í S-Ameríku og annars fólks af fjarlægum ströndum til Pijp-hverfisins á þessum slóðum.

Í Albert Cuypstraat er hægt að fá hin undarlegustu og sjaldséðustu krydd, fiska og grænmeti, ávexti og blóm. Litaskrúðið er mikið á vörum og fólki, vöruúrvalið mikið og ódýrt. Ilmurinn frá snarltjöldunum er bæði fjarrænn og freistandi. Til dæmis ilmur af pönnukökum, fylltum kjöti og grænmeti, og af Barras, sem eru eins konar baunabollur.

Markaðurinn er lokaður á sunnudögum. (E2-3)

Waterlooplein

Flóamarkaðurinn er nú aftur kominn á Waterlooplein eftir langa útlegð í Valkenburgerstraat í nágrenninu. Algengt er, að sölumenn setji upp 50-100% hærra verð en þeir eru að lokum tilbúnir að semja um.

Hér er hægt að fá allt milli himins og jarðar, allt frá pelsum yfir í skrúfur, allt frá fornminjum yfir í bátaluktir. Og ekki má gleyma, að hér fást ódýr reiðhjól til nokkurra daga notkunar fyrir ferðamenn. (C1)

Bloemenmarkt

Holland er land blóma. Og blómamarkaðurinn við Singel, frá Muntplein að Leidsestraat, er frægur um allan heim. Í 200 ár hafa bátarnir vaggað hér við síkisbakkann, fullir af skærum litum blóma. Jafnvel um hávetur, þegar menn vaða snjóinn, eru blómin seld hér utan dyra.

Vafasamt er, að til sé í heiminum nokkur annar slíkur sérhæfður blómamarkaður af þessari stærð. Hann er örugglega eitt af því, sem ferðamenn í Amsterdam verða að gefa sér tíma til að skoða. (C3)

Noordermarkt

Á síðustu árum hefur markaðurinn umhverfis Noorderkerk tekið upp öfluga samkeppni við hinn hefðbundna flóamarkað í Waterlooplein. Hann nær núna langt inn eftir Westerstraat og breytist þar í fatamarkað. En hann er bara opinn mánudaga. Á sama stað er fuglamarkaður laugardaga.

Vöxtur þessa markaðar stafar af, að hverfið í kring, Jordaan, er komið í tízku. Þangað hafa flutt miðaldra hippar frá stúdentauppreisninni 1968, sem nú eru orðnir vel stæðir borgarar og geta innréttað sér dýrar íbúðir í gömlum pakkhúsum.

Úrvalið hér er raunar orðið meira en í Waterlooplein og breiddin meiri, bæði niður í skranið og upp í sómasamlegar vörur. Hér er svo á laugardagsmorgnum skemmtilegur fuglamarkaður. (A3)

Oudemanhuispoort

Langi og mjói 18. aldar gangurinn með þessu langa nafni er í rauninni aðalinngangur háskólans. Á aðra hlið hans eru í röðum kassar bóksala eins og á Signubakka. Hér geta stúdentar keypt notaðar námsbækur og ferðamenn gamlar bækur, landakort og steinprentsmyndir.

Oudemanhuispoort liggur milli síkjanna Kloveniersburgwal og Oudezijds Achterburgwal. (C2)

Postzegelmarkt

Síðdegis á miðvikudögum og laugardögum er frímerkjamarkaður haldinn í Nieuwezijds Voorburgwal, þar sem gatan breikkar fyrir sunnan aðalpósthúsið og fyrir norðan Historisch Museum. Þar er líka seld gömul mynt. (83)

Reynders

Eitt þekktasta kaffihús borgarinnar er Reynders við Leidseplein. Löngum var þetta listamannakrá, en er nú orðin að stað, þar sem heimamenn hittast yfir kaffi, áður en þeir fara eitthvert annað.

Fremst er gangstéttarútskot í venjulegum kaffihúsastíl. Inni er mikið safn gamalla tréborða og tréstóla í einum graut. Innst er billjarðborð. Þetta er hversdagslegur staður með góðri stemmningu heimafólks. Ferðamenn voru fáir, þegar við síðast litum inn. (C4)

Eylders

Í sömu húsalengju, aðeins fjær torginu, er Eylders, annað þekkt kaffihús, heldur snyrtilegra og fínna. Málverkasýning er á veggjum. En borðin eru líka slitin hérna eins og á hinum staðnum, eftir olnboga nokkurra áratuga.

Het Hok

Rétt hjá Leidseplein, á horni Lange Leidsedwarsstraat og Leidsekruisstraat eru tvær skákstofur, þar sem fólk getur teflt, meðan það fær sér kaffi. Þær eru Het Hok á sjálfu horninu og Domino. Fyrri staðurinn er skemmtilegri, rúmgóður og fastagestalegur.(C4)

Café Americain

Merkilegasta kaffistofa borgarinnar er víð sama torgið og hinar. Café Americain er á jarðhæð hótelsins American og er frægasti hluti Jugend-stíls þess hótels. Innréttingarnar eru verndaðar af húsfriðunarnefnd, þar á meðal sérkennilegar ljósakrónur úr frostgleri, súlur og bogar, flauel og steindir gluggar.

Hér hélt njósnarinn Mata Hari brúðkaup sitt. Og hér hafa löngum setið og sitja enn innlendir og erlendir listamenn og láta elginn vaða. Fyrir utan kaffi og með því fást hér ódýrir réttir dagsins, ýmsir smáréttir og ferðamannamatseðill, sem síðast kostaði Fl. 17.

Utan dyra er sá hluti borgarinnar, sem mest minnir á París. Heilt torg er framan við hótelið og þar er þétt setinn bekkurinn á sólríkum dögum. Á þessu gangstéttarkaffihúsi út frá Café Americain mæla ferðamenn sér mót nú á tímum. (C5)

Wijnlokaal Mulliner‘s

Við Leidseplein er fleira en kaffistofur. Þar eru líka vínstofur, þar sem heimamenn stunda sötur eftir vinnu og fyrir heimferð eða útstáelsi. Ein þeirra er Wijnlokaal við Lijnbaansgracht 267.

Þessi staður sérhæfir sig í púrtvíni af ýmsum aldri, allt upp í rúmlega hálfrar aldar gömlu. Barinn liggur næstum í heilan hring og fyrir framan eru smáborð í hornum. (D4)

Continental Bodega

Aðeins nær Leidseplein, við Lijnbaansgracht 246, er sherry-bar borgarinnar. Hann býður upp á ótal tegundir af sherry og léttum vínum fram til klukkan hálfátta á kvöldin. Staðurinn er á þremur hæðum.

Menn fá pöntunarkort við innganginn. Þeir sem sitja uppi á annarri hæð, sjá niður á barinn. Þeir slá í aðra af tveimur kúabjöllum. Barþjónninn halar niður pöntunarlistann og aftur upp með fullum glösum af því, sem pantað var. Síðan borga menn viðskiptin við útidyrnar.

Þetta er mjög líflegur staður, bæði fyrir heimamenn og ferðamenn. Eftir vinnu er hann sneisafellur og jafnvel biðröð við bjöllurnar. lnnréttingar eru rómantískar. Sherryglas er á Fl. 2,90 og við fengum ágætt Manzanilla á Fl. 3,50. (D4)

Cafe de Jaren

Blaðalestrar-kaffihús eru mörg og höfða vel til borgarbúa. Í háskólahverfinu er Cafe de Jaren við hlið Doelen-hótels, við Nieuwe Doelenstraat. Þar er hátt til lofts og vítt til veggja og fullt af stúdentum, sem sumir eru háværir, en aðrir niðursokknir í lestur. Stórar svalir snúa út að Amstel. Nóg er af blöðum og tímaritum, þar á meðal á ensku. (C2)

Morlang og Walem

Tvær kaffistofur eru hlið við hlið við Keizersgracht 449 og 451, rétt hjá Leidsestraat. Þetta eru blaðalestrarstofur og að minnsta kosti Walem hefur úrval erlendra blaða og tímarita. Morlang er heldur rólegri. (C4)

Upstairs

Sérstakt fyrirbæri í Amsterdam eru pönnukökuhúsin. Það skemmtilegasta hét áður Carla Ingeborg‘s, en heitir nú Upstairs. Það er við Grimburgwal 2 og er pínu-pínulítið, gengið upp hænsnastiga. (C2)

Bruine kroegs

Útbreiddustu krár borgarinnar eru bjórstofurnar, svonefndar Bruine kroegs, sem eru á öðru hverju götuhorni í miðborginni. Þær eru yfirleitt minni en brezkir pubs og enn skuggsýnni, bæði vegna lítillar birtu og hins dökka viðar í húsbúnaði. Þaðan kemur nafnið.
Hér horfa menn á barþjóninn fylla glösin af stakri þolinmæði í mörgum áföngum, skafandi froðuna af á milli áfanga með hnífi. Þetta eru staðirnir, sem heimamenn hafa að festasetri.

Hoppe

Hoppe er heiti margra kráa í Amsterdam. Hin upprunalega Hoppe er við torgið Spui vestanvert. Hún er fræg fyrir, að þar hittast háir og lágir og blanda geði, allt frá ráðherrum yfir í Súrinama. Þetta er krá hollenzks jafnræðis og frjálslyndis. (B-C3)

Pilsener Club

Rétt hjá Hoppe er Pilsener Club, öðru nafni Engelse Reet, í þröngu stræti, Begijnensteeg, sem liggur að Begijnhof. Þar er líka margt um manninn úr öllum stéttum. Stundum er mestur hávaðinn frá bridgespilurunum við hringborðið. Á trégólfi er sandur, sem skúrar hvítan viðinn. (C3)

Scheltema

Rétt hjá konungshöllinni er gömul og niðurgrafin blaðamannakrá með kamínu á miðju gólfi. Það er Scheltema við Nieuwezijds Voorburgwal 242. (B3)

Pieper

Dæmigerð krá er Pieper, rétt hjá Leidsestraat, við Prinsengracht 424, rustaleg, skuggaleg, hönnunarlaus, þröng og þægileg. (C4)

Pilserij

Við hlið Classic hótels að baki Nieuwe Kerk, við Gravenstraat 10, er dimm krá í skemmtilegum ungstíl. (A-B2)

Wynand Fockink

Ein af sérgreinum Amsterdam eru smökkunarstaðir fyrirtækjanna, sem framleiða jenever og líkjöra. Þar fá menn skenkt fleytifull glös og verða síðan að beygja sig niður að borðinu með hendur fyrir aftan bak til að taka fyrsta sopann. Þetta er hefð.
Skemmtilegasta smakkstofan er Wynand Fockink í mjóu sundi, Pijlsteeg 31, út frá Dam við hlið Krasnapolsky hótels. Þar ræður ríkjum tungumálagarpurinn, sagnfræðingurinn og heimspekingurinn P.A. Gijsberti Hodenpijl og er ekki í vandræðum með umræðuefnin.

Sjálfur barinn hefur verið óbreyttur í rúmar þrjá aldir. Gamlar vínflöskur skreyta veggina og barborðið er orðið slitið mjög. Hvergi er hægt að fá sér sæti í þessari litlu brennivínsholu. Það skýrir ef til vill, af hverju enginn er þar nógu lengi til að verða fullur. Nógu góðir eru kryddsnafsarnir samt. (B2)

Drie Fleschjes

Önnur smakkstofa í nágrenninu, rétt undir Nieuwe Kerk, við Gravenstraat 16, við Classic hótelið, er Drie Fleschjes, einnig gömul og fornfáleg. Þar hittast kaupsýslumenn í hádeginu til að fá sér frystan jenever í stað þess að borða sér til óbóta. Inni í horni er sérkennilegt glerbúr fyrir tvímenningsdrykkju.

Einkenni smökkunarstaða er, að ekki er til siðs, að viðskiptavinir setjist þar upp, heldur fá sér einn eða tvo. Ennfremur, að þetta gerist að degi til. Smakkstofurnar eru nefnilega lokaðar á kvöldin (A-B2)

Bols Taverne

Helsta smakkstofan í hverfinu Jordaan er Bols Taverne við Rozengracht 106. Það er eins konar hverfiskrá, sem býður líka upp á snarl og heilar máltíðir. Þar er boðið upp á rúmlega hundrað tegundir af brennivíni, en samt hefur aldrei sézt þar fullur maður.
Framan við stofuna er lítið garðhorn, sem er notað eins og útikaffihús á sumrin. Og fyrir ofan barinn eru svalir fyrir matargesti. Tilboð dagsins eru skráð á töflur og þau eru bezt. Þetta er snyrtilegur og alþýðlegur staður. (A4)

Concertgebouw

Fleira er skemmtilegt í Amsterdam en torg og markaðir, kaffi og vín, bjór og brennivín. Í samnefndri byggingu er hin þekkta sinfóníuhljómsveit Concertgebouw til húsa við van Baerlestraat. Þar er hljómburður óvenju góður í 2200 manna sal. Senn á að hefjast mikil viðgerð á húsinu.

Þegar við vorum síðast í Amsterdam stjórnaði Vladimir Ashkenazy þar hljómsveitinni kvöld eftir kvöld í verkum eftir Mozart og Richard Strauss. (E5)

Stadsschouwburg

Borgarleikhúsið, ríkisóperan og ríkisballettinn eru til húsa í Stadsschouwburg við Leidseplein. Þegar við vorum síðast í borginni, var þar leikið Das unaufhaltsame Aufstieg von Arturo Ui eftir Bertolt Brecht; sungin Ævintýri Hoffmanns eftir Offenbach; og Globe leikhúsið í London gestalék Richard III eflir Shakespeare. En fátt var um fína drætti í ballettinum. (C4-5)

Mickery

Í Amsterdam er alþjóðlega framúrstefnuleikhúsið Mickery við Rozengracht 117, nálægt Bols Taverne. Það er einkafyrirtæki, sem hefur gert mikið af að fá leikhópa frá útlöndum og að fá þar æfðar og frumfluttar leiksýningar, sem síðan fara annað. Oft eru þar leiksýningar á enskri tungu, sem er gagnlegt fyrir ferðamenn. Í vetur var þar King Lear eftir Shakespeare (A4)

Shaffy

Shaffy er eins konar menningarmiðstöð við Keizersgracht 324. Þar er mikið um framúrstefnu í leiklist í fjórum sýningarsölum, svo og kvikmyndasýningar, listsýningar, tónleika og danssýningar. Segja má, að hægt sé að fara þangað, án þess að vita, hvað sé á boðstólum. Eitthvað af því muni reynast nógu freistandi til að bjarga kvöldinu. (B4)

Paradiso

Í gamalli kirkju við Weteringschans 6, rétt hjá Leidseplein, hefur verið komið upp ungmennamiðstöð, sem hefur í nokkur ár verið miðpunktur nútímahávaða fyrir ungt fólk. Fyrst var það poppið, síðan ræflarokkið, þungarokkið og nýjustu bylgjurnar. Þar skiptast á lítt þekktar sveitir og aðrar á borð við Sex Pistols. Þetta er ekki staður fyrir rólega næturstund. (D4)

Melkweg

Að baki Stadsschouwburg, við Lijnbaansgraacht 234a, er gamalt mjólkurbú handan síkis og vindubrúar. Því hefur verið breytt í listamiðstöð fyrir ungt fólk. Dyrnar eru læstar, svo að berja verður upp á, en auðvelt er að kaupa ódýrt klúbbskírteini til þriggja mánaða.

Fyrir innan eru myndasýningar, leiksýningar, hávaðaframleiðsla, dans og tæknilega bezt fluttu kvikmyndasýningar í borginni. Þar að auki eru hér nokkur veitingahús, til dæmis fyrir grænmetisætur. Ennfremur bókamarkaður, flóamarkaður, bar og testofa.
Hér rölta menn um og staðnæmast, ef eitthvað grípur, sem upp á er að bjóða. Ef allt er í of mikilli framúrstefnu, er alténd hægt að skoða bókamarkaðinn. Staðurinn er á fullu frá 21 til 01, en eftir það er diskó. (C5)

Boston Club

Annað af tveimur helztu diskóum fyrir stælfólkið í Amsterdam er Boston Club í Ramada hóteli (sjá bls. 16). Þar er unga fólkið áberandi öðru vísi klætt en í Paradiso og Melkweg. (A2)

Windjammer Club

Hitt diskóið er í kjallara Marriott hótels (sjá bls. 16). Það er sniðuglega innréttað á mörgum pöllum með margvíslegum skúmaskotum. Seglskipastýri og aðrar sæfaraskreytingar á borð við reipi eru á veggjum. Gestir sitja á barstólum við lítil borð. Dansgólfið er mjög lítið. (D5)

Blue Note

Næturklúbbar í Amsterdam eru ekki merkilegir í augum þeirra, sem hafa heimsótt slíka í París eða New York. Hinn gamli, trausti klúbbur í Amsterdam er í kjallara við hlið veitingahússins Borderij (sjá bls. 38), rétt við Leidseplein. Hann heitir Blue Note. Þar lék síðast topplaus stúlknahljómsveit fyrir hefðbundnu sjói, sem getur varla hneykslað neinn nú til dags. Sérfræðingar segja, að Blue Note sé enn skásti kosturinn hér í borg, enda er nóg af svikaklúbbunum. (C-D4)

1984 og 1992

© Jónas Kristjánsson

Amsterdam útrásir

Ferðir

Við erum nú orðin svo kunnug Amsterdam, að við höfum einn eða tvo daga aflögu til að kynnast nálægum plássum. Auðvitað getum við tekið þátt í hópferðum frá borginni og séð flest það, sem hér verður lýst. En bílaleigubíll getur líka verið þægilegur, því að þá erum við ekki bundin sérstakri tímaáætlun og getum hagað ferðum okkar að eigin vild.

Hér verður lýst tveimur slíkum dagsferðum. Önnur ferðin er til norðurs með viðkomu í Alkmaar, Zaanse Schans, Marken og Volendam. Hin er til suðurs með viðkomu í Aalsmeer, Keukenhof, Delft, Haag og Madurodam.

Þeir, sem vilja hafa hæga yfirferð, geta skipt þessum ferðum. Ekkert mál er að skreppa í náttstað til Amsterdam, því að staðirnir eru aðeins í eins til þriggja stundarfjórðunga fjarlægð.

Aalsmeer

Við tökum A4 suður úr borginni, förum framhjá flugvellinum Schiphol og beygjum skömmu síðar afleggjara til Aalsmeer. Það var fyrrum fiskibær, en er nú aðsetur stærsta blómamarkaðar í heimi. Við erum snemma á ferð, því að fjörið er mest á markaðinum kl. 8-10, þótt honum sé ekki lokað fyrr en 11:30. Hann er lokaður laugardaga og sunnudaga.

Af svölum sjáum við niður í uppboðssalina þrjá, þar sem kaupendur úr öllum heimshornum sitja á stigapöllum með góðu útsýni til leiksviðsins, þar sem blómin eru sýnd. Þeir hafa hljóðnema til að spyrja í og hnapp til að gera tilboð með. Öllu er þessu tölvustýrt.

Blómunum er ekið í vögnum inn á sviðið. Risastór klukka ofan við sviðið fer í gang og skráir verðið í einingum frá 100 niður í 0 á nokkrum tugum sekúndna. Sá kaupandi, sem er fyrstur til að ýta á sinn hnapp, fær blómin á því verði, sem klukkan sýnir. Sá, sem er of bráður, kaupir of dýrt. Og hinn, sem er of varfærinn, fær ekki neitt.

Þannig er verzlað fyrir sjö milljónir gyllina á hverju ári. Merkilegt nokk er það ekki túlipaninn, sem hefur forustuna, heldur rósin. Af henni er seldur hér yfir hálfur milljarður eintaka á ári hverju.

Með hinu sérstæða uppboðskerfi er þetta selt með hvínandi hraða og til mikillar skemmtunar fyrir áhorfendur. Síðan eru blómin flutt til Schiphol, þaðan sem flogið er með þau, meðal annars til Íslands. Fyrir Hollendinga er þetta rosalegur bissness.

Keukenhof

Við förum aftur út á veginn A4 og síðan A44, þaðan sem við tökum fljótlega afleggjara til Lisse. Þar er Keukenhof, 28 hektara blómasýning og blómasala í fallegum skógi. Hún er opin frá marzlokum til maíloka kl. 8-20. Athugaðu, að hún er aðeins opin tvo mánuði á ári, og mundu, að haga einni Hollandsferð í samræmi við það.

Öllum, sem hingað koma, er blómahafið ógleymanlegt úti á garðflötunum í skóginum sem inni í gróðurskálunum. Breiðurnar af blómum í öllum regnbogans litum virðast endalausar. Alls eru blómin sex milljón talsins. Engin blómasýning í heiminum er stærri en þessi. Flestir öflugustu blómaræktendurnir í Hollandi eiga hér skika.

Delft

Nú er komið hádegi og við skellum okkur suður A44 til Haag og þaðan A13 til Delft. Við ökum inn að markaði og finnum bílastæði þar í nágrenninu. Við göngum að gömlu kirkjunni Oudekerk og finnum veitingasalinn Prinsenkelder í kjallara safnsins Prinsenhof, sem er andspænis kirkjunni handan síkisins Oude Delft.

Eftir hádegisverð skoðum við safnið, sem er í höll Vilhjálms þögla af Oranje. Þar bjó hann, þegar hann var að koma á fót hollenzka lýðveldinu og þar var hann myrtur árið 1584.

Kirkjan andspænis, Oudekerk, er frá fyrri hluta 13. aldar, tíma Snorra Sturlusonar. Við göngum spölkorn suður eftir Oude Delfl og njótum útsýnis eftir síkinu.

Síðan beygjum við til vinstri inn á markaðinn fyrir framan Nieuwe Kerk. Þessi fjörmikli markaður nær alveg frá kirkju að ráðhúsi. Þar eru enn Boterhuis, smjörhúsið, og Waag, vigtarhúsið.

Nieuwe Kerk er gotnesk kirkja frá 1430 og hafði þá verið í smíðum í hálfa öld eins og Hallgrímskirkja. Hún er grafarkirkja konungsættarinnar í Hollandi, Oranje Nassau. Þar er Vilhjálmur þögli grafinn og þar verður Beatrix drottning lögð til hvíldar í fyllingu tímans.

Miðbærinn í Delft er einn fellegasti bær í Hollandi. Við ljúkum dvölinni með því að fara í bátsferð um síkin, virðum fyrir okkur trén á síkisbökkunum og fallega sveigðar vindubrýrnar.

Porceleyne Fles

Við finnum bílinn og förum aftur út á A13 og fylgjum skiltum til De Porceleyne Fles til að sjá, hvernig hið fræga Delft postulín er búið til.

Þetta postulín hóf frægðarferil sinn í lok 16. aldar, í þann mund er gullöld Hollendinga var að hefjast. Það varð til fyrir áhrif frá Rínarlöndum og Ítalíu, en á heimsveldistíma 17. aldar komu til sögunnar austræn áhrif frá Kína. Þá varð postulínið frá Delft heimsfeægt.

Blátt og hvítt eru einkennislitir þessa postulíns, sem hefur áreiðanlega orðið tilefni nöturyrða nútímans um postulínshunda. Upp á síðkastið hefur hönnuðum postulíns í Delft gengið erfiðlega að fylgjast með breyttri tízku og þykja þeir fremur gamaldags.

Margir hafa meira álit á annarri postulínshefð hollenzkri, þeirri frá Makkum í norðausturhluta landsins. En hún hefur ekki fengið þá alþjóðakynningu, sem hefðin í Delft hefur notið. Porceleyne Fles fyrirtækið er mikilvægasta postulínsgerðin í Delft og borgarheimsóknin er kjörið tækifæriðtil að sjá þessa tækni í framkvæmd.

Haag

Við snúum við á A13 og höldum tíl baka beint til borgarmiðju í Haag. Þar reynum við að finna bílastæði við Binnenhof eða við Groenmarkt. Síðan byrjum við á að skoða Binnenhof, húsakynni hollenzka þingsins.

Utan við austurport Binnenhof er Mauritshuis, opið 10-17 og sunnu daga 11-17. Það var reist 1644 í síð-endurreisnarstíl eða svokölluðum fægistíl og hafði mikil áhrif á þróun byggingarlistar í Hollandi og á Norðurlöndum. Það var upprunalega setur aðalsmanns, en hýsir nú listaverkasafn konungsættarinnar. Þar eru meðal annars málverk enir Rembrandt, Frans Hals, Breughel og Rubens. Vonandi verður lokið viðamiklum lagfæringum á húsinu, þegar þessi bók kemur út.

Í miðju porti Binnenhof rís Ridderzaal, opinn 10-16, í júlí-ágúst 9-16. Það hús var reist af Floris V greifa árið 1280 og er því meira en 700 ára gamalt. Þar setur Hollandsdrottning þing landsins og kemur þangað akandi í gullslegnum vagni frá höll sinni í úthverfi Haag, Huis ten Bosch, Húsinu í skóginum.

Í Ridderzaal er voldugur salur með miklum bitum og steindum gluggum. Þetta er talin ein fegursta bygging Norður-Evrópu í gotneskum stíl. Að baki er annar salur, Rolzaal. Á torginu fyrir utan var frelsishetjan Oldenbarnevelt tekinn af lífi.

Að lokum förum við um vesturport Binnenhof út að Groenmarkt, sem er fyrir utan höfuðkirkjuna Grotekerk. Þar getum við fengið okkur kvöldmat á ‘t Goude Hooft í gamalhollenzku umhverfi.

Madurodam

Úr miðborginni fylgjum við skiltum til Madurodam, sem er miðja vega milli Haag og baðstrandarbæjarins Scheveningen. Best er að fylgja fyrst Koningskade og síðan Ramweg í beinu framhaldi á síkisbakkanum.

Við höfum af ásettu ráði gefið okkur tíma til kvöldverðar í Haag, af því að Madurodam er opið til 21:30, í apríl-júní til 22:3O og í júlí-ágúst til 23, og af því að það er skemmtilegast í ljósaskiptunum. MadurodOam er lokað frá októberlokum til marzloka.

Þetta er eins konar dúkkuhúsabær, stofnaður af Maduro til minningar um lát sonar hans í fangabúðum nazista árið 1945. Þarna eru eftirlíkingar margra frægra húsa í Hollandi og allt haft í stærðarhlutföllunum l:25. Við sjáum járnbrautararlestir ganga um garðinn, höfnina í Rotterdam, flugvöllinn Schiphol, síkishverfi frá Amsterdam og smáþorp umhverfis markaðstorg, svo að dæmi séu nefnd.

Á kvöldin er kveikt á ljósum í húsunum og götustaurunum og þá er Madurodam fallegast. En satt að segja vantar þar afþreyingu fyrir börn í stíl við það, sem er í Legoland í Billund í Danmörku.

Nú er orðið áliðið kvölds og við bregðum okkur þriggja kortéra leið heim á hótel í Amsterdam.

Ef við hefðum skipt ferðinni í tvennt og værum ekki í tímáraki, mundum við hafa ráðrúm til að líta á Vredespaleis, Friðarhöllina, sem er handan Scheveningen-skógar. Þar er til húsa Alþjóðadómstóllinn í Haag, sem Íslendingum hefur stundum þótt íhaldssamur í úrskurðum í málum fiskveiðilögsögu.

Og Scheveningen kemur víðar við í fiskinum, því að þar er ein stærsta fiskihöfn Evrópu, skemmtilegt heimsóknarefni fyrir áhugamenn um sjávarútveg og fiskiðnað.

Alkmaar

Seinni ferðina förum við aðeins á föstudegi, því að þá er ostamarkaðsdagur í Alkmaar. Við tökum vegina A1O, A8 og síðan A9 norður úr Amsterdam. I Alkmaar finnum við bílnum stæði við kirkjuna og göngum markaðsgötuna Langestraat til Kaasmarkt, ostamarkaðarins á Waagplein, vigtartorginu.

Markaðurinn er haldinn föstudaga 10-12 frá apríllokum fram í miðjan september. Hann er stórkostlegt sjónarspil. Við verðum að vera mætt snemma til að ná útsýnisstöðu við kaðalinn, sem girðir torgið af.

Ostar frá Edam og Gouda liggja í skipulegum röðum á torginu. Kaupandinn og seljandinn þrátta um verðið með því að slá lófum saman. Að samkomulagi fengnu koma Kaasdragers, burðarmenn með eins konar gondólabörur og hlaða hinum selda osti á börurnar, oft 160 kílóum í senn. Síðan hlaupa þeir sérkennilegum skrefum með ostinn að vigtinni, þar sem osturinn er veginn. Burðarmennirnir eru hvítklæddir og bera rauðar, bláar, gular og grænar húfur eftir því, úr hvaða deild burðarmannagildisins þeir eru.

Í rauninni eru menn hættir að selja ost með þessum hætti. Sjónarspilinu er hins vegar haldið áfram, meðal annars og einkum til að fá ferðamenn til bæjarins. Og ferðamennirnir virðast kunna þessu hið bezta, enda má líta á þetta sem skemmtilega leiksýningu á gömlum sið.

Að markaðstíma loknum getum við skoðað miðbæinn lítillega. Alkmaar er gamall bær með mörgum skemmtilegum húsum. Vogarhúsið, Waag, er gömul kirkja frá 14. öld. Og við fáum okkur loks hádegisverð á Bistrot de Paris á Waagplein nr. 1.

Zaanse schans

Við förum sömu leið til baka í átt til Amsterdam, en komum við í Zaanstad, nánar tiltekið í Zaandijk, þar sem er Árbær þeirra Hollendinga, Zaanse Schans. Þar hefur síðan 1950 verið safnað saman fornum húsum og vindmyllum til að sýna líflð í gamla daga. Húsin eru raunverulega notuð til íbúðar og vindmyllurnar eru í daglegum rekstri.

Þorpið er umhverfis síkið Kalveringdijk og nokkur hliðarsíki þess. Flest eru húsin úr timbri, máluð græn og svört og hvít. Myllurnar eru til ýmiss brúks, svo sem til viðarsögunar, málningargerðar, framleiðslu á grænmetisolíu og sinnepi. Þá eru þar krambúðir í gömlum stíl, bakarí og tréskógerð. Hægt er að fá bátsferð á ánni Zaan. Þetta er rómantískur staður og við gefum okkur tíma til síðdegiskaffis á síkisbakkanum í Zum Walfisch

Volendam

Frá Zaanstad förum við fyrst í átt til Amsterdam,en beyalum svo á E1O til að komast til þorpanna Marken og Volendam á bökkum IJsselmeer. Sama er, hvort þorpið við tökum fyrst fyrir, en hér byrjum við á Volendam.

Við breytingu flóans Zuiderzee í stöðuvatnið Ijsselmeer urðu sjómennirnir í þessum tveimur fiskiþorpum atvinnulausir. Í staðinn er kominn túrisminn. Íbúarnir lifa á að ganga í þjóðbúningi og selja ferðamönnum minjagripi. Í rauninni er þetta hálfgert plat, en ferðamaðurinn getur vel lokað augunum fyrir því.

Volendam er á fastalandinu og þar eru íbúarnir kaþólskir. Höfnin er mjög falleg, svo og litlu, sætu húsin að baki aðalgötunnar meðfram ströndinni. En við látum ekki hina grófari kaupsýslumenn staðarins plata okkur.

Marken

Marken er úti á eyju, andspænis Volendam, tengd meginlandinu með brú. Þar eru íbúarnir kalvínstrúar og bera aðra þjóðbúninga en kaþólikkarnir í Volendam. Ekki kæmi mér á óvart, að þeir notuðu aðra mállýzku þarna í nokkurra kílómetra fjarlægð frá hinu þorpinu.

Í framhjáhlaupi má geta þess, að hollenzka er ekki síðbúin lágþýzka, heldur gamalt mál, sem á þjóðflutningatímanum í lok fornaldar var orðið að sérstakri grein á germanska málameiðinum, náskyld máli Engla og Saxa, er námu Bretlandseyjar. Því má staðsetja hollenzku á milli þýzku og ensku.

Við skulum ekki láta okkur liggja neitt á. Þegar líður á síðdegið hverfa rúturnar með ferðamannaflauminn og við fáum tækifæri til að rölta um í friði, skoða litlu höfnina, húsin grænu og svörtu og fallega útsauminn í gluggatjöldunum.

Harderwijk

Um klukkustundar leið til austurs úr Amsterdam, eflir vegunum A1 og A28, er litli strandbærinn Harderwijk með gömlum húsum frá Hansatíma. Þar er líka helzta sædýrasafn Hollendinga. Stjarna þess er háhyrningurinn Guðrún, sem var veidd við Ísland haustið 1976 og sýnir hún fimleika.

Utrecht

Vegur A2 liggur hálftíma leið suður frá Amsterdam til Utrecht, hinnar gömlu háskólaborgar, þar sem hollenzka lýðveldið var stofnað árið 1579 sem varnarbandalag gegn Spánarveldi. Í háskólabókasafninu er hin fræga Trektarbók með íslenzkum Eddukvæðum.

En notalegasti staðurinn í Utrecht er síkisbakki Oude Gracht, sem er á tveimur hæðum, með gangstéttarkaffihúsum og veitingahúsum í friði fyrir umferð bíla.

Schiphol

Holland kveðjum við yfirleitt á Schiphol, flugvellinum við Amsterdam. Hann er eitt stolt Hollands, sem við megum ekki gleyma. Fríhöfnin þar er viðurkennd sem hin bezta í heimi. Vín, áfengi og tóbak er mun ódýrara þar en á Keflavíkurflugvelli, svo að það borgar sig að bera það um borð. Ekki má heldur gleyma breytilegu tilboði mánaðarins hjá flestum verslunum fríhafnarinnar, þar sem hægt er að fá ýmislegt með verulegum afslætti frá fríhafnarverði.

Á Schiphol er hægt að kaupa reyktan ál og vindþurrkaða skinku í handhægum umbúðum, ferskar kæfur og hollenzka osta, svo og ýmislegt fleira handa matgæðingum. Þar fást og ekta Havanavindlar, sem ekki fást hér, ekki einu sinni í fríhöfninni, svo sem Davidoff og Montechristo. Þeir eru geymdir þar við góð skilyrði og fást á ljúfu verði. Fjöldinn af raftækjum er mikill, til dæmis smátölvum. Og svo auðvitað ilmvötnin og blómin.

Við skulum kveðja Amsterdam með blómvönd í fanginu.

Góða ferð til Amsterdam!

1984 og 1992

© Jónas Kristjánsson

Amsterdam veitingar

Ferðir

Hollendingar eiga það sameiginlegt með annarri verslunar og siglingaþjóð, Bretum, að hafa sogað til sín matargerðarlist fjarlægra þjóða og að hafa ekki sinnt sem skyldi að rækta sína eigin. Þess vegna eru flest beztu veitingahúsin í Amsterdam framandi ættar, einkum frá Indónesíu.

Hollendingar hafa hins vegar ólíkt Bretum ekki lagt sérstaka rækt við franska matreiðslu. Þess vegna vantar að verulegu leyti í Amsterdam matargerðarmusteri franskrar ættar á borð við þau, sem þrífast vel í mörgum stórborgum heims. Við getum þó látið nokkur góð, frönsk veitingahús fljóta með í umsögn okkar um matargerð frá ýmsum heimshornum í Amsterdam. Og auðvitað einnig tvö með ekta, góðum hollenzkum mat.

Síðan vendum við okkar kvæði í kross og segjum frá veitingahúsum, sem bjóða upp á frambærilega matreiðslu, en leggja þó einkum áherslu á að búa til hollenzkt eða amsturdammskt andrúmsloft, notalegar stofur með grónum, hollenzkum forngripum. Þetta eru stemmningshúsin, sem yfirleitt eru dýrari en hin fyrri, en eru þó peninganna virði.

Hafa verður í huga, að hér eru eingöngu nefndir staðir í miðborginni, þeim hluta Amsterdam, sem skiptir ferðamenn máli. Sakni lesendur kunnugra nafna meðal matstofanna, er hér verða nefndar, er skýringin annað hvort sú, að þau eru utan miðborgar eða að við teljum þau hús ekki standa undir frægð, vera síðri en þau, sem hér eru talin.

Ennfremur þurfa lesendur að muna, að heimamönnum er mörgum kunnugt um kosti þessara matstofa. Því er ætíð ráðlegt að panta borð í síma, líka fyrir hádegisverð, svo að ekki þurfi að hrökklast frá fullu húsi inn á nálægan börger, pizzeríu eða steikhús.

Verðið er alls staðar miðað við, að farið sé „út að borða“, snæddur þriggja rétta kvöldverður fyrir tvo með einni flösku af léttu víni hússins og kaffi.

Víðast má fá mun ódýrara snarl, einkum í hádeginu, þegar margir neðangreindra staða bjóða seðil dagsins. Sums staðar er því nefnt hér verð á föstum hádegisverðarseðlum, en þá eru ekki meðtalin drykkjarföng.

Aðalverðtalan fyrir hvert veitingahús er hins vegar að öllu inniföldu. Það verður að hafa í huga, þegar menn bera saman verð hér í kaflanum við hamborgarastaði og annað slíkt.

Ekki má heldur gleyma, að í sumum smáholum, svokölluðum „Petit Restaurant“ og bjórkrám er hægt að fá einfalt og gott snarl, sem er alveg fullnægjandi í hádeginu. Sama hlutverki gegna „Brodjewinkel“, sem eru samlokustaðir og „Pannekoekenhuis“, sem selja flatarmiklar, þykkar pönnukökur með ýmsu meðlæti, svo sem hunangi eða sírópi.

Rijsttafel – hrísgrjónaborð

Hollendingar voru nýlenduherrar þess ríkis, sem nú heitir lndónesía. Mikill fjöldi lndónesa hefur því fest rætur í Hollandi. Þeir hafa gert indónesísk veitingahús að hornsteini matargerðarlistar Hollands, einkum í Amsterdam.

Hin hollenska sérútgáfa af indónesískri matargerðarlist er svonefnt Rijsttafel eða hrísgrjónaborð, þar sem boðið er upp á hrísgrjón með 14-18-21-25 hliðarréttum af margvíslegu tagi. Hversdagslega eru Hollendingar í einfaldari útgáfum, þegar þeir snæða á slíkum stöðum. En þetta er veisluborðið, sem hentar útlendingum, er koma til Amsterdam til skamms tíma í senn. Hvergi í heiminum er Rijsttafel betra en einmitt hér í borg.

Þungamiðja veislunnar er Nasi. Það eru gufusoðin hrísgrjón, sem gestir láta í smáum skömmtum á miðjan súpudisk, er þeir fá. Hliðarréttina láta menn á diskinn, venjulega einn og einn í einu, og borða hvern fyrir sig, svo að bragð hvers og eins fái að njóta sín. Út á réttina setja hinir hugrökku, og þá varlega, Sambal, sem er mulinn, rauður pipar, afar bragðsterkur. Til hliðar er venjulega Krupuk, stökkt, flatarmikið brauð úr soppu af þurrkuðum rækjum.

Oft er byrjað á súpu, Salor, sem yfirleitt er úr kjúklingasoði. Meðal grænmetisréttanna er Sambal Goreng Sajoran, sem er bragðsterkt salat, Sambal Goreng Tahu, sem er sojabaunakaka; Sambal Goreng Kering, sem eru sætar kartöflur; Gado Gado, sem er pönnusteikt grænmeti, aðallega baunaspírur, með söxuðum jarðhnetum út á; og svo Atjar, sem er grænmeti í súrri sósu.

Meðal kjötréttanna er Babi Ketjap, sem er svínakjöt í sojasósu; Daging Madura, sem er kindakjöt í madura sósu; Ayam Bali, sem er steiktur kjúklingur í flókinni sósu; Sateh, sem er ýmislegt kjöt á teini, oftast svínakjöt og heitir þá Sateh Babi.

Af öðrum réttum má nefna Udang, sem eru stórar rækjur; og Dadar Jawa, sem er eggjakaka. Þá eru það eftirréttirnir Serundeng, sem eru ristaðar kókoshnetur; Pisang Goreng, sem eru steiktir bananar; Rudjak Manis, sem eru ávextir í sætsúrri sósu; og Katjang, sem eru saxaðar jarðhnetur.

Hér hafa verið nefndir 19 réttir, sem algengastir eru í Rijsttafel. Sums staðar eru nokkrir felldir úr og aðrir teknir inn. Réttunum er nær alltaf haldið heitum á sérstökum plötum, með logandi kertum undir. Með matnum er gott að drekka bjór og svo er nauðsynlegt að gæta þess að hafa nægan tíma til borðhaldsins.

Sama Sebo

Einu sinni var Bali við Leidsestraat talið besti staðurinn fyrir Rijsttafel í borginni. Þar státar veizlan af 25 réttum á Fl. 58, sem er í dýrara lagi, auk þess sem maturinn er hættur að vera góður og þjónustan er komin út í hött.

Um margra ára skeið hefur Sama Sebo við P.C. Hooftstraat verið hátindur indónesískrar matargerðarlistar utan heimalandsins og auðvitað um leið höfuðstöð Rijsttafel veizla í Amsterdam. Sebo Woldringh, eigandi staðarins, sér um, að matreiðslan haldi gæðum, en er lítið gefinn fyrir að sinna sérþörfum gesta.

Hér var líf og fjör í tuskunum. Þjónarnir voru snarir í snúningum og veittu góða þjónustu. Fólk stóð jafnvel frammi í anddyri til að bíða eftir einhverju af hinum eftirsóttu borðum. Hér sakar því ekki að panta borð með góðum fyrirvara. Skreytingar eru glaðlegar, þar á meðal blóm og luktir. Tágasetustólar voru þægilegir. Gestir voru kátir, enda þarf mikinn bjór til að skola niður miklu af bragðsterkum mat.

Hægt er að fá minni háttar Rijsttafel, sjö rétta Nasi Goreng eða sex rétta Bami Goreng á Fl. 23, en sautján rétta Rijsttafel hið meira kostaði Fl. 43. Okkur reyndust flestir réttir þess í góðu lagi, mun betri en við höfðum áður prófað á Bali.
Kvöldverður fyrir tvo kostaði Fl. 105.

(Sama Sebo, P.C. Hooftstraat 31, sími 662 8146, lokað sunnudaga, D5)

Radèn Mas

Indónesíumatur er hvergi snæddur í glæsilegra umhverfi en á hinum nýja Radèn Mas, sem er við sömu götu og Marriott-hótelið, aðeins norðar við götuna.

Þetta er mest hannaða veitingahús, sem við höfum séð á ævinni. Það er alsett flóknu speglaverki í hólf og gólf, innréttað á misháum pöllum, allt í grænum litbrigðum, hreint ævintýraland. Borðbúnaður er logagylltur og þjónusta í bezta gæðaflokki, skóluð og afslöppuð í senn.

Þetta er að sjálfsögðu dýr staður. Venjulegt Rijsttafel kostaði Fl. 68. Það reyndist gott, dálítið vestrænna en venjulegt er, og ekki í allra bezta gæðaflokki. En umhverfið á staðnum er aðdráttarafl. út fyrir sig.

Kvöldverður fyrir tvo kostaði Fl. 170.

(Radèn Mas, Stadhouderskade 6, sími 685 40 41, lokað í hádeginu laugardaga og sunnudaga, C5)

Indonesia

Sá af hinum hefðbundnu Rijsttafel stöðum í borginni, sem enn heldur reisn sinni og er sennilega hinn næstbesti, er Indonesia, á annarri hæð Carlton-hótels, með gluggum út að Muntplein og Europe-hóteli handan þess.

Þetta er stór salur, sem minnir lítið á lndónesíu, enda eru innréttingar hér óbreyttar frá því, er hér var franskt veitingahús. Þjónustan var mjög snör og gestir voru í fjölmennum hópum við langborð. Rijsttafel er auðvitað kjörinn matur fyrir stóra hópa. Og bjórinn flaut þarna í lítrakrúsum.

Tuttugu rétta Rijsttafel hið meira kostaði Fl. 45. Hægt var að fá minna, sextán rétta á Fl. 38.

Kvöldverður fyrir tvo kostaði Fl. 105.

(lndonesia, Singel 550, sími 623 2035, opið alla daga, C3)

Djawa

Vel í sveit sett, nánast við Leidseplein, er Djawa uppi á annarri hæð. Þar eru íburðarmiklar innréttingar í undarlegri blöndu af austrænum og „Jugend“ stíl, hógværlega lýstar. 20 rétta Rijsttafel hið meira kostaði Fl. 55 eða heldur meira en á Sama Sebo og lndonesia, en var nokkru lakara. Hádegisverður upp á Fl. 19 er vinsæl tilbreytni.

Kvöldverður fyrir tvo kostaði Fl. 125.

(Djawa, Korte Leidsedwarstraat 18, sími 624 6016, lokað í hádeginu á veturna, C4-5)

Kantjil

Fremur ódýrt og mjög vinsælt Indónesíuhús, Kantjil, er í miðbænum rétt hjá borgarminjasafninu, mikið sótt af ungu fólki. Það er stórt og skipt niður í nokkra sali, þar á meðal reyklaus svæði. Ekki er mikið lagt í innréttingar og borðin eru ekki dúkuð. Þjónusta var mun betri en búast má við á stað af þessu tagi.

Rijsttafel kostaði frá Fl. 40 á mann. Flestir fá sér eitthvað hversdagslegra, t.d. lúxusútgáfu af Nasi Goreng á Fl. 20. Gott er að byrja á að panta sér rækjuhrökkbrauð, sem kom á borðið nýsteikt og í miklu magni á Fl. 4. Kjúklingasúpa með sneiddu eggi var líka góð, Fl. 6.

Kvöldverður fyrir tvo kostaði Fl. 95

(Kantjil, Spuistraat 291, sími 620 0994, opið alla daga, B3)

Azïe

Í Binnenbantammerstraat í miðju kínverska hverfinu er ódýrt veitingahús, Azïe, sem býður upp á gott Rijsttafel, 18-rétta fyrir aðeins Fl. 25 á mann og 20-rétta fyrir Fl. 30. Þetta er hinn þægilegasti staður, þrátt fyrir lága verðið, sem hefur einkennt staðinn í aldarfjórðung. Hér kynntumst við Rijsttafel í fyrsta sinn fyrir aldarfjórðungi.

Kvöldverður fyrir tvo kostaði Fl. 85.

(Azïe, Binnenbantammerstraat 9, sími 626 3930, opið alla daga, B1)

Treasure

Ef við höldum áfram um fjarlæg Austurlönd, þá eru auðvitað Kínverjar næstir í röðinni. Svo vel vill til, að eitt bezta Kínahúsið í borginni er aðeins örfáum metrum frá konungshöllinni. Það er Treasure, ríkulega skreytt innan dyra með pagóðuþaki, bunulæk, málverkum, blómahafi og gullfiskabúrum.

Sérgrein staðarins eru smáréttir í hádeginu. Þeir fást í ýmsum samstæðum. Við prófuðum eina á Fl. 28. Þar voru góðar, djúpsteiktar rækjur í hveitihulstri, bornar fram í wonton-súpu með volgu, kínversku drekakexi; góð hrísgrjón soðin í vínviðarlaufi; svo og nokkrar tegundir af kjöt- og fiskibollum.

Kvöldverður fyrir tvo kostaði Fl. 140, en hádegisverðurinn Fl. 65.

(Treasure, Nieuwezijds Voorburgwal 115, sími 623 4061, opið alla daga, A2)

Manchurian

Annar góður Kínastaður og nærtækur, við sjálft Leidseplein, er Manchurian. Þetta er stórt veitingahús með nokkrum borðum í glerskála fyrir framan. Inni eru kínverskar skreytingar, þar á meðal pappírsluktir í lofti og íburðarmiklar veggskreytingar í stíl. Borðin voru snyrtilega dúkuð og þjónustar í bezta lagi.

Þarna var hægt að fá Rijsttafel með kínverskum réttum fyrir Fl. 40 og 50 og 80. Við fengum okkur hins vegar lótusróta- og döðlusúpu; svo og sterka sítrónusúpu með risarækjum í forrétt. Í aðalrétt fengum við gufusoðinn kola með sérkennilegu kryddbragði, borinn fram í soðinu; svo og tvo austurlenzka spörfugla. Allt var þetta gott.

Kvöldverður fyrir tvo kostaði Fl. 135.

(Manchurian, Leidseplein 10a, sími 623 1330, opið alla daga, C4)

Dynasty

Enn einn kínverski matstaðurinn er við veitingahúsagötuna Reguliersdwarsstraat, sem liggur út af Koningsplein. Hann er afar fínn af slíkum stað að vera, skreyttur aragrúa sólhlífa í lofti, samstæðum málverkum, blómaflóði, skrautlegum gluggatjöldum og teppum, svo og fínum borðbúnaði. Þjónusta var afar góð.

Verðlag var svipað og á Manchurian og matreiðslan lík að gæðum, enda eru þetta systurstaðir, en meira úrval er á Dynasty af dýrum réttum. Við prófuðum meðal annars ágætan humar, heilsoðinn, á 68 Fl.

Kvöldverður fyrir tvo kostaði Fl. 190.

(Dynasty, Reguliersdwarsstraat 30, sími 626 8400, lokað í hádeginu og sunnudaga, C3)

Edo

Japan á verðugan fulltrúa í Amsterdam. Það er Edo, sem er bakatil í Krasnapolsky hótelinu og býður upp á Hibachi matreiðslu, þar sem kokkurinn stendur við borð gestanna og matreiðir allt frá grunni.

Gestirnir sitja á eins konar barstólum við tréborð, sem umlykur risastóra eldavélarplötu á þrjár hliðar. Pláss er fyrir sjö við hverja slíka samstæðu. Maturinn kemur fram hrár, en sneiddur niður á bakka. Svo taka kokkarnir til við listir sínar, sem sumpart eru til að gleðja ferðamenn. Verst er, þegar þeir byrja að kasta kryddstaukum upp í loftið og grípa þá til skiptis.

Mjög er traustvekjandi að sjá hráefnið liggja glampandi ferskt fyrir framan sig og sjá framkvæmda hina einföldu pönnusteikingu með eins lítilli olíu og komist verður af með. Úr þessu hlýtur að koma holl fæða, þar sem eðlilegt bragð fæðunnar er ekki heldur eyðilagt. Og ekki er þetta fitandi, svo sem sjá má á Japönum.

Á Edo var boðið upp á hádegisseðla á Fl. 25-35, Hibachi kvöldverði á Fl. 59-71 og ýmsa veizluseðla fyrir tvo á Fl. 53-58 fyrir manninn. Japanska hrísgrjónavínið Sake er vinsæll fylgifiskur.

Við fengum okkur blandaða tvo hádegisseðla á Fl. 25 og Fl. 35. Fyrst fengum við smokkfisk, dýfðan í engifer og sinnepssósu; síðan steiktan lauk og gúrkubita með hvítlaukskeim, hörpuskelfisk, sveppi og rækjur; síðan nautakjötssneiðar, baunaspírur, papriku, kartöflur, eggaldin og eggjablönduð hrísgrjón.

Þetta var sannarlega frábær matur og einstaklega léttur í maga. Svona veitingahús ættu að vera í hverri borg, með eða án sirkusatriða matreiðslumannanna.

Kvöldverður fyrir tvo hefði kostað Fl. 130.

(Edo, Dam 9, sími 554 6096, opið alla daga, B2)

Hollenzk matreiðsla

Komin til Vesturlanda í veitingahúsaferðinni um Amsterdam, er ekki nema sanngjarnt, að við tökum næst fyrir þann mat, sem er raunverulega hollenzkur, og veitingahúsin, sem sérhæfa sig í slíkum mat.

Eins og Bretar borða Hollendingar staðgóðan morgunverð. Í hádeginu láta þeir sér nægja snarl, til dæmis Koffietafel á Broodjeswinkel. Aðalmáltíð Hollendinga er snædd á kvöldin og þá taka þeir hraustlega til matar síns.

Meðal þekktra hollenzkra forrétta eru Kaassoufflé, sem er djúpsteiktur ostur, Haring sem er þeirra síld, seld úr vögnum á götuhornum, og Aal Gestoofd, sem er kryddaður áll.

Af súpunum eru þekktastar Erwtensoep, sem er þykk baunasúpa úr svínakjötskrafti og með svínakjötsbitum; Kippensoep, sem er þykk kjúklinga- og grænmetissúpa; Groentensoep, sem er tær grænmetissúpa og Aardappelsoep, sem er kartöflusúpa.

Í hópi fiskrétta má nefna Gebakken zeetong, sem er pönnusteiktur koli; Gerookte paling, sem er reyktur áll; og Stokvis, sem er mjólkursoðinn saltfiskur.

Þekktir kjötréttir eru fleiri, svo sem Stamppot, sem er allt í einum potti; Biefstuk, sem er hakkabuff; Boerenkool met worst, sem er kál og kartöflur með reyktri pylsu og borið fram með kartöflustöppu; Gehaktballjes sem eru litlar kjötbollur; og Hutspot, sem er nautakjöt, kartöflur, gulrætur og Iaukur í einum potti.

Um eftirrétti er helzt að ræða Appeltaart, sem er kanilkrydduð eplaterta; Stroopwafels, sem eru vöfflur með sírópi, Pannekoeken, sem eru breiðar og þykkar pönnukökur; og Flensjes, sem er bunki af pönnukökum með sultu á milli laga.

Meðal hollenzkra osta eru þekktastir Edam, Gouda og Leiden.

Þjóðardrykkur Hollendinga er auðvitað Jenever, sem ýmist er drukkinn Jonge, sem þýðir hrár, eða Oude, sem þýðir leginn. Með því að blanda ýmsu í jeneverinn búa þeir til ýmsa líkjöra, kryddaða eða sæta.

Haesje Claes

Fremstur í flokki hollenzkra veitingastaða í Amsterdam er hinn mjög svo kunni Haesje Claes, sem verið hefur rétt við torgið Spui að minnsta kosti frá því fyrir aldamót. Þetta er stór staður, innréttaður í skemmtilega hollenzkum góðborgarastíl í mörgum smástofum hverri inn af annarri, og þykir ekki dýrseldur. Dimm og þung viðarinnrétting, sumpart útskorin, og kögraðir lampaskermar einkenna staðinn.

Haesje Claes er jafnvinsæll af Hollendingum af landsbyggðinni sem af erlendum ferðamönnum, sem koma hingað í vagnfyllum. Hollendingar fengu sér heitt súkkulaði með feiknarlega miklu af þeyttum rjóma í fordrykk og hef ég aldrei séð neitt þvílíkt áður.

Af ofangreindum, hollenzkum réttum, var á Haesje Claes m.a. boðið upp á Kaassoufflé og Haring, Kippensoep og Erwtensoep, Biefstuk og Stamppot, Appeltaart og Stroopwafels. Við fórum södd út.

Kvöldverður fyrir 2 kostaði Fl. 70.

(Haesje Claes, Nieuwezijds Voorburgwal 320, sími 624 9998, lokað í hádegi sunnudaga, B3)

Poort

Hinn hollenzki staðurinn er Poort í hótelinu Port van Cleve að baki konungshallarinnar. Hann er þó enn þekktari sem hið hefðbundna baunasúpu- og steikhús borgarinnar.

Veitingasalurinn hefur verið í notkun sem slíkur síðan 1870, en var áður bjórbrugghús, enda er hátt til lofts og vítt til veggja. Forverans má sjá merki í veggmálverkum innan í bogadregnum veggsúlnariðum. Innréttingar eru gamaldags við hæfi og staðurinn er ekki síður setinn heimamönnum en ferðamönnum. Frægar eru postulínsflísarnar frá Delft.

Pylsubitar flutu í baunasúpunni að hollenzkum hætti. Nautasteikin var í meðallagi góð, steikt eins og um var beðið, borin fram með frönskum kartöflum, sem voru blessunarlega fitulausar. Rósakál og blómkál voru dæmigert meðlæti. Á eftir fengum við hollenzka sandköku með vanilluís, rifsberjum og þeyttum rjóma.

Steikarkvöldverður fyrir tvo kostaði Fl. 140.

(Port van Cleve, Nieuwezijds Voorburgwal 178-180, sími 624 4860, opið alla daga, D5)

Pêcheur

Ef til vill eru fiskréttahúsin beztu veitingastaðirnir, sem hvíla á hollenzkri hefð. Hollendingar hafa jafnan verið mikil fiskveiðaþjóð og kunna vel að meta fisk sem mat. Bezta fiskistofan í Amsterdam er Le Pêcheur við veitingahúsagötuna Reguliersdwarsstraat, sem áður er getið, raunar við hlið áðurnefnds Dynasty.

Þetta er notalega lítil matstofa í frönskum stíl, með marmaragólfi, sólhlífum yfir veggspeglum, ungstílsljósi í lofti, pottablómum milli borða og þægilegum tágastólum. Réttir dagsins eru skráðir á töflur á veggjum.

Við prófuðum í forrétt rækjusalat með litlum og vel ferskum rækjum og góðu lárperumauki; svo og mjúkan hörpufisk með laxahrognum. Í aðalrétt mátulega soðna og snarpheita þykkvalúru; svo og gufusoðin kolaflök á pastabeði. Og loks hvítsúkkulaðiköku með mintusósu, svo og hollenzkan kanilís með trönuberjasósu. Allt var þetta einstaklega gott.

Kvöldverður fyrir tvo kostaði Fl. 160.

(Le Pêcheur, Reguliersdwarsstraat 32, sími 624 3121, lokað í hádeginu laugardaga og sunnudaga, C3)

Oesterbar

Oesterbar er vel í sveit settur við Leidseplein, hinn hefðbundni ostrubar borgarinnar. Á efri hæð hans er matsalur í venjulegum stíl. Mun meira gaman er að borða á neðri hæðinni, sem er sérkennilega kuldalega innréttuð. Stórar, gamaldags, hvítar eldhúsflísar eru á veggjum og á annan langveginn eru miklir fisktankar. Í auðum plássum hanga plaköt með myndum af fisktegundum. Þetta er langur og mjór salur með litlum glerskála úti á gangstétt.

Þjónarnir eru ítalskir og kunna sitt fag. Gestirnir, sem flestir eru heimamenn, geta setið á þægilegum, ísaumuðum stólum við venjuleg borð á marmaragólfinu. Þeir geta líka fengið sér sæti við barinn, sem er innst, og horft á matreiðslumennina meðhöndla hráefnið.

Matseðillinn er langur og nær yfir ótrúlega mikinn fjölda fisktegunda. Gott ráð hér sem á öðrum fiskistöðum er að biðja um einfalda matreiðslu fremur en flókna. Í forrétt er gott að fá sér sex ostrur með salati. Við prófuðum líka pönnusteikta sólflúru (Tong) með sítrónum og eggjasósu; svo og gufusoðna þykkvalúru. Með flúrunni fylgdu hinar venjulegu, pönnusteiktu kartöflur Hollendinga, en með lúrunni voru hvítar kartöflur.

Kvöldverður fyrir tvo kostaði Fl. 150.

(Oesterbar, Leidseplein 10, sími 623 2988, opið alla daga, C4)

Lucius

Annar og nútímalegri sjávarréttastaður í svipuðum stíl er Lucius, nágranni Haesje Claes, en með inngangi frá Spuistraat. Þessi staður er meira í tízku hjá unga fólkinu en Oesterbar, sem roskna fólkið sækir, enda var þjónustuliðið ungt og hresst.

Lucius er langur og mjór staður með fiskabúrum, sem hér eru ekki með matfiskum, heldur gullfiskum og sæfíflum. Matseðillinn er krítaður á flísaveggina, þar sem einnig hanga fiskaplaköt. Þröngt er stundum setinn bekkurinn við ber viðarborðin og mikið spjallað.

Við prófuðum silungskæfu með dillsósu; hæfilega soðinn lax með sveppasósu og skinkusneiðum, sem hæfðu laxinum vel, þótt ótrúlegt megi virðast; og loks möndluhúðaðan og steiktan ost, afar bragðsterkan.

Kvöldverður fyrir tvo kostaði Fl. 150.

(Lucius, Spuistraat 247, sími 624 1831, lokað í hádeginu, B3)

Seepaerd

Enn einn fiskréttastaðurinn er við annað skemmtilífstorg borgarinnar‚ Rembrandtsplein. Það er Seepaerd með þægilegum tágastólum við eins konar saumavélarborð innan um fiskaker, fiskaplaköt og gömul stýrishjól í lofti‚ lnnar er gryfja í kringum arin, sem verður mjög rómantískur á kvöldin. Uppi er svo líka veitingasalur, en ekki eins skemmtilegur.

Við prófuðum hádegisverðarseðil á Fl. 35. Þar var fiskisúpa (Viessoep) og val á milli rauðsprettuflaka (Scholfilets) og sólflúruflaka (Sliptongetjes), hvort tveggja pönnusteiktra og borinna fram með pönnusteiktum kartöflum og salati. Þetta var góður fiskur. Á eftir voru ferskir ávextir, ís og rjómakaffi.

Kvöldverður fyrir tvo hefði kostað Fl. 130.

(Seepaerd, Rembrandtsplein 22, sími 622 1759, opið alla daga, C-D2)

Mirafiori

Ítalirnir eiga sinn góða fulltrúa í Amsterdam eins og í öðrum borgum, sem máli skipta. Það er Mirafiori í næsta nágrenni við Sama Sebo.

Innréttingin er gömul og snyrtileg. Á veggjum eru viðarþiljur og snjáð parkett á gólfi. Á ellilegum borðum eru hvítir dúkar. Rykfallnar vínflöskur eru í rekkum og hillum hér og þar. Heill veggur er undirlagður ljósmyndum af ítölskum gestum. Niðursoðin -o cara mia- hljómlist var að tjaldabaki, en skemmtilegra var raulið í þjóninum.

Við prófuðum í forrétti hráskinku (Prosciutto crudo San Daniele) og eggjasúpu (Stracciatella alla romana). Súpan var mjög góð og skinkan frábær, aðeins borin fram með salatblaði og smjöri. Í aðalrétti fengum við fiskisúpu (Zuppa di pesce), sem er í boði fimmtudaga og föstudaga, og vínsoðnar kálfasneiðar (Scaloppina al marsala). Kálfurinn var sæmilegur, en fisksúpan frábær, afar bragðsterk. Hún er ein sérgreina hússins. Hinar eru Osso Bucco og Saltimbocca. Í eftirrétti fengum við tvenns konar, mátulega þroskaða, ítalska osta, Del Paese og Gorgonzola. Og svo auðvitað almennilegt kaffi, ítalskt kaffi.

Kvöldverður fyrir tvo kostaði Fl. 120.

(Miraflori, Hobbemastraat 2, sími 662 3013, lokað þriðjudagskvöld, D5)

Tÿrkiye

Ágætur fulltrúi eystri hluta Miðjarðarhafsins, matarsvæðisins, sem nær frá Grikklandi yfir Tyrkland til Botnalanda, er Tÿrkiye, sem er nokkra tugi metra frá Dam og bauð auk matar upp á tyrkneska hljómsveit og lélegan magadans.

Þetta er stór salur með rauðu lofti, rauðu gólfteppi, rauðum borðdúkum, rauðskyrtuðum þjónum, svo og veggteppum, marglitum Ioftljósum og pálmatrjám. Þjónarnir voru í útsaumuðum vestum.

Við fengum heita, mátulega þykka, ágæta baunasúpu og verulega góðan Iambahrygg, léttsteiktan með saffran-hrísgrjónum, kartöflum, ýmsu grænmeti, hrásalati og heitri sósu og kaldri. Við prófuðum síðan tyrkneskan karamellubúðing og hið góða, tyrkneska, hnausþykka kaffi. Þessi máltíð kom okkur skemmtilega á óvart.

Kvöldverður fyrir tvo kostaði Fl. 140.

(Tÿrkiye, Nieuwezijds Voorburgwal 169, sími 622 9919, lokað í hádeginu, B3)

Kopenhagen

Í nágrenninu, við aðalgötuna Rokin, er Kopenhagen í kjallara með litlum gluggaborum. lnnréttingar eru sérstæðar, gamanmyndasaga um sjóræningja máluð á veggi, olíuluktir og kerti á borðum, rá og reiði í lofti, nokkuð af borðfánum, þar á meðal íslenskur.

Hér er hægt að fá smørrebrød í dönskum stíl og meira af fiskréttum en kjötréttum. Við prófuðum í forrétt ágæta Hovmestersild, sem var bakki með sex tegundum síldarmatreiðslu og reyktum makríl. Viðkunnanlegur þjónninn benti okkur á að fá í aðalrétt slétthverfu (Griet), sem væri nýkomin inn úr dyrunum og var ekki á seðlinum. Við tókum boðinu og fengum hinn bezta fisk, heilsteiktan, með steiktum kartöflum og hrásalati. Með kaffinu fengum við konfekt og mintumola.

Kopenhagen bauð matseðla á Fl. 29-59 og sérstakan ferðamannamatseðil á Fl. 24. Kvöldverður fyrir tvo kostaði Fl. 120.
(Kopenhagen, Rokin 84, sími 24 93 76, lokað sunnudaga, B-C3)

Christophe

Kominn er tími til, að bók þessi vendi kvæði sínu til franskrar matargerðarlistar í Amsterdam. Í miðborginni er hún bezt á Christophe, sem er frekar einfaldur, en virðulegur staður á tveimur gólfum á bak við bogna búðarglugga um 400 metrum norðan við Pulitzer-hótel.

Bleikir veggir eru að mestu berir og langt er milli borða, en upplyfting er að blómaskreytingu í miðjum sal. Þetta er staður matargerðarlistar fremur en útlitshönnunar.

Í boði voru þrír matseðlar, fjögurra rétta á Fl. 90, þriggja rétta á Fl. 65 og fjögurra rétta grænmetismatseðill á Fl. 70. Auk þess voru stakir réttir á matseðli. Á fjögurra rétta seðlinum var gróft söxuð og bragðfín villisveppakæfa með grænni vætukarsasósu; nýfranskt grillaður lax, borinn fram á grænum hjartabaunum með rauðri tómatsósu; kálfabris á mauksoðnu ungandarkjöti, umkringt kartöflustöppu; og loks peru- og hindberjasúpa með rauðvínskrapi.

Kvöldverður fyrir tvo kostaði Fl. 220.

(Christophe, Leliegracht 46, sími 625 0807, lokað sunnudaga og mánudaga, A3)

Tout Court

Eitt allra beztu veitingahúsa borgarinnar er Tout Court á tveimur hæðum við mjóa götu, sem liggur samsíða Leidsestraat. Þarna eru einföld, fremur þröng og hugguleg húsakynni, ekki sérlega stílhrein. Þjónusta var óvenjulega elskuleg og staðurinn einkar glaðlegur.

Þarna eldar John Fagel á franska vísu. Í boði voru margs konar raðir rétta, til dæmis fjórréttaður á Fl. 70 og sexréttaður á Fl. 90. Við prófuðum sex rétta seðil. Við fengum skötusel með blaðlauk í humarhlaupi; tæra kjúklingasúpu með vætukarsa; eggaldin og krabbakjöt í saffransósu með hrísgrjónum; eplavíns- og eplabrennivínskrap; villiandarkjöt með sveppum, kirsuberjum og kirsuberjasósu; og loks osta og eftirrétti af vagni.

Kvöldverður fyrir tvo kostaði Fl. 230.

(Tout Court, Runstraat 13, sími 625 8637, lokað sunnudaga og mánudaga og í hádeginu, B4)

Mangerie

Rétt við Ramada hótelið er franskt matargerðarhús innréttað í gömlu vöruhúsi á fremur rustalegan hátt. Múrsteinsveggirnir eru hafðir berir og timburgaflinn virðist upprunalegur. Viðarstigi, viðargólf og viðarbitar einkenna staðinn, svo og fornlegar viftur í lofti. Frumlegar skreytingar eru á veggjum. Vingjarnlegar stúlkur í gallabuxum og með skinnsvuntur gengu um beina.

Við ákváðum að prófa fuglafroðu (Mousse de foie de volaille) og ferskan spergil í forrétti, lambakótilettur (cotelette de agneau) í mintsósu og nautalundir með pipar og gorgonzola osti, svo og franska osta á eftir. Kvöldverður fyrir tvo kostaði Fl. 130.

(Mangerie, Spuistraat 36, sími 625 2218, lokað í hádeginu, A2)

Swarte Schaep

Nú víkur sögunni að þeim veitingahúsum borgarinnar, sem mest leggja upp úr skemmtilegum, rómantískum og hollenzkum innréttingum. Við getum hér nokkurra matarstaða, sem eru í senn frægir meðal heimamanna og ferðafólks og bjóða um leið upp á frambærilegan mat, í mörgum tilvikum góðan.

Swarte Schaep eða Svarti sauðurinn er í gömlu hornhúsi frá 1687 við Leidseplein. Upp á þriðju hæð er þröngan og brattan stiga að fara til að komast í lítinn og fallegan veitingasal. Þar eru æsilegar kertakrónur í lofti, dökkur, þungur viður á veggjum, gluggar steindir, koparkatlar og annað gamalt dót, allt fínpússað. Skemmtilegast er að fá borð við glugga. Borðbúnaður er mjög vandaður.

Hádegisverðarseðill var í boði á Fl. 55. Á kvöldin var nokkurn veginn sama heildarverð á þriggja rétta vali af matseðlinum og svonefndum Menu Gastronomique á Fl. 95, sem er sex rétta, og gefur í ýmsum liðum kost á vali milli tveggja rétta. Við vildum prófa matreiðslu van de Bogaard til hins ýtrasta og völdum því langa seðilinn.

Fyrst fengum við reyktan lax með avocado og fuglalifrarkæfu, síðan lambasúpu með koriander, þá humarkæfu og lynghænu á rauðkálsbeði, svo rabarbarafroðu, næst kálfakótilettu og lambasíðu í rósmarín og loks blandaða eftirrétti. Með þessu fengum við hálfa af hvítu og rauðu víni hússins. Þetta var góður matur í rómantísku umhverfi.

Kvöldverður fyrir tvo kostaði Fl. 235.

(Swarte Schaep, Korte Leidsedwarstraat 24, sími 622 3021, opið alla daga, C-D4)

Vijff Vlieghen

Þetta frægasta veitingahús Hollands hefur verið starfrækt á þessum stað síðan 1627 eða í meira en 350 ár. Það heitir ekki eftir fimm flugum eða fimm húsum, sem raunar eru bara fjögur, heldur eftir fyrrverandi eiganda að nafni Jan J. Vieff Vlieghen.

lnnréttingar eru sumpart jafn gamlar húsunum sjálfum. Viðarinnréttingar eru þungar og dökkbrúnar, tréstólar og bekkir ekki mjög þægilegir. Miklar kertakrónur úr messing, málverk, látún, gamlar bækur og flöskur skreyta salina. Það væri gaman að sitja hérna, jafnvel þótt maturinn væri vondur.

Svo er þó ekki. Við sátum í Rembrandtsal undir koparstungum, sem staðarmenn segja vera eflir Rembrandt og völdum okkur Fl. 60 matseðil, sem bauð upp á góða, kalda, fyllta lynghænu með rabarbarafroðu, sæmilega lúðukæfu með laxasósu, heita og góða, tæra villibráðarsúpu með eggjahjúpi og karsa, hæfilega soðinn karfa með humarsósu og spínati, mjög góðan sítrónu-og Chablis-kraumís, ágætt bris með góðu salati og loks kiwiávexti í kiwi-sósu.

Kvöldverður fyrir tvo kostaði F1 240.

(Vijff Vlieghen, Spuistraat 294, sími 624 8369, lokað í hádeginu, B3)

Silveren Spiegel

Í tveimur 17. aldar húsum, sem kúra undir Ronde Luterse Kerk andspænis hótelinu Ramada, er Silveren Spiegel, innréttað í gömlum, hollenzkum stíl. Barinn er niðri, en uppi á hæðinni er borðað. Þar er lágt undir loft, gólf snarhallandi, bitar í lofti og veggjum, smárúðótt gluggatjöld og borðdúkar. Þetta er staður mikillar stemmningar og góðrar þjónustu.

Við fengum okkur í forrétt heita, létta, tæra fiskisúpu með grænmeti, rækjum og kræklingi, í aðalrétt hrásteiktar nautalundir með ýmsu meðlæti og í eftirrétt profiteroles. Fyrst var kjötið miðlungi steikt, en var umyrðalaust tekið til baka og hrásteikt borið fram í staðinn.

Matseðlar voru á Fl. 68 og Fl. 88. Kvöldverður fyrir tvo kostaði FI. 165.

(Silveren Spiegel, Kattengat 4, sími 624 6589, lokað sunnudaga og í hádeginu, A2)

Prinsenkelder

Í kjallara Dikker en Thijs á horni Leidsestraat og Prinsengracht er Prinsenkelder í lágu og löngu herbergi með marmaraflísum á gólfi, grófum innréttingum, bitalofti, messing og kopar á veggjum og fínum borðbúnaði.

Með Barolo víni fengum við fuglalifrarkæfu með tveimur tegundum berja og lynghænu með salati. Réttirnir voru fallega útlítandi í nýja, franska stílnum og voru bragðgóðir. Hollenski sauðaosturinn var svo að lokum skemmtilegur eftirréttur.

Kvöldverður fyrir tvo kostaði Fl. 230. (Prinsenkelder, Prinsengracht 438 sími 626 7721, lokað mánudaga og í hádeginu, C4)

Dikker en Thijs

Á annarri hæð í húsinu, þar sem einnig er hótelið Alexander (sjá bls. 11), er veitingahúsið, sem Hollendingar telja virðulegast og bezt í Amsterdam. Það er Dikker en Thijs með fallegum innréttingum í hvítu, grænu og rauðu. Teppið, gluggatjöldin og loftið er rautt, plönturnar grænar, borðdúkarnir hvítir og gluggatjöldin rauð, græn og hvít.

lnnan um þetta eru stórir kertastjakar, risastórir speglar og þjónar á hverjum fingri. Við fengum okkur fastan matseðil á Fl. 85, en auðvitað var líka hægt að fá mun dýrari sérrétti.

Við snæddum reyksoðinn lax, karsasúpu, hörpuskelfisk innbakaðan, kampavíns-kraumís, perluhænur með léttsoðnu grænmeti og loks vínfroðu með jarðarberjum. Vínglösin voru óhrein, áður en skipt var um, en maturinn var góður, svo sem hæfir dýrasta veitingahúsi borgarinnar.

Kvöldverður fyrir tvo kostaði Fl. 260.

(Dikker en Thijs, Prinsengracht 444, sími 626 7721, lokað sunnudaga og í hádeginu, C4).

1984 og 1992

© Jónas Kristjánsson

Dublin veitingar

Ferðir

Mikið framboð af veitingahúsum er í miðborginni. Hér eru valdir staðir, sem allir eru góðir, en misjafnlega dýrir og hver með sínum sérkennum og matreiðslu. Samanlagt gefa þeir góða hugmynd um veitingamennsku borgarinnar. Veitingahúsin eru talin í stafrófsröð.

Ante Room

Einna beztu sjávarréttir miðbæjarins fást í fremur dýru veitingahúsi, Ante Room, í kjallara hótelsins Georgian við Baggot Street, þar sem flestar söngkrárnar eru.

Hann er í ruddastíl, þröngt setinn á hörðum timburstólum, þegar ferðahópar koma, en öðrum þræði rómantískur við kertaljós. Hann er í nokkrum kimum, svo að stærðin leynir á sér.

Matreiðslan er yfirleitt einföld og traust, með bragðgóðri niðurstöðu, þótt undantekningar séu á því, einkum þegar mikið er umleikis vegna ferðahópa. Þjónusta er fagmennskuleg.

Bragðgóður krabbaskelfiskur (crab clams) í hvítlaukssmjöri var borinn fram í miklu magni. Sama var að segja um krækling (mussels) í skelinni. Reyktur villilax var prýðilegur. Þetta voru forréttir.

Hvítvínssoðin risaharpa (king scallops) í rjómasósu með kartöflustöppu (piped potatos) var afar góð og meyr, bæði vöðvinn og fiskurinn.

Pönnusteiktar risarækjur (tiger prawns) í hvítlauk, með graslauk og pasta voru hins vegar ekki nógu meyrar. Úrbeinaður og ofnbakaður Dover-koli með sítrónusmjöri var einstaklega bragðgóður.

Súkkulaðiterta var góð og enn betri var eins konar ís með karamellubitum (parfait).

Gott hvítvín er á boðstólum, til dæmis góður Muscadet á £16.

Kvöldverður fyrir tvo kostaði £44 auk drykkjarfanga.

(Ante Room Seafood Restaurant, 20 Lower Baggot Street, sími 660 4716, E2)

Bewley’s

Við miðja göngugötuna Grafton Street, sem er burðarás miðbæjarins, er ódýra kaffistofan Bewley’s, sem um langan aldur hefur verið þekktasti áningarstaður borgarbúa í verzlunarferðum. Þetta er móðurstöð samnefndrar kaffihúsakeðju, í senn morgunverðarstofa, kaffihús og hádegismatstaður.

Fremst er bakarí, en inn af því og upp af því eru samtals þrír sjálfsafgreiðslusalir og tveir þjónustusalir. Skemmtilegast er að vera í þjónustusalnum á millihæðinni ofan við bakaríið, helzt við litlu marmaraborðin úti við opna glugga með útsýni niður á göngugötuna.

Fallegust innrétting er í sjálfsafgreiðslusal inn af bakaríinu, þar sem eru stórir og fallegir gluggar steindir ofan við þykka og rauða sófa. Þar er yfirleitt mest um að vera.

Hér sitja borgarbúar lon og don og lesa blöðin, fá sér te og hafragraut (porridge); skóna (scones) eða múffur (muffins); egg og beikon; hádegissalöt og létta rétti, kalda og heita. Kaffi og te eru af mörgum gerðum. Sumir ferðamenn fá sér morgunverð hér fremur en á hótelinu.

Hádegismatur fyrir tvo kostaði £14 auk drykkjarfanga.

(Bewley’s, 78-79 Grafton Street, sími 677 6761, C3)

Blazing Salads

Bezta grænmetisréttastofa miðbæjarins er ódýr sjálfsafgreiðslustaður á þriðju hæð verzlunarkringlunnar Powerscourt.

Viðarinnréttingar eru grófar, opin skilrúm og lakkað gólf, gegnheilar borðplötur á renndum fótum og tréstólar með tágasetu.

Staðurinn býður ferskt pressaða ávaxtasafa kryddaða, lífrænt ræktað borðvín, marga rétti dagsins og salöt af ýmsu tagi, að flestu leyti fjölbreyttara úrval en tíðkast á slíkum stöðum. Í matreiðslunni er hunang notað í stað sykurs og grænmetisseyði í stað kjötseyðis. Gestir eru flestir ungir.

Bezt er að fara eftir tilboðum dagsins, sem skráð eru á krítartöflu ofan við afgreiðsludiskinn. Í bland við þau fást svo hefðbundnir réttir þessarar tegundar matreiðslu.

Grænmetiskássa (couscous) bjó yfir sætu, góðu bragði, með ívafi sterkrar paprikusósu (harissa). Þangvafið grænmeti frísklegt var ekki síður gott. Olíuvætt hrásalat (tabbouleh) með sprengdu hveiti (cracked wheat), tómötum og grænmeti er þekktur írskur réttur, afar góður á þessum stað. Hefðbundið kartöflusalat var líka gott, svo og baunakássa. Gulrótarterta með þeyttum rjóma var sérstaklega góð.
Hádegismatur fyrir tvo kostaði £12 auk drykkjarfanga.

(Blazing Salads, Powerscourt Townhouse Centre, Clarendon Street, sími 671 9552, C3)

Cave

Ein notalegasta matstofa miðbæjarins er fremur ódýr og ekta frönsk bistró, lítil kjallarahola, La Cave, í hliðargötu út frá Grafton Street.

Það komast varla nema 30 manns fyrir í þessum rauða og dökka stað, með rauðum veggjum, rauðu teppi, rauðum borðlömpum og dökkum sófum og pílárastólum. Hvítir og rauðir pappírsdúkar eru á borðum, svo og rauðar pappírsþurrkur. Barinn tekur mikið af plássinu.

Edith Piaf og franskir raularar heyrast lágt af bandi. Frönsk ljóð eru lesin upp á sunnudagskvöldum. Þetta er fyrst og fremst franskur staður franskrar matreiðslu. Hér er vinstri bakki Signu kominn á hægri bakka Liffu.

Þjónusta er góð og hröð. Nóg af brauði og smjöri er á boðstólum. Þjónustugjald er ekki sett á reikninga, svo að gestir þurfa sjálfir að bæta því við.

Tabbouleh var afar gott forréttasalat. Það er raunar írskur réttur með írsku nafni, olíuvætt hrásalat með sprengdu hveiti, tómötum og grænu laufi. Sveitakæfa (terrine de campagne) var frönskuleg og góð.

Góð sjávarréttapanna (cassoulet de fruits de mer) hafði að geyma krækling, litlar rækjur, smokkfisk og fisk í tómatsósu. Lambasteik var fallega milt elduð og bragðgóð eftir því.

Bourdalou-terta reyndist vera eins konar peru-pæ með perugraut, afar gott.

Á svona stað var auðvitað hægt að fá sterkt espresso-kaffi samasem beint í æð.

Hádegisverður fyrir tvo kostaði £14 og kvöldverður £28 auk drykkjarfanga.

(La Cave, 28 South Anne Street, sími 679 4409, C2)

Chicago

Beztu pizzur borgarinnar eru í Chicago Pizza Pie Factory, fremur ódýrum veitingasal niðri í kjallara á horninu, þar sem Grafton Street mætir St Stephen’s Green. Þetta eru þykk pönnupizzu-pæ í bandarískum Chicago-stíl.

Einkenni staðarins er mikill glerveggur milli veitingasalar og bars, þar sem eru 700-800 áfengisflöskur. Salurinn er víður og hár, með plakötum og umferðarskiltum á rauðum veggjum. Hárauðir og dimmgrænir borðdúkar eru á borðum. Á gólfi er fínasta parket.

Hér eru fjölskyldur velkomnar og mikið látið með börnin, sem fá stórar blöðrur og óskafæðu, allt frá pizzum yfir í rjómaísa. Þjónusta er fremur vingjarnleg og góð, en ung og óskóluð.

Pizzur kostuðu £4, tveggja manna £8 og þriggja manna £12. Þær hurfu í stríðum straumum í gesti um allan sal.
Fylltir sveppir með smjöri, brauðmylsnu, osti og hvítlauk voru fremur góðir.

Grískt salat var í meðallagi gott og í miklu magni, með jöklasalati, olífum, feta-osti, gúrku og tómati, en ég saknaði rauðlauks og oregano, sem gefa snerpu og áttu að fylgja.

Súkkulaðiterta með súkkulaðisósu var fremur góð og ákaflega matarmikil.

Hádegisverður eða kvöldverður fyrir tvo kostaði £28 auk drykkjarfanga.

(Chicago Pizza Pie Factory, St Stephen’s Green, sími 478 1233, C2)

Cooke’s Café

Einn helzti tízkustaður miðbæjarins er lítið og einfalt veitingahorn vandaðrar matreiðslu og afar hátimbraðs verðlags, Cooke’s Café, með stórum gluggum fyrir framan aðalinngang verzlunarkringlunnar Powerscourt.

Miðjarðarhafsmyndir eru málaðar beint á veggi og hansatjöld milda risagluggana. Opið er inn í þröngt eldhús. Þröngt er líka setið á hörðum tréstólum við gólfdúkuð borð á flísagólfi. Þetta á að gefa slitinn Miðjarðarhafsbaksvip og tekst ágætlega.

Gestir eru málglaðir og háma í sig olífur meðan þeir bíða eftir matnum. Þeir slóra ekki við matinn, því að nokkur holl gesta eru á hverju kvöldi. Staðurinn er umsetinn fjársterku menntafólki.

Matreiðslan er í nútímalegum stíl, ættuðum frá Kaliforníu, en hér að mestu leyti að ítölskum hætti. Þetta er vönduð matreiðsla með Hollywood-stælum í framsetningu. Brauðið er heimabakað og afar gott.

Reykt þorskhrogn með sýrðum rjóma voru hrogn úr túbu með óhrærðum, þéttum rjóma beint úr dollunni. Rauðpiparsúpa með geitaosti var hins vegar sérstök og eftirminnileg.

Pönnusteiktur hafurriði (sea bass) með pipar, tómati, kryddi, hvítvíni og olífuolíu var afar góður á bragðið. Sömuleiðis ristuð og meyr akurhæna með blaðseljufrauði og sítrónu-blóðbergssmjöri. Pasta er talið gott á þessum stað.

Bláber með þeyttum rjóma voru stór og bragðgóð, með óþarfri vanillusósu til hliðar.

Þetta er einn fárra gæðastaða, sem eru opnir á sunnudögum í miðbænum. Ekki er hægt að setja þjórfé á krítarkort.

Hádegisverður fyrir tvo kostaði £35 og kvöldverður £70 auk drykkjarfanga.

(Cooke’s Café, 14 South William Street, sími 679 0536, C3)

Elephant & Castle

Annar tízkustaður vandaðrar matreiðslu er milliverðsstofan Elephant & Castle í veitingahúsagötunni Temple Bar.

Þar er alltaf fullt og gestir leysa hverjir aðra ört af hólmi. Ekki er tekið við pöntunum, gestir eru látnir bíða á kránni á móti eftir lausu borði og eru sóttir í fyllingu tímans. Biðin er ekki löng.

Húsakynni eru óformleg, borðplötur berar, sætaskipun fremur þröng og kliður töluverður. Karlar fara úr jökkum og taka til óspilltra málanna við snæðinginn. Þjónusta er markviss og skjót, fellur greinilega í geð gesta.

Matreiðslan er fyrsta flokks og minnir dálítið á Hard Rock Café-keðjuna. Hráefnið er yfirleitt mjög gott og kokkarnir eru ungt fólk á uppleið.

Maíssúpa (corn chowder) var bragðmikil og góð, en mexíkósk piparsúpa (chilli soup) var þó enn bragðmeiri og betri. Bezti forrétturinn var hrærð eggaldin-samloka (guaccamole).

Pastaþræðir (fettucini) með kjúklingakjöti voru mjög góðir, sömuleiðis grilluð nautasteik, sem elduð er eins lítið og gesturinn vill. Hér fást líka hamborgarar og hliðstæð lýðræðisfæða fyrir ungt fólk.

Verðið er teygjanlegt í báða enda. Kvöldverður kostaði okkur £40 auk drykkjarfanga. Hægt er að borða fyrir mun lægra verð.

(Elephant & Castle, 18 Temple Bar, sími 679 3121, C4)

Frères Jacques

Annað af tveimur beztu veitingahúsum bæjarins er Frères Jacques við Dame Street, fremur dýr staður andspænis Dublin Castle og City Hall.

Gengið er inn í veitingahúsið úr litlu göngusundi út frá Dame Street. Staðurinn er lítill og langur og mjór og tvískiptur. Annar hluti er frá barnum og út að götu, en hinn er yfir eldhúsinu, sem er innan við barinn. Innbú er franskt að sjá, skápar með Feneyjahurðum, virðulegt veggfóður og vandlega dúkuð borð.

Þjónusta er frönsk og afar kurteis, en mettuð írskri ljúfmennsku. Hér er svo notalegt að vera, að margir gestir koma einir til að ná stemmningu frá fremsta matargerðarlandi heims. Matreiðslan sveiflast frá hefðbundinni línu yfir í nýfranska.

Kræklingur í afar þunnri tómatsósu var mjög mjúkur og góður. Enn betri var andalifur í púrtvínssósu. Lambalifur var undurljúf, með chanterelle-sveppum. Kræklinga- og fennikkusúpa var nánast fullkomin.

Sjóbleikja var afar ljúf, enda hæfilega lítið elduð, vafin þunnt sneiddri skinku, sem gaf fiskinum heitreykt bragð. Kjúklingabringa í mildri karrí og mangósósu hvarf í skuggann, þótt góð væri.

Heitur hrísgrjónabúðingur með aprikósum var góður og efnismikill eftirréttur. Hindberjafroða Romanoff í stökku horni, með jarðarberjum og rifsberjum á diskrönd, var konungleg.

Hádegisverður fyrir tvo kostaði £30 og kvöldverður £45 auk drykkjarfanga.

(Les Frères Jacques, 74 Dame Street, sími 679 4555, B4)

Gallagher’s

Írska sveitaeldhúsið hefur ágætan fulltrúa í miðbænum, milliverðsstaðinn Gallagher’s við veitingahúsagötuna Temple Bar.

Þetta er dimmur og þröngur staður, með gömlum viðarveggjum, gömlum tréborðum og gömlu trégólfi, einkar notalegur staður. Írskt raul er í hátölurum og logandi eldur í arni, einnig í hádeginu.

Móttökur eru írskar og ágætar, en staðurinn oftast fullur og ekki tekið við pöntunum, svo að fólk fer í krána á móti og bíður eftir að verða sótt.

Írskt kjötseyði var ágætt, einnig smjörvuð og mjúk baunakæfa (butter bean paste) með afar þykku og grófu rúgbrauði.

Sérgrein hússins er boxty, þykkar og seigar pönnukökur úr kartöfludeigi, sem eru vafðar utan um heitan rétt. Í gamla daga voru þær borðaðar einar sér, voru fátæklingamatur landsins og þá gerðar án nokkurs hveitis, sem þótti of dýrt, ef það var fáanlegt.

Lamba-boxty með jógúrt og mintusósu var borið fram með rauðkáli, blómkáli og gulrótum. Nauta-boxty með piparrótarsósu var betra. Bauna-boxty var einna bezt, enda mest í stíl.

Einnig er hægt að fá frægasta rétt Írlands, kjötsúpuna Irish Stew, svo og annan þekktan þjóðarrétt, blómkál með beikoni.

Brauð- og smjörbúðingur með rúsínum, þeyttum rjóma og eggjahvítur var verðugur endir á þessu þjóðlega borðhaldi.

Hádegisverður fyrir tvo kostaði £16 og kvöldverður £36 auk drykkjarfanga.

(Gallagher’s Boxty House, 20-21 Temple Bar, sími 677 2762, C4)

Good World

Bezta Kínahúsið í Dublin er hið ódýra Good World við eina af aðalgötum miðbæjarins, South Great George’s Street, sem liggur niður á Dame Street rétt austan við Dublin Castle.

Þetta er mjög skemmtilegt fjölskylduveitingahús, fjörlegast í hádeginu á sunnudögum, þegar fjölmennar kínverskar fjölskyldur halda upp á daginn með því að fara út að borða Dim Sum, kínverska smárétti, sem eru ættaðir frá Hong Kong. Allir virðast þekkja alla við það tækifæri.

Good World er fremur fínt og virðulegt af kínverskum veitingastað að vera, búið vönduðum húsgögnum og teppalagt í hólf og gólf. Lítið er um kínverskar skreytingar, sem einkenna lakari staði af þessu tagi.

Smáréttirnir koma í turnum af gufusuðuskálum úr málmi. Sumir eru gufusoðnir og aðrir djúpsteiktir. Hver réttur kostar £2. Gestir velja það, sem þeim lízt á, og úrvalið verður fjölbreytt, þar sem fjölmennt er við borð.

Réttirnir eru ótal margir, sumir mjúkir og aðrir harðir, sumir sætir og aðrir súrir, sumir sterkir og aðrir mildir. Með þessu eru snædd hrísgrjón og drukkið grænt te, til dæmis jasmínute.

Djúpsteikt og stökkt Won Ton; límkenndar og uppvafðar pönnukökurnar Cheung Fun úr hrísgrjónahveiti, fylltar svínakjöti; og djúpsteiktu kjötbollurnar Char Siu eru dæmi um fjölbreytni í smáréttunum.

Hádegisveizla fyrir tvo kostaði £18 auk drykkjarfanga.

(Good World, 18 South Great George’s Street, sími 677 5373, BC3)

Grey Door

Einn virðulegasti matstaður miðbæjarins er Grey Door, fremur dýr salur á samnefndu hóteli í rólegu hverfi átjándu aldar húsa milli Baggot Street og Leeson Street og hefur rússneska og finnska matreiðslu að sérgrein sinni, einkum á kvöldin.

Staðurinn er í þremur stofum á fyrstu hæð hússins, einni rauðri, annarri blárri og hinni þriðju grænni. Gömul málverk hanga á veggjum, ljósakrónur í loftum, hvítt og þykkt er á borðum og bláfóðraðir stólar eru þægilegir.

Rússneskar pönnukökur (blini) voru eftirminnilegar, ýmist með reyktum laxi, styrjuhrognum, laxahrognum eða sveppum. Kálfalifrarkæfa var góð, borin fram með sultu, ristuðu brauði og salati. Laxasúpa með lauki, gúrku og kapers var sérstaklega góð.

Léttreyktur lax, ofnbakaður undir osta- krabba- og kryddskorpu, borinn fram með sólseljusósu úr sýrðum rjóma var til fyrirmyndar.

Ofnsteikt lambalæri í hvítlauks- og sædaggarsafa var ljúft, með nýjum hýðiskartöflum og blönduðu grænmeti soðnu. Nautasteikursneiðar á víxl við laxasneiðar með sinneps- og svepparjómasósu voru fremur góðar, en fullmikið eldaðar.

Eftirréttir eru mestmegnis tertur af vagni.

Í kjallaranum er einfaldari og alþýðlegri matstofa, Blushes, sem notar sama eldhús.

Í Grey Door kostaði hádegisverður fyrir tvo £32 og kvöldverður £50 auk drykkjarfanga.

(The Grey Door, 23 Upper Pembroke Street, sími 766 3286, D1)

Guilbaud

Bezti matstaður borgarinnar og einn sá dýrasti er Patrick Guilbaud í sérhönnuðu og yfirlætislausu múrsteinshúsi í lítilfjörlegri hliðargötu að baki kastala Írlandsbanka við Baggot Street.

Lágt er til lofts í miðhluta veitingasalarins, afar hátt í innsta hlutanum og hátt og bjart á gróðursælli garðstofunni, sem er fremst. Allt er í gulmildum tónum.

Þetta er fagmennskustaður fram í fingurgómana, og um leið næsta ópersónulegur. Allt stefnir traustlega að sama marki, húshönnun, þjónusta og matreiðsla. Þetta er musteri franskrar matargerðarlistar, þar sem þrautskipulagið þjónar listinni, en ekki öfugt.

Kjúklingalifur og rækjur í kæfu á graslauk var mildur og ljúfur forréttur. Hörpudisks-kastarhola var hins vegar hressileg og bragðmikil. Svartpylsa var eftirminnileg.

Gufusoðinn hafurriði með saffrankryddaðri kartöflustöppu og rauðpiparsósu var yfirlýsing um, að þetta væri sérstakur staður.

Villigæsabrjóst með fíkjum var í verðlaunaklassa. Nautasteik með sykruðum gulrótum var fullkomlega elduð.

Peruterta var góð, sömuleiðis berja- og súkkulaðiterta, báðar af eftirréttavagni.

Hádegisverður kostaði £36 fyrir tvo og kvöldverður £74 auk drykkjarfanga.

(Patrick Guilbaud, 46 James Place, Lower Baggot Street, sími 676 4192, E1)

Imperial

Ágætur Kínastaður og ódýr í nútímastíl er Imperial við Wicklow Street, aðeins steinsnar frá Grafton Street.

Þetta er hreinlegur veitingastaður í vestrænum tízkustíl, nokkurn veginn laus við kínverskar skreytingar. Viðskiptavinir eru eigi síður margir hverjir úr heimahögunum í Kanton eða Hong Kong, ekki sízt í hádeginu á sunnudögum.

Á matseðlinum eru einkum kantonskir réttir, sérstaklega Dim Sum, hádegissmáréttir, sem kosta £2-3 stykkið, þar á meðal Char Siu og Cheung Fung, en alls eru nærri 40 slíkir á matseðlinum.

Við prófuðum m.a. gufusoðin rækjufiðrildi og djúpsteiktar uxahalabollur, hrísgrjón í lótuslaufi, baunakæfu og soðið nautakjöt, allt saman staðnum til sóma.

Hádegisverður fyrir tvo kostaði £14 og kvöldverður £30 auk drykkjarfanga.

(Imperial, 12a Wicklow Street, sími 677 2580, C3)

Lord Edward

Andspænis Christ Church er hefðbundinn sjávarréttastaður á miðlungsverðlagi, Lord Edward, sem verður að háværum lögmannaklúbbi í hádeginu, því að stuttan veg er að fara frá dómhöll borgarinnar.

Barinn er á annarri hæð í gömlu og berskjölduðu húsi og lítil veitingastofan á þriðju hæð. Brattir og þröngir stigar vísa veginn. Sandblásinn viður er í borðum, fallegt teppi á gólfi og skemmtileg gluggaskot mynda ramma utan um þrískipta sófa.

Þetta hefur áratugum saman verið höfuðstöð hefðbundinnar sjávarréttamatreiðslu og felur í sér dálitla ofeldun, en ekki mikið annað umstang, og hefur að hornsteini afar ferskt hráefni, sem berst að tvisvar á dag. Matseðillinn byggist á um það bil sex tegundum hráefnis, svo sem rækju, lax, kola, þykkvalúru og hafbleikju; og þremur-fjórum einföldum matreiðsluaðferðum á hverri tegund.

Þjónusta er í góðum millistríðsárastíl, maturinn kemur á fötum og þjónarnir skammta á diskana.

Þykk tómatsúpa með rækjum (prawn bisque) var vel rjómuð og góð. Fyllt lárpera með rækjum og krabbakjöti var einnig góð.

Grilluð sjóbleikja var heldur þurr, en rauð og góð, með léttelduðu, stöðluðu meðlæti hússins, kartöflustöppu, rófu- og gulrótastöppu og blómkáli. Sama meðlæti var með grillaðri þykkvalúru, sem einnig var fremur þurr, enda matreiðslan í hefðbundnum stíl, en eigi að síður góð.

Marens með ís, ávöxtum og þeyttum rjóma var ágætur eftirréttur, sömuleiðis búðingur (crème brulée) með ávöxtum og þeyttum rjóma.

Hádegisverður fyrir tvo kostaði £34 og kvöldverður £46 auk drykkjarfanga.

(Lord Edward, 23 Christchurch Place, sími 454 2420, B3)

Periwinkle

Skemmtileg og hversdagsleg og afar ódýr sjávarréttastofa er á jarðhæð verzlanakringlunnar Powerscourt í borgarmiðju og býður einna ferskastan fisk í bænum.

Þetta er lítill staður í skúmaskotum undir miklum hvelfingum. Þröngt er setið á lágum og háum stólkollum við mjóar, grófar og lakkaðar tréborðalengjur. Flísar eru á gólfum og berar vatnspípur hanga í loftinu.

Fengur dagsins er skráður á krítartöflu ofan og aftan við sjálfsafgreiðsluborðið. Nokkurt úrval er jafnan af skelfiski.

Fiskisúpa (fish chowder) dagsins var mjög góð, boðin í tveimur stærðum, borin fram með góðu, heimabökuðu rúgbrauði. Sömuleiðis skeldýraþrenna, krabbaklær, rækjur og kræklingur með sama heimabakaða rúgbrauðinu.

Fiskisalat með rækjum, kræklingi, þorski og hrásalati var afar gott. Fiskur dagsins var ljómandi ferskur koli með ostafroðuþaki í kastarholu. Krabbaklær í hvítlaukssmjöri nutu sömu góðu eldamennskunnar og allt annað.

Hádegisverður fyrir tvo kostaði £6 auk drykkjarfanga.

(Periwinkle, Powerscourt Townhouse Centre, William Street South, sími 679 4203, C3)

Pigalle

Eitt af örfáum góðum veitingahúsum í frönskum bistró-stíl er milliverðsstaðurinn Pigalle við veitingagötuna Temple Bar.

Farið er þröngan stiga upp á aðra hæð í fremur rustalega stofu með svörtu lofti og hvítum múrsteinsveggjum berum, þungum gluggatjöldum að utanverðu og dökkum furuvegg að innanverðu, blómapottakrónum í lofti, en hvítum dúkum og þurrkum á borðum. Húsgögn eru af ýmsu tagi og hnífapörin einnig.

Þjónusta er góð og vís, eins og á öðrum stöðum af þessu tagi í miðbænum. Írsk hlýja og kurteisi fer vel við tilfinninganæma matreiðslu af frönsku ætterni. Edith Piaf og franskir raularar heyrast í bakgrunni.

Matreiðslan er skemmtileg og hráefnið í ýmsum tilvikum ekki það algengasta. Villibráð er víða á matseðlinum. Þetta er staður, sem kitlar bragðlaukana. Og hann bregzt aldrei. Matseðillinn er á föstu verði, með nokkru úrvali forrétta, aðalrétta og eftirrétta.

Sterk og óvenjuleg appelsínu- og gulrótarsúpa (crème de carotte a l’Orange) var afar góð. Hefðbundnara, en jafngott, var kolkrabbasalat (salade tiede de calamares) með bráðnu smjöri.

Steikt kornhæna með grænum pastareimum (caille rotie aux poivre vert) var í bezta lagi. Sömuleiðis niðursneidd perluhæna með frábæru innmatarmauki sveppablönduðu (supreme de pintade duxelle de champignons et vin blanc).

Ískrap úr rauðum ávöxtum (sorbet aux fruits rouges) var hressandi eftirréttur. Hindberjafroða (mousse aux framboises) var í sama stíl.

Hádegisverður fyrir tvo kostaði £24 og hádegisverður £38 auk drykkjarfanga.

(Pigalle, 14 Temple Bar, Merchant’s Arch, sími 671 9262, C4)

Rajdoot

Höfuðvígi indverskrar matreiðslu er meðalverðsstaðurinn Rajdoot Tandoori í húsakynnum Westbury-hótels við Grafton-Street, gengið inn að aftanverðu, frá Clarendon Street. Indversku veitingahúsin í London gerast ekki betri.

Þetta er afar mikið innréttað veitingahús. Fremst er á palli fagur bar með djúpum hægindastólum, vönduðum viði í veggjum, pjátri og messing á borðum. Neðar er teppalagður veitingasalur með útskurði á veggjum og fallega dúkuðum borðum.

Hér fást hornsteinar norður-indverskrar matreiðslu, eins og við þekkjum hana á Vesturlöndum. Við prófuðum teinarétti á borð við lambakjöt á teini (shish kabab) og rækjur á teini (prawn kabab), jógúrtrétti á borð við lambakjöt (lamb korma), svo og rétti húðaða í karríi og jógúrt og eldaða í leirofni (tandoori). Með þessu eru snædd hrísgrjón, einföld (pillau) og saffrankrydduð (biryani), svo og pönnusteikt brauð (nan).

Matseðillinn er viðamikill, en einfalda má valið með því að velja fastar, þríréttaðar máltíðir. Tandoori er sérgrein staðarins, glansandi rautt og bragðmagnað.

Hádegisverður fyrir tvo kostaði £25 og kvöldverður £40 auk drykkjarfanga.

(The Rajdoot Tandoori, 26-28 Clarendon Street, Westbury Centre, sími 679 4274, C3)

Russell

Fíni matsalurinn á Westbury hóteli við Grafton Street er Russell Room, með fínum teppum, miklu af blómum, speglum, ljósakrónum og glæsilegum stólum. Þetta er einn af fegurstu matsölum miðbæjarins, fremur dýr, en þó ekki eins og ætla mætti.

Þjónustan er virk og góð og andrúmsloftið er létt og gott, þrátt fyrir virðulegan svip húsakynna.

Bragðsterk andakæfa (foi de canard) með fögru hrásalati var góður forréttur. Góð sveskjusúpa kom skemmtilega á óvart.

Nautasteik var ofelduð eins og hættir til á Írlandi, borin fram með sæmilegu grænmeti, svo sem djúpsteiktu blómkáli og grænmetisþráðum.

Skorpuönd með sítrónu, lime og coriander var miklu betri. Einnig sjóbirtingur með heslihnetum og hunangssósu.

Smjördeigskaka með jarðarberjum og afar sterkri jarðarberjasósu var nokkuð góð.

Hádegisverður fyrir tvo kostaði £28 og kvöldverður £46 auk drykkjarfanga.

(Russell Room, Westbury Hotel, Grafton Street, sími 679 1122, C3)

Sandbank

Þriðji merki veitingasalurinn á Westbury-hóteli og hinn ódýrasti þeirra er Sandbank, annasamur og skemmtilegur og fremur ódýr fiskréttastaður.

Steindar rúður stórar eru í gluggum og skilrúmum í salnum. Lýstir speglar að baki barsins magna skrautið. Þykkur viður útskorinn er víða í innréttingum. Grænir sófar liggja þétt að skilrúmum. Borðin eru dúklaus og skarta fallegum viði.

Þjónarnir bera stráhatta og klæðast síðum svuntum. Stemmningin er notaleg, ekki sízt þegar mikið er að gera, sem er alvanalegt.
Sjávarréttir í smjördeigi (vol-au-vent) voru ágætir og enn betri var eikarreyktur lax. Lifrarkæfa hússins var hversdagsleg.

Sjávarréttagratín var gott, sömuleiðis villtur lax írskur. Heilsteiktur koli var bezti aðalrétturinn.

Eftirréttir voru franskir og fínir, froður, kökur og búðingar.

Hádegisverður fyrir tvo kostaði £32 og kvöldverður það sama auk drykkjarfanga.

(Sandbank, Westbury Hotel, Grafton Street, sími 679 1122, C3)

Stampa

Fegursti matsalur Írlands er á franska veitingahúsinu La Stampa við Dawson Street, sem liggur samsíða Grafton Street. Verðlagið er hátt og matreiðslan er greinilega frönsk, þótt nafnið sé ítalskt.

Hinn stóri matsalur er einstæður. Hátt er til lofts og vítt til veggja og voldugur gluggi í þaki. Risastórir speglar eru í röðum á veggjunum og margalda rýmið. Milli þeirra eru veggsúlur, sem renna í rauðum bogum upp í loftið. Mikill gróður er í stórum pottum við veggsúlurnar og risastór blómaskreyting í miðjum sal. Hafsjór kertaljósa framan við spegla magnar veizlutilfinninguna.

Rúm er fyrir marga gesti og yfirleitt er mikið að gera í hávaðasömum salnum. Þjónarnir óðu renningana á trégólfinu fram og aftur með stóra piparstauka á lofti og misstu smám saman tökin á verkefni sínu, létu til dæmis tilviljanakennt sum borð hafa brauð og önnur ekki.

Matreiðslan er afar góð og hæfir vel glæsibrag húsakynna.

Kryddlegnir sveppir með parmiggiano-ostaflögum á salati voru mjög olíuvættir og nokkuð góðir. Betri voru þó pastaræmur með tómatsósu, Toulouse-pylsum og koríander. En bezti forrétturinn var einföld humarsúpa.

Ljúffeng lambarif voru fituskorin og hæfilega lítið steikt, borin fram með kartöflustöppu og afar stórum tómati, sem var fylltur spínatstöppu. Saltfiskur á kartöflustöppu með beikoni í kring var magnaður.

Þunnar melónusneiðar með sýrðum rjóma mintukrydduðum voru góðar, en karamellubúðingur var full límkenndur.

Hádegisverður fyrir tvo kostaði £30 og kvöldverður £56 auk drykkjarfanga.

(La Stampa, 35 Dawson Street, símar 677 8611 og 677 3336, CD2)

King Sitric

Borgarlestin í Dublin nær til norðurs að smábátahöfninni við höfðann Howt norðan við Dublin. Þar við nyrðri enda hafnargötunnar er afar gamaldags og góður fiskréttastaður, King Sitric, fremur dýr, en peninganna virði.

Þetta er lítill staður í tveimur stofum og þröngt er milli borða. Þykk tjöld eru fyrir gluggum og gefa staðnum miðevrópskan svip.

Ákaflega kurteis yfirþjónn af gamla skólanum hafði góð tök á starfi sínu.

Matreiðslan er gamaldags, en hráefnið ferskt, enda kemur mikið af sjávarafla á land einmitt í þessari höfn. Yfirþjónninn gefur góð ráð um, hvað sé ferskt og gott í dag.

Reyktur Írlandslax með kapers og lauk var afar góður. Villisveppagrautur var einnig góður.

Soðin skata með kapers var fersk og fín. Hörpufiskur með nektarínum og kryddsósu var með afbrigðum meyr.

Rjómaís með marens og súkkulaðisósu er eftirrétta-sérgrein staðarins. Vínlisti staðarins er einn hinn bezti í landinu.

Hádegisverður kostaði £35 og kvöldverður £50 auk drykkjarfanga.

(King Sitric, East Pier, Howth, sími 832 6729)

Na Mara

Til suðurs stanzar borgarlestin við höfnina í Dun Laoghaire, þar sem er annar góður og fremur dýr fiskréttastaður, Restaurant na Mara, í matsal járnbrautarstöðvarinnar, sem er komin á þjóðminjaskrá.

Matstofan er hlýleg, einkum við skin kertaljósa. Þykk teppi eru á gólfi og veggir eru mildilega laxableikir. Þjónusta er afar góð og gefur greinargóðar upplýsingar um það, sem er á boðstólum.

Við prófuðum humarsúpu, sjávarréttapylsu, grillaðan kola og soðna þykkvalúru, allt saman gætilega eldað á nútímavísu. Vínlistinn er óvenjulega góður.

Hádegisverður kostaði £40 og kvöldverður £60 auk drykkjarfanga.

(Restaurant na Mara, 1 Harbour Road, Dun Laoghaire, sími 280 0509)

1995

© Jónas Kristjánsson