Author Archive

Framhaldslíf

Greinar

Atlantshafsbandalagið getur komið í veg fyrir hægt andlát sitt eftir hrun óvinarins í austri. Það getur búið til ný og mikilvæg hlutverk handa sér og er að reyna það. Um mánaðamótin verður samþykkt fyrsta skrefið, sem er friðargæzla í nágrannalöndum bandalagsins.

Framkvæmdastjóri bandalagsins hefur formlega boðið Öryggisráðstefnu Evrópu aðstoð við friðargæzlu á svæðum, sem ráðstefnan nær yfir, svo sem austan hins horfna járntjalds. Þar á meðal eru Bosnía-Hersegóvína á Balkanskaga og Nagorno-Karabak í Kákasusfjöllum.

Reiknað er með, að tilboðið verði staðfest á utanríkisráðherrafundi Atlantshafsbandalagsríkjanna í Osló um mánaðamótin. Franska stjórnin hefur verið tregust í málinu, enda vill hún frekar, að friðargæzla í Evrópu verði á vegum samtaka, sem eingöngu eru evrópsk.

Hins vegar hefur komið í ljós, að enn getur engin stofnun tekið að sér störf, sem Atlantshafsbandalagið getur. Evrópubandalagið er peningastofnun, sem er máttvana í hernaðarmálum og Öryggisráðstefnan hefur ekki aðgang að neinu nothæfu friðargæzluliði.

Þýzk-franska herdeildin, sem mynduð hefur verið fram hjá Atlantshafsbandalaginu, er að allra mati ófær um að koma til skjalanna á friðargæzlusvæðum. Af þeim ástæðum er líklegt, að franska stjórnin sætti sig við, að bandalagið færi út kvíarnar á þessu sviði.

Að þessu sinni er aðeins verið að tala um friðargæzlu á svæðum, þar sem einhvers friðar er að gæta. Það þýðir, að fyrst þarf að koma á friði með samkomulagi, svo að hægt sé að senda hermenn bandalagsins til að varðveita þann frið, en ekki til að berjast við óvini.

Af þessu má ljóst vera, að nýtt hlutverk Atlantshafsbandalagsins mun ekki draga úr blóðbaði Serba í Bosníu. Til þess þarf aðgerðir á öðrum sviðum, svo sem algert viðskipta- og samgöngubann, svo og verndun Bosníuborga gegn loftárásum flughers Serbíu.

Átökin á Balkanskaga eru að þessu leyti eins og útþenslustefna Íraks á vegum Saddams Husseins og útþenslustefna Þýzkalands á vegum Adolfs Hitlers. Slobodan Milosevic verður ekki stöðvaður með neinum samningum, hvort sem hann undirritar þá eða ekki.

Kosturinn við útvíkkun á verksviði Atlantshafsbandalagsins er, að hún getur leiðzt út í, að bandalagið taki að sér að gæta loftsins yfir Bosníu-Hersegóvínu og Króatíu, svo að flugher Serbíu geti ekki athafnað sig. Þetta er skref út fyrir hefðbundna friðargæzlu.

Bandaríkjastjórn vill útvíkkun á verksviði Atlantshafsbandalagsins fremur en að til skjalanna komi evrópskar stofnanir á sama sviði. Auk þess getur slík útvíkkun dregið úr þrýstingi bandarískra þingmanna til samdráttar á þátttöku Bandaríkjanna í bandalaginu.

Að undanförnu hafa fulltrúar Bandaríkjastjórnar, sem áður studdu sambandsstefnu Serbíu gegn sjálfstæðisstefnu balkanskra þjóðríkja, snúið svo gersamlega við blaðinu, að James Baker utanríkisráðherra er orðinn manna harðorðastur um villimennsku Serbíustjórnar.

Hingað til hefur Atlantshafsbandalagið verið félagsskapur um gagnkvæma hernaðaraðstoð, ef ráðizt er á eitt aðildarríkjanna. Ólíklegt er orðið, að þess hlutverks verði mikil þörf í náinni framtíð. Bandalagið getur því valið um hægt andlát eða nýtt hlutverk í friðargæzlu.

Svæðisbundin upplausn austan hins horfna járntjalds gefur Atlantshafsbandalaginu von um framhaldslíf, sem getur orðið Evrópu jafn gagnlegt og fyrra líf þess var.

Jónas Kristjánsson

DV

Misgerðarmenn

Greinar

Ábyrgð manna á gerðum sínum er ekki minni en annarra, þótt þeir hafi af þeim meira samvizkubit en hinir. Alþingismennirnir, sem studdu nýju lögin um lánasjóð námsmanna bera allir á þeim jafna ábyrgð, Alþýðuflokks- jafnt og Sjálfstæðisflokksþingmenn.

Sama er að segja um einstaka þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sem sagðir eru hafa stutt lögin með meiri semingi en hinir. Sérhver þeirra hafði eitt atkvæði og það eitt gildir, en ekki yfirlýsingar sumra þeirra þess efnis, að þeir beri á þessu minni ábyrgð en aðrir.

Frestun á greiðslu námslána í ársþriðjung er ekki tilraun til að koma á meiri sjálfsaga námsmanna, heldur er hún frestun skuldbindinga ríkisins fram yfir áramót, svo að þær komi ekki fram á þessu fjárlagaári. Þetta er alsiða í illa reknum gjaldþrotsfyrirtækjum.

Ríkisstjórnin er tæpt stödd í fjármálum og lítur á það sem himnasendingu að fresta greiðslu nokkur hundruð milljóna króna fram á næsta ár. Þetta linar peningalegar þjáningar hennar einu sinni, svo sem hæfir ríkisstjórn, sem er svo skammsýn, að telja má hana einnota.

Frestun á greiðslu námslána felur ekki í sér, að námsmenn þurfi aðeins einu sinni að slá bankalán í hálfan vetur, heldur verða þeir alla sína námstíð að bera slík lán á bakinu, því að samkvæmt lögunum tekur ein frestun námslána við af annarri, unz námi þeirra er lokið.

Enn einn misskilningurinn í máli þessu er, að fyrirgreiðsla hins opinbera hafi fyrir setningu nýju laganna verið meiri en tíðkast í öðrum löndum. Menn gleyma því þá, að hér á landi eru nánast engir námsstyrkir, sem eru töluverðir hjá flestum nágrannaþjóðum okkar.

Vel er við hæfi, að þeir þingmenn, sem á sínum tíma nutu ódýrra námslána, sem brunnu til agna í verðbólgu, skuli nú taka höndum saman um að sætta sig ekki við, að námsmenn borgi sín lán til baka ekki bara í jafngildum verðmætum, heldur raunvexti í ofanálag.

Af framansögðu má í fyrsta lagi ráða, að Sturla Böðvarsson og Össur Skarphéðinsson bera ekki minni ábyrgð en Davíð Oddsson á nýju lögunum. Í öðru lagi, að markmið laganna er fyrst og fremst að lina peningaskort ríkisstjórnarinnar með einnota bókhaldsaðgerð.

Í þriðja lagi, að ríkisstjórnarmeirihlutinn færði vandann til hliðar með því að gera hann að samfelldum vanda bankanna, ekki bara á einu hausti, heldur um aldur og ævi. Og í fjórða lagi, að ekki er rétt, að gamla kerfið hafi verið hliðhollara námsmönnum en útlend kerfi eru.

Gamla kerfið var gott eins og það var og ekki meiri lúxus fyrir þjóðfélagið en kerfi annarra þjóða. Skaðlegt er að bæta raunvöxtum ofan á verðtryggingu lánanna og skaðlegt er að fresta útborgun til loka námsanna.

Afleiðing nýju laganna verður fyrst og fremst, að stéttaskipting vex hraðar en áður. Ráðherrasynir munu fara í dýra skóla í útlöndum, en börn einstæðra munu ekki treysta sér til langskólanáms. Nýju lögin eru samin í forherðingu nýríkrar yfirstéttar í landinu.

Um leið eru nýju námslánalögin liður í tilraunum stjórnvalda til að vernda velferðarkerfi gæludýra í atvinnulífinu með því að draga úr velferðarkerfi almennings. Á ýmsan slíkan hátt er fjármagn flutt í landbúnaðarhítina, sem er þessari ríkisstjórn mjög kær.

Að loknu illu verki á Alþingi er ekki annað eftir en að óska þess, að stjórnarflokkarnir og þingmenn þeirra muni fá verkalaun við hæfi, þegar tíma líða fram.

Jónas Kristjánsson

DV

Herinn fer og mangið með

Greinar

Brottfararsnið er komið á varnarliðið á Keflavíkurvelli. Orrustuþotum þess hefur verið fækkað um þriðjung og ratsjárþotur þess hverfa héðan í sumar. Jafnframt er afturkippur kominn í ráðagerðir um framkvæmdir í stöðinni. Þess munu sjást merki á næsta ári.

Bandaríska varnarliðið er smám saman að leka héðan, einmitt þegar lagzt hafa af nærri hálfrar aldar deilur um veru þess. Loksins þegar andstaðan gegn því hefur hjaðnað niður í næstum ekki neitt, er það byrjað að tygja sig brottfarar, svo sem þotufækkunin sýnir.

Svokallaðir sérfræðingar Íslendinga í öryggismálum héldu í janúar ráðstefnu um, að gildi herstöðvarinnar á Keflavíkurvelli hefði ekkert minnkað. Þetta umræðuefni var fjarri sanni, svo sem betur hefur komið í ljós á síðustu mánuðum. Gildi hennar hefur í raun hrapað.

Treglega hefur gengið að fá mannvirkjasjóð Atlantshafsbandalagsins til að kosta frekari framkvæmdir á Keflavíkurvelli á næsta ári og næstu árum. Sendimenn hafa farið sníkjuferðir til Bruxelles, en ekki haft árangur sem erfiði. Framtíð varnarliðsframkvæmda er í voða.

Ekki bætir úr skák, að minnkað gildi herstöðvarinnar á Keflavíkurvelli hefur dregið úr vilja bandalagsþjóða okkar til að sætta sig við sérkennilegt fyrirkomulag varnarliðsframkvæmda hér á landi. Þær heimta núna alþjóðleg útboð í stað einokunar Aðalverktaka.

Hermangið flýtti þannig fyrir dauðateygjum varnarliðsins. Mangið var alltaf ósiðlegt og ekki samboðið okkur, en útlendingar sættu sig við það, þegar kalda stríðið stóð, til að auka hagsmuni íslenzkra aðila af dvöl varnarliðsins og af aðild að Atlantshafsbandalaginu.

Það er eins gott, að við gerum okkur grein fyrir, að næsta áfall á eftir samdrætti fiskistofna og aflakvóta verður tekjumissir og atvinnumissir á Suðurnesjum. Sú kreppa mun byrja fyrir alvöru á næsta ári, svo að tímabært er að reyna að mæta henni af skynsemi.

Með hverjum mánuði, sem líður, minnka líkur á, að kommúnistar geti bylt nýju stjórninni í Rússlandi. Með hverjum mánuði, sem líður, verður ótrúlegra, að Bandaríkin og Atlantshafsbandalagið telji sig hafa ráð á að reka herstöð langt frá helztu ólgusvæðum heimsins.

Líklegt er, að bandarískir þingmenn sjái sér aukinn hag í að krefjast heimflutnings bandarískra hermanna frá útlöndum, þegar þeir átta sig betur á, að kalda stríðinu er lokið og útivistin kostar morð fjár. Einn góðan veðurdag láta þeir skera niður Keflavíkurherstöðina.

Ef til vill tekst Íslendingum að sýna nágrannaþjóðunum fram á, að hér á landi megi í framtíðinni reka eins konar hernaðarlegt umferðareftirlit í, á og yfir Íslands- og Grænlandshafi; á sama hátt og borgaralega flugumferðarstjórnin á svæðinu er rekin hér á landi.

Ef grundvöllur verður fyrir hernaðarleg störf á Íslandi á næstu áratugum, munu þau nær eingöngu vera á hátækni- og tölvusviðum. Lítið verður hins vegar spurt um mannskap til að reisa flugskýli og hermannablokkir. Hefðbundið hermang er að syngja sitt síðasta vers.

Örlög ráða því, að við þurfum ekki öllu lengur að rífast um, hvort hér skuli vera her eða ekki her og hvort hér skuli vera hermang eða ekki hermang. Herinn fer og hermangið leggst niður, hvort sem einhverjum líkar betur eða verr. Við ráðum engu í þeirri framvindu.

Til marks um ódugnað landsfeðra okkar má hafa, að þeir hafa ekki reynt ráðagerðir um, hvernig mætt verði afnámi hermangs og brottflutningi varnarliðs.

Jónas Kristjánsson

DV

Vaxandi stéttaskipting

Greinar

Niðurskurður heilbrigðis- og skólamála er þegar orðinn alvarlegur og mun verða enn hættulegri á næsta ári, af því að ríkisstjórnin og stuðningsflokkar hennar ætla áfram að láta samdrátt ríkisgeirans koma niður á velferð almennings, en ekki velferð pólitískra gæludýra.

Stéttaskipting er farin að aukast hér á landi og mun aukast enn hraðar á næsta ári. Þjóðarsáttir vinnumarkaðarins hafa magnað þessa breytingu, því að þær hafa haldið 50.000 króna lágmarkslaunum í skefjum, en hleypt 500.000 króna yfirstéttinni upp í 750.000 krónur.

Skipti þjóðarinnar á atvinnuleysi fyrir verðbólgu stefna í sömu átt. Á vettvangi Reykjavíkurborgar er þegar farið að tala í alvöru um að koma upp súpueldhúsi fyrir fátæklinga, eins og rekið var í kreppunni fyrir stríð. Sú umræða lýsir umskiptunum vel.

Markaðshagfræðin að baki niðurskurðar heilbrigðis- og skólamála byggist á röksemdafærslu, sem ekki er lakari en velferðarfræðin, er hún leysir af hólmi. En um þetta gildir hið sama og um aðrar aðgerðir, að ekki er hægt að sjá fyrir ýmsar skaðlegar aukaverkanir.

Lasburða gamalmenni eru flutt milli stofnana í vondaufri leit að sparnaði í heilbrigðiskerfinu. Í vaxandi mæli verða fátæklingar að neita sér um lyf, sem eru of dýr fyrir þá. Veikt fólk er flutt af spítölum og stofnunum til að efla framleiðni sjúkrarúma og legudaga.

Skólakerfið er skorið niður á öllum stigum. Með frestun námslána og raunvöxtun þeirra er stuðlað að stéttaskiptingu, þar sem börn 50.000 króna fólksins fara á eyrina, en börn 750.000 króna fólksins fara til Harvard og Princeton. Það ferli er þegar í fullum gangi.

Markaðshagfræðin að baki atlögunnar að jafnrétti til náms kemur til með að bila, þegar þjóðin hættir að vera ein. Þegar hún klofnar í yfirstétt og undirstétt, verður ekki lengur neinn grundvöllur fyrir þjóðarsátt um aflaskipti. Þá er sáð eitri stéttahaturs og ofbeldis.

Við sjáum fordæmið í Bandaríkjunum, þar sem gráðug yfirstétt hefur notað tvo forseta í röð, Ronald Reagan og Georg Bush, til að rústa velferðarkerfi eftirstríðsáranna og færa peninga frá hinum fátæku til hinna ríku, svo að stéttaskiptingin er orðin að púðurtunnu.

Þetta kom fram í óeirðunum í Los Angeles, þar sem innibyrgt hatur og vonleysi svertingja fátækrahverfanna fékk útrás í stundaræði skemmdarverka og misþyrminga. Slíkar óeirðir hafa orðið áður og munu verða enn algengari í framtíðinni, ef stéttaskipting eykst.

Bandaríkin eru ekki lengur neinn bræðslupottur þjóða. Þau eru lagskipt, þar sem hver þjóð býr út af fyrir sig og deilir ekki sameiginlegu þjóðlífi. Milli hinna einstöku þjóða eða stétta ríkja fordómar af ýmsu tagi. Að þessu leyti eru Bandaríkin víti til að varast.

Við eigum að reyna að spyrna við fótum til að lenda ekki á slíkri braut stéttaskiptingar. Við eigum að halda uppi velferð almennings, þótt það kosti niðurskurð á velferð ýmissa pólitískra gæludýra, svo sem landbúnaðar, er kostar okkur 20 milljarða á hverju ári.

Við eigum að greiða niður skólagöngu með ýmsum hætti, svo sem með raunvaxtalausum námslánum, svo að fólk geti aflað sér menntunar til að rífa sig upp úr fátækt. Vextir ofan á verðtryggingu námslána er áfall fyrir þá stefnu, að Íslendingar verði áfram ein þjóð.

Ríkisstjórnin hefur fetað skaðlega braut, sem stefnir í átt til vaxandi stéttaskiptingar og skertrar tilfinningar fólks fyrir því, að hér búi ein þjóð í einu landi.

Jónas Kristjánsson

DV

Ótíðindi sögumanns

Greinar

Ef Morgunblaðið og siðanefnd Blaðamannafélagsins væru ráðandi öfl í Kaliforníu, hefði ekki verið sýnd í sjónvarpi mynd af barsmíðum, sem Rodney King hlaut af hálfu lögreglumanna. Ofbeldið hefði ekki komizt í hámæli og engan hefði þurft að sýkna af því.

Í heimi hræsninnar, Morgunblaðsins og siðanefndarinnar er talin ástæða til að átelja, að fjölmiðlar skuli hafa myndað og hljóðritað, þegar barnaverndarnefnd og lögregla gerðu aðför að ellefu ára dreng í Sandgerði og handtóku hann með valdi fyrir alls engar sakir.

Í þessum heimi hræsninnar kemur Morgunblaðið fram sem umboðsmaður barnaverndaryfirvalda, enda eru bæði ný og söguleg persónutengsli þar á milli. Af þessum ástæðum segir blaðið ekki frá mistökum slíkra yfirvalda, nema það sé í Tyrklandi eða Rúmeníu.

Þegar barnaverndarnefndir og lögregla handtaka ellefu ára dreng með þeim hætti, sem varð í Sandgerði, er nauðsynlegt að fjölmiðlar sýni á ljóslifandi hátt, hvílík vanvirða er á ferðinni. Ef þeir gera það ekki, er hætt við, að fólk haldi, að allt sé með felldu.

Það er ekki nýtt, að barnaverndarnefndir lendi í afglöpum af þessu tagi. Af kærumálum Barnaverndarráðs á hendur fjölmiðlum má ráða, að framvegis verði fréttir af slíkum afglöpum kærðar til siðanefndar Blaðamannafélagsins, þar sem úrskurðað verður á færibandi.

Siðanefndin er önnur stofnun, sem á langa afglapasögu að baki. Blaðamaður, sem vill vinna heiðarlega að starfi sínu samkvæmt stöðlum, sem tíðkast í löndum, þar sem blaðamennska á bezta sögu, getur ekki tekið mark á þessari siðanefnd, sem er út úr miðaldakú.

Ísland er þjóðfélag í þróun. Mjög algengt er, að réttum yfirvöldum verði á mistök í starfi, ekki síður í viðkvæmum málum en hversdagslegum. Það er hluti í ferli slíks þjóðfélags, að fjölmiðlar skýri bæði í máli og myndum frá slíkum mistökum, svo að fólk viti af þeim.

Ef opinberar stofnanir, hvort sem þær heita Barnaverndarráð eða Hæstiréttur eða Staðarhaldari í Viðey, ganga fram með þeim hætti, að vakið geti undrun almennings, er brýnt, að upplýsingar um slík mál liggi á lausu, en séu ekki þaggaðar niður af öflum hræsninnar.

Barnaverndarráði og umboðsblaði þess er auðvitað illa við, að dagblað sýni mynd af handtökuofbeldi barnaverndaryfirvalds og að útvarp láti fólk heyra grát ellefu ára drengs. En glæpurinn er ekki sögumanns frekar en fyrri daginn, heldur skipuleggjenda verknaðarins.

Fjölmiðlum ber að láta Barnaverndarráð, Morgunblað og siðanefnd ekki kúga sig í slíkum málum. Sameinuð framganga hræsnara ætti fremur að gefa fjölmiðlum tilefni til að fylgjast betur en áður með óvönduðu starfi sumra barnaverndarnefnda og Barnaverndarráðs.

Ekki er síður brýnt, að blaðamenn fari að gefa því betri gætur, hver saga siðanefndar er orðin. Í fleiri málum en þessu hefur hún komið fram sem verndari hræsninnar og kerfisins í þjóðfélaginu. Hún gat raunar um langt skeið notað Garra Tímans sem nefndarmann.

Blaðamenn eiga hvorki að hafa reglur né lögreglunefnd, sem stuðla að þögn um afglöp og aðrar uppákomur einstakra þátta stjórnkerfisins. Það er arfur frá þeim tíma, er sumir blaðamenn vildu taka þátt í fínimannsleik kerfisins og töldu sig meðal “heldra fólks”.

Uppákoma Barnaverndarráðs, Morgunblaðsins og siðanefndar er nýtt dæmi um anga af gömlum vanda, sem felst í, að sögumanni er kennt um ótíðindi.

Jónas Kristjánsson

DV

Samstarf eflir sjálfstæði

Greinar

Mikilvægt er, að þeir, sem gæta eiga hagsmuna íslenzkrar tungu í alþjóðlegum tölvustöðlum, velji rétta fundi til að sækja og missi ekki einmitt af allra mikilvægustu fundunum, þar sem úrslit ráðast um, hvort íslenzkir bókstafir séu í fyrirhuguðum stöðlum eða ekki.

Svo virðist sem evrópskum fjarskiptastaðli um textaboðkerfi hafi verið komið á fót án íslenzkra stafa, af því að hagsmunagæzlumenn Íslands sóttu ekki fundinn, þar sem ákvörðun var tekin um staðalinn. Sóttu þeir þó ýmsa fundi, sem ekki skiptu þjóðina eins miklu máli.

Annað slys af svipuðum toga er textavarp sjónvarps. Um það var settur evrópskur staðall án vitundar hagsmunagæzlumanna Íslands. Framleiðendur sjónvarpstækja þurfa því aukalega að koma íslenzku stöfunum fyrir, sem auðvitað hækkar verð tækjanna til landsins.

Tilviljanir eru farnar að ráða nokkru um stöðu íslenzkrar tungu í tölvuheimi nútímans. Ekki eru þær allar til ills. Á sínum tíma var það aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu, sem olli því, að flest tölvustýrikerfi, sem máli skipta, hafa íslenzka stafi.

Bandarísk hermálayfirvöld ákváðu að krefjast þess í tölvuútboðum sínum, að tilboðsgjafar gerðu ráð fyrir öllum stöfum allra þeirra ríkja, sem aðild ættu að Atlantshafsbandalaginu og notuðu latneska bókstafi. Þetta var gert af herfræðilegum öryggisástæðum.

Vegna þessarar tilviljunar getum við náð á þægilegan hátt í íslenzka bókstafi í flestum tölvum, sem hér fást, jafnvel þótt skipt sé á forritum eða ný afbrigði komi fram af fyrri stýrikerfum. Við erum með í veraldarstaðlinum á sjálfvirkan hátt, hver sem hugbúnaðurinn er.

Þetta þýðir ekki aðeins, að íslenzku stafirnir séu inni í hlýjunni frá Atlantshafsbandalaginu. Íslenzka stafrófsröðin er einnig inni, nákvæmlega eins og hún á að vera, með broddstöfum á réttum stöðum. Sömuleiðis eru tíma- og dagsetningar okkar og heiti krónunnar í hlýjunni.

Þetta kann að breytast, ef vægi bandarískra varnarmála og Atlantshafsbandalagsins minnkar sem viðskiptavina tölvuframleiðenda. Sum tölvustýrikerfi munu verða alþjóðlegri en önnur, allt eftir mati framleiðenda á því, hvað markaðurinn vilji kaupa.

Því er mikilvægt, að Ísland sé með á nótunum, þegar Evrópusamfélagið eða Evrópska efnahagssvæðið hyggjast setja staðla til að samræma framboð á tölvum og tölvuhugbúnaði. Aðild að Efnahagssvæðinu á að geta tryggt stöðu okkar á þessu sviði í framtíðinni.

Á slík atriði ber að líta, þegar menn kvarta um, að fjölþjóðlegar stofnanir á borð við Atlantshafsbandalagið og Efnahagssvæðið taki til sín hluta af fullveldi okkar. Í rauninni hafa þær áhrif í báðar áttir. Þær taka sumt frá okkur, en færa okkur annað í staðinn.

Það liggur í eðli samstarfs, að menn gefa og þiggja til að hagnast sameiginlega. Ef aðild okkar að evrópsku samstarfi fylgir í kjölfar aðildar okkar að Atlantshafssamstarfinu með því að styrkja stöðu íslenzkrar tungu í framtíðinni, er það þungt lóð á vogarskálinni.

Við þurfum að taka virkan þátt í evrópsku samstarfi til að tryggja stöðu íslenzkrar tungu í þeim framtíðarheimi, sem stundum er kallað rafeindaþorpið mikla, þar sem allir geta verið í tölvusambandi við alla. Annars verðum við einfaldlega að taka upp enska tungu.

Í stórum dráttum er íslenzka enn inni í hlýjunni, þótt slys hafi orðið upp á síðkastið. Þetta er eitt mesta sjálfstæðismál okkar um þessar mundir og næstu ár.

Jónas Kristjánsson

DV

Tjú, tjú, tra la la

Greinar

Ríkisstjórnin lagði einn milljarð af fé skattgreiðenda til að greiða fyrir niðurstöðu í kjaradeilunum, sem staðið hafa í tvo þriðju hluta árs. Þetta er árlegur milljarður, sem felur í sér, að niðurskurður velferðarkerfisins verður minni en orðið hefði án þessara kjaradeilna.

Um leið og verkalýðsrekendur lofuðu með undirskrift sinni að mæla með málamiðlun sáttasemjara, sem þeir kalla varnarsigur, er ríkisstjórnin að leggja fyrstu drög að fjárlagafrumvarpi næsta árs. Þar er gert ráð fyrir enn frekari niðurskurði velferðar árið 1993.

Dansinn er stiginn þannig, að fyrst sker ríkisstjórnin velferðina niður um sex milljarða. Síðan gefur hún til baka einn milljarð. Þar á eftir sker hún velferðina niður um fimm milljarða í viðbót. Þetta er dansinn: Eitt skref afturábak og fimm skref áfram, tjú, tjú, tra la la.

Hagkvæmt getur verið að stíga dans af þessu tagi til að verkalýðsrekendur geti sagzt hafa unnið varnarsigur upp á einn milljarð og lokað augunum fyrir því, að bæði á undan og eftir þessum milljarði er ríkisstjórnin að skera velferðina niður um margfaldar upphæðir.

Niðurstaða kjaradeilnanna bendir til, að þjóðarsátt sé um, að velferð almennings hafi verið orðin of mikil hér á landi, sérstaklega í heilbrigðismálum og skólamálum. Hún hafi verið meiri en svo, að þjóðin geti staðið undir henni á tímum samdráttar og atvinnuleysis.

Sjúkrahús og skólar eru stofnanirnar, sem þjóðarsátt stjórnmála og vinnumarkaðar beinist gegn. Auðvelt er að skera þær niður, því að hvorki verður sýnt fram á tölulegt samhengi milli góðs heilsufars og spítalakostnaðar né milli góðrar menntunar og skólakostnaðar.

Til dæmis er athyglisvert, að skólamenn, sem ættu að geta komið fyrir sig orði, hafa ekki megnað að sýna þjóðinni fram á, að varhugavert geti verið að skera skólagöngu, í vikulegum klukkutímum talið, langt niður fyrir það, sem tíðkast í samkeppnislöndum okkar.

Ennþá athyglisverðara er, að þjóðarsáttin felur í sér, að niðurskurðurinn eigi að beinast að velferðarkerfi almennings, en ekki að velferðarkerfi gæludýranna í atvinnulífinu. Eftir nokkur ár verður landbúnaðurinn orðinn þyngri á fóðrum en sjúkrahúsin og skólarnir.

Dæmigert fyrir ástand þjóðarsáttarinnar er, að nú á að byggja 500-600 kinda fjárhús á ríkisbúinu að Hesti til að stunda rannsóknir á verðlausri ull og til að halda uppi kjötfjallinu, sem skattgreiðendur kaupa samkvæmt búvörusamningi ráðuneytis og milliliða í landbúnaði.

Á sama tíma og ríkisstjórnin sker skóla og sjúkrahús til blóðs til að ná í tvo eða þrjá milljarða á ári eru brenndir á hverju ári um 20 milljarðar í innflutningsbanni búvöru, niðurgreiðslum, styrkjum, útflutningsbótum og búvörusamningi. Um þetta er þjóðarsátt í landinu.

Kverúlantar mega röfla um þessa 20 milljarða og kvarta inn á milli um ótímabæra fjárfestingu í 12 milljarða orkuveri í Blöndu og annað í þeim dúr. Þjóðin hlustar ekki á það, en gengur í þess stað að kjörborði stéttarfélagnna og samþykkir niðurskurð velferðar.

Svo virðist sem þjóðarsátt sé um, að ekki megi snerta velferðarkerfi gæludýra atvinnulífsins, en velferð almennings megi skera til blóðs. Svo virðist sem þjóðarsátt sé um, að 1,7% launahækkun og 50.000 lágmarkslaun séu eins konar óviðráðanleg náttúrulögmál.

Ef þjóðin sér ekki eða vill ekki sjá, hvar skera megi niður án þess að draga úr velferð almennings, hefur hún fengið þá sáttatillögu, sem hún á skilið.

Jónas Kristjánsson

DV

Evrópa heillar og fælir

Greinar

Umræða Alþingis um Evrópska efnahagssvæðið hefur ekki varpað nýju ljósi á kosti og galla samningsins milli Evrópusamfélagsins og Fríverzlunarsamtakanna. Það gildir enn, sem hér hefur áður verið sagt, að samkomulagið virðist þjóna hagsmunum Íslands sæmilega.

Allir aðilar Fríverzlunarsamtakanna líta á Efnahagssvæðið sem biðsal að Evrópusamfélaginu sjálfu, nema Íslendingar. Við höfum litið á samninginn sem endastöð, eins konar framhald á nothæfum viðskiptasamningi, sem við höfðum áður gert við Evrópusamfélagið.

Með tilkomu Efnahagssvæðisins fáum við greiðari aðgang með fleiri fiskafurðir á lægri tollum að stærsta markaði í heimi. Við njótum líka skuldbindinga, sem við tökum á herðar um að auka viðskiptafrelsi í innflutningi og innanlands til að efla íslenzka hagþróun.

Á hinn bóginn þurfum við að sýna töluverða aðgát í sambandi við hugsanleg landakaup útlendinga, hugsanlegan aðflutning erlends vinnuafls og lögsögu evrópskra dómstóla. Af veiðiheimildum þurfum við ekki að hafa áhyggjur, því að þær eru næstum því ekki neinar.

Hér í DV hefur áður verið bent á, að hluta milljarðanna, sem ríkið ver á hverju ári til landbúnaðar, mætti nota til að kaupa jarðir og jarðarhluta, heiðalönd og afréttir. Þannig getur ríkið komið í veg fyrir, að mikilvægar jarðir og lönd fari á alþjóðlegan fasteignamarkað.

Einnig hefur í DV verið bent á, að reglur um tungumálakunnáttu atvinnuumsækjenda mundu koma í veg fyrir örtröð hér af hálfu útlendinga. Við yrðum þó að hafa undanþágur frá slíkum reglum til að draga hingað aðila til að halda uppi samkeppni í fáokunargreinum.

Við þurfum að losna við einokun Flugleiða, fáokun olíufélaga, tryggingafélaga og banka. Við þurfum að koma af stað innflutningi á samkeppnisvörum í landbúnaði. Allt þurfum við þetta til að draga úr kostnaði almennings við að lifa sómasamlegu lífi hér á landi.

Við frekari rökræður um Efnahagssvæðið er brýnt að byrja að ræða í alvöru, hvort við eigum að sækja um aðild að Evrópusamfélaginu þegar á þessu ári, svo að við getum haft samflot með Norðurlöndum og stuðning af slíku samfloti. Atburðarásin er orðin svo hröð.

Hingað til höfum við talið, að við ættum ekki að ganga inn í evrópska virkið, enda væri það smíðað um aðra hagsmuni en okkar. Mestu máli skiptir þó, að líklegt er, að farsælla sé fyrir þjóðir að vera sín eigin þunga-miðja en að sækja hana til mandarína í Bruxelles.

Þótt Evrópusamfélagið hafi að mörgu leyti gefið góða raun, er það í eðli sínu stofnun, þar sem embættismenn og þrýstihópar starfa saman að viðskiptastríði við umheiminn. Evrópusamfélagið er viðskiptalega ofbeldishneigð stofnun, sem heftir alþjóðlega fríverzlun.

Annar slæmur galli Evrópusamfélagsins er landbúnaðarstefna þess, sem minnir nokkuð á hina íslenzku, þótt í smærri stíl sé að höfðatölu. Þessi stefna á töluverðan þátt í spennu milli Evrópusamfélagsins og umheimsins, svo sem fram kemur í alþjóðlegum tollaviðræðum.

Í þriðja lagi er ljóst, að við seljum ekki frumburðarrétt okkar að fiskveiðilögsögunni til að komast í Evrópusamfélagið. En við komumst ekki að raun um, hvað hangir á spýtunni á því viðkvæma sviði, nema við hefjum viðræður um hugsanlega inngöngu í samfélagið.

Skynsamlegt er að staðfesta samninginn um Efnahagssvæðið og fara í alvöru að ræða, hvort rétt sé að sækja á þessu ári um aðild að Evrópusamfélaginu.

Jónas Kristjánsson

DV

Tveir deila, einn veldur

Greinar

Þótt máltækið segi, að sjaldan valdi einn, þá tveir deili, á það ekki við um tilraunir stjórnar Serbíu og Júgóslavíuhers til landvinninga á hendur nágrannaríkjunum í vestri og norðri, Bosníu-Herzegovínu, Króatíu og Slóveníu. Ábyrgðin er nær eingöngu serbnesk.

Í Serbíu og Júglóslavíuher er síðasti útvörður kommúnismans í Evrópu. Oddviti þessara leifa af úreltu þjóðskipulagi er Slobodan Milosevic, sem hefur hangið í völdum með því að framleiða óvini í útlöndum og æsa Serba til blóðugra átaka og landvinninga gegn þeim.

Að svo miklu leyti, sem ábyrgðin á blóðbaðinu í Króatíu fyrst og síðan í Bosníu-Herzegovínu er ekki á Serbíu og Júgóslavíuher, er hún á oddvitum Bandaríkjanna, George Bush forseta og James Baker utanríkisráðherra, sem nú hafa blessunarlega snúið við blaðinu.

Í fyrrasumar var Baker í Júgóslavíu til að lýsa bandarískum stuðningi við sambandsstjórn Júgóslavíu gegn aðskilnaðarsinnum einstakra ríkja þess. Þessi afstaða var hluti af dálæti Bandaríkjamanna á útlendum sambandsríkjum, sem þeir telja æðri þjóðríkjum.

Um leið var þetta hluti af stórfelldum mistökum í bandarískri utanríkisstefnu, þar sem hið gamla var stutt gegn hinu nýja í Austur-Evrópu. Gorbatsjov var studdur gegn Jeltsín, Kreml gegn nýfrjálsum ríkjum við Eystrasalt og Júgóslavía gegn Króatíu og Slóveníu.

Þetta leiddi til, að Bandaríkin voru meðal síðustu ríkja vestursins til að viðurkenna fullveldi Eystrasaltsríkjanna og ráku áróðursherferð gegn þýzku frumkvæði að viðurkenningu Króatíu. Nú hefur Bush loksins snúið við blaðinu og styður Bosníu-Herzegovínu.

Örvæntingarfullar tilraunir vestrænna aðila til að koma á sáttum í Króatíu hafa vakið þá til skilnings á, að vandamálið á Balkanskaga er ekki ótímabært sjálfstæði þjóðríkja, heldur Milosevic Serbíuforseti, kommúnistaflokkur Serbíu og stjórnendur Júgóslavíuhers.

Þessar staðreyndir hafa frá upphafi verið ljósar leiðarahöfundum DV. Það er því ánægjuefni, að bandarískir fréttaskýrendur eru nú loksins komnir á sömu skoðun heilu ári síðar og hafa hvatt stjórnvöld sín til að taka þá afstöðu, sem nú er að mótast vestanhafs.

Lykillinn að kúvendingu vestrænna viðhorfa fólst í árásunum fyrr í vetur á perlu Adríahafsins, Dubrovnik. Þar sýndu Milosevic, kommúnistarnir og herstjórarnir, að þeir eru svo austrænir og forstokkaðir, að þeir beita sprengjum beinlínis gegn vestrænni menningarsögu.

Að undanförnu hefur Júgóslavíuher haldið uppi einhliða stríði gegn almenningi í Bosníu-Herzegovínu á sama hátt og áður gegn almenningi í Króatíu. Gerðar hafa verið loftárásir á höfuðborgina, Sarajevo. Í þessu felst ekki ágreiningur, heldur einhliða stríð.

Um leið hefur Milosevic staðið fyrir því að trylla serbneska íbúa í Bosníu-Herzegovínu til ofbeldis á sama hátt og hann var áður búinn að gera í Króatíu. Til þess hefur hann notað fjölmiðlun, sem minnir á Adolf Hitler, sífelldar og endurteknar lygasögur og rangfærslur.

Þannig hefur kommúnistum Serbíu tekizt að ná þriðjungi Króatíu á sitt vald og stefna nú að hinu sama í Bosníu-Herzegovínu. Gegn útþenslunni duga engin vettlingatök. Setja þarf Serbíu í algert hafn- og flugbann, vopna- og viðskiptabann, svo og pólitískt bann.

Vestrinu ber að slíta stjórnmálasambandi við kommúnistana í Belgrad og einangra þá efnahagslega, svo að þeir glati mætti og möguleikum til ofbeldis og útþenslu.

Jónas Kristjánsson

DV

Sjálfskaparvíti

Greinar

Tæplega fjórða hver króna, sem Íslendingar afla sér með utanríkisviðskiptum, fer til að greiða vexti og afborganir af erlendum lánum. Langtímaskuldir þjóðarinnar nema um þessar mundir 190 milljörðum króna. Þar af er hlutur hins opinberra 107 milljarðar króna.

Helmingur af skuldum hins opinbera í útlöndum, rúmlega 50 milljarðar króna, stafar af óarðbærum framkvæmdum, sem varað hafði verið við og voru umdeildar áður en farið var út í þær. Hinn helmingurinn er óbein afleiðing peningabrennslu í landbúnaði.

12,6 milljarða orkuver við Blöndu og 7 milljarða orkuver við Kröflu eru fyrirferðarmikil í þessari skuldasúpu. Samanlagt jafngilda þessi tvö óþörfu orkuver samt varla hinni rúmlega 20 milljarða króna árlegri peningabrennslu í hefðbundnum og hjartfólgnum landbúnaði.Bann við innflutningi búvöru kostar þjóðfélagið 13-15 milljarða króna á hverju ári samkvæmt reikningum nokkurra hagfræðinga í Háskólanum og Seðlabankanum. Þeir reiknuðu þetta hver fyrir sig og notuðu mismunandi aðferðir, en komust að svipaðri niðurstöðu.

Við þetta bætast 7,5 milljarða króna útgjöld hins opinbera í beina styrki til hefðbundins landbúnaðar, uppbóta á útflutta búvöru og niðurgreiðslna, sem væru óþarfar, ef innflutningur ódýrrar búvöru væri leyfður. Alls er brennslan í landbúnaði yfir 20 milljarðar á ári.

Árleg brennsla peninga í landbúnaði jafngildir þannig mistökum áratugarins í byggingu óþarfra orkuvera. Hún jafngildir líka öllum umdeildum samgöngumannvirkjum langs tímabils, bæði þeim, sem lokið er eða hafin eru, og hinum, sem fyrirhuguð eru.

Borgarfjarðarbrúin kostar 2,1 milljarð, Leifsstöð 4,9 milljarða og ýmis vegagöng, einkum í Ólafsfjarðarmúla, 2,3 milljarða. Verið er að grafa 3,2 milljarða göng á Vestfjörðum og ráðgerð eru 7 milljarða göng á Austfjörðum. Samtals eru þetta 19,5 milljarðar.

Ekki er aðeins hægt að bera árlega verðmætabrennslu landbúnaðar saman við óþarfar virkjanir áratugarins og umdeild samgöngumannvirki. Einnig má bera hana saman við 16 milljarða króna tap opinberra sjóða af bjartsýniskasti fiskeldis og loðdýraræktar.

Þetta tap sjóðanna hefur ekki allt verið fært til bókar, en verður ekki umflúið. Mikilvirkastir á þessu sviði eru Atvinnutryggingarsjóður og Hlutafjársjóður, en Verðjöfnunarsjóður og Byggðastofnum komu líka til skjalanna. Tap ríkisbankanna er utan við þessar tölur.

Verðmætabrennsla í orkuverum og samgöngumannvirkjum, nýjum atvinnuvegum og hefðbundnum landbúnaði er ekki sök stjórnmálamanna og embættismanna einna. Varað var við öllu þessu á sínum tíma, en þjóðin kaus að taka ekki mark á úrtölumönnum og nöldrurum.

Athyglisverðast er, að mikill meirihluti þjóðarinnar er beinlínis fylgjandi dýrasta þætti verðmætabrennslunnar, banni við innflutningi búvöru, og sættir sig við útgjöld ríkisins til landbúnaðar, önnur en útflutningsuppbætur. Þjóðin vill láta nauðga sér á þennan hátt.

Meðan Íslendingar hafa slík sjónarmið, er ekki hægt að búast við, að raunvextir lækki úr þeim 13%, sem þeir eru núna. Peningabrennsla kallar nefnilega á peningahungur, sem endurspeglast í háum raunvöxtum.

Meðan fólk hefur slík sjónarmið, má ekki búast við bættum lífskjörum félagsmanna í stéttarfélögum. Peningar, sem brenndir eru, nýtast nefnilega ekki til að bæta kjör fólks. Menn geta sjálfum sér um kennt.

Jónas Kristjánsson

DV

Náttúruóbeit

Greinar

Nokkur hætta er á, að aukið verði við byggð á vestanverðu Seltjarnarnesi og lagður hringvegur um nesið út fyrir Nesstofu. Bæjarstjóri Seltjarnarness heldur fast í slíkar hugmyndir, sem eru í aldarfjórðungsgömlu og gersamlega úreltu aðalskipulagi höfuðborgarsvæðisins.

Nú á tímum hefur náttúruvernd öðlast stærri sess í hugum fólks en var fyrir aldarfjórðungi. Þungavigtarfólk í stjórnmálaflokki bæjarstjórans hefur skorið upp herör gegn áformum hans um hringveg og aukna byggð við Nesstofu og lagzt á sveif með minnihlutanum.

Þótt margt hafi verið vel gert í bæjarmálum Seltjarnarness á rúmlega aldarfjórðungs ferli bæjarstjórans, má undanskilja einn málaflokk. Það er náttúruvernd, sem af einhverjum óskýrðum ástæðum hefur farið fyrir brjóstið á honum. Um það eru því miður mörg dæmi.

Nýlega lét bæjarstjórinn setja svokallaðan varphólma í Bakkatjörn, sem er á náttúruminjaskrá. Hann gerði það án þess að leita umsagnar viðkomandi bæjarnefndar og án sérfræðilegrar aðstoðar. Afleiðingin er töluvert rask, sem líklegt er, að hafi skaðleg áhrif á fuglalíf.

Ekki alls fyrir löngu lét bæjarstjórinn ýta jarðvegi yfir setlög og steingervinga frá síðjökultíma við Svartabakka. Þessi setlög voru á náttúruminjaskrá og eru dæmi um, að náttúra, sem er á náttúruminjaskrá, virðist fara sérstaklega í taugar bæjarstjórans.

Í fyrra lét bæjarstjórinn ýta jarðvegi yfir skógræktarreit Kvenfélags Seltjarnarness vestan við íþróttavöll bæjarins. Um þetta hafði hann engin samráð við neinn, ekki frekar en núna, þegar hann lætur aka hundruðum hlassa af mold í sjóvarnargarð við Norðurströnd.

Bæjarstjórinn hefur leikið Valhúsahæð mjög illa. Þar voru áður jökulsorfnar klappir, náttúrulegur gróður og útsýni um allan sjóndeildarhinginn. Nú hefur öllu verið umturnað á hæðinni, reist þar hús og mannvirki, og komið fyrir íþróttavelli, sem nánast aldrei er notaður.

Árásir bæjarstjórans á náttúruna beinast nú að svæðinu milli Nesstofu og Gróttu. Þar hefur verið fölbreytt líf fjörufugla og votlendisfugla, sem er á undanhaldi vegna aukinnar byggðar. Þarna hafa verið æðarfugl, maríuerla, þúfutittlingur, tjaldur og músarrindill.

Seltjarnarnes er í hópi þeirra sveitarfélaga, sem hæst hlutfall hafa húsa og gatna af heildarflatarmáli. Bæjarfélaginu ber engin þjóðfélagsleg skylda til að halda áfram að þenja út byggð í því takmarkaða rými, sem enn er eftir. Nægar byggingalóðir eru í nágrannabæjunum.

Alvarlegt ástand umhverfismála á Seltjarnarnesi er ekki bæjarstjóranum einum um að kenna. Kjósendur bera ábyrgð á honum og hafa látið framkvæmdagleði hans möglunarlítið yfir sig ganga. Seltirningar sem heild eru samsekir í slysunum, sem hér hefur verið lýst.

Nú eru sem betur fer að koma í ljós merki þess, að spyrnt verði við fótum. Bæjarstjórinn hefur loksins gengið of langt gegn náttúruvernd og klofið sinn eigin stjórnmálaflokk. Búast má við, að meirihluti kjósenda á Seltjarnarnesi sé andvígur frekara raski hans.

Tímarnir hafa breytzt síðan bæjarstjórinn gerðist einræðisherra á Seltjarnarnesi fyrir rúmum aldarfjórðungi. Þegar einræðisherrar hætta að geta lagað sig að nýjum tímum og nýjum áherzlum, getur komið brestur í einræðið, svo sem nú hefur orðið á Seltjarnarnesi.

Vonandi leiðir innanflokksuppreisnin á Seltjarnarnesi til þess, að í eitt skipti fyrir öll verði komið í veg fyrir frekari náttúruspjöll af hálfu bæjarstjórans.

Jónas Kristjánsson

DV

Sagnfræði sigurvegara

Greinar

Þegar gleymst hafa fréttir af vanáætlunum og bruðli við ráðhúsið í Tjörninni, mun standa eftir hús, sem er látlaust að utan og fagurt að innan. Hvatamönnum og athafnamönnum verksins verður hampað í framtíðinni, en gagnrýnendur og úrtölumenn munu gleymast.

Sagnfræðin stendur með sigurvegurum, ekki bara þeim, sem hafa styrjaldir að baki sér, heldur líka hinum, sem hafa mannvirki á samvizkunni. Ef mannvirkin eru sómasamlega gerð og þjóna hlutverki sínu, verður ekki spurt um mistök og kostnað við gerð þeirra.

Ef orkuverið við Kröflu hefði fengið að þjóna hlutverki sínu og fengið að framleiða orku með fullum búnaði og afköstum, væri ekki lengur fjallað um það sem minnisvarða um rugl, nema þá af óforbetranlegum sérvitringum. Þá má setja brjóstmyndir í anddyri þess.

Meðan orkuverið í Blöndu fær ekki viðskiptavini að orku sinni, geta gagnrýnendur þess bent á, að það kostaði meira en tólf milljarða, hefur þegar hækkað orkuverð til almennings í landinu og spillt afkomu Landsvirkjunar um heilan milljarð króna á hverju ári.

Er orkuverið við Blöndu verður komið í eðlilegan rekstur, verða settar upp brjóstmyndir af athafnamönnum verksins, stjórnarformönnum og forstjórum Landsvirkjunar og riddurum íslenzkrar byggðastefnu, en ekki af þeim, sem vöruðu við ótímabærri framkvæmd.

Í ráðhúsinu nýja munu safnast brjóstmyndir af borgarstjórum, en ekki af þeim, sem spurðu, hvers vegna hús, sem samþykkt var að reisa á þeim forsendum, að það mundi kosta 700 milljónir, var komið í 3300 milljónir við opnunina og á eftir að fara í 3500 milljónir.

Grimmd sagnfræðinnar verður enn sýnilegri í Perlunni, sem er fagurt verðlaunahús og í þann veginn að verða einkennistákn Reykjavíkur. Athafnamenn og hvatamenn þess verks verða í framtíðinni vegsamaðir fyrir stórhug og framsýni, smekkvísi og dugnað.

Þá verður ekki lengur spurt, hvort þörf hafi verið á Perlunni. Þá verður ekki lengur spurt, hvers vegna notendur hitaveitu ættu að greiða fyrir slíkt hús. Og þá verður ekki heldur spurt, hvers vegna vaðið var á súðum í framkvæmdum án peningalegrar yfirsýnar.

Þegar sagan er að baki, er nánast útilokað að fjalla um, hvað hefði gerzt, ef mannvirki af því tagi, sem hér hefur verið fjallað um, hefðu ekki verið reist. Sagnfræðin hefur ekki góð tæki til að mæla árangur í viðtengingarhætti; árangur af því, ef ekki hefði verið framkvæmt.

Engin leið er að meta tjón skattgreiðenda og neytenda af slíkum framkvæmdum eða arðsemi annarra athafna, sem hefðu komið í stað þeirra, til dæmis til eflingar á getu þjóðarinnar til að afla sér viðurværis og lífskjara í framtíðinni. Um slíkt er nánast tómt mál að tala.

Á sínum tíma var gagnrýnd brú yfir Borgarfjörð og kvartað um, að hún kostaði á borð við slitlag á hálfum hringveginum. Sömu úrtölur heyrast nú út af borun fjalla á afskekktum stöðum. Þessi gagnrýni mun lifa, meðan hringvegurinn hefur ekki verið lagður slitlagi.

Þegar slitlagið verður komið allan hringinn, munu gleymast hremmingar af seinkun þess. Athafnamönnum Borgarfjarðarbrúa og vegagata í fjöllum verður ekki lengur kennt um að hafa tafið varanlegt slitlagt með tilfærslu peninga til rándýrra gæluverkefna.

Smám saman breytir hin grimma sagnfræði vanáætlunum, bruðli og fínimannsleik í glæsileg mannvirki með brjótsmyndum hvatamanna, en ekki nöldrara.

Jónas Kristjánsson

DV

Hávaðamengun

Greinar

Símaviðskiptavinir þurfa oft að bíða nokkra stund eftir samtali í símakerfi fyrirtækja og stofnana. Þeir eiga í auknum mæli á hættu að sæta áreitnum og skipulegum hávaða meðan þeir bíða. Hávaðinn kemur yfirleitt frá útvarpsstöðvum, sem tengd eru símakerfum.

Þetta virðist fyrst og fremst gert, af því að tæknin gerir það kleift. Ekki stafar þetta af því, að viðskiptavinir telji þetta þægilegt eða telji þögnina svo óþægilega, að þeir taki áreitinn og skipulegan hávaða fram yfir hana. Ótti við þögn er ennþá minnihlutaeinkenni.

Að vísu er sumt fólk, einkum ungt fólk, svo innantómt og háð áreitnum og skipulegum hávaða, að það fer að titra af taugaveiklun, ef það heyrir þögn. Slíkir fíklar róast ekki fyrr en sett er í gang útvarpstæki eða annað tæki, sem framleiðir áreitinn og skipulegan hávaða.

Þetta kemur niður á hinum óbrengluðu. Ekki er einu sinni friður fyrir hávaðafíklum í heilsuræktarstöðvum, þar sem þreyttir félagsmenn stéttarfélaga endurhæfa sig með líkamlegri þjálfun. Stjórnendur slíkra stöðva ganga í lið með hávaðafíklum gegn eðlilegu fólki.

Þetta gera þeir með því að útvarpa sjálfir þessum áreitna og skipulega hávaða og með því að veita aðgang að útvarpstækjum, þar sem þeir ráða ferðinni, er vilja skrúfa hávaðatakkana sem hæst, þótt þeir séu í miklum minnihluta meðal viðstaddra viðskiptavina.

Fólk þarf að átta sig á, að eðlilegt og upprunalegt ástand felst í þögn og ýmsum óhjákvæmilegum hljóðum, svo sem brimgný, goluþyt og lækjanið, en að hinn áreitni og skipulegi hávaði úr útvarps- og hljómflutningstækjum er mengun á hinu eðlilega og upprunalega ástandi.

Á tímum tæknialdar er engin ástæða til að þurfa að þola slíka hávaðamengun. Með vasatækjum, sem kosta 2000-4000 krónur, og heyrnartækjum, er kosta 100-200 krónur, getur hver, sem óskar eftir fráviki frá þögn, haft þann hávaða, er hann kærir sig helzt um.

Í fyrirtækjum og stofnunum, þar sem sumir starfsmenn og viðskiptamenn vilja áreitinn og skipulegan hávaða, ættu þeir að geta öðlazt hann með hjálp slíkra tækja og án þess að trufla hina, sem enn eru óbrenglaðir að þessu leyti. Þannig er víða tekið á málinu.

Fráleitt er að telja rétt hávaðafíkla meiri í samfélaginu en hinna. Fráleitt er að hafa á almannafæri tæki, sem menn geta gengið í til að framleiða áreitinn og skipulegan hávaða. Og fráleitt er að útvarpa slíkum hávaða um opin hátalarakerfi eða inn á símalínur.

Á þeim stöðum, þar sem búast má við komu fólks, er sækist eftir áreitnum og skipulegum hávaða og getur ekki án hans verið, er hægt að selja 2000 króna vasatæki með einnota, 100 króna heyrnartólum, svo að það trufli ekki annað fólk með hávaðafíkn sinni.

Eðlilegt er og fyllilega tímabært, að um áreitna og skipulega hávaðamengun séu settar reglur á borð við aðrar reglur um mengunarvarnir. Það er verðugt verkefni fyrir aðgerðalítið umhverfisráðuneyti, ef það nennir að sinna öðru en ferðaþjónustu til Rio de Janeiro.

Á meðan er rétt, að eðlilegt fólk beiti þrýstingi í málinu með því að draga úr viðskiptum við fyrirtæki og stofnanir, sem varpa áreitnum og skipulegum hávaða um sali og símalínur og jafnvel út á stéttar, en beina þeim að fyrirtækjum, sem virða rétt fólks til þagnar.

Við megum ekki vera svo þjökuð af aldagamalli kúgun, að við gefum hávaðafíklum bardagalaust eftir einn af mikilvægari þáttunum í friðhelgi einkalífsins.

Jónas Kristjánsson

DV

Bændur hafna lausagöngu

Greinar

Viðhorf fólks í sveitum til hefðbundins landbúnaðar breytist smám saman, þegar þar þróast nýir og arðbærari atvinnuhættir, sem eru lítið eða ekkert á herðum neytenda og skattgreiðenda. Ný sjónarmið í sveitum eiga samleið með sjónarmiðum fólks í þéttbýli.

Í Ölfushreppi hefur meirihluti sveitafólks ritað undir áskorun um hömlur á lausagangi sauðfjár. Þetta fólk vill, að sauðfjáreigendur, sem eru á 10-20 bæjum í sveitinni, girði kringum fé sitt, svo að það verði ekki til vandræða í almenningslöndum eða á landi annars fólks.

Undirskriftafólkið hefur margt hvert horfið frá hefðbundnum búskap, sem byggist á lausagöngu, og hallað sér að öðrum búgreinum, svo sem ferðaþjónustu, garðyrkju og hrossarækt, svo og annarri atvinnu, sem líkist hverri annarri atvinnu í þéttbýlisstöðum landsins.

Það hefur lengi vakið furðu þeirra, sem ekki stunda lausagöngu búfjár, að meirihlutinn skuli þurfa að girða eigur sínar til að verjast vágestum hins hefðbundna landbúnaðar, en minnihlutinn skuli komast upp með að hleypa sauðfé sínu á vegi og viðkvæman gróður.

Nágrannar sauðfjárbænda í sveitum sæta þessum vandræðum í meira mæli en þéttbýlisfólk. Undirskriftirnar úr Ölfusi sýna í hnotskurn, hver þróunin er. Smám saman mun bann við lausagöngu búfjár breiðast frá þéttbýli yfir í sveitir nýrra atvinnuhátta.

Sömu bændur og stóðu fyrir undirskriftum Ölfusinga eru að berjast fyrir banni við lausagöngu búfjár í öllu landnámi Ingólfs, það er að segja Reykjavík, Reykjaneskjördæmi og í Árnessýslu vestan Ölfusár. Afturhaldið í landinu getur ekki lengi staðið gegn slíku banni.

Þegar afnumið hefur verið bann við innflutningi hefðbundinnar búvöru og lagðar niður framleiðsluhvetjandi aðgerðir á borð við útflutningsuppbætur, niðurgreiðslur og ýmsa beina styrki og fyrirgreiðslur, þarf þjóðin ekki nema brot af þeim sauðfjárfjölda, sem nú er í landinu.

Slíkar aðgerðir eru brýnar, af því að þjóðin mun fyrr eða síðar uppgötva, að hún hefur ekki ráð á að brenna 20 milljörðum króna árlega í innflutningsbanni og framleiðsluhvetjandi aðgerðum í hefðbundnum landbúnaði, heldur þurfi hún að nota þessa peninga í annað.

Af þessu leiðir, að þjóðin á að geta losað sig við sauðfé úr nágrenni þéttbýlis, úr sveitum nýrra atvinnuhátta og af viðkvæmum móbergssvæðum, þar sem nú ríkir landeyðing, svo sem á afréttum Þingeyjarsýslu, Gullbringusýslu, Árnessýslu og Rangárvallasýslu.

Meðan eldgos og frost, vatn og vindar voru ein um landspjöll hér á landi, var Ísland allt viði vaxið milli fjalls og fjöru og landnámsmenn gerðu meira að segja til kola á Kili, svo sem sést af fornleifum og jarðvegssýnum. Það þurfti sauðfé og öxi til að eyðileggja landið.

Þótt margt sé vel gert í landgræðslu, erum við enn á undanhaldi fyrir landeyðingu. Árlega tapast um 1000 hektarar gróðurs umfram það, sem græðist að nýju. Lausagöngubann búfjár er mikilvægur þáttur í að snúa þessu við og endurheimta gróðurfar landnámsaldar.

Bann við lausagöngu búfjár í landnámi Ingólfs mun fljótt hafa hagstæð áhrif á gróður á mjög stóru svæði, sem er afar viðkvæmt, allt suðvestur frá Reykjanestá norðaustur að Þingvöllum. Á þessu svæði eru meðal annars illa farnir afréttir Ölfuss og Grafnings.

Þegar bændur eru sjálfir farnir að sjá, að þeir skaðast af lausagöngu búfjár, er vonandi þess ekki langt að bíða, að heilum landshlutum verði lokað fyrir ágangi.

Jónas Kristjánsson

DV

Einkavæðing á villigötum

Greinar

Frumvarpið um breytingu ríkisbanka í hlutafélög hefur mætt harðri andspyrnu í stjórnarflokkunum, einkum í Alþýðuflokknum, þótt skýrum stöfum segi í stjórnarsáttmála, að þetta skuli gera. Mótbyrinn stafar af, að einkavæðing hefur fengið á sig illt orð.

Dæmi Bifreiðaskoðunar Íslands vegur þungt á metunum. Þar var dæmigerðri hallærisstofnun hins opinbera breytt í einkaokurbúlu í skjóli ríkisverndaðrar einokunar. Nú á að fella þessa einokun niður, en skaðinn af hlutafélaginu er skeður í almenningsálitinu.

Í huga fólks eru líka efasemdir um nokkur önnur nýleg einokunarfyrirtæki, sem rekin eru í hlutafélagaformi. Dæmi um það eru Sorpa og Endurvinnslan, sem hafa gert almenningi á ýmsan hátt flóknara að losna við úrgang, svo sem sýnir dæmið um gömlu jólatrén.

Umræðan um svonefndan kolkrabba hefur líka valdið mótbyr. Fólk sér til dæmis fyrir sér, að hlutabréf í núverandi ríkisbönkum féllu í skaut aðila á borð við Íslenzka aðalverktaka, Eimskipafélagið, Skeljung og Sjóvá-Almennar, sem séu eins konar ríki í ríkinu.

Draga má í efa, að þjóðarsátt sé um að einkavæða ríkisfyrirtæki. Miklu nær væri að tala um að markaðsvæða þau. Fólk vill ekki, að ríkiseinokun sé breytt í einkaeinokun, heldur að verð á vöru og þjónustu verði lækkað með því að markaðsvæða ríkisfyrirtæki.

Slíkum árangri má ná á ýmsan hátt. Það er unnt með breytingu ríkisfyrirtækja í hlutafélög og sölu hlutafjárins. En einnig má ná slíkum árangri á allt annan hátt; með því að leyfa erlendum fyrirtækjum að keppa við einokunar- eða fáokunarstofnanir og -fyrirtæki.

Sala Ríkisskipa hefur farið vel af stað og leitt til aukinnar samkeppni í vöruflutningum og lægra verðs á sumum sviðum. Koma Scandia á innlenda tryggingamarkaðinn hefur leitt til aukinnar samkeppni í tryggingum og lægra verðs á sumum tryggingum almennings.

Einkafyrirtæki, sem starfa í skjóli ríkisins, eru ekki betri en hliðstæð ríkisfyrirtæki. Það er markaðsvæðingin, sem skilar þjóðfélaginu arði, ekki einkavæðingin ein út af fyrir sig. Þetta höfðu menn ekki í huga, þegar þeir hleyptu Bifreiðaskoðun Íslands lausri á almenning.

Ráðagerðum ríkisstjórnarinnar um einkavæðingu virðast ekki fylgja neinar áætlanir um að markaðsvæða einkaeinokunina, hvort sem hún er hjá Íslenzkum aðalverktökum, Flugleiðum, vinnslu- og dreifingarstöðvum landbúnaðar eða bara hjá landbúnaðinum sjálfum.

Eindregin friðhelgi einkaeinokunar vekur grunsemdir um, að markmið einkavæðingar ríkisfyrirtækja sé ekki markaðsvæðing þeirra í þágu almennings, heldur einkavæðing einokunarinnar, svo að ýmsir armar kolkrabbans geti makað krókinn í stað ríkisins sjálfs.

Af ýmsum slíkum ástæðum er eðlilegt, að margir, þar á meðal forustufólk í Alþýðuflokknum, telji brýnna að setja ný lög gegn einokun og hringamyndun en lög um breytingu banka í hlutafélög. Lögin um einokun og hringamyndun eru beinlínis í anda markaðsvæðingar.

Hins vegar er allt óljóst um, hvort hlutafélagaform á ríkisbönkunum tveimur felur í sér markaðsvæðingu. Fólk vill fá tíma til að skoða, hvort það felur í sér eflda fáokun kolkrabbans eða raunverulga dreifingu peningavalds með aukinni samkeppni milli fjármálastofnana.

Nær væri að byrja á að efla lög gegn ein- og fáokun og að markaðsvæða Íslenzka aðalverktaka, Flugleiðir, vinnslustöðvar landbúnaðar og landbúnaðinn í heild.

Jónas Kristjánsson

DV