Author Archive

Síðbúið fylgishrun

Greinar

Kjósendur hafa skyndilega glatað svo mjög trú á Sjálfstæðisflokkinn, að fylgi hans er komið niður fyrir Framsóknarflokkinn og Alþýðubandalagið. Eftir næstum stöðugt 31-33% fylgi í heilt ár, alveg fram í síðasta nóvember, er flokkurinn nú kominn niður í 20% fylgi.

Skýringar á þessu einstæða fylgishruni er aðeins að hluta að leita í baráttunni um aðild að Evrópska efnahagssvæðinu, sem hefur einkennt stjórnmálaumræðu tveggja síðustu mánaða. Á þessum tíma hefur andstaða heldur vaxið meðal fólks við þetta umdeilda mál.

Ef þetta væri stóra skýringin, ætti Alþýðuflokkurinn að deila fylgishruninu með Sjálfstæðisflokknum, því að utanríkisráðherra hefur nánast gert sig að persónugervingi Evrópska efnahagssvæðisins. Alþýðuflokkurinn heldur þó sínu 13% fylgi í skoðanakönnuninni.

Fremur er að leita skýringar á fylgishruninu í efnahags- og fjármálaaðgerðum ríkisstjórnarinnar í tengslum við ríkisfjárlög og áramót. Þær tengjast mest forsætisráðherra og fjármálaráðherra, sem koma úr röðum Sjálfstæðisflokksins og eru málsvarar aðgerðanna.

Að hluta getur fylgishrun Sjálfstæðisflokksins byggzt á, að kjósendur telji hann vera merkisbera aðgerða ríkisstjórnarinnar á síðustu tveimur mánuðum og líti á Alþýðuflokkinn sem aukaatriði dæmisins. Alténd er ljóst, að þessar aðgerðir njóta einskis trausts.

Hugmyndafræði hins sterka hefur ekki hljómgrunn með þjóðinni um þessar mundir. Kjósendum ofbýður, að ríkisstjórnin skuli senda reikningana næstum óskipta til þeirra, sem minnst mega sín, aldraðra og sjúkra, skólafólks og atvinnulausra, foreldra og barna.

Sá grunur er að læðast að þjóðinni, að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins séu í álögum þeirrar dólgaútgáfu markaðsstefnunnar, sem telur nauðsynlegt að nota atvinnuleysi til þess að draga úr kjarki fólks til mótþróa gegn lífskjaraskerðingu langt umfram aflasamdráttinn.

Að hluta hlýtur hrunið einnig að vera tengt vali formanns og þingflokks sjálfstæðismanna á ráðherrum sínum, þótt það sé raunar eldra mál. En gömul reynsla er fyrir, að ný korn gera ekki annað en að fylla mæli, sem áður var að fyllast í kyrrþey af fyrri kornum.

Ekki er hægt að segja, að ráðherralið Sjálfstæðisflokksins efli kjark með þjóðinni. Minni háttar ráðherrar hafa meira eða minna týnzt, enda vafasamt, að þingflokkurinn hafi gert flokknum eða þjóðinni greiða með því að velja þá til starfa, sem þeir virðast ekki ráða við.

Svo að segja daglega sést fjármálaráðherra þylja svipbrigðalaust í sjónvarpi gamlar klisjur og torskilin heilræði. Hann er eins og kennari, sem hefur misst samband við bekkinn, en heldur áfram að tala af gömlum vana og án nokkurs votts af innri sannfæringu.

Forsætisráðherra hefur glatað sjálfstrausti og eldmóði borgarstjórans. Hann er flóttalegur og sannfæringarsnauður í sjónvarpi. Þar að auki virðist hann upptekinn af þeirri hugsun, að hann þurfi að jafna sakir við hina og þessa, sem hann telur hafa gert sér skráveifu.

Það er ekki gott fyrir forustuflokk ríkisstjórnar að hafa á oddinum ráðherra, sem ekki geisla frá sér trú á málstaðinn, heldur endurspegla uppgjöf og ráðleysi, og hafa þar á ofan ekki frambærilegan mannskap til að skipa sómasamlega sum hin óæðri ráðherraembætti.

Fylgishrunið stafar sumpart af mönnum og sumpart af málefnum. Ýmsar forsendur hafa hlaðizt upp í kyrrþey, en mælirinn fylltist ekki fyrr en um áramótin.

Jónas Kristjánsson

DV

Þungur klisjuburður

Greinar

Fáum Íslendingum dettur í hug að koma í fiskbúð og biðja um “fullunna” vöru. Menn biðja um nýja ýsu og engar refjar. Á þeim stað dettur fólki ekki í hug, að ný ýsa sé einhvers konar hráefni, sem þurfi að “fullvinna” með ærnum kostnaði í þar til gerðri verksmiðju.

Íslendingar eru ekki einir um að taka nýjan fisk fram yfir verksmiðjufisk. Þeir, sem kaupa af okkur fisk úti í heimi, vilja yfirleitt borga töluvert meira fyrir ferska vöru en unna. Þetta kemur fram í markaðsverði, sem við sjáum daglega á viðskiptasíðum dagblaðanna.

Sem þjóð græðum við meira á að selja fiskinn ferskan, því að þannig fæst mest fyrir hann, auk þess sem sparast töluvert af kostnaðinum, sem annars legðist á fiskinn í fiskvinnslustöðvum. Þetta er hagfræðilögmálið um hámörkun arðs með sem minnstri fyrirhöfn.

Stofnanir og samtök hafa fyllzt af svokölluðum hagfræðingum, sem eiga að vita þetta og mættu reyna að hafa vit fyrir þeim, sem flagga klisjunni um fullvinnslu sjávarafurða. Flestir fræðinganna láta klisjuna samt afskiptalausa og sumir hverjir ýta jafnvel undir hana.

Ýmsar aðstæður geta valdið því, að menn vilji láta hamast á fiski í verksmiðjum, þótt það lækki verðgildi matarins. Slík iðja getur til dæmis klætt atvinnuleysi í dulargervi atvinnubótavinnu, þegar atvinnuástand fer versnandi í þjóðfélaginu, svo sem nú er að gerast.

Eðlilegt er, að fólk, sem sér fram á atvinnumissi, myndi með sér enn einn þrýstihópinn til að berjast fyrir því, að fiskur fáist í vinnslustöðvarnar, jafnvel þótt það skaði almannahagsmuni. Það er eðli þrýstihópa að verja sérhagsmuni á kostnað almannahagsmuna.

Hins vegar er ekki eðlilegt, að þeir, sem af margvíslegum sérhagsmunaástæðum vilja hafa ferskfiskgróðann af þjóðfélaginu, komist átölulítið og ár eftir ár upp með að uppnefna gæðavöru sem “hráefni” og hefja lakari og ódýrari vöru til skýjanna sem “fullunna”.

Fyrir almannahagsmuni væri bezt að leggja mesta áherzlu á að bæta meðferð afla og efla samgöngutækni, svo að koma megi enn meiri hluta sjávarafurðanna í fersku og dýrseldu ástandi til erlendra neytenda. Til þess þarf aukið frelsi í útflutningi og samgöngum.

Jafnframt er skynsamlegt að ýta fiskvinnslunni í farveg tilbúinna fiskrétta í neytendaumbúðum, svo að einhver von sé um að ná verðmætisaukningu upp í fyrirhöfn og kostnað. Ekki er þó hægt að sigla hraðar fram á því sviði en markaðurinn leyfir hverju sinni.

Í rauninni hefur þróun tilbúinna fiskrétta í neytendaumbúðum verið hægfara í fiskvinnslunni, en þeim mun meiri áherzla verið lögð á að ýta þröngsýnum stjórnmála- og embættismönnum út í óbeina skattlagningu og takmarkanir á útflutning ferskra sjávarafurða.

Kvóti er skertur, ef siglt er beint með aflann. Skömmtun er beitt til að takmarka útflutning á ferskum fiski í gámum. Kröfur magnast um auknar aðgerðir gegn þessum hagkvæma útflutningi. Og nú hafa verið stofnuð samtök um verndun fortíðarvanda í fiskvinnslu.

Dæmin benda til, að Íslendingar beri lítið skynbragð á almennt viðurkennd markaðslögmál og láti stjórnast af röklausum klisjum á borð við “fullvinnslu” sjávarafurða. Þessi dýri og þungi klisjuburður leiðir til efnahagserfiðleika á borð við þá, sem við búum nú við.

Það er tvískinnungur og skert raunveruleikasýn, er menn sjá ekki samhengi milli verðmætis “óunninna” fiskafurða og dálætis okkar á nýrri ýsu í fiskbúðum.

Jónas Kristjánsson

DV

Lífsstíll nútímans

Greinar

Þeir ákveðnustu láta ekki á sig fá, þótt yfir landið fari ein dýpsta lægð í manna minnum. Þeir klæða sig við hæfi og fara út að ganga eða skokka eins og þeir eru vanir. Aðrir haga seglum eftir vindi og fara frekar í sund þann daginn. Þetta eru hinir nýju Íslendingar.

Heilsurækt á ört vaxandi gengi að fagna hér á landi. Skokkarar á gangstéttum eru auðsæ mælistika á þessa ánægjulegu þróun, sem er smám saman að breyta hvellisjúkri kyrrsetuþjóð í heilbrigða sportþjóð, sem gætir betra jafnvægis í lífi sínu en áður tíðkaðist.

Um leið og veður lægir leggja bílalestir af stað úr þéttbýli í skíðalöndin. Þúsundir manna velja fremur að taka þátt í skemmtilegri og erfiðri íþrótt heldur en að kúra heima í sófa að glápa á íþróttir annarra. Þetta er virkur lífsstíll, sem leysir hinn óvirka af hólmi.

Aukinnar heilsuræktar sér ekki aðeins stað í auknum almenningsíþróttum. Tóbaksnotkun hefur minnkað svo, að því stigi hefur verið náð, að tóbaksneytendur eru orðnir að minnihlutahópi, sem verður að sæta auknum takmörkunum af hálfu hinna, sem lifa heilbrigðu lífi.

Enn er þó ástandið þannig, að kostnaður ríkisins af tóbaksneyzlu landsmanna er talinn meiri en tekjur þess, samkvæmt athugun, sem nýlega var birt. Það bendir til, að töluvert sé enn í land og að enn verði að þrengja kosti þeirra, sem eru háðir þessari tegund eiturs.

Því miður verður hinnar nýju hugsunar ekki mikið vart í umgengni við dýrasta eitrið hér á landi. Það er áfengið, sem er meginorsök lagabrota, slysa, fjárhagstjóns, félagsvandræða og sálrænna truflana. Hallærislegir drykkjusiðir eru enn við lýði hjá háum og lágum.

Útlendingar eru enn að furða sig á, að íslenzkar helgar skuli einkennast af gargandi fólki, sem hvert slefar í eyru annars á mannamótum og af stöðugum ferðum lögreglumanna í heimahús til að reyna að stilla til friðar með fólki, sem stundar íslenzka drykkjusiði.

Þótt þúsundir manna hafi hætt þessarri undirgefni við Bakkus og tekið upp heilbrigðari lífshætti, hafa engin straumhvörf orðið með þjóðinni á þessu sviði. Það þykir ennþá fínt hjá unga fólkinu að missa ráð og rænu og verða að slyttislegum bjánum á almannafæri.

Betri árangur hefur náðst í mataræði. Fiskbúðir og bakarí eru betri en nokkru sinni fyrr og njóta vaxandi viðskipta. Góð fordæmi eru gefin í veitingahúsum, sem mörg hver bjóða mjög girnilegan og hollan mat á tiltölulega sanngjörnu verði miðað við íslenzkar aðstæður.

Heilsufæði og náttúrufæði af ýmsu tagi nýtur vaxandi vinsælda. Fólk borðar fjölbreyttari mat og gætir betra jafnvægis í neyzlunni. Grænmeti og ávextir eru vaxandi þáttur í fæðinu. Um leið minnkar hluti feitmetis af ýmsu tagi, sem áður var of umfangsmikill.

Að vísu skiptir nokkuð í tvö horn á þessu sviði. Annars vegar sést þessi þróun í átt til heilbrigði og hins vegar virðist ekki fækka þeim, sem nærast að miklu leyti á ruslfæði af ýmsu tagi, svo sem djúpsteiktum kartöflum og unnum kjötvörum á borð við fars.

Alvarlegast er þó, að ekki hefur tekizt að hnekkja óhóflegri sykurnotkun okkar, sem er mun meiri en nokkurrar annarrar þjóðar. Þessi neyzla er svo mikil, að hún hlýtur að stuðla að slæmri heilsu og útgjöldum til heilbrigðismála á sama hátt og áfengi og tóbak.

Í heild hafa lífshættir okkar breytzt til batnaðar. Dæmin, sem hér hafa verið rakin, benda til, að okkur miði áfram eftir veginum í átt til lífsstíls nútímans.

Jónas Kristjánsson

DV

Sjónhverfing

Greinar

Bosníufriðurinn í Genf er gervifriður, sem hefur sama markmið og tugir fyrri samninga á vegum Sameinuðu þjóðanna og Evrópusamfélagsins um vopnahlé í Bosníu. Hann á að koma á framfæri þeirri ímynd, að stofnanirnar séu að gera eitthvað að gagni í Bosníustríðinu.

Alkunnugt er, að tugir samninga um vopnahlé í Bosníu hafa farið út um þúfur, jafnvel þótt þeir hafi fjallað um hlé, sem er einfaldara mál en skipting landsins í tíu sjálfstæðar sýslur með afar flóknum landamærum og jafnvel klofning einnar sýslu í tvo aðskilda hluta.

Samningurinn gerir ráð fyrir, að árásarþjóðin haldi stórum svæðum, sem hún hefur komizt yfir með morðum, nauðgunum og annarri þjóðahreinsun. Þar með er blóð Bosníu fyrir tilverknað sáttasemjaranna komið á hendur Sameinuðu þjóðunum og Evrópusamfélaginu.

Samningurinn gerir ekki ráð fyrir neinni siðrænni afgreiðslu á endalausum stríðsglæpum Serba í Bosníu. Þar með hafa þeir Cyrus Vance og David Owen látið Sameinuðu þjóðirnar og Evrópusamfélagið taka ábyrgð á þessum glæpum, sem eru fleinn í vestrænni menningu.

Búast má við, að hundruð af stríðsglæpamönnum Serba verði kosin á þing í ýmsum af hinum sjálfstæðu sýslum Bosníu. Þar munu þeir sitja við hlið ættingja fórnarlambanna. Augljóst er, að sá gervifriður mun ekki lengi haldast, jafnvel þótt hann nái svo langt.

Eftir undirritunina í Genf er unnt að teygja lopann í langan tíma. Þing stríðsglæpamanna Serba í Bosníu á eftir að staðfesta hann og eftir er að semja um tæknileg atriði í skiptingu landsins í tíu smáríki. Á meðan fá Serbar að vera í friði fyrir vestrænum flugherjum.

Kröfur almenningsálitsins á Vesturlöndum um hernaðarlega íhlutun í Bosníu og Serbíu voru orðnar óbærilegar fyrir ráðamenn voldugustu ríkjanna. Með því að framleiða ráðstefnur og sáttafundi telja þeir sig geta frestað aðgerðum, sem lengi hafa verið óhjákvæmilegar.

Sameinuðu þjóðirnar og voldugustu ríki Vesturlanda eru í svipaðri súpu fyrir botni Persaflóa. Þar færði Saddam Hussein eldflaugar sínar í árásarstöðu, gerði daglega herleiðangra inn í Kúveit til að sækja sér vopnabúnað og hafði bandamenn hvað eftir annað að fíflum.

Saddam hefur greinilega talið af atferli Vesturlanda í Serbastríðinu, að bandamenn mundu ekki standa við hótanir um lofthernað. Enda færðist hann allur í aukana, þegar bandamenn reyndu að halda fram, að hann hafi verið byrjaður að færa eldflaugar sínar til baka, þegar út rann frestur, sem hann hafði til þess.

Ráðamenn Bandaríkja, Bretlands og Frakklands hafna hernaði gegn Írak og Serbíu og nota undanbrögð, rangfærslur, ráðstefnur og samningafundi til að breiða yfir það. Árásin á skotpalla Íraks í gær fól í sér óbeina játningu þess, að undanlátsstefna egnir óbilgjarna.

Fram til gærdagsins höfðu leiðtogar Vesturlanda óafvitandi verið að senda þau skilaboð til sporgöngumanna Serba, að Vesturlönd hafi ekki lengur siðferðilegan eða efnahagslegan styrk til að standa við stóru orðin og að óhætt sé að láta til skarar skríða í landvinningum.

Stefnan að baki gervisamningi Sameinuðu þjóðanna og Evrópusamfélagsins um Bosníu felst í að reyna að láta sjónhverfingu koma í stað raunveruleika til að sefa og svæfa heilbrigt almenningsálit heima fyrir í Bandaríkjunum, Bretlandi, Frakklandi og Þýzkalandi.

Þessi stefna á eftir að verða Vesturlöndum dýr, alveg eins og stefna Neville Chamberlain reyndist Vesturlöndum dýr í upphafi síðari heimsstyrjaldarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Skárra er að vera inni

Greinar

Eðlilegt framhald af staðfestingu Alþingis á samningi Íslands um Evrópska efnahagssvæðið er, að við fetum í fótspor annarra ríkja Fríverzlunarsamtakanna og göngum með þeim inn í sjálft Evrópusamfélagið, en frestum því ekki til síðari tíma og lakari kjara.

Mælanlegur efnahagsgróði verður minni af Samfélaginu en Svæðinu, en þeim mun meiri efnahagstrygging í viðsjárverðum viðskiptaheimi. Við þurfum að ganga í Evrópusamfélagið, svo að það skaði okkur ekki eins og það skaðar allt sitt umhverfi í austri, vestri og suðri.

Skilningur okkar á Evrópusamfélaginu og gildi aðildar okkar að því verður meiri, ef við lítum á það og umgöngumst það eins og risavaxið landbúnaðarráðuneyti. Það er gróf samlíking, en eigi að síður rétt í veigamiklum atriðum, sem varða okkur sérstaklega mikið.

Íslenzka landbúnaðarráðuneytið er ekki stjórnvald í hefðbundnum skilningi. Það er um leið kynningar- og áróðursstofnun fyrir hinn hefðbundna landbúnað og baráttutæki hans gegn almannahagsmunum í þjóðfélaginu, einkum hagsmunum skattgreiðenda og neytenda.

Á svipaðan hátt eru ráðuneyti Evrópusamfélagsins leikvöllur þröngra sérhagsmuna. Þau ríki, sem komin eru inn í hið evrópska himnaríki, nota Samfélagið til að þjónusta gæludýrin sín. Þar gildir þetta einkum um landbúnað, en einnig um sjávarútveg sem skylda grein.

Þessi blanda stjórnvalds og þrýstihóps veldur því, að Evrópusamfélagið kemur nær hvarvetna fram sem ofbeldisstofnun í umhverfi sínu. Það neitar sanngjörnum viðskiptum og samningum til þriggja átta, þótt það hafi samþykkt að stækka sig til norðurs, í okkar átt.

Evrópusamfélagið hefur reist tollmúra í austri, vestri og suðri. Það meinar Austur-Evrópu að afla sér gjaldeyris til uppbyggingar með því að gefa evrópskum neytendum kost á ódýrum mat. Það meinar þriðja heiminum að lækka matvöruverð í Evrópu í sama skyni.

Alvarlegust er þó ofbeldishneigð Evrópusamfélagsins í garð Bandaríkjanna, eins og komið hefur fram í langdregnum viðræðum í Gatt, alþjóðlega tollaklúbbnum, þar sem rambað var í sífellu á yztu nöf til að reyna að koma í veg fyrir minni háttar aukningu á tollfrelsi.

Varðgæzla sérhagsmuna af hálfu Evrópusamfélagsins gengur svo langt, að líta má á Samfélagið sem eina helztu ógnunina við heimsfriðinn um þessar mundir, því að viðskiptastríð milli Vesturlanda getur hæglega leyst af hólmi kalda stríðið milli austurs og vesturs.

Í meginlöndum Evrópusamfélagsins ráða menn, sem hafa engin pólitísk markmið önnur en eigið endurkjör og finna enga þörf til að marka sér stöðu í veraldarsögunni. Þetta eru pólitíkusar á borð við Kohl, Mitterrand og Mayor. Slíkir munu ekki breyta Evrópuskrímslinu.

Sjávarútvegur í löndum Evrópusamfélagsins er þvílíkur ómagi á kerfinu, að búast má við stöðugum tilraunum þess til að beita okkur ofbeldi í fiskveiðum og fiskvinnslu. Hætta er á, að sérhagsmunir fái þar að leika lausum hala eins og í okkar landbúnaðarráðuneyti.

Bezta leiðin til að verja hagsmuni okkar gegn þessu skrímsli er að gerast aðilar að því og gerast um leið aðilar að þeirri varðgæzlu sérhagsmuna í sjávarútvegi, sem þar er stunduð. Þetta minnir óbeint á máltækið um, að heiðra skuli skálkinn, svo að hann skaði þig ekki.

Þetta eru ekki fagrar forsendur, en eigi að síður gildar. Staðreyndin er, að Evrópusamfélagið skaðar okkur síður, ef við erum aðilar, en ekki utangarðsmenn.

Jónas Kristjánsson

DV

Kreppan í þjóðarsálinni

Greinar

Skýringa á kreppunni, sem einkennir Ísland umfram önnur Vesturlönd, er ekki að finna í minnkuðu verðmæti sjávarafla. Það verðmæti var í fyrra hið sama og það var fjórum árum áður, árið 1988, Í bæði skiptin nam útflutningsverðmæti sjávarafla 73 milljörðum á núvirði.

Milli þessara ára var kúfur í verðmætinu, sem fór í 80 milljarða árið 1990. Frá þeim toppi er samdrátturinn um 10%. Það er mikill samdráttur á skömmum tíma, þótt hann sé ekki mikill, ef litið er til lengri tíma. Hann skýrir ekki einn atvinnuhrunið í landinu á þessum vetri.

Sjávarútvegurinn er ekki eini atvinnuvegurinn í landinu. Samdráttur hans hefur töluverð áhrif á þjónustu- og viðskiptagreinarnar í kringum hann, en minnkandi, þegar komið er lengra frá. Keðjuverkun frá sjávarútvegi skýrir ekki allan samdráttinn í þjóðfélaginu.

Við bætast áhrif frá samdrætti á sviðum, sem byggð voru upp af óforsjálu handafli hins opinbera fyrir nokkrum árum, svo sem í fiskeldi. Það átti að verða gullkista þjóðarinnar, en hefur nú gengið gegnum hreinsunareld, sem veldur þjóðinni eins konar timburmönnum.

Þegar allt lék í lyndi í sjávarútvegi og fiskeldi, lánuðu bankar ógætilega, af því að þeim var illa stjórnað. Nú óttast ráðamenn þeirra afleiðingarnar og seilast til mikils vaxtamunar til að greiða tjón afskrifaðra lána. Þetta heldur uppi vöxtum í landinu og magnar kreppuna.

Við þetta bætist, að tækifæri góðæris og fullrar atvinnu var ekki notað til að leyfa hinum hefðbundna landbúnaði að rifa seglin til að lækka kostnað þjóðfélagsins af dýrstu atvinnubótavinnu, sem hugsazt getur. Nú kemur sá óhjákvæmilegi samdráttur ofan í kreppuna.

Samanlagt eru afleiðingar gæludýrastefnu stjórnvalda og fjármálastofnana þyngri þáttur í kreppunni en samdrátturinn í verðmæti útfluttra sjávarafurða. Kreppan stafar þannig að stærri hluta af heimatilbúnum ástæðum en af náttúrulegum skilyrðum í hafinu.

Ekki má heldur gleyma, að minnkandi verðmæti sjávarafla er einnig mannanna verk. Þessi samdráttur stafar af óhóflegri veiði, sem óforsjál stjórnvöld hafa ákveðið í trássi við tillögur fiskifræðinga, er einnig hafa verið of bjartsýnar vegna þrýstings frá atvinnulífinu.

Þegar kreppa kemst á nógu hátt stig, fer hún að fæða sjálfa sig. Fólk tapar kjarki. Ráðamenn fyrirtækja mikla fyrir sér aðsteðjandi erfiðleika og segja fólki upp vinnu, svo að fyrirtækin geti mætti framtíðinni með minnkuðum kostnaði. Þetta verður að öflugri keðjuverkun.

Að svo miklu leyti sem kreppan er ekki búin til í leðurstólum stjórnvalda og bankakerfis er hún sálræn. Hún felur í sér, að væntingar minnka og svartsýni eykst. Umtalið magnar kreppuna. Menn éta krepputalið upp hver eftir öðrum og magna hana hring eftir hring.

Íslendingar munu lifa af þessa kreppu, sem er fremur sálræn og pólitísk en efnisleg. Þjóðin hefur aldagamla reynslu af hörmungum og óáran. Hún er vel í stakk búin að mæta erfiðum tímum, þótt hún hafi ekki reynzt hafa nógu sterk bein til að þola góðu dagana.

Út úr kreppunni munu koma stjórnmálamenn og bankastjórar, sem verða forsjálli en þeir hafa verið hingað til. Út úr henni munu koma framkvæmdamenn með þjálfun í hagræðingu og sparnaði. Út úr henni mun koma þjóð, sem skilar meira og betra verki fyrir laun sín.

Hin heimatilbúna kreppa fer vaxandi. En handan við hornið bíður nýtt góðæri eftir kjarki og forsjálni þjóðarinnar til að stíga út úr hinum sálræna þætti kreppunnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Sameiginleg þjóðarsekt

Greinar

Stundum er sagt, að veraldarsagan hefði orðið önnur, ef Stalín hefði getað haldið áfram að læra til prests og Hitler fengið að fara í myndlistarskólann. Ekkert er hægt að segja með vissu um áhrif tilviljana af slíku tagi, svo sem um áhrif einstaklinga á framvindu sögunnar.

Eftir síðari heimsstyrjöldina var litið svo á, að Þjóðverjar bæru sameiginlega ábyrgð á henni, en ekki Hitler einn eða flokkur hans. Þjóðverjar álitu raunar sjálfir, að þeir yrðu að gera bragarbót, til dæmis með skaðabótum og nýju og borgaralegu uppeldi í her og skóla.

Japanir hafa aldrei hreinsað sig að hætti Þjóðverja, heldur þrjózkast enn við að reyna að falsa sagnfræðina og líta niður á nágrannaþjóðir sínar. Þeir hafa sem þjóð ekki tekið neina marktæka ábyrgð á stríðinu aðra en þá að hafna því að verða herveldi á nýjan leik.

Þegar ástandið var sem verst í Ísrael fyrir síðustu kosningar, var sagt, að hryðjuverkum og stríðsglæpum ríkisins mundi linna, ef Likud-bandalaginu og stuðningsflokkum þess yrði bolað frá völdum. Í ljós kom, að lítið breyttist, þótt Verkamannaflokkurinn tæki við.

Her og lögregla Ísraels stunda daglega stríðsglæpi á hernumdu svæðunum, samkvæmt skilgreiningu Genfarsáttmálans um meðferð fólks á slíkum svæðum. Nauðungarflutningar fólks frá heimilum sínum eru bara hluti af breiðu og daglegu ferli stríðsglæpa Ísraels.

Herraþjóðarhrokinn gegnsýrir þjóðfélag Ísraels. Litið er á Palestínumenn sem hunda, er megi ekki verja sig. Aðgerðum af þeirra hálfu er svarað með margföldum hefndaraðgerðum. Hæstiréttur brýtur Genfarsáttmálann og forsetinn náðar morðingja úr her og lögreglu.

Komið hefur í ljós, að Yitzhak Shamir forsætisráðherra bar ekki einn ábyrgð á stríðsglæpum og hryðjuverkum Ísraels. Þjóðfélagið í heild virðist telja sig vera af sagnfræðilegum ástæðum undanþegið ýmsum skráðum lögum, sem gilda um hinn siðmenntaða hluta heims.

Athyglisvert er, að þjóðfélag, sem stundar daglega stríðsglæpi í nútímanum, telur sér samt kleift að halda áfram að elta uppi hálfrar aldar gamla stríðsglæpi alla leið til Íslands. Þetta ber vott um brenglun, sem er ekki bara í höfði einstaklinga, heldur í þjóðarsálinni.

Ekki er heldur hægt að segja, að Slobodan Milosevic forseti sé einn ábyrgur fyrir voðaverkum Serba á hernumdum svæðum í nágrannalöndunum. Það þarf þúsundir brjálæðinga til að myrða hundruð þúsunda óbreyttra borgara og nauðga tugum þúsunda kvenna.

Alveg eins og í Ísrael er í Serbíu um að ræða sameiginlega þjóðarábyrgð á brenglun í þjóðarsálinni. Þjóðin hefur ræktað með sér sagnfræðiskoðun, sem losar hana undan siðareglum hins vestræna heims. Hún er sumpart að hefna fimm og sex alda gamalla atburða.

Þetta átti að verða mönnum ljóst um leið og Serbar byrjuðu að sprengja menningarsöguleg mannvirki, til dæmis í Dubrovnik, til að eyðileggja menningararf andstæðinga sinna. Tryllt ofbeldi þeirra gegn almenningi er beint framhald af árás þeirra á menningarsöguna.

Brjáluð þjóð verður ekki hamin með samningum að undirlagi Sameinuðu þjóðanna. Hún verður aðeins kúguð með hervaldi, sem leiði til, að hún hverfi frá Bosníu og Króatíu, Vojvodina og Kosovo, og landamærunum síðan lokað, unz þjóðin tekur ábyrgð á glæpum sínum.

Ofbeldi Ísraela og Serba er brenglað þjóðernisofstæki, sem þjóðirnar í heild bera ábyrgð á, en stafar ekki af, að einstaklingar hafi lent á rangri hillu.

Jónas Kristjánsson

DV

Svei þeim Sameinuðu

Greinar

Oft hafa Sameinuðu þjóðirnar gengið í berhögg við eigin grundvallarforsendur í stofnskrá og sáttmála sínum. Einkum fóru þær út af sporinu, þegar þar ríkti öflugt bandalag harðstjóra Austur-Evrópu, íslams og þriðja heimsins, sem virtu forsendurnar að vettugi.

Nú er stjórnkerfi Austur-Evrópu hrunið til grunna og harðstjórar þriðja heimsins geta ekki lengur teflt saman heimsveldunum. Því hafa grundvallarforsendur Sameinuðu þjóðanna eflzt nokkuð, svo sem fram kom í Persaflóastríði og hernaðaraðgerðum í Sómalíu.

Framkoma Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í árásarstríði Serba gegn Bosníumönnum og öðrum Balkanþjóðum stríðir gegn þessari þróun í átt til stofnskrárinnar og sáttmálans. Óbeint hafa sáttatilraunir og aðrar aðgerðir af hálfu þess stutt landvinningastefnu Serba.

Hrapallegar eru tillögur frá Cyrus Vance og David Owen, sáttasemjurum Sameinuðu þjóðanna, sem lagðar voru fyrir sáttafund deiluaðila í Genf um helgina. Þar var gert ráð fyrir skiptingu Bosníu í sjálfstjórnarsýslur, sem aðeins að formi til lúti landsstjórn í Sarajevo.

Með tillögu þessari var í fyrsta lagi verið að tilkynna öllum þjóðum og þjóðabrotum, sem telja sig eiga harma að hefna í Austur-Evrópu, að það borgi sig að feta í fótspor Serba og hefja blóðuga þjóðahreinsun að þeirra hætti. Sameinuðu þjóðirnar muni blessa niðurstöðuna.

Í öðru lagi er verið að tilkynna upprennandi ofbeldismönnum í Austur-Evrópu, að Sameinuðu þjóðirnar muni láta kyrrt liggja, þótt óbreyttir borgarar séu myrtir tugþúsundum saman og konum sé nauðgað tugþúsundum saman í þágu hugsjóna á borð við Stór-Serbíu.

Áður hafði Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna stutt við bakið á morðsveitum Serba með vopnasölubanni, er einkum kom í veg fyrir, að Bosníumenn gætu varið hendur sínar gegn herflokkum, sem voru og eru vel vopnum búnir frá Serbíu. Það bann gildir enn.

Enginn samningur um Bosníu er neins virði, nema hann geri ráð fyrir, hvernig tekið verði á stríðsglæpamönnum Serba, sem skipta þúsundum, allt frá Slobodan Milosevic niður í villidýrin í byggðum Bosníu. Þetta eru einir mestu stríðsglæpir aldarinnar í Evrópu.

Verið er að kortleggja þessa glæpi og eru nöfn margra verstu glæpamannanna þegar kunn. Það er út í hött, að Sameinuðu þjóðirnar geti í kjölfarið haldið sáttafund í Genf, án þess að meðferð þessara glæpa skipi þar verðugan sess, öllum sporgöngumönnum til viðvörunar.

Ekki er hægt að afsaka framgöngu Vance og Owens með því, að eitt séu góðviljuð mannréttindi og annað séu takmarkaðir möguleikar stöðunnar. Veraldarsaga síðustu áratuga sýnir einmitt ljóslega, að hagkvæmnissjónarmið af því tagi hefna sín fyrr eða síðar.

Við horfumst í augu við, að Boris Jeltsín Rússlandsforseti riðar til falls í Moskvu og að þar eru harðlínumenn að komast til aukinna áhrifa. Sumir áhrifamenn í þeim hópi hafa opinberlega hótað öllu illu, svo sem að flytja íbúa Eystrasaltsríkjanna nauðuga til Síberíu.

Arftakaríki Sovétríkjanna eru hafsjór slíkra þjóðernisvandamála. Azerar og Armenar heyja styrjöld. Borgarastyrjaldir geisa í Georgíu og Tadzhíkistan. Rússar seilast til áhrifa í Moldavíu og víðar. Til vopnaðra þjóðernisátaka hefur komið í tugum annarra tilvika.

Sameinuðu þjóðirnar magna vandræði sín í framtíðinni, ef þau gefa fordæmi á borð við tillögurnar, sem Vance og Owen lögðu fram í Genf um helgina.

Jónas Kristjánsson

DV

Evrópuhagnaður okkar

Greinar

Fiskveiðisamningur Íslands og Evrópusamfélagsins var staðfestur fyrir helgina. Þessi samningur er frambærilegur og veldur því, að nú er loksins óhikað hægt að fullyrða, að þátttaka Íslands í Evrópska efnahagssvæðinu muni verða okkur gott tækifæri til framfara.

Samningurinn ber greinileg merki orðaskaks, þar sem lagakrókamenn Íslands hafa greinilega haft í fullu tré við starfsbræður sína hjá Evrópusamfélaginu. Hann felur meðal annars í sér ýmsa fyrirvara á, að evrópsk skip fái 3.000 tonna karfaveiði á Íslandsmiðum.

Íslendingar geta haft gott eftirlit með framkvæmd fiskveiðisamningsins. Við getum haft eftirlitsmenn um borð í skipunum á kostnað útgerðanna. Skipin geta ekki komið með afla frá öðrum miðum til veiða í fiskveiðilögsögunni án þess að landa honum á Íslandi.

Þótt ekki hafi allar íslenzkar kröfur náð fram að ganga í þessum samningi, er hann miklu nær þeim kröfum en hinum evrópsku. Hann kemur á varanlegum friði um nánast engin fiskveiðiréttindi af hálfu Evrópu í kjölfar aðildar okkar að Evrópska efnahagssvæðinu.

Að öllu samanlögðu mun aðildin færa okkur hagsæld. Hún flytur með sér mikið af kostum Evrópusamfélagsins og lítið af göllunum. Enda fjallar samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið mest um viðskipti og efnahag, en Evrópusamfélagið snýst um margt fleira.

Við þurfum ekki að taka þátt í rándýrri landbúnaðarstefnu Evrópusamfélagsins, enda eigum við fullt í fangi með okkar eigin. Við þurfum ekki að greiða skatta í digra sjóði Evrópusamfélagsins. Við þurfum ekki að hlíta sameiginlegri utanríkis- og varnarstefnu.

Við munum njóta lækkunar á tollum á ýmsum fiskafurðum okkar, einkum saltfiski. Við munum líka njóta þess sem neytendur, að við lækkum tolla og leyfum innflutning á ýmsum vörum, sem munu verða til að lækka vöruverð hér á landi og bæta lífskjör fólks.

Ekki er fráleitt að telja, að þátttakan í Evrópska efnahagssvæðinu muni bæta þjóðarhag um 5%. Það kemur sér vel í aðvífandi kreppu, sem stafar annars vegar af ofveiði og aflaleysi og hins vegar af offjárfestingu í sjávarútvegi, landbúnaði og gæluverkefnum hins opinbera.

Flestar eða allar aðrar þjóðir Fríverzlunarsamtakanna munu ekki nema staðar við efnahagslegan ávinning af Evrópska efnahagssvæðinu. Ráðamenn þeirra líta á svæðið sem biðstofu hreinnar aðildar að Evrópusamfélaginu og hafa formlega sótt um hana.

Eftir nokkur ár verður Ísland líklega eina ríkið, sem samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið nær til. Önnur ríki Fríverzlunarsamtakanna verða gengin í Evrópusamfélagið. Þar með breytist fjölþjóðasamningurinn formlega eða óformlega í tvíhliða samning okkar.

Félagar okkar í Fríverzlunarsamtökunum munu ekki hafa mikinn áþreifanlegan ávinning af fullri aðild. Framleiðni kann að aukast vegna harðari samkeppni. En þau þurfa að greiða miklar fúlgur í sameiginlega sjóði, sem að mestu verða notaðir sunnar í álfunni.

Finnar, Norðmenn og Svíar munu ekki græða peninga á að ganga í Evrópusamfélagið. Eins og hjá okkur kemur gróði þeirra að mestu fram í Evrópska efnahagssvæðinu. Með fullri aðild eru þessi ríki hins vegar að reyna að seilast til pólitískra áhrifa í Evrópu.

Senn mun Alþingi samþykkja Evrópska efnahagssvæðið. Þá má hefja í alvöru umræður um, hvort rétt sé að stíga skrefinu lengra eins og nágrannar okkar.

Jónas Kristjánsson

DV

Ekki mús, heldur skata

Greinar

Íslenzka krónan fylgdi spænska pesetanum um helgina af eðlilegum viðskiptaástæðum. Hún var felld um sama hlutfall, 6%, í stað þess að láta hana bíða eftir norsku krónunni, sem lafði um helgina, enda hafa Norðmenn olíuauð og kaupa fátt eitt afurða frá Íslandi.

Með gengislækkuninni var staða krónunnar nokkurn veginn löguð að breytingum á gengi gjaldmiðla á undanförnum vikum. Sterlingspundið skiptir okkur miklu og það hafði fallið um 5%, þegar það var slitið úr tengslum við gjaldmiðlastýringu Evrópusamfélagsins.

Óhjákvæmilega mun lækkun krónunnar leiða til verðhækkana, af því að ríkisstjórnin vill ekki taka á vandamáli, sem heldur uppi háu verðlagi. Þessi vandi felst í margvíslegum stuðningi við hefðbundinn landbúnað, þar á meðal í banni við innflutningi búvöru.

Með því að hvika örlítið frá stefnu innflutningsbanns hefði ríkisstjórnin getað eytt áhrifum gengislækkunarinnar á verðlag. Með því að hvika aðeins meira frá bannstefnunni hefði ríkisstjórnin getað gert gott betur og bætt almenningi upp allt tap hans af skattahækkunum.

Að gengislækkuninni frátalinni er flest í skötulíki í efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar. Í heild má lýsa þeim á þann hátt, að atvinnulífið er fjármagnað á kostnað almennings í stað þess að gera það með því að leggja niður úrelta ramma í landbúnaði og sjávarútvegi.

Ríkisstjórnin hefði átt að hafa forgöngu um, að veiðileyfagjald leysti kvótakerfið af hólmi í sjávarútvegi, um leið og gengi krónunnar væri gefið frjálst. Og ríkisstjórnin hefði átt að hefja í áföngum afnám innflutningsbanns, styrkja, uppbóta og niðurgreiðslna í landbúnaði.

Ef heilögu kýrnar væru í áföngum teknar af herðum neytenda og skattgreiðenda, væri nú þegar hægt að bæta lífskjör almennings, bæði með lægri sköttum og með lægra vöruverði, í stað þess að nú er verið að gera lífskjörin verri með hærri sköttum og hærra vöruverði.

Af því að ríkisstjórnin neitar að gera það, sem vit er í, neyðist hún til að fara út í hálfkák, sem í sumum tilvikum jafngildir sjónhverfingum. Í stað þess að breyta aðstöðugjaldinu beint í útsvar, er því breytt í tekjuskatt til ríkisins, sem það framselur síðan sveitarfélögum.

Af því að ríkisstjórnin neitar að gera ráðstafanir til að ná sköttum af þeim, sem hingað til hafa komið sér hjá þeim, neyðist hún til að hækka skatta á þeim, sem telja rétt fram og mest á þeim, sem mest og bezt telja fram. Um leið hvetur hún óbeint til aukinna skattsvika.

Fjármagnstekjuskattur er notaður í flestum löndum, þar á meðal í Bandaríkjunum. Athyglisvert er, að það er orðinn hornsteinn ríkisstjórnarinnar að koma með öllum tiltækum skattahækkunum í veg fyrir, að þessi eðlilegi skattur verði einnig tekinn upp hér á landi.

Að sjálfsögðu verður enginn friður um efnahagsskötu ríkisstjórnarinnar. Pakki gærdagsins kemur að litlu gagni við að leysa aðsteðjandi kreppu næstu mánaða, sem byggist á gæftaleysi af völdum ofveiði á þorski, er leggst ofan á langvinnan ríkisrekstur landbúnaðar.

Athyglisvert er, að fátt fæst nýtilegt út úr þrefi og þrúkki á ótal vígstöðvum, þar sem til skjalanna hafa meðal annars komið hálærðir menn í efnahagsmálum. Niðurstaðan er enn ein kollsteypan af því handaflstagi, sem gerir mönnum ókleift að áætla fram í tímann.

Fjallið tók jóðsótt, sem í senn var langvinn og hastarleg. Ekki var það mús, sem fæddist eins og í spakmælinu, heldur var það heldur ófrýnileg skata.

Jónas Kristjánsson

DV

Sæstrengsórar

Greinar

Sæstrengsverksmiðja er til ýmissa hluta nytsamleg fjárfesting, en alls ekki til að auka atvinnu fólks í Reykjavík. Þeir eru á villigötum, sem rökstyðja stuðning sinn við könnun málsins á þeim forsendum, að Reykjavíkurborg sé með þessu að efla atvinnutækifæri borgarbúa.

Sæstrengsverksmiðja kostar fimm milljónir króna á hvert starf, sem hún skapar. Að því leyti er hún afar dýr kostur, sem tekur fjármagn frá tækifærum, er gætu veitt mörg störf á hverjar fimm milljónir í fjárfestingu. Enn óhagstæðari eru hlutföllin í tilheyrandi orkuverum.

Stóriðja og orkuframkvæmdir eru girnilegir kostir í þjóðfélagi, þar sem ríkir umframatvinna, þar sem reynt er að efla verðmætasköpun, er truflar vinnumarkaðinn sem minnst. Á þeim forsendum var á sínum tíma ráðizt í samninga um byggingu álvers í Straumsvík.

Viðhorfin hljóta að vera allt önnur í þjóðfélagi atvinnuleysis. Þá hljóta fjármagnsfrekar framkvæmdir að hverfa í skugga aðgerða til að hlúa að atvinnugreinum, þar sem lítil fjárfesting er að baki hvers starfs, sem búið er til. Þannig nær hver króna meiri árangri.

Sæstrengsverksmiðja getur samt verið góður kostur, en á allt öðrum forsendum en atvinnuaukningar. Hún gerir ríkinu og dótturfyrirtæki þess í orkugeiranum kleift að koma ónotaðri orku í verð. Þetta er grundvallarforsenda aðildar Landsvirkjunar að slíku dæmi.

Sæstrengnum fylgir sá hliðarkostur, að hann er ekki í málmgeiranum eins og álið og járnblendið, sem lenda í sérstaklega mikilli sveiflu, þegar krepputitringur fer um heimsbyggðina í kjölfar þess, að köldu stríði lýkur og hergagnaverksmiðjur neyðast til að loka.

Sæstrengsverksmiðja getur líka verið gagnleg fyrir sveitarfélagið, þar sem hún starfar. Henni fylgja aðstöðugjöld og útsvar, ef ríkið hrifsar ekki til sín of mikinn hlut í formi einhvers konar landsútsvars á gamalkunnum forsendum baráttu gegn byggðaröskun.

Forráðamenn sveitarfélags á borð við Reykjavík verða að hafa í huga, að gráðugt og stundum lítt vinveitt ríkisvald getur stjórnað því með handafli skattheimtu og byggðastefnu, hve mikið borgin hefur upp úr að leggja morð fjár í áhætturekstur af þessu tagi.Einnig verða forráðamenn Reykjavíkur að hafa í huga, að eignaraðild að viðskiptavini hefur stórfelld vandamál í för með sér, þegar illa gengur. Þannig sjáum við nú, að ríkið neyðist til að láta Landsvirkjun lækka spottprísinn á orku til járnblendiversins í Hvalfirði.

Þegar illa gengur hjá sæstrengsverksmiðjunni fyrirhuguðu, munu forráðamenn hennar hlaupa grátandi til stóra hluthafans og biðja um frestun og afslátt á greiðslum. Þeir munu biðja um borgarábyrgð og rekstrarlán og aukið hlutafé, alveg eins og járnblendimenn.

Sæstrengsdraumurinn er rekinn áfram af órum, sem við þekkjum úr stóriðjudraumum, fiskeldisdraumum og loðdýradraumum. Hann felur í sér tækifæri, en getur hæglega breytzt í martröð, einkum ef opinberir aðilar á borð við ríki og borg eiga að útvega peningana.

Samt er ekki vitlaust af Reykjavíkurborg að verja 20 milljónum á móti 80 milljónum frá útlöndum til að láta kanna hagkvæmni slíkrar verksmiðju. Sumt af peningunum og reynslunni skilar sér til baka, þótt ekki verði af framkvæmdum. Athugun jafngildir ekki martröð.

Hinu megum við svo ekki gleyma, að hugmyndin um sæstreng til orkuflutnings er ekki háð því, að sjálfur strengurinn sé framleiddur í landinu eða í borginni.

Jónas Kristjánsson

DV

Halim Al er ekki Tyrkland

Greinar

Trúarofstæki í Tyrklandi kemur Íslendingum einkennilega fyrir sjónir. Okkar kristni er afar umburðarlynd og frjálslynd og fer eftir siðareglum vestræns þjóðskipulags. Svo er ekki um alla kristni eins og við sjáum af deilum kaþólskra og mótmælenda á Norður-Írlandi.

Það er skammur vegur frá mótmælatrúarklerkinum Ian Paisly í Belfast til æpandi trúarlýðs fyrir utan dómhús í Istanbul. Hvorir tveggja ákalla guð sinn í mynd gamla testamentisins og biðja um ill örlög vantrúarhunda. Hefðbundnar siðareglur koma þar hvergi nærri.

Ofsatrúarmenn skeyta því engu, þótt þeirra maður hafi brotið lög með því að ræna börnum. Þeir telja höfuðatriði málsins vera, að þeirra maður sé rétttrúaður, en hinn íslenzki mótaðili sé vantrúarhundur. Og þeir hafa hingað til náð sínu fram með frekju og yfirgangi.

Ekki má dæma Tyrkland í heild eftir framferði og árangri minnihlutahóps. Tyrkland er mjög flókið fyrirbæri á mörkum hins vestræna og hins íslamska heims, á mörkum nútíma og miðalda. Þar togast á miklu fjölbreyttari þjóðfélagsöfl en við þekkjum hér á landi.

Tyrkland er arftaki heimsveldis, sem var grísk-kristið fyrir rúmlega fimm öldum og íslamskt fyrir tæpri öld. Þar voru engar vestrænar lýðræðishefðir, þegar soldáninum var rutt úr vegi fyrir sjö áratugum. Menn höfðu mann fram af manni verið þegnar, ekki borgarar.

Með handafli var reynt að gera Tyrki vestræna. Tekið var upp latneskt stafróf, skilið milli ríkis og kirkju, mönnum bannað að ganga með fez á höfði, svo að nokkur dæmi séu nefnd. Komið var á fót vestrænum lýðræðisstofnunum samkvæmt vestrænni stjórnarskrá.

Í stórum dráttum hefur þetta tekizt vonum framar. Tyrkir kjósa í lýðræðislegum kosningum og stjórnmálaflokkar skiptast á um að fara með völd. Þeir sækjast eftir aðild að stofnunum Evrópu um leið og þeir telja sig geta verið brú frá framförum vesturs til íslams.

Mannréttindi hafa ekki fylgt nógu vel eftir þessari vestrænu byltingu. Meðferð fólks í fangelsum er sums staðar enn af austrænum toga. Og stjórnvöldum hefur gersamlega mistekizt að gera Kúrda og Armeníumenn að gildum og sáttum borgurum í samfélaginu.

Það er fyrst og fremst vegna hinnar inngrónu andstöðu við innleiðingu vestrænna mannréttinda, að Tyrkland hefur ekki verið viðurkennt í evrópsku samfélagi. Atburðir í barnsránsmáli Halims Als eru ekki til þess fallnir að fá Evrópu til að telja Tyrkland vera evrópskt.

Ekki er öll nótt úti í barnsránsmálinu, þótt einstakur héraðsdómari í Istanbul brjóti lög og stjórnarskrá til að dæma trúarofsafólki í hag. Hæstiréttur Tyrklands í Ankara hefur miklu betra orð á sér og reynir miklu frekar að fara eftir hinum vestræna bókstaf laganna.

Ástæða er líka til að taka eftir, að öll útbreiddustu dagblöðin í Tyrklandi hafa sagt satt og rétt frá máli þessu og að margir einstaklingar hafa lagt lykkju á leið sína til að styðja þann málstað, sem fluttur var af íslenzkri hálfu í máli barnaræningjans Halims Als.

Flestir Tyrkir eru eins og fólk er flest. Þeir eru þægilegir í samskiptum og koma vel fram við útlendinga. Skammbyssugengið umhverfis barnaræningjann er ekki dæmigert fyrir Tyrki. Það er bara dæmi um að lýðræðisbylting með handafli skilar ekki fullum árangri.

Trúarofstæki er hins vegar eitt versta fyrirbæri mannkyns. Það einkennir ekki Tyrki og það er til víðar en í löndum íslams, þar á meðal miklu nær okkur.

Jónas Kristjánsson

DV

Þeir framlengja kreppuna

Greinar

Verðbólguhatur nútímans verður skammlífara en verðbólguást fyrri áratuga. Afleiðingar verðbólguhaturs ráðandi þjóðfélagsafla eru miklu alvarlegri en afleiðingar verðbólguástar, enda eru menn nú farnir að hugsa til verðbólguáranna sem gullaldar í efnahagsmálum.

Verðbólguhatrið lýsir sér nefnilega í því, að menn verða ófærir um að viðurkenna, að verðgildi krónunnar er fallið. Þetta væri ekki vandamál, ef krónan réði sjálf verðgildi sínu eins og hlutabréf eða þorskur á markaði og gæti þannig jafnað sveiflur í efnahag þjóðarinnar.

Í stað þess að láta krónuna í friði hafa menn fryst gengi hennar með handafli og neyðast því um síðir til að fella það með handafli. Áður en menn fást til slíkra læknisverka verður misræmið búið að valda miklum efnahagsskaða, svo sem dæmin sanna einmitt núna.

Kreppan um þessar mundir stafar ekki af aðsteðjandi aðstæðum, heldur er hún að mestu leyti heimatilbúin. Í rúman áratug hefur miklum skuldum verið safnað í útlöndum í skjóli gengisskráningar og peningarnir notaðir til offjárfestingar í landbúnaði og sjávarútvegi.

Offjárfestingin í sjávarútvegi hefur stuðlað að óhófsveiðum og leitt til gæftaleysis. Þess vegna er vandinn í sjávarútvegi um þessar mundir meiri en í öðrum atvinnugreinum. Og með hruni sjávarútvegs hrynur einnig allt annað í hagkerfi, sem byggist á sjávarútvegi.

Ríkisstjórnin og valdatökumenn atvinnumálanefndar munu komast að niðurstöðu, sem felur í sér að velta hluta vandans yfir á börnin og barnabörnin. Það verður gert með því að taka lán í útlöndum til að fjármagna ýmsar brýnar skópissingar, svo sem atvinnubótavinnu.

Það magnar bara kreppuna að nota lánsfé til að fjármagna einnota aðgerðir í atvinnubótaskyni, svo sem til að flýta opinberum framkvæmdum. Lánsfé á eingöngu að nota til aðgerða, sem hafa margfeldisáhrif, svo sem til uppbyggingar í arðbærustu atvinnugreinunum.

Valdatökumennirnir úr samtökum vinnumarkaðarins munu fá því framgengt, að skattar fólks verði hækkaðir til að lina þjáningar fyrirtækja. Í megindráttum verður farið eftir þeirri blekkingu, að þeir, sem þegar borga háa skatta, séu hinir raunverulegu hátekjumenn.

Hinir raunverulegu hátekjumenn sleppa við að borga skatta, bæði þá, sem nú eru til, og hina, sem ríkisstjórnin og valdatökumenn munu finna upp til viðbótar. Skattahækkanir byggja jafnan á þeirri ímyndun, að skattskýrslur séu nothæfur grundvöllur skattlagningar.

Á næstu vikum verður líklega fléttað saman aðgerðum úr gjaldþrotastefnu ríkisstjórnarinnar og skópissingastefnu valdatökumanna samtaka vinnumarkaðarins í atvinnumálanefndinni. Þannig verður kreppan framlengd með hámörkun tilheyrandi þjáninga.

Enginn vill gera það, sem æ fleiri hagfræðingar sjá, að gera þarf. Í fyrsta lagi þarf að létta landbúnaðinum af herðum neytenda og skattgreiðenda með því að leyfa hindrunarlausan innflutning ódýrrar búvöru og hætta ríkisstyrkjum og búvörusamningum og skyldu svindli.

Í öðru lagi þarf að taka upp veiðileyfagjald í sjávarútvegi um leið og gengi krónunnar verður gefið frjálst. Með gengislækkun er vegið upp á móti veiðileyfagjaldinu í afkomu sjávarútvegsins. Um leið næst heilbrigðari staða sjávarútvegs í litrófi atvinnulífsins.

Ríkisstjórn og atvinnumálanefnd eru sammála um þann læknisdóm, að bezta ráðið við niðurgangi sé að meina sjúklingnum algerlega að fara á salernið.

Jónas Kristjánsson

DV

Barnið og baðvatnið

Greinar

Fyrirhuguð jarðakaupalög koma ekki aðeins í veg fyrir sölu jarða til útlendinga eftir stofnun Evrópska efnahagssvæðisins. Þau hindra einnig sölu jarða á innlendum markaði. Þau rýra þannig verðgildi jarðanna og skerða stórlega tekjumöguleika aldraðra bænda.

Frumvarp ríkisstjórnarinnar hefur verið kynnt í þingflokkum hennar. Það felur í sér, að kaupandi skuli hafa unnið við landbúnað í fjögur ár, þar af tvö hér á landi; eða hafa setið jörðina í fimm ár; eða sé nágranni; og gangist undir kröfur um óbreytta nýtingu.

Með þessu er verið að reyna að takmarka kaupendahópinn við nágrannabændur, sem vilja stækka við sig, eða þá, sem koma úr landbúnaði og hyggjast halda áfram hefðbundinni nýtingu jarðarinnar. Þessir kaupendur verða áreiðanlega fáir, enda þarf þjóðin þá ekki.

Að undanförnu hefur ýmsum ráðum verið beitt til að fá menn ofan af hefðbundnum landbúnaði. Sett hefur verið upp kvótakerfi, sem þvingar bændur til að draga saman seglin og helzt að selja ríkinu framleiðslurétt sinn. Fyrirhuguð jarðakaupalög eru andstæð þessu.

Í samdrætti hefðbundins landbúnaðar hafa margir aldraðir bændur aflað sér lífeyris með því að selja jarðir sínar til annarra nota en hefðbundinna. Þær hafa verið teknar til skógræktar eða hrossaræktar eða jafnvel bútaðar niður í sumarbústaðalönd þéttbýlisfólks.

Þrátt fyrir þennan markað hefur verð á jörðum verið lágt og sala treg. Sumar jarðir eru árum saman á sölulista, þótt þær séu ekki langt frá Reykjavík og njóti jafnvel jarðhita. Nýju lögin munu kippa fótunum undan þessum markaði og gera jarðir nánast verðlausar.

Þetta er gott dæmi um, að barninu er kastað út með baðvatninu. Reist er svo há girðing gagnvart útlendingum, að girt er um leið fyrir innlendan markað. Frumvarpið er greinilega samið á vegum hinna stjórnlyndu framsóknarmanna, sem eiga Sjálfstæðisflokkinn.

Í stað frumvarps, sem eyðileggur jarðamarkaðinn, er betra að herða gömul lög, sem fela í sér, að þjóðin hafi fullan aðgang að landi sínu og umgengnisrétt um það. Ekki megi girða í ár og vötn og ekki girða fyrir hefðbundnar leiðir fólks án þess að setja upp hlið.

Í stað frumvarps, sem eyðileggur jarðamarkaðinn, er betra að setja almennar reglur, sem fela í sér, að afréttir og óbyggðir séu ekki seljanleg vara. Einnig þarf að fjölga friðlýstum stöðum og stöðum á náttúruminjaskrá og setja skorður við sölu slíkra staða.

Í stað frumvarps, sem eyðileggur jarðamarkaðinn, er betra að setja reglur um rekstrarform hlunninda, svo sem laxveiði, sem fela í sér, að menn þurfi að tala íslenzku til að vera hlutgengir stjórnarmenn og stjórnendur fyrirtækjanna, sem stofnuð eru um hlunnindin.

Í stað frumvarps, sem eyðileggur jarðamarkaðinn, er betra að setja reglur um tilfærslu á hluta af sköttum þéttbýlinga og útlendinga til þeirra sveitarfélaga, þar sem þeir eiga jarðnæði, svo að eignarhald þeirra veiti auknar tekjur til rekstrar strjálbýlisbyggða.

Með ýmsum hætti má ná þeim árangri, sem frumvarpið stefnir að, án þess að draga úr innlendum jarðamarkaði, sem felst einkum í, að jarðir eru teknar úr hefðbundnum landbúnaði og lagðar til frístundaiðju þéttbýlisbúa. Þá eðlilegu þróun á ekki að stífla.

Það eru heimskra og hugmyndasnauðra manna ráð, sem felast í nýja jarðakaupafrumvarpinu. Það er dæmigert um getuleysi stjórnmála- og embættismanna okkar.

Jónas Kristjánsson

DV

Mikilvæg fríverzlun

Greinar

Evrópska efnahagssvæðið mun efla hag Íslands eins og annarra ríkja Fríverzlunarsamtakanna. Í nágrannalöndunum er talað um 5% hagvöxt af völdum aðildarinnar að þessum stærsta markaði heims, sem spannar um 40% allra heimsviðskipta um þessar mundir.

Við munum njóta lækkunar á tollum á ýmsum mikilvægum afurðum sjávarútvegs. Þar á ofan neyðast íslenzk stjórnvöld til að beita skynsamlegri hagstjórn í meira mæli en verið hefur, þannig að almannahagsmunir víki sjaldnar fyrir sérhagsmunum en verið hefur.

Við fáum að taka þátt í evrópska markaðinum án þess að taka á okkur greiðslur til millifærslusjóða Evrópusamfélagsins. Við þurfum ekki að borga hlut í landbúnaðarstefnu Evrópusamfélagsins og við þurfum ekki að taka þátt í viðskiptastyrjöldum þess út á við.

Við þurfum ekki að gera Ísland að sjálfboðaliða í tollamismunun gagnvart ríkjum utan Evrópu. Við þurfum ekki að hækka tolla gagnvart Bandaríkjunum og Japan til að afla fjár í tollalækkun gagnvart Evrópu. Ef við gerum slíkt, er það í hreinni sjálfboðavinnu.

Vandamál okkar af þátttöku í Evrópska efnahagssvæðinu stafa að litlu leyti af samningi okkar um hana, en að miklu leyti af lélegum og illum undirbúningi aðildarinnar af hálfu ráðamanna þjóðarinnar og embættismanna, svo sem fyrirhuguð tollabreyting sýnir.

Evrópska efnahagssvæðinu fylgja ýmis vandamál, sem ríkisstjórn okkar og embættismenn hafa ekki tekið nógu föstum tökum. Ekkert vitrænt hefur verið gert til að treysta yfirráð þjóðarinnar yfir landi sínu og auðlindum sínum og hamla gegn innflutningi fólks.

Í tilefni aðildar að efnahagssvæðinu eigum við að setja lög, sem skilgreina eignarhald þjóðarinnar á fiskimiðum, þannig að ljóst sé, að þau séu ekki eign skipa eða útgerðarfélaga. Við getum varið auðlindina með því að gera greinarmun á eign og nýtingarrétti.

Í tilefni aðildarinnar eigum við einnig að setja lög, sem skilgreina umgengnisrétt um land, ár og vötn, svo og um félagslegt og óframseljanlegt eignarhald á óbyggðum svæðum, svo sem afréttum. Í stórum dráttum nægir okkur að ítreka fornar reglur um slík málefni.

Í tilefni aðildarinnar eigum við einnig að setja lög, sem skilgreina íslenzku sem ríkismál á þann hátt, að réttur til starfa og búsetu sé háður því skilyrði, að menn tali íslenzku, nema sérstakar undanþágur séu veittar. Þannig má koma í veg fyrir of mikinn innflutning fólks.

Ríkisstjórnin hefur ekki staðið sig á þessum sviðum. Hún ætlar að láta Alþingi samþykkja í þessum mánuði, að þjóðin gangi á nærklæðunum inn í Evrópska efnahagssvæðið. Hún tekur ekki nógu alvarlega þau vandamál, sem bent hefur verið á, að fylgi efnahagssvæðinu.

Þetta eru sjálfskaparvíti og sjálfboðavinna, en ekki nein skylda okkar gagnvart samningsaðilum í Evrópu. Þetta eru heimatilbúin mál, sem kjósendur þurfa að muna, er ráðamenn leita að nýju eftir umboði til að halda áfram að rugla og drabba málum þjóðarinnar.

Evrópska efnahagssvæðið er í sjálfu sér gott framfaramál, sem á að vera okkur tilhlökkunarefni, þótt við kysum að vera betur undir það búin. Það gefur okkur viðskiptamöguleika og markaðsvonir, sem við getum nýtt okkur, ef við höfum til þess kjark og dug.

Lélegur og illur undirbúningur af hálfu ráðamanna og embættismanna okkar er áhyggjuefni, en ekki næg ástæða til að hafna aðild að mikilvægri fríverzlun.

Jónas Kristjánsson

DV