Author Archive

Eitraðir vindar

Greinar

Rannsóknarnefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna hefur komizt að þeirri niðurstöðu, að fréttir fjölmiðla af framferði stjórnvalda og hers í El Salvador hafa verið réttar og að ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur beitt kerfisbundnum lygum til að hylma yfir geðsjúkum morðingjum.

Á níunda áratugnum létu stjórnvöld í El Salvador myrða 75.000 manns og hrekja eina milljón manna á vergang. Síðari talan samsvarar því, að 50.000 Íslendingar væru hraktir frá heimilum sínum. Harðast gekk fram í þessu Roberto d’Aubuisson, leiðtogi stjórnarflokksins.

Til verstu illverkanna var notuð sérstök morðsveit, sem þjálfuð var í Bandaríkjunum á vegum bandaríska hersins. Hún nauðgaði meðal annars bandarískum nunnum og myrti þær. Hún myrti bandaríska jesúítapresta og sjálfan erkibiskup landsins, Oscar Arnulfo Romero.

Um allt þetta var fjallað í fjölmiðlum á sínum tíma. Stjórnir Reagans og Bush Bandaríkjaforseta kölluðu þetta fjölmiðlafár. Það gerði líka Wall Street Journal í sérstökum viðhafnarleiðara, þar sem ráðizt var á blaðamenn fyrir vilhallan fréttaflutning frá El Salvador.

Margt yfirstéttarfólk trúði á Wall Street Journal, af því að það er fremur leiðinlegt blað, skrifað af hagfræðingum, en ekki blaðamönnum. Klisjan um fjölmiðlafárið á greiðan aðgang að fólki, sem hefur komið sér vel fyrir í lífinu og vill ekki láta trufla samvizku sína.

Af ráðherrum og embættismönnum forsetanna Reagans og Bush gengu harðast fram Alexander Haig, Jeane Kirkpatrick og Thomas O. Enders. Embættisfærsla þessa fólks verður nú rannsökuð í Bandaríkjunum í framhaldi af niðurstöðu Salvadornefndar Sameinuðu þjóðanna.

Nefndin fór rækilega ofan í saumana á fárinu í El Salvador. Hún kannaði 25.000 tilvik og yfirheyrði 2.000 vitni. Niðurstaða hennar var sú, að þetta hefði ekki verið neitt fjölmiðlafár, heldur blákaldur sannleikurinn. Morðæði réði ferðinni hjá stjórn og her El Salvadors.

Ronald Reagan og George Bush, Alexander Haig og Jeane Kirkpatrick var fullkunnugt um þetta ástand. Þeim var líka ljóst, að brjálæðið var kostað af bandarískum stjórnvöldum. Þeim mátti öllum vera ljóst, að svik þeirra mundu komast upp um síðir. Samt lugu þau í sífellu.

Sóðaleg framkoma Wall Street Journal, bandarískra forseta og embættismanna úr flokki repúblikana í máli El Salvadors sýnir ljóslega, að lýðræðislegt stjórnkerfi kemur ekki í veg fyrir, að á Vesturlöndum komist til valda meira eða minna forhertir siðleysingjar.

Stjórnin í El Salvador er sérstakur kapítuli út af fyrir sig. Þar er við völd Alfredo Christiani forseti úr flokki geðsjúklingsins d’Aubuissons. Í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna lét Christiani þing landsins náða í skyndingu alla glæpamenn hersins með einu pennastriki.

Allt fram á síðustu daga hefur Christiani forseti notið aðstoðar varnarmálaráðherra, sem áður var yfirmaður morðsveitarinnar. Það er René Emilio Ponce, sem til skamms tíma var helzti skjólstæðingur bandarískra stjórnvalda og bandaríska hersins í El Salvador.

Sem betur fer eru hinir eitruðu vindar hættir að blása um utanríkisráðuneyti og forsetahöll Bandaríkjanna. Bill Clinton er að því leyti líkur Jimmy Carter, að hann mun ekki láta viðgangast glæpi bandarískra stjórnvalda gegn mannkyninu að hætti þeirra Reagans og Bush.

Mál þetta er enn eitt sönnunargagn þess, að margtuggna klisjan um fjölmiðlafár felur jafnan í sér tilraun valdamanna til að breiða yfir mistök sín og glæpi.

Jónas Kristjánsson

DV

Litla Ítalía

Veitingar

Litla-Ítalía er kjörinn staður til að fá sér ódýrt og samt fjölbreytt að borða í hádeginu. Hádegisverðarhlaðborðið kostar 580 krónur fyrir utan kaffi. Innifalin er súpa, ávaxtasafi, kryddlegið grænmeti af ýmsu tagi, pöstur, sjávarréttir og baunaréttir, ostar og ávextir.

Flestir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi á þessu borði og breytingafíklar geta fundið nýstárlega rétti á borð við anískrddaðar kartöflur. Meiri natni er lögð í þetta en salatborðin, sem víða tíðkast í hádeginu.

Að öðru leyti er Litla-Ítalía eins konar útibú frá Ítalíu, sem er einn af betri matstöðum borgarinnar. Nýi staðurinn nær ekki gæðum móðurskipsins. Pítsurnar voru að vísu mjúkar og safaríkar, en pösturnar voru slakar.

Litla-Ítalía felur sig í kjallara gamals húss við Laugaveg 73, í húsinu neðan við stóra Landsbankahúsið. Gengið er um tröppur niður í lítið port og síðan þvert til vinstri. Hér hafa risið og hnigið nokkur veitingahús og ekki skilið neitt eftir í endurminningunni.

Hér er timburloft og trégólf. Þetta er friðsæll og rómantískur staður, einkum að kvöldlagi, er fólk skrafar lágt í þröngum básum. Óperutónlist er of hátt stillt.

Á skilrúmum standa blóm og fullar vínflöskur, en í lofti hanga tómar chianti-flöskur bastvafðar. Á veggjum er ýmislegt dót, svo sem hljóðfæri og dúkkur, svo og flöskumiðar af Mouton Rotschild, sem raunar fæst ekki.

Þjónusta er upp og ofan. Í eitt skiptið var hún ítölsk og fullkomin, mundi meira að segja, hvað hver hafði pantað. Í annað skipti var hún íslenzk og meira eða minna utangátta, þótt vingjarnleg væri. Fyrsta verk þjóns á vaktinni á að vera að kynna sér, hver sé réttur dagsins, svo að unnt sé að svara einföldustu spurningum gesta.

Matseðillinn er stuttur og spennulaus. Þungavigtin er í pöstum og pítsum. Verðið er of hátt á öðru en hádegishlaðborðinu, svona mitt á milli Asks og Holts. Pöstur og pítsur kosta einar sér um 980 krónur og annað er dýrara.

Nokkrar tegundir eru af ítölsku víni, einkum rauðu. Þarna fæst meðal annars Pinot Grigio og beizkur Bardolino frá Langbarðalandi, ýmis Chianti-vín frá Etrúskalandi og hlutlaust, en ferskt Frascati frá Latverjalandi. Ráðlegt er að halla sér að hinu gamalkunna Chianti.

Súpur dagsins eru yfirleitt fremur góðar hveitisúpur rjómaðar, svo sem tómatsúpa og seljustönglasúpa. Brauð var gott, en smjör hart.

Sjávarréttasalat var gott. Þar var ljúf úthafsrækja og meyr hörpufiskur, agnarlitlir kolkrabbar, nokkuð seigir, örugglega úr dós. Laxafrauð var bragðgott, borið fram í sneiðum með ristuðu brauði.

Pöstur reyndust misjafnar. Ofnbakaðar pastaræmur með örsmáum og aflöngum kjötbollum voru brenndar fastar við diskinn. Pastahringir með skinku, sveppum og hvítlauk voru betri. Ítalskar kexstengur fylgdu.

Steinbítur dagsins var mjög góður, afar léttsteiktur, borinn fram undir miklu þaki grænmetis í tómatsósu. Þetta var bezti rétturinn, bar vott um tilþrif í eldhúsi.

Á ferðum mínum um Róm kom ég aldrei á svo ódýran matstað, að ekki væru þar hvítar tauþurrkur. Í Litlu-Ítalíu eru pappírsþurrkur aftur á móti í hávegum hafðar.

Jónas Kristjánsson

DV

Þjóðarsátt um kreppu

Greinar

Launafólk vill ekki stofna til átaka til að hamla gegn mikilli og sífelldri kjaraskerðingu. Forustufólk Alþýðusambandsins hefur metið stöðuna í kreppunni og telur heppilegast að fresta samningum til hausts, af því að samningsaðstaðan sé alls engin um þessar mundir.

Atkvæðagreiðsla kennara og annarra opinberra starfsmanna sýndi, að jafnvel þeir, sem við mest atvinnuöryggi búa, eru ekki tilbúnir til átaka, þrátt fyrir eindregna hvatningu forustuliðsins. Ráðin voru tekin af þessum launþegarekendum, sem áttuðu sig ekki á veruleikanum.

Ekki er nóg með, að launafólk skilji, að minna er til skiptanna í þjóðarbúinu við núverandi ástæður, heldur er það um leið ekki fáanlegt til að draga pólitískar ályktanir af slæmri útreið sinni í heimatilbúinni kreppu, sem stjórnmálamenn og sérfræðingar hafa fært þjóðinni.

Kvartmilljón manna þjóð hefur ekki ráð á að borga rúmlega tuttugu milljarða á ári til að halda uppi kúm og kindum, tíu milljarða á ári til að varðveita útveggjasteypu og fimm milljarða á ári til að greiða tjónið af fyrirgreiðslurugli ráðamanna í pólitík og lánastofnunum.

Allar þessar tölur liggja á borðinu. Kýr og kindur kosta níu milljarða á fjárlögum og tólf að auki í innflutningsbanni. Árlegur herkostnaður við steypu hefur rækilega verið skjalfestur. Tjónið í lánastofnunum kemur skýrt fram í afskriftum og nú síðast í Landsbankafári.

Almenningur er svo sem ekki ánægður með þessa meðferð fjármuna, en sættir sig við hana. Að minnsta kosti heldur fólk áfram að hafa lítil afskipti af stjórnmálum önnur en að kjósa stjórnmálaflokka og -foringja, sem í flestum peningalegum atriðum eru hver öðrum líkir.

Ekki má heldur gleyma, að margir þeirra, sem hafa greind og þekkingu til að átta sig á ruglinu, hafa komið sér sæmilega fyrir í lífinu. Þeir skipa yfirstétt og vel stæða millistétt, sem geta varið kjör sín, þótt almenningur verði fyrir búsifjum af völdum verðmætabrennslunnar.

Klofningur þjóðfélagsins lýsir sér vel í, að meðaldýrir bílar seljast illa, ódýrir bílar betur og dýrir bílar allra bezt. Óhóf og munaður blómstra sem aldrei fyrr við hliðina á vaxandi örbirgð hinna, sem hafa beðið eða eru að bíða lægri hlut í samdrætti og harðnandi lífsbaráttu.

Yfirstéttin hefur brugðizt þjóðinni. Stjórnmálamenn standa fyrir gálausri meðferð fjármuna, studdir ráðamönnum lánastofnana. Sérfræðingagengið í kringum ráðherrana lætur verðmætabrennsluna í friði. Sérfræðingar byggingaiðnaðarins halda áfram að nota steypu.

Yfirstéttin í samtökum launafólks hefur líka brugðizt. Hún hefur gefist upp gagnvart heimasmíðaðri kreppu í stað þess að krefjast þess, að tækifærið verði notað til að stöðva verðmætabrennslu í landbúnaði og í lánveitingum til gæluverkefna og gæludýra atvinnulífsins.

Ef fólk tæki af festu á málum af þessu tagi, kastaði út andvana forustuliði sínu í stéttarfélögum og stjórnmálum og veldi sér nýja forustu, væri hægt að skera niður ruglið og láta alla njóta miklu betri lífskjara. En því miður sér almenningur ekki samhengið í erfiðleikunum.

Þess í stað heldur íslenzk undirstétt áfram að líta upp til yfirstéttarinnar, alveg eins og forfeður hennar litu áður upp til kóngsins og hirðarinnar. Undirstéttin setur ekki skilyrði fyrir undirgefni sinni og gerir alls engar sjáanlegar kröfur til árangurs í starfi yfirstéttarinnar.

Þannig hefur verið og verður áfram þjóðarsátt um að halda friðinn og trufla ekki það ferli, sem hefur leitt þjóðina út í kreppu og á eftir að magna kreppuna enn frekar.

Jónas Kristjánsson

DV

Varnarstríð gegn myrkrinu

Greinar

Borís Jeltsín þorði ekki að leysa upp rússneska þingið og efna til nýrra kosninga fyrir rúmu ári, þegar hann var á hátindi valda sinna. Hann taldi sig verða að ná árangri í efnahagsmálum, áður en hann gæti lagt verk sín undir dóm þjóðarinnar í almennum kosningum.

Í heilt ár hefur Jeltsín reynt að semja við þingið um völdin í landinu. Það hefur honum ekki tekizt, enda er þingið arfleifð frá tímum kommúnismans, að mestu skipað fortíðardraugum, sem grafa undan framförum, af því að þeir óttast að missa völd og peninga.

Barátta forseta og þings er ekki barátta innan ramma lýðræðishefðar. Jeltsín einn hefur umboð frá þjóðinni úr beinum lýðræðiskosningum. Þingið hefur ekki slíkt umboð, því að það var skipað á valdatíma kommúnista. Það er spillt og úrelt stofnun, sem þarf að endurnýja.

Nú er þetta verk miklu erfiðara en það hefði verið fyrir rúmu ári. Gamla yfirstéttin hefur náð áttum eftir sviptingar fyrri ára. Hún kann á kerfið og hefur brugðið fæti fyrir umbætur Jeltsíns. Honum er sumpart kennt um, að lífskjör hafa versnað af þessum ástæðum.

Jeltsín ræður ekki lengur ferðinni. Her og lögregla eru orðin að dómurum í skákinni milli forsetaembættis og þings. Slíkt kann ekki góðri lukku að stýra. Aukin áhrif vopnaðra sveita eru ávísun á ferli, sem leiðir í átt til bananalýðveldis að hætti þriðja heimsins.

Gegn vilja Jeltsíns hefur rússneski flugherinn gert loftárásir á nágrannaríkið Georgíu. Hann getur ekki haldið uppi eðlilegum samskiptum við nágrannaríki, af því að vopnaðar sveitir ríkisins fara sínu fram. Þannig eru hin raunverulegu völd að leka úr greipum hans.

Hætta er á, að Jeltsín sigri ekki í skákinni, þótt hann hafi betur í viðureigninni við fortíðardrauga þingsins. Það verða herforingjar, sem vinna sigur, ef Jeltsín neyðist til að reiða sig á þá. Það boðar aukinn ófrið á landamærum Rússlands og aukna stríðshættu í Evrópu.

Vesturlandabúar geta lítið gert annað en að veita Jeltsín siðferðilegan stuðning. Ekki má endurtaka gróf mistök Norðurlandaráðs, sem bauð til sín helzta andstæðingi Jeltsíns, Rúslan Kashbúlatov þingforseta. Lýðræðisöflin í Rússlandi standa að baki Jeltsíns.

Endurreisn Rússlands er miklu erfiðari en endurreisn annarra ríkja Austur-Evrópu. Efnahagskerfið er enn í höndum gæludýra gamla tímans. Valdastofnanir ríkisins eru þétt skipaðar fólki, sem kann ekki að breyta, vill ekki breyta eða er beinlínis að maka krókinn.

Erlend fjárfesting hefur gefizt illa. Reynslan sýnir, að Rússar kunna ekki að notfæra sér hana. Þess vegna kemur vestræn fjárhagsaðstoð ekki að notum. Framfarir að vestrænum hætti verða að koma að innan. Fólk verður að skilja og skynja vestrænan markaðsbúskap.

Í stað vestræns markaðsbúskapar hefur risið braskmarkaður, óheftur þjófnaður á þjóðareign og alger spilling á Sikileyjarvísu. Fremstir í flokki hafa verið kerfiskarlar Kashbúlatovs sem nota aðstöðu sína í kerfinu til að blóðmjólka það og kenna síðan Jeltsín um ástandið.

Þannig hafa efnahagsvöld lekið úr höndum Jeltsíns eins og hernaðarvöldin. Ákvarðanir hans um helgina voru lokatilraun hans til að stöðva lekann. Hann hefur ákveðið að snúa sér beint til þjóðarinnar og biðja um aukið og endurnýjað umboð til að stjórna landinu.

Takist tilraunin ekki, hverfur Rússland aftur inn í myrkur fortíðar. Takist hún aðeins með stuðningi hersins, verður Rússland aftur hættulegt umhverfi sínu.

Jónas Kristjánsson

DV

Persona non grata

Greinar

Boris Spasskíj braut bann Sameinuðu þjóðanna við samskiptum við Serbíu á sviði viðskipta, íþrótta og menningar, þegar hann tefldi við Bobby Fischer í Belgrað í fyrra. Ótvírætt er, að bannið náði til skákeinvígis þeirra, sem telst til glæpa gegn samfélagi þjóðanna.

Hömlulaus gróðafíkn leiddi Fischer og Spasskíj út á þá ógæfubraut að þiggja boð heimsþekkts glæpamanns á sviði bankaviðskipta um að rjúfa víðtækt samskiptabann við það ríki, sem síðustu misserin hefur gengið lengst allra ríkja í ógeðslegum stríðsglæpum.

Einvígi Fischers og Spasskíjs var ekki aðeins formlegt brot á formlegri ákvörðun, sem samþykkt var samhljóða í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Það var einnig brot gegn óformlegum siðareglum, sem alls staðar á að halda í heiðri. Það var glæpur gegn mannkyninu.

Spasskíj hefur óhreinkað sig svo á þessu máli, að dularfullt er, að til tals skyldi koma, að hann kynnti skák í skólum og tefldi tveggja skáka einvígi við Friðrik Ólafsson, sem er framkvæmdastjóri eins af þremur hornsteinum þjóðskipulags Íslendinga, sjálfs Alþingis.

Fischer er þegar byrjaður að taka út hluta refsingarinnar fyrir sinn ömurlega þátt í auglýsingaskrumi í þágu siðlauss árásarríkis. Hann getur ekki snúið aftur til Bandaríkjanna, því að þar verður hann tekinn fastur og látinn sæta opinberri ákæru fyrir landráð.

Sakarefni Fischers varða í Bandaríkjunum sem svarar 15 milljarða króna sekt og tíu ára fangelsi. Svo alvarlegum augum er þar í landi litið á framgöngu Fischers. Hann er því dæmdur til að lifa sem vansvefta útlagi á sífelldum flótta undan hugsanlegri kröfu um framsal.

Spasskíj nýtur þess, að frönsk stjórnvöld hafa ekki nennt að framfylgja skyldu sinni gagnvart eigin stuðningi við aðgerðir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Hann fékk að fara aftur til þess lands, sem skaut yfir hann skjólshúsi, þegar hann hrökklaðist af heimaslóð.

Hins vegar teflir Spasskíj ekki fyrir hönd Frakklands í landsliðseinvíginu við Ísland, sem nú stendur yfir í Reykjavík. Samkvæmt skákstyrk sínum ætti hann að tefla á öðru borði, ef allt væri með felldu. En okkur hefur verið sýnd sú kurteisi að tefla honum ekki fram.

Þar með var málið einfalt gagnvart Skáksambandinu. Frakkar leystu sjálfir mál Spasskíjs gagnvart Íslandi. Þá kemur upp sú einkennilega og siðblinda hugmynd að bjóða heimskunnum siðleysingja sérstaklega til að tefla við Friðrik og jafnvel kynna skák í skólum.

Skáksamband Íslands er að hluta til á framfæri þjóðarinnar samkvæmt ákvörðunum teknum á Alþingi. Eðlilegt er, að endurskoðaður verði stuðningur skattgreiðenda við stofnun, sem gengur þvert á stuðning Íslands við réttmætar refsiaðgerðir á alþjóðavettvangi.

Skáksambandið er auðvitað frjálst að því að hafa engar siðareglur að leiðarljósi. En þjóðfélagið í heild er líka frjálst að því að hafna stuðningi við félagsskap, sem gengur þvert gegn almennri siðgæðisvitund og alþjóðlegum samþykktum, sem Ísland styður á formlegan hátt.

Í staðinn getur Skáksambandið beðið Spasskíj að láta eitthvað af hendi rakna af blóðpeningunum, sem hann fékk í Serbíu í fyrra. Eðlilegt er að slíkir aðilar rotti sig saman um meðferð fjármuna af því tagi og ónáði ekki aðra, sem virða almennar og alþjóðlegar siðareglur.

Spasskíj hefur í taumlausri gróðafíkn valið sér ömurlegt hlutskipti. Ef hann lætur sjá sig í skólum, verður hann persona non grata í augum margra Íslendinga.

Jónas Kristjánsson

DV

Skólabrú

Veitingar

Skólabrú stendur tæpast undir verði. Það er um 10% hærra en á Hótel Holti, þótt matreiðslan rambi á ýmsa vegu kringum gott meðallag. Að vísu hefur henni farið mikið fram, en það var líka óhjákvæmilegt, því að hún var stundum ekki upp á marga fiska til að byrja með.

Innréttingar eru ekki fyllilega í stíl húsnæðisins. Misheppnuð er kaffistofan á efri hæð. Þar stinga í stúf lóðréttir veggir með gamalli klæðningu ljósmálaðri og hallandi loft með nýjum fjölum ómáluðum milli dökkra sperra. Einnig eru samskeyti klæðninganna óvönduð.

Matsalurinn er opinn og ekki nógu hlýlegur, þrátt fyrir daufa kertabirtu. En hann er stílhreinn, með máluðum panil, ljósum vegglit og fallegu parketti. Stólar eru þægilegir og borðbúnaður fyrsta flokks, sem og þjónustan.

Mér sýnist matseðillinn hafa verið að mestu leyti óbreyttur frá upphafi. Engin tilraun er gerð til að haga seglum eftir markaði eða árstíðum, ef frá er talinn einn fiskréttur dagsins. Að öðru leyti eru fiskréttirnir óbreyttir árið um kring, þótt fisktegundir séu misgóðar eftir árstíðum og misjafnlega fáanlegar frá degi til dags. Svona frosnir matseðlar eru úrelt fyrirstríðsfyrirbæri.

Óvenjulegir réttir

Úr skák bætir, að réttir seðilsins eru engan veginn hversdagslegir eða líkir réttum annarra húsa. Skólabrú sýnir að því leyti óvenjulegan metnað. En spennandi uppskriftir duga skammt, ef þær eru óbreytanlegar í tímans rás og misjafnlega heppnaðar í framkvæmd.

Fyrir ári man ég eftir bragðlausum humarhlaða (kannski bara skötusel) með lárperu. Um daginn bjó sami réttur hins vegar yfir góðum humri. En lárperubragðið var svo áberandi, að rétturinn náði ekki jafnvægi.

Léttsteikt andalifur var rauð og mjúk og fín, borin fram með afar sterkri koníakssósu. Ofnbakaðir sniglar í blaðdeigsvirki voru líka góðir og mun mildari á bragðið.

Ofnbakaður silungur var í lagi, en meira í frásögur færandi var skemmtilegur beinmergur, sem fylgdi honum. Þetta var hugprúð samsetning, sem lánaðist vel.

Léttsteiktar svartfuglsbringur voru alls ekki léttsteiktar, heldur miðlungi steiktar og næstum alveg dökkar í gegn. Sterk engifer-berjasósa bætti nokkuð úr skák.

Lamb að hætti Skólabrúar reyndist vera fínt skornar hryggjarsneiðar, einstaklega hæfilega eldaðar, bornar fram með einstaklega hæfilega léttsoðnu grænmeti.

Drungalegt og þungt súkkulaðiísfrauð stakk í stúf við skrautlega og létta eftirrétti. Döðlu- og hnetuterta var hins vegar góð, borin fram með þeyttum rjóma.

Bezt eftirréttanna var svokölluð Reykjavíkurvaffla, sem reyndist vera sykurterta með karamelluþaki og þeyttum rjóma, borin fram með léttsoðnum ávöxtum.

Vínlistinn er góður. Þar eru þekkt gæðavín í hóflegum verðflokki í bland við enn þekktari gæðavín á borð við Chateau Mouton Rotschild og Chateau Clerc-Milon.

Ég hef ekki tekið eftir mikilli aðsókn að Skólabrú, þrátt fyrir töluverðar auglýsingar. Ég held, að staðurinn hafi ekki farið nógu vel af stað á sínum tíma og gjaldi þess nú, þótt ráðamenn hans hafi náð betri tökum á honum.

Jónas Kristjánsson

DV

Gætu ekki skúrað gólf

Greinar

Þeir bankastjórar og bankaráðsmenn Landsbankans, sem hafa verið þar nógu lengi til að bera ábyrgð á óeðlilega miklu útlánatjóni bankans, eiga auðvitað að segja af sér. Þeir hafa hagað sér eins og bankinn sé félagsmálastofnun fyrir gæludýr kerfisins í atvinnulífinu.

Í skjóli ábyrgðar skattgreiðenda á skuldbindingum Landsbankans hafa hinir ábyrgðarlausu stjórnendur hans ekki getað fullnægt kröfum nýlegra laga um trausta eiginfjárstöðu, þótt bankinn hafi rúman vaxtamun til að afla sér árlegra milljarða í afskriftasjóð.

Bankaeftirlitið hefur lengi varað við slæmri stöðu Landsbankans. Það er því ekki vonum seinna, að ríkisstjórnin grípur til þess ráðs að knýja Alþingi til að heimila blóðgjöf, sem á að hindra, að bankinn fljóti í átt til gjaldþrots. Ríkisstjórnin gat ekki komizt hjá þessu.

Hitt er út í hött, að sukkarar bankans fái að halda áfram að sukka með fé hans. Þess vegna hefði ríkisstjórnin átt að setja það skilyrði fyrir innspýtingunni, að allir þeir ráðamenn bankans, sem tóku þátt í útlánafylliríi síðustu ára, fái reisupassann sinn hér og nú.

Hversdagslegur samdráttur í sjávarafla hefur valdið því, að sum veð bankans eru ótryggari en þau voru. Þetta skýrir þó ekki nema hluta af sukkinu, enda mætti ætla, að menn sem eru á rosakaupi við að passa milljarða, reyni að hafa vaðið fyrir neðan sig í útlánum.

Við megum ekki gleyma, að gæzlumenn banka eru taldir svo mikilvægir, að starfskjör þeirra eru ekki í neinu samhengi við lífskjör þjóðarinnar. Þegar þeir láta af störfum, fá sumir þeirra nítján sinnum meiri lífeyri en verkamönnum er talið bera eftir starfslok.

Ætlast mætti til, að fyrir þessi sérstæðu starfskjör kynnu yfirmenn banka og raunar annarra lánastofnana eitthvað fleira fyrir sér en að velja réttar flugur í laxveiðitúra. En því miður eru þeir svo veruleikafirrtir, að þeir gætu ekki einu sinni skúrað gólf á Sóknarkaupi.

Stundum eru ráðamenn banka afsakaðir með, að þeir verði að fara að tilmælum ráðherra og kjördæmapotara á Alþingi. En í lögum banka eða ráðningarsamningum ráðamanna þeirra segir ekki, að þeir eigi að lúta pólitískri eða félagslegri fjarstýringu utan úr bæ.

Getuleysi bankastjóra og bankaráðsmanna Landsbankans er svipað og í ýmsum fleiri lánastofnunum hins opinbera, einkum sjóðum, sem stofnaðir voru til að þjónusta gæluverkefni kerfisins. Gæzlumenn þessara sjóða hafa ekki heldur verið látnir víkja úr starfi.

Sömu sögu er að segja af tilsjónarmönnum, sem ríkið skipar stundum til að tryggja, að allt fari vel í umsvifamiklum stofnunum. Stjórnarsæti Álafoss voru jafnan skipuð helztu efnahagsvitringum kerfisins, enda varð úr því eitt hrikalegasta gjaldþrot sögunnar.

Helztu valdamenn þjóðmála og fjármála mynda eins konar klúbb, sem svífur í skýjum ofan við íslenzkan raunveruleika. Í þessari paradís eilífs sumars eru peningar alltaf sem sandur og ábyrgð er aldrei nein. Næst jörðinni komast klúbbfélagar á laxárbökkum.

Fámenn þjóð ætti í erfiðleikum við að manna allar mikilvægar stöður, svo að sómasamlegt sé, jafnvel þótt beztu menn væru jafnan valdir. Í samtryggingarkerfi, sem gengur svo langt, að menn eru ráðnir eftir póltík til að spá fyrir veðri, tekst þetta afar sjaldan.

Björgun Landsbankans er enn eitt dæmið um, að þjóðmál og fjármál eru í höndum ábyrgðarlausrar yfirstéttar, sem gæti ekki einu sinni skúrað bankagólfin.

Jónas Kristjánsson

DV

Steypa er innanhússefni

Greinar

Níu milljarðar króna munu framvegis fara á hverju ári í að gera við og klæða steypuskemmdir í húsum, sem byggð hafa verið á allra síðustu áratugum. Ekkert bendir til, að steinsteyptu húsin, sem verið er að reisa um þessar mundir, muni þurfa miklu minna viðhald.

Þetta er bit upp á tæplega hálfan hinn hefðbundna landbúnað, sem kostar 21 milljarð á ári. Þetta er tvöfalt meira en árleg byrði af samanlögðu tjóni af orkuverinu í Blöndu, laxeldisævintýri, loðdýrarækt og öðrum gæluverkum hins opinbera, er kosta fjóra milljarða á ári.

Um tveir áratugir eru síðan menn komust að raun um, að ekki væri allt með felldu í steyptum húsum á Íslandi. Fyrst var talað um alkalískemmdir, síðan frostskemmdir og nú er talað um kalskemmdir. En ekkert raunhæft hefur verið gert til að leysa vandann.

Samt er sagt, að unnt sé að byggja steinsteypt hús á landinu. Er vísað til þess, að það hafi tekizt fyrir stríð og að það hafi tekizt í orkuverum. Ef spurt er, hvers vegna ekki sé þá steypt eins og fyrir stríð eða eins og gert sé í orkuverum, verður fátt um bitastæð svör.

Enginn skortur er hins vegar á sökudólgum. Skeljasandur og kísilryk í sementi eru nefnd til sögunnar. Sömuleiðis sjávarsandur í steypu og uppskriftir í steypustöðvum af annars konar og lakari steypu en hinni ófáanlegu steypu, sem farið hefur í orkuver.

Ennfremur er nefnd til sögunnar langvinn steypuhræring í þar til gerðum bílum, steypuþeyting með þar til gerðum tækjum á vinnustað og almennur handagangur í öskjunni að hætti íslenzkra byggingamanna. En áratugir hafa liðið, án þess að botn fáist í málið.

Einn af sökudólgunum, sem hefur komið í ljós upp á síðkastið, er aukin einangrun innan á steinsteyptum veggjum. Hún flýtir fyrir kali steypunnar. Þess vegna er nú talið, að framvegis muni nást betri árangur, ef einangrað sé utan á steypuna, en ekki innan á hana.

Líta má á þjóðfélagið í heild sem allsherjar tilraunastöð í steypufræðum. Í stað þess að takmarka notkun þessa hættulega efnis við rannsóknastöðvar, meðan leitað er að nothæfri vöru, er steypa notuð villt og galið úti um borg og bý. Allir eru gerðir að tilraunadýrum.

Þessi umsvifamikla tilraun hefur leitt til viðhaldsmarkaðar, sem nemur níu milljörðum króna á hverju ári. Fyrirferðarmiklir á þeim markaði eru töframenn, sem selja ýmis galdraefni, er sum hver gera málið illt verra og engin koma í staðinn fyrir vandaða vinnu.

Fræðimenn á þessu sviði eru orðnir sammála um, að vel framkvæmd viðgerð geti enzt í átta ár. Viðgerðin getur út af fyrir sig verið í lagi að þessum tíma liðnum, en gamla steypan fyrir innan hefur haldið áfram að skemmast. Þess vegna verða viðgerðir að Kleppsvinnu.

Í flestum tilvikum reynist til lengdar hagkvæmast að setja einangrun utan á skemmda steypu og klæða síðan einangrunina með plötum, sem sérstaklega eru gerðar til að verjast veðrum og hafa raunar ekki annað hlutverk. En vanda þarf til vals og frágangs platna.

Með þessu er verið að viðurkenna, að við íslenzkar aðstæður sé steypa svipað innanhússefni og timbur. Eins og klæða varð timburhúsin í gamla daga með bárujárni, verði nú að klæða steypuhúsin með einhverjum þeim plötum, sem hafa leyst bárujárnið af hólmi.

Þannig er með ærnum kostnaði unnt að lagfæra mistök fortíðarinnar. En á sama tíma er á hverjum degi verið að framkvæma ný mistök með nýrri steypu.

Jónas Kristjánsson

DV

Sanngjörn kreppa

Greinar

Hver lýðræðisþjóð fær þá kreppu, sem hún á skilið, á sama hátt og hún fær þá forustu, sem hún á skilið. Kreppan á Íslandi er algerlega heimatilbúin. Hún á sér engar ytri forsendur í efnahagsástandi þeirra ríkja, sem við skiptum mest við. Þjóðin ber sjálf ábyrgð á henni.

Samdráttur í verðgildi sjávarafla hefur hingað til ekki verið slíkur, að unnt sé að afsaka kreppuna með honum einum. Þriggja milljarða samdráttur sjávarútvegs í þrjúhundruðogsjötíu milljarða þjóðarbúi er ekki næg forsenda fyrir kreppunni, sem við búum nú við.

Að svo miklu leyti sem samdráttur í sjávarafla er hluti af forsendu kreppunnar, þá er hann líka þjóðinni að kenna. Hún hefur leyft forustuliði sínu að heimila ofveiði á flestum mikilvægustu fisktegundunum, þrátt fyrir ítrekaðar tillögur fiskifræðinga um minni veiði.

Þjóðin er svo forstokkuð, að hún er reiðubúin að hlusta á glæframenn útskýra, að fiskveiðifræði sé svo skammt á veg komin, að ekki þurfi að taka mark á tillögum fiskifræðinga. Þess vegna má ætla, að gæftaleysi muni magnast og verða viðameiri þáttur kreppunnar.

Íslendingar eru ekki reiðubúnir til að breyta efnahagslegum og pólitískum trúarsetningum sínum og munu þess vegna verða að sætta sig við sívaxandi kreppu. Líklegast er, að kreppan byrji ekki að sjatna, fyrr en öll sund eru orðin lokuð að færeyskum hætti.

Þetta kemur greinilega fram í tillögum aðila vinnumarkaðarins til ríkisstjórnarinnar um tilfærslu atvinnuleysis frá árunum 1993 og 1994 til áranna þar á eftir. Þessar tillögur bera þess engin merki, að flytjendur hafi hugmynd um, hvaðan á sig stendur veðrið.

Ofan á tilfærslu atvinnuleysis biðja aðilar vinnumarkaðarins um ný kraftalæti stjórnvalda, þótt dæmin sýni, að fyrri kraftalæti hafa leitt til orkuvers í Blöndu, laxeldis- og loðdýraævintýra og annnara gæluverkefna, sem hafa samtals brennt fjóra milljarða árlega.

Aðilar vinnumarkaðarins minnast ekki einu orði á þá níu milljarða, sem árlega eru teknir af fé skattgreiðenda til að brenna í hefðbundnum landbúnaði, og ekki heldur á þá tólf milljarða, sem árlega eru teknir af fé neytenda til að brenna í hefðbundnum landbúnaði.

Aðilar vinnumarkaðarins endurspegla þjóðarsálina eins og stjórnmálamennirnir endurspegla hana. Við stöndum einfaldlega andspænis því, að þjóðarsátt er um að halda áfram að brenna árlegum milljörðum í hefðbundnum landbúnaði og í ríkishandafli gæluverkefna.

Þetta er þjóðarsátt um kreppu. Þetta er þjóðarsátt um að breyta smávægilegum samdrætti í tekjum sjávarútvegs í risavaxna sálarkreppu, sem dregur kjark úr forstjórum og ræstingafólki, sjóðastjórum og opinberum starfsmönnum, svo að enginn þorir neinu lengur.

Kreppan er ekki enn komin á það stig, að þjóðin sé fáanleg til að kippa grundvellinum undan henni. Þjóðin vill áfram fá að þjást. Fólkið vill áfram vera á lágum launum og forstjórarnir vilja áfram stunda taprekstur. Enginn getur bannað þjóðinni að pynda sjálfa sig.

Þessi bjargfasta sjálfspyndingarstefna þjóðarinnar mun fljótlega leiða til þess, að ríkisstjórn og aðilar vinnumarkaðarins munu formlega skrifa undir enn eina þjóðarsáttina, þar sem hvergi verður vikið í alvöru að forsendunum, sem hafa komið núverandi kreppu af stað.

Forustumenn, sem þjóðin hefur valið sér, munu undirrita skjal, sem þjóðin á skilið. Þess vegna er ekki nema sanngjarnt og eðlilegt, að kreppan blómstri enn frekar.

Jónas Kristjánsson

DV

Búmannsklukkan

Veitingar

Búmannsklukkan er með betri stöðum, sem stæla verðlagið á Hótel Holti án þess að ná gæðum þess. Maturinn er yfirleitt góður og umhverfið næsta fágætt.

Eftir ýmsa hrakninga er gamla Torfan aftur komin til upphafs síns sem veitingahúss. Húsgögn og innréttingar eru að mestu á nýjan leik í samræmi við húsið. Þetta er eitt notalegasta umhverfi matargerðarlistar á landinu. Viðlag innréttinganna eru klukkur, sem flestar virðast mér ganga alls ekki. Voldugust er borgundarhólmsklukka, sem flýtir sér um eina klukkustund eins og búmannsklukku sæmir. En má ekki fara með hinar klukkurnar til Ingvars Benjamínssonar?

Góð og vönduð húsgögn í gömlum stíl einkenna staðinn. Ljósir litir ráða ferðinni á neðri hæð, en kaffistofan í risi er ofhlaðinu þremur litþungum sófasettum, sem ekki henta fíngerðu og smávöxnu og björtu húsi. Dökkir steikhússplattar undir diskum eru líka utan hússtíls.

Að meðaltali kostar þríréttaður matur 3.000 krónur að kvöldi fyrir utan drykkjarföng og 2.000 krónur í hádegi. Síðara verðið er hærra en í Holti. Súpa og réttur dagsins í hádeginu kosta 990 krónur.

Saffransúpa með silungi

Skemmtilegastir voru skyreldaðir sjávarréttir, lax, rækjur og hörpufiskur, sem minntu á indverskt tandúrí. Þetta sýnir, að við ættum að geta notað skyr til matreiðslu á svipaðan hátt og jógúrt er notað í Austurlöndum.

Bezti rétturinn var tær og bragðsterk saffran-súpa með silungi, lúðu, hörpufiski, rækjum og sveppum, er var á boðstólum sem súpa dagsins í hádeginu. Spergilsúpa dagsins að kvöldi var fremur þykk, en sæmileg á bragðið.

Smjörsteiktir sveppir voru snarpheitir og mildilega eldaðir. Reyktur lax var mjúkur og frísklegur. Pastaréttir voru nokkuð góðir, einkum fiðrildapasta með rækjum, hörpufiski og sveppum, svonefnt sjávarréttapasta. Kryddjurtapasta dagsins var nokkuð síðra, þótt frambærilegt væri.

Kampavínssoðinn skötuselur var fremur mikið eldaður, borinn fram með ljósri sósu. Búri dagsins var hins vegar hæfilega eldaður, léttsteiktur, en vel heitur. Grænmeti með forréttum og aðalréttum var fremur staðlað og byggði mest á jöklasalati.

Ostakaka staðarins var góð, sömuleiðis fíkjur með tindrandi fallegum hindberjum og rifsberjum. Kaffi var gott.

Vínlisti er stuttur, með áherzlu á fremur ódýrar og vandaðar tegundir, Riesling Hugel, Sancerre, Chateau Barthez, Chianti Classico og Barolo, allar á 3.300-3.800 krónur. Brunello di Montalcino kostar 6.400 krónur.

Djörf notkun á mildu kryddi

Matreiðsla Búmannsklukkunnar hefur sérstakan stíl, sem greinir hana frá öðrum veitingastöðum. Einkenni hennar er mikil og djörf notkun á mildum kryddtegundum í sjávarrétti.

Jónas Kristjánsson

DV

Vítaverðar tillögur

Greinar

Þegar málskraf og óskhyggja hafa verið skorin utan af tillögum aðila vinnumarkaðarins til ríkisstjórnarinnar, stendur eftir tillaga um, að teknir verði 2,2 milljarðar að láni í útlöndum til að flytja hluta af atvinnuleysi þessa árs og næsta árs til áranna, sem koma þar á eftir.

Með þessu leggja aðilar vinnumarkaðarins til, að þjóðin geri hvort tveggja í senn, stingi höfðinu í sandinn og pissi í skóinn sinn. Tillagan fjallar ekki um, að dregið verði úr atvinnuleysi, heldur verði það fært milli tímabila. Í tillögunni felst, að frestur sé á illu beztur.

Til að borga þetta á samkvæmt tillögunum að taka skammtímalán í útlöndum að færeyskum hætti, jafnvel þótt leitun sé að þeim, sem ekki telur fyrri lántökur þegar vera komnar yfir hættumörk. Slík höfuðverkjartafla gagnast ekki, ef sjúkdómurinn geisar áfram.

Þessi kjarni í tillögum aðila vinnumarkaðarins er ekki aðeins heimskulegur, heldur vítaverður. Það sýnir bezt ábyrgðarleysi og flottræfilshátt í þjóðmálunum, að þekktir menn skuli leggja nafn sitt við annað eins endemi og þessa 2,2 milljarða króna höfuðverkjartöflu.

Leiðtogar aðila vinnumarkaðarins eru annað hvort veruleikafirrtir eins og leiðtogar opinberra starfsmanna eða taka alls ekkert mark á eigin tillögum. Vandamál atvinnuleysis og versnandi lífskjara byggjast á forsendum, sem eru utan áhrifasviðs þessara tillagna.

Formaður vinnuveitenda sagði nýlega á fundi, að þjóðin hefði í einn áratug sóað sem svarar fjórum milljörðum króna á hverju ári í Blönduvirkjun, fiskeldi, loðdýr, ull og fleira þjóðlegt. Ef þjóðin hættir að sóa slíkum fjármunum, stígur hún fyrsta skrefið fram á veg.

Formaður vinnuveitenda gat þess ekki, að þjóðin hefur sóað, sóar enn og ætlar framvegis að sóa sem svarar níu milljörðum á hverju ári af fé skattgreiðenda í hefðbundinn landbúnað og sem svarar tólf milljörðum á hverju ári af fé neytenda í sama þjóðlega tilgangi.

Formaður vinnuveitenda og aðrir félagar hinnar pólitísku yfirstéttar í landinu hafa staðið fyrir þessari rúmlega tuttugu milljarða árlegri sóun í landbúnaði, sem veldur því, að atvinnuleysi er nú komið upp í hærri tölur en nemur samanlagðri atvinnu í landbúnaði.

Þjóðin er auralaus til átaka í atvinnuaukningu og lífskjarabótum af því að hún hefur sóað meira en tuttugu milljörðum árlega til hefðbundins landbúnaðar. Fjögurra milljarða árleg viðbótarsóun í Blöndu, refi og fleira þjóðlegt er bara viðbót ofan á stóra sukkið.

Er þjóðin ræðst gegn verðmætabrennslunni, munu vandamál atvinnuleysis og fátæktar leysast smám saman af sjálfu sér. En það gerist ekki fyrr en hún losar sig við hina pólitísku yfirstétt, sem ráfar veruleikafirrt í ríkisstjórnum, á Alþingi og í hagsmunasamtökum.

Ekkert bendir til, að á neinum þessara valdastóla sitji nokkur, sem muni í náinni framtíð lyfta höfðinu upp úr sandinum. Því meiri jarðskjálftar sem verða í atvinnu og efnahag, þeim mun fastar mun pólitíska yfirstéttin einbeita sér að málskrafi og óskhyggju.

Þjóðin hefur lengi hagað sér þannig í vali yfirmanna sinna í þjóðmálum og félagsmálum, að hún kemst ekki hjá vaxandi atvinnuleysi og versnandi lífskjörum, hvort sem haldið verður áfram á vegi sjónhverfinga eða loksins farið að skera á grundvallar-meinsemdirnar að baki.

Með uppskurði hefur hún þó von um betri tíð eftir nokkur ár. Vítaverðar tillögur aðila vinnumarkaðarins færa ekki með sér minnstu von um slíka tíð.

Jónas Kristjánsson

DV

Skammlíft einkaframtak

Greinar

Þegar gengið er um miðbæ Reykjavíkur, má hvarvetna sjá minnisvarða hrunins einkaframtaks, glæsilegar hallir, reistar á vegum fyrirtækja, sem ekki eru lengur til. Í kreppu nútímans hrynja einhver slík stórveldi nánast í viku hverri einhvers staðar á landinu.

Úrelding fyrirtækja hefur ekki bara dökkar hliðar. Nýir aðilar koma til skjalanna og nýta hallir, tækjakost og mannafla horfinna fyrirtækja. Stundum er nýi reksturinn nútímalegri og færir eigendum, starfsfólki og þjóðfélaginu meiri arð en gamli reksturinn gerði.

Svo virðist þó vera, að slíkar sviptingar séu mun meiri hér á landi en í nálægum löndum og valdi mörgum aðilum töluverðum búsifjum, ekki sízt þjóðfélaginu í heild. Því veldur, að íslenzk fyrirtæki eru nátengdari persónum og ættum en almennt gerist í útlöndum.

Lífssaga íslenzkra fyrirtækja byrjar oft með hugmyndaríkum athafnamanni, sem fyrstur fetar nýja braut. Vegna vanþekkingar í rekstri og stjórn fatast honum oft flugið. Þetta er algengara nú en áður, af því að svigrúm frumkvöðla er oftast minna en það var.

Þau fyrirtæki, sem lifa af fyrsta stigið, lenda oftast í höndum næstu kynslóðar, sem í mörgum tilvikum hefur hlotið uppeldi í rekstri og stjórn fyrirtækja. Þetta er fólk, sem tekur litla áhættu, en getur oft haldið utan um það, sem frumkvöðullinn hafði áður byggt upp.

Einkenni þessa stigs er, að fleiri fjölskyldur en áður þurfa að lifa á eigninni og að þessar fjölskyldur eru dýrari í rekstri en fjölskylda frumkvöðulsins. Þetta ástand verður síðan óbærilegt í þriðju kynslóð eigenda, sem elst upp í vellystingum og sligar fyrirtækið.

Hallirnar við gömlu verzlunargöturnar í miðbæ Reykjavíkur eru minnisvarði um þennan skamma feril íslenzkra fjölskyldufyrirtækja. Enn átakanlegri verður ferillinn úti á landi, því að þar er oft skortur á hæfum aðilum til að byggja upp að nýju á rústum hins gamla.

Bolvíkingar voru orðnir svo vanir að sækja alla forustu til ættarinnar, að þeir hafa átt erfitt með að fóta sig, síðan ættarveldið hrundi. Þeir koma til Reykjavíkur og ímynda sér ranglega, að dyr sjóða, banka og ráðuneyta standi jafn opnar og dyr ættarinnar stóðu áður.

Byggðarlag getur lent í töluverðum hremmingum og jafnvel hrunið, þegar það stendur úti í kuldanum eftir að hafa hreiðrað um sig í hlýju ættarveldis í marga áratugi. Bæjarbúar koma úr vernduðu umhverfi og kunna tæpast að taka ákvarðanir upp á eigin spýtur.

Sumum fyrirtækjum tekst að rjúfa þennan vítahring ættarveldis. Í sumum tilvikum hefur frumkvöðullinn eða erfingjar hans vit á að víkka hlutafjáreign og stjórn þeirra og ná til aðila utan ættar. Fyrirtækið hættir að snúast um ættina og fer í staðinn að snúast um arðinn.

Íslendingar eiga sérstaklega erfitt með að feta þessa braut, sem liggur að baki flestum öflugum fyrirtækjum í útlöndum. Menn fara ekki að hugsa um fyrirtækin sem arðgjafa, heldur halda áfram að líta á þau sem konungsríki, er veiti forstjórum persónuleg völd og aðstöðu.

Þannig líta menn ekki á hlut í Stöð 2 sem tæki til að njóta arðs, heldur sem tæki til að berjast um völd. Það er dæmi um, að ekki er alltaf nóg að rjúfa vítahring fjölskyldufyrirtækjanna, heldur þarf að stíga fleiri skref til að rækta íslenzkum fyrirtækjum varanlegan jarðveg.

Þjóðfélagið getur stuðlað að endurbótum með lögum um gegnsæi fyrirtækja; lögum, sem opna umhverfinu innsýn í rekstur, bókhald og endurskoðun hlutafélaga.

Jónas Kristjánsson

DV

Hann varð snemma ólæs

Greinar

“Hann varð snemma ólæs,” skrifaði þekktur rithöfundur um kunnan athafnamann í Eyjum. Þetta orðaval má nota til að lýsa svonefndu eftirlæsi, sem felst í, að fólk lærir í skóla að hrafla í lestri, en þarf ekki að halda við kunnáttunni, er það kemur til starfa í samfélaginu.

Í árdaga voru þjóðir ólæsar. Fyrir fáum öldum eða áratugum urðu þær læsar. Nú eru þær að verða eftirlæsar. Sem dæmi um þessar breytingar má nefna, að nýleg könnun leiddi til þeirrar niðurstöðu, að um fjórðungur íslenzkra grunnskólanema geti tæpast talizt læs.

Grunnskólinn á Íslandi snýst að verulegu leyti um að kenna börnum að lesa, reikna og skrifa. Þetta gengur treglega, enda hefur tæknin gert fólki kleift að fara í kringum þetta. Það lætur lyklaborðin skrifa og reikna fyrir sig og fylgist með í útvarpi og sjónvarpi.

Umgengni við tölvur minnir á matseðla veitingahúsa. Menn benda með músinni á þann rétt, sem þeir kjósa af matseðlum tölvunnar. Senn nægir fólki að pota á skjánum í það, sem það vill, eins og þeir þekkja, er hafa prófað íslenzka ferðavakann sér til skemmtunar.

Aukin síma-, tölvu- og skjátækni mun í ört vaxandi mæli gera fólki kleift að lifa lífinu og komast áfram í lífinu án þess að kunna að lesa, reikna og skrifa. Að vísu mun lestrarkunnátta áfram verða aðgöngumiði vel launaðra og vel virtra starfa í þjóðfélaginu.

Með myndrænna efnisvali hafa upplýsingamiðlar á borð við dagblöð lagað sig að breytingunum. Svonefndar fagurbókmenntir eiga hins vegar í vök að verjast í baráttu við draumaverksmiðjur sjónvarps. Bóklestur sem bóklestur er á undanhaldi hér sem annars staðar.

Fyrst urðu afþreyingarbókmenntir að rifa seglin og nú er röðin komin að hinum eiginlegu bókmenntum. Til skjalanna eru að koma kynslóðir, sem eru vanar að nota útvarp og sjónvarp sem afþreyingu og menningartæki og hafa úr meira en nógu að velja á því sviði.

Auðvelt er að rökstyðja, að ekki sé ástæða til að hafa áhyggjur af þessu. Umheimurinn bjóði nægar upplýsingar, næga menningu og næga afþreyingu, þótt bóklestur dragist saman. Nýjum tímum fylgi nýir miðlar. Bækur séu einfaldlega orðnar að úreltu fyrirbæri.

Þetta er ekki svona einfalt. Í fyrsta lagi er í uppsiglingu nýr þáttur í aukinni stéttaskiptingu, sem felst í, að gerendur þjóðfélagsins eru læsir og nota það til að afla sér upplýsinga og menningar, en þolendur þjóðfélagsins eru eftirlæsir og horfa stjarfir á imbakassann.

Upp eru að rísa kynslóðir lágstéttarfólks, sem hefur tilhneigingu til að lenda í vítahring atvinnuleysis, bjórneyzlu og sjónvarpsgláps, af því að þjóðfélagið er orðið svo ríkt og svo tæknivætt, að það hefur efni á að halda öllum uppi, þótt þeir séu meira eða minna úti að aka.

Eftirlæsa og óvirka stéttin ímyndar sér, að hreyfanlegar myndir í sjónvarpi sýni henni veruleikann. Svo er ekki. Saga er sjón ríkari. Frægasta dæmið er Persaflóastríðið, sem var í beinni útsendingu. Þeir, sem vildu fylgjast með því í raun, urðu að nota blöð og útvarp.

Sjónvarpstéttirnar missa sjónar á veruleikanum og telja sér nægja ímynd hans eins og hún kemur fram í sjónvarpi. Þess vegna kjósa sjónvarpsstéttirnar sér pólitíska foringja í samræmi við tilbúnar ímyndir, sem þeir sjá í sjónvarpi, verksmiðjuframleidda persónuleika.

Vaxandi eftirlæsi er þáttur í vítahring, sem eykur stéttaskiptingu í þjóðfélaginu og dregur úr líkum á, að þjóðir hafi vit á að velja sér hæfa menn til forustu.

Jónas Kristjánsson

DV

Undirmáls-yfirstétt

Greinar

Svartsýni hefur náð tökum á hugum þjóða um alla Vestur-Evrópu, þar á meðal Íslendinga. Hún mælist meðal annars í skoðanakönnunum, sem sýna, að fólk er ekki sátt við foringja sína, býst ekki við neinu góðu af þeirra hálfu og gerir sér litlar framtíðarvonir.

Átakavilji fólks er lamaður. Ráðamenn fyrirtækja draga saman seglin og leggja ekki í ný verkefni. Þess vegna eykst atvinnuleysi á Íslandi og festist í sessi um alla Vestur-Evrópu. Ráðamenn þjóða sjá vandamál hrannast upp án þess að þeir hafi mátt til gagnsóknar.

Bretar eru dæmigerðir. Í skoðanakönnunum segist nærri helmingur þjóðarinnar mundu flytjast úr landi, ef hann ætti þess kost. Krúna og kirkja hafa glatað virðingu. Og undirmálsmaðurinn John Major hefur leyst járnfrúna Margaret Thatcher af hólmi í pólitíkinni.

Fríverzlunarmálin í tollaklúbbnum GATT eru líka dæmigerð. Allur þorri hagfróðra manna veit, að lækkun tolla og annarra múra í alþjóðaviðskiptum bætir hag allra og mest þeirrar þjóðar, sem tollana lækkar. Samt er viðskiptastríð í uppsiglingu milli Vesturlanda.

Undirmálsmenn stjórnmálanna eyða tíma sínum í að fylgjast með gengi sínu í skoðanakönnunum og í að mæla hávaða í þrýstihópum, sem ráðast að almannahagsmunum og koma í veg fyrir, að lífskjör innlendra neytenda séu bætt með því að rjúfa tollmúrana.

Við stýri þjóðarskútanna sofa undirmálsmenn á borð við bandarísku forsetana George Bush og Bill Clinton og evrópsku forsætisráðherrana John Major og Helmut Kohl, svo og franska forsetann Francois Mitterrand. Veður og vindar líðandi stundar ráða ferð þeirra allra.

Þeir svara með sjónhverfingum, er heil Evrópuþjóð tryllist svo af sagnarugli sínu, að hún fremur langverstu stríðsglæpi álfunnar á síðustu hálfri öld. Þeir láta Serba að mestu óáreitta, gráa fyrir járnum, en neita fórnardýrum þeirra um vopn og hernaðarstuðning.

Svokallaðir sáttasemjarar, Cyrus Vance og David Owen, flytja tillögur, sem margfalda vegalengd landamæra Serba og verðlauna stríðsglæpi þeirra. Og Atlantshafsbandalagið hefur greinilega fengið hægt andlát í djúpum svefni, þótt eldar brenni við mæri þess.

Íslendingum er líka stjórnað af undirmálsmönnum, en munurinn er sá, að þeir fara með óhófsvöld. Við búum við ráðherralýðræði í þéttu kófi reglugerða. Valdamiklir ráðamenn okkar hafa reynzt ófærir um að stjórna sjálfum sér og hvað þá að leiða heila þjóð.

Ef stöðvað væri peningabrennslukerfið, sem ráðherrar starfrækja í félagi við banka- og sjóðastjóra, væru meira en nógir peningar til í þessu landi. Ef stöðvað væri styrkjakerfið og innflutningsbannið í landbúnaði, mundu lífskjör almennings snögglega stórbatna.

Misheppnaðir ráðamenn sjá þá leið eina að láta almenning og fyrirtæki herða sultaról í sífellu, en hafa ekki áræði til að skera brott meinsemdir kerfisins til að losa þjóðina úr viðjum og færa henni fé og kjark til að takast á við óþrjótandi framtíðarverkefni.

Vestrænir undirmálsleiðtogar horfa stjarfir á sókn Serba gegn vestrænni siðmenningu og sókn sérhagsmuna gegn vestrænni fríverzlun. Íslenzkir undirmálsleiðtogar horfa stjarfir á verðmætabrennslu í sukki peningastofnana og í verndun gæludýra atvinnulífsins.

Kreppan okkar stafar ekki af fiskileysi, heldur af hugmyndagjaldþroti hinnar úr sér gengnu pólitísku yfirstéttar, bæði hér heima og í nágrannalöndunum.

Jónas Kristjánsson

DV

Vanhæfir bankastjórar

Greinar

Þegar bankakerfi landsins þarf að nota 6,5 milljarða á hverju ári til að bæta sér upp glötuð útlán, fara bankarnir annaðhvort einfaldlega á höfuðið eða þeir auka svo bilið milli innvaxta og útvaxta, að þeir geti náð þessum milljörðum af skilamönnum í hópi lántakenda.

Í fyrra töldu stjórnendur bankanna, að þeir þyrftu að leggja 6,5 milljarða króna í afskriftasjóði. Þegar þeir eru gagnrýndir fyrir of mikið vaxtabil og þar af leiðandi of háa útlánavexti, vísa þeir til þessarar þarfar og segjast raunar sízt hafa gengið of langt í vaxtabili.

Ekki er lengur deilt um, að bæði nafnvextir og raunvextir séu of háir hér á landi og mun hærri en í sambærilegum löndum. Til skamms tíma var þenslu kennt um þetta. Eftirspurn peninga væri miklu meiri en framboðið og þessi munur væri óvenjulega mikill hér á landi.

Nú hefur stjórnvöldum tekizt að framleiða svo mikla sálarkreppu í atvinnulífinu, að athafnakjarkur fólks hefur minnkað að marki. Þar af leiðir, að eftirspurn peninga er lítil af hálfu atvinnulífs, húsbyggjenda og annarra einstaklinga. Fólk þorir ekki að skulda.

Ríkið hefur lengst af verið fremst í flokki þeirra, sem halda uppi eftirspurn peninga og þar af leiðandi háum vöxtum. Óvissa ríkir um áform ríkisins á þessu sviði. Ástæða er til að óttast opinberar lántökur til atvinnubótavinnu vegna vaxandi þrýstings hagsmunaaðila.

Um nokkurt skeið hafa menn verið nokkurn veginn sammála um, að mikil fyrirferð hins opinbera á lánamarkaði haldi uppi háum vöxtum. Af þessu leiðir, að horft hefur verið til umsvifa ríkisins, þegar talað er um nauðsyn þess, að vextir komist niður úr himinhæðum.

Nú er komið í ljós, að ríkið er bara annar af tveimur stórum sökudólgum í málinu. Hinn aðilinn er bankakerfið, sem hefur framleitt 6,5 milljarða afskriftaþörf á ári með ógætilegri útlánastefnu á liðnum árum. Það er er því ekki nóg, að ríkið dragi saman seglin.

Í bankakerfinu hafa notið forgangs hefðbundin gæludýr og nokkur ný gæluverkefni. Þetta byggist að mestu á, að stjórnendur bankanna hafa ekki starfað eins og bankamenn, heldur eins og stjórnmálamenn. Enda eru margir þeirra afdankaðir ráðherrar eyðsluráðuneyta.

Hin öflugu tengsl stjórnmála og banka hafa framleitt sérkennilegt bankakerfi, sem er svo vanhæft til starfa, að það þarf að leggja 6,5 milljarða til hliðar á ári til að mæta vitlausum útlánum. Þessi spilltu tengsli þarf að rjúfa, svo að heilbrigð viðhorf fái að ráða í bönkum.

Bezta lækningin væri að fá útlenda banka, sem ekki eru tengdir hinu séríslenzka útlánarugli, til að hefja útibúsrekstur hér á landi. Slík útibú ættu að geta boðið minna vaxtabil en hér tíðkast, það er að segja peningaeigendum hærri vexti og skuldunautum lægri vexti.

Það er fáokunin, sem hefur gert bönkunum kleift að varpa afleiðingum af röngum bankastjórum og bankaráðum yfir á herðar fyrirtækja og einstaklinga. Ef samkeppni að utan kæmi til sögunnar, yrðu bankarnir að hætta ruglinu til að standast samkeppni við útlendinga.

Athyglisvert er, að bankastjórar eru sperrtir vel, jafnvel þótt 6,5 milljarða afskriftaþörf hafi sýnt, að flestir eru þeir algerlega vanhæfir til starfa. Þeir telja sig ekki bera neina ábyrgð, alveg eins og stjórnmálamenn axla enga ábyrgð af sínu peningasukki og sínum glæfrum.

Einnig er athyglisvert, að þetta pólitíska kerfi ábyrgðarleysis telur bankastjóra eiga skilið sömu ráðherrakjör og helztu sukkarar og fjárglæframenn ríkisvaldsins.

Jónas Kristjánsson

DV