Author Archive

Þorskveiðiseglin rifuð

Greinar

Forsætisráðherra sagði í eldhúsdagsumræðunni á mánudaginn, að ekki væri hægt að skera meira niður leyfilegan þorskafla en þegar hefði verið gert. “Við getum ekki tekið stærri dýfur en við höfum þegar tekið,” sagði hann og fullyrti um leið, að stofninn færi vaxandi.

Í raun fer íslenzki þorskstofninn minnkandi um þessar mundir, af því að ekki hefur verið tekið fullt mark á tillögum fiskifræðinga. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins bera mesta ábyrgð á núverandi ofveiði, því að þeir höfðu í fyrra frumkvæði að 8% hækkun á leyfilegu aflamarki.

Forsætisráðherra og sjávarútvegsráðherra eru samflokksmenn eins og var í næstu ríkisstjórn á undan þessari. Þá lék þáverandi forsætisráðherra svipað hlutverk ábyrgðarleysis, þegar hann, sem frægt er, vildi gera greinarmun á því, sem þorskurinn þyldi og þjóðin þyldi.

Sjávarútvegsráðherra Sjálfstæðisflokksins hefur hins vegar fetað í fótspor forvera síns í Framsóknarflokknum, en ekki haft innanflokksstuðning til að reka hófsemisstefnu. Helzti andstæðingur hans á því sviði er forsætisráðherra, sem hefur knúið fram skammtímasjónarmiðin.

Grundvallaratriði málsins er, að enginn munur er á því, sem þorskurinn þolir og þjóðin þolir. Ef stundarhagsmunir verða áfram látnir ráða ferðinni, verður þorskstofninn eyðilagður á tiltölulega fáum árum og þjóðfélagið fær loksins að horfast í augu við alvörukreppu.

Hafrannsóknastofnunin mælti í fyrra með 190 þúsund tonna þorskafla á einu ári. Í raun fer þorskveiðin 20% upp úr því magni, í 230 þúsund tonn. Þetta er afleiðing léttúðugra og ábyrgðarlítilla stjórnmálamanna, sem neita að horfast í augu við blákaldan veruleika ofveiðinnar.

Þekkingin, sem bætzt hefur við frá í fyrra, gefur ekki tilefni til bjartsýni. Til dæmis benti togararallið í vetur til, að ekki yrði hægt að veiða nema 150-160 þúsund tonn á ári í nánustu framtíð. Ekki hefur frétzt af neinum upplýsingum, sem bendi til annars en hnignunar stofnsins.

Í sjávarútveginum búast menn við, að Hafrannsóknastofnunin muni í nýjum veiðitillögum lækka tölur sínar frá því í fyrra. Ef farið verður eftir ókomnum tillögum hennar, má búast við, að þorskafli eins árs fari úr 230 þúsund tonnum og nokkuð niður fyrir 180 þúsund tonn.

Pólitísk málamiðlun milli þess, sem fiskifræðingar telja þorskinn þola, og þess, sem stjórnmálamenn telja þjóðina þola, hefur gefizt illa um langt árabil. Þorskstofninn hefur verið í samfelldri úlfakreppu og ekki getið af sér neinn góðan hrygningarárgang í tæpan áratug.

Einn af fræðimönnum okkar sagði nýlega í viðtali við DV, að flotinn væri helmingi stærri en hann ætti að vera. Hann sagði, að friða þyrfti þorskinn alveg til aldamóta og leggja síðan þriðjungi flotans, svo að sóknin yrði bærileg upp úr aldamótum. Hann er að tala um sjö mögur ár.

Gróft reikningsdæmi lítur þannig út, að þjóðin neiti sér samtals um eina milljón tonna af þorski í sjö ár til að koma stofninum upp í stærð, sem þolir 250 þúsund tonnum meiri veiði en hann þolir nú. Þjóðin mundi þá ná milljón tonnunum til baka á aðeins fjórum árum.

Að fara eða fara ekki eftir tillögum fræðinga er dæmigerður munur milli langtímahagsmuna, sem gefa meiri arð í heild, og skammtímahagsmuna, sem felast í að ýta vandamálum á undan sér; skrapa það, sem ekkert er; og vera á sífelldu undanhaldi fyrir veruleikanum.

Vonandi tekst forsætisráðherra ekki að knýja fram hugmyndir um óbreytta ofveiði á þorski, því að þær leiða að lokum til gjaldþrots og glötunar þjóðfélagsins.

Jónas Kristjánsson

DV

Pára, pára, pára

Greinar

Umboðsmenn Sameinuðu þjóðanna og Evrópusamfélagsins eru ánægðir með sig núna. Þeir Cyrus Vance og David Owen hafa fengið helztu sérfræðinga heimsins í undirritun ótal friðar- og vopnahléspappíra til að pára í annað sinn undir plagg um skiptingu Bosníu.

Markmið allra hinna tuganna af undirskriftum serbneskra árásar- og útþenslumanna hefur hingað til einungis verið tvennt. Í fyrsta lagi að vinna tíma til að halda áfram þjóðahreinsun í nágrannalöndum Serbíu. Og í öðru lagi að tefja fyrir auknum refsiaðgerðum.

Ef eitthvað annað en þetta tvennt hefur knúið umboðsmenn Serba til að pára nafnið sitt enn einu sinni á friðar- og vopnahlésplagg, þá er það sú stefnubreyting Bandaríkjastjórnar eftir forsetaskiptin, að ráðgjafar Clintons hafa síðustu vikur mælt með hernaðaríhlutun í Bosníu.

Fulltrúar Bandaríkjastjórnar hafa lýst efasemdum um ágæti nýjasta friðarsamningsins í Bosníu. Þeir segja, að engin ástæða sé til að draga úr undirbúningi hertra refsiaðgerða og fyrstu hernaðaraðgerða, fyrr en Serbar hafa staðið í verki við þau plögg, sem þeir skrifa undir.

Þetta er annar tónn en hjá Vance og Owen, sem hafa sýnt ótrúlegan barnaskap í samskiptum sínum við Serba. Þessi barnaskapur jaðrar við stríðsglæpi, því að hann hefur auðveldað Serbum að halda ótrauðir áfram þeim fólskuverkum, sem öllum er kunnugt um, er vita vilja.

Að baki Vance og Owens eru þeir, sem þyngsta ábyrgð bera á hryllingnum, leiðtogarnir John Mayor, Helmut Kohl og Francois Mitterrand, svo og George Bush, fyrrum Bandaríkjaforseti. Þeir settu vopnakaupabann á Bosníumenn á sama tíma og Serbar höfðu gnægð vopna.

Er þessi ömurlega saga verður rituð, fer ekki hjá því, að hún staðfesti, að ofangreindir landsfeður hafa bakað Vesturlöndum mikinn kostnað. Hún felst í, að glæpir Serba hafa fordæmisgildi, sem mun verða notað víðar í heiminum og valda Vesturlöndum miklum útgjöldum.

Ofan á óhagkvæmnina bætist svo siðleysið, sem Margaret Thatcher, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, hefur afhjúpað með kröftugra orðbragði en notað er í forustugreinum dagblaða. Mayor, Kohl, Mitterrand og Bush hafa komið Vesturlöndum á kaldan klaka siðleysis.

Þegar Serbar réðust á sjálfa menningarsögu Vesturlanda með sprengjukasti á Dubrovnik fyrir hálfu öðru ári, mátti öllum þegar ljóst vera, að ekki var um neina venjulega brjálæðinga að ræða. Síðan hafa þeir fært sig upp á skaftið með sérhverri undirskrift sinni.

Markmið þjóðarleiðtoga Vesturlanda og umboðsmanna þeirra í framleiðslu vopnahlés- og friðarpappíra hefur verið að reyna að láta svo líta út sem þeir væru að gera eitthvað fyrir nágrannaþjóðir Serba og vestræna sjálfsvirðingu án þess að vera að gera neitt í raun.

Eitt hafa Serbar þó gert fyrir Vesturlandabúa. Þeir hafa framkallað aðstæður, sem gera okkur kleift að sjá gegnum eigin valdhafa og stofnanir þær, sem þeir styðjast við. Við sjáum, að evrópsk ríkjasamtök og sjálft Atlantshafsbandalagið eru vitagagnslaus í hermálum.

Eftirlitsflug Atlantshafsbandalagsins yfir Bosníu er eitt nýjasta dæmið um sjónhverfingar, sem ráðamenn Vesturlanda hafa reynt að nota til að breiða yfir staðreyndir eigin eymdar. Þetta eftirlitsflug er ekkert annað en kostnaðarsamur og áhrifalaus skrípaleikur.

Það eina, sem Serbar óttast, er, að stjórn Clintons hefji lofthernað gegn þeim og útvegi Bosníumönnum vopn gegn þeim. Því pára þeir og pára nöfnin sín á plögg

Jónas Kristjánsson

DV

Holt

Veitingar

Það er gaman að skrifa um veitingasalinn á Hótel Holti. Það er miklu ánægjulegra að skrifa um það, sem vel er gert, heldur en hitt, sem miður fer. Og notalegast er að hafa tækifæri til að skrifa um það, sem bezt er gert.

Holtið ber af öðrum veitingahúsum landsins. Allt fellur þar í einn farveg matargerðarmusteris. Húsakynni eru virðuleg og menningarleg. Þjónusta er menntuð, en samt engan veginn stíf. Matseðillinn er fjölbreyttur og breytilegur. Og eldamennskan er hin bezta í landinu.

Síðan Eiríkur Ingi tók við stjórnartaumum í eldhúsi Holts hefur staðurinn verið Mekka íslenzkrar matargerðarlistar. Eins og Rúnar við Tjörnina og Úlfar í Þrem frökkum er Eiríkur hugmyndaríkur og farsæll kokkur og líklega hressastur þeirra þriggja um þessar mundir.

Á hverjum degi eru í boði fjölmargir réttir dagsins. Þar eru yfirleitt fimm eða sex sjávarréttir dagsins með fjórum tilheyrandi forréttum, fimm villibráðarréttir dagsins og þrír kjötréttir dagsins með þremur tilheyrandi forréttum.

Allir þessir seðlar eru breytilegir frá degi til dags og frá hádegi til kvölds. Enginn matstaður kemst með tærnar, þar sem Holt hefur hælana á þessu sviði. Og þumalputtareglan segir, að því hærra sem hlutfall dagsrétta er á móti fastaréttum, þeim mun betra sé veitingahúsið.

Sjávarfang og villibráð

Holt hefur um árabil haft forustu um að kynna Íslendingum nýjar tegundir af sjávarfangi. Þar hefur verið hægt að fá hörpufisk og krækling í skelinni, búra og gjölni, krabba og ígulker, svo að nokkur dæmi séu nefnd.

Sjávarréttir eru ein sérgreina Holts. Önnur er villibráð á borð við villigæsir og villiendur, rjúpur og hreindýr. Hin þriðja er vínlisti, sem er einstakur í sinni röð hér á landi. Úrval góðvína endurspeglar aðild staðarins að veitinga- og hótelsamtökunum Relais & Chateau.

Þessi vín eru í öllum verðflokkum, en hæst tróna dýrgripir á borð við höfuðvín búgarðanna Mouton, Lafite og Margaux á Bordeaux-vínsvæðinu. En líka er hægt að fá Santa Cristina hálfflöskuna á 1320 krónur og Pinot d’Alsace hálfflöskuna á 1947 krónur.

Helzt má út á matreiðslu Holts setja, að stöðlun í með læti dregur úr gildi fjölbreytninnar á matseðlinum. En grænmetið er mildilega eldað, nákvæmlega eins og fisk urinn. Villibráðin er stundum lítillega of mikið elduð, enda er slíkt sennilega við hæfi flestra gesta.

Hversdagslegt verðlag

Í hádegi kostar þriggja rétta máltíð um 1595 krónur. Að kvöldi kostar hún um 3075 krónur af sjávarréttaseðli og um 3435 af villibráðarseðli, allar tölur fyrir utan drykkjarföng. Þetta er fremur dýrt, en ekki dýrara en í fjölmörgum veitingahúsum, sem eru á mun lægra plani.

Fyrir stjórnmálaskriffinn, sem hversdagslega hrærist á jaðri pólitíkur, þar sem fáir eru nokkurs nýtir og flestir hrokagikkirnir klúðra verkum sínum, er indæl hvíld að geta einstöku sinnum fjallað um starfsgrein, sem Íslendingar kunna fremur vel, matargerðarlist. Og tækifæri til að fjalla um Holt er eins og jólin séu komin.
J
ónas Kristjánsson

DV

Skipta þarf um þing

Greinar

Ef Borís Jeltsín Rússlandsforseti hamrar ekki járnið meðan það er heitt, er farið síðasta tækifærið til að knýja fram vestrænar umbætur í stjórnmálum og efnahag landsins. Þær verða að víkja fyrir ægivaldi þingsins, þótt þær hafi verið staðfestar í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Rúslan Khasbúlatov þingforseti hefur að hefðbundnum hætti kommúnista túlkað sér í hag niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar og segir brýnt, að þingið skipi ríkisstjórn fram hjá forsetanum. Ekki er hið minnsta sáttahljóð í honum eða öðrum fulltrúum gamla kerfisins.

Því lengra sem líður frá þjóðaratkvæðagreiðslunni, þeim mun erfiðara verður fyrir Jeltsín að nýta sér sigurinn í henni. Þess vegna er fráleitt að ætla, að honum takist að ná málamiðlun við kommúnista þingsins, án þess að gefa eftir stjórnmála- og efnahagsumbæturnar.

Rússneska þingið er arfur frá tímum kommúnismans og er enn á þeim nótum. Það hefur hagað sér og mun haga sér eins og það sé hinn raunverulegi valdhafi í landinu. Þessi stefna styðst við gömul form, sem giltu á tíma kommúnisma sovétanna, þótt þau væru þá ekki notuð.

Jeltsín er hins vegar kjörinn forseti eftir lýðræðislegum leikreglum eins og við þekkjum þær á Vesturlöndum. Hann hefur nú í þjóðaratkvæðagreiðslu fengið ótvíræða traustsyfirlýsingu sem forseti. Og efnahagsumbætur hans hafa fengið svipaða traustsyfirlýsingu.

Þar sem stjórnlagadómstóll Rússlands er arfur frá kommúnismanum, úrskurðaði hann, að ekki væri að marka, þótt meirihluti kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslunni óskaði eftir þingkosningum hið fyrsta. Dómstóllinn setti ítarlegri skilyrði, sem ekki var hægt að uppfylla.

Jeltsín verður að byggja á þeim mun, sem felst í lýðræðislegum og lýðræðislega staðfestum völdum hans og hins vegar í sagnfræðilegum völdum stofnana, sem voru skipaðar á tímum kommúnismans, hafa lítinn stuðning í rússnesku nútímaþjóðfélagi og endurspegla það ekki.

Kashbúlatov og meirihluti þingmanna eru fulltrúar hinna gömlu forréttindastéttar, sem beitir núna öllum klækjum og útúrsnúningum til að varðveita aðstöðu sína sem nómenklatúru í landinu og aðstöðu sína til að blóðmjólka þjóðarbúið til eigin peningalegra hagsbóta.

Með gamla þingið á móti sér, með gamla stjórnlagadómstólinn á móti sér, með seðlabanka ríkisins á móti sér, með skriffinna embættakerfisins á móti sér, með forstjóra ríkisfyrirtækjanna á móti sér, er Jeltsín dæmdur til að tapa málamiðlunum um efnahagsumbætur.

Jeltsín á ekki aðra leið til að nýta sigurinn í þjóðaratkvæðagreiðslunni í þágu rússneskrar framtíðar en að boða til þingkosninga, svo að nýtt þing endurspegli þjóðarviljann á sama hátt og forsetaembættið gerir. Allar samningatilraunir hans eru ella dæmdar til að mistakast.

Með nýju þingi getur Jeltsín höggvið á hnútinn og fengið nýjan stjórnlagadómstól, nýjan seðlabanka, nýja skriffinna og nýja forstjóra. Líklegt má telja, að meirihluti Rússa muni í þingkosningum styðja frambjóðendur vestrænna umbóta í stjórnmálum og efnahagsmálum.

Staða Jeltsíns er tvíeggjuð. Annars vegar hefur hann og umbótastefna hans unnið eindreginn sigur í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hins vegar hikar hann við að taka rökréttum afleiðingum sigursins. Í stað þess að senda þingið heim, er hann enn að leita málamiðlunar við það.

Þjóðaratkvæðagreiðslan gaf Rússum lykil að framtíðinni. Nú er það á færi Jeltsíns eins að finna skrána, svo að ljúka megi upp dyrunum. Hann þarf að skipta um þing.

Jónas Kristjánsson

DV

Hver sagði það?

Greinar

Sérfræðingur Sjálfstæðisflokksins í frjálshyggju hefur lengi verið Hannes H. Gissurarson, sem er starfsmaður ríkisháskóla og fær til viðbótar ýmsar greiðslur af borði opinberra stofnana, er styrkja hann til ritstarfa og kaupa þar á ofan af honum hundruð eintaka ritsmíðanna.

Því er haldið fram, að Hannes geti ekki verið málsvari frjálshyggju, þar sem hann sé dæmigerður kerfiskarl, er hafi bæði atvinnu sína og bitlinga hjá stofnunum hins opinbera. Með þessu er verið að rugla saman aðstöðu manna í núinu og skoðunum þeirra á framtíðinni.

Í frönsku byltingunni voru ýmsir helztu talsmenn þriðju stéttar sjálfir af fyrstu og annarri stétt. Þeir voru aðalsmenn, sem höfðu hugmyndafræðilega og pólitíska forustu fyrir tilraunum borgarastéttarinnar til að fá afnumin aldagömul fríðindi og forréttindi aðals og klerka.

Algengt er, að þeir, sem harðast ganga fram í þágu hagsmuna hinna lægst launuðu og annarra þeirra, sem verst eru settir í þjóðfélaginu, séu sjálfir hálaunaðir. Það gerir þá alls ekki vanhæfa, heldur veitir þeim frelsi til að hafa víðsýnar og sjálfstæðar skoðanir á þjóðmálum.

Þannig geta helztu talsmenn samtaka láglaunafólks sjálfir verið hálaunamenn. Þeir geta samt verið þeirrar skoðunar, að launamunur í þjóðfélaginu sé of mikill. Þeir geta samt unnið af alefli að minnkun þessa launamunar í þágu skjólstæðinga sinna í stéttarfélögunum.

Auðvitað getur verið, að hátekjur svonefndra verkalýðsrekenda valdi því, að þeir missi sambandið við raunveruleika hins almenna félagsmanns og verði vanhæfir til starfa. En það getur líka verið, að þeir séu svo hæfir, að borga þurfi þeim vel til að halda þeim í starfi.

Það er mál stéttarfélaganna, hvernig þau mæta þessu tvíeggjaða ástandi, sem felst í, að annars vegar þurfa þau að borga góðum mönnum há laun til að halda þeim og hins vegar að taka áhættuna af, að smám saman kunni hálaunin að grafa undan getu þeirra til að standa sig.

Íslendingar eiga erfitt með að skilja þetta. Fólk á erfitt með að greina á milli skoðana og verka manna annars vegar og stöðu þeirra í lífinu hins vegar. Ef eitthvað er sagt af viti, er ekki litið á innihald þess, heldur er spurt: Hver sagði það og hvers vegna sagði hann það?

Efagjarnar spurningar af slíku tagi eiga auðvitað rétt á sér, en þær mega ekki stjórna viðhorfum fólks til skoðana og verka. Þegar Hannes H. Gissurarson talar eða skrifar, eiga menn fyrst og fremst að meta innihaldið, en ekki þrjózkast við að horfa á kerfiskarlinn sem talar.

Þetta er alveg eins og þegar ritstjóri styður málstað lítilmagnans, þá er nærtækara að líta á innihald textans en horfa á há laun ritstjórans. Eins og ritstjórinn nýtur þess, að flestir horfa aðallega á innihaldið, eiga orð og gerðir Hannesar og verkalýðsrekenda að njóta hins sama.

Frjálshyggja er merkilegt kenningakerfi, sem er raunar einn af hornsteinum vestrænnar siðmenningar. Margir telja, að okkur muni farnast enn betur, ef við færum meira eftir kenningum frjálshyggju og markaðsstefnu og útfærðum þær á fleiri sviðum en gert hefur verið.

Þegar frjálshyggja og markaðshyggja eru til umræðu, ber mönnum að líta á efnisatriði málsins, þar á meðal öfluga rökhyggju hennar og góða reynslu Vesturlandabúa af henni. Hitt skiptir nánast engu máli, hvort einn talsmanna hennar sé sjálfur í opinbera geiranum.

Almennt hefðu Íslendingar gott af að gera skarpari mun á skoðunum og verkum annars vegar og hins vegar á persónum og margvíslegu hlutskipti þeirra í lífinu.

Jónas Kristjánsson

DV

Hrafnlaus hómilíu-kastali

Greinar

Hrafn Gunnlaugsson verður ekki Seðlabankastjóri, þótt hann geti án efa gegnt því embætti með endurbættum hætti. Embættið er eign annars aflaflokks, sem býður upp á Jón Sigurðsson álversráðherra, er einnig hefur góða reynslu af skömmtun almannafjár til gæludýra.

Jón Sigurðsson leysir af hólmi Jóhannes Nordal, sem hefur verið fulltrúi Alþýðuflokksins í bankastjórninni. Þess vegna á sá flokkur stólinn, en ekki einhver annar aflaflokkur, þótt samstarfsflokkurinn í ríkisstjórninni hafi fleiri kvígildi á framfæri sínu um þessar mundir.

Auðvelt er að vera Seðlabankastjóri, því að bankinn er nokkurn veginn alveg óþörf stofnun, sem ríkisstjórnir hafa notað til að draga fé úr bankakerfinu til gæluverkefna af ýmsu tagi, svo sem afurðalána í landbúnaði. Ekki þarf því að taka tillit til hæfileika lysthafenda.

Fráfarandi Seðlabankastjóra verður tæplega minnst fyrir hinar árlegu og marklausu hómilíur á aðalfundi bankans, heldur fyrir að hafa tekizt að breyta bankanum úr skrifborðsskúffu í Landsbankanum í risavaxinn kastala með 600 milljón króna árlegum rekstrarkostnaði.

Seðlabankanum hefur að mestu mistekizt bankaeftirlitið, svo sem sjá má af gjaldþroti Útvegsbankans og árlegum milljarðaafskriftum tveggja stærstu viðskiptabankanna. Þetta stafar sennilega af, að Seðlabankinn hefur ekki sinnt því að afla sér stjórntækja til eftirlits.

Seðlabankanum hefur algerlega mistekizt að skrá krónugengið, svo sem sjá má af langri sorgarsögu gjaldmiðilsins. Það er alltaf erfitt fyrir stofnun að leika hlutverk markaðsafls. Slíkt verður bara sýndarmennska, svo sem dæmið sannar. Gengi krónunnar á að skrá sig sjálft.

Seðlabankinn hefur hins vegar haft forustu um að efla fínimannsleik í bankakerfinu, þar sem laxveiðar og ytri umbúnaður leysir af hólmi þörfina á góðum bankastjórum til að reka stofnanir sínar eftir þeim heilbrigðu rekstrarvenjum, sem kerfi markaðsbúskapar stefnir að.

Ef bankaeftirlitið væri gert virkt og flutt úr bankanum og ef hætt yrði að skrá gengi krónunnar með handafli, væri ekkert eftir handa Seðlabankanum að gera. Þess vegna mætti gefa bankann til Færeyja, ef ekki fylgdi sá böggull skammrifi, að þar er engin góð laxveiðiá.

Arftaki bankastjórans er einkum þekktur fyrir að hafa verið mánaðarlega í hálft annað ár á fremsta hlunni samnings um nýtt álver. Það væri verðugt verkefni fyrir nýjan framkvæmdastjóra sjónvarps að klippa saman og sýna hinar upphöfnu yfirlýsingar ráðherrans í málinu.

Frammistaða ráðherrans í yfirlýsingaflaumi álversóranna bendir til, að hann geti auðveldlega tekið við flutningi hinna árlegu hómilía Seðlabankans, þar sem þjóðin er hvött til að herða sultaról sem mest hún má, á meðan aflaflokkar stjórnmálanna leika lausum hala.

Alþýðuflokkurinn er að komast í þrot með að útvega fólk í embættin, sem falla honum í skaut við skiptingu aflans. Sérfræðingur flokksins í aukinni ofveiði á þorski er orðinn að veðurstofustjóra og fjárlaganefndarstjórinn er að velja milli ráðherradóms og Tryggingastofnunar.

Í þessu kerfi eru einstök mál leyst með því, að Landsbankinn segir upp 130 fulltrúum pöpulsins, en stjórarnir, sem stóðu fyrir óráðsíunni, eru ósnertanlegir með öllu. Þeir passa meira að segja upp á að ekkert bili í fyrirhuguðum laxveiðiferðum sínum með Lúðvík Jósepssyni.

Verst er, að ekki skyldi vera hægt að gera Hrafn að seðlabankastjóra. Hann hefði flutt hinar árlegu hómilíur af miklu meiri tilþrifum en geta þeir Jóhannes og Jón.

Jónas Kristjánsson

DV

Banthai

Veitingar

Þú skalt ekki gefast upp, þótt matstofan sé á versta stað í bænum, þar sem Laugavegur hefur gleypt Hverfisgötu og breytzt í umferðarholræsi milli Hlemms og Mjólkurstöðvar, þar sem engin þjónustufyrirtæki hafa þrifizt.

Þú skalt ekki gefast upp, þótt matstofan sé harðlæst í hádeginu og veitingamaðurinn, sem er í útréttingum í bankakerfinu, hafi gleymt að snúa við skiltinu, er segir, að staðurinn sé einmitt opinn núna. Reyndu bara seinna.

Þú skalt ekki gefast upp, þótt veitingamaðurinn fari að sýna þér myndir úr árshátíð á efri hæðinni og ósanngjarnar rukkanir frá lögfræðingum. Segðu honum bara af festu og öryggi, að þú sért hvorki ættingi né ráðgjafi, heldur eingöngu kominn til að fá gott að borða.

Þolinmæðina færðu verðlaunaða í ágætum mat í kínverskum anda og á verði, sem er meira að segja lægra en í Laugaási og er þá mikið sagt. Þríréttað kostar um 2.290 krónur. Í hádeginu er svo boðið upp á val milli fimm rétta dagsins, sem kosta 700 krónur að fremur vondu kaffi meðtöldu. Verðið eitt er nægileg forsenda fyrir tilvist þessa litla og ljúfa veitingahúss.

Á efri hæð veitingahússins eru tvö herbergi fyrir samkvæmi og eitt herbergi, sem er innréttað eins og tælenzk borðstofa með sessum á gólfi í stað stóla. Vesturlandabúar eru of fótstirðir til að matast við slíkar aðstæður.

Á jarðhæðinni rúmast alls 24 stólar í notalegum veitingasal, þar sem áður hafa verið tvær samliggjandi íbúðarstofur. Innréttingar eru í þjóðlegum stíl. Útskurður og skinnmyndir eru á veggjum og heilmikil tröllskessa trónir innst. Kertastjakakróna hangir yfir hverju borði.

Almennilegar tauþurrkur eru á rauðköflóttum borðdúkum í hádeginu sem að kvöldi. Að því leyti er Banthai við Laugaveg 130 hátt yfir fjölmarga matstaði hafinn. Tælenzk tónlist er stundum nokkuð hátt stillt, enda þarf veitingamaðurinn ekki að hafa miklar áhyggjur af gestum, því að þá hef ég alls enga séð enn.

Mikið um súrsætt

Djúpsteiktar kjúklingaræmur með grænmeti og útskorinni kartöflu og gulrót voru bragðgóður hádegisverður, að minnsta kosti 700 krónanna virði.

Að kvöldi hef ég prófað afar sterka sjávarréttasúpu með rækjum og sveppum, Í forrétt léttar og góðar wonton-flögur með súrsætri sósu, svo og djúpsteiktan smokkfisk sæmilegan, einnig með súrsætri sósu.

Hrísgrjón með aðalréttum voru mótuð í hleif. Kjúklingur í súrsætri sósu var fremur þurr. Snöggsteiktur lambavöðvi var hæfilega eldaður, sterklega kryddaður með basilíkum. Bakaðar úthafsrækjur með þráðarpasta voru ágætar, en fremur smáar og aðeins tíu talsins.

Ferskt ávaxtasalat reyndist vera ís og þeyttur rjómi, skrautlega upp sett, alveg eins og djúpsteiktur banani með vanilluís og þeyttum rjóma. Eplakaka með hnetum og þeyttum rjóma var ekki pæ, heldur hefðbundin kaka, borin fram volg og góð. Kaffi var gott að þessu sinni.

Ég hef aldrei séð neina aðra gesti á Banthai og hef ekki þorað að spyrja veitingamanninn, hvort hann hafi séð þá. Banthai er staður, sem verðskuldar meiri athygli.

Jónas Kristjánsson

DV

Velgengni í sjávarútvegi

Greinar

Þótt flest fyrirtæki í sjávarútvegi séu rekin með halla og mörg með miklum halla, eru sum rekin með hagnaði. Meðaltalstölur um afkomu í sjávarútvegi breiða yfir þá staðreynd, að mikill gæfumunur er á fyrirtækjum í þeirri grein, meiri en í flestum öðrum greinum.

Í fyrra var meðaltapið í sjávarútvegi tæplega 2%. Nítján beztu fyrirtækin voru þá rekin með rúmlega 5% hagnaði og 43 lökustu fyrirtækin með rúmlega 10% tapi. Þessar tölur sýna hyldýpi milli fyrirtækja. Þær eru úr könnun Þjóðhagsstofnunar, sem birt var fyrr í vetur.

Um þessar mundir er afkoman verri í sjávarútvegi. Meðalhallinn er kominn úr 2% upp í 5% á ári. Samt eru til fyrirtæki í sjávarútvegi, sem verða rekin með hagnaði á þessu ári eymdar og kreppu. Því má spyrja, af hverju þetta geti ekki gilt um fleiri fyrirtæki í greininni.

Einar Oddur Kristjánsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnurekenda í sjávarútvegi, var um daginn spurður hér í blaðinu, hvernig stæði á þessum mikla gæfumun fyrirtækja í sjávarútvegi, ef finna mætti í skýringunni einhverja töfralausn fyrir þjóðfélagið.

Einar Oddur benti á mismunandi skip, mismunandi aðstæður, mismunandi fólk, mismunandi heppni og mismunandi forstjóra. Hann lagði áherzlu á, að gæfan í sjávarútvegi væri yfirleitt ekki kyrr á sama stað. Vel væri farið að ganga á Akureyri en lakar í Hornafirði.

Einar Oddur skýrði langvinna velgengni Útgerðarfélags Akureyringa með því, að fyrirtækið hefði fyrir rúmum þremur áratugum fengið tvo ágæta framkvæmdastjóra. Þeir hefðu komið fyrirtækinu í jafna og mikla vinnslu og smám saman safnað upp miklu eigin fé.

Eðlilegt er að telja lausn vandans í sjávarútvegi felast í að kvóti og rekstur renni smám saman til þeirra fyrirtækja, sem hafa svo hæfa forstjóra, að þeim græðist jafnvel fé á kreppuárum. Sala á kvóta þurfi að vera frjáls, svo að þessi tilflutningur verði sem örastur.

Mönnum verður tíðrætt um gæfu í sjávarútvegi og tala þá gjarna um gæfuna sem eitthvert náttúrulögmál, er komi að utan og ofan. Þess vegna sagði Einar í viðtalinu við DV, að ekki þýddi að láta sjávarútveginn renna til þeirra fyrirtækja, sem bezt ganga á hverjum tíma.

Hitt mun sönnu nær, að hver er sinnar gæfu smiður. Vandræði sjávarútvegs felast einmitt að töluverðu leyti í, að hann er rekinn af mönnum, sem ráða ekki við verkefni sitt. Í fámennu þjóðfélagi er skortur á hæfum mönnum, sem geta rekið sjávarútvegsfyrirtæki með hagnaði.

Um tuttugu sjávarútvegsfyrirtæki standa upp úr. Ef fimmtíu lökustu fyrirtækin væru ekki að flækjast fyrir og taka upp dýrmætan kvóta, væri líklega hægt að reka um þrjátíu sjávarútvegsfyrirtæki á landinu með sæmilegum hagnaði. Ef til væru þrjátíu hæfir forstjórar.

Svo vel vill til, að góðu fyrirtækin tuttugu í sjávarútvegi eru í öllum landshlutum. Helzt er, að sterk fyrirtæki vanti á Snæfellsnes, Vestfirði sunnanverða, í Hornafjörð og í Norður-Þingeyjarsýslu. Ef hægt væri að fjölga góðu fyrirtækjunum í þrjátíu, gætu sum þeirra verið þar.

Ef sala á kvóta væri gefin alveg frjáls, væri flýtt fyrir þeirri þróun, að kvótinn safnaðist til þeirra fyrirtækja, sem standa á beztum grunni og eru bezt rekin. Þetta felur í sér mikla röskun, en hún er óhjákvæmileg, ef menn vilja reisn í sjávarútvegi, hornsteini þjóðfélagsins.

Ef gæfan snýr baki við einhverju hinna góðu fyrirtækja, er annaðhvort skipt um forstjóra eða annað fyrirtæki kemur til skjalanna. Hver er sinnar gæfu smiður.

Jónas Kristjánsson

DV

Umhverfisfirring

Greinar

Skoðanakönnun bæjarstjórans á Seltjarnarnesi um framtíð svokallaðs Nesstofusvæðis fjallar að mestu leyti um fjármál. Í forsendum könnunarinnar tönnlast hann á, að ná megi sem svarar verði fjögurra einbýlishúsa af sölu lóða á mjög viðkvæmu og merkilegu náttúrusvæði.

Bitur reynsla er af umhverfisfirringu á þessum slóðum. Á Valhúsahæð hefur nokkrum fuglategundum verið útrýmt með tilgangslausum framkvæmdum við þrjú einbýlishús, sem enginn vill kaupa, íþróttavöll, sem enginn vil nota, og tvö hringleikahús fyrir áramótabrennu.

Í fjármáladæmi bæjarstjórans er ekki gert ráð fyrir fjölþættu tjóni, sem kemur á móti framkvæmdagleði hans. Það tjón felst bæði í missi ómælanlegs lífsrýmis, hreyfingarfrelsis og náttúrunautnar, svo og í lækkun verðgildis húsanna, sem fyrir eru á Seltjarnarnesi.

Sumt af þessum kostnaði lendir á bæjarsjóði. Tekjur af lóðasölu eru ekki hagnaður. Á móti kemur kostnaður við þjónustu við fleiri bæjarbúa. Byggja þarf skóla og aðrar þjónustustofnanir og síðan að reka þær. Bæjarstjórinn mun því ekki græða neitt einbýlishúsaverð.

Fjölmennur borgarafundur á Seltjarnarnesi í fyrra mælti nærri einróma með því, að svæðið umhverfis Nesstofu yrði gert að fólkvangi. Sami fundur samþykkti skoðanakönnun meðal bæjarbúa. En bæjarstjóranum hefur tekizt að snúa út úr málinu í framkvæmd könnunarinnar.

Með boðun könnunarinnar fylgir greinargerð, þar sem áherzla er lögð á þær fjárhagslegu falsanir, sem fjallað er um hér að ofan. Þar á ofan er ranglega fullyrt, að fyrirhugaðar framkvæmdir séu allar í samræmi við skýrslu Náttúrfræðistofnunar um náttúrufar á Seltjarnarnesi.

Bæjarstjórinn skákar þar í því skjóli, að hann hefur ekki enn dreift þessari skýrslu til bæjarbúa, þrátt fyrir ítrekuð tilmæli um það. Hann hefur opinberlega sagt, að það verði gert í sumar, en þá er telur hann sig vera sloppinn fyrir horn með hina fölsuðu skoðanakönnun.

Stjórn Náttúrugripasafns Seltjarnarness birti í Morgunblaðinu í fyrradag grein, þar sem hraktar eru lífseigar rangfærslur bæjarstjórans í þessu máli. Í skýrslu Náttúrufræðistofnunar er nefnilega einmitt varað við, að byggt sé umhverfis Nesstofu og í nágrenni Bakkatjarnar.

Hver einasta af tillögum bæjarstjórans felur í sér röskun á aðstreymi jarðvatns í Bakkatjörn, enda fela þær allar í sér framkvæmdir á náttúruminjasvæði, nákvæmlega eins og framkvæmdir hans á Valhúsahæð. Gildir þá einu, hvort það er rask vegna vega eða húsa.

Eftirtektarvert er, að Félagsfræðistofnun Háskólans lætur ginnast til að rýra álit fólks á skoðanakönnunum almennt með því að beygja sig undir vilja bæjarstjórans, gerast erindreki hans og vísa til rangrar greinargerðar hans í kynningarbréfi hennar til íbúa svæðsins.

Samkvæmt meðferð Félagsfræðistofnunar á málinu getur hagsmunaaðili fengið hana til að velja og orða spurningar í þágu hagsmunaaðilans, til dæmis með því að hafa marga vonda kosti á móti einum góðum og ýta fólki til að velja annan kost, ef hinn góði næst ekki.

Það var með eftirgangsmunum, að uppreisnarmönnum í stjórnmálaflokki bæjarstjórans og öðrum áhugamönnum um varanlega auðlegð í lífsrými, hreyfingarfrelsi og náttúrunautn tókst að koma í könnunina einni spurningu um fólkvanginn, sem var tilefni hennar.

Þrátt fyrir allt svindl hafa þar með íbúar Seltjarnarness tækifæri til að koma í veg fyrir, að firringin á Valhúsahæð endurtaki sig við Nesstofu og Bakkatjörn.

Jónas Kristjánsson

DV

Þrír frakkar

Veitingar

Nýjasta tiltæki Úlfars Eysteinssonar eru strimlar af saltfiskroði, sem hann veltir upp úr sítrónukrydduðu hveiti og djúpsteikir snöggt. Þetta er mjög góð hanastélsfæða, sem gæti orðið mikilvæg búbót í útflutningsgreinum.

Úlfar er einn af þremur meistarakokkum íslenzkra matstaða. Sífrjó hugsun mótar síbreytilegan matseðil hans í Þremur frökkum hjá Úlfari á Baldursgötu 14. Þar eru 7-9 fiskréttir dagsins eftir gæftum hverju sinni.

Úlfar leggur sig í líma við að fá tegundir sjávarfangs, sem sjaldan sjást á boðstólum. Um daginn var hann með innfluttar ostrur ferskar í skelinni. Skömmu síðar var hann með ferskan Hvalfjarðarkrækling í skelinni. Og í síðustu viku var hann með ferska öðu í skelinni.

Þann dag var hann einnig með gjölni og búra á boðstólum, auk keilu og tindabikkju, steinbíts og skötusels. Sumt af þessu fær hann sent í flugi utan af landi, en annað sést oft á fiskmarkaði höfuðborgarsvæðisins.

Matreiðsluaðferðir Úlfars eru fjölbreyttar. Til dæmis smjörsteikir hann og djúpsteikir, grillar og hvítlauksristar. Til dæmis notar hann rjómasinnepssósu, rjómapiparsósu, gráðostasósu og súrsæta sósu. Á hverjum matmálstíma notar hann nokkrar matreiðsluaðferðir og nokkrar sósur við nokkrar fisktegundir, svo að úr verður töluvert meiri fjölbreytni en víðast annars staðar.

Nákvæm eldun

Reykta tindabikkjan var hæfilega milt reykt, hörpufiskurinn var eins og smjör í munni, sinnepssósan með keilunni var ákaflega mild. Allar tímasetningar eru nákvæmar eins og vera ber, þegar sjávarfang er matreitt.

Saltfiskur er betri hjá Úlfari en ég hef fengið annars staðar hér á landi, enda velur hann sér bezta fiskinn, sem fer til útflutnings. Við matreiðsluna notar hann spænskar og portúgalskar aðferðir. Þjóðlega matreiðslulínan birtist svo í plokkfiski, sem oft er á seðli dagsins.

Nautasteik er líka fín í Þrem frökkum eins og oft vill verða í fiskréttahúsum. Það stafar annars vegar af, að nautakjöt þarf sömu nákvæmni í matreiðslu og sjávarréttir þurfa. Og hins vegar af, að Úlfar notar feita nautgripi af íslenzkum stofni, en ekki Galloway-gripi.

Súkkulaðiostaterta var fremur súkkulaðiterta en ostaterta. Skyrterta var fremur góð, en nokkuð þétt. Heit eplabaka var góð, en hún hefur eins og skyrtertan verið á boðstólum frá ómunatíð. Úlfar mætti skipta um eftirrétti og búa til meira af dagbundnum forréttum.

Góðir konfektmolar með kaffinu voru gerðir á staðnum. Vínlisti er þolanlegur, með megináherzlu á frönsku víni. Gagnslitlar munnþurrkur eru úr þunnum pappír.

Lengi var fremur ódýrt að borða í Þremur frökkum. Smám saman hefur verðið hækkað umfram markaðinn, svo að staðurinn er nú kominn í milliflokk. Þríréttaður matur kostar 2.790 krónur á kvöldin og tveggja rétta með kaffi kostar 1.280 í hádeginu. Þetta er lágt, ef haft er í huga, að þetta er einn þriggja toppstaða landsins.

Umgerðin er notaleg. Að mestu eru enn innréttingar, sem hinir upphaflegu frönsku eigendur staðarins völdu af smekkvísi. Staðurinn er fyrst og fremst notalegur, næstum heimilislegur, skiptist í innri stofu, garðstofu og aðalstofu, með aðeins fáum borðum á hverjum stað.

Jónas Kristjánsson

DV

Frumstæð þjóð

Greinar

Formaður norræna kvikmyndasjóðsins hefur staðfest, að menntaráðherra Íslands hafi beitt sig og sjóðstjórnina óeðlilegum þrýstingi til að fá sjóðinn til að styrkja síðustu kvikmynd skjólstæðings forsætisráðherra Íslands. Þrýstingurinn kom fram í bréfi “á vegum ráðherrans”.

Formaður sjóðsins hefur líka staðfest, að hann og sjóðstjórnin hafi aldrei fyrr sætt þrýstingi af þessu tagi. Eigi að síður féllst stjórnin á að veita rúmlega átta milljóna styrk út á sautján milljóna króna styrkbeiðni Hrafns Gunnlaugssonar til gerðar bíómyndarinnar Hin helgu vé.

Formaðurinn segir óhugsandi, að menntaráðherra annars lands en Íslands hefði komið fram á þennan hátt. Með þessu er formaðurinn að segja, að Íslendingar séu á lægra siðferðisstigi en Norðurlandabúar. Taka verði tillit til þess og sýna hinum frumstæðu þolinmæði.

Því hefur löngum verið haldið fram í leiðurum þessa blaðs, að siðgæðishugmyndir væru frumstæðari á Íslandi en í nágrannalöndum okkar beggja vegna Atlantshafs, Norðurlöndum og engilsaxnesku löndunum. Þessi skoðun virðist nú vera viðurkennd í nágrannalöndunum.

Atburðarásin í styrkveitingu Norræna kvikmyndasjóðsins sýnir, að á Norðurlöndum er litið niður á Íslendinga sem frumstæða ribbalda, er kunni sér ekki hóf í að ota sínum tota. Að því leyti eru þeir taldir vera eins og skrumskæling úr bíómynd eftir Hrafn Gunnlaugsson.

Hálmstráið, sem menntaráðherra Íslands notaði í þrýstingnum á Norræna kvikmyndasjóðinn, var að halda því fram, að formaður sjóðsins hefði í faxi til skjólstæðings forsætisráðherra lofað honum styrki til verksins. Formaður sjóðsins neitar að hafa lofað nokkru í faxinu.

Niðurstaða formanns sjóðsins er, að framvegis muni hann ekki þora að segja við kvikmyndaleikstjóra, að honum líki hugmyndir hans, af ótta við, að slík ummæli verði síðar túlkuð sem loforð um styrk. Óbeint segir hann, að ekki megi rétta Íslendingum litla fingurinn.

Mál þetta varpar skýru ljósi á siðleysi íslenzkra ráðamanna, af því að það rekst á siðvenjur í nágrannalöndunum. Það staðfestir í augum umheimsins, að Ísland sé eins konar Ítalía norðursins, sem ekki geti staðið undir sömu siðferðiskröfum og gerðar eru á Norðurlöndum.

Siðleysi menntaráðherra í máli þessu felst í að misnota aðstöðu sína til að hygla skjólstæðingi forsætisráðherra. Sami ráðherra misnotaði aftur aðstöðu sína til að bola framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins í frí til að hygla þessum sama skjólstæðingi forsætisráðherrans.

Svipað siðleysi kemur fram í eignarhaldi stjórnmálaflokkanna á bankastjórastólum og meira að segja forstjórastóli Veðurstofunnar, svo að nýleg dæmi séu rakin. Það kemur fram í, að litið er svo á ráðherra, að þeir megi haga sér eins og eins konar miðalda-lénsgreifar.

Ábyrgð þjóðarinnar á málinu felst í að velja sér stjórnmálaflokka og -foringja, sem ekki þættu gjaldgengir í nágrannalöndunum. Þetta stafar af, að þjóðin hefur ekki siðferðilegan þroska til að hafna spilltum stjórnmálaflokkum og -foringjum með hugarfari lénsgreifa.

Kjósendur telja þolandi, að fjármálum foringja, flokka og ríkis sé ruglað saman og að mismunandi reglur gildi um Jón og séra Jón. Kjósendur telja þolandi, að ráðherrar séu eins og smákóngar sem skaffi og skammti skjólstæðingum. Kjósendur telja þolandi að búa við hermang.

Meðan þjóðin sættir sig við þetta ástand munu ráðherrar halda áfram að haga sér sem fyrr. Og Ólafur G. Einarsson segir vafalaust ekki af sér sem ráðherra.

Jónas Kristjánsson

DV

Borg

Veitingar

Matsalur Hótels Borgar endurspeglar menningarsögulegt afrek, sem unnið hefur verið við endurreisn hins gamla virðingarhótels í miðborginni. Salurinn er aftur kominn nálægt upprunalegu millistríðshorfi. Afturhaldssamar ljósakrónur eru þó komnar í stað fúnkisljósanna gömlu og hæfa staðnum raunar betur.

Stjórnstöð í miðjunni dregur úr kuldanum, sem fylgir víðum og háum sölum. Hún skiptir salnum í kaffistofu og borðstofu. Í aðra átt er bar og hina skenkur. Þessi timburhlunkur yrði léttari og viðfelldnari, ef málmfótstig leysti af hólmi útskot í tréverkinu neðanverðu.

Nostalgían hæfir. Unga fólkið styður ömmur og afa til sætis, svo að rifja megi upp sokkabandsárin. Aðsókn er orðin góð, einkum í hádeginu, þegar staðurinn nýtur tilfallandi umferðar fólks á ferðinni í miðbænum. Að því leyti keppir Borgin við kaffihús á borð við París og Sólon.

Matreiðslan fylgir í humátt á eftir endurreisn Hótels Borgar. Hún er betri en hún hefur verið nokkru sinni á þriggja áratuga veitingahúsarölti mínu. Hún er meira að segja orðin frambærileg, aldrei þessu vant.

Sem betur fer nær nostalgían ekki til matreiðslunnar. Freistandi hefði verið að taka upp hina hræðilegu, dönsku matreiðslu, sem tíðkaðist á millistríðsárunum, og hæfir óneitanlega litlu miðbæjarhóteli í millistríðsárastíl. Fríkadellur úr kjöti og fiski eru raunar einu fortíðardraugarnir á matseðlinum. Ég prófa þær, þegar ég verð þungt haldinn af angurværð hins liðna.

Tveir stuttir seðlar eru á Borginni, annar notaður í hádeginu og hinn að kvöldi. Þetta eru fastir seðlar, sem aðeins bjóða einn fiskrétt dagsins. Ekki er hægt að segja, að matseðlarnir séu forvitnilegir aflestrar, en búa þó yfir óvæntum tilþrifum. Hæst bar þar hálfsæta lauksúpu dagsins, matarmikla, en ekki þykka.

Í eitt skiptið var fiskur dagsins skötuselur, hæfilega vel eldaður, borinn fram með spínati og eggaldini, svo og basil-kryddaðri tómatsósu, sem yfirgnæfði í bragði. Í annað skipti var fiskur dagsins steinbítur, mjög góður, borinn fram með möndlum við hæfi og hrásalati.

Ristaður hörpufiskur kom á óvart, óvenjulega stórir og meyrir vöðvar, bornir fram með sterkkrydduðum linsubaunum. Mildur skelfiskur og sterkar baunir mynduðu sterka andstæðu. Þetta var hættuspil, sem lánaðist.

Lambahryggur var vel rauður og vel meyr, borinn fram með bökuðum kartöfluþráðum og tómötum, svo og belgbaunum, sem á matseðli voru kallaðar snjóbaunir.

Gott var krem með þunnri og stökkri karamelluskorpu, svokallað Crème Brulée. Einnig sykraðar eplaskífur með vanilluís og karamellusósu.

Verðlag á Borg er svipað og á Holti, þótt fjölbreytni og matreiðsla standist ekki þann samanburð. Súpa og réttur dagsins kostuðu 920 krónur og þriggja rétta kvöldverður 2.900 krónur án drykkjarfanga.

l hvítvína er fremur slæmt, en gott í rauðvínum. Cahte au Fontareche kostar 2.290, Santa Christina 2.350, Marqués de Riscal á 2.750 og Mouton Cadet 2.150 krónur.

Tómas veitingamaður gerði góða hluti í Hard Rock Café. En fyrir endurreisn Borgar á hann skilið fálkaorðu.

Jónas Kristjánsson

DV

Pasta Basta

Veitingar

Loksins er komið til skjalanna veitingahús, sem hefur nýtt pasta á boðstólum á hverjum degi í stað aldraðrar pakkavöru. Pasta Basta á því erindi til okkar. Biðröðin við dyrnar sýnir, að fólk hefur áttað sig á þessu.

Þessi staður er í kjallaraholu við Klapparstíg, þar sem enginn á von á veitingahúsi. Þar er pláss yfir um það bil 30 gesti og 16 til viðbótar í glerskála. Streitulausar og tilviljanakenndar og ódýrar innréttingar hafa tekizt mjög vel. Sætin eru þægileg og stemmningin góð.

Samt er þetta ekki ekta ítalskur staður. Starfsfólk talar íslenzku. Handþurrkur eru úr pappír, svo og hvítir dúkar, sem gestir mega krota á, því að vaxlitir fylgja hverju borði. Ruslið á veggjum og á hillum ofan við glugga væri ekki á dæmigerðum, ítölskum veitingastað.

Helzta einkenni Pöstu Böstu er glerveggur, sem veitir útsýni inn í eldhús. Vel staðsettir gestir geta fylgzt með þjálfuðum handbrögðum matreiðslumanna til að magna upp matarlystina. Við vegginn er skenkur, sem í hádeginu er notaður undir hlaðborð, eitt staðartrompanna.

Þetta hádegishlaðborð kostar aðeins 670 krónur. Þar voru fimm tegundir af köldu pasta, eitt risotto og hrásalat. Innifalið í verðinu er súpa og gott brauð, bakað á staðnum. Súpan reyndist vera snarpheit grænmetis-tómatsúpa með einum of eindregnu tómatbragði.

Pösturnar voru allar góðar og sumar mjög góðar. Þarna voru pastaræmur með túnfiski, pastakuðungar með rækjum, pastapípur með sveppum, pastaþræðir með skinku og með pesto-sósu. Risotto dagsins var með pepperoni. Út þá þetta láta menn svo grana-ost, sem raspaður er á staðnum úr ekta stykkjum af þessum fræga osti.

Á kvöldin eru pöstur heitar, stinnar og fremur góðar. Þá kosta þær um 920 krónur, sem er gott verð, þegar haft er í huga, að þær eru ekki verksmiðjuframleiddar. Boðið er upp á capelli-englahár, conchiglie-kuðunga, sedoni-þræði, tagliatelle-ræmur og ravioli-kodda.

Kuðungafantasía með rækjum var góður og þar að auki fallegur og lystugur réttur. Ræmur með humri voru afar góðar, en humarinn var tæpast nógu meyr. Koddar með sveppum voru einna bezti pastarétturinn.

Ef gestir velja sér eitthvað annað en pasta í aðalrétt, fer reikningurinn fljótlega að rísa til himinhæða þeirra, sem tíðkast á hinum fínu veitingahúsum borgarinnar. En það er engin ástæða til að velja slíka rétti, þar sem fjölbreytt úrval er á boðstólum af góðu pasta.

Fiskisúpa fastaseðilsins reyndist vera tómatsúpa með grænmetisþráðum. Tómatbragðið var hæfilega milt, en humarsoðsbragð yfirgnæfði algerlega saffranbragð, sem boðað var á matseðli. Óvænt voru sniglar skemmtilega sérkennilega engiferkryddaðir. Smokkfiskhringir voru óvenjulega mjúkir og góðir, bornir fram með englahárapasta, en þar vantaði engiferbragð, sem boðað var á seðli.

Sítrónuterta var með góðu og sterku appelsínubarkarbragði. Súkkulaðifrauð var gott. Mjúk og góð var kaffibragðsterta, sem gekk undir nafni ostatertu. Tiramisu er þekktur ítalskur eftirréttur, eins konar búðingur undir súkkulaðiþaki. Ítalskt kaffi er að sjálfsögðu gott.

Jónas Kristjánsson

DV

Hrafninn flýgur

Greinar

Ekkert var ofsagt í ummælum Hrafns Gunnlaugssonar um ríkisútvarp allra landsmanna. Ástand stofnunarinnar er lakara en hann lýsti því í þrautleiðinlegum og innhverfum sjónvarpsþætti, sem starfsmenn stofnunarinnar töldu eiga erindi við landsmenn á bezta hlustunartíma.

Hrafn gat ekki virðingarleysis Ríkisútvarpsins gagnvart íslenzku talmáli, sem sést af því, að það hefur eingöngu einn málfarsráðunaut, þótt stóru dagblöðin tvö hafi á sínum snærum tíu manns í fullu starfi og með mikið úrskurðarvald við að vernda íslenzkt ritmál.

Hrafn sagði, að Ríkisútvarpið væri stöðnuð stofnun. Það er hverju orði sannara, en segir þó ekki allan sannleikann. Réttara væri að lýsa stofnuninni sem steinrunninni. Hún væri gersamlega bjargarlaus, ef hún væri tekin úr vernduðu umhverfi þvingaðra afnotagjalda.

Hrafn sagði Ríkisútvarpið þjást af atgervisflótta. Það er fremur vansagt en ofsagt, eins og sést bezt af, að þar þarf að minnsta kosti tvo menn til að sinna sem svarar hverju einu starfi á Stöð 2. Í mannafla er stofnunin engan veginn hæf til samanburðar við umhverfi sitt.

Þann fyrirvara má þó hafa á lýsingunni, að hún á misvel við einstakar deildir Ríkisútvarpsins. Fréttastofa Gufunnar er að mörgu leyti ágæt deild, sem þjónar vel hlutverki sínu, en er reyrð í viðjar úreltra vinnureglna frá tímum stofnanalegri fjölmiðlunar en nú tíðkast.

Við gagnrýni Hrafns má bæta með því að segja Ríkisútvarpið vera algera tímaskekkju. Það stendur sig ekki frá sjónarhóli markaðshyggju og ekki heldur frá öðrum sjónarhóli, svo sem varðveizlu íslenzkrar tungu. Það ber flest af kunnum einkennum andvana einokunarstofnunar.

Ríkisútvarpið er fyrir löngu hætt að vera eign allra landsmanna, ef það hefur einhvern tíma verið það. Það hefur verið að breytast í eins konar sjálfseignarstofnun starfsmanna, svo sem sést af formi og skipulagi þrautleiðinlegrar og innhverfrar þáttaraðar þess um sjálft sig.

Eðlilegt er, að starfsmannafélag slíkrar stofnunar reki upp ramakvein, þegar hluti sannleikans er sagður um stofnunina og frammistöðu starfsmanna. Einnig er eðlilegt, að það mótmæli sjálfsögðum tillögum Hrafns um, að dagskrárgerð verði boðin út í meira mæli en áður.

Í heilbrigðum fyrirtækjum er fólk rekið fyrir það, sem það gerir eða gerir ekki. Það er ekki rekið fyrir rangar skoðanir og þaðan af síður fyrir réttar skoðanir. Brottrekstrarsök Hrafns er táknræn sjálfslýsing afvegaleiddrar stofnunar, sem er upptekin af sjálfri sér.

Það er dæmigert fyrir Ríkisútvarpið, að sem stofnun þolir það ekki að heyra sannleikann eða hluta sannleikans um það sjálft. Það er orðið svo háð hinu verndaða umhverfi í gróðurhúsi þvingaðra afnotagjalda, að það þolir alls ekki tjáningarfrelsi innanhússmanns.

Hrafn Gunnlaugsson vex af brottrekstrinum, en Ríkisútvarpið minnkar. Brottreksturinn er þó ekki með öllu illur, því að hann mun opna augu fleiri manna fyrir því, að stofnunin er tímaskekkja, sem leggur óþarfa byrði á skattgreiðendur á tímum nægs framboðs af fjölmiðlun.

Þegar Ríkisútvarpið loksins verður selt, er rétt að gera það í hlutum, svo að eitthvað fáist fyrir þá hluta þess, sem markaðsgildi hafa, svo sem fréttastofur útvarps og sjónvarps. Fæstar aðrar deildir þess eru söluhæfar og verða væntanlega lagðar niður í fyllingu tímans.

Vonandi flýtir frumhlaup Ríkisútvarpsins fyrir því, að tímaskekkjan hverfi af vettvangi, skattgreiðendum til hægðarauka og frjálsri notkun fjölmiðla til framdráttar.

Jónas Kristjánsson

DV

Serbíusöfnun

Greinar

Margir hefðu ekki tekið þátt í fatasöfnun Rauða krossins í vetur, ef þeir hefðu vitað, að hjálpin yrði send til Serba, þeirrar þjóðar, sem hefur haldið úti villimannlegasta stríði, sem háð hefur verið í Evrópu í manna minnum. Eftir þessum svikum Rauða krossins verður munað.

Öll aðstoð, sem Serbum er send, nýtist þeim til að halda áfram fjöldamorðum og fjöldanauðgunum, þjóðahreinsun og samningsrofum, sem hafa einkennt árásarstríð þeirra í nágrannaríkjum Serbíu. Öll aðstoðin nýtist þeim til að hefja sama leikinn í Kosovo og Vojvodina.

Allt tal um skipta ábyrgð á stríðinu á Balkanskaga er álíka fáránlegt og að kenna Pólverjum og Bretum um upphaf annarrar heimsstyrjaldarinnar. Og allt tal um, að hjálpin fari til saklausra Serba er fáránlegt, því að þjóðin í heild lætur sér villimennskuna vel líka.

Styrjöldin á Balkanskaga er árásar- og útþenslustríð Serba. Rauði krossinn á að einbeita sér að hjálp við þær þjóðir, sem verða fyrir barðinu á ógeðslegu framferði þeirra. Rauði krossinn á að ekki að safna undir fölsku flaggi og senda aðstoðina beint til árásaraðilans.

Dapurlegt er til þess að hugsa, að íslenzk börn hafa verið virkjuð til stuðnings við árásar- og útþenslustríð, sem er af hálfu Serba háð með svo ógeðslegum hætti, að það er engan veginn prenthæft. Íslenzki Rauði krossinn ber ábyrgð á þessari misnotkun íslenzkra barna.

Hér eftir verður ekki hægt að treysta Rauða krossinum. Ef hann gengst fyrir söfnunum, verður þjóðin fyrst að fá gullvægar tryggingar fyrir því, að árásar- og útþensluþjóðir séu ekki studdar. En bezt væri fyrir Rauða krossinn að hafa hægt um sig í náinni framtíð.

Því miður hafa hjálparstofnanir komizt upp með að veita rangar eða villandi upplýsingar um, hvað verður um það fé eða vörur, sem safnað er. Það kom fram í Sómalíu, að hjálpin þangað fór að mestu til glæpaflokka og að fjölþjóðaher varð að lokum að skerast í leikinn.

Við ættum að hætta að gefa í blindni til hjálparstofnana á borð við Rauða krossinn. Reynslan sýnir, að þær gefa rangar og villandi upplýsingar um, hverjir fái hjálpina. Í vetur héldu menn, að Króatar og íslamar fengju hana. En þeir fengu næstum ekki neitt frá Íslandi.

Einasta vonin um frið á Balkanskaga er, að alþjóðlega viðskiptabannið á Serbíu hafi þær afleiðingar, að efnahagslífið brotni, svo að þjóðin hafi ekki lengur mátt til stríðsglæpa sinna og annarra glæpa gegn mannkyninu. Þess vegna má alls engin hjálp berast Serbum.

Forustumenn Rauða kross Íslands hafa kosið að leika fífl og vísa ábyrgðinni til útlendinga, sem hafi ákveðið, að íslenzka hjálpin ætti að fara til níu staða í Serbíu. Þetta svar nægir ekki, því að það er Rauði kross Íslands sem hafði Íslendinga að fífli í söfnuninni í vetur.

Með framferði sínu drepur íslenzki Rauði krossinn vilja margra til að taka þátt í hjálparstarfi. Fólk leggur af mörkum vegna samúðar með þeim, sem verða fyrir styrjöldum eða náttúruhamförum. Og það vill, að þolendur njóti hjálparinnar, en ekki gerendur hörmunganna.

Við erum sem gefendur ekki skuldbundin til að hlíta því, þótt Rauði krossinn í Lausanne telji sig ekki geta gert upp á milli aðila. Við skulum snúa okkur að hjálparstofnunum, sem geta sannfært okkur um, að hjálpin berist þeim, sem við höfum samúð með, en ekki öðrum.

Eftir svikin við okkur í vetur er eðlilegt, að Rauði krossinn verði framvegis undir smásjá, þegar hann hyggst virkja góðvild Íslendinga eða misnota hana.

Jónas Kristjánsson

DV