Author Archive

Argentína

Veitingar

Argentína hefur lengi verið bezta steikhúsið í landinu. Þar er kjötið selt eftir vigt og steikt á viðarkolum. Það er feitt kjöt í UN2F flokki af gamla, íslenzka, bragðgóða nautakyninu. Seiga Galloway-ruslið kemur þar ekki inn fyrir dyr. Vegna þessara staðarreglna er hægt að treysta því, að n
autakjötið sé gott. Enda verður það að vera gott, þegar verðið er um 2400 krónur fyrir aðalréttinn einan.
Argentína er hvorki fín né smart að útliti, en hefur góðlátlegt svipmót, næstum rómantískt. En fjögurra sæta básar í skipulögðum röðum verða seint notalegir fyrir gesti og þjóna. Rustalegar innréttingar eru ættaðar frá Gauchos í Amsterdam, sem ég ímynda mér, að hafi stælt veitingastaðastíl, er þótti sniðugur í Reykjavík fyrir meira en áratug og var aldrei annað en búralegur.

Þjónusta er góð og borðbúnaður í bezta lagi. Vínglös eru með réttu lagi. Þurrkur eru efnismiklar og góðar, þótt þær séu ekki úr taui. Vínlisti er góður og býr meðal annars yfir argentínsku rauðvíni, Cabernet Sauvignon og Don Federico. Með mat eru bornir fram volgir brauðhnúðar ágætir og frambærilegt ísbergssalat í olíusósu.

Empanada er nafnið á fylltu brauði þykku, sem minnti í áferð og bragði á íslenzka klatta hálfsæta. Inni í því var grænmeti og fiskur í eitt skiptið og í annað skiptið kjöthakk og laukur. Þetta hefur mér reynzt góður forréttur.

Glóðaður humar var frábær að bragði, yndislega meyr, borinn fram á teini. Argentínsk kjötsúpa var of mikið rjómuð, en bragðgóð, full af kjötbitum og grænmeti. Grafinn nautavöðvi var enn einn góði forrétturinn.

Prímarif eru í boði fimmtudaga. Það er kjöt af framhrygg ungra og feitra nautgripa. Þetta var mjúkt kjöt, sem skera mátti með gaffli, með miklum fitulögum. Fitan er góð við eldun, en gestir þurfa síðan að skera hana frá. Prímarifinu fylgdu djúpsteiktir sveppir, sem hæfðu ekki réttinum og djúpsteikingin ekki heldur sveppunum.

Nákvæmur steikartími

Nautalundir staðarins eru í ýmsum stærðum, eldaðar eftir kúnstarinnar reglum, sérstaklega ánægjulegur matur. Eldunin var nákvæmlega sú, sem beðið var um, svo sem alltaf hefur verið reynslan á þessum merka stað. Lambahryggvöðvi var líka góður, eldaður að einföldum og nákvæmum nautakjötshætti, svo sem vera ber.

Í heild er matreiðsla staðarins einföld og nákvæm í tímasetningum. Á matseðlinum er mest áherzla lögð á hráefni og mismunandi magn þess, en minna sagt frá sósum og öðrum hliðaratriðum eins og tíðkast í franskættuðum veitingahúsum. Meðlætið er að mörgu leyti staðlað, svo sem bökuð kartafla með aðalréttum.

Af eftirréttum fannst mér áhugaverðastur sneiddur súkkulaðibúðingur í þremur lögum, með rifsberjum og rjóma. Ennig var góður bakaður banani með karamellusósu og vanilluís svo og mangó-ískrap. Mér sýndist argentínska mjólkurhlaupið vera horfið af matseðlinum.

Ég var orðinn svo vanur stöðum með ítalska kaffilögun, að ég spurði þjóninn, hvernig kaffi hann væri með.

“Ég er bara með gott kaffi.”

Eitt núll fyrir hann, enda var kaffið gott.

Jónas Kristjánsson

DV

Stólar & stöður hf.

Greinar

Alþýðuflokkurinn er þessar vikur að ná ýmsum helztu markmiðum stjórnarsamstarfsins. Tveir ráðherrar flokksins fá úthlutað af ránsfeng flokkakerfisins og formaður fjárveitinganefndar fær sama hlut af þessum ránsfeng fyrir að láta öðrum eftir ráðherraembætti.

Jón Sigurðsson bankaráðherra fær á næstunni úthlutað hægum sessi seðlabankastjóra, Eiður Guðnason umhverfisráðherra fær fljótlega úthlutað friðarstóli sendiherra í Osló og Karl Steinar Guðnason fær síðar í sumar úthlutað legubekk forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins.

Stjórnmálaflokkarnir telja ekkert athugavert við, að flestar toppstöður opinbera geirans séu skipaðar fólki, sem hefur það eitt sér til ágætis að vera í stjórnmálaflokknum, sem samkvæmt kvótakerfi flokkanna og flokksstimpli ráðherra telst eiga stólinn og stöðuna.

Kjósendur eru sáttir að kalla við þessa tilhögun og ætlast ekki heldur til neinna afreka af þeim, sem fá úthlutað af ránsfeng flokkanna. Samkvæmt íslenzkri málvenju heita vel launuð embætti “stólar” og lakar launuð embætti “stöður”. Þau heita alls ekki “störf”.

Íslendingar stukku úr miðöldum inn í nútíma án þess að sæta eldskírn hinnar borgaralegu byltingar, sem afnam forréttindi yfirstéttarinnar og kom á fót sérstæðu kerfi valddreifingar og siðvæðingar, sem oft er kallað lýðræði. Við erum enn þegnar, ekki orðnir borgarar.

Þess vegna telja margir Íslendingar ásættanlegt náttúrulögmál, að til sé í landinu yfirstétt, sem ekki þurfi að réttlæta stöðu sína með afreksverkum, heldur sé bara til eins og af guðs náð. Bankastjórar verða þó helzt að kunna til verka í laxveiði og geta stundað villt útlán.

Með stuðningi kjósenda hafa íslenzkir stjórnmálamenn komizt upp með að halda áfram að haga sér eins og ránsgreifar frá miðöldum. Markmið þeirra er að komast í skammvinnt sæluríki ráðherradóms til að nota þá vist til að útvega sér varanlegra embætti opinbert.

Þetta er þjóðhagslega óhagkvæm aðferð við að skipa toppstöður. Íslendingar eru fámenn þjóð og hafa ekki efni á að hafna hæfum mönnum á þeim forsendum, að þeir eru annað hvort ekki á framfæri stjórnmálaflokks eða ekki á framfæri rétta flokksins þá stundina.

Þetta er líka þjóðhagslega óhagkvæm aðferð við að reka stjórnmálaflokka. Í rauninni verða þeir málefnalega hver öðrum líkir, því að öll orka ráðamanna þeirra fer í myndun eiginhagsmunabandalaga um að komast í aðstöðu og peninga, stöður og stóla, spillingu og lax.

Þannig verða minni spámenn veðurstofustjórar og tímabundnir framkvæmdastjórar sjónvarps, en hinir meiri verða seðlabankastjórar, sendiherrar í Osló og forstjórar Tryggingastofnunar. Sameiginlegt þeim öllum er, að þeir eru ekki manna hæfastir til embættisins.

Á öllum þessum sviðum eru til ágætir fagmenn, sem ekki verða kallaðir til afreka, af því að þeir eru ekki hluthafar í félaginu Stólar & stöður. Við eigum ágæta fagmenn í fjármálum, mannasiðum, rekstrartækni og stjórnun, sem eru hæfari hinum útvöldu ránsgreifum.

Sumarið 1993 er mögnuð staðfesting á seiglu hins séríslenzka miðaldakerfis ábyrgðarlausrar yfirstéttar. Í einum pakka fær duglegasti spillingarflokkurinn úthlutað á næstu vikum fjölmörgum gullum af sameiginlegum ránsfeng flokkanna. “Stólar & stöður hf.” eru í blóma.

Svona verður ástandið áfram, þjóðinni til ófarnaðar og ógæfu, meðan hún sættir sig við stjórnmálaflokka, sem eru reknir eins og hlutafélag um stóla og stöður.

Jónas Kristjánsson

DV

Aukið sjónvarp

Greinar

Eitt af því, sem gæta þarf við nýtingu á nýjum geira ljósvakans til aukins sjónvarps, er kostnaður við móttöku rása á geiranum. Æskilegt er, að notendur geti notað sama loftnetið við að taka við þeim 23 rásum, sem rúmast á geiranum, og sama afruglarann til að ná myndinni.

Þetta þýðir, að rétthöfum rásanna ber að koma sér saman um sendingarstað og afruglunarkerfi, jafnvel þótt þeir standi að öðru leyti í samkeppni. Sameiginlegt afruglunarkerfi kemur alls ekki í veg fyrir, að hver rétthafi fyrir sig geti haft eigin læsingar á sínu efni.

Annað brýnt atriði er, að ekki sé mörgum af þessum 23 rásum fórnað til að senda samhliða fleiri en eina útsendingu af sömu gervihnattarásinni. Mikilvægt er að nýta sem bezt hvern þann geira ljósvakans, sem bætist við, því að mikill kostnaður fylgir hverjum nýjum geira.

Þetta þýðir, að þeir rétthafar rásanna, sem hyggjast nota þær að einhverju leyti til viðstöðulauss endurvarps efnis frá gervihnöttum, ættu að koma sér saman um þetta endurvarp. Sameiginlegt endurvarp kemur ekki í veg fyrir samkeppni í eigin dagskrám rétthafanna.

Þriðja mikilvæga atriðið er, að ekki sé fórnað rásum til að raka dreifarnar, það er að ná til skuggasvæða á Faxaflóasvæðinu. Til þess að fullnýta rásirnar 23 er skynsamlegt að nota kapal til að koma efninu til þessara svæða í stað þess að taka þrjár rásir undir hverja sendingu.

Þetta er rökrétt afleiðing þess, að geirinn, sem senn verður tekinn í notkun, er stundum kallaður “kapall í lofti”. Líta ber á hann sem eins konar ódýran kapal, sem ekki er fullkomin lausn og getur kallað á hefðbundinn kapal í jörð til uppfyllingar á skuggasvæðum geislans.

Þetta þýðir, að rétthafar rásanna ættu að koma sér saman um lagningu hefðbundins kapals um skuggasvæðin, þegar komið hefur í ljós, hver þau eru. Þetta þriðja atriði er eins og fyrri atriðin tvö fyrst og fremst þjóðhagslegt sparnaðar- og hagvæmnisatriði, sem hafa ber í huga.

Með því að nýta rásirnar 23 sem bezt er hægt að gera skömmtunina til rétthafanna sem minnsta. Forðast ber mistökin frá núverandi sjónvarpsgeira, sem er illa nýttur og hefur komið á fót tvíokun Ríkisútvarpsins og Íslenzka sjónvarpsfélagsins í aðgangi að núverandi loftnetum.

Þegar geiri springur, verður mismunun milli rétthafa. Þeir, sem ekki komast fyrir á eldri geira, verða að fara yfir þann þröskuld, að notendur hafa ekki móttökubúnað. Þeir rétthafar, sem fara á nýjan geira, hafa því snöggtum lakari aðstöðu en þeir, sem eru á gamla geiranum.

Þetta þýðir ekki aðeins, að nýta ber hvern nýjan geira sem bezt, heldur einnig, að hver nýr geiri er verðminni en þeir, sem fyrir eru í notkun. Þetta skiptir máli, ef stjórnvöld taka upp þá nýju stefnu að selja eða leigja réttinn til að nota ljósvakann til sjónvarps.

Slík stefnubreyting er hugsanleg, alveg eins og stjórnvöld gætu farið að selja eða leigja aðgang að fiskimiðunum, sem eru miklu takmarkaðri auðlind en ljósvakinn í loftinu. Slíkt væri pólitísk ákvörðun, sem yrði þá að beita af víðsýni og réttlæti og til eflingar samkeppni.

Ef sú verður niðurstaðan, er rétt að verðleggja núverandi sjónvarpsgeira Ríkisútvarpsins og Íslenzka sjónvarpsfélagsins margfalt dýrar en geirann, sem nú hefur verið ákveðið að opna. Þegar þriðji geirinn verður síðar opnaður, ber að verðleggja hann enn lægra en hina fyrri.

Atriðin, sem hér hafa verið nefnd, eru viðráðanleg. Hinn nýi sjónvarpsgeiri getur því farið vel af stað og orðið til að auka fjölbreytni sjónvarpskosta almennings.

Jónas Kristjánsson

DV

Seðlabankanum að kenna

Greinar

Seðlabankinn ber ábyrgð á skjótfengnum tekjum nokk-urra aðila, sem stunduðu öruggt gjaldeyrisbrask áður en markaðsskráning gengis var tekin upp um mánaðamótin. Fyrir þann tíma var gengisskráning bankans svo barnaleg, að spákaupmenn í gengi áttu auðveldan leik.

Um langt árabil hefur verið lagt til í leiðurum DV, að Seðlabankinn hætti að skrá þykjustugengi sitt og gefi gengisskráningu gjaldmiðla frjálsa. Þetta hefur nú loksins gerzt að nokkru, en aðeins vegna þess að komið hefur í ljós dæmi um stórfellda brotalöm í kerfinu.

Raunar var það fréttastofa Reuters, sem skráði gengi gjaldmiðla fyrir Seðlabankann. Síðdegismat Reuters á stöðu gjaldmiðla var notað í Seðlabankanum við opnun gjaldeyrisdeilda morguninn eftir. Þeir, sem áttuðu sig á þessu, gátu notað svigrúmið til gróðamyndunar.

Spákaupmenn notuðu upplýsingar fjármálaþjónustu Reuters til að færa milli gjaldeyrisreikninga fyrir lokun bankanna og biðu svo í rólegheitum eftir gróðanum, sem birtist í síðbúinni gengistöflu Seðlabankans morguninn eftir. Þetta var nærri gulltrygg spákaupmennska.

Athyglisvert er, að viðskiptabankarnir, sem höfðu tapað stórfé á þessu um árabil, skyldu ekki átta sig fyrr en á þessu ári. Það er gott dæmi um, að þeir eru ekki nógu vel reknir, svo sem útlánastefna þeirra og hrikalegar afskriftir hafa einnig sýnt á undanförnum árum.

Alvarlegast er þetta mál þó fyrir Seðlabankann. Það er stofnun, sem aðalbankastjórinn töfraði upp úr skrifborðsskúffu í Landsbankanum og gerði bókstaflega að stærsta virki blýantsnögunar í þjóðfélaginu. Þar sitja um 150 manns með 600 milljón króna árlegum kostnaði.

Seðlabankinn hefur haft einkar óljós verkefni og sinnt þeim illa. Hann hefur séð um tilfærslu á fjármagni af almennum lánamarkaði yfir á sérréttindaborð stjórnvalda, með milljarðatjóni fyrir þjóðarbúið. Og hann hefur þótzt vera að skrá gengi krónunnar í alvöru gjaldmiðlum.

Nú hefur komið í ljós, að Seðlabankinn framkvæmdi þessa gengisskráningu með því að nota síðdegistölur Reuters, liggja á þeim í um það bil sautján klukkustundir og birta þær síðan að morgni. Seðlabankinn afsalaði þannig gengisskráningarhlutverkinu í hendur Reuters.

Þetta gaf gjaldeyrisbröskurum það svigrúm, sem þeir þurftu til að græða á tá og fingri, í fyrsta lagi á kostnað bankanna og síðan óbeint á kostnað viðskiptavina bankanna, er þurfa að borga brúsann með óheyrilegum vaxtamun, sem er einsdæmi meðal auðþjóða heims.

Frammistaða Seðlabankans á þessu sviði kemur ekki á óvart. Þetta er ekki bara gagnslaus stofnun, heldur beinlínis skaðleg. Við þurfum enga stofnun til að skrá gengi, sem á að skrá sig sjálft, og enga stofnun til að gera peninga arðminni með því að taka þá af markaði.

Við getuleysið í meðferð mála, sem virki blýantsnagara hefur sankað að sér, bætist svo fordæmið, sem Seðlabankinn hefur löngum gefið stjórnendum í bankakerfinu, þar sem sameinast lífsstíll stórbokka og getuleysi í starfi. Seðlabankinn hefur leitt fínimannsleikinn.

Veruleikafirring bankastjóra og bankaráðsmanna, sem birtist í, að bankar reka saklaust láglaunafólk úr starfi tugum samam, en hlífa hverjum einasta stórbokka og fást ekki einu sinni til að fella niður laxveiðiferðir þeirra, á hornstein sinn í sandkassa Seðlabankans.

Gengisbraskið var lítið dæmi um þetta. Það var ekki spákaupmönnum að kenna, heldur Seðlabanka, sem gegndi ekki hlutverkum, er hann sankaði að sér.

Jónas Kristjánsson

DV

Askur

Veitingar

Askur hefur alltaf verið alþýðlegur og viðkunnanlegur staður. Í gamla daga var hann virðulegur skyndibitastaður við Suðurlandsbraut ofanverða, en hefur um skeið verið alvörustaður við brautina neðanverða, í Skeljungshúsi. Þar kemur þverskurður af þjóðinni til að nærast.

Við eitt borðið eru kaupsýslumenn með útlendinga. Við næsta borð er faðir með börn. Við þriðja borð er einmana maður með heila rauðvínsflösku á borðinu. Við hið fjórða eru snyrtiklæddir viðgerðarmenn einhvers þjónustufyrirtækis. Við fimmta er ferðafólk úr sjávarplássi. Og við sjötta er vísitölufjölskyldan mætt.

Þannig er Askur, hin stéttlausa matstofa, hvorki fín né ófín, hvorki dýr né ódýr, hvorki nýstárleg né gamaldags. Hún er svo hlutlaus, að hún er einn fárra staða í bænum, þar sem þægilegt er fyrir einstaklinga að borða.

Staðurinn er samt ekki án sérkenna. Þau eru í matnum. Hann er í fyrsta lagi góður. Og í öðru lagi er hann laus við að vera frumlegur. Hann er bara eins og fólk býst við og vill, að hann sé, enda virðist matseðillinn vera óbreytilegur frá árstíð til árstíðar, ári til árs. Á hverjum degi er þó fiskur og kjöt dagsins í boði.

Askur er fremur stór og opinn, búinn hagkvæmum og vönduðum húsgögnum, sem hafa ekki látið á sjá. Harðviðarrammi er utan um plastplötur borðanna. Á neðra gólfi er eldhús, salatbarð og nokkur borð, en meginsalur á efra gólfi. Þar eru langsófar meðfram veggjum, lítil borð og stólar á móti. Þetta minnir á franskt brasserí.

Askur siglir meðalsjó í verðlagi. Hann býður heitt hádegishlaðborð á 1130 krónur, heitt sunnudagssteikarborð á 1550 krónur og fiskrétt dagsins á 1090 krónur, allt að súpu og köldu salatborði meðtöldu. Meðalverð þriggja rétta af matseðli er um 2190 krónur. Vínlisti er stuttur og vel valinn, með Gewurztraminer og Hugel í hvítu, Santa Cristina og Barthez í rauðu.

Rjómalöguð spergilkálsúpa dagsins var fremur góð hveitisúpa. Betri reyndist rjómalöguð blaðlaukssúpa dagsins. Ýsuflak dagsins var mátulega eldað, hlaðið miklu af rækjum, fljótandi í góðri gráðostsósu, fyrirtaks réttur. Í annað skipti var ýsluflak dagsins líka gott, í það skiptið með rækjum og hörpufiski, svo og sítrónusósu.

Ég hef ekki prófað að láta skera fyrir mig steikur í sunnudagshádegi. En ég hef séð heita hádegisborðið og fannst það ekki girnilegt í hitakössum. Salatborðið hef ég hins vegar notað nokkrum sinnum og finnst það gott. Ég sakna þó sveppa. Grænmetið er undantekningarlaust frísklegt. Í eitt skiptð voru þar smávaxnir tómatar, rifinn ostur og fjórar gerðir af sósum, auk hefðbundinna þátta.

Svínarif með barbecue-sósu eru sérgrein, afar matarleg, enda fá gestir sérstakar svuntur til að óhreinka sig ekki. Nautasteik var líka fremur góð, lítið steikt og vel meyr, borin fram með sveppum og kryddsmjöri. Boðnar eru fjórar útgáfur af nautasteik og fimm af lambasteik.

Eftirréttir eru góðir á Aski, eplabaka með litlum eplateningum og hnetubaka, báðar með ís og þeyttum rjóma.

Askur hefur fundið sér hillu og heldur sig við hana. Fólk kemur þangað til að nærast á mat, sem er eins á bragðið og hann var síðast og þar áður, aldrei misheppnaður. Hér er allt í traustum og föstum skorðum.

Jónas Kristjánsson

DV

Þjóðarsátt hin mesta?

Greinar

Formenn stjórnarflokkanna, forsætisráðherra og utanríkisráðherra ríkisstjórnarinnar, hafa afhent frumkvæði efnahagsaðgerða í hendur sjávarútvegsráðherra. Þetta gerðu þeir með yfirlýsingum í fjölmiðlum um helgina. Forsætisráðherra gerði það með greinilegri fýlu.

Áhorfendur skildu þetta svo, að það væri mátulegt á ráðherra, sem ónáðaði samráðherra sína á þann hátt, að stofnun á hans vegum legði til minnkun á þorskafla niður í 150 þúsund tonn, þótt forsætisráðherra væri sjálfur búinn að segja, að þjóðin þyldi ekki niðurskurð.

Sjávarútvegsráðherra lét sér ekki bregða við þessar geðstirðu yfirlýsingar og kvaðst vera sammála: “Það er miklu hagkvæmara að hafa báða þætti málsins til meðferðar í sama ráðuneyti, bæði nýtingarstefnuna og það, sem lýtur að efnahagslega þættinum,” sagði hann.

Sjávarútvegsráðherra minnti á það í leiðinni, að samráðherrar hans hefðu nú loksins fallizt á ársgamlar tillögur hans um nýtingu aflaheimilda, þótt þeir hefðu neitað að gera það fyrir ári. Nú er þessi stefna sjávarútvegsráðherra múruð í bráðabirgðalögum, er sett voru fyrir helgi.

Óneitanlega er undarlegt að flytja frumkvæði í stjórn efnahagsmála á þennan hátt úr forsætisráðuneytinu yfir í sjávarútvegsráðuneytið. Það setur forsætisráðherra og utanríkisráðherra í erfiða stöðu, þegar þeir þurfa að fjalla um efnahagstillögur sjávarútvegsráðherra.

Ef þeir taka tillögunum dræmt eða illa, verður sagt, að þeir séu enn í fýlu. Ef þeir taka þeim vel, verður sagt, að sjávarútvegsráðherra sé klettur ríkisstjórnarinnar. Erfitt er að spá um, hvort verði þeim sárara, því að hrifning þeirra á sjávarútvegsráðherra er takmörkunum háð.

Þetta hefur forsætisráðherra verið sagt. Hann lagði því til í ríkisstjórninni eftir yfirlýsingahelgina, að efnt yrði til starfshóps ríkisstjórnar, stjórnarandstöðu og aðila vinnumarkaðarins til að leita leiða til að laga stöðu sjávarútvegsins í kjölfar samdráttar í þorskveiðikvóta.

Þetta er góð hugmynd, þótt hún sé þeim annmörkum háð, að forsætisráðherra hefur sjálfur hafnað óskum stjórnarandstöðunnar um, að Alþingi verði kvatt saman til að ræða hina nýju stöðu. Það er því eins líklegt, að stjórnarandstaðan telji sig áður hafa verið afskrifaða.

Auðvitað væri þægilegt fyrir ríkisstjórnina, ef hún fengi stjórnarandstöðuna og samtök vinnumarkaðarins til að fara yfir efnahagstillögur sjávarútvegsráðherra og slípa þær, áður en forsætisráðherra og utanríkisráðherra gera þær að sínum. Og það gæti verið gott fyrir þjóðina.

Með tillögunni um afskipti stjórnarandstöðu og vinnumarkaðar af yfirstjórn efnahagsmála hefur forsætisráðherra stigið hálft skref í átt til þjóðstjórnar. Spurningin er þá, hvort ekki beri að taka þessa aðila inn í ríkisstjórn, svo að úr verði söguleg þjóðarsátt hin mesta.

Þótt sjávarútvegsráðherra sé með félagsmálaráðherra annar af tveimur ráðherrum ríkisstjórnarinnar, sem vinna mál sín af kostgæfni, er hætt við, að tillögur hans um lausn efnahagsmála mótist of mikið af hagsmunum sjávarútvegs og dreifbýlisdeildar Sjálfstæðisflokksins.

Því er ágætt, að unnt sé að tempra frumkvæðið, sem sjávarútvegsráðherra hefur verið falið í efnahagsmálum. Ef hægt er að fá stjórnarandstöðu og vinnumarkað til að manna starfshóp til að fara yfir tillögur hans, eru nokkrar líkur á, að þjóðin geti snúið bökum saman.

Þetta mikla efnahagsáfall kallar á mikla þjóðarsamstöðu um að taka allan skellinn niður í 150 þúsund tonn og finna efnahagsleiðir til að þreyja nokkur mögur ár.

Jónas Kristjánsson

DV

150 þúsund tonn

Greinar

Flestir talsmenn hagsmunaaðila í sjávarútvegi hafa tekið af raunsæi tillögum Hafrannsóknastofnunar um 150 þúsund tonna þorskveiði á næsta fiskveiðiári. Þeir telja óhjákvæmilegt, að farið verði eftir tillögunum, þótt það kosti mikinn samdrátt þjóðartekna í næstu tvö ár.

Hólmgeir Jónsson, framkvæmdastjóri Sjómannasambandsins, segir: “Það er ekki hægt að berja hausnum við steininn. ŠEf menn hunza þessar tillögur, er hætta á, að stofninn hrynji.” Kristján Ragnarsson, formaður Landssambands útvegsmanna, tekur í sama streng:

“Šég tel, að fiskifræðingar viti bezt um ástand fiskistofna. ŠVið verðum að leita allra leiða til að reyna að fara eftir þessum tillögum. ŠVið erum í þessari alvarlegu stöðu í dag, þar sem við höfum hingað til tekið of lítið mark á tillögum fiskifræðinga.”

Eins og oftar áður reynast hagsmunaaðilar í sjávarútvegi fremur hafa langtímasjónarmið í huga heldur en stjórnmálamennirnir, sem flestir eru ófærir um að hugsa lengra en til næstu kosninga, í þessu tilviki til tveggja ára. Þess vegna munu stjórnmálamennirnir bregðast.

Sjávarútvegsráðherra hefur þegar gefið falskan tón með því að segja óskynsamlegt að veiða meira en 175 þúsund tonn af þorski. Það er röng lýsing á afleiðingum slíkrar ofveiði. Hrapallegt væri að veiða slíkt magn, en óskynsamlegt að veiða meira en 150 þúsund tonn.

Við 175 þúsund tonna veiði mun veiðistofninn halda áfram að minnka og hrygningarstofninn standa í stað, auk þess sem tekin er veruleg áhætta af endanlegu hruni þorskstofnsins, ef nýliðun heldur áfram að vera eins slæm og verið hefur. Slík ofveiði mun fljótt hefna sín.

Ef farið verður eftir 150 þúsund tonna tillögunni, má hins vegar gera ráð fyrir, að þorskstofninn fari að vaxa að nýju og að auka megi veiðina að tveimur árum liðnum. Á fáum árum yrðu heildartekjur þjóðarinnar orðnar meiri en þær verða með veiði, sem er umfram tillögurnar.

Þetta mundi gerast mun hraðar, ef þorskveiðin yrði færð niður í 125 þúsund tonn í þrjú ár. Þá mætti búast við, að veiðin gæti aftur farið yfir 225 þúsund tonn á ári undir lok áratugarins, það er að segja eftir svo sem tvö ár til viðbótar, sem er um það bil fimm ár héðan í frá.

Hafrannsóknastofnunin hefði raunar átt að mæla með 125 þúsund tonna hámarksafla, af því að það er hagfræðilega skynsamlegasta leiðin til að byggja sem hraðast upp verðmætan þorskstofn á nýjan leik. Það má sjá af reiknilíkönum, sem hafa verið gerð af þessu tilefni.

Meira að segja mundi borga sig að taka erlend lán til að brúa bilið milli 125 þúsund og 150 þúsund tonna þorskafla og fækka þannig mögru árunum á síðari hluta áratugarins. Vextir af slíkum lánum yrðu mun minni byrði en tekjutapið af völdum fyrirsjáanlegrar ofveiði.

Það væri þá hlutverk stjórnmálamanna að fara í 150 þúsund tonn sem málamiðlun milli langtímastefnu og skammtímastefnu. Nú er hætt við, að þeir fari í 175 þúsund tonn, sem er mjög hættuleg leið og fjárhagslega óhagkvæm, þegar litið er fimm ár eða lengra fram í tímann.

Forsætisráðherra hefur gefið í skyn, að farið verði fram úr tillögum Hafrannsóknastofnunar, jafnvel enn lengra en sjávarútvegsráðherra hefur sagt. Ummæli beggja markast af þröngum sjóndeildarhring skammsýnismanna, sem miða allt við kosningar eftir tvö ár.

Þjóðin hefur lengi barið höfðinu við steininn, lifað á ofveiði líðandi stundar og jafnvel hlustað á pólitíska skottulækna í fiskifræði. Nú er komið að skuldadögum.

Jónas Kristjánsson

DV

Kínahúsið

Veitingar

Bezta og ódýrasta austræna matstofan í Reykjavík er Kínahúsið við Lækjargötu. Þar er hægt að fá hádegisverð á 495 og 595 krónur. Hið fyrra var kjúklingasúpa og djúpsteiktar rækjur í súrsætri sósu, hið síðara það sama og að auki karrílamb og hnetukjúklingur. Rækjurnar voru betri og ódýrari kosturinn af tveimur góðum, hæfilega snöggsteiktar, með hæfilega þunnum steikarhjúp.

Austrænir veitingastaðir á Vesturlöndum þjóna annars vegar því fólki, sem hefur alizt upp við slíkan mat og hins vegar Vesturlandabúum, sem vilja annað hvort eða hvort tveggja, fara út að borða fyrir lágt verð eða hafa tekið þessa framandlegu matreiðslu í sátt eða fóstur. Hér á landi hefur hins vegar tíðkazt, að austrænar matstofur séu á nokkurn veginn vestrænu verði. Kínahúsið er ein af fáum undantekningum þessa íslenzka vandamáls.

Á kvöldin er líka ódýrt að borða í Kínahúsinu. Þá er hægt að velja milli nokkurra fjögurra rétta matseðla á 1750 krónur. Þeir fela í sér kjúklingasúpu, vorrúllu, mismunandi aðalrétti og loks djúpsteiktan banana með ís. Þetta eru ekki frumlegir kostir, heldur þvert á móti einkennisréttir kínverskra veitingahúsa á Vesturlöndum.

Kjúklingasúpan var nokkurn veginn hin sama á hádegisverðar- og kvöldverðarseðlinum. Þetta var bragðmild súpa að kínverskum hætti, tær og lystug, með kjúklingabitum, stundum með sveppum eða núðlum að auki.

Hádegisverði Kínahússins var ekki ausið upp úr hitakössum, heldur var hann steiktur fyrir hvern gest fyrir sig. Þess vegna ber staðurinn höfuð og herðar yfir ýmsa staði, sem einnig eru að keppa um hádegismarkaðinn og byggja að mestu á pottrétti eða pastarétti og köldu borði.

Áður er getið djúpsteiktu rækjanna, sem eru staðarsómi. Kjúklingur hádegisverðarins var í senn hæfilega meyr og hæfilega þéttur í sér, borinn fram með heilum hnetum. Lambakjötið var líka hæfilega eldað, borið fram með mildri karrísósu. Allt var þetta á einum diski

Að kvöldi prófaði ég nýlega í tvígang afar fína vorrúllu með þunnri, stökkri skorpu. Þetta var allt önnur vara en sú, sem margir þekkja úr pökkum matvörubúðanna. Þetta er lúxusrúlla með fjölbreyttu innihaldi, nokkuð breytilegu frá degi til dags, og súrsætri sósu. Venjuleg vorrúlla hússins var eins elduð, en innihaldið einfaldara.

Súpur staðarins voru yfirleitt mildar og tærar að kínverskum hætti. Þar á meðal var einföld sjávarréttasúpa með eggjahvítu og rækjum. Sterkari og þykkari var karríkrydduð andasúpa, sem minnti fremur á Indland en Kína.

Hörpudiskur er viðkæmur og verður seigur, ef hann er eldaður um of. Í Kínahúsinu var hann meyr og fínn, borinn fram með ananasbitum í góðri sítrónusósu. Súrsætur kjúklingur var líka vel eldaður, hæfilega snögglega djúpsteiktur. Pekingönd með bambus og sveppum var hins vegar ekkert betri en gengur og gerist.

Sæt vorrúlla með negulkrydduðu eplamauki var skemmtilegur eftirréttur. Djúpsteiktur banani með ís var nákvæmlega eins og hann er í öllum kínverskum veitingahúsum. Kaffi staðarins var með bezta móti.

Kínahúsið er vel í sveit sett á horni Lækjargötu og Skólabrúar. Innréttingar eru einfaldar, ekki ofhlaðnar Kínaskrauti. Andrúmsloftið er rólegt og notalegt.

Jónas Kristjánsson

DV

Í Tevtóborgarskógi

Greinar

Uppgjöf Vesturlanda fyrir barbörum Milosevics markar tímamót í vestrænni sögu, sem minnir á ósigur Rómverjans Varusar í Tevtóborgarskógi. Á hátindi velgengninnar kemur í ljós, að værukær Vesturlönd hafa hvorki siðferði né kjark til að verja hinn vestræna frið.

Uppgjöfin varð formleg á varnarmálaráðherrafundi Atlantshafsbandalagsins í Bruxelles í fyrradag. Þar kom í ljós, að Vesturlönd hyggjast fallast í raun á landvinninga Serba í Bosníu og framlengja marklausar hótanir sínar um aðgerðir gegn auknum landvinningum þeirra.

Vesturlönd bera ábyrgð á blóðbaðinu í Bosníu á þrennan hátt. Þau voru með hótanir, sem slunginn leiðtogi barbaranna vissi, að ekki yrði staðið við. Þau settu vopnasölubann á Bosníumenn, svo að þeir gátu ekki varið sig fyrir illþýði Serba, sem var grátt fyrir járnum.

Í þriðja lagi stóðu Vesturlönd fyrir langdregnum vopnahlés- og friðarviðræðum, er gáfu nauðgarasveitum Serba svigrúm og tíma til þjóðahreinsunar á svæðum, sem þeir unnu af Bosníumönnum. Sáttasemjarar Vesturlanda sýndu ótrúlegan barnaskap á þessu ömurlega ferli.

Allt þetta var fyrirsjáanlegt fyrir hálfu öðru ári, þegar illþýði Serba hóf skipulegar árásir á sjálfa menningarsöguna í Dubrovnik. Þá var strax spáð nokkrum sinnum í leiðurum þessa blaðs, hvernig fara mundi, ef Vesturlönd áttuðu sig ekki á eðli barbarismans hjá Milosevic.

Eftir uppgjöf Atlantshafsbandalagsins getum við slegið föstu, að því hefur ekki tekizt að finna sér nýtt hlutverk eftir andlát Sovétríkjanna og mun ekki takast það. Þess vegna er einsýnt að leggja bandalagið niður og spara Vesturlöndum kostnaðinn af atvinnuleysingjanum.

Eftir uppgjöfina getum við slegið föstu, að hernaðarlegu forustuhlutverki Bandaríkjanna meðal Vesturlanda er lokið. Eftir óvænta uppgjöf Bandaríkjahers í Persaflóastríðinu var spáð í leiðurum þessa blaðs, að Bandaríkin mundu ekki framar heyja stríð að eigin frumkvæði.

Í staðinn koma samráð Norður-Ameríku og Vestur- Evrópu, sem engan veginn vill taka við hlutverki Bandaríkjanna. Úr þessu verður patt, sem hefur haft hörmulegar afleiðingar í Bosníu, næst í Kosovo, síðar í Kákasus, unz eldar brenna á öllum mærum hins vestræna friðar.

Eftir uppgjöfina getum við slegið föstu, að tími leiðtoga er liðinn á Vesturlöndum. Í stað frú Thatcher eru komnir lagnir og liprir undirmálsmenn á borð við Clinton og Mayor, Kohl og Mitterrand. Þeir eru skammtímamenn í hugsun og vilja lengst hugsa til næstu kosninga.

Það er misskilningur, að slíkir menn séu farsælli en raunverulegir leiðtogar, sem hneigist til að rasa um ráð fram. Það eru Chamberlainar nútímans sem soga til Vesturlanda vandamál á borð við Serbíu, alveg eins og gamli Chamberlain magnaði Hitler með undanlátssemi.

Heimurinn er ekki þannig, að vestræn sjónarmið hafi endanlega sigrað og þjóðir Vesturlanda geti búið sælar að sínu. Þvert á móti er ástandið að verða eins og þegar heimsveldi Rómar stóð sem hæst. Þá byrjaði strax það ferli, sem leiddi til hruns hins rómverska friðar.

Vesturlandabúar þurfa að fara að átta sig á, að stjórnmálamenn á borð við Clinton og Mayor, Kohl og Mitterrand og samningamenn á borð við Vance og Owen eru ónytjungar. Við þurfum líka að átta okkur á, að stofnanir á borð við Atlantshafsbandalagið eru sjálfdauðar.

Vestræn menning stenzt ekki, nema haldið sé fast við langtímasjónarmið hennar og barbarisma sé haldið í skefjum í Tevtóborgarskógum hins vestræna friðar.

Jónas Kristjánsson

DV

Sjálfsgagnrýni í kerfinu

Greinar

Hin árlega Íslandsskýrsla efnahagsþróunarstofnunarinnar OECD er ekki Stóridómur útlendinga um árangur eða árangursleysi íslenzkra stjórnvalda í efnahagsmálum. Þessi skýrsla er að verulegu leyti samin í opinberum stofnunum á Íslandi, einkum í Þjóðhagsstofnun.

Hinir íslenzku höfundar skýrslunnar láta þýða á ensku úrdrátt úr sumu af því helzta, sem þeir láta frá sér fara á innlendan markað. Þeir velja þetta efni með hliðsjón af því, sem þeir vita um vestræna hagfræði eins og hún er stunduð í þessum virðulega klúbbi auðþjóða heims.

Þegar íslenzku höfundarnir hafa ritskoðað sjálfa sig, tekur OECD skýrsluna og athugar, hvort hún sé í samræmi við kennisetningar vestrænnar hagfræði. Í samræmi við það er skýrslan snyrt og gefin út undir merkjum og stimpli hinnar virðulegu stofnunar í París.

Að svo miklu leyti sem gagnrýni felst í þessari skýrslu, er um eins konar sjálfsgagnrýni að ræða. Sérfræðingar ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum hafa þarna tækifæri til að koma á framfæri áminningum um ýmis atriði, sem þeir hafa ekki fengið framgengt innanbúðar í kerfinu.

Þar sem innihald þjóðarsátta hefur verið og er enn skemmtileg blanda af óskhyggju og veruleikafirringu, kemur ekki á óvart, að í þessari margfrægu ársskýrslu er varað við aðild ríkisstjórnarinnar að kjarasamningum og þeim pökkum, sem hún leggur á samningaborðið.

Þegar Þjóðhagsstofnun er búin að þýða þessi sannindi á ensku og síðan þýða þau til baka á íslenzku með stimpli frá París, hljóðar áminningin svona: “Það er einnig mjög mikilvægt, að stjórnvöld fórni ekki festu í ríkisfjármálum fyrir frið á vinnumarkaði og litlar launahækkanir.”

Þessa fórn hefur ríkisstjórnin einmitt fært. Hún hefur lagt tvo milljarða á samningaborðið til að fá helztu samtök launafólks til að semja um engar launahækkanir í hálft annað ár. Ríkisstjórnin hefur tekið pólitískan veruleika fram yfir efnahags- og peningalegan veruleika.

Önnur mikilvæg áminning Þjóðhagsstofnunar, sem fyrst er búið að þýða á ensku og síðan aftur á íslenzku, hljóðar svo: “Samverkandi áhrif umhverfisþátta og ofveiði valda því, að allt eins má reikna með, að áfram verði óhjákvæmilegt að draga úr sókn í þorskstofninn.”

Þetta þýðir, að hagfræðingar kerfisins hafa gert sér grein fyrir, að skera verður niður aflakvóta á þorski í haust. Þeir vita, að stjórnvöld hafa ár eftir ár farið töluvert framúr tillögum Hafrannsóknastofnunar með hræðilegum afleiðingum fyrir þorsk og þjóð.

Forsætisráðherra telur, að taka verði pólitískan veruleika fram yfir fiskifræði- og efnahagslegan. Hann fylgir kenningu forvera síns um að gera mun á því, sem þorskurinn þoli og þjóðin þoli. Í skýrslunni reyna hagfræðingarnir að slá föstu, að þessi röksemd gengur ekki upp.

Skýrslan er ekki síður merkileg fyrir þau atriði, sem ekki eru í henni. Hagfræðingar íslenzka kerfisins hafa sem heild ekki enn áttað sig á stöðu hins hefðbundna landbúnaðar í þungamiðju efnahagsvandræðanna, þótt þar sé fórnað yfir 20 milljörðum króna á hverju ári.

Tala þessi kemur með því að taka meðaltal af tölum, sem hafa komið frá hagfræðingum, sem gegna mikilvægum stöðum í kerfinu. Þótt þeir séu hver fyrir sig þeirrar skoðunar, að landbúnaðurinn sé dýrasti dragbíturinn, taka þeir sem kerfi ekki á málinu í skýrslu sinni.

Meðan hagfræðingar kerfisins taka ekki á landbúnaði eins og þeir taka á ofveiði og þjóðarsáttum, er þægilegt fyrir kerfið að fórna áfram 20 milljörðum á ári hverju.

Jónas Kristjánsson

DV

Þjóðarsátt

Greinar

Þjóðarsátt náðist í morgun um vinnufrið í landinu í hálft annað ár. Aðilar að sáttinni eru að venju ríkisstjórnin og aðilar vinnumarkaðarins. Sáttin byggist á yfirlýsingu, sem ríkisstjórnin bauð fyrir nokkru og nægði þá ekki til að ná mikilvægustu málsaðilunum um borð.

Dagsbrún og Verkamannasambandið eru komin inn í þjóðarsáttina og gera hana sterka. Fyrir utan standa Sjómannasambandið og samtök opinberra starfsmanna. Þau samtök skipta minna máli, af því að þau geta ekki truflað gangverkið í þjóðfélaginu að neinu ráði.

Ef veiðiflotinn stöðvast um tíma, má líta á það sem hagkvæmt innlegg í torsótta viðleitni til að hamla gegn ofveiði. Nokkurra mánaða stöðvun veiða væri raunar himnasending fyrir framtíð þjóðfélagsins. Þess vegna munu sjómenn ekki fá neitt út úr verkfallsaðgerðum.

Þjóðfélagið stendur hvorki né fellur með vinnuframlagi opinberra starfsmanna, þegar mikið er í húfi. Treyst er á verðmætasköpun atvinnulífsins, en ekki afkastagetu opinbera geirans. Þess vegna munu opinberir starfsmenn ekki fá neitt út úr hugsanlegum verkfallsaðgerðum.

Ríkisstjórnin lofar ekki að beita handafli gegn vöxtum, heldur að haga málum sínum á þann veg, að stuðlað geti að náttúrulegri lækkun vaxta vegna betra samræmis milli framboðs og eftirspurnar. Um leið lofar ríkisstjórnin að verja tveimur milljörðum í atvinnuaukningu.

Erfitt verður að samræma þetta tvennt. Tveggja milljarða innspýting kallar á fjármögnun ríkisvaldsins og annarra aðila, sem telja sig geta aukið umsvif sín af völdum atvinnuskapandi aðgerða og sérstakra verkefna á vegum stjórnvalda. Þetta þrýstir vöxtum upp, ekki niður.

Á einfaldri íslenzku þýðir þetta, að ríkisstjórnin mun annaðhvort ekki standa við tvo milljarðana eða ekki standa við aðgerðir til vaxtalækkunar. Hvorug leiðin kallar á uppsagnarákvæði þjóðarsáttarinnar, sem fjalla bara um gengi og þjóðartekjur, fiskverð og aflabrögð.

Hættulegasta atriði þjóðarsáttarinnar er, að samningsaðilar, þar á meðal fjármálaráðuneytið, skrifa undir, að aflakvótar á næsta fiskveiðiári, sem hefst í haust, verði ekki minni en á þessu fiskveiðiári. Þetta er í rauninni krafa um efnahagslegt sjálfsmorð þjóðarinnar.

Ríkisstjórnin skrifar undir þetta sem vinnuveitandi, en ekki sem stjórnvald. Hún getur því væntanlega vikið sér undan því að heimila sömu ofveiði á næsta ári og hún hefur leyft á þessu ári. Hún getur það, ef hún vill, með því að vísa til tillagna Hafrannsóknastofnunar.

Líta verður á málsgreinina um óbreytta aflakvóta eins og hvert annað rugl, sem þurfi að vera í þjóðarsáttum, af því að þjóðin sé svo veruleikafirrt, alveg eins og óskhyggja um vaxtalækkun þurfi að vera í þjóðarsáttum, af því að þjóðin vilji fá að lifa í sjálfsblekkingu.

Nytsemi þjóðarsátta af þessu tagi felst ekki í rökréttu innra samræmi þeirra, sem er ekki neitt. Gagnið felst í, að öflugustu stofnanir þjóðfélagsins koma sér saman um að halda friðinn í langan tíma, í þessu tilviki í hálft annað ár. Augljósar þverstæður blikna fyrir þeim ljóma.

Að baki þessarar sáttar eins og hinna fyrri er hin jákvæða staðreynd, að sterkustu öfl þjóðfélagsins hafa meiri áhuga á að vinna saman að uppbyggingu nýrra verðmæta heldur en að berjast til ólífis um skiptingu þeirra verðmæta, sem til ráðstöfunar eru hverju sinni.

Þjóð, sem byggir bjartsýni sína að nokkru leyti á sjálfsblekkingu, getur eigi að síður náð settu marki, ef hún er eins samhent og jákvæð og þjóðarsáttin sýnir.

Jónas Kristjánsson

DV

Tjörnin

Veitingar

Fremur fáir vita, að fyrir aðeins 800 krónur er hægt að fá ljúfasta hádegisverð á einu allra bezta veitingahúsi landsins. Þetta verð er aðeins steinsnar ofan við ýmis tilboðsverð hversdagslegra veitingahúsa í gamla miðbænum. Miðað við gæði er þetta alveg einstætt tilboð.

Alltaf er notalegt að koma á Tjörnina til Rúnars Marvinssonar. Húsakynni eru í rólyndislegum fyrirstríðsstíl, nokkuð ofhlaðin sófum og hægindastólum í tveimur betristofum. Matstofurnar tvær eru léttari og fínlegri, með ísaumaða og heklaða dúka að einkennistákni.

Þegar komið er af götunni Templarasundsmegin við Kirkjutorgið, blasir hinn notalegi heimur við í mynd bratts timburstiga upp á aðra hæð. Síðan magnast tímaleysið við gluggana, þar sem útsýni er til Alþingishúss og Dómkirkju og til magaveikislegra þingmanna, sem skjótast í rokinu framhjá Mekka matargerðarlistar til að komast í eiturbrasið, sem þeir hljóta að nærast á.

Matreiðslan hefur staðnað á síðustu árum. Með öðru orðalagi þýðir það, að staðurinn hefur fyrir löngu fundið sér farveg við hæfi og hefur síðan haldið sínu striki. Þetta er matreiðslan, sem sló í gegn á Búðum á sínum tíma, allt frá kryddlegnum gellum yfir í svokallaða eilífðartertu súkkulaðis, sem enn prýða matseðla staðarins.

Maturinn er alltaf góður og traustur á Tjörninni, en um leið dálítið fyrirsjáanlegur. Upprunalega kryddlagar- matreiðslan á Búðum var dálítið í ætt við japanska matreiðslu. Síðar gerði Rúnar ágætar tilraunir með matreiðslu í japönskum sushi-stíl, en hefur færzt til baka til sinnar gömlu matreiðslu, til síns persónulega stíls.

Matseðillinn breytist í sífellu eftir aflabrögðum og árstíðum, þótt oftast megi sjá þar gamla vini, sem hafa slegið í gegn. Mig minnir til dæmis, að kryddlegnar gellur og smjörsteikt tindabikkja séu alltaf á seðlinum, enda eru þetta réttir, sem Rúnar kynnti fyrstur manna.

Nýlega prófaði ég í hádeginu súpu og rétt dagsins á 800 krónur. Súpan var ágæt grænmetissúpa og rétturinn var pönnusteikt blálanga með kartöflum og krydduðum hrísgrjónum, mjög góður matur. Í sama skipti var meðal annars á boðstólum mjög fjölbreytt fiskisúpa dagsins með bláskel og skötusel, hörpufisk og eggi, tómötum og blaðlauk. Ennfremur góður silungur úr Vífilstaðavatni, léttilega næturleginn og borinn fram með sojasósu.

Á Tjörninni er stundum hægt að fá gufusoðna bláskel í skelinni, með hvílauk og tómat, ágætis forrétt, eða hvítvínssoðna með sítrónu og grænmetisþráðum, ekki síður góða. Ég hef líka nýlega prófað í forrétt fremur bragðmilda saltfiskstöppu undir bræddum osti og með góðu olífusalati.

Ég man eftir góðum þorskhrognum steiktum með sérstaklega góðri hvítlauksrjómasósu. Ennfremur viðargrilluðu heilagfiski með vínberjum og fersku garðablóðbergi. Og góðri keilu pönnusteiktri með skelfiski og laxahrognum. Meðlæti fiskrétta er stundum nokkuð staðlað.

Um daginn prófaði ég fyrirtaks grænmetisrétt dagsins. Hann var gerður úr mjúkri og bragðgóðri linsubaunakássu, borinn fram undir þaki af pönnusteiktu grænmeti og með bakaðri kartöflustöppu til hliðar.

Eftirréttir eru undantekningarlaust góðir og margfræg súkkulaðiterta staðarins er alveg einstök í sinni röð.

Jónas Kristjánsson

DV

Með pípuhattinn

Greinar

Þjóðarleiðtoginn með pípuhattinn hefur verið neyddur til að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um eins flokks kerfið, sem lengi hefur verið við lýði í Malaví. Hér á landi er þessi þjóðarleiðtogi betur þekktur sem Jónas frá Hriflu þeirra Afríkumanna að áliti utanríkisráðherra Íslands.

Hjá Ngwazi Hastings Banda fer þjóðaratkvæðagreiðslan fram á þann hátt, að kjörkassar eru tveir, annar fyrir seðla með eins flokks kerfinu og hinn fyrir seðla á móti því. Eftirlitsmönnum Sameinuðu þjóðanna hefur ekki tekizt að koma í veg fyrir þessa tilhögun.

Kjörkassarnir eru sagðir eiga að vera inni í kjörklefunum. En bófaflokkar Bandas eru þegar farnir að hóta fólki því, að þeir geti séð það og ljósmyndað, ef það stingi atkvæðaseðli sínum í kjörkassa mótatkvæðanna. Fólk þorir því ekki að kjósa á móti skjólstæðingi Íslands.

Erlendis er Banda einkum þekktur fyrir að vera svo langt út af korti mannréttinda, að einungis einn vestrænn stjórnmálamaður hafi virt að vettugi bann hins siðaða heims við heimsóknum valdamanna til Malavís. Það er utanríkisráðherra Íslands, er var þar í febrúar.

Maðurinn með pípuhattinn hefur sett lög um, að þriðjungur Malavíbúa fái ekki að kjósa. Það eru þeir, sem eru 18-21 árs að aldri. Sú athyglisverða undantekning er á þessari reglu, að þeir mega kjósa, ef þeir eru félagar í ungliðahreyfingu einræðisflokks Bandas.

Af því að utanríkisráðuneyti Íslands fylgist mjög lítið með erlendum fréttum, varð það fyrir þeirri ógæfu að senda utanríkisráðherra með fríðu föruneyti í mikla reisu í febrúar til Malavís til að afhenda formlega tvo báta, sem Íslendingar hafa gefið glæpaflokki Bandas.

Vestræn ríki eru hætt að senda aðstoð til Malavís, af því að það er í flokki ríkja, sem mest þurfa á nýju stjórnarfari að halda. Hafi verið um að ræða leifar eldri loforða um aðstoð, hefur afhendingin farið fram í kyrrþey, svo að Banda fái ekki að baða sig í sviðsljósinu.

Maðurinn með pípuhattinn setti nýlega lög um, að bófaflokkar hans væru friðhelgir fyrir kærumálum vegna ofbeldis gegn stjórnarandstæðingum. Í kjölfarið hefur byrjað óöld mannrána, pyndinga og morða á vegum rauðskyrtunga stjórnarflokks Ngwazi Hastings Bandas.

Utanríkisráðherra Íslands er nokkuð sama um, hvaða málstað hann hefur að verja og hefur raunar gaman af að hafa hann sem erfiðastan. Hann telur sig færan í flestan sjó og nýtur þess að ögra því sem eftir er af stjórnmálaflokki þeim, er studdi hann til áhrifa á Íslandi.

Þess vegna hætti Jón Baldvin Hannibalsson ekki við sneypuför sína og Þrastar Ólafssonar til Malavís í vetur, þegar upp komst um fáfræði ráðuneytisins, heldur fullyrti, að maðurinn með pípuhattinn væri hinn merkasti maður og nánast Jónas frá Hriflu þeirra Afríkumanna.

Enginn annar utanríkisráðherra á Vesturlöndum né nokkurt vestrænt utanríkisráðuneyti hefur hliðstæða skoðun á þessum geðveika og miskunnarlausa einræðisherra, sem oft er notaður sem skrípamynd af þeirri álfu, er alið hefur af sér Idi Amin og Mobutu Sese Seko.

Frá endalokum kalda stríðsins hafa Vesturlönd reynt að koma frá þessum Jónasi frá Hriflu, enda eru menn sammála um, að hann sé hataður af öllum þorra manna í Malaví. Efnahagsaðstoð hefur verið stöðvuð til að þrýsta á brottför einræðisherrans og innleiðingu lýðræðis.

Erlendis er hlegið að heimsku ráðuneytis og hroka ráðherra á Íslandi, þar sem ferðahvetjandi ráðherralaun leiða til stuðnings við manninn með pípuhattinn.

Jónas Kristjánsson

DV

Ítalía

Veitingar

Veitingahúsið Ítalía við Laugaveginn hefur ekki mætt aukinni samkeppni með auknum matargæðum, enda virðist það ekki þurfa á slíku að halda. Þar er fullt hús á kvöldin og jafnvel slæðingur í hádeginu, þótt staðurinn sé alls ekki með nein hádegistilboð í líkingu við það, sem víða tíðkast við Laugaveginn í kreppu líðandi stundar.

Fólk heldur áfram að þyrpast á Ítalíu, þótt risið hafi í nágrenninu annar ítalskur matstaður, sem býður betri mat á lægra verði. Nýi staðurinn hefur stækkað markaðinn í stað þess að taka frá Ítalíu. Svo er verið að tala um kreppu í þjóðfélaginu. Hún er afstæð eins og annað.

Mér sýnist matseðill Ítalíu hafa verið óbreytilegur um árabil, ef frá eru talin súpa og fiskur dagsins. Seðillinn byggist að mestu á pöstum á 990 krónur og pizzum á 980 krónur. Ef reiknað er með hefðbundnum réttum, kostar 3000 krónur að borða þríréttað, fyrir utan drykkjarföng. Það hlýtur að teljast í dýrari kanti veitingahúsa.

Betra pasta er fáanlegt

Þótt pasta Ítalíu sé nokkuð gott, nær það ekki jöfnuði við pastað á Pasta Basta, enda virðist það ekki vera gert á staðnum, heldur koma úr pökkum. Á þessu tvennu er töluverður gæðamunur, sem menn átta sig ef til vill ekki á, nema hafa setið góð veitingahús í upprunalandinu.

Pizzur eru raunar helzti sómi staðarins. Þær hafa undantekningarlaust reynzt mér góðar, rata rétta meðalveginn milli þykktar og þynndar, mýktar og hörku. Ég held líka, að þær séu það, sem laða flesta áhangendur að þessum notalega ranghala, hvítmálaða og Miðjarðarhafslega.

Gestir sitja í þröngum básum milli hárra skilrúma með hafi gerviblóma. Því sést lítið milli borða. Hver hópur er eins og eyja út af fyrir sig. Þrátt fyrir það og ef til vill þess vegna er góð stemmning hjá matargestum. Heppilegt er þó, að fólk sé ekki haldið innilokunarótta.

Eldamennskan er fremur góð á Ítalíu, þótt heldur hafi slaknað á gæðunum.Ítölsk fiskisúpa var hnausþykk og matarmikil, tómatrauð og bragðgóð. Sniglar í ragú voru meyrir og góðir, bornir fram með miklum tómatgraut. Kryddlegin nautatunga var einnig góð, með öflugu sítrónubragði, borin fram með fjölbreyttu grænmeti. Sjávarréttasalat var sítrónukryddað, fjölbreytt að efnisvali.

Smokkfiskur á feneyska vísu var meyr og fínn, hæfilega djúpsteiktur, með hrísgrjónum. Saltfiskur á vicenzka vísu var óvenjulega mildur, mjög góður út af fyrir sig, en beið lægri hlut fyrir yfirgnæfandi tómatbragði.

Ekki sparað magnið

Tiramisú, hinn frægi eftirréttur Feneyinga, er í óvenjulegri og góðri útgáfu á Ítalíu, með miklu sítrónufrauði og litlu súkkulaðikremi, borinn fram í stóru ísglasi. Eins og í mörgum öðrum réttum staðarins var ekki sparað magnið. Sú gestrisni stuðlar án efa að vinsældunum.

Enginn hugsar sér ítalskan stað án góðs kaffis. Ítalía er engin undantekning á því. Espresso kaffibollinn reyndist mér ein eftirminnilegasta nautn staðarins. Þá mundi ég loksins eftir, að, þrátt fyrir ýmsar athugasemdir mínar, er Ítalía enn hinn sómasamlegasti veitingastaður.

Jónas Kristjánsson

DV

Steikhúsið

Veitingar

Steikhúsið við Laugaveg er einn matsölustaða miðbæjarins, sem freistar fólks með hádegisverði á lágu verði. Þar kostar 650 krónur að fá sér súpu og aðgang að fallegu saltaborði. Tilboðið er höfuðprýði þessa staðar.

Á salatborðinu var meðal annars reyktur lax með sinnepssósu, ferskir sveppir og nokkrar tegundir af köldu pasta. Ennfremur hrísgrjónaréttur með kartöflusalati, volgt ræmupasta með kjöti og sveppum, svo og nýbökuð pitsa niðursneidd. Þetta var með betri hádegisverðarborðum, sem ég hef séð, þótt verðið sé með því lægsta.

Innréttingar eru að mestu arfur frá indversku matstofunni, sem var næstsíðast á þessum stað eða þar áður. Timburverk í lofti og þröngir básar eru frá þeim tíma. Í stað indversku skreytinganna eru komnar smíðajárnsgrindur með nautshornalíkingu milli bása.

Nokkrar verksmiðjuframleiddar myndir eftir Baltasar skreyta veggi steikhússins, allar í sömu stærð, allar um mat, fjörlegar myndir, sumar með undarlegu textakroti málhöltu á miðri mynd. Ómissandi koparpottar og koparpönnur falla að ímyndinni, sem reynt er að framkalla.

Þegar við höfum troðið okkur í básana, blasir við okkur glerplata á borði með taudúk undir og diskamottum ofaná, svo að ímyndin lekur niður í mötuneytisstíl. Við fáum matseðilinn og sjáum strax, að þetta er nákvæmlega sami matseðill og var í fyrrasumar.

Vínlistinn er verr valinn en víðast hvar. Þarna má meira að segja sjá Black Tower og Lambrusco, sem ég hélt að enginn byði. En á milli má finna skárri sýnishorn, Santa Cristina, Gewurztraminer og Riesling Hugel.

Volgt brauð fylgdi súpu hádegisverðarborðsins og súpu kvöldsins. Hádegisverðarsúpan var góð tómatsúpa með sveppum og kvöldsúpan var góð brokkáls- og blómkálssúpa, einnig með sveppum. Sniglar voru sæmilegir, bornir fram með of þykku og sterkkrydduðu tómatmauki.

Steikhús þarf að hafa góða steik. Nautalundirnar voru það, rauðar og meyrar, með laukblandaðri sveppasósu.

Meðlæti aðalrétta var staðlað, þar á meðal meðlæti matseðils, sem kallaður var surprise. Ég get ekki hugsað mér minna surprise en staðlað meðlæti. Þetta meðlæti var brokkál, blómkál og sveppir, alveg eins og í súpunni. Líklega ætti fremur að kalla staðinn brokkáls- blómkáls og sveppahús, heldur en steikhús.

Pepperoni-pitsa var fremur lin og nokkuð sterk, keppir ekki til fyrstu verðlauna á Laugavegssvæðinu.

Pönnukökur með ávöxtum og rabarbarasultu voru fremur góðar og ís staðarins var frambærilegur. Kaffi var þunnt. Þótt ég bæði um að fá kaffið ekki á undan eftirrétti og legði mikla áherzlu á það vegna slæmrar reynslu, vissi þjónustan betur og kom með kaffið á undan.

Steikhúsið býður sérstakan surprise kvöldverð. Í ljós kom, að það var karríkrydduð rauðsprettusúpa, nokkuð góð; gráar og þurrar lambalundir með sterkri piparsósu og meðlæti hússins; og loks svipaður ís og var á matseðl i.

Fyrir utan hádegistilboðið er verðið nokkuð hátt. Það slagar upp undir Holt, um 2.880 krónur fyrir þrjá rétti fyrir utan drykkjarföng. Pizzurnar kosta 910 krónur.

Jónas Kristjánsson

DV