Author Archive

Ópera

Veitingar

Rétt er að vara fólk strax við verðinu. Það kostar um 3.550 krónur að borða þríréttað í Óperu, fyrir utan drykkjarföng. Þetta er svipað og á allra dýrustu stöðum landsins. Fyrir þetta fé getur fólk lent í að þurfa að matreiða sjálft við borðið, ef það pantar sér steinasteik.

Ég hef haldið, að fólk fari út að borða til að láta stjana við sig, en ekki til að lenda sjálft í eldhúsverkum. Hins vegar gefur steinasteikin stefnuföstum matargestum tækifæri til að sannfærast um, að allt hráefnið sé ferskt, og fá nákvæmlega þann eldunartíma, sem þeir vilja.

En steinasteikin er fyrst og fremst aðferð til að auka fjör og samræður, til að efla andrúmsloftið. Enda er oft fjölmenni í Óperu og stemmningin góð á kvöldin .

Ópera er notalegur matstaður á efri hæð gamla hússins á horni Lækjargötu og Austurstrætis. Marrandi trégólf, litlir gluggar, bitaloft og lítil lofthæð gefa staðnum rómantískt andrúmsloft, sem magnað er með ofhlöðnum og mildilega rustalegum kráarskreytingum, svo og títtnefndri steinasteik, sem er helzta sérgrein hússins.

Matseðillinn er feiknarlangur, telur sextán forrétti og yfir þrjátíu kjötrétti. Töluvert sjálfstraust þarf til að halda úti svona seðli, sem kemur auk þess hér og þar á óvart í framandlegum réttum og frumlegum. Vínlisti er einnig langur og býður margar góðar og traustar tegundir.

Þjónusta reyndist góð í Óperu, kunnáttusamleg og afslöppuð. Þjónninn var ekki í vafa um, hver hefði pantað hvað. Hann vissi líka heilmikið um tilurð réttanna.

Saxaðir sniglar moðvolgir, komu í svani úr vatnsdeigi, með fínskornu salati og eplabitum í rjómasósu, sæmilegur forréttur. Rjómalöguð og sérríbætt sveppasúpa var þykk hveitisúpa með miklu af sveppum, ekki merkileg.

Skemmtilegra var djúpsteikt Tempura japanskt, meyr og góður humar og grænmeti, með of miklum steikarhjúp, borið fram með sojasósu og sake-hrísgrjónavíni. Bezt var laxatartar stangaveiðimannsins, hrár og slitinn lax með eggjarauðu í skurn og söxuðu grænmeti með hóflegu magni af kapers, bragðgóð útgáfa af tartar.

Afar létt og gott sítrónukrap með barkarbitum var ánægjulegur formáli að steinasteik. Valin var svokölluð kjötfantasía, sem fól í sér svartfugl, naut, kálf, lamb, svín og kjúkling, svo og margvíslegt grænmeti, glansandi af ferskleika. Kjötið var allt gott og varð frábært með réttri steikingu, sem hver gestur kann væntanlega.

Villibráð er önnur sérgrein. Léttsteiktar súlubringur bragðgóðar voru í þunnum sneiðum rósrauðum, með brenndri og beizkri brennivínssósu, rifsberjum, brómberjum og einföldu Waldorf-salati í appelsínuberki.

Grillað heilagfiski var þurrt, hlaðið tveimur risastórum og ljúffengum humarhölum, borið fram með hvítlaukssmjöri, bakaðri kartöflu og maísstöngli. Dijon-nautasteik kom ekki hrásteikt, heldur miðlungi steikt, ágætlega meyr, en of mikið pipruð, í sterkri koníakssósu, með bakaðri kartöflu og maísstöngli, meðlæti hússins.

Kaffiterta reyndist vera ágætur mokkabúðingur. Cup Opera bjó yfir margs konar ávaxtabitum og ískúlum. Pönnukaka var góð og þunn, með miklu af brómberja-, jarðarberja- og sítrónuís og sósu úr súkkulaðityggjói. Kaffi var gott og heitt súkkulaði var nánast unaðslegt.

Jónas Kristjánsson

DV

Holur hvalveiðihljómur

Greinar

Holur hljómur er í yfirlýsingum sjávarútvegsráðherra og annarra hvalveiðisinna um, að veiðar verði hafnar að nýju, þótt það verði ekki á þessu ári. Þeir geta ekki svarað einföldum spurningum, til dæmis spurningu forsætisráðherra um, hver eigi að kaupa hvalkjötið.

Auðvitað er þungbært að telja sig hafa unnið málefnalegan sigur í fræðilegri deilu, en fá samt sem áður ekki tækifæri til að fylgja sigrinum eftir í raun. Auðvitað er þungbært að láta Bandaríkjamenn og aðra útlendinga segja sér fyrir verkum á þessu sviði sem öðrum.

Talsmenn okkar í máli þessu virðast alltaf hafa ímyndað sér, að það snerist um vísindi og rök. Okkar menn hafa haft mikið fyrir því að sýna fram á, að hvalveiðistofnar við Ísland séu ekki í útrýmingarhættu og þess vegna megi hefja varfærnislegar veiðar úr stofnunum.

Málið snerist hins vegar alltaf um tilfinningar. Enda sneru Bandaríkjamenn við blaðinu, þegar hvalveiðisinnar höfðu unnið málefnalegan sigur, og sögðust nú vera andvígir hvalveiðum af því að hvalir væru svo fallegir og merkilegir, en ekki vegna útrýmingarhættu einnar.

Vestanhafs býr kjötætuþjóð, sem hakkar í sig kjöt af fallegum kálfum og lömbum, kjúklingum og grísum, en hefur á sama tíma gert hvalinn heilagan á sama hátt og indverskir bramatrúarmenn hafa kúna. Bandaríkjamenn taka hvali í fóstur og umturnast gegn hvalveiðum.

Ekki bætir úr skák, að Bandaríkjamenn eru fremur ofbeldishneigðir í viðskiptum við útlend ríki. Þeir eru sífellt að hóta viðskiptaþvingunum og framkvæma þær. Þrýstihópar á borð við hvalfriðunarmenn eiga greiðan aðgang að opinberum stofnunum viðskiptaþvingana.

Við höfum engin loforð í höndum frá Japönum um, að þeir muni kaupa af okkur afurðir hvalveiða. Ef þau loforð yrðu gefin, væru þau marklaus, því að Bandaríkjamenn mundu beita þá viðskiptalegum þvingunum til að falla frá þeim. Sama gildir um aðra viðskiptavini.

Tómt mál er að tala um að taka upp hvalveiðar í ábataskyni. Við fáum enga útlenda kaupendur að hvalaafurðum og við missum fjölda kaupenda á öðrum sviðum, einkum í útflutningi fiskafurða. Hvalveiðar mundu einar sér framkalla meiri kreppu en þá, sem við búum nú við.

Við höfum næg vandræði af núverandi kreppu, þótt við bætum ekki annarri ofan á. Við höfum nóg af sviðum til að efla hugsjónir okkar og sjálfstæðisvitund, þótt við séum ekki að lemja haus við stein á þessu afmarkaða sviði, sem hefur alls ekkert fjárhagslegt gildi.

Því miður er íslenzka þjóðin ekki þessarar skoðunar. Hún getur ekki sætt sig við, að ruglað og ofbeldishneigt fólk í Bandaríkjunum ráði ferðinni í þessu máli. Hún getur ekki sætt sig við, að talsmenn heilagra hvala ráði ferð Íslendinga. Hún vill fremja fjárhagslegt harakiri.

Farsælla væri fyrir fámenna þjóð á borð við Íslendinga að velja sér hugsjónir við hæfi og reyna að haga seglum eftir vindi á þann hátt, að sem greiðastur aðgangur sé fyrir afurðir sínar á erlendan markað. Það þýðir, að við verðum stundum að taka tillit til útlendinga.

Mikilli vinnu og peningum hefur verið varið í þá ímyndun, að hvalur sé á sviði rökhyggju og vísinda. Árum saman stóðum við fyrir svokölluðum vísindaveiðum, þótt við tímum ekki að styðja önnur vísindi. Við gengum úr alþjóða hvalveiðiráðinu og stofnuðum annað.

Engri vinnu eða peningum hefur verið varið til að finna, hver eigi að kaupa hvalkjötið og hvernig við eigum að verja aðra markaði okkar fyrir viðskiptaþvingunum.

Jónas Kristjánsson

DV

Leiðtogalaus Vesturlönd

Greinar

Bandaríkin réðust án dóms og laga á höfuðstöðvar leyniþjónustu Íraks fyrir viku. Árásin var sögð hefndaraðgerð vegna ósannaðrar aðildar og forustu leyniþjónustunnar að meintum undirbúningi að misheppnaðri tilraun til morðs á George Bush, fyrrum Bandaríkjaforseta.

Fullyrðingarnar um samsæri Íraka koma frá ótrúverðugum stofnunum, sem hafa áður hagrætt sannleikanum. Þær hafa gefið Bill Clinton Bandaríkjaforseta misheppnað tækifæri til að reyna að bæta vonda stöðu sína í skoðanakönnunum með því að leika stríðshetju á ódýran hátt.

Ástæða er til að hafa áhyggjur af þeirri uppgötvun bandarískra markaðsfræðinga, að bæta megi stöðu forseta í skoðanakönnunum með ómarkvissum hernaðaraðgerðum gegn vondum öflum úti í heimi. Röðin getur síðar komið að sjávarútvegsráðuneytum hvalveiðiþjóða.

Að vísu virðast Bandaríkjamenn ekki eins vitlausir og markaðsfræðingar forsetans halda, því að ekki tókst að lappa upp á fylgið með loftárásinni á Bagdað. Eftir stendur, að Bandaríkjamenn hafa valið sér enn einn forsetann, sem markaðssetur sig með hernaðaraðgerðum.

Fjölmennustu þjóðir Evrópu geta ekki státað af betri árangri í vali leiðtoga. Helmut Kohl, kanzlari Þýzkalands, leggur til dæmis lykkju á leið sína til að þurfa ekki að samhryggjast Tyrkjum og öðrum útlendingum, sem verða fyrir barðinu á krúnurökuðum nýnazistum.

Þetta gerir Kohl af því að markaðsfræðingar hans segja, að þýzkir útlendingavinir kjósi hvort sem er krata, en koma þurfi í veg fyrir, að öfgamenn í útlendingahatri safnist í sérstakan stjórnmálaflokk eða efli róttækan keppinaut gegn Kohl til forustu í hans eigin flokki.

Það lýsir Kohl vel, að ríkisstjórn hans hafði forustu um viðurkenningu nýrra ríkja á rústum Júgóslavíu, lét sér síðan nægja að styðja fasistastjórn Tudjmans í Króatíu gegn afleiðingum þessarar sömu viðurkenningar, en leyfði íslömum í Bosníu hins vegar að sigla sinn sjó.

Að vísu má segja Kohl það til hróss, að hann hefur viljað létta vopnasölubanni af Bosníumönnum, svo að þeir geti frekar varizt serbneskum villilýð, en hefur ekki fengið það fyrir tveimur þjóðarleiðtogum, sem eru ekki síður ömurlegir, Francois Mitterrand og John Major.

Frakkar hafa valið sem forseta persónugerving franskra stjórnmála eftirstríðsáranna, Mitterrand, sem er í sífelldri leit að ódýru valdatafli. Frægust var sýndarmennskan, þegar hann fór í snögga ferð til Sarajevo til að slá sér upp á kostnað annarra vestrænna leiðtoga.

Munurinn á Mitterrand og Major er einkum sá, að hinn fyrri er rotinn í gegn, en hinn síðari er tómur í gegn. Forsætisráðherra Bretlands er gerólíkur forvera sínum, hefur enga mælanlega kjölfestu í grundvallarsjónarmiðum og hagar seglum eftir sérhverjum andvara.

Frakkar og Bretar hafa snúið baki við þessum leiðtogum sínum eins og Bandaríkjamenn hafa misst trú á sínum leiðtoga. Þetta bendir til, að hin pólitíska markaðssetning á Vesturlöndum sé á villigötum og að fólk vilji raunverulega leiðtoga á borð við Margaret Thatcher.

Þetta þýðir einnig, að hæfileikar, sem duga mönnum vel til að brjótast til valda í flokksapparati og að vinna sigur í örfáum kosningum, eru ekki þeir hæfileikar, sem gera menn að þjóðarleiðtogum. Þetta getur bent til, að brotalöm sé í aðferðafræði vestræns leiðtogavals.

Afleiðing þessa er, að fjölmennustu þjóðir Vesturlanda eru í rauninni leiðtogalausar um þessar mundir og að Vesturlönd eru sem heild að sama skapi leiðtogalaus.

Jónas Kristjánsson

DV

Kerfi í klípu

Greinar

Íslenzka ríkið hefur tapað hverju málinu á fætur öðru fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu, nú síðast vörninni gegn Sigurði Á. Sigurjónssyni leigubílstjóra. Aðeins einn af níu dómurum studdi ríkið. Það var auðvitað forseti Hæstaréttar Íslands, sem áður hafði brotið á Sigurði.

Kominn er tími til, að Alþingi og Hæstiréttur taki sér tak. Ekki er nóg að breyta afmörkuðum lögum til samræmis við fellda dóma, heldur verða þessar stofnanir að temja sér ný og betri vinnubrögð, svo að ekki þurfi að draga þær hvað eftir annað fyrir útlendan dóm.

Síðasta málið var óvenju gróft, því að þar elti íslenzka kerfið fórnardýrið uppi. Alþingi lét hagsmunaaðila úti í bær skipa sér fyrir verkum og setti lög gegn Sigurði. Hæstiréttur dæmdi síðan eftir þessum lögum, sem augljóslega stönguðust á við það, sem kallað er réttarríki.

Þetta er angi af þriðja heims ástandi, sem verður að breyta og hlýtur að verða breytt, af því að Íslendingar eru svo heppnir að búa í heimshluta, þar sem talið er óhjákvæmilegt, að farið sé eftir rótgrónum, vestrænum leikreglum í umgengni ríkisvaldsins við smælingjana.

Alþingi er afgreiðslustofnun fyrir ríkiskerfið og samþykkir hugsunarlaust flest það, sem þaðan kemur, bæði þau mál, sem kerfið framleiðir til að efla stöðu sína í þjóðfélaginu, og málin, sem það tekur að sér fyrir þá þrýstihópa, er njóta velvildar og stuðnings kerfisins.

Á sama hátt er Hæstiréttur afgreiðslustofnun fyrir ríkiskerfið samkvæmt gamalli hefð. Hann hefur jafnan verið hallur undir ríkið og telur það alltaf hafa rétt fyrir sér. Nokkur dæmi um það eru rakin í bók, sem lögmaður sigurvegarans ritaði um vinnubrögð Hæstaréttar.

Raunar er dómskerfið í heild meira eða minna lamað á Íslandi. Látið er viðgangast, að hálfruglaðir menn fremji undarlega dóma, og algengt er, að dómarar komi litlu í verk. Seinagangur í dómskerfinu stafar ekki af aðstöðuleysi dómara, heldur af leti þeirra og áhugaleysi.

Hin einföldustu mál eru oft að velkjast árum saman í dómskerfinu, ekki sízt ef sterki aðilinn, hvort sem hann er ríkið eða auðfélag, ákveður að þreyta smælingjana til uppgjafar með því að beita öllum úrræðum til tafa. Því þora menn ekki að reyna að gæta réttar síns fyrir dómi.

Ofan á öll þessi vandræði bætist fornt og krumpað verðmætamat, sem setur auðgildi ofar manngildi. Menn fá þunga dóma fyrir þjófnað og skjalafals, en létta dóma og skilorðsbundna fyrir handrukkanir, líkamlegt ofbeldi, sifjaspell, nauganir og limlestingar af ýmsu tagi.

Þetta er arfur frá fyrri öldum, þegar yfirstéttin var alls ráðandi og setti lög til verja eignir sínar, en lét sig litlu varða, hvort undirstéttin stundaði ofbeldi innan síns hóps. Lögin endurspegla þetta enn, svo og túlkun dómstóla á lögunum. Hið auma Alþingi lætur kyrrt liggja.

Hvorki Alþingi né Hæstiréttur hafa tekið mark á gagnrýni. Þessar stofnanir fara sínu fram, enda telja þær lítið mark takandi á pöplinum. Hins vegar er hugsanlegt, að tekið verði mark á gagnrýni, ef hún kemur frá fjölþjóðlegum og óumdeildum dómstólum, sem hafa víða yfirsýn.

Hæstiréttur þarf að setja sig betur inn í vestræna og nútímalega hugmyndafræði réttarfars og hafa hliðsjón af henni. Alþingi þarf að hreinsa lög til samræmis við þessa sömu hugmyndafræði. Dómstólar almennt þurfa að losna við vanhæfa dómara og koma hinum að verki.

Þetta gerist, þegar Alþingi og Hæstiréttur, ráðuneyti og dómstólar átta sig á, að tímabært sé orðið að hætta að verða sér til skammar á fjölþjóðlegum vettvangi.

Jónas Kristjánsson

DV

Grillið

Veitingar

Í stórum dráttum er Grillið á Hótel Sögu eins og það hefur alltaf verið, einn af fínustu og virðulegustu matstöðum landsins. Útlitið er að mestu óbreytt. Rauður litur er enn í hávegum hafður í stólum og teppi. Stjörnumerki í lofti og súlur virðast mér í upprunalegri mynd.

Til batnaðar eru breytingar, sem gerðar hafa verið. Ein borðaröð er á lægra gólfi við glugga og önnur borðaröð á hærra gólfi í miðju. Þetta skapar meira einkarými hvers borðs og veitir gott útsýni frá öllum borðum í salnum.

Þessi virðulegi og dýri matstaður heldur enn stöðu sinni sem bezti útsýnismatstaður borgarinnar. Því valda hinar víðáttumiklu rúður, sem sýna umhverfið í breiðtjaldsstíl, lítt truflaðar af grönnum gluggapóstum.

Grillið hefur gefizt upp í stríðinu um viðskiptahádegisverði. Staðurinn er einfaldlega lokaður í hádeginu eins og keppinauturinn Perlan. Þetta sýnist mér vera afleiðing af miklum samdrætti í risnu fyrirtækja. Jafnvel í Holti og Tjörninni, toppstöðum matargerðarlistar í borginni, er bara slæðingur af kaupsýslumönnum í hádeginu.

Verðlag staðarins hið sama og í Perlunni, um 3.700 krónur á þrjá rétti, að drykkjarföngum og nýja vaskinum frátöldum. Matreiðslan er nokkuð góð, en ekki fyrsta flokks, og þjónusta er vönduð, stundum í stífasta lagi.

Við sáum strax af smjörinu í skálunum, að bætt hafði verið í þær nýju smjöri ofan á eldra smjör, sem ekki var nákvæmlega eins á litinn. Þetta sparar vinnu, en er ekki í samræmi við verðlag, yfirbragð og stíl staðarins.

Volgar brauðkollur voru góðar og milli rétta var boðinn bragðfínt lime-krap. Grænmeti með aðalréttum var fullmikið staðlað, en hæfilega milt gufusoðið. Eins og oft vill verða á veitingastöðum af þessu upphafna tagi voru eftirréttirnir bezti hluti máltíðarinnar.

Fylltur smokkfiskur reyndist aðallega vera fiskikæfa, sem haldið var saman með þunnri og seigri smokkfiskrönd. Ofan á þessu voru heslihnetur og sterkkryddað grænmeti. Þetta leit vel út og braðaðist vel. Rauðvínssoðnir humarhalar voru meyrir og komu í smjördeigsbáti í blárri rauðvínssósu. Gljáður hörpuskelfiskur var bezti forrétturinn, þótt brokkál yfirgnæfði í bragði.

Grænmetisréttur dagsins var sæmilegur, aðallega kartöflur og blómkál í tómatsósu, með tvenns konar hrísgrjónum og lauksósu til hliðar. Hvítlauksstunginn skötuselur með steiktum kartöflum var góður. Rauðvínssoðnar smálúðurúllur með sveppum og hvítri og sítrónukryddaðri eggjasósu voru góðar. Pönnusteiktar lambalundir með koníakselduðum döðlum voru hins vegar gráar og þurrar, og döðlurnar áttu ekki mikið erindi.

Aprikósusulta var fínn eftirréttur með skemmtilegri salvíusósu og vanilluís. Kastaníuhella með eggjasósu reyndist vera gott súkkulaði með jarðarberja- og eggjasósum. Jógúrtís með sultuðum berjum var skemmtilega grófur, borinn fram með ferns konar berjum, jarðarberjum, bláberjum, blæjuberjum og hindberjum.

Grillið þjáist af hinu sama og ýmis gróin veitingahús, sem þóttu góð í upphafi ferilsins. Hlaupa þarf hratt til að standa í stað og það reynist mörgum erfitt. Grillið er sjálfsagt betra en nokkru sinni fyrr, en breytingarnar í veitingabransanum úti í bæ hafa bara verið enn hraðari..

Jónas Kristjánsson

DV

Leiðin er fær, en ekki bezt

Greinar

Leiðin er fær, sem ríkisstjórnin hefur valið fyrir ferð þjóðarinnar um mögru árin. Flestir hagsmunaaðilar skilja, að gera verður nokkurra ára hlé á ofveiði þorsks. Flestir aðilar vinnumarkaðar skilja, að ekki verður komizt hjá rýrari lífskjörum og auknu atvinnuleysi.

Dæmið gengur upp í stórum dráttum, ef stjórnvöld treysta sér til að koma svipuðum böndum á smábátaeigendur og þau hafa komið á aðra útgerð og ef þau treysta sér til að neita opinberum starfsmönnum um svipaða miskunn og þau hafa neitað öðru launafólki í landinu.

Þetta er merkileg þjóðarsátt, sem mun koma í veg fyrir, að Íslendingar lendi í færeyska vítahringnum. Þótt við höldum að einhverju leyti áfram að lifa um efni fram, er eðlismunur á því og hinum gersamlega óraunhæfu lífskjörum Færeyinga. Við munum halda frelsinu.

Við erum seig, þegar syrtir í álinn, þótt við höfum ekki reynzt hafa bein til að þola góða daga. Þeir eiginleikar, sem komu í veg fyrir, að við gætum nýtt okkur velgengni síðustu áratuga, hjálpa okkur til að standast mótlæti síðustu ára og nokkurra næstu ára í viðbót.

Þjóðarsáttin felur meðal annars í sér, að lækkað verði risið á velferðarkerfi almennings. Það verður til dæmis dýrara að veikjast og dýrara að afla sér þekkingar. Þjónusta hins opinbera á þessum sviðum mun verða dýrari og lakari en hún hefur verið til skamms tíma.

Þetta felur í sér aukna stéttaskiptingu, því að þeim fjölgar, sem ekki hafa ráð á að veikjast eða afla sér þekkingar. Mikið og vaxandi atvinnuleysi mun einnig stuðla að aukinni stéttaskiptingu í landinu. Þjóðarsáttin framleiðir þannig ný vandamál, þegar hún leysir önnur.

Athyglisvert er, að yfirstéttin í landinu hyggst ekki taka neinn umtalsverðan þátt í að bera byrðar þjóðarsáttarinnar. Bankastjórar og bankaráðsmenn hyggjast til dæmis ekki draga neitt úr laxveiðiferðum, sem bornar eru uppi af vaxtamun, er nemur tvöföldum alþjóðastaðli.

Aukin stéttaskipting virðist vera innifalin í þjóðarsáttinni, alveg eins og hún felur í sér, að hvorki verði sagt upp búvörusamningi, né gerðar neinar tilraunir til að draga úr ríkisrekstri landbúnaðar, sem kostar neytendur tólf milljarða á ári og skattgreiðendur níu milljarða.

Ef raunverulega syrti í álinn, mundi þjóðin vafalaust knýja fram, að yfirstéttin tæki líka á sig byrðar af samdrætti og að velferðarkerfi gæludýragreina viki fyrir verndun grundvallaratriðanna í velferðarkerfi almennings. Samkvæmt þjóðarsátt er ekki komið að slíku enn.

Þetta má hafa til marks um, að þjóðfélagið er ekki komið nálægt hruni af völdum kreppunnar. Jafnvel þótt þorski fækkaði enn og kreppan ykist, eru til ónotuð vopn í lífsbaráttu þjóðarinnar. Þegar þau verða gripin, er það merki um, að kreppukornið sé orðið að alvörukreppu.

Þótt þjóðarsátt sé betri en engin sátt, eru ýmsar hættur fólgnar í að velja leið, sem eykur stéttaskiptingu, minnkar öryggisnet velferðar, dregur úr kjarki fólks og minnkar líkur á, að það afli sér menntunar í framtíðargreinum. Þessi leið laskar sjálfa þjóðfélagsgerðina.

Kjósendur allra flokka og félagsmenn flestra almannasamtaka á borð við stéttarfélögin hafa ákveðið að þessar hættulegu leiðir og ekki aðrar skuli vera farnar til að verjast kreppunni. Almenningur hefur ákveðið að þola, að fokdýru velferðarkerfi gæludýranna verði áfram hlíft.

Ef í ljós kemur, að herkostnaður sé meiri af leiðinni, sem valin var með þjóðarsátt, en af öðrum álitlegum leiðum, getur þjóðin engum öðrum en sjálfri sér um kennt.

Jónas Kristjánsson

DV

Tvöfalt dýrara að lifa

Greinar

Sumar vörur eru ekki dýrari á Íslandi en í Bretlandi og Bandaríkjunum. Aðrar eru mun dýrari hér á landi en í nágrannaríkjunum tveimur. Þessi gömlu sannindi voru nýlega staðfest í rækilegri verðkönnun í Hagkaupi í Reykjavík, Safeway í London og Publix í Flórída.

Niðurstöður könnunarinnar, sem voru birtar í DV á laugardaginn, sýna, að tvöfalt dýrara er að lifa á Íslandi en í nágrannaríkjunum sunnan og vestan hafs. Vörur, sem kostuðu samtals 4136 krónur í Reykjavík, kostuðu 2293 krónur í London og 1722 krónur í Flórída.

Ef við gætum fundið leið til að lækka vöruverð á Íslandi niður að því, sem tíðkast utan Norðurlanda, mundum við bæta lífskjör hverrar fjölskyldu um tugi þúsunda króna á mánuði. Slíkt kæmi sér einkum vel á þessum síðustu og verstu tímum kjararýrnunar og atvinnuleysis.

Óhagstæð innkaup vegna fámennis þjóðarinnar eru þröskuldur í vegi slíkrar viðleitni. Af dæmum má þó sjá, að unnt er komast yfir þann þröskuld. Þannig eru ananassneiðar í dós, græn epli og ferskur ananas ódýrari hér á landi en í hinum suðlægari viðmiðunarlöndum.

Hreinlætisvörur eru heill vöruflokkur, sem er ódýr hér á landi. Engin skynsamleg ástæða er fyrir því, að sumir aðrir vöruflokkar skuli verða miklu dýrari og jafnvel margfalt dýrari hér á landi en í viðmiðunarlöndunum, svo sem leikföng, framköllun og gallabuxur.

Með tíðum, umfangsmiklum og skýrt fram settum verðkönnunum heima og erlendis gæti ríkið beitt óbeinum þrýstingi til verðlækkunar í innflutningsverzlun. Verðlagsstofnun gerði dálítið að því fyrir nokkrum árum, en hefur því miður látið deigan síga upp á síðkastið.

Við samanburðinn milli Íslands, London og Flórída sker í augu, að flestar vörur, sem sæta innflutningsbanni á Íslandi, eru tvöfalt eða margfalt dýrari hér en í viðmiðunarlöndunum. Verndun innlends landbúnaðar er meginskýringin á því, hversu dýrt er að lifa á Íslandi.

Hagfræðingar hafa áætlað herkostnað neytenda af innflutningsbanni búvöru og fengið út, að hann nemi um tólf milljörðum króna árlega. Þessi hrikalega upphæð er fyrir utan níu milljarða árlegan kostnað skattgreiðenda af styrkjum til landbúnaðar og niðurgreiðslum.

Við sjáum nú fram á mörg mögur ár vegna samdráttar í sjávarútvegi, sem hingað til hefur staðið undir velmegun þjóðarinnar. Verið er að skera niður velferðarkerfi heimilanna, spilla lífskjörum almennings og senda þúsundir manna út í varanlegt víti atvinnuleysis.

Ef ríkið hætti afskiptum sínum af landbúnaði, hætti innflutningsbanni, niðurgreiðslum og styrkjum, væri hægt að gera allt í senn, stöðva niðurskurð á velferð heimilanna, bæta lífskjör þjóðarinnar langt umfram það, sem bezt var áður, og leggja niður atvinnuleysið.

Gróði ríkis og skattgreiðenda annars vegar og neytenda hins vegar mundi endurspeglast í betri stöðu fyrirtækja, meiri veltu í þjóðfélaginu, meiri bjartsýni og stórhug athafnamanna. Þannig mundi atvinnuleysi hverfa og gjaldeyrir nást til kaupa á erlendri búvöru.

Afnám afskipta ríkisins af landbúnaði er hvorki sársaukalaust né ókeypis. Hitt liggur í augum uppi hverjum þeim, sem sjá vill, að þau vandræði yrðu hverfandi í samanburði við þau vandræði, sem leysast mundu í kjölfar afnáms þessara afskipta, er nema 21 milljarði á ári.

Þegar syrtir í álinn, er kominn tími fyrir þjóðina til að taka sönsum og leggja af þá sjálfseyðingarhvöt, sem felst í núverandi afskiptum ríkisins af landbúnaði.

Jónas Kristjánsson

DV

Nú þarf að kúvenda

Greinar

Margt þarf að breytast, svo að unnt verði að halda uppi sjálfstæðu þjóðfélagi við fámenni og einangrun Íslands fram eftir næstu öld. Hætt er við, að blóminn úr ungu kynslóðunum reyni að flytjast á brott, ef við festumst í gömlum atvinnugreinum og atvinnuháttum.

Til þess að framtakssamt fólk vilji festa rætur hér á landi, þurfum við að líta til atvinnugreina og atvinnuhátta framtíðarinnar. Við þurfum að búa svo um hnútana, að ungt fólk geti horft með bjartsýni fram á veg og hafi menntun, aðstöðu og kjark til að nýta sér hana.

Við þurfum á hverjum tíma að leggja mesta áherzlu á þróun hátekjugeira á borð við gerð hugbúnaðar fyrir tölvur. Sumpart er hægt að reisa þá á grunni tækniþekkingar úr hefðbundnum greinum. Tölvuþróun í tengslum við siglingar og sjávarútveg er gott dæmi um það.

Mikilvægt er, að sem mestur hluti atvinnulífs Íslendinga sé í nýjum greinum vaxtar og hárra tekna og sem minnstur í gömlum greinum, þar sem keppa þarf við ódýra vöru og þjónustu frá láglaunalöndum. Við þurfum að breyta ört til að verða í fararbroddi lífskjara.

Við eigum ekki að keppa að stækkun atvinnugreina, þar sem ómenntað fólk stendur daglangt við færibönd, heldur keppa að stækkun greina, þar sem hámenntað fólk selur hugvit og þekkingu til þeirra þjóða, sem hafa ekki náð að hlaupa eins hratt og við inn í framtíðina.

Við þurfum að gera fiskvinnsluna eins sjálfvirka og mögulegt er og selja útlendingum þekkingu okkar á því sviði. Við eigum fremur að efla hönnun en beina framleiðslu. Við eigum að losa okkur sem hraðast við sem mest af hefðbundum landbúnaði í vonlausri samkeppni.

Við sætum um þessar mundir átta þúsund manna atvinnuleysi og þurfum að útvega tólf þúsund störf til viðbótar handa þeim, sem koma á vinnumarkað á sjö árum, sem líða til aldamóta. Þetta verður erfitt, því að sjávarútvegur mun ekki gefa mikið svigrúm á næstu árum.

Þessi þörf fyrir samtals tuttugu þúsund störf segir ekki alla söguna. Ef takast á að ná þeim markmiðum, sem hér hefur verið lýst, þarf að færa að minnsta kosti tíu þúsund störf frá úreltum greinum á borð við landbúnað, ýmsum færibandagreinum og annarri útgerð láglauna.

Við eigum ekki að sóa tugum milljarða á hverju ári til að varðveita atvinnugreinar og atvinnuhætti fortíðarinnar. Við eigum að nota þessa peninga til að mennta þjóðina í hátæknigreinum, efla trú hennar á framtíðarmöguleikana og þor hennar til að takast á við þá.

Við eigum alls ekki að láta atvinnuleysi líðandi stundar hrekja okkur út í þann vítahring að fara í auknum mæli að greiða niður láglaunastörf af ýmsu tagi og búa til þykjustuverkefni á því sviði. Slíkt dregur okkur bara dýpra niður í svaðið, sem við þurfum að lyfta okkur úr.

Ef við höldum áfram áherzlu á hefðbundinn landbúnað, gæludýrasukk og aukna atvinnubótavinnu, munum við standa andspænis 15-20% atvinnuleysi um aldamótin, vonleysi og atgervisflótta. Atvinnuleysi líðandi stundar má ekki mæta með vörn, heldur eingöngu með sókn.

Til þess að svo megi verða, þurfa bæði landsfeður og aðrir Íslendingar að lyfta ásjónu sinni úr holunni og líta upp í framtíðina. Við verðum að breyta og snúa flestum áherzlum í stjórnmálum og þurfum sennilega að skipta að verulegu leyti um pólitíska yfirstétt í landinu.

Framtíð okkar felst í þekkingaröflun í fjármálum, rekstri og nýjum atvinnugreinum; í þjálfun við hönnun hugbúnaðar og tækja; og í eflingu kjarks og bjartsýni.

Jónas Kristjánsson

DV

Perlan

Veitingar

Útsýni er takmarkað úr Perlunni, því að gluggapóstar eru hvarvetna í sjónlínu. Þar vantar hinar flennistóru rúður og netta pósta, sem hafa gert Grillið á Sögu að bezta útsýnisveitingastaðnum. En innsýni er magnað, einkum í rökkrinu við kveikt ljós. Perlan er innsýnisstaður, en ekki útsýnisstaður. Innhverfa er einkenni hennar.

Kuldalegt er uppi á fjalli áfengisbarsins með útsýni yfir veitingasalinn. Þar uppi standa menn eins og á leiksviði hjá Wagner og má telja mildi, að sumir fara ekki út að handriði til að syngja fyrir salargesti.

Kuldinn minnkar, þegar setzt er til borðs. Þá erum við komin niður í sjónlínu pottaplantanna, svo að staðurinn verður þægilegri. Hvelfingin fyrir ofan gerir umheiminn lítinn. Hann er bara inni í þessu rými, griðastað velstæðra. Einhvers staðar langt fyrir utan eru kveinistafir hversdagsleikans, en það er í öðrum heimi.

Perlan er dýrasta veitingahús landsins með Grillinu á Sögu. Þrír réttir kosta um 3.600 krónur fyrir utan drykkjarföng. Verðið endurspeglar auðvitað fé og fyrirhöfn, svo og einstætt tækifæri matargesta til að fá ókeypis snert af sjóveiki í veitingasal á landi. Salurinn snýst og snýst, hálfa umferð á hverjum klukkutíma. Og í allar áttir er sama útsýnið: Endalaus röð af þykkum gluggapóstum.

Móttaka er góð, svo og þjónusta öll, fumlaus og örugg. Stólar eru dregnir út og inn, þegar gestir setjast til borðs. Vel er fylgst með öllu án þess að stressa gesti. Ég skammaðist mín þó fyrir að sulla sósu á drifhvítan dúkinn.

Skornar kristalsskálar fyrir eftirrétti eru notaðar sem vínglös. Þær víkka út að ofan, svo að ekki finnst mikil lykt að víni, þótt gott sé. Þeir, sem vilja njóta góðra vína staðarins, þurfa þó ekki að taka með sér glös að heiman. Þeir biðja bara um sódavatnsglös og fá þá rétt vínglös.

Þetta boðar fremur fínt en gott. Sá grunur staðfestist síðan, þegar réttirnir komu. Þeir voru yfirleitt mjög vandaðir að útliti, nánast listrænir, að minnsta kosti frumlegir. Til dæmis kom smjörið mótað í mynd rósar. En bragð og innihald var upp og ofan, einkum í aðalréttunum.

Á miðjum diski var bátur úr kartöfluþráðum, fullur af rækjum, og hringinn í kring voru kreyddlegnir hörpufiskar, vafðir í spínatblöð. Á öðrum diski miðjum var spínatvafið humarfrauð á miðjum diski, og hringinn í kring voru staflar af humarkjöti. Kálfalifrarfrauð var líka gott, en borið fram á marklausum linkindarkökum á storknuðu portvínshlaupi með daufu karamellubragði.

Ofnbakaðar steinbítskinnar voru ekki vel legnar, en sæmilega meyrar, þaktar lélegu raspi og umkringdar bragðdaufri smjörsósu. Smjörsteiktur eldislax var þurr af völdum ofeldunar. Hunangsgljáð önd var illa grásteikt og sat á stórum beði brenndra kartöfluþráða í appelsínusósu. Mun betri var einfaldur turnbauti, sem sýndi, að í eldhúsinu gátu menn fundið réttar tímasetningar.

Eftirréttir eru staðartromp, til dæmis ostakaka og eplakaka. Kóróna þeirra var rjómaskyr með bláberjakrapi í súkkulaðikörfu. Sá réttur sameinaði gott innihald og dálæti staðarins á glæsilegum réttum með stæl.

Matreiðsla og umhverfi á Perlunni minnir mig á boð Trimalchusar í Satyrikon Petróníusar. Miklir stælar með misjöfnu innihaldi. Ég sá óneitanlega eftir aurunum.

Jónas Kristjánsson

DV

Við lúrum á aurum

Greinar

Ríkisstjórnin telur, að þjóðin hafi engan veginn verið blóðmjólkuð. Hún telur, að einstaklingar og fyrirtæki lúri enn á aurum, sem nýta megi til svokallaðra sameiginlegra þarfa þjóðarinnar. Hún ætlar þess vegna að finna upp nýja skatta og hækka suma þá, sem fyrir eru.

Um mánaðamótin verður lagður 14% skattur á ferðaþjónustu og fjölmiðlun. Næsta vetur verður farið að innheimta fjármagnstekjuskatt. Og almennt er reiknað með, að tekjuskattur verði hækkaður um áramótin, enda ætlar ríkisstjórnin að ná í nokkra milljarða til viðbótar.

Um leið hyggst ríkisstjórnin halda áfram að fjármagna hluta hallarekstrar síns með lántökum á innlendum markaði. Hún mun halda áfram þeirri áralöngu hefð, að ríkið hafi sem umsvifamikill lántakandi forustu um að auka eftirspurn peninga og hækka vexti í landinu.

Núverandi fjármálaráðherra er þegar orðinn skattakóngur Íslandssögunnar og mun slá persónulegt met sitt á þessu ári. Ríkisstjórnin í heild hefur slegið Íslandsmet í stækkun hlutdeildar hins opinbera í þjóðarbúskapnum á kostnað hlutdeildar fyrirtækja og einstaklinga.

Afrek stjórnarinnar á þessu sviði byggjast að nokkru leyti á þeirri skoðun, að hér sé engin kreppa, heldur eins konar sefjun, sem byggist á fjölmiðlafári. Innifalið í skoðuninni er, að atvinnuleysi hafi fyrir löngu verið orðið tímabært og megi gjarna aukast að útlendum hætti.

Ríkisstjórnin telur atvinnuleysi einna mikilvægustu leiðina til að halda kröfuhörku almennings í skefjum og afla vinnufriðar til að hækka skatta og minnka þjónustu við almenning. Eiginlega má segja, að hún telji almenning vera stærsta vandamál yfirstéttarinnar í landinu.

Stefnan hefur gengið svo vel, að verkalýðsrekendur fallast á, að innihald nýrra þjóðarsátta felist í yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar um, að hún ætli að einhverju leyti að standa við fyrri yfirlýsingar sínar úr eldri þjóðarsáttum. Nýju loforðin eru eins marklaus og hin gömlu voru.

Í fyrrahaust reyndi ríkisstjórnin að klípa utan af velferðarkerfinu, einkum í heilsugæzlu og menntastofnunum. Hún telur, að stækkun ríkisgeirans eigi ekki að skila sér í aukinni þjónustu við almenning, heldur eigi hún að nýtast grundvallarhugsjón ríkisstjórnarinnar.

Þessi grundvallarhugsjón felst í að halda merki hefðbundins landbúnaðar hátt á lofti. Í því skyni leggur stjórnin á þessu ári níu milljarða króna á herðar skattgreiðenda og tólf milljarða króna til viðbótar á herðar neytenda. Þetta er eitt af Íslandsmetum hennar.

Enda má vera augljóst, að sú þjóð er ekki fátæk, sem telur sig hafa efni á að brenna árlega 21 milljarði króna á altari kúa og kinda. Hún ætti ekki að vera að kvarta og kveina um peningaleysi og vaxtabyrði, atvinnuleysi og óáran. Slíka þjóð má auðvitað mjólka enn frekar.

Ekki má gleyma því, að þjóðin hefur sjálf valið sér leiðtoga til að leggja niður skóla og heilsugæzlustöðvar, svo að auka megi peningabrennslu í hefðbundnum landbúnaði og ýmsum gæluverkefnum hins opinbera. Þjóðin hefur fengið þá ríkisstjórn, sem hún á skilið.

Í stórum dráttum hefur í kosningum og kjarasamningum verið staðfest þjóðarsátt um að færa þjóðfélagsgerðina í auknum mæli frá velferðarríki heimilanna yfir í velferðarríki gæludýranna. Meðan þessi þjóðarsátt er í gildi, ætti fólk ekki að vera kvarta yfir kreppu.

Smíði nýs fjárlagafrumvarps mun í sumar markast af þeirri vissu fjármálaráðherra og ríkisstjórnar, að þjóðin lúri enn á aurum, sem hafa megi og beri af henni.

Jónas Kristjánsson

DV

Aidid og Milosevic

Greinar

Aidid stríðsherra í Sómalíu er afsprengi þjóðahreinsarans Milosevics í Serbíu. Aidid sá, hvað Milosevic komst upp með í Króatíu og Bosníu, og taldi sér einnig kleift að ögra vestrænum siðareglum. Það hefur kostað og mun kosta miklar fórnir að leiðrétta þann misskilning.

Munurinn á þessum tveimur stöðum er fyrst og fremst sá, að í Sómalíu eru Bandaríkin í fyrirsvari vestrænna siðareglna, en í Bosníu og Króatíu er Vestur-Evrópa í fyrirsvari. Það er magnþrota Evrópa þjóðríkja Kohls, Mitterrands og Majors og það er Evrópusamfélag Delors.

Aidid er fyrsta vandamálið, sem siglir í kjölfar uppgjafar vestræns samfélags fyrir fjöldamorðingjunum og stríðsglæpamönnunum í kringum Milosevic í Serbíu. Með því að taka hart á Aidid í Sómalíu eru Bandaríkin að reyna að stöðva flóðgáttina, sem Serbar opnuðu.

Serbar eru nú að undirbúa enn meira blóðbað í Kosovo, enda vita þeir, að viðvaranir og hótanir Vesturlanda hafa reynzt og munu reynast gersamlega innihaldslausar. Það blóðbað verður að verulegu leyti skrifað á reikning linra forustumanna stærstu Evrópuríkjanna.

Síðan mun Milosevic beina athyglinni að Vojvodina, þar sem Ungverjar búa. Það verður lærdómsríkt fyrir aðra harðlínukomma, sem ráða ríkjum í Slóvakíu og Rúmeníu og langar til að dreifa huga fólks með því að hreinsa ungverska þjóðernisminnihluta heima fyrir.

Þjóðahreinsanir eru hafnar í sumum ríkjum Kákasus og munu bresta á víðar í þeim ríkjum, sem spruttu upp í kjölfar andláts Sovétríkjanna. Sigur á glæpaflokki Aidids í Sómalíu nægir ekki sem fordæmi til að vega upp á móti ósigri fyrir glæpaflokki Milosevics á Balkanskaga.

Athyglisvert er getuleysi Evrópusamfélagsins á þessu sviði. Það er hernaðarlega máttlaust, þótt það sé sérstaklega ofbeldishneigt í viðskiptum við umheiminn, reisi tollmúra gegn Austur-Evrópu og þriðja heiminum og hamli gegn samkomulagi um alþjóðlegar tollalækkanir.

Uppgjöf Vestur-Evrópu fyrir fjöldamorðingjum og fjöldanauðgurum Milosevics sýnir, að Evrópa er ófær að sameinast á æðra plani og mun áfram velta sér upp úr viðskiptaþröngsýni Evrópusamfélagsins undir yfirborði blaðurs um ódáinsakra Maastricht-samkomulags.

Uppgjöf Atlantshafsbandalagsins fyrir mestu stríðsglæpamönnum síðustu áratuga sýnir, að tilverurétti þess lauk með hruni Sovétríkjanna og Varsjárbandalagsins. Atlantshafsbandalagið hefur misst af tækifæri til framhaldslífs á breyttu sviði og mun ekki ná því aftur.

Öll vestræn framganga í máli Milosevics einkennist af vilja- og getuleysi þjóðarleiðtoga og sáttasemjara, sem hafa misst sjónar á helztu forsendum vestræns samfélags. Þeir haga seglum eftir vindi án þess að hafa neitt markmið fyrir stafni. Þeir sitja, en stjórna ekki.

Með markvissum aðgerðum fyrir hálfu öðru ári hefði Vestur-Evrópa getað komið í veg fyrir blóðbaðið á frumstigi þess. Í stað aðgerða var hafið fáránlegt ferli friðarsamninga og málamiðlunar, sem gaf Serbum tækifæri og tíma til að efna til martraðarinnar í Bosníu.

Það hefði kostað Vestur-Evrópu litlar fórnir að stöðva Milosevic, þegar hann réðst á menningarsöguna í Dubrovnik og gaf umheiminum óhugnanlega innsýn í þjóðargeðveiki Serba. Núna neita vestrænir leiðtogar að taka afleiðingunum af þeim fyrri mistökum sínum.

Afleiðing getuleysis og viljaleysis vestrænna ráðamanna endurspeglast ekki bara í blóðbaði Milosevics í Bosníu, heldur einnig í blóðbaði Aidids í Sómalíu.

Jónas Kristjánsson

DV

Sunnudagafoss

Greinar

Það var sterk persóna, sem átti Gullfoss og neitaði að láta hann í té til orkuöflunar, þegar verkfræðingahættu bar að höndum snemma á öldinni. Annar einstaklingur í sömu sporum hefði ef til vill fórnað fossinum fyrir nokkra skildinga, landi og þjóð til óbætanlegs tjóns.

Nú hafa ríki og stofnanir á þess vegum fyrir löngu eignazt allan nýtingarrétt á fossum landsins. Þar með ætti brask með fossa að vera úr sögunni. Því miður hefur það síður en svo leitt til minni hættu á, að verkfræðingar fái að spilla nokkrum frægustu fossum landsins.

Fyrir nokkrum áratugum gældu opinberir verkfræðingar við hugmynd um að virkja Gullfoss á þann hátt, að hleypt yrði vatni á fossinn á sunnudögum, svo að hægt yrði að skipuleggja skoðunarferðir þrátt fyrir nýtinguna. Hugmyndin var að sjálfsögðu hlegin í hel.

Þessi draugur er enn kominn á kreik. Nú er fórnardýrið Dettifoss, kraftmesti og hrikalegasti foss landsins. Draugurinn var vakinn upp á draumóraráðstefnu verkfræðinga og embættismanna um að leggja hund til útlanda til flutnings á niðurgreiddu rafmagni.

Verkfræðingar ættu að takmarka drauma sína við virkjanir, sem eru í samræmi við orkuþörf þjóðarinnar. Stóriðjudraumar hafa reynzt okkur dýrt spaug, svo sem Blönduvirkjun sannar. Órar um rafmagnshunda á sjávarbotni munu geta orðið okkur margfalt dýrari.

Þjóðin greiðir niður rafmagn til járnblendiverksmiðju á Grundartanga, sem rambar á barmi gjaldþrots, og pumpar þar á ofan í hana opinberu fé á nokkurra mánaða fresti. Og það er umdeilanlegt bókhaldsatriði, hvort orkan til álversins í Straumsvík stendur undir sér.

Hingað til hefur reynzt seintekinn gróðinn af stóriðjunni, enda hefur hún að mestu blómstrað í skjóli opinbers handafls, en ekki verið náttúruleg útvíkkun á íslenzku atvinnulífi eða á þekkingu og hugviti, sem þróast á löngum tíma á helztu vaxtarsvæðum atvinnulífsins.

Ef verkfræðingar og embættismenn eru að reyna að reikna gróða í óra sína, er lágmarkskrafa, að þeir haldi útreikningunum innan ramma verðmætamats þjóðarinnar. Ef rafmagnssala til útlanda kostar virkjun Dettifoss, er farsælast að gleyma henni umsvifalaust.

Náttúruverndarráð er annað dæmi um, að ekki er allt fengið með opinberu tangarhaldi á málefnum þjóðarinnar. Sú opinbera stofnun hefur stundum vakið óhagkvæma athygli, eins og þegar hún losaði sig við landvörð fyrir að bægja opinberum veiðiþjófum frá Veiðivötnum.

Nú hefur forstjóri þessarar opinberu stofnunar sagt í viðtali við DV, að halda verði Dettifossi í “ásættanlegu vatnsmagni yfir ferðamannatímann”. Þar með er gamli draugur hugmyndarinnar um sunnudagafossa kominn að nýju á kreik, en nú í formi sumarfossa.

Ummæli forstjóra íslenzkrar náttúruverndar sýna, að sá málaflokkur er síður en svo öruggur í faðmi hins opinbera. Það verður ekki Náttúruverndarráð, sem bjargar Dettifossi. Fólkið í landinu verður sjálft að kveða niður ótrúlega seigan draug sumar- og sunnudagafossa.

Við erum svo heppin þjóð, að við þurfum ekki að velja. Við eigum meira en nóga orku til okkar þarfa, bæði vatnsorku og jarðhita, án þess að þurfa að fórna neinum frægum fossi. Við getum meira að segja komið á fót margvíslegri stóriðju án slíkra örþrifaráða.

Draumar fá stundum eigið líf, ef ekki er gripið í taumana í tæka tíð. Þjóðin þarf að senda skýr skilaboð um andstöðu við sumar- og sunnudagaútgáfu af Dettifossi.

Jónas Kristjánsson

DV

Esja

Veitingar

Útibú Laugaáss á Hótel Esju er fyrsta flokks landkynning. Þar fá erlendir ferðamenn hina traustu sjávarréttamatreiðslu, sem einkenndi móðurstaðinn við Laugarásveg frá upphafi, þegar enn var ekki komið í tízku að borða fisk, hvorki hér á landi né heldur í útlandinu.

Matreiðslan er heldur betri á nýja staðnum og raunar einnig nokkru dýrari. Fyrir utan kunnuglegan seðil dagsins er langur fastaseðill, sem ekki er til bóta, svo og fiskréttahlaðborð, sem er eins konar kynning fisktegunda og matreiðsluaðferða fyrir nýjungagjarna útlendinga.

Á kalda hluta hlaðborðsins mátti fá fjórar gerðir af góðri síld, skemmtilega hrognakæfu, lax og rækjur í hlaupi, grafinn karfa sæmilegan með dósaperum, ferska síld og steikta ýsu. Á heita hlutanum voru kryddlegnar gellur, pönnusteikt rauðspretta, steinbítur í karrí, súrsæt ýsa og þjóðlegur plokkfiskur, allt sæmilegur matur, en háð annmörkum hitakassa, sem jafnan fer illa með fisk.

Dagsseðillinn beztur

Þeir, sem ekki þurfa skyndikennslu í fisktegundum og matreiðsluaferðum, ættu heldur að snúa sér að seðli dagsins. Þar eru jafnan nokkrir réttir úr ferskum fiski og það eru þeir réttir, sem eru í samræmi við hefðina frá gamla Laugaási og hafa byggt upp frægð staðarnafnsins. Þeir eru hér því miður nokkru færri en á gamla staðnum.

Ekki er allt sem skyldi. Brauð með súpu dagsins hefur stundum verið gott og stundum ómerkilegt. Súpur dagsins hafa stundum verið of þykkar hveitisúpur. Og lambagrillsteik með béarnaise-sósu var ekki merkileg.

Sjálfir fiskréttirnir hafa undantekningalaust verið góðir. Ég prófaði nýlega mjög góða rauðsprettu með rauðri camembert-sósu og miklu af rækjum, ennfremur úrvals steinbít rjómasoðinn, með grænmeti og gráðosti, svo og fallega grillaðan skötusel með mildri piparsósu.

Skyrterta var fremur góð, borin fram með skemmtilegri ávaxtasósu. Súkkulaðiterta var hversdagsleg. Þeyttur rjómi var með báðum tertunum. Ítölsk kaffivél sjálfvirk er á staðnum, eins og svo víða hér á landi.

Meðalverð súpu og aðalréttar dagsins er um 1200 krónur í hádeginu og um 1260 krónur að kvöldi. Hlaðborðið kostar 1100 krónur í hádeginu og 1480 krónur að kvöldi. Sérstakur barnamatseðill er til reiðu á 350 krónur.

Kaldur hótelstíll

Tekið er á móti gestum við innganginn og þeim vísað til sætis í reykhluta eða reyklausum hluta eftir óskum þeirra. Staðurinn er töluvert stærri en hinn gamli, snyrtilega innréttaður, en ekki eins huggulegur og gamli staðurinn, enda hannaður í köldum hótelstíl nútímans.

Borðin standa í skipulegum mötuneytisröðum. Blóm á borðum og í hangandi pottum milda svipinn. Húsbúnaður er vandaður, allt frá borðum og stólum yfir í diskamottur. Speglar til beggja hliða og fyrir enda stækka salinn óþarflega mikið, því að hann er nógu stór fyrir.

Gamli Laugaás tók markverðan þátt í veitingabyltingu Íslands fyrir tæplega hálfum öðrum áratug. Ánægjulegt er, að í þessu úthaldslausa þjóðfélagi skuli vera til stofnanir, sem halda staðli og reisn um langt árabil.

Jónas Kristjánsson

DV

Hún hefur gefizt upp

Greinar

Hallinn nemur átján milljörðum á drögum fjárlagafrumvarps næsta árs. Á fundi sínum í dag mun ríkisstjórnin reyna að horfast í augu við óvættina og hefja fálm við að koma henni niður fyrir tíu milljarða. Það væri samt gífurlega mikill halli, enn eitt Íslandsmet.

Tíu eða átján milljarða hallinn stafar ekki af aðgerðum til að auðvelda sjávarútveginum að lifa af fyrirsjáanlegan aflabrest. Ef ríkisvaldið hleypur undir bagga meðan þorskstofnarnir hafa ekki náð sér, mun fjárlagahallinn vaxa upp úr tölunum, sem hér hafa verið nefndar.

Svo virðist sem ráðherrar telji sig hafa sparað í botn á þessu ári og treysti sér ekki til að spara meira á næsta ári. Þar við bætist, að fjármálaráðherra hefur ekki bein í nefinu til að knýja fram aukinn niðurskurð. Ríkisstjórnin er því máttvana gagnvart óvætt fjárlagahallans.

Flest bendir til, að ríkisstjórnin muni einkum beita skattahækkunum og lántökum til að minnka hallann. Þannig mun hún stækka ríkisgeirann af minnkandi þjóðarköku. Það er ekki gæfuleg leið, enda dregur hún úr getu atvinnulífsins til að standa undir yfirbyggingunni.

Þetta þrýstir líka vöxtum upp á við. Af síðustu tilboðum í ríkisvíxla má ráða, að ríkið mun vafalítið halda þeim upptekna hætti að hafa forustu í slagsmálum lántakenda um peninga lánveitenda. Ríkisstjórnin mun því gera að engu vonir manna um frekari lækkun vaxta.

Þannig mun ríkisstjórnin beita skaðlegum aðferðum við að ná fjárlagahalla næsta árs úr átján milljörðum í tíu. Síðan mun hún missa nokkra milljarða til baka, þegar hún reynir að verja sjávarútveginn falli í kjölfar óhjákvæmilegra aðgerða til að stöðva ofveiði á þorski.

Ríkisstjórnin mun reyna að afsaka sig með aðild sinni að síðustu þjóðarsátt, sem setur skorður við sparnaði. Samkvæmt henni lofaði ríkisstjórnin að verja tveimur milljörðum til skópissinga í formi atvinnubótavinnu og til handaflsaðgerða í von um nýsköpun í atvinnulífi.

Athyglisverðast er, að ríkisstjórn, sem hefur fyrst allra ríkisstjórna alveg misst tökin á ríkisfjármálunum, lætur sér alls ekki detta í hug að höggva í þá rúmlega tuttugu milljarða, sem hinn hefðbundni landbúnaður kúa og kinda kostar þjóðarbúið á hverju einasta ári.

Þetta er í samræmi við þjóðarsáttina. Aðilar vinnumarkaðarins létu sér alls ekki detta í hug, að neitt samhengi væri milli vaxandi þjóðareymdar annars vegar og rúmlega tuttugu milljarða árlegrar sóunar þjóðfélagsins í varðveizlu úreltra atvinnuhátta og ofbeitar.

Tilraunir sjórnvalda til að draga úr óheyrilega dýrri offramleiðslu á búvöru hafa ekki leitt til sparnaðar, hvorki hjá skattgreiðendum né neytendum. Hinir fyrrnefndu eru í ár látnir greiða níu milljarða á fjárlögum og hinir síðarnefndu tólf milljarða í of háu vöruverði.

Meðan þjóðin sem heild sættir sig við tvo framsóknarflokka í ríkisstjórn, þrjá framsóknarflokka í stjórnarandstöðu og nokkra framsóknarflokka til viðbótar hjá aðilum vinnumarkaðarins, mun hún sökkva dýpra í fen atvinnuleysis og fátæktar, vonleysis og landflótta.

Þessi þjóðarvilji endurspeglast meðal annars í ríkisstjórn, sem hefur enga stjórn á fjármálum ríkisins, slær hvert Íslandsmetið á fætur öðru í fjárlagahalla, fer senn að slá Íslandsmet í sköttum og hefur forustu um að flytja þjóðfélagið aftur í tímann til mun lakari lífskjara.

Ríkisstjórnin, sem á fundinum í dag horfist í augu við átján milljarða halla á drögum fjárlagafrumvarps, veldur ekki hlutverkinu og hefur gefizt upp við að reyna það.

Jónas Kristjánsson

DV

Glatað jarðsamband

Greinar

Samkvæmt kenningu nýja heilbrigðisráðherrans eru góð mál jafnan óvinsæl. Hann var þá að þrjózkast við að verja hústurna í miðbæ Hafnarfjarðar, sem helmingur kjósenda hafði mótmælt skriflega. Nú kemst hann í félagsskap, þar sem svona kenning hefur hljómgrunn.

Formenn stjórnarflokkanna hafa notað þessa kenningu til að afsaka lítið fylgi og mikla andstöðu. Þessi hroki er sjúkdómur, sem sækir á suma stjórnmálamenn, sem komast áfram. Hann leiðir venjulega til þess, að stjórnmálamenn glata jarðsambandi og síðar völdum.

Þótt sumir menn hafi reynzt fljótir að svara fyrir sig í kappræðu og snúa út úr gagnrýni, ætti það ekki að gefa þeim tilefni til að ímynda sér, að þeir séu merkari og gáfaðri en annað fólk, og því síður til að telja sér trú um, að þeir geti stjórnað ríkinu á farsælan hátt.

Fyrirlitning á kjósendum er hættulegur sjúkdómur, jafnvel þótt raða megi upp dæmum um, að þeir séu fljótir að gleyma og sætti sig við einkavinavæðingu og aðra spillingu ráðamanna. Hugsanlega er hægt að ganga fram af fólki, þótt það hafi reynzt seinþreytt til vandræða.

Skoðanakannanir benda til, að hinir sjálfsánægðu leiðtogar stjórnar og stjórnarandstöðu séu orðnir afar óvinsælir. Fólk ber ekki lengur traust til þeirra, sem stunda pólitískar burtreiðar og slá um sig með slagorðum og útúrsnúningum í málfundastíl frá menntaskólaárunum.

Þumbaralegur Halldór Ásgrímsson nýtur meira trausts en skrumkenndur Steingrímur Hermannsson. Alvörugefin Jóhanna Sigurðardóttir nýtur meira trausts en gleiðgosalegur Jón Baldvin Hannibalsson. Þetta eru merki þess, að kjósendur séu að læra af reynslunni.

Ólafur Ragnar Grímsson er óvinsæll, en nýtur skorts á hæfileikafólki í flokki sínum. Það skjól hefur Davíð Oddsson ekki í sama mæli, enda nýtur broslaus Þorsteinn Pálsson meira trausts en borgarstjórastjarnan, er sumir töldu vera eins konar Ólaf Thors endurborinn.

Menn virtu Halldór Ásgrímsson fyrir þrjózkuna, þegar hann var sjávarútvegsráðherra og virðast að sinni vilja láta Þorstein Pálsson njóta hins sama. Jóhanna Sigurðardóttir nýtur sömuleiðis virðingar fyrir að berjast af hörku fyrir því, sem hún telur vera grundvallarsjónarmið.

Með þessu er alls ekki sagt, að Halldór Ásgrímsson, Þorsteinn Pálsson og Jóhanna Sigurðardóttir hafi jafnan réttar fyrir sér en Ólafur Ragnar Grímsson, Steingrímur Hermannsson, Davíð Oddsson og Jón Baldvin Hannibalsson. En stíll hinna síðarnefndu er að eldast illa.

Faðmlög sjónvarps hafa stuðlað að hnignun og hruni flokksformanna og helztu ráðherra. Fréttatímar eru að nokkru byggðir upp af daglegum viðtölum við nokkra menn, sem hafa munninn fyrir neðan nefið og komast upp með útúrsnúninga í málfundastíl menntaskóla.

Smám saman verða áhorfendur leiðir á þessu stagli og fara um leið að sjá í gegnum málfundatæknina. En þá eru hinir sjálfumglöðu orðnir fastir í sjónvarpsnetinu, geta hvorki hætt að blaðra né breytt framgöngu sinni. Traustið lekur smám saman burt og kemur ekki aftur.

Það er síður en svo gott veganesti fyrir nýja ráðherra að vera þekktir að svipuðum stælum og þeim, sem hafa gert þjóðina afhuga leiðtogum stjórnmálaflokkanna. Hvort tveggja er að verða úrelt, málfundatækni menntaskólaáranna og jafnvel fyrirlitningin á kjósendum.

Svo kann að fara, að þjóðin missi skyndilega þolinmæðina á sama hátt og Ítalir. Þegar það gerist, verður gamla og málglaða stjórnmálaaðlinum sópað af borðinu.

Jónas Kristjánsson

DV