Author Archive

Potturinn og pannan

Veitingar

Tveir áberandi þéttvaxnir ferðamenn sátu sinn við hvort borð og töluðu saman yfir ganginn, meðan þeir röðuðu í sig með augljósri velþóknun. Potturinn og pannan við Nóatún ofanvert er einn af hlaðborðsstöðunum, þar sem svangir geta farið aftur og aftur til að fylla á diskana.

Súpa dagsins, brauð og salatborð og kaffi kosta 790 krónur; 890 krónur með eftirréttaborði og frá 980 krónum og upp í 1390 krónur, ef með fylgir einn af tveimur til fjórum heitum aðalréttum dagsins. Barnamatseðill er á 390 krónur og sérstakt leikherbergi á staðnum.

Potturinn og pannan hefur verið rekinn á þennan hátt árum saman og hefur hægt og sígandi orðið örlítið þreytulegri með árunum. Það gerist afar hægt, en gildir um alla þætti; matreiðslu, þjónustu og umhverfi. Staðnum hefur farið lítillega aftur á sama tíma og samkeppni hefur aukizt, til dæmis af hálfu pastahúsa bæjarins.

Staðurinn hefur það umfram flesta samkeppnisstaðina, að verðið gildir jafnt að kvöldi sem í hádegi. Flestir eru aðeins með slík tilboð í hádeginu. Þetta þýðir, að staðurinn er áhugaverður kvöldmatarstaður í viðlögum fyrir fjölskyldur, til dæmis ferðafólk utan af landi. Hjón með tvö börn fá fullkomna kvöldmáltíð fyrir samtals 2.640 krónur, sem er algengt eins manns verð í bænum.

Tónar eru oft hátt stilltir og ekki alltaf áheyrilegir, til dæmis grúttimbrað væl í stíl Johnny Cash. Þetta er raunar algengur galli við hversdagsleg veitingahús hér á landi. Starfsólk telur, að gestir deili sama smekk á tónum.

Einnig fælir frá staðnum, að við borð, þar sem gestir ganga að afgreiðsludiski, situr stundum maður og mælir út gesti af augljósri forvitni og einsemd. Stammgestir af þessu tagi eru betur geymdir á afskekktum stöðum í veitingasal, svo að minna beri á þeim.

Oftast eru tvær súpur á boðstólum, önnur tær og hin hveitilöguð. Þær eru afgreiddar í örlitlum skálum, en gestir geta fengið ábót, ef þeir vilja. Tæru súpurnar hafa verið betri, einkum grænmetissúpa, en blómkálssúpa var einnig nokkuð góð, með vænum blómkálshnöppum.

Brauð úr Breiðholtsbakaríi er helzta trompið. Það er um þessar mundir betra en nokkru sinni fyrr, fjölbreytt og bragðgott. Hver getur skorið sér sneiðar að vild.

Salatborðið er líkt því, sem sjá má víða annars staðar í bænum, ekkert sérstaklega spennandi, en frambærilegt. Þar er ferskt grænmeti, þar á meðal sveppir, ennfremur pastaréttur, hrísgrjónaréttur og kartöflusalat.

Smjörsteikt smálúða dagsins var fremur þurr, borin fram með of mikið soðnum kartöflum og gulrótum, svo og ferskum sveppum og estragonsósu. Sjávarréttafantasía dagsins hafði að geyma lax, smálúðu og ýsu, fullmikið soðin, nema laxinn, og borin fram undir hlaða af ofelduðum rækjum og hörpufiski. Blandaðir sjávarréttir hússins, bornir fram á pönnu, voru of mikið eldaðir, eins og oftast vill verða með sjávarrétti á þessum stað.

Kryddlegnar lambalundir dagsins voru líka of mikið eldaðar, bornar fram með ágætri og sterkri grænpiparsósu. Sinnepskryddað lambafillet var heldur betra.

Á eftirréttaborði eru oftast þrjár tegundir af ís, tvær eða þrjár tegundir af niðursoðnum ávöxtum, kaldur búðingur og stundum sæmilegasta rjómaterta að auki.

Jónas Kristjánsson

DV

Fimmflokkurinn

Greinar

Ef Alþýðuflokknum hlotnaðist embætti landbúnaðarráðherra í nýrri ríkisstjórn eftir næstu kosningar, yrði Sighvatur Björgvinsson ekki ráðherraefnið. Hans yrði talin þörf í einhverju alvöruráðuneytanna, því að þingflokkurinn er fámennur og mannval ekki sérlega mikið.

Landbúnaðarráðherra flokksins yrði Gunnlaugur Stefánsson, sem er meiri framsóknarmaður en meðalþingmaður Framsóknarflokksins. Hann er líka vanur að fá sitt fram með hótunum í þingflokknum og er efstur á lista yfir þá, sem friða þarf með ráðherraembætti.

Helzta vonin um stuðning Alþýðuflokksins við breytta landbúnaðarstefnu er, að Gunnlaugur falli út af þingi. Samkvæmt því er leiðin til úrbóta ekki að efla Alþýðuflokkinn í kosningum, heldur að halda honum niðri í því sex þingmanna fylgi, sem skoðanakannanir sýna núna.

Yfirlýst og prentuð stefna stjórnmálaflokka skiptir litlu, þegar á reynir. Mestu máli skiptir, hver er ráðherra, því að hann er kóngur í ríki sínu samkvæmt stjórnarskránni. Sérstaklega er þetta mikilvægt í landbúnaðarráðuneytinu vegna sérstöðu þess í stjórnsýslunni.

Landbúnaðarráðuneytið gerir búvörusamninga mörg ár fram í tímann og bindur hendur ókominna ríkisstjórna. Í þessum samningum gætir það ekki hagsmuna ríkisins, heldur hagar sér sem jafnan endranær eins og yfirfrakki hinna mörgu hagsmunaaðila í landbúnaði.

Tilgangslaust er fyrir neytendur og skattgreiðendur að vænta breytinga með nýjum og yngri þingmönnum flokkanna. Gunnlaugur er með yngstu þingmönnum Alþýðuflokksins. Sama er að segja um Sjálfstæðisflokkinn, þótt þar sé stundum kvartað út af landbúnaði.

Í stað Ingólfs frá Hellu, Pálma frá Akri og Halldórs Blöndals koma aðrir, sem ekki eru minni ærgildissinnar. Þar á meðal eru Einar Guðfinnsson og Sturla Böðvarsson, sem eru ekki minni framsóknarmenn en meðalþingmaður Framsóknarflokksins og Gunnlaugur Stefánsson.

Um Alþýðubandalag og Kvennalista er óhætt að segja, að þeir flokkar hafa yfirboðið Framsóknarflokk í ærgildisstefnu og munu gera það, ef öðrum hvorum hlotnaðist embætti landbúnaðarráðherra. Andi Steingríms Sigfússonar svífur yfir þeim vötnum vinstra vængsins.

Marklausar eru yfirlýsingar um landbúnaðarmál frá ungliðahreyfingum og öðrum stofnunum innan stjórnmálaflokkanna. Allir fimm þingflokkarnir eiga það sameiginlegt að setja ærgildið ofar manngildinu. Fé til fæðingardeildar verður að víkja fyrir búvörustyrkjum.

Fimmflokkurinn á þingi heldur þjóðinni í heljargreipum, sem kosta hana um átján til tuttugu milljarða króna á hverju ári. Lífskjörin eru lækkuð ár eftir ár, svo að unnt sé að halda úti innflutningsbanni búvöru, niðurgreiðslum, uppbótum og beinum landbúnaðarstyrkjum.

Kreppan sýnir bannhelgi fimmflokksins á landbúnaði. Ærgildisstefnan er rekin með fullum dampi, þótt þrengst hafi í þjóðarbúi. Kjósendur geta ekki gert sér neinar vonir um, að fimmflokkurinn hrófli við þessu ástandi, hvort sem hann heitir Alþýðuflokkur eða öðru nafni.

Þegar ungliðar flokkanna vaxa upp og komast á þing, verða þeir eins og Gunnlaugur Stefánsson, Einar Guðfinnsson og Sturla Böðvarsson eða eins og hinir, sem samþykkja bannhelgina með þögn sinni. Meðan fimmflokkurinn ræður ferðinni, blífur stefna Framsóknar.

Það verður fyrst eftir daga fimmflokksins, að manngildi verður sett ofar ærgildi. Það verður, þegar kjósendur hafa mannað sig upp í að reka fimmflokkinn úr starfi.

Jónas Kristjánsson

DV

Skammtími í Smugunni

Greinar

Tjaldað er til einnar nætur í veiðum íslenzkra togara í Smugunni utan 200 mílna lögsögu Norðmanna og Rússa í Barentshafi. Þetta eru sjóræningjaveiðar, þótt útgerðir kunni að komast upp með svo sem einn túr, áður en smugunni verður lokað með einhliða eða tvíhliða aðgerð.

Úrelt er orðið í samskiptum ríkja, að unnt sé fyrir aðvífandi sjóræningja að veiða utan 200 mílna línunnar þann fisk, sem tengdur er staðnum og er ýmist innan eða utan línunnar. Með einhliða aðgerðum og tvíhliða samningum er verið að fækka slíkum möguleikum.

Ísland er um þessar mundir að vinna að auknum möguleikum strandríkja til að ráða fiskveiðum utan 200 mílna fiskveiðilögsögu. Það er brýnt fyrir langtímahagsmuni okkar að loka sem flestum íslenzkum hafsvæðum utan 200 mílnanna fyrir erlendum veiðiskipum.

Sjóræningjaveiðar okkar manna í Barentshafi skaða langtímahagsmuni okkar sem þjóðar. Þær draga úr líkum á, að réttindi strandríkja á borð við Ísland nái fram að ganga á alþjóðlegum vettvangi, og geta hæglega seinkað því, að við náum tökum á hafsvæðum utan 200 mílna.

Talsmenn veiðanna í Barentshafi játa, að engar líkur séu á, að Íslendingar nái handfestu á þeim miðum. Þeir segja, að fjárhagur útgerðarfélaga sé svo slæmur og ástand þorskstofna við Ísland svo dapurt, að veiðar í Smugunni veiti stundargrið á báðum þessum sviðum.

Ýmis rök mæla með veiðum Íslendinga í Barentshafi. Norðmenn hafa sjálfir látið undir höfuð leggjast að loka Smugunni með samningum og yfirlýsingum. Sjóræningjar hafa verið á veiðum þar, án þess að norsk yfirvöld hafi treyst sér til að beita varðskipum gegn þeim.

Það væri mismunun, ef Norðmenn stugga íslenzkum skipum frá Smugunni, er þeir hafa leyft veiðar sjóræningjaskipa undir þægindafánum ríkja á borð við Belize. Helzt væri, að þeir gætu af einhverjum öðrum ástæðum talið sig eiga hönk upp í bakið á Íslendingum.

Ef um slíkt er að ræða, kemur það vafalítið fram á fundum, sem haldnir verða um málið. Þeir fundir hljóta að leiða til niðurstöðu, því að þjóðir á borð við Íslendinga og Norðmenn leysa alltaf sín mál með þjarki og samningum, þótt ófriðlega kunni að horfa um tíma.

Bent hefur verið á, að fordæmi séu fyrir því, að Norðmenn kaupi sjóræningja af höndum sér. Þeir keyptu Grænlendinga af sér með því að láta þá hafa kvóta. Íslendingar hafa líka liðkað fyrir samningum með því að kaupa sjóræningja af höndum sér, til dæmis norska.

Með bjartsýni má halda fram, að einn túr hjá tuttugu togurum skapi slíka réttarstöðu íslenzkra togara, að Norðmenn muni telja henta sér að gefa eftir gagnvart Íslendingum á einhverju skyldu eða óskyldu sviði. Hagsmunaaðilar segja, að óhætt sé að láta á það reyna.

Íslenzk stjórnvöld leika tveim skjöldum. Annars vegar segist sjávarútvegsráðherra skilja sjónarmið Norðmanna og varar útgerðarfélög við að senda togara í Smuguna. Hins vegar setur hann ekki reglugerð til að stöðva veiðar eða löndun, heldur efnir til málfunda í ríkisstjórn.

Í meðferð málsins togast á skammtímahagsmunir vegna fjárvana útgerðar, aflabrests á þorski og möguleikanna á að selja Norðmönnum sjóránið fyrir aðra hagsmuni; og svo langtímahagsmunir Íslendinga af því að strandríki verði herra yfir nálægum hafsvæðum.

Gamla þumalputtareglan segir, að reynsla veraldarsögunnar sýni, að varðveizla langtímahagsmuna borgi sig almennt betur en varðveizla skammtímahagsmuna.

Jónas Kristjánsson

DV

Tveir sólargeislar

Greinar

Niðurstaða úrskurðarnefndar í kleinumálinu er sólargeisli í skammdegi smákóngakerfisins á Íslandi. Ein af vandræðastofnunum þjóðfélagsins, Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur, hefur fengið verðuga ofanígjöf fyrir ósæmilegt sölubann á kleinur, sem soðnar voru í heimahúsi.

Annar sólargeisli þessa máls eru gamansöm bréfaskipti landlæknis og fyrrverandi heilbrigðisráðherra, þar sem þeir gera stólpagrín að afskiptasemi og smámunasemi heilbrigðiseftirlitsins. Bréfin benda til, að úrelt sjónarmið þess njóti ekki hljómgrunns í opinbera geiranum.

Mikilvægt er, að menn verði áfram vel á verði, því að heilbrigðiseftirlitið hefur hótað að fá sett ný lög, sem taki af allan vafa um, að það megi áfram ráðskast með svipuðum hætti og það hefur gert áratugum saman, þjóðfélaginu til margvíslegrar bölvunar og kostnaðar.

Þjóðfélagið er sneisafullt af litlum stofnunum, þar sem sitja smákóngar við að semja lagafrumvörp og tillögur til reglugerða, er þeir reyna að fá ráðherra til að styðja. Þegar pólitíkusarnir eru ekki á verði, nær margt af þessu valdboði fram að ganga. Stóri bróðir stækkar og stækkar.

Eftirlitsstofnanir í heilbrigðisgeiranum eru dæmigerðar fyrir þetta vandamál. Þær hafa til dæmis komið upp reglum um gífurlegar kröfur til ástands eldhúsa í þeim stofnunum, sem fá leyfi til að opna vínflöskur og hella innihaldinu í glös, rétt eins og slíkt sé mikið vandaverk.

Eftirminnilegt er hrokabréf, sem stofnun af þessu tagi sendi einu allra bezta matargerðarhúsi landsins, er var alveg óvenjulega skemmtilega búið antikmunum. Í bréfinu voru samstæð húsgögn sett sem skilyrði fyrir því, að þetta stjörnuveitingahús fengi vínveitingaleyfi.

Sumt af ruglinu úr smákóngastofnunum í heilbrigðiseftirliti stafar af reglugerðum, sem þær hafa látið þýða úr norsku. Þar á meðal er bann við sölu á ferskum kjúklingum. Eingöngu er leyft að selja frysta kjúklinga, sem frá sjónarhóli matargerðarlistar eru tæpast ætir.

Stofnanir af þessu tagi eru einnig notaðar til að vernda gróna hagsmuni í þjóðfélaginu. Af þeirri ástæðu fáum við ekki að njóta heimsins beztu osta eins og aðrar þjóðir og verðum í þess stað að sætta okkur við breytilega illa gerðar eftirlíkingar úr einokunarstofnunum.

Almennt svífur yfir vötnum smákóngastofnana í heilbrigðiseftirliti sú árátta, að heppilegt sé að gerilsneyða þjóðfélagið til að firra það sjúkdómahættu. Kaupstaðarbúar þurfa því að vera innundir hjá vinum í bændastétt til að fá ógerilsneydda og drykkjarhæfa mjólk.

Merkilegt er, að Íslendingar skuli sætta sig við, að fá í verzlunum eingöngu aðgang að mjólk, sem hefur verið forhituð, fúkkalyfjuð, gerilsneydd, fitusprengd og misþyrmt svo á annan hátt, að hún er orðin svo ónáttúruleg, að hún hefur alveg misst getuna til að súrna.

Gerilsneyðingarstefnan kemur í stað hins náttúrulega hreinlætis, sem tíðkast til dæmis hjá Frökkum, er bera af öðrum þjóðum í matargerðarlist, án þess að fólk deyi þar úr matareitrun við að nota eingöngu ferska vöru, en ekki frysta, gerilsneydda, forhitaða og innpakkaða.

Niðurstaða úrskurðarnefndar og gamansemi landlæknis í kleinumálinu eru því sannkallaðir sólargeislar í skammdegi smákóngaveldis og reglugerðafargans. Vonandi hefur úrskurðurinn fordæmisgildi og vonandi láta stjórnvöld ekki undan kveinstöfum svekktra smákónga.

Bezt væri að nota tækifæri kleinumálsins til að höggva í reglugerðakerfið og setja lög um að leiða verzlunarfrelsi og ferska vöru til hásætis í matargerð okkar.

Jónas Kristjánsson

DV

Laugaás

Veitingar

Ef ég kemst ekki í bæinn á réttum matartíma eða nenni ekki að elda, fer ég í gamla Laugaás við Laugarásveg. Það er ódýrasta stjarnan á matargerðarhimni Reykjavíkur og hefur verið það í fjórtán ár. Hún ljómar næstum eins skært á þessu sumri og hún gerði á sínu fyrsta sumri.

Þegar ég byrjaði að skrifa um veitingahús árið 1980, var Laugaás bylting í veitingarekstri. Loksins var kominn staður, sem sameinaði ódýran mat fyrir hversdagslegt borðhald og nútímaleg gæði í eldamennsku, er bezt lýstu sér í varfærinni matreiðslu á sjávarfangi.

Eigendum staðarins hefur gengið fremur vel á þessum tíma. Þeir hafa opnað stærra, glæsilegra, heldur betra og heldur dýrara útibú á Hótel Esju. Þeir eru samt ekki í neinum forstjóraleik, heldur standa enn við eldavélarnar á báðum stöðum eins og þeir hafa gert frá upphafi.

Auðvitað er ánægjulegt að sjá dæmi um festu og úthald í atvinnulífi landsins, sem einkennist því miður af skammtímarokum. Dapurlega hliðin á málinu er, að ekki hefur orðið sú þróun í veitingabransanum, að Laugaási hafi verið veitt marktæk samkeppni í fjórtán ár.

Gamli Laugaás er fersk og hrein og björt matstofa enn þann dag í dag. Rauðköflótti stíllinn hefur haldizt óbreyttur frá upphafi, enda fellur hann vel að alþýðlegu hlutverki staðarins. Þótt nýi Laugaás sé fagurlega innréttaður í nýtízkulegum stíl, er gamli Laugaás notalegri.

Að hætti góðra veitingahúsa er matseðillinn breytilegur frá degi til dags og jafnvel milli hádegis og kvölds. Þar eru fimm eða sex fiskréttir og svipaður fjöldi kjötrétta. Fiskréttir kosta yfirleitt rétt innan við þúsund krónur og kjötréttir um 1150 krónur, hvort tveggja að súpu innifalinni. Búðingur er innifalinn á sunnudögum.

Súpur dagsins eru af ýmsu tagi. Ég man eftir góðri gulrótarsúpu, sæmilegri seljustönglasúpu og lélegri brokkálssúpu. Þær eru veikasta hlið staðarins, stundum þykkar, einu sinni kekkjuð og stundum of saltar. Hrásalat með aðalréttum er einfalt og borið fram sér.

Fiskurinn er staðartrompið, yfirleitt hæfilega eldaður eða aðeins lítillega ofeldaður og með hæfilega lítið elduðu og stinnu meðlæti. Rjómasoðinn steinbítur með sítrónupiparsósu var góður. Gufusoðnar gellur í appelsínusósu voru mjúkar og góðar, alveg hæfilega eldaðar, en sósan var nokkuð áberandi, þótt góð væri út af fyrir sig. Rjómasoðinn búri með rækjum og grænmeti í rjómasósu var vel eldaður. Pönnusteikt rauðspretta með vínberjum í rósapiparsósu var einnig góð, en með of miklu raspi.

Um kjötréttina veit ég minna, því að fiskurinn freistar mín mest. Um daginn prófaði ég þó góðan bixímat með spæleggi, heimabökuðu og loftmiklu rúgbrauði og béarnaise- sósu. Á sama matseðli var fleira þjóðlegt, svo sem bjúgu og lifur. Gott rúgbrauð staðarins er líka borið fram með plokkfiski, þegar hann er á matseðlinum.

Kaffi er gott og nú er borðvín á boðstólum. Því er ekki haldið að fólki og ég hef ekki séð það pantað, enda eru gestir yfirleitt ekki “úti að borða”, heldur að rækta leti sína eða mega ekki vera að því að elda heima hjá sér.

Tízkan kemur og fer, en Laugaás er óbreyttur. Hann hefur lengi verið fastur punktur í tilverunni og ætlar að verða það áfram. Hann er orðinn hluti af klassíkinni.

Jónas Kristjánsson

DV

Stríðsglæpamaður kemur

Greinar

Einn af kunnari stríðsglæpamönnum heims kemur í opinbera heimsókn til Íslands síðar í þessum mánuði. Það er Símon Peres, utanríkisráðherra Ísraels, áður hermála- og forsætisráðherra. Hann á langan afbrotaferil að baki og hefur heldur færzt í aukana á síðustu vikum.

Afbrot Peresar stríða gegn alþjóðlegum sáttmálum um meðferð stríðsfanga og um meðferð fólks á hernumdum svæðum, þar á meðal gegn Genfarsáttmálanum. Þau stríða gegn grundvallarsáttmála Sameinuðu þjóðanna og gegn langri lagahefð Vesturlanda í þjóðarétti.

Mesta athygli hafa vakið barnamorðin, sem Peres og félagar stjórna í Palestínu. Börn, sem kasta grjóti, hafa verið drepin í tugatali á hverju ári. Þetta þekkist hvergi annars staðar í heiminum. Blóð allra þessara barna er á höndum Peresar, þegar hann heilsar forseta Íslands.

Barnamorð og önnur morð, sem Peres og félagar stunda á hernumdum svæðum, flokkast í alþjóðarétti undir manndráp af ásettu ráði. Einnig eru til nákvæmar skráningar um pyntingar, sem þeir standa fyrir og eru bannaðar með alþjóðlegum sáttmálum og lagahefðum.

Ýmsar refsiaðgerðir Peresar eru líka brot á þessum sáttmálum og hefðum. Þar á meðal eru hefndaraðgerðir á borð við að jafna hús fólks við jörð og að koma í veg fyrir, að það geti unnið fyrir sér. Slíka glæpi stundaði Peres í hundraða- og þúsundatali sem hermálaráðherra.

Upp á síðkastið hafa Peres og félagar lært þjóðahreinsun af Milosevic Serbíuforseta og Karadzic, Bosníustjóra hans. Peres og félagar þjóðahreinsuðu með því að láta gera umfangsmiklar loftárásir á bæi og þorp í Suður- Líbanon og hrekja íbúana á þann hátt norður í land.

Yfirlýstur tilgangur loftárása Peresar og félaga var að hreinsa belti í Suður-Líbanon, svo að meintir óvinir Ísraels, sem þar kynnu að vera, hefðu minna skjól af óbreyttum borgurum. Síðar var raunar neitað, að þetta væri tilgangurinn, þegar heimsbyggðin mótmælti honum.

Á þennan hátt létu Peres og félagar eyða heimilum tugþúsunda óbreyttra borgara í öðru ríki og hrekja þá burt af föðurleifð sinni. Hann hefur langa reynslu á þessu sviði, því að fyrir átta árum lét hann gera loftárás á íbúðahverfi í Túnis, sem er um 2500 kílómetra frá Ísrael.

Glæpasaga Peresar nær yfir fleiri svið en hér er rúm til að rekja. Fyrir sjö árum lét hann menn sína óvirða fullveldi Ítalíu með því að ræna þar ísraelskum kjarnorkufræðingi, sem hafði veitt Sunday Times í London upplýsingar um framleiðslu kjarnavopna í Ísrael.

Símon Peres er ekki skárri en aðrir, sem hafa gegnt störfum hermálaráðherra, utanríkisráðherra og forsætisráðherra Ísraels á síðasta áratug. Hans afbrot spanna alla bókina frá þjóðahreinsun og skipulegum manndrápum yfir í löglausan brottrekstur, varðhald og mannrán.

Þótt borgarar Ísraels beri sem heild ábyrgð á hryðjuverka- og stríðsglæpastefnu ríkisins vegna stuðnings við hana, svo sem fram kemur í skoðanakönnunum, hafa helztu valdamenn þjóðfélagsins þó skorið sig úr í viðleitni við að auka grimmd þessa krumpaða þjóðfélags.

Hryðjuverka- og stríðsglæpamaður af stærðargráðu Peresar á ekkert erindi til Íslands, þótt sérkennilega gamansamur utanríkisráðherra okkar hafi gaman að prófa, hvað hann geti komizt langt í að ögra fólki. Vonandi láta kjósendur hann gjalda þess í næstu kosningum.

Þeir, sem heilsa Símoni Peres í opinberri heimsókn hans til Íslands, fá blóð saklausra á hendur sínar. Í sögulegum skilningi geta menn aldrei þvegið blóðið af sér.

Jónas Kristjánsson

DV

Myllusteinninn þungi

Greinar

Ríkisstjórnin þarf að fara að sinna fjármálum ríkisins í alvöru. Það getur ekki gengið fram eftir öllu kjörtímabilinu, að stærsti þáttur þjóðarbúskaparins og mesti örlagavaldur í hagstjórninni fái að leika lausum hala með þeim afleiðingum, að áætlanir fari sífellt úr böndum.

Á miðju ári stendur ríkisstjórnin frammi fyrir þeirri staðreynd, að hallinn á fjárlögum ársins 1993 hefur við upphaf árs verið vanmetinn um sex til sjö milljarða króna. Tekjur hafa reynzt minni en ráð var fyrir gert og útgjöld hafa reynzt meiri en ráð var fyrir gert.

Ríkisstjórnir og hagfræðingar þeirra eiga oft erfitt með að sjá óbeinar afleiðingar gerða sinna marga liði fram í tímann. Það er einn helzt galli ofanstýringar, að hún framkallar vítahring, er leiðir til aðstæðna, sem eru allt aðrar en þær, er landsfeður ráðgerðu í upphafi.

Í þessu tilviki er alls ekki um óbein langtímaáhrif að ræða. Fjármálaóreiða ríkisins er bein og augljós skammtímaafleiðing af því tagi, sem hver húsmóðir getur séð fyrir í fjármálum heimilisins, þótt ráðherrum og hagfræðingum þeirra hafi ekki tekizt að sjá hana fyrir.

Þegar ríkisstjórn vinnur markvisst að minni kaupmætti fólks, fær ríkissjóður að sjálfsögðu minni skatta af tekjum fólks. Þegar þetta sama fólk mætir minnkandi kaupmætti sínum með minni innkaupum, fær ríkissjóður að sjálfsögðu minni skatta af veltu fólks.

Þetta samhengi er svo augljóst, að hvert barn getur séð það. Í ofanstýringu efnahagsmála er oft við að glíma miklu flóknari atburðarás, þar sem hinar óbeinu afleiðingar liggja engan veginn í augum uppi. Einföld er hins vegar atburðarásin, sem ríkisstjórnin sá ekki fyrir.

Þegar ríkisstjórn vinnur markvisst að þjóðarsátt um að halda verðbólgu í skefjum, þarf ríkissjóður að taka þátt í þjóðarsáttinni með framlagi í félagsmálapakka eða verkefnapakka. Þessir pakkar ríkissjóðs eru náttúrulögmál, sem við höfum séð í hverri einustu þjóðarsátt.

Pakkarnir kosta ríkið peninga, sem gera þarf ráð fyrir á fjárlögum. Það hefur ríkissjórnin hins vegar ekki gert. Hún hefur verið blind á hvort tveggja í senn, tekjumissinn af völdum þjóðarsáttarinnar, sem fyrirhuguð var, og útgjaldaukann af völdum sömu þjóðarsáttar.

Ríkisstjórn, sem skilur ekki efnahagsmál eða vill ekki skilja þau, lendir í fleiri vandræðum. Fjármálaóreiða ríkisins stuðlar einnig að háum raunvöxtum í þjóðfélaginu og kemur í veg fyrir, að tilraunir til lækkunar vaxta nái fram að ganga. Þetta ætti öllum að vera ljóst.

Ríkisstjórn, sem skilur ekki efnahagsmál eða vill ekki skilja þau, lendir líka í þeim vanda að búa til gengislækkun í gamla stílnum, þar sem öll gengislækkunin fer út í verðlagið og menn sitja eftir með verðbólguna eina, án þess að geta nýtt hefðbundna kosti verðbólgunnar.

Ríkisstjórnin hefur hegðað sér undarlega á fleiri sviðum efnahagsmála. Með annarri hendinni sker hún niður velferðarkerfið í fjárlögum og bætir síðan við það í þjóðarsátt. Með annarri hendinni sker hún niður framkvæmdir í fjárlögum og bætir síðan við þær í þjóðarsátt.

Utan ríkisstjórnar og hagfræðinga hennar sjá allir, sem sjá vilja, lærðir og leikir, að hún hefur lent í ógöngum í miklum og vaxandi ríkishalla, í of háum vöxtum, í gengislækkun án umtalsverðra hliðarráðstafana og í “inn og út um gluggann” misræmi fjárlaga og þjóðarsátta.

Ríkisfjármálin eru í þungamiðju þessara vandræða ríkisstjórnarinnar. Svo virðist sem þau verði þyngsti myllusteinninn um háls hennar í næstu kosningum.

Jónas Kristjánsson

DV

Vanmetið tjón

Greinar

Nokkuð vantar á, að norræna skýrslan um byrði Íslendinga af landbúnaði nái yfir alla þætti vandans. Beinir styrkir, uppbætur og niðurgreiðslur nema níu milljörðum á fjárlögum ríkisins árið 1993, en ekki sjö og hálfum milljarði. Þetta má lesa svart á hvítu í fjárlögunum.

Erfiðara er að meta vantalningu skýrslunnar á tjóni þjóðarinnar af innflutningsbanni búvöru. Ljóst er þó, að þar er ekki tekið tillit til hemla á innflutningi grænmetis og kartaflna, svo og smjörlíkis. Í þessum liðum felst að minnsta kosti tveggja milljarða króna viðbótartjón.

Þannig er tjónið af innflutningsbanni að minnsta kosti átta milljarðar, en ekki þeir sex milljarðar, sem koma fram í skýrslunni. Ýmsir hagfræðingar hafa reynt að meta þennan þátt til fulls og komizt að niðurstöðum, sem nema nálægt tólf milljarða króna áregu tjóni neytenda.

Ef talið er saman tjón skattgreiðenda eins og það kemur fram í fjárlögum og tjón neytenda eins og það kemur fram í ofangreindu mati á innflutningsbanni og -hömlum, koma út úr dæminu upphæðir, sem nema frá sautján milljörðum upp í tuttugu og einn milljarð á ári.

Þær tölur hafa síður en svo orðið úreltar af völdum búvörusamninga. Þetta eru tölur, sem gilda fyrir árið 1993. Órökstuddar og marklausar eru fullyrðingar áróðursvélar hins hefðbundna landbúnaðar um, að búvörusamningar hafi breytt forsendum í þessum dæmum.

Búvörusamningar hafa ekki létt byrðum af herðum neytenda og skattgreiðenda. Búvörusamningar hafa hins vegar fryst ástandið fjölmörg ár fram í tímann til að koma í veg fyrir, að nýjar ríkisstjórnir geti tekið ákvarðanir um að létta byrðar neytenda og skattgreiðenda.

Norræna skýrslan um tjón Íslendinga af völdum landbúnaðarstefnunnar flytur ekki neinn nýjan sannleika og er þeim annmarka háð að vanmeta stórlega tjónið. Þess vegna er engin ástæða fyrir áróðursvél hins hefðbundna landbúnaðar að hafna þægilega lágum tölum hennar.

Af norrænu skýrslunni mætti ætla, að árlegt tjón fjögurra manna fjölskyldu næmi um 90.000 krónum, en þá er aðeins fjallað um hluta tjónsins af innflutningsbanni. Í rauninni er tjón fjölskyldunnar af allri styrkja- og haftastefnu landbúnaðar rúmlega 300.000 krónur á ári.

Auðvitað má ekki gleyma því, að íslenzkum neytendum og skattgreiðendum kæmu allar upphæðir vel, hvort sem þær eru 90.000 krónur á ári á hverja fjögurra manna fjölskyldu eða 300.000 krónur. Þetta eru allt saman háar upphæðir, hvernig sem búvörudæmið er reiknað.

Með hverri einustu reikningsaðferð koma út niðurstöður, sem fela í sér, að lífskjararýrnun þjóðarinnar af völdum styrkja- og haftastefnu landbúnaðar er margföld á við það tjón, sem hún hefur beðið af völdum árferðis og aflabragða, kjarasamninga og þjóðarsátta.

Það segir mikla sögu um forustusveit aðila vinnumarkaðarins, ráðuneyti og ríkisstjórn, svo og sérfræðingahjörðina í kringum alla þessa aðila, að landbúnaðarruglið skuli aldrei vera nefnt, þegar verið er að skrúfa niður lífskjörin með nýjum og nýjum þjóðarsáttum.

Það ætti til dæmis að vera ábyrgðarhluti fyrir verkalýðsrekendur að standa að endurtekinni lífskjaraskerðingu án þess að nefna nokkru sinni einu orði, að spara megi umbjóðendum þeirra alla lífskjaraskerðinguna með því að byrja að höggva í styrkja- og haftakerfið.

Norræna skýrslan markar þau tímamót, að í fyrsta skipti stuðlar íslenzkt ráðuneyti að birtingu upplýsinga um tjón þjóðarinnar af völdum landbúnaðarstefnunnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Siam

Veitingar

Siam við Skólavörðustíg er notaleg og róleg kvöldverðarstofa, rekin á þann góða hátt, að húsbóndinn er í eldhúsi og húsfreyjan í matsal. Matreiðslan er raunverulega thailenzk og þjónustan er íslenzk og kunnáttusamleg. Verð er í meðallagi, ríflega 2.100 krónur á mann að meðaltali.

Þetta er hreinn og snyrtilegur staður, ekki ofhlaðinn thailenzkum minjagripum. Einkennismerki hans eru stór, útskornin og gegnumskorin þil fyrir glugga og milli borða. Í einu horninu eru gólfsessur, þar sem limaliprir geta æft borðhald með kroslagða fætur að austrænum sið.

Thailand er gamalt menningarríki, sem hélt sjálfstæði sínu, þótt nágrannalöndin yrðu nýlendur. Landið hefur lengst af verið friðarparadís á annars blóði drifnum skaga, þar sem einnig eru ríkin Kambodsja, Víetnam, Laos og Burma. Sjálfstæðið hefur meðal annars haft í för með sér, að evrópsk áhrif eru lítil í matargerðarlist.

Thailenzka matreiðslu má staðsetja einhvers staðar mitt á milli indverskrar og suður-kínverskrar. Sumir réttir eru mildir að suður-kínverskum hætti, en aðrir eru sterkir að indverskum hætti. Kryddtegundir eru að sumu leyti sérstakar fyrir Thailand, en ýmsar tegundir af karrí eru þó mikið notaðar að indverskum hætti.

Soðin hrísgrjón og hrásalat fylgja aðalréttum staðarins, sem eru bornir á borð á fötum, svo að gestir geta pantað mismunandi rétti og smakkað á þeim öllum. Aðalréttir eru grænmetisréttir, fiskréttir og kjötréttir. Þeir eru yfirleitt á borðstólum í ferns konar karríi missterku, frá gulu yfir í rautt og grænt, svo og í massman- karríi. Fiskréttir eru þar að auki til í súrsætri sósu. Margir réttir eru með þurrkuðu kaprov og horafa laufi.

Tom Yam súpa er einn af einkennisréttum Thailands, venjulega sítrónu- eða lime-krydduð og bætt með thailenzkum risarækjum áður en hún er borin á borð. Á Siam var þetta tær súpa úr kjötkrafti, fremur sterk og mjög góð. Súrsæt súpa var öðru vísi en þær kínversku, bragðsterkari og fyllt ýmsu sjávarfangi, afar góð súpa.

Djúpsteiktar rækjur með súrsætri chilisósu voru steiktar í bunkum í fullmiklum steikarhjúp, en eigi að síður góðar. Humar í kókosmjólk og thailenzkum engifer var meyr, en ekki allur nógu ferskur. Humarréttur með kaprov laufi var góður og mildur. Steikt hrísgrjón með góðu krabbakjöti og miklu grænmeti voru til fyrirmyndar. Sama var að segja um steikt hrísgrjón með rækjum.

Lambakjöt í massmankarríi með hnetum var afar sterkt og meyrt, og hneturnar hæfðu kjötinu vel. Lambakjöt í grænu karríi var hins vegar bara sterkt, en ekki sérlega gott, enda of mikið eldað. Kjúklingur með sterkum pipar og engifer var fremur þurr og ekki eins bragðsterkur og búast mátti við. Thailenzk eggjakaka með kjöti og grænmeti var óvenjulega létt í sér og góð á bragðið, ólík hinum þungmeltu eggjakökum, sem tíðkast hér.

Þótt Siam sé góð matstofa, sakna ég glæsilegrar framsetningar rétta, sem einkennir mörg thailenzk veitingahús. Ég sakna þekktra thailenzkra rétta, svo sem plokkfisks og kjötbolla, sem aðalréttar og út í súpur. Mér finnst líka, að tilvalið væri að taka íslenzkan fisk og matreiða að thailenzkum hætti. En slíkur skortur á dirfzku einkennir raunar alla austræna matstaði borgarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Rosafjör

Greinar

Af ummælum þátttakenda má ráða, að rosafjör hafi verið um verzlunarmannahelgina og af ummælum mótshaldara má ráða, að samkomur hafi farið vel fram. Yfir 20 manns urðu fyrir alvarlegum líkamsárásum um þessa helgi rosafjörs og bera sumir varanlegan skaða.

Sparkað var í höfuð liggjandi fólks. Það var slegið í andlit með brotnum flöskum. Stungið var með hnífum í handleggi og bök. Nokkur nef lágu úti á vanga eftir barsmíðar. Jafnan voru að verki dauðadrukknir menn, sem höfðu afklæðst persónuleikanum í rosafjöri helgarinnar.

Mörg hundruð manns eyddu helginni að mestu leyti í óminni áfengisdauðans og geta ekki rifjað upp neitt af því, sem gerðist um helgina. Fólk dó snemma áfengisdauða og vaknaði til lífsins til að drekka og deyja síðan aftur. Þessi atburðarás fór nokkra hringi hjá mörgum.

Sjálfsblekkingin er á svo háu stigi, að jafnvel þeir, sem þannig sáu hvorki daginn né nóttina, eru sannfærðir um, að rosalegt fjör hafi verið hjá sér um helgina. Sjálfsblekkingin er á svo háu stigi, að timburmenn og önnur þjáning verzlunarmannahelgarinnar gleymist smám saman.

Ef frá eru taldir þeir, sem sváfu áfengisdauða eða stunduðu grófar misþyrmingar á öðru fólki, virðist mikill meirihluti rosafjörsins hafa falizt í að slangra um á óstyrkum fótum og muldra, orga og veina illskiljanlega í líkingu við sjúklinga á geðveikrahælum fyrri alda.

Auðvitað geta drykkjusamkomur verzlunarmannahelgarinnar ekki flokkazt á annan hátt en sem sjálfspyndingar sjálfsblekktra. Það gildir einnig um hina, sem láta sér líka að ráfa lítt eða ekki drukknir um hin skipulögðu svæði rosafjörs og horfa á alla eymdina og volæðið.

Sumir virðast telja sér trú um, að skemmtun felist í að vera innan um drukkið fólk. Aðrir virðast telja sér trú um, að skemmtun felist í að missa stjórn á líkama og sál, afklæðast persónuleikanum, ráfa um óvistlegar grundir og reka upp undarleg hljóð af ýmsu tagi.

Nýjasta verzlunarmannahelgin er enn ein staðfesting þess, að áfengi og önnur eiturefni fara almennt illa í þjóðina. Íslendingar reyna lítt eða ekki að halda haus og valdi á hreyfingum sínum eins og tíðkast í útlöndum, heldur steypa sér á bólakaf í persónuafskræminguna.

Íslendingar eru að því leyti ekki enn orðnir að siðaðri þjóð að vestrænum hætti, að hér vantar almenningsálit, sem lítur niður á draf og slangur, org og ælu, skemmdarverk og barsmíðar, svo og aðra fylgifiska ótæpilegrar notkunar áfengis og annars eiturs á skömmum tíma.

Við lifum því miður í brennivínsþjóðfélagi. Háir og lágir, ungir og gamlir nota áfengi meira en góðu hófi gegnir. Hinir lágu læra af hinum háu og hinir ungu læra af hinum gömlu. Yfir öllu þessu hvílir svartaþoka sjálfsblekkingarinnar um lífslystina og rosafjörið.

Óralangur vegur er frá vínguðum Miðjarðarhafs og heimsbókmennta til timbraðra drykkjurúta norðurhjarans á Íslandi. Hér hafa hin viðurkenndu mörk áfengisneyzlu verið sett einhvers staðar úti í mýri, með tilsvarandi firringu, þjáningu og drykkjusýki þúsundanna.

Tímabært er, að Íslendingar létti af sér oki sjálfsblekkingarinnar og horfist í augu við raunveruleika hins svokallaða rosafjörs. Veruleikinn er sá, að mestur hluti sálrænna, félagslegra og fjárhagslegra vandamála fólks stafar beinlínis af notkun áfengis, lyfja og annars eiturs.

Sjálfsblekkingu þarf til að borga verð utanlandsferðar til að fá að afklæðast persónuleikanum eða taka annan þátt í hópþjáningu á borð við verzlunarmannahelgi.

Jónas Kristjánsson

DV

Siðferðishrun

Greinar

Ísraelar og Króatar eru fyrstu þjóðirnar, sem hafa lært af miklum árangri Serba í þjóðahreinsun og eru að feta í fótspor þeirra. Fleiri munu fylgja á eftir, þar á meðal í Austur-Evrópu og í löndum Sovétríkjanna sálugu, þar sem tryllt þjóðernishyggja fer ört vaxandi.

Ísraelar eiga það sammerkt með Serbum og Króötum að telja sig af sagnfræðilegum ástæðum ekki þurfa að fara eftir vestrænum siðalögmálum í samskiptum þjóða. Allar þessar þjóðir telja hremmingar forfeðra sinna fyrir hálfri öld réttlæta siðlausa framgöngu sína í nútímanum.

Ísraelar eru byrjaðir á landhreinsun í suðurhluta Líbanons. Með loftárásum hrekja þeir tugi þúsunda óbreyttra og algerlega saklausra borgara frá heimkynnum sínum og beita að venju sinni svipuðum röksemdum og Hitler notaði, þegar hann réðst inn í Pólland.

Það eru einkar dapurleg örlög Ísraels að hafa orðið að svipuðu æxli í umheiminum og Hitlers-Þýzkaland var orðið á sínum tíma, þótt í smærri stíl sé, enda miklu fámennara ríki. Ár eftir ár hafa Ísraelar orðið krumpaðri og sérhæfðari ofbeldis- og hryðjuverkaþjóð.

Siðleysi Ísraels er ekki tengt ákveðnum stjórnmálaöflum. Það hefur sinn gang, þótt stjórnarskipti verði í landinu. Það er ekki stjórnkerfið eitt eða herinn einn, sem stendur að baki ofbeldinu, heldur er það samkvæmt skoðanakönnunum stutt af meirihluta þjóðarinnar.

Ofbeldi Ísraela hefur síðustu árin beinzt að barna- og unglingamorðum í Palestínu og að skipulegu niðurrifi efnahagsgerðar landsins. Þeir hafa í þessu skyni þverbrotið alþjóðasáttmála um meðferð fólks á hernumdum svæðum. Þetta hafa þeir gert í bandarísku skjóli.

Ísraelar hefðu samt ekki þorað að leggja út í skipulega landhreinsun í suðurhluta Líbanons, ef þeir hefðu ekki haft tækifæri til að fylgjast með velgengni Serba í þjóðahreinsuninni í Bosníu. Enda kemur í ljós, að máttvana eru viðbrögð bandarískra stjórnvalda við ofbeldi Ísraela.

Króatar eru önnur þjóð, sem hefur krumpazt að fyrirmynd Serba. Á síðustu mánuðum hafa þeir tekið vaxandi þátt í þjóðarmorðinu í Bosníu og beita aðferðum, sem þeir hafa lært af Serbum. Þeir gera það í skjóli efnahagslegs stuðnings, sem Vestur-Evrópa hefur veitt þeim.

Vestur-Evrópa er einmitt þessa dagana að verðlauna Serba og Króata fyrir brjálæðislega framgöngu þeirra með því að koma í veg fyrir að Bosníumönnum berist varnarvopn og með því að reyna að kúga leiðtoga þeirra til að fallast á landvinninga Serba og Króata.

Í kjölfar vel heppnaðs þjóðarmorðs í Bosníu munu Vesturlönd sennilega gefa Serbum upp sakir, taka aftur upp stjórnmálasamband við þá, hefja samskipti í menningu og íþróttum, láta af efnahagslegum refsiaðgerðum og yfirleitt láta eins og ekkert hafi í skorizt.

Allt mun þetta hafa hinar verstu afleiðingar. Helztu brjálæðingar í valdastéttum um heim allan hafa fylgzt vel með máttvana viðbrögðum Vesturlanda við óvenjulega óhugnanlegu ofbeldi Serba í Bosníu. Þátttaka Króata í viðurstyggð Serba er bein afleiðing af þessu.

Í fjölmennustu og voldugustu ríkjum Vesturlanda eru helztu valdastöður skipaðar innantómum kjaftöskum, sem ekki hafa langtímasjónarmið í huga og hafa enga yfirsýn yfir afleiðingar af beinum og óbeinum stuðningi Vesturlanda við óvægna landvinningastefnu Serba.

Máttvana hugleysi og ræfildómur vestrænna leiðtoga á því miður eftir að verða mannkyninu þungur í skauti. Vestrænir kjósendur bera ábyrgð á siðferðishruninu.

Jónas Kristjánsson

DV

Pisa

Veitingar

Á Pisu er ég kominn í laufskála frá Túskaníu, sem hefur verið komið fyrir innan í skíðaskála frá Týról. Þung furan í súlum og bitum lokar pergólustílinn inni, svo að úr verður léttgeggjað rugl, sem er þröngt og indælt í senn.

Bezt er að sitja í aðalsalnum, sem gefur dálítið rými, en síður í rangalanum meðfram húsasundinu, þar sem innilokunartilfinningin er sú, að setið sé í þröngum búðarglugga við mannlaust götusund í erlendu skuggahverfi.

Pisa er vinsæll staður, sem hefur bæði fastagesti og erlenda ferðamenn að viðskiptavinum. Fólk situr þröngt í básum innan um margvíslegt kraðak af skrauti og útflúri. Pisa hefur greinilega andrúmsloft, sem laðar að.

Sumt hefur batnað, einkum þjónustan, sem nú er skjót og formálalaus að ítölskum hætti. Þá hefur verðið batnað, einkum í hádeginu. Kominn er sérstakur hádegisseðill, sem er stytt og verðlækkuð útgáfa af kvöldseðlinum.

Í hádeginu er boðin súpa og fiskréttur dagsins á 790 krónur, sem er gott verð. Þá er meðalverð þriggja rétta af seðlinum um 2060 krónur, en á kvöldin er það um 3120 krónur, sem er í hærri kanti Ítalíustaða bæjarins.

Matreiðslan hefur slaknað í kjölfar mikils blómaskeiðs, sem var fyrir einu ári eða tveimur. Hún stenzt tæpast samanburð við þá staði, sem beztan mat bjóða ítalskan, þótt hún sé frambærileg út af fyrir sig.

Góðar brauðkollur með smjöri eru staðarsómi og sömuleiðis gulrótarlengjur, sem á kvöldin þjóna hlutverki lystaukans. Súpa dagsins í hádeginu var fremur bragðdauf og hrikalega þykk lauksúpa. Saffrankrydduð sjávarréttasúpa með miklu grænmeti var hins vegar mjög góð.

Fylltir sveppahattar með sniglum, hvítlauk, basilikum og grana-osti lágu á stórum salatbeði, sem bjó einkum yfir jöklasalati, og höfðu ristað brauð í för með sér, ágætur réttur. Salat Sesars var sama jöklasalatið með ristuðum brauðbitum og ansjósusósu til hliðar. Þunnsneidd nautalund hrá var borin fram með möndlum í sítrónusafa og olífuolíu, fyrirmyndar réttur og eitt af aðalsmerkjum ítalskrar matargerðar. Minna var varið í djúpsteikta smokkfiskhringi í of miklum steikarhjúp á jöklasalati.

Spaghetti úr heilhveiti með grænmeti í basilikum-sósu var hollustulegt og gott, en illa upp sett. Pastasalat með rækjum, eplum og túnfiski var frísklegt og gott og fallega upp sett, kjörinn hádegisverður, borinn fram með góðri pizzu-sneið. Risotto með blönduðum sjávarréttum var einkar bragðmilt og gott, hrísgrjónin sérstaklega vel elduð. Pizzur eru góðar og stórar, um 980 krónur stykkið.

Lúða dagsins lá á beði úr góðu ræmupasta með mildri gráðaostsósu, blandaðri papriku og blaðlauk, ljómandi vel elduð. Lengri og lakari var eldunin á skötusel, sem lá á fiðrildapasta með afar sterkri pastasósu og var í för með heilum rækjum, sem pössuðu ekki kramið, af því að erfitt er að nota puttana, þegar rétturinn flýtur í sósu.

Lítið ostbragð var að ostatertu. Ofnbökuð pera með ís, og sykurbrúnuðum möndlum var sæmileg. Möndluís hússins var góður, með heilum möndlubitum, borinn fram í fallegum kexbikar með volgri karamellusósu.

Kaffið var gott, ekki þetta venjulega sull úr nýtízkulegum og hnappastýrðum veitingavélum, heldur úr ekta ítalskri kaffivél og gaf meira högg en snafs hefði gert.

Jónas Kristjánsson

DV

Mávurinn

Veitingar

Jónatan Livingstone Mávur er óvenjulega dýr staður, á svipuðu verðlagi og Perlan og Grillið, en státar hvorki af sama glæsibrag í umbúnaði né í þjónustu. Stundum fá gestir allt annað en það, sem þeir panta. En þeir fá yfirleitt gott að borða og það skiptir mestu máli.

Raunar er Mávurinn fremur groddalegur staður, þar sem gestir borga að meðaltali 3575 krónur fyrir þríréttaðan mat fyrir utan drykkjarföng og fá ekki einu sinni tauþurrkur á glerplötur borðanna í hádeginu. Við það tækifæri er þó hægt að fá súpu og fiskrétt dagsins á 1195 krónur og er það verð frekar við hæfi umgerðarinnar.

Vinstra megin við innganginn er kaffi- og hanastélsstofa með djúpum sófum amerískum. Hægra megin er ruglingslega poppaður matsalur með ljótum málverkum og stórkarlalegum fatasnögum, en fínlegum þráðarljósum og sérkennilegum trektarstólum þrífættum, sem sennilega henta hvössum rössum meinlætamanna.

Vínglös á borðum eru sérkennilegt fyrirbæri, eins konar bastarður blómapotta og eftirréttaskála. Diskar eru fjörlegir, hver með sínum lit og skrauti. Meira að segja kaffisettið reyndist vera poppað í fjörugum litum.

Svonefnd sjávarsíðusúpa úr humarsoði með fínsöxuðum humri, rækjum og hörpufiski var bragðsterk og góð. Bragðmild laxasúpa dagsins var einnig góð og sama er að segja um fremur þykka grænmetissúpu dagsins.

Að kvöldi voru boðnar kókoslegnar rækjur með hráum lauk, skemmtilega sérkennilegur réttur. Laxahrábuff úr hráum og reyktum laxi, með kapers, lauki og rauðrófum var ágætt, þótt kapersinn yfirgnæfði dálítið í bragði, eftirminnilegur réttur. Fyllt kúrbítsblóm með hörpuskeljafroðu var mildur og mjög góður réttur með fínlegri humarsósu. Laxa- og lúðufiðrildi með finkul og Sambucca Romana smjörsósu var ljúfur réttur. Grafið lamb var vel kryddað með balsamediki, hinn prýðilegasti forréttur.

Milli forrétta og aðalrétta var borið fram ágætt rabarbara- og Ólafssúrukrap. Súran gaf sterkt mintubragð.

Grillaður skötuselur með mangó, ananas, banönum og kókos var mjög góður, borinn fram með fremur bragðsterkri karrísósu. Steinbítskinnar voru fremur góðar, með góðri fennikel-sósu og vorlauk. Ravioli með humarfyllingu var hins vegar ekki merkilegt. Bragðgóð fiskifantasía úr afla dagsins hafði að geyma humar, lax, rauðsprettu, kóngakrabba og var að öllu leyti nákvæmlega tímasett í matreiðslu. Grillaðir humarhalar í skelinni voru góðir, bornir fram með hvítlauk og sveppum. Grillaður urriði var fremur þurr. Allgóð var nautasteik með furuhnetum og rúsinum í sterkri villisveppasósu.

Grand Marnier-blönduð súkkulaðifroða var létt og góð, borin fram með heitri og rauðleitri súkkulaðisósu. Góðar voru þrjár marenskökur, hjúpaðar súkkulaði. Sælgætisterta með blönduðum hnetum, ís og ávaxtasósu var sérstaklega góð. Hægt er að fá blöndu þessara forrétta og ístertu að auki, allt glæsilega fært upp á disk.

Þótt poppuð umgerð, fátæklegur borðbúnaður og götótt þjónusta hæfi ekki himinháu verðlagi staðarins, hæfir matreiðslan henni vel, því að hún er fyrsta flokks. Hún er að vísu ekki eins markviss í stíl og hún var fyrir fáum árum, þegar hún var nýfrönsk, en hún er vönduð enn.

Jónas Kristjánsson

DV

Primavera

Veitingar

Primavera er glæsilegur veitingastaður með miðlungsverði á fremur góðum mat, en fremur illa í sveit settur í kreppunni. Hús verzlunarinnar við Kringluna er dautt á kvöldin og kaupsýslumenn og aðrir risnumenn landsins virðast að mestu hættir að hittast í hádegismat.

Á ýmsu hefur gengið í veitingarekstri á efri jarðhæð Húss verzlunarinnar. Nú er komið bankamötuneyti í húsnæði, þar sem áður var ódýr veitingastofa með sjálfsafgreiðslu. Það er auðvitað í stíl við ótakmörkuð fjárráð peningastofnana og þá stefnu stjórnvalda, að þjóðin skuli borða í vondum mötuneytum eða á öðrum þeim stöðum, sem ekki eru á hinum frjálsa og skattlagða markaði, svo sem í Rúgbrauðsgerðinni eða í félagsheimilum.

Fíni salurinn að baki bankamötuneytisins er enn starfræktur á hinum frjálsa markaði og hefur nýlega skipt um nafn og áherzlur. Hann er orðinn hálfítalskur og hefur pöstur á boðstólum. Hann hefur stokkið upp í tízkuvagninn. Árið 1993 er ítalska árið í veitingarekstrinum.

Primavera er smart. Afstrakt málverk eru á veggjum og eitt utangátta póstkortamálverk af eyjunni San Giorgio í Feneyjum. Viðarveggir eru í gulbrúnum slökunarlit. Falleg glerkúluljós hanga í lofti. Loftið er í smáum reitum og gluggar í stórum reitum. Svipmótið er skandinavískt. Ítalskir matstaðir eru ekki svona mikið hannaðir.

Primavera er þægilegt, þótt tónlistin sé stundum of hátt stillt. Armstólar gesta eru bólstraðir, fjaðra vel og eru þægilegir. Borð eru fallega dúkuð og eru meira að segja með tauþurrkum, þótt súpa og réttur hádegisins kosti ekki nema 990 krónur. Af matseðli kosta þríréttuð máltíð um 2555 krónur fyrir utan drykkjarföng.

Tómatbætt sjávarréttasúpa var fínasta súpa, full af humar og hörpufiski. Sveppahattar voru fallega settir á disk, snarpheitir og góðir, ótæpilega hvítlauksfylltir, með vægri Madeira-sósu. Hvítlauksristaðir sniglar og hörpufiskar voru stórir og meyrir og góðir, með mildri steinseljusósu með hvítlauksbragði. Gott var einnig hrátt nautakjöt í olífuolíu að ítölskum hætti, Carpaccio. Tær lauksúpa dagsins var fremur góð af tómatsúpuætt.

Ravioli hafði að geyma saxaðan humar, estragon- kryddaðan, og var fremur góður réttur. Svipað er að segja um spaghetti með kjötbollum. Pastaréttir hafa mér þó reynzt betri á öðrum ítölskum matstöðum í borginni.

Kryddlegnar gellur með rjóma og sesamfræjum voru mjúkar og góðar, vel kryddaðar, en nokkuð yfirgnæfðar af sesamfræjunum. Heilsteiktur urriði dagsins var fremur þurr og einnig bragðdaufur, eins og oft vill verða með urriða, borinn fram með hvítum kartöflum og smjöri. Mun betri var steikt rauðspretta með sítrónu og hæfilegu magni af grana-osti, borinn fram með pönnusteiktum kartöflum. Kálfasteik með villisveppasósu var sæmileg, með gamaldags og hlutlausri sósu brúnaðri.

Eftir lægð í aðalréttum komu betri eftirréttir. Fyllt pönnukaka var þunn og góð, með líkjörkrydduðum rjóma. Kaka hússins reyndist vera súkkulaðibúðingur með ís, hinn bezti eftirréttur. Heldur lakari var tiramisu, sem líktist ekki mikið einkennisrétti Feneyinga og var eins konar lagkaka með fremur litlu ostabragði. Kaffi var gott, auðvitað ítalskt, espresso og cappucino.

Jónas Kristjánsson

DV

Dýrkeypt reynsla

Greinar

Ráðstöfunartekjur almennings eru að skerðast um samtals fjórðung á sjö ára tímabili, frá 1987 til 1994. Þetta er gífurleg kjaraskerðing á skömmum tíma. Hún sýnir, að þjóðin er fær um að haga seglum eftir efnahagsvindum og getur hert sultarólina, þegar árar sem verst.

Fjórðungs minnkun ráðstöfunartekna segir ekki alla söguna um skerðingu lífskjara almennings. Í öðru lagi er ríkið samhliða að draga úr þjónustu sinni, skera af velferðarkerfi heimilanna. Og í þriðja lagi er allt í einu komið víðtækt atvinnuleysi með öllum þess hörmungum.

Tvennt hefur meðal annars einkennt þetta tímabil. Það er í fyrsta lagi stöðugt verðlag og í öðru lagi þjóðarsáttir á vinnumarkaði. Svo virðist sem almenningur hafi tapað á stöðugu verðlagi og þjóðarsáttum, þótt fleira skipti auðvitað máli, svo sem samdráttur í þorskafla.

Skiljanlegt er, að órói fari að grípa um sig hjá verkalýðsrekendum, þegar félagsmenn þeirra eru farnir að sjá samhengi milli þjóðarsátta og hruns ráðstöfunartekna. Þessa hefur fyrst orðið vart hjá Dagsbrún og nokkrum öðrum verkamannafélögum, en á eftir að magnast ört.

Fólk mun smám saman missa trú á gildi þess að haga sér í samræmi við útlendar hagfræðiformúlur um stöðugt verðlag, þegar það tapar svona greinilega á þeirri fylgispekt. Fátæka fólkið í landinu fer senn að hugsa með angurværð til blessaðra verðbólguáranna.

Hætt er við, að höfundum þjóðarsátta í hagsmunasamtökum vinnumarkaðarins muni reynast erfitt að skýra fyrir fólki, hvers vegna það eigi að taka þátt í þjóðarsáttum, sem skerða ráðstöfunartekjur þess um heilan fjórðung á sjö ára tímabili, og hvernig það muni síðar græða.

Ekkert bendir til þess, að hagfræðingar vinnumarkaðarins eða ríkisstjórnarinnar séu með haldbær rök um framhaldið. Á vegum ríkisstjórnarinnar verður haldið áfram að reyna að skera niður velferðarkerfi heimilanna og spilla þannig lífskjörum enn frekar.

Áfram verður haldið að veiða nokkru meiri þorsk en ráðlegt er, svo að ekki koma neinir stórir þorskárgangar í aflann á næstu árum. Höfundar þjóðarsáttar geta því ekki boðið upp á neina ódáinsakra að baki fjallgarðanna, sem þeir eru að leiða þjóðina um á þessum mögru árum.

Samstaða er um það milli stjórnmálamanna þjóðarinnar, forvígismanna atvinnurekenda og verkalýðsrekenda, svo og hagfræðilegra ráðgjafa allra þessara aðila, að ekki skuli létt byrðum af almenningi með því að skera niður velferðarkerfi fornra atvinnuhátta, einkum landbúnaðar.

Uppreisnarmenn Dagsbrúnar taka þátt í þessari samstöðu. Þótt þeir kveini yfir þjóðarsáttum og kjaraskerðingu, hafa þeir ekki annað að bjóða en allir hinir. Þeir trúa á sömu bannhelgi. Þeir eru sömu kerfiskarlarnir. Munurinn er bara sá, að ráðamenn Dagsbrúnar eru í fýlu.

Þótt stefna þjóðarsátta og stöðugs verðlags sé í vondum málum um þessar mundir, er ekkert, sem bendir til, að vinnudeilur á næsta vetri muni bæta stöðu Dagsbrúnarmanna eða almennings. Fyrirtækin eru ekki aflögufær og bannhelgi hvílir á velferðarkerfi fornra atvinnuhátta.

Meðan þjóðin neitar sér um raunhæfar leiðir út úr ógöngum sínum, getur hún huggað sig við, að lífskjörin eru ekki verri en þau voru fyrir áratug. Kreppan felur í sér, að ráðstöfunartekjur falla niður í það, sem þær voru fyrir áratug. Einn áratugur hefur farið í súginn.

Þjóðin er á uppleið, þegar litið er til langs tíma og hugsað í áratugum. Hún hefur valið sér erfiða fjallvegi. Hún mun læra af reynslunni. En það er dýrkeypt reynsla.

Jónas Kristjánsson

DV