Author Archive

Minnisstæð ábyrgð

Greinar

Félög og félagasambönd launafólks hafa stuðlað að aukinni stéttaskiptingu í landinu síðasta áratuginn. Þessi aukning byrjaði árið 1984 og fór að hraða á sér árið 1986, einkum í svonefndum þjóðarsáttum. Síðustu tvö ár vaxandi atvinnuleysis hafa komið skiptingunni á skrið.

Konur eru fjölmennar í hópi lágstéttarinnar og á lægri stigum millistéttarinnar. Þær stunda lakar greidd störf en karlar og fá minna borgað fyrir sömu vinnu. Margar eru einstæðar mæður. Aukin stéttaskipting á einum áratug hefur í heildina komið sérstaklega hart við konur.

Það er því ofur eðlilegt, að pólitísk samtök kvenna veki umfram aðra athygli á lélegri frammistöðu samtaka launafólks í málefnum kvenna. Árangursleysið á þessu sviði er þó að verulegu leyti þáttur í almennu getuleysi þeirra og áhugaleysi um velferð lágstéttarinnar.

Þjóðarsættir samtaka launþega hafa farið saman við lækkað ris á velferðarkerfi almennings. Það er að verða dýrara að veikjast og senda börn í skóla. Lágstéttin stendur í vaxandi mæli frammi fyrir að þurfa að velja lakari kostinn, af því að betri kosturinn er henni ofviða.

Þjóðarsættir samtaka launþega hafa farið saman við aukið bil milli tekna hinna bezt settu í þjóðfélaginu og þeirra, sem eru á nöktum töxtum eða atvinnuleysisbótum. Fimmtánfaldur munur er orðinn á tekjum ráðherrans og Sóknarkonunnar, en var áður minna en tífaldur.

Yfirstéttin í landinu hefur komið sér hjá aðild að samdrætti þjóðartekna. Hún hefur raunar bætt stöðu sína umtalsvert á þessu tímabili. Millistéttin og lágstéttin hafa tekið á sig alla minnkun þjóðartekna. Það er millistéttinni þungur baggi og lágstéttinni sligandi baggi.

Í grófum dráttum má skipta þjóðinni í þrjá hluta, tíu prósent yfirstétt og tíu prósent undirstétt og áttatíu prósent millistétt. Þetta hefur ekki verið mælt hér á landi, en er ekki fjarri því, sem hefur lengi mælzt í Bandaríkjunum. Millistéttin er hér alténd langsamlega fjölmennust.

Yfirstéttin stjórnar flestu því, sem máli skiptir í þjóðfélaginu og skammtar sér lífskjör, sem fara batnandi á sama tíma og lífskjörum annarra hrakar. Innan yfirstéttarinnar vex tillitsleysi gagnvart lítilmagnanum og græðgi í lífsins gæði, eins og áður gerðist í Bandaríkjunum.

Millistéttin býr við sæmilegan kost á ýmsum forsendum. Í mörgum tilvikum afla hjón tvennra tekna, í öðrum hafa menn mikla vinnu, hentuga menntun eða góða aðstöðu í einhverju hinna mörgu kerfa þjóðfélagsins, sem veldur því, að þeir þurfa ekki að sæta nöktum töxtum.

Samtök launafólks gæta einkum hagsmuna millistéttarinnar og reyna að verja hana áföllum. Svonefndur uppmælingaraðall hefur lengi verið einn helzti hornsteinn hinnar íhaldssömu forustu samtaka launafólks. Forustumennirnir sækja fylgi sitt í slíka millistéttarhópa.

Hagfræðilegt ósjálfstæði og hugmyndafátækt veldur því, að þau hafa ekki skorið upp herör gegn áhrifavöldum samdráttarins, annars vegar innflutningsbanni og ríkisstuðningi í landbúnaði og hins vegar fyrirstöðu sjávarútvegs gegn uppboðskerfi veiðileyfa í stað kvótakerfis.

Í skipulegu undanhaldi ósjálfstæðra og hugmyndasnauðra samtaka launafólks er ekkert rúm fyrir hagsmuni hins áhrifalitla minnihluta lágstéttarinnar. Sá hluti er bara skilinn eftir í varnarstríðinu og þjóðarsáttunum, sem varða veg launþegasamtakanna til kreppunnar.

Aukin stéttaskipting er íslenzk staðreynd, kortlögð í heilan áratug. Samábyrgð samtaka launafólks á þessari stéttaskiptingu er staðreynd, minnisstæð staðreynd.

Jónas Kristjánsson

DV

Múlakaffi

Veitingar

Fyrir mörgum árum var Múlakaffi gott veitingahús. Flutningabílstjórar sóttu þangað og stífluðu nálægar götur með bílum sínum. Þeir eru farnir annað, en eftir sitja leigubílstjórar og iðnaðarmenn. Þeir virðast ekki hafa sama nef fyrir góðum mat og flutningabílstjórar.

Ég veit ekki hvers vegna, en víðar um heim, til dæmis í Frakklandi og Bandaríkjunum, er gott ráð að leita uppi staði, sem flutningabílstjórar sækja á matartímum.

Múlakaffi hefur alltaf verið framúrstefnulega óvistlegur matstaður. Hann er opinn og kaldur og þó fyrst og fremst grár og aftur grár. Plaststólar eru við nakin plastborð með óhreinum leir og plastbökkum. Undir stálfótunum er grátt teppi, sem orðið er blettótt og þreytulegt.

Samt er þetta eins konar klúbbhús einstæðra karla, þar sem margir sitja áfram góða stund, þegar þeir eru búnir að fá sér að borða og kunna greinilega vel við sig.

Þetta er mötuneyti með sjálfsafgreiðslu, þar sem menn taka sér á disk við skenkinn og verða síðan að sæta því, að maturinn kólni meðan þeir eru að borða súpuna eða að grauturinn kólni meðan þeir eru að borða matinn. Kaffi geta menn hins vegar sótt sér síðar eftir þörfum.

Að meðaltali kostar 740 krónur að fá sér einn af sjö réttum dagsins; súpu eða graut; og kaffi. Í hádeginu eru margir staðir ódýrari en Múlakaffi. Á kvöldin er staðurinn aftur á móti í ódýrasta kanti, því að þá er minna um tilboð hjá öðrum. En hinir staðirnir eru ekki mötuneyti, bjóða yfirleitt einhverja eða jafnvel fulla þjónustu.

Venjulegar súpur dagsins í Múlakafi hafa reynzt mér undantekningarlaust vondar, frá tómatsúpum yfir í sveppasúpur. Þær voru þykkar og hveitikekkjaðar og einstaklega hlutlausar í bragði. Ég man ekki eftir öðrum eins súpum á ævinni. Brauðið með súpunum var hins vegar í lagi. Og einu sinni fékk ég ágæta baunasúpu.

Gufusoðin lúða var afar lengi soðin og eftir því þurr, borin fram með bragðdaufri ostasósu, hvítum kartöflum og vélskornu hrásalati í miklu magni. Lifur var sæmilega mjúk, borin fram með miklu magni af brúnni og bragðlausri þykksósu, blönduðu dósagrænmeti, rauðkáli og höm. Hrásalataið var bezt í þessari atrennu.

Beinlausir fuglar voru þrælsteikt kálfakjöt, vafið um höm, borið fram með dósagrænmeti, rauðkáli, hrásalati og stöppu. Kálfasnitsel var grimmdarsteikt og þurrt, borið fram með eins konar skæni, sem hét pastasósa, brúnuðum kartöflum, rauðkáli og dósabaunum. Pastarétturinn lasagna með kjöthakki var með frjálsu vali meðlætis, svo að hægt var að forðast rauðkál og dósabaunir.

Grautur reyndist vera Vilko-ávaxtasúpa. Eða þannig.

Einkenni matreiðslunnar voru mikið magn; langur eldunartími; þykkar og bragðlausar súpur og sósur; rauðkál og dósagrænmeti af ýmsu tagi; alveg eins og tíðkaðist í mötuneytum í gamla daga, fyrir þann tíma, er Múlakaffi var árum saman gott veitingahús. Enginn vandi væri að hafa matinn betri og þó á sama verði.

Mér dettur helzt í hug, að þetta eigi að vera svona; viðskiptavinirnir vilji einmitt þennan gráa mat í þessu gráa umhverfi, því að þeir mundu telja kvenlegt eða hommalegt að borða smmilegan mat í sæmilegum húsakynnum, jafnvel þótt hann væri ódýrari og færi betur í maga.

Jónas Kristjánsson

DV

Andvígir eigin áliti

Greinar

Bæjarstjórinn í Njarðvíkum var formaður nefndar, sem samdi tillögu um sameiningu sveitarfélaga á Suðurnesjum. Bæjarstjórinn í Njarðvíkum hefur unnið leynt og ljóst að því að spilla kynningu málsins og koma í veg fyrir, að það verði samþykkt í almennri atkvæðagreiðslu.

Þannig hefur einn og sami maðurinn forustu um að búa til tillögu, sem hann síðan hefur forustu um að fella. Lengra verður tæpast gengið í tvískinnungi. Því miður hafa fleiri sveitarstjórnarmenn sýnt svipaðan skort á sjálfsvirðingu við varðveizlu á atvinnu sinni.

Til skamms tíma létu margir sveitarstjórnarmenn sér nægja að samþykkja sameiningartillögur í umdæmanefndum og fara síðan í felur. Síðustu daga hafa þeir hins vegar gerzt áræðnari í andstöðunni, enda er ekki nema hálf önnur vika til almennu atkvæðagreiðslunnar.

Dæmi um það er bæjarstjórn Seltjarnarness, sem um helgina lét dreifa kynningarbæklingi, þar sem sameiningartillagan er formlega kynnt. Aftan við hvern kafla kynningarinnar eru feitletraðar og undirstrikaðar athugasemdir, þar sem áherzla er lögð á rök gegn sameiningu.

Feita letrið og undirstrikanirnar leyna ekki skoðunum höfunda kynningarbæklingsins. Það gerir ekki heldur inngangur hans, þar sem beinlínis er klykkt út með því að segja, að bæjarfélagið hafi nú þegar og án sameiningar “alla burði og getu” til að sinna verkefnum sínum.

Röksemdirnar gegn sameiningu geta verið réttar, einkum í sveitarfélögum, sem hafa þúsundir íbúa fyrir sameiningu. Þegar bæjarstjórar og heilar bæjarstjórnir á slíkum stöðum leggjast gegn sameiningu, er eðlilegt, að íbúarnir fallist á það sjónarmið í atkvæðagreiðslunni.

Við slíkar aðstæður er svo vonlaust að leggja sameiningu fyrir kjósendur, að það er ekkert annað en sóun á tíma og peningum. Þess vegna hlýtur að teljast vera ábyrðarskortur sveitarstjórnarmanna að framleiða tillögur, sem þeir síðan láta fella í heimabyggðinni.

Sums staðar hafa hreppar sameinazt án átaks að utan. Þannig hefur Austur-Barðastrandarsýsla sameinazt, svo og Eyjafjarðarsveit og Skaftársveitir. Slík sameining getur haldið áfram á stöðum, þar sem hún er talin knýjandi og þar sem samstarf sveitarstjórna er orðið gott.

Þetta gerist hins vegar ekki með heildarátaki um allt land. Það hefur komið í ljós í aðdraganda almennu atkvæðagreiðslunnar, sem á að verða 20. nóvember. Ekki dugir að troða sameiningu upp á sveitarstjórnir, sem ætla að sjá til þess, að sameining verði felld.

Þegar settar eru fram hugmyndir um róttæka sameiningu sveitarfélaga, verður að hafa í huga, að margir sveitarstjórar missa vinnu og margir sveitarstjórnarmenn missa spón úr aski sínum, ef hún nær fram að ganga, og að hjarta margra þeirra slær nálægt veskinu.

Aðferðin við að drepa málinu á dreif hefur komið málstað sameiningar í opna skjöldu. Sveitarstjórnarmenn smíða fyrst sameiningartillögu í umdæmanefnd, fara síðan undan í flæmingi og enda með því að leggjast gegn tillögunni. Litlum vörnum verður við komið.

Niðurstðan er sú, að mikið er unnið fyrir gýg og að miklum fjármunum er varið af hálfu skattgreiðenda til að fara í gegnum feril, sem hefur ekkert hagnýtt gildi, því að fyrirfram er vitað, að ekkert kemur út úr honum, einmitt vegna andstöðunnar í sveitarstjórnum.

Viðurkenna ber, að tvískinnungum í sveitarstjórnum hefur tekizt að eyðileggja málið. Þess vegna er skynsamlegt að fresta atkvæðagreiðslunni um óákveðinn tíma.

Jónas Kristjánsson

DV

Meðvitundarleysi

Greinar

Skiljanlegt er, að stórskuldugt fólk og forráðamenn stórskuldugra fyrirtækja hafi ánægju af vaxtalækkuninni, sem ríkisstjórnin bjó til með handafli einu saman. Skiljanlegt er, að eina spurning þeirra sé, hvers vegna ríkisstjórnin hafi ekki fyrr beitt þessu handafli sínu.

Enn frekar er skiljanlegt, að stjórnarandstaðan og aðilar vinnumarkaðarins lofi vaxtalækkunina. Hún er í stíl við stjórnarathafnir fyrri ríkisstjórna og þær sjónhverfingar, sem áratugum saman hafa einkennt kjarasamninga og aðrar gerðir pólitísku aflanna í landinu.

Athyglisverðara er, að sérfræðingar í efnahagsmálum og skyldum greinum hafa undantekningarlítið hrósað handaflinu, ef þeir hafa á annað borð lýst skoðun sinni. Þeir eru teljandi á fingrum annarrar handar, sem hafa bent á augljósa sjónhverfingu málsins og hættur þess.

Handaflið gæti fylgt markaðslögmálunum, ef ríkisstjórnin treysti sér til að sæta því fjármagni, sem hún nær að útvega ríkissjóði á nýjum og lægri vöxtum. Ef hún gæti það, væri eingöngu um að ræða flutning á fjármagni frá eigendum þess yfir til skuldunauta þeirra.

Það er hins vegar fyrirfram vitað, að hún getur það ekki. Enda kemur fram í yfirlýsingu hennar, að hún hyggst bæta sér upp minnkað peningaframboð á innlendum markaði með því að taka aukin lán í útlöndum. Hún telur, að markaðslögmálin láti ekki að sér hæða.

Það gerist á þann hátt, að margir innlendir fjármagnseigendur reyna að verja fjármagnstekjur sínar með því að færa sig til á lánamarkaði og leita uppi peningahungraða aðila, sem fylgja ríkisstjórninni ekki alla leið í vaxtalækkun eða sætta sig jafnvel við fyrra vaxtastig.

Smám saman verður tilfærsla á peningamarkaðnum. Peningar renna í auknum mæli til þeirra sem minnst eða ekki lækka vexti, en þurrð kemur fram í fjárstreymi til ríkisins og annarra aðila, sem bjóða tveimur prósentustigum lægri vexti en voru fyrir tíð handaflsins.

Ríkisstjórnin veit, að þetta muni gerast og þess vegna er hún þegar farin að undirbúa auknar lántökur í útlöndum. Afleiðingin mun koma fram í auknum skuldum þjóðarinnar. Greiðslubyrði erlendra lána, sem var 20% af útflutningsframleiðslu árið 1990, fer í 40% árið 1995.

Til skamms tíma fóru tveir af hverjum tíu þorskum í að standa undir skuldum þjóðarinnar við útlönd. Eftir rúmt ár munu fjórir af hverjum tíu þorskum fara í að reka þessar skuldir. Þetta er sú leið í efnahagsmálum, sem leitt hefur Færeyinga fram af hengifluginu.

Í sumum tilvikum er í lagi að auka skuldir sínar. En aðstæður eru þær hér á landi, að skuldasöfnun gagnvart útlöndum var komin upp fyrir hættumörk, áður en ríkisstjórnin greip til hins vinsæla handafls. Einmitt þess vegna er handaflið hættulegt við núverandi aðstæður.

Ríkisstjórnin gæti forðast þessar skuggahliðar með því að neita sér um aukin lán í útlöndum og lækka í staðinn fjárhagsáætlanir sínar um nokkra milljarða með því að draga úr einokun landbúnaðarins, sem kostar þjóðfélagið frá 15 og upp í 20 milljarða króna á hverju ári.

Merkilegast er, að þeir, sem eiga að vita betur vegna menntunar sinnar eða reynslu, láta eins og ekkert sé. Þeir tala blíðum rómi um skammtímaáhrif á vexti og atvinnuástand, en forðast eins og heitan eldinn að minnast á langtímaáhrifin, færeysku leiðina í efnahagsmálum.

Þögnin um afleiðingar aðgerða ríkisstjórnarinnar sýnir, að hagfræðileg meðvitund er skammt á veg komin hér á landi og að það gildir jafnt um lærða sem leika.

Jónas Kristjánsson

DV

Naust

Veitingar

Matreiðsla í Naustinu er fremur góð og traust, en hættir sér lítt út í breytingar eða tilþrif. Matseðillinn er að breytast um þessar mundir eftir að hafa verið óbreyttur í nokkur ár, en breytingin er varfærin og íhaldssöm.

Naustið er að mestu dottið af markaði hádegisverða kaupsýslumanna og hefur sennilega aldrei verið á markaði mataráhugafólks, þótt matreiðslan hafi undanfarin ár verið betri en hún var á frægðarárum staðarins, enda gerði samkeppnin þá minni kröfur en hún gerir nú.

Fyrst og fremst er Naustið fyrir vel stæða ferðamenn, það er að segja funda- og ráðstefnufólk. Staðurinn er einstæður; rómantískur og stílhreinn í senn. Hann er þrauthannaður án þess að vera ofhlaðinn. Hann er einn bezt heppnaði rammi utan um veitingar, sem ég hef kynnzt á Vesturlöndum og þá er töluvert mikið sagt.

Raunar á Naustið líka erindi til Íslendinga, því að það þjónar annars vegar svo vel því hlutverki veitingastaðar að búa til viðfelldið andrúmsloft og hins vegar að bjóða veitingar, sem eru af föstum og slysalausum gæðastaðli.

Naustið er dýrt á kvöldin. Þá er hægt að velja af matseðli séríslenzkra rétta fyrir 2.980 krónur þríréttað og af fastaseðli fyrir 3.935 krónur, einning þríréttað. Síðari talan sýnist mér vera Íslandsmet. Í hádeginu er verðið hóflegra. Þá er hægt að fá súpu dagsins og val milli um það bil sjö aðalrétta á 1.110 krónur að meðaltali.

Á íslenzka matseðlinum eru þrjár síldartegundir og reyktur og grafinn lax, lambahryggur, hangikjöt og lax, bláberjaskyr og ostakaka. Þetta er mjög við hæfi útlendinga, en gefur íhaldssama mynd af íslenzkri matargerð.

Súpa dagsins var fremur góð blómkálssúpa með volgum heilhveitikollum og smjöri í bolla. Tindabikkja var hæfilega pönnusteikt, en tæpast volg, borin fram með hvítlauks- og gráðostasósu. Lundabringur voru léttsteiktar og bragðgóðar, bornar fram með hlutlausri og hveitiþykkri villibráðarsósu og títuberjasultu.

Meðlæti var staðlað, bæði í hádegi og að kvöldi, nema hvað kartöflur voru soðnar með fiski og bakaðar með kjöti. Stöðlun meðlætis er yfirleitt merki þess, að menn séu ekki mjög stoltir og framgjarnir í eldhúsi.

Hrásalat var ekki á sérdiski, svo að sósan rann saman við það og gerði fremur hráslagalegt. Soðið meðlæti, aðallega brokkál, var yfirleitt mildilega meðhöndlað.

Sniglar og smokkfiskur á smjördeigskodda er klassískur Naustréttur, yfirleitt mjög góður. Tvenns konar hrogn með eggjarauðu og ristuðu brauði var líka góður forréttur, en nokkur yfirgnæfður í bragði af hráum lauki.

Ofnsteikt Pekingönd var ágæt, borin fram með appelsínusósu að hefðbundnum hætti. Nautasteik var meyr og bragðgóð, borin fram með bragðsterkri rauðvínssósu.

Kryddlegnir ávextir voru margs konar og allir ferskir, bornir fram í ljósri og góðri hvítvínssósu. Ostatertan var þétt og falleg, á góðum botni úr hnetumassa, borin fram með sultu, jarðarberjum og blæjuberjum.

Þjónusta Nausts er góð og hæfir vel notalegum húsakynnum og stöðu hússins sem eins af helztu gluggum íslenzkrar veitingamennsku gagnvart gestkomandi útlendingum. Ef framtak væri heldur meira í eldhúsi, féllu allir þættir staðarins í sama og góða farveginn.

Jónas Kristjánsson

DV

Agi og sjálfsvirðing

Greinar

Það er sök ríkisstjórnarinnar og forsætisráðherra sem verkstjóra hennar, að Ísland hefur að undanförnu ekki staðið við alþjóðlega viðskiptasamninga, hvorki nýlegan samning um Evrópska efnahagssvæðið né gamlan sáttmála á vegum alþjóðlega fríverzlunarklúbbsins GATT.

Ráðherrar voru í vor ósammála um, hvaða breytingar ætti að gera á búvörusamningi um leið og honum yrði breytt til samræmis við Evrópusamninginn. Landbúnaðarráðherra vildi að venju nota tækifærið til að bæta við hann atriðum, sem kosta skattgreiðendur meiri peninga.

Ríkisstjórninni bar skylda til að leysa þennan ágreining milli ráðherra og koma sér saman um frumvarp til lagabreytingar, sem gerði henni kleift að standa við evrópska samninginn. Það gerði hún ekki í vor og hefur ekki enn gert á þessu hausti. Hún er því ber að svikum.

Það er svo sem ekki nýtt, að ríkisstjórnin efni ekki loforð sín á innlendum vettvangi. Verra er, ef slíkt mat hennar á eigin orðum og undirskriftum nær til samninga, sem hún gerir við alþjóðlegar og fjölþjóðlegar stofnanir. Slík sjálfsfyrirlitning dregur dilk á eftir sér.

Um leið hefur ríkisstjórnin látið viðgangast, að landbúnaðarráðherra setji reglur, sem brjóta í bága við sáttmála, er Ísland hefur samþykkt í Gatt. Einnig hefur hún látið viðgangast, að fjármálaráðherra vísi erlendum vörum frá með rosagjöldum, sem standast ekki samninga.

Það er skylda ríkisstjórnarinnar og einkum forsætisráðherra sem verkstjóra hennar að sjá um, að ekki séu gerðir aðrir samningar við alþjóðlegar og fjölþjóðlegar stofnanir en þeir, sem hægt er að standa við, og að knýja fram lagabreytingar, er geri þessa samninga marktæka.

Hugsanlegt er, að svik ríkisstjórnarinnar við erlenda viðsemjendur leiði ekki í bráð til refsiaðgerða gegn Íslandi. Þau rýra eigi að síður álit Íslands á erlendum vettvangi og fæla erlend ríki, svo og fjölþjóðlegar og alþjóðlegar stofnanir frá frekari samningum við Ísland.

Þetta er slæmt veganesti inn í framtíð, þar sem velferð þjóðarinnar verður í auknum mæli háð vilja annarra ríkja og ríkjabandalaga til að kaupa af okkur sjávarafurðir og aðra framleiðslu okkar. Samningssvik hefna sín beint eða óbeint á skömmum eða löngum tíma.

Ríkisstjórnin ber líka ábyrgð á, að landbúnaðarráðherra fær að leika lausum hala og valda neytendum og skattgreiðendum árlegum milljarðabúsifjum með búvörusamningum við þrýstihópa landbúnaðar og með einokunarreglugerðum, sem hann gefur út á færibandi.

Þetta árlega milljarðatjón í landbúnaði hefur búið til efnahagsástand, sem er svo slæmt, að ríkisstjórnin hefur gefizt upp við að reyna að stjórna af viti og hefur ákveðið að láta reka á reiðanum að færeyskum hætti. Hún ætlar nú að stórefla skuldasöfnun sína í útlöndum.

Agaleysið og ábyrgðarleysið í ríkisstjórninni veldur því, að á fimm ára tímabili, frá 1990 til 1995, hækkar greiðslubyrði þjóðarinnar gagnvart útlöndum úr 20% af útflutningsframleiðslu í 40% af útflutningsframleiðslu, ef ekki verður gripið í taumana á næstu mánuðum.

Ríkisstjórnin hefur í auknum mæli leiðst til að afgreiða ágreining á kostnað neytenda. Bann hennar við innflutningi á ýmsum ódýrum vörum, nú síðast gúrkum, er óbein stríðsyfirlýsing gegn almenningi, sem næði betri lífskjörum, ef staðið væri við erlenda samninga.

Skortur á aga og sjálfsvirðingu í ríkisstjórn og raunar einnig í stuðningsflokkum hennar á Alþingi á drjúgan þátt í ýmsum ógöngum þjóðarinnar að undanförnu.

Jónas Kristjánsson

DV

Færeyska leiðin valin

Greinar

Ríkisstjórnin hyggst færa vandamál, en ekki leysa þau. Hún hyggst auka lántökur í útlöndum til að létta óhóflegum þrýstingi ríkisins af innlendum lánamarkaði og fá vexti lækkaða. Þar með munu aukast skuldir okkar við umheiminn og voru þær þó allt of háar fyrir.

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar í lánamálum ríkisins stefna að tveggja prósentustiga lækkun vaxta, meðal annars með slíkri lækkun vaxta á ríkisskuldabréfum. Þær fela í sér, að ríkisstjórnin ætlar ekki að taka dýrari lán á innlendum markaði en sem nemur 5% raunvöxtum.

Þar sem ríkið er fyrirferðarmesti aðilinn á lánamarkaði landsins, eru töluverðar líkur á, að ríkisstjórninni takist að knýja markaðinn í heild til að fylgja í kjölfarið. Bankarnir munu lækka sína vexti, enda hafa þeir að undanförnu kennt ríkinu um háa vexti í landinu.

Aðilar vinnumarkaðarins hafa tekið vel í aðgerðir ríkisstjórnarinnar, sem þannig stuðla að vinnufriði í landinu. Þær auka líkur á, að samtök launþega sætti sig við vanefndir ríkisstjórnarinnar á ýmsum þáttum þjóðarsáttar og gætu þannig gefið stjórninni svigrúm.

Allt er þetta sjónhverfing, því að ríkisstjórnin hyggst ekki draga úr óhóflegri lánsfjárþörf sinni. Hún ætlar að taka lán á erlendum vettvangi í staðinn fyrir innlend lán. Hún hyggst færa sig milli lánamarkaða, en ekki minnka umsvif sín eða fyrirferð í þjóðfélaginu.

Það, sem raunverulega gerist, er, að þjóðin fær tækifæri til að lifa í auknum mæli um efni fram. Reikningurinn fyrir vaxtabreytingunni verður sendur þjóðinni eftir nokkur ár, þegar byrja á að endurgreiða skuldir, sem stofnað verður til í útlöndum vegna breytingarinnar.

Rökstyðja má, að þetta sé nauðsynlegt, því að eðlilegt sé að brúa erfið ár með lánum, sem verði endurgreidd í betra árferði. Sjávarafli kann að aukast að nýju eftir nokkur ár og gera þjóðinni kleift að standa undir meiri skuldum en hún getur í núverandi aflabresti.

Á hitt ber svo að líta, að aflabresturinn er alls ekki eins mikill og búizt var við. Veiðar utan landhelgi á þorski, karfa og rækju hafa snögglega aukizt og loðnuveiði blómstrar. Þetta eykur tekjur þjóðarinnar um fjóra milljarða á ári og munar örugglega um minna.

Gallinn við erlendu lánin er, að ríkisstjórnin er þegar búin að fullnýta þá leið. Hún hefur þegar magnað skuldabyrði þjóðarinnar grimmdarlega. Greiðslubyrði þjóðarinnar af erlendum lánum var um og innan við 20% útflutningstekna frá 1985 til 1990, en er nú að fara í 36%.

Greiðslubyrðin var 23% árið 1991, 26% árið 1992, 29% árið 1993 og hefði að óbreyttu orðið 36% á næsta ári. Með auknum lántökum ríkisins í útlöndum fer talan upp í 40% útflutningstekna árið 1995. Það þýðir, að þá hefur greiðslubyrði þjóðarinnar tvöfaldazt á fimm árum.

Fyrir þremur árum fóru tveir þorskar af hverjum tíu í að standa undir skuldum okkar í útlöndum. Eftir tvö ár fara fjórir þorskar af hverjum tíu í skuldahítina, enda verður þá ekki enn komið að þeim aukna sjávarafla, sem menn vona, að verði um eða undir næstu aldamót.

Tvöfölduð skuldabyrði er geigvænleg tilhugsun öllu hugsandi fólki, þótt málsvarar banka, atvinnulífs og launafólks lofi aðgerðirnar og sumir hverjir hástöfum. Þannig fer stundarfróun með stuðningsmenn skammtíma og sjónhverfinga, sem telja frest á illu beztan.

Leiðin, sem ríkisstjórnin hefur valið, er ekki ný af nálinni í okkar heimshluta. Hún var notuð í Færeyjum með geigvænlegum afleiðingum. Þetta er færeyska leiðin.

Jónas Kristjánsson

DV

Gullni haninn

Veitingar

Gullna hananum virtist lítillega hafa daprazt flugið efst við Laugaveginn. Líklega var ég óheppinn, að eigandinn skyldi ekki vera við í neitt skiptið, sem ég sótti staðinn heim í þessari atrennu. Eldhúsið var mistækt, einkum í súpum, og gestamóttaka ekki eins fín og þegar eigandinn var sjálfur í hlutverkinu. Þeir réttir, sem mestu máli skiptu, voru þó góðir og þjónustan var í góðu lagi.

Verð er jafnan hið sama í veitingahúsum, þótt lykilmenn séu fjarverandi úr eldhúsi eða sal. Slíkt jafngildir yfirlýsingu um, að gæðin eigi að haldast, þrátt fyrir fjarvistir þeirra, sem gefa staðnum tóninn. Gestir eiga rétt á óbreyttum gæðum við allar aðstæður, ef verð er óbreytt.

Sumt hefur batnað. Nýr forskáli kemur í veg fyrir, að næði um gestina, sem næst sitja dyrum. Og fatahengi er komið á hlédrægari stað. Að öðru leyti er útlitið hið sama og áður, einfalt og vandað, að frátöldum skrautlegum bar, sem sést sem betur fer ekki víða að úr salnum.

Hálfsúlur og bogarið á veggjum, málverk Sólveigar Eggerz Pétursdóttur, reitað speglaloft, teppi og parkett einkenna staðinn nú sem fyrr. Þetta er notalegur staður, þótt hann sé ekkert hólfaður niður, og raunar dálítið góðborgaralegur. Hávaði úr gjallarhornum í hádegi og að kvöldi bætti ekki þessa mynd, en fékkst lækkaður.

Í hádeginu var hægt að fá súpu og rétt dagsins á 1140 krónur eða velja af hádegisseðli, þar sem þríréttað kostaði 2230 krónur. Á kvöldin var meðalverð á þríréttuðu 3130 krónur. Gullni haninn er fremur dýr staður.

Súpa dagsins var afar þykk hveitisúpa hlutlausrar ættar og gleymanleg. Með henni var léttristað fransbrauð með mjúku smjöri. Ofnbökuð grálúða dagsins var milt elduð og mikið pipruð, með mildri hvítvínssósu, smáum rækjum og léttilega elduðu grænmeti, ágætur matur.

Skeldýrakæfa á salatbeði var mjúk og góð, með hæfilega sterkri hvítlaukssósu. Hafrasteikt ýsuflök voru ofelduð og þurr, borin fram með góðu fiðrildapasta og góðri sojakryddsósu, sem björguðu réttinum fyrir horn.

Tómatbætt sjávarsúpa var afar þykk eins og súpa dagsins, með fjölbreyttu innihaldi, ekki spennandi. Blandaðir sjávarréttir kaldir höfðu meðal annars að geyma reyktan lax, vafinn um fiskikæfu; smáar rækjur góðar; góðan humar, seigan smokkfisk ekki góðan; afar saltan fisk leginn, sérkennilegan rétt; með rjómasósu og lime.

Í millirétt var gróft og létt vínberjakrap, fremur gott. Með aðalréttum var staðlað grænmeti, vel með farið í eldhúsi, léttilega soðið; brokkál, blómkál og rósakál, svo og seigar kartöflur, sem mér fannst vera endurhitaðar.

Pönnusteikt lúða var góð, með hæfilega mildri camembert-sósu og hvítvínssmjöri. Glóðaður lambavöðvi var rauður, sæmilega meyr og bragðgóður, vel pipraður, með góðri og sterkri sinnepssósu. Villikryddaðar svartfuglsbringur voru hæfilega eldaðar, meyrar, góðar og rauðar.

Rjómaís með fjölbreyttum berjum var góður, með góðri og sterkri jarðarberjasósu og súkkulaðihúðum kremhnappi. Rjómaostaterta var þétt, með mildri kirsuberjasósu og kiwi. Heimalagaður sveskjuís var góður, með mintu og mildu skyrkremi. Allir eftirréttir voru góðir.

Tveir eftirrétta voru á matseðli sagðir “gómsætir”, alveg eins og hinir væru það ekki. Seðla þarf að semja með gát.

Jónas Kristjánsson

DV

Vaxandi sveiflur

Greinar

Kosningaúrslitin í Kanada sýna ótrúlega sveiflu. 170 þingmanna Íhaldsflokkur, sem hafði meirihluta á þingi, situr eftir með tvo þingmenn, er mega ekki kalla sig þingflokk. Tveir nýir þingflokkar fengu rúmlega 50 þingmenn hvor og Frjálslyndir rúmlega tvöfölduðu þingstyrk sinn.

Í Kanada eru einmenningskjördæmi, sem magna fylgissveiflur. Meðan Íslendingar búa við listakjördæmi, má ekki búast við kanadískum úrslitum hér á landi. En sveiflur hafa líka vaxið hér á landi og verða ekki minni í náinni framtíð, ef miðað er við skoðanakannanir.

Ekki er lengur deilt um nákvæmni skoðanakannana hér á landi. Nokkrir aðilar kanna skoðanir almennings og nota nokkrar aðferðir til þess. Í öllum tilvikum sýna þessar kannanir sömu sveiflur í fylgi flokkanna. Stærðfræðilega eru þessar sveiflur greinilega marktækar.

Kannanir eru hins vegar ekki kosningar. Margir kjósendur hafa ekki gert upp hug sinn, þegar skoðanir eru kannaðar, en eru búnir að því, þegar þeir standa í kjörklefanum. Margir kjósendur skipta um skoðun við lok kjörtímabils. Spágildi kannana er því takmarkað.

Þær eru þó einu spárnar, sem við höfum. Samkvæmt þeim hafa stjórnarflokkarnir tveir glatað trausti í samstarfinu. Fylgi þeirra mælist mun minna en í kosningunum, forustumenn þeirra hafa persónulega lítið fylgi og búa raunar sumir við meiri óvinsældir en vinsældir.

Raunar er aðeins einn foringi í stjórnarliðinu, sem nýtur trausts meðal kjósenda. Það er Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra, sem hefur verið í hlutverki eins konar stjórnarandstöðu í stjórninni og er þar gersamlega einangruð. Hún nýtur ekki trausts samráðherra.

Verst er staða Alþýðuflokksins og hefur enn versnað við ráðherraskipti flokksins. Til sögunnar eru komnir tveir skrípakallar, sem fæla kjósendur frá sér og flokknum í hvert skipti, sem þeir sjást á skjánum, enda eru þeir af tegundinni, sem ekki nennir að kynna sér mál.

Athyglisvert er, að í könnunum blómstra flokkar og leiðtogar, sem sárasjaldan sjást á skjánum. Steingrími og Halldóri og Ingibjörgu Sólrúnu bregður þar fyrir svo sem einu sinni í mánuði, en flokkar þeirra, Framsókn og Kvennalisti, eru að nálgast meirihluta í könnunum.

Á sama tíma eru ráðherrar fjármála og utanríkismála, heilbrigðismála og landbúnaðar, svo og forsætisráðherra nánast daglega í stofum almennings. Það er greinilega tvíeggjað að vera á skjánum. Slíkt þarf að vanda og hafa í hófi eins og annað góðgæti í lífinu.

Jarðvegur hefur um langt árabil verið góður fyrir nýjar stjórnmálahreyfingar, Sjaldnast hafa þær orðið langlífar, enda er auðveldara að sigra í einni orrrustu en að halda úti heilu stríði, kosningar eftir kosningar. Að þessu sinni eru engar slíkar hreyfingar á ferð.

Skilin milli stjórnmálaflokka eru orðin dauf og áhugi fólks á þeim hefur minnkað. Landsfundir og flokksráðsfundir stjórnmálaflokka eru að verða eins konar limbó, sem er í litlu samhengi við raunveruleika þjóðarinnar um þessar mundir. Hinum óákveðnu fjölgar stöðugt.

Í þessu ástandi ætti að vera betra að fiska en oft áður. Góð færi eru fyrir nýja flokka og leiðtoga eða nýuppgerða flokka og leiðtoga eins og andrúmsloftið er núna. Og alls ekki er fráleitt, að þjóðin vilji eitthvað annað en núverandi stjórnmálaþvælu og sérhagsmunaræktun.

Íslenzk stjórnmál hefðu gott af kosningasveiflum að kanadískum hætti. Limbó líðandi stundar hefur gengið sér til húðar og framtíðin er opin upp á gátt.

Jónas Kristjánsson

DV

Hnignun og hrun vesturs

Greinar

Sjónvarpsfréttamynd af misþyrmingum á líki bandarísks hermanns í Mogadishu leiddi til þess, að Bandaríkin gáfust upp á stríðinu við Aidid herstjóra í Sómalíu. Þau eru hætt að eltast við hann og kenna raunar ranglega Sameinuðu þjóðunum um eltingaleikinn við hann.

Ein sjónvarpsmynd sneri við almenningsálitinu í Bandaríkjunum og gerði stjórn Clintons ókleift að standa við stóru orðin um Aidid. Þess vegna mun bandaríski herinn fara frá Sómalíu eftir áramót, svo og aðrir vestrænir herflokkar, og hungrið taka völdin á nýjan leik.

Aidid bætist í hóp hinna mörgu, sem hefur tekizt að bjóða hernaðarmætti Bandaríkjanna birginn. Fyrir voru meðal annarra í þeim hópi þjóðarskelfarnir Saddam Hussein í Írak og Gaddafi í Libýu, Milosevits í Serbíu og Karadzic í Bosníu, Cédras og Francois á Haiti.

Stjórnin í Washington hefur ekki áttað sig á samhengi þessara vandræða sinna. Þess vegna var utanríkisráðherra hennar enn einu sinni að hóta Serbum loftárásum í síðustu viku, jafnvel þótt öllum sé ljóst, að ekki stendur til, frekar en fyrri daginn, að standa við stóru orðin.

Hnignun Bandaríkjanna sem forusturíkis Vesturlanda hefur orðið að hruni á fyrsta valdaári Clintons forseta. Alls staðar sjá Aididar, Saddamar og Cédrasar heimsins, að Bandaríkin eru orðin að pappírstígrisdýri, sem urrar í sífellu, en er að verða tannlaust með öllu.

Bandaríkin eru ekki ein um þennan vanda. Brezka og franska ríkisstjórnin bera mesta ábyrgð á hörmungunum í Bosníu. En Bretland og Frakkland telja sig ekki vera heimsveldi og hafa því ekki úr eins háum söðli að falla og Bandaríkin, sem enn telja sig heimsveldi.

Hnignun og hrun Vesturlanda sem máttarstólpa friðar á jörð kemur beint í kjölfarið á hruni og hvarfi óvinarins í mynd voldugra Sovétríkja. Í ljós er að koma, að bindiefnið í alþjóðapólitískri velgengni Vesturlanda var einmitt hin hernaðarlega spenna milli austurs og vesturs.

Á sama tíma hefur sjónvarpsöldin fært Vesturlöndum foringja, sem lítið bein hafa í nefinu og eru sífellt að reyna að hlaupa á eftir ótryggu almenningsáliti eins og það er á hverjum tíma. Kjósendur eru að hætta að velja sér foringja og velja sér sjónvarpsstjörnur í staðinn.

Bandarískir kjósendur sjá ekki lengur neinn óvin í austri og þeir þola ekki lengur að sjá bandarískt blóð í stríðsfréttum sjónvarps. Bandarískir foringjar sjá þessa stefnubreytingu og taka afleiðingunum á þann hátt, að þeir kasta frá sér heimsveldishlutverki Bandaríkjanna.

Ein afleiðinga hrunsins er, að andstæðingar lýðræðis og annarra vestrænna hefða færa sig upp á skaftið. Áhrifasvæði Vesturlanda mun dragast saman. Um leið verða Vesturlönd innhverfari en áður, einkum þó Bandaríkin, þar sem einangrunarstefna hefur lengi blundað.

Með aukinni innhverfu og einangrunarstefnu á Vesturlöndum munu magnast átök um viðskiptahagsmuni, þannig að fríverzlunarstefna mun verða að víkja fyrir verndar- og sérhagsmunastefnu á borð við þá, sem einkennir aðalstöðvar Evrópusamfélagsins í Bruxelles.

Þegar Sovétríkin hrundu að innan, stóðu Vesturlönd á krossgötum. Þau hafa kosið að fara ekki leiðina í átt til heimsyfirráða vestrænna hefða í lýðræði og fríverzlun, heldur í átt til innhverfu og einangrunar. Þau hafa látið hjá líða að fylgja eftir sigrinum í austri.

Hnignun og hrun Vesturlanda er beint framhald af hnignun og hruni Sovétríkjanna, stutt af kjósendum, sem í vaxandi mæli velja sér núll og nix sem leiðtoga.

Jónas Kristjánsson

DV

Marklausir landsfundir

Greinar

Hundruð manna sækja aðalfundi stjórnmálaflokka og láta sér sæmilega líka, þótt slíkir fundir séu hættir að skipta nokkru máli í stjórnmálaumræðu þjóðarinnar. Sú umræða hefur að mestu flutzt á síður DV og Morgunblaðsins og að nokkru í samtök og stofnanir úti í bæ.

Áratugum saman hefur verið feiknarleg umræða á opinberum vettvangi um landbúnað. Hún hefur fundið sér farveg utan stjórnmálaflokka og smám saman leitt til nokkurn veginn sömu niðurstöðu flestra þeirra, sem ekki eru beinlínis að tala í umboði sérhagsmuna.

Í hálfan annan áratug hefur einnig verið svipuð umræða á opinberum vettvangi um sjávarútveg. Hún hefur líka fundið sér farveg utan flokkakerfisins og leitt til nokkurn veginn samhljóða niðurstöðu flestra þeirra, sem ekki eru beinlínis að tala í umboði sérhagsmuna.

Þess sér engin merki á stjórnmálaflokki á borð við Sjálfstæðisflokkinn, að þar viti menn um þessa umræðu og niðurstöður hennar. Og enn síður sér þess merki, að sá flokkur eða nokkur annar hyggist taka mark á niðurstöðum þessarar stjórnmálaumræðu eða annarrar.

Menn geta treyst því, að Sjálfstæðisflokkurinn muni áfram, eins og aðrir flokkar, jafnan standa með sérhagsmunum gegn almannahagsmunum, einkum gegn skattgreiðendum og neytendum. Raunar stendur sá flokkur fremst í ofbeldi ríkisins gegn almannahagsmunum.

Menn geta treyst því, að innihald Sjálfstæðisflokksins verði áfram eins og annarra flokka. Þetta eru allt saman tæki til að koma atvinnumönnum stjórnmála í stöður og stóla. Það er vel við hæfi, að fjárreiður flokkanna eru eitt bezt varðveitta leyndarmálið í íslenzkum nútíma.

Skoðanakannanir sýna, að kjósendur eru farnir að átta sig á þessum staðreyndum og forðast flokkana í auknum mæli. Einkum hafa þeir orðið fyrir vonbrigðum með Sjálfstæðisflokkinn, enda hefur hann haft gott tækifæri til að sýna áhugamál sín í landsstjórninni.

Breytingar á þessu ástandi koma ekki frá fulltrúum á landsfundum og öðrum aðalfundum stjórnmálaflokka. Þar mætir fólk ekki til að taka þátt í stjórnmálaumræðu og niðurstöðum slíkrar umræðu. Það er þvert á móti mætt til að fylkja liði um flokk og flokkseigendur.

Flestir gera þetta sjálfvirkt, af því að þeir eru mættir í sínum klúbbi, sumir fæddir þar. Þeir virða verkaskiptingu, þar sem sumir eru settir til að hugsa, aðrir til að stjórna, en flestir til að rétta upp hendi. Þeir hafa daufar eða engar skoðanir á raunverulegum stjórnmálum.

Sumir fulltrúa ætla sér einhvern hlut af kökunni, sem flokkurinn aflar sínum mönnum. Þetta eru hinir framagjörnu, sem komast í nefndir og hafa von um formennsku í nefnd. Í hillingum birtist framboð í byggðakosningum og jafnvel sæti á lista í alþingiskosningum.

Stjórnmálaflokkar og aðalfundir þeirra eru líka vettvangur framapotara, sem ætla smám saman að klifra til valda og fjár á baki handauppréttingamanna flokksins. Hvorki framapotarar né handauppréttingamenn aðalfunda hafa nokkuð til málanna að leggja í stjórnmálum.

Í nokkur hundruð manna hópi er svo eitthvað um sérvitringa, sem halda uppi því, sem sumir kalla málefnalega þverbresti í stjórnmálaflokkum. Sameiginlegt með þessum sérvitringum er, að þeir eru hver fyrir sig og sameiginlega gersamlega áhrifalausir í sínum flokki.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins hefur að þessu sinni verið enn ein staðfesting þeirrar skilgreiningar á stjórnmálaflokkum og aðalfundum þeirra, sem hér hefur birzt.

Jónas Kristjánsson

DV

Mongolian Barbeque

Veitingar

Mongolian Barbeque er ágætt einu sinni eða jafnvel tvisvar, af því að það er öðru vísi en önnur veitingahús. Til lengdar er það hins vegar leiðigjarnt, því að þar er alltaf sami matur ár eftir ár, pönnusteiking af óbreytanlegu hlaðborði fyrir 1580 krónur á mann.

Verðið hefur hækkað, meðan annað veitingaverð í bænum hefur staðið í stað eða lækkað. Þetta verð er í lagi, ef gesturinn getur fengið sig til að líta á heimsóknina sem nýstárlega veizlu. Það er of hátt, ef hann er bara að reyna að borða eins og hann getur í sig látið, því að nokkrir aðrir veitingastaðir bjóða hlaðborð á lægra verði. Á matseðlinum er lögð áherzla á ofátið.

Ekkert mongólskt er við staðinn eða matreiðsluna. Á matseðlinum er bullað frjálslega um, að Djengis Kan hafi fengið svona mat fyrir átta öldum, en ég hef aldrei lesið um slíkt í sagnfræði matargerðarlistar. Mér sýnist nafn staðarins og sagnfræði matseðilsins helzt vera uppfinning einhvers grínista á auglýsingatofu.

Umhverfið er ekki sérstaklega vistlegt. Það kemur úr þremur áttum. Fátæklegar og gulmálaðar innréttingar eru að mestu frá tíma fyrra veitingahúss á þessum stað. Þegar nafn staðarins varð mongólskt, var bætt við fjöldaframleiddu Kínadóti úr plasti, svo sem vösum, luktum og blævængjum. Ennfremur málverkum af feitum og frönskum frúm, sem virðast aðframkomnar af ofáti.

Mongolian Barbeque er opið á kvöldin, þegar Grensásvegurinn er orðinn fremur eyðilegur, enda hafa mér virzt gestir ekki margir. Stólar og borð og næfurþunnar pappírsþurrkur eru í þjóðlegum mötuneytisstíl. Rauðir dúkar og matarprjónar koma hins vegar úr kínversku áttinni.

Máltíðin hófst með súpu, sem gestir skófluðu upp úr potti. Þetta hafa verið tærar kjötsúpur, fremur bragðdaufar í kínverskum stíl, og raunar alltaf sama súpan, þegar ég hef verið þar, alveg frambærileg súpa.

Síðan völdu gestir sér hrátt grænmeti og hrátt kjöt, svo og sósublöndur af hlaðborði. Kokkurinn tók síðan allan matinn og snöggsteikti hann í einu lagi á pönnu. Ekki notaði hann fínlegar aðfarir að japönskum hætti, heldur fékk allt hráefnið sama steikingartímann, allt í einum graut, frá sveppum yfir í lauk. Þetta sýnist mér vera tilfinningalítil og mötuneytisleg eldamennska á færibandi.

Frosið kjöt var sagað í þynnur, svo að það hentaði vel í þessa snöggu matreiðslu. Yfirleit hafa verið á boðstólum fjórar tegundir, naut, lamb, svín og kjúklingur. Sósublöndurnar hafa einkum verið fjórar, súrsæt, karrí, soja og sítrónu, en einnig til dæmis sesam, hvítlaukur, sykur, engifer, rísvín, barbeque, sterk chili og vínedik.

Grænmetið var bezti þáttur hlaðborðsins, ferskt og fallegt. Þar hafa verið sveppir og bambusræmur, laukur og baunaspírur, tómatar og gúrkur og paprika, svo og ýmislegt kál og salat. Þetta má setja saman í hrásalat eða láta snöggsteikja fyrir sig. Sérstakar sósur eru fyrir hráa grænmetið og aðrar fyrir það steikta.

Tilveruréttur Mongolian Barbeque í veitingahúsaflórunni byggist á því, að útilokað er að nota annað en gott hráefni. Gestir sjá það allt í hlaðborðinu áður en það er steikt, fallegar kjötþynnur og frísklegt grænmeti. Það veitir óneitanlega töluverða öryggistilfinningu.

Jónas Kristjánsson

DV

Misstu andlitið

Greinar

Talhlýðnir fjölmiðlungar í ljósvakanum hafa gert að sínum orðum fullyrðingar um, að bæði spilavítagengin hafi bjargað andlitinu með samkomulagi um nýju spilavélarnar. Í rauninni var þetta rangt, því að gengin gátu ekki bjargað því, sem þegar var tapað í meðferð málsins.

Spilavítagengi Rauða krossins náði nokkrum árangri um helgina í leiftursókn, sem knúði ráðherra spilavíta til undanhalds eftir helgina og síðan spilavítagengi Háskólans til samkomulags. Leiftursókn þessi verður síðar talin marka tímamót í sögu íslenzkra þrýstihópa.

Niðurstaða leiftursóknarinnar varð, að spilavítagengin náðu samkomulagi um skiptingu markaðarins, alveg eins og hliðstæð gengi hafa jafnan gert í skuggahverfum stórborganna. Græðgin hefur jafnan reynzt öflugt sáttaafl. En enginn bjargaði andliti, sem ekkert var orðið.

Allir töpuðu og mest félagið, sem hefur atvinnu af meðferð og endurhæfingu spilafíkla eins og annarra fíkla. Með leiftursókninni hefur félagið auglýst, að það sitji báðum megin borðs og hafi beinar tekjur af framleiðslu vandamála, sem það síðan hefur tekjur af að lina.

Svo markvisst var unnið í leiftursókninni, að fyrirtæki á sviði almannatengsla var kallað til aðstoðar. Má búast við blómaskeiði á því sviði, er fleiri hagsmunagengi í þjóðfélaginu fara að nýta sérfræðikunnáttu til að þrýsta sérhagsmunum sínum fram á borði Stóra bróður.

Í rauninni voru hinar ósögðu hótanir lítils virði. Reynslan sýnir, að fjölmenn samtök með mikilli virkni margra félagsmanna eru máttlítil í stjórnmálum. Stéttasamtök launþega eru á undanhaldi og verða að sæta endurteknum vanefndum á loforðum stjórnvalda.

Ekkert bendir til, að íþróttafélög og hvað þá björgunarfélög eða háskóli geti stýrt viðhorfum félagsmanna, þegar stéttarfélög geta það ekki. Fjölmenn og virk félög geta framleitt mikinn hávaða, sem síðan endurspeglast ekki í atkvæðum á landsfundum, í prófkjörum og í kosningum.

Stjórnmálamenn hafa ekki áttað sig á þessu. Þannig ofmeta þeir mátt spilavítagengja hins íslenzka nútíma til að hafa áhrif á gengi stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka. Því eru þingmenn hræddir um sinn hag í hávaðanum og hafa vitnað í röðum í ræðustól á Alþingi.

Í öllum málum af þessu tagi tapar fólkið í landinu. Óbeinir og illa skilgreindir almannahagsmunir verða í vaxandi mæli að víkja fyrir markvissum sérhagsmunum þrýstihópa, sem beita aukinni sérfræðikunnáttu til að blekkja Stóra bróður til stuðnings við sérhagsmunina.

Auglýsinga- og ímyndatækni nútímans hefur stungið af getu almennings og stjórnmálamanna til að halda áttum. Fólk lætur sig til dæmis hafa það að ganga um með auglýsingar um eigin heimsku og ósjálfstæði með því að klæðast dýrri merkjavöru með áberandi merkimiðum.

Flest bendir til, að í náinni framtíð muni yfirburðir sérhagsmuna halda áfram að aukast og að almannahagsmunir verði útundan í auknum mæli, enda eru hópar á borð við neytendur og skattgreiðendur tæpast meðvitaðir um óbeinan kostnað sinn af velgengni sérhagsmuna.

Sérhagsmunagengin kunna tæknina við að ná eyrum Stóra bróður, en almenningur horfir bara á. Nú á að senda fólk í auknum mæli í spilavíti, sem þegar hafa valdið hörmungum í mörgum fjölskyldum. Slagurinn um helgina var bara um skiptingu á auknum gróða.

Spilavítagengjanna er mátturinn, en ekki dýrðin. Þau munu græða á aukinni tæknivæðingu og fjölgun spilavíta, en ekki halda andliti, því að það er horfið.

Jónas Kristjánsson

DV

Blómasalur

Veitingar

Blómasalur Hótels Loftleiða hefur snögglega batnað eftir langa eyðimerkurgöngu. Hann er orðinn frambærilegur gluggi íslenzkrar matreiðslu gagnvart erlendum ferðamönnum, er sumir hverjir kynnast fáu öðru en hótelinu.

Verðlagið er svipað og í Holti, 3240 krónur fyrir þrjá rétti á mann, en gæðin mun minni. Þau eru hins vegar í góðu lagi, ef borið er saman við aðra staði hliðstæða í bænum. Salurinn er bara opinn á kvöldin, en fyrir framan hann er Lónið, sem alltaf er opið á matmálstímum.

Salurinn hefur lítið breytzt. Speglar á miðsúlu létta hann, svo og hvítur skenkur við eldhúsdyr. Drápuhlíðargrjót er enn á veggjum, lágt viðarloft, pottaplöntur við útsýnisglugga og fínir borðstofustólar. Litlu flugvélarnar fyrir utan gluggana gefa staðnum heimsmennskusvip.

Þjónusta er afar góð í Blómasal, einhver hins bezta á landinu, tæknilega örugg og streitulaus, hvorki yfirlætisleg né undirgefin. Það er sú breyting, sem mest sker í augum. Þessi góða þjónusta hlýtur að gefa ferðamönnum ánægjulega og traustvekjandi mynd af þjóðfélaginu.

Matseðillinn er eins og við er að búast í hótelsal og gæti raunar verið á alþjóðlegu keðjuhóteli, ef ekki væru á honum meira af fiski en kjöti. Fiskréttirnir eru að mestu leyti fastir, en ekki breytilegir eftir aðstæðum dagsins og þrengir það möguleika á tilþrifum í eldhúsi.

Vínlistinn er til fyrirmyndar, forðast dýr merki og heldur sér við einföld gæði. Þar eru sérríin Tio Pepe og La Ina; púrtarinn Noval; hvítvínin Hugel, Gewurztraminer og Cléray; og rauðvínin Chateau Barthez, Chateau Batailley, Mouton Cadet, Santa Cristina og Riserva Ducale.

Ferskur Hvalfjarðarkræklingur, hvítvínsgufusoðinn í skelinni, borinn fram með grönnum jöklasalatsþráðum, var fínasti forréttur. Ristaðir humarhalar í svokölluðu eikarlaufssalati voru eins konar humar- og paprikusalat með mosagrænu pasta, nokkuð góður réttur. Rjómalöguð sjávarréttasúpa með rækjum, hörpu og humri, var mild og volg, úr humarsoði, ekki merkileg. Laxarós úr reyktum laxi var fagurlega sett á disk og bragðgóð, borin fram með örsmáum kartöfluteningum og mintusósu, sem kölluð var graslaukssósa á matseðli.

Reyksoðið laxafiðrildi var í rauninni sæmilega þykk steik, sem minnti í bragði á reyktan fisk og hæfði því aðeins sérhæfðum smekk, borin fram með sítrónusmjörsósu og smásöxuðu grænmeti. Smjörsteiktur silungur var í lagi, fremur bragðdaufur, borinn fram með zucchini, góðri grænmetissátu og hvítvínsmöndlusósu. Grillaðir humarhalar með eigin soði og léttu salati voru til fyrirmyndar, bornir fram með ristuðu heilhveitibrauði og smjöri. Smálúða dagsins var fremur góð, en of mikið soðin, í eggjasósu með afar daufu saffranbragði. Rósapipraðar nautalundir með koníakssinnepssósu voru fagmannlega eldsteiktar við borðið, afar góðar.

Súkkulaðislaufa utan um frauð úr hvítu og dökku súkkulaði með kaffisósu var sæmileg. Fersk jarðarber með karamellusósu voru í rauninni óvenjulega fersk og falleg. Bláberjafrauð var úr íslenzkum bláberjum, afar góð ur eftirréttur. Heitur eplapíramídi með marsipani og vanilluís var hins vegar stór og leiðinlegur kökupíramídi yfir örlitlu magni af soðnum eplum og marsipani.

Jónas Kristjánsson

DV