Author Archive

Réttlæti síast inn

Greinar

Hæstiréttur hefur úrskurðað, að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafi farið offari í haust, þegar þeir stöðvuðu innflutning Hagkaups á skinku. Ráðherrar Alþýðuflokksins hafi hins vegar haft rétt fyrir sér, þegar þeir reyndu án árangurs að greiða fyrir þessum innflutningi.

Dómur Hæstaréttar er að sjálfsögðu áfall fyrir Halldór Blöndal landbúnaðarráðherra, sem hafði frumkvæði að stöðvuninni; Friðrik Sophusson fjármálaráðherra, sem lét framkvæma hana; og Davíð Oddsson forsætisráðherra, sem úrskurðaði um forræði Halldórs í málinu.

Dómurinn er líka áfall fyrir embætti ríkislögmanns, sem afgreiddi álit á málinu í samræmi við pöntun fjármálaráðherra og neitaði síðan að láta utanríkisráðaherra hafa afrit af álitinu eða að gefa honum sérstakt álit. Eftir þá aumu framgöngu hefur ríkislögmaður ekkert vægi.

Af niðurstöðu Hæstaréttar er ljóst, að heimilt var að flytja inn þær landbúnaðarvörur, sem fluttar voru inn í haust í tilraunaskyni. Einnig er ljóst, að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins fóru yfir mörkin í hefðbundinni viðleitni þeirra við að bregða fæti fyrir íslenzka neytendur.

Ekki er nýtt, að Sjálfstæðisflokkurinn sé andvígur neytendum og raunar skattgreiðendum líka. Hann hefur um skeið sérhæft sig í varðveizlu landbúnaðar og einkavinavæðingu. Hann hefur um skeið notað heimsku kjósenda til að hlynna þeim, sem bezt mega sín í landinu.

Hins vegar er nýtt, að úrskurður Hæstaréttar gangi gegn stjórnvaldi. Vonandi er það merki þess, að réttlæti verði í auknum mæli sótt til íslenzkra dómstóla í kjölfar þess, að ógnarsverð fjölþjóðadómstóla hangir yfir þeim íslenzkum dómstólum, sem eru undirlægjur stjórnvalda.

Að baki þessa bata liggur sú staðreynd, að íslenzkir aðilar hafa í auknum mæli borið rangindi íslenzkra stjórnvalda og íslenzkra dómstóla fyrir fjölþjóðlega dómstóla, sem í hverju málinu á fætur öðru hafa rassskellt íslenzk yfirvöld og þvingað fram réttarbætur á Íslandi.

Athyglisvert er, að mest af batanum á uppruna sinn í útlöndum. Dómarar eru farnir að sinna mannréttindum, svo að úrskurðum þeirra verði ekki hnekkt í útlöndum. Og stjórnvöld horfa með kreppta hnefa á ýmsar hagsbætur neytenda, sem koma frá fjölþjóðastofnunum.

Hagsbætur fyrir neytendur og skattgreiðendur koma aldrei að innan. Þær síast inn fyrir þrýsting og kröfur frá fjölþjóðastofnunum á borð við Evrópska efnahagssvæðið, Evrópusamfélagið og Alþjóðlega fríverzlunarklúbbinn, sem verja Íslendinga fyrir stjórnvöldum.

Undir forustu Sjálfstæðisflokksins berjast íslenzk stjórnvöld af hörku gegn þessari þróun. Þau beita öllum tiltækum ráðum og brögðum til að deyfa áhrifin og vega upp á móti þeim með nýjum álögum. Þegar þau neyðast til að lækka tolla, setja þau vörugjöld í staðinn.

Ef Hagkaup og Bónus og aðrir aðilar, sem telja sig hafa hag af góðu sambandi við neytendur, reyna að nota úrskurð Hæstaréttar til að efla það samband, munu stjórnvöld finna nýjar leiðir til að koma í veg fyrir, að íslenzkir smælingjar fái í nokkru að njóta þess.

Ef stjórnvöld neyðast til að hleypa inn vöru, munu þau skattleggja hana um hundruð prósenta til að kvelja neytendur. Á meðan munu þau láta Alþingi breyta lögum til að loka innflutningssmugum. Síðan munu þau verja slík ólög með kjafti og klóm fyrir fjölþjóðadómstólum.

Meðan kjósendur halda heimsku sinni, munu þeir sem neytendur og skattgreiðendur sæta ofsóknum stjórnvalda, er hafa þrengstu sérhagsmuni að leiðarljósi.

Jónas Kristjánsson

DV

Uppstokkun í Reykjavík

Greinar

Tvisvar í röð hafa skoðanakannanir DV leitt í ljós, að sameinaður listi minnihlutaflokkanna í borgarstjórn Reykjavíkur hafi miklu meira fylgi en samanlagt væri hjá þessum flokkum aðskildum, raunar mun meira fylgi en listi Sjálfstæðisflokksins hefur í könnununum.

Þetta stríðir gegn hinni hefðbundnu skoðun, að sameiginleg framboð geti við sérstakar aðstæður verið góð til að nýta atkvæði betur, til að koma í veg fyrir, að þau falli á brot úr fulltrúa; en slík framboð haldi hins vegar illa utan um fylgið, því að utan af því kvarnist.

Samkvæmt kenningunni eru alltaf til framsóknarmenn, sem ekki vilja nota atkvæði sitt til að ná inn manni frá Alþýðuflokknum eða einhverjum öðrum flokki; og svo auðvitað öfugt. Þetta þótti staðfestast eftirminnilega í Hræðslubandalaginu, sem kolféll árið 1956.

Kenningin stenzt ekki lengur, af því að tímarnir eru aðrir en þeir voru fyrir nokkrum áratugum. Lausafylgi hefur aukizt gífurlega á kostnað fastafylgis flokkanna og skiptir nú orðið miklu meira máli en fastafylgið, sem klókir menn gátu nánast talið upp á atkvæði í gamla daga.

Nú orðið snúast almennar kosningar í vaxandi mæli um að ná til sín meginstraumi lausafylgisins. Stofnaðir hafa verið rokuflokkar til að ná þessu fylgi, stundum með tímabundnum árangri, svo sem Frjálslyndir og vinstri menn og Borgaraflokkurinn voru dæmi um.

Einnig er algengt, að einn flokkur geti lyfzt upp úr sjálfum sér með nýjum mönnum og nýjum áherzlum, svo sem varð, þegar Vilmundur Gylfasom dró Alþýðuflokkinn upp úr lægð til fylgisskýja árið 1978. Það var eins manns kosningasigur fyrir heilan stjórnmálaflokk.

Forustumenn Alþýðuflokksins féllu þá í gryfju, sem heitir: “Nú get ég”. Þeir ímynduðu sér, að þeir ættu eitthvað í fylginu, sem fylgdi Vilmundi, og töldu sig geta hossað sér og haldið honum á hliðarspori. Það reyndist vera misskilningur, sem varð Alþýðuflokknum til tjóns.

Sama verður uppi á teningnum á næsta kjörtímabili, ef sameinaður listi minnihlutaflokkanna í Reykjavík fer þá með meirihluta. Þá munu ráðamenn einstakra flokka gleyma hinum sérstöku aðstæðum – og fyrir þarnæstu kosningar segja við sjálfa sig: “Nú get ég”.

Af skoðanakönnunum DV er ljóst, að á líðandi stund eru sérstakar aðstæður, sem valda því, að sameinaður listi með sérstöku borgarstjóraefni höfðar til mikils hluta lausafylgisins í Reykjavík. Hitt er svo erfiðara að skilgreina, hverjar þessar sérstöku aðstæður séu núna.

Óvinsæl ríkisstjórn er hugsanlega hluti af skýringunni. Fólk er oft óbeint að kjósa um landsmál í byggðakosningum, enda hafa skilin milli þeirra málaflokka verið alltof óskýr. Gramir kjósendur hafa oft sent óvinsælum landsfeðrum skilaboð og aðvörun í byggðakosningum.

Sveiflan er þó meiri en svo í skoðanakönnuninni, sem DV birti í gær, að hún verði skýrð að marki út frá ríkisstjórninni. Miklu meira máli skiptir, að fólk er að senda spilltum og sérgóðum stjórnmálaflokkum í heild skilaboð um, að það hafi fengi nóg af sjúklegri græðgi þeirra.

Ríkisstjórn eftir ríkisstjórn hafa stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn hagað sér þannig, að fólk er hrönnum saman farið að líta á þetta sem ræningjaflokka með ribbalda í fararbroddi. Fólk er því tilbúið að taka þátt í hvers konar uppstokkun á þessu dauðvona valdakerfi.

Svo virðist sem margir kjósendur í Reykjavík vilji kjósa sér borgarstjóra úr nýrri átt og vilji um leið líta framhjá flokkskerfunum, sem enn leynast þar að baki.

Jónas Kristjánsson

DV

Innanmein gjafakvótans

Greinar

Sjómannaverkfallið markar þáttaskil í ævi kvótakerfisins í sjávarútvegi. Augu manna eru að opnast fyrir því, að ekki gengur til lengdar að afhenda skipaeigendum auðlindir fiskimiðanna til ráðstöfunar og gera þeim kleift að ryðja öðrum hagsmunaaðilum og þjóðinni til hliðar.

Fiskurinn í sjónum er eign þjóðarinnar, enda hefur hún gert auðlindina verðmæta með pólitískum aðgerðum á fjölþjóðavettvangi. Hún hefur aflað sér auðlinda- og fiskveiðilögsögu, sem hún lætur ríkisvaldið annast fyrir sig, en ekki til að gefa í hendur svonefndra sægreifa.

Tími er kominn til, að þjóðin taki til baka fríkvótann til fiskiskipa og fari að leigja hann út, til dæmis með uppboðum. Þetta hafa hagfræðingar lengi lagt til og rökstutt rækilega, en gagnrök hafa verið lítilfjörleg og nærri eingöngu komin frá hagsmunaaðilum í útgerð fiskiskipa.

Gjafakvótinn til eigenda fiskiskipa hefur meðal annars í för með sér verri samkeppnisaðstöðu annarra hagsmunaaðila í sjávarútvegi. Ef sjómenn kvarta, er kvótinn fluttur af skipi þeirra og nýr kvóti ef til vill keyptur, ef þeir taka þátt í að borga, án þess þó að eignast hlutdeild.

Hið sama gildir um hagsmunaaðila í landi, svo sem fiskiðjur, fiskvinnslufólk og sveitarfélög. Sægreifar láta bara sigla annað með aflann, ef þessir hagsmunaaðilar eru með múður. Þannig verða eigendur fiskiskipa alls ráðandi í mynztri sjávarútvegs og fá einokunaraðstöðu.

Ef kvóta er úthlutað ókeypis eins og var gert á sínum tíma til eigenda fiskiskipa, ber að gera það á breiðari grundvelli í sjávarútvegi. Hluta kvótans á að úthluta til sjómanna og hluta til hagsmunaaðila í landi, svo sem fiskvinnslustöðva, fiskvinnslufólks og sveitarfélaga.

Það er að vísu of seint að fara að tala núna um, að kvóta hefði átt að úthluta á annan hátt fyrir mörgum árum. Og endurúthlutun á breiðum grundvelli er tæpast inni í myndinni, því að í millitíðinni hefur orðið hagfræðilegt samkomulag um að betra sé að leigja út kvótann.

Sjómannaverkfallið er merki um, að ekki er lengur stætt á því kerfi, að ríkið gefi sægreifum kvóta, sem þeir síðan selja hver öðrum, meðal annars með peningum frá sjómönnum. Núverandi kvótakerfi er siðferðilega gjaldþrota, hver svo sem niðurstaða verkfallsins verður.

Heiðarlegast er að hafna úthlutunarstefnu, sem alltaf leiðir til spillingar. Bezt er að bjóða út kvóta til leigu og að allir hafi jafna aðstöðu til þátttöku, þar á meðal sjómenn sem einstaklingar, hálfar og heilar áhafnar, skipstjórar, félög og samtök sjómanna, svo og aðilar í landi.

Við þær aðstæður munu framlög sjómanna nýtast þeim sjálfum til varnar eigin hagsmunum þeirra, en ekki vera misnotuð af sægreifum. Hið sama er að segja um sveitarfélög, sem kunna að hafa hagsmuni af því að komast yfir kvóta til að verja atvinnu á staðnum.

Frjálst fiskverð er eitt af mörgum dæmum um, að frelsi er bezt í þessum efnum og því betra, sem það er meira. Frjáls leiga á fiskikvóta mun sanna gildi sitt á svipaðan hátt. Allt afnám hindrana er af hinu góða, þar á meðal afnám forréttinda eigenda fiskiskipa.

Sægreifar geta ekki lengur haldið fram, að tilfærslur á kvóta eigi sér ekki stað á kostnað sjómanna. Sjómannaverkfallið leiðir væntanlega til þess, að reynt verði að stemma stigu við þeirri misnotkun á aðstöðu, sem þjóðin hefur afhent sægreifum til ókeypis ráðstöfunar.

Vonandi verður það einnig upphaf að endalokum kerfis, sem hefur gengið sér til húðar, svo að upp fái risið nýtt, þar sem ekki er rúm fyrir úthlutun og spillingu.

Jónas Kristjánsson

DV

Vinsældalistinn

Veitingar

Að minnsta kosti sjö veitingahús í borginni eru dýrari en bezta matargerðarmusterið. Hótel Holt í Þingholtsstræti er orðinn betri kostur en nokkru sinni fyrr, því að verðlagi þess hefur verið haldið í skefjum. Á kvöldin kostar þar um 3.300 krónur að borða þrjá rétti, að drykkjarföngum frátöldum. Á öðrum fínimannsstöðum borgarinnar er hliðstætt verð frá 3.500 krónum upp í 3.700 krónur á mann.

Tvö næstbeztu matargerðarmusterin eiga það sameiginlegt að hafa haldið verðlagi í skefjum. Það er Við Tjörnina í Templarasundi, þar sem þríréttaður matur kostar 2.900 krónur, og Þrír Frakkar hjá Úlfari við Baldursgötu, þar sem hann kostar 2.800 krónur. Þetta verð er nálægt meðalverði reykvískra veitingahúsa og gæðin gefa ekkert eftir því, sem bezt þekkist í útlöndum.

Þessi þrjú veitingahús hafa um nokkurt skeið verið stjörnustaðir landsins. Þangað er gott að fara með útlendinga og aðra gesti, sem hafa vit á mat. Og þangað er gott að fara, þegar ætlunin er bara að fara út að borða. Allt eru þetta litlir og þægilegir staðir, hver með sínum hætti, Holtið virðulegast, Tjörnin rómantískust og Þrír Frakkar franskastir.

Í næsta gæðaflokki eru nokkur hús í verðflokknum 2.100 krónur til 2.500 krónur. Allt eru þetta traustir matstaðir með hagstæðu hlutfalli verðs og gæða. Tælenski staðurinn Siam á/899 Skólavörðustíg er í 2.100 krónum, íslenzki staðurinn Askur við Suðurlandsbraut í 2.200 krónum, bandaríski staðurinn Hard Rock Café í Kringlunni í 2.300 krónum, nautasteikhúsið Argentína á Barónsstíg í 2.400 krónum og ítalski staðurinn Pasta Basta á Klapparstíg í 2.500 krónum.

Landsins beztu steikur úr gamla, íslenzka nautakyninu fást í Argentínu. Ferskt pasta fæst í Pasta Basta, sem þar að auki er notalega innréttað. Hefðbundinn matarsmekkur Íslendinga fær útrás á Aski. Hard Rock Café gefur innsýn í góðar hliðar bandarískrar matargerðarlistar og er þar að auki sérkapítuli í hönnun veitingahúsa. Siam er bezti fulltrúi austrænnar matargerðarlistar í landinu, lítil og rómantísk matstofa.

Í ódýrasta kanti veitingahúsa höfuðborgarinnar eru nokkur hús, sem eru svo góð, að þangað er hægt að “fara út að borða” til að eiga kvöldstund og ekki bara til að seðja hungur sitt. Það er einfalt Kínahúsið við Lækjargötu, þar sem þríréttað kostar 1.700 krónur, sparibúinn Laugaás á Hótel Esju, þar sem það kostar 1.300 krónur, hálfítalskt og örsmátt Hornið í Hafnarstræti á 1.300 krónur og loks gamli, góði, hversdagslegi Laugaás á Laugarásvegi, þar sem það kostar 1.100 krónur.

Ýmsar aðrar matstofur eru góðir, en þessar hafa vakið sérstaka athygli mína á yfirreið um veitingamarkaðinn, sem lauk í síðustu viku. Verðlagið er miðað við kvöldmáltíð af valseðli. Hafa verður í huga, að í hádeginu er á sumum þessum stöðum og ýmsum öðrum hægt að fá mjög ódýran mat. Um það atriði verður fjallað í næstu grein, sem birtist í fyrsta föstudagsblaði eftir áramót og verður þá lögð höfuðáherzla á verðlagið.

Jónas Kristjánsson

DV

Sumarfreisting

Greinar

Hugsanlegt er, að á síðari hluta þessa árs muni hefjast hin margumtalaða kreppa, sem Íslendingar voru að búa sig undir allt árið í fyrra, en kom ekki. Viðbúnaður þjóðarinnar mun koma að gagni, þegar þar að kemur, enda þarf þá að taka óvenjulega erfiðar ákvarðanir.

Sjávarafli jókst í fyrra og verðmæti aflans hélzt nokkurn veginn óbreytt. Minnkunin kemur fyrst fram, þegar nokkuð er liðið á þetta ár. Ef sjómannaverkfallið leysist og veiðar hefjast að nýju, munu aflabrögð verða sæmileg fram eftir vetri, meðan kvótinn er ekki enn búinn.

Þegar kvótinn fyllist, munu stjórnvöld lenda í þungbærum þrýstingi af hálfu sjávarútvegs og sjávarsíðu. Heimtað verður, að vikið verði frá áður settum aflatakmörkunum og leyft verði að fara töluvert fram úr því, sem Hafrannsóknastofnun hefur talið vera hættumörk.

Krafan verður studd rökum um, að mikil veiði spilli klaki og nýliðun fiskistofna lítt eða ekki. Þau rök hafa lengi verið uppi á borði, en ekki haft hljómgrunn margra annarra en sumra þeirra, sem hafa hagsmuna að gæta. Fræðimenn í fiskifræði eru sárafáir á þeirri línu.

Reynsla þjóða heims hefur áratugum saman verið sú, að ofveiði leiði til hruns fiskistofna. Sú kenning, að einhverjar aðrar aðstæður séu hér við land um þessar mundir, er ákaflega ótrúleg og raunar stórhættuleg, af því að hún felur í sér, að ekki verði aftur snúið.

Hjáfræðinni um sambandsleysi sóknar og nýliðunar mun aukast fylgi af tveimur hliðarástæðum. Annars vegar munu fréttir af góðum afla á afmörkuðum sviðum kynda undir tilfinningu fyrir því, að meiri fiskur sé í sjónum en Hafrannsóknastofnunin vilji vera láta.

Hins vegar munu vaxandi óvinsældir kvótakerfisins leiða til þess, að erfiðara verður að verja það. Eðlilegur arftaki kvótakerfisins er auðlindaskattur, en hann má ekki nefna í viðurvist hagsmunaaðila í sjávarútvegi. Í þess stað verður heimtað leyfi til meiri sóknar.

Í vor verður í mesta lagi eitt ár til næstu alþingiskosninga. Freistandi verður fyrir stjórnvöld að reyna að friða sjávarútveginn og sjávarsíðuna með eftirgjöfum í kvótanum og fresta því um leið, að yfir ríði hin margumtalaða kreppa, sem þjóðin hefur verið að búa sig undir.

Með frestun kreppunnar er hægt að breyta fremur lítilli kreppu fyrir kosningar í afar mikla kreppu eftir kosningar. Sú leið getur hentað stjórnvöldum, ef kjósendur sjá almennt ekki gegnum hana. Verður það þá ekki í fyrsta skipti, sem menn falla fyrir freistingu.

Með kenningunni um minni og meiri kreppu fyrir og eftir kosningar er auðvitað gert ráð fyrir, að ofveiði á síðari hluta þessa árs og fyrri hluta næsta árs muni skaða fiskistofnana til langs tíma, enda er það í samræmi við þann meginstraum fiskifræðinnar, sem viðurkenndur er.

Hingað til hefur kreppan fyrst og fremst verið í hugum fólks og forráðafólks fyrirtækja. Fólk hefur dregið úr væntingum sínum. Fyrirtæki hafa fækkað starfsliði. Eindregnast hefur þetta komið í ljós í stórminnkuðum vöruinnflutningi og góðum jöfnuði í viðskiptum við útlönd.

Viðbúnaðurinn gegn kreppunni er því kominn í fremur gott horf. Engin vandræði eru fyrirsjáanleg í vetur, enda er líklegt, að senn linni verkfalli á fiskiskipaflotanum. Þess vegna eru til sæmilegar forsendur fyrir því, að stjórnvöld standist þrýsting og freistingu sumarsins.

Þetta mun þó standa svo tæpt, að ósigur í borgarstjórnarkosningum gæti hæglega tekið Sjálfstæðisflokkinn á taugum og látið hann falla fyrir freistingunni.

Jónas Kristjánsson

DV

Bandalag á brauðfótum

Greinar

Ráðamenn Atlantshafsbandalagsins vilja ekki, að það fari inn í tómarúmið, sem myndaðist í Austur-Evrópu við skyndilegt fráfall Sovétríkjanna. Þess vegna fer bandalagið undan í flæmingi, þegar nýjar ríkisstjórnir í þessum heimshluta fara fram á aðild að bandalaginu.

Atlantshafsbandalagið lamaðist, þegar óvinur þess, Varsjárbandalagið, hvarf af vettvangi með Sovétríkjunum. Svo samofið var bandalagið við andstæðu sína í austri, að það hefur haltrað um í ráðaleysi misserum saman, án þess að fá sér nýjan tilverugrundvöll.

Þetta kom greinilega fram, þegar Júgóslavía liðaðist í sundur. Þetta var ríki á mörkum austurs og vesturs og hafði raunar árum saman verið vestan járntjalds, þegar það hrundi. Atlantshafsbandalagið hefur ekkert marktækt gert til að hlaupa í skarð Júgóslavíu heitinnar.

Aðgerðaleysi Atlantshafsbandalagsins í arftakaríkjum Júgóslavíu hefur eflt öryggisleysi í heiminum, þar á meðal í Sovétríkjunum. Róttækir öfgamenn úr röðum þjóðernissinna um allan heim hafa tekið eftir velgengni sálufélaga sinna í röðum serbneskra stríðsglæpamanna.

Serbar hafa staðið fyrir óhugnanlegum stríðsglæpum, glæpum gegn mannkyninu og glæpum gegn menningarsögunni í nágrannaríkjum sínum, fyrst í Króatíu, nú í Bosníu og næst í Kosovo. Þessi ögrun við vestræna menningu hefur orðið öðrum glæpamönnum fyrirmynd.

Aidid gefur Bandaríkjunum langt nef í Sómalíu og Cédras gefur þeim lengra nef í sjálfum túnfæti Bandaríkjanna, á Haiti. Atlantshafsbandalagið skelfur, þegar geðbilaður stjórnmálamaður veður elginn í Moskvu. Þannig eru brauðfætur sigurvegara kalda stríðsins.

Ef Atlantshafsbandalagið hefði haft innri burði til að setja Serbum stólinn fyrir dyrnar í Bosníu, hefði það sent allt önnur skilaboð til heimsbyggðarinnar. En bandalagið sá ekki tækifærið, sem Bosnía gaf því til að ganga í endurnýjun lífdaganna í breiðara hlutverki.

Ef bandalagið hefði nú innri kraft til að læra af biturri reynslu í Bosníu og samþykkti að taka við þeim löndum Varsjárbandalagsins, sem fullnægja vestrænum lýðræðisreglum, mundi það um leið fá annað tækifæri til að sýna fram á tilverurétt sinn í breyttum heimi.

En nú eru ráðamenn ríkja Atlantshafsbandalagsins einmitt staddir í höfuðstöðvunum í Bruxelles til að segja Zhírínovskí í Moskvu og Milosevic í Belgrad og öðrum útþenslusinnum, að bandalagið treysti sér ekki til að fylla í tómarúmið, sem myndazt hefur í Austur-Evrópu.

Bandarískur ráðherra var í Reykjavík í síðustu viku og flutti þær fréttir, að öryggi Bandaríkjanna, Íslands og Vesturlanda yfirleitt stafaði ekki ógn af arftökum fyrri andstæðinga úr kalda stríðinu. Hann sagði frá miklum samdrætti í hernaðarlegum viðbúnaði Bandaríkjanna.

Samkvæmt þessu hefur Atlantshafsbandalagið ekki lengur fyrra hlutverk. Innihaldið er að hverfa og formið eitt stendur eftir. Hafnað er sögulegu tækifæri til að treysta vestrænt lýðræði í sessi með því að treysta öryggishagsmuni þess á miklu víðara landsvæði en áður var.

Með því að neita að taka inn ríki í Austur-Evrópu er Atlantshafsbandalagið að neita að fylla tómarúmið, sem myndazt hefur. Um leið er það óbeint að bjóða öðrum, hættulegri aðilum að fylla hluta þess, svo sem Milosevic hefur reynt að gera og Zhírínovskí segist ætla að gera.

Fundurinn í Bruxelles hefur staðfest, að Atlantshafsbandalagið er orðið að skrifræðisstofnun, sem er ófær að laga sig að nýjum kringumstæðum í veraldarsögunni.

Jónas Kristjánsson

DV

Vinavæðingin

Greinar

Þótt mál blandist á ýmsa vegu, er stóra línan í verkaskiptingu stjórnarflokkanna, að Sjálfstæðisflokkurinn sérhæfir sig í að gefa vinum ráðherra sinna eignir skattborgaranna og Alþýðuflokkurinn í að gefa vinum ráðherra sinna stöður og stóla á vegum skattborgaranna.

Þetta byggist að mestu leyti á, að algengast er, að vinirnir hægra megin telja sig þurfa á meiri eignum að halda, og að vinirnir vinstra megin telja sig þurfa á betri launakjörum að halda. Þannig eru þetta tvær hliðar á sameiginlegu hugsjónamáli stjórnarflokkanna tveggja.

Alþýðuflokkurinn endaði árið með því, að hinn landsfrægi biðlaunamaður í embætti heilbrigðisráðherra skipaði mág sinn sem formann stjórnarnefndar Ríkisspítalanna, aðeins einum degi áður en við tóku ný stjórnskipunarlög, sem banna ráðherrum spillingu af slíku tagi.

Sjálfstæðisflokkurinn endaði árið með því, að sjávarútvegsráðherra gaf lykilmönnum úr flokkseigendafélaginu marga tugi milljóna með því að neita að láta reyna á, hvort hæstbjóðandi í ríkisfyrirtækið SR-mjöl hefði burði við að standa á tveim vikum við staðgreiðslutilboð sitt.

Árið 1993 var skrautlegt ár í sögu Alþýðuflokksins. Efnilegum og atvinnulausum krötum var raðað í stöður, sem Íslandi var úthlutað hjá Fríverzlunarsamtökunum og Evrópska efnahagssvæðinu, hvort tveggja í skjóli utanríkisráðherra, sem er nánast siðblindur með öllu.

Alþýðuflokksmaður, sem hafði verið iðinn í flokknum, var tekinn fram yfir marga reynda menn og skipaður veðurstofustjóri. Mislukkaður iðnaðaráðherra flokksins var gerður að Seðlabankastjóra, enda er sá banki aðallega notaður til að skekkja og skæla gengi krónunnar.

Umhverfisráðherra Alþýðuflokksins fékk að verða sendiherra í Noregi og gamall kratabæjarstjóri úr Keflavík varð skrifstofustjóri Flugmálastjórnar á Keflavíkurvelli. Aðstoðarmaður nýs iðnaðarráðherra var skyndilega orðinn ráðuneytisstjóri yfir öllu ráðuneytinu.

Þekktur þingmaður og ráðherraefni Alþýðuflokksins var gerður að forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins eftir langan skrípaleik, þar sem allir málsaðilar þóttust koma af fjöllum. Í það starf var nóg framboð af hæfum mönnum, þar á meðal sérfræðingum í trygginga- og fjármálum.

Á lokasprettinum skipaði utanríkisráðherra flokksbróður sinn sem yfirdeildarstjóra tollsins á Keflavíkurvelli. Það var síðasta afreksverk ráðherra Alþýðuflokksins, unz nýskipaður heilbrigðisráðherra þurfti að útvega mági sínum vel borgað verkefni í heilbrigðisgeiranum.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur rekið sína spillingu undir hatti hugsjónar einkavæðingar. Í rauninni er þar alls ekki um neina markaðsvæðingu að ræða, heldur er þreyttri ríkiseinokun breytt í einkavinaeinokun, án þess að skattgreiðendur eða neytendur njóti þess í nokkru.

Einkafyririrtækið Bifreiðaskoðun Íslands hefur verið skólabókardæmi um þetta. Hún leiddi til meiri kostnaðar fyrir almenning heldur en hafði áður verið hjá ríkinu. Um áramótin var hnykkt á einokun hennar með reglum, sem gera öðrum ókleift að keppa við einkavinina.

Útboð SR-mjöls undir árslok var dæmi um, hversu langt er seilzt til að þjónusta hina þóknanlegu. Við framkvæmd útboðs var ekki farið eftir hefðbundnum reglum, sem eiga að tryggja jafna stöðu tilboðsaðila. Og á endanum var hæsta tilboði hafnað, þótt staðgreiðsla væri boðin.

Stjórnarflokkarnir hafa hvor með sínum hætti sýnt fram á, að markmið þeirra í pólitík er að afla herfangs, sumpart með stólum og stöðum, sumpart með eignatöku.

Jónas Kristjánsson

DV

Ódýrt í hádeginu

Veitingar

Ódýrt er að borða í hádeginu á ýmsum góðum veitingastöðum í Reykjavík. Lægst er verðið í Kínahúsinu við Lækjargötu, þar sem kjúklingasúpa og rækjuréttur kosta 495 krónur í hádeginu. Og hagstæðast er verðið í stjörnuveitingahúsinu Við Tjörnina í Templarasundi, þar sem súpa og réttur dagsins kosta 800 krónur í hádeginu.

Síðan hefðbundnir viðskiptamálsverðir lögðust að mestu af á Íslandi hefur of lítið verið um að vera í hádeginu í veitingarekstri. Kvöldin eru vinsælli hjá viðskiptavinunum. Þetta hefur lækkað hádegisverðlag sumra veitingahúsa og kallað á margvísleg tilboð, sem sum hver eru svo freistandi, að fólk ætti að gefa þeim meiri gaum.

Kínahúsið er bezti austurlandastaður borgarinnar og um leið einn hinn ódýrasti. Rækjurnar eru djúpsteiktar, með þunnum steikarhjúp, og bornar fram með súrsætri sósu. Fyrir 595 krónur fæst þetta sama og til viðbótar karrílamb og hnetukjúklingur. Gæðin eru hátt yfir hamborgarastöðum og pizzubúlum höfuðborgarsvæðisins.

Sumir austurlandastaðirnir bjóða hlaðborð í hádeginu. Góð kjör eru í Asíu við Laugaveg, þar sem súpa og sex réttir kosta 790 krónur. Gæðin takmarkast af því, að maturinn er geymdur í hitakössum, en við slíku er lítið að gera, ef menn sækjast eftir aðgangi að hlaðborði.

Sama lága verðið er á hlaðborðinu í Sjanghai, aðeins ofar við Laugaveg. Þar eru einnig súpa og sex réttir á borðum, en eldamennskan er fremur kæruleysisleg.

Bezti Ítalíustaðurinn í borginni, Pasta Basta við Klapparstíg, býður súpu og pastahlaðborð í hádeginu á litlar 720 krónur. Þetta er girnilegur og góður matur, en pastað er auðvitað kalt, því að það mundi spillast, ef því væri haldið heitu. Í verðinu eru fimm tegundir af pasta, sem er gert á staðnum, eins og brauðið, sem fylgir súpunni.

Hefðbundið salatborð er þekktast, einna ódýrast og sennilega bezt í Pottinum og pönnunni við Nótatún. Súpa og salat kostar 790 krónur. Sama verð er á kvöldin, svo að þá er veitingastaðurinn í hagstæðasta kanti. Með eftirrétti fer hlaðborðsverðið í 890 krónur. Svipað salatborð er á boðstólum í samnefndu steikhúsi við Laugaveg.

Bezta hlaðborðið, bæði heitt og kalt, með mörgum kjötréttum, er í Aski við Suðurlandsbraut. Salatbarinn er girnilegasti þáttur þessa hlaðborðs, sem kostar 890 krónur í hádeginu og hefur raunar lækkað töluvert í verði.

Ýmsir aðrir veitingastaðir bjóða hádegisverð á minna en 1000 krónur á mann. Það kostar til dæmis 790 krónur að borða á Pisa í Austurstræti, 890 krónur í Lækjarbrekku í Bankastræti, 895 krónur í Prag við Hlemmtorg, 950 krónur í Óðinsvéum við Óðinstorg og 990 krónur í glæsilegum Primavera í Húsi verzlunarinnar.

Raunar kostar ekki nema 1395-1595 krónur að borða í hádeginu í bezta veitingastofu borgarinnar, Hótel Holti. Þetta verð er í rauninni sáralágt í samanburði við gæðin.

Fáir gera sér svo grein fyrir, að það kostar ekki nema 800 krónur að borða í hádeginu á einum af þremur beztu stöðum landsins. Hádegistilboðið við Tjörnina í Templarasundi er einstakt í sinni röð, af því að staðurinn er rómantískur og matreiðslan oftast í meistaraflokki.

Drykkjarföng eru ekki meðtalin í krónutölum þessarar greinar, nema kaffi er víða innifalið í hádegisverði.

Jónas Kristjánsson

DV

Grýla verndar hermang

Greinar

Samkomulag Bandaríkjanna og Íslands um framvindu varnarmála felur í sér málamiðlun, sem verndar í tvö ár mestan hluta af atvinnu Suðurnesjamanna af Keflavíkurvelli og sparar ríkinu í tvö ár að horfast í augu við rekstrarkostnað borgaralegrar flugumferðar um völlinn.

Í rauninni felur samkomulagið í sér, að bandaríska varnarliðið hefur lent í því hlutverki að vernda atvinnu Suðurnesjamanna um skeið og spara um leið íslenzka ríkinu verulegan hluta af milljarðakostnaði við fábrotið millilandaflug, sem vaknar til lífsins tvisvar á sólarhring.

Í aðdraganda samkomulagsins um varnarmál kom í ljós, að margir þeir, sem um það fjölluðu af bandarískri hálfu, töldu standa mega við loftvarnarskuldbindingar við Ísland með orrustuflugvélum, sem væru staðsettar utan Íslands, til dæmis í Norfolk í Bandaríkjunum.

Bandaríkjamenn eru að reyna að skera niður útgjöld til hermála um 40% og fækka um þriðjung í mannahaldi hersins. Þótt þeim hafi ekki tekizt að þessu sinni að láta þessa stefnu koma niður á kostnaði vegna Íslands, munu þeir vafalítið taka upp þráðinn að nýju eftir tvö ár.

Íslenzk stjórnvöld hafa fengið tvö ár til viðbótar til að sinna vanræktum skyldum sínum við atvinnulíf á Suðurnesjum og við millilandaflug þjóðarinnar. Eins og fyrri daginn verður þetta svigrúm ekki notað, svo að við munum aftur mæta svipuðum vanda eftir tveggja ára grið.

Álvinnsla á Keilisnesi er hvorki í augsýn né er hún mjög atvinnuskapandi grein. Því eiga stjórnvöld þess einan kost að hætta að leggja steina í götu notkunar Keflavíkurvallar í alþjóðlegu vöruflugi og byrja að undirbúa lagalegar aðstæður fyrir virka fríhöfn á Rosmhvalanesi.

Meðan kalda stríðið var og hét, átti svokölluð aronska hljómgrunn hér á landi. Sú stefna tók mið af, að þá lögðu Íslendingar sig í kjarnorkuhættu og aðra hættu við að lána land undir sameiginlega hagsmuni Vesturlanda, og í staðinn ættu þau að kosta hluta af almannavörnum.

Það er móðgun við aronskuna að kenna hermangsstefnu stjórnvalda við hana. Aronskan var rökrétt afsprengi síns tíma og byggðist á hliðstæðri stefnu norskra stjórnvalda á þeim sama tíma. Nú eru aðrar aðstæður og hernaðarleg ógn steðjar ekki lengur að Íslandi.

Jafnvel þótt ófriðlegt sé enn í heiminum og meira að segja í hlutum Evrópu, hefur átaka- og hættusvæðið færst frá heimshluta Íslands suður til Miðjarðarhafs, Balkanskaga og Kákasusfjalla. Ísland er ekki lengur í brennidepli, heldur herfræðilega á afskekktum slóðum.

Í þessum mikla hermangsvanda kom hinn málglaði Zhírínovski til bjargar málstað íslenzkra stjórnvalda. Hann gerðist sú Grýla, sem dugði til að draga vígtennurnar úr þeim aðilum á Vesturlöndum, sem mest vildu draga úr kostnaði við hernaðarlegan viðbúnað þeirra.

Zhírínovski gerðist málsvari vonsvikinna Rússa og gaf geðveikislegar yfirlýsingar út og suður um endurreisn sovézka nýlenduveldisins og kjarnorkuárásir á vanþóknanleg ríki, þar á meðal um sérstaka refsingu til handa Íslandi. Eftir kosningasigurinn varð hann enn hressari.

Vonandi kemur í ljós, að rugludallur þessi reynist sápukúla í rússneskri pólitík. Ef hann reynist hins vegar varanlegur, þurfa Vesturlönd að endurskoða sparnaðarhugmyndir sínar í varnarmálum. Þá kann varnarliðið á Keflavíkurflugvelli að fá sitt fyrra varnarhlutverk.

Á meðan hefur bandaríska varnarliðið tekið að sér að vernda atvinnu á Suðurnesjum og að spara íslenzka ríkinu kostnað við borgaralegt millilandaflug.

Jónas Kristjánsson

DV

Eignir þínar gefnar

Greinar

Við útboð SR-mjöls, opnun tilboða og mat á þeim var ekki farið eftir hefðum og góðum siðum, þótt í húfi væru mörg hundruð milljónir af eign íslenzkra skattborgara. Við 800 milljón króna dæmi var ekki beitt sömu nákvæmni og beitt er við 8 milljón króna dæmi.

Alþjóðlegar hefðir og reglur á þessu sviði eru mörgum kunnar. Tilboð eru til dæmis undantekningarlaust opnuð við formlega athöfn, þar sem gögnin eru rifin upp í viðurvist votta og þeirra, sem að tilboðum standa. Lesnar eru upp niðurstöðutölur tilboðanna við athöfnina.

Síðan hefjast samningar við hæstbjóðandi. Ef í ljós kemur, að tilboð hans er svo gallað, að ekki þykir hættandi á að taka því, er tekinn upp þráðurinn við þann, sem næsthæst bauð. Ákvörðun um slíka breytingu fylgir föstum reglum, sem raktar eru í útboðslýsingu.

Þegar um staðgreiðslu er að ræða, hlýtur að vera erfitt að halda fram, að ekki séu líkur á, að bjóðandi hafi bolmagn til að kaupa. Annaðhvort reiðir hann fram umrædda upphæð eða ekki. Ef hann gerir það ekki, snúa menn sér þá fyrst að næsta aðila, en ekki fyrirfram.

Hver einasta málsgrein í alþjóðlegum stöðlum útboða var brotin, þegar einkavinavæðingarnefnd ríkisstjórnarinnar lét bjóða út SR-mjöl. Tilboðin voru til dæmis opnuð í kyrrþey og umsvifalaust var ákveðið að þiggja ekki staðgreiðsluverð þess, sem hæst bauð í fyrirtækið.

Annaðhvort eru málsaðilar hins opinbera, það er ráðuneytis, nefndar og banka, svo óhæfir til starfa, að þeim er ekki kunnugt um reglurnar, eða þá að þeir eru svo spilltir, að þeim er hjartanlega sama um þær. Önnur hvor skýringin er rétt að minnsta kosti, kannski báðar.

Afleiðing vinnubragðanna er, að skattgreiðendur tapa tugum milljóna, er renna í greipar þeim, sem eru þóknanlegir hinum opinberu aðilum, er stóðu að útboðinu. Þetta er eitt af mörgum dæmum um, að Ísland er ekki alvörulýðræði, heldur bananalýðveldi í þriðja heims stíl.

Eitt einkenna bananalýðvelda er, að gripnar eru alþjóðlegar hefðir og þeim snúið upp í ranghverfu sína, svo sem gert var í útboðsmáli þessu. Svipað má segja um einkavinavæðinguna í heild. Hún siglir undir fölsku flaggi einkavæðingar, en er upptaka á almannafé.

Í alþjóðlegri einkavæðingu er átt við markaðsvæðingu, þar sem fyrirtæki hins opinbera eru sett út á gadd samkeppninnar. Hér á landi felst einkavæðingin fyrst og fremst í, að opinberri einokun er breytt í tvöfalt gráðugri einkaeinokun, samanber Bifreiðaskoðun Íslands.

Framlag Íslands til þessara mála er annars vegar einkavinavæðing og hins vegar einkaeinokunarvæðing, en alls engin markaðsvæðing. Þetta byggist á fullvissu stjórnmálamanna, ráðgjafa þeirra og embættismanna um, að þeir komist upp með það. Kjósendum sé sama.

Er SR-mjöl var gefið einkavinum og sægreifum, hafði það þá aukaverkun að setja sægreifa í þá stöðu, að þeir sitja við tvær hliðar borðs og hafa ekki lengur sömu hagsmuni og sjómenn af háu löndunarverði. Þetta kann að opna augu sjómanna fyrir því, sem kjósendur sjá ekki.

Í máli þessu sker í augu, að ráðherra, ráðgjafar og bankamenn hafa ekki fyrir neinum frambærilegum rökstuðningi fyrir framgöngu sinni. Þeir fullyrða bara í síbylju, að allt tal um röng og spillt vinnubrögð sé á misskilningi byggt, án þess að rökstyðja þá skoðun nánar.

Gjafir sem þessar munu halda áfram meðan kjósendur velja leiðtoga, er líta á kjósendur sem sauðfé, enda hefur ekkert komið fram, sem bendir til, að þeir séu annað.

Jónas Kristjánsson

DV

Opnar fjárreiður

Greinar

Nákvæmar upplýsingar um fjármál þýzku stjórnmálaflokkanna birtust í þarlendum blöðum fyrir hálfri annarri viku. Þar birtast slíkar upplýsingar reglulega. Þær eru taldar vera hluti af eðlilegu og lögbundnu upplýsingaflæði þar í landi, svo sem víðast hvar á Vesturlöndum.

Einna lengst hafa Bandaríkjamenn gengið á þessu sviði. Þar er opið bókhald stjórnmálaflokka og stofnana á vegum þeirra, svo og takmarkanir á því fjármagni, sem nota má í kosningabaráttu af ýmsu tagi. Pólitískt samkomulag er þar í landi um, að þetta þjóni lýðræðinu.

Ísland er að þessu leyti ekki í hópi flestra lýðræðisríkja heims. Hér hafa stjórnmálaflokkarnir komizt upp með lítið og lokað bókhald, þótt oft hafi verið bent á vandann. Framkvæmdastjóri stærsta flokksins segist vera hissa á, að sér og slíkum skuli ekki vera treyst.

Í september lögðu átta háskólakennarar til, að hér yrðu settar um þetta hliðstæðar reglur og gilda í nágrannalöndunum. Ekki var tekið mark á tillögunni. Og að undanförnu hafa leiðtogar flokkanna verið að krunka saman um aukið skattfrelsi á framlögum til flokkanna.

Þörfin á opnu bókhaldi stjórnmálaflokka og stofnana á vegum þeirra er meiri hér á landi en í nágrannalöndunum beggja vegna Atlantshafsins. Það stafar af, að hér eru stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn meira en annars staðar í hlutverki skömmtunarstjóra lífsins gæða.

Íslenzkt þjóðfélag er afar miðstýrt. Valdamiklir stjórnmálamenn ráða miklu um gengi stofnana og fyrirtækja úti í bæ. Einkaleyfi, einokun og fáokun blómstra, svo og kvótar og aflamiðlanir af ýmsu tagi. Markaðsvæðing er lítil sem engin, en einkavinavæðing þeim mun meiri.

Í óvenjulega miðstýrðu þjóðfélagi er mikil hætta á óeðlilegum hagsmumatengslum milli stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna annars vegar og hins vegar stofnana og fyrirtækja og þrýstihópa úti í bæ. Birtingarskylda á fjárreiðum flokka dregur úr þessu vandamáli.

Það er blettur á íslenzku lýðræði, að ekki skuli vera hægt að komast að raun um, hvaða fyrirtæki og hvaða þrýstihópar leggja hversu mikið af mörkum til hvaða stjórnmálaflokka í formi peninga, auglýsinga, happdrættismiðakaupa og afsláttarkjara af ýmsu tagi.

Eðlilegt er, að framlög til stjórnmálaflokka séu skattfrjáls að vissu marki, svo að þeir hafi bolmagn til að sinna mikilvægu hlutverki sínu í lýðræðinu. En slíkt skattfrelsi er ótækt nema því fylgi birtingarskylda á beinum og óbeinum framlögum hagsmunaaðila til flokkanna.

Mestu máli skiptir, að almenningur geti áttað sig á meginlínum fjárstreymisins til flokkanna annars vegar og hins vegar á upphæðum þeirra aðila, sem fyrirferðarmestir eru. Minni ástæða er til að tíunda opinberlega félagsgjöld og önnur minni háttar framlög einstaklinga.

Birta þarf heildarupphæð hvers flokks og skiptingu hennar í bein framlög og óbein, svo og skiptingu hennar í félagsgjöld, opinberan stuðning og gjafmilda stórvildarvini. Ennfremur þarf að birta skrá yfir stærstu vildarvini, þá sem fara yfir einhverja viðmiðunartölu.

Úr því að þetta er hægt að gera og er gert í nágrannalöndunum, er engin ástæða til að fara undan í flæmingi hér á landi. Opnar fjárreiður stjórnmálaflokkanna hljóta að vera ágæt aðferð til að efla mikilvægt traust almennings á einum helzta burðarási lýðræðisins í landinu.

Ráðamenn flokkanna vilja ekki hlusta á þetta, af því að þeir telja, að kjósendur muni leyfa sér að komast upp með að hlusta ekki. Og það er því miður rétt ályktað.

Jónas Kristjánsson

DV

Betra en ekki neitt

Greinar

Stofnanir landbúnaðarins hafa gefið út bækling, þar sem endurbirt er röð baráttuglaðra blaðaauglýsinga þeirra með frekari skýringum og rökstuðningi. Bæklingurinn er fróðlegur fyrir þá sök, að hann sýnir, hvað stendur eftir af röksemdafærslu á vegum þessara stofnana.

Hálfur sannleikur er í hluta þessa málflutnings landbúnaðarkerfisins. Til dæmis er rétt, að beitarálag hefur minnkað við fækkun sauðfjár. Ósagt er hins vegar, að álagið er of mikið á afréttum móbergssvæðanna, þar sem landeyðing er meiri en landgræðsla enn þann dag í dag.

Ekki er hægt að segja, að sauðfjárrækt sé komin í sátt við landið, fyrr en lögð hefur verið niður beit á afréttum móbergssvæðanna og snúið hefur verið vörn í sókn í landgræðslu þessara svæða. Fram að þeim tíma verður landbúnaðurinn áfram sakaður um landeyðingu.

Það er líka hálfur sannleikur, að beingreiðslur fari ekki beint í vasa bænda. Þeir þurfa að greiða ýmsan kostnað við búreksturinn og þurfa því meiri tekjur en sem nemur launum einum. Ósagt er hins vegar, að í þessu felst einmitt margumtöluð verðmætabrennsla.

Gallinn við landbúnaðinn er, að hann er þrefalt dýrari í rekstri en atvinnuleysisbætur mundu vera. Hann þarf til dæmis að nota mikinn gjaldeyri í kaup á vélum, tækjum og kjarnfóðri og mikið af innlendu fjármagni til að halda uppi stofnunum á borð við Áburðarverksmiðjuna.

Röng er sú fullyrðing bæklingsins, að ríkið hafi dregið úr stuðningi við landbúnaðinn. Samkvæmt bæklingnum nemur stuðningurinn 6,8% ríkisútgjalda á þessu ári, en nam 6,7% árið 1986 og 6,9% árið 1987. Stuðningurinn sveiflast til, en hefur ekki minnkað síðustu sjö árin.

Röng er sú fullyrðing bæklingsins, að niðurgreiðslur séu fyrst og fremst neytendum til hagsbóta. Þær beinast nefnilega ekki að þeim matvælum, sem ódýrust eru og henta bezt fátæku fólki, heldur að þeim tiltölulega litla og dýra hluta, sem framleiddur er af landbúnaðinum.

Einnig er ruglað saman þeim hluta matarreiknings heimilanna, sem notaður er til að greiða innlenda búvöru og innflutta, þar á meðal kornvöru og margs konar pakkavöru. Lækkun matarreiknings vegna lækkunar innfluttrar búvöru er ekki landbúnaðinum að þakka.

Gagnrýnendur landbúnaðarstefnunnar segja, að hún kosti neytendur og skattgreiðendur 17-19 milljarða á hverju ári, annars vegar í hömlum á innflutningi erlendrar búvöru og hins vegar í útgjöldum ríkissjóðs til landbúnaðar. Í bæklingnum er ekki reynt að svara þessu.

Í rauninni hefur landbúnaðarráðuneytið viðurkennt 19 milljarða árlegan stuðning með tilboði sínu til alþjóðlega tollamálaklúbbsins GATT. Þegar stofnanir landbúnaðarins þurfa að verja innflutningshömlur, hentar það þeim að nota réttar tölur, sem þær hafna í annan tíma.

Gagnrýnendur landbúnaðarstefnunnar segja, að leggja beri niður sérstök afskipti ríkisins af landbúnaði, þar á meðal innflutningshöft á kostnað neytenda og greiðslur úr ríkissjóði á kostnað skattgreiðenda. Í bæklingi landbúnaðarins er lítið reynt að rökræða þetta atriði.

Þó er þar bent á, að atvinnuleysi kosti líka peninga. Það er að vísu rétt, en það kostar aðeins brot af því, sem landbúnaðurinn kostar núna. Hefðbundinn landbúnaður á Íslandi er í rauninni dulbúið atvinnuleysi, sem er þrefalt dýrara en venjulegt atvinnuleysi mundi vera.

Auglýsingaröð og útskýringabæklingur stofnana landbúnaðarins eru ekki merkilegt innlegg í umræðuna um landbúnaðinn, en eigi að síður betra en ekki neitt.

Jónas Kristjánsson

DV

Vinsældalistinn

Veitingar

Að minnsta kosti sjö veitingahús í borginni eru dýrari en bezta matarmusterið. Hótel Holt í Þingholtsstræti er orðinn betri kostur en nokkru sinni fyrr, því að verðlagi þess hefur verið haldið í skefjum. Á kvöldin kostar þar um 3.300 krónur að borða þrjá rétti, að drykkjarföngum frátöldum. Á fínimannsstöðum borgarinnar er hliðstætt verð frá 3.500 krónum upp í 3.700 krónur á mann.

Tvö næstbeztu matargerðarmusterin eiga það líka sameiginlegt að hafa haldið verðlagi í skefjum. Það er Við Tjörnina í Templarasundi, þar sem þríréttaður matur kostar 2.900 krónur, og Þrír Frakkar hjá Úlfari við Baldursgötu, þar sem hann kostar 2.800 krónur. Þetta verð er nálægt meðalverði reykvískra veitingahúsa og gæðin gefa ekkert eftir því, sem bezt þekkist í útlöndum.

Þessi þrjú veitingahús hafa um nokkurt skeið verið stjörnustaðir matargerðarlistar landsins. Þangað er gott að fara með útlendinga og aðra gesti, sem hafa vit og áhuga á mat. Og þangað er gott að fara, þegar ætlunin er bara að fara út að borða. Allt eru þetta litlir og þægilegir staðir, hver með sínum hætti, Holtið virðulegast, Tjörnin rómantískust og Þrír Frakkar einfaldastir.

Í næsta gæðaflokki eru nokkur hús í verðflokknum 2.100 krónur til 2.500 krónur. Allt eru þetta traustir matstaðir með hagstæðu hlutfalli verðs og gæða. Tælenski staðurinn Siam á Skólavörðustíg er í 2.100 krónum, íslenzki staðurinn Askur við Suðurlandsbraut í 2.200 krónum, bandaríski staðurinn Hard Rock Café í Kringlunni í 2.300 krónum, nautasteikhúsið Argentína á Barónsstíg í 2.400 krónum og ítalski staðurinn Pasta Basta á Klapparstíg í 2.500 krónum, allt með sams konar útreikningi.

Landsins beztu steikur úr gamla, íslenzka nautakyninu fást í Argentínu. Ferskt pasta fæst í Pasta Basta, sem þar að auki er notalega innréttaður staður. Hefðbundinn matarsmekkur Íslendinga fær útrás á Aski. Hard Rock Café gefur innsýn í góðar hliðar bandarískrar matargerðarlistar og er þar að auki sérkapítuli í hönnun veitingahúsa. Siam er bezti fulltrúi austrænnar matargerðarlistar í landinu, lítil og rómantísk matstofa.

Í ódýrasta kanti veitingastaða borgarinnar eru nokkur hús, sem eru svo góð, að þangað er hægt að fara út að borða til að eiga kvöldstund og ekki bara til að seðja hungur sitt. Það er einfalt Kínahúsið við Lækjargötu, þar sem þríréttaður matur kostar 1.700 krónur, sparibúinn Laugaás á Hótel Esju, þar sem hann kostar 1.300 krónur, hálfítalskt og örsmátt Hornið í Hafnarstræti á 1.300 krónur og loks gamli, góði, hversdagslegi Laugaás á Laugarásvegi, þar sem hann kostar 1.100 krónur.

Ýmsar fleiri matstofur eru góðar, en þessar hafa vakið sérstaka athygli mína á yfirreið um veitingamarkaðinn, sem lauk í síðustu viku. Verðlagið er miðað við kvöldmáltíð af valseðli. Hafa verður í huga, að í hádeginu er á sumum þessum stöðum og ýmsum öðrum hægt að fá mjög ódýran mat. Það er annar handleggur og um hann verður fjallað í annarri grein, sem birtist væntanlega á þessum stað í fyrsta föstudagsblaði eftir áramót.

Jónas Kristjánsson

DV

Varnarsigur viðskipta

Greinar

Samkomulag Bandaríkjanna og Evrópusamfélagsins í alþjóðlega tollamálaklúbbnum GATT um aukið frelsi í alþjóðaviðskiptum mun bæta lífskjör um alla heimsbyggð. Almenningur mun fá aðgang að ódýrari vörum og þjónustu en ella hefði orðið og atvinna mun aukast.

Samkomulagið er útvötnuð útgáfa af göfugu markmiði frá upphafi viðræðnanna í GATT. Árum saman hefur dregizt að fá niðurstöðu og oft legið við, að tilraunin færi alveg út um þúfur. Niðurstaðan er fyrst og fremst varnarsigur, því að án hennar hefði ástandið versnað.

Ef ekki hefði náðst samkomulag, eru mestar líkur á, að gagnkvæmar hótanir um aukna innflutningsmúra og refsiaðgerðir hefðu leitt til minni alþjóðaverzlunar. Samkomulagið dregur úr líkum á stórum og smáum viðskiptastyrjöldum og felur þannig í sér varnarsigur.

Hinn beini hagnaður af niðurstöðunni er mestur fyrir þær þjóðir, sem mest eru sérhæfðar í atvinnuháttum og reiða sig mest á milliríkjaverzlun. Einna fremstir í þeim flokki eru Íslendingar. Landið væri óbyggilegt, ef við hefðum ekki erlendan markað fyrir sjávarafurðir.

Nú er ljóst, að verndarstefna heldur ekki að nýju innreið í samskipti þjóða. Tollar og aðrar viðskiptahindranir gegn alþjóðlegri fiskverzlun munu því ekki aukast, heldur minnka á ýmsum sviðum. Lífskjör Íslendinga munu því batna í kjölfar samkomulagsins í GATT.

Vafasamt er, að ríkin í GATT treysti sér í náinni framtíð til að stíga fleiri skref í átt til fríverzlunar. Þau eru búin að hafa svo mikið fyrir þessu síðasta skrefi, að kjarkur til frekari afreka hefur að mestu horfið. Ráðamenn munu sætta sig við það litla, sem náðst hefur.

Vinnubrögðin að baki samkomulagsins í GATT eru líka orðin úrelt. Þau felast í, að ríki setja tilboðspakka á samningaborðið, þar sem þau bjóða eftirgjafir gegn eftirgjöfum. Í þessu felst sú ranga hugsun, að eftirgjafir og ósigur felist í opnun markaða fyrir útlendinga.

Þvert á móti græða þjóðir á báðum hliðum málsins. Þær græða á því að fá aukinn aðgang fyrir sérhæfðar vörur sínar á erlendum markaði. En þær græða ekki minna á því að opna sinn markað fyrir sérhæfðar vörur annarra. Það lækkar vöruverð í landinu og bætir lífskjör.

Í viðræðum um fríverzlun hafa ríkisstjórnir hingað til ekki komið fram sem umboðsmenn neytenda í löndum sínum, heldur sem umboðsmenn sérhagsmuna á borð við landbúnað. Frekari árangur næst varla í fríverzlun, fyrr en ráðamenn láta af þessu brenglaða viðhorfi.

Athyglisvert er, að íslenzk stjórnvöld hafa undirritað ágætan samning um aukna fríverzlun á hinu svonefnda Evrópska efnahagssvæði án þess að hafa gert neina tilraun til að standa við samninginn. Margir mánuðir hafa liðið, án þess að birzt hafi lagafrumvarp um það.

Einnig er athyglisvert, að gert er ráð fyrir, að málið verði afhent landbúnaðarráðuneytinu til meðferðar. Það er eins og að fela samtökum innbrotsþjófa að setja upp þjófavarnarkerfið. Engin ríkisstofnun gengur lengra í sérhagsmunagæzlu en einmitt landbúnaðarráðuneytið.

Ekki er hægt að búast við, að ríkisvaldið taki betur við sér, þegar kemur að staðfestingu GATT-samkomulags. Hálf þjóðin vill raunar láta fjölþjóðasamninga víkja fyrir sérhagsmunagæzlu. Okkur fer ekki vel að kvarta yfir fjórðungs stuðningi Rússa við Zhírínovskí.

Varnarsigur hefur náðst gegn alræði sérhagsmuna heimsins. Hann dregur úr möguleikum ríkisstjórna og sérfræðinga þeirra á að spilla lífskjörum fólks.

Jónas Kristjánsson

DV

Grýla er fundin

Greinar

Grýla er fundin að nýju. Hún fannst í Rússlandi í kosningunum um helgina og gengur undir nafninu Zhírínovskí. Þar leikur hún hlutverk, sem skiptir ekki minna máli en fyrri hlutverk hennar. Hún sýnir Rússum og nágrönnum þeirra, að fara verður að mörgu með gát.

Eftir á að hyggja er skiljanlegt, að þjóðernisæðingur fái fjórðungs fylgi í Rússlandi. Þar í landi ríkir að mörgu leyti svipað öngþveiti og í Weimar-lýðveldi Þýzkalands eftir fyrri heimsstyrjöldina. Slíkt ástand er kjörinn jarðvegur þjóðernisæðinga á borð við Hitler og Zhírínovskí.

Zhírínovskí er meira að segja ruglaðri en Hitler, svo sem sést af umfjöllun hins fyrrnefnda um Ísland. Hann verður hins vegar ekki eins hættulegur og Hitler fyrr en hann fer að safna um sig vopnuðum dólgasveitum að hætti Hitlers. Það hefur Zhírínovskí ekki gert enn.

Að þessu leyti er hann ekki eins hættulegur og Kashbúlatov var sem þingforseti, þegar hinn síðarnefndi kom sér upp vopnuðum sveitum til mótvægis gegn ríkisvaldi Jeltsíns. Enn sem komið er hefur Zhírínovskí sérhæft sig í stóryrðum einum; og þau eru innan ramma lýðræðis.

Upphaf og ris Þriðja ríkis Hitlers á svipuðu fylgi og Zhírínovskí hefur nú er sagnfræðileg staðreynd, sem hægt er að læra af. Ríkisvaldið verður að hafa bolmagn til að koma í veg fyrir rekstur vopnaðra dólgasveita á vegum stjórnmálaflokks, ef Zhírínovskí reynir slíkt.

Einnig er mikilvægt, að stjórnmálaöfl í Rússlandi átti sig á þeirri reynslu af Hitler, að ekki er hægt að nota þjóðernisæðinga í stjórnarsamstarfi. Þessa sagnfræði skilja bæði framfarasinnar og afturhaldsmenn í Rússlandi og vilja því ekkert hafa með Zhírínovskí að gera.

Þótt þjóðernissinnar og kommúnistar séu öfgaflokkar í Rússlandi, eru þeir það hvorir með sínum hætti. Lífsskoðanir þessara öfgahópa eru svo andstæðar, að óþarfi er að leiða líkur að nánu samstarfi þeirra. Miklu líklegra er, að ýfingar verði með flokkunum, vonandi munnlegar.

Kommúnistar eru einkum studdir af öldruðu fólki, sem saknar öryggisnets velferðar flokksmanna í Sovétríkjunum sálugu, en þjóðernisæðingar eru einkum studdir af því fólki á starfsaldri, sem hefur farið halloka í sviptingum efnahagslífsins í Rússlandi á allra síðustu árum.

Rússar hafa litla reynslu af lýðræði og eru sumir hverjir ginnkeyptir fyrir lýðskrumurum á borð við Zhírínovskí, sem notar einföld slagorð sem svör við öllum hugsanlegum vandamálum og ræktar hvern þann fordóm, sem finnanlegur er í hnignandi þjóðfélagi öreiga.

Það er ekki fín auglýsing fyrir Rússa, að fjórðungur kjósenda skuli styðja mann, sem er róttækari nasisti en Hitler var. Fylgi Zhírínovskís er þó skiljanlegt við þær forsendur, sem þjóðarsaga og þjóðarhagur hafa búið til í Rússlandi. Þeim forsendum þarf að breyta smám saman.

Mikill ágreiningur er milli alvöruflokka Rússlands, annars vegar þeirra, sem vilja halda meira eða minna óbreyttum hraða í átt til vestræns hagkerfis, og hinna, sem vilja hægja á þeirri þróun og jafnvel stöðva hana. Allir geta þeir þó verið samtaka gegn Zhírínovskí.

Einhver málamiðlun milli framfara og kyrrstöðu er vænlegasti kostur Rússlands í framhaldi af þingkosningum helgarinnar. Alvöruflokkarnir verða að hafna þeirri freistingu, að þeir geti grætt á að taka þjóðernisæðinga inn í samstarf um meirihluta á nýkjörnu þingi.

Hin nýja Grýla er raunar gott tækifæri fyrir Rússa, nágranna þeirra og Vesturlandabúa til að rifja upp innreið nasismans og læra af mistökum, sem þá voru gerð.

Jónas Kristjánsson

DV