Author Archive

Landnemarnir fari

Greinar

Eftir fjöldamorðin í Hebron hafa SS-sveitir Ísraelshers drepið rúmlega tuttugu manns til viðbótar á hernumdu svæðunum í Palestínu. Enn hefur herraþjóðin þrengt að Palestínumönnum með útgöngubanni, fleiri handtökum án dóms og laga og auknum dólgshætti SS-sveitanna.

Á sama tíma er ekkert gert til að hafa hendur í hári vopnaðra ofsatrúarmanna í hópi ísraelskra landnema á hernumdu svæðunum. Eins og fjöldamorðinginn Goldstein bera þeir hríðskotabyssur, sem þeir hafa fengið frá hernum. Þeir umgangast Palestínumenn eins og hunda.

10.000 Palestínumenn sitja í fangelsi fyrir lögmætt andóf gegn brotum Ísraels á undirrituðum alþjóðareglum um meðferð fólks á hernumdum svæðum. Dag eftir dag fréttist af nýjum mannréttindabrotum herraþjóðar, sem er að krumpast á sama hátt og Þýzkaland Hitlers.

Hrunið er norska samkomulagið um friðarferil í Palestínu, enda var það byggt á sandi. Ísraelsstjórn samþykkti það til að vinna tíma, en ekki til að láta það ná fram að ganga í raun. Og Arafat samþykkti það til að reyna að ná frumkvæði, sem hann hafði glatað.

Flokkur Arafats nýtur ekki lengur stuðnings Palestínumanna. Þvergirðingsháttur Ísraels í framhaldi friðarviðræðnanna hefur kippt fótunum undan viðsemjanda þeirra. Palestínumenn styðja nú Hamas og aðra flokka, sem eru róttækari en útlagaflokkur Arafats.

Þetta er eðlileg þróun. Framkoma Ísraels, einkum landnema og SS-sveita hersins, á hernumdu svæðunum ár eftir ár eftir ár leiðir smám saman til þess, að kúgaðir og smáðir Palestínumenn hætta að styðja miðjuflokk og gerast róttækari í skoðunum sínum á ástandinu.

Fjöldamorðin í Hebron sýna líka, að röng var aðferðafræðin í fyrstu skrefum friðarviðræðnanna. Það eru ísraelsku landnemarnir á hernumdu svæðunum, sem eru krabbameinið. Þeir framkalla meirihlutann af vandræðunum, sem gera friðarviðræðurnar svo erfiðar.

Ástandið í Hebron er dæmigert. Þar búa 70.000 óvopnaðir Palestínumenn og 400 vopnaðir landnemar, sem ögra meirihlutanum með stuðningi SS-sveita Ísraelshers. Þetta er tímasprengja, sem stjórn Ísraels hefur búið til með því að leyfa landnám á hernumdum svæðum.

Stærstu ábyrgðina ber Bandaríkjastjórn, sem hefur stutt Ísrael peningalega, pólitískt og hernaðarlega þrátt fyrir landnám, mannréttindabrot og stríðsréttindabrot. Ef Bandaríkin hefðu skilyrt stuðninginn, hefði Ísrael ekki krumpazt eins mikið og dæmin sanna dag eftir dag.

Ekki er lengur hægt að búast við friði í Palestínu nema landnemarnir og SS-sveitir Ísraelshers fari þaðan. Það er þáttur af fyrsta skrefinu í átt til friðar, ef það verður stigið. Fortíðarinnar vegna ber Bandaríkjastjórn ábyrgð á, að svo skuli verða. Hún fjármagnaði krabbameinið.

Allt þetta hefði átt að vera mönnum ljóst, þegar þeir dönsuðu af gleði yfir norska samkomulaginu um friðarferil í Palestínu. Menn létu óskhyggjuna ráða, þótt ljóst mætti vera, að samkomulagið tók ekki á staðreyndum um orsök vandans og var því dæmt til að mistakast.

Nú er hins vegar kominn tími til að opna augun. Bandaríkjastjórn neyðist á endanum til að axla sína þungu ábyrgð og hætta öllum stuðningi, fjárhagslegum, pólitískum og hernaðarlegum, við skjólstæðing, sem hefur breytzt úr undrabarni í alþjóðlegt vandræðamál.

Bandaríkin verða á eigin kostnað að ganga í milli og sjá um, að Ísraelar geti búið og ráðið í sínu landi og Palestínumenn búið og ráðið í sínu landi. Í friði.

Jónas Kristjánsson

DV

50 framsóknarmenn

Greinar

Framsóknarmenn eru í öllum flokkum Alþingis, enda sagðist Egill Jónsson hafa 50 þingmanna fylgi af 63 í slagnum um búvörufrumvarpið. Meðal þeirra eru þingmenn í Alþýðuflokknum. Segja má raunar í þéttbýlinu, að atkvæði greitt Alþýðuflokki sé atkvæði greitt Eydalaklerki.

Flestir framsóknarmenn eru þó í þingflokki sjálfstæðismanna. Eftir síðustu kosningar urðu framsóknarmenn í þingflokki sjálfstæðismanna fleiri en í þingflokki framsóknarmanna. Þessa sér skýr merki í störfum þeirra á Alþingi og í svonefndu samstarfi flokksins í ríkisstjórn.

Meðal þingmanna Sjálfstæðisflokksins, sem ganga fram fyrir skjöldu í stuðningi við landbúnaðarstefnu Egils, eru þingmaðurinn frá Bolungavík, þingmaðurinn frá Hafnarfirði, þingmaðurinn frá Stykkishólmi og nýi þingmaðurinn frá Akureyri. Allir eru þeir nýir á þingi.

Athyglisvert er, að nýrri þingmenn Sjálfstæðisflokksins skuli vera harðari stuðningsmenn hefðbundinnar landbúnaðarstefnu en sumir eldri þingmennirnir. Einnig er athyglisvert, að þingmenn þéttbýlissvæða eru ekki síður harðir á þessu en þingmenn dreifbýlissvæða.

Þingflokkur sjálfstæðismanna og ráðherrar hans vekja einnig eftirtekt fyrir andstöðu við flest, sem orða mætti við frjálshyggju, það er að segja við þá hugsun, að markaðsöfl eigi að ráða ferðinni. Sjálfstæðisflokkurinn telur, að málum eigi að miðstýra með handafli hins opinbera.

Eini ráðherrann, sem reynir eftir mætti að losa um höft, er Sighvatur Björgvinsson, sem skar niður lyfjakostnað og ýmsan annan heilsukostnað ríkisins og er nú að reyna að gera olíuverzlun frjálsa að meira en nafninu til. Hann er auðvitað ráðherra Alþýðuflokksins.

Vafalítið mun rísa andstaða í þingflokki sjálfstæðismanna við olíufrumvarp viðskiptaráðherra. Það væri eðlilegt framhald af núverandi ástandi, sem líkist æ meira miðstýringaráráttu síðustu vinstri stjórnar í landinu. Sértækar aðgerðir handa Vestfjörðum sýna það vel.

Á síðasta kjörtímabili reis alda frjálshyggju í Sjálfstæðisflokknum. Sumir studdu hana til að geta snúið út úr einkavæðingu og búið til úr henni einkavinavæðingu, sjálfum sér til framdráttar. Frjálshyggjan var fyrst og fremst notuð til að einkavæða opinbera spillingu.

Að öðru leyti er frjálshyggja einkum höfð að háði og spotti í Sjálfstæðisflokknum. Þeir, sem meintu hana í alvöru, fara með veggjum og láta lítið fara fyrir sér. Eftir frammistöðuna á kjörtímabilinu verður erfitt fyrir flokkinn að dusta rykið af henni á síðasta ári þess.

Þingflokkur og ráðherrar Sjálfstæðisflokks hafa varið hefðbundna búnaðarstefnu af hörku gegn atlögum Alþýðuflokks; hafa haft forustu um að endurvekja sértækar aðgerðir hins opinbera að hætti Steingríms Hermannssonar; hafa hafnað skrefum í átt til markaðsbúskapar.

Sem dæmi um þessa stöðu má nefna fjármálastjórn, sem ekki hefur tekizt að laga útgjöld ríkisins að minnkuðum tekjum vegna samdráttar í atvinnulífinu, þannig að sett var Íslandsmet í hallarekstri ríkissjóðs í fyrra og að reiknað er með nýju Íslandsmeti á þessu ári.

Í stórum dráttum hefur Sjálfstæðisflokkurinn á þessu kjörtímabili hvergi reynt að rétta hlut neytenda og skattgreiðenda gegn þrýstihópum sérhagsmuna og hvergi reynt að laga hlut sérhagsmuna sjávarútvegs gagnvart yfirþyrmandi dýrum sérhagsmunum landbúnaðar.

Það verður gaman að sjá, hvernig flokkurinn hagar kosningabaráttu að ári, með þá staðreynd kjörtímabilsins á bakinu, að hann er tvíburabróðir Framsóknarflokksins.

Jónas Kristjánsson

DV

Grátkarlar um land allt

Greinar

Komið hefur í ljós, að fleiri en Vestfirðingar telja sig hafa orðið að sæta svo mikilli minnkun þorskkvóta, að til vandræða horfi í kjördæminu. Hagsmunagæzlumenn einstakra kjördæma hafa fetað í fótspor starfsbræðra sinna á Vestfjörðum. Matthías er ekki einn í heiminum.

Fyrstir á vettvang urðu þingmenn Austfjarða og Norðurlands eystra. Hagsmunagæzlumenn frá Suðurnesjum og Vesturlandi fylgdu í kjölfarið. Er nú bara beðið eftir, að kröfugerð frá Reykjavík verði nýjasti liðurinn í atvinnuátaki kosningaundirbúnings borgarstjórans.

Allir þessir aðilar segja, að líta verði á þorskkvótaleysið frá almennum sjónarhóli, en ekki grípa til sértækra aðgerða fyrir aðeins einn landshluta. Það er auðvitað nokkuð til í þessu, ef byggt er á þeirri forsendu Vestfirðinga, að minnkaður þorskkvóti sé stóra vandamálið.

Að vísu hafa Vestfirðir þá sérstöðu, að þar er lítið sem ekkert uppland og lítið um tækifæri utan sjávarútvegs. Þar hafa menn sérhæft sig í sjávarútvegi og aftur sjávarútvegi. Það gildir um Vestfirðinga í meira mæli en aðra landsmenn, að þeir hafa ekki að annarri iðju að hverfa.

Fróðlegt hefur verið að fylgjast með, hvernig hagsmunagæzlumenn Vestfjarða hafa til skamms tíma átt erfitt með að sjá sérstöðuna. Þeir hafa til dæmis verið manna frekastir í kröfum um fyrirgreiðslur til landbúnaðar, þótt þær séu kostaðar af peningum úr sjávarútvegi.

Þeir, sem stjórna úthlutun á peningum skattgreiðenda, segjast setja ýmis skilyrði fyrir hinum fyrirhuguðu greiðslum, sem kalla má fyrirhugaðar verðlaunaveitingar fyrir óvarlega meðferð á þorskkvóta. Snúast skilyrðin mest um samruna fyrirtækja og samruna sveitarfélaga.

Þegar skilyrðin verða sett, ættu úthlutunarstjórar að líta á yfirlýsingar frá Vestfjörðum um, að útgerðaraðilar hyggist eða séu byrjaðir að veiða umfram þorskkvóta á forsendum eins konar neyðarréttar, sem sé í stöðunni æðri landslögum, er séu andsnúin Vestfirðingum.

Nógu slæmt er að standa að verðlaunaveitingum fyrir óvarlega meðferð þorskkvóta, svo að ekki sé því bætt ofan á að verðlauna útgerðaraðila fyrir að brjóta lög og fara vísvitandi fram úr þorskveiðikvóta. Slíkt fordæmi getur orðið stjórnkerfinu nokkuð þungt í skauti.

Upphlaupið á Vestfjörðum er raunar hluti af víðtækri og raunar óskipulagðri árás á kvótakerfið, sem greinilega er að verða satt lífdaganna. Stóra spurningin er, hvað taki við af þessu kerfi, þegar búið er að slátra því. Verður það færeyskt stjórnleysi eða auðlindaskattur?

Þegar Vestfirðingar tala um rétt manna til að stunda sjá á sama hátt og forfeðurnir gerðu, eru þeir óviljandi að biðja um sams konar öngþveiti í ofveiði og það, sem hefur framkallað hrun fiskistofna við Færeyjar og hrun sjálfstæðs þjóðfélags á eyjunum í kjölfarið.

Upphlaupið á Vestfjörðum staðfestir um leið enn einu sinni, að afkastageta veiðiflota og fiskvinnslustöðva er hér á landi langtum meiri en efni standa til. Dæmið gengur aldrei upp fyrr en skipum hefur verið stórfækkað og fiskvinnslustöðvum hefur verið stórfækkað.

Auðlindaskattur, öðru nafni veiðileyfagjald, hefur þann kost umfram kvótakerfi að halda ekki aðeins veiðinni í hófi, heldur lágmarka einnig kostnað þjóðfélagsins af fyrirhöfninni við að ná aflanum. Sú skömmtunaraðferð hefur reynzt bezt, þegar auðlindin er takmörkuð.

Upphlaupið á Vestfjörðum er lærdómsríkt. Miklu máli skiptir, að menn dragi af því réttar ályktanir, svo að niðurstöður aðgerðanna verði öllum til góðs.

Jónas Kristjánsson

DV

Góðar fréttir í bland

Greinar

Stækkun Evrópusamfélagsins með aðild Norðurlanda hefur ýmis bein og óbein áhrif á stöðu Íslands í umhverfinu. Flest eru þau til bóta, þótt einmanalagt og raunar nokkuð dýrt kunni að verða í Fríverzlunarsamtökunum, ef Ísland verður eitt eftir í þeim eða með Noregi einum.

Svíar og Finnar munu hafa góð áhrif á Evrópusamfélagið. Þeir munu leggja lóð á vogarskálina gegn ofbeldishneigðri efnahagsfrekju, sem í allt of miklum mæli einkennir samskipti Evrópusamfélagsins við umheiminn, svo og gegn miðstýringaráráttunni frá Frakklandi.

Svíar og Finnar verða að því leyti á báti með Bretum, að þeir munu fremur fylgja því, að Evrópusamfélagið verði stækkað með aðild fleiri ríkja, heldur en að það verði dýpkað með nánari miðstýringu. Það léttir okkur aðild, þegar við teljum okkur þurfa á henni að halda.

Svíar og Finnar munu leggjast gegn efnahagslega ofbeldishneigðum vinnubrögðum á við þau, sem frönsk stjórnvöld hafa stundað að undanförnu við takmörkun innflutnings á fiski. Eftir inngöngu Norðurlanda verður líklega heldur minni hætta á uppákomum af því tagi.

Þegar kemur að samningum um aðild Íslands, hvenær sem það verður, munu Svíar og Finnar stuðla að því, að ekki verði gerðar óhóflegar kröfur í okkar garð í stíl við þær, sem Spánverjar hafa haldið fram gegn Norðmönnum og hafa komið í veg fyrir samkomulag við Norðmenn.

Hvernig sem hin efnahagslegu utanríkismál Íslendinga rekast á næstu árum, þá er ljóst, að við verðum að halda verndarhendi yfir auðlind hafsins. Aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu gerir okkur það kleift. Aukin Evrópuaðild má ekki tefla þeirri stöðu í tvísýnu.

Við verðum svo um leið að átta okkur á, að sjálfir rekum við ofbeldishneigða efnahagsstefnu gagnvart útlöndum, alveg eins og Frakkar og Evrópusamfélagið. Við leggjum hrikalegar hindranir í götu innflutnings á búvöru. Okkur verður í auknum mæli hegnt fyrir það.

Búast má við fleiri uppákomum í stíl við frönsku innflutningshömlurnar á íslenzkum fiski og við kanadísku innflutningshömlurnar á íslenzkri iðnaðarvöru. Auðvelt verður fyrir erlenda haftasinna að segja sig bara vera að nota íslenzk vinnubrögð í utanríkisviðskiptum.

Umræður á Alþingi um búvöru benda til, að mikill meirihluti íslenzkra stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka stundi stefnu Framsóknarflokksins í eindreginni blindni og vilji gæta hagsmuna landbúnaðarins á kostnað sjávarútvegs, iðnaðar, neytenda og skattgreiðenda.

Svo forstokkaðir eru sumir ráðamenn okkar, að forsætisráðherra sagði beinlínis í fyrradag, að nýgert samkomulag í alþjóðlega fríverzlunarklúbbnum GATT skipti okkur ekki miklu og að við gætum gefið okkur góðan tíma til að athuga, hvort við ættum að staðfesta það.

Meðan íslenzk stjórnmál eru á slíkum villigötum geta horfur í utanríkisviðskiptum ekki talizt góðar. Þegar fréttirnar að innan eru að mestu leyti slæmar, þurfum við þeim mun betri fréttir að utan, svo sem þær nýjustu, að Evrópusamfélagið sé að víkka í átt til norðurs.

Allir fjölþjóðasamningar, sem víkka fríverzlun án þess að efla miðstýringu, hafa góð áhrif á viðskiptaandrúmsloftið á svæðinu og jaðarsvæðum þess. Aðild Svía og Finna að Evrópusamfélaginu er sigur framfaraafla gegn afturhaldi á borð við það, sem ræður Alþingi Íslendinga.

Meðan góðar fréttir berast í bland við slæmar er ekki útilokað, að við getum áfram lifað góðu lífi á að selja vöru og þjónustu til þeirra, sem beztu verði vilja kaupa.

Jónas Kristjánsson

DV

Kvörnin malar

Greinar

Þeim fjölgar hægt en örugglega, sem vilja breyta hinni opinberu búvörustefnu, taka upp innflutningsfrelsi og afnema niðurgreiðslur og styrki. Í árslok 1989 sýndu skoðanakannanir, að 30% þjóðarinnar vildu innflutningsfrelsi, en haustið 1993 voru 47% þeirrar skoðunar.

Þetta er mikil hugarfarsbreyting á fjórum árum. Með sama áframhaldi verða farnar að renna tvær grímur á stjórnmálamenn, þegar þeir búa sig undir að mæta kjósendum í lok næsta kjörtímabils. Kvörn réttlætisins malar hægt á þessu sviði, en hún malar örugglega.

Ekki er hægt að búast við endurbótum á núverandi ástandi meðan meirihluti þjóðarinnar styður núverandi hömlur, þótt sá meirihluti sé orðinn afar naumur. En búast mætti við, að ráðamenn létu sér nægja að vernda kerfið og létu hjá líða að magna það og herða.

Ágreiningur stjórnarflokkanna um búvörulög snýst að verulegu leyti um, hvort landbúnaðarnefnd Alþingis og formaður hennar mega taka ákvarðanir, sem sniðganga skuldbindingar, er fylgja aðildinni að alþjóðlegri fríverzlun og eiga að koma til framkvæmda eftir ár.

Við erum ekki ein um þessa hituna. Í Frakklandi hafa stjórnvöld ákveðið að minnka innflutning á fiski með því að beita nákvæmlega þeirri aðferð, sem íslenzk stjórnvöld hafa mest notað til að hindra innflutning á búvöru. Aðferðin felst í tilbúnum heilbrigðisástæðum.

Ef hin ízlenzku og frönsku vinnubrögð ná útbreiðslu í heiminum, munu þær þjóðir tapa mestu, sem mest eiga undir útflutningsverzlun og mest allra munu Íslendingar tapa. Í kjölfar hinna frönsku aðgerða fer þessi einfalda staðreynd senn að síast inn í heilabú íslenzkra kjósenda.

Sum erlend stjórnvöld ganga beinna til verks en hin frönsku. Kanadamenn hafa komið í veg fyrir sölu á framleiðsluvörum Hampiðjunnar og Marels. Þetta gera þau beinlínis í hefndarskyni fyrir innflutningsbann Íslendinga á vörum, sem framleiddar eru í Kanada.

Atburðir á við þessa sýna okkur, að við erum ekki ein um verndarhituna. Þeir sýna kjósendum, að með búvörustefnu sinni eru íslenzk stjórnvöld að fórna hinum miklu meiri hagsmunum sjávarútvegs, iðnaðar og verzlunar fyrir hina miklu minni hagsmuni landbúnaðar.

Þetta hefur hins vegar ekki enn síazt inn í heilabú alþingismanna. Líklegt er talið, að um það bil 50 af 63 þingmönnum styðji verndarsjónarmið formanns landbúnaðarnefndar. Meðal þeirra eru nefndarmenn úr sjávarútvegskjördæmum á borð við Vestfirði og Reykjanes.

Samkvæmt þessu styður aðeins 21% þingmanna frelsissjónarmið, sem hafa 47% fylgi með þjóðinni. Samkvæmt þessu eru þingmenn langt á eftir þjóðinni í skilningi á efnahagslegum hagsmunum þjóðarinnar. Þannig er Alþingi einn af myllusteinunum um háls þjóðarinnar.

Vaxandi sviptingar í utanríkisviðskiptum kunna að valda því, að tvær grímur renni á stjórnmálamenn, sem hingað til hafa alls ekki áttað sig á, að með stuðningi við verndarsjónarmið landbúnaðar eru þeir leynt og ljóst að vinna gegn útflutningshagsmunum sjávarsíðunnar.

Síðar er hugsanlegt, að kjósendur fari að átta sig á hagsmunum sínum sem neytendur og skattgreiðendur. Þegar almenningur hættir að láta teyma sig á asnaeyrunum í þágu þröngra sérhagsmuna, þá fyrst verða hin stóru þáttaskil í atvinnu- og hagstefnu stjórnmálamanna.

Við stöndum á þröskuldi þess, að minni hagsmunir víki fyrir meiri. Síðan mun hægt og bítandi koma að því, að sérhagsmunir víki fyrir almannahagsmunum.

Jónas Kristjánsson

DV

Úlfurinn er enn á ferð

Greinar

“Úlfur, úlfur” er hrópað í annað sinn á skömmum tíma á Vestfjörðum. Fyrir þremur mánuðum sögðu nokkrir framámenn Vestfjarða, að ríkisstjórnin og Landsbankinn væru að drepa Vestfirði. Þeir létu Byggðastofnun heimta, að útvegaðar yrðu 300 milljónir króna í sárabætur.

Þá kom þó í ljós við skoðun, að atvinnuástand var betra á Vestfjörðum en í öðrum landshlutum. Atvinnutekjur á mann voru meiri þar en annars staðar og atvinnuleysi miklu minna. Sums staðar vestra var meira að segja notað erlent farandverkafólk til að magna veltu.

Nú er aftur hrópað “Úlfur, úlfur” á Vestfjörðum og meira að segja með auknum þunga. Innihaldið að baki neyðarópsins virðist að þessu sinni vera þetta: “Við höfum farið svo óvarlega með þorskkvótann okkar, að það þarf að verðlauna okkur með auknum þorskkvóta.”

Enn þann dag í dag er atvinna meiri á Vestfjörðum en annars staðar og tekjur fólks meiri. En á Vestfjörðum breiðist út ótti um, að þessu góðæri fari að linna, því að of mikil sókn á fyrri hluta kvótatímabilsins muni leiða til, að leggja þurfi fiskiskipum á síðari hlutanum.

Krafan um aukinn kvóta á sér hljómgrunn í kenningum um, að fiskifræði nútímans sé ónákvæm fræðigrein. Bent hefur verið á, að hugsanlegt sé, að ýmis ómæld atriði hafi jafn mikil eða meiri áhrif á viðgang fiskistofna en þau atriði, sem Hafrannsóknastofnunin hefur mælt.

Ýmsir aðilar og þar á meðal fræðimenn hafa bent á samræmi milli viðgangs íslenzkra fiskistofna og ýmissa atriða á borð við breytilegar vindáttir hér við land eða þá aðstæður við Jan Mayen eða í Barentshafi. Aðrir hafa bent á misræmi árgangsstærða og nýliðunar.

Skammt er frá slíkum efasemdum yfir í fullyrðingar um, að það, sem gæti staðizt, hljóti að standast. Þannig var einu sinni reiknað út samræmi milli vegalengda í göngum píramídans mikla og veraldarsögunnar og búin til fræðigrein, sem kölluð hefur verið píramídafræði.

Reiknilíkön Hafrannsóknastofnunar gefa án efa takmarkaða mynd, sem þarf að víkka og bæta eftir því sem rannsóknatækni eykst. Hitt er vafasamt að hafna þessum reiknilíkönum á grundvelli hugarfars píramídafræðinnar, jafnvel þótt um rökstuddar getgátur sé að ræða.

Alveg eins og skammt er frá rökstuddum getgátum yfir í kenningakerfi, þá er skammt frá kenningakerfum yfir í óskhyggju. Sérstaklega er þetta hættuleg braut, þegar hagsmunaaðilar telja henta sér að grípa til óskhyggju, sem byggist á hinum rökstuddu getgátum.

Niðurstaðan er alltaf sú sama. Því er haldið fram, að óhætt sé að veiða meira en kvótanum nemur. Því er aldrei haldið fram, að veiða eigi minna en kvótanum nemur. Þetta byggist auðvitað á samtvinnun hagsmuna og óskhyggju, sem hvílir á grunni rökstuddra getgátna.

Einn stór galli er við þá stefnu, að veiða megi meira en sem kvótanum nemur. Gallinn er, að ekki verður aftur snúið. Ef hin gagnrýndu reiknilíkön reynast hafa verið betri en engin, er of seint að byggja stofnana upp að nýju. Þeir eru horfnir eins og norsk-íslenzka síldin.

Við höfum víti að varast á þessu sviði. Færeyingar gátu ekki sætt sig við aflatakmörkun á borð við kvótakerfi. Þeir töldu, að meiri fiskur væri í sjónum en fiskifræðingar héldu fram. Þeir leyfðu óskhyggju að ráða ferðinni og glötuðu snögglega efnahagslegu sjálfstæði sínu.

Þótt tekið sé tillit til efasemda um gildi fiskifræða, er á þessu stigi ekki nein ástæða til að taka þá áhættu að leyfa meiri afla við Vestfirði en sem nemur kvótanum.

Jónas Kristjánsson

DV

Vegamót í Suður-Afríku

Greinar

Nelson Mandela tekur við af de Klerk sem forseti Suður-Afríku eftir almennar kosningar, sem verða í landinu 26.-28. apríl í vor. Fylgi Afrísku þjóðarsamkomunnar, flokks Mandelas, nær samkvæmt skoðanakönnunum til meirihluta landsmanna, þar á meðal til Zulumanna.

Mangosuthu Buthelezi og Inkatha-flokkur hans eru á undanhaldi. Samkvæmt skoðanakönnunum nær hann minna en 20% fylgi í eigin heimahéraði, Natal, þar sem Zulumenn eru fjölmennastir. Þess vegna treystir Buthelezi sér ekki til að taka þátt í kosningunum.

Buthelezi hefur gert bandalag við róttæka hægri flokka hvítra manna um að taka ekki þátt í kosningunum, svokallað Frelsisbandalag. Allir aðilar að því bandalagi eiga það sameiginlegt, að þátttaka í almennum kosningum mundi leiða í ljós rýrt fylgi að baki miklum hávaða.

Fylgi flokkanna í Suður-Afríku fer ekki eingöngu eftir ættflokkum, heldur einnig eftir atvinnuháttum. Zulu-bændur hafa til skamms tíma yfirleitt stutt Inkatha og Zulu-kónginn, en Zulu-þéttbýlismenn eru farnir að styðja Afrísku þjóðarsamkomuna eins og aðrir svartir menn.

Svipað er að segja um flokka hvítra manna í Suður- Afríku. Þéttbýlisbúar styðja flestir Þjóðarflokk de Klerks eða Lýðræðisflokkinn, sem einnig er sáttasinnaður, en margir bændur styðja nokkra róttæka smáflokka, sem hafa myndað með sér svokallað Þjóðarbandalag.

Á mánudaginn samþykkti þingið í Suður-Afríku nokkrar breytingar á stjórnarskránni í því skyni að koma til móts við dreifbýlisöflin meðal hvítra manna og svartra. Þær fela meðal annars í sér sérstakar kosningar til héraðsþinga og traustari verkaskiptingu ríkis og héraða.

Inkatha og Þjóðarbandalagið hafa hafnað þessari sáttahönd og munu reyna að trufla kosningarnar eftir tvo mánuði. Búast má við blóðbaði í tengslum við kosningarnar, enda hafa þegar fallið 14.000 manns í átökum milli stjórnmálaflokka svartra manna á síðustu fjórum árum.

Þótt Suður-Afríku takist að komast yfir þröskuldinn, eru vandamál landsins engan veginn úr sögunni. Afríska þjóðarsamkoman er fremur vinstri sinnuð og miðstýringarhneigð. Margir foringjar hennar hafa fremur lítinn skilning á markaðslögmálum og uppsprettu verðmæta.

Nelson Mandela gerir sér grein fyrir, að illa hefur farið fyrir nærri öllum ríkjum svartra manna í Afríku. Ástandið hefur verið svo slæmt í nágrannaríkjunum, að stríður straumur flóttamanna hefur verið til aðskilnaðarlandsins Suður-Afríku, en alls ekki í hina áttina.

Stjórn Mandelas mun líklega gera ráðstafanir til að reyna að sefa ótta fjármagnseigenda í landinu og soga til landsins fjármagn frá Vesturlöndum og Japan. Ef þetta tekst, eru horfur í Suður-Afríku fremur bjartar, því að landið er nógu stórt og ríkt fyrir alla íbúa þess.

Suður-Afríka er auðug að ótal góðmálmum og hefur góð skilyrði til landbúnaðar. Vestrænt fyrirmyndarástand er á samgöngum og síma og fjölmiðlun. Stjórnkerfið er virkt og dómstólar eru óháðir. Suður-Afríka hefur alla burði til að verða leiðandi afl í Afríku.

Mandela er orðinn 75 ára og er ekki einráður í flokki sínum. Í valdastöðum flokks hans eru margir, sem hafa stjórnmálaskoðanir, er munu fæla fjármagn frá landinu, svo og margs konar þekkingu, sem Suður-Afríka þarf á að halda til að komast hjá örlögum svörtu Afríku.

Fordæmin eru til viðvörunar. Illa fór fyrir Rhódesíu, þegar hún varð að Zimbabve. Með því að læra af reynslu annarra getur Suður-Afríka komizt hjá sömu örlögum.

Jónas Kristjánsson

DV

Rússland 1 – Nató 0

Greinar

Hernám Rússa á hæðunum umhverfis Sarajevo er gott fyrir fólkið í borginni. Það fær nú loksins frið fyrir árásum Serba á óbreytta borgara. Það er miklu skárra að hafa Rússa á hæðunum, því að þeir munu ekki stunda stríðsglæpi á borð við bandamenn sína, Serba.

Hernám Rússa er líka gott fyrir Serba. Þeir geta flutt hernaðartæki sín til annarra staða í Bosníu, þar sem þeir halda andstæðingum sínum í herkví. Hernám Rússa á Sarajevo-hæðum eykur möguleika Serba á að ná hernaðarlegum árangri á öðrum stöðum í Bosníu.

Serbar hafa tekið hernámsliði Rússa sem englum af himnum ofan. Horfin er hættan af Nató, sem hafði tilhneigingu til að styðja fórndardýr Serba, en í staðinn er komið rússneskt herlið, sem lítur á sig sem bandamann Serba frá fornu fari. Sigurinn er Serba og Rússa.

Þetta eru sömu rússnesku hermennirnir og áður voru í Króatíu og gengu þar fram fyrir skjöldu til að gæta hagsmuna Serba í ágreiningi þeirra við Króata. Enginn vafi er á, að hið sama mun gerast á hæðunum umhverfis Sarajevo. Bosníumenn munu engan aðgang fá að þeim.

Eðlilegt framhald af snilldarbragði Rússa við Sarajevo er, að þeir gangi á sama hátt á milli á öðrum stöðum, þar sem Bosníumenn sæta grimmdarlegu umsátri Serba. Þannig verða núverandi landvinningar Serba treystir og Rússar verða að hernámsliði í landinu í heild.

Þetta líkar landvinningamönnum Serba. Þeir þurfa ekki að gefa eftir tæpan þriðjung af landvinningum sínum samkvæmt tilllögum sáttasemjara, heldur geta þeir haldið öllu sínu í skjóli þess, að þeir séu hættir að drepa fólk. Og rússneskir hermenn varðveita landvinninga þeirra.

Mál þetta sýnir, að ekkert samhengi er milli efnahagslegs og hernaðarlegs valds. Serbía er margfaldlega gjaldþrota ríki, en heldur samt áfram að vera til og þenjast út. Rússland er um það bil að verða gjaldþrota, en eykur samt hernaðaráhrif sín í flestum nágrannaríkjunum.

Bandaríkin og Nató vaða í peningum, en hafa hins vegar lítil sem engin hernaðarleg áhrif í heiminum. Þessir aðilar minna á Zhírínovskí að því leyti, að þeir gelta mikið, en bíta ekki. Sífelldar hótanir misserum saman í garð Serba hafa smám saman leitt þetta í ljós.

Tindátar heimsins hafa tekið vel eftir þessu. Aidid í Sómalíu og Cédras á Haiti gefa Bandaríkjunum langt nef. Saddam í Írak færir sig að nýju upp á skaftið og Kim Il Sung í Norður-Kóreu safnar áhyggjulítið í atómsprengjuna sína. Þeir vita allir, að gelthundar bíta ekki.

Að baki hótana af hálfu Bandaríkjanna og Nató er ekkert nema tómið. Allir vissu, að ekki stóð frekar til að standa við síðustu hótunina gagnvart Serbum en allar hinar fyrri. Rússland skauzt inn í valdaeyðuna, sem myndaðist, og er nú orðið ráðandi veldi á Balkanskaga.

Margir bera ábyrgð á þessu. Brezk og frönsk stjórnvöld stóðu fyrir endurteknum töfum á íhlutun í Bosníu, þegar hún var auðveldari en nú. Bandarísk stjórnvöld eru flækt í barnslegri oftrú á Jeltsín Rússlandsforseta sem bandamann í bandarísk-rússneskum heimsfriði.

Nató hefur glatað upprunalegu hlutverki sínu og hefur ekki tekizt að útvega sér nýtt. Það geltir bara og geltir án þess að nokkur taki eftir því. Það þykist eins og Bandaríkjastjórn vera málsaðili að hernámi Rússa í Bosníu, en er það engan veginn. Nató er orðið að elliheimili.

Þetta er engan veginn alvont. Friður í Sarajevo er mikils virði. En það er ekki Nató-friður eða bandarískur friður. Það er rússnesk-serbneskur friður í Sarajevo.

Jónas Kristjánsson

DV

Amma Lú

Veitingar

Sá fáheyrði atburður hefur gerzt í veitingabransanum, að risið hefur skemmtistaður, sem hefur góðan og hugmyndaríkan mat á boðstólum. Þetta er brot á öllum hefðum innanlands sem utan og veldur því, að ég brýt að þessu sinni þá hefð að fjalla í veitingarýni minni aðeins um hreina matsölustaði, danslausa og prógrammlausa.

Amma Lú í kjallara Borgarkringlunnar er eins og klúbbur, ekkert auðkenndur að utanverðu og mildilega þungt innréttaður úr daufbrúnum viði, með bogariðum, bókahillum og börum. Heildaráhrifin eru fremur virðuleg, að minnsta kosti á þeim tíma sólarhringsins, sem ég þekki til, það er á matmálstíma og fram undir miðnætti.

Annað fáheyrt við matinn á Ömmu Lú er, að á föstudagskvöldum hefur að undanförnu verið á boðstólum þriggja rétta matseðill á 1993 krónur á mann auk drykkjarfanga. Velja má milli fjögurra forrétta, fjögurra aðalrétta og þriggja eftirrétta. Þetta er hreint gjafverð.

Eldhúsið kom strax á óvart með heimabökuðu brauði, grófu hvítlauksbrauði með basilikum og hvítu anisbrauði með rúsínum og banönum. Síðara brauðið er ólíkt öllu öðru, sem ég hef prófað á langvinnum ferli.

Góð fiskisúpa var gerð úr sterku humarsoði með stórum hörpufiski. Andakjötsræmusalat var fallega sett á disk og frísklegt. Ostapastabögglar voru ekkert sérstakir, en bornir fram með góðri gráðostsósu. Fegursti forétturinn var reyktur lax á steiktum kartöfluþráðum.

Grillaður nautahryggsvöðvi var mjög góður, grísalundirnar frambærilegar, svo og silungurinn. Grísinn var húðaður með ágætis innmatarfyllingu, svonefndri netju. Bezt var kjúklingabringan, borin fram með linsubaunum, sem gáfu réttinum austrænan svip og ilm.

Súkkulaðibúðingur var mildur og fínn. Pönnukaka var of þykk fyrir minn smekk. Beztur var skozkur karamellubúðingur, kallaður vanillubúðingur. Kaffi var gott og reikningurinn beztur, aðeins 1993 krónur á mann.

Á laugardagskvöldi kostar þríréttað svipað og á beztu matstöðum landsins, um 3100 krónur að meðaltali, fyrir utan drykkjarföng. Matseðillinn er þá allt annar og einnig var boðið upp á óvenjulega hluti á borð við ferskar ostrur og ferskan stórhumar frá útlöndum. Ostrurnar voru ágætlega ferskar og humarinn frambærilegur.

Á seðlinum var úrvals fiskisúpa karríkrydduð; góð gæsabringa rúmlega léttreykt; og fínasti hörpufiskur af stærstu gerð með góðu og léttu hvítlaukshlaupi.

Í aðalrétt var lambalæri með góðu gulrótarmauki og ristuðum hvítlauk. Einnig góð önd, steikt á pönnu, borin fram með ferskjum. Og nautalundir með fínu bragði af pecanhnetuhjúp, bornar fram með kartöfluflöguköku.

Súkkulaðiterta í skákborðsstíl var ekki góð. Hins vegar var góður lime-búðingur með kiwimauki. Marsipanhúðaðar perur voru fremur góðar, en berjafylltar pönnukökur voru þykkar eins og í fyrra skiptið.

Matreiðslan var í heild af betra taginu og kom á margan hátt á óvart með hugmyndaflugi í smáu sem stóru, svo sem reynt hefur verið að lýsa hér að ofan.

Ég veit ekki, hvernig Amma Lú er sem skemmtihús. En þetta er örugglega alvöru matstaður með metnað.

Jónas Kristjánsson

DV

Rómuð og alræmd

Greinar

Reykjavík fékk slæma útreið í skoðanakönnun ferðatímartisins Condé Nast Traveler um, hvaða borg heimsins hefði verstu veitingahúsin. Þessi niðurstaða er afar skaðleg fyrir ferðaímynd landsins, því að þetta er eitt allra þekktasta og mest selda ferðatímarit í heimi.

Öfugir vinsældalistar af þessu tagi hafa tilhneigingu til að hafa varanleg áhrif, sem engin leið er að bæta með auglýsingaherferðum. Skoðanakannanir eru yfireitt óhlutdrægt ritstjórnarefni, sem hefur meira vægi en kynningarefni frá aðila, sem hefur hagsmuna að gæta.

Niðurstaða könnunarinnar kemur okkur í opna skjöldu. Íslenzkir gagnrýnendur á sviði veitinga hafa fremur talið ástandið í Reykjavík vera gott í samanburði við erlendar borgir. Erlendir kunnáttumenn á þessu sviði hafa yfirleitt stutt þetta álit að fenginni reynslu.

Fyrsta hugsunin eftir lestur tímaritsins er, að einhver mistök hafi átt sér stað við úrvinnslu skoðanakönnunarinnar, til dæmis að víxl hafi orðið á borgum. Þetta er langsótt skýring, svo að við neyðumst til að líta í eigin barm til að leita að því, sem hlýtur að vera í ólagi.

Hafa verður í huga, að þeir, sem róma íslenzk veitingahús, eru yfirleitt að tala um nokkra veitingastaði í Reykjavík. Þetta eru yfirleitt frekar fínir staðir, sem margir ferðamenn tíma ekki að sækja. Þótt þetta séu dýrir staðið, eru þeir ekki dýrari en hliðstæðir staðir í útlöndum.

Verðbilið frá venjulegum stað yfir í dýran stað er miklu þrengra hér á landi en í útlöndum. Þótt dýrari staðirnir í Reykjavík standist samkeppni við hliðstæða staði í útlöndum, gera ódýrari staðirnir það ekki. Það eru ódýru staðirnir í borginni, sem eru allt of dýrir.

Erlendir ferðamenn laðast sennilega að stöðum, sem þeir búast við, að séu ódýrir og frambærilegir í senn. Í þessum hópi eru vestrænir skyndibitastaðir fyrir hamborgara, pítsur og pítur, svo og austræn veitingahús af ýmsu tagi. Á þessum alþýðlegu sviðum fáum við mínus.

Enn verra er ástandið, þegar komið er út á þjóðvegina. Þar ríkir víðast undarleg verðlagning, þar sem hamborgarasjoppur við benzínstöðvar eru að reyna að herma eftir verðlagi fínu staðanna. Þessar sjoppur eru misjafnar að gæðum, en almennt séð á óvenjulega lágu plani.

Verið getur, að erlendir ferðamenn séu með í huga þessa utanbæjarstaði, þegar þeir gefa Reykjavík lága veitingaeinkunn. Við vitum alténd, að þetta eru staðir, sem margir útlendingar neyðast til að skipta við, af því að ekki er kostur á neinum öðrum á viðkomandi svæði.

Annað atriði, sem dregur okkur niður í áliti ferðamanna, er svimandi hátt verð á bjór. Útlendingar telja hann vera hversdagslega fæðu á borð við kartöflur, en stjórnkerfið á Íslandi telur hann vera eina helztu lúxusvöruna, sem beri að skattleggja upp fyrir topp.

Þriðja atriðið er óbeins eðlis, hin opinberu mötuneyti. Þau eru óhagkvæm í rekstri og tefja útbreiðslu ódýrra hádegisverðarstaða í borginni. Framkvæma þarf ágæta nefndartillögu um, að starfsfólk fái að nota hina niðurgeiddu matarmiða sína á frjálsum veitingastöðum.

Aðilum íslenzkra ferðamála ber að taka málið föstum tökum. Skilgreina þarf, hvað það er, sem erlendum ferðamönnum fellur ekki, og reyna síðan að bæta þá þætti, sem lakastir eru. Afleitt er, ef hluti ferðaþjónustunnar kemst upp með að skaða hagsmuni heildarinnar.

Þegar íslenzk veitingamennska er sumpart rómuð og sumpart talin alræmd, hlýtur það að byggjast á einhverju misræmi, sem breyta má í hagstætt jafnvægi.

Jónas Kristjánsson

DV

Reykjavík

Veitingar

Reykjavík fékk slæma útreið í skoðanakönnun ferðatímaritsins Condé Nast Traveler um, hvaða borg heimsins hefði verstu veitingahúsin. Þessi niðurstaða er afar skaðleg fyrir ferðaímynd landsins, því að þetta er eitt allra þekktasta og mest selda ferðatímarit í heimi.

Öfugir vinsældalistar af þessu tagi hafa tilhneigingu til að hafa varanleg áhrif, sem engin leið er að bæta með auglýsingaherferðum. Skoðanakannanir eru yfireitt óhlutdrægt ritstjórnarefni, sem hefur meira vægi en kynningarefni frá aðila, sem hefur hagsmuna að gæta.

Niðurstaða könnunarinnar kemur okkur í opna skjöldu. Íslenzkir gagnrýnendur á sviði veitinga hafa fremur talið ástandið í Reykjavík vera gott í samanburði við erlendar borgir. Erlendir kunnáttumenn á þessu sviði hafa yfirleitt stutt þetta álit að fenginni reynslu.

Fyrsta hugsunin eftir lestur tímaritsins er, að einhver mistök hafi átt sér stað við úrvinnslu skoðanakönnunarinnar, til dæmis að víxl hafi orðið á borgum. Þetta er langsótt skýring, svo að við neyðumst til að líta í eigin barm til að leita að því, sem hlýtur að vera í ólagi.

Hafa verður í huga, að þeir, sem róma íslenzk veitingahús, eru yfirleitt að tala um nokkra veitingastaði í Reykjavík. Þetta eru yfirleitt frekar fínir staðir, sem margir ferðamenn tíma ekki að sækja. Þótt þetta séu dýrir staðið, eru þeir ekki dýrari en hliðstæðir staðir í útlöndum.

Verðbilið frá venjulegum stað yfir í dýran stað er miklu þrengra hér á landi en í útlöndum. Þótt dýrari staðirnir í Reykjavík standist samkeppni við hliðstæða staði í útlöndum, gera ódýrari staðirnir það ekki. Það eru ódýru staðirnir í borginni, sem eru allt of dýrir.

Erlendir ferðamenn laðast sennilega að stöðum, sem þeir búast við, að séu ódýrir og frambærilegir í senn. Í þessum hópi eru vestrænir skyndibitastaðir fyrir hamborgara, pítsur og pítur, svo og austræn veitingahús af ýmsu tagi. Á þessum alþýðlegu sviðum fáum við mínus.

Enn verra er ástandið, þegar komið er út á þjóðvegina. Þar ríkir víðast undarleg verðlagning, þar sem hamborgarasjoppur við benzínstöðvar eru að reyna að herma eftir verðlagi fínu staðanna. Þessar sjoppur eru misjafnar að gæðum, en almennt séð á óvenjulega lágu plani.

Verið getur, að erlendir ferðamenn séu með í huga þessa utanbæjarstaði, þegar þeir gefa Reykjavík lága veitingaeinkunn. Við vitum alténd, að þetta eru staðir, sem margir útlendingar neyðast til að skipta við, af því að ekki er kostur á neinum öðrum á viðkomandi svæði.

Annað atriði, sem dregur okkur niður í áliti ferðamanna, er svimandi hátt verð á bjór. Útlendingar telja hann vera hversdagslega fæðu á borð við kartöflur, en stjórnkerfið á Íslandi telur hann vera eina helztu lúxus-vöruna, sem beri að skattleggja upp fyrir topp.

Þriðja atriðið er óbeins eðlis, hin opinberu mötuneyti. Þau eru óhagkvæm í rekstri og tefja útbreiðslu ódýrra hádegisverðarstaða í borginni. Framkvæma þarf ágæta nefndartillögu um, að starfsfólk fái að nota hina niðurgeiddu matarmiða sína á frjálsum veitingastöðum.

Aðilum íslenzkra ferðamála ber að taka málið föstum tökum. Skilgreina þarf, hvað það er, sem erlendum ferðamönnum fellur ekki, og reyna síðan að bæta þá þætti, sem lakastir eru. Afleitt er, ef hluti ferðaþjónustunnar kemst upp með að skaða hagsmuni heildarinnar.

Þegar íslenzk veitingamennska er sumpart rómuð og sumpart talin alræmd, hlýtur það að byggjast á einhverju misræmi, sem breyta má í hagstætt jafnvægi.

Jónas Kristjánsson

DV

Upphefð að utan

Greinar

Dómar hafa skánað nokkuð hér á landi, síðan fólk fór að hagnýta sér þann möguleika að vísa málum sínum til fjölþjóðlegra dómstóla, sem Ísland hefur neyðst til að samþykkja vegna viðskiptahagsmuna okkar af þátttöku landsins í fjölþjóðlegu samstarfi af ýmsu tagi.

Íslenzkir dómstólar eru ekki lengur eins hallir undir yfirvaldið og áður var. Nú verða þeir að taka tillit til mannréttinda og ýmissa grundvallaratriða í lýðræðislegu þjóðfélagi, svo að úrskurðum þeirra verði ekki enn einu sinni hnekkt af fjölþjóðlegum dómstóli úti í Evrópu.

Endurtekin sneypa ríkisins á þessum fjölþjóðlega vettvangi hefur leitt til betri aðgreiningar dómsvalds og stjórnsýslu. Sýslumanna- og fógetaembættum hefur verið skipt í héraðsdómaraembætti annars vegar og sýslumannsembætti hins vegar. Þetta er umtalsverð réttarbót.

Á fleiri sviðum eru utanaðkomandi áhrif farin að vernda almenning betur gegn yfirvaldinu og gæludýrum þess. Eitt nýjasta dæmið er, að fjölþjóðlegir viðskiptasamningar takmarka geðþótta landbúnaðarráðherra í ofbeldisaðgerðum gegn innflutningi ódýrrar matvöru.

Með aðild ríkisins að fjölþjóðlegum stofnunum á borð við Fríverzlunarsamtökin, Evrópska efnahagssvæðið og alþjóðlega fríverzlunarklúbbinn GATT hafa verið takmarkaðir möguleikar íslenzkra yfirvalda á að skattleggja almenning í formi einokunar og innflutningsbanns.

Viðskiptahagsmunir Íslands hafa neytt stjórnvöld til að undirrita samninga, sem munu smám saman valda auknu vægi innlendra almannahagsmuna gagnvart innlendum sérhagsmunum. Stjórnvöld hafa af alefli reynt að takmarka þessa breytingu, en orðið að gefa eftir.

Á öllum þessum sviðum birtast útlendar stofnanir, svo sem dómstólar og samtök, sem verndarenglar íslenzkrar alþýðu gegn innlendri yfirstétt embættis- og stjórnmálamanna, sem stjórna ríkinu í þágu afmarkaðra sérhagsmuna á borð við ráðuneyti, landbúnað og stórfyrirtæki.

Þetta er ekki ný bóla. Allt frá miðöldum hefur íslenzki jarðeigna- og embættaaðallinn gert ráðstafanir til að halda niðri sjávarútvegi og skattleggja hann í þágu landbúnaðar, svo sem fram hefur komið í nýlegum sagnfræðirannsóknum. Kóngur og hirð voru helzt til varnar fólki.

Þegar nýir lýðræðisstraumar í Evrópu fengu upplýsta hirðmenn í Kaupmannahöfn til að reyna að bæta stöðu íslenzkrar alþýðu, börðust íslenzkir embættismenn gegn því af hörku, svo að vinnumenn færu ekki að heimta hærra kaup í skjóli þess, að ella færu þeir á vertíð.

Höfuðástæðan fyrir því, að Ísland varð sjálfstætt ríki, er ekki heimastjórnin fyrir 90 árum, heldur stofnun Íslandsbanka á sama tíma. Um hann streymdi hingað erlent fjármagn, sem varpaði töfrasprota sínum á frumstæðan sjávarútveg og gerði hann að vélvæddri stóriðju.

Síðan komu tvær heimsstyrjaldir, sem færðu Íslandi stórgróða. Þær komu að utan eins og annar happafengur þjóðarinnar. Eftir þær kom kalda stríðið landinu í góðar flugsamgöngur við umheiminn. Jafnan voru það utanaðkomandi öfl, sem bættu stöðu almennings á Íslandi.

Hinar lýðræðislegu og efnahagslegu forsendur fyrir sjálfstæði og fullveldi Íslands og fyrir velmegun almennings hafa að verulegu leyti komið að utan, sumpart fyrir þrýsting. Þær eru ekki verk innlendrar yfirstéttar, heldur eru þær sumpart komnar til sögunnar þrátt fyrir hana.

Upphefðin hefur komið að utan. Við eigum enn eftir að sýna fram á, að við getum rekið sjálfstætt og efnahagslega öflugt lýðræðisríki á Íslandi fyrir eigin tilverknað.

Jónas Kristjánsson

DV

Kolbítar úr öskustó

Greinar

Námskeið ýmissa aðila fyrir atvinnulausa hafa gerbreytt lífi margra þeirra, sem þátt hafa tekið. Þeir hafa ekki aðeins aflað sér nytsamlegrar og verðmætrar kunnáttu. Þeir hafa einnig áttað sig á ýmsum atvinnu- og athafnatækifærum, sem þeir sáu ekki greinilega áður.

Menningar- og fræðslusamband alþýðu hefur bætzt í hóp þeirra aðila, sem bjóða fræðslu fyrir atvinnulausa. Það býður vikunámskeið, sem eru svo eftirsótt, að það annar ekki eftirspurn. Þetta starf fór fremur hægt af stað fyrir ári, en er nú komið á fljúgandi ferð.

Atvinnuleysistryggingasjóður greiðir þátttökugjöld atvinnulausra. Því fé er vel varið. En sjóðurinn er illa stæður og hefur ekki efni á að gera eins mikið og þyrfti á þessu sviði, því að skyldur hans beinast fyrst og fremst að atvinnuleysisbótum, sem hafa þyngzt ört í vetur.

Atvinnuleysi er líkt kreppu að því leyti, að það á rætur að hluta í hugarfari fólks. Atvinnuleysi hugarfarsins er skylt kreppu hugarfarsins. Þetta sést jafnan vel í aðvífandi kreppu, þegar margir magna hana með því að draga saman segl á sama tíma til að verjast stórsjóum.

Háskólinn hefur frumkvæði að söfnun upplýsinga, sem sýna, að töluvert er til af ónotuðum tækifærum. Þar er líka búið að koma á fót stuttu námi í hagnýtum fræðum, sem henta þeim, sem vilja afla sér þekkingar á vænlegum sviðum. Þátttakendur þurfa ekki stúdentspróf.

Margir atvinnulausir eru auðvitað ekki undir það búnir að grípa tækifæri úr gögnum Háskólans eða leggja í eins árs nám, sem getur reynzt erfitt. Sumum henta frekar hálfs vetrar námskeið, sem boðin eru í námsflokkum, svo sem gamalgrónum Námsflokkum Reykjavíkur.

Fyrir suma getur hentað að byrja á vikunámskeiðum hjá Menningar- og fræðslusambandi Alþýðu, stökkva síðan upp í Námsflokkana, taka svo til við eins árs nám í Háskólanum og grípa loks eitt af hinum mörgu tækifærum til nýsköpunar, sem eru á skrám Háskólans.

Þetta byggist á, að kreppa er yfirleitt tengd afmörkuðum greinum, einkum láglaunagreinum. Samhliða atvinnuleysinu er verið að auglýsa eftir fólki á öðrum sviðum og stundum með of litlum árangri, hreinlega af því að ekki er til nógu mikið af fagfólki á því sviði.

Bjóða þarf atvinnulausum byrjendanámskeið, þar sem farið er yfir atvinnutilboð í dagblöðum og skilgreint, hvers konar kunnátta er eftirsótt. Síðan þarf að bjóða stutt námskeið á sviðum, þar sem hugsanlegt er á stuttum tíma að ná afmörkuðum árangri, það er að fá vinnu.

Þeir, sem lengra eru komnir í sjálfstrausti, geta þurft námskeið í rekstrartækni og markaðssetningu, bókfærslu og tölvubókhaldi, réttritun og viðskiptaensku, fjárhagslegu aðhaldi og fjármálastjórn, svo og auðvitað námskeið í sérstökum geirum atvinnulífsins.

Afleiðingin er, að fleiri en áður rífa sig upp úr hugarkreppu atvinnuleysis og gera sig hæfa til að vinna nýtt starf í stað hins tapaða og að fleiri en áður grípa tækifæri til nýsköpunar. Á þetta leggst bónus, sem felst í margfeldisáhrifum veltunnar í þjóðfélaginu.

Sá, sem aflar sér atvinnu á nýju sviði, aflar sér um leið tekna, sem hann notar að hluta til að kaupa þjónustu. Það þýðir aukna veltu í þjóðfélaginu, aukna bjartsýni og nýjar ráðagerðir um útþenslu. Þannig má útrýma kreppu með því að ráðast fyrst á kreppu hugarfarsins.

Einnar viku námskeið getur verið eins og ævintýrið um kolbítinn, sem reis úr öskustó. Enn markvissara starf getur látið kreppu hverfa eins og dögg fyrir sólu.

Jónas Kristjánsson

DV

Heimasmíðað atvinnuleysi

Greinar

Þótt séríslenzka kreppan sé rétt að byrja, eru tæplega tíu þúsund manns þegar orðin atvinnulaus. Annar eins fjöldi mun missa atvinnu sína á næstu árum, einkum vegna samdráttar í gömlum atvinnugreinum, sem ekki geta endalaust haldið uppi dulbúnu atvinnuleysi.

Þriðja tugþúsundið verður atvinnulaust af því að það er sá fjöldi, sem mun bætast við vinnumarkaðinn fram til aldamóta, án þess að þjóðfélagið búi til ný tækifæri til að mæta aukningunni. Þannig er vandamál líðandi stundar aðeins þriðjungur af vandanum í heild.

Að kröfu aðila vinnumarkaðarins hefur ríkisstjórnin gert illt verra með því að færa atvinnuleysi milli ára. Hún útvegaði smávægilega vinnu í fyrra með því að taka skammtímalán til að flýta verkefnum. Þá milljarða verður að endurgreiða um leið og verkefnin eru úr sögunni.

Kreppan byrjaði í fyrra sem kreppa hugarfarsins og fer senn að breytast í hefðbundna alvörukreppu. Framtak og áræði hefur látið undan síga, meðan aðilar vinnumarkaðarins og ríkisstjórnin hafa lagzt í skottulækningar, sem vernda og efla forsendur atvinnuleysisins.

Kreppan kemur ekki frá útlöndum og er því hreint sjálfskaparvíti þjóðarinnar, sem styður verndun og eflingu hins liðna. Kreppunni má bægja frá með því að hafna þessari stefnu og fara í staðinn að hlúa að vaxtarbroddi hins nýja, þess sem tekur við af hinu gamla.

Milljörðum er kastað út í veður og vind á hverju ári í ríkisrekstri landbúnaðar. Verið er að taka upp niðurgreiðslur á fleiri sviðum til að vernda fortíðina í iðnaði. Senn verður ráðizt að fiskistofnunum með neyðarúrræði aukinna veiðikvóta, sem leiðir til hruns sjávarútvegs.

Hugmynda- og athafnafólk hefur þó ekki gefizt upp. Alls staðar eru að kvikna ný verkefni, yfirleitt í fámennum fyrirtækjum. Í miðju atvinnuleysinu er alltaf verið að auglýsa eftir fólki á afmörkuðum sviðum. Oft er erfitt að fá fólk, sem kann til verka í vaxtargreinum.

Í Háskólanum er leitað skipulega að nýjum tækifærum og reynt að setja saman aðgengilegar upplýsingar um þau. Þar er líka stunduð endurmenntun á ýmsum sviðum, sem koma fólki að gagni, þegar það skiptir um starfsvettvang. Þetta er glæta í skammdegi kreppunnar.

Aðilar vinnumarkaðarins og ríkisstjórnin ættu að stuðla að slíkri endurhæfingu þjóðarinnar til átaka á nýjum sviðum fremur en að kreppa verndarvænginn utan um láglaunagreinar fortíðarinnar. Það er miklu ódýrara að hlúa að hinu nýja en að vernda hið gamla.

Atvinnuleysið stafar ekki af skorti á tækifærum hér á landi. Það stafar af því, að breytingum, sem verða á aðstæðum í tímans þungu rás, er ekki mætt með sveigjanleika í átt til breytinganna, heldur með krampakenndri stirðnun í farvegi hins gamla og góðkunna og úrelta.

Við höfum aðra mikilvæga ástæðu til að velja sókn fremur en vörn. Við þurfum að efla bjartsýni og sjálfstraust kynslóðanna, sem koma til skjalanna. Við verðum að efla vilja til átaka og afreka. Unga fólkið þarf að finna, að þjóðin hafi þörf fyrir það og vænti mikils af því.

Kjarkmissir er ein alvarlegasta hliðarverkun þess, þegar atvinnuleysi fer saman við varnaraðgerðir, en ekki sóknaraðgerðir. Við megum ekki við því, að unga fólkið telji, að opið eða dulbúið atvinnuleysi sé eðlilegt og hefðbundið ástand, sem taki við að skólagöngu lokinni.

Atvinnuleysið stafar af kreppu, sem orðið hefur til í hugum fólks, mest af völdum rangrar stefnu stjórnvalda, aðila vinnumarkaðarins og ýmissa hagsmunasamtaka.

Jónas Kristjánsson

DV

Framsókn við völd

Greinar

Í Rússlandi hefur verið mynduð ríkisstjórn í anda Framsóknarflokksins, svipuð þeirri og var í Sovétríkjunum á valdaskeiði Gorbatsjovs. Einkenni stjórnarstefnunnar er miðstýring og verndun gamalla stórfyrirtækja á borð við Samband íslenzkra samvinnufélaga.

Þetta er ekki hinn norræni millivegur sósíalisma og kapítalisma, heldur sá millivegur, sem bezt er kenndur við Framsóknarflokkinn. Munur hans og norræna millivegarins er, að í stað áherzlunnar á velferð heimilanna kemur áherzla á velferð fortíðargreina í atvinnulífi.

Þessi stefna hefur löngum verið tærust hjá hinum íslenzka Framsóknarflokki, þótt hún sé í reynd rekin af öllum stjórnmálaflokkum á Íslandi, þar á meðal þeim, sem eru við völd um þessar mundir. Við þurfum því ekki að verða hissa, þótt Rússar fari sömu millileið.

Gorbatsjov tókst ekki að ná árangri með aðferðum Framsóknarflokksins. Tsjernomýrdín forsætisráðherra og Jeltsín forseta mun ekki takast það heldur. Framundan er því kreppa og frekari skerðing lífskjara í Sovétríkjunum, með tilsvarandi óánægju og ókyrrð almennings.

Styrkir, niðurgreiðslur og uppbætur til gamalla atvinnugreina og hefðbundinna stórfyrirtækja munu soga til sín og brenna upp fjármagn, sem ella hefði verið hægt að nota til að létta líf fólks. Þetta er næstum því nákvæmlega hið sama og verið er að gera á Íslandi.

Framsóknarflokkarnir fjórir eða fimm á Íslandi hafa komizt upp með þetta, af því að þjóðin hefur grætt góðan pening á tveimur heimsstyrjöldum og einu kaldastríði. Rússar hafa hins vegar ekki efni á að fara þessa leið, enda eru engir happdrættisvinningar þar í umferð.

Rússar lentu í þessari blindgötu millileiðar, af því að hinir vestrænt sinnuðu hagfræðingar, sem Jeltsín hafði aðallega stuðzt við, voru minni stjórnmálamenn en hagfræðingar. Þeir gátu ekki komið sér saman um framboðslista og voru ekki miklir bógar í kosningabaráttu.

Eftir kosningar tók steininn úr, því að þeir létu þær sér ekki að kenningu verða og þjöppuðu sér ekki saman, heldur misstu frumkvæðið í hendur miðjumanna, sem standa bak við hinn nýja forsætisráðherra. Sem forseti getur Jeltsín ekki annað en tekið tillit til þessa.

Að undanförnu hefur efnahags- og peningastjórn í Rússlandi verið sérkennileg blanda, þar sem framsóknarmenn á borð við Tsjernómýrdín forsætisráðherra og hreinir afturhaldsmenn á borð við Gerashtsjenko seðlabankastjóra hafa spyrnt við fótum og spillt umbótum.

Nú verður ekki lengur hægt að kenna markaðsmönnum á borð við Gajdar og Fjodorov um það, sem aflaga fer í Rússlandi. Þeir eru flúnir úr ríkisstjórn. Miðjumennirnir verða framvegis sjálfir að svara fyrir rándýrar gerðir sínar, án þess að geta falið sig bak við markaðsmenn.

Öll er þessi breyting frá vestrænu til austrænu í samræmi við vilja þjóðarinnar, sem kom fram í þingkosningunum. Þjóðin hafði ekki úthald til að þola hremmingar markaðsvæðingarinnar og kaus öryggi í faðmi miðstýringarmanna, sem lofuðu vernd og varðveizlu.

Miðjumennirnir eru að taka upp harðari þjóðernisstefnu til að verjast gagnrýni hins geðbilaða Zhírínovskís og til að ná í lausafylgi, sem rann til hans á síðustu dögum kosningabaráttunar. Þess vegna verður Rússland verri nágranni en verið hefur undanfarin misseri.

Þegar Rússar fara að átta sig á getuleysi Framsóknar, munu sumir hallast að þjóðrembu og aðrir að markaðsstefnu. Óvíst er, hvor stefnan taki við af Framsókn.

Jónas Kristjánsson

DV