Author Archive

Aðvífandi hversdagsleiki

Greinar

Hin margumtalaða björgunarþyrla er ekki enn komin á fjárlög ríkisins, þótt ríkisstjórnin hafi lofað henni oftar en nokkurn rekur minni til. Hún var ekki sett á fjárlög þessa árs, af því að án hennar var fjárlagahallinn kominn upp í ótrúlega stærðargráðu, 9,6 milljarða króna.

Björgunarþyrlunni marglofuðu var haldið fyrir utan til að fegra fjárlögin og gefa reiknistofnunum ríkisins lægri hallatölu til að miða við, þegar þær færu að spá lágum vöxtum og lítilli verðbólgu á síðari hluta ársins. Þær spár hljóta nú að vera um það bil að gliðna.

Ríkisstjórnin hefur haldið þeim gamla sið að taka ekki mark á fjárlögum ríkisins. Hún hefur samþykkt margvísleg útgjöld utan fjárlaga, einkum á vegum heilbrigðisráðuneytisins. Þar á ofan hefur ríkisreksturinn farið úr böndum, einkum á vegum þess hins sama ráðuneytis.

Þetta er ekki bara vont fyrir þjóðina, heldur einnig ríkisstjórnina. Gliðnunin er of snemma á ferð til að koma ríkisstjórninni að gagni í kosningum að ári. Í millitíðinni er hætt við, að vextir og verðbólga hafi byrjað að taka við sér, þegar ríkisstjórnin fer fyrir þjóðardóm.

Algengt er hér og erlendis, að ríkisstjórnir gefi útgjöldum lausari taum á kosningaári til að koma kjósendum í heldur betra skap fram yfir kosningar. Ráðherrar hugsa sem svo, að meginmálið sé að halda stólunum. Síðan megi reyna að bjarga málum fyrir horn eftir kosningar.

Þetta bragð gengur ekki upp, þegar taumurinn er gefinn laus árið á undan kosningaárinu. Þá eru timburmenn eyðslufyllirísins farnir að koma í ljós fyrir kosningar. Þess vegna er brýnt fyrir ríkisstjórnina sjálfa að herða tökin, sem hafa verið að linast að undanförnu.

Bragðið gengi aðeins upp, ef ætlunin væri að fara í kosningar áður en kjörtímabilið rennur út. Ef ríkisstjórnin ætlar sér í haustkosningar, er einmitt rétti tíminn í sumar að fara að eyða peningum, sem ekki eru til. Það hefur aðeins áhrif á vexti og verðbólgu eftir kosningar.

Þriggja til fjögurra milljarða aukning á ríkishallanum getur bent til, að annaðhvort sé ríkisstjórnin að hugleiða haustkosningar eða neyðist til að efna til þeirra til þess að vera ekki með allt niðrum sig á kosningadegi. Þannig gæti raunar ósjálfrátt komið til haustkosninga.

Samkvæmt nýrri skoðanakönnun er ríkisstjórnin aftur komin í meirihluta meðal kjósenda eftir langvinnar óvinsældir. Ef stjórnin tekur könnunina eins alvarlega og stjórnmálamenn taka kannanir yfirleitt, er líklegt, að niðurstaðan hvetji landsfeður til haustkosninga.

Ríkisstjórnin getur ekki talað sig út úr vandanum með því að leggja fram ráðagerðir um, að næsta ríkisstjórn geri eitthvað í málunum á næstu árum. Hún þarf að mæta kjósendum með lága vexti og litla verðbólgu. Þetta eru nefnilega einu trompin, sem hún hefur á hendinni.

Ríkisstjórnin getur svo sem látið góða hagfræðinga búa til gáfulegt plagg um æskilega stefnu í ríkisfjármálum til langs tíma. En kjósendur verða tæplega svo mikið í skýjunum út af pappírum af því tagi, að þeir taki ekki eftir raunverulegum breytingum á vöxtum og verðbólgu.

Fyrir þjóðina er betra, að ríkisstjórnin fari ekki auðveldu leiðina með því að láta reka á reiðanum og efna til haustkosninga, heldur fari hún erfiðu leiðina, taki af festu á málum sínum, svo að hún geti með nokkur tromp á hendi mætt þjóðinni í kosningum á eðlilegum tíma.

Því miður er svo notalegt að láta reka á reiðanum, að ósjálfrátt dregur mátt úr mönnum, þegar þeir þurfa að nýju að takast á við aðvífandi hversdagsleika.

Jónas Kristjánsson

DV

Síðari skákin

Greinar

Skurðgröftur borgarveitustofnana hefur tíðum þótt vera augljóst dæmi um tvær veikar hliðar á borgarrekstrinum. Annars vegar hefur þessi gröftur þótt bera vitni um lélegt samstarf milli smákónga. Og hins vegar hefur hann komið léttúðugu óorði á svonefnda bæjarvinnu.

Ekkert sérstakt bendir til, að rekstur Reykjavíkurborgar sé að þessu leyti lakari en annarra sveitarfélaga eða rekstur á vegum ríkisins. Opinber rekstur er í eðli sínu ekki eins hagkvæmur og einkarekstur, meðal annars vegna skorts á aðhaldi af frjálsri samkeppni.

Enn síður bendir nokkuð til, að embættismenn Reykjavíkur séu að einhverju leyti hæfari í rekstri en aðrir opinberir embættismenn. Hæfni þeirra er áreiðanlega upp og ofan eins og annarra embættismanna, að mestu háð tilviljunum við upphaflega ráðningu þeirra.

Smákóngar Reykjavíkurborgar hafa margir hverjir setið lengi við að safna völdum og vernda þau. Friðsælt samkomulag hefur verið milli pólitíska meirihlutans og embættismannakerfisins um, að hið síðarnefnda fái að mestu að ráða framkvæmdum og fyrirkomulagi.

Þegar vinstri stjórn var við völd í Reykjavík á einu kjörtímabili fyrir hálfum öðrum áratug, virtist hún ekki geta hreyft sig mikið fyrir apparatinu. Það hélt áfram að stjórna eins og það hafði alltaf gert. Hlutar þess grófu raunar undan hinum óvænta og óvelkomna meirihluta.

Hinn nýi vinstri meirihluti í Reykjavík hefur fordæmi þessarar gömlu vinstri borgarstjórnar sér til viðvörunar. Hann hefur fetað fyrstu skrefin rétt, með sameiginlegum lista og sterkum, pólitískum borgarstjóra, í stað sundraðra lista og veiks, tæknilegs borgarstjóra.

Samkvæmt kosningaloforðum er verk að vinna. Þau fela í sér aukið eftirlit með rekstri borgarinnar, sem undanfarin ár hefur of mikið einkennzt af montframkvæmdum. Og þau fela í sér áherzlubreytingar, sem nýi minnihlutinn lofaði raunar líka í sinni baráttu.

Mjög víða er brotalöm í smákóngakerfi borgarinnar. Sumir þættir þess hafa orðið endurtekið fjölmiðlaefni, svo sem byggingaeftirlitið og Kjarvalsstaðir. Aðrir þættir hafa vakið minni athygli, en eru þó skoðunar virði, svo sem rekstur íþróttamannvirkja í skólum borgarinnar.

Fyrirhuguð fjárhagsúttekt á rekstri borgarinnar er góðra gjalda verð, því að hún mun vafalaust sýna, að monthús undanfarinna ára séu þungur baggi á borginni og borgarbúum. En slík úttekt takmarkast vafalaust við yfirborðið eins og slíkar úttektir gera jafnan.

Úttektir eru dæmigerð viðbrögð stjórnmálamanna við kröfum um, að eitthvað sé gert í málum. Þær eru lesnar, en fjara síðan út, því að þær gegna fyrst og fremst hlutverki pólitísks verkjalyfs. Aðhald með rekstri þarf að vera sífellt, en ekki bara vera átaksverkefni.

Embættismenn eru sveigjanlegir, en vilja ekki láta ónáða sig með úttektum. “Já, borgarstjóri”, segja þeir. Ótal dæmi víða um heim sýna, að þeir hafa gott lag á að hefja aðgerðir í kjölfar úttekta og láta þær síðan fjara út, þegar fer að draga úr upphafsáhuga pólitíkusa.

Kosningasigur er aldrei nema hálfur sigur. Hann gefur lítið annað en aðgang að annarri baráttu, slagnum við kerfi smákónga og annarra embættismanna. Reynslan sýnir, að margir og líklega flestir þeir, sem vinna fyrra stríðið, ná litlum sem engum árangri í hinu síðara.

Enn einu sinni mun koma í ljós, að skákin við pólitíska andstæðinga er barnaleikur í samanburði við skákina við rótgróna og heimaríka borgarembættismenn.

Jónas Kristjánsson

DV

Tæknilegar hindranir

Greinar

Árangur í sameiginlegu framboði flokka í byggðakosningum leiðir ekki til þess, að búast megi við sameiginlegum listum flokkanna í alþingiskosningum. Þótt slíkur árangur vísi í átt til tveggja flokka kerfis, koma tæknilegar hindranir í veg fyrir greiða framkvæmd málsins.

Listakosningar freista alltaf til sérframboða, þegar sérsjónarmiðum er ekki talið borgið í regnhlífarsamtökum á borð við R-listann og D-listann í Reykjavík. Samstarf getur haldizt sums staðar og um tíma, en ekki alls staðar og alltaf. Regnhlífarsamtök eru óstöðugt fyrirbæri.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur náð meiri festu en önnur regnhlífarsamtök, en það hefur ekki fengizt ókeypis. Þegar margar vistarverur eru í húsi flokks, hættir hann að verða málefnamiðstöð og verður að kosningabandalagi í valdaklúbbi stjórnmálamanna og fylgismanna þeirra.

Slíkur flokkur getur orðið með afbrigðum sveigjanlegur. Hann skiptir eins og ekkert sé um borgarstjóra í miðri á og tekur upp vinstri stefnu í miðri kosningabaráttu eins og að drekka vatn. Málefnalega er minni festa í honum en regnhlífarsamtökum á borð við R-listann.

Uppbótarkerfi þingkosninga dregur úr líkum á sameiginlegum framboðum af staðbundnu tagi. Slík framboð trufla nýtingu atkvæða til uppbótarsæta. Kerfið er í raun þannig, að kjósendur eru að hluta til að greiða atkvæði í öðrum kjördæmum en sínu eigin og vita ekki í hverjum.

Með einmenningskjördæmum væri hins vegar hvatt til kerfis tvennra regnhlífarsamtaka á borð við R-listann og D-listann í Reykjavík. Eins og stjórnmálaflokkum er háttað hér á landi nú til dags mun þeim reynast auðvelt að renna í tvær sængur í kerfi einmenningskjördæma.

Pólitískur grundvallarmunur hefur minnkað. Sem dæmi má nefna, að undir forustu Ólafs Ragnars Grímssonar hefur Alþýðubandalagið orðið að eins konar Möðruvallahreyfingu Framsóknar. Kvennalistinn gæti málefnalega séð allt eins verið kvennadeild Framsóknar.

Öflin að baki R-listans í Reykjavík snúast um pólitíska miðju, sem er á þröngu bili milli Möðruvallahreyfingarinnar sálugu og Framsóknarflokksins, Að baki D-listans eru öfl, sem snúast um pólitíska miðju, sem er á þröngu bili milli Bændaflokksins sáluga og Framsóknar.

Ekkert ætti að vera því til fyirstöðu í kerfi einmenningskjördæma, að þjóðin safnaðist í tvo Framsóknarflokka, sem skiptust á um að fara með völd að engilsaxneskum hætti. Annar væri með R-lista ímynd og hinn með D-lista ímynd, en innihaldið væri mjög svipað.

Það leiðir af þessum hugleiðingum, að ekki er ástæða til að reikna með umtalsverðum ágreiningi innan meirihluta R-listans í Reykjavík á kjörtímabilinu. Með nokkru lagi ætti R-listinn að geta lifað af kjörtímabilið og að því loknu verið álíka frambærilegur kostur og D-listinn.

Þá mætti segja, að eins konar brezku ástandi yrði komið á í Reykjavík. Það fælist í, að meirihlutaskipti yrðu í sumum borgarstjórnarkosningum, en ekki öðrum. Embættismanna- og smákóngagengið héldi líklega áfram að ráða ferð eins og það hefur gert um langan aldur.

Eins og sjá má, að í sumum byggðum koma málefni ekki í veg fyrir samstarf Sjálfstæðisflokks og Alþýðubandalags, þá er ekki efnislega ástæða til að efast um, að hinir ýmsu Framsóknarflokkar geti með ýmsum hætti myndað með sér regnhlífar- eða kosningabandalög.

Þröskuldurinn felst hins vegar í tæknilegum aðstæðum í alþingiskosningum, annars vegar í kerfi framboðslista og hins vegar í úthlutunarkerfi uppbótarsæta.

Jónas Kristjánsson

DV

Pólitískur hámarksafli

Greinar

Sjávarútvegsráðherra og ríkisstjórnin komust að pólitískri niðurstöðu, þegar leyfður var 155.000 tonna þorskafli á næsta fiskveiðiári, 25.000 tonnum meiri afli en Hafrannsóknastofnunin hafði lagt til. Niðurstöðuna verður að skilja í ljósi þess, að kosið verður að ári liðnu.

Reikningsmenn stjórnarinnar telja, að niðurstaðan feli í sér, að svonefnd kreppa dýpki ekki á síðari hluta þessa árs og fyrri hluta hins næsta, heldur verði örlítill hagvöxtur upp á tæpt prósent. Það jafngildir um leið friði á vinnumarkaði og stöðugu krónugengi á þessum tíma.

Það verður gott fyrir atvinnulífið að búa við stöðugar og friðsamar aðstæður í eitt ár. Það stuðlar enn frekar að sæmilegu jafnvægi í þjóðarbúskapnum, þegar ríkisstjórnin leggur störf sín í dóm kjósenda að ári liðnu. Í ljósi alls þessa er 155.000 tonna ársafli skiljanlegur.

Niðurstaðan stuðlar hins vegar ekki að auknum þorskafla í framtíðinni. Hún felur í sér, að hrygningarstofn þorsks stækkar ekki upp úr því lágmarki, sem hann er kominn í um þessar mundir. Tillagan um 130.000 tonna veiði fól hins vegar í sér, að þessi stofn mundi vaxa.

Til eru þeir, sem telja, að hrygningarstofninn megi vera eins lítill og hann er. Sveiflurnar séu svo miklar í lífríkinu, að þorskstofninn verði fljótur að jafna sig, ef aðstæður í sjónum batni á nýjan leik. Þeir telja þær aðstæður skipta miklu meira máli en magnið af veiddum þorski.

Þetta eru áhættusamar hugleiðingar. Tvær nágrannaþjóðir okkar hafa gengið miklu harðar fram í þorskveiðum en við. Þær hafa ekki haft strangt kvótakerfi. Þetta eru Færeyingar og Kanadamenn. Aflinn hrundi hjá þeim báðum og þorskur var á endanum friðaður við Kanada.

Eftir fimm ára friðun við Nýfundnaland í Kanada eru engin merki þess, að þorskstofninn hafi tekið við sér. Sumir segja þetta sýna gagnsleysi friðunar, en ríkjandi skoðun er, að þetta sé afleiðing fyrri ofveiði. Ákveðið hefur verið að friða þorskinn í fimm ár í viðbót.

Óneitanlega væri slæmt fyrir okkur að lenda í svipaðri stöðu og Færeyingar, svo ekki sé vísað til ástandsins á austurströnd Kanada. Erfitt er að hugsa sér Ísland án þorskveiða, þótt við höfum ef til vill gott af að læra að komast af án þess að setja allt traust okkar á þorskinn.

Ekki er nýtt, að ráðamenn þjóðarinnar telji sig þurfa að leyfa meiri þorskveiði en fiskifræðingar ráðleggja. Eitt frægasta dæmið er Steingrímur Hermannsson, sem var einu sinni sjávarútvegsráðherra og sagði, að meira máli skipti, hvað þjóðin þolir, en hvað þorskurinn þolir.

Um langt árabil hefur á hverju ári verið leyft að veiða meira en fiskifræðingar hafa lagt til og um jafnlangan tíma hefur raunverulegur afli á hverju ári farið langt upp fyrir leyfilegt magn. Eðlilegt er að telja tengsli vera milli þessa og hnignunar þorskstofnsins á sama tíma.

Ljósi punkturinn í niðurstöðu sjávarútvegsráðherra er, að hún tekur inn í myndina þann afla, sem áður var utan kvóta. Er það í samræmi við ný lög, sem Alþingi setti í vetur. Því má gera ráð fyrir, að hin leyfðu 155.000 tonn séu raunveruleg tala, en ekki bara bókhaldstala.

Sægreifar stóru skipanna kvarta yfir hlutdeildinni, sem trillukarlar fá af heildarkvóta. Þorskafli hinna síðarnefndu er ekki skertur, en þorskafli sægreifanna hins vegar um 17%. Þetta táknar, að pólitíkusar hafa uppgötvað, að trillukarlar hafa fleiri atkvæði en sægreifar.

Þannig hafa stjórnvöld fundið málamiðlun, sem ekki verður mjög umdeild. Tekið er tillit til ýmissa pólitískra sjónarmiða. Þorskurinn einn var ekki spurður álits.

Jónas Kristjánsson

DV

Allt kom fyrir ekki

Greinar

Gagnsókn Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík stöðvaðist helgina fyrir kosningar, þegar flokkurinn náði 48,4% fylgi í skoðanakönnun. Upp úr þeirri tölu komst hann ekki í könnunum kosningavikunnar. Þrjár kannanir í röð sýndu nákvæmlega þetta sama fylgi fram eftir vikunni.

Síðan dalaði fylgið í lok vikunnar. Þá komu til sögunnar tveir kappræðufundir borgarstjóraefnanna. Samkvæmt mælikerfi fyrri fundarins varð Ingibjörg Sólrún sigurvegarinn. Eftir fundina jókst fylgi R-listans úr 51,6% í þau 53%, sem komu fram í kosningaúrslitunum sjálfum.

Lokaspretturinn í kosningavikunni bendir ekki til, að Sjálfstæðisflokkurinn hefði náð meiri árangri í Reykjavík, þótt kosningabaráttan hefði orðið lengri. Þar með er ekki sagt, að mikill áróðurskostnaður flokksins hafi verið til einskis. Hann dugði bara ekki á endaspretti.

Sjálfstæðisflokkurinn sýndi mikinn sveigjanleika í kosningabaráttunni. Hann skipti um borgarstjóra í upphafi baráttunnar, þegar skoðanakannanir voru flokknum erfiðar. Og hann færði sig snögglega yfir til vinstri í borgarmálefnum, gerðist hreinn vinstri flokkur um tíma.

Borgarstjóraskiptin, vinstri stefnubreytingin og peningaausturinn sýndu, hve alvarlega flokkskerfið tók hinar slæmu horfur í kosningunum í Reykjavík. Þótt flokkurinn hafi víða tapað miklu fylgi og sums staðar meira fylgi, er ósigurinn í Reykjavík annars og meira eðlis.

Flokksforustan getur ekki vænzt þess, að andstöðuflokkarnir lendi að þessu sinni í sömu vandræðum og í fyrra skiptið, þegar þeir náðu völdum í Reykjavík. Þá buðu þeir fram hver fyrir sig, höfðu ekki borgarstjóraefni og gerðu síðan tæknimann að borgarstjóra.

Nú buðu flokkarnir sameiginlegan lista, sem svo mikil samstaða náðist um, að breytingar voru gerðar á innan við átján hundruð kjörseðlum í kjörklefum. Mikilvægast er þó borgarstjóraefnið, sem greinilega hefur unnið víðtækt traust meðal Reykvíkinga, Ingibjörg Sólrún.

Hugsanlegt er, að flokkarnir fjórir að baki hinum nýja borgarstjóra haldi friðinn sín á milli á vettvangi borgarmála; að borgarstjórinn komi fram breytingum á áherzlum í málefnum borgarinnar; og að henni takist að bæta fjárhag borgarinnar úr því að smíði monthúsa er lokið.

Miklu skiptir, hvort borgarstjórinn nær tökum á embættismannakerfinu, sem að nokkru er orðið samvaxið Sjálfstæðisflokknum. Ef hlutar kerfisins reyna að halda áfram fyrri áherzlum, getur reynzt heppilegt að stokka upp spilin, svo að pólitíski viljinn nái fram að ganga.

Ef mál fara í þennan farveg, er ekkert sem segir, að Sjálfstæðisflokkurinn eigi greiðan aðgang að hjörtum borgarbúa að nýju eftir fjögur ár. Nýi meirihlutinn í borginni hefur mun betri möguleika en vinstri meirihlutinn 1978-1982 til að halda örlögum sínum í eigin höndum.

Samstarf flokkanna fjögurra í Reykjavík hefur óbeint þau áhrif að ýta Sjálfstæðisflokknum til hliðar í landsmálum. Að vísu er ekkert beint samband milli borgarstjórnar og landsstjórnar, en samstarf á einum stað getur freistað til samstarfs á öðrum stað og vettvangi.

Til dæmis má nefna, að Framsóknarflokkur Halldórs Ásgrímssonar verður eftir næstu alþingiskosningar tregari til stjórnarsamstarfs við Sjálfstæðisflokkinn en hann hefði orðið, ef samstarf Framsóknarflokksins við hina flokkana hefði ekki leitt til kosningasigurs í Reykjavík.

Myndun nýs meirihluta í Reykjavík veikir óbeint stöðu Sjálfstæðisflokksins í landsmálunum, um leið og hann verður greinilega utanveltu í pólitíkinni í Reykjavík.

Jónas Kristjánsson

DV

Kosið um klæði landsins

Greinar

Í dag kýs fólk ekki bara um stjórn heimabyggða sinna, heldur tekur það þátt í annarri kosningu, sem ekki skiptir minna máli fyrir framtíð lands og þjóðar. Það er kosningin um að klæða landið á nýjan leik með því að kaupa eða kaupa ekki merki 50 ára afmælis Landgræðslusjóðs.

Sjóðurinn er jafngamall lýðveldinu. Hann er tákn þess, að unga lýðveldið vildi fyrir hálfri öld gera landgræðslu að einkennisverkefni sínu. Í fimm áratugi hefur verið unnið af krafti að þessu verkefni, án þess þó að þjóðin hafi náð undirtökunum í baráttunni gegn eyðingaröflum.

Margt hefur verið gert á þessum árum og er skemmst að minnast átaksins í tengslum við ellefu alda afmæli Íslandsbyggðar. Forseti Íslands hefur gert þetta að embættismáli sínu, svo að við erum ítrekað áminnt um að láta ekki deigan síga við að klæða landið að nýju.

Enn er landeyðing samt meiri á Íslandi en í flestum, ef ekki öllum löndum Evrópu. Hefur ástandinu hér nokkrum sinnum verið líkt við löndin sunnan við Sahara, þar sem eyðimörkin sækir fram jafnt og þétt. Hér tapast um 1000 hektarar gróðurs á hverju ári.

Frá landnámsöld hafa fundizt leifar kolagerðar á Kili. Það sannar sannleiksgildi fornra bóka, þar sem segir, að landið hafi þá verið viði vaxið milli fjalls og fjöru. Á þeim tíma hafa Norðurland og Suðurland meira að segja verið vaxin saman með grænu viðarbelti yfir Kjöl.

Fyrir og eftir landnám hafa náttúruöflin leikið lausum hala. Breytingin við landnám fólst í, að þjóðin gekk í lið með eyðingaröflunum og réð úrslitum um, að skógurinn hvarf að mestu og annar gróður landsins minnkaði um helming. Þetta er skuld þjóðarinnar við landið sitt.

Við getum fyrirgefið forfeðrum okkar, sem urðu að bjarga sér á erfiðum öldum í þjóðarsögunni. Við getum hins vegar ekki veitt okkur sjálfum aflausn, því að áratugum saman hefur þjóðin verið nógu rík til að snúa vörn í sókn, en hefur ekki náð því markmiði enn.

Sá áfangi hefur ekki enn náðst, að viðkvæm móbergssvæði landsins í óbyggðum Gullbringusýslu, Árnessýslu, Rangárvallasýslu og Þingeyjarsýslna hafi verið friðuð fyrir ágangi sauðfjár, sem lengi hefur verið mesti vágesturinn á svæðum, þar sem hætt er við uppblæstri.

Enn á þessu vori eru eyðingaröfl í Þingeyjarsýslu að hleypa sauðfé á afréttir Mývetninga til þess að taka þátt í að offramleiða dilkakjöt. Enn tekur Landgræðslan þátt í að heimila slíka framleiðslu, sem er eins lítið vistvæn og hugsazt getur, miðað við ástand landsins.

Enn er stjórn landgræðslumála komið fyrir í sjálfu landeyðingarráðuneyti landbúnaðarmála. Enn eru margir, er líta á landgræðslu sem eins konar framleiðslu á beitilandi. Enn ver þjóðin mörgum milljörðum á hverju einasta ári til að stuðla að ofbeit í landinu.

Það eru ekki eldgos og árferði, sem bera ábyrgð á þessari hnignun, því að fyrir landnám gekk líka mikið á í náttúrusögunni. Það erum við sjálf, sem berum ábyrgð á þessu, af því að við verjum enn þann dag í dag meiri fjármunum og orku til landeyðingar en til landverndar.

Einhvern tíma rís sá dagur, að óbyggðir landsins verði aftur eins blómlegar og Hornstrandir eru orðnar eftir brottför sauðfjár. Það verða aðrar kynslóðir, sem munu njóta þess. Okkar kynslóðir geta hins vegar haft sóma af því að hafa snúið vörn í sókn. Ef þær vilja.

Með því að kaupa barmmerkið í dag leggjum við lóð okkar á vogarskálina og flýtum fyrir þeim degi, að meira vinnist en tapist í baráttunni um að klæða landið.

Jónas Kristjánsson

DV

Pólitíska yfirstéttin

Greinar

Pólitísk yfirstétt landsins hefur skipað sem seðlabankastjóra þann stjórnmálaskörung, er harðast gekk fram í ógætilegri meðferð opinberra fjármuna, svo sem bezt kom fram í sjóðasukkinu mikla, er hann stofnaði til sem forsætisráðherra fyrir nokkrum árum.

Pólitísk yfirstétt landsins gætir hagsmuna sinna út fyrir flokkshagsmuni. Að loknum löngum ferli hlaut stjórnmálaskörungurinn þau verkalaun, sem pólitískir andstæðingar við stjórnvölinn töldu henta höfðingja af hans tagi. Almannahagsmunir skiptu engu máli.

Þegar minni háttar pólitíkusar missa stóla sína í sviptivindum lýðræðis, er þeim falið að framleiða skýrslur, sem greiddar eru með miklum fjárhæðum, svo sem fram hefur komið að undanförnu. Kerfið sér um sína og fer framhjá öllum góðum siðum og hefðum í því skyni.

Pólitísk yfirstétt landsins gerir skýran mun á sér og venjulegu skítapakki. Ráðherrar láta greiða fyrir sig allan kostnað á ferðalögum og láta þar á ofan greiða sér dagpeninga. Ráðherrar og þingmenn láta aðrar skattareglur gilda fyrir sig en annað fólk í landinu.

Pólitísk yfirstétt landsins telur völdin vera eins og hvert annað herfang í styrjöld, þar sem almenningur fer halloka. Hún skammtar stöður handa minni spámönnum í sínum hópi og stóla handa hinum meiri. Núverandi ríkisstjórn hefur farið hamförum á þessu sviði.

Pólitíska yfirstéttin gerir lítinn greinarmun á fjármálum hins opinbera, fjármálum stjórnmálaflokka sinna og sínum persónulegu fjármunum. Hún fer með þetta allt eins og einn pakka, þvert ofan í þær reglur, sem þróazt hafa með lýðræðisþjóðunum í næsta nágrenni okkar.

Einn nýjasti meiðurinn á séríslenzkri meðferð opinberra fjármuna er að afhenda völdum aðilum eigur ríkisins á undirverði. Það er einkavæðing í formi einkavinavæðingar. Er með því efldur hinn gamli sannleikur, að gengi fyrirtækja fer eftir pólitískum samböndum.

Pólitíska yfirstéttin hefur gert stóra hluta þjóðarinnar að hirð sinni með skipulagðri skömmtun verðmæta. Menn sjá ekki hluta sinn í kostnaðinum við hina pólitísku peningaveltu, en hver fyrir sig fagnar sinni Blönduóshöfn og kýs þingmanninn sinn eins og jafnan áður.

Pólitísku yfirstéttinni hefur tekizt að þrefalda tekjumuninn í þjóðfélaginu á þremur áratugum. Á sjöunda áratugnum voru ráðherratekjur fimmfaldar tekjur Sóknarkvenna, en núna eru þær orðnar fjórtánfaldar. Yfirstéttin lætur ekki kreppuna skerða tekjur sínar.

Svo vel smurt er þetta kerfi, að leiðtogar verkalýðsins láta mynda sig með valdhöfum líðandi stundar til að setja stimpilinn á 6.000 króna ölmusu, sem almenningi var afhent í sárabætur í eitt skipti fyrir öll. Enda varð einn verkalýðsrekandinn nýlega gerður að bankastjóra.

Innan pólitísku yfirstéttarinnar vex þeirri skoðun fylgi, að hæfilegt sé að hafa nokkurt atvinnuleysi, svo að pakkið sé ekki með rövl, heldur sé fegið að hafa yfirleitt nokkra vinnu. Meðan fólk sé með hugann við afkomu sína, hafi það ekki mátt til afskipta af ástandinu.

Hér væri ekki kreppa, ef hún væri ekki framleidd að ofan. Spilling og óráðsía hinnar pólitísku yfirstéttar, einkavinavæðing hennar og fyrirgreiðslustefna brenna tugum milljarða króna á hverju ári. Og aukin stéttaskipting virkar eins og eyðni á sjálfan þjóðfélagsvefinn.

Engin merki eru þess, að þjóðin hafi mátt til að losna undan ánauð hinnar pólitísku yfirstéttar. Ástandið mun áfram versna, áður en það byrjar að batna að nýju.

Jónas Kristjánsson

DV

Þjónusta við lesendur

Greinar

DV hefur ekki mælt með neinum framboðslista við kosningarnar í Reykjavík og mun ekki gera það, enda hefur það ekki verið venja blaðsins, hvorki í alþingiskosningum né byggðakosningum. Rangar fullyrðingar fjölmiðla um annað stafa af samkeppnisástæðum.

DV hefur hins vegar tekið virkan þátt í aðdraganda kosninganna. Blaðið hefur reynt að þjónusta lesendur sína á ýmsan hátt. Reykjavík hefur verið efst á baugi, enda eru kjósendur þar langflestir og spennan að þessu sinni einna mest. Þessu hlutverki er að mestu lokið.

Venja blaðsins hefur verið að ljúka kosningaundirbúningi að mestu viku fyrir kjördag, svo að lesendur blaðsins hafi síðustu vikuna griðland í skæðadrífu áróðurs og upplýsinga, sem einkennir flesta aðra fjölmiðla þessa síðustu viku. Þessi hefð verður í heiðri höfð.

Enn er eftir að birta síðustu skoðanakönnun blaðsins um úrslit kosninganna í Reykjavík. Niðurstaðan er ekki flóknari en svo, að hana er hægt að túlka nú, enda hefur tala óákveðinna og þeirra, sem vilja ekki tjá sig, verið með minnsta móti í síðustu könnunum blaðsins.

Ef listi nær 48% atkvæða í könnun blaðsins í vikunni, hefur hann litlar líkur á meirihluta í Reykjavík, en er þó ekki vonlaus. Ef listi nær 52% atkvæða í þeirri könnun, hefur hann miklar líkur á meirihluta, en er þó ekki öruggur. Er þá tekið tillit til hefðbundinna frávika.

Marklítið er að spá í hina óákveðnu, sem verða líklega innan við 25% hinna spurðu. Það verða bara getgátur, enda byggjast þær ekki á neinni fræðimennsku. Hefðbundið og farsælt er að gera ráð fyrir, að þeir skiptist með svipuðum hætti á listana og hinir ákveðnu.

Forsendurnar að baki óákveðnum skoðunum viku fyrir kjördag eru svo margs konar og misvísandi, að yfirleitt hefur verið hægt að sleppa þeim í birtingu niðurstaðna. Reynslan sýnir, að útkoman er yfirleitt mjög nærri lagi, auk þess sem hinir óákveðnu eru núna fáir.

Borgarstjóraefni listanna voru á beinni línu DV í síðustu viku. Svör þeirra voru birt í sérstökum blaðauka á föstudaginn var. Þetta var mikið efni að vöxtum. Þar mátti á einum stað sjá viðhorf þeirra til flestra mála, sem kjósendur hafa mestan áhuga á um þessar mundir.

Daginn áður höfðu borgarstjóraefnin birt síðustu kjallaragreinar sínar í blaðinu fyrir þessar kosningar. Áður höfðu margir aðrir frambjóðendur í efstu sætum listanna látið að sér kveða sem kjallarahöfundar í blaðinu. Reyndist vera jafnvægi milli listanna í þeirri aðsókn.

Síðustu vikur hefur blaðið fylgzt með ferðum borgarstjóraefnanna um borgina, fundum þeirra, uppákomum, heimsóknum og öðru kosningastarfi þeirra. Áður hafði blaðið birt löng viðtöl við borgarstjóraefnin, þar sem fram komu persónulegir þættir í lífi þeirra og starfi.

DV hefur ekki bara haft Reykjavíkurgleraugu á nefi. Blaðið hefur líka birt niðurstöður skoðanakannana í öðrum stærstu bæjum landsins. Það hefur birt viðtöl við frambjóðendur og kjósendur í tugum byggða um allt land. Alltaf hefur jafnvægis verið gætt milli lista.

Þannig er kosningabarátta á fjölmiðli, sem vill láta taka sig alvarlega. Aðrir fjölmiðlar kunna að kjósa að hafa ekki hagsmuni lesenda að leiðarljósi, heldur einhvers þess lista, sem í boði er. Þeir mega það, en DV hefur valið þá leið að þjónusta lesendur og ekki lista.

Þegar hafa birzt í blaðinu meiri en nægar upplýsingar fyrir þá, sem vilja styðjast við slíkt, er þeir gera upp hug sinn fyrir kosningar. Því linnir nú kosningafári í DV.

Jónas Kristjánsson

DV

Pólitísk og sálræn kreppa

Greinar

Þótt bjartsýni og framtak hafi oft gengið út í öfgar á Íslandi, er hvort tveggja nauðsynlegt til að halda uppi nútímaþjóðfélagi, sem er sambærilegt við Vesturlönd. Þjóðin er í rauninni of fámenn til að halda uppi nærri öllum þáttum nútímaþjóðfélags, en hún gerir það samt.

Margt hefur farið í súginn vegna óhóflegrar bjartsýni og framtaks. Minnisvarðarnir standa úti um allt, frá tættum loðdýrahúsum, um þurr fiskiræktarker yfir í orkuverið við Blöndu, sem malar í tilgangsleysi. Oft og víða hefði verið betra að tempra bjartsýnina og framtakið.

Vandinn er að finna meðalhófið milli bjartsýni og framtaks annars vegar og raunsæis og varfærni hins vegar. Verðmæti fara líka í súginn af völdum óhófs í raunsæi og varfærni. Ýkt viðhorf í þá áttina leiða til stöðnunar og úrræðaleysis. Tækifærin eru ekki gripin.

Summan af viðhorfum einstaklinganna er öflug, þegar þessi viðhorf falla saman í ríkum mæli. Þannig hefur óráðsían oft samanlagt orðið hrikaleg, þegar við höfum talið okkur flesta vegi færa. Og þannig getur kvíðinn á hinn veginn lamað okkur, þegar okkur sýnist illa ára.

Örlög okkar ráðast af fleiri þáttum en þessum tveimur. Ytri aðstæður valda miklu um gengi okkar. Þær búa stundum til jarðveg fyrir bjartsýni og framtak og stundum jarðveg fyrir raunsæi og varfærni. Tvær heimsstyrjaldir áttu til dæmis mikinn þátt í framabraut okkar.

Undanfarin ár hafa ytri aðstæður verið erfiðari en oft áður. Aflabrögð hafa farið minnkandi með ári hverju, í krónum talið. Þjóðin hefur ekki kunnað að haga seglum eftir vindi. Undir forustu þjóðarleiðtoganna hefur óráðsían numið tugum milljóna á hverju ári.

Landsbankastjóri og fyrrum ráðherra sagði um daginn, að óráðsían í opinberum fjármálum hefði ein sér numið hundruðum milljóna og nefndi sem dæmi stuðninginn við sauðfjárrækt. Hann vildi kenna um kunningsskap, fyrirgreiðslu og atkvæðakaupum pólitíkusa.

Núna erum við í þeirri sérkennilegu stöðu, sem byrjaði í fyrra, að hlutar þjóðfélagsins einkennast af óráðsíðu og aðrir af kvíða. Þannig byrjuðu fyrirtæki að draga saman seglin í fyrra til að búa sig undir aðvífandi kreppu. Á sama tíma héldu stjórnvöld áfram lítt heftri óráðsíu.

Kreppan er raunar tæpast komin enn. Hingað til hefur hún mest verið í hugum fólks. Varfærni í mannahaldi hefur leitt til stóraukins atvinnuleysis og skertrar kaupgetu hjá hluta þjóðarinnar, sem aftur á móti hefur leitt í vítahring til minni veltu og aukinna kreppueinkenna.

Meðal ráðamanna í fyrirtækjum og almennings er orðin ríkjandi sú hugsun, að ekki sé svigrúm til að taka áhættu, heldur verði að halda fast utan um það, sem menn þekkja og fara sér hægar en áður. Fjárfesting í atvinnulífinu hefur snarminnkað á skömmum tíma.

Á sama tíma halda stjórnmálamenn sér við hina hliðina, ekki til þess að vega upp á móti kvíðanum úti í þjóðfélaginu, heldur til að kaupa atkvæði og stunda hefðbundna fyrirgreiðslu. Til viðbótar við fyrra framferði á þessu sviði er farið að gefa einkavinum eigur ríkisins.

Með þessu samspili kvíða og óráðsíu er siglt óþarflega hratt út í óþarflega mikla kreppu, sem getur staðið til aldamóta, að mati Efnahags- og framfarastofnunarinnar OECD. Þessi kreppa er heimatilbúin, því að hún á sér alls engar rætur í útlöndum. Hún er pólitísk og sálræn.

Þegar annars vegar minnkar kvíðinn hjá almenningi og ráðamönnum fyrirtækja og hins vegar minnkar óráðsían hjá stjórnmálamönnum og embættismönnum þeirra, sjáum við loks fyrir endann á aðvífandi kreppu.

Jónas Kristjánsson

DV

Enginn bati í augsýn

Greinar

Hverju á fólk að trúa, þegar annars vegar er sagt, að atvinnuhorfur séu að batna og hins vegar, að þær séu að versna? Bezt er að trúa engu, en reyna að gera sér grein fyrir, við hvað er miðað, þegar stjórnmálamenn gefa yfirlýsingar af ýmiss konar hagkvæmnisástæðum.

Forsætisráðherra sagði í blaðaviðtali í vikunni, að atvinnuleysi færi minnkandi og það verulega minnkandi. Hann hefur það fyrir sér, að atvinnulausum fækkaði í apríl um 11%, úr 6,3% í 5,6%, og að gert er ráð fyrir, að þeim fækki í maí um 14% í viðbót, úr 5,6% í 4,8%.

Í rauninni hefði ráðherrann alveg eins getað sagt, að nú sé að vora. Tölurnar hér að ofan segja ekkert annað. Atvinnuleysi minnkar alltaf á vorin og eykst á veturna. Ef miðað er við sömu mánuði í fyrra, kemur í ljós, að atvinnuleysið er þvert á móti að stóraukast núna.

Í maí verður atvinnuleysið 4,8% eins og áður segir. Í sama mánuði í fyrra var það 4%. Þannig er atvinnuleysið um þessar mundir 20% meira en í fyrra. Það gefur því ekki rétta mynd af atvinnuástandinu að segja horfurnar vera betri. Þær eru í rauninni miklu verri.

Ef horft er fram á sumarið, má samkvæmt mannaflaspám fyrirtækja gera ráð fyrir, að ekki verði alveg eins erfitt fyrir skólafólk að fá sumarvinnu og í fyrra. Hins vegar er kvóti í sjávarútvegi víða svo langt kominn, að búast má við meiri uppsögnum fiskvinnslufólks.

Þegar líður að næsta vetri, mun ríkisstjórnin telja sig þurfa að auka atvinnutækifæri í landinu, svo að fólk verði í betra skapi, þegar kemur að næstu alþingiskosningum, sem verða í síðasta lagi næsta vor. Þetta mun hún sennilega gera með þekktum töfrabrögðum.

Annars vegar mun hún á næsta fiskveiðiári leyfa meiri þorskveiði en hagkvæmt er að veiða að ráði fiskifræðinga og hagfræðinga. Í stað þess að hugsa til langs tíma mun hún hugsa til loka kjörtímabilsins. Um leið mun hún auka líkur á hruni íslenzka þorskstofnsins.

Hins vegar mun hún lina ýmsar hömlur á opinberum útgjöldum. Það gera flestar ríkisstjórnir á kosningaárum. Hún mun þannig reyna að halda uppi skammtímaveltu í þjóðfélaginu, auðvitað á kostnað þeirra, sem eiga að greiða niður skuldir þjóðarinnar á næstu árum.

Slíkar aðgerðir munu samtals ekki duga til að gefa kosningahlé á kreppunni. Svigrúmið til sjónhverfinga er of lítið til þess. Framhald á núverandi ofveiði gefur ekki nægan pening til að lina kreppuna. Og mikil sprenging ríkisútgjalda yrði of áberandi í kosningabaráttu.

Hin heimatilbúna kreppa á Íslandi mun því halda áfram að draga Íslendinga aftur úr vestrænum þjóðum. Aðgerðirnar munu jafnframt framlengja kreppuna. Niðurstaðan verður svipuð og í spá OECD, Efnahags- og framfarastofnunarinnar, kreppa fram til aldamóta.

Hvað gerist svo eftir aldamót fer einkum eftir því, hvernig tekizt hefur að gæta fiskistofna. Ef landsfeður taka nú loksins í taumana og aðrir landsfeður, sem síðar koma til skjalanna, spilla ekki fyrir, má vænta mikilla tekna af endurreistum fiskistofnum eftir aldamót.

Kreppan á Íslandi stafar af ríkisskipulagðri ofveiði á fiski og of mikilli brennslu verðmæta í ríkisrekstri á landbúnaði. Ekkert hefur enn komið fram, sem bendir til, að þessum vandamálum muni linna á næstunni. Þess vegna er líklegt, að hin séríslenzka kreppa verði löng.

Þeir, sem nú segjast sjá batamerki í efnahagslífinu, gera það í von um, að ummælin verði gleymd, þegar komið hefur í ljós, að þau hafa alls ekki staðizt.

Jónas Kristjánsson

DV

Eitt síðasta tækifærið

Greinar

Nú eru að verða síðustu forvöð að byrja að fara alveg eftir tillögum fræðimanna um minni sókn í þorskstofninn. Hingað til hefur árleg veiði verið töluvert umfram tillögur Hafrannsóknastofnunar, síðustu árin yfir hættumörkum, svo að hrun þorskstofnsins blasir nú við.

Nýtingarnefnd fiskistofna hefur lagt til þá reglu, að þorskafli verði á hverju ári ekki meiri en 22% af veiðistofni þorsks. Þar sem veiðistofninn er nú um 600 þúsund tonn, jafngildir þetta tillögu um 130 þúsund tonna þorskveiði á næsta fiskveiðiári. Þetta er raunar reiðarslag.

Á yfirstandandi fiskveiðiári stóð til að veiða 165 þúsund tonn. Veiðin fer hins vegar langt yfir hættumörk, sem eru talin vera 175 þúsund tonn. Hún fer í um það bil 200 þúsund tonn á fiskveiðiárinu og stuðlar eins og veiði fyrri ára að hruni þorskstofns og þorskveiða.

Við höfum búið við það böl í mörg ár, að ráðherra leyfir nokkru meiri veiði en fiskifræðingar mæla með og að síðan verður aflinn í raun töluvert hærri en ráðherrann leyfði. Stafar það einkum af leyfilegum veiðum utan kvóta, sem menn spara sér að reikna með.

Vítahringurinn hefnir sín nú, þegar þjóðin á aðeins tvo kosti, annan slæman og hinn ófæran með öllu. Fyrri kosturinn er að byrja að haga sér eins og menn og hætta að éta útsæðið. Síðari kosturinn er að halda áfram núverandi veiðum, unz þorskveiði leggst senn af með öllu.

Sérstaklega verður að víta þá stjórnmálamenn, sem mestu ráða um sjávarútveg. Þeir hafa leikið sér að því að setja aflahámark, sem er marklaust, af því að hluti aflans er utan útreiknings um hámark. Þannig hafa til dæmis sjávarútvegsráðherrar hagað sér án ábyrgðar.

Lengi hefur verið ljóst þeim, sem vita vilja, að setja þarf miklu strangari skorður við trilluveiðum. Stjórnmálamenn hafa hins vegar glúpnað fyrir frekju og hótunum hagsmunaaðila á því sviði. Það er hluti skýringarinnar á, hversu illa er komið fyrir þorskstofninum.

Enginn skortur er á skottulæknum og töframönnum, sem vilja færa mönnum huggun og sælu á þessu sviði. Þeir eru studdir nokkrum vatnalíffræðingum og veðurfræðingum, sem leika sér að eldi með því að egna óbilgjarnan. Saman ráðast þessir aðilar á fiskifræðina.

Niðurstaðan af þessum ljóta leik er alltaf hin sama: Þar sem fiskifræðin er ónákvæm fræðigrein, er óhætt að fara ekki eftir henni og ævinlega í þá átt að veiða meira en hún mælir með. Þessi óskhyggja er alfa og ómega ofveiðinnar og helzta orsök íslenzku kreppunnar.

Fyrir ári mátti öllum ljóst vera, að leyfilegur afli samkvæmt ákvörðun ráðherra og afli utan kvóta mundu samanlagt fara yfir hættumörk. Á þetta var meðal annars bent hér í blaðinu. Samt ímynduðu menn sér, að niðurstaðan væri upphaf að bjartari tíma í sjávarútvegi.

Enn er bjartsýni á ferð. Þegar fisknýtingarnefnd segir, að bezt sé að veiða ekki meira en 130 þúsund tonn og að hættumörk séu við 175 þúsund tonn, eru ráðherra og hagsmunaaðilar þegar farnir að gæla við hærri töluna og við framhald á veiðum utan skömmtunarkerfisins.

Í mörg ár hafa ráðamenn stjórnmála og sjávarútvegs haft árlegt tækifæri til að líta raunsætt á möguleika líðandi stundar. Þeir hafa á hverju ári fallið á prófinu með því að stuðla að veiðum, sem eru langt umfram markið, sem gefur mestan arð, þegar til langs tíma er litið.

Enn höfum við tækifæri til að snúa af óheillabraut Færeyinga. Við getum enn gripið í taumana og farið niður í 130 þúsund tonn til að tryggja framtíð þorskveiða.

Jónas Kristjánsson

DV

Er líf milli kannana?

Greinar

Stjórnmálamenn fara eftir skoðanakönnunum, þótt þeir lasti þær stundum. Þeir skipta jafnvel um borgarstjóraefni í miðri á, ef skoðanakannanir eru ekki nógu hagstæðar. Með sama áframhaldi hætta stjórnmálamenn að stjórna og gerast sporgöngumenn skoðanakannana.

Erlendis hefur mátt sjá, að áhrif skoðanakannana á framgöngu stjórnmálamanna hafa hægt og sígandi verið að aukast í nokkra áratugi. Þetta ósjálfstæði stjórnmálamanna er orðið svo ráðandi, að sumir valdamenn gera nánast ekkert án þess að spyrja skoðanakannanir fyrst.

Þetta gengur út í þær öfgar, að langtímasjónarmið víkja fyrir skammtímasjónarmiðum. Stjórnmálamenn fara að hugsa í stuttum tímaeiningum milli skoðanakannana í stað þess að hugsa í heilum kjörtímabilum; eða það, sem bezt er, í heilum stjórnmálaferli sínum.

Flestir stjórnmálamenn hafa meiri áhyggjur af næstu skoðanakönnun en stöðu sinni í veraldarsögunni eða landssögunni. Þetta veldur því, að þeir haga sér að verulegu leyti eins og tízkufyrirbæri. Þeir endast illa og fá léleg eftirmæli, þegar þeir hafa lokið ferli sínum.

Þetta er ekki skoðanakönnunum að kenna, heldur stjórnmálamönnunum sjálfum. Þeir gætu haft meira hóf í dýrkun sinni á skoðanakönnunum. Og skoðanakannanir hafa líka mjög jákvæð áhrif. Þær koma til dæmis í veg fyrir, að kosningastjórar mati fólk á ýktum fylgistölum.

Skoðanakannanir valda því, að við getum tiltölulega nákvæmlega fylgst með gengi flokka og manna í kosningabaráttu og þurfum ekki að sæta bulli úr kosningastjórum. Þær eru viðbót við fyrri upplýsingar og sem slíkar auka þær við þekkingu fólks og heilla þjóða.

DV hefur í vetur lagt sérstaka áherzlu á birtingu niðurstaðna skoðanakannana um fylgi framboðslistanna í Reykjavík. Þessar kannanir hafa orðið tíðari með vorinu og verður sú næsta birt á mánudaginn. Spennandi verður að sjá, hvort hún sýnir marktæka breytingu.

Hingað til hafa kannanirnar ekki sýnt miklar sveiflur og raunar eindregna yfirburði R-listans. Þær sýna líka, að persónur borgarstjóraefnanna skipta meira máli en nokkru sinni fyrr. Þær selja báðar svo vel, að segja má, að kosningabaráttan snúist bara um tvær persónur.

Könnun DV hefur sýnt, að kjósendur hafa litla sem enga skoðun á öðrum frambjóðendum listanna og í sumum tilfellum er hún fremur neikvæð en jákvæð. Borgarstjóraefnin fá hins vegar mjög jákvæða útkomu, Ingibjörg Sólrún 42% gegn 3% og Árni 26% gegn 7%.

Hingað til hafa kannanirnar sýnt, að óvenjulega stór hluti kjósenda hafði þegar gert upp hug sinn, áður en kom að kosningabaráttu. Aðeins 20% þeirra höfðu ekki afstöðu eða vildu ekki tjá sig. Yfirleitt hefur þetta hlutfall verið um og yfir 40% í upphafi kosningabaráttu.

Þegar kosningabaráttan var hafin, hækkaði hlutfall óákveðinna og þeirra, sem ekki vildu tjá sig, úr 20% í 25%. Það bendir til, að kosningabarátta geti lítillega hrært upp í sumu fólki. En það sannar ekki, að kosningar vinnist á að kasta tugmilljónum króna í þær í örvæntingu.

Þessar staðreyndir einkenna kosningabaráttuna. R- listinn reynir að halda sjó og forðast mistök. D-listinn leitar nýrra hliða, sem geti framkallað slík mistök. Báðir fiska listarnir sem óðast í þeim fimmtungi kjósenda, sem ekki hafði gert upp hug sinn í síðustu skoðanakönnun.

Hitt er svo önnur saga og gleðileg, að hvernig sem úrslit verða, fá Reykvíkingar borgarstjóra, sem verður mun betri en hefðbundnir stjórnmálaforingjar landsins.

Jónas Kristjánsson

DV

Páfi skiptir um trú

Greinar

Bankastjóri og helzti málsvari Landsbankans sagði í ræðu á aðalfundi Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna á föstudag, að kreppan á Íslandi stafaði af óráðsíu, offjárfestingu og gegndarlausri eyðslu vegna kunningsskapar, fyrirgreiðslu og atkvæðakaupa stjórnmálamanna.

Það eru ekki nýjar fréttir, að kreppan á Íslandi sé framleidd af stjórnmálamönnum. Þessu hinu sama hefur til dæmis verið haldið fram í leiðurum DV um langt skeið. Það er hins vegar nýtt, að helzti málsvari langstærsta viðskiptabanka landsins komist að sömu niðurstöðu.

Það er ekki lengur sérvizka utan úr bæ, að íslenzka kreppan sé heimatilbúin. Þeirri skoðun er nú einnig haldið fram innan úr kerfinu sjálfu og það af manni, sem hefur áratuga reynslu af stjórnmálum sem þingmaður og ráðherra, er fékk að lokum bankastjórastól í verðlaun.

Hinn harðorði bankastjóri er Sverrir Hermannsson, sem á stjórnmálaferli sínum var einn þekktasti fulltrúi pólitíska fyrirgreiðslu- og atkvæðakaupakerfisins. Að einmitt hann skuli nú hafa tekið rétta trú, jafngildir því, að páfinn í Róm fari skyndilega að boða Lúterstrú.

Áður en Sverrir varð ráðherra, var hann um langt skeið forstjóri viðamestu fyrirgreiðslustofnunar stjórnmálanna, Byggðastofnunar. Hann var í senn þingmaður og Byggðastofnunarstjóri og þannig einn af valdamestu mönnum landsins á sviði úthlutunar til gæluverkefna.

Hvaða augum sem menn líta á stjórnmálaferil bankastjórans, þá fer ekki hjá, að þeir taki eftir, að einn helzti fulltrúi kerfisins prédikar skyndilega, að kerfið sé svo óalandi og óferjandi, að það sé nánast búið að koma í veg fyrir rekstur sjálfstæðs þjóðfélags á Íslandi.

Eitt sérkenna Íslendinga er, að þeir hneigjast margir til að hafa meiri áhuga á, hver segir hvað, en hvað er sagt. Þess vegna hljóta kenningar utankerfismanna um stjórnmálaóreiðu að öðlast aukið vægi við, að hinar sömu kenningar koma nú innan úr herbúðum kerfisins sjálfs.

Sverrir Hermannsson sagði líka í ræðunni, að stanzlaust góðæri gæti verið á Íslandi, ef þjóðin lærði af mistökunum. Samkvæmt því verður þjóðin þá fyrst fullnuma á þessu sviði, þegar hún hættir að endurkjósa stjórnmálamenn, sem hafa stundað fyrirgreiðslu og atkvæðakaup.

Ef þjóðin leggur niður þá, sem stundað hafa vitfirringu í efnahagspólitík, skiptir um fólk á Alþingi og ríkisstjórnum, fær sér nýja leiðtoga, sem ekki þurfa að hafa mikið annað til brunns að bera en að hafna fyrirgreiðslu og atkvæðakaupum, þá fer aftur að vora í efnahagslífinu.

Það er gott, að helzti talsmaður stærsta bankans skuli vera kominn á þessa línu. Það leiðir vonandi til þess, að starfsbræður hans í valdakerfi efnahags- og fjármála færi sig opinberlega á hina sömu línu og fari að segja þjóðinni og pólitískum leiðtogum hennar til syndanna.

Þjóðin hefur hingað til ekki viljað hlusta á sjónarmiðin, sem komu fram í ræðu Sverris Hermannssonar á aðalfundi Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna. Hún hefur til dæmis látið gott heita, að árlega eru brenndir til ösku tæpir tveir tugir milljarða króna í landbúnaði einum.

Staðreyndin er nefnilega sú, að hér væri gósenland með nóg af arðvænlegum verkefnum fyrir komandi kynslóðir, ef peningar fengju eðlilega framrás og væru ekki fiskaðir upp til fyrirgreiðslu, atkvæðakaupa, gæluverkefna og annarrar óráðsíu á vegum pólitíkusa.

Ábyrgðin hvílir á herðum kjósenda, því að það er í umboði þeirra, sem stjórnmálamenn stunda fjármálasukkið, er trúskiptingurinn lýsti í ræðu sinni.

Jónas Kristjánsson

DV

Leiðtoginn

Greinar

Sviss er eitt af helztu draumalöndum heims. Þar býr þrautseig og auðug þjóð, sem getur leyft sér að standa utan nokkurra þekktustu fjölþjóðasamtaka heims. Við vitum fæst, hverjir stjórna Sviss, enda trana leiðtogarnir sér ekki fram. En allir vita, að þar er vel stjórnað.

Sviss er líklega það ríki, sem kemst næst fyrirmyndarríki heimspekingsins Lao Tses. Þar fer saman vilji íbúa og leiðtoga á svo eðlilegan hátt, að fólk tekur ekki eftir, að stjórnað sé. Fólk veit ekki, hvað ráðherrann heitir, en gengur í fullu trausti til daglegra verka sinna.

Flestar uppgangsstofnanir hafa fyrirferðarmeiri leiðtoga en Sviss hefur, en þó leiðtoga, sem njóta virðingar á valdasvæði sínu. Slíkir leiðtogar geta verið með ýmsum hætti eftir aðstæðum og áherzlum hverju sinni. Einn hét til dæmis Olof Palme og annar heitir Carl Bildt.

Virtir leiðtogar hafa áhrif og ná árangri, af því að fólk vill fylgja þeim. Íbúarnir eru ekki allir sammála þeim, en bera virðingu fyrir þeim og treysta þeim til að stefna að farsælum lausnum á aðsteðjandi verkefnum og vandamálum. Þeir veita fólki sínu styrk og öryggi.

Ekki skiptir öllu, hvort slíkir leiðtogar eru beinlínis kjörnir til verka sinna eða komnir til þeirra með öðrum hætti. Til dæmis eru virtir leiðtogar hvergi brýnni en í styrjöldum, þar sem gengi herja fer að verulegu leyti eftir trausti og dálæti hermanna á foringjum sínum.

Gott er að sjá þetta í hnotskurn í sjávarútvegi Íslands. Karlinn í brúnni nýtur virðingar áhafnar og laðar hana til samræmdra, jafnvel ofurmannlegra átaka, sem leiða til mikils aflaverðmætis. Það þýðir ekki að stjórna fiskiskipi, ef áhöfnin óttast eða fyrirlítur kafteininn.

Við ýmsar aðstæður geta þrifizt leiðtogar, sem ekki eru virtir, heldur óttast menn þá eða fyrirlíta, allt eftir því, hvar menn eru staddir í valdapíramídanum. Þetta ástand fer saman við arðlausar og árangurslausar stofnanir, svo sem heri, er ekki hafa neitt fyrir stafni.

Þetta getur gilt um þjónustudeildir fyrirtækja, þar sem erfitt er að mæla árangur. Það getur gilt um heilu fyrirtækin, sem standa á fallanda fæti, stjórnardeildir, heilu ráðuneytin, svo og ríkisstjórnir, jafnvel vestrænna ríkja. Opinberum stofnunum er einna hættast á þessu sviði.

Lao Tse sagði: “Þegar ríki er á fallanda fæti, verður konunghollusta og hlýðni efst á baugi”. Slíkar stofnanir horfa í gaupnir sér, eru hættar að virka, framleiða hvorki frambærilega vöru né þjónustu, eru í sjálfu sér arðlausar, en þeim er haldið saman af ótta og fyrirlitningu.

Er hollusta fæst ekki með eðlilegum hætti eins og í Sviss eða með virðingu eins og í vel heppnuðum fyrirtækjum og ríkjum, fara leiðtogar að kalla á hana og reyna að láta starfsemi stofnana sinna snúast um hana. Þeir ógna undirmönnum sínum og uppskera fyrirlitningu.

Til langs tíma er farsælast, að leiðtoginn og hinir leiddu stefni í sömu átt af fúsum og frjálsum vilja, knúnir fram af innri gleði og krafti. Þannig næst árangur. Þannig verða fyrirtæki arðbær og þjóðir ríkar. Fólk er samhent, en óttast hvorki né fyrirlítur leiðtogana.

Því miður er svo komið fyrir Vesturlöndum, að leiðtogar bregðast fólki og framkalla ekki virðingu í röðum þess. Í vaxandi mæli eru þeir berir að athöfnum, sem leiða til fyrirlitningar fólks og falls þeirra í kosningum. Þetta er haft til marks um hnignun Vesturlanda.

Fyrirtæki verða ekki lengi arðbær og ríki ekki lengi auðug, nema leiðtogar starfi á þann hátt, að virðing renni sjálfkrafa til þeirra eins og vatn undan brekku.

Jónas Kristjánsson

DV

Slagsíður á Alþingi

Greinar

Þegar lög eru sett á Alþingi til að setja niður deilur, er ekki hægt að reikna með efnahagslega hagkvæmri niðurstöðu. Pólitísk hagkvæmni er allt annað en efnahagsleg hagkvæmni og verður oft að ráða ferðinni til þess að halda sæmilegum friði í þjóðfélaginu.

Sjávarútvegsfrumvarpið, sem rætt hefur verið um og deilt að undanförnu á Alþingi, er dæmigerð tilraun af þessu tagi. Meginhlutverk þess er að koma til móts við sjónarmið sjómanna, sem leiddu til átaka á vinnumarkaði í vetur. Því er stefnt gegn svonefndu kvótabraski.

Frumvarpið felur í sér auknar hömlur á sölu kvóta og dregur þannig úr möguleikum kvótakerfisins til að kalla á sjálfvirka hagræðingu í greininni, svo sem með samþjöppun kvóta á færri og virkari hendur. Frjáls sala er bezta leiðin til að jafna framboð og eftirspurn.

Bezt hefði verið að láta við þær breytingar sitja að setja á fót nefnd sjómanna og útvegsmanna til að úrskurða, hvort kvóti sé fluttur fram og aftur milli skipa til þess eins að rýra kjör sjómanna; og banna, að kostnaður vegna kvótakaupa komi niður á aflahlut sjómanna.

Því miður var ekki hægt að ná sátt um slíka leið, því að of margir aðilar vildu einnig koma böndum á kvótasölur sem slíkar, enda eru margir Íslendingar leynt og ljóst andvígir markaðsbúskap. Velferðarstefna í atvinnulífi er nær hjarta margra þingmanna en markaðshyggjan er.

Annað dæmi gefur góða innsýn í ríkjandi viðhorf á Alþingi. Stjórnarandstaðan er á móti lagafrumvarpi um lyfjasölu, af því að það færir lyfjasölu í þéttbýli að nokkru leyti inn í stórmarkaði og lækkar álagningu og þar með lyfjaverð í þéttbýli umfram lyfjaverð í dreifbýli.

Þessi afstaða felur í sér, að margir þingmenn geta ekki sætt sig við, að lífskjör batni í þéttbýli, ef það eykur mismun dreifbýlis og þéttbýlis. Þeir vilja jöfnuð og þeir vilja jöfnuð í átt til fátæktar, ef ekki er kostur á öðru. Svo rík er andstaðan í þjóðfélaginu gegn markaðsbúskap.

Í rauninni eru þingmenn um leið að ganga erinda lyfsala, sem eru áhrifamiklir og andvígir auknum markaðsbúskap í lyfsölu. Þetta er í samræmi við, að Alþingi gengur erinda allra annarra þrýstihópa, sem hafa aðstöðu til að láta að sér kveða umfram venjulega borgara landsins.

Sáttafrumvarp sjávarútvegsráðherra um kvótakerfið, breytingartillögur sjávarútvegsnefndar við það sama frumvarp, svo og andstaðan við lyfsölufrumvarpið endurspegla það hlutverk, sem Alþingi hefur tekið að sér sem sáttasemjari milli hávaðasamra þrýstihópa.

Auðvitað á Alþingi fremur að leita sátta en efna til úlfúðar með setningu laga. Heppilegt er, að það setji lög, sem þjóðin sættir sig við að fara eftir; eða að það fari að minnsta kosti eins konar meðalveg milli ólíkra sjónarmið á þann hátt, að allir séu hæfilega ósáttir.

Því miður hefur þessi fagra mynd skekkzt í tveimur atriðum, sem hér hefur verið vikið að. Í fyrsta lagi er á Alþingi óeðlileg slagsíða gegn tveimur þáttum þjóðlífsins, annars vegar gegn þéttbýlinu, einkum höfuðborgarsvæðinu; og hins vegar gegn frjálsum markaðsbúskap.

Í öðru lagi ríkir vaxandi ójafnvægi annars vegar í áhrifum vel skipulagðra þrýstihópa á alþingsmenn og áhrifum almannahagsmuna hins vegar. Víðtækir hagsmunir, svo sem hagsmunir skattgreiðenda og neytenda, verða yfirleitt að víkja fyrir háværum sérhagsmunum.

Umræður og atvæðagreiðslur á Alþingi síðustu dagana fyrir sumarfrí draga dám af þessu óeðlilega ástandi, sem veldur því, að Alþingi nýtur lítillar virðingar.

Jónas Kristjánsson

DV