Author Archive

Litlu sætu löggurnar

Greinar

Lögreglumenn í Reykjavík hafa kært fegurðardrottningu heimsins fyrir að vera vonda við þá. Þeir kæra nafngreinda konu fyrir að misþyrma sér á lögreglustöðinni í Reykjavík. Þennan brandara segja þeir í skjóli nafnleysis sem hverjir aðrir embættismenn upp úr Kafka.

Áður en lengra er haldið er rétt að taka fram, að hér er ekki hægt að segja allan sannleikann um lögreglumenn, af því að félag þeirra hleypur umsvifalaust á bak við úrelt lög um virðingu embættismanna, sem eru frá þeim tíma, er embættismenn voru merkari en annað fólk.

Oft hefur komið fram, að sumir lögreglumenn eiga í erfiðleikum með að umgangast fólk. Kringumstæður, sem reynast flestum þeirra eðlilegur hluti starfsins, verða að versta klúðri hjá sumum þeirra. Tilgangslaust er að tala um þetta, því að þessir menn eru verndaðir.

Lögreglumenn vernda hiklaust hver annan og þeir eru verndaðir af yfirboðurum sínum. Í stað þess að nota uppákomur til að laga ástandið eru þær notaðar til að þjappa mönnum saman gegn áreiti utan úr bæ. Þannig venjast menn því að þurfa ekki að kunna mannasiði.

Það eru auðvitað engir mannasiðir að láta menn úti í bæ siga sér á blásaklaust fólk út af máli af því tagi, sem lögreglan nennir annars tæpast að sinna. Fegurðardrottningin var í fullum siðferðilegum rétti til að reiðast. Lögreglumenn höfðu gefið ærið tilefni til þess.

Það eru auðvitað engir mannasiðir að lenda í slíkum átökum við fallegar konur, að þær þurfi síðan að fara á Slysadeild. Svona gera menn ekki, var nýlega sagt. Þau fleygu orð hæfa vel nýjustu uppákomunni í samskiptaörðugleikum lögreglunnar við borgara landsins.

Og fara síðan að klaga konuna fyrir að hafa verið vonda við litlu sætu löggurnar, er bara lélegur brandari. Svona hlutum halda menn ekki fram. Erlendis reyna lögreglustjórar að stöðva slík frumhlaup undirmanna, áður en þau leita útrásar sem formleg kæra á pappír.

Því miður er ekki von á góðu við meðferð Rannsóknarlögreglu ríkisins á málinu. Hún mun vernda starfsbræður sína. Þeir munu svo siga lögmanni stéttarfélagsins á fegurðardrottninguna og fá hana dæmda fyrir meiðyrði við embættismann. Slíkur er hetjuskapurinn á þeim bæ.

Rannsóknarlögregla ríkisins er raunar aumasta stofnun landsins. Hún klúðrar hverri rannsókninni á fætur annarri, þannig að stórmál eyðast fyrir dómi. Hún var nokkra mánuði að afgreiða Gýmismálið, þótt það hafi verið upplýst, áður en hún fékk það í hendur í sumar.

Í flestum stéttum þjóðfélagsins er til fólk, sem ekki kann til verka. Í fyrirtækjum úti í bæ er reynt að kenna þessu fólki eftir föngum og það síðan látið hætta, ef hvorki gengur né rekur. Hjá lögreglustjóranum í Reykjavík er ekki um neitt slíkt að ræða. Hann verndar sína.

Af þessari ástæðu lagast mál ekki hjá honum, þótt þau lagist hjá flestum öðrum forstjórum í landinu. Hin sjálfvirka og samvirka vörn lögreglukerfisins gegn öllu utanaðkomandi áreiti veldur því, að hvað eftir annað koma þar upp ofbeldismál, sem eru eins og úr þriðja heiminum.

Lögreglustjórinn mundi strax ná árangri, ef hann léti Sæma rokk halda námskeið fyrir lögreglumenn í almennum mannasiðum, svo að þeir slökustu fái tækifæri til að kynna sér helztu lágmarksatriði í mannlegum samskiptum, sem flestir borgarar þjóðfélagsins kunna.

Þótt lögreglumenn þurfi lögum samkvæmt ekki að kunna mannasiði, er hart fyrir embættið, að litlu sætu löggurnar skuli vera hafðar í flimtingum úti í bæ.

Jónas Kristjánsson

DV

Flokkur gerist boltalið

Greinar

Fráfarandi félagsráðherra hefur upplýst, að hann hafi ekki fengið rauða spjaldið, heldur gula spjaldið. Hann muni koma aftur í seinni hálfleik til að skora mörg mörk, eins og hann hafi gert í Firðinum í gamla daga. Auk þess hafi gula spjaldið í rauninni verið ranglátt.

Ef almennt verður farið að líkja stjórnmálum við boltaleik, er hætta á ferðum. Í boltanum er ekki spurt um hugmyndafræði eða þjóðarheill, heldur okkar lið og hitt liðið. Spurningin er um okkur eða hina. Gul og rauð spjöld eru bara óþægindi án nokkurs innra siðagildis.

Fráfarandi félagsráðherra hefur alls engrar afsökunar beðizt á pólitískum ferli sínum. Hann segist hafa verið ofsóttur af óvinum utan og innan flokks. Hann hafi vikið úr starfi aðeins til að létta lífið öðrum aðilum, sem ekki töldu sig geta staðið í að verja hann gegn ofsóknunum.

Upp á þessi undarlegu býti hefur forusta Alþýðuflokksins boðið hann velkominn á nýjan leik. Umhverfisráðherra segir hann hafa sýnt mikinn hetjuskap. Flest bendir til, að hinn fráfarandi ráðherra verði eitt helzta tromp Alþýðuflokksins í alþingiskosningunum í vetur.

Brottför ráðherrans úr ríkisstjórn hefur leyst vandamálin, sem hann hafði skapað ríkisstjórninni. En þau leysa ekki vandamálin, sem hann hafði skapað Alþýðuflokknum. Hann heldur áfram að vera varaformaður flokksins og einn helzti frambjóðandi hans í pólitík.

Vandamál ráðherrans fyrrverandi límast þannig við Alþýðuflokkinn, sem verður að heyja kosningabaráttu sína undir þeim merkjum, að varaformaður flokksins hafi ekkert gert umtalsvert af sér. Flokkurinn mun staðfesta stöðu sína sem spillingarflokkur þjóðarinnar.

Vafalaust munu margir halda áfram að kjósa Alþýðuflokkinn. Sumir hafa ekki enn fengið embætti og eru að bíða eftir því. Aðrir líta á flokkinn sinn eins og boltaáhugamenn líta á liðið sitt. Þeir horfa ekki á gulu og rauðu spjöldin, heldur spyrja, hvort skoruð verði mörk.

Svo áfram sé notað líkingamálið úr Firðinum, þá mun flokkurinn ekki skora mikið í næstu kosningum. Hann mun koma formanni og varaformanni á þing, en aðrir þingmenn verða fáir. Mikill fjöldi krata mun nefnilega neita að kjósa flokkinn eins og hvert annað boltalið.

Eftir situr stjórnmálaflokkur, sem orðinn er að eins konar boltaliði úr Firðinum. Hann verður minni en nokkru sinni fyrr og spilltari en nokkru sinni fyrr. Þeir kratar, sem neita að líta á mál ráðherrans fyrrverandi sem eins konar boltamál, fara annað með atkvæði sitt.

Úr því að ráðherranum fyrrverandi er tekið fagnandi af forustu flokksins og boltasinnum Alþýðuflokksins í Hafnarfirði, án þess að hann hafi beðizt afsökunar á ráðherraferli sínum, taka þessir aðilar fulla ábyrgð á vinnubrögðum hans og gera þau raunar að Alþýðuflokksmáli.

Það verður mál Alþýðuflokksins, að ráðherrar flokksins megi hlúa að vinum og ættingjum á kostnað almennings, án þess að almenningur fái sömu þjónustu. Þetta er bara hluti velferðarkerfisins að mati ráðherrans fráfarandi og merki um stuðning hans við lítilmagnann.

Það verður vandamál Alþýðuflokksins að innan hans séu aðilar, sem hafi tekið þátt í að ofsækja einn helzta markaskorara flokksins og hrekja úr ráðherraembætti. Það verður vandamál Alþýðuflokksins, að hann neyðist til að gera ráðherrann fyrrverandi að píslarvotti.

Þetta skiptir litlu í þjóðmálunum, af því að nægt er framboð af krataflokkum. En það skiptir öllu fyrir Alþýðuflokkinn að hafa loksins fundið sig. Sem boltalið.

Jónas Kristjánsson

DV

Harmleikur

Greinar

Afsögn félagsráðherra á blaðamannafundi í gær var harmleikur í beinni útsendingu. Ráðherranum var svo brugðið, að spyrja má, hvort ekki hefði verið miklu betra fyrir hann eins og svo marga aðra, sem líða fyrir mál hans, að hann hefði sagt af sér nokkrum vikum fyrr.

Ljóst er af svanasöngi ráðherrans, að hann telur sig miklu órétti beittan. Embættisfærsla hans sem ráðherra hafi í flestu verið í samræmi við lög og hefðir og að hin sárafáu “mistök” hans hafi ekki verið meiri eða merkilegri en annarra núverandi og fyrrverandi ráðherra.

Svo virðist sem fráfarandi ráðherra trúi því sjálfur í einlægni, að skýrsla Ríkisendurskoðunar staðfesti nokkurn veginn alveg sjónarmið hans sjálfs í hinum umdeildu málum. Samkvæmt því hefur hann ekki lært neitt af hremmingunum og telur sig vera fórnardýr ofsókna.

Þetta þýðir, að hann heldur áfram að vera varaformaður flokks síns og líklega einn helzti frambjóðandi hans í komandi kosningum. Vandamál hans halda því áfram að vera vandamál Alþýðuflokksins, þótt ríkisstjórninni hafi tekizt að koma myllusteininum af hálsi sér.

Ýmis efnisatriði í vörn hins fyrrverandi ráðherra eru að nokkru leyti réttmæt. Aðrir ráðherrar í þessari ríkisstjórn og öðrum fyrri hafa gert hluti, sem stríða gegn almennum siðferðissjónarmiðum. Þeir hafa gert mistök eins og það heitir á máli hins ofsótta ráðherra.

Munurinn á honum og hinum er fyrst og fremst tvenns konar. Í fyrsta lagi hafa hremmingar hans hlaðizt upp á skömmum tíma. Hann skellti sér út á gráa svæðið um leið og hann varð ráðherra og var þar löngum stundum, meðan aðrir ráðherrar hættu sér þangað endrum og eins.

Í öðru lagi er líklegt, að almenn siðferðissjónarmið í þjóðfélaginu hafi orðið harðari með árunum. Hugsanlegt er, að formaður Alþýðubandalagsins yrði að segja af sér sem ráðherra, ef hann væri núna að gefa Þormóð ramma og kaupa ímyndaðar vörur af Svörtu og hvítu.

Raunar ættu fjölmiðlar að verða við áskorun hins fráfarandi ráðherra og bera saman athugasemdir Ríkisendurskoðunar við embættisfærslu hans og annarra ráðherra í þessari ríkisstjórn og öðrum fyrri. Væntanlega stuðla aðrir ráðherrar að opinberun athugasemdanna.

Að loknu fárviðrinu, sem leitt hefur til afsagnar ráðherrans, er einnig eðlilegt, að spurt sé, hvort eitthvert gagn hafi orðið af öllu saman, annað en það, að ráðherra fái nú tækifæri til að ná réttum litum og taka gleði sína á ný eftir hvíld frá linnulausri orrahríð stjórnmála.

Sennilega munu ráðherrar fara varlegar en áður. Þeir munu ekki hætta sér eins mikið og áður út á gráa svæðið. Þeir eru þegar farnir að birta skrár yfir ráðstöfun skúffupeninga sinna og væntanlega fara þeir senn að birta athugasemdir Ríkisendurskoðunar um sjálfa sig.

Hitt er svo líka rétt, að séu ráðherrar eins harðskeyttir og sannfærðir um mátt sinn og dýrð og sá, sem nú fór frá, munu þeir einnig fresta í lengstu lög að draga rétta ályktun af hremmingum, sem þeir munu lenda í af völdum of tíðra ferða sinna út á gráa svæðið.

Öllum nýjum valdamönnum er brýnt að geta í tæka tíð skipt um skoðun, ef siðferðishugmyndir þeirra reynast ekki falla alveg að almennum siðferðishugmyndum eins og þær eru á hverjum tíma. Annars geta afleiðingar orðið eins og í þeim harmleik, sem við höfum nú séð.

Að leiðarlokum var ræðupúltinu komið táknrænt fyrir úti í horni, þar sem ráðherrann stóð innikróaður og særður og lýsti sig blásaklaust fórnardýr ofsókna.

Jónas Kristjánsson

DV

Barnaskattmann

Greinar

Um nokkurt skeið hefur Friðrik Sophusson fjármálaráðherra verið skattakóngur þeirrar stéttar. Sérstaklega hefur hann verið duglegur við að finna upp og hækka ýmis gjöld, sem hann telur sjálfum sér trú um, en engum öðrum, að séu ekki skattar, heldur þjónustugjöld.

Skattakóngurinn hefur með ýmsum hætti komið skattheimtu ríkisins töluvert upp fyrir það, sem var í tíð Ólafs Ragnars Grímssonar, fyrirrennara hans. Nýjasta uppfinning Friðriks er barnaskatturinn, sem nú leggst á sölulaun, sem börn fá fyrir ýmiss konar sölumennsku.

Fyrir þetta afrek verður Friðrik hér eftir réttnefndur Barnaskattmann. Hann ber ábyrgð á þessum nýja skatti, þótt hann reyni í hugleysi að skjóta sér á bak við ónafngreinda embættismenn í kerfinu. Það er pólitísk ákvörðun, en ekki embættisleg, að taka upp nýja skattheimtu.

Barnaskatturinn á sér stoð í lögum frá 1988. Þá vildu embættismenn túlka lögin á þann hátt, sem nú hefur verið gert. Þá var tekin pólitísk ákvörðun um að túlka lögin öðruvísi. Þegar nú er tekin ákvörðun um að breyta þeirri túlkun, er það ekkert annað en pólitísk ákvörðun.

Barnaskatturinn er ekki greindarlegur skattur. Hann kostar mjög mikla skriffinnsku, en gefur lítið í aðra hönd. Skriffinnskukostnaður ríkis og fyrirtækis á hvert barn nemur 2.015 krónum á ári. Það er herkostnaðurinn við hugsjón Barnaskattmanns í embætti fjármálaráðherra.

Dæmi verða til um börn, sem skráð verða í bókhald fyrirtækis með sölulaun upp á 26 krónur á árinu fyrir sölu á einu eintaki. Af þessari upphæð á barnið að greiða eina krónu og fimm tíu og sex aura til Barnaskattmanns og fyrirtækið átta tíu og þrjá aura til viðbótar.

Samtals fær ríkið tvær krónur og þrjátíu og níu aura í tekjur á móti 2.015 króna kostnaði málsaðila í pappírs-, póst- og launakostnaði vegna skattsins. Þetta er án efa langmesti taprekstur, sem þekkist í þjóðfélaginu um þessar mundir, verðugur minnisvarði um lélegan pólitíkus.

Embættismenn, sem hafa lítið að gera, eru sambandslitlir við umheiminn og gætu raunar tæpast unnið fyrir sér úti í lífinu, mega láta sér detta ýmislegt vitgrannt í hug, af því að þeir verða aldrei dregnir til ábyrgðar, þótt þeir hugsi ekki formsatriði sín til leiðarenda.

Ráðherrann vissi vel, að fyrirrennari hans hafði hafnað þessari skattheimtu, af því að hann sá, að hún borgaði sig ekki. Barnaskattmann getur því ekki kennt öðru um en eigin greindarskorti að hafa byrjað skattheimtu, sem er svona dýr í rekstri og gefur svona lítið í aðra hönd.

Það þarf óvenjulega menn til að efna til kostnaðar upp á meira en tvö þúsund krónur til að ná í tekjur, sem nema í sumum tilvikum aðeins rúmlega tveimur krónum. Það Íslandsmet Friðriks Sophussonar í taprekstri á skattheimtu verður sennilega aldrei slegið.

Barnaskattmann hefur reynt að skýla sér á bak við embættismenn. Það kemst hann ekki upp með, því að hann einn tók hina pólitísku ákvörðun um að breyta fyrri pólitískri ákvörðun fyrirrennarans. Með flóttanum bætir hann hugleysi ofan á önnur sjálfskaparvíti.

Barnaskatturinn er aðeins nýjasta dæmið af mörgum um lélega frammistöðu Friðriks í embætti fjármálaráðherra, allt frá einstæðri skuldasöfnun ríkissjóðs yfir í vanefndir á undirskrifuðum samningum, svo sem illræmt er orðið í samskiptum ríkis og sveitarfélaga.

Barnaskattmann verður augljós myllusteinn um háls flokks síns og ríkisstjórnar, þegar kjósendur líta fyrir kosningar yfir feril hans í fjármálaráðuneytinu.

Jónas Kristjánsson

DV

Greindarskortur

Greinar

Í ýmsum dómum Hæstaréttar að undanförnu hefur hann haft siðalögmál almennings að engu. Þegar hann dæmir þar á ofan sífellt í öðrum kanti heimilda um refsingu og skaðabætur, má efast um, að hann þekki landslög. Hann virðist vera úti að aka í þjóðfélaginu.

Þegar ráðherra getur ekki sjálfur tekið af skarið um, að hann sé orðinn flokki sínum og ríkisstjórn þvílík byrði, að hann lami getu stjórnarflokkanna til að mæta þjóðinni í kosningum að fáum mánuðum liðnum, má efast um, að hann skilji nokkuð í málavöxtum.

Greindarskortur háir Íslendingum. Við erum að reyna að halda uppi þjóðfélagi með fullri reisn milljónaþjóða, en getum það ekki fyllilega, af því að helztu stofnanir þjóðfélagsins eru fjölmennari en sem svarar framboði af hæfu fólki til að reka allar þessar stofnanir.

Við megum ekki heldur gleyma atgervisflótta, til dæmis í vísindum og viðskiptum. Margir hæfustu fræðimenn landsins hafa ílenzt við erlenda háskóla, af því að þeir fá annaðhvort ekki starf við sitt hæfi hér á landi eða af því að þeir vilja ekki reyna að lifa á sultarlaunum.

Atgervisflóttinn skaðar háskólamenntun innanlands og bætist ofan á slakan undirbúning margra nemenda úr grunn- og framhaldsskólum. Sumar deildir Háskólans hafa dregizt aftur úr hliðstæðum deildum erlendis vegna skorts á hæfum kennurum og hæfum nemendum.

Svipað ástand er í atvinnulífinu. Í sjávarútvegi eru ýmis dæmi um, að ríkjum ráða gamlir karlar, sem hvorki skilja né vilja skilja helztu lögmál viðskiptalífsins. Afleiðingin er sú, að sum sjávarútvegsfyrirtæki safna skuldum og eru á hvínandi kúpunni, þótt önnur hagnist vel.

Svona verður ástandið, þegar ríkjandi smábyggðastefna knýr þjóðfélagið til að reyna að koma í veg fyrir, að fyrirtæki fái eðlilegt andlát eða renni inn í þau, sem betur eru rekin. Ef Darwinslögmálið fengi meiru að ráða, væru færri forstjórar og betri í sjávarútvegi.

Um opinbera geirann í þjóðfélaginu þarf ekki að hafa mörg orð. Þar er hver silkihúfan upp af annarri. Fólk, sem ekki getur unnið fyrir sér með eðlilegum hætti, hefur gengið fram í stjórnmálaflokkum til að láta þá útvega sér störf, stöður og stóla hjá hinu opinbera.

Afleiðingin er, að stórir þættir hins opinbera lúta alls engri rekstrarstjórn, heldur kjaga áfram af gömlum vana og sumpart hreinu tilgangsleysi. Sumar eftirlitsstofnanir hafa þar á ofan aðstöðu til að efna til vandræða úti í atvinnulífinu. Sumar skattstofur drepa þannig tímann.

Niðurstaðan af þessu öllu vekur spurninguna um sjálfstæði þjóðar, sem telur 260.000 manns. Getum við haldið áfram að vera sjálfstæð þjóð, þegar umheimurinn gerir sífellt harðari kröfur um aukna framleiðni? Munum við fylgja á eftir Færeyingum sem úrelt fyrirbæri?

Færeyingar fóru á hausinn vegna lélegra ráðamanna í stjórnmálum og atvinnulífi. Við erum fleiri og getum því mannað fleiri pósta með sóma. Samt eru mikilvægustu störfin fleiri en svo, að við getum mannað þau með sóma og oft vilja ráðamenn ekki manna þau með sóma.

Ef við viljum áfram vera sjálfstæð þjóð fram á næstu öld, þurfum við að fækka smákóngunum í landinu og vanda betur val þeirra, sem eiga að hafa forustu í stjórnmálum, vísindum, atvinnulífi og opinberum rekstri. Við þurfum að hafa fáa kónga og velja þá rétt.

Setja ber tímamörk á embættismenn, létta fyrirtækjum að verða gjaldþrota og koma upp siðalögmálum í stjórnmálum til að gera greindarskortinn bærilegri.

Jónas Kristjánsson

DV

Hafnarhúsið endurvakið

Greinar

Verzlanir og veitingar efla mannlíf í gömlum bæjarhlutum. Þetta er alþjóðleg reynsla, sem rætt hefur verið um að nýta hér á landi með því að hafa Kolaport í Tollhúsi, smáverzlanir í Hafnarhúsi, stórmarkað í kastalanum við Tryggvagötu 15 og veitingar á öllum stöðunum.

Listasafn Errós í Hafnarhúsi er góð viðbót við þessar ráðagerðir, ef portið og efri hæðir hússins nægja slíku safni. Ekki er hins vegar ráð að víkja frá þeirri grundvallarhugmynd, að Hafnarhúsið og húsin í kring séu fyrst og fremst notuð til að draga fólk að gamla miðbænum.

Safninu hentar auðvitað betur að vera í miðbænum fremur en í útjaðri hans. Miklu meiri líkur eru á, að fólk notfæri sér safn, sem verður á vegi þess, en safn, sem er milli brauta á einum hinna stóru golfvalla, er borgarverkfræðingur og skipulagsstjóri þrá svo ákaft.

Errósafn hefði hvílzt í virðulegri einangrun að Korpúlfsstöðum, ef sá kostur hefði komið til greina vegna útgjalda. Errósafn í miðbæ Reykjavíkur er miklu líklegra til að verða lifandi safn, þótt minna verði. Gildi safns ræðst af auðveldum og áhugavekjandi aðgangi fólks.

Safn er að því leyti eins og banki eða ríkiskontór, að það dregur ekki sjálfkrafa að sér. Þess vegna eiga söfn ekki frekar en bankar eða ríkiskontórar að vera á jarðhæðum miðbæja. Þar eiga að vera verzlanir og veitingahús og önnur þjónusta, sem ekki þarf mikið rými.

Stofnanir á borð við bankana og Póst & síma hafa stuðlað að hnignun miðbæjar Reykjavíkur. Allar stofnanir, sem eru fyrirferðarmiklar við götu, eitra út frá sér. Langir og dyralausir útveggir eru fráhrindandi. Slíkar stofnanir eiga alls ekki heima á jarðhæðum miðbæjarhúsa.

Það væri gott fyrir Errósafn að hafa stuðning af þeirri starfsemi, sem rætt hefur verið um, að verði í höllunum þremur, sem mynda norðurhlið Tryggvagötu. Um leið getur safnið gefið til baka með því að veita Hafnarhúsinu listrænna innihald. Úr þessu getur orðið góð sambúð.

Bezt væri, ef safnið fengi portið og tvær efri hæðir hússins, þjónusta af ýmsu tagi aðra hæðina, verzlanir og veitingarekstur þá neðstu. Þannig er líklegast, að einstakir þættir starfseminnar styðji hver annan og þá þætti, sem ráðgerðir eru í stóru húsunum beggja vegna.

Vegna veðurfars í Reykjavík er æskilegt að hafa innangengt alla línuna frá strætisvagnahúsi, sem ráðgert er á bílastæðinu austan Tollhúss, um Tollhús og Hafnarhús, í vöruhúsið að Tryggvagötu 15. Með góðu skipulagi getur orðið úr lengjunni eins konar Kringla miðbæjarins.

Hugmyndina um sambýli verzlunar og menningar í Hafnarhúsi má færa yfir á Tollhús, ef aðgangur að efri hæðum þess verður gerður minna fráhrindandi en hann er nú. Ef hægt er að laða umferð úr Kolaporti upp á efri hæðirnar, opnast rými fyrir fleiri menningarsöfn.

Þetta eru ekki draumórar. Erlendis hefur víða tekizt að snúa vörn í sókn í nýtingu þreyttra miðbæja. Bezt hefur það tekizt, þar sem verzlun og veitingar eru andlitin, sem snúa að vegfarendum og draga þá inn, en innar og ofar taka við þjónusta og menning af ýmsu tagi.

Innan um aðra þjónustu þarf auðvitað að vera rými fyrir útibú og afgreiðsludeildir banka, pósts, síma, tolls og skatts. En það er alveg út í hött að fylla miðbæi af almennum skrifstofum slíkra stofnana. Reykjavíkurborg þarf að mestu að losna við slíka mammúta úr miðbænum.

Gott er, ef unnt verður tengja hugmyndina um Erró- safn í Hafnarhúsi við frábærar hugmyndir Þróunarfélags Reykjavíkur um nýtingu norðurhliðar Tryggvagötu.

Jónas Kristjánsson

DV

Jöfnuður næst ekki

Greinar

Tveir stærstu þingflokkarnir munu koma í veg fyrir marktæka breytingu á misjöfnum atkvæðisrétti íslenzkra kjósenda. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn sendu þau skilaboð af sjónvarpsfundi á þriðjudaginn, að ekki mundi semjast um jafnan atkvæðisrétt.

Varaformaður Sjálfstæðisflokksins endurtók í sífellu, að ekki mundi semjast um að leiðrétta ástandið í einu lagi, heldur yrði að gera það í áföngum. Þar sem reynslan sýnir, að hver áfangi tekur tvö kjörtímabil, er hann að tala um jöfnun atkvæðisréttar á nokkrum áratugum.

Varaformaður Sjálfstæðisflokksins og formaður Framsóknarflokksins töluðu um millileiðir og bráðabirgðaleiðir í líkingu við það, sem hafa hingað til verið reyndar og hafa jafnan leitt til þess, að misræmi hefur vaxið að nýju og náð fyrra marki fyrir næstu breytingu.

Varaformaður Sjálfstæðisflokksins og formaður Framsóknarflokksins hyggjast bjóða kjósendum stækkun á atkvæði kjósenda úr um fimmtungi úr atkvæði upp í svo sem þriðjung úr atkvæði, sem síðan leki aftur úr þriðjungi úr atkvæði niður í fimmtung úr atkvæði.

Slíkt kák var síðast afsakað með því, að þannig væri hægt að leysa málið með einfaldri breytingu á kosningalögum án þess að breyta stjórnarskránni. Nú er slíkt ekki hægt lengur, svo að breyta þarf stjórnarskránni hvort sem er, jafnvel þótt kák verði fyrir valinu.

Svo virðist sem aðrir flokkar en þessir tveir geti sætzt á, að landið verði allt að einu kjördæmi. Stuðningur við þá aðferð nær raunar inn í þingflokk Framsóknar. Eitt kjördæmi hefur galla eins og aðrar lausnir, en tryggir þó bæði flokkum og kjósendum jafnan atkvæðisrétt.

Ef kjósendur fengju í kjörklefanum að raða frambjóðendum innan listanna, væri til viðbótar náð kostum, sem eru í líkingu við það, sem margir sjá í einmenningskjördæmum. Ennfremur væri þá hægt að leggja niður prófkjörin, sem eru að verða dýrkeypt vandræðabarn.

Mesti kostur eins kjördæmis er, að það eyðir þörfinni á að hlaupa upp til handa og fóta á svo sem átta ára fresti til að breyta stjórnarskránni, svo að misrétti kjósenda minnki nokkuð. Í einu landskjördæmi hafa allir kjósendur og allir flokkar alltaf heilt atkvæði.

Varaformaður Sjálfstæðisflokksins segir, að ekki muni nást samkomulag um þetta. Það er auðvitað hótun, sem verður að taka alvarlega, en segir kjósendum um leið, hvar Sjálfstæðisflokkurinn stendur í þessum mannréttindum. Hann vill hafa þau eins lítil og unnt er.

Gott var, að Framsóknarflokkurinn skyldi sýna sitt rétta afturhaldsandlit á sjónvarpsfundinum. Vegna hræringa í þingliði flokksins höfðu margir ímyndað sér, að Framsóknarflokkurinn væri til viðtals um marktækar leiðréttingar. Nú er staðfest, að svo er alls ekki.

Eins og línurnar hafa skýrzt, er eðlilegt, að stóru þingflokkarnir tveir taki saman höndum um sáralitlar breytingar, sem aðrir þingflokkar verði síðan kúgaðir til að styðja á þeim forsendum, að lítið sé betra en ekkert. Þetta er líka eðlileg byrjun á nýju stjórnarmynztri.

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn láta svona, af því að þeir telja, að þeir kjósendur, sem hafa aðeins brot úr atkvæðisrétti, muni áfram sætta sig við það og ekki refsa þessum tveimur flokkum fyrir að koma í veg fyrir, að þeir fái heilan atkvæðisrétt.

Við komum því enn einu sinni að kunnuglegri staðreynd, að kjósendur fá eins og aðrir vesalingar yfir sig það böl, sem þeir eiga skilið, hvorki meira né minna.

Jónas Kristjánsson

DV

Rökstudd bjartsýni

Greinar

Betri tíð er í vændum að mati almennings og forstöðumanna fyrirtækja. Búizt er við, að ekki þurfi áfram að fækka starfsfólki fyrirtækja, heldur sé fjölgun þess í vændum. Þetta eru meðaltalstölur, sem hafa reynzt vel við spár um, hvort þensla eða kreppa sé á næsta leiti.

Samkvæmt þessum væntingum hefur kreppan náð hámarki á þessu ári. Næsta ár ætti að verða betra, enda er raunar þegar komið í ljós, að atvinnuleysi á öndverðum vetri er heldur minna en það var á sama tíma í fyrra. Þensla er þannig þegar byrjuð að leysa kreppu af hólmi.

Minnkun atvinnuleysis hefur tvenns konar gildi. Annars vegar dregur það úr margs konar böli í lífi fólks og minnkar spennu og sundrungu í þjóðfélaginu. Hins vegar eflir það bjartsýni og framtak, sem eru forsenda þess, að þjóðfélagið missi ekki af framfaralestinni.

Þjóðin hefur staðið sig í kreppunni. Hún hefur kunnað fótum sínum forráð og lækkað rekstrarkostnað sinn. Það sést annars vegar af því, að álag á félagslega kerfið jókst ekki eins mikið í kreppunni og búast mátti við. Og hins vegar af hagstæðum vöruskiptajöfnuði við útlönd.

Þetta gildir ekki síður um fyrirtækin í landinu. Mörg hver hafa náð ágætum árangri í rekstri á þessu ári. Þau hafa náð af sér aukakílóum, meðal annars með sársaukafullum uppsögnum starfsfólks. Þess vegna eru þau nú reiðubúin til nýrra átaka og nýrra mannaráðninga.

Eini aðilinn, sem ekki hefur staðið sig, er ríkissjóður. Hann hefur verið illa rekinn, ekki rifað seglin eins og aðrir, heldur haldið áfram að safna skuldum. Þær hafa aukizt úr 120 milljörðum í 160 milljarða á kjörtímabilinu og eru orðnar mun meiri en eins árs velta ríkisins.

Þetta hefur þó ekki verið verra en svo, að verðbólgan hefur ekki látið á sér kræla. Hún gerir það raunar ekki enn, þótt fyrstu þenslumerkin séu að byrja í atvinnulífinu. Það verður stórsigur, ef veltan nær að aukast í þjóðfélaginu, án þess að verðbólgan fari af stað að nýju.

Allt eru þetta horfur á líðandi stund og geta snögglega breytzt til hins verra. Við lifum enn í veiðimannaþjóðfélagi, sem rís og hnígur með aflasveiflum. Við höfum mildað kreppuna með happdrættisvinningi í Smugunni, en vitum ekki, hversu langvinnur hann verður.

Loðnan hefur orðið okkur til hjálpar og sennilega er síldin nú að koma til skjalanna. Þannig hefur hvert happið rekið annað og dregið úr afleiðingunum af hruni þorskstofnsins á heimamiðum. Sum sjávarútvegsfyrirtæki hafa blómstrað, þótt önnur hafi koðnað niður.

Við höfum ekki borið gæfu til að nota happdrættisvinningana til að hlífa þorskstofninum á heimamiðum. Engar horfur eru á, að hann rétti við á næstu árum. Fram til aldamóta að minnsta kosti er hann ekki undir það búinn að leysa Smugu, loðnu og síld af hólmi.

Ef við lítum yfir allt sviðið, þarf að tempra það mat, að þjóðin hafi staðið sig vel í kreppunni. Hún hefur í stórum dráttum staðið sig vel, en eigi að síður vikið sér undan að taka fullum afleiðingum af hruni þorskstofnsins og alls ekki náð að hemja rekstur ríkisbúsins.

Aðalatriðið er þó, að ýmsir traustir mælikvarðar sýna batnandi tíð í þjóðfélaginu og að aukin bjartsýni fólks og forráðamanna fyrirtækja á sér raunhæfar forsendur. Við sjáum því fram á góðan vetur, þótt nokkur langtímamál séu enn á hverfanda hveli að hefðbundnum hætti.

Verðbólga þessa árs verður innan við 2%, atvinnuleysi innan við 5% og hagvöxtur er byrjaður á nýjan leik. Þetta eru staðreyndir, sem gefa tilefni til bjartsýni.

Jónas Kristjánsson

DV

Auðlind á móti auðlind

Greinar

Þegar viðræður hefjast um aðild Íslands að Evrópusambandinu, verða talsmenn okkar að gera nógu miklar kröfur til ítaka í auðlindum Evrópu. Við eigum að gera kröfu til rekstraraðildar að koparnámum á Spáni, marmaranámum í Grikklandi og olíulindum í Frakklandi.

Þetta verður svar okkar við kröfum frá löndum Evrópusambandsins um aðild að auðlindum 200 mílna efnahagslögsögunnar og kröfum frá Evrópusambandinu um að fá að stjórna þessum auðlindum. Það hlýtur að verða gagnkvæmni í kröfum um aðgang að auðlindum annarra.

Krafa okkar um aðgang að evrópskum auðlindum er eina leiðin til að mæta þeirri frekju, sem einkennir kröfur Evrópusambandsins og aðildarríkja þess í viðræðum um aðild nýrra ríkja. Þær eru eina leiðin til að sýna fram á fáránleikann í frekjunni, sem þessir aðilar sýna.

Norðmenn höfðu ekki vit á að láta kröfu mæta kröfu. Þeir gerðu óhagstæðan samning við Evrópusambandið. Samningurinn felur í sér, að Evrópusambandið stjórni nýtingu norskra fiskimiða og að frekustu Evrópuríkin fái lítils háttar aðgang að veiðum á norskum fiskimiðum.

Ríkisstjórn Noregs hefur ekki tekizt að telja norskum kjósendum trú um, að þessu sé í rauninni varið á annan hátt, að Norðmenn muni stjórna veiðunum á óbeinan hátt í gegnum skriffinna í Brussel og að norsk fiskveiðistjórnarstefna verði óbeint tekin upp í Evrópu.

Þess vegna munu norskir kjósendur fella samninginn um aðild Noregs að Evrópusambandinu, jafnvel þótt meirihluti næðist í Svíþjóð með aðild. Samningur Noregs er einfaldlega svo óhagstæður, að norsk stjórnvöld geta ekki selt hann þjóðinni. Það sýna skoðanakannanir.

Þetta er hagstætt fyrir Ísland, af því að útreið Evrópusamningsins í Noregi dregur úr líkum á, að hann hafi fordæmisgildi, þegar enn einu sinni verður reynt að semja um aðild Noregs og þegar Ísland verður loksins tilbúið til að sækja um aðild að Evrópusambandinu.

Aðild að Evrópusambandinu getur orðið okkur mjög hagkvæm. Hún ver okkur til dæmis töluvert vel fyrir efnahagslegri og viðskiptalegri ofbeldishneigð sambandsins út á við. Við þurfum sem smáríki að vera inni í hlýjunni, svo að tekið sé tillit til hagsmuna okkar.

Hins vegar er ástæðulaust að kaupa aðganginn að Evrópu of dýru verði að hætti norsku ríkisstjórnarinnar. Við eigum ekki að fallast á að veita Evrópusambandinu yfirstjórn efnahagsmála í 200 mílna lögsögunni og ekki fallast á veiðikvóta til ágengra Evrópuríkja.

Með þetta í huga getum við sótt í alvöru um aðild að Evrópusambandinu, ekki til að kanna málin, heldur með því markmiði, að Ísland verði aðili. Það kemur ekki í veg fyrir, að slitnað geti upp úr viðræðum, ef kemur í ljós, að Evrópa fellur ekki frá fiskimiðafrekju sinni.

Það er ekki fáránlegra, að við krefjumst koparnáma á Spáni, marmaranáma í Grikklandi og olíulinda í Frakklandi, en að ríkisstjórnir þessara landa geri kröfur til að fá aðgang að íslenzkum auðlindum og að Evrópusambandið sjálft fái að skipuleggja þær og stjórna þeim.

Með því að setja ásóknina í íslenzk fiskimið í rétt samhengi gagnkvæmniskröfunnar og fáránleikans á að vera unnt að verjast slíkri ásókn, einkum eftir að norskir kjósendur hafa fellt samning, sem felur í sér óviðurkvæmilegt afsal norskra landsréttinda á þessu sviði.

Ef við berum höfuðið hátt og gefum ekkert eftir af því, sem mestu máli skiptir, getum við náð góðum árangri í æskilegum viðræðum um Evrópuaðild okkar.

Jónas Kristjánsson

DV

Ný kosningalög í vetur

Greinar

Ungliðahreyfingar allra stjórnmálaflokka, sem sæti eiga á Alþingi, hafa sameinazt um að óska eftir, að strax í vetur verði kosningalögum breytt í því skyni að afnema alveg eða því sem næst það mikla misvægi, sem nú er á atkvæðisrétti fólks eftir búsetu þess í landinu.

Athyglisvert er, að ungliðahreyfingar allra stjórnmálaflokka standa að þessari yfirlýsingu, þar á meðal Framsóknarflokksins, sem löngum hefur verið andvígur breytingum á kosningalögum, af því að fylgi hans var lengst af meira í fámennum kjördæmum en í fjölmennum.

Hinar skörpu línur milli flokka á þessu sviði hafa verið að óskýrast. Framsóknarflokkurinn sækir nú orðið töluvert af fylgi sínu til suðvesturshornsins og hefur þingmenn þar. Formaður Sambands ungra framsóknarmanna kemur einmitt frá Reykjaneskjördæmi.

Ungliðahreyfingarnar hafa sameinazt um að gagnrýna núverandi kosningalög, þótt þau séu svo nýleg, að þau hafa aðeins verið notuð við tvennar kosningar. Í ályktun þeirra segir, að það sé samdóma álit ungs fólks úr öllum flokkum, að þessi nýlegu lög hafi mistekizt.

Það er einmitt eftirminnilegt siðleysið, sem einkenndi samningu þessara illræmdu kosningalaga. Höfundar laganna voru þingmenn, sem höfðu á sínum snærum reikningsstráka, sem reiknuðu þingmenn inn og út af þingi til að finna leið, er truflaði þingmenn sem minnst.

Niðurstaðan varð illskiljanlegur bastarður, sem jafnaði kosningarétt eftir flokkum meira en eftir kjördæmum og tafði um leið, að gengið væri af alvöru að jöfnun atkvæðisréttar eftir búsetu. Enda er það fyrst á þessu ári, að farið er að bera mikið á óánægju með kosningalögin.

Ungliðahreyfingarnar benda á, að í vetur séu síðustu forvöð að breyta kosningalögunum, ef unnt á að vera að koma breytingunum í framkvæmd fyrir aldamót. Það stafar af, að breytingar gilda auðvitað ekki í fyrstu, heldur í öðrum kosningum eftir fyrstu samþykkt þeirra.

Niðurstaða ungliðahreyfinganna felur ekki í sér samkomulag um, hvaða leið skuli valin að jöfnuði atkvæðisréttar eftir búsetu, heldur aðeins um sjálft markmiðið við væntanlega kosningalagabreytingu. En það eitt út af fyrir sig er afar merkilegt tímamótasamkomulag.

Þar að auki er athyglisvert, að það kom í ljós, að innan flestra ungliðahreyfinganna er mest fylgi við, að landið verði allt gert að einu kjördæmi, þótt ekki sé einhugur um að mæla með þeirri leið. Fólk vill hreinar og einfaldar línur í kosningalög, en ekki verzlun milli flokka.

Ungliðahreyfingarnar hafa unnið gott verk, komizt að sameiginlegri niðurstöðu og fengið hreyfingu á málið. Eftir helgina munu þær halda sjónvarpsfund með forustumönnum flokkanna, þar sem þeir verða knúnir svara um viðbrögð þeirra við þrýstingnum á kosningalögin.

Aukinn jöfnuður á þessu sviði stuðlar að þeirri tilfinningu, að hér búi ein þjóð í einu landi. Slík tilfinning verður þjóðinni nauðsynleg á næstu árum, þegar hún stendur andspænis viðskiptalegum ávinningi af auknu samfloti með öðrum þjóðum og tilsvarandi rýrnun fullveldis.

Jafnari staða eftir búsetu, jafnari staða eftir aldri, jafnari staða eftir kynjum, jafnari staða eftir tekjum og jafnari staða eftir stöðu í kerfinu. Allt eru þetta atriði, sem hjálpa kvartmilljónar manna þjóð til að standa saman um það, sem mestu máli skiptir í brimasamri framtíð.

Vonandi leiðir framtak ungliðahreyfinganna til samkomulags stjórnmálokkanna á þessum vetri um ný og betri kosningalög, sem nýtist í þarnæstu kosningum.

Jónas Kristjánsson

DV

Forstokkun

Greinar

Framkvæmdastjóri Listahátíðar í Hafnarfirði viðurkennir mistök í starfi, en tekur samt enga áþreifanlega ábyrgð á þeim. Þáverandi bæjarstjóri í Hafnarfirði og núverandi félagsráðherra játar á sig mistök vegna listahátíðarinnar, en tekur enga áþreifanlega ábyrgð á þeim.

Þáttur bæjarstjórans fyrrverandi er eitt af mörgum málum, sem hafa orðið honum til minnkunar í haust. Hann hefur veitt þunn eða engin svör við flestum þeirra. Hann tekur enga ábyrgð á ferli sínum sem bæjarstjóri og ráðherra. Og flokkur hans er þessu samþykkur.

Svo er nú komið í stjórnmálum og opinberum rekstri í landinu, að enginn tekur ábyrgð á neinu. Menn tala út og suður og játa mistök í einstaka tilvikum, þegar málsefni eru svo gróf, að engin útgönguleið er önnur. Síðan halda spilling og getuleysi áfram á óbreyttan hátt.

Orð halda ekki lengur í stjórnmálum og opinberum rekstri og þar á ofan eru skrifuð orð um það bil að bresta. Fjármálaráðherra tekur ekki mark á eigin undirskrift samnings ríkis við sveitarfélög um, að ekki verði framhald á framlagi sveitarfélaga í atvinnuleysissjóð.

Í stað þess að leita til sveitarfélaganna og óska eftir viðræðum um, að fyrra samningi verði breytt á þann hátt, að greiðsla frá sveitarfélögum haldi áfram á næsta ári, setur hann beint í fjárlagafrumvarpið þá upphæð, sem hann hyggst ná í, þvert á fyrri undirskrift sína.

Áður hefur vakið athygli, að hver þjóðarsátt, sem gerð er á vinnumarkaði að undirlagi stjórnvalda, felur í sér ákvæði um, að efnd skuli atriði, sem ríkisstjórnin lofaði með undirskrift næstu þjóðarsáttar á undan. Þannig hlaðast upp skrifleg loforð, sem eru marklaus með öllu.

Það er að verða meiri háttar vandamál í samskiptum við ríkið, að ekkert heldur lengur, ekki einu sinni undirskriftir. Svo er komið, að ráðherrar líta á undirskriftir sínar sem eins konar tæknibrellu til að komast til bráðabirgða yfir enn einn þröskuldinn í ráðherrastarfi.

Þetta ástand hefur smitað ríkisgeirann. Fjölmiðlar hafa svo mörg dæmi um, að embættismenn segi rangt frá eða svo takmarkað, að rangt má telja, að fréttamenn eru að hætta að trúa því, sem þeim er sagt, jafnvel þótt rétt sé. Traustið í þjóðfélaginu er að minnka.

Þá svara embættismenn út og suður ekki síður en ráðherrar. Eitt nýjasta dæmið er úr landbúnaðarráðuneytinu, sem úthlutar höfðingjum sumarbústaðalöndum á ríkisjörðum algerlega án auglýsingar, en heldur samt blákalt fram, að allir geti fengið slíkar lóðir.

Embættismaðurinn, sem svarar fyrir ráðuneytið, segir, að það hafi ekki tíma til að auglýsa sumarbústaðalóðir á ríkisjörðum, en það loki ekki dyrunum á þá, sem vilji fá slíkar lóðir. Þær eru leigðar á 6-14 þúsund krónur á ári til 25 ára með áframhaldandi forleigurétti.

Sumir embættismenn svara út í hött, á villandi hátt eða fara beinlínis með rangt mál eins og stjórnmálamenn án þess að gera sér mikla rellu út af því. Í stjórnkerfinu er farið að telja það eðlilegan gang lífsins og listgrein í sjálfu sér að blekkja fólkið í landinu sem allra mest.

Ekkert annað en skortur á sjálfsvirðingu getur gert stjórnmálamenn og embættismenn svo forstokkaða, að þeir axla ekki ábyrgð á verkum sínum, taka ekki mark á undirskriftum sínum, svara út í hött, villandi eða beinlínis rangt, þegar þeir eru spurðir um viðkvæm atriði.

Þetta eyðir smám saman því trausti, sem brýnt er, til þess að lýðræðisríki fái staðizt í tæknilega flóknum nútíma, er krefst góðs gangverks í þjóðfélaginu í heild.

Jónas Kristjánsson

DV

Brengluð skilaboð

Greinar

Hæstiréttur og héraðsdómarar hafa verið að senda þau skilaboð til fólks, að það skuli ekki kæra ofbeldi, enn síður kynferðislegt ofbeldi og alls ekki kynferðislegt ofbeldi gegn börnum. Dómararnir muni gera kærendum lífið svo leitt, að þeir sjái eftir að hafa kært.

Lengst ganga dómarar í kærumálum vegna ofbeldis gegn börnum. Þeir neita að taka mark á framburði barna og fara alls ekki eftir lagaákvæðum um þyngd refsinga, ef þeir geta ekki fundið tæknilegar brellur til að eyða slíkum málum. Þeir hlífa afbrotamönnum á þessu sviði.

Ef þeir neyðast til að dæma afbrotamenn gegn börnum, nota þeir ekki tólf ára refsiheimildina, heldur dæma þá í þrjá mánuði skilorðsbundið, svo að þeir þurfa ekki að sitja inni. Þetta gera þeir, þótt um margendurtekin afbrot sé að ræða, svo sem nýlegt dæmi sannar.

Dómarar eru ekki einir um að valda vandræðum á þessu sviði. Rannsóknarlögregla hefur oft klúðrað málum af þessu tagi og raunar lengst af veitt kærendum svo grófar móttökur, að fólki finnst eins og verið sé að nauðga sér í annað sinn. Þess vegna þorir fólk ekki að kæra.

Athuganir benda eindregið til þess, að sáralítill hluti afbrota af þessu tagi sé kærður og að mörg þeirra, sem kærð eru, komist ekki á leiðarenda í kerfinu. Stafar það ýmist af tæknilegum örðugleikum við öflun sönnunargagna eða af áhugaskorti og vangetu rannsóknarmanna.

Til dóms koma aðeins fá mál, sem hafa þótt svo einföld og ljós og auðveld, að þorandi sé að fylgja þeim eftir. Þá taka dómararnir við, eyða málunum eða kveða upp dóma, sem eru svo ótrúlega vægir, að það jafngildir þriðju nauðguninni á kærendum slíkra mála.

Refsingar í dómum eru svo vægar, að þær mega teljast nánast engar og bætur eru einnig svo litlar, að þær mega engar teljast. Bætur eru svo aldrei greiddar, því að ríkið tekur ekki ábyrgð á þeim. Það greiðir sálgæzlu afbrotamanna, en neitar að borga fyrir þolendur.

Samanlagt myndar rannsókna- og dómstólakerfið múr utan um ofbeldisfólk, einkum kynferðislegt ofbeldisfólk og allra helzt það, sem beitir slíku ofbeldi gegn börnum. Þannig verður hver einstök nauðgun að þremur nauðgunum, annarri á rannsóknarstigi og þriðju á dómsstigi.

Kastljósið hefur að undanförnu beinzt að dómstólum landsins með Hæstarétt í broddi fylkingar. Eðlilegt er, að spurt sé, hvernig standi á hrapallegri meðferð þeirra á hverju málinu á fætur öðru, þannig að úr verður dómvenja, sem hlýtur að teljast í meira lagi ósiðleg.

Ef til vill ruglast dómarar í ríminu vegna réttmætra kenninga um, að dómar bæti ekki afbrotafólk. En það kemur bara ekki málinu við, því að markmið dóma er ekki að bæta eða lækna afbrotafólk, heldur að refsa því. Í lögum er talað um refsingu en ekki um lækningu.

Hitt er líklegra, að dómarar séu að einhverju leyti úti að aka í þjóðfélaginu, sumir hverjir sérvitrir og aðrir óhæfir, margir aldir upp í gömlum jarðvegi, þar sem peningaafbrot voru talin alvarlegri en persónuafbrot og nauðganir kannski hluti af eðlilegum gangi lífsins.

Með einhverjum hætti þarf þjóðfélagið að geta komið í veg fyrir, að dómarar sendi frá sér skilaboð, sem eru í misræmi við gildandi lög; í ósamræmi við þá stefnu löggjafar á síðustu árum að herða lög á þessu sviði; og í algerri andstöðu við helztu siðalögmál þjóðfélagsins.

Það grefur undan þjóðskipulaginu, ef opinbera kerfið hagar sér í veigamiklum atriðum á þann hátt, að það magnar vantrú og fyrirlitningu venjulegs fólks.

Jónas Kristjánsson

DV

Færri ferðir – meiri afrek

Greinar

Unnt er að minnka ferðakostnað ráðuneyta með sjónvarpssímafundum, sem eru farnir að ryðja sér til rúms erlendis, einkum í Bandaríkjunum. Fundarmenn líta þá hver annan í sjónvarpstækjum eins og sjá má af slíkum fundum, sem haldnir eru á vegum sjónvarpsstöðva.

Með lagningu ljósleiðara til Íslands og um Ísland hefur þessi tækni orðið raunhæf, þótt verðlagi sé enn haldið óeðlilega háu hjá símaeinokun ríkisins. Helztu ráðuneyti ferðagleðinnar þurfa að koma sér upp sameiginlegu myndveri til að spara embættismönnum ferðalög.

Ferðakostnaður ríksins nam fyrir tveimur árum tæpum 800 milljónum króna erlendis og sömu upphæð innanlands, samtals tæpum 1.600 milljónum. Það eru of háar tölur fyrir kvartmilljón manna þjóð. Með markvissri notkun símafunda má lækka þær um helming eða meira.

Auðvitað þarf að semja við erlenda mótaðila um, að þeir komi sér upp sömu tækni á hinum endanum. Það getur tekið nokkur ár að fá Evrópusambandið, Efnahagssvæðið, Norðurlandaráð og aðrar slíkar stofnanir til að átta sig á sparnaðinum við sjónvarpsfundatækni.

Á tæknitímum nútímans er orðið úrelt að nota dýr samgöngutæki til að þveitast í eigin persónu fram og til baka yfir úthafið til að sækja klukkustundar fund í Stokkhólmi eða Brussel. Bandaríkjamenn hafa þegar áttað sig á þessu og Evrópumenn munu fylgja á eftir.

Hin nýja tækni er sérstaklega mikilvæg fyrir fólk, sem býr tiltölulega afskekkt og þarf að verja miklum tíma til ferðalaga umfram þá, sem búa nær valdamiðjum landsins, álfunnar eða heimsins. Sjónvarpssímafundir jafna almennt aðstöðuna milli miðjunnar og jaðarsins.

Það kostar íslenzkan embættismann þrjá ferðadaga að sækja klukkustundar fund, en þarf ekki að kosta hann nema tvær stundir, ef hann fer bara í myndver ríkisins. Hann getur notað afganginn af tímanum til að vinna við hefðbundnar og eðlilegar aðstæður í ráðuneyti sínu.

Þannig gefst betri tími til að tryggja, að Ísland missi ekki af neinum fundum, sem snerta hagsmuni ríkisins. Ekki þarf að koma fyrir, að Alþjóða heilbrigðisstofnunin kasti íslenzkum tölum út úr ársriti sínu, af því að íslenzkur embættismaður nennti ekki að mæta á brýna fundi.

Einnig þarf ekki að horfa í mikinn ferðakostnað til að koma í veg fyrir, að Tyrkjum takist að láta kasta séríslenzkum bókstöfum úr flokki undirstöðubókstafa vestrænna tölvukerfa. Við getum leyft okkur að senda marga færa menn á símafund, ef hagsmunagæzla okkar er brýn.

Að nokkru leyti stafar hár ferðakostnaður ríkisins af ferðahvetjandi reglum, sem valda því, að ráðherrar leggjast í ferðalög til að laga til í heftinu sínu. Með næsta fjármálaráðherra, sem væntanlega verður siðaðri, má laga þetta atriði og auka áhuga ráðherra á myndversfundum.

Ekki þýðir að reyna að koma á fót þeim tæknisparnaði, sem hér hefur verið fjallað um, ef hann stríðir gegn persónulegum fjárhagsmunum ferðagarpa hins opinbera. Ef ferðalög hætta að vera tekjuauki, er hægt að fá þá til að líta málefnalegar á kosti símafunda í myndveri.

Raunar ætti það að vera kappsmál afskekktrar þjóðar að losna annars vegar úr viðjum íhaldssamrar og okurgjarnrar símaeinokunar og knýja hins vegar fjölþjóðlegar stofnanir til að taka upp fundatækni, sem jafnar aðstöðu smárra og afskekktra ríkja til þátttöku í samstarfi ríkja.

Um þessar mundir er tæknilega einmitt kominn rétti tíminn til að hefja aðgerðir á þessu mikilvæga sviði, sem í senn leiðir til aukins sparnaðar og aukins árangurs.

Jónas Kristjánsson

DV

Guðsþakkafé

Greinar

Fyrir fimm árum varð til sérstakt ráðstöfunarfé ráðherra vegna tilfallandi útgjalda, sem ekki var hægt að sjá fyrir á fjárlögum. Ráðherrar hafa ekki notað peningana þannig, heldur hneigzt að því að nota þá sem eins konar guðsþakkafé handa aðgangshörðu ölmusufólki.

Listar menntaráðherra fyrir árin 1992-1994 sýna vel þessa ölmusustefnu. Þar er löng röð smágreiðslna, sem hver fyrir sig er guðsþakkaverk. Samanlagt sýna þær, að heppilegra væri að taka samræmt á ölmusum, svo að beiningafólk hafi tiltölulega jafna aðstöðu til þeirra.

Kirkjukórinn í hreppi ráðherrans er áreiðanlega vel að hálfri milljón króna kominn. En hvað með alla hina kirkjukórana í landinu? Af hverju beinist guðsþakkaféð aðeins að einum kirkjukór? Er það af því að hann hefur betri aðstöðu en hinir til að afla ölmusunnar?

Við sjáum fyrir okkur ráðherra, sem nýtur þess að dreifa aurum til smælingja, er rekur á fjörur hans, en hefur í tvö ár ekki tíma til að ræða við málsaðila um vanefndir á framkvæmd samnings í ráðuneytinu. Málefnafólk kemst ekki að á biðstofu fyrir ölmusufólki.

Þetta minnir á aldraða miðaldahöfðingja, sem dreifðu smáaurum fyrir sálu sinni, en er í mótsögn við nútímann, sem byggist á jafnrétti og réttlæti, er á að koma í veg fyrir, að fólk fari á stafkarls stíg. Í stað tilviljanakenndrar ölmusu kemur skipulagt velferðarkerfi.

Tvö kerfi eru samhliða í landinu. Annars vegar er almennt kerfi, sem allir hafa aðgang að. Hins vegar eru svo skúffupeningar ráðherra, sem sitja lon og don við að gera mönnum greiða. Það fé, sem fer til slíkra guðsþakka, er ekki til ráðstöfunar í almenna kerfinu.

Raunar eru kerfin fleiri, því að víða eru millistig. Til dæmis eru húsbréf með reglum, sem gilda fyrir alla. Síðan eru félagslegar íbúðir, þar sem sumir hafa betri aðgang en aðrir. Loks er svo persónuleg greiðasemi hafnfirzkra bæjarstjóra við flokksbræður, ættingja og vini.

Ráðherrar og bæjarstjórar, sem einbeita sér að guðsþakkaverkum, eru áreiðanlega góðmenni. Sumir hafa gert einstaklingsbundin góðverk að sérgrein sinni og eru stoltir af því að kallast fyrirgreiðslumenn. En þetta eru úrelt vinnubrögð úr fortíðinni fyrir daga jafnréttis.

Það, sem einn fær, fá hinir ekki. Þess vegna hefur nútíminn byggt upp aðferðir til að dreifa peningum á þann hátt, að sem flestir hafi sem jafnasta aðstöðu til að njóta þeirra. Eru í því skyni settar upp reglugerðir, þar sem talin eru upp ýmis skilyrði og forgangsatriði.

Samtök íþróttafréttamanna hafa notið ölmusu menntaráðherra til styrktar starfsemi sinni. Án efa er þar um að ræða þurfandi stafkarla. En hvernig veit ráðherrann, að einmitt þau samtök séu aumust allra slíka af öllum hinum fjölmörgu stéttarfélögum í landinu?

Þar á ofan telur ráðherrann nauðsynlegt að skera niður flestar fjárveitingar til ýmissa sjóða, sem reyna með mismunandi árangri að dreifa peningum í samræmi við lög og reglugerðir, en ver sjálfur miklu af tíma sínum til að dreifa sams konar peningum í formi guðsþakkafjár.

Þetta stafar af, að menntaráðherra hefur, eins og fleiri slíkir, misst sjónar á hlutverki ráðherra og á eðli jafnréttishugtaksins að baki stjórnskipulags landsins. Úr samanlögðum guðsþökkum af þessu tagi verður til spilling, sem við sjáum alls staðar í stjórnkerfinu um þessar mundir.

Hvorki fjármálaráðherra né aðrir ráðherrar vilja taka á þessu, af því að þeir telja, að kjósendur muni hér eftir sem hingað til leyfa þeim að komast upp með það.

Jónas Kristjánsson

DV

Innhverft útvarp

Greinar

Athyglisvert er, að Ríkisútvarpinu gengur verr en öðrum fjölmiðlum að halda úti pistlahöfundum. Þar hriktir í meginstoðum, þegar pistlahöfundar segja skoðun sína eins og þeir eru ráðnir til að gera. Á öðrum fjölmiðlum verður ekki vart við þetta sérkennilega vandamál.

Einkum eru stóru dagblöðin full af lausum og föstum dálkahöfundum, sem sumir hverjir hafa róttækar skoðanir á umræðuefni sínu og kveða fast að orði. Enginn virðist hafa áhyggjur af þessu, enda er hver skoðun ekki nema hluti af stóru mynztri skoðanaskipta í landinu.

Á Ríkisútvarpinu og umhverfis það virðast menn ekki geta horft á þennan stóra skóg í heilu lagi, heldur eru uppteknir af að horfa á einstök tré, sem þeir segja, að valdi sér sífelldum vandræðum. Viðkvæmni af þessu tagi bendir til, að ritstjórnarkerfið sé ekki í lagi.

Af hverju fer Ríkisútvarpið ekki hina leiðina og biður Hannes H. Gissurarson að hvetja hnífana fyrir kosningar til mótvægis við Illuga Jökulsson? Það væri uppbyggilegra að hlusta á rökstuddar skammir þeirra en að þola marklaust geðveikisrugl á símanum í Þjóðarsálinni.

Í fátinu var Hannes líka látinn fara, að því er virðist til mótvægis við brottrekstur Illuga. Í stað þess að hafa hóp lausra og fastra dálkahöfunda, sem spanna fjölbreytileg sjónarmið og mismunandi milda framsetningu þeirra, situr Ríkisútvarpið uppi fátækast fjölmiðla á sviðinu.

Þetta skiptir litlu fyrir þjóðfélagsumræðuna í landinu. Ef hún minnkar á einum stað, eykst hún á öðrum, svo sem sést af þætti Marðar Árnasonar og Hannesar H. Gissurarsonar á Stöð 2. Heimurinn heldur áfram að snúast, þótt umræðan dofni um sinn í Ríkisútvarpinu.

Þeir aðilar, sem hafa staðið í að ónáða yfirmenn Ríkisútvarpsins, þar á meðal félagar í Útvarpsráði; svo og þeir yfirmenn útvarpsins, sem hafa látið ónáða sig út af þessu máli, líta of stórum augum á stofnunina. Þeir tímar eru löngu liðnir, að hún var yfirfjölmiðill landsins.

Ríkisútvarpið er bara einn af fjölmiðlum landsins, rekið meira eða minna í samkeppni við aðra fjölmiðla, sem eru svipaðir að burðum. Því fer fjarri, að fréttir og skoðanir í Ríkisútvarpinu ráði hugsun og hegðun landsmanna. Ekki heldur skoðanir Illuga og Hannesar.

Undarlegt er, að yfirmenn á Ríkisútvarpinu láta fólk segja sér, að það telji skoðanir í útvarpinu vera skoðanir stofnunarinnar. Engum dettur í hug að telja dálkahöfunda dagblaða vera slíkan stofnanamat, að hann ónáði ritstjóra dagblaða með úreltum kvörtunum af því tagi.

Mál þetta bendir til of mikillar innhverfu í ritstjórnarkerfi Ríkisútvarpsins, með Útvarpsráð og sveit forstjóra í broddi fylkingar. Ríkisútvarpið hefur aldrei verið nafli alheimsins og er það allra sízt nú á tímum frjásrar fjölmiðlunar, þegar skoðanir eru hvarvetna á boðstólum.

Þar að auki hefur Ríkisútvarpið fallið í þá gryfju að láta ónáða sig til að draga úr rökstuddum skoðanaskiptum á sama tíma og stofnunin hefur efnt til og haldið úti þeirri símaþvælu, sem fyrirferðarmest er í skoðanaskiptum í landinu, það er að segja Þjóðarsál á beinni línu.

Brottrekstur Illuga og Hannesar er enn eitt dæmið, sem bendir til, að úrelt sé orðið að reka Ríkisútvarpið á vegum ríkisins og eftirlitsmanna þess. Það kerfi, sem einu sinni þótti vera til bóta, er orðið úrelt og innhverft í langri og hraðri þróun fjölmiðlunar í landinu.

Ríkisvaldið á ekki að hafa afskipti af fjölmiðlun í landinu. Það hefur meira en nóg á sinni könnu, þótt það sé ekki að vasast í mati á gæðum pistla- og dálkahöfunda.

Jónas Kristjánsson

DV