Author Archive

Efling hins illa

Greinar

Aðstoð íslenzkra hjálparstofnana við stríðshrjáð fólk í útlöndum hefur í ýmsum tilvikum komizt í rangar hendur, þótt talsmenn þessara stofnana fullyrði jafnan, að svo sé ekki. Skýrasta dæmið um þetta er Rúanda, þar sem morðsveitir taka öll hjálpargögn til sinna þarfa.

Flóttamannabúðunum í Saír og Tansaníu ráða stríðsglæpamenn, sem hafa stjórnað aftöku hundraða þúsunda manna. Þeir stjórna dreifingu matvæla, lyfja og annarra gagna, selja þau dýrum dómum og nota annað sjálfir. Þeir lifa í vellystingum, en fólkið deyr drottni sínum.

Fólkið í flóttamannabúðunum er raunar í gíslingu morðsveita. Það fær ekki að snúa heim til Rúanda, af því að stríðsglæpamennirnir koma í veg fyrir það. Þeir halda óbreyttu neyðarástandi í búðunum, svo að þeir sjálfir missi ekki af hagnaðinum af neyðaraðstoðinni.

Um leið nota morðsveitirnar íslenzku aðstoðina til að undirbúa innrás í Rúanda, svo að þeir geti haldið áfram fjöldamorðum. Á sama tíma fer ekki króna af íslenzkri aðstoð til hjálpar fólki í Rúanda. Þannig stuðla íslenzkar hjálparstofnanir að nýrri valdatöku stríðsglæpamanna.

Þessar fullyrðingar um afdrif vestrænnar aðstoðar eru byggðar á ítarlegum vettvangsrannsóknum fjölmiðla og hafa birzt um allan hinn vestræna heim. Þegar talsmenn íslenzkra hjálparstofnana fullyrða, að allt annað gildi um íslenzka aðstoð, er alls engin ástæða til að trúa þeim.

Minnisstætt er, þegar íslenzki Rauði krossinn hafði afskipti af þjóðahreinsunum á vegum Serba í arftakaríkjum Júgóslavíu. Aðstoðin frá Íslandi fór til Serba, en ekki til fórnardýra þeirra. Í því máli tók íslenzka hjálparstofnunin í reynd skýra afstöðu gegn stríðshrjáðu fólki.

Morðsveitir stríðsglæpamanna lærðu af stríðinu í Sómalíu. Aidid stríðsherra í Mogadishu gerði beinlínis út á vestrænar hjálparstofnanir. Hann framleiddi hörmungar og tók síðan öll hjálpargögn, sem bárust. Í skjóli hjálparstofnana varð hann valdamesti maður landsins.

Rauði krossinn og aðrar hjálparstofnanir geta ekki lengur neitað að horfast í augu við misnotkunina. Hörmungar af manna völdum yrðu minni, ef hjálparstofnanir gættu sín betur og reyndu að dreifa aðstoð sinni fram hjá þeim, sem iðnastir eru við að framleiða hörmungar.

Hjálparstofnunum ber skylda til að reyna að koma í veg fyrir, að aðstoðin magni hörmungar fólks. Ef þær halda áfram að stinga höfðinu í sandinn, er óhjákvæmilegt, að fólk hættir að styðja þær. Það þýðir ekki endalaust að segja fólki ósatt um afdrif aðstoðarinnar.

Hjálparstofnanir verða hvort sem er að velja og hafna. Þær geta ekki verið alls staðar. Í arftakaríkjum Júgóslavíu áttu þær að beina aðstoðinni að Bosníumönnum fremur en Serbum. Í Sómalíu bar þeim að fara í stóran hring framhjá Aidid stríðsherra. Það sama gildir um Rúanda.

Með því að senda aðstoðina til Rúanda hefðu hjálparstofnanir grafið undan getu morðsveitanna til að halda uppi hryllingsstjórn á flóttamannabúðunum í Saír og Tansaníu og stuðlað um leið að heimflutningi fólks, sem nú er haldið í gíslingu í þessum flóttamannabúðum.

Það er ekki nóg að hafa hlýtt hjarta og góðan hug, ef niðurstaða þess er efling hins illa í heiminum. Hjálparstofnanir verða að læra að umgangast heiminn eins og hann er. Rauði krossinn verður dæmdur af afleiðingum gerða sinna, en ekki af góðvilja ráðamanna hans.

Umfram allt verða talsmenn íslenzkra hjálparstofnana að hætta að ljúga að fólki um afdrif íslenzkrar aðstoðar. Ósannindi eru ekki ókeypis, þau hefna sín um síðir.

Jónas Kristjánsson

DV

Veðsetjið ekki kvótann

Greinar

Fráleitt er að leyfa eigendum fiskiskipa að veðsetja aflakvóta skipanna, svo sem gert er ráð fyrir í umdeildu frumvarpi dóms- og fiskiráðherra. Auðlind hafsins er hvorki eign skipa né skipaeigenda, heldur þjóðarinnar allrar. Frá því grundvallarsjónarmiði má aldrei víkja.

Því miður hefur kvótakerfið smám saman leitt til aukinna ítaka fiskiskipaeigenda í þjóðareigninni. Þeir kaupa og selja kvóta fyrir upphæðir, sem eru mun hærri en verðmæti skipanna sjálfra kvótalausra. Þessi viðskipti eru varin með efnahagslegum rökum markaðsbúskapar.

Gera verður skýran greinarmun á viðskiptum með afmarkaðan og tímabundinn nýtingarrétt og á sjálfu eignarhaldinu. Markaðsrök má nota til þess að beina nýtingunni til þeirra, sem bezt eru til þess fallnir, en ekki til að gefa þeim sjálfa auðlindina til veðsetningar.

Ef skipaeigendur fá að veðsetja auðlindina, er formlega búið að viðurkenna, að þjóðin eigi hana ekki, heldur skipaeigendur, svonefndir sægreifar. Það má aldrei gerast, að meirihluti alþingismanna ákveði að stela auðlindinni frá þjóðinni og afhenda hana forréttindahópi.

Mikilvægt er, að með skýrum lögum verði stöðvuð útvötnun á eignarhaldi þjóðarinnar á fiskimiðunum. Skilgreina verður auðlindina sjálfa sem þjóðareign, þótt einstakir aðilar í sjávarútvegi geti átt skilgreindan nýtingarrétt, hvort sem er í kvótum eða á annan hátt.

Þjóðin verður sjálf að koma í veg fyrir, að óheillamál veðsetningar fiskistofna nái fram að ganga. Í síðasta lagi getur hún gert það í kosningum á ofanverðum vetri. Hún getur hafnað öllum frambjóðendum, sem ekki lofa skýrt að vernda eignina með lögum fyrir sægreifum.

Með skýrum lögum um eignarhald þjóðarinnar má draga úr vandamálum, sem óhjákvæmilega munu fylgja auknum samskiptum okkar við þjóðir, sem vilja fá aðgang að auðlind okkar. Frekja Spánverja á þessu sviði er öllum kunn og bitnar nú á Frökkum, Bretum og Írum.

Spánverjar geta gert okkur ýmsa skráveifu, þegar við þurfum á að halda samkomulagi við Evrópusambandið um ýmis áhugamál okkar í viðskiptum. Ef fiskimið okkar eru þjóðareign á sama hátt og málverkin í Prado eru þjóðareign Spánverja, stöndum við sterkar að vígi.

Deilur við erlend ríki og ríkjasambönd um fiskveiðiréttindi eru miklu viðráðanlegri, ef ekki er deilt um eignarrétt, heldur um nýtingarrétt gegn afgjaldi. Enda hlýtur veiðileyfagjald fyrr eða síðar að leysa núverandi kvótakerfi af hólmi í fiskveiðum í efnhagslögsögu okkar.

Sægreifar hafa tekið saman höndum um að verja kvótakerfið og berjast gegn veiðileyfagjaldi. Þeir hafa ginnt ráðherra til að leggja fram lagafrumvarp með veðsetningarheimild handa sægreifum. Þeir eru hinir raunverulegu óvinir þjóðarinnar í máli þessu.

Ef þjóðin getur ekki varið eign sína fyrir innlendum fiskiskipaeigendum, mun hún ekki geta varið hana fyrir útlendingum. Þess vegna ber okkar að stöðva leka eignarhaldsins yfir til þröngs hóps innan sjávarútvegsins og færa stöðuna í það horf, sem var fyrir kvótakerfi.

Ef haldið er fram, að skipaeigendur skuli eiga auðlindina, er alveg eins hægt að spyrja, hvers vegna ekki sjómennirnir eða fiskvinnslan, sem líka hafa beinna hagsmuna að gæta. Þessir aðilar ættu raunar að hafa sama rétt á aðgangi að kvótakerfinu og sægreifarnir hafa.

Til að treysta stöðuna inn á við og gagnvart útlöndum skulum við ítreka og kveða fastar en áður að orði um, að fiskimiðin séu þjóðareign og verði ekki veðsett.

Jónas Kristjánsson

DV

Kattarþvottur í banka

Greinar

Bankaráðsmenn Landsbankans hafa ekki tekið föstum tökum á óbeinum aðdróttunum um skjalafals og samsæri tveggja bankastjóra um að hafa af bankanum fé til greiðslu á pólitískum skuldum manna úti í bæ. Hefur þó verið fjallað um nokkra þætti málsins í fjölmiðlum.

Hér í blaðinu var á fimmtudaginn staðfest af viðkomandi aðilum, að skuld nokkurra starfsmanna Helgarpóstsins við bankann hafi verið greidd niður með reikningum frá auglýsingastofu fyrir skrif þeirra í tímarit á vegum Landsbankans og aðra vinnu fyrir bankann.

Einn þessara manna var þá sjálfur í bankaráði Landsbankans og gat haft áhrif á þessa afgreiðslu mála. Núverandi bankastjóri Alþýðuflokksins og aðstoðarbankastjóri hafa verið sakaðir um að láta búa til reikninga fyrir ímyndaða vinnu til að hafa greiðslurnar af bankanum.

Mál þetta hófst í fjölmiðlum, þegar athygli vakti, að tvær jólabækur fjölluðu um það, annars vegar bók Örnólfs Árnasonar um bankavaldið og hins vegar bók Guðmundar Árna Stefánssonar um aðdraganda þess, að hann sagði af sér sem ráðherra í síðasta mánuði.

Í bók Örnólfs er málinu lýst sem draumi, en ekki veruleika. Í bók Guðmundar Árna er fjallað um fyrsta hluta þess á svipaðan hátt og í bók Örnólfs. Þegar tvær heimildir eru eins um sama mál, öðlast þær meira vægi. Spurt var, hvort aðrir þættir málsins væru raunverulegir.

Hér í blaðinu á fimmtudaginn var svo upplýst, að annar þáttur málsins hefði einnig við rök að styðjast. Málsaðilar og aðstoðarbankastjóri Landsbankans hafa viðurkennt, að samið var um að greiða niður skuldina með reikningum á vegum auglýsingastofu.

Nokkrum spurningum er enn ósvarað um þetta mál. Hver var þáttur þess aðila, sem var bankaráðsmaður og skuldunautur í senn? Hver var nákvæmlega sú vinna, sem skuldunautar inntu af hendi? Og hvernig fór með skuld þeirra, sem vitað er, að ekki unnu upp í hana?

Vafasamt er, að málið skýrist, nema í ljós komi nokkur atriði í viðskiptum auglýsingastofunnar við Landsbankann. Hversu mikið fékk stofan greitt fyrir hvaða verkefni og voru þau áþreifanleg? Var það samningsbundið og í samræmi við markaðsaðstæður þess tíma?

Voru greiðslurnar til málsaðila ofan á þessar greiðslur til auglýsingastofunnar eða þáttur í greiðslum til hennar? Hver var vinna málsaðila í raun og hvert var markaðsverð hennar? Er annaðhvort auglýsingastofan eða Landsbankinn að gefa óviðkomandi mönnum peninga?

Bankaráð Landsbankans á tvo kosti í málinu. Annar er að fá botn í það. Það gerist bezt með því, að ráðið láti óháðan aðila skoða bókhaldsgögn bankans, sem varða málið, og afli sér á annan hátt upplýsinga um, hvort bókuð vinna var unnin og hvert var raunvirði hennar.

Þetta er eina leiðin fyrir bankaráðið til að komast að raun um, hvort bankastjórarnir tveir hafa unnið gegn hagsmunum bankans eða ekki í máli þessu. Þetta þarf ráðið að gera, af því að sagan er komin á prent, hlutar hennar hafa reynzt réttir og engir sannazt rangir.

Hin leiðin er gamalkunnug. Bankaráðið spyr þá bankastjórann og aðstoðarbankastjórann að því, hvort þeir hafi gert eitthvað af sér, og þeir krossa sig móðgaðir í bak og fyrir. Bankaráðið bergmálar síðan áfram afneitun stjóranna og lætur það koma í stað rannsóknar.

Í síðara tilvikinu verða tveir yfirmenn bankans auðvitað áfram grunaðir um að hafa ekki staðið eðlilega að málinu og bankinn mun þar af leiðandi rýrna í áliti.

Jónas Kristjánsson

DV

Ég bara vinn hérna

Greinar

Ólafur G. Einarsson menntaráðherra hefur vikið frá hefðbundnum viðbrögðum ráðherra við fjárkröfum á hendur ríkinu. Hann segist ekki lengur ætla að skoða vandræðamál, sem upp koma, heldur vísar þeim til fjárveitinganefndar Alþingis, sem hafi með slíkt að gera.

Ef ríkið byggir risastóra Þjóðarbókhlöðu, en gleymir að gera ráð fyrir rekstrarkostnaði til samræmis við húsakynni, er það ekki mál ráðherrans, sem sendir frá sér fjárlagatillögur, heldur fjárveitinganefndar Alþingis. “Ég bara vinn hérna” virðist ráðherrann vera að segja.

Sama er að segja um vanefndir á skólalögum af ýmsu tagi og skort á fé til að framkvæma breytingar á þeim, jafnvel þótt frumvörp um þessar breytingar verði til í menntaráðuneytinu. Ráðherrann telur ekki við sig að sakast í þeim efnum, heldur fjárveitinganefnd Alþingis.

Ef menntaráðuneytið lætur allt í einu algerlega hjá líða að leggja í fjárlagapúkkið tillögur um peninga í kvikmyndasjóði og listaverkasjóði, er ráðherrann nánast forviða. Hann virðist ekki telja sig hafa neitt með slík mál að gera og vísar á vondu kallana í fjárveitinganefnd.

Fjárveitingavaldið er réttilega í höndum Alþingis, en ekki ráðherra, þótt hinir síðarnefndu hafi löngum reynt að sölsa það undir sig. Í raun hafa fjárlagafrumvörp verið smíðuð í ráðuneytum, pakkað saman í fjármálaráðuneyti og síðan afgreidd með litlum frávikum á þingi.

Í samræmi við þennan ólöglega raunveruleika hafa prunknir ráðherrar hampað mætti sínum og dýrð á opinberum vettvangi. Þeir lofa stórum og smáum fjárveitingum upp í ermi sér, af því að þeir vita, að fjárveitinganefnd og Alþingi staðfesta þetta sem gerðan hlut.

Þótt æskilegt sé, að ráðherrar víki frá ólöglegri iðju, er óneitanlega nokkuð róttækt af ráðherra að hlaupa yfir á hinn kantinn og hafna afskiptum og ábyrgð á fjármálum ráðuneytis síns, alveg eins og hann hafi ekkert með að gera, hvaða tillögur komi frá ráðuneytinu.

Menntaráðherra er að búa til nýja mynd af sér, þar sem hann lifir í limbói utan menntaráðuneytisins og vill ekkert vita um gang mála í þeirri ógnvænlegu stofnun. Hann virðist sitja við skrifborð úti í bæ og telja svokallaða skúffupeninga í hendur gestkomandi stafkarla.

Samkvæmt skrá um úthlutun úr skúffupeningasjóði menntaráðherrans má hann ekkert aumt sjá, ef upphæðirnar eru nógu lágar og vandamálin nógu persónuleg, en allar stærri línur í rekstri ráðuneytisins eru honum óviðkomandi sem hvert annað náttúruafl eða guðdómur.

Svo upptekinn er ráðherrann við að telja þúsundkalla upp úr skúffum í hendur aðvífandi stafkarla, að hann má í hálft annað ár ekki vera að því að veita ættingjum Gunnars skálds Gunnarssonar viðtal um vanefndir ráðuneytisins á reglugerð um meðferð Skriðuklausturs.

Raunar talar ráðherrann ekki heldur við yfirmenn í ráðuneytinu, utan einn eða í mesta lagi tvo. Hann hefur lokað sig af og telur fram skúffupeninga, en lætur sig rekstur ráðuneytisins svo litlu skipta, að fjárlagatillögur úr ráðuneytinu virðast vera honum næsta óviðkomandi.

Svo þreytt er fólk orðið á slætti og hroka annarra ráðherra fyrr og síðar, að lítillæti og auðmýkt þessa ráðherra gæti verið ánægjuleg tilbreyting, ef hún gengi ekki út í sams konar öfgar og yfirgangur hinna. Fólk er ekki beinlínis að biðja um, að algleymi ríki í ráðherrastóli.

Hins vegar verður að viðurkennast, að þungu fargi hlýtur að vera létt af hverjum þeim ráðherra, sem kemst svo nærri nirvana að geta sagt: “Ég bara vinn hérna”.

Jónas Kristjánsson

DV

Kosningaaðgerðir

Greinar

Ríkisstjórnin hóf kosningabaráttuna á laugardaginn með yfirlýsingu um aðgerðir, sem fela í sér aukin útgjöld og minni tekjur ríkissjóðs. Í fljótu bragði virðast þær fela í sér, að fjárlagahalli næsta árs sé aukinn úr hálfum sjöunda milljarði í rúma átta milljarða.

Það er ekki ný bára í heiminum, að ríkisstjórnir reyni að milda skap kjósenda á kosningaári og draga úr líkum á hremmingum vegna ófriðar á vinnumarkaði. Slík atkvæðakaup í formi almennra aðgerða hafa leyst af hólmi aðrar og frumstæðari aðferðir til að halda völdum.

Aðgerðirnar fela í sér kjarabætur. Skattleysismörk hækka um 2.150 krónur í 59.300 krónur, lífeyrir verður mildar skattaður og hátekju-skattleysismark hækkar. Ennfremur má hugsanlega reikna fyrirhugað átak í vegamálum og öðrum atvinnumálum til nokkurra kjarabóta.

Þetta eru sáralitlar kjarabætur, en samt kúvending frá raunveruleika síðustu ára, þegar lífskjör rýrnuðu jafnt og þétt. Því er sáttahljóð í talsmönnum launþegasamtaka, sem segja þetta vera skref í rétta átt og að það liðki fyrir kjarasamningum, en leysi ekki vandann.

Ríkisstjórnin telur lítilsháttar efnahagsbata vera í augsýn á næsta ári. Vefengja má, að ástæða sé til slíkrar bjartsýni, því að óvissuþættir eru margir og þungvægir. Sveitarfélög skortir framkvæmdafé og aflabrögð verða óhjákvæmilega háð ótryggu ástandi fiskistofna.

Í stórum dráttum fjármagnar ríkisstjórnin kjarabæturnar með ávísun á framtíðina. Hálfum öðrum milljarði af kostnaðinum verður mætt með því að auka skuldir ríkisins, sem þó hafa áður hækkað hraðar en í flestum nálægum löndum, ef miðað er við greiðslugetu ríkissjóðs.

Engir nýir skattar eða skattahækkanir mæta auknum útgjöldum ríkisins vegna aðgerðanna. Fjármagnstekjuskatti er frestað til næstu ríkisstjórnar og hátekjuskatturinn er framlengdur enn einu sinni um eitt ár. Málið er bara leyst með því að auka skuldabyrði barna okkar.

Þótt þetta sé vítavert ábyrgðarleysi, er það svo sem ekki verra en hliðstætt ábyrgðarleysi fyrri ríkisstjórna. Það er því miður orðin venja ríkisstjórna til vinstri og hægri að kaupa sér frið á kosningaárum og senda afkomendum okkar reikninginn fyrir góðvildina.

Meðan kjósendur láta þetta gott heita verður áfram haldið að auka sameiginlegar skuldir þjóðarinnar, einkum á kosningaárum. Þau met, sem nú hafa verið slegin í hallarekstri ríkis og sveitarfélaga, verða aftur slegin á næstu árum. Vaxandi hluti tekna fer í að greiða skuldir.

Ef þessi vinnubrögð tíðkuðust í heimilisrekstri fjölskyldu, væri hún talin sukksöm í fjármálum. Ef þessi vinnubrögð tíðkuðust almennt hjá fjölskyldum landsins, yrði þjóðfélagið í heild gjaldþrota á fáum árum. Það bjargar okkur, að við fylgjum ekki fordæmi opinberra aðila.

Hins vegar er ekki ástæða til að óttast, að verðbólga fylgi í kjölfar hinna boðuðu aðgerða ríkisstjórnarinnar. Ef þær hafa tilætluð friðsemdaráhrif á vinnumarkaði, má raunar búast við, að verðbólga verði minni en ella hefði orðið í þeim mun harðdrægari kjarasamningum.

Flest bendir til, að ríkisstjórnin muni fara í kosningar með þá rós í hnappagatinu að hafa komið verðbólgunni niður undir núllið og haldið henni þar um margra mánaða skeið. Það er miklu jákvæðari minnisvarði en hin óbeinu atkvæðakaup í boðuðum aðgerðum hennar.

Einfalt og rétt mat á sjálfum aðgerðum ríkisstjórnarinnar er, að þær eru nákvæmlega það, sem búast má við, þegar aðeins nokkrir mánuðir eru til kosninga.

Jónas Kristjánsson

DV

Birtar vinnureglur

Greinar

Eðlilegt er, að þeir, sem bera meiri virðingu fyrir Reykjavíkurlistanum en Sjálfstæðisflokknum, geri meiri kröfur til hins fyrra um, að hann misnoti ekki nýfengna aðstöðu sína hjá borginni til að hygla pólitískum blöðum sínum með þjónustuauglýsingum frá Reykjavíkurborg.

Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins er ekki í þessum hópi, enda hefur hann ekki gert athugasemdir við slíkar auglýsingar, sem birtust nýlega í blaði Reykjavíkurlistans. Stafar það auðvitað af, að hann veit, hvernig þessum málum var háttað á valdatíma flokksins.

Upplýsingafulltrúi gamla og nýja meirihlutans í Reykjavík hefur tjáð sig um þetta mál. Hann segir, að meginreglan sé að auglýsa í dagblöðum. Lítill hluti auglýsingapakkans hafi farið til pólitískra blaða, en þó ekki fyrir kosningar. Sömu reglur gildi nú og hafi áður gilt.

Þótt fyrri og nýrri meirihluti virðist þannig vera í stórum dráttum sammála um, hvernig með svona mál skuli fara, er ekki þar með sagt, að niðurstaða þeirra sé rétt. Pólitísk öfl hafa sameiginlega hagsmuni af, að geta hjálpað pólitísku útgáfustarfi allra aðila á þennan hátt.

Þar sem málsaðilar hafa nú tjáð sig um þetta mál, er kjörið tækifæri til að setja á blað reglur um meðferð slíkra mála og birta opinberlega. Það dregur úr líkum á misskilningi og bindur auðvitað um leið hendur þeirra, sem vildu fara af sporinu á ókomnum kjörtímabilum.

Í reglunum sé fjallað um heildarupphæð slíkra auglýsinga á ári, svo að borgarbúar geti hver fyrir sig myndað sér skoðun á, hvort þetta sé úr hófi fram eða ekki. Ennfremur sé fjallað um skiptingu auglýsinganna, svo að ekki sé mismunað milli meirihluta og minnihluta.

Í reglunum sé líka fjallað um útbreiðslu þessara pólitísku blaða, svo að höfð sé hliðsjón af auglýsingahagsmunum borgarinnar. Vegna borgarhagsmuna þarf að hafa í huga, að útbreiðsla gefinna blaða er ekki sama eðlis og útbreiðsla seldra blaða, sem kaupendur telja marktækari.

Með því að birta slíkar reglur getur Reykjavíkurborg orðið fyrirmynd annarra sveitarfélaga og ríkisvaldsins. Það er einmitt hjá ríkinu, að pottur er helzt brotinn á þessu sviði, svo sem sézt hefur af vítaverðum forgangi Alþýðublaðsins að auglýsingum heilbrigðisráðuneytis.

Flestar auglýsingar ráðuneytis heilbrigðismála fóru á hæsta fersentrimetraverðinu í það blað, sem hafði minnsta útbreiðslu allra. Ráðuneytisstjórinn hefur gefið um þetta marklítil svör eins og raunar um önnur mál, sem varða afkáralega stjórn hans á ráðuneytinu.

Raunar á það að vera skylda valdsmanna að skrá allar áður óskráðar vinnureglur, er fjalla um atriði, sem kunna að vera á gráum svæðum réttlætis og góðra siða, og birta þessar reglur opinberlega, svo að allir geti séð, hver veruleikinn er, og myndað sér skoðun á honum.

Slíkt er öllum til góðs, þar á meðal stjórnmála- og embættismönnum. Fyrrverandi bæjarstjóri og félagsmálaráðherra hefði ekki lent í hremmingum haustsins, ef verið hefðu til opinberlega birtar vinnureglur hjá bæ og ríki um meðferð mála, sem urðu honum að falli.

Þeir valdsmenn, sem fara á undan öðrum með góðu fordæmi á þessu sviði, hvort sem þeir eru borgarstjórar eða bæjarstjórar, ráðuneytisstjórar eða ráðherrar, munu uppskera aukið traust fólks. Ekki veitir valdsmönnum af að snúa vörn í sókn á tíma vaxandi vantrausts.

Ráðamenn Reykjavíkurborgar hafa fremur góða aðstöðu til að brjóta ísinn í gráum málum á öllum sviðum og marka tímamót í annars spilltum stjórnmálum okkar.

Jónas Kristjánsson

DV

Lygin er ekki ókeypis

Greinar

Guðrún Helgadóttir alþingismaður sagðist í fyrradag hafa skrökvað að fjölmiðli þá um morguninn. Hún hafði sagzt ekki ætla að gefa baráttulaust eftir sæti sitt á framboðslista Alþýðubandalagsins í Reykjavík. Í rauninni var hún þegar búin að ákveða að gefa þetta sæti eftir.

Alþingismaðurinn taldi henta sér betur, að sannleikurinn kæmi ekki í ljós fyrr en síðar um daginn. Þetta fannst honum eðlileg málsmeðferð. Sannleikurinn er í augum hans ekkert annað en verkfæri, sem stundum má nota og stundum ekki, allt eftir hentugleikum hverju sinni.

Síðan ætlast sami þingmaðurinn til þess, að fólk trúi honum, þegar hann segist hafa tekið þessa ákvörðun að eigin frumkvæði. Af því að reynsla er fyrir því, að þingmaðurinn segir satt og ósatt eftir hentugleikum hverju sinni, verður honum ekki trúað í þessu frekar en öðru.

Þvert á móti verður haft fyrir satt, að þingmaðurinn hafi aðeins átt tveggja óþægilegra kosta völ. Annar var sá að gefa eftir sætið og fara niður í það fjórða. Hinn var, að flokksbræður hans mundu reyna að koma honum alveg út af listanum, ef hann makkaði ekki rétt.

Með lækkuninni er þingmaðurinn búinn að missa þingsætið og það er gott. Það er þó einum pólitíkusnum færra, sem segir ósatt. Og einum færra, sem er svo blygðunarlaus, að hann talar um það eins og hvern annan sjálfsagðan hlut. Vonandi er brottförin endanleg.

Þingmaðurinn ósannsögli er ekki einn um hituna. Það hefur færzt í vöxt á undanförnum árum, að stjórnmálamenn og embættismenn fari vísvitandi með rangt mál í viðtölum við fjölmiðla. Þessir valdamenn telja hagkvæmnisástæður heimila sér að fara með rangt mál.

Nýlegt dæmi er ráðuneytisstjóri utanríkismála. Hann laug því, að menningarfulltrúinn í London hefði þá diplómatísku stöðu, að hann gæti orðið sendiherraígildi. Síðar kom í ljós, að í kjölfar lyginnar þurfti að breyta stöðu fulltrúans, svo að hann gæti orðið ígildi.

Sá, sem lengst hefur gengið á þessu sviði upp á síðkastið, er hrakfallabálkurinn Guðmundur Árni Stefánsson. Hann hefur sjálfur gefið fjölmiðlum rangar upplýsingar og jafnvel haft samráð við embættismenn um, hvernig þeir eigi að reyna að ljúga sig út úr vondum málum.

Hverjum eiga fjölmiðlamenn og almenningur að treysta, þegar svo er komið, að tilgangurinn helgar meðalið hjá viðmælendum fjölmiðla? Ein leið er að trúa aldrei neinu, sem frá stjórnmálamönnum og embættismönnum kemur. Sú afstaða er skiljanleg, en erfið í raun.

Önnur leið er, að fjölmiðlar venji sig á að fylgjast með, hvort reynslan leiði í ljós, að ákveðnir stjórnmálamenn og embættismenn hafi logið sér til þægindaauka; og setji lygna valdamenn á lista yfir þá, sem hvorki beri að trúa né treysta. Þessi vörn er raunar þegar hafin.

Flest fólk fer aðra leið. Það áttar sig smám saman á, að sannleikur er eins og lygi bara eitt verkfæri af mörgum í hentistefnukassa stjórnmálamanna og embættismanna. Þetta veldur vantrausti á valdamönnum almennt, bæði þeim, sem ljúga og hinum, sem segja satt.

Þetta er ein af orsökum þess, að fólk á erfitt með að gera upp hug sinn milli stjórnmálaflokka og -manna og er þar á ofan reiðubúið að setja traust sitt á ný stjórnmálaöfl, að minnsta kosti meðan ekki er enn komið í ljós, hvort þau séu eins ómerkileg og eldri öflin hafa reynzt.

Þannig er lygin ekki ókeypis frekar en hádegisverðurinn frægi. Hún er hvorki ókeypis fyrir þjóðfélagsgerðina í heild né fyrir þann, sem telur hagkvæmt að beita henni.

Jónas Kristjánsson

DV

Hvar er ráðdeildin?

Greinar

Reykjavík hafði í gamla daga sérstöðu meðal sveitarfélaga. Miðað við höfðatölu skuldaði hún lítið sem ekkert. Nú er hins vegar svo komið, að skuldir borgarinnar á hvern íbúa eru komnar nokkurn veginn í sömu stærðargráðu og annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Aðhaldssemin í þessum efnum var slík í gamla daga, að skuldabyrði borgarinnar hélzt nánast óbreytt árum saman. Sem dæmi má nefna, að á föstu verðlagi ársins 1994 jukust skuldir borgarinnar á mann úr 16 þúsund krónum árið 1978 í 18 þúsund krónur árið 1984.

Hnignunin hófst fljótlega eftir að Sjálfstæðisflokkurinn náði aftur meirihluta í borginni eftir eitt kjörtímabil vinstri meirihluta. Þannig voru skuldir á mann á föstu verðlagi komnar upp í 51 þúsund krónur árið 1991. Þær höfðu nærri þrefaldazt á mann. Á föstu verðlagi.

Hnignunin varð síðan að hruni. Á þessu ári, þremur árum síðar, hafa skuldirnar tvöfaldazt á mann á föstu verðlagi. Þær eru komnar upp í 104 þúsund krónur. Um þetta er ekki hægt að segja neitt annað en, að fjármálastjórnin hafi farið úr böndum og breytzt í óráðsíu.

Hægt er að reikna þetta á ýmsan annan hátt og niðurstaðan verður jafnan nokkurn veginn hin sama. Skuldir borgarinnar sem hlutfall af skatttekjum hennar hafa til dæmis aukizt á fjórum árum úr 45% í 105%. Borgin skuldar semsagt núna meira en heilar árstekjur sínar.

Ástandið er svo sem ekki alveg eins vont og í þeim nágrannasveitarfélögum borgarinnar, sem lakast hefur verið stjórnað í peningamálum. En breytingin er geigvænleg á stuttum tíma. Borgin hefur breytzt úr fyrirmyndarsveitarfélagi í fjármálum í venjulegan sukkbæ.

Athyglisvert er, að þetta gerist fyrir tilverknað stjórnmálaflokks, sem hingað til hefur verið talinn til hægri í stjórnmálum. Í gamla daga var stundum sett jafnaðarmerki milli hægri stefnu og aðhalds í fjármálum. Sú pólitíska forsenda er brostin með öllu í Reykjavík.

Það segir nokkra sögu um fallvaltleik gamalla forsendna, að svipuð öfugþróun hefur orðið hjá ríkinu undir handleiðslu fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins. Skuldir ríkisins hafa magnazt á kjörtímabilinu, hvort sem reiknað er á íbúa eða á árlegar tekjur ríkissjóðs.

Ástandið er orðið þannig, að þeir kjósendur, sem leggja meiri áherzlu á skynsamlegan og hófsaman rekstur hins opinbera en önnur atriði, hvort sem er hjá ríki eða borg, hafa ekki lengur í neitt hús að venda og allra sízt í hús Sjálfstæðisflokksins, þar sem sukkarar ráða ríkjum.

Í stað valdamanna með langtímasjónarmið höfum við fengið einnota pólitíkusa, sem lifa í núinu og sjá ekki út yfir kjörtímabilið. Þeir eru ánægðir, ef þeir geta flotið frá degi til dags, alveg eins og þeir séu vissir um, að einhverjir aðrir verði til að hreinsa upp eftir þá.

Þess konar stjórnmálamenn endast auðvitað ekki lengi, því að fortíðin hlýtur alltaf að elta þá og bíta í hæla þeim. Þeir missa traust almennings og eru ekki nothæfir í annað sinn. Sífellt verður að reyna að hanna og markaðssetja nýja og nýja töfralækna í pólitík.

Haldreipi sukkaranna er, að hinir séu ekki skárri. Þeir, sem taki við skuldasúpunum, muni skilja enn verr eftir sig, svo að syndir fyrirrennaranna muni falla í gleymsku. Einmitt þetta hefur því miður gerzt of oft og eytt trausti fólks á stjórnmálamönnum yfirleitt.

Ekkert þjóðfélag og raunar ekkert félag getur lengi þrifizt nema innan þeirra séu pólitísk öfl, sem hafa hagsýni og ráðdeild að leiðarljósi í störfum sínum.

Jónas Kristjánsson

DV

Traustið skiptir mestu

Greinar

Nokkrir alþýðuflokksmenn, með formann flokksins í broddi fylkingar, hafa kvartað um, að drög að stefnu nýja flokksins, Þjóðvakans, séu eins og stefna Alþýðuflokksins, sumpart nánast orðrétt. Þeir, sem kvarta, telja auðvitað, að ekki þurfi nýjan flokk um þessi málefni.

Rétt er, að stefnuyfirlýsing Þjóðvakans er í verulegum atriðum hin sama og Alþýðuflokksins, alla leið yfir í áþreifanleg atriði á borð við, að landið allt verði eitt kjördæmi, að fáir lífeyrissjóðir verði fyrir alla landsmenn og að innleitt verði veiðileyfagjald í stað kvóta.

Hinu er svo ekki að leyna, að Alþýðuflokkurinn gerir aldrei neitt í málefnum sínum. Hann notar þau til að veifa á flokksfundum, en situr um leið heilu kjörtímabilin í ríkisstjórn án þess að reyna að koma fram stefnuskrármálum flokksins. Hann situr bara og situr.

Gott dæmi um þetta er breyting á vægi atkvæða, sem lofað var í hvítri bók ríkisstjórnarinnar frá maí 1991. Ekkert gerðist svo í því máli fyrr en á landsfundi hins ríkisstjórnarflokksins í október 1993. Í framhaldi af því voru samdir minnispunktar embættismanna í maí 1994.

Það var svo ekki fyrr en 21. nóvember, að stjórnmálaflokkar voru beðnir um að nefna fólk í nefnd um málið. Þá var orðið nokkurn veginn ljóst, að málið var fallið á tíma, enda voru flokkarnir ekki búnir að skipa fulltrúa sína nú um mánaðamótin og þinghald senn á leiðarenda.

Einnig á Alþýðuflokkurinn við annað vandamál að stríða. Samkvæmt skoðanakönnunum eru formaður og varaformaður flokksins tveir af þremur óvinsælustu stjórnmálamönnum landsins. Flokkurinn sker sig að þessu leyti úr flokkaflórunni á kosningavetri.

Skoðanakannanir sýna þriggja þingmanna fylgi Alþýðuflokksins um þessar mundir. Það gengisleysi byggist ekki á stefnuskránni, heldur á vanefndum flokksins og óvinsældum forustumanna, svo og á afkáralegum spillingarferli flokksins á kjörtímabilinu.

Fjöldi kjósenda hefur áttað sig á, að stefnuskrár eru lítilfjörlegur þáttur stjórnmálanna. Reynslan sýnir, að ástæðulaust er að taka þær bókstaflega, þótt í öðrum tilvikum en Alþýðuflokksins megi reikna með, að flokkarnir hafi óljósa hliðsjón af þeim, þegar verkin tala.

Fimmtán þingmanna fylgi Þjóðvakans í skoðanakönnun byggist ekki að neinu leyti á því, hvað stendur um kosningalög, lífeyrissjóði og fiskveiðiskipan í stefnuyfirlýsingu flokksins. Fylgið stafar af uppreisn foringjans gegn flokki og stjórn, sem margir telja hafa svikið.

Fylgi flokka fer ekki nema að litlu leyti eftir málefnum þeirra. Að svo miklu leyti, sem það byggist ekki á gömlum merg, fer það eftir trausti kjósenda á forustumönnum flokkanna í landinu í heild og í einstökum kjördæmum. Stjórnmál snúast fyrst og fremst um fólk og aftur fólk.

Kjósendur virðast orðnir þreyttir á ræðuskörungum stjórnmálanna. Fyrir utan formann og varaformann Alþýðuflokksins, sem báðir hafa óvenjulega liðugt málbein, er þriðji óvinsældakóngurinn formaður Alþýðubandalagsins, sem ekki hefur síður liðugan talanda.

Í staðinn halla kjósendur sér að stjórnmálakonu, sem kann ekki par í ræðumennsku, heldur æpir að áheyrendum á innsoginu í útifundarstíl án þess að henni stökkvi bros. Velgengni hennar sýnir, að hæfileikar á hefðbundnum sviðum stjórnmála skipta litlu máli í nútímanum.

Fylgissveiflur fylgja ekki málefnum flokka eða markaðssettri framgöngu stjórnmálamanna, heldur trausti eða vantrausti almennings á meintum persónum þeirra.

Jónas Kristjánsson

DV

Frestur talinn beztur

Greinar

Eitt helzta spakmæli íslenzkrar þjóðarsálar er, að frestur sé á illu beztur. Þess vegna urðu flestir stjórnmálamenn fegnir, þegar Norðmenn höfnuðu aðild að Evrópusambandinu. Það gerði okkar mönnum kleift að hætta að sinna máli, sem var þeim flestum óljúft að sinna.

Við höfum vanizt því, að málum sé ekki sinnt fyrr en á síðustu stundu og eftir hana. Okkur er ótamt að leysa verkefni í tæka tíð og viljum heldur berjast um á hæl og hnakka, þegar allt er komið í óefni. Þess vegna er reddarinn séríslenzkt fyrirbæri í atvinnulífinu.

Dæmi um viðhorfið er breyting á kosningakerfinu, sem lofað var í hvítri bók stjórnarflokkanna, þegar þeir komust til valda árið 1991. Þeir eru fyrst núna, í árslok 1994, að boða til nefndar stjórnmálaflokkanna um málið, þegar málið er nærri örugglega fallið á tíma á kjörtímabilinu.

Okkar mönnum er ótamt að vera undir framtíðina búnir. Þeir vilja heldur mæta aðvífandi vandamálum eftir hendinni. Þeir sjá ekki neina hagkvæmni í að taka þátt í hönnun framtíðarinnar hjá Evrópusambandinu, en eru fljótir að laga sig að breyttum aðstæðum.

Þannig látum við yfir okkur ganga skæðadrífu af reglugerðum, sem upprunnar eru í Evrópusambandinu, og gerum þær að íslenzkum, án þess að okkur þyki skrítið að meðtaka þær páfabullur. En við bregðumst ókvæða við, ef einhver vill, að við göngum í sambandið.

Þess vegna líður kliður feginleikans um þjóðfélagið, þegar menn sjá, að Norðmenn eru á sama báti. Við höfum fengið frábæra afsökun fyrir því að halda áfram að gera ekki neitt í Evrópumálunum, halda áfram að fresta því að búa í haginn fyrir umsókn okkar um Evrópuaðild.

Við ættum að vera á fullu við að undirbúa skothelt sjávarútvegskerfi, sem gerir Evrópusambandinu illkleift að krefjast aðildar að stjórn efnahagslögsögunnar við Ísland. Við þyrftum að vera undir það búin að taka þann slag sem fyrst. En við gerum bara alls ekki neitt.

Raunar væri núna tækifæri til að stinga tánni varlega í vatnið, úr því að ráðamenn Evrópusambandsins hafa séð, að Norðmenn höfnuðu aðild, af því að sjávarútvegsákvæðin voru þeim of óhagstæð. Evrópsku mandarínarnir vita nú, að Ísland semur ekki af sér fiskimiðin.

Flestir íslenzkir pólitíkusar eru sammála um, að niðurstaðan í Noregi skeri úr um, að óþarfi sé að ræða Evrópu í næstu kosningabaráttu, og eru greinilega í meira lagi fegnir. Við skulum heldur tala um það seinna, segja þeir, við skulum tala um það fyrir kosningarnar 1999.

Undir niðri vita þeir, að einhvern tíma verður að taka slaginn. En þeir telja, að um það atriði gildi gamla spakmælið, að frestur sé á illu beztur. Þess vegna fást þeir ekki til að byrja að líta á málið fyrr en allt er komið í óefni og þá þegar er orðið stórtjón af aðgerðaleysi.

Hugsanagangurinn er þessi: Ef Norðmenn hefðu farið inn, hefðu þeir fengið betri kjör en við fyrir sinn fisk og þá hefðum við neyðst til að hugsa málið. Úr því að þeir fóru ekki inn, þurfum við ekki að hugsa málið fyrr en seinna. Seinna. Allt nema bara alls ekki núna.

Mjög fáum dettur í hug, að þessi spurning um betri kjör fyrir fiskinn eigi að leiða til umhugsunar um, hvort slík kjarabót sé ekki æskileg, hvort sem Norðmenn hafa fengið hana á undan okkur eða muni fá hana á eftir okkur. Við viljum ekki hafa frumkvæði, bara viðbrögð.

Þetta er afstaða þjóðar, sem vill alls ekki taka örlög sín í eigin hendur, heldur vill leggjast í vörnina og mæta aðvífandi vandræðum eins og þau eru hverju sinni.

Jónas Kristjánsson

DV

Örkin heitir Þjóðvaki

Greinar

Nýi stjórnmálaflokkurinn hennar Jóhönnu Sigurðardóttur tekur fylgi frá öllum hinum flokkunum, ekki aðeins vinstri flokkunum, heldur einnig Sjálfstæðisflokknum. Það þýðir, að skýringa á miklu fylgi er ekki bara að leita í stöðu nýja flokksins í pólitísku litrófi.

Flokkur Jóhönnu var búinn að fá mikið fylgi, áður en vitað var um förunauta og stefnuskrá. Fylgi náðist út á það almenna, sem fólk telur Jóhönnu sjálfa standa fyrir, þar á meðal langvinna innri stjórnarandstöðu hennar í ríkisstjórninni. Fólk treystir henni einfaldlega.

Stjórnmál snúast um menn og málefni og í þessari röð. Þeir eru tiltölulega fáir og þeim fer fækkandi, sem taka pólitíska afstöðu eftir skilgreinanlegum málefnum. Hinir eru fleiri og fer fjölgandi, sem taka afstöðu eftir því, hvort þeir treysta frambjóðendum eða ekki.

Þetta stafar meðal annars af, að margir kjósendur eru hættir að trúa á málefni stjórnmálaflokkanna. Þeir hafa orðið svo oft fyrir vonbrigðum, að þeir eru hættir að trúa loforðum flokkanna. Þegar flokkarnir svíkja málefni sín, verða þau meira eða minna marklaus að mati kjósenda.

Fólk hefur smám saman verið að átta sig á, að stjórnmálaflokkarnir eru fyrst og fremst hagsmunabandalög stjórnmálamanna, sem reyna að ná völdum, ekki til framdráttar málefnum, heldur til að geta svamlað um í spillingunni, er þeir hafa framleitt kringum sig.

Jóhanna vildi til dæmis ekki taka þátt í fínimannsleik ráðherra. Hún hafði ekki einkabílstjóra og tók ekki þátt í tekjuöflunarleiðum í ferðahvetjandi launakerfi fyrir ráðherra. Fólk tók vel eftir þessu og treystir henni þess vegna, burtséð frá staðsetningu hennar í pólitík.

Velgengni Þjóðvakans minnir á Reykjavíkurlistann, sem varð strax meirihlutaflokkur í könnunum út á Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur eina saman, áður en búið var að velja annað fólk á listann og semja stefnuskrá fyrir hann. Fólk treysti einfaldlega Ingibjörgu Sólrúnu.

Kvennalistinn hefur neitað að læra af þessu. Hann einblínir á stefnu og skiptir út stjórnmálakonum sínum. Það þýðir, að hann fær hugmyndafræðilegt fylgi upp á aðeins þrjá eða fjóra þingmenn, en missir persónufylgið til Þjóðvakans. Það er gamla sagan um menn og málefni.

Þjóðvakinn er rétt að fara af stað og hefur ýmsa möguleika á að misstíga sig. Það verður ekki stefnuskrá, sem verður nýja flokknum fjötur um fót. Það verða miklu frekar andlitin, sem flokkurinn sýnir í vonarsætum framboðslistanna, sem geta fælt kjósendur á brott.

Ef til vill verða þar sumir fallkandídatar úr gömlu stjórnmálaflokkunum og margir kunnuglegir félagsmálaberserkir úr stéttarfélögum. Ef til vill verða þar þekktir tækifærissinnar, sem finna lyktina af þingsæti. Allt getur þetta dregið fylgi frá flokknum í vetur.

Fólk treystir ekki fallkandídötum gömlu flokkanna, félagsmálaberserkjum stéttarfélaganna og tækifærissinnum allra flokka. Ef Þjóðvakanum tekst hins vegar að raða upp fólki, sem ekki ber myllustein fortíðar um háls, hefur hann mikla möguleika í kosningunum.

Kjósendur vilja ekki stjórna. Þeir vilja ekki velja málefni. Þeir vilja láta stjórna fyrir sig. En þeir vilja fá að ráða, hverjum þeir treysta fyrir því. Þetta er eðlilegt viðhorf mikils og vaxandi meirihluta íslenzkra kjósenda eftir mörg og ströng gengisföll málefna af ýmsu tagi.

Gaman hefði þó verið að skíra nýja flokkinn Örkina. Það hefði gefið tvíbenta yfirlýsingu um Jóhönnu af Örk og um björgun úr yfirvofandi syndaflóði stjórnmálanna.

Jónas Kristjánsson

DV

Vandinn hófst í vor

Greinar

Hluta erfiðleikanna við samninga um kjör sjúkraliða á sjúkrastofnunum í Reykjavík er hægt að rekja aftur til síðasta vors. Þá var hafið flokkspólitískt ferli, sem á eftir að reynast þjóðinni dýrkeypt. Þar voru að verki fjármálaráðherra og þáverandi borgarstjóri í Reykjavík.

Mikil pólitísk örvænting einkenndi þennan tíma. Fjármálaráðherra og þáverandi borgarstjóri voru reiðubúnir til að fórna hagsmunum þjóðarinnar til að kaupa kosningasigur í Reykjavík. Þess vegna sömdu þeir við hjúkrunarfræðinga daginn fyrir borgarstjórnarkosningar.

Í rauninni fólst meiri spilling í aðgerð tvímenninganna en í tilfallandi fyrirgreiðslum fyrrverandi bæjarstjóra í Hafnarfirði og fyrrverandi heilbrigðisráðherra. Tvímenningarnir notuðu aðgang sinn að almannafé til að reyna að koma í veg fyrir stjórnarskipti í Reykjavík.

Komið hefur í ljós, að samningur fjármálaráðherra og fyrrverandi borgarstjóra við hjúkrunarfræðinga í vor fól í sér meiri hækkanir og meiri kostnað en fullyrt var á þeim tíma. Kostnaðaraukinn nemur sennilega um 15% og á eftir að enduróma lengi á vinnumarkaði.

Kosningasamningurinn við hjúkrunarfræðinga hlýtur að hafa fordæmisgildi fyrir sjúkraliða að þeirra mati. Þeir vilja hafa hliðsjón af nýgerðum samningum. Auk þess eru sjúkraliðar enn meiri láglaunastétt en hjúkrunarfræðingar og geta því krafizt enn meiri hækkunar.

Fjármálaráðherra fer með rangt mál á Alþingi, er hann segir sjúkraliða hafa hækkað í launum umfram aðrar stéttir á undanförnum árum. Fyrir því er enginn fótur. Hins vegar er löng reynsla af því, að þessi fjármálaráðherra trúir því, sem honum hentar hverju sinni.

Harkan í vinnudeilu fjármálaráðherra og sjúkraliða stafar að verulegu leyti af forsendum, sem fjármálaráðherra bjó sjálfur til í vor, þegar hann var að reyna að verja flokk sinn falli í borgarstjórnarkosningunum. Þá sáði hann til endurkomu séríslenzku verðbólgunnar.

Ekki er nóg með, að sjúkraliðar miði við 15% hækkun hjúkrunarfræðinga plús láglaunaprósentu handa sér. Láglaunahópar utan heilbrigðisgeirans ætla líka að miða við kosningasamninginn, þegar þeir fara í gang um eða eftir áramótin. Það verða líka erfiðir samningar.

Ríkisstjórnin horfist í augu við að missa verðbólguna af stað aftur rétt fyrir alþingiskosningar í apríl, af því að fjármálaráðherra tók í vor þá skammsýnu ákvörðun að misnota almannafé til að reyna að kaupa kosningasigur handa fyrrverandi borgarstjóra í Reykjavík.

Erfitt verður að vinda ofan af því ferli, sem fór af stað í vor. Mikil átök mun kosta að reyna það. Reynslan sýnir, að ríkisstjórnir eru ekki harðar af sér, þegar kosningar og kjósendur eru í aðsigi. Þá fyrst missa þær tökin á fjármálum ríkisins og fara að reyna að kaupa sér frið.

Þegar ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir fara að átta sig á, hvaða kaleikur hefur verið færður þeim fyrir tilstilli fjármálaráðherra og fyrrverandi borgarstjóra, án þess að atkvæðakaupin lánuðust, er hætt við, að þessir aðilar kunni ráðherranum litlar þakkir fyrir framtakið.

Oft skáka íslenzkir valdhafar í því skjólinu, að það sé vandi síðari tíma og hugsanlega annarra aðila að hreinsa upp eftir óvandaða meðferð valdhafanna á fjármunum almennings fyrir kosningar. Það muni gleymast á nokkrum árum. En nú koma skuldaskilin óvenjulega snemma.

Ljóst virðist að minnsta kosti, að afleiðingar kosningasamningsins í vor verði fyrirferðarmiklar á aðfaratíma alþingiskosninganna, sem verða eftir nokkra mánuði.

Jónas Kristjánsson

DV

Gerviárásir

Greinar

Flugher Atlantshafsbandalagsins tókst ekki að gera flugvöll Bosníu-Serba í Udbina ónothæfan. Þótt 39 árásarflugvélar tækju þátt í áhlaupinu, tókst aðeins að sprengja nokkrar holur í flugbrautarendana, svo sem sást á ljósmyndum, sem teknar voru á vegum Serba á jörðu niðri.

Merkilegt er, hve auðvelt herforingjum og öðrum ráðamönnum Atlantshafsbandalagsins reynist jafnan að ljúga fjölmiðla fulla. Til dæmis sagði International Herald Tribune í aðalfyrirsögn á forsíðu: “Air Base Destroyed”. Virtist blaðið trúa fréttum frá Nató bókstaflega.

Reynslan ætti að hafa kennt fjölmiðlum að taka með varúð fullyrðingum frá kölkuðum stofnunum á borð við Atlantshafsbandalagið og Sameinuðu þjóðirnar. Þessar stofnanir hafa langa reynslu í að fara með rangt mál til að reyna að dylja getuleysi sitt og tilgangsleysi.

Hin misheppnaða árás á flugvöllinn í Udbina átti að sýna Serbum, að Sameinuðu þjóðirnar og Atlantshafsbandalagið meintu hótanir sínar í alvöru. Niðurstaðan var þveröfug. Sú árás og þær síðari staðfestu vissu Serba um, að þetta væru marklaus pappírstígrisdýr.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkir hverja ályktunina á fætur annarri um Bosníu, en fer síðan ekki eftir neinni þeirra. Atlantshafsbandalagið þykist síðan reiðubúið til að vera eins konar lögga fyrir hönd Sameinuðu þjóðanna, en reynist óhæft til hernaðaraðgerða.

Bretland og Frakkland hafa forustu um að drepa aðgerðum á dreif og skortir ekki fylgiríki. Sáttasemjarar eru sendir á vettvang til að fá Serba til að skrifa undir hvern samninginn á fætur öðrum, þótt reynslan sýni, að þeir rjúfa alla samninga innan klukkustundar.

Það hlýtur að vera ömurlegt hlutskipti fyrir afdankaða stjórnmálamenn á borð við Owen hinn brezka og Stoltenberg hinn norska að vera hafðir að fífli hvað eftir annað á gamals aldri og halda samt áfram að reyna að útskýra framferði Serba og finna leiðir til að verðlauna þá.

Langdregið sáttastarf af hálfu vestrænna ríkja hefur gefið Serbum svigrúm til landvinninga og þjóðahreinsunar. Vopnasölubann vestrænna ríkja á Bosníu hefur tryggt Serbum yfirburði í herbúnaði. Og marklausar hótanir úr vestri hafa sannfært Serba um, að öllu væri óhætt.

Auðnuleysi og ræfildómur þeirra, sem ráða ferð vestrænna ríkja, Sameinuðu þjóðanna og Atlantshafsbandalagsins, hefur lengi mátt vera öllum ljós, sem fylgzt hafa með glæpunum í Bosníu. Samt halda fjölmiðlar áfram að tyggja upp yfirklórið og gera það að sínum orðum.

Harmleikurinn í Bosníu hefur staðfest, að tilverurétti Atlantshafsbandalagsins lauk, þegar óvinur þess í austri hætti að vera til. Þegar engin Sovétríki og ekkert Varsjárbandalag voru lengur á lífi, missti Nató fótfestuna og hefur ekki fundið sér neinn nýjan starfsvettvang.

Atlantshafsbandalagið er allt of dýrt lík í lest Vesturlanda. Ríkjahópur, sem þolir ekki lengur að sjá blóð, getur ekki haldið úti hernaðarbandalagi og verið í skjóli þess með hótanir út og suður. Slíkt verður ekkert annað en aðhlátursefni allra þeirra, sem hótað er.

Víetnam hrakti Bandaríkjaher í loftið í Saigon. Sýrland hrakti Bandaríkjaher í sjóinn við Líbanon. Stríðsherra hrakti her Sameinuðu þjóðanna í sjóinn við Sómalíu. Íraksforseti ógnar enn landsmönnum og nágrönnum. Serbar og Bosníu-Serbar hafa umheiminn í flimtingum.

Vesturveldin hafa ekki bein í nefi til að stunda löggæzlu. Þau eiga að hætta þykjustuleik á því sviði, enda komast undanbrögðin og ósannindin upp um síðir.

Jónas Kristjánsson

DV

Arafat er leppur

Greinar

Yasser Arafat er lítið annað en leppur Ísraelsstjórnar í Palestínu. Hann hefur sáralítið fengið í hlut Palestínumanna í samningum við Ísraelsstjórn. Þess vegna verður hann sífellt óvinsælli á herteknu svæðunum og enn óvinsælli á heimastjórnarsvæðunum í Gaza og Jeríkó.

Leppstjórn Arafats hefur misheppnazt. Hann hefur lítið reynt að fá hæft fólk til starfa fyrir stjórnina og eingöngu notað trygga stuðningsmenn úr þrengsta hópi Arafatista í Frelsissamtökum Palestínumanna. Afleiðingin er hreint ráð- og getuleysi í heimastjórninni.

Það er almenn þjóðfélagsregla, að tryggustu stuðningsmennirnir eru einmitt þeir, sem ekki geta unnið fyrir sér með öðrum hætti en þeim að vera tryggir stuðningsmenn. Þeir, sem eitthvað geta, hafa ætíð einhverja sjálfstæðistilburði, sem falla einræðissinnum illa í geð.

Jámenn Arafats kunna ekki til verka og því fer flest í handaskolum á heimastjórnarsvæðum Palestínumanna. Nú eru lögreglumenn hans meira að segja farnir að drepa Palestínumenn í hrönnum í uppþotum. Það sýnir vel, að Arafat og hirð hans hafa misst tökin.

Grundvöllur vandræðanna er, að Ísraelsstjórn notfærði sér veikleika Arafats út í yztu æsar og valtaði yfir hann í friðarsamningum. Græðgi og yfirgangur Ísraelsstjórnar hefur grafið undan viðsemjanda hennar og gert hann að fyrirlitlegum leppi í augum Palestínumanna.

Ísraelsstjórn hefur haldið áfram að leyfa byggingaframkvæmdir landnema á herteknu svæðunum. Hún hefur haldið áfram að leyfa landnemum að bera vopn og ógna vopnlausum Palestínumönnum. Ísraelsmenn hafa haldið áfram að vera “Herrenvolk” í Palestínu.

Ísraelsstjórn hefur hert kröfur um, að lögreglumenn og hermenn hennar beiti pyndingum gegn handteknum Palestínumönnum, svo sem Amnesty Internatonal hefur upplýst. Ísraelsstjórn heldur áfram margvíslegri iðju, er alþjóðlega flokkast sem glæpir gegn mannkyni.

Baráttan við Palestínumenn hefur smám saman verið að krumpa Ísraela og breyta þeim í hryðjuverkaþjóð með hryðjuverkastjórn. Þetta hefur gerzt í skjóli Bandaríkjanna, sem hafa fjármagnað Ísrael og verndað ríkið á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og stofnana þeirra.

Ástandið hefur versnað síðan Clinton varð forseti Bandaríkjanna. Hann er eins og tuska í höndum Ísraelsstjórnar. Þetta hefur aukið áræði hennar og komið í veg fyrir, að hún sýndi nægan sveigjanleika gagnvart leppstjórn Arafats, svo að hún nyti fylgis Palestínumanna.

Hrokinn og hefnigirnin hefna sín með þeim hætti, að friðarsamningur Ísraels og Palestínu verður marklítill. Raunverulegur friður næst ekki á svæðinu nema tekið sér eitthvert tillit til óska og vona Palestínumanna, sem lengi hafa verið kúgaðir af Ísrael og Arafat.

Friður milli Ísraelsstjórnar og Husseins Jórdaníukonungs breytir heldur ekki miklu, af því að Hussein er jafn veikur og Arafat. Hann gerði sömu mistök og Arafat, þegar hann studdi Saddam Hussein Íraksforseta í Persaflóastríðinu og er enn að súpa seyðið af því.

Arafat og Hussein eru fúsir til að skrifa undir hitt og þetta, af því að þeir eru að reyna að vinna sig aftur í álit á Vesturlöndum. Arafat er auk þess að reyna ná persónulegum völdum á heimastjórnarsvæðum Palestínumanna á kostnað keppinauta sinna meðal landa sinna.

Vegna alls þess komast Hamas og aðrir róttækir hópar að hjörtum Palestínumanna og eru að verða hinir raunveruleg umboðsmenn drauma þeirra um eigið ríki.Jónas Kristjánsson

DV

Hann er verri en ég

Greinar

Rétt rúmlega þriðjungur kjósenda greiddi atkvæði í kosningunum í Bandaríkjunum í síðustu viku, þótt kosið væri til margs konar embætta í sveitarfélögunum, hjá ríkjunum og til beggja deilda þjóðþingsins. Tveir af hverjum þremur kjósendum tóku alls engan þátt í lýðræðinu.

Sumir kusu ekki, af því að þeir töldu atkvæði sitt skipta svo sem engu máli. Öðrum fannst kosningabaráttan vera of ógeðfelld fyrir sinn smekk og hjálpuðu þannig óbeint þeim, sem höfðu forustu í sóðaskapnum. Flestir eru þeir, sem hafa vanizt því að kjósa aldrei.

Þetta er auðvitað áhyggjuefni, ekki bara fyrir Bandaríkjamenn, heldur einnig fyrir aðra, af því að mörg dæmi eru um, að þjóðfélagslegar breytingar í Bandaríkjunum síist til annarra landa vegna hinna miklu og augljósu áhrifa, sem bandarískur lífsstíll hefur um allan heim.

Sérstaklega er ástæða til að hafa áhyggjur af ört vaxandi sóðaskap í bandarískri kosningabaráttu. Sóðaskapurinn kemur einkum fram í mínútubrots sjónvarpsauglýsingum, þar sem frambjóðendur ata hver annan auri sem mest þeir mega og án tillits til staðreynda.

Kjósendur geta að vísu komizt að hinu sanna, ef þeir fylgjast með fréttum annarra fjölmiðla, þar sem meðal annars er flett ofan af lyginni í sjónvarpsauglýsingum frambjóðenda. En kjósendur greiða ekki atkvæði gegn skítkösturum, heldur styðja þá með því að sitja heima.

Lágkúran í bandarískum sjónvarpsauglýsingunum er ævintýraleg. Myndir eru falsaðar til að sýna atburði, sem aldrei hafa gerzt. Lygin er endurtekin nógu oft, unz aularnir fara að trúa henni. Almennt má segja, að engin siðalögmál gildi um kosningabaráttu frambjóðenda.

Þar á ofan þurfa frambjóðendur til þjóðþingsins að verja sem svarar hundruðum milljóna króna og jafnvel milljörðum króna til að kaupa sér þingsæti með þessum soralega hætti. Þá peninga fá þeir hjá þrýstihópum, sem síðan telja sig eiga tilkall til þingmannanna.

Ástæða er til að velta því fyrir sér, hvort eitthvað af þessu muni síast til útlanda, til dæmis hingað, og hvernig skuli brugðizt við slíku. Það væri afar slæmt, ef íslenzkir frambjóðendur teldu sig verða að heyja dýra og neikvæða kosningabaráttu og yrðu háðir þrýsihópum.

Hér er barátta í prófkjörum og kosningum fremur málefnaleg og einkum þó jákvæð, því að meiri áherzla er lögð á að hrósa sér en að lasta hina. En það er ills viti, að prófkjörsbrátta einstaklinga skuli vera farin að kosta mikla peninga, hundruð þúsunda króna á mann.

Engin teikn eru á lofti um, að Bandaríkjamenn hreinsi til hjá sér á þessu sviði, jafnvel þótt sorinn og kostnaðurinn hafi stórlega dregið úr trausti almennings á mikilvægustu stofnunum stjórnmálanna. Þess vegna sökkva þeir dýpra í hverjum kosningaslagnum á fætur öðrum.

Sumpart leiðir þetta til, að kjósendur eru sífellt að skipta út þingmönnum. Kjósendur telja þá, sem fyrir sitja á þingi, vera gerspillta og gagnslausa, og kasta þeim út, jafnvel þótt aðrir komi í staðinn, sem fyrirfram má vita, að eru enn spilltari og gagnsminni og einkum sóðalegri.

Bandaríkjamönnum virðist í vaxandi mæli fyrirmunað að velja sér umboðsmenn og aðra leiðtoga. Hver forsetinn á fætur öðrum er ímynd án verðugs innihalds, enda verða kjósendur þeirra jafnhraðan fyrir vonbrigðum með þá. Sama gildir um þingmenn og aðra stjórnmálamenn.

Svo virðist líka sem gróin sjálfsánægja Bandaríkjamanna komi í veg fyrir, að þeir sjái almennt, hve alvarlegt og ólýðræðislegt ástandið er orðið í pólitíkinni.

Jónas Kristjánsson

DV