Author Archive

Spilling kjósenda

Greinar

Prófkjör Framsóknarflokksins á Norðurlandi vestra og Alþýðuflokksins í Reykjaneskjördæmi sýna, að margir kjósendur eru farnir að taka þátt í kosningaundirbúningi annarra flokka en þess, sem þeir hyggjast styðja í kosningunum. Þessi spillti kjósendahópur fer stækkandi.

Þegar þátttaka í prófkjöri er orðin meiri en sem nemur mestu fylgi flokksins í kjördæminu og flokkurinn er ekki í neinni sérstakri uppsveiflu að mati skoðanakannana, er greinilega maðkur í mysunni. Stuðningsmenn annarra flokka eru farnir að ráða framboði flokksins.

Fyrir svo sem einum áratug eða tveimur bar ekki mikið á þessu. Þá þótti ekki við hæfi, að fólk gengi milli flokka í prófkjörum. Aðeins hörðustu og spilltustu kjósendurnir létu hafa sig út í slíkt. En núna þykir það sjálfsagður hlutur, sem áður þótti vera siðferðisbrestur.

Helzti hvati þessarar tegundar spillingar er áhugi kjósenda í ákveðnum hluta kjördæmis á því, að frambjóðendur sem flestra stjórnmálaflokka komi frá þeim hluta og muni gæta hagsmuna hans umfram aðra hluta kjördæmisins. Prófkjörin breytast í slag milli landssvæða.

Spilling kjósenda hefur gengið svo langt á þessu sviði, að á Suðurnesjum er talað um það sem sjálfsagðan hlut, að Suðurnesjamenn verði að taka þátt í prófkjörum allra flokka til að tryggja sem bezt aðstöðu Suðurnesja við kjötkatla stjórnmálanna í samkeppni við önnur svæði.

Þetta hlýtur að enda með, að litlir flokkar og miðlungsflokkar geta ekki lengur látið prófkjör ráða framboði. Það er slæmt, því að prófkjör voru á sínum tíma ágætis leið til að efla lýðræði, hrista upp í stöðnuðu flokkskerfi og til að virkja fólk til þátttöku í pólitísku starfi.

Leiðin til bjargar prófkjörum er einföld. Hún er vel þekkt erlendis, einkum í Bandaríkjunum. Hún hefur einnig verið reynd hér og með góðum árangri, einkum fyrir byggðakosningarnar 1982. Hún felst í sameiginlegu prófkjöri flokkanna, svokölluðum forkosningum.

Í forkosningum er sameiginlegur kjördagur og sameiginlegir kjörstaðir fyrir alla stjórnmálaflokka, sem vilja vera með. Kjósendur geta valið sér einn flokk í prófkjörinu og velja þá væntanlega þann flokk, sem næst stendur þeim. Þeir tíma varla að eyða atkvæðinu í aðra flokka.

Forkosningar koma í veg fyrir, að spilltir kjósendur geti misnotað atkvæði sitt til að kjósa Hafnfirðinga eða Kópavogsmenn allra flokka, Sauðkrækinga eða Siglfirðinga allra flokka. Þeir hafa hver um sig bara eitt atkvæði og geta ekki margfaldað það í staðarhagsmunapoti.

Forkosningar leysa ekki öll vandamál prófkjöra. Eftir stendur, að víða liggja flokkar í sárum, sem gróa seint og illa, vegna of harðrar baráttu milli einstakra frambjóðenda í prófkjöri. Innanflokksátök milli manna í prófkjöri leiða til dæmis stundum til klofningsframboða.

Þennan vanda er líka hægt að leysa, svo sem sums staðar hefur verið gert erlendis. Það er gert með því að hafa óraðaða lista í kosningunum. Þannig flytjast prófkjörin og forkosningarnar inn í sjálfar kosningarnar. Þetta hefur nokkrum sinnum verið rætt hér á landi.

Persónuáróður einstakra frambjóðenda innan lista yrði innan ramma kosningabaráttu flokksins. Ólíklegt er, að mikið yrði um neikvæðan áróður, sem skaðaði þá, sem honum beittu. Og frambjóðendur hefðu ekki svigrúm til að fara í fýlu milli prófkjörs og kosninga.

Þar sem kjósendur eru í þann veginn að gera prófkjör óhæf til síns brúks, er orðið tímabært í staðinn að taka annað hvort upp forkosningar eða óraðaða lista.

Jónas Kristjánsson

DV

Lakkríslandið

Greinar

Íslenzk lakkrísverksmiðja var reist í Kína fyrir tveimur árum. Aðalþingmaður og aðalfréttamaður Vestmannaeyja var við opnunina. Skömmu síðar fór íslenzki landbúnaðarráðherrann til Kína til að skoða framtakið, enda voru forvígismennirnir frá Norðurlandi eystra.

Ríkisstjórn Íslands hefur litið björtum augum til möguleika íslenzkra aðila til að græða peninga í Kína. Fyrir nokkrum mánuðum var komið upp sendiherra þar í landi. Hann hefur hafzt við í hótelherbergi í Beijing, en á nú að fá langþráð húsakjól í sænska sendiráðinu.

Margir hafa tekið eftir, að margt fólk býr í Kína, miklu fleira en í Bandaríkjunum og Japan. Svo virðist sem ríkisstjórn Íslands telji meiri möguleika vera í Kína en í Japan úr því að sendiráð í Beijing var tekið fram yfir sendiráð í Tokyo, sem lengi hefur verið á döfinni.

Utanríkisráðherra fór með fríðu föruneyti á Sagaklass til að ræða viðskiptamál við ráðamenn í Kína. Undir árslok fór svo forsætisráðherra með fríðu föruneyti í sama skyni, en í þetta sinn var föruneytið á almennings-farrými. Þá hafa þingmenn farið austur í fylkingum.

Kínverskir ráðamenn eru ánægðir með þessar heimsóknir, því að þeir eru að leita eftir atkvæðum til að komast inn í stofnanir á borð við Alþjóðlegu viðskiptastofnunina, þótt þeir uppfylli ekki nein skilyrði og sýni raunar ekki neina alvarlega tilburði í þá áttina.

Erlendir fjárfestar í Kína eru á sama tíma að átta sig á, að það er seintekinn gróði að gera hestakaup við Sumarliða póst. Valdamenn í Kína bera nefnilega nákvæmlega sömu virðingu fyrir útlendingum og peningum þeirra og fyrir innlendum andófsmönnum, það er enga.

Lögleysa er allsráðandi í Kína. Hún birtist í virðingarleysi fyrir mannréttindum og mannhelgi. Og hún kemur fram í kaupsýslu Kínverja. Þeir stela vestrænum hugverkum og hugbúnaði og framleiða eftirlíkingar í þrælabúðum á vegum hersins og einstakra valdhafa.

Lögleysan kom ekki bara fram í morðum á Torgi hins himneska friðar. Hún kemur líka fram í, að erlendir fjárfestar þurfa að rækta pólitísk sambönd, sem koma í stað vestrænna leikreglna. Þeir þurfa að liðka fyrir hverju skrefi með mútum í hefðbundnum þriðja heims stíl.

Þegar Kínverjar með sambönd sáu sér gróða í að reisa viðskiptahöll rétt við Torg hins himneska friðar, sögðu þeir McDonald’s veitingakeðjunni að hypja sig, þótt fyrirtækið hefði 20 ára leigusamning um staðinn. Undirritaðir pappírar eru nákvæmlega einskis virði í Kína.

Lehman Brothers fyrirtækið gat ekkert aðhafzt, þegar tvö kínversk fyrirtæki í eigu valdhafa hættu við að greiða því hundrað milljóna dollara skuld. Þetta eru tvö dæmi af mörgum. Það er engin leið til að leita réttar síns í Kína. Þar kemur geðþótti valdhafa í stað laga og réttar.

Íslenzka lakkrísverksmiðjan fór auðvitað á hausinn þegjandi og hljóðalaust, enda minni bógar þar á ferð en hjá McDonald’s og Lehman Brothers. Þannig verður líka um aðra íslenzka fjárfestingu í kínverskri framtíð. Hún mun öll hverfa og ekki ein króna skila sér í arði.

Ástandið er allt annað handan sundsins, í Japan. Þar gilda að mestu leyti lög og reglur að vestrænum sið, enda hafa mörg íslenzk fyrirtæki gert það gott í viðskiptum við Japan. Þar er miklu meira en nægur markaður fyrir íslenzk fyrirtæki. Þar ætti sendiherra okkar að vera.

Það er ekki nóg að dást að mannfjölda. Það þarf líka lög og rétt. Okkur dugar minna en fjölmennasta ríki heims, hvort sem við viljum selja lakkrís eða fisk.

Jónas Kristjánsson

DV

Eyrarbyggð er bezt

Greinar

Þrjár leiðir þarf að fara samhliða til að draga úr líkum á mannskaða og eignatjóni af völdum snjóflóða og skriðufalla á landinu. Þær miða í fyrsta lagi að verndun fólks á hættusvæðum, í öðru lagi að verndun mannvirkja og í þriðja lagi að mun strangari skipulagsreglum.

Meðan fólk býr í húsum, sem standa í brekkum undir bröttum fjallshlíðum, er einfaldast að herða á því ferli, sem leiðir til brottflutnings þess til hættuminni staða, þegar varað er við snjóflóðum. Í flestum tilvikum þarf að flytja fólk úr brekkuhúsum í hús úti á eyrum.

Þetta er gert núna. Um 800 Vestfirðingar hafa flutt úr húsum sínum til hættuminni staða. Þetta er engin óskalausn, en tekur þó tillit til fjárfestinga í húsum á glæfralegum stöðum. Með hertu og bættu mati á snjóflóðahættu er hægt að hindra mannskaða að verulegu leyti.

Jafnframt þessu þarf að reisa mannvirki til að verja sjálf brekkuhúsin. Of dýrt er að verja heilu byggðirnar á þennan hátt. En framkvæmanlegt er að reisa mannvirki, sem beina snjóflóðum eftir landslagi í aðra farvegi. Þarf þá oft að fórna sumum húsum fyrir önnur.

Fjármagna þarf kerfi, sem felur í sér, að keypt verði hús, sem verst standa, og jafnframt tryggt, að þau verði mannlaus. Snjóflóðum sé beint í átt til þeirra frá öðrum húsum, sem betur standa og áfram verður búið í. Í hverju byggðarlagi þarf að ganga skipulega að þessu.

Loks þarf að hætta að byggja hús í brekkum undir bröttum fjallshlíðum. Byggð í þröngum fjörðum á aðeins að vera úti á eyrum og við fjarðarbotna. Eyrarbyggð er betri kostur en botnabyggð vegna betri hafna. Í nágrenni Súðavíkur er til dæmis nokkuð góður staður á Langeyri.

Víðar á Vestfjörðum er hægt að nýta vanbyggðar eyrar til stækkunar á byggðum. Annars staðar verður hreinlega að hverfa frá einnar eða tveggja hæða húsum og byggja háhýsi úti á eyrum til að geta dregið byggðina úr hættulegum brekkum út á tiltölulega öruggt land.

Fyrr á öldum var fjarðarbyggð einkum úti á eyrum og við fjarðarbotna. Það byggðist á reynslu kynslóðanna. Fólk vissi, að hætta á snjóflóðum og skriðuföllum var einkum í brekkunum milli eyra og botna. Þannig vörðust forfeður okkar óviðráðanlegum náttúruöflum.

Fyrr á öldum og áratugum voru aðeins skráð í heimildir þau snjóflóð, sem féllu á byggð og ollu tjóni. Hin voru ekki skráð, af því að enginn vissi af þeim eða af því að þau skiptu ekki máli. Snjóflóðamat, sem byggist á sagnfræðilegum heimildum, hefur vanmetið brekkusvæðin.

Mestum árangri með minnstum kostnaði má ná með því að fara allar þrjár leiðirnar samhliða. Síðasta leiðin horfir til framtíðar, af því að hún fjallar um hús og önnur mannvirki, sem enn eru ekki risin. Hún er bezt, en dugar ekki ein, af því að lausnir þarf hér og nú.

Önnur leiðin felur í sér ný varnarmannvirki og nýtt áhættumat, sem saman fela í sér, að fjárfestingu í sumum húsum verði fórnað til að vernda fjárfestingu í öðrum. Bæta verður húsin, sem fórnað verður. Þessi lausn tekur líka tíma, en ekki eins langan og framtíðarlausnin.

Sú leið, sem fyrst var nefnd, er raunar þegar hafin. Fólk flytur úr húsum sínum, þegar hætta er á ferðum. Bæta þarf þá lausn með virkara aðvörunarkerfi og harðara mati á, hver séu hættusvæðin. Þetta kostar ekki annað en bættar almannavarnir og töluvert umstang.

Reynslan er til að læra af henni. Harmleikurinn í Súðavík á að vera okkur hvatning til að taka af festu og hraða á hættunni af snjóflóðum og skriðuföllum.

Jónas Kristjánsson

DV

Stíflan heldur enn

Greinar

Vinsældir Þjóðvaka, persónulegs flokks Jóhönnu Sigurðardóttur, í skoðanakönnunum er nýjasta dæmið í röð flokka, sem byggja fylgi sitt á vaxandi óánægju meðal kjósenda. Þeir telja sumir, að fjórflokkurinn gamli svari ekki þörfum sínum, og eru að reyna eitthvað nýtt.

Meirihluti kjósenda styður enn gömlu flokkana sína, sumir af meiri eða minni sannfæringu og aðrir af gömlum vana. Skoðanakannanir sýna, að smám saman saxast á þennan meirihluta. Þeim fjölgar, sem nefna nýja eða nýlega flokka eða eiga erfitt með að ákveða sig.

Þannig risu og hnigu flokkar Vilmundar Gylfasonar og Alberts Guðmundssonar og þannig er flokkur Jóhönnu að rísa í vetur. Stuðningsmenn hennar telja, að hún muni vinna gegn rótgróinni spillingu fjórflokksins og gegn óbeit hans á atlögum gegn vandamálum.

Jóhanna nýtur þess, að hún fékk sér ekki ríkisbíl, þegar hún var ráðherra, og misnotaði ekki ferðahvetjandi launakerfi ráðherra. Hún er talin heiðarleg. Það er stóra málið í hugum margra stuðningsmanna, en ekki stefnan, sem að mestu er gamalt tóbak frá eðalkrötum.

Svipað var uppi á teningnum, þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir varð borgarstjóraefni. Kannanir sýndu strax, að nafn hennar dugði eitt, áður en vitað var um stefnuskrá eða önnur borgarfulltrúaefni Reykjavíkurlistans. Hún hefði náð meirihluta ein sér og án stefnu.

Kvennalistinn fellur ekki að þessari mynd Vilmundar, Alberts, Ingibjargar og Jóhönnu. Hann ber byrðar takmarkandi sjónarmiða, sem draga suma að, en fæla enn fleiri frá. Auk þess hafnar hann foringjadýrkun og neitar sér þar með um fókus, sem dregur kjósendur til sín.

Nýr og óráðinn kjósandi er ekki að biðja um nákvæmlega skilgreind sjónarmið pólitískra leiðtoga. Hann vill geta treyst dómgreind þeirra og heiðarleika og er sáttur við, að þeir útfæri þá persónueiginleika í hverjum þeim verkefnum og vandamálum, sem verða á vegi leiðtoga.

Þetta er lykillinn að tölum, sem við sjáum í miklum mæli í skoðanakönnunum og í minna mæli í kosningum. Tölurnar munu smám saman magnast, unz fjórflokkurinn hrynur eða einhverjir þættir hans taka þeim hamskiptum, að uppreisnarkjósendur fari að treysta þeim.

Í þessu skyni dugar ekki lengur að skipta um nafn eins og forverar Alþýðubandalagsins gerðu reglulega. Alþýðubandalaginu mun ekki gagnast núna að kalla sig Alþýðubandalagið og óháða, né heldur að kalla til þreytta verkalýðsrekendur, sem þegar voru merktir flokknum.

Fjórflokkurinn er fremur öruggur um sig, þrátt fyrir undirölduna í þjóðfélaginu. Sem dæmi má nefna, að ráðherrar hafa ekki afnumið ferðahvetjandi launakerfi sitt, þótt þeir geti ekki haldið uppi neinum vörnum í málinu. Þeir telja sig geta skriðið saman í nýja stjórn.

Sennilega eru tök fjórflokksins á þjóðfélaginu enn svo mikil, að hann geti haldið áfram að stjórna eftir kosningar. Það leysir hins vegar ekki vandann, heldur magnar fylkingu þeirra kjósenda, sem telja fjórflokkinn ekki svara þörfum sínum. Fyrr eða síðar hrynur kerfið.

Þegar fjórflokkur er staðinn að því að mynda nýjar og nýjar ríkisstjórnir á ýmsa vegu, kosningar eftir kosningar, án þess að nokkuð breytist, myndast ójafnvægi í stjórnmálaástandinu. Lengi getur fjórflokkurinn hamið ójafnvægið, en stíflan getur ekki haldið endalaust.

Af atferli fjórflokksins um þessar mundir má ráða, að hann telur brölt kjósenda í könnunum ekki hindra sig í að mynda enn eina hefðbundna stjórn eftir kosningar.

Jónas Kristjánsson

DV

Ríkisstjórn á leiðarenda

Greinar

Ófriðlegt er í ríkisstjórninni. Forsætisráðherra og utanríkisráðherra deila opinberlega um nýjasta og stærsta Hafnarfjarðarbrandarann. Á sama tíma deilir sjávarútvegsráðherra við forsætis- og utanríkisráðherra um komu kanadíska sjávarútvegsráðherrans til landsins.

Ólíkt höfðust þessir sömu flokkar að á viðreisnaráratugnum. Þá féll ekki styggðaryrði milli ráðherra, hvorki innan flokka né milli flokka. Ráðherrar létu ekki einu sinni freistast til slíks rétt fyrir kosningar, af því að þeir stefndu að sama stjórnarsamstarfi eftir kosningar.

Nú er vitað, að stjórnarmynztrið hefur runnið sitt skeið á enda. Alþýðuflokkurinn hefur ekki burði til að mynda tveggja flokka stjórn með Sjálfstæðisflokknum eftir kosningar. Sumir ráðherrar krata hafa misnotað stjórnaraðstöðuna meira en þjóðin sættir sig við.

Ágreiningurinn er ekki allur milli flokka. Spennan milli núverandi og fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins hefur ekki hjaðnað hið minnsta. Hún skýtur sífellt upp kollinum. Þeir virðast ekki vera menn til að láta tímann lækna persónulega óvild frá fyrri tíma.

Þetta er bagalegt fyrir flokk þeirra, þar sem aðrir forustumenn flokksins komast ekki á blað í vinsældum og trausti í skoðanakönnunum. Aðrir ráðherrar flokksins eru núll og nix í huga almennings, nema hugsanlega landbúnaðarráðherra, helzti fulltrúi afturhaldsins.

Sú verkaskipting hefur raunar orðið með stjórnarflokkunum, að Alþýðuflokkurinn hefur færzt til hægri og er flokkur markaðsbúskapar og Evrópuhyggju, en Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið til vinstri og komið sér fyrir nokkurn veginn á miðlínu Framsóknarflokksins.

Þessi tilfærsla Sjálfstæðisflokksins er eðlilegur undanfari samstarfs hans við Framsóknarflokkinn um nýja ríkisstjórn eftir kosningar á hreinum og ómenguðum afturhaldsgrundvelli Framsóknarflokksins. Það er eina tveggja flokka stjórnarmynztrið, sem er í augsýn.

Auk landbúnaðarráðherra hefur sjávarútvegsráðherra lengi verið á línu Framsóknarflokksins, enda kosinn á þing fyrir landbúnaðarkjördæmi. Nýrra er, að forsætisráðherra hefur notað hvert tækifæri til að sveigja stjórnarstefnuna að miðlínu Framsóknarflokksins.

Þetta hefur komið greinilega fram í tilfærslu valds til landbúnaðarráðherra, sem hefur fengið það kærkomna hlutverk í ríkisstjórninni að tolla innfluttan mat upp úr öllu valdi til að tryggja, að neytendur hafi ekki hag af stofnaðild Íslands að Alþjóða viðskiptastofnuninni nýju.

Framsóknarflokkurinn er á grænni grund í þjóðmálunum. Annaðhvort myndar hann framsóknarstjórn með Sjálfstæðisflokki eða framsóknarstjórn með Alþýðubandalagi og Þjóðvaka. Engu máli skiptir, hvor kosturinn verður fyrir valinu, því að þeir eru alveg eins.

Ríkisstjórnaraðild Þjóðvaka breytir engu í þessu mynztri. Hennar heilagleiki er eðalkrati í ættir fram og hæfir vel samstarfi við Framsókn, þar sem hún fær sérsvið með líkum hætti og áður. Henni fylgja í stjórn aðrir eðalkratar með sömu forræðishyggju í framsóknarstíl.

Mesti örlagavaldur þessa ferlis er utanríkisráðherra, sem er eini frambærilegi stjórnmálamaður landsins á alþjóðlegum vettvangi, en er um leið gersamlega ófær um að vera flokksformaður vegna stanzlausrar áráttu til pólitískra slagsmála og hrokafullrar framgöngu.

Með því að rústa Alþýðuflokkinn og koma óorði á markaðshyggju og Evrópuhyggju hefur utanríkisráðherra gulltryggt fjögur ár Framsóknar-afturhalds.

Jónas Kristjánsson

DV

Vinir Hafnarfjarðar

Greinar

Fyrirhugaður meirihluti á vegum krata í Hafnarfirði er of seint á ferð til að koma í veg fyrir skýrslur og aðrar upplýsingar um fyrri spillingu þessara aðila. Það er hins vegar kjörinn vettvangur fyrir nýja spillingu í skjóli nýs bæjarstjórnar-meirihluta á vegum Alþýðuflokksins.

Hafnarfjörður tapaði 70 milljónum króna á viðskiptum bæjarins við Hagvirki á fyrri valdatíma jafnaðarmanna. Ógætileg meðferð fjármuna á því sviði minnir á svipaða meðferð fjármuna vegna listahátíðar í Hafnarfirði. Sukkið hefur verið og er enn einkenni krata í Hafnarfirði.

Skel hæfir kjafti, ef bæjarstjóri nýja meirihlutans verður höfuðsmaðurinn sjálfur, sem hrökklaðist úr ráðherrastóli í nóvember fyrir að hafa afrekað meira í fyrirgreiðslum og annarri þjónustu við vini og valda aðila á tíu mánuðum en kræfustu ráðherrar afreka á tíu árum.

Í stjórnarmyndunarviðræðum hefur verið minnzt á þann kost, að ráðherrann fyrrverandi verði bæjarstjóri á nýjan leik. Hagvirkisarmur bandalagsins hefur ekki viljað samþykkja það. Óneitanlega yrði meiri stíll yfir spillingunni, ef afturhvarfið yrði þannig fullkomnað.

Athyglisvert er, hversu hlýtt jafnaðarmönnum í Hafnarfirði er til spillingar í opinberum rekstri. Það kom greinilega fram í frægðarmálum fyrrverandi bæjarstjóra og ráðherra og kemur nú ekki síður skýrt í ljós í smíði bláþráðar-bandalags um endurheimta stjórn bæjarins.

Alþýðuflokksmenn í Hafnarfirði eru sagðir munu ætla að sjá um, að þeirra maður verði efstur í prófkjöri flokksins í Reykjaneskjördæmi og haldi þannig stöðu sinni í flokknum, þar sem hann er varaformaður. Verður hann þá fljótt eftirmaður hins fylgislausa flokksformanns.

Íslendingar kalla ekki allt ömmu sína í dálæti á spillingu og öfund í garð þeirra, sem ná langt á því sviði. Samt hefur krötum í Hafnarfirði tekizt að ganga fram af venjulegu fólki. Skoðanakannanir sýna, að almenningi blöskrar framganga þeirra og höfuðsmanns þeirra.

Undarlegt ástand í Hafnarfirði stafar ekki af, að þar búi verra fólk en annars staðar í landinu. Tvennt hefur myndað jarðveg spillingar. Annars vegar er langvinn barátta íhalds og krata, sem blindar málsaðila svo, að þeir sjá allt í andstæðunum: Okkar menn og óvinirnir.

Þegar mikil spenna hefur lengi verið milli tveggja póla, er stundum hætt við, að flokkadrættir ryðji til hliðar almennu mati og viðhorfum, þar á meðal siðgæðisviðhorfum. Þá er ekki spurt um efnisatriði, heldur hvort viðkomandi sé með ,,okkur” eða á móti ,,okkur”.

Hin forsendan er árlegi fjársjóðurinn, sem Hafnarfjörður fær í gjöldum frá álverinu. Miklar tekjur umfram önnur sveitarfélög hafa gefið hafnfirzkum bæjaryfirvöldum tækifæri til að fara með peninga eins og skít. Víðar en í Færeyjum þarf sterk bein til að þola góða daga.

Samkvæmt Pétursreglu fyllir opinber rekstur alltaf það svigrúm, sem fæst af auknum tekjum. Eyðsluglaðir kratar í Hafnarfirði fylgdu ekki bara þessari reglu um meðferð opinberra fjármuna, heldur tókst þeim líka að gera bæinn að einum hinum skuldugasta í landinu.

Þetta voru sæludagar í Hafnarfirði. Þáverandi bæjarstjóri var eins og kóngur í ævintýraríki og grýtti peningum í allar áttir til vina Hafnarfjarðar, hvort sem þeir voru á vegum listahátíða eða þóknanlegra verktaka. Hirðina dreymir enn um að endurheimta dýrðardagana.

Framhaldssögunni um vini Hafnarfjarðar er ekki lokið. Nýr kapítuli er að hefjast. Hann verður minnisstæður og vafalaust tilefni nýrra Hafnarfjarðarbrandara.

Jónas Kristjánsson

DV

Hraðari vítahringur

Greinar

Einna veikasti hlekkur valdsstjórnarinnar er ábyrgðarlaus stjórn á fjármálum ríkisins. Skuldabyrði hins opinbera hefur vaxið hraðar í tíð þessarar en annarra ríkisstjórna á undanförnum áratugum. Er nú hlutfall ríkisskulda af árlegri landsframleiðslu komið í 55%.

Jafnframt hefur dregið úr getu ríkisins til að endurgreiða skuldir sínar, þegar þær falla í gjalddaga. Nú er svo komið, að aldrei er greidd króna eða dollar af eldri skuld, nema með fjármagni frá nýjum lánum. Þetta er orðið að vítahring, sem hlýtur að enda með skelfingu.

Í næsta mánuði á ríkið að greiða tíu milljarða króna vegna fimm ára spariskírteina frá 1990. Ekki hefur verið safnað einni krónu upp í þessa greiðslu. Ekki verður hægt að afla peninganna með nýrri lántöku innanlands, því að hún mundi hækka vexti og verðbólgu í landinu.

Málið verður leyst eins og oft áður með því að taka lán í útlöndum. Vegna lélegrar fjármálastjórnar hefur traust landsins á erlendum peningamarkaði rýrnað, svo að vextir á slíkum lánum fara hækkandi. Þannig eykst vaxtakostnaður meira en sem nemur hækkun skulda.

Engin merki eru um bilbug á hinni vondu fjármálastjórn. Fjárlagafrumvarp þessa árs var afgreitt með meiri halla en venja er. Samkvæmt þjóðhagsspám fyrir árið mun rekstrarkostnaður hins opinbera vaxa meira á þessu ári en hann gerði í fyrra. Munurinn er um 50%.

Ef fjármálastjórn ríkisins helzt í eins áhyggjulausum og ábyrgðarlausum stíl og verið hefur á undanförnum árum og eins og er um þessar mundir, verða Íslendingar einfaldlega gjaldþrota eins og Færeyingar urðu í fyrra og eins og Nýfundnalendingar urðu fyrr á öldinni.

Stjórnvöld hafa löngum reynt að hamla gegn þessu með því að magna skattheimtu. Á slíku eru takmörk eins og flestu öðru. Ljóst má þó vera, að tilfinnanlegar skattahækkanir verða eitt helzta einkenni stjórnmála síðustu áranna fyrir ríkis- og þjóðargjaldþrot Íslands.

Við erum ekki ein um vandamálið, þótt hraðinn á vítahringnum sé meiri hér en í flestum nálægum ríkjum. Vandi okkar er meiri en iðnaðarþjóðanna, af því að efnahagsgrundvöllur okkar er ekki eins traustur og þeirra. Við byggjum hag okkar á sveiflugjörnum sjávarútvegi.

Við höfum svo oft teflt á tæpasta vað í veiðiheimildum, að flestir fiskistofnar eru á undanhaldi og sumir þeir mikilvægustu eru í bráðri hættu. Við getum því engan veginn búist við, að happdrættisvinningar upp úr sjó muni frelsa okkur frá afleiðingum fjármálaóstjórnar.

Í meðferð Alþingis á fjárlögum og lánsfjárlögum þessa árs kom skýrt fram, að þar er ekki pólitískur vilji til að skera velferðarkerfi atvinnulífsins. Hið sama kom enn skýrar í ljós milli jóla og nýjárs, þegar landbúnaðarráðherra var selt sjálfdæmi um tolla á innfluttum mat.

Þótt ríkið lifi um efni fram, telja fjölmennir hópar ríkisstarfsmanna sig vera vanhaldna í tekjum. Sjúkraliðar eru búnir að vera í löngu verkfalli og kennarar eru að undirbúa annað slíkt. Samt má ekki nefna þá fimmtán milljarða, sem landbúnaður kostar þjóðina árlega.

Við erum að feta í spor Færeyinga. Hvorki þjóðin sjálf né valdhafar ríkisins vilja horfast í augu við, að núverandi rekstrardæmi lýðveldisins gengur ekki upp. Því síðar sem augu manna opnast fyrir vandræðunum, þeim mun sársaukafyllri verða tilraunir til lækningar.

Næstu þrjá mánuði verður lánsfjárþörf ríkissjóðs rúmlega 18 milljarðar að mati fjármálaráðuneytisins. Hraðinn á vítahringnum verður sífellt meiri og meiri.

Jónas Kristjánsson

DV

Enginn vildi dalinn

Greinar

Fyrrverandi forsætisráðherra og núverandi seðlabankastjóri talaði fyrir munn margra Íslendinga, þegar hann lýsti áhyggjum sínum af auknu frelsi erlends fjármagns á Íslandi. Hann sá fyrir sér, að útlendingar mundu kaupa fagra dali í heilu lagi og hafa þá fyrir sig.

Síðan íslenzk stjórnvöld neyddust til að opna fyrir erlent fjármagn vegna samninga um gagnkvæm réttindi á evrópskum og alþjóðlegum vettvangi, hafa menn beðið eftir að sjá martröð stjórnmálamannsins rætast. Mánuðirnir hafa liðið og orðið að meira en heilu ári.

Við upphaf frelsis Evrópska efnahagssvæðisins var engin biðröð útlendinga hjá fasteignasölum, sem hafa jarðir til sölu. Enginn hefur síðan komið til að kaupa jarðir. Erlendir menn hafa ekki einu sinni spurt um tæknileg atriði við jarðakaup. Áhugaleysið er algert.

Enn þann dag í dag er land eins arðlaust og verðlaust og það hefur verið í áratugi. Einu kaupendurnir hafa verið innlendir hrossaræktendur úr þéttbýli. Sá markaður var alltaf takmarkaður og hefur mettazt. Jarðir hafa ekki selzt mánuðum saman og munu ekki seljast.

Áhyggjur stjórnmálamannsins reyndust vera ástæðulitlar, þegar á hólminn var komið. Hins vegar hefur komið í ljós, að ástæða er til að hafa þveröfugar áhyggjur, að erlendir fjármagnseigendur vilji ekki fjárfesta í landi og þjóð, trúi alls ekki á íslenzka framtíðarmöguleika.

Flestar nágrannaþjóðir okkar byggja hagvöxt sinn að nokkru leyti á innfluttu áhættufjármagni. Það dregur úr lánsfjárþörfinni. Höfuðstóll áhættufjármagnsins verður eftir í landinu, en lánsfé þarf að skila, ekki bara arðinum af því, heldur líka sjálfum höfuðstóli þess.

Það er dýrt fyrir okkur að treysta nærri eingöngu á erlent lánsfé, sem bindur börnum okkar geigvænlega skuldabyrði. Miklu betra væri að búa til skilyrði þess, að fjármagn geti streymt inn í landið til þess að vera hér um kyrrt. Þetta hefur öðrum tekizt, en okkur alls ekki.

Við höfum reynt að selja orku með afar litlum árangri. Við eigum ónotað orkuver norður í landi, en enginn vill kaupa orkuna. Það hefur verið umræðuefni áratugum saman að laða stóriðju að Íslandi, en árangurinn hefur verið lítill og raunar farið minnkandi með árunum.

Ekki bætir úr skák, að Íslendingum er ekki treyst. Innlend stjórnmálaöfl hafa reynt að fiska sér fylgi með því að mála skratta erlends einkafjármagns á vegginn. Erlendir aðilar reikna með, að pólitíska afturhaldið á Íslandi reyni að spilla fyrir erlendri fjárfestingu.

Þegar erlent olíufélag vill fá að hasla sér völl á Íslandi og efla samkeppni í olíuverzlun, má lesa og heyra fýluna leka af þingmönnum úr Sjálfstæðisflokknum, forseta Alþýðusambandsins, þjóðrembingum í Alþýðubandalaginu og framsóknarmönnum allra stjórnmálaflokka.

Reykjavíkurborg hefur hins vegar tekið skynsamlega á málinu. Hún hefur útvegað hin ytri skilyrði þess, að erlenda olíufélagið geti hafið samkeppni við þríhöfða þurs olíuverzlunar í landinu. Þar með streyma fé og atvinna í borgina, bæði til uppbyggingar og rekstrar.

Reykjavíkurborg er líka að kanna, hvort hægt sé að losna við hallærisfyrirtækið Sorpu í hendur Austurríkismanna, sem kunna til verka á sviði sorpeyðingar. Vonandi gengur það dæmi líka upp. Við þurfum á mörgum sviðum ekki bara peninga, heldur einnig verkþekkingu.

Ef farið verður að búa í hag fyrir slíkar tilraunir, kann óorðið af fara af okkur og erlendir fjárfestar kunna að fá trú á, að hægt sé að græða í félagi við Íslendinga.

Jónas Kristjánsson

DV

Jeltsín er búinn að vera

Greinar

Tsjetsjenía er orðin að rússnesku Víetnam, myllusteini um háls Jeltsíns forseta og rússneska hersins. Forsetinn er búinn að missa tök á innrásinni í Tsjetsjen-íu og orðinn pólitískur fangi stórveldis-herforingja, sem hafa farið árangurslitlum hamförum í Tsjetsjeníu.

Jeltsín tókst hvorki að blekkja Rússa né umheiminn. Hann var staðinn að ósannindum í sjónvarpsávarpi, þar sem hann sagði loftárásum á íbúðahverfi verða hætt. Rússneskir fréttamenn og þingmenn hafa verið sjónarvottar atburða og sagt frá þeim í fjölmiðlum.

Þrotlaus lofthernaður Rússa varð stjórnlaus eftir ávarp forsetans. Ráðizt var skipulagslaust á hvað, sem fyrir varð, og meðal annars framleitt mengunarslys að írökskum hætti með loftárás á olíuvinnslustöð. Þungavopn voru notuð til að rústa höfuðborgina Grosní.

Mikið mannfall hefur verið í árásarliði Rússa og mikið af vígvélum þeirra hefur eyðilagzt. Árangur er lítill af þessum fórnum. Komið hefur í ljós, að heimsveldisherinn ræður ekki fremur við léttvopnaða andstæðinga í Tsjetsjeníu en annar slíkur réð fyrrum við Víetnama.

Álitshnekkir rússneska hersins magnar innri spennu hans, sem annaðhvort leiðir til aukinnar innhverfu, getuleysis og sinnuleysis hersins eða leitar útrásar í valdaránstilraun í Moskvu. Síðari kosturinn hefði skelfilegar afleiðingar í Rússlandi og í alþjóðasamskiptum.

Tómarúm hefur myndazt í valdakerfinu í Moskvu. Drykkjurúturinn á forsetastóli nýtur hvorki trausts þings né þjóðar. Hann velkist um í atburðarásinni og hallar sér að alræðisöflum innan og utan hersins. Þar finnur hann helzt hækjur til að styðjast við.

Jeltsín Rússlandsforseti er búinn að vera, hvort sem hann hverfur frá þeim litlu völdum, er hann hefur enn, eða lætur herinn halda sér á floti, rétt eins og blindur leiði haltan. Hann sækir ekki lengur áhrifavald til þjóðarinnar, er hefur afskrifað hann sem leiðtoga sinn.

Rússlandi hefur gengið illa að finna sig sem lýðræðisríki. Arfurinn frá Sovétríkjunum er yfirþyrmandi. Ríkið reynir að fjarstýra nágrannaríkjunum í samveldinu og hefta sjálfræði þjóða innan ríkisins. Þetta kostar mikið og hindrar samtvinnaða þróun lýðræðis og efnahags.

Rússland er ekki lengur ábyrgur samstarfsaðili vestrænna ríkja til viðhalds friðar og festu í heiminum. Það er orðið að friðarspilli, sem meðal annars reynir að vernda landvinninga Serba á Balkanskaga. Rússland er smám saman að breytast í nýtt Sovétríkja-skrímsli.

Vesturlönd geta lítið gert til að stöðva vítahring Rússlands. Ýmsir vestrænir ráðamenn hafa harmað klunnaskapinn gagnvart Tsjetsjenum, en lýst um leið stuðningi við fylliraftinn, sem ábyrgðina ber. Þar með eru þeir að samþykkja vinnubrögð Jeltsíns og herforingjanna.

Í rauninni eru þessir vestrænu ráðamenn að reyna að vera enn ein af hækjum forsetans. Þeir telja sig þannig stuðla að festu og öryggi. Viðbrögð þeirra nú byggjast á fyrri oftrú þeirra á vilja og getu Jeltsíns til að þróa Rússland í átt til vestræns þjóðskipulags og hagkerfis.

Löngu áður en forsetinn réðst á Tsjetsjeníu, var komið í ljós, að hann stóð ekki undir vestrænum væntingum. Hann var búinn að reka og hrekja frá sér flesta þá, sem líklegir voru til að vinna að umbótum í landinu, og í stað þeirra búinn að sanka að sér sovézkum kerfiskörlum.

Frá því er Jeltsín stóð á hátindi frægðar ofan á skriðdrekanum í Moskvu fyrir rúmlega þremur árum, hefur fall hans verið mikið, fyrst hægt og síðan hratt.

Jónas Kristjánsson

DV

Allir gegn almenningi

Greinar

Lengi verður minnisstætt, að allur þingheimur tók samhljóða afstöðu gegn íslenzkum almenningi, þegar Alþingi samþykkti eftir jól, að forræði innflutningstolls á matvöru skuli vera hjá landbúnaðarráðherra, en hvorki hjá fjármálaráðherra né viðskiptaráðherra.

Svo lengi sem elztu menn muna, hafa landbúnaðarráðherrar verið valdir frá sjónarmiðum þrengstu sérhagsmuna í landbúnaði. Svo gildir um framsóknarmanninn, sem nú er landbúnaðarráðherra. Á hans valdaskeiði verða tollaheimildir á matvöru notaðar til fulls.

Samkvæmt samhljóða ályktun Alþingis má ráðherrann setja mörg hundruð prósenta toll á matvörur, sem eru í samkeppni við innlenda matvöru. Þar með er gulltryggt, að árangurinn af stofnaðild Íslands að nýju Alþjóðaviðskiptastofnuninni skilar sér ekki til neytenda.

Tollar eru í verkahring fjármálaráðherra og utanríkis-viðskipti í verkahring viðskiptaráðherra. Af þröngum sérhagsmunaástæðum hefur nú verið gerð mikilvæg undantekning. Alþingi var sammála um, að hvorugum ráðherranum væri treystandi fyrir matartollinum.

Samningurinn um nýju Alþjóðaviðskiptastofnunina felur í sér, að flytja má inn landbúnaðarafurðir, þótt þær séu framleiddar í landinu. Til að vernda innlendan landbúnað er heimilt að láta ofurháan toll koma í upphafi í stað bannsins, í flestum tilvikum 600­800% toll.

Vitað er af skoðanakönnunum, að meirihluti þjóðarinnar vill, að íslenzkur landbúnaður sé verndaður fyrir umhverfinu, jafnvel þótt fólk viti vel, að þessi verndun sérhagsmuna er á kostnað lífskjara almennings. Niðurstaða Alþingis þarf því ekki að koma neinum á óvart.

Hitt er merkilegra, að hinn fjölmenni minnihluti, sem tekur hagsmuni almennings fram yfir sérhagsmuni landbúnaðar, skuli ekki hafa einn einasta fulltrúa á Alþingi. Eðlilegt hefði verið, að atkvæði féllu þar 60-40% landbúnaðinum í vil, en 100-0% er óþægilega afdráttarlaust.

Öll stjórnmálaöfl á Alþingi eru sammála í þessu eina máli. Það gildir um gamla fjórflokkinn, að leifunum af Alþýðuflokknum meðtöldum. Það gildir líka um yngri flokkana, Kvennalistann og Þjóðvaka. Hver einasti fulltrúi allra þessara afla tekur landbúnað fram yfir annað.

Flestir kjarasamningar í landinu eru lausir í upphafi þessa nýja árs. Fróðlegt verður að fylgjast með, hvort verkalýðsrekendur muni nefna matartollinn í væntanlegum kjaraviðræðum, því að augljóst er, að ekkert getur bætt kjör almennings meira en tollalækkun á mat.

Niðurstaða samninganna verður lítil og léleg. Láglaunafólk mun áfram hafa sultarlífskjör, af því að verklýðsrekendur munu áfram taka þátt í almennri forvígismannasátt um, að umbjóðendur þeirra búi við langtum hærra matarverð en gildir í flestum vestrænum ríkjum.

Sá fjölmenni minnihluti, sem telur eðlilegt, að lífskjör séu bætt í landinu með því að koma matarverði niður í það, sem tíðkast í Bandaríkjunum, ætti að fylgjast vel með frammistöðu verkalýðsrekenda í kjaraviðræðunum, sem senn fara að hefjast, og draga af því lærdóm.

Þessi sami minnihluti ætti líka að fylgjast vel með, hvernig stjórnmálaflokkarnir sex munu fjalla um matartollana á næstu þremur mánuðum, meðan þeir sækjast eftir nýju umboði fólks til nýs Alþingis. Enginn þeirra mun geta útskýrt andstöðu sína gegn almenningi.

Athyglisvert er, að hagsmunir almennings og skoðun fjölmenns minnihluta eiga alls engan hljómgrunn í stjórnmálaflokkum og launþegafélögum landsins.

Jónas Kristjánsson

DV

Dublin göngur

Ferðir

Hér verður lýst einni langri gönguferð um miðborgina. Á leiðinni tínum við upp flesta skoðunarverða staði, sem verða á vegi okkar og tökum nokkra króka til að komast yfir flest það, sem máli skiptir í Dublin yfirleitt.

St Michan’s

Við hefjum gönguna við helztu minjar víkinga í Dublin, kirkjuna St Michan’s. Hún er norðan árinnar Liffey, rétt vestan við Four Courts dómhöllina, við götuna Church Street, sem liggur upp frá ánni.

St Michan’s er elzta kirkja borgarinnar. Hún var upprunalega reist í rómönskum stíl af dönskum víkingum 1095, endurbyggð 1686 og fékk þá núverandi svipmót. Turninn er sumpart upprunalegur víkingakirkjuturn.

Ferðamenn skoða helzt heillega líkama frá lokum sautjándu aldar, sem eru til sýnis í kjallaranum. Kalksteinninn í kirkjuveggjum dregur raka úr andrúmsloftinu og hefur komið í veg fyrir rotnun hinna látnu. Aðgangur £1,20 (A4).

Four Courts

Við göngum Church Street 150 metra niður að Liffey og tökum á okkur 100 metra krók eftir Inns Quay á norðurbakka árinnar.
Hér er dómhöll borgarinnar, Four Courts, reist 1786-1802. Hún ber mikið og koparlagt hvolfþak, sem gnæfir á háu súlnariði yfir umhverfið. Framhliðin að ánni er í grískum musterisstíl með sex súlna riði undir gaflaðsþríhyrningi.

Höllin brann í fallstykkjaárás í borgarastyrjöldinni 1922. Þá eyðilagðist þjóðskjalasafnið, sem var þar til húsa. Hún hefur síðan verið endurreist í upprunalegum stíl (A4).

St Audoen’s

Við göngum 100 metrana til baka að brúnni, förum yfir hana og fáum okkur kollu í elztu krá borgarinnar, Brazen Head, sem er hér við árbakkann. Síðan förum við 100 metra upp brekkuna Bridge Street.

Hér til hægri er Cook Street með heillegum hluta gamla borgarmúrsins. Yfir múrnum gnæfa kirkjurnar St Audoen’s, önnur kaþólsk og hin anglíkönsk. Nálægt kirkjunum er hlið frá 1275 á múrnum.

Við förum 100 metra meðfram múrnum, inn um hliðið og upp tröppur að kirkjunum.

Hin minni St Audoen’s er ein af elztu kirkjum borgarinnar, reist á 12. öld í gotneskum stíl af Normönnum frá Rouen í Frakklandi. Vesturportið og turninn eru frá þeim tíma, en sjálft kirkjuskipið er frá 13. öld og gluggar þess frá 15. öld (A3).

Liberty

Áður en við skoðum höfuðkirkjuna Christ Church, sem er hér framundan, tökum við krók frá High Street tæpa 100 metra vestur yfir torgið í átt að götunni Cornmarket, en beygjum af torginu til vinstri inn John Dillon Street að markaðshúsunum.

Liberty og Iveagh Markets eru helztu flóamarkaðir borgarinnar, báðir við John Dillon Street og ná þar yfir töluvert svæði. Höfuðáherzlan er á notuðum fatnaði og í öðru lagi á heimilisáhöldum (A3).

St Patrick’s

Frá markaðshúsunum höldum við áfram 200 metra eftir John Dillon Street og beygjum á götuenda til vinstri og komum eftir 50 metra að garði St Patrick’s dómkirkjunnar.

St Patrick’s er ein af elztu kirkjum borgarinnar og stærsta kirkja Írlands, reist í enskri útgáfu af gotneskum stíl 1254, með turni frá 1370. Kirkjunni hefur síðan verið breytt, síðast á nítjándu öld, en er enn með gotnesku yfirbragði.

Í garði kirkjunnar er lind, þar sem heilagur Patrekur er sagður hafa skírt fólk á 5. öld. Þar eru einnig minnisvarðar þriggja nóbelsskálda Íra og nokkurra annarra höfuðrithöfunda þeirra.

Á kirkjulóðinni er einnig elzta almenningsbókasafn Írlands, Marsh’s Library, frá 1710, þar sem verðmætar bækur eru hlekkjaðar við púltin (A2).

Dublinia

Við förum frá vesturstafni dómkirkjunnar norður eftir Patrick Street og Nicholas Street og áfram niður Winetavern Street undir fíngerða húsbrú milli kirkjuþinghúss og Christ Church, alls um 300 metra leið. Handan brúarinnar beygjum við til vinstri að inngangi safnsins Dublinia í kirkjuþinghúsinu frá áttunda tug 19. aldar.

Dublinia er margmiðlunarkynning í máli og myndum á miðaldalífi í Dublin frá innrás Normanna 1170 og fram til 1540. Reynt er að sýna raunsæja mynd af iðnaðarmönnum og aðalsmönnum þess tíma, að hluta til leikin og sýnd á sjónvarpsskjám, með lykt og öllu. Í aðalsal er stórt líkan af Dublin miðalda, baðað kastljósum í samræmi við ítarlega lýsingu af segulbandi. Aðgangur kostar £4 og felur líka í sér aðgang að Christ Church dómkirkjunni.

Áður var hér sýning af Dublin víkingaaldar. Þeirri sýningu hefur verið lokað og verður hún væntanlega opnuð aftur í nágrenninu, sennilega í tengslum við endurnýjun götunnar Temple Bar (A3).

Christ Church

Við förum um húsbrúna úr safninu inn í dómkirkjuna.

Christ Church er ein elzta kirkja borgarinnar, reist 1230 í blöndu af síðrómönskum og gotneskum stíl, en verulega breytt árið 1875. Norðurveggur kirkjuskipsins ásamt svifsteigum, þverskipin og vesturhluti kórsins eru upprunaleg. (Sjá mynd framan á kápu)
Farið er út úr kirkjunni um glæsilegar suðurdyr í síðrómönskum stíl. Þar fyrir utan sjást leifar bænhúss frá 1230.

Þar sem Christ Church er núna, var áður timburkirkja víkinga frá 1038.

Villimenn borgarstjórnarinnar í Dublin létu fyrir nokkrum árum reisa ógnvekjandi borgarskrifstofur ofan á minjum víkingaaldar norðan við Christ Church og eyðilögðu við það tækifæri nokkuð af elzta hluta borgarinnar (A3).

City Hall

Við förum til vesturs frá kirkjunni eftir Christ Church Place og Lord Edward Street, alls um 200 metra leið að ráðhúsi borgarinnar.
City Hall var reist 1769-1779 sem mikilúðleg kauphöll borgarinnar, en breytt í ráðhús 1852. Voldugar kórintusúlur varða dyr á öllum hliðum hallarinnar. Í hringsal anddyris eru veggferskur, sem sýna borgarsöguna (B3).

Dublin Castle

Við förum meðfram City Hall upp að borgarkastalanum, sem er beint aftan við ráðhúsið, og förum um undirgöng inn í efri kastalagarðinn.

Dublin Castle var reistur 1204 til varnar brezkum yfirráðum yfir Írlandi. Smám saman var kastalanum breytt í stjórnarhöll, sem nú er sumpart frá síðari hluta 17. aldar og sumpart frá miðri 18. öld.

Andspænis okkur eru ríkissalirnir, sem eru opnir almenningi, aðgangur £1, gengið inn úr neðri kastalagarðinum að austanverðu.
Fyrir aftan okkur, þar sem við komum inn í efri garðinn, er Castle Hall, fallegt hús með háum turni frá 1750. Úr þeim turni var krúnudjásnunum stolið árið 1907 og hafa þau síðan ekki fundizt.

Í neðra garði er Most Holy Trinity kirkjan frá 1814 og fyrir aftan hana púðurturninn, sem er elzti hluti kastalans, frá 1202-1228 (B3).

Temple Bar

Við göngum frá kastalanum út á Dame Street, yfir götuna og nokkrum metrum austar niður Sycamore Street um 150 metra leið niður á Temple Bar, þar sem við beygjum til hægri.

Temple Bar er líflegasta kráa-, kaffihúsa- og kokkhúsagata borgarinnar um þessar mundir. Þetta er þröng göngugata með ýmsum hliðarsundum, fullum af lífi og fjöri. Einhvern veginn hefur þessi gata sloppið að mestu við voðaverk borgarskipulagsins. Hún er orðin að vin í eyðimörkinni (C4).

Ha’penny Bridge

Við beygjum úr Temple Bar nokkra metra niður sundið Merchant’s Arch og komum þar að göngubrú yfir ána Liffey.

Ha’penny Bridge dregur nafn af brúartolli, sem tekinn var af vegfarendum allt fram til 1919. Þessi smíðajárnsbrú var reist 1816 og er skemmtilegasta brúin af ótalmörgum, sem tengja vinstri og hægri bakka árinnar Liffey (C4).

O’Connell Street

Við förum yfir brúna, beygjum til hægri eftir árbakkanum Bachelors Walk tæpra 300 metra leið og síðan til vinstri inn í O’Connell Street, helztu breiðgötu borgarinnar.

Breiðar gangstéttir og breið eyja veita trjám og höggmyndum og vegfarendum skjól fyrir stríðri bílaumferð. Einu sinni var þetta helzta rúntgata miðbæjarins, en fyrir löngu orðið að víkja fyrir göngugötunni Grafton Street. Enn eru hér kvikmyndahús og skyndibitastaðir (C5).

General Post Office

Við göngum tæpa 200 metra inn O’Connell Street, þar sem fyrir okkur verður mikil höll á vinstri hönd.
Aðalpósthús borgarinnar er í mikilli höll frá 1814 við vesturhlið O’Connell Street og snýr miklu og jónísku súlnariði að götunni.
Frægust er hún fyrir hlutverkið í páskauppreisninni 1916. Lýðveldisyfirlýsingin var lesin upp af tröppum hennar. Hún var þá höfuðstöð uppreisnarmanna og varð fyrir skothríð brezkra hermanna. Hún ber enn ör frá þeim tíma, þótt að mestu hafi verið gert við skemmdirnar (C5).

Custom House

Við göngum til baka niður að ánni og síðan 300 metra til vinstri eftir bakkanum.

Hér er Custom House, löng og lág höll frá 1791, með hvolfþaki og dórískri súlnaframhlið, af sumum talin fegursta hús borgarinnar. Þetta var áður tollhús, en er nú stjórnarskrifstofa. Höllin hefur verið endurreist eftir mikinn bruna, sem varð þar 1921 (D5).

Bank of Ireland

Við höldum til baka eftir árbakkanum, förum yfir O’Connell brúna, sem frægust er fyrir að vera breiðari en hún er löng, og göngum 200 metra inn breiðgötuna Westmoreland Street, þar sem við komum inn á torgið College Green. Okkur á vinstri hönd er Bank of Ireland.

Bogadregin höll Írlandsbanka í nýgnæfum stíl var áður þinghús Írlands, reist að mestu leyti 1728. Gamli aðalinngangurinn að sunnanverðu er varðaður jónískum súlnaröðum umhverfis ferhyrnt port, og út frá því liggja bogadregnar hliðarálmur hallarinnar.

Bank of Ireland tók við höllinni 1803, en húsakynni Lávarðadeildarinnar og hin fínu veggteppi hennar hafa verið varðveitt óbreytt. Hægt er að fá að skoða þau með því að spyrja leyfis á staðnum (C4).

St Andrew’s

Við förum úr bankanum og aftur út á College Green, sem sveigist eftir framhlið bankans. Handan torgsins, 100 metrum vestar, er lítil gata, St Andrew Street, upp að St Andrew’s kirkjunni, tæpum 50 metrum ofan torgsins.

Þar sem St Andrew’s kirkjan er nú, var miðstöð víkinga, þegar þeir réðu í Dublin fyrir tíu öldum. Þá var hér “Þingmót”, þar sem víkingar komu saman til þings á svipaðan hátt og á Íslandi á sama tíma (C3).

Trinity College

Við förum til baka niður brekkuna og austur College Green. Handan torgsins að austanverðu er Trinity College, skáhallt á móti Írlandsbanka.

Trinity College var stofnaður 1592 sem prestaskóli ensku biskupakirkjunnar, en er nú almennur borgarháskóli með 7000 nemendum. Við förum hér inn um aðalinnganginn, sem reistur var 1755-1759, og komum inn á 16 hektara háskólasvæði með mörgum höllum umhverfis steinlagðar stéttir og gróna garða (D4).

Book of Kells

Við stefnum yfir stéttina að strangri höll frá 1712-1732, hægra megin fyrir miðju.

Það er bókasafn skólans, eitt fjögurra höfuðbókasafna landsins. Höllin var áður léttari að svip, þegar opin súlnagöng voru á jarðhæðinni.

Hin frægu fornrit Íra eru í bókasafni Trinity College. Hæst ber þar Kells-bók, fagurlega lýst kálfskinnshandrit guðspjallanna fjögurra á latínu frá upphafi níundu aldar. Bókin er til sýnis í safninu ásamt fleiri dýrgripum af því tagi, svo sem Durrow-bók frá upphafi áttundu aldar, Dimma-bók og Armagh-bók. Aðgangur £1,75, lokað sunnudaga.

Einnig er gaman að skoða aðalsal bókasafnsins, langan og mjóan og háan sal á tveimur hæðum (D3).

Grafton Street

Við förum aftur út um aðalinngang háskólans og beygjum þar til vinstri meðfram framhliðinni um 100 metra leið, förum yfir Nassau Street og inn í Grafton Street göngugötuna.

Grafton Street liggur milli Trinity College og St Stephen’s Green og er burðarás miðbæjarins. Þaðan er stytzt til allra átta ferðamannsins og þar er skemmtilegast mannlífið. Hér er líka kaffihúsið Bewley’s, sem telja má miðpunkt borgarinnar.

Hér á götunni reyna tónlistarmenn að vinna sér inn skilding og hér eru seld blóm á götuhornum. Hér er mest af glæsilegustu verzlununum og nokkur vöruhús í dýrari kantinum. Hér streymir mannhafið alla daga vikunnar frá morgni til kvölds (C3).

Powerscourt

Við förum beint frá Grafton Street um húsasund rétt sunnan við Bewley’s eða tæpum 50 metrum sunnar frá þvergötunni fyrir framan Westbury hótel inn verzlanasund hótelsins, og komum í báðum tilvikum að bakhlið Powerscourt við Clarendon Street. Þar beygjum við til vinstri og förum inn í Powerscourt á suðausturhorni þess.

Powerscourt er í borgarhöll frá 1771. Höllinni og hallarportinu hefur verið breytt af nærfærni og smekkvísi í skemmtilega verzlanakringlu á þremur hæðum undir léttu timbur- og glerþaki, full af svölum út og suður, sumar úr 200 ára gömlum viði. Þar eru skemmtilegar smábúðir og mjög góð veitingahús. Á efstu hæð er verzlun, sem rekin er af handverksráði Írlands. Í hádeginu eru oft klassískir tónleikar á palli í portinu. Þarna er hægt að vera allan daginn í góðu yfirlæti (C3).

Hibernian Way

Við förum sömu leið til baka til Grafton Street og förum í hina áttina tæpa 100 metra inn Lemon Street og áfram inn í verzlanamiðstöðina Hibernian Way.

Margar fínustu tízkubúðir borgarinnar eru í Hibernian Way (D3).

Mansion House

Við förum út úr Hibernian Way út á Dawson Street, þar sem við beygjum til hægri og göngum 100 metra, þar sem við sjáum litla og ljúfa höll handan götunnar.

Mansion House var reist 1705 og gerð að borgarstjórasetri 1715. Að hallarbaki er stærsti veizlusalur borgarinnar, reistur 1821. Þar fundaði fyrsta þing Írlands 1919 til að samþykkja sjálfstæðisyfirlýsingu landsins (D2).

St Stephen’s Green

Við förum áfram eftir Dawson Street tæpa 100 metra út að garðinum St Stephen’s Green og förum inn í garðinn.

St Stephen’s Green er 9 hektara garður í enskum stíl, með tjörnum og brúm, gosbrunnum og öndum, blómahafi og vel slegnum flötum, barnaleikvelli og myndastyttum, upprunalega girtur 1663, en opnaður almenningi 1877.

Ýmsar þekktar hallir snúa út að garðinum, svo sem Shelbourne-hótel að norðanverðu og utanríkisráðuneytið, Iveagh House, að sunnanverðu.

Frá hornum garðsins liggja þekktar götur, svo sem Grafton Street til norðurs frá norðvesturhorninu og Merrion Row til austurs frá norðausturhorninu (CD2).

National Museum

Við förum út úr garðinum að norðanverðu, á svipuðum slóðum og við komum inn í hann, göngum að Shelbourne-hóteli og förum inn þvergötuna við hlið þess, Kildare Street. Þá götu göngum við 150 metra að inngangi þjóðminjasafnsins á hægri hönd.

The National Museum er bókstaflega gullnáma. Þar er mikið af skartgripum úr gulli frá forsögulegum tíma á Írlandi og frá keltneskum tíma, hálsfestar, armbönd, hljóðfæri, kaleikar og leikföng. Margir gripanna eru frá 1. öld f.Kr., en glæsilegustu gripirnir eru frá 8. öld, frá því rétt áður en víkingar hófu ránsferðir 795.

Safngripunum er haganlega fyrir komið, svo að rúmt er um þá, þótt safnið sé ekki stórt. Vegna rúmleysis er gert ráð fyrir, að hluti safnsins verði innan tíðar fluttur á annan stað í miðbænum.

Óvenjulega góð veitingabúð er í safninu (D2).

Leinster House

Við innganginn er rimlagirðing. Handan hennar sjáum við þjóðarbókhlöðuna andspænis þjóðminjasafninu og þinghús Írlands hægra megin, milli safnanna.

Írska þingið situr í Leinster House, sem var reist 1745 og gert að þinghúsi 1922. Hægt er að fá aðgang að þingpalli neðri deildar, og þegar þingið situr ekki, er hægt að fara í skoðunarferðir um höllina (D2).

National Library

Við göngum áfram norður Kildare Street um 50 metra að inngangi þjóðarbókhlöðunnar.

The National Library er fyrst og fremst áhugaverð fyrir Íra og þá, sem leita að forfeðrum sínum. Þar eru yfir ein milljón bóka og mikið af fornum handritum, auk landakorta og gamalla dagblaða. Húsbúnaður er úr dökkum viði og lampaskermar eru grænir (D3).

National Gallery

Við höldum áfram 100 metra norður Kildare Street, beygjum til vinstri í Leinster Street og áfram Clare Street, 200 metra leið, og svo til hægri að West Merrion Square. Við göngum innan við 100 metra frá götuhorninu og komum að inngangi þjóðlistasafnsins.

The National Gallery er hefðbundið listaverkasafn, sem leggur áherzlu á evrópska listasögu. Þar eru verk brezkra, hollenzkra og ítalskra listamanna fyrri alda. Þar eru einnig verk Jack B. Yeats, mesta málara Írlands og bróður rithöfundarins William Yeats (D3).

Merrion Square

Við förum út úr safninu og inn í garðinn handan götunnar.

Merrion Square er einn fegursti garður miðbæjarins, lagður 1762, friðarreitur í umferðarþunga miðbæjarins. Kringum hann eru stílhrein hús með hinum þekktu, vel máluðu írsku útihurðum. Við garðinn sýna oft alþýðlegir málarar listaverk sín (E2).

Natural History Museum

Við förum aftur úr garðinum að inngangi þjóðlistasafnsins og göngum götuna til suðurs, framhjá lokuðum garði þinghússins að náttúrugripasafninu, Museum of Natural History, um 100 metra leið.

Í náttúrugripasafninu eru beinagrindur af hinu forna og útdauða dádýri Írlands, af hvölum og öðru því, sem tíðkast í slíkum söfnum. Uppstilling safnsins er gamaldags (E2).

Baggot Street

Við höldum áfram eftir Upper Merrion Street framhjá stjórnarráði Írlands, rúmlega 100 metra leið að næstu gatnamótum.

Hér mætast hægra megin Merrion Row og vinstra megin Lower Baggot Street, helztu götur söngkráa, sem eru írsk sérgrein. Frægar krár við Merrion Row eru Donoghue’s og Foley’s og við Lower Baggot Street eru Doheny & Nesbitt’s, Baggot Inn og Toner’s. Á þessum slóðum eru líka góð veitingahús (DE2).

Fitzwilliam Square

Frá enda Upper Merrion Street göngum við um 100 metra til vinstri og austur Lower Baggot Street og beygjum síðan til hægri inn í Lower Pembroke Street, þar sem 150 metra leið er að Fitzwilliam Square.

Fitzwilliam Square er bezt varðveitti garðurinn frá georgískum tíma, lagður 1825. Í kringum hann eru stílhrein hús þess tíma, mörg hver með skartmáluðum útihurðum (E1).

Hér ljúkum við gönguferðinni um miðbæinn í Dublin, förum til baka til Baggot Street og hvílum okkur á einni af kránum þar.

1995

© Jónas Kristjánsson

Dublin gisting

Ferðir

Hér verða eingöngu talin hótel í hjarta miðbæjarins, í öllum verðflokkum, frá lúxushótelum yfir í B&B. Öll eru þau góð og bjóða flest þægindi, sem menn eiga nú að venjast á hótelum.

Bloom’s

Kjörhótel okkar í Dublin er fremur ódýrt og lítið, 86 herbergja Bloom’s, sem heitir eftir söguhetjunni í Ódysseifi eftir James Joyce.
Það er afar vel í sveit sett í miðbænum, í brekku milli Dame Street og Temple Bar, tæpum 100 metrum frá veitingagötunni Temple Bar og 300 metrum frá Grafton Street, burðarási miðbæjarins.

Þetta er þægilegt og örlítið þreytulegt hótel í gamaldags nútímastíl, með lífsreyndum og góðum reddurum í anddyri, fremur þröngt niðri, en rúmgott á herbergjum. Þjónusta er allan sólarhringinn og góð aðstaða fyrir kaupsýslumenn, svo og bílgeymsla.

Herbergi 506 er hátt uppi, með þreföldu gleri í gluggum, tvískipt í svefnhluta og setuhluta, sem mynda vinkil við svalir. Það er vel búið, með stóru skrifborði, buxnapressu og hárþurrku, beinum síma og sjónvarpi, rauðvínsflösku og dagblaði. Baðherbergi er vandað og vel búið.

Verðið var £71 fyrir tvo með morgunverði.

(Bloom’s, Anglesea Street, sími 671 5622, fax 671 5997, C4)

Westbury

Bezta og bezt staðsetta hótelið í Dublin er dýrt og stórt og nýtízkulegt, 195 herbergja Westbury, aðeins 30 metrum frá Grafton Street. Verzlanakringlan Powerscourt er að hótelbaki.

Hvorki meira né minna en þrír af beztu veitingasölum miðbæjarins eru á hótelinu, Russell, Sandbank og Rajdoot, sem allra er getið í veitingakafla þessarar bókar. Einnig er verzlanagata innan dyra, svo að hótelið er hentugur heimur út af fyrir sig í stórrigningu.
Anddyrið á tveimur hæðum er stór og kuldaleg marmarahöll með glæsilegum stiga milli hæða.

Herbergi 606 er ákaflega stórt og einstaklega vandað að húsbúnaði, mahóní og bláum litum, góðum lömpum og miklum speglum, virðulega stílhreint. Baðherbergi er fullflísað og fallegt, tvískipt með baði og salerni á innra svæði, en sturtan var ekki öflug.
Verðið var £149 fyrir tvo með morgunverði.

(Westbury, Grafton Street, sími 679 1122, fax 679 7078, C3)

Shelbourne

Dýrasta hótelið í Dublin er Shelbourne, sögufræg höll frá árinu 1824 við miðbæjargarðinn St Stephen’s Green, 300 metrum frá Grafton Street. Í þessari rauðu og hvítu höll 150 herbergja var samin stjórnarskrá írska lýðveldisins, og kaflar í þekktum skáldsögum eru látnir gerast þar.

Hótelið er gamalt og fínt, en samt líflegt, með brakandi gólfum, sem halla á ýmsa vegu undir þykkum teppum. Notalegir almenningssalir hafa verið endurnýjaðir í upprunalegri mynd og herbergi gesta eru afar glæsileg. Ein þekktasta krá borgarinnar, Horseshoe, er lengst til hægri á jarðhæðinni.

Helzti galli hótelsins er, að þjónustu hrakaði við sölu þess til Forte-keðjunnar. Reddarar í anddyri voru til dæmis sjaldan viðlátnir og burðarkarlar sjaldséðir, hvort tveggja lítt hugsanlegt á hóteli í þessum flokki.

Herbergi 222 er ákaflega stórt og raunar tvískipt í setustofu og svefnstofu, afar smekklega innréttað glæsilegum húsbúnaði, nýlega endurnýjuðum, með stórum gluggum út að miðbæjargarðinum. Baðherbergi er með glæsilegasta móti.

Verðið var £170 fyrir tvo með morgunverði.

(Shelbourne, St Stephen’s Green North, sími 676 6471, fax 661 6006, D2)

Buswell’s

Skemmtilegasta hótelið í Dublin er gamalt, þreytulegt og lítið, 70 herbergja þingmannahótelið Buswell’s, eins konar Hótel Borg, andspænis anddyri írska þinghússins, steinsnar frá nokkrum helztu söfnum hennar og 300 metrum frá Grafton Street.

Þótt hótelið sé vel í sveit sett, er gatan við hótelið róleg og lágvær. Starfslið var einkar vingjarnlegt og þægilegt, fljótt að leysa úr öllum vanda, einna bezta hótelfólk borgarinnar.

Herbergi 103 er gamaldags, lítið og fremur slitið, svo sem gólflistar. Það er vel búið, til dæmis buxnapressu og hárþurrku, beinum síma og sjónvarpi. Baðherbergið er líka lítið, en fullflísað og vel búið, en sturta var ekki öflug. Annars eru herbergi hótelsins afar misjöfn að gerð og búnaði.

Verðið var £102 fyrir tvo með morgunverði.

(Buswell’s, Molesworth Street, símar 676 4013, 676 4016 og 661 3888, fax 676 2090, D2)

Temple Bar

Fjörlegt og vel staðsett nútímahótel í hjarta borgarinnar er 108 herbergja Temple Bar, 50 metrum frá samnefndri veitingahúsagötu og um 400 metrum frá Grafton Street. Margir Íslendingar hafa búið þar á vegum Samvinnuferða í seinni tíð.

Hótelið var nýtt og óslitið með öllu, þegar bókarhöfundur bjó þar. Innréttingar eru vandaðar og stílhreinar, svo sem morgunverðarstofa í garðstofustíl á jarðhæð. Anddyrið er fremur lítið og stundum annasamt, þegar hópar koma eða fara.

Starfsfólk er vinsamlegt og þægilegt, en sumt ekki mjög þjálfað í starfi, einkum í morgunverðarstofu.

Herbergi 115 er vandað, stílhreint, notalegt og vel búið, til dæmis með góðu skrifborði, buxnapressu og kaffivél. Baðherbergi er glæsilegt, en sturtan varð ekki hættulega heit.

Verðið var £100 fyrir tvo með morgunverði. Afsláttarverð í ferðapökkum Samvinnuferða var £62, sem er afar hagstætt, eitt lægsta verð þessarar bókar.

(Temple Bar, Fleet Street, sími 677 3333, fax 677 3088, C4)

Grey Door

Afar vandað agnarhótel í borgarmiðju lætur lítið yfir sér og frægum veitingasal sínum, 7 herbergja Grey Door í sendiráðahverfinu. Það er 300 metrum frá St Stephen’s Green, 400 metrum frá Baggot Street og 700 metrum frá Grafton Street.

Anddyri er nánast ekkert nema lyftulaus stigagangur, en setustofa hótelgesta á annarri hæð er rúmgóð og vel búin fornum húsgögnum. Starfslið var afar þægilegt. Útidyr eru jafnan læstar og hótelgestir fá lykil að húsinu.

Um samnefndan veitingastað er fjallað í viðeigandi bókarkafla. Morgunverður er snæddur þar.

Herbergi 3 er glæsilegt og einstaklega notalegt, skipt með súlnariði í svefnhluta og setuhluta, með afar vönduðum innréttingum, tveimur sjónvarpstækjum, buxnapressu og kaffivél, góðu skrifborði og þremur hægindastólum. Baðherbergi er lagt afar fínum, hvítum flísum, búið gylltum krönum og þykkum baðsloppum.

Verðið var £95 fyrir tvo með morgunverði.

(The Grey Door, 23 Upper Pembroke Street, sími 676 3286, fax 676 3287, D1)

Staunton’s

Traust, en nokkuð dýrt og hljóðbært smáhótel í þremur húsum við St Stephen’s Green er Staunton’s on the Green, við hlið utanríkisráðuneytisins, 500 metrum frá miðbæjarásnum Grafton Street. Frá hótelinu er útsýni yfir götuna til St Stephen’s Green og frá bakhliðinni til Iveagh Gardens.

Anddyri er lítið, lyfta engin og stigar brattir, herbergi fremur lítil, en bjóða aftur á móti gott útsýni, sem eykur rýmið. Morgunverður er framreiddur í kjallara.

Herbergi 301 er afar lítið og þunnveggjað, en búið ýmsum þægindum, þar á meðal sjónvarpi og kaffivél. Baðherbergi er lítið og ekki fínt, dúklagt og óflísað, en í góðu lagi, sturta til dæmis ágæt, en engin kerlaug. Hljóðbært er milli herbergja.

Verðið var £88 fyrir tvo með morgunverði.

(Staunton’s on the Green, 83 St Stephen’s Green South, sími 478 2300, fax 478 2263, C1)

Georgian

Afar skemmtilegt og fremur ódýrt smáhótel í fjórum átjándu aldar borgarhúsum við söngkráagötuna Baggot Street er 33 herbergja Georgian House, 300 metrum frá St Stephen’s Green og 600 metrum frá Grafton Street.

Hótelið er í fjölskyldueigu. Í fremur þröngu og lyftulausu anddyri neðan við þrönga stiga var vingjarnlegt starfslið. Í veitingakafla bókarinnar er sérstaklega fjallað um ágætan fiskréttasal hótelsins, Ante Room, sem er í kjallaranum. Þar er morgunverður borinn fram.

Herbergi 124 er víðáttumikið og sneri út að götunni, vel búið gömlum og góðum húsgögnum, fremur þungum. Baðherbergi var fremur vel búið.

Verðið var £81 fyrir tvo með morgunverði.

(The Georgian House, 20-21 Lower Baggot Street, sími 661 8832, fax 661 8834, E2)

Fitzwilliam

Ódýrt smáhótel er í átjándu aldar borgarhúsi á horni Baggot Street og Fitzwilliam Street, 400 metrum frá St Stephen’s Green og 800 metrum frá Grafton Street. Fitzwilliam heitir það og hefur aðeins 12 herbergi, mörg hver búin fornum húsmunum.

Starfslið var vingjarnlegt og þægilegt, enda hótelið í fjölskyldueigu. Gestir fá útidyralykil, þegar þeir fara út á kvöldin. Morgunverður er framreiddur í kjallara.

Herbergi 32 er gamaldags, fremur stórt, búið þremur rúmum og snýr út að götu, sæmilega búið, þar á meðal sjónvarpi og síma. Baðherbergi er líka gamaldags, en í góðu lagi.

Verðið var £60 fyrir tvo með morgunverði, næstlægsta verð bókarinnar.

(Fitzwilliam Guest House, 41 Upper Fitzwilliam Street, sími 660 0448, fax 676 7488, C4, E1)

Kelly’s

Ódýrasta höfuðborgarhótelið í þessari bók er lítið og notalegt, hreinlegt og gamaldags, 24 herbergja Kelly’s, afar vel í sveit sett í miðbænum, 200 metrum frá Dame Street og 400 metrum frá Grafton Street.

Anddyri hótelsins er á annarri hæð. Þar er líka skemmtilegur bar með háum gluggum og leðursætum, setustofa og ágæt morgunverðarstofa. Þjónusta er góð, enda er hótelið í fjölskyldueigu. Útidyr eru læstar að nóttu, en gestir hringja bjöllu til að fá opnað fyrir sér.

Herbergi 23 er afar lítið, en smekklega innréttað og með flestum þægindum, þar á meðal hárþurrku, síma og sjónvarpi. Hnausþykkt teppi er yfir brakandi trégólfi. Teppalagt baðherbergi er lítið og smekklegt, vel búið að öllu leyti.

Verðið var £57 fyrir tvo með morgunverði, lægst í þessari bók, enda komið niður í Bed & Breakfast verð miðbæjarins í Dublin.

(Kelly’s, 36 South Great Georges Street, símar 677 9277, fax 671 3216, B3)?

1995

© Jónas Kristjánsson

Dublin skemmtun

Ferðir

Krárnar eru auðvitað hornsteinn skemmtanalífsins í Dublin. Við munum í þessum kafla nærri eingöngu dvelja við þá hliðina. Við förum í stórum dráttum frá norðvestri til suðvesturs í miðborginni, þannig að þræða má alla staðina í einu kráarrölti, ef mikið liggur við. En fyrst eru það íþróttirnar.

Gaelic Football

Vinsælasta flokkaíþrótt Íra er Gaelic Football, ákaflega hörkulegur leikur, sem er á bilinu milli knattspyrnu og rugby. Þegar úrslitaleikur landsmótsins er háður á Croke Park leikvanginum í Dublin, liggur við mannauðn í héruðunum að baki úrslitaliðanna.
Hurling er líka vinsæl íþrótt, leikin á sömu völlum og football, en boltinn er sleginn með kylfu.

Veðreiðar eru í Phoenix Park og góðir golfvellir eru auðvitað út um allt land.

Brazen Head

Elzta krá borgarinnar er Brazen Head og lætur lítið yfir sér niðri við ána Liffey, þar sem Lower Bridge Street liggur niður að henni, um 500 metrum frá Christ Church.

Veitingaleyfið er frá 1666, en talið er, að krá hafi verið hér frá 13. öld. Kráin er að öðru leyti frægust fyrir, að Robert Emmet skipulagði þar hina misheppnuðu uppreisn gegn Bretum árið 1803.

Kráin er tvískipt með ýmsum rangölum inn af steinlögðu porti. Lágt er til lofts og lýsing daufleg, kráargestir friðsælli en víðast hvar, en þægilegir viðskiptis eins og aðrir Írar. Ljóðalestur og írsk tónlist eru hér í hávegum höfð.

(The Brazen Head, 20 Lower Bridge Street, A3)

Palace

Dæmigerð reykjarmakkarkrá er Palace á góðum stað í götunni, sem liggur í framhaldi af Temple Bar að Westmoreland Street, sömu megin götunnar og hótelið Temple Bar.

Viðarskilrúm með speglum mynda stúkur við þungan eðalviðarbar og virðulegan barskápavegg. Inn af kránni er ferningslaga setustofa, þar sem eru sófar og kringlótt sófaborð.

Hér er mikið drukkið og enn meira reykt. Gestir virðast aðallega vera verkamenn og fjölmiðlafólk.

(Palace Bar, 21 Fleet Street, C4)

Mulligan’s

Þreytulega blaðamannakráin Mulligan’s við Poolbeg Street rétt hjá höfninni, dagblöðunum og Trinity-háskóla er ein af elztu krám borgarinnar, frá 1782, og ber aldurinn með sér. Hennar er getið í skáldsögunni Dubliners eftir James Joyce.

Kráin liggur í U með einum bar á hvora hlið og setuklefa þar á milli úti við glugga. Lágt er til lofts, dimmt og drungalegt, og húsbúnaður eins slitinn og frekast getur orðið. Tvö herbergi eru inn af kránni, óvistleg með öllu. Húsbúnaður er tilviljanakenndur, fátæklegur og ósmekklegur.

Gestir eru margir ölmóðir, enda er bjórinn talinn einna beztur í borginni. Hér rennur hann í stríðum straumum frá morgni til kvölds. Hingað koma blaðamenn af skrifstofunum í kring, hafnarverkamenn og námsmenn.

(Mulligan’s, 8 Poolbeg Street, D4)

Stag’s Head

Bezta kráarmatreiðsla miðbæjarins er í gamalli og torfundinni krá frá 1770, Stag’s Head, sem er í litlu sundi samsíða Dame Street.
Þessi fegursta krá borgarinnar var færð í núverandi búning rétt fyrir aldamót og bjargaði nýlega lífi sínu með aðstoð húsfriðunarmanna.

Hún er í fögrum Viktoríustíl með stórum speglum og bogariði yfir bar, gömlu timburlofti, miklum hjartarhaus yfir miðjum bar, mahóníborðum með marmaraplötum, steindum gluggum og fagurgrænum sófum.

Matreiðslan er einföld og maturinn bragðgóður, soðið beikon og hvítkál, írsk kjötsúpa, samlokur og borgarar með frönskum.
Gestir eru margir hverjir vel stæðir, meðal annarra mikið af lögmönnum.

(Stag’s Head, 1 Dame Court / Dame Lane, C3)

Old Stand

Helzta íþróttaáhugakrá miðborgarinnar er Old Stand í hliðargötunum að baki Grafton Street, um 100 metrum frá Powerscourt verzlunarmiðstöðinni.

Þetta er fremur björt krá, tvískipt, og óvenjulega rúmgóð, hreinleg og einföld að allri gerð, ekki mjög gömul að húsbúnaði. Innan dyra er hægt að ganga slitið trégólfið hringinn umhverfis barina tvo.

Hér safnast margir áhugamenn um keppnisíþróttir, svo sem veðreiðar og írskan slagsmálabolta. Margir fá sér snæðing.

(Old Stand, Exchequer Street, C3)

O’Neill’s

Nærtækasta stúdentakrá miðbæjarins er O’Neill’s á horninu andspænis St Andrews kirkju, 100 metrum frá aðalfumferðartorginu College Green, þar sem er aðalinngangur Trinity háskóla.

Einkennistákn kráarinnar er stór klukka yfir öðrum innganginum. Þetta er stór, hreinleg, vel viðuð og lítið skreytt krá með töluverðu setuplássi.

Kráin er vel sótt, bæði af stúdentum og borgurum. Menn sækja ekki bara í bjórinn, heldur líka í snarlið.

(O’Neill’s, 2 Suffolk Street, C3)

Bailey

Ein af þremur frægum krám við hina stuttu hliðargötu Duke Street út frá Grafton Street er Bailey, sem skartar dyrunum að 7 Eccles Street, þar sem Leopold Bloom bjó, söguhetjan í Ódysseifi eftir James Joyce.

Þetta er fín krá, teppalögð og búin vönduðum húsgögnum, þar á meðal notalegum sófum og hægindastólum, speglum á áberandi stöðum, meðal annars að barbaki. Hún er björt og nánast nútímaleg. Stórir gluggar snúa að götu, setustofur framan við og innan við og veitingasalur uppi á annarri hæð.

Nú orðið er mest um ferðamenn hér og aðra fína gesti, en áður var þetta samkomustaður skálda og listamanna, blaðamanna og stúdenta. Maturinn er vinsæll.

(The Bailey, 4 Duke Street, C3)

Davy Byrne’s

Tízkukrá uppanna í miðbænum er Davy Byrne’s, andspænis Bailey við Duke Street, frægust fyrir gorgonzola-ostinn og Búrgundarvínið, sem Leopold Bloom fékk sér þar í skáldsögunni Ódysseifi eftir James Joyce.

Innréttingar þessarar björtu kráar eru að hluta til í millistríðsárastíl, með veggmyndum af þekktum rithöfundum, sem voru uppi eftir aldamótin. Að aftanverðu er nýtízkulegri bar með amerísku hanastélssniði.

Hér er flest fólk vel klætt, ungt fólk á uppleið í viðð svipað fólk úr hópi ferðamanna.

(Davy Byrne’s, 21 Duke Street, C3)

Duke

Aðeins innar við sömu götu er ósvikin krá gamla Viktoríutímans, The Duke, fín og rúmgóð og björt, með múrmálverkum og fremur litlu af viði.

Barstólarnir eru bólstraðir og standa á parkettgólfi. Barinn er með steindu gleri að baki. Fínt teppi er á gólfi við útidyr og gefur tóninn. Sófar eru á pöllum við veggi og háir barstólar niðri á gólfinu framan við pallana.

Gestir eru margir hverjir úthverfafólk í innkaupaferð, sem fær sér bjór og snarl í hléi milli búða, enda er verðlagið hagkvæmt, þótt staðurinn sé fínn og snyrtilegur.

(The Duke, 9 Duke Street, D3)

McDaid’s

Bókmenntakráin í miðbænum er hin örsmáa McDaid’s við örstutta þvergötu frá Grafton Street, nánast undir Westbury hóteli. Hér sátu Brendan Behan og fleiri þekktir rithöfundar.

Kráin er fallega skreytt að utan og innan. Afar háir gluggar snúa út að götu, sumpart steindir. Skrautlegar postulínsflísar eru á veggjum undir myndum af Samuel Becket og minna frægum skriffinnum.

Enn þann dag í dag er bókmenntasvipur á kránni, því að hingað koma háskólakennarar og nemendur í bókmenntum til að halda hefðinni við.

(McDaid’s, Harry Street, C3)

Neary’s

Leikhúskrá miðbæjarins er auðvitað að baki Gaiety leikhússins. Leikarainngangur Gaiety og bakinngangur Neary’s standast nokkurn veginn á, en aðalinngangur kráarinnar er við þvergötu út frá Grafton Street.

Kráin er tvískipt, fremur lítil, með stórum speglum. Sérkennilegir gasljósastaurar úr smíðajárni eru á bleiku marmara-barborði. Fínt teppi er á gólfi og þykkar setur í stólum, enda er þetta ekki slordónastaður.

Í hópi viðskiptavina er slæðingur af leikurum og tónlistarmönnum innan um ferðamennina. Peter O’Toole er sagður halda til hér, þegar hann er í Dublin.

(Neary’s, 1 Chatham Street, C2)

Horseshoe

Frægasti hótelbar borgarinnar er Horseshoe Bar í austurenda jarðhæðar Shelbourne-hótels, afar lítill og þétt skipaður.

Með útveggjum eru leðursófar við hringlaga tréborð með öldubrjóti og í miðjunni er skeifulaga barborð með fínum barstólum. Hátt er til lofts og lítið um skreytingar, en mikið um spegla.

Hingað koma vel stæðir ferðamenn, einkum Bandaríkjamenn, því að hér eru löguð hanastél; svo og skartbúið fólk, sem kemur hingað á Benzum og Jagúörum úr úthverfunum.

(The Horseshoe Bar, The Shelbourne Hotel, St Stephen’s Green North, D2)

Foley’s

Söngkrá á uppleið við Merrion Row – Baggot Street kráarásinn reisir íslenzka fánann að húni, þegar tekur að hausta og mörlandar komast í innkaupastuð. Það er Foley’s Lounge Bar, eins konar millistig kráar og veitingasalar.

Þetta er frekar ánægjulegur staður, bjartur og rúmgóður, með teppi á gólfi, imbakassa og málverkasýningu á veggjum og voldugri klukku við endavegg. Brjóstmyndir eru af myndarlegum herrum, en engir eru þeir íslenzkir enn.

Írsk þjóðlög eru leikin og sungin hér öll virk kvöld vikunnar og í hádegi sunnudags, en á sunnudagskvöldum er djassað.
(Foley’s Lounge Bar, Merrion Row, D2)

O’Donoghue’s

Andspænis Foley’s við Merrion Row er ein frægasta söngkrá Írlands, O’Donoghue’s, skuggaleg krá, sem hefur írskar ballöður að sérgrein.

Kráin er lítil og kraðaksleg með rauðum og grænum neonljósum ofan við flöskur og glös í barvegg, þar sem líka eru peningaseðlar frá öllum heimshornum. Á veggjum eru gamlir auglýsingaspeglar.

Kráin hefur verið í fararbroddi endurreisnar írsku ballöðunnar. Gestir koma með gítarana sína, enda er tónlistin ekki skipulögð, heldur kemur upp úr grasrótinni. Hér byrjuðu Dubliners frægðargöngu sína um heimsbyggðina.

(O’Donoghue’s, 15 Merrion Row, D2)

Doheny & Nesbitt’s

Hefðbundin og fremur þreytuleg drykkjukrá stjórnmálanna innan um söngkrárnar í Baggot Street er Doheny & Nesbitt, ein frægasta krá miðbæjarins.

Þetta er afar dimm og afar lítil krá með ljótu dúkagólfi og rifnum auglýsingaspjöldum og speglaauglýsingum á veggjum, svo og stórum leirkerjum uppi undir lofti. Spegluð skilrúm eru við barinn og gera hann enn þrengslalegri.

Kráargestir koma úr þinghúsinu og stjórnarráðinu handan við hornið, stjórnmálamenn, þingfréttaritarar og embættismenn.

(Doheny & Nesbitt, 5 Lower Baggot Street, E2)

Baggot Inn

Rokkkrá miðbæjarins er Baggot Inn, snyrtileg krá við samnefnda söngkráagötu.

Kráin er fremur fínleg og björt af söngkrá að vera, U-laga og tvískipt. Speglar eru á súlum og lág skilrúm við veggi, þar sem hanga málverk og ljósmyndir af rokkurum.

Hingað koma gestir til að hlusta á nýjustu rokkhljómsveitirnar, sem einkum halda tónleika á hæðinni fyrir ofan.

(The Baggot Inn, Lower Baggot Street, D2)

Toner’s

Helzta listamannakrá borgarinnar er Toner’s við Baggot Street, 200 ára gömul krá, sem er að mestu leyti með upprunalegu útliti og raunar næsta þreytuleg.

Við barborð úr mahoní eru speglaðar stúkur og þröngar. Í barveggnum eru miklar skúffur og margar, leifar frá þeim tíma, er hér var einnig nýlenduvöruverzlun. Gamlar bækur eru þar fyrir ofan. Mikið flísaskraut er fyrir barenda og glerskápur með minjagripum andspænis barnum.

Meðal gesta er töluvert af samræðugóðum skáldum og fólki, sem heillast af samræðugóðum skáldum.

(Toner’s, 139 Lower Baggot Street, E1)

Abbey Tavern

Á endastöð borgarjárnbrautarinnar við Howth-höfða í norðri er þjóðlagakrá fyrir ferðamenn, sú bezta af því tagi. Það er Abbey Tavern við bratta götu upp frá höfninni.

Dagskráin fer fram í stórum sal að kráarbaki, þar sem margir rútufarmar ferðamanna sitja og fá sér snæðing við kertaljós fyrir skemmtunina, sem verður flestum minnisstæð.

Hljóðfæraleikararnir og söngvararnir spanna yfir breitt svið írskra þjóðlaga frá ýmsum tímum, fornum og nýjum. Þeir leika einkum á fiðlur og gítara, en einnig á skeiðar og blístrur og pípur. Tónlistin er ósvikin og sagnfræðilega rétt, en nær eigi að síður að hjörtum erlendra áheyrenda. Þetta er fyrsta flokks skemmtun.

Aðgangur án matar kostaði £3, en £28 með mat.

1995

© Jónas Kristjánsson

Dublin útrásir

Ferðir

Kurteisi, alúð og hjálpsemi Íra verður því meiri, sem fjær dregur höfuðborginni. Á vesturströndinni heilsa menn bílstjórum með handarsveiflu, alveg eins og væru þeir gamlir kunningjar. Hvarvetna leggja menn sig í líma við að greiða götu ókunnugra og draga þá inn í samræður heimamanna.

Bezta leiðin til að kynnast Írlandi á stuttum tíma er að fá sér bílaleigubíl. Þá erum við frjáls, getum valið hvaða sveitavegi, sem við viljum; og látið staðar nema, hvar sem okkur lízt á góða bændagistingu. B&B er hvarvetna á boðstólum og felur venjulega í sér fullnægjandi aðstöðu samkvæmt íslenzkum kröfum.

Írland ber mildan og grænan svip. Flestir vegir eru varðaðir trjám og beitilöndum, þar sem una sér kýr og kindur, hestar og geitur. Sveitabæir og þorp kúra í landslaginu eins og eðlilegur þáttur þess. úti við ströndina, einkum að vestan, rís náttúran í svipmeiri dráttum.

Forn mannvirki segja gamla sögu, einkum frá fyrstu öldum kristni, þegar Írland var miðstöð kristinnar kirkju á myrkum miðöldum. Við kynnumst klaustrum, þaðan sem munkar fóru norður og vestur um höf; og skráðu eins og Íslendingar frægar sögur á vandlega lýst bókfell. Við kynnumst líka kastölum og hústurnum, sem voru miðpunktar í erjum milli smákónga og í styrjöldum milli Íra og Englendinga.

Allt þetta þræðum við upp á eina langa perlufesti, sem nær hringinn um landið. Það getur tekið nokkrar vikur að aka þennan hring, en það er líka unnt á skemmri tíma, af því að fjarlægðir eru stuttar í landinu.

Lýsingin nær einkum til fornra mannvirkja og sérstæðs landslags, svo og halla og herragarða, sem yfirleitt leika nú hlutverk hótela og veitingahúsa. Gaman er að skoða þessar hallir og herragarða, þótt menn kjósi svefnstað í bændagistingu.

Hér er ekki bent á einstaka ferðabændur, enda skipta þeir þúsundum og eru oft ekki auðfundnir í leit. Bezt er að velja bændagistingu, B&B, eftir hendinni. Ef „en suite“ stendur á skiltinu, þýðir það, að herbergið sé með einkabaðherbergi, sem algengt er orðið nú á tímum.

Við förum norður úr Dublin, höldum fyrst til Norður-Írlands, síðan vestur með ströndinni og aftur inn í írska lýðveldið, förum einkum um slóðir keltneskrar tungu á vesturströndinni, síðan suður um og norður austurströndina til Dublin. Öllum er auðvitað frjálst að taka króka og útúrdúra af þeirri perlufesti, sem hér er lýst. Bezt er að taka lífinu með ró og setja sér ekki skýrt markaða áfanga.

Trim

Við förum N3 norður frá Dublin og beygjum í Black Bull á R154 til kastalans í Trim á bakka árinnar Boyne.

Rústir Trim Castle eru einna fyrirferðarmestar í öllu landinu, nærri hektari að flatarmáli. Enskir landvinningamenn reistu kastalann á miðöldum. Hann er lauslega normanskur að stíl, miðturninn frá 1220-1225 og útveggirnir frá 1250. Héðan slapp Hinrik IV úr fangavist á vegum Ríkharðs II og vann af honum ensku krúnuna.

Gengið er úr þorpsmiðju upp í kastalann að vestanverðu. Í miðturninum voru tveir veizlusalir og svefnherbergi þar fyrir ofan.

Aðalhlið kastalans var áður að austanverðu, þar sem voru tvær vindubrýr og útvirkisturn með dýflissum (I3).

Tara

Frá Trim förum við R161 í áttina til Navan og finnum vegprest, sem vísar leiðina til Tara-hæðar.

Tara var eins konar Þingvöllur Norðvestur-Írlands í heiðnum sið, en lætur núna lítið yfir sér. Þar er kirkja með trjálundum nær og beitilandi í brekkunum fjær. Þar mótar fyrir hólum, sem eru leifar af fornu helgisetri, konungshöll og þingstað Kelta frá heiðnum tíma, er Tara var eins konar höfuðstaður Írlands. Eftir valdatöku Njálunga í Ulster á 6. öld og kristnitöku á Írlandi var hér kristinn helgistaður fram til 1022. Eftir það hvarf Tara af sjónarsviðinu, en lifði áfram í sögum og ævintýrum (I3).

Newgrange

Við höllum okkur aftur að R161 og ökum hann til Navan og þaðan N51 um Slane í átt til Drogheda, unz við komum að vegvísi til Newgrange-hofs.

Newgrange er mikið útfararhof frá því um 3000 fyrir Krists burð, eitt hið merkasta af því tagi í Evrópu. Það er grasi vaxinn steinhaugur, klæddur hvítu kvarzi, gerður af manna höndum, 80 metra breiður og 12 metra hár. Hið næsta er hann umlukinn liggjandi björgum, sem sum eru höggvin táknum, en fjær er hringur lóðréttra steina. Bygging hofsins hefur verið mikið afrek á tímum frumstæðrar tækni og ber vott um öfluga trú og styrka stjórn.

Frá íhvolfum inngangi liggur 20 metra langur gangur inn í útfararsal með þremur útskotum. Á vetrarsólstöðum skín sólin nærri lárétt eftir ganginum inn í greftrunarsalinn og lýsir hann upp í nokkrar mínútur. Aðgangur £1,50 (I3).

Mellifont

Við förum til baka og beygjum til hægri á N51, en næstum strax aftur til vinstri eftir vegpresti til Mellifont-klausturs.

Mellifont eru vel varðveittar rústir elzta klausturs af reglu Sistersíana á Írlandi, frá 1142. Aðeins sjást undirstöður kirkjunnar, sem var vígð 1157. Eftir standa einkum garðport hægra megin og átthyrnt handþvottarhús fyrir miðju, hvort tveggja upprunalegt, svo og vinstra megin yngra kórsbræðrahús frá 14. öld. Klaustrið var lagt niður 1556. Aðgangur £0,80 (I3).

Monasterboice

Við förum áfram eftir hliðarveginum samkvæmt vegvísi til Monasterboice.

Í kirkjugarðinum í Monasterboice er mikill sívaliturn frá víkingatíma. Slíka turna reistu írskir munkar til að skýla sér og dýrgripum kirkjunnar fyrir víkingum. Turninn var brenndur 1097 og gripum tvístrað, en stendur enn að mestu leyti.

Í kirkjugarðinum eru þrír hákrossar, einsteinungar frá 10. öld, sá stærsti 7 metra hár. Þetta eru einna bezt varðveittu og fegurstu hákrossar Írlands, rækilega myndhöggnir atburðum úr biblíunni.

Hákrossar með löngum fæti og baug um krossmiðju voru einkenni írskrar kristni frá 8. öld og fram á 10. öld, á stórveldistíma Írlands sem miðpunkts hins kristna heims. Þeir voru 2-7 metra háir, fyrst skreyttir óhlutlægum táknum og síðar biblíumyndum (I3).

Ballymascanlon

Héðan förum við beint á N1 í átt til Dundalk. Við förum framhjá miðbænum eftir vegvísi í átt til Belfast, förum yfir brú og framhjá kirkjugarði út úr Dundalk, alltaf á N1, og skömmu síðar eftir vegvísi til Ballymascanlon hótels.

Ballymascanlon er gamall herragarður, sem breytt hefur verið í notalegt 36 herbergja hótel með golfvelli og heilsuræktarstöð.

Herbergi eru fremur lítil, en búin þægindum á borð við kaffivél og buxnapressu. Herbergi 30 kostaði £75 fyrir tvo með morgunverði.

Veitingasalurinn snýr stórum gluggum að garðinum. Flugnaveiðarar hanga í gömlum ljósakrónum. Þjónusta var góð, sömuleiðis matreiðsla gamaldags. Hefðbundinn, franskur matseðill bauð þríréttaðan kvöldmat, með nokkru úrvali á hverju sviði, á £40 fyrir tvo auk drykkjarfanga.

(Ballymascanlon Hotel, Dundalk, sími 42-71124, fax 42-71598) (I4).

Belfast

Aftur förum við inn á N1, yfir landamærin til Norður-Írlands, þar sem vegurinn heitir A1, alla leið inn í miðbæ í Belfast. Úr King Street ökum við inn í bílageymslu við Castlecourt verzlanakringluna. Þaðan er um 600 metra gangur, fyrst eftir King Street og síðan til vinstri eftir Wellington Place, að miðpunti borgarinnar, ráðhúsinu.

City Hall er mikilúðlegasta mannvirkið í Belfast, hvít höll, sem allar leiðir liggja að. Hún var reist 1898-1906 í nýgnæfum rjómatertustíl með mikilli koparhvelfingu yfir miðþaki. Ferðamenn mega skoða höllina.

Fyrir framan er Donegal Square, aðaltorg borgarinnar og strætisvagnamiðstöð hennar. Andspænis ráðhúsinu handan torgsins eru göngugötur (J4).

Crown Liquor

Sömu leið förum við til baka. Ef við beygjum til vinstri í Fisherwick Street í stað þess að fara til hægri í King Street, komum við eftir 200 metra að þekktasta hóteli og frægustu krá borgarinnar við Great Victoria Street.

Hotel Europe hefur nýlega verið gert upp og er nú afar vel búið að öllu leyti. Til dæmis eru kaffivélar á herbergjum. Herbergi fyrir tvo kostaði £125 með morgunverði.

(Hotel Europe, Great Victoria Street, Belfast, sími 232-327000 (Bretland))

Andspænis hótelinu er Crown Liquor Saloon, ríkulega skreyttur að utan og innan. Kráin er í vel varðveittum viktoríustíl, með postulínsflísum að utan, steindum gluggum, gasljósum, lokuðum gestabásum við útvegg og útskornum viðarsúlum og viðarlofti. Þetta er sennilega merkasta mannvirki borgarinnar og sælustaður göngumóðra. Ef hann væri ekki, mundum við tæpast stanza lengi í Belfast (J4).

Carrickfergus

Við ökum úr bænum, fyrst M2, síðan M5 og loks A2, samtals stutta leið til Carrickfergus úti við sjóinn. Við stönzum á bílastæði við bátahöfn og kastala, sem er áberandi við aðalgötu bæjarins.

Carrickfergus Castle stendur á sjávarhömrum, upprunalega laus frá meginlandinu. Hann er normanskur kastali frá 1180, einn af stærstu og bezt varðveittu kastölum á Írlandi. Hann varði innsiglinguna til Belfast og var lengi eitt helzta virki Englendinga gegn írskum uppreisnarmönnum. Hann var þó tekinn þrisvar, af Skotum 1315, af mótmælendum 1689 og Frökkum 1760.

Í kastalanum er safn, sem segir sögu hans. Elzti hlutinn er innsta og hæsta virkið, en utar eru tvö yngri virki. Kastalinn er afar gott sýnishorn af verk- og varnartækni hinna fransk-norrænu Normanna á miðöldum (J4).

Dobbin’s

Við göngum þvert yfir aðalgötuna til gamla kráarhótelsins á staðnum.

Dobbin’s Inn er dæmigert hótel í fornu húsi í gömlum stíl írskum, frægast fyrir nafnkunnan draug, “Maud”, sem þar er sagður búa. Frá hótelinu eru neðanjarðargöng til kastalans og til bæjarkirkjunnar. Hér getum við gist eða matast eða farið á krána áður en við höldum lengra.

Tveggja manna herbergi kostaði £60 með morgunverði. Hádegisverður fyrir tvo kostaði £10 auk drykkjarfanga.

(Dobbin’s Inn, 6-8 High Street, Carrickfergus, sími 9603-51905 (Bretland), J4)

Ballygally

Við ökum nú greiða leið áfram A2 og stönzum ekki fyrr en við gamalt kastalahótel á vegarbrúninni við sjávarsíðuna.

Ballygally Castle var reistur 1625 í skozkum stíl, enda er í góðu skyggni útsýni úr honum til Skotlands. Hann er vel varðveittur í upprunalegu ástandi, en mestur hluti hótelsins er í viðbyggingu. Sum gistiherbergin eru í gamla kastalanum og er sjálfsagt að panta þau. Herbergin eru vel búin nútímaþægindum, svo sem hárþurrku og buxnapressu. Og pípulögnin er ekki upprunaleg.

Tveggja manna herbergi kostaði £60 með morgunverði.

(Ballygally Castle Hotel, Ballygally, sími 574-83212 (Bretland), J5)

Cushendun

Áfram höldum við A2 til Glenariff, þar sem okkur eru tveir kostir á höndum. Við getum farið til vinstri smáhringferð eftir A43 um Glenariff-skóg og -foss og síðan B14 til Cushendun eða farið til hægri með sjónum eftir B92 til Cushendall og Cushendun.

Cushendall og Cushendun eru rómantísk þorp við ströndina. Hið síðarnefnda er allt undir verndun þjóð–minjalaga. Hvít og friðsæl smáhús lúra milli stóra trjáa við breiðar götur (J5).

Carrick-a-Rede

Frá Cushendun förum við aftur inn á A2 og á honum til Ballycastle, þar sem við beygjum til hægri eftir B15 og komum fljótlega að bílastæði, þaðan sem gengin er hálftíma leið að frægri hengibrú fyrir göngufólk.

Carrick-a-Rede er 20 metra löng göngubrú, sem liggur í 25 metra hæð frá landi yfir í höfða, þar sem fiskimenn stunda laxveiðar á sumrin. Göngubrúin er úr reipum og sveiflast undir fólki, svo að ekki er heiglum hent að fara yfir hana. Ekki fara þó neinar sögur af slysum á brúnni í 200 ára sögu hennar (I5).

Giant’s Causeway

Áfram förum við B15 út á A2 og komum fljótlega að ferðamannamiðstöð, þaðan sem litlir strætisvagnar flytja fólk fyrir £0,50 niður á strönd að stuðlabergi, sem er þekktasta náttúruundur Írlands.

Giant’s Causeway er víðáttumikið stuðlaberg, sem gengur í sjó fram. Steinninn er úr basalti og hefur myndazt við afar hæga storknun hrauns, þannig að steinninn hefur náð að kristallast í margstrendar súlur. Þetta fyrirbæri er víða á Íslandi, en sjaldgæft annars staðar. Súlurnar í Giant’s Causeway eru taldar vera 40.000. Aðgangur £1,50 (I5).

Bushmill’s

Við höldum áfram A2 stutta leið að Bushmill. Í þessum enda þorpsins er sögufræg krá, þar sem við gistum.

Bushmill’s Inn er notalegt og gamalt hús frá upphafi 19. aldar við þjóðveginn, vel við haldið. Lifandi eldur er í arni í gestamóttöku. Þröngir gangar og stigar og tröppur eru út um allt hús. Skemmtileg bókakompa er yfir inngangi. Herbergi 24 er fremur stórt og vel búið, með blómaveggfóðri, grófum viðarinnréttingum, brakandi trégólfi teppalögðu, svo og parketti á baðherbergi. Herbergið kostaði £74 fyrir tvo með morgunverði.

Veitingasalurinn er mikið stúkaður með grófum viðarinnréttingum. Boðið var upp á þríréttaðan kvöldmat fyrir tvo á £27 og fjórréttað á £35 auk drykkjarfanga. Matreiðslan var í bezta lagi.

(Bushmill’s Inn, Bushmill, sími 2657-32339, fax 2657-32048 (Bretland), I5)

Dunluce

Frá þorpinu förum við áfram A2 og komum fljótlega að kastalarústum.

Dunluce Castle ber drungalegan svip draugaborgar á 30 metra háum klettahöfða, sem stendur út í sjó. Elztu hlutar kastalans, austurturnarnir og suðurveggurinn, eru frá 14. öld, en annað að mestu frá 16. öld. Árið 1639 hrundi eldhúsið með manni og mús niður í sjó og lagðist kastalinn við það í eyði. Aðgangur £0,75, (I5).

Derry

Enn höldum við áfram A2 til borgarinnar Derry, öðru nafni Londonderry og ökum inn í gömlu borgarmiðjuna innan borgarmúranna.

Borgarmúrinn frá 1613-1618 er helzta stolt Derry, upphaflega með fjórum borgarhliðum, sem nú eru orðin sjö alls. Þetta er bezta dæmi Írlands um borgarmúr, sem haldizt hefur svo heillegur til nútímans að ganga má hringinn eftir honum. Svæðið innan múranna er 500 metrar á langveginn og 250 metrar á þverveginn.

Í miðjunni er torgið Diagonal. Þaðan liggur gatan Bishop’s Street Within til suðurs til dómkirkjunnar St Columb’s, frá 1628-1634, fyrstu dómkirkju, sem reist var á Bretlandseyjum eftir siðaskipti, í gotneskum stíl. Til norðurs frá torginu liggur verzlunargatan Shipquay Street, afar brött (I5).

Malin Head

Við getum farið héðan í 160 km hringferð um fjalllendi Inishowen-skaga. Þá förum við úr Derry eftir R238 um Moville, Carndonagh og Malin Head og til baka sama veg um Carndonagh, Ballyliffin og Buncrana. Við komum þá inn á N13 rétt áður en komið er að Grianan of Aileach, sem lýst er í næsta kafla.

Milli Moville og Carndonagh komum við fyrst að afleggjara til vinstri að tveimur hákrossum og krossaðri grafhellu við Carrowmore og skömmu síðar til hægri að Clonca kirkjurúst og hákrossi. Malin Head er lítið fiskiþorp í skjóli sjávarhamra. Á bakaleiðinni er hákross frá 8. öld rétt handan Carndonagh og krossuð grafhella frá 7. öld í kirkjugarði þorpsins Fahan.

Krossaðar grafhellur eru frá 7.-12. öld, flöt og óregluleg steinbjörg, höggvin krossum, öðrum helgitáknum og áletrunum á latínu, lögð yfir grafir manna (I5).

Grianan of Aileach

Ef við förum ekki krókinn, tökum við stefnuna frá Derry eftir A2 í átt til Buncrana og áfram handan landamæranna N13 í átt til Letterkenny. Vegprestur til vinstri sýnir krók upp fjallið til Grianan of Aileach.

Grianan of Aileach er heilleg endurgerð frá 1870 á virki, sem upprunalega var reist á 5. öld, í upphafi írskrar kristni. Það var konungssetur Njálunga frá þeim tíma og fram á 12. öld, en var eyðilagt árið 1101 í innanlandserjum írskra konunga.

Hringlaga virkið er efst á hæðinni, 23 metrar í þvermál, 5 metrar á hæð og með 4 metra þykkum útveggjum. Að innanverðu eru útveggirnir skásettir tröppum til að auðvelda tilfærslur varnarliðs. Ágætt útsýni er af virkisveggjunum, meðal annars til Derry (I5).

Rathmullan

Frá virkinu höldum við áfram N13 alla leið til Letterkenny og förum þar yfir á N56, sem við fylgjum í stórum dráttum alla leið til Donegal, með nokkrum útúrdúrum þó.

Við getum tekið krók frá Letterkenny eftir R245 og síðan R247 til Rathmullan, ef við viljum borða og gista á öndvegishótelinu Rathmullan House. Eftir það förum við R247 og R249 inn á N56, sem er áðurnefnd höfuðleið frá Letterkenny út á Donegal-skaga.

Rathmullan House er fagurt og afskekkt sveitasetur í georgískum stíl frá upphafi 19. aldar með notalegum fornminjum, bókasafni, arineldi, sundlaug, gufubaði, og friðsælum görðum.

Sum herbergin hafa útsýni yfir fagra garða til Swilly-fjarðar. Slík herbergi kostuðu £121 fyrir tvo með morgunverði.

Snætt er í garðskála sveitasetursins. Forréttavagninn er einn hinn bezti í öllu landinu og önnur matreiðsla er einnig til fyrirmyndar. Svo margir koma til að borða á þessum afskekkta stað, að ráðlegt er að panta með góðum fyrirvara. Kvöldmatur fyrir tvo kostaði £60 auk drykkjarfanga.

(Rathmullan House, Rathmullan, sími 74-58188, fax 74-58200, I5)

Glenveagh

Af N56 förum við til hægri afleggjara til Glenveagh-þjóðgarðs og -kastala. Frá ferðamiðstöð þjóðgarðsins er farið í litlum strætisvögnum til kastalans.

Þjóðgarðurinn nær yfir tæpa 10.000 hektara af skógi og mýrum umhverfis gervikastala í Disney-stíl, sem reistur var við Beagh-vatn 1870 til að búa til rómantískt umhverfi fyrir hallareigandann og gesti hans. Undir niðri er kastalinn hefðbundið sveitasetur í virkisklæðnaði. Þar er nú minjasafn með ríkmannlegum húsbúnaði fyrri eigenda. Aðgangur £1 að garði og £1 til viðbótar að kastala.

Við erum á þessum slóðum í afskekktasta héraði Írlands, eins konar rana, sem gengur úr írska lýðveldinu upp með Norður-Írlandi. Hér erum við komin í gelískar sveitir, eins og við sjáum á mörgum skiltum. Landslagið er skarpt og fremur nakið. Áður hét héraðið Tirconnaill, en nú Donegal, sem er afbökun úr írsku heiti, Dún na nGall, er þýðir virki útlendinga, það er að segja víkinga. Á þessum slóðum er líka talinn bruggaður bezti landi Írlands, Poitin (H5).

Doe

Við förum til baka leið merkta Creeslough yfir á N56 og beygjum næst til hægri eftir vegvísi til Doe-kastala, rétt áður en komið er til Creeslough.

Rústir Doe-kastala eru tiltölulega heillegar. Mannvirkin standa fagurlega á höfða við sjávarsíðuna. Ekki er vitað um aldur kastalans, en hann var byggður á ýmsum tímum og oft skemmdur í árásum. Margir sögufrægir herforingjar hafa komið við sögu hans, ýmist til varnar eða sóknar. Í lok 18. aldar fékk kastalinn loks sitt endanlega útlit og hefur varðveitzt að mestu síðan (H5).

Bunbeg

Frá Doe förum við aftur á N56 og höldum áfram, unz við komum að afleggjara til hægri til sjávarþorpsins Bunbeg.

Eins og í sumum öðrum írskum sjávarþorpum horfir byggðin í smáþorpinu Bunbeg ekki móti hafi, eins og við erum vön frá Íslandi, heldur inn til lands. Hafnarmannvirkin standa ein sér, töluvert frá byggðinni, sem er á víð og dreif. Það er eins og fólk hafi óttast sjóræningja eða náttúrukraft hafsins og viljað búa úr sjónmáli. Sjálf höfnin er ósköp friðsæl og nánast rómantísk, ber ekki vott um mikinn veiðiskap (H5).

Rosses

Við erum á slóðum, sem kallaðar eru The Rosses, sem þýðir skagar. Lítið er um mannabyggðir og skóga, en þeim mun meira um mýrar og smávötn. Hér er töluverð móvinnsla úr mýrum, eins og raunar víðar í landinu. Efsta torfulagið er tekið ofan og síðan lagt ofan á aftur, þegar búið er að taka nokkrar skóflustungur af mó undan laginu. Þess vegna eru langir mókantar einkennistákn mómýranna (peat bogs) (H5).

Glencolumbkille

Við höldum áfram N56, fyrst um Rosses-mýr–ar, framhjá Dungloe og Gwebarra unz við erum komin rétt framhjá Ardara. Þar beygjum við til hægri eftir skilti til Glengesh-skarðs. Í skarðinu er í góðu skyggni skemmtilegt útsýni til baka niður dalinn. Við höldum alla leið til Glencolumbkille.

Stórbrotið landslag er í dalnum og við ströndina kringum Glencolumbkille. Hér er talið, að dýrlingurinn Columba, öðru nafni Kólumkilli, hafi setzt að á efri árum, fjarri heimsins glaumi. Hér í dalnum er líka töluvert af forsögulegum mannvistarminjum.

Í þorpinu utanverðu, sunnan ár er héraðsminjasafn í nokkrum húsum, sem hafa verið reist í fátæklegum stíl áranna 1720, 1820 og 1920. Í húsunum eru verkfæri og áhöld, húsbúnaður og húsgögn frá þessum tímum. Aðgangur £1,50 (H5).

Bunglass

Frá Glencolumbkille förum við til Carrick og beygjum þar til vinstri til Teelin og áfram samkvæmt vegpresti til Bunglass-bjargs, þar sem örmjór bílvegur liggur glæfralega utan í klettum fram á útsýnisbrún. Útskot eru þó á leiðinni, svo að bílar geta mætzt, ef aðgát er höfð.

Frá bílastæðinu er gott útsýni til 600 metra bjargsins Bunglass í suðurhlíðum Slieve League fjalls. Í dimmviðri er þetta drungaleg sjón, en litskrúðug í sólskini, því að mislitar steintegundir leiftra í bjarginu (H5).

Killybegs

Frá Bunglass förum við til baka um Teelin og Carrick til Killybegs.

Killybegs er alvöru fiskveiðihöfn eins og við þekkjum þær á Íslandi. Hér eru nútíma fiskiskip og fjörlegt í höfninni, þegar landað er. Fámenn byggðin er í brattri hlíð ofan við höfnina. Í bænum eru handunnin teppi, sem eru kennd við staðinn og hafa verið vel þekkt frá því um miðja síðustu öld. Írski ullarvefnaðurinn tweed á einnig sína þungamiðju á þessum slóðum (H5).

Donegal

Frá Killybegs höldum við áfram og komum fljótlega á N56, sem við fylgjum alla leið til Donegal-borgar. Þar reynum við að stanza sem næst aðaltorginu, Diagonal.

Donegal var upprunalega víkingaþorp, enda þýðir nafnið Útlendingavirki. Þar er nú miðstöð tweed-ullarvefnaðar á Írlandi. Þríhyrnt aðaltorgið var skipulagt 1610. Á því miðju er nú einsteinungur til minningar um fjóra írska lista- og fræðimenn. Rétt hjá torginu er Donegal Castle, sem að hluta er gamall kastali og að hluta sveitasetur frá fyrri hluta 17. aldar, einnig porthús kastalans næst aðaltorginu (H5).

Sand House

Frá Donegal förum við N15 í átt til Bundoran og beygjum til hægri í átt til Rossnowlagh-strandar.

Sand House Hotel stendur eitt sér á ströndinni, bjart hús með skrautskotraufum á þaki. Húsakynni eru virðuleg, húsgögn vönduð og eldur logar í anddyri. Þjónusta var einkar góð, jafnvel á hátimbraðan írskan mælikvarða.

Herbergi 33 snýr að hafi og hlustar á notalega svæfandi brimhljóð, ef gluggar eru opnir. Innréttingar eru vandaðar og virðulegar og húsbúnaður raunar óvenjulega fagur. Baðherbergi var einnig fallegt. Herbergið kostaði £80 fyrir tvo með morgunverði.

Veitingasalur hótelsins er með bezta móti. Kvöldverður bauð upp á fjölbreytt val milli rétta á föstu verði og kostaði £44 fyrir tvo auk drykkjarfanga.

(Sand House Hotel, Rossnowlagh, sími 72-51777, fax 72-52100, H4)

Rosserk

Við förum aftur til baka inn á N15 og höldum áfram suður, um Bundoran og Sligo, og beygjum nokkuð fyrir sunnan Sligo til hægri út á N59 til Ballina. Þaðan getum við farið sama veg beint til Castlebar eða tekið fyrst krók til hægri eftir R314 út að afleggjara til hægri til Rosserk Abbey.

Rústir Fransiskusar-klaustursins Rosserk Abbey frá miðri 15. öld eru tiltölulega vel varðveittar, þótt það hafi verið brennt á 16. öld, þegar Englendingar stökktu munklífi á brott. Ýmsar upprunalegar skreytingar sjást enn á vesturdyrum, austurglugga og suðurþverskipi.

Þetta afskekkta hérað heitir Mayo, þekkt fyrir fábreytilegt mýrlendi og strjála byggð til sveita og sandstrendur og klettahöfða til sjávar (G4).

Breaffy

Leiðin liggur sömu leið til baka til Ballina og þaðan N59 og síðan N5 til Castlebar. Frá Castlebar getum við farið beint til Newport eftir R311 eða tekið fyrst krók úr Castlebar til vinstri eftir N60 í átt til Claremorris, þar sem við komum fljótt að skondnu sveitasetri.

Breaffy House er furðuleg blanda af gömlu og nýju, því að nýtízkulegri gler- og steypuálmu í reglubundnum stíl hefur verið skeytt við gamla og óreglulega höll. Hótelið stendur í stórum og fögrum garði. Það býður meðal annars fiskveiði, skotveiði og hestaferðir.

Aðalsalirnir eru skemmtilegir, nema borðsalurinn er hversdagslegur. Gestaherbergin eru nýtízkuleg, vel viðuð og búin, til dæmis kaffivélum og baðsloppum.

Herbergi fyrir tvo kostaði £76 með morgunverði. Hádegisverður fyrir tvo kostaði £20 og kvöldverður £30 auk drykkjarfanga.

(Breaffy House Hotel, Castlebar, sími 94-22033, fax 94-22033, G4)

Ballintubber

Við förum sömu leið til baka til Castlebar. Þaðan getum við enn farið beint til Newport eftir R311 eða tekið fyrst annan krók úr Castlebar til vinstri eftir N84 til enn eins klaustursins, Ballintubber Abbey.

Í gotneskri klausturkirkju Ballintubber Abbey hefur messa verið sungin í 780 ár, án þess að dagur hafi fallið úr, þótt mikið hafi stundum gengið á, og er það sennilega Írlandsmet. Kirkjan var reist fyrir reglu Ágústínusa 1216, en endurbyggð að hluta eftir bruna 1265.

Árið 1653 lét Cromwell eyðileggja klaustrið og brenna kirkjuþakið. Nýtt kirkjuþak í upprunalegum stíl var sett á kirkjuna 1966. Inni í kirkjunni eru ýmsir gripir frá 13. öld, svo sem altari (G4).

Newport

Við förum til baka N84 til Castlebar og þaðan R311 til Newport. Í miðbænum förum við yfir brúna á ánni og beygjum strax til vinstri um mikið hlið inn á landareign herragarðs og hótels.

Newport House er gamalt sveitasetur í georgískum stíl, fagurlega klætt gróskumiklum rauðblaða vafningsviði, svo að rétt grillir í gluggana. Húsakynni eru einstaklega virðuleg, til dæmis mikill stigasalur í miðju húsi. Matsalur er með sama brag, en matur ekki í frásögur færandi. Kaffi og konfekt eftir mat er borið fram í setustofu að höfðingja sið. Þjónusta er afar góð.

Herbergi 1 er stórt, búið fornminjum og gömlum húsbúnaði og því fylgir stórt og gott baðherbergi. Gott útsýni er til árinnar. Það kostaði £87 fyrir tvo með morgunverði og kvöldverði inniföldum.

(Newport House Hotel, Newport, sími 98-41222, fax 98-41613, (G4)

Burrishoole

Frá Newport getum við farið suður N59 til Westport. Við getum líka tekið krók norður N59 til að skoða gamlar rústir og fara út í Achill-eyju. Í síðara tilvikinu beygjum við fljótlega til vinstri á afleggjara til Burrishoole-klausturs.

Burrishoole Friary var klaustur Dóminíkusa, stofnað 1486, en breytt í virki einni öld síðar. Uppi stendur breiður og skakkur kirkju- eða virkisturn, kirkjuskip, kór og syðra þverskip, einnig hlutar klausturs (G4).

Carrigahowley

Við förum aftur út á N59, höldum þar áfram skamman veg og beygjum aftur til vinstri eftir afleggjara að gömlum hústurni.

Carrigahowley Castle er einnig nefndur Rockfleet Castle. Hann er á fjórum hæðum, reistur á 15. öld, eins og svo margir aðrir slíkir í landinu. Játvarður VI Englandskonungur niðurgreiddi slíka hústurna til að treysta tök lénsmanna sinna á óþægum þegnum írskum. Á neðstu hæð þeirra voru geymslur, en á fjórðu hæð voru vistar–verur húsráðanda. Carrigahowley Castle er vel varðveitt dæmi um þetta (G4).

Dooagh

Hér getum við snúið við, ef við höfum lítinn tíma. Annars förum við áfram N59 til Mulrany, þar sem við beygjum til vinstri eftir R319 út í Achill-eyju til þorpanna Keel og Dooagh.

Achill-eyja er tengd með brú við meginlandið. Landslag þar er sérstætt og veðurbarið, kjörið fyrir öldureið, strandlegur og fiskisport. Sandstrendur og klettahöfðar skiptast á við ströndina. Trjálaus þorpin hvíla hvítmáluð við langa sanda (G4).

Westport

Við förum sömu leið til baka R319 og N59 til Newport og síðan áfram suður til Westport.

Westport er þægilegur ferðamannabær, skipulagður og reistur 1780. Þar er þekktur herragarður, Westport House. Skemmtilegast er að koma á gamla hafnarbakkann, Quay, þar sem innréttuð hafa verið hótel og fiskveitingahús í gömlum húsum. Frá Quay er í góðu skyggni ágætt útsýni til fjallsins helga, Croach Patrick, sem við skoðum næst (G4).

Croach Patrick

Við förum R395 meðfram ströndinni frá Westport.

Til vinstri við okkur er 763 metra hár tindur fjallsins Croach Patrick, sem hefur verið heilagt fjall allt frá heiðnum tíma. Helgisögnin segir, að þar hafi heilagur Patrekur drepið alla snáka Írlands með því að hringja bjöllu sinni. Síðan hafa ekki verið snákar á Írlandi.

Síðasta sunnudag í júlí er fjallið klifið af tugþúsundum pílagríma, sumra berfættra, sem syngja síðan messu í bænhúsinu á fjallstindinum. Að vestanverðu eru ljót sár í hlíðum fjallsins af völdum þessa árlega áhlaups (G4).

Kylemore

Við förum áfram R395, unz hann mætir N59, þar sem við beygjum til hægri og förum N59 um Leenane til draumahallarinnar Kylemore.
Við sjáum Kylemore Abbey rísa skyndilega með ótal turnum og skotraufum úr skógi handan stöðuvatns eins og í draumi eða Disney-mynd.

Þetta er raunar ekki gömul bygging, nýgotneskur kastali frá 19. öld og hýsir skóla af nunnureglu Benedikts. Hlutar kastalans eru opnir almenningi (G3).

Connemara

Við höldum áfram N59 skamma leið og beygjum til vinstri afleggjara að þjóðgarðinum í Connemara.

Connemara National Park nær yfir 200 hektara af heiðum, mýrum, móum og skógi. Hér eiga heima rauða dádýrið írska og Connemara-smáhesturinn. Yfir ferðamiðstöðinni gnæfir tindurinn Diamond Hill, 445 metra hár. Þaðan er gott útsýni yfir Connemara-hérað.

Connemara er eyðilegt og fjölbreytt land, þar sem skiptast á vötn og ásar, lækir og mýrar, höfðar og fjörusandar. Strjálbýlt er í þessu ófrjósama landi og fólk talar enn gelísku að fornum sið. Héraðið er stundum kallað Gaeltacht, land keltanna (G3).

Currath

Áfram liggur leið okkar á N59. Fljótlega komum við að Letterfrack, þar sem við eigum ýmissa kosta völ. Fljótlegast er að halda beint áfram. Við getum líka beygt til hægri á hliðarveg niður að Tullycross og Renvyle.

Við ströndina í Renvyle er Currath Castle, einn margra hústurna Írlands. Þessi hefur þá sérstöðu, að brimið hefur brotið eitt hornið, svo að hægt er sjá innri gerð turnsins, svo sem steintröppur milli hæða (G3).

Rosleague

Við höldum sömu leið til baka upp á N59. Fljótlega komum við til hægri að Rosleague Manor.

Rosleague Manor er sveitasetur á smáhæð í stórum garði við Letterfrack. Það er nú hótel, hlaðið forngripum og listaverkum. Þjónusta er sérstaklega vingjarnleg. Gestaherbergin eru yfirleitt stór og afar vel búin. Tveggja manna herbergi kostaði £90 með morgunverði.

Veitingasalurinn Rosleague Manor er með hinum betri í landinu. Þetta er virðulegur og fallegur salur, þar sem boðið er upp á fjórrétta kvöldverð, sem kostaði £40 fyrir tvo auk drykkjarfanga.

(Rosleague Manor Country House, Letterfrack, sími 95-41101, G3)

Abbeyglen

Við förum áfram N59 til Clifden, þar sem við leitum uppi Abbeyglen Castle, sem er utan í hæðinni handan bæjarins.

Abbeyglen Castle er hótel, sem byggt hefur verið í kastalastíl með oddmjóum gluggum, hornturnum og skotraufum á þakbrún. Umhverfis hótelið eru miklir garðar og skógar fjær. Þjónusta er mjög góð. Gistiherbergi eru fremur stór og vel búin. Gott útsýni er úr flestum þeirra. Bezt eru herbergin í aðalbyggingunni. Tveggja manna herbergi kostaði £99.

(Abbeyglen Castle, Clifden, sími 95-21201, fax 95-21797, G3)

Clifden

Við höldum áfram þennan hliðarveg upp brekkuna. Við erum á svonefndum Sky Road, sem liggur í hring um skagann fyrir utan Clifden.
Gott útsýni er af þessum vegi, einkum til annesja, eyja og hafs. Þetta er fagra landslagið, sem Connemara er þekkt fyrir (G3).

Cashel

Aftur erum við komin upp á N59 og förum hann gegnum Clifden á nýjan leik. Næst beygjum við af honum til hægri, annað hvort á R341 eða R340 og fylgjum vegprestum til Cashel Bay.

Við þjóðveginn í Cashel Bay eru tvö frábær hótel, Zetland House og Cashel House. Hið síðarnefnda er í sérflokki að gæðum, þótt það sé frægast fyrir að hafa verið hvíldarstaður de Gaulle Frakklandsforseta.

Cashel House er einstaklega fagurt hús í fögrum garði, sem er nánast bótanískur. Að húsabaki eru hesthús. Húsakynni eru fremur fornleg og tilviljanakennd, en ákaflega viðkunnanleg. Til dæmis er hvert skotið inn af öðru á leiðinni á barinn. Alls staðar eru setustofur, bókasöfn og kimar með þröngum göngum á milli.

Herbergi 18 er stílhreint, fremur lítið, en afar vel nýtt og vel búið og með góðu útsýni út í garðinn. Hnausþykkt teppi er á gólfi. Það kostaði £127 fyrir tvo með morgunverði.

Veitingasalurinn er í virðulegum glerskála, sem skagar út í garðinn. Þar er matreiðsla afar góð, en leiðindaþjónn skildi litla ensku og talaði frönsku upp í nef á sér. Fimm rétta kvöldverður er með fjölbreyttu vali í hverjum lið og kostaði £64 fyrir tvo auk drykkjarfanga.

(Cashel House, Cashel Bay, sími 95-31001, fax 95-31077, G3)

Ashford

Frá Cashel förum við áfram R341 og síðan til vinstri R340 og svo til hægri N59 alla leið til Maam Cross. þar beygjum við til vinstri R336 til Maam og þaðan til hægri R345 til Cong. Þar er Ashford Castle handan steinbrúar í risastórum garði.

Ashford Castle er kapítuli út af fyrir sig. Það er steingrátt draumahótel í furðulegri blöndu af fornum 13. aldar kastala, gömlum herragarði í frönskum hallarstíl og nýjum byggingum í gömlum kastalastíl. Allt er þetta í óraunverulegum graut. Eigin golfvöllur er á landareign hótelsins.

Sem hótel er Ashford Castle frábær. Að innan er andrúmsloft takmarkalauss ríkidæmis, viðarklæðningar þungar og fornminjar margar. Góð fundaraðstaða er fyrir mandarína Evrópusambandsins, sem oft hittast hér. Gistiherbergi eru mjög rúmgóð og bjóða gott útsýni og hvers kyns lúxus, enda kostaði tveggja manna herbergi £256 (!) með morgunverði.

Matreiðsla er ekki síðri í Ashford Castle. Annar matsalurinn, Connaught Room, er í gamla herragarðinum, konunglegur að svipmóti, með miklum viðarklæðningum og risastórum gluggum. Hinn er George V Room, stærri og heldur ódýrari. Í fyrri salnum kostaði kvöldmatur £80 fyrir tvo og í hinum síðari £70, hvort tveggja auk drykkjarfanga.

Aðgangur að svæðinu kostaði £2.

(Ashford Castle, Cong, sími 92-46003, fax 92-46260, G3)

Ross

Áður en við snúum til baka frá Cong, getum við tekin krók og farið áfram 345 til Cross og síðan til hægri R334 stutta leið til klaustursins í Ross.

Ross Abbey er bezt varðveitta munkaklaustur Fransiskusa á Írlandi, upphaflega reist 1351, en stækkað og endurbyggt á 15. öld. Munklífi var hér til 1753. Úr kirkjuturninum frá 1498 er gott útsýni yfir klausturbyggingarnar og sveitirnar í kring. Í kirkjunni eru veggfreskur og 15. aldar gluggar. Í klaustrinu má meðal annars sjá skrúðhús, handþvottahús, mötuneyti og handritaverkstæði (G3).

Oughterard

Frá Ross förum við til baka, fyrst R334 og R345 til Cong, síðan áfram R345 til Maam og R336 til Maam Cross. Þar beygjum við til vinstri á N56 til bæjarins Oughterard.

Þegar við komum inn í Outherard, er hvíta hótelið Sweeny’s Oughterard House á vinstri hönd, klætt vafningsviði, 200 ára gamalt, með svefnálmu í yngra bakhúsi. Forngripum er smekklega komið fyrir í almenningssölum hótelsins og sumum herbergjum. Andrúmsloft staðarins er einkar þægilegt. Gistiherbergi eru einföld, en vel búin að öllu leyti. Tveggja manna herbergi kostaði £70 með morgunverði og kvöldverði.

(Sweeny’s Oughterard House, Oughterard, sími 91-82207, fax 91-82161, G3)

Currarevagh

Við förum áfram gegnum þetta rólega sveitaþorp. Úr þorpsmiðju er hliðargata til vinstri til Currarevagh House. Við tökum þann krók um skóga á bakka Corrib-vatns.

Currarevagh House er gamalt sveitasetur á friðsælum stað í eigin skóglendi. Húsið líkist ekki hóteli, heldur heimili. Það er einkum stundað af veiðimönnum og ber þess merki í húsbúnaði.

Herbergi 1 er frábært hornherbergi með þremur stórum gluggum með góðu útsýni til vatnsins. Hátt er lofts og vítt til veggja, húsbúnaður gamaldags, vel teppalagt alveg inn að baðkeri. Öll þægindi eru í herberginu, nema sjónvarp og sími, því að hér er ætlast til, að gestir vilji gleyma umheiminum. Herbergið kostaði £90 fyrir tvo með morgunverði.

Hótelgestir borða allir sama fjórréttaðan kvöldmat á sama tíma. Gestgjafinn ber sjálfur kjöt eða fisk á borð og spjallar við fólk. Á eftir drekka gestir saman kaffi í setustofu. Þetta er afar heimilislegt og þægilegt. Fólk fer snemma í háttinn og morgunverður hefst ekki fyrr en klukkan níu. Kvöldverður fyrir tvo kostaði £38 auk drykkjarfanga.

(Currarevagh House, Oughterard, sími 91-82313, fax 91-82731. Plastkort eru ekki tekin gild. G3)

Aughnanure

Við förum afleggjarann til baka til Oughterard, beygjum í þorpinu til vinstri N59. Síðan beygjum við til vinstri afleggjara, sem merktur er Aughnanure kastala.

Aughnanure Castle er vel varðveitt turnhús með virkisveggjum og rústum veizlusalar. Turninn er sex hæða með 73 þrepa hringstiga. Á næstefstu hæð eru svefnherbergi og setuskáli með arni á efstu hæð. Ofan af turninum er gott útsýni til Corrib-vatns (G3).

Galway

Við förum afleggjarann til baka og beygjum til vinstri inn á N59, sem við förum alla leið til Galway. Við förum yfir brúna og af hringtorginu inn í miðbæinn og finnum bílastæði.

Galway er stærsta borg vesturstrandarinnar og miðstöð gelískrar tungu. Gamli miðaldakjarninn með þröngum götum og lágum húsum er helzta aðdráttarafl ferðamanna.

Shop Street er aðalstræti gamla bæjarins og mætti vera lokað fyrir bílaumferð. Fyrir því miðju er Lynch’s Castle frá 16. öld með ýmsum skreytingum á útveggjum og lifir góðu lífi sem bankastofnun í nútímanum.

Aðeins sunnar við götuna er St Nicholas’ kirkja, reist 1320 og stækkuð á 15. og 16. öld, einföld og traustleg í sniðum (G3).

Dunguaire

Úr bænum förum við fyrst N6, síðan N18 og loks N67, þar sem við komum fljótt að Dunguaire kastala við sjóinn á hægri hönd.

Dunguaire Castle er fjögurra hæða hústurn með ytri virkisvegg, reistur 1520, en lagfærður á 20. öld. Á 1. og 2. hæð turnsins eru nú haldnar tvisvar á dag bráðskemmtilegar miðalda-matarveizlur með leikþáttum, gamanmálum, ljóðlist, klámi, söng og dansi, allt flutt af miklum krafti. Veizlurnar hefjast kl. 17:45 og 21 og kostuðu £60 fyrir tvo (G3).

Aillwee

Við höldum áfram N67 og beygjum til vinstri á R480, þar sem við komum að Aillwee-helli.

Aillwee Cave er langur og mjór hellir, sem fannst 1940. Hann nær 1034 metra inn í hriplekt kalksteinsfjallið. Hann skartar mörgum, litlum dropasteinum í lofti og gólfi og býr yfir örlitlum fossi. Skemmtileg flóðlýsing magnar hellisskartið. Í nágrenni hans er mikið kerfi hella og neðanjarðarlækja, sem fannst 1987 (G3).

Burren

R480 liggur áfram upp á Burren, nakið, vatnslaust og gróðurlítið, 260 ferkílómetra kalksteinshálendi, sem er verið að gera að þjóðgarði.

Við veginn, einkum vinstra megin, er töluvert af steinaldargröfum, eins konar Grettistökum, frá 4000-2000 fyrir Krist. Voldugar steinhellur hafa verið reistar upp á rönd og enn þyngri hellur lagðar yfir sem þak (Mynd aftan á bókarkápu) (G3).

Leamaneh

Við förum áfram R480 og beygjum til hægri inn á R476.

Á vegamótunum gnæfir mikilúðleg rúst Leamaneh Castle, fjögurra hæða hallar með stórum gluggum frá 17. öld, áföst eldri hústurni með litlum gluggum frá 15. öld. 88 þrep eru upp (G3).

Kilfenora

Áfram förum við R476 til Kilfenora.

Í miðju þorpinu eru klausturrústir, sem að hluta til eru frá elztu kristni, 6. öld. Í litlum kirkjugarði eru þrír hákrossar frá 12. öld. Sjálf kirkjan er að mestu frá 1190, en lagfærð á 15. öld og stendur nú uppi að mestu, enn notuð við guðsþjónustur. Fyrr á öldum var þetta biskupssetur, en má nú muna fífil sinn fegurri (G3).

Moher

Við höldum áfram R476 til Lisdoonvarna, þar sem við beygjum til vinstri á L54 (R478) og förum þann veg alla leið til Moher-kletta.
Cliffs of Moher er 8 kílómetra langt belti myrkra sandsteinskletta, sem gnæfa 182 metra úr sjó, næsta lóðréttir. Auðveldur göngustígur er upp að turni O’Brien’s, þaðan sem útsýni er gott til klettanna. Turninn er frá 1853. Við bílastæðið er ferðamannamiðstöð, þar sem upplýsingar fást um gönguferðir á svæðinu. Aðgangur að turni £0,65. Einnig bílastæðagjald (G3).

Ennis

Frá klettunum förum við áfram L54 (R478) til Lahinch, þaðan N67 til Ennistymon, þar sem eru skemmtilega gamlar framhliðar verzlana við aðalgötuna, og frá Ennistymon N85 til Ennis. Þar staðnæmumst við fyrir framan Ennis-munkaklaustrið.

Ennis Friary var á sínum tíma öflugt klaustur Fransiskusar-munka. Á 14. öld voru þar 350 munkar og 600 skólanemendur á sama tíma. Staðurinn komst nýlega aftur í eigu munkareglunnar.

Klausturkirkjan er frá 13. öld, nema suðurþverskip og miðturn frá 15. öld. Hún er þaklaus, en stendur að öðru leyti að mestu uppi. Þekktasta einkenni hennar eru háir og mjóir gluggar í kórbaki (G2).

Clare

Við förum R469 frá Ennis til Clare, Quin, Knappogue og Craggaunoven og komum fljótt að fyrsta áfangastaðnum, þar sem við beygjum til hægri framan við járnbrautarstöðina.

Clare Abbey eru víðáttumiklar rústir Ágústínusarklausturs frá 1189. Enn stendur uppi kirkjuskipið að mestu, miðturn hennar og hluti klaustursins (G2).

Quin

Áfram förum við R469, unz við komum að rústum á vinstri hönd.

Quin Fransican Friary eru umfangsmiklar rústir mikilfenglegs klausturs Fransiskusarmunka frá 1430. Enn standa klausturhús að mestu, miðturn og suðurþverskip kirkjunnar. Klaustrið var byggt á rústum normansks kastala, sem aftur á móti var reistur á rústum eldra klausturs (G2).

Knappogue

Enn liggur leiðin R469 og við beygjum til hægri að Knappogue kastala.

Knappogue Castle var reistur 1467 til varnar gegn normönsku innrásarliði og hefur að mestu verið í ábúð síðan. Hann er raunar fagurlega hönnuð höll, sem byggð er kringum kastala. Nú eru haldnar miðaldaveizlur í glæsilegum matsal kastalans tvisvar á dag, kl. 17:45 og 21 og kostuðu £60 fyrir tvo. Matur og borðbúnaður er að fornum hætti. Gestum er skemmt með söng og ljóðum, leikþáttum og dansi, sem gefa góða innsýn í sögu Írlands og sönghefð (G2).

Craggaunoven

Aftur förum við á R469 og staðnæmumst loksins við Craggaunoven-safnið.

Craggaunoven Centre er eins konar safn til írskrar fornsögu. Safnið er í fornum hústurni frá 16. öld. Þar hefur verið til sýnis nautshúðabáturinn Brendan, sem siglt var til Ameríku 1976-1977 til að staðfesta, að heilagur Brendan hafi getað fundið Ameríku á slíkum báti á 6. öld.

Fyrir neðan turninn hefur verið gerð eftirlíking af bronsaldarþorpi á hólma úti í vatni með brú í land. Byggingarstíll þorpsins minnir á hliðstæð Afríkuþorp (G2).

Dromoland

Við förum R469 til baka til Ennis og þaðan N18 til Newmarket-on-Fergus, þar sem við komum að víðáttumiklum görðum og golfvelli voldugs kastala.

Dromoland Castle er frá 1570 og var í eigu helztu ættar írskra konunga, Brjánunga, unz kastalanum var breytt í eitt mesta lúxushótel Írlands. Helzta einkenni hans er mikill sívaliturn á einu horninu. Að innanverðu er kastalinn einkar notalegur, með snarkandi eldi í arinstæðum, miklu af forngripum og listaverkum. Við fáum okkur drykk á bókasafnsbarnum og kaffi við einn arineldanna. Herbergin eru misjöfn að stærð, en öll einkar vel og fagurlega búin, enda kostar nóttin hér £252 (!) fyrir tvo með morgunverði.

Höfuðveitingasalur hótelsins, Earl of Thomond Room, er einn hinn bezti á Írlandi, enda þarf hann að vera það, því að kvöldverður fyrir tvo kostaði £90 auk drykkjarfanga.

(Dromoland Castle, Newmarket-on-Fergus, 61-368144, fax 61-363355, G2)

Bunratty

Frá Dromoland förum við N18 næstum alla leið til Limerick, en fylgjum vegvísi til Bunratty-kastala, sem er raunar alveg við þjóðveginn.

Bunratty Castle er óvenjulega stór og mikilúðlegur hústurn frá 1460, nýlega færður í það horf, sem hann var í á 16. öld. Í honum er safn húsmuna og teppa frá 14. öld til 17. aldar.

Við hlið kastalans er eins konar Árbæjarsafn, Bunratty Folk Park, þar sem sýnd eru gömul hús og endurgerðir gamalla húsa, sem mynda saman tilbúna þorpsgötu með vel heppnuðu 19. aldar yfirbragði.

Við kastalann er einnig veizlusalur, þar sem gestir fá að borða með hníf og fingrum og fylgjast með írskri skemmtidagskrá hávaðasamri. Veizlurnar hefjast kl. 17:45 og 21 allt árið um kring og kostuðu £60 fyrir tvo (G2).

Limerick Inn

Frá Bunratty er stutt leið eftir N18 til Limerick. Rétt fyrir utan bæinn komum við að ágætu gistihúsi vinstra megin vegar, greinilega merktu.

Limerick Inn er lágreist nútímahótel í stöðluðum hótelstíl, en eigi að síður notalegt. Þetta er annasamt flugvallar- og ráðstefnuhótel.

Herbergi 404 var stórt og vel búið, til dæmis hárþurrku og buxnapressu. Baðherbergið var ekki síðra. Það kostaði £73 fyrir tvo með morgunverði.

Matreiðsla er betri en við má búast á hóteli af þessu tagi. Boðið er upp á fjölbreyttan matseðil. Kvöldverður fyrir tvo kostaði £50 auk drykkjarfanga.

(Limerick Inn, Limerick, sími 61-326666, fax 61-326281, G2)

Limerick

Við höldum áfram N18 inn í Limerick, beygjum til vinstri, þegar við komum að ánni og förum yfir næstu brú. Þar komum við handan ár að borgarkastalanum.

King John’s Castle er afar vel varðveittur og mikilúðlegur normanskur kastali frá því um 1200. Hann kom víða við sögu Írlands, svo að vel er við hæfi, að þar hefur nú verið innréttað þjóðminjasafn.

Næst kastalanum neðar við ána er kirkja í rómönskum stíl, St Mary’s Cathedral, elzta mannvirki bæjarins, frá 1168.

Við ökum áfram beina línu Nicolas Street, Mary Street, yfir brú og síðan John Street og komum þar í borgarmiðju.

St John’s Cathedral er kirkja í nýgotneskum stíl frá 1861, með hæstu turnspíru Írlands, 85 metra hárri. Við kirkjuna er John Square, þar sem er borgarsögusafnið, Limerick Museum, í 18. aldar húsi (G2).

Adare

Úr Limerick förum við fyrst N20 og síðan N21 til Adare, fallegs þorps með afar fínu hóteli.

Adare Manor er höll í nýgotneskum stíl með mörgum smáturnum í stórum garði við ána Maigue. Hótelið er afar vel innréttað í gömlum stíl og gestaherbergin í aðalhúsinu eru sérstaklega falleg og vönduð. Tveggja manna herbergi kostaði líka £220 með morgunverði.

Kvöldverður fyrir tvo kostaði £65 auk drykkjarfanga.

(Adare Manor, Adare, sími 61-396566, fax 61-396124, G2)

Crag

Áfram höldum við eftir N21 unz við komum rétt hjá Castleisland að afleggjara til vinstri til Crag-hellis.

Crag Cave er meira en milljón ára gamall kalksteinshellir, sem fannst af tilviljun 1983. Hann er nærri fjögurra kílómetra langur, en til sýnis er 350 metra kafli. Þar eru ósnertir dropasteinar, sem eru fegurstir í flóðlýstum aðalsalnum, Crystal Gallery (G2).

Blennerville

Við förum afleggjarann til baka inn á N21 og ökum um Castleisland til Tralee, þar sem við förum á R559 til Blennerville, þar sem við stönzum við vindmyllu handan langrar brúar.

Blennerville kornmölunar-vindmyllan er 18 metra og fimm hæða, reist um 1800 og er enn í lagi, þótt rafmótor fari í gang, þegar vindur bregzt. Í safni við hlið myllunnar er sagt frá vindmyllun og kornmölun, svo og frá írskum vesturheimsförum.

Hér er einnig brautarstöð rúmlega hundrað ára gamallar mjóspora járnbrautar milli Tralee og Blennerville. Ferðamenn fara þessa leið í þremur upprunalegum vögnum, sem eru dregnir af upprunalegum eimvagni (G2).

Connor

Við höldum áfram R559 og síðan R560 í átt til Connor Pass og loks þverveg merktan Connor Pass. Þann veg förum við upp í skarðið.
Connor Pass er hæsti fjallvegur Írlands, 456 metra hár. Vegurinn liggur í sneiðingi upp snarbratta klettahlíð inn í smáskarð í fjallakambinum. Í skarðinu er bílastæði, þaðan sem útsýni er til beggja átta. Á þessum slóðum er landslag nakið og hrikalegt (F2).

Dingle

Við förum niður sneiðinginn hinum megin til bæjarins Dingle.

Dingle er blanda af fiskveiðibæ og ferðamannabæ. Ytri og innri höfnin veita gott skjól gegn höfuðskepnunum, því að þær eru báðar næstum lokaðar. Annað hvert hús í miðbænum er annað hvort krá eða veitingahús (F2).

Doyle’s

Í miðbænum finnum við Doyle’s Seafood Bar, gamalt hús frá 1830. Þar eru átta þægileg gistiherbergi búin forngripum og glæsilegum baðherbergjum. Tveggja manna herbergi kostaði £62 með morgunverði.

Doyle er þó fyrst og fremst þekkt sem bezta fiskveitingahús vesturstrandarinnar. Þar fæst á hverjum degi ferskt sjávarfang og matseðillinn breytist frá degi til dags. Kvöldverður fyrir tvo kostaði £40 auk drykkjarfanga.

(Doyle’s Seafood Bar, 4 John Street, Dingle, s 66-51174, fax 66-51816, F2)

Fahan

Við förum vestur úr bænum leið merkta Slea Head Drive. Brátt komum við að vegamótum, þar sem hliðarvegur er merktur Gallarus Oratory. Við kjósum í bili að halda beint áfram og förum um þorpið Ventry.

Við komum að skilti við Dunbeg Fort. Þaðan er gengið til vinstri að forsögulegu strandarvirki frá járnöld niðri við sjávarhamra.
Skömmu síðar byrjum við að sjá vegvísa til Fahan-kofa. Við getum stanzað við hinn fyrsta, því að þar er örstutt leið til hægri frá bílastæðinu upp að fornleifunum.

Á þessum slóðum í hlíðum Eagle fjalls eru rúmlega 400 steinhlaðnir kofar (behive huts eða clochans) frá forsögulegum tíma, allir hlaðnir í hálfkúluformi án steinlíms eða annars bindiefnis, margir hverjir í ágætu ásigkomulagi. Þeir eru í smáhópum hér og þar um hlíðina. Flestir kofarnir eru taldir frá 6.-10. öld (F2).

Gallarus

Við getum snúið við og haldið að áðurnefndum gatnamótum til Gallarus Oratory og beygt þar til vinstri. Við getum líka haldið áfram skemmtilega útsýnisleið kringum nesið og komið að Gallarus Oratory úr hinni áttinni.

Gallarus Oratory er ein merkasta fornleif Írlands. Það er steinkirkja frá 8. eða 9. öld, hlaðin úr steinhellum frá jörð og upp í mæni án steinlíms eða annars bindiefnis. Hleðslan er afar vönduð og vatnsþétt og hefur varðveitzt fullkomlega, þótt flestar aðrar slíkar kirkjur hafi hrunið undan eigin þunga (F2).

Aghadoe

Frá Gallarus Oratory förum við aftur til Dingle og þaðan 559 Annaschaul, 561 til Castlemaine, N70 til Milltown og loks R563 næstum alla leið til Killarney, en beygjum til hægri eftir vegvísi til Aghadoe Heights hótels.

Aghadoe Heights er fremur nýtízkulegt og glæsilegt útsýnishótel uppi á hæð vestur af Killarney, með ágætu útsýni til Leane-vatns og fjallanna kringum Dunloe-skarð. Þjónusta er afar góð á þessu hóteli, enda sameinar hún þýzka nákvæmni og írskt hjartalag.

Herbergi 227 var afar stórt og glæsilegt og ekki sízt stílhreint, með góðu útsýni og öllum þægindum. Það kostaði £145 fyrir tvo með morgunverði.

Veitingasalurinn er ekki síður góður, að hönnun, útsýni og matreiðslu. Kvöldverður fyrir tvo var frábær og kostaði £60 fyrir tvo auk drykkjarfanga.

(Aghadoe Heights Hotel, Killarney, sími 64-31766, fax 64-31345, G1)

Waterwille

Frá Aghadoe förum við til Killarney og þaðan R562 til Killorglin og N70 fallega leið til Glenbeigh, Cahirciveen og Waterwille á Iveragh-skaga.

Waterville er þekktur sumardvalarstaður með ánægjulega gamaldags andrúmslofti. Aðalgatan er við sjávarsíðuna, með húsum á aðra hlið og vel ræktuðum garði sjávarmegin. Flest húsin eru gistihús eða veitingahús (F1).

Staigue

Frá Waterville höldum við áfram N70, fyrst upp í Coomakista-skarð fyrir ofan bæinn, þaðan sem er gott útsýni af bílastæði til beggja átta yfir stórbrotið landslag Iveragh-skaga. Áfram höldum við unz við komum að vegvísi til vinstri til Staigue.

Staigue er 2000 ára gamalt hringvirki, sem hefur að mestu staðizt tímans tönn. Veggirnir eru 5 metra háir og 4 metra breiðir. Það hefur sennilega verið reist sem griðastaður héraðsbúa gegn aðvífandi sjóræningjum. Fleiri slík virki hafa fundizt á þessum slóðum, en Staigue er stærst og bezt varðveitt. Aðgangur £0,40 (F1).

Dromquinna

Við förum áfram N70 til snoturs smábæjar, sem heitir Sneem, og áfram næstum alla leið til Kenmare, en beygjum til hægri afleggjara til Dromquinna hótels.

ður í Viktoríustíl í fögru landi við sjóinn, með eigin bátahöfn. Hótelið er einkar notalegt, með brakandi trégólfum, snarkandi arni og hverri setustofunni inn af annarri. Þetta er góður slökunarstaður.

Herbergi án númers, kennt við Robertson, er afar stórt og afar glæsilegt, með himinsæng og stórum gluggum út í garðinn. Baðherbergi er líka glæsilegt, með parketti á gólfi. Verðið var £70 fyrir tvo með morgunverði. Kvöldverður kostaði £40 fyrir tvo auk drykkjarfanga.

(Dromquinna Manor Hotel, Blackwater Bridge, Kenmare, sími 64-41657, fax 64-41791, G1).

Kenmare

Frá Dromquinna er stutt leið um N70 til Kenmare. Við stönzum við aðaltorgið eða sem næst því.

Kenmare er skemmtilegur bær með gamaldags verzlunargötu, Main Street, upp frá torginu. Samsíða þeirri götu liggur Market Street frá torginu að 4000 ára gömlum steinhring, sem sennilega er gerður af spönskum koparnámumönnum. Einn stór steinn er í miðjunni og 15 minni steinar kringum hann (G1).

Glengariff

Við förum frá Kenmare fallegan fjallveg um N71 með 726 metra jarðgöngum gegnum háfjallið og komum hinum megin niður að bænum Glengariff.

Þorpið hefur verið ferðamannastaður í hálfa aðra öld. Frægasta mannvirkið er Eccles-hótel við höfnina, reist 1833. Það ber enn hinn fagra og upprunalega svip frá þeim tíma, er Viktoría Bretadrottning varði þar sumarleyfi sínu. Að innan sem utan varðveitir hótelið sjarma 19. aldarinnar (G1).

Sea View

Við höldum áfram N71 til Ballylickey, þar sem tvö frábær hótel eru hlið við hlið vinstra megin við þjóðveginn, Ballylickey Manor House og Sea View House.

Sea View House Hotel er hvítmáluð sumarhöll á brekkubrún, afar notaleg, þekktust fyrir matreiðsluna. Forngripir eru víðs vegar um húsið.

Herbergi 4 er meðalstórt, stílhreint og gamaldags, með afar litlu baðherbergi með setubaðkari og sturtu. Þaðan er gott útsýni yfir garðinn í átt til sjávar. Verðið var £132 fyrir tvo með morgunverði, sem fól meðal annars í sér þjóðlegar kartöflupönnukökur og smjörsteikta kartöfluklatta.

Matsalurinn er í nokkrum samtengdum herbergjum. Þar er boðið upp á fimmréttaðan veizlukvöldmat, sem fól meðal annars í sér carragen-þang með rabarbara og rjóma í eftirrétt. Kvöldverðurinn kostaði £46 fyrir tvo auk drykkjarfanga.

(Sea View House, Ballylickey, sími 27-50462, fax 27-51555, G1)

Bantry

Áfram förum við N71 stuttan veg til 19. aldar bæjarins Bantry. Þegar við erum komin yfir aðaltorgið, beygjum við til vinstri um hlið á múrvegg um form–lega, ítalska garða að Bantry House.

Bantry House er höll frá 1740 og er í senn hótel og listmunasafn, þar sem ægir saman ýmsu því, sem fyrri eigendur hallarinnar hafa safnað saman á hálfri þriðju öld.

Safnið tekur á móti gestum í tíu gistiherbergi. Tveggja manna herbergi kostaði £90 með morgunverði, kvöldverður £40 fyrir tvo auk drykkja.

Aðgangur að safni £2,50 (G1).

Drombeg

Leið okkar liggur áfram eftir N71 um Skibberen og beygjum síðan til hægri hliðargötu til Glandore, lítið þorp við litla höfn. Við förum R597 um þorpið og gáum að afleggjara til hægri til Drombeg.

Drombeg Circle er einn bezt varðveitti steinhringur Írlands. Fjórtán miklar steinhellur, sem standa upp á rönd, sumar mannhæðarháar, mynda hring með níu metra þvermáli (G1).

Timoleague

Við höldum áfram til Roscarberry, þar sem við komum aftur á N71 og beygjum síðan í Clonakilty á R600 til Timoleague.

Í Timoleague eru rústir munkaklausturs Fransiskusa frá 1320, sem eyðilagt var af Cromwell 1642. Í nágrenninu eru rústir holdsveikraspítala frá 12. öld og Barrymore kastala frá 13. öld (G1).

Kinsale

R600 flytur okkur áfram til hafnarborgarinnar Kinsale. Við stönzum á stæði við bátahöfnina og skoðum bæinn.

Kinsale hefur löngum verið talin veitingaparadís Írlands, þótt minna fari fyrir því um þessar mundir. Sjávarfang einkennir matsölustaði og staðarhótel.

Seglskútur setja svip á höfnina. Þetta er með elztu bæjum Írlands. Götur eru þröngar og tæpast bílfærar. Hús eru hvít og vandlega máluð og snyrtileg. Þetta var lengi svo enskur bær, að Írar máttu ekki búa þar fyrr en við lok 18. aldar (G1).

Charles

Við förum áfram úr bænum og tökum stefnuna til borgarvirkisins.

Charles Fort stendur á höfða vestan innsiglingarinnar til Kinsale. Virkið er frá 1670. Það er svo víðáttumikið, að það er eins og heilt þorp, umlukið feiknalegum múr. Þetta virki reistu Englendingar eftir strandhögg Spánverja og notuðu það til 1922, þegar írska lýðveldið var stofnað. Gott útsýni er úr virkinu til hafnarinnar í Kinsale. Aðgangur £1 (G1).

Cork

Frá borgarvirkinu höldum við áfram eftir R600 inn í borgarmiðju í Cork, þar sem við leitum að bílastæði.

Aðalgöturnar í Cork eru breiðgatan Grand Parade og bogastrætið St Patrick’s Street. Húsin við þessar götur eru fremur lág og björt og gefa miðbænum notalegan svip.

Yfir honum sunnanverðum gnæfir kirkjan St Fin Barre’s Cathedral í nýgotneskum stíl frá 1865. Miðturninn er 73 metra hár. Rétt vestan kirkjunnar er virkið Elizabethan Fort frá 1590, þaðan sem er gott útsýni yfir miðbæinn (G1).

Arbutus

Við ökum úr miðbænum eftir St Patrick’s Street, síðan beint yfir brúna á Lee, beygjum til hægri, ekki á árbakkanum, heldur næstu götu ofar, Mac Curtain Street. Síðan beygjum við lítillega skáhallt til vinstri upp brekkuna Summerhill og í framhaldi af henni skáhallt upp Middle Glanmire Road. Þar er Arbutus Lodge hægra megin götunnar.

Arbutus Lodge er borgarhús í fallegum garði í brekku yfir miðbænum. Það er eitt allra bezta veitingahús Írlands og er lítið hótel um leið. Húsakynni eru gömul og virðuleg. Þjónusta er hressileg.

Herbergi Montenotte hefur því miður ekki útsýni yfir borgina eins og mörg önnur. Það er þó stórt og skemmtilegt, búið gömlum húsgögnum. Það kostaði £110 fyrir tvo með morgunverði, sem meðal annars fól í sér fersk jarðarber og hindber.

Kvöldveizla hússins hófst með geitaostssalati. Síðan komu kræklingur og valhnetur í hvítlaukssósu. Þá rabarbara- og engifer-ískrap. Aðalrétturinn var steikt önd með andalærisfyllingu. Svo komu írskir ostar að eigin vali, eftirréttir af vagni og loks kaffi.

Þessi frábæra veizla kostaði £56 fyrir tvo. Þríréttaður kvöldverður kostaði £44 fyrir tvo.

(Arbutus Lodge, Middle Glanmire Road, Cork, sími 21-501237, fax 21-502893, G1)

Cobh

Við förum niður Middle Glanmire Road og Summerhill og beygjum skarpt til vinstri á Lower Glanmire Road, þaðan sem N25 tekur við úr bænum. Við beygjum síðan til hægri afleggjara til Cobh, þar sem við stönzum við höfnina.

Cobh (borið fram “kóv”) var höfn brezka flotans í frelsisstríði Bandaríkjanna, brottfararhöfn hundraða þúsunda af írskum vesturheimsförum, og síðast áningarstaður stóru áætlunarskipanna á Atlantshafi.

Yfir höfninni gnæfir nýgotneska dómkirkjan St Colman’s Cathedral með risastórum turni, sem hýsir 47 kirkjuklukkur, reist 1868-1915 fyrir samskotafé vesturheimsfara (H1).

Youghal

Við förum aftur út á N25 og ökum alla leið til Youghal, þar sem við stönzum við aðalgötuna, Main Street.

Ýmis merkileg mannvirki eru við þessa götu. Clock Gate er hús í sunnanverðum borgarmúrnum og spannar götuna á fjórum hæðum, reist 1777. Við norðanverðan múrinn er vinstra megin Red House í hollenzkum stíl frá fyrri hluta 18. aldar, og hægra megin Tynte’s Castle, hústurn frá 15. öld. Undir norðurmúrnum er líka St Mary’s Collegiate Church frá fyrri hluta 13. aldar.

Múrinn umhverfis miðbæinn er merkasti borgarmúr Írlands, enda heill enn, þótt reistur hafi verið á 13. öld (H1).

Clonmel

Við förum N25 úr bænum í átt til Waterford, en beygjum fljótlega til vinstri R671, sem við fylgjum fagra leið til Clonmel. Við reynum að leggja bílnum í O’Connell Street eða sem næst því.

O’Connell Street er aðalgata bæjarins. Að austan endar hún á Main Guard, gömlu dómhúsi borgarinnar. Í vesturenda götunnar stendur West Gate klofvega yfir henni, 14. aldar hlið á borgarmúrnum. Frá hliðinu liggur sund til norðurs að St Mary’s Church, sem ber áttstrendan turn. Í kirkjugarðinum er heillegur kafli gamla múrsins (H2).

Caher

Við tökum N24 til Caher og stönzum á bílastæði milli aðaltorgs og kastala.

Höfuðprýðin í Caher er Caher Castle, umfangsmikill kastali við ána Suir. Hann var reistur á 13. öld og endurbættur á 15. öld. Í miðjunni er turnhús og þrjú port, en utar er virkisveggur með þremur stórum turnum. Kastalinn er í góðu ásigkomulagi og hýsir nú héraðsminjasafn (H2).

Cashel

Héðan förum við N8 til Cashel, beygjum til vinstri inn í aðalgötu þorpsins og þaðan til vinstri inn um hlið og heimreið að gamalli biskupshöll.

Cashel Palace Hotel var reist 1730 í palladískum endurreisnarstíl sem biskupssetur, en er nú virðulegt og næstum þreytulegt hótel með forngripum og arineldi, svo og fögrum garði að húsabaki.

Herbergi 35 er afar stórt og snýr miklum gluggum út að garði, búið notalega gömlum húsgögnum og góðu baðherbergi með stórum glugga út í garð. Herbergið kostaði £100 fyrir tvo með morgunverði. Kvöldverður fyrir tvo kostaði £46 auk drykkjarfanga. Enn betri matur fékkst í Chez Hans í nágrenninu á £60.

(Cashel Palace Hotel, Cashel, sími 62-61411, fax 62-61521, H2)

Cashel Rock

Frá hótelinu göngum við gegnum hótelgarðinn eftir svonefndum biskupsstíg 7 mínútna leið upp að Cashel-kletti, þar sem eru merkar fornminjar.

Kletturinn var aðsetur konunga Munster-héraðs 370-1101 og var þá svipaður helgistaður og áðurnefnd Tara fyrir norðan Dublin. Hér er heilagur Patrekur sagður hafa skírt Ængus konung 450. Á 12. öld varð kletturinn að dómkirkjusetri og hélzt svo til 1749. Inchiguin lávarður brenndi 3000 borgarbúa í kirkjunni 1647.

Við förum upp á klettinn um safn, sem er í hlíðinni. Safnið er í 15. aldar prestssetri. Aftan við það er svefnskáli frá sama tíma.
Andspænis svefnskálanum er elzti hluti fornminjanna, Cormac’s Chapel frá 1127-1134, byggður í rómönskum stíl, eitt kirkjuskip með kór og tveimur hliðarturnum.

Yfir kapellu gnæfir sjálf dómkirkjan, illa leikin eftir áðurnefndan bruna. Hún er að mestu leyti frá 13. öld, í gotneskum stíl, einföld krosskirkja án hliðarganga, með háum sverðgluggum og öflugum miðturni.

Í vesturenda kirkjuskipsins er kastalaturn frá 1450, upphaflega erkibiskupssetur á umrótatíma.

Aftan við norðurþverskip kirkjunnar er sívaliturn frá 12. öld, svipaður þeim, sem írskir munkar reistu víða á Írlandi til varnar gegn víkingum. Hann er heill alveg upp í keiluþak úr steinhellum.

Aðgangur £1,50 (H2).

Holycross

Við ökum R660 úr bænum til Holycross klausturs.

Holycross Abbey var reist 1168 sem Benediktusa-klaustur, en var nokkrum árum síðar yfirtekið af Sistersíanareglunni. Munklífi hélzt hér fram yfir siðaskipti, enda var mikil helgi á staðnum. Á 17. öld fór klaustrið í eyði, en hefur nú verið endurreist sem sóknarkirkja. Í kirkjunni er miðskip með ferilgöngum og tveimur þverskipum og öflugur turn á miðmótum. Í kirkjunni er veraldlegt veggmálverk frá fyrri hluta 15. aldar. Í munkaálmu er safn (H2).

Kilkenny

Frá Holycross ökum við áfram R660 til Thurles og þaðan N75, N8 og R693 til miðaldabæjarins Kilkenny. Við komum að miðbænum hjá kastalanum.

Kilkenny Castle er stór og virðulegur og vel varðveittur kastali frá 1192-1207 og hefur allan þann tíma verið í notkun. Hið ytra lítur hann út eins og virki en hið innra eins og höll. Hann er í þremur álmum og er núna listasafn. Aðgangur £1.

Í hesthúsum kastalans handan götunnar er ein bezta listmunabúð Írlands, Kilkenny Design Centre.

Aðalgata bæjarins er High Street og byrjar hún þar, sem Castle Road endar. Hægra megin götunnar er Tholsel, ráðhús frá 1761. Nafnið er norrænt og þýðir tollstöð. Nokkru innar er hægra megin þvergata að Kyteler’s Inn, sem er sennilega elzta íbúðarhús borgarinnar, steinhlaðið bindingshús, sem hefur verið krá síðan 1324.

Innar við High Street er Courthouse, dómhús, sem reist er á kastalakjallara frá 12. öld.

Á ská á móti er steinhlaðið hús frá 1594, Rothe House. Það er nú safn (H2).

Kells

Við förum N10 frá Kilkenny til Stoneyford og þaðan afleggjara, fyrst til Kells og síðan til Jerpoint. Fyrst förum við til Kells.
Kells Priory eru rústir Ágústínusarklausturs frá 1193. Lítið er eftir af klaustrinu, nema virkisveggur þess frá 14. og 15. öld (H2).

Jerpoint

Við förum aftur til Stoneyford og þaðan hliðarveg til Jerpoint.

Jerpoint Abbey er annað klaustur og öllu frægara. Það var upphaflega Benediktsklaustur frá 1160-1170, en varð Sistersíanaklaustur 1180. Klausturkirkjan er krosskirkja í rómönskum stíl. Þverskipin eru upprunaleg, en turninn er frá 15. öld. Klausturgarðurinn hefur varðveitzt með mörgum súlnapörum frá 14. og 15. öld. Á súlunum eru höggmyndir, sem gefa hugmynd um klæði og vopn Íra á þeim tíma. Aðgangur £0,80 (I2).

Instioge

Við höldum áfram frá Jerpoint N9 til Thomastown og R700 til Instioge.

Instioge er með skemmtilegustu þorpum í fögru landslagi þessa héraðs. Við ána er stór garður og útivistarsvæði, svo og rústir kastala frá 1220 (I2).

Granville

Áfram ökum við R700 fallega leið til New Ross og þaðan N25 til Waterford. Við stönzum á bílastæði við hafnarbakkann, andspænis Granville-hóteli.

Granville er fremur virðulegt og gamalt hótel fyrir miðjum hafnarbakka, andspænis þekktum klukkuturni frá 1861. Þar eru tveir veitingasalir og feiknarstór bar.

Herbergi 229 var fremur stórt, vel við haldið og snyrtilega innréttað, meðal annars búið hárþurrku og buxnapressu. Því fylgdi glæsilegt baðherbergi, rauðflísað í hólf og gólf. Það kostaði £83 fyrir tvo með morgunverði. Kvöldverður í betri salnum kostaði £44 fyrir tvo auk drykkjarfanga.

(Granville Hotel, Waterford, sími 51-55111, fax 51-70307, H1)

Waterford

Við göngum hafnarbakkagötuna frá hótelinu að umferðarhorninu við Tower-hótel. Þar er sögufrægur sívaliturn frá víkingatíma.

Reginald’s Tower var reistur 1003 af dönskum víkingi, Rögnvaldi Sigtryggssyni. Turninn var upphaflega varnarvirki, en varð síðar myntsláttuverkstæði, vopnabirgðastöð og síðast loftvarnabyrgi. Nú er þar borgarsögusafn. Aðgangur £0,50.
Gaman er að rölta um göngugötur miðbæjarins að baki hafnarbakkanum.

Waterford er þekkt fyrir glerverksmiðjurnar Waterford Crystal, 2,5 km. sunnan við bæinn á N25 (H1).

Wexford

Frá Waterford förum við N25 til baka til New Ross og þaðan áfram sama veg til Wexford, þar sem við stönzum í nágrenni aðalgötunnar, Main Street.

Wexford er gömul borg þröngra gatna. Main Street ber þess merki, enda er hún nú orðin að göngugötu. Hún er helzta aðdráttarafl bæjarins. Framhliðar margra verzlana við hana eru í gömlum 19. aldar stíl (I1).

Avondale

Við förum N11 frá Wexford til Arklow og

Dublin inngangur

Ferðir

Dublin og græna Írland

Fyrirmyndar ferðaþjónusta

Írar eru draumaþjóð ferðamennskunnar. Þeir eru alúðlegir og kurteisir að eðlisfari, hjálpsamir og sanngjarnir í viðskiptum. Þetta leynir sér ekki í ferðaþjónustunni. Hvergi í heiminum er auðveldara og afslappaðra að vera ferðamaður en einmitt á Írlandi.

Dublin er gluggi Írlands gagnvart umheiminum. Borgin er ekki stór, telur hálfa milljón manns. Sjálfur miðbærinn er þægilega lítill, innan við einn kílómetra radíus frá torginu College Green. Mörg beztu hótelin eru á þessu svæði; flest veitingahúsin, sem máli skipta; nærri allar sögufrægu krár borgarinnar; og allur þorri skoðunarverðra staða. Þægilegar gönguleiðir eru þess vegna milli allra staða og stofnana, sem lýst er hér.

Raunar er unnt að þræða alla helztu skoðunarstaði miðbæjarins upp á eina langa festi, sem nær frá víkingakirkjunni St Michan’s í norðaustri til söngkránna í Baggot Street í norðvestri. Unnt er að feta alla leiðina á einum degi, en auðvitað er hægt að gefa sér betri tíma, til dæmis til að sinna söfnum eða krám. Dublin er staður, þar sem gott er að taka lífinu með ró og reyna að leyfa andrúmsloftinu að síast inn.

Krárnar eru einkenni miðbæjarins. Þar hittast bláókunnugir og gerazt beztu vinir. Þar eru menn ekki lengi einmana, því að heimamenn eru alltaf tilbúnir að spjalla við ókunnuga. Ferðamenn smitast af þessu þægilega og opna hugarfari og verða smám saman eins og heimamenn. Sérstakur kafli er í bókinni um krárnar í Dublin.

Miðbærinn er einkum á syðri bakka árinnar Liffey, umhverfis borgarkastalann, göngugötuna Grafton Street og garðinn St. Stephen’s Green. Þetta er í senn elzti hluti borgarinnar og fegursti hluti hennar. Húsin eru lágreist og andrúmsloftið rólegt, þegar frá er talin ógandi umferð of margra bíla um of þröngar götur.

Bókarstefna

Við höfum lesið bækurnar, sem ekki taka tillit til, að mikill hluti ferðamanna ver nokkrum hluta tímans á hóteli og í veitingahúsum og hefur þess á milli töluverðan áhuga á að skemmta sér og líta í búðarglugga, en er ekki allan sólarhringinn að skoða söfn og merka staði. Við viljum taka tillit til þessa og reyna að semja raunsæja bók.

Við höfum líka lesið bækurnar, sem leggja dóm á hótel, veitingahús, verzlanir og skemmtistaði, en eru þá fremur að þjónusta þessar stofnanir en lesendur. Við teljum svo eindregið, að upplýsingar af því tagi eigi að vera óháðar, að við prófuðum allar þessar stofnanir og komum hvarvetna fram sem venjulegir gestir, greiðandi almennt og afsláttarlaust verð og gáfum okkur ekki fram fyrr en að reikningum greiddum. Á þann hátt teljum við mestar líkur á, að reynsla lesenda komi heim og saman við þá reynslu, sem hér er lýst.

Þá höfum við skoðað bæklinga hótela, veitingahúsa og ferðamálaráða og fundizt myndirnar falsaðar. Innanhúss eru þær stúdíóteknar og sýna ekki raunveruleikann, hvað þá þegar þær eru teknar í hótelsvítu, en viðskiptavinurinn fær venjulegt herbergi. Utanhúss er beðið dögum saman eftir réttri birtu og réttu birtuhorni og myndirnar sýna ekki þungskýjaðan raunveruleika ferðamannsins.

Við höfnuðum öllum gjafamyndum af slíku tagi, tókum okkar eigin og teljum þær gefa raunhæfari mynd en glansmyndir áróðursbæklinga.

Jónas Kristjánsson