Author Archive

Kapteinninn var fiskifæla

Greinar

Alþýðuflokkurinn fékk tiltölulega fáa þorska í veiðikeppni flokkanna að þessu sinni. Þyngst vegur á metunum, að formaðurinn hagaði málum á þann veg, að unnt var að kljúfa flokkinn. Samkvæmt kenningu sama formanns á að skipta um kapteina á bátum, sem ekki fiska.

Á síðasta kjörtímabili fékk Alþýðuflokkurinn á sig réttmætt spillingarorð. Það lýsti sér einkum í óeðlilega eindreginni áherzlu á að útvega flokksmönnum gögn og gæði af almannafé. Þessi ímynd flokksins olli því, að klofningsframboð Þjóðvaka fékk töluverðan stuðning.

Þegar varaformaður flokksins varð að segja af sér ráðherraembætti, fylgdi því alls engin iðrun. Þvert á móti var hann staffírugur og sagði vonda flokksbræður og fjölmiðla hafa búið til fár, sem ylli flokknum óþægindum og kallaði á fórn, þótt málsefni væru engin.

Þótt varaformaðurinn væri að mestu leyti hafður í felum í kosningabaráttunni, hefur flokkurinn enga tilraun gert til að gera upp spillta fortíð sína á kjörtímabilinu. Flokkurinn gekk óhreinsaður og illa lyktandi til kosninga, þannig að enn er feimnismál að vera krati.

Í kosningabaráttunni hafði flokkurinn þá sérstöðu, að vera í andstöðu við sínar eigin gerðir í ríkisstjórnum. Eftir langvinna valdaaðstöðu sína bauð flokkurinn upp á aukna Evrópuaðild og jöfnun kosningaréttar, fráhvarf frá kvótum í sjávarútvegi og ríkisrekstri landbúnaðar.

Tæpast getur talizt traustvekjandi að byggja kosningabaráttu á loforðum um að breyta og bæta á nokkrum sviðum án þess að hafa getað notað langvinna stjórnarsetu til að þoka málum áleiðis á sömu sviðum. Slík þversögn gefur kosningabaráttu óraunverulegan svip.

Hins vegar er rangt, að þessi mál hafi verið flokknum fjötur um fót. Þau fara saman við skoðanir fjölmenns minnihluta þjóðarinnar. Til dæmis vilja fjórir af hverjum tíu reyna aukna aðild að Evrópu og sama hlutfall vill umtalsverða minnkun á ríkisrekstri landbúnaðar.

Stjórnmálaflokkur, sem hefur aðeins 10-20% fylgi, getur leyft sér að styðja minnihlutaskoðanir, sem hafa 40% fylgi kjósenda. Ef allir aðrir flokkar eru að fiska í meirihlutanum, eiga að vera miklir möguleikar fyrir lítinn flokk að afla sér fylgis á bilinu frá 10-20% í 40%.

Það er rangt hjá fallkandidat flokksins á Austfjörðum, að sérmál Alþýðuflokksins sem slík hafi verið honum fjötur um fót. Fremur má telja, að kjósendur hafi af fyrri reynslu ekki treyst flokknum í þessum málum og talið ekki henta langvinnum valdhafa að lofa öllu fögru.

Þannig ber flokkurinn ímynd óvenjulega mikillar spillingar og óvenjulega mikils misræmis milli orðs og borðs. Við þetta bætist, að fráfarandi ráðherrar flokksins, að Rannveigu Guðmundsdóttur undanskilinni, eru í hópi þeirra stjórnmálamanna, sem liðugastan hafa talanda.

Þannig er enn ein ímynd flokksins af ráðherrum, sem geta blaðrað endalaust og eru alltaf tilbúnir til burtreiða, en geta ekki látið verkin tala; af ráðherrum, sem framleiða mikinn hávaða og skrautlegt fjaðrafok, en hafa reynzt litlu hafa breytt, þegar moldviðrinu linnir.

Formaður flokksins ber að sjálfsögðu ábyrgð á þessum ímyndum, sem samanlagt valda því, að flokkurinn er tæpast talinn marktækur. Formaðurinn hefur haft mikinn tíma til að móta flokkinn eftir sínu höfði. Þar á ofan ber hann hálfa ábyrgð á klofningi flokksins í vetur.

Svo vel vill til, að þessi sami formaður hefur fyrir löngu sjálfur upplýst, hvaða gera eigi við kapteina, sem ekki fiska. Nú þarf útgerðin að meta stöðu fiskifælunnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Löngu ljóst mynztur

Greinar

Ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks kemur ekki á óvart. Búið var að forhanna hana nokkrum mánuðum fyrir kosningar. Þá var komið í ljós, að mál þessara tveggja flokka lágu saman í flestum atriðum, en ágreiningur hafði magnazt milli stjórnarflokkanna.

Kosningabaráttan staðfesti þetta. Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn buðu kjósendum sömu afstöðuna, þegar búið var að skafa hefðbundið orðskrúð af yfirlýsingum þeirra. Þeir vildu óbreytt ástand í flestum þeim atriðum, sem valdið hafa ágreiningi í landinu.

Þessir flokkar vilja ekki sækja um aðild að Evrópusambandinu. Þeir vilja ekki minnka sjálfvirka peningabrennslu í landbúnaði. Þeir vilja halda nokkurn veginn óbreyttu kvótakerfi í sjávarútvegi. Þeir hafa lítinn áhuga á frekari jöfnun atkvæðisréttar milli kjósenda.

Síðast en ekki sízt standa þeir vörð um velferðarkerfi sérhagsmuna, sem þeir hafa byggt upp í svonefndum helmingaskiptastjórnum, er þeir hafa nokkrum sinnum myndað. Þetta eru einkum sérhagsmunir stórfyrirtækja, arftaka Sambandsins og byggðastefnufyrirtækja.

Þegar talið hafði verið upp úr kössunum, var komið í ljós, að kjósendur voru sáttir við þessa tilhögun. Eini hemillinn á framkvæmd málsins var, að meirihluti fráfarandi stjórnar hékk enn á einu atkvæði. Þá kom Guðmundur Árni til hjálpar og stimplaði sig ótryggan.

Sjálfstæðisflokkurinn hefði getað haldið uppi lengri málamyndaviðræðum við Alþýðuflokkinn og Framsóknarflokkurinn hefði getað hafið raunverulegar stjórnarmyndunarviðræður litlu flokkanna fimm. Það hefði verið nær hefðbundnum vinnubrögðum í stjórnarmyndun.

Oft hefur verið talið nauðsynlegt að draga málamyndaviðræður á langinn til að vekja athygli stuðningsmanna á erfiðleikum við myndun stjórnar, sem forustumennirnir vilja ekki, og sætta fólk við þá stjórnarmyndun, sem alltaf lá á borðinu, að væri eðlilegasti kosturinn.

Þessi yfirborðsdans tók skamman tíma að þessu sinni. Það sýnir vel, að forustumenn stóru flokkanna tveggja töldu sig ekki þurfa miklar afsakanir til að mynda enn eina helmingaskiptastjórn. Enda geta allir séð, sem sjá vilja, að málefni flokkanna tveggja falla saman.

Að vísu snúast stjórnmál ekki nema að litlum hluta um málefni, kannski 10%. Þau snúast meira um persónur, kannski 30%, og mest um ráðherrastóla, kannski 60%. Málefnin koma í myndina sem takmarkandi þáttur. Þau geta tafið fyrir, að persónur komist í stóla.

Málefnin tefja ekki samstarf Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Blágræn bók var samin á einni kvöldstund. En stærri málin voru líka að mestu auðleyst, bæði skipting ráðuneyta og val ráðherra. Það hefði bara verið að drepa tímann að draga það fram yfir helgi.

Kjósendur geta ekki í neinni alvöru haldið fram, að þetta stjórnarmynztur komi aftan að þeim. Til dæmis hefur mynztrið verið boðað í leiðurum DV allt frá því í janúar. Það lá þá í augum uppi, bæði vegna formannaskipta í Framsóknarflokki og vegna málefnasamstöðu.

Sjálfstæðisflokkurinn færði sig inn á Framsóknarlínuna í stjórnmálum á síðasta kjörtímabili. Í ríkisstjórn rak flokkurinn kvótastefnu Framsóknar, búvörustefnu Framsóknar, Evrópustefnu Framsóknar, atkvæðastefnu Framsóknar og sérhagsmunastefnu Framsóknar.

Þetta var hægt, af því að forusta Sjálfstæðisflokksins hefur uppgötvað, að það eru fleiri framsóknarstefnumenn í Sjálfstæðisflokknum en í Framsóknarflokknum.

Jónas Kristjánsson

DV

Nákvæmar kannanir

Greinar

Skoðanakannanir síðustu dagana fyrir kjördag fóru nærri um úrslit kosninganna og næst fór sú könnun, sem birtist í DV á föstudaginn. Engin skoðanakönnun frá upphafi slíkrar starfsemi hér á landi hefur farið nær raunverulegum úrslitum en einmitt þessi könnun DV.

Meðalfrávik könnunar DV frá kosningaúrslitum var 0,3% á framboðslista að meðaltali. Gallup kom næst DV með 0,5% meðalfrávik. Síðan kom Félagsvísindastofnun með rúmlega 1,0% og Skáís með tæplega 1,3%. Lestina rak Stöð 2 með 1,4% meðalfrávik á framboðslista.

Allar voru þessar kannanir langt undir þeim 2,5% skekkjumörkum, sem eðlileg mega teljast af stærðfræðilegum ástæðum. Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart, því að tveggja áratuga reynsla er fyrir því, að íslenzkar skoðanakannanir eru vel þroskuð fræði- og atvinnugrein.

Hitt kemur á óvart, að þeir kjósendur, sem gerðu upp hug sinn eftir síðustu kannanir, skuli hafa dreifzt á framboðslistana í sömu hlutföllum og hinir kjósendurnir, sem voru búnir að ákveða sig fyrir síðustu kannanir. Það bendir til, að lokaáróður flokkanna hafi verið áhrifalaus.

Fyrri skoðanakannanir vetrarins sýndu miklar sveiflur í fylgi flokkanna. Þannig reis fyrst og hneig Kvennalisti og síðan reis og hneig Þjóðvaki. Sveiflurnar héldust fram að síðustu viku fyrir kosningar, en þá hættu þær að mestu, nema hjá Þjóðvaka, sem hélt áfram að dala.

Fylgisrýrnun Þjóðvaka í kosningavikunni var þó ekki svo mikil, að rétt sé að túlka hana sem fráhvarf fylgismanna hans. Miklu fremur var um það að ræða, að þeir mörgu, sem hættu að vera óákveðnir í síðustu vikunni, röðuðu sér á aðra stjórnmálaflokka en Þjóðvaka.

Kjósendur virðast mynda sér skoðanir á flokkunum fyrr en ætla mætti af fjölda hinna óákveðnu í skoðanakönnunum. Þessi skoðanamyndun gerist allan tímann milli kosninga og ekki mikið fremur í mánuði kosningabaráttunnar en í öðrum mánuðum kjörtímabilsins.

Ef mánuður kosningabaráttunnar er greindur niður í vikur, er ekki hægt að sjá, að skoðanamyndun sé örari síðustu vikuna en hinar fyrri. Að vísu fækkar hinum óákveðnu örar en áður, en þeir raðast á flokkana í nokkurn veginn sömu hlutföllum og hinir ákveðnu.

Þetta bendir til, að auglýsingar og áróður flokkanna skili sér annaðhvort ekki vel eða jafnist þannig út, að heildarniðurstaða auglýsinga og áróðurs sé nánast núll. Gildir þá einu, hvort flokkar verja milljónum króna eða tugum milljóna króna til þessa í síðustu vikunni.

Ekki verður heldur séð, að fréttir hafi áhrif. Þjóðvaki lenti í hremmingum vegna frétta af úrsögnum á síðustu dögum baráttunnar og kenndi þeim að hluta um niðurstöðuna. Fylgissig Þjóðvaka í síðustu vikunni var þó ekki meira en það hafði verið í vikunum þar á undan.

Líklegast er, að fylgissveiflur flokka séu tiltölulega hægar og illviðráðanlegar. Líklegast er, að þær fari eftir undiröldu, sem myndist á löngum tíma eftir breytingum á aðstæðum í þjóðfélaginu. Ef þetta er rétt, þýðir það í raun, að sjálf kosningabaráttan hefur takmörkuð áhrif.

Skoðanakannanir eru mikilvægur þáttur í fréttaflutningi þjóðmála. Áður en þær komu til sögunnar og hlutu almenna viðurkenningu, urðu kjósendur að sæta öfgafullum skoðunum kosningastjóra á fylgi flokkanna. Slíkar skoðanir hafa horfið eins og dögg fyrir sólu.

Skoðanakannanir eru eðlilegur þáttur upplýsingaflæðis kosningabaráttunar. Eftir þessar kosningar munu fáir draga í efa, að þær fara í aðalatriðum með rétt mál.

Jónas Kristjánsson

DV

Kanada vísar veginn

Greinar

Af erlendum fjölmiðlum er ljóst, að Kanada hefur unnið alþjóðlega áróðursstríðið gegn Spáni og Evrópusambandinu í deilunni um fiskveiðar utan 200 mílna lögsögunnar við Nýfundnaland. Kanadamenn eru almennt taldir góðu karlarnir og Spánverjar vondu karlarnir.

Efnisatriði málsins eru ekki svona einföld. Báðir aðilar hafa framið lögbrot. Kanadamenn hafa farið út fyrir valdsvið sitt sem strandþjóð, en brot þeirra eru talin afsakanleg, af því að þeir eru að reyna að koma í veg fyrir rányrkju á fiskimiðum rétt utan lögsögunnar.

Sums staðar kemur fram, að Kanadamenn séu að feta í fótspor Íslendinga, sem hafi unnið þorskastríð sín við Breta á svipaðan hátt, með því að vera í hlutverki smælingjans, sem er að reyna að vernda lifibrauð sitt fyrir ásókn sjóræningja, og auglýsa það hlutverk af kappi.

Kanadíski sjávarútvegsráðherrann hefur haldið sönnunargögnum á lofti, þéttriðnum og klæddum netum, smáfiskum og leynihólfum í sjóræningjaskipi. Ljósmyndir af sönnunargögnunum hafa birzt um allan heim og sýnt Spánverja í ljósi skeytingarlausra villimanna.

Og það er bara rétta ljósið. Spánverjar eru fyrir löngu orðnir illræmdir fyrir algert tillitsleysi í umgengni við verðmæti hafsins og við hagsmuni mannkyns af viðhaldi fiskveiða. Framkomu Spánverja og spánskra stjórnvalda verður bezt lýst sem villimannlegri græðgi og frekju.

Í þessu vandsæmdarmáli er einna athyglisverðast eins og í öllum slíkum málum, að Evrópusambandið tekur upp hanzkann fyrir aðildarríkið gegn utangarðsríki. Enginn málstaður er nógu fáránlegur til þess, að Evrópusambandið hafni því að láta beita sér fyrir hann.

Framganga og málflutningur Evrópusambandsmanna í fiskveiðideilunni er langt handan við heilbrigða skynsemi. Það er eins og þeir lifi í einkaheimi, þar sem hvorki skiptir máli innihald né ímynd. Eins og páfagaukar þylja þeir bara ruglið upp úr spánskum stjórnvöldum.

Þeir, sem fylgjast vel með, vita líka, að Evrópusambandið hefur eindregið stuðlað að ofveiði á öllum miðum, bæði við Evrópu og annars staðar, með því að veita stjarnfræðilegar upphæðir til styrktar smíðum og kaupum og rekstri fiskiskipa í aðildarríkjunum.

Í Evrópusambandinu er litið á fiskveiðar sem eina grein landbúnaðar. Þess vegna er auðvelt fyrir byggðastefnumenn að afla styrkja til stuðnings atvinnurekstri í sjávarplássum. Ofveiði af hálfu Evrópusambandsins er bara hluti af geigvænlegum landbúnaðarvanda þess.

Utan deiluríkjanna sér fólk myndina í skýru ljósi. Það veit, að fiskstofnar eru ofveiddir og vill, að þeir séu verndaðir strax, en ekki seinna, þegar þeir eru uppurnir. Það veit, að alþjóðareglur duga alls ekki til að vernda fiskinn fyrir Spánverjum og öðrum sjóræningjum.

Allt er þetta lærdómsríkt fyrir Íslendinga. Sérstaklega er mikilvægt að taka eftir því, að Kanada hefur gersigrað í áróðursstríðinu. Það bendir til, að auðveldara verði fyrir okkur að ná tangarhaldi á mikilvægum miðum rétt utan við 200 mílna lögsöguna heldur en fjarri henni.

Við munum aldrei fá neinn stuðning við veiðar í Smugunni. Og þær munu spilla fyrir tilraunum okkar til að vernda eigin smugur. Nálægar smugur ættu þó að vera okkur mikilvægari en fjarlægar, af því að þær tengjast meira framtíðarhagsmunum okkar sem fiskveiðiþjóðar.

Okkur gekk vel, þegar við vorum í hlutverki strandríkis gegn úthafsríkjum. Tilraunir okkar til að leika úthafsríki hafa gefið skjótan arð, en munu hefna sín um síðir.

Jónas Kristjánsson

DV

Lofað og mútað

Greinar

Kosningabaráttan hefur fallið í hefðbundinn farveg upp á síðkastið. Miklu er lofað og töluvert er mútað, rétt eins og stjórnmálamenn telji kjósendur sætta sig við augljóst markleysi stjórnmálanna. Það jákvæða er, að illindi og níð hafa verið með minnsta móti að þessu sinni.

Þegar hlustað er og horft á stjórnmálamenn og lesnar fullyrðingar þeirra, mætti ætla, að þeir hafi alls ekki komið að stjórnvelinum. Staðreyndin er hins vegar sú, að langflestir stjórnmálaforingjar landsins hafa meira eða minna verið ráðherrar á undanförnum áratug.

Einkennilegt getur virzt, að fyrrverandi ráðherrar skuli núna vera að átta sig á, að bæta þurfi stöðu ýmissa hópa og mála, en ekki þegar þeir voru við völd. Og einkennilegt getur virzt, að núverandi ráðherrar séu fyrst núna í kosningabaráttunni að átta sig á hinu sama.

Skýringin er augljós. Stjórnmálamennirnir meina ekkert með loforðum sínum. Þau eru dregin upp úr kistunni fyrir kosningabaráttu og lögð niður í hana aftur að henni lokinni. Ef þeir komast í ráðherrastóla, efna þeir ekki loforð sín, svo sem dæmin sanna, gömul og ný.

Enginn heilvita maður ætti að kjósa eftir loforðum stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna. Sumir gera það eigi að síður. Fólk er gleymið. Fjögur ár eru langur tími og hvað þá áratugur. Margir láta ginna sig aftur og aftur á fjögurra ára fresti. Lýðræðið er ekki fullkomið.

Sumir ráðherrar eru örlátir á kosningavíxla. Lengst gengur Sighvatur Björgvinsson, er galdrar úr hatti ímyndað álver, sem á að byggja strax í sumar. Næst gengur Halldór Blöndal, sem leggur undir sig flugvél Flugmálastjórnar til að strá peningum um kjördæmið.

150 milljónum er lofað í fiskeldi, 100 milljónum í lækkaðan símakostnað, 43 milljónum í stóðhestastöð (!), 96 milljónum í hjúkrunarheimili, 285 milljónum í sjúkrahús, 300 milljónum í heilsugæzlustöð, 180 í hitaveitu, 115 til rannsókna, 200 í skuldbreytingar og 800 í háskóla.

Ef allt væri með felldu í stjórnmálunum, mundu mútukallar af þessu tagi ekki fá neinn hljómgrunn meðal almennings. Guðmundur Árni Stefánsson fellur í skuggann af þessum vænu slummum. En kjósendur virðast sáttir og fá auðvitað þá þingmenn, sem þeir eiga skilið.

Kosningavíxlar ráðherra verða auðvitað ekki greiddir nema að litlu leyti, enda getur ríkið ekki borgað þessi ósköp. Víxlarnir eru að því leyti verri en loforðin, að þeir kosta skattgreiðendur oftast einhverjar málamyndagerðir, en hreinu loforðin eru yfirleitt alveg ókeypis.

Alþýðuflokkurinn er uppvís að því að hella brennivíni í róna og draga þá til utankjörstaðaatkvæðagreiðslu. Össur Skarphéðinsson lætur ráðuneytið greiða kostnað við prentun áróðursrits um meint afrek hans sem ráðherra. Sú tegund spillingar er annars að mestu horfin.

Rónabrennivínið og ráðuneytisbæklingurinn raga kjósendur ekki frekar en dýru kosningavíxlanir og ódýru kosningaloforðin. Menn ráfa að mestu leyti í þá dilka, sem þeir þekkja frá fyrri tíð. Sveiflan í flokkafylgi frá síðustu kosningum verður ekki tiltakanleg á laugardag.

Í rauninni er furðulegt, hversu margir kjósendur hafa gert upp hug sinn í skoðanakönnunum. Miðað við hvað framboðið er lélegt, mætti ætla, að meirihluti kjósenda teldi sig ekki hafa athvarf hjá neinum stjórnmálaflokki. En meirihlutinn hefur þegar rambað í sína dilka.

Verið getur, að kjósendur geri einhvern tíma uppreisn gegn lélegum stjórnmálaflokkum og stjórnmálamönnum. En þeir gera það ekki í kosningunum á laugardaginn.

Jónas Kristjánsson

DV

Örlagavaldur lífskjara

Greinar

Samkvæmt rannsókn Neytendasamtakanna er verð landbúnaðarafurða mun lægra í Danmörku en hér á landi. Þetta er í fullu samræmi við aðrar athuganir á liðnum árum og stingur í stúf við fullyrðingar hagsmunagæzluráðherra landbúnaðarins að undanförnu.

Enn meiri munur kemur í ljós, þegar íslenzkt matarverð er borið saman við þróuð landbúnaðarríki, sem standa utan Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins og vernda ekki landbúnaðinn í jafnmiklum mæli. Bandarískt verð er bara brot af hinu íslenzka.

Vegna nálægðar og samskipta hefur mótazt sú venja, að bera íslenzkt búvöru- og matarverð saman við danskt. Sá samanburður segir ekki alla söguna um, hvað innflutt búvara mundi kosta hér á landi, því að vafalaust yrði mikið flutt inn frá ódýrari landbúnaðarlöndum.

Í rannsókn Neytendasamtakanna kemur líka fram, hvað danskar afurðir mundu kosta hér á landi, ef þær væru fluttar inn. Samkvæmt þeim tölum mundu þær kosta frá fjórðungi og upp í helming af verði innlendra afurða, ef þær væru ekki tollaðar sérstaklega.

Að svo miklu leyti sem erlendar búvörur eru tollaðar við komuna til landsins, græðir ríkissjóður þá peninga fyrir hönd skattgreiðenda, en afganginn græða neytendur. Með fyrirhuguðum ofurtollum á innfluttan mat ætlar ríkið að ná öllum gróðanum til sín og rúmlega það.

Í rúmlega tvo áratugi hefur verið margsagt hér í blaðinu, að það jafngilti lífskjarabyltingu í landinu að heimila tollfrjálsan innflutning búvöru og greiða innlendum bændum fyrir að bregða búi í ósamkeppnishæfum greinum. Þessi kenning er í fullu gildi enn þann dag í dag.

Á þessum rúmlega tveimur áratugum hefur þjóðfélagið fórnað samtals um 400 milljörðum króna á altari hins hefðbundna landbúnaðar. Sú tala jafngildir tvöfaldri heildarskuld þjóðarinnar við útlönd. Hún jafngildir fjárlögum ríkisins í tvö ár. Hún er stjarnfræðileg.

Búvörustefna stjórnvalda er ein sér nægileg skýring á því, hvers vegna kaupmáttur tímakaups er miklu lægri á Íslandi en í nágrannalöndunum beggja vegna Atlantshafsins. Hún er um leið nægileg skýring á því, hvers vegna íslenzkt atvinnulíf er ekki samkeppnishæft.

Þrátt fyrir þetta hefur ekki verið pólitískur vilji til að skera meinsemdina. Meirihluti kjósenda hefur stutt og styður enn þá ófarnaðarstefnu, sem fylgt hefur verið. Í könnunum hefur hún haft um 60% fylgi. Fólkið í landinu ber því fulla ábyrgð á afleiðingum stefnunnar.

Sama er að segja um stjórnmálaflokkana. Í reynd styðja þeir allir helstefnu landbúnaðarráðuneytisins. Sumir styðja hana ekki í orði, en hafa ævinlega reynzt gera það á borði, þegar þeir hafa haft tækifæri til. Alþýðuflokkurinn er þar engan veginn undanskilinn.

Það sker í augu, að í kosningunum um helgina eiga neytendur engan málsvara. Þeir eru ekki taldir nógu merkur þrýstihópur í samanburði við aðra hagsmuni í þjóðfélaginu. Það segir allt, sem segja þarf um möguleika okkar á að ná vestrænum lífskjörum fyrir dagvinnu.

Neytendasamtökin hafa samt braggast töluvert á allra síðustu árum. Þau hafa lagt niður fyrri bannhelgi á málum landbúnaðarins og beita nú vaxandi þrýstingi gegn helstefnunni. Rannsókn þeirra á verði danskra landbúnaðarafurða er dæmi um þá stefnubreytingu.

Stóra málið er þó, að fyrir kosningar er orðið ljóst, að á næsta kjörtímabili mun áfram verða brennt 20 milljörðum króna á ári á altari hins hefðbundna landbúnaðar.

Jónas Kristjánsson

DV

Tveggjaheimaþjóð

Greinar

Sveigjanleiki okkar greinir okkur frá meirihluta auðþjóða heims. Við búum í sambýli við náttúruna og höfum samt að nokkru leyti náð tökum á stafrænum atvinnuvegum, sem verða þungamiðja í störfum auðþjóða um og eftir næstu aldamót. Við erum tveggjaheimaþjóð.

Erlendar auðþjóðir hafa misst meira af sambandi sínu við fortíðina. Þar er fólk, sem snæðir hamborgara af kúm og fer í mótmælaaðgerðir til stuðnings hvölum. Þetta eru þjóðir, sem voru lengi búnar að lifa af iðnaði og kaupsýslu, áður en þjónusta varð höfuðatvinnugrein þeirra.

Við höfum hins vegar stokkið beint úr fortíðinni inn í framtíðina án þess að staldra mikið við í nútímanum. Hátt hlutfall þjóðarinnar kann til verka til sjós og lands, þar sem náttúruöflin leika veigamikið hlutverk. Mikill hluti Íslendinga gáir enn til veðurs á hverjum morgni.

Náttúran lætur ekki að sér hæða. Snjóflóð minna okkur á erfitt sambýli við náttúru sjávarsíðunnar. En ekki þarf slíkar hamfarir til þess að valda sjómönnum erfiðleikum. Á hverjum vetri láta menn lífið við að draga björg í bú, alveg eins og verið hefur frá ómunatíð.

Skipsbrúin er raunar orðin að snertifleti náttúru og stafrænu. Utan við gluggann hamast Ægir konungur, en fyrir innan mala tölvurnar hver upp af annarri. Brúin lítur raunar víða út eins og stjórnstöð í geimfari bíómyndanna. Fiskveiðar eru orðnar að hátæknigrein.

Sjómenn standa að jöfnu í báðum heimum, í heimi náttúrunnar og heimi stafrænunnar. Starfsskilyrði þeirra spanna fortíð og framtíð. Þetta geta menn, af því að þeir eru sveigjanlegir, og þeir verða af þessu sveigjanlegir. Veiðimaður og tölvutæknir eru einn og sami maður.

Spennan milli fortíðar og framtíðar er ekki svona hvöss í landbúnaði, af því að tölvutæknin er ekki komin þar á eins hátt stig og í sjávarútvegi. En bóndinn býr þó í senn í sambýli við náttúruna og við aragrúa af tækjum, sem gera hann að eins konar tækjafræðingi.

Flestir þéttbýlisbúar á Íslandi eiga rætur í öðrum hvorum jarðveginum eða báðum, veiðimennskunni til sjávar og hjarðmennskunni til sveita. Þetta mótar afstöðu okkar til nútímans og framtíðarinnar. Við erum veiðimenn og hjarðmenn í hugsun, en ekki ræktunar- og iðnaðarmenn.

Þetta er bæði kostur og galli. Það veldur á ýmsan hátt erfiðleikum í efnahagslífinu, að Íslendingar taka alla hluti með trompi, en vantar aftur á móti seigluna. Við sökkvum okkur í ævintýri nýrra atvinnugreina, en lendum oft á skeri, þegar reynir á úthald og útsjónarsemi.

Um leið og veiðimennskan og hjarðmennskan í hugsun okkar veldur okkur erfiðleikum í nútímanum, skapar hún okkur möguleika í framtíðinni. Sjómannsþjóð á sumpart betri möguleika á tölvuöld en ræktunarþjóð og stóriðjuþjóð. Hún hefur sveigjanleikann með sér.

Veiðimennskan og hjarðmennskan er mótuð af hviklyndi náttúrunnar, sem kallar á sveigjanleika og hæfni til skyndilegra ákvarðana. Veiðimennskan og hjarðmennskan gefa góðan efnivið í braskara og uppfinningamenn, hugbúnaðarhöfunda og sölumenn norðurljósanna.

Náttúran hefur vanið okkur við að taka skyndilegar ákvarðanir og gera skyndilegar breytingar á ákvörðunum. Þetta viðhorf hentar í ýmsum nýjum atvinnugreinum, sem horfa til framtíðarinnar, þótt það hafi verið okkur fjötur um fót í hefðbundnum nákvæmnisiðnaði.

Þannig stöndum við öðrum fæti í fortíðinni og hinum í framtíðinni. Við erum í senn börn náttúrunnar og börn stafrænnar tölvualdar. Við erum tveggjaheimaþjóð.

Jónas Kristjánsson

DV

Mild kosningabarátta

Greinar

Kosningabaráttan hefur farið vel fram til þessa. Frambjóðendur og talsmenn flokka hafa lítið reynt að níða skóinn niður hver af öðrum og lagt megináherzlu á að kynna sig og sín mál á jákvæðan hátt. Þannig hefur barátta milli flokka og milli manna mildazt með árunum.

Raunveruleg kosningabarátta er um það bil hálfnuð. Tvær vikur eru liðnar af henni og tvær eru eftir. Hún hefur að miklu leyti færzt inn í tiltölulega óhlutdræga fjölmiðla, en ferðalög frambjóðenda um kjördæmi og sameiginlegir slagsmálafundir hafa horfið í skuggann.

Helztu frambjóðendur raða tíma sínum niður á fjölmiðlana. Þeir mæta á fundi sjónvarpsstöðva og koma á beina línu kjósenda í DV, svo að dæmi séu nefnd. Í vaxandi mæli er þessum atburðum ekki stillt upp sem hanaslag, heldur sem umræðu kjósenda og frambjóðenda.

Þáttur fjölmiðla í kosningabaráttuni hefur batnað með árunum og með aukinni óhlutdrægni þeirra. Þeir veita þjóðfélaginu mikla þjónustu með því að leggja töluvert rúm undir baráttuna og að gera það endurgjaldslaust. Þannig spara þeir flokkunum bæði fyrirhöfn og tíma.

Hér í blaðinu hefur birzt fjöldi kjallaragreina frambjóðenda. Birt hafa verið persónuleg viðtöl við flokksforingjana og þeir svara nú spurningum kjósenda á beinni línu. Sagt verður frá sameiginlegum framboðsfundum og talsmenn hafa tjáð sig með eða á móti ákveðnum málefnum.

Þetta og hliðstæðar aðgerðir annarra fjölmiðla valda því, að kosningabaráttan verður flokkunum mun ódýrari en ella. Enda virðast auglýsingar flokkanna ekki hafa keyrt úr hófi, að minnsta kosti ekki enn sem komið er. Með sama áframhaldi hafa þeir ráð á baráttunni.

Því miður hafa þó enn ekki verið sett lög, sem skylda stjórnmálaflokka til að opna innsýn í fjárreiður sínar, svo að hægt sé að sjá, hvernig kostnaður þeirra og tekjur verða til. Sérstaklega er brýnt að sjá, hvaða fjárhagsleg áhrif voldugir aðilar hafa í kosningabaráttunni.

Við sjáum það sums staðar í útlöndum, að stórfyrirtæki og hagsmunasamtök af ýmsu tagi sjá sér hag í að styðja stjórnmálaflokka og stjórnmálamenn í von um að fá fyrir bragðið meiri og ljúfari aðgang að þeim, þegar og ef þeir setjast við stjórnvölinn í þjóðfélaginu.

Kosningabaráttan ber að þessu sinni ekki merki þess, að áhrif slíkra utanaðkomandi aðila fari vaxandi. En annar vandi hefur færzt í aukana. Það er, að flokkarnir hafa í viðleitni sinni til mildi og mýktar færzt inn á friðsæla miðju stjórnmálanna og lagt niður harðar skoðanir.

Þegar DV setti upp mál, sem áttu að vera þess eðlis, að talsmenn tveggja flokka gætu tjáð sig með eða á móti þeim, kom í ljós, að þessi mál eru ekki mörg og að þeim hefur fækkað. Í flestum tilvikum eru flokkarnir ekki með eða á móti, heldur hafa uppi eins konar ja og humm.

Þetta aukna skoðanaleysi flokka er auðvitað um leið ein af forsendum þess, að kosningabaráttan hefur verið mild og jákvæð. Minna er hægt að rífast, þegar enginn þykist lengur vera ákveðið á móti varnarliðinu eða með frjálshyggjunni, svo að tvö þekkt dæmi séu nefnd.

Skoðanakannanir sýna, að byrjað er að fækka í hinum fjölmenna hópi óákveðinna kjósenda. Þúsundir þeirra hafa verið að gera upp hug sinn á síðustu tveimur vikum og þúsundir munu gera það á næstu tveimur vikum. Kosningabaráttan snýst um þessa efagjörnu kjósendur.

Að öllu samanlögðu þjónar sá þáttur lýðræðisins, sem felst í kosningum og kosningabaráttu, hlutverki sínu nokkurn veginn á þann hátt, sem hægt er að ætlast til.

Jónas Kristjánsson

DV

Tyrkland úr Nató

Greinar

Tyrkland hefur ögrað samfélagi þjóðanna með því að ráðast með 35.000 manna herliði inn á verndarsvæði Sameinuðu þjóðanna í Norður-Írak. Tyrkneski herinn stundar þar sína hefðbundnu iðju að misþyrma óbreyttum borgurum, brenna ofan af þeim og drepa þá.

Þetta er hið sama og tyrkneski herinn hefur árum saman stundað í héruðunum sín megin landamæranna. Þar hefur hann eytt byggðum og knúið fólk til að lifa í eins konar fangabúðum, sem herinn hefur komið á fót að undirlagi miðalda-stjórnvalda í Ankara.

Þetta er liður í ofsóknum Tyrkja gegn minnihlutahópi Kúrda, sem þeir kalla Fjalla-Tyrki. Flestar ríkisstjórnir í Ankara hafa reynt að skammta Kúrdum borgaraleg réttindi, bannað notkun kúrdísku í skólum, svipt þingmenn Kúrda þingsetu og eyðilagt uppskeru Kúrda.

Ofsóknir Tyrkja gegn Kúrdum eru svipaðar og ofsóknir Íraka gegn þeim. Atferli Saddams Husseins í Írak leiddi til þess, að vestræn ríki Persaflóastríðsins og Sameinuðu þjóðirnar gerðu norðurhluta Íraks að sérstöku verndarsvæði sínu, sem það er enn þann dag í dag.

Samfélag þjóðanna má ekki láta Tyrki komast upp með innrásina á verndarsvæðið. Það er nóg, að þeir ofsæki minnihlutahópa innan landamæra sinna, þótt þeir fari ekki með fjölmennan her inn á verndarsvæði Sameinuðu þjóðanna til að ofsækja þar minnihlutahópa.

Samfélag þjóðanna hefur illu heilli látið Tyrki komast upp með ofbeldi gegn Kýpur, sem þeir hernámu að nokkru. Hermenn Sameinuðu þjóðanna eru þar enn á verði við vopnahléslínuna. Innrás Tyrkja í Kúrdalönd Sameinuðu þjóðanna minnir á þann gamla glæp.

Evrópusambandið hefur fordæmt hernað Tyrkja, en Bandaríkin hafa talað út og suður. Er afstaða stjórnar Clintons í Washington í samræmi við aðra eymd þeirrar stjórnar í utanríkismálum, er hún klúðrar hverju málinu á fætur öðru og skiptir um skoðanir á færibandi.

Bandaríkin hafa löngum stutt stjórnvöld í Tyrklandi af því að landið átti landamæri að Sovétríkjunum sálugu. Aðild Tyrkja að Atlantshafsbandalaginu og mikill herbúnaður þeirra neyddi Sovétríkin í gamla daga til að hafa hluta herstyrks síns í Kákasus, fjarri Evrópu.

Nú eru Sovétríkin látin og hernaðarlegt mikilvægi Tyrklands er annað og minna en það var. Það er því tímabært fyrir stjórnvöld í Washington að endurmeta stuðning við ríki, sem margoft hefur sýnt, að það á ekki heima í samfélagi vestrænna þjóða og er þar bara boðflenna.

Það er afar erfitt að sætta sig við, að ofbeldisríki af þessu tagi skuli vera með okkur í Atlantshafsbandalaginu og njóta verndar þess. Það er afar erfitt að sætta sig við, að Atlantshafsbandalagið horfi á ofbeldisríkið gera innrás á sérstakt verndarsvæði Sameinuðu þjóðanna.

Tyrkland hefur lengi verið, er enn og ætlar sér greinilega áfram að vera svartur blettur á Atlantshafsbandalaginu. Það hefur komizt upp með það og hefur nú fengið óréttmætan viðskiptasamning við Evrópusambandið. Tyrkland heimtar fulla aðild að sambandinu í þokkabót.

Þar sem Tyrkir hafa nú niðurlægt Sameinuðu þjóðirnar og Atlantshafsbandalagið mætti vænta þess, að augu vestrænna leiðtoga opnuðust fyrir vandamálum, sem fylgja því að hafa rótgróið ofbeldisríki við brjóst sér. En því miður er eymd vestrænna leiðtoga takmarkalítil.

Bezt væri að losna við Tyrki úr Atlantshafsbandalaginu, svo að við þurfum ekki framvegis að taka ábyrgð á miðaldaframferði ríkis með aldagamla grimmdarhefð.

Jónas Kristjánsson

DV

Ábyrgð á verkfallstjóni

Greinar

Þegar Hitler réðst inn í Pólland í upphafi síðari heimsstyrjaldarinnar sagði hann, að það væri Pólverjum að kenna. Þeir hefðu neitað að fallast á fáeinar kröfur, sem hann taldi hógværar. Af sömu ástæðu taldi hann hörmungar stríðsins í heild vera Pólverjum að kenna.

Hitler gerði fræga þá aðferð árásaraðila að kenna þeim, sem ráðist er á, um árásina. Rökfræðilega er kenning hans alkunn endaleysa, hvort sem eitthvað hefur verið til eða ekki í kvörtunarefnum hans gagnvart Pólverjum. Ábyrgð geranda á aðgerðum sínum er rökfræðilega skýr.

Þetta þýðir um leið, að tjón er ekki þeim að kenna, sem þumbast við, þegar mótaðili fer í aðgerðir til að knýja fram sjónarmið sín. Það er ekki ábyrgðarhluti að þumbast gegn skiljanlegum kröfum, heldur er ábyrgðarhluti að valda öðrum tjóni með gerðum sínum.

Þegar verkalýðsfélag á Suðurnesjum fór í verkfall og lokaði Keflavíkurflugvelli varð til dómsmál, sem má taka sem dæmi. Farþegi var ósáttur við að vera fórnardýr verkfalls og sótti rétt sinn, ekki til þess, sem vinna var stöðvuð hjá, heldur til félagsins, sem verkfallið framdi.

Farþeginn vann mál sitt og verkalýðsfélagið var dæmt til að greiða honum skaðabætur fyrir að missa af flugi. Þannig er ekki alltaf nóg fyrir verkalýðsfélag að semja við mótaðilann um, að eftirmál verkfalla falli niður. Slík sátt nær ekki til þess tjóns, sem þriðji aðili sætir.

Þetta gidir kannski ekki um kennaraverkfallið, sem nú stendur. Ef til vill dugir samtökum kennara að semja á endanum við ríkið um, að eftirmál vegna tjóns falli niður. Þau geta þó alls ekki bent á ríkið sem þöngulhausinn, sem beri ábyrgð á verkfallstjóni þriðja aðila.

Ef þessi þriðji aðili vildi sækja rétt sinn vegna meints tjóns, til dæmis af því að hafa misst önn eða ár úr námi, mundi hann ekki snúa kröfunni á hendur ríkinu, ef hann vildi ná árangri í málsókninni, heldur gegn stéttarfélögunum, sem framkvæmdu verkfallið, er olli tjóninu.

Ef ríkið hefði sett verkbann á kennara, væri ríkið framkvæmdaaðilinn, sem bæri ábyrgð á tjóni þriðja aðila. Þar sem kennarar settu verkfall á ríkið, eru þeir framkvæmdaaðilinn, sem ber ábyrgð á tjóni þriðja aðila. Þannig eru rökin, hvað sem Hitler sagði í gamla daga.

Hér er ekki verið að tala um málefnin, sem deilt er um í viðræðum ríkis og kennarasamtaka. Hér er aðeins verið að vísa annars vegar til málaferla, sem fóru alla leið á enda í dómskerfinu, og hins vegar til þekkts og margnotaðs dæmis um hundalógík úr sagnfræði 20. aldar.

Kennaraverkfallið hefur staðið í hálfa fimmtu viku. Svo skammt er til kosninga, að erfitt er að skera á hnútinn án þess að úr verði kosningamál. Stjórnvöld yrðu sökuð um að reyna að hafa óviðurkvæmileg áhrif á kosningaúrslit, ef þau færu að reyna að leysa málið núna.

Horfur eru því á, að verkfallið standi til vors hið minnsta og breyti tímasetningum í námi þúsunda. Þessir nemendur eiga sökótt við kennarasamtökin og geta hugsanlega höfðað mál gegn þeim fyrir að valda sér sem þriðja aðila tjóni í vinnudeilum við annan aðila.

Þessir nemendur eiga ekki sökótt við eiganda skólanna, það er að segja ríkið, og mundu ekki hafa neitt upp úr því að lögsækja ríkið fyrir tjón sitt. Hins vegar er hugsanlegt, að þeir mundu vinna mál gegn kennarasamtökunum, geranda málsins, og þannig fá tjónið bætt.

Gagnrýnivert getur verið að neita að fallast á kröfur, en það er ekki ábyrgðarhluti eins og það, að baka þriðja aðila tjóni með verkfalli. Það gildir um nám sem flug.

Jónas Kristjánsson

DV

400 milljörðum síðar

Greinar

Rúmlega tveir áratugir eru síðan lagðar voru fram í leiðurum þessa dagblaðs fastmótaðar tillögur um róttæka lausn á dýrkeyptum vandræðum landbúnaðarins. Þessar tillögur í leiðurum blaðsins eru enn í fullu gildi tveimur áratugum og fjögur hundruð milljörðum króna síðar.

Af því að ekki var hlustað á þessar tillögur, hvorki fyrr né síðar, hefur smám saman þrengt að bændum á þessu tímabili. Sjálfvirka fyrirgreiðslukerfið hefur í senn bundið bændur áttahagafjötrum og smám saman gert þá fátækari en þeir voru við upphaf þessa tímabils.

Herkostnaðurinn af heyrnarleysi ráðamanna og meirihluta þjóðarinnar hefur á þessu tímabili numið um tuttugu milljörðum króna á ári á núverandi verðlagi. Það jafngildir fjögur hundruð milljörðum króna á tímabilinu í heild og eru þá ekki reiknaðir vextir af upphæðinni.

Þessi tala er í stórum dráttum að einum þriðja fengin úr fjárlögum ríkisins. Það eru niðurgreiðslurnar og liðir úr landbúnaðarkafla fjárlaga. Að tveimur þriðju er hún fengin með mati á verðmæti innflutningsbanns og annarra takmarkana á viðskiptafrelsi landbúnaðarafurða.

Ýmsir hagfræðingar, einkum í Háskóla og Seðlabanka, hafa komizt eftir ýmsum leiðum að svipaðri niðurstöðu. Herkostnaðurinn hefur samanlagt numið nálægt tuttugu milljörðum á ári, þar af um sjö milljarðar á herðum skattgreiðenda og þrettán á herðum neytenda.

Fjögur hundruð milljarðar eru há tala. Hún er tvöföld á við heildarskuldir þjóðarinnar í útlöndum. Hún jafngildir landsframleiðslu heils árs. Og hún samsvarar fjárlögum ríkisins í tvö ár. Hún er martröð, sem nægir ein og sér til að útskýra láglaunaþjóðfélagið á Íslandi.

Fyrir rúmlega tveimur áratugum var hér í blaðinu ítrekað lagt til, að ríkið legði niður allan beinan og óbeinan stuðning við landbúnað umfram aðra atvinnuvegi og notaði sparnaðinn að hluta, til dæmis að hálfu, til að kaupa upp jarðir og styðja bændur til að bregða búi.

Síðan hefur á hverju ári verið minnt á það oftar en einu sinni hér í blaðinu, að afnema þurfi niðurgreiðslur, uppbætur, beina styrki og fyrirgreiðslur í offramleiðslugreinum sauðfjár- og nautgriparæktar, samhliða afnámi innflutningsbanns og annarra verzlunarhafta.

Um leið hefur jafnan verið ítrekað, að ríkið þurfi að kaupa upp jarðir til að taka þær úr ábúð, útvega sauðfjár- og nautgripabændum launaða endurmenntun á öðrum sviðum, svo og að hjálpa þeim við íbúðarkaup í þéttbýli, ef þeir þyrftu að flytja af atvinnuástæðum.

Allar þessar tillögur voru fastmótaðar fyrir tveimur áratugum. Þá var að ýmsu leyti betri aðstaða en núna til að framkvæma þær. Ekki var þá búið að þrengja eins að bændum og nú hefur verið gert og atvinnulífið skorti sárlega starfskrafta á öðrum sviðum í þá daga.

Nokkur umræða var í fyrstu um þessar tillögur. Fljótlega sáu þó talsmenn hins hefðbundna landbúnaðar, að betur hentaði þeim að loka hlustunum og hafa í staðinn uppi léttgeggjað hjal um meinta óvini bændastéttarinnar. Og krabbamein landbúnaðarins hefur fengið að vaxa.

Neikvæð viðbrögð landbúnaðarkerfisins, ríkisins og meirihluta þjóðarinnar hafa kostað þjóðfélagið um fjögur hundruð milljarða króna á þessu tveggja áratuga tímabili. Um leið hafa þær bundið bændur átthagafjötrum og þrengt afkomu þeirra, einkum á síðari árum.

Leiðararnir hafa hins vegar fjallað um, að bændur yrðu mun færri og mun ríkari en þeir voru þá og eru nú, og þyrftu ekki að blygðast sín fyrir ástandið.

Jónas Kristjánsson

DV

Hulduplögg í Reykjavík

Greinar

Skemmtileg deila er risin í borgarstjórn Reykjavíkur um íslenzka hugtakafræði. Rifizt er um, hvort ákveðið plagg sé skýrsla eða greinargerð. Samkvæmt íslenzkri samheitaorðabók er skýrsla og greinargerð sami hluturinn, svo að deilan hæfir vel íslenzkum stjórnmálum.

Þetta plagg og önnur af sama toga voru samin fyrir 4,3 milljónir handa Markúsi Erni Antonssyni borgarstjóra. Ekkert þeirra hefur skilað sér eftir eðlilegum leiðum til núverandi borgarstjóra, en eitt þeirra komst í hendur hans fyrir tilstilli huldumanns úr kerfinu.

Í vor lofaði Árni Sigfússon, sem þá var borgarstjóri um skeið, að afhenda borgarfulltrúum greinargerð, sem lægi til grundvallar áðurnefndum plöggum. Lítið varð úr efndum, en þó lagði Árni fram minnisblað til sín frá fyrrverandi borgarstjóra. Þótti það rýrt í roðinu.

Í núverandi deilu um þetta mál segir Árni, að plaggið, sem fannst, hafi verið unnið snemma á ferli vinnunnar að baki 4,3 milljónanna. Það sé byggt á lauslegri athugun. Samkvæmt þessu eru enn ófundin þau minnisatriði, greinargerðir eða skýrslur, sem meira máli skipta.

Í núverandi meirihluta borgarstjórnar verður vart þeirrar áleitnu skoðunar, að ekki sé hægt að sýna þessi plögg, af því að í raun hafi þau verið hluti af kosningaundirbúningi Sjálfstæðisflokksins og hefðu sem slík átt að greiðast af honum, en ekki af borgarsjóði.

Í þessari stöðu virðist eðlilegt, að þeir aðilar, sem hafa samið eða fengið umrædd plögg, veiti aðgang að þeim, svo að hægt sé að sjá, hvað kom út úr hinum margumtöluðu milljónum og hvort það voru upplýsingar fyrir borgaryfirvöld eða fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Þetta minnir á, að opna þarf valdakerfi á Íslandi á svipaðan hátt og gert var fyrir löngu í mörgum ríkjum Bandaríkjanna. Það felur í sér, að almenningi er veittur aðgangur í tæka tíð að plöggum og fundum opinberra aðila, þar með talið vinnuplöggum og vinnufundum.

Lög um þetta hafa verið kölluð Sólskinslög, af því að þau lýsa almenningi inn í skúmaskot stjórnmála og stjórnsýslu. Þau stefna að endurheimt lýðræðis, sem hefur drukknað í kerfinu. Þau eiga að gera fólki kleift að komast að raun um, hvernig atburðarás verður til.

Hér í blaðinu hefur í sautján ár verið lagt til, að íslenzkir stjórnmálamenn og embættismenn tækju upp hin bandarísku sjónarmið. Þeir hafa daufheyrzt við því, enda ríkir hér leyndarhefð. Valdamenn vilja halda upplýsingum fyrir sig til að verja og efla stöðu sína.

Samkvæmt reglum leyndarsinna á aldrei að láta neinn vita neitt annað en það, sem hann nauðsynlega þarf til að vera starfhæfur. Þannig er hann síður talinn geta verið hættulegur óhæfum yfirmanni. Með skömmtun upplýsinga er reynt að viðhalda ríkjandi valdakerfi.

Samkvæmt vinnulagi leyndarsinna þurfa að vera til plögg, sem einn stjórnmálaflokkur hefur, en hinir ekki; þurfa að vera til plögg, sem borgarstjóri hefur, en ekki borgarfulltrúar eða embættismenn; þurfa að vera til plögg sem einn borgarstjóri hefur, en sá næsti ekki.

Þessi hefð er andstæð lýðræðishefðinni. Samkvæmt henni eiga allir að hafa aðgang að sömu upplýsingum. Í lýðræði er ekki skammtaður aðgangur að þekkingu. Þar sem íslenzkir stjórnmálamenn og embættismenn vilja ekki skilja þetta, þarf að setja um það skýr lög.

Meðan svo er ekki, hefðu fyrrverandi borgarstjórar meiri sóma af að láta fólki í té hin frægu plögg heldur en að þykjast furða sig á, að þau skuli ekki finnast.

Jónas Kristjánsson

DV

Gamlir og þreyttir

Greinar

Enga leiðsögn er að hafa af hálfu stjórnmálaflokkanna, sem bjóða fram lista í öllum kjördæmum landsins og munu skipa öll eða nærri öll þingsæti næsta kjörtímabils. Allir eru flokkarnir orðnir gamlir og þreyttir, einnig sá, sem stofnaður var gamall og þreyttur í vetur.

Allir eru þetta íhaldsflokkar með sniði Framsóknarflokksins. Þeir munu ekki stuðla að góðu lífi Íslendinga eftir aldamót. Þeir eru meira eða minna uppteknir af fortíðinni og varðveizlu hennar. Þeir geta ekki svarað því, á hverju við eigum að lifa fram eftir næstu öld.

Ef eitthvað er nefnt, sem máli skiptir, segir samhljóða stjórnmálakórinn, að það sé ekki til umræðu. Bannhelgi er á skoðunum um samband Íslands við Evrópu. Hvergi má nefna, að afnema beri gæludýrakerfi gömlu atvinnuveganna til að rýma til fyrir lifibrauði 21. aldar.

Sumir telja Alþýðuflokkinn vera undantekningu frá reglunni. En það er um leið hefð þess flokks að selja öll framfaramál sín fyrir stóla og aðgang að spillingu. Þess vegna er ráðlegt að taka lítið mark á stefnu flokksins í neinu máli, sem greinir hann í orði frá öðrum flokkum.

Íhaldskór sex framsóknarflokka er afleiðing lítils álits ráðamanna flokkanna á kjósendum í landinu. Almennt er talið og stutt skoðanakönnunum, að þjóðin hafi lítinn áhuga á breytingum, sem raskað geti ró hennar og knúið hana til að mæta nýjum og ótryggum aðstæðum.

Þetta er rétt mat ráðamanna flokkanna. Þjóðin vill ekki láta raska sér. Hún er gömul og þreytt eins og stjórnmálaflokkarnir. Hún vill búa að sínu og hafa landið allt að byggðasafni. Meirihluti hennar skelfist þá tilhugsun, að eitthvað verði á morgun öðruvísi en það var í gær.

Samkvæmt þessu mætti ætla, að Íslendingar væru í stórum dráttum í góðum málum. Svo er hins vegar alls ekki. Við höfum til dæmis ekki lengur efni á að reka menntakerfi, sem horfir til framtíðar, af því að við erum að lokast inni í dýrkeyptum atvinnuháttum fyrri áratuga.

Varðveizlu- og velferðarstefna ríður húsum hér á landi. Ýmist hafa menn í huga velferð fólks á líðandi stundu eða velferð atvinnulífsins á líðandi stundu. Hér á landi er velferð atvinnulífsins dýrari hluti þessa kerfis og gerir þjóðinni ókleift að greiða sér bærileg laun.

Þjóðmálin snúast um skiptingu á köku, sem er allt of lítil, einmitt vegna þess að þjóðarsátt er um að skera ekki upp atvinnulífið. Þess vegna erum við ekki virkir þátttakendur í Evrópu og þess vegna borgum við um 20 milljarða króna á ári í herkostnað af landbúnaði.

Ýmsar sagnfræðilegar ástæður valda því, að þjóðin raðar sér í sex stjórnmálaflokka, sem allir eru eins í ríkisstjórn, þótt áherzlumunur sé í stefnuskrám. Sumir telja sig til vinstri eða hægri, til félagshyggju eða frjálshyggju, en útkoman er eins, íhaldsflokkur að hætti Framsóknar.

Þetta hefur ekki breytzt við fjölgun flokka. Nýjasti flokkurinn fellur alveg inn í gamla mynztrið. Hann hefur fengið fólk og fortíð úr hinum flokkunum og mun halda sér á sömu slóðum og þeir. Enda hefur óákveðnum kjósendum ekki fækkað við komu þessa nýgamla flokks.

Kosningabaráttan hefur farið hægt af stað. Þótt aðeins hálf fjórða vika sé til kosninga, er lítill stjórnmálasvipur á samfélaginu. Frambjóðendur hafa um fátt að tala, af því að þeir hafa fátt til málanna að leggja annað en margtuggnar klisjur úr fyrri kosningum og frá fyrri áratugum.

Að þessu sinni hefur aukizt val hinna mörgu kjósenda, sem vilja varðveita fortíðina, en hinir í minnihlutanum, sem vilja röskun, hafa enn ekki um neitt að velja.

Jónas Kristjánsson

DV

Gegn fólki og framtíð

Greinar

Stjórnmálin á Alþingi og í ríkisstjórn í vetur hafa sýnt, að það er fleira, sem sameinar íslenzku stjórnmálaflokkana en sundrar þeim. Oft hefur komið í ljós víðtæk samstaða um mál, sem sýna, að stjórnmálaflokkarnir eru ekki einu sinni hræddir við almenning á kosningavetri.

Allir þingmenn þjóðarinnar, frá framsóknarflokkunum stóru yfir í Jóhönnu Sigurðardóttur, vildu, að ráðherra hefði frjálsar hendur um að setja mörg hundruð prósent tolla á innflutt matvæli og að þessi ráðherra skyldi einmitt vera hagsmunaráðherra landbúnaðarins.

Þessar hömlur gera matvæli á Íslandi nokkrum milljörðum króna dýrari en þau þyrftu að vera, sennilega rúmlega tíu milljörðum dýrari. Samt telur ekki einn einasti þingmaður koma til greina að taka hið minnsta tillit til almannahagsmuna gegn sérhagsmunum í landbúnaði.

Alþingi lauk störfum í vetur án þess að gera bragarbót í jöfnun atkvæðisréttar. Þegar á reynir, eru stjórnmálaflokkarnir hjartanlega sammála um, að núverandi misrétti eftir búsetu sé hæfilegt, jafnvel þótt sumir þykist hafa aðra skoðun. Verkin tala og ekki síður verkleysan.

Stjórnmálaflokkarnir höfðu allt kjörtímabilið til að koma sér saman um jöfnun atkvæðisréttar eða marktæka minnkun á misrétti kjósenda. Þeir gerðu ekkert í málinu fyrr en undir jól, er þeir komu saman til málamynda í kosningalaganefnd, sem starfaði lítið og illa.

Alþingi lauk störfum í vetur án þess að skera úr um, að þjóðin sjálf ætti auðlindir hafsins. Á sama tíma er að myndast hefð fyrir eignarhaldi sægreifa. Þeir geta meira að segja arfleitt aðra að auðlindunum og farið í skaðabótamál, ef ríkið reynir að skerða eignarhald þeirra.

Stjórnmálamenn fullyrða margir hverjir, að þeir séu hlynntir eignarhaldi þjóðarinnar á fiskimiðunum. Þegar þeir komast á Alþingi, svo ekki sé talað um ríkisstjórn, sýna verk þeirra samt, að þröngir sérhagsmunir sægreifa standa þeim nær hjarta en almannahagsmunir.

Ár eftir ár og ríkisstjórn eftir ríkisstjórn standa stjórnmálamenn landsins að aukinni álagningu á skattgreiðendur landsins til að styðja við bakið á sérhagsmunum af ýmsu tagi. Landbúnaðurinn einn fær á hverju ári marga milljarða króna úr vösum skattgreiðenda.

Stjórnmálamenn flokkanna segjast flestir horfa til framtíðar. Í rauninni eru þeir svo fastir í verndun fortíðarinnar, að þeir draga úr útgjöldum til menntamála, svelta háskóla þjóðarinnar og lyfta ekki litla fingri til eflingar stafrænna hátekju-atvinnuvega framtíðarinnar.

Ár eftir ár og ríkisstjórn eftir ríkisstjórn auka stjórnmálamenn skuldabyrði afkomenda okkar. Grunntónn fjárlaga og lánsfjárlaga er, að afkomendur okkar skuli borga brúsann af sukki líðandi stundar og að þeim verði jafnframt ekki sköpuð aðstaða til þess að geta það.

Mál af þessu tagi sýna pólitíska sátt á Alþingi og í ríkisstjórn um að taka sérhagsmuni fram yfir almannahagsmuni, frysta fortíðina til að hindra framtíðina, efla ójöfnuð og minnka jöfnuð. Þessi þverpólitíska sátt er studd skipulögðum og fjáðum þrýstihópum sérhagsmunaaðila.

Með aðild verkalýðsrekenda og atvinnurekenda verður úr þessu ein allsherjar þjóðarsátt um, að ekki skuli hætta að brenna peningum almennings og að magna skuli lífskjaramuninn í þjóðfélaginu. Slíkar þjóðarsættir um fátækt hafa verið næsta árvissar um nokkurt skeið.

Í ljósi stjórnmála vetrarins er raunar merkilegt, að rúmlega helmingur kjósenda skuli þegar hafa gert upp hug sinn og valið milli keimlíkra stjórnmálaflokka.

Jónas Kristjánsson

DV

Þeir þora ekki í Evrópu

Greinar

Flest bendir til, að torsótt verði að fá Evrópusambandið til að fallast á, að Ísland haldi tollakjörum Fríverzlunarsamtakanna í Svíþjóð og Finnlandi eftir að löndin fóru úr Fríverzlunarsamtökunum í Evrópusambandið. Það þýðir, að saltsíldarvinnsla er vonlítil hér á landi.

Þetta er hluti af margs konar kostnaði okkar af að standa utan Evrópusambandsins. Í þessu máli sem ýmsum öðrum er greinilegt, að sambandið stendur oft afar fast á sínu í samskiptum við utanaðkomandi aðila og líkist fremur tollmúrasambandi en tollfrelsissambandi.

Hins vegar komast aðildarríki Evrópusambandsins upp með margvíslega sérhagsmunagæzlu innan þess. Sum ríki taka mikilvæg mál herskildi til að fá sérmálum framgengt. Þannig haga Spánverjar sér í öflun fiskveiðiréttinda og Grikkir í Kýpurdeilunni við Tyrki.

Mótast hefur viðskiptaleg ofbeldisstefna Evrópusambandsins gagnvart umhverfi sínu. Sú stefna kom skýrt fram í samningaþjarki Evrópu, Bandaríkjanna og Japans um stofnun Alþjóðlegu viðskiptastofnunarinnar. Þessi stefna getur valdið okkur ýmsum viðskiptavandræðum.

Til þess að hindra, að skálkurinn skaði okkur, þurfum við að vera aðilar. Í stað þess að þurfa að verjast hremmingum af hálfu bandalagsins í sérmálum okkur mundum við geta notað bandalagið til að efla sérhagsmuni okkar. Við getum það aðeins með aðild að bandalaginu.

Íslenzkir stjórnmálamenn hafa ekki kjark til að leiða okkur inn í Evrópu. Þeir reyna að telja okkur trú um, að með aðild að Evrópska efnahagssvæðinu höfum við fengið flest það, sem við þurfum, án þess að kosta miklu til. Þeir virðast telja, að svæðið sé varanlegt.

Sú er ekki skoðun manna í umheiminum. Til dæmis eru alþjóðlegir fjárfestar sannfærðir um, að svæðið sé tímabundið fyrirbæri. Þeir fjárfesta því frekar í Svíþjóð en í Noregi, ef þeir vilja vera á evrópska markaðinum. Þeir telja betra að vera í stofunni en í forstofunni.

Stundum verður vart við draumóra um, að Japanir eða Bandaríkjamenn vilji komast með fótinn inn fyrir dyr Evrópu með fjárfestingum á Íslandi. Þetta er út í hött. Þeir vilja ekki einu sinni kaupa jarðir á Íslandi, þótt þeir eigi þess kost. Við erum úti í kuldanum.

Í ljós er að koma, að Evrópska efnahagssvæðið er lítið annað en stofnun til að taka við lögum, reglum og tilskipunum Evrópusambandsins og koma þeim í framkvæmd í Noregi og á Íslandi. Evrópusambandið stjórnar okkur óbeint, þótt við séum ekki aðilar að stjórn þess.

Smáríki hafa áhrif í Evrópusambandinu, svo sem Lúxemborg sannar. Þau hafa meiri áhrif en sem nemur íbúafjölda þeirra. Ef við hefðum farið inn með Svíum og Finnum, hefðum við svipaða stöðu og Lúxemborgarar. Við hefðum fengið aðild að framkvæmdastjórninni sjálfri.

Við eigum á hættu, að þetta breytist. Stóru ríkin í Evrópusambandinu eru ósátt við vaxandi hlutdeild smáríkja í sambandinu og vilja minnka hlut þeirra smáríkja, sem enn eiga eftir að sækja um aðild. Þannig rýrna smám saman möguleikar okkar á að hafa áhrif í sambandinu.

Samt munum við fyrr eða síðar neyðast til að ganga í Evrópusambandið. Spurningin hefur verið, hvort við stefnum strax að því og komumst inn fyrir aldamót á umdeilanlegum kjörum eða hvort við látum það dragast fram yfir aldamót og sætum þá enn lakari kjörum.

Samkomulag flestra íslenzkra stjórnmálaflokka um að fresta sem lengst ákvörðun um Evrópuaðild er huglaus afstaða, sem skaðar framtíðarhagsmuni okkar.

Jónas Kristjánsson

DV