Author Archive

Styðjum sauðfjárbændur

Greinar

Þjóðfélagið þarf að koma sauðfjárbændum til aðstoðar um þessar mundir. Þeir hafa sætt stórfelldri tekjurýrnun, sem stafar einkum af markaðshruni. Neytendur eru að verða fráhverfir lambakjöti, sem þykir of dýrt, þótt ríkið niðurgreiði umtalsverðan hluta verðsins.

Venjulega hefur ríkið ekki afskipti af gjaldþrotum í öðrum greinum, þótt þau komi í bylgjum. Ríkið leggur til dæmis ekki neitt af mörkum til að milda gjaldþrot tuga verktaka í byggingariðnaði. Eru þó þar í hópi margir undirverktakar, sem hafa hrunið með hinum stóru.

Munurinn á undirverktökum í byggingariðnaði og sauðfjárbændum felst fyrst og fremst í, að hinir fyrrnefndu hafa vitandi vits tekið áhættu í grein, þar sem vitað er, að skammt er milli gróða og taps. Sauðfjárbændur eru hins vegar flestir fæddir inn í hlutskipti sitt.

Í raun hafa sauðfjárbændur áratugum saman verið eins konar opinberir starfsmenn. Til skamms tíma voru kjör þeirra reiknuð út frá kjörum viðmiðunarstétta á mölinni og greidd sem slík, einkum í formi niðurgreiðslna og uppbóta. Það kerfi brást með markaðinum.

Þegar þetta tvennt kemur saman, að sauðfjárbændur hafa ekki valið hlutskipti sitt, heldur erft það, og að þeir hafa lengi getað gengið að vísum tekjum, þá er ekki hægt að láta köld markaðslögmál ein um að ráða örlögum þeirra. Samfélagið ber hluta ábyrgðarinnar.

Sauðfjárbændur verða þó sakaðir um að hafa ekki tekið mark á þeim, sem bentu á, að ríkisrekstur sauðfjárræktar gæti ekki staðizt til lengdar vegna mikils og vaxandi kostnaðar. Þeir verða sakaðir um að hafa trúað hinum, sem hafa sagt gagnrýnendur vera óvini bænda.

Mest er ábyrgð forustumanna bænda. Þeir hafa áratugum saman hafnað allri gagnrýni. Nú verða þeir að standa sjálfir fyrir þeirri fækkun bænda, sem nauðsynleg var fyrir löngu. Hún er núna miklu þungbærari en var, þegar nóg framboð var af atvinnu og tækifærum.

Áratugir eru síðan farið var að benda á, að í stöðunni væri ódýrast fyrir ríkið að kaupa jarðir af bændum og styðja þá til að koma sér fyrir í öðrum atvinnugreinum. Þetta var þá hægt að fjármagna af peningum, sem þá fóru í að hvetja til offramleiðslu á óþörfu kjöti.

Nú er minna fé aflögu til að framkvæma það, sem svonefndir óvinir bænda lögðu til fyrir mörgum áratugum og æ síðan. Svigrúm ríkisins til aðgerða er minna en verið hefur alla þessa áratugi. Eigi að síður verður ríkið að grípa til neyðaraðstoðar við sauðfjárrækt.

Ekki bætir úr skák, að sauðfjárbændur eru orðnir fangar ímyndunarfræðinga, sem telja þeim trú um, að miklir möguleikar séu í útflutningi lambakjöts til Bandaríkjanna. Til stuðnings blekkingunni er gripið til tízkuorða á borð við lífræna og vistvæna framleiðslu.

Það mun hefna sín að reyna að koma af stað útflutningi á framleiðslu, sem ekki stenzt fullyrðingar. Framleiðsla íslenzks lambakjöts getur ekki talizt lífræn ræktun í skilningi bandarískra krafna. Bakslagið getur orðið bændum dýrt, þegar upp kemst um strákinn Tuma.

Athyglisvert er, að aldrei er minnst á skilaverð til bænda, þegar fleygt er fram nýjum og nýjum töfralausnum. Alltaf eru fundnir nýir og nýir galdramenn, sem ætla að selja offramleiðsluna á grundvelli ímyndunarfræða, en aldrei fæst neinn peningur úr óskhyggjunni.

Slíkir draumar valda skaða með því að tefja fyrir, að sauðfjárbændur, forustumenn þeirra og ríkisvaldið opni augun fyrir staðreyndum markaðshruns á lambakjöti.

Jónas Kristjánsson

DV

Stóri vinningurinn

Greinar

Margir ætluðu sér að þéna góðan vel með lítilli fyrirhöfn á dögum heimsmeistaramótsins í handbolta. Verð á gistingu hækkaði víða. En útlendingarnir létu ekki hlunnfara sig. Þeir sátu heima og horfðu á leikina í sjónvarpi, en íslenzkir áhorfendur stóðu undir mótskostnaði.

Feginsalda fór um þjóðfélagið og sérstaklega um Suðurnes í þessum mánuði, þegar fréttist, að stjórnendur Atlantsáls-hópsins væru að dusta rykið af fyrri ráðagerðum um álver á Keilisnesi. Menn sáu í rósrauðum hillingum, að sjálfvirk hagsveifla riði yfir þjóðfélagið.

Að minnsta kosti tvisvar á ári fréttist af hugleiðingum um kaup á íslenzku rafmagni um sæstreng til Skotlands og meginlands Evrópu. Alþýðuflokkurinn framleiddi eina slíka frétt í kosningabaráttunni til að sýna fram á dugnað sinna manna við að útvega happdrættisvinninga.

Endalaus röð áætlana um ver af ýmsu tagi þekja bókahillu væntanlegrar iðnþróunarsögu. Sumt var reynt eins og áburðarverksmiðjan og saltver, en annað rykféll, svo sem sykurver og kísilver. Við erum alltaf reiðubúin að trúa á ný töfraver til að leysa vandamál okkar.

Um daginn var stungið gat á eina af þrálátari blöðrum af þessu tagi. Þá var birt skýrsla, sem hafði þá sérstöðu meðal skýrsla af þessu tagi, að höfundurinn ætlaðist greinilega ekki til að fá framtíðartekjur af hönnun fleiri slíkra skýrsla. Það var skýrslan um frísvæði í Keflavík.

Stundum er eins og tilvera okkar snúist um væntingar um uppgrip. Smugan átti í fyrra að bjarga þjóðarbúskapnum og svo voru það Svalbarðamið. Í ár eru það Síldarsmugan og Reykjaneskarfinn, sem leika sama hlutverk. Við erum alltaf að spá í stóra vinninginn.

Ef til vill erum við nær veiðimannaþjóðfélaginu en aðrar auðþjóðir heims. Við erum kynslóð eftir kynslóð orðin vön því, að aflahrota eða blessað stríðið leysi vandræðin, sem skapast af því, hve erfitt við eigum með að ná endum saman í hversdagsleika efnahagslífsins.

Við gerum hins vegar ekkert til að búa til happdrættisvinninga eða aflahrotur. Við ræktum ekki veiðilendurnar eins og rótgrónir veiðimenn gera. Við ofveiðum árlega í stað þess að byggja upp stóra stofna, sem geti fært okkur aflahrotur eftir nokkur ár eða áratugi.

Við vorum lengi að láta okkur dreyma um frísvæði á Suðurnesjum. Á sama tíma varðveittum við einokun í afgreiðslu vöruflugs á Keflavíkurflugvelli. Þegar það var svo afnumið um síðir, var orðið alltof seint að efna til frísvæðis, því að offramboð var orðið af þeim.

Við erum núna í þeirri dæmigerðu stöðu, að stjórnmálamenn dreymir upphátt um svokallaða upplýsingahraðbraut, er henti Íslendingum sem gáfaðri og menntaðri þjóð. Á sama tíma koma stjórnvöld í veg fyrir hana með því að leggja ekki vegi á þessu mikilvæga sviði.

Þvaðrið um upplýsingahraðbrautina er í líkingu við það, að uppi væru ráðagerðir um stórkostlega vöruflutninga um Lyngdalsheiði milli Þingvalla og Laugarvatns, en engum dytti í hug, að gera þyrfti nýjan veg og varanlegan yfir heiðina. Jarðsambandið skortir alveg.

Tómt mál er að tala um upplýsingahraðbraut Íslands nema stjórnvöld tryggi mikla og stöðuga, hnökralausa og álagsþolna bandbreidd í samgöngukerfinu. Þessa dagana er upplýsingahraðbraut Íslands lakasta upplýsingaslóð Vesturlanda og líkist Lyngdalsheiðarveginum.

Þannig forðumst við að rækta garðinn okkar daglega, en látum okkur dreyma um stóra vinninginn. Við lifum utan raunveruleikans í von um skjóttekinn gróða.

Jónas Kristjánsson

DV

Mengað og óhreint land

Greinar

Erfitt er að greina milli ímyndunar og veruleika í ráðagerðum um sölu á margvíslegri vöru og þjónustu á þeim forsendum, að Ísland sé hreint og ómengað land. Í sumum tilvikum verða athafnamenn fangar síbyljunnar um frábæra kosti landsins umfram öll önnur lönd.

Á flöskumiða íslenzks vatns til útflutnings er sagt, að það sé úr djúpum lindum á fjögur hundruð metra dýpi undir fjarlægum fjöllum. Í rauninni er þetta vatn úr Heiðmörkinni. Á sama miða segir, að vatnið sé náttúrulegt lindarvatn. Í rauninni er sett í það gos.

Vonandi lenda fjárfestar ekki í vandræðum, þegar upp kemst um strákinn Tuma. Reynslan sýnir í útlöndum, að seljendur vatns og gosvatns geta lent í miklum erfiðleikum, ef varan uppfyllir ekki gefin fyrirheit. Þess vegna er betra að fara með löndum í fullyrðingum vörumiða.

Á þessum flöskumiða eru hugfangnar lýsingar á mengunarleysi Íslands, einföldu lífi þjóðarinnar og mengunarvernd í veðurkerfum landsins. Sérstaklega er tekið fram, að verksmiðjur séu færri en bílar í landinu. Virðist þetta samið í óvenjulega kræfum ýkjustíl auglýsingastofa.

Froða af þessu tagi getur ef til vill gengið í auglýsingum fyrir innlendan markað, þar sem kröfur eru ekki miklar. Hins vegar geta menn lent í vandræðum með hástemmda froðu í útlöndum, ef einhverjum dettur í hug að kanna, hvort nokkur veruleiki sé að baki henni.

Í rauninni er Ísland mengað land mikillar ofbeitar og afleits frágangs úrgangsefna. Þjóðin stundar sama sem enga lífræna ræktun í landbúnaði. Hún lifir engan veginn einföldu lífi, heldur veltir sér í sóunarheimi einnota umbúða. Hún er þjóð hamborgara og gosdrykkja.

Froðan í enska textanum á flöskumiðum útflutningsvatns endurspeglar óskhyggju á öðrum sviðum atvinnulífsins. Verið er að markaðssetja íslenzkan landbúnað í útlöndum sem lífrænan landbúnað, þótt hann sé næstum laus við að geta flaggað slíkum lýsingarorðum.

Markaðssetning af þessu tagi getur hefnt sín, ef hún byggist ekki á traustum grunni staðreynda. Útlendingar koma til landsins. Þeir geta séð, hvernig við förum með sorp. Þeir geta séð, hvernig sumar fjörur eru leiknar. Þeir geta fundið dæmi um mengað og illa farið land.

Mjög gott væri, ef hægt væri að markaðssetja íslenzka vöru og þjónustu sem ómengaða, hreina, lífræna og svo framvegis. Miklu máli skiptir að fá góðan stimpil af slíku tagi á sjávarafurðir okkar, landbúnaðarvörur, iðnaðarvörur á borð við vatn, og ekki sízt ferðaþjónustu.

En fyrst þarf að skapa forsendurnar. Gerbreyta þarf sorphirðu í það form, sem farið er að tíðkast meðal siðaðra þjóða. Stórir geirar landbúnaðarins þurfa að hætta að nota tilbúinn áburð og draga verulega úr notkun fúkkalyfja, svo að nokkur einföld dæmi séu nefnd.

Einkum er mikilvægt, að Íslendingar leggi niður sóðalega umgengni, sem hvarvetna verður vart. Menn verða að hætta að kasta frá sér rusli eins og þeim þóknast. Það er hugarfar þjóðarinnar, sem verður fyrst að breytast, áður en farið er að selja ímynd hreinleika og fegurðar.

Forsendur slíkrar sölumennsku eru því miður ekki til. Íslendingar eru sóðar, sem búa í sóðalegu landi rusls og mengunar. Það er einföld og dapurleg staðreynd, sem kemur í veg fyrir, að hægt sé að láta rætast villta drauma um miklar tekjur af sölu ímyndaðs hreinleika.

Það kostar mikið fé að gera landið hreint. En á því verður að byrja, áður en menn hætta miklum fjármunum til að selja íslenzka vöru og þjónustu sem hreina.

Jónas Kristjánsson

DV

Frísvæði er óskhyggja

Greinar

Komin er niðurstaða athugunar á möguleikum frísvæðis á Íslandi. Þar kemur fram, að óraunhæft sé að tala um slíkt svæði á Íslandi. Stingur það í stúf við fyrri bjartsýni um, að byggja megi upp ýmsa starfsemi á Suðurnesjum í tengslum við alþjóðaflugvöllinn í Keflavík.

Venjulega eru niðurstöður athugana þannig, að þær leiða til aukinnar bjartsýni. Þær leiða til frekari athugana og meiri tekna skýrsluhöfunda og loks til undirbúnings framkvæmda. Óvenjulegt er að fá allt í einu skýrslu, sem segir, að litlir möguleikar séu á umræddu sviði.

Einar Kristinn Jónsson rekstrarfræðingur vann skýrsluna fyrir Aflvaka Reykjavíkur. Er hún liður í víðtækari úttekt á skilyrðum atvinnurekstrar á Reykjavíkursvæðinu. Samkvæmt henni er betra að bæta skilyrðin almennt, heldur en að ívilna frísvæðisfyrirtækjum.

Frísvæði er vel þekkt fyrirbæri í útlöndum. Svæðið við Shannon-flugvöll á Írlandi hefur oft verið notað til viðmiðunar, þegar talað hefur verið um frísvæði við Keflavíkurflugvöll. En aðstæður eru allt aðrar hér og auk þess er Shannon-frísvæðið of dýrt og misheppnað í raun.

Keflavík getur ekki keppt við Shannon og hin 300 frísvæði heimsins, af því að offramboð er af slíkum svæðum; af því að aðrir voru fyrri til; af því að lega landsins veldur háum flutningskostnaði; af því að laun eru lægri annars staðar; og vegna mikils markaðskostnaðar.

Menn hafa miklað fyrir sér, að tollfrjáls aðgangur að Evrópumarkaði mundi leiða til íslenzks frísvæðis. Í ljós kemur hins vegar, að þessi aðgangur er mjög takmarkaður. Það á til dæmis við um hátækniiðnað. Og samsetningariðnaður forðast hálaunasvæði á borð við Ísland.

Styrkir og ívilnanir í þágu fyrirtækja á frísvæði mismuna innlendri starfsemi, og skekkja rekstrarskilyrði utan og innan svæðisins. Þar á ofan sýnir reynslan frá Shannon, að fyrirtæki á frísvæði eru rótlaus og færanleg Þau hlaupa oft til þeirra, sem bezt bjóða hverju sinni.

Shannon-svæðinu er haldið uppi af gífurlegum styrkjum Evrópusambandsins, af því að Írland er skilgreint sem jaðarsvæði. Styrkirnir námu fjórum milljörðum króna árið 1993 og fara vaxandi. Ekki er til neinn stóri bróðir í útlöndum, sem vill gefa Íslandi slíkar summur.

Shannon-svæðið fékk forskot, af því að það var stofnað 1959, þegar tollar voru mun hærri en nú. Það hefur ekki aukið atvinnu Íra. Atvinnuleysi þar í landi er um 18%. Raunar hefur atvinna á Íslandi aukizt hraðar en þar og flugumferð um Keflavík er hlutfallslega meiri.

Höfundur skýrslunnar segir, að hugmyndin um frísvæði á Suðurnesjum beri keim af tækifæris- og töfralausnum, sem stundum sé gripið til í íslenzkri stjórnmálaumræðu og eigi að bjarga öllu, en skorti jarðsamband. Telur hann, að Suðurnes eigi betri atvinnukosti.

Hann segir, að það mundi skila meiri árangri við eflingu atvinnu og útflutnings að styðja þúsundir fyrirtækja í landinu með almennum, en ekki sértækum aðgerðum, svo og betri starfsskilyrðum, heldur en að styðja örfá fyrirtæki með sértækum og dýrum átaksaðgerðum.

Hann tekur þó fram, að ekkert sé athugavert við að búa til aðstöðu til frírekstrar, svo framarlega sem hann sé byggður upp fyrir áhættufé þeirra, sem að honum standa, og lúti almennum markaðslögmálum. Það eru bara styrkirnir og ívilnanirnar, sem hann varar við.

Þótt fréttir þessar séu naprar, er kuldi jafnan hressandi. Auðveldara er að tala um íslenzk atvinnutækifæri, þegar búið að taka úr umferð óskhyggju um frísvæði.

Jónas Kristjánsson

DV

Pósturinn Páll

Greinar

Nýr forseti Alþingis fylgdi eftir sjónarmiðum sínum í eldhúsdagsumræðu á Alþingi á fimmtudagskvöldið, þegar hann áminnti Jón Baldvin Hannibalsson fyrir að nota óviðurkvæmilegt orðalag, sem greinilega fól í sér niðrandi ummæli um Pál Pétursson félagsmálaráðherra.

Þegar Ólafur G. Einarsson tók við embætti forseta Alþingis, tók hann sérstaklega fram, að draga þyrfti upp aðra mynd af þingstörfunum en nú birtist almenningi í fjölmiðlum. Benti hann á, að þingmenn sjálfir hefðu mest áhrif á, hver ímynd þingsins væri í augum fólks.

Hin nýja áherzla þingforseta er tímabær og eðlileg. Málgefnir og sjálfumglaðir þingmenn hafa ekki vaxið upp úr málfundastíl ræðukeppna í framhaldsskólum, þótt um nokkurt skeið hafi verið sjónvarpað frá venjulegum þingfundum beint inn í stofur fólksins í landinu.

Fólk hefur horft á þennan málfundastíl og ekki verið hrifið. Þess vegna hefur virðing Alþingis minnkað við beint sjónvarp frá fundum þess. Gott ráð til að sporna gegn því væri að hóa saman nokkrum helztu vandræðabörnunum og sýna þeim sjónvarp frá brezka þinginu.

Brezkir þingmenn tala skýrt og málefnalega og einkum stutt og aftur stutt. Þeir geta líka verið hvassir og jafnvel eitraðir, en allt er það innan ramma, sem er miklu þroskaðri en þær hefðir, sem illu heilli hafa mótazt á Alþingi. Þeim hefðum þarf að breyta í nýju kastljósi.

En það er ekki bara orðbragðið, hálfkæringurinn og leikaraskapurinn, sem þarf að lagast. Okkar þingmenn geta ekki síður lært af Bretum að halda ræðulengd í hófi. Þrátt fyrir breytingar á þingsköpum í átt til styttingar máls, eru langhundar ennþá alltof algengir á Alþingi.

Hinn nýi þingforseti sagði réttilega, að almenningur, sem fylgist daglega með störfum Alþingis, gerði ríkar kröfur um vitrænan málflutning, snarpar umræður og tilþrif á Alþingi. Þess vegna verði að bæta umræðuna og þingmenn að gera meiri kröfur til sjálfra sín.

Ólafur G. Einarsson benti á annað atriði, sem hann taldi geta aukið virðingu Alþingis með því að draga úr því áliti, að það sé lítið annað en afgreiðslu- og handauppréttingastofnun framkvæmdavaldsins. Það væri, að fólk léti af þingmennsku við að verða ráðherrar.

Það getur verið óþægilegt, ef stjórnarslit verða á miðju kjörtímabili og ráðherrar hafa sagt af sér þingmennsku og fá hana ekki aftur. Þess vegna þarf að breyta lögum þannig, að þingmenn verði að taka leyfi frá þingstörfum meðan þeir gegna embætti ráðherra, en eigi afturkvæmt.

Tillögur og hugmyndir þingforseta eru markverðar og benda til, að hann muni á ferli sínum hafa jákvæð áhrif á störf Alþingis. Um eitt atriði í tillögum hans þarf þó að gera fyrirvara. Það er, að bág launakjör og léleg starfsaðstaða fæli hæft fólk frá þáttöku í stjórnmálum.

Mikið framboð fólks til stjórnmálastarfa og einkum til þingmennsku bendir ekki til, að þessi fæling sé öflug. Og séu kjör þingmanna of bág, á að breyta þeim á opinskáan hátt, en ekki að vera pukrast með hliðaratriði á borð við greiðslur fyrir ómælda þáttöku í ráðstefnum.

Um það atriði var rækilega fjallað í leiðara DV í gær og þarf ekki að fara frekari orðum um það. Augljóst er, að Alþingi getur á ýmsan hátt stuðlað að aukinni virðingu sinni í augum fólksins í landinu og að nýr þingforseti hefur þegar gefið skynsamlegan tón á því sviði.

Einna mikilvægast er, að málgefnir og sjálfumglaðir þingmenn færi ræðustíl sinn úr því horfi, sem þótti góð latína á málfundum, þegar þeir voru í framhaldsskóla.

Jónas Kristjánsson

DV

Kolkrabbi og smokkfiskur

Greinar

Dómsmálaráðherra hefur með hjálp Alþingis gengið erinda fáokunarhrings tryggingafélaganna gegn hagsmunum almennings. Hvort hann hefur gert það af einhverjum orsökum eða hvötum skiptir minna máli en staðreyndin sem slík, að sérhagsmunir ráða ferð hans.

Tryggingafélögin eru siðlaus í viðskiptum við fólk. Þau neita til dæmis að greiða lögboðnar bætur og láta tugi mála fara fyrir dómstóla. Þótt þau tapi hverju málinu á fætur öðru, halda þau hinum málunum til streitu án þess að taka mark á fordæmisgildi dóma í prófmálum.

Þannig hefur ríku og voldugu aðilunum tekizt að fresta því, að tugir einstaklinga, sem eiga um sárt að binda, fái nokkrar bætur. Þannig hafa ríku og voldugu aðilarnir þvingað þá, sem verst eru settir vegna örkumla, til að semja um mun minni bætur en lög gera ráð fyrir.

Óbilgirni og græðgi tryggingafélaganna hefur magnazt í skjóli dómsmálaráðherra og Alþingis. Viðurkennt er, að frumvarp til skaðabótalaga var samið í dómsmálaráðuneytinu að frumkvæði samtaka fáokunarhrings tryggingafélaganna, sem vildu minnka útgjöld sín.

Fenginn var til þess lagaprófessor, sem var hallur undir tryggingafélögin og hafði unnið fyrir þau. Hann gaf Alþingi rangar upplýsingar um innihald laganna. Markmið þeirra var og er að minnka útgjöld tryggingafélaganna á kostnað fólks, enda hefur það tekizt.

Hvorki dómsmálaráðherra né Alþingi hafa þó sér það til afsökunar, að hafa sætt blekkingum prófessorsins. Flett var ofan af málinu í fjölmiðlum á sínum tíma, en ráðamenn þjóðarinnar létu það sem vind um eyru þjóta. Þeir voru ákveðnir í að þjóna tryggingafélögunum.

Lagafrumvarp tryggingafélaganna var útskýrt með því að segja misvægi vera milli bóta fyrir mikil og lítil tjón. Því vægi var hins vegar ekki breytt með því að færa fjármagn milli flokka, heldur með því að minnka greiðslur á öðrum vængnum og halda þeim óbreyttum á hinum.

Frumvarpið var einnig varið með því að segja, að það gerði ráð fyrir fullum bótum. Staðreyndin var hins vegar sú, að það gerði ráð fyrir þremur fjórðu hlutum af fullum bótum. Tryggingafélögin og prófessorinn komust upp með þessar blekkingar fyrir rúmum þremur árum.

Síðan hefur sannleikurinn komið í ljós. Allsherjarnefnd Alþingis fékk skipaða nefnd til að finna hann. Hún lagði til fyrir réttu ári, að margföldunarstuðull yrði hækkaður úr 7,5 í 10 til þess að lögin næðu yfirlýstum tilgangi. Þessi niðurstaða var rækilega rökstudd.

Dómsmálaráðherra hefur ekki lyft litla fingri til að fá lögunum breytt til samræmis við þetta. Alþingi hefur ekki heldur reynt að bæta fyrir mistök sín. Lögin eru enn þann dag í dag eins og þau voru samin af prófessor tryggingafélaganna og að frumkvæði samtaka þeirra.

Ekki eru líkur á, að ástandið batni í tíð núverandi ríkisstjórnar, sem er mynduð af tveim stjórnmálaflokkunum, sem ganga lengst í að gæta hagsmuna hinna voldugu, annar kolkrabbans og hinn smokkfisksins. Stjórnarflokkarnir munu gæta hagsmuna tryggingafélaganna.

Síðan geta menn velt fyrir sér ættar- og fjölskyldutengslum í stjórnmálum og fáokunarfyrirtækjum. Þau eru út af fyrir sig ekki kjarni málsins, heldur hitt, að voldugustu stjórnmálaöfl landsins taka jafnan hagsmuni fáokunarfyrirtækja fram yfir hagsmuni almennings.

Meðan kjósendur sætta sig við, að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn séu pólitískir armar fáokunarfyrirtækja, verður ástandið áfram eins og það er.

Jónas Kristjánsson

DV

Stjörnuhröp í stjórnmálum

Greinar

Viðurkenndum stjórnmálaforingjum á Íslandi hefur fækkað úr þremur í tvo við kosningar og stjórnarskipti á þessu vori. Formenn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks tróna nú einir á tindi skoðanakönnunar DV um vinsældir og óvinsældir íslenzkra stjórnmálamanna.

Vinsældir Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar hafa aukizt og óvinsældir þeirra minnkað svo, að þær eru vart mælanlegar. Einkum á það við um Halldór, sem á sér fáa óvildarmenn í hverri könnuninni á fætur annarri. Hann hefur 23% vinsældir og 0,5% óvinsældir.

Stjörnuhrap skoðanakönnunarinnar er hjá formanni Þjóðvaka, Jóhönnu Sigurðardóttur. Hún var áður annar vinsælasti stjórnmálamaðurinn, næst á eftir Davíð Oddssyni. Staða hennar hefur gerbreytzt til hins verra. Nú er hún orðin meðal óvinsælustu stjórnmálamannanna.

Í janúar í vetur hafði Jóhanna 16,2% í plús og 4,0% í mínus. Nú er plúsinn kominn niður í 2,3% og mínusinn upp í 7,5%. Aðeins Jón Baldvin Hannibalsson og Ólafur Ragnar Grímsson eru óvinsælli en hún. Þetta er mesta stjörnuhrapið frá upphafi kannana af þessu tagi.

Breytingar á vinsældum Davíðs, Halldórs og Jóhönnu benda til, að fólk styðji sigurvegara, en ekki þá, sem bíða ósigur. Jóhanna var allt síðasta kjörtímabil vinsæl, fyrst fyrir andóf í þáverandi ríkisstjórn og síðan sem formaður nýs stjórnmálaflokks með mikið fylgi á tímabili.

Þegar Þjóðvaki náði ekki árangri í kosningunum, hrundu vinsældir Jóhönnu. Henni dugði ekki að hafa stundað vinsælt andóf í ríkisstjórn og hafa stofnað eigin flokk, sem um tíma náði yfir 20% fylgi í skoðanakönnunum. Að leikslokum var hún afskrifuð sem pólitískt afl.

Hefð virðist vera fyrir því, að vinsældir aukist og óvinsældir minnki hjá stjórnmálamönnum, sem annaðhvort vinna kosningasigur eða komast í ríkisstjórn og helzt hvort tveggja, og að þessu sé öfugt farið með hina, sem tapa í kosningum eða komast ekki í ríkisstjórn.

Fall Jóhönnu er hins vegar mun meira en venjulegt má teljast. Sennilega endurspeglar það væntingar, sem hafa brugðizt. Skiptir þá engu, hvað telja má sanngjarnt. Ósigur í einum kosningum virðist nægja til að tvístra stuðningsmönnum og hrekja þá á flótta.

Borgarstjórinn í Reykjavík hefur sigið úr fjórða sæti vinsældalistans í það sjötta. Sennilega endurspeglar það lélegt gengi Kvennalistans í Reykjavík, sem var áður helzta vígi hans. Eru þó vinsældir Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur yfirgnæfandi meiri en óvinsældirnar.

Kvennalistinn skaðaðist við að fórna Ingibjörgu í þágu Reykjavíkurlistans í borgarstjórn. Við það varð Kvennalistinn í Reykjavík að höfuðlausum her. Á toppnum er þar afar litlaus þingmaður, sem af augljósu dómgreindarleysi kenndi borgarstjóra að nokkru um sínar ófarir.

Alþýðubandalagið losnar við Ólaf Ragnar Grímsson sem formann í haust og getur þá byrjað að taka þátt í samstarfi flokka. Enn er tómt mál að tala um samstarf milli flokka með Alþýðubandalagið innanborðs, af því að fáir þora að reyna að vinna með formanni þess.

Óvinsældir Ólafs Ragnars eru miklar og vaxandi, bæði meðal hugsanlegra smstarfsaðila í öðrum flokkum og meðal almennings, svo sem skoðanakönnunin sýnir. Sérkennilegt er, að helzti baráttumaður vinstra samstarfs skuli um leið vera helzti þröskuldur þess.

Undantekning á reglunni um auknar vinsældir sigurvegara er svo Finnur Ingólfsson ráðherra, sem á fáum vikum hefur lyfzt úr engu í fjórða sæti óvinsælda.

Jónas Kristjánsson

DV

Þeir vilja ná í fé þitt

Greinar

Stöðugt verðlag hefur ríkt hér á landi um margra missera skeið. Það á sér ýmsar forsendur, meðal annars samdrátt í efnahagslífinu. Höfuðforsenda stöðugleikans er þó verðtrygging fjárskuldbindinga, sem gerði það að verkum, að niður féll verðbólgugróði af fengnum lánum.

Á verðbólguárunum streymdi fé frá almenningi og lífeyrissjóðum, sem lögðu fyrir, og rann í hendur þeirra, sem pólitíska aðstöðu höfðu til að fá lán í bönkum og öðrum ríkisreknum fjármálastofnunum. Þá snérist líf og dauði í atvinnulífinu um forgang að ódýrum lánum.

Um nokkurt skeið hafa litlir möguleikar verið á að nýta pólitíska aðstöðu til að græða á óheftum aðgangi að fjármagni. Vextir og verðtrygging hafa gert fjármagn verðmætt á nýjan leik. Forráðamenn fyrirtækja þurfa að hugsa sig um tvisvar, áður en þeir taka lán.

Mörgum hefur orðið hált á svelli stöðugleikans. Frægasta dæmið er auðvitað Samband íslenzkra samvinnufélaga, sem gufaði upp og hvarf, þegar það hætti að geta lifað af eiturlyfinu sínu, aðgangi að ódýrum lánum, sem brunnu upp. Það þoldi alls ekki verðtryggingu lána.

Sumir hafa farið illa út úr stöðugleikanum, ekki vegna eigin óráðsíu, heldur vegna óráðsíu viðskiptavina sinna. Þannig hafa stór verktakafyrirtæki, sem orðið hafa gjaldþrota, dregið með sér undirverktaka, er áttu sér einskis ills von. Markaðslögmálin geta stundum verið grimm.

Af ýmsum slíkum ástæðum eru fjölmennir hópar andvígir verðtryggingu fjárskuldbindinga og háum vöxtum. Þeir telja, að hag sínum væri betur borgið, ef lán væru ekki verðtryggð og vextir sanngjarnir, svo notað sér orðalag frægs sjóðasukkara, sem nú er Seðlabankastjóri.

Þeir, sem vilja fá að leika sér með ódýrt fjármagn, hafa verið að grafa undan verðtryggingu. Þeir hafa leitað stuðnings hjá þeim hluta almennings, sem átt hefur í erfiðleikum við að standa undir húsnæðislánum. Saman hafa þessir aðilar góðan aðgang að eyrum ráðamanna.

Þegar gæludýrum kerfisins hefur tekizt að stofna til afnáms verðtryggingar í áföngum, ætla þau að nota aðstöðu sína í opinberum peningastofnunum til að komast að nýju yfir ódýrt fé. Þannig munu gæludýrin að nýju framleiða verðbólgu eftir nokkurra missera hlé.

Stjórnarflokkarnir tveir eru hallari undir þessi sjónarmið en aðrir stjórnmálaflokkar. Þess vegna má búast við öllu illu. Raunar hefur ríkisstjórnin þegar skrifað Seðlabankanum bréf um þetta mál og fengið jákvæðar viðtökur hinna pólitískt kjörnu bankastjóra.

Bankastjórar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins í Seðlabankanum leggja nú til, að dregið verði í áföngum úr verðtryggingu fjárskuldbindinga, þannig að eftir fimm ár verði bannað að verðtryggja fjárskuldbindingar, sem eru til skemmri tíma en sjö ára.

Enginn vafi er á, að ríkisstjórnin mun samþykkja þessa tillögu Seðlabankans. Þess vegna sjáum við fram á, að á þessu kjörtímabili muni ekki borga sig að eiga peninga, því að þeir muni rýrna að verðgildi. Við sjáum líka fram á, að óráðsía og verðbóga fari að nýju í gang.

Aðgerðir ríkisstjórnar og seðlabanka í máli þessu eru hættulegar. Þær draga úr núverandi stöðugleika og hvetja til verðbólgu. Þær verða í anda Steingríms Hermannssonar, sem staðið hefur fyrir mestu fjármagnstilfærslum og verðmætabrennslu í sögu lýðveldisins.

Gæludýrin bíða í startholunum. Þau munu nota pólitíska aðstöðu til að ná í ódýrt fé, sem ekki þarf að endurgeiða í jafngildum verðmætum. Það er kjarni málsins.

Jónas Kristjánsson

DV

Jafnrétti hjá kolbítum

Greinar

Sjálfstæðismenn eru góðir við konurnar sínar. Þeir punta með þær og leyfa þeim að vera fundarritarar og jafnvel fundarstjórar. Raunveruleg völd eru hins vegar hlutverk karla að mati forustuliðs stærsta stjórnmálaflokks landsins. Ráðherrar skulu til dæmis vera karlar.

Þegar skáka þarf karli í sparistöðu, sem þingmenn hafa gert að kvennastarfi, geta komið upp sérkennileg vandamál. Til dæmis hefur komið í ljós, að staða forseta Alþingis er orðin að láglaunastarfi sem kvennastarf. Því þarf að breyta, þegar fyrirvinna fær stöðuna.

Forustumenn stjórnarflokkanna gera í alvöru ráð fyrir, að laun forseta Alþingis verði hækkuð um tugþúsundir króna á mánuði, þegar Ólafur G. Einarsson tekur við starfinu af Salóme Þorkelsdóttur. Það er lýsandi dæmi um stöðu íslenzkra jafnréttismála árið 1995.

Bent hefur verið á, að Salóme geti vegna þessa kært launakjör sín sem forseti Alþingis til jafnréttisráðs og jafnvel fengið Ólafslaun afturvirkt. Það væri verðugur minnisvarði um stöðu Sjálfstæðisflokksins í jafnréttismálum, ef hún léti verða af svo sjálfsagðri kæru.

Enn broslegra væri, ef hún kærði ekki jafnréttisbrotið, en það mundi hins vegar gera forveri hennar, Guðrún Helgadóttir. Þar með væri Salóme búin að kyngja þeirri skoðun Sjálfstæðisflokksins, að konur séu körlum óæðri, enda séu þær ekki og eigi ekki að vera fyrirvinnur.

Viðhorf Sjálfstæðisflokksins til kvenna eru gamalkunn og koma því fáum á óvart. Þær mega vera með upp á punt, en þegar til kastanna kemur, gilda klisjur á borð við þá, að ekki beri að ráða konu, bara af því að hún sé kona. Að mati flokksins eru karlar hæfari en konur.

Þessi augljósa staðreynd hefur hins vegar komið á óvart ýmsum konum í Sjálfstæðisflokknum. Þær hafa sennilega tekið trú á kosningaáróður flokksins og ekki áttað sig á, að áróður er bara aðferð til að ná í atkvæði og halda atkvæðum, en er að öðru leyti alveg marklaus.

Afstaða Sjálfstæðisflokksins til kvenna sem puntudúkka á sér sagnfræðiskýringar. Flokkurinn er til dæmis afar íhaldssamur og utangátta gagnvart umheiminum og breytingum, sem þar eru að gerast. Hann er til dæmis andvígur auknu Evrópusamstarfi Íslendinga.

Forustumenn Sjálfstæðisflokksins, einkum ráðherrarnir, eru undantekningarlítið lögfræðimenntaðir menn, sem ekki hleyptu heimadraganum á menntabrautinni. Þeir hafa ekki dvalizt langdvölum í útlöndum og eiga til dæmis afar erfitt með að tjá sig á erlendum tungum.

Ráðamenn Sjálfstæðisflokksins eru sveitamenn í alþjóðlegu samhengi, að minnsta kosti þegar þeir eru bornir saman við ráðamenn annarra flokka. Ráðamenn Sjálfstæðisflokksins hafa farið að mestu á mis við ýmsa strauma í útlöndum. Þeir eru hálfgerðir kolbítar.

Þetta hefur stuðlað að vandræðalegri sambúð Sjálfstæðisflokksins við ýmis sjónarmið, sem hafa mótað hægri menn og jafnaðarmenn í útlöndum. Nýir straumar í hagmálum, svo sem markaðshyggja, hafa lítil áhrif haft í flokknum. Sama er að segja um jafnréttismálin.

Lögfræðingunum, sem ráða Sjálfstæðisflokknum, finnst, að konur eigi að vera fínar í tauinu. Þær eru ekki taldar eins hæfar og Björn Bjarnason, en mega rita fundargerðir og jafnvel stýra fundum. Þær mega vera lögfræðimenntaðar, en eru ella taldar grunsamlegar.

Ráðherraval Sjálfstæðisflokksins og launamál forseta Alþingis eru góð dæmi um, að jafnréttismál eru flokknum lokuð bók, hvað sem hann segir í kosningaáróðri.

Jónas Kristjánsson

DV

Yfirstétt var ógnað

Greinar

Áhyggjur mögnuðust meðal framsóknarmanna beggja stjórnarflokkanna, þegar Sól fór að bera víurnar í Mjólkursamlag Borgfirðinga. Áhyggjurnar urðu að skelfingu, þegar kom í ljós, að Hagkaup gæti vel hugsað sér að kaupa helminginn af framleiðslu mjólkursamlagsins.

Framsóknarmenn beggja stjórnarflokkanna töldu, að hlutafélög úr einkageiranum væru með þessu að trufla ríkisrekstur landbúnaðarins og gætu smám saman kollvarpað hinni friðsælu og dýru einokun búvöruiðnaðar, sem ríkið heldur uppi á kostnað bænda og neytenda.

Núverandi og fyrrverandi landbúnaðarráðherrar ríkisstjórnarinnar voru sammála um, að grípa þyrfti í taumana, áður en starfsfólk mjólkursamlagsins áttaði sig á, að tilboð úr einkageiranum gæti bjargað atvinnu þess. Skrifað var í skyndi undir ákvörðun um úreldingu.

Skipulögð úrelding er aðferð ríkis og samtaka landbúnaðarins við að draga saman seglin í landbúnaði og búvöruvinnslu. Í stað þess að leyfa markaðsöflum að ráða ferðinni og efla búvörusölu í leiðinni, er skipulagt að ofan, hvort afnema eigi þetta fyrirtæki eða hitt.

Ríkið og stofnanir landbúnaðarins skipuleggja á sama hátt, hvernig dregið skuli jafnt og þétt úr heimild bænda til að framleiða vörur. Þetta er jafnréttisaðferð, sem gerir alla fátæka eftir hlutfallareikningi og kemur í veg fyrir, að séðir bændur geti notfært sér markaðslögmálin.

Í öllum tilvikum er úrelding í landbúnaði að meira eða minna leyti framkvæmd á kostnað skattgreiðenda. Þeir leggja til peningana, sem notaðir eru til að kaupa framleiðslukvóta af bændum og til að leggja niður búvöruvinnslu á borð við Mjólkursamlag Borgfirðinga.

Ráðamenn Sólar báðu ráðherra um frest, svo að unnt væri að kanna, hvort hægt væri að sameina drykkjarvöruframleiðslu Sólar og mjólkurvöruframleiðsluna í Borgarnesi í nýju hlutafélagi, sem rekið væri í Borgarnesi. Þetta var ráðherranum óbærileg tilhugsun.

Óformlegar viðræður voru þá raunar þegar hafnar milli ráðamanna Sólar og stjórnarmanna Kaupfélags Borgfirðinga, sem rekið hefur mjólkursamlagið í Borgarnesi. Þessar viðræður höfðu verið á jákvæðum nótum, sem ýtti undir skelfinguna í landbúnaðarkerfinu.

Landbúnaðarráðherra ver gerð sína með tilvísun í formsatriði. Kaupfélagið í Borgarnesi hafi áður verið búið að óska skriflega eftir úreldingu og að hann hafi ekki skriflega fengið neina beiðni frá sama aðila um að fresta málinu, meðan hugmyndir Sólar væru kannaðar.

Starfsfólk mjólkursamlagsins í Borgarnesi verður því að deila reiði sinni yfir atvinnumissi á tvo aðila, annars vegnar á ríkisstjórn Framsóknarflokkanna tveggja og hins vegar á stjórn kaupfélagsins, sem láðist að gæta hagsmuna fólksins á örlagastundu, er tækifæri gafst.

Hér var verið að tefla um vinnslu 15-18 milljón lítra af mjólkurvörum og öðrum drykkjarvörum og atvinnu fyrir 60-80 manns. Engu hefði verið fórnað með því að skoða málið, en atvinnutækifærum í Borgarnesi var fórnað með því að rjúka í að undirrita úreldinguna.

Atvinnu Borgnesinga var hafnað til að koma í veg fyrir að ruggað yrði báti, sem smíðaður var fyrir hagsmuni yfirstéttar landbúnaðarins. Markmið íslenzka landbúnaðarkerfisins er að halda uppi hægum og vel borguðum stjórnunarstöðum utan við hret markaðslögmálanna.

Þessi yfirstétt beitti pólitískum örmum sínum í stjórnarflokknum tveimur til að koma í veg fyrir lausn, sem hún taldi geta ógnað hagsmunum sínum sem yfirstéttar.

Jónas Kristjánsson

DV

Þeir skila sér síðar

Greinar

Viðræðurnar um veiðistjórn í Síldarsmugunni fóru ekki út um þúfur, heldur var samið við Færeyinga. Reynslan hefur líka sýnt, að það tekur norsk stjórnvöld langan tíma að átta sig á, að íslenzk stjórnvöld taka hóflegt mark á frekju. Þannig var það í Jan Mayen deilunni.

Í meira en áratug hafa ráðherrar og aðrir fulltrúar Íslands á þessu sviði reynt að segja Norðmönnum, að semja þyrfti um veiðar úr norsk-íslenzka síldarstofninum á opna svæðinu milli Noregs og Íslands. Norðmenn hafa hins vegar ekki fengist til að ræða málin fyrr en núna.

Norskir samningamenn vilja gleyma, að þessi síldarstofn gekk milli Noregs og Íslands, þangað til Norðmenn gengu svo nærri honum, að hann hætti hringferð sinni um hafið. Íslendingar telja sig eiga rétt í þessum stofni frá þeim tíma, er hann veiddist hér við land.

Norsk stjórnvöld og samningamenn þeirra ganga út frá því, að Norðmenn eigi þennan stofn og geti skammtað öðrum úr honum, jafnvel veiði á hafsvæðum, sem eru fjær Noregi en Íslandi og Færeyjum. Meðan þeir halda fast við þetta, ná þeir ekki samkomulagi við aðra.

Þetta minnir á tregðu norskra stjórnvalda til að viðurkenna, að efnahagslögsaga fullvalda ríkis á borð við Ísland ætti að gilda óskert í átt til eyjar á borð við Jan Mayen, sem hefur ekki efnahagslíf. Þeir reyndu þá að hafa annað fram með frekju, en tókst það ekki.

Íslenzk stjórnvöld og sammningamenn þeirra munu halda ró sinni í máli Síldarsmugunnar. Fyrsta skrefið var að semja við Færeyinga um veiðikvóta og síðan væntanlega um ábyrga síldveiðistjórn á svæðinu. Það samkomulag kemur Norðmönnum í opna skjöldu.

Íslenzk stjórnvöld munu ekki senda frá sér nein tilmæli til íslenzkra útgerðarmanna og skipstjóra um að takmarka veiðar í Síldarsmugunni. Þær veiðar hefjast nú vonandi af fullum krafti. Það verður tregðulögmáli norskra stjórnvalda til verðugrar háðungar.

Ef samkomulag næst svo milli Færeyinga og Íslendinga um ábyrga veiðistjórn á svæðinu, munu íslenzk stjórnvöld takmarka veiðar íslenzkra skipa í samræmi við þá veiðistjórn. Verður þá hafréttarlegt frumkvæði málsins komið í hendur Færeyinga og Íslendinga.

Með því að sýna annars vegar festu gegn yfirgangi Norðmanna og að hafa hins vegar frumkvæði að ábyrgri veiðistjórn á svæðinu, koma íslenzk stjórnvöld fram sem ábyrgur hagsmunaaðili. Þannig næst mestur og traustastur árangur af hálfu Íslands í þessu hagsmunamáli.

Íslenzk stjórnvöld og samningamenn þeirra hafa haldið rétt á málum Síldarsmugunnar í viðræðum við norska gagnaðila. Útilokað var að ná samkomulagi á fyrsta fundi. Norðmenn verða að fá tíma til að horfa á veiðar annarra og læra að þekkja takmörk áhrifa sinna.

Sem betur fer er hrygningarstofn síldarinnar mjög sterkur um þessar mundir, ein eða tvær milljónir tonna. Hann mun því þola óheftar veiðar á þessari vertíð. Hugsanlegt er, að fyrir næstu vertíð verði norsk stjórnvöld orðin tilbúin til raunhæfra samninga um veiðistjórn.

Á þessu kjörtímabili þarf ríkisstjórn Íslands að gæta afar mikilvægra hagsmuna á hafsvæðum, sem liggja að efnahagslögsögu landsins, bæði í Síldarsmugunni og á Reykjaneshrygg. Þessi hagsmunagæzla hefur farið vel af stað. Hún er í senn hörð og rökrétt eins og vera ber.

Þess vegna þarf ekki að valda vonbrigðum, að norskir samningamenn stökkva frá samningaborði í fyrstu umferð. Þeir munu skila sér síðar, reynslunni ríkari.

Jónas Kristjánsson

DV

Veiðigjaldi vex ásmegin

Greinar

Stefna veiðileyfagjalds í sjávarútvegi fékk stuðning úr óvæntri átt á aðalfundi Granda á föstudaginn. Stjórnarformaður sjávarútvegsfyrirtækisins mælti með slíku gjaldi í ræðu sinni. Það var Árni Vilhjálmsson prófessor, sem gekk þannig fram fyrir skjöldu á minnisstæðan hátt.

Árni vildi, að sjávarútvegurinn innti af hendi eingreiðslu, sem næmi 50-80 krónum á hvert kíló í þorski eða þorskígildi í öðrum fisktegundum. Taldist honum, að þetta mundi kosta Granda 700 milljónir í stofngjald og 50 milljónir í árlega vexti, ef þeir væru 7%.

Stjórnarformaðurinn kom inn á nýstárlegar brautir í röksemdafærslu sinni fyrir veiðileyfagjaldi. Hann taldi gjaldið nauðsynlegt til að gefa sjávarútveginum eins konar vinnufrið, meðal annars fyrir neikvæðri umræðu fólks, þar sem orðið sægreifar kemur iðulega fyrir.

Hann benti á, að einn ráðherra fráfarandi ríkisstjórnar hefði lýst aflaheimildum útgerða sem ránsfeng. Einnig sagðist hann óttast, að fylgismenn veiðigjalds mundu leggjast á sveif með þeim hagsmunaaðilum innan sjávarútvegsins, sem vilja kvóta- eða aflamarkskerfið feigt.

Sú er einmitt raunin, að sjávarútvegurinn hefur sett ofan í umræðunni um þessi mál. Það fer í taugar fólks, að svokölluð þjóðareign skuli ganga kaupum og sölum og jafnvel ganga í erfðir. Einnig sker í augu, að verðgildi seldra skipa fer meira eftir kvóta þeirra en blikki.

Landssamband íslenzra útvegsmanna er helzti málsvari andstöðunnar við veiðileyfagjald. Það hefur smám saman verið að fá á sig stimpil klúbbs sægreifa, sem lifi á forgangi að þjóðareign og illri meðferð þjóðareignar. Landssambandið hefur enda tekið illa kenningum Árna.

Á ytra borði virðist staða sægreifanna vera fremur trygg um þessar mundir. Fráfarandi ríkisstjórn mannaði sig ekki upp í að framkvæma loforð um hert orðalag á þjóðareign auðlindarinnar. Sú ríkisstjórn, sem nú hefur tekið við, er ekki heldur líkleg til slíkra verka.

Utanríkisráðherra er stundum sagður guðfaðir kvótakerfisins og sjávarútvegsráðherra er dyggur fylgismaður hans á því sviði. Þeir munu líklega sjá um, að ríkisstjórnin standi vörð um núverandi ástand og geri á því eins litlar breytingar og hún kemst upp með hverju sinni.

Gott dæmi um það er, að stjórnarsáttmálanum fylgir baksamningur um sjávarútveg, þar sem slett er um 10.000 tonna aukningu á þorski í þá hagsmunaaðila í sjávarútvegi, sem óánægðastir eru með ríkjandi kvótakerfi, svo að þeir fáist til að hætta að rugga báti sægreifanna.

Vopnaði friðurinn er samt ekki varanlegur. Baksamningurinn felur í sér aukið álag á ofveiddan þorskstofn. Ef þorskstofninn heldur áfram að minnka, er eðlilegt, að eigendur auðlindarinnar fari að ókyrrast enn frekar og vilji draga ábyrgðarmenn kerfisins til ábyrgðar.

Stjórnmálamenn og sægreifar verða taldir bera ábyrgð á, að árum saman hefur ekki verið farið eftir tillögum fiskifræðinga um hámarksafla, og ábyrgð á afleiðingum þessa í minnkandi þorskgengd. Ofveiðin stefnir í slíkt óefni, að kvótakerfið mun um síðir hrynja að innan.

Líta má á framtak formanns Granda sem tilraun til að benda ráðamönnum stóru sjávarútvegsfyrirtækjanna á að færa víglínuna aftar, þar sem hún verði frekar varin, svo að kvótakerfið verði síður fórnardýr átaka um önnur og afar viðkvæm ágreiningsefni í sjávarútvegi.

Öðrum þræði er svo ræða hans merki um, að veiðileyfagjald á meiri hljómgrunn í greininni en ráðamenn Landssambands íslenzkra útvegsmanna vilja vera láta.

Jónas Kristjánsson

DV

Nærtækari hagsmunir

Greinar

Hagsmunir okkar af veiðum í Síldarsmugunni og á Reykjaneshrygg eru miklu meiri en hagsmunir okkar af veiðum í Smugunni í Barentshafi. Hinir fyrrnefndu eru meiri í beinum krónum talið og þeir eru þar að auki í næsta nágrenni við okkar eigin fiskveiðilögsögu.

Miðað við stofnstærð og eðlilega veiðihlutdeild Íslendinga í Síldarsmugunni má ætla, að þar séu um fjögurra milljarða króna hagsmunir Íslendinga. Er þá miðað við, að við getum samið við aðra helztu hagsmunaaðilana um að fá um það bil þriðjung af leyfilegri síldveiði.

Er þá líka miðað við, að Íslendingar, Norðmenn og Færeyingar komi sér saman um, að árlega verði veidd 20% af síldarstofninum á þessu svæði og að þessi ríki, sem hafa fiskveiðilögsögu, er liggur að smugunni, geti samið um að halda öðrum aðilum sem mest frá svæðinu.

Augljóst er, að Íslendingar, Norðmenn og Færeyingar þurfa sem allra fyrst að koma veiðistjórn á Síldarsmuguna, burtséð frá því, hvernig þjóðirnar þrjár skipta með sér afla. Deilur um innbyrðis skiptingu mega ekki koma í veg fyrir, að ofveiði annarra aðila verði hindruð.

Svipað gildir um Reykjaneshrygginn. Hann liggur að fiskveiðilögsögu Íslendinga og Grænlending. Þær tvær þjóðir þurfa sem allra fyrst að ná samkomulagi um veiðistjórn á honum til að hindra ofveiði af hálfu úthafsveiðiþjóða, sem nú eru að flykkjast þangað á karfamiðin.

Samkvæmt veiðiráðgjöf má lítið auka sókn í karfa á Reykjaneshrygg. Þar hafa Íslendingar hingað til haft rúman helming aflans. Við þurfum að varðveita þá hlutdeild og semja um hámarksafla á svæðinu. Þetta eru hagsmunir okkar upp á hálfan þriðja milljarð króna.

Samtals má telja, að hagsmunir okkar af síldveiðum í Síldarsmugunni og karfaveiðum á Reykjaneshrygg nemi sjö eða átta milljörðum króna. Þetta eru helmingi meiri hagsmunir en fjögurra milljarða hagsmunir af nýlegum þorskveiðum okkar í Barentshafi samanlögðu.

Hafa verður í huga, að Svalbarðaveiðarnar gáfu í fyrra meira en helminginn af afla okkar í Barentshafi, en veiðar í Smugunni innan við helming aflans. Alls engar horfur eru á, að okkar skip nái framvegis að veiða á Svalbarðasvæðinu vegna ofríkis norsku strandgæzlunnar.

Veiðar okkar í Barentshafi munu framvegis takmarkast við tíu til tuttugu þúsund tonna möguleika í Smugunni og eins til tveggja milljarða króna aflaverðmæti. Við getum reynt að verja þessa hagsmuni og getum áreiðanlega náð samningum við Norðmenn um slíkan hlut.

Á sama tíma og við þurfum að verja hagsmuni strandríkja með oddi og egg í Síldarsmugunni og á Reykjaneshrygg erum við að verja hagsmuni úthafsveiðiríkja í Smugunni. Of mikil áhrzla á hana spillir sjálfkrafa öðrum og meiri hagsmunum okkar á nærtækari miðum.

Norðmenn eru þegar búnir að hafa af okkur meira en helminginn af aflamöguleikum okkar í Barentshafi með því að loka Svalbarðasvæðinu. Þess vegna er óraunhæft að tala um fjörutíu þúsund tonna þorskafla í Smugunni. Hún mun í mesta lagi gefa fimmtán þúsund tonn á ári.

Þess vegna skiptir ekki miklu máli, hvort við semjum við Norðmenn um fimmtán þúsund tonn í Smugunni eða veiðum þar áfram fimmtán þúsund tonn án samninga. Aðalatriðið er, að þetta trufli ekki brýna hagsmuni okkar af samningum við þá og aðra um hin svæðin tvö.

Misvægi hagsmunanna er ljóst. Annars vegar er hálfur annar milljarður króna í Smugunni og hins vegar sjö- átta milljarðar í Síldarsmugunni og á Reykjaneshrygg.

Jónas Kristjánsson

DV

Láglaun og hátekjur

Greinar

Hér býr láglaunaþjóð við millikjör í hátekjulandi. Miklar þjóðartekjur endurspeglast ekki að fullu í lífskjörum fólks og engan veginn í tímalaunum þess. Þverstæður þessar eru raunveruleiki Íslendinga. Þær greina okkur frá öðrum þjóðum í næsta nágrenni okkar.

Ekki er deilt um, að svonefndar þjóðartekjur eru hér á landi með því allra hæsta, sem þekkist í heiminum. Ekki er heldur deilt um, að mánaðarlegar tekjur fólks eru samt töluvert lægri en í nágrannalöndunum og að tímalaun eru langt frá tímalaunum nágrannaþjóðanna.

Þetta er íslenzkur raunveruleiki, sem vert er að minnast á baráttudegi verkafólks á mánudaginn. Þjóðartekjurnar skila sér verr í lífskjörum hér á landi en í nágrannalöndunum og langtum verr í tímakaupi fólks. Þetta hefur allt verið mörgum sinnum mælt í tölum.

Eðlilegt er, að spurt sé, hvers vegna þjóð, sem hefur sömu þjóðartekjur og nágrannaþjóðirnar, skuli hafi mun lakari lífskjör og langtum lægra tímakaup en þær. Þessari spurningu hefur oft verið svarað, en sjaldnast af neinu viti og allra sízt af hálfu verkalýðsrekenda landsins.

Augljóst er, að þjóðartekjurnar skila sér ekki til lífskjaranna eins greiðlega hér á landi og þær gera í nágrannalöndunum. Einnig er augljóst, að hér þarf töluvert lengri vinnutíma en í nágrannalöndunum til að ná sömu lífskjörum og þar ríkja. Hver er skýringin?

Munurinn felst í mismunandi hagkerfi þjóðanna. Hér á landi eru hinir hefðbundnu atvinnuvegir í meira mæli utan við markaðskerfið og innan opinbera geirans. Landbúnaðurinn hefur áratugum saman beinlínis verið ríkisrekinn og sjávarútvegurinn er núllaður með krónugengi.

Að vísu er landbúnaðurinn víðar ríkisrekinn en hér á landi. En hér hefur hann verið frystur í umfangsmeira ástandi en í nágrannalöndunum og er því hlutfallslega meiri byrði á hvern einstakling í þjóðfélaginu. Þessi frysting fortíðarinnar hefur kostað 400 milljarða í 20 ár.

Með millifærslum frá sjávarútvegi til þjóðfélagsins og frá þjóðfélaginu til landbúnaðarins er hluti aflafjár þjóðarinnar brenndur, svo að þjóðartekjurnar skila sér ekki í lífskjörum og enn síður í tímakaupi. Þetta er meginskýringin á mismun þjóðartekna, lífskjara og tímakaups.

Þessar millifærslur vega þungt hér á landi, af því að þær varða greinar, sem eru fyrirferðarmiklar hér. Í nágrannalöndunum eru hins vegar mun fyrirferðarmeiri aðrar greinar, sem eru í meira mæli innan markaðskerfisins, svo sem kaupsýsla, iðnaður og stóriðja.

Merkilegast við umræðuna um hið séríslenzka ástand er, að henni er haldið uppi af nokkrum hagfræðingum og öðrum utangarðsmönnum, en ekki af þeim, sem mestra hagsmuna hafa að gæta, launafólkinu í landinu, meintum talsmönnum þess og verkalýðsrekendum.

Það eru ekki formenn bandalags ríkisstarfsmanna, Verkamannasambandsins eða Alþýðusambandsins, sem benda á raunhæfa leið til að færa tímakaup og lífskjör upp að þjóðartekjum. Það eru ekki þeir, sem heimta, að þessum millifærslum í efnahagslífinu verði hætt.

Á mánudaginn mun fólk þramma Laugaveginn undir stjórn faglegra og pólitískra sauðarekstrarstjóra, sem enga lausn hafa að bjóða íslenzku láglaunafólki, af því að þeir vilja ekki fyrir nokkurn mun horfa á orsök þess, að miklar þjóðartekjur skila sér ekki í tímakaupinu.

Þannig er til raunveruleg þjóðarsátt um, að hér skuli búa láglaunafólk við millikjör í hátekjulandi til að halda uppi opinberu velferðarkerfi í efnahagslífinu.

Jónas Kristjánsson

DV

Ávísun á ímyndaðan auð

Greinar

Baksamningur nýju ríkisstjórnarinnar um sjávarútvegsmál gerir ráð fyrir, að ofveiði á þorski verði aukin um 8-12.000 tonn á ári til að friða eigendur veiðiskipa, sem eru minni en 150 tonn, án þess að gera það á kostnað hinna, sem eiga stærri skip en 150 tonna.

Þetta er dæmigerð pólitísk lausn, afbrigði af prentun peningaseðla, sem eru ekki ávísun á nein ný verðmæti. Lausnin mildar að sinni ágreining milli smárra og stórra innan sjávarútvegsins með því að búa til viðbótarkvóta, sem ekki er ávísun á nein viðbótarverðmæti í hafinu.

Þorskurinn var ofveiddur, áður en þessi pólitíska sjónhverfing var hönnuð. Hún stuðlar að aukinni ofveiði á líðandi stund og þar með stuðlar hún að minnkun á verðgildi hverrar kvótaeignar fyrir sig, þegar hættan á hruni þorskstofnsins færist enn nær okkur en hún er nú.

Áfram verður haldið að meta stöðu þorskstofnsins. Misræmið milli raunverulegra veiða og þeirra veiða, sem þorskstofninn þolir, mun aukast og valda auknum kröfum um almennan niðurskurð veiðiheimilda áður en stofninn hrynur að færeyskum og kanadískum hætti.

Kröfurnar munu koma frá hinum raunverulegu eigendum þorskstofnsins, sem eru hvorki ráðherrar né sægreifar, heldur fólkið í landinu. Það mun krefjast þess, að umboðsmenn sínir láti ekki smáa og stóra útgerðarmenn gera þjóðareignina verðlausa með illri umgengni.

Þeim vanda ætlar ríkisstjórnin að mæta, þegar að honum kemur. Að sinni finnst henni brýnna að sætta misjöfn sjónarmið eigenda fiskiskipa á kostnað eigenda auðlindarinnar. Stjórnmálamönnum hefur jafnan fundizt skynsamlegast að pissa í skóinn á líðandi stund.

Hin innstæðulausa ávísun á þorsk er að þessu sinni sérstakt áhyggjuefni. Fremur hefði verið búizt við henni af ríkisstjórn með aðild Alþýðuflokks, sem á síðasta kjörtímabili var veikur fyrir kenningum galdralækna um, að reiknilíkön fiskifræðinga væru ekki nógu góð.

Framsóknarflokkurinn var hins vegar talinn búinn þeim kosti að vera hallari en aðrir flokkar undir ábyrga fiskveiðistjórn. Það stafaði af, að núverandi formaður hans reyndist ekki vera eins óábyrgur sjávarútvegsráðherra á sínum tíma og aðrir slíkir höfðu þá verið.

Þar sem sjávarútvegsráðherra fráfarandi og nýrrar ríkisstjórnar hefur að mestu fetað að þessu leyti í fótspor formanns Framsóknarflokksins á valdaskeiði sínu, hefði mátt vona, að samstarfsflokkarnir í nýju ríkisstjórninni sýndu meiri ábyrgð en fram kemur í baksamningnum.

Að létta og ljúfa leiðin skyldi vera valin sýnir okkur, að takmörk eru fyrir ábyrgðartilfinningu í stjórnmálum. Þrýstihóparnir eru smám saman að verða óbilgjarnari og valda stjórnmálamönnum vaxandi ótta. Þetta er hættuleg þróun, svo sem baksamningurinn sýnir.

Ábyrgðarbilun af tagi baksamningsins veldur þjóðinni miklu tjóni. 8-12.000 tonna aukin þorskveiði mun rýra þorskstofninn og valda enn meiri niðurskurði til mótvægis á allra næstu kvótaárum, nema ábyrgðarleysið vaxi enn og leiði til eyðileggingar auðlindarinnar.

Þorskurinn í sjónum eykst ekki neitt, þótt stjórnmálamenn auki veiðiheimildir um 8-12.000 tonn. Langt er síðan almennt varð ljóst, að þorskurinn er ofveiddur og fer með hverju árinu rýrnandi sem auðlind. Hlutverk stjórnmálamanna ætti að felast í að snúa þeirri þróun við.

En ríkisstjórnin lítur ekki á sig sem umboðsmann fólksins, heldur sem umboðsmann sérhagsmuna, er alltaf hafa átt fremur ljúfan aðgang að stjórnarflokkunum.

Jónas Kristjánsson

DV