Author Archive

Tveim öldum síðar

Greinar

Upplýsingalögin nýju, sem taka gildi hér á landi um áramótin, eru samin og sett í góðri trú og gera gagn. Þau flytja okkur á þessu sviði úr miðöldum og fram til þess ástands, sem var í Svíþjóð, þegar prentfrelsislög voru sett þar árið 1766, fyrir tvöhundruðogþrjátíu árum.

Áður höfðu stjórnvöld gert nokkrar tilraunir til að setja upplýsingalög í vondri trú. Þær tilraunir til að efla leyndarrétt stjórnsýslunnar stóðu yfir frá 1972-1990. Fimm sinnum á tímabilinu dagaði uppi á Alþingi frumvörp um þetta efni. Atlaga kerfiskarla tókst ekki.

Nýju lögin eru í allt öðrum anda en frumvörpin, sem áður hefur dagað uppi. Það stefnir að opnun stjórnsýslunnar og takmörkunum á undantekningum, sem embættismenn og ráðherrar gætu fundið upp til að hafa hemil á upplýsingaflæði um gerðir stjórnvalda.

Nýju lögunum fylgir ítarlegt kennslurit frá forsætisráðuneytinu. Það skýrir einstök atriði laganna í smáatriðum og þrengir að möguleikum kerfiskarla til að túlka lögin í átt frá markmiðum þeirra. Saman eru lögin og kennsluritið markvert framfaraspor íslenzks lýðræðis.

Aldagömul hefð og raunar árþúsunda er fyrir því, að löggjafarþing og dómþing séu haldin í heyranda hljóði. Alþingi heldur fundi sína fyrir opnum tjöldum og réttarhöld eru sömuleiðis opin. Framkvæmdavaldið hefur hins vegar komið sér undan sviðsljósi fólks og fjölmiðla.

Sænsku prentfrelsislögin frá 1766 festu í sessi þá meginreglu, að opinn væri aðgangur að gögnum löggjafarvalds, dómsvalds og framkvæmdavalds. Með íslenzku upplýsingalögunum frá 1996 er meira en tveim öldum síðar reynt að stíga feimnislegt skref í sömu átt.

Í millitíðinni hefur verið gengið lengra í opnun stjórnsýslu í sumum ríkjum Bandaríkjanna. Sólskinslög hafa verið sett í Flórída og víðar til að færast nær opinni stjórnsýslu. Meðal annars er tekið á tilraunum til að halda lokaða fundi til undirbúnings opnum fundum.

Íslenzku lögin taka ekki mið af þessari þróun síðustu tveggja alda. Þau gera í stórum dráttum ráð fyrir, að framkvæmdavaldið geti áfram haft miklu meiri leynd yfir störfum sínum en löggjafarvaldið og dómsvaldið mega. Þau setja leyndinni bara auknar skorður.

Fólk og fjölmiðlar verða til dæmis að vita, að eitthvert mál sé á seyði til að geta spurt um það. Framkvæmdavaldið er ekki skyldað til að upplýsa mál að eigin frumkvæði. Lögin gera ráð fyrir, að undanfari upplýsingamiðlunar sé eins konar leki “eftir öðrum leiðum”.

Hvorki lögin né kennsluritið skilgreina nánar réttarstöðu lekans. En orðalagið “eftir öðrum leiðum” er notað um eins konar skilyrði eða upphaf þess ástands, sem leiðir til, að kerfið neyðist til að gefa umbeðnar upplýsingar. Fáum við kannski “lekalög” í kjölfarið?

Nýju lögin víkja ekki til hliðar eldri tölvulögum, sem eru þröng í anda og setja óhæfilegar skorður við rennsli upplýsinga. Þau lög hafa gert Tölvunefnd að dómstóli, sem lokar bílaskrá fyrir öðrum en bílasölum, reynir að loka skattskrám og takmarkar ættfræðirannsóknir.

Í upplýsingalögunum og kennsluriti þeirra er léttilega skautað á marklitlu og víðtæku orðalagi á borð við “sanngjarna” leynd yfir fjárhagsmálum einstaklinga og “mikilvægum” fjárhags- eða viðskiptahagsmunum fyrirtækja. Þetta óljósa orðalag víkkar leyndarsvigrúm kerfisins.

Nýju lögin eru þannig á ýmsan hátt gölluð og gamaldags. En þau eru samin og sett í góðri trú og eru bót á því slæma ástandi, sem var fyrir gildistöku þeirra.

Jónas Kristjánsson

DV

Afrakstur fúsks og leikja

Greinar

Hrapalleg útkoma íslenzka skólakerfisins í alþjóðlegum samanburði á kunnáttu í stærðfræði og raungreinum er ekki því að kenna, að við verjum litlu af peningum til skólamála. Við fjármögnum skólakerfið eins og Vesturlandaþjóðir og uppskerum eins og Afríkuþjóðir.

Útkoman segir ekki, að stærðfræði og raungreinar séu meiri Öskubuskur í skólakerfinu en aðrir flokkar námsgreina, til dæmis tungumál. Að vísu kann móðurmálskunnátta hér að vera sæmileg í fjölþjóðlegum samanburði, en um fleiri frambærileg fög er ekki vitað.

Niðurstaða hins fjölþjóðlega samanburðar getur hæglega leitt til þess, að erfiðara verði en áður fyrir íslenzka nemendur að komast í erlent framhaldsnám, til dæmis í háskólum. Danskir framhaldsskólar eru þegar hættir að taka mark á íslenzkum grunnskólaprófum.

Margar ástæður valda óförum íslenzka skólakerfisins, en þyngst vegur langvinn áherzla þess á fúsk og leiki í stað aga og vinnu. Grunntónn þessarar skólastefnu er, að skólinn eigi að vera skemmtileg félagsmiðstöð fyrir jafnaðarsinnað fólk og framleiða opinbera starfsmenn.

Ein hlið stefnunnar hefur verið nefnd Bremsukerfið. Það felst í að reynt er að hala skólanemendur inn að sléttri og felldri meðalmennsku. Hinir slöku fá sérkennslu til að hala þá upp. Reynt er að koma í veg fyrir, að hinir duglegu hlaupi of langt frá hópnum.

Það er engin tilviljun, að þjóðir, sem leggja áherzlu á samkeppni og sjálfsaga, frumkvæði og iðjusemi, fá meira út úr sínu skólakerfi en við fáum út úr okkar kerfi samvinnu og agaleysis. Hér eru skólaverkefni unnin í hópum, þar sem einn vinnur og hinir fljóta með.

Einungis 1% íslenzkra nemenda í stærðfræði og 2% í raungreinum eru í hópi þeirra 10%, sem ná beztum árangri í hinum fjölþjóðlega samanburði. Þetta sýnir, að skólakerfi okkar skilar hlutfallslega litlu af snillingum eða öðrum þeim, sem síðar á ævinni munu flytja fjöll.

Úr skólakerfi okkar kemur þægilegt fólk, sem getur lítið. Það hefur lært að fljóta með, en er ekki til mikilla átaka. Þetta er auðvitað alhæfing, sem ekki gildir um hvern einstakling fyrir sig, heldur um meðaltal heildarinnar eins og það birtist í fjölþjóðlegri rannsókn.

Margir Íslendingar koma af fullum krafti úr skólakerfinu, en þeir eru of fáir. Þá er athyglisvert, að sumir þeir, sem mest hafa lagt af mörkum til að gera tölvuþekkingu að útflutningsatvinnuvegi hér á landi, byrjuðu feril sinn á því að hrökklast próflausir út úr skólakerfinu.

Við breytum hvorki fúsks- og leikjastefnunni né bremsustefnunni með því að grýta meiri peningum í skólakerfið. Við verjum svipuðu fé til þess og þær þjóðir, sem fengu góða útkomu í hinum fjölþjóðlega samanburði. Við þurfum hins vegar að nota peningana betur.

Útreiðin stafar ekki af lágum launum og mikilli kennsluskyldu kennara, þótt þessi atriði séu sízt til bóta. Hún stafar ekki heldur af niðurskurði eða tækjaskorti. Í árangri erum við á báti með Spáni og Portúgal, þar sem laun eru lægri og tæpast til borð og stólar í skólum.

Sem dæmi um kveinistafastefnu íslenzkra skólamanna má nefna viðtal við kennara, sem kvartaði um, að skóli sinn ætti aðeins sextán tölvur og að einungis ellefu þeirra kæmust fyrir. Hann sá ekkert skrítið við að verja peningum í að kaupa þessar fimm, sem ekki komust fyrir.

Við þurfum að horfast í augu við, að við höfum um nokkurra áratuga skeið notað rangar forsendur í skólastarfinu. Við þurfum að losna við fúskið og leikina.

Jónas Kristjánsson

DV

Ótrygg matvörusamkeppni

Greinar

Verðsamkeppni í matvörum er of lítil hér á landi. Yfirleitt eru stórmarkaðir með svo jafnt verð, að það minnir á fáokun olíufélaganna. Þetta eru ekki nýjar fréttar, en þær hafa rækilega verið staðfestar í nýrri verðkönnun Neytendasamtakanna og verkalýðsfélaganna.

Niðurstöðurnar eru mjög svipaðar þeim, sem komu fram í verðkönnun DV í upphafi þessa árs. Keðjuverzlanir og beztu kaupfélög eru í hnapp á verðbili, sem nær frá 91% af meðalverði upp í 95% af meðalverði. Í þessum hópi eru 10-11 búðirnar, Hagkaup og Nóatún.

Ljósi punktur könnunarinnar er Bónus sem fyrr. Matvörðuverðið er þar 73% af meðalaverði. Raunar er mjög ánægjulegt, að helmingseign Hagkaups að Bónusi hefur ekki dregið úr samkeppni þessara aðila. Það hefur til dæmis komið skýrt fram í lyfjabúðakeppni þeirra.

Þetta er hins vegar ótryggt ástand, sem gæti breytzt fyrirvaralítið. Verzlunin, sem heldur niðri matvöruverði, er bara ein. Öruggara fyrir neytendur væri, ef Bónus hefði samkeppni annarra verzlunarkeðja, sem einnig legðu áherzlu á einfalda þjónustu og lágt verð.

Ástandið er raunar eins og það var fyrir nokkrum áratugum, þegar Hagkaup var sér á parti á matvörumarkaðinum og gerði meira fyrir almenning en samanlögð stéttarfélög landsins. Ekkert hefur gerzt annað en að Bónus hefur tekið að sér sparnaðarhlutverkið.

Auðvitað er gott að hafa eina verzlun, sem fórnar vöruúrvali og þjónustu til að koma matvöruverði niður í 73% af meðalverði. Það kemur hins vegar sífellt á óvart, að keðjuverzlanir, sem búa við hagkvæmni magninnkaupa, skuli ekki koma sínu verði neðar en í 91-95%.

Eðlilegt væri, að hér á landi væru til keðjuverzlanir, sem ekki fórnuðu vöruúrvali eða þjónustu, en næðu samt vöruverði, sem næmi innan við 90% af meðalverði smásöluverzlana. Þær gætu það með magninnkaupum sínum og beinum viðskiptum við framleiðendur.

Athyglisvert er við könnun þessa og fyrirrennara hennar, að kaupmennirnir á horninu standa sig tiltölulega vel miðað við stórverzlanir og keðjuverzlanir. Margir kaupmenn eru með um 105% af meðalverði án þess að eiga kost á magninnkaupum og beinum viðskiptum.

Einnig er athyglisvert, að ýmis staðbundin kaupfélög hafa bætt stöðu sína og standa jafnfætis keðjuverzlunum. Skagfirðingabúð kemst niður í 86% af meðalverði, Samkaup í Reykjaneskjördæmi í 91% og Kaupfélag Árnesinga í 94%, svo að nokkur þekkt dæmi séu nefnd.

KEA á Akureyri hefur sérstöðu, sem felst í að hafa þrjá verðflokka verzlana undir sama hatti. Þar er Nettó- búðin með 77% af meðalverði, Hrísalundur með 92% og venjulegar KEA-búðir með 101% af meðalverði. Eyfirðingar ná því nokkurri samkeppni undir sama hatti.

Engum kemur á óvart, að kaupmenn og kaupfélög á afskekktum stöðum, einkum á Vestfjörðum, skuli hafa hæsta verðið, 110-120% af meðalverði. Aðdrættir eru þar erfiðastir og markaðurinn minnstur. Þetta er einn þáttur herkostnaðarins af of mikilli dreifingu byggðar.

Í heild sýnir verðkönnunin töluverða samkeppni í matvöruverzlun. Verðsveiflan er frá 73% í 120% af meðalverði. Könnunin sýnir líka, að ódýri kanturinn hvílir of mikið á úthaldi og áræði eins kaupmanns. Loks sýnir hún, að keðjuverzlanir eru of miðlægar í verði.

Matvöruverzlun snýst auðvitað um fleira en verðlagið eitt. Það er samt mikilvægasti þátturinn, af því að það hefur veruleg áhrif á lífskjör almennings í landinu.

Jónas Kristjánsson

DV

Rangfengið fé er rýrð í búi

Greinar

Stjórnarmenn í Byggðastofnun hafa misnotað aðstöðu sína þar til að útvega börnum sínum og tengdabörnum ódýra peninga til að byggja upp ferðaþjónustu heima í héraði. Þetta eru alþingismennirnir Egill Jónsson á Seljavöllum og Stefán Guðmundsson á Sauðárkróki.

Stefán útvegaði syni sínum fimm milljónir í fyrra til að setja upp veitingahús á Sauðarkróki, nánast við hlið tveggja annarra, sem þar eru fyrir við aðalgötu bæjarins. Egill útvegaði syni sínum tvær milljónir til að bæta fjórum gistiherbergjum við hús sitt á Seljavöllum.

Að gömlum sið halda málsaðilar því fram að fólk eigi ekki að gjalda þess að vera börn alþingismanna og stjórnarmanna Byggðastofnunar. Er þó ljóst, að venjulega er hafnað málefnum af þessu tagi. Þeir eru ekki margir, sem komast gegnum nálarauga Byggðastofnunar.

Vafasamar tiltektir af þessu tagi hafa löngum einkennt Byggðastofnun. Frægust varð þjónusta stofnunarinnar við Stefán Valgeirsson og ættingja hans, þegar þeir ráku hallærisfyrirtæki í fiskeldi á Melrakkasléttu. Enda fylgir spilling alltaf skömmtunarstofum ríkisins.

Sukkið í Byggðastofnun einkennist þó fremur af hreinni óráðsíu en misnotkun fjármuna í þágu ættingja. Í stofnuninni og fyrirrennurum hennar hafa brunnið milljarðar í fyrirgreiðslum til fyrirtækja, sem nú eru gjaldþrota eða horfin af vettvangi vegna erfiðleika.

Byggðastofnun er hefðbundið skólabókardæmi um, að þeir peningar ónýtast, sem fara um hendur skömmtunarstofnana ríkisvaldsins til að þjóna sérhagsmunum á borð við kjördæmapot og ættingjapot stjórnmálamanna, sem sitja á þingi og í stjórnum sukkstofnana.

Byggðastofnun hefur fengið á sig óorð. Um hana var skrifuð fræg skýrsla Ríkisendurskoðunar, sem fann henni fátt til málsbóta. Þess vegna hafa stjórnvöld tekið upp nýjar leiðir til að sukka, meðal annars á sviði ferðaþjónustu í kjördæmum hagsmunapotaranna.

Samkeppnisráð hefur úrskurðað, að ráðherraskipuð nefnd, sem veitti ellefu hótelum tuttugu milljóna króna styrk, hafi brotið samkeppnislög. Nefndina skipaði Halldór Blöndal samgönguráðherra og gerði flokksbróður sinn, Sturlu Böðvarsson alþingsmann, að formanni.

Engum kemur á óvart, að þau tvö hótel, sem hæstan styrkinn hlutu hjá nefndinni, eru bæði í kjördæmi Sturlu, Vesturlandskjördæmi. Ekki kemur heldur á óvart, að hótelstjórar, sem eru í samkeppni við útvöldu hótelin, kærðu meðferð málsins til Samkeppnisráðs.

Engum var gefinn kostur á að sækja um styrk hjá nefndinni og engar skýrar vinnureglur voru til um úthlutun fjárins. Úthlutunarnefndin kastaði peningunum að geðþótta í ýmsa aðila, sem hún mundi eftir og voru henni þóknanlegir, einkum frá kjördæmissjónarmiðum.

Engu máli virðist skipta, þótt vinnubrögð, sem hér er lýst að ofan, hafi sætt gagnrýni hlutaðeigandi eftirlitsstofnana, svo sem Ríkisendurskoðunar og Samkeppnisráðs. Stjórnmálamenn af landsbyggðinni virðast telja það vera helgan rétt sinn að mega misnota fé almennings.

Með því að opna þjóðfélagið, loka opinberum skömmtunarstofum og innleiða markaðslögmál í hagkerfið er smám saman verið að draga úr möguleikum valdamanna til að misnota aðstöðu sína. Atriði, sem varða byggðastefnu, hafa lengi setið á hakanum í þessari þróun.

Yfirleitt sannast líka, að rangfengið fé er rýrð í búi. Oftast brenna peningarnir, sem misnotaðir eru, og skilja byggðirnar eftir fátækari en þær voru fyrir.

Jónas Kristjánsson

DV

Caruso

Veitingar

Notalegur formúlustaður undir ítalska nafninu Caruso er nýlegur af nálinni í Bankastræti. Gamalkunn formúlan felst í að rífa húsnæði niður í fokhelt, leyfa hressum stílista að leika lausum hala við framleiðslu á ímynd og bjóða síðan tilviljanakennda matreiðslu með bragðsterkum sósum á fremur háu verði.

Unnt er að komast hjá annmörkunum með því að halla sér að pizzum, sem hvorki eru lakari eða dýrari en gengur og gerist í bænum, kosta að meðaltali 1050 krónur og eru matarmiklar. Pitsa vegetali var fremur góð, hvorki hörð né seig, með hlutlausri sósu og ekki minnisstæðri.

Kaffið hét espresso, borið fram í litlum bollum. Það var svipað venjulegu kaffi, þunnt og ómerkilegt. Tiramisú var rangnefni eins og kaffið, íslenzk verksmiðju-lagterta með ostakökulögum, með miklu af þeyttum rjóma, súkkulaði- og jarðarberjasósu.

Beikonvafðar rækjur eru dularfullar á matseðli og reyndust vera aulafyndni. Þær bjuggu yfir yfirgnæfandi beikonbragði í bland við bragð af sætri púðursykursósu. Enn sterkara bragð var að jalapeno-piparkrydduðum úthafsrækjum, fremur seigum, blönduðum pönnusteiktu grænmeti á borð við rauðlauk, jöklasalat, grænan pipar og sveppi. Eldbragðið var skemmtilegt, en óþarft að blanda rækjum í það.

Sumt var ágætt í matreiðslunni. Þar á meðal voru fylltir sveppahattar með gráðosti og hæfilega kryddaðir hvítlaukssmjöri. Ennfremur kúrbítssneiðar undir ostþaki, með mildri tómat-basilikum-sósu. Einnig milt makkarónupasta með góðum smokkfiski og rækju í tómatsósu. Á óvart kom, að skötuselur var meyr og ferskur og ekki þíddur, borinn fram með góðu hrásalati, en því miður yfirgnæfður af laukkryddaðri tómatsósu.

Vel tókst til með fiskisúpu staðarins, þykka og bragðsterka tómatsúpu með nokkrum rækjum og smokkfiskhringjum. Laukblönduð tómatsúpa dagsins var líka þykk og matarleg, borin fram með smurðum pizzugeirum, snarpheitum úr ofni. Langbezt var ferskt salat í miklu magni, mestmegnis jöklasalat, ekki enn orðið brúnt, með rauðlauk, feta-osti, ætiþistilhjörtum og töluverðu af rækjum, borið fram í olíuedikssósu.

Lambahryggsneið var næsta grá og þétt, en sæmilega góð, með brakandi fiturönd og sterkri tómatsósu og bakaðri kartöflustöppu. Eins og í mörgum öðrum réttum staðarins var sósan hinn ríkjandi þáttur. Sama var að segja um ofeldaðan eldislax, engifer- og piparsteiktan, fátæklegan að magni, borinn fram með skúffubökuðum kartöfluskífum, sætri tómatrjómasósu og hvítlauksbrauði.

Vínlistinn er hversdagslegur, að mestu frá Gancia, jafnlítið spennandi og hvíta fransbrauðið, sem borið var á borð í upphafi máltíðar. Til var þó Chianti Classico frá Ricasoli á 2.150 krónur.

Þjónusta var óskóluð og ljúfmannleg. Slæðingur var af erlendu ferðafólki og innlendum saumaklúbbum, en markhóp ósjálfstæðra ungmenna vantaði. Ímyndin hefur ekki selzt enn.

Bezt er að sitja við lítil borð í notalegri garðstofu úti við götu. Innra er skuggsælla að sitja við stór borð umhverfis skrautlegan bar og pizzuofn. Innréttingar eru hráar, meðal annars burðarbitar í lofti, en vandaður viður er í nöktum borðplötum.

Miðjuverð þriggja rétta og kaffis er í skýjunum, 3.325 krónur. Hádegistilboð er samt frambærilegt, 870 krónur fyrir súpu og rétt dagsins.

Jónas Kristjánsson

DV

Fíkniefnaflóðið

Greinar

Fíkniefna- og ofbeldisflóðið á Íslandi hefur ekki leitt til marktækra gagnaðgerða af hálfu stjórnvalda. Þvert á móti hafa fjármálaráðherra og tollstjórinn í Reykjavík dregið úr fíkniefnaleit og tekið þá tollverði á teppið, sem hafa verið að segja frá þessum samdrætti.

Á sama tíma eru kerfiskarlar að velta vöngum yfir, hvort ofsagt hafi verið einhvers staðar, að tvöhundruð ungmenni séu í harðri neyzlu fíkniefna, því að þau séu ekki í raun nema fimmtíu. Sumir saka jafnvel fjölmiðla að venju um að búa til vandamál, sem sé ekki til.

Meðan ráðherrar, embættismenn og sérfræðingar taka svona á málum, flæða fíkniefni og ofbeldi um landið í síauknum mæli. Nánast daglega berast okkur fréttir af ofbeldisverkum, en mjög sjaldan fréttum við, að tekizt hafi að ná fíkniefnasendingum úr umferð.

Reykjavíkurhöfn er eftirlitslaus langtímum saman. Utan Reykjavíkur er nánast ekkert gert til að stöðva innflutning um hafnir. Það er orðinn viðburður, að fíkniefni séu tekin á Keflavíkurflugvelli. Tollpóststöðin opnar marga pakka, en finnur sjaldnast þá réttu.

Fíkniefnainnflytjendur hafa svo mikinn stuðning af fjármálaráðherra og tollstjóranum í Reykjavík, að þeir geta tekið lífinu rólega. Samt höfðu þeir fyrir því í vor að berja hnýsinn tollvörð til óbóta, svona til að minna alla hina á að hafa hægt um sig í fíkniefnaleit.

Þannig er kerfið lamað með aðgerðum að ofan og neðan. Yfirlæknirinn á Vogi segir opinberlega, að þjóðfélagið hafi misst tökin á fíkniefnavandanum. Notkun flestra fíkniefna fer ört vaxandi og einkum hörðustu efnanna. Sprautufíklar eru orðnir algengt vandamál.

Til viðbótar við augljósan vanda innanlands, sést af innflutningi látins fólks, að við flytjum líka út fíkniefnavandann. Fólk fer til Kaupmannahafnar, Amsterdam, Taílands og fleiri staða til að komast í þægilegra neyzluumhverfi og er síðan flutt heim í líkkistum.

Unglingar undir refsialdri eru orðnir síbrotamenn í vopnuðum misþyrmingum. Í einu hverfi Reykjavíkur gera unglingar aðsúg að lögreglu og öðrum þeim, sem þangað koma vegna fíkniefnamála. Strætisvagnastjórar kvíða síðustu ferð að næturlagi um helgar.

Unglingarnir eru aðeins ein myndbirting vandamálsins, en sú alvarlegasta, af því að þeir eru óharðnaðir. Raunar gera þeir lítið annað en fara eftir þeim fyrirmyndum í hegðun, sem þeir sjá hjá kófdrukknum foreldrum heima fyrir og í flóði ofbeldiskvikmynda.

Ráðherrar, embættismenn, stjórnmálamenn og sérfræðingar verða að hætta að ganga óbeinna erinda fíkniefna- og ofbeldisbransans. Margfalda þarf tollgæzlu í skipa- og flughöfnum landsins, svo og í tollpósti, til þess að reyna að stemma fíkniefnafljótið að ósi.

Margfalda þarf löggæzlu á þessum sviðum og herða verulega dóma fyrir sölu og dreifingu fíkniefna. Jafnframt þarf að efla úrræði til meðferðar þeirra, sem ánetjast fíkniefnum og vilja takast á við fíknina. Núverandi möguleikar á því sviði eru af of skornum skammti.

Það er út í hött, að Barnaverndarstofa sé að eyða tíma í að taka þátt í umræðu um, hvort fimmtíu unglingar eða fleiri á landinu séu ofurseldir fíkniefnum, og að reyna að setja ofan í við þá, sem halda því fram, að þeir séu tvöhundruð, sem raunar er einnig allt of lág tala.

Miklu nær væri fyrir slíka aðila að taka þátt í tilraunum til að koma vitinu fyrir þá ráðamenn, sem bera ábyrgð á nánast óhindruðu flóði fíkniefna um landið.

Jónas Kristjánsson

DV

Skilnaður valda og áhrifa

Greinar

Unga fólkið úr smáflokkunum vill sameiginlegt framboð þeirra til mótvægis við Sjálfstæðisflokkinn þegar í næstu kosningum. Það telur sig hafa svipaðar skoðanir og eiga auðvelt með að starfa saman. Þetta kom fram á fundi þess í Bifröst í Borgarfirði um helgina.

Stofna á formleg regnhlífarsamtök einstaklinga um kosningabandalag eftir tvo mánuði. Sameiningarhugtakið er jafnaðarmennska. Misvísandi fréttir eru af, hvort þegar hafi að öðru leyti fundizt málefnagrundvöllur eða hvort eigi að finna hann á næstu tveimur mánuðum.

Líklega er þetta vænlegasta upphafsskrefið við að koma upp vinsælum stjórnmálaflokki til mótvægis við Sjálfstæðisflokkinn. Grasrótin er að komast að raun um, að hún geti unnið saman. Hún fær síðan valdamenn í flokkunum til að koma með semingi í kjölfarið.

Annað skref samtakanna felst í að finna aðdráttarafl fyrir kosningabandalagið, eins konar forsætisráðherraefni, alveg eins og Reykjavíkurlistinn fann sér trúverðugt borgarstjóraefni fyrir síðustu byggðakosningar. Reynslan sýnir, að persónur sameina, en málefni sundra.

Fyrir Bifrastarfundinn voru lögð til hliðar ýmis mál og kölluð dægurmál. Meðal þeirra eru afar spennandi atriði eins og staða samtakanna á ásnum milli stuðnings og andstöðu við frekara Evrópusamstarf og staða samtakanna á ásnum milli neytenda og landbúnaðar.

Í flokki svokallaðra dægurmála er væntanlega staða samtakanna á ásnum milli framtaks annars vegar og jafnaðar hins vegar, á ásnum milli svonefndra karlamála og kvennamála, á ásnum milli örra breytinga á þjóðfélaginu annars vegar og festu í þjóðfélaginu hins vegar.

Þetta eru nokkur helztu atriðin, sem nú sundra smáflokkunum, er sameina á í kosningabandalagi. Þægilegt er að afgreiða þau út af borðinu sem dægurmál og láta væntanlega flokksleiðtoga um að ákveða afstöðuna til þeirra eftir hendinni og aðstæðum hverju sinni.

Þannig hafa myndazt stór kosningabandalög í útlöndum, svo sem demókratar og repúblikanar í Bandaríkjunum, íhaldsflokkur og verkamannaflokkur í Bretlandi. Það eru bandalög um pólitísk völd, en málefni eru breytileg eftir aðstæðum á kjósendamarkaði hverju sinni.

Slík kosningabandalög á breiðum og jafnvel óljósum málefnagrunni hafa reynzt afar heppileg leið til að ná meirihluta og koma leiðtogum bandalagsins til valda. En þau gagnast lítt eða ekki þeim, sem vilja, að völdin nýtist ákveðnum málefnum til framdráttar.

Stjórnmálakerfið stefnir í þessa átt. Flokkarnir verða stærri, en málefnalega áhrifaminni. Skoðanakannanir taka smám saman við af málefnavinnu. Tveir flokkar geta jafnvel haft skipti á málefnum, svo sem nú er að gerast í Bretlandi, til dæmis í Evrópustefnunni.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur að þessu leyti lengi verið á undan sinni samtíð. Hann er fyrst og fremst kosningabandalag um völd. Málefni hans eru óljós, enda eru innan flokksins deildar meiningar um flest það, sem máli skiptir. Hann er fyrirmynd Bifrastarsamtakanna.

Smám saman verða stjórnmálaflokkar að eindregnari vettvangi þeirra, sem sækjast eftir völdum. Hinir, sem sækjast eftir framgangi málefna, eiga betur heima í hagsmunasamtökum, sem reyna að sveigja almenningsálit, og þar með skoðanakannanir, að sínum málstað.

Með aukinni verkaskiptingu samtaka munu stjórnmálaflokkar sérhæfa sig í að fara með áhrifalaus völd til að framkvæma niðurstöður skoðanakannana.

Jónas Kristjánsson

DV

Yfirgangur ómagans

Greinar

Boutros Ghali er bezti framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna frá upphafi, enda nýtur hann meira og víðtækara trausts en dæmi eru um. Hann hefur þar að auki skorið kostnað niður meira en allir fyrirrennarar hans til samans. Þess vegna ber að endurkjósa hann.

Stuðningurinn við Boutros Ghali er almennur í öllum heimshornum, enda spannar hann sjálfur ýmsa menningarheima. Hann er frá íslamska Afríkuríkinu Egyptalandi, er sjálfur kristinn og er kvæntur konu af gyðingaættum. Auk þess er hann menntamaður á vestræna vísu.

Samkvæmt venju sækir Boutros Ghali um endurráðningu í annað kjörtímabil, sem hefst um áramótin. Til þess hefur hann stuðning alls meginþorra ríkja heims, nema þess ríkis, sem ber meiri ábyrgð en nokkurt annað ríki á fjárhagsvandræðum Sameinuðu þjóðanna.

Bandaríkin eru skuldakóngurinn. Þau skulda Sameinuðu þjóðunum sem svarar 85 milljörðum íslenzkra króna. Samt eru Bandaríkin hvað eftir annað að reyna að fá Sameinuðu þjóðirnar til að taka að sér ný og ný verkefni, er kosta peninga, sem ekki eru til.

Sameinuðu þjóðirnar og Öryggisráðið hafa hvað eftir annað tekið þátt í verkefnum og haft kostnað af verkefnum, sem Bandaríkjastjórn hvers tíma hefur talið sér afar mikils virði, allt frá Kóreustríðinu yfir í Persaflóastríðið, frá hernámi Bosníu yfir í hernám Haítí.

Þótt Bandaríkin séu í vaxandi mæli að verða fjárhagslegur ómagi á heimspólitísku framfæri Sameinuðu þjóðanna, haga þau sér eins og þau eigi samtökin. Svartasta dæmið um frekju og yfirgang Bandaríkjanna er dólgsleg andstaða þeirra gegn endurráðningu Boutros Ghali.

Raunar hefur stjórn Clintons Bandaríkjaforseta ekkert málefnalegt út á Boutros Ghali að setja. Brottför hans hjálpar ekki neinum málum Bandaríkjanna og sparar Sameinuðu þjóðunum ekki krónu. Andstaðan er misheppnuð tilraun til að sýna mátt sinn og megin.

Velflestir bandamenn Bandaríkjanna í Sameinuðu þjóðunum hafa hvatt Bandaríkjastjórn til að skipta um skoðun. Hið sama hafa ótal samtök gert í Bandaríkjunum, þar á meðal fjölmörg kirkjuleg samtök. Bandaríkin hafa alls engan stuðningsaðila í máli þessu.

Bandaríkjastjórn er þegar farin að finna fyrir því að hafa æst alla upp á móti sér. Um daginn var ekki endurkosinn fulltrúi frá Bandaríkjunum í hina valdamiklu fjárlaganefnd Sameinuðu þjóðanna, enda tæpast við hæfi, að sjálfur ómaginn sitji í svo mikilvægri nefnd.

Eitt fordæmi er fyrir, að allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hafi ráðið framkvæmdastjóra gegn neitunarvaldi heimsveldis í Öryggisráðinu. Það var þegar Norðmaðurinn Tryggve Lie var, að ráði Bandaríkjanna, endurkjörinn árið 1950 gegn neitunarvaldi Sovétríkjanna.

Nú er kominn tími til að stöðva yfirgang Bandaríkjanna á sama hátt og yfirgangur Sovétríkjanna var stöðvaður 1950. Ríki Sameinuðu þjóðanna setja ofan, ef þau leyfa dólgslegri ríkisstjórn að haga sér eins og hún eigi samtökin og koma sér hjá því að greiða félagsgjald.

Ef skuldakóngurinn kemst upp með að neita Boutros Ghali um endurráðningu, þótt hann sé bezti framkvæmdastjórinn frá upphafi og njóti öflugs stuðnings flestra ríkja heims, hafa Sameinuðu þjóðirnar sett svo ofan, að vafasamt er, að samtökin eigi tilverurétt.

Eina leiðin til að verja reisn Sameinuðu þjóðanna gegn árás hins vanhæfa Clintons Bandaríkjaforseta er að endurráða Boutros Ghali gegn neitunarvaldi Bandaríkjanna.

Jónas Kristjánsson

DV

Í húsi foringjans

Greinar

Brotalínur íslenzkra stjórnmála eru ekki frekar milli Sjálfstæðisflokksins og annarra flokka heldur en milli ýmissa annarra hugsanlegra samstarfsmynstra. Í leiðara DV í gær var rakið, hvernig raða má flokkum í ýmiss konar hópa eftir nokkrum mikilvægum málaflokkum.

Bent var á, að Alþýðuflokkurinn er að sumu leyti sér á parti vegna stefnunnar í málefnum Evrópu, fiskveiðistjórnar, landbúnaðar og neytenda. Bent var á, að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn standa sumpart saman vegna samstarfs kolkrabba og smokkfisks.

Morgunblaðið hefur bent á, að Sjálfstæðisflokkurinn og Alþýðubandalagið eru orðnir pólitískir nágrannar vegna eindreginnar andstöðu beggja flokka við hvers konar breytingar, einkum í Evrópusamstarfi og skipulagi fiskveiða. Þetta eru íhaldsflokkarnir tveir.

Niðurstaða DV var, að samstarf í stíl Reykjavíkurlistans muni ekki ganga upp á landsvísu, af því að það, sem sameinar flokka þess, eru einkum atriði á sviði byggðamála en sárafá á sviði landsmála. Reykjavíkursamstarfið verður ekki yfirfært með árangri á landsvísu.

Kvennalistinn efast um gildi vinstra samstarfs og spyr: Samstarf um hvað? Svarið finnst ekki, meðal annars af þeim ástæðum, sem raktar voru í leiðara DV í gær. Málefnasamstöðuna vantar. Hefðbundin flokkun í hægri og vinstri gefur ekki rétta mynd af flóknu mynstri.

Ein mælistikan í þessu dæmi er ásinn milli jafnaðar og framtaks. Önnur er ásinn milli íhalds og breytinga. Þriðja er ásinn milli verndaðra stórfyrirtækja og almenns atvinnulífs. Fjórða er ásinn milli karla og kvenna. Flokkarnir raðast margvíslega í fjölbreytt mynstur.

Því fleiri mælistikur, sem teknar eru inn í samstarfsdæmi, þeim mun líklegra er, að niðurstaðan fæli þá frá, sem eru ósammála staðsetningu samstarfsins á einhverjum ákveðnum ási. Því færri mælistikur, sem notaðar eru, þeim mun minna er í rauninni sameinazt um.

Ekki má heldur gleyma, að málefni eru aðeins ein af mörgum forsendum þess, að kjósendur skiptast milli flokka. Sumir fæðast beinlínis inn í flokka og aðrir alast upp í stuðningi við þá, á sama hátt og menn styðja íþróttafélag, af því bara að það er þeirra félag.

Loks má ekki gleyma, að margt fólk setur menn ofar málefnum. Það telur ekki vera í verkahring flokksmanna að búa til málefni handa leiðtogum til að fara eftir. Það telur þvert á móti vera í verkahring leiðtoganna að ákveða málefni handa flokksmönnum til að styðja.

Sjálfstæðisflokknum hefur gengið vel, af því að hann hefur ekki verið upptekinn af öðrum málefnum en eindregnum stuðningi við kolkrabbann og hefur í stað málefna lagt áherzlu á foringjann mikla, sem leiðir hjörðina í þá átt, sem hann ákveður sjálfur hverju sinni.

Reykjavíkurlistanum gekk vel, af því að hann bauð foringja til að safnast um. Málefni listans hefðu ekki dugað honum ein, þótt málefnasamstaða sé margfalt auðveldari á byggðavísu en landsvísu. Úrslitum í fylgi listans réð fólk, sem vill, að borgarstjóri ráði ferð.

Í þessu liggur svar við spurningunni: Samstarf um hvað? Svarið er ekki samstarf um málefni, heldur um menn. Kjósendur eru almennt ekki svo sjálfstæðir eða ákveðnir í skoðunum, að þeir kjósi samkvæmt því. Þeir kjósa flestir af vana eða af trú á foringjann sinn.

Af biblíunni má læra, að í húsi foringjans eru margar vistarverur. Þetta hefur Sjálfstæðisflokkurinn lengi vitað. Aðrir flokkar eru núna að reyna að skilja það.

Jónas Kristjánsson

DV

Grænn kostur

Veitingar

Ódýrasti og skemmtilegasti sprotinn á tízkumeiði grænmetismatstofa er lítil sjálfsafgreiðsluhola að húsabaki við Skólavörðustíg og kallar sig réttilega heilsubitastað. Grænn kostur heitir hann, þrauthannaður að fransk-ítölskum hætti nútímans og svo ljótur að innréttingum, að hann getur næstum talizt smart.

Svipur staðarins er napur, glansandi málmur, og groddalegur krossviður, fjólublá málning og stælleg næfurljós, háir barstólar við hringlaga smáborð, steinflísar í gólfi og stórir gluggar út að bílageymslunni að Bergsstöðum.

Samt er andrúmsloftið gott, starfslið glaðlegt og viðskiptavinir greinilega með lífsstíl. Með óviðurkvæmilegri alhæfingu mætti segja, að á Grænum kosti borði ungt og glatt fólk; á Næstu grösum borði magaveikt fólk og þekktir sérvitringar; og á Grænu og góðu borði sorgbitið fólk á miðjum og meðvituðum aldri.

Allir grænmetisstaðir borgarinnar hafa að markhópi fólk, sem vill ekki eða má ekki borða óþverrann í mötuneytunum, sem eru alfa og ómega íslenzkrar matargerðar. Fólk snæðir hér hversdagslega, en ekki til spari. Verðlag Græns kosts endurspeglar það betur en hinna staðanna, enda er þetta sá staðurinn, sem slegið hefur í gegn.

Hér fást tveir heitir réttir dagsins á 495 krónur hálfur skammtur og 650 krónur heill. Ýmsar minna áhugaverðar bökur og svokallaðar samósur fást á 300 krónur, upphitaðar í örbylgjuofni. Tertusneiðar kosta 200 krónur, en ekki eru á boðstólum ferskir ávextir, sem þó ættu að vera aðalsmerki eftirrétta á slíkum stað.

Matreiðslan er hér lítillega fjölbreyttari en á hinum stöðunum, sem yfirleitt bjóða aðeins einn rétt dagsins. Hún er líka hressilegri og frjálslyndari í meðferð á kryddi, undir áhrifum matreiðslu úr þriðja heiminum. Grænn kostur sannar, að grænmetisfæði þarf alls ekki að vera bragðdauf þjáning.

Matreiðslan er í kórréttu samræmi við sjónarmið náttúrulækningamanna, notar til dæmis ekki póleruð hrísgrjón eins og gert er á Næstu grösum. Hér er einnig daðrað við hugmyndafræði þeirra, sem ekki vilja sykur eða hveiti. Sykur er raunar alls ekki notaður á staðnum og jafnan er annar aðalrétturinn hveitilaus. Hér rúmast í senn mest sérvizka og mest tilbreyting.

Meðal þess, sem hér hefur sézt á boðstólum, er mildur karrípottur með sojabaunum, steiktu grænmeti og lífrænum hýðishrísgrjónum; sterkur karrípottur með kjúklingabaunum, kartöflum og aprikósusósu; norður-afrískt húmmus með karrígrænmeti; linsubaunabuff, kjúklingabaunabollur og gulrótaborgarar. Allt voru þetta bragðgóðir og bragðríkir réttir.

Hrásalat er sæmilegt, en getur tæpast keppt við það, sem kemur úr eldhúsi ýmissa veitingahúsa, sem ekki kenna sig við grænmetisfæði. Þetta er stílbrot í kerfinu eins og skorturinn á ferskum ávöxtum. Tvennt bætir úr skák, að hrásalötin eru tvö og að gestir geta sjálfir lagað sér olífuedikslög.

Líklega er það heiftarleg óvild ríkisstjórnarinnar í garð innflutts grænmetis, sem veldur því, að ódýr veitingahús hafa ekki ráð á fallegu hrásalati. Í sérhagsmunagæzlu sinni spillir hún þannig heilsu þjóðarinnar eins og öðru.

Jónas Kristjánsson

DV

Bandalag um hvað?

Greinar

Þótt vel hafi tekizt að koma á og framfylgja samstarfi kosningabandalags Reykjavíkurlistans, er ekkert sem bendir til, að unnt sé við núverandi aðstæður að koma á svipuðu samstarfi á landsvísu, með eða án Framsóknarflokksins, sem nú situr í stjórn með sjálfum óvininum.

Flest mál, sem sameina flokka væntanlegs kosningabandalags, eru á verksviði sveitarstjórna. Flest mál, sem sundra þessum sömu flokkum, eru á verksviði Alþingis og ríkisstjórnar. Og ekkert bendir til, að skoðanaágreiningur þessara flokka fari minnkandi á landsvísu.

Þótt tilhugalíf miðist sjaldan við kaldan veruleika hjónabandsins, er engin leið að sjá fyrir sér, að kosningabandalag á landsvísu komizt hjá að taka þegar í upphafi á ýmsum grundvallarmálum. Meðal þeirra má nefna Evrópu, fiskveiðistjórn, landbúnað og neytendamál.

Í öllum þessum málum hefur Alþýðuflokkurinn sérstaka stefnu, sem skilur hann frá Sjálfstæðisflokknum, en aðrir flokkar hugsanlegs kosningabandalags hafa hins vegar stefnu, sem fellur mjög saman við stefnu höfuðóvinarins. Af hverju er hann þá höfuðóvinurinn?

Ef litið er eingöngu á Evrópu, fiskveiðistjórn, landbúnað og neytendamál, er miklu nær, að allir stjórnmálaflokkar landsins, með Sjálfstæðisflokkinn í broddi fylkingar, myndi kosningabandalag gegn Alþýðuflokknum. Svo undarlegur er veruleikinn í málefnamynztrinu.

Ef Alþýðuflokkurinn gefur eftir sérstöðu sína í framangreindum málum til að koma á málefnalegri samstöðu í kosningabandalaginu, getur Sjálfstæðisflokkurinn væntanlega líka fengið inngöngu í bandalagið, sem verður þá bandalag allra flokka gegn engum flokki.

Hversdagsleiki stjórnmálanna sýnir, að Sjálfstæðisflokkurinn er sem ríkisstjórnarflokkur ekki aðeins mjög líkur Framsóknarflokknum sem ríkisstjórnarflokki, heldur einnig líkur Alþýðubandalaginu eins og það hefur verið sem ríkisstjórnarflokkur á síðari árum.

Ef eitthvað greinir Sjálfstæðisflokkinn frá þeim flokkum, sem nú gæla við hugmyndir um kosningabandalag, er það eindreginn stuðningur hans við stórfyrirtæki og samtök stórfyrirtækja, sem njóta einokunar eða fáokunar í skjóli pólitískra aðgerða frá fyrri tímum.

Framsóknarflokkurinn er sáttur við þessa einokun og fáokun samtaka stórfyrirtækja, af því að fyrirtæki, sem eru honum velviljuð, eiga minnihlutaaðild að þessari aðstöðu. Smokkfiskurinn nýtur molanna af borði kolkrabbans. Þar slær hjarta Framsóknarflokksins.

Ofan á þessa sérstöðu Framsóknarflokksins bætist svo sérstaða hans sem ríkisstjórnarflokks líðandi stundar. Engin leið er að sjá fyrir sér, að hann gangi til næstu alþingiskosninga sem aðili að kosningabandalagi gegn þeim flokki, sem hann er hamingjusamlega giftur.

Í engum málum, sem hér hafa verið rakin, í málum Evrópu, fiskveiðistjórnar, landbúnaðar, neytenda og kolkrabbans, er unnt að sjá, að vatnaskil í stjórnmálum landsins séu fremur milli Sjálfstæðisflokksins og hinna flokkanna heldur en milli og innan hinna flokkanna.

Kvennalistinn hefur miklar efasemdir um, að hinir flokkar væntanlegs bandalags séu samstarfshæfir í málefnum kvenna. Ef svo er ekki, þá stendur ekkert eftir af sameiginlegum málum á landsvísu annað en stuðningur við íhaldssama yfirstétt í félögum launafólks.

Atkvæðarýrt yrði bandalag um hagsmuni yfirstéttar félaga launafólks í þeim gamla stíl Verkamannaflokksins brezka, sem var fyrir langvinna hundahreinsun hans.

Jónas Kristjánsson

DV

Guðmundur góði

Greinar

Guðmundur Árni Stefánsson fékk mikið fylgi í formannskjöri Alþýðuflokksins um helgina og er af mörgum talinn munu verða formaður flokksins í náinni framtíð. Formaður Alþýðubandalagsins telur slíkt mundu verða vænlegan kost í samstarfi vinstri flokkanna.

Jafnframt er ítrekað, sem Guðmundur hefur alltaf haldið fram, að hann sé saklaus af þungum áburði, er hann varð fyrir sem ráðherra. Hann sagði ekki af sér ráðherradómi, af því að hann hefði gert neitt rangt, heldur af því að hann var að fórna sér fyrir flokkinn.

Margvísleg góðvild Guðmundar í garð bágstaddra einstaklinga olli erfiðleikum í samskiptum í ríkisstjórninni og í almannatengslum flokksins. Guðmundur leyfði þá af góðsemi sinni, að sér yrði kastað fyrir blóðgrimma fjölmiðlunga til að létta á stöðu flokksins.

Söguskýring þessi er víðtækari. Guðmundur hefur einnig upplýst, að herferðin gegn sér hafi átt rætur sínar í valdakerfi Alþýðuflokksins sjálfs. Hún hafi verið runnin undan rifjum Sighvats Björgvinssonar, sem núna passar sjoppuna, unz Guðmundur tekur við henni.

Endurreisn Guðmundar í flokknum byggist ekki á, að hann hafi gengið til Rómar og tekið skriftir. Hún byggist á hans eigin forsendum. Hann var fórnardýrið, sem saklaust tók eldskírnina og bíður þess nú sem forkláraður dýrlingur að verða sameiningartákn jafnaðarmanna.

Góðvild Guðmundar í garð bágstaddra beindist að völdum einstaklingum. Sumir fengu ódýrt húsnæði. Aðrir voru gerðir að verktökum í ráðuneytinu. Það, sem Guðmundur gerði fyrir Steen, gerði hann ekki fyrir Jón. Það er munurinn á sértækri góðvild og almennri.

Það hefur alltaf verið skoðun Guðmundar og er enn, að þessi sértæka góðvild hafi verið réttmæt. Alþýðuflokkurinn hefur nú staðfest með tæplega 50% atkvæða, að þar er sú skoðun útbreidd, að sértæk góðvild Guðmundar í garð útvalinna hafi í raun verið eðlileg.

Ekki er nóg með, að þetta sé viðurkennd skoðun í flokknum, heldur er hún unga skoðunin á uppleið. Hún verður framlag Alþýðuflokksins til samstarfsins á vinstri vængnum, þegar flokkurinn hefur fórnað sérvizku sinni í málum Evrópu, sjávarútvegs og landbúnaðar.

Sighvatur Björgvinsson er talinn maður gamla tímans, stuðningsmaður sjónarmiða Jóns Baldvins Hannibalssonar í málum Evrópu, sjávarútvegs og landbúnaðar. Þessum málum verður flokkurinn að fórna í væntanlegu vinstra samstarfi, því að þau eru sérmál flokksins.

Enn hafa þessi sérmál meirihlutafylgi í flokknum. En einnig er upplýst, þar á meðal af Sighvati sjálfum, að í væntanlegu samstarfi verða allir aðilar að kasta sérvizku sinni fyrir róða. Það þýðir, að lítið hald er í stuðningi flokksins við þessa arfleifð frá Jóni Baldvin.

Tvenns konar eðli blundar í Alþýðuflokknum. Annars vegar er þar hagfræði- og alþjóðahyggjan, sem einkenndi Jón Baldvin í miklum mæli og Sighvat í nokkrum. Hins vegar er þar fyrirgreiðsluhyggjan, sértæk góðvild í garð útvalinna einstaklinga að hætti Guðmundar Árna.

Þannig rúmar flokkurinn allt frá víðförlum rithöfundum til hagvanra sveitarstjórnarmanna. Þar horfa sumir á umheiminn og aðrir á sértækan lítilmagna. Til bráðabirgða er hagfræði- og alþjóðahyggjan enn ofan á, en undir niðri er fyrirgreiðsluhyggjan að rísa.

Geislabaugur Guðmundar mun svo skína enn bjartar, er flokkurinn stendur andspænis þörfinni á þjálli formanni en Sighvati í væntanlegu kosningabandalagi.

Jónas Kristjánsson

DV

Valfrelsið er marklaust

Greinar

Kosningaþáttaka í Bandaríkjunum hefur á þremur áratugum fallið úr rúmlega 60% niður í tæplega 50%. Þetta sýnir aukið áhugaleysi bandarískra kjósenda og gefur tilefni til að hugleiða, hvort svipaðar breytingar geti ekki líka orðið í öðrum þjóðfélögum Vesturlanda.

Reynslan sýnir, að bandarískt þjóðfélag gefur tóninn á mörgum sviðum og önnur vestræn þjóðfélög fylgja í humátt á eftir. Breytingar byrja þar og síast síðan inn annars staðar í kjölfarið. Aukið áhugaleysi kjósenda fyrir vestan gæti því hæglega smitazt yfir til okkar.

Að þessu sinni völdu Bandaríkjamenn milli tveggja óhæfra forsetaefna. Niðurstaðan varð, að þeir kusu siðferðilega vanþroskaðan mann, sem reynslan sýnir, að snýst eins og vindhani eftir aðstæðum hverju sinni, en hafði að þessu sinni mun betur smurða kosningavél.

Hinn frambjóðandinn er gamalmenni, sem kastaði fyrir róða þeirri rökfræði, er hann hafði notað sem þingmaður, og tók upp þveröfug slagorð af ódýrustu tegund, svo sem loforð um miklu lægri skatta. Hann reyndist sami vindhaninn og hinn, þegar á hólminn var komið.

Í kosningabaráttunni hefur komið betur en áður í ljós, að sérhagsmunir af ýmsu tagi ráða miklu um val stjórnmálamanna og afstöðu þeirra. Þannig hafa ameríska byssufélagið, samtök tóbaksframleiðenda og stuðningshópar Ísraels umtalsverð áhrif á bandarísk stjórnmál.

Svo langt gengur þetta, að erlendir aðilar eru farnir að taka þátt í fjármögnun kosningabaráttunnar og ná eyrum valdamikilla manna. Það kann ekki góðri lukku að stýra, þegar peningar úr þriðja heiminum eru farnir að lita stefnu heimsveldis í þeim heimshluta.

Peningamenn kaupa bandarísk stjórnmál í vaxandi mæli. Þeir kosta framagirni stjórnmálamanna og stjórna gerðum þeirra á sínum hagsmunasviðum. Þannig tekst minnihlutahópum eins og byssufélaginu, tóbaksframleiðendum og Ísraelsvinum að stjórna sínum sviðum.

Að baki þessari þróun eru bandarískir kjósendur, sem eru að afsala sér frumburðarrétti borgarans og láta hafa sig að fífli. Möguleikar kjósenda til að greina kjarnann frá hisminu hafa minnkað í réttu hlutfalli við getu áróðursmeistara til að koma hisminu á framfæri.

Við sjáum þetta gerast á mörgum sviðum í senn. Til dæmis eykst geta neytenda til að sjá við brögðum markaðsmana mun hægar en geta markaðsmanna til að finna nýjar leiðir til að villa um fyrir neytendum. Stjórnmálin eru bara einn þáttur af þessu almenna ferli.

Sjónvarpið hefur haft afar slæm áhrif. Þar koma stjórnmálamenn og sýna af sér ímynd, sem kjósendur telja sér trú um, að sé persónuleiki þeirra. Í stað þess að veita kjósendum innsýn í innri mann frambjóðandans lokar sjónvarpið beinlínis fyrir þessa innsýn.

Rannsóknir sýna til dæmis, að frambjóðandi getur sýnzt meira trausts verður en andstæðingurinn með því að depla sjaldnar augunum en hann. Clinton afrekaði að læra að depla augunum nærri helmingi sjaldnar en Dole og var því kjörinn forseti Bandaríkjanna.

Eðlilegur fylgifiskur valdaafsals kjósenda er, að kosningaþátttaka minnkar. Í Bandaríkjunum er hún komin niður fyrir 50% í forsetakosningum. Fólk sér ekki tilgang í að velja milli strengbrúða, sem hagsmunahópar stjórna, og telur sig ekki eiga kost á öðrum leiðum til áhrifa.

Hliðstæða strauma má sjá á Íslandi. Þeirri skoðun vex fylgi hér, að sami rassinn sé undir pólitíkusunum, að sérhagsmunir ráði ferð og að því verði ekki breytt.

Jónas Kristjánsson

DV

Hóflegt tjón

Greinar

Við eigum sterkan Viðlagasjóð og getum því staðið undir skaðanum af völdum jökulhlaupsins á Skeiðarársandi. Kostnaðurinn nemur að þessu sinni tveim milljörðum króna samkvæmt fyrstu ágizkunum, aðallega í brúm, en einnig í vegi, ljósleiðara og raflínu.

Brýrnar á sandinum hafa staðið í rúmlega tvo áratugi og náð að safna töluverðum afskriftatíma. Þótt við verðum fyrir svona miklu tjóni á mannvirkjum Skeiðarársands á nokkurra áratuga fresti, er kostnaður á hvert ár afskriftatímans ekki nema 100-200 milljónir króna.

Þetta er mikill miski af völdum náttúruhamfara, en ekki nema brot af skaðanum, sem við verðum árlega fyrir af völdum ráðamanna okkar. Afskipti kerfisins af landbúnaði einum kosta þjóðina marga milljarða á hverju ári. Við erum því vön herkostnaði af ýmsu tagi.

Raunverulega er skaðinn af völdum jökulhlaupsins á Skeiðarársandi fremur lítill, af því að manntjón varð ekkert. Engin búseta var á sandinum, sem hlaupið fór yfir. Við höfum orðið fyrir þyngri áföllum af völdum snjóflóða á Vestfjörðum á allra síðustu árum.

Náttúruhamfarir eru tíðar og margvíslegar hér á landi, eldgos og jarðskjálftar, snjóflóð og skriðuföll, stormar og jökulhlaup, auk þess sem hverir reynast skeinuhættir ókunnugum. Hamfarirnar ógna stundum fólki, en stundum hvorki fólki né efnislegum verðmætum.

Við getum reiknað með öflugum Suðurlandsskjálfta á næstu árum. Að mestu leyti erum við vel undir hann búin, þótt brýr séu ekki nógu margar og dreifðar. Mannvirki eru flest nógu traust á hættusvæðunum, en sérstakar aðstæður geta auðvitað leitt til mannskaða.

Við þurfum þó almennt að venja okkur mun harðar við að hafa hliðsjón af náttúruöflum, þegar við fjárfestum. Við eigum til dæmis ekki að reisa mannvirki í undirhlíðum viðsjárverðra fjalla, eins og við höfum svo víða gerzt sek um á Vestfjörðum og Austfjörðum.

Starfsmenn samgöngukerfis og veitustofnana eru vanir að bregðast fljótt við, þegar náttúruöflin hafa geisað. Á hverjum vetri eru rafmagns- og símalínur tengdar að nýju í snarhasti og fumlaust. Á hverju ári er vegasambandi komið á að nýju fljótt og örugglega.

Viðbrögðin við tjóninu á Skeiðarársandi verða ekkert öðruvísi en þau, sem við kunnum vel. Með aðgerðum til bráðabirgða verður vegasambandi komið á að nýju á nokkrum vikum, raflína tengd að nýju, svo og ljósleiðari. Á meðan verða hannaðar varanlegri framkvæmdir.

Ekki er jökulhlaupið svo með öllu illt, að ekki boði nokkuð gott. Samkvæmt fyrri reynslu leiðir aurburðurinn til þess, að strandlínan færist utar , meðal annars austur með ströndinni, á Breiðamerkursandi, þar sem mikil brú var komin í hættu vegna ágangs sjávar.

Náttúruhamfarir hafa líka þann kost, að þær þjappa þjóðinni saman, gefa okkur tækifæri til að finna til sameiginlegrar ábyrgðar. Utanaðkomandi erfiðleikar, hvort sem er af völdum máttarvalda eða óvina, eru svo mikilvægir, að stundum reyna þjóðir að framleiða óvini.

Við búum hér í návígi við fjölbreyttara úrval náttúruafla en flestar þjóðir, sem við þekkjum til. Við þurfum að sæta eldgosum og jarðskjálftum, skriðuföllum og snjóflóðum, stormum og jökulhlaupum. Allt þetta hjálpar okkur til að hugsa eins og ein samhent fjölskylda.

Hlaupið úr Grímsvötnum er hluti raunveruleikans, sem við búum við. Feiknakraftar hafa leyst sig úr læðingi, en samt aðeins valdið okkur hóflegu tjóni.

Jónas Kristjánsson

DV

Kínamúrinn

Veitingar

Enginn talaði íslenzku á Kínamúrnum og þjónninn litla ensku, eigandinn heldur meiri. Ofan á tungumálaerfiðleika bætist stjórnsemi eigandans, sem heldur stíft fram einhverju öðru en því, sem valið er af seðli, hugsanlega því, sem hentugast er að elda hverju sinni.

Þjónustan var laus við fagmennsku, ruglaði réttum milli borða og kom til skila tveimur réttum af fjórum, bar fram kökudiska í stað matardiska og teskeiðar í stað mataráhalda, skildi ekki beiðni um löglegan reikning og bætti við hann teverði, sem var innifalið.

Erfitt er að finna tilgang með svona sérstæðu veitingahúsi ofan á allar kínversku matstofurnar, sem fyrir eru. Staðurinn er samkvæmt reynslunni frekar vonlítill, þótt hann sé við Hlemmtorg, því að hér hefur hvert veitingahúsið á fætur öðru lagt upp laupana.

Gömlu og þægilegu innréttingarnar hafa að mestu verið látnar halda sér. Nokkru hefur verið aukið af skreytingum til að gefa kínverska stemmningu, en í engu ofgert. Rauðir litir eru áberandi, lýsing notaleg og stemmningin róleg, enda fátt um gesti.

Matseðillinn er langur að kínverskum hætti og réttirnir heita mismunandi nöfnun, en eru eigi að síður hver öðrum líkir. Svo virðist sem til séu ótal kínverk orð yfir djúpsteikingu, sem er mesta dálæti matsveinsins.

Við biðjum um Yu Siang, Wu Siang, Hoi Sin, Chen Pee, Gu Lao, Gao Pao og svo framvegis og fáum næstum alltaf eitthvað djúpsteikt og sætt, yfirleitt með miklum steikarhjúp og einhverri útgáfu af súrsætri sósu, afar sætri. Notað er ótæpilegt magn af MSG-kryddi á pinnaréttum.

Súpurnar eru áberandi beztar á Kínamúrnum. Svonefnd West Lake Soup var eggjadropasúpa úr nautasoði með gúrku og rækjum. Á öðrum stað hét eins súpa einfaldlega eggjadropasúpa og var jafngóð fyrir það. Svonefnd sterksúr súpa var bæði sterk og góð.

Djúpsteiktur Wu Siang fiskur var kominn með ellilykt, en olli þó engum meltingartruflunum, enda hefur sögumaður fengið góða þjálfun vítt um lönd. Djúpsteikt lambakjöt var aðallega hjúpur og framkallaði samkeppni borðfélaga í leit að innihaldi.

Annað sérkenni staðarins er, að það, sem heitir kjúklingur á seðli, verður að nautakjöti á diski, nautakjöt á seðli verður að kálfakjöti á diski, kálfakjöt á seðli verður að svínakjöti á diski og svínakjöt á seðli verður að kjúklingi á diski. Þetta getur leitt til skemmtilegrar eftirvæntingar við borðið og kemur að gagni, ef umræðuefni skortir.

Ef þessi staður væri í skáldsögu, væri hann ekki í rauninni matstofa, heldur framhlið fyrir eitthvað rosalega spennandi að tjaldabaki, til dæmis atburði úr James Bond bíómynd.

Í boði eru tíu raðir af þremur, fjórum eða fimm réttum, fyrir utan súpu. Þeir kosta frá 980 krónum, en miðjuverðið er 1.590 krónur. Ég held, að innihald þeirra sé að mestu hið sama, þótt textinn sé mismunandi. Í hádeginu fæst réttur dagsins á 550 krónur.

Eiginlega er ekki rétt að kalla þetta kínverskan matstað. Nær er að ætla, að staðurinn sé ættaður frá tunglinu.

Jónas Kristjánsson

DV