Author Archive

Samurai

Veitingar

Innrétting í Samurai er einföld og vönduð að japönskum hætti, andspænis Gamla Bíói við Ingólfsstræti. Hrár fiskur í sushi og sashimi er yfirleitt ferskur og fallegur að japönskum hætti. Og verðlag er hátt að japönskum hætti. En tilfinningasnauð og ofgerð matreiðsla staðarins er hins vegar ekki merkileg og úr stíl við önnur sérkenni.

Gráblátt er í gólfi og lofti og ljósbrúnt í veggjum, undir japönskum listaverkum. Rúmt er um smekklega valin tréborð og tréstóla. Reitaðir tréskermar skipta staðnum í þrjá hluta, sem stór pottablóm gera fremur notalega. Nokkrir barstólar eru við sushi-barinn, þar sem kokkurinn setur saman hráa fiskbita.

Gestir fá volga dúka fyrir máltíð að hreinlátum hætti Japana. Þjónusta er elskuleg og fremur hæglát. Á leiðbeiningarsíðu í matseðli er því haldið fram fullum fetum, að bjór og viskí henti vel með japönskum mat, en ekki minnzt á te. Þetta sérstæða viðhorf kann að skýra metnaðarlitla matreiðslu. Töluvert er um gesti, einkum viðskiptakarla og jafnvel Japani.

Bezt er að fá sér hráa fiskinn, því að hann er yfirleitt ferskur og góður, lax, silungur, úthafsrækjur, lúða, humar, gervikrabbi, laxahrogn, smokkfiskur, rauðspretta og karfi. Sushi útgáfur hans eru mótaðar með hrísgrjónum, en sashimi án þeirra. Réttirnir eru bornir fram með sterkri piparrót og sojasósu til hliðar. Fimm saman kosta sushi 650 krónur, sjö kosta 860 og níu kosta 1020 krónur. Sama magn af sashimi kostar 780 krónur, 1080 krónur og 1440 krónur.

Mikið úrval smárétta er á matseðlinum og kosta um 600 krónur hver. Þrír eða fjórir saman mynda þeir heila máltíð fyrir einn. Aðrir kaflar matseðilsins fjalla um núðlusúpur, hrísgrjónarétti, pottrétti, súpur og djúpsteikingar.

Yaki Ramu voru hæfilega grillaðir og bragðgóðir lambakjötsbitar á teinum. Furai Mono var djúpstekt og hlutlaus blanda af svínakjöti, kjúklingum og rækju í of miklum steikarhjúpi. Masu Yaki var grillaður silungur sæmilegur með sætri sósu. Yakitori voru ofgrillaðir kjúklingabitar á teinum. Oyalu Don voru egg, ofeldaður kjúklingar og laukur á hrísgrjónabeði í súpuskál. Yakitori Don voru eggaldin, paprika, seigur kjúklingur, og kryddlegnir hvítkálsþræðir á hrísgrjónabeði í súpuskál. Miso-súpan skildist sundur, einkum í hádeginu.

Samurai gefur takmarkaða innsýn í japanska matreiðslu, hina einu í heiminum, sem stenzt samjöfnuð við hina franskættuðu matreiðslu Vesturlanda. Sú japanska einkennist af áherzlu á bragði og gæðum hráefnanna, snöggri eða engri matreiðslu þeirra, einfaldri og litríkri framreiðslu. Japanskir kokkar kunna vel með þang og þara að fara og ættu að því leyti að geta verið okkur til fyrirmyndar.

Bezt er hér að halda sig við sushi og sashimi. Þessir réttir eru að vísu ekki eins girnilegir og slíkir réttir voru nokkur haust í boði á Borginni, en þeir eru frambærileg kynning á því, hvernig góður japanskur matur er einfaldastur. Að öðru leyti má skola matnum niður með viskíi og gleyma honum.

Jónas Kristjánsson

DV

Þriðjungur af risnu

Greinar

Risnukostnaður Reykjavíkur hefur hrapað um rúmlega helming á aðeins tveimur árum og um tvo þriðju hluta á fjórum árum. Þegar kostnaðurinn fór mest úr böndum, árið 1992, nam hann 45 milljónum, árið 1994 tæplega 33 milljónum og 15 milljónum á þessu ári.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri telur, að gestgjafahlutverki borgarinnar hafi ekki verið breytt á þessu tímabili, þótt kvöldverðarboðum borgarinnar hafi fækkað. Mestu máli skipti í sparnaði, að hætt hafi verið að bjóða eimað áfengi í móttökum borgarinnar.

Niðurskurður borgarinnar á óþarfri og skaðlegri risnu er öðrum til fyrirmyndar, fyrst og fremst ríkisvaldinu, sem enn leikur lausum hala. Væri nær fyrir varaformann fjárlaganefndar Alþingis að skera hana niður en fara með marklaust fleipur um fjármál Reykjavíkur.

Ef Reykjavík getur sparað 30 milljónir í risnu á ári í fjögurra ára átaki, getur ríkið sparað hundruð milljóna króna á ári á sama hátt. Engin tilraun hefur hins vegar verið gerð til að hafa hemil á risnu ríkisins, þótt enn meiri ástæða sé til sparnaðar á þeim sukksama bæ.

Reykjavík hefur gert margt fleira til að halda útgjöldum í skefjum. Árangurinn má mæla í heildarskuldum borgarinnar, sem munu haldast óbreyttar í rúmum fjórtán milljörðum á tímabilinu 1995-1997. Áður höfðu þær aukizt hratt á hverju ári og tvöfaldazt 1991-1993.

Ríkið getur um margt tekið fjármál Reykjavíkur sér til fyrirmyndar. Þar sem Alþingi á formlega að bera ábyrgð á fjárreiðum ríkisins, en hefur greinilega ekki til þess burði, væri mjög gott, ef varaformaður fjárlaganefndar Alþingis færi á námskeið hjá borginni.

Fjármál ríkisins eru hugsuð út frá byggðastefnu. Varaformaður fjárlaganefndar og mikill hluti þingmanna mæta til þings með þeim ásetningi að hafa sem mest fé úr sameiginlegum sjóði landsmanna til að dreifa í næsta nágrenni við sig. Því er ríkið alltaf á kúpunni.

Síðan geta menn velzt um af hlátri, þegar varaformaður fjárlaganefndar veifar föðurlegum áminningum til Reykjavíkur um að gera svo vel að stuðla ekki að verðbólgu og annarri þenslu með því að halda uppi eins miklum framkvæmdum og verið hafa á undanförnum árum.

Út af fyrir sig geta nánast allir landsmenn aðrir en stjórnmálamenn haft þá skoðun, að Reykjavík og raunar fleiri sveitarfélög megi hafa meiri hemil á framkvæmdum sínum. Varaformaður fjárlaganefndar er hins vegar ekki í þeim fjölmenna hópi, sem getur leyft sér slíkt.

Hins vegar má hafa sem skólabókardæmi um takmarkalaust sjálfstraust af alls engu tilefni að prédika sparnað yfir öðrum, en hafa sjálfur allt niður um sig í fjármálum ríkisins. En það er víst af skorti á sjálfsgagnrýni, sem menn komast helzt áfram í pólitík.

Varaformaður fjárlaganefndar mætti gjarna minnast þess, að ríkið kastar árlega fimm milljörðum króna út í veður og vind með stuðningi fjárlaga við rekstur landbúnaðar sem félagsmálastofnunar og lætur neytendur fórna öðru eins í tolla og höft á innfluttum mat.

Varaformaðurinn gæti byrjað siðvæðinguna í smáum stíl með því að hafa forustu um, að ríkið nái sama hlutfallssparnaði í risnu og borgin. Meðan hann væri önnum kafinn við það, þyrftum við ekki að hlusta á sjálfsgagnrýnislaust óráðshjal hans um fjármál annarra.

Þegar hann væri svo búinn að skera niður risnu ríkisins um tvo þriðju, mætti hann svo berja sér á brjóst og fara sem sérfræðingur að veita ráð í allar áttir.

Jónas Kristjánsson

DV

Byggðastefnuæði

Greinar

Byggðastefnuþingmenn fjárlaganefndar Alþingis komust í feitt, er þeir áttuðu sig á, að þeir gætu notað væntanlegar orku- og stóriðjuframkvæmdir til að skera niður opinberar vegaframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu, þótt þær séu arðbærustu kostir fjárlaganefndar.

Frestað verður að ljúka breikkun Ártúnsbrekku og brúar í Elliðaárdal. Frestað verður tvöföldun Reykjanesbrautar milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar. Í skjóli þessara ákvarðana telur nefndin sig hafa auðfengna peninga til að halda uppi spottaframkvæmdum úti um allt.

Íbúar höfuðborgarsvæðisins hafa ekki beðið um orku- og stóriðjuframkvæmdirnar, sem hafðar eru að blóraböggli ákvarðana fjárlaganefndar. Miðað við íbúafjölda auka þær fyrst og fremst atvinnu á Vesturlandi og Suðurlandi, en minna í Reykjavík og Reykjaneskjördæmi.

Veigamikið hlutverk fjárveitingavalds hins opinbera er að framleiða atvinnu í þeim kjördæmum, sem telja sig hlunnfarin af sagnfræðilegri þróun, flótta fólks úr strjálbýli til þéttbýlis. Um þetta hlutverk hefur verið búin til byggðastefna, sem jafngildir trúarbrögðum.

Afleiðing stefnunnar sést í lítið notuðum höfnum, lítið notuðum vegum, lítið notuðum skólum og lítið notuðum sjúkrahúsum, á meðan raunveruleg samgöngumál, menntamál og heilbrigðismál þjóðarinnar eru í ólestri og verða samkvæmt fjárlögum áfram í ólestri.

Samkvæmt þessari stefnu er framkvæmdin sjálf ekki minna virði en reksturinn, sem fylgir á eftir. Oft er meira verið að sækjast eftir byggingaframkvæmdum en þjónustunni, sem framkvæmdirnar eiga að gera kleifa. Þetta sést bezt í spottastefnu varanlegrar vegagerðar.

Milli Vegagerðarinnar og byggðastefnumanna Alþingis og ríkisstjórnar er samsæri um, að varanleg vegagerð skuli unnin í svo litlum spottum, þriggja til sjö kílómetra, að heimamenn geti keppt um verkið við stóru fyrirtækin, sem mörg koma af höfuðborgarsvæðinu.

Ef samgönguhagsmunir einir réðu ferðinni, mundu byggðastefnumenn sjá, að margfalt lengri og færri spottar mundu skila lengri vegum fyrir sama fé. Af því að framkvæmdahagsmunirnir eru brýnir, láta menn þá ganga fyrir hinum varanlegri byggðahagsmunum.

Þetta kerfi er við lýði, af því að þingmenn Reykjavíkur og Reykjaneskjördæmis styðja það. Þeir kveina að vísu stundum, sérstaklega heima í héraði, þegar kjósendur eru nálægir, en á Alþingi rétta þeir upp höndina til samþykkis, þegar byggðastefnumálin eru afgreidd.

Nánast allir, ef ekki allir stjórnmálaflokkar bera ábyrgð á stefnunni, sem nú hefur leitt til frestunar fjárlaganefndar á brýnum og arðbærum verkefnum á höfuðborgarsvæðinu, svo að heimamenn úti um land geti haft trygga atvinnu af spottagerð í heimahögum.

Fjárlaganefnd Alþingis er einn helzti leikvöllur byggðastefnunnar. Þar er í einstökum atriðum gengið frá, hvernig sparaðar séu framkvæmdir og rekstur á Reykjavíkursvæðinu, svo að halda megi uppi framkvæmdum og rekstri á landsbyggðinni.

Þegar fjárlaganefnd kemst að niðurstöðu, er nánast formsatriði, að Alþingi fellst á hana. Gildir þá einu, hvaða meirihluti er hverju sinni í nefndinni og á Alþingi. Útkoman er alltaf sama byggðastefnan, af því að hún er rekin af öllum núverandi stjórnmálaflokkum.

Kjósendur á höfuðborgarsvæðinu þurfa einhvern tíma að svara spurningunni um, hvort flokkarnir séu færir um að gæta hagsmuna þeirra til jafns við aðra.

Jónas Kristjánsson

DV

Ógnin kemur að innan

Greinar

Vestrænt lýðræði og markaðshyggja er svo einráð hugmyndafræði í heiminum um þessar mundir, að fræðimenn eru farnir að skrifa um endalok mannkynssögunnar. Við séum komnir svo nálægt leiðarenda í þjóðfélagslegum efnum, að fleiri kúvendingar verði ekki.

Sigur vestræns lýðræðis og markaðshyggju yfir austrænum kommúnisma er alger. Hugmyndakerfin tvö stefndu að sama marki eftir misjöfnum leiðum. Þegar annað hrundi, en hitt stóð föstum fótum, voru engin þriðju markmið til að taka við af kommúnismanum.

Hvarf spennunnar milli austurs og vesturs hefur leitt til skorts á óvinum, sem vestrænt lýðræði og markaðshyggja geti borið sig saman við og þannig öðlast nýja spennu til að sameinast um. Helzt er það heimur íslams, sem hefur sýnt burði til að leika þetta hlutverk.

Þótt íslam sé trú og sumpart trúarofstæki, er ekki fólgin í henni neitt umtalsvert viðnám gegn vestrænum hugmyndum. Mestallt daglegt líf múslíma er í vestrænum brautum og öll tækniþróun íslamskra ríkja er vestræn í stóru og smáu. Viðnám íslams stendur völtum fótum.

Á síðustu árum hafa risið hugmyndir um allt annars konar viðnám arftaka Konfúsíusar í Kína og líklega enn frekar í Singapúr. Þar er talað um, að til sé austræn hugsun, sem muni ná gífurlegum efnahagsárangri án þess að taka trú á vestrænt lýðræðiskerfi.

Of lítil reynsla er komin á þessa hugmyndafræði. En hætt er við, að hún veðrist illa, þegar og ef kínverskir ráðamenn vilja takast á við víðtækan skort á trausti milli manna, útbreidda spillingu og lélega sjálfsvirðingu þeirra, sem verða að lifa í tvískinnungi kerfisins.

Hin nýja Konfúsíusarstefna er alls óskyld velgengni Japana í nútímanum. Þar í landi hefur vestrænt lýðræði og markaðsbúskapur hvort tveggja verið tekið upp í heilu lagi og engar alvarlegar hugmyndir hafðar uppi um, að til séu eins konar austræn gildi, sem henti betur.

Hvorki Konfúsíus né Múhameð geta tekið við af Marx og Lenín. Vestrænu lýðræði stafar ekki önnur ógn að utan en sú, sem hópar skæruliða gefa tilefni til. Hryðjuverk verða framin í vestrænum borgum, en þau raska ekki heimsyfirráðum vestrænnar hugmyndafræði.

Hættan kemur fremur að innan. Vestrænt lýðræði getur glutrazt af innri orsökum. Það getur hrunið af óhóflegri félagshyggju, óhóflegri gróðahyggju eða óhóflegum sofandahætti almennings eftir áratuga neyzlustefnu og notkun deyfilyfja á borð við sjónvarp.

Ríki Norður- og Vestur-Evrópu eru byrjuð að takast á við óhóflega félagshyggju, sem hefur sligað sameiginlega sjóði þjóðanna og aukið atvinnuleysi. Flest bendir til, að smám saman finnist leiðir til að hafa hemil á opinberum útgjöldum og hömlum á frjálsri atvinnutilfærslu.

Bandaríkjunum hefur ekki tekizt eins vel að ná tökum á óheftri gróðahyggju og þeirri sundurtætingu þjóðfélagsins, sem henni fylgir. Sjálfsvirðing hrynur og miðborgir breytast í félagslega frumskóga. Langvinn málaferli taka við hlutverki gagnkvæms trausts milli manna.

Lýðræði og markaðsbúskapur blómstra, ef ríkið hefur hóf á afskiptum sínum, ef lög og reglur gilda jafnt fyrir alla, ef fólk ber virðingu fyrir sjálfu sér og ef það telur sig hafa ástæðu til að treysta öðru fólki. Á þessum siðferðilega grunni hafa þjóðir orðið frjálsar og ríkar.

Erfiðasta skilyrði vestræns lýðræðis er svo, að fólk sinni skyldum sínum og réttindum sem frjálsir borgarar, en koðni ekki niður í neyzlusjúk sófadýr.

Jónas Kristjánsson

DV

Einfalt og dýrt

Greinar

Nýlegur formaður Neytendasamtakanna og stjórnmálamaður helzta kerfisflokksins kvartaði hér í blaðinu yfir því í fyrradag, að landbúnaðarkerfið væri flókið og ógegnsætt og sagði starfsbræður sína skulda þjóðinni skýringu á tilgangi hinna miklu opinberu framlaga.

Samt hefur kerfið áratugum saman verið augljóst og hverjum manni læsilegt í lögum og reglum. Það eina, sem hefur gerzt á aldarfjórðungi kerfisis, er, að niðurgreiðslur og uppbætur hafa breytzt í beingreiðslur til bænda og að innflutningsbann hefur breytzt í ofurtolla.

Sá hluti kerfisins, sem áður fólst í niðurgreiðslum og uppbótum og nú felst í beingreiðslum, kemur á hverju ári fram í fjárlögum og ríkisreikningi. Á næsta ári mun þessi upphæð nema rúmlega fimm milljörðum króna, sem jafngildir 143.000 krónum á hvern meðalbónda.

Þann aldarfjórðung, sem þetta kerfi hefur verið notað, að undirlagi allra stjórnmálaflokka, hafa upphæðirnar verið þessu líkar, oftast nokkru hærri en þær eru nú. Búvörukerfið hefur á aldarfjórðungi brennt að minnsta kosti 150 milljörðum króna á þennan hátt einan sér.

Þetta eru meiri útgjöld en felast í fjárlögum ríkisins á næsta ári. Það er því ekki von, að ríkið hafi ráð á að ljúka vegaframkvæmdum við Ártúnshöfða eða tvöfalda Reykjanesbraut. Það er því ekki von, að ríkið hafi efni á að reka skóla og sjúkrahús á sómasamlegan hátt.

Beingreiðslur til meðalbónda verða á næsta ári fjórföld uppbæð bóta til meðal-atvinnuleysingja. Þetta er því afar dýr aðferð við að halda uppi dulbúnu atvinnuleysi í landbúnaði og stafar af miklum tilkostnaði í greininni, það er að segja neikvæðri framleiðni hennar.

Það nægir ekki, að ríkið greiði hverjum bónda beint sem svarar að meðaltali launum háttsettra embættismanna, heldur þarf ríkið þar á ofan að halda uppi verði á landbúnaðarvörum með því að ofurtolla innflutta samkeppnisvöru. Slík er öfugframleiðni greinarinnar.

Um þetta hefur endalaust verið rætt og ritað í aldarfjórðung. Því miður hefur meirihluti þjóðarinnar hvorki viljað heyra né sjá. Skoðanakannanir sýna, að rúmlega helmingur þjóðarinnar er sáttur við þessa stefnu, sem nýtur í reynd stuðnings allra stjórnmálaflokkanna.

Það er ekki rétt hjá nýlegum formanni Neytendasamtakanna, að þetta sé flókið eða ógegnsætt kerfi. Þvert á móti hefur það verið einfalt og gegnsætt í heilan aldarfjórðung. Hins vegar hefur heyrnarlaus stjórnmálamaður snögglega breytzt í undrandi neytendaformann.

Í aldarfjórðung hefur ríkið ekki litið á landbúnað sem atvinnuveg, heldur sem félagsmálastofnun. Jafnframt hefur ríkið notað óþarflega dýrt bótakerfi. Einfaldara og margfalt ódýrara væri, að ríkið hætti afskiptum af landbúnaði og setti alla bændur á atvinnuleysisbætur.

Kerfið er rekið á kostnað skattgreiðenda annars vegar og neytenda hins vegar. Skattgreiðendur borga þá upphæð, sem er í fjárlögum hvers árs, rúmlega fimm milljarða á næsta ári. Neytendur borga hins vegar muninn á uppsprengdu verði og heimsmarkaðsverði á búvöru.

Enginn stjórnmálaflokkur hefur í reynd viljað gæta hagsmuna skattgreiðenda og neytenda, hvorki í þessu máli né öðrum. Það stafar af, að skattgreiðendur og neytendur hafa ekki bein í nefinu til að gerast þrýstihópur til jafns við þá, sem sitja að kjötkötlunum.

Hvorki skattgreiðendur né neytendur geta falið eymd sína að baki fullyrðinga um, að flokkarnir hafi gabbað þá með flóknu og ógegnsæju rekstrarkerfi landbúnaðar.

Jónas Kristjánsson

DV

Austur-Indíafélagið

Veitingar

Ein bezta ástæða heimsóknar til London er að fá sér snæðing á einu af indversku veitingahúsunum, sem þar skipta hundruðum. Nokkru ódýrara er þó að skreppa á Hverfisgötuna og fá sér að borða á Austur-Indíafélaginu. Þar er vönduð matreiðsla, fremur skólabókarleg og nánast kórrétt. En hún er ekki tilþrifamikil og einkum er hún dýr. Hún mun því ekki leiða sparsemdarfólk inn í leyndardóma indverskrar matreiðslu.

Hin fjölbreytta indverska matreiðsluhefð er með hinum merkari í heiminum, skemmtilegri en til dæmis kínversk. Frá fljótasvæðunum í norðri eru mongólsk áhrif með lambakjöti, jógúrt og hveiti. Frá Dekan-skaga í suðri koma sterkt kryddaðir grænmetisréttir, kókos og hrísgrjón. Frá fenjunum í austri eru svo til dæmis kotasæla og baunasúpur.

Við indverska matreiðslu, eins og raunar aðra matreiðslu en fransk-vestræna og japanska, er sá galli, að hráefnið sjálft fær ekki að njóta sín, heldur er það kryddið, sem látið er gefa tóninn. Þetta getur orðið leiðigjarnt til lengdar. Og tilgangslítið er að nota dýrt hráefni á borð við humar og nautalundir,.

Indversku innréttingarnar eru að mestu óbreyttar frá tíð Taj Mahal, sem hér var áður, ógnarlangar breiður af slæðum í lofti og indversk listaverk á veggjum. Heildarsvipur er virðulegur, parkett gljáandi og tónlist indversk. Þjónusta er afar indversk, sem sagt kurteis. Þrátt fyrir hátt verðlag er ekki mikið lagt í lín. Borðplötur eru glerlagðar og munnþurrkur úr efnisrýrum pappír. Og básar eru of þröngir á svona dýrum stað.

Við fáum okkur Poppadum, grillaðar og stökkar brauðflögur, meðan við skoðum matseðilinn. Þær eru bornar fram með koríander-sultu og tveimur öðrum kryddsultum. Með matnum borðum við Nan, mjúkar flatkökur, steiktar í leirofni. Hrísgrjónin pöntum við annað hvort Pulao, kryddsoðin, eða Biryani, með kanil, kardimommum, negul, anís og grænmeti.

Samósurnar voru einna skemmtilegustu forréttirnir, léttkryddaðar kjöt- eða grænmetisblöndur, vafðar í heilhveitiþríhyrninga og djúpsteiktar. Pagórurnar voru líka góðar, smásaxaður laukur, djúptsteiktur í kjúklingabaunadeigi, með koríander-sultu.

Tandoori-réttirnir eru einkennisréttur margra indverskra veitingastaða, meðal annars þessa. Það er jógúrt- og kryddhúðað kjöt, sem steikt er í Tandoor-leirofni. Skemmtilegi rétturinn af þessu tagi og oftast meyr var hálfi kjúklingurinn, sem borinn er fram snarkandi á pönnu.

Indversk framreiðsla veitinga hentar hópum, því að réttirnir eru ekki bornir fram á diskum, heldur fötum, sem síðan er haldið volgum á kertakössum á miðju borði. Allir geta smakkað á öllu og haldið uppi gáfulegum samræðum um réttina og samanburð á þeim.

Einstaklega gott indverskt kaffi er á boðstólum, höfugt og ilmríkt, en kostar því miður 250 krónur bollinn. Búast má við, að þriggja rétta máltíð losi 3.000 krónur á mann. Eftirréttir eru ekki merkilegir, enda nota Indverjar þá lítið. Eftir mat fá gestir heita andlitsdúka og frískandi sælgætis-smákúlur með kryddfræjum.

Jónas Kristjánsson

DV

Tveggja flokka tal

Greinar

Allir málsaðilar segjast vera ánægðir með niðurstöðu könnunar á fylgi væntanlegs jafnaðarmannaflokks, hvar í flokki sem þeir standa. Er þó ekki hægt að sjá, að neinir hafi leyfi til að vera ánægðir nema framsóknarmenn, sem halda öllu fylgi sínu utan jafnaðarmannaflokks.

Samkvæmt könnun Félagsvísindastofnunar gerist það eitt við stofnun jafnaðarmannaflokks, að þangað rennur fylgi Alþýðuflokks og Alþýðubandalags og skilar sér vel. Hins vegar fer þangað aðeins slæðingur af fylgi Kvennalistans og alls ekkert af fylgi annarra flokka.

Niðurstaðan getur beinlínis skaðað samstarf svokallaðs félagshyggjufólks um meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Nýja könnunin kann að magna sjálfstæði og öryggi framsóknarmanna í borginni og telja þeim trú um, að þeim væri betur borgið á girðingunni.

Framsóknarflokkurinn hefur löngum viljað vera miðjuflokkur og sem oftast í ríkisstjórn, ýmist til hægri eða vinstri. Könnunin eflir þessa stöðu hans á landsvísu, þar sem hann sýnist hafa tæplega fjórðungs fylgi mitt á milli tæplega 40% blokka til hægri og vinstri.

Þótt fylgi flokksins sé minna í Reykjavík, 17%, getur það nægt til að gera honum kleift að mynda meirihluta með þeim, sem bezt býður, ef samflokkur jafnaðarmanna fær 47% fylgi í borginni, samkvæmt tölum könnunarinnar. Margir hafa freistast á mjórri þvengjum.

Að minnsta kosti truflar niðurstaðan sameiningarstefnu svonefnds félagshyggjufólks, eins og hún hefur komið fram í starfi Reykjavíkurlistans. Stofnun jafnaðarmannaflokks verður ekki skref í þá sameiningarátt, heldur felur í sér skarpari skil innan félagshyggjumanna.

Það er að vísu verðugt markmið út fyrir sig að sameina Alþýðuflokk og Alþýðubandalag, ekki sízt um stefnuna í Evrópumálum og landbúnaði, en sú sameining raskar lítt eða ekki ró annarra stjórnmálaafla. Þau halda bara áfram að vera til eins og ekkert hafi í skorizt.

Að þessu leyti eru áhrifin af niðurstöðu könnunarinnar allt önnur en magnaðar niðurstöður fyrstu kannana á fylgi Reykjavíkurlistans, sem soguðu fylgi utanflokksfólks að félagshyggjuframboðinu. Þær framleiddu raunar framboð Reykjavíkurlistans og kosningasigur hans.

Skoðanakannanir þess tíma gáfu sameinuðu framboði gífurleg sóknarfæri, sem ekki var hægt að hafna. Nýja könnunin um fylgi jafnaðarmannaflokks gefur sameinuðum Alþýðuflokki og Alþýðubandalagi engin slík sóknarfæri, heldur aðeins varnarfæri til að halda sínu.

Kannanirnar, sem urðu forsenda Reykjavíkurlistans, sýndu meirihlutafylgi nýs flokks undir nafngreindum leiðtoga, sem naut þá mikils trausts og nýtur enn. Kannanirnar gáfu mönnum tækifæri til að raða stjórnmálunum upp á nýtt og búa til stöðu, sem áður var ekki.

Könnun, sem núna sýnir, að Alþýðuflokkurinn og Alþýðubandalagið tapa ekki neinu á því að rugla saman reytum sínum í flokki jafnaðarmanna, skapar engin slík hughrif úti í bær. Hún hefur alls engin áhrif á þær fjölmennu sveitir, sem standa utangarðs í flokkakerfinu.

Menn geta svo leyft sér að efast um, að slagsmálagefnustu stjórnmálamenn landsins sameinist auðveldar í litlum og leiðtogalausum jafnaðarmannaflokki heldur en í stórum félagshyggjuflokki, þar sem gamalkunnir smákóngar víkja fyrir nýju og fersku fólki.

Niðurstaða nýju könnunarinnar bendir til, að væntanleg sameining jafnaðarmanna verði lítið annað en innanhússmál tveggja flokka af gamalþreytta skólanum.

Jónas Kristjánsson

DV

Takmörkuð sinnaskipti

Greinar

Ríkisstjórnin hefur loks snúið við blaðinu í fíkniefnavörnum. Hún hefur hætt að amast við tollgæzlu og að draga úr fjárveitingum til viðnáms gegn innflutningi og sölu fíkniefna. Hún hyggst fá Alþingi til að verja 65 milljónum króna sérstaklega til slíkra varna á næsta ári.

Þetta felur hvorki í sér neina stefnubreytingu í aðgerðum gegn neyzlu fíkniefna né í auknum úrræðum til meðferðar þeirra, sem ánetjast hafa fíkniefnum. Á þeim sviðum ríkir enn sama niðurskurðarstefna og áður. Áherzlubreytingin snýr aðeins að dreifingu fíkniefna.

Stefnubreytingin felur væntanlega í sér, að hægt verður að vakta hafnir Reykjavíkursvæðisins betur að kvöld- og næturlagi og að byrjað verður að vakta aðrar hafnir, sem flestar eru hriplekar fyrir fíkniefnum. Mikið af fíkniefnum hefur einmitt farið um hafnir landsins.

Önnur mikilvæg smyglleið er tollpósturinn, sem er svo máttlaus, að þar finnst sjaldnast neitt. Átakið leiðir vonandi til endurreisnar fíkniefnavarna á þeim vettvangi, til dæmis með aukinni notkun leitarhunda. Mikilvægast væri þó að skipta um æðstu embættismenn tollgæzlu.

Ennfremur má búast við, að fjárveitingin geti aukið fíkniefnaleit í Leifsstöð, meðal annars vegna ábendinga frá fjölþjóðalögreglunni Interpol um, að suðuramerísk fíkniefni komi í auknum mæli vestan um haf. Þar er um að ræða hörð efni á borð við ópíum og heróin.

Við erum heppin að eiga ekki landamæri með öðrum þjóðum. Þess vegna eru innflutningsstaðir ólöglegra efna mun færri en þeir eru í flestum öðrum löndum og gefa betri möguleika á vörnum. Því má reikna með, að fleiri burðardýr fíkniefna verði tekin föst á næsta ári.

Búast má við, að aukin fjárveiting leiði til aukins mannahalds og betri tækjakosts í fíkniefnadeild löggæzlunnar í Reykjavík. Þar mun fjármagnið líka nýtast bezt, því að þar er fyrir mest þekking og mestur áhugi starfsmanna og yfirmanna á vörnum gegn fíkniefnum.

Í heild er vænzt, að breytingarnar dragi úr framboði fíkniefna á innlendum markaði. Þær hafa hins vegar engin áhrif á eftirspurnina, sem er mikil og ört vaxandi. Þeir eru sífellt fleiri og yngri, sem fitla við fíkniefni og þar af leiðandi sífellt fleiri, sem ánetjast þeim.

Fyrirbyggjandi aðgerðir eru af ýmsum ástæðum erfiðar. Hinir fullorðnu eru sambandslitlir við unglingana og eru þeim sízt til fyrirmyndar, vegna róttæks og almenns drykkjuskapar í landinu. Allt mælir með því, að börn leggist í óreglu eins og foreldrar og fyrirmyndir.

Dæmigert fyrir ástandið í þjóðfélaginu er, að árum saman er slegin skjaldborg þagnar um íþróttaþjálfara, sem hvað eftir annað gengur berserksgang í ölæði á almannafæri. Drykkjurútaþjóð getur ekki búizt við öðru en, að margir unglingar lendi á glapstigum fíkniefna.

Þar sem ekki eru neinar horfur á siðvæðingu þjóðarinnar á næstu árum, er ekki hægt að búast við árangri í takmörkun eftirspurnar á ólöglegum fíkniefnum. Hins vegar er hægt að grípa þá, sem falla í svaðið af þeirra völdum og reyna að endurhæfa þá til nýs lífs.

Sinnaskipti stjórnvalda ná því miður ekki til þessa mikilvæga þáttar baráttunnar gegn fíkniefnum. Samt er til í landinu töluverð þekking á meðferð áfengissjúklinga og raunar einnig fíkniefnasjúklinga, sem er mun erfiðari vegna langvinnra eftirkasta og fráhvarfseinkenna.

Skynsamlegra hefði verið, að síðbúin sinnaskipti ríkisstjórnarinnar hefðu náð til fleiri þátta fíkniefnavandans en tollgæzlunnar og löggæzlunnar einvörðungu.

Jónas Kristjánsson

DV

Hinir sterku falla

Greinar

Margir dást að föðurlegum aga einræðisstjórnarinnar í Singapúr, þar sem göturnar séu hreinar og fangelsisdómum sé beitt gegn þeim, sem úða málningu á auða veggi. Margir kaupsýslumenn vilja fremur fjárfesta í slíkum ríkjum en hinum, þar sem ríkir lausung lýðræðis.

Samt er slæm reynsla af stuðningi við ríki, þar sem járnbrautarlestir gengu á réttum tíma, og af fjárfestingum í slíkum ríkjum. Þannig fór illa fyrir Þýzkalandi Hitlers og Ítalíu Mussolinis. En menn eiga afar erfitt með að læra af sagnfræðireynslu, þar á meðal kaupmenn.

Þeim er raunar vorkunn, því að margir tízkumenn á sviði stjórnmálafræða hafa hrifizt af meintri festu einræðis- og alræðisríkja. Svo var um bandarísku áhrifamennina Henry Kissinger og Jeanne Kirkpatrick, sem töldu, að kommúnistum yrði aldrei vikið frá völdum.

Skömmu síðar hrundi kommúnisminn í Austur-Evrópu og hefur síðan ekki borið sitt barr. Í ljós kom, að ríki geta staðið afar völtum fótum undir niðri, þótt þau séu slétt og felld á yfirborðinu. Þetta mátti raunar sjá löngu fyrir fall kommúnistaríkja Austur-Evrópu.

Um miðjan áttunda áratuginn hrundu fasistaríkin í Suður-Evrópu, Portúgal, Grikkland og Spánn, og breyttust í lýðræðisríki. Höfðu menn þó áður haldið fram fullum fetum, að lýðræði hentaði ekki fólki í þessum ríkjum. Þau þyrftu á sterkum einræðismönnum að halda.

Margir dáðust mjög að hreinum götum og fínum kapítalisma í stjórnartíð Pinochets í Chile. Síðan hafa Chilemenn losað sig við hann og gengur ágætlega að feta sig í átt til lýðræðis og auðsældar. Þannig hefur þróunin orðið víðs vegar um ríki hinnar Rómönsku Ameríku.

Mesta lýðræðisskrefið hefur verið stigið í Suðaustur- Asíu, þar sem risið hafa nýir efnahagsrisar og tekið upp lýðræðislega hætti. Þannig hefur Japan, Suður-Kóreu og Taívan vegnað vel, meðan ólgan kraumar undir niðri í einræðisríkjum á borð við Indónesíu og Burma.

Einn af sterku mönnunum á líðandi stund er Milosevic, sem stendur völtum fótum í Serbíu. Ef hann hrynur ekki í uppreisninni, sem nú stendur, þá hrynur hann í þeirri næstu eða næstnæstu. Kerfi hans styðst ekki við þjóðarviljann og hlýtur að enda snögglega.

Vesturlöndum ber að reyna að flýta fyrir falli sterkra manna, sem standa í vegi lýðræðis. Þau hefðu til dæmis átt að hafa kjark til að ljúka Persaflóastríðinu, losa heiminn við Saddam Hussein og stofna þrjú ríki Sjíta, Súnníta og Kúrda í stað gerviríkisins Íraks.

Vesturlönd hafa mikinn kostnað af að standa ekki kerfisbundið með lýðræði gegn einræði, alræði og sterkum mönnum. Saddam Hussein er enn að fela eitur- og sýklavopn og framleiða fleiri slík til að grafa undan Vesturlöndum og koma ringulreið af stað með hryðjuverkum.

Þótt sagnfræðin liggi eins og opin bók fyrir hverjum, sem lesa vill, eru utanríkismálafræðingar stórveldanna enn að láta sig dreyma um, að gott sé að styðja við bakið á svokölluðum sterkum stjórnum, sem láti lestir ganga á réttum tíma og sjái um að halda röð og reglu.

Þannig er enn í tízku, meðal annars á Íslandi, að viðra sig upp við alræðisherrana í Kína og reyna að fjárfesta undir verndarvæng þeirra. Það er mjög misráðið, því að Kína er sannkölluð púðurtunna, svo sem greinilega kom í ljós á Torgi hins himneska friðar árið 1989.

Í tvær aldir hefur heimurinn með hléum og bakslögum verið á ljúfri leið til lýðræðis, frelsis og mannréttinda. Lingerða stjórnarfarið reynist þrautseigast allra.

Jónas Kristjánsson

DV

Aðgerðaleysi er aðgerð

Greinar

Fremur fáir þingmenn stjórnarflokkanna gera sér grein fyrir vaxandi undiröldu í þjóðfélaginu gegn afsali þjóðareignar á fiskimiðum landsins í hendur útgerðarmanna. Flestir virðast sáttir við fyrirhugað lagafrumvarp, sem heimilar útgerðarmönnum að veðsetja kvóta.

Samt er þetta eitt mikilvægasta viðfangsefni stjórnmálanna um þessar mundir, mun brýnna mál en til dæmis sameining vinstri manna um málefnasnauðan stórflokk. Veðsetningarmálið er síðasta tækifæri stjórnmálanna til að stöðva afsal fiskimiðanna í hendur sægreifanna.

Þjóðin hefur um langt skeið verið hægt og sígandi að missa úr höndum sér eignarhald á auðlind sinni. Kvótakerfið hefur boðið upp á þetta rennsli undan brekkunni. Kvóti útgerðarmanna varð fljótlega að verzlunarvöru, sem síðan gekk í erfðir og verður loks veðsett.

Eina leiðin til að koma í veg fyrir algeran ósigur þjóðarinnar í máli þessu er að skera á hnútinn og lýsa ekki aðeins formlega yfir eignarhaldi þjóðarinnar á fiskimiðunum, heldur ákveða einnig að taka upp útleigu á kvóta í stað þess að úthluta honum sem varanlegu léni.

Ef ekki verður algerlega snúið við blaðinu, leiðir núverandi kerfi fyrr eða síðar til þeirrar niðurstöðu, að útgerðir eiga fiskimiðin, þar á meðal útgerðir í erlendri eigu að hluta. Jafnframt neyðumst við í fjölþjóðasamstarfi að samþykkja aukinn eignarhlut útlendinga.

Eftir um það bil áratug verða fiskimiðin komin í erlenda eigu án þess að við fáum við neitt ráðið. Þótt stungið sé við fæti á einstökum þrepum þessa undanhalds, stefnir allt ferli málsins í eina og sömu átt, þegar til lengdar lætur. Þetta ferli þarf að rjúfa og búa til nýtt.

Tiltölulega einföld leið úr þessum vanda er að taka upp útleigu á kvóta. Ef ríkið leigir út kvóta til afmarkaðs tíma í einu, verður lénsveldi sægreifanna aldrei varanlegt. Það verður sífellt háð nýrri útleigu og breytist því ekki í arfleiðanlega eða veðsetjanlega fasteign.

Því lengur, sem beðið er með að taka upp útleigu á kvóta, þeim mun meiri líkur eru á, að handhafar kvóta telji sig eiga kröfurétt á ríkið vegna kvóta, sem þeir hafi keypt dýrum dómum vegna væntinga um endurheimta fjárfestingu og arð. Tíminn vinnur gegn þjóðinni.

Með því að láta undir höfuð leggjast að taka af skarið eru alþingismenn smám saman að afsala þjóðareigninni í hendur þeirra innlendu og erlendu aðila, sem í framtíðinni fjármagna rekstur útgerðar við Ísland. Aðgerðaleysið felur því sér eina aðgerð, það er landráð.

Með því að taka af skarið, lýsa yfir þjóðareign á auðlindinni og taka upp útleigu á kvóta, hindra alþingismenn hins vegar frekari möguleika á síðara ferli í fyrri átt. Í stað skipulegs undanhalds í óheillaátt verður til ný staða, sem gefur ekkert færi til undanhalds.

Með þjóðareign og útleigu skiptir ekki lengur máli, hvort kvóti sé seldur, arfleiddur, veðsettur eða afhentur úr landi. Við gætum meira að segja samþykkt fjölþjóðlegar skuldbindingar um aukinn rétt útlendinga til fiskveiða. Þjóðin ætti samt auðlindina og leigði hana út.

Með þjóðinni er sem betur fer vaxandi skilningur á mikilvægi málsins og vaxandi vilji á endurheimt þjóðareignarinnar. Alþingismenn hafa því miður verið seinni til að átta sig á þessu, þótt á því séu ágætar undantekningar. En margir þingmenn vilja beinlínis eignarafsalið.

Brýnt er, að sem flestir þeir, sem andvígir eru afsali fiskimiða, láti þingmenn vita og láti í sér heyra á annan hátt, svo að valdhafarnir átti sig betur á stöðunni.

Jónas Kristjánsson

DV

Salatbar Eika

Veitingar

Bezti salatbarinn, sem ég hef fundið í borginni, er Salatbarinn hans Eika í afskekktri götu að nafni Fákafen í Skeifunni. Þar er aðeins salat á boðstólum, allt tindrandi ferskt, meira að segja jöklasalatið. Tegundirnar eru milli tuttugu og þrjátíu og verðið aðeins 700 krónur á mann, að kaffi inniföldu.

Matstaðurinn er hins vegar afar kuldalegur og fráhrindandi, þótt hreinlegur sé. Það er ekki innréttingum að kenna, því að sjálfsafgreiðsluborð með spegli og ljósum er aðlaðandi og bakháir tréstólar eru fallegir.

Fyrst og fremst er litavalið afar hart. Línuna gefur ljótur, dimmblár litur á nöktum langvegg, studdur gulum og rauðum lit á öðrum veggjum og hræðilegum vaxdúkum á borðum, grimmdarlega bláum og rauðum. Þá gefa risastórir og naktir gluggar útsýni til vetrarmyrkursins.

Hér þarf fyrst og fremst að skipta um borðdúka, mála alla veggi að nýju af smekkvísi með náttúrulega mildum litum og koma pottablómum og gluggatjöldum fyrir í glugganum. Náttúrulegur matur kallar á náttúrulega liti, ekki grunnliti litaspjaldsins.

Taka má salatborðið í fjórum áföngum. Fyrst eru það súpurnar, sem jafnan eru tvær, önnur tær og hin þykk, en ekki uppbökuð, oft karrísúpa eða spergilsúpa. Þetta eru svo sem engar verðlaunasúpur í stíl viðurkenninga, sem hanga á veggnum fyrir ofan, en góðar og hollar og hlýlegar í vetrarkuldanum, einu heitu réttirnir á staðnum. Með súpunum eru nokkrar tegundir af fallegu brauði.

Þá er gott að blanda sér hrásalat úr jöklasalati, rauðlauk, tómati, gúrkum, papriku, baunaspírum og alfaspírum, eggjum og ostbitum. Olífuolía og vínedik eru á staðnum, en litlar skálar og kryddstauka vantar til að blanda sér tæra salatsósu, til dæmis vinaigrettu. Þykkar salatsósur forblandaðar eru hins vegar sex að tölu.

Næst er rétt að snúa sér að blönduðum salötum hússins. Oftast eru tvö baunasalöt, annað úr forsoðnum nýrnabaunum og hitt úr bökuðum baunum. Kartöflusalöt eru yfirleitt tvö, annað í eggjasósu og hitt í karrísósu. Pastategundir eru fjórar. Þá er venjulega túnfiskamauk og rækjusalat í eggjasósu. Loks eitthvað af kryddlegnu grænmeti, svo sem gulróta- og rófuþráðum.

Máltíðin endar svo á ávöxum úr ávaxtakörfu og ávaxtasalati, oftast melónusneiðum, eplabitum í mjólkursósu og vínberjum með ostbitum. Við getum hins vegar sleppt kaffinu, því að það er með bandarísku lagi, sér í botn með mjólk í.

Jónas Kristjánsson

DV

Hungursneyð er óþörf

Greinar

Indland brauðfæðir tvöfalt fleira fólk en Afríka öll og það á landsvæði, sem er aðeins 13% af Afríku. Víðtækar hungursneyðir, sem einkenndu Indland fram yfir miðja þessa öld, hafa áratugum saman verið úr sögunni. Í Afríku er hins vegar sífellt hungur og hallæri.

Skilyrði til landbúnaðar eru ekki betri í Indlandi en annars staðar. Þar eru eyðimerkur og fúafen. Þar verða árvissar náttúruhamfarir í formi steypiregns og flóða. En landbúnaðurinn fær þar að mestu að vera í friði fyrir tilraunum ríkisins til verðmætaflutninga.

Á Vesturlöndum reynir ríkið víða að varðveita búsetu í sveitum með því að halda uppi verði innlendra landbúnaðarafurða. Víða í þriðja heiminum reynir ríkið hins vegar að halda þéttbýlisbúum á lífi með því að halda niðri verði innlendra landbúnaðarafurða.

Í báðum tilvikum er stefnan pólitísk. Stjórnvöld í þriðja heiminum styðjast fremur við borgarbúa en sveitamenn og haga sér í samræmi við það. Afleiðingin er að bændur njóta ekki hvatningar markaðarins til að framleiða vörur til sölu. Það gefur of lítið af sér.

Vandamál hungurs í heiminum er fyrst og fremst pólitískt, en ekki tæknilegt eða búvísindalegt. Matur er ekki framleiddur, aðallega af því að hann er með valdi gerður verðlaus, en síður af því að tækni eða þekkingu skorti. Markaðslögmálin fá ekki að ráða ferðinni.

Matvælaframleiðsla hefur í nokkra áratugi aukizt hraðar en fólki hefur fjölgað í heiminum. Nú er farið að draga úr fjölgun fólks. Búast má við, að mannkynið telji um 10-11 milljarða um miðja næstu öld og verði ekki fjölmennara en það. Og matur á að geta verið til.

Ef landbúnaður væri stundaður í Afríku við svipuð stjórnmálaskilyrði og nú eru í Indlandi, ætti álfan ekki í neinum vandræðum með að brauðfæða sig og eiga afgang til að selja Vesturlöndum fyrir peninga. Það gerist með því að leyfa markaðinum að ráða verði á mat.

Við munum sjá þessa breytingu verða fyrr í löndum Austur-Evrópu, þar sem bændum var áður haldið niðri með löggiltu hámarksverði. Eftir óreiðuna, sem nú ríkir þar við endalok samyrkjubúskaparins, mun byggjast þar upp markaðsbúskapur, sem brauðfæðir þjóðirnar.

Ekki verður þrautalaust að útrýma víðtækum hungursneyðum. Loftslagsbreytingar geta valdið staðbundnum og tímabundnum erfiðleikum. Notkun líftæknilegra aðferða getur haft slæmar hliðarverkanir, rétt eins og óhóflegur áveitubúskapur hefur hefnt sín um síðir.

En hafa verður í huga, að of mikill áveitubúskapur er ein afleiðingin af þeirri pólitísku ákvörðun að greiða niður verð á veituvatni til bænda. Afleiðingin hefur verið óhófleg notkun á takmarkaðri auðlind. Með markaðsverði á vatni á þetta ástand að geta batnað.

Við sjáum af Vesturlöndum, að hægt er að framleiða svo mikinn mat, að enginn veit, hvað á að gera við hann. Bandaríkin hafa reynt að draga úr offramleiðslunni með því að taka fimmta hvern akur úr umferð. Jafnvel hér norður á hjara flýtur allt í óseljanlegri búvöru.

Hvort tveggja er heimskulegt, stefna búvörustuðnings á Vesturlöndum og stefna hámarksverðs búvöru í þriðja heiminum. Ef landbúnaðurinn fær frið til að lúta lögmálum markaðarins, framleiðir hann mat handa heiminum, einnig þegar mannkynið er komið í tíu milljarða.

Hungur og hallæri eru fyrst og fremst mannanna verk, afleiðingar misheppnaðra tilrauna stjórnvalda til að hafa áhrif á verðlag og einkum á vísitölur verðlags.

Jónas Kristjánsson

DV

Afsal þjóðareignar

Greinar

Með fyrirhugaðri heimild til veðsetningar aflakvóta er eytt tvískinnungi kerfis, sem segir, að þjóðin eigi auðlindina í hafinu, en afhendir hana samt útvegsmönnum til ráðstöfunar, þar á meðal til kaups og sölu. Heimildin er eðlilegt framhald af núverandi kvótakerfi.

Stjórnarfrumvarp um þetta efni hefur verið lagt fyrir þingflokka ríkisstjórnarinnar. Þar hafa nokkrir þingmenn lýst yfir efasemdum um ágæti þess og vilja ekki staðfesta með slíkum hætti, að þjóðin eigi ekki lengur auðlindina. Óvíst er því um afdrif frumvarpsins.

Samkvæmt gruggugu orðalagi þess má veðsetja kvóta og þinglýsa honum, þannig að ekki má aflétta veðinu, án þess að veðhafar samþykki. Þetta er lokaskrefið í átt til einkaeignar á fiskinum í sjónum, þótt reynt sé að fela það með lögfræðilegum orðaleikjum frumvarpshöfunda.

Á stofnanamáli frumvarpsins hljóðar þetta svo: “Hafi fjárverðmæti það, sem réttindi eru skráð á, verið veðsett, er eigi heimilt að skilja réttindin frá fjárverðmætinu, nema með þinglýsingu og með þinglýstu samþykki þeirra, sem réttindi eiga í viðkomandi fjárverðmæti.”

Með frumvarpinu hafa línur skýrzt í kvótakerfinu. Frumvarpið markar lokaskrefið í endanlegu afnámi þjóðareignar á auðlind hafsins og endanlegri yfirtöku einkaaðila, sem geta látið eignina ganga kaupum og sölum og veðsett hana eins og hverjar aðrar fasteignir sínar.

Þetta þýðir líka, að skera verður upp herör þeirra, sem sætta sig ekki við þessi málalok. En ekki er nóg að brjóta frumvarpið á bak aftur, heldur verður líka að leggja niður núverandi kvótakerfi, því að það hlýtur alltaf að leita rökréttrar niðurstöðu í formi einkaeignar.

Aðeins ein lausn kemur í veg fyrir eðlilega þróun kvótakerfisins í átt til endanlegrar einkaeignar. Í stað kvótakerfisins þarf að koma skömmtunarleið, sem varðveitir eignarhald þjóðarinnar. Sú leið felst í tímabundinni og takmarkaðri leigu veiðileyfa gegn gjaldi.

Nógu lengi hefur verið talað um, að taka þurfi upp auðlindaskatt eða veiðileyfagjald. Því máli hefur jafnan verið eytt. Nú er hins vegar komin upp sú örlagastaða, að útleiga af hálfu ríkisins verður ekki umflúin, ef varðveita á eignarhald þjóðarinnar á auðlindinni.

Bezta leiðin til að nýta eignarhald þjóðarinnar er að bjóða upp veiðikvóta með reglulegu millibili. Þá eru notuð eðlileg markaðslögmál til að finna, hvað sé sanngjarnt, að þjóðin hafi í afrakstur af auðlind sinni. Uppboð á leigukvóta er heilbrigðasta leiðin í málinu.

Því miður eiga markaðslögmál ekki upp á pallborðið hjá Íslendingum og sízt hjá stjórnmálaflokkunum, sem standa að frumvarpinu um afsal auðlindarinnar. Þess vegna má búast við, að leiga á veiðileyfum taki á sig einhverja aðra mynd en hins frjálsa uppboðsmarkaðar.

Í staðinn má úthluta veiðileyfum með sagnfræðilegum og landfræðilegum hömlum eða einhverri annarri skömmtunarleið, sem hámarkar ekki afrakstur þjóðarinnar af leigunni, en þjónar samt því meginhlutverki að koma í veg fyrir, að þjóðin glati auðlindinni.

Þeir, sem hafa deilt um misjafnt ágæti ýmissa aðferða við leigu á kvóta, verða nú að taka saman höndum og fresta ágreiningnum, meðan þeir verjast atlögu stjórnarfrumvarpsins og nota tækifærið til að sýna fram á, að eina vörnin gegn atlögunni felst í leigu veiðileyfa.

Með tímabundinni leigu veiðileyfa er fest í sessi sú skoðun, að handhafar veiðileyfa eigi ekki auðlindina, heldur þjóðin sjálf, sem tekur fyrir hana leigugjald.

Jónas Kristjánsson

DV

Við stöndumst skilyrðin

Greinar

Flest ríki Evrópusambandsins eiga í miklum erfiðleikum með að koma fjármálum sínum í það horf, að þau geti tekið þátt í eftirsóknarverðu myntbandalagi Evrópu, sem á að taka til starfa eftir tvö ár. Hins vegar hefur utangarðsríkið Ísland þegar uppfyllt skilyrðin.

Ríkisfjárlög á Íslandi hafa verið hallalaus í nokkur ár og eru vel innan krafna myntbandalagsins, sem gera ráð fyrir, að hallinn megi ekki vera meiri en 3% af landsframleiðslu. Þýzkaland, Bretland og Frakkland eru meðal ríkjanna, sem enn hafa ekki uppfyllt þetta skilyrði.

Ríkisskuldir Íslands hafa farið lítillega lækkandi að undanförnu og eru núna 55% af vergri landsframleiðslu. Það er rétt innan 60% marka myntbandalagsins og er raunar betri staða en hjá öllum ríkjum Evrópusambandsins nema Frakklandi, Bretlandi og Luxemborg.

Verðbólga á Íslandi er úm 2,5% á ári, í hærri kantinum í evrópskum samanburði og á mörkum myntbandalagsins. Það gerir ráð fyrir hámarki, sem sé 1,5% yfir verðbólgu þeirra þriggja ríkja, sem hana hafa minnsta. Minnsta verðbólgu hefur Svíþjóð, um 1% á ári.

Langtímavextir á Íslandi eru um það bil 8%, það er að segja 5% raunvextir að viðbættri 2,5% verðbólgu. Myntbandalagið gerir ráð fyrir, að langtímavextir séu aðeins 2% yfir vöxtum þriggja lægstu ríkjanna. Sú tala er nú um 6%, svo að Ísland sleppur þar í gegn.

Verðbólgan og langtímavextirnir eru veikasta hlið Íslands í þessum samanburði. Öll ríki Evrópusambandsins nema Grikkland uppfylla þessi tvö skilyrði og Ísland er rétt á mörkum þess að standast þau. Engin bólga má því verða í landinu á uppgangstíma næstu ára.

Síðasta skilyrðið varðar ekki fjármál, heldur gengisstefnu. Það er, að ríkið hafi í tvö ár verið í gengissamstarfi Evrópu, sem er aðdragandi myntbandalagsins. Þetta hefur Ísland ekki gert, af því að Seðlabankinn hefur notað viðskiptavegna gengiskörfu til viðmiðunar.

Ekkert er því til fyrirstöðu, að Ísland taki einhliða upp gengisviðmiðun við gengissamstarf Evrópu í stað gengiskörfunnar. Ef það er gert strax, uppfyllir Ísland einnig þetta lokaskilyrði, nákvæmlega þegar myntbandalagið tekur til starfa að rúmlega tveimur árum liðnum.

Fræðimenn, sem um þessi mál hafa fjallað, eru sammála um, að afar hagkvæmt sé fyrir ríki að geta gerzt aðili að myntbandalagi Evrópu. Það er í fyrsta lagi beinlínis mikilvægt fyrir ríki að koma fjármálum sínum í slíkt lag, að þau uppfylli skilyrði bandalagsins.

Í öðru lagi hefur aðild að myntbandalaginu í för með sér næsta sjálfvirkt aðhald, sem stuðlar að traustum fjármálum, lágri verðbólgu og lágum vöxtum. Talið er víst, að þátttakan leiði til lægri vaxta en ella þyrftu að vera. Á því einu gæti Ísland sparað milljarða á hverju ári.

Við sjáum líka, að stjórnir ríkja Evrópusambandsins eru önnum kafnar við að reyna að koma fjármálum sínum inn fyrir ramma myntbandalagsins eða láta líta svo út, að þau verði komin inn fyrir mörkin í tæka tíð. Frakkar beita að venju ýmsum sjónhverfingum til þess.

Mikil umræða fer nú fram um það í Evrópu, að Ítalía muni ekki ná markinu í tæka tíð vegna langvinns agaleysis í fjármálum ríkisins. Ítali grunar af gefnum tilefnum, að Þjóðverjar og fleiri vilji ekki hafa sig með til þess að spara myntbandalaginu hjúkrun veiks aðila.

Ísland er hins vegar þegar komið inn fyrir mörkin og þarf ekki að gera mikið annað en að halda í horfinu á væntanlegum þenslutíma til að komast í klúbbinn.

Jónas Kristjánsson

DV

Amigos

Veitingar

Loks fást góðir og bragðsterkir pönnukökuréttir af mexikóskum ættum í Reykjavík, á nýlegum veitingastað við hlið Jónatans Máfs í Tryggvagötu. Þar má af löngum matseðli velja flestar þekktustu tegundir af maís- og hveitikökum og verða aldrei fyrir vonbrigðum.

Þetta eru hinar hefðbundnu tortillas úr maís; svo og stórar og mjúkar burritos; oststeiktar enchiladas-maísrúllur; djúpsteiktar, en ekki stökkar tacos; gufusoðnar tamales-maískökur; piparaðar quesadillas-hveitikökur; upprúllaðar, djúpsteiktar og stökkar taquitos; djúpsteiktar og stórar chimichangas; og óvafðar fajitas, sem gestir fylla sjálfir.

Mexikósk matreiðsla er með hinum merkari í heimi, að grunni frá Aztekum hinum fornu, blönduð áhrifum frá Spánverjum og síðar Frökkum. Maís, kakó, kartöflur, tómatar og vanilla komu upprunalega frá Mexikó og hafa flætt um allan heim. Nú á dögum einkennist mexikósk eldamennska einkum af maís-pönnukökunum.

Amigos er stór og rúmgóður staður, hannaður í spönskum Texasstíl, með skemmtilega grófum og ljósrauðum veggjum ofan við grænar þiljur. Við sitjum á miðlungi þægilegum tréstólum með sessum við svört borð á vönduðu timburgólfi. Stemmningin er góð og niðursoðin tónlist stundum í hærri kanti.

Góð þjónusta, öflug og glaðleg, er aðalsmerki staðarins. Þjónustustúlkan mundi nákvæmlega, hver hafði pantað hvað og kom tólf mismunandi réttum til skila án þess að þurfa að spyrja neins. Þetta gerist ekki einu sinni á dýrustu veitingastöðum landsins. Verðlagið er í meðallagi, aðalréttur á 1.245 krónur að meðaltali og þriggja rétta máltíð með kaffi á 2.535 krónur að meðaltali.

Sömu atriðin eru endurtekin í sífellu í fyllingum og meðlæti mismunandi pönnukökutegunda, svo sem hrísgrjónaklatti, lárperumauk, pintobaunamauk, tómatsósublanda, bræddur ostur, sýrður rjómi, chili-pipar og jöklasalat.

Muchos Nachos var skemmtilegur forréttur, matarmikið og létt salat með stökkum tortillaflögum úr maís. Annar góður var Cevice, sterklega sítrónuleginn og meyr fiskur, klæddur stökkri pönnukökuskel. Camarones Chimichanga voru góðar rækjur, djúpsteiktar í mjúkri og víðáttumikilli hveiti-tortilla-köku, skyldri burritos.

Tortilla kjúklingasúpa var góð og þykk og kraftmikil tómat- og grænmetissúpa með bræddum osti og stökkum tortilla-ræmum. Osta-Chili Relleno var djúpsteiktur og bragðsterkur chili-pipar, fylltur bráðnum osti. Fajita voru óvafðar hveitikökur, sem gestir fylltu sjálfir margvíslegu innihaldi, matarmikill réttur.

Texasáhrif voru í Chili Con Carne, eins konar ofurkryddaðri lasagna úr nautahakki og tortilla-plötum, borinni fram með stökkum maískökum, fremri amerísku útgáfunni. New York áhrif voru í Buffalo Wings, sem er sniðug aðferð til að losna á góðu verði við kjúklingavængi sem enginn vildi áður borða eða borga.

Maískökurnar frá Mexikó gefa færi á sætum eftirréttum að íslenzkum pönnukökuhætti. Þeirrar ættar eru kanillegin epli í djúpsteiktri maísköku, með þeyttum rjóma og súkkulaðisósu.

Jónas Kristjánsson

DV