Austurför Einars

Greinar

Ástæða er til að fagna heimsókn Einars Ágústssonar utanríkisráðherra til Sovétríkjanna. Íslandi er gagn að því, að ráðamenn okkar haldi uppi sambandi við valdamenn stórveldanna. Alltaf eru ofarlega á baugi einhver mál, sem snerta hagsmuni beggja aðila og skiptast þarf á skoðunum um.

Þess vegna er líka gott til þess að vita, að í náinni framtíð skuli vera von á heimsókn Gromykos, utanríkisráðherra Sovétríkjanna, hingað til lands. Slíkar heimsóknir gefa tækifæri til að fækka ágreiningsefnum og koma samskiptum á vinsamlegra svið.

Utanríkisráðherra okkar hefur að undanförnu haft tækifæri til að ræða við ráðamenn Sovétríkjanna um ýmis vandamál, sem skipta okkur miklu.

Við höfum um nokkurt skeið verið óánægðir með of hátt verð á olíunni frá þeim og of lágt verð á fiskafurðum til þeirra. Hafa raddir magnazt um, að heppilegra væri fyrir okkur að snúa þessum viðskiptum yfir á frjálsa markaðinn á Vesturlöndum. Nú virðist svo sem Sovétríkin hafi gefið nokkuð eftir í olíuverðinu og er það vissulega spor í rétta átt.

Við höfum einnig haft vaxandi áhyggjur af síaukinni andstöðu Sovétríkjanna við stefnu 200 mílna efnahagslögsögu. Ekki er líklegt, að heimsókn Einars hafi breytt miklu í þeim efnum, en alténd er mikils virði að geta túlkað sjónarmið okkar í persónulegum viðræðum.

Utanríkisráðherra okkar hefur.einnig fengið tækifæri til að benda ráðamönnum Sovétríkjanna á furðu og gremju Íslendinga út af miskunnarlausri stefnu þeirra gagnvart föður Askenazys. Valdamenn Sovétríkjanna hafa jafnan gott af því að heyra raddir að vestan um slík mál, eins og um brottflutningsleyfi gyðinga og útskrifun stjórnarandstæðinga af geðveikrahælum.

Jónas Kristjánsson

Vísir