Atlantshafsbandalagið er komið í vandræði í Afganistan. Það lét fyrst narra sig í friðargæzlu, sem smám saman breyttist í stríð gegn íbúum landsins. Bandalagið er nú orðið að hötuðu hernámsliði, sem hvarvetna óttast tilræði, jafnvel í höfuðborginni Kabúl. Bandaríkjastjórn narraði undirsáta sína í bandalaginu til að taka við hlutverki ógæfunnar í þessu hrjáða landi, þar sem ástandið er verra en nokkru sinni fyrr. Til dæmis er staða kvenna orðin verri en hún var á tíma talíbana og ræktun eiturlyfja er orðin meiri en nokkru sinni fyrr. Allt er það vegna vestrænnar afskiptasemi.
